Print

Mál nr. 863/2016

Tungufljót ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl., Diljá Mist Einarsdóttir hdl. 3. prófmál)
gegn
Bernharði Guðmundssyni, Einari E. Sæmundsen, Elínu Björtu Grímsdóttur, Gerði Hannesdóttur, Guðnýju Gísladóttur, Guðrúnu Gísladóttur, Hafliða Stefáni Gíslasyni, Halldóri Jónssyni, Jóni Bjarna Gunnarssyni, Jónínu Guðrúnu Einarsdóttur, Kristjáni Helga Guðmundssyni, Margréti Pálínu Guðmundsdóttur, Ólafi G. E. Sæmundsen, Ólafi J. Bjarnasyni, Sigríði H. J. Benedikz, Sigurjóni H. Sindrasyni, Vilborgu Vilmundardóttur, Vilhjálmi Einarssyni, Vilmundi Gíslasyni og Þórhalli F. Guðmundssyni (Páll Arnór Pálsson hrl., Einar Páll Tamimi hdl. 4. prófmál)
Lykilorð
  • Samlagsaðild
  • Sameign
  • Veiðiréttur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðabótamál
Reifun

T ehf. höfðaði mál á hendur B o.fl., eigendum jarðarinnar Bergstaða og krafðist viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta óskipt úr hendi B o.fl. vegna þeirrar háttsemi þeirra að hafa, á nánar tilgreindu tímabili, hindrað og reynt að hindra framleigutaka sína við stangveiðar í Tungufljóti og fyrir að hafa sjálf stundað og látið stunda stangveiðar í ánni fyrir landi jarðarinnar. Hafði T ehf. gert tvo leigusamninga um leigu veiðiréttar í Tungufljóti við hlutaðeigandi veiðifélög á árunum 2003 og 2010 og í kjölfarið hafið fiskrækt í ánni. B o.fl. töldu sig hins vegar óbundin af umræddum samningum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn frá 2003 hefði ekki verið bindandi fyrir B o.fl. en hins vegar hefði samningurinn frá 2010 verið skuldbindandi fyrir þau og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. Hæstiréttur taldi jafnframt að T ehf. hefði verið rétt að beina kröfum sínum að B. o.fl. og að leggja yrði til grundvallar að þeim hefði a.m.k. verið kunnugt um að markvisst hefði verið reynt að hindra veiðar manna á vegum T ehf. fyrir landi Bergstaða og að á tilteknu ári hefðu þau öll tekið þátt í veiðum fyrir landi jarðarinnar eða verið fullkunnugt um að veiði væri þar ráðstafað í bága við samning T ehf. Vísaði Hæstiréttur til þess að B o.fl. hefði borið samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði að veita veiðimönnum á vegum T ehf. aðgang að veiðistöðum í landi jarðarinnar og hefði framganga þeirra við að hindra eða reyna að hindra veiði á vegum T ehf., svo og veiði þeirra sjálfra, farið í bága við þá lagaskyldu og þær samningsskyldur sem á þeim hvíldu. Með því að T ehf. taldist hafa leitt nægar líkur að því að það hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa var viðurkenndur réttur félagsins til skaðabóta úr hendi B o.fl. vegna nánar tilgreind tímabils.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2016. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta úr höndum stefndu óskipt vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir af þeirri háttsemi stefndu að hafa ,,hindrað og reynt að hindra framleigutaka áfrýjanda við stangveiðar í Tungufljóti, Bláskógabyggð, á árunum“ 2007 til 2014 og ,,með því að hafa sjálf stundað eða látið stunda stangveiðar í ánni fyrir landi Bergstaða árin“ 2007 til 2011 í óleyfi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi beinir kröfu um viðurkenningu á rétti sínum til skaðabóta á hendur öllum stefndu og telur að ábyrgð þeirra sé óskipt. Hann kveður stefndu vera sameigendur jarðarinnar Bergstaða í Bláskógabyggð og að þeir eigi land að Tungufljóti. Stefndu hafi með sér sameignarsamning um Bergstaði frá 25. febrúar 2001 sem hafi verið þinglýst. Þar komi fram að veiðiréttindi jarðarinnar skuli vera í óskiptri sameign allra eigenda og jafnframt að eigendur sameignarinnar skuli kjósa stjórn ,,Bergstaðafélags“ til þess að fjalla um sameiginlega þætti varðandi jörðina. Loks komi þar fram að ákvarðanir stjórnar séu bindandi fyrir alla eigendur. Áfrýjandi kveðst byggja á því að allar ákvarðanir sem teknar hafi verið fyrir hönd eigenda Bergstaða og allar athafnir þeirra, sem lýst er í stefnu og gerð grein fyrir síðar í dóminum, hafi verið reistar á sameiginlegum ákvörðunum stefndu, sem þeir beri óskipta ábyrgð á.

Viðurkenningarkrafa áfrýjanda lýtur að því að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi allra stefndu ,,vegna þeirrar háttsemi ... að hafa hindrað og reynt að hindra framleigutaka ... við stangveiðar í Tungufljóti“ á árunum 2007 til 2014 og ,,með því að hafa sjálf stundað eða látið stunda stangveiðar í ánni fyrir landi Bergstaða“ á árunum 2007 til 2011 í óleyfi áfrýjanda.

Áfrýjandi hefur til stuðnings þeim röksemdum að stefndu hafi hindrað eða reynt að hindra stangveiðar á hans vegum í Tungufljóti á framangreindu tímabili lagt fram ljósmyndir af orðsendingum settum upp á skilti sem komið hafi verið fyrir við Tungufljót í landi Bergstaða þar sem veiðimönnum var tilkynnt að þeim væri óheimil veiði fyrir landi jarðarinnar og að leyfi sem þeir hafi keypt hjá Lax-á ehf., sem hafði með höndum sölu veiðileyfa fyrir áfrýjanda, giltu ekki um veiði í landi jarðarinnar. Undir þessar orðsendingar var ritað ,,Landeigendur á Bergstöðum“. Þá hefur áfrýjandi lagt fram blöð með orðsendingum á íslensku og ensku sem sett munu hafa verið á rúður bifreiða veiðimanna og afhent sumum þeirra. Þar kom meðal annars fram að veiði þeirra í Tungufljóti fyrir landi Bergstaða væri í óþökk landeigenda. Í orðsendingunni var einnig fjallað um fljótið sjálft og áhrif starfsemi áfrýjanda á lífríki þess, eins og eigendur Bergstaða töldu þau vera. Vísað var um frekari upplýsingar til vefsvæðisins www.tungufljot.is sem mun hafa verið haldið úti á vegum þeirra. Undir þessa orðsendingu var einnig ritað ,,Landeigendur á Bergstöðum“. Þá hefur áfrýjandi leitt mörg vitni, sem báru um tilraunir ónafngreindra manna á vegum landeigenda á Bergstöðum til að hindra menn á vegum áfrýjanda í að veiða í fljótinu fyrir landi jarðarinnar. Áfrýjandi hefur einnig leitt sem vitni starfsmenn Lax-ár ehf., sem leiðbeindu veiðimönnum við fljótið og jafnframt lagt fram fjölda tölvubréfa frá óánægðum veiðimönnum, sem keypt höfðu þar veiðileyfi, og hann telur sanna að menn á vegum landeigenda á Bergstöðum hafi með ýmsum aðgerðum truflað veiðimenn, sem reyndu veiði á vesturbakka fljótsins til móts við land jarðarinnar. Á grundvelli þessara gagna verður við það miðað að öllum sameigendum Bergstaða hafi að minnsta kosti verið kunnugt um að markvisst var reynt að hindra veiðar manna á vegum áfrýjanda fyrir landi jarðarinnar og frá bakkanum á móti, enda töldu sameigendur sig ekki bundna af samningum þeim, sem áfrýjandi gerði 2003 og 2010 og reisir kröfu sína á.

Síðara atriðið sem áfrýjandi telur leiða til þess að viðurkenna eigi skaðabótaskyldu er, sem fyrr greinir, að landeigendur að Bergstöðum hafi sjálfir eða menn á þeirra vegum veitt í fljótinu fyrir landi jarðarinnar, þótt gerður hafi verið samningur við áfrýjanda um leigu á því. Fyrir liggur að tveir sameigenda hafa viðurkennt að hafa veitt í ánni fram til 2010 og einn landeigenda Bergstaða var kærður fyrir ólöglegar veiðar sumarið 2010 og sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir þá háttsemi. Þá hafa einnig verið lögð fram gögn, sem sýna að landeigendur Bergstaða hafa sjálfir skipulagt og skipt veiði fyrir landi jarðarinnar á milli allra landeigenda frá 25. júní 2010 til 24. september það ár, með hléi frá 8. til 19. ágúst. Á þessu skjali voru tilgreindir þrír veiðistaðir í Tungufljóti fyrir landi Bergstaða og öllum sameigendum raðað niður á þá til veiða á tilgreindu tímabili. Verður samkvæmt því lagt til grundvallar að allir sameigendur hafi tekið þátt í veiðum fyrir landi jarðarinnar að minnsta kosti á árinu 2010 eða verið fullkunnugt um að veiði var ráðstafað á vegum sameigenda í bága við samninga þá, sem áfrýjandi reisir rétt sinn á.

Á skortir að samræmi sé milli þeirra sem tilgreindir eru sameigendur að Bergstöðum í sameignarsamningnum 25. febrúar 2001 og þeirra sem stefnt er í málinu. Á hinn bóginn er samræmi milli nafna þeirra sem skráðir eru landeigendur að Bergstöðum í Landskrá fasteigna 17. nóvember 2015 og stefndu. Áfrýjanda var samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála heimilt að beina kröfu sinni að stefndu, enda reisir hann mál sitt á því að dómkröfur hans á hendur öllum stefndu verði raktar til sömu atvika eða aðstöðu. Það er meginregla skaðabótaréttar að þegar fleiri en einn geta verið skaðabótaskyldir sé það á valdi tjónþola að taka um það ákvörðun, hvort hann stefnir þeim öllum til heimtu skaðabóta, hluta þeirra eða aðeins einum. Velji hann að beina skaðabótakröfu sinni að fleirum en einum og fær þá kröfu viðurkennda er mælt fyrir um það í 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hvernig hinir bótaskyldu skuli skipta ábyrgðinni innbyrðis og hvaða atvik hafi þýðingu við þá skiptingu. Það uppgjör varðar tjónþola engu. Samkvæmt framansögðu tóku allir sameigendur ýmist þátt í að hindra veiði eða var fullkunnugt um ráðstafanir sem gerðar voru í því skyni. Með sama hætti verður lagt til grundvallar að allir sameigendur hafi tekið þátt í veiðum á því tímabili sem stefnukrafan tekur til, eða hluta þess, og verið fullkunnugt um að veiði var ráðstafað af hálfu sameigenda í blóra við þá samninga, sem áfrýjandi reisir rétt sinn á. Með vísan til alls þessa var áfrýjanda heimilt að beina kröfum sínum að öllum stefndu í málinu.

II

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að samningur áfrýjanda við Veiðifélagið Faxa frá 6. júlí 2003 hafi ekki verið bindandi fyrir stefndu. Jafnframt verður með vísan til forsendna dómsins staðfest sú niðurstaða að samningur áfrýjanda við Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga 10. apríl 2010 hafi verið skuldbindandi fyrir stefndu og aðra veiðiréttareigendur neðan við fossinn Faxa í fljótinu. Sá samningur gilti frá upphafi veiðitímabilsins 2010.

Áfrýjandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi stefndu vegna háttsemi þeirra sem tiltekin er í kröfugerð hans. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu kemur aðeins til álita að háttsemi stefndu frá upphafi veiðitímabilsins 2010 og síðar geti leitt til skaðabótaskyldu þeirra. Þar sem stefndu voru bundin af samningnum 10. apríl 2010 um ráðstöfun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga á veiðiréttindum fyrir landi sínu bar þeim, samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, að veita veiðimönnum á vegum áfrýjanda aðgang að veiðistöðum í fljótinu fyrir landi jarðarinnar. Framganga stefndu og manna sem þeir bera ábyrgð á í því skyni að hindra veiði eða reyna að hindra veiði manna á vegum áfrýjanda á árinu 2010 og síðar fór í bága við framangreinda lagaskyldu og þær skyldur sem samningurinn lagði stefndu á herðar. Þá fór ráðstöfun stefndu á veiði fyrir landi sínu á árinu 2010, veiði þeirra sjálfra eða manna á þeirra vegum á því ári einnig í bága við framangreint lagaákvæði og ákvæði samningsins. Háttsemin, sem að framan greinir, og stefndu bera ábyrgð á var þeim saknæm og ólögmæt.

Áfrýjandi hefur í málinu leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af áðurgreindri háttsemi sem stefndu samkvæmt framansögðu bera óskipta ábyrgð á. Hann hefur með þessu fullnægt þeim skilyrðum sem gerð verða til þess að fallist verði á viðurkenningarkröfu hans.

Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Tungufljóts ehf., til skaðabóta óskipt úr hendi stefndu, Bernharðs Guðmundssonar, Einars E. Sæmundsen, Elínar Bjartar Grímsdóttur, Gerðar Hannesdóttur, Guðnýjar Gísladóttur, Guðrúnar Gísladóttur, Hafliða Stefáns Gíslasonar, Halldórs Jónssonar, Jóns Bjarna Gunnarssonar, Jónínu Guðrúnar Einarsdóttur, Kristjáns Helga Guðmundssonar, Margrétar Pálínu Guðmundsdóttur, Ólafs G. E. Sæmundsen, Ólafs J. Bjarnasonar, Sigríðar H. J. Benedikz, Sigurjóns H. Sindrasonar, Vilborgar Vilmundardóttur, Vilhjálms Einarssonar, Vilmundar Gíslasonar og Þórhalls F. Guðmundssonar, vegna tjóns sem áfrýjandi hefur orðið fyrir vegna þeirrar háttsemi stefndu að hafa hindrað eða reynt að hindra stangveiði í Tungufljóti á vegum áfrýjanda fyrir landi jarðarinnar Bergstaða árin 2010 til 2014 og með því að hafa sjálf í óleyfi áfrýjanda stundað eða látið stunda stangveiði í fljótinu á árinu 2010.

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 2.000.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 25. október 2016.

            Mál þetta, sem þingfest var þann 2. september 2015, var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 23. september sl.  

            Mál þetta höfðaði Tungufljót ehf., kt. [...], Akurhvarfi 16, Kópavogi, með stefnu birtri á tímabilinu frá 15. júní til 20. júlí 2015.           

            Stefndu eru sameigendur jarðarinnar Bergstaða í Bláskógabyggð, landnúmer 167060, Bernharður Guðmundsson, kt. [...], Blásölum 22, Kópavogi, Einar E. Sæmundsen, kt. [...], Birkigrund 11, Kópavogi, Elín Grímsdóttir, kt. [...], Skógarbergi, 801 Selfossi, Gerður Hannesdóttir, kt. [...], Laugateigi 18, Reykjavík, Guðný Gísladóttir, kt. [...], Lyngprýði 4, Garðabæ, Guðrún Gísladóttir, kt. [...], Túngötu 27, Álftanesi, Hafliði Stefán Gíslason, kt. [...], Svíþjóð, Halldór Jónsson, kt. [...], Boðaþingi 8, Kópavogi, Jón Bjarni Gunnarsson, kt. [...], Skógarbergi, 801 Selfossi, Jónína G. Einarsdóttir, kt. [...], Birkigrund 11a, Kópavogi, Kristján Helgi Guðmundsson, kt. [...], Hrauntungu 50, Kópavogi, Margrét Pálína Guðmundsdóttir, kt. [...], Holtagerði 43, Kópavogi, Ólafur G.E. Sæmundsen, kt. [...], Birkigrund 13, Kópavogi, Ólafur J. Bjarnason, kt. [...], Reykjavegi 82, Mosfellsbæ, Sigríður H.J. Benedikz, kt. [...], Kögurseli 18, Reykjavík, Sigurjón H. Sindrason, kt. [...], Hólmaþingi 3, Kópavogi, Vilborg Vilmundardóttir, kt. [...], Naustahlein 1, Garðabæ, Vilhjálmur Einarsson, kt. [...], Birkigrund 9b, Kópavogi, Vilmundur Gíslason, kt. [...], Strandgötu 79, Hafnarfirði og Þórhallur F. Guðmundsson, kt. [...], Noregi.

            Dómkröfur stefnanda eru:

I.                    Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr höndum stefndu in solidum vegna tjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna þeirrar háttsemi stefndu að hafa hindrað og reynt að hindra framleigutaka stefnanda við stangveiðar í Tungufljóti, Bláskógabyggð, á árunum 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 og með því að hafa sjálf stundað eða látið stunda stangveiðar í ánni fyrir landi Bergstaða árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011 í óleyfi stefnanda.

II.                  Að viðurkennt verði með dómi, 1) að stefndu sé skylt að veita stefnanda og framleigutökum hans að stangveiðiréttindum í Tungufljóti neðan Faxa, aðgang að veiðistöðum í fljótinu fyrir landi Bergstaða, Bláskógabyggð, á meðan stefnandi hefur þau réttindi á leigu frá Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga, 2) að stefndu sé sjálfum óheimilt, á sama tíma, að veiða eða heimila öðrum að stunda veiðar í fljótinu fyrir landinu og 3) að stefndu sé óheimilt, á sama tíma, að hafa merkingar á árbakkanum, sem gefa til kynna að veiði sé þar óheimil eða dreifa áletruðum bréfum sama efnis.          

Þá er þess krafist að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda

 málskostnað.

            Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að dómkröfum stefnanda, merktum I og II, verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

                Með úrskurði dómsins uppkveðnum 17. febrúar 2016 var dómkröfu stefnanda merktri II vísað frá dómi að kröfu stefndu. Hins vegar hafnaði dómurinn kröfu stefndu um að vísa dómkröfu merktri I frá dómi. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands. Í þessum hluta málsins er því eingöngu fjallað um dómkröfu stefnanda merkt I.

Helstu málavextir

            Samkvæmt málavaxtalýsingu í stefnu, greinargerð og framlögðum gögnum málsins liggur fyrir að stefnandi, einkahlutafélagið Tungufljót var stofnað 30. september 2002. Tilgangur félagsins er leiga og ræktun í ám og vötnum, kaup og sala veiðileyfa og sala fasteigna, rekstur þeirra og lánastarfsemi. Stofnendur voru Árni Þormar Baldursson, sem jafnframt er eini stjórnarmaður félagsins, framkvæmdastjóri og prókúruhafi, og Valgerður F. Baldursdóttir, sem ein á sæti í varastjórn félagsins.

            Stefndu eru öll sameigendur jarðarinnar Bergstaða í Bláskógabyggð í Árnessýslu, landnúmer 167060. Jörðin á land að Tungufljóti, einni af þverám Hvítár í Árnessýslu sem á upptök sín á Haukadalsheiði en fellur í Hvítá. Fljótið er talið vera um 40 kílómetra langt. Í fljótinu er fossinn Faxi um 10 kílómetrum ofan við þann stað þar sem fljótið sameinast Hvítá. Að Faxa mun vera fiskgengt, en fossinn sjálfur ófiskgengur frá náttúrunnar hendi. Laxastigi mun fyrst hafa verið byggður í fossinn árið 1975. Jörðin Bergstaðir á land að Tungufljóti neðan við fossinn Faxa.

            Tvö veiðifélög munu vera starfandi á vatnasvæði Tungufljóts. Annars vegar veiðifélagið Faxi, en félagsmenn eru eigendur/ábúendur jarða og landareigna sem eiga land að Tungufljóti ofan við fossinn Faxa, sbr. 3. gr. samþykkta félagsins nr. 891/2011. Hins vegar Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga, hér eftir nefnd Tungufljótsdeild, sem starfar sem deild innan Veiðifélags Árnesinga, en stofnun deildarinnar mun hafa verið samþykkt á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga þann 21. apríl 2009. Skráðir félagsmenn Tungufljótsdeildar, eru eigendur/ábúendur jarða og landareigna sem veiðirétt eiga í Tungufljóti, meðal annarra stefndu í máli þessu, eigendur Bergstaða, sbr. 3. gr. samþykkta fyrir Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga nr. 98/2010.   

            Í málavaxtalýsingu í stefnu kemur fram að á árinu 2003 hafi Árni Þormar Baldursson, forsvarsmaður stefnanda, haft vilyrði forsvarsmanna veiðifélagsins Faxa um að stefnanda gæfist kostur á að taka Tungufljót í Bláskógabyggð á leigu til að rækta þar upp laxastofn og hafa einkarétt til veiða og sölu á veiðileyfum. Nefndur Árni Þormar hafi um árabil haft með höndum leigu á ársvæðum til endursölu á neytendamarkaði í gegnum félag sitt, Lax-á ehf., og m.a. selt veiðileyfi í Ytri- og Eystri Rangá og kynnst því hvernig þeim ám hafi verið breytt með tiltekinni ræktunartækni úr því að vera laxalausar í það að verða aflasælustu ár landsins. Hafi Árni Þormar á fundum með forsvarsmönnum Veiðifélagsins Faxa kynnt möguleika sem hann taldi vera á því að gera Tungufljót að aflasælli laxveiðiá. Árni Þormar hafi bent á að gera þyrfti tilteknar breytingar á laxastiga við fossinn Faxa og lagt til að ráðist yrði í ræktun Tungufljóts með sömu fiskiræktartækni og gefið hefði góða raun í Rangánum, þ.e. með því að ala seiði í sleppitjörnum við ána og aðlaga þau þar þangað til þau yrðu sjógöngufær, en reynslan hafi sýnt að þannig mætti tryggja góðar endurheimtur fullvaxta laxa úr sjó. Hafi Árni Þormar látið vinna fyrir sig 15 ára ræktunar- og viðskiptaáætlun í febrúar 2002 og hafist hafi verið handa við ræktun fljótsins veturinn 2002 til 2003.  

            Þá segir í stefnu að á fundi, sem haldinn hafi verið í Aratungu 28. apríl 2003 og fulltrúar stefndu hafi sótt, hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að ganga til samninga við stefnanda um verkefnið. Hafi stefnandi tekið Tungufljót formlega á leigu með samningi dagsettum 6. júní sama ár og hafi þar ítarlega verið kveðið á um skyldu stefnanda til að rækta upp lax á vatnasvæðinu en á móti fengi stefnandi einkarétt til sölu veiðileyfa í 15 ár og hafi fengist sérstök undanþága ráðherra frá tíu ára hámarksleigutíma samkvæmt 4. mgr. 2. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Í greinargerð hafna stefndu því að vera bundnir af umræddum samningi frá 6. júní 2003.   

            Í stefnu segir að framangreindur samningur hafi verið undirritaður af Veiðifélaginu Faxa vegna Tungufljóts ofan fossins Faxa, en í samningstexta hafi verið gert ráð fyrir að Veiðifélag Árnesinga myndi árita samninginn vegna Tungufljóts neðan fossins. Bæði í stefnu og greinargerð er gerð grein fyrir yfirlýsingu sem Gaukur Jörundsson, þáverandi formaður félagsins, áritaði á lokablaðsíðu leigusamningsins fyrir hönd Veiðifélags Árnesinga. Yfirlýsingin er dagsett 18. ágúst 2003.  

            Stefnandi segir í stefnu að þrátt fyrir fyrirvara Veiðifélags Árnesinga hafi stefnandi hafist handa sumarið 2003 við að uppfylla samningsskyldur sínar. Hann hafi látið lagfæra laxastiga í Faxa, stiginn hafi verið grafinn upp og endursteyptur og lengdur niður í fosshylinn. Þá hafi stefnandi keypt fullkominn laxateljara, sem hafi verið farsímatengdur til Veiðimálastofnunar, og síðan snúið sér að öðru ræktunarstarfi í trausti þess að landeigendur að Tungufljóti neðan fossins Faxa hefðu í raun veitt samþykki sitt fyrir samningnum á framangreindum fundi þann 28. apríl 2003.

            Stefnandi lýsir því í stefnu að frá árinu 2004 til ársins 2007 hafi verið ljóst að árangur ræktunarinnar væri greinilega að skila sér vel. Stefnandi hafi þá farið fram með öfluga markaðssetningu á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum og skipulagt fljótið til stangveiða í samvinnu við systurfélagið Lax-á ehf. Samkvæmt gögnum málsins var Lax-á ehf., stofnað árið 1989, meðal annars af forsvarsmanni stefnanda, sem mun vera framkvæmdastjóri, eiga sæti í stjórn félagsins og vera annar tveggja prókúruhafa. Fram kemur í stefnu að starfsemi stefnanda hafi verið komin á fullt skrið árið 2007, mikið hafi verið til af seiðum, bæði sumaröldum og gönguseiðum, sleppitjörnum verið fjölgað og umfangið vaxið til muna. Mikill lax hafi gengið í Tungufljót um sumarið og stangveiðar gengið vel. Endurbætur hafi verið gerðar á aðgengi víða við fljótið og sett upp rimlahlið o.fl., til hagræðingar fyrir veiðimenn.

            Í stefnu segir að á þessum tíma hafi farið að bera á veiðiþjófnaði frá austurbakka Tungufljóts fyrir landi Bergstaða og ítrekað hafi sést til fólks fara til laxveiða. Hafi veiðimenn, sem keypt hafi veiðileyfi af stefnanda eða umboðsmanni hans Lax-á ehf., ítrekað kvartað yfir þessu framferði. Stefnandi hafi ákveðið að láta kyrrt liggja í von um að leysa mætti málið við stefndu eftir veiðitíma. Hins vegar hafi engin sátt náðst og stefndu eða fulltrúar þeirra hafi, eins og áður greinir, talið sig óbundna af samningum stefnanda við Veiðifélagið Faxa og því væri þeim heimilt að stunda veiðar eða láta stunda veiðar fyrir sínu landi. Árið 2008 hafi seiðasleppingar gengið vonum framar, sleppitjörnum hafi verið fjölgað neðan Faxa og ljóst að landnám laxins væri hafið af fullum krafti í Tungufljóti. Hafi gríðarlegt magn af laxi af öllum stærðum gengið í Tungufljótið. Hins vegar hafi fólk frá Bergstöðum flykkst til skipulagðra veiða alla daga og hertekið austurbakka fljótsins neðan Faxa. Hafi veiðimenn á vegum stefnanda einungis geta veitt frá vesturbakkanum neðan Faxa því þeir hafi verið reknir af austurbakkanum með óbótaskömmum. Þá hafi stefndu sett upp skilti við alla veiðistaði í landi Bergstaða þar sem fram hafi komið að öll veiði væri þar óheimil. Einnig hafi veiðimenn á vegum stefndu á austurbakkanum truflað veiðar á vesturbakkanum með því að kasta spúnum að því landi, flækja færum sínum af ásetningi í færi vesturbakkamanna og dæmi hafi verið um grjótkast yfir ána. Hafi veiðimenn á vegum stefnanda upplifað ástandið óþolandi og hætt veiðum og hafi stefnandi verið knúinn til að endurgreiða veiðileyfi þeirra eða bjóða þeim veiðileyfi í öðrum ám, sem systurfélag stefnanda, Lax-á ehf., hafi haft yfir að ráða. Þrátt fyrir framangreint ástand hafi stangveiðin í Tungufljóti náð hæstu hæðum árið 2008 og numið alls 2854 löxum, en veiðimenn á vegum stefndu veitt stóran hluta sem allur hafi verið drepinn. Þá segir í stefnu að sumarið 2008 hafi stefnanda einnig verið meinaður aðgangur að veiðum fyrir landi Fells og Króks, en eigendur/ábúendur þeirra jarða séu félagsmenn Tungufljótsdeildar og hafi landeigendur á Felli einnig hafið veiðar sjálfir. Því hafi verið ljóst að samningur stefnanda um veiðar og ræktun í Tungufljóti væri kominn í verulegt uppnám og hætt við að stefnandi glataði þeim fjármunum sem hann hefði lagt í verkefnið.

            Í stefnu segir að vegna framangreindra vandkvæða hafi í júní 2009 verið stofnuð sérstök deild innan Veiðifélags Árnesinga, þ.e. Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga, sem ætlað hafi verið að vera viðsemjandi stefnanda ásamt Veiðifélaginu Faxa, þannig að öruggt væri að stefnandi gæti hindrunarlaust látið stunda veiðar frá báðum bökkum Tungufljóts og jafnframt til að engum vafa væri undirorpið að stefndu yrðu að una því að veiðifélagið framseldi rétt til stangveiða fyrir landi jarðarinnar Bergstaða.

            Fyrir liggur að stefndu vefengdu lögmæti deildarinnar og höfðuðu þeir meðal annars mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands og gerðu þær kröfur að ógild yrði ákvörðun aðalfundar Veiðifélags Árnesinga þann 21. apríl 2009 um stofnun Tungufljótsdeildar. Héraðsdómur vísaði málinu frá þar sem málshöfðunarfrestur 7. mgr. 39. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 hafi verið löngu liðinn þegar málið var höfðað. Með dómi Hæstaréttar frá 10. febrúar 2015, í málinu nr. 32/2015, var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

            Tungufljótsdeild hafi síðan þann 10. apríl 2010 gert leigusamning við stefnanda um stangveiðirétt í Tungufljóti neðan fossins Faxa. Hins vegar hafi, þrátt fyrir stofnun Tungufljótsdeildar, allt verið við það sama hjá stefndu varðandi veiðar í Tungufljóti á árinu 2009. Veiðimönnum á vegum stefnanda hafi verið meinað að stunda veiðar fyrir landi Bergstaða, Fells og Króks og stefndu látið stunda veiðar fyrir landi Bergstaða af krafti og hafi ítrekaðar kærur til lögreglu engan árangur borið. Sala stefnanda á veiðileyfum í fljótinu hafi hrunið, bæði vegna veiðiþjófnaðarins og umfjöllunar um hann í fjölmiðlum.

            Árið 2010 hafi engin breyting orðið á, en það ár hafi stefndu látið stunda veiðar fyrir landi Bergstaða, auglýst veiðileyfi og skipulagt veiðar á heimasíðunni tungufljot.is, sem þeir hafi stofnað, að því í virðist í þeim tilgangi að hafa uppi áróður gegn starfsemi stefnanda og samningum hans um Tungufljót. Sumarið 2010 hafi því verið martröð fyrir stefnanda og starfsfólk Lax-ár ehf., sem hafi annast sölu veiðileyfa, sem og fyrir leiðsögumenn og umsjónarmenn við fljótið, svo og stjórn Tungufljótsdeildar. Loks sumarið 2010 hafi yfirvöld ákveðið að skerast í leikinn og hafi einn stefndu ásamt eiginkonu sinni verið ákærð og dæmd fyrir að veiða í Tungufljóti fyrir landi Bergstaða án leyfis, sbr. dóm Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-521/2010, sem ekki fékkst áfrýjað til Hæstaréttar. Dómurinn hafi þó engin áhrif haft á háttsemi stefndu og hafi þau áfram látið stunda ólöglegar stangveiðar fyrir landi Bergstaða sumarið 2011, en veiði það ár hafi ekkert verið í líkingu við það sem verið hafi á árum áður vegna þess að Veiðifélag Árnesinga hafi að nokkru leyti staðið í vegi fyrir seiðasleppingum stefnanda frá árinu 2010 vegna óvissu sem stjórn félagsins hefði talið að upp væri komin um áhrif ræktunarstarfsins á lífríkið. Segir í stefnu að stefnandi hafi ekki orðið var við að stefndu hafi látið stunda veiðar í Tungufljóti fyrir landi Bergstaða á árunum 2012, 2013 og 2014, en þau hafi eftir sem áður sett niður merki með tilkynningum um að öll veiði væri bönnuð og rekið alla veiðimenn í burtu sem farið hafi yfir á austurbakkann til að stunda veiðar. Hafi veiðimenn á vegum stefnanda því aðeins getað stundað veiðar frá vesturbakkanum neðan Faxa. Þá hafi atferli stefndu, ásamt vandræðum með seiðasleppingar, leitt til þess að fáir veiðimenn hafi sýnt því áhuga að veiða í Tungufljóti árin 2012, 2013 og 2014 og hafi sala veiðileyfa því verið í lágmarki. Vegna þessa hafi Tungufljótsdeild í reynd fallið frá að krefja stefnanda um leigu fyrir veiðiréttinn samkvæmt samningi aðila frá 10. apríl 2010, en samningurinn sé að öðru leyti í fullu gildi. Þá hafi stjórn Veiðifélags Árnesinga aftur viljað setja fullan kraft í ræktunarstarfið enda hafi óvissu um neikvæð áhrif á lífríkið verið eytt og í undirbúningi sé ræktunarsamningur milli Veiðifélagsins Faxa, Tungufljótsdeildar og Veiðifélags Árnesinga til nokkurra ára. Þá hafi verið settur kraftur í að ná í klakfisk úr fljótinu árið 2013 og góðar horfur með seiðasleppingar sumarið 2014 og 2015.

Málsástæður og lagarök stefnanda

            Helstu málsástæður og lagarök stefnanda í þessum þætti málsins eru eftirfarandi. Stefnandi vísar til þess að hann hafi frá árinu 2003 haft á leigu veiðirétt í Tungufljóti. Annars vegar samkvæmt samningi dagsettum 6. júlí 2003 við Veiðifélagið Faxa, sem taki til veiða í öllu fljótinu, og hins vegar samkvæmt samningi dagsettum 10. apríl 2010 við Tungufljótsdeild, sem taki til veiða í fljótinu fyrir neðan fossinn Faxa. Vísar stefnandi til þess að stefndu, sem eigendur Bergstaða, séu félagsmenn í Tungufljótsdeild. Um sé að ræða skylduaðild samkvæmt lax– og silungsveiðilögum, og hafi því stefndu verið félagsmenn í deildinni frá stofnun hennar. Þá hafi stefndu einnig verið félagsmenn í Veiðifélaginu Faxa frá stofnun félagsins, sbr. samþykkt nr. 29/1972, þrátt fyrir að eiga ekki veiðirétt í Tungufljóti. Hafi sú skipan haldist allt þar til samþykktunum var breytt með nýrri samþykkt nr. 891/2011. Með vísan til sameignarsamnings um Bergstaði frá árinu 2001 beri stefndu sameiginlega ábyrgð á öllum ákvörðunum sem teknar hafi verið fyrir hönd landeigenda og öllum athöfnum landeigenda.

            Varðandi dómkröfu, merkta I, telur stefnandi sig eiga skaðabótakröfu á hendur stefndu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar vegna þess að stefndu hafi ítrekað, með ólögmætum og saknæmum hætti hindrað framleigutaka félagsins við stangveiðar í Tungufljóti og hafi í óleyfi og þannig með ólögmætum og saknæmum hætti látið stunda stangveiðar í fljótinu fyrir landi Bergstaða. Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar sem hann hefði ella fengið af starfsemi sinni ef stefndu hefðu ekki af ásetningi eða a.m.k. af gáleysi, stuðlað að því með framangreindri ólögmætri háttsemi sinni að stefnandi hafi ekki notið arðs af sölu stangveiðileyfa í Tungufljóti eins og hann hafi mátt gera ráð fyrir hefði starf hans við ræktun, markaðssetningu og sölu veiðileyfa ekki verið eyðilagt af hálfu stefndu. Hafi ólögmætisskilyrði almennu skaðabótareglunnar verið uppfyllt frá því stefndu hafi hafið að stunda veiðar frá Bergstaðalandi sumarið 2007 vegna þess að stefndu hafi í reynd, sem félagsmenn í Veiðifélaginu Faxa og Veiðifélagi Árnesinga, samþykkt að hlíta samningi stefnanda og fyrrnefndra veiðifélaga frá 6. júlí 2003. Vísar stefnandi í því sambandi til samþykktar fundarins í Aratungu þann 28. apríl 2003 og athugasemdalausrar framkvæmdar samningsins af hálfu stefndu meðan á uppbyggingarstarfi stefnanda hafi staðið frá 2003 til 2007. Hafi stefndu því a.m.k. með tómlæti sínu samþykkt að hlíta því að stunda ekki veiðar fyrir landi sínu í óþökk stefnanda eftir að lax hafi tekið að ganga í Tungufljót og í því sambandi vakið traust stefnanda um að stefndu, ásamt öðrum landeigendum að Tungufljóti neðan Faxa, hefðu í reynd samþykkt samninginn frá 6. júlí 2003 sem félagsmenn í Veiðifélagi Árnesinga.

            Þá kveður stefnandi alveg ljóst að skilyrði almennu skaðabótareglunnar um ólögmæti hafi verið uppfyllt eftir stofnun Tungufljótsdeildar og samningur þeirrar deildar og stefnanda var undirritaður 10. apríl 2010 með gildistíma frá og með veiðitímabili þess árs. Þá vísar stefnandi til þess að saknæm og ólögmæt veiði á vegum stefndu hafi verið staðfest með dómi Héraðsdóm Suðurlands í máli nr. S-521/2010.

            Stefnandi kveðst hafa lagt út í stórkostlegar fjárfestingar samfara verkefninu sem hann hafi getað gert ráð fyrir að myndu skila sér til baka að hluta til með sölu veiðileyfa. Tjón stefnanda sé vegna missis hagnaðar þar sem  hann, eða umboðsmaður hans, Lax-á ehf., og eftir atvikum söluvefurinn „agn.is“, sem hafi annast að hluta sölu fyrir Lax-á ehf., hafi selt færri veiðileyfi í Tungufljót á árunum 2007-2014 en seld hefðu verið hefðu stefndu ekki gripið inn í atburðarásina með ofríki sínu. Vísar stefnandi til framlagðra gagna sem sýna að söluaðilinn, Lax-á ehf., hafi ítrekað þurft að endurgreiða seld veiðileyfi og færa veiðimenn á önnur veiðisvæði og því ekki greitt stefnanda fyrir þá veiðidaga sem þannig ónýttust. Sé beint tap stefnanda sá hagnaðarmissir sem af því leiddi. Hins vegar sé mesta tap stefnanda óbeint tjón hans af missi hagnaðar vegna þess að veiðimenn, sem ella hefðu keypt veiðileyfi í Tungufljóti af stefnanda eða umboðsmanni hans, hafi ekki keypt veiðileyfi þar sem alkunna hafi verið að ekki væri friður um fljótið. Byggir stefnandi á því að umrædd háttsemi stefndu hafi haft úrslitaáhrif um sölumöguleika stefnanda á veiðileyfum á greindu tímabili. Þar sem háttsemi stefndu hafi strítt gegn skýru lagaboði verði að telja að stefnandi hafi sýnt fram á með nægjanlegum hætti að skilyrði almennu skaðabótareglunnar um sennilega afleiðingu séu uppfyllt.

            Stefnandi vísar til þess að það breyti engu um bótaábyrgð stefndu þó landeigendur Fells og Króks hafi, í þeim tilgangi að styðja stefndu, fylgt fordæmi þeirra og meinað framleigutökum stefnanda árið 2008 að veiða fyrir landi umræddra jarða. Háttsemi greindra landeigenda hafi í raun ekki haft áhrif á hagsmuni stefnanda vegna þess í fyrsta lagi að veiði fyrir löndum greindra jarða hafi verið óveruleg og í öðru lagi vegna þess að tjón stefnanda verði fyrst og fremst rakið til háttsemi stefndu á austurbakka Tungufljóts rétt fyrir neðan fossinn Faxa, en þar sé besta veiðin.

            Stefnandi vísar til þess að það láti nærri að heildarfjárfesting hans í Tungufljótsverkefninu sé ekki undir 140.000.000 króna og sé þó ýmis annar kostnaður ótalinn, t.d. markaðskostnaður, ferðakostnaður, kostnaður við heimasíðugerð og kynningarkostnaður. Stærsta tjónið sé þó glatað orðspor Tungufljóts ehf., og Lax-ár ehf., vegna aðgerða stefndu á viðkvæmum markaði með stangveiðileyfi.

            Stefnandi vísar til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi dómkröfu I. Telur stefnandi sig hafa uppfyllt skilyrði ákvæðisins með því að hafa leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gert grein fyrir því í hverju tjón hans sé fólgið og hver tengsl þess séu við atvik máls.

            Stefnandi vísar til þess að honum sé, þrátt fyrir ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, heimilt að vera eini aðili til sóknar í máli þessu, enda sé stefnandi einn handhafi þeirra hagsmuna sem mál þetta taki til. Engu breyti í því sambandi þótt hann hafi kosið að semja við systurfélag sitt, Lax-á ehf., um að annast sölu veiðileyfa sem og dótturfélag Lax-ár ehf., Agn ehf., sem hafi annast sölu veiðileyfa á vefnum.

            Stefnandi vísar að öðru leyti til almennu skaðabótareglunnar og reglna skaðabótaréttar utan samninga og laga nr. 61/2006. Varðandi heimild til að höfða viðurkenningarmál vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Um samaðild stefndu er vísað til 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað sé byggð á 1. mgr. 130. gr. sömu laga.  

Málsástæður og lagarök stefndu.

                Helstu málsástæður og lagarök stefndu í þessum þætti málsins eru eftirfarandi. Kröfu sína um sýknu byggja stefndu meðal annars á eftirfarandi: Í fyrsta lagi sé ósannað að stefndu hafi á nokkurn hátt valdið stefnanda tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti eins og lýst sé í dómkröfu stefnanda. Engar stoðir séu fyrir þeim fullyrðingum nema að því er varði veiði Ólafs Bjarnasonar á árinu 2010, sbr. dóm Héraðsdóms Suðurlands. Í því sambandi vísa stefndu til þess að Veiðifélag Árnesinga hafi, á aðalfundi félagsins 21. apríl 2009, verið búið að ákveða að hver landeigandi mætti veiða fyrir sínu landi árið 2010.

                Í öðru lagi krefjast stefndu sýknu með vísan til þess að stefndu beri enga ábyrgð á leigusamningum sem gerðir voru um Tungufljót neðan Faxa, hvorki samningi í nafni Veiðifélagsins Faxa árið 2003 né samnings í nafni Tungufljótsdeildar árið 2010. Varðandi fyrri samninginn vísa stefndu meðal annars til þess að hvorki þeir sem undirrituðu þann samning né Veiðifélagið Faxi hafi á þessum tíma haft heimild til að leigja út svæði neðan fossins Faxa sem tilheyrt hafi öðru veiðifélagi, þ.e. Veiðifélagi Árnesinga. Því hafi allar veiðar, sala veiðileyfa, seiðasleppingar og gerð sleppitjarna af hálfu stefnanda og aðila á hans vegum á svæði Veiðifélags Árnesinga samkvæmt samningnum verið ólögmætir gjörningar.

Varðandi samning Tungufljótsdeildar við stefnanda frá árinu 2010 vísa stefndu til þess að við gerð hans hafi ekki verið tekið tillit til fjölmargra atriða sem áskilnaður sé um í laxveiðilögum og samþykktum Veiðifélags Árnesinga. Í þessu sambandi vísa stefndu til þess að aðalfundur Veiðifélags Árnesinga árið 2009 hafi þegar ráðstafað veiði ársins 2010 og því hafi Tungufljótsdeild ekki verið heimilt að ráðstafa veiði þess árs í trássi við samþykkt aðalfundar félagsins. Í því sambandi breyti dómur Hæstaréttar í málinu nr. 32/2015, engu þar um og ekki sé hægt að byggja bótarétt á grundvelli slíks samnings. Þá hafi ekki verið heimilt að gera samning um leigu stangveiðiréttar til 10 ára samkvæmt 5. gr. samþykkta Veiðifélags Árnesing, nema að slíkt sé tekið fram í fundarboði og það hafi ekki verið gert í aðalfundarboði félagsins árið 2009. Sýkna eigi stefndu þar sem samningur stefnanda stangist á við lög. Að lokum vísa stefndu til þess að Tungufljótsdeild hafi ekki haft heimild til ráðstöfunar veiði til stefnanda. Ekki hafi verið sýnt fram á að Tungufljótsdeild hafi fengið áritun stjórnar Veiðifélags Árnesinga á samninginn frá árinu 2010, eins og komi fram í fundargerð aðalfundar Veiðifélags Árnesinga 28. apríl 2011, þar sem fram komi að samningur stefnanda hafi ekki verið lagður fyrir stjórn félagsins. Samningur hafi þar með verið ógildur og óskuldbindandi fyrir stefndu og vísa stefndu í því sambandi til 13. gr. samþykkt Veiðifélags Árnesinga og 5. mgr. 39. gr. lax- og silungsveiðilaga.

                Í þriðja lagi mótmæla stefndu því að stefnandi hafi með nægjanlegum hætti sýnt fram á að skilyrði almennu skaðabótareglunnar um sennilega afleiðingu séu uppfyllt í máli þessu. Í því sambandi vísa stefndu til þess að fleiri aðilar geti talist bótaábyrgir, verði litið svo á að slík ábyrgð sé fyrir hendi. Í því sambandi vísa stefndu annars vegar til þess að bæði Tungufljótsdeildin, sé hún löglega stofnuð, og þeir aðilar sem skrifað hafi undir leigusamninginn við stefnanda án þess að hafa til þess lögmæta heimild, geti talist bera ábyrgð á hluta þess tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir, þ.e. með samningsgerð sem ekki hafi verið staðið við eða sem ekki var heimilt að gera. Hins vegar komi það fram í stefnu að eigendur að jörðunum Felli og Króki hafi meinað aðgang að veiðum fyrir landi sínu og að landeigendur Fells hafi sjálfir stundað veiði fyrir sínu landi. Með vísan til þess telja stefndu að stefnandi hafi alls ekki upplýst um það, eða útskýrt á nokkurn máta, hver sé sennileg afleiðing hinnar meintu ólögmætu og saknæmu hegðunar stefndu og með hvað hætti hún verði aðgreind frá sennilegri afleiðingu gjörða annarra mögulegra tjónvalda í málinu.

                Í fimmta lagi sé ekki gerð grein fyrir því í stefnu hvert sé ætlað árlegt tap stefnanda á því tímabili sem tilgreint sé í dómkröfunni. Engin rök séu sett fyrir „missi hagnaðar“ sem stefnandi „ella hefði fengið.“ Engin tilraun sé gerð til að sýna fram á hvert tjón hafi verið. Engin gögn séu sem sýni hvert tjón hafi verið og sama gildi um gögn sem tengi eitthvað tjón við stefndu. Engin gögn styðji þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi misst frá sér veiðimenn og engin gögn séu um að stefnandi hafi orðið að endurgreiða veiðileyfi vegna framferðis stefndu. Ætlað tjón stefnanda sé því afar óljóst, sérstaklega á árunum 2007-2009 þegar í gildi var leigusamningur við Veiðifélagið Faxa, sem eins og áður hafi verið rakið hafi ekki haft heimild til að selja veiðileyfi á veiðisvæði Veiðifélags Árnesinga. Auk þess sé óljóst hvernig sölu veiðileyfa hafi verið háttað og ekki komi skýrt fram hver greiði stefnanda fyrir veiðirétt. Félagið Lax-á ehf., auglýsi veiðileyfi og kynni þau en Agn ehf., selji þau. Engin grein sé gerð fyrir tengslum þeirra félaga við stefnanda. Samkvæmt ársreikningum áranna 2010 og 2011 séu seld veiðileyfi talin vera fyrir 15.000.000 króna hvort ár, en kostnaður gífurlegur. Ætla megi því að tap félagasamsteypunnar Tungufljót ehf./Agn ehf./Lax-á ehf., sé látið falla á stefnanda en hagnaður komi inn hjá hinum félögunum. Þannig geti eigendur stefnanda hagrætt því hvaða leigutekjur séu taldar koma inn til félagsins. Slíkt veiki mjög sönnun stefnanda um tjón hans. Þá verði ekki séð í stefnu að stefnandi hafi sýnt fram á tjón vegna glataðs orðspors, sem stefnandi segi vera stærsta tjón stefnanda. Framangreint tjón, ef eitthvað sé, liggi væntanlega hjá söluaðila veiðileyfa og jafnvel hjá veiðiréttarhöfum sjálfum, þ.á m. stefndu í máli þessu. Þá geti hið glataða orðspor stafað að öðrum orsökum, s.s. lélegri afkomu hjá stefnanda og systurfyrirtækjum sem rekja megi til almennra lækkunar á veiðileyfum vegna efnahagshrunsins og minnkandi veiði í ám, eða vegna vanhugsaðra fjárfestinga í fiskirækt.

                Þá hafi stefnandi ekki gert almennilega grein fyrir því í hverju hið meinta tjón eigi að vera fólgið en í stefnu sé tilgreind sú fjárhæð sem stefnandi telur sig hafa kostað til þess sem hann kallar Tungufljótsverkefnið. Þá sé í stefnu einnig vísað til meints tjóns sem stefnandi telji að hafi skapast af missi væntanlegs hagnaðar vegna færri veiðileyfa sem stefnandi og Lax-á ehf., hafi selt, auk þess sem „stærsta tjónið“ hafi verið glatað orðspor stefnanda og Lax-ár ehf. Af þessu verði ráðið að stefnandi virðist vera að krefja stefndu að hluta til um skaðbætur vegna meints tjóns sem Lax-á ehf., hafið orðið fyrir en það félag sé ekki aðili að málinu. Stefnandi vísi einnig til þess að hafa orðið fyrir tjóni vegna tapaðra vinnustunda Árna Baldurssonar og þess að Lax-á ehf., hafi ítrekað orðið að endurgreiða veiðimönnum seld veiðileyfi og færa veiðimenn á ný veiðisvæði án þess að útskýrt sé hvernig það geti skapað stefnanda tjóni. Vísa stefndu til þess að stefnandi geri í raun enga tilraun til þess að sundurgreina það að hve stórum hluta hið meinta tjón hafi fallið á hann og hve stór hluti þess hafi lent á Lax-á ehf. Þá geri stefnandi enga tilraun til að sýna fram á það hvernig Lax-á ehf., tengist máli þessu og engin skjöl séu lögð fram um það hvaða heimild Lax-á ehf., hafi til að selja veiðileyfi eða hvernig greiðslum frá Lax-á ehf., til stefnanda vegna sölu veiðileyfa skyldi háttað.

                Vegna skorts á aðgreiningu hafi stefnandi ekki sýnt fram á orsakasamband á milli athafna stefndu og hins meinta tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir og þess tjóns sem stefnandi heldur fram að Lax-á ehf., hafi orðið fyrir. Þá liggi ekki heldur fyrir sönnun um það hvaða athafnir hafi valdið hvaða hluta hins meinta tjóns. Í ljósi þessa telja stefndu að sýkna verði þá að kröfu stefnanda.

                Í sjötta lagi vísa stefndu til þess að samkvæmt stefnu virðist stefnandi hafa lagt út í mikinn kostnað við seiðaeldi og fiskirækt, en ekki sé ljóst að hve miklu leyti sá kostnaður tengist beint Tungufljóti neðan Faxa. Kostnaðurinn geti einnig tengst starfsemi stefnanda að systurfyrirtækjum stefnanda, bæði vegna veiði ofan Faxa eða jafnvel fiskirækt vegna annarra áa á vegum stefnanda eða systurfyrirtækja. Því sé meint tjón afar óljóst. Þá vísa stefndu til þess að stefnandi hafi farið út í alls kyns kostnað og framkvæmdir án aðkomu eða hvatningar af hálfu stefndu. Stefnandi hafi tekið mikla áhættu enda ekki með gilda samninga eða skuldbindandi samninga við stefndu. Tjónið hafi því verið á hans áhættu. Þá hafi stefnanda borið skylda til að minka tjón sitt, t.d. með því að stöðva framferði hinna meintu brotlegu í tíma. Það hafi stefnandi ekki gert og því eigi hann engan rétt til bóta. Vísa stefndu í þessu sambandi til hinnar óskrifuðu reglu skaðabótaréttarins um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt og einnig til að draga hagnað frá tjóni (Compensatio lucri cum damno).

                Í áttunda lagi krefjast stefndu sýknu þar sem stefnandi beini kröfum sínum að röngum aðila. Í því sambandi vísa stefndu til þess að samkvæmt stefnu hafi Tungufljótsdeild, eða þeir sem segjast hafa skrifað undir samninga fyrir hönd deildarinnar,  ekki staðið við gerða samninga. Af málavaxtalýsingu stefnanda megi draga þá ályktun meðal annars að samningsaðilinn hafi átt að efna þá skyldu sína að hafa allt veiðisvæðið til afnota fyrir stefnanda. Stefnandi hafi í þessu skyni beitt þvingunarúrræðum gagnvart Tungufljótsdeild, þ. á m. stöðvað greiðslur. Á meðan meðferð matsnefndar vegna arðskrár stóð hafi stefnandi og Tungufljótsdeild upplýst að samningurinn hafi verið ógildur síðastliðin tvö ár, væntanlega vegna þess að Tungufljótsdeild hafi ekki staðið við samninginn. Þá hafi stjórn Tungufljótsdeildar leyst stefnanda undan skyldu til greiðslu á a.m.k. tveggja ára leigu, líklega vegna einhverra sjónarmiða um skaðabætur. Stefnandi geti því ekki gert stefndu eina ábyrga fyrir meintu tjóni sínu á grundvelli sjónarmiða um bótaábyrgð utan samninga á sama tíma og hann fær bætur frá samningsaðila fyrir sama tjón á grundvelli bótaábyrgðar innan samninga.

                Í níunda lagi vísa stefndu til þess að í stefnu sé greint frá því að Veiðifélag Árnesinga hafi að nokkru leyti staðið í vegi fyrir seiðasleppingum stefnanda frá árinu 2010 vegna óvissu sem stjórn félagsins taldi að upp hefði komið um áhrif ræktunarstarfsins á lífríkið. Þá segi í stefnu að atferli stefndu, ásamt vandræðum með seiðasleppingar, hafi leitt til þess að fáir veiðimenn hafi sýnt áhuga á veiði í Tungufljóti árin 2012 og 2013 og þess vegna hafi sala veiðileyfa verið í lágmarki. Með þessu sé ljóst að meint tjón stefnanda sé af öðrum orsökum en hegðunar stefndu. Þá sé einnig viðurkennt í stefnu að ekki sé vitað til að stefndu hafi verið að veiða eða láta veiða í Tungufljóti árin 2012 -2014. Þessu til viðbótar vísa stefndu til þess að stefnandi hafi ekki haft gildan samning um fljótið a.m.k. síðastliðin tvö ár. Þá hafi engin séð til stefndu eða fólks á þeirra vegum við veiðar árið 2011 og árið 2010 hafi landeigendur sjálfir mátt veiða samkvæmt samþykkt Veiðifélags Árnesinga árið áður. Því verði ekki komist hjá því að sýkna stefndu  enda ósannað að stefndu hafi með saknæmum eða ólögmætu atferli valdið stefnanda tjóni á tímabilinu 2010-2014.

                Loks segir í greinargerð stefndu að Bergstaðafélagið sé frjálst félag og taki ekki við lögskyldum fyrir hönd félagsmanna. Ekki sé heldur hægt að byggja á ábyrgð einstakra félaga á starfsemi þess. Félagið hafi ekkert að gera með eignarhald á Bergstöðum, né heldur beri það ábyrgð á ráðstöfun veiðiréttar.

                Þá vísa stefndu til málsástæðna til stuðnings frávísunarkröfu sinni og telur þær einnig eiga við hvað sýknukröfu varðar.

                Um lagarök vísa stefndu til laga nr. 91/1991, meginreglna skaðabótaréttar um sönnun og sönnunarbyrði og ákvæði lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006, um veiðifélög, deildir og ráðstöfun veiði.

Niðurstaða

Við aðalmeðferð málsins, sem fór fram dagana 22. og 23. september sl., gaf fyrirsvarsmaður stefnanda, Árni Þormar Baldursson skýrslu fyrir dómi og stefndu Vilhjálmur Einarsson og Jón Bjarni Gunnarsson. Einnig gáfu skýrslu fyrir dómi vitnin Brynjar Sigurðsson bóndi á Heiði, Ólafur Einarsson bóndi á Torfastöðum, Drífa Kristjánsdóttir bóndi Torfastöðum og formaður Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga, Margeir Ingólfsson bóndi Brú, Valur Lýðsson bóndi á Gýgjarhóli, Snorri Ólafsson fyrrverandi veiðileiðsögumaður við Tungufljót, Jón Óttar Karlsson veiðileiðsögumaður við Tungufljót og starfsmaður Lax-ár ehf., Guðmundur Garðar Brynjólfsson fyrrverandi veiðileiðsögumaður við Tungufljót og starfsmaður Lax-ár ehf., Jóhann Torfi Ólafsson sölumaður hjá Lax-á ehf., Stefán Páll Ágústsson sölumaður hjá Lax-á ehf., Freyr Heiðar Guðmundsson sölumaður vefsöluvefsins agn.is, Gunnar Briem, Jörundur Gauksson formaður Veiðifélags Árnesinga og Kjartan Helgason bóndi í Haga og fyrrverandi stjórnarmaður í Veiðifélagi Árnesinga. 

                Kröfu sína um viðurkenningu á rétti til skaðabóta úr höndum stefndu byggir stefnandi á tveimur leigusamningum sem hann gerði um leigu veiðiréttar í Tungufljóti. Annars vegar leigusamningi frá 6. júlí 2003 og hins vegar leigusamningi frá 10. apríl 2010, en samkvæmt þessum samningum hafi stefnandi haft veiðirétt í Tungufljóti. Stefndu, sem krefjast sýknu vísa til þess að þau beri enga ábyrgð á þeim tveimur leigusamningum sem gerðir hafa verið um Tungufljót neðan fossins Faxa. Því hafi allar veiðar, sala veiðileyfa, seiðasleppingar og gerð sleppitjarna af hálfu stefnanda og aðila á hans vegum á svæði Veiðifélags Árnesinga samkvæmt leigusamningunum frá 2003 og 2010 verið ólögmætir gjörningar.     

Ágreiningur um skuldbindingagildi leigusamnings frá 6. júlí 2003    

            Óumdeilt er í máli þessu að land stefndu, Bergstaðir í Bláskógabyggð, liggur að austurbakka Tungufljóts neðan við fossinn Faxa og að landinu fylgir veiðiréttur í fljótinu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006. Samkvæmt leigusamningnum frá árinu 2003 voru leigusalar Veiðifélagið Faxi, vegna Tungufljóts ofan Faxa, og Veiðifélag Árnesinga, vegna Tungufljóts neðan Faxa, og leigutaki stefnandi í máli þessu, Tungufljót ehf. Leigusamningurinn, sem dagsettur er 6. júlí 2003, fjallar meðal annars um rétt leigutaka til stangveiða, eins og nánar er skilgreint í 1. gr. samningsins, þ.e. stangveiða í Tungufljóti frá ármótum Tungufljóts og Hvítár til upptaka Tungufljóts ásamt öllum þverám og lækjum sem til fljótsins falla. Samningurinn náði því til Tungufljóts ofan og neðan við fossinn Faxa. Samkvæmt 8. gr. var gildistími samningsins fyrir veiðitímabilin frá 2003 til og með 2017. Samningurinn er undirritaður fyrir hönd Veiðifélagsins Faxa og fyrir hönd stefnanda. Samkvæmt texta samningsins var gert ráð fyrir samþykki Veiðifélags Árnesinga eins og það er orðað í samningnum. Á lokablaðsíðu samningsins er handrituð yfirlýsing stjórnar Veiðifélags Árnesinga, dags. 18. ágúst 2003, en undir yfirlýsinguna ritaði þáverandi formaður félagsins, Gaukur Jörundsson, fyrir hönd félagsins. Þar segir: „Veiðifélag Árnesinga er ekki aðili þessa samnings. Að því hins vegar tilskildu, að eigendur réttar til lax- og silungsveiði í Tungufljóti á félagssvæði Veiðifélags Árnesinga gerist aðilar samningsins, samþykkir félagið samninginn fyrir sitt leyti með þeim takmörkunum, sem heimildum félagsins eru settar lögum samkvæmt. Ræktun, þar með taldar seiðasleppingar, verði í samkomulagi við Veiðimálastofnun og Veiðifélag Árnesinga og háð samþykki þess.“ 

            Stefnandi telur stefndu í reynd, sem félagsmenn í Veiðifélaginu Faxa og Veiðifélagi Árnesinga, hafa samþykkt að hlíta framangreindum leigusamningi. Vísar stefnandi í þessu sambandi í fyrsta lagi til þess að samkvæmt þágildandi samþykkt fyrir Veiðifélagið Faxa, nr. 29/1972, hafi Bergstaðir, jörð stefndu, verið meðal þeirra jarða sem taldar voru upp í 2. gr. samþykktanna og hafi sú skipan haldist allt þar til samþykktunum hafi verið breytt 15. september 2011, sbr. samþykkt nr. 891/2011.

            Þó svo jörð stefndu hafi verið tilgreind í framangreindum samþykktum Veiðifélagsins Faxa leiðir það eitt út af fyrir sig ekki til þess að leigusamningurinn við stefnanda frá 2003 skuldbindi stefndu enda skýrt kveðið á um það í leigusamningnum sjálfum að annar leigusali sé Veiðifélag Árnesinga vegna Tungufljóts neðan fossins Faxa, þ.e. vegna félagsmanna sem skráðir eru eigendur jarða á því svæði. Samkvæmt 4. gr. þágildandi samþykkta Veiðifélags Árnesinga nr. 38/1961 var öllum óheimilt að veiða á félagssvæðinu nema með skriflegu leyfi félagsstjórnar, sbr. og 44. gr. þágildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970, um skylduaðild að veiðifélagi. Að mati dómsins kveður tilvitnuð yfirlýsing stjórnar Veiðifélags Árnesinga á leigusamningnum með skýrum hætti á um að stjórn félagsins setti það sem skilyrði fyrir samþykki sínu að eigendur réttar til lax- og silungsveiði í Tungufljóti á félagssvæði Veiðifélags Árnesinga gerðust aðilar samningsins. Framlagður leigusamningur ber ekki með sér að eigendur réttar til lax- og silungsveiði í Tungufljóti neðan Faxa, þ.m.t. stefndu, hafi gerst aðilar að leigusamningnum. 

                Til frekari stuðnings þess að stefndu hafi verið bundnir að leigusamningnum frá 2003 vísar stefnandi til þess að á fundi um fiskirækt og uppbyggingu við Tungufljót, sem haldinn hafi verið í Aratungu 28. apríl 2003, hafi verið samþykkt að ganga til samninga við stefnanda með öllum greiddum atkvæðum og hafi stefndu því verið bundnir af þeirri samþykkt. Þá vísaði stefnandi í málflutningi sínum til þess að fram hafi komið í aðilaskýrslu Vilhjálms Bjarnasonar, formanns Bergstaðafélagsins, að Vilhjálmur hafi sótt áðurnefndan fund.   

Meðal gagna málsins er fundargerð Aratungufundarins. Þar kemur meðal annars fram að fundarmenn hafi verið 36 frá 33 jörðum, en allir landeigendur við Tungufljót, sem talið hafi verið að ættu veiðirétt í fljótinu, hafi verið boðaðir á fundinn. Í fundargerð kemur fram að forsvarsmaður stefnanda, Árni Þormar Baldursson, hafi óskað eftir því að ganga til samninga við landeigendur og hafi hann kynnt fyrir fundarmönnum ræktunarhugmyndir stefnanda fyrir allt vatnasvæði Tungufljóts. Að loknum umræðum hafi verið borin upp eftirfarandi tillaga: „Fundur um fiskirækt í Tungufljóti og vatnasvæði þess haldinn í Aratungu 28. apríl 2003 samþykkir að ganga til smaninga [sic] við Tungufljót ehf. samkvæmt þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið á fundinum. Til þess að þetta geti gengið eftir þá er stefnt að því að stækka félagssvæði Veiðifélagsins Faxa þannig að það nái yfir allt vatnasvæði Tungufljóts.“ Þá segir: „Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.“ Í lok fundargerðar kemur fram að tilnefndir hafi verið fjórir menn til að vinna áfram að málinu, eins og það er orðað. Að mati dómsins getur samþykkt sú sem stefnandi vísar til að gerð hafi verið í lok fundar og rakin er hér að framan orðrétt, ekki, eins og hún er orðuð, talist ígildi þess að stefndu hafi sem landeigendur og veiðiréttarhafar við Tungufljót neðan Faxa gerst aðilar leigusamnings sem gerður var við stefnanda tæpum þremur mánuðum síðar, þ.e. 6. júlí 2003.

Stefnandi vísar einnig til þess að framkvæmd leigusamningsins hafi verið athugasemdalaus af hálfu stefndu meðan á uppbyggingarstarfi stefnanda hafi staðið á árunum 2003 til 2007. Stefndu hafa því a.m.k. samþykkt með tómlæti sínu á því tímabili að stunda ekki veiðar fyrir landi sínu í óþökk stefnanda.  

Í málsástæðukafla í greinargerð stefndu er tekið fram að málsástæður til stuðnings frávísunarkröfu eigi einnig við sýknukröfu stefndu. Í frávísunarhluta greinargerðar stefndu er vísað til bréfs þáverandi veiðimálastjóra, dags. 13. september 2004, til Halldórs Jónssonar, eins stefndu. Bréfið ber með sér að áðurnefndur Halldór hafi, fyrir hönd eigenda jarðarinnar Bergstaða, leitað eftir áliti stofnunarinnar á fundarsköpum og ýmsum málefnum er varðaði gerð leigusamnings milli Tungufljóts ehf., og Veiðifélagsins Faxa, sem fari með málefni Tungufljóts ofan við fossinn Faxa, þ. á m. um skuldbindingagildi leigusamningsins gagnvart stefndu. Þá vísaði lögmaður stefndu í málflutningi til fundargerðar aðalfundar Veiðifélagsins Faxa sem haldinn var 26. ágúst 2004. Í fundargerðinni kemur fram að formaður félagsins hafi kynnt leigusamninginn við Tungufljót ehf., eftir að landeigendur að Tungufljóti neðan Faxa hafi mætt á fundinn. Þá er bókað að umræður hafi orðið um samninginn og að Bergstaðamenn hafi viljað fá ákvæði um hagnaðarhlutdeild inn í samninginn, eins og það er orðað í fundargerðinni. Á framhaldsaðalfundi félagsins 14. september sama ár var leigusamningurinn frá 2003 við stefnanda einnig á dagskrá fundarins og tóku þá til máls meðal annarra tveir af eigendum Bergstaða. Í fundargerð kemur fram að einn stefndu, áðurnefndur Halldór Jónsson, hafi kvatt sér hljóðs og meðal annars lesið upp bréf sem hann hafi sent veiðimálastjóra sem og svör veiðimálastjóra. Þá er einnig færð til bókar yfirlýsing Vilhjálms, eins stefndu, þess efnis að hann lýsi samninginn við stefnanda ólöglegan. Forsvarsmaður stefnanda var í skýrslu sinni fyrir dómi spurður um afstöðu stefndu til leigusamningsins frá 2003. Í svörum forsvarsmannsins kom fram að Gaukur [Jörundsson þáverandi formaður Veiðifélags Árnesinga, innskot dómara] hafi skrifað undir samninginn fyrir hönd félagsins. Nánar aðspurður kvaðst forsvarsmaðurinn ekkert hafa hugsað út í að það þyrfti samþykki allra landeigenda og vísaði til þess að allir landeigendur hafi verið á kynningarfundinum í Aratungu. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir að strax á árinu 2004 hafi fulltrúar stefndu með skýrum og afgerandi hætti komið á framfæri afstöðu sinni til leigusamningsins. Þá verður að ganga út frá því að stefnanda sem leigutaka hafi verið eða hafi að minnsta kosti átt að vera kunnugt um að samþykki annars leigusalans, þ.e. Veiðifélags Árnesinga, var bundið því skilyrði að veiðiréttarhafar jarða við Tungufljót neðan við fossinn Faxa gerðust aðilar að samningnum. Að öllu framansögðu virtu fellst dómurinn ekki á það með stefnanda að framkvæmd leigusamningsins hafi verið athugasemdalaus af hálfu stefndu og þannig hafi stefndu a. m.k. með tómlæti sínu í reynd samþykkt samninginn.  

            Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram sönnun þess að stefndu hafi verið aðilar að leigusamningnum frá 6. júlí 2003, eða með öðrum hætti undirgengist skuldbindingagildi hans, og því hafi ráðstöfun veiðiréttar í Tungufljóti neðan við fossinn Faxa sem kveðið var á um í samningnum ekki verið bindandi gagnvart stefndu. 

Ágreiningur um skuldbindingagildi leigusamnings frá 10. apríl 2010               

Eins og áður greinir vísar stefnandi vegna kröfu sinnar um viðurkenningu á rétti til skaðabóta úr höndum stefndu einnig til leigusamnings frá 2010. Leigusamninginn gerði Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga, sem þá var nýlega stofnuð, við stefnanda þann 10. apríl 2010.

Fyrir liggur að nokkur aðdragandi var að stofnun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga, þ.e. vegna Tungufljóts neðan við fossinn Faxa. Á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga, sem haldinn var 21. apríl 2009, var meðal annars á dagskrá fundarins tillaga frá undirbúningsfundi veiðiréttareigenda neðan Faxa þess efnis að stofna veiðideild í Tungufljóti neðan við fossinn Faxa. Eftir umræður um tillöguna var tillaga stjórnar Veiðifélags Árnesinga um að aðalfundur félagsins samþykkti stofnun veiðideildar við Tungufljót neðan Faxa samþykkt með átján atkvæðum gegn fimm. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu kröfðust stefndu þess fyrir dómstólum að framangreind ákvörðun aðalfundar Veiðifélags Árnesinga þann 21. apríl 2009 um stofnun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga yrði ógild. Var málinu vísað frá á báðum dómstigum þar sem málshöfðunarfrestur 7. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 hefði verið liðinn þegar málið var höfðað, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. febrúar 2015 í málinu nr. 32/2015. Samkvæmt framangreindu liggur því fyrir að stofnun Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga þann 21. apríl 2009 var lögmæt.

Þann 10. apríl 2010 var síðan áðurnefndur leigusamningur milli stefnanda og Tungufljótsdeildar undirritaður eins og áður greinir. Fyrsti aðalfundur Tungufljótsdeildar var haldinn 12. apríl 2010 og var leigusamningurinn, sem gerður var með fyrirvara um samþykki aðalfundar, samþykktur með meginþorra atkvæða eins og segir í fundgerð. Í inngangi leigusamningsins frá 10. apríl 2010 segir að markmið hans sé markaðssetning stangveiða í Tungufljóti og ræktun á laxi með það að leiðarljósi að gera Tungufljót að gjöfulli sjálfbærri laxveiðiá. Leigutaki leggi til verksins fjármagn og þekkingu en leigusali vatnasvæði fljótsins. Í 1. gr. er hinu leigða lýst, þ.e. leigusali leigir leigutaka allan rétt til stangveiða í Tungufljóti neðan Faxa, frá og með fossinum Faxa til og með ármótum Tungufljóts og Hvítar, ásamt þverám og lækjum sem til Tungufljóts falla.  

Stefnandi vísar til þess að staðreynt hafi verið með dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-521/2010, að frá og með veiðitímabili ársins 2010 hafi veiðar á vegum stefndu fyrir landi Bergstaða verið óheimilar. Þessu mótmæla stefndu og vísa til þess að ekki sé hægt að byggja bótarétt á grundvelli leigusamningsins frá 2010. Annars vegar telja stefndu að ráðstöfun Tungufljótsdeildar á veiði til stefnanda á árinu 2010 hafi verið óheimil þar sem aðalfundur Veiðifélags Árnesinga hafi þá þegar ráðstafað veiði ársins 2010.

Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands í sakamálinu nr. S-521/2010, sem kveðinn var upp 10. júní 2011, og liggur frammi í málinu, var einn stefndi í máli þessu sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 61/2006, þ.e. fyrir að hafa þann 4. júlí 2010 stundað stangveiðar í Tungufljóti án leyfis leigutaka að fljótinu. Málsvörn í framangreindu sakamáli, sem eins og áður segir beindist að einum stefndu í máli þessu, laut að sömu málsatvikum og í máli þessu, þ.e. að samkvæmt samþykkt aðalfundar Veiðifélags Árnesinga 21. apríl 2009 um veiðitilhögun ársins 2010 hafi hverjum félagsmanni Veiðifélags Árnesinga verið frjálst að veiða fyrir landi sínu á veiðitímabili ársins 2010. Með vísan til málsvarnar stefndu verður framangreind niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands lögð til grundvallar í máli þessu og sætir ekki endurskoðun, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda hafa stefndu ekki sannað hið gagnstæða við meðferð máls þessa. Þá er einnig til þess að líta að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 10. febrúar 2015 í málinu nr. 32/2015, var talið að ákvæði 7. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 ætti jafnt við um stofnun veiðifélags og deildar innan þess. Með vísan til þessa verður að telja að ákvæði 3. mgr. 37. gr. laga 61/2006 gildi einnig um deildir, en í ákvæðinu segir að veiðifélag sem starfar samkvæmt lögum þessu skal taka til allrar veiði í umdæmi félagsins og eftir stofnun þess er öllum óheimilt að veiða í vatni á félagssvæðinu nema samkvæmt heimild frá félaginu.

Hins vegar telja stefndu að leigusamningur Tungufljótsdeildar við stefnanda frá 10. apríl 2010, taki ekki tillit til fjölmargra atriða sem áskilnaður sé um í lax- og silungsveiðilögunum og samþykktum Veiðifélags Árnesinga og því sé samningurinn í heild ekki skuldbindandi fyrir stefndu. Í þessu sambandi vísa stefndu í fyrsta lagi til þess að Tungufljótsdeild hafi ekki haft heimild til ráðstöfunar veiði til stefnanda þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að fengin hafi verið áritun stjórnar Veiðifélags Árnesinga á samninginn, en í 10. gr. samningsins sagði að samningurinn sé gerður með fyrirvara um samþykki Veiðifélags Árnesinga. Máli sínu til stuðnings vísa stefndu til 13. gr. samþykktar Veiðifélags Árnesinga nr. 991/2008 og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006.

            Af þeim gögnum sem liggja frammi í máli þessu verður ekki annað ráðið en að Veiðifélag Árnesinga hafi ekki gert athugasemdir við leigusamning Tungufljótsdeildar við stefnanda, þ.e. hvað varðar leigu á rétti til stangveiða. Í fundargerð aðalfundar Veiðifélags Árnesinga 28. apríl 2011 kemur fram að leigusamningur Tungufljótsdeildar við stefnanda hafi ekki verið lagður fyrir stjórn félagsins. Þá er fært til bókar í fundargerðinni að deildir ráðstafi veiði. Fékkst framangreint staðfest í skýrslu formanns Veiðifélags Árnesinga, Jörundar Gaukssonar, fyrir dómi, en þar lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að ekki hafi verið þörf á að bera leigusamninginn undir Veiðifélag Árnesinga. Vísaði vitnið til þess að það hafi verið forsenda þess að Tungufljótsdeild hafi getað ráðstafað veiðinni í heild að Veiðifélag Árnesinga hafi alltaf tekið þá ákvörðun að hver veiði fyrir sínu landi, en í því fælist að mönnum væri heimilt að ráðstafa veiði fyrir sínu landi, t.d. með því að leigja út veiði en þó aðeins til eins árs í senn. Tók vitnið fram að það væri sín skoðun að ef Veiðifélag Árnesinga tæki aðra ákvörðun, t.d. að leigja vatnasvæði félagsins allt í heild, þá myndu allir samningar víkja, þ.e. bæði samningar deilda og einstakra félagsmanna.

            Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, má í samþykktum veiðifélags ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Þá segir að hver deild ráðstafi þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félags setur. Ákvæði þessa efnis kom fyrst í lög með 3. mgr. 69. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 53/1957 og sagði í athugasemdum með greininni í frumvarpi að áðurnefndum lögum að reglan sé nýmæli og að reynslan virðist benda til, að heppilegt væri, að veiðifélög gætu starfað í deildum, ef misjafnlega hagaði til á félagssvæði. Ákvæðið tók ekki breytingum við gildistöku lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970, og í athugasemdum með greinagerð að frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2006 segir aðeins um ákvæði 4. mgr. 39. gr., um að heimilt sé að deildarskipta starfsemi veiðifélags, að sambærilega reglu sé að finna í 4. mgr. 49. gr. gildandi laga.

            Þó ekki sé ítarlegum lögskýringagögnum til að dreifa um 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, kemur skýrt fram í greininni að það sé hlutverk deilda að ráðstafa veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur. Í tillögu stjórnar Veiðifélags Árnesinga um stofnun Tungufljótsdeildar neðan Faxa á aðalfundinum 2009 voru tilgreind tvö skilyrði. Annars vegar að Veiðifélag Árnesinga muni eftir sem áður annast fiskirækt á svæði deildarinnar og hins vegar að aðalfundur félagsins ákvarði veiðifyrirkomulag ár hvert. Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006, sem kveður á um skylduaðild að félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi, er í fimm liðum tilgreint hlutverk slíkra félaga. Þá er í c- og d-liðum greinarinnar  fjallað um ráðstöfun veiði. Í c-lið segir að það sé hlutverk slíkra félaga að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra, og í d-lið, að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu. Í 4. gr. samþykkta fyrir Veiðifélag Árnesinga er sambærilegt ákvæði. Kemur fram í 3. mgr. 4. gr. samþykktanna, að ef ráðstafa eigi veiði til annarra en félagsmanna á félagsfundi, þurfi að geta þess í fundarboði. Þá segir að félagið taki til allrar veiði á félagssvæðinu, þ.e. veiðiám sem tilgreindar eru í 3. gr. samþykktanna. Einnig er vísað til þess í 13. gr. samþykkta Veiðifélags Árnesinga að samþykktir félagsins gildi að öðru leyti einnig fyrir deildir. Verður því að telja vafalaust að ákvæði c- og d-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006, eigi jafnt við hvort heldur að ákvörðun um ráðstöfun veiði sé tekin af veiðifélagi eða deild innan þess. Að öllu framansögðu virtu er það mat dómsins að það hafi ekki verið lagaskylda fyrir Tungufljótsdeild að fá áritun eða samþykki Veiðifélags Árnesinga á leigusamning þann sem deildin gerði við stefnanda þann 10. apríl 2010.  

            Í öðru lagi telja stefndu að ráðstöfun Tungufljótsdeildar á veiðirétti stefndu hafi verið ólögmæt og andstæð eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Stefndu vísa til þess að óheimilt hafi verið að gera samning um leigu stangveiðiréttar til tíu ára þar sem slíkt hafi ekki verið tekið fram í fundarboði, sbr. 5. gr. samþykkta Veiðifélags Árnesinga. Á þetta fellst dómurinn ekki enda heimilt samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 61/2006, að skilja stangveiðirétt frá fasteign um tiltekinn tíma, eða í allt að tíu árum. Segir í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 61/2006, að þetta nýmæli komi ekki í veg fyrir að sami aðili geti í raun leigt stangveiðirétt um lengri tíma en tíu ár, en samningstíminn hverju sinni geti aldrei verið lengri. Eðli málsins samkvæmt bindur framangreint ákvæði laga nr. 61/2006 einnig deildir innan veiðifélaga við ráðstöfun veiði þó svo í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 sé eingöngu vísað til þeirra skilyrða sem aðalfundur félags setur. Þá er til þess að líta að ákvarðanir um ráðstöfun veiði, hvort heldur veiðifélaga eða deilda innan þeirra, eru bindandi fyrir veiðiréttarhafa á viðkomandi svæði, sbr. 37. gr. laga nr. 61/2006.  

            Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að með leigusamningi Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga við stefnanda, dags. 10. apríl 2010, hafi veiðirétti í Tungufljóti neðan fossins Faxa, þ.e. á svæði deildarinnar, verið ráðstafað með lögformlegum hætti til stefnanda og að sú ráðstöfun hafi bundið alla veiðiréttarhafa á starfssvæði deildarinnar, þar með talin stefndu í máli þessu.

Viðurkenningarkrafa stefnanda

            Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á skaðbótaskyldu stefndu vegna þeirrar háttsemi stefndu að hafa annars vegar hindrað og reynt að hindra framleigutaka stefnanda við stangveiðar í Tungufljóti á tilteknu árabili og hins vegar með því að hafa sjálf stundað eða látið stunda stangveiði í ánni fyrir landi Bergstaða í óleyfi stefnanda á tilteknu árabili. Þar sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að leigusamningurinn frá 6. júlí 2003 hafi ekki skuldbundið stefndu kemur eingöngu til skoðunar hvort stefnanda hafi tekist sönnun þess að stefndu hafi með ásetningi eða gáleysi brotið gegn rétti stefnanda samkvæmt leigusamningnum frá 10. apríl 2010, en því mótmæla stefndu.

            Atburðarás við Tungufljót á umræddu tímabili, m.a. lýsingar á ætlaðri háttsemi stefndu, er rakin bæði í stefnu og skriflegri aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnanda, Árna Þormars Baldurssonar, sem staðfesti skýrsluna fyrir dómi. Þar er því meðal annars lýst að stefndu hafi árið 2010 með skipulögðum hætti veitt í fljótinu og dreift óhróðursbréfum, bæði á íslensku og ensku, til veiðimanna á vegum stefnanda og skipulagt veiðar fyrir landi jarðarinnar á heimsíðunni tungufljot.is. Árið 2011 hafi stefndu haldið áfram að stunda ólöglegar stangveiðar fyrir landi Bergstaða. Stefndu hafi vísað veiðimönnum á vegum stefnanda frá austurbakka fljótsins og áfram hafi verið dreift bréfum þess efnis að veiðar fyrir landi stefnda væru ekki leyfilegar. Árin 2012, 2013, og 2104 hafi stefnandi ekki orðið þess var að stefndu hafi látið stunda veiðar í fljótinu fyrir landi Bergstaða, en þau hafi áfram sett niður merki með tilkynningum um að öll veiði væri bönnuð, rekið veiðimenn frá austurbakkanum og dreift framangreindum áróðursbréfum um að veiðar í landi þeirra væru óheimilar.  

            Undir orðsendingu, sem stefnandi vísar til að stefndu hafi afhent veiðimönnum á vegum stefnanda, er ritað „Landeigendur á Bergstöðum“. Ljósrit af framangreindri orðsendingu, bæði á íslensku og ensku, liggja frammi í málinu. Orðsendingarnar eru ódagsettar. Þar segir: „Þér hafið lagt bíl yðar á landi Bergstaða og gengið yfir land þeirra. Af okkur hálfu er veiðimönnum heimil för um bakka fljótsins en ekki þvert yfir land okkar. Veiðiskapur af okkar árbökkum er líka í óþökk okkar.“ Fram kemur að viðtakanda hafi verið selt veiðileyfi á grundvelli fyrri veiðiára sem geta ekki verið sambærileg við þetta ár vegna skorts á lifandi seiðum árið 2010. Þá segir í lok orðsendingar: „Við óskum þess að þér njótið dvalar yðar í þessu fagra umhverfi og óskum þess að þér megið setja í fisk, þrátt fyrir að við teljum ekki miklar líkur á veiði þetta árið af ofangreindum ástæðum.“ Meðal gagna málsins eru tvær ljósmyndir sem sýna skilti sem á er fest orðsending. Myndirnar bera ekki með sér hvenær þær hafi verið teknar: Þar segir á blaði sem sjá má að heft hafi verið á fleka á skiltinu: „Veiði óheimil. Ágæti veiðimaður. Þú ert núna staddur á austurbakka Tungufljóts neðan fossins Faxa, í landi Bergstaða. Veiðileyfi Lax-á í Tungufljóti gildir ekki hér. Sjá kort með seldum veiðileyfum eða hafið samband við Snorra veiðivörð í síma [...] Veiði í Tungufljóti fyrir landi Bergstaða er óheimil. Öll umferð utanvega óheimil. Landeigendur á Bergstöðum.“ Útprentanir af heimasíðunni tungufljot.is, sem liggja frammi í málinu, bera með sér að vera frá árinu 2010. Þar er meðal annars vakin athygli á skjali með skiptingu veiði í Tungufljóti fyrir landi Bergstaða.

            Stefndu Vilhjálmur Einarssonar, formaður Bergstaðafélagsins, og Jón Bjarni Gunnarssonar, stjórnarmaður í félaginu, gáfu skýrslu fyrir dómi. Í skýrslu Vilhjálms kom fram að hann kannaðist við að hafa séð bæði umrætt skilti, sem hafi verið sett upp við veg, líklega á árinu 2011, og orðsendingar, sem hafi verið settar á „glugga bifreiða“ á árunum 2011 og 2012. Þá sagði stefndi orðrétt: „Við vorum líka að verja okkur gagnvart óánægju sem við urðum varir við hjá veiðifólki þarna“. Vitnið kannaðist við að vera höfundur skjals sem mun hafa verið birt á heimasíðunni tungufljot.is, en á skjalinu er gerð grein fyrir skiptingu veiðidaga og veiðisvæða fyrir landi Bergstaða milli landeigenda. Kvaðst vitnið hafa unnið slíkt skjal árin 2008, 2009 og 2010. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa sett skjalið inn á heimsíðuna og ekkert vitað hver staðið hafi að heimasíðunni, hún hafi ekki verið á vegum stjórnar Bergstaðafélagsins. Stefndi Jón Bjarni kvaðst hafa veitt í Tungufljóti í mörg ár, eða til og með ársins 2010, en það ár hafi í fyrsta skipti verið gerðar athugasemdar við veiði hans. Hann kvaðst tvisvar hafa séð umrætt skilti uppi, en ekki vita hver hafi sett það upp. Þá hafi hann heyrt um að einhver hafi dreift orðsendingunum. Stefndi kannaðist við veiðiskipulagið sem stefndi Vilhjálmur kvaðst hafa búið til og staðfesti að það hafi verið gert fyrir árin 2008-2010.

            Sex starfsmenn Lax-ár ehf., sem sá um sölu á veiðileyfum í Tungufljót, gáfu skýrslu fyrir dómi. Vitnið Snorri Ólafsson, fyrrverandi veiðileiðsögumaður árin 2006 - 2014, kvað stefndu hafa hindrað veiði fyrir landi Bergstaða öll árin sem vitnið starfaði. Þeir hafi verið með spún og kastað yfir til veiðimanna sem voru gengt þeim á bakkanum. Vitnið Jón Óttar Karlsson, veiðileiðsögumaður á árunum 2007-2010, lýsti því að ef veiðimenn hafi farið inn á land Bergstaða hafi gengið á hrópum og köllum og árið 2010 hafi fólk á austurbakkanum kastað grjóti að veiðimönnum. Veiðimenn sem lent hafi í þessu hafi ekki komið aftur til veiða í ánni. Staðfesti vitnið framlagða yfirlýsingu sína þar sem framangreint er rakið nánar. Vitnið  Jóhann Torfi Ólafsson, sölumaður, staðfesti einnig framlagða lýsingu vitnisins á háttsemi landeiganda Bergstaða á árinu 2010 og að hafa séð skilti á landi þeirra þegar hann var við veiðar í fljótinu á árinu 2011. Vitnið Stefán Páll Ágústsson, sölustjóri hjá Lax-á ehf., kvað dregið hafa úr sölu veiðileyfa á árunum 2010-2012 sem rekja hafi mátt til háttsemi landeigenda Bergstaða. Vitnið kvaðst hafa farið tvisvar til veiða á austurbakkann 2012 en ekki hafa orðið fyrir ónæði af hálfu Bergstaðamanna. Bar sölumönnum Lax-ár ehf., saman um að veiðimönnum hafi verið bættur skaðinn með því að flytja þá í aðrar veiðiár. Þá voru þeir sammála um að orðspor Tungufljóts sem laxveiðiár hafi beðið hnekki vegna háttsemi landeigenda Bergstaða.

            Stefndu hafna því að hafa hindrað eða reynt að hindra framleigutaka stefnanda við stangveiðar í Tungufljóti, eða í óleyfi stundað eða látið stunda stangveiðar í fljótinu fyrir landi jarðarinnar. Með vísan til framburðar stefndu Vilhjálms og Jóns Bjarna fyrir dómi og vitna sem störfuðu hjá Lax-á ehf., hefur stefnandi sýnt fram á að stefndu hafi viðhaft þá háttsemi sem í dómkröfu I er rakin, nánar tiltekið árin 2010, 2011 og 2012. Í máli þessu liggur fyrir framburður tveggja stefndu og vísar stefnandi í því sambandi til 2. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefur, með dómi Héraðsdóms Suðurlands í sakamálinu nr. S-521/2010, einn úr hópi stefndu verið sakfelldur fyrir veiðilagabrot í landi Bergstaða. Einnig liggja fyrir í málinu gögn og framburðir bæði stefndu Vilhjálms og Jóns Bjarna og vitna úr hópi starfsmanna Lax-ár ehf., að í landi Bergstaða hafi verið upp skilti í nafni eigenda jarðarinnar með tilkynningu um bann við veiðum í landi jarðarinnar auk þess sem dreift hafi verið orðsendingum til veiðimanna á vegum stefnanda, einnig í nafni allra eigenda Bergstaða. Með vísan til þessa er kröfum í máli þessu réttilega beint gegn stefndu sem sameigendum að veiðirétti jarðarinnar Bergstaða. Með vísan til 3. og 4. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006, var stefndu óheimil veiði á félagssvæði Tungufljótsdeildar og þá var þeim einnig skylt að veita aðgang að veiðistöðum fyrir landi sínu. Er því fallist á það með stefnanda, að stefndu hafi hindrað og reynt að hindra framleigutaka stefnanda við stangveiðar í Tungufljóti. Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur stefnandi að mati dómsins sýnt fram á að stefndu hafi viðhaft þá háttsemi á árunum 2010, 2011 og 2012. Einnig er fallist á það með stefnanda að stefndu hafi sjálf stundað eða látið stunda stangveiðar í fljótinu fyrir landi Bergstaða í óleyfi stefnanda, en stefnanda hefur að mati dómsins eingöngu tekist að sýna fram á þá háttsemi á árinu 2010. 

Ágreiningur í máli þessu snýst einnig um það hvort framangreind háttsemi stefndu hafi valdið stefnanda tjóni og ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir að svo sé. Stefnandi vísar til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar. Í fyrsta lagi hafi hann lagt út í stórkostlegar fjárfestingar í tengslum við ræktun Tungufljóts og láti nærri að heildarfjárfesting stefnanda í Tungufljóti sé ekki undir 140 milljónum króna. Með gerð leigusamninganna hafi hann mátt gera ráð fyrir að það myndi skila sér til baka í sölu veiðileyfa, hefði ekki komið til háttsemi stefndu.

Gögn málsins öll bera með sér að náin samvinna hafi verið milli stefnanda og Lax-ár ehf., söluaðila veiðileyfa í Tungufljóti. Í gögnum málsins, sem stafa frá forsvarsmanni stefnanda, má sjá að hann rekur oft erindi vegna leigusamninga um Tungufljót í nafni Lax-ár ehf., þ.e. hann ritar undir sem forstjóri Lax-ár ehf. Sem dæmi má nefna erindi til Fiskistofu, dags. 11. ágúst 2010, og sama dag sambærilegt erindi sent með tölvupósti til Fiskistofu, Landsambands veiðifélaga og Veiðimálastofnunar. Þá er í lok hinnar skriflegu aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnanda samantekt á kostnaði Tungufljóts ehf. Þar kemur fram að auk framangreindra 140 milljóna króna fjárfestinga sé ýmis kostnaður, m.a. vegna teljara, sem settur hafi verið upp árið 2007, stiga og tjarna á árabilinu 2004-2009, seiða á árabilinu 2004-2012, örmerkinga á árabilinu 2005-2012 og kostnaður við seiðasleppingar á árabilinu 2004-2012, samtals rúmlega 55 milljónir króna, en þar af er kostnaður við seiði rúmar 45 milljónir króna. Hins vegar er engin grein gerð fyrir því af hálfu stefnanda að í ársreikningum Tungufljóts ehf., er á umræddum árabili gjaldfærður kostnaður flest árin vegna seiða, seiðasleppinga, örmerkinga, viðhalds o.fl. Einnig leggur stefnandi fram gögn úr bókhaldi Lax-ár ehf., til stuðnings viðbótarkostnaði vegna Tungufljótsverkefnisins að fjárhæð rúmar 14 milljónir króna. Þá segir í samantektinni að auk umræddra 140 miljóna króna sé ótalinn kostnaður vegna vinnuframlags forsvarsmanns stefnanda og starfsmanna Lax-ár ehf., sem og markaðssetning, ferðir, sýningar, heimasíðugerð, bæklingagerð og ferðir blaðamanna. Fram kemur að Lax-á ehf., sem hafi lengi starfað að markaðssetningu á laxveiðum á Íslandi, hafi nýtt sér þessa markaðssetningu fyrir Tungufljót og sent þangað til veiða marga mikilvæga og verðmæta viðskiptavini með hræðilegum afleiðingum. Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á það með stefndu að í málatilbúnaði stefnanda hafi ekki verið gerð tilraun til þess að greina á milli þess hve mikið af hinu ætlaða tjón hafi fallið á stefnanda og hve mikið á Lax-á ehf.

Þá er til þess að líta að stefnandi fór af stað með viðamikið fiskiræktunar- og uppbyggingar starf í Tungufljóti í kjölfar leigusamningsins frá 2003 án þess að fyrir hafi legið samþykki veiðiréttarhafa í Tungufljóti neðan Faxa, þ.m.t. stefndu í máli þessu. Verður ekki annað ráðið af skýrslu forsvarsmanns stefnanda, Árna Þormars Baldurssyni, fyrir dómi en að hann hafi látið samþykkisskortinn sér í léttu rúmi liggja. Stefnandi tók því verulega  áhættu þegar hann hóf umfangsmikið uppbyggingar- og ræktunarstarf í fljótinu án þess að hafa aflað samþykkis veiðiréttarhafa í Tungufljóti neðan fossins Faxa.  

                Af ársreikningum stefnanda má sjá að gjaldfærð rekstrargjöld áranna 2003 til 2014 hafi verið rúmlega 110,7 milljónir króna, þar af kostnaður vegna seiða, seiðasleppinga, örmerkinga og viðhalds stiga o.fl., rétt rúmlega 62,5 milljónir króna, eða rúmlega helmingur útgjalda stefnanda. Annað þeirra skilyrða sem Veiðifélag Árnesinga setti fyrir stofnun Tungufljótsdeildar á aðalfundi félagsins 21. apríl 2009 var að Veiðifélag Árnesinga myndi eftir sem áður annast fiskirækt á svæði deildarinnar. Þrátt fyrir það voru ákvæði í 3. gr. leigusamningsins frá 10. apríl 2010 um að stefnandi muni kosta ræktun fljótsins á samningstímanum og tilgreint í hverju ræktunarstarfið fælist, m.a. gerð og viðhaldi sleppitjarna, árlegar sleppingar sjógönguseiða, merkingar sjógönguseiða og slepping smáseiða í þverár og læki. Í 3. gr. leigusamningsins frá 10. apríl 2010 er kveðið á um að stefnandi muni kosta ræktun fljótsins á samningstímanum. Þá er tilgreint í hverju ræktunarstarfið felist, m.a. gerð og viðhaldi sleppitjarna, árlegar sleppingar sjógönguseiða, merkingar sjógönguseiða og slepping smáseiða í þverár og læki.

Í hinni skriflegu aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnanda kemur fram að á árinu 2010 hafi stjórn Veiðifélags Árnesinga stöðvað alla ræktun Tungufljóts neðan fossins Faxa. Þannig hafi stefnanda ekki verið heimilt að sleppa smáseiðum (eingöngu gönguseiðum), ekki taka lax í klak og ekki gera sleppitjarnir neðan Faxa. Þá segir orðrétt í skýrslunni „Hér með var uppbyggingu Tungufljóts slegin af.“ Í framangreindri skýrslu kemur fram að bann Veiðifélags Árnesinga hafi verið í gildi árin 2011 og 2012. Árið 2013 hafi Veiðifélag Árnesinga viljað hefja ræktunarstarf og þegar aðilaskýrslan er rituð í apríl 2014 segir að í undirbúningi sé ræktunarsamningur til nokkurra ára milli Veiðifélagsins Faxa, Tungufljótsdeildar og Veiðifélags Árnesinga. Þá kemur fram í skýrslu Tungufljótsdeildar, sem ber heitið „Staða mála í Tungufljóti í Biskupstungum og næstu skref“, og dagsett er í október 2010, að hafnar hafi verið framkvæmdir í þá átt að setja að lágmarki tvær sleppitjarnir neðan Faxa og sleppa í þær 10-20 þúsundum seiðum sumarið 2010 þegar stjórn Veiðifélags Árnesinga hafi bannað fiskiræktina. Vitnið Jörundur Gauksson, formaður Veiðifélags Árnesinga, staðfesti framangreint í skýrslu sinni fyrir dómi. Kvað vitnið enga fiskirækt hafa átt sér stað í fljótinu fyrir neðan fossinn Faxa á vegum eða með samþykki Veiðifélags Árnesinga, sem sé lagaskilyrði. Þá upplýsti vitnið að árið 2014 hafi verið gengið frá samningi um fiskirækt í Tungufljóti neðan Faxa með aðkomu félagsins. Ekki verður framburður vitnisins Jörundar skilinn á annan veg en þann að félagið hafi lagst gegn framangreindu ákvæði í leigusamningnum eins og skýrt kemur einnig fram í skriflegri aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnda og áður er rakið.

Af öllu framansögðu virtu verða stefndu hvorki gerðir ábyrgir fyrir ætluðu tjóni, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir og komið hafi fram í sölu færri veiðileyfa, sem rekja megi til fjárfestinga allt frá árinu 2003, þ.e. á fyrstu uppbyggingarárunum, né vegna fjárfestinga samkvæmt leigusamningi stefnanda við Tungufljótsdeild árið 2010.

            Varðandi kröfu sína um skaðabætur vegna missis hagnaðar vísar stefnandi í öðru lagi  til þess að stefndu hafi með háttsemi sinni eyðilagt sölu veiðileyfa. Fullyrðir stefnandi að vegna háttsemi stefndu hafi færri veiðileyfi verið seld í Tungufljóti á árunum 2007 til 2014. Þetta sýni gögn málsins og vísar stefnandi í því sambandi til þess að söluaðili veiðileyfa, Lax-á ehf., hafi annars vegar ítrekað bæði þurft að endurgreiða seld veiðileyfi og hins vegar hafi söluaðilinn ítrekað þurft að færa veiðimenn á önnur veiðisvæði. Beint tap stefnanda vegna þessa hafi falist í því að stefnanda hafi ekki verið greitt fyrir ónýta veiðidaga. Þessu hafna stefndu og vísa til þess að stefnandi hafi engin gögn lagt fram til sönnunar því að hann hafi misst frá sér veiðimenn og orðið að endurgreiða veiðileyfi vegna framferðis stefndu. 

            Fallist er á það með stefnanda að gögn málsins, t.d. tölvupóstar milli veiðimanna og söluaðilans Lax-á ehf., beri með sér að söluaðilinn Lax-á ehf., hafi flutt óánægða veiðimenn í aðrar veiðiár í kjölfar kvartana vegna háttsemi stefndu og/eða vegna bannmerkja og orðsendinga sem beinst hafi að veiðimönnum á vegum stefnanda. Þá staðfestu sölumenn Lax-ár ehf., sem gáfu skýrslu fyrir dómi, framangreint. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það í málinu að þessi viðbrögð við óánægju veiðimanna hafi valdið stefnanda tjóni. Stefnandi hefur engin gögn lagt fram máli sínu til stuðnings, s.s. gögn úr bókhaldi sem staðfesti að kostnaður hafi fallið á stefnanda þegar upp var staðið, en ætla má að ef Lax-á ehf., hafi í gegnum árin ítrekað krafið stefnanda um endurgreiðslur vegna atvika sem þessa, að slíkt uppgjör hafi legið fyrir. Var það sérstaklega brýnt í máli þessu þar sem gögn málsins benda til náinna tengsla milli stefnanda og Lax-ár ehf., eins og áður er rakið. Að öllu framansögðu virtu hefur stefnandi að mati dómsins ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna endurgreiðslu veiðileyfa eða þess að veiðimenn hafi verið færðir á önnur veiðisvæði. 

            Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að mesta tap hans hafi verið óbeint tjón vegna þess að háttsemi stefndu hafi leitt til þess að orðspor Tungufljóts sem laxveiðiár hafi glatast og veiðimenn því ekki leitað þangað. Þættir eins og fegurð, friðsemd, óspillt náttúra og góð veiðivon, sem Tungufljót búi yfir frá náttúrunnar hendi og hafi áhrif á val veiðimanna, hafi  skaddast vegna háttsemi stefndu. Þessu mótmæla stefndu og vísa til þátta eins og lækkun veiðileyfa í kjölfar efnahagshrunsins og minnkandi veiði í ánni.

            Í málavaxtalýsingu í stefnu er ástandinu á austurbakka Tungufljóts í landi stefndu sumarið 2008 lýst þannig að veiðimenn hafi verið reknir í burtu með skömmum, skilti sett upp við alla veiðistaði þar sem veiði hafi verið bönnuð, veiðimenn stefnanda á vesturbakkanum verið truflaðir með því að spúnum hafi verið kastað að þeim o.s.frv. Seiðasleppingar hafi gengið vonum framar og sleppitjörnum fjölgað. Þá segir að þrátt fyrir þetta ástand hafi stangveiði í fljótinu náð hæstum hæðum það sumar og veiði verið alls 2.854 laxar. Í málavaxtalýsingu í stefnu segir um sumarið 2009 að þrátt fyrir stofnun Tungufljótsdeildar 2009 hafi ástandið í landi stefndu verið óbreytt. Stefnandi hafi sleppt miklu af seiðum og veiðin hafi áfram verið góð, eða 1.176 laxar sumarið 2009. Í málinu liggja frammi upplýsingar um fjölda laxa veiddra á stöng í Tungufljóti á tímabilinu 2006-2011. Þar kemur fram að 196 laxar hafi verið veiddir árið 2007, 556 laxar árið 2007, 2.854 laxar árið 2008, 1.515 laxar árið 2009, 1.076 laxar árið 2010, 124 laxar árið 2011, 58 laxar árið 2012, 74 laxar árið 2013 og 22 laxar árið 2014.  

            Á yfirliti yfir seiðasleppingar á vegum stefnanda kemur fram að flestum seiðum hafi verið sleppt árið 2007, eða 75.000 seiðum. Árið 2010 hafi 70.000 seiðum verið sleppt, 60.000 árið 2011 og 18.600 árið 2012. Þá  liggur fyrir að ræktunarstarf í Tungufljóti neðan fossins Faxa lagðist niður sumarið 2010 eins og áður er rakið. Í framlagðri skýrslu Veiðimálastofnunar um fiskirannsóknir í fljótinu frá apríl 2011 kemur fram að seiðasleppingar stefnanda á árinu 2003-2007 hafi gefið talsverða laxveiði í Tungufljóti, en lítil veiði hafi verið stunduð í fljótinu áður en sleppingarnar hófust. Samkvæmt þessu eru því verulegar líkur á því að fjöldi seiðasleppinga hafi áhrif á laxafjölda í fljótinu. Þá liggja einnig fyrir upplýsingar úr ársreikningum stefnanda um tekjur af sölu veiðileyfa. Samkvæmt þeim gögnum hafa tekjurnar farið stighækkandi frá árinu 2006. Árið 2006 var sala veiðileyfa rétt rúmar 1,3 milljónir króna, rétt rúmar 4,5 milljónir árið 2007, 10,3 milljónir árið 2008 og 15 milljónir árin 2009, 2010 og 2011. Árið 2012 var sala veiðileyfa 6,4 milljónir, 3 milljónir 2013 og 1,8 milljón árið 2014.

            Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að háttsemi stefndu hafi haft úrslitaáhrif á sölumöguleika stefnanda á veiðileyfum á árunum 2007-2014 og að engin önnur nærtæk skýring sé á glötuðu orðspori Tungufljóts. 

            Þá verður í máli þessu ekki fram hjá því horft að fyrir liggur að frá árinu 2010 leysti Tungufljótsdeild leigutaka, þ.e. stefnanda undan leigugreiðslum, sbr. yfirlýsingu, dags. 5. apríl 2016, sem formaður Tungufljótsdeildar, Drífa Kristjánsdóttir, undirritaði. Þar segir: Vegna þessarar háttsemi eigenda Bergstaða leysti stjórn Tungufljótsdeildarinnar Tungufljót ehf. undan ákvæðum 2. gr. leigusamningsins um greiðslu fullrar umsaminnar leigu og er samkomulag með aðilum um að fullnaðaruppgjör hennar bíði endanlegra lykta héraðsdómsmálsins E-E-158/2016 [sic], sem Tungufljót ehf. hefur höfðað á hendur eigendum Bergstaða, en önnur ákvæði leigusamningsins standi óbreytt enn í dag.“ Vitnið Drífa Kristjánsdóttir staðfesti framangreinda yfirlýsingu fyrir dómi að því undanskildu að fyrir mistök komi þar fram að stjórn deildarinnar hafi samþykkt eftirgjöf leigugreiðslna. Hið rétta sé að þetta hafi margoft verið rætt á aðalfundum deildarinnar. Í skýrslugjöf forsvarsmanns stefnanda, Árna Þormars Baldurssonar, kom fram að umsamin leiga vegna ársins 2010 hafi verið greidd og þá hafi stefnandi greitt Tungufljótsdeild 10 milljónir króna árið 2011. Staðfesti vitnið Drífa að stefnandi hafi greitt síðastnefndu greiðsluna. Samkvæmt 2. gr. leigusamningsins frá 10. apríl 2010, var gert ráð fyrir að leigugreiðslur frá árinu 2010 til 5. apríl 2016, þ.e. þann dag sem vitnið Drífa undirritaði framangreinda yfirlýsingu, næmu samtals 94 milljónum króna. 

            Að öllu framansögðu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram að stefndu hafi valdið stefnanda tjóni með því að hafa hindrað og reynt að hinda framleigutaka stefnanda við stangveiðar í Tungufljóti og með því að hafa sjálf stundað eða látið stunda veiði í fljótinu fyrir landi Bergstaða. Verða stefndu því sýknuð af viðurkenningarkröfu stefnanda í máli þessu.

            Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til  1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem þykir í ljósi umfangs málsins hæfilega ákveðinn 1.800.000 krónur. 

            Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur farið nokkra daga fram yfir lögbundinn frest vegna embættisanna dómara, en hvorki dómari né lögmenn aðila töldu þörf á að málið væri flutt á ný.  

D Ó M S O R D

                Stefndu eru sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefndu 1.800.000 krónur í málskostnað.