Print

Mál nr. 74/2012

Lykilorð
  • Ákæra
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Hlunnindi
  • Skattsvik
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Fjármagnstekjuskattur
  • Málshraði
  • Dráttur á máli
  • Aðfinnslur

                                     

Fimmtudaginn 7. febrúar 2013.

Nr. 74/2012:

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Tryggva Jónssyni og

(Jakob R. Möller hrl.)

Kristínu Jóhannesdóttur

(Kristín Edwald hrl.)

Ákæra. Frávísunarkröfu hafnað. Hlunnindi. Skattsvik. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Fjármagnstekjuskattur. Málshraði. Dráttur á máli. Aðfinnslur.

Sakamál var höfðað á hendur þremur einstaklingum, J, T og K, vegna ætlaðra meiri háttar brota gegn skattalögum, sem þau áttu að hafa framið í eigin nafni og sem stjórnendur B hf. og F ehf. Hafnað var kröfum um að tilteknum ákæruliðum yrði vísað frá héraðsdómi, þar sem skýrleikakröfum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til ákæru var talið fullnægt og engin hætta talin á að vörnum ákærðu yrði áfátt vegna þess. J og T kröfðust frávísunar eða sýknu af tilteknum ákæruliðum á þeim grundvelli að með höfðun sakamáls á hendur þeim tveimur, en ekki þriðja manni sem jafnframt þeim sat í framkvæmdastjórn B hf. er ætluð brot gerðust, hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þeim kröfum var einnig hafnað með vísan til þess að ákvörðun ákæranda um höfðun sakamáls væri hluti meðferðar hans á lögbundnum valdheimildum sem gæti ekki sætt endurskoðun dómstóla. J var sakfelldur fyrir fimm brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið fjármagnstekjur, tekjur af nýtingu kaupréttar, tekjur í formi launauppbótar, söluhagnað af hlutabréfum og tekjur af hlutareign, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. J var einnig sakfelldur fyrir fjögur brot í starfsemi B hf. með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslur auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í sömu tilvikum. T var sakfelldur fyrir þrjú brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið launatekjur sínar, tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum og tekjur í formi launauppbótar, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. T var einnig sakfelldur fyrir eitt brot í starfsemi B hf. með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í því tilviki. K var sakfelld fyrir tvö brot í starfsemi F ehf. með því að hafa skilað röngum skattframtölum fyrir félagið, annars vegar þar sem vantaldar voru skattskyldar tekjur þess og hins vegar þar sem oftaldar voru til gjalda niðurfærslur tiltekinnar hlutabréfaeignar félagsins og tap þess oftalið. Þeim J og T var með hliðsjón af eldri dómi dæmdur hegningarauki. Var refsing J ákveðin fangelsi í 12 mánuði, T fangelsi í 18 mánuði og K í þrjá mánuði, en fullnustu refsinganna frestað um tvö ár að því tilskildu að þau héldu almennt skilorð. Þá voru J og T dæmdir til sektargreiðslu, J að fjárhæð 62.000.000 krónur, en sæta ella fangelsi í 12 mánuði, og T að fjárhæð 32.000.000 krónur, en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. K var ekki gerð sekt þar sem ákæruvaldinu var ekki talið hafa tekist sönnun um skattalegan ávinning F ehf. af brotum hennar. Verulegur dráttur var talinn hafa orðið á rannsókn málsins, sem ákærðu varð ekki sérstaklega um kennt, en upphaf þess varð rakið til húsleitar sem gerð var hjá B hf. 28. ágúst 2002 og ákæra var ekki gefin út í því fyrr en 18. desember 2008. Litið var til þessa við ákvörðun refsinga. Einnig var talið að verulegur dráttur hefði orðið á meðferð málsins í héraði, þar sem héraðsdómur var kveðinn upp um þremur árum eftir að það var höfðað. Átalin var meðferð málsins í héraði, þar sem aðilum hafði meðal annars verið gefinn kostur á að skila fjórum greinargerðum, og hún talin hafa brotið í bága við fyrirmæli laga nr. 88/2008.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2012. Hann krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu allra ákærðu og að ákærðu Jón Ásgeir Jóhannesson og Kristín Jóhannesdóttir verði auk þess sakfelld fyrir eftirtalin brot: Ákærði Jón Ásgeir fyrir brot sem tilgreind eru í ákæruliðum I.3.A.c., I.4.A.b., I.5.A.b., I.4.B.a. og I.5.B. Ákærða Kristín fyrir brot sem tilgreind eru í ákærulið IV.2. og tengjast vangoldinni og vantalinni staðgreiðslu vegna bifreiðahlunninda meðákærða Jóns Ásgeirs hjá Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf.

Ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson krefst þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi ákærulið I.1.A., öllum þáttum í ákærulið III.1. og öllum þáttum í ákærulið IV.1. og að hann verði sýknaður af öllum öðrum ákæruliðum. Til vara krefst hann sýknu af öllum ákæruliðum. Að því frágengnu krefst ákærði Jón Ásgeir þess að sér verði ekki gerð refsing í málinu jafnvel þótt hann verði ekki sýknaður af öllum ákæruliðum. Verði ákærða gerð refsing krefst hann að öllu þessu frágengnu að hún verði bundin skilorði.

Ákærði Tryggvi Jónsson krefst þess aðallega að ákærulið III.2. verði vísað frá héraðsdómi og hann sýknaður af öllum öðrum ákæruliðum, en til vara sýknu af öllum ákæruliðum. Verði ákærði sakfelldur að einhverju leyti krefst hann að því frágengnu að sér verði ekki gerð refsing, en hún ella bundin skilorði.

Ákærða Kristín Jóhannesdóttir krefst þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi öllum þáttum ákæruliðar IV.2., sem hún var ekki sýknuð af í héraði, og ákærulið IV.3.a. og að hún verði sýknuð af öllum öðrum ákæruliðum. Til vara krefst hún sýknu af öllum ákæruliðum, en að því frágengnu að sér verði ekki gerð refsing. Verði ákærðu gerð refsing krefst hún að öllu þessu frágengnu vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.

I

Frávísunarkröfur ákærðu eru hinar sömu og þau gerðu í héraði að því frátöldu að ekki er krafist frávísunar á ákæruliðum, sem þau voru sýknuð af í héraði og eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Ákærðu settu kröfur sínar um frávísun í héraði fram í greinargerðum, sem lagðar voru fram 6. desember 2010, en af hálfu ákæruvalds var frávísunarkröfunum mótmælt og þau andmæli rökstudd í greinargerð sem lögð var fram 7. febrúar 2011. Héraðsdómur hafnaði kröfunum með úrskurði, sem upp var kveðinn 9. maí sama ár.

1

Kröfu sína um að ákærulið I.1.A. verði vísað frá dómi reisir ákærði Jón Ásgeir á því að verknaðarlýsing í þessum lið sé ekki fullnægjandi. Vísar hann til skýringa Hæstaréttar í dómi 10. október 2005 í máli nr. 420/2005 á 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í því máli hafi Hæstiréttur slegið föstu að samkvæmt fyrrnefndu lagagreininni sé áskilið að greina þurfi í ákæru hvert brotið sé, sem ákært er fyrir, hvar og hvenær það sé talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta. Til að fullnægja þessum áskilnaði verði verknaðarlýsing í ákæru að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum sé gefin að sök og hvaða refsilagaákvæði hann sé talinn hafa brotið, án þess að slík tvímæli geti verið um það að með réttu verði honum ekki talið fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim. Verði ákærði að geta ráðið það af ákærunni einni og breyti þá engu hvort honum megi vegna rannsóknar málsins vera ljósar sakargiftirnar, ef þeim eru ekki gerð fullnægjandi skil í ákærunni. Þá verði einnig að gera þær kröfur til skýrleika ákæru að dómara sé fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði sé sakaður og hvernig telja megi þá háttsemi refsiverða. Ákæra verði að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segi.

Ákærði Jón Ásgeir kveður lýsingu í ákærulið I.1.A. þannig að steypt sé saman tvenns konar háttsemi svo óskiljanlegt verði. Í þessum ákærulið sé broti lýst svo: ,,Vantaldar fjármagnstekjur, þóknun vegna sölu hlutabréfa, sem ákærði fékk greidda frá Bónus sf., kt. ... , inn á bankareikning sinn kr. 10.000.000, 25. ágúst 1998 og var færð á viðskiptareikning hans hjá Bónus sf. kr. 1.784.344, og Bónus sf. greiddi til Kaupþings hf. vegna ákærða 27. nóvember sama ár, og voru tekjur af hlutareign hans í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981.“

Ákærði kveður óljóst af framangreindu hvort um eina greiðslu eða tvær sé að ræða frá Bónus sf., sem þóknun til hans vegna sölu ótilgreindra hlutabréfa. Af lýsingunni virðist sem Bónus sf. hafi greitt Kaupþingi hf. vegna ákærða 27. nóvember 1998, án þess að nákvæmrar fjárhæðar sé getið eða tilefni greiðslunnar skýrt nánar. Þá komi fram í lok verknaðarlýsingarinnar einhver ótilgreind fjárhæð sem teljist tekjur af hlutareign ákærða í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. án þess að nokkur frekari grein sé gerð fyrir afskiptum eða tengslum síðastgreinda félagsins við umræddar greiðslur eða ákærða.

Framangreind rök telur ákærði Jón Ásgeir að eigi að leiða til þess að ákæruliðnum verði vísað frá dómi.

Við mat á því, hvort þessi ákæruliður fullnægi kröfum laga um skýrleika ber að líta til þess að 1. janúar 2009 tóku gildi lög nr. 88/2008, sem felldu lög nr. 19/1991 úr gildi. Þótt ákæra hafi verið gefin út á gildistíma síðarnefndu laganna ber með vísan til 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis II með lögunum að líta svo á að beita beri 152. gr. laga nr. 88/2008 um þær kröfur sem gera á til efnis ákæru. Ákvæði 116. gr. laga nr. 19/1991 um efni ákæru svara að mestu til 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, en í síðarnefndu lagagreininni er þó hnykkt á því að efni ákæru skuli vera svo glöggt sem verða má. Auk þess er þar að finna ákvæði, sem heimilar ákæruvaldinu í ákveðnum tilvikum að tefla fram í ákærunni röksemdum sem málsókn er reist á. Verður lagt til grundvallar að gera eigi sambærilegar kröfur til skýrleika ákæru samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og gera bar samkvæmt eldri lögum.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort ákæruliður I.1.A. fullnægi þeim kröfum, sem gera á samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru, verður að lesa hin tilvitnuðu orð stafliðarins í samhengi við upphafsákvæði þessa kafla ákærunnar. Þar er gerð grein fyrir því að ákærði Jón Ásgeir sé borinn sökum um meiriháttar brot á skattalögum vegna eigin skattskila með því að skila röngum skattframtölum á árunum 1999 til 2003. Í 1. tölulið er sakargiftum vegna tekjuársins 1998, það er því sem sagt er vantalið á skattframtali 1999, lýst svo: ,,Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 1999 fjármagnstekjur sínar um samtals kr. 11.784.344 og hafa með því komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 1.178.434,“ sem sundurliðist með þeim hætti sem lýst sé í ákærulið A.

Þegar liður I.1.A. er lesinn í samhengi, fyrst upphafstextinn, þá 1. töluliðurinn og síðan textinn í A. lið, sem tilfærður er að ofan, er ljóst hvaða sakir eru þar bornar á ákærða Jón Ásgeir, hverjar fjárhæðirnar séu og hvenær þær hafi verið greiddar. Þótt orða hefði mátt lýsingu í A. liðnum skýrar fer ekki á milli mála að ákæran uppfyllir að þessu leyti þær kröfur til skýrleika sem gerðar eru í 152. gr. laga nr. 88/2008. Vörn ákærða verður ekki áfátt vegna þeirra agnúa, sem um ræðir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laganna. Kröfu um frávísun þessa ákæruliðar verður því hafnað.

2

Þá krefst ákærði Jón Ásgeir þess að öllum þáttum í ákærulið III.1. verði vísað frá héraðsdómi. Hann rökstyður þá kröfu svo að sundurliðun fjárhæða, sem fram komi í þessum lið ákærunnar, fullnægi ekki áskilnaði laga nr. 88/2008, um skýrleika ákæru. Hann geti með engu móti ráðið af henni hvaða ætlaða saknæma háttsemi hans eigi að búa að baki hverri fjárhæð á hverju tímabili, sem tilgreint sé í ákærunni. Sé til dæmis með öllu óljóst á hvaða tímabili ákærði á að hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna, afhendingar á bifreið og húsgögnum auk greiðslu félagsins á líftryggingariðgjaldi í þágu sína og þriggja annarra stjórnenda félagsins. Þá sé einnig með öllu óljóst hvaða fjárhæðir tengist launagreiðslu, afhendingu á bifreið og húsgögnum eða greiðslu á líftryggingariðgjaldi, sem og hver hafi verið móttakandi umræddra greiðslna. Loks bæti ekki úr skák að ákæruvaldið hafi ákveðið að una héraðsdómi að hluta vegna III. kafla ákærunnar. Engin leið sé að ráða það af ákæru hvar tölulegar breytingar verði milli mánaða, ára og heildarsamtölu vegna þeirra atvika sem um er fjallað í ákæruliðnum og ákæruvaldið hefur kosið að una.

Þá bendir ákærði Jón Ásgeir á að fram hafi komið hjá ákæruvaldinu við skýrslutöku í málinu að meðal gagna málsins sé ,,lykill að ákærunni“. Til að skilja efni hennar og þar með sakargiftirnar þurfi því að nota slíkan ,,lykil“. Í þessu felist yfirlýsing af hálfu ákæruvaldsins um að verknaðarlýsing í ákærunni uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika sem Hæstiréttur hafi kveðið á um í framangreindum dómi í máli nr. 420/2005. Ákæruvaldið lýsi því yfir að ákærði geti ekki af ákærunni einni ráðið hver sé hin refsiverða háttsemi sem hann eigi að hafa viðhaft.

Einnig bendir ákærði Jón Ásgeir á að fullyrðing ákæruvaldsins um að notkun á svonefndum lykli nægi til þess að átta sig á sakargiftum sé auk þess ekki rétt.

Í þessum lið ákærunnar er ákærða Jóni Ásgeiri gefið að sök ,,meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa á árunum 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002, skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið, sem þá hét Baugur hf., þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla voru vantalin og hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, vegna launagreiðslna, afhendingar á bifreið og húsgögnum auk greiðslna félagsins á líftryggingariðgjaldi í þágu ákærða Jóns Ásgeirs og þriggja annarra stjórnenda og starfsmanna þess“. Samtals hafi hin vantöldu laun numið 27.631.277 krónum og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals 10.633.204 krónum, og sundurliðist sem þar greinir. Sundurliðunin er sett upp á þann hátt, að tiltekið er sérstaklega hverjar hafi verið fjárhæðir vantaldra launagreiðslna í hverjum mánuði og vangoldin staðgreiðsla í þeim sama mánuði, sem skipt er niður eftir árum, og innan hvers árs er hver mánuður tiltekinn, eftir því sem við á. Sundurliðunina verður að meta í því ljósi að í síðast tilvitnuðum texta ákærunnar kemur fram að hinar vantöldu fjárhæðir og vangoldnu gjöld séu vegna launagreiðslna, afhendingar á bifreið og húsgögnum, auk greiðslna félagsins á líftryggingariðgjaldi í þágu ákærða Jóns Ásgeirs og þriggja annarra stjórnenda og starfsmanna félagsins. Í þessu felst greining á vantöldum greiðslum eftir eðli þeirra, þótt hún sé ekki sérgreind á tölulegu yfirliti.

Þótt hinar vantöldu greiðslur séu ekki flokkaðar eftir viðtakanda þeirra leiðir það ekki til þess að ákæran teljist ekki fullnægja þeim kröfum sem leiddar verða af 152. gr. laga nr. 88/2008. Hefur lengi tíðkast að haga ákæru með þessum hætti þegar sakir lúta að ætluðum vanhöldum á framtali launagreiðslna og vangoldinni staðgreiðslu opinberra gjalda af þeim. Ekki var þörf á annarri sundurliðun eftir eðli greiðslnanna en þeirri, sem fram kemur í hinum tilvitnaða texta og getið hefur verið. Var ekki hætta á að vörnum ákærða yrði áfátt að þessu leyti, þótt ákæru hafi verið hagað með fyrrgreindum hætti, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið lýst því yfir að það uni niðurstöðu héraðsdóms um sýknu vegna ákæruefna sem tengjast vantöldum hlunnindum af greiðslu Baugs hf. á líftryggingariðgjöldum ákærða Jóns Ásgeirs og annarra lykilstarfsmanna. Því til samræmis hefur ákæruvaldið lagt fyrir Hæstarétt með greinargerð sinni nýtt yfirlit þar sem greiðslur sem það ætlar vantaldar eru tíundaðar bæði eftir eðli þeirra og fjárhæðum innan einstakra mánaða.

Samkvæmt framansögðu fer tilgreining sakargifta í þessum ákærulið ekki í bága við framangreind lagaákvæði. Þá getur enginn vafi leikið á hver sakarefnin samkvæmt þessum ákærulið eru, sem ágreiningur er um fyrir Hæstarétti. Verður kröfu um frávísun þessa ákæruliðar því hafnað.

3

Loks krefst ákærði Jón Ásgeir þess að öllum þáttum í ákærulið IV.1. verði vísað frá héraðsdómi.

Í þessum ákærulið er honum gefið að sök meiri háttar brot á skattalögum í rekstri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en hann hafi verið starfandi framkvæmdastjóri félagsins til 27. ágúst 1999 og stjórnarmaður þess. Sakargiftir lúta að því að ákærði hafi gerst sekur um tilgreint brot með því að hafa skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið vegna mánaðanna janúar, febrúar, mars, maí, júní og júlí 1999. Á skilagreinunum hafi greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla verið vantalin og ákærði hafi látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga nr. 45/1987 ,,vegna launagreiðslna og bifreiðahlunninda til starfsmanns félagsins“. Í ákærunni eru fjárhæðir ætlaðra vantalinna launagreiðslna og vangoldinnar staðgreiðslu tilgreindar fyrir hvern mánuð. 

Ákærði Jón Ásgeir bendir á að framsetning þessa ákæruliðar sé með sama hætti og í ákærulið III.1. og því eigi hér við öll hin sömu rök og sett séu fram til stuðnings kröfu hans um frávísun. Geti hann ekki ráðið í sakargiftirnar af ákærunni einni saman, en í henni komi ekki fram hvaða fjárhæðir tengist launagreiðslum annars vegar og bifreiðahlunnindum hins vegar.

Fyrir Hæstarétti hafi ákæruvaldið lýst því yfir að það uni niðurstöðu héraðsdóms um sýknu af vantöldum bifreiðahlunnindum. Engin breyting hafi þó verið gerð á þeim hluta ákæruliðarins sem snýr að bifreiðahlunnindum. Í því sambandi bendir ákærði Jón Ásgeir á að í yfirliti ákæruvaldsins sem fylgi greinargerð þess til Hæstaréttar sé strikað yfir dálka sem merktir séu A og ,,bifreiðahlunnindi“. A sé þó hvergi nefndur í ákærunni og í nefndu yfirliti sé engin tilraun gerð til þess að skilja á milli vantalinna launagreiðslna, sem ákærða Jóni Ásgeiri sé ætlað að bera ábyrgð á, og vantalinna launagreiðslna sem öðrum sé ætlað að bera ábyrgð á. Eigi þessi óskýrleiki í ákærulið IV.1. að leiða til frávísunar hans.

Í ákærulið IV.1. er ákærða Jóni Ásgeiri, sem sagður er hafa verið starfandi framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. áðurnefnt tímabil, gefið að sök meiri háttar brot á skattalögum á þann veg sem lýst er að framan. Hinar vantöldu launagreiðslur og bifreiðahlunnindi hafi verið til starfsmanns félagsins. Hinar ætluðu vantöldu greiðslur og samtala þeirra eru tilgreindar eftir greiðslumánuði og hið sama gildir um vangoldna staðgreiðslu af þeim.

Framsetning sakargifta í þessum ákærulið er hefðbundin og nægilega skýr til þess að ákærði geti ráðið af ákærunni hverjar ætlaðar sakir hans séu. Ákæran fullnægir að þessu leyti kröfum sem leiða má af 152. gr. laga nr. 88/2008. Verður frávísunarkröfu vegna þessa ákæruliðar því hafnað.

II

Ákærði Tryggvi krefst þess að ákærulið III.2. verði vísað frá héraðsdómi. Hann tilfærir þau rök fyrir frávísunarkröfunni að samkvæmt 152. gr. laga nr. 88/2008, einkum c. og d. lið hennar, skuli meðal annars tilgreint hver sú háttsemi sé sem ákært er út af. Í athugasemdum með greininni í frumvarpi því, sem varð að lögunum, sé vísað til samanburðar við ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann kveður vandséð, að ekki yrði vísað frá dómi einkamáli þar sem stefna væri þeim annmörkum háð sem III. hluti ákæru sé haldinn. Nægi þar að nefna að hvorki sé nokkur tilgreining á því hver þau líftryggingariðgjöld séu, sem sögð eru vantalin, hvaða starfsmenn Baugs hf. hafi átt í hlut, né heldur hver hafi hlotið þær 8.028.617 krónur sem myndi lungann úr ákæruliðnum að því er varðar þennan ákærða. Þessir vankantar á ákærunni geri ákærða ómögulegt að taka til varna nema með hreinum ágiskunum.

Í þessum ákærulið, sem er að formi til eins upp settur og ákæruliður III.1., sem fjallað er um að framan, er ákært fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og því lýst efnislega með sama hætti og broti ákærða Jóns Ásgeirs í ákærulið III.1. Sá er þó munur á að einungis er sagt að um sé að ræða launagreiðslur og greiðslur félagsins á líftryggingariðgjöldum í tilviki ákærða Tryggva að því er hann varðar og tvo aðra stjórnendur og starfsmenn félagsins. Tímabilið sem um ræðir er frá maí 2002 til nóvember sama ár og eru fjárhæðir vantaldra launa sagðar vera 8.400.620 krónur og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda af þeim sögð samtals 3.237.598 krónur.

Sá háttur, sem hafður er á framsetningu sakargifta í þessum ákærulið er, eins og áður greinir, hefðbundinn þegar um sambærileg brot er að ræða. Ekki er venja að sundurliða fjárhæðir eftir viðtakendum greiðslna. Ákærða mátti vera ljóst hvaða sakir voru á hann bornar í ákærunni og var enginn hætta á að vörnum hans yrði áfátt af þessum ástæðum, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Ákæruvaldið unir niðurstöðu héraðsdóms um sýknu af sakargiftum vegna vantalinna líftryggingariðgjalda og ætlaðrar vangoldinnar staðgreiðslu af þeim. Þá hefur ákæruvaldið lagt fyrir Hæstarétt með greinargerð sinni yfirlit þar sem fram kemur sú eina greiðsla, sem sakargiftir eru nú reistar á.

Verður kröfu ákærða Tryggva um frávísun þessa ákæruliðar hafnað.

III

1

Ákærða Kristín krefst þess að öllum þáttum ákæruliðar IV.2., sem ekki var sýknað af í héraði, verði vísað frá héraðsdómi.

Í héraðsdómi var ákærða sýknuð af tveimur þáttum þessa ákæruliðar, en þeir tóku til vantalinna bifreiðahlunninda ákærða Jóns Ásgeirs og bifreiðahlunninda A og vangoldinnar staðgreiðslu af þessum hlunnindum. Ákæruvaldið unir sýknudómi um vantalin bifreiðahlunnindi A, en krefst sakfellingar á vantöldum bifreiðahlunnindum ákærða Jóns Ásgeirs.

Með vísan til framangreindra röksemda um að framsetning sakargifta sé hefðbundin, bæði í texta í ákærulið IV.2. og sundurliðun í yfirliti þar sem tilteknar eru vantaldar launagreiðslur í einum dálki og vangoldin staðgreiðsla í öðrum, sundurliðaðar eftir mánuðum og samtölur tilgreindar fyrir hvert ár, auk niðurstöðutölu fyrir hvern dálk, mátti ákærðu vera ljóst hvaða sakir væru á hana bornar. Engin hætta var á að vörnum hennar yrði áfátt vegna þessarar framsetningar ákærunnar, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt með greinargerð sinni nýtt yfirlit þar sem er að finna sundurliðun eftir viðtakanda greiðslna í þeim þáttum sem um er deilt hér fyrir dómi. Á hinn bóginn er ljóst að ákæruefnið í þessum lið þar sem ákært er fyrir að hafa vantalið tilgreinda greiðslu til ákærða Jóns Ásgeirs í janúar 2001 og ekki haldið eftir staðgreiðslu af henni samrýmist ekki sakargiftum í ákærulið I.4.B.b. þar sem hann er ákærður fyrir að hafa ekki talið fram sem tekjur af hlutareign sinni í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. sömu fjárhæð og vanrækt að greiða af henni fjármagnstekjuskatt. Í þessu felst ekki að ákæruliður IV.2. sé ekki nægilega skýr enda ljóst hverjar sakargiftirnar eru. Misræmið kemur á hinn bóginn til úrlausnar, þegar fjallað verður efnislega um ákæruliðinn.

Samkvæmt framansögðu verður kröfu ákærðu Kristínar um frávísun á þessum ákærulið hafnað.

2

Þá krefst ákærða Kristín frávísunar á sakargiftum sem tilgreindar eru í ákærulið IV.3.a.

Í ákærunni er sakargiftum að þessu leyti lýst svo að málið sé höfðað: ,,3. Á hendur ákærðu Kristínu ... fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngu skattframtali fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. gjaldaárið 2001, vegna 2000, þar sem tekjur félagsins, sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, voru rangfærðar sem hér segir; a) með því að vantelja til tekna söluhagnað af viðskiptum félagsins með hlutabréf í Baugi hf. á árinu 2000, um kr. 916.105.197 ... .“

Ákærða styður frávísunarkröfu sína þeim rökum að verknaðarlýsing í ákæru að þessu leyti uppfylli ekki þær kröfur sem gera verði og að henni sé ómögulegt að átta sig á sakargiftum og þar með taka til varna með fullnægjandi hætti. Gerir ákærða einkum athugasemdir við að ekki sé í ákærunni að finna nánari sundurliðun eða tilgreiningu á umræddri fjárhæð. Hvorki sé tekið fram hvernig ætlaður söluhagnaður sé reiknaður né vegna hvaða viðskipta hann eigi að hafa stofnast.

Ákærðu er, eins og fram er komið, gefið að sök að hafa skilað röngu skattframtali gjaldárið 2001 fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. sem hún var framkvæmdastjóri fyrir. Er tíundað í ákærunni hvaða háttsemi sé talin refsiverð og gegn hvaða refsilagaákvæði sé brotið. Um sé að ræða vantalinn söluhagnað af viðskiptum Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. með hlutabréf í Baugi hf. á árinu 2000, sem numið hafi 916.105.197 krónum.

Verknaðarlýsing í ákærunni er hér auðskilin og þótt fjárhæðir séu ekki sundurliðaðar eða skýrðar nánar, leiðir það ekki til þess að sakargiftir teljist óljósar svo að í bága fari við 152. gr. laga nr. 88/2008. Voru engin vandkvæði fyrir ákærðu Kristínu að taka til varna gegn þessum sakargiftum, sbr. 180. gr. laganna. Verður frávísunarkröfu um þessar sakir því hafnað.

IV

Ákærði Jón Ásgeir heldur fram til stuðnings því að vísa eigi sakargiftum í I. hluta ákærunnar frá héraðsdómi og jafnframt heldur ákærði Tryggvi því fram að það eigi að varða sýknu að höfðun sakamáls á hendur þeim tveimur hafi falið í sér gróft brot á jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þrír menn hafi skipað framkvæmdastjórn Baugs hf. á þeim tíma sem rannsókn máls þessa taki til, ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi og Á. Einn þeirra sé ekki ákærður í máli þessu, þótt þær greiðslur, sem til hans gengu persónulega, séu síst minnstar. Fram komi í bréfaskiptum ríkissaksóknara og saksóknara efnahagsbrota frá desember 2008 að það sé mat hins síðarnefnda, sem fram komi í bréfi hans til ríkissaksóknara 15. þess mánaðar, að færa megi sönnur á að Á hafi vantalið tekjur vegna ársins 1999 um 93.511.298 krónur, enda hafi hann viðurkennt brotið með því að skila leiðréttu skattframtali í samræmi við það. Þrátt fyrir þetta hafi Á ekki verið ákærður. Telja ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi að eins og saksókn sé háttað í málinu sé um svo augljósa og hróplega mismunun að ræða að ekki verði við unað. Telja þeir að engin rök hafi verið sett fram sem réttlætt geti, eða skýrt á haldbæran hátt, af hverju þeir sæti ákæru en ekki Á. Vekja þeir athygli á að mál Á hafi verið rannsakað í sömu rannsókn ríkislögreglustjóra og þeirra mál og hafi hún beinst að sömu atvikum. Þeir benda á að ákæruvaldið sé, við töku ákvörðunar um hvort gefa skuli út ákæru, meðal annars bundið af  jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Framangreindum meginreglum um að gætt skuli jafnræðis hafi ekki verið fylgt. Í því felist svo bersýnilegir annarmarkar á ákæru að vísa beri I. hluta hennar frá dómi, sbr. 1. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákærða Tryggva er lögð áhersla á að þessi ætlaði annmarki á málatilbúnaði ákæruvaldsins eigi að leiða til sýknu eða að minnsta kosti að hafa áhrif á ákvörðun refsingar ef til slíks kemur.

Af gögnum málsins má sjá að upphaflega hafi Á ásamt ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva sætt rannsókn lögreglu og síðar skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna skattskila sinna. Einungis Jón Ásgeir og Tryggvi hafa verið ákærðir.

Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærandi, er hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn þess sé lokið. Telji hann þess þörf óskar hann eftir frekari rannsókn málsins, en tekur ella ákvörðun um hvort sækja skuli sakborning til sakar. Við þá ákvörðun ber að gæta jafnræðis svo sem ótvírætt leiðir af reglu 142. gr. laganna. Ákvörðun ákæranda, sem að framan greinir, er hluti af meðferð hans á valdheimildum sem honum eru fengnar að lögum. Sú ákvörðun getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn þessa máls, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. mars 2011 í máli nr. 71/2010. Verður því hafnað röksemdum ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva um að ætlað brot á jafnræðisreglu eigi að leiða til frávísunar málsins að hluta eða sýknu eða hafa áhrif á ákvörðun refsingar.

V

Sakargiftir í I. hluta ákærunnar beinast að ákærða Jóni Ásgeiri vegna eigin skattskila hans á tekjuárunum 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002.

1

Fallist er á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt ákæruliðum I.2.A.b. og I.3.A.b. Þá er sannað að greiðslur, sem greinir í ákærulið I.1.A., samtals að fjárhæð 11.784.344 krónur, séu tekjur af hlutareign ákærða Jóns Ásgeirs í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. vegna eignarhluta þess félags í Baugi hf., eiganda Bónus sf. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu á sakargiftum í þessum ákærulið. Er háttsemin í þessum þremur ákæruliðum réttilega færð til refsiákvæða.

2

Í ákæruliðum I.3.A.c., I.4.A.b. og I.5.A.b. er ákærða Jóni Ásgeiri gefið að sök meiri háttar brot á skattalögum með því að hafa í skattframtölum sínum 2001, 2002 og 2003 vantalið launatekjur sínar í formi skattskyldra bifreiðahlunninda samkvæmt mati ríkisskattstjóra og með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts. Hinar vantöldu launatekjur í formi bifreiðahlunninda taka til bifreiðarinnar OD-090 af gerðinni Jeep Grand Cherokee á tekjuárunum 2000, 2001 og 2002, svo og bifreiðarinnar NT-107 af gerðinni Hummer HMC4 og bifreiðarinnar TS-378 af gerðinni Porsche 911, beggja síðarnefndu bifreiðanna vegna tekjuáranna 2001 og 2002. Framangreindar bifreiðar voru allar í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. en ákærði Jón Ásgeir er í ákæru sagður hafa verið starfandi framkvæmdastjóri þess félags fram til 27. ágúst 1999 en ákærða Kristín framkvæmdastjóri frá þeim degi og allt það tímabil sem ákæra vegna þessara bifreiðahlunninda tekur til. Ákærði Jón Ásgeir var í stjórn félagsins á árunum 2000 til 2002.

Fram er komið að B, fyrrverandi eiginkona ákærða Jóns Ásgeirs, hafi haft full afnot bifreiðarinnar OD-090 á árunum 2000, 2001 og 2002, en bifreiðinni var afsalað frá Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. til hennar 16. október síðastgreint ár. Í skýrslu fyrir héraðsdómi upplýsti vitnið C að hann hafi verið formaður stjórnar félagsins á árunum 1998 til 2002. Hann kvað afnot B þannig til komin að hún hafi verið fyrrverandi eiginkona ákærða Jóns Ásgeirs og hafi sér fundist ,,það ekkert óeðlilegt þannig að hún var hluthafi í félaginu og ... þar af leiðandi ekkert óeðlilegt að hún hefði einhver hlunnindi af því.“ Gögn málsins renna ekki að öðru leyti stoðum undir að B hafi persónulega átt hlut í félaginu. Á hinn bóginn var fjárslitum milli hennar og ákærða Jóns Ásgeirs ólokið lengst af þeim tíma, sem hér um ræðir. Leggja verður til grundvallar að B hafi ekki verið starfsmaður félagsins. Af hálfu ákæruvaldsins er krafa um skattskyldu ákærða Jóns Ásgeirs vegna þessara hlunninda á því reist að B hafi ekki verið í neins konar ,,launasambandi við Fjárfestingafélagið Gaum ehf.“ heldur hafi hún haft afnot bifreiðarinnar vegna hlunninda sem ákærði Jón Ásgeir hafi tekið sér hjá félaginu.

Í 1. tölulið A. liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. síðar hliðstætt ákvæði í 1. tölulið A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, er kveðið á um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Í töluliðnum eru nefnd í dæmaskyni ýmiss konar laun svo og ,,fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi ... Hvorki skiptir máli hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða í vinnuskiptum.“ Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna, sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir slík skattskyld hlunnindi launamanna falla samkvæmt þessari reglu afnot þeirra af bifreiðum, svonefnd bifreiðahlunnindi. Þótt fallist yrði á með ákæruvaldinu að á ákærða Jóni Ásgeiri gæti samkvæmt framangreindu hvílt skattskylda vegna nota fyrrverandi eiginkonu hans af bifreið í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. verður ákæruvaldið í sakamáli eins og þessu að sanna að not hennar af bifreiðinni séu til komin vegna hlunninda sem ákærði hafi tekið sér hjá félaginu, eða fengið sem greiðslu fyrir vinnuframlag sitt þar. Jafnframt verður að sanna að ákærði hafi stöðu sinnar vegna átt kost á ótakmörkuðum endurgjaldslausum umráðum bifreiðarinnar. Sú sönnun hefur ekki tekist, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, og verður í því sambandi einnig að líta til framburðar Jóhannesar Jónssonar, stjórnarformanns félagsins, fyrir dómi um að hann hefði ,,náttúrulega með ... að gera“ umráð bifreiðarinnar og annarra bifreiða félagsins. Verður ákærði því sýknaður af þessum sakargiftum.

Fyrir liggur að bifreiðin NT-107 af gerðinni Hummer HMC4 árgerð 1996 var lítt ökufær á árunum 2001 og 2002. Bifreiðin varð eign Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. 6. apríl 2001 og notkun hennar á forræði félagsins fram á árið 2004. Upplýst er að bifreiðin var í geymsluhúsnæði á vegum félagsins og að bæði ákærði Jóns Ásgeir og vitnið C munu á þessum tíma hafa haft aðgang að geymslunni. Ákærði Jón Ásgeir mun á þessum tíma hafa átt sjálfur nokkrar bifreiðar. Fullyrt er af hans hálfu að hann hafi verið skráður fyrir fjórum bifreiðum á árinu 2001 og á skattframtali hans 2003 er hann skráður fyrir fjórum bifreiðum 31. desember 2002. Liggur ekki fyrir að ákærði Jón Ásgeir hafi notað eða átt þess kost að nota bifreiðina NT-107 á þeim tíma, sem um ræðir. Hefur af hálfu ákæruvaldsins ekki verið sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að réttur til endurgjaldslausra nota af þessari bifreið hafi verið meðal þeirra greiðslna sem ákærði fékk sem endurgjald fyrir starf sitt í þágu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Skortir á að skilyrðum 1. mgr. 1. töluliðar A. í 7. gr. laga nr. 75/1981 sé fullnægt og verður ákærði því sýknaður af þessum sakargiftum.

Bifreiðin TS-378 af gerðinni Porsche 911 var fyrst skráð hér á landi 11. október 2000. Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. eignaðist bifreiðina 25. júní 2001 og var skráður eigandi hennar fram á árið 2005. Ákærði Jón Ásgeir og vitnið C fullyrða að bifreiðin hafi verið keypt sem fjárfesting. Í málinu er að öðru leyti ekkert því til stuðnings. Geymslu bifreiðarinnar á árunum 2001 og 2002 var, eftir því sem upplýst er, hagað með sama hætti og áður er lýst um bifreiðina NT-107. Fullyrðingum ákærða Jóns Ásgeirs um að notkun bifreiðarinnar á þeim tíma, sem hér skiptir máli, hafi verið hverfandi hefur ekki verið hnekkt. Verður heldur ekki talið, miðað við þær kröfur sem gera verður samkvæmt 109. gr. laga nr. 88/2008, að sannað sé að hlunnindi vegna möguleika til ótakmarkaðra, endurgjaldslausra afnota bifreiðarinnar TS-378 hafi verið hluti þess endurgjalds, sem ákærði Jón Ásgeir fékk fyrir starf sitt í þágu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

Samkvæmt framansögðu er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sýkna ákærða Jón Ásgeir af sakargiftum í ákæruliðum I.3.A.c., I.4.A.b. og I.5.A.b.

3

Í ákæruliðum I.4.B.a. og I.5.B. eru ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök meiri háttar brot á skattalögum á tekjuárunum 2001 og 2002 með því að hafa í fyrra tilvikinu vantalið söluhagnað vegna sölu sinnar á hlutabréfum í Baugi hf. á árinu 1999 þegar stofnverð bréfanna hafi verið tilgreint of hátt í skattframtali hans og söluhagnaður þeirra að sama skapi vantalinn um 7.942.364 krónur. Miðað er við í þessum ákærulið, I.4.B.a., að tekjufærslu söluhagnaðar hafi verið frestað um tvenn áramót, sbr. heimild í 6. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, og kveður ákæruvaldið það vera í samræmi við kröfu ákærða fyrir yfirskattanefnd. Í síðarnefnda ákæruliðnum, I.5.B., er ákærði sakaður um að hafa vantalið söluhagnað vegna sölu á hlutabréfum í Baugi hf. árið 2002 með því að stofnverð bréfanna hafi verið tilgreint of hátt í skattframtali hans 2003 og söluhagnaðurinn af þeim að sama skapi vantalinn um sem nemur 70.348.204 krónum.

Héraðsdómur sýknaði ákærða af þeim sökum sem hann er borinn í þessum ákæruliðum. Fyrir Hæstarétti krefst ákæruvaldið sakfellingar samkvæmt þeim.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi var stofnverð hlutabréfa ákærða í Baugi hf. ranglega tilgreint við útreikning söluhagnaðar hans af þeim á árunum 1999 og 2002. Var í báðum tilvikum miðað við annað og hærra stofnverð, en rétt var. Ákærði Jón Ásgeir kveðst ekki hafa gert skattframtal sitt sjálfur fyrir þau ár, sem um ræðir. Hann hafi falið það verk kunnáttumönnum sem hann hafi treyst. Hann staðhæfir að hann hafi aldrei gefið þeim fyrirmæli um að vantelja söluhagnað af hlutabréfunum. Um hafi verið að ræða D, sem unnið hafi að skattframtali fyrir ákærða Jón Ásgeir í samráði við Ð endurskoðanda. Í skýrslu fyrir dómi staðfesti D vinnu sína við framtalsgerðina en kvaðst þó ekki hafa reiknað út stofnverð hlutabréfanna. Í skýrslu Ð fyrir dómi staðfesti hann að villa hefði orðið við útreikning stofnverðsins. Notaður hefði verið stuðull, sem gilt hafi fyrir útgáfu jöfnunarhlutabréfa, en ekki stuðull sem nota átti eftir útgáfuna. Sagði Ð að þar hafi þeim orðið á mistök.

Þótt ákærði hafi falið kunnáttumönnum að annast gerð skattframtals fyrir sig leysir það hann ekki undan ábyrgð á skattskilum sínum, enda hvílir framtalsskyldan að lögum á honum sjálfum, sbr. 2. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, nú 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003. Þau skilyrði refsinæmis eru tiltekin í 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, að rangt eða villandi sé talið fram vegna ásetnings eða stórfellds hirðuleysis framteljanda. Skilyrði 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem til er vísað í síðast tilvitnuðum ákvæðum, eru með sama hætti ásetningur eða stórfellt gáleysi.

Í málinu er ekki upplýst til fulls, þrátt fyrir framangreindan framburð Ð, hver var ástæða þess að notaður var rangur stuðull við útreikning stofnverðs hlutabréfanna við söluna 30. nóvember 1999. Baugur hf. varð til við samruna nokkurra félaga á árinu 1998. Ákærði Jón Ásgeir átti hluti í Gaumi ehf., og við skiptingu félagsins rann hluti þess til Eignarhaldsfélagsins Gaums ehf., sem síðar var sameinað Baugi hf. Stofnverð hluta ákærða í Baugi hf. átti samkvæmt 56. gr. A. í lögum nr. 75/1981 að vera jafnt stofnverði þeirra hluta, sem hann átti í Eignarhaldsfélaginu Gaumi ehf. og lét af hendi við samrunann. Við skattskil vegna sölunnar í nóvember 1999 var stofnverð hlutabréfanna tilgreint jafnt nafnverði þeirra og söluhagnaður talinn vera 111.928.000 krónur í stað þess að ef notaður hefði verið réttur stuðull við útreikning stofnverðs bréfanna hefði fram talinn söluhagnaður átt að vera 119.870.364 krónur. Mismunurinn nemur 7.942.364 krónum.

Um síðari söluna 10. september 2002 liggur fyrir að ástæða þess að stofnverð hlutabréfanna var ranglega tilgreint var sú að ekki var tekið tillit til jöfnunarhlutabréfa, sem út höfðu verið gefin fyrr á því ári. Í skattframtali ákærða Jóns Ásgeirs vegna þessa er tap af sölu hlutabréfanna sagt vera 14.400.000 krónur, í stað þess að ef notaður hefði verið réttur stuðull við útreikning stofnverðs bréfanna hefði reiknaður og framtalinn söluhagnaður átt að vera 70.348.204 krónur. Söluverð hlutabréfanna nam 78.400.000 krónum.

Ákærði Jón Ásgeir var framkvæmdastjóri Baugs hf. frá stofnun 2. júlí 1998 til 30. maí 2002. Honum hlaut að vera vel kunnugt um hvernig ákvarða skyldi stofnverð hlutabréfa í félaginu, ekki síst vegna verulegra breytinga sem á því hlutu að verða við útgáfu jöfnunarhlutabréfa á árinu 2002. Samkvæmt því og jafnframt að teknu tilliti til þess hve háar fjárhæðir var um að tefla, einkum í samanburði við söluverð hlutabréfanna í báðum tilvikum, verður að leggja til grundvallar að það hafi verið stórkostlegt hirðuleysi af hans hálfu að gera sér ekki grein fyrir því að söluhagnaður var verulega vantalinn í þessum tilvikum. Niðurstaða þessi er reist á mati á því hvaða kröfur hafi mátt gera til ákærða Jóns Ásgeirs um vitneskju er varðar stofnverð hlutabréfanna, en ekki á endurskoðun á mati héraðsdóms á munnlegum framburði fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Verður ákærði því sakfelldur fyrir að vantelja fjármagnstekjur sínar, sem skattskyldar voru samkvæmt 4. tölulið C. liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, á þann hátt sem hann er ákærður fyrir í liðum I.4.B.a. og I.5.B. Verður einnig lagt til grundvallar, eins og gert er í ákæru, að skattlagningu söluhagnaðar vegna sölunnar 30. nóvember 1999 hafi verið frestað um tvenn áramót og því hafi ákærði vantalið þennan söluhagnað á árinu 2002, sbr. 6. mgr. 17. gr. síðastgreindra laga. Brot ákærða samkvæmt þessum ákæruliðum teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

4

Fallist er á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um ákærulið I.4.B.b. og er brot ákærða Jóns Ásgeirs þar réttilega fært til refsiákvæða, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

VI

Sakargiftir í ákærulið II. beinast að ákærða Tryggva vegna eigin skattskila hans. Er ákært í þessum lið fyrir meiri háttar brot á skattalögum með því að ákærði hafi skilað röngum skattframtölum á árunum 1999, 2000, 2001, 2002 og 2003 þar sem hann á að hafa vantalið skattskyldar tekjur samkvæmt 1. mgr. 1. töluliðar A. liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 90/2003, sbr. og 19. og 20. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, og hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts framangreind ár að þeirri fjárhæð sem tilgreind er í ákæru.

Fyrir Hæstarétti er til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms í fyrsta lagi um ákærulið II.1. um ætlaðar vantaldar tekjur ákærða Tryggva á tekjuárinu 1998 í formi starfstengdrar upphafsgreiðslu að fjárhæð 5.000.000 krónur frá Baugi hf. sem í ákæru er sögð hafa verið innt af hendi 31. desember 1999. Í öðru lagi niðurstaða dómsins um ákærulið II.2.b. vegna ætlaðra vantalinna tekna af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum í Baugi hf. sem ákærði er sagður hafa öðlast vegna starfa fyrir félagið og eiga að hafa verið greiddar í júlí 1999 að fjárhæð 18.800.000 krónur. Í þriðja lagi niðurstaðan um ákærulið II.3.b. vegna ætlaðra vantalinna tekna í formi launauppbótar, svonefndrar bónusgreiðslu, frá Baugi hf. að fjárhæð 5.000.000 krónur sem sögð er hafa verið innt af hendi 31. mars 2000.

Ekki skiptir máli þótt leggja verði til grundvallar að sannað sé að ákærði Tryggvi hafi móttekið greiðslu samkvæmt ákærulið II.1. frá Bónus sf. á árinu 1998, en greiðslan síðan verið gjaldfærð hjá Baugi hf. 31. desember 1999. Sannað er að um var að ræða starfstengda greiðslu vegna upphafs starfs hans í þágu Baugs hf., sem það félag átti að greiða og sem honum bar að tíunda í skattframtali sínu en gerði ekki. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um þessa þrjá ákæruliði verður niðurstaða hans um sakfellingu af þeim staðfest. Eru brot ákærða þar réttilega færð til refsiákvæða, sbr. einnig 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

VII

Í ákærulið III. eru ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi bornir sökum um að hafa framið tiltekin brot í rekstri Baugs hf., ákærði Jón Ásgeir sem framkvæmdastjóri félagsins frá 2. júlí 1998 til 30. maí 2002 og ákærði Tryggvi sem framkvæmdastjóri þess frá síðastgreindum degi.

1

Fallist er á forsendur og þá niðurstöðu héraðsdóms um ákærulið III.1. að sakfella beri ákærða Jón Ásgeir fyrir brot á fyrirmælum 20. gr. laga nr. 45/1987, og að hann hafi unnið sér til refsingar, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga, með því að skila röngum skilagreinum staðgreiðslu vegna greiðslu Baugs hf. til ákærða Tryggva 5.000.000 krónur í desember 1998, vegna greiðslu Baugs hf. til E 5.100.000 krónur í júní 1999, vegna afhendingar á bifreið og sófasetti til Á að verðmæti 4.300.000 krónur, sem var hluti af starfslokagreiðslu hans, í árslok 1999 og vegna greiðslu til ákærða Tryggva 5.000.000 krónur í mars 2000.

2

Í ákæru er þess einnig krafist að ákærði Jón Ásgeir verði sakfelldur fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri Baugs hf. vanrækt að sjá til þess að félagið stæði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af greiðslu þess til hans sjálfs í október 2000 að fjárhæð 4.000.000 krónur. Héraðsdómur tók ekki afstöðu til þessara sakargifta, án þess að ástæður þess séu nefndar í dóminum. Ekki er önnur skýring á því en sú, sem ákæruvaldið heldur fram í greinargerð til Hæstaréttar, að um yfirsjón hafi verið að ræða. Við málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins að fallið væri frá þessum þætti í ákærulið III.1. Þegar litið er til umfangs málsins er um óverulegan annmarka á héraðsdómi að ræða, sem leiðir ekki til ómerkingar hans, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 14. janúar 1999 í máli nr. 425/1998, sem birtur er í dómasafni réttarins 1999 á síðu 74, og 30. maí 2002 í máli nr. 96/2002, sem birtur er í dómasafni réttarins 2002 á síðu 1972.

3

Í ákærulið III.2. er ákærði Tryggi borinn sökum um meiri háttar brot á skattalögum í rekstri Baugs hf. meðal annars með því að skila rangri skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið í júní 2002. Lúta einu sakargiftirnar, sem til úrlausnar eru í Hæstarétti samkvæmt þessum lið, að því að ákærði Tryggvi hafi látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslu til E 14. júní 2002 að fjárhæð 8.000.000 krónur. Er fallist á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að sakfella beri ákærða Tryggva fyrir þessar sakargiftir. Er brotið þar réttilega heimfært til refsiákvæða.

VIII

Í ákærulið IV. eru ákærðu Jón Ásgeir og Kristín borin sökum um tiltekin brot í starfsemi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Sá fyrrnefndi er ákærður sem starfandi framkvæmdastjóri félagsins til 27. ágúst 1999 og sú síðarnefnda sem framkvæmdastjóri frá þeim degi.

1

Sakargiftir í ákærulið IV.1. beinast að ákærða Jóni Ásgeiri og lúta að meiri háttar brotum á skattalögum með því að hann hafi á árinu 1999 skilað röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. þar sem greidd laun hafi verið vantalin og einnig skilaskyld staðgreiðsla og fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af því sem vantalið hafi verið. Fyrir Hæstarétti eru einungis til endurskoðunar í þessum ákærulið ætlaðar vantaldar launagreiðslur félagsins til A.

Ákærði var sakfelldur í héraðsdómi samkvæmt þessum lið og var sú niðurstaða á því reist að A hafi verið starfsmaður Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. en ekki verktaki, svo sem ákærði Jón Ásgeir hefur haldið fram.

Enginn skriflegur samningur liggur fyrir um vinnu A í þágu félagsins. Fyrir liggur að hann sinnti ýmsum viðvikum fyrir félagið eða hluthafa í því og að ákærði Jón Ásgeir hafi yfirleitt haft frumkvæði að því að fela honum einstök verkefni. Þau fólust einkum í að þrífa bíla, sem félagið átti, ýmsum snúningum, sendiferðum og öðrum íhlaupaverkum. Hann þáði ekki föst laun hjá félaginu og greiðslur til hans voru óreglulegar og byggðust á yfirlitum sem hann afhenti um unna tíma í þágu félagsins. Hann fékk greiddar 850 krónur fyrir hverja klukkustund og hafa ekki verið leiddar að því neinar líkur að þau tímalaun tengist tilteknum kjarasamningi. Bera framlögð yfirlit um vinnu hans og tíma sum með sér að innheimt hafi verið sérstaklega fyrir þrif á bifreiðum, áætlaður tími á hverja bifreið, auk tíma sem farið hafi í önnur verk. Ekkert liggur fyrir um að A hafi haft viðveruskyldu hjá félaginu eða hann hafi að lágmarki átt að vinna tiltekinn fjölda tíma á dag eða í hverri viku í þess þágu. Í skýrslu fyrir dómi neitaði hann því að á honum hafi hvílt skylda til að mæta til starfa, nema þess væri sérstaklega óskað. Hann hafi ekki haft fasta starfstöð hjá félaginu. Á þessum tíma kvaðst hann einnig hafa verið ,,svona inn og út“ úr skóla.

Af framangreindu verður ráðið að réttarsamband A og Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. hafi fremur borið einkenni verksamnings en ráðningarsamnings. Skiptir í því sambandi ekki máli, þótt A tiltæki á sumum tímaskrám að greiða skyldi ,,laun“ hans með tilteknum hætti og jafnframt að hann hafi ekki innheimt og skilað virðisaukaskatti á umkrafið endurgjald fyrir vinnu sína. Verður ákærði Jón Ásgeir að njóta þess vafa sem uppi er um eðli réttarsambandsins að þessu leyti, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Hann verður því sýknaður af þessum ákærulið.

2

Í ákæruliðum IV.2., IV.3.a. og IV.4. eru ákærðu Kristínu gefin að sök meiri háttar brot á skattalögum með því að hafa á árunum 1999, 2000, 2001 og 2002 skilað röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla hafi verið vantalin og fyrir að láta undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af hinum vantöldu launum í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987.

Í ákærulið IV.2. eru tvenns konar sakir bornar á ákærðu Kristínu, sem til úrlausnar eru fyrir Hæstarétti. Annars vegar fyrir að hafa ekki tilgreint sem laun á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið bifreiðahlunnindi ákærða Jóns Ásgeirs á árunum 2000, 2001 og 2002 og ætlaðar launagreiðslur til A fyrir september, nóvember og desember 1999 og febrúar, apríl, júní og september 2000. Hins vegar fyrir að tilgreina ekki á skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir janúar 2001 greiðslu til ákærða Jóns Ásgeirs að fjárhæð 59.200.000 krónur og vanrækja að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar.

Um fyrrnefndu sakargiftirnar vísast til þess, sem segir í 2. tölulið V. kafla dóms þessa, en þar er ákærði Jón Ásgeir sýknaður af því að hafa vantalið sem laun á skattframtali sínu þau ætluðu bifreiðahlunnindi sem um ræðir. Af því leiðir að sýkna ber ákærðu Kristínu af sakargiftum um að hafa vanrækt að tilgreina sem laun á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda ætluð bifreiðahlunnindi hans. Í 1. tölulið VIII. kafla dómsins er ákærði Jón Ásgeir sýknaður af þeim sakargiftum að hafa vanrækt að gera grein fyrir ætluðum launagreiðslum til A á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda í tengslum við greiðslu þóknunar til hans fyrir störf í þágu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Var ekki talið sannað að A hefði verið starfsmaður félagsins heldur hefði hann veitt því þjónustu sem verktaki. Með sömu rökum verður ákærða Kristín sýknuð af þeim sakargiftum sem hér um ræðir.

3

Sakargiftir á hendur ákærðu Kristínu í ákærulið IV.2. lúta, sem fyrr segir, meðal annars að því að hún hafi skilað rangri skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. fyrir janúar 2001 þar sem greidd laun til ákærða Jóns Ásgeirs að fjárhæð 59.200.000 krónur og skilaskyld staðgreiðsla af þeim að fjárhæð 22.945.920 krónur hafi verið vantalin og látið undir höfuð leggjast að standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að hinni tilgreindu fjárhæð í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga nr. 45/1987.

Sú greiðsla, sem um ræðir, var sama greiðslan og ákærða Jóni Ásgeiri er gefið að sök í ákærulið I.4.B.b. að hafa vantalið sem tekjur af hlutareign sinni í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. og hann á að hafa fengið 12. janúar 2001, en vantalið sem fjármagnstekjur og ekki greitt fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 5.920.000 krónur. Eins og greinir í 4. tölulið V. kafla dóms þessa er hann sakfelldur fyrir það brot sem honum er gefið að sök í tilgreindum ákærulið.

Sakargiftir á hendur ákærðu Kristínu samkvæmt þessum ákærulið miða við að greiðsla á 59.200.000 krónum hafi verið launagreiðsla til ákærða Jóns Ásgeirs og þar með annars eðlis en lagt er til grundvallar um sömu greiðslu í ákærulið I.4.B.b., en sem fyrr greinir er þar lagt til grundvallar að um fjármagnstekjur ákærða Jóns Ásgeirs hafi verið að ræða. Um þessa greiðslu er því innbyrðis ósamræmi í ákærunni. Ákæruvaldið hefur ekki sannað að greiðslan hafi verið innt af hendi sem launatekjur til ákærða Jóns Ásgeirs. Þá er óheimilt samkvæmt 180. gr. laga nr. 88/2008 að leggja annað eðli greiðslunnar til grundvallar en sakargiftir á hendur ákærðu Kristínu í þessum ákærulið miða við og verður hún því sýknuð af þeim.

4

Í ákærulið IV.3.a. er ákærðu Kristínu gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngu skattframtali fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. gjaldárið 2001, vegna ársins 2000, þar sem tekjur félagsins, sem skattskyldar voru samkvæmt B. lið 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú laga nr. 90/2003, hafi verið rangfærðar á þann hátt að vantalinn hafi verið til tekna söluhagnaður af viðskiptum félagsins með hlutabréf í Baugi hf. á árinu 2000 um 916.105.197 krónur.

Auk þeirra röksemda sem ákærða Kristín setti fram og gerð var grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, hefur hún fyrir Hæstarétti einkum lagt áherslu á að skattframtölum hafi fylgt ársreikningar félagsins þar sem fram hafi komið að það hefði selt hlutabréf í Baugi hf. á árinu 2000 að nafnverði 200.000.000 krónur. Hefðu því skattyfirvöld getað séð að söluhagnaði vegna hlutabréfanna hefði verið frestað.

Í efnahagsreikningi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. vegna ársins 2000 var tilgreint bókfært verð eignarhluta í skráðum félögum. Þar má sjá að bókfært verð þessara eignarhluta hafi lækkað um 725.361.000 krónur frá árinu 1999. Í tölulið 10 í skýringum með ársreikningnum var nokkur sundurliðun eftir félögum. Þar má sjá að nafnverð hlutabréfa í Baugi hf. hafi lækkað um 200.000.000 krónur. Eins og áður greinir voru skattskil félagsins röng að þessu leyti og verður fallist á með héraðsdómi, einkum í ljósi hinnar háu fjárhæðar sem söluhagnaður nam, að ákærðu Kristínu hafi borið að gera skattyfirvöldum sérstaklega grein fyrir söluhagnaðinum og að ætlunin væri að fresta því að hann kæmi til skattlagningar. Ekki verður fallist á þá röksemd ákærðu að réttar upplýsingar um fjárhæð söluhagnaðar hafi komið fram í ársreikningi félagsins þótt þar megi sjá að seld hafi verið hlutabréf í Baugi hf.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærðu Kristínu samkvæmt þessum ákærulið. Er brotið þar réttilega fært til refsiákvæða, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Í ákæru er þess ekki getið hver hinn ætlaði skattalegi ávinningur Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. hafi verið vegna þess stórkostlega hirðuleysis að tíunda ekki réttilega við skattskil ofangreindan söluhagnað. Ákæruvaldið hefur við flutning málsins fyrir Hæstarétti gert nokkra grein fyrir því hver ætla megi að ávinningurinn af brotinu hafi verið. Því hefur ákærða Kristín mótmælt og bent á rétt félagsins til þess að fresta skattlagningu söluhagnaðarins og að óvíst sé að hann hefði orðið nokkur. Verður ekki talið að ákæruvaldið hafi sannað hver hafi orðið ávinningur af brotinu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um ákærulið IV.4. staðfest.

IX

1

Samkvæmt öllu framansögðu er ákærði Jón Ásgeir sakfelldur í málinu samkvæmt eftirtöldum ákæruliðum fyrir eigin skattskil vegna þeirra fjárhæða, sem hér greinir nánar; I.1.A. fyrir að vantelja fjármagnstekjur 1999 að fjárhæð 11.784.344 krónur og standa ekki skil á fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 1.178.434 krónur; I.2.A.b. fyrir að vantelja tekjur af nýtingu kaupréttar árið 2000 að fjárhæð 18.800.000 krónur og standa ekki skil á tekjuskatti 26,41%, útsvari 11,99% og sérstökum tekjuskatti 7%, samtals að fjárhæð 8.535.200 krónur; I.3.A.b. fyrir að vantelja tekjur í formi launauppbótar 2001 að fjárhæð 4.000.000 krónur og standa ekki skil á tekjuskatti 26,41%, útsvari 11,99% og sérstökum tekjuskatti 7%, samtals að fjárhæð 1.816.000 krónur; I.4.B.a. fyrir að vantelja söluhagnað af hlutabréfum í Baugi hf. 2002 að fjárhæð 7.942.364 krónur og standa ekki skil á fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 794.236 krónur; I.4.B.b. fyrir að vantelja tekjur af hlutareign í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. að fjárhæð 59.200.000 krónur og standa ekki skil á fjármagnstekjuskatti 2002 að fjárhæð 5.920.000 krónur; I.5.B. fyrir að vantelja söluhagnað vegna sölu á hlutabréfum í Baugi hf. árið 2002 að fjárhæð 70.348.204 krónur og standa ekki skil á fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 7.034.820 krónur.

Samtals er því sakfellt fyrir að vantelja við eigin skattskil 172.074.912 krónur og standa ekki skil á 25.278.690 krónum.

Vegna ákæruliðar III.1 er ákærði Jón Ásgeir sakfelldur fyrir tilgreind brot í starfsemi Baugs hf. 1998, 1999 og 2000; fyrir að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til ákærða Tryggva sem fór fram 1998, en var bókfærð hjá félaginu 31. desember 1999, að fjárhæð 5.000.000 krónur og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu að fjárhæð 1.951.000 krónur; fyrir að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til E í júní 1999 að fjárhæð 5.100.000 krónur og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu að fjárhæð 1.955.340 krónur; fyrir að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið sem launagreiðslu til Á í desember 1999 afhendingu á bifreið og leðursófasetti samtals að fjárhæð 4.300.000 krónur og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu að fjárhæð 1.648.620 krónur; og fyrir að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslur til ákærða Tryggva í mars 2000 að fjárhæð 5.000.000 krónur og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu að fjárhæð 1.918.500 krónur.

Samtals er því ákærði Jón Ásgeir sakfelldur fyrir að vantelja í starfsemi Baugs hf. launatekjur tilgreindra manna að fjárhæð 19.400.000 krónur og standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra að fjárhæð 7.473.460 krónur.

2

Ákærði Tryggvi er í málinu sakfelldur fyrir eigin skattskil samkvæmt eftirtöldum ákæruliðum vegna þeirra fjárhæða sem hér greinir nánar; II.1. með því að vantelja launatekjur sem hann fékk greiddar á árinu 1998 á skattframtali 1999 að fjárhæð 5.000.000 krónur og standa ekki skil á tekjuskatti 27,41%, útsvari 11.24% og sérstökum tekjuskatti 7%, samtals að fjárhæð 2.282.500 krónur; II.2.b. með því að vantelja tekjur af nýtingu kaupréttar af hlutabréfum í Baugi hf. að fjárhæð 18.800.000 krónur 2001 og standa ekki skil á tekjuskatti 26,41%, útsvari 11.99% og sérstökum tekjuskatti 7%, samtals að fjárhæð 8.535.200 krónur; II.3.b með því að vantelja tekjur í formi launauppbótar, svonefndrar bónusgreiðslu, frá Baugi hf. að fjárhæð 5.000.000 krónur og standa ekki skil á tekjuskatti 26,41%, útsvari 11.99% og sérstökum tekjuskatti 7%, samtals að fjárhæð 2.270.000 krónur.

Samtals er því ákærði Tryggvi sakfelldur fyrir að vantelja í eigin skattskilum samkvæmt ákæruliðum í II. hluta ákærunnar 28.800.000 krónur og standa ekki skil á 13.087.700 krónum í opinber gjöld.

Ákærði Tryggvi er sakfelldur samkvæmt ákærulið III.2. fyrir að hafa í starfsemi Baugs hf. skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til E í júní 2002 að fjárhæð 8.000.000 krónur og ekki haldið eftir og staðið skil á staðgreiðslu sem er samtals að fjárhæð 3.083.200 krónur.

3

Ákærða Kristín er sakfelld fyrir tvenns konar brot í starfsemi Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Annars vegar samkvæmt ákærulið IV.3.a. fyrir að hafa skilað röngu skattframtali 2001 þar sem tekjur félagsins er skattskyldar voru samkvæmt B. lið 7. gr. laga nr. 75/1981, nú laga nr. 90/2003, voru vantaldar sem nam 916.105.197 krónum og hins vegar samkvæmt ákærulið IV.4. fyrir að hafa skilað röngu skattframtali 2003 þar sem oftalin var til gjalda niðurfærsla tiltekinna hlutabréfa félagsins og tap þess oftalið um 74.000.000 krónur. Tapið var yfirfæranlegt til síðari ára og nýtanlegt til lækkunar hreinna tekna félagsins.

Í ákæru er hinn skattalegi ávinningur félagsins af framangreindum brotum ákærðu Kristínar ekki tilgreindur og hefur ekki verið færð fram sönnun af hálfu ákæruvaldsins um  hverju hann geti að lágmarki numið.

X

Ákærðu eru öll samkvæmt framansögðu sakfelld fyrir meiri háttar brot á skattalögum.

Við ákvörðun refsinga fyrir brot þeirra verður að líta til hins langa tíma, sem meðferð máls þessa hefur tekið. Upphaf málsins verður rakið til húsleitar sem gerð var hjá Baugi hf. 28. ágúst 2002. Saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra sendi bréf til skattrannsóknarstjóra ríkisins 17. september 2003 vegna gruns um brot fyrirsvarsmanna Baugs hf. á skattalögum, lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn málsins 17. nóvember 2003 og tilkynnti efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra með bréfi 12. nóvember 2004 að málinu væri vísað til ,,opinberrar rannsóknar“ vegna ætlaðra brota á skattalögum og fleiri tilgreindum lögum. Rannsókn efnahagsbrotadeildar á þeim sakargiftum, sem um er fjallað í þessu máli, dróst úr hömlu. Ákæra var gefin út í málinu 18. desember 2008 eða um fjórum árum eftir að málið kom til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra. Verður ekki séð að unnið hafi verið að marki í rannsókn málsins á árunum 2007 og 2008. Málið er afar umfangsmikið og gögn þau sem frá skattrannsóknarstjóra fylgdu með bréfi embættisins 12. nóvember 2004 til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra munu hafa verið í 23 bindum. Vegna rannsóknar þeirrar er hófst með húsleitinni 28. ágúst 2002 hafa verið gefnar út tvær aðrar ákærur, meðal annars á hendur ákærðu í máli þessu. Hin fyrri var gefin út 1. júlí 2005. Dómur Hæstaréttar í því máli gekk 25. janúar 2007 og var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna öll ákærðu af sakargiftum í málinu staðfest. Önnur ákæra var gefin út 31. mars 2006. Í því máli voru ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi meðal ákærðra. Með dómi Hæstaréttar 21. júlí 2006 var hluta þess máls vísað frá héraðsdómi. Endanlegur dómur gekk í Hæstarétti í málinu 5. júní 2008, en þar var ákærði Jón Ásgeir sakfelldur samkvæmt einum ákærulið af fjölmörgum. Ákærði Tryggvi var í málinu sakfelldur fyrir nokkur þeirra brota, sem hann var borinn sökum um. Niðurstaða Hæstaréttar í því máli var sú að ákærði Jón Ásgeir skyldi sæta fangelsi í þrjá mánuði, en frestað var fullnustu refsingarinnar og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði Tryggvi var dæmdur til að sæta fangelsi í tólf mánuði, en fullnustu refsingar hans frestað með sömu skilmálum.

Eins og að framan greinir hefur orðið verulegur dráttur á rannsókn máls þessa og verður ákærðu ekki sérstaklega um hann kennt. Eins og síðar greinir varð verulegur dráttur á meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Af þessum ástæðum verður sú fangelsisrefsing, sem ákærðu verður ákveðin vegna þeirra brota, sem þau eru sakfelld fyrir í málinu, skilorðsbundin. Við ákvörðun hennar ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðsdóm Hæstaréttar 5. júní 2008 yfir ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva og ákveða refsingu í einu lagi sem hegningarauka í samræmi við fyrirmæli 78. gr. sömu laga.

Verður ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva gert að sæta fangelsisrefsingu samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og sektum samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, nú 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Ákvörðun sektar er einkum á því reist að við skil á röngum skattframtölum skuli sekt að lágmarki vera tvöföld skattfjárhæðin. Tekið er tillit til þess að ákærðu hefur verið ákveðið álag á skattstofna og þeir greitt skatt af því, en sá skattur skal dragast frá sektarfjárhæð. Þá er einnig litið til hins langa tíma, sem meðferð málsins hefur tekið á rannsóknarstigi og fyrir dómi.

Skal ákærði Jón Ásgeir sæta fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Verður fésekt hans ákveðin 62.000.000 krónur, sem greiðast skal innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en hann sæti ella vararefsingu eins og í dómsorði greinir.

Ákærði Tryggvi sæti fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Verður fésekt hans ákveðin 32.000.000 krónur, sem greiðast skal innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en hann sæti ella vararefsingu eins og í dómsorði greinir.

Ákærða Kristín sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því sem að framan greinir verður henni ekki gert að sæta fésekt.

Staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað og skiptingu hans. Ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Ákærða Kristín greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Annar sakarkostnaður, sem er kostnaður við gerð málsgagna fyrir Hæstarétti, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008. Eru málsgögn fyrir Hæstarétti á 5651 síðu en einungis hluta þeirra gagna var þörf vegna áfrýjunar héraðsdóms. Gerð málsgagna af hálfu ákæruvaldsins hefur farið gróflega í bága við reglur nr. 462/1994 um málsgögn (ágrip) í opinberum málum, en þar er í 6. tölulið II. gr. mælt fyrir um að í málsgögnum skuli vera framlögð gögn í héraði að því leyti sem ríkissaksóknari og skipaður verjandi telja þau nauðsynleg við flutning og úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Jafnframt segir að niðurröðun þessara gagna skuli, eftir því sem við verður komið, vera í samræmi við framsetningu sakarefnisins í ákæru og í hinum áfrýjaða dómi. Þótt mál þetta sé um margt sérstakt og umfangsmikið og gögn, sem ákæruvaldi barst frá öðrum embættum, sem unnu að rannsókn málsins, viðamikil verður að taka undir athugasemdir héraðsdómara um skjalaframlagningu og átelja ákæruvaldið fyrir hvernig staðið hefur verið að gerð málsgagna fyrir Hæstarétti.

XI

Mál þetta var höfðað með ákæru 18. desember 2008. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 9. desember 2011 eða um þremur árum eftir að málið var höfðað. Málið var þingfest 25. febrúar 2009. Í endurriti úr þingbók kemur fram að verjendur ákærðu hafi í því þinghaldi afhent tvær bókanir til framlagningar. Þar kom annars vegar fram krafa um að málinu yrði vísað frá dómi og hins vegar voru gerðar athugasemdir við framlagningu skjala í málinu af hálfu ákæruvaldsins. Bókað var að málinu væri frestað til 13. mars 2009 til framlagningar greinargerðar af hálfu verjenda. Er málið var þá tekið fyrir var bókað um frest til 31. mars sama ár en þá lagði ákæruvaldið fram greinargerð um þennan þátt málsins. Málinu var frestað til 4. maí 2009 og fór þá fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna. Úrskurður þar sem kröfunni var hafnað var kveðinn upp 20. sama mánaðar.

Málið var næst tekið fyrir 2. október 2009 og þá lögð fram gögn af hálfu ákæruvaldsins, sem verjendur ákærðu fengu frest til að kynna sér. Næst var málið tekið fyrir 13. sama mánaðar og lagði þá einn verjenda fram bókun. Var ákæruvaldinu veittur frestur til 22. sama mánaðar til að leggja fram skriflegt svar við bókun verjenda. Þann dag lagði ákæruvaldið fram greinargerð af sinni hálfu. Var ágreiningur um skjalaframlagningu ákæruvaldsins lagður í úrskurð, sem kveðinn var upp 30. sama mánaðar. Var kröfum ákærðu um aðgerðir af hálfu ákæruvaldsins vegna skjalaframlagningar hafnað í úrskurðinum.

Málið var næst tekið fyrir 1. desember 2009 en þá var lögð fram bókun verjenda, sem töldu að breytt staða blasti við eftir dóm mannréttindadómstóls Evrópu 10. febrúar 2009 í nánar tilteknu máli. Að því búnu ákvað héraðsdómari að gangast sjálfur fyrir því að sá dómur yrði allur þýddur yfir á íslensku. Þeirri þýðingu var lokið í byrjun mars 2010 og málið tekið fyrir 15. sama mánaðar. Lögðu verjendur fram greinargerðir í málinu af sinni hálfu og var ákæruvaldinu veittur frestur til að skila greinargerð til 7. apríl sama ár. Málið var flutt um frávísunarkröfuna 17. maí 2010 og kvað héraðsdómur upp úrskurð 1. júní það ár þar sem vísað var frá dómi I. og II. kafla ákærunnar svo og IV. kafla hennar að því leyti sem sakargiftir þar tóku til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Ákæruvaldið kærði úrskurð þennan til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm 22. september 2010 þar sem frávísunarúrskurðurinn var felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Málið var næst tekið fyrir 7. október 2010 og því frestað til 6. desember sama ár til að verjendur gætu lagt fram greinargerð af sinni hálfu. Er málið var tekið fyrir þann dag lögðu verjendurnir fram greinargerð og var ákæruvaldinu veittur frestur til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu. Það var gert 7. febrúar 2011. Málið var næst tekið fyrir 3. maí sama ár og þá enn flutt um frávísunarkröfu ákærðu, nú vegna ætlaðra annmarka á ákæru. Úrskurður var kveðinn upp 9. maí sama mánaðar þar sem kröfu um frávísun var hafnað.

Málið var tekið fyrir aftur 17. maí 2011 og þá bókað meðal annars að aðalmeðferð skyldi fara fram 17. til 20. október það ár og að verjendur myndu skila viðbótargreinargerð og vitnalista fjórum vikum fyrir aðalmeðferðina. Málið var tekið fyrir 4. október sama ár og lögðu þá verjendur fram hver um sig fjórðu greinargerð sína í málinu.

Aðalmeðferð hófst síðan 17. október 2011 og dómur var sem fyrr segir kveðinn upp 9. desember sama ár eftir að gætt hafði verið 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt lögum nr. 88/2008 stýrir héraðsdómari rekstri máls þar fyrir dómi. Á honum hvílir samkvæmt 1. mgr. 171. gr. laganna skylda til að hraða meðferð máls eftir föngum. Í 165. gr. laganna er kveðið á um að ef máli verði ekki lokið samkvæmt 2. mgr. 163. gr. eða 1. mgr. 164. gr., þannig að fram skuli fara aðalmeðferð í því samkvæmt 166. gr., skuli dómari gefa ákærða kost á að leggja fram skriflega greinargerð af sinni hálfu innan hæfilegs frests. Þar eiga að koma fram kröfur og röksemdir ákærða, svo og talning á þeim gögnum  sem hann leggur fram og þeim vitnum sem hann óskar eftir að leidd verði í málinu. Í athugsemdum með þessari grein, sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008, voru færð rök fyrir þessari nýbreytni. Lutu þau meðal annars að því að færa meðferð sakamála nokkuð til þess horfs sem þá hafði lengi tíðkast um einkamál og að með þessu yrði jöfnuð staða aðila að sakamáli með því að ákærða eða verjanda hans veittist tækifæri til þess að setja fram kröfur og röksemdir af sinni hálfu á skipulegan hátt eins og ákæruvaldið hefði þegar gert í ákæru. Var einnig markmiðið að ákærða eða verjanda hans gæfist kostur á að skýra málatilbúnað sinn og þar með auðvelda dómara úrlausn málsins þegar sakarefni væri flókið. Enginn kostur er að skýra 165. gr. laga nr. 88/2008 svo að heimilt sé að lögum að verjendur eða ákærðir leggi fram fleiri en eina greinargerð og ekki er í lögunum að finna heimild til þess að veita ákæruvaldinu kost á því að leggja fram sérstaka greinargerð af sinni hálfu. Meðferð máls þessa í héraði, þar sem ákæruvaldinu og hverjum ákærða fyrir sig var veittur kostur á að skila fjórum greinargerðum, auk bókana fór gróflega í bága við framangreind ákvæði laga um meðferð sakamála. Þessi háttur á meðferð málsins er veigamikil skýring á þeim mikla drætti sem varð á rekstri þess fyrir héraðsdómi. Verður að átelja þessa málsmeðferð harðlega.

Dómsorð:

Ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Jón Ásgeir greiði 62.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði Tryggvi Jónsson sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Tryggvi greiði 32.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

Ákærða Kristín Jóhannesdóttir sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði Jón Ásgeir greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.757.000 krónur.

Ákærði Tryggvi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jakobs R. Möller hæstaréttarlögmanns, 1.400.000 krónur.

Ákærða Kristín greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, sem samtals eru 1.305.200 krónur.

Sakarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2011.

                Málið var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dagsettri 18. desember 2008, á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. [...], [...],[...], Tryggva Jónssyni, kt. [...],[...],[...], Kristínu Jóhannesdóttur, kt. [...],[...],[...], Baugi Group hf., kt. [...],[...],[...] (fyrirsvarsmaður: Kristín Jóhannesdóttir, stjórnarformaður) og fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., kt. [...],[...],[...] (fyrirsvarsmaður: Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður).  Fallið hefur verið frá ákæru á hendur Baugi Group hf., sbr. III. kafla ákærunnar, frá ákæru á hendur Tryggva vegna tímabils í þeim kafla og nokkrar breytingar til lækkunar hafa verið gerðar á V. kafla hennar.  Þá hefur villa verið felld úr VI. kafla.  Eru þessar breytingar á ákærunni gefnar til kynna með hornklofa hér að neðan.  Loks er þess að geta að ríkissaksóknari hefur með bréfi, 30. september sl., tilkynnt að hann taki við saksókn í málinu.  Málið telst því nú vera höfðað:

I.             Á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni vegna eigin skattskila

Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa skilað röngum skattframtölum á árunum 1999, 2000, 2001, 2002 og 2003 þar sem hann vantaldi tekjur sínar sem skattskyldar eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, vantaldi á skattframtölum 1999, 2002 og 2003 fjármagnstekjur sínar, sem skattskyldar eru samkvæmt 3. og 4. tölulið C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og hafa þannig komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts framangreind ár samtals að fjárhæð kr. 14.975.863 og greiðslu fjármagnstekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 14.927.490 og sundurliðast eftir árum sem hér greinir:

1.       Tekjuárið 1998 vantalið á skattframtali 1999

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 1999 fjármagnstekjur sínar um samtals kr. 11.784.344 og hafa með því komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 1.178.434, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

A.                  Sundurliðun vantalinna fjármagnstekna og vangoldins fjármagnstekjuskatts

Vantaldar fjármagnstekjur, þóknun vegna sölu hlutabréfa, sem ákærði fékk greidda frá Bónus sf., kt. 670892-2479, inn á bankareikning sinn kr. 10.000.000, 25. ágúst 1998 og var færð á viðskiptareikning hans hjá Bónus sf. kr. 1.784.344, og Bónus sf. greiddi til Kaupþings hf. vegna ákærða 27. nóvember sama ár, og voru tekjur af hlutareign hans í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981.

kr.

11.784.344

Vangoldinn fjármagnstekjuskattur 10%

kr.

1.178.434

2.       Tekjuárið 1999 vantalið á skattframtali 2000

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2000 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 18.929.076 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts að fjárhæð kr. 8.593.800, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

A.                  Sundurliðun vantalinna tekna

a. Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf., kt. 480798-2289, á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

129.076

b. Vantaldar tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum í Baugi hf. sem ákærði öðlaðist vegna starfa fyrir félagið og greiddar voru í júlí 1999.

kr.

18.800.000

Samtals:

kr.

18.929.076

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

18.929.076

Tekjuskattur, skattprósenta 26,41:

kr.

4.999.169

Útsvar, útsvarsprósenta 11,99:

kr.

2.269.596

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta 7,0:

kr.

1.325.035

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

8.593.800

3.       Tekjuárið 2000 vantalið á skattframtali 2001

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2001 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 5.209.633 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts að fjárhæð kr. 2.365.173, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

A.                  Sundurliðun vantalinna tekna

a. Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

307.584

b. Vantaldar tekjur í formi launauppbótar bónusgreiðslu“ frá Baugi hf. samkvæmt starfssamningi, innt af hendi 03.10.2000.

kr.

4.000.000

c. Vantaldar tekjur í formi skattskyldra bifreiðahlunninda, samkvæmt mati Ríkisskattstjóra, vegna afnota ákærða af bifreiðinni OD-090 af gerðinni Jeep Grand Cherokee, sem var í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

kr.

902.049

Samtals.

kr.

5.209.633

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

5.209.633

Tekjuskattur, skattprósenta 26,41:

kr.

1.375.864

Útsvar, útsvarsprósenta 11,99:

kr.

624.635

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta 7,0:

kr.

364.674

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

2.365.173

4.       Tekjuárið 2001 vantalið á skattframtali 2002

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2002 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 3.625.685 og fjármagnstekjur sínar um samtals kr. 67.142.364 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts að fjárhæð kr. 1.659.839 og fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 6.714.236, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

A.                  Sundurliðun vantalinna tekna

a. Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

b. Vantaldar tekjur í formi skattskyldra bifreiðahlunninda, samkvæmt mati Ríkisskattstjóra, vegna afnota ákærða af bifreiðunum OD-090 af gerðinni Jeep Grand Cherokee, NT-107 af gerðinni Hummer HMC4, og TS-378 af gerðinni Porsche 911, sem voru í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

kr.

kr.

345.904

3.279.781

Samtals:

kr.

3.625.685

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Framtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn á skattframtali 2002:

kr.

3.625.685

Tekjuskattur, skattprósenta 26,08:

kr.

945.579

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70:

kr.

460.462

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta. 7,0:

kr.

253.798

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

1.659.839

B.                  Sundurliðun vantalinna fjármagnstekna og vangoldins fjármagnstekjuskatts

a. Vantalinn söluhagnaður vegna sölu ákærða á hlutabréfum í Baugi hf. árið 1999 með því að stofnverð bréfanna var tilgreint of hátt í skattframtali ákærða og söluhagnaður þeirra var að sama skapi vantalinn. Tekjufærslu söluhagnaðarins er frestað um tvenn áramót, sbr. 7. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981.

kr.

7.942.364

b. Vantaldar tekjur af hlutareign ákærða í Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. sem hann fékk greiddar 12. janúar 2001.

kr.

59.200.000

Stofn til útreiknings fjármagnstekjuskatts:

kr.

67.142.364

Vangoldinn fjármagnstekjuskattur 10%

kr.

6.714.236

5.       Tekjuárið 2002 vantalið á skattframtali 2003

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2003 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 5.186.031 og fjármagnstekjur sínar um samtals kr. 70.348.204 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts að fjárhæð kr. 2.357.051 og fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 7.034.820, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

A.                  Sundurliðun vantalinna tekna

a. Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

375.675

b. Vantaldar tekjur í formi skattskyldra bifreiðahlunninda, samkvæmt mati Ríkisskattstjóra, vegna afnota ákærða af bifreiðunum OD-090 af gerðinni Jeep Grand Cherokee, NT-107 af gerðinni Hummer HMC4 og TS-378 af gerðinni Porsche 911, sem voru í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

kr.

4.810.356

Samtals:

kr.

5.186.031

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

5.186.031

Tekjuskattur, skattprósenta 25,75:

kr.

1.335.403

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70:

kr.

658.626

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta. 7,0:

kr.

363.022

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

2.357.051

B.                  Sundurliðun vantalinna fjármagnstekna og vangoldins fjármagnstekjuskatts

Vantalinn söluhagnaður vegna sölu ákærða á hlutabréfum í Baugi hf. árið 2002, með því að stofnverð bréfanna var tilgreint of hátt í skattframtali ákærða og söluhagnaður þeirra var að sama skapi vantalinn.

kr.

70.348.204

Vangoldinn fjármagnstekjuskattur 10%

kr.

7.034.820

I.                    Á hendur Tryggva Jónssyni vegna eigin skattskila

Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa skilað röngum skattframtölum á árunum 1999, 2000, 2001, 2002 og 2003 þar sem hann vantaldi tekjur sínar sem skattskyldar eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, og hafa þannig komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts framangreind ár samtals að fjárhæð kr. 13.277.400, og sundurliðast eftir árum sem hér greinir:

1.       Tekjuárið 1998 vantalið á skattframtali 1999

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 1999 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 5.000.000 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, sérstaks tekjuskatts og útsvars að fjárhæð kr. 2.282.500, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

Sundurliðun vantalinna tekna

Vantaldar tekjur í formi starfstengdrar upphafsgreiðslu frá Baugi hf., innt af hendi 31.12.199[8].

kr.

5.000.000

Samtals:

kr.

5.000.000

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

5.000.000

Tekjuskattur, skattprósenta 27,41:

kr.

1.370.500

Útsvar, útsvarsprósenta 11,24:

kr.

562.000

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta  7,0:

kr.

350.000

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

2.282.500

2.       Tekjuárið 1999 vantalið á skattframtali 2000

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2000 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 18.957.724 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, sérstaks tekjuskatts og útsvars að fjárhæð kr. 8.606.807, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

Sundurliðun vantalinna tekna

a. Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

157.724

b. Vantaldar tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum í Baugi hf. sem ákærði öðlaðist vegna starfa fyrir félagið og greiddar voru í júlí 1999.

kr.

18.800.000

Samtals:

kr.

18.957.724

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

18.957.724

Tekjuskattur, skattprósenta 26,41:

kr.

5.006.735

Útsvar, útsvarsprósenta 11,99:

kr.

2.273.031

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta 7,0:

kr.

1.327.041

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

8.606.807

3.       Tekjuárið 2000 vantalið á skattframtali 2001

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2001 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 5.034.227 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, sérstaks tekjuskatts og útsvars að fjárhæð kr. 2.285.539, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

Sundurliðun vantalinna tekna

a. Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

34.227

b.  Vantaldar tekjur í formi launauppbótar, bónusgreiðsla“, frá Baugi hf. innt af hendi 31.03.2000.

kr.

5.000.000

Samtals:

kr.

5.034.227

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

5.034.227

Tekjuskattur, skattprósenta 26,41:

kr.

1.329.539

Útsvar, útsvarsprósenta 11,99:

kr.

603.604

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta 7,0:

kr.

352.396

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

2.285.539

4.       Tekjuárið 2001 vantalið á skattframtali 2002

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2002 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 103.096 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, sérstaks tekjuskatts og útsvars að fjárhæð kr. 47.197, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

Sundurliðun vantalinna tekna

Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

103.096

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

103.096

Tekjuskattur, skattprósenta 26,08:

kr.

26.887

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70:

kr.

13.093

Sérstakur tekjuskattur skattprósenta, 7,0:

kr.

7.217

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

47.197

5.       Tekjuárið 2002 vantalið á skattframtali 2003

Með því að vantelja á skattframtali sínu árið 2003 launatekjur sínar og skattsstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 121.799 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, sérstaks tekjuskatts og útsvars að fjárhæð kr. 55.357, sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

Sundurliðun vantalinna tekna

Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á iðgjaldi af líftryggingu ákærða.

kr.

121.799

Sundurliðun útreiknings vangoldins tekjuskatts og útsvars

Vantaldar tekjur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar:

kr.

121.799

Tekjuskattur, skattprósenta 25,75:

kr.

31.363

Útsvar, útsvarsprósenta 12,70:

kr.

15.468

Sérstakur tekjuskattur, skattprósenta, 7,0:

kr.

8.526

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.

55.357

III.               Brot framin í rekstri Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.)

Á hendur ákærða Jóni Ásgeiri sem framkvæmdastjóra Baugs hf. frá 2. júlí 1998 til 30. maí 2002 og ákærða Tryggva sem framkvæmdastjóra Baugs Group hf. frá 30. maí 2002 [.....] vegna eftirtalinna brota sem framin voru í rekstri félagsins:

1. Á hendur ákærða Jóni Ásgeiri [.....] fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa á árunum 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002, skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið, sem þá hét Baugur hf., þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla voru vantalin og hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, vegna launagreiðslna, afhendingar á bifreið og húsgögnum auk greiðslna félagsins á líftryggingariðgjaldi í þágu ákærða Jóns Ásgeirs og þriggja annarra stjórnenda og starfsmanna þess, en samtals námu hin vantöldu laun kr. 27.631.277 og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals kr. 10.633.204, og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vantaldar launagreiðslur:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 1998

Nóvember

kr.

65.277

kr.

25.471

Desember

kr.

5.000.000

kr.

1.951.000

kr.

5.065.277

kr.

1.976.471

Árið 1999

Mars

kr.

66.811

kr.

25.615

Júní

kr.

5.100.000

kr.

1.955.340

September

kr.

129.568

kr.

49.676

Október

kr.

26.074

kr.

9.997

Nóvember

kr.

25.548

kr.

9.795

Desember

kr.

7.307.767

kr.

2.801.798

kr.

12.655.768

kr.

4.852.221

Árið 2000

Janúar

kr.

25.396

kr.

9.744

Febrúar

kr.

24.511

kr.

9.405

Mars

kr.

5.024.292

kr.

1.927.821

Apríl

kr.

24.159

kr.

9.270

Maí

kr.

23.730

kr.

9.105

Júní

kr.

24.155

kr.

9.268

Júlí

kr.

25.064

kr.

9.617

Ágúst

kr.

24.899

kr.

9.554

September

kr.

34.915

kr.

13.397

Október

kr.

4.024.881

kr.

1.544.347

Nóvember

kr.

59.535

kr.

22.844

Desember

kr.

26.274

kr.

10.081

kr.

9.341.811

kr.

3.584.453

Árið 2001

Janúar

kr.

27.364

kr.

10.606

Febrúar

kr.

27.592

kr.

10.695

Mars

kr.

27.307

kr.

10.584

Apríl

kr.

152.211

kr.

58.997

Júní

kr.

30.544

kr.

11.839

Júlí

kr.

29.721

kr.

11.520

Ágúst

kr.

30.575

kr.

11.851

September

kr.

30.644

kr.

11.878

Október

kr.

31.218

kr.

12.100

Desember

kr.

61.824

kr.

23.963

kr.

449.000

kr.

174.033

Árið 2002

Janúar

kr.

30.072

kr.

11.590

Febrúar

kr.

30.072

kr.

11.590

Mars

kr.

30.072

kr.

11.590

Apríl

kr.

29.205

kr.

11.256

kr.

119.421

kr.

46.026

Samtals:

kr.

27.631.277

kr.

10.633.204

2. Á hendur ákærða Tryggva [.....] fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa á árinu 2002, skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla voru vantalin og hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, vegna launagreiðslna og greiðslna félagsins á líftryggingariðgjöldum vegna ákærða Tryggva og tveggja annarra stjórnenda og starfsmanna þess, en samtals námu hin vantöldu laun kr. 8.400.620 og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals kr. 3.237.598, og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vantaldar launagreiðslur:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2002

Maí

kr.

195.429

kr.

75.318

Júní

kr.

8.028.617

kr.

3.094.229

Júlí

kr.

28.262

kr.

10.892

Ágúst

kr.

28.293

kr.

10.904

September

kr.

29.468

kr.

11.357

[...]

Samtals:

kr.

[8.310068]

kr.

[3.202.700]

IV.                Brot framin í rekstri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

Á hendur ákærða Jóni Ásgeiri sem starfandi framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. til 27. ágúst 1999, og stjórnarmanni þess og ákærðu Kristínu sem framkvæmdastjóra félagsins frá 27. ágúst 1999 og stjórnarmanni þess og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf.  vegna eftirtalinna brota sem framin voru í rekstri félagsins:

1. Á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa á árinu 1999, skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla voru vantalin og hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, vegna launagreiðslna og bifreiðahlunninda til starfsmanns félagsins, en samtals námu hin vantöldu laun kr. 1.038.875 og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals kr. 398.305, og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vantaldar launagreiðslur:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 1999

Janúar

kr.

67.500

kr.

25.880

Febrúar

kr.

157.500

kr.

60.386

Mars

kr.

123.350

kr.

47.292

Maí

kr.

361.700

kr.

138.676

Júní

kr.

124.200

kr.

47.618

Júlí

kr.

204.625

kr.

78.453

Samtals:

kr.

1.038.875

kr.

398.305

2. Á hendur ákærðu Kristínu og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa á árunum 1999, 2000, 2001 og 2002 skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla voru vantalin og hafa látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, vegna skattskyldrar nýtingar ákærða Jóns Ásgeirs af bifreiðum í eigu félagsins og greiðslna launa og bifreiðahlunninda og annarra hlunninda til starfsmanns félagsins, en samtals námu hin vantöldu laun kr. 71.050.925 og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals kr. 27.515.602, og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vantaldar launagreiðslur:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 1999

Ágúst

kr.

28.675

kr.

10.994

September

kr.

500.350

kr.

191.834

Október

kr.

28.675

kr.

10.994

Nóvember

kr.

208.100

kr.

79.786

Desember

kr.

299.675

kr.

114.895

kr.

1.065.475

kr.

408.503

Árið 2000

Janúar

kr.

79.025

kr.

30.322

Febrúar

kr.

447.674

kr.

171.772

Mars

kr.

106.975

kr.

41.046

Apríl

kr.

318.524

kr.

122.218

Maí

kr.

106.975

kr.

41.046

Júní

kr.

225.524

kr.

86.534

Júlí

kr.

106.975

kr.

41.046

Ágúst

kr.

106.975

kr.

41.046

September

kr.

207.424

kr.

79.589

Október

kr.

106.975

kr.

41.046

Nóvember

kr.

103.524

kr.

39.722

Desember

kr.

106.975

kr.

41.046

kr.

2.023.545

kr.

776.433

Árið 2001

Janúar

kr.

59.305.676

kr.

22.986.880

Febrúar

kr.

95.449

kr.

36.996

Mars

kr.

105.676

kr.

40.960

Apríl

kr.

185.076

kr.

71.735

Maí

kr.

208.359

kr.

80.760

Júní

kr.

247.599

kr.

95.969

Júlí

kr.

445.827

kr.

172.803

Ágúst

kr.

445.827

kr.

172.803

September

kr.

431.445

kr.

167.228

Október

kr.

445.827

kr.

172.803

Nóvember

kr.

431.445

kr.

167.228

Desember

kr.

445.827

kr.

172.803

kr.

62.794.033

kr.

24.338.968

Árið 2002

Janúar

kr.

441.796

kr.

170.268

Febrúar

kr.

416.784

kr.

160.629

Mars

kr.

461.440

kr.

177.839

Apríl

kr.

446.555

kr.

172.102

Maí

kr.

461.440

kr.

177.839

Júní

kr.

446.555

kr.

172.102

Júlí

kr.

461.440

kr.

177.839

Ágúst

kr.

461.440

kr.

177.839

September

kr.

446.555

kr.

172.102

Október

kr.

411.922

kr.

158.755

Nóvember

kr.

350.137

kr.

134.943

Desember

kr.

361.808

kr.

139.441

kr.

5.167.872

kr.

1.991.698

Samtals:

Kr.

71.050.925

Kr.

27.515.602

3. Á hendur ákærðu Kristínu og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngu skattframtali fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. gjaldaárið 2001, vegna 2000, þar sem tekjur félagsins, sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, voru rangfærðar sem hér segir;

a) með því að vantelja til tekna söluhagnað af viðskiptum félagsins með hlutabréf í Baugi hf. á árinu 2000, um kr. 916.105.197, og

b) með því að oftelja til gjalda í bókhaldi og skattframtali vaxtagjöld að fjárhæð kr. 15.700.075.

4. Á hendur ákærðu Kristínu og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngu skattframtali fyrir Fjárfestingafélagið Gaum ehf. fyrir gjaldaárið 2003, vegna ársins 2002, þar sem oftalin var til gjalda niðurfærsla hlutabréfa í sænska félaginu NRG Pizza AB. um kr. 74.000.000, en með þessu var tap félagsins oftalið um sömu fjárhæð. Tapið var yfirfæranlegt til síðari ára og nýtanlegt til lækkunar hreinna tekna, sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981.

V.                  Brot framin í rekstri Gaums ehf.(hf.)

Á hendur ákærðu Kristínu sem framkvæmdastjóra og Jóni Ásgeiri sem starfandi framkvæmdastjóra Gaums ehf. (hf. frá 28.09.1998), kt. 601283-0349, báðum sem stjórnarmönnum, vegna eftirtalins brots sem framið var í rekstri félagsins:

1. Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að skila skattframtali fyrir Gaum ehf. (hf.) gjaldaárið 1999 vegna fyrstu 6 mánaða ársins 1998, og hafa vantalið skattskyldar tekjur félagsins um kr. [174.809.492], sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, að teknu tilliti til nýtingar heimildar til að fresta tekjufærslu á kr. 107.030.554 af söluhagnaðinum af sölu á hlutabréfum. Söluhagnaðurinn sem samtals nam kr. [281.840.046], var af sölu félagsins á 25 % eignarhluta Gaums ehf. í félögunum Bónus sf., Ísþori ehf. og Bónusbirgðum ehf. og 12,5 % eignarhlut í Baugi ehf. sem gengu, ásamt peningalegri milligjöf, til greiðslu á kaupverði vegna kaupa Gaums ehf. á 25 % hlutafjár í fyrirhuguðu félagi, Hagkaupi hf., sem síðar fékk kennitöluna [...], samkvæmt kaupsamningi Gaums ehf. (hf.) við eigendur Hagkaupa hf., kt. [...], dags. 3. júní 1998, og hafa með þessu komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð kr. [52.442.848].

VI.                Heimfærsla til refsiákvæða

Brot ákærðu Jóns Ásgeirs, Tryggva og Kristínar teljast varða við:

1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig;

a) 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því er varðar, brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt I. kafla og brot Tryggva samkvæmt II. kafla ákæru, brot ákærðu Kristínar samkvæmt 3. og 4. tölulið IV. kafla ákæru og brot ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar samkvæmt V. kafla ákæru,

b) 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar, brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt stafliðum A, í 2. – 5. tölulið I. kafla ákæru og brot ákærða Tryggva samkvæmt II. kafla ákæru,

c) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 1. tölulið III. kafla ákæru og 1. tölulið IV. kafla ákæru, brot Tryggva samkvæmt 2. tölulið III. kafla ákæru og brot ákærðu Kristínar samkvæmt 2. tölulið IV. kafla ákæru,

[.....]

Brot Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. samkvæmt IV. [.....]kafla ákæru teljast varða við:

e) 8. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sbr. tilvitnuð ákvæði í a) lið að framan, að því er varðar 3. og 4. tölulið IV. kafla ákæru,

f) 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. tilvitnuð ákvæði í c) lið að framan, að því er varðar 1. og 2. tölulið IV. kafla ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.

Ákærðu neita sök að öllu leyti.

Málavextir

                Lögreglurannsókn hófst gegn ákærðu og fleirum með húsleit í ágústlok 2002.  Rúmu ári síðar,  þ. e. 17. september 2003, tilkynnti ríkislögreglustjóri skattrannsóknarstjóra ríkisins að grunur væri um það að fyrirsvarsmenn Baugs Group hf. hefðu brotið gegn skattalögum og lögum um bókhald og ársreikninga.  Fyrir liggur að embætti skattrannsóknarstjóra hafði þá um nokkurt skeið haft til athugunar ársreikninga og skattframtöl fjárfestingafélagsins Gaums hf. þar sem grunur var á því að ekki væri allt með felldu um ýmis viðskipti í bókhaldi og skattskilum félagsins.  Hófst rannsókn skattrannsóknarstjóra á þessum atriðum 17. nóvember 2003.  Rannsókninni lauk haustið 2004 og með kærubréfi skattrannsóknarstjóra 12. nóvember það ár voru ríkislögreglustjóra sendar skýrslur embættisins í fjölmörgum bindum.  Eftir rannsókn hjá því embætti var mál svo höfðað 18. desember 2008, eins og fyrr segir.

                Málsmeðferðin hefur dregist hér fyrir dóminum.  Kemur þar einkum til að mjög hefur verið tekist á um form málsins og hafa gengið fjórir úrskurðir í því vegna þessa.  Var einn þessara úrskurða, þegar ákæru í málinu var vísað frá dómi, kærður til hæstaréttar Íslands.  Þá er þess að geta að langan tíma tók að fá þýddan á íslensku dóm mannréttindadómstóls Evrópu sem lagður var fram í málinu.  Loks hafa miklar starfsannir verjenda auk breytinga og manneklu hjá ákæruvaldinu tafið meðferðina fyrir dómi.

Sakarefni málsins eftir ákæruliðum.

I. Ákærði Jón Ásgeir vegna eigin skattskila

1.A:  Vantaldar fjármagnstekjur ákærða af hlutareign hans í Gaumi ehf.

                Hinn 21. ágúst 1998 voru greiddar 11.995.000 krónur frá Kaupþingi inn á reikning Bónus í SPRON á Seltjarnarnesi.  Þá liggur fyrir í málinu reikningsyfirlit vegna reiknings ákærða í Sparisjóði Reykjavíkur þar sem fram kemur að 25. ágúst 1998 runnu inn á reikninginn 10.000.000 krónur frá fjárfestingafélaginu Gaumi ehf.  Reikningurinn var þá yfirdreginn um rúmar 56 þúsund krónur.  Jafnframt liggur fyrir að 1.784.000 krónur voru greiddar inn á viðskiptareikning ákærða hjá Kaupþingi 27. nóvember sama ár.  Þessar greiðslur eru ekki taldar fram á skattframtali ákærða árið 1999

                Í málinu er yfirlýsing ákærðu Kristínar og Jóhannesar Jónssonar, framkvæmdastjóra og stjórnarformanns fjárfestingafélagsins Gaums ehf., dagsett 20. júlí 2004, þar sem segir að greiðsla á 11.995.000 krónum inn á reikning Bónuss hf. hafi átt að ganga til fjárfestingafélagsins Gaums ehf.  Þá segir þar að greiðslan verði færð debet á viðskiptareikning ákærða hjá Gaumi ehf. á árinu 2004.  Í málinu er enn fremur yfirlýsing Hreiðars Más Sigurðssonar aðstoðarforstjóra Kaupþings hf. um það að greiðslan sem lögð var inn á reikning Bónuss hafi verið þóknun sem tilheyrði Gaumi, eiganda Bónuss.  

                Ákærði neitar sök og segir 10.000.000 króna millifærsluna á bankareikning ákærða hafa verið gerða fyrir mistök því að með réttu hefði átt að leggja hana inn á reikning Gaums ehf.  Hann kveðst ekki hafa áttað sig á þessum mistökum.  Segir hann að um hafi verið um að ræða þóknun til eigenda Bónuss, þ.e. Gaums, vegna sölu hlutabréfa í Baugi hf.  Hann segir það vera rangt sem í ákærunni segir að um hafi verið að ræða fjármagnstekjur af hlutareign hans í Gaumi.  Geti það ekki staðist vegna þess að ef arðgreiðslan hefði stafað frá Gaumi hefði hún átt að berast til hans frá Baugi.  Ákærði kveðst ekki hafa tekið eftir því þegar þetta var greitt inn á reikning hans og ekki áttað sig á greiðslunni fyrr en rannsókn málsins hófst.   Hafi hann þá séð að greiðslan var „ættuð frá Gaumi“ sem hann átti í og var í stjórn fyrir.  Hann kveðst ekki hafa verið framkvæmdastjóri þess félags á þeim tíma og ekki muna hvort hann hafði prókúruumboð.  Hann tekur einnig fram að hann hafi ekki séð um þennan reikning sinn í Sparisjóðnum, heldur hafi fjármálastjóri Bónuss sf., É, gert það, enda þótt þetta væri hans persónulegi reikningur.  Hafi hann ekkert eftirlit haft með reikningnum enda hafi hann treyst því fólki sem vann fyrir hann.  Hann kveður Gaum hafa átt fjórðungshlut í Baugi.  Hann segir D hafa talið fram fyrir sig og hafi D séð um að afla þeirra gagna sem nauðsynleg voru vegna framtalsins.  Ákærði kveðst hafa endurgreitt með vöxtum fjárhæðina sem lögð var inn á reikning hans 25. ágúst 1998 og er því haldið fram af hans hálfu að líta beri á þessa greiðslu sem lán til hans.

                Ð, endurskoðandi Baugs hjá KPMG, hefur sagt um þetta skattframtal ákærða að starfsmaður Gaums hafi séð um skattframtalið fyrir ákærða sem hér um ræðir.  Hafi starfsmaðurinn unnið handrit að framtalinu en hann kveðst svo hafa fengið framtalið og fylgigögn til þess að farið yfir það og hafi hann að því búnu skilað því aftur.  Hafi ákærði treyst þeim „nokkuð fyrir þessari framtalsgerð“.  Hann kveðst ekki hafa rætt við ákærða um einstök atriði framtalsins. 

                D, sem sá um að færa bókhald í fjárfestingafélagið Gaum á þeim tíma sem hér skiptir máli, hefur komið fyrir dóm og kannast hann við að hafa séð um framtal ákærða árið 1999 vegna ársins 1998.  Hann kveðst ekki hafa vitað um þær fjárhæðir, sem hér um ræðir, þegar hann taldi fram fyrir ákærða.  Hann segir ákærða ekki hafa gefið fyrirmæli um að tekjur skyldu vantaldar í framtalinu og engin bein afskipti haft af gerð þess önnur en að afhenda honum gögn vegna þess. 

                Mismunurinn á 11.784.000 og 11.950.000 krónum, þ.e. 211.000 krónur, hefur ekki verið skýrður.

Niðurstaða

                Samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75, 1981, sem í gildi voru á þeim tíma sem hér um ræðir, nú 2. mgr. 90. gr. laga um tekjuskatt nr. 90, 2003, hvílir framtalsskylda á hverjum manni og skal framtalið jafnframt undirritað af þeim sem framtalsskyldan hvílir á.  Þá kemur það skýrt fram af XII. kafla eldri og nýrri skattalaga að refsiábyrgð á skattframtali hvílir á hinum skattskylda aðila og getur hann því ekki komið sér undan ábyrgð á skattframtali með því að fá annan til þess að semja það.  Þannig hvílir á herðum hans sú skylda að ganga úr skugga um að rétt sé talið fram.  Ákærði ber því ótvíræða ábyrgð á skattframtalinu 1999 vegna ársins 1998.

                Sú skýring ákærða að umræddar greiðslur hafi verið gerðar fyrir mistök þykir dóminum ekki trúleg í sjálfu sér.  Verður einnig að telja það einkar ósennilegt að ákærði hafi ekki tekið eftir þeim fyrr en sex árum seinna þegar rannsókn málsins hófst, enda var um að ræða persónulegan reikning ákærða.  Þá vekur það athygli að greiðslurnar standast ekki á við þær 11.950.000 krónur sem runnu inn á reikning Bónuss.  Dómurinn álítur því að hafna beri þeim skýringum sem ákærði hefur gefið á þessum fjárhæðum og að honum hafi borið að telja greiðsluna fram sem tekjur í skattframtalinu.  Ber að meta honum það til stórkostlegs hirðuleysis að það skuli ekki hafa verið gert.  Telst ákærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

2.A.a, 3.A.a, 4.A.a og 5.A.a: Vantaldar tekjur ákærða vegna greiðslu Baugs hf. á líftryggingariðgjaldi á skattframtölum árin 2000, 2001, 2002 og 2003.

                Fyrir liggur að ákærði taldi þessar greiðslur ekki fram í skattframtölunum þessi fjögur framtalsár.  Þá liggur einnig fyrir að þær voru ekki taldar fram til staðgreiðslu af hálfu Baugs hf.  Tryggingarskírteini vegna þessara trygginga hafa ekki verið borin undir ákærða og hafa ekki fundist í skjalafjölda þessa máls.  Aftur á móti eru í málinu 42 kvittanir fyrir greiðslu tryggingariðgjalda af hálfu félagsins þessi ár og er málatilbúnaður ákæruvaldsins byggður á þeim.   Af þessum kvittunum eru 39 frá félaginu Allianz Lebensversicherungs AG í Þýskalandi.  Á þeim kemur ekki fram hvers konar tryggingar er um að ræða og rétthafi er þar heldur ekki tilgreindur.  Þrjár af kvittununum, árin 2000 (10.237 krónur), 2001 (21.134 krónur) og 2002 (21.410 krónur) eru frá Sameinaða líftryggingafélaginu hf.  Þar kemur hins vegar fram að þær séu fyrir greiðslu iðgjalds vegna líftryggingar ákærða og er rétthafi þar tilgreindur B, þáverandi eiginkona ákærða.  Í málinu er bréf, dagsett 18. maí 2004, frá F sem var á þeim tíma sem hér skiptir máli innri endurskoðandi félagsins.  Þar segir að í samningum ýmissa lykilmanna félagsins séu ákvæði um greiðslu líftrygginga og að félagið hafi ekki „reiknað hlunnindi á starfsmenn vegna þessa“ enda hafi ekki verið litið á líftryggingar sem launahlunnindi.  Hafi því ekki verið skilað af þeim launatengdum gjöldum eða hlunnindin verið gefin upp til skatts á launamiðum til starfsmanna. 

                Ákærði hefur sagt að í einhverjum tilfellum hafi félagið greitt fyrir hann iðgjöld af líftryggingum en í sumum tilfellum hafi verið um að ræða sjúkratryggingar og loks hafi verið um að ræða lífeyrissparnað og nefnir hann í því sambandi tryggingarnar hjá Allianz.  Hann vekur athygli á því að félagið hafi á þessum tíma greitt um 111 milljónir króna í launatengd gjöld og kveðst hann ekki geta áttað sig á því hvort þessar iðgjaldsgreiðslur séu þar á meðal.  Þá getur hann þess að endurskoðunarfyrirtækið KPMG hafi á þessu tímabili séð um launa- og hlunnindaútreikninga fyrir æðstu stjórn félagsins jafnframt því að vera endurskoðandi þess.  Hann kveðst sjálfur engin afskipti hafa haft af þessum málum og þau alfarið verið í höndum launadeildar og þessara endurskoðenda félagsins. 

                F hefur komið fyrir dóm.  Hún kveðst hafa byrjað störf hjá félaginu árið 2000 og geti hún því ekki borið af eigin raun um það sem áður gerðist.  Hún segir félagið hafa greitt fyrir tryggingar sumra starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningum við þá.  Minni hana að um hafi verið að ræða blandaðar tryggingar, líf- og sjúkratryggingar.  Hana reki minni til þess að þessi atriði hafi borið á góma í skattrannsókninni á sínum tíma og kannast hún við að hafa skrifað bréfið umrædda.  Eftir því sem henni sé best kunnugt hafi ekki verið staðið skil á staðgreiðslu á þessu fé.  Hafi almennt verið álitið að greiðslur af þessu tagi hafi ekki verið skattskyldar og hafi þetta komið til tals í félaginu á sínum tíma.     

                Ð, sem var endurskoðandi Baugs hf. frá stofnun félagsins í júlí 1998, hefur komið fyrir dóm.  Hann segir að félagið hafi greitt líftryggingar og jafnvel fleiri tryggingar, svo sem sjúkratryggingar, fyrir lykilstarfsmenn félagsins.  Hafi þessi kostnaður félagsins ekki verið talinn frádráttarbær í skattskilum félagsins eða vafi leika á um það.  Hafi hann því verið „dreginn til baka“ í skattframtali félagsins þannig að félagið hafi greitt skatt af þessum greiðslum.  Hafi þetta verið í samræmi við viðtekna skattaframkvæmd á þessum árum.  Hafi gengið þrír úrskurðir yfirskattanefndar á árinu 1997 um sambærileg mál.  Þar komi fram það álit að kostnaður við líftryggingar sé ekki frádráttarbær hjá launagreiðanda.  Þar komi hins vegar ekkert fram um það hvort þessar greiðslur skuli telja hlunnindi launþegans.  Hafi endurskoðendur á þessum árum almennt bakfært kostnaðinn á skattframtali launagreiðandans og ekki talið þær fram sem hlunnindi starfsmannsins. 

                G, endurskoðandi hjá KPMG, sá um endurskoðun fyrir Baug frá áramótum 2000 ásamt Ð, segir að á þessum tíma sem um ræðir, hafi endurskoðendur litið svo á að iðgjöld þessi væru ekki skattskyld hlunnindi starfsmanns en hins vegar bæri að draga þau frá á skattframtölum félaganna.  Muni þetta almennt hafa verið framkvæmt svo og ekki hafi annað hvarflað að henni.

Niðurstaða

                Fram er komið hjá ákærða og vitnunum F og Ð að hluti af iðgjaldsgreiðslunum, sem um ræðir, hafi verið fyrir sjúkratryggingar og jafnvel einnig lífeyrissparnað.  Tryggingarskírteinin hafa ekki verið lögð fram í málinu og er þessi ákæruliður byggður á kvittunum fyrir iðgjaldsgreiðslur.  Í 39 kvittunum af 42 er ekki tiltekið af hvers konar tryggingum félagið greiddi iðgjöld.  Verður því að telja að það sé óupplýst og að þar með verði engu slegið föstu um það hvort borið hafi að telja þessar greiðslur fram sem hlunnindi á skattframtölum ákærða.  Ber af þessari ástæðu að sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.  

                Sem fyrr segir eru þrjár af kvittununum samkvæmt hljóðan sinni fyrir líftryggingariðgjöldum og einnig er þar tilgreind eiginkona ákærða sem rétthafi.  Verður að telja að nægilega sé sannað að þar sé um að ræða líftryggingariðgjald.  Þegar litið er til þess að á þeim tíma, sem hér um ræðir, ríkti a.m.k. óvissa um það í skattaframkvæmd hvort líftryggingariðgjöld teldust vera hlunnindi starfsmanns og þar með framtalsskyld, svo og til þess að um lágar fjárhæðir var að ræða, verður það ekki metið ákærða til stórfellds hirðuleysis að hafa ekki talið þessar greiðslur fram sem hlunnindi á skattframtölum sínum.  Ber af þeirri ástæðu að sýkna hann af ákærunni að þessu leyti.

2.A.b:  Vantaldar tekjur ákærða vegna nýtingar kaupréttar af hlutabréfum í Baugi hf.

                Fyrir liggur að 26. júlí 1999 voru 18.800.000 krónur greiddar inn á reikning ákærða hjá Kaupþingi í Lúxemborg við það að ákærði nýtti sér kauprétt að hlutabréfum í Baugi Group hf., sem hann átti vegna starfa sinna fyrir félagið.  Þessa greiðslu taldi ákærði ekki fram til skatts á framtali sínu árið 2000 fyrir árið 1999.  Þá liggur það einnig fyrir að 25.000.000 krónum var ráðstafað af þessum reikningi ákærða inn á reikning Á þar í bankanum, hinn 11. október sama ár.  Fyrir liggur einnig að sú ráðstöfun var liður í því að gera upp við Á þegar hann hætti störfum hjá Baugi.

                Ákærði segir stjórnendur Baugs hafa átt kauprétt að hlutabréfum samkvæmt samningum við félagið.  Hann kannast við að hafa verið forstjóri félagsins á þessum tíma og minni hann að samið hafi verið við starfsmenn félagsins um kaupréttinn í upphafi eða við stofnun þess.  Hafi það verið eigendur félagsins sem það gerðu, þ.e. Gaumur, Kaupþing og F.B.A.  Hann segir millifærsluna af reikningi ákærða á reikning Á vera þannig til komna að samið hafi verið við Á um breytingu á störfum hans fyrir félagið og svo starfslok þegar Hagkaup og Bónus runnu saman.  Hafi orðið úr að hann fengi kauprétt ákærða í starfslokagreiðslu.  Hafi kaupréttur ákærða því verið færður á reikning Á.  Viti hann til þess að Á hafi talið þetta fram til skatts og greitt skatt af.  Hann segir að á þessum tíma hafi ríkt óvissa um það hvernig fara ætti með kauprétt vegna skatts.  Reyndar segist hann sjálfur hafa verið látinn greiða skatt af þessari fjárhæð.  Hann kveðst gera sér grein fyrir því að gögnin í málinu sýni að hagnaðurinn af hlutabréfaviðskiptunum, 18.800.000 krónur, hafi verið greiddur inn á reikning hans í júlí.  Aftur á móti segist hann hafa verið búinn að ráðstafa þessu fé sem hluta af starfslokagreiðslu Á samkvæmt samkomulagi þeirra.  Hann segist aðspurður ekki hafa fengið þetta persónulega framlag sitt endurgreitt frá félaginu.  Hann áréttar það að hann hafi framselt Á umræddan kauprétt sinn og hafi honum því ekki borið að telja hann fram til skatts.

                F hefur sagt það almennt um kauprétt stjórnenda félagsins að hún hafi fyrst fengið vitneskju um þá árið 2002 eða 2003.  Hafi allir starfsmenn haft rétt til kaupa á hlut í félaginu samkvæmt ákveðnu kaupréttarkerfi en einnig hafi verið um að ræða kauprétt samkvæmt sérstökum samningi.  Hún kveðst hins vegar ekki muna vel hvernig viðskiptunum, sem hér um ræðir, var háttað. 

                Eins og áður var rakið hefur Ð, aðalendurskoðandi Baugs hjá KPMG, sagt um þetta skattframtal ákærða að starfsmaður Gaums, D, hafi séð um skattframtalið fyrir ákærða sem hér um ræðir.  Hafi starfsmaðurinn unnið handrit að framtalinu en hann kveðst svo hafa fengið framtalið og fylgigögn með því til þess að fara yfir það og hafi hann að því búnu skilað D því aftur.  Hafi ákærði treyst þeim „nokkuð fyrir þessari framtalsgerð“.  Hann kveðst ekki hafa rætt við ákærða um einstök atriði framtalsins.  Hann kveðst hafa skrifað undir framtalið fyrir hönd ákærða til þess að „koma því í álagningu“.  Hann segir um kauprétt stjórnenda hjá félaginu að hlutabréfum að þrír menn hafi nýtt sér þennan rétt, Á stjórnarformaður, ákærði Jón Ásgeir og ákærði Tryggvi.  Hafi hann fengið vitneskju um þessi réttindi stjórnendanna árið 2000 eða 2001.  Ekki hafi verið rætt við hann um skattskil á slíkum greiðslum, að minnsta kosti hafi hann ekki verið hafður í ráðum um þær.   Um ráðstöfun ákærða í þágu Á kveðst hann hafa frétt hjá ákærða eftir á, líklega árið 2003.   

                G, endurskoðandi hjá KPMG, sá um endurskoðun fyrir Baug frá áramótum 2000 ásamt Ð.  Hún segir almennt að um kauprétt stjórnenda hafi hún fengið að vita frá Ð í árslok 2002 en hann mun þá hafa fengið þessa vitneskju frá stjórnendum félagsins.  Áður hefði hún spurst fyrir um það hjá ákærða Tryggva, hvort kaupréttarsamningar væru fyrir hendi en fengið þau svör að svo væri ekki en hana minni þó að almennt kaupréttarkerfi fyrir starfsmenn hafi verið fyrir hendi hjá félaginu.  Sérstaklega spurð um ráðstöfun kaupréttar ákærða til Á segist hún ekkert vita enda hafi þetta verið fyrir hennar tíma.

                Á  kveðst hafa starfað fyrir Baug og tengd félög frá júní 1998 og út árið 1999.  Um kaupréttinn sem hér um ræðir segir vitnið aðspurt að hann geti staðfest að hafa fengið greiðslu sem þessu nam nokkurn veginn, og hafi hún verið framseld til hans í tengslum við starfslok hjá félaginu.  Hann viti hins vegar ekki hvernig „nákvæmlega rætur hennar voru“ eða hvernig frá henni var gengið hjá félaginu.  Hann kveðst hafa talið þessa greiðslu fram á sínu skattframtali og greitt af henni skatt.

Niðurstaða

                Sem fyrr segir hvílir sú skylda á skattþegni að gæta þess að rétt sé talið fram að viðlagðri refsiábyrgð sé það ekki gert.  Þá er jafnljóst að skattskyldur maður getur ekki heldur skotið sér undan ábyrgð á framtalinu með því að fá annan til þess að undirrita það.               

                Ágreiningslaust er að umrædd fjárhæð var lögð inn á reikning ákærða í Kaupþingi í Lúxemborg 26. júlí 1999, eins og sagði í upphafi.  Þá liggur fyrir að greiðsla þessi stafaði frá viðskiptum með hlutabréf í Baugi sem ákærði átti rétt til samkvæmt kaupréttarákvæði í ráðningarsamningi hans.  Ekki er heldur ágreiningur um það að fjárhæðin sem stóð inni á reikningi ákærða varð hluti af greiðslu inn á reikning  Á tæpum þremur mánuðum síðar og var þá hluti af uppgjöri vegna starfsloka hans hjá Baugi.  Loks liggur það fyrir að þessi greiðsla var ekki talin fram á skattframtali ákærða vegna ársins 1999.  Ákærði ber það aftur á móti fyrir sig að hann hafi framselt kauprétt sinn til Á og því hafi honum ekki borið að telja honum þessa fjárhæð til tekna á skattframtalinu.  Dómurinn lítur svo á að ákærði geti hér ekki borið það fyrir sig að hafa „framselt kaupréttinn“ til Á, enda var fé þetta greitt honum persónulega.  Ekkert í málinu bendir til annars en að honum hafi verið frjálst að ráðstafa fénu, eins og hann hefur reyndar kannast við að hafa gert með samkomulaginu við Á.  Var greiðslan því framtalsskyld samkvæmt 1. tl. A-kafla 7. gr. eldri og núgildandi laga um tekjuskatt.  Meta verður ákærða það til stórkostlegs hirðuleysis að hafa ekki talið greiðsluna fram á framtali ársins 2000 og telst hann því hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

3.A.b:  Vantaldar tekjur ákærða í formi launauppbótar („bónusgreiðslu“) frá Baugi hf.

                Meðal gagna málsins er útprentun vegna millifærslu af reikningi Baugs hf. í Íslandsbanka inn á bankareikning ákærða hinn 3. október 2000, að fjárhæð 4.000.000 krónur.  Þá liggur fyrir að ákærði taldi þessa greiðslu ekki fram á skattframtali ársins 2001.  Þegar ákærði var yfirheyrður um þessa færslu hjá lögreglu 11. mars 2003 sagði hann þetta hafa verið bónusgreiðslu til hans eða launauppbót samkvæmt ráðningarsamningi hans við félagið.  Ekki væri búið að ganga frá þessu endanlega og væri það í vinnslu.  Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 26. mars 2004 sagði hann um hana að hann vissi ekki hvort um hafi verið að ræða lán en líklega hafi verið frekar litið á þetta sem fyrir fram greidd laun en lán.  Vissi hann ekki hvort gerð hefði verið grein fyrir þessari greiðslu á skattframtali hans.  Þá er að geta bréfs F, innri endurskoðanda Baugs, dagsetts 18. maí 2004, sem hún hefur staðfest fyrir dómi.  Þar segir um þessa færslu að um sé að ræða viðskiptaskuld ákærða, sem gerð hafi verið upp í maí 2002 með víxli sem greiddur var upp í september 2002.  Þetta hafi verið fyrir fram greidd laun til ákærða sem gerð hafi verið upp að fullu á þeim tíma.  Hafi ekki verið um sérgreinda launagreiðslu til ákærða að ræða.  Ákærði sagði í skýrslu hjá lögreglu 26. júní 2007 að fyrri skýringar hans á greiðslunni væru ekki réttar því hann hefði komist að því við nánari skoðun að um lán hefði verið að ræða.  

                Meðal gagna málsins er álitsgerð endurskoðunarskrifstofunnar Price, Waterhouse, Coopers, dagsett 13. október 2005, sem unnin var að beiðni verjanda ákærða um það álitaefni hver verið hafi „raunveruleg staða á viðskiptamannareikningi JÁJ í bókhaldi Baugs á hverjum tíma frá 1. janúar 1998 til 28. ágúst 2002 eftir að tekið hefur verið tillit til inneignar og allra réttinda sem hann átti tilkall til samkvæmt starfssamningum hans við félagið“.  Er það niðurstaða þessarar álitsgerðar að ákærði hafi á þessu tímabili aldrei verið í skuld við félagið þegar tekið hafi verið tillit til inneigna hans og réttinda gagnvart félaginu og greiðslna sem hann innti af hendi í þágu þess.

                Fyrir dómi hefur ákærði sagt að um hafi verið að ræða greiðslu á skuld Baugs við hann samkvæmt viðskiptareikningi hans hjá félaginu.  Hafi Baugur skuldað honum 27 milljónir í upphafi árs og hafi þessi fjárhæð síðan verið dregin frá þeirri skuld.  Um skýringuna sem hann gaf hjá lögreglu 2003 segir ákærði að hann hafi ekki áttað sig á þessu þegar hann var yfirheyrður, enda hefði honum þá ekki gefist tækifæri til að setja sig inn í málið áður en hann var yfirheyrður.  Um það sem hann sagði hjá skattrannsóknarstjóra í mars 2004 eigi þetta sama við.  Hafi hann farið að kynna sér málið eftir að hann gaf þessar skýrslur.   Um það sem hann sagði svo hjá lögreglu, 21. júní 2007, að um hefði verið að ræða lán, segir hann að endurskoðunarfyrirtækið hafi farið yfir viðskiptareikning hans hjá Baugi og komist að þeirri niðurstöðu.  

Niðurstaða

                Ákærði hefur verið óstöðugur í skýrslum sínum um þessa greiðslu, eins og fram er komið.  Hann sagði í upphafi að um hefði verið að ræða launauppbót til hans, en hann hefur svo gefið aðrar skýringar á henni.  Þá hefur komið fram hjá honum að hann hafi falið öðrum að sjá um persónulegan bankareikning sinn.  Dómurinn hefur ekki fundið stað í gögnum málsins fyrir því áliti PWC að félagið hafi verið í skuld við hann.  Ekki verður heldur séð að þau réttindi ákærða eða inneign hjá félaginu, sem álitið byggir á, hafi verið talin fram á hann til skatts.  Loks er þess að geta að ekki verður séð af gögnum málsins að ákærði hafi endurgreitt fé þetta.  Dómurinn telur að hafna beri síðbúnum skýringum hans á þessari greiðslu.  Verður því slegið föstu að um launagreiðslu til hans hafi verið að ræða, eins og hann sagði sjálfur í upphafi.  Var greiðsla þessi framtalsskyld samkvæmt 1. tl. A-kafla 7. gr. eldri og núgildandi laga um tekjuskatt.  Meta verður ákærða það til stórkostlegs hirðuleysis að hafa ekki talið hana fram og telst hann því hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

3.A.c, 4.A.b og 5.A.b:  Vantaldar tekjur ákærða í formi skattskyldra bifreiðahlunninda.

                Fyrir liggur í málinu að á þeim tíma sem um ræðir voru bifreiðarnar þrjár sem um getur í eigu fjárfestingafélagsins Gaums á árunum 2000 til 2002.  Þá liggur fyrir að ákærði taldi ekki fram til tekjuskatts hlunnindi af afnotum bílanna sem greinir í ákærunni.  Ákærði var á þessum tíma stjórnarmaður í félaginu og fyrir liggur að hann var þar atkvæðamikill en auk hans voru í stjórninni ákærða Kristín og C.  Var C formaður stjórnar og framkvæmdastjóri en Kristín framkvæmdastjóri frá 27. ágúst 1999.  Engan formlegan gerning er að finna í gögnum málsins um afnot ákærða af bílunum.  Fram er komið í málinu að félagið hafi á þessum tíma átt sjö bíla auk annarra farartækja.  Ákærða Kristín var spurð út í þessa bíla- og tækjaeign félagsins undir skattrannsókninni og sagði þá að þetta hefði verið geymt í geymslu félagsins á Ártúnshöfða.  Hefði ákærði haft afnot af flestum þessum bílum og tækjum en C hefði þó notað tiltekinn bíl, sem ekki kemur málinu við, en fyrrverandi eiginkona ákærða, B, hefði haft OD-090 (Jeep Grand Cherokee) til umráða.  Fram er komið í málinu að hún hafi á þessum tíma átt hlut í Gaumi.  Ákærði sagðist, aðspurður um þessi bílamál í skýrslu sinni hjá skattrannsóknarstjóra, hafa notað einn af þessum þremur bílum, TS-378 (Porsche 911 Turbo) en hann hafi lítið verið notaður, enda um hálfgerðan safngrip að ræða.  Aftur á móti hafi NT-107 (Hummer) verið ónotaður.  C var spurður um þessi mál hjá skattrannsóknarstjóra og sagði þá að eitthvað af bílunum hefðu verið safngripir en þessi verðmæti hefðu verið „undir forsjá“ ákærða.

                Ákærði hefur sagt fyrir dómi að hann hafi á þessum tíma sjálfur átt fjora bíla og bifhjól.  Hann kveðst hafa verið í aðstöðu til þess að fá lánaða þá bíla sem félagið átti en kveðst ekki hafa notað sér það því hann hafi notað sína eigin bíla.  Verið geti þó að hann hafi ekið þeim nokkra kílómetra en fráleitt sé að hann eigi að gjalda fyrir heils árs hlunnindi af þeim öllum.  Þá segir hann að takmörk hafi auk þess verið fyrir því að hann gæti notað þessa bíla eins og honum hentaði vegna þess að aðrir hefðu haft aðgang að þeim.  Einn þessara bíla hafi auk þess verið óökufær, Hummer-bíllinn og kveðst hann engin afnot hafa haft af honum.  Þá hafi fyrrverandi eiginkona hans haft  Jeep Grand Cherokee-bílinn til sinna einkanota.  Að því er varðar Porsche-bílinn segist hann hafa ekið honum mjög lítið og ekki meira en nokkra tugi kílómetra.  Hann kveðst hafa átt þennan bíl sjálfur, áður en Gaumur var stofnaður, en hafa lagt hann inn í fyrirtækið við stofnun þess.  Af sínum eigin bílum hafi hann aðallega notað bíla af gerðunum Range-Rover og BMW.  Á þessum tíma hafi hann verið í sambúð með H og hafi hún átt bíl sem ákærði kveðst einnig hafa notað.  Loks segir hann að á þessum tíma hafi hann dvalið mikið erlendis vegna starfs síns, eða „30–40%“ af tímanum.  Hann kveðst hafa greitt skatt af þessum hlunnindum eins og öllu því sem skatturinn hafi lagt á hann til viðbótar, en það hafi hann gert nauðugur. 

                Kristín Jóhannesdóttir hefur sagt um þetta sakarefni fyrir dómi að bílarnir hafi verið geymdir í geymsluhúsnæði félagsins.  Ekki viti hún til þess að starfsmenn hafi haft skattskyld hlunnindi af þessum bílum.  Hún kveðst ekki vita eða muna hversu mikil afnot fyrrum mágkona hennar hafði af Jeep Grand Cherokee-bílnum á þessu tímabili og kveðst hún ekki hafa skipt sér af því.  Segir hún mágkonuna ekki hafa verið starfsmann félagsins.  Þá segir hún að lyklar að bílunum hafi ekki verið geymdir hjá henni og kveðst halda að þeir hafi verið geymdir í bílunum sjálfum.  Sjálf kveðst hún ekki hafa notað neinn þessara bíla. 

                C, sem var stjórnarformaður Gaums árin 1998 til 2002, hefur greint frá því að ákærða Kristín, dóttir hans, hafi tekið við framkvæmdastjórn Gaums af honum og ákærði Jón Ásgeir hafi einnig starfað fyrir félagið að framkvæmdastjórn, enda hafi þetta verið fjölskyldufyrirtæki.  Hann kveðst ekki muna vel lengur eftir þessum bílum og tækjum eða hvernig notkun þeirra var háttað.  Hann kveðst hafa verið framkvæmdastjóri félagsins þegar ákveðið hafi verið að fyrrum tengdadóttir hans, B, fengi til umráða  

Jeep Grand Cherokee-bílinn og hann samþykkt það.  Hafi hún verið hluthafi í félaginu.   

Niðurstaða

                Öllum þeim sem um það hafa borið í málinu ber saman um að fyrrverandi eiginkona ákærða hafi haft einn þeirra bíla sem í ákærunni greinir, OD-090 af gerðinni Jeep Grand Cherokee, til einkaafnota og að ákærði hafi ekki notað hann.  Fær dómurinn ekki séð að ákærða hafi verið skylt að telja fram afnot sín af þeim bíl sem hlunnindi og skiptir þá ekki máli að hann var stjórnar- og áhrifamaður í félaginu.  Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann af ákærunni að þessu leyti.

                Um bílinn NT-107 af Hummer-gerð er það að segja að ákærði neitar því að hafa notað hann og hefur frá upphafi sagt að hann hafi ekki verið notaður vegna bilana.  Hefur ákæruvaldið ekki leitt neitt fram í málinu sem hnekkir því og það þótt höfð sé í huga óljós frásögn Kristínar hjá skattrannsóknarstjóra um sjö bíla og önnur farartæki félagsins.  Þá er á það að líta að þótt ákærði hafi verið stjórnarmaður og atkvæðamaður í félaginu leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að hann hafi haft afnot af bíl þessum.  Verður ekki séð að ákærða hafi verið skylt að telja fram sem hlunnindi afnot sín af honum og ber að sýkna hann af ákærunni að þessu leyti.

                Ákærði viðurkennir að hafa notað umræddan bíl.  Aftur á móti liggja ekki fyrir upplýsingar um af hvaða stofni eigi að reikna hlunnindin.  Í þessu ljósi og með vísan til  þess að hann  hefur sannanlega notaða aðra bíla sína og um smávægileg not er að ræða, þykir hér mega sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.

4.B.a og 5.B:  Vantaldar fjármagnstekjur ákærða vegna sölu hlutabréfa í Baugi.  

                Samkvæmt ákærulið 4.B.a er ákærða Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa vantalið í skattframtali söluhagnað vegna sölu hlutabréfa í Baugi hf. á árinu 1999 um 7.942.364 krónur.  Tekjufærslu söluhagnaðarins var frestað um tvenn áramót, sbr. 7. mgr. 17. gr. þágildandi skattalaga.  Þá er honum samkvæmt ákærulið 5.B gefið að sök að hafa vantalið söluhagnað af sölu á hlutabréfum í Baugi hf. árið 2002 um 70.348.204 krónur.

                Ákærði ber það fyrir sig að mistök hafi verið gerð þegar þessar tekjur hans voru taldar fram fyrir hann.  Hafi mistökin falist í því að við framtalsgerðina hafi endurskoðandi hans ekki tekið tillit til jöfnunarhlutabréfa í félaginu sem gefin höfðu verið út þegar stofnverð bréfanna var reiknað.  Þetta hafi leitt til þess að söluhagnaðurinn hafi ekki verið rétt fram talinn.  Hann tekur fram, að hefði hann gert sér grein fyrir þessum söluhagnaði á þessum tíma, hefði hann nýtt sér rétt samkvæmt þágildandi skattalögum til frestunar skattlagningar hans.  Ákærði kveðst ekki hafa skipt sér að neinu leyti af því hvernig þetta var reiknað út og talið fram.  Segir hann D hafa séð um að telja fram í fyrra sinnið en í það síðara hafi Ð gert það en hann hafi einnig verið endurskoðandi Baugs og Gaums á þessum tíma.  Sjálfur hafi hann ekki getað farið yfir framtölin vegna mikilla anna.   

                D kveðst ekki hafa rætt gerð framtalsins við ákærða þegar hann vann að því.  Hann kveðst ekki hafa reiknað út stofnverð bréfanna og verður að ætla að það hafi verið gert hjá endurskoðanda. 

                Ð hefur sagt að hann hafi ekki rætt þetta atriði við ákærða þegar hann taldi fram fyrir hann.  Upplýsingarnar sem hann fékk til þess að gera framtalið hafi verið komnar frá D, starfsmanni Gaums, og hafi D auk þess gert uppkast að framtalinu. 

Niðurstaða

                Af hálfu ákærða er krafist sýknu af þessum ákærulið þar sem vísað sé til rangra töluliða á ákærunni.  Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála getur það ekki varðað sýknu þótt ekki sé vísað til réttra lagaákvæða í ákæru og er það auk þess margdæmt mál.

                Áður var sagt að á skattskyldum manni hvíli sú skylda að gæta þess að rétt sé talið fram að viðlagðri refsiábyrgð, ef ranglega er talið fram af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi.  Ætla verður að endurskoðendur hafi séð um það að reikna út stofnverð hlutabréfanna margnefndu.  Ekki hefur neitt komið fram í málinu sem bendir til þess að ákærði hafi af ásetningi valdið því að stofnverðið var reiknað með þeim hætti sem raun varð á.  Þá lítur dómurinn svo á að sú skylda verði ekki með sanngirni lögð á herðar skattþegni að hann fari yfir og leiðrétti slíkan útreikning.  Loks er að líta til þess atriðis að ákærða var heimilt lögum samkvæmt að fresta því að tekjufæra söluhagnaðinn og að hann hefði þannig ekki breytt neinu um skattinn á söluárinu.   Dómurinn álítur, þegar þessi atriði eru metin og vegin saman, að ákærða verði í hvorugu tilvikinu reiknað það til stórfellds hirðuleysis að hafa vantalið söluhagnað af hlutabréfum í félaginu.  Ber því að sýkna hann af þessum ákæruliðum.

4.B.b.:  Vantaldar tekjur ákærða af hlutareign í fjárfestingafélaginu Gaumi ehf.

                Fyrir liggur að 12. janúar 2001 voru greiddar inn á reikning ákærða í Landsbankanum 59.200.000 krónur.  Ákærði var spurður út í þessa greiðslu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 1. júní 2004 og tók hann sér frest til þess að taka saman upplýsingar um hana.  Var þessum upplýsingum svo komið til embættisins í greinargerð umboðsmanns ákærða 9. júní sama ár.  Sagði þar að um 41.000.000 króna af þessu hefði verið endurgreiðsla láns til H, um 18.000.000 króna hefðu verið endurgreiðsla til fjárfestingafélagsins Gaums.  Frekari skýringar fylgdu svo í greinargerð umboðsmannsins 5. júlí.  Sagði þar að H hefði lánað ákærða samtals 58.500.000 krónur í tvennu lagi, 12. og 23. október 2000.  Hefði hann notað lánið m.a. í þágu Gaums.  Í fyrsta lagi hefði hann greitt 13.000.000 króna inn á bílinn TS-378 hjá bílabúð Benna fyrir Gaum.  Þá hefði hann látið 10.000.000 króna renna inn á reikning félagsins 21. nóvember 2000.  Þá hefði hann greitt 20.000.000 króna inn á reikning félagsins 12. desember 2000 og loks hefði ákærði greitt 3.500.000 krónur inn á reikning  I lögfræðings.  Væri þessi greiðsla inn á reikning ákærða, þ.e. 59.200.000 krónur, þar af leiðandi ekki tekjur ákærða og er svo að skilja að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði fyrir Gaum. 

                Fram er komið í málinu að samkvæmt ökutækjaskrá eignaðist Gaumur ehf. bílinn TS-378 ekki í október 2000 heldur var hann þá skráður á fyrirtækið Ísrokk ehf. og að það var ekki fyrr en 25. júní 2001 að bíllinn var skráður á Gaum ehf. 

                Ekki eru fyrir hendi í málinu bókhaldsgögn sem styðja það að ákærði hafi lánað Gaumi 10 og 20 milljónir í nóvember og desember 2000.  Fram er komið að þessar fjárhæðir voru lagðar inn á bankareikning fjárfestingafélagsins Gaums í Íslandsbanka.  Af greiðslugögnum og bankayfirlitsblöðum verður ekki ráðir hver greiddi þetta fé inn á reikninginn en sjá má á viðskiptayfirliti úr bókhaldi Gaums að ákærði hafi gert það.  Á kvittuninni fyrir 10 milljón króna greiðslunni stendur þetta: „vegna gr. til Kaupth. v/orku 12/12“. 

                Í málinu er kvittun fyrir millifærslu á. 3.500.000 krónum til I 29. desember 2000 og þá er þar einnig að finna handskrifað bókunarblað sem virðist benda til þess að greiðslan til D hafi tengst kaupum fyrrverandi eiginkonu ákærða á íbúðarhúsi í [...].  Gögn þessi er ritari ákærða sagður hafa afhent vegna skattrannsóknarinnar í málinu.  Loks er til þess að taka að ekki verður fundinn neinn staður fyrir því í gögnum málsins að greiðsla ákærða á 18.268.200 krónum inn á reikning Gaums 3. desember 2001 tengist greiðslunni 12. janúar 2001 á 59.200.000 krónur inn á reikning ákærða í Landsbankanum.  

                Fyrir dómi hefur ákærði sagt að hann hafi lagt Gaumi til Porsche-bílinn, að verðmæti 13 milljónir, 13. október 2000.  Þá hafi hann lánað félaginu 10 milljónir króna 21. nóvember það ár.  Jafnframt hafi hann lagt inn á reikning félagsins 20 milljónir 12. desember.  Þá hafi hann greitt I, fyrir ýmis verkefni vegna Gaums, 3,5 milljónir eða samtals 46,5 milljónir.  Gaumur hafi svo endurgreitt honum 59,2 milljónir í janúar 2001.  Í endanlegu uppgjöri í árslok hafi komið í ljós að mismunurinn á þessum tveimur fjárhæðum var ofgreiðsla til hans og hann hafi því endurgreitt um 18 milljónir.  Því sé það rangt í ákærunni að þessar 59,2 milljónir séu arður eða tekjur hans.  Hann hafi lagt út fyrir félagið og það síðan endurgreitt honum.  Um greiðsluna til I segir ákærði það vera rangt að hún tengist húsakaupum fyrrverandi eiginkonu hans en þar hafi verið um 8 milljónir króna að ræða.  Um 13 milljóna króna greiðslu til bílabúðar Benna fyrir Porsche-bíl ítrekar ákærði að hann hafi greitt þetta í þágu Gaums.  

                I hefur skýrt frá því að hann hafi „tengt þessa greiðslu við uppgjör á mörgum verkum“ sem hann hafði lengi unnið að, einkum varðandi sameiningu [...].  Hafi þeir ákærði komið sér saman um það í árslok að hann fengi greitt fyrir þessa vinnu, auk margs annars, og sé það skýringin á þessari greiðslu.  Aðspurður hvort þessi verk hafi verið unnin fyrir ákærða persónulega eða fyrir Gaum segist hann ekki geta svarað því á annan veg en að honum hafi ávallt fundist „að Gaumur væri í bakgrunninum“.  Undir hann er borið bókunarblaðið, sem nefnt var, þar sem fram kemur að færslan sé vegna húsakaupa fyrir fyrrverandi eiginkonu ákærða.  Kveðst hann ekki geta skýrt þetta blað.  Hann segist hafa unnið fyrir konuna að því að kaupa lóð í [...].  Hvort greiðslan hafi tengst þeim kaupum segist I aðspurður ekki eiga annað svar en að nær væri að spyrja þann sem seldi henni lóðina.  Kveðst hann ekki muna til þess að hafa verið „milligöngumaður þar um peningaviðskipti“.  Kveðst hann vera nærri viss um að hann hafi ekki fengið sérstaka þóknun fyrir þetta viðvik og muni þetta hafa verið „gert upp í pakka“ með öðru.  Þetta hafi hins vegar ekki verið stór samningur.  Undir hann er borið það sem haft er eftir honum í lögregluyfirheyrslu um greiðsluna (3,5 milljónir) en þar kom fram að hann vissi ekki betur en að hún væri í tengslum við lóðarkaup fyrrverandi konu ákærða og hafi hann ekki gert annað en að koma greiðslunni áfram til seljanda lóðarinnar.  Vel gæti þó verið að hluti af greiðslunni sé þóknun hans.  Það þyrfti þó ekki að vera þar sem textinn bendi til annars.  Hann hefði unnið mörg verk fyrir fjölskyldu ákærða og félög á hennar vegum.  Gæti hann ekki gert grein fyrir því hvort verkin væru fyrir feðgana eða félögin.  Hann hefði talið sig eiga töluvert inni hjá þeim fyrir vinnu við að sameina [...].  Það hefði verið gert upp með eingreiðslu en ekki myndi hann hvenær.  Segist I ekki lengur geta rifjað þetta upp í einstökum atriðum enda langt um liðið.  Hann kveðst annars vísa til þessa framburðar síns.     

Niðurstaða

                Ekki verður sagt að skýringar ákærða á greiðslu 59.200.000 króna inn á reikning hans samrýmist vel því sem leitt hefur verið í ljós við rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi.  Þannig var bíllinn TS-378 keyptur af bílabúð  Benna fyrir Ísrokk ehf., 11. október 2000, en Gaumur eignaðist hann ekki fyrr en um mitt næsta ár.  Þá verður ekki séð af bókhaldi félagsins að færslur á viðskiptareikningi ákærða hjá Gaumi vegna 10 og 20 milljóna séu vegna láns ákærða til félagsins.  Um greiðsluna til I er það að segja að bókunarblaðið umrædda er eindregin vísbending um það að greiðslan sé fyrir vinnu I vegna húsnæðiskaupa fyrrverandi konu ákærða.  Hefur óljós framburður hans í málinu ekki skýrt þessa færslu frekar.  Þá verður ekki séð af bókhaldsgögnum í málinu hvert samband er á milli greiðslu á rúmum 18,2 milljónum inn á reikning Gaums í Íslandsbanka 3. desember 2000 og greiðslunnar á 59,2 milljónum til ákærða.  Sú skýring hans á henni að þar hafi verið um að ræða endurgreiðslu vegna ofgreiðslu getur heldur ekki talist vera trúleg.  Dómurinn álítur að slá megi því föstu að umrædd greiðsla að fjárhæð 59,2 milljónir króna inn á reikning ákærða séu tekjur hans sem honum hafi borið að telja fram til skatts.  Verður að meta honum það til stórfellds hirðuleysis að hafa ekki talið hana fram og telst hann hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

II. Ákærði Tryggvi vegna eigin skattskila

1. Vantaldar launatekjur að fjárhæð 5.000.000 króna á skattframtali 1999.

                Meðal gagna málsins er ódagsett blað, sem prentað var út úr tölvukerfi Baugs Group hf. við húsleit hjá félaginu og virðist geyma drög að ráðningarsamningi milli ákærða og meðákærða Jóns Ásgeirs eða samkomulagi um starfskjör hans.  Þar stendur: „Upphafsgreiðsla: 5,0 millj. kr., sem færast þurfa þannig að ekki komi til skatta.“  Þá eru í málinu gögn úr endurskoðunarmöppu Baugs þar sem tiltekinn er „ófrádráttarbær kostnaður, greiðsla til TJ 5.000.000“, skjal með yfirskriftinni „Loka 211“, sem er yfirlit frá KPMG endurskoðun hf. yfir „lokafærslur 31. 12. 99“, en þar kemur fram „gjaldfærð þóknun 5.000.000“ og loks hreyfingalisti 1.1. 99 til 31.12. 99 þar sem þessi færsla kemur fram.  Ákærði Tryggvi skýrði þetta atriði svo í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra í apríl 2004 að þegar hann hefði ráðið sig til Baugs hefði hann samið um það að tvenns konar umbun til hans frá félaginu yrði skattlaus, annars vegar bílahlunnindi og hins vegar uppbót fyrir tap sem hann yrði fyrir við það að hætta störfum hjá KPMG.  Bílahlunnindin hefðu verið þannig úr garði gerð að eftir að þau höfðu verið reiknuð hefði hann fengið launauppbót sem svaraði til skatts af þeim.  Uppbótin hefði verið í formi þessarar 5 milljóna króna greiðslu og hefði hún ekki verið talin fram á hann sem laun, þar eð um hefði verið að ræða skaðabætur vegna skerðingar á hlutabréfum ákærða í KPMG.  Hefði það verið endurskoðandi fyrirtækisins sem hefði ákveðið að haga þessu svo.  Skýrði ákærði þetta nánar í annarri yfirheyrslu í maí 2005 og sagði samning hans við endurskoðunarskrifstofuna hafa verið með þeim hætti að ef hann seldi hlutabréf í skrifstofunni fyrir 55 ára aldur myndi söluverðið lækka eftir ákveðnum reglum.

                Ð endurskoðandi Baugs var yfirheyrður um þetta sakaratriði hjá skattrannsóknarstjóra í apríl 2004.  Voru þá borin undir hann gögnin sem gerð hefur verið grein fyrir hér að ofan.  Er haft eftir honum í skýrslu um þessa yfirheyrslu að honum ofbyði það sem komi fram í einu þessara skjala (líklega drögin að starfskjarasamningi ákærða).  Kvaðst hann ætla að 5 milljóna króna greiðslan hafi verið viðskiptafærð í byrjun.  Þegar ákærði hefði verið spurður um þessa greiðslu hefði hann sagt að um væri að ræða bætur fyrir skerðingu á hlutabréfaeign sinni í endurskoðunarskrifstofunni.  Ekki hefði verið dregin staðgreiðsla af þessari fjárhæð og kvaðst hann þá hafa látið færa hana sem ófrádráttarbæran kostnað í skattskilum félagsins og það verið það minnsta sem hægt var að gera.   Ekki hefði hann fengið frekari skýringar á þessari greiðslu og engin skjöl varðandi hana.  Hefði þessi fjárhæð ekki verið talin fram sem laun á ákærða.  Skýrsla þessi hefur verið borin undir Ð fyrir dóminum og kveðst hann ekki muna til hvers hann var að vísa í henni.  Hann geti ekki annað sagt en að greiðslan umrædda hafi komið frá Bónus árið 1998. 

                Ákærði hefur sagt um þetta ákæruatriði fyrir dómi að hann reki minni til þess að hafa fengið þessa greiðslu en hann minni einnig að hún hafi ekki verið innt af hendi í árslok.  Hann kannast við drögin sem nefnd voru hér að framan og segir þau vera frá honum komin.  Hafi hann viljað tryggja að hann þyrfti ekki að greiða skatt af tvennu, þessari upphafsgreiðslu og einnig bílahlunnindum.  Um 5 milljón króna greiðsluna segir hann að hún hafi ekki komið frá Baugi heldur frá Bónus sem þá hafi verið í eigu Gaums en þetta hafi líklega verið rétt fyrir stofnun Baugs.  Hafi þessi greiðsla verið til þess að mæta tapi sem hann varð fyrir við það að hætta störfum hjá endurskoðunarskrifstofunni, enda hefði hann orðið að selja hlut sinn í henni.  Hafi hann því átt að fá 5 milljónir nettó frá þeim aðilum sem hugðu á það að stofna Baug, þ.e. Kaupþingi, FBA, Gaumi og Bónus, til þess að mæta tapinu af hlutabréfasölunni.  Hann segir KPMG hafa séð um að telja fram fyrir hann til skatts og hafi hann treyst því að rétt yrði talið fram.  Hafi þetta líklega farið þannig fram að hann hafi fengið þessa fjárhæð greidda frá Bónus í apríl eða maí 1998.  Síðan hefði hann átt að fá launamiða þar sem fram væru taldar á hann um 8 milljónir sem yrðu þá hluti af heildarlaunagreiðslu ársins.  Á launamiðanum til hans hafi 5 milljóna króna greiðslan ekki verið sérgreind og hann ekki fengið sérstakan launamiða vegna hennar.  Hann segist hafa hitt Ð að máli haustið 2000, þegar unnið var í skattframtali Baugs, og Ð þá sagt að farið hefði verið með þessa greiðslu sem ófrádráttarbæran kostnað.  Hefði hún því ekki verið gjaldfærð hjá Baugi.  Hann hafi þá komist á þá skoðun að ekki hefði verið rétt að þessu staðið hjá KPMG en gert ráð fyrir því að þetta yrði þegar leiðrétt.  Hafi hann haldið að þessi greiðsla yrði hluti af heildarlaunagreiðslu  hjá Baugi fyrir árin 1998 eða 1999.  Síðar hafi hann hins vegar komist að því að þetta hefði ekki verið leiðrétt.  Kveðst hann þá hafa óskað eftir því í bréfi til skattyfirvalda í ágúst 2004 að fá að leiðrétta framtal sitt og greiða af þessu skatt.  Hafi hann gert þetta þótt verið gæti að þegar hefði verið greiddur skattur af þessari fjárhæð.  Hafi skattyfirvöld orðið við þessari beiðni.  Hann kveðst aldrei hafa vísvitandi talið rangt fram til skatts og aldrei hafi hvarflað að honum að gera slíkt.  Þá segir hann að árið 2006 hafi allir skattar hans, sem skattyfirvöld álitu vangreidda, verið greiddir.  Seinna hafi hann svo fengið endurgreiddan oftekinn skatt.   

                Ákærði vekur athygli á því að skjalið „ófrádráttarbær kostnaður, greiðsla til TJ 5.000.000“ sé líklegast óviðkomandi þessari greiðslu, enda sé sú fjárhæð lögð þar við 29 milljóna króna greiðslu varðandi „starfslokasamning“ sem hann upplýsir að hafi verið gerður við hann 2003.  Sé útilokað að menn hefðu farið að leggja þessar tvær greiðslur saman.  

Niðurstaða

                Dómurinn lítur svo á að umrædda greiðslu til ákærða hefði ótvírætt borið að telja fram með tekjum hans á skattframtalinu 1999, í samræmi við 1. mgr. 7. gr. þágildandi og núgildandi skattalaga.  Með vísan til þess sem áður var sagt um ábyrgð skattskylds manns á skattframtali sínu ber að meta ákærða það til stórfellds hirðuleysis að hafa ekki talið greiðsluna fram og telst hann hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

2.a, 3.a, 4 og 5: Vantaldar tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á líftryggingariðgjaldi á skattframtölum árin 2000, 2001 og 2002.

                Fyrir liggur að ákærði taldi þessar greiðslur ekki fram í skattframtölunum þessi fjögur framtalsár.  Þá liggur einnig fyrir að þær voru ekki taldar fram til staðgreiðslu af hálfu Baugs hf.  Tryggingarskírteini vegna þessara trygginga hafa ekki verið borin undir ákærða og hafa ekki fundist í gögnum málsins.  Aftur á móti eru í málinu 6 kvittanir fyrir greiðslu tryggingariðgjalda af hálfu félagsins þessi ár og er málatilbúnaður ákæruvaldsins byggður á þeim.   Á fimm af þessum kvittunum, sem stafa frá Sameinaða líftryggingafélaginu hf.  kemur fram að þær séu fyrir greiðslu iðgjalds vegna líftryggingar ákærða og eru rétthafar þar tilgreindir nánustu vandamenn.  Á einni iðgjaldskvittun, sem er frá Tryggingamiðstöðinni,  sem er að fjárhæð 90.913 krónur og varðar framtalið 2000, kemur hins vegar ekki fram hvers konar tryggingu er um að ræða og rétthafi er þar heldur ekki tilgreindur. 

                Ákærði kannast við þessar iðgjaldsgreiðslur en hann kveðst telja að ekki þurfi að standa skil á staðgreiðslu af slíkum greiðslum og megi ekki líta svo á að slíkar greiðslur séu tekjur launþegans.  Yfirleitt sé um að ræða blandaðar tryggingar, sjúkra- og líftryggingar.  Rétthafar samkvæmt þeim séu þá aðstandendur vegna líftryggingarhlutans en vinnuveitandinn vegna veikinda starfsmannsins en það sé mun líklegri tryggingaratburður en andlát starfsmannsins.  Muni endurskoðendur almennt ekki telja það til frádráttarbærs kostnaðar og heldur ekki til skattskyldra hlunninda launþegans þegar um slíka tryggingablöndu er að ræða.  Vekur ákærði í þessu sambandi athygli á því að um þetta hafi verið fjallað af hálfu endurskoðunarskrifstofunnar KPMG, sem talið hafi fram fyrir ákærða og Baug, og hafi þar á bæ verið litið svona á málið.    

                Í liðnum 2.A.a, 3.A.a, 4.A.a og 5.A.a hér að framan er gerð grein fyrir því sem fram hefur komið fyrir dómi um þessi málefni hjá F, innri endurskoðanda Baugs, Ð og G, endurskoðendum KPMG.  Vísast til þeirrar umfjöllunar.

Niðurstaða

                Fram er komið hjá ákærða og vitnunum F og Ð að hluti af iðgjaldsgreiðslunum, sem um ræðir, hafi verið fyrir sjúkratryggingar.  Tryggingarskírteinin hafa ekki verið lögð fram í málinu og er þessi ákæruliður byggður á kvittunum fyrir iðgjaldsgreiðslum.  Í einni kvittun af sex er ekki tiltekið hvers konar tryggingu félagið greiddi iðgjöld fyrir.  Verður því að telja að það sé óupplýst og að þar með verði engu slegið föstu um það hvort borið hafi að telja þá iðgjaldsgreiðslu, 90.913 krónur, fram sem hlunnindi á skattframtali ákærða árið 2000.  Ber þegar af þessari ástæðu að sýkna ákærða af ákærunni varðandi hana.  

                Sem fyrr segir eru fimm af kvittununum samkvæmt hljóðan sinni fyrir líftryggingariðgjöldum og einnig eru þar tilgreindir nánustu vandamenn ákærða sem rétthafar.  Verður að telja að nægilega sé sannað að þar sé um að ræða líftryggingariðgjald.  Þegar litið er til þess að á þeim tíma, sem hér um ræðir, ríkti a.m.k. óvissa um það í skattaframkvæmd hvort líftryggingariðgjöld teldust vera hlunnindi starfsmanns og þar með framtalsskyld, svo og til þess að um lágar fjárhæðir var að ræða, verður það ekki metið ákærða til stórfellds hirðuleysis að hafa ekki talið þessar greiðslur fram sem hlunnindi á skattframtölum sínum.  Ber af þeirri ástæðu að sýkna hann af ákærunni að þessu leyti.

2.b: Vantaldar tekjur af kauprétti að hlutabréfum í Baugi í skattframtali 2000.

                Fyrir liggur að ákærði neytti réttar sem hann átti til þess að kaupa hlutabréf í Baugi hf.  Voru bréfin að nafnverði 5 milljónir króna en mismunur á kaup- og söluverði bréfanna, 18.800.000 krónur, var lagður inn á reikning ákærða í Kaupþingi, Lúxemborg.  Þá liggur fyrir að þessa hagnaðar var ekki getið á skattframtali ákærða árið 2000.  Fé þetta var flutt á innlendan bankareikning ákærða á árinu 2002 og taldi hann þessa greiðslu fram í skattframtali 2003. 

                Fyrir dómi hefur ákærði sagt að hluti af hlutabréfum í Baugi hafi verið geymdur á vörslureikningi í Kaupþingi Lúxemborg.  Hafi hann og aðrir stjórnendur haft rétt til þess að kaupa hlutabréf í félaginu og þeir þannig keypt bréf út af þeim reikningi eftir ákveðnum reglum.  Hafi hann í fyrsta sinn notfært sér þetta í júlí 1999 og hagnast um 18,8 milljónir króna.  Hann vekur athygli á því að á þessum tíma hafi verið litið á skattahlið kaupréttar á annan hátt en nú sé gert og hafi ríkisbankarnir á þessum tíma gert starfsfólki sínu sambærilegan kost í þessu efni og Baugur.  Hafi verið greiddur fjármagnstekjuskattur af þessum kaupréttarhagnaði.  Hafi einnig verið litið svo á að hann yrði skattskyldur þegar féð væri flutt til landsins.  Um haustið 1999 hafi hæstaréttardómur fallið þar sem því hafi verið slegið föstu að kaupréttur að hlutabréfum skyldi teljast skattskyld  hlunnindi.  Eftir þennan dóm hafi þessari kaupréttarframkvæmd erlendis verið hætt vegna þess að menn vildu skoða þetta atriði nánar.  Hann kveðst svo hafa flutt þetta fé til landsins árið 2002, talið það fram sem launatekjur og greitt af því skatt árið 2003.  Ríkisskattstjóri hafi hins vegar litið svo á að þetta fé ætti að skattleggja með tekjum ársins 1999 en ekki með tekjum ársins 2002, þegar hann flutti féð til landsins.  Hafi honum jafnframt verið gert að greiða [álag] samkvæmt því.  Hann hafi kært þennan úrskurð til yfirskattanefndar sem hafi litið svo á að ákærði hefði farið rétt að og hann fengið [álagið] endurgreitt.  

                Í lið 2.A.b hér að framan er gerð grein fyrir dómskýrslum þeirra Ð, F og G um kauprétt og vísast til þeirrar greinargerðar.

Niðurstaða

                Óumdeilt er að ákærði nýtti sér kauprétt til hlutabréfa á árinu 1999 og fékk greiddar 18.800.000 krónur inn á reikning sinn hjá Kaupþingi í Lúxemborg.  Þá liggur einnig fyrir að hann taldi hagnaðinn af þeim viðskiptum ekki fram sem tekjur í skattframtali sínu árið 2000.  Ákærði ber það fyrir sig að á þessum tíma, eða fram að hæstaréttardómi á árinu 1999, hafi verið talið, þar á meðal í ríkisbönkunum, að telja ætti fram slík hlunnindi manna erlendis sem tekjur þegar féð væri flutt til landsins en ekki það ár sem þau urðu til erlendis. 

                Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 2. mgr. 60. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt, skal að jafnaði telja til tekna tekjur á því ári sem þær stofnast, nema um „óvissar tekjur“ sé að ræða.  Hér er á það að líta að hagnaður ákærða af hlutabréfaviðskiptunum leiddi af samningsbundnum rétti hans sem hann réði sjálfur hvenær hann hagnýtti sér.  Getur hagnaðurinn því ekki talist vera óvissar tekjur í skilningi þessa ákvæðis skattalaga.  Þá gefa önnur ákvæði laganna eða lögskýringargögn ekki tilefni til þess að miða hér við annað ár en eiginlegt tekjuár.  Loks er þess að geta að skattalög gera ekki mun á því hvort tekjur falla til erlendis eða hérlendis og er í þessu sambandi á það að líta að það var einnig á valdi ákærða hvenær hann flutti féð til landsins.  Umrædd greiðsla var því framtalsskyld samkvæmt 1. tl. A-kafla 7. gr. eldri og núgildandi laga um tekjuskatt.  Verður að meta ákærða það til stórkostlegs hirðuleysis að hafa ekki talið hana fram á framtali árið 2000.  Telst hann þannig hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

3.b: Vantaldar tekjur í formi launauppbótar (bónusgreiðslu) hjá Baugi hf. í skattframtali 2001.

                Fyrir liggur að 31. mars 2000 voru greiddar af reikningi Baugs hf. í Lúxemborg inn á reikning ákærða 5.000.000 króna.  Þá liggur einnig fyrir að ákærði taldi þessa greiðslu ekki fram til skatts sem laun á framtali sínu 2001.  Í málinu er ljósrit skuldabréfs ákærða, útgefið 31. mars 2000 með einum gjalddaga, 31. mars 2005.  Bréf þetta var hins vegar ekki stimplað fyrr en 20. desember 2002.  Ákærði var yfirheyrður um þetta tilvik hjá skattrannsóknarstjóra í apríl 2004 og sagði það hafa verið uppgjör á launabónus til sín.  Hefði hann fengið greiðslu þessa fyrir fram upp í launabónus  en sett skuldabréf á móti greiðslunni og þetta gert upp síðar, á árinu 2002 og þá gerð grein fyrir greiðslunni á launamiða.  Hann hefði svo greitt upp skuldabréfið.  Hafi því í raun verið um lán til hans að ræða.  F var yfirheyrð um þetta atriði hjá skattrannsóknarstjóra í mars 2004 og kvaðst hún ekki kannast við að hafa séð þessa greiðslu í bókhaldi Baugs á árinu 2000.  Ð sagði einnig við yfirheyrslu í apríl þetta ár að honum hefði ekki verið kunnugt um þessa greiðslu.

                Ákærði hefur sagt um þetta atriði málsins fyrir dómi að hann hafi á þessum tíma verið fjárþurfi vegna einhverra fjárfestinga en eftir að kaupréttarmálin fóru í uppnám haustið 1999, í kjölfar hæstaréttardómsins, hafi þetta vandkvæði verið leyst með því að hann samdi við eigendur félagsins um það að hann félli frá kaupréttinum sem gert var ráð fyrir í upphafi en í staðinn voru honum greiddar fimm milljónir króna sem hann setti skuldabréf á móti.  Hann kveðst hafa sagt upp störfum í október árið 2002 en í janúar 2003 hafi hann fengið fimm milljóna króna launabónus sem hafi verið talinn fram á hann á sérstökum launamiða.  Kveðst hann hafa greitt staðgreiðslu skatts af þeirri þóknun.  Hafi þessi fjárhæð verið notuð sem innágreiðsla á skuldabréfið.  Þá hafi hann í mars árið 2003 greitt eitthvað á aðra milljón til þess að greiða bréfið upp að fullu.  Þannig sé þessi fimm milljóna króna bónus, sem haldið sé fram að hann hefði átt að telja fram, í raun og veru tæplega sjö milljóna króna skuld sem hann hafi greitt úr eigin vasa.  Sé því alls ekki um neina bónusgreiðslu að ræða.  Þótt einhverjum kunni að þykja þetta kynlegt verði að hafa í huga að hann hafði sagt upp störfum hjá félaginu þegar hér var komið sögu og gat ekki vænst þess að semja við félagið um hagkvæmari lausn á þessu síðar.  Um dagsetningu stimpilsins á skuldabréfinu segir ákærði að hann viti ekki í hvers höndum bréfið var á þeim tíma eða hvernig á stimplinum standi.   

Niðurstaða

                Eins og fyrr sagði gaf ákærði þá skýringu á greiðslunni þegar hann var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra að um launabónus væri að ræða en sagðist jafnframt hafa afhent skuldabréf á móti sem hann hefði svo síðar gert upp.  Fyrir dómi hefur hann hins vegar sagt að um lán hafi verið að ræða sem hann hefði svo greitt upp með vöxtum.  Hafi þetta lán komið í stað samningsbundins kaupréttar hans að hlutabréfum í Baugi.  Er helst að skilja ákærða svo að félagið hafi rift þessu samningsákvæði.  Framburður ákærða um þetta sakaratriði hefur verið óstöðugur og dóminum þykja skýringar hans með nokkrum ólíkindum.  Þá getur stimpillinn á skuldabréfinu ekki talist gera þær trúverðugri.  Dómurinn álítur að umrædd greiðsla til ákærða hafi verið framtalsskyldar tekjur samkvæmt 1. tl. A-kafla 7. gr. eldri og núgildandi laga um tekjuskatt.  Verður að meta ákærða það til stórkostlegs hirðuleysis að hafa ekki talið hana fram á framtali árið 2001.  Telst hann þannig hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

III. Ákærðu Jón Ásgeir og Tryggvi vegna brota í rekstri Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.)

1.: Jón Ásgeir vegna rangra skilagreina á árunum 1998, 1999, 2000, 2001, 2002.     

                Ákærði var ráðinn forstjóri Baugs hf. með starfssamningi, dagsettum 18. júní 1998 og gegndi hann því starfi fram til þess að nýtt félag, Baugur Group hf., var stofnað á grunni Baugs hf. á aðalfundi félagsins, 30. maí 2002.  Tók meðákærði Tryggvi þá við forstjórastarfinu af ákærða.  Ákærði hefur þegar verið sýknaður af  því að vantelja tekjur sínar árin 2000, 2001, 2002 og 2003 vegna greiðslu Baugs hf. á líftryggingariðgjaldi, sbr. ákæruliði 2.A.a, 3.A.a, 4.A.a og 5.A.a, þar eð hann er ekki talinn hafa í því efni sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi.  Samkvæmt 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda varðar það mann refsingu ef hann af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil hans.  Hin huglægu refsiskilyrði eru m.ö.o. þau sömu og í tekjuskattslögunum.  Með vísan til rökstuðnings dómsins hér að framan um þessa ákæruliði ber þegar að sýkna ákærða af því að hafa skilað röngum skilagreinum vegna iðgjaldsgreiðslna varðandi hann sjálfan, svo og vegna iðgjaldsgreiðslna varðandi Tryggva Jónsson, Á og E og af því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu af þessu fé. 

                Koma þá til athugunar staðgreiðsluskil af greiðslum frá Baugi hf. til þeirra E, Á og ákærða Tryggva.

a. Röng skilagrein, desember 1998, varðandi greiðslu til ákærða Tryggva frá Baugi hf., að fjárhæð 5.000.000 krónur.

                Áður er gerð grein fyrir þessari greiðslu til ákærða Tryggva undir lið II.1 og þar er jafnframt ályktað að hún hafi verið laun sem ákærða Tryggva hafi borið að telja fram til skatts.  Leiðir af því að skylt var samkvæmt 20. gr. staðgreiðslulaga að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af þessari fjárhæð, 1.951.000 krónum, og afhenda skilagrein fyrir því.  Það liggur jafnframt fyrir að hvorugt var gert á þeim tíma sem áskilinn er í staðgreiðslulögunum.  Fram er komið í málinu að Baugur hf. var á þessum tíma með mikil umsvif og fjölda starfsmanna.  Þá hefur það einnig komið fram að sérstök launadeild félagsins sá um það að reikna út laun og skatta starfsmanna, útbúa skilagreinar og gera skil á staðgreiðslufé.  Ákærði segist ekki muna sérstaklega eftir þessari greiðslu. 

Niðurstaða

                Á það er að líta að greiðsla þessi var til eins af æðstu stjórnendum félagsins.  Þá var hún fyrir utan venjuleg launakjör starfsmanna félagsins og ákærði átti auk þess þátt í því að semja um hana.  Álítur dómurinn að honum hafi borið sérstök skylda til þess að gæta að því að hennar væri getið í skilagrein og að félagið stæði skil á staðgreiðslu af henni.  Verður að meta honum það til stórkostlegs hirðuleysis að svo skuli ekki hafa verið gert og hefur hann með þessari vanrækslu orðið sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

b. Röng skilagrein, júní 1999, varðandi greiðslu til E að fjárhæð 5.100.000 krónur.

                E var á þeim tíma sem hér skiptir máli framkvæmdastjóri Hagkaupa hf., dótturfélags Baugs hf.  Fyrir liggur að hann þáði frá Baugi hf. 5.100.000 krónur 10. júní 1999.  Á hreyfingalista félagsins vegna rekstrarársins 1999 stendur þetta við greiðsluna: „Jón Ásgeir Jóhannesson, millif. v/E.“  Á launaseðli til E fyrir apríl 2003 er hins vegar getið jafnhárrar bónusgreiðslu.  Þá er í málinu yfirlýsing ákærða, dagsett 18. maí 1999, til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis þar sem segir að E eigi inni söluhagnað vegna hlutabréfa að verðmæti 5 milljónir króna, innleysanlegan frá og með 12. júní 1999.  E sagði í skýrslu hjá lögreglu í apríl 2003 að um væri að ræða bónusgreiðslu vegna ársins 1998 sem ákærði hefði lofað honum ef honum tækist að snúa við rekstri Hagkaupa á árinu 1998.  Þegar ákærði var yfirheyrður um þetta atriði málsins hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins ári seinna staðfesti hann að þetta væri nákvæmlega rétt hjá E.  Þá sagði hann að skattyfirvöldum hefði ekki verið gerð grein fyrir þessari greiðslu á þeim tíma sem hún átti sér stað en þetta hefði verið gert upp árið 2003.  Fyrir dómi hefur ákærði sagt að þessi greiðsla hafi verið lán til E en ekki launagreiðsla og hafi hún því ekki verið bókfærð sem launagreiðsla hjá félaginu.

                E hefur komið fyrir dóm og sagt að um árangurstengda greiðslu eða bónusgreiðslu hafi verið að ræða en hún muni hafa verið færð sem lán til að byrja með.  Hafi ekki verið dregin af henni staðgreiðsla fyrr en síðar og gæti það hafa verið árið 2003.  Kveðst hann halda að þetta hafi verið látið ófrágengið því alltaf hafi legið ljóst fyrir að þetta væri greiðsla til hans.

Niðurstaða

                Sú viðbára ákærða fyrir dómi, að greiðslan til E hafi verið lán, hefur engan stuðning af gögnum málsins og er í mótsögn við það sem haft var eftir honum undir skattrannsókninni.  Þá rekst hún á framburð E sem frá upphafi hefur sagt þetta hafa verið bónusgreiðslu.  Loks þykir yfirlýsing ákærða til sparisjóðsins í maí 1999 og einnig síðbúinn launaseðill til E styðja framburð E um tilurð greiðslunnar.  Álítur dómurinn óhætt að byggja á framburði hans um greiðsluna og það sé sannað í málinu að um launagreiðslu til hans hafi verið að ræða.   Á það er að líta að greiðsla þessi var til hátt setts manns hjá félaginu.  Þá var hún fyrir utan venjuleg launakjör starfsmanna þess og ákærði ákvað hana sjálfur.  Bar honum sérstök skylda til þess að gæta þess að hennar væri getið í skilagrein og að félagið stæði skil á staðgreiðslu af henni.  Verður að meta honum það til stórkostlegs hirðuleysis að svo skuli ekki hafa verið gert og hefur hann með þessari vanrækslu orðið sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

     c. Röng skilagrein, desember 1999, varðandi afhendingu bíls, að fjárhæð 6.891.722 krónur, og húsgagna, að fjárhæð 300.000 krónur, til Á.

                Meðal gagna málsins er kvittun úr bókhaldi Baugs hf., undirrituð af Hrafnhildi Sigurðardóttur, sem mun vera eiginkona Á, fyrir móttöku á 300.000 krónum „vegna kaupa á notuðu antiksófasetti úr leðri“.  Þá eru í málinu bókhaldsgögn úr félaginu þar sem fram kemur að í árslok 1999 fékk Á afhentan Cadillac-bíl sem hann hafði haft til afnota sem stjórnarformaður félagsins þar til hann hætti í árslok 1999.  Bókfært verð bílsins hjá Baugi í árslok var 6.891.722 krónur en þá voru jafnframt færðar 2.891.722 krónur á reikningslykil fyrir „Gjaldfærðir starfslokasamningar“ og 4 milljónir króna inn á lykilinn „Viðskiptamannar. eigendur-stjórnendur“.  Í árslok 2000 var viðskiptaskuld Á við félagið afskrifuð og fjárhæðin 4.128.201 króna færð á reikningslykilinn „Ýmislegt ófrádráttarbært“.   

Niðurstaða

                Óumdeilt er að þessi verðmæti voru hluti af greiðslu til Á samkvæmt starfslokasamningi hans við félagið.  Að því er varðar bílinn umrædda álítur dómurinn rétt að miða við það verðmæti bílsins, sem samið var um, 4.000.000 króna. Þá liggur það fyrir að ákærði átti þátt í því að semja um þessar greiðslur við hann.  Loks liggur það fyrir að félagið taldi þetta ekki fram sem laun á Á og að ekki var gerð skilagrein um þessa greiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs eða staðin skil á staðgreiðslu af henni.  Athuga verður að greiðsla þessi var til eins af æðstu stjórnendum félagsins.  Þá var hún fyrir utan venjuleg launakjör starfsmanna þess og ákærði átti auk þess þátt í því að semja um hana.  Álítur dómurinn að ákærða hafi borið sérstök skylda til þess að gæta að því að hennar væri getið í skilagrein og að félagið stæði skil á staðgreiðslu af henni. Verður að meta ákærða það til stórkostlegs hirðuleysis að svo skuli ekki hafa verið gert og hefur hann með þessari vanrækslu orðið sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 

d. Röng skilagrein, mars 2000, varðandi greiðslu til ákærða Tryggva að fjárhæð 5.000.000 króna.

                Áður er gerð grein fyrir þessari greiðslu til ákærða Tryggva undir lið II.3.b og þar er jafnframt ályktað að hún hafi verið laun sem ákærða Tryggva hafi borið að telja fram til skatts.  Leiðir af því að skylt var samkvæmt 20. gr. staðgreiðslulaga að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af þessari fjárhæð, 1.927.821 krónu, og afhenda skilagrein fyrir því.  Það liggur jafnframt fyrir að hvorugt var gert á þeim tíma sem áskilinn er í staðgreiðslulögunum.  Fram er komið í málinu að Baugur hf. var á þessum tíma með mikil umsvif og fjölda starfsmanna.  Þá hefur það einnig komið fram að sérstök launadeild félagsins sá um það að reikna út laun og skatta starfsmanna, útbúa skilagreinar og gera skil á staðgreiðslufé.  Ákærði var yfirheyrður um þessa greiðslu hjá skattrannsóknarstjóra í apríl 2004 og kannaðist hann ekki við hana.  Gæti hann því ekki tjáð sig um hana.  Fyrir dómi hefur ákærði sagt um þessa greiðslu að um sé að ræða sambærilegt lán við það sem E hafi verið veitt.  Bendir hann á að fyrir greiðslunni séu í gögnum málsins bæði skuldabréf á móti henni og uppgreiðslutilkynning. 

Niðurstaða

                Sem fyrr segir hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að umrædd greiðsla hafi verið laun en ekki lán eins og ákærði heldur fram.  Á það er að líta að greiðsla þessi var til eins af æðstu stjórnendum félagsins.  Þá var hún fyrir utan venjuleg launakjör starfsmanna félagsins og ákærða hlaut að vera kunnugt um hana þegar hún var gerð.  Álítur dómurinn að ákærða hafi borið sérstök skylda til þess að gæta þess að hennar væri getið í skilagrein og að félagið stæði skil á staðgreiðslu af henni.  Verður að meta honum það til stórkostlegs hirðuleysis að svo skuli ekki hafa verið gert og hefur hann með þessari vanrækslu orðið sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

2.: Tryggvi vegna rangra skilagreina á árinu 2002.

                Eins og áður er komið fram var ákærði ráðinn forstjóri Baugs hf. á aðalfundi félagsins, 30. maí 2002 að hann tók við því starfi af  Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.  Ákærði Jón Ásgeir hefur verið sýknaður af  því að vantelja tekjur sínar vegna greiðslu Baugs hf. á líftryggingariðgjaldi, sbr. ákæruliði 2.A.a, 3.A.a, 4.A.a og 5.A.a, þar eð hann telst í því efni ekki hafa sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi.  Þá var hann, með vísan til þessa, sýknaður af því í næsta lið hér að framan að hafa skilað röngum skilagreinum vegna iðgjaldsgreiðslna og af því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu af þessu fé.  Jafnframt því að vísa til umfjöllunar dómsins um þessa liði ber þegar að sýkna ákærða Tryggva af því að hafa skilað röngum skilagreinum vegna iðgjaldsgreiðslna varðandi hann sjálfan, svo og vegna iðgjaldsgreiðslna varðandi Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggva Jónsson og E og af því að hafa ekki jafnframt staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu af þessu fé. 

                Koma þá til athugunar staðgreiðsluskil af 8 milljón króna greiðslu frá Baugi hf. til E, 14. júní 2002.    

                Í málinu er ljósrit af ráðningarsamningi Baugs hf. við E, dagsettum 10. janúar 2001.  Segir þar meðal annars að E eigi kauprétt að hlutabréfum í félaginu að nafnvirði 1.677.000 krónur á genginu 6,64 það árið.  Samkvæmt yfirliti um hreyfingar á hlutabréfum í Baugi á reikningi í Kaupþingi í Lúxemborg voru tekin út bréf af reikningnum fyrir 8 milljónir króna að nafnverði, hinn 14. júní 2002.  Var greiðslan lögð inn á reikning E þar í bankanum.  Þá er í málinu staðfesting frá bankanum til hans, dagsett 4. október 2002 þar sem segir að bankinn hafi þann dag selt fyrir hann „ISK 8.000.000 Bonds Skuldabref E 12% 14.06. 2007“ fyrir 8.291.944 krónur. 

                E sagði um þessa greiðslu og aðrar af því tagi í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra í apríl 2004, að ákærði hefði viljað „gera upp kaupréttina“ við hann.  Hefði ákærði sagt að hann skyldi kaupa bréfin en Kaupþing Lúxemborg myndi lána honum fyrir kaupunum.  Gæti hann þannig nýtt sér þessa kauprétti.  Hefði hann aðgang að þessum peningum sem láni og yrðu kaupréttirnir gerðir upp síðar.  Fram að því yrði litið á þetta sem lán.  Kvaðst E hafa greitt bréf þessi upp á árinu 2003.   Hann kvaðst ekki hafa samið um þetta við aðra en ákærða Jón Ásgeir en Tryggvi hefði hins vegar séð um að útfæra þetta.  E hefur sagt um þessa greiðslu fyrir dómi að hún hafi verið greidd honum  „sem lán“  en hún hafi verið hluti af kauprétti hans samkvæmt ráðningarsamningi.  Hins vegar hafi það alltaf verið ófrágengið hjá Baugi hvernig ætti að „útfæra“ slíkt og hafi hann fengið þetta sem lán, reyndar frá Kaupþingi, sem tímabundna lausn það árið.  Hafi hann látið skuldabréf á móti greiðslunni.  Hann hafi hins vegar hvorki talið fram eignir né skuldir vegna þessarar greiðslu á skattframtali vegna þessa árs.                                                                                                                                                                                        

                Ákærði hefur sagt um þessa greiðslu fyrir dómi að hann hafi aldrei haft afskipti af neinum málefnum sem snertu E heldur hafi meðákærði Jón Ásgeir eða aðrir í stjórn Baugs séð um samninga við hann.  Þá tekur hann fram að hann hafi skyndilega þurft að taka við forstjórastarfi hjá félaginu 30. maí 2002 eftir að þáverandi stjórnarformaður hefði tilkynnt um það deginum áður að hann hygðist láta af störfum.  Hann hafi þó í reynd ekki hafið störf strax þar sem hann fór af landi brott 31. maí. Hafi hann ekki komið aftur til lands fyrr en 20. júní og hafið störf þá.  Hann hafi þannig engin afskipti haft af neinum greiðslum fyrir þann tíma eða vitað neitt um þær.  Hann hafi ekki frétt af þessari tilteknu greiðslu fyrr en um haustið.  Annars telji hann sig muna að ekki hafi verið um þóknun að ræða heldur lán samkvæmt skuldabréfi.  Annað geti hann ekki upplýst um þessa greiðslu. 

Niðurstaða

                Af framburði E um þessa greiðslu og gögnunum sem hana varða er ekki hægt að ráða annað en að um hafi verið að ræða kaupréttargreiðslu sem dulbúin var sem lán til hans.  

                Þá liggur fyrir að hann fékk þessa fjárhæð greidda inn á reikning sinn hjá Kaupþingi í Lúxemborg.  Á það er að líta að greiðsla þessi var til hátt setts manns hjá félaginu.  Þá var hún fyrir utan venjuleg launakjör starfsmanna þess.  Bar ákærða sérstök skylda, vegna stöðu sinnar hjá félaginu og sérþekkingar, að gæta þess að hennar væri getið í skilagrein og að félagið stæði skil á staðgreiðslu af henni.  Dugar ákærða ekki að bera það fyrir sig að hafa farið af landi brott daginn eftir að hann tók við starfi framkvæmdastjóra félagsins og dvalið erlendis þrjár fyrstu vikurnar í starfinu.  Verður að meta ákærða það til stórkostlegs hirðuleysis að hafa ekki látið gera skilagrein um þessa greiðslu og staðgreiða af henni skatt á þeim tíma sem lög ákveða, sbr. það sem segir um þetta undir lið II.2.b hér að framan.  Hefur hann með þessari vanrækslu orðið sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

IV. Brot ákærðu Jóns Ásgeirs, Kristínar og fjárfestingafélagsins Gaums ehf. í rekstri þess félags.

1: Ákærðu Jón Ásgeir og Gaumur ehf. vegna rangra skilagreina 1999.

a. Rangar skilagreinar varðandi laun til A.

                Samkvæmt gögnum úr hlutafélagaskrá var ákærði Jón Ásgeir stjórnarmaður og prókúruhafi í Gaumi á því tímabili sem hér um ræðir.  Framan af eða til 30. ágúst 1999 var C framkvæmdastjóri félagsins að ákærða Kristín tók við því starfi.  Í skýrslu, sem ákærði gaf hjá skattrannsóknarstjóra í maí 2004, kvaðst hann hafa starfað sem framkvæmdastjóri í hlutastarfi fyrir félagið árin 1998 og 1999 og fram á árið 2000.  Þá hefði hann verið einn af stofnendum félagsins, eigandi hlutafjár og stjórnarmaður frá upphafi.  Hefði félagið á þessum tíma fengist við veitingarekstur, rekstur fasteigna og fjárfestingar.  Í skýrslu hjá ríkislögreglustjóra í apríl 2006 sagðist hann þannig hafa í reynd verið framkvæmdastjóri með föður sínum Jóhannesi og systur sinni, meðákærðu Kristínu, eftir að hún tók við sem framkvæmdastjóri.  Hann kvaðst hafa þegið laun frá Baugi fyrir þennan starfa en á móti hefði Gaumur greitt fyrir vinnuframlag hans til Baugs.  Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra í maí 2004 sagði C að á þeim tíma sem hann hefði verið framkvæmdastjóri hefði hann sjálfur haft lítil afskipti af daglegum rekstri félagsins og hefðu þau Jón Ásgeir og Kristín sinnt honum.  Auk þeirra þriggja hefðu starfað hjá félaginu bókari og endurskoðandi.  

                Fyrir dómi hefur ákærði sagt að hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri Gaums á þessum tíma heldur hafi C verið það.  Hann kveðst hins vegar hafa gengið í ýmis störf fyrir félagið og verið stjórnarmaður í því.  Minni hann að hann hafi átt um 40 % hlutafjár í félaginu.  Hans aðalstarf á þessum tíma hafi hins vegar verið það að reka Bónus. 

                C hefur sagt að hann hafi verið einn af aðaleigendum Gaums á þessum tíma.  Hann hafi verið framkvæmdastjóri félagsins þar til ákærða Kristín tók við af honum.  Hann staðfestir að frásögn ákærða í skýrslu hjá ríkislögreglustjóra í apríl 2006 sé rétt.

                Meðal gagna málsins eru margvísleg bókhaldsgögn frá Gaumi ehf. varðandi þetta tímabil þar sem fram kemur að maður að nafni A, frændi ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar, hefur þegið greiðslur frá félaginu á þeim tíma sem hér skiptir máli.  Er gerð grein fyrir þessum greiðslum í yfirliti sem embætti ríkislögreglustjóra hefur gert í málinu og einnig tveimur tilvikum þar sem talið er að um bílahlunnindi A sé að ræða.  Er þessi ákæruliður byggður á yfirlitinu.  Bókhaldsgögnin bera það með sér að vinna A hefur að mestu verið fólgin í snúningum og bílaþrifum fyrir félagið og að laun til hans fyrir þetta hafa verið reiknuð eftir vinnustundum sem hann gaf starfsmanni ákærða upp.  Yfirvöld hafa talsvert haft fyrir því að rannsaka sýslur A fyrir Gaum ehf.  Þannig sagði ákærða Kristín í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra í maí 2004 að A hefði verið á vegum Jóns Ásgeirs hjá félaginu en Jón Ásgeir sagði í skýrslu í maí þetta sama ár að félagið hefði litið á A sem verktaka og því hefðu ekki verið talin fram á hann laun.  Hefði vinna hans árið 1999 verið viðhaldsvinna, bílaþrif og ýmsir snúningar.  Loks liggur það fyrir að félagið taldi greiðslurnar til A ekki fram sem laun á hann, lét ekki innheimtumanni ríkissjóðs í té skilagrein um launagreiðslur til hans og gerði ekki skil á staðgreiðslufé af þeim.

Fyrir dómi hafa ákærðu Jón Ásgeir og Kristín og þeir C og A borið að sá síðastnefndi hafi unnið fyrir félagið sem verktaki. 

Niðurstaða

Sem fyrr segir voru störf A að mestu leyti snúningar og þrif á bílum í eigu félagsins.  Ekki verður séð að A hafi verið sjálfstæður í þessum verkum sínum eða lagt annað til þeirra en persónulegt vinnuframlag sitt og þegið laun í tímavinnu, m.ö.o. að hann hafi verið daglaunamaður hjá félaginu.  Greiðslurnar til hans voru því laun en ekki verktakagreiðslur eins og ákærði heldur fram.  Ákærði Jón Ásgeir hafði beint yfir þessum ættingja sínum að segja, var stjórnarmaður í félaginu, eigandi og atkvæðamaður.  Var honum því skylt að gæta þess að launagreiðslnanna til A væri getið í skilagrein og að félagið stæði jafnframt skil á staðgreiðslu af þeim.  Verður að meta honum það til stórkostlegs hirðuleysis að svo skuli ekki hafa verið gert og hefur hann með þessari vanrækslu orðið sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 

b. Rangar skilagreinar varðandi bílahlunnindi A.

                Í gögnum málsins er ekki að finna samning um bílahlunnindi A.  Ekki er þar heldur að finna önnur gögn sem bendi sérstaklega til þess að hann hafi haft slík hlunnindi.  Þá hefur enginn þeirra, sem skýrslur hafa gefið í málinu, borið í þessa veru.  Þvert á móti ber þeim saman um að A hafi notað bílanna í þágu þeirra verka sem hann vann fyrir félagið.  Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af þessu ákæruatriði.

c. Þáttur fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

                Auk ákærða Jóns Ásgeirs er fjárfestingafélagið Gaumur ehf. saksótt samkvæmt þessum ákærulið.  Samkvæmt 9. mgr. 30. gr. staðgreiðslulaganna má gera lögaðila fésekt fyrir brot á lögunum, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af því.  Ekki er að sjá að athæfið, sem hér er ákært fyrir, hafi verið framið til hagsbóta fyrir félagið og hefur ekki verið reynt að sýna fram á það heldur.  Verður enda að telja að annað hafi hér vakað fyrir ákærða.  Í reynd er um hagsbæturnar óverulegar að ræða og tengdar greiðslum í lífeyrissjóð og greiðslum tryggingargjalds.  Ber því að sýkna félagið af þessum ákærulið.

2: Ákærðu Kristín og Gaumur ehf. vegna rangra skilagreina árin 1999, 2000, 2001 og 2002.

                Samkvæmt gögnum málsins og framburði ákærðu og annarra varð hún framkvæmdastjóri Gaums ehf. 27. ágúst 1999 þegar faðir hennar, C, lét af þeim starfa, eins og áður er fram komið. 

a. Rangar skilagreinar varðandi bílahlunnindi ákærða Jóns Ásgeirs og A.

                Um leið og vísað er til þess sem rakið var og ályktað hér að framan um bílahlunnindi ákærða Jóns Ásgeirs og A ber þegar að sýkna ákærðu af því að hafa ekki talið slík hlunnindi fram á þá til staðgreiðslu opinberra gjalda.

b. Rangar skilagreinar varðandi launagreiðslur til A.

                Koma þá til álita greiðslur frá Gaumi ehf. til A.  Ákærða segir A hafa unnið sem verktaki fyrir félagið og hafa aðrir borið með henni um það, eins og rakið var.  Hafi hann unnið verk fyrir félagið að beiðni Jóns Ásgeirs og Jóhannesar.  Hafi verið um að ræða þrif á bílum félagsins og tilfallandi snatt.  Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur við A um þessi verk. 

                Meðal gagna málsins eru margvísleg bókhaldsgögn frá Gaumi ehf. varðandi þetta tímabil þar sem fram kemur að A hefur þegið greiðslur frá félaginu í september 1999 og í janúar, febrúar, apríl og júní 2000.  Er gerð grein fyrir þessum greiðslum í yfirlitinu, sem vikið var að og embætti ríkislögreglustjóra hefur gert í málinu, samtals 1.157.200 krónum.  Er þessi ákæruliður byggður á því yfirliti.  Á sama hátt og segir í umfjöllun dómsins um lið 1 hér að framan, bera bókhaldsgögnin það með sér að vinna A var að mestu fólgin í snúningum og bílaþrifum fyrir félagið og að laun til hans fyrir þetta voru reiknuð eftir vinnustundum sem hann gaf upp. 

Niðurstaða

                Ekki verður séð að A hafi verið sjálfstæður í þessum verkum sínum fyrir félagið á því tímabili sem hér um ræðir eða lagt annað til þeirra en persónulegt vinnuframlag sitt og þegið fyrir það laun í tímavinnu.  Verða greiðslurnar til hans því taldar laun en ekki verktakagreiðslur sem ákærða segir þær hafa verið.  Ákærða var framkvæmdastjóri félagsins á þeim tíma sem hér um ræðir.  Var henni því skylt að gæta að því að launagreiðslnanna til A væri getið í skilagrein og að félagið stæði jafnframt skil á staðgreiðslu af þeim.  Verður að meta ákærðu það til stórkostlegs hirðuleysis að svo skuli ekki hafa verið gert og hefur hún með þessari vanrækslu orðið sek um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 

c. Rangar skilagreinar varðandi launagreiðslur til Jóns Ásgeirs.

                Meðal greiðslna til ákærða Jóns Ásgeirs, sem ákært er fyrir að ekki hafi verið taldar fram og greidd staðgreiðsla af, eru 59.200.000 krónur, sbr. lið 4.B.b hér að framan.  Ákærða segir um þennan lið að um endurgreiðslu láns hafi verið að ræða.  Dómurinn hefur þegar fjallað um þetta atriði og komist að þeirri niðurstöðu að um launagreiðslu til hans hafi verið að ræða.  Ákærða var framkvæmdastjóri félagsins á þeim tíma sem hér um ræðir.  Var henni því skylt að gæta þess að launagreiðslu þessarar væri getið í skilagrein og að félagið stæði jafnframt skil á staðgreiðslu af henni.  Verður að meta ákærðu það til stórkostlegs hirðuleysis að þetta skuli ekki hafa verið gert og hefur hún með þessari vanrækslu orðið sek um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 

                Á margnefndu yfirliti lögreglunnar er greiðsla að fjárhæð 50.820 krónur sem sögð er vera dulin launagreiðsla til Jóns Ásgeirs 31. janúar 2000.  Greiðsla þessi er hluti af vantöldum launagreiðslum í ákærunni undir janúar 2000.  Í yfirlitinu er vísað um hana til skjals í gögnum málsins sem ekki ber saman við greiðslu þessa og er hún óskýrð.  Þá er í yfirlitinu greiðsla að fjárhæð 420.843 krónur.  Er vísað um þessa greiðslu til skjals í gögnum málsins sem ekki ber saman við þessa greiðslu og er hún einnig óskýrð.  Hefur ákæruvaldið ekki reynt að sanna sök á ákærðu að því er þessar greiðslur varðar.  Þannig var ákærða ekki spurð út í þessar greiðslur í aðalmeðferð málsins og ekki um þær fjallað að neinu leyti.  Verður að telja að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna sök á ákærðu varðandi greiðslur þessar.  Ber því að sýkna hana af ákærunni að þessu leyti.                 

d. Þáttur fjárfestingafélagsins Gaums ehf.

                Auk ákærðu Kristínar er fjárfestingafélagið Gaumur ehf. saksótt samkvæmt þessum ákærulið.  Samkvæmt 9. mgr. 30. gr. staðgreiðslulaganna má gera lögaðila fésekt fyrir brot á lögunum, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.  Ekki er að sjá að meðferðin á launum til A, sem hér er ákært fyrir, hafi verið framið til hagsbóta fyrir félagið og hefur ekki verið reynt að sýna fram á það heldur.  Verður enda að telja að annað hafi hér vakað fyrir ákærða.  Í reynd hafa hagsbæturnar verið óverulegar og tengdar greiðslum í lífeyrissjóð og greiðslum tryggingargjalds.  Ber því að sýkna félagið af því ákæruatriði. 

                Að því er varðar launagreiðsluna til ákærða Jóns Ásgeirs, að fjárhæð 59.200.000 krónur, er á það að líta að um verulega fjárhæð var að ræða og hlaut framkvæmdastjóra þess, meðákærðu Kristínu, að vera ljóst að félagið nyti hagsbóta af því að telja þetta ekki fram sem laun á meðákærða.  Ber því að sakfella félagið fyrir það að hafa gert ranga skilagrein að þessu leyti og að standa ekki skil á staðgreiðslu af þessari launagreiðslu, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 

3: Ákærðu Kristín og Gaumur ehf. vegna rangs skattframtals fyrir félagið gjaldaárið 2001 vegna ársins 2000.

a. Tekjur af söluhagnaði af hlutabréfum, 916.105.197 krónur, ekki taldar fram.

                Samkvæmt yfirliti yfir seld hlutabréf í Baugi hf. til Gaums Holding SA á árinu 2000 seldi Gaumur ehf. hlutabréf að nafnverði 200 milljónir króna og á markaðsgenginu 12,5.  Samkvæmt yfirlitinu var miðað við að skattalegt söluverð væri 2.500.000 krónur, skattalegt stofnverð væri 1.778.592.497 krónur og skattalegur söluhagnaður 721.407.503 krónur.  Þá kemur fram að söluhagnaðinum væri „frestað á móti fjárfestingu“ í Gaumi Holding SA, 788 milljónum króna á árinu 2000.  Fyrir liggur að söluhagnaðurinn var ekki færður til tekna á skattframtali Gaums ehf. 2001 og þar var heldur ekki gerð grein fyrir frestuninni.  Þá liggur fyrir að skattyfirvöld hafa ekki fallist á framtal félagsins að þessu leyti og álíta útreikningana vera ranga miðað við þær forsendur sem þar séu gefnar.  Væri rétt skattalegt stofnverð hlutabréfanna 1.594.185.527 krónur (2.997.669.631/376.075.379 x 200.000.000).  Samkvæmt þessu hefði skattskyldur hagnaður af sölunni numið 905.814.473 krónum (2.500.000.000 – 1.594.185.527).  Þá liggur fyrir að með samningi Gaums ehf. við fyrirtækið NRP ehf., dagsettum 15. nóvember 1999, lofaði Gaumur að selja því félagi hlutabréf, að nafnvirði 10 milljónir króna, fyrir 90 milljónir króna.  Að áliti skattyfirvalda var skattalegt stofnverð þessara hlutabréfa, reiknað á sama hátt og hér að ofan 79.709.276 krónur og hagnaður af þessari sölu 10.290.724 krónur.  Þannig var hagnaður Gaums ehf. af hlutabréfasölu á árinu 2000 vantalinn, að áliti skattyfirvalda, um 916.105.197 krónur (905.814.473 + 10.290.724).

                Ákærða Kristín hefur sagt fyrir dómi að endurskoðandi félagsins hafi séð um skattframtal þetta.  Kveðst hún vísa því á bug að hagnaðurinn hafi verið rangt talinn fram.  Tæknilegar hindranir á rafrænu framtali ríkisskattstjóra hafi komið í veg fyrir það að hægt væri að tilgreina hann.  Hafi ekki verið reitur á framtalinu fyrir söluhagnað á hlutabréfum.  Um það hvort byggt hafi verið á röngum útreikningi söluhagnaðarins hjá félaginu kveðst hún hafna því að svo hafi verið.    

                Ð, endurskoðandi Gaums ehf., hefur sagt fyrir dómi að þar sem reikningsskilareglur banni að innleysa hagnað af viðskiptum milli móður- og dótturfélags hafi hagnaðurinn sem slíkur ekki verið innleystur í ársreikningi Gaums.  Það hafi samt þurft að færa þennan 900 milljón króna söluhagnað af bréfunum í skattframtalinu.  Söluhagnaður sé skattskyldur en honum megi þó fresta.  Á þeim tíma sem um ræðir hafi mátt fresta söluhagnaði um tvenn áramót eða færa hann til lækkunar á stofnverði innlendra hlutabréfa.  Þegar hér var komið sögu, árið 2001, hafi verið komið til skjalanna rafrænt skattframtal frá ríkisskattstjóra.  Þegar átti að setja þennan söluhagnað inn á framtalið og færa síðan út á móti frestunina á söluhagnaðinum hafi aðeins verið einn reitur, nr. 40.20 á framtalinu en ekki tveir fyrir báðar fjárhæðirnar.  Kveðst hann hafa brugðist við þessu með því að setja 0 í þennan reit, þ.e. mismuninn á tveimur jafnháum fjárhæðum.  Úr þessu hafi svo verið bætt á næsta rafræna framtali hjá skattinum og búinn til nýr reitur, 40.25 fyrir frestaðan söluhagnað.  Þegar svo skattrannsóknarstjóri hafi kannað vinnugögn endurskoðanda vegna skattframtals ársins 2003 hafi komið í ljós af vinnugögnunum hvernig söluhagnaðurinn hafði verið reiknaður út og að honum hefði verið frestað, eins og fram komi í skýrslu skattrannsóknarstjóra.  Hann hafi ekki sent athugasemd um þetta til skattsins, enda hafi ekki verið unnt að gera á þessu rafræna formi.  Þá kveðst hann aðspurður ekki hafa gert skriflega athugasemd til skattsins út af þessu.  Hann segist ekki hafa sett sig inn í útreikning skattyfirvalda sem leiddi til þess að söluhagnaðurinn var sagður vantalinn.  

Niðurstaða

                Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt skal kaupverð hvers hlutabréfs teljast jafnt meðalkaupverði allra hlutabréfa sömu tegundar á hendi sama eiganda.  Hefur dómurinn yfirfarið útreikning skattyfirvalda á söluhagnaði af viðskiptum með hlutabréf í Baugi hf. á árinu 2000 með hliðsjón af þessari reglu og álítur hann vera réttan.  Nam hagnaðurinn af sölu bréfanna þannig 916.105.197 krónum.  Fyrir liggur að ekki var sérstakur reitur á vefframtali ríkisskattstjóra til þess að telja fram söluhagnað sem framteljandi kaus að fresta skattlagningu á, eins og síðar varð.  Þá liggur það einnig fyrir að af hálfu félagsins var ekki send inn athugasemd til skattyfirvalda um þetta atriði.  Loks liggur það fyrir að í vinnugögnum endurskoðenda félagsins fundust gögn sem styðja það sem fram er komið að ætlunin hafi verið að fresta skattlagningu söluhagnaðarins.  Á hinn bóginn verður að líta til þess að ekki var unnt fyrir skattyfirvöld að sjá það af ársreikningi félagsins að skattlagningunni hefði verið frestað og einnig til þess að engin athugasemd var send um þetta til skattyfirvalda.  Þar sem hér var um að ræða gríðarháa fjárhæð bar ákærðu að gera skattyfirvöldum skýra og skriflega grein fyrir því að söluhagnaður hefði orðið og að ætlunin væri að fresta skattlagningu hans, úr því að ekki var hægt að gera það á rafrænu eyðublaði skattsins.  Með því að láta þetta hjá líða gerðist ákærða sek um að hafa með stórkostlegu hirðuleysi skýrt villandi frá atriði sem máli skipti um tekjuskatt félagsins og um brot gegn 1. mgr. 109. laga um tekjuskatt, áður 1. mgr. 107. gr., sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.  

b. Oftalin vaxtagjöld í bókhaldi og skattframtali, 15.700.075 krónur.

                Í málinu er kvittun frá Íslandsbanka, dagsett 20. desember 2000, fyrir millifærslu á 15.700.000 krónum af reikningi Gaums inn á reikning í Kaupþingi Lúxemborg.  Á blaðið er orðið „vaxtagjöld“ handskrifað.  Þá er í málinu yfirlit um reikninginn í Íslandsbanka sem einnig sýnir þessa færslu.  Loks er að nefna handskrifaða bókunarblað en á því er færð fjárhæðin 15.700.075 og við hana fylgiskjalsnúmer.

                Ákærða Kristín hefur fyrir dómi sagt að hún hafi ekki haft með þetta atriði að gera, enda hafi það verið í höndum bókara félagsins.  Kveðst hún ekki hafa fylgst með einstökum færslum í bókhaldinu en hún segist vita til þess að þetta hafi verið fært eins og raunin varð fyrir mistök bókarans.

                D, bókari Gaums, hefur sagt fyrir dómi að hann hafi innt ákærðu Kristínu eftir því hvaða 15,7 milljón króna greiðsla þetta væri sem hefði verið færð inn á Kaupþing í Lúxemborg.   Hann kveðst ætla að Kristín hafi sagt að þetta væru vaxtagjöld vegna Gaums Holding, enda hafi hann skrifað „vaxtagjöld“ á færslukvittunina.  Aftur á móti hafi honum láðst að skrifa að þetta væri vegna Gaums Holding.  Þetta hafi svo orðið til þess að hann hafi gert mistök þegar skjalið var bókfært þar sem ekki stóð á því að þetta væri vegna Gaums HoldingAðspurður neitar hann því að ákærða Kristín hafi beðið hann um að færa þetta sem vaxtagjöld hjá Gaumi.

Niðurstaða

                Dómurinn álítur að ekki verði útilokað að umrædd vaxtagjöld hafi verið ranglega færð í bókhaldi Gaums fyrir handvömm eða mistök bókara.  Áður var sagt að á skattskyldum manni hvíli sú skylda að gæta þess að rétt sé talið fram.  Skylda þessi og ábyrgð hvílir einnig á fyrirsvarsmanni lögaðila samkvæmt 3. mgr. 90. gr., áður 91. gr., og 1. mgr. 109. gr., áður 107. gr., laga um tekjuskatt.  Eins rakið var, sá bókari félagsins um að færa þessa greiðslu í bókhaldi félagsins.  Aftur á móti hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að ákærða Kristín hafi haft með það að gera að gjöldin voru færð í bókhaldinu með þeim hætti sem raun varð á.  Lítur dómurinn svo á að sú skylda verði ekki með sanngirni lögð á herðar fyrirsvarsmanni lögaðila að hann fari yfir og leiðrétti slíkar bókhaldsfærslur.  Verður ákærðu ekki reiknað það til stórfellds hirðuleysis að hafa vegna þessarar röngu færslu vantalið vaxtagjöldin í framtali félagsins.  Ber því að sýkna hana af þessum ákærulið. 

c. Refsiábyrgð Gaums ehf.

                Samkvæmt 8. mgr. 109. gr., áður 107. gr., laga um tekjuskatt er heimilt að gera lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.   Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu.  Í íslenskri löggjöf er refsiábyrgð lögaðila undantekning frá hinni almennu reglu, að refsiábyrgð hvíli á einstaklingi. 

a-liður 3. tl. IV. kafla ákæru.

                Samkvæmt skattframtali félagsins fyrir rekstrarárið 2000 var yfirfæranlegt tap félagsins  214.388.835 krónur þegar tekið hafði verið tillit til frestunar söluhagnaðar.  Þá var í 5. mgr. 17. gr. laga um tekjuskatt og eignaskatt heimild til þess að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa um tvenn áramót frá söludegi.   Það að ekki var gerð grein fyrir þessum hagnaði gat því ekki haft áhrif á niðurstöðuna í framtalinu og álagningu skatts á félagið.  Engar vísbendingar eru um það heldur að ætlunin hafi verið að félagið kæmist hjá því að greiða tekjuskatt af söluhagnaðinum.  Eins og málið er vaxið þykja ekki vera efni til þess að gera Gaumi ehf. refsingu fyrir brot samkvæmt staflið a í 3. tl. IV. kafla ákærunnar.

b-liður 3. tl. IV. kafla ákæru.

                Áður sagði að ekki yrði útilokað að 15.700.075 krónur vaxtagjöld hefðu verið færð í bókhaldi vegna mistaka bókara.  Var ákærða Kristín sýknuð af ákærunni að þessu leyti.  Þykja ekki heldur vera efni til þess að gera félaginu refsingu vegna þessa atriðis og ber að sýkna félagið af refsikröfu.       

4: Ákærðu Kristín og Gaumur ehf. vegna oftalinna gjalda í skattframtali fyrir félagið gjaldaárið 2002 vegna ársins 2003 út af niðurfærslu hlutabréfa í NRG Pizza AB, 74.000.000 krónur.            

a. Refsiábyrgð ákærðu Kristínar.

                Í ársreikningi Gaums ehf. fyrir tekjuárið 2002 er undir liðnum fjármunatekjur og fjármagnsgjöld gjaldfærð niðurfærsla hlutabréfa, 74 milljónir króna.  Þá kemur sama fjárhæð fram á skattframtali félagsins í reit 36.50.  Aftur á móti verður það ekki séð af vinnugögnum endurskoðanda að þessi fjárhæð hafi verið færð til baka og er hún því meðal gjalda sem koma til frádráttar tekjum á þessu ári og gjaldstofninn lækkaður sem því nemur.  Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 18. maí 2004 sagðist ákærða halda að um væri að ræða hlutabréf í fyrirtækinu NRG AB í Svíþjóð, en Gaumur ehf. átti 43% hlut í því fyrirtæki.  Í skýrslu hjá embættinu 10. maí 2004 sagði Ð, endurskoðandi Gaums ehf., að um væri að ræða niðurfærslu hlutabréfa í þessu félagi vegna taprekstrar.  Hefði hún verið ákveðin á hluthafafundi í því félagi og hefði ákærða Kristín þá verið viðstödd.  Aftur á móti kvaðst hann ekki geta fullyrt að heimilt hefði verið að draga þessa niðurfærslu frá tekjum.

                Ákærða hefur borið fyrir dómi að hún hafi ekki gefið fyrirmæli um þessa færslu í framtalinu og hafi endurskoðandinn ákveðið að svo skyldi gert og gert þetta í lokafærslum endurskoðanda.  Hún kannast við að hafa verið á hluthafafundi í NRG Pizza AB þegar ákveðið var að færa niður verð hlutabréfanna. 

                Ð, endurskoðandi Gaums ehf., hefur sagt fyrir dómi að hlutaféð hafi verið talið tapað og því verið færðar niður í reikningsskilunum 74 milljónir króna.  Fyrir mistök hafi honum láðst að bakfæra þessa fjárhæð á skattframtali félagsins, enda muni þetta líklega ekki hafa verið ekki frádráttarbært á þessum tíma.  Hann segir oft vera „erfitt að stemma sig af við svona hluti“.  Hann kveðst álíta þetta vera „skattatæknilegt mál“ og af 19 ára reynslu sinni sem endurskoðandi geti hann sagt að rétt hefði verið að gefa kost á því að leiðrétta þetta á skattstofustigi án eftirmála.

                Vísað er til þess sem áður hefur verið sagt um ábyrgð og skyldur framtalsskyldra aðila, bæði einstaklinga og fyrirsvarsmanna lögpersóna.  Hér var um að ræða verulega fjárhæð sem færð var til gjalda á móti tekjum í skattframtalinu í andstöðu við 1. tl. 5. mgr. 31. gr. nýrri og eldri laga um tekjuskatt.  Ákærða Kristín átti þátt í því að hlutafé NRG Pizza AB var fært niður og bar henni að gæta þess sérstaklega að rétt væri með þetta atriði farið í skattframtali félagsins.  Meta verður ákærðu það til stórkostlegs hirðuleysis að hafa látið telja þessa niðurfærslu hlutafjár í NRG Pizza AB til gjalda á móti tekjum Gaums ehf.  Telst hún því hafa brotið gegn 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

b. Refsiábyrgð Gaums ehf.

                Samkvæmt skattframtali félagsins 2003 var yfirfæranlegt tap 742 milljónir króna.  Það verður því ekki séð að þessi gjaldfærsla í skattframtalinu hefði breytt neinu um álögð gjöld samkvæmt þessu framtali.  Þykja ekki vera efni til þess að gera félaginu refsingu vegna þessa atriðis og ber að sýkna félagið af refsikröfu vegna þessa sakaratriðis.     

V. Brot ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar í rekstri fjárfestingafélagsins Gaums ehf. (hf.)

a. Brot ákærðu samkvæmt 2. mgr. (ekki 1. mgr., eins og segir í ákæru) 109. gr., áður 2. mgr. 107. gr., skattalaga.

                Ákærðu er gefið að sök „meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að skila skattframtali fyrir Gaum ehf. (hf.) gjaldaárið 1999 vegna fyrstu 6 mánaða ársins 1998...“

                Fyrir liggur að í júní 1998 var Gaumi ehf. skipt upp í tvö félög, Gaum hf. og fjárfestingafélagið Gaum ehf.  Þá liggur það einnig fyrir að á skattframtali gjaldárið 1999 var gerð grein fyrir tekjum Gaums ehf. á fyrstu sex mánuðum ársins 1998 í sameiginlegu framtali fyrir allt það árið bæði vegna félagsins sem skipt var og þeirra félaga sem urðu til við skiptinguna.  Ætla mætti að fyrir ákæruvaldinu hafi vakað að saksækja ákærðu fyrir það að hafa ekki talið fram tekjur félagsins fyrstu sex mánuði ársins í sérstöku framtali en í því tilviki hefði borið að taka það skýrt fram.  Eins og ákæruliðurinn er úr garði gerður er ekki annars kostur en að sýkna ákærðu þegar af þessari sakargift og kemur því ekki til álita í málinu hvort það var yfir höfuð refsivert fyrir ákærðu að telja ekki fram í sérstöku framtali tekjur félagsins á fyrri helmingi ársins 1998, eða þar til því var skipt.

b. Brot ákærðu samkvæmt 1. mgr. 109. gr., áður 1. mgr. 107. gr., skattalaga.

                Þá er ákærðu í þessum ákærukafla gefið að sök að „hafa vantalið skattskyldar tekjur félagsins um kr. [174.809.492], sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður lög nr. 75/1981, að teknu tilliti til nýtingar heimildar til að fresta tekjufærslu á kr. 107.030.554 af söluhagnaðinum af sölu á hlutabréfum. Söluhagnaðurinn sem samtals nam kr. [281.840.046], var af sölu félagsins á 25 % eignarhluta Gaums ehf. í félögunum Bónus sf., Ísþori ehf. og Bónusbirgðum ehf. og 12,5 % eignarhlut í Baugi ehf. sem gengu, ásamt peningalegri milligjöf, til greiðslu á kaupverði vegna kaupa Gaums ehf. á 25 % hlutafjár í fyrirhuguðu félagi, Hagkaupi hf., sem síðar fékk kennitöluna [...], samkvæmt kaupsamningi Gaums ehf. (hf.) við eigendur Hagkaupa hf., kt. [...], dags. 3. júní 1998, og hafa með þessu komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð kr. [52.442.848]“. 

Skilja verður þetta atriði ákærunnar svo að ákærðu sé gefið að sök að hafa skýrt rangt eða villandi frá í skattframtali með því að vantelja skattskyldar tekjur félagsins fyrstu sex mánuði ársins 1998, eins og þar er útlistað.

                Í tilkynningu til hlutafélagaskrár hinn 6. desember 1995 um nýjar samþykktir fyrir Ísalda hf. kemur fram að Kristín Jóhannesdóttir er formaður stjórnar félagsins og C og Jón Ásgeir Jóhannesson eru meðstjórnendur og prókúruhafar.  Hinn 28. október 1998 er hlutafélagskrá tilkynnt, að á fundi daginn áður, 27. október 1998, hafi nafni Ísalda ehf. verið breytt í fjárfestingafélagið Gaum ehf.  Síðan var tilkynnt um kjör á endurskoðanda.  Stjórn félagsins var þannig óbreytt.  Hinn 16. nóvember 1999 tilkynna C og Kristín Jóhannesdóttir hlutafélagaskrá að fjárfestingafélagið Gaumur ehf. hafi frá og með 30. júní 1998 tekið við öllum eignum og skuldum Gaums hf., réttindum og skyldum að undanskildum nánar tilgreindum eignarhlutum.  Hluthafar Gaums hf. hafi einungis fengið hluti í fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. í skiptum fyrir hlutabréf sín í Gaumi hf.  Í gögnum málsins kemur fram að til sé árshlutauppgjör fyrir Gaum hf.  Í tilkynningu til hlutafélagaskrár dagsettri 30. ágúst 1999 er stjórn fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og framkvæmdastjórn breytt þannig að C varð stjórnarformaður og Jón Ásgeir og Kristín voru meðstjórnendur. Tekið var fram að Kristín væri kjörin í framkvæmdastjórn félagsins og síðan er handrituð viðbót við tilkynninguna um að hún sé einnig prókúruhafi.  Hinn 31. maí 2000 tilkynnir KPMG Hlutafélagaskrá um samruna Fjárfestingafélagins Gaums ehf. og Litla fasteignafélagsins ehf. 

                Fyrir liggur að árið 1998 fór fram gagnger endurskipulagning á félögum í eigu Gaums.  Þær tekjur sem talið er að hafi verið rangt taldar fram voru hagnaður af sölu á fjórðungi af eignarhluta Gaums í félögunum Bónus sf., Ísþori ehf. og Bónusbirgðum ehf.  Ennfremur af sölu á áttunda hluta hlutabréfa í Baugi ehf. sem hafi orðið hluti af greiðslu fyrir fjórðungshlut í Hagkaupum hf.

                Rétt er að rekja í stuttu máli sögu þessa þáttar málsins.  Ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd fjölluðu um það í úrskurðum árið 2004 og 2007 og var það niðurstaða í báðum úrskurðunum að vantalinn hefði verið söluhagnaður að fjárhæð 668.519.432 krónur, upphaflega fjárhæðin í þessum ákærulið.  Var á því byggt að miða bæri við söluverð í kaupsamningi 19. júní s.á., þar sem seldur var 75% hluti Hagkaupa hf., þegar söluverð 25% eignarhlutar Bónusar sf. var metið og söluhagnaður stefnanda skattlagður.  Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu í febrúar 2008 og krafðist þess aðallega að felld yrði niður þessi tekjuviðbót í skattskilum félagsins árið 1999 vegna tekjuársins 1998 vegna meints söluhagnaðar af sölu á 25% eignarhluta í Bónus sf. við kaup stefnanda á hlutabréfum í Hagkaupum hf., en til vara að í stað 668.519.432 króna yrðu félaginu færðar til tekna 174.809.492 krónur í skattskilum þess árið 1999 vegna söluhagnaðar af sölu á 25% eignarhluta í Bónus sf. við kaup stefnanda á hlutabréfum í Hagkaupum hf.  Í endanlegum dómi í málinu, sem gekk 18. desember 2008, var þessi viðmiðun skattyfirvalda ekki talin standast þar sem mismunandi forsendur hefðu ráðið verði bréfanna í þessum tveimur tilvikum og ekki væri unnt að líta svo á að um raunverulega jafngild verðmæti hafi verið að ræða.  Mætti ekki eingöngu miða við dagsetningar samninganna, 3. og 19. júní 1998, þegar leyst væri úr því hvort þeir hefðu verið gerðir á sama eða sambærilegum tíma.  Fyrri samningurinn ætti sér augljóslega langan aðdraganda en hann væri byggður á samkomulagi sem gert var 31. desember 1997.  Þótt þar hefði ekki komið fram verðmat, hefði slíkt mat verið gert stuttu síðar eða 9. janúar 1998.  Við mat á eðlilegu verði yrði að miða við mun eldri dagsetningu en gert var í úrskurðunum þar sem tekið væri tillit til aðstæðna og aðdraganda samningsins. Á þessum tíma hefðu hvorki hlutabréf í Hagkaupum hf. né hlutur í Bónus sf. verið á markaði og því hefði að hluta til verið stuðst við þau verðmæti sem aðilar töldu þá að væru sanngjörn út frá rekstrarlegu sjónarmiði.  Þá væri þess einnig að gæta að í aðdraganda kaupsamningsins 19. júní hefði fyrst verið boðinn helmingur endanlegs kaup­verðs fyrir 75% hluta í Hagkaupum hf., en þegar ekki hefði verið fallist á það tilboð hefðu menn sæst á tvöfalt hærra verð.  Væri því mjög líklegt að kaupverðið 19. júní 1998 hefði verið umfram raun­veru­leg verðmæti og að aðrir hagsmunir hefðu verið í húfi en þau verðmæti sem um var að tefla þegar samningurinn var gerður 3. júní s.á.

                Þá kemur fram í dóminum að útreikningar skattrannsóknarstjóra á vantöldum tekjum stefnanda umrætt ár væru miðaðir við að félaginu hefði að minnsta kosti borið að nota til viðmiðunar verðmatið frá 9. janúar 1998, en þar hefði verið miðað við að verðmæti Bónuss sf. væri 1.300.000.000 krónur.  Þar sem um væri að ræða sölu á fjórðungs hlut í fyrirtækinu yrði að miða við að verðmat hins selda hefði verið 325.000.000 króna.  Söluhagnaður af því væri 174.809.492 krónur.  Þar sem þeim útreikningi hefði ekki verið mótmælt af hálfu félagsins væri rétt að miða við þá fjárhæð.  Ákæruvaldið hefur, eins og áður er komið fram, breytt fjárhæðum ákæruliðarins í samræmi við þessa niðurstöðu dómsins. 

                Ákærði Jón Ásgeir kveðst ekki hafa komið að skattskilum félagsins sem hafi verið á vegum Ð endurskoðanda.  Um það atriði að hann er í ákærunni sagður vera „starfandi framkvæmdastjóri“ segir hann að það sé „náttúrulega eitthvað nýheiti“ en framkvæmdastjóri félagsins á þessum tíma hafi verið C.  Hann kveðst hins vegar hafa komið að samningunum um endurskipulagningu félaganna.  Hann segir meðákærðu hafa verið erlendis á þeim tíma og ekki haft afskipti af því máli.  Framkvæmdastjóri félagsins að lögum hafi verið C.  Ákærði kveðst hvorki hafa verið starfandi framkvæmdastjóri né framkvæmdastjóri að lögum.  Hann kveðst hins vegar hafa gengið í ýmis störf fyrir félagið og verið stjórnarmaður.  Til þessa verkefnis að endurskipuleggja félögin hafi verið fengnir hinir færustu menn.  Bókhaldi Gaums ehf. hafi verið hagað í samræmi við samningana sem gerðir voru um breytingarnar og skattskilin hafi þar af leiðandi byggst á þeim. 

                Ákærða Kristín var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. frá 27. ágúst 1999 samkvæmt tilkynningu  til hlutafélagskrár 30. sama mánaðar.  Þá segir hún um hlutverk meðákærða í félaginu að hann hafi tekið að sér ýmis verkefni fyrir félagið. Hún segist ekki hafa talið sjálf fram fyrir félagið og hafi það verið í höndum endurskoðandans, Ð.  Hafi hún engin fyrirmæli gefið honum um hans störf og ekki heldur bókara félagsins, D.  Hún kveðst ekki hafa haft nein afskipti af rekstri félagsins fyrr en hún gerðist framkvæmdastjóri þess, 27. ágúst 1999 eins og fyrr segir.  Kveðst hún hafa fram að því átt heima erlendis í rúm fjögur ár.  Hún segist hafa verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í Gaumi hf.  Hún segist ekki hafa haft með skipulagsbreytingarnar á félögunum að gera þar sem hún hafi þá verið erlendis.  Að þeim hafi komið Jón Ásgeir og C.  Hafi þeir báðir séð um framkvæmdastjórnina meðan hún var fjarverandi.  Hún segir endurskoðanda félagsins, Ð, hafa ráðið því að talið var fram í einu lagi fyrir fjárfestingafélagið Gaum ehf. 

                Ð hefur skýrt frá því að hann hafi einn ráðið því hvernig framtalinu var hagað og hann hafi ekki fengið nein fyrirmæli frá ákærðu um það hvernig talið skyldi fram.  Skattskilin hafi verið byggð á þeim samningum sem lágu fyrir um kaup og sölu á hlutabréfum.  Mikil óvissa hafi verið um verðmætin á þessum á eignarhlutum í félögunum og sé það fyrst nú nýlega að skorið hafi verið úr um verðmæti hlutabréfanna sem keypt voru og seld.  Skattskilin hafi byggt á þeim samningum sem eigendur félaganna gerðu sín á milli 3. júní 1998. 

                C hefur sagt að þáttur Kristínar hafi ekki verið neinn í samningunum um endurskipulagningu félaganna heldur hafi hún átt heima erlendis á þeim tíma og fylgst með því ferli úr fjarlægð.  Sjálfur hafi hann haft lítil afskipti af þessu, enda hafi hann rekið Bónus á þessum tíma.  Aftur á móti hafi Jón Ásgeir verið „aðalsprautan“ í þessu ferli og unnið við það.  Þá segir hann að það muni vera rétt sem Jón Ásgeir sagði í lögregluyfirheyrslu 2006 að þeir tveir hefðu til jafns gegnt starfi framkvæmdastjóra á árunum 1998 og 1999.  Hefði Gaumur ehf. greitt fyrir vinnuframlag Jóns Ásgeirs til Baugs þar sem hann var á launaskrá hjá því félagi.  Segir C þetta hafa verið þeim tíma sem Jón Ásgeir var að færa sig yfir til Baugs.

Niðurstaða

                Áður en til sakfellingar geti komið fyrir sakirnar í þessum ákærukafla þarf dómurinn að fara yfir útreikning skattrannsóknarstjóra, sem ákæran er byggð á, til þess að staðreyna hver hafi verið söluhagnaður félagsins af hlutabréfunum, hafi hann einhver verið.  Er ekki unnt að byggja á úrslitum einkamálsins um þetta í sakamálinu.  Meðal gagna málsins er að finna samninga um hlutabréfakaupin sem um ræðir og um það hvernig hlutirnir skyldu metnir og nokkur gögn önnur sem snúa að þessum viðskiptum.  Þau gögn nægja hins vegar ekki til þess að reikna megi út söluhagnaðinn.  Ekki hafa heldur fundist í gögnunum neinir útreikningar frá skattrannsóknarstjóra sem gefi vísbendingu um það hvernig þessar hagnaðartölur eru fengnar og þessi útreikningur var ekki reifaður í málflutningi sækjandans.   Hefur ákæruvaldið ekki fært fram nægileg gögn við aðalmeðferðina sem gera kleift að reikna út söluhagnaðinn.  Verður að telja að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa sönnur á brot ákærðu samkvæmt þessum kafla ákærunnar og ber að sýkna þau af ákærunni að þessu leyti.

Refsing og sakarkostnaður

                Saga máls þessa er orðin löng og sviptingasöm.  Upphaf hennar er rannsókn ríkislögreglustjóra sem hófst með húsleit í lok ágúst 2002.  Af þeirri rannsókn leiddi einnig mál það sem höfðað var gegn ákærðu og fleirum, einkum fyrir auðgunarbrot, brot gegn hlutafélagalögum og brot gegn tollalögum, 1. júlí 2005.  Með dómi hæstaréttar Íslands 10. október 2005 var 32 ákæruliðum af 40 vísað frá dómi.  Það sem þá stóð eftir af málinu var dæmt í héraðsdómi Reykjavíkur 15. mars 2006 og í hæstarétti 25. janúar 2007.  Mál var aftur höfðað 31. mars 2006 á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva og einum manni til, fyrir sakir sem vísað hafði verið frá dómi, eins og fyrr sagði.   Verulegum hluta þess máls var vísað frá dómi í hæstarétti 21. júlí sama ár.  Efnisdómur um það, sem þá stóð eftir, var kveðinn upp í héraði 3. maí 2007 og í hæstarétti 5. júní 2008.  Atvik þess máls sem hér er til umfjöllunar eru frá árunum 1998 til 2003.  Rannsókn á þeim því hófst hjá skattrannsóknarstjóra 17. nóvember 2003 og með kærubréfi þess embættis 12. nóvember 2004 var rannsóknin send ríkislögreglustjóra.  Skýrslutökur í málinu hófust þar hins vegar ekki fyrr en um mitt ár 2006 og stóðu fram á haustið.  Mál var að lokum höfðað í árslok 2008, eins og áður greinir.  Ákæruvaldið hefur ekki réttlætt þann langa tíma sem rannsókn málsins tók og telur dómurinn að ákærðu hafi vegna þessa dráttar ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um hann nr. 62, 1994.  Loks er til þess að líta, að skattyfirvöld hafa þegar lagt 25% álag á hækkun skattstofna hjá ákærðu samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga um tekjuskatt. 

                Ákærði Jón Ásgeir hlaut 3 mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu en ákærði Tryggvi 12 mánaða skilorðsbundna refsingu í maí 2007 fyrir brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga og var refsingin staðfest í hæstarétti 5. júní árið eftir.  Ákærðu Kristínu hefur ekki verið refsað áður.  Með vísan til þess sem sagði hér á undan um óréttlætanlegan drátt á rannsókn málsins þykir mega fresta því að gera ákærðu refsingu og ákveða að refsing í málinu falli niður að liðnu einu ári frá dómsuppsögu, haldi ákærðu almennt skilorð almennra hegningarlaga.

                Dómur í máli þessu er reistur á framburði ákærðu og vitna í aðalmeðferð málsins og þeim gögnum sem fjallað hefur verið um fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.  Ákærunni í málinu fylgja skjöl í þúsundatali en ákæruvaldið hefur einungis stuðst við lítið brot af þeim við sönnunarfærslu í málinu.  Var augljóslega ekki hugað að því að fjarlægja óþörf skjöl úr rannsókninni þegar ákæra var ráðin, andstætt reglum XVI. kafla laga um meðferð sakamála.  Þá er skjalaskráin, sem fylgir gögnunum óaðgengileg og nærri ónothæf sem efnisyfirlit.  Virðist hún enda miðuð við þarfir þeirra sem söfnuðu og röðuðu skjölunum undir rannsókninni.  Hefur þetta valdið dómendum og verjendum umtalsverðri fyrirhöfn og töfum, allt frá því að farið var að fjalla um réttarfarsatriði í málinu snemma árs 2009.  Samkvæmt þessu, og eftir úrslitum málsins, þykir mega ákveða að málsvarnarlaun verjenda ákærðu verði að hálfu leyti lögð á ríkissjóð og að hálfu á ákærðu.

                Dæma ber að verjanda ákærða Jóns Ásgeirs, Gesti Jónssyni hrl., skuli greiddar 7.781.000 krónur í málsvarnarlaun, verjanda ákærða Tryggva, Jakob Möller hrl., 5.013.725 krónur í málsvarnarlaun og loks verjanda ákærðu Kristínar og Gaums ehf., Kristínu Edwald hrl., 4.894.500 krónur í málsvarnarlaun.  Málsvarnarlaunin greiðast með virðisaukaskatti. 

                Ekki er kunnugt um annan kostnað af þessu máli.

Héraðsdómararnir Pétur Guðgeirsson og Sigrún Guðmundsdóttir og Reynir Ragnarsson löggiltur endurskoðandi kváðu upp þennan dóm.

DÓMSORÐ:

                Frestað er því að ákveða refsingu ákærðu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur og fjárfestingafélagsins Gaums ehf.  Telst refsing þeirra niður fallin að liðnu ári frá dómsuppsögu, haldi ákærðu almennt skilorð.

                Málsvarnarlaun verjanda Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar hrl., 7.781.000 krónur, greiði ákærði að hálfu en ríkissjóður að hálfu.  Málsvarnarlaun verjanda Tryggva, Jakobs Möller hrl., 5.013.725 krónur, greiði ákærði að hálfu en ríkissjóður að hálfu.  Málsvarnarlaun verjanda Kristínar og Gaums ehf., Kristínar Edwald hrl., 4.894.500 krónur, greiði ákærðu óskipt að hálfu en ríkissjóður að hálfu.