Print

Mál nr. 159/2000

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Skattur
  • Stjórnvaldsfyrirmæli
  • Endurgreiðslukrafa
  • Fyrning

Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000.

Nr. 159/2000.

Jón Björnsson

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

                                                   

Stjórnarskrá. Skattar. Stjórnvaldsfyrirmæli. Endurgreiðslukrafa. Fyrning.

J, sem rak lyfjaverslanir á árunum 1986-1997, höfðaði mál gegn íslenska ríkinu (Í) til greiðslu skaðabóta og/eða endurgreiðslu lyfsölusjóðsgjalds, sem honum var gert að greiða árlega til lyfsölusjóðs á árunum 1989-1994 á grundvelli 2. mgr. 42. gr. þágildandi lyfjalaga nr. 108/1984. Talið var að kröfum J væri réttilega beint að Í og var krafa Í um sýknu vegna aðildarskorts ekki tekin til greina. Taka lyfsölusjóðsgjalds af J var talin ólögmæt, þar sem lagaheimild um það fullnægði ekki kröfum 40. gr., og 77. gr. stjórnarskrárinnar um skattlagningu. Ekki var talið að J hefði sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir tjóni í skilningi skaðabótaréttar vegna töku gjaldsins, en krafa hans var í eðli sínu endurgreiðslukrafa og laut reglum kröfuréttar. Talið var að lög nr. 14/1905 tækju til endurkröfu J og rétt væri að miða fyrningartíma við fjögur ár samkvæmt 5. tl. 3. gr. laganna. Var krafa J því fyrnd, en rúm fjögur ár liðu frá því, er hann greiddi síðast lyfsölusjóðsgjald þar til hann hófst handa um málsókn þessa. Var Í því sýknaður af kröfum J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2000. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 758.600 krónur með nánar tilgreindum vöxtum af 84.000 krónum frá 1. júlí 1989 og síðar af hækkandi höfuðstól til stefnubirtingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum áfrýjanda og verði málskostnaður þá látinn falla niður.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf Guðmundar Sigurðssonar til ríkislögmanns 14. júlí 2000 um ákvarðanir lyfjaverðlagsnefndar um lyfjaverð á árunum 1983-1994 ásamt rekstraryfirliti Akraness Apóteks fyrir árið 1986. Af hálfu áfrýjanda er skjölunum mótmælt sem óstaðfestum og of seint fram komnum. Þá hefur einnig verið lögð fram lyfjaverðskrá II, er gilti frá 1. október 1991.

I.

Fjárkrafa áfrýjanda nemur því gjaldi, sem hann greiddi til lyfsölusjóðs á árunum 1989-1994, en hann rak Akraness Apótek 1986-1993 og Kópavogs Apótek 1994-1997. Gjaldið var lagt á hann á grundvelli 2. mgr. 42. gr. þágildandi lyfjalaga nr. 108/1984. Þar kom fram, að lyfsölusjóðsgjald væri meðal tekna lyfsölusjóðs og nyti lögtaksréttar. Það væri jafnhátt eftirlitsgjaldi lyfjabúða og innheimtist með því, svo sem nánar skyldi ákveðið í reglugerð. Slík reglugerð var þó ekki sett, en frá árinu 1988 aðstoðaði Apótekarafélag Íslands lyfsölusjóð við innheimtu gjaldsins með því að senda sjóðnum gíróseðla með útfylltum réttum upphæðum, sem greiða skyldi vegna hvers og eins apóteks í landinu.

Við aðalmeðferð málsins í héraði 14. janúar 2000 gáfu lögmenn yfirlýsingu þess efnis, að áfrýjandi hefði 26. maí 1995 innt af hendi greiðslu lyfsölusjóðsgjalds vegna ársins 1994 og þá verið í skilum með allar greiðslur, en ekki væri vitað um greiðsludaga einstakra greiðslna þar fyrir utan.

II.

Samkvæmt 40. gr. laga nr. 108/1984 skipaði ráðherra þrjá menn í stjórn lyfsölusjóðs til fjögurra ára í senn, og voru tveir þeirra tilnefndir af Apótekarafélagi Íslands annars vegar og Lyfjafræðingafélagi Íslands hins vegar, en formaður var skipaður án tilnefningar. Í 41. gr. var mælt fyrir um hlutverk Lyfsölusjóðs. Annað  meginhlutverka sjóðsins var að vera lyfsölum bakhjarl við stofnun, niðurlagningu, rekstur og kaup eða endurnýjun lyfjabúða, meðal annars með lánveitingum. Á hinn bóginn var sjóðnum ætlað að efla innlenda lyfjaframleiðslu og rannsóknir í lyfjagerðarfræði og stuðla að stofnun og rekstri lyfjabúða á landsbyggðinni, þar sem þeirra væri talin ótvíræð þörf en uggvænt þætti um rekstrarhorfur.

Í 52. gr. og 53. gr. laga nr. 108/1984, sem 42. gr. vísaði til um gjaldhæð og innheimtu lyfsölusjóðsgjalds, voru ákvæði um árlegt eftirlitsgjald á fyrirtæki þau og stofnanir, er Lyfjaeftirlit ríkisins hefði eftirlit með og skyldi verja þeim tekjum til greiðslu kostnaðar við eftirlitið. Eftirlitsgjöldin voru lögtakskræf og skyldi mæla fyrir um þau og innheimtu þeirra í reglugerð. Á þessum tíma giltu um eftirlitsgjöldin reglugerðir nr. 254/1989, nr. 240/1990, nr. 217/1991, nr. 162/1992, nr. 214/1993 og nr. 303/1994. Þar var þó ekki minnst á lyfsölusjóðsgjöld. Gjaldendum samkvæmt reglugerðunum var skipað í gjaldflokka og virðist hafa verið miðað við veltu og umfang viðkomandi starfsemi, en í síðari reglugerðum nr. 332/1995 og nr. 325/1996 um eftirlitsgjald vegna lyfjaeftirlits fyrir árin 1995 og 1996, sem settar voru með stoð í 2. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, var slík viðmiðun tilgreind berum orðum. Ekki verður annað séð en að tilhögun og forsendur álagningar hafi þá verið hinar sömu og áður.

III.

Lög nr. 108/1984 voru leyst af hólmi 1. júlí 1994 með lyfjalögum nr. 93/1994. Samkvæmt 45. gr. þeirra skyldu ákvæði X. kafla eldri laganna um lyfsölusjóð þó ekki falla úr gildi fyrr en 1. júní 1995. Skyldu eignir sjóðsins þá renna að einum þriðja hluta til Íslenska lyfjafræðisafnsins við Neströð á Seltjarnarnesi en tveir þriðju hlutar til Lyfjafræðingafélags Íslands og vera varið til að styrkja forvarna- og upplýsingastarf um lyf í lyfjabúðum. Stefndi telur, að áfrýjanda hefði verið rétt að beina kröfu sinni að þessum aðilum, enda sé um að ræða kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Beri því að sýkna hann vegna aðildarskorts, sbr. 1. mgr. 16. gr laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjandi krefst aðallega skaðabóta vegna ætlaðra ólöglegra athafna löggjafans. Er slíkri kröfu réttilega beint að stefnda. Til vara krefst áfrýjandi endurgreiðslu á gjaldi, sem honum hafi verið gert að inna af hendi án fullnægjandi lagaheimildar. Lyfsölusjóður starfaði samkvæmt lögum og fór ráðherra með ákvörðunarvald um fyrirsvar hans. Löggjafinn tók þá ákvörðun, að eignir sjóðsins skyldu við niðurlagningu hans renna til aðila utan forræðis ríkisvaldsins án þess að mæla fyrir um ábyrgð vegna krafna, er kynnu að hafa stofnast vegna starfsemi sjóðsins á gildistíma þeirra laga, sem um hann mæltu. Með þessu tók ríkisvaldið á sig að svara til þeirrar skyldu, sem að öðrum kosti hefði getað hvílt á þeim, er fjármunir sjóðsins runnu til. Þessari kröfu áfrýjanda er því einnig réttilega beint að stefnda.

IV.

Áfrýjandi reisir kröfu sína einkum á því, að lyfsölusjóðsgjaldið hafi verið skattur í merkingu stjórnarskrárinnar og við gjaldtökuna hafi ekki legið fyrir fullnægjandi skattlagningarheimild í samræmi við 40. gr. og 77. gr. hennar. Krafan sé skaðabótakrafa, sem stofnast hafi við það, að löggjafinn og starfsmenn stefnda hafi valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti með því að setja lög í bága við stjórnarskrá og í kjölfarið gert honum að greiða gjald til lyfsölusjóðs án fullnægjandi lagaheimildar. Til vara er á því byggt, að um sé að ræða kröfu til endurheimtu fjár, sem stjórnvöld hafi krafist án fullnægjandi lagaheimildar.

Um tekjuöflun opinberra aðila gildir sú meginregla, að hún verður að byggjast á heimild í settum lögum, hvort sem um er að ræða skattheimtu eða álagningu gjalda fyrir þá þjónustu, sem látin er í té. Þjónustugjöldum er ekki ætlað annað hlutverk en að standa straum af þeim kostnaði, sem lagaheimildin kveður á um. Ljóst er af þeim lagaákvæðum, er giltu um hlutverk lyfsölusjóðs og áður hafa verið rakin, að lyfsölusjóðsgjaldi mátti að minnsta kosti að hluta verja til annarra verkefna en þeirra, er gætu talist til þjónustu við þá, sem gjaldið var lagt á. Lagaheimild um töku gjaldsins varð því að fullnægja kröfum 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar um skattlagningu.

Eins og að framan greinir var um álagningu lyfsölusjóðsgjalds í 42. gr. laga nr. 108/1984 vísað til 52. gr. og 53. gr. laganna um lyfjaeftirlitsgjald, en í engu þessara ákvæða var skýrlega kveðið á um skattstofn og afmörkun fjárhæðar þess gjalds, er renna skyldi í lyfsölusjóð. Í 42. gr. sagði einungis, að gjaldið skyldi vera jafnhátt eftirlitsgjaldi lyfjabúða. Með dómi Hæstaréttar 5. nóvember 1998, H.1998.3460, var komist að þeirri niðurstöðu, að taka lyfjaeftirlitsgjalds vegna ársins 1996, sem reist var á reglugerðarákvæði um skipun gjaldenda í gjaldflokka eftir „veltu og/eða umfangi  eftirlitsskyldrar starfsemi“, hefði ekki stuðst við viðhlítandi lagaheimild og verið ólögmæt. Að þessu tvennu virtu verður niðurstaðan sú, að taka lyfsölusjóðsgjalds af áfrýjanda á árunum 1989-1994 hafi brostið lagastoð.

V.

Áfrýjandi krefst aðallega greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hann hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu gjaldtöku, en af hálfu stefnda er því mótmælt, að hún hafi valdið honum tjóni. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að um tjón í skilningi skaðabótaréttar geti verið að ræða og hefur hann ekki leitt líkur að því, að gjaldtakan hafi haft áhrif á atvinnurekstur hans. Eins og áður greinir nemur fjárkrafa áfrýjanda því lyfsölusjóðsgjaldi, sem hann greiddi á umræddu árabili. Þessi krafa er í eðli sínu endurgjaldskrafa og lýtur reglum kröfuréttar.

Á þeim tíma, er áfrýjandi greiddi hið umdeilda lyfsölusjóðsgjald, voru lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda talin ná til endurkrafna ofgreiddra gjalda í opinbera sjóði, en nú gilda um þetta efni lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sem öðluðust gildi 1. janúar 1996. Fyrningarfrestur samkvæmt þessum síðargreindu lögum er fjögur ár, og er í greinargerð með lögunum miðað við, að hann sé óbreyttur frá því, sem áður gilti. Rétt er að miða fyrningartíma hér við fjögur ár samkvæmt 5. tl. 3. gr. fyrningarlaga, sbr. og dóm Hæstaréttar 10. desember 1998, H.1998.4180.

Þegar áfrýjandi hófst handa um málsókn þessa með birtingu stefnu 28. júní 1999, voru rúm fjögur ár liðin frá því, er hann greiddi lyfsölusjóðsgjald vegna ársins 1994, en eldri gjöld voru áður greidd. Fyrningarfrestur var þá liðinn og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum áfrýjanda.

Rétt þykir, að málskostnaður í héraði falli niður.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum áfrýjanda, Jóns Björnssonar.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2000

   Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. júní 1999 og dómtekið 14. þ.m.

   Stefnandi er Jón Björnsson, kt. 130736-3009, Rituhólum 10, Reykjavík.

   Stefndi er íslenska ríkið.

   Málið er höfðað til greiðslu skaðabóta og/eða endurheimtu lyfsölusjóðsgjalds sem stefnanda var gert að greiða til lyfsölusjóðs á árunum 1989 – 1994.  Stefnandi rak á árunum 1986 til 1993 lyfjaverslunina Akraness apótek að Suðurgötu 32, Akranesi en á árunum 1994 til 1997 lyfjaverslunina Kópavogsapótek að Hamraborg 11, Kópavogi.  Árlega greiddi hann lyfsölusjóðsgjald sem hér greinir:  Fyrir árið 1989 84.000 krónur, fyrir árið 1990 101.000 krónur, fyrir árið 1991 121.200 krónur, fyrir árið 1992 121.200 krónur, fyrir árið 1993 121.200 krónur og fyrir árið 1994 210.000 krónur. 

   Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 758.600 krónur með 45,6 ‰ dráttarvöxtum af 84.000 krónum frá 1. júlí 1989 og síðan með dráttarvöxtum að tilgreindum vaxtafæti af hækkandi höfuðstól frá gjalddaga 1. júlí ár  hvert miðað við gjalddaga lyfjaeftirlitsgjalds, sbr. reglugerðir nr. 254/1989, nr. 240/1990, nr. 217/1991, nr. 162/1992, nr. 214/1993 og nr. 303/1994.  Frá stefnubirtingardegi til greiðsludags er krafist dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

   Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara verulegrar lækkunar og að málskostnaður verði látinn falla niður.               

   Lyfsölusjóður var settur á stofn til eflingar lyfjaframleiðslu og lyfjadreifingu í landinu á  grundvelli lyfjalaga nr. 49/1978, sbr. X. kafla, sem öðluðust gildi 1. janúar.  Samkvæmt 14. gr. laga nr. 86/1984 um breytingu á lyfjalögunum voru þau endurútgefin sem lög nr. 108/1984.

   Samkvæmt 40. gr. lyfjalaga skipaði ráðherra þrjá menn í stjórn lyfsölusjóðs, til fjögurra ára í senn, svo sem hér segir:

   1.  Starfandi lyfsala samkvæmt tilnefningu Apótekarafélags Íslands.

   2.  Lyfjafræðing samkvæmt tilnefningu Lyfjafræðingafélags Íslands.

   3.  Formann án tilnefningar.

   Samkvæmt 41. gr. lyfjalaga var hlutverk lyfsölusjóðs:

   1.  Að lána fé til stofnunar, kaupa eða endurnýjunar lyfjabúða.

   2.  Að kaupa áhöld og lyfjabirgðir lyfjabúðar er leggja skyldi niður.

   3.  Að annast til bráðabirgða rekstur lyfjabúðar (sbr. 12. gr. laga nr. 30/1963 og 3. gr. laga nr. 76/1982).

   4.  Að stuðla með fjárframlögum að stofnun og rekstri lyfjabúða á þeim stöðum er heilbrigðisyfirvöld teldu nauðsyn lyfjabúða ótvíræða en vafasamt væri hvort reksturinn gæti borið sig með eðlilegum hætti.

   5.  Að efla með lánum eða styrkveitingum innlenda lyfjaframleiðslu og rannsóknir í lyfjagerðarfræði.

   Samkvæmt 42. gr. lyfjalaga voru tekjur lyfsölusjóðs í fyrsta lagi vextir af lánum, hagnaður af sölu áhalda og lyfjabirgða svo og tekjur af rekstri lyfjabúðar.  Þá skyldi ríkissjóður leggja lyfsölusjóði til árlegt framlag samkvæmt fjárlögum sem næmi sem næst 1% af áætluðu CIF – verði innfluttra lyfja og lyfjaefna.  Að lokum segir í 3. mgr.:  „ Árlegt gjald, lyfsölusjóðsgjald, skal lagt á allar lyfjabúðir.  Gjald þetta sé jafnhátt eftirlitsgjaldi lyfjabúða og innheimtist með því svo sem nánar skal ákveðið í reglugerð.  Gjald þetta er lögtakskræft.“  Apótekarafélagið aðstoðaði lyfsölusjóð frá árinu 1988 við innheimtu gjaldsins með því að senda sjóðnum útfyllta gíróseðla stílaða á hvert og eitt apótek í landinu með útfylltum réttum upphæðum.

   Lyfsölusjóður var lagður niður á grundvelli núgildandi lyfjalaga nr. 93/1994 1. júní 1995 og eignum hans, um 70 milljónum króna, ráðstafað að einum þriðja hluta til íslenska lyfjafræðisafnsins við Neströð, Seltjarnarnesi en að tveimur þriðju hlutum til  Lyfjafræðingafélags Íslands.  Ríkissjóður lagði fram 20 milljónir króna í stofnframlag þegar ákvæði laga um lyfsölusjóð tóku gildi en því er haldið fram af hálfu stefnanda að fjárveitingar ríkisins til sjóðsins hafi verið takmarkaðar og aldrei í neinu samræmi við fyrirmæli laganna.

   Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 7. febrúar 1995, var innheimtu lyfsölusjóðsgjalds fyrir árið 1994 mótmælt á þeim forsendum að ekki nyti við gildrar skattlagningarheimildar í skilningi stjórnarskrárinnar.  Stefnandi kveðst, eftir bréfaskipti við lyfsölusjóð, varla hafa átt annarra kosta völ en að standa skil á gjaldinu, enda hafi hann talið sig eiga á hættu að verða sviptur lyfsöluleyfi að öðrum kosti.  Við aðalmeðferð  málsins gáfu lögmenn aðila yfirlýsingu þess efnis að stefnandi hafi þann 26. maí 1995 innt af hendi greiðslu lyfsölusjóðsgjalds vegna ársins 1994 og verið þá í skilum með allar greiðslur svo og að ekki sé upplýst um greiðsludaga einstakra greiðslna þar fyrir utan.  Með bréfi 10. júní 1998 til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins v/Lyfjaeftirlits ríkisins var sett fram krafa um endurgreiðslu/skaðabætur vegna innheimtu á lyfsölusjóðsgjaldi á árunum 1988 – 1994.  Krafan var sett fram fyrir hönd lyfsöluleyfishafa og/eða erfingja þeirra í lyfjaverslunum samkvæmt yfirliti sem fylgdi bréfinu, þ.á m. þeim lyfjaverslunum sem stefnandi hafði rekið

   Stefnandi byggir kröfu sína á því að lyfsölusjóðsgjald það sem hann hafi greitt sé skattur í merkingu íslensku stjórnarskrárinnar.  Við gjaldtökuna hafi hins vegar ekki legið fyrir fullnægjandi skattlagningarheimild eins og áskilið sé í 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Gjaldtakan hafi einnig verið ólögmæt þar sem hún hafi ekki verið í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsfyrirmæli skuli vera glögg og skýr.  Bent er á að hvorki hafi verið sett reglugerð um innheimtu  lyfsölusjóðsgjaldsins samkvæmt 3. mgr. 42. gr. lyfjalaga né um starfsemi sjóðsins samkvæmt 46. gr. laganna.  Verði lyfsölusjóðsgjald samkvæmt lyfjalögum talið þjónustugjald en ekki skattur byggir stefnandi á því að heimildin hafi engu að síður verið ófullnægjandi til innheimtu gjaldsins.  Engin bein tengsl séu milli gjalds þess, sem stefnanda hafi verið gert að greiða, og þjónustu lyfsölusjóðs við hann eða aðra lyfsala.

   Stefnandi byggir á því að krafa hans sé skaðabótakrafa sem stofnast hafi við  það að Alþingi og/eða starfsmenn íslenska ríkisins hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að setja lög sem  brjóti í bága við stjórnarskrá og í kjölfarið gera honum að greiða gjald til lyfsölusjóðs án fullnægjandi lagaheimildar.  Um lagarök skaðabótakröfu er vísað til almennu skaðabótareglunnar.  Verði ekki fallist á það að krafa stefnanda sé skaðabótakrafa er á því byggt að um sé að ræða kröfu til endurheimtu ofgreidds fjár. 

   Með vísun til áskilnaðar fyrningarlaga varðandi fyrningarfrest kveðst stefnandi ekki hafa greitt „í rangri ímyndun um skuldbinding“ heldur hafi hann ekki átt annarra kosta völ en að inna greiðslu af hendi samkvæmt skýrum og skilyrðislausum fyrirmælum stjórnvalda, ella hafi hann átt á hættu að missa lyfsöluleyfið.

   Af hálfu stefnda er í fyrsta lagi á því byggt að um aðildarskort sé að ræða. Þegar krafist sé endurgreiðslu ofgreidds fjár beri að beina kröfum að þeim sem fengu fjármunina í sína vörslu.

   Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti í máli þessu.  Stefnandi eða hagsmunafélag hans hafi ekki hreyft athugasemdum hvað lögmæti varðar heldur þvert á móti aðstoðað við innheimtu gjaldsins.

   Verði ekki fallist á sýknu vegna tómlætis stefnanda er á því byggt að krafan sé fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

   Af hálfu stefnda er á því byggt að lyfsölusjóðsgjaldið hafi verið innheimt á grundvelli lagaskyldu og að gjaldtakan hafi í alla staði verið lögmæt.  Hvorki hafi verið um skatt að ræða né svonefnd þjónustugjöld samkvæmt skilgreiningum fræðimanna.

   Því er haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi  hafi þegar velt þeim kostnaði, sem hann hafi haft af umræddu gjaldi, út í verðlagið. Því sé um að ræða auðgunarkröfu sem mundi leiða til aukinna útgjalda ríkissjóðs og falla á skattgreiðendur á ósanngjarnan hátt þegar litið sé til tilgangs og starfsemi lyfsölusjóðs.

   Af hálfu stefnda er því hafnað að um skaðabótakröfu sé að ræða.  Eðli kröfunnar sé ekki greiðsla skaðabóta, enda sé ekki fyrir hendi bótagrundvöllur eftir almennum reglum skaðabótaréttarins og því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem afleiðingu af innheimtunni.

   Að lokum er dráttarvaxtakröfu og  upphafstíma þeirra mótmælt.

   Eigi er sýnt fram á tjón stefnanda og eru engar forsendur til að álykta að það samsvari  hinu greidda lyfsölusjóðsgjaldi.  Þegar af þessari ástæðu er ekki fallist á skaðabótakröfu stefnanda.

   Lyfsölusjóðsgjaldið rann ekki í ríkissjóð til almennra þarfa heldur í sérstakan, sjálfstæðan sjóð, lyfsölusjóð.  Þess vegna er krafa um endurheimtu gjaldsins ekki með réttu uppi höfð á hendur stefnda, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

   Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 150.000 krónur.

   Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

   Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Björnssonar.

   Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.