Print

Mál nr. 472/2011

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
B ehf. (Guðmundur Ágústsson hrl.) og Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.)
Lykilorð
  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Vátryggingarsamningur
  • Gjafsókn

 A kól á fingrum og tám við störf hjá B ehf. og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu fyrirtækisins auk viðurkenningar á rétti til bóta úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu þess hjá T hf. Aðila greindi á um túlkun 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hvorki yrði ráðið af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum að með því hefði verið lögfest hlutlæg ábyrgðarregla vinnuveitanda á tjóni sem starfsmenn hlytu í starfi sínu. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að skort hefði á lögboðnar leiðbeiningar til A og að verkstjórn hefði verið áfátt af hálfu B ehf. Bæri fyrirtækið því skaðabótaábyrgð á tjóni A, en ekki hefði verið sýnt fram á að A skyldi bera hluta tjóns síns sjálfur á grundvelli stórkostlegs gáleysis eða ásetnings. Einnig var talið með vísan til læknisvottorðs, sem ekki hafði verið hnekkt, að tjón A yrði rakið til skyndilegs og utanaðkomandi atburðar í skilningi fyrrnefndrar slysatryggingar. Var því einnig viðurkenndur réttur A til bóta úr tryggingunni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2011. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, B ehf., vegna líkamstjóns er áfrýjandi varð fyrir við vinnu hjá stefnda […] 2010. Einnig krefst áfrýjandi viðurkenningar á rétti sínum til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi, B ehf., hafði hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi, B ehf., krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., sem áfrýjandi hefur einnig stefnt til réttargæslu vegna fyrri kröfu sinnar, krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi var við vinnu hjá stefnda, B ehf., […] 2010 við löndun á frosnum fiski úr frystitogurum. Samkvæmt tilkynningu stefnda  miðvikudaginn 24. mars 2010 til Vinnueftirlitsins hófst vinna áfrýjanda síðarnefnda daginn klukkan 7 og lauk 13.40. Segir í tilkynningunni að áfrýjandi hafi þá horfið á braut án þess að láta neinn vita. Áfrýjandi leitaði á Slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss klukkan 14.56 sama dag með mikla verki í fingrum. Kom í ljós kal á þremur fingrum vinstri handar og tveimur á þeirri hægri. Er haft eftir áfrýjanda að hann hafi unnið við löndun daginn áður í tuttugu og fimm stiga frosti í tólf tíma og verið með mikla verki í fingrum að kvöldi þess dags. Þá er haft eftir áfrýjanda að hann hafi verið við sömu vinnu þann dag sem hann leitaði á slysadeild og byrjað að finna fyrir verk í fingrum um hádegið, en verkstjóri hafi sagt sér að hann væri í vinnu og ætti að halda áfram. Eftir viðeigandi læknismeðferð var í aðgerð á áfrýjanda […] 2010 tekinn af hluti löngutangar vinstri handar og einnig tekið af beini fjærkjúku beggja baugfingra og hægri löngutangar. Þá var gerð yfirborðshreinsun á tám og fjarlægð nögl af tá hægri fótar. Önnur aðgerð var gerð […] 2010 og báðar löngutengur styttar lítillega.

II

Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að með 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þeim lögum var breytt með 1. gr. laga nr. 124/2009, sem gildi tóku 30. desember 2009, hafi verið leidd í lög hlutlæg ábyrgðarregla vinnuveitenda á líkamstjóni sem starfsmenn hljóta í starfi sínu. Hvorki verður ráðið af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum með því að slík regla hafi þá verið lögfest. Hvílir því á áfrýjanda að sanna að líkamstjón það, sem óumdeilt er að hann hlaut fyrrgreindan dag, verði rakið til saknæmrar athafnar eða athafnaleysis sem stefndi, B ehf., beri ábyrgð á.   

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal atvinnurekandi sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í störfum sínum á þann hátt að ekki stafi hætta af. Jafnframt segir í 1. mgr. 65. gr. laganna að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað og skal hún meðal annars fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr. laganna. Þá segir í 3. gr. reglugerðar nr. 433/1997, um ráðstafanir til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingarstarfi eða tímabundnu starfi, að áður en slíkur starfsmaður er ráðinn skuli veita honum upplýsingar um hvort starfinu fylgi sérstök áhættuaukning. Í bréfi Vinnueftirlitsins 3. október 2011 kemur fram að stefnda hafi verið gefin fyrirmæli um að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað (áhættumat) í eftirlitsheimsókn 28. apríl 2006. Sömu fyrirmæli hafi verið gefin 8. febrúar 2007. Í heimsókn 21. mars 2011 hafi eftirlitsmanni verið tjáð að stefndi væri búinn að gera áhættumat, en Vinnueftirlitinu hafi ekki enn borist tilkynning þess efnis.  

Áfrýjandi réð sig greint sinn tímabundið í vinnu hjá stefnda. Af vætti C, framkvæmdastjóra stefnda, og D, verkstjóra, verður ekki ráðið að áfrýjanda hafi verið gerð sérstaklega grein fyrir þeirri hættu sem gæti fylgt því að vinna í miklum kulda, en samkvæmt gögnum málsins var frostið í lest togara þess, er unnið var í þann dag sem áfrýjanda kól, 25-30°C. Þá liggur ekki fyrir í málinu að áfrýjandi hafi fengið sérstakar leiðbeiningar um hvernig hann ætti að bera sig að við vinnu í þessum mikla kulda. Áðurnefndur C hefur borið að hann hafi afhent áfrýjanda prjónavettlinga og yfirvettlinga með gripi er hinn síðarnefndi kom til vinnu að morgni […] 2010, en áfrýjandi heldur því fram að hann hafi fengið afhenta loðfóðraða gúmmívettlinga. Kannaðist C við að slíkir vettlingar væru notaðir hjá stefnda, en ekki við það verk sem hér um ræðir. Hins vegar vissi hann ekki hvort áfrýjandi notaði síðarnefndu vettlingana við vinnu fyrrgreindan dag. Vitnið E, starfsmann hjá stefnda, minnti að áfrýjandi hafi notað „hanska eins og hver annar.“ Vitnið kannaðist við vettlinga sömu tegundar og áfrýjandi kveðst hafa notað, en þeir séu ekki notaðir í frystilestum. Geri slíkir vettlingar ekkert gagn við þær aðstæður, safni svita og hafi ekkert grip. Þá bar vitnið að áfrýjandi hafi verið mjög hægur til vinnu og farið upp úr lestinni og niður „í tíma og ótíma“. Hafi vitnið bent áfrýjanda á að „það væri nú kannski bara sniðugra að reyna að koma niður og vinna sér til hita.“ Einnig kom fram hjá vitninu að gert hafi verið kaffihlé um klukkan 9.30 um morguninn, en eftir það hafi verið unnið sleitulaust þar til vinnu lauk um klukkan 14.

Áfrýjandi var óvanur að vinna við þær aðstæður sem um ræðir í máli þessu. Af þeim sökum var sérstök þörf á að uppfræða hann um þá hættu sem því fylgdi að vinna í svo miklum kulda. Verður ráðið af gögnum málsins að skort hafi á að stefndi hafi sinnt því lögboðna hlutverki sínu. Einnig eru áhöld um hvaða vettlinga áfrýjandi hafi notað þann dag sem hann kól. Þá hefur verkstjóri stefnda viðurkennt að hann hafi ekki gætt þess sérstaklega eða fylgt eftir að áfrýjandi notaði viðeigandi vettlinga, en áfrýjandi fullyrðir sem fyrr greinir að honum hafi verið látnir í té loðfóðraðir gúmmívettlingar. Starfsmaður stefnda hefur eins og áður segir borið að slíkir vettlingar séu ekki notaðir í frystilestum þar sem þeir geri þar ekkert gagn. Gat sami starfsmaður ekki fullyrt að áfrýjandi hafi notað hefðbundna vinnuvettlinga stefnda í frystilestum, heldur minnti hann að svo hefði verið. Liggur því ekki ljóst fyrir hvora tegund vettlinganna áfrýjandi notaði umrætt sinn og verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Áfrýjandi hefur samkvæmt öllu framansögðu leitt í ljós að skort hafi á lögboðnar leiðbeiningar til hans af hálfu stefnda og einnig að verkstjórn hafi verið áfátt af hans hálfu. Jafnframt hefur áfrýjandi sýnt fram á orsakatengsl milli þessarar saknæmu vanrækslu stefnda og líkamstjóns síns.

Kemur þá til skoðunar hvort áfrýjandi hafi átt þátt í að hann varð fyrir líkamstjóni greint sinn. Í 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga segir að verði starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu skerðist ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar hans, nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð. Hvílir sönnunarbyrði um það á stefnda og hefur sú sönnun ekki tekist. Verður því fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns þess er áfrýjandi hlaut […] 2010.

III

Er áðurnefndur tjónsatburður varð […] 2010 var í gildi kjarasamningsbundin slysatrygging launþega sem stefndi, B ehf., hafði keypt hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Gerir áfrýjandi kröfu um viðurkenningu á rétti sínum til bóta úr þeirri tryggingu. Samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar var með orðinu slys átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem ylli meiðslum á líkama vátryggðs og gerðist sannanlega án vilja hans. Í málinu deila aðilar um hvort fullnægt sé því skilyrði skilmálanna að skyndilegur utanaðkomandi atburður hafi valdið kali áfrýjanda greint sinn.

Í vottorði F, sérfræðings í handarskurðlækningum, 21. nóvember 2010 kemur fram að honum sýnist að áfrýjandi hafi unnið í nokkuð jöfnu frosti í töluverðan tíma. Án efa hafi áfrýjandi fundið jafnt og þétt fyrir eðlilegum áhrifum þess, svo sem fölva í húð, dofa og sársauka. Að einhverjum tíma liðnum, þegar kalið náði niður í dýpri vefi, sé sennilegt að sársaukinn hafi minnkað eða horfið á því svæði. Dofi og verkur í höndum og fótum hafi þó án efa verið áfram til staðar því kalið hafi eingöngu verið á mjög takmörkuðum hluta útlimanna. Að mati læknisins sé ómögulegt að áfrýjandi hafi á einhvern hátt getað gert sér grein fyrir því hvenær kuldi var að breytast yfir í kal og klingi engar viðvörunarbjöllur við slíkt. Séu umskiptin úr kulda yfir í kal því óvænt og ekki fyrirsjáanleg frekar en þegar skurður verður við vinnu með hníf.

Stefndi hefur ekki leitast við að sýna fram á að kal áfrýjanda sé að rekja til sjúkdóms eða annars innra ástands í líkama hins síðarnefnda. Áðurnefndu læknisvottorði hefur ekki verið hnekkt og verður það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu er fallist á með áfrýjanda að líkamstjón það, sem hann hlaut greint sinn, hafi orðið vegna utanaðkomandi atburðar í skilningi vátryggingarskilmálanna og að þann atburð hafi borið að höndum er kuldi breyttist skyndilega yfir í kal. Er því fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á rétti hans til bóta úr áðurnefndri tryggingu.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. málsliðar 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað í héraði, er renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 750.000 krónur. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, sbr. 166. gr. laganna, verða stefndu einnig dæmdir til að greiða óskipt áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, B ehf., er skaðabótaskyldur vegna líkamstjóns er áfrýjandi, A, varð fyrir við vinnu hjá stefnda […] 2010.

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi, B ehf., hafði hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., vegna fyrrgreinds líkamstjóns áfrýjanda.

Stefndu greiði áfrýjanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað í héraði, er renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 750.000 krónur.

Stefndu greiði áfrýjanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 18. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A […], Reykjavík á hendur B ehf., […], Reykjavík og Tryggingamiðstöðinni, Síðumúla 24, Reykjavík. Tryggingamiðstöðinni hf. er einnig stefnt til réttargæslu. Stefna málsins er birt 1. og 4. febrúar 2011.

Stefnandi krefst þess, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda B ehf., vegna líkamsáverka, er stefnandi varð fyrir við vinnu í frystilest hjá B ehf., þann […] 2010 er hann kól á fingrum beggja handa og á tám. Þá gerir stefnandi einnig þá kröfu að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi rétt á bótum úr launþegatryggingu B ehf., hjá Tryggingamiðstöðinni, vegna sama atviks og áverka. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi, B ehf., krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er krafist sýknu og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Málavextir

Stefnandi starfaði tímabundið hjá stefnda, B ehf., en félagið er með launþegatryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Dagana […] og […] 2010 var verið að landa frosnum fiski úr ms. Polar Nanoq og ms. Manu, sem eru grænlenskir frystitogarar. Fyrri daginn var landað úr Polar Nanoq í Hafnarfirði og var þá unnið frá 07.00 til 19.00 og seinni daginn var unnið við ms. Manu frá kl. 08.00 til 13.40 og átti sú löndun sér stað í Reykjavík.

Stefnandi kveður að honum hafi verið mjög kalt báða dagana og að hann hafi einungis fengið gúmmívettlingar til að nota við vinnuna, en hann hafi mætt klæddur þykkum útivinnusamfestingi og í góðum skóm með stáltá. Stefndi, B ehf., kveður að stefnanda, eins og öðrum starfsmönnum, hafi verið lagðir til vettlingar með gripi (gulir) og innri vettlingar (grænir). Þá hafi honum staðið til boða samfestingur og skór með stáltá. Kveður stefndi að stefnandi hafi komið vel skóaður til vinnu og afþakkað sérstaka skó.

Ágreiningslaust er að unnið var við kaldar aðstæður og hafi frostið verði -20° til -30° og hafi seinni dagurinn verið kaldari en sá fyrri.

Hinn […] 2010 kveðst stefnandi hafa hætt vinnu um kl. 13.40 og um kl. 15.00 hafi hann leitað til slysadeildar vegna verkja í fingrum.

Hinn 20. mars 2010 leitaði stefnandi lögmanns samanber umboð hans.

Hinn 23. mars 2010 tilkynnti stefndi, Löndun ehf., Sjúkratryggingum Íslands um kalið á fingrum stefnanda.

Hinn 24. mars 2010 var Vinnueftirliti ríkisins tilkynnt að stefnandi hefði kalið á fingrum. Fram kemur í tilkynningunni að stefnandi hafi ekki látið neinn vita af óþægindum sínum þegar hann hvarf af vettvangi, en það hafi hins vegar verið hringt í verkstjóra hjá stefnda, B ehf., að kvöldi […] 2010 og látið vita að stefnandi hefði leitað til Slysadeildar vegna óþæginda í fingrum.

Stefnandi var síðan meðhöndlaður á Slysadeild og var greining þar sú að hann hefði hlotið kal á þrem fingrum á vinstri hendi og tveimur á þeirri hægri. Stefnandi var til meðferðar hjá F, lækni og sérfræðingi í handaskurðlækningum. Í læknisvottorði F segir að stefnandi hafi kalið á fingrum og tám, en tærnar hafi sloppið betur. Fingurnir séu hins vegar illa leiknir og valdi stefnanda óvinnufærni auk þess sem varanlegar afleiðingar séu staðreynd, þó umfang þess sé ekki fullkomlega ljóst að svo stöddu. Felast varanlegar afleiðingar m.a. í styttingu umræddra fingra, verkjum, viðkvæmni og kuldaóþoli. Vottorðið er stöðuvottorð, og er stefnandi enn í meðferð og undir eftirliti.

Hinn 6. apríl 2010 óskaði stefnandi eftir afstöðu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. til bótaskyldu vegna atviksins.

Hinn 20. apríl 2010 höfnuðu Sjúkratryggingar Íslands umsókn stefnanda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

Hinn 4. maí 2010 hafnaði stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., bótaskyldu m.a. með vísan til skilmála þeirra er um launþegatryggingu B ehf. giltu, en þar segir í 4. mgr. 1. gr. að með orðinu „slys“ sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist sannanlega án vilja hans og taldi félagið að atvikið félli ekki undir þessa skilgreiningu og þar af leiðandi ekki undir trygginguna.

Stefnandi vísaði þá málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem, með áliti dags. 29. júní 2010, komst að þeirri niðurstöðu að atvikið væri hvorki bótaskylt úr slysatryggingu launþega né ábyrgðartryggingu B ehf. hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína, um viðurkenningu á skaðabótaskyldu B ehf., á vinnuveitandaábyrgð félagsins og almennu skaðabótareglunni.

Hann telur að honum hafi ekki verið útvegaður nægjanlegur hlífðarbúnaður, heldur hafi honum einungis verið réttir gúmmívettlingar. Slíkt sé ekki í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, samanber einnig ákvæði reglugerðar um notkun persónuhlífa, nr. 497/1997. Stefnandi bendir á að stefndi, B ehf., haldi því fram, að öllum starfsmönnum séu útvegaðir þykkir vettlingar sem ætlaðir séu til að verja þá gegn kulda og að stefnandi hafi fengið tvenn pör af vettlingum við upphaf vinnu. Af því leiðir að óumdeilt sé að einfaldir gúmmívettlingar veiti ekki nægjanlega vörn gegn því frosti sem unnið var í.

Stefnandi bendir á að er hann yfirgaf vinnustaðinn og leitaði á slysadeild hafi stefndi hvorki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins né heldur þegar honum var tilkynnt um áverkana í símtali síðar sama dag. Þar með hafi stefndi vanrækt skyldu sína, sbr. 79. gr. laga um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum, nr. 46/1980.

Stefnandi telur að óumdeilt sé að orsakasamband sé á milli þeirrar háttsemi stefnda, að útvega ekki nægjanlegan hlífðarbúnað, og þeirra áverka sem stefnandi varð fyrir. Sú vanræksla stefnda getur ekki talist óhappatilvik, enda hafi komið fram af hálfu stefnda, að aðrir starfsmenn hans hafi ávallt fengið tvenn pör af vettlingum.

Stefnandi kveðst einnig byggja á því sjálfstætt, að hann hafi verið settur til vinnu í lokuðu kældu rými og honum hafi verið gert að vinna þar í alltof langan tíma, án þess að fá að fara úr rýminu til að jafna sig á kuldanum. Þá kveður stefnandi að hann hafi verið látinn vinna fyrir framan blásara sem veitt hafi köldu lofti að honum. Því hafi verið eðlilegt að hann skipti um vinnustað eða skipt hefði verið við hann á vinnuaðstæðum og menn færðir til með jöfnu milli bili, þannig að einhver samstarfsmaður hans hefði verið látinn taka við af stefnanda, þar sem hann stóð í vindinum frá blásaranum. Byggir stefnandi á, að þessar vinnuaðstæður hafi brotið gegn meginreglum reglugerðar nr. 429/1995 um vinnu í kældu og lokuðu rými. Þá hafi verkstjórn ekki verið hagað í samræmi við skyldur verkstjóra skv. lögum nr. 46/1980 og stefnandi ekki haft kost á upphituðu svæði til að fara í með jöfnu milli bili til að jafna sig á kuldanum.

Stefnandi telur að ef rannsókn hefði farið fram, væru atvik að fullu upplýst. Vanræksla stefnda á skyldum sínum eigi að leiða til þess að hann beri hallann af sönnunarskorti, auk þess sem það standi honum nær að upplýsa með sannanlegum hætti, hvernig aðstöðu og aðbúnaði hafi verið háttað við umrædda vinnu. Af því leiðir að fullyrðingar stefnda, um að stefnanda hafi verið látnir í té þykkir vettlingar innanundir gúmmívettlinga sem stefnandi notaði við vinnu sína, séu ósannaðar. Þar með uppfyllti hann ekki skyldur sínar skv. lögum um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og reglugerð um notkun persónuhlífa.

Stefnandi byggir einnig á að skort hafi á leiðbeiningar til hans um þá áhættu sem fylgir því að vinna í frosti. Stefnda hafi borið að upplýsa stefnanda um öryggisatriði og þær ráðstafanir sem grípa á til ef kuldaáreiti er mikið. Stefnandi byggir enn fremur á, að um sé að ræða slys í skilningi vátryggingaskilmála stefnda, nr. 380, vátryggingaréttar, meginreglna vinnuréttar og skaðabótaréttar, sem og laga um almannatryggingar. Slys sé skyndilegur, utanaðkomandi atburður, sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist sannanlega án vilja hans.

Óumdeilt sé að kal teljist til utanaðkomandi atburðar. Þegar meta á, hvort atburðurinn teljist skyndilegur, sé nauðsynlegt að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi séu, þegar unnið er í frystilest. Ljóst sé að aðdragandi kals sé sá, að maður sé útsettur fyrir miklum kulda. Sé litið svo einfalt á hlutina sé hægt að segja, að ekki sé um skyndilegan atburð að ræða, en það myndi einnig þýða að einstaklingar, sem vinna við aðstæður, svo sem frost eða mikinn hita, gætu aldrei talist hafa orðið fyrir slysi af völdum bruna eða kals. Slíkt sé hins vegar ótækt. Skoða beri sérhvert atvik sérstaklega, í ljósi þeirra aðstæðna sem um ræðir hverju sinni.

Það sé skilningur stefnanda að atburður teljist skyndilegur, nema fyrir sé að fara viðvörun eða fyrirboða, sem sé óeðlilegur og vari einstakling við þeirri hættu sem hugsanleg er. Stefnandi hafi verið við vinnu í frystilest og ætla má að hitastigið hafi verið á bilinu -20°C til -35 °C. Kuldatilfinning sé af þeim sökum alls ekki óeðlilegt ástand og getur á engan hátt talist fyrirboði eða viðvörun, sem stefnandi hafi mátt, m.a. vegna reynsluleysis, ætla að myndi leiða til frekari afleiðinga, t.d. kals. Er að mati stefnanda ekki hægt að líta svo á, að við vinnu í frosti sé hægt að telja kuldatilfinningu sem óeðlilegt ástand og að hann hafi þar af leiðandi ekki orðið fyrir skyndilegum atburði, þegar í ljós hafi komið að búnaður, sá sem honum var skaffaður, hafi ekki veitt nægjanlega vörn gegn því frosti sem honum var gert að vinna í. Liggi þar helst til grundvallar að slysatburðurinn hófst ekki þegar stefnandi fór niður í frystilest til vinnu. Slysatburðurinn hófst þegar ljóst varð að hlífðarbúnaður, áðurnefndir gúmmívettlingar, veittu ekki nægjanlega vörn gegn því frosti sem var í lestinni, og varð til þess að eðlileg kuldatilfinning breyttist í kal. Fyrirliggjandi sé vottorð F læknis, um að umskiptin úr kulda yfir í kal séu óvænt og ófyrirsjáanleg. Fram komi í vottorðinu að alvarleiki kals fari eftir dýpt þess. Yfirborðskal skilji ekki eftir sig menjar, en dýpra kal hafi alvarlegri afleiðingar, svo sem útlimamissi. Þegar einstaklingur sé útsettur fyrir frosti dragist æðar í húð saman og í kjölfarið komi dofatilfinning og verkur. Sé kuldaáreitið áfram til staðar, nái kalið til dýpri vefja og sársaukinn hverfur. Hins vegar komi kalið ekki í ljós fyrr en kuldaáreitið hættir og blóðrás eykst. Það geti síðan tekið nokkrar vikur að koma fram og afmarkast greinilega. Umskiptin úr kulda yfir í kal í dýpri vefjum sé, skv. vottorðinu, óvænt. Að þessu gættu verði ekki séð að stefnandi hafi átt að verða þess var, hvenær ástand hans fór úr því að vera kuldatilfinning í að vera kal. Og að því virtu er ekki neinum vafa undirorpið að þessi einstaki atburður teljist óvæntur í öllum skilningi þess orðs.

Stefnandi byggir einnig á, að enda þótt ekki verið viðurkennt að um slys hafi verið að ræða, þá hafi vinnuaðstæður verið óforsvaranlegar og leitt til líkamstjóns stefnanda og á því beri vinnuveitandi hans ábyrgð, skv. meginreglum laga nr. 46/1980. Í því sambandi vísar stefnandi til tilskipunar EBE frá 12. júní 1989, nr. 89/391/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum. Einnig skírskotar stefnandi til tilskipunar nr. 89/655/EBE frá 30.11. 1989 í sama skyni.

Byggir stefnandi á, að greina verði á milli þeirra skyldna sem hvíli á vinnuveitanda annars vegar og skyldna starfsmanna, sem háðir eru boðvaldi verkstjóra vinnuveitanda hins vegar. Byggir stefnandi á, að þegar um líkamstjón sé að ræða sem rekja megi til þess, að vinnuveitandi hafi ekki farið að settum reglum um öryggi á vinnustað, beri vinnuveitandi ábyrgð á því líkamstjóni sem starfsmaðurinn verði fyrir. Byggir stefnandi á, að ekki hafi verið um ófyrirséðar kringumstæður að ræða. Ábyrgð vinnuveitanda stefnanda fái einnig stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE sem og dómi EFTA dómstólsins í málinu nr. E-2/10, þar sem segir, að skyldur starfsmanna á sviði öryggis við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda, sem hvíli fyrst og fremst á vinnuveitanda. Í því efni vísar stefnandi einnig til 23. gr. a, skaðabótalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009.

Hvað varðar dómkröfu stefnanda um viðurkenningu á að hann eigi rétt á bótum úr launþegatryggingu B ehf., hjá Tryggingamiðstöðinni hf., byggir stefnandi á kjarasamningum þeim sem hann hafi fallið undir og almennum reglum vinnuréttar þar að lútandi, sem og skilmálum tryggingarinnar og IX. kafla vátryggingasamningalaga um hópvátryggingar. Ljóst sé að slysið olli meiðslum á líkama stefnanda, sbr. sjúkraskrá og læknisvottorð Í málsatvikum sé ekkert sem bendir til annars en að slysið og líkamsáverkarnir hafi sannanlega átt sér stað án vilja stefnanda.

 Um sök stefnda vísar stefnandi til sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefndi beri ábyrgð á því að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta við framkvæmd vinnu, samanber 13. gr. og 37. gr. laga nr. 46/1980. Enn fremur skuli hann fylgja ákvæðum reglugerða, sem settar eru þessum ákvæðum til fyllingar. Þeirra á meðal er reglugerð um notkun persónuhlífa nr. 497/1997. Þar er lögð skylda á vinnuveitendur að sjá starfsmönnum fyrir persónuhlífum sem henta til varnar þeirri áhættu sem um sé að ræða og hæfa ríkjandi aðstæðum á vinnustað. Skulu þær m.a. vera til einstaklingsnota og látnar starfsmönnum í té endurgjaldslaust, samanber 4. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 7. gr. sömu reglugerðar skulu starfsmenn fá upplýsingar um allar ráðstafanir sem gripið sé til á sviði öryggis og heilsu starfsmanna er þeir nota persónuhlífar á vinnustöðum.

Stefnandi vísar til 14. gr. laga nr. 46/1980 varðandi upplýsingaskyldu vinnuveitanda um slysa- og sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starf. Að lokum sé vísað til 79. gr. sömu laga varðandi skyldu atvinnurekanda til að tilkynna öll slys til Vinnueftirlits ríkisins.

Varðandi bótaábyrgð úr slysatryggingu launþega skírskotar stefnandi til skýringar á slysahugtakinu í 4. mgr. 1. gr. vátryggingaskilmála stefnda, nr. 380 og nefndra lagaraka.

Málsástæður og lagarök stefnda, B ehf.

Stefndi telur að ekki megi rekja meiðsli stefnanda til hans, starfsmanna hans eða atvika sem hann geti borið skaðabótaábyrgð á. Kveðst stefndi hafa útvegað stefnanda þann hlífðarfatnað sem lög og reglur kveða á um og gera má kröfu til að hann sem atvinnurekandi útvegi starfsmönnum sínum við aðstæður sem þessar. Stefnanda hafi staðið til boða vettlingar, skór og samfestingur. Um sé að ræða vandaðar vörur frá viðurkenndum framleiðendum sem gefist hafi mjög vel við vinnu í miklum kulda. Ekkert sé komið fram um að hlífðarbúnaður þessi hafi verið gallaður. 

Verkstjórn á staðnum hafi verið með hefðbundnu sniði. Því sé mótmælt að verkstjóri hafi sett stefnanda til starfa við aðrar aðstæður en aðra starfsmenn eða hann mismunað starfsmönnum á þann hátt að stefnandi hafi búið við verri starfsskilyrði en aðrir sem voru í lestinni. Þá sé því mótmælt að samstarfsmenn stefnanda í lestinni hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi átt þátt í því, eða verið þess valdandi, að stefnandi hlaut þá áverka sem fram koma í læknisvottorðum. Þá sé því harðlega mótmælt að stefnda hafi ekki tilkynnt atvikið til Vinnueftirlits ríkisins og hann hafi spillt sönnunargögnum. Stefndi kveðst hafa fengið tilkynningu um meiðsl stefnanda seint á föstudagskvöldi og tilkynnt það til Vinnueftirlitsins á þriðjudegi næstu viku á eftir. Ekki sé um það að ræða að unnið sé í lokuðu rými. Vinna fari fram í lest þar sem loftar vel um vinnusvæðið og aðgengi í og upp úr vinnurýminu sé gott. Starfsmenn geta því hvenær sem þeir óska yfirgefið svæðið tímabundið eða ótímabundið án utanaðkomandi aðstoðar. Telst þetta því ekki lokað rými í skilningi reglna nr. 429/1995.

Stefndi telur að líkamsmeiðsl stefnanda geti ekki flokkast sem slys í skilningi skaðabótaréttar. Ekki sé um að ræða óvæntan utanaðkomandi atburð. Hvað þetta varðar að öðru leyti vísast til greinargerðar réttargæslustefnda og er tekið undir þau sjónarmið sem þar eru rakin. 

Stefndi telur að líkamsmeiðsl stefnanda verði að rekja til stefnanda sjálfs. Annað hvort hafi honum verið hætta við líkamstjóni af þessu tagi vegna þess að hann hafi kalið áður eða vegna skerðingar í blóðrás til útlima, eða stefnandi ekki farið að leiðbeiningum verkstjóra við framkvæmd vinnunnar. Ef raunin er sú að stefnandi hafi ekki notað þá vettlinga sem honum voru útvegaðir, og þess í stað notað aðra vettlinga, verði ábyrgð á meiðslum fyrst og fremst rakin til hans sjálfs. Líta verði jafnframt til þess að stefnandi sé um fimmtugt og með reynslu af störfum við erfiðar aðstæður. Vissi hann um þá hættu sem sé á kali við mikinn kulda, og nauðsyn þess að verja sig vel á höndum og fótum með hlífarfatnaði, eða a.m.k. mátti hann gera sér grein fyrir hættunni. Þá mátti stefndi gera þá kröfu til stefnanda að hann gerði athugasemdir, eða vekti máls á því við verkstjóra stefnda, ef hlífðarbúnaðurinn væri ekki fullnægjandi eða vinnuaðstaðan og aðbúnaðurinn ófullnægjandi. Því sé harðlega mótmælt að verkstjórn á staðnum hafi verið ábótavant og stefnandi hafi verið látinn vinna á ákveðnum stað og ekki fengið að fara upp úr lestinni. 

Þá sé á því byggt að meiðsl stefnanda stafi af óhappatilviljun sem stefndu geti ekki borið ábyrgð á.  

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna á sviði skaðabótaréttar, einkum sé vísað til skilyrða vinnuveitandaábyrgðar sem stefndi telur ekki vera fyrir hendi í þessu máli. Sök sé ekki fyrir hendi. Um málskostnað vísast til 130. gr. eml. og til laga um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., er annars vegar stefnt til réttargæslu vegna viðurkenningar bótaskyldu vinnuveitandaábyrgðar meðstefnda, B ehf., sem snýr að ábyrgðartryggingu félagsins og hins vegar einu og sér til greiðslu bóta úr launþegatryggingunni.

Hvað varðar ætlaða greiðsluskyldu úr launþegatryggingunni telur stefndi að deilan snúist alfarið um skilgreiningu hugtaksins slyss í skilningi skilmála þeirra er um trygginguna giltu.

Stefndi kveðst hafna því, að meiðsl þau er stefnandi varð fyrir við vinnu sína hjá meðstefnda, B ehf., hafi orðið á þann veg að það teljist slys samkvæmt skilmálunum. Hugtakið slys sé sérstaklega skilgreint í skilmálunum og þar segir orðrétt í gr.1.4 . „Með orðinu slys er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist sannanlega án vilja hans.“ Stefndi kveður að þetta sé sú skilgreining sem almennt sé talin gilda í íslenskum rétti um hugtakið slys og sé hún í fullu samræmi við kenningar fræðimanna og dómvenju um þetta álitaefni.

Af hálfu stefnanda sé lögð á það áhersla að það að verða fyrir kali teljist skyndilegur atburður, nema fyrir sé að fara viðvörun eða fyrirboða, sem sé óeðlilegur og vari einstakling við þeirri hættu sem hugsanleg er. Stefndi telur að hér sé um misskilning að ræða og þetta eigi ekki stoð í viðurkenndri túlkun á hugtakinu og sé því mótmælt.

Stefndi telur það ekki skipta máli við mat á meintri bótaskyldu, hvort umskiptin úr kulda yfir í kal séu óvænt og ófyrirsjáanleg. Kjarni málsins að þessu leyti sé sá, að þegar einstaklingur verði fyrir kali sé um að ræða ástand sem vari í langan tíma og megi í sjálfu sér reikna með við tilteknar aðstæður. Það sé því hvorki óvænt né ófyrirsjáanlegt, að einstaklingur geti orðið fyrir kali, sé hann nógu lengi á stað þar sem frost er verulegt. Hitt sé svo annað mál að einstaklingar þola kulda misvel og í því tilviki sem hér um ræðir má ljóst vera, að kuldaþol stefnanda sé sérstaklega lágt, enda séu þess ekki dæmi að starfsmenn meðstefnda, B ehf., hafi orðið fyrir kali í langri sögu fyrirtækisins og landanir úr frystitogurum eins og hér var verið að vinna við skipta hundruðum. Þá bendir stefndi á að tólf aðrir starfsmenn félagsins hafi verið við vinnu í lestinni og engum öðrum en stefnanda orðið meint af dvölinni þar.

                Stefndi telur útilokað að fallast á það með stefnanda að meiðsl þau er hann hlaut í kjölfar vinnu sinnar um borð í ms. Manu […] 2010 geti talist slys í skilningi skilmála launþegatryggingarinnar. Hér sé augljóslega ekki um að ræða skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama vátryggðs og sannanlega án vilja hans, sem er eins og fyrr sagði skilyrði bótaskyldu úr umræddri tryggingu og í samræmi við niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Það er því ljóst að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. er ekki einn um þessa skoðun.

Af þessu leiðir að ekki er fallist á þá kröfu stefnanda að viðurkennd sé bótaskylda úr launþegatryggingunni og hlýtur að verða að sýkna stefnda af þeim þætti málsins.

Hins vegar er Tryggingarmiðstöðinni hf. stefnt til réttargæslu varðandi ætlaða bótaskyldu meðstefnda, B ehf., vegna vinnuveitandaábyrgðar, sem lýtur að ábyrgðartryggingu B ehf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf.

Meðstefndi, B ehf., hefur í greinargerð sinni fært rök fyrir því að skaðabótaskylda sé ekki fyrir hendi hvað fyrirtækið varðar og hafnar alfarið bótaskyldu sinni vegna atviksins. Réttargæslustefndi tekur undir sjónarmið sem þar koma fram og gerir þau að sínum eftir því sem við getur átt og er sammála meðstefnda að ekki verði fallist á að félagið hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu í aðdraganda atviks þess sem hér er til skoðunar.

Sérstök áhersla sé þó lögð á þá staðreynd að til þess að atvikið geti fallið undir ábyrgðartryggingu meðstefnda, B ehf., samkvæmt skilmálum þeim er um trygginguna giltu, þarf að vera um skyndilegan eða óvæntan atburð að ræða, en orðrétt segir um þetta í gr. 3.1.: „Vátryggingin tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á vátryggðan vegna líkamstjóns eða skemmda á munum vegna starfsemi þeirrar sem getið er í skírteini eða iðgjaldskvittun, enda verði líkamstjónið eða skemmdirnar raktar til skyndilegs eða óvænts atburðar.“ Sömu sjónarmið og rakin voru að framan varðandi launþegatrygginguna eiga því við hér og ættu því einnig að leiða til sömu niðurstöðu, þ.e. sýknu.

Skýrslur fyrir dómi

Stefnandi gaf ekki skýrslur fyrir dómi, en eiginkona hans, G, kom fyrir dóminn. Hún kvað stefnanda hafa farið á starfsstöð stefnda, B ehf., hinn […] og sótt þar um vinnu, en hann hafði verið atvinnulaus frá […] 2009. Starfið hafi ekki verið auglýst. Hún kvað hann hafa vitað að hann færi að vinna við uppskipum úr frystilest. Hann hafi farið til vinnu klæddur ullarsokkum, ullarpeysu, með góða húfu, í úlpu og fóðruðum vinnuskóm með stáltá. Að morgni […] kveður mætta að stefnandi hafi komið fljótt heim aftur og náð í sinn eigin vinnugalla, sem var fóðraður Ístaksgalli. Að kvöldi […] hafi hann komið heim um kvöldmatarleytið og ekki kvartað um kulda; hafi hann reyndar verið aumur í fingrum, sennilega vegna þreytu. Hinn […] hringir hann í mættu á leið heim úr vinnu og þá hafi fingurnir verið orðnir svartir. Þá hafi hann farið á slysadeildina. Mætta kveðst hafa hringt til D verkstjóra um kl. 16.40 og tilkynnt um kal í fjórum eða fimm fingrum. Mætta segir að stefnandi hafi talað um að einu vinnufötin sem hann hafi fengið hjá stefnda, B ehf., hafi verið vettlingar og sýnir í dómnum loðfóðraða, appelsínugula gúmmívettlinga. Mætta kveður að vinnuteymið hafi ákveðið að vinna af sér hádegismatinn svo þeir gætu hætt fyrr. Mætta kveður stefnanda ekki vera kulsækinn, hann hafi ekki undirliggjandi sjúkdóma en hann reyki.

Í framburði C, framkvæmdastjóra stefnda, B ehf., kom fram að stefnandi hafi komið á starfsstöð stefnda og sótt um vinnu þar. Seinna sama daga var hann kallaður til vinnu daginn eftir. Mætti kveður að stefnanda, eins og öllum öðrum nýjum starfsmönnum, hafi verið afhentir tvennir nýir vettlingar. Mætti segir að daginn eftir hafi stefnandi mætt á Vogabakkann í Reykjavík og þar hafi mætti afhent stefnanda persónulega tvenna vettlinga en þá hafi hann komið án vettlinga. Mætti segir að stefnandi hafi aldrei kvartað um aðbúnað og hann hafi horfið á braut rétt áður en vinnu var lokið hinn […]. Að kvöldi þess dags frétti mætti að stefnandi hefði farið á slysadeild þá um daginn. Mætti kvaðst hafa sent Vinnueftirlitinu tilkynningu eftir helgina því þá lá alvarleiki málsins fyrir. Ástæða þess að tilkynningin hefði ekki verið send fyrr en 24. mars var sú að mætti náði ekki í öryggistrúnaðarmanninn H fyrr en þann dag, en B ehf. er með nokkrar starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi fékk þriggja mánaða laun og auk þess greidda fatapeninga. Síðan var innheimt hjá mætta andvirði vettlinganna. Mætti kveður að í Manu hafi ekki verið blásturskæling. Þá kveður mætti að rýmið sé opið og það sé stigi með handriðum upp úr lestinni. Mætti kveður að B ehf. hafi starfað frá 1987. Mætti þekkir ekki til að starfsmenn hans hafi fengið kalsár. Mætti kveður að þrettán manna teymi sé í uppskipuninni, þar af séu sjö til níu manns niðri í lestinni.

Í framburði D, verkstjóra hjá B ehf., kom fram að fyrri daginn hafi þeir unnið í Hafnarfirði. Hann kvaðst þá hafa afhent stefnanda vettlinga, gula og græna. Hann muni ekki hvort stefnandi hafi verið með þessa vettlinga seinni daginn. Hann kveður að vanalega séu sjö menn að vinna saman í lestinni. Hann kveður að Manu sé ekki með blásurum en Polar Nanoq sé bæði með blásurum og hitapírölum. Mætti kveður að stefnandi hafi farið nokkrum sinnum upp fyrri daginn til að hlýja sér og telur það eðlilegt fyrir óvana menn. Seinni daginn hafi stefnandi unnið í Manu. Sú lest sé lokaðri og kaldari en lestin í Polar Nanoq. Hann kveður þrettán manna gengi sjái um uppskipun, þar af sjö menn í lest, og nýir menn byrji yfirleitt í lestinni. Meginreglan sé sú að vanur og óvanur maður vinni saman í teymi. Aðspurður kveður mætti að stefnandi hafi unnið hægt og það sé erfiðara að halda á sér hita þegar menn leggi sig ekki fram. Mætti kveður að eiginkona stefnanda hafi hringt í hann að kvöldi […] og tilkynnt um kalið. Mætti kvaðst hafa tilkynnt framkvæmdastjóra þetta um hæl.

E, starfsmaður hjá B ehf., kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa unnið í tuttugu ár hjá stefnda. Hann kvaðst sjaldan hafa séð latari starfsmann en stefnanda og stefnandi hafi reynt að koma sér hjá verkum. Mætti sagði að menn ynnu sér til hita í frystilestum. Hann minni að stefnandi hafi verið með vettlinga eins og hver annar starfsmaður. Hann telur að stefnandi hafi ekki unnið með loðfóðrara gúmmíhanska því þeir geri ekkert gagn í frystilestunum. Gúmmívettlingar lofti ekki og menn svitni. Auk þess séu þeir ekki með grip. Hann kveður að seinni daginn hafi stefnandi sífellt verðið að hlaupa uppá dekk til að hlýja sér og hafi hann verið eini starfsmaðurinn sem hafi gert það. Hann kveður að enginn blásari sé í Manu, þetta sé ekki lokað rými og það sé auðvelt að fara upp úr lestinni. Mætti kveður að vinnuteymið ákveði sjálft hvort þeir taki hádegishlé eða vinni áfram og klári verkið eins og þeir hafi gert hinn […]. Mætti muni ekki til þess að aðrir starfsmenn hafi fengi kalsár.

Niðurstaða

Mál þetta er að rekja til þess að stefnandi var í vinnu hjá stefnda, B ehf, hinn […] og […] 2010. Mjög kalt var og kól stefnandi þannig að ætla má að hann hljóti varanlegt mein af. Í málinu krefst stefnandi annars vegar viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda, B ehf., og hins vegar að viðurkenndur verði réttur stefnanda til bóta úr launþegatryggingu stefnda, B ehf., hjá Tryggingarmiðstöðinni hf.

Gagnvart stefnda, B ehf., byggir stefnandi á vinnuveitandaábyrgðinni, svo og á almennu skaðabótareglunni. Fyrir liggur að stefnandi vann aðeins þessa tvo daga hjá stefnda, B ehf. Starfið fólst í uppskipun úr frystilest frystitogara. Fyrri daginn vann stefnandi við uppskipun úr grænlenskum togara, Polar Nanoq, í Hafnarfjarðarhöfn og síðari daginn við uppskipun úr öðrum grænlenskum togara, Manu, og fór sú uppskipun fram í Reykjavík. Alls unnu þrettán manns í teymi við uppskipunina, þar af unnu sjö menn niðri í frystilestinni. Samkvæmt vitnisburði eiginkonu stefnanda fyrir dómi kvartaði stefnandi ekki undan kulda í fingrum eftir fyrri daginn. Rétt fyrir vinnulok seinni daginn hvarf stefnandi úr vinnu án þess að gera vinnuveitendum sínum viðvart og fór á slysadeildina og var þá komið kal í fingurna.

Samkvæmt framburðum C, D og E bera þeir að við uppskipun á frystum fiski séu notaðir grænir vettlingar og síðan appelsínugulir vettlingar þar yfir. Stefnandi hafi fengið slíka vettlinga. Samkvæmt framburði D afhenti hann stefnanda slíka vettlinga fyrri daginn. Daginn eftir mætti stefnandi vettlingalaus og samkvæmt framburði C afhenti hann stefnanda slíka vettlinga seinni daginn. Óupplýst er hvar stefnandi fékk þá vettlinga, loðfóðraða gúmmívettlinga, er eiginkona stefnanda sýndi í dómi, en stefnandi gaf ekki skýrslu fyrir dómi. Því verður að leggja til grundvallar að stefndi, B ehf., hafi afhent stefnanda viðeigandi hlífarbúnað, en ekki er um það deilt, að annar fatnaður stefnanda hafi ekki verið fullnægjandi. Ekki liggur því annað fyrir en að stefndi, B ehf., hafi fullnægt þeim skyldum sem lagðar eru á vinnuveitendur, sbr. reglur nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa.

Vitnin, C, D og E, bera það fyrir dómi að togarinn Manu, er unnið var við seinni daginn, sé ekki búinn blásturskælingu, svo sem stefnandi heldur fram. Sá togari sem unnið var í fyrri daginn, Polar Nanoq, sé aftur á móti með slíkan útbúnað. Þá sé frystilest togarans Manu þannig úr garði gerð, að um opið rými sé að ræða og góður stigi með handriði liggi upp úr lestinni. Því á tilvitnun stefnanda til reglna nr. 429/1995 um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými ekki við. Leggja verður framburð vitnanna til grundvallar í málinu og er málsástæðum stefnanda hér að lútandi því hafnað. Þá er því hafnað að verkstjóri hafi ekki sinnt skyldum sínum skv. lögum nr. 46/1980.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi, B ehf., hafi vanrækt skyldu sem á félaginu hvílir, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Á það er ekki fallist þar sem stefndi sendi Vinnueftirlitinu tilkynningu innan viku, eða 24. mars 2010 og er það í samræmi við 2. mgr. greinarinnar. Þar fyrir utan verður ekki séð að þessi dráttur á sendingu tilkynningarinnar hafi haft áhrif á mat á sönnun í málinu.

Með vísan til þess sem að framan greinir er því hafnað að stefndi, B ehf., hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefndi, B ehf., hefur verið starfrækt í um tuttugu ár og upplýst var fyrir dómi að þetta væri í fyrsta skipti sem starfsmaður hefði fengið kalsár samsvarandi því er stefnandi fékk. Tilvitnanir stefnanda til tilskipunar nr. 89/391/EBE sem og 23. gr. a laga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, eiga ekki við eins og atvikum málsins er hátt.

Stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., er stefnt til greiðslu bóta úr slysatryggingu launþega. Um þá tryggingu gilda skilmálar nr. 380. Í 4. mgr. 1. gr. segir að með orðinu „slys“ sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem valdi meiðslum á líkama vátryggðs og gerist sannanlega án vilja hans. Því er hafnað að kal á fingrum/tám geti fallið undir skilgreiningu þessa, þar sem meðal annars sé ekki um skyndilegan atburð að ræða heldur atburð sem tekur nokkurn tíma. Því er hafnað kröfum stefnanda um greiðslu úr slysatryggingu launþega.

Þá er Tryggingamiðstöðinni hf. stefnt til réttargæslu vegna ábyrgðartryggingar stefnda, B ehf., hjá Tryggingamiðstöðinni. Um þessa tryggingu gilda skilmálar nr. 200. Í 1. mgr. 3. gr. þeirra er hliðstætt skilyrði og í 4. mgr. 1. gr. skilmála 380, samanber hér að framan, þ.e. að líkamstjónið verði rakið til skyndilegs óvænts atburðar. Samkvæmt framangreindu telst kal ekki skyndilegur atburður.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hvorki hægt að rekja líkamstjón stefnanda til stefnda, B ehf., starfsmanna fyrirtækisins né   atvika er stefndi, B ehf., ber ábyrgð á. Þá er hvorki fallist á að líkamstjón stefnanda geti talist slys samkvæmt vátryggingaskilmálum nr. 380 um slysatryggingu launþega, né heldur vátryggingaskilmálum nr. 200 um ábyrgðartryggingu fyrir atvinnurekstur. Því eru stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e málflutningsþóknun Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

B ehf. og Tryggingamiðstöðin hf. eru sýknuð af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur.