Print

Mál nr. 390/2000

Lykilorð
  • Jarðalög
  • Stjórnsýsla
  • Jafnræðisregla

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2001.

Nr. 390/2000.

Jóhann Einarsson og

Ásgeir Ásgeirsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

Atla Árnasyni og

Helga Jenssyni

(enginn)

 

Jarðalög. Stjórnsýsla. Jafnræðisregla.     

J og Á kröfðust þess að ógilt yrði sú ákvörðun fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra að selja A og H jörð í eigu íslenska ríkisins. Héldu J og Á því fram að lagaskilyrðum hefði ekki verið fullnægt til að salan mætti fara fram, enda hefði ekki verið aflað meðmæla jarðanefndar, jörðin ekki verið auglýst til sölu og ómálefnaleg sjónarmið hefðu ráðið því að jörðin var seld J og Á. Talið var að heimilt hefði verið að selja jörðina án þess að leitað væri meðmæla jarðanefndar, enda hafði verið aflað sérstakrar lagaheimildar fyrir sölunni í fjárlögum. Þá var ekki talið að það varðaði ógildi sölunnar að jörðin hefði ekki verið auglýst til sölu. Voru J og Á ekki taldir hafa sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu ráðið sölunni. Voru Í, A og H því sýknaður af kröfum J og Á.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. október 2000. Þeir krefjast þess að ógilt verði með dómi sú ákvörðun fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra að selja stefndu Atla Árnasyni og Helga Jenssyni jörðina Kambsel í Djúpavogshreppi og þar með afsal til þessara stefndu fyrir jörðinni 9. febrúar 1999. Þeir krefjast jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Stefndi íslenska ríkið krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu Atli Árnason og Helgi Jensson hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

 

 

I.

Mál þetta varðar sölu íslenska ríkisins á jörðinni Kambseli í Djúpavogshreppi til stefndu Atla og Helga, en kaupsamningur var gerður um jörðina milli þeirra og landbúnaðarráðherra 6. nóvember 1998 með fyrirvara af hálfu seljanda um „að Alþingi samþykki nauðsynlega lagaheimild til sölunnar“. Slík heimild var veitt fjármálaráðherra í lið 4.15 í 7. gr. fjárlaga 1999 nr. 165/1998. Gáfu fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra út afsal til stefndu Atla og Helga fyrir jörðinni 9. febrúar 1999. Var í afsalinu vísað til nefnds lagaákvæðis sem heimildar fyrir sölunni. Eru atvik að gerningi þessum nánar rakin í héraðsdómi, þar sem jafnframt er lýst afnotum áfrýjenda af jörðinni og málavöxtum að öðru leyti.

Til stuðnings kröfu sinni vísa áfrýjendur til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 34/1992 um Jarðasjóð. Telja þeir að Kambsel falli sem ríkisjörð undir lögin og þar með fari um sölu jarðarinnar eftir þeim reglum, sem kveðið sé á um í umræddu lagaákvæði. Þar sé mælt fyrir um að heimilt sé að fengnum meðmælum jarðanefndar að selja jörð öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til að bæta búrekstraraðstöðu þeirra. Við sölu Kambsels hafi þess ekki verið gætt að leita eftir meðmælum jarðanefndar Suður-Múlasýslu og beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda söluna.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 34/1992 er veitt almenn heimild til að selja jarðir, sem lögin taka til, hvort heldur er sveitarfélögum, upprekstrarfélögum, einstaklingum eða félagasamtökum. Séu þær seldar öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til að bæta búrekstraraðstöðu þeirra, er sala heimil samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að fengnum meðmælum jarðanefndar. Samkvæmt 2. tölulið 4. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976, eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 28/1995 þarf ekki að afla samþykkis sveitarstjórnar eða jarðanefndar þegar ríkissjóður eða ríkisstofnanir kaupa eða selja réttindi yfir fasteignum. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til síðastgreindu laganna, var tekið fram að með því væri lagt til að ekki aðeins ríkissjóður væri undanskilinn því að þurfa samþykki sveitarstjórnar eða jarðanefndar fyrir kaupum og sölu á fasteignum, heldur einnig ríkisstofnanir, til dæmis Jarðasjóður.

Við sölu á Kambseli nýtti landbúnaðarráðherra sér ekki þá almennu heimild til að selja fasteignir Jarðasjóðs, sem 1. mgr. 5. gr. laga nr. 34/1992 hefur að geyma. Var þess í stað leitað sérstakrar heimildar í fjárlögum til að selja jörðina, svo sem áður er rakið. Með því að heimild 1. mgr. 5. gr. fyrrnefndu laganna var ekki nýtt kom þá heldur ekki til sérstakra álita hvort sú aðstaða væri fyrir hendi, sem í 2. mgr. sömu greinar er lýst. Átti þá við sú almenna regla að ríkið og ríkisstofnanir þurfi ekki samþykki sveitarstjórnar eða jarðanefndar til að selja jarðir sínar, sbr. 6. gr. jarðalaga. Verður samkvæmt því ekki fallist á með áfrýjendum að ógilda beri sölu jarðarinnar til stefndu Atla og Helga þar eð ekki hafi verið aflað meðmæla jarðanefndar Suður-Múlasýslu fyrir henni.

II.

Áfrýjendur styðja kröfu sína jafnframt við það að stefnda íslenska ríkinu hafi verið skylt að auglýsa jörðina til sölu þannig að þeim og öðrum gæfist kostur á að leita eftir kaupum á henni til jafns við stefndu Atla og Helga. Sú skylda verði einkum leidd af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að þessa hafi ekki verið gætt beri að ógilda sölu jarðarinnar. Stefndu mótmæla því að skylda til að auglýsa Kambsel til sölu verði leidd af nefndum ákvæðum. Stjórnsýslulög eigi við um þær ákvarðanir stjórnvalds, sem teknar séu í skjóli stjórnsýsluvalds. Að undanskildum II. kafla laganna eigi þau hins vegar ekki við um samninga einkaréttarlegs eðlis, sem stjórnvöld geri, þar með talda samninga um kaup og sölu fasteigna. Í þessu sambandi hafa áfrýjendur einnig hreyft því að verð, sem stefndu Atli og Helgi guldu fyrir jörðina, hafi verið lægra en sannvirði hennar nam. Stefndi íslenska ríkið mótmælir þessu, en að auki er þessari síðastnefndu málsástæðu sérstaklega mótmælt sem of seint fram kominni. Kemur hún ekki til álita þegar af þeirri ástæðu.

Þess er að gæta að ekki er til að dreifa beinum lagafyrirmælum, sem geri íslenska ríkinu skylt að auglýsa til sölu jarðir, sem ákveðið hefur verið að selja. Gegnir að því leyti öðru um jarðir en sumar aðrar fasteignir ríkisins, sbr. einkum 9. gr. laga nr. 27/1968 um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins með áorðnum breytingum. Varðandi þetta atriði að öðru leyti verður ekki fallist á að ógilda beri sölu á jörðinni, þar sem hún var ekki auglýst, sbr. dóm Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 407/1999. Verður krafa áfrýjenda, sem á þessum grunni er reist, því ekki tekin til greina.

III.

Krafa áfrýjenda er loks byggð á því að ómálefnaleg sjónarmið hafi búið að baki þeirri ákvörðun að selja stefndu Atla og Helga jörðina. Því til stuðnings er haldið fram að sú aðferð, sem viðhöfð var við söluna, hafi miðað að því að stefndu yrði seld jörðin án nokkurrar íhlutunar jarðanefndar eða annarra, sem hefðu viljað gæta hags áfrýjenda. Hinum síðastnefndu, sem eigi verulegra hagsmuna að gæta af nýtingu jarðarinnar, hafi ekki verið gefinn kostur á að „gera kröfu um kaup á jörðinni“.

Stefndu Atli og Helgi halda fram að tilgangur þeirra með kaupum á jörðinni hafi verið sá að nýta hana til skógræktar að því marki, sem unnt sé. Ljóst sé þó að verulegur hluti lands Kambsels henti ekki til slíkrar ræktunar og þann hluta megi nýta áfram til beitar með sama hætti og verið hafi. Kveðast stefndu vera með umfangsmikla skógrækt á næstu jörð, Geithellum II, sem ætlunin sé að efla með kaupum á Kambseli og skógrækt þar. Hafa þeir lagt fram samning við Skógrækt ríkisins frá ágúst 1998 um ræktun nytjaskógar á fyrrnefndu jörðinni, en í 14. gr. hans kemur fram að hann sé gerður á grundvelli IV. kafla laga um skógrækt nr. 3/1955 með áorðnum breytingum. Halda stefndu fram að stjórnvöld með tilstyrk löggjafans stefni beinlínis að því að semja við landeigendur almennt um að leggja land undir skógrækt og kaupi jafnframt fullvirðisrétt af sauðfjárbændum og hvetji til að dregið sé úr þeirri framleiðslu. Því fari þess vegna fjarri að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för með því að selja ríkisjörðina Kambsel til skógræktar.

Svo sem að framan er rakið er þessi málsástæða áfrýjenda að nokkru tengd því að ekki var leitað umsagnar jarðanefndar Suður-Múlasýslu áður en samningur var gerður um sölu jarðarinnar. Sú ástæða leiðir ekki til þess að krafa áfrýjenda geti náð fram að ganga, sbr. I. kafla að framan.

Með hliðsjón af því, sem fram er komið um tilganginn með sölusamningnum, afstöðu málsaðila til þess að nýta jörðina og stefnu löggjafa og stjórnvalda varðandi ræktun og nýtingu lands og búvöruframleiðslu verður ekki fallist á að í ljós séu leidd ómálefnaleg sjónarmið við hina umdeildu ákvarðanatöku, sem rennt geti stoðum undir kröfu áfrýjenda.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verða stefndu sýknaðir af kröfu áfrýjenda. Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Jóhanns Einarssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra fyrir Hæstarétti, 250.000 krónur.

                                   

Dómur Héraðsdóms Austurlands 19. júlí 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands með stefnu birtri 17. nóvember 1999 og sakaukastefnu birtri 9. desember 1999 og 9. janúar 2000.

Stefnendur eru Jóhann Einarsson, kt. 300737-3239, Geithellum I, Djúpavogshreppi, og Ásgeir Ásgeirsson, kt. 150166-4899, Blábjörgum, Djúpavogshreppi.

Frumstefndu eru landbúnaðarráðherra f.h. landbúnaðarráðuneytis og fjármálaráðherra, kt. 550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík, fyrir hönd ríkissjóðs.

Sakaukastefndu eru Atli Árnason, kt. 070651-2549, Hrólfsskálavör 9, Seltjarnarnesi, og Helgi Jensson, kt. 140962-3769, Hjarðarhlíð 9, Egilsstöðum.  Hafði þeim verið stefnt í frumsök, en þar sem stefnubirting tókst ekki var sakaukasök höfðuð.

Stefnendur krefjast þess að ógilt verði með dómi ákvörðun fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og landbúnaðarráðherra f.h. landbúnaðarráðuneytisins að selja sakaukastefndu, Atla og Helga, jörðina Kambsel í Djúpavogshreppi og þar með afsal frumstefnda, ríkisins, á jörðinni Kambseli í Álftafirði til sakaukastefndu, dagsett 9. febrúar 1999.

Loks krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

 Frumstefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Sakaukastefndu, Atli Árnason og Helgi Jensson, krefjast sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.

II.

Stefnendur kveða málsatvik vera þau að þeir séu bændur á jörðunum Geithellum I og Blábjörgum í Djúpavogshreppi.  Með samningi dagsettum 11. júní 1993 hafi þeir tekið á leigu eyðijörðina Kambsel í Álftafirði af íslenska ríkinu.  Samkvæmt ákvæðum leigusamnings skyldi jörðin leigjast í eitt ár frá fardögum 1993 að telja.  Leigan skyldi framlengjast ár frá ári nema annarhvor eða báðir aðilar segðu upp leigunni.  Á grundvelli þessa ákvæðis hafi leigan verið framlengd ár frá ári.

Jörðin Kambsel liggi að jörð stefnanda Jóhanns og hafi til ársins 1883 verið hluti af jörðinni Geithellar.  Í landamerkjaskrá frá 24. mars 1883 sé jörðinni svo lýst að það sé allmikið land og gott, töluvert skógi vaxið, auk þess sem það eigi eftir jarðarmagni og jarðardýrleika tilkall til afréttarlands Geithellnadals.  Með framangreindu landamerkjabréfi hafi jörðinni verið skipt út úr Geithellum.

Vegna landlegu jarðarinnar og með hliðsjón af landnýtingu stefnenda og búskaparháttum þeirra hafi þeim reynst nauðsynlegt að leigja jörðina Kambsel.  Hafi þessi nýting átt stóran þátt í því að tryggja það að stefnendur hafi nægjanlegt landrými til beitar fyrir búfénað sinn.

Áður en stefnendur gerðu leigusamning við landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins 11. júní 1993 hafi stefnandi Jóhann haft jörðina á leigu um árabil, þ.e. frá 15. júlí 1982 til 11. júní 1993, eða allt þar til núverandi samningur var undirritaður.  Stefnandi Jóhann hafi þannig nýtt jörðina í tengslum við búrekstur sinn í rúm 17 ár.

Í lok árs 1998 hafi kunningi stefnenda, Jón Gunnarsson, farið þess á leit að upplýst yrði af hálfu landbúnaðarráðuneytisins hvort til stæði að selja umrædda jörð.  Af hálfu ráðuneytisins hafi verið upplýst að ekki stæði til að selja jörðina.  Vegna þessara upplýsinga hafi stefnendur ekki gert frekari reka að því að fá jörðina keypta, enda hafi þeir talið að aðilaskipti að jörðinni væru ekki fyrirhuguð og í ljósi 17 ára réttarsambands, grundvölluðu á leigusamningi, væri réttarstaða þeirra trygg.

Það hafi því komið stefnendum í opna skjöldu er þeim barst til eyrna ávæningur af því að jörðin Kambsel hefði verið seld sakaukastefndu, Atla og Helga, og að afsal hefði verið gefið út 9. febrúar 1999.  Stefnendum hafi hvorki verið tilkynnt um gjörninginn né hafi þeir getað átt von á honum, enda hafi þeir nýlega verið búnir að fá þær upplýsingar frá ráðuneytinu að ekki stæði til að selja jörðina. 

Það hafi ekki verið fyrr en eftir fyrirspurn sveitarstjóra Djúpavogshrepps 7. maí 1999 til landbúnaðarráðuneytisins um sölu á jörðinni að stefnendum var tilkynnt formlega og það staðfest fyrir þeim að jörðin hefði verið seld 9. febrúar s.á.  Í svörum ráðuneytisins til sveitarstjórnar 17. maí 1999 komi fram að jörðin hafi ekki verið auglýst sérstaklega, enda hafi verið aflað lagaheimildar til sölu jarðarinnar.  Jafnframt hafi verið upplýst að leigutökum hafi ekki sérstaklega verið gefinn kostur á að kaupa jörðina.

Í kjölfar þessa hafi stefnandi Ásgeir sent bréf til landbúnaðarráðherra dagsett 25. maí 1999.  Í bréfinu hafi verið óskað eftir svörum og skýringum við ákveðnum álitaefnum varðandi sölu þessa og almennar reglur um sölu ríkisjarða.  Jafnframt hafi verið reifuð ýmis sjónarmið sem stefnanda hafi þótt við eiga.  Auk stefnanda Ásgeirs hafi stefnandi Jóhann undirritað bréfið ásamt 31 íbúa til viðbótar í sveitarfélaginu.  Erindi þessu hafi ekki verið sinnt.

Í ljósi þess með hvaða hætti málsmeðferð hafi verið háttað í máli þessu af hálfu landbúnaðarráðuneytisins þyki stefnendum ljóst að þeim sé nauðugur einn kostur að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Kröfugerð stefnenda beinist að þremur aðilum.  Í fyrsta lagi ríkinu sem hafi verið eigandi jarðarinnar Kambsels í Djúpavogshreppi til 9. febrúar 1999 og í öðru og þriðja lagi Atla Árnasyni og Helga Jenssyni, núverandi afsalshöfum jarðarinnar.  Krafist sé ógildingar á þeirri ákvörðun ráðherra að selja sakaukastefndu, Atla og Helga, jörðina Kambsel og jafnframt að afsal sem gefið var út til þeirra verði þar með ógilt.  Stefnendur hafi báðir lögvarða hagsmuni af því að hnekkja sölu jarðarinnar til sakaukastefndu, að öllu leyti, enda séu þeir báðir aðilar að leigusamningi um jörðina.

Málavextir eins og þeir horfa við frá sjónarhóli frumstefnda, íslenska ríkisins, eru þeir að með afsali dagsettu 12. september 1972 keypti Jarðakaupasjóður ríkisins jörðina Kambsel í Djúpavogshreppi, áður Geithellnahreppi, af Þórólfi Ragnarssyni, bónda þar, vegna fjárhagserfiðleika seljanda.  Kaupverðið hafi verið 600.000 gamlar krónur.  Undir afsalið hafi ritað af hálfu seljenda Þórólfur Ragnarsson og Sigríður Ó. Beck.  Seljandi, sem hafi búið áfram á jörðinni, hafi flutt af henni á árinu 1979 og ábúð jarðarinnar hafi hann sagt upp frá fardögum 1981.  Hafi jörðin ekki verið í ábúð eftir það.  Húsakostur sé ekki til staðar á jörðinni ef frá sé talin hlaða byggð 1977, 75 fermetrar að stærð.  Önnur hús, bæði íbúðar- og útihús, hafi verið rifin af leigutökum jarðarinnar.

Frá því að jörðin fór úr ábúð hafi hún verið leigð nágrannabændum til slægna og beitar.  Með leigusamningi 15. júlí 1982 hafi jörðin verið leigð þeim Þormóði Einarssyni, fyrrum bónda á Blábjörgum, Ásvaldi Sigurðssyni, Geithellum II, og Jóhanni Einarssyni, Geithellum I, öðrum stefnenda máls þessa.  Með leigusamningi 11. júní 1993 hafi stefnendur tekið jörðina á leigu.  Samkvæmt ákvæðum leigusamningsins skyldi jörðin leigð í eitt ár í senn og leigutími framlengjast ár frá ári nema annar hvor eða báðir aðilar segðu upp leigunni.  Á grundvelli þessa ákvæðis hafi leigan verið framlengd ár frá ári og stefnendur hafi haft jörðina á leigu óslitið frá árinu 1993.  Eingöngu hafi verið gert ráð fyrir beitarafnotum af jörðinni, enda slægjur ekki nýttar.  Fjárhæð leigu fyrir jörðina hafi verið ákveðin þannig að hún skyldi ekki vera lægri en 25.000 krónur á ári og skyldi sú fjárhæð hækka miðað við byggingarvísitölu eins og hún væri á hverjum tíma.

Jörðin Kambsel hafi áður tilheyrt jörðinni Geithellum í Geithellnadal, en síðar hafi henni verið skipt upp í fjórar jarðir, sem auk Kambsels séu Geithellar I, Geithellar II og Blábjörg.  Um það leyti sem jörðinni var ráðstafað til leigu til stefnenda hafi sakaukastefndu, Atli og Helgi, eigendur Geithellna II, óskað eftir að kaupa jörðina og hafi komið fram í bréfi þeirra að þeir hygðust taka hana til nytjaskógræktar.  Beiðni þeirra hafi verið hafnað með bréfi landbúnaðarráðuneytisins 3. maí 1993.

Haustið 1998 hafi þáverandi landbúnaðarráðherra hins vegar ákveðið að selja sakaukastefndu jörðina.  Jörðin hafi ekki verið auglýst til sölu með opinberri auglýsingu.  Kaupsamningur um jörðina hafi verið undirritaður 6. nóvember 1998 með fyrirvara um samþykki Alþingis.  Lagaheimild til sölu jarðarinnar hafi fengist síðar í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 1999, lið 4.15, nr. 165/1998.  Afsal fyrir jörðinni hafi í framhaldi af því verið gefið út 9. febrúar 1999.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu stefnenda að landbúnaðarráðuneytið hafi ekki svarað bréfi stefnanda Ásgeirs og 31 annars íbúa Djúpavogshrepps, dagsettu 25. maí 1999, sem borist hafi ráðuneytinu 14. júní s.á.  Bréfinu hafi verið svarað með bréfi ráðuneytisins 30. október 1999.

Málsástæður og lagarök stefnenda   

Af hálfu stefnenda er á því byggt í frumsök og sakauka að um sé að ræða brot á jafnræði.  Stefnendur byggi kröfu sína á því að frumstefndi, ríkissjóður, hafi ekki gætt jafnræðisreglna er jörðin Kambsel var boðin til sölu.

Jörðin hafi hvorki verið auglýst opinberlega né kynnt á almennum markaði þannig að allir þeir sem áhuga hefðu gætu átt þess kost að bjóða í hana.  Frumstefndi, íslenska ríkið, hafi þannig ekki gætt þeirrar grundvallarskyldu sinnar að gefa öllum sem til þess höfðu áhuga jafnan kost á að eignast jörðina.  Vísist m.a. til álits Umboðsmanns Alþingis 1997:170 til stuðnings þessari fullyrðingu.

Stefnendur telji að ekki hafi verið fyrir hendi þær aðstæður að sakaukastefndu teljist einir hafa öðlast kauprétt að jörðinni sem réttlæti undanþágu frá því að auglýsa jörðina.

Með því að brjóta með þessum hætti jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé ákvörðun um söluna til sakaukastefndu ógild og þar með salan í heild sinni.  Lagaheimild í fjárlögum fyrir sölu jarðarinnar ein og sér dugi ekki til þess að landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, sem stjórnvöld, geti skorast undan þeirri skyldu sinni að auglýsa jarðir í eigu ríkisins opinberlega til sölu.  Um sé að ræða ráðstöfun takmarkaðra réttinda sem eftirsótt séu af fleiri en einum aðila og því verði að gæta jafnræðis við ráðstöfun réttindanna.  Sérstaklega verði að gæta þess að heimild til sölunnar í fjárlögum sé eingöngu bundin við sölu jarðarinnar til ótiltekinna aðila.  Ákvörðun um hvaða aðilum jörðin skuli seld sé háð reglum stjórnsýsluréttar.  Það staðfesti fullyrðingar þessar að landbúnaðarráðuneytið hafi nú sett sér vinnureglur um með hvaða hætti staðið skuli að sölu eigna í eigu ríkisins og sé þar skýrlega kveðið á um skyldu til þess að auglýsa jarðirnar.

Jafnframt verði að líta svo á að frumstefnda, íslenska ríkinu, hafi borið ótvíræð skylda til þess að kynna stefnendum að til stæði að selja jörðina og gefa þeim kost á að kaupa hana á jafnréttisgrundvelli.  Það hafi ekki getað dulist frumstefnda að stefnendur höfðu um sex ára skeið leigt jörðina og nytjað hana saman, auk þess sem stefnandi Jóhann hafi fyrir þann tíma leigt jörðina og nytjað í ellefu ár, eða samtals sautján ár, eins og að framan greini.

Vinnubrögð frumstefnda séu ekki einasta andstæð meginreglum stjórnsýslu- og stjórnarfarsréttar um jafnræði, heldur gangi þau og gegn þeim grundvallarreglum og meginsjónarmiðum sem gengið sé út frá í jarðalögum.  Í 1. gr. laganna sé tilgangur þeirra skilgreindur þannig að hann sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðfélagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.  Það verði ekki með nokkru móti ráðið að sala á eyðijörðinni þjóni þeim tilgangi sem jarðalög kveða á um, þar sem með henni hafi aðstaða stefnenda til búrekstrar verið gerð erfiðari en hún er nú.

Þegar ráðstafað sé fasteignaréttindum geti skaðabætur yfirleitt ekki nægt til að rétta hlut þess sem brotið er gegn.  Svo sé heldur ekki í þessu tilviki.  Verði því að ógilda ákvörðun landbúnaðarráðherra um að selja jörðina Kambsel til sakaukastefndu.

Í öðru lagi byggja stefnendur ógildingarkröfu sína á því að frumstefndi hafi látið hjá líða að leita meðmæla jarðanefndar Suður-Múlasýslu um sölu á jörðinni, en lögboðin skylda standi til að leita slíkra meðmæla þegar jarðir eru seldar öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til að bæta búrekstrarstöðu þeirra, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um jarðasjóð nr. 34/1992.  Samhljóða ákvæði hafi áður verið í 34. gr. jarðalaga nr. 65/1976.  Virðist tilgangurinn með því að láta hjá líða að leita þessara meðmæla vera sá einn að tryggja að jörðin yrði eingöngu seld sakaukastefndu án nokkurrar íhlutunar jarðanefndar eða annarra aðila sem að öllum líkindum myndu mælast til þess að stefnendum yrði tryggður réttur sinn.  Stefnendur telji ljóst að það að ekki var leitað eftir samþykki jarðanefndar fyrir sölunni, svo sem lögbundið er, leiði til þess að salan sé marklaus frá upphafi.

Af hálfu stefnenda er í þriðja lagi á því byggt að ómálefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun frumstefnda um að selja sakaukastefndu jörðina.  Til rökstuðnings þessari fullyrðingu sé bent á að kunningi stefnenda, Jón Gunnarsson, hafi farið þess á leit við ráðuneytið í lok árs 1998 að upplýst yrði hvort til stæði að selja jörðina.  Upplýst hafi verið að hálfu ráðuneytisins þá að slíkt stæði ekki til.  Þrátt fyrir það hafi verið veitt heimild í fjárlögum, nr. 165/1998, til þess að selja jörðina.  Þyki stefnendum þetta skýr merki þess að unnið væri að því að selja jörðina tilteknum aðilum án þess að stefnendur sem hafi verulega hagsmuni af nýtingu jarðarinnar, ættu þess kost að gera kröfu um kaup á jörðinni.  Að framan sé einnig á það bent að með því að láta hjá líða að leita meðmæla jarðanefndar virðist tilgangurinn öðrum þræði vera sá að jörðin yrði eingöngu seld sakaukastefndu án nokkurrar íhlutunar jarðanefndar eða annarra aðila sem að öllum líkindum myndu mælast til þess að stefnendum yrði tryggður réttur þeirra.

Þessi málsástæða sem og þær sem að framan eru raktar leiði til þess að ákvörðun um að selja sakaukastefndu jörðina Kambsel sé ólögmæt og því beri að ógilda hana og þar með afsal til sakaukastefndu dagsett 9. febrúar 1999.

Um lagarök vísa stefnendur til 11. gr. stjórnsýslulaga hvað varðar rökstuðning fyrir þeirri meginreglu að jafnræðis skuli gæta þegar teknar eru ákvarðanir sem snerta rétt eða skyldu manna af hálfu stjórnvalds.  Einnig sé byggt á jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Byggt sé á meginreglum stjórnsýsluréttar um form ákvarðanatöku.  Auk þess sé byggt á grundvallarreglu stjórnsýsluréttar um að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvarðanatökum.  Þá vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um verndun eignarréttarins.  Byggt sé á 2. mgr. 5. gr. laga nr. 34/1992 um jarðasjóð.  Stefnendur vísa einnig til fjárlaga nr. 165/1998, 7. gr., liðar 4.15.  Vísað sé til reglna kauparéttarins um vanheimild.  Þá vísa stefnendur til almennra reglna um sönnun og sönnunargögn.  Um varnarþing vísa stefnendur til 34. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Málskostnaðarkröfu sína styðja stefnendur við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök frumstefnda

Frumstefndi bendir á að í málavaxtalýsingu hans séu rakin tildrög og sala íslenska ríkisins á jörðinni Kambsel í Djúpavogshreppi.  Sakaukastefndu, sem eigi jörðina Geithella II sem liggi að Kambseli, hafi gefið sig fram sem kaupendur og ákveðið hafi verið að ganga til samninga við þá um sölu.  Ekki hafi því þurft að auglýsa jörðina og engin lagaskylda hvíli á frumstefnda að gera slíkt.  Kaupsamningur frumstefnda við sakaukastefndu sé dagsettur 6. nóvember 1998 og í honum sé fyrirvari um samþykki Alþingis.  Lagaheimildar til sölunnar hafi verið aflað með fjárlögum ársins 1999, þ.e. lögum nr. 165/1998, 7. gr., lið 4.15.  Endanlegt afsal fyrir jörðinni hafi síðan verið gefið út 9. febrúar 1999.  Fyrir hönd íslenska ríkisins hafi fulltrúar landbúnaðar- og fjármálaráðuneyta undirritað afsalið.  Af hálfu stefnenda hafi hæfi þeirra ekki verið dregið í efa.

Samkvæmt framansögðu hafi stefndu uppfyllt öll formskilyrði fyrir sölu fasteigna í eigu íslenska ríkisins.  Stefndu séu sammála um efni samningsins og kjör og hafi þeir hvorki krafist ógildingar hans né endurskoðunar á einhvern hátt.  Samningurinn sé því endanlegur og lagalega skuldbindandi fyrir báða.  Í þessu sambandi verði að minna á að eignarrétti fylgi sá grunnréttur að eigandi fasteignar megi velja sér viðsemjanda og taka ákvörðun um sölu eignar sinnar.  Hvorki þurfi að afla samþykkis viðkomandi hreppsnefndar né jarðanenfndar, sbr. nánar ákvæði 6. og 35. gr. jarðalaga nr. 65/1976.

Tengsl stefnenda við jörðina Kambsel séu þau að þeir hafi verið með jörðina á leigu til beitarafnota frá árinu 1993 og búi í næsta nágrenni.  Ekki hafi verið samið við þá um forkaupsrétt á jörðinni og samkvæmt leigusamningi eigi þeir einungis rétt á tilteknum leiguafnotum af jörðinni með ákveðnum skilyrðum til eins árs í senn gegn tiltekinni leigugreiðslu.  Enginn annar kaupréttur eða ígildisréttur af neinu tagi hafi fylgt samningi þessum.  Samkvæmt þessu eigi stefnendur enga aðild að máli þessu og eigi í raun engra lögvarinna hagsmuna að gæta.  Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í málinu.

Stefnendur byggi dómkröfur sínar aðallega á því að frumstefndi hafi ekki gætt jafnræðissjónarmiða og vísi í því sambandi til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 50/1993.  Frumstefndi byggi á því að ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við um viðskipti stefndu á sínum tíma.  Í 2. mgr. 1. gr. tilvitnaðra laga komi fram að stjórnsýslulögin gildi þegar ákvarðanir eru teknar um rétt eða skyldu manna.  Með þessu orðalagi sé vísað til þess að lögin gildi þegar teknar séu stjórnvaldsákvarðanir.  Það sé stjórnvaldsákvörðun þegar stjórnvald kveði einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.  Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki séu teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, eins og t.d. þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljist ekki stjórnvaldsákvarðanir.  Stjórnsýslulögin gildi því ekki um sölu stjórnvalda á fasteignum þess ef undan séu skilin ákvæði II. kafla laganna um hæfi.  Í máli þessu sé hæfi frumstefnda ekki dregið í efa.  Samkvæmt þessu sé tilvísun stefnenda í stjórnsýslulögin byggð á misskilningi og þar af leiðandi geti þeir ekki byggt rétt á þeim reglum.

Engar reglur séu til í íslenskri löggjöf sem skuldbindi íslenska ríkið til að auglýsa opinberlega eignir þess sem eru til sölumeðferðar.  Landbúnaðarráðuneytið hafi þó sett sér vinnureglur, m.a. um sölu eigna, sem tekið hafi gildi 1. maí 1999.  Eins og sjá megi hafi þær ekki tekið gildi fyrr en eftir að sölumeðferð jarðarinnar Kambsels lauk og hafi því ekki gildi í máli þessu.  Því verði ekki dregnar ályktanir af þeim reglum eftir á um auglýsingaskyldu ráðuneytisins.

Mótmælt sé þeim fullyrðingum stefnenda að sala frumstefnda til sakaukastefndu hafi verið "andstæð grundvallarreglum og meginsjónarmiðum sem gengið er út frá í jaðalögum", eins og fullyrt sé í stefnu.  Sakaukastefndu hafi keypt eyðijörð þessa í þeim tilgangi að geta stundað þar trjárækt.  Sú nýting hljóti að teljast bæði eðlileg og eftirsóknarverð og þar með þjóðhagslega hagkvæm.  Fullyrðingar stefnenda að þessu leyti standist því ekki.

Tilvísun stefnenda til ákvæða laga um jarðasjóð nr. 34/1992 í sambandi við formskilyrði sé byggð á misskilningi.  Sala Kambsels sé ekki reist á þessum lagagrundvelli, heldur á heimild í fjárlögum, nr. 165/1998, eins og fram komi í afsali.  Kambsel hafi verið ríkisjörð í skilningi I. kafla jarðalaga nr. 65/1976 og falli því ekki undir ákvæði laga nr. 34/1992 eins og stefnendur benda á án nokkurs frekari rökstuðnings.

Fullyrðingum stefnenda um meint ómálefnaleg sjónarmið frumstefnda við sölu Kambsels sé harðlega mótmælt.  Þvert á móti sé fullyrt að málefnalega hafi verið staðið að sölumeðferð jarðarinnar frá upphafi til enda.

Í lagarökum stefnenda sé vísað til reglna kauparéttarins um vanheimild.  Frumstefndi átti sig ekki á því hvers vegna vísað sé til þessa fyrirbrigðis í þessu samhengi.  Varla sé um það deilt að frumstefndi hafi átt jörðina og mátt selja hana á grundvelli lagaheimildar.  Ekki liggi fyrir loforð frá frumstefnda til stefnenda um að selja þeim jörðina eða að stefnendur eigi einhvern beinan eða óbeinan eignarrétt að jörðinni.  Vanheimild liggi því alls ekki fyrir á neinn hátt.         

Málsástæður sakaukastefndu

Af hálfu sakaukastefndu er því mótmælt sem röngu að stefnendur hafi mikla hagsmuni af því að leigja jörðina Kambsel.  Stefnendur hafi báðir rekið sauðfjárbú á jörðum sem séu yst eða austast á hinni fornu Geithellajörð.  Leigusamningur þeirra sýni að jörðin Kambsel sé einungis leigð til beitarafnota, en strikað hafi verið yfir orðið slægjur, enda muni hin ræktuðu tún vera ónýt þar sem þau hafi ekki verið slegin árum saman.  Jörðin Kambsel sé ógirt land með öllu og sé að mestu leyti ógirðanlegt fjalllendi og skriður og hafi einungis verið nýtt til beitar, en þar sem jörðin sé ógirt hafi fé getað rásað um allt, bæði inn dalinn og út eftir honum, enda sé jörð sakaukastefndu, Geithellar II, að mestu ógirt nema ræktað land.  Sakaukastefndu hafi tekið saman yfirlit yfir sauðfjáreign í norðanverðum Álftafirði og í Hamarsfirði frá 1960 til 1998.  Samkvæmt tilvitnuðum gögnum hafi sauðfjáreign á þeim jörðum sem rétt hafi til að reka fé á Geithellnadal norðanverðan breyst úr 1172 ám árið 1960 í 1474 ær árið 1973, en árið 1998 hafi sauðfjáreignin verið komin niður í 572 ær.  Samtals hafi fé í Hamarsfirði og norðanverðum Álftafirði fækkað úr 3975 fjár árið 1973 í 1218 ær árið 1998.  Samkvæmt vottorði Bændasamtaka Íslands 2. mars 2000 um greiðslumark nokkurra jarða í Hamarsfirði og norðanverðum Álftafirði sé greiðslumark Geithella I 202,3 ærgildi, en Blábjarga 290,6.  Augljóst sé, þegar þessar tölur um sauðfjáreign eru skoðaðar svo og aðstæður í Geithellnadal, að ekki skipti máli fyrir stefnendur hvort þeir hafi beitarrétt í Kambseli eða ekki.  Fé þeirra geti auk þess gengið um land Kambsels hvort sem þeir eigi þar beitarrétt eða ekki vegna þess að landið sé ógirt og hafi aldrei verið girt og verði ekki girt með neinum venjulegum girðingum og jafnvel þótt girtar yrðu af spildur á því litla láglendi sem tilheyri jörðinni, meðfram Geithellnaá, til skógræktar, eins og sakaukastefndu hafi hugsað sér, myndi fé geta gengið fram hjá þeim hindrunarlaust.  Hiklaust sé hægt að fullyrða að landið innan við Kambsel, eitt og sér, sem oft sé kallað afréttur, sé miklu meira en nóg fyrir fjárstofna stefnenda og þar að auki eigi þeir sitt heimaland. 

Rétt sé að benda á að stefnandi Ásgeir hafi aldrei átt þá jörð sem hann býr nú á þar sem Blábjörg sé ríkisjörð.  Hann hafi heldur aldrei haft jörðina á leigu, heldur sambýliskona hans, Jóna Þormóðsdóttir.  Hún hafi með bréfi 29. júní 1999 sagt upp ábúð á jörðinni og hyggist því væntanlega hætta þar fjárbúskap, sbr. bréf landbúnaðarráðuneytisins dagsett 14. febrúar 2000.  Það liggi því fyrir að stefnandi Ásgeir hafi enga hagsmuni af því að fá afsal sakaukastefndu fyrir jörðinni ógilt og hægt sé að leiða að því líkur að aðild hans sé mjög vafasöm.

Jóhann Einarsson, hinn stefnandi málsins og ábúandi á Geithellum I, eigi einungis 1/4 hluta í jörðinni Geithellar I.  Með tilliti til þess sem áður er sagt verði að telja að það séu ekki hagsmunir sauðfjárræktar sem skipti hann máli, heldur eitthvað annað.

Hagsmunir sakaukastefndu í málinu séu hins vegar miklir.  Geithellnadalur sé mun vænlegri til skógræktar eftir því sem innar dregur og því sé það mikið hagsmunamál fyrir sakaukastefndu að halda eignarrétti sínum að Kambseli svo þeir geti hafið þar skógrækt við bestu aðstæður.  Til þess þurfi þeir að girða hluta af láglendi jarðarinnar, með fram Geithellnaá, með rafmagnsgirðingu.  Sakaukastefndu séu með samning við Skógrækt ríkisins um nytjaskógrækt á jörð sinni, Geithellum II, dagsettan 25. ágúst 1998, en í raun hafi skógrækt verið byrjuð þar talsvert fyrr, þar sem munnlegt samkomulag hafði náðst og hafi fyrstu plönturnar verið settar niður vorið 1998.  Samningur þessi hafi verið gerður við einkahlutafélagið Geithella ehf., sem sé í eigu sakaukastefndu.  Þá hafi einnig verið unnin skógræktaráætlun fyrir Geithella II.  Á árunum 1998 og 1999 hafi verið settar niður um 20.000 plöntur í ca. 50 hektara skógræktargirðingu, sem taki að mestu yfir ræktuð tún.  Girðing þessi sé fimm strengja rafmagnsgirðing og útbúin með sólarrafhlöðu sem sjái um að viðhalda nægilegu rafmagni á rafgeymum.

Þá sé rétt að benda á að áður en sakaukastefndu keyptu jörðina Geithella II árið 1991 af Ásvaldi Sigurðssyni hafi hann ásamt stefnendum verið aðili að leigusamningi um jörðina Kambsel.  Samkvæmt upplýsingum Ásvalds hafi jörðin verið leigð til að tryggja það að aðrir sauðfjárbændur gætu ekki leigt jörðina og komið með fé í dalinn án þess að þeir heimiluðu.  Eigi að síður hafi bændum í sveitinni verið leyft að reka fé á Geithellnadal norðanverðan öll árin síðan sakaukastefndu keyptu jörðina Geithella II.  Þannig hafi í leigusamningnum frá 1993 verið ákvæði um heimild Stefáns Gunnarssonar til að reka 50 lembdar ær á dalinn.  Stefán sé fluttur úr sveitinni fyrir nokkrum árum.  Einnig hafi bændum á Þvottá og Hnaukum verið leyft að reka fé á dalinn.  Af þessu sjáist að beitarhagsmunir stefnenda séu ekki það sem reki þá út í þessi málaferli, heldur einhver ómálefnaleg sjónarmið sem ekki hafi verið látin uppi.

Vegna tilvísunar stefnenda í álit umboðsmanns Alþingis sé rétt að nefna, eins og skýrt kemur fram í álitinu, að talið sé að ljóst sé að ekki þurfi að auglýsa ríkisjarðir til sölu.  Lagaheimild nægi.  Niðurstaðan í álitinu sé sú að réttara hefði verið að auglýsa jörðina til sölu, en sá annmarki haggi þó ekki gildi ráðstöfunarinnar.

Sakaukastefndu mótmæli því að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið við sölu jarðarinnar, enda komi ekki fram nokkur rök fyrir þeirri fullyrðingu í stefnu.  Ekkert liggi fyrir um fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, sem titlaður sé kunningi stefnenda, til ráðuneytisins um það hvort til stæði aðselja jörðina.  Væntanlega hafi þá þegar verið búið að selja jörðina, enda hafi verið ritað undir kaupsamninginn 6. nóvember 1998 með fyrirvara um samþykki Alþingis.  Auk þess hafi ráðuneytinu vitaskuld verið heimilt að skipta um skoðun og selja jörðina ef það teldist skynsamlegur kostur.  Þá sé því og mótmælt að það að leita ekki meðmæla jarðanefndar bendi til ómálefnalegra sjónarmiða.  Eins og skýrt komi fram í greinargerð frumstefnda sé alls ekki lagaskylda að leita samþykkis jarðanefndar við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu.  Þetta komi skýrt fram í Hæstaréttardómi í málinu nr. 407/1999.  Í stefnu sé því ekki haldið fram að verð jarðarinnar hafi verið óeðlilegt, enda sé það álit sakaukastefndu að um mjög sanngjarnt verð hafi verið að ræða, sérstaklega fyrir seljanda.  Því sé ekki ástæða til að fara nánar út í rökstuðning fyrir því með samanburði við sölu annarra ríkisjarða eða annarra jarða.  Orð starfsmanns ráðuneytisins á dómskjali nr. 16, þar sem hann leggur til að verð jarðarinnar verði 1.800.000 krónur hafi verið fyrsta hugmynd ráðuneytisins og hafi byggst á vanþekkingu á ástandi jarðarinnar.  Í samningaviðræðum við ráðuneytið hafi sakaukastefndi Helgi lagt fram gögn sem sýnt hafi að eðlilegt verð jarðarinnar gæti verið um 300.000 krónur, en á endanum hafi náðst samkomulag um 750.000 krónur.  Þau sjónarmið sem skipti sköpum í máli þessu varðandi þá ákvörðun ráðuneytisins að selja sakaukastefndu jörðina sé hin opinbera stefna stjórnvalda að draga úr sauðfjárrækt, en hvetja til skógræktar.  Á meðan gerðir eru samningar við landeigendur um að þeir leggi land undir skógrækt séu sauðfjárbændur hvattir til að hætta búskap með því að ríkið kaupi af þeim fullvirðisrétt.  Því sé ekki hægt að segja það ómálefnaleg sjónarmið að selja ríkisjörð til skógræktar, heldur þvert á móti mjög málefnaleg sjónarmið.  Sýnt hafi verið fram á það að framan að hagsmunir leigutaka jarðarinnar til sauðfjárræktar séu í engu skertir þrátt fyrir að jörðin hafi verið seld.

Þá benda sakaukastefndu á að leigusamningur stefnenda um jörðina Kambsel sé enn í fullu gildi.  Stefnendur hafi ekki sagt honum upp og honum hafi ekki verið sagt upp af sakaukastefndu.  Eins og fram sé komið í málinu hafi sakaukastefndu fengið jörðina afhenta til eignar 9. febrúar 1999.  Samkvæmt leigusamningnum sé gjalddagi leigunnar 15. mars ár hvert og miðist við tímabilið frá fardögum til fardaga.   Með bréfi dagsettu 23. desember 1999 sem sent hafi verið í ábyrgð til stefnenda beggja hafi sakaukastefndi Helgi tilkynnt þeim formlega að leigusamningurinn væri í fullu gildi og hvert óskað væri að leigugreiðslur bærust.

Þá vísa sakaukastefndu til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 407/1999 til stuðnings sýknukröfum sínum.

Eftirfarandi rangfærslum í stefnu sé harðlega mótmælt:  Því sé haldið fram jörðin Kambsel liggi að jörð stefnanda Jóhanns.  Þetta sé rangt eins og alkunna sé.  Jörðin Geithellar II liggi næst fyrir utan Kambsel, en reyndar sé spildan Virkishólasel á milli Geithella II og Kambsels.  Næst fyrir utan Geithella II séu Geithellar I og þar fyrir utan Blábjörg, um 20 km utan við Kambsel.  Þá sé því haldið fram að vegna legu jarðarinnar Kambsels og landnýtingar stefnenda og búskaparhátta þeirra hafi þeim reynst nauðsynlegt að leigja jörðina Kambsel.  Um þetta sé vísað til þess sem áður segir um sauðfjáreign og legu Kambsels og því sé harðlega mótmælt að stefnendum sé nauðsyn á því að leigja jörðina.  Þá sé því mótmælt að sala jarðarinnar til sakaukastefndu sé andstæð meginsjónarmiðum jarðalaga.  Stefnendur virðist ekki gera sér grein fyrir því að fleira sé nýting lands en sauðfjárrækt og svo sé m.a. um skógrækt.  Mikil þróun hafi orðið í landbúnaði síðustu áratugi og nú sé svo komið að stjórnvöld reyni að draga úr sauðfjárrækt með uppkaupum á fullvirðisrétti, en á meðan séu veittir miklir styrkir til skógræktar og bændur og landeigendur séu hvattir til að leggja land undir skógrækt.  Þessi sjónarmið, sem séu pólitískar áherslur stjórnvalda, kalli stefnendur ómálefnaleg sjónarmið og í andstöðu við jarðalög.  Þá sé því mótmælt sem fram komi í niðurlagi stefnu þar sem segir að jarðanefnd og aðrir aðilar myndu að öllum líkindum hafa mælst til þess að stefnendum yrði tryggður réttur þeirra.  Þetta séu getgátur sem eigi ekki heima í stefnu og þeim sé mótmælt.

Loks nefna sakaukastefndu meðalhófsregluna.  Segja þeir að jafnvel þótt segja megi að betra hefði verið að ráðuneytið hefði auglýst jörðina Kambsel til sölu og að til fyrirmyndar hefði verið að leita umsagna jarðanefndar og sveitarstjórnar, verði að telja það að ógilda sölu jarðarinnar vegna þessa, alltof íþyngjandi ákvörðun gagnvart hinum grandlausu kaupendum jarðarinnar.  Hafi stefnendur orðið fyrir tjóni vegna sölu jarðarinnar hefði verið eðlilegra að þeir reyndu að leita eftir bótum vegna tjónsins, þ.e. ef þeir hefðu yfirleitt aðild að slíku máli og gætu sýnt fram á tjón.  Það sé hins vegar ekki farið fram á neinar bætur í málinu þannig að slíkt komi ekki til álita.  Það liggi þó fyrir í málinu, sbr. það sem að framan segir um sauðfjáreign og staðhætti, að stefnendur hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni og gætu því ekki krafist bóta.  Það segi sakaukastefndu jafnframt að stefnendur hafi enga þá hagsmuni sem réttlætt gætu ógildingu jarðarsölunnar.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnendur og Jón Gunnarsson skýrslur.  Staðfesti vitnið Jón að hann hafi haft samband við starfsmann í landbúnaðar-ráðuneytinu í október 1998 og spurt hvort jörðin væri til sölu.  Hafi honum verið tjáð að jörðin yrði ekki seld nema gegn því að hún væri auglýst.                   

III.

Svo sem að framan greinir keypti ríkissjóður jörðina Kambsel í Djúpavogshreppi á árinu 1972 af bóndanum þar vegna fjárhagserfiðleika seljanda.  Seljandinn bjó þó áfram á jörðinni næstu sjö árin, en flutti þá af henni og sagði upp ábúð frá fardögum 1981.  Afstaða jarðarinnar er þannig til nágrannajarða að jörðin Geithellar II, sem er í eigu sakaukastefndu, liggur næst fyrir utan Kambsel, þó með spildunni Virkishólaseli í milli.  Næst fyrir utan Geithella II eru Geithellar I og þar fyrir utan eru Blábjörg, um 20 km utan við Kambsel.  Jarðir þessar voru ein jörð, Geithellar, þar til henni var skipt 1883.  Býr stefnandi Jóhann á jörðinni Geithellum I og á hana að 1/4 hluta, en stefnandi Ásgeir á jörðinni Blábjörg, sem er ríkisjörð og sambýliskona stefnanda er leigutaki að.  Sakaukastefndu búa ekki og hafa aldrei búið á jörðinni Geithellum II, sem þeir keyptu árið 1991.  Eftir að ábúð bóndans að Kambseli lauk 1981 var jörðin leigð þremur nafngreindum mönnum frá 1982 til 1993, þ.á m. stefnanda Jóhanni, en frá 1993 hafa stefnendur verið leigutakar jarðarinnar og hefur leigan einskorðast við rétt til beitar búsmala.  Um þessi afnot liggja fyrir samningar frá árunum 1982 og 1993 og hefur verið stiklað á efnisatriðum í þeim að framan.

Fyrir liggur í málinu að um það leyti sem jörðin Kambsel var leigð stefnendum sameiginlega föluðust sakaukastefndu eftir að kaupa hana.  Fram kom í bréfi þeirra til landbúnaðarráðuneytisins að þeir hygðust taka hana til nytjaskógræktar.  Þessari beiðni var hafnað með bréfi ráðuneytisins í maíbyrjun 1993.  Ekki vildu sakaukastefndu láta við svo búið sitja, heldur leituðu þeir hófanna á ný hjá ráðuneytinu að því er virðist á árinu 1998 og urðu lyktir þær að þáverandi landbúnaðarráðherra ákvað að selja sakaukastefndu jörðina.  Var kaupsamningur um jörðina undirritaður 6. nóvember 1998 með fyrirvara um samþykki Alþingis.  Jörðin var ekki auglýst til sölu með opinberri auglýsingu.  Heimildar til sölu jarðarinnar var aflað í fjárlögum fyrir árið 1999, sbr. lög nr. 165/1998, 7. gr. 4.15.  Afsal fyrir jörðinni var síðan undirritað 9. febrúar 1999.

Óumdeilt er að stefnandi Jóhann hefur allt frá árinu 1982 átt aðild að leigusamningi um jörðina Kambsel og að stefnandi Ásgeir hefur ásamt stefnanda Jóhanni átt aðild að leigusamningi um jörðina frá 1993.  Upplýst er að leigusamningurinn sem nú er í gildi takmarkast við nýtingu jarðarinnar til beitar.  Samningur þessi er enn í fullu gildi, enda hefur honum ekki verið sagt upp af hálfu sakaukastefndu. 

Stefnendur byggja kröfu sína m.a. á því að ríkissjóður hafi hvorki auglýst jörðina opinberlega né kynnt á almennum markaði þannig að allir þeir sem áhuga hefðu ættu þess kost að bjóða í hana.  Íslenska ríkið hafi með þessu ekki gætt þeirrar grundvallarskyldu sinnar að gefa öllum sem til þess höfðu áhuga jafnan kost á að eignast jörðina.  Jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi því verið brotin er ákvörðun um söluna til sakaukastefndu var tekin.  Telji stefnendur að ekki hafi verið fyrir hendi þær aðstæður að sakaukastefndu teljist einir hafa öðlast kauprétt á jörðinni sem réttlætti undanþágu frá því að auglýsa jörðina.  Þá halda stefnendur því fram að íslenska ríkið hafi brotið gegn þeirri formreglu fyrir sölunni að leita meðmæla jarðanefndar Suður-Múlasýslu til hennar, en lögbundna skyldu til þess sé að finna í 2. mgr. 5. gr. laga um Jarðasjóð nr. 34/1992, en samhljóða ákvæði hafi áður verið í 34. gr. jarðalaga nr. 65/1976.

Af hálfu íslenska ríkisins hefur verið á það bent, og er það í raun óumdeilt, að sakaukastefndu sem eiga jörðina Geithella II hafi gefið sig fram sem kaupendur að jörðinni Kambseli og ákveðið hafi verið að ganga til samninga við þá um sölu jarðarinnar.  Sakaukastefndu hafi keypt eyðijörð þessa í þeim tilgangi að stunda þar skógrækt.  Sú nýting lands hljóti að teljast bæði eðlileg og eftirsóknarverð og þar með þjóðhagslega hagkvæm.  Lagaheimildar hafi verið aflað og frá sölunni gengið.  Fyrir hönd ísalenska ríkisins hafi fulltrúar landbúnaðar- og fjármálaráðuneyta undirritað afsalið.  Af hálfu stefnenda hafi hæfi þeirra ekki verið dregið í efa.

Þegar stjórnvald ráðstafar eigum íslenska ríkisins gilda um þá ákvörðun reglur stjórnsýsluréttar.  Um kaupsamninginn giltu að öðru leyti almennar reglur um fasteignakaup eftir því sem við gat átt.  Af hálfu íslenska ríkisins hefur verið á það bent að jörðin Kambsel hafi verið ríkisjörð í skilningi I. kafla jarðalaga nr. 65/1976 og því sé tilvísun stefnenda til ákvæða jarðasjóðslaga nr. 34/1992 á misskilningi byggð.  Sala jarðarinnar sé byggð á heimild í fjárlögum, nr. 165/1998, eins og fram komi í afsali.  Eins og að framan greinir voru það samkvæmt afsalinu fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar ráðuneytis hans sem seldu jörðina með heimild í fjárlögum fyrir árið 1999.  Jörðin var því ekki seld á grundvelli jarðasjóðslaga.  Þegar ríkið keypti jörðina hafði jarðasjóður ekki verið stofnaður.  Samkvæmt 36. gr. jarðalaga fer jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins með málefni jarða í ríkiseign nema annað sé ákveðið í lögum.  Samkvæmt 2. tl. 4. mgr. 6. gr. laganna þarf ekki að afla samþykkis jarðanefnda fyrir aðilaskiptum að ríkisjörðum fremur en þegar ríkið leigir slægjur og beit jarða sinna, sbr. 5. tl. sömu málsgreinar.  Verður ekki séð að bein lagafyrirmæli hafi gert það skylt að leita umsagnar jarðanefndar áður en ákvörðun var tekin um sölu jarðarinnar.  Með vísun til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hins vegar að telja eðlilegt að almennt sé leitað umsagnar jarðanefnda og hreppsnefnda áður en ákvörðun um sölu ríkisjarða er tekin.

Hvorki í jarðalögum né í öðrum lögum er að finna bein fyrirmæli um að auglýsa skuli fyrirhugaða sölu ríkisjarða.  Lagaákvæði sem gefa almenningi kost á að kaupa eignir ríkisins að undangenginni auglýsingu eru almennt reist á þeim sjónarmiðum að tryggja beri hagkvæmni ráðstöfunar og jafnræði þeirra sem hug hafa á kaupum.  Gera verður ráð fyrir því að ríkisjarðir séu eftirsóknarverðar til kaups.  Þar sem stjórnvöldum er skylt að gæta jafnræðis milli borgaranna er almennt rétt að auglýsa ríkisjarðir sem ætlunin er að selja þannig að þeir sem áhuga hafa fái sama tækifæri til að gera kauptilboð í hlutaðeigandi fasteign, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.  Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnenda að jörðin hafi verið seld á of lágu verði, en engin gögn hafa verið lögð fram þar um af þeirra hálfu.

Eins og áður hefur komið fram aflaði landbúnaðarráðuneytið heimildar til sölu jarðarinnar Kambsels og þau sjónarmið sem það lagði til grundvallar sölunni voru málefnaleg.  Þótt taka megi undir að almennt séu það betri stjórnsýsluhættir að leita samráðs við jarðanefndir og sveitastjórnir og auglýsa ríkisjarðir til sölu, eins og nú munu hafa verið settar reglur um, verður ekki talið að skortur á því eigi að leiða til þess að stefnendur fái ógilt söluna til sakaukastefndu.  Er þá einkum litið til þess að um eyðijörð án húsakosts er að ræða sem liggur að jörð sakaukastefndu og tilheyrði áður jörð þeirra, Geithellum II, og ekki liggur annað fyrir en verð hennar hafi verið eðlilegt.  Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verða frumstefndi og sakaukastefndu sýknaðir af kröfum stefnenda.

Samkvæmt framangreindum málavöxtum og niðurstöðu málsins er rétt að frumstefndi, íslenska ríkið, beri sinn málskostnað, en stefnendur greiði sakaukastefndu málskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Júlíus B. Georgsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Frumstefndi, íslenska ríkið, og sakaukastefndu, Atli Árnason og Helgi Jensson, eru sýknir af kröfu stefnenda, Jóhanns Einarssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, um ógildingu sölu jarðarinnar Kambsels í Djúpavogshreppi og um ógildingu afsals fyrir henni 9. febrúar 1999.

Frumstefndi, íslenska ríkið, skal bera sinn kostnað af málinu.

Stefnendur, Jóhann Einarsson og Ásgeir Ásgeirsson, greiði sakaukastefndu, Atla Árnasyni og Helga Jenssyni, 150.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.