Print

Mál nr. 31/2018

Skaginn hf. (Árni Ármann Árnason lögmaður)
gegn
Antoni Guðmundssyni (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Vinnulaun
  • Tómlæti
  • Sératkvæði
Reifun

A krafði S hf. um greiðslu fyrir frítökurétt vegna skerts hvíldartíma og fyrir skert réttindi til vikulegs frídags. Deildu aðilar um hvort skráning vinnustunda A hefði endurspeglað unnar stundir hans á tilteknu tímabili eða hvort inn í þeim stundafjölda hefðu verið tímar sem áttu að bæta fyrir skerðingu umræddra réttinda. Var ekki talið að S hf. hefði tekist sönnun um að skráningin hefði ekki tekið mið af unnum vinnustundum A og yrði því að leggja til grundvallar að A hefðu verið greidd laun í samræmi við það. Við mat á því hvort A gæti krafið S hf. um frekari greiðslur fyrir vinnuframlag sitt yrði að líta til þess að A hefði borið fyrir héraðsdómi að hann hefði aldrei á starfstíma sínum gert athugasemdir við launayfirlit sín og launaseðla. Hefði hann jafnframt endurnýjað ráðningarsamband sitt við S hf. með því að undirrita nýjan ráðningarsamning án þess að gera athugasemdir við það fyrirkomulag sem tíðkaðist hjá S hf. við skráningu vinnustunda og greiðslu launa. Þá hefði stéttarfélag A fyrst haft samband við S hf. vegna ætlaðra vangoldinna launa A eftir starfslok hans og um 15 mánuðum eftir að því tímabili lauk sem krafa hans sneri að. Málið hefði svo verið höfðað þegar liðnir voru um sex mánuðir frá starfslokum A. Loks var talið að líta yrði til þess að A hefði verið trúnaðarmaður á vinnustað sínum og borið nánar tilgreindar skyldur sem slíkur, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt þessu og að gættum kröfum til gagnkvæms trúnaðar og tillits af hálfu beggja aðila ráðningarsambands var því talið að A hefði fyrir sakir tómlætis fyrirgert rétti til að hafa uppi kröfu sína. Var S hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti liggja gögn um að héraðsdómi í máli þessu hafi verið áfrýjað til Landsréttar 15. febrúar 2018 en ekki 18. sama mánaðar eins og ranglega greinir í hinum áfrýjaða dómi. Málinu var því skotið til Landsréttar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu héraðsdóms í samræmi við ákvæði 1. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Eins og getur í hinum áfrýjaða dómi hóf stefndi störf hjá áfrýjanda í byrjun árs 2014 en honum mun hafa verið sagt upp í ágúst 2016. Meðal gagna málsins er ráðningarsamningur frá 15. mars 2014 sem þó var einungis undirritaður af hálfu áfrýjanda en fyrst var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda 13. ágúst 2015, undirritaður af honum og áfrýjanda. Samningar þessir eru efnislega samhljóða og er ágreiningslaust að frá upphafi ráðningar voru kjör stefnda þau sömu og fram koma í samningunum. Er efni þeirra rakið í hinum áfrýjaða dómi ásamt viðeigandi ákvæðum kjarasamninga.  

Stefndi var trúnaðarmaður stéttarfélags á vinnustað sínum, sbr. 9. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, og kvaðst við skýrslutöku fyrir héraðsdómi hafa verið trúnaðarmaður á fyrri vinnustað mörgum árum áður. Það fyrirkomulag gilti við framkvæmd starfa stefnda þegar hann var við vinnu fjarri starfsstöð áfrýjanda, svo sem um borð í skipum viðskiptavina hans, að stefndi tók sjálfur saman upplýsingar fyrir áfrýjanda um vinnustundafjölda sinn. Voru þær upplýsingar í framhaldinu skráðar í launakerfi áfrýjanda og laun stefnda reiknuð út og greidd eftir skráðum tímum.

Í málinu greinir aðila á um hvort skráning vinnustunda hafi endurspeglað unnar stundir stefnda á tímabilinu frá febrúar til júní 2015 eða hvort inn í þeim stundafjölda hafi verið tímar sem átt hafi að bæta fyrir frítökurétt vegna skerts hvíldartíma og fyrir skert réttindi til vikulegs frídags. Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi var stefndi inntur eftir því hvort hann kannaðist við að hafa fengið yfirlit hálfsmánaðarlega um tímaskráningar sínar sem notað hafi verið til útreiknings launa. Stefndi sagði laun hafa verið greidd út hálfsmánaðarlega og aðspurður kvaðst hann hvorki hafa gert athugasemdir við launaseðlana né launayfirlitin. Fram kemur í gögnum málsins að fljótlega eftir starfslok sín hjá áfrýjanda í ágúst 2016 hafi stefndi átt samskipti við stéttarfélag sitt vegna þess ágreinings sem uppi er í málinu en það höfðaði hann 17. janúar 2017 tæpum sex mánuðum eftir starflok.

II

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að áfrýjanda hafi ekki tekist sönnun um að skráning tíma í yfirliti um vinnustundafjölda stefnda hafi ekki tekið mið af unnum vinnustundum hans. Verður því lagt til grundvallar  að stefnda hafi verið greidd laun í samræmi við það.

Við úrlausn þess hvort stefndi geti krafið áfrýjanda um frekari greiðslur fyrir vinnuframlag sitt er fyrst til þess að líta að stefndi bar fyrir héraðsdómi að hann hefði aldrei á starfstíma sínum hjá áfrýjanda gert athugasemdir við launayfirlit sín og launaseðla. Í annan stað endurnýjaði stefndi ráðningarsamband sitt við áfrýjanda með því að rita undir skriflegan ráðningarsamning 13. ágúst 2015, án þess að gera athugasemdir við það fyrirkomulag, sem tíðkast hafði hjá áfrýjanda við skráningu vinnustunda og greiðslu launa. Í þriðja lagi er þess að geta að stéttarfélag stefnda hafði fyrir hans hönd fyrst samband við áfrýjanda vegna ætlaðra vangoldinna launa stefnda eftir starfslok hans og um 15 mánuðum eftir að því tímabili lauk sem krafa hans snýr að. Málið var svo höfðað þegar liðnir voru um sex mánuðir frá starfslokum stefnda. Loks er til þess að líta sem áður er fram komið að stefndi var trúnaðarmaður á vinnustað sínum. Bar honum sem slíkum, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 80/1938, skylda til að hafa frumkvæði að því að rannsakað yrði þegar í stað, teldi hann sig hafa ástæðu til að ætla að gengið væri á rétt starfsmanna, og hafa í kjölfarið uppi athugasemdir, hvort heldur var við efni og framkvæmd eigin ráðningarsamnings eða annarra starfsmanna, jafnskjótt og tilefni gafst til og án ástæðulauss dráttar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. febrúar 2011 í máli nr. 304/2010. Er í því sambandi til þess að líta að stefndi naut samkvæmt 11. gr. laga nr. 80/1938 sérstakrar verndar í starfi til að reka erindi sem trúnaðarmaður.

Samkvæmt því sem hér var rakið og að gættum kröfum til gagnkvæms trúnaðar og tillits af hálfu beggja aðila ráðningarsambands hefur stefndi fyrir sakir tómlætis fyrirgert rétti til að hafa uppi kröfu sína enda mátti áfrýjandi á grundvelli ráðningarsamnings síns við stefnda og samskipta þeirra ganga út frá því að krafan væri ekki fyrir hendi. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Eftir atvikum er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Skaginn hf., er sýkn af kröfu stefnda, Antons Guðmundssonar.

Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður.

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um að áfrýjanda hafi ekki tekist sönnun um að skráning tíma á yfirliti um vinnustundafjölda stefnda hafi ekki verið í samræmi við unnar vinnustundir hans. Að þeirri forsendu fenginni verður við það miðað að áfrýjandi hafi hlunnfarið stefnda um rétt til hvíldartíma á sólarhring og á vikulegum frídegi.

Eftir stendur þá deila málsaðila um hvort stefndi hafi sökum tómlætis fyrirgert rétti til að fá efndir kröfu sinnar.

Stefndi hóf störf hjá áfrýjanda í byrjun árs 2014, en honum var sagt upp störfum í ágúst 2016. Er krafa stefnda vegna skerðingar á réttindum hans til hvíldartíma á tímabilum frá júní 2014 til júní 2015, en uppistaða hennar er vegna tímabilsins frá febrúar til júní 2015. Hafði verkalýðsfélag stefnda samband við áfrýjanda vegna vangoldinna launa stefnda í kjölfar starfsloka hans með bréfi í september 2016, eða um 15 mánuðum frá því að vinnuframlag hans, sem krafan er reist á, var innt af hendi. Til viðbótar þessu bera gögn málsins með sér að eftir nafnlausar ábendingar þar um hafði verkalýðsfélagið að minnsta kosti þegar í mars 2016 og ítrekað eftir það sent fyrirspurnir til áfrýjanda um verklag hans varðandi efndir á rétti starfsmanna til lögbundins hvíldartíma og gert athugasemdir við að áfrýjandi virti ekki reglur þar um.

Ekki hefur þýðingu við mat á tómlæti stefnda að hann undirritaði skriflegan ráðningarsamning 13. ágúst 2015 er kom í stað samhljóða skjals 15. mars 2014 um þau atriði er máli skipta og stefndi hafði ekki ritað undir. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ráðningarsamningur þessi í andstöðu við 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ekki hefur heldur sérstaka þýðingu um mat á tómlæti stefnda honum í óhag að hann höfðaði mál þetta um sex mánuðum eftir starfslok sín og þá í kjölfar samskipta við áfrýjanda um kröfu sína án þess að fá úrlausn sinna mála.

Stefndi starfaði sem almennur verkamaður hjá áfrýjanda. Sinnti hann jafnframt ólaunaðri stöðu trúnaðarmanns verkalýðsfélags síns hjá áfrýjanda og bar sem slíkum skylda til athafna vegna umkvartana þeirra verkamanna hjá áfrýjanda sem trúnaðarmennska hans laut að, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 80/1938. Á hinn bóginn er áfrýjandi stórt og öflugt fyrirtæki með fjölmarga starfsmenn sem hafði samkvæmt gögnum málsins og því sem að framan greinir vitneskju um hvernig stöðu mála var háttað um efndir á ráðningarsamningi stefnda. Hvíldi á áfrýjanda, sem atvinnurekanda, sú afdráttarlausa skylda að virða þau lágmarksréttindi til hvíldar starfsmanna sinna sem sérstaklega eru bundin í lög, sbr. 53. gr. og 54. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Eru réttindi þessi jafnframt tíunduð og útfærð í viðkomandi kjarasamningi, en þar segir meðal annars í 5. mgr. greinar 2.8.2 kjarasamningsins um uppgjör þeirra: „Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma.“

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður ekki fallist á að staða stefnda sem trúnaðarmanns, að gættum kröfum til gagnkvæms trúnaðar og tillits af hálfu beggja aðila ráðningarsambands, leysi áfrýjanda vegna tómlætis stefnda undan skyldu til efnda sem á áfrýjanda hvílir að lögum. Ber því með þessum athugasemdum að staðfesta dóm Landsréttar og fella málskostnað á áfrýjanda vegna reksturs málsins hér fyrir dómi.

 

 

 

Dómur Landsréttar 12. október 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Oddný Mjöll Arnardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 18. febrúar 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2018 í máli nr. E-183/2017.

2. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.074.385 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. febrúar 2016 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að ,,viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða áfrýjanda fyrir frítökurétt vegna skerts hvíldartíma og fyrir skert réttindi til vikulegs frídags vegna starfa áfrýjanda fyrir stefnda á tímabilinu frá og með 19. maí 2014 til og með 17. júní 2016“. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Landsrétti.

Málsatvik

4. Áfrýjandi hóf störf hjá stefnda í byrjun árs 2014 en fyrst var gerður skriflegur ráðningarsamningur við hann 13. ágúst 2015. Ekki mun vera ágreiningur um að kjör hans hafi frá upphafi verið þau sömu og kveðið er á um í hinum skriflega ráðningarsamningi. Í 1. gr. samningsins kom fram að starfsmaður færi á jafnaðarkaup samkvæmt tilgreindum taxta, 2.388 krónur fyrir hvern unninn tíma, en í því fælist að starfsmaður fengi ekki greiddan hvíldartíma og væri það á ábyrgð starfsmannsins sjálfs að virða hvíldartímann. Tæki jafnaðarkaupið sömu breytingum og yrðu á kaupgjaldi samkvæmt kjarasamningum milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar. Í kjarasamningnum, sem gilti frá 1. janúar 2014 er í grein 2.8.1 kveðið svo á um að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Um frávik og frítökurétt sagði í grein 2.8.2 að ef starfsmaður fengi ekki 11 klukkustunda hvíld á sólarhring miðað við venjubundið upphaf vinnudags, skyldi veita uppbótarhvíld sem næmi einni og hálfri klukkustund fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skertist, ef starfsmaður væri sérstaklega beðinn um að mæta til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld væri náð. Einnig sagði þar að heimilt væri að greiða út hálfa klukkustund af frítökuréttinum. Jafnframt sagði þar að framangreind ákvæði ættu þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá væri heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klukkustundir. Þá sagði einnig að uppsafnaður frítökuréttur skyldi koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn. Við starfslok skyldi ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma. Í grein 2.8.3 sagði um hvíld undir átta klukkustundum að ef starfsmaður fengi ekki átta klukkustunda hvíld á vinnusólarhringnum skyldi hann, auk frítökuréttar samkvæmt grein 2.8.2 fá greidda eina klukkustund í yfirvinnu fyrir hverja klukkustund sem hvíldin færi niður fyrir átta klukkustundir. Um vikulegan frídag er fjallað í grein 2.8.4 í kjarasamningnum. Þar segir að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður hafa að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skuli við það miðað að vikan hefjist á mánudegi. Í kjarasamningi milli sömu aðila sem gilti frá 1. maí 2015 eru ákvæði samhljóða þeim sem gerð hefur verið grein fyrir.

5. Meðal gagna málsins eru tímaskýrslur áfrýjanda, sem bera yfirskriftina ,,Vinnuyfirlit-Bakvörður“ og yfirlitsblað sem unnið er upp úr tímaskýrslum. Í málflutningi lögmanns stefnda fyrir Landsrétti kom fram að ágreiningslaust væri að tölur unnar upp úr tímaskýrslum, varðandi ætlaða skerðingu á hvíldartíma áfrýjanda, sem og samtölur sem fram kæmu á yfirlitsblaðinu þar að lútandi væru réttar, að því frátöldu að tímaskráning vegna 16. og 17. júní 2015 væri tvítekin á yfirlitsblaði. Þá væri ætluð skerðing vikulegra frídaga einungis fimm dagar en ekki níu og væri það breyting frá því sem komið hafi fram í greinargerð hans, þar sem því var haldið fram að ætluð skerðing vikulegra frídaga næmi að hámarki sex dögum. Ágreiningslaust væri að tímabil sem á yfirlitsblaði er tilgreint frá 26. maí 2016 til 17. júní sama ár, ætti í raun við um árið 2015 vegna sömu daga. Lögmaður áfrýjanda lækkaði kröfu sína vegna ætlaðrar skerðingar á vikulegum frídegi úr níu frídögum í sex frídaga.

6. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort í þeim fjölda tíma sem fram kemur í vinnuyfirliti stefnda séu taldir tímar sem átt hafi að bæta fyrir svokallaðan frítökurétt samkvæmt kjarasamningi vegna skerts hvíldartíma og fyrir skert réttindi til vikulegs frídags. Ágreiningslaust er að meginfjöldi tímanna er vegna vinnu áfrýjanda um borð í skipinu Málmey á tímabilinu frá 21. febrúar 2015 til 16. júní sama ár.

Skýrslutökur fyrir héraðsdómi

7. Launafulltrúi stefnda, Ellert K. Jósefsson, kom fyrir héraðsdóm. Hann kvaðst hafa annast launaútreikning fyrir stefnda. Spurður um hvernig tímaskráningu væri háttað þegar ekki væri unnið eftir stimpilklukku, til dæmis þegar menn væru úti á sjó, kvaðst hann skrá niður tíma þess starfsmanns sem í hlut ætti, á grundvelli upplýsinga starfsmannsins um þá tíma sem hann teldi sig eiga að fá greidda. Starfsmenn væru ekki rengdir með tímafjölda, en tímafjöldi segði þó ekkert um unnar vinnustundir þeirra. Vitnið kvað að fyrir hefði komið að tímar hafi verið skráðir á daga án þess að vinna væri þar að baki en það væri gert í þeim tilvikum þegar aukatímar væru það margir að þeir kæmust ekki fyrir innan sama sólarhringsins. Hafi þá tímarnir verið færðir milli daga og kerfið „blöffað“ með þeim hætti.  

8. Í skýrslu Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra stefnda, fyrir héraðsdómi kom fram að gert hefði verið ráð fyrir 12 tíma vinnu um borð en samkomulag hefði verið um að greiddir væru 16 tímar á sólarhring fyrir hvern dag á sjó. Áfrýjandi hafi á hinn bóginn fengið mun fleiri tíma greidda en þá sem fólust í samkomulaginu. Hann kvað þetta samkomulag hafa verið við lýði í um 20 ár. 

9. Einnig kom fyrir héraðsdóm Ársæll Björnsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda. Hann kvað það hafa komið fyrir að hann fengi ekki lögbundinn hvíldartíma milli vinnutarna, en kvað ekkert fyrirkomulag hafa verið um að það skyldi bætt upp með því að hann skráði sjálfur aukatíma vegna þess á tímaskráningarskýrslu. Þá hafi komið fyrir að hann fengi ekki vikulegan frídag en slíkt hafi heldur ekki verið bætt með því að skrá aukatíma á tímaskráningarskýrslu.

10. Í skýrslu Halldórs Jónssonar, fyrrverandi rekstrarstjóra stefnda, kom fram að tímaskráningar eftir á hafi verið tilkomnar til að bæta starfsmönnum upp tapaða hvíld og væri ætlast til þess að tímaskráningin endurspeglaði fullnaðargreiðslu til starfsmanns hverju sinni. Er hann var inntur eftir því hvernig starfsmönnum væri bætt það upp að geta ekki nýtt sér sinn hvíldartíma kvað hann að unnt væri að færa til hvíldardaga í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Síðar við skýrslugjöfina sagði hann að starfsmaður sem ekki fengi sína lágmarkshvíld skilaði inn tímaskýrslu þar sem bætt væri við tímum vegna tapaðrar lágmarkshvíldar.

11. Í skýrslu Valdimars Smára Axelssonar, aðalbókara stefnda, kom fram að stefndi hefði gefið launafulltrúa upp ákveðinn tímafjölda og inni í þeim fjölda hafi átt að vera greiðsla fyrir skertan hvíldartíma. Ef aukatímar væru svo margir að ekki hafi verið hægt að skrá þá alla á sama sólarhringinn, hafi verið gripið til þess ráðs að skrá þá á laugardag eða sunnudag og fyrir vikið liti það út í skráningunni eins og hvíldardagur hefði verið skertur, sem ekki hafi verið raunin. Launafulltrúi stefnda hafi skráð  aukatímana til þess að ná upp frítökuréttinum, en starfsmenn gefi launafulltrúanum upp sína tíma.

12. Í skýrslu Árna Ingólfssonar kom fram að hann hefði unnið með áfrýjanda um borð í Málmey á tímabilinu frá febrúar til mars 2015 í þremur ferðum. Hann kvað samkomulag hafa verið um að starfsmenn skiluðu 12 tíma vinnu en fengju 16 tíma greidda auk dagpeninga. Starfsmenn hafi séð um að koma upplýsingum um tímafjölda til launafulltrúa. Árni er sonur Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra stefnda.

13. Áfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að tímaskráningarkerfið endurspeglaði þá vinnu sem hann hefði innt af hendi og kvaðst ekki hafa bætt tímum við raunverulega unnar vinnustundir til þess að bæta sér upp tapaða hvíld.

Málsástæður aðila

Málsástæður áfrýjanda

14. Af hálfu áfrýjanda er á það bent að þann tíma sem hann hafi starfað hjá stefnda hafi hann verið á jafnaðarkaupi og ekki fengið greitt sérstaklega þegar hvíldartími hans hafi verið skertur. Hann kveður ákvæði 1. gr. ráðningarsamnings síns fara í bága við réttindi sem fram komi í kjarasamningum og varði hvíldartíma starfsmanna. Hafi stefndi hvorki veitt áfrýjanda frítökurétt vegna skerts hvíldartíma né uppbót vegna skerðingar á rétti hans til vikulegs frídags. Hafi stefndi þannig brotið gegn skyldu sinni til þess að tryggja að laun áfrýjanda væru í samræmi við kjarasamning og lög. Ákvæði ráðningarsamnings sem í bága fari við kjarasamninga og lög séu ógild. Vísar áfrýjandi um lagarök til 53. gr. og 54. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Enn fremur vísar áfrýjandi til 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda en samkvæmt þeim ákvæðum sé óheimilt að skerða réttindi áfrýjanda samkvæmt kjarasamningi. 

Málsástæður stefnda

15. Stefndi kveðst hafa lagt tímaskýrslur áfrýjanda til grundvallar útreikningi launa hans og hafa oft greitt honum allt að 20 klukkustundir á sólarhring auk dagpeninga þrátt fyrir að vinna hans hafi aldrei farið yfir 12 klukkustundir á sólarhring. Áfrýjandi hafi aldrei kvartað yfir skertri hvíld eða gert athugasemdir við launaseðla. Í þessu sambandi er bent á að áfrýjandi hafi verið trúnaðarmaður á vinnustaðnum og fullkunnugt um kjarasamningsbundin réttindi sín. Kröfur vegna skertrar hvíldar hafi verið settar fram eftir að áfrýjanda var sagt upp störfum. Áréttar stefndi að áfrýjandi hafi fengið skerta hvíld bætta í formi greiðslu á að minnsta kosti 186 aukatímum á tímabilinu frá 21. febrúar 2015 til 16. júní sama ár. Kveður stefndi að áfrýjandi hafi tekið saman vinnustundir sínar og hafi hann bætt við aukatímum sem jafngilt hafi greiðslum vegna skertrar hvíldar og skilað þeim upplýsingum á skrifstofu stefnda, sem hafi lagt þær til grundvallar útreikningi launa. Með skráningu þessara aukatíma í tímaskráningarkerfi stefnda hafi áfrýjanda verið bætt upp skert hvíld í formi launagreiðslna en áhrif tímaskráningarinnar hafi verið þau að viðverutími áfrýjanda lengdist sem hafi haft þau afleiddu áhrif að hvíldartími virtist hafa verið skertur enn frekar.

Niðurstaða

16. Við munnlegan málflutning fyrir Landsrétti byggði stefndi á því að tilvísun til ákvæðis 2.8.2  í kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins  um 11 tíma hvíld ætti ekki við um lögskipti aðila, þar sem skipuleg vaktaskipti hafi átt sér stað meðal starfsmanna stefnda um borð í skipinu Málmey. Einnig var á því byggt að áfrýjandi hafi starfað sjálfstætt og ekki lotið boðvaldi annarra starfsmanna stefnda og um það vísað til 3. töluliðar 1. mgr. 52. gr. a laga nr. 46/1980. Þá var vísað til 3. mgr. 53. gr. sömu laga um að heimilt væri að víkja frá ákvæði 1. mgr. 53. gr. um 11 klukkustunda hvíldartíma við sérstakar aðstæður. Hvorki var í greinargerð stefnda fyrir Landsrétti né undir rekstri málsins í héraði byggt á framangreindum málsástæðum. Standa því ekki lagaskilyrði til þess samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að þessar málsástæður komist að fyrir Landsrétti.

17. Eins og fram hefur komið var sá háttur hafður á tímaskráningu áfrýjanda, vegna þess tímabils sem mál þetta tekur til, að hann skilaði inn ákveðnum tímafjölda til launafulltrúa stefnda, sem færði þá inn í vinnuyfirlit stefnda og greiddi út laun í samræmi við það. Á þeirri skráningu byggir krafa áfrýjanda en hann hefur mótmælt því að þeir tímar sem hann gaf upp og færðir voru inn í tímaskráningarkerfið séu ekki allir vegna vinnu sem hann hafi innt af hendi.

18. Í 1. gr. ráðningarsamnings aðila 13. ágúst 2015 er skýrt kveðið á um að starfsmaður fái ekki greiddan hvíldartíma en sem fyrr segir er ekki ágreiningur um að sömu kjör hafi gilt frá upphafi ráðningarsambands aðila. Engra skriflegra gagna nýtur við í málinu um að skráning tímafjölda hafi ekki endurspeglað unnar vinnustundir áfrýjanda og að hann hafi bætt við tímum til þess að gera upp skerðingu á hvíldartíma sínum. Á stefnda hvílir sönnunarbyrði um hið gagnstæða en framburð vitna sem báru á annan veg fyrir héraðsdómi verður að meta í ljósi þeirrar stöðu sem þau gegna hjá stefnda eða hafa gegnt, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Hefur stefnda ekki tekist sönnun þess að skráning tíma í yfirlit um unna tíma áfrýjanda hafi ekki verið í samræmi við unnar vinnustundir hans.

19. Samkvæmt 2. mgr. greinar 2.8.2  í kjarasamningi þeim sem gilti um kjör áfrýjanda ber starfsmanni uppbótarhvíld sem nemur einni og hálfri klukkustund fyrir hverja klukkustund (dagvinna) sem skerðist. Þá á starfsmaður samkvæmt grein 2.8.3 rétt á að fá, auk frítökuréttar samkvæmt grein 2.8.2, greidda eina klukkustund í yfirvinnu fyrir hverja klukkustund sem hvíldin fer niður fyrir átta klukkustundir. Samkvæmt 5. mgr. greinar 2.8.2 skal gera upp ónýttan frítökurétt við starfslok.

20. Stefndi bar ábyrgð á því að áfrýjandi fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningnum greinir og getur ekki borið fyrir sig ákvæði ráðningarsamnings aðila sem eru í andstöðu við kjarasamninginn, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr. laga nr. 55/1980. Stefndi hefur ekki andmælt útreikningi á tímafjölda vegna skerðingar á hvíldartíma, að öðru leyti en því að hann telur að tímar vegna daganna 16. og 17. júní 2015 séu tvítaldir á yfirliti því sem lagt hefur verið fram um ætlaða skerðingu á hvíldartíma. Af tímaskýrslu stefnda verður ráðið að 15. júní 2015 er stefndi sagður fara úr vinnu klukkan 23.39 og koma í vinnu 16. júní klukkan 7.15. Að kvöldi þess dags er áfrýjandi sagður fara úr vinnu klukkan 23.39 og koma í vinnu næsta dag klukkan 7.15. Er það í samræmi við yfirlit sem lagt hefur verið fram um tímaskráningu áfrýjanda. Samkvæmt framangreindu verður þessi kröfuliður áfrýjanda tekinn til greina að fullu  þannig að skertur hvíldartími miðað við 11 klukkustunda hvíld nemi 172,92 klukkustundum. Sá tímafjöldi er margfaldaður með 1,5 í samræmi við 2. mgr. greinar 2.8.2 í kjarasamningi og nemur því samtals 259,38 klukkustundum, sem stefnda ber að greiða miðað við jafnaðarkaup áfrýjanda, sem nam 2.540 krónum á klukkustund. Þá nemur samanlagður frítökuréttur vegna skerðingar á átta klukkustunda hvíldartíma 52,57 klukkustundum.

21. Krafa áfrýjanda um greiðslu vegna vikulegs frídags er reist á ákvæði 2.8.4 í kjarasamningi. Það var á ábyrgð stefnda að haga vinnu áfrýjanda á þann hátt að gætt væri að vikulegum frídegi og er honum ekki stoð í að bera fyrir sig ákvæði ráðningarsamnings  aðila, sem eru í andstöðu við fyrrgreind ákvæði kjarasamningsins, eins og rakið hefur verið varðandi skerðingu á lágmarkshvíld. Tölulegum útreikningi kröfu áfrýjanda vegna þessa kröfuliðar hefur stefndi mótmælt, að því gefnu að rétturinn fallist á að áfrýjanda beri greiðsla vegna hans, á þeim grundvelli að réttur til vikulegs frídags hafi einungis verið skertur í fimm tilvikum en ekki níu. Áfrýjandi lækkaði kröfu sína við flutning málsins fyrir Landsrétti sem nam þremur dögum og byggir á því að vikulegur frídagur hans hafi verið skertur í sex tilvikum.

22. Þar sem ekki er fallist á að skráning í vinnuyfirlit stefnda hafi ekki gefið rétta mynd af unnum vinnustundum áfrýjanda verður fallist á að vikulegur frídagur áfrýjanda hafi verið skertur í sex tilvikum. Verður kröfuliður þessi því tekinn til greina að virtri framangreindri lækkun áfrýjanda þannig að 48 klukkustundir bætast við þær stundir sem bæta eiga áfrýjanda skerðingu á hvíldartíma, sem nema þá samtals 359,95 klukkustundum.

23. Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 914.273 krónur að viðbættu 10,17% orlofi, samtals 1.007.255 krónur.

24. Í stefnu er krafist dráttarvaxta frá 19. febrúar 2016 til greiðsludags. Hefur stefndi mótmælt þeirri kröfu. Áfrýjandi kveðst miða upphaf dráttarvaxta við mánuð frá þingfestingardegi stefnu. Stefna málsins var þingfest 19. janúar 2017. Samkvæmt þessu verður fallist á að krafa áfrýjanda beri dráttarvexti frá 19. febrúar 2017 eins og nánar greinir í dómsorði.

25. Eftir þessum úrslitum og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð

Stefndi, Skaginn hf., greiði áfrýjanda, Antoni Guðmundssyni, 1.007.255 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. febrúar 2017 til greiðsludags og 1.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.