Print

Mál nr. 201/2013

Lykilorð
  • Frelsissvipting
  • Nauðungarvistun
  • Friðhelgi heimilis
  • Mannréttindi
  • Stjórnarskrá
  • Miskabætur

                                     

Fimmtudaginn 31. október 2013.

Nr. 201/2013.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

A

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

og gagnsök

Frelsissvipting. Nauðungarvistun. Friðhelgi heimilis. Mannréttindi. Stjórnarskrá. Miskabætur.

A höfðaði mál gegn Í og krafðist miskabóta í kjölfar þess að lögreglumenn fóru inn í íbúð hans og kölluðu til lækni sem mælti fyrir um að A skyldi færður á geðdeild til nánari skoðunar. Var þetta gert gegn vilja A. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilefni hefði verið fyrir lögreglu til að óttast um öryggi A og í því skyni verið heimilt með vísan til 2. mgr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og eins og á stóð að fara inn á heimili hans. Í ljósi aðstæðna hefði þeim einnig verið rétt að kalla eftir aðstoð læknis til að fullvissa sig um hvort A væri alvarlega sjúkur, enda þótt A hefði skipað þeim að hverfa á brott. Var því ekki fallist á að lögregla hafði brotið gegn réttindum A samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Eftir að A hafði verið fluttur á geðdeild var hann vistaður þar í um tvær klukkustundir þar til vakthafandi læknir og sérfræðingur í geðlækningum komust að niðurstöðu um að A væri ekki andlega vanheill þannig að ástæða væri til að vista hann áfram nauðugan á deildinni. Að virtri þeirri niðurstöðu taldi Hæstiréttur að líta yrði svo á að A hafði verið sviptur frelsi sínu án þess að lögmæt skilyrði væru fyrir hendi samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Af þessum sökum voru A dæmdar 150.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 4. júní 2013. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. desember 2011 til greiðsludags. Þá er krafist málkostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram fór lögregla að heimili gagnáfrýjanda 10. desember 2007 eftir að leigusali hans hafði tilkynnt að hún hefði ekki náð sambandi við hann um skeið og lýst áhyggjum sínum af honum þar sem herbergi hans væri orðið fullt af rusli. Samkvæmt lögregluskýrslu litu lögreglumenn inn um glugga á herbergi gagnáfrýjanda og sáu þar um allt mikla blaðabunka sem náðu sums staðar nánast að lofti. Eftir að lögreglumenn höfðu ítrekað bankað á herbergishurð gagnáfrýjanda og kallað að lögregla væri á ferð án þess að fá svar fór annar þeirra inn um glugga herbergisins og kom þá í ljós að gagnáfrýjandi var þar staddur. Í skýrslunni sagði að gagnáfrýjandi hafi verið ósáttur við afskipti lögreglu af sér og hafi hann ítrekað reynt að loka herberginu svo að lögreglumennirnir gætu ekki skoðað það. Þá hafi gengið mjög erfiðlega að ræða við hann. Af aðilaskýrslu gagnáfrýjanda fyrir héraðsdómi verður ráðið að þetta sé sannleikanum samkvæmt, en hann kvað lögreglumennina hafa verið ókurteisa við sig og borið fram nærgöngular og óviðeigandi spurningar um hreinlæti sitt, matarvenjur, háttalag og fjárhag. Ekki hafa aðrir borið um þessa framkomu lögreglumannanna í garð gagnáfrýjanda fyrir dómi að öðru leyti en því að Kristján Helgi Þráinsson lögreglumaður neitaði því þegar hann gaf skýrslu sem vitni að lögreglan hefði verið að skipta sér af einkamálum gagnáfrýjanda umrætt sinn. Þar sem því hefur verið mótmælt af hálfu aðaláfrýjanda að lögreglumennirnir hafi komið fram við gagnáfrýjanda á framangreindan hátt teljast staðhæfingar hans þess efnis ósannaðar.

Skömmu síðar kom á vettvang, að beiðni lögreglu, Lárus Ragnarsson, læknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem sinnti á þeim tíma svokallaðri héraðsvakt heilsugæslunnar. Ræddi Lárus við gagnáfrýjanda í herbergi hans og tók samkvæmt lögregluskýrslu í kjölfarið ákvörðun um að hann skyldi færður á geðdeild Landspítala. Í vottorði læknisins 5. febrúar 2012 var lýst aðstæðum í herberginu og tekið fram að þar hefði verið „safn af ruslapokum og öðru dóti. Það var rafmagnslaust og því dimmt, þannig að lýsa þurfti með vasaljósi til að sjá handa sinna skil. Innan dyra var óþefur, kalt og rakt. [Gagnáfrýjandi] var lítt hirtur og æstur og gaf ekki kost á samræðum á nokkurn hátt.“ Síðar sagði í vottorðinu: „Ekki var hægt að útiloka að um einhverskonar geðrofsástand væri að ræða eða jafnvel heilabilun og ruglástand sem af því getur hlotist.“ Fyrir dómi bar Lárus að gagnáfrýjandi hafi verið æstur þegar hann kom á vettvang og krafist þess að hann og aðrir færu út úr húsinu. Hafi gagnáfrýjandi svarað öllum spurningum sínum út í hött. Lárus kvaðst hafa skilið gagnáfrýjanda svo að hann upplifði nærveru sína og lögreglumannanna sprottna af illum hvötum og vera ógnandi. Kvað hann margt í fari gagnáfrýjanda og allar aðstæður hafa bent til þess að verulega meiri líkur en minni væru á því að hann væri haldinn andlegum geðsjúkdómi eða öðrum alvarlegum veikindum sem ógnað gætu heilsu og jafnvel lífi hans. Eftir að Lárus hafði ráðfært sig við Júlíus Ingólf Schopka lækni sem var á vakt á geðdeild Landspítala var ákveðið að flytja gagnáfrýjanda þangað til nánari skoðunar. Spurður um menntun sína fyrir dómi sagðist Lárus vera sérmenntaður í heimilislækningum og hafi hluti af sérnámi hans verið fólginn í námi í geðlækningum.

Samkvæmt gögnum málsins var gagnáfrýjandi færður á geðdeild Landspítala af lögreglu andstætt vilja sínum. Eftir skoðun á gagnáfrýjanda og að höfðu samráði við Halldóru Ólafsdóttur, sérfræðing í geðlækningum, taldi áðurgreindur Júlíus ekki ástæðu til að gagnáfrýjandi yrði vistaður nauðugur á deildinni, eins og fram kom í vottorði hans sem gerð er ítarleg grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Í vottorðinu sagði meðal annars um geðskoðun á gagnáfrýjanda: „Neitar öllum helstu geðrofseinkennum, neitar sjálfsvígshugsun. Ekki talinn í sjálfsvígshættu, ekki hægt að sýna fram á að hann sé í bráðu óviðráðanlegu geðrofsástandi ... Ekki hægt að sýna fram á að hann sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum og tel ég því ekki ástæðu til nauðungar innlagnar.“ Fyrir dómi kvaðst Júlíus á þessum tíma hafa verið nýbyrjaður í sérnámi í geðlækningum og því haft samráð við Halldóru sem sérfræðing um hvað gera skyldi. Þau hafi orðið sammála um að ekki væri ástæða til nauðungarvistunar. Spurður hvort sjúkragögn bentu til þess að gagnáfrýjandi hafi áður átt við geðræn vandamál að stríða sagði Júlíus að ekki hefðu fundist nein gögn um það, en það útilokaði ekki að hann hefði einhvern tíma á lífsleiðinni leitað sér aðstoðar vegna slíks vanda.

Eftir vistun á geðdeild fékk gagnáfrýjandi að fara þaðan frjáls ferða sinna. Í héraðsdómsstefnu var því haldið fram að hann hafi verið sviptur frelsi í um tvær klukkustundir frá því að hann var færður af heimili sínu og þar til hann fékk að fara aftur heim. Í greinargerð aðaláfrýjanda í héraði sagði að um það bil tveimur klukkustundum eftir að gagnáfrýjandi kom á geðdeild hafi hann verið látinn laus. Með vísan til 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að leggja þá staðhæfingu til grundvallar við úrlausn málsins.

II

Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er svo fyrir mælt að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í samræmi við það er kveðið á um í 2. mgr. 71. gr. að ekki megi gera leit í húsakynnum manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Eins og tekið var fram í greinargerð með frumvarpi til áðurnefndra stjórnarskipunarlaga er heimild til húsleitar sem hér um ræðir ekki einskorðuð við það að fyrir liggi grunur um að framið hafi verið refsivert brot. Skýra ber þessi ákvæði stjórnarskrárinnar með hliðsjón af fyrirmælum mannréttindasáttmála Evrópu sem lögtekinn hefur verið hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Í 1. mgr. 8. gr. sáttmálans segir að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns og heimilis. Samkvæmt 2. mgr. hennar skulu stjórnvöld eigi ganga á þann rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, þar á meðal til verndar heilsu manna.

Eitt af því sem lögreglu er ætlað að sinna er að aðstoða borgarana þegar hætta steðjar að, sbr. d. lið 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna er lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að gæta öryggis einstaklinga og eftir 2. mgr. þeirrar lagagreinar að fara meðal annars í því skyni inn á svæði í einkaeign. Í athugasemdum með frumvarpi til lögreglulaga kom fram að með því að lögfesta þessi ákvæði væri verið taka í lög áður óskráða reglu þess efnis að lögregla hafi almenna heimild til að grípa innan vissra marka til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu. Að teknu tilliti til þessa verður að játa lögreglu heimild til þess á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr. 15. gr. þeirra laga að fara, ef nauðsyn krefur, inn á heimili manna þótt ekki liggi fyrir samþykki þeirra til að ganga úr skugga um hvort eitthvað alvarlegt ami að þeim eða öðrum sem þar kunna að dvelja. Slík heimild til handa lögreglu samrýmist því viðhorfi sem ríkir í íslensku þjóðfélagi að stjórnvöldum beri að láta sig varða velferð fólks, svo framarlega sem ekki sé vegið að grundvallarréttindum borgaranna. Þó verður að setja heimild sem þessari þröngar skorður, meðal annars með tilliti til sjónarmiða um meðalhóf. Þannig verður að gera þá kröfu til lögreglu að hún fari ekki inn á heimili nema ærin ástæða sé til, svo sem vegna þess að nágrannar eða ættingjar manns óttist um heilsu hans þar sem ekkert hafi til hans spurst í nokkurn tíma. Einnig er lögreglumönnum skylt að knýja á dyr og tilkynna að þar sé lögregla á ferð áður en þeir fara inn, auk þess sem þeim ber að sýna þeim sem þar hittast fyrir fyllstu kurteisi og nærgætni. Þegar lögreglumenn hafa fullvissað sig um að ekkert alvarlegt ami að heilsu íbúanna ber þeim að halda á brott, sér í lagi ef þess er krafist af húsráðanda.

 Enginn vafi leikur á því að herbergið sem gagnáfrýjandi hafði á leigu og bjó í var heimili hans og naut hann þar friðhelgi, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt framansögðu hafði lögregla heimild til þess á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga að fara inn í herbergið þótt ekki lægi fyrir samþykki gagnáfrýjanda til að ganga úr skugga um hvort hann væri heill á húfi, að því tilskildu að nauðsyn hafi borið til þess. Af lögregluskýrslu og vitnisburði lögreglumannsins Kristjáns Helga Þráinssonar fyrir dómi verður ráðið að lögregla hafi ákveðið að fara inn í herbergið eftir að leigusali gagnáfrýjanda hafði tilkynnt um áhyggjur sínar af velferð hans og vegna þeirra aðstæðna í herberginu sem áður er lýst og lögreglumennirnir gátu virt fyrir sér gegnum glugga. Ennfremur er óumdeilt að áður höfðu þeir bankað ítrekað á hurð á herberginu og kallað að þar væri lögregla á ferð. Að þessu virtu verður fallist á með aðaláfrýjanda að tilefni hafi verið fyrir lögreglu til að óttast um öryggi gagnáfrýjanda og í því skyni verið heimilt eins og á stóð að fara inn á heimili hans á þann hátt sem gert var. Í ljósi aðstæðna, þar á meðal hversu erfitt reyndist að ræða við gagnáfrýjanda um ástand hans, var lögreglumönnunum einnig rétt að kalla eftir aðstoð læknis til að fullvissa sig um hvort hann væri alvarlega sjúkur, enda þótt hann hafi skipað þeim að hverfa á brott. Svo sem áður greinir er ósannað að lögreglumennirnir hafi sýnt gagnáfrýjanda ókurteisi og komið fram við hann á vanvirðandi hátt.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að lögregla hafi brotið gegn réttindum gagnáfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar með því að fara inn á heimili hans umrætt sinn eða gengið lengra við framkvæmd þeirrar aðgerðar en nauðsyn krafði. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um bætur vegna hennar.

III

Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá er svo fyrir mælt í 5. mgr. 67. gr. að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Í 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eru tæmandi taldar þær ástæður sem verða að vera fyrir hendi til þess að maður verði sviptur frelsi, þar á meðal má gera það í því tilviki að um sé að ræða löglega gæslu manns sem er andlega vanheill, sbr. e. lið málsgreinarinnar.

Í 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Samkvæmt fyrsta málslið 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur læknir þó ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í athugasemdum með frumvarpi til lögræðislaga var tekið fram að alvarlegur geðsjúkdómur í merkingu þessa ákvæðis væri samheiti yfir geðraskanir sem einkenndust af verulegum hugsanatruflunum og dómgreindarbresti og samsvaraði nokkurn veginn hugtakinu geðrof sem í íslensku máli væri einnig nefnt geðveiki. Fyrir utan hugtakið féllu hins vegar hugraskanir og streitutengdar raskanir sem einkennst gætu af kvíða, fælni og þráhyggju, enn fremur persónuleikaraskanir og þroskahefting. Heimildin til að vista mann nauðugan í sjúkrahúsi ef verulegar líkur væru taldar á að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi væri á því byggð að oftar en ekki þegar um bráðageðveiki væri að ræða væri ógjörningur að koma við nákvæmri greiningu á ástandi hans áður en honum yrði komið í sjúkrahús.

Eins og áður er komið fram tók læknirinn sem kallaður var til af hálfu lögreglu til að kanna ástand gagnáfrýjanda þá ákvörðun, að höfðu samráði við lækni á geðdeild Landspítala, að færa hann þangað gegn vilja hans. Taldi læknirinn sem ákvörðunina tók að hann hafi ekki getað útilokað að um væri að ræða einhvers konar geðrofsástand hjá gagnáfrýjanda eða hann væri jafnvel haldinn heilabilun. Eftir að gagnáfrýjandi hafði verið færður á geðdeild og vistaður þar í um tvær klukkustundir varð það sem fyrr greinir samdóma niðurstaða vakthafandi læknis og sérfræðings í geðlækningum að gagnáfrýjandi væri ekki andlega vanheill þannig að ástæða væri til að vista hann áfram nauðugan á deildinni.

Í þessum þætti málsins þarf að leysa úr því hvort gagnáfrýjandi hafi verið sviptur frelsi að ósekju í umrætt skipti þannig að aðaláfrýjandi hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart honum samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 32. gr. lögræðislaga. Við þá úrlausn hefur ekki þýðingu þótt læknirinn sem kvaddur var á vettvang hafi talið á þeim tíma og við þær aðstæður sem til staðar voru að verulegar líkur væru á að gagnáfrýjandi væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og því ákveðið af umhyggju fyrir honum að láta færa hann nauðugan á geðdeild sjúkrahúss til frekari skoðunar og greiningar. Það sem hér skiptir máli er hvort með þeirri skerðingu á frelsi gagnáfrýjanda hafi verið brotið gegn réttindum hans sem honum eru áskilin í 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og 19. gr. lögræðislaga. Svo sem áður er lýst varð það niðurstaða sérfróðra lækna á geðdeildinni eftir skoðun á gagnáfrýjanda og viðtal við hann að hann væri hvorki haldinn slíkum sjúkdómi, sem vísað er til í 2. mgr. þeirrar lagagreinar, né væru verulegar líkur á að svo væri. Að virtri þessari sérfræðilegu niðurstöðu verður að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi verið sviptur frelsi án þess að lögmæt skilyrði væru fyrir hendi þegar hann var færður gegn vilja sínum af heimili sínu á geðdeild 10. desember 2007, en eftir e. lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmálans verður maður að vera andlega vanheill til að frelsi hans verði skert. Samkvæmt því ber að dæma gagnáfrýjanda bætur úr hendi aðaláfrýjanda vegna þessarar frelsissviptingar.

Sú ólögmæta nauðungarvistun sem gagnáfrýjandi sætti var mjög tilfinnanleg fyrir hann eins og aðstæðum var háttað. Þó er á það að líta að hann var aðeins sviptur frelsi sínu í liðlega tvær klukkustundir. Af þessum sökum og með vísan til 32. gr. lögræðislaga eru miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.

Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um málskostnað til handa gagnáfrýjanda úr hendi aðaláfrýjanda.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda hér fyrir dómi fer eftir því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, A, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. desember 2011 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 4. október sl., var þingfest 6. desember 2011.

                Stefnandi er A, [...]

                Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur

                Stefnandi krefst þess að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 2.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt IV., sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Málavextir

                Eins og fram kemur í lögregluskýrslu, dags. 10. desember 2007, fór lögregla að heimili stefnanda, [...], að beiðni leigusala stefnanda sem hafði ekki náð neinu sambandi við stefnanda um skeið. Leigusalinn þurfti m.a. að ná sambandi við stefnanda til þess að segja upp leigusamningi við hann. Í skýrslunni kemur fram að leigusalinn hafi tjáð lögreglu að herbergi stefnanda væri fullt af rusli og hún hefði áhyggjur af honum vegna þess.

                Samkvæmt lögregluskýrslu bankaði lögregla ítrekað á hurð að herbergi stefnanda og gaf til kynna að lögreglan væri þar á ferð. Lögreglumenn litu inn um glugga á herberginu og hafi þá blasað við mikill blaðabunki um allt herbergið sem víða náði nánast að lofti. Hvergi hafi verið hægt að stíga á gólf herbergisins fyrir dagblaðarusli og öðrum óþrifnaði. Lögreglumaður fór inn um glugga á herberginu til að athuga hvort stefnanda væri þar að finna en hann hafi engu svarað. Lögreglumaðurinn hafi skriðið ofan á kössum og blaðadrasli að hurðinni inn í herbergið. Þar hafi verið að finna laut í blaðadraslinu og í henni hafi stefnandi legið.

                Stefnandi hafi verið ósáttur við afskipti lögreglu af honum. Mjög erfiðlega hafi gengið að ræða við hann og hafi hann ekki svarað lögreglu af nokkru viti. Hafi hann ítrekað reynt að loka herberginu svo lögreglan gæti ekki skoðað það. Ekki hafi verið hægt að kveikja ljós í herberginu sem hafi verið heilsuspillandi og ekki mannabústaður. Lárus Ragnarsson frá Héraðslæknisembættinu hafi komið á vettvang að beiðni lögreglu. Eftir nokkrar viðræður við stefnanda hafi Lárus tekið þá ákvörðun að svipta hann sjálfræði í 48 klst. og færa stefnanda á geðdeild Landspítala.

                Samkvæmt framlagðri dagnótu Landspítala var grunur um geðrof tilgreindur sem ástæða komu stefnanda á spítalann. Eftir viðtal Júlíusar Ingólfs Schopka læknis við stefnanda var niðurstaða hans sú að ekki væri ástæða til nauðungarinnlagnar og var stefnanda leyft að fara.

                 Í stefnu lýsir stefnandi atvikum svo að hann hafi verið sofandi og hafi því ekki svarað þegar lögreglan barði á dyr. Umræddir lögreglumenn hafi þá tekið þá ákvörðun að brjóta sér leið inn á heimili hans með því að fara inn um glugga á leiguherbergi hans. Hann heldur því fram að í framhaldi þess að lögreglan fann stefnanda á heimili hans hafi hún haft af honum ítrekuð afskipti eins og fram komi í framlagðri lögregluskýrslu.

                Stefnandi kveðst hafa skorað á lögregluna að yfirgefa heimili sitt og spurt ítrekað hvort hann væri handtekinn og hverju afskipti lögreglu af sér sættu. Stefnandi kveðst hafa gert lögreglu mjög skýrlega grein fyrir því að hann vildi að afskiptum af sér lyki og að lögreglan yfirgæfi heimili sitt. Sjáist staðfesting þess í framlagðri lögregluskýrslu þar sem segi: „Reyndi hann [stefnandi] ítrekað að loka herberginu svo við gætum ekki skoðað það.“

                Lögreglan hafi ekki sinnt beiðnum stefnanda um að láta af afskiptum sínum. Þvert á móti hafi stefnandi orðið fyrir spurningaflóði af hálfu lögreglu sem hafi innihaldið spurningar sem stefnda fundust særandi og niðrandi í sinn garð. Þannig hafi  hann verið spurður um það hvort hann baðaði sig og hvernig. Jafnframt hafi lögregla spurt hann hvað hann borðaði.

                Í lögregluskýrslu megi lesa hlutdræga lýsingu á heimilisaðstæðum stefnanda. Þannig lýsi lögreglumenn vistarverum stefnanda á eftirfarandi hátt: „Ekki var hægt að kveikja ljós í herberginu en herbergið verður að teljast verulega heilsuspillandi og alls ekki mannabústaður.“

                Lögreglan hafi loks kallað til Lárus Ragnarsson lækni. Lárus hafi tekið þá ákvörðun á staðnum, eftir að hafa rætt við stefnanda í nokkrar mínútur, að svipta hann sjálfræði í 48 klst. samkvæmt lögregluskýrslu. Stefnandi hafi því næst verið færður gegn vilja sínum í lögreglubifreið og honum ekið á geðdeild Landspítalans þar sem tekin hafi verið af honum skýrsla. Mat sérfræðings sem skýrsluna tók hafi verið að ástæðulaust væri að svipta stefnanda sjálfræði enda væri ekkert sem benti til þess að hann væri sjálfum sér eða öðrum hættulegur. Hafi stefnandi því verið látinn laus en hann hafði þá verið sviptur frelsi í um tvær klukkustundir að frátöldum þeim tíma sem afskipti lögreglu af honum á heimili hans vöruðu.

Málsástæður stefnanda og lagarök

                Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á ólögmætum afskiptum, húsleit og frelsissviptingu sem hann varð fyrir af hálfu lögreglu á þáverandi heimili sínu að [...], hinn 10. desember 2007. Þá byggir stefnandi kröfu sína á því að ákvörðun læknisins, Lárusar Ragnarssonar, um að svipta hann sjálfræði, hafi verið með öllu ólögmæt. Er íslenska ríkinu stefnt á grundvelli húsbóndaábyrgðar vegna fyrrgreindra atvika.

                Stefnandi vísar til þess að ekki hafi verið lögmæt skilyrði til afskipta lögreglu af honum til að byrja með. Þannig hafi lögreglan, með því að mæta á heimili hans, hafið afskipti af einkaréttarlegri deilu milli hans og þáverandi leigusala sem hvergi falli undir verksvið lögreglu.

                Stefnandi mótmælir því að grundvöllur hafi verið fyrir nokkurs konar aðgerðum lögreglu gegn honum þar sem ekki hafi verið nokkurt tilefni til afskipta auk þess sem aðgerðir lögreglu hafi verið framkvæmdar á óþarflega særandi og móðgandi hátt. Vísar stefnandi til þess að lögregla hafi farið langt út fyrir heimilaðan ramma í aðgerðum sínum gegn stefnanda.

                Samkvæmt 74. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2002 séu skilyrði fyrir húsleit þau að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt geti ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi. Það sé enn fremur skilyrði fyrir húsleit að rannsókn beinist að broti sem varðað geti fangelsisrefsingu að lögum. Augljóst sé að ekki voru slík skilyrði uppfyllt í tilviki stefnanda og því varði sú aðgerð lögreglu að fara óboðin á heimili hans húsbroti samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ljóst sé að samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 hafi ekki verið heimild til að svipta stefnanda sjálfræði. Nauðungarvistun sé einungis heimil á sjálfráða manni samkvæmt undantekningareglum 2. mgr. 19. gr. fyrrgreindra laga sem tilgreini tæmandi tilfelli þar sem slíkt inngrip sé heimilt. Sé sú heimild bundin þeim skilyrðum að viðkomandi einstaklingur sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur séu taldar á að svo sé eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Sama gildi ef maður á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna. Augljóst sé að ekkert af fyrrnefndum skilyrðum áttu við í tilfelli stefnanda og því ólögmæt með öllu sú ákvörðun að svipta hann sjálfræði og neyða hann á sjúkrahús án samþykkis.

                Reglur um sviptingu sjálfræðis beri að skoða í ljósi ákvæða 67. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 um sviptingu frelsis við handtöku og annarra almennra reglna um friðhelgi og mannréttindi, þar á meðal ákvæða í 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 62/1994. Allar undantekningar frá grundvallarreglunni um frelsi og friðhelgi beri að túlka þröngt.

                Í 32. gr. lögræðislaga sé fjallað um skyldu ríkissjóðs til að greiða bætur til sjálfráða manns ef skilyrði hefur brostið til nauðungarvistunar eða ef staðið er að henni á óþarflega særandi eða móðgandi hátt. Í tilfelli stefnanda skorti bæði lögbundin skilyrði fyrir úrræðinu en framkvæmd þess hafi jafnframt verið afar særandi og móðgandi fyrir stefnanda sem hafði hvorki nokkuð til sakar unnið né sýnt af sér hegðun sem benti til að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Ekkert tilefni hafi því verið fyrir aðgerðunum í umrætt sinn og engin réttlæting fyrir þeirri frelsisskerðingu og því inngripi í friðhelgi einkalífs hans sem hann varð fyrir. Frelsissvipting sé alvarlegur hlutur og sé verulegt miskatjón falið í slíkri aðgerð, bæði vegna þeirrar andlegu þjáningar sem slík frelsissvipting hafi í för með sér og vegna þess skaða sem verði á mannorði viðkomandi.

                Með vísan til varnaðaráhrifa miskabóta sé nauðsynlegt að stefndi verði dæmdur bótaskyldur gagnvart stefnanda.

                Skýrsla sérfræðings geðdeildar Landspítalans staðfesti svo ekki verði um villst að skilyrði fyrir nauðungarvistun voru ekki uppfyllt í tilfelli stefnanda. Það sé mat stefanda að atvik þau er áttu sér stað 10. desember 2007 hafi jafnast á við hrinu ólögmætra aðgerða gegn sér:

1. Lögreglu skorti lagaheimild til að hafa afskipti af stefnanda.

2. Lagaheimild skorti til að ryðjast inn á heimili stefnanda.

3. Ólögmæt var sú ákvörðun að dveljast óhóflega í vistarverum stefnanda þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli hans um að lögreglumenn skyldu hafa sig á brott.

4. Ólögmæt var sú ákvörðun að kalla eftir lækni án samþykkis stefnanda.

5. Ólögmæt var ákvörðun um sjálfræðissviptingu og nauðungarvistun.

6. Ólögmæt frelsissvipting og flutningur á geðdeild.  

                Ofangreind háttsemi stefndu skuli metin heildstætt og varði hún þannig stórfellda ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda og skuli því vera miskabótaskyld í samræmi við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 beri að bæta honum það miskatjón sem hann hefur orðið fyrir en ekki sé á því byggt að stefnandi hafi orðið fyrir beinu fjártjóni. Stefnandi vísi til þess að sama regla hafi gilt samkvæmt 175. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sem voru í gildi þegar hinir bótaskyldu atburðir áttu sér stað. Þess beri að geta að stefnanda hafi aldrei borist upplýsingar um það að rannsókn á hendur honum hafi verið hafin né um niðurfellingu slíkrar rannsóknar.

                Stefnandi vísar til dómafordæma m.a. dóms Hæstaréttar í máli nr. 68/1992 sem kveðinn var upp 8. desember 1994.

                Fjárhæð bótakröfunnar sé á því byggð að stefnandi hafi orðið fyrir skaða og miska vegna ólögmætra afskipta, húsleitar, frelsissviptingar og sjálfræðissviptingar. Hafi aðgerðir stefnda verið sérstaklega niðurlægjandi og særandi fyrir stefnanda.

                Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabóta- og refsiréttar auk meginreglna opinbers réttarfars og stjórnarskrár lýðveldisins um þvingunaraðgerðir.

Vísað er til XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, einkum 176. og 177 gr. en samkvæmt lagaskilareglum í bráðabirgðaákvæðum með lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, skuli beita ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um ólögmæta handtöku og frelsissviptingu sem gerðist í tíð þeirra laga.

                Vísað er til XXXVII. kafla laga um meðferð sakamála 88/2008, sérstaklega greinar 228, 230 og 231. Einnig er vísað til XIII. kafla um handtöku og 74. gr. um húsleit. Þá er vísað til lögræðislaga nr. 71/1997 einkum 19. og 32. gr. Vísað er til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er vísað til almennu sakarreglunnar á sviði skaðabótaréttar og reglna um húsbóndaábyrgð vinnuveitenda á starfsmönnum sínum.

Vísað er til laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, sérstaklega 5. og 6. gr.

Byggt er á stjórnarskrá íslands, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 67. gr. og 70. gr.

                Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum.

                Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eigi þau ákvæði ekki við um kröfu stefnanda, vísar hann til XXXVII kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

                Um gjafsókn er vísað til 178. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Eigi það ákvæði ekki við um kröfu stefnanda, vísar hann til 231. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Kröfur um vexti styður stefnandi við reglur IV., sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfur um virðisaukaskatt eru byggðar á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að tekið sé tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Varðandi varnarþing vísast til 32. og 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

                Stefndi telur kröfugerð stefnanda tvíþætta. Annars vegar byggi hann skaðabótakröfu sína á „ólögmætum afskiptum, húsleit og frelsissviptingu“ af hálfu lögreglunnar og hins vegar „á því að ákvörðun læknisins Lárusar Ragnarssonar um að svipta hann sjálfræði hafi verið með öllu ólögmæt“. Öllu þessu sé ítrekað mótmælt af hálfu stefnda.

                Stefndi mótmæli því að afskipti lögreglu hafi verið afskipti af einkaréttarlegri deilu milli stefnanda og leigjanda hans. Hið eina rétta sé að lögreglan kom á staðinn til þess að kanna örlög stefnanda og hvort hann væri lífs eða liðinn. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé það m.a. hlutverk lögreglunnar að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og að aðstoða þá þegar hætta steðjar að. Í f-lið sömu greinar skal lögreglan starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfsemi lögreglu. Aðkoma lögreglunnar að máli stefnanda falli undir þessi lagaákvæði lögreglulaga, bæði hvað varðar störf á vettvangi og aðstoð hennar við að kalla eftir lækni og aka stefnanda á sjúkrahús. Störf lögreglunnar sem varða stefnanda hafi því ekki verið sakamálarannsókn, hvorki í skilningi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 né laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þau lagaákvæði í þessum lögum, sem stefnandi vísi til, eigi því ekki við og komi þar af leiðandi ekki til álita að mati stefnda. Við þetta verði að bæta að jafnvel þótt lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 yrðu talin eiga við um umdeilda atburðarás, þá sé hugsanleg bótakrafa stefnanda fyrnd samkvæmt 181. gr. laganna. Lögin hafi runnið sitt skeið á enda hinn 1. janúar 2009, þ.e. eftir atburðarás máls þessa.

                Stefndi krefjist því sýknu af þeim dómkröfum og málsástæðum sem beint sé að lögreglunni, í fyrsta lagi vegna þess að lögreglan hafi einungis verið að sinna lögbundnum störfum sínum, eins og lýst sé hér að framan. Í öðru lagi vegna þess að dómkröfur stefnanda séu ekki byggðar á eðlilegum lagagrunni eins og einnig sé rakið hér að framan. Í þriðja lagi sé krafist sýknu á grundvelli fyrningarákvæða 181. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, ef talið verður að þau lög eigi við um umdeilda atburðarás.

                Lárus Ragnarsson læknir sé, eins og áður greini, starfsmaður Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann einn hafi unnið það læknisfræðilega mat sem hann hafi verið kallaður til að framkvæma á heimili stefnanda þann 10. desember 2007. Það verk hafi hann unnið sem ríkisstarfsmaður og beri íslenska ríkið húsbóndaábyrgð á störfum hans á þeim vettvangi.

                Stefndi krefjist sýknu vegna aðkomu ofangreinds læknis að málinu og ákvarðana þeirra sem hann tók á vettvangi og leiddu til þess að stefnandi var fluttur á geðdeild Landspítalans. Læknirinn hafi tekið ákvörðun um flutning stefnanda á sjúkrahús á grundvelli viðmiðana 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sú ákvörðun hafi falið í sér bráðabirgðaákvörðun sem staðfesta yrði á sjúkrahúsinu af þar til bærum sérfræðingi/yfirlækni. Þetta hafi gengið eftir, en þeir sérfræðingar sem komu að málinu töldu ekki nægar ástæður til nauðungarvistunar og var stefnandi látinn laus um tveimur tímum eftir komu á sjúkrahúsið. Nauðungarvistun kom því aldrei til framkvæmda.

                Að mati stefnda séu ekki skilyrði í málinu til að greiða stefnanda bætur eins og krafist er. Skilyrði nauðungarvistunar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 séu skýr. Ef læknir ákveði nauðungarvistun skuli bera þá ákvörðun undir yfirlækni, væntanlega sérfræðing í geðlækningum. Í þessu tilviki hafi þetta verið gert í samræmi við lögin en slíkri vistun var hafnað eins og þá stóð á. Nauðungarvistun hafi því ekki komið til framkvæmda. Ákvörðun Lárusar Ragnarssonar hafi verið hluti af lögboðnu ferli sem kveðið sé á um í 19. gr. lögræðislaga nr.  71/1997. Í 32. gr. sömu laga sé kveðið á um skaðabætur hafi lögmæt skilyrði vegna nauðungarvistunar brostið. Nauðungarvistun hafi aldrei verið ákveðin endanlega í þessu tilviki. Ekki sé heldur hægt að vefengja það læknisfræðilega mat Lárusar Ragnarssonar að senda stefnanda á sjúkrahús til frekari rannsóknar og ákvörðunartöku. Forsendur fyrir þeirri ákvörðun hafi bæði verið skýrar og málefnalegar.

Niðurstaða

          Stefnandi bar fyrir dómi að á umræddum tíma hefði hann borið út blöð. Hafi aukablaðaefni safnast fyrir hjá honum þar sem hann hefði ekki reglulega farið brott með blöðin. Hann lýsti því að sér hefði fundist langt gengið með aðgerðum lögreglunnar og hefði hann farið á lögreglustöðina daginn eftir til þess að ræða við aðstoðarlögreglustjóra en hafi fengið viðtal við lögfræðing.

          Í stefnu segir að stefnanda hafi þótt spurningar lögreglumanna særandi og niðrandi. Fyrir dómi bar stefnandi að honum hefði ekki fundist hann skuldbundinn að svara slíkum spurningum. Hann hafnaði því að erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við sig og kvaðst ekki hafa samþykkt að fara á geðdeild.

          Stefnandi kvað ekki rétt að hann hefði reynt að loka herberginu enda einn á móti tveimur lögreglumönnum. Kvaðst hann hafa lýst furðu sinni á þessari lögregluheimsókn og taldi að hann hefði bent þeim á að fara. Hann kvað ekki rétt sem segir í lögregluskýrslu að herbergið hafi verið rafmagnslaust. Þá lýsti hann því að með aðgerðunum hafi honum þótt vegið að æru sinni.

          Kristján Helgi Þráinsson lögreglumaður lýsti því fyrir dómi að leigusali stefnanda hefði ekki orðið var við stefnanda í nokkurn tíma og hafi kvatt til lögreglu til að athuga hvort stefnandi væri lífs eða liðinn. Hann kvaðst hafa bankað á glugga, kallað og gert grein fyrir sér en hafi ekki fengið nein viðbrögð. Hann hafi ákveðið að fara inn um glugga til að kanna hvort húsráðandi væri heill heilsu, lífs eða liðinn. Inni í herberginu hafi verið gríðarlegur stafli af dagblöðum og pappír. Þegar hann hafi verið kominn í mitt herbergið hafi hann komið að nokkurs konar laut í blaðabunkanum og þar hafi sprottið upp maður. Honum hafi dauðbrugðið en síðan opnað hurðina á herberginu og hleypt félaga sínum inn. Inni í miðju herberginu hafi verið laut þar sem stefnandi hélt sig. Hann kveðst hafa reynt að eiga samskipti við húsráðanda en það hafi ekki gengið vel. Taldi hann herbergið heilsuspillandi og ekki vera mannabústað og brunahætta stafaði af blöðunum. Aðgerð lögreglu hafi falist í því að kanna ástand stefnanda og aðstoða hann en þeir hafi engu sambandi náð við hann og hafi ekki orð dregist upp úr honum. Taldi hann þessar aðstæður, að búa í blöðum, ekki vera eðlilegar. Í aðgerðinni hafi einfaldlega falist aðstoð við borgara.

          Lárus Ragnarsson læknir, var vakthafandi læknir á héraðsvakt. Hann bar fyrir dómi að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hefði haft samband við hann og hann beðinn að koma og skoða mann með tilliti til mögulegrar andlegrar vanheilsu. Honum hafi verið tjáð að lögreglumenn á vettvangi óskuðu eftir þessu og einnig að félagsmálayfirvöld hefðu komið að málinu. Þegar hann kom á staðinn hafi hann fengið lýsingu á því sem gerst hafði og að lögreglumenn ættu erfitt með að átta sig á andlegu heilsufari stefnanda. Aðstæður hafi verið þannig að þetta var í kjallara í Norðurmýrinni og klukkan rúmlega hálfsex, dimmt úti og snjór. Þegar inn var komið hafi ekki verið hægt að kveikja ljós í herberginu og þarna inni því myrkur. Hafi honum verið sagt að herbergið væri rafmagnslaust. Herbergið hafi verið fullt af dagblaðastöflum og alls kyns pokum fullum af dóti eða rusli og varla hægt að ganga um herbergið. Á einum stað hafi verið einhvers konar lægð í blaðabunkann þar sem stefnandi muni hafa legið þegar lögreglan kom. Stefnandi hafi verið æstur þegar hann kom og krafðist þess að hann og aðrir færu út úr húsinu. Lárus kvaðst hafa reynt að ræða við hann og róa hann niður. Hann kvaðst hafa haft vissan skilning á reiði hans en hafi jafnframt útskýrt fyrir honum hver hann væri og hvers vegna hann væri kominn og hafi jafnframt gert honum grein fyrir því að mikilvægt væri fyrir hann að svara spurningum hans á sem eðlilegastan hátt að hans viti þannig að mat hans á geðheilsu stefnanda yrði sem réttast. Hann kvaðst hafa lagt fyrir hann spurningar í þá veru að hann gæti áttað sig á því hvort stefnandi væri áttaður á stund og stað og sjálfum sér. Öllu slíku hafi verið svarað út í hött og ruglingslegt yfirbragð og reiði yfir öllu sem sagt var. Hann kvaðst einnig hafa spurt spurninga til að átta sig á því hvernig honum liði og hvort hann væri með ranghugmyndir eða ofskynjanir. Flestu hafi verið svarað út í hött. Hafi hann fundið á stefnanda að hann upplifði nærveru þeirra sprottna af illum hvötum og væri ógnandi við hann. Hann kvaðst hafa reynt að ræða við hann og beina samtalinu inn á brautir er miðuðu að því að róa stefnanda þannig að vitrænt samtal gæti átt sér stað. Hluti samtalsins átti sér stað inni í ljóslausu herberginu og frammi á gangi þar sem lítið ljós var. Inni í herberginu hafi því þurft að lýsa með vasaljósi þannig að unnt væri að sjá eitthvað til. Stefnandi hafi verið ókyrr, á sífelldri hreyfingu, og hafi gripið fram í fyrir honum og hafi viljað hafa orðið. Taldi læknirinn að margt í fari stefnanda og aðstæður hafi bent til þess að verulega meiri líkur en minni væru á því að hann væri haldinn andlegum geðsjúkdómi eða öðrum alvarlegum veikindum sem gætu ógnað heilsu hans og jafnvel lífi.

          Lárus kvaðst hafa rætt nauðsyn þess að stefnandi færi til nánari skoðunar á geðdeild Landspítalans. Stefnandi hafi verið tvístígandi um þetta og aðra stundina hafi hann fallist á að fara en síðan neitað. Kvaðst hann ekki muna annað en að stefnandi hefði farið út úr húsinu af fúsum og frjálsum vilja.

          Lárus kvaðst hafa rætt við vakthafandi lækni á geðdeild Landspítala, sem var Júlíus Schopka, og útskýrt fyrir honum hvernig málið væri vaxið og óskað eftir nánari skoðun með tilliti til geðheilsu stefnanda. Hafi því verið vel tekið. Í framhaldinu hafi því verið ákveðið að flytja stefnanda á geðdeildina til nánari skoðunar og mats á því hvort það væri nauðsyn á því að vista hann nauðugan. Til grundvallar þeirri ákvörðun hafi verið svör hans við öllum þeim spurningum er lagðar voru fyrir hann. Hann hafi ekki virst áttaður á stað og stund og æsingur og ruglingsleg svör mjög óeðlileg. Hann hafi ekki reynt að verja sig með skynsamlegum rökum og afstýra því að fara í nánara geðmat. Aðstæður á heimili hans hafi vægast sagt verið mjög slæmar, blaðastaflar mynduðu eins og veggi og göng um herbergið og varla hefði verið hægt að stíga niður fæti fyrir alls konar dóti.

          Spurður um sjálfræðissviptingu bar Lárus að stefnandi hefði aldrei verið sviptur sjálfræði og aðgerðir hans hefðu ekki verið beinlínis í þá veruna en hann hafi talið nauðsynlegt að hann færi til skoðunar og geðmats á geðdeildina. Kvað hann lækna á héraðsvaktinni yfirleitt aldrei ákveða nauðungarvistun, ekki einir sér, heldur séu menn færðir til geðmats og skoðunar á bráðamóttöku geðdeildarinnar. Þar sé ákveðið af vakthafandi sjúkrahúslækni, eftir samráð við yfirlækni, hvort þörf sé á slíkri vistun.

          Eins og áður er rakið byggir stefnandi skaðabótakröfu sína í málinu á því að stefnandi hafi sætt ólögmætum afskiptum, húsleit og frelsissviptingu, af hálfu lögreglu á heimili sínu hinn 10. desember 2007. Jafnframt er á því byggt að ákvörðun Lárusar Ragnarssonar læknis, um að svipta stefnanda sjálfræði, hafi verið með öllu ólögmæt.

          Stefnandi vísar til þess að ekki hafi verið lögmæt skilyrði til afskipta lögreglu af honum til að byrja með. Þannig hafi lögreglan, með því að mæta á heimili hans, hafið afskipti af einkaréttarlegri deilu milli hans og þáverandi leigusala sem hvergi falli undir verksvið lögreglu.

                Stefnandi mótmælir því að grundvöllur hafi verið fyrir nokkurs konar aðgerðum lögreglu gegn honum þar sem ekki hafi verið nokkurt tilefni til afskipta auk þess sem aðgerðir lögreglu hafi verið framkvæmdar á óþarflega særandi og móðgandi hátt. Vísar stefnandi til þess að lögregla hafi farið langt út fyrir heimilaðan ramma í aðgerðum sínum gegn stefnanda.

                Fyrir liggur að lögregla var kölluð til að beiðni leigusala stefnanda sem hafði ekki náð sambandi við stefnanda í nokkurn tíma og hafði áhyggjur af honum þar sem herbergi hans var fullt af rusli. Samkvæmt framburði Kristjáns Helga Þráinssonar lögreglumanns var hann kallaður til til þess að kanna hvort stefnandi væri lífs eða liðinn. Hafi aðgerðir lögreglu falist í því að kanna ástand stefnanda og aðstoða hann.

                Samkvæmt d-lið 2. gr. laga nr. 90/1996 er hlutverk lögreglunnar m.a. að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að. Í f-lið sömu greinar segir að lögreglan skuli starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafi með höndum verkefni sem tengist starfsemi lögreglu.

                Telja verður að aðkoma lögreglu í umrætt sinn hafi verið í fullu samræmi við þessi ákvæði. Þótt leigusali stefnanda hafi verið að reyna að ná sambandi við hann til að segja honum upp húsnæðinu þykir það ekki skipta máli í þessu sambandi. Verður ekki litið svo á að lögregla hafi verið á vegum leigusalans með neinum hætti heldur hafi aðgerð þeirra beinst að því að kanna ástand stefnanda og aðstoða hann. 

                Stefnandi vísar til 74. gr. sakamálalaga nr. 88/2002 í málatilbúnaði sínum. Stefnandi sætti ekki rannsókn lögreglu og eiga ákvæði þeirra laga ekki við hér.

                Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að ekki hafi verið heimild til þess að svipta stefnanda sjálfræði.

                Fyrir liggur í málinu að stefnandi var ekki sviptur sjálfræði. Hins vegar telst upplýst að hann var færður, gegn vilja sínum, á geðdeild Landspítala til geðskoðunar. Júlíus Ingólfur Schopka deildarlæknir framkvæmdi umrædda skoðun. Í niðurstöðu í vottorði hans er stefnanda lýst þannig: „73 ára gamall karlmaður, holdafar eðlilegt, er fátæklega til fara, óhirtur, virkar fremur reiður í fyrri hluta viðtals, talþrýstingur e.t. vægt aukinn í fyrri hluta viðtals en smám saman róast viðkomandi. Hann er var um sig og tortrygginn sem er að vissu leyti skiljanlegt í ljósi kringumstæðna og í ljósi þess hvernig komu hans á bráðamóttöku bar að. Neitar öllum helstu geðrofseinkennum, neitar sjálfsvígshugsunum. Ekki talinn í sjálfsvígshættu, ekki hægt að sýna fram á að hann sé í bráðu óviðráðanlegu geðrofaástandi. Ég tel líklegt að hér sé um að ræða mann með [...]. Ekki hægt að sýna fram á hann sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum og tel ég því ekki ástæðu til nauðungar innlagnar.“

          Eins og áður er lýst voru aðstæður í herbergi stefnanda mjög óvenjulegar. Lögregla taldi þessar aðstæður geta skapað eldhættu en engar ráðstafanir voru gerðar til að kalla til viðeigandi yfirvöld út af því. Stefnandi óskaði ekki eftir nærveru lögreglunnar eða læknisins. Þá bar hann fyrir dómi að með aðgerðunum hafi honum þótt vegið að æru sinni. Í stefnu segir að honum hafi fundist spurningar lögreglu særandi og niðrandi í sinn garð. Hann var reiður og upplifði aðkomu þeirra sem ógnandi, sbr. framburði Lárusar Ragnarssonar læknis. Fram er komið að læknirinn taldi að margt í fari stefnanda og aðstæður benti til þess að verulega meiri líkur en minni væru á því að hann væri haldinn andlegum geðsjúkdómi eða öðrum alvarlegum veikindum sem gætu ógnað heilsu hans og jafnvel lífi. Í ljósi þessa var sú ákvörðun tekin að flytja stefnanda á geðdeild Landspítalans til skoðunar.

          Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar má ekki svipta mann frelsi sínu nema samkvæmt heimild í lögum. Í. 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Í 2. mgr. greinarinnar segir: „Þó getur læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms.“                Með vottorði Júlíusar Ingólfs Schopka þykir nægilega sýnt fram á að stefnandi hafi ekki verið í bráðu óviðráðanlegu geðrofsástandi eða að hann væri hættulegur sjálfum sér eða öðrum þegar læknir var kallaður til hans. Liggur ekki fyrir að könnuð hafi verið sjúkrasaga stefnanda eða upplýsinga aflað um aðstæður hans að öðru leyti áður en ákvörðun var tekin um að færa hann á geðdeild Landspítalans. Þrátt fyrir að aðstæður hafi verið erfiðar verður í ljósi framangreinds að líta svo á að stefndi hafi ekki sýnt fram á að verulegar líkur hafi verið á því að stefnandi væri haldinn geðsjúkdómi sem réttlætti það að hann var fluttur gegn vilja sínum á sjúkrahús.

          Samkvæmt framansögðu telst stefndi bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna ólögmætrar frelsisskerðingar. Verða honum dæmdar miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Dráttarvextir dæmast frá 6. desember 2011, sem var þingfestingardagur málsins.

          Stefnandi krefst málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Gjafsóknarleyfi liggur ekki fyrir í málinu. Til stuðnings kröfu sinni um gjafsóknarkostnað vísar stefnandi til laga um meðferð opinberra mála og til laga um meðferð sakamála. Er ekki fallist á að stefnanda beri gjafsókn á grundvelli þeirra laga. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að hann njóti gjafsóknar í máli þessu.

          Eftir niðurstöðu málsins ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 550.000 krónur.

          Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

          Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. desember 2011 til greiðsludags.

          Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.