Print

Mál nr. 617/2017

Baldur Snær Sigurðsson, Guðmundur Rafn Bjarnason, Halldór Sævar Guðbergsson, Lilja Sveinsdóttir, Rósa María Hjörvar og Rósa Ragnarsdóttir (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Bergvini Oddssyni (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
Reifun

Með héraðsdómi var fallist á kröfu BO, fyrrum formanns Blindrafélagsins, um að ómerkt yrðu ummæli í ályktun sem samþykkt var með atkvæðum BSB o.fl. á stjórnarfundi félagsins um að hann hefði vélað ungan félagsmann þess til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væri unnt að draga þá ályktun að í ummælunum hefði falist aðdróttun um refsiverða háttsemi BO, en það breytti því þó ekki að í þeim hefðu verið fólgnar alvarlegar ásakanir sem gætu talist ærumeiðandi samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við úrlausn um það yrði í fyrsta lagi að líta til stöðu Blindrafélagsins og starfsemi þess sem væri að stórum hluta háð fjárframlögum frá öðrum. Eflaust ekki síst af þeirri ástæðu væri lögð áhersla á það í lögum félagsins að hver og einn stjórnarmaður þess virti siðareglur félagsins, hagsmuni þess og einstakra félagsmanna, en yrði misbrestur á því væri félagsstjórn heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á hann. Við þær aðstæður, sér í lagi ef talið yrði að stjórnarmaðurinn hefði gengið gegn hagsmunum félagsmanns sem stæði höllum fæti vegna fötlunar sinnar, yrði að játa öðrum stjórnarmönnum rýmkuðu tjáningarfrelsi. Í annan stað hefði það verulega þýðingu hvort ummælin í garð BO ættu sér stoð í málsatvikum. Að sögn BO hefði A, sem var ungur að árum og hafði nýlega misst sjónina að mestu leyti, leitað til sín og hann í kjölfarið lagt til að A stofnaði fasteignafélag með sér og föður sínum. Gert var ráð fyrir að stofnfé félagsins yrði 7.000.000 krónur og legði A fram 20% þess og BO og faðir hans samtals 80%. Við stofnun félagsins var hins vegar ákveðið að stofnféð yrði 500.000 krónur, en engu að síður greiddi A skömmu síðar 1.400.000 krónur inn á persónulegan reikning BO. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekkert í málsgögnum benti til að BO og faðir hans hefðu lagt neitt fé eða annars konar verðmæti til félagsins við stofnun þess eða strax í kjölfar hennar. Þá væri engar upplýsingar að finna um það hvort fé sem A hafði ítrekað lagt á reikning BO hefði verið ráðstafað af reikningnum og þá í hvaða tilgangi. Ályktun stjórnarfundarins hefði verið reist á frásögn A af málsatvikum og gögnum sem hann hafði ýmist látið BSB o.fl. í té eða þau aflað með öðrum hætti. Áður en tillaga að ályktunninni hefði verið tekin til afgreiðslu á fundinum hefði BO verið gefinn kostur á að skýra málið frá sinni hlið, auk þess sem hann svaraði fyrirspurnum um einstök atriði þess. Þrátt fyrir að BSB o.fl. hefðu tekið óþarflega sterkt til orða með hinum umdeildu ummælum var ekki talið að þau hefðu með þeim farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Voru BSB o.fl. því sýknuð af kröfum BO.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. september 2017. Þau krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.

I

1

Í lögum Blindrafélagsins, sem svo eru nefnd, kemur fram að félagsmaður þess geti orðið hver sá sem hefur sjón, sem nemur 6/18 eða minna, eða sjóngalla eða augnsjúkdóm sem jafna má við slíka sjónskerðingu að mati augnlæknis. Á aðalfundi félagsins, sem haldinn er árlega, skal kosinn formaður þess til tveggja ára, svo og tveir aðalmenn í stjórn og tveir varamenn til jafn langs tíma. Stjórn félagsins, sem þannig er skipuð fimm mönnum að meðtöldum formanni, ræður framkvæmdastjóra þess og hefur eftirlit með störfum hans. Í félagslögum er kveðið á um að gerist stjórnarmaður brotlegur við refsilög eða siðareglur félagsins, vinni gegn hagsmunum þess eða félagsmanna eða sýni af sér aðra verulega ámælisverða háttsemi og allar sáttatilraunir reynist árangurslausar sé stjórninni heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á stjórnarmanninn. Sé slík tillaga samþykkt er skylt að boða til félagsfundar innan tveggja vikna þar sem tekin skal afstaða til tillögunnar. Sú venja mun hafa tíðkast að varamenn í stjórn og framkvæmdastjóri sitji alla fundi félagsstjórnar. Samkvæmt starfslýsingu, sem gerð mun hafa verið sumarið 2014, eru meðal verkefna formanns félagsins, sem nýtur launa til helmings á við framkvæmdastjóra, að vera talsmaður þess á opinberum vettvangi, bera ábyrgð á undirbúningi og boðun stjórnarfunda og sjá um félagslegt starf. Hlutverk framkvæmdastjóra er á hinn bóginn að hafa með höndum daglega stjórn á starfsemi félagsins sem mun hafa verið tiltölulega viðamikil.

Kristinn Halldór Einarsson, sem verið hafði formaður Blindrafélagsins, var í árslok 2013 ráðinn framkvæmdastjóri þess frá 1. júlí 2014 og gaf ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi félagsins sem haldinn var 17. maí það ár. Í stað hans var stefndi kjörinn formaður á aðalfundinum með eins atkvæðis mun, en mótframbjóðandi hans var áfrýjandinn Rósa María Hjörvar. Að afstöðnum aðalfundi félagsins árið 2015 skipuðu aðalstjórn þess, auk stefnda, áfrýjendurnir Halldór Sævar Guðbergsson, sem gegndi stöðu varaformanns, Baldur Snær Sigurðsson, Lilja Sveinsdóttir og áðurnefnd Rósa María. Áfrýjendurnir Guðmundur Rafn Bjarnason og Rósa Ragnarsdóttir voru varamenn í stjórn og sömleiðis A.

Meðal málsgagna er skýrsla svonefndrar sannleiksnefndar, en nefndin var skipuð á grundvelli samþykktar sem gerð var á félagsfundi Blindrafélagsins 30. september 2015 eins og síðar verður vikið að. Í skýrslunni, sem dagsett er 8. febrúar 2016, er tekið fram að spenna hafi ríkt innan stjórnar félagsins í formannstíð stefnda og hafi margt valdið henni, þar á meðal stjórnarhættir hans sem hafi meðal annars verið fólgnir í því að knýja ítrekað fram atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum um tillögur sínar sem hafi síðan verið felldar með atkvæðum annarra stjórnarmanna. Þá hafi fljótlega eftir að Kristinn tók við starfi framkvæmdastjóra farið að bera á erfiðleikum í samskiptum þeirra tveggja sem hafi magnast sumarið 2015.

2

Af vottorði úr fyrirtækjaskrá 29. maí 2015, sem lagt hefur verið fram í málinu, verður ráðið að Fasteignafélagið Hnjúkur ehf. hafi verið stofnað 12. þess mánaðar. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Oddur Magni Guðmundsson, faðir stefnda, stefndi og A sem áður er nefndur. Stefndi var framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi þess. Hlutafé var 500.000 krónur.

Spurður hver hafi verið aðdragandi að stofnun félagsins svaraði stefndi því svo í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi að þeir feðgar, hann og Oddur, hafi verið „búnir að vera í að kaupa og selja fasteignir“. Móðir A, sem hafi verið góð vinkona sín, hafi „heillast af því hvað við feðgar höfum verið að gera“ og sagt sér að A „langi að gera eitthvað og hann eigi einhverja fjármuni ... og hún sem sagt kynnir mig og A saman þarna snemma ársins 2015 og þá fer nú bara ... boltinn að rúlla.“ Stefndi kvaðst oft hafa hitt A og móður hans og rætt við þau í síma áður en félagið var stofnað.

Í vitnaskýrslu A fyrir dómi kvaðst hann hafa greinst með augnsjúkdóm í byrjun árs 2014 og síðan misst sjónina að mestu leyti í júní það ár. Við það hafi hann, sem þá var nýorðinn tvítugur, orðið fyrir miklu áfalli. Aðspurður sagðist A líklega hafa kynnst stefnda í mars 2015 þegar hann bjó hjá móður sinni. Stefndi hafi hringt oft til hennar og viljað fá að heyra í sér. Þeir hafi þá margsinnis spjallað saman í síma. Nokkru síðar hafi stefndi komið fram með þá hugmynd að hann langaði til að stofna fasteignafélag og hafi sér þótt sú hugmynd hljóma „ágætlega“. A kvaðst þó ekki hafa verið tilbúinn að gefa stefnda svar um þátttöku í hinu fyrirhugaða félagi, en hann hafi þrýst á sig að koma að stofnun þess. Að lokum hafi hann látið til leiðast og fallist á að leggja fram 1.400.000 krónur sem hlutafé í félaginu gegn því að eignast 20% hlut í því. Af málsgögnum verður ráðið að A hafi fyrir þennan tíma fest kaup á íbúð.

Meðal gagna málsins er tölvubréf frá stefnda 30. apríl 2015 þar sem fjallað var um hið fyrirhugaða félag. Þar kom meðal annars fram að hlutafé þess yrði 7.000.000 krónur sem skiptist þannig að A legði fram 20% þess, stefndi 30% og Oddur 50%. Í tölvubréfinu sagði ennfremur: „A setur 1,4m kr. og við feðgar setjum Móhellu 4d ... markaðsverð 4,0m kr. og Túngata 15 Súðavík markaðsvirði 4,8m kr. Við feðgar þurfum svo að setja tæplega 100.000 kr. í félagið til þess að okkar hlutur sé 5,6m kr. mínus áhvílandi lán og markaðsverð fasteignanna ... Við erum núna að reyna að kaupa íbúð í eyjum og ætlum að setja Móhelluna uppí. Er þetta nokkuð flókið að stofna ehf á sama tíma og önnur eignin er í söluferli. Ég fæ fasteignasala til að sanna markaðsvirði eignanna.“ Þá hafa verið lögð fram drög að stofnskrá fyrir umrætt einkahlutafélag sem óumdeilt er að lágu fyrir og voru kynnt A áður en félagið var stofnað. Þar var hlutaféð sagt vera 7.000.000 krónur og gert ráð fyrir að væntanlegir stofnendur skrifuðu sig fyrir því þannig að í hlut Odds kæmu 3.500.000 krónur, í hlut stefnda 2.100.000 krónur og í hlut A 1.400.000 krónur. Ennfremur var tekið fram í drögunum að allt hlutaféð væri þegar greitt.

Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi að hann og eiginkona sín hafi á þessum tíma átt fasteign í Súðavík og faðir sinn fasteign í Hafnarfirði. Ætlunin hafi verið að þeir feðgar legðu andvirði þessara tveggja eigna, að frádregnum veðskuldum, um 5.600.000 krónur fram sem hlutafé af sinni hálfu við stofnun einkahlutafélagsins. Það hefði hins vegar verið að ráði endurskoðanda, sem fenginn hafi verið til ráðgjafar við stofnun félagsins og setið stofnfund þess ásamt þeim feðgum, A og föðurbróður stefnda, að hlutaféð yrði 500.000 krónur í stað 7.000.000 króna eins og upphaflega hefði verið ráðgert. Ástæðan hefði verið sú að því hefði fylgt mikill kostnaður fyrir félagið ef andvirði fasteignanna tveggja yrði greitt sem hlutafé inn í það, meðal annars vegna þess að meta þyrfti verðmæti þeirra af tveimur skoðunarmönnum. Í vitnaskýrslu endurskoðandans fyrir dómi kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir þessu, en tók fram að væri stofnfjárframlag í einkahlutafélagi í formi fasteigna þyrfti að liggja fyrir sérfræðiskýrsla um verðmæti þeirra. Þegar stefndi var spurður að því fyrir dómi hvort þeir feðgar hefðu þá ekkert stofnfé lagt fram af sinni hálfu við stofnun félagsins svaraði hann: „Tæknilega séð ekki.“ Hins vegar hefði það verið „algjörlega á kristaltæru að þegar þessar eignir yrðu seldar að þá myndi söluhagnaður þeirra renna inn í félagið“ samkvæmt fyrirliggandi verðmati hvorrar eignar fyrir sig.

Meðal málsgagna eru þrjú skjöl, dagsett 3. júlí 2015, þar sem stefndi og A, fyrir hönd Fasteignafélagsins Hnjúks ehf., veittu umboð til þess að félagið festi kaup á þremur fasteignum, Móhellu 4A í Hafnarfirði, Túngötu 15 í Súðavík og Áshamri 67, 2. hæð, í Vestmannaeyjum. Einnig liggur fyrir samningur um kaup félagsins á síðastgreindu eigninni 25. júlí 2015 fyrir 12.800.000 krónur. Af kaupverðinu skyldu 3.840.000 krónur greiðast í reiðufé, þar af 2.000.000 krónur við undirritun samningsins, 840.000 krónur 15. ágúst 2015 og 500.000 krónur annars vegar 1. október og hins vegar 15. nóvember sama ár. Með afsali 28. desember 2016 lét Oddur af hendi fasteign sína að Móhellu 4A til félagsins og var fasteignamat hennar sagt þar vera 3.130.000 krónur. Í afsalinu var tekið fram að gerður hefði verið samningur um kaupin 28. desember 2015, en eintak af honum hefur ekki verið lagt fram í málinu. Hins vegar seldi félagið umrædda fasteign samkvæmt kaupsamningi 31. október 2016 fyrir 4.600.000 krónur sem greiða skyldi að fullu við undirritun hans. Ekki hafa verið lögð fram í málinu skjöl um að fasteign stefnda og eiginkonu hans að Túngötu 15 í Súðavík hafi verið afsalað til félagsins, en hins vegar er meðal málsgagna afsal þeirra 9. október 2015 á eigninni til annarra kaupenda. Samkvæmt upplýsingum um fasteignamat eignarinnar, sem er sumarhús, nam það 2.520.000 krónum á þeim tíma.

Hinn 7. júní 2015 greiddi A samkvæmt málsgögnum 1.400.000 krónur inn á bankareikning stefnda, síðan 112.000 krónur 12. júlí 2015 og loks 114.000 krónur 14. ágúst sama ár. Fyrsta greiðslan var innt af hendi í samræmi við áður gert samkomulag um stofnfjárframlag A og kvað stefndi fyrir dómi að það hefði verið „skilgreint sem eigendalán“ þótt ekki hafi verið gerður um það samningur eða það skjalfest með öðrum hætti. Síðari greiðslurnar hefðu falið í sér hlutafjáraukningu af hálfu A, en í tölvubréfi stefnda til hans 12. ágúst 2015, sem fjallaði meðal annars um það atriði, var hann beðinn um að leggja 114.000 krónur inn á áðurgreindan reikning stefnda. Þegar stefndi var spurður að því fyrir dómi hvers vegna A hafi lagt stofnféð inn á persónulegan reikning hans í stað félagsins svaraði hann að ekki hafi gefist tími til að stofna bankareikning fyrir félagið fyrr en í júlí 2015. Spurður hvers vegna síðari greiðslurnar hafi verið lagðar inn á sama persónulega reikning hans gat stefndi ekki gefið viðhlítandi skýringu á því. Þá sagði hann að gengið hefði verið út frá því að þeir feðgar myndu auka hlutafé sitt á sama hátt og A þótt sú hlutafjáraukning hefði ekki að öllu leyti verið fólgin í greiðslu fjár inn á bankareikning félagsins. Á yfirliti yfir hreyfingar á þeim reikningi á tímabilinu frá 11. ágúst 2015 til 3. september sama ár sést að Oddur greiddi inn á hann samtals 650.000 krónur 11. og 17. ágúst og stefndi 210.000 krónur síðarnefnda daginn.

Við meðferð málsins í héraði lagði stefndi fram skjal með yfirskriftinni „Uppfærð dagbók“ fyrir Fasteignafélagið Hnjúk ehf. Þar er fasteign í Súðavík færð til hreinnar eignar hjá félaginu 15. maí 2015 að fjárhæð 3.103.096 krónur og fasteign í Hafnarfirði sama dag að fjárhæð 2.408.004 krónur. Hinn 5. september sama ár eru færðar til tekna hjá félaginu leigutekjur „v/Súðavík júní-sept“, samtals 71.020 krónur. Föðurbróðir stefnda, sem sá um að færa bókhald fyrir félagið, kom sem vitni fyrir dóm og kvaðst hafa fært fyrrgreindar fasteignir í bækur þess „á því verði sem var talað um og skuldir á móti“. Litið hafi verið á fasteignirnar sem eign félagsins í bókhaldi þess og af þeim sökum hafi leigutekjur af þeim verið bókfærðar hjá því. Þá hafi stofnframlag A verið fært til bókar á viðskiptareikningi hans hjá félaginu. Spurt hvenær fasteignirnar hafi verið færðar til eignar í bókhaldinu svaraði vitnið að það hefði verið gert eftir á, einhvern tíma í júlí eða ágúst 2015.

3

Fyrir héraðsdómi bar A að hann hafi haft samband við framkvæmdastjóra Blindrafélagsins í september 2015 eftir að hafa árangurlaust reynt að fá stefnda til að ræða hvernig hann gæti komið sér „út úr fyrirtækinu“ og skýrt út fyrir framkvæmdastjóranum sína hlið málsins. Ástæðuna kvað A hafa verið þá að hann hafi lagt meira fé inn í Fasteignafélagið Hnjúk ehf. en gengið hefði verið út frá í upphafi, jafnframt því sem gert hefði verið ráð fyrir að hann legði félaginu til enn meira fé. Stefndi hefði ekki fengist til að ræða það við sig hvernig hann gæti losnað út úr félaginu, heldur svarað því einu að „þú verður bara að selja hlut þinn.“

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir því hvað átti sér stað í framhaldi af framangreindu. Boðað hafði verið til stjórnarfundar í félaginu 22. september 2015, en áður en hann var haldinn munu áfrýjendur hafa hist án vitundar stefnda, rætt mál A, meðal annars við hann sjálfan og lögmann félagsins, og lagt á ráðin um tillögu að ályktun sem lögð yrði fram á stjórnarfundinum. Samkvæmt fundargerð lagði áfrýjandinn Halldór fram þá tillögu í upphafi fundarins að teknar yrðu „til umræðu upplýsingar sem hann hefði undir höndum sem, ef réttar væru, fælu í sér að mjög alvarlegur trúnaðarbrestur væri kominn upp milli formanns og stjórnar.“ Var þessi dagskrártillaga varaformannsins samþykkt samhljóða. Síðan sagði í fundargerðinni: „HSG rakti það síðan að ungur félagsmaður, sem mjög nýlega hefur misst nánast alla sjón á skömmum tíma, hafi komið að máli við bæði hann og framkvæmdastjóra félagsins um síðast liðna helgi og óskað eftir að félagið aðstoðaði hann í að ná til baka (fjármunum) sem hann sagði að formaður Blindrafélagsins hafi haft út úr sér. Eftir að hafa hlýtt á frásögn félagsmannsins, skoðað tölvupósta milli formanns félagsins og þessa unga félagsmanns, sem hann lét í té og fengið álit lögmanns á málinu, þá væri það sín skoðun að það væri algert ábyrgðarleysi af stjórn félagsins að hafna því að verða við ósk þessa unga félagsmanns og taka málið fyrir á vettvangi stjórnar félagsins og leita eftir skýringum formanns á þeim gögnum sem fyrir lágu.“ Þegar áfrýjandinn hafði lokið máli sínu var bókað að stefndi gerði ekki við það athugasemd að fjallað yrði um málið. Hafi stefndi bætt því við að þeir A „hefðu stofnað saman fasteignafélag í maí með föður sínum og hann skyldi skýra sína hlið á því en annars teldi hann að þetta kæmi stjórn Blindrafélagsins ekkert við.“

Í fundargerðinni kom fram að áfrýjandinn Halldór hafi rakið „frásögn og upplifun A á málavöxtum og samskiptum sínum við Bergvin Oddsson formann Blindrafélagsins“. Að því búnu hafi áfrýjandinn óskað eftir að stefndi útskýrði sína hlið á málinu. Í fundargerðinni sagði síðan: „BO gerði grein fyrir að A hafi komið að máli við hann og leitað ráða varðandi fjárfestingar. Hann hafi sagst eiga smá sparifé sem hann hefði áhuga á að nýta í fjárfestingar. BO kvaðst hafa veitt A fjármálaráðgjöf og t.d. útskýrt fyrir honum muninn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Hann hafi svo stungið upp á því við A að hann kæmi til samstarfs við sig og föður sinn og saman myndu þeir stofna fasteignafélag. BO ítrekaði að ... það væri ekkert athugavert við þetta og hann sæi ekki hvað þetta kæmi stjórn Blindrafélagsins við. A hafi síðan óskað eftir því að fara út úr félaginu og það væri sjálfsagt að kaupa hann út þegar að fjármunir til þess væru til í félaginu, sem væri ekki núna.“ Eftir að stefndi hafði lokið við að svara ýmsum fyrirspurnum stjórnarmanna var fært til bókar að áfrýjandinn Halldór hafi spurt hvað hann sæi fyrir sér um viðbrögð og stefndi svarað: „BO kvaðst ætla að tala við bankann sinn og útvega féð til að greiða A út úr félaginu og þar með ætti málið að vera úr sögunni.“ Samkvæmt fundargerðinni vék stefndi við svo búið af fundinum til að gefa öðrum stjórnarmönnum kost á að ræða málið að honum fjarstöddum. Því næst sagði þar: „Stjórnarmenn voru mjög gagnrýnir á afstöðu BO og að honum væri fyrirmunað að sjá hinn siðferðislega þátt málsins. Stjórnarmenn voru allir sammála um að BO yrði að segja af sér sem formaður Blindrafélagsins úr því að hann sæi ekkert athugavert við framgöngu sína og væri í algerri afneitun um að hann kynni að hafa gert nokkuð rangt í samskiptum sínum við A. Formaður Blindrafélagsins, sem sæi ekkert athugavert við að nýta aðstöðu sína sem formaður, til að fá félagsmenn til að leggja fé í persónuleg viðskiptaáform, væri félaginu, orðspori þess og þá um leið fjáröflunum og starfsemi, hættulegur.“

Þegar stefndi kom aftur inn á fundinn sagði í fundargerð að áfrýjandinn Halldór hafi gert honum grein fyrir að stjórnin væri þeirrar skoðunar að hann yrði að segja af sér sem formaður og væri þess farið á leit við hann. Stefndi hafi hafnað því og ekki sagst sjá neitt tilefni til þess þar sem hann hefði ekki brotið af sér í starfi. Því næst hafi áfrýjandinn lagt fram tillögu að ályktun sem samþykkt hafi verið af öllum stjórnarmönnum að stefnda undanskildum. Ályktunin er tekin upp í heild í héraðsdómi, en upphaf hennar var svohljóðandi: „Í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp er kominn á milli formanns Blindrafélagsins og stjórnar þess, þá lýsir stjórn félagsins yfir vantrausti á formann. Málsatvik eru þau að formaður félagsins hefur nýtt sér vettvang þess til að véla ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Mál sem komið er í hendur á lögmanni. Að mati stjórnar félagsins þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi.“ Að loknum stjórnarfundinum var ályktunin birt sem frétt á vefsíðu Blindrafélagsins. Þar var einnig degi síðar birt fréttatilkynning frá stefnda þar sem fram komu andsvör gegn ályktuninni. Urðu þessar fréttir tilefni umfjöllunar í framhaldinu í ýmsum fjölmiðlum um málefni stefnda og félagsins.

Hinn 30. september 2015 var haldinn félagsfundur í Blindrafélaginu til að ræða tillögu stjórnar félagsins um vantraust á stefnda sem formann þess. Ekki kom þó til þess að sú tillaga væri tekin til afgreiðslu á fundinum því að í lok hans var samþykkt önnur tillaga, sem borin var fram af öllum stjórnarmönnum, þar á meðal stefnda. Samkvæmt þeirri samþykkt steig hann til hliðar sem formaður, jafnframt því sem aðalfundur félagsins skyldi haldinn eigi síðar en 1. febrúar 2016 og sett yrði á stofn sannleiksnefnd sem skilaði áliti fyrir þann fund.

Tveimur dögum fyrir félagsfundinn, 28. september 2015, var undirritaður samningur um kaup stefnda og Odds Magna Guðmundssonar á 20% hlut A í Fasteignafélaginu Hnjúki ehf. Umsamið kaupverð var 1.676.000 krónur og var það greitt A við undirritun samningsins, auk þess sem svo var um samið að honum hefði með því verið endurgreitt lán, sem hann hefði veitt félaginu, og ætti hann engar kröfur á hendur því.

4

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafa áfrýjendur lagt fram ný gögn hér fyrir dómi. Um er að ræða tölvupóstsamskipti lögmanns þeirra, sem jafnframt er lögmaður A, við lögreglu út af kæru þess síðarnefnda „vegna meintra auðgunarbrota“ stefnda. Þótt vísað hafi verið til kærunnar í greinargerð áfrýjenda í héraði hefur hún ekki verið lögð fram af þeirra hálfu, en af hinum nýju gögnum má ráða að hún hafi borist lögreglu á fyrri hluta árs 2016. Lögregla mun hafa tekið skýrslu af stefnda á liðnu hausti, en af gögnunum verður ekki séð að hún hafi aðhafst neitt frekar í tilefni kærunnar.

II

Í máli þessu krafðist stefndi þess að tvenn ummæli í ályktun þeirri, sem samþykkt var með atkvæðum áfrýjenda á stjórnarfundi Blindrafélagsins 22. september 2015, yrðu dæmd ómerk. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á þá kröfu stefnda að ómerkt yrðu ummælin „vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt“ og áfrýjendum gert að greiða honum miskabætur af þeim sökum. Hins vegar voru áfrýjendur sýknuð af kröfu stefnda um ómerkingu hinna ummælanna og unir hann þeirri niðurstöðu.

1

Stefndi heldur því fram að áfrýjendur hafi með framangreindum ummælum vegið með alvarlegum hætti að æru sinni svo að fari í bága við 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beri af þeirri ástæðu að ómerkja þau samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Í ummælunum felist aðdróttun um refsiverða háttsemi af sinni hálfu, sem ekki eigi sér stoð, auk þess sem í þeim felist tilhæfulaus móðgun í sinn garð. Með þessu hafi áfrýjendur farið út fyrir takmörk tjáningarfrelsis samkvæmt 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og þar með brotið gegn friðhelgi einkalífs síns sem njóti verndar 1. mgr. 71. gr. hennar. Þá hafi það ekki verið hlutverk stjórnar Blindrafélagsins eða á valdsviði hennar að kveða á um hvað væri rétt og hvað rangt í skiptum þeirra A Andrésar Axelssonar, sem sé lögráða einstaklingur, í tengslum við starfsemi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort ummælin, sem stefndi krefst að ómerkt verði, feli í sér aðdróttun um refsiverða háttsemi af hans hálfu verður að horfa til þess hver er merking sagnorðsins „að véla“ í því samhengi sem það kemur þar fyrir. Í íslensku máli getur það þýtt að tæla, svíkja, ginna, beita brögðum eða svikum. Sé síðastnefnda merkingin, sem gengur einna lengst, lögð til grundvallar voru áfrýjendur með hinum umdeildu ummælum að bera stefnda á brýn að hann hafi beitt ungan félagsmann í Blindrafélaginu, sem var verulega sjónskertur, brögðum eða svikum til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask, tengt sér. Þótt orðið „brask“ sé vissulega notað í neikvæðri merkingu um viðskipti er ekki unnt að gefa orðunum, sem notuð voru, annað inntak en þau almennt hafa í íslensku máli. Því er ekki unnt að draga þá ályktun af ummælunum að með þeim hafi áfrýjendur verið að saka stefnda um að hafa beitt hinn unga félagsmann brögðum eða svikum til að fá hann til að leggja allt sparifé sitt í vafasöm viðskipti í þeim tilgangi að auðgast á kostnað hans. Vegna þess að refsiákvæðunum, sem stefndi hefur vísað til í þessu sambandi, 248. gr. og 253. gr. almennra hegningarlaga, verður því aðeins beitt að brotið hafi verið gegn þeim í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. laganna, verður samkvæmt því ekki fallist á með stefnda að í ummælunum hafi falist aðdróttun um að hann hafi framið refsiverða háttsemi.

2

Það sem að framan greinir breytir þó ekki því að í ummælum áfrýjenda voru fólgnar alvarlegar ásakanir í garð stefnda sem gætu talist ærumeiðandi samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Við úrlausn um það verður í fyrsta lagi að líta til stöðu Blindrafélagsins sem frjálsra félagasamtaka og starfsemi þess sem að stórum hluta er háð fjárframlögum frá öðrum. Eflaust ekki síst af þeirri ástæðu er eins og fyrr segir lögð áhersla á það í lögum félagsins að hver og einn stjórnarmaður þess virði siðareglur félagsins, hagsmuni þess og einstakra félagsmanna, en verði misbrestur á því sé félagsstjórn heimilt að samþykkja tillögu um vantraust á þann stjórnarmann sem í hlut á. Við þær aðstæður, sér í lagi ef talið hefur verið að stjórnarmaðurinn hafi gengið gegn hagsmunum félagsmanns sem stendur höllum fæti vegna fötlunar sinnar, verður að játa öðrum stjórnarmönnum rýmkuðu tjáningarfrelsi, enda vega hagsmunir annarra félagsmanna og bakhjarla félagsins af því að fá upplýsingar um forsendur að baki slíkri tillögu þyngra en orðspor hlutaðeigandi stjórnarmanns, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 21. júlí 2011 í máli Heinisch gegn Þýskalandi.  

Í annan stað hefur það verulega þýðingu hvort ummælin í garð stefnda eigi sér stoð í málsatvikum. Í máli þessu, sem rekið er eftir reglum um meðferð einkamála, verður þess ekki krafist af áfrýjendum, að teknu tilliti til þess sem áður greinir, að þau færi óyggjandi sönnur á sannleiksgildi ummæla sinna, heldur að þau leiði nægar líkur að góðri trú sinni um réttmæti þeirra þegar þau voru viðhöfð, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 404/2017.

3

Sé lagður til grundvallar framburður stefnda fyrir héraðsdómi og það, sem eftir honum var haft í fundargerð stjórnarfundar Blindrafélagsins 22. september 2015, voru tildrög máls þessa þau að A leitaði til stefnda fyrir tilstilli móður sinnar og óskaði eftir ráðgjöf hjá honum um hvernig hann gæti ávaxtað sparifé sitt. Stefndi hafði þá gegnt stöðu formanns félagsins í tæpt ár og hafði að eigin sögn talsverða reynslu af því að kaupa og selja fasteignir. A var hins vegar ungur að árum, hafði nýverið orðið fyrir því áfalli að missa sjónina að mestu leyti og virðist hafa verið var lítt kunnugur fjármála- og fasteignaviðskiptum þótt hann hefði fest kaup á íbúð nokkru áður. Í kjölfar þess að A leitaði til stefnda lagði sá síðarnefndi til að hann kæmi til samstarfs við sig og föður sinn og stofnaði með þeim fasteignafélag.

Í tölvubréfi stefnda 30. apríl 2015 og drögum að stofnfundargerð var gert ráð fyrir að stofnfé hins fyrirhugaða einkahlutafélags yrði 7.000.000 krónur og skiptist þannig að A legði fram 20% þess, stefndi 30% og faðir stefnda 50%. Samkvæmt tölvubréfinu var gengið út frá því að þeir síðarnefndu legðu félaginu til tvær fasteignir í sinni eigu við stofnun þess og yrðu stofnframlög þeirra í formi markaðsvirðis þeirra að frádregnum áhvílandi skuldum. Við stofnun félagsins var hins vegar ákveðið að stofnféð yrði 500.000 krónur í stað 7.000.000 króna, en eftir sem áður var gengið út frá þeim forsendum, að sögn stefnda, að þeir feðgar létu fasteignirnar ganga til félagsins. Úr þeirri fyrirætlun varð þó ekki meðan A var hluthafi í einkahlutafélaginu, en fasteignirnar voru ranglega færðar til eignar hjá því í bókhaldi þess þar sem þær höfðu ekki verið framseldar félaginu á þeim tíma.

Þegar ákveðið var að lækka stofnfé félagsins í 500.000 krónur brustu forsendur fyrir því að A legði fram í reiðufé þær 1.400.000 krónur, sem áður hafði verið gert ráð fyrir, heldur hefði honum að réttu lagi borið að inna af hendi 100.000 krónur til félagsins við stofnun þess. Engu að síður greiddi hann fyrrgreindu fjárhæðina inn á reikning stefnda 7. júní 2015 að því er virðist í trausti þess að þeir feðgar myndu leggja andvirði fasteignanna tveggja inn í félagið, svo sem þeir ætluðu sér eftir sem áður að gera að sögn stefnda fyrir dómi. Þau skjöl, sem lögð hafa verið fram í málinu, gefa ekki til kynna að um hafi verið að ræða lán A til félagsins, enda var hvorki gerður um það samningur, svo sem um hvenær lánið ætti að endurgreiða og hvort og þá hvaða ávöxtun það skyldi bera, né gefin út skuldaviðurkenning eða kvittun fyrir móttöku framlagsins sem láns. Ekkert í gögnum málsins bendir til að stefndi og faðir hans hafi lagt fram af sinni hálfu þær 400.000 krónur af stofnfé félagsins sem þeir höfðu skuldbundið sig til að gera. Sem framkvæmdastjóra félagsins hlaut stefnda að vera kunnugt um að A, sem var skráður fyrir 20% hlutafjár þess, hafði lagt því til áðurgreinda fjárhæð í reiðufé án þess að séð verði að aðrir hluthafar, hann sjálfur og faðir hans, hefðu lagt neitt fé eða annars konar verðmæti af mörkum til félagsins, hvorki við stofnun þess né strax í kjölfar hennar.

Þar sem vottorð fyrirtækjaskrár um Fasteignafélagið Hnjúk ehf., sem vísað er til að framan, var gefið út 29. maí 2015 liggur fyrir að þá þegar hafði félagið verið tilkynnt til skráningar hjá hlutafélagaskrá samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Að því loknu hefði ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að stofnaður yrði bankareikningur fyrir félagið, svo sem stefndi hefur haldið fram, en hann hefur ekki lagt fram nein gögn til sönnunar þeirri staðhæfingu sinni. Þrátt fyrir þetta innti A greiðsluna 7. júní 2015 inn á persónulegan bankareikning stefnda og lagði síðan 112.000 krónur inn á hann 12. júlí og 114.000 krónur 14. ágúst sama ár. Yfirlit yfir hreyfingar á bankareikningi félagsins ber með sér að hann hafi verið stofnaður í síðasta lagi 11. ágúst 2015. Samt sem áður bað stefndi A um það í tölvupósti daginn eftir að leggja síðastnefndu fjárhæðina inn á sama persónulega reikning sinn. Engar upplýsingar er að finna um það í málsgögnum hvort fénu, sem A lagði inn á reikning stefnda sumarið 2015, hafi verið ráðstafað af reikningnum og þá í hvaða tilgangi. Á hinn bóginn verður ráðið af því, sem haft var eftir stefnda í fundargerð stjórnarfundarins 22. september það ár, að féð hafi ekki verið tiltækt honum sjálfum eða félaginu á þeim tíma. Fyrir dómi bar stefndi að greiðslur A 12. júlí og 14. ágúst 2015 hefðu falið í sér hlutafjáraukningu af hans hálfu, en ekkert liggur fyrir um það í málsgögnum að hlutafé umrædds félags hafi verið hækkað á þeim tíma í samræmi við fyrirmæli V. kafla laga nr. 138/1994.

Ályktun stjórnarfundarins 22. september 2015 var reist á frásögn A af málsatvikum og gögnum sem hann hafði ýmist látið áfrýjendum í té eða þau aflað með öðrum hætti. Áður en tillaga að ályktuninni var tekin til afgreiðslu á fundinum var stefnda gefinn kostur á að skýra málið frá sinni hlið, auk þess sem hann svaraði fyrirspurnum um einstök atriði þess. Þótt stefndi hafi síðan svarað þeim ásökunum, sem á hann voru bornar, og lagt fram frekari gögn af sinni hálfu virðist myndin af því, sem átti sér stað í samskiptum þeirra A í tengslum við starfsemi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. og lá þá þegar fyrir í stórum dráttum, ekki hafa breyst að neinu ráði eins og rakið hefur verið.

Þrátt fyrir að áfrýjendur hafi tekið óþarflega sterkt til orða með hinum umdeildu ummælum í garð stefnda verður ekki talið, með vísan til alls þess sem að framan greinir, að þau hafi með þeim farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskárinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfum stefnda í máli þessu.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Baldur Snær Sigurðsson, Guðmundur Rafn Bjarnason, Halldór Sævar Guðbergsson, Lilja Sveinsdóttir, Rósa María Hjörvar og Rósa Ragnarsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnda, Bergvins Oddssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2017.

Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með stefnu birtri fyrir stefndu þann 9. og 10. ágúst 2016, um þingfestingu málsins þann 1. september 2016. Málið var dómtekið þann 13. júní 2017 að loknum málflutningi.

Stefnandi er Bergvin Oddsson, kt. [...], Lyngrima 14, 112 Reykjavík.

Stefndu eru: Halldór Sævar Guðbergsson, kt. [...], Hólatúni 11, 600 Akureyri, Baldur Snær Sigurðsson, Hamrahlíð 17, kt. [...], 105 Reykjavík, Rósa María Hjörvar, kt. [...], Þórsgötu 8, 101 Reykjavík,  Lilja Sveinsdóttir, [...], Laufrima 21, 112 Reykjavík, Guðmundur Rafn Bjarnason, kt. [...], Ljósabergi 48, 221 Hafnafirði og Rósa Ragnarsdóttir, kt.[...], Dalhúsum 7, 112 Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur á hendur stefndu: „Að eftirfarandi ummæli, í stafliðum a og b., sem stefndu viðhöfðu um stefnanda í ályktun sem birt var opinberlega á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is þann 22. september 2015 verði dæmd dauð og ómerk:      

a.       vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt.

b.       þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 1.800.000 krónur í miskabætur með 4,7% vöxtum, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 8. gr. sömu laga, frá 22. september 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu greiði stefnanda óskipt, 500.000 krónur, til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendur og niðurstöðu dóms í málinu í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Til vara er krafist birtingarkostnaðar að álitum.“

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt málskostnað samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndu gera öll þá kröfu að vera sýkn af dómkröfum stefnanda í málinu.

Þá krefjast stefndu þess öll að þeim, hverju og einu, verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

I

Málavextir

Á stjórnarfundi Blindrafélagsins þann 22. september 2015, var samþykkt eftirfarandi ályktun sem birt var sama dag á vefsíðu Blindrafélagsins, blind.is.: „Í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp er kominn á milli formanns Blindrafélagsins og stjórnar þess, þá lýsir stjórn félagsins yfir vantrausti á formann. Málsatvik eru þau að formaður félagsins hefur nýtt sér vettvang þess til að véla ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt. Mál sem er komið í hendur á lögmanni. Að mati stjórnar félagsins þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki er um að ræða fjármuni Blindrafélagsins í þessu máli. Stjórn félagsins samþykkir jafnframt að rifta ráðningarsamningi formanns. Þá afturkallar stjórn félagsins skipun formanns sem fulltrúa félagsins í ráð og nefndir. Stjórn Blindrafélagsins boðar ennfremur til félagsfundar miðvikudaginn 30. september til þess að kynna málið fyrir félagsmönnum.“

Ályktunin samþykkt af öllum stjórnarmönnum, nema stefnanda.

Stjórnarfundinn þann 22. september 2015 sátu: stefnandi sem stjórnarformaður, stefndu Halldór Sævar varaformaður, Rósa María gjaldkeri, Lilja Sveinsdóttir ritari, Baldur Snær meðstjórnandi, Guðmundur Rafn varamaður, Rósa Ragnarsdóttir, varamaður og þá sat einnig fundinn Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins. Mun sú hefð hafa skapast í stjórn Blindrafélagsins að varamenn sitji alla stjórnarfundi.

Upphaf þessa máls má rekja til þess að A, varamaður í stjórn Blindrafélagsins, sem var forfallaður á framangreindum fundi, hafði þann 19. september 2015 rætt við framkvæmdastjóra félagsins um málefni er tengdust Fasteignafélaginu Hnjúki ehf. sem A rak ásamt stefnanda og föður hans, en auk þess hafði varaformaður þá haft veður af málinu. Fram kom hjá A fyrir dómi að áhyggjur hans hafi varðað þróun á rekstri félagsins sem hafði ekki verið í samræmi við það sem hann hafði ætlað. Taldi hann að honum hefði einungis borið að leggja fram stofnframlag við stofnun félagsins og að ekki yrði um frekari greiðslur af hans hálfu að ræða. Þegar stefnandi hafi síðan krafið hann um tvær greiðslur í júlí og ágúst 2015, og boðað frekari fjárútlát, hafi hann fengið bakþanka, orðið áhyggjufullur út af fjárframlagi sínu og viljað losna út úr félaginu, en stefnandi hefði ekki getað veitt honum fullnægjandi svör þegar eftir því hefði verið leitað. Með þær áhyggjur fór A til framkvæmdastjóra Blindrafélagsins.

Í framhaldi af þessu munu hafa átt sér stað nokkur símasamskipti á milli framkvæmdastjórans og stefndu auk þess sem sömu aðilar hittust á óformlegum fundi þann 21. september 2015. Á þeim fundi voru lögð fram gögn um tölvupóstsamskipti stefnanda og A og afrit af greiðslum A, auk þess sem búið var að afla vottorðs frá hlutafélagskrá um Fasteignafélagið Hnjúk ehf. Þá kom fram fyrir dómi að á þeim fundi hefðu verið mótuð drög að framangreindri ályktun sem birt var þann 22. september 2015. Hafi þess verið gætt af hálfu stefndu að stefnandi fengi ekki veður af framangreindum samskiptum eða upplýsingum.

Á stjórnarfundinum þann 22. september 2015, hófust fundarhöld með því að varaformaður stjórnar gerði tillögu að því að fyrst yrðu teknar til umræðu upplýsingar sem hann hefði undir höndum, sem fælu í sér að mjög alvarlegur trúnaðarbrestur væri kominn upp milli formanns og stjórnar, ef réttar væru. Gerði stefnandi ekki athugasemd við að þau mál yrðu rædd.

Í bókun fundargerðar þann dag er í upphafi rakið að ungur félagsmaður sem nýlega hafi misst nánast alla sjón á skömmum tíma hafi „óskað eftir að félagið aðstoðaði hann við að ná til baka (fjármunum) sem hann sagði að formaður Blindrafélagsins hafi haft út úr sér“. Stefnandi rakti sína hlið málsins á fundinum en hafði eðli málsins samkvæmt ekki gögn til að leggja fram og óskaði ekki eftir fresti til að leggja fram gögn. Upplýsti hann að hann teldi, að öðru leyti kæmi þetta stjórn Blindrafélagsins ekki við.

Í framhaldi af þessu var frekari dagskrárliðum stjórnar frestað og var ályktun stjórnar fullmótuð og birt sama dag. Boðað var til félagsfundar Blindrafélagsins þann 30. september 2015 þar sem ræða skyldi framkomna ályktun og vantraust. Með fréttatilkynningu, dags. 23. september 2015, hafnaði stefnandi þeim ásökunum sem hann taldi á sig bornar í ályktun stjórnar Blindrafélagsins.

Á félagsfundinum þann 30. september 2015 var ekki tekin ákvörðun um vantraust meirihluta stjórnar/stefndu gegn stefnanda en ákveðið að stefnandi myndi stíga til hliðar og fara í leyfi og að aðalfundi yrði flýtt. Þá var ákveðið af félagsfundi að setja á stofn sannleiksnefnd sem skipuð yrði utanaðkomandi aðilum. Hlutverk þeirrar nefndar væri að fara yfir og skila skýrslu um þann mikla ágreining sem kominn var upp innan Blindrafélagsins. Nefndin átti að leggja mat á öll gögn tengd atvikum, sem leiddu til þess að meirihluti stjórnar og varastjórnar Blindrafélagsins lýsti yfir vantrausti á stefnanda sem formann félagsins á stjórnarfundi þann 22. september 2015.

Nefndin var skipuð þeim Gesti Páli Reynissyni, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingi, Helgu Baldvins og Bjargardóttur, lögfræðingi og sérfræðingi í málefnum fatlaðs fólks hjá Stígamótum og Salvöru Nordal forstöðumanni Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Skýrsla sannleiksnefndarinnar ber heitið „Skýrsla um tilefni og málsmeðferð vegna vantrausts stjórnar á formann félagsins, sem samþykkt var á fundi stjórnar þann 22. september 2015“. Skýrslan er 51 blaðsíða og var birt í febrúar 2016.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að það sé mat nefndarinnar að stjórnin hafi farið offari með framgöngu sinni. Sé andmælaréttur bæði grundvallarregla íslensks réttar og grunnur mannlegra samskipta. Hafi stjórnin haft takmarkaðar upplýsingar undir höndum sem í besta falli hafi verið hægt að útskýra sem viðskiptalegan ágreining en í versta falli sem fjárhagslega misnotkun formanns Blindrafélagsins gagnvart yngri félagsmanni. Svo virtist sem flestir stjórnarmenn hafi tekið ákvarðanir út frá verstu mögulegu niðurstöðu án þess að gefa stefnanda almennilegt tækifæri til þess að útskýra sína hlið eða að undirbúa sig fyrir fundinn 22. september 2015.

Þá segir í einnig í skýrslu sannleiksnefndar að sama eigi við um ályktun þá sem birt hafi verið á heimasíðu Blindrafélagsins í kjölfar fundarins. Þar sé notast við harkalegt orðalag þar sem formaðurinn sé meðal annars sakaður um að hafa „vélað ungan félagsmann til viðskipta“. Þetta orðalag geti sannleiksnefndin ekki fallist á í ljósi þess að viðkomandi einstaklingur sé lögráða og því bæði sjálfráða og fjárráða.

Ekki verður rakið frekar efni nefndrar skýrslu og eru málsaðilar ekki á eitt sáttir um niðurstöðu hennar en benda þó báðir á ýmislegt í henni máli sínu til stuðnings. Ljóst er þó af þeirri skýrslu að ágreiningur og samskiptaörðugleikar voru með málsaðilum innan stjórnar Blindrafélagsins á árinu 2015 þegar ályktunin var gerð.

Stefnandi sendi stefndu bréf, dags. 16. febrúar 2016, þar sem fram kom að ef stjórn Blindrafélagsins myndi biðja stefnanda opinberlega afsökunar væri hann tilbúinn að eiga samtal um það, að öðrum kosti væri hann knúinn til þess að fara dómstólaleiðina með málið. Með svarbréfi stjórnar Blindrafélagsins, dags. 26. febrúar 2016, var erindi stefnanda hafnað.

Stefnandi lagði fram með stefnu meðal annars afrit fréttatilkynningar hans, dags. 23. september 2015, afrit af fréttaflutningi málsins í dagblöðum, bréf lögmanns hans til stjórnar Blindrafélagsins, dags. 28. september 2015, skýrslu sannleiksnefndar, bréf lögmanns hans til stjórnar Blindrafélagsins dags. 16. febrúar 2016 og svarbréf stjórnar Blindrafélagsins dags. 26. febrúar 2016, samning um uppgjör láns milli Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. og A, dags. 28. september 2015, dagbókarfærslur vegna Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. og afrit kaupsamninga þess félags.

Stefndu lögðu meðal annarra gagna fram, afrit af millifærslum A inn á bankareikning stefnanda, færslur af reikningi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf., vottorð úr hlutafélagaskrá um nefnt félag, stofnskrá Fasteignafélagsins Hnjúks ehf., bréf A til stefnda, dags. 22. september 2015, tölvuskeyti á milli stefnanda og A og lögmanna þeirra, fasteignamatsupplýsingar og vottorð frá augnlækni og sálfræðingi A.

Fyrir dóminn komu stefnandi og stefndu og gáfu aðilaskýrslur. Þá gáfu vitnaskýrslur Oddur Magni Guðmundsson, faðir stefnanda, Hólmar Guðmundsson, endurskoðandi og föðurbróðir stefnanda, Theodór Siemsen Sigurbergsson löggiltur endurskoðandi og eigandi Grant og Thornton, og Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins. Þá gaf A símaskýrslu fyrir dóminum.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir ómerkingarkröfu sína á því að stefndu beri ábyrgð á hinum umstefndu ummælum í stafliðum a og b, sem þau viðhöfðu um stefnanda og birt voru á heimasíðu blind.is, á grundvelli 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sbr. og til hliðsjónar 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá byggir stefnandi á því að stefndu hafi með hinum umstefndu ummælum vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda. Í ummælunum notist stefndu við einkar harkalegt og óvægið orðalag þar sem stefnandi sé meðal annars sakaður um að hafa vélað ungan félagsmann til viðskipta í fasteignabraski honum tengdum og þannig að mati stjórnarinnar misnotað vald sitt sem formaður og brugðist trausti þessa unga félagsmanns. Með þess hafi hann sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi. Ummælin í stafliðum a og b eigi sér enga stoð í raunveruleikanum í ljósi þess að A, sé lög-, sjálf- og fjárráða einstaklingur, ásamt því að hann hafi haft móður sína sér við hlið sem vottaði þar skjöl á umboðum sem A veitti sameigendum sínum til kaupa og sölu á fasteignum. Hið rétta sé að umræddur félagsmaður hafi af fúsum og frjálsum vilja ákveðið að taka þátt í stofnun fyrirtækis með stefnanda og föður hans. Stefnandi hafi engum blekkingum beitt né sýnt af sér háttsemi sem jafna megi við misneytingu. Stefnandi hafi einungis verið að stunda heiðarleg viðskipti í samstarfi við föður sinn og A og sé því enginn fótur fyrir svo svívirðilegum ummælum stefndu.

Að mati stefnanda gefi það augaleið að stefndu, höfðu það eitt að markmiði með framferði sínu að koma höggi á stefnanda með þungum aðdróttunum og ekki skeytt eigi um æru og mannorð stefnanda. Þá hafi andmælaréttur hans verið virtur að vettugi og honum hvorki gefinn kostur á að gefa skýringar á sinni hlið málsins né að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Sérstaklega sé brýnt að virða rétt til að verjast ásökunum þegar um svo þungar sakir sem þessar sé að ræða.

Eins og fram kom í skýrslu sannleiksnefndarinnar þá hafi það verið mat nefndarinnar að stjórnarmenn hafi tekið ákvarðanir út frá verstu mögulegu niðurstöðu án þess að gefa stefnda færi til andsvara og undirbúnings fyrir stjórnarfundinn 22. september 2015. Stefndu hafi ekki velt öðrum kostum fyrir sér til að leysa málið, þess í stað hafi stefnandi verið leyndur vitneskju um málið, þar til á ofangreindum stjórnarfundi þar sem vegið hafi verið svo stórlega að stefnanda úr launsátri. Stefnandi taki undir með sannleiksnefndinni, og hann telur að stefndu hafi með framgöngu sinni farið offari og sakað stefnanda um alvarlega háttsemi, án þess að nokkur fótur væri fyrir ásökunum. Hafi stefndu meira að segja gengið svo langt að ásaka hann um refsiverða háttsemi, sbr. orðalagið í staflið a í kröfugerð stefnanda.

Stefnandi bendir á að samkvæmt skýrslu sannleiksnefndarinnar hafi stefnanda sem formanni Blindrafélagsins og A sem varamanni stjórnar ekki verið skylt á grundvelli gildandi laga eða reglna Blindrafélagsins að upplýsa stjórn þess um viðskiptatengsl sín. Það hafi heldur ekki verið hlutverk stjórnar Blindrafélagsins að hafa vit fyrir þeim í viðskiptum. Stefnanda hafi því ekki borið skylda til að gefa upp eigin fjárhags- eða hagsmunatengsl, hvorki við félagsmenn Blindrafélagsins né aðra. Stefnandi hafi ekki brotið af sér í starfi sem formaður Blindrafélagsins í ljósi þess að ekki hafi átt sér stað trúnaðarbrestur af hans hálfu.

Stefnandi telur hin umstefndu ummæli í stafliðum a og b, sem stefndu létu falla í ályktun stjórnar, algjörlega úr lausu lofti gripin. Með þeim fullyrðingum sé verið að væna stefnanda um refsivert athæfi, sem fyrr greini. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg og rætin og til þess fallin að varpa rýrð á mannorð stefnanda. Þá hafi þau tekið mjög á hann andlega. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu miklir, enda hafa ummælin valdið honum verulegum álitshnekki bæði innan Blindrafélagsins og samfélagsins alls, vegna mikillar dreifingar í fjölmiðlum þar sem ályktun stefndu hafi verið tekin orðrétt upp.

Ef ekki verður fallist á að í ummælunum felist ærumeiðandi aðdróttun sé til vara á því byggt að þau feli í sér ærumeiðandi móðgun og fari í bága við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Stefnandi mótmælti þeim hluta málflutnings stefndu sem of seint fram komnum, þar sem vísað sé til ummæla skýrslu sannleiksnefndar, enda sé ekkert vísað til skýrslunnar í greinargerð stefndu.

Miskabótakrafa stefnanda er á því reist að stefndu hafi með ummælum sínum veist með alvarlegum hætti og af ásetningi að æru stefnanda. Æra stefnanda og virðing hafi beðið hnekki við ummælin, enda hafi með þeim verið vegið að persónu stefnanda og gerð atlaga til að rýra hann trausti sem formanns Blindrafélagsins. Með því hafi stefndu framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á, enda um ærumeiðandi aðdróttun að ræða sem bæði sé röng og borin út og birt opinberlega gegn vitund stefnanda.

Stefnandi telur að við mat á miskabótum stefnanda til handa verði að hafa í huga að ummæli þau er stefndu viðhöfðu í ályktun sinni, hafi komið rækilega fyrir sjónir almennings og ekki hafi verið reynt að draga úr umfjöllun fjölmiðla, sem hafi verið afar yfirgripsmikil, eða draga í land ásakanir í garð stefnanda á félagsfundi. Beri einnig að hafa hugfast að stefndu hafi verið í stjórn Blindrafélagsins þegar ummælin voru látin falla og höfðu ummælin af þeirri ástæðu gríðarlegt vægi.

Miskabótakrafa stefnanda sé því hófleg. Stefnandi njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 séu fyrir hendi til að taka kröfu stefnanda til greina.

Kröfu um birtingu dóms í tveimur dagblöðum byggir stefnandi á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ákvæðinu sé kveðið á um að dæma megi þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim sem misgert var við hæfilega fjárhæð, til þess að kosta birtingu dóms í opinberu blaði eða riti, einu eða fleiri. Fjallað hafi verið um málið í flestum fjölmiðlum og ummælin því komið fyrir sjónir allmargra. Mikilvægt sé að leiðrétta þá röngu mynd sem almenningur kunni að hafa af stefnanda eftir opinbera umfjöllun fjölmiðla um málið, sem hafi verið yfirgripsmikil og birst m.a. á ruv.is, visi.is og mbl.is, þar sem ályktunin hafi verið orðrétt tekin upp, sem fyrr greini. Í ljósi þess hve málið hafi hlotið mikla umfjöllun og um hve alvarleg meiðyrði og aðdróttanir hafi verið um að ræða, sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn rækilega. Stefnandi krefjist þess því að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða honum kostnað vegna birtingar í fjölmiðlum.  

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, aðallega XXV. kafla laganna um ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífs, sérstaklega 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá vísar stefnandi til 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Stefnandi vísar jafnframt til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krafa um miskabætur er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við II., III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vegna varnarþings vísar stefnandi til 1. mgr. 42. gr. sömu laga.

III

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu mótmæla öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Ummæli stefndu hafi á engan hátt verið ólögmæt, enda vel innan þess tjáningarfrelsis sem stefndu sé tryggt samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefndu segja ummælin ekki ærumeiðandi, þau feli ekki í sér aðdróttun og eigi þannig ekki við tilvísanir til 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af sömu ástæðu séu ekki skilyrði til þess að ómerkja ummælin samkvæmt 241. gr. sömu laga. Þá feli ummælin ekki í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og skilyrði miskabóta skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu þannig ekki til staðar.

Stefndu telja að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að uppfyllt séu skilyrði þeirra lagaákvæða sem hann hafi vísað til. Þá beri hann sönnunarbyrðina fyrir þeim atvikum sem hann byggi á og þeirri huglægu afstöðu sem hann fullyrði að stefndu hafi haft. Þannig beri stefnanda t.d. að sanna að stefndu hafi haft slæmar hvatir þegar ákvörðun hafi verið tekin og að stefndu hafi verið í vondri trú um staðreyndir málsins.

Stefndu benda á að samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 séu allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og sé það í samræmi við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 62/1994. Vissulega sé hægt að setja tjáningarfrelsinu skorður séu þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu beri með sér að miklar kröfur séu gerðar til þess að sýnt sé fram á að takmörkun tjáningarfrelsis sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Engin nauðsyn sé til að takmarka rétt stefndu til ummæla á borð við þau sem mál þetta snúist um. Einkum þegar litið sé til þess að ummælin tengist alvarlegu máli, eðli Blindrafélagsins, stöðu stefnanda sem formanns Blindrafélagsins og uppsögn hans úr starfi.

Stefndu segja ummælin ekki sett fram ein og sér og hafi þau verið til útskýringar fyrir félagsmenn. Eins og fram hafi komið hafi stjórnin talið að upp væri kominn trúnaðarbrestur milli stefnanda, sem formanns Blindrafélagsins, og stjórnar félagsins, sem stefndu skipuðu. Af því tilefni hafi stjórnin talið ótækt að aðhafast ekkert, heldur hafi verið rétt og skylt að grípa til aðgerða. Úr hafi orðið að stjórnin hafi lýst yfir vantrausti á stefnanda, rift ráðningarsamningi hans og afturkallað skipun hans í ráð og nefndir á vegum félagsins.

Þessi ákvörðun eða ályktun stjórnarinnar sé meginatriði málsins. Ummælin, sem mál þetta fjalli um, hafi þannig augljóslega ekki verið sett fram í þeim tilgangi að „koma höggi á stefnanda“ eða af öðrum hvötum sem haldið er fram í stefnu. Ummælin hafi ekki verið sett fram ein og sér til þess að hafa sérstök áhrif. Ummælin hafi verið birt til þess að upplýsa félagsmenn um þá ákvörðun sem stjórnin hafði tekið. Ákvörðunin hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið hægt að leyna félagsmenn henni og um leið hafi félagsmenn átt rétt á því að vita ástæður sem lágu að baki.

Ummælin hafi þannig ekki verið sett fram sem sjálfstæð yfirlýsing heldur sem órjúfanlegur hluti af ákvörðun stjórnar um að rifta samningi við stefnanda. Ákvörðunin sé í raun grundvöllurinn en yfirlýsingin aðeins birt til upplýsingar um ákvörðunina.

Öll umfjöllun um lögmæti yfirlýsingarinnar sé þannig nátengd ákvörðun stjórnarinnar. Ummælin ein og sér verði ekki ómerkt eða gerð að grundvelli miskabóta nema ákvörðunin sjálf verði fundin ólögmæt. Stefnandi hafi ekki borið ákvörðunina sjálfa undir dóm og reynt að fá henni hnekkt eða ólögmæti hennar viðurkennt. Í því felist viðurkenning á því að stefnandi uni ákvörðuninni.

Í málinu sé þannig ekki deilt um ákvörðunina sjálfa, hún liggi fyrir óhögguð. Stefnandi geti ekki unað ákvörðuninni og sleppt því að bera hana undir dóm en farið í meiðyrðamál við stefndu fyrir það eitt að hafa upplýst um ákvörðunina og forsendur hennar. Til þess að fá úr því skorið hvort ákvörðunin og forsendur stefndu hafi verið lögmætar hefði stefnandi þurft að bera ákvörðunina sjálfa, mögulega ásamt birtingu ummælanna, undir dómstóla. Ummælin séu rökstuðningur fyrir því að stefnandi var rekinn úr starfi sínu fyrirvaralaust. Í ummælunum komi fram raunveruleg ástæða fyrir ákvörðun stjórnarinnar. Stjórnin hafi talið háttsemina fela í sér dómgreindarbrest. Stjórnin hafi því ekki getað sleppt því að upplýsa félagsmenn um raunverulegar ástæður og þaðan af síður gefið aðrar ástæður fyrir ákvörðuninni.

Stefndu telja ummælin fela í sér gildisdóm. Verði að skoða yfirlýsinguna í heild sinni í samhengi við allt orðalag hennar og í samhengi við þau málsatvik sem hafi verið ástæða hennar. Ummælin hafi ekki verið sett fram ein og sér og ekki ætluð til að koma höggi á stefnanda. Ummælin hafi verið til útskýringar fyrir félagsmenn Blindrafélagsins. Það hafi ekki verið tilgangur stefndu að niðurlægja stefnanda eða vega að honum á neinn hátt. Yfirlýsingin hafi einfaldlega verið nauðsynleg í samhengi þeirra atvika sem höfðu átt sér stað. Í ummælunum felist ekki fullyrðing um refsiverða háttsemi, heldur sú skoðun stefndu að athæfi stefnanda hafi verið siðferðislega rangt og ekki samrýmst stöðu hans sem formanns Blindrafélagsins. Í ummælunum hafi þannig falist gildisdómur og mat stefndu á því hvernig formanni Blindrafélagsins ber að haga sér. Beri orðalag yfirlýsingarinnar það berlega með sér að vera gildisdómur sem feli í sér mat stjórnar á siðferðilegum efnum. Þannig komi skýrt fram í orðalaginu: „Að mati stjórnar“ og „siðferðilegt dómgreindarleysi“ sem geti ekki vísað til annars en gildisdóms. Öll önnur framsetning beri einnig skýrlega með sér að ummælin séu skoðun stjórnarinnar og mat hennar á málsatvikum.

Stefndu telja að ekki þurfi að sanna siðferðilegt gildismat stefndu. Sú skoðun stefndu að stefnandi hafi sýnt af sér dómgreindarbrest og brugðist trausti sé einfaldlega álit stefndu. Aðrir gætu mögulega haft aðra skoðun á háttseminni en það skipti ekki máli. Stefndu sé heimilt að tjá skoðun sína og stefnandi verði að þola þá skoðun stefndu á athæfi hans. Gildisdómar falli innan tjáningarfrelsisins og þess sem aðrir verði að þola í lýðræðisþjóðfélagi.

Stefndu byggja á því að staðhæfingarnar séu réttur og stefndu a.m.k. í góðri trú. Verði talið að ummælin feli í sér staðhæfingar sem stefndu beri að sanna þá séu ummælin engu að síður lögmæt. Stefndu hafi haft réttmætt tilefni til ummælanna miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Eins og rakið hafi verið höfðu stefndu upplýsingar um að stefnandi hefði átt í mjög óeðlilegum „viðskiptum“ með A. Stefndu hafi byggt ákvörðun sína og ummælin á fullnægjandi upplýsingum. Í því samhengi sé mikilvægt að ítreka að stefnandi hafi ekki enn útskýrt með trúverðugum hætti öll þau vafasömu atriði sem ákvörðun stefndu hafi byggt á.

Grundvallaratriði málsins að mati stefndu séu þau að stefnandi hafi verið formaður Blindrafélagsins og vingast við ungan félagsmann sem hafi staðið höllum fæti í lífinu og gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi fengið þennan unga félagsmann til þess að greiða sér A 1.600.000 krónur inn á persónulegan bankareikning stefnanda. Tilvísanir stefnanda til þess að A væri fjárráða og að þeir starfræktu fasteignafélag hafi alls ekki verið fullnægjandi. Framlag A hafi verið langt umfram hlutdeild hans í félaginu og allar upplýsingar stefnanda til A ýmist verið óljósar eða rangar.

Stefnandi hafi enn ekki gefið trúverðugar skýringar á því hvers vegna greiðslum A hafi verið beint inn á persónulegan reikning stefnanda. Þá hafi ekki verið útskýrt hvernig hann hafi ráðstafað fjármunum A eftir að þeir hafi borist inn á A reikning stefnanda. Hafi fjármunirnir runnið til félagsins þarf stefnandi að útskýra hvers vegna A greiddi langt umfram það sem stefnandi og faðir hans greiddu til félagsins. Stefnandi hafi gefið mjög mismunandi skýringar á málsatvikum, ýmist kallað þau hluthafalán, hlutafjárhækkun o.s.frv. Þá séu ýmsar skýringar stefnanda gríðarlega ótrúverðugar, eins og t.d. sú fullyrðing að A hafi lagt fjárhæðir inn á persónulegan reikning stefnanda vegna þess að ómögulegt hafi verið að leggja inn á reikning félagsins.

Byggja stefndu á því að ummæling hafi þannig a.m.k. verið látin falla í góðri trú um málsatvik, enda hafi þau byggt á upplýsingum sem stefndu höfðu kynnt sér þegar ákvörðunin hafi verið tekin og ummælin sett fram. Rétt sé að ítreka að engar nýjar upplýsingar hafa síðar komið fram sem hafi gefið aðra mynd af málsatvikum en stefndu hafi lagt til grundvallar þann 22. september 2015.

Ummæli sem séu sönn, séu stefndu og öðrum að vítalausu. Það sama eigi við ef stefndu höfðu réttmætt eða nægjanlegt tilefni til að ætla að ummælin væru sönn, þ.e. ef stefndu hafa verið í góðri trú um staðreyndir. Góð trú endurspeglist í því að stefndu séu sex mismunandi manneskjur sem allar hafi komist að sömu ályktun um háttsemi stefnanda. Stefnandi þurfi að sýna fram á að stefndu hafi með samanteknum ráðum ákveðið að haga orðum sínum gegn betri vitund. Ekkert liggi fyrir um slíkt, enda hafi ekki átt sér stað neitt samsæri, allir stjórnarmenn hafi einfaldlega verið sammála um að háttsemin væri ósiðleg.

Stefndu benda á að stefnandi hafi verið í sérstakri stöðu þegar samskipti hans og A hafi átt sér stað og einnig þegar ummælin féllu. Stefnandi hafi verið opinber persóna sem formaður Blindrafélagsins. Aðrar kröfur hafi orðið að gera til háttsemi hans, einkum í samskiptum við unga, óreynda félagsmenn í Blindrafélaginu. Að sama skapi hafi stefnandi orðið, stöðu sinnar vegna, að þola meiri umfjöllun um sig og störf sín, einkum ef störf hans tengdust félagsmönnum Blindrafélagsins. Þessi sjónarmið eiga svo enn betur við í allri umræðu innan Blindrafélagsins og gagnvart stjórn félagsins. Stefndu höfðu þannig rýmkað tjáningarfrelsi gagnvart stefnanda.

Við mat á ummælunum og orðalagi þeirra verði að líta til stöðu stefnanda, stöðu stefndu sem stjórnarmanna og eðli Blindrafélagsins. Stefnandi hafi borið sérstakan trúnað gagnvart félaginu, félagsmönnum þess og stjórn. Sá trúnaður hafi átt við í samskiptum stefnanda við félagsmenn utan veggja félagsins. Í ljósi þess að stjórn hafi talið þennan trúnað brotinn hafi ekkert athugavert verið við orðfæri ummæla stjórnarmanna. Þeim hafi verið rétt og skylt að lýsa yfir fordæmingu á athæfinu, enda hafi stefndu þótt háttsemin vera ósamrýmanlegt stöðu stefnanda. Í raun hefði verið alvarlegt ef stefndu hefðu fengið upplýsingarnar en ekkert aðhafst þrátt fyrir að vera öll á þeirri skoðun að háttsemin væri óásættanleg. Með slíku athafnaleysi hefðu stefndu brotið gegn skyldum sínum sem stjórnarmenn Blindrafélagsins. Stefndu hafi ekki getið setið hjá og aðhafst ekkert eftir að hafa fengið upplýsingar um háttsemi stefnanda, formanns félagsins. Stefndu hafi talið nauðsynlegt að gæta orðspors Blindrafélagsins og gefa skýrt til kynna að slík hegðun væri ekki ásættanleg. Þá hafi stefndu talið að ekki væri rétt að leyna þessum atvikum fyrir félagsmönnum. Þvert á móti hafi verið rétt að upplýsa félagsmenn um málsatvik. Í þessu samhengi sé minnt á að ekki hafi verið reynt að halda upplýsingum frá félagsmönnum eða koma í veg fyrir að mismunandi sjónarmið kæmust að. Boðað hafi verið til opins félagsfundar viku síðar þar sem allir félagsmenn gátu fengið nánari útskýringar og rætt málið.

Að mati stefndu eru orð þeirra eins hófstillt og varfærin og hægt hafi verið miðað við tilefnið. Stefndu hafi haft upplýsingar um að stefnandi hefði fengið A til að greiða sér fé, eins og lýst hafi verið að framan. Orðalagið í yfirlýsingunni sé þannig mun vægara en orð sem vísi beint til refsiverðrar háttsemin eins og t.d. „svik“ o.fl. Þess í stað komi skýrt fram að stjórnin telji stefnanda hafa brugðist trausti stjórnarmanns og sýnt af sér „siðferðilegt dómgreindarleysi“.

Stefndu hafi með þessum orðum ekki verið að fullyrða að stefnandi hefði framið refsiverða háttsemi. Aftur á móti hafi stefndu talið að háttsemin væri ekki boðleg hjá formanni Blindrafélagsins í samskiptum hans við ungan félagsmann. Eins og áður segi komi raunar skýrt fram í yfirlýsingunni að ummælin byggist á „mati stjórnar“ á fyrirliggjandi upplýsingum. Ummælin hafi ekki verið sett fram til að særa stefnanda. Þau hafi verið sett fram að gefnu tilefni og hafi falið í sér mat stefndu á fyrirliggjandi atvikum. Þau hafi verið nauðsynleg til að útskýra fyrir félagsmönnum ákvörðun sem stefndu neyddust til að taka.

Að mati stefndu varði ummælin þjóðfélagshagsmuni. Rétt sé að ítreka að stefndu hafi einungis birt ummælin á heimasíðu Blindrafélagsins, enda hafi verið um að ræða útskýringu á ákvörðun og hafi hún verið ætluð félagsmönnum. Stefndu hafi ekki breitt út til fjölmiðla þau ummæli sem stefnandi krefst ómerkingar á. Fjölmiðlar hafi tekið þá ákvörðun að birta yfirlýsinguna, og hafi stefndu engan atbeina haft að því. Það að flestir fjölmiðlar hafi ákveðið að vinna frétt upp úr yfirlýsingunni bendi þó augljóslega til þess að um hafi verið að ræða málefni sem hafi átt erindi til almennings. Rýmra tjáningarfrelsi gildi um ummæli sem eigi erindi við almenning og varði þjóðfélagshagsmuni. Eins og áður hafi verið rakið sé staða Blindrafélagsins og formanns þess sérstök. Með því að bjóða sig fram og gegna slíkri stöðu hafi stefnandi komið sér í aðstöðu sem opinber persóna. Sem slíkur hafi stefnandi orðið að þola að um hann og störf hans væri rætt á opinberum vettvangi, einkum ef umræðan beindist að ætluðu misferli gagnvart félagsmönnum. Nauðsynlegt hafi verið að varðveita orðspor Blindra­félagsins og að enginn vafi væri á því að ámælisverð hegðun stjórnenda félagsins gagnvart ungum, óreyndum félagsmanni væri óásættanleg. Þá hafi verið talið mikilvægt að slík mál væru ekki þögguð niður og hylmt yfir þau.

Stefndu telja rétt í þessu sambandi að benda á að þau hafi ekkert tjáð sig við fjölmiðla og ekkert gert til þess að mál þetta yrði fréttaefni, hvorki í aðdraganda ákvörðunarinnar né dagana og vikurnar á eftir. Aftur á móti hafi stefnandi sjálfur verið mjög virkur í því að blása málið upp sem fréttaefni, hafi hann mætt í fjölda viðtala o.s.frv. Sú mikla athygli sem málið hafi fengið, hafi þannig ekki síst verið af hans völdum. Hann hafi komið sjónarmiðum sínum að á mörgum fjölmiðlum og sagt sína sögu og fært fram sínar útskýringar. Umfjöllun stefnanda hafi m.a. falið í sér staðhæfingar í garð stefndu, eða hluta þeirra, sem ekki eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Stefndu hafi þó ekki kvartað yfir þeirri umfjöllun.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og innan þeirrar sýknukröfu felist allar kröfur sem gangi skemur. 

Stefndu byggja jafnframt á því að jafnvel þótt ummælin, eða einhver hluti þeirra, verði dæmd dauð og ómerk þá séu skilyrði miskabóta ekki til staðar. Stefnandi sjálfur geri þá kröfu að „við mat á miskabótakröfu [beri] að líta til 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940“. Þessi málsástæða sé mjög óljós og algerlega órökstudd, enda sé ekki krafist refsingar í málinu. Þó beri að geta tveggja atriða í því sambandi. Annars vegar að mat á skilyrðum miskabóta miðist við ásetning til brotsins, enda sé það í samræmi við huglægar kröfur ofangreindra lagaákvæða. Hins vegar geri 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga þá kröfu að ærumeiðandi aðdróttun hafi verið höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund. Verða miskabætur þannig ekki dæmdar nema sýnt sé fram á að stefndu hafi vitað betur en komi fram í ummælunum, þ.e. að þau hafi beinlínis sagt ósatt. Stefnandi beri auðvitað sönnunarbyrðina fyrir því samkvæmt meginreglum um sönnunarbyrði í refsirétti og skaðabótarétti.

Verði talið að skilyrði miskabóta séu til staðar þá krefjast stefndu verulegrar lækkunar, enda sé sú fjárhæð sem stefnandi geri kröfu um í engu samhengi við dómafordæmi. Sönnunarbyrði um tjón og umfang þess hvíli á þeim sem krefjist bótanna. Hér verði að lokum að geta þess að b-liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé einungis heimildarákvæði og því sé dómstólum ekki skylt að dæma miskabætur jafnvel þótt þeir telji að öllum skilyrðum ákvæðisins og stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Dómstólar hafi þannig svigrúm við þessar aðstæður til að meta hvort aðstæður allar leiði engu að síður til þess að ekki beri að dæma miskabætur.

Krafa stefnanda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms sé byggð á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það ákvæði eigi hins vegar eingöngu við um „þann, sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun“. Ákvæðið vísi þannig til þess að maður þurfi að vera sakfelldur fyrir brot gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga, sem fjalli um ærumeiðandi aðdróttanir. Þessi krafa stefnanda eigi því engan rétt á sér í þessu máli þar sem ekki sé krafist refsingar samkvæmt ofangreindum ákvæðum. Auk þess telja stefndu enga ástæðu til þess að greiða kostnað af birtingu dóms. Fari svo að dómur falli stefnanda í hag sé rétt að birting fari fram á sama vettvangi og þau ummæli sem málið er sprottið af, þ.e. á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is. Stefndu hafi hvorki miðlað né samþykkt miðlun ummælanna til annarra fjölmiðla en heimasíðu félagsins, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Verði fallist á kröfu um miskabætur og vexti telja stefndu að framangreind sjónarmið eigi a.m.k. að leiða til þess að vextir verði ekki dæmdir fyrr en að liðnum mánuði frá dómsuppsögu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Um önnur lagarök vísa stefndu um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

IV

Niðurstaða

Stefndu telja kröfugerð málsins óljósa og órökstudda, enda sé ekki krafist refsingar í málinu. Þá hafi ummælin ekki verið sett fram sem sjálfstæð yfirlýsing, heldur sem hluti af ákvörðun stjórnar og til útskýringar fyrir félagsmenn og ekki sé hægt að krefjast ómerkingar ummæla í ákvörðun, nema að ákvörðunin sjálf verði fundin ólögmæt.

Um þetta atriði þykir nægjanlegt að vísa almennt til dómaframkvæmdar Hæstaréttar þar sem dæmt hefur verið í málum sem þessum með vísan til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, án þess að refsingar sé jafnframt krafist, og heimild stendur til í 3. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru engin lagarök eða nauðsyn sem liggur því til grundvallar að haga verði kröfugerð með þeim hætti að jafnframt sé krafist ógildingar ákvörðunar þeirrar þar sem ummælin birtust.

Stefnandi krefst þess að eftirfarandi tvenn ummæli verði dæmd dauð og ómerk með vísan til 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sbr. og til 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

a.        vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt.

b.        þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðislegt dómgreindarleysi.

Stefndu vísa til þess að ummælin feli í sér gildisdóm sem falli innan tjáningarfrelsis 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Séu staðhæfingar réttar, a.m.k. hafi þær verið settar fram í góðri trú auk þess sem við eigi rýmkað tjáningarfrelsi, enda sé stefnandi opinber persóna.

Ummæli í staflið a í stefnu:

Stjórn Blindrafélagsins átti sjálf engra hagsmuna að gæta tengda Fasteignafélaginu Hnjúki ehf. eða hafði við það viðskiptaleg tengsl. Þá er það ekki tilgangur eða hlutverk stjórnar Blindrafélagsins að hafa eftirlit með nefndu félagi eða að kveða á um það hvort réttilega hafi verið staðið að stofnun þess félags eða hvernig hlutafjárframlagi félagsins hafi verið háttað. Stjórn Blindrafélagsins var ekki rétti aðilinn til þess að kveða á um, hvað væri rétt og rangt um þau atriði milli tveggja einstaklinga, þótt þeir einstaklingar hafi báðir verið stjórnarmenn í Blindrafélaginu.

Í máli þessu eru ekki forsendur til þess að ákvarða hvort pottur hafi verið brotinn í starfsemi Fasteignafélagsins Hnjúks ehf. Fyrir dóminn komu vitni með sérfræðiþekkingu og staðfestu að réttilega hefði verið staðið að stofnun félagsins lögum samkvæmt og að eign A hafi verið þar skráð, sama hvernig greiðslum A inn á reikning stefnanda var háttað. Þá liggur fyrir staðfesting í málinu um að A hafi fengið alla sína fjármuni greidda út úr félaginu.

Í fundargerð stjórnar Blindrafélagsins þann 22. september 2015 segir að stefndu hafi undir höndum upplýsingar sem feli í sér að mjög alvarlegur trúnaðarbrestur sé kominn upp milli stefnanda og stefndu, „ef réttar væru“. Er jafnframt fært til bókar að A, varamaður í stjórn félagsins, hafi óskað eftir því að stjórnin aðstoðaði hann við að ná til baka fjármunum sem stefnandi hefði haft út úr honum.

Stefndu höfðu í þrjá daga fyrir fundinn rætt málefnið sín á milli og ákveðið að hafa leynd um málið, auk þess sem gerð voru drög að umþrættri ályktun þegar þann 21. september 2015, út frá þeim gögnum sem stefndu höfðu þá undir höndum. Þau gögn voru tölvuskeyti og greiðsluseðlar sem A lét þeim í té og vottorð hlutafélagaskrár um Fasteignafélagið Hnjúk ehf. sem stefndu öfluðu.

Stefndu fengu engin frekari gögn í hendur áður en ályktunin var birt, en báru að þau hefði sannfærst um að ávirðingarnar væru réttar út frá afstöðu stefnanda sjálfs á nefndum fundi. Hefði orðalag ályktunarinnar eftir það verið mikið rætt og orðin „að féflétta“, „að svíkja“ og „plata“ komið upp í þeirri umræðu, en þau hafi annaðhvort verið talin of harkaleg eða of léttvæg en sumir hinna stefndu báru að þeir hefðu viljað taka sterkar til orða en gert hefði verið.

Af þessu er ljóst að stefndu töldu háttsemi stefnanda refsiverða áður en fundur stjórnar var haldinn þann 22. september 2015. Ályktunin var byggð á takmörkuðum hlutlægum og munnlegum upplýsingum án þess að stefndu hefðu fulla yfirsýn yfir málefnið. Með vísan til framangreinds geta stefndu ekki byggt á því í um staflið a í stefnu að þau hafi verið í góðri trú um réttmæti yfirlýsingarinnar.

Að mati dómsins verða ummælin „að véla“, í samhengi með öðrum ummælum í ályktuninni, ekki skilin með öðrum hætti en verið sé að vísa til þess að stefnandi hafi blekkt viðkomandi einstakling til vafasamra viðskipta og haft af honum allt sparifé hans. Er jafnframt vísað til þess að „málið“ sé komið í hendur á lögmanni. Er þannig gefið í skyn að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, háttsemi sem gæti átt undir 248. gr. eða 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ef rétt væri.

Í ályktun stefndu segir: „Málsatvik eru þau ...“. Orðalag ályktunarinnar er ekki sett fram með þeim hætti að um gildisdóm sé að ræða, heldur felist í því fullyrðing um tiltekna refsiverða háttsemi. Sönnun fyrir réttmæti þessara ummæla hvílir á stefndu.

Í greinargerð stefndu segir að A hafi kært stefnanda til lögreglu, en ekkert er sannað um þá staðhæfingu. Ekki liggur fyrir í hverju meint blekking eða vélun hafi verið fólgin, enda ekki ljóst af gögnum málsins hjá hverjum frumkvæðið var að þessum samskiptum og ekki liggur fyrir að ásetningur hafi staðið til þess hjá stefnanda að hafa af nefndum einstaklingi fé. Eru ummælin því ósönnuð.

Með vísan til alls framangreinds er ekki hægt að fallast á það með stefndu að um hafi verið að ræða gildisdóm sem falli innan tjáningarfrelsis þeirra. Þá er með sama hætti ekki hægt að fallast á þá málsástæðu stefndu að framangreind atriði tengdu nefndu hlutafélagi hafi varðað þjóðfélagshagsmuni eða að við eigi rýmkað tjáningarfrelsi um það málefni gagnvart stefnanda á þeim grundvelli að stefnandi hafi verið opinber persóna.

Óumdeilt er að ummælin voru birt á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is að beiðni stefndu, sem bera því ábyrgð á ummælunum samkvæmt ákvæði a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla.

Með vísan til framangreinds verður talið að ummælin í staflið a lið í stefnu, vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt, hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda í merkingu 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verða hin óviðurkvæmilegu ummæli dæmd ómerk að kröfu stefnanda, með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Ummæli í staflið b í stefnu:

Í nefndum ummælum er vísað til þess að það sé mat stjórnar félagsins að stefnandi hafi með athæfi sínu misnotað vald sitt, brugðist trausti og sýnt af sér siðferðislegt dómgreindarleysi.

Ekki voru til skráðar siðareglur eða starfsreglur hjá stjórn Blindrafélagsins á þeim tíma sem mál þetta tekur til og ekki hefur af hálfu stefndu verið sýnt fram á skyldu stefnanda til þess að upplýsa stjórn Blindrafélagsins um viðskiptaleg tengsl sín.

Með orðinu „athæfi“ stefnanda í ummælunum, verður ekki fullyrt í öðru samhengi að verið sé að vísa til refsiverðrar háttsemi, heldur til þess að það sé mat stefndu að stefnandi hafi sem formaður Blindrafélagsins brotið óskráðar siðareglur Blindrafélagsins með því að upplýsa ekki um framangreind viðskiptatengsl hans við annan stjórnarmann. Ekki er talið að í ummælunum felist móðgun eða aðdróttun um eitthvað sem ekki er fótur fyrir, enda óumdeilt að framangreind viðskiptatengsl áttu sér stað og ekki er óeðlilegt að stjórn Blindrafélagsins hafi á því siðferðislega skoðun og ákveði að leggja þá skoðun fyrir félagsfund til ákvörðunar.

Með vísan til framangreinds telst vera um að ræða gildisdóm um staflið b í stefnu, um málefni sem stefnandi, sem formaður Blindrafélagsins, þurfti að þola umræðu um. Verður því ekki fallist á að ómerkja þau ummæli og stefndu sýknuð af þeirri kröfu.

***

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt 1.800.000 krónur í miskabætur, auk nánar tilgreindra vaxta og dráttarvaxta. Krafan er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í hinum ómerktu ummælum stefndu í a-lið stefnu, fólst ólögmæt meingerð gegn æru og persónu stefnanda. Eru ummælin meinlegri fyrir þær sakir að þau eru borin fram sem hluti rökstuðnings fyrir vantrausti og riftun á ráðningarsamningi og afturköllun skipunar hans í ráð og nefndir sem fulltrúa Blindrafélagsins.

Stefndu bera óskipta ábyrgð á því ófjárhagslega tjóni stefnanda sem af ummælunum leiddi samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalagalaga. Þykja miskabætur stefnanda til handa, að öllum atvikum máls virtum, hæfilega ákveðnar 900.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. 

Stefnandi gerir kröfu um að stefndu verði dæmd til að greiða honum óskipt 500.000 krónur til að kosta birtingu á forsendum og dómsorði í máli þessu í tveimur dagblöðum og er krafan studd ákvæði 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Til þess er að líta að hin ómerktu ummæli voru birt á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is þótt þau hafi síðar ratað í fjölmiðla. Þykja því ekki nægjanleg efni til þess að dæma stefndu til að greiða stefnanda peningafjárhæð til að kosta birtingu dómsins opinberlega í tveimur dagblöðum.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefndu til að greiða stefnanda óskipt hluta málskostnaðar hans, sem er að mati dómsins með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

Eftirtalin ummæli í kröfulið a í stefnu skulu vera dauð og ómerk: vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt.

Stefndu, Halldór Sævar Guðbergsson, Baldur Snær Sigurðsson, Rósa María Hjörvar, Lilja Sveinsdóttir, Guðmundur Rafn Bjarnason og Rósa Ragnarsdóttir, skulu sýkn af kröfu stefnanda, Bergvins Oddsonar, um ómerkingu ummæla þeirra sem um getur í kröfulið b í stefnu.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 900.000 krónur í miskabætur með 4,7% vöxtum, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 8. gr. sömu laga, frá 22. september 2015 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað.