Print

Mál nr. 159/2002

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn

Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. september 2002.

Nr. 159/2002.

Þorvarður Óskarsson

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

J.T. veitingum ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn.

Þ starfaði sem yfirmatreiðslumaður á Hótel Loftleiðum þegar fyrirtækið JT, sem tekið hafði við veitingastarfsemi á hótelinu, sagði honum upp starfi í desember 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við mánaðamót. Aðilum bar saman um að uppsögnin hafi verið lögmæt og að JT hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi Þ á uppsagnarfrestinum. Stóð ágreiningur aðila um það eitt hvort tekjur, sem Þ vann sér inn hjá öðrum á þessu tímabili, skyldu koma til frádráttar launakröfu hans úr hendi JT. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað í fordæmi réttarins í dómasafni 1997, bls. 580, þar sem skorið hafði verið úr sambærilegu ágreiningsefni og talið, að laun Þ í uppsagnarfrestinum skyldu koma til frádráttar launakröfu hans úr hendi JT.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 945.420 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 315.140 krónum frá 31. janúar 2001 til 28. febrúar sama árs, af 630.280 krónum frá þeim degi til 30. mars 2001 og af 945.420 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá verði stefndi dæmdur til þess að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi starfaði sem yfirmatreiðslumaður á Hótel Loftleiðum þegar stefndi sagði honum upp starfi 19. desember 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við mánaðamót. Aðilum ber saman um að uppsögnin hafi verið lögmæt og að stefndi hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi áfrýjanda á uppsagnarfrestinum. Stendur ágreiningur þeirra um það eitt hvort tekjur, sem áfrýjandi vann sér inn hjá öðrum á þessu tímabili, skuli koma til frádráttar launakröfu hans úr hendi stefnda. Hefur áður verið skorið úr sambærilegu ágreiningsefni fyrir Hæstarétti, sbr. dóm réttarins á bls. 580 í dómasafni 1997. Að virtu því fordæmi og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2002

Mál þetta var höfðað 31. maí 2001 og dómtekið 22. janúar 2002.

Stefnandi er Þorvarður Óskarsson, kt. 190355-3659, Flúðaseli 70 í Reykjavík.

Stefndi er J.T. veitingar ehf. kt. 510900-3670, Hótel Loftleiðum í Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 945.420 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 315.140 krónum frá 31. janúar 2001 til 28. febrúar 2001, þá af 630.280 krónum til 30. mars 2001, en þá af 945.420 krónum til 1. júlí 2001, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar.

 Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I - Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi, sem er matreiðslumaður, hóf störf á Hótel Loftleiðum á árunum 1993-1994. Stefndi tók við rekstri veitingarstarfsemi á Hótel Loftleiðum 1. október 2000. Stefnandi hafði starfað þar sem yfirmatreiðslumaður og veitingastjóri í meira en 7 ár og tók hann við stöðu yfirmatreiðslumanns hjá stefnda.

Með bréfi stefnanda 19. desember 2000 var stefnda sagt upp störfum, frá og með þeim degi, með samningsbundnum fyrirvara. Jafnframt var í bréfinu tekið fram að vinnuframlags stefnanda væri ekki óskað á uppsagnartímanum. Þá var honum þakkað fyrir samstarfið og óskað alls hins besta í framtíðinni.

Af hálfu stefnda er því haldið fram, að fljótlega eftir að hann hafi tekið yfir rekstur veitingarstarfseminnar hafi farið að bera á samstarfsörðugleikum milli stefnanda og nýrra stjórnenda. Hafi stefnandi starfað mjög sjálfstætt og ekki litið á nýja eigendur sem yfirmenn sína. Hafi hann m.a. haldið óbreyttum háttum á innkaupum aðfanga þrátt fyrir tilmæli um endurskoðun á því við hverja væri verslað. Þá hafi stefnandi komið og farið af vinnustað eins og honum hentaði og jafnvel ekki klæðst vinnufatnaði yfirmatreiðslumanns á vinnustaðnum.

Óreiða hafi verið á reikningshaldi stefnanda varðandi viðskipti við veitingahúsið Apotek. Veitingahúsið hafi keypt brauð o.fl. af stefnda og fengið lánað hráefni úr eldhúsi. Hafi stefnandi átt að halda utan um þessi mál. Þegar útbúa hafi átt reikninga hafi upplýsingar verið af skornum skammti og úttektir virst hafa verið skrifaðar á laus blöð og miða. Hluti af miðunum hafi týnst og stefndi orðið fyrir tjóni af þeim sökum.

Framangreint hafi leitt til þess að framkvæmdastjóri stefnda hafi rætt við stefnanda og boðið honum upp á samkomulag um starfslok. Það hafi stefnandi ekki þegið og stefndi þá ekki séð sér annað fært en að segja honum upp. Stefndi hafi viljað komast hjá frekari árekstrum og því sagt stefnanda skriflega upp með lög- og samningsbundnum fyrirvara, án þess að ástæða uppsagnar væri tilgreind. Ekki hafi verið óskað eftir því að stefnandi ynni út uppsagnarfrestinn þar sem ekki hafi verið búist við að samstarfið myndi batna. Með því að leysa stefnanda undan vinnuskyldu hafi honum verið gefið færi á því að ráða sig strax í aðra vinnu.

Stefnandi kannast ekki við að samstarfsörðugleikar hafi verið milli hans og yfirstjórnenda og þeir ekki gefnir upp sem ástæða uppsagnar. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hans og honum aldrei verið veitt áminning starfi. Honum hafi verið boðið að segja upp og hann ákveðið að hugsa málið. Þegar hann hafi svo mætt næst hafi honum verið tjáð munnlega að honum væri sagt upp störfum. Hafi hann þá óskað eftir því að fá skriflega uppsögn. Engin ástæða hafi verið gefin fyrir því að af hverju ekki væri óskað eftir því að hann ynni ekki uppsagnarfrestinn.

Mánaðarlaun stefnanda hjá stefnda voru við uppsögn 366.560 krónur. Í lok desember 2000 fékk stefnandi útborgaðar 366.560 krónur en 51.420 krónur í lok janúar, febrúar og mars 2001.

Lögmaður stefnanda sendi bréf 12. febrúar 2001 og krafði stefnda um greiðslu fullra launa í uppsagnarfresti vegna janúar. Í svarbréfi frá lögmanni Samtaka atvinnulífsins kom fram að stefndi teldi sig hafa vissu fyrir því að stefnandi hefði verið kominn í annað starf í janúar og bæri að draga laun í því starfi frá launum hans í uppsagnafresti. Lögmaður stefnandi mótmælti þessari túlkun í bréfi 10. mars 2001.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína á eftirfarandi hátt:

Laun í janúar 2001, skv. vinnusamningi                                366.560 krónur

Útborgað í janúar 2001                                                              51.420 krónur

Skuld vegna janúar 2001                                                                                      315.140 krónur

Laun í febrúar 2001, skv. vinnusamningi                              366.560 krónur

Útborgað í febrúar 2001                                                             51.420 krónur

Skuld vegna febrúar 2001                                                                                    315.140 krónur

Laun í mars 2001, skv. vinnusamningi                                 366. 560 krónur

Útborgað vegna mars 2001                                                       51.420 krónur

Skuld vegna mars 2001                                                                                        315.140 krónur

­Samtals skuld                                                                                                        945.420 krónur

II - Málsástæður og lagarök málsaðila

Af hálfu stefnanda er á því byggt að vinnuréttarsamband málsaðila hafi verið virkt út uppsagnarfrestinn. Það hafi veitt hvorum aðila um sig rétt gagnvart hinum en um leið skapað hvorum aðila um sig skyldur. Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir uppsögnina, sem ekki sé deilt um að hafi verið lögmæt, hafi skyldur vinnuréttarsambandsins haldið áfram út uppsagnarfrestinn. Því hafi skylda stefnda til greiðslu launa ekki fallið niður, enda hafi stefnandi ekki afþakkað laun sín.

Stefnandi telur að túlka beri yfirlýsingu stefnda í uppsagnarbréfi, þess efnis að ekki sé óskað eftir vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfresti, með þeim hætti, að stefnanda hafi verið frjálst að verja uppsagnartíma sínum eins og hann sjálfur kaus, án þess að það hefði áhrif á réttarsamband hans við stefnda. Stefnandi byggir á því að í uppsagnarbréfinu hafi ekki falist áskilnaður um að stefnandi stundaði ekki launaða vinnu á uppsagnarfresti eða að laun frá öðrum í uppsagnarfresti kæmu til frádráttar launum frá stefnda. Stefnandi byggir á því að uppsagnarbréfið hafi einungis snúið að skyldum hans gagnvart stefnda þ. e. vinnuskyldunni, en ekki skyldu stefnda til greiðslu launa. Þá byggir stefnandi á því, að þótt stefndi hafi kosið að þiggja ekki vinnuframlag hans samkvæmt vinnusamningi og leysa hann þar með undan skyldum sínum, hafi það ekki leyst stefnda undan þeirri frumskyldu að greiða laun.

Þá byggir stefnandi á því að í uppsagnarbréfi stefnda hafi falist loforð um að stefnandi væri leystur undan vinnuskyldu sinni og það loforð hafi ekki verið bundið því skilyrði eða fyrirvara, að stefnandi mætti ekki ráða sig í vinnu hjá öðrum þannig að það hefði áhrif á vinnusamning við stefnda hvað laun varðar.

Stefnandi kveður kröfuna byggða á þeim rétti sem vinnusamningur aðila veiti en ekki sé byggt á því að um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar sé að ræða. Vinnuréttarlegt samband aðila hafi ekki rofnað fyrr en að liðnum uppsagnarfresti, en í íslenskum rétti sé ekkert sem mæli því í mót að menn bindist í tveimur eða fleiri vinnuréttarsamningum, enda alsiða að menn auki tekjur sínar með því að starfa samtímis hjá tveimur eða fleiri atvinnuveitendum.

Stefnandi telur það ekki standast að draga beri launagreiðslur frá öðrum vinnuveitanda frá launum í uppsagnarfresti á grundvelli sjónarmiða um skaðabætur. Hvorki stefndi né stefnandi hafi skaðast við uppsögnina. Stefnda hafi verið í lófa lagi að þiggja vinnuframlag stefnanda í uppsagnarfresti og stefnanda getað setið heima og þegið eingöngu laun frá stefnda. Það að stefnandi hafi kosið að auka tekjur sínar með vinnu í sínum frjálsa ráðstöfunartíma eigi ekkert skylt við bótarétt. Stefnanda hafi ekki verið skylt að leita sér að vinnu til að draga úr launaútgjöldum stefnda.

Stefnandi byggir kröfu sína m.a. á ráðningarsamningi aðila og kjarasamningi og 2. gr. laga nr. 77/1933. Gerð er krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Stefndi mótmælir því málsástæðu, að stefnandi eigi rétt á óskertum launum í uppsagnarfresti. Það hafi ekki áhrif á skyldu stefnda að ekki hafi verið tekið fram í uppsagnarbréfi að laun frá öðrum kæmu til frádráttar launum frá stefnda. Gætt hafi verið þeirra lög- og kjarasamningsbundnu formskilyrða um að uppsögn skuli vera skrifleg. Ekki hafi verið þörf á að taka fram þær vinnuréttarlegu skyldur stefnanda, annars vegar að leita sér að annarri vinnu og hins vegar að laun á uppsagnartíma dragist frá launakröfu á hendur stefnda.

Þá mótmælir stefndi því að hann hafi lofað að greiða stefnanda óskert laun, án vinnuframlags, út uppsagnartímann. Stefndi hafi sýnt annað í verki með því að draga frá áætluð laun frá öðrum launagreiðanda. Sú launafjárhæð hafi verið byggð á upplýsingum um markaðslaun matreiðslumanna í mötuneytum.

Stefndi kveður þau laun sem stefnanda hafi verið greidd í janúar til mars 2001 hafa verið mismun þeirra launa sem stefnandi hafi haft hjá stefnda og þeirra launa sem greidd hafi verið í mötuneytum. Stefnandi hafi í janúar 2001 unnið í mötuneyti hjá Matvís og fleiri félögum en síðan farið að vinna í mötuneyti hjá Toyotaumboðinu. Samhliða hafi stefnandi unnið fyrir Frímúrararegluna.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hefði skaðast við að þurfa að segja stefnanda upp störfum og greiða honum full laun þar sem stefndi hafi þurft að greiða tveimur yfirmatreiðslumönnum laun samtímis.

Stefndi telur rétt til launa í uppsagnarfresti vera tryggingarrétt á sama hátt og rétt til forfallalauna vegna veikinda eða slysa. Þeir sem missi vinnu sína eigi á aðlögunartíma, sem sé uppsagnarfresturinn, að fá greidd laun eða mismun fyrri launa og launa í nýju starfi. Séu þeim með því tryggð sömu laun á uppsagnarfrestinum og þeir höfðu á fyrri vinnustað. Réttur til launa í uppsagnarfresti sé því ekki viðbót við laun frá öðrum vinnuveitanda eins og stefnandi virðist telja. Væri það ætlunin þyrftu að vera skýr ákvæði í kjarasamningum eða lögum um slíkt. Slík ákvæði séu t.d. í sjómannalögum, en þau gildi ekki um starfsmenn í landi.

Stefndi telur sig hafa staðið stefnanda skil á því sem honum beri í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að greiðsla stefnda sé lægri en mismunur á þeim launum sem stefnandi hafði hjá stefnda og þess sem hann hafi haft í nýjum störfum mánuðina janúar til og með mars 2001. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi krefst þess til vara, að hann verði einungis dæmdur til að greiða mismun á þeim launum sem stefnandi hafi haft hjá stefnda og þeim launum sem hann hafi haft annars staðar á meðan uppsagnarfrestur var að líða. Það hafi í raun alltaf staðið til boða og verið skilningur stefnda að stefnandi ætti að vera eins settur launalega séð út uppsagnarfrestinn eins og ekki hefði komið til uppsagnar. Hins vegar sé það ekki í samræmi við almennar reglur vinnuréttar að starfsmaður hagnist verulega á uppsögn. Væri það ætlunin þurfi það að koma skýrt fram í lögum eða kjarasamningum.

Stefndi telur stefnandi hafa með bréfi 10. mars 2001 í raun neitað að upplýsa um laun hjá nýjum vinnuveitendum. Þá hafi stefnandi ekki fyrr en við aðalmeðferð sýnt fram á að eitthvað hafi vantað á að stefndi greiddi mismun þeirra launa sem stefnandi hafi haft hjá stefnda og þeirra launa sem hann hafi haft á öðrum vinnustöðum í janúar til febrúar 2001. Því sé þess krafist að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá þingfestingardegi og að málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu stefnda er m.a. byggt á kjarasamningi matreiðslumanna, 1. gr. laga nr. 55/1980, lögum nr. 77/1993 og meginreglum samninga- og vinnuréttar.

III - Niðurstaða

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur einkum að því hvort stefnda hafi verið rétt að draga frá launum stefnanda í uppsagnarfresti, þau laun sem hann fékk fyrir störf hjá öðrum á sama tímabili. Ekki er ágreiningur um að stefnanda bar þriggja mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt gildandi kjarasamningi.

Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum skriflega 19. desember 2000 með samningsbundnum fyrirvara. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda frá og með dagsetningu bréfsins og á uppsagnartímanum. Engar ástæður voru þar tilgreindar fyrir uppsögn stefnanda og þykja síðari skýringar málsaðila á ástæðum og aðdraganda uppsagnarinnar engu skipta við úrlausn málsins. Verður að líta svo á að um lögmæta uppsögn hafi verið ræða og var stefnda það í sjálfsvald sett sem vinnuveitanda hvort hann óskaði eftir vinnuframlagi stefnanda. Það kaus hann að gera ekki. Óumdeilt er að krafa stefnanda er um endurgjald samkvæmt vinnusamningi en ekki bótakrafa.

Það er meginregla í vinnurétti að hafi vinnuveitandi sagt starfsmanni upp með ólögmætum hætti er litið svo á að starfsmaðurinn eigi rétt á launum í uppsagnarfresti í samræmi við áunnin réttindi. Launin eru þá ígildi skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar. Þá er það almenn regla í vinnurétti að vinnulaun sem starfsmaður aflar á uppsagnarfrestinum beri að draga frá bótakröfu á hendur vinnuveitanda.

Stefnandi heldur því fram að þar sem um lögmæta uppsögn á vinnusamningi hafi verið að ræða komi reglur um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar ekki til álita heldur verði stefndi að standa við sinn hluta vinnusamningsins þ.e. að greiða laun til loka uppsagnarfrests, óháð því hvort stefnandi hafi aflað sér tekna á þeim tíma. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að sambærileg regla sé til staðar í vinnurétti um frádrátt tekna hjá nýjum vinnuveitanda hvort sem um lögmæta eða ólögmæta uppsögn er að ræða.

Væri fallist á rök stefnanda væri réttarstaða vinnuveitanda sem segir starfsmanni sínum upp með lögmætum hætti lakari en réttarstaða þess sem segir starfmanni upp með ólögmætum hætti. Að sama skapi væri starfsmaður, sem sagt væri upp með ólögmætum hætti, verr settur en sá sem sagt er upp með lögmætum hætti. Sýnist það í hæsta máta óeðlileg niðurstaða og óásættanleg fyrir bæði launþega og vinnuveitendur.

Við úrlausn málsins verður að hafa í huga það eðli uppsagnarfrests að hann er aðlögunartími fyrir bæði starfsmann og vinnuveitanda vegna breyttra aðstæðna í kjölfar uppsagnar. Báðir aðilar fá þá ráðrúm til að haga málum þannig að uppsögnin valdi þeim sem minnstri röskun. Í uppsagnarfrestinum ber vinnuveitanda að öðru jöfnu að greiða starfsmanninum laun þar til ráðningarsambandi þeirra lýkur við lok frestsins og starfsmanninum ber að inna af hendi störf sín í þágu vinnuveitandans. Óski vinnuveitandi ekki eftir vinnuframlagi starfsmannsins verður að líta svo á að stafsmanninum sé frjálst að nýta sér uppsagnarfrestinn á þann veg sem hann kýs, t.d. að hverfa til annarra starfa ef það hentar honum að þiggja starf sem býðst í uppsagnarfresti.

Megintilgangur launa í uppsagnarfresti er að tryggja starfsmanninum sömu laun og hann áður naut á meðan á þessum aðlögunartíma stendur.

Með hliðsjón af reglunni um frádrátt launa frá kröfu um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar, eðlis uppsagnarfrests og þess tilgangs launagreiðslna í uppsagnarfresti að tryggja starfsmanni óskert laun til loka uppsagnarfrests, þykir eðlilegt að frá slíkum launagreiðslum dragist launatekjur í uppsagnarfresti, vegna starfa í þágu annars vinnuveitanda, sem hann hefði ekki getað unnið fyrir samhliða fyrra starfi sínu.

Í uppsagnarbréfi því sem stefnandi fékk er eingöngu vísað til þess að stefnanda sé sagt upp með samningsbundnum fyrirvara og að ekki sé óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnartímanum. Uppsagnarbréfið verður því ekki túlkað sem óskilyrt loforð um greiðslu fullra launa á uppsagnartímanum.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann þurfi ekki að sæta frádrætti frá kröfu um laun á uppsagnartímanum vegna starfa sinna hjá öðrum. Ekki hafi í uppsagnarbréfi ekki verið tilgreint að greiðsla launa í uppsagnarfresti væri háð því að hann nyti ekki tekna frá öðrum á sama tíma. Honum hafi því verið frjálst að nýta sér uppsagnarfrestinn að eigin vild og hann hafi kosið að afla sér tekna annars staðar. Styðst þessi niðurstaða að hluta við Hæstaréttardóm 1997, bls. 580.

Ekki verður fallist á með stefnanda að stefndi hafi þurft að gera sérstakan áskilnað í uppsagnarbréfi um að vinnutekjur í þágu annars vinnuveitanda til loka uppsagnarfrests kæmu til frádráttar launum í uppsagnarfresti. Ekki verður heldur fallist á að í efni uppsagnarbréfsins felist loforð um greiðslu óskertra launa út uppsagnarfrestinn án tillits til launagreiðslna frá nýjum vinnuveitanda.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði stefnandi í mötuneyti MATVÍS í janúar og í mötuneyti P. Samúelssonar hf. í janúar, febrúar og mars. Laun stefnanda fyrir störf hjá þessum vinnuveitendum voru samtals 274.233 krónur í janúar 2001, 250.000 krónur í febrúar og 250.000 krónur í mars. Samkvæmt framlögðum gögnum, sem ekki hafa verið dregin í efa, var daglegur vinnutími stefnanda frá kl. 8.00 til 16.00 og því ljóst að stefnandi hefði ekki getað sinnt þessum störfum samhliða starfi sínu hjá stefnda. Stefnandi verður því að sæta frádrætti af kröfu um laun í uppsagnarfresti sem þessum launagreiðslum nemur.

Þá er fram komið og stutt gögnum, sem ekki hafa verið vefengd, að stefnandi starfaði jafnframt í uppsagnarfrestinum sem matsveinn hjá Frímúrarareglunni og voru þau störf unnin eftir kl. 17.00. Ekki liggur fyrir að ráðningarsamningur stefnanda og stefnda hafi meinað stefnanda að drýgja tekjur sínar með vinnu í þágu annars vinnuveitanda utan reglulegs vinnutíma. Hvorugur aðili hefur lagt fram gögn um daglegan vinnutíma stefnanda hjá stefnda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hefði getað sinnt þessu starfi samhliða starfi sínu hjá stefnda. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að vinnutími yfirmatreiðslumanna sé lengri en frá kl. 8.00 til kl. 17.00. Með hliðsjón af sönnunaraðstöðu málsaðila þykir rétt að leggja til grundvallar að vinnuskyldur stefnanda í þágu stefnda hafi ekki verið svo miklar að hann hafi ekki haft svigrúm til að afla sér tekna af störfum í þágu annarra en stefnda. Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að laun stefnanda vegna starfa hjá Frímúrarareglunni, sem hann sinnti utan venjulegs dagvinnutíma, komi ekki til frádráttar kröfu á hendur stefnda um laun í uppsagnarfresti. Þessi laun voru 9.739 krónur í janúar, 99.431 króna í febrúar og 85.803 krónur í mars eða samtals 194.973 krónur.

Samkvæmt gögnum málsins voru mánaðarlaun stefnanda hjá stefnda, auk orlofs, 366.560 krónur. Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda í janúar, febrúar og mars 51.420 krónur og hafði þá verið dregin frá fjárhæð sem stefndi taldi markaðslaun matreiðslumanna í mötuneytum.

Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra greiðslna, sem samkvæmt framansögðu eiga að koma til frádráttar launum stefnanda í uppsagnarfresti og þeirra greiðslna sem hann hefur þegar fengið úr hendi stefnda, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 40.907 krónur (366.560-51.420-274.233) vegna janúar 2001, 65.140 krónur (366.560-51.420-250.000) vegna febrúar 2001 og 65.140 krónur (366.560-51.420-250.000) vegna mars 2001.

Stefndi hefur krafist þess að dráttarvextir dæmist ekki fyrr en frá 12. nóvember þegar stefnandi lagði fram launaseðla vegna starfa sinna í uppsagnarfresti. Hann hafi ekki fyrr en þá orðið við beiðni lögmanns stefnda um upplýsingar þar að lútandi. Vísar stefndi þar um til bréfaskipta lögmanna aðila. Þau bréf liggja frammi í málinu. Verður ekki séð að lögmaður stefnda fari þar fram á slíkar upplýsingar hvað þá að þeim hafi verið neitað af hálfu lögmanns stefnanda. Er því fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Að þessu virtu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 171.187 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda hluta af kostnaði hans af málinu. Þykir hæfilegt að stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásgeir Björnsson hdl. en af hálfu stefnda Jón H. Magnússon hdl.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, J. T. veitingar ehf., greiði stefnanda, Þorvarði Óskarssyni, 171.187 krónur, með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 40.907 krónum frá 31. janúar 2001 til 28. febrúar 2001, þá af 106.047 krónum til 30. mars 2001, þá af 171.187 krónum til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.