Print

Mál nr. 496/2005

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Afréttur
  • Ítak
  • Þjóðlenda
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. maí 2006.

Nr. 496/2005.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Laufeyju Lárusdóttur

Önnu Maríu Ragnarsdóttur

Stefáni Benediktssyni

Árna Benediktssyni

(Páll A. Pálsson hrl.

 Ragnar Baldursson hdl.)

Þorláki Erni Bergssyni

Guðjóni Bergssyni

Önnu Sigríði Jóhannsdóttur

Knúti Bruun

Ásdísi Gunnarsdóttur

Sigurði Magnússyni

Sigríði Stefánsdóttur

Sigurjóni Gunnarssyni

Gunnari Sigurjónssyni

Kvískerjum ehf.

Ólafi K. Óskarssyni

Benedikt Kristjánssyni

Guðbjörgu Ágústsdóttur

Margréti Bogadóttur

Guðrúnu Agnars Jónsdóttur

Árnýju Margréti A. Jónsdóttur

Torfa Agnars Jónssyni

Helgu Agnars Jónsdóttur

Jónasi Runólfssyni

Ingunni Norðdahl

Huldu Höydahl

Aldísi Einarsdóttur

Margréti Daisy Clough

Kristjáni Runólfssyni

Hrönn Ásgeirsdóttur

Hrefnu Sigríði Morrison

Helgu Bjarnadóttur

Jóni Bjarnasyni

Ástu Bjarnadóttur og

Sigríði Bjarnadóttur

(Ólafur Björnsson hrl.)

 

Eignarréttur. Fasteign. Afréttur. Ítök. Þjóðlenda. Gjafsókn.

 

Með úrskurði 14. nóvember 2003, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Öræfum í sveitarfélaginu Hornafirði, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að þessi mörk ættu að fylgja jökuljaðri Vatnajökuls eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998 og að allt land ofan þessara marka skyldi vera þjóðlenda en eignarlönd neðan þeirra. Í krafðist ógildingar á úrskurðinum annars vegar varðandi landsvæði er tók til jarðarinnar Skaftafells og hins vegar að því er laut að svæðinu austan Kvískerja að austurmörkum Öræfa og viðurkenningar á nánar tilteknum mörkum milli þjóðlendna og eignarlanda á þessum svæðum. Í héraðsdómi var kröfum Í er lutu að fjalllendi Skaftafells vísað frá dómi og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 6. september 2005. Snerist málið því aðeins um þá kröfu að afmarkað landsvæði á Skeiðarársandi, sem óbyggðanefnd taldi tilheyra jörðinni Skaftafelli II, auk landsvæðisins austan Kvískerja, skyldi teljast þjóðlenda.

Um svæðið á Skeiðarársandi var vísað til þess að rannsóknir sérfræðinga gæfu til kynna að gróður á því gæti hafa verið öllu meiri við landnám en nú, en hann spillst vegna ágangs jökulvatna og framskriðs Skeiðarárjökuls. Óumdeilt væri að þetta svæði félli innan landamerkja Skaftafells II eins og þeim væri lýst í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1890. Ekki lágu hins vegar fyrir eldri heimildir, sem studdu að hið umdeilda svæði hefði verið numið til eignar og þannig orðið hluti af jörðinni. Aftur á móti þóttu gerðir menntamálaráðherra og Náttúruverndarráðs í tengslum við stofnun þjóðgarðs í Skaftafelli og nýbýlis í Freysnesi í landi Skaftafells II, þar sem ítrekað var lagt til grundvallar að landsvæðið væri eignarland eigenda jarðarinnar, ósamrýmanlegar dómkröfum Í í málinu. Með vísan til þess var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu eigenda jarðarinnar af þeim kröfum.

Kröfulína Í austan Kvískerja fylgdi landamerkjum Kvískerja gagnvart því landsvæði, sem talið var að tilheyrt hefði jörðinni Fjalli. Austan við það svæði tók við land, sem fallið hafði undir jörðina Breiðármörk. Fól kröfugerð Í í sér að allt þetta land skyldi teljast þjóðlenda en til vara að Breiðamerkurfjall væri þjóðlenda. Kröfunum var beint að þeim sem töldu til eignarréttar að umræddu svæði, annars vegar að eigendum jarðarinnar Hofs í Öræfum vegna Fjalls, og hins vegar að K ehf. og ýmsum einstaklingum, sem töldu sig eiga landsvæðið austan þess, en allir þessir aðilar kröfðust þess að úrskurður óbyggðanefndar yrði látinn standa óbreyttur.

Eigendur Hofs reistu kröfu sína einkum á landamerkjabréfi þeirrar jarðar frá 1922 en þar kom fram að Hof ætti Breiðamerkurfjall og land á Breiðamerkursandi að ákveðnum mörkum. Þótti upplýst að Hofskirkja hefði eignast jörðina Fjall á tímabilinu frá 1343 til 1387 og að ekki yrði annað ráðið af orðalagi máldaga kirkjunnar 1387 en að um beinan eignarrétt hefði þá verið að ræða. Ekki var þó unnt að skilja yngri heimildir á annan veg en að eigendur Hofs hefðu sjálfir um margra alda skeið álitið sig eingöngu njóta afnotaréttinda í landi jarðarinnar. Var því talið að þeir hefðu gefið upp beinan eignarrétt að landinu, hafi ekki farið um hann á annan veg. Þótti landamerkjabréfið því ekki veita haldbæra sönnun fyrir beinum eignarrétti eigenda Hofs að landinu auk þess sem ekkert lá fyrir til stuðnings því að þeir hefðu öðlast beinan eignarrétt að því fyrir hefð. Var því fallist á kröfu Í um að landsvæðið teldist þjóðlenda, sem þó væri háð ákveðnum afnotarétti eigenda Hofs.

Samkvæmt heimildum mun jörðin Breiðármörk að hálfu hafa verið í eigu konungs og að hálfu í bændaeign þegar hún fór í eyði 1698. Ekkert lá fyrir um að þeir sem nú álitu sig eigendur að öðrum helmingi landsins, sem talið var að áður hefði tilheyrt konungi, hefðu öðlast annan rétt yfir landsvæðinu en hluta Breiðamerkurfjöru. Þá þótti eignarheimild K ehf., sem byggðist á afsali frá manni, sem engin gögn lágu fyrir um að hefði átt nokkur réttindi yfir svæðinu, með öllu haldlaus. Ekkert lá heldur neitt fyrir í málinu til stuðnings því að eigendur Kvískerja hefðu öðlast beinan eignarrétt að því fyrir hefð. Varð því ekki séð að nokkur gæti lengur talið til beins eignarréttar að þessu landsvæði og var það því talið þjóðlenda, sem þó væri háð ákveðnum afnotaréttindum stefndu í þessum þætti málsins.      

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. október 2005. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. nóvember 2005, en með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 29. sama mánaðar. Hann krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 í máli nr. 1/2001, þar sem kveðið var á um mörk þjóðlendna og eignarlanda á nánar tilteknu svæði, sem kennt var við Öræfi í sveitarfélaginu Hornafirði, verði felldur úr gildi að því er varðar þau atriði, sem hér á eftir greinir. Gagnvart stefndu Laufeyju Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáni Benediktssyni og Árna Benediktssyni krefst áfrýjandi þess að dæmt verði að landsvæði á Skeiðarársandi innan landamerkja Skaftafells II sé þjóðlenda með eftirfarandi merkjum: Frá punkti á ströndinni á vesturmörkum svæðisins, sem mál nr. 1/2001 fyrir óbyggðanefnd tók til, að punkti á norðvestur hornmarki Skaftafells II, þaðan í austur eftir landamerkjalínu jarðarinnar að punkti, þar sem lína dregin frá Blátindi í upptök Skeiðarár sker landamerkjalínuna, þaðan í átt til sjávar eftir línunni frá Blátindi að upptökum Skeiðarár þar til að hún kemur í punkt, þar sem hún sker landamerkjalínu Skaftafells og Svínafells á Skeiðarársandi, en loks eftir þeirri landamerkjalínu til sjávar. Gagnvart öðrum stefndu krefst áfrýjandi þess aðallega að allt land austan landamerkja Kvískerja, sem dregin eru frá nánar tilgreindum punkti við ströndina eftir línu, sem liggur þannig að hæsta nef á Miðaftanstindi í Breiðamerkurfjalli beri í mitt skarðið efst á Eyðnatindi í sama fjalli, þar til hún sker jökulrönd Fjallsjökuls, sé þjóðlenda að austurmörkum svæðisins, sem mál nr. 1/2001 fyrir óbyggðanefnd tók til. Til vara krefst áfrýjandi að dæmt verði að Breiðamerkurfjall sé þjóðlenda, sem afmarkist að suðaustanverðu frá punkti í jökulrönd við Hrossadali til norðurs að öðrum punkti í jaðri Breiðamerkurjökuls, en til annarra átta af jökulrönd. Allir framangreindir merkjapunktar eru sýndir á framlögðum uppdráttum, sem afmarka þannig dómkröfur áfrýjanda. Hann krefst þess að auki að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Dómarar Hæstaréttar, sem skipa dóm í máli þessu, gengu á vettvang ásamt lögmönnum aðila.

I.

Í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með áorðnum breytingum tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra 13. júlí 2000 að hún hefði á fundi 4. sama mánaðar ákveðið að taka til meðferðar landsvæði í sveitarfélaginu Hornafirði. Áttu mörk þessa svæðis að ráðast af landamerkjum Skaftafells til vesturs, en til austurs af jörðunum Hvalsnesi, Vík, Svínhólum, Reyðará, Bæ, Hlíð og Stafafelli. Að sunnan náði svæðið til hafs, en að öðru leyti var það afmarkað með línu, sem dregin var um Vatnajökul í samræmi við vinnu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands. Áfrýjandi lýsti 12. desember 2000 kröfum sínum um mörk þjóðlendna og eignarlanda á þessu svæði. Að því gerðu lét óbyggðanefnd frá sér fara tilkynningu um meðferð svæðisins ásamt útdrætti úr kröfum áfrýjanda og var þetta birt eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Jafnframt var skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda yfir landi, sem áfrýjandi krafðist að félli innan þjóðlendna, að lýsa kröfum sínum til óbyggðanefndar innan frests, sem lyki 3. maí 2001. Að liðnum þeim fresti ákvað nefndin að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum, en eitt þeirra, sem kennt var við Öræfi, varð mál nr. 1/2001. Tók það til lands vestast á svæðinu, sem áður var lýst, og náði þannig frá vesturmörkum Skaftafells að Suðursveit í austri, þar sem áður voru mörk Hofshrepps og Borgarhafnarhrepps á Breiðamerkursandi. Við meðferð málsins fyrir óbyggðanefnd var fyrrgreindum vesturmörkum svæðisins síðan breytt vegna framkomins ágreinings um landamerki Skaftafells og næstu jarðar vestan þess, Núpsstaðar. Af ástæðum, sem skipta hér ekki máli, voru mörk svæðisins færð til austurs og látin ráðast af því hvar eigandi Núpsstaðar taldi landamerki við Skaftafell eiga með réttu að liggja.

Samkvæmt Landnámabók nam Þorgerður, ekkja Ásbjörns Heyjangurs-Bjarnasonar, land frá Kiðjakletti hjá Jökulsfelli til Kvíár og bjó hún að Sandfelli. Með þessu hafi hún numið land um allt Ingólfshöfðahverfi milli Jökulsár í vestri og Kvíár í austri. Hrollaugur Rögnvaldsson hafi numið land frá Horni í austri til Kvíár í vestri. Hann hafi síðan gefið land frá Kvíá austur að Jökulsá Þórði illuga Eyvindarsyni, sem hafi búið „undir Felli við Breiðá“. Ekki er ljóst hvort Jökulsá á vesturmörkum landnáms Þorgerðar hafi verið Skeiðará eða annað vatnsfall, sem hafi við landnám runnið til sjávar á öðrum stað en Skeiðará gerir nú og þá væntanlega vestar. Kvíá er talin hafa á þeim tíma fallið til sjávar á sama stað og hún eða Vestari-Kvíá gerir nú, í austri frá Kvíárjökli. Jökulsá á austurmörkum lands Þórðar illuga er talin hafa fallið til sjávar á líkum slóðum og Jökulsá á Breiðamerkursandi gerir nú, en ekki er ljóst hvar hún var nánar.

Á landi, sem féll undir landnám Þorgerðar samkvæmt framangreindri lýsingu, eru nú talið frá vestri Skaftafell, þar sem annars vegar er þjóðgarður á eignarlandi áfrýjanda Skaftafelli I og III og hins vegar jörðin Skaftafell II, sem tilheyrir stefndu Laufeyju Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáni Benediktssyni og Árna Benediktssyni. Þá taka við jarðirnar Svínafell I, II, III og IV, sem eru í einkaeigu, eyðijörðin Sandfell, sem er í eigu áfrýjanda, og síðan Hof I, II og IV og Litla-Hof, Fagurhólsmýri I, II og III og Hnappavellir I til VIII, en síðastnefndar fimmtán jarðeignir munu allar vera í einkaeign. Áfrýjanda greinir á við eigendur Skaftafells II um hvar vesturmörk landnáms Þorgerðar kunni að hafa verið, en að öðru leyti er óumdeilt í málinu að land, þar sem allar fyrrnefndar jarðeignir eru nú, hafi í öndverðu verið numið.

Á landinu, sem Þórður illugi er sagður hafa fengið úr landnámi Hrollaugs, er nú vestast jörðin Kvísker. Austan við hana er engin byggð lengur að mörkum svæðisins, sem mál nr. 1/2001 fyrir óbyggðanefnd tók til. Þar munu á hinn bóginn áður hafa verið jarðirnar Fjall og Breiðármörk. Sú síðarnefnda ber öðrum þræði í gögnum málsins heitið Breiðamörk, en mun áður einnig hafa verið nefnd Breiðá. Landnámsjörð Þórðar illuga virðist almennt vera talin hafa verið Fjall, en hún var næst fyrir austan Kvísker. Bærinn að Fjalli er talinn hafa staðið undir Bæjarskeri við suðausturhlíðar Breiðamerkurfjalls. Stefndu Þorlákur Örn Bergsson, Guðjón Bergsson, Anna Sigríður Jóhannsdóttir, Knútur Bruun, Ásdís Gunnarsdóttir, Sigurður Magnússon, Sigríður Stefánsdóttir, Sigurjón Gunnarsson og Gunnar Sigurjónsson, sem munu vera eigendur Hofs I, II og IV og Litla-Hofs, kveðast jafnframt eiga Fjall, sem þau telja hafa fallið til jarðarinnar Hofs eins og nánar greinir hér síðar. Jörðin Breiðármörk er talin hafa verið næst austan við Fjall og náð að mörkum Hofshrepps og Borgarhafnarhrepps, en óljóst er hvar bærinn á þeirri jörð kann að hafa staðið. Stefndi Kvísker ehf. telur til eignarréttar yfir helmingshlut í Breiðármörk, en yfir hinum helmingnum stefndu Ólafur K. Óskarsson, Benedikt Kristjánsson, Guðbjörg Ágústsdóttir, Margrét Bogadóttir, Guðrún Agnars Jónsdóttir, Árný Margrét A. Jónsdóttir, Torfi Agnars Jónsson, Helga Agnars Jónsdóttir, Jónas Runólfsson, Ingunn Norðdahl, Hulda Höydahl, Aldís Einarsdóttir, Margrét Daisy Clough, Kristján Runólfsson, Hrönn Ásgeirsdóttir, Hrefna Sigríður Morrison, Helga Bjarnadóttir, Jón Bjarnason, Ásta Bjarnadóttir og Sigríður Bjarnadóttir. Óumdeilt er í málinu að land Fjalls og Breiðármerkur hafi verið numið í öndverðu.

Fyrir óbyggðanefnd krafðist áfrýjandi þess að mörk milli eignarlanda og þjóðlendna til fjalla í Öræfum yrðu dregin eftir nánar tilgreindum línum, sem fylgdu ýmist jökulrönd eða markaðar voru með punktum í hálendi neðan jökuls. Hann krafðist þess einnig að tiltekinn hluti Skeiðarársands yrði þjóðlenda, svo og allt land austan merkja jarðarinnar Kvískerja. Eigendur allra jarðeigna á svæðinu, sem voru í einkaeign, andmæltu kröfum áfrýjanda, auk þeirra, sem töldu samkvæmt áðursögðu til réttinda yfir landi Fjalls og Breiðármerkur. Óbyggðanefnd felldi úrskurð á málið 14. nóvember 2003. Samkvæmt honum voru mörk milli eignarlanda og þjóðlendna látin fylgja jökuljaðri eins og hann var 1. júlí 1998 við gildistöku laga nr. 58/1998 og allt land ofan þess jaðars þannig þjóðlenda, en allt neðan hans eignarland, þar á meðal áðurnefnd svæði á Skeiðarársandi og austan merkja Kvískerja.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 20. maí 2004 til að fá hnekkt niðurstöðu óbyggðanefndar um fyrrgreind svæði á Skeiðarársandi og austan Kvískerja, sem hann krafðist gagnvart stefndu að dæmt yrði að væru þjóðlendur. Jafnframt beindi hann kröfum að sjálfum sér um að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi að því er varðar mörk þjóðlendna og eignarlands jarða hans Skaftafells I og III, svo og að viðurkennt yrði að þau mörk bæri að draga á annan nánar tiltekinn veg. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu sýknuð af kröfum áfrýjanda, en kröfum hans á hendur sjálfum sér var vísað frá dómi. Áfrýjandi kærði ákvæði héraðsdóms um síðastnefnt atriði til Hæstaréttar, sem staðfesti það með dómi 6. september 2005 í máli nr. 367/2005. Hér fyrir dómi snýr mál þetta eingöngu að fyrrgreindum dómkröfum áfrýjanda, sem lúta að því að dæmt verði að nánar afmarkað landsvæði á Skeiðarársandi sé þjóðlenda ásamt því landi, sem átti undir jarðirnar Fjall og Breiðármörk frá austurmerkjum Kvískerja að mörkum, sem áður voru milli Hofshrepps og Borgarhafnarhrepps. Samhliða máli þessu er rekið fyrir Hæstarétti mál nr. 454/2005, sem Kvísker ehf. höfðaði á hendur áfrýjanda til að fá hnekkt ákvæði sama úrskurðar óbyggðanefndar um að Ærfjall, sem umlukið er Hrútárjökli og Fjallsjökli, sé þjóðlenda, svo og til viðurkenningar á því að það sé eignarland jarðarinnar Kvískerja. Einnig er rekið hér fyrir dómi mál nr. 345/2005 milli áfrýjanda annars vegar og Sameigendafélags Fells og Einars B. Einarssonar hins vegar, sem telja til eignarréttar yfir jörðinni Felli, en hún liggur austan Breiðármerkur. Varðar það mál hluta úrskurðar óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 í máli nr. 2/2001.

II.

Dómkröfur áfrýjanda á hendur stefndu Laufeyju Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáni Benediktssyni og Árna Benediktssyni snúa sem áður segir að því að dæmt verði að nánar afmarkað landsvæði á Skeiðarársandi sé þjóðlenda. Í stórum dráttum er þetta allt land sunnan Skeiðarárjökuls að frátalinni landræmu næst honum og fylgja mörk þess í vestri ætluðum merkjum Skaftafells við Núpsstað, sem ágreiningur er um samkvæmt áðursögðu, en í austri beinni línu til suðurs frá eystri brún jökulsins, þar til hún sker sunnarlega á sandinum landamerkjalínu Skaftafells við Svínafell, sem ræður síðan mörkum svæðisins til sjávar. Áfrýjandi telur land þetta vera utan við vesturmörk landnáms Þorgerðar í Ingólfshöfðahverfi og séu engar haldbærar heimildir fyrir því að það hafi síðar orðið háð beinum eignarrétti.

Landið á Skeiðarársandi, sem hér um ræðir, er nú lítt gróið, en þar er einkum að finna melgresi, sem breiðst hefur nokkuð út norður eftir sandinum. Samkvæmt rannsóknum sérfræðinga, sem gerðar voru að tilhlutan óbyggðanefndar, hafa jökulvötn á þessu slóðum vaxið talsvert eftir landnám og færst úr stað eftir því sem Skeiðarárjökull gekk fram, en talið er að jaðar hans geti á þeim tíma hafa verið allt að 10 km norðar en nú er. Þessar breytingar geti hafa spillt gróðri á þessu svæði, sem hafi verið öllu meiri við landnám. Í málinu eru óverulegar sögulegar heimildir um þennan hluta Skeiðarársands, en sagnir munu þó vera um að þar hafi verið einhverjir bæir, sem hafi farið í eyði eftir gos í Öræfajökli 1362. Áreiðanleiki þessara sagna mun hafa verið dreginn í efa. Frá því á síðustu öld mun þetta land ekki hafa verið nýtt til annars en beitar og efnistöku, auk fjörunota.

Í ódagsettri landamerkjaskrá Skaftafells, sem lesin var á manntalsþingi að Hofi 5. maí 1890 og færð í landamerkjabók Skaftafellssýslu, var merkjum jarðarinnar lýst á eftirfarandi hátt: „Milli Skaptafells og Svínafells eru landamerki á Freysnesi úr stórum steini framan undir jöklinum og í stein ofan við veginn og þaðan í vörðu fram í Nesinu. Móti jörðunni Núpstað á Skaptafell land svo langt vestur að Súlnatindar beri hver í annan.“ Skjal þetta var áritað um samþykki af eigendum og umráðamönnum jarðanna, sem lágu að Skaftafelli að vestan og austan, Núpsstaðar og Svínafells. Landamerkjabréf þetta var gert í samræmi við ákvæði þágildandi landamerkjalaga nr. 5/1882. Óumdeilt er að landið á Skeiðarársandi, sem áfrýjandi krefst að dæmt verði að sé þjóðlenda, fellur nú innan jarðarinnar Skaftafells II, eins og merkjum var lýst samkvæmt framansögðu. Þótt landamerkjabréfið geti haft sönnunargildi um mörk eignarlands Skaftafells með því að það var áritað um samþykki af eigendum aðliggjandi jarða, þinglesið og fært í landamerkjabók, verður að líta til þess að ekki var á valdi eigenda jarðarinnar að auka með landamerkjabréfinu við land sitt eða annan rétt umfram það, sem áður hafði verið. Getur landamerkjabréf þetta því ekki eitt og sér nægt gegn andmælum áfrýjanda til að sanna beinan eignarrétt eigenda Skaftafells II að landinu á Skeiðarársandi, sem deilt er um í málinu, heldur verða önnur atriði jafnframt að koma til, sem stutt geta sömu niðurstöðu, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3796.

Í málinu liggja hvorki fyrir eldri heimildir um merki Skaftafells til vesturs umfram það, sem leitt verður af áðurgreindri frásögn í Landnámabók, né önnur gögn til stuðnings því að landið, sem ágreiningur er um, hafi í öndverðu verið numið til eignar og þannig orðið hluti jarðarinnar. Til þess verður á hinn bóginn að líta að í tengslum við ráðagerðir um stofnun þjóðgarðs í Skaftafelli gáfu tveir af þáverandi eigendum jarðarinnar, Ragnar Þ. Stefánsson og Jón Stefánsson, út afsal 13. maí 1966 handa „Náttúruverndarráði vegna ríkissjóðs“ fyrir hluta hennar. Í afsalinu, sem meðal annars var undirritað af menntamálaráðherra fyrir hönd kaupandans, sagði að landamerkjaskrá frá 5. maí 1890 lægi fyrir og væru „landamerki við það miðuð við söluna.“ Þar sagði einnig: „Jarðirnar eru seldar með húsum og öllum gögnum og gæðum að undanskildum Skeiðarársandi og þeim hlunnindum, sem honum og fjörunni fylgja fyrir framan línu, sem hugsast dregin frá Lómagnúpi á Nyrðri-Menn á Hafrafelli og þaðan í sömu stefnu á mörk Skaftafells og Svínafells ...“. Náttúruverndarráð fyrir hönd ríkissjóðs fékk síðan afsal frá öðrum eiganda Skaftafells fyrir hans hluta í jörðinni 13. júlí 1966. Menntamálaráðherra og Ragnar Þ. Stefánsson gerðu samning 4. júní 1969 um að fela gerðardómi, skipuðum þremur mönnum, að draga landamerkjalínu samkvæmt fyrrgreindu afsali 13. maí 1966 „til ríkissjóðs“, svo og að „framkvæma landskipti milli samningsaðila á öllu óskiptu landi jarðarinnar Skaftafells.“ Við landskiptin, sem gerðardómurinn kvað á um 25. nóvember 1969, var stór hluti landsins, sem kom í hlut Ragnars Þ. Stefánssonar og Jóns Stefánssonar og er nú jörðin Skaftafell II, það sama og deilt er um í þessum þætti málsins. Þá liggur fyrir yfirlýsing Náttúruverndarráðs 2. nóvember 1987, sem virðist hafa verið gerð vegna stofnunar nýbýlis í Freysnesi í landi Skaftafells II, en þar sagði meðal annars eftirfarandi: „Milli lögbýlisins Skaftafell og þjóðgarðsins að Skaftafelli eru landamerki sem hér segir: Frá „Sýslusteini“ sem er við þjóðveg, á landamörkum Skaftafells og Núpstaðar, liggja mörkin í beinni línu í merki við Gömlutún. Síðan frá því merki í fremstu nöf Hafrafells og áfram í sömu stefnu í landamörk Skaftafells og Svínafells á Svínafellsjökli, sbr. reglugerð um þjóðgarðinn í Skaftafelli nr. 319/1984. Sunnan þessarar línu á lögbýlið allt land Skaftafells, þar gilda áfram þau landamörk, bæði milli Skaftafells og Svínafells og Skaftafells og Núpstaðar, sem landamerkjaskrá, gerð 5. maí 1890 greinir frá. Lögbýlið á alla þá fjöru sem Skaftafelli hefur fylgt.“ Með þessum gerðum hafa menntamálaráðherra og Náttúruverndarráð, sem hafði meðal annars með höndum stjórn þjóðgarða samkvæmt ákvæðum þágildandi laga nr. 47/1971 um náttúruvernd, ítrekað í orði og verki lagt til grundvallar í lögskiptum við þá, sem núverandi eigendur Skaftafells II leiða rétt sinn frá, að landið á Skeiðarársandi, sem hér er deilt um, sé eignarland þeirra, svo sem leitt verður af landamerkjabréfinu frá 1890. Dómkröfur áfrýjanda á hendur stefndu Laufeyju, Önnu Maríu, Stefáni og Árna eru þessu alls ósamrýmanlegar. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu þessara stefndu af kröfum áfrýjanda.

III.

Með kröfum á hendur stefndu Þorláki Erni Bergssyni, Guðjóni Bergssyni, Önnu Sigríði Jóhannsdóttur, Knúti Bruun, Ásdísi Gunnarsdóttur, Sigurði Magnússyni, Sigríði Stefánsdóttur, Sigurjóni Gunnarssyni og Gunnari Sigurjónssyni leitar áfrýjandi aðallega dóms fyrir því að land, sem talið er að hafi tilheyrt jörðinni Fjalli, sé þjóðlenda, en til vara að svo fari um þann hluta þess, þar sem Breiðamerkurfjall er, innan nánar tilgreindra marka. Í málinu er landið, sem aðalkrafa áfrýjanda tekur til, afmarkað á þann hátt að merki þess í vestri gagnvart jörðinni Kvískerjum verði dregin með línu, sem finnist með því að hæsta nef á Miðaftanstindi í Breiðamerkurfjalli beri í miðju skarðs efst á Eyðnatindi í sama fjalli, og liggi hún til suðausturs frá rönd Fjallsjökuls til sjávar. Merkjum þessa lands í austri gagnvart landi Breiðármerkur er lýst þannig að þau ráðist af beinni línu, sem dregin sé á þeim stað, þar sem hærri þúfan á Mávabyggðum ber austan í Múlahöfuð á Breiðamerkurfjalli. Áfrýjandi ber sem fyrr segir ekki brigður á að þetta sé hluti landsins, sem hermt er í Landnámabók að Þórður illugi Eyvindarson hafi fengið úr landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar, en áfrýjandi telur á hinn bóginn að beinn eignarréttur að því hafi síðar fallið niður og sé það því þjóðlenda. Stefndu, sem þessi þáttur málsins varðar, halda því fram að um sé að ræða eignarland þeirra.

Samkvæmt framangreindri afmörkun á landinu, sem hér er deilt um, liggur það milli tveggja samsíða lína, sem stefna í norðvestur frá fjöru, og endar sú, sem ræður merkjum við Kvísker, í Fjallsjökli, en hin, sem ræður merkjum við Breiðármörk, í Breiðamerkurjökli. Bilið á milli þessara lína er um 3 km. Upp frá láglendinu, sem nær að jöðrum þessara tveggja jökla, er Breiðamerkurfjall í um 7 til 9 km fjarlægð frá sjó og gengur það tæpa 7 km inn í jökul þar sem lengst er. Hlíðar fjallsins móts við láglendi eru verulega brattar og er hæsti tindur þess í meira en 900 m hæð. Lítill gróður er á láglendinu, sem að auki liggur að hluta undir Breiðárlóni að norðan og Fjallsárlóni að sunnanverðu, en á milli þeirra rennur nú Breiðá. Breiðamerkurfjall mun vera allvel gróið og nýtt frá Hofi fyrir sumarbeit. Um byggð að Fjalli eru óverulegar heimildir í málinu, en sem fyrr segir mun almennt vera talið að þetta hafi verið landnámsjörð Þórðar illuga. Getum hefur verið leitt að því að jörðin hafi farið í eyði eftir eldgos í Öræfajökli 1362, en óumdeilt er í málinu að víst sé að engin byggð hafi verið þar eftir lok 17. aldar. Ekkert liggur fyrir um hver merki þessarar jarðar voru þegar hún var enn í byggð, en næsta ljóst er að fyrrgreind mörk landsins, sem bera fremur einkenni um fjörumörk, geti vart hafa átt við á þeim tíma. Samkvæmt áliti sérfræðinga, sem óbyggðanefnd aflaði, má ætla að allt undirlendi utan vatna á þessu svæði hafi verið gróið við landnám og birkiskógar náð inn undir jökul. Gróður þessi hafi síðan spillst meðal annars af framgangi Breiðamerkurjökuls og vatnsföllum frá honum, en telja megi að við landnám hafi jaðar hans að minnsta kosti verið 10 km norðar en nú er. Eins og merki Fjalls eru dregin í máli þessu hefur Breiðamerkurjökull gengið yfir þó nokkurn hluta láglendis þar þegar jaðar hans var kominn næst sjó í byrjun 20. aldar og er Breiðamerkurfjall talið hafa verið umlukið jökli frá því um 1700 allt til ársins 1946.

Að frátöldu því, sem getið var í Landnámabók, munu elstu heimildir um eignarréttindi yfir landi þessu vera í máldaga Michaels biskups fyrir Klemenskirkju á Hofi frá 1387, en samkvæmt honum átti hún hálft heimaland að Hofi. Auk þess sagði þar: „Þessar ä kirkian jarder. Fiall med ixc. fiỡru.“ Þessarar eignar var ekki getið í máldaga Jóns Sigurðarsonar fyrir sömu kirkju frá árinu 1343. Hennar var heldur ekki getið sérstaklega í næsta máldaga, sem virðist mega finna fyrir kirkjuna, Gíslamáldaga frá því um 1570, en þar sagði að hún ætti hálft heimaland að Hofi, svo og „reka og jtøk og ønnur jtøk ad fornu fare.“ Í vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar var fært 15. september 1641 að „Clemens K[yr]kia ad Hoffe Jj Öræffum a Heima land halfft effter Visitasiu bok Herra Gijsla Jonssonar og handskriffadri Utskrift Herra Oddz Eijnarssonar. Reka og Jtök og önnur Jtök ad fornu Fari, er haldid fra Breidármerkr fioru austur ad Kui skeria fioru köllud 9 [hundruð] fyrer Fialls fit – med greindri Fialls fit og Fiallinu upp.“ Í vísitasíubók Jóns Vídalín var eftirfarandi fært 29. september 1706 varðandi Hofskirkju: „Hun á epter Maldagabokinne og sidare Visitatium Heimaland halft, Reka og Itök, og önnur Itök ad fornufare, sem Mag[i]st[er] Brinjolfur in Visitatione Anni 1641 seiger hallded sie fra Breidamerkur Fiöru austur ad Kvjskeriafiöru, og sie kollud 9 [hundrud] fyrer Fiallsfit. Item seiger sama Visitatio hun eige greinda Fiallsfit, og Fiallid fyrer ofan.“ Í sömu heimild segir um kirkjuna á Sandfelli í Öræfum að hún eigi „Fiörutiu Gielldinga Höfn annars Hundrads i Fiallsland.“ Þá var í vísitasíubók Ólafs Gíslasonar meðal annars fært eftirfarandi 10. september 1748 varðandi kirkjuna á Hofi: „Hun á Heimaland hálft, Reka og Jtök, og önnur Jtök ad fornu fare, sem Mag[is]t[er] Brynjolfur in Visitatione 1641 seger hallded sie, frá Breÿdamerkurfiöru, vestur ad Kvjskerjafiöru, og sie köllud 9 [hundruð] f[yrer] Fialls Fit. Jtem seger sama Visitatia, hun eige grejnda Fialls Fit, og Fialled f[yrer] ofann.“

Í jarðabók Ísleifs Einarssonar frá 1709 sagði um Fjall: „Hofskirkjueign. Eyðijörð. Liggur í norðaustur af Breiðármörk. Hefur fyrir 14 árum sést til túns og tófta, en er nú allt komið í jökul. Öll eign jarðar er sagt lagst hafi til Hofskirkju í Öræfum, af hvörri eign nú er ei eftir nema eitt fjall umgirt af jöklum, þó lítt brúkandi til lambagöngu á sumar. Item Fjallsfit og Fjallsfjara.“ Í sömu heimild sagði varðandi Hof að „jörðunni er eignað Fjall og Fjallsfit í Breiðármerkurlandi. Rekafjöru á jörðin fyrir Breiðármerkurlandi, kölluð Fjallsfjara, níu hundruð.“ Í Jarðatali á Íslandi eftir Jón Johnsen, sem útgefið var 1847, sagði að í jarðabók frá 1805 væri getið um Fjall sem eyðihjáleigu frá Hofi. Í gerðabók jarðamatsmanna í Skaftafellssýslum frá 1849 sagði um Hof að jörðin ætti „upprekstur ... á Breiðamerkurfjalli“, svo og að “ítaksfjara er Kyrkjueigninni eignuð Fjallsfjara sem erfitt er á ...“. Þá er þess að geta að í gerðabók fasteignamatsnefndar í Austur-Skaftafellssýslu frá 1916 sagði um Hof: „Upprekstrarland á jörðin: Breiðamerkurfjall, sem er langt frá, upp af miðjum Breiðamerkursandi; umkringt jökli. ... Rekafjörur á jörðin: Hofsfjöru og Tangafjöru, ennfremur Fjallsfjöru fyrir Breiðamerkursandi.“

Eigendur Hofs gerðu 7. apríl 1851 lögfestu um „nefnda jörð með öllum ítökum og hlunnindum, akra og töður, eingjar og skóga vötn og veiðistaði og allar þær landsnitjar, er því landi eigu að filgia“, allt innan nánar tilgreindra merkja. Þá sagði einnig eftirfarandi: „Enn fremur lögfestum við eptirskrifuð ítök sem Hofsjörðu eiga að filgia; first einn fjórðapart af grasnit í Ingólfshöfða; anað, eiðijörðina Fjall, sem liggur á Breiðamerkursandi austann Kvískerja land, lögfestum við nefnda jörð með öllum nitjum til fjalls og fjöru, er fjarann talinn 9 [hundruð] firir Fjallsfít, og loksins lögfestum við hálfa eiðijörðina Breiðumörk með tilheirandi fjöru veiðistöðum og öllum landsnitjum, liggur jörð þessi firir austann Fjallsland, austur að Fellslandi í Suðursveit, vestann Jökulsá á Breiðamerkur sandi þar sem hún nú fellur úr Jökli.“ Lögfestu þessari var mótmælt af eigendum jarðarinnar Fells í Suðursveit. Deilum, sem risu af þeim sökum, var lokið með sátt, þar sem sagði að 8. júní 1854 hafi eigendur Hofs og eigendur Fells komið „ser gódmótlega samann um ad jafna þá miskljd sin á millum er risinn var ut af hinna sjdarnemdu meintu eignartilkalli til nokkur parts grasnitja austann meiginn Breidaár á Breidumerkur Sandi svoleidis: ad öll grasnit initjar og virkilegur eignarréttur Skal hereptir einasta til heira Felli i Sudursveit, allt ad austur mörkum Fjallsfjöru, sem eru á millum Breidumerkurfjöru og Fjallsfjöru, og Skal þadann af Fjörunni sjónhending tekinn beina Stefnu i Svörturák sem er á joklinum uppundann Breidá og undann hvorri hun rennur. Svo Skulu og Hofs eigendur og ábuendur njóta alls vestann meiginn vid nemda Breidá og til greindu stefnulinu Fjalls og fjöru á milli og so lángt vestur sem treista ser land ad helga.“ Breiðá, sem hér er getið, mun hafa fram til ársins 1954 runnið til sjávar 6 til 7 km vestan við Jökulsá eða nærri austurmörkum lands Fjalls, eins og þeim er lýst í málinu. Landamerkjabréf var gert fyrir jörðina Kvísker 28. apríl 1890, þar sem merkjum hennar var meðal annars lýst á eftirfarandi hátt: „Að austan milli Fjalslands á Breiðumörk og Fjalsfjöru, og Tvískerjalands og Tvískerjafjöru eru í sömu línu landamerki og fjörumörk, nefnil., að hæsta nef á Miðaptanstindi í Breiðamerkurfjalli beri í mitt skarðið efst á Eiðnaskarðstindi í sama fjalli.“ Vegna Hofs var landamerkjabréf þetta undirritað 5. maí 1890 með eftirfarandi formála: „Að því er snertir fjörumörk milli Tvískerjafjöru og Fjallsfjöru erum vjer undirritaðir ábúendur Hofs þessu samþykkir.“ Landamerkjabréf var svo gert fyrir Hof 15. júlí 1922, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Enn fremur á jörðin Breiðamerkurfjall alt og land á Breiðamerkursandi, að vestan eru mörkin sem hjer segir: Toppurinn á Miðaftanstindi á Breiðamerkurfjalli sem beri í skarðið á Eiðnatindi í sama fjalli.“ Þá sagði einnig: „Fjörur á jörðin þessar: ... Fjallsfjara milli þessara marka: Að vestan: Toppurinn á Miðaftanstindi á Breiðamerkurfjalli skal bera í skarð í Eiðnatindi á nefndu fjalli. Að austan: Hærri þúfan á Máfabygðum skal bera austan í Múlahöfuðið sem er fremst austan á Breiðamerkurfjalli og landamörk þau sömu.“ Landamerkjabréf þetta var áritað um samþykki að því er snertir „fjöru og landamörk milli Tvískerja og Fjallsland“ af Ara nokkrum Hálfdánarsyni, sem mun þá hafa verið hreppstjóri Hofshrepps, ásamt tveimur mönnum, sem sagðir voru „eigendur að 5/6 í Kvískerjum“, svo og af nefndum Ara „að því er viðkemur eystri mörkum milli Fjallslands og Breiðamerkurlands“.

Í málinu liggja ekki fyrir aðrar eldri eða yngri þinglýstar heimildir um eignarrétt að landi þessu en síðastnefnt landamerkjabréf fyrir Hof frá 1922. Um sönnunargildi slíkrar heimildar er áður rætt í dómi þessum að því er varðar mörk eignarlands gagnvart öðru landi, en það sama verður einnig að eiga við um gildi landamerkjabréfs sem heimildar um hver fari með eignarrétt að landi. Þegar metið er hvort önnur atriði hafi komið fram, sem stutt geta tilkall stefndu í þessum þætti málsins til lands Fjalls, er þess að gæta að í málflutningi þeirra fyrir Hæstarétti var því borið við að kirkjan að Hofi hafi frá öndverðu verið bændakirkja og lotið þannig forræði jarðeigenda, en eignir hennar hafi lagst til jarðarinnar ekki síðar en 1916, þegar kirkjan sem slík varð eign sóknarinnar. Með því að þessu var ekki mótmælt af áfrýjanda verður að leggja að jöfnu áðurgreindar heimildir um eignarréttindi Hofskirkju og eigenda jarðarinnar í landi Fjalls.

Þegar heimildir um eignarréttindi að landi þessu eru virtar má álykta af fyrrgreindum máldögum fyrir Hofskirkju frá árunum 1343 og 1387 að hún hafi eignast jörðina Fjall á þessu árabili og kann það að hafa gerst um það leyti, sem jörðin fór í eyði, svo sem getum hefur verið leitt að samkvæmt áðursögðu. Verður ekki annað ráðið af orðalagi yngri máldagans en að um beinan eignarrétt hafi verið að ræða að jörðinni. Eftir gerð hans liðu á hinn bóginn nærfellt tvær aldir þar til næsta fyrirliggjandi heimild, Gíslamáldagi, var gerður. Þar var einskis getið um eignarréttindi kirkjunnar á Hofi að jörðinni Fjalli, en tekið fram að henni tilheyrði reki og önnur ítök að fornu fari. Áðurgreint orðalag í vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar frá 1641 verður ekki skilið á annan veg en að þar sé eingöngu rætt um ítaksréttindi Hofskirkju í landi Fjalls, sem hafi nánar tiltekið náð til fjöru ásamt beit í Fjallsfit og Breiðamerkurfjalli. Yngri vísitasíurnar tvær, frá 1706 og 1748, vísa í þá elstu um að Hofskirkja „eige“ Fjallsfit og Breiðamerkurfjall, auk réttinda yfir fjöru. Í ljósi þess að byggt var þar á efni elstu vísitasíunnar, sem ræddi í þessu sambandi um ítaksréttindi, er ekki unnt að líta svo á að í þeim yngri verði fundin sérstök stoð fyrir beinum eignarréttindum Hofskirkju. Í þeim efnum verður og að gæta að því að réttindin voru þar sögð varða tvo afmarkaða hluta landsins ásamt fjöru, en ekki landið í heild, svo sem legið hefði beint við ef jörðin sem slík hefði verið talin eign kirkjunnar. Líku marki er brennd umfjöllun um eyðijörðina Fjall í jarðabók frá 1709, þar sem þó sagði að „öll eign“ hennar hafi lagst til Hofskirkju, en af þeirri eign væri ekki annað eftir en Breiðamerkurfjall, sem umgirt væri af jökli og til lítilla nota, ásamt Fjallsfit og Fjallsfjöru. Þar sagði einnig um jörðina Hof að henni væri eignað „Fjall og Fjallsfit í Breiðármerkurlandi“ ásamt Fjallsfjöru, en eftir samhenginu verður ekki annað séð en að með fjalli hafi þar verið átt við Breiðamerkurfjall. Í jarðatali frá 1847 var vitnað til þess að í jarðabók frá 1805 hafi verið rætt um Fjall sem „eyðihjáleigu“ frá Hofi. Frásögn þessi getur vart haft teljandi heimildargildi þegar litið er til þess að af jarðabókinni frá 1709 er ljóst að hús og ræktað land að Fjalli var þegar á þeim tíma horfið og nytjar af öðru landi nánast engar, en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að jökull hafi eftir það gengið enn lengra fram á landið allt til loka 19. aldar. Þegar eigendur Hofs gerðu lögfestu 1851 var réttindum þeirra yfir landi Fjalls lýst meðal ítaksréttinda, en í samningi þeirra við eigendur Fells 1854 var rætt um að þeir fyrrnefndu skyldu „njóta alls“ í því landi “so lángt vestur sem treista ser land ad helga.“ Síðastgreind orð geta ekki samrýmst því að verið sé að ræða um not af landi, sem háð sé beinum eignarrétti eigenda Hofs. Til þess er loks að líta að á árinu 1890 var landamerkjabréf fyrir Kvísker áritað fyrir eigendur Hofs um samþykki á fjörumerkjum, en ekki landamerkjum Kvískerja við Fjall, svo og að við fasteignamat 1916 var aðeins rætt um upprekstrarrétt Hofs í Breiðamerkurfjalli og réttindi yfir Fjallsfjöru, líkt og gert var í jarðamati 1849.

Þótt af öllu framangreindu megi telja nægilega sýnt að jörðin Fjall hafi komist í eigu Hofskirkju á tímabilinu milli 1343 og 1387, eru í meginatriðum engar haldbærar heimildir fyrir öðru en ítaksréttindum hennar eða eigenda jarðarinnar Hofs eftir þann tíma, allt þar til landamerkjabréf var gert fyrir Hof á árinu 1922. Ekki verður útilokað að á tímabilinu frá 1387 til 1570 kunni kirkjan að hafa ráðstafað jörðinni Fjalli, en haldið eftir réttindum til fjöru og beitar. Hvað sem því líður verða heimildir frá því um 1570 og allt fram á þriðja áratug síðustu aldar ekki skildar á annan veg en að eigendur Hofs hafi sjálfir um margra alda skeið talið sig eingöngu njóta afnotaréttinda í landi Fjalls og hætt að telja sér beinan eignarrétt yfir því og gefið hann þannig upp, hafi ekki farið um hann á annan veg. Af þessum sökum getur landamerkjabréfið frá 15. júlí 1922 ekki talist færa haldbæra sönnun fyrir beinum eignarrétti stefndu í þessum þætti málsins að umræddu landi. Ekkert liggur fyrir til stuðnings því að þessir stefndu hafi farið með þau ráð yfir landi Fjalls, sem leitt gætu til beins eignarréttar að því fyrir hefð. Með því að aðrir hafa ekki kallað til slíkra réttinda yfir landinu og ekkert í gögnum málsins bendir til að það gæti á nokkurs færi verið, verður samkvæmt 1. gr. laga nr. 58/1998 að telja landið þjóðlendu, sem þó er háð rétti stefndu til hefðbundinna nota af henni sem beitarland, svo og rétti þeirra til fjöru, sbr. 5. gr. sömu laga. Um afmörkun þjóðlendunnar fer samkvæmt því, sem greinir í dómsorði, en í ljósi þeirra takmörkuðu afnotaréttinda, sem stefndu eru hér viðurkennd, er ekki ástæða til að tiltaka sérstaklega mörk hennar gagnvart þjóðlendu í jökli.

IV.

Með kröfum gegn stefndu Kvískerjum ehf., Ólafi K. Óskarssyni, Benedikt Kristjánssyni, Guðbjörgu Ágústsdóttur, Margréti Bogadóttur, Guðrúnu Agnars Jónsdóttur, Árnýju Margréti A. Jónsdóttur, Torfa Agnars Jónssyni, Helgu Agnars Jónsdóttur, Jónasi Runólfssyni, Ingunni Norðdahl, Huldu Höydahl, Aldísi Einarsdóttur, Margréti Daisy Clough, Kristjáni Runólfssyni, Hrönn Ásgeirsdóttur, Hrefnu Sigríði Morrison, Helgu Bjarnadóttur, Jóni Bjarnasyni, Ástu Bjarnadóttur og Sigríði Bjarnadóttur leitar áfrýjandi dóms fyrir því að land, sem talið er að áður hafi tilheyrt jörðinni Breiðármörk, sé þjóðlenda. Í málinu er þetta land afmarkað þannig að vesturmörk þess gagnvart landi Fjalls ráðist af áðurgreindri beinni línu, sem dregin sé á þeim stað, þar sem hærri þúfan á Mávabyggðum ber austan í Múlahöfuð á Breiðamerkurfjalli. Að austan, þar sem áður voru mörk Hofshrepps og Borgarhafnarhrepps, ráðist merki móti eyðijörðinni Felli í Suðursveit af beinni línu, sem dregin sé frá vörðu í fjöru vestan við svonefndar Nýgræður þannig að hún beri austast í Hálfdánaröldu og í Kaplaklif í Mávabyggðum á Vatnajökli. Áfrýjandi vefengir ekki að þetta land hafi tilheyrt því, sem Þórður illugi Eyvindarson fékk samkvæmt Landnámabók úr landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar, en heldur á hinn bóginn fram að beinn eignarréttur að landinu hafi síðar fallið niður og sé það af þeim sökum þjóðlenda. Stefndu í þessum þætti málsins bera því við að þau njóti beins eignarréttar yfir landinu.

Eins og land þetta er sýnt á framlögðum uppdráttum liggur það milli tveggja lína, sem ekki eru alveg samsíða, þannig að bilið á milli þeirra þrengist eftir því, sem nær dregur jökli. Línur þessar stefna báðar í norðvestur frá fjöru og enda í brúnum Breiðamerkurjökuls. Í fjöru er landið talið vera innan við 3 km að breidd, en við jökulrönd um 2 km og er hún sem næst 8 km frá sjó. Næst jökli liggur landið undir Breiðárlóni, sem tekur yfir um fimmtung þess, en að öðru leyti er um að ræða lítt gróið láglendi, sem eftir málflutningi stefndu í þessum þætti málsins mun í áratugi hafa verið nýtt til beitar frá jörðum í Öræfum, einkum Kvískerjum.

Samkvæmt gögnum málsins munu elstu sagnir um byggð á Breiðármörk vera að finna í Njálu, þar sem fram kom að Kári Sölmundarson hafi sest að á Breiðá með Hildigunni Starkaðardóttur, bróðurdóttur Flosa Þórðarsonar í Svínafelli. Tilgátur hafa verið settar fram um að þar geti hafa verið landnámsbær Þórðar illuga fremur en að Fjalli, en talið er að stórbýli hafi verið á Breiðármörk, sem hafi haldist fram yfir árið 1600, þótt dýrð hennar sé sögð hafa verið farið að halla þegar á ofanverðri 15. öld. Ekkert liggur fyrir um hver merki jarðarinnar geti hafa verið á þeim tímum, en á sama hátt og áður greinir varðandi land Fjalls má telja ljóst að þau geti vart hafa verið eins og þau, sem byggt er á í máli þessu, enda bera þau einkenni fjörumarka fremur en landamerkja. Álit sérfræðinga, sem óbyggðanefnd aflaði og áður var lýst varðandi Fjall, á jafnt við um land Breiðármerkur, sem þannig má ætla að hafi verið gróið við landnám, en talið hefur verið að brún Breiðamerkurjökuls hafi þá verið að minnsta kosti 10 km norðar en nú er. Gróður er talinn hafa eyðst í aldanna rás meðal annars af framgangi jökulsins og vatnsföllum frá honum. Þegar leið á 17. öld dró mjög úr gæðum lands á Breiðármörk og lagðist byggð þar af. Í málinu liggur fyrir svofelld lýsing, sem mun vera frá árinu 1702, um eyðingu jarðarinnar: „Var svo hér næst fram borið um það eyðiból Breiðármörk, sem kongseign er hálf og bóndaeign hálf, hvert af er í vatnaklofa undir jöklinum, nærri á miðjum Breiðármerkursandi, og aldeilis í eyði legið hefur nú næstu 4 ár, ... hver enn nú er árlega að foreyðast, sem fleiri aðrar af vatni, grjóti og jöklayfirgangi, svo þar sést ei nýtanlegt grasland eptir, utan lítill hólmi, sem húsin hafa á staðið, hver bæði hafa verið lítilfjörleg og nú mjög lasin orðin eru. Því eitt er aldeilis niður fallið, en hin tvö, sem til eru nærri því að falli komin, og trén flestöll fúin og fordjörfuð, svo þar með er það fullkomin sýnileg meining, bæði undirskrifaðra og annara, sem vel til þekkja, að það býli byggist aldrei framar, hvorki bóndaeignin né kongsins partur.“ Þegar Breiðamerkurjökull gekk lengst fram í byrjun 20. aldar mun jaðar hans hafa verið kominn um 6 km frá sjó í landi Breiðármerkur, þar sem vegalengdin var minnst.

Að því slepptu, sem getur í Landnámabók, munu elstu heimildir um eignarréttindi yfir landi þessu vera í máldaga Jóns Sigurðarsonar fyrir Maríukirkju á Breiðá frá 1343 og síðan máldaga Michaels biskups fyrir sömu kirkju 1387, en í þeim báðum var henni meðal annars eignað allt heimaland jarðarinnar með fjörum og skógum. Kirkja þessi er talin hafa lagst af fyrir 1500, jafnvel þegar eftir gos í Öræfajökli 1362, og hafi jörðin þá fallið undir Skálholtsstól. Fyrir liggur að Ögmundur biskup í Skálholti seldi Ásgrími Ásgrímssyni jörðina 3. ágúst 1525, en í bréfi um kaupin sagði meðal annars: „So og eigi sidur hofum vier feingit asgrime jordina kuisker med ollv þui henni til heyrer, hier med jordina breidarmork med .vj. alna triam og þar fyrir jnnan. Enn stærre haupp tre edur huali eignazt skalhollzkirkia sem adr hefur verit.“ Helmingshluti af jörðinni mun hafa fallið til konungs samkvæmt lögréttudómi 1646 eftir að Ásgrímur Sigurðsson á Hofi, sem sagður er hafa átt Breiðármörk, fannst hengdur á bæ sínum, en hinn helmingur jarðarinnar mun hafa gengið til erfingja hans. Eignirnar, sem komust á þennan hátt undir konung, munu hafa verið kallaðar hengigóssið. Á árinu 1670 keypti Brynjólfur biskup Sveinsson fjórðungshlut í Breiðármörk af Bjarna Eiríkssyni og var tekið fram í kaupbréfi þeirra að eignarhlutanum fylgdi svo mikið „ur viðrekafioru, sem þeim fjörðungi mä fylgia i vi alna triam og þaðann af minnum, effter þuí sem Biskupinn Ögmundur hafðe selldt Ásgrími Ásgrímssyni Anno 1525.“ Í áðurgreindri heimild frá árinu 1702 var rætt um að jörðin væri að hálfu konungseign, en að hálfu bóndaeign, og var henni jafnframt lýst þannig í jarðabók Ísleifs Einarssonar frá 1709, þar sem tekið var fram að konungshlutinn væri „af Hengigótsinu“. Næstu heimildir um eignarrétt að Breiðármörk virðist vera að finna í jarðamati frá 1804-1805, þar sem helmingur hennar var sagður konungseign, en hinn helmingurinn í eigu Gísla Halldórssonar. Í jarðatali Jóns Johnsen frá 1847 sagði í umfjöllun um Hof að „hengigózið“ hafi verið selt 1836, svo og að í jarðabók frá 1805 hafi verið getið „um eyðihjáleigu frá Hofi, „Fjall“, og sömuleiðis um eyðijörð, „Breiðumörk“, sem þar segir að konúngur hafi átt að hálfu, og er sá parturinn þá máske seldur ásamt með „Hengigózi“.“ Engar heimildir virðast vera um hverjir hafi keypt eignir úr svokölluðu hengigóssi, en í gerðabók jarðamatsmanna í Skaftafellssýslum frá 1849 sagði að Hof „meinast að eiga þann helming Breiðamerkur sem áður var Kongseign, og ... leiguliðagagn af ½ Breiðamerkurfjöru“. Þá sagði þar í sérstöku mati á Breiðamerkurfjöru að hún væri „fyrir landi eyðijarðarinnar Breiðumerkur, en sú fjara lá undir Skálholtsstól áður; fjara sú meinast frá 6-800 faðmar og álízt hún, að stórrekanum til (-því víst hálft leiguliðagagn meinast Hof í Öræfum að eiga-) að vera rétt virt á 25rd.“ Breiðármörk var þar ekki metin að öðru leyti til verðs.

Í fyrrgreindri lögfestu, sem eigendur Hofs gerðu 7. apríl 1851, var í lýsingu á ítökum, sem jörðinni áttu að fylgja, getið um „hálfa eiðijörðina Breiðumörk með tilheirandi fjöru veiðistöðum og öllum landsnitjum“. Svo sem áður var lýst lauk deilum, sem risu út af þessari lögfestu milli eigenda Hofs og Fells í Suðursveit, með sátt 8. júní 1854, þar sem kveðið var á um að „öll grasnit initjar og virkilegur eignarréttur“ skyldi vera hjá eigendum Fells allt að austurmörkum Fjallsfjöru, en eigendur Hofs skyldu njóta alls vestan við Breiðá, sem mun eins og fyrr greinir hafa runnið þá til sjávar nærri þeim mörkum á löndum Fjalls og Breiðármerkur, sem lýst er í máli þessu.

Fyrir liggur að Vilhjálmur Finsen, land- og bæjarfógeti, gaf út fyrir hönd eigenda „Skálholts kirkju og jarda“ afsal 7. mars 1857 til séra Þorsteins Einarssonar og Gísla Þorsteinssonar, sem þá munu hafa verið eigendur jarðarinnar Fells í Suðursveit, fyrir „Breidamerkurfjöru ... innan þeirra ummerkja, sem þessi fjara, med reka af hval og sérhverjum vid, híngadtil hefir verid notud af Skálholtskirkju eigendum“. Mun hafa verið litið svo á að afsal þetta tæki aðeins til þeirra fjöruréttinda, sem Skálholtskirkja hélt eftir við sölu Breiðármerkur 3. ágúst 1525. Mun Þorsteinn í framhaldi af þessu hafa leitað upplýsinga hjá Vilhjálmi um hvort Gísli Þorsteinsson kynni að hafa eignast þann hluta fjöruréttinda, sem fylgt hefðu jörðinni. Í bréfi, sem Vilhjálmur ritaði Þorsteini af þessu tilefni 6. september 1858, var vísað til þess að biskup hefði á árinu 1844 falið Gísla að líta eftir reka Skálholtskirkju og hafi í umboðsbréfi til hans verið „útþrykkilega tilgreint, að kirkjunnar rekaréttur einungis snerti hval og stærri við enn 6 álnir, þareð hinn minni viðarreki var að álíta sem tilheyrandi jarðeiganda ... En hvernig það síðar hafi gengið til með eigandaskipti á jörðunni Breiðármörk, eptir að hún var orðin bændaeign, bæði meðan jörðin héldst við sem byggt býli, einsog eptir að hún lagðist algjörlega í eyði, og hver að sé þessa eyðilands núverandi eigandi, þarum get eg ekki gefið þá allraminnstu upplýsingu.“ Í málinu liggur fyrir bréf, sem Einar Gíslason alþingismaður ritaði 31. mars 1876 að virðist til Sigurðar Ingimundarsonar bónda á Kvískerjum. Af bréfinu verður ráðið að Einar hafi verið afkomandi Gísla Halldórssonar, sem eins og áður greinir var sagður eigandi að helmingshluta í Breiðármörk í jarðamati 1804-1805. Sagði í bréfinu að ekki væri vitað til þess að Gísli hafi nokkru sinni ráðstafað þessum eignarhluta, þótt ekkert hafi verið hirt um hann eftir að Þorsteinn Vigfússon, faðir Gísla Þorsteinssonar, hætti að gæta fjörunnar fyrir Gísla Halldórsson. Gísli Þorsteinsson hefði leitað eftir því við föður Einars að fá fjöruréttindin keypt og einnig lagt til að eigendur þeirra létu ráðstafa þeim á uppboði, en ekkert hafi orðið af slíku, því að einn afkomenda Gísla Halldórssonar hefði lagst gegn því. Kvaðst Einar ekki vilja „taka uppá mig að selja ítakið, - en það ætla jeg að taka uppá mig að leigja yður það, og fela yður á hendur að reyna að friða rekann og landsnytjarnar fyrir annarra heimildarlausri brúkun. Vildi jeg síðan, þar jeg hefi nú sjálfur sjeð þetta, og get borið um að það er ekki mikið að eiga, fá samþykki allra erfingjanna til þess að selja yður þetta fyrir eitthvað dálítið.“

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að nafngreind dóttir séra Þorsteins Einarssonar hafi gefið út afsal 31. maí 1891 til Eyjólfs Runólfssonar, hreppstjóra á Reynivöllum í Suðursveit, fyrir helmingshlut í jörðinni Fell, en jörðinni allri hafi fylgt helmingur Breiðamerkurfjöru. Um líkt leyti hafi Eyjólfur keypt hluta í fjörunni af systurbörnum sínum, sem sögð voru hafa tekið þá eign að arfi eftir ömmu sína, sem muni hafa verið ekkja Gísla Þorsteinssonar. Stefndu í þessum þætti málsins, aðrir en Kvísker ehf., munu leiða rétt sinn frá Eyjólfi Runólfssyni.

Fyrir liggur í málinu landamerkjaskrá fyrir Fell, sem fyrrnefndur Eyjólfur gerði 1. maí 1922, en þar var landamerkjum og fjörumörkum að vestan lýst þannig að þau væru á nánar tilgreindum hreppamörkum. Eru það sömu merki og áður var getið sem austurmörk á landi Breiðármerkur. Landamerkjaskrá þessi var ekki árituð um samþykki vegna merkja við Breiðármörk. Þá liggur einnig fyrir „landamerkjaskrá milli Fells í Borgarhafnarhreppi og Breiðumerkur í Hofshreppi“, sem undirrituð var 13. maí 1922 af hreppstjórum beggja hreppa, Ara Hálfdánarsyni og Stefáni Jónssyni. Þar var merkjum lands og fjöru milli Fells og Breiðármerkur enn lýst á sama veg og því lýst yfir að mörk hreppanna tveggja væru jafnframt þau sömu. Skjal þetta var ekki áritað af öðrum um samþykki.

Afsal var gefið út 26. febrúar 1937 fyrir hálfri Breiðármörk og helmingi Breiðamerkurfjöru, þar sem sagði meðal annars: „Með því að jeg undirritaður fyrrv. sýslumaður Björgvin Vigfússon á Efra-Hvoli, hefi síðan 1910, átölulaust af öllum, hirt afgjald af landi hálfrar Breiðumerkur í Hofshreppi í Austur-Skaftafellssýslu, eins og það var til forna, svo og afgjald af hálfri Breiðumerkurfjöru, sem er níuhundruð faðma tólfræð að lengd - frá ábúandanum Birni Pálssyni bónda á Kvískerjum, þá hefur það á síðastliðnu ári orðið að samkomulagi milli mín og hans, að hann skyldi eignast land þetta, ásamt hálfri Breiðumerkurfjöru með reka, fyrir 100 -eitthundrað- krónur“. Þeir, sem munu hafa leitt rétt sinn frá Birni Pálssyni, gáfu út 20. júní 2002 afsal fyrir sömu eignum til stefnda Kvískerja ehf.

Samkvæmt gögnum málsins var áðurgreindum landamerkjaskrám frá árinu 1922 þinglýst, svo og afsölunum frá 1937 og 2002, sem stefndi Kvísker ehf. reisir rétt sinn á. Af úrskurði óbyggðanefndar verður ráðið að fyrrnefndu afsali til Eyjólfs Runólfssonar fyrir hlutum systurbarna hans í Breiðamerkurfjöru hafi verið þinglýst með athugasemd um eignarheimild fyrir hinu selda. Einnig að afkomendur Eyjólfs og þeir, sem leitt hafa rétt sinn frá þeim, hafi á árunum 1933 til 1997 fengið þinglýst yfirlýsingum varðandi réttindi yfir Breiðamerkurfjöru og að einhverju leyti landi Breiðármerkur, svo og afsölum fyrir slíkum réttindum, en ýmist hafi þeim skjölum verið þinglýst með athugasemd um annmarka á eignarheimild eða án slíkrar athugasemdar. Gögn um þetta liggja að öðru leyti ekki fyrir í málinu. Stefndu í þessum þætti málsins, aðrir en Kvísker ehf., munu sem fyrr segir leiða rétt sinn frá Eyjólfi Runólfssyni. Því hefur áfrýjandi ekki mótmælt sérstaklega, þótt engin gögn liggi fyrir í málinu því til stuðnings. Stefndu hafa jafnframt lagt fram gögn til staðfestingar því að þau séu skráð sem eigendur að Breiðamerkurfjöru hjá Fasteignamati ríkisins.

Þegar heimildir um eignarréttindi að landi Breiðármerkur eru virtar liggur fyrir að jörðin var um langan aldur kirkjueign og laut hún forræði Skálholtsbiskups þegar hún var seld á árinu 1525. Við þá sölu var hluti fjöruréttinda, sem varðaði stærri reka, skilinn frá jörðinni og honum haldið eftir handa Skálholtsstól, en minni rekinn fylgdi jörðinni. Áður en jörðin fór í eyði 1698 hafði helmingur hennar orðið eign konungs, en um hinn helminginn var rætt sem bændaeign. Eignarhluti konungs er talinn hafa verið seldur 1836, en ekkert liggur fyrir um hver kunni þá að hafa eignast hann. Frá miðri 19. öld eru heimildir um að helmingshluti í Breiðármörk hafi verið talinn fylgja Hofi og virðist sem ályktað hafi verið að sá hluti hafi áður verið konungseign. Í lögfestu fyrir Hof frá 1851 var þó aðeins rætt um réttindi yfir Breiðármörk í talningu ítakréttinda. Með sátt, sem gerð var á árinu 1854 til lausnar ágreiningi, sem leiddi af þessari lögfestu, voru ákveðin mörk milli lands Breiðármerkur og jarðarinnar Fells í Suðursveit. Eftir gerð þessarar sáttar verða ekki séð nein merki þess að eigendur Hofs hafi haldið fram eignarrétti að landinu eða ítaksréttindum þar. Ekkert hefur verið fært fram í málinu um að eigendur Fells hafi með sátt þessari talið sig hafa eignast hluta í Breiðármörk úr hendi eigenda Hofs, enda gefa yngri heimildir ekki til kynna að þeir fyrrnefndu hafi komið fram eins og þeir væru eigendur landsins að hluta eða með öllu. Liggur því ekkert frekar fyrir í málinu um afdrif þess helmingshluta í landinu, sem mun hafa tilheyrt konungi til ársins 1836.

Á árinu 1857 keyptu eigendur Fells, séra Þorsteinn Einarsson og Gísli Þorsteinsson, stærri rekann af Skálholtskirkju. Leggja verður til grundvallar að Eyjólfur Runólfsson hafi síðan með löggerningum við afkomendur Þorsteins Einarssonar og Gísla Þorsteinssonar á síðasta áratug 19. aldar eignast stærri rekann, en ekkert liggur fyrir um að hann hafi með því öðlast önnur réttindi yfir landi Breiðármerkur, enda ljóst af bréfi Einars Gíslasonar 31. mars 1876 að viðleitni Gísla Þorsteinssonar til að kaupa slík réttindi nokkrum áratugum fyrr hafi engan árangur borið. Stefndu í þessum þætti málsins, aðrir en Kvísker ehf., rekja rétt sinn til Eyjólfs Runólfssonar. Samkvæmt þessu geta þau ekki kallað til réttinda yfir landi Breiðármerkur í öðru en hluta Breiðamerkurfjöru, sem óumdeilt virðist vera í málinu að teljist svara til helmings hennar.

Stendur þá eftir hvað orðið hafi um réttindi yfir þeim helmingi Breiðármerkur, sem mun hafa verið talinn áfram bændaeign eftir að hinn helmingurinn hafði fallið til konungs 1646. Í framhaldi af ráðstöfun stærri rekans frá Skálholtskirkju, þar sem Vilhjálmur Finsen land- og bæjarfógeti hafði komið fram af hálfu seljanda, greindi hann frá því í áðurnefndu bréfi til séra Þorsteins Einarssonar 6. september 1858 að hann gæti ekki gefið „þá allraminnstu upplýsingu“ um hverjir kunni að hafa átt helmingshluta í landinu á móti konungi, fyrr eða síðar. Svo sem áður segir var greint í jarðamati 1804-1805 að þessi helmingshluti væri í eigu Gísla Halldórssonar. Af fyrrgreindu bréfi Einars Gíslasonar 31. mars 1876 virðist ekki hafa þótt víst að Gísli hefði ekki síðar ráðstafað þessum hluta, en á hinn bóginn verður ráðið af bréfinu að afkomendur hans hafi enn talið sig eiga réttindi yfir landinu, sem rætt var um sem ítak. Ekkert liggur nánar fyrir um hverjir þessir afkomendur voru. Björgvin Vigfússon, sem gaf út fyrrgreint afsal til eiganda Kvískerja 26. febrúar 1937 fyrir hálfu landi Breiðármerkur og hálfri Breiðamerkurfjöru, mun hafa verið tengdasonur Einars Gíslasonar. Engin gögn liggja fyrir til stuðnings því að Björgvin hafi átt nokkur réttindi yfir hinu selda eða að eiginkona hans, sem stóð ekki að löggerningi þessum, hafi í þeim efnum getað staðið framar öðrum afkomendum Gísla Halldórssonar. Að því virtu er eignarheimild þessi, sem stefndi Kvísker ehf. rekur réttindi sín til, með öllu haldlaus. Vegna alls þessa verður ekki séð að nokkur geti lengur talið til beins eignarréttar yfir þessum helmingi Breiðármerkur, en ekkert liggur fyrir til stuðnings því að eigendur Kvískerja geti talist hafa farið með þau ráð yfir honum, sem leitt gætu til slíks réttar fyrir hefð. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki andmælt því að stefndi Kvísker ehf. og þeir, sem hann leiðir rétt sinn frá, hafi fullan hefðartíma haft nytjar af helmingi Breiðamerkurfjöru ásamt því að nýta land Breiðármerkur til beitar. Ber því að líta svo á að stefndi eigi slík afnotaréttindi af landinu, en ekkert liggur fyrir um að aðrir geti hafa unnið þar til slíkra réttinda.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. gr. laga nr. 58/1998 er land Breiðármerkur þjóðlenda, sem þó er háð réttindum stefnda Kvískerja ehf. til hefðbundinna nota af því sem beitarland, svo og réttindum allra stefndu í þessum þætti málsins yfir fjöru, sbr. 5. gr. sömu laga. Um afmörkun þjóðlendunnar fer samkvæmt því, sem greinir í dómsorði, en í ljósi þeirra takmörkuðu afnotaréttinda, sem stefndu eru hér viðurkennd, er ekki ástæða til að tiltaka sérstaklega mörk hennar gagnvart þjóðlendu í jökli.

V.

Ekki eru efni til annars en að staðfesta ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu. Fyrir Hæstarétti njóta stefndu öll gjafsóknar. Að því virtu er ekki ástæða til að dæma áfrýjanda til að greiða málskostnað stefndu Laufeyjar Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáns Benediktssonar og Árna Benediktssonar hér fyrir dómi. Að því er aðra stefndu varðar er rétt að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað allra stefndu fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu Laufeyjar Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáns Benediktssonar og Árna Benediktssonar af kröfum áfrýjanda, íslenska ríkisins.

Viðurkennt er að land Fjalls í sveitarfélaginu Hornafirði er þjóðlenda með merkjum í vestri gagnvart jörðinni Kvískerjum, sem dregin eru með línu, sem finnst með því að hæsta nef á Miðaftanstindi í Breiðamerkurfjalli beri í miðju skarðs efst á Eyðnatindi í sama fjalli, og liggur sú lína til suðausturs frá rönd Fjallsjökuls til sjávar, en með merkjum í austri gagnvart landi Breiðármerkur, sem ráðast af beinni línu, sem dregin er á þeim stað, þar sem hærri þúfan á Mávabyggðum ber austan í Múlahöfuð á Breiðamerkurfjalli. Innan þessarar þjóðlendu eiga stefndu Þorlákur Örn Bergsson, Guðjón Bergsson, Anna Sigríður Jóhannsdóttir, Knútur Bruun, Ásdís Gunnarsdóttir, Sigurður Magnússon, Sigríður Stefánsdóttir, Sigurjón Gunnarsson og Gunnar Sigurjónsson sem eigendur Hofs I, II og IV og Litla-Hofs rétt til hefðbundinna nota af beitarlandi og yfir fjöru fyrir landi hennar.

Viðurkennt er að land Breiðármerkur í sveitarfélaginu Hornafirði er þjóðlenda með framangreindum merkjum í vestri gagnvart landi Fjalls, en með merkjum í austri, sem ráðast af beinni línu, sem dregin er frá vörðu í fjöru vestan við Nýgræður þannig að hún beri austast í Hálfdánaröldu og í Kaplaklif í Mávabyggðum á Vatnajökli. Innan þessarar þjóðlendu nýtur stefndi Kvísker ehf. sem eigandi jarðarinnar Kvískerja réttar til hefðbundinna nota af beitarlandi og yfir helmingi Breiðamerkurfjöru fyrir þjóðlendunni, en réttar yfir hinum helmingi fjörunnar njóta stefndu Ólafur K. Óskarsson, Benedikt Kristjánsson, Guðbjörg Ágústsdóttir, Margrét Bogadóttir, Guðrún Agnars Jónsdóttir, Árný Margrét A. Jónsdóttir, Torfi Agnars Jónsson, Helga Agnars Jónsdóttir, Jónas Runólfsson, Ingunn Norðdahl, Hulda Höydahl, Aldís Einarsdóttir, Margrét Daisy Clough, Kristján Runólfsson, Hrönn Ásgeirsdóttir, Hrefna Sigríður Morrison, Helga Bjarnadóttir, Jón Bjarnason, Ásta Bjarnadóttir og Sigríður Bjarnadóttir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefndu Laufeyjar Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáns Benediktssonar og Árna Benediktssonar, samtals 500.000 krónur, og málflutningsþóknun sömu fjárhæðar til lögmanns annarra stefndu fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 26. júlí 2005.

         Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 26. og 27. maí 2004 og dómtekið 1. júní sl. Stefnandi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík. Málið er höfðað gegn fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík (vegna Skaftafells I og III), Laufeyju Lárusdóttir, Skaftafelli 2, Freysnesi, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Skaftafelli 2, Freysnesi, Stefáni Benediktssyni, Miklubraut 62, Reykjavík, Árna Benediktssyni, Jakaseli 15, Reykjavík (vegna Skaftafells II), Þorláki Erni Bergssyni, Hofi 1, Eystribæ, Guðjóni Bergssyni, Hofi 1, Eystribæ, Önnu Sigríði Jóhannsdóttur, Hverhamri, Knúti Bruun, Hofi 1, Austurhúsi, Ásdísi Gunnarsdóttur, Hofi 2, Lækjarhúsi, Sigurði Magnússyni, Hofi 2, Lækjarhúsi, Sigríði Stefánsdóttur, Hofi 4, Hofskoti, Sigurjóni Gunnarssyni, Litla-Hofi, Gunnari Sigurjónssyni, Litla-Hofi (vegna Fjalls), Kvískerjum ehf., Kvískerjum, Fagurhólsmýri, Ólafi K. Óskarssyni, Hraunbæ 74, Reykjavík, Benedikt Kristjánssyni, Þykkvabæ 5, Reykjavík, Guðbjörgu Ágústsdóttur, Hábæ 40, Reykjavík, Margréti Bogadóttur, Hlaðbæ 15, Reykjavík, Guðrúnu Agnars Jónsdóttur, Sóltúni 11, Reykjavík, Árnýju Margréti A. Jónsdóttur, Kambahrauni 33, Hveragerði, Torfa Agnars Jónssyni, Heiðarhvammi 3c, Hafnarfirði, Helgu Agnars Jónsdóttur, Fellsmúla 5, Reykjavík, Jónasi Runólfssyni, Kópavogsbraut 87, Kópavogi, Ingunni Norðdahl, Þinghólsbraut 66, Kópavogi, Huldu Höydahl, Furugerði 1, Reykjavík, Aldísi Einarsdóttur, Heiðarvegi 25a, Hafnarfirði, Margréti Daisy Clough, Bandaríkjunum, Kristjáni Runólfssyni, Ástralíu, Hrönn Ásgeirsdóttur, Vesturási 31, Reykjavík, Hrefnu Sigríði Morrison, Bandaríkjunum, Helgu Bjarnadóttur, Holtaseli, Höfn Hornafirði, Jóni Bjarnasyni, Hlíðartúni 6, Höfn Hornafirði, Ástu Bjarnadóttur, Hraunbúðum, Vestmannaeyjum og Sigríði Bjarnadóttur, Bröttuhlíð 11, Hveragerði (vegna Breiðármerkur).

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að úrskurður óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 í máli nr. 1/2001 um mörk þjóðlendu og Breiðármerkur og Fjalls verði felldur úr gildi. Stefnandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að allt land austan jarðarinnar Kvískerja að austurmörkum kröfusvæðis í málinu nr. 1/2001 við Suðursveit, sbr. framlagt kröfukort, sé þjóðlenda, þ.e. svæði sem afmarkast af línu sem byrjar við Kvísker í punkti A við ströndina, en sá punktur er á línu, sem liggur eins og segir í landamerkjabréfi Kvískerja: “að hæsta nef á Miðaftanstindi á Breiðármerkurfjalli beri í mitt skarðið efst á Eiðnatindi í sama fjalli“. Frá punkti A sé farið í punkt B, sem er þar sem sama lína sker jökulrönd Fjallsjökuls.

Í öðru lagi krefst stefnandi þess að úrskurður óbyggðanefndar 14. nóvember 2003 í máli nr. 1/2001 um mörk þjóðlendu og eignarlanda jarðanna Skaftafells I-III verði felldur úr gildi. Stefnandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að svæði vestan við eftirfarandi línu, sbr. framlagt kröfukort, til endimarka kröfusvæðis í vestri sé þjóðlenda: Fyrsti punktur gagnvart Skaftafelli sé þar sem landamerkjalína Svínafells sker jökulrönd Svínafellsjökuls, punktur A. Síðan sé fylgt jökulrönd Svínafellsjökuls í punkt B og þaðan frá neðri hluta jökulsins nyrst og í jökulrönd Skaftafellsjökuls í beinni línu, sem sé framhald af línu sem dregin er frá Vesturhnútu (919m) í syðri Kristínartind (979m) og skeri Skaftafellsjökul, punktur C. Úr þeim punkti verði fylgt jökulröndinni vestur fyrir tunguna og á punkt D í jökulröndinni, þar sem fyrrnefnd lína skeri jökulinn. Þaðan í línu sem dregin sé í syðri Kristínartind (979m), punkt E. Frá Syðri Kristínartindi dragist bein lína yfir Morsárdal og Jökulfellið og í Krossgilstind (698m), punkt F. Þaðan í línu að upptökum Skeiðarár, punktur G. Frá þeim punkti verði dregin lína í átt til sjávar í punkt H, sem sé þar sem línan sker markalínuna milli Skaftafells og Svínafells á söndunum. Sú lína sé dregin þannig að hún sé framhald línu, sem dregin sé beint á milli punktar G og  Blátinds (1177m) og verði þannig framhald þeirrar línu til þessa skurðpunktar við Svínafellsmörkin. Frá punkti H sé dregin lína til sjávar með fram markalínunni við Svínafell og er sá punktur auðkenndur I. Þess er krafist að svæðið frá þessari línu og til endimarka kröfusvæðisins í vestri verði þjóðlenda. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

Stefndu krefjast sýknu auk málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Samkvæmt bókun í þinghaldi 14. mars 2005 töldu stefndu rúmast innan kröfugerðar sinnar kröfu um að merki við jökul verði eins og jökulröndin er á hverjum tíma eða eins og hún er við dómsuppsögu. Samþykkti lögmaður stefnanda að slík krafa kæmist að í málinu. Við aðalmeðferð málsins var umræddur skilningur stefndu áréttaður og gerð krafa um að mörk þjóðlendu og hlutaðeigandi eignarlanda við jökul verði eins og jökulröndin er á hverjum tíma eða eins og hún er við dómsuppsögu.

Með úrskurði dómstjóra Héraðsdóms Austurlands uppkveðnum 8. október 2004 vék dómstjórinn sæti í málinu. Með bréfi 19. janúar 2005 voru héraðsdómararnir Eggert Óskarsson, sem dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Skúli Magnússon, skipaðir til að fara með málið.

I.

Málsatvik

Atvik málsins eru ágreiningslaus.

Óbyggðanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, og hefur það hlutverk að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 8. gr. laganna, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 65/2000, skal nefndin að eigin frumkvæði taka til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Skal hún ákveða hvaða landsvæði tekið er til meðferðar hverju sinni. Í 10. gr. laganna, eins og greininni var breytt með 4. gr. laga nr. 65/2000, eru nánari fyrirmæli um málsmeðferð nefndarinnar, meðal annars þau að þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar ber henni að tilkynna fjármálaráðherra um það og veita honum minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu.

Með bréfi 13. júlí 2000 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til meðferðar sveitarfélagið Hornafjörð í samræmi við 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Svæðið var nánar tiltekið afmarkað með vesturmörkum jarðarinnar Skaftafells í Öræfasveit og austurmörkum jarðanna Hvalsness, Víkur, Svínhóla, Reyðarár, Bæjar, Hlíðar og Stafafells. Til suðurs afmarkast svæðið með hafinu og til norðurs af tiltekinni línu á Vatnajökli. Kröfulýsingar fjármálaráðherra vegna íslenska ríkisins um þjóðlendur í Lóni, Nesjum, Mýrum, Suðursveit og Öræfum í sveitarfélaginu Hornafirði bárust 13. desember 2000. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 3. janúar 2001, Morgunblaðinu 7. janúar og fleiri blöðum síðar í sama mánuði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði, sem félli innan kröfusvæðis ríkisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan fjögurra mánaða. Samkvæmt gögnum málsins tóku meðal annars til varna fyrir nefndinni og lýstu kröfum sínum þinglýstir eigendur jarðanna Skaftafells II, Fjalls og Breiðármerkur sem eru stefndu í máli þessu, auk íslenska ríkisins.

Í júlí 2001 var aðilum tilkynnt að ákveðið hefði verið að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var í máli nr. 1/2001 fjallað um Öræfi, þ.e. svæði sem afmarkaðist til vesturs af mörkum jarðanna Skaftafells í Öræfum og Núpsstaðar í Fljótshverfi, Vestur-Skaftafellssýslu. Eins og nánar greinir síðar kom í ljós undir meðferð málsins hjá óbyggðanefnd að ágreiningur var um merki Skaftafells og Núpstaðar með þeim hætti að eigendur þessara jarða greindi á um hvernig draga ætti línu frá Súlutindum að sjávarmáli þannig að „Súlnatindar beri hver í annan“, sbr. landamerkjabréf Skaftafells þinglýst 5. maí 1890 og landamerkjabréf Núpstaðar 17. maí 1891. Ákvað óbyggðanefnd að skilja þetta ágreiningssvæði frá málinu og voru vesturmörk svæðisins í máli nr. 1/2000 miðuð við kröfulýsingu Núpstaðar að því er varðaði svæðið frá Súlnatindum að sjávarmáli. Frá Súlnatindum afmarkaðist svæðið af línu sem dregin var með fram jökuljaðrinum, í Grænafjall austanvert og áfram í Svíahnúk eystri. Til austurs afmarkaðist svæðið af Suðursveit þar sem áður voru hreppamörk. Sú viðmiðun endaði í Mávabyggðum og þaðan var dregin lína í norður, hornrétt á markalínu þá á Vatnajökli sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína. Sú lína liggur á milli Svíahnúks eystri og miðrar Breiðubungu og afmarkaði svæðið til norðurs. Til suðurs afmarkaðist svæðið af hafinu.

Málið var fyrst tekið fyrir af óbyggðanefnd 7. ágúst 2001. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni vettvangsferð, skýrslutökum og munnlegum málflutningi 26. til 28. júní 2002. Málið var endurupptekið 14. nóvember 2003 og lögð fram ný gögn en að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Úrskurður óbyggðanefndar nr. 1/2001 var kveðinn upp 14. nóvember 2003. Skiptist hann í alls 11 kafla og er 183 bls. fyrir utan viðauka og fylgiskjöl. Í kafla 1 er gerð grein fyrir úrlausnarefni, skipan og aðild fyrir óbyggðanefnd. Í kafla 2 er kröfugerð aðila lýst. Í kafla 4 er gerð grein fyrir gögnum og gagnaöflun nefndarinnar. Í kafla 5 er rætt um staðhætti og náttúrufar í Öræfum. Í kafla 6 er fjallað um landnám í Öræfum og farið ítarlega yfir sögu einstakra jarða auk þess sem afréttarnotum er lýst. Í köflum 7 og 8 er gerð grein fyrir sjónarmiðum aðila fyrir nefndinni. Í kafla 9 er að finna viðauka við almennar niðurstöður óbyggðanefndar, en þar er vísað til umfjöllunar nefndarinnar í úrskurðum hennar nr. 1-7/2000 sem allir fjalla um lönd í Árnessýslu. Í kafla 10 koma niðurstöður óbyggðanefndar í málinu fram og er kafli 11 úrskurðarorð nefndarinnar. Úrskurður óbyggðanefndar verður rakinn eftir því sem sakarefni málsins gefur tilefni til.

Kröfugerð málsaðila fyrir óbyggðanefnd

Fyrir óbyggðanefnd gerði stefnandi þá kröfu að eftirfarandi lína yrði viðurkennd sem þjóðlendumörk í Öræfasveit:

Fyrsti punktur í Öræfum er þar sem Kvískerjaland byrjar við ströndina og er það punktur A. Þessi punktur er á línu, sem liggur eins og segir í landamerkjabréfi Kvískerja: „að hæsta nef á Miðaftanstindi á Breiðamerkurfjalli beri í mitt skarðið efst á Eiðnaskarðstindi í sama fjalli.“ Frá punkti A er farið í punkt B, sem er þar sem sama lína sker jökulrönd Fjallsjökuls. Punktur B verður hornpunktur.[/] Frá punkti B er dregin lína meðfram jökulrönd Fjallsjökuls og Hrútárjökuls og frá jaðri Hrútárjökuls (þar sem bein lína milli punkta B og C sker jökulröndina) í punkt C, sem er í Múla fyrir norðan Múlagljúfur. Frá punkti C er dregin bein lína í punkt D, sem er framarlega í Vatnafjöllum við Kvíárjökul. Frá punkti D er dregin lína meðfram jökulrönd Kvíárjökuls og umhverfis og allt að punkti E. Þaðan yfir Staðarfjallið í punkt F, sem er neðst í Hólárjökli. Þaðan er dregin bein lína í Stórhöfða (784m) fyrir ofan Fagurhólsmýri og verður það punktur G. Úr punkti G er farið beina línu yfir Hofsfjall og í punkt í Goðafjalli (651m) og verður það punktur H og jafnframt hornpunktur. [/] Frá punkti H er dregin lína í punkt I, sem er neðst í Kotárjökli. Þaðan farið yfir Sandfellsheiði í punkt J, sem er neðst í Falljökli. Þaðan er dregin bein lína í Öskuhnútu (917m), sem verður punktur K og næsti punktur verður í jökulrönd Svínafellsjökuls þar sem lína beint úr Öskuhnútu og í punkt efst í Hafrafelli í 1174m hæð sker jökulröndina. Verður það punktur L. Síðan er farið úr punkti L niður með jökulrönd Svínafellsjökuls og niður fyrir og síðan frá neðri hluta Svínafellsjökuls nyrst, og í jökulrönd Skaftafellsjökuls þar sem bein lína, sem er framhald af línu sem dregin er frá Vesturhnútu (919m) í syðri Kristínatind (979m) sker Skaftafellsjökul. Verður þetta punktur M. Síðan er jökulröndinni fylgt vestur fyrir tunguna og á punkt í jökulröndinni, þar sem fyrrnefnd lína sker jökulinn og verður það punktur N. Frá punkti N er farið í punkt O, sem er syðri Kristínartindur (979). Þarna verður hornmark. [/] Frá Syðri Kristínartindi er dregin bein lína yfir Morsárdal og Jökulfellið og í Krossgilstind (698m) og verður það punktur P. Frá punkti P er dregin bein lína að upptökum Skeiðarár (punktur R). Frá punkti R er dregin bein lína til sjávar og þar verður punktur S. Verður sú lína dregin þannig að hún sé framhald línu, sem dregin er beint á milli punktar N og Blátinds (1177m) og verður þannig framhald þeirrar línu til sjávar. Frá þessari línu og að sýslumörkum í vestri verður með þessu þjóðlenda, en hún afmarkast í vestri af línu, sem lýst er svo í landamerkjalýsingu Skaftafells: „að Súlutinda beri hvorn í annan“, en þar er jafnframt komið að mörkum þessa kröfusvæðis, sem fjallað verður um í þessu máli fyrir óbyggðanefnd.

 

             Stefnandi gerði einnig þá kröfu vegna ríkisjarðanna Skaftafells I og III að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur stefnanda til þess lands jarðanna sem væri utan þjóðlendulínunnar. Þá var gerð krafa um yfirráðarétt til þess hluta landsins samkvæmt landamerkjabréfi sem er innan þjóðlendulínu og meðal annars alls lands þjóðgarðsins í Skaftafelli í samræmi við reglugerð nr. 319/1984, III. kafla og meðfylgjandi uppdrátt.

Af hálfu þinglýstra eigenda Skaftafells II var þess krafist að hafnað yrði öllum kröfum stefnanda sem fælu í sér að land Skaftafellsjarða yrði gert að þjóðlendu og viðurkennt yrði sem eignarland Skaftafells II svæði samkvæmt eftirtöldum merkjum:

Að vestan ræður merkjalína Núpsstaðar og Skaftafells, þ.e. lína sem dregin er frá sjó (punktur 1) á þeim stað er Súlutindar bera hver í annan, þá ráða að norðan mörk Skaftafells II og Þjóðgarðsins í Skaftafelli með línu dreginni úr Sýslusteini (punktur 2) á upphaflegum stað á Skeiðarársandi austnorðaustur í merki við Gömlutún, þar sem hún sker heimreið að Skaftafellsbæjum (punktur 3), þá eftir miðju heimreiðar í punkt sem er 380 metra austan við upphaflegan akveg að Þjónustumiðstöðinni (punktur 4) og þaðan eftir línu norður í mörk þjóðgarðs sem eru 600 metra austur af merkinu við Gömlutún (punktur 5), þaðan til austsuðausturs eftir línu sem dregin er úr merkinu við Gömlutún í fremstu nöf Hafrafells og áfram í beina línu í landamerkjalínu Svínafells og Skaftafells á Svínafellsjökli (punktur 6), þaðan suðvestur í stein undir Svínafellsjökli (punktur 7), þaðan í stein ofan við þjóðveg (punktur 8) þaðan í vörðu fram í nesinu (punktur 9) og áfram í beinni línu í suðvestur til sjávar (punktur 10) en að sunnan ræður sjór merkjum.

 

             Einnig var gerð krafa um málskostnað úr ríkissjóði. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að landeigendur líti svo á að í kröfugerð þeirra felist jafnframt krafa um afnotarétt þeirra í þjóðlendu, að öllum venjubundnum afnotum, að fornu og nýju, kæmi til þess að einhver hluti landsins teldist þjóðlenda. Þá segir að komið hafi fram við aðalmeðferð að varðandi mörk við jökul væri af hálfu landeigenda miðað við jökulbrún á hverjum tíma, þó þannig að innan landnáms væri.

Af hálfu þinglýstra eigenda jarðarinnar Hofs var krafist viðurkenningar á því að þeir ættu beinan eignarrétt að öllu landi Fjalls, sbr. eftirfarandi lýsingu í landamerkjabréfi Hofs:

Ennfremur á jörðin [Hof] Breiðamerkurfjall allt og land á Breiðamerkursandi, að vestan eru mörkin sem hér segir: Toppurinn á Miðaftanstindi (p. 25) á Breiðamerkurfjalli sem beri í skarðið á Eiðnatindi (p. 26) á sama fjalli. [...]

Fjörur á jörðin þessar: [...] 3. Fjallsfjara milli þessara marka: Að vestan: Toppurinn á Miðaftanstindi (p.25) á Breiðamerkurfjalli sem beri í skarðið á Eiðnatindi (p. 26) á sama fjalli. Að austan: Hærri þúfan á Máfabyggðum skal bera austan í Múlahöfuðið sem er fremst austan í Breiðamerkurfjalli (p. 27) og landamörk þau sömu (p. 27).

 

             Einnig var gerð krafa um málskostnað úr ríkissjóði. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að landeigendur líti svo á að í kröfugerð þeirra felist jafnframt krafa um afnotarétt þeirra í þjóðlendu, að öllum venjubundnum afnotum, að fornu og nýju, kæmi til þess að einhver hluti landsins teldist þjóðlenda. Þá segir að komið hafi fram við aðalmeðferð að varðandi mörk við jökul væri af hálfu landeigenda miðað við jökulbrún á hverjum tíma, þó þannig að innan landnáms væri.

Af hálfu eigenda jarðanna Kvískerja og Fells, sem „þinglýstra eigenda“ Breiðármerkur, var krafist viðurkenningar á því að þeir ættu „beinan eignarrétt að öllu landi jarðarinnar“ og að viðurkennt yrði að heildarlandamerki jarðarinnar væru eftirfarandi:

Varða hlaðin á graskoll á fjörunni vestanhalt við hornið á Nýgræðunum (p.29) á að bera austast í Hálfdánaröldu uppi undir jökli (30) og í Kaplaklif í Máfabyggðum og er það allt bein lína á milli Fells og Breiðumerkur og fjörumörk. Að vestan eru mörkin sem hér segir: „Hærri þúfan á Mávabyggðum skal bera austan í Múlahöfuðið sem er fremst austan á Breiðamerkurfjalli og landamörk þau sömu.“

 

             Einnig var gerð krafa um málskostnað úr ríkissjóði. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að landeigendur líti svo á að í kröfugerð þeirra felist jafnframt krafa um afnotarétt þeirra í þjóðlendu, að öllum venjubundnum afnotum, að fornu og nýju, kæmi til þess að einhver hluti landsins teldist þjóðlenda. Þá segir að komið hafi fram við aðalmeðferð að varðandi mörk við jökul væri af hálfu landeigenda miðað við jökulbrún á hverjum tíma, þó þannig að innan landnáms sé.

Samkvæmt framangreindu gerði stefnandi sömu kröfu um mörk þjóðlendu og eignarlands fyrir óbyggðanefnd og hann gerir nú fyrir héraðsdómi að því er varðar jarðirnar Fjall og Breiðármörk, þ.e. að allt land austan landamerkja jarðarinnar Kvískerja verði viðurkennt sem þjóðlenda með þeim nánari hætti sem áður greinir. Að því er varðar jörðina Skaftafell gerir stefnandi sömu kröfu um mörk þjóðlendu og eignarlands fyrir óbyggðanefnd og hann gerði fyrir óbyggðanefnd að því frátöldu að vikið er frá beinni línu sem dregin er frá upptökum Skeiðarár (punktur G á korti 1) til sjávar þannig að beinni línu sé fylgt frá Bláhnjúki í gegnum punkt G til sjávar. Í stað þess að miðað sé við beina línu til sjávar miðar stefnandi í kröfugerð sinni fyrir dómi við línu sem dregin er með sama hætti þar til hún skerst við landamerki jarðarinnar Svínafells (punktur H á korti 1), en frá þeim punkti er markalínunni við Svínafell fylgt til sjávar.

Staðhættir og náttúrufar í Öræfum

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarleg grein gerð fyrir staðháttum og náttúrufari. Kemur þar fram að mikil rýrnun hafi orðið á gróðri og jarðvegi frá því um landnám. Eru í þessu sambandi rakin eldgos í Öræfajökli 1362 og 1727 og ágangur jökla og vatna. Fram kemur að á síðustu áratugum hafi gróður, þar á meðal skógur, verið í framför á svæðinu, meðal annars hafi sjálfsgræðsla stóraukist á Skeiðarársandi. Í úrskurðinum eru breytingar á jöklum raktar frá landnámi. Kemur þar fram að jöklar hafi verið mun minni um landnám en þeir eru nú. Fram kemur að jöklar hafi náð hámarki um 1890 en hafi síðan hopað. Hafi Hafrafell verið umgirt jöklum til ársins 1936 og Breiðamerkurfjall til ársins 1946. Þá er rakin saga vatnabreytinga á Skeiðarársandi. Fram kemur að óvissa sé um þetta og heimildir rýrar. Líkur bendi þó til þess að Skeiðará og Jökulsá hafi á landnámsöld verið tvö vötn og Jökulsá þá legið vestur á sandi, en Skeiðará verið mun minna vatnsfall. Jökulsá kunni því ekki að hafa legið undir Jökulfelli, heldur einhvers staðar vestur á sandi. Vatnabreytingar hafi verið verulegar á sandinum síðustu aldirnar. Ekki sé þó hægt að fullyrða um það með neinum yfirgnæfandi líkum hvernig vötn hafi legið á Skeiðarársandi til forna.

Lýsing óbyggðanefndar á sögu jarðanna Skaftafells, Fjalls og Breiðármerkur

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarleg grein gerð fyrir landnámi í Öræfum svo og sögu jarðanna Skaftafells, Fjalls og Breiðármerkur. Af hálfu aðila málsins hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þessa umfjöllun óbyggðanefndar. Með hliðsjón af þessu, svo og því að umrædd umfjöllun óbyggðanefndar er að stærstum hluta endurtekin í niðurstöðum nefndarinnar, sem raktar eru síðar, þykir rétt að rekja þessa umfjöllun nefndarinnar og  niðurstöður hennar í einu lagi.

Almennar niðurstöður óbyggðanefndar

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til almennra niðurstaðna nefndarinnar um lagaleg atriði, gildi heimilda og gróðurfar á Íslandi í úrskurðum nefndarinnar nr. 1-7/2000. Eru þessar niðurstöður nefndarinnar ítarlega raktar í dómi Héraðsdóms Suðurlands 6. nóvember 2003, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur einnig fram að í Austur-Skaftafellssýslu komi til skoðunar nokkur ný álitaefni sem þýðingu kunni að hafa víðar og sé því ástæða til að bæta við fyrri umfjöllun nefndar um almenn atriði.

Í niðurstöðukafla nefndarinnar er aðdragandi að setningu laga nr. 58/1998 rakinn og hlutverk nefndarinnar samkvæmt lögunum reifað. Segir m.a. að fyrir gildistöku laganna hafi legið fyrir að tiltekin landssvæði á hálendi landsins hafi ekki verið í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Hafi réttarstaða þessara svæða, sem nú séu kölluð þjóðlendur, verið óljós og hafi lögin verið sett til að leysa þennan vanda. Þá er hlutverk óbyggðanefndar samkvæmt lögum nr. 58/1998 rakið og fjallað um mat nefndarinnar samkvæmt lögunum.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að frumstofnun eignarréttar hér á landi hafi farið fram með landnámi, hefð og lögum, sbr. löggjöf um nýbýli og þjóðlendur. Raktar eru lýsingar úr Landnámu og heimildir um landnám. Segir að af takmörkuðum lýsingum í Landnámu verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um það hvort í öndverðu hafi verið stofnað til eignarréttar yfir landsvæði með námi. Óbyggðanefnd telur hefð vera annan frumstofnunarhátt eignarréttar. Dómstólar hafi hafnað því að eignar­hefð verði unnin á grundvelli hefðbundinna afréttarnota af landi utan landa­merkja jarða, hins vegar hafi hefð verið viðurkennd á grundvelli sambærilegra nota innan landamerkja jarðar. Jafnframt sé ljóst að nytjar af þessu tagi hafi ekki nægt til að vinna eignarhefð með útrýmandi hætti innan marka jarðar svo sem þau hafa verið afmörkuð í landamerkjabréfi hennar. Óbyggðanefnd telur að við mat á því hvort tekist hafi að vinna fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða utan landamerkja jarðar. Skilyrði fyrir því að eignarhefð verði unnin á landsvæði utan landa­merkja jarðar séu þröng, þó að ekki sé slíkt útilokað. Lög séu þriðji frumstofn­unarháttur eignarréttar, sbr. nýbýla­tilskipun frá 15. apríl 1776 og lög um nýbýli frá 6. nóvember 1897.

             Óbyggðanefnd rekur flokkun lands í jarðir, afrétti og almenninga. Þýðing þeirrar flokkunar nú ræðst af því hvernig hún fellur að hugtökunum eignarland og þjóðlenda. Um jörð segir óbyggðanefnd eftirfarandi:

Óbyggðanefnd telur að almennt megi gera ráð fyrir að jörð sé landsvæði sem upprunalega hefur verið ráðstafað úr einstökum landnámum, stofnað til nýbýlis á eða eignar­hefð unnin yfir. Tilgangurinn með stofnun hverrar jarðar hefur verið að stunda þar búskap árið um kring. Samt sem áður getur að sjálfsögðu verið land innan jarðar sem ekki verður nýtt til landbúnaðar, enda getur setning merkja hæglega hafa tekið mið af öðrum atriðum. Nýting landsins hefur verið í samræmi við búskaparhætti og umfang bús á hverjum tíma. Land hverrar jarðar hefur frá öndverðu borið að afmarka með landamerkjum. Innan merkja jarðar sinnar hefur eigandi almennt séð farið með umráð og hagnýtingu, gert ráðstafanir með löggerningum, veðsett jörðina og látið hana ganga að erfðum, á sama hátt og gildir um eignarland yfirleitt. Óbyggðanefnd telur hvorki verða ráðið af eldri né yngri löggjöf að almennt séð hafi verið gert ráð fyrir því að land innan jarðar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu. Staðhættir, gróður­far og nýtingarmöguleikar verða ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. Einstök dæmi um slíka skiptingu finnast þó og eins kann það í öðrum tilvikum að valda nokkrum vafa þegar afréttur liggur eða lá sjálfstætt undir einstakar jarðir. Þá kunna að finnast svæði innan merkja jarða sem kölluð eru afréttur, e.t.v. með vísan til þess að sá hluti hennar hafi helst verið nýtt til beitar, án þess þó að eignarréttarleg staða þess landsvæðis hljóti að vera önnur. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að líkur séu á því að land sem samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er eða hefur verið jörð sé beinum eignarrétti háð. Sönnunarbyrðin hvílir því á þeim sem öðru heldur fram.

 

             Óbyggðanefnd telur að tilvist ítaks í fasteign bendi fremur til þess að svæði það sem ítakið er á sé eða hafi einhvern tímann verið eignarland. Þá fjallar nefndin um almenninga og kemst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi ekki til að hér á landi hafi verið að finna afmörkuð landsvæði inn til landsins sem lotið hafi reglum um almenninga svo óyggjandi sé. Hafi einhvern tímann svo verið, hafi munur á þeim og afréttum orðið lítill eða enginn er fram liðu stundir. Þá sé ljóst að stærstur hluti lands utan einstakra jarða hafi fyrr og síðar verið í afréttarnotum. Samkvæmt þessu verði ekki talið að hugtakið almenningur hafi mikið sjálfstætt gildi við mat á grunneignarrétti á landi sem verið hafi í slíkum notum. Það geti hins vegar haft þýðingu við mat á takmörkuðum eignar­réttindum og eins verði ekki útilokað að slík landsvæði finnist.

             Að því er varðar samnotaafrétti telur óbyggðanefnd ekki unnt að útiloka að slík landssvæði hafi verið numin. Vísað er til reglna um nýtingu slíkra afrétta og notkun þeirra að öðru leyti sem einkum fólust í beit. Telur nefndin með vísan til úrlausna dómstóla að beinn eignarréttur verði ekki byggður á slíkum notum. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að líkur séu á því að land, sem samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er samnotaafréttur, sé þjóðlenda. Sönnunar­byrðin hvíli á þeim sem öðru heldur fram. Þetta telur nefndin hins vegar ekki eiga við afrétti einstakra jarða og stofnana. Hafi þessar afréttir lotið öðrum reglum og landeigandi notið þar ríkari réttinda. Hvort tiltekinn afréttur einstakrar jarðar eða stofnunar sé undirorpinn beinum eða óbeinum eignarrétti heimajarðar sé hins vegar ekki einhlítt og verði að meta í hverju tilviki fyrir sig. Kröfur dómstóla til sönnunar að því er varðar annars vegar afrétti einstakra jarða og stofnana og hins vegar samnotaafrétti virðast þó sambærilegar að mati óbyggðanefndar.

             Óbyggðanefnd rekur reglur um skráningu fasteigna með svofelldum hætti:

Landfræðileg afmörkun fasteigna var ekki skráð á samræmdan máta fyrr en í lok 19. aldar. Fram er komið að fyrir þann tíma eru heimildir um mörk jarða fágætar. Þá liggur fyrir að heimildargildi Landnámu er umdeilt og lýsingar hennar oft ónákvæmar. Úrskurður um eignarland eða þjóðlendu verður ekki byggður á þeim einum. [/] Með setningu laga um landamerki, nr. 5/1882, var í fyrsta skipti í íslenskri löggjöf kveðið á um almenna skyldu eigenda og umráðamanna jarða til að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarða sinna. Tilgangur löggjafans með setningu laga um landamerki 1882 og laga um hefð 1905 var sá að koma fastri skipan á afmörkun fasteigna og heimildir til þeirra. Hér má einnig nefna lög um fasteignamat 1915 þar sem kveðið var á um reglubundið mat fasteigna á tíu ára fresti. Með þessu móti leitaðist löggjafinn við að skapa traustan grundvöll undir sölu, veðsetningu og skatt­lagningu jarða og annarra fasteigna. [/] Samkvæmt ákvæðum landamerkjalaganna skyldi sýslumaður hafa eftirlit með því að menn uppfylltu skyldur sínar til skrásetningar merkja. Hafi bréf verið þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki tiltekinnar jarðar, án athugasemda yfirvalda eða ágreinings við nágranna eða sveitarfélag, virðist það benda til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Séu bréf aðliggjandi jarða samhljóða hlýtur það að benda til hins sama. Könnun óbyggða­nefndar á dómum Landsyfirréttar á tímabilinu 1886-1920 bendir ekki til þess að í kjölfarið á setningu landamerkjalaganna hafi komið upp umtalsverður ágreiningur milli sveitarfélaga og eigenda efstu jarða um mörk jarða og afrétta. Jafnframt er ljóst að þinglýstir eigendur hafa haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst. Ennfremur hlýtur gildistaka hefðarlaga árið 1905 að styrkja eignartilkall slíkra aðila.

 

             Óbyggðanefnd telur ljóst af úrlausnum dómstóla að við mat á gildi landamerkjabréfs, skipti máli hvort um er að ræða jörð eða annað landsvæði. Hafi gögn máls þótt bera með sér að afréttarlandsvæði væri einungis óbeinum eignarréttindum háð hafi tilvist landamerkja­bréfs ekki breytt þeirri niðurstöðu. Í slíkum tilvikum hafi landamerkja­bréf einungis verið talin ákvarða mörk afréttareignar. Hins vegar hafi dómstólar í einka­málum talið landamerkjabréf ákvarða mörk eignarlands í tilvikum þar sem um var að ræða landsvæði sem áður höfðu legið innan landamerkja jarða. Þá segir eftirfarandi í úrskurði óbyggðanefndar:

Með vísan til tilgangs landamerkjalaga 1882, síðari tíma löggjafar og úrlausna dóm­stóla, telur óbyggðanefnd að leggja verði til grundvallar að jörð, svo sem hún er afmörkuð í landamerkjabréfi, sé beinum eignarrétti háð. Útilokað er að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi og til dagsins í dag. Í þeim tilvikum þar sem einstaklingar eða lögaðilar hafa samkvæmt elstu heimildum farið með þau réttindi og skyldur sem í beinum eignarrétti felast, verður að telja eðlilegt að íslenska ríkið beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi kann að vera. Einstaklingar og lögaðilar hafa haft réttmætar ástæður til að vænta þess að beinn eignar­réttur væri fyrir hendi og getað leitað til handhafa opinbers valds honum til verndar. Hins vegar er þó ljóst að meta verður sérstaklega gildi hvers landamerkja­bréfs. Þannig dregur úr gildi landamerkjabréfs ef eldri heimildir mæla því í mót. Á hinn bóginn telur óbyggðanefnd að líkur séu á því að land sem samkvæmt fyrir­liggjandi heimildum hefur ekki með einum eða öðrum hætti tilheyrt jörð, hafi ekki orðið beinum eignarrétti háð fyrr en með setningu þjóðlendulaga. Ekki er hægt að útiloka að þessi landsvæði hafi verið numin eða á annan hátt orðið undirorpin beinum eignarrétti en samhengi eignarréttar og sögu liggur ekki fyrir. Í stað þeirra almennu heimilda til umráða, hagnýtingar, ráðstöfunar o.s.frv. sem eigandi jarðar hefur um aldir verið talinn fara með hefur einungis verið um að ræða heimildir til takmarkaðar nýtingar sem snemma urðu lögbundnar. Með vísan til úrlausna dómstóla er ljóst að beinn eignarréttur verður ekki byggður á slíkum notum. Sönnunarbyrðin hvílir því á þeim sem slíku heldur fram.

 

                Um eignarréttarlega stöðu þess lands sem hulið er jökli telur óbyggðanefnd að fara beri eftir sömu reglum og um önnur landsvæði. Þegar merki jarðar séu miðuð við jaðar jökuls og þeim því ekki lýst nema að takmörkuðu leyti í landamerkjabréfi beri að miða við stöðu jökul­jaðarsins við gildistöku laga nr. 58/1998 1. júlí 1998, enda sé jökullinn í þjóðlendu. Um þetta atriði segir nánar eftirfarandi í kafla 9.3 úrskurðarins, þar sem sérstaklega er fjallað um jökla:

Ef líkindi eru fyrir því að land hafi verið numið inn til jökla styður það  þá niðurstöðu að land sem jökullinn hefur skilað frá gerð landmerkjabréfanna falli til aðliggjandi jarða. Ekki verður talið að jökull hafi hopað svo hratt undanfarna rúma öld að komið sé í ljós að ráði land jarða sem ofar kunna að hafa legið, enda staða jökuls 1998 nær því sem var um 1900 en um land­nám. Tilkall til lands sem komið hefur undan jökli kann jafnframt að byggjast á hefðar­reglum. Til skoðunar koma þá almenn atriði eins og tímalengd, yfirráð, hagnýting, ráðstafanir að lögum, viðhorf hefðanda og annarra aðila o.fl. Staðhættir kunna að vera með þeim hætti að um eðlilegt framhald tiltekinnar jarðar sé að ræða, líkt og landauki til hafs, og nýting annarra útilokuð. Frávik frá þessum almennu ályktunum eru þó að sjálfsögðu möguleg og verður að skoða hvert tilvik fyrir sig. Jafnframt hlýtur réttur þessi að takmarkast við land sem komið var undan jökli við gildis­töku þjóðlendulaga 1998, þegar löggjafinn kvað á um eignarhald ríkis á öllu því landi sem ekki væri sannanlega undirorpið beinum eignarrétti. Mögulegar væntingar jarð­eigenda um rétt til þess lands sem kemur undan jökli eftir þann tíma njóta ekki réttar­verndar sem eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Þá ber þess að geta að frá gildistöku þjóðlendulaganna er ekki unnt að öðlast eignarréttindi innan þjóð­lendna fyrir nám eða hefð, sbr. 8. mgr. 3. gr. [/] Niðurstaða óbyggðanefndar er því sú að gildistaka þjóðlendulaga hafi undir þessum kringumstæðum haft það í för með sér að merki jarða gagnvart jökli væru fastsett, án tillits til síðari breytinga á jökul­jaðrinum. Sú niðurstaða er jafnframt í eðlilegu samræmi við markmið og tilgang löggjafarinnar. Þegar merki jarðar eru miðuð við jaðar jökuls og þeim því ekki lýst nema að takmörkuðu leyti í landamerkja­bréfi ber þannig að miða við stöðu jökul­jaðarsins 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll., enda sé jökullinn í þjóðlendu. Lega jökuljaðarsins kann þó að virðast óljós þar sem smájöklar eða fannir liggja aðskilið frá meginjöklinum. Í þeim tilvikum þar sem eignarland liggur að jökli í þjóðlendu verður að telja eðlilegt að íslenska ríkið beri hallann af þeim vafa sem þannig kann að vera fyrir hendi. Óbyggðanefnd telur því eðlilegt að í slíkum tilvikum miðist þjóðlendulína við jaðar meginjökuls, eins og hann er skilgreindur af sérfræðingum á því sviði. Smájöklar og fannir verða þá innan eignar­lands á sama hátt og jökulsker eða annað land umlukið jökli verður innan þjóðlendu.

 

            Sé jökul­svæði innan merkja jarðar telur óbyggðanefnd hins vegar að almenn sjónarmið gildi um túlkun landa­merkja. Merki sjávarjarða til hafsins telur nefndin að fylgi breytingum á stórstraumsfjörumáli og landamerki færist inn og út í samræmi við landauka eða landtap.

Landnám í Öræfum

             Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktar frásagnir Landnámu um landnám þeirra manna sem settust að á því svæði sem síðar var nefnt Öræfi. Í fyrsta lagi er greint frá því að samkvæmt Landnámu hafi Hrollaugur, sonur Rögnvaldar jarls á Mæri í Noregi, numið land austan frá Horni til Kvíár.  Hrollaugur hafi selt hluta af landnámi sínu og Þórði Illuga Eyvindarsyni hafi hann gefið allt land milli „Jökulsár“ og „Kvíár“. Hafi Þórður búið „undir Felli við Breiðá“. Kemur fram að ekki sé vitað hvar landnáms­bærinn stóð nákvæmlega, enda þótt ýmsar kenningar hafi verið settar fram í því efni. Í annan stað er greint frá því að samkvæmt Landnámu hafi Þorgerður, eiginkona Ásbjörns Heyjangurs-Bjarnasonar, leitt kvígu sína undan Tóftarfelli skammt frá Kvíá, suður og í Kiðjaklett hjá Jökulsfelli fyrir vestan. Hafi Þorgerður því numið land um allt Ingólfshöfðahverfi milli Kvíár og Jökulsár og búið að Sandfelli. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að sum þessara örnefna séu nú fallin í gleymsku. Í úrskurðinum er þó greint frá kenningum um að Tóftafell sé sama fjall og nefnt sé Staðarfjall, örnefnið Kiðjaklettur vísi til kennileitis framan við Krossgil og með Jökulsá sé vísað til Skeiðarár. Þá segir að vestan við landnám Þorgerðar hafi tekið við landnám Bárðar, sem var þriðji sonur fyrr­nefnds Heyjangurs-Bjarnar, en hann hafi numið Fljótshverfi allt og búið að Núpum. Kemur fram í úrskurði óbyggðanefndar að austurmörk landnáms Gnúpa-Bárðar séu óljós og eru ýmsar kenningar um það efni nánar raktar í úrskurðinum.

             Í úrskurði óbyggðanefndar segir að óvíst sé hversu langt inn til landsins mörk landnámanna náðu. Er í þessu sambandi vísað til frásagna Landnámu um að fé hafi verið beitt til fjalla og upplýsinga um gróðurfar og jöklafar á landnámsöld.

             Í niðurstöðum óbyggðanefndar segir að ekki verði dregin sú afdráttarlausa ályktun af lýsingum Land­námu á landnámi Fljótshverfis og Ingólfshöfðahverfis að á milli Núpsvatna og Skeiðarár hafi ekki verið stofnað til eignarréttar með námi í öndverðu. Farvegur jökul­vatna undan Skeiðarárjökli um landnám sé ekki þekktur og auk þess óljóst hvort Skeiðará sé sama á og nefnd sé Jökulsá í Landnámu. Kunni að vera að jökulsá sú sem nefnd sé í Landnámu hafi fallið mun vestar á sandinum en Skeiðará hafi verið mun minna vatnsfall og hafi ekki hlaupið jökull í hana fyrr en á 15.-17. öld.  Er í þessu sambandi vísað til greinargerða sérfræðings í vatnafræðum. Þá vísar óbyggðanefndin til upplýsinga um gróðurfar um að Skeiðarársandur hafi verið grónari um land­nám en nú.

             Að því er varðar norðurmörk landnáms telur óbyggðanefnd að ráða megi af heimildum að menn hafi a.m.k. farið svo langt til fjalls sem beitiland náði. Land í Öræfum sé afmarkað af jöklum hið efra og sjó hið neðra. Upp við jökul rísi fjalllendi og heiðarlönd en þar neðan við og allt niður að sjó sé slétt undirlendi. Þaðan skerist fjölmargir dalir inn í fjalllendið, stórir og smáir. Hálendi og jöklar blasi við frá fjöru séð, en fjarlægðir þar á milli séu u.þ.b. 3-38 km. Telur nefndin að samkvæmt þessu og með hliðsjón af upplýsingum um gróðurfar við landnám sé líklegt að land í Öræfum hafi verið numið frá sjávarmáli að þáverandi jökulbrún, að minnsta kosti.

Umfjöllun óbyggðanefndar um Skaftafell

Í úrskurði óbyggðanefndar er jörðinni Skaftafelli og aðliggjandi svæði lýst með svofelldum hætti:

Að Skaftafelli liggja jarðirnar Núpsstaður í Fljótshverfi, Vestur-Skaftafells­sýslu, að vestan og Svínafell að austan. Skörp skil eru á milli undirlendis og fjall­lendis fyrir landi Skaftafells, svo sem víðast annars staðar í Öræfum. Til suðurs kvíslast jökulárnar um hallalítinn Skeiðarár­sandinn, allt niður að sjávar­máli. Að norðan liggur Vatna­jökull, nánar tiltekið Skeiðarárjökull, Öræfajökull og þrír skrið­jöklar hins síðastnefnda, Morsár­jökull, Skaftafellsjökull og Svínafellsjökull. Inn á milli skrið­jöklanna rís mikið hálendi og heiðarlönd. Alls munu um tuttugu tindar á þessu svæði vera yfir 1000 m háir og flestir meira eða minna tengdir saman með löngum fjallshryggjum. Á milli Skeiðarárjökuls og Skaftafells­jökuls liggur Morsár­dalur. Fjarlægð frá sjó að jaðri Skaftafellsjökuls er um 26 km en 32 km inn í miðjan Morsár­dal. Fjalllendinu sem umlykur dalinn má í megindráttum skipta í þrjá klasa. Að vestanverðu eru Skaftafellsfjöll, að norðanverðu Miðfell og Skaftafells­heiði austan­megin. Inn af heiðinni eru Kristínartindar (sá nyrðri 1126 m) og Skarðatindur (1385m) næst jökli. Austan við Skaftafellsheiði, í krikanum á milli Skaftafellsjökuls og Svínafells­jökuls, er Hafrafellið (1174m) og þar efst, í jökulkróknum ofan við Svínafells­jökul, er Hrútsfjall (1875m). Íslenska ríkið hefur í meginatriðum dregið kröfulínu sína frá sjávarmáli í upptök Skeiðarár, þaðan í Krossgilstind, yfir Jökulfell og Morsárdal í Syðri-Kristínartind, að jökulrönd Skaftafellsjökuls og meðfram henni þar til kemur á móts við neðri hluta Svínafellsjökuls nyrst, þar er dregin lína yfir í Svínafellsjökul og jaðri þess jökuls síðan fylgt.

 

             Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að elsta heimildin um jörðina Skaftafell sé Njálssaga, rituð á síðari hluta 13. aldar. Skaftafell hálft hafi verið eign kirkjunnar á Hofi í Héraði (Öræfum) eftir því sem standi í máldaga hennar frá fyrri hluta 14. aldar. Árið 1482 hafi eignir kirkjunnar á Eyrar­horni verið lagðar til Hofskirkju, en um sama leyti hafi hálft Skaftafell verið selt undan kirkjunni. Ári síðar hafi Magnús biskup Eyjólfsson selt Kirkjubæjar­klaustri jörðina í makaskiptum, en Skaftafell hafi síðan, eins og aðrar klausturjarðir, komist í eigu konungs eftir siðaskiptin. Þá kemur fram að samkvæmt jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 hafi Skaftafell verið metið á 30 hundruð árið 1686 en 12 hundruð árið 1697. Í jarðabókinni sé einnig greint frá því að eyðijarðirnar Jökulfell og Freysnes hafi verið lagðar til Skaftafells og landskuld hækkað við það í tvö hundruð (úr 1 ½ hundraði). Heimildir bendi til þess að jarðirnar tvær hafi ekki verið innlimaðar („inkorporeraðar“) og í skrá Ísleifs frá 1712 um eyddar jarðir í Öræfum sé komist svo að orði að Jökulfell og Freysnes, hvor jörð um sig, séu leigðar „frá Skaptafelli fyrir 30 álnir“. Megi álykta að einn og sami eigand­inn hafi verið að jörðunum þremur, þ. e. konungur.

Um Jökulfell segir eftirfarandi í úrskurði óbyggðanefndar:

Jökulfells er getið í máldaga Rauðalækjarkirkju sem talinn er frá 1179, en þar mun trúlega átt við fjallið sjálft fremur en bæinn. Í máldaga kirkjunnar að Hofi frá um 1343 fer hins vegar varla á milli mála að átt sé við bæinn Jökulfell: „hofsmenn eigu helming allra þeirra fiarna sem liggia til jokulfells“. Í öðrum máldaga frá sama tíma kemur fram að hálfkirkja var að Jökulfelli. Jörðin mun hafa lagst í eyði á síðari hluta 14. aldar því að í máldaga frá 1397 segir að Gyrðir biskup Ívarsson (1350-1360) hafi lagt til Lómagnúps (Núpsstaðar) 12 ær og kú frá Jökulfelli, og hefur það trúlega verið eign hálfkirkjunnar.  Bærinn Jökulfell stóð í Morsárdal þar sem síðar var kallað í Bæjarstað. Auk Skaftfellinga höfðu Suðursveitungar einnig nytjar af Jökulfelli eins og Ísleifur Einarsson greinir frá í jarðabók sinni: „Skattbændur allir frá Kolgrímu til Fells segjast eiga skóg í Jökulfelli í Öræfum, þar sem kallaður er Bændaskógur.“ Enn fremur var Sandfelli eignað skógarítak í Jökulfelli og annað í Skaftafellsheiði. Ekki er minnst á Jökulfell í úttekt jarðamatsnefndar (fasteignamatsnefndar) á Skaftafelli 1849 og 1916.

 

             Um Freysnes segir í úrskurði óbyggðanefndar að jarðarinnar sé ekki getið í fornum skjölum og sé ekki kunnugt um hvenær búskapur hófst á jörðinni, né heldur hvenær hann lagðist af. Freysnes muni hafa staðið á láglendinu vestan núverandi farvegar Skaftafellsár, ekki langt frá núverandi vega­mótum þjóðvegar og afleggjara að þjóðgarðinum í Skaftafelli. Jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 greini frá því að Skaftafell eigi upprekstur í Freysneslandi þar sem heiti Hafrafell, en hann sé ekki notaður því að allt liggi undir jökli. Þá er vísað til sýslulýsingar Sigurðar Stefánssonar sýslumanns árið 1747 á Hafrafelli og að það sé mest brúkað til lamba afréttar byggðarmanna.

             Í úrskurði óbyggðanefndar er vitnað til úttektar á Skaftafelli í sóknarlýsingar séra Páls M. Thorarensen 1839 og sagt að þar sé hvorki Freysness né Hafra­fells getið sérstaklega. Í gerðabók fasteignamatsnefndar 1916 virðist ekki lengur gert ráð fyrir því að Svínafell eigi upprekstur í Hafrafell, en um Skaftafell (Bölta) segi hins vegar að jörðinni fylgi sérstakt upprekstrar­land, Hafrafell, sem sé umgirt jökli, og auk þess víðlendi mikið í Skaftafells­fjöllum. Svínfellingar muni þó áfram hafa rekið sauðfé sitt í Hafrafell, jafnvel þótt umlukið væri jökli fram til um 1940, en upprekstrarland Skaftfellinga hafi verið í Skaftafellsfjöllum og Morsárdal. Þá er í úrskurði óbyggðanefndar fjallað um Hrútsfjall en þar hafi Maríu­kirkjan á Hnappavöllum átt tólf ungneyta rekstur og „skogartopt“ í hlíðum fjallsins samkvæmt máldaga sem talinn sé vera frá 1343. Þessi ítök virðist hafa fallið í fyrnsku því að ekki sé minnst á þau í gerðabók matsnefnda 1849 og 1916.

             Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að Skaftafell hafi komist í einkaeigu árið 1836 þegar jörðin hafi verið seld Guðnýju Þorsteins­dóttur. Landamerkjabréf Skaftafells í Hofshreppi sé ódagsett, en það hafi verið lesið á manntals­þingi að Hofi 5. maí 1890. Undir það riti eigendur og umráðamenn Skafta­fells, umráðamaður Núpsstaðar og eigendur Svínafells. Er landamerkjabréfið svohljóðandi:

Milli Skaptafells og Svínafells eru landamerki á Freysnesi úr stórum steini framan undir jöklinum og í stein ofan við veginn og þaðan í vörðu fram í Nesinu. Móti jörðunni Núpstað á Skaptafell land svo langt vestur að Súlnatindar beri hver í annan.[/] Fjörumörk að austan: Svarthamranef vestan í Hafrafelli beri í lækjarfarveg í kletti, sem skagar lengst ofan í skriðu niður af Skarðatindi. [/] Fjörumörk að vestan: Básarákanef beri í hæsta sker á Austurskorabrún. [/] Jörðin á land allt milli fjalls og fjöru.

 

             Í úrskurði óbyggðanefndar segir að þegar landamerkjabréfið var gert hafi verið lítið um annan gróður á Skeiðarársandi en melgresi sem þá hafði lengi verið slegið og nýtt til manneldis. Aðrar nytjar af sandinum hafi verið helstar rekaviður og sel­veiði. Gróðurfar hafi hins vegar breyst á 19. öld og hafi Skaftfellingar farið að reka fé á sandinn eftir 1920. Þeir hafi leigt bændum í Svínafelli sumarbeit vestan Skeiðarár frá árinu 1957. Einnig liggi fyrir heimildir um að Vegagerð ríkisins hafi greitt eiganda Freys­ness, þ.e. eiganda Skaftafells II, fyrir efnistöku á Skeiðarársandi. Þá er vísað til þess að leit hafi farið fram á sandinum að skipinu „Het Wapen van Amsterdam“ samkvæmt samningi sem gerður var við eigendur Svínafellsfjöru og Skaftafellsfjöru árið 1983.

             Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að í Skaftafelli hafi verið einbýli til ársins 1832, en þá muni Jón Bjarnason hafa byggt í svo­nefndu Seli (Skaftafell II). Ári síðar hafi hafist búskapur í Skaftafelli III þar sem heita Hæðir. Nokkru síðar, sennilega 1849, hafi gamli bærinn (Skaftafell I) verið færður upp í Bölta, og sé þar enn bæjar­stæði. Í Skaftafelli II hafi verið búið til ársins 1946, en tveimur árum síðar hafi jörðin verið seld Ragnari Stefánssyni í Skaftafelli III. Árið 1966 hafi Skaftafell I, II og III verið seldar Náttúruverndarráði vegna ríkis­sjóðs. Við sölu á Skaftafelli II og III hafi verið undanskilinn Skeiðarársandur og þau hlunnindi sem honum og fjörunni fylgdu „fyrir framan línu, sem hugsast dregin frá Lóma­gnúpi á Nyrðri-Menn á Hafrafelli og þaðan í sömu stefnu á mörk Skaftafells og Svína­fells“. Árið 1968 hafi Ragnar Stefánsson í Skaftafelli óskað eftir því við menntamála­ráðuneytið að fram færu landskipti á óskiptu sameignarlandi ríkisins og þeirra bræðra Ragnars og Jóns Stefánssona. Samkvæmt úrskurði matsnefndar 25. nóvember 1969 hafi skiptin orðið þessi:

Landamerki lands Ragnars Þ. Stefánssonar og Jóns Stefánssonar á Skeiðarársandi ákveðast af tveimur línum frá föstum punkti, sem settur skal ofan þjóðvegar, 15 metrum norður frá miðlínu vegarins og í 225 metra fjarlægð, mælt austur eftir veginum frá þeim stað, þar sem hann mætir heimreið neðan túngirðingar Skaftafells. [/] Frá þessum fasta punkti eru norðurmörk fyrir landi Ragnars og Jóns Stefánssona bein sjónhending að hlíðarrótum Hafrafells á mótum fjalls og sandsins og sama sjónhending, þar til línan sker landamerki Skaftafells og Svínafells. [/] Frá hinum fasta punkti B á uppdrættinum, sem áður er nefndur ofan þjóðvegarins, liggja mörkin beina sjónhending til suð-vesturs að punkti C, þar sem hin beina lína sker landamerki Skaftafells og Núpsstaðar milli Sigurðarfitjarála og Sandgígjukvíslar. Að öðru leyti takmarkast land þeirra að vestan af þinglýstum landamerkjum Núpsstaðar og Skaftafells, sunnan hins síðastnefnda skurðpunktar. Að sunnan af sjó, að austan af þinglýstum mörkum Svínafells og Skaftafells að fyrrnefndum skurðpunkti A austur af suðurenda Hafrafells.

 

             Þá er í úrskurði óbyggðanefndar greint frá því að árið 1978 hafi þeir bræður, Jón og Ragnar Stefánssynir, selt Náttúruverndarráði land­spildu úr eignarlandi sínu í Skaftafelli í grennd við þjónustumiðstöð Náttúruverndar­ráðs. Einnig er þar greint frá stofnun þjóðgarðsins í Skaftafelli 15. september 1967 og mörkum hans, eins og þau eru tilgreind í 4. gr. reglugerðar nr. 319/1984. Í úrskurðinum er ítarleg grein gerð fyrir ágreiningi um landamerki Núpsstaðar og Skaftafells og sýslumörk Vestur- og Austur- Skaftafellssýslu. Eins og áður greinir ákvað óbyggðanefnd að undanskilja ágrein­ingssvæðið í úrskurði sínum og hefur þessi ágreiningur því ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins.  Er því ekki ástæða til að rekja frekar umfjöllun óbyggðanefndar um þessi atriði.

             Óbyggðanefnd telur í úrskurði sínum að heimildir bendi ekki til annars en að búseta hafi verið nokkuð samfelld í Skafta­felli frá því að jarðarinnar er fyrst getið í heimildum. Í afsals- og veðmála­bókum komi fram að eftir gerð landamerkjabréfsins og þar til hluti jarðarinnar var seldur Náttúruverndarráði ríkisins hafi hún verið framseld með hefðbundnum hætti og  veðsett.

Niðurstaða óbyggðanefndar um Skaftafell

             Í niðurstöðum sínum telur óbyggðanefnd að af heimildum verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða. Jafnframt séu fremur líkur til þess að umrætt landsvæði sé, a.m.k. að langstærstum hluta, innan upphaflegs landnáms í Austur-Skaftafells­sýslu og að numið hafi verið frá sjávarmáli að þáverandi jökulbrún, að minnsta kosti. Að því leyti sem sérstakur vafi kunni að leika á um landnámslýsingar vestast á Skeiðarár­sandi vísar nefndin til almennrar niðurstöðu sinnar um heimildar­gildi Landnámu sem áður er lýst.

             Að fenginni þessari almennu niðurstöðu tekur óbyggðanefnd til nánari skoðunar landamerki Skaftafell, eins og þeim er lýst hér að framan. Telur nefndin að óljóst orðalag landamerkjabréfsins þarfnist frekari athugunar og tekur fyrst til umfjöllunar afmörkun jarðarinnar gagnvart Vatnajökli. Óbyggðanefnd telur að staðsetning landamerkja­punkts skammt undan jökulsporðinum að austanverðu í landamerkjabréfinu 1890 (sbr. „milli Skaptafells og Svínafells eru landamerki á Freysnesi úr stórum steini framan undir jöklinum og í stein ofan við veginn og þaðan í vörðu fram í Nesinu“) bendi til þess að eigendur jarðar­innar hafi litið svo á að merki hennar næðu allt að Svínafellsjökli, enda náði hann þá nokkru sunnar á þeim tíma en nú. Hvað varðar vesturmerkin telur óbyggðanefnd að orðalag í landamerkjalýsingum Skaftafells og Núpsstaðar bendi fremur til þess að þar sé tekin stefna af Súlnatindum og merki Skaftafells nái þar einnig að jökulrönd, fremur en að þau liggi yfir jökulinn og að Súlnatindum. Þessu til stuðnings er jafnframt vísað til þess að mörkum gagnvart jökli sé ekki lýst að öðru leyti. Telur nefndin að jökullinn hafi afmarkað það land sem máli skipti með svo augljósum hætti að ekki var talið þurfa umfjöllunar við. Þá lítur nefndin einnig til ákvæðis landamerkjabréfsins um land „milli fjalls og fjöru“ og telur að það beri að skilja þannig að fjalllendið sé innan merkja jarðarinnar, alla leið að jökulrönd. Er í þessu sambandi einnig vísað til almennra niðurstaðna nefndarinnar um almenn mörk landnáms sem áður greinir.

             Nefndin fjallar sérstaklega um kröfu eigenda Skaftafells II um að merki jarðarinnar og beinn eignarréttur nái til hluta Svínafells­jökuls og telur þá kröfu ekki fá samræmst lýsingu landamerkjabréfs. Með hliðsjón af því að þessi þáttur í úrskurði óbyggðanefndar er utan sakarefnis málsins er ekki ástæða til að rekja frekar umfjöllun óbyggðanefndar að þessu leyti.

             Óbyggðanefnd fjallar um merki Skaftafells til suðurs og vekur athygli á því að lýsingar á mörkum Skaftafells og Svínafells endi í punkti skammt suð­vestan við Svínafellsjökul og langt norðan við sjávar­mál. Miði kröfugerðir jarðanna við að framlengja landamerki þeirra alla leið til sjávar með beinni línu sem dregin sé milli síðustu tveggja punkta undir Svínafellsjökli. Með hliðsjón af staðháttum telur nefndin að umfjöllun um merki jarðanna á aurum Skeiðarár hafi þótt tilgangslítil, þar sem farvegir voru breytilegir og óljósir, auk þess sem lítil not voru af landinu sem vatnið flæmdist um.

             Niðurstaða óbyggðanefndar um landamerki Skaftafells er svohljóðandi:

Í kjölfar þess að landamerkjalög taka gildi 1882 er gert landamerkjabréf fyrir jörðina Skaftafell. Lýsing landamerkja er þar um margt óljós en fyrirliggjandi gögn um merki jarða á þessu svæði styðja þó það sem þar kemur fram. Óbyggðanefnd telur jafnframt að líta verði til þess að land á þessu svæði er afmarkað af jöklum hið efra og sjó hið neðra. [/] Landamerkjabréf jarðarinnar er áritað, þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki jarðarinnar, án þess að séð verði að komið hafi fram athuga­semdir yfirvalda. Landamerkjabréf Núpsstaða og Svínafells eru á sama hátt árituð og þing­lesin. Eigendur Skaftafells og Núpsstaðar eru einnig sammála um að miða skuli við lýsingar bréfanna en ósammála um túlkun þeirra. Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Jafnframt er ljóst að eigendur Skaftafells hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.

 

             Óbyggðanefnd fjallar einnig um hvernig beri að afmarka þjóðlendumörk þar sem eignarland nær að jökli. Nefndin vísar til þess að jöklar hafi gengið fram síðan um landnám, en frá því að merkjum var lýst árið 1890 hafi þeir gengið til baka. Meðal annars sé Hafrafell, sem var umlukið jöklum í þrjár aldir, ekki lengur hulið jökli. Engin leið sé að ákveða með nokkurri vissu hvaða land­svæði hafi horfið undir jökul frá landnámi. Telur nefndin rétt að miða mörk Skaftafellsjarðarinnar við stöðu jökul­jaðarsins eins og hann var við gildistöku þjóðlendu­laga 1. júlí 1998 í samræmi við almennar niðurstöður sínar. Samkvæmt þessu telur nefndin Hafrafell vera innan merkja Skaftafells. Því næst tekur nefndin til skoðunar hvort land innan framangreindra merkja jarðarinnar Skaftafells hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu.

Að því er varðar fjöru innan marka Skaftafells er vísað til þess almenna skiln­ings jarðeigenda í Öræfum að í fjörueign fyrir landi annarrar jarðar (þ.e. þegar fjara tiltekinnar jarðar liggur með fram landi annarrar) felist einungis óbeinn eignarréttur, þ.e.a.s. ítaksréttur, svo sem til reka og selveiði. Telur óbyggðanefnd að samkvæmt þessu séu engar vísbendingar um svokallaða almenningsfjöru fyrir landi Skaftafells.

Að því er varðar norðurhluta svæðisins, er sem fyrr vísað í fyrri umfjöllun nefndarinnar, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, um gróðurlendi, staðhætti og sögu jarðarinnar, meðal annars að því er varðar bæina að Jökulfelli og Freysnesi og upprekstur á svæðið. Að því er varðar jarðirnar Jökulfell og Freysnes telur nefndin að gögn málsins bendi til þess eignarréttur að landi jarðanna hafi ekki fallið niður heldur hafi þær verið sameinaðar Skaftafelli. Styður nefndin það einkum við það að allar jarðirnar þrjár hafi verið konungsjarðir og Jökulfell og Freysnes verið leigðar til Skaftafells. Niðurstaða óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu lands innan Skaftafellsjarðarinnar er eftirfarandi:

Ekki eru heimildir um annað en að jörðin Skaftafell hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma, þar til stofnaður var þar þjóð­garður að hluta, árið 1967, í kjölfar samninga íslenska ríkisins og eigenda Skaftafells. Innan þeirra marka sem tilgreind eru í landamerkjabréfi 1890, svo sem þeim er nánar lýst hér framar, og að því marki sem land hefur komið undan jökli síðan hafa eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Fjalllendið upp við jökul og Skeiðarársandur hafa ekki verið þar undanskilin, enda þótt nýting þar hafi verið takmörkuð. Ekkert bendir til þess að aðrir en Skaftfellingar, eða þeir sem leitt hafa leitt ítaks- eða leigurétt frá Skafta­felli, Jökulfelli eða Freysnesi, hafi nýtt land innan framangreindra merkja. [/] Þá telur óbyggða­nefnd telur að tilvist ítaka í fjalllendinu styrki beinan eignar­rétt þar, sbr. umfjöllun um ítök í almennum niðurstöðum óbyggða­nefndar. [/] Ekki verður annað séð en að þetta eignar­hald hafi verið án ágreinings eða athugasemda, að undanskilinni deilu um landamerki gagnvart Núpsstað. Land innan marka Skaftafells verður ekki talið hafa mismunandi eignarréttarlega stöðu og staðhættir, gróðurfar eða nýtingar­möguleikar hafa ekki úrslitaáhrif í því sambandi. Þá verður fyrirkomulag smölunar ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu. [/] Af hálfu íslenska ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landa­merkja jarðarinnar Skaftafells sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða, sbr. einnig umfjöllun í kafla 9.6., án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.

 

             Samkvæmt þessu var niðurstaða óbyggðanefndar sú að land jarðarinnar Skaftafells innan landamerkja, svo sem þau hafa verið skýrð, teljist ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998.  Eins og áður segir var þá miðað við að landamerki jarðarinnar til jökuls miðuðust við jökuljaðarinn eins og hann var við gildistöku laganna 1. júlí 1998. Líkt og fyrr greinir tók nefndin ekki afstöðu til þess land­svæðis á Skeiðarársandi sem gerð hafði verið krafa til bæði af hálfu eigenda Núps­staðar og Skaftafells.  Þá var hafnað kröfu eigenda Skaftafells II um að tiltekið svæði fremst á Svínafellsjökli yrði viðurkennt sem eignarland, eins og áður segir.

Umfjöllun óbyggðanefndar um Fjall

             Í úrskurði óbyggðanefndar er eyðijörðinni Fjalli og aðliggjandi svæði lýst með svofelldum hætti

Að Fjalli liggja Kvísker að suðvestan og Breiðármörk að norðaustan. Suð­austan við Fjall er hafið og að vestan- og norðanverðu eru Öræfajökull, Fjalls­jökull og Breiðamerkurjökull. Á milli tveggja síðastnefndu jöklanna er Breiðamerkur­fjall og við jökuljaðrana eru annars vegar Breiðárlón og hins vegar Fjallsárlón. Breiðamerkurfjalli er skipt í Framfjall og Múla, með Jökuldal fyrir miðju. Á Fram­fjalli eru m.a. Miðaftanstindur (618 m) og Eyðna­tindur (788 m), en í Múlanum eru m.a. Múlaegg (928 m) og Breiðamerkur­múli (734 m). Neðan við Breiðamerkur­fjall er flatt undirlendi, Breiðamerkursandur. Minnsta fjarlægð frá sjó til jökulrandar er um 8 km en mesta fjarlægð 13 km.

 

             Í úrskurðinum segir að líkur séu á að við landnám hafi Öræfajökull og skriðjöklar hans, sérstaklega Breiðamerkur­jökull, legið norðar en nú er, en talið sé að skömmu eftir 1700 hafi Breiðamerkur­jökull og Fjallsjökull náð saman við Breiðamerkurfjall og fjallið því orðið umlukið jökli. Á tímabilinu 1890-1900 hafi Breiðamerkurjökull legið sunnar en nokkru sinni fyrr eftir að ísöld lauk. Breiðamerkur­jökull og Fjallsjökull muni ekki hafa skilist að fyrr en 1946. Ástæða sé þannig til að ætla að land á núverandi Breiðármerkursandi hafi horfið undir Breiðamerkurjökul, uns ekkert var eftir annað en Breiðamerkurfjall og mjó landræma á sandinum. 

             Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að Fjall hafi verið landnámsbær Þórðar Illuga Eyvindar­sonar sem áður segir frá. Samkvæmt máldaga bændakirkjunnar að Hofi 1387 hafi jörðin þá verið orðin eign kirkjunnar. Í Jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 sé þessi klausa um jörðina Fjall:

Fjall. Hofskirkjueign. Eyðijörð. Liggur í norðaustur[1] af Breiðármörk. Hefur fyrir 14 árum sést til túns og tófta, en er nú allt komið í jökul. Öll eign jarðar er sagt lagst hafi til Hofskirkju í Öræfum, af hvörri eign nú er ei eftir nema eitt fjall umgirt af jöklum, þó lítt brúkandi til lambagöngu á sumar. Item Fjallsfit og Fjallsfjara.

 

             Í úrskurði óbyggðanefndar segir að eftir að jörðin Fjall hafi að stórum hluta verið komin undir jökul hafi mörkin milli hennar og Breiðármerkur orðið óljós. Þannig sé Hofi eignað Fjall og Fjallsfit í „Breiðármerkurlandi“  og einnig hafi Hof átt reka­fjöru „fyrir Breiðármerkurlandi, kölluð Fjallsfjara“ samkvæmt jarðabókinni 1709. Af jarðamati 1804-1805 megi ráða að jörðin Fjall hafi verið nýtt, þótt hún væri komin í eyði. Sumarbeit á jörðinni Fjalli hafi verið metin á 5 álnir (4-5% úr kýrverði).

             Í úrskurðinum segir frá ágreiningi sóknarprestsins í Sandfelli og ábúenda Hofs um beit í Fjallslandi. Telur nefndin að þessi ágreiningur kunni að hafa stafað af því að presturinn í Sand­felli hafði þá fengið kóngspartinn í Hofi til afnota. Þá er vísað til þess að í jarðatali Johnsen 1847 sé jörðin Fjall ekki nefnd að öðru leyti en því að vísað sé til þess sem segi um eyðijörðina í jarðamatinu 1804-1805. Hoffellsmenn hafi ítrekað rétt sinn til Fjalls og annarra eigna og hlunninda með lögfestu sem undirrituð var að Hofi 7. apríl 1851 og upplesin fyrir manntalsþingi 7. maí sama ár, en þar segi m.a.:

Enn fremur lögfestum við eptirskrifuð ítök sem Hofsjörðu eiga að fílgja; first einn fjórðapart af grasnít í Ingólfshöfða; annað, eiðijörðin Fjall, sem liggur á Breiðamerkursandi austann Kvískerja land, lögfestum við nefnda jörð með öllum nitjum til fjalls og fjöru, er fjarann talinn 9 [hundruð] firir Fjallsfít, og loksins lögfestum við hálfa eiðijörðina Breiðumörk með tilheirandi fjöru veiðistöðum og öllum landsnitjum, liggur jörð þessi firir austann Fjallsland, austur að Fellslandi í Suðursveit, vestann Jökulsá á Breiðamerkursandi þar sem hún nú fellur úr Jökli.

 

             Í umfjöllun nefndarinnar um Breiðármörk, sem rakin er hér á eftir, segir frá ágreiningi eigenda Fells og eigenda Hofs um eignarrétt að Breiðármörk í framhaldi af þessari lögfestu, en sú deila var leidd til lykta með samkomulagi árið 1854 og varðar ekki jörðina Fjall. Í umfjöllun nefndarinnar um jörðina Hof er rakið landamerkjabréf jarðarinnar 15. júlí 1922 og þinglesið sama dag, en þar segir um jörðina Fjall:

Hof í Hofshreppi á lönd og eignir sem hjer segir: [...] Enn fremur á jörðin Breiðamerkurfjall alt og land á Breiðamerkursandi, að vestan eru mörkin sem hjer segir: Toppurinn á Miðaftanstindi á Breiðamerkurfjalli sem beri í skarðið á Eiðnatindi í sama fjalli. [...] 3. Fjallsfjara milli þessara marka: Að vestan: Toppurinn á Miðaftanstindi á Breiðamerkurfjalli skal bera í skarð í Eiðnatindi á nefndu fjalli. Að austan: Hærri þúfan á Máfabygðum skal bera austan í Múlahöfuðið sem er fremst austan á Breiðamerkurfjalli og landamörk þau sömu.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að bréfið hafi verið samþykkt að því er snerti eystri mörk milli Fjallslands og Breiðamerkur­lands.

Niðurstaða óbyggðanefndar um Fjall

             Í niðurstöðum óbyggðanefndar segir að af heimildum verði ráðið að í upphafi hafi Fjall verið sjálfstæð jörð og jafnframt séu líkur til þess að umrætt landssvæði sé innan upphaflegs landnáms í Austur-Skaftafellssýslu og að numið hafi verið frá sjávarmáli að þáverandi jökulbrún, að minnsta kosti. Er í þessu sambandi vísað til almennra niðurstaðna nefndarinnar. Nefndin telur að þótt elstu heimildir um Fjall lýsi ekki merkjum jarðarinnar megi þó af þeim ráða að jörðin liggi á milli Kvískerja og Breiðármerkur og að þar megi finna Fjallsfit og Breiðármerkur­fjall. Eftir að Fjall og Breiðármörk hafi farið í eyði virðist það sem eftir stóð hafa verið nytjað annars staðar frá en mörk jarðanna orðið óljós ekki síðar en á 17. öld. Þannig séu Fjall og Fjallsfit sögð vera upp af Breiðamerkurfjöru í vísitasíum Brynjólfs Sveins­sonar og Jóns Vídalín 1641 og 1706. Í Jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 séu Fjall og Fjallsfit sögð í Breiðamerkurlandi en fjara fyrir landinu nefnd Fjallsfjara. Sökum framskriðs jökuls og ágangs vatna hafi lítið verið orðið eftir af þessum jörðum og helst að not mætti hafa af fjörunni, auk beitar.

             Næstu vísbendingu um merki Fjalls telur nefndin að ráða megi af lögfestum Hofs- og Fells­manna 1851 og samningi sömu aðila 1854 sem áður greinir. Í samningnum árið 1854 sé miðað við að mörk Fjallsfjöru og Breiðamerkur­fjöru séu beina stefnu úr fjörunni og í Svörtu­rák á jöklinum, upp undan Breiðá og undan hvorri hún rennur. Á þessu svæði séu aurrákir í jöklinum og megi telja líklegt að Svartarák sé ein þeirra. Í samningnum segi að eigendur og ábúendur Hofs „njóti alls“ vestan megin við Breiðá og framangreindrar stefnulínu, „Fjalls og fjöru á milli“ og svo langt vestur sem þeir „treysti sér land að helga“. Ekki kemur fram hvaða hluti landsins vestan Breiðár sé talinn tilheyrandi Breiðármörk og hvað Fjalli. Af samningnum sé hins vegar ljóst að Fjallsfjara sé talin ná alla leið að Breiðá og því fyrir landi Breiðármerkur en óljóst hversu langt til vesturs. Nefndin vekur athygli á því að Breiðá rann 6-7 km vestan við Jökulsá, áður en hún braut sér leið í Fjallsá 1954 og færðist þannig vestar, eins og nú er. Óbyggðanefnd vísar til landamerkjalýsingar Hofs 15. júlí 1922, þar sem fram komi að Hof eigi „Breiðamerkurfjall alt og land á Breiða­merkur­sandi“ án þess þó að jörðin Fjall sé þar nefnd á nafn. Bréf Hofs hafi verið áritað af Ara Hálfdánarsyni, hreppsstjóra í Hofshreppi, vegna merkja „Fjalls­lands og Breiðármerkurlands“, en ekki komi fram í hvaða umboði hann áriti bréfið. Hins vegar sé bréfið áritað af eigendum Kvískerja vegna fjöru- og landamerkja Kvískerja og Fjallslands. Í „landamerkjaskrá milli Fells í Borgar­hafnar­hreppi og Breiðumerkur í Hofshreppi“ 13. maí 1922 sé engin lýsing á mörkum Breiðármerkur við Fjall. Bréfið sé þó áritað af framan­greindum Ara Hálfdánar­syni sem hreppstjóra Hofs­hrepps.

             Óbyggðanefnd vísar til framangreinds landamerkjabréfs Hofs svo og landamerkjabréfs Kvískerja 28. apríl 1890 um að vesturmörk Fjalls séu þar sem toppurinn á Miðaftanstindi á Breiðamerkur­fjalli beri í skarðið á Eiðnatindi í sama fjalli. Eldri lýsingar á vesturmerkjum Fjalls sé ekki að finna.

             Þá fjallar óbyggðanefnd um fjörumörk á milli Fjallsfjöru og Breiðar­merkufjöru sem hafi verið við Breiðá 1984. Fjallsfjara hafi því verið fyrir landi Breiðármerkur, en óljóst hversu langt til vesturs. Fjörumörk á þessu svæði hafi orðið deiluefni milli eigenda Hofs og Eyjólfs Runólfs­sonar, eiganda Fells og Skálholtsrekans á Breiðamerkurfjöru að meira eða minna leyti, á árunum 1915-1916. Nefndin bendir þó á í þessu sambandi að í Öræfum séu þess ýmis dæmi að fjörumörk fari ekki saman við lýsingu landamerkja. Árið 1922 hafi verið gerð breyting á fjörumörkum og nú sé Fjallsfjara fyrir landi Fjalls og Breiðármerkurfjara fyrir landi Breiðármerkur, í stað þess að vera fyrir landi Fells áður. Landamerkjum Fjalls hafi ekki verið lýst fyrr en 1922 og þá lögð að jöfnu við fjörumörk.

             Óbyggðanefnd telur í úrskurði sínum að merki Fjalls gagnvart Vatnajökli þarfnist sérstakrar athugunar. Telur nefndin að af landamerkjabréfi Hofs (að því er varðar Fjall) megi ráða að tekin sé stefna af Miðaftanstindi og Múlahöfði og nái landmerki Fjalls að jökulrönd, fremur en að þau liggi yfir Fjallsjökul og Breiðamerkur­jökul. Þessu til stuðnings er jafnframt vísað til þess að mörkum gagnvart jökli sé ekki lýst að öðru leyti. Jökullinn hafi afmarkað það land sem máli skipti með svo augljósum hætti að ekki hafi verið talið þurfa umfjöllunar við. Telur nefndin því að krafa eigenda Hofs um að beinn eignarréttur nái inn á Vatna­jökul verði ekki talin geta stuðst við lýsingu í landamerkjabréfi.

             Um landamerki Fjalls kemst óbyggðanefnd að svofelldri niðurstöðu:

Í kjölfar þess að ný landamerkjalög taka gildi 1919 er gert landamerkjabréf fyrir jörðina Hof og um leið Fjallsland. Eldri heimildir um merki jarðarinnar Fjalls eru bæði litlar og óljósar en mæla þó ekki gegn lýsingu landamerkjabréfsins. Óbyggðanefnd telur jafnframt að líta verði til þess að land á þessu svæði er afmarkað af jöklum hið efra og sjó hið neðra. [/] Landamerkjabréf Hofs (Fjalls) er áritað af hreppstjóra Hofshrepps vegna merkja „Fjalls­lands og Breiðármerkur­lands“, án þess þó að það embætti sé tilgreint, og fyrirsvarsmenn Kvískerja árita bréf Hofs um samþykki sitt að því er varðar „fjöru og landamörk milli Tvískerja og Fjalls­lands“. Landamerkjabréf Kvískerja er áritað af hálfu fyrirsvarsmanna Hofs „að því er snertir fjörumörk milli Tvískerjafjöru og Fjalls­fjöru...“. Fyrrnefnda bréfið er frá 1922 en hið síðarnefnda frá 1890. Landamerkjabréf Hofs (Fjalls) er þing­lesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki Fjallslands, án þess að séð verði að fram hafi komið athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna. Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Jafnframt er ljóst að eigendur Hofs vegna Fjalls hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst. Af framan­greindum landamerkjabréfum Breiðármerkur (og Fells), Hofs (Fjalls) og Kvískerja verður ekki séð að árið 1922 hafi nokkur komið fram sem eigandi Fjalls eða handhafi réttinda á því svæði, gagnvart hreppi eða þinglýsingar­yfirvöldum.

 

             Því næst tekur nefndin til skoðunar hvort land innan framangreindra merkja hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu. Nefndin vísar til fyrri umfjöllunar sinnar um gróðurfar, staðhætti og sögu jarðanna. Telur nefndin að leggja verði til grundvallar að jörðin hafi komist í eigu Hofskirkju einhvern tímann fyrir 1387 og síðari umfjöllun um réttindi Hofs til Fjalls bendi einnig til þess að Hofsmenn hafi þar átt meira en einungis takmörkuð eignarréttindi, þ.e. beit og reka. Þá sé eðlilegt að túlka orðalag lögfestu Hofs­manna 1851, samning Hofs- og Fellsmanna 1854 og landamerkjabréf Hofs 1922 þannig að gert sé ráð fyrir eignarrétti Hofsmanna að eyðijörðinni Fjalli með öllu til­heyrandi, í samræmi við máldagann frá 1387. Sama máli gegni um Jarðatal Johnsen 1847. Umfjöllun í máldaga Gísla Jónssonar 1570 og gerðabók fasteignamats­nefndar 1849 og 1916 beri að skoða með hliðsjón af framangreindum heimildum og í ljósi þess að jörðin hafi ekki verið orðin nýtileg til annars en beitar og reka.

             Samkvæmt þessu telur óbyggðanefnd að jörðin Fjall hafi verið nýtt eftir búskapar­háttum og aðstæðum á hverjum tíma, fyrir og eftir að byggð lagðist þar af. Þá segir í úrskurði nefndarinnar:

Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1922, svo sem þeim er nánar lýst hér framar, og að því marki sem land hefur komið undan jökli síðan hafa eigendur Hofs farið með umráð og hagnýtingu Fjallslands á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Ekki verður annað séð en að það eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda. Engar heimildir eru um að land innan marka Fjalls hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingar­möguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. Þá verður fyrirkomulag smölunar ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.

 

             Að því er varðar mörk jarðarinnar að jökli vísar óbyggðanefnd til þess að sá jökuljaðar sem eigendur eyðijarðar­innar Fjalls gætu hafa horft til þegar þeir lýstu merkjum í jökul 1922 hafi gengið til baka, en jafnframt sé ljóst að land sem nú sé hulið jökli hafi verið jökullaust við landnám. Í samræmi við almennar niðurstöður sínar telur óbyggðanefnd því rétt að miða mörk jarðarinnar með tilliti til þjóðlendulínu við stöðu jökul­jaðarsins við gildistöku laga nr. 58/1998 1. júlí 1998. Þá segir í úrskurði óbyggðanefndar:

Af hálfu íslenska ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landa­merkja eyðijarðarinnar Fjalls sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða [...] án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.

 

             Í úrskurði óbyggðanefndar er þessu næst nánar vikið að kröfu eigenda Hofs um viðurkenningu á eignarrétti á tilteknu svæði innan jaðra Fjallsjökuls og Breiðamerkurjökuls og er komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að umrætt svæði sé eignarland. Þessi þáttur í úrskurði óbyggðanefndar fellur utan sakarefnis málsins og verður hann því ekki rakinn frekar.

             Samkvæmt framangreindu var það niðurstaða óbyggðanefndar að land eyðijarðarinnar Fjalls, svo sem það var nánar afmarkað með áðurgreindum landamerkjum, að jökuljaðri, eins og hann var við gildistöku þjóðlendu­laga 1. júlí 1998, teldist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998.

Umfjöllun óbyggðanefndar um Breiðármörk

             Í úrskurði óbyggðanefndar er eyðijörðinni Breiðármörk og aðliggjandi svæði lýst með svofelldum hætti:

Að Breiðármörk liggja jarðirnar Fjall í Öræfum að suðvestan og Fell í Suður­sveit að norðaustan. Breiðamerkurjökull rís að norðvestan, Breiðárlón liggur við jökul­sporðinn og Breiðamerkursandur nær niður að sjávarmáli. Á neðanverðum sandinum er nokkur gróður, m.a. graslendið Nýgræður, en efri hluti sandsins er ógróinn.

 

             Í úrskurðinum segir að líkur séu á að við landnám hafi Öræfajökull og skriðjöklar hans, sérstaklega Breiðamerkur­jökull, legið norðar en nú er, en talið sé að skömmu eftir 1700 hafi Breiðamerkur­jökull og Fjallsjökull náð saman við Breiðamerkurfjall og fjallið því orðið umlukið jökli. Á tímabilinu 1890-1900 hafi Breiðamerkurjökull legið sunnar en nokkru sinni fyrr eftir að ísöld lauk. Breiðamerkur­jökull og Fjallsjökull muni ekki hafa skilist að fyrr en 1946. Ástæða sé þannig til að ætla að land á núverandi Breiðármerkursandi hafi horfið undir Breiðamerkurjökul, uns ekkert var eftir annað en Breiðamerkurfjall og mjó landræma á sandinum.  Minnsta fjarlægð frá sjó til núverandi jökulrandar sé um 2 km.

             Í úrskurði óbyggðanefndar segir að hugsanlega hafi Breiðá, síðar Breiðármörk, verið landnámsjörð Þórðar illuga Eyvindar­sonar fremur en Fell, en um það verði ekkert fullyrt. Þá er vísað til máldaga kirkjunnar að Breiðármörk (Breiðamörk) sem, með nokkurri óvissu, sé talinn vera frá árinu 1343, en þar segir meðal annars að Maríukirkja að Breiðá eigi heimaland allt með fjörum og skógum þeim þar hafi að fornu fylgt og þeim sömu mörkum sem að fornu hafi verið. Kirkjan hafi átt heimaland allt og þannig verið staður undir forræði biskups. Þessar eignir kirkjunnar séu ítrekaðar í máldaga sem kenndur sé við Michael Skálholtsbiskup (1383-1391). Seint á 14. öld, sennilega eftir gosið úr Öræfajökli 1362, hafi kirkjan að Breiðá verið lögð niður og eignir hennar lagðar til annarra kirkna. Eftir þetta virðist Skálholtsbiskup hafa talið sér heimilt að ráðstafa Breiðá eða Breiðármörk eins og um eignarjörð væri að ræða. Breiðármörk hafi verið ein þeirra jarða sem Ögmundur biskup Pálsson seldi Ásgrími Ásgrímssyni 1525, en þar er reki undanskilinn sölu (sbr. „Svo og eigi síður höfum vér fengið Ásgrími jörðina Kvísker með öllu því henni tilheyrir, hér með jörðina Breiðármörk með sex álna trjám og þar fyrir innan. Enn stærri höpp, tré hvali eignast Skálholtskirkja sem áður hefur verið“). Í úrskurðinum er rakinn ágreiningur um reka á Breiðamerkurfjöru síðar á öldinni sem lyktaði með því að Skálholtskirkja átti allan stærri viðarreka en sex álnir og að allur minni reki heyrði til eiganda Breiðármerkur, einnig eftir að sú jörð fór í eyði. Þá kemur fram að árið 1670 hafi Brynjólfur biskup Sveinsson keypt af Bjarna Eiríkssyni lögréttu­manni hálft annað hundrað í jörðinni Breiðármörk sem hafi verið fjórðungur allrar jarðarinnar, en með þessum fjórðungi hafi meðal annars fylgt hlutur í þeim rekarétti sem seldur hafði verið Ásgrími Ásgrímssyni 1525.

             Í úrskurði óbyggðanefndar er rakið að eftir 1697 hafi jörðin farið í eyði. Í skrá Ísleifs Einarssonar sýslumanns frá 1712 yfir eyðijarðir í Öræfum sé greint frá því að á Breiðármörk hafi verið búið fyrir 14 árum en nú sé hún af „fyrir jökli, vatni og grjóti“. Þá segir að í jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 sé tekið fram að Breiðár­mörk sé kóngseign að hálfu en hálf bóndaeign. Í jarðabókinni sé einnig tilgreint að jörðinni tilheyri lítilfjörlegur skógur í Breiðármerkurmúla, sem sé umkringdur af jöklum, og reka eigi jörðin fyrir sínu landi. Er í úrskurði óbyggðanefndar sagt að jörðin hafi komist í hálfa konungseigu með dómi Lögréttu 1646 sem fól í sér að ýmsar eignir Ásgríms Sigurðssonar voru gerðar upptækar, þar á meðal helmingur umræddrar jarðar.

             Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að á Breiðármörk sé minnst í jarða­matinu 1804-1805 og sé jörðin þá sem fyrr talin að hálfu í eigu konungs en hinn hlutinn eign Gísla Halldórssonar. Í úrskurðinum kemur fram að jörðin muni hafa verið seld ásamt öðrum konungseignum árið 1836, en ekki liggi fyrir hver hafi keypt konungshluta jarðarinnar. Síðar á öldinni hafi jörðin og fjaran orðið deiluefni milli Hofsmanna og Fells­manna í Suðursveit. Hofsmenn hafi reynt að tryggja sér eignarréttinn að jörðinni með lögfestu 7. apríl 1851, en þar segi m.a.:

Enn fremur lögfestum við eptirskrifuð ítök sem Hofsjörðu eiga að fílgja; first einn fjórðapart af grasnít í Ingólfshöfða; annað, eiðijörðin Fjall, sem liggur á Breiðamerkursandi austann Kvískerja land, lögfestum við nefnda jörð með öllum nitjum til fjalls og fjöru, er fjarann talinn 9c [hundruð] firir Fjallsfít, og loksins lögfestum við hálfa eiðijörðina Breiðumörk með tilheirandi fjöru veiðistöðum og öllum landsnitjum, liggur jörð þessi firir austann Fjallsland, austur að Fellslandi í Suðursveit, vestann Jökulsá á Breiðamerkursandi þar sem hún nú fellur úr Jökli.

 

             Í úrskurðinum segir að þegar lögfestan var þinglesin mánuði síðar hafi enginn mælt henni í mót, en 24. júlí hafi eigendur Fells svarað með nýrri lögfestu:

Ar 1851 hinn 24a júlí var eptirfylgjandi lögfesta samin af eigendum jarðarinnar Fells í eystri Skaptafells syslu séra Þorsteini Einarssyni á Kálfafellsstað og Gísla bónda Þorsteinssyni á Uppsölum. [/] Hérmeð gjörum vér heyrum kunnugt eignar og umráðamenn jarðarinnar Fells í Fellshverfi Kálfafellsstaðarsókn og austur Skaptafells sýslu að vér lögfestum nú í dag undir nefnda eig‹n›ar jörð vora allt innan þeirra um merkja og örnefna til lands og sjóar sem neðanskrifað tilgreinir: að austanverðu eða millum Fells og Reynivalla sjónhending af fjörunni í miðt Hrollaugshólaskarð og miðjan þann fremsta foss í Fellsá, sem ber þar í og blasir á móti nær ámynnst stefna er tekin af fjörunni, síðan ræður það austari gljúfur upp frá nefndum fossi og deilir löndum allt í jökul upp. Að ofanverðu takmarkar Breiðamerkur jökull land jarðarinnar allt að Breiðamerkur á og skiptir hún löndum milli Fellsins og Öræfa einsog hún beinast rennur og hefur runnið undan jökli og til marka á milli Breiðamerkur og Fjallsfjöru. Að framan takmarkar meiginhaf land jarðarinnar frá Reynivalla lands og fjöru mörkum allt til marka á millum Breiðamerkur og Fjallsfjöru og er öll sú fjara er liggur á milli nefndra landamerkja einasta Fellinu tilheyrandi að fráteknri Breiðamerkur fjöru, hvor tekin er sem ítak af öðrum enda fjöru jarðarinnar Fells og liggur fyrir hennar heimalandi. Sömuleiðis lögfestum vér Hrollaugseyar, sem liggja í hafi út fyrir jarðarinnar landi með þeirri fyrirskipun, sem vor hin fyrri lögfesta þar um með sér ber (og sem afskrifuð finnst í kopíu bók sýslunnar), líka eirnin lögfestum vér þau ítök sem liggja undir þessa jörð, skóga ítak í Steina landi, kallað Fellsmýri fremri, annað skógarítak í Breiðabólstaðar fjalli, fyrir 5 hundruð í Breiðabólstaðnum, gjöf sýslumanns herra Ísleifs Einarssonar og hið þriðja skógar ítak í sama fjalli, kallað Fellsmýri ynnri. [/] Með þessari lögfestu fyrirbjóðum vér einum og sérhvörjum að hagnota sér hið minnsta af nefndrar jarðar ínytjum hvörjum sem eru innan hér tilgreindra ummerkja lands eignar hennar og að taka án okkar leyfis og samþykkis, en gefum á skaðabætur og landnáms sök, ef í er ort að óleyfi, þettað hvað um sig að orðfullu og lögfullu. [/] Eirnin viljum vér með þessari lögfestu ónýta og hindra (að okkar vitund) grundvallarlausa lögfestu Hofs ábúenda í Öræfum auglýstri þar á manntalsþingi næst liðið vor, þar hún tekur inní okkar eignarjarðar Fellsins landareignir og tileinkar sér ekki alllítin part þaraf, sem enginn nú lifandi maður veit að í umtal fyrr komið hafi eða aðrir yrkt og brúkað enn Fellseigendur og ábúendur eptir sem þessi lögfesta vor tiltekur. Vér bjóðum okkur þá til andsvara móti nefndra bænda ábeitar frekju í landareign vorri á lögmætri tíð stað og réttarhaldi. Þessa lögfesta er grunduð á öldungis óátalinni brúkun og yrkíngu Fellsins eigenda og ábúenda svo lengi elstu menn til muna og heyrt hafa. Ofan og framanskrifaða lögfestu staðfestum við undirskrifaðir.

                        

             Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að með þessari lögfestu hafi eigendur Fells talið að a.m.k. hálf Breiðármerkurfjara lægi innan landamerkja Fells og hafi því hlotið að koma til ágreinings við Hofsmenn sem vildu draga mörkin austar við Jökulsá. Þá kemur fram í úrskurðinum að árið 1854 hafi eigendur jarðanna komist að svofelldu samkomulagi:

[A]d öll grasnit initjar og virkilegur eignarréttur Skal hereptir einasta til heira Felli i Sudursveit, allt ad austur mörkum Fjallsfjöru, sem eru á millum Breidumerkurfjöru og Fjallsfjöru, og Skal þadann af Fjörunni sjónhending tekinn beina Stefnu i Svörturák sem er á joklinum uppundann Breidá og undann hvorri hun rennur. Svo Skulu og Hofs eigendur og ábuendur njóta alls vestann meiginn vid nemda Bre‹i›dá og til greindu stefnulinu Fjalls og fjöru á milli og so lángt vestur sem treista ser land ad helga. Med þessum samningi er so öll þræta uti utaf nemdu þrætuplássi, daud og maktarlaus firir alda og óborna, og malefnid þannig leitt til likta med óriufannlegum Dómskrapti.

 

             Af umfjöllun óbyggðanefndar verður ráðið að eftir þetta samkomulag hafi afskiptum eigenda Hofs af Breiðármörk lokið.

             Óbyggðanefnd telur í úrskurði sínum ljóst af heimildum að Skálholtsrekinn forni hafi ekki fylgt með við sölu á kóngs­hluta Breiðármerkur 1836. Er því lýst að um 1857 hafi Vilhjálmur Finsen land- og bæjarfógeti, fyrir hönd eiganda Skálholtskirkju, selt Þorsteini Einarssyni á Kálfafellsstað og Gísla Þorsteinssyni, hreppstjóra á Upp­sölum, „svokallaða Breiðamerkurfjöru á Breiðamerkursandi í Austurskaftafellssýslu, eins og innan þeirra ummerkja, sem þessi fjara, með reka af hval og sérhverjum við, hingað til hefir verið notuð af Skálholtskirkju eigendum og þeirra umboðsmönnum“. Sá reki sem hér hafi verið fjallað um, hinn forni Skálholtsreki, hafi verið hvalur og tré, stærra en sex álnir. Hins vegar telur óbyggðanefnd að óvissa hafi ríkt um hvað orðið hafði um minni rekann sem Ögmundur Pálsson biskup seldi undan Skálholts­dómkirkju 1525. Óbyggðanefnd fjallar um fyrirspurn Þorsteins Einarssonar 2. maí 1858 til Vilhjálms Finsen um rekann og rekur svar Vilhjálms þess efnis að hann hafi ekki upplýsingar um hver sé eigandi hins „minni“ reka á fjörunni (og þar með eigandi helmings jarðarinnar með konungi). Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að Gísli Þorsteinsson hafi falast eftir kaupum á minni rekanum frá afkomendum Gísla Halldórssonar sem jarðamatið 1804-1805 greinir að hafi átt helming jarðarinnar með konungi. Kemur fram að ekki hafi náðst samkomulag um kaupin, en þess í stað hafi erfingjar Gísla Halldórssonar falið Þorsteini Einarssyni að hafa umsjón með rekanum og annað hvort leigja hann eða selja á opinberu uppboði eftir því sem hagstæðara yrði eigendunum. Mun þessi hluti jarðarinnar í framhaldinu hafa verið leigður Sigurði Ingimundarsyni á Kvískerjum (1864-1883) og er í úrskurði óbyggðanefndar vitnað til frásagnar um að þær landsnytjar sem fylgdu hálfri Breiðármörk hafi á þessum tíma (1876) ekki verið orðnar annað en lítilfjörleg grasnyt og eggvarp, sem og reki, sex álna tré og minni.

Í úrskurði óbyggðanefndar er sagt að Eyjólfur Runólfsson, hreppstjóri á Reynivöllum, hafi eignast Skálholtsrekann þegar dóttir séra Þorsteins Einarssonar á Kálfafellsstað, Torfhildur Hólm, afsalaði Eyjólfi hálft Fell „með tilheyrandi fjöru, ásamt ½ Breiðamerkurfjöru“ 31. maí 1891. Þá segir að ári fyrr hafi systir Eyjólfs, Guðný Runólfsdóttir á Maríubakka í Kleifarhreppi, meðal annars afsalað honum 48 álnir í Felli og 8 2/3 álnir í Breiðamerkur­fjöru í Hofshreppi, en þetta hafi verið meðal þess sem börn hennar hlutu í arf eftir ömmu sína, Guðrúnu Bjarnadóttur. Segir í úrskurði óbyggðanefndar að þetta afsal hafi verið lesið á manntals­þingi að Kálfafelli 7. maí sama ár, en eftirfarandi athugasemd hafi verið gerð í afsals- og veðmálabók: „Það sést eigi í afsals og veðbréfabókum Skaftafellssýslu né í tilheyrandi registrum, að börn seljanda hafi átt neitt í hinum seldu fasteignar­pörtum.“

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að afkomendur Eyjólfs hafi samkvæmt þinglýsinga­bókum í nokkrum tilvikum selt öðrum hluta í Breiðamerkurfjöru eða Breiðár­mörk. Þannig hafi Vilborg Eyjólfsdóttir Runólfs­sonar, selt Gísla Þórarinssyni árið 1933 jarðarpart sinn í eyðibýlinu Felli „ásamt hluta þeim, sem mér ber í Breiðamerkur­fjöru, og öllu því sem nefndri fjöru fylgir, stóran og smáan reka, sem á fjöru kann að koma“. Við þinglýsingu skjalsins hafi verið gerð athugasemd um að seljanda skorti þinglýsta eignarheimild að Breiðamerkurfjöru. Árið 1968 hafi framangreindur Gísli gefið Þóru Stefánsdóttur jarðarpart sinn í eyðibýlinu Felli „ásamt hluta þeim, sem mér ber í Breiðamerkurfjöru, og öllu því sem nefndri fjöru fylgir, stóran og smáan reka, sem á fjöru kann að koma“. Einnig hafi Borgarhafnar­hreppur selt Erni Eiriksen árið 1960 „1/14 í eyðijörðinni Breiðármörk (Breiðamerkur­fjara)“, eign Guðnýjar Runólfs­dóttur. Þá er rakið í úrskurði óbyggðanefndar að hluti annarra afkomenda Eyjólfs hafi þinglýst fjölda svokallaðra skiptayfirlýsinga í þeim tilgangi að öðlast þinglýsta eignarheimild yfir hálfri Breiðamerkurfjöru.

             Í úrskurði óbyggðanefndar segir að landamerkjum Breiðármerkur hafi verið lýst í landamerkjabréfi Hofs undirrituðu 13. maí 1922 og þinglesið 13. júlí sama ár að Borgarhöfn en 15. júlí að Hofi í Hofshreppi, en þar segi:

Landamerkjaskrá milli Fells í Borgarhafnarhreppi og Breiðumerkur í Hofshreppi. [/] Landa- og fjörumörkin eru: Varða hlaðin á graskoll á fjörunni, vestanhalt við hornið á Nýgræðunum, á að bera austast í Hálfdánaröldu uppi undir jökli og í Kaplaklif í Máfabygðum, og er það alt bein lína. Þetta eru einnig mörk milli hreppanna: Borgarhafnarhrepps og Hofshrepps. [/] Til skýringar skal þess getið – af því mörkin við sjó geta verið óglögg fyrir ókunnuga – að glögg og áreiðanleg fjallamörk eru milli Tvískerja og Fjallslands, sem er Miðaftanstindur – toppurinn, beri í sýlingu á Eiðnaskarðstindi og er það bæði landa og fjörumörk, glögg og alþekt örnefni. Fjallsfjara á að vera 9 hundruð faðma tólfræð á lengd, þaðan er 1080 faðma og mun vera átt við, að þrjár íslenskar álnir sjeu í hverjum faðmi. [/] Við Fjallsfjöru að austan tekur við Breiðamerkurfjara, sem á að vera jafnlöng: 900 faðma tólfræð, þá kemur Fellsfjara í Borgarhafnarhreppi. [/] Ef síðan kæmi ágreiningur um hreppamörkin, þá þarf ekki annað en lengd fjaranna: Fjalls- og Breiðamerkurfjöru í Hofshreppi, sem eiga til samans að vera tvenna níu hundruð faðma, tólfræð.

            

Undir bréf þetta riti Ari Hálfdánarson hreppstjóri Hofshrepps og Stefán Jóns­son hreppstjóri Borgarhafnarhrepps. Í bréfinu sé einvörðungu lýst austurmörkum jarðarinnar, móts við Fell í Suðursveit. Í úrskurði óbyggðanefndar er lýst nánar. tildrögum þessa landamerkjabréfs.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að árið 1937 hafi Björgvin Vigfússon, fyrrverandi sýslumaður á Efra-Hvoli, selt Birni Pálssyni á Kvískerjum hálfa Breiðumörk (Breiðármörk) og hálfa Breiðumerkur­fjöru með reka fyrir eitt hundrað krónur. Kvískerjamenn hafi síðan talið fram þennan hluta Breiðármerkur sem sína eign. Björgvin Vigfússon hafi verið sýslumaður í Skaftafells­sýslu 1905-1908 og liggi ekki heimildir fyrir um það hvernig Björgvin eignaðist þennan hluta Breiðármerkur. Þess megi þó geta að hann hafi verið kvæntur Ragnheiði Ingibjörgu Einarsdóttur, alþingismanns Gíslasonar, sem var langafabarn fyrrnefnds Gísla Halldórssonar. Segir í úrskurðinum að vera kunni að sýslumaðurinn hafi talið sig hafa eignast hálfa Breiðár­mörk ásamt smáreka með eiginkonu sinni eða að minnsta kosti talið sig hafa umráða­rétt yfir eigninni. Í þessu sambandi vekur óbyggðanefnd athygli á orðalagi í afsali sem gefið var út vegna sölunnar:

Með því að jeg undirritaður fyrv. sýslumaður Björgvin Vigfússon á Efra-Hvoli,  hefi síðan 1910, átölulaust af öllum, hirt afgjald af landi hálfrar Breiðumerkur í Hofshreppi í Austur-Skaftafellssýslu, eins og það var til forna, svo og afgjald af hálfri Breiðumerkurfjöru, sem er níu hundruð faðma tólfræð að lengd – frá ábúandanum Birni Pálssyni bónda á Kvískerjum, þá hefur það á síðastliðnu ári orðið að samkomulagi milli mín og hans, að hann skyldi eignast land þetta, ásamt hálfri Breiðumerkurfjöru með reka, fyrir 100 – eitt hundrað – krónur…

            

             Afsalið var tekið til þinglýsingar 28. mars 1937. Samkvæmt gögnum málsins leiða núverandi eigendur Kvískerja eignarrétt sinn að hálfri Breiðármörk af umræddu afsali.

             Í samantekt úrskurðar óbyggðanefndar um sögu Breiðármerkur segir eftirfarandi:

Eins og að framan hefur verið rakið eru nokkur atriði óljós að því er varðar eigna­framsal Breiðármerkur, og eru þessi hin helstu: 1) Hvernig hálf Breiðármörk ásamt reka (smáreka) komst í eigu Gísla Halldórssonar; 2) hvernig Fellsmenn töldu sig hafa eignast Breiðármerkurfjöru og ef til vill einnig hluta Breiðármerkurlandsins eins og ráða má af lögfestu þeirra og síðan samkomulaginu 1854;  3) hvernig Björgvin Vigfússon sýslumaður taldi sig hafa eignast hálfa Breiðár­mörk ásamt reka; 4) hvað varð um eignarréttinn að hinum hluta Breiðármerkur. Á hinn bóginn virðist nokkuð ljósara hvernig Skálholtsrekinn forni og fjaran sem honum tilheyrði hafa framselst fram á þennan dag.

 

Niðurstaða óbyggðanefndar um Breiðármörk

             Í niðurstöðum óbyggðanefndar segir að af heimildum verði ráðið að í upphafui hafi Breiðarármörk verið sjálfstæð jörð og jafnframt séu líkur til þess að umrætt landsvæði sé innan upphaflegs landnáms í Austur-Skaftafellssýslu og að numið hafi verið frá sjávarmáli að þáverandi jökulbrún, að minnsta kosti. Fram­skrið Breiðamerkurjökuls og ágangur vatna hafi valdið því að þrjár jarðir undan jöklinum hafi farið í eyði, þar á meðal Breiðármörk fyrir lok 17. aldar. Rakið er að elstu heimildir um jörðina lýsi ekki merkjum, en af heimildum um jörðina Fjall, næstu jörð austan Breiðármerkur, megi ráða að Fjallsfit og Breiðármerkur­fjall hafi talist til hinnar síðarnefndu. Eftir að þessar tvær jarðir hafi farið í eyði virðist land þeirra hafa verið nytjað annars staðar frá en mörk jarðanna orðið óljós ekki síðar en á 17. öld. Fyrstu lýsingar á merkjum Breiðármerkur sé að finna í lögfestum Hofs- og Fells­manna frá 1851 og samningi sömu aðila 1854 sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Óbyggðanefnd vekur einnig athygli á því að Breiðá hafi runnið 6-7 km vestan við Jökulsá, áður en hún braut sér leið í Fjallsá 1954, og færðist þannig vestar, eins og nú er. Óljóst sé hvar Jökulsá hafi runnið að fornu en um 1900 hafi hún verið á svipuðum slóðum og nú er, enda þótt Jökulsárlón hafi stækkað.

             Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að merkjum Fjalls og Breiðármerkur hafi ekki verið lýst fyrr en í umfjöllun um Fjall í landamerkja­bréfi Hofs 15. júlí 1922. Í „landamerkjaskrá milli Fells í Borgar­hafnar­hreppi og Breiðumerkur í Hofshreppi“ 13. maí 1922 sé engin lýsing á mörkum Breiðármerkur við Fjall, en þar sé lýst mörkum jarðarinnar við Fell. Undir skrána hafi ritað hreppstjórar Hofshrepps og Borgarhafnarhrepps, Ari Hálfdánarson og Stefán Jónsson, í embættis­nafni. Ekki hafi verið ritað undir skrána í nafni Breiðármerkur eða Fells. Þessi merki virðist á svipuðum slóðum og farvegur Breiðár fram til 1954. Þá segir að í landamerkjaskrá fyrir Fellslandi 1. maí 1922 sé „Landa- og fjörumörkum að vestan milli Borgarhafnarhrepps og Hofshrepps“ lýst með sama hætti og sé það „bein lína á milli Fells og Breiðumerkurlanda og fjöru­mörk“. Undir það bréf riti Þorsteinn Arason, eigandi að 7/12 hluta Reynivalla, og Sigurður Sigurðarson, báðir ábúendur á Reynivöllum sem sé næsta jörð við Fell til austurs og að auki Gísli og Jón Bjarnasynir, að líkindum eigendur Uppsala og Fells. Samkvæmt framangreindu telur óbyggðanefnd að ekki sé að sjá að ritað sé undir skrána í nafni Breiðár­merkur. Jafnframt verði ekki ráðið af bréfinu að land Breiðármerkur sé með einhverjum hætti talið tilheyrandi Felli. Eldri lýsingar á vesturmörkum jarðarinnar Fells séu ekki fyrir hendi.

             Óbyggðanefnd telur samkvæmt framangreindu að Breiðá hafi skipt landi milli Breiðármerkur og Fells árið 1854, hvernig sem því var farið áður. Fjörumerkjum milli Fjallsfjöru og Breiðármerkur­fjöru sé sérstaklega lýst en þau virðist á mjög svipuðum slóðum. Óbyggðanefnd rekur ágreining um fjörumörk Breiðamerkurfjöru, en vísar til þess að ýmis dæmi séu um það í Öræfum að fjörumörk fari ekki saman við lýsingu landamerkja. Árið 1922 sé aftur miðað við að Breiðá skipti löndum og fjörum milli Breiðármerkur og Fells, en gagnvart Fjalli sé dregin lína á milli Mávabyggða og Múlahöfuðs. Breyting virðist hins vegar gerð á fjörumörkum og nú sé Breiðamerkurfjara fyrir landi Breiðármerkur en Fjallsfjara og Fellsfjara sín hvorum megin við hana, fyrir löndum Fjalls og Fells.

             Óbyggðanefnd telur lýsingu landamerkjabréfanna á norðurmörkum þarfnast nánari athugunar. Óbyggða­nefnd telur að af bréfi Hofs (vegna Fjalls) megi ráða að tekin sé stefna af Mið­aftans­tindi og Múlahöfði og framan­greind landa­merki Breiðármerkur og Fjalls nái að jökulrönd, fremur en að þau liggi yfir Fjallsjökul og Breiðamerkur­jökul. Á sama hátt megi ráða af bréfi Breiðármerkur og Fells að tekin sé stefna af Hálfdánaröldu og Kaplaklifi í Mávabyggðum, fremur en að merkin nái alla leið upp í Mávabyggðir, lengst uppi í jökli. Þessu til stuðnings megi jafnframt vísa til þess að mörkum gagnvart jökli sé ekki lýst að öðru leyti. Telur nefndin að jökullinn hafi afmarkað það land sem máli skipti með svo augljósum hætti að ekki hafi verið talið þurfa umfjöllunar við.

             Óbyggðanefnd vísar til þess að í kjölfar þess að ný landamerkjalög hafi tekið gildi 1919 hafi verið gerð landamerkjabréf, þar sem lýst hafi verið merkjum eyðijarðanna Fjalls, Breiðármerkur og Fells. Eldri heimildir um merki þessara jarða séu bæði litlar og óljósar en mæli þó ekki gegn lýsingu landamerkja­bréfanna á merkjum Breiðármerkur. Óbyggðanefnd telur jafnframt að líta verði til þess að land á þessu svæði sé afmarkað af jöklum hið efra og sjó hið neðra. Nefndin vísar til þess að landamerkjabréf Breiðármerkur (ásamt Felli) sé áritað af hreppstjórum Borgar­hafnar­hrepps og Hofshrepps í embættis­nafni, landamerkjabréf Hofs (Fjalls) sé áritað af hreppstjóra Hofshrepps vegna merkja „Fjalls­lands og Breiðármerkur­lands“, án þess þó að það embætti sé tilgreint, og ekki verði séð að landamerkjabréf Fells sé áritað vegna annarra en eigenda Fells og næstu jarðar til austurs, þ.e. Reynivalla í Suður­sveit, og sé þar á meðal áðurnefndur Eyjólfur Runólfsson. Í landamerkja­bréfum Breiðár­merkur (ásamt Felli) og Fells sé sérstaklega tekið fram að umrædd merki séu einnig mörk milli Borgarhafnar­hrepps og Hofshrepps. Öll þrjú bréfin séu frá árinu 1922. Þau séu þinglesin, færð í landamerkja­bók og á þeim byggt síðan um merki Breiðármerkur, án þess að séð verði að fram hafi komið athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna. Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Jafnframt sé ljóst að þeir sem hafi talið sig eigendur Breiðármerkur hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum væri  þar rétt lýst.

             Óbyggðanefnd tekur næst til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan framangreindra merkja Breiðár­merkur. Rekur nefndin í því sambandi þróun gróðurfars og framgang jökla. Þá vísar nefndin til þess að þeir aðilar sem hafi uppi kröfur um réttindi til Breiðármerkur og Breiðármerkur­fjöru leiði rétt sinn annars vegar frá Eyjólfi Runólfssyni og hins vegar Björgvini Vigfússyni. Þinglýsingabækur eða önnur gögn málsins veiti ekki upplýsingar um aðra sem þar kunna að eiga réttinda að gæta. Hugleiðingar óbyggðanefndar um sögu eignaheimilda að Breiðármörk er svohljóðandi:

Óbyggða­nefnd telur að leggja verði til grundvallar að greint hafi verið á milli lands Breiðármerkur og réttinda til fjörunnar 1525, þegar svokallaður minni reki er seldur frá Skál­holti ásamt landi jarðarinnar en stóra rekanum haldið eftir. Heimildir benda til þess að stóri rekinn hafi verið í eigu Skálholts til 1848, að hann er seldur Þorsteini Einarssyni og Gísla Þorsteinssyni og hluti Þorsteins hafnar hjá Eyjólfi Runólfs­syni á Reyni­völlum 1891. Óljóst er hvað varð um hinn helming stóra rekans en árið 1890 keypti framan­greindur Eyjólfur tiltekinn álnafjölda í Breiðamerkurfjöru, að líkindum eignar­hluta a.m.k. sumra erfingja Gísla Þorsteinssonar í hálfum Skálholts­rekanum. Við þing­lýsingu afsalsins var gerð athugasemd á þá lund að þinglýsta eignarheimild seljanda væri ekki að sjá í afsals- og veðmálabók. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Eyjólfs frá 1915 um að hann hafi keypt stórreka Skálholtskirkju af erfingjum Þorsteins Einars­sonar og Gísla Þorsteinssonar. Samkvæmt þeim heimildum um afmörkun Breiðamerkurfjöru á tímabilinu 1854-1922 sem áður var gerð grein fyrir hafa þessi réttindi verið á landsvæði sem nefnt var Breiðamerkurfjara 1854 en er kallað Fellsfjara í landamerkjabréfi þeirrar jarðar 1922 og þannig innan nú­verandi merkja jarðarinnar Fells, sbr. mál nr. 2/2001 hjá óbyggðanefnd, Suðursveit. [/]  Heimildir benda til þess að jörðin Breiðármörk og svokallaður litli reki hafi um 1800 að hálfu verið í eigu konungs og að hálfu í eigu Gísla nokkurs Halldórs­sonar. Erfingjar hans virðast telja þar til eignar fram til 1876 en óljóst með hvaða rétti eða hvað varð eftir þann tíma. Hluti konungs er seldur 1836 og á sama hátt óljóst hvað um hann varð.[/] Með hliðsjón af umfjöllun um Jökulsá í lögfestu Hofsmanna, meintri helmings­eign Hofs­manna í Breiðármörk og vísbendingum um að hreppamörk hafi verið í Jökulsá er hugsanlegt að í samningnum 1854 hafi falist skipting Breiðármerkur á milli Hofs og Fells. Í lögfestu Hofsmanna 1851 er þannig tekið fram að réttur þeirra nái til hálfrar jarðarinnar en 1854 verður ekki annað séð en að réttur þeirra nái til alls þess landsvæðis sem þá er talið til Breiðármerkur. Land Breiðármerkur á milli Breiðár og Jökulsár kann þannig að hafa verið sameinað Felli og merki þessara jarða færð úr Jökulsá og í Breiðá. Fellsmenn hafi þannig fengið hluta Breiðármerkur skipt út. Um það verður þó ekkert fullyrt og hugsanlegt er að samkomulagið hafi fjallað um merki Fells og Breiðármerkur allrar. Réttur Hofsmanna til slíkrar ráðstöfunar hefði þá grundvallast á helmingseign þeirra í jörðinni, skiptri eða óskiptri. [...] Heimildir Hofs- og Fellsmanna verða hvorki raktar til konungs né Gísla Halldórssonar og um sama leyti og síðar gera erfingjar Gísla ráðstafanir til að tryggja meinta hagsmuni sína. Þá bendir lögfesta Fellsmanna frá 1851 ekki til þess að þeir hafi getað fært fram heimildir fyrir tilkalli sínu, aðrar en „óátalda brúkun og yrkingu“. Jafnframt er óljóst um afdrif meintrar eignarhlutdeildar Hofs­manna. Af hálfu eigenda Kvískerja og Fells hefur þeim skilningi verið lýst að í samningi Hofsmanna og Fellsmanna 1854 hafi falist að Hofsmenn hafi selt Fellsmönnum eignar­hluta sinn, þ.e.a.s. konungshlutann. Hinn helmingur jarðarinnar, þ.e. bónda­hlutinn, hafi hins vegar áfram verið í eigu Halldórs Gíslasonar.

 

Óbyggðanefnd áréttar að af framan­greindum landamerkjabréfum Breiðármerkur og Fells, Hofs (Fjalls) og Fells verði ekki séð að árið 1922 hafi nokkur komið fram sem eigandi Breiðár­merkur eða handhafi réttinda á því svæði, gagnvart hreppi eða þinglýsingar­yfirvöldum. Þá segir að eignartilkall eigenda Kvískerja grundvallist á því að árið 1937 hafi Björgvin Vigfús­son selt Birni Pálssyni á Kvískerjum hálfa Breiðár­mörk og hálfa fjöruna með reka, en ekkert liggi fyrir um heimild Björgvins Vigfússonar til þessa framsals. Eiginkona hans muni hafa verið dóttir framangreinds Einars Gíslasonar, eins af afkomendum Gísla Halldórs­sonar. Nefndin rekur einnig að heimildir séu um að bóndinn á Kvískerjum hafi greitt afkomendum Gísla Halldórs­sonar leigu fyrir öll afnot og brúkun af hálfri Breiðármörk. Auk eignartilkalls sem byggist á athugasemdalausu afsali frá 1937 telur óbyggðanefnd ljóst af gögnum málsins, þ. á m. fram komnum skattframtölum allt frá 1937, að eigendur jarðar­innar Kví­skerja hafi frá árinu 1937 talið hálfa jörðina Breiðármörk, eins og hún sé afmörkuð í máli þessu, sína eign, nýtt hana í samræmi við eignarhlutdeild sína, að svo miklu leyti sem hún var nýtanleg, og greitt af henni skatta og gjöld. Hvað sem öllu framangreindu líður telur óbyggðanefnd því að eignartilkall þeirra til 50% eignarhluta í jörðinni styðjist jafnframt við fullnaða hefð, sbr. 2. gr. hefðarlaga, nr. 46/1905. Þá segir orðrétt í úrskurði óbyggðanefndar:

Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1922, svo sem þeim er nánar lýst hér framar, og að því marki sem land hefur komið undan jökli síðan hafa eigendur Kví­skerja farið með umráð og hagnýtingu Breiðármerkur á sama hátt og gildir um eignar­land almennt. Svo sem að framan greinir er hugsanlegt að samningur Hofs- og Fellsmanna 1854 hafi ekki falið það í sér að sameina hluta Breiðármerkur við Fell og að eigendur Fells á síðari tíma geti leitt rétt frá Hofsmönnum, Gísla Halldórssyni eða á annan hátt, sbr. þinglýstar yfirlýsingar þar að lútandi og kröfugerð í máli þessu. Með hliðsjón af því sem að framan greinir um eignarréttindi Kvískerjamanna telst hins vegar nægjanlega sýnt fram á tilvist beins eignarréttar til eyðijarðarinnar Breiðármerkur. Skiptir þá ekki máli hvernig eignarhaldi og eignarhlutföllum kann að vera háttað að öðru leyti. Þess gerist því ekki þörf að rannsaka frekar grundvöll fyrir eignartilkalli annarra, enda er þá komið út fyrir hlutverk óbyggðanefndar, sbr. 7. gr. þjóðll., nr. 58/1998. Engar heimildir eru um að land innan marka Breiðármerkur hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingar­möguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi.

 

Því næst fjallar óbyggðanefnd um afmörkun þjóðlendu við jökuljaðar og kemst að þeirri niðurstöðu í samræmi við almennar niðurstöður sínar að miða beri við stöðu jökul­jaðarsins við gildistöku laga nr. 58/1998 1. júlí 1998. Samkvæmt þessu er niðurstaða óbyggðanefndar eftirfarandi;

Af hálfu íslenska ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landa­merkja eyðijarðarinnar Breiðármerkur sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða, sbr. einnig umfjöllun í kafla 9.6., án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. [/] Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að land eyðijarðarinnar Breiðármerkur, svo sem því er að framan lýst, að jökuljaðri eins og hann var við gildistöku þjóðlendu­laga 1. júlí 1998, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.

 

II.

Vettvangsganga dómara 31. maí 2005

             Dómarar fóru á vettvang ásamt lögmönnum aðila svo og stefndu Önnu Maríu Ragnarsdóttur 31. maí 2005. Leiðsögumaður var Sigurður Bjarnason frá Hofsnesi. Ekið var frá nýbýlinu Freysnesi, þar sem rekin er ferðaþjónusta, vestur þjóðveg 1 að svokölluðum Sýslusteini (einnig nefndur Sýslumannssteinn), þar sem sýslumörk Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu munu vera. Þaðan var horft til Súlutinda. Skammt þar austur af telja eigendur Skaftafells II að landamerki Skaftafells og Núpstaðar séu samkvæmt þeirri lýsingu í landamerkjabréfum jarðanna að merki á sandinum séu þar sem „Súlnatindar beri hver í annan“. Þá var ekið eftir slóða nálægt endimörkum kröfusvæðisins langleiðina til sjávar eða þar til komið var að sæluhúsi og miðstöð gullleitarmanna á sandinum. Var athygli dómara vakin á gróðurfari á sandinum og sauðfé sem þar var á beit. Þá var haldið á vettvang á Fjalli og Breiðármörk ásamt lögmönnum og stefndu Sigurði Björnssyni frá Kvískerjum og Erni Bergssyni frá Hofi. Var ekið austur þjóðveg 1 og skoðuð merki jarðanna Fjalls og Breiðármörk. Staðnæmst var við Breiðamerkurfjall, kennileiti skoðuð þar sem Miðaftanstind ber í skarið á Eyðnatindi. Ekinn var slóði í átt að Breiðamerkurfjalli og athygli dómara vakin á breytingum á jöklum, gróðurfari og þeim bent á leiðir sem notaðar eru við upprekstur og göngur í Breiðamerkurfjalli. Dómurum var einnig bent á hugsanlega staðsetningu bæjarhúsa að Fjalli og Breiðármörk auk landamerkja Breiðármerkur og Fells. Þegar gengið var á vettvang  var gott veður, sólríkt og gott skyggni.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi reisir kröfur sínar á því að mörk eignarlanda á kröfusvæðinu eigi að vera þau sömu og landnámsmörk. Utan þjóðlendulínu séu eignarlönd, sem numin hafi verið til eignar, en innan þjóðlendulínu sé þjóðlenda sem aðliggjandi jarðeigendur hafi í einhverjum mæli haft afnot af. Stefnandi vísar til að landnám hafi verið grundvöllur frumstofnunar eignarréttar að landi hérlendis og eini gjörningurinn sem leiddi af sér beinan eignarrétt. Um landnámið séu glöggar heimildir í íslenskum fornritum, aðal­lega Landnámu. Við námið og eftirfarandi aðgerðir landnámsmannsins við að brjóta land til ræktunar og gera landið að bújörð hafi orðið til handa honum beinn eignar­réttur að þessum hluta náttúrunnar. Fyrir utan skriflegar heimildir um landnámið hérlendis hafi fornleifar og búsetusaga staðfest að byggð hafi í stórum dráttum haldist á þeim svæðum sem numin voru til eignar. Sums staðar hafi byggð dregist saman, en í örfáum tilvikum hafi byggð sótt á eftir að eiginlegu landnámi lauk.

         Stefnandi gerir greinarmun á stofnun beins eignarréttar að landi og óbeins eignarréttar, eða réttar til afnota, sem hafi grundvallast á töku í upphafi en síðar helgast af venju. Telur stefnandi að á umræddu kröfusvæði hafi land verið tekið „afnotatöku“ einstakra jarðeigenda þar sem möguleiki var til beitarafnota og sums staðar allt að jökulrönd, ef þar var gróður. Byggist það á því að engar heimildir sé að finna um að almenningar hafi verið í sýslunni, en þeir hafi verið sameiginlegt afnotaland fjórðungsmanna og síðan þjóðarinnar. Stefnandi telur að jöklar hafi aldrei talist til eiginlegra almenninga, þar sem þeir voru ekki nytjaland. Jöklarnir hafi verið taldir öræfi og verið einskis manns land, en eftir lögtöku laga nr. 58/1998 teljist þeir þjóðlenda.

         Stefnandi vísar til þess að erfitt eða ómögulegt hafi verið samkvæmt landnámsreglum að nema hálendi eða fjöll. Er þar vísað til frásagnar Hauksbókar um að kona hafi mátt nema land með því að leiða tvævetra kvígu vorlangan dag sólsetra í millum um það land sem numið var, en karlmaður farið um land með eldi sólsetra á milli.

         Á því er byggt af hálfu ríkisins, að eignarréttur sé ekki eilífur hafi hann orðið til. Er á því byggt að hann geti fallið niður, ef hann verður að engu eða ef hann framselst ekki með löggerningum,  erfðum eða hefðarhaldi. Ef jarðir verði óbrúkandi vegna ágangs jökuls og vatna, eða því að hraun leggst yfir allt land jarðar og jörð þá yfirgefin, þá hafi landið orðið almenningur og þjóðlenda samkvæmt gildandi lögum. Það haggi ekki þessu þótt eigendur aðliggjandi jarða nýti beit í landinu fyrir búfé sitt. Í þessu sambandi er bent á ákvæði í nýbýlatilskipuninni 1776, en þar segi: „það álíst eigi að vera nein sérleg eign, þó að þeir í kring búandi hafi verið vanir að reka sitt kvikfé á svoddan land, svo lengi sem, og vegna þess að það hefur legið í eyði, því það skal einasta álítast sem almenningur.“ Í þessu sambandi er einnig bent á önnur ákvæði sem varða eignir sem enginn getur sannað beinan eignarrétt að, sbr. 1. mgr. 55. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 1. gr. laga nr. 12/1952, varðandi rétt erfðafjársjóðs til eigna sem enginn erfingi finnst að.

         Stefnandi vísar til Landnámu um landnámsmörk á kröfusvæðinu, en þar segi eftirfarandi (S 316): „Ásbjörn hét maður, son heyangurs-Bjarnar hersis úr Sogni; hann var son Helga Helgasonar, Bjarnarsonar bunu. Ásbjörn fór til Íslands og dó í hafi, en Þorgerður kona hans og synir þeirra komu út og námu allt Ingólfshöfðahverfi á milli Kvíár og Jökulsár [vafalaust Skeiðará, hvar sem hún hefur runnið á þeim tíma] og bjó hún að Sandfelli og Guðlaugur son þeirra Ásbjarnar eftir hana. Frá honum eru Sandfellingar komnir. Annar son þeirra var Þorgils, er Hnappfellingar eru frá komnir. Þriðji var Össur faðir Þórðar Freysgoða, er margt manna er frá komið.“ Stefnandi vísar einnig til eftirfarandi frásagna í Hauksbók (H 276-277): „Ásbjörn hét maður, sonur Heyangurs-Bjarnar; hann andaðist í Íslandshafi, þá er hann vildi út fara, en Þorgerður kona hans fór út og synir þeirra. En það er mælt, að kona skyldi eigi víðara nema land en leiða mætti kvígu tvævetra vorlangan dag sólsetra í millum, hálfstalið naut og haft vel. Því leiddi Þorgerður kvígu sína undan Tóftafelli, skammt frá Kvíá suður og í Kiðjaklett hjá Jökulfelli fyrir vestan. Þorgerður nam því land um allt Ingólfshöfðahverfi á millum Kvíár og Jökulsár og bjó að Sandfelli. [...] Helgi hét annar son Heyjangurs-Bjarnar; hann fór til Íslands og bjó að Rauðalæk að ráði Þorgerðar. Hans son var Hildir, er Rauðlækingar eru komnir frá.“ Þá vísar stefnandi enn fremur til eftirfarandi lýsingar í Landnámu (S 315 og H 275): „Þórður illugi son Eyvindar eikikróks braut skip sitt á Breiðársandi; honum gaf Hrollaugur land milli Jökulsár og Kvíár og bjó hann undir Felli við Breiðá.“

         Stefnandi telur að skilja beri framangreinda umfjöllun í fornritum þannig að Helgi Ásbjörnsson hafi verið landnámsmaður í vestasta hluta A- Skaftafellssýslu og átt land frá Skeiðará að Sandfelli, þar sem Þorgerður bjó. Bærinn Rauðilækur hafi verið landnámsbær hans og telji Einar Ólafur Sveinsson að hann hafi verið milli Svínafells og Sandfells. Næsta svæði sé landnám Þorgerðar og og hafi það upphaflega náð frá Skeiðará að Kvíá og þar tekið við landnám Þórðar illuga frá Kvíá að Jökulsá á Breiðármerkursandi.

         Umfjöllun landnámu hafi verið skilin svo að bærinn, sem getið er um í máldögum og eyðibýlaskrá Ísleifs Einarssonar sýslumanns, hafi staðið framan undir Breiðu­merkurfjalli og nefndist Fjall, hafi verið landnámsbær Þórðar. Tættur þessa bæjar hafi farið undir jökul um 1700 og hafi þá bærinn lengi verið í eyði. Annar bær, Breiðá, síðar Breiðármörk, gæti þó eins hafa verið landnámsbærinn. Sá bær sé að vísu alllangt frá Felli (Breiðamerkurfjalli), en hafi staðið nærri Breiðá, sem hann dró nafn sitt af. Stefnandi vísar til frásagna um Breiðá í Njálssögu, lýsingar á jörðinni í máldaga frá 1523 og í alþingisdómi um rekaréttindi árið 1587. Leiðir stefnandi líkur að því að fjörumörk jarðarinnar hafi verið þar sem Jökulsá rennur nú til sjávar. Stefnandi veltir einnig fyrir sér kenningum um hvort bæjarheitin Fell og Fjall séu tvö nafn á sama bæ. Þá fjallar stefnandi um sögu bæjanna Fjalls og Kvískerja sem rakin hefur verið hér að framan.

         Stefnandi vekur athygli á því að endimörk landnáms séu óljós þar sem örnefnið „Kiðjaleit“ hjá Jökulfelli sé týnt. Tóftarfell, sem nú nefnist Staðarfell, sé hins vegar þekkt. Merki milli landnáma innbyrðis komi hins vegar glöggt fram í landnámslýsingum. Annars vegar sé það Skeiðará, svo Kvíá og loks Jökulsá á Breiða­merkursandi. Endapunktar landnámanna hljóti þá að vera upptök viðkomandi vatnsfalla en ef annað kæmi ekki til væri hægt að velkjast í vafa um hversu langt inn til landsins námið náði. Bæði í Sturlubók og Hauksbók segi að Þorgerður hafi numið Ingólfshöfðahverfi og það merki byggðina, en ekki fjöllin og öræfin.

         Þórður illugi hafi ekki verið sjálfstæður landnámsmaður, heldur leiði hann rétt sinn af landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar sem hafi numið land austan frá Horni til Kvíár. Staðarmörk námsins séu glögg gagnvart aðliggjandi landnámum, en til landsins verði að geta í eyðurnar. Í fyrsta laga megi benda á að ekki komi fram að numið hafi verið til fjalla eða jafnvel allt að jökulrótum. Á ritunartíma Landnámu og í Íslendingasögunum merki land bújörð. Talað hafi verið um lönd og lausa aura. Óbyggðir og sumarbeitilönd hafi ekki verið lönd og því verði byggt á því í máli þessu, að námið hafi einungis náð til þess lands sem byggð reis á, en ekki til fjalla, öræfa eða jökla. Þar sem fram komi í heimildum um landnám í Öræfum að hálendi, fjöll, öræfi og jöklar hafi ekki verið numin til eignar verði að gera ríkari sönnunarkröfur um beinan eignarrétt að slíku landi, en öðru landi á mörkum byggðar. Stefnandi vísar þessu til stuðnings til ótiltekinna fordæma Hæstaréttar og löggjafar um að taka beri tillit til atriða eins og staðhátta, víðáttu og gróðurfars, þar á meðal hæðar lands. Stefnandi telur einnig að leiða megi af dómum Hæstaréttar að tengsl verði að vera milli eldri og yngri eignaheimilda. Nýrri heimildir um merki verði að víkja fyrir eldri eða upprunalegum heimildum. Beri þeir sem geri kröfu um beinan eignarrétt að umræddum svæðum sönnunarbyrðina í þessu efni. 

 

Málsástæður er varða Breiðármörk.

         Stefnandi dregur ekki í efa að jörðin Breiðármörk hafi verið numin í öndverðu. Hins vegar lítur hann svo á að jörðin hafi lagst í eyði vegna eldgoss og ágangs jökla og sé eignarréttur að jörðinni því niður fallinn og hún orðin að þjóðlendu í skilningi laga nr. 58/1998. Vísar stefnandi þessu til stuðnings m.a. til nýbýlatilskipunarinnar 1776 svo og fordæma, þar á meðal svokallaðs Vilborgarkotsdóms Landsyfirréttar 21. júlí 1873. Þá telur hann að þetta sjónarmið hafi verið viðurkennt í úrskurðum óbyggðanefndar um fornbyggðina í Þjórsárdal, á Gnúpverjaafrétti, á Flóamannaafrétti upp með Stóru-Laxá og Hrunamannaafrétti upp með Hvíta austan Bláfells. Hann mótmælir einnig afmörkun jarðarinnar til norðurs, eins og hún birtist í úrskurði óbyggðanefndar.

         Til stuðnings því að jörðin Breiðármörk sé eyðijörð sem enginn hafi sannað tilkall sitt til vísar stefnandi heimilda um eignarhald og byggð á Breiðármörk.

         Fram til 1525 hafi jörðin verið eign sömu aðila og ítakslaus. Eftir 1525, þegar Ögmundur biskup seldi jörðina, hafi jörðin verið í einkaeign, en stórviðarreki í fjöru eign Skálholts. Þessu ítaki Skálholts hafi svo verið afsalað 1857 til Gísla Þorsteinssonar á Uppsölum. Árið 1698 hafi jörðin verið orðin óbrúkandi vegna ágangs jökuls og vatna og hafi hún þá verið yfirgefin. Rétt fyrir eyðingu jarðarinnar eða 1670 hafi fjórðungi hennar verið afsalað til Brynjólfs biskups Sveinssonar. Síðan komi fram í jarðabók Ísleifs 1709 að jörðin sé hálf bændaeign og hálf konungseign. Um það hvernig þessi skipting hafi orðið skorti heimildir. Í samræmi við kenninguna um brottfall beins eignaréttar sé ekki ólíklegt að með orðum jarðabókarinnar sé við það átt að konungseignin sé stórrekinn, sem tilheyrði Skálholti, en bændaeignin sé annar reki og eftir atvikum beit. Konungur hafi tekið undir sig eignir Skálholts eftir siðskipti.

         Stefnandi vísar til lögfestu Hofsbænda 1851 varðandi Breiðármörk. Af lögfestunni megi ráða að Hofsbændur telji Breiðármörk ná allt að Jökulsá og svo hitt að ekki sé lögfestur beinn eignarréttur að Breiðármörk, heldur ítaks- eða afnotaréttur. Stefnandi vísar í þessu sambandi einnig til ágreinings eigenda Fells og Hofs um Breiðármörk í framhaldi af lögfestunni 1851 og til eignarskjala jarðarinnar. Stefnandi telur að umrædd lögfesta Hofsbænda 1851 hafi ekkert gildi haft þar sem á bak við hana hafi ekki legið raunverulegur réttur. Samningur Hofsbænda 1854 við eigendur Fells árið 1854 hafi því ekkert gildi haft.

         Að því er varðar ætlaðan eignarrétt eigenda Fells að Breiðármörk vísar stefnandi til þess að í heimildum um jörðina frá ofanverðri 19. öld sé hvergi talað um annað í sambandi við Breiðármörk en leiguliðagagn, ítak og landsnytjar af leiguliðagagninu. Hið eina sem komi fram um afmörkun lands sé að fjaran eigi að vera 900 faðmar tólfræð á lengd og liggur fyrir miðjum Breiðamerkursandi milli Fells og fjöru.

         Stefnandi vísar til gerðar Landamerkjarskrár Fells 13. maí 1922, þar sem fram koma mörk við Breiðármörk, en ætlaðir eigendur Breiðármerkur hafi ekki verið kallaðir til samþykktar svo sem skylt hafi verið. Í sambandi við þetta bréf telur stefnandi að ekki megi túlka bréfið svo að landamerki jarðanna liggi frá viðmiðunarpunkti í Mávabyggðum. Stefnandi telur einnig að afsal 26. febrúar 1937, þar sem Björgvin Vigfússon afsalar hálfri Breiðármörk og hálfri Breiðármerkurfjöru, bendi til þess að Björgvin hafi ekki verið viss um sinn eignarrétt. Það sé því rangt hjá óbyggðanefnd að fullyrða að „auk eignartilkalls sem byggist á athugasemdalausu afsali frá 1937, sé ljóst af gögnum málsins, þ. á m. fram komnum skattframtölum allt frá 1937, að eigendur jarðarinnar Kvískerja hafi frá árinu 1937 talið hálfa jörðina Breiðármörk, eins og hún er afmörkuð í máli þessu, sína eign, nýtt hana í samræmi við eignarhlutdeild sína að svo miklu leyti sem hún var nýtanleg, og greitt af henni skatta og gjöld. Og hvað sem öllu framangreindu líður telur óbyggðanefnd því að eignartilkall þeirra til 50% eignarhluta í jörðinni styðjist jafnframt við fullnaða hefð, sbr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905.“

         Stefnandi telur að við afsalsgerðina 1937 hafi Björgvin Vigfússon verið grandsamur um réttleysi sitt og afsalshafar þannig einnig orðið grandsamir vegna orðalags afsalsins. Við þær aðstæður séu ekki rök fyrir hefð. Sömuleiðis þurfi við hefðarhald að sanna nýtingu eignarlands, sem engin hafi verið og enn fremur þurfi að útiloka aðra frá notum, sem ekki hafi verið gert.  Aðrar réttarreglur og önnur sjónarmið verði auðvitað að vera fyrir hendi, ef rétturinn til Breiðármerkur sé ekki annar en rekarétturinn, eins og íslenska ríkið heldur fram.

         Stefnandi telur kröfulýsingu ætlaðra eigenda Breiðármerkur byggja á skrá um eigendur að Breiðármerkurfjöru. Ekki njóti við landamerkjabréfs fyrir Breiðármörk, ekki í jarðabók Johensen eða síðari jarðabókum, þar sem hundruð jarða eru tilgreindar. Landið sé ekki í fasteignabók og ekki hafi verið greidd af landinu fasteignagjöld. Í almennum ályktunum óbyggðanefndar sé þó á því byggt að allt frá tíma Grágásar hafi íslensk lög gert ráð fyrir því að landsvæði jarða væri afmarkað með landamerkjum.

         Óbyggðanefnd virðist telja nægilega sönnun fyrir vesturmörkum Breiðármerkur vera í landamerkjabréfi Hofs 1922 sem lýsir merkjum Fjalls. Þar sé lýst sjónhendingarlínu, sem sennilega sé ekkert annað en fjörumörk, enda sé Fjallsjörðin ekki nefnd á nafn, heldur einungis Breiðármerkurfjall allt og land á Breiðármerkursandi. Engar eignarréttarlegar ályktanir verði dregnar af því að hreppsstjóri Hofshrepps áriti samþykki sitt á Hofsbréfið fyrir mörkunum við Breiðármörk, en hafi ekki stöðu landeiganda.

         Óbyggðanefnd telji sömuleiðis nægilega sönnun fyrir austurmörkum gagnvart Felli felast í merkjaskrá hreppstjóra Hofshrepps og Borgarhafnarhrepps 1922 og „landamerkjabréfi“ Fells frá sama ári, sem einnig sé sjónhendingarlína, eins og einatt eru notaðar um rekamörk. Tiltækar merkjalýsingar, sem óbyggðanefnd byggi á um afmörkun Breiðármerkur séu þannig ónákvæmar og hvergi komi neinn eigandi fram til að samþykkja rétta lýsingu. Þetta sé látið duga þrátt fyrir skýlausar reglur um lýsingu merkja jarða og reyndar lagaskyldu eftir 1882.

         Óbyggðanefnd gefi sér norðurmörk, þrátt fyrir að lýsingar þeirra merkja skorti algerlega og telji jökul afmarka land sem máli skipti með svo augljósum hætti að ekki hafi þurft umfjöllunar við. Þannig sé allur vafi um bæði beinan eignarrétt og afmörkun lands virt þeim í hag sem geri eignarréttarkröfur fyrir nefndinni og ekki sé látið vega neitt sú niðurstaða nefndarinnar að eldri merki um bæði Breiðármörk og Fjall séu litlar og óljósar. Telur stefnandi að með niðurstöðu sinni um landamörk og skilgreiningu eignarréttar að landi Breiðármerkur sé óbyggðanefnd í raun að gera landamerki eignarlands úr tveimur sjónhendingarlínum um rekarétt.

 

Málsástæður vegna Fjalls

         Stefnandi dregur ekki í efa að jörðin Fjall hafi verið numin í öndverðu. Hins vegar lítur hann svo á að jörðin hafi lagst í eyði og hafi ekki verið rekinn búskapur á jörðinni frá því um 1400. Sé eignarréttur að jörðinni því niður fallinn og hún orðin að þjóðlendu í skilningi laga nr. 58/1998 í samræmi við þau sjónarmið sem áður eru rakin. Sú eign sem eftir standi tilheyrandi landnámsjörðinni sé afrétturinn í Breiðármerkurfjalli, beit í Fjallsfit og rekinn á Fjallsfjöru.

         Stefnandi vekur athygli á því að það svæði, sem hér um ræði, skiptist í Breiðár­merkurfjall og undirlendi. Hluti af þessu undirlendi sé Breiðárlón og Fjallsárlón, síðan koma melarnir fyrir sunnan Breiðárlón og neðan vegar séu Breiðáraurar og svo Fjallsfjara. Land þetta sé enn ónýtt til landbúnaðar, eins og það hafi verið frá því um 1400. Stefnandi telur því að þau mörk sem notuð hafi verið til að afmarka Fjallsland hafi verið fjörumörk. Fjörumörkin hafi verið einu mörkin, sem skiptu máli, þar sem í fjörunni fólust verðmæti sem voru rekaréttur.

         Stefnandi vísar til þess að ekki sé vitað hvernig Hofskirkja eignaðist Fjall, en orðalagið, að öll eign jarðar hafi lagst til Hofskirkju, í jarðabók Ísleifs bendi ekki til afsalsgernings, heldur til eins konar innlimunar til afnota. Sé ekki ólíklegt að þetta hafi gerst með sama hætti og þegar byggð lagðist af í Geitlandi í Borgarfirði og landsvæðið lagðist til Reykholtskirkju sem afréttur. Þessi niðurstaða sé í samræmi við vísitasíu Brynjólfs Sveinssonar 1641, því samkvæmt orðalagi hennar séu réttindi í landi Fjalls einungis reki og önnur ítök. Hafi verið átt við beinan eignarrétt hefði verið talað um heimland allt með fjöru. Stefnandi telur einnig að orðalag í lögfestu Hofs 1851 með sama orðalagi staðfesti að þessi hafi verið skilningur Hofsbænda á rétti sínum í Fjalls­landi. Engin ótvíræð eignarskjöl séu nú til um land Fjalls. Í landamerkjabréfi Hofs frá 15. júlí 1922 segi að jörðin eigi Breiðármerkurfjall allt og land á Breiðamerkursandi og svo sé vesturmörkunum lýst sem viðmiðunarlínu. Enn fremur segi að Hof eigi Fjallsfjöru innan tilgreindra fjörumarka. Þannig standi hvergi að Hof eigi jörðina Fjall, eins og ráða megi af kröfulýsingu Hofsbænda fyrir óbyggðanefnd. Stefnandi bendir á að sönnunarbyrðin sé þess sem heldur fram beinum eignarétti á hæpnum forsendum og hafi ekki verið sýnt fram á að undirlendi jarðarinnar Fjalls hafi verið eignarland Hofsbænda.

         Að því er varðar Breiðármerkurfjall vísar stefnandi til almennra heimilda um að fjallið hafi verið afréttur frá Hofi sem hafi verið nýttur til upprekstrar sauðfjár. Þá rekur stefnandi að jörðin Sandfell hafi samkvæmt jarðabók Ísleifs 1709 átt upprekstrarrétt í Fjallslandi og Breiðármerkurfjalli. Stefnandi vísar til ákvæða athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 58/1998, ákvæða Grágásar og Jónsbókar um afréttir og fjallskil og síðari lagareglna um afréttarmálefni og fjallskil því til stuðnings að gerður hafi verið greinarmunur á afréttum og eignarlandi. Afréttir hafi ekki verið háðir beinum eignarrétti og hafi þessi skoðun fengið staðfestingu í dómum Hæstaréttar. Breiðármerkurfjall sé samkvæmt þessu ekki háð beinum eignarrétti heldur sé það þjóðlenda þar sem eigendur Hofs eigi einungis óbein eignarréttindi.

         Samkvæmt öllu framangreindu telur stefnandi að beinn eignarréttur hafi fallið niður af heimalandi Fjalls, en Hofskirkja hafi haldið eftir upprekstrarrétti í Breiðármerkurfjalli og rekarétti á ströndinni. Sömuleiðis hafi kirkjan í Sandfelli haldið eftir upprekstarrétti sínum í Breiðármerkurfjalli.

 

Málsástæður vegna Skaftafells

         Stefnandi vísar til þess að kröfu hans sé beint að honum sjálfum vegna Skaftafells I og III, en eigendum Skaftafells II að öðru leyti. Íslenska ríkið, sem stefndi, taki undir kröfur um þjóðlendumörk að því er það varði.

         Stefnandi vísar til landamerkjabréfs Skaftafells 5. maí 1890 þar sem land jarðarinnar sé afmarkað milli Svínafells að austan um nesin þar sem eru markasteinar og síðan vesturmörk, sem miðast við línu, sem dregin er, þegar Súlutinda ber hvor í annan.

         Að því er varðar Hafrafell og Hrútsfjall telur stefnandi að algerlega skorti í landamerkjabréf lýsingu á óbyggðamörkum. Sé því óljóst hvort talið hafi verið að þetta svæði heyrði undir Skaftafell. Einnig vísar stefnandi til heimilda um að Hafrafellið hafi fyrr á öldum verið afréttur frá Freysnesi og þar hafi Hnappavallakirkja átt ítök samkvæmt máldaga frá 1343 og enn fremur tólf ungneyta rekstur í Hrútfelli. Eftir að byggð hafi lagst af í Freysnesi og jörðin verið lögð til Skaftafells hafi fylgt með upprekstur í Hafrafell. Síðan hafi Svínfellingar farið að beita þar fé á öndverðri 19. öld. Telur stefnandi að engar heimildir séu fyrir því að Skaftafell eigi umrætt fjallendi sem eignarland.

         Að því er varðar Skaftafellsheiði vísar stefnandi til þess að ýmsar heimildir séu um nýtingarrétt annarra jarða á Skaftafellsheiðinni sem sé upp af heimalandinu. Jarðirnar Hof, Sandfell og Svínafell hafi skógarítak í heiðinni. Síðan segi í sveitar­lýsingu frá 1700 og jarðabók Ísleifs 1709 að Fagurhólsmýri eigi skóg í Hnappa­vallaítaki í Skaftafellsskógi. Þessi síðastnefndi skógur sé væntanlega í heimalandi. Ljóst sé að beinn eignarréttur Skaftafellsjarðar hafi aldrei náð að jökli. Landnámslýsingar beri það ekki með sér, landamerkjaskrá greini aðeins frá landi milli fjalls og fjöru og þannig séu bæði fjörur og fjöll utan lýsinga. Enn fremur mæli heimildir um staðhætti, gróðurfar og hæð yfir sjó gegn slíkri niðurstöðu. Benda megi á hæð fjalla á Skaftafellsheiðinni, Skerhóll í 526 m, Kristínartindar í 979 m og 1126 m og síðan Skarðstindur í 1385 m.

         Að því er varðar Morsárdal bendir stefnandi á að fyrir gos í Öræfajökli 1362 hafi verið bær undir Jökulfelli, nefndur eftir fjallinu. Rústir af bænum hafi sést fram að árinu 1800, þar sem síðar hafi verið kallað að Bæjarstað í grennd samnefnds Skógar. Líklegt þykir að Morsárdalur og fjalllendið hafi tilheyrt þeirri jörð, en síðar hafi land þetta verið talið tilheyra Skaftafellsjörðinni, án þess að til séu neinar heimildir um það hvernig það hafi orðið. Á liðnum öldum hafi ýmsar jarðir talið sig hafa nýtingarétt í landi Jökulfells. T.d. segi í jarðabók Ísleifs 1709: „skattbændur allir frá Kolgrímu til Fells segjast eiga skóg í Jökulfelli í Öræfum, þar sem kallaður er Bændaskógur. Hefur til forna verið brúkaður af allmörgum og enn nú af nokkrum.“ Samkvæmt sömu heimild sé prestsetrinu Sandfelli eignað skógarítak í Jökulfelli (jarðabók XIII, s. 433).

         Stefnandi telur að annað hvort verði sú ályktun dregin af framangreindum heimildum að eftir að heimaland Jökulfells eyðilagðist hafi jörðin verið yfirgefin og enginn eignaréttur framselst, en landið orðið almenningur. Sé land jarðarinnar þá þjóðlenda í samræmi við sjónarmið um eyðijarðir sem áður hafi verið rakin. Hins vegar geti verið að jörðin sjálf hafi verið lögð til Skaftafells, en ýmsir aðrir aðilar fengið hlunnindi og ítök úr jörðinni. Kemur fram í stefnu að stefnandi fallist á þá skýringu aað beinn eignarréttur að Jökulfelli hafi ekki fallið niður, heldur framselst til Skaftafellseigenda. Við þessar aðstæður hafi eigendur Skaftafells þó ekki getað öðlast víðtækari eignarrétt en leiðir af landnámi. Samkvæmt heimildum um nám Þorgerðar, sem áður greinir, hafi hún aldrei numið land lengra en að Jökulfelli og þannig geti landið þar fyrir vestan ekki verið beint eignarland á grundvelli náms. Líklegt sé að Skeiðarársandur hafi á landnámstíma verið óbrúkandi öræfi eins og nú er og því verði að ákvarða þjóðlendumörk í Skeiðarárjökli og niður í sjó í samræmi við kröfur stefnanda.

         Að því er varðar Skaftafellsfjöll vísar stefnandi til heimilda um að fjöllin hafi verið afréttir Skaftfellinga frá landnámsöld og ræðir not Skaftfellinga af svæðinu. Heimildir bendi ekki til annars, en að fjöllin ofan Morsárdals hafi verið venjulegt ónumið afnotaland, afréttur bænda, bænda sem áður byggðu hið blómlega Litla-Hérað eða Ingólfshöfðahverfi, sem lagðist af í Öræfajökulsgosi á 14. öld. Hér sé því ekki um að ræða eignarland. Verði þetta einnig ráðið af landamerkjaskránni 1890. Þá vísar stefnandi einnig til lýsingar á landnámi Þorgerðar og dómaframkvæmd Hæstaréttar um að að byggja á skýrum frásögnum Landnámu þegar skera þurfi úr þrætu um beinan og óbeinan eignarrétt. Engu máli skipti í þessu sambandi þótt  Skeiðará kunni á liðnum öldum að hafa runnið vestar og engu skipti þótt eigendur Skaftafells hafi litið á Skeiðárársand sem eignarland sitt.

         Að því er varðar Skeiðarársand telur stefnandi að afnot af Skeiðarársandi hafi snúist um reka, beit og veiði og í einhverjum mæli hafi Skaftafellseigendur leigt sumarbeit á sandinum. Stefnandi telur að skýra beri landamerkjalýsingu Skaftafells 1890 á sama hátt og aðilaskýrslu í einkamáli, þannig að hún verði alla vega ritara bréfsins aldrei í hag eins og túlkun óbyggðanefndar í úrskurði nefndarinnar er. Orðalag í landamerkjalýsingu um „land milli fjalls og fjöru“ verði að skýra þannig að átt sé við land að fjöllum og að fjöru og falli því bæði fjörur og fjöll utan merkja.

 

Almennar athugasemdir stefnanda við úrskurð óbyggðanefndar

         Stefnandi mótmælir í fyrsta lagi þeirri afstöðu óbyggðanefndar að hann þurfi að sýna fram á að land innan tilgreindra landamerkja sé þjóðlenda. Hafi nefndinni verið rétt að leggja sönnunarbyrðina um eignarrétt á þá sem gerðu kröfu til beins eignarréttar að umræddum svæðum, sbr. m.a. 52. kafla landsleigubálks Jóns­bókar.  Vísar stefnandi til þess að þetta eigi sérstaklega við þegar um er að ræða eyðilönd, gróðurlaus háfjöll og öræfi. 

         Í öðru lagi mótmælir stefnandi þeirri túlkun óbyggðanefndar að allt land á kröfusvæðinu hafi verið numið frá sjávarmáli að þáverandi jökulbrún, að minnsta kosti, og vísar til sjónarmiða, sem áður hafa verið rakin, um að einungis land sem hæft var til búrekstrar hafi getað orðið andlag náms.

         Í þriðja lagi mótmælir stefnandi því að merki jarðar séu miðuð við jaðar jökuls og miðað sé við stöðu jökuljaðarsins við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998. Á þetta geti ríkið ekki fallist. Í þeim tilvikum þar sem beinn eignarréttur jarðar kunni að hafa náð að jökli, þegar landamerkjalýsing var gerð, geti ekki orðið til landauki og bæst við land jarðar frá upphaflegri merkjagerð. Telur stefnandi að lög nr. 58/1998 hafi engu breytt um þetta efni.

         Í fjórða lagi mótmælir stefnandi þeirri afstöðu óbyggðanefndar að líta svo á að landamerkjum svæða sé rétt lýst svo langt sem lýsingar ná og þær séu athugsemda­lausar. Bendir stefnandi á að landamerki í Öræfum hafi í ýmsum tilvikum verið háð ágreiningi og margir viljað eigna sér eigendalaus svæði. Eigendur hafi því ekki um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst, eins og byggt sé á í úrskurði óbyggðanefndar. Þá sé ekki rökstutt í úrskurði óbyggðanefndar hvaða eignarréttarlegu þýðingu athugasemdalaus þinglýsing landamerkjaskrár eigi að hafa né hvar það hafi stoð í íslenskum réttarreglu að réttmætar væntingar eigenda um landamerki hafi eignarréttarlega þýðingu. Vísar stefnandi í þessu sambandi til ýmissa dæma um að væntingar manna um eignarlönd á afréttum hafi ekki reynst standast.

IV.

Málsástæður og lagarök eigenda Skaftafells II

         Stefndu kveðast reisa kröfu sína um sýknu á landnámi (töku), skráðum eignarheimildum, hefð, venju og tómlæti stefnanda.

             Að því er landnám varðar taka stefndu undir ályktanir um gildi Landnámu. Af takmörkuðum lýsingum í Landnámu verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um það hvort í öndverðu hafi verið stofnað til eignarréttar yfir landsvæði með námi. Þá sé óvissa um landnámsaðferðir og hverju landnámsmenn hafi sóst eftir. Gróðurfar á landnámsöld inn til landsins hafi verið þannig að landnámsmenn kunni að hafa séð sér hag í að nema land ofar en byggð hafi náð á síðari tímum. Staðhættir, þar á meðal hæð yfir sjávarmáli og fjarlægð frá byggð, hljóti þó að hafa takmarkað möguleika á nýtingu. Afar takmarkaðar ályktanir verða dregnar af gróðurfari.

             Stefndu telja ekki að dregin verði sú afdráttarlausa ályktun af lýsingum Land­námu á landnámi Fljótshverfis og Ingólfshöfðahverfis að á milli Núpsvatna og Skeiðarár hafi ekki verið stofnað til eignarréttar með námi í öndverðu. Farvegur jökul­vatna undan Skeiðarárjökli um landnám sé ekki þekktur og auk þess óljóst hvort Skeiðará sé sama á og nefnd er Jökulsá í Landnámu. Í greinargerð Freysteins Sigurðs­sonar, jarðfræðings og sérfræðings í vatnafræðum, komi fram að þáverandi Skeiðar­ár­jökull hafi sennilega legið innan við þrengslin við Jökul­fell eða jafnvel enn norðar. Miðað við landslag á svæðinu sé líklegt að jökulvötn frá honum hafi frekar fallið niður miðjan dalinn milli Jökulfells og Súlutinda og þó jafnvel verið bægt til vesturs af skriðjöklum niður með Jökulfelli og aursvuntum frá þeim. Sé því líklegt, að jökulvötn undan þáverandi Skeiðarárjökli hafi fallið tíðum niður miðjan sand, eða jafnvel vestar, þó vænta megi þess, að þau hafi rásað eitthvað um að hætti slíkra vatna. Jökulsá sú, sem um geti í Landnámu, hafi því legið vestur á sandi en ekki verið sama á og nú heitir Skeiðará. Skeiðará hafi verið annað og miklu minna vatnsfall, byggðavatn, neðan Jökulfells. Þegar Skeiðarárjökull hafi komist fram að Jökul­felli, líklega á 15.–17. öld, hafi Jökulsáin lagst í Skeiðarána og í kjölfarið týnt nafni sínu en meginvötnin fengið nafn Skeiðarár. Þá telja stefndu að greinar­gerð Ingva Þorsteinssonar náttúrufræðings, um gróðurfar í Öræfum, bendi ekki til þess að Skeiðarár­sandur hafi á landnámstíma verið „óbrúkandi öræfi“ svo sem haldið sé fram af hálfu íslenska ríkisins. Þar komi fram að ekki sé óvarlegt að draga þá ályktun að Skeiðarársandur hafi verið grónari um land­nám en nú. Mikill hluti Skeiðarársands sé ógróið eða lítt gróið land, einkum vestur- og austurhluti sandsins þar sem jökulhlaup hafi komið í veg fyrir uppgræðslu. Á miðjum sandinum neðanverðum, innan kröfu­svæðis ríkisins, sé hins vegar allvíðáttumikið, raklent gróðursvæði, með fjölskrúðugu gróðurfari. Melgresi hafi verið að breiðast út á sandfokssvæðum norður eftir sandinum miðjum og mosaný­græðingur er einnig ofar á sandinum, allt norður undir jökulgarða Skeiðarár­jökuls. Auk þessa séu líkur á því að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi Skeiðarár­sandur verið minni en síðar varð.

             Stefndu vísa að öðru leyti til niðurstöðu óbyggðanefndar um gróðurfar og jöklafar í Öræfum. Þau taka undir með óbyggðanefnd að líklegt sé að land í Öræfum hafi verið numið frá sjávarmáli að þáverandi jökulbrún, að minnsta kosti. Þorgerður hafi numið allt land milli Jökulsár og Kvíár og hafi þar stofnast eignaréttur á öllu landi milli þessara tveggja vatnsfalla. Engar heimildir séu um það að hluti lands þessa hafi fallið úr einkaeign á liðnum öldum og orðið almenningur eða land utan takmarka eignarjarða. Hafi stefndu því gert það sennilegt að það sama eigi við um Skeiðarársand sem og aðrar eignir í Öræfum. Eignarréttur hafi stofnast í upphafi með töku og viðurkenndum aðferðum samkvæmt norrænum rétti á þjóðveldisöld og hafi ekkert land verið undanskilið milli jökuls og sjávar.

             Stefndu telja þrjú þinglýst skjöl hafa meginþýðingu í málinu. Það sé landa-merkjaskráin 5. maí 1890, afsal til Náttúruverndarráðs 13. maí 1966 og gerðar­dóm­urinn um landsskipti 25. nóvember 1969.

             Að því er landamerkjaskrána varðar benda stefndu á að skjalið hafi verið þing­lesið án þess að séð verði að komið hafi fram athuga­semdir yfirvalda. Landamerkja­bréf Núpsstaða og Svínafells hafi á sama hátt verið árituð og þing­lesin. Eigendur Skaftafells og Núpsstaðar séu einnig sammála um að miða skuli við lýsingar bréfanna en ósammála um túlkun þeirra. Þetta bendi allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Jafnframt sé ljóst að eigendur Skaftafells hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum væri þar rétt lýst. Stefndu vísa til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar um gildi landamerkjabréfa þegar um sé að ræða jörð, líkt og hér. Í landamerkjabréfum Skaftafells, Núpsstaðar og Svínafells hafi í öllum tilvikum verið afmarkað land jarða en ekki afréttarlands og skýrt tekið fram um eignarrétt alls landsins. Stefndu telja að stefnandi líti fram hjá mikilvægi þinglesinna landamerkjaskráa í stefnu þrátt fyrir að úrskurður óbyggðanefndar hafi gefið tilefni til annars.

             Stefndu vísa til sölu Jóns Stefánssonar og Ragnars Stefánssonar á jörðunum Skafta­felli II og III 13. maí 1966 í afsali hafi verið vísað til landamerkjabréfs. Í afsalinu, sem undirritað hafi verið af ráðherra í ríkisstjórn Íslands á þeim tíma, sé að finna svo fortakslausar yfirlýsingar um beinan eignarrétt þeirra Jóns og Ragnars að Skeiðarársandi, þ.e.a.s. því landi sem síðar fékk heitið Skaftafell II, að  hvaða lesandi sem er ætti ekki að velkjast í nokkrum vafa um hann. Þessu skjali hafi verið þinglýst og hafi það sönnunargildi um eignarrétt stefndu.

             Stefndu vísa til þess að landskipti hafi farið fram á óskiptu sameignarlandi bræðranna Jóns og Ragnars Stefánssona og íslenska ríkisins samkvæmt sérstökum samningi þar um sem undirritaður var af menntamálaráðherra 4. júní 1969. Hafi gerðardómsmenn lagt til grundvallar landamerkjaskrána frá 5. maí 1890.  Lýsing gerðardómsmanna í niðurstöðum sínum um skipti og aðferðir við skipti beri augljós­lega með sér að sandurinn hafi verið háður einkaeignarrétti fyrir landskiptin og alls ekki sé um afrétt að ræða í þeim skilningi að bændur hafi einungis átt þar upprekstrarrétt eða beitirétt. Tekið sé beinlínis fram að það sé verið að skipta landi, ekki afréttum, og landinu fylgi hlunnindi. Því er lýst að landið neðst á sandinum sé verðminna en það efra og þar af leiði að stærra svæði komi í hlut bræðranna en nemur 2/3 af því landi sem verið var að skipta. Stefndu vísa til þess að matsmenn hafi átt að rannsaka hvort umrætt land væri með löglegum landamerkjum og aðgreint frá landi aðliggjandi jarða, sbr. 9. gr. landskiptalaga. Þetta hafi matsmennirnir gert og hafi engar efasemdir verið um merkin á þessum tíma. Stefndu telja að forsendur land­skiptanna og sölunnar 1966 séu brostnar ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að umrætt land sé þjóðlenda.

             Ef ekki verður fallist á framangreind sjónarmið telja stefndu að þau hafi öðlast eignarrétt á svæðinu á grundvelli hefðar, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eigendur Skaftafells hafi í góðri trú haft öll umráð Skeiðarársands, a.m.k. frá á árinu 1890 og íslenska ríkið hafi viðurkennt eignarrétt eigenda Skaftafells II að sandinum með landskiptunum árið 1969. Íslenska ríkið og stofnanir þess hafi greitt landeigendum fyrir malartekju og land undir raflínur og landeigendur hafi í öllu farið með umráð landsins í skjóli óumdeilds eignaréttar og m.a. leigt beitarafnot.  Það séu komin 35 ár óvéfengjanlegra eignarumráða þannig að hefð sé fyrir löngu fullnuð.

             Stefndu vísa til forsögu laga nr. 46/1905 og tilgangs þeirra. Telja þau að niðurlag 1. gr. laganna verði ekki skilið svo að hefð verði ekki unnin á verðmætum sem ekki eru beinum eignarrétti háð. Þvert á móti verði að líta svo á að þar sem hægt sé að hefða eign einstaklings eða hins opinbera sé því fremur hægt að hefða fasteignaréttindi sem ekki eru beinum eignarrétti háð. Telja stefndu öll skilyrði hefðar uppfyllt. Vísa þau til þess að Skeiðarársandur hafi verið nýttur eins og kostur var á hverjum tíma, eigendur Skaftafells II litið á sandinn sem sína eign og hafi ýmis lögskipti farið fram á þessum grundvelli, m.a. við ríkið eins og áður greinir. Þá hafi landeigendur gert samninga vegna leitar að gullskipinu Het Wapen van Amsterdam

             Stefndu benda einnig á að umrætt svæði hafi engin tengsl við aðrar ætlaðar þjóðlendur og krafan styðjist hvorki við söguleg né landfræðileg rök. Báðum megin landsins séu sandar sem íslenska ríkið geri ekki kröfur til að verði þjóðlendur þannig að óskiljanlegt sé hvers vegna þetta land ætti frekar að vera þjóðlenda en land nágrannanna. Enn fráleitari verður krafan ef horft sé til afsalanna og landskiptanna sem áður er getið.

             Stefndu telja að í landi Skaftafells hafi aldrei verið sameignaafréttur eða sérstakt afréttarland. Engin skil hafi verið milli úthaga og afrétta. Fyrirkomulag smölunar breyti engu hér um. Þá benda stefndu á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að tilvist ítaka í fjalllendinu styrki beinan eignar­rétt þar.

             Stefndu telja að jafnvel þótt nýtingarmöguleikar umrædds lands hafi takmarkast vegna eldgosa og flóða eigi það ekki að auðvelda ríkinu að fá landið flokkað sem þjóðlendu. Auk þess megi rækta land upp og hafi Ragnar Stefánsson m.a. haft þann möguleika í huga er hann gekkst inn á það við landskiptin 1969 að fá í sinn hlut  sandinn í stað fjalllendis.

             Stefndu telja einnig að stefnandi hafi sýnt  tómlæti  gagnvart því að Skeiðarársandur væri hugsanlega almenningur eða einskis manns land.  Slíkt tómlæti eigi að leiða til þess að ríkið glati rétti.

             Að því er varðar sönnun og sönnunarbyrði taka stefndu undir með óbyggðanefnd að íslenska ríkið hafi sönnunarbyrðina fyrir því að land sem er innan þinglýstra merkja jarðar sé þjóðlenda. Stefnanda hafi ekki tekist sönnun fyrir því að umrætt svæði sé þjóðlenda. Stefnandi fari þveröfuga leið í stefnu og telji sönnunarbyrðina vera hjá stefndu með vísan til sönnunarreglna Jónsbókar að sá “er sér kallar þá jörð” skuli hafa sönnunarbyrðina. Horft sé fram hjá öllum síðari tíma sönnunarreglum og þeirri staðreynd að stefndu hafa með þinglýstum gögnum sýnt fram á að þeir eiga jörðina og þá er það ríkið með þjóðlendukröfum “er sér kallar þá jörð”.

             Stefndu vísa til þess að eignarréttur þeirra sé varinn af 72. gr. stjórnarskrár og séu skilyrði greinarinnar ekki uppfyllt fyrir skerðingu réttinda þeirra. Atlaga ríkisins gegn stefndu í þessu máli sé andstæð stjórnarskrá. Þá vísa stefndu til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda, en þinglýsta eignarheimild hafi sá sem þinglýsingabók nefni eiganda á hverjum tíma. Samkvæmt 26. gr. njóti sá sem hafi þinglýsta eignarheimild að eign einnig slíkrar heimildar að einstökum hlutum hennar. Stefndu vísa einnig til laga nr. 58/1998  og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. eldri lög um sama efni. Þá er vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905 svo sem fyrr greinir.

             Varðandi málsástæður og lagarök að öðru leyti vísa stefndu til úrskurðar óbyggðanefndar svo og kröfulýsingar sinnar og greinargerðar fyrir óbyggðanefnd.

V.

Málsástæður og lagarök ætlaðra eigenda Fjalls og Breiðármerkur

             Stefndu gera athugasemd við það að aðeins sé stefnt þeim aðilum er gerðu kröfu til óbyggðanefndar um réttindi á þrætusvæðinu. Hafi hugsanlega verið nauð­synlegt að gefa út eignardómsstefnu í samræmi við reglur laga nr. 91/1991 og komi því til greina að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi. Stefndu telja einnig að til greina komi að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi þar sem í lögum nr. 58/1998 sé ekki að finna neinar heimildir til eignarnáms og hafi óbyggðanefnd því aldrei haft  lagaheimild til að úrskurða að til þjóðlendna skuli teljast land sem nú liggur innan þinglýstra landamerkja bújarða eða afrétta þar sem lögaðilar hafa þinglýst afsal fyrir eignarrétti sínum. Stefndu vísa einnig til þess að sú málsmeðferð sem lögin geri ráð fyrir sé í andstöðu við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Hafi því borið að vísa kröfum ríkisins frá óbyggðarnefnd, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 58/1998. Leiði þetta til sjálfkrafa frávísunar málsins frá héraðsdómi.

             Stefndu vísa til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Telja stefndu, m.a. með hliðsjón af dómum Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu, að ríkisvaldið hafi með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt þeirra, t.d. með því að þinglýsa eignayfirfærslu­skjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær, og séu réttmætar væntingar þeirra verndaðar af þessum ákvæðum.

             Fallist dómurinn á þá kröfu að stefndu sé skylt að lögum að sanna eignarrétt sinn með þeim hætti að leggja fram frekari eignarheimildir en þeir gera, þá er því haldið fram að stefndu sæti mismunun sem sé andstæð stjórnarskrá. Þeim sé gert að sanna eignarrétt sinn með öðrum hætti en öðrum landeigendum í landinu. Öðrum nægi að leggja fram hefðbundin eignaskjöl lögum samkvæmt. Þessum kröfum ríkisins á hendur sumum landeigendum fylgi ónæði og kostnaður, auk þess sem kröfugerðin sem slík leiði það af sér að óvissa er um eignarréttinn sem aftur valdi verðfalli og veðgildi þeirra rýrnar. Mismunun þessi sé lögleysa sem sé andstæð stjórnarskrá og sé sjálfstæð sýknuástæða. Einnig vísa stefndu til þess að stefnandi hafi ákveðið að hlíta öðrum úrskurðum óbyggðanefndar og sé stefndu því mismunað gróflega með því að þeim einum sé stefnt til að þola aðra niðurstöðu. Það beri því að sýkna stefndu þegar á þeirri forsendu að um ólögmæta mismunun sé að ræða sem ekki standist stjórnarskrána.

             Stefndu kveða í þessu sambandi rétt að gæta að hinum almennu sönnunarreglum og því hvernig sönnunargögn eru metin en um það séu ákvæði í  VI.-XII. kafla einkamálalaga nr. 91/1991. Sú almenna regla hafi verið talin gilda í eignarrétti að sá sem haldi fram beinum eignarrétti verði að færa sönnur að eignarrétti sínum. Stefndu telja að þeir hafi sannað eignarrétt sinn með framlagningu heimildarskjala og landamerkjabréfa fyrir jörðum sínum. Eldri heimildir mæli þeim ekki í mót. Stefnandi hafi því sönnunarbyrðina fyrir því að landamerki þessara jarða séu röng, sbr. almennar niðurstöður úrskurðar óbyggðanefndar 21. mars 2002. Stefndu telja því að niðurstaða óbyggðanefndar sé rétt um að jarðirnar Fjall og Breiðármörk séu utan þjóðlendu. Stefndu kveða það jafnframt hafa orðið niðurstöðu óbyggðanefndar  að vafa um hvort land hafi verið numið í öndverðu ætti að meta landeiganda í vil, ef athugasemdalausar landamerkjagjörðir, einkum ef þær fari ekki í bág við eldri heimildir, bendi til beins eignarréttar og séu stefndu sammála þeirri niðurstöðu. Svo hagar til um land stefndu að eldri heimildir bendi til beins eignarrétar allt frá Landnámi.

             Stefndu rekja aðdraganda, setningu og nánari fyrirmæli landamerkjalaganna nr. 5/1882 og síðan 41/1919 og þá ráðagerð löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarða, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann væri fyrir hendi. Telja stefndu að sú skoðun hafi virst óumdeild við setningu þessara laga að jarðeigandi ætti fullkominn eignarrétt innan landamerkja jarðar sinnar. Vísa stefndu þessu sjónarmiði til stuðnings til ákvæða Grágásar, reglna um veiði dýra og fiska og reglna um nýtingu vatnsréttinda.

             Stefndu benda á að landamerkjalýsingar þær sem gerðar hafi verið í kjölfar landamerkjalaganna 1882 hafi víða verið byggðar á eldri heimildum svo sem máldögum, lögfestum og eldri landamerkjabréfum. Þessum lýsingum hafi síðan verið gefið aukið vægi með þinglýsingu og eftirlitsskyldu valdsmanna sem stefndu telja að leiði til þess að þarna verði til fullkomnar heimildir um landamerki og eignarrétt þinglýstra eigenda. Þess sé krafist að land sem í tugi ára hefur verið talið innan þinglýstra landamerkja jarða eða eftir atvikum í sameign einhvers tiltekins fjölda jarða teljist eignarland. Á því sé einnig byggt að venjuréttur og hefðarsjónarmið leiði til sömu niðurstöðu. Er tekið undir niðurstöður óbyggðanefndar að þessu leyti.

             Stefndu rekja sögu reglna um hefð að íslenskum rétti og vísa til þess að reglur um hefði heimili eignarhefð lands sem er í opinberri eigu. Af þessu draga stefndu þá ályktun að því frekar hljóti að vera unnt að hefða land sem er engum eignarrétti háð.  Í fyrri Landmannaafréttardómnum sé beinlínis gert ráð fyrir því að eignarhefð geti unnist á landi sem er afréttareign. Sama megi lesa úr 3. gr. laga nr. 58/1998. Telja stefndu að sjónarmið um hefð styrki eignartilkall þeirra og vísa til dóma Hæstaréttar og fræðirita í því sambandi. Benda stefndu á í þessu sambandi að því sé ekki haldið fram að umþrætt landssvæði í Öræfum hafi verið eigendalaust land fram eftir öldum, heldur liggi fyrir að landið var numið. Venjuréttur og hefð falli hér saman og eigi að leiða til þess að allar eignarheimildir jarða í Öræfum verði viðurkenndar. Þá er á það bent að hluti af þessu landi hafi verið í opinberri eigu og hafi landeigendur keypt það af ríkinu.

             Stefndu rekja lýsingar Landnámu á landnámi í Öræfum og telja að ekkert í þessum lýsingum bendi til annars en að landið hafi verið numið allt til jökla. Þetta landssvæði sé nú allt innan landamerkja jarða í Öræfum. Útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi og til dagsins í dag.  Hins vegar verði að telja eðlilegt að íslenska ríkið beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi kann að vera um hvort landnám náðu til jökla.

             Stefndu vísa til umfjöllunar óbyggðanefndar um gróðurfar og þeirrar megin­niðurstöðu að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám og jökullinn verið miklu minni. Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði  því ekki úrslit­um þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði. Sama eigi við um notkun lands. Að því er notkun lands varðar benda stefndu á að innan landamerkja hafi sérstök svæði aldrei verið skilgreind sem afréttir. Þegar rætt sé um afréttir á þessu svæði sé vísað til beitilands jarðar. Enginn afréttarmörk séu til á þessu svæði og enginn reki fé á annars land nema með leyfi landeigenda. Innan sömu jarðartorfu hafi menn hins vegar sameiginlegan beitarrétt á grundvelli sameignar. Stefndu telja ekki að reglur um afréttarmálefni og fjallskil, sbr. nú lög nr. 6/1986, haggi þessu. Þvert á móti telja stefndu þessar reglur benda til þess að um eignarlönd sé að ræða. Þannig hafi landeig­endur sjálfir séð um smölun á þessum svæðum, en ekki fjallskilastjórn, svo sem skylt er að gera með afrétti, sbr. 49. gr. laga nr. 6/1986 sbr. 51 gr. Er því mótmælt öllum sjónarmiðum um að til séu einhvers konar almenningsafréttir innan jarðanna sem og kenningum um að land á þessu svæði hafi verið numið til afnota.

             Stefndu vísa til þess að frá því að áhugi fór að myndast á annarri starfsemi en kvikfjárrækt hafi verið litið á það sem sjálfsagðan hlut að landeigendur þyrftu að veita leyfi til nýtingar umræddra svæða. Stefndu telja ekki að dómar Hæstaréttar í opinberum málum sem varða réttarstöðu landssvæða hafi fordæmisgildi í málinu og taka undir niðurstöður óbyggðanefndar hvað það varðar.

             Stefndu mótmæla gagnrýni stefnanda á úrskurð óbyggðanefndar og sjónar­miðum hans að öðru leyti. Þá er vísað til þess að kröfugerð ríkisins sé úr hófi og brjóti hún í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga auk þess sem því er haldið fram að stefnandi fari út fyrir tilgang laga nr. 58/1998 með kröfugerðinni og sé hún lögleysa sem vísa beri frá dómi af sjálfsdáðum. Stefndu telja að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landssvæða sem enginn hefur skjöl fyrir að hann eigi, en svo háttar til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Óbyggðanefnd eigi að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu, en fráleitt sé að hún geti svipt menn þinglýstum eignarrétti. Með því að stefndu hafi lagt fram landamerkjabréf sem styðjast við eldri heimildir og með vísan til fasteignamata og fleiri opinberra upplýsinga þá komist óbyggðanefnd að hárréttri niðurstöðu um það að sönnunarbyrðin færist yfir á ríkið um að land sé þjóðlenda. Engar heimildir séu um afrétti eða almenninga á hinu umþrætta svæði heldur bendi allar ritaðar heimildir til þess að allt land í Öræfum hafi allt frá landnámi tilheyrt ákveðnum jörðum. Ljóst virðist að landið hafi verið skattlagt sem eignarland það selt og það veðsett sem slíkt samkvæmt elstu heimildum. Að öðru leyti er vísað til úrskurðar óbyggðanefndar og til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar.

 

Málsástæður og lagarök varðandi Breiðármörk

             Stefndu vísa til sögu jarðarinnar og landamerkja, eins og þau birtist í heimildum um jörðina.

             Að því er varðar sjónarmið stefndu, Kvískerja ehf. (sem eiganda að hálfri jörðinni), er vísað til þinglýsts afsals til Björns bónda á Kvískerjum 26. febrúar 1937 og svo á þeim skjölum sem rekja rétt núverandi eigenda til afsals Björns.

             Að því er varðar sjónarmið eigenda Fells, (sem eigenda að hálfri jörðinni á móti Kvískerjum ehf.) er byggt á afsali til Eyjólfs Runólfssonar, dags. 31. maí 1891 og 1. mars 1890 sem aftur byggist á eldri heimildum svo sem máldögum og vísitasíum. Sérstaklega er vísað til lögfestu Hofs frá 1851. Samkvæmt þessum heimildum sé ljóst að allt land jarðarinnar sé háð beinum eignarrétti. Einnig er vísað til þinglýstrar landamerkjaskrár fyrir jörðina Hof 15. júlí 1922 og þinglýst sama dag og þinglýstrar landamerkjaskrár milli jarðanna Fells í Borgarhafnarhreppi og Breiðumerkur í Hofshreppi 13. maí 1922, þinglesin 13. júlí 1922.

             Samkvæmt ofangreindum heimildum telja stefndu sig hafa óskoraðan eignar­rétt fyrir þessari eignarjörð sinni með öllum gögnum og gæðum, m.a. á grundvelli hefðar. Eigendur hafi farið með öll hefðbundin eignarréttindi jarðarinnar, sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi bannað öðrum not eignarinnar. Þá hafi þeir borgað af allri eigninni lögboðin gjöld, þ.m.t. eignarskatta. Að öðru leyti er vísað til niðurstöðu óbyggðanefndar.

             Stefndu vísa til þess að því sé ómótmælt af stefnanda að svæðið innan landamerkja jarðarinnar hafi verið numið. Land jarðarinnar Breiðármerkur sé einnig greinilega allt innan landnáms skv. landnámslýsingum, sbr. og máldaga Maríukirkju á Breiðá frá 1343. Eignarréttarkrafa ríkisins virðist því fyrst og fremst byggjast á því að eignarrétturinn hafi fallið niður. Slíkt sé þó fráleitt í ljósi þeirra heimilda er við njóti, enda hægt að rekja lögskiptin allt aftur til þess er biskupinn í Skálholti seldi jörðina til einkaaðila 3. ágúst 1525 að undaskildum stórreka. Sjónarmiðum ríkisins um að landnám hafi ekki náð lengra en að upptökum Kvíár og Jökulsár er mótmælt sem haldlausum og vísað til þess að landamerki á þessu svæði séu almennt við jökul­röndina, þó þess sé ekki getið í landamerkjabréfum.

             Stefndu vísa til þess að smölun sauðfjár hafi ætíð verið skipulögð af landeigendum en ekki opinberum aðilum, enginn hafi getað nýtt landið til beitar, hvað þá annars, nema með samningum við landeigendur. Breiðamerkurfjara hafi verið nýtt af landeigendum einum, eins og venja er um fjörur á Íslandi. Nytjar af þessu landi hafi verið og geti í framtíðinni verið margvíslegar og hafa verði í huga breyttar áherslur í atvinnurekstri á þessu svæði þegar nytjar landsins eru skoðaðar.

             Ljóst sé að afsal Kvískerjamanna styðjist við eldri heimildir, en ekki sé hægt að rekja lögskipti að baki þeim nákvæmlega. Þann vafa beri hins vegar að meta land­eiganda í vil samkvæmt almennum niðurstöðum óbyggðarnefndar. Hins vegar byggi eignarhaldið á fullnaðri hefð.

             Réttur eigenda Fells til réttinda í Breiðamerkurfjöru sé hins vegar rakinn til stórrekans sem undan var skilinn við sölu Skálholtsstóls til einkaaðila árið 1525 og til afsala frá Hofsmönum. Þann vafa sem kunni að vera fyrir hendi beri að meta landeiganda í vil samkvæmt almennum niðurstöðum óbyggðarnefndar, m.a. með vísan til meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnarskrár.

 

Málsástæður og lagarök varðandi Fjall

             Stefndu vísa til sögu jarðarinnar og landamerkja, eins og þau birtist í heimildum um jörðina.

             Stefndu byggja á þinglýstum afsölum og skráningu í fasteignamatsbækur,  en einnig er vísað til  jarðabókar Ísleifs Einarssonar 1709, þar sem segi að Fjall sé Hofskirkjueign. Hafi jörðin lagst til Hofskirkju þegar hún fór í eyði um 1400, sbr. máldaga frá 1387 og máldaga Gísla Jónssonar biskups 1570,  sbr. vísitasíu Brynjólfs biskups dags. 1641 og vísitasíu Jóns biskups Árnasonar 1727. Vísað er til sáttargjörðar milli jarðanna Fells og Hofs um landamerki frá 8. júní 1854. Sérstaklega er vísað til lögfestu Hofs, 1851. Samkvæmt þessum heimildum sé ljóst að allt land jarðarinnar sé háð beinum eignarrétti, sbr. þinglýsta landamerkjaskrá fyrir jörðina Hof, dags. 15. júlí 1922,  og þinglýst sama dag.    

             Stefndu telja sig hafa sýnt fram á eignarrétt sinn að umræddri jörð en vísa að öðrum kosti til hefðar. Þeir vísa til þess að þeir hafi farið með öll hefðbundin eignarréttindi jarðarinnar, sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi bannað öðrum not eignarinnar. Þá hafi þeir borgað af allri eigninni lögboðin gjöld, þ.m.t eignarskatta.

             Land jarðarinnar Fjalls sé greinilega allt innan landnáms, enda landnámsjörð, og byggist krafa ríkisins á því að eignarrétturinn hafi fallið niður. Slíkt sé þó fráleitt í ljósi þeirra heimilda er við njóti, enda hægt að rekja lögskiptin allt aftur til máldaga 1387 svo sem fyrr greinir. Því er mótmælt sem haldlausu að landið hafi ekki verið numið að öllu leyti og vísað til fyrri sjónarmiða um að almenningsafréttir hafi ekki tíðkast á því svæði sem hér um ræði. Þá benda stefndu á að stefnandi virðist hafa fallist á þetta sjónarmið varðandi aðrar jarðir í Öræfum og stefndu því mismunað gróflega. Telja stefndu að landamerki til norðurs séu við jökulröndina. Sé venja að líta svo á, þó þess sé ekki getið í landamerkjabréfum.

             Landamerki Fjalls séu mjög gömul, enda jörðin á landnámsmörkum, en jarðar­innar sé getið í fornum ritum. Núverandi landamerki séu þinglýst athugasemdalaust og hafi verið viðurkennd af öllum aðilum, þ.m.t. hinu opinbera um áratugaskeið. Smölun sauðfjár hafi ætíð verið skipulögð af landeigendum, en ekki opinberum aðilum, enginn hafi getað nýtt landið til beitar, hvað þá annars, nema með samningum við landeigendur. Sé þetta ein sönnun þess að land þetta sé háð beinum eignarrétti. Þá hafi Fjallsfjara verið nýtt af landeigendum einum eins og venja sé um fjörur á Íslandi.

             Því er mótmælt að umrædd jörð hafi verið ónýtt til landbúnaðar og vísað til þeirra nota sem áður greinir. Ríkið verði að bera hallann af því að ekki sé sannað með hvaða hætti Hofskirkja eignaðist jörðina Fjall. Líklegast sé að hún hafi  fengið hana gefins eða keypt hana. Það skipti ekki máli því gerningurinn sé lögfestur í máldag­anum frá 1387 og því byggist eignatilkallið einnig á ómunahefð. Hofsmenn fái svo enn skilríki fyrir eignatilkalli sínu með lögfestunni. Þeir eignist því jörðina með sama hætti og fyrri eigendur áttu hana, með öllum gögnum og gæðum. Enginn hafi átt þar nokkurn rétt nema eigendur jarðarinnar sem hafi verið þeir sömu og eigendur Hofs frá ómunatíð.

VI.

Niðurstaða um formhlið málsins

             Ekki eru efni til þess að vísa máli þessu í heild sjálkrafa frá dómi með vísan til þess að nauðsynlegt hafi verið að gefa út eignardómsstefnu í málinu í samræmi við XVIII. kafla laga nr. 91/1991 eða vegna þess að óbyggðanefnd hafi skort stjórnskipulega gilda lagaheimild til að kveða upp umræddan úrskurð. Hins vegar koma til sérstakrar skoðunar kröfur stefnanda að því leyti sem þeim er beint gegnum honum sjálfum.

             Eins og nánar greinir í úrskurði óbyggðanefndar voru jarðirnar Skaftafell I (Bölti), Skaftafell II (Sel) og Skaftafell III (Hæðir) seldar Náttúruverndarráði vegna ríkissjóðs árið 1966. Við söluna á Skaftafelli II og III var Skeiðarársandur undanskilinn og þau hlunnindi sem honum og fjörunni fylgdu. Árið 1969 fóru fram landsskipi á óskipu sameignarlandi ríkisins og eigenda Skaftafells II og III. Samkvæmt úrskurði matsnefndar 25. nóvember 1969 urðu skiptin þessi:

Landamerki lands Ragnars Þ. Stefánssonar og Jóns Stefánssonar á Skeiðarársandi ákvarðast af tveimur línum frá föstum punkti, sem settur skal ofan þjóðvegar, 15 metrum norður frá miðlínu vegarins og í 225 metra fjarlægð mælt austur eftir veginum frá þeim stað, þar sem hann mætir heimreið neðan túngirðingar Skaftafells. Frá þessum fasta punkti eru norðurmörk fyrir landi Ragnars og Jóns Stefánssona bein sjónhending að Hlíðarrótum Hafrafells á mótum fjalls og sandsins og sama sjónhending, þar til lína sker landamerki Skaftafells og Svínafells. [/] Frá hinum fasta punkti B á uppdrættinum, sem áður er nefndur ofan þjóðvegarins, liggja mörkin beina sjónhending til suð-vesturs að punkti C, þar sem hin beina lína sker landamerki Skaftafells og Núpsstaðar milli Sigurðarfitjarála og Sandgígjukvíslar. Að öðru leyti takmarkast land þetta að vestan af þinglýstum landamerkjum Núpsstaðar og Skaftafells, sunnan hins síðastnefnda skurðpunktar. Að sunnan af sjó, að austan af þinglýstum mörkum Svínafells og Skaftafells að fyrrnefndum skurðpunkti A austur af suðurenda Hafrafells. Merkin eru innfærð á meðfylgjandi uppdrátt með brotnum línum í rauðum lit.

 

         Þá liggur fyrir að árið 1978 seldu eigendur Skaftafells II og III Náttúrverndarráði landsspildu úr eignarlandi sínu í grennd við þjónustumiðstöð Náttúrverndarráðs. Er það svæði utan þjóðlendu samkvæmt kröfugerð stefnanda og kemur það ekki frekar til skoðunar. Þá er kveðið á um mörk þjóðgarðsins í Skaftafelli í reglugerð nr. 319/1984 sem í meginatriðum fellur saman við umræddan úrskurð. Til skýringar athugast að samkvæmt gögnum málsins hefur sá hluti Skaftafellsjarðarinnar sem skipt var frá landi Náttúruverndarráðs árið 1969 verið kallaður Skaftafell II. Hefur á þessum hluta verið reist nýbýlið Freysnes og er þar rekin gistiþjónusta.

         Samkvæmt framangreindu er ágreiningslaust í málinu að samkvæmt landsskiptum eigenda jarðarinnar Skaftafells á íslenska ríkið, sem eigandi Skaftafells I og III, eitt tilkall til þess lands sem í grófum dráttum er kennt við Hafrafell, Hrútsfjall, Morsárdal og loks Skaftafellsfjöll. Að því er þetta svæði varðar liggur því fyrir að stefnandi hefur uppi kröfu gegn sjálfum sér um að hann þoli dóm um viðurkenningu á því að svæðið sé þjóðlenda í stað þess að vera eignarland. Því er lýst yfir í stefnu að íslenska ríkið, sem eitt af stefndu í málinu, taki undir kröfur stefnanda að þessu leyti.

         Á það verður fallist með óbyggðanefnd að af lögum nr. 58/1998 verði ráðið að eignarland verði ekki gert að þjóðlendu með því að eigandi afsali sér eignarráðum sínum og skiptir engu í því sambandi hvort eigandinn er íslenska ríkið eða einhver annar. Eru efnisákvæði laga nr. 58/1998 að þessu leyti ófrávíkjanleg og leiðir af rannsóknarskyldu óbyggðanefndar að henni ber að taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort land er þjóðlenda eða ekki, án tillits til afstöðu þeirra sem telja til réttinda yfir landi. Einnig verður á það fallist að ekki felist sérstök heimild í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 58/1998 til handa fjármálaráðherra til að ákveða að tiltekið land, sem ríkið hefur öðlast og farið með sem eign sína á einkaréttarlegum grundvelli, verði þjóðlenda í skilningi 1. gr. laganna. Er þannig ljóst að stefnandi hefur ekki forræði á því hvort umrætt landssvæði sé þjóðlenda eða ekki, jafnvel þótt enginn annar en stefnandi geti gert tilkall til einkaeignarréttar á svæðinu. Í samræmi við þetta er stefnanda hvorki heimilt að lýsa því einhliða yfir að umrætt landssvæði sé þjóðlenda né gera dómsátt þessa efnis við sjálfan sig, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 91/1991,  í þeim tilgangi að fá úrskurði óbyggðanefndar hnekkt. Er það því niðurstaða dómsins að lagalegri stöðu umrædds svæðis sem eignarlands verði ekki breytt nema með settum lögum.

         Það er andstætt meginreglum réttarfars um aðild að dómsmálum að sami aðili hafi uppi kröfur gegn sjálfum sér, sbr. m.a. annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1981, bls. 181 (189). Þá væri það jafnframt andstætt meginreglu réttarfars um forræði aðila einkamáls á sakarefninu, ef dómurinn tæki til efnislegrar úrlausnar kröfu stefnanda, að því er varðar umrætt landssvæði, án þess að henni hefði verið mótmælt og varnir hafðar uppi. Það er því álit dómsins að í kröfugerð stefnanda felist krafa um að dómurinn breyti lagalegri stöðu umrædds svæðis úr eignarlandi í þjóðlendu með vísan til yfirlýsinga stefnanda til varnar. Slík breyting er hins vegar eingöngu á færi löggjafans, líkt og áður greinir. Samkvæmt þessu á sakarefni málsins, að því er varðar umrætt landssvæði, ekki undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfum stefnanda gegn sjálfum sér því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi af þessum ástæðum.

VII.

Niðurstaða um stjórnskipulegt gildi laga nr. 58/1998

             Lög nr. 58/1998 kveða á um sérstaka málsmeðferð sem hefur það að meginmarkmiði að ganga úr skugga um hvaða landsvæði teljast utan eignarlanda einstaklinga og lögaðila og þannig til þjóðlenda, sbr. 1. gr. laganna. Með lögunum eru ekki gerðar ríkari kröfur til sönnunar fyrir eignarrétti að landi en leiðir af almennum réttarreglum. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur verða lög nr. 58/1998 skýrð til samræmis við stjórnarskrána og alþjóðlegar reglur um mannréttindi, þar á meðal reglur um vernd eignarréttarins. Að þessu virtu verður ekki talið að lög nr. 58/1998 eða tilteknar heimildir óbyggðanefndar samkvæmt lögunum séu andstæðar 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, eða almennum jafnræðisreglum. Með vísan til VI. kafla dóms Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004 verður enn fremur ekki fallist á að réttlát málsmeðferð hafi ekki verið tryggð fyrir óbyggðanefnd, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. laga nr. 97/1995, og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

VIII.

Niðurstaða um kröfur stefnanda vegna Skaftafells II

             Í máli þessu liggur fyrir ódagsett landamerkjabréf Skaftafells, þinglýst 5. maí 1890. Í málinu er ágreiningslaust, að sá hluti Skeiðarársands, sem stefnandi gerir kröfu um að viðurkenndur verði sem þjóðlenda, er innan merkja Skaftafells samkvæmt umræddu landamerkjabréfi. Þá er lýsing merkja í bréfinu í samræmi við lýsingu merkja í aðliggjandi jörðum, þ.e. Svínafells í Öræfum til austurs og Núpstaðar í Fljótshverfi til vesturs. Eins og málið liggur fyrir er þýðingarlaus ágreiningur eigenda Skaftafells og Núpstaðar um túlkun landamerkjabréfsins, að því er varðar landamerki Skaftafells og Núpstaðar frá sjávarmáli á Skeiðarársandi til Súlutinda.

         Samkvæmt framangreindu er hér um að ræða jörð sem afmörkuð er með landamerkjum í sjálfstæðu landamerkjabréfi. Í samræmi við dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004 verður að líta svo á að umrætt landamerkjabréf nægi ekki eitt og sér til að sanna beinan eignarrétt að umræddu landssvæði, enda gátu menn ekki aukið einhliða við land sitt með gerð landamerkjabréfs umfram það sem verið hafði. Verður því að líta til þess hvort fyrir hendi eru önnur atriði sem stutt geta lýsingu gagna málsins um landamerki og fullyrðingar um einkaeignarétt að jörðinni. Verður þá einkum að líta til þess hvort fyrir hendi eru eldri heimildir, sem fallið geta að lýsingu landamerkja, enda stangist sú lýsing ekki heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins. Af niðurstöðu dómsins í kafla VI leiðir að eingöngu kemur til skoðunar það svæði innan landamerkja Skaftafells sem er sunnan þeirrar línu sem mörkuð var með landskiptum eigenda Skaftafellsjarðarinnar 25. nóvember 1969 að því marki sem þetta svæði er innan kröfugerðar stefnanda. Í grófum dráttum er því hér um að ræða þann hluta Skeiðarársands í Skaftafellslandi sem liggur laust fyrir sunnan endimörk Skeiðarárjökuls og fyrir vestan Skeiðará allt að austurmörkum þess svæðis sem fjallað var um í úrskurði nr. 1/2001.

         Á það verður fallist með óbyggðanefnd að af lýsingum Landnámu á landnámi Fljótshverfis og Ingólfshöfðahverfis verði ekki dregin sú afdráttarlausa ályktun að á milli Núpsvatna og Skeiðarár hafi ekki verið stofnað til eignarréttar með námi í öndverðu. Eins og nánar er lýst í úrskurði óbyggðanefndar taka eldri heimildir ekki af tvímæli um landamerki Skaftafells til forna, en mæla þó ekki gegn lýsingu landamerkjabréfsins. Þá telur dómurinn gögn málsins benda eindregið til að eigendur Skaftafells hafi um langt skeið litið á umrætt svæði sem sína eign og farið með það sem slíkt án athugasemda annarra. Verður ekki séð að eignarréttur Skaftafells að því svæði sem hér um ræðir hafi verið dreginn í efa fyrr en með kröfugerð íslenska ríkisins í árslok 2000 sem sett var fram á grundvelli laga nr. 58/1998.

         Umrætt svæði er áhrifasvæði jökulvatna, einkum Skeiðarár, sem ljóst er að hafa breytt farvegi sínum, stundum verulega, frá því við landnám. Eru hlutar umrædds svæðis örfoka land vegna ágangs jökulvatna, ekki síst sá hluti þess sem liggur austan með Gígjukvísl. Þrátt fyrir þetta liggur fyrir að aðrir hlutar sandsins hafa löngum verið nýttir til beitar sauðfjár, sláttar á melgresi, auk þess sem dæmi eru um að hann hafi verið nýttur til efnistöku við vegagerð síðustu áratugi. Að því er varðar hin gróður­lausu svæði hefur ekkert verið fært fram af hálfu stefnanda sem leggja mætti til grundvallar við nánari afmörkun þessara svæða sem þjóðlendna. Þá fær það hvergi stoð í gögnum málsins að þessir hlutar sandsins hafi haft sérstaka eignarréttarlega stöðu innan merkja Skaftafellslands. Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um staðhætti, gróðurfar og nýtingu á sandinum frá landnámi til okkar daga telur dómurinn því ekki að umrætt svæði sé þess eðlis að ólíklegt eða útilokað sé að það hafi verið numið í öndverðu. Er það jafnframt niðurstaða dómsins að ekki komi til greina að skilja frá svæðinu tiltekna skika sem hafa verið gróðurlausir og lítt nýtanlegir um langt skeið.

         Með hliðsjón af framangreindum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum um staðhætti, gróðurfar og nýtingu, telur dómurinn að eigendur Skaftafells hafi um langt skeið haft réttmæta ástæðu til að ætla að umrætt svæði væri fullkomin eign þeirra. Hafa þeir þannig nýtt svæðið eftir því sem tilefni hefur gefist til á hverjum tíma og ráðstafað því með hverjum þeim hætti sem eiganda var heimilt, t.d. með leigu á beitarréttindum og sölu á efni, auk þess að greiða af svæðinu lögbundna skatta og gjöld. Þá hafa þau margvíslegu lögskipti sem eigendur Skaftafells hafa átt við íslenska ríkið og stofnanir þess verið til þess fallin að styrkja þessar væntingar. Verður í þessu sambandi að vísa sérstaklega til landsskipta jarðarinnar Skaftafells, sbr. úrskurð matsnefndar 25. nóvember 1969, sem stefnandi var aðili að án þess að gera athugasemdir um eignarréttarlegu stöðu Skaftafellslands.

         Að mati dómsins verður ekki fram hjá því litið við úrlausn málsins að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greinir, njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannrétt­inda­sátt­mála Evrópu sem lögfestur var með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verður eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felast í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greinir í umræddum eignarréttar­ákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum nr. 58/1998 bera skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafa aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni. Verða lög nr. 58/1998 því ekki skýrð á þá leið að eigendur Skaftafells II þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hefur verið gert, að umrætt landssvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu. Verða eigendur Skaftafells II því sýknaðir af kröfu stefnanda.

IX.

Niðurstaða um kröfur stefnanda vegna Fjalls

             Í málinu er ágreiningslaust að jörðin Fjall var numin í öndverðu og stofnaðist þannig til fullkomins einkaeignarréttar yfir jörðinni. Hins vegar heldur stefnandi því fram að þessi eignarréttur hafi fallið niður þegar jörðin fór í eyði vegna ágangs Breiðamerkurjökuls og jökulvatna.

         Í máli þessu liggur fyrir landamerkjabréf Hofs 15. júlí 1922 og þinglýst sama dag, en þar er meðal annars lýst merkjum jarðarinnar Fjalls. Er bréfið áritað af eigendum Kvískerja, sem á merki vestan að jörðinni, og fer lýsing bréfsins einnig saman við lýsingu á merkjum Breiðármerkur, sem liggur austan við Fjall.

         Samkvæmt framangreindu er hér um að ræða jörð sem afmörkuð er með landamerkjum, enda þótt þessi merki sé ekki að finna í sjálfstæðu landamerkjabréfi fyrir jörðina. Í samræmi við dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004 verður að líta svo á að umrædd gögn nægi ekki ein og sér til að sanna beinan eignarrétt að umræddu landssvæði, enda gátu menn ekki aukið einhliða við land sitt með gerð landamerkjabréfs umfram það sem verið hafði. Gildir þá einu hvort um var að ræða land sem verið hafði eigandalaust frá upphafi eða jarðir sem fallið höfðu í eyði, líkt og hér um ræðir. Verður því að líta til þess hvort fyrir hendi eru önnur atriði sem stutt geta lýsingu gagna málsins um landamerki og fullyrðingar um einkaeignar­rétt að jörðinni. Verður þá einkum að líta til þess hvort fyrir hendi eru eldri heimildir, sem fallið geta að lýsingu landamerkja, enda stangist sú lýsing ekki heldur á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins.

         Núverandi eignarheimild eigenda Hofs að jörðinni verður fyrst og fremst rakin til lögfestu Hofs frá 1851, en í heimildum allt frá 14. öld er þó getið um að Fjall tilheyri Hofi með einum eða öðrum hætti. Eins og fram kemur í úrskurði óbyggðanefndar eru heimildir um merki jarðarinnar Fjalls fyrir gerð landamerkjabréfsins 1922 bæði litlar og óljósar, en mæla þó ekki gegn lýsingu landamerkjabréfsins. Þá er einnig ljóst að ekki er unnt að sannreyna eignarheimildir eigenda Hofs að Fjalli með því að rekja þær aftur til landnáms. Hins vegar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að eigendur Hofs hafi verið í góðri trú þegar þeir lýstu yfir eignarrétti sínum að Fjalli með lögfestunni árið 1851, enda var lögfestan athugasemdalaus að þessu leyti. Eignarréttur Hofs að Fjalli var svo áréttaður í samningum við eigendur Fells árið 1854 sem áður greinir. Hefur jörðin fylgt Hofi athugasemdalaust síðan.

         Samkvæmt framangreindu verður ráðið að eigendur Hofs hafi um langt skeið litið á umrædda jörð, eins og henni er lýst í framangreindu landamerkjabréfi, sem sína eign og farið með hana sem slíka án athugasemda annarra. Kemur því næst til skoðunar hvort staðhættir, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins mæli gegn því að um eignarrétt umræddra aðila geti verið að ræða.

         Ljóst er af gögnum málsins að gróðurfari og nýtingarmöguleikum umræddrar jarðar hrakaði mjög á 18. og 19. öld vegna ágangs jökla og jökulvatna. Má leiða að því líkum að á ofanverðri 19. öld hafi nýtingarmöguleikar jarðarinnar fyrst og fremst falist beit svo og reka og öðrum fjörunytjum. Að virtum gögnum málsins telur dómurinn þó ekki annað komið fram en að eigendur jarðarinnar á hverjum tíma hafi litið svo á að þeir ættu umrædda jörð fullkomnum eignarrétti, þrátt fyrir að nýtingarmöguleikar væru takmarkaðir. Verður einnig að telja að eigendur hafi nýtt jörðina eins og sína eign, eftir því sem aðstæður leyfðu á hverjum tíma. Getur það eitt að möguleikar til nýtingar lands verði takmarkaðir ekki leitt til þess að land verði eigendalaust og að þjóðlendu, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Samkvæmt þessu verður ekki talið að staðhættir, gróðurfar og nýtingarmöguleikar útiloki eignarrétt að umræddu landssvæði.

         Líkt og áður segir er ekki unnt að rekja með vissu sögu núverandi eignarheimilda Fjalls til landnáms. Hvað sem líður uppruna og sögu þessara heimilda telur dómurinn þó ljóst af öllu framangreindu að fullnægt er skilyrðum fyrir hefð, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varðar eignarrétt að jörðinni. Athugast í þessu sambandi að því er ómótmælt af hálfu stefnanda að jörðin Fjall hafi verið numin í öndverðu og þannig verið háð fullkomnum eignarrétti. Með vísan til afstöðu eigenda og nýtingar þeirra telur dómurinn einnig fram komið að sú hefð hefur verið til eignar á umræddri jörð, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda. Þegar af þessari ástæðu verður ekki á það fallist með stefnanda að jörðin Fjall sé þjóðlenda. Kemur þá til skoðunar afmörkun jarðarinnar til norðurs, þ.e. gagnvart Öræfajökli.

         Samkvæmt fyrrgreindu landamerkjabréfi fellur meðal annars undir jörðina Hof (sem eiganda Fjalls) „Breiðármerkurfjall allt“. Þá er vesturmerkjum jarðarinnar lýst svo að þar ráði „[t]oppurinn á Miðaftanstindi á Breiðármerkurfjalli sem beri í skarðið á Eiðnatindi í sama fjalli“. Austurmörkum (bæði fjörumörkum og landmörkum) er lýst þannig að „[h]ærri þúfan á Mávabyggðum skal bera austan í Múlahöfuðið sem er fremst austan á Breiðármerkurfjalli“. Er samkvæmt þessu ljóst að Breiðármerkurfjall fellur innan landamerkjalýsingar fyrir Fjall og verður fallist á þann skilning á landamerkjalýsingunni, sem fram kemur í úrskurði óbyggðanefndar, að merki jarðarinnar nái allt að jökulrönd til norðurs.

         Á það verður fallist með óbyggðanefnd að engar heimildir eða önnur atriði, svo sem staðhættir, gróðurfar eða nýting, gefi tilefni til þess að ætla að land innan landamerkja Fjalls hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu. Þá verður ekki fram hjá því horft að stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum ekki fært fram heimildir sem leggja mætti til grundvallar við nánari afmörkun hluta Fjalls sem þjóðlendu. Telur dómurinn að án slíkra heimilda komi ekki til greina að leggja landfræðilega sérstöðu Breiðamerkurfjalls eingöngu til grundvallar.

         Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að fella úr gildi úrskurð óbyggðanefndar að því er varðar jörðina Fjall. Verða eigendur Hofs því sýknaðir af kröfum stefnanda.

         Stefndu hafa ekki fyrir sitt leyti krafist ógildingar úrskurðar óbyggðanefndar með höfðun gagnsakar. Getur því ekki komið til skoðunar sú niðurstaða óbyggðanefndar að miða þjóðlendumörk við Fjall við jökuljaðarinn, eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998 1. júlí 1998.

X.

Niðurstaða um kröfur stefnanda vegna Breiðármerkur

         Í málinu er ágreiningslaust að jörðin Breiðármörk var numin í öndverðu og stofnaðist þannig til fullkomins einkaeignarréttar yfir jörðinni. Hins vegar heldur stefnandi því fram að þessi eignarréttur hafi fallið niður þegar jörðin fór í eyði vegna ágangs Breiðármerkurjökuls og vatna. Þá gerir stefnandi athugsemdir við það hvernig jörðin er afmörkuð gagnvart þjóðlendu í átt til jökuls.

         Eins og áður greinir liggur fyrir í málinu landamerkjabréf Hofs, dagsett 15. júlí 1922 og þinglýst sama dag, en þar er meðal annars lýst merkjum jarðarinnar Fjalls gagnvart Breiðármörk. Merkjum Breiðármerkur og Fells í Suðursveit er lýst í landamerkjaskrá 13. maí 1922, þinglýstri 13. og 15. júlí sama árs. Hefur áður verið gerð grein fyrir endimörkum jarðarinnar samkvæmt þessum gögnum.

         Samkvæmt framangreindu er hér um að ræða jörð sem afmörkuð er með landamerkjum, enda þótt þessi merki sé aðeins að hluta til að finna í sjálfstæðu landamerkjabréfi jarðarinnar. Í samræmi við dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004 verður að líta svo á að umrædd gögn nægi ekki, ein og sér, til að sanna beinan eignarrétt að umræddu landssvæði, enda gátu menn ekki aukið einhliða við land sitt með gerð landamerkjabréfs umfram það sem verið hafði. Gildir þá einu hvort um var að ræða land sem verið hafði eigandalaust frá upphafi eða jarðir sem fallið höfðu í eyði, líkt og hér um ræðir. Verður því að líta til þess hvort fyrir hendi eru önnur atriði sem stutt geta lýsingu gagna málsins um landamerki og fullyrðingar um einkaeignarrétt. Verður þá einkum að líta til þess hvort fyrir hendi eru eldri heimildir, sem fallið geta að lýsingu landamerkja, enda stangist sú lýsing ekki heldur á við stað­hætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins.

             Líkt og áður er rakið er óvissa um hvort og þá hvernig yfirfærslu eignarréttinda að Breiðármörk hefur verið háttað. Samkvæmt jarðabókinni 1804-5 er jörðin þá að hálfu í eigu konungs og að hálfu í eigu Gísla Halldórssonar, en undan jörðinni hafði þá verið skilinn svokallaður „Skálholtsreki“. Hluti konungs í jörðinni mun hafa verið seldur 1836, en ekki er vitað hverjum. Sá hluti sem tilheyrði Gísla Halldórssyni (bændaparturinn) virðist hins vegar vera í eigu erfingja hans um árið 1876 þegar Gísli Þorsteinsson falast eftir honum. Í gögnum málsins kemur ekkert fram um að Gísli eða afkomendur hans hafi haft afskipti af málefnum jarðarinnar, t.d. þeim ágreiningsmálum milli eigenda Hofs og eigenda Fells um Breiðamerkurfjöru sem risu 1851 og síðar greinir. Hins vegar kemur heldur ekkert fram í gögnum málsins að þessi hluti jarðarinnar hafi verið seldur úr ætt Gísla. Getgátur eru uppi um að Björgvin Vigfússon sýslumaður, eiginmaður eins af afkomendum Gísla Halldórssonar, hafi talið sig selja þennan hluta (bændapartinn) til eigenda Kvískerja árið 1937.

         Að því er varðar yfirfærslu þess hluta jarðarinnar, sem tilheyrði konungi, eftir að konungur seldi árið 1836 verður ekki ráðið af gögnum málsins með vissu. Eins og áður er rakið gerðu eigendur Hofs tilkall til hálfrar jarðarinnar, „með tilheyrandi fjöru, veiðistöðum og öllum landsnytjum“ með lögfestu sinni 1851, en ekkert í gögnum málsins sýnir með óyggjandi hætti fram á að þeir hafi þá verið búnir að eignast umræddan konungspart jarðarinnar. Af framanlýstum atvikum málsins verður að telja ólíklegt að sá helmingur, sem Hofsmenn töldu sig eiga, hafi verið hluti Gísla Halldórssonar. Í framhaldi af lögfestu Hofs gerðu eigendur Fells lögfestu sama ár. Kemur þar fram að Breiðamerkurá (sem þá rann til sjávar) skipti löndum á milli Fells og Öræfa líkt og einnig kemur fram í lögfestu Hofs. Hins vegar verður ráðið af lögfestu Fells að eigendur Fells hafi talið sig eiga fjöru „allt til marka á millum Breiðamerkur- og Fjallsfjöru“. Segir í lögfestunni að „öll sú fjara er liggur á milli nefndra landamerkja [sé] einasta Fellinu tilheyrandi að frátekinni Breiðamerkurfjöru, hvor tekin er sem ítak af öðrum enda fjöru jarðarinnar Fells og liggur fyrir hennar heimalandi“. Að mati dómsins verður þessi yfirlýsing tæplega skilin svo að eigendur Fells hafi talið sig eiga eignarrétt að landi Fjalls. Þá virðist yfirlýsingin bera með sér að um sé að ræða ítaksrétt í Breiðamerkurfjöru og helgist réttur Fells til fjörunnar því ekki af beinum eignarrétti að jörðinni eða hluta hennar. Hvað sem óvissu um þessi atriði líður liggur fyrir að eigendur Hofs og Fells gerðu með sér samkomulag árið 1854 um að „öll grasnyt og virkilegur eignarréttur,“ allt að austurmörkum Fjallsfjöru og þaðan sjónhending í Svörturák á Breiðamerkurjökli, skyldi falla til Fells. Ef um eignarrétt Hofs að konungspartinum í Breiðármörk hefur verið að ræða hefur hann samkvæmt þessu flust til eigenda Fells með þessu samkomulagi. Um 1857 er svokallaður Skálholtsreki seldur Þorsteini Einarssyni, eiganda Fells, og virðist óbyggðanefnd líta svo á að upp frá því hafi Skálholtsrekinn fylgt með í yfirfærslugerningum vegna Fells.

         Samkvæmt framangreindu er ekki unnt að sannreyna uppruna eignarheimilda eigenda Kvískerja og Fells yfir Breiðármörk. Jafnframt eru eldri heimildir um merki jarðarinnar bæði litlar og óljósar, en mæla þó ekki gegn lýsingu á merkjum Breiðármerkur í þeim gögnum sem að framan greinir. Hins vegar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að eigendur Fells og Kvískerja hafi verið í góðri trú þegar þeir eignuðust sína hlutana hvorir í jörðinni Breiðármörk. Af gögnum málsins verður og ráðið að eigendur Breiðármerkur hafa um langt skeið litið á umrædda jörð sem sína eign og farið með hana sem slíka án athugasemda annarra. Kemur því næst til skoðunar hvort staðhættir, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins mæli gegn því að um einkaeignarrétt umræddra aðila geti verið að ræða.

         Ljóst er af gögnum málsins að gróðurfari og nýtingarmöguleikum umræddrar jarðar hrakaði mjög á 18. og 19. öld vegna ágangs jökla og vatna. Má leiða að því líkum að á ofanverðri 19. öld hafi nýtingarmöguleikar jarðarinnar fyrst og fremst falist í reka og öðrum fjörunytjum, en möguleikar til sauðfjárbeitar hafi þá verið orðnir mjög takmarkaðir. Að virtum gögnum málsins telur dómurinn þó ekki annað komið fram en að umræddir eigendur jarðarinnar hafi litið svo á að þeir ættu umrædda jörð fullkomnum eignarrétti, enda þótt nýtingarmöguleikar væru takmarkaðir. Verður einnig að telja að eigendur hafi nýtt jörðina eins og sína eign, eftir því sem aðstæður leyfðu á hverjum tíma. Getur það eitt að möguleikar til nýtingar lands verði takmar­k­aðir ekki leitt til þess að land verði að þjóðlendu. Samkvæmt þessu verður ekki talið að staðhættir, gróðurfar og nýtingarmöguleikar útiloki eignarrétt að umræddu lands­svæði.

         Samkvæmt þessu telur dómurinn, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina Breiðármörk, að fullnægt sé skilyrðum fyrir hefð, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varðar umrætt landssvæði. Athugast í þessu sambandi að því er ómótmælt af hálfu stefnanda að Breiðármörk hafi verið numin í öndverðu og þannig verið háð fullkomnum eignarrétti. Með vísan til afstöðu eigenda og nýtingar þeirra telur dómurinn einnig fram komið að sú hefð hafi verið til eignar á umræddri jörð, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda. Þegar af þessari ástæður verður ekki á það fallist með stefnanda að jörðin Breiðármörk sé þjóðlenda. Kemur þá til skoðunar afmörkun jarðarinnar til norðurs, þ.e. gagnvart Öræfajökli.

         Á það verður fallist með óbyggðanefnd að af landamerkjabréfum og öðrum heimildum verði ráðið að land Breiðármerkur nái að jökulrönd og hafi jökulinn þannig afmarkað land jarðarinnar inn til landsins með svo augljósum hætti að ekki var talið þurfa umfjöllunar við. Á það verður einnig fallist með óbyggðanefnd að engar heimildir eða önnur atriði, svo sem staðhættir, gróðurfar eða nýting, gefi tilefni til þess að ætla að land innan landamerkja Breiðármerkur hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu. Þá verður ekki fram hjá því horft að stefnandi hefur í málatil­búnaði sínum ekkert fært fram sem leggja mætti til grundvallar við nánari afmörkun hluta Breiðármerkurlands sem þjóðlendu.

         Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að fella úr gildi úrskurð óbyggð­anefndar að því er varðar jörðina Breiðármörk. Verða eigendur Breiðármerkur sýknaðir af kröfum stefnanda að því er varðar umrædda jörð.

         Stefndu hafa ekki fyrir sitt leyti krafist ógildingar úrskurðar óbyggðanefndar með höfðun gagnsakar. Getur því ekki komið til skoðunar sú niðurstaða óbyggðanefndar að miða þjóðlendumörk Breiðármerkur við jökuljaðarinn, eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998 1. júlí 1998.

XI.

Niðurstaða um málskostnað o.fl.

         Samkvæmt framangreindu verður kröfum stefnanda gegn sjálfum sér sjálfkrafa vísað frá dómi, en þar er um að ræða kröfur vegna svæðis sem féll í hlut stefnanda með úrskurði matsnefndar 25. nóvember 1969, að því leyti sem það svæði fellur innan kröfugerðar stefnanda. Nánar tiltekið er vísað frá öllum kröfum stefnanda vegna jarðarinnar Skaftafells að frátöldum þeim hluta kröfu hans sem beinist að því svæði sem liggur fyrir sunnan línu sem dregin er úr Sýslusteini (punktur 2 á korti 1) á upphaflegum stað á Skeiðarársandi austnorðaustur í merki við Gömlutún, þar sem hún sker heimreið að Skaftafellsbæjum (punktur 3 á korti 1). Að öðru leyti verða stefndu sýknuð af kröfu stefnanda.

         Stefndu hafa allir gjafsókn í málinu nema Kvísker ehf., sbr. gjafsóknarleyfi 1. júní 2004 og 21. febrúar 2005. Með hliðsjón af þessu þykir ekki ástæða til að dæma stefnanda til að greiða þessum stefndu málskostnað sem rynni í ríkissjóð. Eftir úrslitum málsins verður stefnandi hins vegar dæmdur til að greiða Kvískerjum ehf. málskostnað sem ákveðst hæfilegur 300.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Gjafsóknarkostnaður eigenda Skaftafells II, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Páls A. Páls­sonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Gjafsóknarkostnaður annarra stefndu, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Sigurgeirsson hrl.

         Af hálfu stefndu Laufeyjar Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáns Benediktssonar, Árna Benediktssonar, eigenda Skaftafells II, flutti málið Páll A. Pálsson hrl. Af hálfu annarra stefndu, eigenda Fjalls og Breiðármerkur, flutti málið Ólafur Björnsson hrl.

         Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Eggert Óskarsson, sem dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Skúli Magnússon.

 

D Ó M S O R Ð

         Öllum kröfum stefnanda, íslenska ríkisins, gegn stefnda, íslenska ríkinu, er vísað frá dómi.

         Að öðru leyti skulu stefndu, Laufey Lárusdóttir, Anna María Ragnarsdóttir, Stefán Benediktsson, Árni Benediktsson, Þorlákur Örn Bergsson, Guðjón Bergsson, Anna Sigríður Jóhannsdóttir, Knútur Bruun, Ásdís Gunnarsdóttir, Sigurður Magnússon, Sigríður Stefánsdóttir, Sigurjón Gunnarsson, Gunnar Sigurjónsson, Kvísker ehf., Ólafur K. Óskarssonar, Benedikt Kristjánsson, Guðbjörg Ágústsdóttir, Margrét Bogadóttir, Guðrún Agnars Jónsdóttir, Árný Margrét A. Jónsdóttir, Torfi Agnars Jónsson, Helga Agnars Jónsdóttir, Jónas Runólfsson, Ingunn Norðdahl, Hulda Höydahl, Ásdís Einarsdóttir, Margrét Daisy Clough, Kristján Runólfsson, Hrönn Ásgeirsdóttir, Hrefna Sigríður Morrison, Helga Bjarnadóttir, Jón Bjarnason, Ásta Bjarnadóttir og Sigríður Bjarnadóttir vera sýkn af kröfu stefnanda.

         Stefnandi greiði stefnda, Kvískerjum ehf., 300.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefndu Laufeyjar Lárusdóttur, Önnu Maríu Ragnarsdóttur, Stefáns Benediktssonar og Árna Benediktssonar, þar á meðal þóknun lögmanns þeirra, Páls A. Pálssonar hrl. að fjárhæð 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Gjafsóknarkostnaður annarra stefndu, þar á meðal þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hrl. að fjárhæð 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                            

 

 

 [1] norðvestur stendur í einu handriti.