Print

Mál nr. 131/2001

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsagnarfrestur

Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. nóvember 2001.

Nr. 131/2001.

Pálmi Stefánsson

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Ríkisstarfsmenn. Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur.

P var ráðinn ótímabundið til starfa hjá Vinnueftirliti ríkisins. Í ráðningarsamningi P var kveðið á um að uppsagnarfrestur væri þrír mánuður, en gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Þá var mælt fyrir um að uppsögn væri miðuð við mánaðarmót. P var sagt upp störfum áður en þrír mánuðir voru liðnir. Aðilar málsins deildu um hvort uppsagnarfrestur P væri einn eða þrír mánuðir. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að P hafi verið ráðinn til starfa 10. janúar 2000, en sagt upp störfum 7. apríl sama árs. Honum hafi því verið sagt upp með eins mánaðar fyrirvara og skipti ekki máli þótt sá frestur hafi ekki byrjað að líða samkvæmt ákvæðum ráðningarsamningsins fyrr en 1. maí sama árs og þar með að loknum þriggja mánaða reynslutíma hans í starfi. Af þessum sökum var íslenska ríkið sýknað af kröfu P um greiðslu launa miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. apríl 2001. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 509.357 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. 1aga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi, sem er efnaverkfræðingur, var ráðinn til sérfræðistarfa hjá Vinnueftirliti ríkisins 10. janúar 2000 og hóf hann störf sama dag. Samkvæmt ráðningarsamningi átti gagnkvæmur uppsagnarfrestur að vera einn mánuður á þriggja mánaða reynslutíma hans í starfi og skyldi uppsögn miðast við mánaðamót. Að þeim reynslutíma loknum átti uppsagnarfresturinn að vera þrír mánuðir. Óumdeilt er að áfrýjanda var tilkynnt uppsögn 7. apríl 2000. Fór hún því fram innan þess tíma, sem áfrýjandi var ráðinn til reynslu. Áfrýjanda var því réttilega sagt upp með eins mánaðar fyrirvara og skiptir ekki máli þótt sá frestur hafi ekki byrjað að líða samkvæmt ákvæðum ráðningarsamningsins fyrr en 1. maí 2000 og þar með að loknum þriggja mánaða reynslutíma hans í starfi. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Pálmi Stefánsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2001.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 23. ágúst 2000 og dómtekið 15. þ.m.

Stefnandi er Pálmi Stefánsson, kt. 240638-3639, Ásbúð 40, Garðabæ.

Stefndi er Vinnueftirlit ríkisins, kt. 420181-0439, Bíldshöfða 16, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 509.357 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. ágúst 2000 til greiðsludags og málskostnað.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Í stefnu er krafa stefnanda sögð vera vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi hjá stefnda.

Stefnandi, sem er efnaverkfræðingur, réðst til starfa hjá stefnda með starfsheitinu sérfræðingur III með ráðningarsamningi dags. 10. janúar 2000 sem var jafnframt upphafsdagur ráðningar.  Um ótímabundna ráðningu var að ræða og skyldi um réttindi og skyldur starfsmannsins fara eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og þau lög liggja til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins auk kjarasamnings stéttarfélags verkfræðinga.  Þá er í samningnum svofellt ákvæði:  “Uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings er þrír mánuði.  Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Uppsagnarfrestur tímabundins ráðningarsamnings er einn mánuður.  Uppsögn miðast við mánaðamót.  Þessi ákvæði um uppsagnarfrest eiga við nema um annað sé samið í kjarasamningi.”

Þann 7. apríl 2000 afhenti Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri stefnda, stefnanda uppsagnarbréf, dagsett sama dag, þar sem segir að “nú þegar þriggja mánaða reynslutíma þínum hjá stofnuninni er að ljúka” liggi fyrir sú ákvörðun að ekki verði um frekari ráðningu stefnanda að ræða og honum því sagt upp störfum með eins mánaðar fyrirvara eins og kveðið sé á um í ráðningarsamningi.

Stefnandi sendi Eyjólfi Sæmundssyni bréf 13. apríl 2000 varðandi uppsögnina þar sem segir að hann hafi fundið meinbugi á henni.  Hún skuli miðast við mánaðamót og því hafi hún borist sjö dögum of seint til að þrátíu daga uppsagnarfrestur tæki gildi við uppsögn á fyrstu þrem mánuðum starfs.  Uppsögnin taki því gildi 1. maí en þá sé uppsagnarfrestur í þessu tilviki þrír mánuðir og hafi tilkynning þ. 7. apríl um uppsögn því verið aukaatriði í þessu sambandi.

Lögmaður stefnanda reit stefnda bréf 8. maí 2000 þar sem því er haldið fram að uppsagnarfrestur stefnanda renni ekki út fyrr en 31. júlí.  Geri hann kröfu til að fá að vinna út uppsagnarfrest sinn en verði ekki orðið við þeirri kröfu áskilji hann sér rétt til launa út þann frest.  Í svarbréfi 26. maí 2000 er skýrt frá því að stefndi hafi í þessu máli sem öðrum, sem varði réttindi starfsmanna, leitað til Starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og er vísað til þeirrar túlkunar hennar að hafi uppsögn átt sér stað á reynslutíma sé uppsagnarfrestur einn mánuður eins og segi í ráðningarsamningi óháð því að hann komi til framkvæmda eftir að reynslutími sé liðinn.  Gagnsvar lögmanns stefnanda, sem sent var samdægurs, felur í sér að þar sem svo virðist sem stefndi muni halda sig við áður tilkynnta dagsetningu um starfslok stefnanda muni síðasti vinnudagur hans verða 30. maí 2000.  Hann áskilji sér hins vegar rétt til launa út júlímánuð og hafi falið lögmanninum að innheimta þau.

Eyjólfur Sæmundsson bar fyrir dóminum að ákveðið hefði verið að segja stefnanda upp störfum vegna aðsteðjandi rekstrarörðugleika en hann  hafi verið nýjasti starfsmaður stefnda.  Þann 30. maí 2000 bauð Eyjólfur stefnanda starf, tímabundið í tvo mánuði við tiltekið verkefni, sem var á verksviði stefnanda, og skyldu launakjör vera óbreytt frá því sem verið hafði.  Stefnandi hafnaði tilboðinu tveimur dögum síðar og vann ekki heldur annars staðar á uppsagnarfrestinum.

 Stefnandi krefst fullra launa fyrir júní og júlí 2000 auk orlofs og lífeyrissjóðs­framlags.  Innheimtubréf var sent 25. júlí 2000 en kröfunni var hafnað með bréfi stefnda dags. 1. ágúst 2000.  Dómkrafa stefnanda er þannig sundurliðuð:

Höfuðstóll

laun vegna júní og júlí 2000

2 x 212.547

Orlof, 13,04% af kr. 425.094

Lífeyrissjóðsframlag,  6% af kr. 480.526

 

 

 

kr. 425.094

      55.432

      28.832

 

Kr. 509.358

Krafa stefnanda er reist á því að þegar uppsagnarfrestur samkvæmt upp­sagnarbréfi hafi fyrst getað byrjað “að telja”, þ.e. 1. maí 2000 sem eru næstu mánaða­mót eftir að stefnandi fékk uppsagnarbréf í hendur, hafi hann þegar verið lengur í starfi en þrjá mánuði og því tímamarki verið náð 10. apríl.  Hann eigi því rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og geti ekki skipt máli þótt tilkynning um uppsögn hafi verið dagsett fyrir framangreindan tíma þar sem uppsagnarfresturinn hafi ekki getað byrjað að líða fyrr en um næstu mánaðamót.

Kröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi einkum til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og til ákvæða laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Krafa stefnanda sætir ekki ágreiningi um útreikning.  Uppgjör er einnig óum­deilt miðað við þá forsendu að lyktir starfssambandsins hafi verið 31. maí 2000.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að staðið hafi verið að uppsögn í samræmi við efni ráðningarsamnings og ákvæði laga nr. 70/1996 en samkvæmt 41. gr. þeirra skuli aðrir ríkisstarfsmenn en embættismenn ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti.  Sá frestur skuli vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma nema um annað sé samið í kjarasamningi.  Reynslutími sé síðan tilgreindur í ráðningarsamningi.  Heimilt hafi verið að segja upp ráðningarsamningi stefnanda samkvæmt ákvæðum  hans sjálfs og 43. gr. laga nr. 70/1996.  Uppsögnin hafi átt sér stað á fyrstu þremur mánuðum í starfi, sem almennt teljist vera reynslutími og hafi uppsagnarfrestur samkvæmt ráðningarsamningi þá verið einn mánuður og skipti ekki máli þótt hann kæmi til framkvæmda eftir að þriggja mánaða tíminn hafi verið liðinn.

Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að þar sem stefnanda hafi verið boðin framlenging ráðningar í tvo mánuði, þ.e. í júní og júlí 2000, sem hann hafi hafnað leiði það til sýknu af kröfum hans þar sem hann hafi ekki verið tilbúinn að inna af hendi vinnu þá mánuði og takmarka með því það tjón sem hann áleit stafa af uppsögninni.

Varakröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi eigi ekki aðild að kröfu um lífeyrissjóðsframlag heldur lífeyrissjóður hans, sbr. lög nr. 129/1997 og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, enda sé óljóst hvort um sé að ræða launakröfu eða bótakröfu.  Þá er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt og telur stefndi að miða eigi við dómsuppkvaðningu eða í fyrsta lagi þingfestingu málsins með vísun til vaxtalaga nr. 25/1987.

Um ráðningu stefnanda, réttindi hans og skyldur í starfi hjá stefnda, giltu ákvæði III. hluta laga nr. 70/1996 sem eiga við um aðra starfsmenn ríkisins en embættismenn.  Í samræmi við 42. gr. var gerður skriflegur ráðningarsamningur þar sem ráðningarkjör voru ákvörðuð.  Í samræmi við 41. gr. var svo um samið að uppsagnarfrestur skyldi vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma.  Um lengd reynslutíma og uppsagnarfrests á honum segir ekki í tilvitnaðri lagagrein eða að öðru leyti í III. hluta laga nr. 70/1996.  Í samningnum sagði hins vegar að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi.  Stefnanda var sagt upp á fyrstu þremur mánuðum í starfi, þ.e. 7. apríl 2000 en þriggja mánaða tímamarkinu var ekki náð fyrr en 10. s.m.  Forstjóra stefnda var samkvæmt því heimilt, með vísun til 43. gr. laga nr. 70/1996, að segja ráðningarsamningnum upp með eins mánaðar fyrirvara.  Merking orðasambandsins “í starfi” er ótvíræð og því er að mati dómsins réttur sá skilningur, sem fram er haldið af hálfu stefnda varðandi þýðingu þess samningsákvæðis að uppsögn skyldi miðast við mánaðamót, að eins mánaðar uppsagnarfrestur stefnanda skyldi byrja að líða 1. maí 2000.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 100.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Vinnueftirlit ríkisins, er sýknaður af kröfum stefnanda, Pálma Stefánssonar.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.