Print

Mál nr. 376/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Orlof

Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 376/2011.

Heiðar Þór Guðnason

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Ólafur Garðarsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Orlof.

H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að tiltekin fjárhæð yrði viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð K hf., en H byggði á því að slíka kröfu mætti rekja til samkomulags aðila um orlofsgreiðslur. Í dómi Hæstaréttar sagði að í niðurstöðum hins kærða úrskurðar væri vísað til þess að samkomulag hefði tekist milli aðilanna um uppgjör á orlofi H, sem hafi samsvarað 348 klukkustundum. Ekki yrði ráðið af gögnum málsins að nokkurt slíkt samkomulag hefði verið gert, en fyrir lægi á hinn bóginn að H hefði í nóvember 2008 fengið greiðslu fyrir 384,5 orlofsstundir vegna orlofsársins 2007 til 2008. Þetta fengi því þó ekki breytt að með þessari athugasemd yrði hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2011, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 1.925.962 krónur við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði viðurkennd og njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila, aðallega samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í niðurstöðum hins kærða úrskurðar er vísað til þess að samkomulag hafi tekist milli aðilanna um uppgjör á orlofi sóknaraðila, sem hafi samsvarað 348 klukkustundum. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að nokkurt slíkt samkomulag hafi verið gert, en fyrir liggur á hinn bóginn að sóknaraðili hafi í nóvember 2008 fengið greiðslu fyrir 384,5 orlofsstundir vegna orlofsársins 2007 til 2008. Þetta fær því þó ekki breytt að með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Heiðar Þór Guðnason, greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 27. apríl sl., var þingfest 21. október 2010.

Sóknaraðili er Heiðar Þór Guðnason, Skógarhjalla 15, Kópavogi.

Varnaraðili er Kaupþing banki hf.

Sóknaraðili krefst þess að krafa sóknaraðila sem lýst var í þrotabú Kaupþing banka hf. að fjárhæð 1.925.962 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.

Til vara er þess krafist að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti, að mati dómsins.

Málsatvik

Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila á árinu 2001 og starfaði þar sem forstöðumaður tæknideildar, allt þar til honum var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi 30. október 2008, í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið skipaði varnaraðila skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 218/2008. Í kjölfarið fékk sóknaraðili greitt ótekið orlof vegna orlofsársins 2007 og áunnið orlof vegna orlofsársins 2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og hinn 25. maí 2009 var skipuð slitastjórn í samræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. bráðabirgðaákvæðis II við þau lög. Varnaraðili gaf út innköllun til kröfuhafa sem birtist fyrra sinn í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember sama ár. Með kröfulýsingu frá 9. júlí 2009 lýsti sóknaraðili forgangskröfu fyrir slitastjórn varnaraðila að fjárhæð 1.925.962 krónur og krafðist greiðslu á uppsöfnuðu orlofi frá því að ráðningarsamningur sóknaraðila var endurnýjaður árið 2005.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni með bréfi 10. janúar 2010 og mótmælti sóknaraðili afstöðu varnaraðila. Ekki tókst að jafna ágreining á fundi sem slitastjórn boðaði til og var leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn með bréfi frá 18. ágúst 2010 til dómsins, í samræmi við 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveður að allt frá árinu 2005 hafi hann ekki fengið fullt orlof. Vegna starfs síns hafi hann einungis tekið orlof sitt að hluta og við upphaf orlofsársins hinn 1. maí 2008 hafi sóknaraðili átt ótekið/ógreitt orlof vegna 767 klukkustunda eins og beinlínis sé tekið fram á launaseðli dagsettum 1. nóvember 2008, þar sem segi: ,,Orlofsstaða 1. maí 2008 - 773, úttekið orlof frá 1. maí 2008 - 6, eftirstöðvar orlofs 767.“ Hinn 20. nóvember 2008 hafi sóknaraðili fengið greiddan hluta uppsafnaða orlofsins eða mánaðarlaun samsvarandi 343 klukkustundum. Á launaseðli frá 1. desember 2008 komi fram að eftirstöðvar uppsafnaðs orlofsréttar hinn 1. maí 2008 sé 419 klukkustundir.  Sóknaraðili hafi strax sett fram kvörtun sína við varnaraðila í kjölfar þess að hann hafi einungis fengið greiddan hluta uppsafnaðs orlofs síns. Ýmis tölvupóstsamskipti hafi átt sér stað milli sóknaraðila og starfsmanns varnaraðila og hafi sóknaraðili á endanum fengið bréf dagsett 6. apríl 2009, þar sem vísað sé til þess að bankanum hafi verið fullkunnugt um að sóknaraðili hafi átt uppsafnað orlof hinn 1. maí 2008, en þar sem varnaraðili hafi aldrei gert kröfu um að sóknaraðili tæki ekki fullt orlof á umræddu tímabili, hefði verið samkomulag milli aðila um að greiða helming orlofsins. Sóknaraðili kveðst ekki kannast við að neitt samkomulag hafi verið milli hans og varnaraðila um að hann gæfi eftir helming uppsafnaðs orlofs.

Á öllum launaseðlum varnaraðila til sóknaraðila sé tekið fram hvert uppsafnað orlof hans hafi verið 1. maí 2008. Með því hafi varnaraðili viðurkennt að sóknaraðili ætti orlofið ógreitt. Það hafi ekki verið fyrr en löngu eftir að varnaraðili greiddi helming uppsafnaðs orlofs, eða með bréfi 9. apríl 2009, að varnaraðili hafi haldið því fram að 13. gr. orlofslaga nr. 30/1987 ætti við, þ.e. að ekki mætti flytja orlofið á milli ára. Það hafi verið eftirá röksemdir varnaraðila fyrir því að honum bæri ekki að greiða sóknaraðila uppsafnaða orlofið að fullu. Sóknaraðili kannist ekki við nokkurt samkomulag milli hans og varnaraðila um að hann gæfi eftir hluta orlofsins til varnaraðila.

Samkvæmt ákvæðum orlofslaga  nr. 30/1987 eigi allir launþegar rétt til orlofslauna og samkvæmt 14. gr. sömu laga fyrnist slíkar kröfur eftir sömu reglum og gildi um kaupkröfur samkvæmt lögum nr. 14/1905 (núgildandi lög 150/2007).

Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja sé hvergi að finna ákvæði sem rýri rétt launþega vegna orlofs, umfram það sem ofangreind lög kveði á um.

 Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili hafnar því að bera greiðsluskyldu á uppsöfnuðu orlofi sóknaraðila aftur í tímann frá endurnýjun ráðningarsamnings, í nóvember 2005 að fjárhæð 1.916.126 krónur. Varnaraðili leggur áherslu á að sóknaraðili hafi fengið greitt ótekið orlof 20. nóvember 2008, vegna orlofsársins 2007, frá 1. maí 2007 og áunnið orlof vegna orlofsársins 2008 með launum í uppsagnarfresti. Ljóst sé að sóknaraðili hafi ekki átt rétt á frekari orlofsgreiðslum fyrir orlofsárin 2005 og 2006, þótt orlof hafi ekki verið fullnýtt á framangreindu tímabili. Varnaraðili bendir á 13. gr. laga um orlof nr. 30/1987, en að mati varnaraðila leiði ákvæðið til þess að árlegur réttur sóknaraðila til orlofs og orlofsgreiðslna aftur í tímann sé fallinn niður þar sem lögin banni flutning á orlofi milli orlofsára. Varnaraðili bendir enn fremur á að lögin kveði á um að orlofi skuli ávallt lokið fyrir lok orlofsársins og heimili aðeins greiðslu á orlofslaunum vegna ótekins orlofs ef veikindi komi í veg fyrir orlofstöku og þá aðeins ef sýnt sé fram á veikindi með sannanlegum hætti, sbr. 4. og 6. gr. laga um orlof. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að lögbundnar ástæður hafi verið fyrir uppsöfnun á orlofi aftur í tímann og hafi hann ekki gert samning við varnaraðila um frestun á orlofi milli orlofsára, eins og honum hafi borið að gera samkvæmt grein 4.7 í kjarasamningi SÍB og Samtaka atvinnulífsins. Þannig hefði hann tryggt að orlofsgreiðslur féllu ekki niður milli ára. Beri sóknaraðili alfarið hallann af því og eigi hann þar af leiðandi ekki rétt á frekari orlofsgreiðslum vegna orlofsáranna 2005 og 2006. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðila hafi aldrei verið meinað að taka út orlofsdaga í samræmi við lög um orlof og reglur bankans um orlofstöku, heldur hafi sóknaraðili kosið að safna þeim upp, þrátt fyrir að varnaraðili greiddi ekki út orlofsdaga milli orlofsára samkvæmt innanhússreglum varnaraðila um orlof. Samkvæmt framangreindum reglum um orlofstöku hafi sóknaraðila borið að taka sér samfellt orlof í tvær vikur (10 vinnudaga) og þar að auki hafi sóknaraðila verið skylt að vera að minnsta kosti einu sinni á hverju orlofsári í fríi fyrsta virka dag mánaðar. Varnaraðili hafi ekki greitt út uppsafnað orlof milli orlofsára og komi það skýrt fram í framangreindum reglum að orlofstöku hafi átt að vera að fullu lokið fyrir lok orlofsárs 30. apríl ár hvert. Ef starfsmaður átti uppsafnað orlof í lok orlofstímabilsins hafi viðkomandi átt að ljúka því að fullu fyrir lok apríl á næsta orlofsári. Af framangreindu sé alveg ljóst að sóknaraðili hafi átt að taka út lágmarksorlof á hverju orlofsári og hafi auk þess átt að ljúka orlofstöku á hverju orlofsári. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðila átt að vera framangreint ljóst þar sem reglur varnaraðila um orlofstöku hafi verið í gildi allan þann tíma sem sóknaraðili hafi unnið í þágu varnaraðila. Þrátt fyrir framangreint hafi sóknaraðili ekki tekið út fullt orlof á orlofsárinu 2005 og ekki gert ráðstafanir sem lög og kjarasamningar kveði á um til að tryggja að orlofsréttur félli ekki niður milli orlofsára. Framangreint hafi orðið til þess að orlofsréttur sóknaraðila fyrir framangreind orlofsár hafi því fallið niður samkvæmt 13. gr. laga um orlof, þar sem ekki hafi verið fyrir hendi lögmætar ástæður fyrir uppsöfnun og /eða frestun orlofs. Sé greiðsluskyldu því alfarið hafnað.

Varnaraðili hafni því að unnt sé að byggja kröfuna á 14. gr. orlofslaga. Varnaraðili bendir á að framangreint uppgjör á orlofi hafi verið fullnaðaruppgjör þar sem sóknaraðili hafi bæði fengið ótekið og áunnið orlof greitt við uppsögn, en hann hafi ekki átt rétt á frekari orlofsgreiðslum aftur í tímann, samkvæmt 13. gr. laga um orlof. Samkvæmt 8. gr. laga um orlof beri að greiða öll áunnin orlofslaun við uppsögn. Varnaraðili kveður að við uppsögn hafi sóknaraðili átt áunnin orlofsréttindi sem fallið hafi til á orlofsárinu 2008, þ.e. frá 1. maí 2007 til 30. apríl 2008. Sóknaraðili hafi fengið framangreind réttindi greidd 20. nóvember 2008 og með launum í uppsagnarfresti. Sé uppgjörið fullnaðaruppgjör, þar sem það sé í samræmi við 8. gr. laga um orlof. Alveg sé ljóst að 14. gr. laga um orlof heimili sóknaraðila ekki að krefjast orlofsgreiðslna aftur í tímann nema áunnið orlof sé ógreitt, en svo sé ekki í tilviki sóknaraðila.

Varnaraðili hafnar fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að framangreint uppgjör á orlofi við uppsögn sóknaraðila hafi verið byggt á samkomulagi milli aðila, sem leitt hafi til þess að sóknaraðili hafi gefið eftir orlofsréttindi. Sóknaraðili hafi ekki átt rétt á frekari orlofsgreiðslum aftur í tímann og hafi uppgjörið því ekki leitt til eftirgjafar orlofsréttinda. Uppgjörið hafi byggst á ákvörðun skilanefndar varnaraðila, en skilanefndin hafi tekið mið af þeim orlofsréttindum sem sóknaraðili hafi átt rétt á við uppsögn. Varnaraðili kveður jafnframt að tilvísun hans til 13. gr. laga um orlof í svarbréfi til sóknaraðila dagsett 6. apríl 2009, sé ekki ,,eftir á“ röksemd heldur hafi tilvísunin verið liður í skýringu varnaraðila á uppgjörinu.

Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á frekari orlofsgreiðslum aftur í tímann, gen skýru ákvæði 13. gr. laga um orlof. Sóknaraðili beri alla sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi frestað orlofi eða flutt það á milli orlofsára í samræmi við kjarasamning SÍB og Samtök atvinnulífsins, um orlof. Varnaraðili bendir jafnframt á, að ef fallist verður á kröfu sóknaraðila um orlofsgreiðslur aftur í tímann, fái sóknaraðili orlofsgreiðslur sem hann eigi ekki rétt á samkvæmt 13. gr. laga um orlof. Slíkt sé í ósamræmi við meginreglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., um jafnræði kröfuhafa.

Verði ekki fallist á framangreint bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi tekið út orlof orlofsárin 2005 og 2006. Annars vegar hafi sóknaraðili tekið út 15 orlofsdaga árið 2005 og hins vegar 16 orlofsdaga orlofsárið 2006 og beri að draga þá daga frá þeirri fjárhæð sem sóknaraðila kunni að vera dæmd í máli þessu.

Verði ekki fallist á framangreind rök varnaraðila og ef viðurkennd verður greiðsluskylda varnaraðila, er því hafnað af hálfu varnaraðila að krafan njóti forgangsréttar á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Meginskilyrði fyrir forgangsrétti orlofskröfu á grundvelli ákvæðisins sé að orlofsréttindi hafi fallið til á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag. Orlofsréttindi þau sem sóknaraðili krefjist greiðslu á, séu frá endurnýjun ráðningarsamnings árið 2005, en þau hafi fallið til á tímabilinu 1. desember 2005 til 30. apríl 2007. Sé því alveg ljóst að með greiðslu á óteknu orlofi fyrir orlofsárið 2007 og áunnu orlofi fyrir orlofsárið 2008 hafi verið gengið frá orlofsgreiðslum sem sóknaraðili hafi unnið sér inn síðustu 18 mánuði fyrir frestdag. Því njóti krafa sóknaraðila um frekari orlofsgreiðslur aftur í tímann ekki forgangsréttar í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991. Beri því að hafna forgangsrétti kröfunnar og geti hún aldrei notið hærri rétthæðar en sem almenn krafa  samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða

Krafa sóknaraðila á rót sína að rekja til uppsafnaðs orlofs hans allt frá árinu 2005. Sóknaraðili fékk greiddan hluta uppsafnaðs orlofs síns, eða samsvarandi 348 klukkustundum, 20. nóvember 2008, þ.e. ótekið orlof vegna orlofsársins 2007 frá 1. maí 2007 og áunnið orlof vegna orlofsársins 2008, en krafa sóknaraðila er vegna ótekins orlofs orlofsárin 2005 og 2006.

 Ekki er ágreiningur með aðilum um að orlof sóknaraðila hafi ekki verið fullnýtt á árunum 2005 og 2006.

 Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um orlof nr. 30/1987  skal orlofi alltaf lokið fyrir lok orlofsársins, en orlofsárið stendur frá 1. maí til 30. apríl ár hvert, sbr. 2. mgr. 3. gr. orlofslaga. Samkvæmt 13. gr. sömu laga er framsal orlofslauna óheimilt og flutningur þeirra á milli orlofsára einnig óheimill.

Í framburði vitnisins Ingimundar Árnasonar, fyrrum samstarfsmanns sóknaraðila fyrir dómi, kom fram að starfsmönnum hjá varnaraðila hafi ekki verið meinað að taka orlof á viðkomandi orlofsárum og sóknaraðili bar sjálfur fyrir dómi að honum hafi ekki verið meinað að fara í frí, en verkefnastaðan hefði hins vegar verið þannig að erfitt hafi verið að koma því við að fara í frí. Þá bar sóknaraðili fyrir dómi að hann þekkti þær reglur sem giltu innan bankans um töku orlofs. Reglur þessar kveða á um að skylt sé að taka samfellt orlof í tvær vikur (10 vinnudaga) á hverju orlofsári og að skylda sé að vera a.m.k einu sinni á hverju orlofsári í fríi fyrsta virka dag mánaðar.

  Jafnvel þótt fram hafi komið í framburði sóknaraðila sjálfs og vitnisins Ingimundar Árnasonar, að annir hafi komið í veg fyrir töku orlofs, hefur ekki verið sýnt fram á að yfirmenn sóknaraðila, á þeim tíma sem um er deilt í máli þessu,  hafi meinað sóknaraðila að taka orlof á orlofsárinu, eða að svo hafi samist um milli aðila að orlofsdagar hans yrðu gerðir upp með öðrum hætti en þeim sem greinir í samkomulagi því sem gert var við sóknaraðila um uppgjör á orlofi er samsvaraði 348 klukkustundum. Orlof sóknaraðila vegna orlofsáranna 2005 og 2006 er samkvæmt framangreindu, og vegna fyrirmæla 13. gr. laga nr. 30/1987 um orlof, fallið niður.

Með vísan til framangreinds verður kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila hafnað.

Í ljósi þessarar niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti á málskostnað.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. og af hálfu varnaraðila flutti málið Sigríður Dagmar Jóhannsdóttir hdl.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, Heiðars Þórs Guðnasonar, á hendur varnaraðila, Kaupþingi banka hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.