Print

Mál nr. 544/2007

Lykilorð
  • Aðflutningsgjald

                                     

Fimmtudaginn 18. september 2008.

Nr. 544/2007.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Árna Óttari Skjaldarsyni

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Aðflutningsgjöld.

Á var ákærður fyrir tollalagabrot með því að hafa við innflutning á búslóð sinni frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur ekki tilgreint í aðflutningsskýrslu tiltekna muni sem í sendingunni voru að fjárhæð 368.917 krónur. Hann var einnig ákærður fyrir að hafa ekki lagt fram vörureikninga vegna tiltekinna muna er tilgreindir voru í ákæru. Var háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 172. gr. tollalaga nr. 88/2005. Fyrirtækið Jónar transport hf. útfyllti aðflutningsskýrslu í samræmi við yfirlýsingu ákærða á eyðublaði tollstjórnarinnar sem hann hafði sjálfu fyllt út, undirritað og afhent starfsmanni fyrirtækisins. Brot ákærða var talið fullframið er aðflutningsskýrsla var afhent í samræmi við upplýsingar hans og tekið fram að ákærði gæti ekki borið fyrir sig vanþekkingu á þeim reglum sem um innflutning gilda. Þá áttu ákvæði 110. gr. tollaga nr. 88/2005 hér ekki við um refsiábyrgð ákærða þar sem þau gilda eingöngu um endurálagningu aðflutningsgjalda. Héraðsdómur var staðfestur um refsingu ákærða og sakarkostnað en ákæruvaldið hafði ekki krafist þyngingar refsingar með nægilega skýrum hætti. Samkvæmt þessu var héraðsdómur staðfestur um refsingu ákærða og sakarkostnað. Með vísan til 1. mgr. 181. gr. tollalaga var ákærði látinn sæta upptöku á þeim varningi sem í ákæru greindi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 25. september 2007, að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, honum ákvörðuð refsing og hann dæmdur til að sæta upptöku þeirra haldlögðu muna sem í ákæru greinir.

Ákærði krefst aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði hefur ekki fært haldbær rök fyrir kröfu sinni um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa eigi tilgreint í aðflutningsskýrslu varning við flutning til landsins og heldur eigi lagt fram reikninga vegna hans í því skyni að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda. Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 172. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Ákærði mun hafa búið í Danmörku í 17 ár er hann fluttist aftur hingað til lands með fjölskyldu sinn og var búslóð hans flutt í júlí 2006 með Samskipum hf. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að fyrirtækið Jónar transport hf. hafi komið fram sem tollmiðlari við flutninginn og fyllt út með rafrænum hætti aðflutningsskýrslu hvað varðar tollskyldan varning. Þar var tilgreint áfengi að áætluðu verðmæti 12.634 krónur og heimilismunir að heildarverðmæti 361.276 krónur. Kom fram að verðmæti væri eigi talið svo mikið að taka skyldi af þeim aðflutningsgjöld. Hins vegar voru ekki tilgreindir aðrir þeir heimilismunir og áfengi sem í ákæru greinir. Umræddur varningur var tollskyldur þar sem hann féll ekki undir undanþágu samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000, nú 15. gr. og 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Í 2. mgr. 196. gr. tollalaga er kveðið á um að reglugerðir og öll önnur fyrirmæli, sem sett hafa verið samkvæmt eldri tollalögum nr. 55/1987, skulu halda gildi sínu, að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ákvæði yngri laganna, uns nýjar reglugerðir og fyrirmæli hafa verið gefin út. Því verður ekki fallist á þá málsvörn ákærða að reglugerðir nr. 797/2000 og 526/2000 hafi skort lagaheimild þar sem þær hafi verið settar með stoð í eldri tollalögum nr. 55/1987.

Fram er komið að áðurnefnd aðflutningsskýrsla var gerð af starfsmanni Jóna transport hf. fyrir hönd ákærða. Var tilgreining varnings í skýrslunni í samræmi við „yfirlýsingu vegna innflutnings á heimilismunum“ á eyðublaði tollstjórnarinnar sem ákærði hafði fyllt út, undirritað og látið starfsmanninum í té. Verður því talið að lýsing í ákæru eigi við um þá háttsemi ákærða að hann hafi komið því til leiðar að umboðsmaður hans tilgreindi ekki í aðflutningsskýrslu þá muni og áfengi sem um ræðir og ekki lagt fram reikninga vegna varningsins. Brot ákærða var fullframið er aðflutningsskýrsla var afhent í samræmi við upplýsingar hans þar um. Ákærða stoðar ekki að bera fyrir sig vanþekkingu á þeim reglum sem um innflutning gilda. Þá geta ákvæði 110. gr. tollalaga ekki átt hér við um refsiábyrgð ákærða þar sem þau gilda eingöngu um endurálagningu aðflutningsgjalda. Verður því ekki fallist á málsvörn ákærða er að þessu lýtur.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 172. gr. tollalaga, þó þannig að samkvæmt yfirlýsingu ákæruvalds nemur fjárhæð aðflutningsgjalda 356.217 krónum. Samkvæmt ákvæðinu skal sá sem veitir rangar eða villandi upplýsingar um magn vöru eða vanrækir að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt lögunum vegna innflutnings vöru sæta sektum sem nema að lágmarki tvöföldum en að hámarki tíföldum aðflutningsgjöldum sem dregið var undan álagningu þeirra. Hins vegar ber í þessu máli að líta til þess að ákæruvaldið hefur ekki með skýrum hætti krafist refsiþyngingar yfir ákærða og verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu hans og ákvörðun sakarkostnaðar.

Með vísan til 1. mgr. 181. gr. tollalaga skal ákærði sæta upptöku á þeim varningi sem í ákæru greinir. Að þeirri niðurstöðu fenginni verður ákærði einnig dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt 1. mgr. 165. gr., sbr. 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur er staðfestur um refsingu ákærða, Árna Óttars Skjaldarsonar, og um sakarkostnað.

Ákærði sæti upptöku á eftirtöldum varningi sem tollyfirvöld lögðu hald á við rannsókn málsins: Gasgrilli, HP photosmart prentara, Ashgard kamínu, garðborði, Kitchen-aid hrærivél, Siemens ofni, gashitara, borðplötu, fjórum borðfótum, keramik helluborði, Philips sjónvarpi, skórekka og 22 dósum af bjór, alls 7,26 lítrum.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 265.907 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ármanns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2007.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 1. júní sl., endurupptekið í dag, 22. júní og tekið til dóms á ný, höfðaði Lögreglustjórinn í Reykjavík með ákæru 19. desember 2006 á hendur Árna Óttari Skjaldarsyni, kt. 080962-5099, Glæsibæ 14, Reykjavík, fyrir tollalagabrot, með því að hafa við innflutning vörusendingarinnar nr. S ARN 04 07 6 DK CPH W206, sem kom til Reykjavíkur 4. júlí 2006, eigi tilgreint í aðflutningsskýrslu, dagsettri daginn eftir, gasgrill, HP-photosmart prentara, Ashgard kamínu, garðborð, Kitchen-aid hrærivél, Siemens ofn, gashitara, borðplötu, 4 borðfætur, keramik helluborð, Philips sjónvarp, skórekka og 22 dósir af bjór (7,26 lítrar) sem í sendingunni voru, og ekki lagt fram reikninga vegna greinds varnings, og ætlað þannig að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð 368.917 krónur.

Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 1. mgr. 172. gr. tollalaga nr. 88/2005 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum varningi, sem hald var lagt á, samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að hafnað verði upptökukröfu lögreglu. Einnig krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins.

 

Málavextir.

Samkvæmt skýrslu Tollstjórans í Reykjavík frá 18. júlí 2006 barst tollstjóra verkbeiðni 10. júlí 2006, að skoða ofangreinda sendingu, en hún átti að innihalda búslóð með nokkrum nýjum hlutum og áfengi. Að morgni 11. júlí 2006 hafi gámurinn verið opnaður í vörumiðstöð Samskipa og hafi þá verið tekin ákvörðun um að fylgja gámnum heim, en búslóðin fyllti 40 feta gám. Haft var samband við ákærða og honum tilkynnt að tollgæsla vildi vera viðstödd losun gámsins og hafi ákærða verið gefinn kostur á að fá gáminn heim eða losa hann á svæði Samskipa. Ákveðið hafi verið að gámnum skyldi fylgt heim og hafi aðflutningsskýrslan verið samþykkt með fyrirvara um breytingar. Gámurinn hafi svo verið opnaður að heimili ákærða 14. júlí 2006. Við skoðun á innihaldi hans hafi komið í ljós munir sem í ákæru greinir og ekki hafi verið getið um í aðflutningsskýrslu eða yfirlýsingu á innflutningi heimilismuna. Ákærði játaði eign sína á ofangreindum varningi og var varningurinn haldlagður og fluttur í geymslu tollgæslunnar að Faxafeni, Reykjavík.

Í málinu liggur frammi aðflutningsskýrsla útfyllt af starfsmanni Jóna transport, Kristínu Þórðardóttur. Innflytjandi er sagður vera ákærði. Í skýrslunni koma fram vörutegundirnar búslóð, öl, stál, gler og rauðvín. Í skýrslunni segir jafnframt að um sé að ræða búslóðagám og að áætlað verðmæti á áfengi sé á skýrslu. Heildarverðmæti vöru sem fjölskyldan hafi átt skemur en 1 ár sé 361.276 krónur.

Þá liggur frammi í málinu ,,Yfirlýsing vegna innflutnings á heimilismunum“. Þar eru tilgreindir heimilismunir sem ákærði eða fjölskylda hans hafi átt skemur en eitt ár erlendis. Er þar ekki getið muna þeirra sem í ákæru greinir.

Þá liggur frammi í málinu bókunar- og innihaldslisti, undirritaður af ákærða. Þar segir að um 40 feta gám sé að ræða og innihald hans tilgreint ísskápur, frystiskápur, þvottavél, þurrkari, uppþvottavél, gasgrill, útihitari, gashitari, öl og áfengi. Einnig liggur frammi í málinu kvittun, dagsett 14. júlí 2007, fyrir greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð 20.520 krónur.

Tollstjórinn í Reykjavík sendi ákærða bréf 24. júlí 2006, þar sem þess var farið á leit að ákærði legði fram gögn um verðmæti þess varnings sem ekki hafði verið gerð grein fyrir í aðflutningsskjölum. Samkvæmt skýrslu tollstjórnar, sem liggur frammi í málinu og er dagsett 18. ágúst 2006, hafði ákærði þá afhent tollstjóra reikninga vegna varningsins.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa verið búsettur í 17 ár í Danmörku er hann fluttist hingað til lands. Vitnið kvað flutningafyrirtækið Jóna transport hafa útbúið aðflutningsskýrslu þá sem liggur frammi í málinu. Vitnið kvað starfsfólk Jóna transport ekki hafa kallað eftir reikningum varðandi nýja hluti og hann hafi fengið litlar upplýsingar um hvaða reglur giltu um innflutning á búslóð. Hann kvaðst ekki hafa verið búinn að kynna sér tollareglur áður en hann flutti búslóð sína til landsins. Hann kvaðst sjálfur hafa pakkað búslóðinni í gáminn. Ákærði kvað þær vörur sem greindar eru í ákæruskjali hafa verið nýjar vörur. Ákærði kvaðst hafa farið á tollstjóraskrifstofuna er hann kom hingað til lands, en hafi verið sendur þaðan til flutningafélagsins Jóna transport, þar sem vantað hafi skýrslu. Ákærði var spurður um búslóðayfirlýsingu þá er liggur frammi í málinu og kvað hann undirskrift sína vera á yfirlýsingunni. Hann kvað þær vörur sem greindar eru á yfirlýsingu þessari vera þær vörur sem hann hafi fengið greiddan virðisaukaskattinn af og kvaðst ákærði hafa talið að hann þyrfti einungis að gefa upp þessar vörur. Hann kvaðst einungis hafa verið að flytja inn sína búslóð og kvaðst ekki hafa talið að hann þyrfti að tilgreina aðrar vörur eða framvísa reikningum fyrir öðrum vörum en þeim sem hann gaf upp.

Vitnið, Kristín Sigmarsdóttir tollvörður, kvaðst hafa fengið mál þetta í hendur frá  yfirmanni sínum, Ingibjörgu Mjöll, sem hafi beðið vitnið að hafa samband við ákærða, þar sem vitnið hefði opnað gám sem ákærði flutti hingað. Um hafi verið að ræða 40 feta gám, sem var pakkaður upp í loft, þannig að ekki var unnt að staðreyna hvaða hlutir voru í gámnum. Því hafi verið haft samband við ákærða og honum boðið að tæma gáminn að tollvörðum viðstöddum, eða að gámurinn yrði fluttur heim og fylgst yrði með tæmingu á honum. Ákærði hafi tæmt gáminn og hafi þá komið í ljós að í honum voru heimilismunir ásamt hlutum sem getið var um í skýrslum og einnig nýir hlutir sem ekki var getið um í skýrslum. Þeir hlutir hafi verið innpakkaðir í söluumbúðir. Gámurinn hafi fyrst verið opnaður á tollsvæði, en ekki hreyft við hlutum í gámnum, þar sem hann hafi verið svo þétt pakkaður.

Vitnið, Kristín Þórðardóttir, kvaðst hafa gert aðflutningsskýrslu fyrir hönd Jóna transport. Hún kvað það misjafnt hvaða gögn hún fengi í hendur við gerð skýrslunnar. Yfirleitt fái hún komutilkynningu og vörureikning ef við eigi. Yfirleitt sé vinnuferlið þannig að hún fái bunka af skýrslum til að vinna úr. Yfirleitt fylgi ekki vörureikningar með skýrslum um búslóðir. Ef um er að ræða nýja muni, komi viðskiptavinurinn með reikninga til hennar og gefi upp munina. Vitnið kvað engar leiðbeiningar gefnar út til þeirra sem flytja inn búslóðir.

Vitnið, Þórir Jónsson tollvörður, kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða varðandi innflutning á búslóð hans. Hann kvaðst einnig hafa tekið skýrslu af Kristínu Sigmarsdóttur.

Vitnið, Jóhanna Guðbjartsdóttir tollvörður, kvaðst hafa gefið út verkbeiðni er liggur frammi í málinu. Hún kvað vinnuferlið vera á þann veg að lögð séu inn tollskjöl til afgreiðslu á skrifstofu tollstjóra. Hún fái þau í hendur til afgreiðslu eða meðferðar. Hún hefði ákveðið að senda þessa ákveðnu sendingu í vöruskoðun, en hún kvaðst ekki muna hvers vegna hún hefði ákveðið það í þessu tilviki. Vitnið kvað að í vöruskoðunardeild hefði verið ritað á verkbeiðnina ,,Afgr. með fyrirvara um heimfylgd.“ Það þýði að varan er skoðuð þar og ef þar komi eitthvað í ljós sem ekki hafi verið gerð grein fyrir, sé lagt hald á það.

Vitnið, Ingibjörg Mjöll Pétursdóttir, kvaðst hafa fengið verkbeiðni frá tollskrifstofu á Tryggvagötu, eins og venjan sé þegar skoða eigi búslóð, en innflytjandinn hafði í búslóðaryfirlýsingu upplýst um áfengi í gámnum og einhverja nýja hluti sem voru innan tollfrelsismarka. Hún hafi fengið tollverði til að kíkja á gáminn, en um hafi verið að ræða fullan 40 feta gám. Venjan sé þá sú að innflytjanda sé boðið að koma á hafnarsvæðið með mannskap til að bera á milli gáma, til að hægt sé að skoða hlutina, eða að heimiluð sé tollafgreiðsla með fyrirvara um heimfylgd. Spurð um það hvað gert væri við þann varning sem ekki væri getið í aðflutningsskýrslu, kvað vitnið þann varning vera haldlagðan. Spurð um það hvort 110. gr. tollalaga væri beitt við endurálagningu, kvað vitnið þeirri grein ekki beitt í tilvikum sem þessum, enda komi fram á búslóðayfirlýsingu að viðkomandi skuli gefa upp allt sem er í búslóðinni, að viðlagðri refsiábyrgð.

 

Niðurstaða.

Óumdeilt er að ákærði bjó í 17 ár í Danmörku og lét senda búslóð sína hingað til lands með flutningafyrirtækinu Jónar transport, en ákærða er gefið að sök að hafa ekki tilgreint í aðflutningsskýrslu þann varning sem í ákæru greinir. Eins og að framan greinir, og staðfest er með vætti vitnisins Kristínar Þórðardóttur, útbjó hún, sem starfsmaður Jóna transport, aðflutningsskýrslu þá sem í ákæru greinir, en ekki ákærði sjálfur, þótt ákæra í málinu sé á því byggð. Hún bar jafnframt fyrir dómi að engar leiðbeiningar væru gefnar út til þeirra sem flytja inn búslóðir.

Eins og ákæran er orðuð um sakarefnið verður ákærði samkvæmt framangreindu ekki sakfelldur fyrir að hafa ekki tilgreint þá muni sem í ákæru greinir og ber að sýkna ákærða af þeirri háttsemi.

       Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa ekki lagt fram reikninga vegna varnings er í ákæru greinir. Samkvæmt 1. mgr. 172. gr. tollalaga varðar það mann refsingu ef hann vanrækir, vegna innflutnings vöru, að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt þeim lögum. Í 28. gr. laganna segir að vörureikningur sé meðal þeirra tollskjala sem skuli liggja til grundvallar aðflutningsskýrslu samkvæmt 23. og 25. gr. laganna og skuli afhent tollstjóra í þeim tilvikum þegar aðflutningsskýrsla er skrifleg. Í 1. mgr. 22. gr. laganna segir að innflytjandi skuli láta tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl vegna innfluttrar vöru áður en vara er afhent til notkunar innan lands eða sett í tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu. Tollskjöl skuli þó látin tollstjóra í té ekki síðar en sex mánuðum frá komudegi flutningsfars vöru til landsins nema vöru hafi verið ráðstafað í tollvörugeymslu eða á frísvæði. Af gögnum málsins má ráða að ákærði hafi, ekki síðar en í ágúst 2006, látið tollstjórninni í té vörureikninga varðandi þann varning sem í ákæru greinir, að undanskildum reikningum vegna bjórs, garðborðs, skórekka og Kitchen-aid hrærivélar, en fyrir þessum varningi eru engir reikningar í málinu. Því ber að sakfella ákærða fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi vanrækt að láta tollstjóra í té vörureikninga fyrir ofangreindum varningi og hefur hann með því brotið gegn 1. mgr. 172. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. tollalaga. Samkvæmt 1. mgr. 172. gr. tollalaga skulu sektir nema að lágmarki tvöldum, en að hámarki tíföldum aðflutningsgjöldum af því tollverði sem dregið var undan álagningu aðflutningsgjalda.

       Í málinu liggur frammi skjal er stafar frá tollstjóra, þar sem fram kemur útreikningur tolls og virðisaukaskatts á varningi þeim sem ákærði flutti hingað til lands og lagt var hald á. Allir þeir munir er greinir í skjali þessu eru tilgreindir í ákæru, nema stólar, sem ekki er getið í ákæru. Þá fylgir skjali þessu sérstakur gjaldalisti, en ekki er unnt að átta sig á af þeim lista, hvaða gjöld skyldi greiða af hverjum hlut fyrir sig. Af hálfu sækjanda var því lögð fram sundurliðun á aðflutningsgjöldum fyrir hvern einstakan mun. Af þeirri sundurliðun má sjá að aðflutningsgjöld vegna þess varnings sem ákærði lagði ekki fram reikninga fyrir, þ.e. garðborðs, skórekka, Kitchen-aid hrærivélar og bjórdósa nema samtals 9.592 krónum.

 

Viðurlög og sakarkostnaður

       Refsing ákærða þykir, með hliðsjón af framangreindu, hæfilega ákveðin 20.000 króna sekt, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en ella sæti ákærði fangelsi í 2 daga.

       Að mati dómsins eru ekki efni til að fallast á kröfu ákæruvalds um að varningurinn verði gerður upptækur og er ákærði sýknaður af þeirri kröfu ákæruvalds.                Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Einars Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, að ¾ hlutum úr ríkissjóði, þ.e. 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en ¼ hluta þeirra, þ.e. 50.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiði ákærði.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

       Ákærði, Árni Óttar Skjaldarson, greiði 20.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 2 daga.

       Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Einars Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, greiðast að ¾ hlutum úr ríkissjóði, þ.e. 150.000 krónur, en ¼ hluta þeirra, þ.e. 50.000 krónur, greiði ákærði.

       Ákærði er sýknaður af upptökukröfu ákæruvalds.