Print

Mál nr. 582/2013

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Ógilding samnings

                                     

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Nr. 582/2013.

Íslandshótel hf.

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Elzbietu Szczepanska

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Ráðningarsamningur. Riftun. Ógilding samnings.

E höfðaði mál gegn Í hf. og krafðist þess að sér yrðu greidd laun í uppsagnarfresti í kjölfar þess að henni var sagt upp störfum hjá Í hf. Við uppsögnina hafði E ritað undir bréf þess efnis að hún afsalaði sér launum í uppsagnarfresti, enda hefði hún orðið uppvís að þjófnaði og misnotkun á stimpilklukku. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt sú háttsemi E að taka heimildarlaust vín sem var á boðstólum í veislu, sem haldin var fyrir starfsfólk Í hf., hefði verið ámælisverð hefði hún skilað Í hf. víninu jafnskjótt og færi gafst á og skýrt yfirmanni sínum af hreinskilni frá brotinu. Taldist þessi háttsemi E og notkun hennar á stimpilklukku ekki hafa verið svo alvarleg trúnaðarbrot að réttlætt gæti fyrirvaralausa riftun ráðningarsamnings hennar. Vegna tungumálakunnáttu sinnar þótti E ekki hafa getað gert sér grein fyrir efni bréfsins sem hún undirritaði við uppsögnina auk þess sem hún gerði það eftir að henni hafði verið tjáð að ella yrði háttsemi hennar kærð til lögreglu. Í ljósi alls þessa var fallist á með E að á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ætti að víkja til hliðar yfirlýsingu hennar í bréfinu um afsal réttar til launa í uppsagnarfresti. Var því fallist á kröfu E.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.   

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Tildrög máls þessa eru þau að stefndu var ásamt öðru starfsfólki áfrýjanda boðið til veislu sem haldin var á hans vegum fimmtudagskvöldið 20. október 2011. Stefnda bar fyrir héraðsdómi að hún hefði stimplað sig út um klukkan sex síðdegis og farið í veisluna um hálftíma síðar. Um áttaleytið hafi hún farið að hugsa til samstarfskvenna sinna, sem hafi verið á vakt og hafi hún ætlað að hjálpa þeim við vinnuna. Hún hafi því stimplað sig aftur inn, en þær hafi sagt henni að halda áfram að skemmta sér, sem hún hafi gert. Hún hafi hins vegar gleymt að stimpla sig út aftur og verið í veislunni til klukkan tíu og stimplað sig þá út. Í veislunni var á boðstólum áfengi og matur og kvaðst hún hafa tekið tvær vínflöskur og farið með þær í ræstingaherbergi starfsfólks. Ekki hefur verið vefengt að stefnda hafi verið ölvuð í veislunni. Fyrir dómi gaf hún þær skýringar á þessu framferði sínu að hún hafi ætlað að bjóða samstarfskonum sínum upp á rauðvínsglas að vinnu þeirra lokinni. Hún hafi hins vegar ekki hitt þær er veislunni lauk og því skilið flöskurnar eftir í ræstingaherberginu.

Óumdeilt er að stefnda fór að eigin frumkvæði mánudaginn 24. október 2011 til yfirmanns síns, Arnars Laufdal Ólafssonar, með samstarfskonu sinni, Karolinu Zabel. Karolina mun þar hafa túlkað orð Arnars úr ensku yfir á pólsku og orð stefndu úr pólsku yfir á ensku. Stefnda skýrði frá því að hún hafi tekið flöskurnar og skilaði hún þeim til Arnars. Hún var spurð um það fyrir dómi hvort hún hefði sagt Arnari frá stimpilklukkunni og kvaðst hún hafa gert það. Kvöldið hefði verið ,,svolítið ruglingslegt af því hún fékk sér í glas“ og hefði hún ekki alveg vitað hvernig hún hefði farið að þessu öllu  ,,með stimpilklukku og allt“.

Næsta dag, 25. október 2011, var stefnda kölluð á fund hótelstjórans, þar sem viðstaddar voru auk hans Inga Hrönn Sverrisdóttir þáverandi yfirþerna og fyrrnefnd Karolina. Þar var henni kynnt bréf með yfirskriftinni ,,uppsagnarbréf“. Í bréfinu kom fram að stefndu væri sagt upp störfum vegna þjófnaðar og misnotkunar á stimpilklukku. Hafi bæði atvik átt sér stað fimmtudaginn 20. október 2011 og hún viðurkennt þau. Í ljósi alvarleika brotsins hafi samkomulag náðst um að stefnda hætti tafarlaust störfum. Jafnframt skyldi áfrýjandi greiða henni laun út októbermánuð en aðilar væru sammála um að hún fengi ekki greidd laun í uppsagnarfresti. Orlof og vetrarfrí skyldu greiðast samkvæmt samningi. Stefnda bar fyrir dómi að hótelstjórinn hefði lesið bréfið á íslensku, Inga Hrönn hefði túlkað efni bréfsins yfir á ensku og Karolina hefði túlkað það yfir á pólsku úr ensku. Henni hefði ekki verið tjáð að í bréfinu fælist afsal á þriggja mánaða launum í uppsagnarfresti, en hótað að kallað yrði á lögreglu ef hún skrifaði ekki undir bréfið. Hún kvaðst hafa orðið mjög hrædd við lögreglu, en í Póllandi væru ,,háar sektir og fangelsisvist fyrir þjófnað“. Sá framburður stefndu samrýmist vitnisburði Karolinu um að ef stefnda skrifaði ekki strax undir uppsagnarbréfið yrði hún kærð til lögreglu. Fór svo að stefnda skrifaði undir bréfið.

Stefnda undirritaði annað bréf 2. mars 2011, sem skrifað var á ensku, þar sem brýnt var fyrir henni að láta ekki aðra stimpla sig út og að óleyfilegt væri að fara af vinnustaðnum á vinnutíma án heimildar. Fyrrnefnd Inga Hrönn kynnti bréf þetta fyrir stefndu, en hún bar fyrir dómi að samskipti milli þeirra hefðu farið fram á ,,stikkorðum úr ensku.“ Hún fullyrti þó að stefnda hefði skilið sig og sérstaklega þar sem hún hefði sýnt stefndu mynd úr eftirlitsmyndavél.

II

Ágreiningur aðila hér fyrir dómi lýtur annars vegar að lögmæti uppsagnar stefndu úr starfi sem hótelþerna hjá áfrýjanda og hins vegar að gildi yfirlýsingar þeirrar er stefnda undirritaði 25. október 2011 og ber yfirskriftina uppsagnarbréf. Stefnda talar pólsku, en mun tala litla sem enga ensku og enga íslensku.  

Að framan hefur verið rakin sú atburðarás sem varð til þess að áfrýjandi sagði stefndu upp störfum. Fram er komið að stefnda viðurkenndi brot sín jafnskjótt og færi gafst á og skilaði þeim tveimur vínflöskum sem hún hafði tekið ófrjálsri hendi. Hún reyndi einnig að útskýra með hjálp samstarfskonu sinnar hvernig staðið hefði á því að hún hefði stimplað sig inn til vinnu er hún var í raun í veislu hjá áfrýjanda. Sú háttsemi hennar að taka heimildarlaust vín sem á boðstólum var og fara með það úr veislunni var ámælisverð. Að því virtu að stefnda skilaði víninu jafnskjótt og færi gafst á og skýrði yfirmanni sínum af hreinskilni frá brotinu telst þessi háttsemi hennar ekki hafa verið svo alvarlegt trúnaðarbrot að réttlætt geti fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hennar. Þótt það framferði stefndu að stimpla sig inn til vinnu um áttaleytið, er hún var í raun í veislu hjá áfrýjanda og aftur út klukkan tíu, feli í sér vanefnd á ráðningarsamningnum var ekki um svo verulega vanefnd að ræða að skilyrði hafi verið til fyrirvarlausrar riftunar hans.  Í því sambandi er til þess að líta að bréf það sem stefnda undirritaði 2. mars 2011 felur ekki í sér fullnægjandi áminningu eða aðvörun um að sú misnotkun stimpilklukku sem lýst er í bréfinu geti valdið riftun samningsins, auk þess sem óvíst er hvort stefnda skildi efni þess bréfs.

Eins og að framan er rakið ritaði stefnda undir uppsagnarbréf 25. október 2011, að viðstöddum fyrrnefndri Ingu Hrönn og Karolinu, auk þáverandi hótelstjóra. Í bréfinu afsalaði hún sér kjarasamningsbundnum réttindum sínum um laun í uppsagnarfresti. Af framburði hennar fyrir dómi er ljóst að hún gerði sér ekki grein fyrir efni bréfsins, enda er fram komið að texti þess hafði fyrst verið túlkaður úr íslensku og yfir á ensku og síðan hafði fyrrnefnd Karolina túlkað hann úr ensku yfir á pólsku, en ekkert verður ráðið af gögnum málsins hvernig enskukunnáttu hennar var háttað. Þá ritaði stefnda undir bréfið eftir að henni hafði verið tjáð að ella yrði háttsemi hennar kærð til lögreglu. Í ljósi þeirra atvika sem hér hefur verið lýst og þegar litið er til efnis bréfsins og stöðu stefndu annars vegar og áfrýjanda hins vegar, verður fallist á með stefndu að víkja beri til hliðar þeirri yfirlýsingu er í bréfinu fólst   á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Íslandshótel hf., greiði stefndu, Elzbietu Szczepanska 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2013.

I.

Mál þetta var höfðað 18. desember 2012 og dómtekið 6. maí 2013 að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er Elzbieta Szczepanska, Hjálmholti 3, Reykjavík, en stefndi er Íslandshótel hf., Sigtúni 38, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.787.382 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 209.178 krónum frá 1. desember 2009 til greiðsludags, af 998.994 krónum frá 1. desember 2011 til greiðsludags, af 1.352.610 krónum frá 1. janúar 2012 til greiðsludags en af 1.787.382 krónum frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags.

                Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.654.476 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 209.178 krónum frá 1. desember 2009 til greiðsludags, af 954.692 krónum frá 1. desember 2011 til greiðsludags, af 1.264.006 krónum frá 1. janúar 2012 til greiðsludags en af 1.654.476 krónum frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags. 

                Í endanlegri dómkröfu er þess krafist til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.500.000 krónur eða samkvæmt mati dómsins, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum.

                Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda., en til vara að dómkröfur verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

II.

Málsatvik:

Stefnandi í máli þessu var starfsmaður stefnda þar sem hún vann við ræstingar. Henni var sagt upp störfum, með uppsagnarbréfi, dags. 25. október 2011. Samkvæmt uppsagnarbréfinu, sem er undirritað af stefnanda og hótelstjóra stefnda, kemur fram að ástæða uppsagnarinnar sé þjófnaður og misnotkun á stimpilklukku er hafi átt sér stað þann 20. október 2011. Segir í uppsagnarbréfinu að í ljósi alvarleika brotsins hafi aðilar náð samkomulagi um að stefnandi láti tafarlaust af störfum. Stefndi muni greiða henni laun fyrir októbermánuð, en aðilar séu sammála um að stefnandi muni ekki fá greiddan uppsagnarfrest, en orlof og vetrarfrí greiðist samkvæmt samningi.

                Ekki er um það deilt að fimmtudaginn 20. október 2011, þegar stefnandi var  stödd í afmæli yfirmanns stefnda sem haldið var á hótelinu og henni hafði verið boðið til ásamt öðrum starfsmönnum stefnda, hafi hún tekið tvær vínflöskur sem staðið hafi á borðum í veislunni handa gestum afmælisins, farið með þær í búningsklefa starfsfólks og skilið þar eftir. Fjórum dögum síðar, eða mánudaginn 24. október 2011, hafi hún farið til yfirmanns hótelsins og sagt honum frá atvikinu og skilað flöskunum. Daginn eftir hafi henni síðan verið sagt upp störfum eins og áður segir. 

                Samkvæmt vaktaskipulagi stefnda stóð vakt stefnanda umræddan dag hinn 20. október 2011 frá kl. 15 til 22. 

                Í málsatvikalýsingu stefnanda í stefnu er atvikum lýst þannig að umræddan veisludag 20. október 2011, hafi stefnandi stimplað sig út þegar hún hafi haldið til afmælisveislunnar, skömmu síðar hafi hún stimplað sig aftur inn og ætlað að halda áfram vinnu sinni þar sem hún hafi átt vakt á þessum tíma, en henni hafi dvalist lengur í veislunni og gleymt að stimpla sig út þar til kl. 23:00 um kvöldið. Þetta hafi hún sagt yfirmanni sínum þann 24. október 2011.

                Þá segir í málsatvikalýsingu stefnanda að samkvæmt tímaskýrslum megi sjá að hún hafi ætíð mætt 15 mínútum fyrr til vinnu og unnið mikið. Samkvæmt launaseðlum og tímaskýrslum megi sjá að hótelið hafi dregið af henni hálfa til eina klukkustund á tímabilinu 10. nóvember 2008 til 14. nóvember 2009, þegar hún hafi verið á dagvöktum og hafi þessir tímar aldrei verið greiddir þrátt fyrir fjölmörg munnleg loforð þess efnis af hálfu stefnda.

                Samkvæmt endurnýjuðum ráðningarsamningi stefnanda og stefnda, dags. 10. nóvember 2009, var stefnandi ráðin ótímabundið til starfa hjá stefnda við þrif og var fyrsti starfsdagur hennar tilgreindur 20. september 2007. Fram kemur í samningnum að dagvinnulaun séu 945,99 krónur á klst. og fyrir yfirvinnu 1.689,75 krónur á klst. Aðrar greiðslur séu samkvæmt samkomulagi eða 45% álag, greitt ofan á dagvinnu um helgar. Þá kemur fram að um áunnin réttindi fari samkvæmt kjarasamningi við Eflingu.

                Samkvæmt gögnum málsins, sbr. bréf, dags. 2. mars 2011, sem undirritað er af yfirþernu stefnda og stefnanda hlaut stefnandi áminningu vegna fjarvista án leyfis í vinnutíma og hvernig hún hafi staðið að skráningu vinnustunda í stimpilklukku. Segir í bréfinu að stefnandi og annar starfsmaður stefnda hafi aðstoðað hvor aðra við útstimplun í lok vinnudags án þess að hafa unnið heilan vinnudag, auk þess sem hún hafi verið fjarverandi á vinnutíma án leyfis og án þess að stimpla sig út eða gefa skýringar á brotthvarfi sínu frá vinnu.

                Með bréfi, dags. 25. júní 2012, krafði stefnandi stefnda um greiðslu vangoldinna vinnulauna í uppsagnarfresti samtals að fjárhæð 850.749 krónur ásamt vöxtum frá 1. nóvember 2011 og innheimtukostnaði. Stefnandi hafnaði greiðslukröfu með bréfi, dags. 3. júlí s.á., og tók fram að samkomulag hefði verið gert á milli stefnanda og stefnda um að ekki yrðu greidd laun í uppsagnarfresti í ljósi þeirra kringumstæðna sem hafi leitt til uppsagnar stefnanda. Með greiðsluáskorun stefnanda, dags. 10. júlí s.á., var krafan ítrekuð. Tók stefnandi fram að hún féllist ekki á að henni hefði verið sagt upp störfum með gildum hætti þar sem hún hafi verið látin skrifa undir uppsagnarbréf á íslensku en hún hvorki skilji né tali málið. Af þeim sökum væri krafan enn til innheimtu. Í bréfi stefnda, dags. 19. júlí 2012, til stefnanda tekur stefnandi fram að samkomulag hafi verið gert við stefnanda vegna starfsloka hennar og uppgjörs launa þann 25. október 2012. Upp hafi komist um alvarlega misnotkun hennar á stimpilklukku þar sem hún hafi stimplað sig til vinnu þegar hún hafi ekki verið í vinnu, auk þess sem hún hafi tekið tvær vínflöskur frá stefnda í leyfisleysi. Farið hefði verið yfir málið með stefnanda og hún viðurkennt brot sín. Túlkur hafi verið til staðar sem hvort tveggja þýddi uppsagnarbréfið og samtölin. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir um hvað málið snerist og hafi tvívegis verið innt eftir því hvort hún skildi um hvað hefði verið rætt. Hún hefði játt því. Þá var tekið fram að stefnandi hefði áður fengið áminningu vegna misnotkunar á stimpilklukku. Tók stefndi fram að næstum níu mánuðir væru liðnir frá atvikum málsins og að gera yrði þá kröfu að athugasemdir og kröfur sem stefnandi legði fram kæmu fram strax eftir starfslok, svo hægt væri að bregðast við þeim, en ekki löngu eftir að uppsagnarfrestur væri liðinn. Kröfur stefnanda voru ítrekaðar með bréfum, dags. 8. ágúst og 18. október 2012, en í síðargreinda bréfinu var enn fremur krafist meintra vangoldinna launa fyrir tímabilið 1. desember 2008 til 1. desember 2009.

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Þá gáfu vitnaskýrslu Ásta Marta Sívertsen, starfsmaður stefnda, Arnar Laufdal, fyrrverandi hótelstjóri stefnda, Karolina Zabel, starfsmaður stefnda, og Inga Hrönn Sverrisdóttir, fyrrverandi yfirþerna hjá stefnda.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi krefst þess að stefndi verði annars vegar dæmdur til að greiða henni laun vegna þriggja mánaða uppsagnarfrest og hins vegar vangreidd laun vegna launatímabilsins 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009. Eru kröfur stefnanda á því reistar að uppsögnin hafi verið ólögmæt þar sem henni hafi ekki verið greidd laun í uppsagnarfresti. Skilyrði fyrir fyrirvaralausri uppsögn eða brottreksturs séu verulegar vanefndir starfsmanns á ráðningarsamningi vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis, svo sem að starfsmaður mæti ekki til starfa, ræki störf sín með verulega ófullnægjandi hætti eða gerist alvarlega brotlegur í starfi. Gera verði ríkari kröfur um vanefndir, í tilviki stefnanda, en almennt gildi í samningarétti, þar sem fyrirvaralaus uppsögn geti valdið mikilli röskun á lífi launamanns, bæði tekjulega og á stöðu hans. Þá hafi hinn meinti þjófnaður ekki verið kærður til lögreglu, enda skilaði stefnandi umræddum vínflöskum um leið og hún náði tali af hótelstjóra. Því hafi ekki verið um neinn þjófnað að ræða. Telur stefnandi að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið uppvís að refsiverðri háttsemi. Hún hafi hins vegar verið þjófkennd og vegið að æru hennar og trúverðugleika. Þá hafi henni verið hótað með lögreglu af hálfu stefnda skrifaði hún ekki undir uppsagnarbréfið.

                Stefnandi telur ástæður stefnda fyrir uppsögn sinni ómálefnalegar. Stefndi hafi ekki stutt ásakanir sínar eða aðgerðir fullnægjandi gögnum eða viðunandi upplýsingum. Hafi stefndi vitað eða mátt vita að ásakanir í garð stefnanda væru tilefnislausar. Þannig hafi stefndi með saknæmum og ólögmætum hætti staðið að meingerð gegn frelsi, persónu, friði og æru stefnanda og beri á því bótaskyldu með vísan til  26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Stefnandi telur að stefndi hafi notfært sér aðstöðumun sinn þar sem stefnandi hafi hvorki skilið né lesið íslensku og að hún hafi ekki gert sér grein fyrir að hún væri að undirrita uppsagnarbréf, með undirritun sinni þann 25. október 2011. Uppsagnarbréfið sé ekki í neinu samræmi við almennar reglur vinnumarkaðarins og telur stefnandi því að samkomulag sem hún undirritaði sé ógilt á grundvelli 31. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

                Stefnandi byggir kröfur sínar vegna vangreiddra launa fyrir tímabilið 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009 á því að atvinnurekandi geti ekki haldið eftir launum starfsmanns án hans samþykkis nema að því leyti sem mælt sé fyrir um í lögum og kjarasamningum, það er sköttum, greiðslu til lífeyrissjóðs og stéttarfélags og meðlagi. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi gefið samþykki sitt fyrir því að fá ekki full laun. Þá hafi stefnanda ekki verið greitt í samræmi við gildandi ráðningarsamning.

                Stefnufjárhæðina sundurliðar stefnandi eftirfarandi:

                a) Aðalkrafa er miðuð við vangreidd laun í 3 mánaða uppsagnarfresti. Er miðað við meðaltal launa fyrir ágúst, september og október 2011 eða samtals 289.816 króna að meðaltali á mánuði. Uppsagnarfrestur hefði átt að vera frá 1. nóvember 2011 til og með 1. janúar 2012. Gjalddagar launanna hafi því verið frá 1. desember 2011 til og með 1. febrúar 2012. Við fyrsta gjalddaga launanna þann 1. desember 2011 leggist miskabætur að fjárhæð 500.000 króna.

                b) Vangreidd laun fyrir tímabilið 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009, samtals 209.178 króna. Krafist er dráttarvaxta frá 1. desember 2009, en það hafi verið gjalddagi launa fyrir nóvember 2009 til greiðsludags.

                c) Um greiðslu desemberuppbótar vísar stefnandi til gildandi kjarasamnings Eflingar vegna hótel- og veitingahúsa. Samkvæmt kjarasamningnum hafi upphæðin numið 63.800 krónum árið 2011 að sérstöku álagi meðtöldu. Krafist er dráttarvaxta af kröfunni frá 15. desember 2011 sem hafi verið gjalddagi hennar til greiðsludags.

                d) Krafist er orlofs með vísan til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Fjárhæðin sé þannig reiknuð að 1.078.626 kr. (heildarlaun í uppsagnarfresti + vangreiddir tímar) x 10,17% =  109.696 kr. Er krafist dráttarvaxta af kröfunni frá 1. febrúar 2012 sem var gjalddagi hennar til greiðsludags.

                e) Krafist er orlofsuppbótar með vísan til gildandi kjarasamnings Eflingar vegna hótel- og veitingahúsa. Samkvæmt samningnum hafi fjárhæðin verið 36.900 krónur Fjárhæðin sé fundin með eftirfarandi hætti: 36.900 krónur (orlof með sérstöku álagi) / 45 (fullt ársstarf) x 43 (unnar vikur) = 35.260 krónur Krafist er dráttarvaxta af kröfunni frá 1. mars 2012 sem var gjalddagi hennar til greiðsludags.

                Varakrafa er reiknuð á sama hátt og aðalkrafa stefnanda nema miðað var við laun stefnanda fyrir október 2011 sem voru 245.514 krónur.

                Kröfufjárhæð samkvæmt þrautavarakröfu samanstendur af kröfu um miskabætur, vangreidd laun tímabilið 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009, laun í uppsagnarfresti, orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót.

                Til stuðnings dómkröfum sínum vegna vangreiddra launa á tímabilinu 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009 leggur stefnandi fram samantekt er hún kveður sem fyrr segir vera 209.178 krónur.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið alvarlega gegn þeim skyldum sem giltu í ráðningarsambandi milli aðila, er réttlætti uppsögn eða riftun ráðningarsamnings án uppsagnarfrests. Tekur stefndi fram að litið hafi verið svo á að uppsögn eða riftun án uppsagnarfrests sé heimil þegar brotið hafi verið alvarlega gegn ákvæðum ráðningarsamnings eða þeim skyldum sem gilda í ráðningarsambandi og einnig hafi starfsmaður ekki sinnt áminningu sem hann hafi fengið um að bæta ráð sitt.

                Stefndi telur brot stefnanda á vinnusamningi í fyrsta lagi felast í þjófnaði eða gripdeild á tveimur vínflöskum í afmælisveislu sem haldin hafi verið á hótelinu, sbr. 244. og 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt að víkja stefnanda úr starfi þar sem hún hafi orðið uppvís að refsiverðri háttsemi. Auk þess hafi stefnandi gerst sek um misnotkun á stimpilklukku þar sem hún hafi stimplaði sig til vinnu þegar hún var ekki að vinna. Þannig stimplaði stefnandi sig til vinnu þegar hún mætti í afmælisveislu sem haldin var á hótelinu, þar sem hún, ásamt fleiri starfsmönnum, var gestur, og stimplaði sig svo út þegar hún yfirgaf veisluna. Byggir stefndi á því að forsendur hafi í raun verið brostnar fyrir frekara samstarfi á milli aðila. Stefnandi hafi gert sér grein fyrir alvarleika brotsins og aðilar verið sammála um að hún hætti strax störfum án greiðslu í uppsagnarfresti, sbr. uppsagnarbréf, dags. 25. október 2011.

                Viðstaddar undirritun uppsagnarbréfsins hafi verið þáverandi yfirþerna og eftirlitsþerna sem talaði pólsku og íslensku og túlkaði það sem fram fór. Þannig hafi verið tryggt að stefnandi gerði sér fulla grein fyrir því sem fram fór á fundinum. Það sé því rangt sem haldið væri fram í stefnu að stefndi hafi notfært sér aðstöðumun á milli aðilanna þar sem stefnandi skilur hvorki né les íslensku. Stefnandi hefði ekki þurft að skrifa undir samkomulag aðila (uppsagnarbréfið) hefði hún talið það rangt eða óásættanlegt sem þar hafi komið fram.

                Þegar um svo alvarlegt brot á trúnaðarskyldu sé að ræða, þurfi ekki sérstaka áminningu áður en starfsmanni er sagt upp eða ráðningarsamningi rift. Stefnandi hafi þó áður fengið áminningu vegna misnotkunar á stimpilklukku, eða þann 2. mars 2011. Í því tilviki hafi stefnandi og önnur starfsstúlka ítrekað stimplað hvor aðra út í lok dags, án þess þó að hafa unnið heilan vinnudag. Áminning hafi þá einnig lotið að fjarvistum úr vinnu á vinnutíma án leyfis og án þess að stimpla sig út eða gefa skýringar á brotthvarfi sínu úr vinnu. Þannig hafi stefnandi brotið starfsskyldur sínar ítrekað og ekki breytt hegðun sinni þrátt fyrir skriflega aðvörun. Byggir stefndi á því að það eitt réttlæti uppsögn hennar án uppsagnarfrests. 

                Að því er varðar útreikning á launum í uppsagnarfresti þá er á því byggt að sú fjárhæð geti aldrei orðið hærri en föst umsamin laun stefnanda á þeim tíma og án yfirvinnu.

                Stefndi hafnar því að hafa hýrudregið stefnanda um ½ til 1 klst. á dag, tímabilið 10. nóvember 2008 til 14. nóvember 2009, eins og það er orðað í stefnu. Ekki komi fram í framlögðum gögnum stefnanda hvað það sé nákvæmlega sem væri ranglega reiknað hjá stefnda. Þá sé það rangt sem haldið sé fram að stefnandi eigi að fá greiddan hálftíma í mat í hádeginu. Samkvæmt þágildandi kjarasamningi milli SA og Eflingar stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sem hafi gilt frá 1. febrúar 2008 til 30. nóvember 2010, vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi, grein 4.1., skyldi hádegismatartími vera ½ klukkustund á tímabilinu kl. 11:00 – kl. 14:00 og ekki teljast til vinnutíma. Sama eigi einnig við í núgildandi kjarasamningi.

                Þá byggir stefndi á því að yfirvinna sé aðeins greidd ef starfsmaður er beðinn um að vinna umfram umsaminn vinnutíma. Venja væri að yfirmaður, í tilviki stefnda yfirþerna, biðji þá starfsmann um að vinna lengur. Hún skilaði síðan skýrslu um það til launabókhaldsins. Stefnandi hafi ekki getað stjórnað því sjálf hvort hún fengi greidda yfirvinnu eða ekki t.d. með því að draga það að stimpla sig út. Af framangreindu leiði að stefnandi eigi ekki rétt á greiðslum fyrir þann tíma sem ekki hafi verið óskað eftir vinnuframlagi hennar. Vísar stefndi til greinar 2.5.1 í þágildandi kjarasamningi.

                Stefndi byggir á því að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti en stefnandi hafi fyrst reynt að innheimta þær með bréfi, dags. 25. júní 2012. Bendir stefndi á í því sambandi að stefnandi hafi skrifað undir samkomulag um að laun í „uppsagnarfresti“ myndu falla niður. Það hafi ekki verið skilningur hennar á þeim tíma, og því ástæða fyrir hana til að gera strax grein fyrir sjónarmiðum sínum og hefja innheimtuaðgerðir. Aðgerðaleysi stefnanda bendi eindregið til þess að skilningur hennar hafi verið sá sami og stefnda á þeim tíma. Sama eigi við um meint vangreidd laun.

                Að því er miskabótakröfu stefnanda varðar er á því byggt af hálfu stefnda að fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi tekið flöskurnar ófrjálsri hendi og misnotað stimpilklukku. Þetta hafi hún sjálf staðfest og undirritað samkomulag þess efnis. Áður hafi hún fengið aðvörun vegna misnotkunar á stimpilklukku. Það sé því rangt að ásakanir í garð stefnanda hafi verið algerlega tilefnislausar. Hafi stefnandi talið sig órétti beitta að tilefnislausu, hefði hún getað farið fram á rannsókn málsins. Þann kost hafi stefnandi ekki nýtt sér. Þvert á móti hafi hún alls ekki viljað að leitað væri til lögreglu og frekar hætta án uppsagnarfrests. Af framangreindu megi ráða að engar forsendur séu fyrir miskabótakröfu stefnanda. Þá telur stefndi að skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt að öðru leyti.  

                Stefndi telur þrautavarakröfu stefnanda ekki dómtæka eins og hún er sett fram. Krafist er 1.500.000 krónur „samkvæmt mati dómsins“. Krafa upp á 1.500.000 krónur getur ekki verið „samkvæmt mati dómsins“. Óhjákvæmilegt er því að vísa kröfunni frá dómi vegna vanreifunar.

                Varakröfu sína um lækkun stefnukrafna styður stefndi við sömu málsástæður og fram koma í umfjöllun um aðalkröfuna.

                Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 21. kafla laga nr. 91/1991.

IV.

Í máli þessu er annars vegar deilt um það hvort stefnandi eigi rétt til þriggja mánaða launa í uppsagnarfresti fyrir mánuðina nóvember og desember 2011 og janúar 2012, auk desemberuppbótar árið 2011, orlofs, orlofsuppbótar og miskabóta. Hins vegar er deilt um hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda um vangreidd laun fyrir tímabilið 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009.

                Stefnandi hafði starfað hjá stefnanda frá 20. september 2007 þegar henni var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi, dags. 25. október 2011.

                Samkvæmt gögnum málsins var stefnandi áminnt bréflega þann 2. mars 2011, vegna misnotkunar á stimpilklukku stefnanda, þar sem hún og annar starfsmaður stefnda hafi aðstoðað hvor aðra við útstimplun í lok dags án þess að hafa unnið heilan vinnudag. Þann 25. október s.á. var stefnanda vikið úr starfi á þeim grundvelli að hún hefði gerst sek um refsiverða háttsemi þann 20. október 2011, auk þess sem hún hafi gerst sek um misnotkun á stimpilklukku sama dag er hún var viðstödd í afmæli þáverandi hótelstjóra stefnda, sem henni hafði verið boðið til ásamt öðrum starfsmönnum stefnda. Fólst hið meinta brot stefnanda annars vegar í því að hafa tekið í sínar vörslur tvær vínflöskur er hafi staðið gestum afmælisins til boða. Hins vegar fólst brotið í því að hafa stimplað sig inn til vinnu á meðan hún var stödd í umræddri afmælisveislu. Þá liggur fyrir að stefnandi hafi fjórum dögum síðar komið til yfirmannsins og skilað umræddum vínflöskum auk þess sem hún hafi gert grein fyrir mistökum sínum við skráningu vinnustunda í stimpilklukku þegar hún var stödd í greindri afmælisveislu.

                Almenn skilyrði fyrirvaralausrar uppsagnar eða brottreksturs eru þau að vanefndir starfsmanns á ráðningarsamningi séu verulegar, annað hvort vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis, svo sem að starfsmaður mætir ekki til starfa, rækir störf sín með verulega ófullnægjandi hætti eða gerist alvarlega brotlegur í starfi. Atvinnurekandi verður að hafa áminnt starfsmann nema brot sé mjög verulegt og sýnt fram á að sakir séu til staðar. Almennt verður að gera ríkar kröfur um vanefndir þar sem fyrirvaralaus uppsögn getur valdið mikilli röskun á lífi launamanns, bæði tekjulega og eins á stöðu hans.

                Kemur hér fyrst til skoðunar hvort aðalkrafa stefnanda, um greiðslu launa í uppsagnarfresti, desemberuppbót og orlofsgreiðslur, hafi verið fallin niður vegna tómlætis stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnandi stefnda innheimtubréf þann 25. júní 2012, þar sem krafist var greiðslu vangoldinna vinnulauna í uppsagnarfresti. Voru þá liðnir 7 mánuðir frá því stefnanda var vikið frá störfum. Ekki verður fallist á það með stefnda að í því felist slíkur dráttur af hálfu stefnanda við aðgæslu réttinda sinna hvað þennan þátt málsins varðar að krafan sé fallin niður vegna tómlætis.

                Víkur þá að því hvort sú háttsemi stefnanda sem að framan er lýst sé svo veruleg að réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn hennar.

                Eins og áður segir taldi stefndi að stefnandi hefði gerst sek um þjófnað á tveimur vínflöskum frá stefnda. Þjófnaður verður skilgreindur svo, að hann sé leynileg, ólögmæt taka muna úr vörslum annars manns. Ekki verður fallist á það með stefnda að tímabundin færsla stefnanda á umræddum vínflöskum til búningsklefa starfsfólks hótelsins, eins og atvikum er lýst hér að framan, geti réttlætt fyrirvaralausa uppsögn hennar eins og hér stendur á. Við mat á þessu ber bæði að hafa í huga að vínflöskurnar voru aðeins færðar til á þeim stað sem veislan fór fram og þeim var strax skilað næsta vinnudag er stefnandi mætti til vinnu og gafst færi á að skila þeim. Er ekki sannað að stefnandi hafi gerst sek um refsiverða háttsemi að lögum með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn hennar.

                Stefnanda hafði sem fyrr segir verið boðið til afmælisveislu þáverandi hótelstjóra stefnda þann 20. október 2011 á sama tíma og hún átti vakt samkvæmt vaktaskipulagi stefnda. Hún hafði því heimild yfirmanna sinna til þess að víkja frá vinnu sinni til þess að taka þátt í umræddri veislu. Engin gögn liggja fyrir um hvernig stefnanda bar við þær kringumstæður að haga skráningu vinnustunda á sama tíma. Í ljósi þessa, og með hliðsjón af skýringum stefnanda við inn- og útstimplun í stimpilklukku umræddan dag sem stefnandi að eigin frumkvæði gerði yfirmönnum sínum grein fyrir, verður að telja ósannað að stefnandi hafi brotið svo alvarlega gegn starfsskyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi að réttlæti uppsögn án uppsagnarfrests. Af þessu leiðir að ekki verður fallist á það með stefnda að um ítrekað brot stefnanda hafi verið að ræða.

                Með hliðsjón af framanrituðu verður að telja að undirritun stefnanda á uppsagnarbréf þar sem hún féllst á að láta tafarlaust af störfum og þiggja ekki laun í uppsagnarfresti ólögmæta. Verður hún því ekki talin bundin af þeirri undirritun.

                Með vísan til þess er að framan greinir var uppsögn stefnanda 25. október 2011 ólögmæt og ber stefndi skaðabótaábyrgð á henni eftir almennum reglum. Samkvæmt þessu er fallist á aðalkröfu stefnanda um að stefnda beri að greiða stefnanda meðaltal launa eins og þau voru fyrir mánuðina ágúst til október 2011 að fjárhæð 289.816 krónur á mánuði í uppsagnarfresti ásamt dráttarvöxtum eins og greinir í aðalkröfu. Þá ber stefnda að greiða stefnanda desemberuppbót að fjárhæð 63.800 krónur frá 15. desember 2011 til greiðsludags, orlof að fjárhæð 109.696 krónur og orlofsuppbót að fjárhæð 35.260 krónur ásamt dráttarvöxtum frá lokum orlofstímabils þann 30. apríl 2012. Útreikningi stefnanda á meðallaunum og öðrum framangreindum kröfuliðum hefur ekki verið mótmælt tölulega.

                Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að skilyrðum fyrir greiðslu miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, hafi verið fullnægt. Er kröfu hennar um greiðslu miskabóta því hafnað.

                Víkur þá að kröfu stefnanda um vangreidd laun fyrir tímabilið 10. nóvember 2008 til 10. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 209.178 krónur. Til stuðnings dómkröfum sínum leggur stefnandi fram samantekt sína á vangreiddum tímafjölda á tímabilinu 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009. 

                Kröfu sína um vangreidd laun fyrir tímabilið 10. nóvember 2008 til 25. nóvember 2009, hafði stefnandi fyrst uppi við birtingu stefnu í máli þessu þann 13. desember 2012. Voru þá liðin þrjú ár frá því stefnandi tók við síðustu launagreiðslunni. Hafði stefnandi tekið við greiðslunum án fyrirvara og athugasemda við launauppgjörið. Engar skýringar hafa komið fram á þessum drætti af hálfu stefnanda. Þykir stefnandi hafa sýnt verulegt tómlæti við gæslu réttinda sinna að þessu leyti og hafi þar með fyrirgert rétti sínum til leiðréttingar. Þegar af þeirri ástæðu þykir ekki unnt að taka kröfu stefnanda til greina.

                Eftir framangreindum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                                                              DÓMSORÐ:

                Stefndi, Íslandshótel hf., greiði stefnanda 1.078.204 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 289.816 krónum frá 1. desember 2011 til greiðsludags, af 289.816 krónum frá 1. janúar 2012 til greiðsludags, af 289.816 krónum frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags, af 63.800 krónum frá 15. desember 2011 til greiðsludags og af 144.956 krónum frá 1. maí 2012 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda, Elzbieta Szczepanska, 800.000 krónur í málskostnað.