Print

Mál nr. 65/2017

Blikaberg ehf. (Sigmundur Hannesson lögmaður) og Vilhjálmur Ólafsson (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
Hafsæli ehf. (Sveinn Guðmundsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kaupsamningur
  • Einkahlutafélag
  • Firma
  • Prókúra
  • Umboð
  • Fasteignasala
  • Skaðabætur
  • Kröfugerð
  • Viðurkenningarkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun

H ehf. krafðist þess að B ehf. yrði gert að greiða sér kaupverð samkvæmt kaupsamningi um fiskiskip, en samkvæmt samningnum skyldi kaupverðið annars vegar greitt með afhendingu á öðru skipi og hins vegar með peningum. Þá krafðist H ehf. viðurkenningar á bótaskyldu skipasalans V en hann hafði haft milligöngu um kaupin. Deildu aðilar um hvort kaupsamningur hefði komist á, en B ehf. hélt því m.a. fram að S, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins, sem skrifað hafði undir kaupsamninginn fyrir þess hönd, hefði ekki haft heimild til að skuldbinda það. Héraðsdómur féllst á kröfur H ehf. og dæmdi B ehf. til þess að greiða kaupverð skipsins í samræmi við kaupsamning aðila. Þá var skaðabótaskylda V viðurkennd. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur ákvæði laga nr. 138/1994 um félagsstjórn og framkvæmdastjóra einkahlutafélaga. Vísaði rétturinn til þess að þegar kaupin voru gerð hefði S ekki setið í stjórn B ehf. og hvorki haft heimild til að rita firma félagsins né umboð stjórnar þess til að annast kaupin. Þá hefðu kaupin ekki heldur fallið innan prókúruumboðs hans. Þar sem S hefði samkvæmt því ekki getað skuldbundið B ehf. með undirritun kaupsamningsins var félagið sýknað af kröfum H ehf. Hvað V varðaði rakti Hæstiréttur skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að leita megi viðurkenningardóms og taldi að H ehf. hefði í engu rökstutt hvernig það gæti haft lögvarða hagsmuni af því að afla slíks dóms um bótaskyldu V, samhliða kröfu um að B ehf. yrði gert að efna kaupsamning aðila samkvæmt aðalefni hans. Þá væri hvergi í málatilbúnaði H ehf. að finna viðhlítandi reifun á því hvernig þær ávirðingar á hendur V sem þar kæmu fram, gætu hafa raskað réttindum félagsins eða valdið því tjóni. Var kröfu H ehf. á hendur V því vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

                                                       Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandinn Blikaberg ehf. skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og falli þá málskostnaður niður.

Áfrýjandinn Vilhjálmur Ólafsson áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 7. mars 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda á hendur sér og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur, en þó þannig að áfrýjandanum Blikabergi ehf. verði gert að greiða sér 30.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins mun formaður stjórnar stefnda, Gísli H. Hallbjörnsson, hafa 1. júlí 2015 falið skipasölu, sem Aflmark ehf. rak, að leita kaupanda að fiskiskipi í eigu stefnda, Björgu Hallvarðsdóttur AK 15, en áfrýjandinn Vilhjálmur, sem mun vera löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali, var þá framkvæmdastjóri Aflmarks ehf. Í lýsingu á skipinu, sem birt var á vefsíðu skipasölunnar, kom meðal annars fram að það hafi verið smíðað 2010 og væri staðsett á Akranesi. Skipið væri 9,31 brúttótonn og ágætlega búið tækjum til handfæra- og netaveiða. Í skipinu væri 420 hestafla vél tiltekinnar tegundar, sem hafi verið „keyrð um það bil 6800 tíma“, en hún hafi verið tekin upp á árinu 2010, „rifin í frumeindir og skilað eins og nýrri“ og keyrð eftir það 3600 tíma. Í lýsingunni var getið um margvíslegan búnað á skipinu, þar á meðal til veiða á makríl og grásleppu, en um verð var eftirfarandi tekið fram: „Umbeðið verð fer eftir því hvernig báturinn verður afhentur. Frá 28 til 30 milj kr.“

Framkvæmdastjóri áfrýjandans Blikabergs ehf., Sigurður Aðalsteinsson, mun í byrjun nóvember 2015 hafa snúið sér til áfrýjandans Vilhjálms í leit að svonefndum hraðfiskibát til kaups og verið þá bent á fyrrnefnt skip stefnda. Í framhaldi af því samdi áfrýjandinn Vilhjálmur að ósk Sigurðar kauptilboð í skipið 3. nóvember 2015. Tilboð þetta var þó ekki gert í nafni áfrýjandans Blikabergs ehf., heldur annars félags, Hafrúnar II IS-365 ehf., en samkvæmt hlutafélagaskrá sat Sigurður einn í stjórn þess og var þar jafnframt framkvæmdastjóri. Eftir hljóðan tilboðsins var því ekki beint til stefnda, heldur Heimaskaga ehf., en áðurnefndur Gísli var samkvæmt hlutafélagaskrá framkvæmdastjóri þess félags. Í tilboðinu var getið lítillega um hvað fylgja ætti skipinu, þar á meðal að kaupin tækju hvorki til aflaheimilda né veiðireynslu, svo og að ráðgert væri að það yrði afhent „í Akraneshöfn eða eftir nánara samkomulagi“ við undirritun kaupsamnings og greiðslu kaupverðs, sem yrði ekki síðar en 10. nóvember 2015. Einnig var þess getið að tilboðsgjafi gerði fyrirvara um „samþykki stjórnar Hafrúnar.“ Í skipið voru boðnar 30.500.000 krónur, sem greiða ætti annars vegar með 19.500.000 krónum án nánari tilgreiningar „við undirskrift og afhendingu“ og hins vegar 11.000.000 krónur með fiskiskipinu Ásdísi HU 24. Í tilboðinu var einskis getið um veðskuldir á skipunum tveimur, en samkvæmt framlögðu veðbókarvottorði hvíldu á þessum tíma á skipinu Björgu Hallvarðsdóttur fjórar veðskuldir við Íslandsbanka hf. samkvæmt skuldabréfum útgefnum á árunum 2010, 2013 og 2015 að upphaflegri fjárhæð samtals 24.150.000 krónur. Fyrir tilboðsgjafa var tilboðið undirritað af Sigurði Aðalsteinssyni. Gísli H. Hallbjörnsson áritaði það, að því er virðist samdægurs, um samþykki af hálfu tilboðshafans.

Fyrir liggur að Sigurður Aðalsteinsson og Gísli H. Hallbjörnsson komu saman til fundar 5. nóvember 2015 hjá áfrýjandanum Vilhjálmi og var þar einnig staddur Guðmundur Skúlason, sem átti sæti í stjórn stefnda ásamt Gísla, en þeir fóru jafnframt hvor fyrir sig með prókúruumboð fyrir félagið. Á fundi þessum var undirritað skjal með yfirskriftinni „kaupsamningur og afsal“, sem tók til skipsins Bjargar Hallvarðsdóttur, en kaupandi var tilgreindur áfrýjandinn Blikaberg ehf. og seljandi stefndi. Á sama hátt og í fyrrnefndu tilboði var þar getið um hvað fylgja ætti skipinu og jafnframt að „seljendur“ ættu að tryggja umhirðu þess „fram til afhendingardags“. Einnig var tiltekið að í „kauptilboði þessu“ væri ráðgert að skipið yrði afhent „í Akraneshöfn ... með fullgilt haffæri“ við undirritun kaupsamnings og greiðslu kaupverðs, sem væri stefnt að „eigi síðar en“ 5. nóvember 2015, svo og að kaupandi hafi kynnt sér ástand skipsins, sem hann sætti sig við að öllu leyti. Þá var greint frá því að kaupverð væri 30.500.000 krónur, en þar af ætti að greiða 19.500.000 krónur „við undirskrift og afhendingu“, sem ekki var skýrt frekar, og 11.000.000 krónur „upp í kaupverð“ með skipinu Ásdísi HU 24. Á bakhlið skjalsins voru í 25 töluliðum staðlaðir skilmálar fyrir kaupsamning um fasteign. Að öðru leyti var ekki lýst skilmálum í kaupunum og þannig einskis getið meðal annars um veðskuldir, sem hvíldu á skipinu Björgu Hallvarðsdóttur, auk þess sem ekki var lýst yfir afsali á eignarrétti að því. Á þessum fundi var einnig ritað undir hliðstætt skjal, sem nefnt var „kaupsamningur og afsal“, vegna skipsins Ásdísar, en samkvæmt skjalinu var seljandi skipsins Gjálfur ehf., þar sem Sigurður Aðalsteinsson var framkvæmdastjóri og sat einn í stjórn samkvæmt hlutafélagaskrá, og kaupandinn stefndi. Skjal þetta var efnislega í öllum atriðum eins og skjalið, sem lýst var hér að framan, að öðru leyti en því að tekið var fram að skipið yrði afhent „í Sandgerðishöfn“ og væri kaupverð þess, 11.000.000 krónur, greitt „við undirskrift og afhendingu“, sem ekki var skýrt frekar. Bæði þessi skjöl voru undirrituð af Gísla og Guðmundi fyrir stefnda, en af Sigurði fyrir hönd áfrýjandans Blikabergs ehf., að því er skipið Björgu Hallvarðsdóttur varðaði, og af hálfu Gjálfurs ehf. varðandi skipið Ásdísi. Hvorugt skjalið var undirritað af vottum og hefur þeim ekki verið þinglýst.

Eftir gögnum málsins verður að leggja til grundvallar að fram hafi komið á áðurnefndum fundi að óvíst væri hvort Sigurður Aðalsteinsson væri bær um að skuldbinda áfrýjandann Blikaberg ehf. með undirritun sinni, svo og að leitt hafi verið í ljós við könnun áfrýjandans Vilhjálms í framhaldi af fundinum að nafngreindur sonur Sigurðar sæti samkvæmt hlutafélagaskrá einn í stjórn félagsins, en Sigurður væri eftir sömu heimild framkvæmdastjóri þess. Fyrrnefnt skjal varðandi skipið Björgu Hallvarðsdóttur var ekki undirritað síðar af stjórnarmanninum í áfrýjandanum Blikabergi ehf. og liggur ekkert fyrir um að hann hafi veitt Sigurði umboð til að skrifa undir það í nafni félagsins. Af skýrslum, sem gefnar voru við aðalmeðferð málsins í héraði, verður ráðið að Sigurður hafi afhent áfrýjandanum Vilhjálmi 19.500.000 krónur á fundinum 5. nóvember 2015. Að sögn þess fyrrnefnda var þetta fé afhent til tryggingar vegna viðskiptanna, sem þar hafi ekki verið lokið við vegna skorts hans á umboði til að skuldbinda áfrýjandann Blikaberg ehf. Stefndi kveður þessa greiðslu á hinn bóginn hafa verið innta af hendi í því skyni að áfrýjandinn Vilhjálmur myndi greiða upp veðskuldir, sem hvíldu á skipinu Björgu Hallvarðsdóttur, og hafi stefndi í framhaldi af því átt að fá eftirstöðvar fjárins í hendur. Þetta hafi í engu gengið eftir og hafi hann heldur ekki fengið afhent skipið Ásdísi. Fyrir liggur að áfrýjandinn Blikaberg ehf. tók við skipinu Björgu Hallvarðsdóttur í höfninni á Akranesi 6. nóvember 2015 og var því þá siglt þaðan til Sandgerðis, en fyrir þann tíma hafi enginn á vegum áfrýjandans farið á sjó á skipinu. Í þeirri siglingu mun hafa komið fram að talsvert skorti á að skipið næði þeim hraða, sem áfrýjandinn hafi talið sig mega vænta. Hafi hann strax gert athugasemdir af þessu tilefni og staðið síðan í samráði við stefnda að könnun á því hvort bilanir væru í vél skipsins.

Í framhaldi af framangreindu beindi Sigurður Aðalsteinsson í nafni áfrýjandans Blikabergs ehf. yfirlýsingu til stefnda 13. nóvember 2015, en óumdeilt er að áfrýjandinn Vilhjálmur, sem áritaði yfirlýsinguna sem vottur, hafi samið texta hennar. Í henni sagði að Sigurði hafi „verið falið fyrir hönd Blikabergs ehf. að rifta kaupsamningi um kaup á v/b Björg Hallvarðsdóttur“ og væri ástæða þess sú að „báturinn stenst ekki þær væntingar sem kaupandi gerir sér.“ Var þetta skýrt frekar með því að skipið gengi ekki eins hratt og sambærileg skip og hefðu komið fram nánar tilgreindir annmarkar á aflvél þess auk þess sem skipið væri „grunsamlega“ þungt á sjó og risti „dýpra en eðlilegt getur talist.“ Í niðurlagi yfirlýsingarinnar sagði síðan: „Allt þetta er búið að sá þannig efasemdum í huga kaupenda að þeir vilja rifta kaupunum nú þegar.“ Af þessu tilefni ritaði lögmaður stefnda áfrýjandanum Vilhjálmi bréf 17. sama mánaðar, þar sem fundið var mjög að verklagi hans við gerð fyrrnefndra skjala. Skoraði lögmaðurinn jafnframt á áfrýjandann að gera upp veðskuldir, sem hvíldu á skipinu Björgu Hallvarðsdóttur og væru að fjárhæð samtals 12.773.814 krónur, svo og greiða að því gerðu lögmanninum eftirstöðvarnar af þeim 19.500.000 krónum, sem áfrýjandinn hafi tekið við þegar kaupsamningur var undirritaður. Var einnig skorað á áfrýjandann að hafa milligöngu um að stefndi fengi afhent skipið Ásdísi. Eftir þetta urðu nokkur bréfaskipti milli lögmannsins og áfrýjandans. Þar lét lögmaðurinn þess meðal annars getið að áfrýjandinn Blikaberg ehf. hafi fengið afhent skipið Björgu Hallvarðsdóttur og bæri einn ábyrgð á því, auk þess sem ítrekuð var krafa um greiðslu kaupverðs þess. Áfrýjandinn Vilhjálmur lýsti því á hinn bóginn að Sigurður Aðalsteinsson hafi ekki reynst hafa umboð til að skuldbinda áfrýjandann Blikaberg ehf. með kaupum á skipinu, það hafi verið haldið alvarlegum annmörkum, rangt væri að áfrýjandinn Vilhjálmur hefði undir höndum ætlað kaupverð, sem hann nefndi svo, og gæti hann ekki ráðstafað því eins og lögmaðurinn krefðist. Einnig var skorað á stefnda að sækja hjá áfrýjandanum Vilhjálmi lykla að skipinu Björgu Hallvarðsdóttur, sem hafi í raun ekki verið afhent áfrýjandanum Blikabergi ehf., enda hafi félagið „sagt sig frá málinu“ og væri skipið á ábyrgð stefnda í höfninni í Sandgerði.

Ekki tókst að jafna ágreining áfrýjandans Blikabergs ehf. og stefnda og fór svo að sá síðarnefndi höfðaði mál þetta 4. og 5. janúar 2016. Fyrir héraðsdómi krafðist stefndi þess annars vegar að áfrýjandanum Blikabergi ehf. yrði gert að greiða sér 30.500.000 krónur samkvæmt kaupsamningi 5. nóvember 2015 um skipið Björgu Hallvarðsdóttur „þannig að kaupverðið verði greitt í peningum kr. 19.500.000,- og eftirstöðvar kr. 11.000.000,- að jafnvirði með því að afhenda M/B Ásdís“. Krafðist stefndi einnig dráttarvaxta „af stefnufjárhæð“. Hins vegar krafðist hann „viðurkenningar á bótaskyldu“ áfrýjandans Vilhjálms „í málinu.“ Þessar kröfur voru með lítillega breyttu orðalagi teknar til greina í hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt gögnum, sem stefndi lagði fram samhliða greinargerð sinni fyrir Hæstarétti, seldi áfrýjandinn Blikaberg ehf. nafngreindum manni skipið Ásdísi 9. febrúar 2016 fyrir 11.500.000 krónur og var kaupsamningi um skipið og afsali þinglýst 25. apríl sama ár. Af þessu tilefni var tekið fram í greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti að hann teldi ljóst að áfrýjandanum Blikabergi ehf. væri „ekki unnt að efna skyldu sína in natura að afhenda m/b Ásdísi samkvæmt samningi þess efnis, komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu og héraðsdómur.“ Við munnlegan flutning málsins hér fyrir dómi breytti stefndi með tilliti til þessa kröfugerð sinni í það horf, sem greinir í upphafi þessa dóms, og lýsti áfrýjandinn Blikaberg ehf. því yfir að hann gerði engar athugasemdir af því tilefni.

II

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fer stjórn slíks félags með málefni þess. Komi stjórnin fram út á við fyrir hönd félags og riti firma þess, en hún megi veita stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til að rita firmað sé ekki annað ákveðið í samþykktum félagsins, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 49. gr. sömu laga, og geti hún ein veitt prókúruumboð fyrir það, sbr. 4. mgr. 44. gr. Í 1. mgr. 41. gr. laganna er mælt svo fyrir að stjórn einkahlutafélags geti ráðið framkvæmdastjóra, en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skal hann þá annast daglegan rekstur eftir stefnu og fyrirmælum stjórnar. Er tekið fram í síðastnefndu ákvæði að daglegur rekstur taki ekki til ráðstafana, sem eru óvenjulegar eða mikils háttar, en þær geti framkvæmdastjóri því aðeins gert að stjórn félags veiti honum sérstaka heimild.

Í gögnum úr hlutafélagaskrá varðandi áfrýjandann Blikaberg ehf. kemur fram að félagið hafi verið stofnað og skrásett 13. maí 2002 og felist starfsemi þess í „útgerð smábáta“. Sé hlutafé í félaginu að fjárhæð 2.904.307 krónur. Á hluthafafundi 11. janúar 2011 hafi áðurnefndur sonur Sigurðar Aðalsteinssonar verið einn kjörinn í stjórn félagsins og hafi hann gegnt þeirri stöðu síðan, en Sigurður sé varamaður í stjórninni. Þá sé Sigurður framkvæmdastjóri félagsins og fari með prókúruumboð fyrir það. Ekki er tekið fram í gögnum þessum hver riti firma félagsins, en í samþykktum þess, sem dagsettar eru 11. janúar 2011 og lagðar hafa verið fyrir Hæstarétt, er ekki að finna sérstakt ákvæði um það efni.

Eins og áður greinir ritaði Sigurður einn undir svonefndan kaupsamning og afsal 5. nóvember 2015 fyrir hönd áfrýjandans Blikabergs ehf. sem kaupanda að skipinu Björgu Hallvarðsdóttur. Engin gögn hafa verið lögð fram um að stjórnarmaðurinn í félaginu hafi falið Sigurði að gera þessa ráðstöfun eða veitt honum fyrir fram eða eftir á umboð til hennar. Með því að Sigurður átti hvorki sæti í stjórn félagsins né hafði sérstaka heimild til að rita firma þess var hann ekki bær eftir fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 138/1994 til að gera þessi kaup í nafni þess, enda féll sú ráðstöfun heldur ekki innan marka daglegs reksturs félagsins í skilningi 2. mgr. 44. gr. laganna, sem Sigurður hafði á hendi sem framkvæmdastjóri þess.

Stjórn áfrýjandans Blikabergs ehf. hafði sem fyrr segir veitt Sigurði prókúruumboð fyrir félagið. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð getur prókúruhafi í skjóli slíks umboðs annast allt það, sem snertir rekstur atvinnu umbjóðanda síns. Í áðurnefndum samþykktum fyrir áfrýjandann Blikaberg ehf. frá 11. janúar 2011 segir að tilgangur félagsins sé „smábátaútgerð og tengdur rekstur, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.“ Að því virtu geta kaup á skipi ekki fallið undir rekstur atvinnu félagsins í skilningi síðastnefnds lagaákvæðis og hafði Sigurður því heldur ekki heimild til umræddrar ráðstöfunar í skjóli prókúruumboðs síns.

Samkvæmt öllu framansögðu gat Sigurður ekki skuldbundið áfrýjandann Blikaberg ehf. með því að undirrita kaupsamninginn 5. nóvember 2015 í nafni félagsins. Þegar af þeirri ástæðu verður sá áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

III

Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er sérstaklega mælt fyrir um að sá, sem hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, geti leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum án tillits til þess hvort honum væri þess í stað unnt að leita dóms, sem fullnægja mætti með aðför. Í dómaframkvæmd hefur verið byggt á því að ef neyta eigi þessarar heimildar til að leita dóms einungis um viðurkenningu á skaðabótaskyldu verði meðal annars að tiltaka nákvæmlega hver valdið hafi ætluðu tjóni, hvernig það hafi verið gert og hvernig fullnægt sé skilyrðum um orsakasamband milli tjóns og athafna eða aðgerðaleysis tjónvalds, en að auki verði að leiða nægar líkur að því að tjón hafi í raun orðið þótt ekki sé slegið föstu hvert umfang þess sé, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005.

Í máli þessu hefur stefndi leitast við að nýta sér framangreinda heimild með því að krefjast „viðurkenningar á bótaskyldu“ áfrýjandans Vilhjálms „í málinu“, svo sem tekið var til orða í héraðsdómsstefnu. Um þessa dómkröfu verður að gæta að því að stefndi hefur í engu rökstutt hvernig hann geti haft lögvarða hagsmuni af því að afla dóms af þessum toga samhliða því að krefjast þess að áfrýjandinn Blikaberg ehf. yrði dæmdur til að efna kaupsamning 5. nóvember 2015 eftir aðalefni hans, en krafa á hendur áfrýjandanum Vilhjálmi var ekki gerð til vara. Þá er ekki tiltekið í kröfugerð stefnda hvaða atvik hafi valdið ætluðu tjóni. Þótt stefndi hafi í málatilbúnaði sínum rakið margvíslegar ávirðingar í garð áfrýjandans Vilhjálms um mistök eða vanrækslu við framkvæmd starfa hans sem skipasali í viðskiptunum, sem stefndi hugðist eiga við áfrýjandann Blikaberg ehf., er hvergi að finna viðhlítandi reifun á því hvernig þau atriði geti hvert og eitt hafa raskað réttindum stefnda, hvað þá valdið honum tjóni. Þegar af þessum ástæðum er málatilbúnaður stefnda með þeim hætti að vísa verður málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum að því er varðar dómkröfu hans á hendur áfrýjandanum Vilhjálmi.

Eftir úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi handa hvorum þeirra fyrir sig eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Dómkröfu stefnda, Hafsæls ehf., á hendur áfrýjanda Vilhjálmi Ólafssyni er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi Blikaberg ehf. er sýkn af kröfu stefnda í máli þessu.

Stefndi greiði hvorum áfrýjanda fyrir sig samtals 1.250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2016.

Mál þetta, sem þingfest var 13. janúar 2016 og dómtekið 28. nóvember 2016, var höfðað með stefnu, birtri 4. janúar 2016, á hendur Blikabergi ehf., kt. [...], Hvassabergi 2, 221 Hafnarfirði, og Vilhjálmi Ólafssyni, kt. [...], Norðurtúni 4, Álftanesi.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Blikaberg ehf. verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 30.500.000 krónur, þannig að greitt verði með peningum 19.500.000 krónur og eftirstöðvar 11.000.000 króna að jafnvirði með því að afhenda M/B Ásdísi HU með skipaskrárnúmerið 7160. Þá er krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæð samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda Vilhjálms Ólafssonar.

Einnig er krafist málskostnaðar.

                Stefndi Blikaberg ehf. krefst þess aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda en til vara að staðfest verði með dómi riftun á kaupsamningi/afsali stefnda Blikabergs ehf., dagsettum 5. nóvember 2015, um kaup stefnda Blikabergs ehf. á m/b Björgu Hallvarðsdóttur, skipaskrárnúmer 2789, af stefnanda Hafsæli ehf. Þá krefst stefndi málskostnaðar í aðal- og varakröfu.

Til þrautavara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega að mati réttarins og að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.  

Stefndi Vilhjálmur Ólafsson krefst aðallega þess að hann verið sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að hann verði sýknaður að svo stöddu. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að hvor aðili beri sinn kostnað.

Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður til að meta ástand vélarinnar. Var matsgerð lögð fram í málinu 6. september 2016. Aðalmeðferð fór fram þann 28. nóvember sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins og framburði aðila fór stefnandi þess á leit við Vilhjálm Ólafsson, löggiltan fasteigna- og skipasala, og fyrirtækið Aflmark ehf., að selja m/s Björgu Hallvarðsdóttur, AK-15, skráningarnúmer 2789. Var báturinn skráður í sölukerfi skipasölunnar 1. júlí 2015 og upplýsingar um hann birtar á vefnum fasteignir@visir.is. Segir í upplýsingum um vél bátsins að hún sé af gerðinni Yanmar, árgerð 2000 og sé sögð vera 420 hö. Þungbyggðari XL-týpan með skiptanlegum slífum. Vélin sé keyrð um það bil 6800 tíma og upptekin árið 2010. „Rifin í frumeindir og skilað eins og nýrri. Keyrð eftir upptekt 3600 tíma“. Þá segir að báturinn sé 9,31 brl., mesta lengd sé skráð 9,99 m og breidd 3,02 m. Þetta sé mjög vel útbúinn bátur og vel umgenginn. Báturinn sé útbúinn til makrílveiða og í bátnum séu öll helstu siglingatæki. Verð bátsins var sagt fara eftir því hvernig báturinn yrði afhentur, 28-30.000.000 króna.

                Þann 3. nóvember 2015 gerði Hafrún II ehf., kt. [...], tilboð í bátinn hjá Aflmarki ehf., en Sigurður Aðalsteinsson situr í stjórn þess félags. Var tilboðsverðið 30.500.000 krónur og skyldi greiðast með 19.500.000 krónum við undirskrift og með afhendingu Ásdísar HU 24, skipaskrárnr. 7160, að andvirði 11.0000.000 króna. Var seljandi Heimaskagi ehf., kt. [...], Akranesi, en í stjórn félagsins sat m.a. Gísli H. Hallbjörnsson. Undirritaði Sigurður Aðalsteinsson kauptilboðið fyrir hönd tilboðsgjafa Hafrúnar II ehf. og Gísli Hallbjörnsson fyrir hönd tilboðshafa og var tilboðið vottað af Vilhjálmi Ólafssyni. Tekið er fram í tilboðinu að bátnum skuli fylgja búnaður til grásleppuveiða utan niðurleggjara. Engar færarúllur fylgi og leyfi til grásleppuveiða fylgi. Með búnaði til grásleppuveiða sé átt við netaspil og afdragara. Enginn ofandekksbúnaður annar en sónar til línuveiða eða makrílveiða fylgi. Þá taki kauptilboðið einungis til vélbátsins Bjargar Hallvarðs en ekki til aflaheimilda eða áunninnar veiðireynslu. Eru þau réttindi nánar tilgreind í tilboðinu. Átti að afhenda bátinn við undirritun kaupsamnings og eigi síðar en 10. nóvember 2015. Átti afhending að vera í Akraneshöfn eða eftir nánara samkomulagi. Bátinn átti að afhenda eins og hann var við gerð tilboðsins með fullgild haffæri. Þá átti seljandi að taka Ásdísi HU-24, skipaskrárnúmer 7160, upp í kaupverðið. Var tilboðið samþykkt af seljanda og vottað af stefnda Vilhjálmi. Kom fram í tilboðinu að það væri gert með fyrirvara um samþykki stjórnar Hafrúnar og gilti tilboðið til kl. 15 þann 4. nóvember 2015. Í 4. gr. tilboðsins segir að bindandi kaupsamningur sé kominn á þegar skriflegt tilboð hafi verið samþykkt af móttakanda með undirskrift, enda felist í því gagnkvæm skuldbinding, annars vegar um greiðslu kaupverðs og hins vegar um afhendingu. Í 17. gr. samningsins segir að við tilboðsgerð og samþykki tilboðs hafi aðilar kynnt sér gaumgæfilega þinglýsingarvottorð, heildarlista skoðana og úrprentun frá skip.is. 

                Þann 5. nóvember 2015 undirrituðu aðilar kaupsamning og afsal vegna m/b Bjargar Hallvarðsdóttur. Var Blikaberg ehf.  nú skráður sem kaupandi og undirritaði Sigurður Aðalsteinsson kaupsamninginn fyrir hönd kaupanda og Guðmundur Skúlason og Gísli Hallbjörnsson fyrir hönd seljanda Hafsæls ehf. Var texti og lýsing á hinu selda nánast óbreytt frá kauptilboðinu frá 3. nóvember í kaupsamningnum og afsalinu utan að enginn fyrirvari var gerður um samþykki stjórnar. Segir í 2. gr. samningsins að um kaupin gildi lög nr. 40/2002 um fasteignakaup að því leyti sem ekki sé samið um frávik í einstökum atriðum. Tekið er fram í lið 17 í kaupsamningi að við kaupsamningsgerð hafi aðilar kynnt sér þinglýsingarvottorð, heildarlista skoðana, söluyfirlit og annað. Þá segir að kaupandi hafi kynnt sér ástand bátsins og sætti sig við hann að öllu leyti.

                Kaupsamningur og afsal á milli Gjálfurs ehf., kt. [...], Ólafsbraut 21, Ólafsvík, og Hafsæls ehf. var undirritaður 5. nóvember 2015 og var kaupverðið 11.000.000 króna. Undirritaði Sigurður Aðalsteinsson kaupsamninginn fyrir hönd Gjálfurs ehf. Átti afhending að fara fram við undirritun kaupsamnings og vera í Sandgerðishöfn. Segir að kaupandi hafi kynnt sér ástand bátsins og sætti sig við hann að öllu leyti.

                Hluti kaupverðsins, 19.500.000 krónur, voru greiddar til skipasalans samdægurs og skipasalanum falið að greiða upp áhvílandi lán á m/b Björgu Hallvarðsdóttur.

                Að kaupsamningsgerð lokinni fór fasteignasalinn ásamt stjórnarmönnum seljanda m/b Bjargar í hádegisverð til að fagna sölunni. Að morgni þann 6. nóvember 2015 sigldi kaupandi m/b Björgu frá Akranesi til Sandgerðis.

                Þann 17. nóvember 2015 sendi lögmaður stefnanda Aflmarki bréf þar sem kvartað var undan skjalagerð auk þess sem krafist var eftirstöðva kaupverðs að frádregnum áhvílandi skuldum að fjárhæð 12.773.814 krónur á m/b Björgu Hallvarðsdóttur auk afhendingar á m/b Ásdísi.

                Með bréfi 23. nóvember frá Vilhjálmi Ólafssyni til lögmanns stefnanda kvað Vilhjálmur m.a. að „drög að kaupsamningum“ hafi legið á borði sínu fyrst og fremst vegna þess að undirskrift hafi vantað frá stjórnarformanni Blikabergs ehf., og sé hann ófáanlegur til að undirrita pappírana þar sem galli á vél m/b Bjargar hafi komið í ljós. Kvað hann í bréfinu kaupendur hafa gengið frá kaupunum og óskað eftir því að eigendur m/b Bjargar myndu nálgast lyklana að bátnum hjá sér. Þá kom fram í bréfinu að m/b Björg hafi verið auglýst á tveimur öðrum bátasölum og sögð ganga 25 til 27 mílur en í ljós hafi komið að hún gengi innan við 15 mílur. Hafi eigendur bátsins verið viðstaddir þær tilraunir. Þann sama dag sendi lögmaður stefnanda Vilhjálmi Ólafssyni tölvupóst og kvað Vilhjálm bera ábyrgð á því sem fasteignasali að réttar undirritanir væru á skjölum vegna kaupanna á bátunum og ítrekar að efndir fari fram.

                Þann 24. nóvember 2015 sendi Vilhjálmur lögmanni stefnanda bréf og ítrekaði að seljandi bátsins sækti lyklana á skrifstofu sína auk þess sem hann sagði bátinn vera í Sandgerðishöfn og á ábyrgð seljanda. Þá kvaðst hann ekki hafa kaupgreiðslu í sínum vörslum og gæti því ekki afhent hana. Sama dag svaraði lögmaður stefnanda Vilhjálmi og lýsti því yfir að báturinn væri í vörslum kaupanda og á hans ábyrgð.

Fyrir liggja upplýsingar frá 9. nóvember 2015 um m/b Björgu Hallvarðsdóttur frá Bátum og búnaði þar sem lýsing kemur fram á bátnum og segir að ganghraði sé 25-27 mílur. Tölvupóstur frá Gunnari Þorvaldssyni í Bátum og búnaði til Gísla, stjórnarmanns stefnanda, ódagsettur, liggur fyrir í málinu. Segist Gunnar ekki finna neinn póst frá Gísla eða Guðmundi um lýsingu á Björgu Hallvarðs, ekki undirritað söluyfirlit og ekki vita hvaðan uppgefinn hraði sé kominn. Sennilega sé það innsláttarvilla.

                 Með bréfi dagsettu 13. nóvember 2015 lýsti stefndi Blikaberg ehf. því yfir að kaupum á m/b Björgu Hallvarðsdóttur AK með skipaskrárnúmeri 2789 væri rift. Var ástæða riftunar sögð vera að báturinn stæðist ekki þær væntingar sem kaupandi hafi gert sér. Báturinn gangi ekki eins hratt og sambærilegir bátar auk þess sem ástand aflvélar bátsins hafi ekki verið eins og best verði á kosið. Taldi stefndi upp í riftunarbréfinu að túrbína hafi ekki reynst í lagi og gert hafi verið við hana. Efasemdir væru af hálfu kaupenda um að sú viðgerð hafi verið varanleg. Olíuverk væri óþétt og stöðugt komi loft inn á kerfið sem bendi til að eitthvað sé að. Ekki sé hægt að setja smurolíu á vélina upp að þeim mörkum sem kvarði segi til um. Þá hafi einhver óhljóð heyrst í vélinni sem ekki hafi verið útskýrt fyrir kaupendum. Þá virðist báturinn vera grunsamlega þungur á sjónum, risti dýpra en eðlilegt geti talist.

                Þann 21. desember 2015 sendi lögmaður stefnanda báðum stefndu skeyti þar sem áréttað var að stefndu ásamt Aflmarki ehf. væru in solidum ábyrgir fyrir vörslu m/b Bjargar Hallvarðsdóttur, skráninganúmer 2789.

                Í upplýsingum um Heimaskaga hf. í Hlutafélagaskrá kemur fram að í stjórn félagsins séu fjórir aðilar og þrír stjórnarmenn riti firmað saman. Í sömu upplýsingum um Hafrúnu II IS-365 ehf. skipa tveir aðilar stjórn og firmað riti stjórnarmaður. Í sömu upplýsingum um Hafsæl ehf. segir að tveir aðilar skipi stjórn félagsins og meirihluti stjórnar riti firmað. Í sömu upplýsingum um Blikaberg ehf. segir að tveir aðilar skipi stjórn félagsins og meirihluti stjórnar riti firmað. Í sömu upplýsingum um Gjálfur ehf. segir að tveir aðilar skipi stjórn félagsins og firmað riti stjórnamaður.

                Með bréfi þann 22. desember 2015 sendi lögmaður stefndu lögmanni stefnanda bréf og áréttaði að aldrei hafi orðið af kaupum Blikabergs ehf. á m/b Björgu Hallvarðsdóttur og þar af leiðandi hafi báturinn aldrei verið afhentur Blikabergi ehf. Þá var áréttað að báturinn væri í vörslum og á ábyrgð skráðs eiganda hans.

                Upplýsingar um sjóslys á  m/b Hafbjörgu ST 77, skráninganúmer 2437, þann 16. maí 2004 liggur fyrir auk upplýsinga um að vél sem var í Hafbjörgu þá hafi verið tekin upp og seld af Seiglu ehf. til eiganda m/b Bjargar Hallvarðsdóttur og sett í þann bát.

Skýrslur fyrir dómi.

Guðmundur Skúlason, framkvæmdastjóri stefnanda, kom fyrir dóminn og kvað Vilhjálm hafa í upphafi haft samband við Gísla og sagt Sigurð Aðalsteinsson hafa áhuga á m/b Björgu Hallvarðsdóttur og að setja m/b Ásdísi upp í kaupverðið. Kvað hann Sigurð hafa komið í tvígang upp á Akranes til að skoða bátinn og í seinna skiptið hafi hann sagt við Gísla að hann þyrfti ekki að skoða þennan bát meira, hann liti það vel út. Eftir kaupsamningsgerðina hafi Sigurður komið upp á Akranes í þeim tilgangi að sýna syni sínum bátinn og hafi það verið kaupsamningsdaginn. Kvað Guðmundur aðila hafa hist hjá fasteignasalanum fyrir klukkan 10.00 um morgun í þeim tilgangi að skrifa undir kaupsamning og afsal en kauptilboð hafi þá áður gengið á milli aðila sem hafi verið orðnir sammála um viðskiptin. Allt hafi gengið eðlilega fyrir sig og allir undirritað þau gögn sem lágu fyrir. Ekkert söluyfirlit hafi legið fyrir. Kvaðst Guðmundur þá hafa tekið fram við Sigurð að hann ætti frumútgáfu af Maxi-forriti á lykli en Sigurður hafi sagst ekki þurfa á því að halda, hann ætti nóg af þessu. Kvað Guðmundur aldrei hafa verið minnst á neitt umboð á þessum tíma. Sigurður hafi á fundinum farið í tölvu hjá Vilhjálmi og millifært 19.500.000 krónur inn á reikning fasteignasalans en það hafi honum allavega verið sagt á staðnum. Þá hafi stefnandi átt að fá m/b Ásdísi uppí kaupverðið og átt að fá hana afhenta þegar aðili á vegum Sigurðar í Sandgerði væri búinn að taka þann bát aðeins í gegn. Hafi aðilar verið sammála um það. Eftir hádegi þennan sama dag hafi stefnandi farið til Sandgerðis til að skoða bátinn og ræða við aðilann sem ætlaði að gera við bátinn. Aðspurður kvað Guðmundur að hann, Gísli, Vilhjálmur og maður á vegum Vilhjálms hafi allir farið út að borða í hádeginu í tilefni sölunnar. Kvað Guðmundur að Sigurður hafi viljað sækja bátinn strax þann 5. nóvember sl. en sá sem ætlaði að sigla honum fyrir Sigurð hafi ekki viljað það þann dag vegna veðurs en myndi sigla bátnum fyrir Sigurð daginn eftir. Kvað Guðmundur engan ágreining hafa verið milli aðila við undirritun kaupsamningsins enda hafi þeir farið út að borða í boði Sigurðar í hádeginu. Kvað Guðmundur Sigurð og tvo menn hafa komið snemma morguns 6. nóvember til að sækja bátinn upp á Akranes. Þeim hafi legið mikið á og spurt Guðmund hversu mikil olía væri á bátnum. Hafi Guðmundur sýnt skipstjóranum siglingartækin en Gísli hafi sýnt hásetanum aftur í vél. Síðan hafi aðilar á vegum Sigurðar siglt bátnum burt. Eftir það hafi Guðmundur afhent Sigurði tvö fiskikör sem áttu að vera í bátnum og hann sett þau á bílpallinn hjá sér. Síðan óskuðu þeir hvor öðrum til hamingju með söluna og kaupin.

                Aðspurður kvað Guðmundur Vilhjálm hafa haft samband við Gísla þar sem Sigurður hafi sagst vera óánægður með gang bátsins og búist við því að hann gengi hraðar. Kvað Guðmundur fullyrðingar stefnda um að báturinn hafi gengið 11-12 mílur á leið bátsins frá Akranesi til Sandgerðis ekki standast en Guðmundur kvaðst hafa séð í gögnum frá Landhelgisgæslunni að báturinn hafi gengið á þessari leið 13, 14 og 15 mílur og á einum stað farið upp í 18 mílur. Kvað Guðmundur stefnanda hafa farið illa fjárhagslega vegna vanefnda stefnda um að afhenda m/b Ásdísi, þeir hafi misst af grásleppuvertíðinni, skakvertíðinni og makrílvertíðinni. Sé tjón þeirra allavega um tuttugu milljónir. Þá hafi stefnandi greitt hafnargjöld og afborganir af áhvílandi lánum á m/b Björgu með fyrirvara til að forða bátnum frá uppboði. Guðmundur kvað, aðspurður um niðurstöðu matsmanns í matsgerðinni, að hvítur eimur væri eðlilegur þegar 15 gráðu kaldur sjór fari út af vélinni og lendi saman við 450 gráðu afgas, þá sé óhjákvæmilegt að það verði til eimur. Þá kvað hann þann mun sem komi fram í matsgerðinni á hraða undan eða á móti vindi vera eðlilegan. Guðmundur kvað stefnanda hafa sett undir m/b Björgu kjölrör þar sem þeir hafi verið á grásleppuveiðum á grunnsævi, bógskrúfa hafi verið sett undir bátinn, „astik“ og fellikjölur, sem sé sett fremst í bátinn. Allt þetta þyngi bátinn og auki viðnámið. Aðspurður um ljósmyndir af bátnum frá fasteignasalanum kvað hann þær ljósmyndir hafa verið teknar á árinu 2010 og megi sjá þar stjórntæki bátsins, sem stefnendur hafi skipt út, á árinu 2011 því að þeir hafi sett rafmagnsstjórntæki í bátinn sem séu margfalt dýrari en þau tæki sem þeir skiptu út. Þá komi ekki fram í lýsingu Vilhjálms um bátinn fiskileitartæki „astik“ en Vilhjálmur hafi sagst hafa farið upp á Akranes, skoðað bátinn og tekið myndir af honum en engin gögn hafi verið lögð fram um það. Aðspurður um sambærilega báta kvað Guðmundur Hafbjörgina ekki vera sambærilega eins og haldið væri fram af stefndu, Hafbjörg væri miklu léttari en Björgin auk þess sem í hana hafi m.a. vantað fellikjölinn og „astikina“. Aðspurður kvað Guðmundur ljósmynd af sjónvarpi í bátnum vera frá árinu 2010 en það hafi ekki verið í bátnum þegar Sigurður hafi skoðað bátinn. Hafi hann ekki gert neinar athugasemdir við það. Guðmundur kvaðst sjálfur aldrei hafa sýnt Vilhjálmi bátinn.

                Guðmundur kvað, aðspurður um tilurð bátsins, Seiglu hafa smíðað bátinn á árinu 2006 en þá hafi skrokkurinn verið settur í geymslu. Seigla hafi upplýst stefnanda um að fyrirtækið ætti bátsvél úr Hafbjörgu ST 77 og boðið þeim vélina til kaups. Stefnandi hafi fengið vélaverkstæði til að taka vélina upp og hafi varahlutir verið keyptir í vélina eins og verkstæðið hafi talið þurfa. Guðmundi hafi verið vel kunnugt um slys það sem Hafbjörgin varð fyrir á árinu 2004 og að vélin hefði verið í þeim bát þá. Kvað Guðmundur stefndu hafa vitað um að vélin hafi verið keypt hjá Seiglu og hafi Sigurður haft samband við Seiglu eftir þetta. Stefnandi hafi upplýst að vélin hafi verið upptekin á ákveðnu verkstæði og hún kæmi úr öðrum bát. Guðmundur kvaðst telja að stefndu hafi fengið allar upplýsingar sem til væru um bátinn og vélina. Kvaðst Guðmundur ekki hafa upplýst Vilhjálm um ganghraða bátsins en Sigurður hafi spurt sig um ganghraða bátsins sérstaklega á fundum og í síma en hann hafi sagst keyra bátinn 16-17 mílur á skakverktíðinni. Sigurður hafi spurt sig hvort hann kæmi bátnum upp í 20 mílur og hafi Guðmundur svaraði honum svo að hann keyrði bátinn ekki lengi þannig. Kvað Guðmundur bátinn taka 1000 lítra af olíu en sjaldnast væru settir fleiri en 500 lítrar á bátinn til að þyngja hann ekki að óþörfu. Kvað hann ganghraða bátsins alfarið fara eftir því hversu þungur báturinn væri. Aðspurður kvaðst Guðmundur ekki hafa haft vitneskju um að Sigurður hefði ekki einn heimild til að skuldbinda Blikaberg ehf. en hann hafi verið í þeirri trú að hann væri að kaupa bátinn.

                Gísli Hallbergsson, stjórnarformaður stefnanda, kom fyrir dóminn og kvað þá Vilhjálm hafa verið í sambandi út af áhuga Sigurðar á Björginni og að láta Ásdísi upp í kaupverðið. Aðspurður um aðra kaupendur og seljendur á kauptilboðinu frá 3. nóvember 2015 kvað Gísli það hafa verið rugling hjá skipasalanum en það hafi verið leiðrétt. Kvað Gísli aðila hafa verið mætta hjá skipasalanum rétt fyrir klukkan 10.00 þann 5. nóvember 2015. Þeir hafi undirritað samningana og síðan farið út að borða í hádeginu í boði Vilhjálms til að fagna sölunni. Eftir það hafi þeir farið til Sandgerðis til að ræða við þann aðila sem ætlaði að dytta að Ásdísi og hafi það verið gert í samráði við Sigurð. Gísli hafi verið kominn upp á Akranes um hálffimmleytið þennan sama dag. Þá hafi Sigurður hringt í sig og viljað koma upp á Akranes til að sýna syni sínum, Óla, bátinn. Gísli kvað þá hafa verið komna í bátinn um fimmleytið. Gísli kvaðst ekki hafa réttindi til að fara á bátnum en Sigurður hafi sagst hafa réttindi til að sigla bátnum en hann kynni ekki á tækin. Gísli hafi aldrei neitað Sigurði um að sigla bátnum, Gísli hafi bara ekki sjálfur getað siglt bátnum. Gísli kvað Vilhjálm skipasala aldrei hafa komið upp á Akranes til að skoða bátinn svo hann viti til né hafi hann fengið hjá sér lykla að bátnum. Aðspurður kvað Gísli lýsingu Vilhjálms á m/b Björgu ekki vera rétta. Ekki kæmi fram í lýsingunni að skipt hafi verið um stjórntæki  sem sæjust á myndunum og skipt hafði verið út fyrir rafmagnsstjórntæki sem hafi verið um tveimur milljónum dýrari auk þess að ekki væri getið um „astik“ sem kostaði eitthvað svipað. Þá væri sjónvarpið ekki í bátnum. Gísli kvað söluumboð aldrei hafa verið gefið út til fasteignasalans né hafi verið skrifað undir söluyfirlit. Gísli kvaðst hafa fengið upplýsingar um að peningagreiðslan hafi verið greidd strax og síðan áttu þeir að fá m/b Ásdísi afhenta eftir nokkra daga. Gísli kvað Sigurð ásamt tveimur öðrum mönnum hafa komið til að skoða m/b Björgu áður en kauptilboð var gert í bátinn. Sigurður ásamt félögum sínum hafi skoðað bátinn og tæki og búnað vel og lýst yfir ánægju sinni. Sigurður hafi farið ofan í lest og sagt þegar hann kom upp úr lestinni: „Það þarf bara ekkert að skoða þennan bát.“ Síðan hafi þeir farið í land. Gísli kvaðst hafa kallað til þeirra og spurt hvort þeir vildu ekki heyra í vélinni og hafi Sigurður þá komið til baka og Gísli sett bátinn í gang. Sigurður hafi síðan kvatt. Gísli kvað aðspurður að eftir að báturinn hafi verið kominn í hendur Sigurðar hafi Sigurður sagt við sig að báturinn gengi ekki neitt. Gísli kvaðst hafa þá farið inn á „AIS kerfið“ í tölvunni sinni og séð þá að báturinn hafi verið á 14,6 mílna ferð. Sigurður hafi þá sagt að þeir gætu ekkert keyrt því að afgasið væri svo hátt. Gísli hafi þá bent Sigurði á að munur væri á mælum frammi í og aftur í en mælirinn aftur í væri réttur. Gísli kvað þá Guðmund hafa farið til Sandgerðis til að athuga og skoða það sem þyrfti að laga í Ásdísinni. Svo mikill órói hafi verið í Sigurði að allt hafi farið í vitleysu. Gísli kvað mikinn mun vera á Hafbjörgu og Björgu Hallvarðardóttur. Til dæmis væri enginn fellikjölur á Hafbjörgu, stýrishúsið á Hafbjörgu  sé allt öðruvísi og léttara, utan að það hafi ekki verið sömu hlutir í Hafbjörgu og Björginni, sem orsaki að Björgin sé miklu þyngri en Hafbjörgin hafi verið, sem bátsvélin hafi verið í áður.

                Aðspurður um matsgerð dómskvadds matsmanns kvaðst Gísli hafa miklar athugasemdir við matsgerðina. Matsmaðurinn hafi ekki farið eftir því sem Gísli hafi talið rétt að gera þegar farið var í prufukeyrslu með bátinn. Hann hafi t.d. ekki þjöppumælt vélina sem eðlilegt hefði verið. Þá hafi matsmaðurinn ekki skoðað öndunina frá vélinni þrátt fyrir ábendingu um það. Þá hafi verið mikill þari undir bátnum áður en matsmaður fór í prufusiglingu og hafi stefnandi látið hreinsa allan gróður undan bátnum áður en farið var í siglinguna því að stefndu hafi ekki viljað leggja í þann kostnað en báturinn hafi staðið óhreyfður frá því í fyrrasumar.

                Gísli kvað aðspurður að sátta hafi verið leitað milli aðila. Hafi Gísli lagt að skipasalanum að halda sáttafund, sem hafi verið gert. Þar hafi komið fram tilboð frá stefnanda um að lækka söluverðið um 1,5 milljónir auk þess að stefndu fengju aðra skrúfu undir bátinn. Sigurður hafi hafnað því. Eftir fundinn hafi Guðmundur hringt í sig og sagt sér frá símtali frá Vilhjálmi þar sem lagt var til að ef stefnandi skipti um vél í bátnum þá væri Sigurður til í að hækka verð bátsins um þrjár milljónir. Það hafi stefnandi ekki talið ásættanlegt. Um sex til sjö milljónir kosti að skipta um vél og hafi stefnandi talið það tilboð óásættanlegt.

                Aðspurður um vél bátsins kvað Gísli alla hafa vitað að vélin hafi farið í sjóinn. Þegar vélin hafi verið tekin í land hafi hún verið skoluð út. Vélin hafi verið tekin í sundur og fullyrt við Gísla að ekkert væri að henni. Á þeim forsendum hafi stefnandi keypt vélina. Vélsmiðjan T-H2 í Hafnarfirði hafi tekið vélina upp í framhaldi og skipt því út sem talin var þörf á en vélin hafi nánast verið leyst upp í frumeindir sínar. Skipt hafi verið um legur og ýmsa fylgihluti. Ekki hafi verið talin þörf á að skipta um stimpla eða slífar þar sem þeir hlutir hafi verið í lagi. Ekkert samasemmerki sé á milli þess að vél fari í sjó og að vél verði ónýt við það. Öllu hafi verið skipt út sem þurfti að skipta út í vélinni en auðvitað gæti upptekin vél aldrei verið eins og ný vél. Aðspurður um það hvernig skipasalinn hafi fengið upplýsingar um bátinn sem komi fram á sölulýsingu taldi Gísli að hann hafi tekið það upp af öðrum sölusíðum. Báturinn hafi verið á söluskrá hjá öðrum skipasölum. Gísli kvaðst ekki muna eftir því að hafa rætt við Vilhjálm um lýsingu og fylgihluti bátsins en hann hafi fengið upplýsingar um vélina frá sér. Aðspurður kvað Gísli þá lýsingu sem fasteignasalinn hafi sett á sölulýsingu sína á vefmiðlum hafa verið nokkurra ára. Gísli kvað stefnanda ekki hafa fengið Ásdísina afhenta en þeir hafi talið að þeir væru orðnir eigendur að henni en sá starfsmaður sem ætlaði að gera bátinn kláran hafi verið með lykla að bátnum en þær viðgerðir hafi átt að vera á kostnað Sigurðar.

                Sigurður Aðalsteinsson, fyrirsvarsmaður stefnda Blikabergs ehf., kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að leita að hraðfiskibát fyrir Blikaberg ehf., og m.a. fundið bát stefnanda m/b Björgu Hallvarðsdóttur og hafi lýsing á bátnum verið á allt að fjórum skipasölum. Kvaðst Sigurður hafa töluverða reynslu af sjómennsku og kaupum og sölum á bátum. Hafi hann bara heyrt að þeir bátar sem hann hafi skoðað hafi verið fínir bátar en Vilhjálmur Ólafsson hafi bent sér á m/b Björgu. Gísli hafi sýnt sér bátinn en Guðmundur hafi fyrst komið þegar þeir sóttu bátinn. Kvaðst hann því ekki hafa getað prufukeyrt bátinn fyrir samningagerðina. Við samningagerðina hafi  Vilhjálmur verið tilbúinn með kaupsamning til undirritunar. Aðilar hafi undirritað skjölin en Vilhjálmur hafi þá spurt hver ritaði firmað Blikaberg ehf. Kvaðst Sigurður ekki geta skuldbundið félagið þar sem hann væri bara framkvæmdastjóri og hafi Vilhjálmur þá stöðvað samningagerðina. Þeir hafi í framhaldi farið að ræða aðra hluti, m.a. forrit sem væri í bátnum, en Sigurður hafi ætlað að taka þá umræðu síðar þar sem samningum væri ekki lokið og hann ætti eftir að prufukeyra bátinn. Úr varð að hann fékk að taka bátinn og sigla honum til Sandgerðis. Hann hafi spurt Gísla að því hversu hratt báturinn kæmist og hafi Gísli sagt honum að á grásleppuveiðum hafi báturinn gengið 22 mílur með öllum grásleppubúnaði. Hafi Sigurður kannast við það en venjulega gangi þessir bátar 25-30 mílur tómir. Hafi Sigurður verið sáttur við það. Þá hafi Sigurður komið aftur upp á Akranes með son sinn til að sýna honum bátinn. Hafi hann ekki ætlað að prufukeyra bátinn þá, það hafi ekki staðið til fyrr en deginum síðar eða einhverju síðar. Sigurður kvaðst ekki hafa ætlað að undirrita samningana fyrr en hann væri búinn að prufukeyra bátinn fyrir utan það að Gylfi Þór, sonur hans, yrði einnig að undirrita skjölin, hann hefði ekki getað skuldbundið félagið sjálfur. Þá kvaðst hann ekki hafa hugsað sér að fá samþykki Gylfa Þórs fyrr en hann væri fullviss um að hann myndi kaupa bátinn. Daginn eftir þegar hann sótti bátinn hafi þá strax komið í ljós að báturinn gekk ekki eins hratt og hann hafi vænst og hlutirnir væru ekki eins og þeir ættu að vera. Kvað hann Vilhjálm hafa strax rætt við Gísla um það og þeir ákveðið að gefa stefnanda kost á að laga það sem upp á vantaði. Gísli hafi sagt þeim að eitthvað væri að túrbínunni og hafi ætlað að laga það. Þegar hann hafi komið upp á Akranes með sína menn til að prófa bátinn betur þá hafi t.d. vantað sjónvarpið, sem hafi verið aukaatriði, það hafi vantað kör og hafi Sigurði verið boðið tvö kör sem hann hafi tekið með sér í bæinn en hann myndi það ekki. Verra væri að hann hafi verið að kaupa bát sem átti að vera með nýupptekinni vél, skilaðri eins og nýrri, keyrða einhverja 3000 klukkutíma. Þegar báturinn var settur í gang hafi þurft að fara niður í vélarúm til að dæla olíu upp á olíuverkið en það hafi hann frétt þegar báturinn var kominn til Sandgerðis. Í framhaldi hafi hann farið að kanna hvað væri með bátinn og frétt að vélin í bátnum væri úr bát sem hefði sokkið. Hann hefði aldrei keypt bátinn ef hann hefði vitað það áður. Kvaðst hann hafa prufað bátinn í Sandgerði með 700 lítrum af olíu, fimm mönnum og sjö körum og fjórum rúllum og hafi báturinn gengið 10, 12, 13 mílur eftir því hvort var undan eða á móti straumi. Síðan hafi matsmaður prufukeyrt bátinn og þá hafi glamrað eitthvað í vélinni og sér hafi ekkert litist á þetta. Í framhaldi hafi verið haldinn sáttafundur. Hafi Gísli og Guðmundur viðurkennt þá að vélin væri ekki betri en þetta og það eina sem væri hægt að gera væri að skipta um vél. Ný vél hefði kostað 6,3 milljónir. Hafi Sigurður boðist til að borga 4,5 til 5 milljónir í vélinni en ekkert gagntilboð hafi komið frá stefnanda. Kvaðst Sigurður hafa keypt þó nokkra báta en aldrei lent í þessu. Þeir hafi ekki sagt sér frá því að vélin hefði komið úr sokknum bát, að olíuverkið læki og að túrbínan væri biluð. Allt hafi verið gert til að leyna þessu. Kvaðst Sigurður ekki hafa treyst sér einu sinni til að spyrja Gylfa Þór hvort hann myndi samþykkja þessi kaup. Aðspurður kvaðst Sigurður þurfa að láta Gylfa undirrita alla samninga sem hann gerði en í einstaka tilvikum fengi hann umboð frá Gylfa. Sigurður kvaðst hafa tekið það strax fram á samningsfundinum að hann hefði ekki heimild til að undirrita firmað. Á þessum tíma hafi hann ekki haft samþykki Gylfa né umboð frá honum. Sigurður hafi ekki verið búinn að negla niður neinn sérstakan bát á þessum tíma. Aðspurður um það hvort ekki hafi mátt ætla að hann hafi haft umboð til að undirrita samningana þar sem hann mætti sjálfur á samningafundinn, kvað Sigurður flest kauptilboð og samninga, sérstaklega í bátakaupum, hafa verið gerð með fyrirvara um bankafyrirgreiðslur og réttbæra aðila til undirritunar. Kvað hann að þegar þeir hafi skrifað undir fyrsta kauptilboðið, þar sem rangir aðilar hafi verið tilgreindir sem kaupendur og seljendur, þá hafi þeir komist að því í samningagerðinni en þeir „væru bara menn“, þeir hafi komið á söluna og skrifað undir en þá áttað sig á því að um ranga aðila hafi verið að ræða. Þeim pappírum hafi bara átt að henda. Bátasalar komi oft með vitlausar upplýsingar um kaupanda eða seljanda og það sé ekkert athugavert við slíkt. Þetta gerist bara oft, skipasalar séu bara í þeirri trú að aðrir en endanlegir aðilar eigi að vera á samningum. Það sé alltaf að gerast. Aðspurður um kaupsamninginn um m/b Björgu og að engir fyrirvarar hafi verið í þeim samningi, kvaðst Sigurður eingöngu hafa átt eftir að fá samþykki kaupandans. Sigurður hafi ekki verið eigandi, hann sé bara framkvæmdastjóri félagsins og hafi enga heimild til að skuldbinda félagið. Aðspurður hvers vegna hann hafi þá undirritað kaupsamningana kvaðst hann hafa verið partur af þessum viðskiptum, einhverjir hafi þurft að byrja samningana. Þess vegna hafi hann skrifað á pappírana. Hann hafi t.d. ekki séð bátinn ganga og því hafi samningar ekki verið endanlegir. Aðspurður hvort stefnandi og skipasalinn hafi ekki mátt búast við því að hann hefði umboð til að skuldbinda félagið fyrst hann skrifaði sjálfur undir kaupsamningana, kvað Sigurður engan hafa mátt búast við því að hann væri með umboð, bátasalinn hefði aldrei spurt sig hvort hann væri með umboð. Bátasalinn hafi eingöngu spurt við samningsgerðina hvort hann hefði leyfi til að skrifa undir og hafi hann sagt svo ekki vera. Stefnandi hafi ekki gert neinar athugasemdir en Vilhjálmur hafi þá tekið pappírana og stungið þeim ofan í skúffu og ætlað að bíða eftir réttri undirritun. Aðspurður hvort hann hefði ekki átt að reynslukeyra bátinn áður en hann kom til samninga, kvaðst hann eflaust hafa getað gert það en það hafi ekki verið gert. Aðspurður um ganghraða bátsins kvaðst Sigurður hafa fengið upplýsingar um það símleiðis þegar báturinn var hálfnaður frá Akranesi til Sandgerðis. Kvað hann þá Gísla hafa setið við höfnina á Akranesi og fylgst með bátnum sigla af stað og þá verið að þrátta um kör sem hafi átt að fylgja bátnum. Gísli hafi látið hann hafa tvö kör sem hann hafi tekið í bílinn. Hann hafi síðan hringt í bátinn þegar hann var kominn langleiðina til Sandgerðis og fengið þá upplýsingar að báturinn gengi á þeim hraða sem haldið var fram, 14-18 mílur, en báturinn hafi verið galtómur. Afgasið hafi verið allt of hátt en þeir hafi komið bátnum örskamma stund í 18 mílur. Kvaðst Sigurður hafa hringt strax í bátasalann og gert athugasemdir. Bátasalinn hafi sagst ætla að hringja í Gísla og síðan hafi aðilar hringt í hvor annan með ýmsar skýringar. Þegar til Sandgerðis kom hafi Gísli sagst ætla að laga túrbínuna. Síðar á fundi hafi hann lýst því yfir fyrir hönd félagsins að hann hefði ekki lengur hug á því að halda þessum samningum áfram nema að fá nýja vél. Stefnandi hafi samþykkt það að vélin skilaði ekki meiru en þessu. Hafi Sigurður boðist til að taka þátt í meirihluta af þeim kostnaði sem ný vél myndi kosta. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki gert þann fyrirvara að báturinn gengi á þeim hraða sem hann gerði kröfu um, kvað hann bátinn hafa verið auglýstan á fjórum bátasölum og alls staðar sagt að báturinn gengi þetta og þetta hratt. Bent á að báturinn væri hlaðinn ýmsum búnaði sem drægi úr hraða hans, kvað hann það vera rétt en hann hafi verið að kaupa svokallaðan planandi bát, hraðfiskibát en ekki hálfplanandi bát sem gangi 12-18 mílur. Sigurður kvaðst hafa litið svo á að samningar hafi ekki verið kláraðir fyrr en hann hefði prufukeyrt bátinn og hann hafi bara skrifað undir sem framkvæmdastjóri. Í flestum tilvikum skrifi Gylfi sjálfur undir, skjölin séu send á milli landa. Það hafi ekki verið rætt í þessu máli hvort hann sendi skjölin út eða ekki.

                Aðspurður hvort hann hefði haft samband við Seiglu kvaðst hann hafa gert það um viku eftir að hann sótti bátinn. Aðilinn þar hafi ekki viljað segja mikið. Aðspurður hvort hann hafi kynnt sér í hverju það hefði falist að vélin í bátnum hafi verið tekin upp, kvaðst hann ekki hafa gert það. Bátasalinn hafi sagt sér m.a. að vélin væri nýupptekin og væri eins og ný. Hann hafi í framhaldi farið og skoðað bátinn sem hafi litið mjög vel út, hann hafi farið niður í vélarrúm og þar hafi allt litið mjög vel út. Aðspurður um það hvort það hafi verið vilji hans og ætlun  að kaupa og selja bátana kvað hann svo hafa verið fyrir hönd félagsins. Hans hlutverk hefði verið að finna góðan bát fyrir félagið og í framhaldi hafi hann ætlað að hafa samband við Gylfa til að fá samþykki hans en það hafi aldrei gengið svo langt. Aðspurður hvort hann hafi komið á samningafundinn í þeim tilgangi að skrifa undir og ganga frá kaupum og sölu kvað hann svo hafa verið utan að hann hafi ætlað að taka pappírana með sér til að láta Gylfa skrifa undir þá. Kvað hann skipasalann ekki hafa vitað um umboðsleysi sitt þegar hann mætti á fundinn, það hafi bara komið upp á fundinum. Aðspurður um kaupgreiðsluna 19,5 milljónir, kvaðst hann hafa lagt hana inná reikning fasteignasalans til að sýna fram á að hann væri greiðslufær og því lagt fram tryggingu fyrir kaupunum, það væri oft gert í svona kaupum. Hann hafi ekki verið krafinn um það og gert það upp á sitt sjálfdæmi.

                Aðspurður kvaðst Sigurður hafa heyrt að eitthvað hafi verið að túrbínu bátsins og hafi Gísli ætlað að láta gera við hana og Sigurður hafi þá komist að því að áður hafði verið gert við túrbínuna. Kvaðst hann ekki hafa vitað um það áður. Hann hafi bara verið látinn vita að um nýupptekna vél væri að ræða og hún eins og ný. Sigurður kvaðst aðspurður ekkert hafa vitað um skrúfu bátsins, hvort skipt hafi verið um hana eða ekki. Þá hafi eitthvert bank verið í vélinni þegar þeir fóru í prufukeyrslu með matsmanninum en Sigurður kvaðst ekkert geta sagt um þetta, hann hefði ekkert vit á vélum. Aðspurður hvort ekki væri hægt að mæla smurolíu á vélinni kvaðst hann ekki vita það. Gísli hafi gefið strákunum þá skýringu að báturinn væri búinn að standa svo lengi að það þyrfti að dæla olíunni upp þess vegna, en það hafi Sigurður verið fljótur að sjá að var rangt því að þeir hafi verið búnir að setja vélina í gang daginn áður og daginn þar áður.

                Vitnið Karl Ottó Karlsson kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Kvað vitnið eitthvað vera að bátavélinni en við aukinn snúningshraða vélarinnar hafi komið eimur eða reykur út úr pústkerfinu sem allavega sé óeðlilegt. Þá hafi afgashitinn farið óeðlilega mikið upp við aukinn snúningshraða í sléttum sjó. Þá hafi við mælingu á milli strokkanna verið óeðlilegur mismunur. Hafi þetta verið helstu niðurstöður við rannsókn vitnisins. Þá hafi verið sett minni skrúfa undir bátinn, sem valdi minna álagi á vélina. Aðspurt hvað væri aðallega að vélinni kvað vitnið að þjöppuþrýstingurinn væri ekki nógu hár. Búið væri að keyra vélina í 3500 klst. frá því að hún var tekin upp og ekki óeðlilegt að vélin sé farin að slitna allverulega og það þyrfti að taka ýmsa þætti upp hafi það ekki verið gert þegar vélin var tekin í gegn. Það þyrfti að fara yfir ventlabilið og þrýstinginn á eldsneytislokunum. Það þyrfti að athuga ???? þrýstingi. skolvatnskælinum, það væri ekkert óeðlilegt ef eitthvað væri þar að. Aðspurt um matsspurningarnar sem komi fram í matsbeiðninni, kvað vitnið að hver viðgerðarþáttur við vélina væri ekki stór, s.s. að stilla ventla og fara í olíuverkið, sem kostaði kannski 50-60.000 krónur, auk þess að opna þyrfti dekkið á bátnum til að komast að vélinni. Ef eldsneytislokarnir væru farnir þá kostaði um 6-700.000 krónur að skipta um þá. Ef  skolvatnskælirinn væri farinn kostaði það um 4-500.000 krónur að skipta um þá en það sé ekki víst að þessir hlutir séu farnir. Aðspurt um hvað kosti að taka sambærilega vél upp kvað vitnið það kosta um helming af verði nýrrar vélar sem gæti verið um 3.000.000 króna.

Vitnið kvað aðspurt að eitthvað af því sem vitnið hafi talið upp að framan gæti verið að en vitnið hafi ekki kannað það sérstaklega og ekki verið beðið um það. Vitnið gæti ekki fullyrt að eitt eða annað væri að vélinni. Vitnið kvaðst hins vegar telja að vélin væri ekki í lagi. Vitnið kvaðst aðspurt ekki hafa þjöppumælt vélina en til þess hafi vitnið þurft að opna dekkið og því ekki gert það. Vitnið kvaðst aðspurt ekki geta gert greinarmun á því hvort það hafi verið eimur eða reykur sem kom úr pústinu frá vélinni en hafi skolvatnkælirinn verið farinn þá gæti það verið skýringin. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð athugavert í vélarrúmi bátsins. Vitnið kvað að ef vélin væri farin að slitna og eimast niður í sveifarásinn þá finnist það. Ekkert við lykt þar hafi vakið grunsemdir vitnisins. Það þurfi hins vegar ekki að merkja að vélin sé í lagi. Vitnið kvaðst ekki þekkja sérstaklega til þessarar tegundar bátsvélar. Niðurstaðan í matsgerðinni hafi þrátt fyrir það verið mat vitnisins. Vitnið kvaðst hafa kannað ganghraða vélarinnar. Þegar vélin hafi verið komin upp í 2500 snúningshraða hafi báturinn siglt á 17 mílum og farið annað slagið upp í 19 mílur. Aðspurt hvort viðbótarbúnaður eins og kjölrör, bógskrúfa og árekstrarrök og astiktækið geti haft áhrif á ganghraða kvað vitnið þennan búnað hafa áhrif á ganghraðann. Aðspurt hvort ekki væri eðlilegt að það kæmi eimur út frá púströri bátsins þegar heitt afgas og sjór mættust kvað vitnið svo vera að einhverju leyti en því hafi fundist eimurinn vera óeðlilega mikill. Aðspurt um að afgasmælir hafi sýnt ranga mælingu kvað vitnið að afgasmælirinn uppi í brú sýni meðalhita á öllum strokkunum  en hann hafi mælt hvern strokk niðri í vél sérstaklega. Vitnið kvað ekki mikinn mun vera á milli strokka 5 og 6 en hitinn á þeim hafi verið hærri en á strokkum 1-4. Það geti orsakast af því að olíutíminn á þeim sé rangur. Vitnið kvaðst aðspurt ekki hafa heyrt málmhljóð þegar það prufukeyrði bátinn en það hafi hlustað eftir því sérstaklega, allavega ekki heyrt neitt óeðlilegt. Aðspurt um beiðni matsbeiðanda um að meta fjárhagslegt tjón matsbeiðanda, kvaðst vitnið hafa lýst því áður en ekki hafa sett það í matsgerðina. Aðspurt hvort ekki sé nauðsynlegt að taka vél sem fari í sjó alla upp, kvað vitnið það vera nauðsynlegt. Vitnið kvað að vél sem færi í sjó og væri í gangi myndi í flestum tilfellum bræða úr sér. Stimplar, slífar og annað myndi eyðileggjast. Vitnið kvað að vél sem væri keyrð 7.500 klukkustundir væri að öllum líkindum búin með líftíma sinn en þessi vél hafi verið keyrð 3.600 klukkustundir eftir að vélin var tekin upp.   

                Vilhjálmur Ólafsson, löggiltur fasteigna-, skipa-  og fyrirtækjasali, kom fyrir dóminn. Kvað hann Gísla hafa komið að máli við sig í byrjun júlí 2015 með það fyrir augum að selja m/b Björgu. Þeim hafi til langs tíma verið vel til vina og viðskipti þeirra ætíð gengið vel. Kvað hann Gísla hafa sagt sér að hann gæti fengið allar upplýsingar um bátinn frá öðrum bátasölum þar sem báturinn væri einnig til sölu. Kvaðst Vilhjálmur hafa lagað upplýsingar um bátinn eftir því sem hann best vissi. Kvaðst Vilhjálmur einnig hafa fengið þær upplýsingar frá Gísla, sem koma fram í auglýsingunni, að vélin væri keyrð um það bil 6800 tíma, upptekin 2010, rifin í frumeindir og skilað eins og nýrri. Þá hafi Gísli einnig upplýst sig um það hvaða verkstæði tók vélina upp. Hafi Gísli sagt að skipt hafi verið um allt sem skipta þurfti um en Vilhjálmur hafi ekki fengið neina reikninga um það frá Gísla. Hann hafi sent Gísla skeyti og beðið hann um að gera athugasemdir við auglýsinguna ef einhverjar væru. Gísli hafi ekki gert neinar athugasemdir við auglýsinguna. Kvað hann alsiða vera hjá fasteignasölum að fá upplýsingar um eignir frá kollegum og svo hafi hann gert í þessu tilviki. Í framhaldi hafi Vilhjálmur farið að fá upplýsingar frá aðilum sem „töluðu bátinn niður“, sagt að báturinn hafi lent á skeri, báturinn væri með bilaða vél o.fl. Vilhjálmur hafi borið eitthvað af þessu undir Gísla sem hafi borið það allt af sér og sagt það vera rógburð. Vilhjálmur hafi því ekkert aðhafst frekar varðandi það og talið að allt væri í góðu lagi með bátinn. Kvað Vilhjálmur það hafa verið erfitt að hafa illan grun en geta ekki sannreynt hann. Kvaðst hann hafa farið upp á Akranes til að skoða annan bát en skoðað Björgina í leiðinni. Hann hafi skoðað stýrishús og það sem hann gat skoðað utan frá. Honum hafi hins vegar ekki borið nein lögbundin skylda til að skoða bátinn. Hann hafi getað nálgast allar opinberar upplýsingar um bátinn. Það sé bara þannig að þegar bátar séu staddir langt úti á landi þá verði menn að taka lýsingu eigenda gilda.  Kvað Vilhjálmur Sigurð Ólafsson hafa leitað til sín og verið að leita sér að bát. Þeir hafi margoft átt í viðskiptum. Taldi Vilhjálmur að hann sjálfur hafi leitt Sigurð að Björginni og þeir hafi verið í þeirri trú að báturinn gengi allavega 25-27 mílur en það hafi verið skráð hjá öðrum bátasölum. Vilhjálmur hafi þó ekki sett þann hraða inn í upplýsingarnar sínar þar sem Gísli hafi ekki staðfest það við sig. Vilhjálmur kvaðst hafa hvatt Sigurð til að skoða Björgina, sem og hann hafi gert. Málið hafi verið komið það langt að þeir hafi verið orðnir sammála um verð og uppítöku á öðrum báti. Kvað Vilhjálmur kaupsamning og afsal á fundi aðila hafa verið fyrsta uppkast sem hafi verið gert en í ljós hafi komið að bæði rangur kaupandi og rangur seljandi hafi verið skráðir á kaupsamninginn. Aðilar hafi farið yfir það og áttað sig á því að rangir aðilar hafi verið tilgreindir og Vilhjálmur hafi því í framhaldi útbúið nýja samninga með réttum aðilum. Einhverra hluta vegna hafi Sigurður párað nafnið sitt á þessa pappíra en þeir pappírar hafi bara átt að fara í ruslafötuna. Vilhjálmur kvað að þegar hann hafi séð að Sigurður ætlaði að nota Blikaberg ehf. sem kaupanda hafi strax vaknað spurning hjá sér hver ritaði félagið. Vilhjálmur kvaðst fyrst hafa fengið upplýsingar um það að Blikaberg ehf. væri kaupandi við samningagerðina og hafi því tekið pappírana saman, hringt í fyrirtækjaskrá og fengið þær upplýsingar að meirihluti stjórnar riti firmað og það sé Gylfi Þór Sigurðsson. Á meðan hafi hann sett pappírana óvart inn aftur en þeir hafi átt að fara í ruslafötuna. Vilhjálmur hafi því aftur farið að borðinu og sagt aðilum að ekki væri hægt að undirrita pappírana og þeir yrðu settir ofan í skúffu hjá sér þar til Gylfi Þór væri búinn að undirrita samninginn. Á þessum fundi hafi komið í ljós að ekki yrði ritað undir samninginn með löglegum hætti. Þrátt fyrir það hafi verið ákveðið að Sigurður færi að sækja bátinn en Vilhjálmur hafi margítrekað við Sigurð að prufukeyra bátinn en seljendur hafi aldrei fundið tíma til þess. Hafi hann margbeðið Guðmund um að fara með kaupendum og prófa bátinn. Það hafi hann aldrei gert. Grunaði Vilhjálm að það hafi verið með ráðum gert og hlutirnir fegraðir eins og hægt var. Þegar óánægja hafi verið komin í ljós hjá Sigurði hafi Vilhjálmur reynt að sætta málið og boðað til fundar með aðilum. Hann hafi komið með ýmsar hugmyndir sem ekki hafi gengið upp. Á þeim tímapunkti hafi Sigurður verið búinn að segja sér að hann vildi rifta kaupunum. Sigurður hafi samþykkt með semingi að mæta á sáttafund en þá hafi Vilhjálmur nánast verið búinn að gefast upp á sáttaumleitunum. Sigurður hafi á þeim fundi lagt til að hann greiddi ákveðinn hluta af kostnaði við að skipta um vél en stefnandi  lagt til að þeir gætu lækkað söluverðið um eina til eina og hálfa milljón. Umræddur fundur hafi verið haldinn fljótlega eftir samningagerðina. Sigurður hafi gert þær athugasemdir að afgasmælir væri ekki í lagi en Gísli hafi látið lagfæra það. Þá hafi það verið að tillögu seljanda að láta yfirfara túrbínuna en ekkert hafi reynst vera að henni. Þá hafi þurft að pumpa upp þrýsting á olíuverkinu þegar vélin var sett í gang, sem væri merki þess að eitthvað hafi verið að. Seljandi hafi ekki viljað hlusta á það. Þá hafi einhver óskýrð hljóð verið í vélinni en Vilhjálmur hafi ekki heyrt þau sjálfur. Þá hafi báturinn ekki gengið það hratt að menn væru sáttir við það og langt frá þeim upplýsingum sem komu fram hjá öðrum bátasölum. Vilhjálmur kvaðst síðan hafa upplýst Gísla um að seljandi vildi rifta sölunni og útbúið yfirlýsingu þess efnis, sem Sigurður hafi ritað undir. Kvað Vilhjálmur Gísla hafa upplýst í lok samningafundar að sjóræningjaforrit væri í bátnum og hafi það farið illa í kaupanda. Ekki hafi komið til þess að setja þetta inn í samninginn því að pappírarnir hafi verið komnir ofan í skúffu.

Kvað Vilhjálmur allflesta enda hafa verið hnýtta þegar hann boðaði til undirskriftarfundar og hann hafi þá verið í þeirri trú að hann væri að selja þennan bát. Hafi hann þá talið að samningar væru það langt komnir að honum hafi þótt ástæða til að boða til fundar og ræða þau mál sem út af stæðu. Aðspurður um það hvenær hann hafi fengið upplýsingar um að vélin í bátnum hafi komið úr öðrum bát kvaðst hann hafa fengið þær upplýsingar fljótlega eftir að hann skráði bátinn til sölu og hann hafi líka vitað að sá bátur hafi lent á skeri en hann hafi ekki vitað hvort vélin hafi þá farið í kaf eða ekki eða hvaða áföllum hún hafi orðið fyrir. Við upplýsingaöflun hafi hann fengið þær upplýsingar að hún hafi öll verið tekin í gegn og skipt um það sem skipta þurfti um og henni skilað sem nýrri.

Vilhjálmur kvað aðspurður undirskriftarfund aðila hafa farið fram um klukkan tíu um morgun. Aðspurður um fullyrðingar sínar í dskj. 12 að fundurinn hafi farið fram svo seint að deginum að hann hafi ekki haft færi á að kanna hvernig þessu væri háttað með undirskrift stjórnar Blikabergs ehf. fyrr en daginn eftir, kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvenær fundurinn fór fram. Vel gæti verið að hann hafi farið fram klukkan tíu um morgun því að það væri rétt að þeir hefðu farið saman út að borða í hádeginu. Kvað hann raunverulega ástæðu hafa verið að hann hefði ekki haft upplýsingar um þann sem ætlaði að kaupa bátinn. Lýsti Vilhjálmur því svo að hann hefði látið alla aðila hafa samningseyðublöðin í þeim tilgangi að lesa samninginn yfir með öllum upplýsingum. Þannig hafi komið í ljós við fyrsta yfirlestur á kauptilboðinu að rangir aðilar hafi verið skráðir sem kaupandi og seljandi. Nýr samningur hafi því verið gerður vegna þess. Kvaðst hann hafa haft ranghugmyndir um það hver yrði kaupandi að bátnum þar til aðilar voru mættir í samningagerðina. Kvað hann það hafa verið „óhnýtt“  í upphafi hver yrði kaupandi en Sigurður hefði áður verslað í gegnum sig í nafni Hafrúnar II ehf. Vilhjálmur hafi því talið að Hafrún II ehf. yrði kaupandi að Björginni. Vilhjálmur kvaðst aðspurður ekki hafa verið búinn að ganga frá söluyfirliti þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Aðspurður hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að í eldri sölulýsingum um Björgina frá öðrum bátasölum hafi verið upplýsingar um önnur og ódýrari tæki í bátnum en þegar Vilhjálmur tók hann til sölumeðferðar, kvaðst hann ekki hafa kannað það. Þá kvað hann rétt að hann hafi upplýst seljendur um að búið væri að greiða samningsgreiðsluna inn á reikning hjá sér og að hann myndi greiða upp áhvílandi lán á bátnum. Þá staðfesti Vilhjálmur að þegar menn hafi undirritað afsal þá séu kaupendur réttmætir eigendur.

Auglýsing frá Vilhjálmi, sem hann setti sjálfur á veraldarvefinn, þar sem hann segist hafa selt bátinn og óskar aðilum til hamingju, var borin undir hann. Kvað hann það rétt að hann hefði sett þetta á netið, hann hafi þá talið að hann væri búinn að selja bátinn en annað hafi komið í ljós síðar. Þá kvaðst Vilhjálmur ekki telja að kaupendur hafi vitað um að vélin í Björginni hafi farið í sjó, Vilhjálmur hafi sjálfur ekki haft óyggjandi upplýsingar um það á þessum tíma.

Aðspurður hvort það hafi ekki verið hans lagaskylda að skoða bátinn gaumgæfilega kvaðst hann hafa farið um borð í bátinn en ekki komist inn í stýrishúsið né vélarrúmið og hafi látið það duga sem skoðun á bátnum ásamt þeim upplýsingum sem hann hafi haft frá Gísla og fundið á netinu. Kvað Vilhjálmur stærstu mistökin í öllu þessu máli hafa verið þau að þegar hann fékk símtal frá Sigurði, þegar báturinn var rétt nýkominn út úr hafnarmynninu, hafi hann ekki stöðvað bátinn og sagt þeim að snúa við. Vilhjálmur kvaðst ekki endilega kalla eftir reikningum þegar um upptekna vél er að ræða en stundum sé það gert. Hann hafi treyst Gísla og ekki talið ástæðu til að kalla eftir reikningum á því tímamarki.

                Aðspurður um það hvers vegna aðilar hafi fengið afrit af undirrituðum samningum afhent við samningagerðina kvað Vilhjálmur þá aðila bara hafa tekið skjölin með sér án leyfis hans út úr húsi og án hans vitundar. Þau eintök hafi átt að fara í ruslafötuna. Kvað hann það hafa í upphafi fundarins verið ætlunin að skrifa endanlega undir sölurnar og hafi Vilhjálmur ætlað að fá undirritun Gylfa Þórs síðar.

                Vitnið Róbert Georgsson gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa siglt m/b Björgu frá Akranesi einhvern tímann í fyrra til Sandgerðis. Kvað vitnið manninn hafa talið sig vera að kaupa hraðfiskibát sem ætti að ganga 25-30 mílur. Á leiðinni hafi vitninu orðið ljóst að báturinn væri gallaður, hann hafi getað keyrt hann 14-15 mílur og slegið upp í 17 mílur. Vitnið kvaðst hafa haft samband við Sigurð og látið hann vita að um vörusvik væri að ræða. Hafi hann hringt í byrjun ferðar að hann minnti. Vitnið kvaðst starfa hjá Sigurði Aðalsteinssyni.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á gerðum samningum milli aðila. Fyrir liggi að stefnandi hafi uppfyllt skyldu sína með því að gefa út afsal og afhenda kaupandlagið m/b Björgu Hallvarðsdóttur með þeim fylgibúnaði sem hafi átt að fylgja með en kaupandi hafi ekki afhent kaupverðið, meðal annars fyrir milligöngu skipasalans. Stefnandi byggir á því að afsal sé að jafnaði einhliða yfirlýsing um fyrirvaralausa yfirfærslu um framsal hins beina eignaréttar til kaupanda. Líta verði svo á að kaupandi eigi ekki rétt á afsali fyrr en hann hafi efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi. Svo hafi verið gert í þessu máli. Stefndi Vilhjálmur hafi tekið við hluta söluverðsins, 19.500.000 krónum, til uppgjörs á veðskuldum á bátnum og hafi átt að greiða eftirstöðvar inn á reikning stefnanda. Hluta kaupverðsins með afhendingu m/b Ásdísar hafi átt að afhenda nokkrum dögum síðar. Hafi stefnandi verið í góðri trú um að stefndi Vilhjálmur gengi frá uppgjöri milli aðila. Kveðst stefnandi hafa tekið sérstaklega fram á kaupsamningsdegi að ganghraði bátsins á skaki hafi verið 16-17 mílur með því að hafa ekki of mikla olíu á honum og þá væri rétt að hafa ca 300 lítra en báturinn tæki 1000 lítra. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið boðið að fara reynslutúr á bátnum fyrir kaupsamningsgerð en stefndi hafi hafnað því og sagt að þennan bát þyrfti ekki að skoða frekar, eftir að fyrsta skoðun hafði farið fram. Þá hafi stefndi Sigurður afhent stefnanda, fyrir hönd Gjálfurs ehf., m/b Ásdísi sem hluta af kaupverði Bjargarinnar. Þannig hafi stefnandi litið á að kaupsamningurinn væri efndur að fullu enda átti að undirrita afsal á sama tíma vegna beggja bátanna.

                Stefnandi mótmælir því sem haldið er fram í greinargerð stefnda Vilhjálms um að hann hafi skoðað bátinn og tekið ljósmyndir. Ekkert hafi verið lagt fram því til staðfestu. Þá mótmælir hann því að þinglýsingavottorð, söluyfirlit og sölusamningur við Vilhjálm hafi legið fyrir við samningagerðina. Ekkert af því sé lagt fram í málinu. Þá sé ranglega haldið fram í greinargerð stefndu að kaupsamningurinn og afsalið hafi verið gert með fyrirvara. Enginn slíkur fyrirvari komi fram í gögnum málsins. Stefnandi hafi strax reynt að koma til móts við stefnda Blikaberg þegar í ljós kom óánægja með Björgina, túrbína hafi verið skoðuð og reynst í lagi, skipt hafi verið um pressuhjól og ekkert hafi verið að olíuverkinu. Enginn hafi kannast við hljóð frá vélinni nema Sigurður en hann hafi sjálfur ekki verið í bátnum þegar honum var siglt frá Akranesi til Sandgerðis. Þá hafi Sigurður gengið til samninga við stefnanda án nokkurs fyrirvara um umboð eða prókúru. Það sé síðar tilkomin ástæða. Undirskrift Sigurðar fyrir hönd Blikabergs ehf. hafi verið í þeim tilgangi að efna samninga aðila. Þá mótmælir stefnandi því að greiðsla Sigurðar inn á vörslureikning meðstefnda Vilhjálms hafi verið tryggingafé eða yfirlýsing um greiðslugetu félagsins. Ekkert slíkt hafi komið fram við samningagerðina. Þá mótmælir stefnandi því að stefndi Blikaberg ehf. geti byggt á matsgerð sem hann lagði fram í málinu. Hún byggi ekki undir kröfur stefnda. Í greinargerð stefnda sé talað um hvítan reyk eða eim en dómkvaddur matsmaður hafi ekki getað greint hvort var. Matsmaðurinn hafi ekki metið ástand vélarinnar með því að þjöppumæla hana sem sé þó eina leiðin til að meta ástand hennar. 

                Stefnandi byggir á því að stefndi Vilhjálmur hafi tekið huglæga afstöðu með kaupanda bátsins og ekki gætt hlutleysis í störfum sínum sem löggiltur skipasali, sbr. 15. gr. laga nr. 70/2015. Þá hafi skjalagerð, sem hafi verið á ábyrgð stefnda Vilhjálms, ekki verið í samræmi við 12. gr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 70/2015. Að auki hafi upptalin skjöl í kaupsamningi og afsali ekki legið frammi né verið lögð fram við undirritun samninga. Ekki sé getið um áhvílandi veðskuldir á bátnum í kaupsamningi. Þá hafi skipasalinn ekki upplýst seljanda um að það vantaði undirritun annars stjórnarmanns kaupanda við samningsgerðina. Hafi því verið fyrst haldið fram síðar. Til stuðnings því að stefnandi hafi verið í góðri trú um gildi kaupsamningsins hafi hann afhent stefnda bátinn á samningsdegi og stefndi hafi tekið við bátnum á Akranesi og siglt honum til Sandgerðis. Stefnandi byggir á því að stefndi stundi mikil viðskipti í bátaútgerð og verði því að ætla að hann hafi verið í vondri trú með því að fullyrða að hann hafi ekki vitað um stöðu sína gagnvart félaginu á kaupsamningsdegi. Hafa verði í huga að stjórnarformaður stefnda sé starfandi í Bretlandi og megi ætla, vegna umsvifamikils reksturs, að framkvæmdastjóri stefnda hafi umboð í kaupum og sölum á búnaði í félaginu og öðrum félögum tengdum útgerð sem hann hafi með að gera í samstarfi við stjórnarformann félagsins sem sé jafnframt sonur hans. Stefnandi hafi verið í góðri trú um að öll skjalagerð og framgangur í málinu væri með réttum hætti. Stefnandi sé leikmaður og verði að treysta því að sérfræðingur sem ráðinn sé til starfans kanni fyrirfram hverjir megi rita félagið. Þá hafi stefndi Vilhjálmur sjálfur sagst hafa heyrt einhverjar sögusagnir í söluferlinu um ástand bátsins sem hafi átt að „hringja einhverjum bjöllum“ hjá honum. Hafi skipasalinn skapað sér bótaábyrgð með því að gæta ekki þeirrar skyldu og varúðar að skoða bátinn sem hann fullyrði síðar að hafi ekki þá eiginleika sem hann hafi átt að búa yfir. Auk þess hafi þá skipasalinn átt að hvetja kaupanda til að skoða bátinn sérstaklega vel og gera þá fyrirvara umfram það sem koma mátti fram í gögnum málsins. Þá hafi forsvarsmaður stefnda Blikabergs ehf. komið tvívegis til Akraness til að skoða bátinn sérstaklega fyrirfram. Þá mótmælir stefnandi fullyrðingum stefnda Vilhjálms um að fylgifé sem hafi átt að fylgja bátnum hafi ekki fylgt honum.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi innt skyldu sína af hendi með því að undirrita kaupsamning og afsal og afhent söluandlagið. Með útgáfu á afsali hafi eignarrétturinn færst endanlega yfir til stefnda Blikabergs ehf. Þá séu vörslur bátsins á ábyrgð stefnda og hafi verið frá afhendingu hans 6. nóvember 2015. Auk þess hafi Sigurður undirritað með lögformlegum hætti kaupsamning og afsal fyrir m/b Ásdísi og hafi átt að afhenda hana nokkrum dögum síðar eða þegar Sigurður væri búinn að lagfæra hana og koma henni í það ástand sem umsamið var.

                Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á almennum reglum kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga gagnvart stefnda Blikabergi ehf., en gagnvart stefnda Vilhjálmi með vísan til almennu skaðabótareglunnar ásamt því að stefnandi eigi rétt á skaðabótum samkvæmt lögum um fasteignakaup og skipakaup  nr. 70/2015, þá sérstaklega V. kafla laganna. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

 Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi Blikaberg byggir á því að kauptilboð í m/b Björgu Hallvarðsdóttur hafi verið undirritað með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins. Samkvæmt Hlutafélagaskrá þurfi meirihluti stjórnarmanna að rita firmað Blikaberg ehf. en Sigurður Aðalsteinsson hafi ekki haft heimild samkvæmt samþykktum félagsins til að rita firmað og skuldbinda nema það sem tengist rekstri félagsins. Því sé undirskrift hans á kaupsamninginn tilgangslaus. Því sé byggt á því að ekki hafi komist á bindandi kaupsamningur um kaup á bátnum þar sem ekki sé fyrir hendi lögformleg undirritun frá þar til bærum aðila til að skuldbinda félagið. Vilji hafi verið fyrir hendi af hálfu stefnda Blikabergs ehf. að kaupa bátinn og hafi félagið því lagt fram tryggingu til skipasölunnar vegna fyrirhugaðra kaupa. Eftir að fulltrúi Blikabergs hafi siglt bátunum frá Akranesi til Sandgerðis hafi strax komið í ljós verulegir gallar á bátnum, þar á meðal vél bátsins. Hafi Sigurður, f.h. kaupanda, því orðið afhuga kaupunum. Því hafi ekki komið til þess að fá samþykki stjórnar félagsins fyrir kaupunum og ekkert hafi orðið af þeim. Þá sé báturinn haldinn margvíslegum göllum auk þess sem báturinn uppfylli ekki þau skilyrði að vera afhentur eða seldur með þeim tækjum og búnaði sem lýst sé í sölulýsingu. Samkvæmt henni liggi fyrir að báturinn eigi langt í land með að uppfylla þá eiginleika sem þar sé lýst og standast þær gæðakröfur sem gerðar séu til sambærilegra báta.

                Stefndi Blikaberg ehf. krefst til vara að staðfest verið riftun hans á kaupsamningi aðila. Byggir hann þá kröfu á yfirlýsingu um riftun stefnda Blikabergs dagsettri 13. nóvember 2015. Vísar stefndi í þær forsendur sem þar séu tilnefndar og að báturinn standist ekki þær væntingar sem kaupandi hafi gert sér.

                Til þrautavara krefst stefndi Blikaberg þess, verði ekki fallist á aðal- og varakröfu hans, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Byggir stefndi á því að báturinn sé haldinn verulegum göllum jafnframt því að mikið skorti á að báturinn ásamt fylgifé hans, þ. á m. tæki og búnaður, standist þá lýsingu sem komi fram í söluyfirliti og þær gæðakröfur sem gerðar séu til sambærilegra báta. Í ljós hafi komið að vél bátsins hafi verið keypt úr Hafbjörgu ST-77 sem hafi strandað og sokkið í Húnaflóa árið 2000. Vélin hafi síðan verið tekin upp af PH2 ehf. 2010. Hafbjörgin, sem sé sambærilegur bátur og Björgin, hafi siglt 26-28 sjómílur á útstími með línubala og fullan tank af olíu með sömu vél. Á landstími hafi Hafbjörgin siglt með tvö tonn af afla og línubala 16-17 mílur. Þá hafi bátsskrokkur Bjargar Hallvarðsdóttur verið smíðaður af Seiglu ehf., á árnum 2006 til 2007 og staðið úti allt til ársins 2010 þegar smíði hennar lauk.

                Stefndi Vilhjálmur krefst sýknu og til vara sýknu að svo stöddu. Byggir stefndi Vilhjálmur á því að ekkert liggi fyrir um hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða ekki og enn síður hvert tjónið eigi að vera. Krafa stefnanda sé óljós og ódómtæk og beri að vísa henni frá dómi „ex officio“. Verði svo ekki beri að sýkna stefnda. 

Forsendur og niðurstöður.

Stefnandi krefst þess að stefndi Blikaberg ehf. efni kaupsamning og afsal sem undirritað var 5. nóvember 2015 og greiði stefnanda 19.500.000 krónur auk þess að afhenda stefnanda m/b Ásdísi HU með skipaskrárnúmerið 7160 að andvirði 11.000.000 króna auk tilgreindra vaxta.

                Eins og fram hefur komið og stutt er með framburði aðila, hafði Sigurður Aðalsteinsson samband við stefnda Vilhjálm vegna hugsanlegra kaupa á m/b Björgu Hallvarðsdóttur, AK-15 með skipaskrárnúmer 2789. Var báturinn staðsettur á Akranesi. Í framhaldi hafði stefndi Vilhjálmur samband við fyrirsvarsmenn stefnanda og upplýsti þá um að Sigurður hefði áhuga á að kaupa bátinn. Staðfest er að Sigurður fór tvisvar upp á Akranes til að skoða bátinn áður en kom að kaupsamningsgerð. Hann fór þó aldrei í reynslusiglingu eins og Vilhjálmur kvaðst ítrekað hafa hvatt hann til. Fullyrtu Gísli og Guðmundur fyrir dóminum að þeir hefðu aldrei neitað Sigurði um að fara í reynslusiglingu, hann hafi lýst því yfir sjálfur að bátinn þyrfti ekki að skoða meira. Er það á ábyrgð kaupanda að sinna skoðunarskyldu sinni eins og kostur er áður en hann gerir tilboð í eign. Á kaupanda hvílir rík skoðunarskylda og í þessu tilviki sérstaklega þar sem fyrir lá strax í sölulýsingu að vélin hafði verið tekin upp fyrir fimm árum og keyrð 3600 klst. eftir það. Gerði Sigurður í nafni Hafrúnar II ehf. tilboð þann 3. janúar sl. í bátinn Björgu í gegnum fasteignasalann Vilhjálm Ólafsson. Er tekið fram í kauptilboðinu að tilboðið sé gert með fyrirvara um samþykki stjórnar Hafrúnar og gildi til kl. 15.00 þann 4. nóvember 2015. Undirritaði Sigurður tilboðið fyrir hönd Hafrúnar II ehf. Í gögnum málsins liggur fyrir að Sigurður Aðalsteinsson var stjórnarmaður Hafrúnar II og tekið er fram að einn stjórnarmaður riti firmað. Fyrir hönd Heimaskaga ehf. ritaði Gísli Hallbjörnsson undir tilboðið. Í upplýsingum úr fyrirtækjaskrá kemur fram að Gísli sé framkvæmdastjóri félagsins og meðstjórnandi. Þrír stjórnarmenn rita félagið saman. Er því undirritun seljanda, Heimaskaga ehf., ekki fullnægjandi en ekkert annað hefur komið fram í málinu en að stefnandi, þar sem Gísli er einnig stjórnarmaður, vilji halda kaupin upp á kaupanda. Þá kom fram í framburði aðila að kauptilboð þetta hafi gengið á milli aðila frá því að það var undirritað og þar til menn mættu til fasteignasalans til undirritunar kaupsamnings og afsals. Efnisinnihald kauptilboðsins er það sama og kemur fram í kaupsamningi sem undirritaður var 5. nóvember 2015. Þá er upplýst að þegar aðilar mættu til samningagerðar hjá skipasalanum hafi þeir viljað hafa önnur félög sem kaupanda og seljanda og staðfesti stefndi Vilhjálmur það. Því hafi Vilhjálmur útbúið nýjan samning þannig að stefnandi var seljandi Bjargarinnar en stefndi Blikaberg ehf. kaupandi. Undir kaupsamninginn rituðu báðir stjórnarmenn Hafsæls ehf., en einungis Sigurður Aðalsteinsson fyrir hönd Blikabergs ehf. Í gögnum frá hlutafélagaskrá kemur fram að Gylfi Þór Sigurðsson og Sigurður Aðalsteinsson séu stjórnarmenn Hafsæls ehf., og riti meirihluti stjórnar firmað. Sigurður Aðalsteinsson, varamaður í stjórn félagsins og framkvæmdastjóri, undirritaði fyrir hönd félagsins kaupsamninginn um m/b Björgu. Fyrir dóminum hélt Sigurður því fram að einungis Gylfi Þór væri bær til að rita og skuldbinda félagið og undirskrift Sigurðar hefði ekki haft neitt gildi. Þrátt fyrir það gekk Sigurður fram í því að falast eftir bátnum og kom fram við forsvarsmenn stefnanda sem væntanlegur kaupandi, hann upplýsti hvorki seljanda né fasteignasalann um að af kaupum gæti ekki orðið fyrr en við undirritun samningsins og jafnfram þá breytti hann kaupandanum frá því að vera Hafrún ehf. í Blikaberg ehf. Voru forsvarsmenn seljanda bátsins í þeirri trú að Sigurður væri, fyrir hönd félags sem hann gæti skuldbundið, að kaupa bátinn. Þá var kaupsamningurinn ekki gerður með neinum fyrirvara, hvorki um forsendur kaupanda fyrir kaupunum eins og síðar var haldið fram, né undirskrift stjórnarmanna kaupanda. Af framburði fyrirsvarsmanna stefnanda og stefnda Vilhjálms er sannað að aðilar komu á skrifstofu fasteignasalans kl. 10.00 að morgni 5. nóvember 2015 í þeim tilgangi að klára og undirrita kaupsamning og afsal fyrir m/b Björgu og m/b Ásdísi. Sigurður Ólafsson hélt því fram fyrir dóminum að hann hafi aldrei ætlað að ganga frá kaupum á m/b Björgu fyrr en hann væri búinn að bera það undir son sinn, Gylfa Þór. Kvaðst hann ekki hafa verið búinn að því þegar aðilar mættu til undirskriftar. Þrátt fyrir það þá kom Sigurður fram við fasteignasalann og forsvarsmenn stefnanda eins og hann hefði umboð eða væri bær um að skuldbinda kaupanda. Hann skoðaði bátinn tvívegis, mætti á skrifstofu fasteignasalans og undirritaði kaupsamning fyrir hönd kaupanda, hann fór upp á Akranes og sótti bátinn auk þess sem hann tók við tveimur fiskikörum sem áttu að fylgja bátnum. Verður ekki annað álitið en að hann hafi gert það í þeim tilgangi að efna kaupsamninginn og litið á sig til þess bæran. Að auki lagði hann kaupsamningsgreiðsluna, 19.500.000 krónur, inn á vörslureikning fasteignasalans á sama tíma og hann undirritaði kaupsamninginn en hluta af þeirri greiðslu átti að nota til að greiða upp áhvílandi lán á m/b Björgu. Auk þess afsalaði hann m/b Ásdísi til stefnanda með undirritun sinni á kaupsamning og afsal á sama tíma. Þá fór fasteignasalinn ásamt forsvarsmönnum seljanda Bjargar út að borða í hádeginu þann sama dag í þeim tilgangi að fagna sölunni og var það í boði Sigurðar. Auk alls þessa setti stefndi Vilhjálmur auglýsingu á netið þar sem hann sagði bátinn seldan og óskaði kaupanda og seljanda til hamingju. Af háttsemi Sigurðar gat stefnandi ekki dregið aðra ályktun en að kaupsamningurinn væri efndur og það væri einungis formsatriði að fá umboð eða undirskrift stjórnarmanns kaupanda til að hægt væri að þinglýsa kaupsamningnum og afsali. Liggur fyrir að sú ástæða kom fyrst fram þegar Sigurður var búinn að undirrita kaupsamninginn vegna kaupa á Björgu. Af öllu þessu virtu telur dómurinn að bindandi samningur hafi komist á á milli seljanda og kaupanda m/b Bjargar Hallvarðsdóttur.     

                Hluti af kaupverði m/b Bjargar var afhending á m/b Ásdísi að andvirði 11.000.000 króna. Átti að afhenda þann bát í Sandgerðishöfn. Kaupsamningur og afsal fyrir Ásdísi liggur fyrir í málinu. Er samningurinn undirritaður af Sigurði Aðalsteinssyni fyrir hönd Gjálfurs ehf. Samkvæmt hlutafélagaskrá er Sigurður Aðalsteinsson stjórnarmaður félagsins og Hafsteinn Frímann Aðalsteinsson varamaður. Firmað ritar stjórnarmaður. Auk þess undirrituðu báðir forsvarsmenn Hafsæls ehf., fyrir hönd félagsins, undir kaupsamninginn. Var þar með kominn á lögformlegur skuldbindandi kaupsamningur og afsal án nokkurs fyrirvara. Þrátt fyrir að fasteignasalinn hafi ekki vottað samninginn er hann skuldbindandi á milli aðila enda vottun eingöngu staðfesting á undirskrift aðila, dagsetningu undirskriftar og fjárræði aðila. Hafði Sigurður því með þeirri samningagjörð efnt kaupsamninginn um m/b Björgu að fullu. Er framburður Sigurðar, um að kaupsamningarnir hafi verið drög og aldrei átt að undirrita þá fyrr en samþykki Gylfa Þórs lægi fyrir, ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt. Fer sá framburður í bága við alla venju og skyldur fasteignasala sem stefndi og stefnandi nutu og þáði aðstoð frá vegna sérþekkingar meðstefnda. Þá liggur einnig fyrir að Sigurður Aðalsteinsson er þaulvanur báta- og skipakaupum samkvæmt hans eigin framburði auk þess sem hann er í stjórn ellefu fyrirtækja. Átti honum því að vera fulljóst í allri samningagerðinni að hann væri að koma fram sem kaupandi á skuldbindandi hátt, en ekki hugsanlegur kaupandi sem væri að spá í hlutina.

                Auk þessa alls undirritaði Sigurður Aðalsteinsson yfirlýsingu um riftun á kaupsamningnum um Björgina 13. nóvember 2015. Hafi hann ekki litið svo á að kaupsamningur aðila væri skuldbindandi hefði slík yfirlýsing verið óþörf.

                Stefndi Blikaberg krefst í fyrsta lagi sýknu í máli þessu en til vara að yfirlýsing um riftun á kaupsamningi aðla um m/b Björgu verði staðfest með dómi.

                Í umræddri yfirlýsingu eru ástæður riftunar sagðar vera þær að báturinn standist ekki þær væntingar sem kaupandi hafi gert sér um hann. Báturinn gangi ekki eins hratt og sambærilegir bátar. Muni þar of miklu til að kaupendur séu sáttir. Auk þess sé ástand aflvélar bátsins ekki eins og best verði á kosið. Túrbína hafi ekki reynst vera í lagi og gert hafi verið við hana. Efasemdir séu af hálfu kaupanda um að sú viðgerð sé varanleg enda hafi þurft ítrekað að gera við túrbínuna undanfarin ár. Olíuverkið sé óþétt og stöðugt komi loft inn á kerfið sem bendi til að eitthvað sé að. Ekki sé hægt að setja smurolíu á vélina upp að þeim mörkum sem kvarði segi til um. Það bendi til þess að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Þá hafi heyrst einhver óhljóð í vélinni sem ekki hafi verið búið að skýra út fyrir kaupendum. Auk þess virðist báturinn vera grunsamlega þungur á sjónum. Hann risti dýpra en eðlilegt geti talist. Allt þetta hafi sáð efasemdum í huga kaupenda og þeir vilji rifta kaupunum þú þegar. Er þessi yfirlýsing samin af fasteignasalanum og stefnda Vilhjálmi á bréfsefni frá fasteignasölunni.

                Þrátt fyrir ofangreindar fullyrðingar um galla á vélinni í m/b Björgu, hafa engin gögn verið lögð fram í málinu þeim til stuðnings. Þá er það eina sem kemur fram í matsgerðinni varðandi vél bátsins að það sé mat matsmanns að vél bátsins sé ekki í lagi. Sé þá helst að telja að hvítur reykur/eimur komi úr pústkerfi vélarinnar við aukið álag. Óeðlilega mikill mismunur hafi verið á afgashita þegar keyrt var annars vegar á móti og hins vegar undan vindi og öldu og einnig beri að nefna að afgashiti hafi verið í hærra lagi í strokkum nr. fimm og sex, sem geti verið hluti af því hvernig vélin bregðist við við aukið álag. Fyrir dóminum kvaðst matsmaður ekki minnast óhljóða í vél bátsins við reynslusiglingu. Engin frekari gögn, né upplýsingar í matsgerð er að finna í málinu.

Í 10. gr. í kauptilboði sem aðilar undirrituðu um m/b Björgu 3. nóvember 2015 segir að tilboðsgjafi geti ekki borið fyrir sig neitt varðandi ástand og gæði eignar sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar tilboðið var gert. Hafi hann skoðað eignina fyrir kaupin, eða látið það undir höfuð leggjast þrátt fyrir áskoranir, geti hann ekki borið fyrir sig neitt það sem hann hefði mátt sjá við slíka skoðun. Í 2. gr. kaupsamnings aðila um m/b Björgu segir að um kaupin og réttarsamband aðila gildi lög nr. 40/2002 um fasteignakaup að því leyti sem ekki sé samið um frávik í einstökum atriðum. Stefndi Blikaberg ehf. telur upp í yfirlýsingu sinni um riftun á kaupunum nokkur atriði sem eru ósönnuð og hafa ekki fengið stoð í framburði vitna sem skiptir nokkru máli. Vilhjálmur Ólafsson kvaðst aðspurður ekki hafa sett ganghraða bátsins í sölulýsingu hjá sér þar sem hann hafi ekki fengið hann staðfestan frá stefnanda. Sigurður hefur því ekki upplýsingar frá stefnanda um að ganghraði bátsins hafi verið 25-28 mílur. Eru þessar málsástæður stefnda Blikabergs því haldlausar og ber að hafna þeim. Þá verður að telja framburð Sigurðar, um það að hann hafi ætlað sér að taka kaupsamninginn og senda hann til Englands til sonar síns til undirritunar, ekki trúverðugan í ljósi framburðar meðstefnda Vilhjálms, þar sem hann annars vegar sagðist hafa ætlað að setja pappírana í ruslafötuna og hins vegar að hann hafi tekið pappírana til handargagns og sett þá ofan í skúffu þar til Gylfi Þór hefði undirritað þá. Aukinheldur er framburður Vilhjálms um að aðilar við kaupsamningsgerðina hafi tekið pappírana ófrjálsri hendi af skrifstofu sinni ótrúverðugur. Verður ekki litið fram hjá því að við slíka samningagerð ber bátasalinn ábyrgð á skjalagerðinni og afdrifum gagna sem henni fylgja.  

                Með hliðsjón af öllu ofansögðu verður að telja að Sigurður hafi með framgöngu sinni frá upphafi komið fram sem kaupandi og bær til að undirrita kaupsamning um m/b Björgu og verður af þeim sökum að taka aðalkröfu stefnanda til greina.

Stefndi Blikaberg ehf. krefst þess, verði krafa stefnanda tekin til greina, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega að mati dómsins. Eins og fram hefur komið eru fullyrðingar stefnda Blikabergs ehf. um galla á vél m/b Bjargar ósannaðar og ekkert lagt fram af hálfu stefnda sem skiptir máli við úrlausn málsins því til staðfestu. Þá verður að leggja ríka skoðunarskyldu og ábyrgð á forsvarsmann stefnda Blikabergs, sem reyndan aðila í bátakaupum, og spyrjast fyrir og kynna sér ástand vélar, sem sögð var tekin upp fimm árum áður en kaupandi falaðist eftir bátnum og keyrð hafði verið 3600 klukkustundir eftir upptöku en elsti hluti vélarinnar komnir í 6800 klst. Er ljóst að vélin er þar af leiðandi ekki sem ný og væri því óeðlilegt að hún skili afli eins og ný vél. Getur vél sem keyrð hefur verið 3600 klst. eftir upptekt ekki annað en talist slitin. Gaf það stefnda ærna ástæðu til að kynna sér sérstaklega ástand vélarinnar, sem hann gerði ekki þrátt fyrir áskoranir þar um. Ber stefndi Blikaberg ehf. hallann af þessu. Verður þessi krafa stefnda því ekki tekin til greina.

Að ofangreindu sögðu verður stefnda Blikaberg ehf. gert að greiða stefnanda, Hafsæli ehf., 30.500.000 krónur samkvæmt kaupsamningi og afsali dagsettu 5. nóvember 2015 á m/b Björgu Hallvarðsdóttur, AK-15 með skipaskrárnúmer 2789, með þeim kjörum sem segir í undirrituðu kauptilboði frá 3. nóvember 2015 og kaupsamningi og afsali dags. 5. nóvember 2015, þannig að kaupverðið verði greitt með peningum, 19.500.000 krónur, og með afhendingu bátsins m/b Ásdísi HU með skipaskrárnúmerið 7160 að andvirði 11.000.000 króna. Þá skal stefndi Blikaberg ehf. greiða stefnanda dráttarvexti af 19.500.000 krónum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2015 til greiðsludags.              

Um fasteignasala gilda lög nr. 70/2015 sem tóku gildi 21. júlí 2015. Giltu þau lög um starfsemi stefnda Vilhjálms Ólafssonar sem er löggiltur fasteigna-, skipa- og fyrirtækjasali. Ber hann samkvæmt 27. gr. laganna skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Fer um sakarmat og sönnun samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

                Fyrirsvarsmaður stefnanda, Gísli Hallbjörnsson, hafði samband við Vilhjálm þann 1. júlí 2016 og óskaði eftir því að hann tæki bátinn m/b Björgu Hallvarðsdóttur AK-15 með skipaskrárnúmer 2789 til sölumeðferðar. Liggur fyrir í gögnum málsins og samkvæmt framburði Vilhjálms að hann sótti sér upplýsingar um bátinn hjá öðrum skipasölum á vefnum. Kvaðst hann hafa fullt leyfi til þess. Fyrir liggur í gögnum málsins sölulýsing frá Bátum og búnaði, skipasölu, dagsett 9. nóvember 2015. Segir þar að ganghraði Bjargar sé 25-27 mílur. Tölvupóstur frá Gunnari Þorvaldssyni hjá Bátum og búnaði liggur fyrir þar sem hann kvaðst ekki finna neinn tölvupóst frá stefnanda um lýsingu á Björgu né undirritað söluyfirlit og kvaðst ekki vita hvaðan þessi uppgefni hraði væri kominn. Sennilega væri það innsláttarvilla. Vilhjálmur kvaðst aðspurður ekki hafa sett ganghraða bátsins í sölulýsingu hjá sér þar sem hann hafi ekki fengið hann staðfestan frá stefnanda. Í 9. gr. laganna segir að fasteignasala sé skylt að gera skriflegan samning við seljanda og eða kaupanda sem til hans leitar um milligöngu um kaup eða sölu eignar. Það gerði stefndi Vilhjálmur ekki. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir að strax og fasteignasali fær eign til sölumeðferðar skuli hann semja rækilegt yfirlit um þau atriði sem skipt geta máli við sölu eignarinnar. Lét stefndi þetta undir höfuð leggjast og gerði ekki.                Í 2. mgr. 10. gr. laganna segir að áður en tilboð er gert i eign skuli væntanlegum tilboðsgjafa afhent söluyfirlitið og skuli hann staðfesta móttöku þess með nafnritun sinni og dagsetningu og í 3. mgr. segir að fasteignasali skuli afla undirskriftar seljanda á yfirlýsingu um að efni söluyfirlits skv. 1. mgr. sé rétt samkvæmt bestu vitund hans. Stefndi Vilhjálmur uppfyllti hvorug skilyrði þessara ákvæða. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir að fasteignasali skuli gæta þess vandlega að á söluyfirliti komi fram öll grundvallaratriði um eiginleika og ástand eignarinnar sem, ásamt skoðun kaupanda á eign þegar við á, megi ætla að geti verið grundvöllur ákvörðunar hans um hvort hann kaupi eignina og hvaða verð hann sé tilbúinn að greiða fyrir hana. Uppfyllti stefndi Vilhjálmur ekki þessi skilyrði. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að fasteignasali skuli afla upplýsinga sem fram eigi að koma í söluyfirliti. Skuli hann sækja upplýsingar í opinberar skrár og skýrslur ef unnt er, en ástand fasteignar, gerð hennar og búnað sem fylgja á við sölu skuli hann kynna sér af eigin raun. Í 2. mgr. sömu greinar segir að fasteignasali beri ábyrgð á því ef upplýsingar í söluyfirliti reynast rangar eða ófullnægjandi, enda sé um að kenna gáleysi hans eða þeirra sem starfi í hans þágu. Með því að skoða ekki bátinn eða afla sér upplýsinga um vél hans, sérstaklega þegar hann hafði heyrt menn „tala bátinn niður“, bakaði stefndi Vilhjálmur sér skaðabótaskyldu auk þess að hann leitaði ekki eftir upplýsingum um það hvað hafði verið gert við vélina í bátnum sem gat skipt væntanlegan kaupanda miklu máli og verið forsenda hans fyrir hugsanlegum kaupum. Í 1. mgr. 13. gr. laganna segir að fasteignasali skuli við kynningu á eign, sem hann hafi til sölumeðferðar, gæta þess að upplýsingar sem veittar eru um eignina og lýsingar á henni séu réttar og í sem bestu samræmi við eiginleika og ástand eignarinnar. Þrátt fyrir að stefndi Vilhjálmur hafi heyrt sögusagnir um ástand bátsins upplýsti hann ekki væntanlegan kaupanda um þær. Þá kvaðst Vilhjálmur hafa fengið áður upplýsingar frá Gísla um hvaða verkstæði hafi tekið vélina upp. Kynnti stefndi sér ekki ástand vélarinnar hjá verkstæðinu. Kvaðst stefndi hins vegar ítrekað hafa kvatt meðstefnda til að skoða bátinn vel, sem hann hafi ekki gert. Þrátt fyrir skoðunarskyldu kaupanda þá voru undirliggjandi upplýsingar sem stefndi Vilhjálmur bjó yfir og lét meðstefnda ekki vita um sem gátu skipt máli við væntanlegt tilboð stefnda.  Braut því stefndi Vilhjálmur með þessu háttalagi gegn þessu ákvæði. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er kveðið á um skýlausa skyldu fasteignasala til að gæta hlutleysis, liðsinna báðum aðilum, seljanda og kaupanda, og gæta réttmætra hagsmuna þeirra. Gegn þessu braut stefndi Vilhjálmur en óumdeilt er að stefndi samdi sjálfur, og í nafni skipasölunnar, riftunarbréf fyrir meðstefnda og vottaði sjálfur yfirlýsinguna. Með því braut stefndi Vilhjálmur gegn þeirri hlutdrægnisreglu sem boðuð er í ákvæðinu. Þá var hann sjálfur persónulega í samskiptum fyrir hönd meðstefnda í tölvupóstssamskiptum við lögmann stefnanda.

                Eins og að framan er rakið og staðfest hefur verið með framburði aðila, hafði stefndi Vilhjálmur ekki gert samning við stefnanda um sölu bátsins, hann útbjó ekki söluyfirlit sem hann þess vegna gat hvorki látið stefnanda né meðstefnda staðfesta að væri rétt eða um móttöku. Þá liggur fyrir að hann skoðaði bátinn einungis utan frá þar sem hann komst hvorki í stýrishús né vélarrými bátsins en hann gerði heldur engan reka að því að kynna sér bátinn frekar og taldi þessa skoðun næga. Þá staðfesti stefndi að hann hafi fengið þær upplýsingar frá stefnanda og sett í sölulýsingu að vél bátsins hafi verið tekin upp, keyrð um það bil 6.800 klukkustundir og „Upptekin 2010. Rifin í frumeindir og skilað eins og nýrri. Keyrð eftir upptekt 3600.“ Þessa lýsingu bar hann ekki undir stefnanda né fékk það staðfest að það væri rétt lýsing áður en hann auglýsti bátinn til sölu. Þá verður að leggja þá skyldu á fasteignasala, burtséð frá því hvort þeir treysta seljendum eða kaupendum vegna vinskapar, að afla gagna um eign sem þeir hafa til sölumeðferðar, ef upp kemur grunur um að lýsing eignar sé ekki rétt eða í samræmi við þær upplýsingar sem fasteignasalinn hefur. Það lét stefndi sér í léttu rúmi liggja og kvaðst hafa trúað forsvarsmanni stefnanda um að sögusagnir um bátinn væri rógur. Brást stefndi með því skoðunarskyldu sinni og upplýsingaskyldu sinni gagnvart kaupanda. Hefur stefndi Vilhjálmur með þeirri háttsemi, sem að ofan er rakin, gerst ítrekað brotlegur við starfsskyldur sínar og bakað sér skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og 27. gr. laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa.

                Verður krafa stefnanda um að viðurkennd verði bótaskylda stefnda Vilhjálms tekin til greina.

                Að þessum niðurstöðum fengnum verða stefndu in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 2.500.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sveinn Guðmundsson hrl.

Af hálfu beggja stefndu flutti málið Sigmundur Hannesson hrl.

Dóm þennan kveða upp Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari og dómsformaður, Kristmundur Kristmundsson vélfræðingur og Guðjón Egill Ingólfsson vélaverkfræðingur.

D ó m s o r ð :

Stefndi Blikaberg ehf. skal greiða stefnanda, Hafsæli ehf., 30.500.000 krónur samkvæmt kaupsamningi og afsali dagsettu 5. nóvember 2015 vegna kaupa á m/b Björgu Hallvarðsdóttur, AK-15 með skipaskrárnúmer 2789, með þeim kjörum sem segir í undirrituðu kauptilboði frá 3. nóvember 2015 og kaupsamningi og afsali dags. 5. nóvember 2015, þannig að kaupverðið verði greitt með peningum 19.500.000 krónur og með afhendingu bátsins m/b Ásdísi HU-24 með skipaskrárnúmer 7160 að andvirði 11.000.000 krónur. Þá skal stefndi Blikaberg ehf. greiða stefnanda dráttarvexti af 19.500.000 krónum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2015 til greiðsludags.         

                Viðurkennd er bótaábyrgð stefnda Vilhjálms Ólafssonar.

                Stefndu greiði stefnanda in solidum málskostnað, 2.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.