Print

Mál nr. 831/2014

Lykilorð
  • Rangar sakargiftir
  • Rannsókn
  • Skýrslugjöf
  • Málshraði
  • Milliliðalaus málsmeðferð

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 29. október 2015.

Nr. 831/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Rangar sakargiftir. Rannsókn. Skýrslugjöf. Málshraði. Milliliðalaus málsmeðferð.

X var sakfelld í héraði fyrir rangar sakargiftir með því að hafa gefið rangan framburð hjá lögreglu í Danmörku um að A hefði gert tilraun til að þvinga sig til kynferðismaka. X neitaði sök en í skýrslu hennar hjá lögreglu var staðhæft að hún hefði játað að hafa borið A röngum sökum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að X hefði ekki undirritað þær skýrslur sem hún gaf hjá lögreglu og hljóðupptökur ekki verið teknar af þeim. Þá hefðu skýrslutökur ekki farið fram á þann hátt að ritaðar væru niður þær spurningar sem lögregla beindi til X og svör hennar við þeim heldur verið látið við það sitja að rita knappa samantekt af því sem þar kom fram. Af þeirri samantekt yrði takmarkað ráðið hvað X hefði borið sjálfstætt hjá lögreglu og að hvaða marki hún hefði staðfest þau atriði sem undir hana voru borin. Yrði því ekki ráðið af skýrslum hennar að hún hefði játað sakargiftir á hendur sér án þess að lýst væri með nokkru móti í hverju sú játning hefði falist. Þá yrði heldur ekki vísað á bug þeirri skýringu X að hún hefði einungis viljað draga kæru sína til baka, þannig að málið myndi niður falla, án þess þó að hún væri að viðurkenna að kæran væri röng. Taldi Hæstiréttur því ósannað, svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að X hefði af ásettu ráði borið A röngum sökum. Var X því sýknuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af kröfu ákæruvaldsins en til vara að refsing hennar verði milduð.

I

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að ákærða mætti á lögreglustöðina í [...] í Danmörku snemma morguns sunnudaginn 2. október 2011 og kærði danskan karlmann, A, fyrir kynferðisbrot gegn sér fyrr um nóttina. Hún gaf skýrslu hjá lögreglu þá um morguninn og stóð skýrslutakan frá klukkan 9.30 til 10.45. Í framhaldi af því var A handtekinn klukkan 11.20 og færður til skýrslugjafar sem stóð frá klukkan 11.30 til 12.45. Í ljósi frásagnar mannsins af atvikum var aftur tekin skýrsla af ákærðu síðar sama dag og lauk skýrslutökunni 14.20. Í upphafi þeirrar skýrslu var tekið fram að ákærðu hefði verið bent á að henni bæri ekki skylda til að tjá sig. Þessar skýrslur liggja fyrir á frummálinu og í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, en efni þeirra er skilmerkilega rakið í héraðsdómi.

Ákærða gaf á ný skýrslu hjá lögreglunni í [...] mánudaginn 3. október 2011 og stóð skýrslutakan frá klukkan 15.50 til 16.20. Sú skýrsla liggur einnig fyrir á frummálinu og í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, en þar kom fram undir fyrirsögninni „Formreglur“ að ákærðu hefði verið greint frá því að hún væri borin sökum um rangar sakargiftir hjá lögreglu daginn áður á hendur A. Einnig að henni væri óskylt að tjá sig við lögreglu og að hún ætti rétt á að fá sér skipaðan verjanda. Því næst var skráð í skýrsluna: „Mætta óskar ekki eftir verjanda. Sakborningur játar.“ Í framhaldi af þessu var í umræddri skýrslu undir yfirskriftinni „Niðurstaða yfirheyrslunnar“ haft eftir ákærðu að hún væri leið vegna þess sem hefði átt sér stað að morgni sunnudagsins. Einnig sagði að hún hefði óskað eftir að tjá sig ekki um það sem hefði átt sér stað í því húsasundi þar sem hún var ásamt A. Þá kom fram að borinn hefði verið undir ákærðu framburður vitnisins C, sem hitti hana á vettvangi umrætt sinn, þess efnis að ákærða hefði þá sagt á íslensku: „Komdu mér í burtu – ég vil ekki vera hér – hann reyndi að nauðga mér“. Um þetta var haft eftir ákærðu að hún hefði ekki talið sig hafa látið þessi orð falla í húsasundinu, heldur þegar hún var komin út á gangstéttina þar sem hún hefði staðið ásamt vinum sínum, og ekki vitað af hverju hún sagði það sem haft var eftir vitninu. Loks var tekið fram í skýrslunni að ákærða hefði að þessu sögðu ekki óskað eftir að tjá sig frekar við lögreglu.

Með bréfi 10. október 2011 var ákærðu tilkynnt sú ákvörðun lögreglu að A yrði ekki sóttur til saka fyrir tilraun til að nauðga henni umrætt sinn. Fram kom að ákvörðunin væri reist á því að sakborningur hefði neitað sök og ákærða gengist við röngum sakargiftum.

Í máli þessu eru ákærðu gefnar að sök rangar sakargiftir með því að hafa hjá lögreglunni í [...] að morgni 2. október 2011 gefið rangan framburð um að A hefði þá um nóttina gert tilraun til að þvinga sig til kynferðismaka. Er þetta talið varða við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slík háttsemi er refsinæm eftir 1. mgr. 164. gr. dönsku hegningarlaganna. Ákærða neitar sök og ber því við að hún hafi aðeins viljað falla frá að kæra það kynferðisbrot sem hún telur sig hafa orðið fyrir. Frásögn hennar við aðalmeðferð málsins er nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.

II

Eins og áður greinir lauk rannsókn sakamáls á hendur A með ákvörðun lögreglu um að hann yrði ekki sóttur til saka. Eru ósönnuð atvik í samskiptum hans og ákærðu aðfaranótt 2. október 2011, en þau kærði hún til lögreglu sem kynferðisbrot í sinn garð.

Svo sem rakið hefur verið gaf ákærða þrjár skýrslur hjá lögreglunni í [...] í Danmörku, annars vegar tvær skýrslur 2. október 2011, vegna hins ætlaða kynferðisbrots gegn henni, og hins vegar skýrslu 3. sama mánaðar, þar sem henni voru gefnar að sök rangar sakargiftir með kæru sinni daginn áður.

Ákærða undirritaði ekki þær skýrslur sem hún gaf hjá lögreglu og hljóðupptökur voru ekki teknar af skýrslunum, svo sem heimilt var eftir 3. mgr. 751. gr. dönsku réttarfarslaganna. Þá fór skýrslutaka ekki fram á þann veg að ritaðar væru niður þær spurningar sem lögregla beindi til ákærðu og svör hennar við þeim. Þess í stað var látið við það sitja að rita knappa samantekt af því sem þar kom fram. Af þeirri samantekt verður takmarkað ráðið hvað ákærða hafi borið sjálfstætt hjá lögreglu og að hvaða marki hún hafi staðfest þau atriði sem undir hana voru borin. Þannig sagði í síðari skýrslu ákærðu 2. október 2011 að henni hefði verið gerð grein fyrir því hver fyrri framburður hennar hefði verið og framburður þess manns sem hún bar sökum „í nauðsynlegum mæli“ án þess að það væri nánar rakið. Um framhald skýrslutökunnar sagði síðan að ákærða hefði svarað í mjög stuttum setningum og haldið sig „að miklu leyti við svör, sem hún hafði heyrt í tengslum við þann skilning sem hún hafði fengið af skýrslu sakbornings.“ Samkvæmt þessu verður ekki ráðið af umræddri skýrslu að hún hafi gengist við því að hafa borið manninn röngum sökum. Þegar efni skýrslunnar er virt í heild verður heldur ekki vísað á bug þeirri skýringu ákærðu að fyrir henni hefði aðeins vakað að draga til baka kæru sína, þannig að málið yrði látið niður falla, án þess þó að hún væri að viðurkenna að kæran væri röng. Jafnframt verður ekki ráðið af skýrslu ákærðu hjá lögreglu 3. október 2011 að hún hafi játað sakargiftir á hendur sér, svo sem staðhæft var í skýrslunni, án þess að því væri lýst með nokkru móti í hverju sú játning hefði falist. Þvert á móti var tekið fram í skýrslunni að ákærða hefði óskað eftir að tjá sig ekki við lögreglu um það sem átt hefði sér stað í húsasundinu umrætt sinn.

Andspænis eindreginni neitun ákærðu stendur framburður lögreglumannanna E og F og B, sem var túlkur við skýrslutöku af henni. Að því er varðar síðari skýrsluna af ákærðu 2. október 2011 kom fram bæði hjá E og B að ákærða hefði sjálf greint frá atvikum með svipuðu móti og A án þess að henni hefði áður verið gerð grein fyrir frásögn hans. Þetta er í ósamræmi við það sem fram kemur í skýrslunni, en þar sagði, eins og áður er rakið, að ákærða hefði að miklu leyti reitt sig á það sem hún hefði áður heyrt af skýrslu mannsins. Einnig er þess að gæta að B kvaðst muna mjög óljóst eftir atvikum í upphafi skýrslu sinnar fyrir dómi en ríflega þrjú ár voru þá liðin frá þeirri háttsemi sem ákærðu er gefin að sök. Verður ákæruvaldið að bera hallann af þessu en verulegur dráttur varð af hálfu þess á útgáfu ákæru. Loks er til þess að líta að hvorki áðurnefnd vitni né A komu fyrir dóm heldur gáfu þau skýrslu símleiðis. Að því gættu að framburður þessara vitna gat haft mikið vægi við úrlausn málsins voru að réttu lagi ekki efni til að beita þeirri undantekningu frá meginreglunni um milliliðalausa málsmeðferð sem kemur fram í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er ósannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærða hafi af ásettu ráði borið umræddan mann röngum sökum þegar hún kærði hann til lögreglu fyrir kynferðisbrot gegn sér. Verður ákærða því sýknuð af kröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærða, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hennar fyrir Hæstarétti, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2014.

                Mál þetta, sem var dómtekið 7. þ.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 23. janúar 2014, á hendur X, kt. [...], [...] í [...], „fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. október 2011 gefið rangan framburð hjá lögreglunni [...] í [...] í Danmörku þess efnis að A hefði þá um nóttina, í húsasundi við [...] í [...], gert tilraun til þess að þvinga ákærðu til kynferðismaka með því að halda henni fastri, káfa á brjóstum hennar og reyna að kyssa hana og draga pils hennar niður um hana, og þannig borið A röngum sökum og komið því til leiðar að hann var handtekinn af lögreglu þann sama dag og sakaður um tilraun til nauðgunar, en ákærða játaði við skýrslutöku hjá lögreglu síðar sama dag að hafa umrætt sinn sjálfviljug stundað kynferðismök með A.

Telst þetta varða við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, til vara að henni verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

                Saksókn á hendur ákærðu styðst við gögn frá dönsku lögreglunni. Samkvæmt þeim mætti ákærða á lögreglustöðina í [...] klukkan 6:15 að morgni sunnudagsins 2. október 2011 og kærði danskan karlmann, A, fyrir kynferðisbrot sem að hennar sögn átti sér stað um það bil klukkustund áður. Í skýrslu sem af henni var tekin af þessu tilefni á hún að hafa skýrt svo frá að hún hefði þegið boð A, sem hún hefði hitt í fyrsta skipti nokkrum klukkustundum áður, um að fylgja sér á veitingastað þar sem hún hugðist hitta félaga sína sem hún hefði orðið viðskila við fyrr um nóttina. Hefðu þau verið á leiðinni þangað þegar brotið var framið. A var handtekinn klukkan 11:20 og færður á lögreglustöðina til yfirheyrslu. Þar neitaði hann sök, en gekkst við því að hafa haft kynmök við ákærðu og kvað þau hafa farið fram án þvingunar af hans hálfu. Í kjölfarið var ákærða yfirheyrð að nýju. Í skýrslu um þá yfirheyrslu, sem hófst klukkan 12:25 og lauk klukkan 14:20, kemur meðal annars fram að ákærða hafi verið mjög niðurdregin og döpur. Hún hafi í fyrstu haldið sig við fyrri framburð sinn en síðan skýrt svo frá að ekkert hefði gerst. Eftir það hafi hún um tíma verið reikul í framburði sínum. Að lokum hafi hún gefið lýsingu á kynferðislegum samskiptum sínum og A sem ber það ótvírætt með sér að vilji hennar hafi staðið til þeirra og að hann hafi engri þvingun beitt. Að þessum framburði fram komnum var A yfirheyrður að nýju þar sem hann áréttaði að hann hefði engri þvingun beitt þá er hann hafði kynmök við ákærðu og allt sem hefði átt sér stað á milli þeirra hefði verið með samkomulagi þeirra beggja. Var A látinn laus klukkan 15:50. Ákærða var tekin til yfirheyrslu sem sakborningur mánudaginn 3. október 2011 og henni gefnar að sök rangar sakargiftir. Í skýrslu um þá yfirheyrslu kemur fram að hún hafi játað sök. 

                Sýknukrafa ákærðu í málinu er byggð á því að upphafleg kæra hennar sé á rökum reist en hún hafi af tilgreindum ástæðum kosið að halda henni ekki til streitu. 

II

                Verður nú gerð frekari grein fyrir því sem fram kom við rannsókn málsins í Danmörku samkvæmt framlögðum lögregluskýrslum og þýðingu hefur við úrlausn þess, en fyrir liggur þýðing löggilts skjalaþýðanda í dönsku á þeim. Þá skal tekið fram að allar skýrslutökur af ákærðu fóru fram með aðstoð túlks, B.

                Samkvæmt kæruskýrslu sem ákærða gaf var hún undir lítils háttar áhrifum áfengis þá er hún kom á lögreglustöðina í [...] að morgni sunnudagsins 2. október 2011, en ekki var gengið úr skugga um áfengismagn í blóði hennar. Er bókað eftir henni að hún hafi hitt þennan mann, A, fyrr um kvöldið á bar og að þau hafi rætt saman á ensku. Hann hafi, þegar liðið var á nóttina, boðist til að fylgja henni yfir á skemmtistaðinn [...], en þangað hefðu vinir hennar farið á undan henni. Á leiðinni hafi hann viljað sýna henni bíl vinar síns sem hafi verið inni í húsagarði á bak við mótorhjólabúð. Hún hafi farið með honum þangað. Þegar þau voru á leið út úr garðinum hafi hann skyndilega snúið sér að henni, tekið í handlegginn á henni og reynt að kyssa hana á munninn. Hún hafi snúið andlitinu undan þar sem hún hafi ekki viljað eiga líkamlegt samband við þennan mann, enda ætti hún kærasta. Þessu næst er eftirfarandi lýsing bókuð eftir ákærðu: „A hafði haldið takinu á hægri handlegg hennar. Hann hafi snúið honum aftur fyrir bak á henni, þannig að hann var beint fyrir aftan hana. Hann reyndi að ýta henni upp á farangursrýmislokið á rauða bílnum. Hún hafði veitt svo mikla viðspyrnu að þau enduðu á bílnum við framendann. Hann hafði þrýst henni upp að bílnum. Hann sleppti takinu á handlegg hennar, en lagði samtímis hina höndina sína yfir munninn á henni og hélt henni fastri. Hún skynjaði að gerandinn væri með lausu hendinni að draga pilsið hennar niður. Á einhverjum tímapunkti á meðan þetta allt gerðist hafði gerandinn líka káfað á brjóstunum hennar. Hún getur ekki muna hvort þetta var utan á eða innan undir blússunni hennar. Pilsið var ekki dregið niður. Á þessu tímamarki hafði ókunnur maður komið aðvífandi rétt fram hjá og við það kom styggð að gerandanum sem sleppti takinu. Meðan á þessu stóð hringdi síminn hennar. Hann hringdi líka aftur eftir að hún varð laus. Hún gat svarað í símann og það var vinkona hennar sem hringdi. Man ekki hvað var sagt, nema að hún hafði sagt að hún væri stödd í húsasundi. Vinkonurnar C, D og tveir piltar voru komin á staðinn örskömmu síðar. Gerandinn/A var þá enn á staðnum.“ Þá er þess að geta að í kæruskýrslunni er haft eftir ákærðu að hún hafi ferðast ásamt börnum sínum frá Íslandi til Danmerkur 31. ágúst 2011 og dvalið þar hjá vinkonu sinni D. Hún hafi ráðgert að fara heim til Íslands 4. október 2011. Loks skal tekið fram að í niðurlagi skýrslunnar er þess getið að túlkurinn hafi lesið upp framburð ákærðu sem hafi staðfest hann.

                Samkvæmt fyrri framburðarskýrslu A hjá lögreglu lýsti hann nokkuð ítarlega samskiptum sínum og ákærðu allt þar til hann bauðst til að fylgja henni á [...]. Á leiðinni þangað hefðu þau farið inn í húsagarð og hann sýnt henni þar bíl sem vinur hans átti. Þegar hann hafi ætlað að halda förinni áfram hafi honum orðið það ljóst að ákærða hefði annað í hyggju. Þau hefðu byrjað að kyssast og farið út í eitt hornið í garðinum. Þar hafi ákærða losað um beltið á buxunum hans og gyrt niður um hann. Hún hafi sömuleiðis togað niður nærbuxur hans. Síðan hafi hún haft munnmök við hann sem staðið hafi yfir í nokkra stund. Eftir munnmökin hafi ákærða staðið á fætur og togaði niður pils sem hún var klædd í. Hún hafi því næst snúið sér við þannig að hendur hennar hvíldu á vélarhlíf bifreiðar sem þarna stóð. Hún hafi dregið buxur sínar aðeins til hliðar en ekki gyrt niður um sig. Hann hafi síðan haft mök við hana aftan frá. Hann væri viss um að hann hefði haft við hana samfarir í leggöng en vildi ekki útiloka að einnig hefði verið um endaþarmsmök að ræða. Meðan á samförunum stóð hafi hann þuklað brjóstin á ákærðu, hún hafi sjálf fært hendur hans á þau. Þessu næst er eftirfarandi bókað eftir A: „Þegar þau voru í samförunum gekk eldri maður framhjá leiðandi hjólið sitt. Við það kviknaði á ljósunum í húsagarðinum. Þau hættu þá samförunum án þess að mætta hefði orðið sáðfall. Þau höfðu síðan hvort um sig klætt sig í fötin til þess að fara úr húsagarðinum. [Meðan á] samförunum stóð hafði sími brotaþola hringt mörgum sinnum. Hún hafði á vissu tímamarki í samförunum svarað í símann, en lokið samtalinu fljótt. Hún hafði sagt eitthvað stutt, væntanlega á íslensku. Þegar þau voru á leið út úr húsagarðinum höfðu þau mætt að minnsta kosti einum af vinum hennar, ásamt tveimur piltum, sem mætti þekkti ekki.“ Þau hefðu síðan gengið saman að tilteknum gatnamótum, en þar hafi hann skilið við þau og haldið heim á leið en þau hin farið inn á pizzustað. Skýrsla þessi ber það með sér að vera undirrituð af A.

                Rétt þykir að rekja þessu næst orðrétt meginefni skýrslu sem rituð var þegar ákærða var að nýju tekin til yfirheyrslu, en svo sem áður er getið stóð hún yfir frá klukkan 12:25 til 14:20: „Brotaþola var í nauðsynlegum mæli gerð grein fyrir framburði sakborningsins. Hún er alvarlega áminnt um að segja sannleikann og henni eru jafnframt gerðar ljósar afleiðingar rangrar kæru. Brotaþoli er mjög niðurdregin og döpur í bragði. Í fyrstunni heldur hún sig við fyrsta framburð sinn, þó með þeirri viðbót, að um endaþarmsmök kunni að hafa verið að ræða, sem hún hafi ekki sjálf viljað taka þátt í. Henni voru síðan veittar 5 mínútur til þess að hugsa sig vel um, þannig að hún geti gefið nánari lýsingu á sjálfri atburðarásinni. Þegar yfirheyrslan hófst að nýju var hún mjög dul. Hún sagði núna að ekkert hefði gerst ... Henni var gerð ljós hver fyrri framburður hennar hafði verið og framburður sakbornings í nauðsynlegum mæli. Hún greindi frá því að hún hefði áður, fyrir u.þ.b. 7 árum lent í því að vera nauðgað á Íslandi. Þá hefði lögreglan heldur ekki trúað henni. Hún svaraði eftir þetta í mjög stuttum setningum. Hún hélt sig að miklu leyti við svör, sem hún hafði heyrt í tengslum við þann skilning sem hún hafði fengið af skýrslu sakbornings. Hún hélt því fram að ekkert hefði gerst. Aðspurð greindi hún frá því að hún og sakborningur hefðu staðið inni í húsagarðinum og verið að kyssast. Á meðan á því stóð hafði hún klætt hann úr buxunum. Hún hafði hneppt einum hnappi frá og dregið buxurnar og nærbuxurnar niður um hann, og síðan hafði hún veitt honum munnmök. Hún hafði legið á hnjánum fyrir framan hann. Honum hafi ekki orðið sáðlát. Eftir nokkra stund stóð hún á fætur, dró pilsið, sokkabuxurnar og nærbuxurnar sínar niður um sig og hafði síðan snúið sér að húddinu á bílnum og lagði hendur sínar á vélarhlífina. Sakborningur hafði síðan átt endaþarmsmök við hana. Aðeins hafði verið um endaþarmsmök að ræða. Hún upplýsir að endaþarmsmökunum höfðu ekki fylgt neinir verkir. Hún vissi ekki hvort limurinn hefði verið „í fullri reisn“, en limurinn hafði runnið út. Aðeins var um mök að ræða í skamman tíma. Sakborningi hafði ekki orðið sáðfall. Þau höfðu ekki haft samfarir um leggöng. Þessu lauk öllu þegar eldri maður kom leiðandi hjólið sitt því þá kviknaði ljós í garðinum. Þau höfðu klætt sig í fötin og yfirgáfu garðinn í gegnum hliðið að [...]. Síminn hennar hafði hringt nokkrum sinnum meðan þau dvöldu í garðinum. Hún hafði fyrst svarað í hann eftir samfarirnar. Þá hafði hún rætt við D, sem hafði hringt. Mætta svaraði bara að hún væri inni í garði og að hún væri á leiðinni. Hún man ekki hvort hún hefði sjálf hringt í einhvern. Mætta fór fyrst út úr garðinum. Þegar hún var komin út um hliðið og út á [...] hefði hún hitt vinkonur sínar, D og C. Hún man ekki hvað hún hafði sagt þeim.“  Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að túlkur hafi reynt að lesa framburðinn upp fyrir ákærðu, en hún hafi stöðvað lesturinn og sagt að hún vildi ekki heyra meira.

                Svo sem áður er fram komið var að nýju tekin skýrsla af ákærðu hjá lögreglu mánudaginn 3. október 2011 og þá sem sakborningi. Í skýrslu um þá yfirheyrslu er haft eftir henni að hún væri leið út af því sem gerst hafi að morgni sunnudagsins. Hún hafi ekki viljað tjá sig um atvikið. Þá verður ekki önnur ályktun dregin af efni skýrslunnar en að ákærða hafi við yfirheyrsluna játað að hafa gerst sek um rangar sakargiftir.        

                Að lokum er vert að geta um skýrslu sem lögregla tók af D 2. október 2011, en í henni kemur fram að hún og vinkona hennar hefðu komið á þann stað þar sem brotið á að hafa átt sér stað á meðan ákærða og A voru ennþá stödd þar. Kvaðst D hafa verið búin að reyna að hringja í ákærðu í nokkur skipti og þegar hún loksins svaraði hafi hún sagt hvar hún væri stödd. Er haft eftir D að þegar hún hafi gengið inn í „húsagarðinn/húsasundið“ hefði kviknað ljós og hún þá séð ákærða og A þar sem þau stóðu saman á milli tveggja bíla. Hafi henni virst sem ákærða vildi losna frá A sem haldið hafi í upphandlegg hennar. Ekki hafi verið um ofbeldi að ræða en ákærða hafi sagt við þær: „Komið mér héðan í burt.“ Ákærða hafi stuttu síðar greint D frá því að A hefði reynt að þvinga hana til samræðis í húsasundinu. Hann hafi þuklað á brjóstum hennar og reynt að kyssa hana. Ekki hafi verið um samfarir að ræða.

III

                Í skýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar ákærða á sama veg og hjá lögreglu um aðdraganda þess að hún fór ásamt A inn í húsagarð eða húsasund á leið þeirra á skemmtistað þar sem hún ætlaði að hitta félaga sína sem hún hafði orðið viðskila við fyrr um nóttina. Þar hafi A haft við hana kynmök gegn hennar vilja. Hann hafi haldið henni, dregið niður um hana pils og sokkabuxur sem hún var klædd í og reynt að stinga limnum á sér inn í hana. Hún hafi grátið og beðið hann um að hætta, en það hafi hann ekki gert fyrr en ljós kviknaði í húsasundinu þegar einhver maður hafi átt leið þar um. Hún hafi verið nokkuð ölvuð þegar þarna var komið sögu enda búin að vera að drekka alla nóttina. Það væri því ekki rétt sem fram kæmi í kæruskýrslunni að hún hefði verið undir lítils háttar áfengisáhrifum. Nánar aðspurð um brotið sjálft skýrði hún svo frá að um endaþarmsmök hafi verið að ræða, gerandinn hafi reynt að stinga limnum á sér inn í leggöng hennar en ekki tekist það. Þegar ákærða hafði lesið yfir kæruskýrslu sína, sem áður er gerð grein fyrir, tók hún fram að hún hefði skýrt lögreglu frá þessu en einhverra hluta vegna sé ekki getið um þann framburð hennar í skýrslunni og hið sama eigi við um þá lýsingu hennar að hann hafi tosað sokkabuxurnar niður. Þá væri hún á því að hann hafi togað pilsið upp. Í kjölfarið hafi hann reynt að troða limnum inn í hana og kvaðst hún ekki vera viss um hvort honum hafi tekist það. Hún hafi verið mjög hrædd meðan á þessu stóð. Þá verður af framburði hennar ráðið að D vinkona hennar hafi hringt í hana að minnsta kosti tvisvar sinnum þegar hún var stödd í húsasundinu ásamt gerandanum og í fyrra skiptið meðan á hinu meinta broti stóð. Í seinna skiptið hafi hún svarað, sagt hvar hún væri stödd og að hún vildi komast þaðan. D og samferðafólk hennar hafi komið á vettvang stuttu síðar og gerandinn hafi þá enn verið staddur þar. Varðandi fyrra skiptið kvaðst hún ekkert hafa talað í símann þá „en þau heyrðu hvað var í gangi“. Framburður ákærðu um þetta verður þó ekki skilinn á annan veg en þann að hún hafi ekki opnað fyrir símann og að hún geri sér ekki grein fyrir því hvernig það gerðist. Hún hafi farið ásamt D á lögreglustöð stuttu eftir atvikið og verið yfirheyrð þar með aðstoð túlks. Aðspurð kvaðst hún ekki muna hvort túlkurinn hafi kynnt henni efni þeirrar skýrslu sem skráð var eftir henni. Að skýrslutöku lokinni hafi hún farið heim með D, en þar hélt hún til meðan á dvöl hennar í Danmörku stóð. Síðar þennan sama dag hafi hún verið færð á lögreglustöðina til skýrslutöku að nýju. Við þá yfirheyrslu, sem fram fór með aðstoð túlks, hafi henni verið gerð grein fyrir því að meintur gerandi hefði lýst samskiptum þeirra með allt öðrum hætti en hún hafði gert. Í kjölfarið hafi hún ítrekað verið spurð um það hvort hún segði satt. Hún hafi svarað því til að svo væri. Á einhverju tímamarki hafi hún verið skilin ein eftir í einhverju herbergi á lögreglustöðinni og verið beðin um að hugsa mál sitt. Þegar skýrslutökunni var fram haldið hafi lögreglumaðurinn sem annaðist hana haldið uppteknum hætti. Þar sem hún hafi haldið sínu striki hafi henni verið tjáð að nauðsynlegt væri í þágu rannsóknar málsins að senda hana á sjúkrahús í [...]. Hún hafi ekki getað hugsað sér það, enda hafi hún þurft að hugsa um börnin sín, sem hún hafi ekki getað útvegað pössun fyrir, og aðeins tveir dagar voru fram að brottför heim til Íslands. Lögreglumaðurinn hafi þá sagt við hana að þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir hana en að falla frá kærunni. Henni hafi liðið mjög illa, hún hafi grátið allan tímann og lýst þeim vilja sínum að komast heim. Að endingu hafi hún gefist upp gagnvart þeirri pressu sem lögreglumaðurinn hafi haft í frammi við hana og sagt sem svo að hún yrði þá bara að segja það sama og gerandinn hefði sagt, en þá hafi að einhverju marki verið búið að upplýsa hana um það. Framburður ákærðu um skýrslutökuna þaðan í frá er á hinn bóginn um margt óljós. Verður ekki annað af honum ráðið en að hún hafi ýmist svarað því til að ekkert hafi gerst í samskiptum hennar og gerandans sem hún hafi verið andvíg eða að hún myndi ekki hvað hefði gerst. Þá kvaðst hún hafa fengið leiðandi spurningar sem hún hefði ýmist svarað játandi eða neitandi eða með þeim hætti að hún myndi ekki eftir því sem verið var að spyrja hana um. Hún hafi ekki gefið samfellda frásögn af samskiptum sínum og gerandans, svo sem ráða megi af framburðarskýrslu hennar hjá lögreglu, og hafnaði því reyndar að það sem þar er bókað eftir henni væri frá henni komið. Áréttaði ákærða þessu næst þann framburð sinn að hún hafi ekki borið gerandann röngum sökum, hún hafi upplifað samskipti þeirra á þann hátt að hann hafi brotið gegn henni. Aðspurð kvaðst ákærða lítið geta tjáð sig um þá skýrslu sem tekin var af henni sem sakborningi 3. október 2011. Hún hafi þó aldrei játað að hafa borið gerandann röngum sökum, en vel geti verið að hún hafi lítið viljað tjá sig um atvikið sjálft.

                Við aðalmeðferð málsins voru teknar símaskýrslur af lögreglumönnunum E, sem tók skýrslur af ákærðu á lögreglustöðinni í [...] 2. október 2011, og F, sem yfirheyrði ákærðu sem sakborning daginn eftir, A, D og B, sbr. heimild í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Í skýrslu A fyrir dómi var það afdráttarlaus vitnisburður hans að ákærða hafi borið hann röngum sökum og að kynferðisleg samskipti þeirra hafi  í einu og öllu verið með hennar samþykki og að engin þvingun af hans hálfu hafi átt sér stað. Staðfesti A þá lýsingu sem hann gaf á þessum samskiptum þeirra við skýrslugjöf hjá lögreglu.               

Í skýrslu sinni kannaðist E við að hafa tekið skýrslur af ákærðu 2. október 2011 að viðstöddum túlki. Þegar hún gaf kæruskýrslu sína hafi hún verið ölvuð, en ekki svo mikið. Þá hafi ástand hennar að öðru leyti ekki staðið því í vegi að hún yrði yfirheyrð. Það sem fram komi í kæruskýrslunni sé frásögn hennar af atvikinu. Að skýrslutöku lokinni hafi túlkurinn lesið upp framburð hennar og hún hafi staðfest að þar væri rétt eftir sér haft. Önnur skýrsla hafi svo verið tekin af ákærðu síðar þennan sama dag og sem fyrr með aðstoð túlks. Hún hafi þá verið dálítið ringluð. Framburður meints geranda þess efnis að þau hefðu haft kynferðismök að fúsum og frjálsum vilja hafi verið kynntur henni. Að því loknu hafi ákærða í fyrsta skipti greint frá því að gerandinn hefði haft við hana endaþarmsmök. Sem fyrr hafi hún skýrt svo frá að hann hafi reynt að kyssa hana og hann hafi káfað á henni, en líka að hann hafi haft við hana kynmök með framangreindum hætti. Þegar hér var komið sögu í yfirheyrslunni hafi hún verið þögul og virst leið. Þegar spurningar voru lagðar fyrir hana hafi hún svarað með einsatkvæðisorðum. Henni hafi verið gerð grein fyrir því að það væri refsivert að gefa rangan vitnisburð. Gert hafi verið hlé í fimm mínútur á skýrslutökunni en að því loknu hafi ákærða skýrt svo frá að ekkert hefði gerst sem hún hefði ekki viljað. Hún hafi lýst atvikum og hefði sú lýsing samrýmst framburði meints geranda og það án þess að búið hafi verið að kynna framburðinn fyrir henni að öðru leyti en að framan greinir. Þannig hafi hún lýst munnmökum og endaþarmsmökum. Borin var undir E sú staðhæfing ákærðu að lögregla hafi þrýst á hana með ýmsu móti að falla frá kæru og hafnaði hann því alfarið. Um ekkert slíkt hafi verið að ræða. Í kjölfar þess að hún hafi verið beðin um að skýra frá því sem gerðist í húsasundinu hafi komið frásögn sem skráð hafi verið orðrétt eftir henni með aðstoð túlksins og svo sem framlögð skýrsla vitnisins beri með sér. Um frjálsa frásögn af hálfu ákærðu hafi verið að ræða.

Í skýrslu sinni kvaðst F muna vel eftir þessu máli þótt tæp þrjú ár væru liðin frá því að það kom upp. Kom fram hjá honum að hann hafi lesið yfir þau gögn sem fyrir lágu í tilefni af fram kominni kæru um kynferðisbrot og ákveðið að því loknu að hefja rannsókn á hendur ákærðu fyrir rangan vitnisburð. Við skýrslutöku hafi ákærða viðurkennt að þetta hefði verið röng kæra. Hún hafi þannig viðurkennt brot sitt. Hún hafi á hinn bóginn ekki viljað segja honum frá atvikum þess máls, það hefði hún þegar gert við skýrslugjöf hjá E. Henni hafi greinilega liðið mjög illa vegna kærunnar sem hún lagði fram. Þá hafi hún ekki viljað undirrita framburðarskýrslu sína, en samkvæmt dönskum lögum sé það í höndum sakbornings og vitnis að ákveða hvort slík skýrsla sé staðfest með undirritun þess sem í hlut á.  

                Vitnisburður D fyrir dómi var í öllum atriðum í samræmi við það sem eftir henni er haft í fyrirliggjandi lögregluskýrslu, sem áður er gerð grein fyrir. Þannig hafi A haldið í upphandlegg ákærðu þegar D og félagar hennar komu að þeim inni í húsasundinu. Hann hafi strax sleppt takinu og ákærða sagt: „Komið mér burt héðan.“ Ákærða hafi eftir þetta verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Áður en þær fóru á lögreglustöðina í seinna skiptið hinn umrædda sunnudag hafi ákærða skýrt frá því að gerandinn hefði haft við hana endaþarmsmök. Hún hafi ekki sagt D frá þessu fyrr þar sem hún hafi skammast sín fyrir þetta. Fram að þessu hafi ákærða sagt það eitt um atvikið að gerandinn hefði reynt að nauðga henni.

          Vitnið B staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hafi verið viðstödd skýrslutökur af ákærðu sem túlkur. Það sem ákærða hafi sagt hafi hún þýtt yfir á dönsku og spurningar lögreglu úr dönsku yfir á íslensku. Skýrslurnar hafi verið ritaðar upp jafnóðum og svör fengust við spurningum sem bornar voru fram. Ákærðu hafi á einhverju tímamarki í einni yfirheyrslunni verið tjáð að frásagnir hennar og meints geranda pössuðu ekki saman. Í kjölfarið hafi verið gert hlé á yfirheyrslunni, en eftir það hafi ákærða skýrt frá því sem gerðist. Hún hafi dregið fyrri framburð sinn til baka, sagt að þetta væri uppspuni og lýst kynferðislegum samskiptum þeirra. Áður hafi verið brýnt fyrir henni að skýra satt og rétt frá og að rangur framburður væri refsiverður. Í tengslum við þetta er þess að geta að fram kom hjá vitninu að ákærða hafi einhverju sinni meðan á skýrslutöku stóð dregið fyrri framburð sinn til baka með orðunum „ég segi þá bara að þetta sé lygi“, en þess var ekki getið hvenær hún lét þessi orð falla.

IV

                Svo sem áður er getið liggja frammi í málinu gögn um rannsókn dönsku lögreglunnar á kynferðisbroti sem ákærða kvaðst hafa orðið fyrir í [...] að morgni sunnudagsins 2. október 2011. Var lýsing ákærðu á brotinu samkvæmt kæruskýrslu sem tekin var af henni fáeinum klukkustundum síðar í samræmi við það sem greinir í verknaðarlýsingu ákæru. Leiddi kæran til þess að 33 ára karlmaður, A, var handtekinn, færður á lögreglustöð og yfirheyrður þar sem sakborningur. Þá eru gögn þessi afdráttarlaus um það að ákærða hafi síðar þennan sama dag játað að þessi kæra hennar væri röng og að hún hafi sjálfviljug átt kynferðislegt samneyti við A þar sem gengið hafi verið mun lengra en hún upphaflega lýsti og að meginstefnu til svo sem þá var fram komið samkvæmt skýrslu hans hjá lögreglu. Loks er á meðal gagnanna skýrsla sem tekin var af ákærðu sem sakborningi daginn eftir þar sem hún er sögð hafa játað brot sitt.

Í kærunni sem ákærða lagði fram á hendur A fólst að hann var sakaður um brot gegn 1. mgr. 216. gr. dönsku hegningarlaganna. Þá er sú háttsemi ákærðu sem henni er gefin að sök í ákæru refsiverð samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laganna. Er því fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til að ákærðu verði gerð refsing eftir íslenskum lögum.

                Með vitnisburði A er í ljós leitt að það er sem fyrr afstaða hans til þeirrar kæru, sem ákærða lagði fram á hendur honum um kynferðisbrot, að enginn fótur sé fyrir henni. Var það afdráttarlaus framburður hans að ákærða hafi verið samþykk kynmökum þeirra og að engri þvingun hafi verið beitt af hans hálfu.

                Í framburði sínum fyrir dómi staðfesti ákærða efni kæruskýrslu sinnar sem hún gaf að morgni sunnudagsins 2. október 2011, en tók jafnframt fram að einhverra hluta vegna hefði láðst að geta þar um þann framburð hennar að gerandinn hefði reynt að hafa við hana endaþarmsmök. Er sú staðhæfing hennar mjög ótrúverðug. Þegar ákærða var svo beðin um að gera grein fyrir framburði sínum hjá lögreglu við skýrslutöku af henni síðar þennan sama dag og framvindu þeirrar yfirheyrslu var frásögn hennar ruglingsleg og lítt afgerandi. Var hún óskýr í svörum og bar því helst við að vegna harðneskjulegrar framgöngu lögreglumannsins sem annaðist skýrslutökuna hafi hún gefist upp og sagt það sem hann hefði viljað heyra. Ekki er fram komið að þessi staðhæfing ákærðu geti átt við rök að styðjast.  

                Svo sem fram er komið fóru skýrslutökur af ákærðu fram með aðstoð túlks, B. Kom meðal annars fram í vitnisburði hennar fyrir dómi framburður ákærðu hafi verið ritaður upp jafnóðum og svör fengust við þeim spurningum sem bornar voru fram. Vitnisburður þeirra tveggja lögreglumanna sem höfðu skýrslutökurnar með höndum, en gerð er grein fyrir honum í kafla III hér að framan, var afdráttarlaus um það að samkvæmt því sem fram hafi komið í endursögn túlks á framburði ákærðu hafi hún gengist við því að hafa haft kynferðismök við A af fúsum og frjálsum vilja og játað að hafa ranglega sakað hann um kynferðisbrot. Fær þessi vitnisburður þeirra ótvíræða stoð í vitnisburði B. Samkvæmt vitnisburði E og B liggur ekki annað fyrir en að ákærða hafi í sjálfstæðri frásögn, áður en henni var svo heitið geti kynntur framburður A, lýst kynferðislegum samskiptum þeirra sem átt hefðu sér stað með fullu samþykki hennar og fólust í byrjun í því að hún hafði við hann munnmök. Þá telst jafnframt nægilega í ljós leitt að lýsing ákærðu á þessum samskiptum þeirra var í öllum meginatriðum sambærileg þeirri lýsingu sem A gaf á þeim. 

                Með vísan til þess sem að framan er rakið telst fram komin nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakmála, um að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru. Samkvæmt því sem að framan segir er fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga til að refsa ákærða fyrir þessa háttsemi eftir íslenskum lögum. Hún varðar við 1. mgr. 148. gr. sömu laga og fólst í því að saka saklausan mann um verknað sem er refsiverður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., laganna.

V

                Ákærða er 26 ára og hefur ekki áður sætt refsingu. Hún er nú sakfelld fyrir að hafa ranglega sakað mann um alvarlegt kynferðisbrot. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga skal við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn ákvæðinu hafa hliðsjón af því hversu þung hegning er lögð við broti því sem sagt er gefið til kynna að viðkomandi hafi drýgt. Þá ber að líta til þess við refsiákvörðun að ákærða dró framburð sinn um að brotið hefði verið gegn henni til baka nokkrum klukkustundum eftir að kæra var lögð fram. Þá eru ekki efni til að líta svo á að þau refsihækkunarsjónarmið sem lýst er í 3. málslið 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga geti átt við í málinu.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Sá dráttur sem varð á útgáfu ákæru í málinu hefur ekki verið skýrður. Þá hefur ákærða ekki áður sætt refsingu. Er því rétt að binda refsinguna skilorði eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærðu gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem þykja hæfilega ákveðin 627.500 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Annar sakarkostnaður verður ekki felldur á ákærðu.

Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

                Ákærða, X, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Valdimarssonar héraðsdómslögmanns, 627.500 krónur.