Print

Mál nr. 153/2010

Lykilorð
  • Samningur
  • Lán
  • Verðtrygging
  • Gengistrygging

                                                        

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 153/2010.

Lýsing hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Jóhanni Rafni Heiðarssyni og

Trausta Snæ Friðrikssyni

(Ragnar Baldursson hrl.

Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

Samningur. Lán. Verðtrygging. Gengistrygging.

L og J gerðu með sér svokallaðan bílasamning í maí 2006, þar sem fram kom að J yrði eigandi bifreiðarinnar, sem um ræddi, að fjórum árum liðnum með því að hafa staðið skil á öllum greiðslum. T tók á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum J samkvæmt samningnum. Mánaðarlegar leigugreiðslur skyldi J greiða í 48 skipti. Í samningnum var ákvæði um að hann væri gengistryggður og að allar fjárhæðir væru bundnar erlendum/innlendum myntum í ákveðnum hlutföllum og tækju mið af þeim á hverjum tíma. Gengi/vísitala miðaðist við útborgunardag samnings og leigugjald tæki breytingum á gengi og Libor-vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan væri greidd í. Fjárhæð mánaðarlegra greiðslna fór hækkandi og stóð J ekki skil á greiðslum frá og með júlí 2008. Neytti L þá vanefndarúrræða samkvæmt samningnum og krafði J meðal annars um gjaldfallna leigu og eftirstöðvar samkvæmt samningi. Snérist deila aðila um þrjú atriði, hvort samningur þeirra væri lánssamningur eða leigusamningur, hvort hann væri um skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar væru gengi erlendra gjaldmiðla og loks hvort slík gengistrygging, væri um hana að ræða, væri heimil að lögum. Litið var meðal annars til þess að í greiðsluáætlun, sem fylgdi samningnum, væri rætt um lán og að í samningnum væru ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða afborgunum. Þá var þar jafnframt gengið út frá því að við vanefndir gæti L rift samningi og allt að einu krafið J um fullar greiðslur til loka samningstímans. Auk þessa yrði að gæta að því að J hefði ekki leitað eftir því að taka á leigu bifreið frá L heldur valið bifreiðina og samið um kaup hennar án þess að L kæmi þar nærri. Varð því að líta svo á að L hefði í raun veitt J lán til kaupa á bifreið, sem L hefði kosið í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að um lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið að ræða. Talið var að samningur aðila bæri skýrlega með sér að hann væri um lán í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar og mánaðarlegar greiðslur voru tilgreind í íslenskum krónum. Þá kom berum orðum fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af. Af þessum sökum var talið ótvírætt að samningur aðilanna væri um skuldbindingu í íslenskum krónum og félli hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Rakið var að í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 38/2001, og öðrum lögskýringargögnum varðandi þau hefði ítrekað verið tekið fram að með þeim yrðu felldar niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að rétt væri að taka af allan vafa þar af lútandi. Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum. Ákvæði í samningi L og J um gengistryggingu hefðu því verið í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og því ekki skuldbindandi af þeim sökum. Voru J og T því sýknaðir af kröfu L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2010 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmir til að greiða sér 291.384 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags. Hann krefst ekki málskostnaðar.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu áfrýjandi og stefndi Jóhann Rafn Heiðarsson samning 8. maí 2006 með fyrirsögninni „Bílasamningur Lýsingar“ og var tiltekið undir henni að þetta væri „gengistryggður samningur“. Í honum var áfrýjandi nefndur leigusali og stefndi leigutaki, hið leigða var bifreið af tegundinni Galloper, sem fyrst hafi verið skráð í mars 2000, og væri seljandi hennar nafngreint félag á Akureyri. Leigutíminn yrði fjögur ár, frá 5. maí 2006 til 5. maí 2010, en að honum liðnum yrði stefndi eigandi bifreiðarinnar með því að hafa staðið skil á öllum greiðslum. Stefndi Trausti Snær Friðriksson tók á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum stefnda Jóhanns Rafns samkvæmt samningnum.

Í 4. gr. samningsins kom fram að kaupverð bifreiðarinnar væri 650.000 krónur, en frá því var dregin „leigugreiðsla við undirritun“ að fjárhæð 65.000 krónur og bætt við stofngjaldi, 17.550 krónur, og fékkst með þessu svokölluð samningsfjárhæð, sem var 602.550 krónur. Mánaðarlegar leigugreiðslur áttu að verða 15.162 krónur, sem stefndi skyldi greiða í 48 skipti, í fyrsta sinn 5. júní 2006. Í lokamálslið 4. gr. var svofellt ákvæði um greiðslurnar: „Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: USD 15%, JPY 10%, EUR 20%, CHF 5%, ISK 50%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. grein samnings þessa.“  Í 4. mgr. 7. gr. samningsins sagði eftirfarandi: „Ef samningurinn er gengistryggður er Lýsingu hf. heimilt að endurreikna hina gengistryggðu leigu skv. breytingum sem verða á Libor-vöxtum þess erlenda eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan er greidd í. Leiga sú, sem er gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlendis og/eða erlendra gjaldmiðla gagnvart ÍSK er greind í íslenskum krónum. Leigugjald er innheimt í ÍSK. Við útreikning leigu skal leggja til grundvallar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum við útgáfudag reiknings.“ Samningnum fylgdi greiðsluáætlun, sem stefndi Jóhann Rafn undirritaði. Í henni var yfirlit yfir greiðslur á hverjum hinna 48 gjalddaga, þar sem fram kom við hvern þeirra hvernig höfuðstóll mundi standa, hvernig hverri greiðslu yrði skipt í „afborgun“ og vexti og hver heildarfjárhæð hennar yrði að meðtöldu svokölluðu seðilgjaldi, en fyrstu 47 skiptin ætti mánaðargreiðsla að nema 15.162 krónum og lokagreiðslan 15.215 krónum. Í yfirskrift greiðsluáætlunarinnar kom fram að hún varðaði „Lán nr. 70016452 – 70016456“, og sagði jafnframt að „lengd láns“ væri 48 mánuðir. Þá var eftirfarandi tekið þar fram: „Ef samningur er gengistryggður geta leigugreiðslur breyst m.v. breytingar á gengi viðkomandi gjaldmiðla sem tilgreindir eru í þessu greiðsluplani.“

Áfrýjandi hefur lagt fram í málinu samrit 29 af fyrstu greiðsluseðlunum, sem hann gaf út á hendur stefnda Jóhanni Rafni á grundvelli framangreinds samnings þeirra. Í skýringum á hverjum seðli er „afborgun“ skipt upp í fjárhæðir í íslenskum krónum undir yfirskrift, sem vísar til fimm gjaldmiðla, svissneskra franka, evra, japanskra yena og bandaríkjadala auk íslenskra króna, og eru vextir tilgreindir varðandi hvern þessara þátta. Af þessum seðlum verður séð hvernig fjárhæð mánaðarlegra greiðslna fór hækkandi allt til þess að hún komst í 21.663 krónur vegna nóvember 2008. Samkvæmt gögnum málsins stóð stefndi Jóhann Rafn ekki skil á greiðslum frá og með júlí 2008 og neytti áfrýjandi af þeim sökum vanefndaúrræða samkvæmt samningi þeirra. Af því tilefni gerðu þessir málsaðilar sameiginlega yfirlýsingu 14. október 2008, þar sem fram kom að stefndi afhenti áfrýjanda bifreiðina og væri samningnum þar með rift með samþykki stefnda. Þar var einnig tiltekið að eftir væri að kanna ástand bifreiðarinnar á kostnað stefnda, svo og að hann gerði sér grein fyrir hvað riftun samningsins hefði í för með sér og hver staða hans væri gagnvart áfrýjanda að þessu gerðu. Áfrýjandi sendi stefndu tillögu að uppgjöri 9. febrúar 2009, þar sem taldar voru til skuldar leigugreiðslur fyrir tímabilið frá júlí til nóvember 2008, eftirstöðvar samningsfjárhæðar, sem hefði átt að gjaldfalla eftir síðastnefndan mánuð, bifreiðagjald, flutningskostnaður, umsýslugjald og kostnaður af skoðun bifreiðarinnar, samtals 611.322 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum og vanskilagjaldi, en til frádráttar skuldinni komu 15.000 krónur, sem væri matsverð bifreiðarinnar. Stefndu gengu ekki til uppgjörs á þessum grunni og höfðaði áfrýjandi mál þetta á hendur þeim 15. maí 2009. Í héraðsdómsstefnu var krafist að stefndu yrði gert að greiða áfrýjanda skuld að fjárhæð 466.462 krónur, sem sundurliðuð var í gjaldfallna leigu með áföllnum vöxtum og kostnaði á tímabilinu frá júlí til nóvember 2008, alls 95.577 krónur, eftirstöðvar samkvæmt samningi, 345.807 krónur, bifreiðagjald að fjárhæð 11.658 krónur og nánar tiltekna kostnaðarliði, sem samtals námu 28.420 krónum, en til frádráttar kom matsverð bifreiðarinnar, 15.000 krónur. Þá krafðist áfrýjandi dráttarvaxta af þessari skuld frá 9. febrúar 2009 auk málskostnaðar.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá öðrum framangreindum kröfuliðum en þeim, sem snúa að gjaldfallinni leigu og eftirstöðvum samkvæmt samningi, og hefur hann jafnframt tekið tillit til þess að bifreiðin hafi verið seld í janúar 2009 fyrir 150.000 krónur, sem hann dregur frá fjárhæð kröfunnar, en því til samræmis nemur hún nú sem áður segir 291.384 krónum. Áfrýjandi lýsti yfir við flutning málsins hér fyrir dómi að hann líti svo á að fjárhæð kröfunnar svari að öllu leyti til hækkunar á skuld stefnda Jóhanns Rafns samkvæmt samningi þeirra, sem rakin verði til fyrrgreindrar bindingar hennar við gengi erlendra gjaldmiðla. Aðilarnir eru sammála um að ágreiningur þeirra snúist um það eitt hvort heimilt hafi verið að gengistryggja kröfu áfrýjanda samkvæmt samningnum á þennan hátt.

Stefndu bera aðallega fyrir sig að ákvæði í samningi þeirra við áfrýjanda 8. maí 2006 um að fjárhæð skuldar fylgi gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla séu andstæð heimildum í 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 til að verðtryggja lánsfé og séu þau af þeim sökum ógild. Að því frágengnu halda stefndu fram að forsendur fyrir samningnum hafi brostið vegna verulegs falls á gengi íslensku krónunnar, en verði á hvorugt þetta fallist bera þeir því við að krafa áfrýjanda sé bersýnilega ósanngjörn og eigi af þeim sökum að víkja ákvæðum samningsins um gengistryggingu til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum.

II

Hömlur voru löngum á gjaldeyrisviðskiptum hér á landi allt þar til þeim var aflétt fyrir miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Skorður voru og settar við frelsi manna til að semja um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Rekja má forsögu reglna um verðtryggingu í lögum nr. 38/2001 aftur til laga nr. 4/1960 um efnahagsmál. Þar sagði í 6. gr. að ekki væri heimilt að stofna til skuldar í íslenskum krónum með ákvæði þess efnis að hún eða vextir af henni breyttust í samræmi við gengi erlends gjaldeyris, nema um væri að ræða endurlánað erlent lánsfé. Í 1. gr. laga nr. 71/1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem leysti þessa reglu af hólmi, sagði að ekki væri heimilt frekar en leyft væri í þeim lögum að stofna til fjárskuldbindinga í íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis að greiðslur, þar með taldir vextir, skyldu breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölum, vöruverði, gengi erlends gjaldeyris eða verðmæti gulls, silfurs eða annars verðmælis. Ákvæði í fjárskuldbindingum sem brytu í bága við þetta væru ógild. Í 2. gr. laganna var vikið frá þessu banni á þann hátt að þeim, sem endurlánaði erlent lánsfé, væri heimilt að áskilja að hið innlenda lán ásamt vöxtum endurgreiddist miðað við sama gengi og gilti um endurgreiðslu hins erlenda láns.

Í stað þeirra reglna, sem að framan greinir, komu síðan ákvæði í lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl. Í 33. gr. þeirra var mælt fyrir um almenna heimild til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár, sem háð var fjórum skilyrðum samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laganna. Fjórða skilyrðið laut að grundvelli verðtryggingar, sem gat verið annað hvort að miða við opinbera skráða verðvísitölu eins og hún væri reiknuð á hverjum tíma eða gengi erlends gjaldeyris þar sem slíkt væri heimilt samkvæmt lögum eða reglugerð. Sagði í 2. mgr. 39. gr. að Seðlabanki Íslands skyldi birta vísitölur, sem heimilt væri að miða verðtryggingu sparifjár og lánsfjár við, ásamt vaxtakjörum. Á grundvelli þessa ákvæðis var meðal annars sett reglugerð nr. 563/1987 um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum, þar sem heimilað var að binda innlán og útlán annað hvort við reikningsgengi á reikningseiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem nefnd var SDR, eða Evrópureikningseiningu, sem kallaðist ECU.

Með lögum nr. 13/1995 voru ákvæði um þetta efni færð í vaxtalög nr. 25/1987, þar sem þeim var skipað í nýjan V. kafla laganna, sem fjallaði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Þar sagði í 20. gr. að ákvæði þessa kafla giltu um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum, þar sem skuldari lofaði að greiða peninga og áskilið væri að greiðslurnar skyldu breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr. laganna. Í síðastnefndri lagagrein sagði að það væri skilyrði verðtryggingar sparifjár og lánsfjár samkvæmt 20. gr. að grundvöllur hennar væri annaðhvort vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknaði samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birti mánaðarlega í Lögbirtingablaði, eða vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða samsettum gjaldmiðlum, sem Seðlabanki Íslands reiknaði og birti mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Viðskiptaráðherra var heimilað að setja nánari ákvæði um gengisvísitölur í reglugerð að fenginni tillögu Seðlabankans. Með stoð í þessari heimild var sett reglugerð nr. 151/1995 um almenna heimild til að binda inn- og útlán við gengisvísitölur SDR og ECU, sem reglugerð nr. 293/1999 með sama heiti leysti af hólmi, en í þeim voru sambærileg ákvæði og í fyrrnefndri reglugerð nr. 563/1987.

Áður en síðastnefnd lagabreyting var gerð hafði viðskiptaráherra í ágúst 1994 skipað nefnd til að endurskoða vaxtalög nr. 25/1987. Hún lauk störfum í október 1995, en frumvarp til laga um vexti, dráttarvexti og verðtryggingu, sem var byggt á vinnu nefndarinnar og lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997 til 1998, náði ekki fram að ganga. Ný nefnd var skipuð í apríl 2000 til að endurskoða vaxtalög og var frumvarp, sem í meginatriðum var reist á störfum hennar, lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000 til 2001. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kom fram að nefndin sem samdi það hafi byggt starf sitt að miklu leyti á vinnu nefndarinnar, sem skipuð var í ágúst 1994. Síðari nefndin hafi verið einhuga í afstöðu sinni að öðru leyti en því að fulltrúi Sambands íslenskra viðskiptabanka og Sambands íslenskra sparisjóða hafi verið andsnúinn takmörkunum á frelsi til samninga um dráttarvexti og þeim hömlum, sem áfram ættu að verða á notkun verðtryggingar. Í almennu athugasemdunum var einnig vísað til þess að íslenskur fjármagnsmarkaður hefði tekið margvíslegum breytingum frá því að vaxtalög nr. 25/1987 tóku gildi, en meðal þeirra helstu væru afnám síðustu gjaldeyrishaftanna í árslok 1994, sem hafi valdið að íslenskur fjármagnsmarkaður hafi tengst erlendum traustari böndum en áður, efling hlutabréfamarkaðar, stofnun gjaldeyrismarkaðar, veruleg aukning fjárfestinga í erlendum verðbréfum og sókn innlendra lánastofnana á erlenda markaði með stofnun útibúa, skrifstofa og dótturfélaga og kaupum á erlendum bönkum. Í lýsingu á meginefni frumvarpsins kom fram að almennt hafi verið litið á það sem eins konar verðtryggingu peningakrafna að þær væru í erlendri mynt, en þær aðstæður væru ekki lengur fyrir hendi. Þar var einnig tekið fram að ekki væru lagðar til meginbreytingar á stefnu stjórnvalda í verðtryggingarmálum. Gert væri ráð fyrir að heimilt yrði að verðtryggja sparifé og lánsfé ef grundvöllur verðtryggingarinnar væri vísitala neysluverðs, en á hinn bóginn væru lagðar til breytingar á reglum í verðtryggingarkafla vaxtalaga, þar á meðal að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla yrðu felldar niður, tekið yrði af skarið um að afleiðusamningar féllu ekki undir ákvæði laganna og heimilt yrði í skuldaskjölum að miða við vísitölur, sem mæli ekki breytingar á almennu verðlagi með sama hætti og vísitala neysluverðs. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins sagði að í 13. gr. væri fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í 1. mgr. væri lagt til að heimildir til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla yrðu felldar niður. Frá 1960 hafi þetta almennt verið óheimilt og hafi sú regla verið tekin upp í lög nr. 13/1979, en þó þannig að beita hafi mátt í þessu skyni sérstökum gengisvísitölum, sem Seðlabanki Íslands hafi birt, og hafi það verið liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins yrði ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla og væri talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Þegar mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi kom einnig fram að samkvæmt reglum þess yrðu heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla felldar niður, enda eðlilegt, ef menn vildu miða fjárhæð skuldbindingar við erlendan gjaldmiðil, að hann yrði notaður beint. Í lögskýringargögnum liggur að auki fyrir að við meðferð frumvarpsins á Alþingi gerðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja þær athugasemdir í umsögn að ekki yrði séð hvaða rök væru fyrir því að takmarka heimildir til verðtryggingar í 14. gr. þess við tilteknar vísitölur, en næði frumvarpið fram að ganga yrði eins og eftir þágildandi lögum óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt á meðan ekkert bannaði að veita lán beint í erlendu myntinni. Frumvarpinu var í engu breytt að þessu leyti og varð það að lögum nr. 38/2001.

III

Deila málsaðila snýst um þrjú atriði, hvort samningur þeirra frá 8. maí 2006 sé lánssamningur eða leigusamningur, hvort hann sé um skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla, og loks hvort slík gengistrygging, sé um hana að ræða, sé heimil að lögum.

Eftir heiti VI. kafla laga nr. 38/2001, sem 13. gr. til 16. gr. þeirra heyra til, tekur hann til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Áfrýjandi heldur því fram að samningurinn frá 8. maí 2006 sé ekki um lán, heldur leigu og falli hann þar af leiðandi ekki undir þessar reglur laganna, en af þeim sökum hafi verið frjálst að semja um gengistryggingu án tillits til þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1980, bls. 1291 í dómasafni það ár, í máli nr. 98/1978.

Svo sem rakið hefur verið er í texta samningsins tekið fram að hann sé um kaupleigu, en í greiðsluáætlun, sem fylgdi honum, er á hinn bóginn rætt um lán og að lengd þess væri 48 mánuðir. Í samningnum eru ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða afborgunum, en slíkt tíðkast í lánssamningum og á engan veginn við í leigusamningum. Þá er þar jafnframt gengið út frá því að við vanefndir geti áfrýjandi rift samningi og allt að einu krafið gagnaðila um fullar greiðslur til loka samningstímans, en við riftun leigusamnings fellur niður eðli máls samkvæmt skylda leigutaka til áframhaldandi greiðslu á leigu, þótt leigusali geti eftir atvikum krafið hann um bætur vegna missis leigutekna að því afstöðnu. Í samningnum var þessu til viðbótar gengið út frá því að stefndi Jóhann Rafn yrði eigandi bifreiðarinnar án sérstakrar greiðslu eftir að hafa innt af hendi 48 mánaðarlegar afborganir, sem svo voru nefndar bæði í greiðsluáætlun og greiðsluseðlum frá áfrýjanda. Auk alls þessa verður að gæta að því að eftir gögnum málsins leitaði stefndi Jóhann Rafn ekki eftir því að taka á leigu frá áfrýjanda bifreið, sem sá síðarnefndi átti þá þegar, heldur valdi stefndi bifreiðina og samdi um kaup hennar, þar á meðal um verð og greiðslukjör, án þess að áfrýjandi kæmi þar nærri. Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að áfrýjandi hafi í raun veitt stefnda Jóhanni Rafni lán til kaupa á bifreið, sem áfrýjandi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af stefnda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni. Af þessum sökum verður lagt til grundvallar að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.

Áfrýjandi heldur því í annan stað fram að hvað sem framangreindu líður hafi samningur hans við stefnda Jóhann Rafn ekki tekið til skuldbindingar í íslenskum krónum, heldur í erlendri mynt, og sé því ekki um að ræða verðtryggingu samningsfjárhæðarinnar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Samningurinn beri með sér að hann hafi tekið til svokallaðrar myntkörfu í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum, en áfrýjandi hafi sjálfur tekið samsvarandi lán í þeim myntum hjá viðskiptabanka sínum og endurlánað á þennan hátt. Samningar af þessum toga hafi verið algengir, enda hafi vextir af erlendu lánsfé verið lágir á þessum tíma miðað við lán í íslenskum krónum, en engar skorður hafi verið settar við því að áfrýjandi gæti lánað öðrum fjárhæð í erlendri mynt og hafi þessi starfsemi hans engum athugasemdum sætt frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, sem hafi haft eftirlit með henni.

Lán í erlendri mynt falla ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Til þess verður á hinn bóginn að líta að samningur aðilanna ber skýrlega með sér að hann var um lán í íslenskum krónum, en fjárhæðin, sem ákveðin var í þeirri mynt, væri bundin að hluta við gengi fjögurra erlendra mynta í þar greindum hlutföllum. Kaupverð bifreiðarinnar, sem samningurinn snerist um, var jafnframt tilgreint í íslenskum krónum og mánaðarlegar greiðslur í 48 mánuði ákveðnar í sama gjaldmiðli. Berum orðum kom fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af, og sagði að auki í yfirskrift samningsins að hann væri gengistryggður. Af þessum sökum er ótvírætt að samningur aðilanna var um skuldbindingu í íslenskum krónum og fellur hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001.

Samkvæmt framansögðu er komist að þeirri niðurstöðu að samningur áfrýjanda við stefnda Jóhann Rafn 8. maí 2006 hafi verið lánssamningur í íslenskum krónum og gengistryggður eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum hans. Áfrýjandi heldur því fram að slík gengistrygging sé ekki andstæð lögum nr. 38/2001 og vísar til þess að í 13. gr. þeirra sé skilgreint hvað sé átt við með verðtryggingu í skilningi VI. kafla laganna, en þar komi fram að hún sé breyting á fjárhæð í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Samkvæmt þessu taki hugtakið verðtrygging í VI. kafla laganna ekki til breytinga á skuldbindingu eftir gengi erlendra gjaldmiðla.

Um þessar röksemdir áfrýjanda er þess að gæta að samkvæmt áðurgreindri forsögu ákvæða VI. kafla laga nr. 38/2001 hefur heimild til að miða verðtryggingu við gengi erlends gjaldmiðils í áratugi þurft að styðjast við lög eða reglugerð. Ekki verður séð að almennar reglur um slíka verðtryggingu hafi áður verið að finna annars staðar en í 39. gr. laga nr. 13/1979 og síðar 21. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, eins og þeim var breytt með lögum nr. 13/1995, en þar voru veittar heimildir til að binda sparifé og lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu á svokölluðum samsettum gjaldmiðlum, sem Seðlabanki Íslands ákvað eftir fyrrnefndum reglugerðum. Eins og áður var rakið var í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 38/2001, og öðrum lögskýringargögnum varðandi þau ítrekað tekið fram að með þeim yrðu felldar niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og sagði einnig að rétt væri að taka af allan vafa þar að lútandi. Í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 er að sönnu ekkert rætt um bindingu lánsfjár í íslenskum krónum við gengi erlends gjaldmiðils. Í 13. gr. segir að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað. Í 1. mgr. 14. gr. segir að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar, og í 2. mgr. 14. gr. segir að í lánssamningi sé þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Af lögskýringargögnum er ljóst að ætlun löggjafans var að fella niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og heimila einungis að þær yrðu verðtryggðar á þann hátt sem í 14. gr. laganna segir. Vilji löggjafans kom skýrlega fram í því að í orðum lagaákvæðanna var eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar var ekkert rætt um þær tegundir, sem óheimilt var að beita. Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum. Fyrrnefnd ákvæði í 4. og 7. gr. samnings áfrýjanda og stefnda Jóhanns Rafns um gengistryggingu voru því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og skuldbinda þau ekki stefndu af þeim sökum. Niðurstaða héraðsdóms verður því staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lýsing hf., greiði stefndu, Jóhanni Rafni Heiðarssyni og Trausta Snæ Friðrikssyni, hvorum um sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2010.

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 15. maí 2009 af Lýsingu hf., kt. 621101-2420, Ármúla 3, Reykjavík, á hendur Jóhanni Rafni Heiðarssyni, kt. 030763-2629, Keilusíðu 4f, Akureyri og Trausta Snæ Friðrikssyni, kt. 010176-4849, Grenivöllum 24, Akureyri, til greiðslu skuldar samkvæmt kaupleigusamningi um bifreiðina TI453.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu skuldar að fjárhæð 466.462 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi, Jóhann Rafn Heiðarsson, krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Málið var þingfest 9. júní 2009 og stefndu fengu frest til að leggja fram greinargerð. Eftir ítrekaða fresti var málið tekið fyrir 29. september s.á. Þá skilaði stefndi Jóhann Rafn greinargerð en stefndi, Trausti Snær, fékk enn frest til 1. október 2009 til að skila greinargerð. Þegar málið var tekið fyrir þann dag féll þingsókn niður af hálfu stefnda Trausta og málinu var frestað um óákveðinn tíma. Undirritaður dómari tók málið fyrir 25. nóvember s.á. Þá féll niður þingsókn af hálfu stefnda, Jóhanns Rafns, en í greinargerð hans kemur fram að hann hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að gæta hagsmuna sinna umfram það sem þegar hafi verið gert gagnvart lögsókn fjármálafyrirtækisins. Stefnanda var gefinn kostur á að svara vörnum stefnda í skriflegri sókn sem hann lagði fram næst þegar málið var tekið fyrir þann 17. desember s.á. og var málið tekið til dóms samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Samkvæmt stefnu eru atvik málsins þau að þann 8. maí 2006 gerði stefndi, Jóhann Rafn, samning við stefnanda, þar sem hann tók á leigu bifreiðina DI684 sem er af gerðinni Galloper árgerð 2000. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldbindingum stefnda, Jóhanns Rafns, tókst meðstefndi, Trausti Snær Friðriksson, á hendur óskipta sjálfsskuldarábyrgð á efndum hans samkvæmt samningnum.

Stefnandi segir framkvæmd viðskiptanna hafa verið með þeim hætti að stefnandi hafi keypt umrædda bifreið af fyrrverandi eiganda hennar og leigt bifreiðina á þann hátt að kaupverð bifreiðarinnar, 650.000 krónur að viðbættu s.k. stofngjaldi að fjárhæð 17.550 krónur en að frádreginni innborgun 65.000 krónur, hafi myndað höfuðstól leigusamningsins eða svokallað samningsverð, 605.550 krónur. Samningurinn hafi verið s.k. kaupleigusamningur en í því felist að stefnda hafi borið að endurgreiða stefnanda samningsverðið með mánaðarlegum leigugreiðslum á leigutímabilinu sem standa skyldi frá 5. maí 2006 til 5. maí 2010. Stefndi hafi átti að eignast bifreiðina í lok leigutímans. Samkvæmt II. kafla samningsins skyldi gjalddagi leigu vera 5. hvers mánaðar og leigan innheimtast eftir á.

Mánaðarlegt viðmið leigugreiðslu hafi verið ákveðið 15.162 krónur en endanleg leigufjárhæð í hverjum mánuði skyldi ráðast af gengi myntkörfu þar sem USD skyldi hafa 15% vægi, JPY 10%, EUR 20%, CHF 5% og ÍSK 50% vægi. Virkni myntkörfunnar hafi verið með þeim hætti að leigufjárhæðin í íslenskum krónum hafi á fyrsta samningsdegi verið umreiknuð í hinar erlendu myntir í ofangreindum hlutföllum, sem síðar hafi verið umreiknaðar að nýju í íslenskar krónur á hverjum gjalddaga samningsins, og höfuðstóll leigugreiðslunnar reiknast með sama hætti. Þá skyldi einnig við ákvörðun fjárhæðar leigugreiðslu taka tillit til umsaminna vaxta, sem í þessu tilfelli hafi verið LIBOR vextir á gjalddaga leigugreiðslunnar af myntum þeim sem hafi myndað myntkörfuna.

Stefnandi segir að stefndi hafi ekki staðið í skilum með greiðslur samkvæmt samningnum. Vanefndirnar hafi orðið til þess að stefnandi hafi nýtt sér heimild 21. gr. samnings aðila og rift leigusamningi sínum við stefnda og krafist þess að bifreiðinni yrði skilað til stefnanda. Bifreiðinni hafi verið skilað til stefnanda þann 14. október 2008.

Í kjölfar riftunarinnar hafi stefnda borið samkvæmt 23. gr. samnings aðila að standa stefnanda skil á þeim leigugreiðslum sem fallið höfðu í gjalddaga fram til riftunar auk áfallinna dráttarvaxta. Jafnframt hafi stefnda borið samkvæmt umræddri grein að standa skil á ógjaldföllnum leigugreiðslum fyrir þann tíma sem eftir hafi verið af samningstímanum, auk sérstaks uppgjörsgjalds. Skyldi í því sambandi reikna höfuðstól leigugreiðslnanna á þann hátt sem segir í 4. gr. samnings aðila miðað við riftunardagsetningu og margfalda þá tölu með fjölda þeirra afborgana sem þá eftir voru af samningi aðila, án þess að tekið væri tillit til þeirra samningsvaxta sem ella hefðu átt að koma til greiðslu á hinum ógjaldföllnu gjalddögum. Krafa stefnanda hafi þann 9. febrúar 2009 hafi numið 466.462 krónum. Nánar tiltekið sundurliðar stefnandi kröfunnar þannig:

Gjaldfallin leiga, áfallnir vextir og kostnaður frá 05.07.08

kr.

95.577

Bifreiðagjald

kr.

11.65

Kostn. Frumherja v/skráningar og umsýslu

kr.

3.000

Kostn. vegna skoðunar og kostnaðarmats

kr.

10.480

Eftirstöðvar skv. samningi voru

kr.

345.807

Ráðstöfun á matsverði frádregið

kr.

-15.000

Umsjónargjald skv. 22. gr. samningsins

kr.

14.940

Samtals

kr.

466.462

Samtals sé skuld stefnda því 466.462 krónur sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Stefnda hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við söluverðmatið og jafnframt tilkynnt að fjárhæðin yrði færð inn sem greiðsla á skuld hans en engar athugasemdir hafa borist frá stefnda. Þrátt fyrir áskoranir stefnanda hafi stefndi ekki greitt umrædda fjárhæð og því hafi stefnanda verið nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu skuldarinnar.

Af hálfu stefnanda er byggt á þeirri meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar að samninga beri að efna. Stefndi, Jóhann Rafn, hafi samning við stefnanda þar sem hann hafi skuldbundið sig til þess að leigja bifreiðina DI-684 af stefnanda með þeim skilmálum sem í samningnum greinir, þ.á m. varðandi það undir hvaða kringumstæðum stefnanda væri heimilt að rifta samningi sínum við stefnda, sem og það hvernig uppgjör leigusamningsins skyldi fara fram í kjölfar slíkrar riftunar. Í þessu sambandi er á því byggt að með því að stefndi hafi ekki sinnt samningsskyldum sínum og ekki greitt umsamið leigugjald hafi stefnanda verið heimilt á grundvelli 21. gr. samnings aðila að lýsa yfir riftun samningsins og krefja stefnda um greiðslu þeirra fjárhæða sem mælt er fyrir um í 23. gr. samnings aðila, eins og gert sé í þessu máli.

Hvað snertir meðstefnda, Trausta Snæ, segir stefnandi dómkröfur stefnanda á hendur honum einnig byggðar á meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða. Stefndi, Trausti Snær, hafi lofað að takast á hendur óskipta ábyrgð á efndum stefnda, Jóhanns Rafns, á samningi hans við stefnanda. Þar sem stefndi, Jóhann Rafn, hafi vanefnt umræddan samning sé ljóst að stefnanda sé einnig heimilt að beina kröfum sínum um efndir samningsins að honum í máli þessu.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar að samninga beri að efna. Jafnframt sé dráttarvaxtakrafa stefnanda studd við ákvæði III. kafla laga nr. 30/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum ákvæðum 129. og 130.gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.

II

Í greinargerð stefnda, Jóhanns Rafns, kemur fram að hann sjái ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við málsatvikalýsingu stefnanda. Þó bendir hann á að kostnaðarliðir séu órökstuddir og of háir. Þar megi nefna að bifreiðin hafi aldrei farið á verkstæði þrátt fyrir að krafið sé um kostnað vegna verkstæðiskostnaðar.

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að lánasamningurinn sem standi að baki kröfu stefnanda sé ólögmætur í skilningi laga nr. 38/2001. Því séu í raun engum lagaskilyrðum til að dreifa sem réttlæti kröfu stefnanda. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001 segi að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. laganna, ef grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda, og birti mánaðarlega í Lögbirtingarblaði. Þá segi í frumvarpi til laga nr. 38/2001 í athugasemdum um 13. og 14. gr. að samkvæmt téðum greinum verði ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Þá segi jafnframt í athugasemdum við frumvarpið að rétt sé að taka af allan vafa þar að lútandi að ekki sé heimilt að binda lánsfé í íslenskum krónum við annað en vísitölu neysluverðs, sbr. þó þröngar undantekningar í 14. gr. laga nr. 38/2001.

Samningur aðila heitir kaupleigusamningur en sé hvorki leigusamningur né kaupsamningur. Eðli samningsins sé að stefnandi lánar stefnda kaupverð bíls sem stefnandi eigi að greiða til baka með vöxtum. Standi hann skil á allri lánsfjárhæðinni og öðrum greiðslum fái hann afhent afsal, sbr. 8. gr. samningsins. Þannig sé ljóst að um lánssamning sé að ræða. Óskýr og villandi ákvæði staðlaðra samninga eins og þessa beri að túlka þeim sem hafi samið þá, stefnanda, í óhag.

Lánið sem stefndi hafi tekið hjá stefnanda sé samkvæmt 4. gr. samningsins í íslenskum krónum. Þá segi í sömu grein að samningurinn sé gengistryggður og allar fjárhæðir bundnar erlendum og innlendum myntum í nánar tilgreindum hlutföllum og að þær taki mið af þeim á hverjum tíma. Orðrétt segi í 4. gr. undir fyrirsögninni vextir, verðtrygging og annað: Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: USD 15%, JPY 10%, EUR 20%, CHF 5%, ISK 50%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. gr. samnings þessa.

Í 7. gr. samningsins sé svo nánar kveðið á um hvað felist í gengistryggingu. Þar segi að stefnanda sé heimilt að endurreikna lánsfjárhæðina samkvæmt breytingum sem verði á LIBOR vöxtum þess erlenda eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé greidd í og að leiga sú sem sé gengistryggð miðað við breytingar erlendis og eða erlendra gjaldmiðla gagnvart ÍSK, sé greind í íslenskum krónum.

Þetta kveðst stefndi telja ólögmætt samkvæmt lögum nr. 38/2001 og samningurinn því frá upphafi ógildur í heild. Stefnandi hafi einhliða sett upp alla skilmála án þess að stefndi hafi nokkurn möguleika á því að koma að athugasemdum eða mótmælum. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki, sem starfi samkvæmt opinberu starfsleyfi, og búi yfir sérfræðiþekkingu sviði lánastarfsemi. Stefnanda hafi því verið í lófa lagið að gæta að því að ekki væri brotið á rétti stefnda með ólögmætum samningsákvæðum eða samningsskilmálum sem væru ósanngjarnir og verulega íþyngjandi fyrir hann. Stefndi hafi mátt treysta því að samningurinn væri lögmætur og að áhættan væri ekki þess eðlis að hún væri tengd ólögmætum samningsskilmálum.

Stefnanda hafi mátt vera það ljóst frá upphafi að umrædd gengistrygging væri ólögmæt og verði því að bera hallan af því að það komi í ljós. Stefnandi virðist þess utan hafa boðið upp á þrenns konar kosti varðandi verðtryggingu, sbr. 7. gr. bílasamningsins en notað gengistryggingu í þessi tilfelli vitandi að það væri sú leið sem væri andstæð ákvæðum laga nr. 38/2001. Hinir tveir kostirnir hafi verið þeir að samningurinn sé óverðtryggður og vextir þá tilgreindir í upphafi í 4. gr. og að hann sé verðtryggður og skuli þá samkvæmt ákvæðum 7. gr. miðað við vísitölu neysluverðs.

Samningsskilmálar bílasamningsins séu settir upp einhliða af stefnanda, sem sé eins og fram hafi komið, fjármálafyrirtæki sem sérhæfir sig í lánastarfsemi. Stefndi hafi gengist við þeim skilmálum með undirritun sinni í góðri trú um að skilmálar samningsins væru í samræmi við lög og góða viðskiptahætti. Ljóst sé að óskýra og íþyngjandi skilmála staðlaðra samninga beri að túlka þeim aðila, sem semur þá eða lætur semja þá, í óhag. Samningsstaða aðila hafi verið ójöfn enda um sérhæft fjármögnunarfyrirtæki að ræða og skyldur þess þá enn ríkari en ella að misnota ekki þá aðstöðu sína til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum fyrir sig gagnvart stefnda.

Stefndi hafi þegar greitt sanngjarnt endurgjald vegna leigu á bifreiðinni og skilað bifreiðinni aftur í því ástandi sem vænta hafi mátt. Stefndi mótmælir þeim útreikningum sem lagðir eru fram um tjón á bifreiðinni og bendir á að stefnandi hafi ekki skorað á hann að bæta úr því sem talið hafi verið að bifreiðinni og gefa honum þar með kost á því að minnka mögulegan kostnað vegna úrbóta. Að því leyti sé kröfugerð stefnanda vanreifuð. Þessum kröfulið um kostnað vegna meints tjóns á bifreiðinni sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Sá kostnaður sem stefndi sé krafinn um sé að mestu leyti tilkomin vegna gengisbreytinga, sem stefndi telji samkvæmt ofansögðu að séu tilkomnar á ólögmætan hátt og í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001

Loks bendir stefndi á að allar forsendur sem hafi legið að baki samningsgerðinni í upphafi hafi breyst og valdið því að stefndi sé mun verr settur en hann hafi verið við undirritun samningsins og staða aðila hafi breyst í verulegum mæli frá því að samningurinn hafi verið gerður. Það sé því bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera ákvæði hans fyrir sig vegna atvika sem síðar hafi komið til og hafi valdið því að verulega halli á stefnda hvað þetta varði, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Verði fallist á sýknukröfu stefnda í málinu áskilur stefndi sér rétt til þess að krefja stefnanda um að það endurgjald sem hann hafi þegar greitt honum verði endurgreitt með vöxtum, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. þeirra. Þá vísar stefndi til laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. um heimildir til þess að víkja samningum til hliðar. Varðandi málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 19/1991. Krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.

Í skriflegri sókn stefnanda segir að stefndi haldi því fram að samningur aðila sé ólögmætur með vísan til laga nr. 38/2001, aðallega með vísan til 13. og 14. gr. laganna. Stefnandi telur að hér sé um misskilning að ræða og heldur því fram að lánveitingar með vísan til gengis séu heimilaðar og hafi svo verið til langs tíma. Í dæmaskyni megi nefna eftirtalin lög sem nú séu brottfallin: 1. og 2. gr. laga nr. 71/1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga, 37. gr. laga nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála og 21. gr. vaxtalaga nr. 13/1995.

Þá verði lög 38/2001 ekki lesin þannig að alfarið sé lagt bann við því að binda lán við erlenda gjaldmiðla en lögin fjalli einvörðungu um að miða skuli lán í íslenskum krónum við vísitölu svonefnds neysluverðs. Ekkert sé fjallað um lán í erlendri mynt í lögunum og fullyrðing um að í athugasemdum með frumvarpi 1. 38/2001 sé lagt fortakslaust bann við verðtryggingu miðaða við gengi standist ekki. Raunar séu athugasemdirnar ekki í samræmi við lagatextann en þar sé ekki fjallað um gengisviðmið og sé eins og athugasemdirnar séu miðaðar við önnur frumvarpsdrög og gleymst hafi að samræma textavinnu. A.m.k. séu engin ákvæði í lögunum um erlend lán og lagaskilareglur ófullkomnar. Ætla megi að eldra fyrirkomulag um erlend lán sé því í fullu gildi.

Í greinargerð með 1ögum nr. 38/2001 sé m.a. verið að fjalla um sögulegan aðdraganda laganna hvað varði viðmið við erlent gengi, sbr. athugasemdir með 13. og 14 gr. laganna, en í greinargerðinni sé fjallað um að verið sé að fella niður tilteknar gengisvísitölur í svonefndum ECU og SDR reiknisreglum og vísað til þess að slíkir samningar séu fátíðir. Raunin sé hins vegar sú að samningar sem breytast í samræmi við gengi séu langt frá fátíðir s.s. samningar tengdir atvinnulífinu t.d. vegna fiskveiða, iðnaðar o.s.frv.

Hugtakið verðtrygging í lögum nr. 38/2001 sé skilgreint þrengra en í eldri lögum. Vísitala neysluverðs sé flókið fyrirbrigði og mæld út frá ýmsum neysluvörum o.fl. eftir aðferðum sem skilgreindar séu í lögum og reglugerðum. Með nokkrum rökum sé hægt að halda því fram að breytingar á gengi gjaldmiðla sé ekki verðvísitala og falli því ekki undir skilgreiningu laga um verðtryggingu. E.t.v. sé ekki svo langsótt að halda því fram að heimilt sé að stofna til skuldbindinga í íslenskum krónum og miða endurgjald við erlenda gjaldmiðla. A.m.k. sé það hvergi bannað í lögum, hvað svo sem athugasemd í greinargerð líði.

Aðstæður séu þó skýrar í þessu máli. Í bílasamningnum komi skýrt fram að verið sé að lána erlent fé með svonefndri myntkörfu þ.e. USD 15%, JPY 10%, EUR 20%, SHF 5% og loks í íslenskum krónum 50%. Í framlögðu yfirliti yfir gjaldeyrismillifærslur komi skýrt fram að stefnandi leggi til erlent fé í samræmi við bílasamninginn, þ.e. hann fái sjálfur lánað til að standa við sinn hluta samningsins. Þá komi fram í framlögðum innheimtuseðlum að stefndi hafi fengið greiðslutilmæli til sín þar sem skýrt komi fram að skuld hans sé í erlendum myntum. Hann eigi því ekki að velkjast í vafa um hvaða myntir hafi legið að baki viðskiptunum. Vissulega séu allar fjárhæðir umreiknaðar í íslenskar krónur enda sé krónan lögeyrir þessa lands, sbr. lög nr. 22/1968 og skipti ekki máli og breyti ekki þeirri staðreynd að viðskipti þau sem mál þetta snúist um voru í erlendri mynt.

Stefnandi vísar einnig til þess að samningar hliðstæðir þessum hafa verið gerðir í þúsundum, ef ekki tugþúsundum, og eftirlitsaðilar s.s. Seðlabanki og Fjármála­eftirlit hafi vitað af þessum samningum og ekki gert athugasemdir, sbr. lög nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi og dóm Hæstaréttar í máli nr. 224/1996.

Stefnandi vísar vegna þessa atriðis til þess að hann hafi veitt lán í erlendum gjaldmiðlum og eigi rétt á því að fá greitt til baka í sömu mynt.

Í annan stað vísi stefndi til 36. gr. samningalaga og reglna um brostnar forsendur. Stefndi telji að þær ströngu kröfur sem gerðar séu til þess að um forsendubrot sé að ræða og slíkt eigi að leiða til ógildingar samnings eigi hér við. Líta verður til þess að verðbólga og sveiflur í verðmæti gjaldmiðla geti verið miklar og svo hafi raunin verið allt frá stríðslokum. Raunar sé það svo að sveiflur í verðlagi vöru og gjaldmiðla hafi t.d. verið meiri á árinu 1983 en nú séu. Almennt séu skuldbindingar af þessum toga til langs tíma og aðstæður geti breyst og ekkert sem segi að núverandi ástand sé eilíft og að gengi íslensku krónunnar geti ekki styrkst þegar til lengri tíma sé litið. Í dæmaskyni megi nefna að á árunum 2001-2002 hafi gengi krónunnar fallið um 30% en krónan hafi síðan náð svo fullum styrk ári síðar.

Þá sé einnig til þess að líta að almannavaldið hafi þegar tekið á þessum atriðum með lagasetningu. Hér megi nefna 1ög nr. 24/2009 um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (greiðsluaðlögun), 1ög nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði og 1ög nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Þá hafi verið gert sérstakt samkomulag við félög sem sinna samsvarandi starfsemi og stefnandi hafi með höndum um að létta greiðslur þeirra er hafi tekið lán í erlendri mynt. Stefnandi heldur því fram að stefndi verði að láta reyna á úrræði samkvæmt framangreindum lögum en í greinargerð hans sé aðstæðum hans þannig lýst að hann falli undir ákvæði þeirra laga með sín fjárhagslegu vandamál. Loks vísar stefnandi til þeirrar meginreglu að samninga skuli efna.

III

Stefnandi og stefndi, Jóhann Rafn, deila um hvort svokölluð gengistrygging samkvæmt samningi þeirra frá 8. maí 2006 sé andstæð 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt samningnum lánaði stefnandi stefnda fé til kaupa á bifreið. Í samningnum segir að þeir geri með sér kaupleigusamning. Stefnandi lagði fram kaupverð bifreiðarinnar en bifreiðin var eign stefnanda á meðan stefndi innti afborganir af hendi. Við greiðslu síðustu greiðslu eða eftirstöðva skyldu stefnandi gefa út afsal til stefnda. Þótt samningurinn fjalli um leigu bifreiðar, leigutíma og leigugreiðslur þá er um lánasamning að ræða sem fellur undir lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. þeirra.

Lög nr. 38/2001 taka til hvers konar endurgjalds sem tekið er fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar, sbr. 1. gr. þeirra. Á það því einnig við um samninga sem eru gengistryggðir eða þar sem lánsfjárhæðir eða afborganir taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi erlendra gjaldmiðla. Ef lán er veitt í íslenskum krónum verður það samkvæmt 13. gr. laganna ekki verðtryggt með öðrum hætti en með vísitölu neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Þó er sú undantekning gerð í 2. mgr. 14. gr. að heimilt er að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Þessi ákvæði eru ófrávíkjanleg samkvæmt efni sínu og 2. gr. laganna.

Lögmæti tengingar í lánasamningi aðila við gengi erlendra gjaldmiðla eða „myntkörfu“ veltur á því hvort lán hafi verið veitt í íslenskum krónum og ef svo er hvort viðmiðun við erlenda gjaldmiðla teljist vera „verðtrygging“ í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.

Stefnandi heldur því fram að með kaupleigusamningnum hafi hann lánað stefnda „erlent fé með svonefndri myntkörfu“, eins og segir í sókn stefnanda. Því til stuðnings vísar hann til ákvæða samningsins um gengistryggingu, eigin yfirlits um gjaldeyrismillifærslur og innheimtuseðla sem hann hefur lagt fram. Við mat á því hvort um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða verður einungis horft til samnings aðila enda getur niðurstaðan ekki ráðist af því hvort stefnandi hafi fjármagnað lánafyrirgreiðslu sína á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði.

Stefnandi er sérfróður um lánaviðskipti og ber hallann af óskýrleika samningsins. Hann ber þannig, gegn andmælum stefnda, sönnunarbyrði fyrir því að lán hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðli. Það er niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sannað þá staðhæfingu. Samningur aðila er í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar er í íslenskum krónum og ekki verður annað ráðið af samningi aðila en að seljandi bifreiðarinnar hafi fengið greiðslu frá stefnanda í íslenskum krónum. Þá verður leiguverð innheimt í íslenskum krónum samkvæmt 7. gr. samningsins. Samningurinn telst því vera í íslenskum krónum í skilningi 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kemur þá til skoðunar hvort tenging samnings í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla teljist vera verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, þ.e. 13. og. 14. gr. þeirra, en ákvæðin eiga einungis við um skuldbindingar þar sem greiðslur skulu verðtryggðar. Í 13 gr. segir að með verðtryggingu sé átt við breytingu á hlutfalli við innlenda verðvísitölu og í 14. gr. er heimild til verðtryggingar afmörkuð við vísitölu neysluverðs. Verðtrygging samkvæmt VI. kafla er þó ekki alfarið bundin við vísitölur sem mæla breytingar á almennu verðlagi, þar sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 14. gr., að miða í lánasamningi við innlenda eða erlenda hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalna. Gefur sú heimild vísbendingu um að hugtakið „verðtrygging“ í VI. kafla skuli ekki sæta þröngri túlkun.

Vaxtalög nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, sem féllu úr gildi með gildistöku laga nr. 38/2001, höfðu að geyma rýmri ákvæði um verðtryggingu skuldbindinga. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga giltu ákvæði V. kafla laganna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár „ ... um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem áskilið er að greiðslurnar skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr.“ Það var skilyrði verðtryggingar samkvæmt 21. gr. laganna að grundvöllur hennar væri annað hvort vísitala neysluverðs eða „vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða samsettum gjaldmiðlum sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.“

Viðskiptaráðherra skipaði árið 2000 nefnd til að endurskoða vaxtalög nr. 25/1987 og lagði fram frumvarp á 126. löggjafarþingi sem varð að lögum nr. 38/2001. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir: „Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftir farandi: Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður ...“ Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins segir: „Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður ...“ Um 13. og 14. gr. segir: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi”. Sami skilningur kom fram í umræðum á Alþingi um málið og engar breytingar voru gerðar á fyrrnefndum ákvæðum frumvarpsins í meðförum Alþingis.

Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði „verðtrygging“ einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild. Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram.

Dómkröfur stefnanda og allur málatilbúnaður hans er byggður á þeirri forsendu að samningur aðila sé að öllu leyti gildur. Í skriflegri sókn er ekki gerð varakrafa til lækkunar ef fallist yrði á málsástæður stefnda. Þá hafa heldur ekki verið færð sérstök rök fyrir því að stefndi, Jóhann Rafn, sé enn í skuld við stefnanda verði fallist á málsástæður stefnda og hvernig fjárhæð hennar yrði reiknuð út. Þá hefur stefnandi heldur ekki mótmælt þeirri staðhæfingu stefnda að sá kostnaður sem stefndi er krafinn um sé að mestu leyti tilkominn vegna gengisbreytinga. Samkvæmt öllu framanrituðu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Í samræmi við niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda, Jóhanni Rafni Heiðarssyni, 270.000 krónur í málskostnað.

Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Jóhann Rafn Heiðarsson og Trausti Snær Friðriksson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Lýsingar hf. í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda, Jóhanni Rafni Heiðarssyni, 270.000 krónur í máls­kostnað.