Print

Mál nr. 235/2003

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. október 2003.

Nr. 235/2003.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Baldri Frey Einarssyni og

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Gunnari Friðrik Friðrikssyni

(Jón Egilsson hdl.)

 

Líkamsárás. Skaðabætur.

B var ákærður fyrir þrjár líkamsárásir framdar sömu nótt, þá síðustu í félagi við meðákærða G. Töldust fyrstu tvær árásirnar varða annars vegar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hins vegar við 1. mgr. sömu lagagreinar. Þriðja árásin var stórfelld og lést fórnarlambið af sárum sínum nokkrum dögum síðar. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu beggja ákærðu staðfest. Í héraðsdómi hafði B hlotið 3 ára fangelsi en G fangelsi í tvö ár. Þótti ekki annað fært með hliðsjón af alvarleika brota B og G en að þyngja refsingu þeirra þannig að B hlyti 6 ára fangelsi en G 3 ára fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. júní 2003. Dómkröfur ákæruvaldsins eru þær að sakfelling beggja ákærðu að því er varðar 3. tölulið ákæru verði staðfest, en refsing þeirra þyngd. Ákærði Baldur Freyr Einarsson verði dæmdur til að greiða Y 2.000.000 krónur í miskabætur eða alls 2.004.175 krónur og að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um greiðslu ákærðu in solidum á skaðabótum til Ö og V.

Ákærði Baldur Freyr krefst þess að verða sýknaður af broti samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar 3. tölulið ákæru, en hljóti að öðru leyti vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá krefst hann staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um bætur til handa Y og aðallega að vísað verði frá dómi bótakröfum Ö og V, en til vara krefst hann sýknu af þeim kröfum.

Ákærði Gunnar Friðrik Friðriksson krefst aðallega sýknu, en til vara að háttsemi hans samkvæmt 3. tölulið ákæru verði færð til ákvæðis 217. gr. almennara hegningarlaga. Þá krefst hann sýknu af bótakröfu Ö og V en til vara að hún verði lækkuð.

Atvik málsins eru rakin í héraðsdómi. Svo sem þar greinir er ákærða Baldri Frey í fyrsta lagi gefið að sök að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. apríl 2002 á A við X-götu í H veitt Y högg með höfðinu svo að hann féll í gólfið og hlaut heilablæðingu og höfuðkúpubrot. Í öðru lagi hafi hann síðar sömu nótt á X-götu veitt Æ högg í andlitið með höfðinu og hafi hann við það hlotið 2,5 cm skurð í hárssvörð rétt ofan við enni og einnig hafi tvær framtennur losnað í efri gómi. Í þriðja lagi er honum ásamt ákærða Gunnari Friðrik gefið að sök að hafa að morgni laugardagsins 25. maí sama ár ráðist að Z í D-götu í H. Hafi ákærði Baldur Freyr slegið Z mörg hnefahögg í höfuðið, veitt honum högg með höfðinu og sparkað með hné í höfuð honum og eftir að hann féll í götuna sparkað margsinnis af afli í höfuð hans með hné og fæti. Ákærði Gunnar Friðrik hafi síðan eftir að Z reis upp eftir atlögu ákærða Baldurs Freys sparkað í  efri hluta líkama hans svo að hann féll í götuna á ný. Afleiðingar þessa alls hafi orðið þær að Z hlaut höfuðkúpubrot og blæðingu inn á heila og lést 2. júní 2002 af völdum þessa og heilabjúgs.

Af kröfugerð aðila verður ráðið að sakarmat héraðsdóms varðandi fyrri tvær árásir ákærða Baldurs Freys og færslu þeirra til refsiákvæða sæta ekki ágreiningi fyrir Hæstarétti og ekki er að heldur lengur deilt um bætur til handa Æ.

Í héraðsdómi eru rakin læknisfræðileg gögn varðandi atlögu ákærðu að Z og álit læknaráðs 2. maí 2003 á þeim gögnum. Kemur þar fram sú ályktun ráðsins að heilablæðing og heilabjúgur, sem dregið hafi Z til dauða, hafi stafað af mörgum samverkandi þáttum. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sannað sé að atlögur ákærðu hafi valdið þeim alvarlegu áverkum sem ollu dauða Z. Bera þeir fulla refsiábyrgð á afleiðingum verknaðarins enda átti þeim að vera ljóst að atlögur þeirra voru til þess fallnar að leiða til alvarlegs líkamstjóns Z. Ber að staðfesta héraðsdóm um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brots þeirra til refsiákvæðis.

Héraðsdómur féllst á að Z hefði átt einhvern þátt í upphafi átakanna. Ljóst er þó af framburði vitna að tilefni árásar ákærða Baldurs Freys á Z var smávægilegt. Eftir að ákærði Baldur Freyr hafði verið dreginn ofan af Z kallaði hann til félaga sinna um að veitast að honum og varð það tilefni árásar ákærða Gunnars Friðriks. Eftir árásina forðuðu ákærðu sér ásamt félögum sínum burt án þess að skeyta um hvað af Z yrði og létu aðra um að hlú að honum.

Ákærði Baldur Freyr er nú sakfelldur fyrir þrjár alvarlegar líkamsárásir og refsing ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Árásir þessar voru að mestu tilefnislausar og sérlega hrottafengnar. Í síðasta tilvikinu barði hann, sparkaði og skallaði andstæðinginn til skiptis og hvað eftir annað. Þegar virtar eru afleiðingar gjörða hans á hann sér ekki málsbætur og ber við ákvörðun refsingar að líta til 1. til 3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með tilliti til þess sem að framan er rakið verður að þyngja refsingu. Er refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í sex ár.

Þátttaka ákærða Gunnars Friðriks í atlögunni að Z hófst þegar ákærði Baldur Freyr hafði verið dreginn af honum og þeir staðnir á fætur. Ákærði Gunnar Friðrik svaraði þá kalli ákærða Baldurs Freys til félaga sinna um að ráðast á Z, hljóp til og sparkaði hann niður. Atlaga hans var ástæðulaus og átti hann að gera sér grein fyrir því, eins og aðrir á staðnum, að Z stóð tæpast í fæturna. Enda þótt þátttaka hans í árásinni hafi verið takmörkuð var hún til þess fallin að hafa hörmulegar afleiðingar.

Einar Ingi Magnússon sálfræðingur rannsakaði að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík andlegan þroska ákærða Gunnars Friðriks. Liggur matsgerð hans 12. desember 2002 fyrir í málinu.  Kemur þar fram að um félagslyndan einstakling er að ræða sem almennt er í talsverðri vörn og hefur takmarkað innsæi í hlutina. Þunglyndiseinkenni eru til staðar, sjálfsmynd er veikbyggð og persónulegar bjargir takmarkaðar. Af niðurstöðunum þykir mega ráða að hann láti leiðast af öðrum sér sjálfsöruggari einstaklingum af hvatvísi. Engu að síður er óhjákvæmilegt að þyngja refsingu hans og er hún ákveðin þriggja ára fangelsi, sbr. 1. til 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann að öðru leyti en hér hefur verið rakið.

Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

                                                Dómsorð:

Ákærði, Baldur Freyr Einarsson, sæti fangelsi í sex ár, en frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 26. maí 2002.

Ákærði, Gunnar Friðrik Friðriksson, sæti fangelsi í þrjú ár, en frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 26. maí 2002.

Ákvæði héraðsdóms skulu að öðru leyti vera óröskuð.

Ákærði, Baldur Freyr, greiði málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns Y, Hallvarðs Einvarðssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

Ákærði, Gunnar Friðrik, greiði málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur.

Annan áfrýjunarkostnað skulu ákærðu greiða óskipt.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2003.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 18. október 2002 á hendur: 

   ,,Baldri Frey Einarssyni, [kt. og heimilisfang], og

   Gunnari Friðrik Friðrikssyni, [kt. og heimilisfang],

fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík árið 2002:

1.        Gegn ákærða Baldri Frey fyrir stórfellda líkamsárás, aðfaranótt sunnudagsins 7. apríl, með því að hafa á A við X-götu, veitt Y, högg í höfuð með höfðinu svo að hann féll í gólfið, með þeim afleiðingum að hann hlaut heilablæðingu og brot í höfuðkúpu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1981.

2.        Gegn ákærða Baldri Frey fyrir líkamsárás með því að hafa, síðar sömu nótt, á X-götu, veitt Æ, högg í andlitið með höfðinu, með þeim afleiðingum að hann hlaut 2,5 sentímetra skurð í hársvörð rétt ofan við enni og tvær framtennur losnuðu úr efri góm.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

3.        Gegn ákærðu báðum fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða með því að hafa, að morgni laugardagsins 25. maí, í C-götu, ráðist á Z, ákærði Baldur Freyr slegið hann mörg hnefahögg í höfuðið, veitt honum högg með höfðinu og sparkað í höfuð hans með hné og, eftir að Z féll í götuna, margsinnis sparkað af afli í höfuð hans með hné og fæti, ákærði Gunnar Friðrik sparkað í efri hluta líkama Z þegar hann reis upp eftir atlögu meðákærða Baldurs Freys, svo að hann féll í götuna á ný og ákærði Baldur Freyr síðan slegið hann liggjandi í andlitið, allt með þeim afleiðingum að Z hlaut höfuðkúpubrot og blæðingu inn á heila og lést hinn 2. júní af völdum heilablæðingar og heilabjúgs.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Af hálfu Y er krafist skaðabóta að fjárhæð 2.149.726 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

Af hálfu Æ er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.294.250 krónur ásamt 4,5% vöxtum frá 7. apríl til 2. ágúst 2002, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu Ö og V, er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 5.638.580 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. júní 2002 til þess er mánuður er liðinn frá þeim degi er ákærðu verður kynnt bótakrafan, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.”

   Verjandi ákærða Baldurs krefst aðallega sýknu og að allur sakarkostnaður, þar með talin réttagæslu- og málsvarnarlaun, verði lagður á ríkissjóð.  Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 26. maí 2002 komi að fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsingu.  Þess er aðallega krafist að þremur skaðabótakröfum skv. ákæru verði vísað frá dómi, en til vara að þær sæti verulegri lækkun.

   Verjandi ákærða Gunnars Friðriks krefst aðallega sýknu.  Til vara að meint háttsemi hans verði heimfærð undir 217. gr. almennra hegningarlaga og til þrautavara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar dæmdri refsivist. Aðallega er krafist sýknu af skaðabótakröfu, en til vara að hún sæti verulegri lækkun.  Réttargæslu- og málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

   Nú verður vikið að einstökum ákæruliðum.

   Ákæruliður 1.

   Skv. lögregluskýrslu dags. 7. apríl sl. var lögreglan send á vettvang á veitingastaðinn A við X-götu kl. 02.04 aðfaranótt 7. apríl eftir að tilkynnt hafði verið um meðvitundarlausan mann eins og segir í skýrslunni.  Segir í skýrslunni að Y hafi legið í gólfinu er lögreglan kom og hafi hann verið talsvert blóðugur á höfði og með skerta meðvitund.  Í skýrslunni er haft eftir V1, sem þarna var staddur, að tveir piltar hefðu gengið að Y og þeir skallað hann nokkrum sinnum í höfuðið.  Mennirnir hefðu síðan yfirgefið staðinn.  Í skýrslunni segir að frásögn V2 á vettvangi hafi verið eins og frásögn V1, en hvorugur hefði treyst sér til þess að lýsa árásarmanninum.  Lögreglan flutti Y á slysadeild. 

   Bjarni Hannesson, yfirlæknir á heila- og taugaskurðdeild Landspítalans í Fossvogi, ritaði læknisvottorð Y fyrir hönd Ingvars Ólafssonar læknis. Vottorðið er dags. 10. maí 2002 og er svohljóðandi:

   ,,Sjúklingur sem er líkamlega frískur.  Varð fyrir líkamsárás aðfaranótt 07.04 í miðbæ [H], skv. upplýsingum sem fylgdu sjúklingi gerðist það á veitingahúsi.  Skv. upplýsingum sem fylgja með sjúkl. mun hann hafa verið skallaður í andlitið og við það fallið í gólf og slegið höfðinu í.  Mun hann hafa rotast í einhvern tíma, óklárt hversu lengi.  Fluttur með hraði á Slysadeild Landspítala Fossvogi.  Hafði þá vaknað til.  Hafður til eftirlits á Slysadeild og að morgni 07.04 er vakthafandi deildarlæknir á heila- og taugaskurð 1. deild tilkallaður til að meta sjúkling.

Sjúkl. liggur þá fyrir, meðtekinn af höfuðverk, þó áttaður á stað, stund og sjálfum sér.  Nokkur ógleði og hafði kastað upp rétt fyrir skoðun.  Getur ekki gert grein fyrir hvað gerðist þegar árásin varð gerð og getur heldur ekki gefið upplýsingar um hvar þetta gerðist.  Man fyrst eftir sér milli kl. 6 og 7 á sunnudagsmorgninum á Slysadeildinni.  Kvartaði undan höfuðverk, mest á enninu, enginn dofi eða brottfallseinkenni í andliti eða útlimum.  Talsvert bólgin á vinstra auga, sérstaklega neðri hluta augntóftar, engar sjáanlegar blæðingar í auganu.  Bólga á vinstra gagnauga og eymsli fyrir ofan vinstra eyrað og lítið mar sjáanlegt við gagnauga.  Kvartar um eymsli í hægri framtönn í efri góm en sú er ekki laus við skoðun.  Eðlileg skoðun á hálshrygg.  Heilataugaskoðun eðlileg, hreyfigeta í andliti eðlileg og enginn dofi.  Kraftar í handleggjum og fótleggjum ásamt skyni eðlilegt og sinaviðbrögð eðlileg.

Vegna sögu um rot og útlit áverkjamerkja er ákveðið að gera tölvusneiðmynd af höfði.  Þar sjást blæðingar milli höfuðkúpubeins og þykku heilahimnunnar á gagnaugasvæði vinstra megin og einnig lengra upp af gagnaugasvæðinu en óveruleg áhrif á heilann.  Það sjást einnig litlar blæðingar framantil hægra megin milli þykku heilahimnunnar og heilans, einnig óveruleg áhrif á heilann.  Lítið heilamar í gagnaugablaði hægra megin.  Samanlagt engin þrýstingsmerki á heilann en þó blæðingar sem geta leitt til lífshættulegs ástands.

[Y] er því lagður inn á heila- og taugaskurð.deild til eftirlits þar sem blæðingar geta vaxið og valdið lífshættulegum þrýstingi.  Sjúkl. versnar þó ekki dagana þar á eftir en bati er hægur.  Tölvusneiðmyndir daginn eftir þá fyrstu sýna óbreytt ástand.  Næstu daga er sjúkl. óbreyttur, þungur höfuðverkur og vill helst liggja í rúminu.  Þann 10.04 gerum við nýja tölvusneiðmynd sem sýnir að blæðingar milli höfuðbeins og þykku heilahimnunnar á gagnaugasvæði vinstra megin hefur stækkað örlítið, veldur nú örlítið meiri þrýstingi á heilann, sennilega blætt aftur í svæðið.  Þar sem slík blæðing getur valdið lífshættulegu ástandi og merki eru um ferska blæðingu og að sjúkl. hressist ekki þó að fjórir dagar séu liðnir frá áverkanum, ákveðum við að gera aðgerð.  Sú aðgerð er gerð þ. 11.04., þar sem blæðingin á gagnaugasvæði vinstra megin er fjarlægð.  Sjúkl. heilsast vel eftir aðgerð og fer nú á fætur næstu daga.  Kvartar um verki í vinstra eyra og skoðun HNE læknis sýnir að það hefur blætt bak við hljóðhimnuna, sennilega frá broti sem fannst á gagnaugasvæði vinstra megin og blæðingin hefur þá sprengt sig niður í miðeyrað og síðan í gegnum hljóðhimnuna.  [Y] útskrifast þ. 17.04 í þokkalegu ástandi, þó nokkuð þróttlítill og einbeitingarlaus en engin brottfallseinkenni frá taugakerfi að sjá.  Við höfum tekið myndir af áverkum og fylgja þær sjúkl. í sjúkraskrá á LSP. Fossvogi.

Við árásina hlaut [Y] blæðingar í höfði sem hefðu getað leitt til lífshættulegs ástands með miklum þrýstingi á heilann.  Varðandi frekari mein af blæðingunum er erfitt að dæma nú en hann verður endurmetinn á Endurhæfingardeild Grensásdeildar eftir a.m.k. 1 mánuð frá áverkanum.”

   Vitnið Ingvar Ólafsson læknir kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði vottorðið og lýsti höfuðáverkum Y og meðferð sem hann hlaut á sjúkrahúsinu.  Hann hafði þá áverka sem lýst er í ákærunni.  Ingvar lýsti því hvernig heilablæðing Y gat verið lífshættuleg.  Ingvar kvað það álit sitt að áverki eins og sá sem Y hlaut geti komið við fall á gólf.

   Vitnið Guðrún Karlsdóttir endurhæfingarlæknir ritaði læknisvottorð, dags. 7. janúar sl., vegna Y. Hún kom fyrir dóminn og staðfesti vottorðið.  Vottorðið hljóðar svo:

   ,,Það staðfestist hér með að ofangreindur, [Y], var innlagður á Grensásdeild frá 24.06.02 til 27.06.02 til mats vegna afleiðinga líkamsárásar sem hann varð fyrir aðfaranótt 07.04.02.  Hann hlaut við þá líkamsárás heilaáverka og var lagður inn á gjörgæsludeild og síðar heila- og taugadeild þar sem hann gekkst undir aðgerð vegna ofangreindra áverka.

Niðurstöður mats á endurhæfingardeild LSH á Grensási voru eftirfarandi:

Fengin var tölvusneiðmynd af höfði þann 25.06.02 sem sýndi menjar á höfuðkúpu eftir aðgerð temporalt (yfir gagnaugablaði) vi. megin en ekki sáust merki um nýjar blæðingar eða mar.  Heilahólf voru innan eðlilegra marka.

Gert var taugasálfræðilegt mat sem sýndi almennt góða hugræna og vitræna starfsemi en þó komu fram vægar minnistruflanir, væg orðgleymska, vægir erfiðleikar með að vinna hratt úr upplýsingum og hann var dálítið næmur fyrir truflunum.  Þessi skerðing er talin samrýmast því sem sést eftir skaða á vi. heilahveli.

Hann fékk hér almennar ráðleggingar um heilaskaða.  Þær minnistruflanir sem komu eru fremur vægar en geta hugsanlega háð honum í námi.  Mælt er með að hann komi inn til endurmats/lokamats þegar um 1 ár er liðið frá áverkanum og þarf þá að gera taugasálfræðilegt mat á ný og segulómun af heila.”

Hinn 29. apríl sl. gaf Y skýrslu hjá lögreglu, en bæði þá og áður hafði komið í ljós að hann mundi ekki eftir atburðinum sem í ákæru greinir. 

Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 10. apríl sl. játaði hann að hafa veitt Y högg í höfuð eins og lýst er í ákærunni, en það hafi hann gert eftir að Y hafi gefið honum ,,fokk-merki” með fingri og reynt að skalla til hans og eftir að Y kýldi hann í síðuna. 

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði játar að hafa veitt Y högg í höfuðið eins og lýst er í ákærunni.  Ákærði kvaðst hafa verið staddur á A ásamt V4 og V3. Y hafi verið að senda honum puttann yfir barborðið og jafnframt kallað einhver ,,óyrði” yfir barinn, en ákærði mundi ekki hver þau voru.  Ákærði kvaðst ekki hafa viljað nein vandræði og því gengið upp að Y með hendur fyrir aftan bak til að koma í veg fyrir það að Y teldi ákærða vera að ógna sér.  Ákærði kvaðst hafa spurt hvort þeir gætu ekki leyst þetta mál, ákærði væri bara að skemmta sér þarna.  Ákærði kvað Y þá hafa snúið sér snöggt við og skallað ákærða ,,ekki neitt rosalega fast” í ennið, en hann hafi enga áverka hlotið við þetta.  Þessu næst hafi Y kallað ókvæðisorð að sér og kvaðst ákærði hafa vikið sér undan höggi frá Y sem hafi síðan slegið aftur til ákærða og hafði það lent í rifbeinum að sögn ákærða og kvaðst hann hafa rifbeinsbrotnað við þetta.  Þá kvaðst hann hafa stokkið upp og skallað Y einu sinni og við það hafi hann fallið aftur fyrir sig og rotast.  Ákærði kvaðst ekki hafa kannað ástand Y eftir þetta heldur gengið frá og sest á sinn stað.  Ákærði kvað kunningja Y hafa komið að máli við sig og spurt hvað gerst hefði.  Hann kvaðst hafa greint þeim frá því.  Kunningjar Y hefðu sinnt honum, en ákærði farið af staðnum.

Vitnið Y kvaðst hafa verið á veitingastaðnum A á þeim tíma sem í ákæru greinir ásamt tveimur vinum sínum.  Hann kvaðst ekki þekkja ákærða og ekki muna eftir neinum samskiptum við hann.  Hann kvaðst muna eftir því að hafa farið á salernið á skemmtistaðnum, en ekkert muna eftir atburðum fyrr en hann vaknaði á sjúkrahúsi.  Hann kvaðst hvorki kannast við að hafa gefið ákærða dónalegt merki né að hafa skallað til hans, en Y kvaðst aldrei hafa lent í slagsmálum.  Hann lýsti afleiðingum áverka sem hann hlaut, líðan sinni síðan og greindi frá því að honum hefði seinkað í námi vegna þessa.

Vitnið V1 kvaðst hafa verið á A ásamt Y og V2.  V1 kvað Y hafa staðið á gólfinu eða setið á barstól er hann heyrði læti og kvaðst hann þá hafa séð að ráðist hafi verið á Y og hann bæði skallaður og kýldur.  Maðurinn sem þetta gerði og þeir sem voru með honum í för hafi fljótlega farið af staðnum eftir þetta.  V1 kvaðst hafa ætlað að aðstoða, en Y hafi legið í blóðpolli á gólfinu meðvitundarlaus.  Fram kom hjá V1 að enginn aðdragandi hafi verið að þessum atburði, en V1 kvaðst hafa litið undan í eina til tvær sekúndur og þá hafi þetta gerst.

Vitnið V2 kvaðst hafa verið á A ásamt V1 og Y á þeim tíma sem í ákæru greinir.  Hann kvaðst hafa verið að koma af salerninu er hann sá tvo menn standa fyrir framan Y.  Hann kvaðst engan aðdraganda hafa séð, en Y hafi verið skallaður í höfuðið.  V2 kvaðst hafa verið hindraður er hann ætlaði að koma Y til aðstoðar og ekki hafa séð hann falla í gólfið, en eftir að hafa losað sig kvaðst hann hafa séð Y liggjandi í gólfinu. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að hann var illa slasaður en V1 hafi strax hringt á sjúkrabíl.  V2 kvað manninn sem skallaði Y fljótlega hafa farið af staðnum, en V2 taldi að maðurinn hafi sagt ástæðu verknaðarins þá að Y hafi verið að ,,bögga sig” eða viðhaft álíka ummæli.  V2 kvaðst hafa verið búinn að drekka eitthvað áfengi, en muna þessa atburði vel.

Vitnið V3 kvaðst hafa verið á A ásamt ákærða og V4. Ákærði hafi verið við barinn er Baldur benti honum á ókunnan mann, sem sýndi Baldri puttann, en maðurinn hafi verið staddur hinum megin við barinn.  Baldur hafi þá spurt hvort þeir ættu ekki að fara og spyrja manninn hvort ekki væri allt í lagi.  Er ákærði gerði það hafi maðurinn öskrað og skallað ákærða í andllitið.  Maðurinn sem var miklu hærri en ákærði stóð því næst upp, en í því hafi ákærði stokkið upp og skallað manninn, sem féll í gólfið.  Vinir mannsins hafi þá allir staðið upp og V3 stöðvaði einn þeirra og hélt honum niðri.  Þeir ákærði fóru burt skömmu síðar, en fólk hafi þá verið að aðstoða Y sem lá í gólfinu.

Vitnið V4 kvaðst hafa verið í för með ákærða og V3.  Hún kvaðst hafa séð mann sýna ákærða putta inni á A.  Hún kvað ákærða þá hafa gengið að manninum með hendur fyrir aftan bak.  Hún kvað manninn þá hafa skallað og kýlt ákærða, sem hafi þá skallað manninn.  Hún kvað ákærða hafa komið til sín aftur og sest niður um stund, en þau síðan haldið út skömmu síðar.  Hún kvað ákærða hafa kvartað undan verk í síðunni eftir þetta. 

Er V4 gaf skýrslu hjá lögreglunni kom fram að hún hafi ekki séð atburði eins og hún bar fyrir dóminum.  Aðspurð um breyttan vitnisburð fyrir dómi kvaðst hún hafa verið stressuð er hún gaf skýrsluna hjá lögreglu og ekki hafa lesið yfir vitnisburðinn.

Vitnið V5 kvaðst hafa starfað sem plötusnúður á A þessa nótt.  Hann kvaðst hafa séð ákærða og Y rífast.  Hann kvað hafa verið dimmt inni á staðnum, en hann haldi að maðurinn hafi slegið Baldur, en ekki séð hvar högg kom á ákærða.  Ákærði hafi svarað með því að skalla manninn, sem hafi fallið í gólfið.

Vitnið V6 kvaðst hafa verið á A er þessir atburðir áttu sér stað.  Hann kvaðst hafa séð tvo menn standa upp samtímis og hafi annar skallað hinn umsvifalaust í höfuðið.  Maðurinn hafi við þetta fallið í gólfið, en hann kvaðst hafa verið mjög nærri þessu, eða í um tveggja metra fjarlægð.  Hann vissi ekki um aðdraganda þessa.  Aðspurður um það hvort mögulegt væri að sá sem fékk höggið hafi áður slegið til þess sem höggið veitti kvað vitnið það hugsanlegt, en það hefði þá átt sér stað annars staðar í húsinu, en hann kvaðst hafa dvalið þarna á staðnum nokkra stund fyrir þennan atburð.  Hann kvað árásarmanninn hafa hlaupist á brott og lýsti hann því er hringt var á lögreglu og sjúkralið kom á staðinn.

V7 lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti lögregluskýrslu, sem vitnað var til í upphafi vegna þessa ákæruliðar.

Niðurstaða ákæruliðar 1.

Lúðvík Ólafsson héraðslæknir skoðaði ákærða á lögreglustöðinni 10. apríl sl. í tengslum við rannsókn máls þessa.  Þar er lýst blóðstorknuðu sári á mótum ennis- og hárrandar 1 ½ x  1 cm að stærð og segir að miðað við útlit geti sárið verið þriggja daga gamalt.  Ákærði hafi sagt að sárið hafi hann fengið við að reka sig í skáphurð.  Þá er lýst hrufli á hvirfli og þá hafi ákærði kvartað um eymsli í vinstri kinn, en þar hafi ekki verið sýnileg áverkamerki. 

Skv. læknisvottorði ákærða, sem Theódór Friðriksson sérfræðingur á slysa- og bráðasviði Landspítala ritaði og dags. er 14. ágúst sl., kom ákærði á slysadeild 10. apríl sl.  Hann kvaðst hafa verið að skemmta sér 7. s.m.  Hann var ekki viss um hvað gerðist, en hafi talið að einhver hefði sparkað í brjóstkassa hans.  Segir í læknisvottorðinu að Baldur hafi verið verulega aumur framanvert hægra megin yfir brjóstkassa yfir ca. 6. til 8. rifi.  Tekin hafi verið lungnamynd sem sýndi engin merki um áverka á lungu eða rifbein, en það útiloki ekki að brot gæti verið fyrir hendi.  Segir í vottorðinu að telja megi að Baldur hafi verið með sprungu í rifjum. 

Tveir læknar skoðuðu ákærða Baldur sama dag.  Hjá öðrum lýsti ákærði eymslum í síðu, en ekkert kom fram um þetta við hina læknisskoðunina.  Ákærði hefur haldið því fram að Y hafi slegið sig í síðuna svo að rifbeinsbrot hafi hlotist af.  Skv. öðru læknisvottorðinu kvaðst ákærði ekki viss um hvað gerðist, en taldi að einhver hefði sparkað í sig. 

Það er álit dómsins að ekkert trúverðugt sé fram komið sem bendir til þess að Y hafi verið valdur að þeim áverkum sem ákærði kann að hafa hlotið á síðu og lýst hefur verið hér að framan. 

Skv. vitnisburði Y, að svo miklu leyti sem hann man atburði, V1, V2 og V3 var ekki sá aðdragandi að því er ákærði veitti Y höggið með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru eins og ákærði hefur haldið fram.  Dómurinn telur vitnisburð V3 og V4 skv. þessu ekki trúverðugan, en vitnisburður V4 var mjög á annan veg fyrir dómi en hjá lögreglu, eins og rakið var. 

Skv. því sem nú hefur verið rakið og með játningu ákærða er sannað að ákærði veitti Y högg í höfuðið eins og lýst er í ákærunni.  Dómurinn telur sannað með vitnisburði Y, V1, V2 og V6 að árás ákærða á Y hafi verið tilefnislaus.  Sannað er með læknisvottorði og vitnisburði lækna sem komu fyrir dóminn að afleiðingar árásar ákærða urðu þær sem lýst er í ákærunni.  Brot ákærða varðar því við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981. 

Ákæruliður 2.

Skv. lögregluskýrslu dags. 7. apríl sl. var lögreglan send á vettvang á X-götu kl. 05.10 aðfaranótt 7. apríl sl. eftir að tilkynnt hafði verið um hópslagsmál.  Í lögregluskýrslunni segir að mikill æsingur hafi verið í fólki og aðsúgur gerður að lögreglu sem hafi þurft að taka upp kylfur til að bægja fólki frá.  Í skýrslunni segir að Æ hafi verið ,,nokkuð slasaður” og búið hafi verið að kýla úr honum tvær framtennur, en Æ greindi lögreglunni svo frá að hann hefði lent í átökum og að árásarmaðurinn héti Baldur.  Lögreglan flutti Æ á slysadeild til skoðunar.

Friðrik Sigurbergsson læknir ritaði læknisvottorð Æ, sem dags. er 25. apríl sl. Þar segir að Æ hafi leitað á slysadeild kl. 05.35 að morgni 7. apríl sl.  Hann hafi greint frá því að hann hafi verið staddur við veitingastaðinn I er hann var skyndilega kýldur í andlitið af ókunnum manni, þannig að framtennur losnuðu.  Síðan segir í vottorðinu:

,,Skoðun:

Í hársverði rétt ofan við enni er skurður sem er u.þ.b. 2 ½ cm á lengd.  Vinstri framtönn í efri góm er alveg laus og kemur hann með hana í höndunum og hægri framtönn í efri góm er algjörlega laus, en lafir þó á sínum stað.

Meðferð:

Tönnin sem dottið hafi út er sett á sinn stað og hin er einnig lagfærð eftir bestu getu og síðan er saumuð þrjú spor í sárið á höfði, en síðan er sjúklingi útvegaður tími hjá vakthafandi tannlækni og fer hann beint af slysadeild þangað til nánari aðgerða á tönnum.

Álit og niðurstaða:

Áverkar Æ geta samrýms þeirri sögu sem hann gefur.  Ljóst er að verulegur áverki er á framtennur og rétt að tannlæknir tjái sig um langtíma afleiðingar þess.  Sárið á enni er ekki alvarlegs eðlils og ætti að gróa án vandræða.”

Æ kom á lögreglustöð 10. apríl sl. og lagði fram kæru á hendur ákærða Baldri, en fram kom að hann vissi ekki föðurnafn Baldurs, sem hann kvað hafa veitt sér högg með höfðinu með afleiðingum sem lýst er í ákærunni.  Ákærði neitaði sök við skýrslutöku hjá lögreglunni.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði mundi ekki eftir þessum atburði er hann gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann fór á veitingastaðinn I þessa nótt, en ákærði lýsti ferðum sínum á veitingastaði um nóttina eftir atburðinn sem í 1. ákærulið greinir.  Síðan þá hefði ákærði neytt áfengis.

Vitnið Æ kvaðst hafa verið staddur á X-götu ásamt félögum sínum, þeim V8, V9 og V10, en ákærði, V11 og einn maður til komu gangandi að þeim.  Ákærði og V11 hafi þá tekið að sparka í V8 og ásakað hann um að hafa veist að V30 félaga ákærða fyrr um kvöldið á B, en Æ kvað þá félaga ekki hafa komið á þann stað þetta kvöld.  Æ kvaðst þá hafa tekið ákærða frá, en í þann mund hafi ákærði skallað sig og við þetta hafi tvær framtennur í efri góm losnað auk þess hafi ein rót framtannar í neðri góm dáið.  Hann lýsti meðferð sem hann hefur gengist undir hjá tannlækni vegna þessa.  Æ kvað skurðinn sem lýst er í ákærunni ekki hafa hlotist af völdum ákærða.  Æ kvaðst engin önnur samskipti hafa haft við ákærða þetta kvöld.

Vitnið V10 kvaðst hafa verið á X-götu á þessum tíma ásamt vinum sínum þeim Æ, V8 og V9.  Hann kvað V8 og V9 hafa legið í götunni er ákærði, V11 og einn maður enn komu þar að og hafi ákærði sparkað í V8.  Æ hafi þá ætlað að ýta ákærða frá, en þá hafi ákærði skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að framtennur losnuðu og ein datt úr.  Þá hafi einhver kallað að lögreglan væri að koma og hafi ákærði og mennirnir tveir þá hlaupið á brott.

Vitnið V8 kvaðst hafa verið drukkinn á þessum tíma og hafa legið í götunni og V9 vinur hans hafi haldið utan um hann er ákærði hafi komið og sparkað í hann.  V8 kvað Æ félaga sinn hafa ætlað að stoppa þetta, en hann hafi verið skallaður, en V8 kvaðst ekki hafa séð það gerast.

Vitnið V9 kvað ákærða og V11 félaga hans hafa komið að þar sem V9 sat í götunni með V8 félaga sinn í fanginu.  Þá hafi verið sparkað í V8 og hafi Æ þá ætlað að ýta ákærða í burtu og stöðva það sem fram fór, en þá hafi ákærði skallað Æ í andlitið svo tönn datt úr Æ og önnur tönn losnaði.

Vitnið V13 kvaðst hafa verið við störf sem dyravörður á veitingastaðnum I á þessum tíma.  Hann kvaðst muna þessa atburði óljóst, en muna eftir tveimur mönnum í átökum og annar mannanna hafi skallað hinn.

Vitnið V14 kvaðst hafa orðið vitni að slagsmálum á X-götu þessa nótt.  Hann kvað ákærða og fleiri hafa komið að og hafi ákærði veitt Æ áverka, en V14 kvaðst ekki viss hvort hann gerði það með höfðinu eða á annan hátt.  Hann kvaðst viss um að ákærði væri maðurinn sem veitti þessa áverka.

Vitnin V11 og V12 komu fyrir dóminn, en vitnisburður þeirra varpar ekki ljósi á málavexti.

Vitnið V31 lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti ástandinu á X-götu er hann kom þangað um nóttina.  Mikil ölvun hafi verið og læti.  Vitnisburður hans varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn hér.

Niðurstaða ákæruliðar 2.

Ákærði man ekki atburði þessa nótt, en neitar sök.

Dómurinn telur sannað með vitnisburði Æ, V10, V9 og V14 og með stoð í vitnisburði V8 og V13, en gegn neitun ákærða, að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás þá sem hér er ákært fyrir, utan að ósannað er að hann hafi verið valdur að 2,5 cm skurði á hársverði eins og lýst er í ákærunni og er ákærði sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar, en sakfelldur að öðru leyti, þar sem sannað er með læknisvottorðum og vitnisburði að afleiðingar árásar ákærða á Æ voru þær sem í ákærunni greinir fyrir utan skurðinn í hársverði. 

Brot ákærða varðar við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Ákæruliður 3.

Skv. lögregluskýrslu, dags. 25. maí 2002, barst lögreglu tilkynning kl. 05.48 þá nótt um að ráðist hafi verið á mann við hús C við D-götu og að maðurinn lægi slasaður í götunni.  Er lögreglan kom á staðinn lá Z í götunni mjög blóðugur og átti greinilega erfitt um öndun eins og lýst er í skýrslunni.  Þegar var kallað á sjúkrabifreið og í skýrslunni er lýst ráðstöfunum, sem gerðar voru á vettvangi, meðal annars hvernig reynt var að hlúa að Z meðan beðið var eftir sjúkrabifreið sem flutti hann á sjúkrahús.  Í frumskýrslu lögreglunnar er getið um eitt vitni sem lýsti því sem gerðist.  Það er vitnið V15 sem kvaðst hafa verið á gangi eftir D-götu er Z kom hlaupandi undan manni, sem síðan hafi ráðist á Z.  Þetta hafi leitt til þess að mennirnir tóku að fljúgast á með þeim afleiðingum að Z hafi fallið í götuna.  Þá hafi annar maður komið og sparkað í höfuð Z. Þá hafi vegfarandi gripið inn í atburðarásina og stöðvað slagsmálin.  Í skýrslunni er því einnig lýst að vitnið V16 hafi gefið sig fram, en hafi greint frá því að hann myndi lýsa því sem gerðist síðar, en hann hafi sýnilega verið undir áhrifum áfengis.  Fljótlega eftir komu Z á sjúkrahús var ljóst að hann hafi hlotið mjög alvarlega áverka og lést hann af völdum þeirra 2. júní 2002.  Síðar verður vikið að áverkum Z og krufningarskýrslu.

Rannsókn lögreglu er lýst í gögnum málsins, meðal annars var athuguð upptaka úr eftirlitsmyndavél, sem síðar verður vikið að. 

Kl. 23.35 sama dag, þ.e. laugardaginn 25. maí sl., kom ákærði Baldur Freyr til lögreglu í Keflavík og kvaðst hafa lent í átökum við mann, sem hann hefði frétt að væri mikið slasaður og lægi á sjúkrahúsi.  Baldur Freyr var handtekinn.  Daginn eftir var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt síðan.

Ákærði Gunnar Friðrik mætti á skrifstofu lögreglu sunnudaginn 26. maí sl. skv. boðun.  Hann var þá handtekinn og sama dag úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt síðan. 

Ákærðu lýstu báðir atburðum hjá lögreglu sem og mörg vitni.

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði Baldur Freyr neitar sök og kvaðst hafa verið að verja sig, en Z hafi verið upphafsmaður átakanna sem urðu.  Aldrei hafi staðið til af sinni hálfu að meiða Z.  Þá kvaðst ákærði telja að andlát Z verði rakið til áverka sem Z hafi hlotið við að falla í götuna eftir spark frá meðákærða, en Z hafi staðið upp eftir að átökum þeirra ákærða var lokið, eins og síðar verður rakið.

Ákærði Baldur Freyr kvað málavexti hafa verið þá að þeir ákærðu og fleiri hafi hafi staðið fyrir utan skemmtistaðinn E og beðið eftir að dyraverðir opnuðu og hleyptu fólki þar inn.  Er hann beið þarna hafi hann heyrt mann kalla ,,þú litli aumingi manstu eftir mér.” Hann kvaðst þá hafa litið við og talið að verið væri að kalla á meðákærða, eða kunningja þeirra sem voru með þeim í för, þar sem ákærði kvaðst ekki hafa kannast við Z, sem kallað hafi aftur til ákærða ,,þú þarna, auminginn þinn” eða eitthvað álíka.  Ákærði kvaðst þá hafa spurt Z hverju þetta sætti og hafi Z þá svarað ,,hvað, manstu ekki eftir mér”.  Ákærði kvaðst ekki hafa kannast við Z sem þá hafi sagt ákærða að hann yrði laminn núna og slyppi ekki eða viðhaft álíka ummæli.  Ákærði kvaðst þá hafa spurt Z að því tvisvar sinnum hvort þeir gætu ekki leyst málið á annan hátt, þar sem ákærði kvaðst hafa verið mjög hræddur við að lenda í slagsmálum eftir atburðinn sem lýst er í ákærulið 1.  Ákærði kvað Z hafa sagt að málið yrði ekki leyst eins og ákærði vildi.  Ákærði lýsti því að honum hafi ekki litist á það að hlaupa í burtu þar sem honum þótti sýnt að Z næði honum þegar, þar sem hann væri mun hærri og lappalengri en ákærði.  Ákærði kvað Z hafa verið ,,geðveikur til augnanna” og greinilega undir áhrifum einhverra ,,harðra efna” og kvaðst ákærði því hafa ákveðið að reyna að eiga fyrsta höggið fyrst Z hafi ekki viljað láta ákærða sleppa án slagsmála.  Hann kvað Z hafa vikið sér undan högginu.  Ákærði lýsti því síðan er hann gekk í áttina til V17 til að fá jakkannn sinn aftur og hugðist ákærði fara inn á skemmtistaðinn.  Z hafi þá hlaupið frá og kallað til ákærða ,,þú ert ekki sloppinn frá mér þarna” “þú sleppur ekkert núna” en ákærði kvaðst þá hafa  gengið í áttina til Z og í raun hafi ekkert gerst þá fyrr en ákærði kvaðst hafa stokkið og gripið í Z, sem hafi náð að henda ákærða í götuna eftir að ákærði kvaðst hafa náð að skalla hann, en það hafi ekki verið mjög fast að sögn ákærða.  Ákærði kvaðst hafa verið fljótur að standa á fætur og þá reynt að slá til Z, en ekki hitt, en Z hafi þá fallið eins og hálfboginn yfir ákærða og kvaðst ákærði þá hafa náð að sparka eitt ,,hnéspark” í kviðinn á Z, sem þá hafi gripið í ákærða og hent í jörðina.  Ákærði kvað þessa atburðarrás hafa átt sér stað í D-götu á götunni fyrir framan veitingastaðinn E og Z hafi tvisvar sinnum hent ákærða í götuna og kvað ákærði annað skiptið koma skýrt fram á myndbandi, sem síðar verður vikið að.  Ákærði kvaðst hafa lent á bakinu í síðara skiptið sem Z felldi hann í þessari atburðarás, en það hafi gerst eftir að ákærði hafi hætt átökunum að ósk Z, sem hafi eftir að ákærði hafði gengið frá veist að ákærða aftur og fellt hann.  Þá hafi Z lent ofan á ákærða, sem hafi náð að hafa Z undir og kvaðst ákærði hafa haldið honum föstum, en Z hafi ekki viljað sleppa taki, sem hann hélt í skyrtu ákærða.  Ákærði kvaðst tvisvar sinnum hafa sagt Z að sleppa ella myndi ákærði slá hann.  Z hafi ekki sleppt og þá hafi ákærði slegið hann eitt högg, en þá hafi einhver komið og tekið ákærða af Z.  Z hafi strax staðið á fætur, en ákærði kvaðst er þarna var komið sögu hafa kallað til dyravarða á veitingastaðnum E og beðið þá um að taka Z einnig, þar sem ákærði kvaðst ekki hafa viljað slagsmál, en ákærði kvaðst hafa verið hræddur um það að Z myndi veitast að sér aftur.  Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa kallað til félaga sinna og hvatt þá til að veitast að Z. 

Ákærði kvað átökunum við Z hafa verið lokið og ákærði verið búinn að sækja jakkann sinn.  Hann hafi staðið á tali við einhvern strák á vettvangi er hann heyrði högg.  Er hann sneri sér við hafi hann séð meðákærða Gunnar ýta eftir Z, sem hafi fallið í götuna. Ákærði kvaðst ekki hafa séð hvernig þetta gerðist og ekki hafa séð sparkið.  Ákærði kvaðst hafa gengið að Z og heyrt ,,korrið í honum” eins og hann væri að kafna.  Ákærði kvaðst því hafa ákveðið að slá hann utan undir í því skyni að kanna hvort hann myndi ranka við sér, en engin viðbrögð hafa fengið frá Z.  Ákærði kvaðst þá hafa staðið upp og gengið frá, en kona á vettvangi hafi greint frá því að búið væri að hringja á sjúkrabíl.  Þeir ákærðu hefðu farið saman á brott ásamt fleirum. 

Ákærði kvaðst í þessari atburðarrás allri hafa veitt Z högg í höfuð með höfðinu, skallað hann, en það hafi ekki verið fast, þar sem Z hafi eftir það fellt ákærða í götuna.  Þá hafi ákærði slegið Z eitt hnefahögg í andlit er ákærði lá ofan á Z.  Ákærði kveðst telja að hann hafi ekki veitt Z meira en tvö höfuðhögg, í bæði skiptin með hnefa.  Þá kvaðst ákærði hafa veitt Z hnéspörk í kvið, en ekki í höfuðið.  Hann hafi ekki sparkað í höfuð Z.  Ákærði kvaðst hafa verið undir litlum áfengisáhrifum er þetta átti sér stað.  Hann hafi verið búinn að drekka  þrjá til fimm bjóra frá því kl. 22.00 kvöldinu.  Ákærði lýsi bakmeiðslum sem hann kvaðst hafa hlotið í átökunum.  Daginn eftir kvaðst ákærði Baldur hafa frétt að Z væri mikið slasaður. Hann kvaðst þá hafa gefið sig fram hjá lögreglunni eftir að hafa greint móður sinni frá því sem gerðist.

Ákærði Gunnar Friðrik neitar sök.  Hann kvað lýsinguna í ákærunni rétta, en neitar að vera ábyrgur fyrir afleiðingum sem í ákæru greinir.  Hann kvaðst hafa verið staddur við skemmtistaðinn E þessa nótt ásamt meðákærða og fjórum öðrum mönnum.  Þá hafi hávaxinn strákur komið að ákærðu og tekið að rífast eitthvað í meðákærða Baldri og spurt Baldur hvort hann myndi ekki eftir sér eða eitthvað í þá  veru.  Skyndilega hafi Z farið úr jakkanum og borið fyrir sig hendur og hafi meðákærði Baldur gert það sama.  Þessu næst hafi Z reynt að slá til Baldurs, en ekki hitt.  Baldur hafi þá skallað Z og veitt honum högg með hægri hendi að því er ákærði taldi.  Síðar kvaðst ákærði hafa heyrt Baldur skalla Z, en ekki hafa séð höggið.  Átökin hafi síðan borist út á götuna og kvaðst ákærði ekki hafa séð hver kýldi hvern, en höggin hafi dunið og þeir hafi fallið í götuna og Z verið undir.  Þá hafi Baldur náð að halda Z og sparkað í hann með hné og fæti.  Höggin hafi komið víðsvegar í andlitið.  Eftir að Baldur stóð á fætur hafi hann aftur kýlt og sparkað í Z víðsvegar, meðal annars í andlit.  Hann kvaðst hafa séð meðákærða slá og sparka í Z tíu til fimmtán sinnum í höfuðið í þessari atburðarás, en þeir hafi tvisvar sinnum fallið í götuna áður en tveir strákar hafi komið að og tekið Baldur af Z.  Ákærði kvað Baldur ekki hafa kallað á þá félaga sína og hvatt þá til að ráðast á Z.  Z hafi hins vegar staðið á fætur, en verið vankaður eða dasaður.  Hann hafi horft og öskrað á ákærða, sem kvaðst ekki vita hvað hann sagði.  Ákærði kvaðst hafa orðið hræddur og sér hafi fundist Z líklegur til að ráðast á sig.  Ákærði hafi þá tekið smá tilhlaup og sparkað í bringu Z sem hafi dottið sitjandi niður, en ákærði hafi hlaupið á brott og ekki séð hvernig Z féll í götuna.  Þá kvaðst hann hafa séð meðákærða ganga að Z og slá hann og öskra á hann, en vel geti verið að meðákærði hafi slegið Z með flötum lófa.  Eftir þetta hefði meðákærði Baldur greint ákærða frá öndunarerfiðleikum Z. Ákærði kvað Z hafa horft á sig eftir að hann stóð á fætur.  Hann hafi ekki snúið hlið eða baki í ákærða, en ákærði var spurður um þetta meðal annars vegna þess sem ráða má af ljósmyndum, sem unnar voru af myndbandinu, sem áður hefur verið vikið að og síðar verður lýst.  Ákærði kvað meðákærða Baldur hafa sagt Z meðan átök þeirra stóðu að ef hann sleppti ekki skyrtu Baldurs mundi hann brjóta höfuðið á honum.  Ákærði kvað meðákærða hafa sparkað í höfuð Z eftir að Z sleppti takinu á skyrtu ákærða.  Ákærði kvaðst hafa verið búinn að drekka þrjá til fjóra bjóra auk kókaínneyslu.

Vitnið V18 lögreglumaður lýsti því er lögreglan kom á vettvang og að strax hafi verið ljóst að Z, sem lá í götunni, hafi verið alvarlega slasaður.  Hann lýsti ráðstöfunum sem gerðar voru í kjölfarið og samræðum við vitni. 

Vitnið V15 kvaðst hafa verið á gangi austur D-götu á þessum tíma er hann sá menn á hlaupum.  Hann kvað augljóst að mennirnir höfðu lent í átökum, en aðallega hafi einn maður haft sig í frammi, en ráða má af samhenginu og því sem síðar kom fram að vitnið á við ákærða Baldur og Z og verður í reifun þessara vitnisburða stuðst við það.  V15 kvaðst hafa séð til Baldurs við skemmtistaðinn E og að þar hafi þeir Z virst vera að rífast en hann heyrði ekki hvað þeim fór á milli.  Hann kvaðst ekki hafa séð upphaf átakanna, en hann hafi séð er Baldur gekk að Z og sló fyrsta höggið.  Hann kvaðst hafa séð er Z byrjaði að hörfa undan, en að Baldur hafi elt hann uppi og hafi Z borið hendur fyrir sig meðan Baldur kýldi og skallaði hann.  Ráða má af vitnisburði V15 að Z hafi fallið í götuna og verið við það að hafa ákærða Baldur undir er kunningi ákærða hafi komið að og sparkað í síðu Z svo hann féll við og komst Baldur þá ofan á.  Eftir að ákærði Baldur náði yfirhöndinni hafi hann tekið að ,,lemja hann þarna á fullu”.  V15 lýsti því nánar að Baldur hefði bæði kýlt og sparkað margsinnis og eftir að hann var staðinn á fætur hefði hann sparkað í Z.  Hann lýsti því að í þessari atburðarrás hefði Baldur einnig sparkað og slegið hnefahögg, bæði í kvið Z og í andlit.  Þá hafi það einnig gerst er Z stóð upp við ljósastaur að Baldur hafi tekið jakka Z og dregið yfir höfuð hans og þá bæði sparkað og kýlt hann og hafi höggin beinst að höfði Z.  Eftir þetta hafi Z tekist að ná taki á Baldri og hafi þeir fallið í götuna og Z ofan á.  Þá hafi einhver komið að og sparkað í kvið Z svo Baldur hafði hann undir.  Þá hafi Baldur haldið áfram að kýla og skalla Z í andlitið, þar sem hann sat ofan á honum.  V15 kvaðst ekki geta áætlað fjölda högga, sem Baldur veitti Z, en þau hafi verið mörg.  V15 kvað V16 þá hafa komið og tekið Baldur frá Z, sem lá í götunni.  Z hafi verið vankaður og alblóðugur og er hann stóð á fætur hafi hann staðið hokinn.  V15 kvað Z í þessari atburðarrás hafa reynt að komast undan og er jakkinn var dreginn yfir höfuð honum hafi hann reynt að draga Baldur niður.  Z hafi reynt að grípa í ákærða til að koma í veg fyrir það að hann fengi högg.  Er ákærði Baldur var tekinn frá Z kvað V15 hann hafa öskrað til ákærða Gunnars, sem hafi komið og sparkað annaðhvort í höfuð eða háls Z, sem við það féll í götuna og virtist honum Z ekki bera fyrir sig hendur í fallinu og taldi hann hafa fallið á hnakkann þótt hann hafi ekki séð það.  V15 kvað Z ekki hafa gert sig líklegan til að ráðast á Gunnar, sem hafi komið aftan að Z þegar hann sparkaði hann niður, en á þessum tíma kvaðst V15 hafa staðið fyrir framan Z og má ráða af myndbandinu og ljósmyndunum hvar vitnið var statt.  V15 kvaðst ekki átta sig á því hversu langan tíma þessi atburðarrás stóð.

Vitnið V16 kvaðst hafa verið þarna á ferð ásamt V15 kunningja sínum.  Fyrir utan skemmtistaðinn E hafi hann séð ákærða Baldur elta Z, en V16 gat ekki lýst aðdragandanum frekar, en kvað mikinn mannfjölda hafa verið fyrir framan skemmtistaðinn.  V16 kvað Baldur hafa elt Z, náð honum og haft hann undir og tekið að kýla hann nokkrum sinnum í andlitið.  V16 kvaðst ekki hafa séð Baldur sparka í Z og ekki minnast þess að hafa séð hann skalla Z. V16 kvað Z hafa verið algjörlega yfirbugaðan og kvaðst V16 ásaka sig fyrir að hafa staðið of lengi aðgerðarlaus uns hann greip inn í og færði Baldur af Z, sem hafi ekki getað varið sig að sögn V16.  Eftir að Z stóð á fætur kom maður, sem af samhenginu má ráða að var ákærði Gunnar, og sparkaði í Z svo að hann féll á hnakkann í götuna, en kvað sér hafa fundist eins og sparkið  lenti í barkann á Z, en það gæti hafa lent á bringu hans.  Hann kvaðst telja sig muna að sá sem sparkaði hafi komið framan að Z.  Z hafi verið mjög blóðugur þar sem hann lá og var hlúð að honum að sögn V16.

Vitnið V19 kvaðst hafa séð tvo menn slást.  Hún kvað Baldur hafa ögrað Z, sem hafi reynst að forðast átök.  Hún kvað Baldur bæði hafa kýlt og sparkað í höfuð Z.  Höggin hafi verið þung og örugglega fleiri en tíu.  Hún mundi ekki hvort Baldur hefði skallað Z.  Eftir að átökum mannanna var hætt hvatti annar mannanna kunningja sinn að koma og slá og hafi hann, en ráða  má af vitnisburðinum að það hafi verið ákærði Gunnar, þá komið hlaupandi og sparkað í hálsinn á Z, sem féll í götuna og missti meðvitund, en er sparkið kom hafi Z snúið að Gunnari.  Hún kvað Z hafa staðið úti á götu og alls ekki hafa ögrað Gunnari.

Vitnið V20 kvaðst hafa verið við störf á F, sem er skáhallt á móti skemmtistaðnum E.  Þegar hann leit út um gluggann kvaðst hann hafa séð að slagsmál voru byrjuð og að maður hafi verið ofan á öðrum liggjandi í götunni og verið að kýla þann sem lá hnefahögg í höfuðið, en hann giskaði á að hnefahöggin hafi verið fimm til tíu talsins.  V20 kvaðst aldrei hafa séð Z slá á móti.  Maðurinn sem lá í götunni, en ráða má af gögnum að það hafi verið Z, hafi síðan náð að standa á fætur og hafi hann ráfað í hringi eins og vankaður og í þann mund sem hann sneri hliðinni að Gunnari hafi hann, komið hlaupandi að Z og sparkað í andlit hans um leið og Z sneri að honum.  Við þetta féll Z aftur fyrir sig með hnakkann í götuna og stóð ekki upp eftir það.  Hann mundi ekki eftir því að hafa séð ákærða Baldur koma aftur að Z eftir að hann féll í götuna.  V20 kvaðst telja að Gunnar hefði ekki haft ástæðu til að ætla að honum hefði staðið ógn af Z.  Hann kvað þennan atburð hafa átt sér stað nánast beint fyrir utan gluggann, þar sem V20 var við störf.

Vitnið V21 kvaðst hafa verið við störf á F þetta kvöld.  Hann kvaðst ekki vita hvað gerðist áður, en er hann leit út um gluggann hafi hann séð tvo menn liggja í götunni kýla hvor annan uns annar mannanna náði yfirhöndinni.  Hann kvað Z þarna hafa orðið fyrir hnefahöggum, lófahöggum og spörkum í höfuð, andlit og víðar, utan að hann kvaðst ekki hafa séð sparkað í höfuð hans. Hann kvaðst muna eftir einu sérstaklega föstu höggi í höfuð Z.  V21 kvað þann sem veitti höggin hafa verið dreginn af Z, sem þá reyndi að standa á fætur hálf vankaður.  Þá hafi annar maður komið frá hlið Z og sparkað hann niður svo að höfuð hans skall í götuna. Mennirnir hafi síðan hlaupið á brott.

Vitnið V22 kvaðst hafa gengið eftir D-götu á þessum tíma er hann heyrði einhver læti við skemmtistaðinn E.  Er hann kom að staðnum kvaðst hann hafa séð tvo menn hrinda hvor öðrum.  Átökin hafi þróast þannig að mennirnir hafi tekið að slá hvor annan í höfuðið uns annar náði yfirhöndinni og tók jakka hins yfir höfuðið og sparkaði hnéspark í andlit hans.  Í skýrslutöku hjá lögreglunni kvað V22 hnéspörkin hafa verið hátt í tuttugu talsins, en er hann var spurður um fjölda högganna fyrir dómi kvað hann þau hafa verið mjög mörg.  Maðurinn sem hlaut höggin hafi verið mjög blóðugur og vankaður eftir þetta, en einnig hafi verið sparkað í hann liggjandi.  Ráða má af framburði þessa vitnis og öðrum gögnum málsins, meðal annars af myndbandinu, að vitnið er hér að lýsa samskiptum ákærða Baldurs og Z og verður við það miðað í áframhaldandi reifun þessa vitnisburðar, en vitnið var statt mjög nærri þegar þessir atburðir áttu sér stað.  V22 lýsti því er mennirnir voru staddur úti á götunni þá hafi Z beðið Baldur um að hætta.  Síðan hafi árásarmaðurinn gengið að vini sínum og öskrað á hann um að lemja manninn.  Þetta hafi hann öskrað tvisvar til þrisvar sinnum, en enginn hafi sinnt þessu.  Fram kom í vitnisburði V22 að hann mundi ekki alla atburði vel, en hann kvað sama manninn hafa komið aftur að Z og veitt honum ,,lokahögg” svo Z féll í götuna og kvaðst hann hafa heyrt brothljóð og þungt högg.  V22 taldi þetta hafa verið högg en ekki spark. 

Vitnið V23 kvaðst hafa verið í för með V22 og er þeir voru staddir í D-götu þessa nótt kvaðst hann hafa heyrt læti og séð tvo menn slást.  Hann kvaðst ekki vita upphaf átakanna, en fljótlega hafi annar mannanna náð yfirhöndinni.  Síðan hafi það gerst að annar hafi náð að færa jakka hins mannsins yfir höfuð hans, sem ekkert hafi getað gert.  Meðan hann hélt þannig jakka mannsins hafi hann gefið manninum í jakkanum nokkur hnéspörk í andlitið svo úr hafi blætt.  Átökin hafi færst út á götuna þar sem fórnarlambið, sem vitnið kallaði svo, hafi haldið í árásarmanninn að sögn vitnisins og hafi fórnarlambið grátbeðið hinn um að hætta og kvaðst V23 telja að fórnarlambið hafi séð að hann hefði ekkert í árásarmanninn að gera.  Fórnarlambið hafi verið orðið mjög vankað af barsmíðunum og hafi hann haldið fastataki í hinn manninn sem hafi öskrað á manninn og beðið hann um að sleppa sér, en hann hafi barið hann nokkrum sinnum hnefahögg, að því er vitnið minnti, í höfuðið á meðan á þessu stóð.  Að því kom að fórnarlambið hafi sleppt hinum manninum, sem hafi hörfað frá og kallað á vini sína og hvatt þá til að berja manninn.  Þeir hafi ekki sinnt þessu.  Þá hafi fórnarlambið staðið á fætur dasað og hafi hann ekki virst sjá mikið hvað var að gerast í kringum hann.  Árásarmaðurinn hafi þá hlaupið að manninum og gefið honum gott högg í andlitið svo maðurinn hafi fallið með hnakkann í götuna, þar sem hann lá meðvitundarlaus að sögn vitnisins.  Sérstaklega aðspurður kvaðst V23 ekki alveg viss um það hvort það hafi verið sami maðurinn sem veitti lokahöggið og sá sem lengst af átti í átökunum.  Þá kvaðst hann ekki viss um það hvort lokahöggið hafi verið hnefahögg eða spark, þar sem maðurinn hafi verið að falla í götuna í þann mund sem vitnið hafi litið við. 

Vitnið V24 kvaðst hafa verið í D-götu á leiðinni út á J er hann sá tvo menn í ryskingum og kvaðst hann sér í fyrstu hafa virst eins og þeir tækjust á í gríni.  Síðan hafi sér virst eins og alvara færðist í leikinn.  Hann kvaðst muna eftir því að annar maðurinn hafi kallað til þess sem sparkaði í manninn, berjið hann, lemjið hann eða eitthvað í þá veru.  Hann kvaðst bæði hafa séð vel og muna vel eftir því er annar mannanna fékk spark í höfuðið svo hann féll aftur fyrir sig í götuna, en sá sem sparkaði hafi verið annar en sá sem í fyrstu átti í átökum við þann sem féll í götuna.  V24 kvað annan manninn hafa komið til baka að þeim sem lá hreyfingalaus í götunni og slegið hann í andlitið. 

Vitnið V25 kvaðst hafa verið við störf sem dyravörður á E þetta kvöld og hafi séð slagsmál utan dyra. Hann kvað sér hafa virst átökunum lokið er annar maður hafi komið að og sparkað manninn niður svo að hann féll í höfuðið í götuna.  Sá sem upphaflega átti í átökum hafi þá komið að og slegið þann sem lá í andlitið.

Vitnið V26 kvaðst hafa verið dyravörður á E þetta kvöld.  Hann kvað tvo menn hafa átt slagsmálum og annar þeirra hafi verið kýldur niður.  Hann vissi ekki hvort fleiri en einn áttu hlut að máli, en V26 kvaðst hafa hlaupið á staðinn og hafi maðurinn þá legið í götunni, en mennirnir sem hlut áttu að máli hafi verið farnir.  Fram kom að V26 mundi ekki atburði vel.  Hjá lögreglunni lýsti hann atburðum svo, að hann hefði klifrað upp á hlið við skemmtistaðinn og þá séð tvennt aðstoða mann við að setjast upp og þá hafi maður, sem hafi verið staddur nærri versluninni F, komið hlaupandi og sparkað í höfuð mannsins, sem við þetta hefði fallið aftur fyrir sig og það hafi heyrst er höfuð hans skall í jörðina.  V26 kvaðst ekki muna þetta nú, en það hafi hann gert þegar hann gaf skýrsluna hjá lögreglunni 28. maí 2002.

Vitnið V27 kvaðst hafa orðið vitni að slagsmálum í D-götu á þessum tíma og hafi hún veitt því athygli að slagsmálin hafi verið ,,rosalega fautaleg”.  Mennirnir hafi slegið hvor annan.  Hún kvaðst hafa snúið sér undan og hringt í lögregluna.  Hún kvaðst hafa snúið sér við annað veifið og er hún lauk símtalinu við lögregluna hafi hún séð að búið var að skilja mennina að.  Hún kvaðst hafa séð er annar maður kom stökkvandi að og sparkaði ofarlega í bringu mannsins, sem féll aftur fyrir sig og í götuna. 

Tekin var vitnaskýrsla af V17 símleiðis frá Bandaríkjunum.  Hann kvaðst hafa verið í för með báðum ákærðu og fleiri mönnum þetta kvöld.  Er þeir voru staddir fyrir framan E hafi strákur komið að Baldri, rætt við hann og tekið að ,,rífa kjaft” og spurt Baldur hvort hann myndi eftir sér.  Baldur hafi snúið sér að manninum, sem hafi manað Baldur til slagsmála.  Síðan hafi brotist út slagsmál á milli þeirra.  Milli þeirra hafi gengið kýlingar og skallar, sem höfnuðu í andliti og öxl Z og þá mundi hann eftir einu hnésparki frá Baldri í hnakka Z þegar þeir lágu í götunni.  Þeir hafi velst um, en er átökum þeirra var lokið hafi Baldur kallað að það ætti að halda áfram að lemja manninn.  Hann mundi ekki nákvæmlega hversu mörg höggin voru, en kvað skallahöggin sem Baldur veitti Z hafa verið fjögur til fimm og hnéspörkin um þrjú talsins.  V17 mundi ekki hvort maðurinn og Baldur voru skildir að, eða hvort Baldur hætti átökunum sjálfur, en hann kvað sig minna að átökin hafi verið stöðvuð vegna þess að Z hafi beðið Baldur um að hætta.  Eftir þetta hafi Gunnar komið og sparkað í manninn að honum sýndist í hálsinn.  Við þetta hafi maðurinn fallið með hnakkann í jörðina.  Sparkið hafi verið fyrirvaralaust, en engin samskipti höfðu verið milli Z og Gunnars.  Eftir þetta hafi Baldur gengið að Z og slegið hann utan undir með flötum lófa.  Þeir hafi síðan farið af vettvangi.

Vitnið V28 kvaðst hafa verið með ákærðu og V17 við skemmtistaðinn E er Z kom þar og ögraði Baldri og manaði hann í slagsmál, sem urðu á milli þeirra.  Hann kvað Baldur hafa haft Z undir er vegfarendur hafi tekið hann af Z.  Hann kvaðst hafa séð Baldur veita Z hnefahögg og skallahögg sem hafi lent í andliti Z.  Baldur hafi einnig sparkað í hann, hugsanlega í andlit eða höfuð.  Síðar greindi hann svo frá að Baldur hafi hugsanlega sparkað þrisvar sinnum í andlit Z.  V28 mundi ekki hvort hann hafi séð Z veita Baldri högg í þessari atburðarrás.  Hann kvaðst hafa talið að slagsmálunum hafi verið lokið þarna og kvaðst ekki hafa vitað fyrr en Z lá í götunni.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvernig það gerðist, en síðar hafa frétt að Gunnar hafi sparkað hann niður.

Vitnið V29 kvaðst hafa verið í för með ákærðu þetta kvöld.  Er þeir voru staddir við E hafi Z komið að þeim og sagt við Baldur eitthvað í þá veru að hann ætlaði nú að berja hann, þar sem hann væri ekki með vinum sínum nú.  V29 kvaðst ekki hafa vitað við hvað Z átti, en Baldur hafi hrist höfuðið og þeir ætluðu að halda áfram.  Z hafi þá aftur farið fram fyrir þá og ekki ætlað að hleypa þeim áfram og byrjaði hann að klæða sig úr jakkanum.  Hann hafi ætlað að slást við Baldur.  Síðan hafi átök byrjað og Baldur hafi náð að skalla Z einu sinni, en þeir hafi slegist áfram og lent í götunni.  Þeir hafi haldið hvor í annan og öskrað og Baldur hafi náð að slá Z tvö til þrjú högg í andlitið.  Er þeir voru staddir fyrir framan F hafi Baldur sparkað í Z hnéspörk, en Z beygði sig niður og mjög sennilega hafi eitthvað af spörkunum lent í andliti Z.  Z hafi haldið fast í skyrtu Baldurs og sagt Baldri að vera rólegum, en Baldur sagt Z að sleppa takinu.  Baldur hafi síðan kýlt Z hnefahögg í andlitið.  Baldur hafi verið tekinn af Z, sem þá stóð á fætur vankaður og var að klæða sig í jakkann er Gunnar kom að og sparkaði í Z svo að hann féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í götuna.  Hann kvaðst ekki hafa séð Z gera neitt sem gæfi Gunnari tilefni til árásarinnar.  Baldur hafi þá gengið að Z og sagt eitthvað við hann og slegið hann utan undir með flötum lófa.  Þeir hafi síðan farið í burtu.

Einar Ingi Magnússon sálfræðingur vann sálfræðilega matsgerð á andlegum þroska ákærða Gunnars Friðriks.  Einar kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði skýrslu sína.

Prófessor Gunnlaugur Geirsson krufði lík Magnúsar Freys Sveinbjörnssonar.  Í krufningarskýrslu sem dags. er 4. júlí sl.  er svofelldur kafli:

,,Ytri áverkar:

Það er glóðarauga vinstra megin með bláma neðan við augað og á augnlokinu en ekki að sjá áverka á auganu sjálfu.  Ekki verður greint neitt sérstakt í nefi eða eyrum.  Í munni sést að hliðlæg framtönn hægra megin í efri góm er brotin og svolítið hefur kvarnast úr mótsvarandi tveimur framtönnum í neðri góm við bitjaðarinn.  Ekki er að sjá áverka í slímhúð varanna, sem bendi til þess að holdið hafi höggvist.  Neðst á hálsinum hægra megin og aftur rétt ofan hægra viðbeins eru nýleg stungusár, sem gætu verið ástungur þar sem komið hefur verið fyrir æðalegg (kateter) í hálsæð, enda er smávegis mar í undirliggjandi vefjum svarandi til þessa.  Það örlar fyrir gulleitum fláka á um það bil 8 cm svæði húðarinnar þar sem stungur þessar eru.  Ívið neðar eru örsmáar, þrjár afrifur af óvssum toga.  Neðan á hökunni er lítill plástur og er þar fleiður undir 1,6x0,8 cm. Á hægri olnboga er innþornað fleiður 2x1,5 cm og svipuð fleiður með hrúðri eru á hægri hnéskel 1,5x1,3 cm og neðan við hnéskelina 2,2x1,5 cm.”

Í lok skýrslunnar er svofelldur kafli, sem ber yfirskriftina:

,,Ályktun:

Banamein mannsins var heilablæðing og bjúgur í heila og má álykta af lögregluskýrslu að heilablæðingin sé afleiðing höfuðáverka, sem hann hlaut við ákomu á höfuð við átök fyrir framan C um kl. 05.48 að morgni 25. maí 2002.

Áverkarnir benda til þess að  maðurinn hafi hlotið mikið högg á hnakkann vinstra megin, sem olli höfuðkúpubroti, sem spannar allan vinstri helming kúpuhvelfingarinnar 5 cm ofan við vinstra eyrað og yfir kúpubotninn framan til.  Jafnframt kúpubrotinu var blæðing undir þykku og þunnu heilahimnurnar.  Við höggið myndaðist einnig bjúgur í heilavefnum.  Þrátt fyrir það að maðurinn hafi farið í höfuðaðgerð strax eftir komu á sjúkrahúsið reyndust skemmdir á heilavefnum svo miklar að þær reyndust ólæknandi og hrakaði manninum uns hann lést 7 ½ sólrhring eftir áverkann.

Ekki er unnt að greina nein þau merki á ytra byrði höfuðsins, sem gefi til kynna með hvaða hætti höggið varð á höfuðið en fall á sléttan, harðan flöt getur skýrt höfuðáverkana.

Lýst er mari á hægra brjóstvegg við komu á sjúkrahúsið en ekki fundust merki þess við krufningu.  Marblái neðst á hálsi stafar frá stungum eftir þræðingu í hálsæðar.  Maðurinn var með nýleg brot á framtönnum, sem líklegast  þykir að hafi komið eftir áverka á munn eða högg undir kjálka þannig að tennur hafi skollið saman.”

Gunnlaugur Geirsson kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti skýrslu sína.  Hann skýrði það álit sitt að líklegast væri að höfuðkúpubrotið hafi hlotist við fall á sléttan, harðan flöt og skýrði og rökstuddi líklega áverka sem kunna að hljótast við spörk eða hnefahögg í höfuð.  Hann kvað ekki hægt að útiloka að blæðing undir heilahimnur og bjúgur í heilavefnum hafi hlotist við högg og spörk í höfuð.  Það sem mikilvægast væri við mat á því hvaða áverka maðurinn hefði hlotið áður en hann hlaut hnakkaáverkann og höfuðkúpubrotið væri hvernig ástand  hans hafi verið.  Þetta skýrðist af því að áverki á heila fæli í sér slævt meðvitundarástand. Hafi það ástand verið, megi hugsanlega ætla að einhver ákoma hefði orðið á heilavefinn við þessi högg.  Gunnlaugur kvað ekki unnt að greiða úr þessu álitaefni út frá því sem fannst við krufninguna.  Ástæðuna kvað Gunnlaugur í fyrsta lagi þá að áverkinn sem Z hlaut við höfuðkúpubrotið hafi verið mjög mikill.  Í öðru lagi hafi krufningin verið gerð 7½ sólarhring eftir atburðinn og í þriðja lagi hafi Z gengist undir aðgerð á höfði, sem kunni að hafa þær afleiðingar í för með sér að blætt hafi inn í vefina og erfiðara væri að greina úr því hvernig áverkinn leit út í upphafi.  Kvað hann hugsanlegt að læknar sem framkvæmdu höfuðaðgerð á Z gætu greint þetta frekar. 

Gunnlaugur skýrði svo frá að þekkt væri að svokallað ,,lúsit” tímabil kæmi hjá einstaklingi með höfuðáverka.  Það væri stutt tímabil þar sem menn halda meðvitund áður en þeir falla í kóma. Gunnlaugur taldi að áverki Z hafi verið svo alvarlegur að hann hafi ekki haldið meðvitund.  Aðspurður um það hvort hugsanlegt væri að Z hefði hlotið minni heilaáverka við fyrri atlöguna og að þeir hafi verið samverkandi áverkum sem hann hlaut við fallið kvað Gunnlaugur ekki hægt að útiloka það, þótt hann hefði ekkert fyrir sér varðandi það.

Aron Björnsson heilaskurðlæknir ritaði læknisvottorð fyrir Z.  Vottorðið er dags. 25. maí 2002 og hljóðar svo:

,,Það staðfestist hér með að [Z] var fluttur á slysadeild Landspítala í Fossvogi snemma í morgun.  Við komu var hann djúpt meðvitundarlaus og sýndi öll merki um mjög alvarlegan höfuðáverka. Tölvusneiðmynd sýnir blæðingar innan höfuðkúpu vi megin í höfði og mikinn heilabjúg auk þess höfuðkúpubrot. Áverkarnir samræmast best miklu höfuðhöggi eða höggum.  Ytri áverkamerki var fof kúla vi megin á höfði aðrir ytri áverkar ekki af þýðingu.

Ljóst var að bráðahöfuðaðgerð væri nauðsynleg og framkvæmdi undirritaður hana þegar í stað.

Í aðgerðinni sá maður langa sprungu vi megin í höfuðkúpu og eftir opnun kúpunnar og heilahimna tæmdist út ca 20-30 ml af blóði og blóðstorku undir miklum þrýstingi.  Heilinn var mikið bólginn og þrátt fyrir þetta fengna pláss var áfram mikill þrýstingur innan höfuðkúpu.

Eftir aðgerðina er [Z] fluttur á gjörgæslu þar sem hann er meðhöndlaður í öndunarvél áfram djúpt meðvitundarlaus.

Þrátt fyrir aðgerðina er ástand [Z] afar krítískt og hann í mikilli lífshættu.

Næstu klst og/eða dagar munu skera úr um það.”

Aron kom fyrir dóminn og skýrði alvarlegt ástand Z við komu á sjúkrahúsið og aðgerð sem gerð var á höfði hans.  Í læknisvottorðinu er lýst miklu höfuðhöggi eða höggum.  Aron kvað í raun ekki hægt að ráða hvort áverkinn var eftir eitt högg eða fleiri.  Aron lýsti umtalsverðum heilaáverkum á Z.  Hann kvað ógjörning að dæma um það hvort heilaáverkarnir hafi verið af völdum höggsins sem ollu höfuðkúpubrotinu eða hvort áverkarnir hafi hlotist af öðrum höfuðhöggum.  Áverkarnir á heilann hafi getað stafað af fleiri en einu höfuðhöggi og þurfi ekki út af fyrir sig að vera tengdir höfuðkúpubrotinu.  Aron kvað blæðingarnar í höfði Z hafa fyrst og fremst verið sömu megin í höfðinu og höfuðkúpubrotið.  Hann kvað heilablæðingar Z ekki hafa verið milli höfuðkúpu og fyrstu heilahimnu, sem verði oft við höfuðkúpubrot, heldur hafi heilablæðing Z verið innan heilahimnanna, en slíkar blæðingar geti hlotist við hvers konar áverka og högg á ýmsum stöðum á höfuðið. Þannig væri ekki með vissu hægt að tengja höfuðkúpubrotið við heilablæðinguna, þótt höggið sem olli höfuðkúpubrotinu hafi örugglega verið þungt. 

Aron útskýrði hvernig ekki væri útilokað að maður með jafn alvarlegar heilablæðingar og Z hlaut gæti risið á fætur og birt gæti yfir viðkomandi í stutta stund, jafnvel í einhverjar mínútur, áður en draga færi af honum. 

 Hinn 5. febrúar sl. var málið tekið upp og framhaldsmeðferð ákveðin, þar sem þeim tilmælum var beint til ákæruvaldsins að afla álits læknaráðs um tiltekin atriði til upplýsingar málsins.  Ákæruvaldið sendi beiðni þar um til læknaráðs með bréfi daginn eftir.  Álit læknaráðs er dags. 2. maí sl. og er svohljóðandi:

,,Með bréfi dags. 6. febrúar 2003 fór ríkissaksóknari þess á leit við læknaráð að það léti í té umsögn ofangreindu máli.  Læknaráð vísaði málinu til réttarmáladeildar læknaráðs.  Gunnlaugur Geirsson prófessor var vanhæfur í málinu og var Jónas Hallgrímsson prófessor emeritus skipaður í hans stað.  Réttarmáladeild hefur svarað erindinu og fjallaði læknaráð um niðurstöður deildarinnar á fundi sínum hinn 30. apríl 2003.  Álit læknaráðs er eftirfarandi og byggir á niðurstöðum réttarmáladeildar.

Af fyrirliggjandi gögnum má álykta að heilablæðing og heilabjúgur sem dró [Z] til dauða sé af mörgum samverkandi þáttum.

1)  Óskað er umsagnar um það hvort unnt sé að ráða af fyrirliggjandi gögnum hvort heilablæðing og heilabjúgur, sem dró [Z] til dauða, sé af völdum eins áverka eða hvort dauða hans megi rekja til margra samverkandi þátta.

Svar:  Við höfuðkúpubrot getur sá sem fyrir því verður misst meðvitund en það er alls ekki einhlítt.  Höfuðkúpubrot án afleiddra áverka veldur ekki dauða.  Höfuðkúpubrot sem valda dauða eru venjulega tengd svokölluðum “epidural” blæðingum en það eru blæðingar utan við hörðu himnu heilans en þær fékk [Z] ekki.

Slagæð sem liggur innan á  höfuðbeininu sem brotnar (yfirleitt á gagnauga eða á hnakka) rofnar og dælir blóði nokkuð hratt á milli höfuðbeinsins og hörðu heilahimnunnar og flysjar hana frá höfuðbeininu á viðkomandi stað.  Slík blæðing í lokað rými sem kúpan og harða heilahimnan eru  veldur fljótlega þrýstingi á heilann með þeim afleiðingum að hann ýtist til hinnar hliðarinnar og niður á við og þá klemmist að heilastofni með dauða sem afleiðingu en það eru miðstöðvar fyrir öndun og hjartslátt.

Áverkarnir sem drógu [Z] til dauða voru blæðingar undir heilahimnur og vítt og breitt í heila eða mari og bjúgmyndun.  Heilaáverkar [Z] hefðu hæglega getað orðið til án nokkurs brots á höfuðbeinum.

2)  Fram kom í vitnisburði Arons Björnssonar, heila- og taugaskurðlæknis, sem gerði höfuðaðgerð á [Z] 25. maí sl., að áverkar á heila [Z] geti stafað af fleiru en einu höfuðhöggi og þurfi út af fyrir sig ekki að tengjast höfuðkúpubrotinu.

Svar:  Læknaráð er sammála vitnisburði Arons Björnssonar að áverkar á heila [Z] geti stafað af fleiri en einu höfuðhöggi og þurfi út af fyrir sig ekki að tengjast höfuðkúpubrotinu (sjá lið 1).

3)  Fellst læknaráð á þetta álít Arons?

Svar:  Já (sjá lið 2).

4.  Loks er óskað álits á því hvort [Z] hafi getað staðið á fætur eftir að hann hlaut áverkann, sem lýst er í ályktunarkafla á bls. 6 í krufningarskýrslu Gunnlaugs Geirssonar, prófessors.  Hér er átt við það sem vitnin Gunnlaugur Geirsson, prófessor, og Aron Björnsson, heila- og taugaskurðlæknir, lýstu fyrir dómi sem “lúsit” tímabili.  Þess er óskað að læknaráð rökstyðji niðurstöðu sína bs.r 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð.

Svar: Læknaráð telur vel mögulegt að [Z] hafi getað staðið á fætur eftir höfuðhöggin sem hann hlaut þótt afleiðingar þeirra hafi orðið þær sem lýst er í krufningarskýrslu og leiddu hann síðan til dauða.

Við höfuðhögg verður hröðun á höfði en meiri á heilanum en á höfuðkúpunni.  Heilinn er mjúkur og situr í vökvarúmi innan heilahimnanna og þar sem hröðun hans er önnur en kúpunnar slengist hann til innan hennar og fara áverkar eftir afli höggsins/högganna.  Höfuðkúpan er hrufótt að innan og eykur það hættu á að heilinn skrapist af henni og sömuleiðis koma áverkar á yfirborð heilans undir áverkastað og á gagnstæðan stað þegar heilinn kastast þar innan á kúpuna.  Á ákomustöðunum á heilann verður maráverki sem getur blætt úr og eykur blóðsöfnun utan heilans.  Þunnveggja bláæðar tengja bilið á milli mjúku heilahimnunnar sem liggur þétt að heilanum og þeirrar hörðu fyrir utan,  og þegar heilinn kastast til geta þessar æðar rifnað og fer síðan að blæða úr þeim.  Í þessu bili á milli heilahimnanna er heilavökvinn sem heilinn flýtur í.  Þrýstingur í þessum bláæðum er lágur eða um 5 mm kvikasilfurs en í slagæðum getur þrýstingur verið um 100 mm kvikasilfurs.  Frá bláæðunum verður því hægfara blæðing sem safnast fyrir á milli heilahimnanna og fer blóðsafnið ekki að þrýsta á heilann strax og veldur sem slíkt litlum einkennum á meðan og skýrir það að sá sem áverka hlýtur getur náð meðvitund aftur hafi hann misst hana fyrst eftir höggið/höggin.  Fer síðan eftir fjölda og stærð þeirra æða sem rofna hversu hratt blóðið safnast fyrir utan heilans.  Þegar það hefur ná vissu magni fer það að ýta heilanum til, til hliðar ef blóðsöfnunin er aðeins öðrum megin eða meiri til annarra hliðarinnar en til hinnar og síðan niður á við.  Við þetta ferli allt verður víðtækur þrýstingur á heilann, kannski frá öllum hliðum, og dregur það úr blóðflæði, eykur súrefnisvöntun og leiðir það til bjúgs í heilavefnum.  Þannig getur orðið afdrifaríkur vítahringur sem með tímanum leiðir til dauða og fer sá tími eftir útbreiðslu og magni vefjaskemmda og blæðinga.“

Niðurstaða ákæruliðar 3.

Á myndbandi úr eftirlitsmyndavél lögreglu má ráða í aðalatriðum hvað gerðist.  Mörg vitnanna sem komu fyrir dóminn sjást á myndbandinu og kemur því vel fram staðsetning þeirra og skilyrði til þess að sjá það sem fram fór.  Ráða má af upptökunni að ákærði Baldur Freyr sló Z ítrekað.  Ekki verður með vissu ráðið af upptökunni hvernig upphaf samskipta þeirra var.  Af framburði ákærðu og vitna, meðal annars af vitnisburði V15, V16, V22 og tveggja dyravarða á E, má ráða að til einhvers ágreinings og/eða átaka hefur komið á milli ákærða Baldurs Freys og Z fyrir utan skemmtistaðinn E og vitnin V17, V28 og V29 kváðu Z hafa manað ákærða Baldur til slagsmála fyrir utan skemmtistaðinn. 

Ákærði Baldur Freyr hefur játað að hafa veitt Z höfuðhögg með höfðinu, skallað hann, slegið hnefahögg í andlitið og hnéspark í kviðinn.  Ákærði Gunnar Friðrik kvað ákærða Baldur Frey hafa sparkað og slegið Z allt að tíu til fimmtán sinnum í andlitið og að þeir hafi fallið tvisvar sinnum í götuna meðan á þessu stóð og fær það stoð í upptökunni sem minnst var á.

Vitni sem nú verður vísað til báru um atburðarásina. Vitnisburður þeirra er hér rakinn í stuttu máli en að öðru leyti er vísað til reifunar vitnisburða að framan. V15 lýsti hrottalegri árás ákærða Baldurs Freys á Z.  Þetta vitni bar jafnframt um það að Z hafi reynt að hörfa undan ákærða, sem hafi elt hann uppi. V16 bar að ákærði Baldur Freyr hafi elt Z og kýlt í andlitið. V19 kvað Z hafa reynt að forðast átök, en ákærði Baldur Freyr hafi veitt honum mörg þung höfuðhögg. V20 lýsti mörgum höfuðhöggum sem ákærði Baldur Freyr veitti Z og hið sama gerði vitnið V21. V22 bar um mörg höfuðhögg og spörk ákærða Baldurs Freys í Z.  V17 lýsti skallahöggum og hnéspörkum, sem ákærði Baldur Freyr veitti Z, V28 lýsti hnefahöggum, skallahöggum og spörkum ákærða Baldurs Freys í Z og V29 lýsti hnefahöggum og spörkum ákærða Baldurs Freys í andlit Z.

Með játningu ákærða Baldurs Freys en að hluta gegn neitun hans er sannað með vitnisburði sem nú hefur verið rakinn og með öðrum gögnum málsins, þar á meðal myndbandsupptöku, að ákærði Baldur Freyr hafi veist að Z eins og ákært er fyrir, utan að ósannað er gegn neitun ákærða Baldurs Freys, að honum hafi gengið annað til er hann sló Z utanundir liggjandi í götunni en að kanna meðvitundarástand hans og var það ákærða því refsilaust.

Eins og rakið var verður engu slegið föstu með vissu um upphaf átakanna, þótt telja verði með þeim vitnisburði sem rakinn var að ofan um það sem gerðist fyrir utan veitngastaðinn E, Z hafi á einhvern hátt manað ákærða Baldur Frey slagsmála.  Hins vegar hafa vitni borið að Z hafi beðið ákærða Baldur Frey um að hætta árásinni og að hann hafi hörfað undan honum, en ákærði Baldur hafi elt hann uppi til að halda árásinni áfram.  Verður ekki betur séð en að myndbandið staðfesti þetta. 

Að þessu virtu er það mat dómsins að atlaga ákærða Baldurs Freys að Z hafi nánast verið tilefnislaus og að ekkert réttlæti jafn hrottalega árás og lýst hefur verið, enda gat Z lengstum enga vörn sér veitt, og styður vitnisburður þetta álit dómsins svo og myndbandsupptakan.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða Gunnars Friðriks og með vitnisburði fjölmargra vitna, að hann hafi veist að Z á þann hátt, sem lýst er í ákærunni.

Ákærðu hafa báðir neitað því að vera valdir að dauða Z. 

Samkvæmt þeim læknisfræðilegu gögnum, sem rakin hafa verið, og sérstaklega með vísan til álits Læknaráðs, og með vitnisburði Arons Björnssonar heilaskurðlæknis og Gunnlaugs Geirssonar prófessors, er sannað að atlögur ákærðu, hvors þeirra um sig eða saman, voru til þess fallnar að valda þeim alvarlegu áverkum sem drógu Z til dauða.

Ekki er með vissu unnt að greina í sundur afleiðingar af háttsemi hvors ákærðu um sig.  Ákærðu bera því hvor um sig fulla refsiábyrgð af afleiðingum gerða sinna þótt virða beri afleiðingarnar til gáleysis þeirra beggja.

Brot þeirra er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Hvorugur ákærðu hefur áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum.

Ákærði Baldur Freyr gekkst undir viðurlagaákvörðun á árinu 1999 fyrir fíkniefnabrot.  Hann er nú dæmdur fyrir þrjár alvarlegar líkamsárásir og er refsing hans ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Árás hans á Z var hrottafengin og afleiðingarnar alvarlegar.  Brot hans eru stórfelld.  Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár.

Ákærði Gunnar Friðrik gekkst undir tvær lögreglustjórasáttir á árinu 2000 fyrir umferðarlagabrot.

Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.

Ekki kemur til álita að skilorðsbinda refsivist ákærðu.

Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivist beggja ákærðu óslitið gæsluvarðhald þeirra frá 26. maí 2002 að telja.

Skaðabótakrafa Y sundurliðast þannig:  Miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna, 4.175 krónur vegna fjártjóns og 145.551 króna vegna lögmannsaðstoðar, þar með talinn virðisaukaskattur.

Ákærði Baldur Freyr er bótaskyldur vegna háttsemi sinnar gagnvart Y, sem einnig á rétt á miskabótum skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kröfuliðurinn fyrir fjártjónið er studdur gögnum og er hann tekinn til greina að fullu.

Miskabætur til Y þykja hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur. Ákærði Baldur Freyr greiði Y þannig samtals 504.175 krónur auk dráttavaxta frá 4. ágúst 2002, en þá var mánuður liðinn frá birtingu kröfunnar. 

Auk þessa greiði ákærði Baldur Freyr 150.000 krónur í réttargæsluþóknun til Sveins Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.

Skaðabótakrafa Æ sundurliðast þannig:

62.040 króna er krafist í þjáningarbætur skv. 3. gr. skaðabótalaga, 450.000 króna í miskabætur, 48.335 króna vegna útlagðs kostnaðar vegna læknismeðferðar, tannlækniskostnaðar og fleira, 620.000 króna er krafist vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar vegna tannviðgerða að lágmarki, 113.875 króna vegna lögmannsaðstoðar, þar með talinn virðisaukaskattur.

Ákærði Baldur Freyr er bótaskyldur vegna háttsemi sinnar gagnvart Æ, sem einnig á rétt á miskabótum skv. 26. gr. skaðabótalaga.

Undir aðalmeðferð málsins var kröfuliðurinn um útlagðan kostnað hækkaður um 19.840 krónur.

Ákærði Baldur Freyr hefur ekki samþykkt að kröfunni verði breytt, þannig að hún hljóti efnismeðferð í málinu, sbr. 171. gr. laga nr. 19/1991, og verður því að miða við hina upphaflegu kröfugerð.

Til stuðnings kröfunni um þjáningabætur á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga liggja vottorð tannlæknis um meðferð og eftirlit með Æ allt til 12. júní 2002.  Krafist er þjáningabóta frá 7. apríl 2002 til 12. júní sama ár, eða í 66 daga.  Þykir með þessu nægilega fram komið að Æ hafi mátt þola þjáningar skv. 3. skaðabótalaga og eigi rétt á bótum vegna þess. Er ákærði Baldur Freyr dæmdur til greiðslu þessa kröfuliðar að fullu. 

Þá á Æ rétt á miskabótum úr hendi ákærða Baldurs Freys, skv. 26. gr. skaðabótalaga og þykja þær bætur hæfilega ákvarðaðar 250.000 krónur.

Kröfuliðnum um útlagðan kostnað fylgja gögn og ber að dæma ákærða Baldur Frey til greiðslu hans eins og krafist er.

Kröfuliðnum um fyrirsjáanlegan kostnað hefur verið mótmælt.  Sú krafa er of óljós og ber að vísa henni frá dómi.

Ákærði Baldur Freyr er  samkvæmt ofanrituðu dæmdur til að greiða Æ samtals 360.375 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en upphafstími dráttarvaxta er miðaður við þann tíma er mánuður var liðinn frá því ákærða var birt krafan.

Ákærði Baldur Freyr greiði 150.000 krónur í réttargæsluþóknun til Viðars Lúðvíkssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Æ.

Kröfugerð Ö og V, foreldra  Z er þannig sundurliðuð:  Krafist er 2.000.000 króna í miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga, 34.209 króna vegna flugfargjalda.  Þá eru nokkrir kröfuliðir vegna útfararkostnaðar. Loks er krafa að fjárhæð 3.279.630 krónur vegna tapaðra launa V.

Ákærðu bera óskipta bótaábyrgð gagnvart foreldrum Z, sem eiga rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Þykja miskabætur til hvors um sig hæfilega ákvarðaðar 1.000.000 króna.  Krafan um bætur fyrir útfararkostnað er studd gögnum, utan áætlun vegna legsteins 85.000 krónur, sem er í hóf stillt. Ákærðu eru dæmdir til að greiða alla kröfuliðina vegna útfararkostnaðar, eða samtals 324.660 krónur, og 34.290 krónur vegna flugfargjalds.

Vegna kröfunnar um töpuð laun er vísað til “almennra reglna um skaðabótaábyrgð, einkum sakarreglunnar“ eins og segir í kröfugerðinni. Þessari kröfu hefur verið mótmælt. Kröfunni fylgir vottorð frá útgerð G þar sem segir að  hásetahlutur á skipinu tímabilið 5. júní 2002 til 1. september s.á hafi verið 3.279.630 krónur. Engin gögn sýna að V, faðir Z, hafi orðið af launum þetta tímabil og þá þykir krafan að öðru leyti ekki nægilega rökstudd. Ber samkvæmt þessu að vísa henni frá dómi.

Samkvæmt ofanrituðu eru ákærðu dæmdir til að greiða foreldrum Z óskipt 2.358.950 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en ekki verður séð að ákærðu hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins, 14. nóvember 2002, og reiknast dráttarvextir því frá 14. desember sl.

Ákærðu greiði óskipt 250.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórðar Ólafs Þórðarsonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Ö og V.

Ákærði Baldur Freyr greiði 750.000 krónur í réttagæslu- og málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærði Gunnar Friðrik greiði 500.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.

Ragnheiður Harðardóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Kristjana Jónsdóttir og Skúli J. Pálmason.

DÓMSORÐ:

   Ákærði Baldur Freyr Einarsson sæti fangelsi 3 ár.

   Ákærði Gunnar Friðrik Friðriksson sæti fangelsi í 2 ár.

   Frá refsivist beggja ákærðu skal draga óslitið gæsluvarðhald hvors um sig frá 26. maí 2002 að telja.

   Ákærði Baldur Freyr greiði Y 504.175 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta frá 4. ágúst 2002 að telja og til greiðsludags.

   Ákærði Baldur Freyr greiði 150.000 krónur réttargæsluþóknun til Sveins Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.

   Ákærði Baldur Freyr greiði 360.375 krónur í skaðabætur til Æ ásamt 4,5 % vöxtum frá 7. apríl 2002 til 4. ágúst 2002 að telja, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

   Ákærði Baldur Freyr greiði 150.000 krónur í réttargæsluþóknun til Viðars Lúðvíkssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Æ.

   Ákærðu greiði óskipt 2.358.950 krónur í skaðabætur til Ö og V auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. júlí 2002 til 14. desember 2002, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

   Ákærðu greiði óskipt 250.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórðar Ólafs Þórðarsonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Ö og V.

   Ákærði Baldur Freyr greiði 750.000 krónur í réttagæslu- og málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns.

   Ákærði Gunnar Friðrik greiði 500.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns.

   Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.