Print

Mál nr. 425/2015

Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Tollur
  • Stjórnarskrá
Reifun

Í málinu krafðist Ö ehf. endurgreiðslu á fjárhæðum sem hann hafði innt af hendi til Í á árunum 2010 til 2014 vegna innflutnings á kartöflusnakki sem bar almennan 59% verðtoll. Reisti hann kröfu sína á því að gjaldtaka tollsins færi í bága við ákvæði stjórnarskrár og grundvallarreglur stjórnskipunar- og skattaréttar og skorti lagastoð sem gild skattlagningarheimild. Fallist var á með Í að ákvörðun tollsins hefði rúmast innan þeirra marka sem fjárstjórnarvaldi Alþingis væri sett, sbr. 40. gr. stjórnarskrárinnar. Var Í því sýknað af kröfu Ö ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 224.997.138 krónur, til vara 167.794.473 krónur, en að því frágengnu 148.726.923 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 15. nóvember 2010 til 24. september 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.

Í málinu krefst áfrýjandi endurgreiðslu á 59% tolli sem hann greiddi á árunum 2010 til 2014 á kartöflusnakk er hann flutti til landsins frá Kanada í starfsemi sinni. Hann reisir kröfu sína á málsástæðum og röksemdum, sem lýst er í héraðsdómi. Fallist er á með stefnda að nægilega sé sýnt fram á að ákvörðun tollsins rúmist innan þeirra marka sem fjárstjórnarvaldi Alþingis eru sett, sbr. 40. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015

Mál þetta var höfðað 5. nóvember 2014 og dómtekið 13. apríl 2015.

Stefnandi er Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., Grjóthálsi 7-11, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið, Lindagötu Arnarhvoli, Reykjavík.

   Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda alls 224.997.138 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 7.064.783 kr. frá 15. nóvember 2010 til 15. janúar 2011 en frá þeim degi af 14.823.343 kr. til 15. mars 2011 en frá þeim degi af 20.883.055 kr. til 15. maí 2011 en frá þeim degi af 29.705.106 kr. til 15. júlí 2011 en frá þeim degi af 38.611.776 kr. til 5. ágúst 2011 en frá þeim degi af 41.443.851 kr. til 15. september 2011 en frá þeim degi af 46.561.381 kr. til 5. október 2011 en frá þeim degi af 51.678.911 kr. til 15. nóvember 2011 en frá þeim degi af 55.591.989 kr. til 5. desember 2011 en frá þeim degi af 59.505.067 kr. til 15. janúar 2012 en frá þeim degi af 64.280.437 kr. til 5. febrúar 2012 en frá þeim degi af 69.055.807 kr. til 15. mars 2012 en frá þeim degi af 74.493.989 kr. til 15. maí 2012 en frá þeim degi af 82.518.797 kr. til 5. júní 2012 en frá þeim degi af 84.928.232 kr. til 15. júlí 2012 en frá þeim degi af 91.259.743 kr. til 5. ágúst 2012 en frá þeim degi af 97.591.254 kr.til 15. september 2012 en frá þeim degi af 103.872.724 kr. til 5. október 2012 en frá þeim degi af 110.154.194 kr. til 15. nóvember 2012 en frá þeim degi af 114.294.692 kr. til 5. desember 2012 en frá þeim degi af 118.435.190 kr. til 15. janúar 2013 en frá þeim degi af 123.523.758 kr. til 5. febrúar 2013 en frá þeim degi af 128.612.326 kr. til 15. mars 2013 en frá þeim degi af 136.948.143 kr. til 15. maí 2013 en frá þeim degi af 144.721.766 kr. til 5. júní 2013 en frá þeim degi af 147.771.916 kr. til 15. júlí 2013 en frá þeim degi af 153.933.615 kr. til 5. ágúst 2013 en frá þeim degi af 160.095.314 kr. til 15. september 2013 en frá þeim degi af 165.316.868 kr. til 5. október 2014 en frá þeim degi af 170.538.422 kr. til 15. nóvember 2013 en frá þeim degi af 175.181.021 kr. til 5. desember 2013 en frá þeim degi af 179.823.620 kr. til 15. janúar 2013 en frá þeim degi af 186.264.453 kr. til 5. febrúar 2014 en frá þeim degi af 192.705.286 kr. til 15. mars 2014 en frá þeim degi af 195.654.691 kr. til 5. apríl 2014 en frá þeim degi af 198.604.096 kr. til 15. maí 2014 en frá þeim degi af 206.609.577 kr. til 5. júní 2014 en frá þeim degi af 214.615.058 kr. til 15. júlí 2014 en frá þeim degi af 219.806.098 kr. til 5. ágúst 2014 en frá þeim degi af 224.997.138 kr. til 5. nóvember 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi gerir þá kröfu til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda alls 167.794.473 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 5.268.625 kr. frá 15. nóvember 2010 til 15. janúar 2011 en frá þeim degi af 11.054.697 kr. til 15. mars 2011 en frá þeim degi af 15.573.804 kr. til 15. maí 2011 en frá þeim degi af 22.152.961 kr. til 15. júlí 2011 en frá þeim degi af 28.795.223 kr. til 5. ágúst 2011 en frá þeim degi af 30.907.279 kr. til 15. september 2011 en frá þeim degi af 34.723.742 kr. til 5. október 2011 en frá þeim degi af 38.540.205 kr. til 15. nóvember 2011 en frá þeim degi af 41.458.433 kr. til 5. desember 2011 en frá þeim degi af 44.376.661 kr. til 15. janúar 2012 en frá þeim degi af 47.937.954 kr. til 5. febrúar 2012 en frá þeim degi af 51.499.247 kr. til 15. mars 2012 en frá þeim degi af 55.554.840 kr. til 15. maí 2012 en frá þeim degi af kr. 61.539.443 til 5. júní 2012 en frá þeim degi af 63.336.310 kr. til 15. júlí 2012 en frá þeim degi af 68.058.115 kr. til 5. ágúst 2012 en frá þeim degi af 72.779.920 kr. til 15. september 2012 en frá þeim degi af 77.464.406 kr. til 5. október 2012 en frá þeim degi af 82.148.892 kr. til 15. nóvember 2012 en frá þeim degi af 85.236.721 kr. til 5. desember 2012 en frá þeim degi af 88.324.550 kr. til 15. janúar 2013 en frá þeim degi af 92.119.414 kr. til 5. febrúar 2013 en frá þeim degi af 95.914.278 kr. til 15. mars 2013 en frá þeim degi af 102.130.819 kr. til 15. maí en frá þeim degi af 107.928.097 kr. til 5. júní 2013 en frá þeim degi af 110.202.785 kr. til 15. júlí 2013 en frá þeim degi af 114.797.950 kr. til 5. ágúst 2013 en frá þeim degi af 119.393.115 kr. til 15. september 2013 en frá þeim degi af 123.287.155 kr. til 5. október 2014 en frá þeim degi af 127.181.195 kr. til 15. nóvember 2013 en frá þeim degi af 130.643.472 kr. til 5. desember 2013 en frá þeim degi af 134.105.749 kr. til 15. janúar 2013 en frá þeim degi af 138.909.082 kr. til 5. febrúar 2014 en frá þeim degi af 143.712.415 kr. til 15. mars 2014 en frá þeim degi af 145.911.971 kr. til 5. apríl 2014 en frá þeim degi af 148.111.527 kr. til 15. maí 2014 en frá þeim degi af 154.081.716 kr. til 5. júní 2014 en frá þeim degi af 160.051.905 kr. til 15. júlí 2014 en frá þeim degi af 163.923.189 kr. til 5. ágúst 2014 en frá þeim degi af 167.794.473 kr. til 5. nóvember 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi gerir þá kröfu til þrautavara að stefnda verði gert að greiða stefnanda alls 148.726.922 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af kr. 4.669.941 frá 15. nóvember 2010 til 15. janúar 2011 en frá þeim degi af 9.798.481 kr. til 15. mars 2011 en frá þeim degi af 13.804.053 kr. til 15. maí 2011 en frá þeim degi af 19.635.578 kr. til 15. júlí 2011 en frá þeim degi af 25.523.038 kr. til 5. ágúst 2011 en frá þeim degi af 27.395.088 kr. til 15. september 2011 en frá þeim degi af 30.777.862 kr.til 5. október 2011 en frá þeim degi af 34.160.636 kr.til 15. nóvember 2011 en frá þeim degi af 36.747.247 kr. til 5. desember 2011 en frá þeim degi af 39.333.858 kr. til 15. janúar 2012 en frá þeim degi af 42.490.459 kr. til 5. febrúar 2012 en frá þeim degi af 45.647.060 kr. til 15. mars 2012 en frá þeim degi af 49.241.790 kr. til 15. maí 2012 en frá þeim degi af 54.546.324 kr. til 5. júní 2012 en frá þeim degi af 56.139.001 kr. til 15. júlí 2012 en frá þeim degi af 60.324.237 kr. til 5. ágúst 2012 en frá þeim degi af 64.509.473 kr. til 15. september 2012 en frá þeim degi af 68.661.631 kr. til 5. október 2012 en frá þeim degi af 72.813.789 kr. til 15. nóvember 2012 en frá þeim degi af 75.550.728 kr. til 5. desember 2012 en frá þeim degi af 78.287.667 kr. til 15. janúar 2013 en frá þeim degi af 81.651.297 kr. til 5. febrúar 2013 en frá þeim degi af 85.014.927 kr. til 15. mars 2013 en frá þeim degi af 90.525.043 kr. til 15. maí en frá þeim degi af 95.663.540 kr. til 5. júní 2013 en frá þeim degi af 97.679.741 kr. til 15. júlí 2013 en frá þeim degi af 101.752.728 kr. til 5. ágúst 2013 en frá þeim degi af 105.825.715 kr. til 15. september 2013 en frá þeim degi af 109.277.251 kr. til 5. október 2014 en frá þeim degi af 112.728.787 kr. til 15. nóvember 2013 en frá þeim degi af 115.797.624 kr. til 5. desember 2013 en frá þeim degi af 118.866.461 kr. til 15. janúar 2013 en frá þeim degi af 123.123.961 kr. til 5. febrúar 2014 en frá þeim degi af 127.381.461 kr. til 15. mars 2014 en frá þeim degi af 129.331.068 kr. til 5. apríl 2014 en frá þeim degi af 131.280.675 kr. til 15. maí 2014 en frá þeim degi af 136.572.434 kr. til 5. júní 2014 en frá þeim degi af 141.864.193 kr. til 15. júlí 2014 en frá þeim degi af 145.295.558 kr. til 5. ágúst 2014 en frá þeim degi af 148.726.923 kr. til 5. nóvember 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar en til vara að kröfur hans verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Málavextir

Stefnandi máls þessa, Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., er drykkjaframleiðandi og heildsala sem hefur með höndum, innflutning, framleiðslu dreifingu og sölu matvæla og sérvöru af ýmsum toga.

   Fyrir liggur að á árunum 2010-2014 flutti stefnandi inn kartöflusnakk frá Kanada sem fellt var undir tollskrárnúmerið 2005.2003: Aðrar matjurtir, unnar eða varðar skemmdum á annan hátt en með ediki eða ediksýru, ófrystar, þó ekki vörur nr. 2006: Kartöflur – Nasl svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli.

Almennur verðtollur umrædds tollskrárnúmers er 59% af innflutningsverði þeirrar vöru sem um ræðir. Á tímabilinu frá 14. september 2010 til 16. júní 2014, greiddi stefnandi í samræmi við þetta samtals 224.997.138 krónur í verðtoll. Gjalddagi verðtollsins var breytilegur í samræmi við 122. gr. tollagalaga nr. 88/2008, sbr. bráðabirgðaákvæði II.-XII. laganna. Ekki er ágreiningur um atriði er lúta að gjalddögunum sérstaklega. Stefnandi telur hins vegar umrædda gjaldtöku vera ólögmæta eins og nánar verður rakið og að stefnda beri að endurgreiða þeim ofgreidd gjöld í samræmi við það.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

   Stefnandi byggir á því að gjaldtaka stefnda í formi 59% tolls á kartöflusnakk samræmist ekki kröfu um málefnalegan grundvöll skattheimtu hins opinbera. Tollskrárnúmerið 2005.2003 sem tollálagningin byggi á hafi komið inn í tollskrána með breytingarlögum nr. 87/1995 vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WHO). Hvergi sé að finna skýringar eða réttlætingu á þessari gífurlega háu tollprósentu, hvorki í lögunum sjálfum, viðaukum né í lögskýringargögnum. Sé einungis vísað til þess í 10. gr. laganna að „á tollskrá í viðauka I við tollalög verði breytingar eins og greinir í viðauka I með lögum þessum“.

Telur stefnandi ekki óvarlegt að ætla að stefndi telji álagninguna réttlætast af svokallaðri verndarstefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði. Til þess að unnt sé að réttlæta svo háa gjaldtöku með þessum hætti þurfi eitthvert verndarandlag, þ.e. einhver innlend búvöruframleiðsla, að vera fyrir hendi. Í tilviki kartöflusnakks sé hins vegar ýmist mjög lítil eða engin slík framleiðsla fyrir hendi og því ekkert sem þarfnist verndar. Rekur stefnandi þetta frekar í stefnu. Telur stefnandi snakkið selt neytendum hér á landi undir merkjum tveggja íslenskra fyrirtækja sem íslenskt kartöflusnakk sem njóti verndar sem slíkt í skjóli „ofurtolla“ stefnda. Þetta gangi þvert á þá verndartollastefnu sem stefndi hefur byggt tollheimtu sína á. Í stað þess að vernda innlenda búvöruframleiðslu virðist verndarandlagið vera vinnsla tveggja tiltekinna fyrirtækja á innfluttu hráefni. Að mati stefnenda samræmist slíkt ekki fyrrgreindri kröfu um málefnalegan grundvöll skattheimtu.

Stefnandi telur álagningu tollsins fela í sér sértæka álagningu skatta, þar sem ákveðnir aðilar séu sérstaklega skattlagðir umfram aðra í sambærilegri stöðu, án þess að málefnaleg sjónarmið liggi slíkri mismunun til grundvallar. Slíkt brjóti í bága við kröfuna um málefnalegan grundvöll skattheimtu. Einnig feli slík gjaldtaka í sér ólögmæta mismunun og brot gegn jafnræði. 

Stefnandi telur tollskrárnúmerið 2005.2003 ekki eiga sér hliðstæðu, hvorki í tollskrá Evrópusambandsins né í tollskrá WCO. Tollflokkur sá sem umrætt tollskrárnúmer falli undir hafi verið sérstaklega búið til fyrir innflutning á kartöflusnakki til landsins og heyri ekki undir hið alþjóðlega tollflokkunarkerfi. Telur stefnandi það benda til þess að umræddur flokkur hafi verið settur sérstaklega til að vernda framleiðslu innlendra fyrirtækja á kartöflusnakki. Lýsing flokksins beri það einnig með sér, enda sé þar sérstaklega sagt nasl svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli. Telur stefnandi greinilegt að vísað sé til ákveðinnar sérstöðu innlendra framleiðenda.

Þá telur stefnandi mismunun eiga sér stað milli vöruflokka hvað varði tollflokkun, þ.e. milli kornsnakksins (tollskrárnúmer 1905.9060) og kartöflusnakksins (tollskrárnúmer 2005.2003 og 2005.2004). Kornsnakkið beri engan toll frá ríkjum innan Evrópusambandsins og fleiri ríkjum, en annars leggist á það 20% almennur verðtollur. Á sama tíma leggist 59% tollur á kartöflusnakkið, óháð því hvaðan það komi. Kornsnakkið er í beinni samkeppni við kartöflusnakk og því sé ekkert sem réttlæti svo ólíka tollálagningu. Báðar vörurnar, kartöflu- og kornsnakkið, séu unnar að mestu eða öllu leyti úr erlendu hráefni. Eini munurinn sé sá að innlendir framleiðendur virðist selja lítið af kornsnakki. Að mati stefnanda styður það ályktanir hans.

Í stefnu fjallar stefnandi um að „ofurtollar“ séu lagðir á tæplega 70% af innlendri heildarneyslu og telur það vera undir því yfirskyni að verið sé að vernda innlenda framleiðslu á kartöflusnakki og það séu neytendur sem beri tjónið. Telur stefnandi að verndartollar geti ekki átt rétt á sér þegar innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn neytenda.

Stefnandi byggir jafnframt á því að umrædd gjaldtaka brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Með tollálagningunni sé ekki verið að vernda innlenda framleiðslu úr íslensku hráefni. Sé því ekki uppfyllt það frumskilyrði að hin íþyngjandi gjaldtaka sé til þess fallin að ná því lögmæta markmiði sem að sé stefnt, þ.e. vernd innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Jafnvel þó svo væri þá telur stefnandi ljóst að tollprósentan 59% sé ekki réttlætanleg að teknu tilliti til þeirra markmiða sem tollinum sé ætlað að þjóna. Nægi í því sambandi að bera hann saman við tollinn á hráefninu, þ.e. kartöflumjöli og svokölluðu pellets, sem hinir íslensku framleiðendur noti við framleiðslu sína á kartöflusnakki. Hráefnin beri annaðhvort engan toll við innflutning eða mjög lágan og sé því mun hagkvæmara að flytja inn hráefni í kartöflusnakk og framleiða það hérlendis en að flytja inn fullunna vöru. Annað skýrt dæmi um þetta sé hinn mikli munur sem sé á tollálagningu kartöflusnakks og kornsnakks.

Þá sé á það bent að tollálagning sem þessi sé nánast einsdæmi og þekkist ekki í nærlægum löndum. Telur stefnandi að það styðji enn frekar að álagningin fari langt fram úr eðlilegu meðalhófi. Telur hann engu breyta þó að gjaldtakan sé innan þeirra marka sem WTO samningurinn setji aðildarríkjum samningsins.

   Stefnandi byggir einnig á því að umrædd gjaldtaka brjóti gegn jafnræðisreglu og hindri samkeppni. Lagaákvæði sem þannig leggi óhæfilegar byrðar á tiltekinn aðila, umfram annan í sambærilegri stöðu, séu í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrárinnar og ekki á þeim byggjandi. Þar sem bæði innflytjendur og framleiðendur kartöflusnakks flytji inn erlenda vöru og keppi um sama markaðinn, þ.e. sölu á kartöflusnakki til smásöluaðila, sé ljóst að hinir íslensku framleiðendur fái aðra og betri meðferð en innflytjendur, enda lagðar óhæfilegar byrðar á innflytjendur með framangreindum ofurtollum. Engin málefnaleg rök liggja umræddri mismunun til grundvallar og af þeim sökum sé um brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, að ræða enda sé að mati stefnanda um að ræða skýra mismunun í tollálagningu milli annars vegar erlendra framleiðsluvara og hins vegar innlendra framleiðsluvara.

Framangreint fyrirkomulag sé enn fremur í andstöðu við meginreglur samkeppnisréttar þess efnis að opinberir aðilar skuli ekki takmarka samkeppni, sbr. t.d. c-lið 1. mgr. 8. gr. og b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 en handhöfum ríkisvalds beri að hafa samkeppnissjónarmið til hliðsjónar við setningu laga og reglna. Að mati stefnanda sé ljóst að stefndi hafi vanrækt þá skyldu með álagningu 59% tolls á innflutt kartöflusnakk.

Stefnandi telur gjaldtökuna skerða atvinnufrelsi með ólögmætum hætti og  ljóst að ekki sé uppfyllt það skilyrði 75. gr. stjórnarskrárinnar að almannahagsmunir krefjist skerðingar á atvinnufrelsi stefnanda og annarra innflytjenda. Telur stefnandi að gjaldtakan feli í sér takmörkun á frelsi þeirra og tollálagningin  geri  þeim erfitt um vik og leiði til þess að innflutningur verð minni. Fari það gegn hagsmunum almennings að skerða atvinnufrelsi innflytjenda með þessum hætti enda leiði sú skerðing af sér hækkað verðlag og skertar samkeppnisaðstæður á íslenskum markaði, almenningi til tjóns.  Hafi stefndi ekki sýnt fram á að aðrar leiðir hafi ekki verið færar til að ná því markmiði sem um ræðir en slíkt sé nauðsynlegt til þess að réttlæta takmörkun á atvinnufrelsi.

   Stefnandi byggir á því að gjaldtakan feli í sér ólögmæta skerðingu á eignarrétti en hann sé friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. áðurgreinds 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Eign stefnanda séu þau fjárhagslegu verðmæti sem felist í innflutningi og sölu á kartöflusnakki. Um sé að ræða áþreifanlega eign sem ekki verði skert nema að uppfylltum skilyrðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Að mati stefnanda sé gjaldtakan ómálefnaleg, sértæk og óhófleg, auk þess sem hún brýtur gegn jafnræði innflytjenda og framleiðenda. Telur stefnandi því ljóst að álagning gjaldsins fari ekki eftir almennum, efnislegum mælikvarða og að gætt sé að jafnræði og meðalhófi. Af þeim sökum sé ekki um heimila skattheimtu að ræða í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, heldur ólögmæta skerðingu á eignarrétti, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Til vara sé byggt á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna hinnar ólögmætu eignaskerðingar og nemi tjónið þeim greiðslum sem fram koma í dómkröfum stefnanda.

   Að lokum byggir stefnandi á því að tollflokkun hins innflutta kartöflusnakks,  undir tollskrárnúmerinu 2005.2003, sé röng. Þegar litið sé til túlkunarreglna við tollskránna sé réttara að flokka innflutt kartöflusnakk sem ekki sé úr kartöflumjöli undir tollskrárnúmer 2005.2001. Byggir stefnandi það á orðalagi umrædds undirliðar tollflokks, þ.e. Kartöflur - fín- eða grófmalaðar eða flögur, í stað þess að heyra undir nasl svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h, sem falli betur að hinu innlenda snakki. Þá sé tollurinn á tollskrárnúmeri 2005.2001 sem ber 15% verðtoll í mun betra samræmi við álagningu sambærilegra innfluttra vara sem ber 20% verðtoll.

   Í stefnu er að finna sundurliðun á kröfum stefnanda. Aðalkrafan byggir á því að öll gjaldtaka vegna 59% tolls á kartöflusnakki sé ólögmæt og því beri að endurgreiða allt það sem innheimt var af stefnanda með ólögmætum hætti. 

Varakrafa stefnanda byggir á því að öll gjaldtaka umfram 15% toll á kartöflusnakk sé ólögmæt enda ljóst að lýsing undirflokksins 2005.2001 falli best að umræddri vöru og beri hann almennan 15% verðtoll. Því beri að endurgreiða þá gjaldtöku sem svari til mismunarins á 59% tolli annars vegar og 15% tolli hins vegar.

Þrautavarakrafa stefnanda byggir á því að öll gjaldtaka umfram 20% toll á kartöflusnakk sé ólögmæt, enda sé ljóst að sambærileg vara, þ.e. kornsnakk, sem sé í beinni samkeppni við kartöflusnakk, beri þann toll. Því beri að endurgreiða þá gjaldtöku sem svarar til mismunarins á 59% tolli annars vegar og 20% tolli hins vegar.

   Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á 40., 65., 72., 75. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, lögmætisreglu stjórnskipunarréttar, meginreglum íslensks réttar um gjaldtöku hins opinbera og almennum reglum kröfuréttar um endurgreiðslu oftekins fjár. Þá byggir stefnandi kröfur sínar á lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, breytingarlögum nr. 87/1995 vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, tollalögum nr. 88/2005 ásamt viðaukum, og búvörulögum nr. 99/1993, auk meginreglna samkeppnisréttar og samkeppnislaga nr. 44/2005. Enn fremur vísar stefnandi til skuldbindinga Íslands af vettvangi WTO og ESB, þ. á m. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, meginreglna þjóðaréttar um túlkun slíkra alþjóðlegra skuldbindinga, almennra reglna um bótaábyrgð hins opinbera og eignarréttarákvæðis í 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Vaxta- og dráttarvaxtakrafa byggir á lögum nr. 29/1995 og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 3. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála og fyrirsvar á stoð í 5. mgr. 17. gr. sömu laga.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafnar skýringum stefnanda á verndarforsendum samkvæmt búvörulögum við ákvörðun tolls samkvæmt tollskrá fyrir kartöflusnakk. Þegar tollskrárnúmer 2005.2003 hafi komið inn í tollskrána upphaflega með lögum nr. 87/1995 hafi hvergi í því sambandi verið vitnað til búvörulaga nr. 99/1995. Engin lögskýringargögn renna stoðum undir þá kenningu stefnanda að tollurinn hafi verið ákveðinn með verndarstefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði að leiðarljósi.

Stefndi vísar til 12. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem tilgreindir eru tollkvótar, sem ráðherra sem fari með málefni landbúnaðar, úthlutar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthluti tollkvótum sem tilgreindir eru í viðauka IIIA og B og IVA og B við tollalög. Eingöngu kartöflur í vöruliðum 701 og 710 falli undir þá viðauka. Þá úthlutar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum í fríverslunar- og milliríkjasamningum sé tollur lagður á vöruna sem magntollur eftir því sem í tollskrá í viðauka I við tollalög greinir. Kartöflur sem falla undir vöruliði 1105 (mjöl, fín- eða grófmalað, duft, flögur, kurl og kögglar), kartöflur unnar eða varðar skemmdum í vöruliðum nr. 2001 (með ediki eða edikssýru), 2004 (frystar) og í vörulið 2005 (ófrystar), beri ekki magntoll heldur beri þær verðtoll samkvæmt tollskrá sem er viðauki I við tollalög og heyri því ekki undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heldur undir fjármála- og efnahagsráðherra.

Stefndi kveður toll á innflutt kartöflusnakk grundvallast af tekjuöflunarmarkmiði íslenska ríkisins líkt og aðrir skattar. Vangaveltur stefnanda um verndarþörf innlends kartöflusnakks og stöðu innlendra framleiðenda á kartöflusnakki á íslenskum kartöflusnakksmarkaði og sértæka skattlagningu í þágu þeirra fái ekki staðist og séu að mati stefnda skattlagningunni óviðkomandi.

Stefndi vísar á bug þeirri staðhæfingu stefnanda að tollskrárnúmerið 2005.2003 fyrir kartöflusnakk eigi sér enga hliðstæðu í alþjóðlegu kerfi og sé það ásamt því að tollur á innflutt kornsnakk sé 20% til marks um að 59% tollur á kartöflusnakk feli í sér sértæka skattlagningu. Bendir stefndi á að undir WCO númerinu 2005.20 séu flestallar framleiðslur úr kartöflum og aðildarríkjunum sé í sjálfsvald sett hversu mikið eða lítið þau skipti kartöfluframleiðslu upp. Samanburður stefnanda á tollum á kartöflusnakk í tollskrárnúmeri 2005.2003 við toll á kornsnakki í tollskrárnúmeri 1905.9060 fái ekki staðist. Stefndi bendir á að ekki sé um að ræða samanburðarhæfar vörur. Um tvær mismunandi vörur sé að ræða úr mismunandi hráefni, sem heyri undir mismunandi vöruliði samkvæmt tollskrá.

   Stefndi telur að ekki fái staðist þau sjónarmið stefnanda að innheimta 59% verðtolls við innflutning á kartöflusnakki í tollskrárnúmeri 2005.2003 brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Samkvæmt reglunni beri stjórnvaldi því aðeins að taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Meðalhófsreglan sé lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meginreglan eigi við um stjórnvöld en gildi ekki um löggjafarstörf Alþingis.

Tollar sem lagðir séu á kartöflusnakk við innflutning séu lagðir á samkvæmt tollskrá sem er viðauki I við tollalög nr. 88/2005 og hafi lagagildi. Tollarnir séu því lagðir á í samræmi við lög sem samþykkt hafi verið á Alþingi og þeim verði ekki breytt né þeir afnumdir nema með lögum. Að mati stefndu fái ekki staðist að brotið sé gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við álagningu tolls á kartöflusnakk né að brotið sé gegn óskráðri grundvallarreglu stjórnsýsluréttar.

Sá samanburður stefnanda að bera saman toll á kartöflumjöli í vörulið 1105 við toll á kartöflusnakki eins og um sömu vöru sé að ræða fái að mati stefndu ekki staðist. Kartöflusnakk sem falli undir tollskrárnúmerið 2005.2003 sé ekki framleitt úr kartöflumjöli. Ljóst er að hægt er að nýta m.a. kartöflumjöl sem hráefni til að framleiða kartöflusnakk sem félli þá undir tollflokkinn 2005.2004 í 42% tolli. Um sé að ræða ólíkar vörur sem ekki eru samanburðarhæfar. Hið sama gildir um samanburð við kornsnakk sem ekki sé unnið úr kartöflum heldur úr korni sem fái á engan hátt staðist að bera saman. Um sé að ræða ólíkar vörur sem heyri hvor undir sinn vöruliðinn samkvæmt tollskrá og beri mismunandi toll.

Stefndi bendir á að umrædd tollaálagning sé innan þeirra marka sem sett séu í WTO samningnum, sbr. viðauki IIA við tollalög nr. 88/2005. Í nefndum viðauka séu tollabindingar lögfestar sem hluti af tollalögum og áréttað sé í 3. mgr. 5. gr. tollalaga að tollur geti aldrei orðið hærri en tollabinding. Framangreindum viðauka IIA hafi verið bætt við tollalög með lögum nr. 87/1995 um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Tollabindingarnar séu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og sé Ísland innan þeirra heimilda við álagningu 59% tolls á kartöflusnakk samkvæmt tollskrá.

   Stefndi vísar því á bug að brotið sé gegn jafnræðisreglu við álagningu umrædds tolls enda gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Kartöflumjöl sé mjölvara sem falli undir vörulið 1105. Sömu tollar gildi fyrir alla innflytjendur á kartöflumjöli. Á sama hátt gildi sömu tollar fyrir alla innflytjendur á kartöflusnakki. Stefndi fái ekki séð hvernig brotið sé gegn jafnræðisreglu í þessu tilfelli, enda greiði innflytjendur allir sama toll við innflutning sömu vöru. Þá fái ekki staðist að bera saman kartöflumjöl sem heyri undir vörulið 1105 samkvæmt tollskrá og kartöflusnakk úr kartöflum sem heyri undir tollskrárnúmer 2005.2003 eða 2005.2004 sé snakkið framleitt úr kartöflumjöli, enda um mismunandi vörur að ræða þó svo að hægt sé að nota kartöflumjöl í hráefni til að búa til kartöflusnakk úr kartöflumjöli. Mismunandi tollar séu lagðir á mismunandi vörur og geti það ekki talist brot á jafnræðisreglu.

   Þá telur stefndi ekki fá staðist að atvinnufrelsi stefnanda sé takmarkað með ólögmætum hætti. Löggjafanum sé heimilt að leggja á borgara skatta og önnur opinber gjöld, svo sem tolla sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og standa ákvæði 75. gr. um atvinnufrelsi því ekki í vegi. Tollur sé lagður á við innflutning á kartöflusnakk samkvæmt tollalögum nr. 88/2005 í tekjuöflunarskyni. Öllum sé frjálst að flytja inn umrædda vöru, á þeim tollum sem ákveðinn er samkvæmt tollskrá.

   Hvað varði meinta skerðingu á eignarrétti stefnanda sé sjónarmiðum stefnanda um að greiðsla tolls við innflutning á kartöflusnakki teljist ekki skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar heldur ólögmæta skerðingu á eignarrétti sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, vísað á bug. Réttur til innflutnings á kartöflusnakki sé ekki einkaréttur stefnanda og sé ekki um eignarrétt að ræða. Skatta og önnur gjöld verði að greiða þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar enda sé annars staðar í stjórnarskránni gert ráð fyrir skattlagningu.

Ekki sé um að ræða einhverja sérstaka gjaldtöku sem feli í sér ólögmæta skerðingu á eignarrétti. Um álagningu tolls á vöru við innflutning sé að ræða og sé tollálagningin í samræmi við lög. Innflytjendur sömu vöru greiði allir sama toll við innflutning. Þá vísar stefndi sjónarmiðum stefnanda á bug þess efnis að innheimta 59% tolls við innflutning á kartöflusnakki sé ómálefnaleg og óhófleg, auk þess sem brotið sé gegn jafnræði innflytjenda og framleiðenda.

Þá vísar stefndi varakröfu stefnanda, um að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna ólögmætrar eignarskerðingar, á bug, enda engri ólögmætri eignarskerðingu fyrir að fara. Stefnandi greiddi toll af umræddri vöru við innflutning, líkt og lög kveði á um. Þá sé krafa byggð á reglum um skaðabótaskyldu órökstudd og vanreifuð m.a. um tjón.

Stefndi telur aðalkröfu stefnanda ekki fá staðist enda ljóst að innheimta tolla hafi farið fram samkvæmt tollalögum og tollskrá sem í hvívetna séu gildar skattlagningarheimildir að lögum.

Stefndi vísar á bug varakröfu stefnanda, sem byggð sé á endurgreiðslu á mismuni á 59% tolli og 15% tolli, og að tollflokkun kartöflusnakks í vörulið 2005. 2003 sé röng en rétt sé að flokka hana sem flögu í skilningi vöruliðar 2005.2001. Vöruliður 2005.2001 taki til kartaflna sem séu fín- eða grófmalaðar eða flögur sem nýttar séu við matreiðslu. Kartöflusnakk það sem stefnandi flutti inn hafi verið réttilega tollflokkað í tollskrárnúmerið 2005.2003 af stefnanda sjálfum á aðflutningsskýrslu sem lögð var til grundvallar álagningu 59% tolls.

Að mati stefnda fái ekki staðist að kartöflusnakk sem stefnandi flutti inn geti talist flögur í skilningi vöruliðar 2005.2001 en þar sé átt við flögur eins og þær sem eru í þurrefni til að búa til kartöflumús og sambærilegar vörur. Vöruliður 2005.2003 sé á hinn bóginn sérstaklega skilgreindur fyrir nasl sem unnið er úr kartöflum.

Þá sé á því byggt að krafa stefnanda, byggð á rangri tollflokkun vörunnar, sé fallin niður fyrir tómlæti og vangæslu. Stefnandi hafi sjálfur flokkað kartöflusnakkið í tollflokk 2005.2003 án nokkurs fyrirvara. Um slíkt og kærur til tollstjóra innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi, og um kærur í kjölfarið til ríkistollanefndar innan 60 daga, er sérstaklega fjallað í 117. gr. og 118. gr. tollalaga og sé úrskurður ríkistollanefndar fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. 

Af hálfu stefnanda skortir jafnframt öll gögn og upplýsingar sem nauðsynleg séu til að grundvalla endurskoðun og eftir atvikum breytingu á tollflokkun þess kartöflusnakks sem flutt hafi verið inn og sem endurgreiðslukrafa í máli þessu taki til. Ljóst sé af stefnu að kartöflusnakk var flutt inn frá ýmsum löndum og mismunandi framleiðendum. Með öllu sé ósannað að vara sem stefnandi flutti inn geti flokkast sem flögur í skilningi tollskrárnúmers 2003.2001.

Þrautavarakröfu stefnanda sé mótmælt enda byggir hún á því að öll gjaldtaka umfram 20% toll á kartöflusnakk sé ólögmæt í ljósi þess að 20% tollur sé lagður á sambærilega vöru, þ.e. kornsnakk. Ekki sé um sambærilegar vörur að ræða og fái krafan því ekki staðist og ber að sýkna af henni.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda vísar hann til sömu sjónarmiða til stuðning varakröfu um lækkun stefnukrafnanna. Kröfum stefnanda um almenna vexti sé mótmælt og krafist sýknu af þeim enda hafi hann sýnt  af sér vangæslu og tómlæti. Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt og þess krafist að þeir dæmist ekki frá fyrri tíma en dómsuppsögu í málinu.

IV.

Niðurstaða

   Í máli þessu krefjast stefnandi endurgreiðslu oftekinna gjalda sem innt voru af hendi vegna innflutnings þeirra á kartöflusnakki tímabilið 14. september 2010 til 16. júní 2014. Um var að ræða kartöflusnakk en vara þessi er felld undir tollskrárnúmerið 2005.2003 og ber 59% almennan verðtoll.

Stefnandi telur gjaldtöku verðtollsins ólögmæta og reisir kröfur sínar á því að hún fari í bága við ákvæði stjórnarskrár og grundvallarreglur stjórnskipunar- og skattaréttar. Telur stefnandi gjaldtökuna ekki uppfylla kröfur um málefnalegan grundvöll skattheimtu og að hún brjóti gegn meðalhófi og jafnræði. Sé því ekki um að ræða heimila skattheimtu heldur ólögmæta skerðingu á eignarrétti og atvinnufrelsi stefnanda.

Stefndi vísar öllum sjónarmiðum stefnanda á bug enda telur hann innheimtu verðtolls í samræmi við tollalög nr. 88/2005 og tollskrá sem séu gildar skattlagningaheimildir að lögum.

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að skattamálum skuli skipa með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Hugtakið skattur er ekki skilgreint í lögum en hefur verið skýrt svo af fræðimönnum og í dómaframkvæmd, að um sé að ræða gjald sem lagt er á tiltekinn hóp einstaklinga eða lögaðila samkvæmt einhliða ákvörðun hins opinbera eftir almennum, efnislegum mælikvarða og án sérstaks endurgjalds. Tollar falla þannig undir ofangreint hugtak en samkvæmt 24. tl. 1. gr. tollalaga er tollur gjald sem innheimt er af vöru samkvæmt tollskrá.

Í 3. gr. tollalaga er að finna meginreglu um almenna tollskyldu. Þar segir að hver sá sem flytur vöru inn til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verði ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga, sé tollskyldur og skuli greiða toll af hinni innfluttu vöru nema annað sé tekið fram í tollskrá.

Í 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna þá meginreglu, að af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins skuli greiða toll eins og mælt er fyrir um í tollskrá í viðauka I með lögunum. Skal tollur lagður á sem verðtollur og sem magntollur á vörumagn eins og það er ákveðið í tollskrá samkvæmt viðauka I við lögin.

Tollskráin, sem þannig er lögfest sem viðauki við tollalög, byggist á samræmdri vörulýsingu- og númeraskrá sem Ísland hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að fara eftir, þ.e. alþjóðlegu flokkunarkerfi sem samið er og gefið út af Alþjóðatollastofnuninni (WCO). Í tollskránni er að finna taxta tollskrárinnar sem skiptast í dálka A þar sem tilgreindur er verðtollur í % og dálk A1 þar sem tilgreindur er magntollur í kr./kg, og gilda þeir fyrir allar innfluttar vörur.

Í 20. kafla tollskrárinnar sem ber heitið Framleiðsla úr matjurtum, ávöxtum, hnetum og öðrum plöntuhlutum er að finna vöruliðinn 2005: Aðrar matjurtir, unnar eða varðar skemmdum á annan hátt en með ediki eða ediksýru, ófrystar, þó ekki vörur nr. 2006  sem  kartöflusnakk flokkast undir, eins og áður er lýst. Undir vöruliðinn falla m.a. kartöflur og þar undir 5 mismunandi númer. Tollskrárnúmer kartöflusnakks hefur verið fellt undir númer 2005.2003. Það samanstendur annars vegar af undirlið, sem samkvæmt hinu alþjóðlega kerfi er 20, táknuðum með fyrstu tveimur tölustöfunum í ofangreindu númeri og hins vegar skiptilið, táknuðum með seinni tveimur tölustöfunum. Um er að ræða séríslenska undirskiptingu sem heimilt er að ákveða í samræmi við reglur hins alþjóðlega flokkunarkerfis. Það kartöflusnakk sem fellur undir þetta tollskrárnúmer ber aðeins verðtoll samkvæmt tollskrá.

Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að gjaldtaka 59% verðtolls uppfylli ekki kröfur um málefnalegan grundvöll skattheimtu. Til stuðnings þeirri málsástæðu bendir stefnandi á að réttlætanlegar ástæður þurfi að búa að baki svo háum tolli. Þar sem hana sé hvergi að finna, sér í lagi ekki í lögskýringargögnum með tollalögum, megi draga þá ályktun að um verndartolla sé að ræða eða tolla sem jafna megi til þeirra. Þau sjónarmið er um verndartolla gildi eigi hins vegar ekki við enda sé með álagningu tollsins ekki verið að vernda innlenda búvöruframleiðslu heldur vinnslu tveggja íslenskra fyrirtækja sem framleiði snakk úr innfluttu hráefni sem enga tolla beri auk þess sem þeir anni ekki eftirspurn íslenskra neytenda eftir snakki. Þá bendir stefnandi á að lýsing á stórum hluta tollskrárnúmersins 2005.2003: Nasl svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli, sé sérstaklega sniðin að hinni íslensku framleiðslu.

Stefndi vísar því á bug að önnur sjónarmið en almenn markmið skattlagningar, þ.e. að afla ríkinu tekna til að standa undir útgjöldum sínum, búi að baki verðtolli á innfluttu snakki.

Með lögum nr. 87/1995 um breytingar á tollalögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni voru m.a. gerðar breytingar á þágildandi tollalögum nr. 55/1987, þ.e. á tollskránni í viðauka I við tollalög. Samhliða voru gerðar breytingar á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara. Þær voru veigamiklar enda var tilefni lagasetningarinnar aðild íslenska ríkisins að samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Tekið var upp tollkvótafyrirkomulag við innflutning á landbúnaðarvörum sem fól í sér tiltekið hámark á tollum, þ.e. svokallaðar tollabindingar. Sérstakur samningur um landbúnað, sem var hluti heildarsamningsins, gerði ráð fyrir tollvernd í formi almennra tolla í stað hafta og sérgjalda sem áður voru við lýði, m.a. í tengslum við kartöflur og vörur unnar úr þeim. Segir í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um breyting á tollalögum um hina nýju tolla að breytingunum sé ætlað að endurspegla þetta sérstaklega. Framsetningin er sögð byggja á víðtækri túlkun á heimildum búvörulaga til að takmarka innflutning og þeirri staðreynd að tollabindingar séu verðmæt skiptimynt í viðskiptaviðræðum. Ekki sé ætlunin að nýta þessar heimildir vegna allra þeirra vara er í landbúnaðarskránni greini. Tollvernd komi einungis í stað verndar sem hingað til hafi verið í höftum og sérgjöldum, svo sem jöfnunargjaldi á kartöflur.

Að mati dómsins styðja ofangreindar athugasemdir það ekki að verðtollur á snakk undir tollskrárnúmerinu 2005.2003 sem kom inn í tollskránna með breytingarlögum nr. 87/1995, hafi verið á lagður með verndarstefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði að leiðarljósi. Þá er ekki að finna aðra umfjöllun í lögskýringargögnum með breytingalögunum, svo sem sjónarmið er varða  tollprósentu. Þá fellst dómurinn ekki á þau sjónarmið önnur er stefnandi teflir fram í stefnu og telur styðja að í reynd búi verndarsjónarmið að baki álagningu tollsins en ekki tekjuöflunarmarkmið íslenskra ríkisins. Í málflutningi sínum vísaði lögmaður stefnanda til dóma Hæstaréttar í málum réttarins nr. 427/1995, nr. 329/1999 og 359/1999 er vörðuðu lögmæti tiltekinna ákvarðana um álagningu jöfnunargjalds á kartöflur og taldi þá dóma styðja að stefndi bæri sönnunarbyrði fyrir því að há tollprósenta væri málefnaleg og réttlætanleg eins og á stæði. Að mati dómsins er sakarefni þessa máls ólíkt því sem úr var leyst í ofangreindum dómum Hæstaréttar. Í þeim málum lá til að mynda fyrir hvert hlutverk jöfnunargjaldsins var, svo og önnur sjónarmið er löggjafanum bar sérstaklega að líta til við ákvörðun sína. Það er því niðurstaða dómsins að gjaldtaka 59% tolls á snakki með tollskrárnúmerið 2005.2003 hafi verið málefnaleg en ákvörðun skattlagningar var í samræmi við lög og tollskrá eins og rakið hefur verið.

Stefnandi byggir á því að hvað sem líði niðurstöðu um málefnalegan grunn gjaldtökunnar brjóti hin 59% tollprósenta gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og sé því ólögmæt. Telur stefnandi að við mat á því þurfi að skoða tollálagningu á sambærilegar vörur og benda í því sambandi á kornsnakk með tollskrárnúmerið 1905.9060 sem ber 20% verðtoll og hráefni sem notað er til að framleiða snakk, annars vegar kartöflumjöl sem fellur undir tollskrárnúmerið 1105:1001: Mjöl, fín- eða grófmalað, duft, flögur, kurl og kögglar úr kartöflum og hins vegar pellets, sem er deig sem hinir íslensku framleiðendur nota til að framleiða snakk og fellur undir tollskrárnúmerið 1901.2087: til framleiðslu á nasli, svo sem skífum, skrúfum, hringjum, keilum, stöngum o.þ.h en það hráefni ber engan toll. Telur stefnandi að heitið bendi til þess að verið sé að gera greinarmun á einhverju sem í reynd sé hið sama í þeim tilgangi að hygla hinum íslensku framleiðendum. Telur stefnandi j slíka mismunun jafnframt brjóta gegn jafnræðisreglu og hindra samkeppni.

Að mati dómsins hefur stefnandi með vísan til ofangreindra röksemda ekki fært fram sönnur fyrir því að gjaldtaka 59% verðtolls á snakk brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Fallast ber á það með stefnda að snakk úr ólíkum hráefnum sé ósamanburðarhæft. Hið sama gildir um samanburð á hráefni sem annars vegar er notað til framleiðslu á snakki og hins vegar það sem fellur undir annan vörulið en 2005.2003. Þá telur dómurinn samanburð við tollálagningu í öðrum ríkjum enga þýðingu hafa við úrlausn á ágreiningsefni þessu. Um er að ræða toll sem lagður er á með lögum eftir almennum, efnislegum mælikvarða en í því sambandi hefur löggjafinn víðtækt svigrúm enda í samræmi við tollabindingar, sbr. 3. mgr. 5. gr. tollalaga, en í ákvæðinu segir að tollur á vörur frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar megi eigi vera hærri en þær tollabindingar sem tilgreindar eru í viðaukum IIA, IIB og IIC með lögunum. Miðist tollabinding bæði við verð og magn og skal hámarkstollur miðast við þá bindingu sem hærri álagning leyfir. Samkvæmt 17. tl. 1. gr. tollalaga er tollabinding hámark tolla samkvæmt hinum almenna samningi um tolla og viðskipti frá 1994 sem er að finna í viðauka við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Jafnframt telur dómurinn stefnanda ekki hafa sýnt fram á að gjaldtakan brjóti gegn 65. gr. stjórnarskrár um jafnræði. Ljóst er að ákvörðun um gjaldtöku 59% verðtolls á snakk nær til allra innflytjenda í sömu stöðu. Þeir vissu fyrir fram að hverju þeir gengu en tollflokkun snakksins byggir í öndverðu á þeirra ákvörðun um flokkun þess í aðflutningsskýrslu. Stoðar stefnanda ekki að vísa til jafnræðisreglu við samanburð á ólíkum vörum sem bera vegna þess mismunandi toll samkvæmt tollaskrá eins og áður er rakið. Með sömu rökum er ekki fallist á sjónarmið stefnanda er lúta að því að gjaldtakan og það fyrirkomulag sem sé við lýði sé í andstöðu við meginreglur samkeppnisreglur þess efnis að opinberir aðilar skuli ekki takmarka samkeppni.

Þá er hafnað sjónarmiðum stefnanda um að gjaldtakan teljist ólögmæt eignaskerðing og brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrár auk þess sem hún skerði atvinnufrelsi hans sem varið sé með 75. gr. stjórnarskrár. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að gjaldtaka verðtolls á snakk var í samræmi við lög sem sett voru með stjórnskipulega gildum hætti. Þá byggðist gjaldtakan á málefnalegum sjónarmiðum, auk þess sem meðalhófs og jafnræðis var gætt. Í henni fólst því ekki ólögmæt skerðing á eignarrétti stefnanda. Með vísan til þessarar niðurstöðu verður ekki fallist á skaðabótakröfu stefnanda byggðri á þeim grunni. Hvað varðar atvinnufrelsi stefnanda er til þess litið að honum er í sjálfsvald sett að haga innflutningi á snakki í samræmi við rekstrarlega hagsmuni sína. Að mati dómsins eru ekki haldbær rök að vísa til þess að lægri tollprósenta á snakk myndi sjálfkrafa leiða til innflutnings á meira magni af snakki.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er stefndi sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

Varakrafa stefnanda um endurgreiðslu oftekinna gjalda byggir á því að tollflokkun snakks í vörulið 2005.2003 sé röng og beri að flokka hana undir tollskrárnúmer 2005.2001 sem ber 15% toll. Krefst stefnandi mismunar á 59% verðtolli þeim er hann greiddi fyrir hið innflutta snakk og 15% verðtolls sem hann telur sig með réttu hafa átt að greiða.

Samkvæmt því sem fram kemur í tollskrá fellur tollskrárnúmerið 2005.2001 undir fyrrgreindan vörulið 2005, undir Kartöflur rétt eins og hið umdeilda snakk og ber heitið Fín- eða grófmalaðar eða flögur. Stefnandi telur, með vísan til túlkunarreglna tollaréttar, að orðið flögur falli betur að því snakki sem hann flytji inn að meginstefnu til og eigi því með réttu að falla undir tollskrárnúmerið 2005.2001. Stefndi bendir hins vegar á að undir þetta tollskrárnúmer falli flögur, ætlaðar til matreiðslu, svo sem þurrefni í kartöflumús. Stefnandi hefur ekki borið því við að þetta eigi ekki við rök að styðjast.

Í inngangi að tollskrá er að finna almennar reglur um túlkun hennar en þær hafa lagagildi. Þar segir í 1. tl. að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliðar, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla og brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skuli fylgt nánar tilgreindum reglum. Að mati dómsins verður á það fallist með stefnda að snakk það sem stefnandi flytur inn falli réttilega undir tollskrárnúmerið 2005.2003: Nasl svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli, sem tekur til snakks, öðru nafni nasl, í ýmsum formum sem tilbúið er til neyslu.  Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á varkröfu stefnanda.

Í ljósi þess sem áður er rakið í tengslum við umfjöllum um málsástæðu stefnanda byggða á meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og jafnræðisreglu verður ekki fallist á þrautavarakröfu stefnanda sem byggir á því að öll gjaldtaka umfram 20% verðtoll á kartöflusnakk sé ólögmæt enda eigi það með réttu að bera sama verðtoll og kornsakk sem sé samanburðarhæf vara.

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Að þessari niðurstöðu virtri ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykir hæfilegur 750.000 krónur.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

   Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf.

   Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.