Print

Mál nr. 323/2016

Dalvíkurbyggð (Ólafur Björnsson hrl., Guðmundur H. Pétursson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (Stefán A. Svensson hrl.)
Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur
Reifun

Í úrskurði óbyggðanefndar var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Skíðadalsafréttur væri þjóðlenda. Fyrir Hæstarétti krafðist D þess að úrskurður óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi að því er þetta varðaði. Í dómi Hæstaréttar var greint frá frásögn í Landnámabók um landnám í Eyjafirði og vísað til þess að af þeirri frásögn yrði engin ályktun dregin um hvort land innan merkja Skíðadalsafréttar hefði í öndverðu verið numið. Þá var gerð grein fyrir ýmsum heimildum frá fyrri öldum og talið ljóst að allt frá því um árið 1600 hefði landsvæðið nánast undantekningalaust verið nefnt þar berum orðum afréttur, í nokkrum tilvikum hefði afrétturinn verið sagður ítak kirkjunnar á Völlum, deilt hefði verið um hvort þörf hefði verið heimildar til upprekstrar á hann og hvort greiðsla afréttartolls hefði átt að koma fyrir. Ekkert hefði komið fram um að þetta svæði hefði verið notað til annars en upprekstrar búfjár. Var talið að engin viðhlítandi rök stæðu til annars en að líta svo á að réttindi yfir þessu landi hefðu verið fólgin í óbeinum eignarréttindum til hefðbundinna nota á því til upprekstrar og annars þess, sem afréttir hefðu í aldanna rás almennt verið hafðir til. Í ljósi þessa var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í af kröfu D.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2016. Hann krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 10. október 2011 í máli nr. 1/2009 um að landsvæði, sem þar er nefnt Skíðadalsafréttur og afmarkað á eftirfarandi hátt, sé þjóðlenda: „Upphafspunktur er þar sem Gljúfurá fellur í Skíðadalsá ... Þaðan er haldið upp með Skíðadalsá þar til Vesturá rennur í hana ... Þaðan er Vesturá fylgt til fremstu upptaka og þaðan í sýslumörk milli Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslna ... Sýslumörkum er svo fylgt til suðurs, að fyrrum hreppamörkum Skriðuhrepps og Svarfaðardalshrepps við sunnanverðan Skíðadalsjökul (Leiðarhnjúkar 1312 m) ... Þaðan er fyrrum hreppamörkum fylgt til austurs að Gljúfurárjökli og síðan með suður- og austurmörkum jökulsins ... í Gljúfurá ... og með henni að upphafspunkti, þar sem Gljúfurá fellur í Skíðadalsá.“ Til vara krefst áfrýjandi þess að mörk þjóðlendu og eignarlands á landsvæðinu verði ákveðin á eftirfarandi hátt: „Lína er dregin frá sveitarfélagamörkum í botni Vesturárdals niður þann dal eftir Vesturá þar til komið er að 500 metra hæðarlínu, þá er þeirri hæð fylgt niður Vesturtungur, yfir Stafnstunguháls og inn Austurtungur allt að Skíðadalsá. Þegar komið er yfir í Almenning er línan dregin niður Almenning í 100 metra fjarlægð frá Skíðadalsá allt þar að sem Gljúfrá rennur í Skíðadalsá. Þá er línan dregin upp Almenningsöxl, 100 metra sunnan Gljúfrár og áfram inn Litladal allt að jökulsporði Gljúfrárjökuls. Áfram eftir jökulröndinni upp að sveitafélagamörkum og þeim fylgt þar til hringnum er lokað í botni Vesturárdals.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 2. september 2016.

I

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 29. mars 2007 til meðferðar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sem náði yfir alla fyrrum Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu austan Blöndu ásamt Hofsjökli. Að beiðni stefnda ákvað nefndin 28. desember sama ár að skipta svæðinu í tvennt, í syðri og nyrðri hluta. Samkvæmt bréfi nefndarinnar 21. janúar 2009 var nyrðri hlutinn afmarkaður þannig að til vesturs var Héraðsvötnum fylgt úr norðri frá ósum þar til Norðurá rennur í þau, að sunnan var Norðurá fylgt austur eftir Norðurárdal og yfir Öxnadalsheiði í Öxnadalsá, sem réði suðausturmörkum þess þar til hún fellur í Hörgá, og loks var þeirri á fylgt til ósa í Eyjafirði. Að öðru leyti náði svæðið að hafi.

Óbyggðanefnd bárust 11. maí 2009 kröfur stefnda um þjóðlendur á nyrðri hluta svæðisins og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Meðal annarra beindi áfrýjandi af þessu tilefni kröfu til nefndarinnar vegna Skíðadalsafréttar í Dalvíkurbyggð, sem hann taldi háðan beinum eignarrétti sínum, en samkvæmt kröfugerð stefnda fyrir óbyggðanefnd taldi hann þetta svæði þjóðlendu. Í kröfulýsingu fyrir óbyggðanefnd bar áfrýjandi upp lýsingu á merkjum Skíðadalsafréttar, sem hann virðist ekki hafa haldið þar til streitu og er því ekki þörf á að taka hana hér upp, en við meðferð málsins lagði nefndin til grundvallar lýsingu stefnda á merkjum svæðisins og var hún á þann veg, sem fram kemur í áðurgreindri aðalkröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Um þau merki er ekki ágreiningur hér fyrir dómi.

Þegar kröfur höfðu borist samkvæmt framansögðu ákvað óbyggðanefnd að fjalla um nyrðri hluta vestanverðs Norðurlands í tveimur aðskildum málum og var annað þeirra mál nr. 1/2009, sem náði til Eyjafjarðar ásamt Lágheiði að undanteknum Almenningi norðan Hrauna. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði 10. október 2011 að landsvæðið Skíðadalsafréttur væri þjóðlenda í afréttareign áfrýjanda, sbr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 9. maí 2012 og er óumdeilt að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laganna. Fyrir héraðsdómi gerði áfrýjandi sömu kröfur og hann gerir samkvæmt áðursögðu fyrir Hæstarétti, en með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af þeim.

II

Svarfaðardalur er í sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð og nær hann til sjávar í Eyjafirði við Dalvík. Dalurinn liggur inn til landsins fyrst í stað um 11 km til suðvesturs, en þaðan fer hann til vesturs og greinist þá Skíðadalur frá honum til suðurs. Um þessa tvo dali renna ár, sem draga nöfn sín af þeim, og falla þær saman á þeim slóðum þar sem dalirnir mætast. Frá ármótunum eru um 14 km suður um Skíðadal til Skíðadalsafréttar eins og hann er afmarkaður í málinu. Vellir, sem koma hér við sögu eins og nánar greinir síðar, eru í Svarfaðardal nærri því á miðri leið frá sjó að mótum hans við Skíðadal og er sú jörð austan Svarfaðardalsár. Frá bæjarhúsum á henni eru um 19 km í beinni loftlínu til fyrrnefndra norðurmerkja Skíðadalsafréttar og liggur þar á milli land fjölmargra annarra jarða. Þegar komið er nokkuð suður eftir Skíðadal liggja jarðirnar Möðruvellir og Ytri- og Syðri-Másstaðir um 8 km fyrir norðan merki Skíðadalsafréttar, en þegar sunnar dregur eru í dalnum jarðirnar Hlíð, Þverá, Hnjúkur, Kóngsstaðir, Klængshóll, Hverhóll, Krosshóll, Hólárkot og loks Gljúfurárkot, sem liggur að merkjunum til austurs allt til syðstu marka þeirra. Þessar jarðir eru ýmist vestan eða austan Skíðadalsár, en frá Hverhóli að telja munu þær nú allar vera í eyði. Bæjarhús á Gljúfurárkoti munu hafa staðið rétt norðan við þann stað, þar sem Gljúfurá rennur úr suðri út í Skíðadalsá. Skammt frá þeim ármótum tekur Skíðadalur stefnu til suðvesturs, framan af fyrir norðvestan Skíðadalsafrétt á rúmlega 2,5 km leið og að endingu um 5 km inn fyrir merki hans, en Skíðadalsá, sem rennur þar um dalinn, mun eiga upptök á hálendi innan merkjanna. Utan merkjanna fyrir norðvestan Skíðadalsá voru áður jarðirnar Sveinsstaðir, um 1 km fyrir suðvestan Gljúfurárkot, og Stafn um 1½ km lengra, en skammt frá þeim stað, þar sem bæjarhús munu hafa staðið á Stafni, rennur Vesturá úr vestri saman við Skíðadalsá á merkjum Skíðadalsafréttar.

Merki Skíðadalsafréttar eru sem fyrr segir óumdeild eins og þau eru tilgreind í aðalkröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti, en svo sem þar kemur fram liggur hornpunktur á þeim merkjum til norðausturs á mótum Gljúfurár og Skíðadalsár. Vestur frá þeim punkti er fyrst í stað farið eftir Skíðadalsá, en frá mótum hennar og Vesturár er þeirri síðarnefndu fylgt til upptaka á vatnaskilum á mörkum Dalvíkurbyggðar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Á þeirri leið, sem er um 11 km í beinni loftlínu, á Skíðadalsafréttur norðurmerki að landi, sem mun áður hafa átt undir jarðirnar Sveinsstaði og Stafn en nú tilheyra áfrýjanda, og er óumdeilt að það sé háð beinum eignarrétti. Að vestan fylgja merki Skíðadalsafréttar fyrrnefndum sveitarfélagamörkum nærri 8 km til suðurs að hornpunkti í 1312 m hæð á Leiðarhnjúkum, en þar mun Hörgárbyggð jafnframt mæta hinum sveitarfélögunum tveimur. Á því bili liggur Skíðadalsafréttur að landsvæðinu Kolbeinsdalsafrétti, sem er háð beinum eignarrétti samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2009. Frá hornpunktinum á Leiðarhnjúkum liggja suðurmerki Skíðadalsafréttar á sveitarfélagamörkum Dalvíkurbyggðar og Hörgárbyggðar eftir óreglulegri línu um 5 km austur að suðurjaðri Gljúfurárjökuls og svo áfram í sömu átt um 2 km eftir jökulrönd, eins og hún var við gildistöku laga nr. 58/1998. Munu þau merki liggja að landi þriggja jarða í Hörgárbyggð, Baugasels, Féeggsstaða og Sörlatungu, sem virðist óumdeilt að sé háð beinum eignarrétti. Loks fara merki Skíðadalsafréttar að austan fyrst í stað um 3 km norður eftir austurjaðri Gljúfurárjökuls þangað sem Gljúfurá rennur undan honum, en þeirri á er síðan fylgt aðra 3 km til norðurs að fyrrnefndum mótum hennar og Skíðadalsár. Merkin þar liggja að landi Gljúfurárkots, sem mun tilheyra áfrýjanda og vera háð beinum eignarrétti.

Eins og áður var getið skerst Skíðadalur gegnum norðurmerki Skíðadalsafréttar og skiptir dalurinn, sem liggur þar úr norðaustri til suðvesturs, landsvæðinu í tvennt. Við norðurmerkin mun land í dalnum vera lægst í um 300 m hæð yfir sjávarmáli og hækka eftir því sem sunnar dregur, en dalurinn er fremur þröngur og rís landið nokkuð skarpt upp frá honum á báða vegu. Á norðvesturhluta landsins mun það komast hæst í um 1370 m á Staðgangnafjalli og 1213 m á Stafnstungnafjalli, en þar er að öðru leyti mikið hálendi, meðal annars Vesturárdalsjökull. Á suðausturhlutanum er jafnframt mikið hálendi og fer mest fyrir Almenningsfjalli, sem mun ná 1359 m hæð, en einnig er þar fjallið Stapar, sem rís upp í 1397 m, og Gljúfurárjökull. Norðurmerki Skíðadalsafréttar frá mótum Skíðadalsár og Vesturár fylgja sem fyrr segir síðarnefndu ánni, en að þeim mótum rennur hún um 4 km austur eftir dal, sem kenndur er við hana, og er þar lítilsháttar láglendi í um 300 m hæð á svonefndum Vesturtungum. Í Skíðadal innan merkja Skíðadalsafréttar er jafnframt neðan hálendisins að norðvestan svæði, sem nefnt er Austurtungur, og að suðaustan Almenningar við rætur Almenningsfjalls. Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar er land nokkuð gróið með ánum og upp í fjallshlíðar.

Áfrýjandi gerir eins og fyrr segir varakröfu í málinu um að úrskurði óbyggðanefndar verði hnekkt að því leyti að nánar tiltekinn hluti lands innan þeirra merkja Skíðadalsafréttar, sem að framan er lýst, verði talinn háður beinum eignarrétti og þar með utan þjóðlendu. Samkvæmt hljóðan varakröfunnar og uppdrætti, sem áfrýjandi hefur lagt fram, er þessi hluti svæðisins í meginatriðum afmarkaður með línu, sem fylgir 500 m hæðarmörkum í landi á áðurnefndum Vesturtungum og jafnframt suður eftir Skíðadal að norðvestan, en fer síðan eftir línu í 100 m fjarlægð frá Skíðadalsá til merkja við Gljúfurárkot.

III

Í máldögum Auðunar biskups rauða Þorbergssonar fyrir Hólabiskupsdæmi frá 1318 kom fram að „Kẏrckia hins heilaga olafz kongs a vollum“ ætti „allt heima land“ á Völlum og fjórar aðrar jarðir, þar á meðal „stafn.“ Það sama kom fram í máldögum Péturs biskups Nikulássonar frá 1394 og síðar, vísitasíugerð Jóns biskups Vilhjálmssonar frá 1429 og máldögum Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá 1461 og síðar. Jörðum í eigu kirkjunnar fjölgaði þó frá einni þessara heimilda til annarrar og voru þær orðnar níu í þeirri síðustu, en meðal þeirra voru þá Stafn og „glvfra.“ Í svonefndum elsta hluta Sigurðarregisturs frá 1525, skrá síra Sigurðar Jónssonar um máldaga Hóladómkirkju, klaustra og nokkurra kirkna á Norðurlandi þegar Jón Arason varð biskup á Hólum, kom fram að kirkjan á Völlum ætti Stafn, „sueinstade“ og „gliufurȁa“ ásamt ellefu öðrum jörðum.

Í fyrrnefndum máldögum Ólafs Rögnvaldssonar virðist í fyrsta sinn hafa verið tiltekið í umfjöllun um kirkjuna á Völlum að jafnframt ætti „stadrenn allan skidadal oc vestrar dal fram fra holarmarke til sueinsstada marks.“ Eins kom fram í Sigurðarregistri frá 1525 að staðurinn á Völlum ætti „allañ skidadal og vesturȁardal fram fra hőlȁarmarki til sueinstada marks.“

Í ódagsettri færslu í máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar, sem tók til árabilsins frá 1590 til 1616, var gerð grein fyrir eignum kirkju að Urðum, sem er í Svarfaðardal nærri 5 km fyrir vestan fyrrnefnd ármót Svarfaðardalsár og Skíðadalsár. Þar kom meðal annars fram að sú kirkja ætti „Reit J Skÿdadals afriett med vmmerkium ... enn ei er eg vÿs ordinn / huort þesse Jtok fÿlgia heima Jordu eda eigi kirkia þau“.

Í vísitasíubók Þorláks biskups Skúlasonar var þess getið á árinu 1631 að kirkjan á Völlum ætti meðal annarra jarða Sveinsstaði og Stafn og að auki „afriett alla fra Gliufrarmarke / allt til Sveinstada marks“.

Í málinu liggur fyrir ódagsett lögfesta manns, sem samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var prestur á Völlum frá 1622 til 1658, um eignir kirkjunnar þar og var þess getið að hún ætti „alla Skydadals afriett fra Gliufrar marke til Sueijnstada marks“.

Fært var í vísitasíubók Jóns biskups Vigfússonar á árinu 1686 að kirkjan á Völlum ætti meðal annars jarðirnar Sveinsstaði og Gljúfurárkot, svo og „alla Skydadals afriett, med óllum Vesturärdal og hälfum Þverärdal“. Ekki var þar getið um Stafn meðal jarða kirkjunnar. Þá kom fram i vísitasíubók Einars biskups Þorsteinssonar í færslu frá 18. ágúst 1692 að sama kirkja ætti „afriett alla fra gliufur Aar merchi allt til Sveinstada Marchs“ og að auki Sveinsstaði meðal annarra jarða, en ekki var Gljúfurárkot nefnt þar eða Stafn. Í sömu bók var einnig greint frá eignum kirkjunnar á Urðum 16. ágúst 1692 og sagði meðal annars að hún ætti „Reit J Skÿdadals afriett, med Vmmerchium“.

Á manntalsþingi 31. maí 1707 var lesin upp lögfesta prestsins á Völlum um landareign kirkjunnar þar og önnur fasteignaréttindi. Sagði meðal annars að kirkjan ætti „alla Skidadals afrett, aasamt óllum hennar Landsnytium, fraa fremstu Vatna uppsprettu, allt ofan ad Holaar Merki fyrir austan aa, og Sveinsstada Merki fyrir Vestan, med óllum Vesturaardal og haalfum Þveraardal. Fyrirbyd eg hverjum manni Hiergreind eingiatók, afrettar plaats og hver ónnur ítók ... sier ad hagnýta ... nema mitt sie Lof eda Leyfi“. Önnur lögfesta sama prests var lesin á manntalsþingi 19. maí 1708 og var þar getið sex jarða í eigu kirkjunnar, þar á meðal Sveinsstaða og Gljúfurárkots, en Stafn var ekki í tölu þeirra.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 sagði að Vellir væru „kirkjustaður og beneficium“, en dýrleiki jarðarinnar væri óviss. Þá sagði einnig: „Afrjett á staðurinn framm lengst í Skíðadal, þar sem eyðibólið Stafn liggur“. Gljúfurárkot var sagt vera tíu hundruð að dýrleika og tilheyra Vallastað, en jörðin hafi verið í eyði í fimm ár og fyrst í stað verið leigð út til slægna, en „nú brúkar hana enginn þetta ár, so menn viti.“ Um Sveinsstaði var þess getið að jörðin væri í eigu Vallastaðar og væri dýrleiki hennar tíu hundruð, en jafnframt sagði: „Túninu spilla snjóflóð með grjótsáburði, og er sagt að bærinn hafi að fornu undan þeim fluttur verið af tóftarústum sem hjer eru frammá vellinum.“ Stafn var sagður í eigu Vallastaðar, en um „dýrleikann vita menn ekki eður byggíngarkosti.“ Þá sagði einnig eftirfarandi um Stafn: „Fornt eyðiból framm lengst í Skíðadal, og eru munnmæli að þar hafi í fyrndinni kirkja eður bænhús verið. Ljós eru þar byggíngamerki, garða og tóftaleifa ... Þetta eyðiból með tilliggjandi löndum brúkar presturinn fyrir afrjett fyrir lömb og geldfje, og líka leyfir hann þángað upprekstur nokkrum sveitarmönnum fyrir óákveðinn góðvilja, en ekki hefur hjer viss afrjettartollur goldist, so hjer undirrjettist. Grasatekja er hjer nokkur, sem sveitarmenn brúka öðruhvörju eftir leyfi staðarhaldarans. Ekki þykir mönnum líklegt það muni aftur byggjast fyrir heyskaparleysi.“ Aftan við kaflann um Stafn var síðan svofelldur viðauki: „Almenníngur kallast eitt stórt fjall fyrir austan Skíðadalsá og framan Gljúfurárgil. Þángað á allur hreppurinn að fornu upprekstur fyrir geldfje, lömb og naut, en lítt brúkast þessi almenníngur nú um nokkra tíma sakir harðinda og grasleysis.“

Á manntalsþingi 20. júní 1739 var lesin upp lögfesta prests á Völlum frá sama degi, þar sem lýst var eignarhaldi kirkjunnar yfir meðal annars „alla Skÿdadals afriett, frä Hölaarkotz merki til Sveinstada marks“. Einnig liggur fyrir í málinu nánast samhljóða lögfesta annars prests á Völlum frá 20. maí 1776, sem var þinglesin 26. júní 1780.

Í vísitasíubók Halldórs biskups Brynjólfssonar voru 18. og 19. júní 1748 skráðar eignir kirknanna á Urðum og Völlum. Um eignir þeirrar fyrrnefndu var meðal annars getið að hún ætti reit „i Skidadalsafriett“. Meðal jarðeigna síðarnefndu kirkjunnar voru Gljúfurárkot og Sveinsstaðir, en síðan sagði: „itok eru þesse allur skidadalur og Vesturardalur fram fra Holär Merke og til Sveinsstada Merkis“.

Í vísitasíubók prófasts í Eyjafjarðarprófastsdæmi var 4. og 5. júlí 1752 gerð grein fyrir eignum kirknanna á Urðum og Völlum. Meðal eigna Urðakirkju var sagður „Reitur i Skijdadals afrett med ummmerkjum“ en um Vallakirkju sagði meðal annars: „Jtók þesse effter Olafs Biskups Mäldaga og Sigurdar Registre: Allur Skjdadalur og Vesturärdalur fram frä Holärmerke og til Sveinstadamerkes“.

Upplýsingar voru færðar 25. júlí 1760 í vísitasíubók Gísla biskups Magnússonar um eignir kirkjunnar á Völlum með þeim orðum að þær væru hinar sömu og máldagar og fyrri vísitasíur biskupa hafi tileinkað henni, en þess getið að „nu ligge i Eyde effter undanfaren Störhardende Gliufrarkot ... Stafn 20 hndr. og Þverärkot 10 hndr. hafa längsamlega i Eyde legid.“ Þá var skráð í vísitasíubók sama biskups 24. júlí 1769 að hann hafi yfirskoðað reikninga kirkjunnar á Urðum allt aftur til ársins 1755, en samkvæmt þeim og máldögum Auðunar biskups rauða ætti hún meðal annars „Reit i Skydadals afrett“.

Í svonefndri brauðalýsingu frá 12. ágúst 1782 um kirkjustaðinn á Völlum sagði meðal annars um eignir hans: „Einginn Jtók edur Herlegheit framar enn greiner j Kirkiunnar Máldögum sem er öll Skydadals afriett fra Gliufrár merke til Sveinstada marks ... Beneficio filgia 12 Jarder med adur umgetnum heimalöndum, Nefnil. ... Sveinsstader 10 hndr. Gliufrarkot 10 hndr. ... Sveinstader og Gliufrarkot liggia under Storum Skada ad Snioflodum og Skridum sem arlega hlaupa a londinn og Eida Eingium og heiskap ... Hverakot og Stafn eru i Eidi ... um margra ara tÿma sem menn muna til ej hafa bigst og eru ej helldur biggiannleg sokum Eingia og Grasleyses.“

 Prestur á Völlum gerði lögfestu 15. júní 1792, sem lesin var sama dag á manntalsþingi. Þar var sagt að Vallakirkja ætti „Skÿdadals afrett, ásamt óllum Hennar Lands nitium frá fremstu Vatna uppsprettu allt ofann ad Gliufrar merke fyrer austann Skÿdadals á, og Sveinsstada merke fyrir vestann, med öllum Vestur árdal ... Enn eg orsakast ad andraga Fÿrer Hr Sÿsslumanninum, þann Öjófnud og yfergáng, sem Sveitar Menn sÿna i þvj ad Reka leifislaust, i ädur nefnda Skÿdadals afrett og sÿna sig ej helldur lÿklega, helldur öviliuga til þess ad betala nockud effter hana ... Enn fÿrer ummlided ár, hefur alls einginn betalad Neitt, af öllum þeim sem i hana Ráku og seigast eiga i hana Skilldu Rekstur, so þeir þurfe ecke effter hana ad giallda, enn hvar á þeir grundvalla Slÿkt kann eg ecke ad Vita, þar þad er ecke Sveitarmanna helldur kÿrkiunnar Eignar land, i hvóriu þeir eiga ecke eitt grasstrá, þvj sÿdur eitt Fötmäl Jardar. Þar fyrer oska eg og bid Hr Sysslumaninn Þienustuskildugast, ad gefa mier urskurd um þad nu, hvort ad Sveitar menn eige og meige, i ádur nefnda afrett ad Reka án leifis og effter giallds til mÿn“. Þessu svaraði sýslumaður samdægurs á eftirfarandi hátt: „Þad er móte Lögum ad nockur madur mege Leifes- og betalíngslaust, beita og bruka annara manna Lönd, allt so, má enginn bruka edr beita Vallna Stadar Land ï Skydadal, án Beneficiarii á Vóllum, leifes og Betalíngs fyrer þann Fenad, sem med leife er þángad rekenn, en Afrettartollur betalast hér eins og brukast á ödrumm Stödumm i líkum tilfellum enn þad er veniulegt ad hver madur gialde 1 lamb, i lambatoll, sem rekur 10 kindur i afrett“.

Í jarðamati 1804 var ekki getið um afrétt í tengslum við Velli. Þar var heldur ekki lagt mat á Stafn, en hinn bóginn tekið fram að það land væri nýtt á vegum Sveinsstaða. Í jarðamati 1849 sagði meðal annars um Velli: „Jörðinni fylgir Afréttur fremst í Skíðadal, er nefnist: Almenníngur, Stafnstúngur og Vesturárdalur; á þessum afrétti er grasatekja sem álýtst að beri 600 fjár og 10 trippi.“

Í skjali frá 5. maí 1883, sem bar fyrirsögnina: „Skyrsla um landamerki einsog þau nú eru haldin á byggðum jörðum og Afrjetti í Skíðadal, sem er eign Vallakirkju“, sagði meðal annars: „2. Gljúfrárkot ... Að sunnan ræður Gljúfuráin merkjum frá Skíðadalsá fram til jökla ... 3. Sveinstaðir. Merkjum að sunnan ræður Vesturáin frá Skíðadalsá fram til jökla, og aðgreinir nefnd Vesturá Sveinstaðaland frá svokölluðum Stafnstungum ... 7. Afrjettir fremst í Skíðadal a) Almenningsfjall, það er austan Skíðadalsár b) Stafnstungufjall, það er vestan Skíðadalsár. Land þetta liggur að þeim kennileytum sem hjer segir, að norðan við Almenning ræður Gljúfuráin merkjum frá Skíðadalsá fram til fremstu vatna upptaka, sem sjá má um Gljúfrárkots merki að sunnan þeim megin. Að vestan við Stafnstungur, þar afmarkar Vesturáin frá Skíðadalsá fram til fremstu vatna upptaka, sjá þar um við Sveinstaðamerki að sunnan.“ Skjalið var áritað um samþykki fyrir þrjár jarðir, sem koma ekki frekar við sögu í málinu. Það virðist hafa verið fært í landamerkjabók, en ekki liggur fyrir hvenær það var þinglesið.

Landamerkjabréf var gert fyrir Velli 24. maí 1883 og þinglesið 28. maí 1890. Þar virðist eingöngu hafa verið lýst merkjum heimalands jarðarinnar og fjögurra hjáleiga hennar, sem engu skipta fyrir mál þetta.

Þess var áður getið að þrjár jarðir í Hörgárbyggð, Baugasel, Féeggsstaðir og Sörlatunga, liggi að suðurmerkjum Skíðadalsafréttar, en fyrir hverja þeirra var gert landamerkjabréf 23. og 31. mars 1884 og voru þau öll lesin á manntalsþingi 29. maí sama ár. Í bréfum þessum var ekki lýst norðurmerkjum jarðanna, heldur voru tilgreind merki þeirra til austurs og vesturs, sem tóku mið af tilteknum ám, að ætla má til upptaka þeirra. Bréfin voru ekki árituð um samþykki vegna Skíðadalsafréttar.

Samkvæmt beiðni Svarfaðardalshrepps kvaddi sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu tvo menn 15. júní 1904 til að meta til verðs jarðirnar Gljúfurárkot og Sveinsstaði „og afrjett, allt í Svarfaðardalshreppi og tilheyrandi Vallaprestakalli“. Matsmennirnir gerðu af þessu tilefni samantekt undir fyrirsögninni: „Lýsing og virðing á Vallakirkjueigninni Gljúfurárkoti, Sveinsstöðum og afrétt fremst í Skíðadal“ sem ekki var dagsett. Í henni var gerð grein fyrir landi hvorrar þessara jarða og nýtingu þess, en þar kom ekkert fram, sem ástæða er til að rekja hér. Afréttinum var á hinn bóginn lýst á eftirfarandi hátt: „Hún nær yfir svokallaðan Litladal, Almenning og Stafnstungur, sem allt er bratt og fjalllendi með gróðri neðan til í hlíðum mikið kjarngóðu, en kemur því miður seint til afnota á vori hverju vegna fannfargs. Eptir áliti nákunnugra og gamalla manna er talið að afréttur þessi beri á meðal ári 1000 sauðfjár og 10 trippi, en þá muni hún fullsetin vera.“ Matsmennirnir komust að þeirri niðurstöðu að verðmæti Gljúfurárkots væri 650 krónur, Sveinsstaða 1.300 krónur og afréttarins 550 krónur, eða samtals 2.500 krónur. Oddviti Svarfaðardalshrepps ritaði 13. maí 1905 bréf til prestsins á Völlum og fór þess á leit að prestakallið seldi sveitarfélaginu jarðirnar Gljúfurárkot og Sveinsstaði „ásamt Sveinstaðaafrétt“. Fjallað var um þá beiðni á safnaðarfundi 21. sama mánaðar og var niðurstöðunni þar lýst á eftirfarandi hátt í fundargerð: „Fundurinn áleit að selja skyldi jarðirnar, en fól jafnframt presti, sóknarnefnd og safnaðarfulltrúa það á hendur að sjá um, að jarðirnar yrðu ekki seldar prestakallinu í skaða.“ Í framhaldi af þessu beindi presturinn á Völlum til stjórnarráðsins beiðni til konungs 9. ágúst 1905 um heimild handa prestakallinu til að selja Gljúfurárkot, Sveinsstaði og Skíðadalsafrétt, en í henni kom meðal annars fram að Svarfaðardalshreppur væri reiðubúinn til að greiða kaupverð að fjárhæð samtals 3.000 krónur. Í bréfi til stjórnarráðsins 22. sama mánaðar mælti prófasturinn í Eyjafjarðarprófastsdæmi með því að beiðnin yrði tekin til greina, en áður hafði héraðsfundur í prófastsdæminu lýst sig samþykkan henni. Þá lýsti biskupinn yfir Íslandi sig einnig samþykkan þessu í bréfi til stjórnarráðsins 7. september 1905, en þar var sérstaklega bent á að tilkvaddir menn hefðu metið jarðirnar tvær og afréttinn á 2.500 krónur, hreppurinn byðist til að greiða 3.000 krónur, jarðirnar lægju „langt fram til fjalla og teljast vegna snjóþyngsla og harðviðra lítt byggilegar til frambúðar“ og hefði hreppurinn mikla þörf fyrir afréttarland, sem væri af skornum skammti. Konungur heimilaði söluna með bréfi 14. október 1905. Í málinu liggur ekki fyrir afsal á grundvelli þessarar heimildar, en óumdeilt er að Svarfaðardalshreppur hafi í kjölfarið eignast Gljúfurárkot, Sveinsstaði og Skíðadalsafrétt. Áfrýjandi er nú kominn í stað þess hrepps eftir sameiningu hans við tvö önnur sveitarfélög á árinu 1998.

Í fasteignamati 1916 til 1918 kom meðal annars fram að Vellir ættu „rjett til upprekstrar í afrjett, sem er sveitareign.“ Þá var sérstakur liður undir fyrirsögninni: „Sveinsstaða afrjettur“. Þar kom fram að sá afréttur tilheyrði Svarfaðardalshreppi, hann lægi „fyrir botni Skíðadals“ og hafi „jarðirnar Gljúfurárkot og Sveinsstaðir ... verið lagðar í eyði og lönd þeirra gjörð að afrjetti.“ Matsverð afréttarins var ákveðið 1.200 krónur.

Í svari hreppstjóra Svarfaðardalshrepps 15. mars 1920 við fyrirspurn sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu um afréttarland í hreppnum kom fram að einn afréttur væri þar, sem ekki hafi tilheyrt einhverju lögbýli. Þetta væri svonefndur Almenningur, sem „tilheyrði áður Vallakirkju, en er nú hluti af afrjetti þeirri, sem Svarfaðardalshreppur hefir keypt fyrir nokkrum árum.“ Eftirfarandi var síðan tekið fram: „Almenningur þessi liggur fremst í Skíðadal, austanvert, fyrir framan bygðina, 25-30 km. frá sjó. Þar eru upptök Skíðadalsár, og renna í hana 2 minni ár, áður en til bygða kemur. Í ánni er dálítill foss, nokkru neðar en fremsta býlið stóð, og teldist fossinn þá, að hálfu leyti, tilheyra því, en Almenningi hinn helmingur.“ Sýslumaður lét þetta bréf fylgja svari sínu til stjórnarráðsins 27. september 1920, sem gert var í tilefni af fyrirspurn þess 29. desember 1919 um almenninga og afréttarlönd í Eyjafjarðarsýslu.

IV

Í Landnámabók er greint frá því að Helgi hinn magri hafi numið „allan Eyjafjǫrð milli Sigluness ok Reynisness“. Eftir fyrstu tvo veturna á Íslandi hafi hann fært bú sitt að Kristnesi, en síðan „tóku menn at byggja í landnámi Helga at hans ráði.“ Segir jafnframt að Þorsteinn svarfaður, sonur Rauðs ruggu í Naumudal, hafi numið Svarfaðardal að ráði Helga, en frekari lýsingu er ekki að finna þar á landnámi í dalnum. Af þessari frásögn verður engin ályktun dregin um hvort landið, sem nú er innan merkja Skíðadalsafréttar, hafi í öndverðu verið numið.

Þegar metið er hvort fyrirliggjandi heimildir gefi til kynna að stofnað hafi verið til beins eignarréttar yfir þessu svæði verður að gæta að því að þar er að verulegu leyti lítt eða ekkert gróið hálendi, sem nær allt upp í tæplega 1400 m hæð yfir sjávarmáli. Innan merkja svæðisins er þó syðsti hluti Skíðadals, sem eftir gögnum málsins er nokkuð gróinn upp í brattar fjallshlíðar, og virðist líkt farið um Vesturárdal sunnan við ána, sem hann dregur heiti sitt af. Þrátt fyrir það gæti land þetta eitt út af fyrir sig vart hafa nægt undir sjálfstæða bújörð og liggur ekkert fyrir um að þar hafi nokkru sinni verið byggð. Skíðadalsafréttur er á hinn bóginn umlukinn landi, sem er háð beinum eignarrétti eftir niðurstöðum óbyggðanefndar. Þótt það land virðist á köflum vera áþekkt að því er varðar hæð yfir sjávarmáli og gróðurfar verður að taka tillit til þess að þar er um að ræða hluta af stærri landsvæðum, sem eru að öðru leyti á grónu undirlendi.

Samkvæmt gögnum málsins eru elstu heimildir um land innan núverandi merkja Skíðadalsafréttar í máldögum Ólafs Rögnvaldssonar frá 1461 og síðar og svonefndu Sigurðarregistri frá 1525, en þær voru efnislega samhljóða um að kirkjan á Völlum ætti allan Skíðadal og Vesturárdal að merkjum við Hólaá og Sveinsstaði. Án nánari tilgreiningar var Skíðadalsafréttur sem fyrr segir nefndur því heiti í öðru samhengi í máldagabók Guðbrands Þorlákssonar, sem tók til tímabilsins frá 1590 til 1615. Á árinu 1631 kom síðan fram í vísitasíubók Þorláks Skúlasonar að kirkjan á Völlum ætti allan afrétt frá merkjum Gljúfurár til merkja Sveinsstaða. Að þessu gættu virðist hafa verið byrjað að ræða um þetta land sem sérstakt svæði í síðasta lagi á seinni hluta 15. aldar og það verið komið með þau merki til norðurs og austurs, sem lögð eru til grundvallar í málinu, ekki síðar en 1631. Í tengslum við þetta verður að líta til þess að frá Völlum til nyrstu merkja Skíðadalsafréttar eru sem fyrr segir um 19 km og eiga þar á milli fjölmargar jarðir nú land, en í gögnum málsins verður ekkert séð, sem bendir til að jarðareign Valla geti á einhverju stigi hafa náð yfir allt það svæði. Samkvæmt áðurnefndum heimildum frá árabilinu 1318 til 1631 átti kirkjan á Völlum jörðina Stafn, sem var syðst þeirra jarða sem núverandi merki Skíðadalsafréttar liggja að. Eins kom fram í jarðabók frá 1712 að Vallastaðir ættu Stafn, sem væri fornt eyðiból og notað „með tilliggjandi löndum“ sem afréttur fyrir lömb og geldfé. Eftir sem áður var Stafns þó getið í talningu jarðeigna kirkjunnar á Völlum í heimildum frá 1760 og 1782. Í þessu ljósi eru ekki efni til að álykta að land innan merkja Skíðadalsafréttar kunni áður að hafa átt undir Stafn, en þeirrar jarðar var getið í fyrrnefndum máldögum Ólafs Rögnvaldssonar um leið og kirkjunni á Völlum var í fyrsta sinn sérstaklega eignað land með tilteknum ummerkjum í Skíðadal og Vesturárdal fyrir sunnan og vestan jörðina. Sveinsstaðir, sem komu næstir Stafni í röð jarða með merki að Skíðadalsafrétti, voru fyrst taldir meðal eigna kirkjunnar á Völlum í Sigurðarregistri á árinu 1525, en þriðju jarðarinnar, sem ætla verður að hafi haft slík merki, Gljúfurár, hafði áður verið getið sem eignar kirkjunnar í máldögum Ólafs Rögnvaldssonar. Í sömu heimildum var þó einnig rætt um Skíðadalsafrétt sem sérstakt landsvæði, svo og að það væri háð réttindum kirkjunnar á Völlum. Verður því ekki séð að kirkjan geti hafa skilið land á Skíðadalsafrétti í einu lagi undan þessum jörðum eftir að þær komust í eigu hennar. Að þessu öllu virtu er ekki að sjá að nokkuð komi fram í fyrrgreindum heimildum, sem geti varpað ljósi á hvenær þessi réttindi kirkjunnar hafi nánar orðið til, hvernig það hafi gerst eða hvort aðrir kunni áður að hafa haft þau á hendi. Af þessum heimildum verður heldur ekki ályktað að stofnað hafi verið til beins eignarréttar yfir landi, sem nú er innan merkja Skíðadalsafréttar.

Í tveimur elstu heimildunum um réttindi kirkjunnar á Völlum yfir landi innan merkja Skíðadalsafréttar, máldögum Ólafs Rögnvaldssonar frá 1461 og síðar og Sigurðarregistri frá 1525, var sem áður segir rætt um að hún ætti allan Skíðadal og Vesturárdal að tilteknum mörkum. Á hinn bóginn var í máldagabók Guðbrands Þorlákssonar fyrir tímabilið frá 1590 til 1616 greint frá svonefndum reit kirkjunnar að Urðum í Skíðadalsafrétti, í vísitasíubókum Þorláks Skúlasonar og Einars Þorsteinssonar sagði á árunum 1631og 1692 að kirkjan á Völlum ætti allan afrétt frá merkjum Gljúfurár og Sveinsstaða, í vísitasíubók Jóns Vigfússonar var tekið fram 1686 að sama kirkja ætti allan Skíðadalsafrétt og var það sama gert í fimm lögfestum presta á Völlum á árabilinu frá 1622 til 1776. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 sagði sem fyrr greinir að kirkjan á Völlum ætti afrétt lengst fram í Skíðadal, jörðin Stafn væri með aðliggjandi löndum notuð sem afréttur fyrir Velli og aðra, sem fengju til þess leyfi, en um Almenning, sem er innan núverandi merkja Skíðadalsafréttar, var tekið fram að það væri heiti á stóru fjalli og hafi „allur hreppurinn að fornu“ átt þangað upprekstur fyrir geldfé, lömb og naut. Í vísitasíubók Halldórs Brynjólfssonar var á árinu 1748 rætt um að allur Skíðadalur og Vesturárdalur frá merkjum Hólaár og Sveinsstaða væru ítak kirkjunnar á Völlum og sagði það sama 1752 í vísitasíubók prófasts með þeirri viðbót að þetta væri ítak eftir máldögum Ólafs Rögnvaldssonar og Sigurðarregistri. Í brauðalýsingu frá 1782 var allur Skíðadalsafréttur einnig sagður vera ítak kirkjunnar á Völlum. Í lögfestu prests á Völlum frá 1792 kom fram að hún ætti Skíðadalsafrétt og var jafnframt borin upp kvörtun við sýslumann um að sveitarmenn, sem svo voru nefndir, sýndu af sér ójöfnuð og yfirgang með því að reka þangað fé í leyfisleysi, svo og að neita að greiða fyrir afréttarnotin með því að vísa til þess að þangað ættu þeir skylduupprekstur. Því væri presturinn ósammála sökum þess að kirkjan ætti afréttinn og krefðist hann úrskurðar sýslumanns um hvort þessi not væru heimil. Þessu svaraði sýslumaður sem áður segir með því að mæla fyrir um að enginn mætti nota land Vallastaðar í Skíðadal til beitar án leyfis prestsins og greiðslu afréttartolls, sem skyldi vera sá sami og „brukast á ödrumm Stödumm i líkum tilfellum“. Í jarðamati 1849 var tiltekið að jörðinni Völlum fylgdi afrétturinn Almenningur, Stafnstungur og Vesturárdalur, sem gæti borið tiltekinn fjölda búfjár. Í skýrslu um landamerki frá 1883 var meðal annars greint frá merkjum afréttar Vallakirkju fremst í Skíðadal, en á árunum 1904 og 1905 var hann síðan metinn til fjár og seldur Svarfaðardalshreppi ásamt Gljúfurárkoti og Sveinsstöðum til afnota fyrir jarðir í hreppnum. Í fasteignamati 1916 til 1918 var afrétturinn, sem var þó kenndur við Sveinsstaði, metinn til verðs í einu lagi með síðastnefndum tveimur jörðum, sem hafi verið lagðar til hans. Loks er þess að geta að í áðurnefndu bréfi hreppstjóra Svarfaðardalshrepps frá árinu 1920 var rætt um að Almenningur, sem hafi áður tilheyrt Vallakirkju en væri orðinn hluti af afrétti fyrir botni Skíðadals, væri eini afrétturinn í hreppnum, sem ekki hafi tilheyrt einhverju lögbýli.

Þegar litið er í heild til þeirra mörgu heimilda, sem hér var getið, er ljóst að allt frá því um árið 1600 hefur landsvæðið, sem deilt er um í málinu, nánast undantekningalaust verið nefnt þar berum orðum afréttur, í nokkrum tilvikum var afrétturinn sagður vera ítak kirkjunnar á Völlum, deilt var um hvort þörf væri heimildar til upprekstrar á hann og hvort greiðsla afréttartolls ætti að koma fyrir. Ekkert kemur þar fram um að þetta svæði hafi verið notað til annars en upprekstrar búfjár. Standa því engin viðhlítandi rök til annars en að líta svo á að réttindi kirkjunnar á Völlum, á síðari stigum Svarfaðardalshrepps og nú áfrýjanda, yfir þessu landi hafi verið fólgin í óbeinum eignarréttindum til hefðbundinna nota á því til upprekstrar og annars þess, sem afréttir hafa í aldanna rás almennt verið hafðir til. Eins og fyrrgreindum atvikum var háttað gat Svarfaðardalshreppur ekki við áðurnefnd kaup sín snemma á 20. öld haft nokkra réttmæta ástæðu til að ætla að hann myndi öðlast með þeim beinan eignarrétt yfir Skíðadalsafrétti. Að þessu öllu gættu og með því að varakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi er ekki reist á nokkrum haldbærum rökum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Það athugast að mál þetta var þingfest í héraði 28. júní 2012, en áfrýjandi fékk síðan ítrekað fresti til að leggja fram önnur gögn en stefnu, sem loks var gert 10. janúar 2013. Stefndi tók til varna með greinargerð, sem var lögð fram 7. mars sama ár. Málið var því næst tekið fyrir 13. september 2013 til ákvörðunar um hvenær farið yrði á vettvang, en það var ekki gert fyrr en 19. ágúst 2014. Rúmu ári síðar, 25. september 2015, var þingað í málinu og getið um sáttatilraunir milli aðilanna, en í þinghaldi 3. desember sama ár var því lýst að þær hafi ekki borið árangur og fór aðalmeðferð fram 14. sama mánaðar. Dómur var loks upp kveðinn 5. febrúar 2016 að fram komnum yfirlýsingum aðilanna um að þeir teldu ekki þörf á að flytja málið á ný. Þessi málsmeðferð, sem tók samkvæmt framansögðu meira en hálft fjórða ár, er stórlega aðfinnsluverð.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Dalvíkurbyggðar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.200.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. febrúar 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember sl., var höfðað með stefnu Dalvíkurbyggðar, kt. 620598-2089, Ráðhúsinu, Dalvík, á hendur íslenska ríkinu, birtri 9. maí 2012.

Dómkröfur stefnanda eru:

Aðallega: Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í málinu nr. 1/2009, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna, þess efnis að Skíðadalsafrétt sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Skíðadalsafrétt, svo sem landsvæðið er afmarkað hér á eftir, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Upphafspunktur er þar sem Gljúfurá fellur í Skíðadalsá (1). Þaðan er haldið upp með Skíðadalsá þar til Vesturá rennur í hana (2). Þaðan er Vesturá fylgt til fremstu upptaka og þaðan í sýslumörk milli Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslna (3). Sýslumörkum er svo fylgt til suðurs, að fyrrum hreppamörkum Skriðuhrepps og Svarfaðardalshrepps við sunnanverðan Skíðadalsjökul (Leiðarhnjúkar 1312 m) (4). Þaðan er fyrrum hreppamörkum fylgt til austurs að Gljúfurárjökli og síðan með suður- og austurmörkum jökulsins (eins og þau voru við setningu þjóðlendulaga hinn 1. júlí 1998), í Gljúfurá (5) og með henni að upphafspunkti, þar sem Gljúfurá fellur í Skíðadalsá.

Til vara gerir stefnandi þá kröfu að mörk þjóðlendu og eignarlands í Skíðadal séu:

Lína er dregin frá sveitarfélagamörkum í botni Vesturárdals niður þann dal eftir Vesturá þar til komið er að 500 metra hæðarlínu, þá er þeirri hæð fylgt niður vesturtungur, yfir Stafnstunguháls og inn Austurtungur allt að Skíðadalsá.  Þegar komið er yfir í Almenning er línan dregin niður Almenning í 100 metra fjarlægð frá Skíðadalsá allt þar að sem Gljúfrá rennur í Skíðadalsá.  Þá er línan dregin upp Almenningsöxl, 100 metra sunnan Gljúfrár og áfram inn Litladal all að jökulsporði Gljúfrárjökuls. Áfram eftir jökulröndinni upp að sveitafélagamörkum og þeim fylgt þar til hringnum er lokað í botni Vesturárdals.

Stefnandi krefst úr hendi stefnda málskostnaðar að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, eða samkvæmt mati dómsins eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.

Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður.  Til vara krefst stefndi þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

I.

1.         Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls.  Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd.  Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri og nyrðri hlutann.  Var síðar greint svæði nefnt „vestanvert Norðurland, nyrði hluti (7B)“.  Svæðinu var síðar skipt í tvö mál, þ.e mál nr. 1/2009, sem var nánar afmarkað þannig:  Tröllaskagi norðan Öxnadalsheiðar, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna og mál nr. 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar.  Er hið fyrrnefnda svæði hér til umfjöllunar.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins á umræddu landsvæði, þ.e. í máli nr. 1/2009, svæði 7B, bárust óbyggðanefnd 11. maí 2009.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum aðila, m.a. stefnanda, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 22. maí sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 25. ágúst 2009.  Kom jafnframt fram að yfirlýsingum um kröfugerð og málsmeðferð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði.  Samkvæmt gögnum voru kröfur fjármálaráðherra gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar.  Jafnframt var málið kynnt í fjölmiðlum.

Óbyggðanefnd tilkynnti breytingu á kröfusvæðinu í Lögbirtingablaðinu 5. mars 2010 og var þá á ný skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis íslenska ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 7. júní það ár.

Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt.  Lögboðin kynning fór fram með því að yfirlit og uppdrátturinn lágu frammi á skrifstofum fyrrnefndra sýslumanna frá 5. mars til og með 6. apríl 2010, sbr. 12. gr. laga nr. 58, 1998, og var athugasemdafrestur veittur til 13. apríl sama ár.  Vegna áðurnefndra breytinga fór fram sérstök kynning og var frestur veittur vegna þeirra til 7. júní 2010.  Engar athugasemdir bárust fyrir lok athugasemdafrests.

Vettvangsferð vegna máls óbyggðanefndar nr. 1/2009 fór fram 31. ágúst 2009.  Málið var fyrst tekið fyrir af nefndinni, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni héraðsdómara, og Sif Guðjónsdóttur héraðsdómslögmanni, og forsvarsmönnum aðila 19. nóvember 2009.  Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð.  Við aðra fyrirtekt málsins 21. janúar 2010 var m.a. lögð fram greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, en við þriðju fyrirtökuna 11. mars sama ár lögðu gagnaðilar og þar á meðal stefnandi, sem er þinglýstur eigandi Skíðadalsafréttar í Skíðadal, fram greinargerðir sínar og önnur gögn.  Þá var málið tekið fyrir hjá óbyggðanefnd 21. janúar og 11. mars og 9. apríl, en aðalmeðferð hjá nefndinni fór fram 30. apríl 2010 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi, en í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar.  Málsmeðferðin var endurupptekin 12. september 2011 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju.  Hinn 10. október sama ár kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Skíðadalsafréttur, sbr. dómkröfur aðila, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið væri í afréttareign stefnanda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu.

Stefnandi undi ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast hann við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefst ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu.  Stefnandi fékk gjafsókn þann 23. apríl 2012.

Mál þetta var þingfest 28. júní 2012.  Það var höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla.  Fyrir liggur að árið 1998 sameinaðist Svarfaðardalshreppur tveimur öðrum sveitarfélögum undir nafninu Dalvíkurbyggð, sem er stefnandi málsins.

Fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna, en hann lagði fram greinargerð sína þann 7. mars 2013.

Vettvangsferð dómsins með málsaðilum var m.a. vegna ótíðar ekki farin haustið 2013 líkt og áætlað hafði verið.  Hún var því farin ári síðar, þann 19. ágúst 2014, og var þá með í för staðkunnugur byggðamaður, Kristján Eldjárn Hjartarson, byggingafræðingur.

2.         Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum í úrskurði óbyggðanefndar, en einnig verður að nokkru vikið að öðrum gögnum sem aðilar lögðu fram eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurður óbyggðanefndar skiptist í sjö kafla og er 175 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun svo og þeim sjónarmiðum sem aðilar byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og afmörkun, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins, en þar er einkum byggt á heimildaröflun og samantekt frá Þjóðskjalasafni Íslands.  Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum aðila.

3.         Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Landnámu.  Segir þar m.a. frá því að Þorsteinn „svarfaðr“, sonur Rauðs ruggu í Naumudal, hafi numið Svarfaðardal að ráði landnámsmannsins Helga hins magra.  Staðhæft er að Landnáma geti ekki um landnám einstakra jarða í Svarfaðardal og Skíðadal, en að þar sé þó getið um Skíða í Skíðadal og að dalurinn sé við hann kenndur.  Tekið er fram að umræddur Skíði sé ekki sá hinn sami og getur um í Svarfdælu.

Í úrskurði óbyggðanefndar er sérstaklega fjallað um hið umþrætta landsvæði, Skíðadalsafrétt, og tengsl þess við jörðina Velli í Svarfaðardal.  Þá er í úrskurðinum fjallað um býli og jarðeignir, sem tengjast ágreiningssvæðinu, en þá einkum jarðirnar Gljúfurárkot, Sveinsstaði og Stafn í fremsta hluta Skíðadals, en einnig er lauslega vikið að þremur jörðum austan fjallgarðs í Hörgárdal, þ.e. Féeggstöðum, Baugaseli og Sörlatungu.

Í úrskurðinum segir nánar um staðhætti í Skíðadal og um ágreiningsefnið:

Skíðadalur liggur á austanverðum Tröllaskaga og teygir sig norðan frá Svarfaðardal suður undir Stafnstungnafjall og Skíðadalsjökul.  Í máli þessu er einungis deilt um þann hluta dalsins sem liggur lengst inn til landsins, nánar tiltekið innan við Gljúfurá og sunnan Vesturár.  Þar er undirlendi í u.þ.b. 300 m hæð yfir sjávarmáli og mikið fjalllendi. Með ánum og upp í fjallshlíðar er landið nokkuð gróið.

Svæði þessu má í megindráttum skipta í tvennt, annars vegar norðvestan og hins vegar suðaustan við Skíðadalsá.

Norðvestan Skíðadalsár, sunnan Vesturár, er Stafnstungnafjall (1213 m). Norðan í fjallinu eru Vesturtungur og suðaustan í því eru Austurtungur.  Vestan Stafnstungnafjalls er Staðargangnafjall (1364 m).

Á þeim hluta svæðisins sem liggur suðaustan Skíðadalsár er Almenningsfjall (1295 m) nyrst en Gljúfurárjökull, innst í Gljúfurárdal, austan þess og sunnan. Suðvestan við Almenningsfjall, sunnan Stafnstungnafjalls, er Skíðadalsjökull og þaðan rennur Skíðadalsá norðaustur til sjávar.

 

4.         Í úrskurði óbyggðanefndar er einkum vísað til gagna sem Þjóðskjalasafnið aflaði um nýtingu, réttindi og afmörkun áðurnefndra býla í Skíðadal og um tengsl þeirra við önnur býli og þá helst við höfuðbýlið á Austurkjálka Svarfaðardals, Velli.  Til þessara gagna vísa málsaðilar einnig og verða þau reifuð hér á eftir.

Í úrskurðinum er ítarlega fjallað um kirkjujörðina Velli í Svarfaðardal.  Bent er á að í fyrsta þekkta máldaga Vallakirkju, sem kenndur er við Auðun biskup rauða Þorbergsson, frá árinu 1318, segi að býlið Stafn sé á meðal jarðeigna hennar, en að öðru leyti sé ekki getið um Skíðadal og afdal hans, Vesturárdal.  Þá segir að hið sama komi fram í máldagabók Péturs biskups Nikulássonar frá 1394 og í vísitasíum Jóns biskups Vilhjálmssonar frá 1429 og 1431.  Bent er á að breyting verði þarna á, þar sem í máldagadagbók Ólafs biskups Rögnvaldssonar, frá 1461, segi að Vallakirkja eigi: [...] allan skidadal oc vestrar dal fram fra holamarke til sueinsstada marks.  Hið sama komi fram í elsta hluta Sigurðarregisturs frá 1525.

Í úrskurðinum er á það bent að í máldaga frá því eftir 1590 segi að Urðakirkja í framdal Svarfaðardals eigi reit í Skíðadalsafrétt og að hið sama komi fram í vísitasíum kirkjunnar á 17. og 18. öldinni, en að þá sé tekið fram að eigi sé glögglega vitað hvar þessi reitur sé.

Í úrskurðinum segir að efni máldagabókar Ólafs biskups sé ítrekað í vísitasíum Vallakirkju á 17. öldinni um að kirkjan eigi allan afréttinn frá Gljúfurármerki og allt til Sveinsstaðamarks, en að í þessum heimildum komi enn fremur fram að hún eigi m.a. jarðirnar Stafn, Sveinsstaði, Krosshól og Minni-Þverá.  Bent er á að í ódagsettri vísitasíu séra Jóns Egilssonar, sem var prestur í Vallakirkju á árunum 1622 til 1658, segir að hann hafi lögfest allan Skíðadalsafrétt frá Gljúfurármarki til Sveinsstaðamarks og Þverárdal, og að það sé efnislega í samræmi við lögfestu Jóns um Vallastað frá árinu 1645, þar sem segir m.a.:  [...] þad allt annad [annad, ofan línu] sem þessum vallnastad hefur fylgt ad fornu og nyu þott adrer hallde og eckj er med Logum framkomid.  Bent er á að í vísitasíu Vallakirkju frá 1686 segi að hún eigi allan Skíðadalsafrétt með öllum Vesturárdal og hálfum Þverárdal og enn fremur að Vellir eigi jarðirnar Kóngsstaði, Sveinsstaði, Gljúfurárkot og Þverárkot og loks að prestur hafi látið byggja upp land kirkjunnar á Þverhól (Hverhóll).

Í úrskurðinum segir að á manntalsþingum á árunum 1707 og 1708 hafi séra Eyjólfur Jónsson upplesið lögfestur fyrir Vallakirkjulandi og hennar landsítökum, en enn fremur fyrir jarðeignunum Kóngsstöðum, Hverhól, Sveinsstöðum og Gljúfurárkoti.  Að auki hafi Eyjólfur í þessari sömu lögfestu lýst afrétti Vallakirkjunnar í Skíðadal með þessum takmörkum: ... fraa fremstu Vatna uppsprettu, allt ofan ad Holaar Merki fyrir austan aa, og Sveinsstada Merki fyrir Vestan, med óllum Vesturaardal og haalfum Þveraardal.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712 segi að Vellir séu kirkjustaður og beneficium, að hjáleigan Garðakot tilheyri jörðinni og enn fremur að Vellir eigi afrétt lengst fram í Skíðadal; þar sem eyðibólið Stafn liggur.  Í Jarðabókinni segir að Stafn sé fornt eyðiból Valla, en um það segir nánar: Þetta eyðiból með tilliggjandi löndum brúkar presturinn fyrir afrjett fyrir lömb og gjeldfje, og líka leyfir hann þángað upprekstur nokkrum sveitarmönnum fyrir óákeðinn góðsvilja, en ekki hefur hjer viss afréttartollur goldist, so hjer undirréttast.  Grastekja er her nokkur, sem sveitarmenn brúka öðruhvörju eftir leyfi staðarhaldarans.  Ekki þykir mönnum líklegt það muni aftur byggjast fyrir heyskaparleysi.

Í niðurlagi Jarðabókarinnar um eyðibólið Stafn segir enn fremur: Almenníngur kallast eitt stórt fjall fyrir austan Skíðadalsá og framan Gljúfurárgil. Þángað á allur hreppurinn að fornu upprekstur fyrir geldfje, lömb og naut, en lítt brúkast þessi almenníngur nú um nokkra tíma sakir harðinda og grasleysis.

Í Jarðabókinni segir í umfjöllun um jörðina Marstaði, sem er í vestanverðum Skíðadal, að hún eigi geldfjár- og lambaupprekstur í afréttarlandi Vallakirkju fremst í Skíðadal, í Stafnstungum.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að efni eldri lögfestna um réttindi Valla séu áréttuð í prófastsvísitasíu frá 5. júlí 1725.  Þá hafi séra Eyjólfur Jónsson á manntalsþingi að Völlum, þann 20. júní 1739, lögfest allan Skíðadalsafrétt að tilteknum merkjum, en einnig allan Kóngsstaðadal til jökla og að hann hafi fyrirboðið þar hverjum manni m.a. grasatekju, og peningsgöngu án síns leyfis.  Hafi eftirmenn prestsins áréttað þetta í síðari lögfestum og vísitasíum á árunum 1748 og 1776 og jafnframt staðhæft að kirkjan ætti allan Skíðadal og Vesturárdal fram frá Hólármarki til Sveinsstaðamerkis. Að auki hafi prestarnir áréttað eignarhald kirkjunnar á jörðunum Gljúfurárkoti, Sveinsstöðum, Krosshóli, Hverhóli, Kóngsstöðum og eyðibýlinu Þverárkoti.

Í úrskurðinum er bent á að í vísitasíum Vallakirkju á 18. öldinni greini frá því að hún eigi það sem gamlar vísitasíur eigni henni.  Þá er bent á að í vísitasíu kirkjunnar frá árinu 1760 segi að vegna undanfarinna stórharðinda séu jarðirnar Gljúfurárkot, Hverhóll og Garðakot komnar í eyði, en enn fremur að jarðirnar Stafn og Þverárkot hafi um langa hríð verið í eyði.

Í úrskurðinum segir að í brauðamati Þórðar Jónssonar, prests á Völlum, frá 12. ágúst 1782, sé vísað til eldri máldaga kirkjunnar og að hún eigi ítak samkvæmt máldögum: ,,... óll Skydadals afrett frá Gliufrár merke til Sveinsstada marks,…“.  Þá hafi í brauðmatinu öðrum eignum kirkjunnar og búfjárhögum verið lýst þannig: Beneficio filgia 12 Jarder med adur umgetnum heimalöndum, Nefnil. Sidra Hvarf 20 hndr. Krossholl 20 hndr. Kongsst. 10 hndr. Hverholl 10 hndr. Sveinsstader 10 hndr. Gliufrarkot 10 hndr.. Þesse 3 Kot Krossholl Sveinstader og Gliufrarkot liggia under Storum Skada ad Snioflodum og Skridum sem arlega hlaupa a londinn og Eida Eingium og heiskap item Birnunes 10 hndr. Sela 10 hndr. og adur umgetinn heimalönd Hanefsstader Uppsaler Brautarholl og hiáleigann Gardakot Hverakot og Stafn eru i Eidi sum um margra ara tyma [skjal ólæsilegt vegna skemmda] og eru ej helldur biggianleg sokum Eingia og Grasleysis.

Í úrskurðinum segir í lögfestu sem séra Þórður Jónsson hafi útbúið 15. júní 1792 hafi Skíðadalsafrétt verið eignuð Vallakirkju ásamt:  [...] óllum Hennar Lands nitium frá fremstu Vatna uppsprettu allt ofann ad Gliufrar merke fyrer austann Skÿdadals á, og Sveinsstada merke fyrir vestann, med öllum Vestur árdal [...].  Í úrskurðinum er greint frá því að tilefni lögfestunnar hafi verið það að séra Þórður hafi verið ósáttur við að sveitamenn hefðu rekið í leyfisleysi gripi sína í Skíðadalsafrétt, en bent er á að það hafi þeir flestir gert án þess að greiða fyrir og þá með vísan til þess að þeir hefðu haft þar skylduupprekstur.  Fram kemur að þessari túlkun bændanna hafi séra Þórður andmælt, enda hafi hann talið að afrétturinn væri eign Vallakirkju samkvæmt gömlum máldögum.  Að lokum hafi ágreiningi þessum verið skotið til sýslumanns, sem hafi úrskurðað á þann veg að enginn mætti nýta Vallastaðarland í Skíðadal án leyfis kirkjunnar og að þeir sveitamenn sem fengju að reka gripi sína þangað yrðu að greiða fyrir það.  Greint er frá því að sýslumaður hafi í úrskurði sínum enn fremur ákvarðað að afréttartollur skyldi vera eins og á öðrum svæðum í líkum tilfellum, þ.e. 1 lamb í lambatoll fyrir 20 reknar kindur.  Fram kemur að fljótlega hafi tollurinn verið miðaður við 10 reknar kindur.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í jarðamati árið 1804 hafi afréttarins Almennings í Skíðadal ekki sérstaklega verið getið og að þar hafi heldur ekki verið getið um afrétt í eigu Vallakirkju.  Hins vegar hefði í lögfestu sem séra Kristján Þorsteinsson útbjó þann 28. maí 1834 eftirfarandi landsvæði verið eignað Vallarkirkju:  Gliúfrárkots Land í Skídadal, frá Holármarke svonefndu ad utanverdu, og fram í gégn.

Í jarðamati um Velli árið 1849 segir um afrétt jarðarinar: [...] Jördunni fylgir Afréttur fremst í Skídadal, er nefnist: Almenníngur, Stafnstúngur og Vesturárdalur; á þessum afrétti er grasatekja sem álýtst ad beri 600 fjár og 10 trippi. [...] Jördin álítst ad gjeta borid 23 hndr.

Landamerkjabréf Vallajarðarinnar var útbúið 24. maí 1883 og þinglesið 28. maí 1890.  Í bréfinu er lýst merkjum heimalands Valla á Austurkjálka Svarfaðardals til norðurs og suðurs gagnvart nágrannabýlunum Hánefsstöðum, Ölduhrygg, Uppsölum, Sökku, Brautarhóli og Hofi og enn fremur við svonefndan Trjónubakka vestan Svarfaðardalsár í landi Grundar.  Bréfið var áritað og samþykkt af landeigendum og umboðsmönnum nefndra jarða, þar á meðal Hjörleifi Guttormssyni, presti á Völlum.

Samkvæmt gögnum hafði Hjörleifur prestur á Völlum enn fremur útbúið skjal fáeinum dögum fyrir gerð landmerkjabréfs Valla, þann 5. maí 1883, sem ber yfirskriftina:  „Skyrsla um landamerki eins og þau nú eru haldin á byggðum jörðum og afrjetti í Skíðadal, sem er eign Vallakirkju“.  Í skjalinu er m.a. lýst merkjum jarða í framdal Skíðadals, en einnig afréttar.  Í skjalinu segir m.a.:

2. Gljúfurárkot.  Merki að norðan eru eptir vörðum þremur, er standa ein á bakkanum austan Skíðadalsár, önnur skamt ofar í grasbala, þriðja ofantil á svonefndu Vindholti, síðan eptir gili, er ræður rjettri stefnu á Hólárfjall upp. Þessi merki að greina Hólárkots og Gljúfrárkotslönd. Að sunnan ræður Gljúfuráin merkjum frá Skíðadalsá fram til jökla. Vestan Skíðadalsár liggur undir Gljúfrárkot all mikill landspartur, til þessara ummerkja: Að sunnan í Rauðukeldu og Merkishaus, sjá merki að norðan við Sveinsstaðir. En að norðan ræður Syðri-Hvítilækur, sjá merki við Krosshól að sunnan. [...]

7. Afrjetti fremst í Skíðadal.

a) Almenningsfjall það er austan Skíðadalsár.

b) Stafnstungufjall, það er vestan Skíðadalsár. Land þetta liggur að þeim kennileytum sem hjer segir, að norðan við Almenning ræður Gljúfuráin merkjum frá Skíðadalsá fram til fremstu vatna upptaka, sem sjá má um Gljúfurárkots merki að sunnan þeim megin. Að vestan við Stafnstungur, þar afmarkar Vesturáin frá Skíðadalsá fram til fremstu vatnaupptaka, sjá þar um við Sveinsstaðamerki að sunnan.

Einar Ásmundsson ritaði á skjalið um samþykki vegna Syðra-Hvarfs og Kóngsstaða og Björn Jónsson vegna Gljúfurárkots.

Umrætt skjal eða landamerkjabréf var fært í landamerkjabók sýslumanns, en í úrskurði óbyggðanefndar segir að ekki liggi fyrir hvenær því var þinglýst.

Séra Hjörleifur útbjó vorið 1883 auk nefndra bréfa sérstök landamerkjabréf fyrir Gljúfurárkot og Sveinsstaði.  Þau voru efnislega í samræmi við framangreint skjal um afréttinn í fremsta hluta Skíðadals, að því er varðar suðmerki jarðanna við Gljúfurá og Vesturár.  Báðum þessum bréfum var þinglýst að Völlum 19. maí nefnt ár.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu hafi með bréfi, dagsettu 15. júní 1904, upplýst Stjórnarráðið um áhuga hreppsnefndar Svarfaðardalshrepps á að kaupa jarðirnar Gljúfurárkot og Sveinsstaði ásamt Sveinsstaðaafrétti og þessar Vallakirkjueignir yrðu metnar til peningaverðs.  Vísað er til þess að í ódagsettri lýsingu og virðingu á þessum eignum hafi Gljúfurárkot verið virt til 650 króna og Sveinsstaðir til 1300 króna.  Þá hafi afrétturinn fremst í Skíðadal verið metinn til 550 króna, eða allt til samans á 2500 krónur.  Greint er frá því að oddviti Svarfaðardalshrepps hafi áréttað kaupvilja hreppsins þann 13. maí 1905, en þá hefði enn fremur legið fyrir að prestur, söfnuður Vallakirkju og aðrir kirkjunnar menn samþykktu fyrir sitt leyti sölu á téðum jarðeignum.  Þá liggur fyrir að biskupinn hafði í bréfi til Stjórnarráðsins, þann 7. september 1905, upplýst um að Svarfaðardalshreppur hefði boðist til að greiða fyrir allar fyrrgreindar eignir 3000 krónur.

Lyktir þessa máls urðu að lokum þær að konungur gaf leyfi sitt fyrir sölu jarðeignanna þann 14. október 1905.  Voru þær í framhaldi af því seldar Svarfaðardalshreppi, sbr. bréf Stjórnarráðsins til biskups, sem dagsett er 5. desember 1905.

Samkvæmt gögnum voru útnefndir sérstakir matsmenn í tilefni lýstrar sölu, en hlutverk þeirra var að skera úr um mörk hins seldar afréttar.  Í stuttu máli var niðurstaða matsmannanna að afrétturinn næði yfir svokallaðan Litladal, Almenning og Stafnstungur.

Í úrskurði óbyggðanefndar greinir frá því að vegna fyrirspurnar Stjórnarráðs Íslands, hinn 29. desember 1919, um hvað teljist vera „almenningar“ og „afréttarlönd“ á Íslandi, sem ekki sannanlega hafa tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli, hafi sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu leitað eftir upplýsingum hjá hreppstjóra Svarfaðardalshrepps.  Segir frá því að í svarbréfi sýslumannsins, dagsettu 27. september 1920, komi fram að hreppstjóri Svarfaðardalshrepps hafi gefið þær upplýsingar að slíkur afréttur væri aðeins einn í hreppnum, svonefndur „almenningur“, og að hann hefði áður tilheyrt Vallarkirkju, en væri nú hluti af afrétti sem Svarfaðardalshreppur hefði keypt nokkrum árum áður.  Um mörk þessa afréttar segir í bréfi sýslumanns: ,,Almenningur þessi liggur fremst á Skíðadal, austanvert, fyrir framan bygðina [bygðina fyrir ofan línu] 25-30 km. frá sjó. Þar eru upptök Skíðadalsár, og renna í hana 2 minni ár, áður en til byggða kemur. Í ánni er dálítill foss, nokkru neðar en fremsta býlið stóð, og teldist fossinn þá, að hálfu leyti, tilheyra því, en Almenningi hinn helmingur ...

Með bréfi sýslumanns fylgdi áðurrakið landamerkjabréf Vallaprests fyrir afréttinn frá árinu 1883.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að við skýrslutökur hjá nefndinni hafi komið fram að Skíðadalsafréttur sé nýttur til sumarbeitar fyrir sauðfé og hross af íbúum Dalvíkurbyggðar, en að forgangsréttur að þeirri nýtingu fylgi þó lögbýlum í Svarfaðardal.

5.         Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er m.a. vísað til framangreindra heimilda um kirkjujörðina Velli í Svarfaðardal og um hinn umþrætta afrétt hennar í framdal Skíðadals.  Staðhæft er að fyrsta heimildin um þessi réttindi Vallakirkju sé máldagi frá 15. öld, en að eftir það hafi þeirra ítrekað verið getið í heimildum allt fram yfir aldamótin 1900.

Í úrskurðinum er bent á að jörðin Vellir liggi utan við ágreiningssvæðið og sé þannig aðskilin frá Skíðadalsafrétti af öðrum jörðum.  Samkvæmt heimildum hafi Vallakirkja þó lengi átti Gljúfurárkot og Sveinsstaði, en jarðirnar liggi næst afréttinni að norðan.  Hið sama hafi gilt um eyðijörðina Stafn, en sagt er að hún hafi að líkindum verið sameinuð Sveinsstöðum.

Í úrskurðinum er áréttað að árið 1905 hafi fengist konungsheimild fyrir því að Vallaprestakall seldi Svarfaðardalshreppi nefndar jarðir, Gljúfurárkot og Sveinsstaði ásamt „Sveinsstaðaafrétt“, öðru nafni Skíðadalsafrétt.  Staðhæft er að fremsti hluti Skíðadals hafi gengið undir fleiri heitum, svo sem „Afréttur“ eða „Almenningur.“

Í niðurstöðukaflanum fjallar óbyggðanefnd nánar um mörk ,,afrettar fremst í Skíðadal.“  Er þar um vísað til áðurrakinnar lýsingar í landamerkjabréfi frá 5. maí 1883, en einnig til fyrrnefndra máldaga, vísitasía, lögfestna, brauðamata og annarra heimilda um merki aðliggjandi landsvæða.  Að því sögðu segir að óumdeilt sé að til norðurs sé eignarland Sveinsstaða í Skíðadal, en að til vesturs sé ágreiningssvæði íslenska ríkisins og tiltekinna gagnaðila vegna Kolbeinsdalsafréttar í Skagafirði, sbr. mál óbyggðanefndar nr. 2/2009, en þar var niðurstaða nefndarinnar að um væri að ræða eignarland.  Þá segir að til suðurs liggi óumdeild eignarlönd Baugasels, Féeggsstaða og Sörlatungu í Hörgárdal, en að til austurs liggi land Gljúfurárkots í Skíðadal.

Það er niðurstaða óbyggðanefndar að hið umþrætta landsvæði falli innan afmörkunar landamerkjabréfs „afréttar fremst í Skíðadal“ frá árinu 1883.  Því til stuðnings bendir nefndin á að landamerkjabréfið hafi verið gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882, og að það hafi verið þinglesið og fært í landamerkjabók.  Það álit er og látið í ljós að gögn bendi til þess að merkjunum sé rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nái, en enn fremur er sagt að fyrirsvarsmenn Skíðadalsafréttar hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að svo væri.  Loks er á það bent á að ekki hafi verið ágreiningur með aðilum um afmörkun afréttarinnar þrátt fyrir að landmerkjabréfið sé óljóst um merki til suðurs og vesturs.

Fyrir dómi lýstu aðilar máls því yfir að ekki væri ágreiningur með þeim um niðurstöðu óbyggðanefndar um mörk hins umþrætta landsvæðis í Skíðadal.

Að ofangreindu sögðu tekur óbyggðanefnd til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða hins umþrætta landsvæðis.  Um það segir nánar í niðurstöðukafla úrskurðarins: Um almenna þýðingu landamerkjabréfa og hugtakanna jörð og afrétt(ur) við mat á sönnun um eignarhald á landi vísast til fyrirliggjandi umfjöllunar dómstóla og óbyggðanefndar, ... og Almennar niðurstöður óbyggðanefndar í viðauka. Svo sem þar kemur fram hafa landamerkjabréf bæði verið gerð fyrir jarðir og annars konar réttindasvæði, svo sem ítök og afrétti(r). Bréf jarða hafa haft ríkara vægi sem sönnunargögn um beinan eignarrétt og í fyrirliggjandi dómum og úrskurðum hefur að meginreglu verið komist að þeirri niðurstöðu að þau afmarki eignarland. Land utan jarða, þar á meðal afréttarland, hefur á hinn bóginn að meginreglu verið talið þjóðlenda. Notkun hugtaksins afrétt(ur) í landamerkjabréfi og/eða öðrum heimildum hefur þó ekki úrslitaþýðingu um að þar sé þjóðlenda, enda hefur merking þess ekki verið einhlít. Slíkt landsvæði er því eftir atvikum eignarland eða þjóðlenda. Á meðal þeirra atriða sem máli skipta við mat á stofnun og viðhaldi eignarréttar er eignarréttarleg staða aðliggjandi landsvæða. Jafnframt er mögulegt að unninn hafi verið réttur að áður eigendalausu landi, svo sem á grundvelli hefðar.

Að þessu sögðu er í niðurstöðukafla óbyggðanefndar það áréttað að Skíðadalsafréttur hafi legið undir Vallakirkju, að hann sé landfræðilega aðskilinn frá jörðinni og loks að hans hafi jafnan verið getið með sérstökum hætti í heimildum og þá í tengslum við upprekstur og afréttarnot.  Þá er á það bent að svæðið hafi verið nefnt afréttur í vísitasíum Vallakirkju á 17. öldinni, en einnig í fjölmörgum öðrum yngri heimildum, m.a. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en þar sé auk þess greint frá því að þangað eigi „allur hreppurinn að fornu upprekstur fyrir geldfé, lömb og naut“.  Þá er til þess vísað að á ofanverðri 18. öldinni séu heimildir um að deilur hafi verið um upprekstur á svæðið, en það hafi síðar, þ.e. árið 1883, verið afmarkað sérstaklega í landamerkjabréfi, og þá nefnt „afrjettur á Skíðadal“.

Í niðurstöðukaflanum segir að engar heimildir séu til um að á hinu umþrætta landsvæði hafi verið byggð og að það hafi aðeins verið notað til sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nytja.  Vísað er til þess að landsvæðið sé að mestum hluta hálent, fjarri byggð og að inn á það hafi búfénaður leitað án hindrana.  Lokaorðin í niðurstöðukaflanum eru þessi:

Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að Skíðadalsafrétt hafi verið afrétt Vallakirkju í þeim skilningi að hún hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Dalvíkurbyggð, sem er aðili að máli þessu, leiðir rétt sinn frá Vallakirkju.

Af frásögnum Landnámu verður ekki ráðið hversu langt upp til fjalla landnám á þessu svæði náði, …. Verða því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að a.m.k. hluti þess lands sem hér er deilt um hafi verið numinn. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til og engar heimildir eru um að þar hafi verið byggð. Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota annarra. Í því sambandi ber að líta til þess sönnunarmats sem lagt hefur verið til grundvallar um afrétti(r) einstakra jarða og/eða stofnana og styðst við fjölda dóma í sambærilegum málum, … Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem nærri Skíðadalsafrétt liggja eru bæði eignarlönd og þjóðlendur, sé litið heildstætt á niðurstöður í málum nr. 1 og 2/2009 hjá óbyggðanefnd.

Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til umrædds afréttarsvæðis hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á. Eins og notkun þess hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að Skíðadalsafrétt sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að landsvæðið sé í afréttareign Dalvíkurbyggðar.

Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum, auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Skíðadalsafrétt, svo sem landsvæðið er afmarkað hér á eftir, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Upphafspunktur er þar sem Gljúfurá fellur í Skíðadalsá (1). Þaðan er haldið upp með Skíðadalsá þar til Vesturá rennur í hana (2). Þaðan er Vesturá fylgt til fremstu upptaka og þaðan í sýslumörk milli Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslna (3). Sýslumörkum er svo fylgt til suðurs, að fyrrum hreppamörkum Skriðuhrepps og Svarfaðardalshrepps við sunnanverðan Skíðadalsjökul (Leiðarhnjúkar 1312 m) (4). Þaðan er fyrrum hreppamörkum fylgt til austurs að Gljúfurárjökli og síðan með suður- og austurmörkum jökulsins (eins og þau voru við setningu þjóðlendulaga hinn 1. júlí 1998), í Gljúfurá (5) og með henni að upphafspunkti, þar sem Gljúfurá fellur í Skíðadalsá.

Sama landsvæði er í afréttareign Dalvíkurbyggðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Svæði það sem hér hefur verið lýst þjóðlenda er háð sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. náttúruminjaskrá.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Aðalkröfu sína byggir stefnandi á því að samkvæmt meginreglu stjórnskipunarréttar sé eignarrétturinn friðhelgur.  Stefnandi staðhæfir að umrætt landsvæði, Skíðadalsafréttur, eins og því er lýst hér að framan, sé háð eignarrétti/eða sé eign hans, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína auk þess á eftirfarandi rökum:

Hann byggir á því að umrætt landsvæði hafi frá öndverðu verið numið og hafi sá eignarréttur ekki fallið niður síðan og því sé hið umdeilda land háð eignarrétti hans.  Þessu til stuðnings vísar hann til skýrrar lýsingar í Landnámu um Svarfaðardal og Skíðadal um að allt landið hafi verið numið.  Hann bendir á að oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands, í máli frá 1960, bls. 726 og frá 1994, bls. 2228, sbr. og fyrri niðurstöður óbyggðanefndar.

Stefnandi byggir á því að landsvæði með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Hann vísar til þess að hér sé um meginreglu íslensks eignarréttar að ræða og áréttar að umrætt landsvæði hafi allt frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir ekki í bága við áðurrakið landamerkjabréf fyrir Skíðadalsafrétt.  Þá sé til þess að líta að við landnám hafi landið verið betur gróið og náð lengra inn á heiðar en nú sé og hafi verið skógi vaxið.  Úrskurður óbyggðanefndar sé því rangur og brjóti hann í bága við fyrrgreint eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Við flutning málsins byggði stefnandi stefnukröfur sínar á áðurröktum heimildum og þá sérstaklega þeirri elstu, máldaga Ólafs biskups frá árinu 1461, svo og sölubréfi fyrir landsvæðið frá árinu 1905 og á réttmætum væntingum því tengdu.  Hann benti á að greindar heimildir vísi til þess að landsvæðið hafi allt frá námi verið eignarland og að það hafi í byrjun 20. aldar verið selt sem slíkt.

Stefnandi byggir á því að við setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan laga nr. 41, 1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna og þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi um merki ef slíkt væri fyrir hendi.  Hann byggir á því að í ljósi tilgangs landamerkjalaganna bendi allt til þess að Skíðadalsafréttur sé landsvæði sem háð sé beinum eignarrétti, enda byggi áðurrakið bréf um merki svæðisins frá 1883 á fyrrgreindum eldri heimildum, en um það vísar hann til þess sem rakið var úr úrskurði óbyggðanefndar hér að framan.  Hann staðhæfir að eldri heimildir fari ekki gegn landamerkjabréfinu.  Í því viðfangi bendir hann á það sjónarmið er fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, en þar hafi verið talið skipta máli hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort að með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 47/2007.  Hann byggir einnig á því að jörð sem hafi verið lögð til afréttar sé eignarland, sbr. dóm Hæstaréttar í máli frá árinu 1971, bls. 1137.

Stefnandi byggir á því að hann hafi farið með ráðstöfun á öllum þeim heimildum/réttindum sem fylgi Skíðadalsafrétti, en hann hafi m.a. nýtt sér hann til beitar, líkt og rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar.  Hann vísar til þess að ekki sé ágreiningur um mörk svæðisins og þá gagnvart nálægum landsvæðum, en bendir jafnframt á að ítak sé ævinlega í eignarlandi.

Stefnandi bendir á að hann hafi greitt skatta og önnur lögboðin gjöld af öllu landinu.  Þá vísar hann til þess að eignarréttur hans hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð, þar á meðal af stefnda, sem m.a. hafi lýst sér í því að hann hafi getað bannað öðrum not eignarinnar.  Eignarréttur hans hafi einnig verið virtur í öllum viðskiptum, en af þeim sökum sé eignarhald hans einnig byggt á viðskiptavenju.

Stefnandi byggir á því að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti í skilningi fyrrnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því að hann og þeir sem hann leiðir rétt sinn frá tóku að nytja landið.  Áréttar hann að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi hans sem landeiganda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema eigendur þess.  Sjónarmiði óbyggðanefndar þess efnis að flokka hefð með lögum sem frumstofn eignarréttar hafi ekki verið hnekkt af Hæstarétti. 

Stefnandi byggir á því að úr því að hefðarlög heimila eignarhefð, sem sé í opinberri eigu, þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé háð eignarrétti.  Um þetta vísar hann nánar til dóma Hæstaréttar, m.a. frá árinu 1997, bls. 2792, og frá árinu 1999, bls. 28, þar sem eignarhefð hafi verið viðurkennd.

Stefnandi áréttar að 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann sé hluti af íslenskum rétti og því beri dómstólum að taka mið af þeim sjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar af MDE við mat á því hvort um sé að ræða eign sem njóti verndar samkvæmt lagagreininni.

Stefnandi bendir á að fræðimenn hafi talið að eignarhefð verði unnin á landi hvort sem um sé ræða afrétt eða almenning ef skilyrðum hefðar sé á annað borð fullnægt, en að þá hafi verið talið að gera þyrfti strangari kröfur um not ef um eigendalaust landsvæði sé um að tefla.  Jafnframt hafi verið talið að slaka mætti á kröfum til eignarhalds eftir því sem verðmætið og allar aðstæður gæfu minna tilefni til víðtækari umráða og fjölbreyttari nota.  Hann byggir á því að hér hátti svo til að venjuréttur og hefð falli saman og eigi það að leiða til þess að öll þau réttindi sem fylgi umræddri eign eigi að tilheyra honum þar sem hann og fyrri eigendur hafi nýtt þau réttindi öldum saman.

Stefnandi bendir á að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstóli Evrópu.

Stefnandi bendir enn fremur á þau sjónarmið sem MDE hafi lagt til grundvallar um lögmætar væntingar landeigenda, en þær séu verndaðar af fyrrnefndum ákvæðum, sérstaklega nefndri 1. gr., ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur eru við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.

Stefnandi byggir á því, að verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem hann hafi teflt fram í málinu séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi, en slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar.

Stefnandi byggir á því að hann hafi sannað með málatilbúnaði sínum beinan eignarrétt sinn að umræddu landi, en að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að það hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrána eignast landið.  Þvert á móti styðji öll gögn málsins greint eignartilkall hans.

Stefnandi gerir í málarekstri sínum og málflutningi ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar og þar með röksemdir stefnda.  Falla þær í meginatriðum saman við áðurraktar málsástæður og lagarök hans.  Hann áréttar m.a. að það sé almenn lagaregla á Íslandi, að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og að frá þeirri reglu verði ekki vikið nema að sá sem véfengir réttmæti eignarheimildarinnar sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn.  Telur stefnandi að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á hann standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né heldur Mannréttindasáttmála Evrópu, en að auki sé málatilbúnaður stefnda í andstöðu við tilgang löggjafans, sbr. að því leyti 1. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Stefnandi vísar til almennra forsendna í úrskurði óbyggðanefndar um hefð og þýðingu hefðar við úrlausn þjóðlendumáls.  Í því sambandi vísar hann til þess að Skíðadalsafréttur sé innan þinglýstra landamerkja og háð einkanýtingarétti hans og nýttur þannig, enda sé enginn ágreiningur um mörk afréttarins.  Hann vísar enn fremur til þess að ítak sé ævinlega í eignarlandi.  Vegna þessa sé hefð augljóslega fullnuð á umræddu landsvæði.

Með vísan til alls ofangreinds byggir stefnandi á því að óbyggðanefnd hafi metið ranglega sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á hann, sem ekki fái staðist í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, og því beri að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Um varakröfu sína vísar stefnandi til uppdráttar af hinu umþrætta landsvæði sem sýnir mörk hennar, sbr. dskj. 67.  Hann vísar til þess varkrafan hafi verið mótuð og komið endanlega til við vettvangsgöngur og upphaflega verið sett fram sem sáttatillaga.

Stefnandi styður varakröfuna einkum þeim rökum, að innan marka hennar sé land undir 500 m, en um sé að ræða láglendið í Vesturdal og í Skíðadalsbotni.  Hann vísar til þess að á hinu afmarkaða svæði séu góð beitilönd fyrir sauðfé og hesta, en enn fremur sé umrætt svæði landfræðilega og gróðurfarslega alveg af sama meiði og aðrir hlutar Sveinstaðaafréttar vestan Skíðadalsár.  Stefnandi bendir á að við leitir fari gangnamenn fram Almenning og Litladal, en einnig með Skíðadalsánni og því sé eðlilegt að um 100 metra rönd meðfram henni að austanverðu tilheyri afréttinum, enda hafi það svæði áður tilheyrt jörðunum Stafni og Sveinsstöðum.

Stefnandi vísar að öðru leyti til áðurrakinna málsástæðna, þ.e. að landsvæðið hafi verið numið, að það hafi tilheyrt jörð eða jörðum en verið seinna lagt til afréttar, að eignarréttur stefnanda og forvera hans hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð.  Þá vísar hann til venjuréttar og hefðarreglna og loks til eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Um lagarök vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr.  Hann vísa til réttarreglna og laga um stofnun eignarréttar, hefðar, réttarvenju og tómlætis, en að auki vísar hann til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, laga um afréttarmál, en einnig reglna um ítak.  Þá vísar hann til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og reglna um traustfang og traustnám.  Loks vísar hann til Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, að því er varðar varnarþing og málskostnað.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að Skíðadalsafréttur sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu.

Stefndi bendir á að úrskurður óbyggðanefndar sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni.  Gerir stefndi niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni, þ.e. að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi landsvæðið talist til afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.  Af hálfu stefnda er um röksemdir að þessu leyti einnig vísað til úrskurðarins.

Stefndi byggir á því að hið umdeilda svæði, Skíðadalsafréttur, sé svæði utan eignarlanda og af frásögn Landnámu verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á landsvæðinu náði og verði því engar afdráttarlausar ályktanir dregnar af þeim frásögnum.  Sé hins vegar tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga kunni hluti þess lands sem hér sé deilt um að hafa verið numið.  Ekkert liggi hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kunni að hafa verið stofnað til og engar heimildir séu um að þar hafi verið byggð.  Byggir stefndi á því að þannig hafi sá beini eignarréttur sem kunni að hafa stofnast í öndverðu fallið niður og landsvæðið í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota.  Vísar stefndi í þessu sambandi m.a. til þess að á landsvæðum sem liggja nálægt séu bæði eignarlönd og þjóðlendur.

Þá byggir stefndi á því að af heimildum megi ráða að Skíðadalsafréttur hafi legið undir Vallakirkju.  Afrétturinn sé hins vegar landfræðilega aðskilinn frá þeirri jörð og hafi jafnan verið getið með sérstökum hætti í heimildum, en þar um vísar hann til þess er rakið var hér að framan.  Stefndi vísar til þess að í vísitasíu Valla frá 1631 segi að kirkjan eigi afrétt frá Gljúfurármerki allt til Sveinsstaðamarks og í vísitasíu kirkjunnar frá 1686 segi að hún eigi „Skíðadalsafrétt“.  Enn fremur segi í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 að Vellir eigi afrétt í Skíðadal.  Þá bendir stefndi á að í umfjöllun um Marstaði segi að jörðin eigi upprekstur á afrétt Vallakirkju, sem liggi fremst í Skíðadal.  Stefndi bendir á að í Jarðabókinni sé umfjöllun um jörðina Stafn og að þar segi að þangað eigi „allur hreppurinn að fornu upprekstur fyrir geldfé, lömb og naut“.  Loks bendir stefndi á að í lögfestu séra Þórðar Jónssonar frá 1792, þar sem Skíðadalsafréttur hafi verið eignaður Vallakirkju, komi fram að ágreiningur hafi verið um upprekstur í afréttinn í Skíðadal.  Hafi Þórður talið hann vera í eigu kirkjunnar en sveitamenn aftur á móti talið að þeir þyrftu ekki að greiða fyrir uppreksturinn.  Stefndi telur að ágreiningur þessi bendi til þess að um það hafi verið deilt hvort afrétturinn tilheyrði Vallakirkju einni.

Að þessu leyti andmælti stefndi við flutning málsins röksemdum stefnanda um að máldagi Ólafs biskups frá 1461 hefði sérstaka þýðingu umfram aðrar heimildir um svæðið og enn fremur að bréf frá 1905 hafi varðað sölu á eignarlandi.  Þvert á móti hafi nefnd gögn, líkt og aðrar heimildir um fremsta hluta Skíðadals, og salan varðað óbein eignarréttindi.

Stefndi áréttar að Skíðadalsafréttur sé aðskilinn frá Völlum og að hans sé að jafnaði getið með sérstökum hætti í heimildum.  Þinglesið landamerkjabréf fyrir afréttarlandið í Skíðadal sé frá 5. maí 1883, en þar hafi afmörkun svæðisins verið lýst.  Stefndi byggir á því að gildi þinglýstrar landamerkjalýsingar fyrir Skíðadalsafrétt takmarkist af því að landamerkjabréf hafi ekki einungis verið gerð fyrir jarðir heldur hafi þau oft einnig markað afréttareignir líkt og hafi verið gert í þessu tilviki.  Stefndi bendir enn fremur á að landamerkjabréf hafi fyrst og fremst verið til sönnunar um mörk á milli eigna en í þeim hafi á engan hátt falist að allt land innan merkja hafi verið óskorað eignarland.  Þrátt fyrir að greindu bréfi hafi verið þinglýst þá takmarkist gildi þeirrar athafnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi hafi átt.  Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað.  Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

Stefndi telur að framangreind skýrsla Vallaprests um landamerki staðfesti að svæðið hafi frá upphafi verið afmarkað sérstaklega sem afréttarsvæði, aðskilið frá Völlum, en að það hafi tilheyrt Vallakirkju.  Hann telur að þetta fái jafnframt stuðning í eldri heimildum þar sem að jafnaði hafi verið talað um afrétt, líkt og í yngri heimildum.  Að því leyti vísar hann sérstaklega til áðurrakinna bréfa hreppstjóra Svarfaðardalshrepps frá árinu 1920, en þar sé einmitt vísað til fyrrnefnds landamerkjabréfs eða skýrslu um afrétt Skíðadals frá 5. maí 1883.

Stefndi byggir á því að í heimildum sé Skíðadalsafréttar þannig getið í tengslum við upprekstur og afréttarnot, en engar heimildir séu um byggð þar eða önnur not en sumarbeit og e.t.v. takmarkaðar nytjar.  Þá sé svæðið að mestum hluta hálent, fjarri byggð og inn á það hafi búfénaður leitað án hindrana.  Þá hafi snemma verið settar opinberar reglur, um afréttarnotkun og fjallskil, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.

Með vísan til ofangreindra atriða byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að Skíðadalsafréttur sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga eða með öðrum hætti.  Þvert á móti bendi heimildir einmitt til þess að afrétturinn hafi verið afréttur Vallakirkju í þeim skilningi að hún hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.

Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnanda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Hann bendir á að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnanda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, og vísar þar um til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og nr. 48/2004.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2009, og krefst þess að hann verði staðfestur.  Verði þannig miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem í úrskurðinum er lýst.

Stefndi andmælir varkröfu stefnanda og byggir á því að engin framlögð gögn styðji hana og þar á meðal ekki Jarðabókin frá 1712 þar sem fjallað hafi verið um eyðibólið Stafn.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Stefndi byggir einnig á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not.  Þá byggir hann á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda, á almennum reglum samninga- og kröfuréttar og á hefðarlögum nr. 14, 1905.  Þá vísar hann til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil og til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.  Loks vísar hann til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæði 129. og 130. gr.

III.

Við aðalmeðferð málsins gaf fyrirsvarsmaður stefnanda aðilaskýrslu, en vitnaskýrslu gaf Kristján Eldjárn Hjartarson, Dalvíkurbyggð.

1.         Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem:  „Landsvæði sem er háð einkaeignarétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998, sem nefnd hafa verið þjóðlendulög, voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Þá segir í athugasemdunum að til þess eigi að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu geti verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raski ekki slíkum réttindum.  Þannig skuli þeir sem hafi nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

2.            Ágreiningsatriði máls þessa varðar samkvæmt framansögðu eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem nefnt er Skíðadalsafréttur.  Stefnandi, sem er þinglýstur eigandi afréttarins, krefst viðurkenningar á beinum eignarrétti landsvæðisins.  Stefndi krefst sýknu, en um rökstuðning vísar hann m.a. til úrskurðar óbyggðanefndar.

Með aðilum er ekki ágreiningur um afmörkun hins umþrætta svæðis og vísa þeir þar um til þess sem hér að framan var rakið úr niðurstöðukafla í úrskurði óbyggðanefndar.

Um staðhætti er það að segja að Svarfaðardalur, sem skerst suðvestur af miðjum Eyjafirði og er umlukinn háum fjöllum, 700-1445 m, klofnar í tvo dali miðsveitis um fjall það sem Stóllinn nefnist.  Heitir vestari dalurinn Svarfaðardalur eins og meginsveitin, en Skíðadalur hinn austari, en hann gengur áfram til suðurs.  Ytri hluti Svarfaðardals að vestan er oft nefndur Vesturkjálki, en þar innan við, og til vesturs, er framdalur dalsins.  Austurhluti Svarfaðardals er nefndur Austurkjálki, en einnig Vallakjálki.  Dalsmót Svarfaðardals og Skíðadals eru við Hvarfið að austanverðu, en í Stólstungunni að vestanverðu, um 10 km frá strönd.  Eftir dölunum falla samnefndar ár, sem báðar eru allmikil vatnsföll.

Inn í fjöllin beggja vegna við sveitina liggja margir afdalir eða þverdalir, en allir eru þeir óbyggðir og eru ekki sagnir um að nokkurn tíma hafi verið byggð í þeim.  Sumarbeit er þar víða góð og selstaða hefur verið í mörgum þessara dala.

Skíðadalur, er samkvæmt fyrrnefndum heimildum, líkt og Svarfaðardalur, girtur háum fjöllum.  Einkum er fjallgarðurinn austan dalsins sundurskorinn af þverdölum og tindóttur.  Undirlendi dalsins er nokkurt neðanvert, einkum að vestanverðu; eru þar allbreiðar sléttar grundir, milli jarðanna Dælis og Másstaða.  Nær botni dalsins að austanverðu eru Hólárfjall, Gljúfurárfjall og Almenningsfjall, en þar í milli eru Heiðinnamannadalur, Gljúfrar- og Litlidalur, en það er sami dalurinn. Eftir dölum þessum falla samnefndar þverár í djúpum hamragiljum, sem venjulega eru vatnslitar, en geta verið ófærar með öllu í leysingum.  Samkvæmt Lýsingu Eyjafjarðar, sem Steindór Steindórsson náttúrfræðingur ritaði á síðustu öld og Sýslu- og sóknarlýsingu, sem séra Kristján Þorseinsson á Völlum ritaði um miðja 19. öldina, voru þverárnar í Skíðadal stundum hinn versti Þrándur í götu dalbúa, „... og eiga vafalaust drjúgan þátt í því, að fremstu bæirnir að austanverðu í Skíðadal, Hólárkot (1926) og Gljúfurárkot (1903), lögðust í eyði, en þeir voru afskekkstir allra bæja í dalnum.“  Neðar í dalnum að austanverðu eru fleiri ár og lækir, m.a. Stórilækur, Stekkjará, Bæjará, Lambá, og Syðri- og Ytri-Sæluá.  Í vesturhluta Skíðadals er Þverárdalur/Kóngsdalur, en um hann rennur Þverá, en neðar í dalnum er Leitislækur.  Framar í dalnum að vestanverðu eru m.a. Stórilækur, Hvítulækir, Bæjará og Stafnsá, en fremst er fyrrnefnd Vesturá í Vesturárdal.  Allar þessar ár og lækir renna í Skíðadalsá.

Fremstu jarðirnar í vestanverðum Skíðadal eru Kóngsstaðir (í eyði 1955), Hverhóll (1947), Krosshóll (1935) og Sveinsstaðir (1907), en fremst var eyðibólið Stafn.

Jöklar eru í botni innstu dalanna og eru Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull þeirra mestir, en angi úr þeim síðarnefnda, í fremstu drögum Skíðadals, er Skíðadalsjökull, sbr. kafla I.3 hér að framan.  Niður í miðjan botn Skíðadals gengur Stafnstungnafjall, hömrum girt; klýfur það dalinn, og er Vesturárdalur vestan undir því, en jökultungur falla niður dalbotnana báðum megin þess, en úr þeim koma Skíðadalsá og Vesturá, báðar allvatnsmiklar, straumharðar og stórgrýttar.  Samkvæmt heimildum er skriðuhætt í Skíðadal, en einnig allsnjóflóðahætt, einkum þó í Vesturárdal.  Gróður er allmikill í Skíðadal, og skógarleifar nokkrar, einkum í Kóngsstaðahálsi í vestanverðum dalnum, en eigi er um það deilt að gróður hafi náð lengra inn til fjalla á landnámsöld en nú er.  Í því samhengi er til þess að líta að frá minni Skíðadals og að hinu forna eyðibóli Stafni, sem er skammt norðan ármóta Skíðadalsár og Vesturár, eru um 10 km, en þaðan að efstu drögum dalsins eru um 5 km.

Undir rekstri málsins fór dómari á vettvang ásamt málsaðilum og lögmönnum, en einnig staðkunnugum aðila, Kristjáni Eldjárn Hjartarsyni byggingafræðingi, frá Tjörn í Svarfaðardal.

Af hálfu stefnanda er m.a. á því byggt að umþrætta landsvæði, fremst í Skíðadal, hafi verið numið í öndverðu.  Því til stuðnings vísar hann helst til áðurrakinnar landnámslýsingar í Landnámu, en byggir einnig á síðari heimildum um svæðið og þá ekki síst máladögum Ólafs Rögnvaldssonar biskups, sem ritaðir voru um miðbik 15. aldar.

Samkvæmt Landnámu og öðrum sögulegum heimildum er Svarfaðardalur nefndur eftir Þorsteini Svörfuði.  Kom hann frá Noregi þegar meginhérað Eyjafjarðar var orðið mjög byggt.  Varð hann því að gera sér að góðu, líkt og segir í ritinu Byggðir Eyjafjarðar, að setjast að í hinum snjóþunga og harðbýla dal utar í firðinum, sem þá var lítt byggður.  Reisti landnámsmaðurinn sér bæ í miðri sveit, nærri bökkum og engjaflæmum Svarfaðardalsár á Vesturkjálka og kallaði Grund, en þar varð byggð síðar allþétt, líkt og austan Svarfaðardalsár.  Annar landnámsmaður Svarfaðardals er nefndur í Landnámu, en einnig í Svarfdælasögu, og er það Ljótólfur goði.  Reisti hann bú sitt að Hofi austan Svarfaðardalsár, gegnt Grund, um 6 km frá sjó.  Sonur hans var Valla-Ljótur, sem bjó að Völlum, sem er um 2 km neðar í dalnum, en sérstök saga er við hann kennd.

Dómurinn fellst á röksemdir stefnda um að frásögn Landnámu sé harla óljós um landnámið og þá helst um mörk þess fremst í Svarfaðardal og í Skíðadal.  Eins og rakið var í úrskurði óbyggðanefndar er getið um Skíða, en af heimildum, m.a. Jarðabókinni, er talið að býli hans, Skíðastaðir, hafi verið á völlunum milli Másstaða og Dælis í neðri hluta Skíðadals og að þar hafi þá verið elsta byggðin í dalnum.

Af fræðimönnum er talið að á eftir höfuðbýlunum Hofi og Grund hafi byggst upp önnur höfuðbýli, þ. á m. að Urðum í framdal Svarfaðardals, og að þar hafi verið sjálfstæð landnám, líkt og í neðri hluta Skíðadals, en þar hafa helst verið nefndir Másstaðir.  Þá hafi einnig komið til sögunnar Tjörn og Vellir, sem fljótlega urðu kirkjustaðir.

Höfuðbýlanna í Svarfaðardal er m.a. getið í Svarfdælasögu og Valla-Ljótssögu, en einnig í prestasögu Guðmundar góða og sögu Guðmundar dýra.  Í þessum sögum eru einnig frásagnir um jarðirnar Sökku, Hofsá, Skeggjastaði og Hvarf í Svarfaðardal og Hnjúk í Skíðadal.  Heimildir eru um að í landi síðastnefndu jarðarinnar hafi verið reist kirkja, en hún varð síðar Möðruvallaklaustursjörð.  Sveinsstaða í Skíðadal er getið í Þjóstólfs sögu hamramma.

Að áliti dómsins verður af ritum, þ. á m. alþekktum fræðiritum dr. Kristjáns Eldjárns, m.a. í bókinni um Kuml og Haugfé, ráðið að framangreind býli séu forn, sem reist hafi verið þegar á 10. öld.

Samkvæmt máldögum var snemma byggð kirkja að Völlum, en um aldir náði sóknin yfir innsta hluta Skíðadals frá Þverá og síðan allan þann dal og Svarfaðardal austan ár.  Heimildir eru um að Hólabiskup hafi látið til sín taka um málefni Valla í lok 12. aldar, sbr. umfjöllun í fræðiritinu Svarfdælingar eftir Stefán Aðalsteinsson.

Af áðurröktum máldögum, vísitasíum, Jarðabókinni og öðrum heimildum verður ályktað að kjarni hinnar elstu byggðar á Austurkjálka Svarfaðardals hafi verið á litlu svæði á milli Sökku og Hofsár og þar hafi kirkjustaðurinn Vellir fljótlega orðið höfuðbýlið. Vallabændur og þeir prestar sem þar sátu urðu fljótlega valdamestir, en jarðeignir í nágrenni Valla tengdust um síðir jörðinni og var þá talað um Vallastað.

Samkvæmt heimildum var byggðin í Skíðadal, líkt og framdal Svarfaðardals, ætíð strjálli en neðar í byggðinni, sem bendir til þess að þar hafi landgæðin verið minni.  Í Svarfdæla sögu segir m.a. um landslag í utanverðum Skíðadal: „Mörk var svá þykk upp frá Tungunni, at aldri var rjoðr í.

Ekki er getið um kuml í Skíðadal, en talið er að þungmiðja dalsins hafi verið að Másstöðum í vesturhluta dalsins.  Jörðin var samkvæmt fyrstu jarðamötum langstærst, en þar var einnig á fyrstu öldum byggð hálfkirkja.  Aðrar jarðir í dalnum eru flestar litlar á norðlenskan mælikvarða.  Talið er líklegt að bæirnir fyrir framan Másstaði hafi byggst síðar, og þá fyrst á Krosshóli, en þar var bænhús.

Að virtum ofangreindum heimildum verða að mati dómsins ekki dregnar með vissu ályktanir um eignarréttarlega stöðu Skíðadals út frá landnámi.  Þar hefur byggðaþróunin samkvæmt heimildum enn fremur verið breytingum háð og það farið m.a. eftir árferði hversu margar jarðir voru í byggð.

Af þeim heimildum sem vikið er að í úrskurði óbyggðanefndar verður ráðið að jarðir í Skíðadal hafi a.m.k. flestar verið sjálfstæðar jarðeignir, en margar þeirra virðast fljótlega hafa komist undir yfirráð kirkjuyfirvalda, þ.e. Vallakirkju, Urðakirkju, Möðruvallaklausturs og Hóladómstóls.  Þá voru þær nær allar, eins og áður sagði, í Vallasókn.  Að auki voru jarðirnar í vesturhluta dalsins, utan þeirra fremstu, í eigu Vallakirkju.

Að því er varðar helstu byggðina í austurhluta Skíðadals voru býlin Syðra- Hvarf og Sæla Hólastólsjarðir.  Ytra-Hvarf og Syðra-Hvarf voru framan af ein og sama jörðin, en hin fyrrnefnda tilheyrði á 14. öld Völlum, en var orðin bændaeign árið 1712.  Hjaltastaðir og Hnjúkur voru Möðruvallaklaustursjarðir, en á þeirri síðarnefndu var kirkja í bænhúsatali frá 1487, sú eina í austurhlutanum, og má af því álykta að hún hafi byggst snemma og hafi verið mikilvæg fyrir byggðina.  Jarðarinnar Klængshóls er fyrst getið í heimildum árið 1429 þegar hún var gefin Hóladómstól, en af heimildum má ráða að hún sé forn jörð.  Fremstu býlin í austurhluta dalsins voru einnig tengd kirkjum og kirkjustöðum.  Þannig var Hólárkot samkvæmt Jarðabókinni 1712 eign Urða í framdal Svarfaðardals, en samkvæmt máldaga Ólafs biskups frá 1461 átti Urðakirkja einnig reit í Skíðadalsafrétti.  Gljúfurárbýlisins er fyrst getið í máldaga Ólafs biskups og þá sem eign Vallakirkju.  Er til þess að líta að bæjarhús síðastnefnda býlisins voru fyrir neðan minni þverdalanna Litladals/Gljúfurárdals og Heiðinnamannadals, en skammt norðan við Gljúfurá.  Samkvæmt þeim heimildum sem óbyggðanefnd vísar til átti jörðin einnig reit vestan Skíðadalsár, í landi Sveinsstaða.

Byggðin á fremstu býlum Skíðadals, austan og vestan ár, virðist hafa verið mjög óstöðug og fór margsinnis í eyði, sbr. m.a. umfjöllun í Jarðabókinni og í síðari heimildum, og þá ekki síst vegna skriðufalla og snjóflóða.

Í hinni strjálu byggð í vestanverðum Skíðadal hafði Vallakirkja mikil ítök eins og áður sagði, en neðstu jarðirnar, Þverá og Másstaðir, voru samkvæmt heimildum ætíð í bændaeign, sbr. m.a. umfjöllun í Jarðabókinni.

Talið er að Hverhóll hafi byggst úr Kóngsstaðalandi, en báðar voru þær Vallakirkjueign.  Er hinnar fyrri getið í máldaga árið 1318.  Hverhól byggðist aftur upp um 1680 eftir að hafa verið lengi í eyði, en eftir endurreisnina virðist búsetan áfram hafa verið óstöðug. Krosshóll var Vallakirkjueign, en hennar er fyrst getið undir nafninu Hóll í kirkjumáldaga í lok 14. aldar, en síðar m.a. í Sigurðarregistri árið 1525.

Fremsta byggðin í vestanverðum Skíðadal er samkvæmt hinum fyrstu áreiðanlegu heimildum tengd Vallakirkju.  Þá er Sveinsstaða getið í Íslendingasögum, en það er talið gefa vísbendingu um að jörðin hafi verið talin forn þegar sagan var rituð.  Jörðin er talin sem Vallakirkjueign í máldaga Ólafs biskups árið 1461.  Fremsta byggðin, Stafn, er í máldaga Auðunar biskups árið 1318 einnig sögð tilheyra Vallakirkju og er það áréttað í máldögum biskup síðar á þeirri öld, en einnig á 15. öldinni.  Áhöld eru um hvort Sveinsstaðajörðin eða Stafn hafi byggst fyrst, en munnmæli eru um að bænahús hafi verið að Stafni.  Bæjarhús forn virðast samkvæmt heimildum hafa verið skammt norðan við Vesturá í mynni Vesturárdals og um 200 m ofan við Skíðadalsána. Stafn var löngu komin í eyði við ritun Jarðabókarinnar 1712 og virðist þá hafa verið sameinuð Sveinsstaðajörðinni.

Allar fremstu jarðirnar í vesturhluta Skíðadals voru á fyrrihluta síðustu aldar, eftir að þær fóru í eyði, lagðar undir svonefndan Sveinsstaðaafrétt, en áhöld virðast hafa verið um hvort líta hafi átt á Stafnsland sem hið forna afréttarland Vallakirkju, sbr. frásögn í Jarðabókinni 1712 og það sem rakið var hér að framan úr gögnum Þjóðskjalasafns í kafla I.4, en Vallaprestur virðist a.m.k. ekki um tíma hafa innheimt afréttartoll.

Samkvæmt umfjöllun í ritinu Göngur og réttir, sem er í samræmi við aðrar kunnar heimildir og frásagnir og nú síðast allkunnan hljóðdisk, hafa bændur á nærfellt öllum Austurkjálka, en einnig nokkrir bændur á Vesturkjálka Svarfaðardals, rekið fé sitt á afréttinn fremst í Skíðadal, sem á síðari tímum hefur m.a. verið nefndur Sveinsstaðaafréttur.

Eins og fyrr var rakið er með aðilum þessa máls ekki ágreiningur um afmörkun hins umþrætta landsvæðis fremst í Skíðadal, en það tekur til þess svæðis sem í landamerkjabréfi frá árinu 1883 kallaðist „afréttur fremst í Skíðadal“.

Eru norður- og vesturmörk hins umþrætta afréttar við ármót Gljúfurár og Skíðadalsár, en merkjalínan fylgi síðan Skíðadalsánni þar til Vesturáin rennur í hana, en þaðan er Vesturánni fylgt til fremstu upptaka, til jökla.  Er þetta í samræmi við landmerkjabréf Sveinsstaða, sem Hjörleifur Guttormsson, prestur á Völlum, ritaði árið 1883, en í bréfinu eru suðurmerki Sveinsstaða við Vesturá í Vesturárdal.  Sunnan Vesturárinnar eru samkvæmt bréfinu hinar nafnkunnu Stafnstungur.

Norður- og austurmörk hins umþrætta svæðis eru við áðurnefnd ármót Gljúfurár og Skíðadalsár, en þaðan fara merkin með árfarvegi hinnar fyrrnefndu til suðausturs eftir samnefndum dal og allt að Gljúfurárjökli, sem er austan Almenningsfjalls.

Að áliti dómsins eru norðurmörk hins umþrætta landsvæðis skýrt afmörkuð landfræðilega, annars vegar af Gljúfurá að suðaustan og hins vegar af Vesturá að vestan.  Báðar árnar eru jökulár og oft og tíðum erfiðar yfirferðar vegna stórgrýtis og straums og á stundum alls ófærar.  Norðan þessara marka er óumdeilt eignarland stefnanda.

Um heimildir sínar til eignarhalds sunnan lýstra marka, á afréttinum fremst í Skíðadal, og þar á meðal í Stafnstungum og á Almenningsfjalli, vísar stefnandi helst til áðurrakinna heimilda, þeirra elstu, máldagadagbókar Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá miðri 15. öldinni og til elsta hluta Sigurðarregisturs frá 1525.  Stefnandi vísar enn fremur til yngri kirkjuheimilda og áðurrakins landamerkjabréfs frá 5. maí 1883 svo og sölubréfs frá upphafi 20 aldar.

Samkvæmt framansögðu varða hinar fyrstu kirkjuheimildir hið forna býli Stafn, m.a. hin elsta, máldagi Auðuns biskups frá árinu 1318.  Þar segir að Vallakirkja eigi meðal annarra eigna Stafnsbýlið.  Það er síðan áréttað í máldögum biskupa á 15. öldinni.  Í þessum fyrstu heimildum er ekkert vikið að afrétti, eins og gert er í máldögum Ólafs biskups, sem ritaðir voru á árunum 1461 til 1510, en þar er sagt að Vallakirkja eigi [...] allan skidadal oc vestrar dal fram fra holamarke til sueinsstada marks.  Að mati dómsins verður um lýsta afmörkun í hinum fyrstu heimildum að líta til síðari heimilda og þar á meðal þess sem segir í landamerkjabréf Sveinsstaða frá árinu 1883 um að suðurmerki hins forna eyðibóls Stafns hafi verið við Vesturá og að þar hafi jafnframt verið upphaflegt endimark Sveinsstaðaafréttar til suðurs.  Til þess er að líta að frá þessu marki og suður að fremstu drögum Skíðadals, næst jökli, eru um 5 til 6 km.  Að áliti dómsins verður í þessu viðfangi ekki horft fram hjá frásögn Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en þar er vikið að fornum rétti Marstaða, nú Másstaða, til uppreksturs í fremsta hluta Skíðadals að vestanverðu.  Í Jarðabókinni segir enn fremur frá því að hinn almenni og forni afréttur sveitarmanna í Skíða- og Svarfaðardal austan Skíðadalsár hafi verið sunnan Gljúfurárgils.  Af þessu verður að mati dómsins ótvírætt ráðið að hinn forni afréttur hafi tekið til landsvæðisins í suðurhluta Gljúfrár- og Litladals, en það er sami dalurinn, og á Almenningsfjalli og þar með hafi hann jafnframt náð til fremsta hluta Skíðadals austan ár.

Eins og fyrr var rakið eru að mati dómsins skýr landfræðileg mörk austan og vestarn Skíðadals, annars vegar við Gljúfurá og hins vegar við Vesturá.  Í því viðfangi og í ljósi þess sem áður var rakið verður að mati dómsins ekki litið fram hjá andmælum sveitamanna í lok 18. aldar við lögfestu Vallaprests og um kröfu hans til gjaldtöku.  Úrskurði sýslumanns um þennan ágreining virðis ekki hafa verið skotið til æðra dóms.

Að áliti dómsins geta einhliða vísitasíur og lögfestur Vallapresta, að virtum áðurrökum elstu heimildum, ekki skapað Vallakirkju réttindi til hins umþrætta landsvæðis.  Þá geta einstök ummæli í hinum kirkjulegu gögnum ein og sér ekki, að virtu öllu öðru framangreindu í heild, gefið tilefni til að álykta annað en að réttindi kirkjunnar yfir landsvæðinu fremst í Skíðadal hafi aðeins verið bundin við óbein eignarréttindi, sem hafi falist í rétti til upprekstrar búfjár til beitar og annarra hefðbundinna afnotaréttinda.

 

Stefnandi byggir kröfur sínar um beinan eignarrétt á hinu umþrætta landsvæði, ekki síst á áðurröktu landamerkjabréfi frá árinu 1883, en það var útbúið og undirritað af séra Hjörleifi Guttormssyni, presti á Völlum.  Er þetta gerðist hafði fremsta býlið í vesturhluta Skíðadals, Stafn, um aldir verið í eyði, og í raun lagst undir Sveinsstaðajörðina.  Eins og hér að framan var rakið er samhljómur með nefndu landamerkjabréfi og landamerkjabréfi Sveinsstaða um afréttinn, en einnig gagnvart landamerkjabréfi Gljúfurárkosts, austan Skíðadalsár, en þau síðastnefndu voru útbúin um svipað leyti af Hjörleifi presti.

Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsmáli þessu m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í dómi í máli nr. 496/2005.

Ber við niðurstöðu máls þessa m.a. að hafa allt framangreint í huga.

Það er meginregla í íslenskum rétti að sá sem telur til eignarréttar yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu eða þeirra sem hann leiðir rétt sinn frá.

Að áliti dómsins benda áðurraktar heimildir ekki til annars en að hið umþrætta svæði fremst í Skíðadal hafi nær einvörðungu verið notað til beitar fyrir kvikfénað og hafi verið afréttur jarða í Skíða- og Svarfaðardal um aldir.  Að mati dómsins er ekki fyllilega ljóst hvort og þá hvernig landsvæðið komst í upphafi undir yfirráð Vallakirkju, á fyrri öldum.  Landsvæðið er aðskilið frá Vallajörðinni af mörgum sjálfstæðum jörðum og þar á meðal landnámsjörðinni Hofi.  Hæstiréttur hefur í dómum sínum í sambærilegum málum ítrekað getið þess að vera kunni að eignarréttur yfir numdu landi hafi fallið niður sökum þess að ekkert liggi fyrir um yfirfærslu hins beina eignarréttar, sem kann að hafa verið stofnað til við landnám.  Eins og fyrr var rakið eru heimildir um landnámið í Skíðadal harla óljósar.

Svarfaðardalshreppur, sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, keypti hið umþrætta afréttarland, auk jarðanna Sveinsstaða og Gljúfurárkots, árið 1905 af Vallakirkju, að fengnu leyfi frá þar til bærum yfirvöldum.  Verður af heimildum ráðið að tilefni kaupanna hafi verið hagsmunir sveitarmanna á upprekstri sauðfjár og að kaupverðið hafi, að undangenginni virðingargjörð matsmanna, helst tekið mið af þeim hagsmunum.  Af þeim ástæðum sem áður var lýst um eðli réttindanna á hinum umþrætta afrétti og þegar litið er til legu þrætulandsins og þeirra atriða sem vísað er til í sambærilegum hæstaréttarmálum, m.a. í málum nr. 48/2004 og 496/2005, þá gat hreppurinn að áliti dómsins ekki með réttu bundið væntingar um að kaup hans tækju til annarra og víðtækari réttinda.

Að þessu virtu, ásamt röksemdum stefnda og þar sem kröfur og heimildir stefnanda styðjast ekki við önnur gögn verður fallist á með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á að hið umþrætta landsvæði sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.

 

Stefnandi hefur að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrði eignarhefðar á greindu landi hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem hann hefur haft af því, ásamt fleiri jarðeigendum, sem nýtt hafa það til sumarbeitar.  Hefur stafnandi heldur ekki rökstutt frekar slík réttindi.

Að þessu virtu, ásamt fyrrgreindum röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki séð að stefnandi hafi mátt vænta þess að hann ætti nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.

Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að hið umþrætta landsvæði, í fremsta hluta Skíðadals, sé þjóðlenda því staðfest.  Í ljósi kröfugerðar aðila fyrir dómi verður fallist á að sama landsvæði sé í afréttareign stefnanda, en aðrir aðilar hafa ekki lýst kröfum til landsins.  Verður stefndi samkvæmt þessu sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns.

Með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferðar, en einnig vegna endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 1.700.000 krónur og er þá virðisaukaskattur ekki meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Fyrir uppsögu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 1.700.000 krónur.