Print

Mál nr. 474/2004

Lykilorð
  • Lögheimili
  • Sveitarfélög
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi heimilis
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. apríl 2005.

Nr. 474/2004.

Bláskógabyggð og

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Guðlaugi Hilmarssyni

Guðbjörgu Rós Haraldsdóttur

Gunnari Inga Guðlaugssyni

Kristmanni Hilmari Guðlaugssyni og

Ástu Sóllilju Guðlaugsdóttur

(Karl Axelsson hrl.

Guðjón Ægir Sigurjónsson hdl.)

 

Lögheimili. Sveitarfélög. Stjórnarskrá. Friðhelgi heimilis. Gjafsókn. Sératkvæði

Í málinu kröfðust GH og GRH, ásamt börnum sínum, viðurkenningar á því að lögheimili þeirra væri í húsi sem þau höfðu byggt  á svæði sem sveitarfélagið B hafði skipulagt sem frístundabyggð, en Hagstofan hafði áður, að fenginni umsögn B, hafnað beiðni um slíka skráningu.  Var talið að viðkomandi einstaklingar nytu í skjóli 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar réttar til að ráða búsetu sinni og hefði ekki verið vísað til haldbærra heimilda sem sett gætu skorður við búsetu þeirra á umræddum stað. Var lagt til grundvallar að nýting GH og GRH á húsinu væri með þeim hætti sem um ræði í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili og þau teldust því hafa þar fasta búsetu í skilningi ákvæðisins. Þá var og talið að 1. mgr. sömu lagagreinar yrði í samræmi við lögskýringargögn að skýra þannig að lögheimili manns eigi öllu jöfnu að vera sá staður  þar sem hann hafi fasta búsetu. Engin efni þóttu til að telja að dvöl GH og GR  með börnum sínum  í umræddu húsi mætti jafna til tímabundinnar dvalar af þeim toga sem ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar taki til.  Var krafa þeirra því tekin  til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

 Áfrýjandinn Bláskógabyggð skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2004, en áfrýjandinn íslenska ríkið 1. desember sama ár. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfu stefndu. Þá krefjast þeir báðir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að hafna aðalkröfum áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi leita stefndu með máli þessu viðurkenningar á því að lögheimili þeirra sé „að Iðu lóð nr. 11 í Bláskógabyggð“, svo sem segir í héraðsdómsstefnu. Í málinu liggur fyrir að stefndu Guðlaugur Hilmarsson og Guðbjörg Rós Haraldsdóttir hafa reist hús á þessari lóð að fengnu leyfi Biskupstungnahrepps, sem áfrýjandinn Bláskógabyggð er nú kominn í stað fyrir, til að byggja þar sumarhús. Verður og að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að svæðið, sem lóð þessi heyrir til, hafi verið skipulagt fyrir svokallaða frístundabyggð.

Stefndu njóta í skjóli 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar réttar til að ráða búsetu sinni, enda stangist slík ákvörðun ekki á við lög og þau hafi að einkarétti yfirráð yfir þeim stað. Áfrýjendur hafa ekki vísað til haldbærra heimilda, hvorki í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 né öðrum lögum, sem sett geta skorður við því að stefndu eigi heimili í sumarhúsi á svæði, sem ætlað er fyrir frístundabyggð, eða fela í sér að búsetu megi ekki taka upp í húsi nema það fullnægi nánar tilgreindum kröfum um frágang eða búnað. Geta áfrýjendur af þessum sökum ekki að lögum staðið því í vegi að stefndu haldi heimili á þeim stað, sem greinir í dómkröfu þeirra.

Í málinu halda stefndu því fram að þau hafi verið búsett í umræddu húsi frá 21. febrúar 2004. Skilja verður málflutning áfrýjenda svo að ekki sé vefengt að stefndu hafi frá þeim tíma dvalist þar að meira eða minna leyti. Í málinu liggur meðal annars fyrir að stefndu Gunnar Ingi Guðlaugsson, Kristmann Hilmar Guðlaugsson og Ásta Sóllilja Guðlaugsdóttir hafa sótt skóla í Bláskógabyggð vegna búsetu í húsinu. Að þessu gættu og með því að áfrýjendur hafa ekkert fært fram til að hnekkja því að nýting stefndu á húsinu sé með þeim hætti, sem um ræðir í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili, verður að telja að þau eigi þar fasta búsetu í skilningi laganna, en eins og málinu er háttað er ekki þörf á að taka afstöðu til þess frá hvaða nánara tímamarki svo hafi verið.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 er lögheimili manns sá staður, þar sem hann hefur fasta búsetu. Af lögskýringargögnum er ljóst að ætlast hefur verið til að ákvæðum laganna yrði beitt á þann veg að lögheimili manns og raunverulegur dvalarstaður færu að meginreglu saman. Engin efni eru til að fallast á með áfrýjendum að líta megi svo á að stefndu eigi í umræddu húsi dvöl af þeim toga, sem ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna tekur til. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti milli áfrýjandans íslenska ríkisins og stefndu falli niður. Áfrýjandinn Bláskógabyggð verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, en um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Bláskógabyggð, greiði 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð. Að öðru leyti fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Guðlaugs Hilmarssonar, Guðbjargar Rósar Haraldsdóttur, Gunnars Inga Guðlaugssonar, Kristmanns Hilmars Guðlaugssonar og Ástu Sóllilju Guðlaugsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 300.000 krónur.

 

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Ég er sammála meiri hluta dómenda um að hafna beri frávísunarkröfu áfrýjenda.

Hugtakið lögheimili manns er þannig skilgreint í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili, að það sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. og 3. mgr. 1. gr. laganna eru nánari ákvæði um hvar maður telst hafa fasta búsetu og hvar ekki. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna getur enginn átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn, en í 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr. eru ákvæði um hvar telja skuli að föst búseta manns standi, leiki á því vafi. Af ákvæðum laganna og athugasemdum við frumvarp til þeirra er ljóst að föst búseta er það grundvallarhugtak sem lögheimili á að fara eftir. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvar stefndu teljist hafa fasta búsetu í skilningi laganna og lögheimili eftir því.

Um málavexti er ekki ágreiningur. Stefndu Guðlaugur og Guðbjörg sóttu um að fá að byggja sumarhús á lóð í sveitarfélaginu á svæði sem skipulagt hafði verið fyrir frístundabyggð. Þau fengu leyfið, reistu sumarhúsið og óska eftir því að fá lögheimili sitt skráð þar, en því hafna áfrýjendur. Áfrýjandi Bláskógabyggð kveðst ekki geta samþykkt að föst búseta og lögheimili geti verið í sumarhúsi og áfrýjandi íslenska ríkið kveður Hagstofu Íslands ekki skrá upplýsingar um lögheimili nema fyrir liggi samþykki viðkomandi sveitarfélags. Stefndu njóta í skjóli 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar réttar til að ráða búsetu sinni. Ágreiningur aðila snýst í raun um hvort stefndu, og mönnum almennt, sé í sjálfsvald sett hvar þeir hafa fasta búsetu í skilningi laga um lögheimili eða hvort sveitarfélagið ráði þar nokkru.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segir að landinu sé skipt í staðbundin sveitarfélög, sem ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð. Í löggjöf er að finna ýmis lög og lagafyrirmæli þar sem fjallað er um innri málefni sveitarfélaga, svo sem lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög nr. 66/1995 um grunnskóla, auk skipulagslaga.

Á sveitarfélögum hvíla margvíslegar skyldur sem þeim ber að inna af hendi gagnvart íbúum, atvinnufyrirtækjum, opinberum stofnunum og fleiri aðilum, og hlýtur gerð skipulags fyrir tiltekin svæði, þar sem mælt er fyrir um landnotkun, því að endurspegla áherslur sveitarfélagsins með tilliti til þess hvernig það hyggst inna skyldur sínar af hendi. Má ljóst vera að þarfir eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða íbúðarbyggð, atvinnuhúsabyggð, frístundabyggð o.s.frv., en ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 geyma fyrirmæli um aðgreiningu byggða eftir notkun landsvæða. Þannig gefst sveitarfélögum færi á að skilgreina landsvæði eftir notkun og aðgreina um leið þá þjónustu sem við á í hverju tilviki og skipuleggja hana á sem hagkvæmastan hátt. Verður að fallast á með áfrýjanda Bláskógabyggð að sveitarfélögum væri ógjörningur að veita þjónustu án sérstaks skipulags samkvæmt skipulagslögum, og að allir íbúar verði að virða gildandi skipulag, búa á skilgreindu íbúðasvæði, hafa atvinnustarfsemi á atvinnusvæði o.s. frv.

Í 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili segir að maður teljist „hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs ... eða annarra hliðstæðra atvika.“ Í 3. mgr. 1. gr. er sérstaklega tekið fram að dvöl „í gistihúsi ... athvarfi ... eða öðru húsnæði sem jafna má til þessa“ sé ekki ígildi fastrar búsetu.

Lóðin Iða, sem sumarhús stefndu er reist á, er á landsvæði sem skipulagt hefur verið sem frístundabyggð. Í 4. kafla skipulagsreglugerðar er fjallað um landnotkunarflokka, samgöngur, veitur og takmarkanir á landnotkun. Grein 4.2 fjallar um íbúðarsvæði. Grein 4.11 fjallar um svæði fyrir frístundabyggð, sem samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. greinar 4.11 eru „svæði ætluð fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til heilsársbúsetu. Til svæða fyrir frístundabyggð teljast einnig svæði fyrir fjallaskála, gangnamannaskála og neyðarskýli.“ Í 3. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti er ennfremur svofelld skilgreining: „Frístundahús er hús sem ætlað er til tímabundinnar dvalar. Frístundahús þarf ekki að uppfylla skilyrði sem sett eru um íbúðarhús.“ Samkvæmt þessu telst hús stefndu frístundahús, sem ekki er ætlað til heilsársbúsetu heldur aðeins tímabundinnar dvalar. Byggingarleyfi sveitarfélagsins heimilar ekki að húsið sé notað á annan hátt en þennan, nema nýtt leyfi komi til. Það hefur ekki verið veitt.

Ein af meginreglum lögskýringa er lagasamræmi, sem kveður á um að lagaákvæði beri að skýra með hliðsjón af öðrum ákvæðum, bæði þeirra laga sem þau skipa og einnig með tilliti til annarra laga, er varða kunna það réttaratriði, sem lagaákvæðið fjallar um. Vegna þessa er fallist á með áfrýjendum að skýra verði lög um lögheimili með hliðsjón af öðrum lögum er varða stjórnsýslu og kveða á um valdheimildir sveitarfélaga og skyldur þeirra gagnvart borgurunum. Ekki eru löglíkur fyrir því að menn geti haft fasta búsetu í skilningi laga um lögheimili í húsi og á svæði sem samkvæmt gildandi skipulagi er ekki ætlað til heilsársbúsetu. Fallast verður og á að áfrýjandi Bláskógabyggð geti samkvæmt skipulagslögum haft lögmæta hagsmuni af því að synja stefndu um að skrá lögheimili þeirra í sumarhúsi, enda samrýmist föst búseta þar ekki hagsmunum sveitarfélagsins með tilliti til skyldu þess til þjónustu á svæðinu.

 Með hliðsjón af framansögðu er fallist á með áfrýjendum að þar sem landsvæðið hafi verið skipulagt sem frístundabyggð og hús stefndu reist sem frístundahús, sem ekki er ætlað til heilsársbúsetu heldur tímabundinnar dvalar, verði húsnæðinu að þessu leyti jafnað til þess húsnæðis, sem talið er upp í 3. mgr. 1. gr. lögheimilislaga. Geti stefndu ekki með dvöl í því uppfyllt skilyrði 1. gr. laganna um fasta búsetu og því ekki átt kröfu til þess að fá þar skráð lögheimili. Ber því að sýkna áfrýjendur af kröfu stefndu.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað. Ég er sammála meiri hluta dómenda um gjafsóknarkostnað stefndu fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2004.

Mál þetta, sem tekið var til dóms eða úrskurðar 28. október síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað 21. september 2004 af Guðlaugi Hilmarssyni og Guðbjörgu Rós Haraldsdóttur, Iðu, lóð nr. 11, persónulega og fyrir hönd ólögráða barna sinna, Gunnars Inga Guðlaugssonar, Kristmanns Hilmars Guðlaugssonar og Ástu Sóllilju Guðlaugsdóttur, sama stað, gegn Bláskógabyggð og Hagstofu Íslands.

Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og að viðurkennt verði að lögheimili þeirra sé að Iðu, lóð nr. 11 í Bláskógabyggð. Þá krefjast þeir málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi, Bláskógabyggð, krefst aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnenda og að þeir verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar.

Stefndi, Hagstofa Íslands, krefst aðallega frávísunar málsins, en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnenda og stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað.

I.

Í lok febrúar á þessu ári fluttu stefnendur frá Vesturbergi 59 í Reykjavík í Bláskógabyggð, lóð nr. 11 í landi Iðu. Höfðu stefnendur fest kaup á lóðinni í ágúst 1999 og unnið að byggingu húss þar frá þeim tíma. Jafnhliða flutningnum sóttu stefnendur um skólavist fyrir syni sína, Gunnar Inga og Kristmann Guðlaug, sem  voru á skólaskyldualdri. Með bréfi stefnda, Bláskógabyggðar, dagsettu 28. febrúar 2004, var stefnendum tilkynnt að þeir fengju ekki skráð lögheimili í sveitarfélaginu auk þess sem börnum þeirra var neitað um skólavist í grunnskóla sveitarfélagsins. Stefnendur óskuðu með bréfi 9. mars 2004 eftir að fá skráð lögheimili í sveitarfélaginu með óstaðsetta búsetu, en þeir bjuggu þá ekki lengur að Vesturbergi 59, Reykjavík og töldu sér óheimilt að hafa lögheimili skráð þar. Með bréfi 28. febrúar (sic) 2004 var beiðni stefnenda hafnað af hálfu stefnda, Bláskógabyggðar. Með bréfi 18. mars 2004 var höfnun hins stefnda sveitarfélags á að börnin fengju skólavist í grunnskólanum kærð til menntamálaráðuneytisins, en kærunni var vísað frá með úrskurði ráðuneytisins 29. mars 2004 með þeirri röksemd að ráðuneytið hefði engar valdheimildir til að fjalla um mál vegna ágreinings um skráningu lögheimilis. Í kjölfar þess var óskað eftir að sveitarfélagið tæki upp ákvörðun sína um höfnun skólavistar barnanna. Þeirri málaleitan var hafnað, en samið var 22. apríl 2004 um bráðabirgðaskólavist fyrir drengina út það skólaár sem þá stóð yfir. Börn stefnenda á skólaskyldualdri eru nú þrjú og hefur þeim verið meinuð skólavist í grunnskólanum á yfirstandandi skólaári.

Flýtimeðferð máls þessa samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var heimiluð 21. september síðastliðinn.

Stefnendur fengu gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 14. október 2004.

II.

Stefndi, Bláskógabyggð, byggir frávísunarkröfu á því að stefna hafi þurft Reykjavíkurborg í málinu, en þar eigi stefnendur lögheimili, þar eð sveitarfélagið þurfi að þola dóm í málinu og hafi því hagsmuni af úrslitum þess. Nái dómkröfur stefnenda fram að ganga eigi þeir lögheimili í tveimur sveitarfélögum og brjóti málatilbúnaður stefnenda því í bága við 4. gr. lögheimilislaga.

Stefndi, Hagstofa Íslands, reisir frávísunarkröfu á að borið hafi að stefna Reykjavíkurborg til að þola dóm enda hafi sá aðili hagsmuni af úrslitum málsins, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá fullnægi kröfugerð í stefnu ekki réttarfarsákvæðum um skýrleika, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, aðallega e-lið. Krefjist stefnendur t.d. ekki ógildingar synjunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem hefði verið eðlilegt. Fái dómkrafan því vart samræmst 4. gr. lögheimilislaga um að enginn geti átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í einu. Ennfremur telur stefndi algjörlega vanreifað hvers vegna Hagstofu Íslands, vegna þjóðskrár, sé stefnt. Sé í því sambandi ekki nægjanlegt að vísa aðeins til 11. gr. lögheimilislaga.

Af hálfu stefnenda er frávísunarkröfum stefndu mótmælt. Í fyrsta lagi lúti krafa þeirra í máli þessu eingöngu að skráningu lögheimilis í Bláskógabyggð og því í engu að hagsmunum Reykjavíkurborgar. Jafnframt sé ljóst samkvæmt 4. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili að enginn geti átt lögheimili á tveimur stöðum. Þá sé krafan gerð til samræmis við 11. gr. laganna, en samkvæmt henni beri að höfða mál til viðurkenningar á hvar lögheimili manns skuli talið leiki vafi á um lögheimili hans. Þá sé í ákvæðinu jafnframt kveðið á um þá lagaskyldu að þjóðskráin skuli eiga aðild að slíku máli og því sé Hagstofu Íslands stefnt, en fyrir því þurfi ekki að færa sérstök rök.

III.

Stefnendur reisa viðurkenningarkröfu sína á því að samkvæmt 1. gr. lögheimilislaga teljist lögheimili manns vera sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Teljist maður hafa fasta búsetu á þeim stað sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er, þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Sé ótvírætt að stefnendur uppfylli öll framangreind skilyrði með því að þeir hafi komið sér upp heimili í áðurnefndri fasteign og hafi þar fastan dvalar- og svefnstað auk þess sem allir heimilismunir þeirra séu á staðnum. Hafi stefnendur ekki í önnur hús að venda með fasta búsetu.

Ákvæði 3. mgr. 1. gr. lögheimilislaga geri ráð fyrir að dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þess, sé ekki ígildi fastrar búsetu. Mæli þetta undantekningarákvæði  þannig fyrir um að dvöl í húsnæði, sem klárlega sé eingöngu ætlað til skammrar bráðabirgðadvalar, t.d. vegna fangelsisrefsingar, tímabundinnar atvinnu, ferðalaga, náms o.þ.h., geti ekki talist til fastrar búsetu. Verði að fara afar varlega í beitingu þessa ákvæðis og skýra það þröngt.

Þá uppfylli húsnæðið jafnframt skilyrði 3. gr. laganna til þess að fást skráð sem lögheimili. Um sé að ræða lóð nr. 11 úr landi Iðu. Sé fasteignin skýrlega afmörkuð og hafi sérstakt fastanúmer í fasteignamati (225-0395) og um hana hafi verið stofnuð tiltekin lóð. Sé því klárlega um að ræða tiltekið hús á tilteknum stað og fasteign í skilningi eignarréttar.

Að lokum byggja stefnendur málsóknina á því að málsmeðferð og undirbúningur við ákvarðanatöku stefnda, Bláskógabyggðar, vegna umsóknar þeirra um lögheimilisskráningu, fullnægi ekki ákvæðum stjórnsýslulaga eða sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti. Hafi stefndi þannig ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki hafi verið gætt andmælaréttar og þá hafi ekki verið farið eftir lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Sýknukröfu reisir stefndi, Bláskógabyggð, á því að synjun lögheimilisskráningar stefnenda hafi verið lögmæt þar eð þeir hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. gr. lögheimilislaga til fastrar búsetu í skilningi ákvæðisins. Við túlkun á 1. mgr. 1. gr. laganna um lögheimili beri að líta til ákvæða annarra laga sem og annarra fyrirmæla um heimildir og skyldur sveitarfélaga, þ.m.t. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Geti dvöl í sumarhúsi, sem byggt sé á landsvæði er skipulagt hafi verið sem frístundabyggð, á engan hátt talist til fastrar búsetu í skilningi lögheimilislaga. Sé slík búseta andstæð heimildum og tilgangi hagnýtingar húsnæðis. Grundvallist sú niðurstaða m.a. á því að samkvæmt 1. mgr. gr. 4.11. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 sé frístundabyggð einungis ætluð fyrir frístundahús, sbr. ennfremur 3. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Verði dvöl í sumarhúsi í frístundabyggð einungis jafnað til orlofs í skilningi 1. gr. lögheimilislaga og geti því ekki verið grundvöllur lögheimilisskráningar.

Verði ekki á framangreint fallist er á því byggt að dvöl stefnenda í umræddu húsi falli undir 3. mgr. 1. gr. lögheimilislaga. Af orðalagi ákvæðisins megi ljóst vera að upptalning húsnæðis þar sé ekki tæmandi heldur sé þar tilgreint húsnæði sem fólk dvelur almennt tímabundið í. Sé líkleg ástæða þess, að sumarhús eru ekki tilgreind þar sérstaklega, sú að ekki tíðkist að fólk dvelji langdvölum í slíku húsnæði og því hafi verið talið óþarft að taka það sérstaklega fram.

Þá vísar stefndi til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 33/1944, um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, en samkvæmt því ákvæði skuli sveitarfélög ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Ráða megi af ákvæðum laga nr. 73/1997 og reglugerðum, settum á grundvelli þeirra, að markmið með gerð skipulags í sveitarfélagi taki mið af hagsmunum sveitarfélags, íbúum þess, atvinnustarfsemi o.fl. Á sveitarfélögum hvíli margvíslegar skyldur, m.a. gagnvart íbúum og atvinnufyrirtækjum. Hafi ákvæði reglugerðar nr. 400/1998 að geyma skýr fyrirmæli um aðgreiningu byggðar eftir því til hverra nota landsvæði eru. Vísist í því sambandi til 4. kafla laga nr. 73/1997 þar sem tilgreind sé aðgreining landsvæða eftir landnotkun. Sé tilgangur þessa sá að sveitarfélögum gefist færi á að skilgreina svæði eftir landnotkun og um leið aðgreina þá þjónustu og/eða þjónustustig sem við eigi í hverju tilviki. Væri sveitarfélögum t.d. eftir atvikum skylt á grundvelli jafnræðissjónarmiða að tryggja öllum íbúum sömu þjónustu hvar sem þeir dveljast að því tilskildu að þeir ættu þar lögheimili. Felist í því m.a. sú brýna nauðsyn að íbúar búi á skilgreindu íbúasvæði. Séu hagsmunir sveitarfélaga af því að takmarka heimildir til lögheimilisskráningar því verulegir. Lóðin Iða sé á landsvæði sem skipulagt sé sem frístundabyggð. Kveði 1. mgr. gr. 4.11. í reglugerð nr. 400/1998 á um að svæði fyrir frístundabyggð séu svæði ætluð fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki sé ætluð til heilsársbúsetu. Marki gildandi skipulag nýtingarrétt landsvæðis og samhliða útiloki það tiltekna notkun, þ.m.t. þá sem um er deilt í máli þessu. Takmarkist heimildir til hagnýtingar og lögheimilisskráningar af slíkum ákvæðum. Þá hafi umrætt hús í upphafi verið byggt fyrir tiltekna notkun. Það hafi byggjanda hússins og eigendum verið ljóst og beri þeim að virða slík fyrirmæli um notkun. Þá sé á það bent að í umsókn um byggingu hússins hafi verið óskað heimildar til að reisa sumarhús. Geti stefnendur því ekki síðar breytt hagnýtingu húsnæðis eða eftir atvikum landsvæðis í andstöðu við framangreindar forsendur.

Á því er einnig byggt af hálfu stefnda að fyrirkomulag skráninga í þjóðskrá byggist á langri hefð og framkvæmd sem viðgengist hafi í 50 ár. Hafi dvöl í sumarhúsi aldrei verið jafnað til fastrar búsetu þannig að slíkt hafi talist viðhlítandi grundvöllur lögheimilisskráningar. Hafi venja og/eða hefð komist á fyrir gildandi tilhögun og beri að leggja það til grundvallar við úrslausn málsins.

Að lokum mótmælir stefndi að hann hafi við meðferð málsins brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga og/eða málsmeðferð hafi á annan hátt verið ábótavant. Hafi afstaða hans í málinu þvert á móti byggst á lögmætum sjónarmiðum og ákvörðunum.

Um sýknukröfu vísar stefndi, Hagstofa Íslands, til sömu lagaraka og meðstefndi.

IV.

Í 11. gr. lögheimilislaga segir að leiki vafi á um lögheimili manns, sé þjóðskránni, hlutaðeigandi manni eða sveitarfélagi, sem málið varðar, rétt að höfða mál til viðurkenningar á hvar lögheimili hans skuli talið. Skal þess gætt að þjóðskráin og sá maður, sem í hlut á, eigi aðild að slíku máli, en að öðru leyti fer um málið eftir almennum reglum um meðferð einkamála í héraði. Með vísan til framangreinds lagaákvæðis var stefnendum rétt að höfða viðurkenningarmál þetta og þá var það jafnframt skylda þeirra samkvæmt sama ákvæði að beina kröfum sínum að stefnda, Hagstofu Íslands.

Í dómkröfu stefnenda felst í raun krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar stefnda, Bláskógabyggðar, að neita þeim um að skrá lögheimili sitt í sveitarfélaginu. Með skírskotun til þess og samkvæmt skýrri heimild í nefndri 11. gr. laga um lögheimili til að leita viðurkenningardóms í máli sem þessu var stefnendum engin þörf á að krefjast sérstaklega ógildingar ákvörðunar sveitarfélagsins og krefjast jafnframt viðurkenningar á réttindum sínum.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 21/1990 getur enginn átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn. Stefnendur leita í máli þessu viðurkenningardóms á þeim réttindum að þeir eigi lögheimili hjá stefnda, Bláskógabyggð, en lögheimili þeirra er nú í Reykjavík og verður þar áfram fari svo að dómkrafa þeirra verði ekki tekin til greina. Verður hvorki ráðið af 11. gr. laganna að stefnendum beri skylda til að stefna Reykjavíkurborg né að sá aðili hafi, eins og hér stendur á, þá hagsmuni að lögum af úrslitum málsins að sérstök þörf hafi verið á að stefna honum.

Með vísan til framanskráðs er kröfum stefndu um frávísun málsins hafnað.

V.

Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 21/1990, kemur meðal annars fram að helsta markmiðið með endurskoðun lögheimilislaga sé að skapa meiri festu í skilgreiningu og ákvörðun lögheimilis en verið hefur. Sé stefnt að því að það verði meginregla að menn hafi lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu. Sé hugtakið föst búseta því þungamiðja í frumvarpinu og sé lögð áhersla á að skilgreina það hugtak með ótvíræðum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og þar sem svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Fram kemur í athugasemdum með 1. gr. laganna að í 2. mgr. greinarinnar sé gert ráð fyrir að tekin verði upp svonefnd svefnstaðarregla en í því felist að maður telst hafa fasta búsetu þar sem svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi. Í 3. mgr. 1. gr. kemur fram að dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, er ekki ígildi fastrar búsetu.

Í málinu er ekki deilt um að stefnendur hafi fasta búsetu í húsi sínu að Iðu, lóð nr. 11 í Bláskógabyggð, þeir dveljist þar að jafnaði í tómstundum og hafi þar heimilismuni sína og að þar sé venjubundinn svefnstaður þeirra. Verður dvöl þeirra í umræddu húsnæði því engan veginn jafnað til tímabundinnar dvalar í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögheimilislaga.

Lög nr. 21/1990 eru sérlög um hvar beri að skrá lögheimili manns. Samkvæmt 3. gr. laganna skal lögheimili, svo framarlega sem unnt er, talið vera í tilteknu húsi við tiltekna götu eða á tilteknum stað í nafngreindu húsi eða á sveitabæ. Er ekki fyrir að fara frekari skilyrðum til skráningar lögheimilis á tilteknum stað en þar greinir og eru þau uppfyllt af hálfu stefnenda. Þá er jafnframt ágreiningslaust með aðilum að umrætt húsnæði stefnenda uppfyllir öll skilyrði til varanlegrar búsetu í því. Í lögunum, sem skýra verður samkvæmt orðanna hljóðan, er hvergi lagt bann við því að maður eigi lögheimili á landsvæði er skipulagt hefur verið sem frístundabyggð.

Það er því niðurstaða dómsins að stefnendur uppfylli öll lagaskilyrði til þess að lögheimili þeirra verði skráð í ofangreindu húsnæði. Verður krafa þeirra þar um því tekin til greina.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að stefndi, Bláskógabyggð, greiði stefnendum sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað, er renni í ríkissjóð, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður milli stefnenda og stefnda, Hagstofu Íslands, falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Dómsorð:

Frávísunarkröfum stefndu, Bláskógabyggðar og Hagstofu Íslands, er hafnað.

Lögheimili stefnenda, Guðlaugs Hilmarssonar, Guðbjargar Rósar Haraldsdóttur, Gunnars Inga Guðlaugssonar, Kristmanns Hilmars Guðlaugssonar og Ástu Sóllilju Guðlaugsdóttur, er að Iðu, lóð nr. 11, Bláskógabyggð.

Stefndi, Bláskógabyggð, greiði stefnendum 400.000 krónur í málskostnað, er renni í ríkissjóð.

Málskostnaður milli stefnenda og stefnda, Hagstofu Íslands, fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.