Print

Mál nr. 711/2017

A (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
B, C (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. hrl.), D, E, F, G, H (Sigurður G. Guðjónsson hrl.), I, J (Sigmundur Hannesson hrl.), K, L (Valgeir Kristinsson hrl.) og M (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Eignarnámsbætur
  • Meðalganga
  • Dánarbú
  • Aðildarhæfi
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi meðalgöngusök A í máli varnaraðilanna B, C, E, F, G, H, I, J, K og L aðallega gegn varnaraðilanum M en til vara á hendur A. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að gegn andmælum B, C, E, F, G, H, I, J, K og L gæti A ekki komið að í máli þeirra kröfu, samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem væri annars efnis en krafan í aðalsök, reist á allt öðrum málsástæðum og kallað hefði á sjálfstæða gagnaöflun. Var því hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2017, þar sem vísað var frá dómi meðalgöngusök sóknaraðila í máli varnaraðilanna B, C, E, F, G, H, I, J, K og L aðallega gegn varnaraðilanum M, en til vara á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér heimiluð meðalganga í fyrrnefndu máli. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi annarra varnaraðila en M.

Varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn M hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Varnaraðilarnir B, C, F, G, H, I, J, K og L höfðuðu mál þetta ásamt E 28. apríl 2014 og beindu kröfum sínum aðallega að varnaraðilanum M en til vara sóknaraðila. Eftir fyrirliggjandi gögnum lést E 13. nóvember 2015 og tók dánarbú hennar við aðild að málinu. Málið var höfðað á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til hagsbóta dánarbúi N, sem er til opinberra skipta, en N lést 13. nóvember 1966. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 er beinn eignarréttur að jörðinni [...] í Kópavogi á hendi dánarbúsins og á það nú að vera þinglýstur eigandi hennar, sbr. dóm réttarins 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013.

Málið á rætur að rekja til þess að varnaraðilinn M tók fjórum sinnum eignarnámi nánar tilgreindar landspildur úr [...], en um var að ræða 20,5 hektara lands 8. maí 1992, 54,5 hektara 13. maí 1998, 90,5 hektara 1. ágúst 2000 og 864,7 hektara 23. janúar 2007. Eignarnámsþoli fyrstu tvö skiptin var O, sonur áðurnefnds N og faðir sóknaraðila, í þriðja skiptið dánarbú O og í það fjórða sóknaraðili. Varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L, sem öll eru meðal lögerfingja eftir N, byggja á því í málinu að þessum eignarnámum hafi ranglega verið beint að þeim, sem að framan var getið og fengu hverju sinni greiddar eignarnámsbætur, en með réttu hefði átt að beina eignarnámum að dánarbúi N sem handhafa beins eignarréttar að [...] og greiða því bætur fyrir þau. Málatilbúnaður sóknaraðila byggir á hinn bóginn í meginatriðum á því að samkvæmt dómum Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967, 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 og 12. mars 2015 í máli nr. 167/2015, sbr. einnig fyrrnefndan dóm 3. maí 2013, hafi erfðaskrá P frá 4. janúar 1938 ráðið því hver farið hafi á hverjum tíma með „umráð og afnot fasteignarinnar [...]“, svo sem komist var að orði í dóminum frá 30. maí 1969, en þau réttindi hafi á þeim grundvelli færst frá N til O og frá honum til sóknaraðila. Þessi réttindi séu það víðtæk að krafa um eignarnámsbætur fyrir missi þeirra rými út rétti handhafa beins eignarréttar að [...] til slíkra bóta.

II

Í málinu krefjast varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L þess að varnaraðilanum M verði gert að greiða dánarbúi N aðallega 74.811.389.954 krónur og til vara 47.558.500.000 krónur, en að því frágengnu verði sóknaraðili dæmdur til að greiða dánarbúinu 2.250.000.000 krónur, í öllum tilvikum með nánar tilteknum vöxtum. Kröfurnar á hendur varnaraðilanum M reisa þau á því að hann hafi í fyrrgreind fjögur skipti greitt röngum aðila bætur fyrir eignarnám á landi úr [...] og hafi hann ekki losnað á þann hátt undan greiðsluskyldu við dánarbú N, sem hefði með réttu átt að fá bæturnar í hendur. Varakröfuna gegn sóknaraðila byggja varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L á hinn bóginn á því að hann hafi ranglega tekið við þeim hluta bóta, sem greiddur hafi verið með peningum vegna eignarnámsins 23. janúar 2007, 2.250.000.000 krónum, og beri honum að greiða dánarbúi N þá fjárhæð.

Í málinu vísa varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L til þess að við eignarnámið 8. maí 1992 hafi varnaraðilinn M greitt O 31.000.000 krónur í bætur og felli þau sig við ákvörðun þeirrar fjárhæðar. Við eignarnámið 13. maí 1998 hafi varnaraðilinn M greitt O 180.000.000 krónur auk þess að láta honum í té byggingarrétt á afmörkuðu svæði landsins, sem það eignarnám hafi tekið til. Fjárhæð eignarnámsbóta hafi verið ákveðin með sátt fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og telji varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L þá fjárhæð ekki gefa rétta mynd af fullu verði landsins, enda hafi endurgjald ekki aðeins verið innt af hendi með peningum. Telji varnaraðilarnir verða þess í stað að miða eignarnámsbætur við matsverð fyrir hvern hektara byggingarlands í Mosfellsbæ samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta frá 16. janúar 1998, en á þeim grunni hefðu bætur í þessu tilviki átt að nema 242.222.198 krónum. Við eignarnámið 1. ágúst 2000 hafi bætur aftur verið ákveðnar með sátt fyrir matsnefndinni og varnaraðilinn M þá greitt dánarbúi O 290.000.000 krónur ásamt því að úthluta til þess lóðum og byggingarrétti án greiðslu gjalda. Sú fjárhæð svari af sömu ástæðum og áður greinir ekki til fulls verðs landsins, sem tekið hafi verið eignarnámi, og sé því aftur rétt að leggja til grundvallar ákvörðun bóta í úrskurði matsnefndarinnar frá 16. janúar 1998 með framreikningi eftir vísitölu neysluverðs. Á þeim grunni hefðu bæturnar átt að nema 436.008.845 krónum. Loks hafi varnaraðilinn M gert sátt fyrir matsnefndinni við sóknaraðila um ákvörðun bóta fyrir eignarnámið 23. janúar 2007, en samkvæmt henni hafi varnaraðilinn átt að greiða sóknaraðila 2.250.000.000 krónur með peningum og láta honum jafnframt í té lóðir á skipulögðu byggingarsvæði ásamt ýmsu öðru nánar tilgreindu endurgjaldi. Peningagreiðsluna hafi varnaraðilinn innt af hendi, en ekki annað endurgjald samkvæmt sáttinni. Sé dánarbú N óbundið af þessari sátt, sem að auki hafi ekki gefið rétta mynd af markaðsverði landsins vegna endurgjaldsins sem hafi verið ákveðið í öðru formi en peningum. Um fullt verð fyrir þetta land megi á hinn bóginn byggja á ákvörðun eignarnámsbóta í úrskurði matsnefndarinnar 29. mars 2006 vegna lands í Norðlingaholti í Reykjavík. Með framreikningi matsfjárhæðar í því tilviki vegna breytinga á vísitölu neysluverðs fram til janúar 2007 myndu bætur fyrir eignarnám varnaraðilans M hafa í þetta sinn numið 47.558.500.000 krónum.

Um fjárhæð aðalkröfu byggja varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L á því að dánarbúi N hafi verið ómögulegt að gera tilkall til eignarnámsbóta fyrr en að gengnum áðurnefndum dómi Hæstaréttar 3. maí 2013. Verði því að framreikna fjárhæð fyrrgreindra bóta í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá dagsetningu hvers eignarnáms til þess dags sem dómurinn var kveðinn upp. Heildarfjárhæðin verði þá sú, sem í aðalkröfunni greinir, eða 74.811.389.954 krónur. Í varakröfunni á hendur varnaraðilanum M kveðast varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L taka tillit til þess að krafa um greiðslu eignarnámsbóta til dánarbús N kunni að vera fyrnd vegna fyrstu þriggja tilvikanna, en það geti á hinn bóginn ekki átt við um eignarnámið 23. janúar 2007. Sé því varakrafan um greiðslu á 47.558.500.000 krónum, sem varnaraðilarnir telji réttilega reiknaðar eignarnámsbætur í því tilviki. Með ítrustu varakröfunni, sem beint er að sóknaraðila, krefjast varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L þess sem áður segir að honum verði gert að greiða dánarbúi N þá fjárhæð, sem hann fékk greidda með peningum við eignarnámið 23. janúar 2007 eða 2.250.000.000 krónur.

Varnaraðilinn M og sóknaraðili tóku til varna gegn framangreindum kröfum með greinargerðum, sem lagðar voru fram 22. og 30. apríl 2015, og kröfðust hvor fyrir sitt leyti aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara sýknu. Með dómi Hæstaréttar 16. mars 2016 í máli nr. 121/2016 var felldur úr gildi úrskurður héraðsdóms 29. janúar sama ár, þar sem málinu hafði verið vísað frá dómi, og var þar lagt fyrir hann að taka það til efnismeðferðar.

III

Sóknaraðili höfðaði meðalgöngusök í málinu með stefnu 6. desember 2016. Í henni krafðist hann þess annars vegar að sér yrði heimiluð meðalganga í máli varnaraðilanna B, C, E, F, G, H, I, J, K og L á hendur varnaraðilanum M og sér. Hins vegar að varnaraðilanum M yrði gert að greiða sér 29.791.702.570 krónur með nánar tilteknum vöxtum, allt að frádregnum innborgunum 1. og 9. febrúar 2007 að fjárhæð samtals 2.250.000.000 krónur. Meðalgöngusökin var þingfest 26. apríl 2017.

Í hinum kærða úrskurði er ítarlega greint frá málatilbúnaði sóknaraðila í meðalgöngusökinni, þar á meðal hvernig hann sundurliðar fjárkröfu sína og rökstyður hana í einstökum liðum, en hún snýr að greiðslu eftirstöðva bóta vegna eignarnáms varnaraðilans M á landi úr [...] 23. janúar 2007. Verður ráðið af þeim málatilbúnaði að sóknaraðili taki mið af því að varnaraðilinn hafi innt af hendi bætur samkvæmt sátt um þetta eignarnám að því leyti, sem þær hafi átt að greiða með peningum, en frekara endurgjald hafi sóknaraðili ekki fengið samkvæmt sáttinni. Reikni hann það endurgjald, sem samið var um í sáttinni, til peningaverðs með tilliti til þess að sér beri eignarnámsbætur „fyrir missi óbeinna eignarréttinda vegna eignarnáms frá janúar 2007“ og gangi krafa hans um þær „framar fjárkröfum aðalstefnenda“ og víki þeim til hliðar, svo sem segir í stefnu í meðalgöngusök.

Í greinargerðum í meðalgöngusök kröfðust varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L þess öll að henni yrði vísað frá dómi. Varnaraðilinn M gerði á hinn bóginn ekki athugasemdir við að sóknaraðili fengi að koma meðalgöngusökinni að, en af fjárkröfu hans krafðist þessi varnaraðili sýknu. Með hinum kærða úrskurði var meðalgöngusökinni vísað frá dómi.

IV

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra hafi hann lögvarða hagsmuni af úrslitum þess. Vilji hann neyta þeirrar heimildar verður hann í meðalgöngusök að stefna öllum, sem aðild eiga að aðalsök, og krefjast þess annars vegar að sér verði leyfð meðalgangan og hins vegar að sér verði annaðhvort dæmt sakarefnið eða dómur að öðrum kosti felldur þannig að réttur hans verði verndaður.

Sóknaraðili hefur svo sem áður kom fram átt aðild til varnar að aðalsök í málinu, en þó til vara að baki varnaraðilanum M, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Án tillits til þess hvort sóknaraðili geti vegna þessarar aðstöðu talist þriðji maður í skilningi 20. gr. sömu laga verður að gæta að því að þar er áskilið sem fyrr segir hvers sá verði að krefjast, sem ganga vill inn í mál annarra með meðalgöngusök. Sóknaraðili hefur hér réttilega krafist þess að sér verði leyfð meðalgangan og hefur hann jafnframt gert kröfu um að varnaraðilinn M verði dæmdur til að greiða sér tiltekna fjárhæð. Þá fjárkröfu rekur sóknaraðili eins og áður var lýst til þess að hann telji varnaraðilann enn eiga eftir að standa sér skil á tilteknum hluta bóta vegna eignarnámsins 23. janúar 2007, sem með kröfunni hefur verið breytt til peningaverðs, en þó á þeim grunni að bæturnar komi fyrir skerðingu á þeim umráðarétti og afnotarétti yfir viðkomandi landi, sem sóknaraðili hafði á hendi. Þessi fjárkrafa skarast að nokkru við þann lið í aðalkröfu varnaraðilanna B, C, E, F, G, H, I, J, K og L á hendur varnaraðilanum M, sem varðar greiðslu bóta til dánarbús N vegna eignarnámsins 23. janúar 2007, svo og varakröfu þeirra á hendur þeim sama. Þar eru þó ekki sóttar eftirstöðvar bóta, heldur fullar bætur, og þá jafnframt vegna skerðingar á beinum eignarrétti dánarbúsins með eignarnáminu. Að öðru leyti eiga kröfurnar og málatilbúnaður að baki þeim ekki samleið þótt þær eigi rætur að rekja til sömu atvika. Sóknaraðili getur að þessu virtu ekki talist gera í meðalgöngusök kröfu um að sér verði í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 dæmt sakarefnið, sem varnaraðilarnir B, C, E, F, G, H, I, J, K og L mótuðu með kröfugerð sinni og málsástæðum í aðalsök. Gegn andmælum þessara varnaraðila getur sóknaraðili ekki komið að í máli þeirra kröfu, sem er annars efnis en krafan í aðalsök, reist á allt öðrum málsástæðum og kalla myndi á sjálfstæða gagnaöflun, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 16. maí 1960 í máli nr. 68/1960, sem birtur er á bls. 443 í dómasafni þess árs. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun meðalgöngusakar sóknaraðila.

Að því er varðar málskostnað verður að geta þess að sóknaraðili beindi meðalgöngusök meðal annars að D „persónulega og fyrir hönd db. E“, svo sem komist var að orði í stefnu sóknaraðila. Í henni var jafnframt greint frá því að maður þessi hafi verið einkaerfingi eftir E og væri hann „tilgreindur sem fyrirsvarsmaður dánarbúsins“. Ekki verður séð á þessum grunni hvernig sóknaraðili getur hafa talið þennan mann eiga í eigin nafni aðild við hlið dánarbúsins að meðalgöngusök, en ekki var hann aðili að aðalsök í málinu og hefur hann ekki látið það til sín taka. Að auki verður að gæta að því að samkvæmt 3. mgr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 nýtur dánarbú hæfis til að eiga réttindi og bera skyldur frá þeirri stundu, sem hlutaðeigandi maður andast, þar til skiptum á búinu lýkur eftir ákvæðum laganna. Samkvæmt gögnum málsins var skiptum á dánarbúi E lokið 9. desember 2015 á þeim grundvelli að sýslumanni var tilkynnt að andvirði eigna þess næmi ekki meira en kostnaði af útför þeirrar látnu, sbr. 25. gr. sömu laga. Þótt ekki verði séð hvernig þessi skiptalok eigi að geta staðist í ljósi málsóknar þessarar leið tilvist dánarbús E sem persónu að lögum undir lok síðastgreindan dag og þar með hæfi þess til að eiga aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en af sjálfu leiðir að í stað eignalauss dánarbús sem aðila að máli getur erfingi ekki komið. Eins og úrlausnarefnið í þessum dómi er háttað verður ekki hreyft hér við aðild að málinu að þessu leyti, en á hinn bóginn verður varnaraðilanum dánarbúi E af þessum sökum hvorki dæmdur málskostnaður í héraði né kærumálskostnaður. Um málskostnað á báðum dómstigum fer þannig samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi meðalgöngusök sóknaraðila, A, í máli þessu.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skal vera óraskað að öðru leyti en því að varnaraðila dánarbúi E dæmist ekki málskostnaður úr hendi sóknaraðila.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað sem hér segir: B og C hvoru um sig 150.000 krónur, F, G og H hverju um sig 100.000 krónur, I og J hvorum um sig 150.000 krónur og K og L hvoru um sig 150.000 krónur.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2017.

                Mál þetta, sem var þingfest 26. apríl 2017, var höfðað af A, [...], Kópavogi, á hendur B, [...], Reykjavík, D, Noregi, persónulega og fyrir hönd db. E, sem síðast var til heimilis að [...], Reykjavík, C, [...], Reykjavík, F, Svíþjóð, G, [...], Reykjavík, I, [...], Reykjavík, H, Portúgal, K, [...], Mosfellsbæ, L, Danmörku, J, með óþekkt heimilisfang í útlöndum, og M,[...] 1, Kópavogi. 

Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði heimiluð meðalganga í aðalsök héraðsdómsmálsins nr. E-1362/2014: B, C, E, F, G, H, I, J, K og L gegn M og til vara A og til réttargæslu Q, R, S, T og U

Þá er þess krafist að M verði gert að greiða meðalgöngustefnanda 29.791.702.570 kr. auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum innborgunum, 250.000.000 kr. þann 1. desember 2007 og 2.000.000.000 kr. þann 9. febrúar 2007. Loks er þess krafist að stefnda M verði gert að greiða meðalgöngustefnanda málskostnað að skaðlausu.

Stefndu B og C krefjast þess aðallega að öllum kröfum meðalgöngu­stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að meðalgöngu í máli nr. E-1362/2014 verði hafnað. Til þrautavara er þess krafist að kröfu meðalgöngustefnanda á hendur stefnda M að fjárhæð 29.791.702.570 kr. auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum innborgunum, 250.000.000 kr. þann 1. febrúar 2007 og 2.000.000.000 kr. þann 9. febrúar 2007, verði hafnað. Þá er þess krafist að meðalgöngustefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.

Stefndu I og J krefjast þess að dómkröfu meðalgöngustefnanda verði vísað frá dómi. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað.

Stefndu K og L krefjast þess að kröfu um meðalgöngu verði vísað frá dómi. Þá gera stefndu kröfu um málskostnað. 

Stefndu F, dánarbú E, G og H  gera þá dómkröfu að máli þessu verði vísað frá dómi og að þeim verði dæmdur málskostnaður.

Stefndi M krefst sýknu af kröfum meðalgöngustefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Allir stefndu, nema M, lögðu fram greinargerð um frávísunarkröfu en ekki um efnisvarnir, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. október 2017. Við munnlegan flutning málsins breytti stefnandi kröfugerð sinni þannig að hann gerir kröfu um málskostnað á hendur öllum stefndu en þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefndu þar sem í stefnu málsins er aðeins höfð uppi krafa um málskostnað á hendur stefnda M. Krafa um málskostnað á hendur öðrum stefndu en M kemst því ekki að í málinu.

I.

Málsatvik eru þau að héraðsdómsmálið nr. E-1362/2014 var höfðað 28. apríl 2014 og var málið þingfest 5. nóvember sama ár. Málið höfðuðu B, C, E, F, G, H, I, J, K og L, aðallega á hendur M, til hagsbóta fyrir dánarbú N, en til vara á hendur A.

Dómkröfur í því máli eru aðallega þær að M verði dæmdur til að greiða dánarbúi N 74.811.389.954 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. maí 2013 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúinu 47.558.500.000 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara er gerð krafa um að A verði dæmdur til að greiða dánarbúinu 2.250.000.000 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Forsögu málsins er að rekja til erfðaskrár sem P gerði hinn 4. janúar 1938 um jörðina [...]. P lést 31. október 1940 og N, bróðursonur P, tók arf í samræmi við erfðaskrána.

N var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona hans var V, en börn þeirra eru X, fæddur 1941, K fæddur 1944, og L, fædd 1951. N og SV skildu á árinu 1956.

N  kvæntist að nýju og var seinni kona hans Y. Þeirra börn eru J, fæddur 1962, og I, fæddur 1963. Fyrir átti Y börnin G, fædda 1943, E, fædda 1945, F, fæddan 1947, Z, fæddan 1949, og H, fædda 1955. Y  lést 31. mars 2004 og lauk skiptum á búi hennar 6. apríl sama ár. Einnig er látinn Z, en börn hans eru C og B. Þá er E látin og mun skiptum á dánarbúi hennar vera ólokið. D er sonur hennar. 

N lést 13. nóvember 1966. Ágreiningur reis við opinber skipti á dánarbúi hans, um framangreinda erfðaskrá og ráðstöfun [...].

Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 var úrskurður skiptadóms Kópavogs frá 24. júlí 1967 staðfestur, en í forsendum úrskurðarins kom fram að niðurstaða málsins væri sú að O væri einum erfingja N áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni [...]. Í úrskurðarorði sagði að O væri eftir látinn föður sinn áskilinn réttur til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina [...] með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir væru í arfleiðsluskrá P, dagsettri 4. janúar 1938.

Þá var með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 staðfest sú ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968 að afhenda umráð og afnot fasteignarinnar [...] til elsta sonar N, O

O lést 21. desember 1999. Eftirlifandi maki hans er Þ og eru börn þeirra þau A, U, J og T.

Fjölmörg önnur mál hafa verið rekin fyrir dómstólum vegna ágreinings um erfðaskrána. Þá hefur M fjórum sinnum, árin 1992, 1998, 2000 og 2007, tekið eignarnámi hluta af jörðinni [...] og greitt umsamdar eignarnámsbætur í fyrstu tvö skiptin til O, elsta sonar N, í þriðja skiptið til dánarbús N og loks í það fjórða til A, elsta sonar O, en hinn 30. janúar 2007 undirrituðu A og M sátt um greiðslu bóta.

Málssókn stefnenda í máli nr. E-1362/2014 er reist á því að M hafi ekki greitt lögbundnar eignarnámsbætur til réttmæts og lögmæts handhafa beins eignarréttar að jörðinni [...], dánarbús N. Stefnendur líta svo á að eignarnámsbætur geti aðeins runnið til eiganda hins beina eignarréttar og að handhafi hins óbeina eignarréttar verði þá að sækja bætur til hans, eftir atvikum með málshöfðun. Málið höfða stefnendur til hagsbóta fyrir dánarbúið á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Af hálfu M og Aer á því byggt að hinn beini eignarréttur að jörðinni sé verðlaus og að handhafi hins óbeina eignarréttar eigi tilkall til allra eignarnámsbóta.

II.

                Meðalgöngustefnandi byggir á því að úrslit í máli nr. E-1362/2014 í aðalsök skipti hann máli að lögum en hann eigi fyrir höfðun meðalgöngusakar ekki aðild í aðalsök.  Efnislegum skilyrðum 20. gr. laga nr. 91/1991 fyrir meðalgöngu í aðalsök sé því fullnægt. Meðalgöngustefnandi kveður  að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 121/2016 sé beinlínis vikið að því að meðalgöngustefnandi eigi ekki varnaraðild vegna kröfugerðar stefnenda á hendur stefnda M í héraðsdómsmáli nr. E-1362/2014.

                Meðalgöngustefnandi telur að það hafi ekki óhagræði í för með sér að heimila honum meðalgöngu í máli nr. E-1362/2014 þar sem kröfur meðalgöngustefnanda um bætur vegna eignarnámsins frá 2007 séu af sömu rót runnar og kröfur stefnenda í aðalsök. Það valdi ekki sérstöku óhagræði fyrir M þótt hann haldi uppi vörnum gagnvart fjárkröfum meðalgöngustefnanda eða aðalstefnendum vegna sama eignarnáms. Varnir M byggist meðal annars á því að meðalgöngustefnandi eigi þá hagsmuni sem mál þetta snúist um en ekki dánarbú N sem aðalstefnendur geri kröfu um að verði dæmdur bótarétturinn. Meðalgöngustefnandi krefjist þess að bætur fyrir eignarnám samkvæmt eignarnámsgerð frá 30. janúar 2007 renni til meðalgöngustefnanda í stað dánarbús N.

                M hafi lagt fram matsbeiðni í máli nr. E-1362/2014 þar sem krafist hafi verið mats á verðmæti óbeinna eignaréttinda meðalgöngustefnanda. Umfang og virði óbeinna eignaréttinda meðalgöngustefnanda sé þungamiðja málsins og brýnt að úr því álitaefni verði leyst með aðild eiganda réttindanna að aðalsök málsins.

                Í málatilbúnaði aðalalstefnenda í máli E-1362/2014 sé vikið að réttindum meðalgöngustefnanda og um þau fjallað með efnislegum hætti í stefnu. Ekkert sérstakt réttarfarslegt óhagræði sé því fyrir aðalstefnendur að meðalganga verði heimiluð í máli þessu.  Í dómi Hæstaréttar frá 16. mars 2016 í máli nr. 121/2016 hafi Hæstiréttur dæmt að meðalgöngustefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því hve víðtækar eignarheimildir hans til jarðarinnar [...] séu á grundvelli erfðaskrárinnar. Í dóminum segi að úrlausn málsins ráðist fyrst og fremst af skýringu á ákvæðum erfðaskrárinnar og síðan eftir atvikum af mati á því tjóni sem handhafi hinna óbeinu eignaréttinda hafi orðið fyrir vegna umrædds eignarnáms. Samkvæmt tilvitnuðum dómi Hæstaréttar séu réttindi og skyldur meðalgöngustefnanda til úrlausnar í aðalsök máls þessa og sé óumflýjanlegt að hann krefjist aðildar að aðalsök málsins og dóms um mikilsverð fjárhagsleg réttindi sín.

                Rekstur máls nr. E-1362/2014 sé á því stigi að beðið sé niðurstöðu matsmanna vegna þriggja matsbeiðna og verði meðalgangan heimiluð muni það ekki valda töfum á rekstri málsins.

                Meðalgöngustefnandi byggir kröfur sínar á hendur   M á missi afnotaréttar af 274,4 ha svæði norðan [...] en þar rúmist örugglega framtíðaríbúðabyggð fyrir um 7.000 til 8.000 íbúa, sbr. endurrit fundargerðar bæjarstjórnarfundar frá 23. janúar 2007. M miði við í áætlunum sínum að í hverri íbúð séu að meðaltali 2,5-2,7 íbúar. Það geri um 2.700 íbúðir sé miðgildið valið og miðað við 7.000 íbúa. Í gildandi aðalskipulagi fyrir M sé gert ráð fyrir 900 íbúðum í [...]hlíð og rauntölur í ársbyrjun 2012 fyrir [...] sýni 2,7 íbúa í hverri íbúð. Miðað sé við að byggja megi tvö sambærileg hverfi í eignarnámslandinu til viðbótar og sé skipulagið fyrir [...]hlíð haft til fyrirmyndar.

                Meðalgöngustefnandi miðar við að land sem þurfi undir lóðir fyrir 2.700 íbúðir í blandaðri byggð sé um 130 ha. Samkvæmt erfðaskránni megi meðalgöngustefnandi leigja út lóðir úr eignarnámslandinu undir hús, leikvelli og annað, gegn árlegu gjaldi sem hæfilegt þyki á hverjum tíma. Í janúar 2007 hefði mátt krefja að meðaltali um 10.000.000 kr. í lóðagjald eða upphafsleigugjald pr. íbúð. Litið sé til viðmiðunarverðs á leigulóðum í Urriðaholtslandi, en þar hafi meðalverð verið 11.250.000 kr. þegar dýrustu lóðirnar séu undanskildar.  Meðalyfirtökugjöld í [...]hlíð sem auglýst hafi verið í september 2007 reiknist 7.950.000 kr. en mikil umframeftirspurn hafi verið eftir lóðum og leiða megi í ljós að markaðurinn hafi verið reiðubúinn til að greiða hærra verð en 7.950.000 kr. að meðaltali fyrir leigulóðaréttindi í [...]hlíð á þessum tíma. 

                Þá styður meðalgöngustefndi kröfur sínar einnig við matsgerð AA og BB í matsmálinu M-1/2010 frá desember 2010. Þar hafi leigulóðir undir 307 sérbýlishúsaeiningar verið metnar á verðlagi í janúar 2007 að virði 17.065.146 kr. krónur hver lóð, að meðtöldum kostnaði vegna gatnagerðar. Í sömu matsgerð hafi 323 lóðir undir lítillega breyttu skipulagi verið metnar á verðlagi sama tíma á 17.433.436 kr. hver lóð. Þá styður meðalgöngustefnandi fjárhæð bótakröfu við samninga M við leigutaka meðalgöngustefnanda og frjálsa samninga þar sem leigulóðarréttindi hafi verið seld frjálsri sölu manna á milli. Í kröfugerð meðalgöngustefnanda sé lagt til grundvallar að kostnaður við gatnagerð, lagnir og þvíumlíkt verði innheimtur sérstaklega frá leigutökum lóðanna.

                Til viðbótar við upphafsleigugjald til meðalgöngustefnanda greiðist lóðaleiga til hans sem hafi verið 62,13 kr. pr. fermetra í janúar 2007. Leigusamningar sem meðalgöngustefnandi hafi gert séu til 70 ára og í lok þess leigutíma megi endurnýja leigusamningana, þá gegn hæfilegu endurgjaldi. Árlegt leigugjald sé verðtryggt og reiknist í dag 102,08 kr. en miðað sé við verðskrá meðalgöngustefnanda sem sé að grunni til frá árinu 2001 og miði við vísitölu neysluverðs og sé grunnvísitalan 193,3 stig. 

                Upphafsgjald fyrir leigulóðir undir 2700 íbúðir reiknist vera 27.000.000.000 kr. miðað við verðlag í janúar 2007. Þá reiknist árleg leiga að minnsta kosti 80.769.000 kr. (1.300.000 * 62,13= 80.769.000) og sú leigufjárhæð í 70 ár geri þá 5.653.830.000 kr. Við framreikning leigunnar til núvirðis sé nauðsynlegt að taka tillit til þess að leigan verðbætist og hækki árlega til samræmis við vísitölu neysluverðs.  Að liðnum 70 ára leigutíma sé komið að endurnýjun leigusamninganna og þurfi því að reikna með leigutekjum lengur en upphaflegt leigutímabil við mat á tjóni meðalgöngustefnanda. 

                Þá hafi í deiliskipulagi fyrir [...]hlíð verið gert ráð fyrir fimm atvinnuhúsaeiningum á 2 ha svæði.  Miðað sé við að leigja megi út alls 6 ha undir atvinnuhúsnæði á eignarnámslandinu öllu. Meðalgöngustefnandi kveðst ekki hafa upplýsingar um yfirtökugjöld atvinnuhúsnæðis í [...]hlíð en miði við sömu yfirtökugjöld og í Tónahvarfi II, 14.300 kr. á fermetra í lóð árið 2007. Atvinnulóðirnar hafi verið 20.000 fermetrar sem geri 286.000.000 kr. í yfirtökugjöld sem séu sambærileg upphafsgjaldi meðalgöngustefnanda. Alls geri þetta 858.000.000 kr. í upphafsgjald vegna atvinnuhúsnæðis á eignarnámslandinu.

                Meðalgöngustefnandi kveðst ekki hafa leigt út lóðir undir atvinnuhúsnæði og miði því við gjaldskrá M frá árinu 2007. Bærinn hafi krafið í leigu 85,30 kr. pr. fermetra í atvinnuhúsnæði sem geri á ársgrundvelli 1.706.000 kr. á ári og á 70 árum 119.420.000 kr. fyrir hverja 20.000 fermetra. Samtals fyrir alla 60.000 fermetrana séu tapaðar leigutekjur 358.260.000 kr. Við framreikning leigunnar til núvirðis sé nauðsynlegt að taka tillit til þess að leigan verðbætist og hækki árlega til samræmis við vísitölu neysluverðs. Að liðnum 70 ára leigutíma sé komið að endurnýjun leigusamninganna og þurfi því að reikna með leigutekjum lengur en upphaflegt leigutímabil við mat á tjóni meðalgöngustefnanda.  

                Þegar land í eignaumráðum einkaaðila sé skipulagt beri að afhenda viðkomandi sveitarfélagi endurgjaldslausan afnotarétt fyrir land til vegagerðar, opin svæði og opinbera þjónustu við íbúa. Þó aldrei meira en sem svari 1/3 af því landi sem fari undir lóðir. Miðað við það falli um 43,3 ha niður sem arðberandi land svo gera megi götur, opin svæði, skóla og annað í þágu íbúanna sem þar munu búa. Um þetta hafi verið mælt fyrir í 24. gr. þágildandi laga nr. 73/1997, sbr. nú 39. gr. laga nr. 123/2010. Af sömu lagafyrirmælum leiði að breytist landnot beri sveitarfélaginu að skila afnotarétti til landsins til þess sem eignaumráðin hefur. Af því leiði að land sem ekki nýtist undir götur og annað beinlínis tengt íbúabyggðinni falli aftur í umráð rétthafans.

                Alls hafi verið teknir 274,4 ha norðan [...] og af þeim fari 173.3 ha undir íbúðabyggð og tengd not. Þá fari sex ha undir atvinnuhúsnæði.  Eftir standi 95,1 ha sem meðalgöngustefnandi missi afnotarétt yfir og sé á því byggt að hæfilegt sé að miða bætur fyrir missi umráða og afnotaréttar yfir því svæði við leigugjaldið 62,13 kr. pr. fermetra pr. ár. Bætur vegna þess reiknist þá svo: 951.000 fermetrar x 62,13 í leigu pr. ár sem geri samtals 59.085.631 kr., og á 70 árum 4.135.994.100 kr.

                Vegna missis afnotaréttar af 580 ha svæði sunnan [...] miði meðalgöngustefnandi við leigusamning sem hann hafi gert 17. apríl 2002 við einkahlutafélagið Vatna ehf. og sem M hafi yfirtekið með sérstökum samningi 22. maí 2002. Í fyrsta lagi hafi M tekið á leigu land undir brunnsvæði allt að 30-80 ha að stærð og skyldi leigugjaldið vera 9.980 kr. pr. ha á ári, verðtryggt miðað við grunnvísitölu neysluverðs 221,8 stig. Brunnsvæðið hafi á endanum orðið 227 ha innan eignarnámslandsins þegar svæðisskipulagi vatnsverndar hafi verið breytt árið 2007 eftir að eignarnám hafi farið fram. Leigugjaldið í janúar 2007 reiknist 12.009,29 kr. sem miðað við 227 ha geri 2.726.109 kr. og miðað við 70 ára leigutíma reiknist leiga af 227 ha spildu fyrir brunnsvæði 190.827.630 kr.

                Til viðbótar leigu pr. ha hafi M skuldbundið sig til að greiða meðalgöngustefnanda í leigu 1 kr. pr. tonn af vatni sem sveitarfélagið hafi nýtt á ári úr brunnsvæðinu frá 1. janúar 2014. Leigugjaldið vegna vatnsins hafi verið verðtryggt og miðað við sömu vísitölu og leigugjaldið fyrir brunnsvæðið ofanjarðar eða 221,8 stig.  Leiga fyrir vatnsnot fyrir árabilið frá 2005-2013 hafi verið greidd með eingreiðslu af hálfu M í formi kaupverðs hlutabréfa í einkahlutafélaginu Vatna ehf. sem upphaflega hafi leigt landið undir brunnsvæði.

                Uppreiknað til vísitölu í janúar 2007 hafi leigugjald pr. tonn verið 1.203 krónur og sé í kröfugerð meðalgöngustefnanda miðað við 22.090.000 tonn á ári (700 sekúndulítra) sem geri í árlegar leigutekjur 26.574.270 kr. og miðað við 70 ára leigu reiknist tapaðar tekjur vera 1.860.198.900 kr. Miðað sé við 700 lítra á sekúndu þar sem umsókn M um stækkun vinnsluleyfis hafi verið byggð á því. Einnig sé vísað til þess að M hafi afsalað Reykjavíkurborg hluta eignarnámslandsins sunnan [...] og Reykjavíkurborg sótt um vinnsluleyfi fyrir sömu vatnsnot úr eignarnámslandinu. 

                Loks sé gerð krafa um bætur fyrir missi afnotaréttar af þeim 357 ha sem ekki hafi þegar verið leigðir út sem brunnsvæði. Miðað við sama leigugjald séu tapaðar leigutekjur á ári 4.287.316 kr. og til 70 ára reiknist tapaðar leigutekjur vera 300.112.157 kr.

                Þá sé á því byggt að við mat á tjóni meðalgöngustefnanda verði að reikna með því að réttindin beri arð um ókomna tíð þar sem réttindin sem hann hafi verið sviptur séu ævarandi kvöð á jörðinni [...]. Jörðin sé það sem kalla megi þjónandi eign fyrir óbein eignaréttindi meðalgöngustefnanda og þeirra sem njóta muni réttar samkvæmt erfðaskránni eftir hans dag og þurfi handhafar beins eignaréttar að sæta þeirri kvöð um aldur og ævi.

                Samandregið reiknist heildarvirði óbeinna eignaréttinda meðalgöngustefnanda svo:

Vegna 274,4 ha norðan [...]                                                                 Rauntölur jan. 2007           Núvirðing réttinda
Upphafsleigugjald vegna 2.700 íbúða                                 kr.                 27.000.000.000,-             25.098.930.409
Upphafsleigugjald vegna atvinnuhúsnæðis                        kr.                       858.000.000,-                797.5688.233,-

Lóðaleiga vegna lóða undir 2.700 íbúðir                            kr.                    5.653.830.000,-               1.762.508.110,-
Lóðaleiga vegna atvinnuhúsnæðis                                       kr                        358.260.000,-                   111.674.760,-
Afnotamissir vegna 95,1 ha                                                   kr.                    4.135.994.100,-               1.289.342.471,-
Samtals                                                                                      kr.                 37.148.084.100,-             29.060.043.984,-
Vegna 580 ha sunnan [...]                                                     

Leiga undir brunnsvæði                                                          kr.                       190.827.630,-                     59.486.596,-
Leiga af landnotum neðanjarðar (vatnsból)                      kr.                    1.860.198.900,-                   579.666.352,-
Leiga af öðru landi                                                                  kr.                       300.112.157,-                     92.505.588,-
Samtals                                                                                      kr.                    2.351.138.687,-                   731.658.536,-
Heildarvirði reiknist vera                                                         kr.                39.148.084.100,-             29.791.702.520,-

                Við útreikning á heildarvirði óbeinna eignaréttinda meðalgöngustefnanda sé miðað við núvirðingu miðað við ávöxtunarkröfu HFF44 (skuldabréf Íbúðalánasjóðs) fyrir opnun markaða 30. janúar 2007 sem hafi verið 4,35%. Upphafsleigugjald sé núvirt miðað við 10 ára tímabil og að það hækki um 3% að raunvirði á ári. Lóðaleiga sé núvirt miðað við 70 ára leigutíma og ávöxtunarkröfu HFF44 fyrir opnun markaða 30. janúar 2007 4,35%. Meðalgöngustefnandi áskilur sé rétt til að miða við aðra ávöxtunarkröfu og óendanleika í tíma, verði niðurstaða matsmanna sú að önnur reikningsaðferð við núvirðingu sé rökréttari.

                Meðalgöngustefnandi bendir á að hann hafi lagt fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna í máli nr. E-1362/2014 til að staðreyna fjártjón sitt vegna missis óbeinna eignaréttinda og áskilur hann sér rétt til að breyta kröfugerð sinni eftir því sem niðurstaða matsgerðar gefi tilefni til. 

                Meðalgöngustefnandi byggir á því að í b-lið 1. gr. erfðaskrár P felist einkaréttur til að búa á jörðinni og hagnýta hana. Hæstiréttur hafi skýrt erfðaskrána svo að um einkaafnotarétt sé að ræða sem taki til hagnýtingar húsa og allra landgæða jarðarinnar, þ.e. þess sem fylgi og fylgja beri jörðinni. Þá hafi úrskurðir skiptaréttar byggst á því að um víðtækan afnotarétt væri að ræða. Arftaki hafi rétt til hagnýtingar og arðsrétt af öllu því sem jörðinni fylgi og fylgja beri. Umráða- og afnotaréttur arftaka samkvæmt erfðaskránni útrými afnotarétti handhafa beins eignaréttar og mögulegra viðsemjenda þeirra til jarðarinnar. 

                Þá segir meðalgöngustefnandi að í erfðaskránni felist einkaréttur til að stofna og framselja óbein eignaréttindi (leigurétt) úr óræktuðu landi [...] og hafa af fasteigninni tekjur, en samkvæmt c-lið 1. gr. erfðaskrárinnar megi arftaki skipta landinu og selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað úr óræktuðu landi jarðarinnar. Hið eignarnumda land sem meðalgöngustefnandi hafi verið sviptur umráða- og afnotarétti yfir sé allt úr óræktuðu landi jarðarinnar.

                Þá felist í erfðaskránni réttur til að krefja um og semja um bætur fyrir landspjöll , sbr. 2. gr. erfðaskrárinnar. Það sé rökrétt þar sem landspjöll á jörðinni af völdum þriðja aðila skerði umráða- og afnotarétt arftakans og beri honum fullar bætur fyrir. Eigandi beins eignaréttar hafi hvorki umráða- né afnotarétt af landi [...] og sæti kvöð um endurgjaldslausan afnotarétt rétthafa samkvæmt erfðaskránni um aldur og ævi.

                Meðalgöngustefnandi telur að samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar, einkum 3. gr., 4. gr. og 6 gr., geti umráða- og afnotaréttur einungis fallið til arftaka samkvæmt erfðaröð erfðaskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 segi að því verði hvergi fundinn staður í erfðaskránni að útlagning umráða- og afnotaréttar geti af nokkurri ástæðu gengið til baka og þau runnið aftur til dánarbúsins. 

                Þá segir meðalgöngustefnandi að við andlát N hafi tilteknar veðskuldir verið áhvílandi á jörðinni. O hafi tekið yfir áhvílandi veðskuldir á jörðinni og greitt þær upp.

                Meðalgöngustefnandi telur að hann eigi rétt til bóta fyrir missi óbeinna eignaréttinda til jarðarinnar [...] sem séu í hans eigu. Almenna reglan sé sú að eignarnámsþoli eigi rétt á sölu- eða markaðsverði nema mat á grundvelli notagildis leiði til hærri niðurstöðu. Með söluverði sé átt við það verð sem fáist fyrir réttindi á frjálsum markaði, innan hæfilega langs sölutíma og að því gefnu að kaupandi sé kunnugur markaðsverði sambærilegra eigna á svipuðum slóðum. Með notagildi sé átt við þann arð sem eignin geti gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Verðmæti óbeinna réttinda meðalgöngustefnanda liggi fyrst og fremst í einkarétti til að leigja út lóðir undir hús, leikvelli og annað og hafa af landinu þær  tekjur sem þannig megi hafa af því. Ætla megi að notagildi gefi hærri niðurstöðu en söluverð þar sem við mat á notagildi sé ekki litið til þess afsláttar sem upplýstur kaupandi myndi ætlast til að fá í svo stórum viðskiptum. 

                Við mat á fjártjóni meðalgöngustefnanda beri að meta þær eignarheimildir sem hann eigi samkvæmt erfðaskránni og sé sviptur af völdum eignarnámsins með hliðsjón því að óbeinn eignaréttur meðalgöngustefnanda sé öruggur og byggist á traustri eignarheimild (erfðaskrá), einkagildi óbeina eignaréttarins (sem útrými afnotarétti annarra, sé fullkominn einkaréttur), meðferðargildi óbeina eignaréttarins (einkaréttur til að ráðstafa óbeinum eignaréttindum á leigu og hafa af þeim ráðstöfunum arð), varanleika réttindanna (óbeinu eignaréttindin geti aldrei fallið til núverandi eiganda beins eignaréttar og gangi í arf til elsta sonar meðalgöngustefnanda) og væntingarvirði réttar til að leigja út lóðir undir hús, leikvelli og annað miðað við landfræðilega legu hins eignarnumda lands (nálægð við byggð, samkeppni á vegum M árið 2007 um rammaskipulag fyrir byggð á 274,4 ha eignarnámssvæði og land þegar verið leigt undir vatnsból).

                Eftir að eignarnám hefur verið ákveðið sé eignarnemi kominn í stöðu tjónvalds og eignarnámsþoli í stöðu tjónþola. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skuli öll takmörkuð réttindi afnumin, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Í þessu felist að við mat á tjóni eiganda beins eignaréttar beri að líta til þess að tjón hans geti aldrei orðið meira en sem svari til verðgildis þeirra eignarheimilda sem hann hafi á sinni hendi þegar eignarnám fór fram. Samkvæmt 2. mgr. 10 gr. laga nr. 11/1973 skuli tilgreina sérstaklega bætur til annarra rétthafa en eigandans og sé almenna reglan sú að bótagreiðsla til eiganda óbeinna réttinda lækki greiðslu til eigandans um sömu fjárhæð. Meginreglan um skiptingu bóta byggist á því að eignarnemi eigi ekki að greiða tvöfaldar bætur og þeirri lögvernd sem óbeinn eignaréttur njóti samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 121/2016 hafi því verið slegið föstu að meðalgöngustefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því hve víðtæk réttindi hans til jarðarinnar [...] séu og sé undir þeirri sönnunarfærslu komið hvert fjártjón hans sé af völdum eignarnámsins. Eins og afnotaréttur meðalgöngustefnanda útrými afnotarétti eiganda beins eignaréttar takmarki bótagreiðsla fyrir afnotarétt bótagreiðslu fyrir missi beins eignaréttar.

                Meðalgöngustefnandi telur að miða eigi bætur fyrir missi óbeinna eignaréttinda meðalgöngustefnanda við verðgildi þeirra í janúar 2007. Með eignarnámi M í janúar 2007 hafi eigandi beins eignaréttar ekki verið sviptur rétti til að leigja landið út og hafa af því arð. Sá réttur hafi ekki verið á hendi dánarbús N, heldur meðalgöngustefnanda.

                Hið eignarnumda land skiptist að grunni í tvo hluta. Í fyrsta lagi 274,4 ha land norðan [...] sem tekið hafi verið eignarnámi undir íbúðabyggð. Með eignarnáminu hafi meðalgöngustefnandi verið sviptur rétti til að hluta landið niður og leigja það út undir hús, leikvelli og annað. Beri honum fullar bætur fyrir þennan missi. Litið hafi verið svo á að ekki eigi að taka tillit til þess í hvaða skyni eignarnemi ætli að nota hið eignarnumda. Sú regla sé sett eignarnámsþola til hagsbóta. Nálægð byggðar við hið eignarnumda landsvæði réttlæti væntingar meðalgöngustefnanda í þá veru að leigja hafi mátt landið undir hús, leikvelli og annað. Þá verði ekki fram hjá því litið að á árinu 2006 hafi M gert samninga við Garðabæ um afléttingu vatnsverndar af öllu landi [...] norðan [...]. Sveitarfélagið hafi gengist í umtalsverðar fjárskuldbindingar gagnvart Garðabæ í því skyni og unnið breytingatillögu á svæðisskipulagi vatnsverndar í október/nóvember 2006 þar sem allt land [...] norðan [...] hafi verið tekið úr eiginlegri vatnsvernd. Það hafi að mestu gengið eftir og séu í dag einungis ca 33 ha úr eignarnámslandinu norðan [...] undir vatnsvernd. 

                Í öðru lagi sé um að ræða 580 ha land sunnan [...] sem tekið hafi verið eignarnámi til útivistar, til að tryggja vatnsvernd og öflun neysluvatns fyrir sveitarfélagið. Á þessu svæði hafi meðalgöngustefnandi leigt út landspildu undir vatnstöku til einkahlutafélags í hans eigu. Með sérstökum samningi hafi eignarnemi eignast einkahlutafélagið og tekið yfir skyldur samkvæmt leigusamningi við meðalgöngustefnanda. Um sé að ræða verðmætan og arðberandi samning til langs tíma. Allir 580 ha hafi verið undirorpnir rétti meðalgöngustefnanda til umráða og hagnýtingar og beri að greiða meðalgöngustefnanda fullar bætur fyrir missi þeirra réttinda. 

                Meðalgöngustefnandi segir að sama landsvæði verði ekki á sama tíma notað í ósamrýmanlegum tilgangi og sé með því átt við að eigandi afnotaréttar viðhafi ekki eigin not á landi sem hann hafi leigt öðrum undir byggingalóðir. Bætur skuli miða við þau not sem gefi eiganda réttindanna hærri niðurstöðu og í tilviki meðalgöngustefnanda sé það afdráttarlaust réttur til að leigja landið út. Að baki liggi sú röksemd að eignarnema verði aldrei gert að greiða tvöfaldar bætur fyrir eignarnumið land. Af sömu ástæðu leiði að bætur til meðalgöngustefnanda vegna missis réttar til útleigu lóða (væntingaverð) takmarki rétt eiganda beins eignaréttar til eignarnámsbóta. Tveir aðilar geti ekki leigt út sama land eða hagnýtt það á sama tíma (nema um sameign sé að ræða). Meðalgöngustefnandi hafi þinglýsta heimild fyrir rétti sínum til hagnýtingar og þar með talið útleigu lóða úr hinu eignarnumda landi sem sé kvöð sem eigandi beins eignaréttar þurfi að þola án nokkurs endurgjalds.

                Einnig leiði meginreglan um að eignarnema verði ekki gert að greiða bætur tvisvar sinnum fyrir sama land til þess að greiðsla bóta til meðalgöngustefnanda útiloki að sama skapi greiðslu eignarnámsbóta til eiganda kvaðabundins beins eignaréttar. Sama land verði ekki notað á sömu stundu undir leigulóðir fyrir hús og aðrar ósamrýmanlegar landsnytjar. Land sé takmörkuð gæði, og þótt land megi almennt heimta aftur úr hendi rétthafa til annarra nota sé Vatnsendi bundinn þeirri kvöð að afnotaréttur meðalgöngustefnanda til landsins geti aldrei gengið til baka. Þegar eignarnámsgerðin hafi farið fram hafi eigandi beins eignaréttar ekki getað hagnýtt sér landið sjálfur og ekki heldur leigt út lóðir undir hús, leikvelli og annað. Afnotaréttur sem meðalgöngustefnandi ráðstafi með samningi til þriðja manns falli aftur til eiganda afnotaréttar í lok samningstímans, en ekki eiganda beins eignaréttar.

                Meðalgöngustefnandi telur að forsendur séu brostnar fyrir því greiðslu­fyrirkomulagi sem samið hafi verið um í sáttargerð um eignarnámsbætur frá 30. janúar 2007. Sáttargerðin hafi ekki verið efnd og bóta sé krafist í stað efnda in natura. Stefndi í aðalsök, M, hafi viðurkennt að hann geti ekki enn afhent þær byggingalóðir sem hann lofaði að afhenda meðalgöngustefnanda í maí/júní 2008. Þá hafi stefndi í aðalsök afturkallað aðrar lóðaúthlutanir til meðalgöngustefnanda sem úthlutað hafi verið úr hinu eignarnumda landi. Eftir standi að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember 2015 í máli nr. 706/2015 sé sáttargerðin gild eignarnámsgerð samkvæmt 32. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

                Á því er byggt af hálfu meðalgöngustefnanda að honum beri fullar bætur fyrir missi eignaréttinda sem honum séu áskilin samkvæmt erfðaskránni og njóti lögverndar. Um víðtæk óbein eignaréttindi sé að ræða og við mat á eðli þeirra og inntaki verði að horfa til þess að réttindin byggist á erfðaskrá. Við túlkun erfðaskrárinnar verði samkvæmt meginreglu erfðaréttar, sem áréttuð sé í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 751/2014, að skýra erfðaskrána til samræmis við vilja arfleiðanda eftir því sem helst verði ráðið og einnig svo að hún geti haldið gildi sínu og verði framkvæmd eins og frekast er unnt. 

                Um lagarök vísar meðalgöngustefnandi til 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til meginreglna erfðaréttar um skýringu og túlkun erfðaskráa, til meginreglna eignaréttar um efni og eðli eignaréttinda, til meginregla eignaréttar um afnotarétt og réttarstöðu eiganda afnotaréttar. Þá er vísað til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 11/1973 og til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands lög nr. 33/1944.

III.

                Stefndu B og C telja málatilbúnað meðalgöngu­stefnanda óljósan og ruglingslegan. Að því marki sem skilja megi málatilbúnaðinn sé hann að flestu leyti rangur. Stefndu sé því nokkur vandi á höndum að taka til varna af þessum sökum. Málatilbúnaðurinn sé í heild sinni mótsagna­kenndur og nokkur ævintýrablær sé yfir málsgrundvellinum. Þá séu í honum rangar staðhæfingar.

                Stefndu byggja á því að fyrir liggi að beinn eignaréttur að jörðinni [...] tilheyri dánarbúi N, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 701/2012. Bætur vegna eignarnáma jarðarinnar eigi að renna til handhafa beins eignaréttar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 121/2016. Handhafi tímabundinna, kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda jarðarinnar eigi aðeins rétt á bótum vegna eignarnáms jarðarinnar að því marki sem hann verði fyrir tjóni. Þar sem ætluð réttindi hans leiði af hinum beina eignarétti leiði meint réttindi hans til eignarnámsbóta einnig af hinum beina eignarétti. Geti hann því aldrei átt beina kröfu á eignarnemann eins og meðalgöngustefnandi byggir á. Þá liggi fyrir að dánarbú N sé óbundið af eignarnámssáttum stefnda M við þá sem hann kann að hafa talið eigendur jarðarinnar á hverjum tíma, þ.e. meðalgöngustefnanda eða föður hans, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 17. janúar 2014 í máli nr. E-971/2011 og bindandi yfirlýsingu skiptastjóra dánarbúsins þar að lútandi. 

                Meðalgöngustefnandi hafi frá öndverðu verið í fullkominni vanheimild er hann komi fram gagnvart M sem eigandi jarðarinnar [...] við gerð eignarnámssáttar 30. janúar 2007. Felist vanheimild hans í því að hann hafi aldrei haft ráðstöfunarrétt yfir hinu eignarnumda. Geti hann augljóslega ekki byggt neinn frekari rétt á slíku samkomulagi. Kröfu hans þar að lútandi hafi þegar verið vísað frá dómi, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 17. janúar 2014. Í úrskurðinum komi enn fremur fram að bæði meðalgöngustefnanda og M hafi verið kunnugt um þessa vanheimild meðalgöngustefnanda. 

                Stefndu segja að kröfur meðalgöngustefnanda virðist byggjast á einhverjum grundvallarmisskilningi eða rangtúlkunum á eðli og inntaki héraðsdómsmálsins nr. E-1362/2014. Dómkröfur í máli nr. E-1362/2014 séu um eignarnámsbætur og til vara skaðabætur utan samninga, og til þrautavara að meðalgöngustefnandi skili verðmæti sem hann hafi ranglega tekið við sem eigandi jarðarinnar. Ekki sé um að ræða kröfur um bætur innan samninga eða um efndir in natura á fyrirliggjandi eignarnámssáttum, eins og málatilbúnaður meðalgöngustefnanda ranglega byggist á. Stefndu mótmæla því að kröfur meðalgöngustefnanda og dómkröfur í máli nr. E-1362/2014 byggist á sömum atvikum. Að því marki sem hægt sé að skilja málatilbúnað meðalgöngustefnanda byggi hann á eignarnámssátt frá 30. janúar 2007 og meintum réttindum sínum á grundvelli þeirrar eignarnámssáttar. Hann hafi ranglega komið fram sem eigandi jarðarinnar [...] og ranglega tekið við eignarnámsbótum í fullkominni vanheimild sem meintur eigandi jarðarinnar. Dómkröfur í máli nr. E-1362/2014 byggist að engu leyti á fyrrnefndri eignarnámssátt, heldur sé því hafnað að hún geti haft einhver réttaráhrif og þýðingu fyrir réttarsamband dánarbús N og M.

                Stefndu telja að kröfur meðalgöngustefnanda séu haldnar slíkum stórfelldum og alvarlegum annmörkum að ekki verði komist hjá því að krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi. Slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði meðalgöngustefnanda að gróflega fari í bága við grundvallarreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Hvorki sé ljóst á hvaða málsgrundvelli hann byggir kröfur sínar, né heldur hvernig þær kröfur eigi að byggjast á sama málsgrundvelli og dómkröfur í máli nr. E-1362/2014. Sé sakarefnið og samhengi þess afmarkað með þeim hætti að í bága fari við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þegar svo bætist við alvarlegir ágallar á aðild og kröfugerð, sem og fullkominn skortur á lögvörðum hagsmunum, verði ekki hjá því komist að vísa öllum kröfum meðalgöngustefnanda frá dómi.

                Um aðildina segja stefndu að mál nr. E-1362/2014 sé höfðað samkvæmt heimild í 3. mgr. 68. gr. laga nr. 21/1991 til hagsbóta dánarbúi N. Þar sé þess aðallega krafist að M verði dæmdur til að greiða dánarbúinu eignarnámsbætur og til vara skaðabætur vegna eignarnáma bæjarins á landi jarðar dánarbúsins. Þótt tilteknir erfingjar fari með fyrirsvar málsins sé það til hagsbóta öllum erfingjum dánarbúsins. Meðalgöngustefnandi sé erfingi dánarbús N. Nánar tiltekið sé hann erfingi 0,55% dánarbúsins í gegnum óskipt dánarbú föður hans, O. Af því leiði að stefnandi sé ekki þriðji maður í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beri af þessari ástæðu einni að vísa kröfum í máli þessu frá dómi.

                Stefndu telja með öllu órökstutt af hálfu meðalgöngustefnanda hvernig dómkrafa hans geti samræmst sakarefni máls nr. E-1362/2014. Miðað við málatilbúnað meðalgöngustefnanda sjálfs virðist hann byggja dómkröfu sína á öðrum grundvelli en dómkröfur í fyrrnefndu máli og geti hann því ekki komið dómkröfu sinni að í þessu máli. Grundvöllur að dómkröfu meðalgöngustefnanda sé stórlega vanreifaður.

                Þá telja stefndu að fjárhæðin á dómkröfu meðalgöngustefnanda sé með öllu órökstudd og vanreifuð, þannig að gróflega fari í bága við 80. gr. laga nr. 91/1991. Eigi meðalgöngustefnandi bótakröfu, vegna eignarnáms stefnda M, og sú bótakrafa byggist á eignarnámssátt frá 30. janúar 2007, ætti fjárhæð kröfunnar enn fremur að leiða af fyrrnefndri eignarnámssátt. Svo sé ekki samkvæmt málatilbúnaði meðalgöngustefnanda sjálfs, heldur sé um fjárhæð kröfunnar vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 16. mars 2016 í máli nr. 121/2016. Tilvísun meðalgöngustefnanda í téðan dóm, sem meðalgöngustefnandi virðist byggja fjárhæð kröfu sinnar að einhverju leyti á, fjalli ekki um eignarnámsbótakröfu innan samninga eins og meðalgöngustefnandi telji rétt sinn leiða af, enda myndi krafan þá leiða af viðkomandi samningi, heldur kröfu um eignarnámsbætur utan samninga. Þá verði heldur ekki séð að þarna sé gefinn neinn afsláttur af grundvallarreglum skaðabótaréttarins um að tjónþoli verði að sýna fram á tjón sitt og umfang þess. Umfjöllun meðalgöngustefnanda um þetta atriði byggist ýmist á getgátum eða röngum og ósönnuðum staðhæfingum um inntak tímabundinna, kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda jarðarinnar. Á þessum málatilbúnaði meðalgöngustefnanda séu slíkir annmarkar að stefndu sé með öllu ómögulegt að taka til efnisvarna í málinu. Fari málatilbúnaður þessi gróflega gegn d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  

                Stefndu telja að fárhæð kröfu meðalgöngustefnanda sé byggð á hreinum getgátum um meint tjón hans. Verði talið að dómkröfur meðalgöngustefnanda séu með einhverjum hætti dómtækar liggi fyrir að hann geti ekki haft lögvarða hagsmuni af úrlausn um dómkröfur sínar. Meðalgöngustefnandi hafi aldrei verið eigandi jarðarinnar [...] og hafi því aldrei getað með réttu komið fram sem eigandi jarðarinnar, gert um jörðina eignarnámssátt og viðtekið bætur. Á þessum grundvelli geti stefnandi ekki gert kröfu um efndir in natura, enda hafi samningur við M verið gerður á grundvelli fullkominnar vanheimildar meðalgöngu­stefnanda.

                Meint tjón meðalgöngustefnanda sé með öllu vanreifað, bæði hvað varðar málsgrundvöll og fjárhæð. Þá ætti hann slíka kröfu á hendur handhafa beins eignaréttar, dánarbúi N, en ekki M. Í þessu ljósi sé vanreifað með öllu hvernig meðalgöngustefnandi gæti átt kröfu á hendur  M og verði ekki séð að meðalgöngustefnandi hafi neina lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni á núverandi málsgrundvelli. 

                Þá vísa stefndu til þess að samkvæmt f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skuli stefnandi gera grein fyrir helstu lagareglum og réttarreglum sem hann byggir dómkröfur sínar á. Þrátt fyrir að kröfu meðalgöngustefnanda sé lýst sem bótakröfu innan samninga eða sem kröfu um efndir in natura á samningi, verði ekki séð að byggt sé á reglum samningaréttar þar að lútandi. Þá verði ekki séð að þær réttarreglur sem meðalgöngustefnandi vísar til geti undir neinum kringumstæðum leitt til þess að krafa sem hann krefst viðurkenningar á geti stofnast eða orðið gjaldkræf. Málatilbúnaðurinn sé í heild sinni vanreifaður hvað snertir lagarök og tilvísun til réttarreglna. Beri af þessum ástæðum einnig að vísa málinu frá dómi.

                Stefndu byggja einnig frávísunarkröfu sína á svokölluðum res judicata áhrifum.  Kröfu stefnanda um efndir in natura á eignarnámssátt milli hans og stefnda M hafi verið vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2014 í máli nr. E-971/2014. Með úrskurðinum hafi því verið hafnað að meðalgöngustefnandi gæti byggt rétt á eignarnámssátt frá 30. janúar 2007 þar sem hann hafi ranglega og í fullkominni vanheimild komið fram og viðtekið eignarnámsbætur sem eigandi jarðarinnar [...]. Úrskurðurinn hafi ekki verið kærður til Hæstaréttar. Stefnandi geti því ekki borið kröfuna að nýju undir dóm núna, með meðalgöngusök, enda sé krafan haldin sömu annmörkum og áður. Með vísan til 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri af þessum ástæðum að vísa kröfu meðalgöngustefnanda frá dómi.

                Að því marki sem ráðið verði í málatilbúnað meðalgöngustefnanda þá byggist málatilbúnaður hans á því að hann eigi kröfu á hendur stefnda M vegna vanefnda á eignarnámssátt frá 30. janúar 2007, og slík krafa sé lögvarin þrátt fyrir að hann sé ekki eigandi jarðarinnar eins og framangreind sátt kvað um, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 3. maí 2013 í máli nr. 751/2012. Byggist krafan á meintum hagsmunum hans sem handahafa tímabundinna, takmarkaðra og kvaðabundinna afnotaréttinda jarðarinnar á grundvelli erfðaskrár P frá 4. janúar 1938.

                Inntak dómkrafna meðalgöngustefnanda um umfang tímabundinna, takmarkaðra og kvaðabundinna afnotaréttinda meðalgöngustefnanda, á grundvelli erfðaskrárinnar, sé ekki sakarefni máls nr. E-1362/2014. Stefndu eigi ekki að þurfa að una því að meðalgöngustefnandi fái að koma kröfu sinni að í málinu á allt öðrum málsgrundvelli en dómkröfur í máli nr. E-1362/2014 og raska þannig rekstri málsins. Beri því að vísa málinu frá dómi.

                Stefndu telja að það sé grundvallarskilyrði meðalgönguaðildar að hún sé hluti af fyrirliggjandi sakarefni, ella sjálfstæð krafa á hendur stefnda í málinu, ef krafan byggist á sama málsgrundvelli og dómkröfur í málinu og það verður hvorki til tafa eða íþyngjandi fyrir málið að fjalla um kröfur meðalgöngustefnanda. Þessi skilyrði eru með engu móti uppfyllt hérna. Ekki aðeins byggist krafa meðalgöngustefnanda á öðrum málsgrundvelli, þ.e. innan samninga, en er ekki krafa um eignarnámsbætur eða skaðabætur utan samninga, heldur byggist krafan á meintum réttindum hans sem handhafa tímabundinna, kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda jarðarinnar [...]. Inntak þeirra réttinda sé bæði óljóst og umdeilt. Beri af þessum ástæðum einnig að vísa kröfum meðalgöngustefnanda frá dómi. Um inntak meintra réttinda meðalgöngustefnanda verði ekki fjallað í dómsmáli nema með aðild handhafa hins beina eignaréttar, dánarbús N. Um þau réttindi verði því ekki fjallað í máli nr. E-1362/2014. Það sé í sjálfu sér óumdeilt að ágreiningur sé meðal handhafa beins eignaréttar og meðalgöngustefnanda um inntak tímabundinna, takmarkaðra og kvaðabundinna afnotaréttinda hans á grundvelli erfðaskrárinnar. Þetta sé hins vegar ekki sakarefni máls nr. E-1362/2014, heldur innheimta eignarnámsbóta og til vara skaðabóta til handa eiganda jarðarinnar, og ekki verði tekist á um þetta án aðildar og aðkomu dánarbús N. Með þessu sé ekki útilokað að meðalgöngustefnandi eigi mögulegan bótarétt vegna meints tjóns síns við eignarnám M, þótt engu sé slegið föstu um slíkt hér. Sá mögulegi bótaréttur hvíli þó ekki á eignarnámssátt frá 30. janúar 2007 eins og meðalgöngustefnandi byggi á í þessu máli. Þann meinta bótarétt sinn verði meðalgöngustefnandi að sækja á hendur handhafa hins beina eignaréttar jarðarinnar sérstaklega. Beri af þessum ástæðum einnig að vísa öllum kröfum meðalgöngustefnanda frá dómi.

                Um lagarök vísa stefndu til grundvallarreglna einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað og afmarkaða kröfugerð. Þá er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 20., 24., 25., 80., 99. og 116. gr. laganna. Þá vísa stefndu til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og fleira, einkum 68. gr. laganna.

                Málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV.

                Stefndu I og J byggja á því að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði fyrir því að meðalganga verði heimiluð og því beri að vísa málinu frá dómi.

Ákvæði 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála heimili „þriðja manni“ að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Meðalgöngustefnandi sé varastefndi og þar af leiðandi með formlega aðild að því máli sem hann krefst meðalgönguaðildar að, þ.e. máli nr. E-1362/2014. Hann geti þegar af þeirri ástæðu ekki krafist meðalgönguaðildar á grundvelli 20. gr. laganna.

Í 20. gr. laga nr. 91/1991 sé kveðið á um það að þriðji maður sem vill gerast aðili að máli annarra skuli stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalganga. Meðalgöngustefnandi geti því ekki stefnt sjálfum sér og gert kröfu um að sér verði leyfð meðalganga í málinu.

Í máli E-1362/2014 hafi R, S, T og U verið stefnt til réttargæslu og eigi því formlega aðild/réttargæsluaðild að málinu sem réttargæslustefndu. Meðalgöngustefnandi hafi ekki stefnt þeim í máli þessu og beri því að vísa málinu frá dómi.

Stefndu telja, m.a. með vísan til 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, útilokað að líta á meðalgöngustefnanda sem þriðja mann í skilningi ákvæðisins. Í þessu sambandi vísa stefndu til dóms Hæstaréttar í máli nr. 97/2002.

Þá benda stefndu á að meðalgöngustefnandi hafi allt frá upphafi látið mál nr. E-1362/2014 til sín taka og skilað greinargerð í málinu þar sem fram koma dómkröfur og málsástæður. Hann hafi jafnframt lagt fram matsbeiðni.


V.

                Stefndu K og L telja að lagaskilyrði samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til þess að stefnanda verði heimiluð meðalganga séu ekki fyrir hendi. Lagaskilyrðin séu aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi sé „þriðja manni“ heimilt að ganga inn í mál annarra. Það fái ekki staðist að meðalgöngustefnandi sé þriðji aðili þar sem hann sé nú þegar aðili í máli nr. E-1362/2014. Engu breyti í því efni að honum sé stefnt til vara. Hugtakið aðili máls eigi við um þá sem eiga hlut að dómsmáli að því leyti að þeir geri þar kröfu um málsúrslit, slíkum kröfum sé beint að þeim og dómsúrlausn í málinu bindi þá. Stefndu vísa í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1996, bls. 858.

Meðalgöngustefnandi hafi lagt fram ítarlega greinargerð í máli nr. E-1362/2014 og þar komi dómkröfur hans fram. Þá hafi hann lagt fram gögn í málinu og matsbeiðni um verðmæti óbeins eignaréttar. Stefnandi hafi því sem aðili málsins tekið virkan þátt í rekstri þess, og látið málið til sín taka svo um muni, sem undirstriki að hann sé ekki þriðji aðili samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991.

Eins og meðalgöngustefnandi leggi málið fyrir verði hann bæði stefnandi og stefndi. Það sé andstætt meginreglum réttarfars um málsaðild að stefnandi hafi uppi kröfur í sókn sem hann mótmæli í vörn.

Stefndu telja mikilvægt að greina dómkröfur meðalgöngustefnanda eftir eðli þeirra og tengslum við dómkröfur stefnenda í fyrra máli. Meðalgöngustefnandi geri ekki kröfu til að eiga hlut eða hlutfall í kröfum stefnenda vegna beins eignaréttar. Fjárkröfur hans séu fyrir óbeinan eignarétt sem sé sjálfstætt álitaefni sem eigi að fara eigin leið með sókn og vörn vegna sérstöðu þeirra. Rök meðalgöngustefnanda séu öll komin fram og til umfjöllunar í greinargerð hans í aðalmálinu.

Megin  ágreiningsmálið, fjárhagsleg skipting beins og óbeins eignaréttar, hafi fengið ítarlega umfjöllun hjá öllum málsaðilum. Aðalmálið hafi farið af stað á ákveðnum forsendum, og dæmt um verðmæti beins eignaréttar sem tilheyri dánarbúi N. Fram séu komin skýr andmæli gegn stefnukröfum. Meðalgöngustefnandi hafi því ekki hagsmuni af því að komast inn í málið fyrir meðalgöngu.

Þeir sem séu utan við aðalmálið en eigi hlut í beinum eignarétti eigi um 6,7% eignarréttar en þeir séu ekki að koma inn í málið sem slíkir undir merkjum meðalgöngunnar.

Í aðalmálinu sé drepið á það að einn málsaðili, meðalgöngustefnandi, eigi óbeinan eignarétt og taka þurfi tillit til hans. Sérstök matsbeiðni sé komin fram frá þeim rétthafa. Hann sé því kominn inn í málið með dómkröfur sínar og málið verði þar með til umfjöllunar um verðmæti beins og óbeins eignaréttar.

Í meðalgöngumálum gildi reglur, þar á meðal um skilyrði meðalgöngu. Það sé ekki nægilegt að krafa sé af sama uppruna, ef ekki verði leyst úr henni á sama grundvelli og stefnandi aðalsakar hefur byggt á. 

Forsenda fyrir meðalgöngusök sé að hann byggi sínar kröfur á sömu forsendum og rökum og sá aðili sem hann vill að málið verði dæmt í vil. Ef meðalgöngustefnendur í máli halda uppi öðrum röksemdum fyrir sínum málstað geti þeir ekki átt meðalgönguaðild að málinu.

Það sem einkenni kröfugerð meðalgöngustefnanda sé fullkomin andstaða við kröfugerð stefnenda, málsástæður og rökstuðning þeirra. Málið eigi sér sameiginlegan uppruna en hagsmunaleg atriði séu í algerri andstöðu milli aðila. Af þessum sökum eigi ekki við að heimila kröfur um meðalgöngu og vísa beri kröfum hans frá dómi.

Verði meðalgangan samþykkt komi upp staða sem ekki gangi upp þar sem aðalstefnendur og meðalgöngustefnandi standi hliðsettir sem stefnendur í aðalsök gegn M en séu samt með ósamrýmanlegar kröfur og rökstuðning sem stefnendur.

Stefndu benda á að stefnanda hafi borið að fara að reglum IV. kafla laga nr. 91/1991 og höfða gagnsök og gagnstefnu í því skyni að fá kröfur sínar viðurkenndar,  eða höfða sérstakt einkamál gegn M.

Þá byggja stefndu á tómlæti meðalgöngustefnanda. Í lögum um meðferð einkamála gildi svonefnd útilokunar- eða tómlætisregla. Aðilum beri að koma kröfum sínum og nýjum gögnum að í máli eins fljótt og hægt er. Ef út af þeirri skyldu er brugðið innan eðlilegs og skamms tíma séu þau talin of seint framkomin og komist ekki að og það leiði til frávísunar meðalgöngumálsins. Héraðsdómsmálið nr. E-1362/2014 hafi verið þingfest 5. nóvember 2014 og meðalgöngumál þetta þingfest 26. apríl 2017, eða tveimur og hálfu ári síðar. Það sé augljóst verulegt og stórfellt tómlæti án nokkurra skýringa og leiði það til frávísunar.

Af öllu framangreindu telja stefndu að staðfesta beri kröfur þeirra í málinu.

VI.

                Stefndu F, dánarbú E, G og H byggja á því að í máli nr. E-1362/2014 sé meðalgöngustefnanda stefnt til vara. Það sé gert með heimild í 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Auk þess hafi tilteknum aðilum verið stefnt til réttargæslu. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 sé þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Meðalgöngustefnandi hafi verið aðili máls nr. E-1362/2014 allt frá höfðun þess. Meðalgöngu­stefnandi hafi skilað ítarlegri greinargerð og matsbeiðni og tekið virkan þátt í öllum málarekstri. Verði kröfur stefnenda í máli nr. E-1362/2014 á hendur M teknar til greina sé meðalgöngustefnandi laus allra mála gagnvart stefnendum. Meðalgöngustefnandi sé því ekki þriðji maður í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991, heldur aðili, og því hvorki hægt að dæma honum meðalgöngu né sakarefni aðalkrafna málsins, sem lúti að bótum fyrir eignarnám hluta jarðarinnar [...], sem sé eign dánarbús N.

Dómur í máli nr. E-1362/2014 verði annaðhvort þess efnis að kröfur stefnenda á hendur M verða teknar til greina að öllu leyti eða einhverju, eða bærinn sýknaður. Verði kröfur á hendur M teknar til greina koma þær öllum erfingjum dánarbúsins til hagsbóta. Verði M sýknaður reyni fyrst á hagsmuni meðalgöngustefnanda, sem hafi krafist sýknu af þeim kröfum sem beint er að honum.

Þá byggja stefndu á því að meðalgöngustefnandi hafi ekki stefnt öllum aðilum máls til að þola meðalgöngu, eins og þó beri að gera samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991. Meðal stefndu hefðu þá verið hann sjálfur og réttargæslustefndu.

Með vísan til framangreinds telja stefndu ljóst að skilyrðum 20. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt og því beri að sýkna stefndu af kröfum meðalgöngustefnanda og dæma hann til að greiða hverjum og einum meðalgöngustefnda málskostnað að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.

Krafa um málskostnað byggist á 129 og 130. gr. laga nr. 21/1991.

VII.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður.

Mál nr. E-1362/2014 var höfðað 28. apríl 2014 en það er ekki fyrr en 9. janúar 2017 sem meðalgöngustefnandi höfðar mál og gerir kröfu um að honum verði heimiluð meðalganga í aðalsök í málinu. Meðalgöngustefnandi er aðili að máli nr. E-1362/2014 þar sem honum hefur verið stefnt til vara í málinu. Hvað varðar aðalsökina í málinu verður að líta til þess að málið er höfðað til hagsbóta fyrir dánarbú N á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en meðalgöngustefnandi á tilkall til arfs úr dánarbúinu. Samkvæmt þessu getur meðalgöngustefnandi ekki verið þriðji maður í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá er málatilbúnaður meðalgöngustefnanda fremur ruglingslegur og virðist hann byggja kröfur sínar á hendur M á öðrum grundvelli og málsástæðum en stefnendur gera í aðalsök í máli nr. E-1362/2014. Á einum stað í stefnu um meðalgöngu segir að meðalgöngustefnandi krefjist þess að bætur fyrir eignarnám samkvæmt eignarnámsgerð frá 30. janúar 2007 renni til meðalgöngu­stefnanda í stað dánarbús N, sem var byggt á því að meðalgöngustefnandi væri eigandi beins eignaréttar en úr því hefur verið skorið að hann er það ekki. Á öðrum stað í stefnu segir svo að meðalgöngustefnandi byggi kröfur sínar á hendur M á missi afnotaréttar. Meðalgöngustefnandi hefur lagt fram greinargerð í máli nr. E-1362/2014 og tekið til varna um sína hagsmuni. Jafnframt hefur hann lagt fram matsbeiðni þar sem óskað er eftir mati á virði beins eignaréttar af jörðinni [...], ef undan réttinum hafi verið skilinn afnotaréttur af jörðinni, og hvert væri söluvirði afnotaréttar af jörðinni. M hefur einnig lagt fram matsbeiðni þar sem óskað er eftir mati á fjárhagslegu gildi beins eignaréttar, að teknu tilliti til þess að við eignarnámið hafi umráða- og afnotaréttur af landinu verið skilinn frá hinum beina eignarétti. Þá hafa stefnendur í því máli lagt fram viðbótarmatsbeiðni um verðmæti „takmarkaðra og kvaðabundinna afnotaréttinda“ jarðarinnar. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að meðalgöngustefnandi hafi lögvarða hagsmuni af meðalgöngu í málinu. Meðalganga myndi enn fremur leiða til mikils óhagræðis og gera málið enn þyngra í vöfum.   

Með vísan til alls framangreinds ber að vísa frá máli þessu og kröfu A, um meðalgöngu í aðalsök í máli nr. E-1362/2014, frá dómi. 

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað. Málskostnaður til handa stefndu B og C er hæfilega ákveðinn 150.000 krónur til hvors um sig. Málskostnaður stefndu J og I er ákveðinn með sama hætti og einnig málskostnaður K og L. Málskostnaður stefndu F, dánarbús E, G og H er hæfilega ákveðinn 75.000 krónur til hvers um sig. Málskostnaður stefnda M, sem skilaði greinargerð um efnishlið málsins, er hæfilega ákveðinn 600.000 krónur. 

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Máli þessu og kröfu stefnanda, A, um meðalgöngu í aðalsök í máli nr. E-1362/2014, er vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði stefndu A, B, J, I, K og L hverju um sig 150.000 krónur í málskostnað. Þá greiði stefnandi stefndu F, dánarbúi E, G og H hverju um sig 75.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda M 600.000 krónur í málskostnað.