Print

Mál nr. 524/2011

Lykilorð
  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Kröfugerð
  • Málsástæða

                                     

Fimmtudaginn 7. júní 2012.

Nr. 524/2011.

 

Þorsteinn Hafsteinsson og

Marsibil Baldursdóttir

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

 

Skuldabréf. Gengistrygging. Kröfugerð. Málsástæður.

Í hf. höfðaði mál gegn Þ og M til innheimtu eftirstöðva gjaldfallins skuldabréfs. Aðilar deildu um hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum og gengistryggt með ólögmætum hætti eða í erlendum myntum. Með vísan til heitis skuldabréfsins, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar og vaxta auk fyrirsagnar skilmálabreytingar var fallist á með Í hf. að lánið hefði verið í erlendum myntum. Ekki var ágreiningur milli aðila hvaða fjárhæð Þ og M yrði gert að greiða að fenginni þessari niðurstöðu og voru þau því dæmd til að greiða þá fjárhæð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. september 2011. Þau krefjast þess aðallega að þeim verði einungis gert að greiða stefnda 9.871.829 krónur, til vara 10.494.548 krónur en til þrautavara 11.298.110 krónur. Að þessu frágengnu krefjast þau lækkunar á kröfu stefnda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Skuldabréf það sem mál þetta snýst um var gefið út 4. janúar 2008 og lánsfjárhæðin greidd áfrýjendum 11. sama mánaðar í íslenskum krónum inn á tilgreindan reikning þeirra hjá Glitni banka hf. Afborganir af skuldabréfinu voru mánaðarlegar, 10. hvers mánaðar, í fyrsta skipti 10. febrúar 2008, og voru þær greiddar bankanum með skuldfærslu af öðrum tilgreindum reikningi áfrýjenda í íslenskum krónum. Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 7. október 2008 með stoð í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af þessu var stofnaður Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti stefnda, og er óumdeilt að kröfu samkvæmt skuldabréfinu var ráðstafað til hans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 15. október 2008. Skilmálabreyting var gerð á skuldabréfinu 28. október 2008 og gjalddögum þá fjölgað miðað við það sem upphaflega var samið um. Áfrýjendur stóðu í skilum með greiðslu afborgana og vaxta til 10. maí 2009. Greiðsla samkvæmt skuldabréfinu á gjalddaga þann dag var innt af hendi 9. júní 2009, en bréfið fór í vanskil á gjalddaga 10. sama mánaðar.

Í 10. gr. skuldabréfsins var svohljóðandi ákvæði: „Verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldabréfi þessu eða aðrar vanefndir er heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Lánveitanda er heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi Glitnis banka hf. á þeim myntum sem skuldin samanstendur af. Greiða ber dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð samkvæmt framanrituðu í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.“ Stefndi neytti þessarar heimildar 10. september 2009 og gjaldfelldi eftirstöðvar bréfsins vegna vanskila áfrýjenda. Til samræmis við gjaldfellingarheimildina uppreiknaði stefndi eftirstöðvar bréfsins á gjaldfellingardegi og námu þær ásamt vanskilum vegna tímabilsins frá 10. maí til 10. september 2009 samtals 21.857.518 krónum, sem var upphafleg fjárhæð dómkröfu stefnda. Málið var þingfest 3. mars 2010.

II

Í málinu byggja áfrýjendur á því að skuldabréfið sé fyrir gengistryggðu láni í íslenskum krónum og skuldbindingin því ólögmæt. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að lánið hafi frá öndverðu verið í erlendum myntum og sé gilt sem slíkt.

Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum er fyrst að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögn þess er: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.“ Í öðru lagi að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum yenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða tilgreindir Libor og Euribor vextir. Í fjórða lagi er til skilmálabreytingarinnar að líta, en fyrirsögn hennar er: „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum/mynteiningum“ og er jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum þar ekki getið. Þegar framangreind atriði eru virt verður lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum.

III

Í þinghaldi í héraði 1. mars 2011 lagði stefndi fram breytta kröfugerð. Lækkaði hann þar höfuðstól kröfu sinnar úr 21.857.518 krónum í 12.378.185 krónur og krafðist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011, þegar mánuður var liðinn frá því krafan var gerð. Hinn nýi höfuðstóll var þannig fundinn að jafnvirði lánsins í íslenskum krónum á útborgunardegi þess 11. janúar 2008, 10.169.532 krónur, var vaxtareiknað með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi og fram til 1. mars 2011. Sú fjárhæð nam 14.788.634 krónum. Frá henni voru síðan dregnar allar innborganir áfrýjenda á lánið og á þær reiknaðir sömu vextir til 1. mars 2011. Samtala innborgana þannig reiknaðra var 2.410.449 krónur og var hin nýja dómkrafa samkvæmt þessu 12.378.185 krónur. Eins og málflutningi stefnda er háttað þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort framangreind breyting kröfugerðar hans var umfram lagaskyldu, en í henni fólst ráðstöfun á sakarefninu, bæði hvað varðar höfuðstól og vexti, og er stefndi við þá ráðstöfun bundinn.

Við flutning málsins hér fyrir dómi lýstu áfrýjendur því yfir að kæmist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í málinu að um gilda lánveitingu í erlendri mynt væri að ræða, væri ekki gerður ágreiningur um fjárhæð endanlegrar dómkröfu stefnda. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að áfrýjendur greiði sameiginlega stefnda 12.378.185 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, en málsaðilar lýstu því yfir við flutning málsins hér fyrir rétti að þeir væru sammála um að greiðsluskylda áfrýjenda gagnvart stefnda væri sameiginleg.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Þorsteinn Hafsteinsson og Marsibil Baldursdóttir, greiði sameiginlega stefnda, Íslandsbanka hf., 12.378.185 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2011 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðs­dóms Suður­lands 24. júní 2011.

Mál þetta, sem þingfest var þann 3. mars 2010 og dómtekið þann 29. apríl sl., er höfðað af Íslandsbanka hf. kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu birtri þann 26. janúar 2010 á hendur Þorsteini Hafsteinssyni, kt. 060850-3489, og með stefnu birtri þann sama dag á hendur Marsibil Baldursdóttur, kt. 310852-2959, báðum til heimilis að Grashóli, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Dómkröfur

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu Þorsteinn og Marsibil verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 12.378.185, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá að því að mánuður er liðinn frá því að krafa þessi er sett fram, til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær að stefnanda verði gert að endurreikna skuldabréfið þannig að vextir verði jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru skv. 10. gr. laga nr. 38/2001 með þeim hætti að endurútreikningur gildi frá dómsuppsögu en ekki frá útborgunardegi.

Til vara gera stefndu þær kröfur að stefnanda verði gert að endurreikna skuldabréfið þannig að vextir verði jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru skv. 10. gr. laga nr. 38/2001 með þeim hætti að endurútreikningur gildi frá síðustu útgefnu greiðslukvittun en ekki frá útborgunardegi.

Til þrautavara gera stefndu þær kröfur að stefnanda verði gert að endurreikna skuldabréfið þannig að vextir verði jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru skv. 10. gr. laga nr. 38/2001 með þeim hætti að endurútreikningur gildi frá yfirtökudegi stefnanda á kröfunni.

Til þrautaþrautavara krefjast stefndu verulegrar lækkunar á stefnufjárhæðum.

Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins að teknu tilliti til vinnu málflytjenda og annars kostnaðar af málinu samkvæmt málskostnaðaryfirliti. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist á málskostnaðarkröfu í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991 og leggist við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti.

Málsatvik

Í stefnu er málavöxtum lýst svo að skuldin sé samkvæmt erlendu skuldabréfi, útgefnu þann 4. janúar 2008, af Þorsteini Hafsteinssyni og Marsibil Baldursdóttur, til Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., að fjárhæð CHF 60.901,- svissneskir frankar, JPY, 6.245.273,- japönsk yen og EUR 36.751,- evrur, að jafnvirði kr. 10.200.000,-.

Þá hafi, samkvæmt 3. gr. skuldabréfsins, borið að greiða LIBOR-vexti af lánshlutum í svissneskum frönkum og japönskum yenum, en það séu vextir á millibankamarkaði í London eins og þeir eru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í London á BBA síðu Reuters. Fyrsta vaxtatímabilið hafi borið að greiða LIBOR CHF 2,66 og LIBOR JPY 0,80125. Af lánshlutum í evrum hafi borið að greiða EURIBOR-vexti, en það séu millibankavextir í aðildarríkjum evrópska myntbandalagsins, eins og þeir eru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í Brüssel á EURIBOR01 síðu Reuter. Fyrsta vaxtatímabilið hafi borið að greiða EURIBOR 4,492. Fast vaxtaálag á allar myntirnar hafi verið 4, og vegnir meðalvextir verið 6,632585%.

Skuldabréfið hafi borið að greiða með 240 afborgunum með eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 10. febrúar 2008.

Þann 28. október 2008 hafi skilmálum skuldabréfsins verið breytt á þann hátt að eftirstöðvar lánsins, CHF 58.615, JPY 6.011.075 og EUR 35.374, skyldu endurgreiðast með 231 afborgun á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn 10. maí 2009, þá skyldi greiða vexti af höfuðstól, á sérstökum vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 10. nóvember 2008. Vextir skyldu reiknast frá 10. október 2008.

Skilmálar skuldabréfsins kveði svo á að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldabréfinu eða aðrar vanefndir, sé lánveitanda heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Ennfremur sé lánveitanda heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim myntum sem skuldin samanstandi af. Einnig sé kveðið á um að greiða beri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

Kveður stefnandi skuldabréfið vera í vanskilum. Þann 10. september 2009 hafi skuldabréfið verið gjaldfellt og sent í lögfræðiinnheimtu og eftirstöðvar þess uppreiknaðar í samræmi við skilmála bréfsins, vegna vanskila. Uppreiknaðar eftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu, ásamt vanskilum við gjaldfellingu séu samtals kr. 21.857.518,00, sem var upphafleg stefnufjárhæð málsins.

Í bókun stefnanda er lögð var fram við fyrirtöku málsins þann 1. mars 2011 er því lýst að með lögum nr. 151/2010 hafi stefnanda verið gert skylt að endurreikna húsnæðislán til neytenda, þ.m.t. lán stefndu sem um er deilt í þessu máli.

Í þinghaldi 29. apríl 2011 var lagður fram útreikningur lánsins miðað við mismunandi forsendur og voru aðilar sammála um þann útreikning.  Er ekki uppi tölulegur ágreiningur í málinu og eru aðilar sammála um að kröfur séu rétt reiknaðar miðað við gefnar forsendur.  Þannig sé höfuðstóll bréfsins samsvarandi endanlegri kröfufjárhæð stefnanda miðað við að vextir séu endurreiknaðir allt frá útborgunardegi lánsins.  Sé lánið endurreiknað á þann hátt að samningsvextir verði látnir haldast til dómsuppsögu en endurreiknaðir eftir það, þá eru aðilar sammála um að nýr höfuðstóll sé kr. 9.871.829 miðað við 29. apríl 2011.  Sé lánið endurreiknað á þann hátt að samningsvextir verði látnir haldast til gjalddaga 10. júní 2009, en endurreiknaðir eftir það, þá eru aðilar sammála um að nýr höfuðstóll sé kr. 10.494.548 miðað við 29. apríl 2011.  Sé lánið endurreiknað á þann hátt að samningsvextir verði látnir haldast til október gjalddaga 2008 miðað við framsal kröfunnar til stefnanda 15. október 2008 en vextir endurreiknaðir eftir það frá nóvember gjalddaga 2008, þá eru aðilar sammála um að nýr höfuðstóll sé kr. 11.298.110 miðað við 29. apríl 2011.  Miðast þessi endurútreikningur við kröfur og varakröfur stefndu.

Hafa stefndu engu við málsatvikalýsingu stefnanda að bæta.                

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í stefnu er lýst hvernig upphafleg stefnufjárhæð málsins var fundinn, en þar sem kröfugerð stefnanda var breytt með bókun sem, líkt og áður greinir, lögð var fram við fyrirtöku málsins þann 1. mars. sl. og fallið var frá upphaflegri kröfu stefnanda í þinghaldi þann 29. apríl sl., er ekki þörf á nánari tilgreiningu málsástæðna hvað varðar upphaflega kröfugerð stefnanda.  

Í áðurnefndri bókun stefnanda kemur fram að lán stefndu hafi verið endurreiknað skv. ákvæði X. til bráðabirgða, sbr. 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010. Endurreiknaður höfuðstóll lánsins sé þannig fundinn af upphaflegur höfuðstóll lánsins, þ.e. andvirði lánsins í íslenskum krónum á útborgunardegi þess þann 11. janúar 2008, kr. 10.169.532 er vaxtareiknað með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands skv. 1. mgr. 4. gr. vaxtalaga frá útborgunardegi til dagsins í dag. Þannig sé upphafleg fjárhæð með vöxtum kr. 14.788.634. Á sama hátt séu allar greiðslu hverju nafni sem þær nefnast, sem stefndu hafa greitt inn á lánið, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til dagsins í dag. Þannig séu greiðslu með vöxtum kr. 2.410.449. Þær greiðslur séu síðan dregnar frá upphaflegri fjárhæð með vöxtum og niðurstaðan verði nýr höfuðstóll lánsins kr. 12.378.185.

Þá kemur fram í stefnu að allar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hafi reynst árangurslausar. Stefnandi byggi kröfu sína um greiðslu skuldabréfsins á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Dráttarvaxtakröfu byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkröfu styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reisir stefnandi á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni en skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 sé stefnandi ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefndu

Í upphaflegri kröfugerð stefndu er aðallega krafist sýknu, til vara greiðslu jafnvirðis kr. 10.200.000 í hinum erlendu myntum og til þrautavara verulegrar lækkunar á stefnufjárhæðum. Í þinghaldi þann 29. apríl sl. féllu stefndu frá sýknukröfu sinni og endanlegar kröfur þeirra séu þær er lagðar voru fram í bókun þann 1. apríl sl. Eru ekki efni til að rekja málsástæður er varða kröfur stefndu er fallið hefur verið frá í máli þessu. Þá eru ekki efni til að rekja málsástæður stefndu hvað varðar vexti samkvæmt skuldabréfi aðila, þar sem ekki er deilt um það í máli þessu hvaða vexti skuli nota, heldur einvörðungu frá hvaða tímamarki beri að miða við í endurútreikningi vaxta.

Í bókun stefndu sem lögð var fram við fyrirtöku málsins þann 1. apríl sl. kemur fram að endanleg krafa stefndu taki mið af lagabreytingu þeirri er stefnandi byggir endanlega kröfugerð sína á, þ.e. þær breytingar sem felist í gildistöku laga nr. 151/2010.  Kveða stefndu að stefnandi hafi í verki og með bókun sinni frá 1. mars 2011 viðurkennt að samningurinn eigi undir umrædda lagabreytingu.

Kveða stefndu að samkvæmt þeim útreikningi sem stefnandi hafi lagt fram í málinu, sbr. dskj. nr. 21, sé við það miðað að í stað gengistryggingar og umsaminna vaxta, skuli reikna vexti skv. 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, frá lántökudegi og bæta þannig við mikilli hækkun á eftirstöðvar lánasamninganna, þar sem þeir vextir sem nefnd lög áskilja, hafi verið um margra missera skeið á bilinu 15-16% á ári og farið hæst í 21% yfir tiltekin tímabil. Þannig reiknist í raun vanskil frá hverjum mánaðarmótum, allt fram til þess dags er lánið var endurútreiknað. Með þessu telja stefndu í raun um óréttmæta auðgun stefnanda að ræða, enda sé hann að innheimta margfalda þá vexti sem um var samið.

Þá kveða stefndu að lánþegum stefnanda sé ætlað að koma að staðfesta nýjan höfuðstól lánsins með sérstakri  áritun og vali á vöxtum til framtíðar, sem þá gefi stefnanda heimild til að innheimta nýja stöðu lánsins, sem fengin sé með framangreindum hætti. Við þetta geti stefndu alls ekki sætt sig. Telja stefndu að, komi til álita að breyta hinum umsömdu vöxtum skuldabréfsins, skuli sú breyting miðast við dómsuppkvaðningu eða, ef ekki verði á það fallist, alls ekki fyrra tímamark en sem nemur síðustu útgefnu greiðslukvittun vegna bréfsins. Ekki komi til greina að raska með afturvirkum hætti uppgerðum tímabilum lánasamningsins, sem gerð hafa verið upp með greiðslu greiðsluseðla og útgáfu fullnaðarkvittunar fyrir þau tímabil. Þá gera stefndu einnig athugasemdir varðandi rétt stefnanda til mögulegra vaxtabreytinga að því er varðar tímabilið áður en stefnandi hafi eignast kröfuna.

Byggja stefndu á því að lög nr. 151/2010 mæli hvergi fyrir um heimild lánveitanda til að krefjast eða innheimta aðra og frekari vexti fyrir liðna tíð en greiddir hafa verið, jafnvel þó lögin heimili endurútreikning lána í samræmi við ákvæði vaxtalaga. Þar að auki sé það einungis mælt fyrir um rétt lánþega til að endurkrefja um ofgreitt fé, en ekkert sé þar mælt fyrir um rétt lánveitanda til að innheimta eða krefjast annarra og hærri vaxta fyrir liðna tíð. Telja stefndu því að gagnálykta beri frá þeim ákvæðum laganna.

Byggja stefndu ennfremur á því að, verði talið að lög nr. 151/2010 heimili lánveitendum að krefjast og innheimta hærri vexti fyrir liðna og uppgerða tíð en samningar kváðu á um, verði lögin talin andstæð 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Í því væri fólgið brot á stjórnarskrárvörðum eignaréttindum lánþega og raunir telji stefndu að slíkri niðurstöðu mætti jafna til afturvirkrar skattlagningar sem einnig sé andstæð stjórnarskránni, sbr. 40 og 77. gr. hennar.  Í því sambandi benda stefndu á að þegnar landsins verði í sjálfu sér fyrir jafn miklu tjóni, hvort heldur sem heimiluð sé afturvirk gjaldtaka í þágu opinberra aðila eða fjármálakerfisins, niðurstaðan gagnvart neytendum sé sú sama.

Þá vísa stefndu til þess að lán til einstaklinga séu ótvírætt neytendasamningar í skilningi 36. gr. a. laga nr. 7/1936. Því eigi að beita neytendasjónarmiðum um úrlausn ágreinings í máli þessu, m.a. um vexti enda séu stefndu ótvírætt neytendur, í skilningi laganna, í samningssambandi aðila.  Um þetta vísa stefndu jafnframt til tilskipunar ESB 93/13.

Aðalkröfu sína byggir stefnandi á því að rétt sé að miða þær breytingar á vaxtakjörum skuldabréfsins við dómsuppsögu (ex nunc), en ekki útgáfudag skuldabréfsins (ex tunc), enda geti stefnandi þá sent sóknaraðila tilkynningu um fyrirhugaða hækkun vaxtaálags og tilgreint ástæður þess, sbr. ákvæði 6. gr. skuldabréfsins. Í kjölfarið eigi stefndu val um það hvort þau uni slíkri breytingu, eða vilji losna undan samningnum innan 30 daga með uppgreiðslu, eins og framangreint ákvæði skuldabréfsins geri ráð fyrir.

Hvað varakröfu stefndu varðar kveða stefndu fyrir liggja í málinu að þau hafi greitt stefnanda sem og forvera hans, það sem þeim bar á hverjum tíma og hafi þau fengið gefna út fyrirvaralausa kvittun vegna þeirra greiðslna. Telja þau dóm Hæstaréttar í máli dómsins nr. 471/2010 hafa það í för með sér að ekkert mark sé takandi á slíkum fyrirvaralausum fullnaðarkvittunum, enda sé stefnanda nú kleift að krefja stefndu um vangoldnar viðbótargreiðslur frá samningsdegi. Leiði þetta til þess að kvittanir, sem skilríki fyrir fullnaðargreiðslu á umsömdum gjalddaga hafi ekki lengur raunhæft gildi og geti lántakendur framvegis ekki verið öruggir um að þær greiðslur sem þeir verði krafðir um muni standast, þrátt fyrir það hafi verið lánveitandinn, í þessu tilviki fjármálafyrirtæki sem starfar samkvæmt opinberu leyfi, sem samið hafi lánasamning þann er andstæður var talin landslögum. Þar að auki telja stefndu að slík niðurstaða stríði gegn öllum helstu meginreglum samninga- og kröfuréttar og leiði til fullkominnar óvissu og vantrausts gagnvart fjármálastofnunum um alla framtíð. Telja stefndu ótvírætt að þetta myndi leiða til þess að lánþegar, sem og aðrir þeir sem greiða af kröfum skv. útsendum greiðsluseðlum fjármálafyrirtækja, þyrfti hér eftir að kalla eftir sérstakri áritaðri yfirlýsingu frá viðkomandi kröfuhafa, þess efnis að með greiðslu fram kominnar kröfu, sé efndaskyldan að fullu og öllu fallin niður, ella gætu þeir átt á hættu að fá síðar frekar fjárkröfu og bakreikninga allt að fjögur ár aftur í tímann.

Stefndu vísa einnig til tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf, einkum 2. og 3. gr. Telja stefndu að þar sem kvittað hafi verið fyrir greiðslu vaxta af hinu umþrætta skuldabréfi á þeim tíma sem greitt var af því, geti stefnandi ekki krafist annarra og frekari vaxta vegna þess tímabils. Vísa stefndu einnig til 3. mgr. 20. gr. laga nr. 131/1997.

Byggja stefndu á því að stefnandi sé bundinn af réttaráhrifum útgáfu fyrirvaralausra kvittana, er hann hefur gefið út fyrir greidda gjalddaga skuldabréfsins. Stefndu hafi greitt á gjalddögum skuldabréfsins og fengið útgefnar greiðslukvittanir vegna þeirra greiðslna.  Hafi umræddar kvittanir verið gefnar út án athugasemda eða fyrirvara af hálfu stefnanda og forvera hans. Sé það grundvallarregla kröfuréttar að slík fyrirvaralaus kvittun leiði til þess að lánveitandi geti ekki síðar krafist annarra og frekari greiðslna vegna þess tímabils sem hver kvittun tekur til. Byggja stefndu ennfremur á því að krafa falli almennt niður við greiðslu. Greiðsla leiði aðeins til brottfalls skyldu lánþega, að hún sé í samræmi við skylduna, þ.e. að innt sé að hendi sú greiðsla sem greiða átti, hún greidd á þeim stað og tíma sem bar og hún sé greidd til kröfuhafa sjálfs eða þess sem bær er að taka við greiðslunni fyrir hans hönd. Kveða stefndu öll þessi skilyrði vera til staðar.  Kröfuhafa sé óheimilt að krefja skuldara um frekari greiðslu hafi hann ekki gert fyrirvara við greiðslukvittun.  Þar sem enginn slíkur fyrirvari hafi verið gerður sé stefnanda óheimilt að krefjast frekari og aukinna greiðslna vegna greiðslutímabils aftur í tímann. Vísa stefndu einnig til dómaframkvæmdar þessu til stuðnings auk 35. gr. laga nr. nr. 7/1936.

Þrautavarakröfu sína byggja stefndu á 81. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, en þar segi að kaup á kröfu sem vexti nái til áfallinna vexta, sem ekki séu gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Telja stefndu að af þessu leiði að stefnandi geti ekki átt rétt til vaxta fyrir það tímabil lánasamningsins sem liðið var er hann tók við kröfunni, í október 2008.

Niðurstaða

Í máli þessu er ekki deilt um greiðsluskyldu.  Deiluefnið snýst aðeins um það á hvaða hátt, eða raunar frá hvaða tímamarki, beri að endurreikna vexti skuldabréfs þess sem stefndu gáfu út til stefnanda þann 4. janúar 2008.  Er ekki uppi tölulegur ágreiningur í málinu og eru aðilar sammála um að kröfur stefnanda séu rétt reiknaðar miðað við gefnar forsendur, en jafnframt er ekki tölulegur ágreiningur vegna krafna og varakrafna stefndu.

Stefnandi hefur endurreiknað lánið og lýst því yfir að með lögum nr. 151/2010 hafi sér verið gert skylt að endurreikna lánið samkvæmt ákvæðum þeirra laga.  Eru aðilar sammála um að lánið falli undir bráðabirgðaákvæði X í a lið 2. gr. laga nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og beri því að endurreikna til samræmis við þau lög.  Þarf því ekki að taka afstöðu til þess og fjalla um það hvort lánið hafi verið erlent lán eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.

Er þannig ljóst að endurreikna ber umrætt skuldabréf til samræmis við ákvæði umrædds ákvæðis 1. gr. laga nr. 151/2010 sem breyttu 18. gr. laga nr. 38/2001.

Í bráðabirgðaákvæði X í a lið 2. gr. laga nr. 151/2010 segir að „hafi húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum er hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fer um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna.“  Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og henni var breytt með lögum nr. 151/2010, segir að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við. Hið sama á við ef samningur kveður á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja er ógilt, og skulu þá bæði ákvæði samningsins um vexti og verðtryggingu fara eftir því sem kveðið er á um í 4. gr. og því sem greinir nánar í þessari grein“, en í 1. ml. 4. gr. laganna segir að „þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.“.

Í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 segir að vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 18. gr. skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema um annað verði samið.

Hafi skuldari ofgreitt þá mælir 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 fyrir um það þá skuli kröfuhafinn endurgreiða þá fjárhæð sem hann hafi ranglega innheimt hjá skuldara vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar.  Þegar endurgreiðslan sé ákvörðuð eða staða skuldarinnar reiknuð út skuli vaxtareikna upphaflegan höfuðstóll viðkomandi skuldar samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 18. gr. laganna.  Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skuli svo  draga þær fjárhæðir sem greiddar hafi verið allt til uppgjörsdags í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag.  Niðurstaða þess útreiknings skuli mynda eftirstöðvar skuldarinnar og skuli þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiði af ákvæðum 18. gr. laganna.

Í 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 eru ákvæði um hvernig skuli fara um uppgjör þegar aðilaskipti hafa orðið skuldaramegin.  Segir í a lið málsgreinarinnar að um greiðsluuppgjör skuli fara þannig að reikna skuli mismun allra þeirra greiðslna sem skuldari hafi innt af hendi og þess sem hefði átt að greiða miðað við vexti skv. 4. gr. laganna og aðra skilmála lánssamningsins.  Svo segir að ef ekki hafi orðið aðilaskipti skuldaramegin þá skuli mismunur greiðslna færður á höfuðstól láns eða dreginn frá honum samkvæmt öðrum ákvæðum greinarinnar.  Í framangreindum reglum 18. gr. laga nr. 38/2001 er enginn greinarmunur gerður á greiðslum sem hafa verið réttilega greiddar á fyrri gjalddögum og greiðslum sem hafa lent í vanskilum, hvað varðar endurútreikning vaxta.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010, sem upp var kveðinn 16. september 2010, reyndi á það hvort samningsvextir skyldu standa óbreyttir eftir að gengistrygging skuldar hefði verið dæmd ólögmæt.  Um þetta sagði m.a. í dómi Hæstaréttar: „Þegar virt er að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna er ógilt og bein og órjúfanleg tengsl eru samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti er hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda liggur fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.“  Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 var vitnað beint til þessara orða Hæstaréttar.  Í athugasemdum við 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins, sem varð að 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, var gert ráð fyrir því að í lögunum yrði endurspegluð sú staðreynd að órjúfanleg tengsl væru á milli ákvæða um verðtryggingu og samninga um vexti af fjárskuldbindingu.  Síðan sagði í greinargerðinni:   „Af því leiðir að ef annaðhvort ákvæði samninga um vexti eða eða [sic.] verðtryggingu (eða hvorutveggja) eru ógildanleg á grundvelli laganna verði að koma til heildarendurskoðunar í samræmi við ákvæðin í 4. gr. laganna, þ.e. að litið er þá [sic.] aðstöðu eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Er þessi regla í fullu samræmi við þá niðurstöðu sem komist var að í dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010. Þykir hér eftir rétt að sú regla sé skýrð í lögum og öllum ljós.“

Stefndu hafa bent á að verði skilningur stefnanda ofan á þá reiknist í raun vanskil frá hverjum mánaðamótum allt til þess dags að lánið var endurútreiknað.  Á þetta getur dómurinn ekki fallist.  Ekki er um að ræða vanskil í hefðbundnum skilningi þess hugtaks, enda segir m.a. um þetta í frumvarpi að lögum nr. 151/2010:  „Kröfuhafa er óheimilt að reikna dráttarvexti á það sem vangreitt kann að vera enda er ljóst að í öllum þorra tilvika hefur ekki verið höfð uppi lögmæt greiðslukrafa og skuldari ekki haft forsendur til að reikna út afborganir og vexti miðað við það sem rétt er. Rétt þykir jafnframt á grundvelli sömu sjónarmiða að þar sem krafist hefur verið vanskilaálaga skuli greiðsla á þeim teljast innborgun á höfuðstól og vexti hinnar nýútreiknuðu skuldbindingar. Kröfuhafa er jafnframt óheimilt við uppgjör á grundvelli þessarar greinar að bæta við kröfuna liðum sem tengjast vanskilum, svo sem ítrekun og vanskila- og innheimtugjöldum.“  Er því ljóst að þeir gjalddagar sem áður voru réttilega greiddir teljast ekki hafa verið í vanskilum í hefðbundnum kröfuréttarlegum skilningi, enda ljóst að þó einhverjir gjalddagar teljist, á grundvelli laga nr. 151/2010, ekki hafa verið að fullu greiddir, þá færir það kröfuhafa ekki hefðbundin vanefndaúrræði s.s. heimildir til að krefjast vanskila- og innheimtugjalda. 

Stefndu telja að um óréttmæta auðgun stefnanda verði að ræða verði fallist á kröfur hans í málinu.  Á þetta fellst dómurinn ekki.  Um er að ræða endurútreikning sem ekki verður undan komist samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 151/2010, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010, þar sem lýst er hinum órjúfanlegu tengslum verðtryggingar og vaxta.  Ekki er um að ræða samningsatriði milli kröfuhafa og skuldara, heldur mæla ákvæði laga fyrir um endurútreikninginn.  Í ákvæði 4. gr. laga nr. 38/2001 er vísað til lægstu vaxta á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum og geta þeir vextir sveiflast til, ýmist til hækkunar eða lækkunar.  Óhjákvæmilegt er hinsvegar að meta sem eina heild þá breytingu sem verður á samningi aðila, með því að hin ólögmæta gengistrygging fellur brott og vextirnir breytast um leið.  Þegar það er vegið saman hefur ekki verið sýnt fram á óeðlilega auðgun hjá stefnanda, en ekki þykir fært að líta aðeins á vaxtastigið yfir afmarkað tímabil við mat á því.

Stefndu bera fyrir sig að þau hafi greitt af láninu á gjalddögum og fengið útgefnar fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra afborgana.  Ekki komi til greina að raska á afturvirkan hátt uppgerðum gjalddögum.  Vísa stefndu í þessu efni m.a. til tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um árituna afborgana á skuldabréf.  Vissulega er það almennt svo að fyrirvaralaus kvittun um greiðslu girðir fyrir það að kröfuhafi geti síðar krafist frekari greiðslna fyrir greidda gjalddaga.  Má um þetta vísa m.a. til nefndrar tilskipunar.  Í máli þessu hagar hins vegar svo til að ekki er um það að ræða að kröfuhafi hafi tekið það upp hjá sjálfum sér samkvæmt eigin mati að krefjast frekari greiðslu, heldur byggir krafa stefnanda á því að Alþingi setti lög sem breyttu efnislega samningi milli aðilanna, bæði hvað varðar verðtryggingu og vexti.  Verður að telja að það gangi framar hinni almennu reglu kröfuréttarins um gildi fyrirvaralausra kvittana.  Hins vegar haldi kvittanirnar gildi sínu, bæði gagnvart lánveitanda og þeim sem síðar kann að eignast kröfuna, samkvæmt m.a. ákvæðum nefndrar Tilskipunar frá 9. febrúar 1798, að því leyti að kröfuhafa er óheimilt að beita hefðbundnum vanefndaúrræðum um það sem vangreitt kann að hafa verið, s.s. að krefjast vanskila- og innheimtugjalda.  Fellst því dómurinn ekki á það að hinar fyrirvaralausu kvittanir um greidda gjalddaga séu að engu hafðar.  Gegnir sama máli um lokafærslu verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa, en stefndu hafa vísað til nefnds ákvæðis.  Þá hafa stefndu vísað til 35. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Dómurinn telur að það ákvæði eigi hér ekki við, enda engum þriðjamanni fyrir að fara, en ákvæðið fjallar efni sínu samkvæmt um þá stöðu sem upp kemur ef skuldari hefur greitt manni sem ekki hafði umboð til að taka við greiðslunni, en var þó með kvittun undirritaða af kröfueigandanum.  Er rétt að geta þess jafnframt að um afturvirkni laga í þessu sambandi var nokkuð fjallað í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010.  Sagði þar m.a. „Rétt er að benda á að á fjórða áratug síðustu aldar reyndi víða á sambærileg grundvallaratriði fyrir æðstu dómstólum þegar löggjafinn hafði í alvarlegri kreppu stillt verðlagsviðmið með löggjöf og í þeim tilvikum sem löggjafinn gerði það ekki kom það í hlut dómstóla að niðurfæra samninga á grundvelli heimilda í samninga- og kröfurétti. Í dómi hæstaréttar Noregs, sbr. Rt. 1962, bls. 369, reyndi t.d. á inngrip löggjafans af þessu tagi og valdbærni hans var staðfest. Þá var í dómi Hæstaréttar í máli 5/1953 (1954, bls. 73) staðfest sú niðurstaða bæjarþings Reykjavíkur að afturvirk lagasetning væri réttlætanleg þar sem lögin væru þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar og koma því í fastari skorður.“  Má að nokkru líkja þessu við það ástand sem varð í efnahagsmálum á Íslandi í kjölfar svokallaðs bankahruns haustið 2008. 

Stefndu hafa vísað til þess að í lögum nr. 151/2010 sé því hvergi lýst að kröfuhafa sé heimilt að krefjast eða innheimta frekari vexti fyrir liðna tíð en greiddir hafa verið.  Þá sé aðeins mælt fyrir um rétt skuldara til að krefjast endurgreiðslu á því sem ofgreitt hafi verið en frá því megi gagnálykta um að kröfuhafi geti ekki krafist vaxta fyrir liðinn tíma.  Dómurinn fellst ekki á þetta.  Það er mat dómsins að í þeim ákvæðum sem mæla fyrir um endurgreiðslu til handa skuldara felist meginregla um órjúfanleg tengsl milli verðtryggingar og vaxta, sem hljóti að fylgjast að.

Stefndu hafa vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar og telja það vera í andstöðu við hana ef lög nr. 151/2010 verði talin mæla fyrir um eða heimila að krefjast vaxta fyrir liðna og uppgerða tíð.  Þetta fellst dómurinn ekki á.  Ekki er um það að ræða að eignarréttur stefndu sé skertur að neinu leyti eða að þeim sé gert skylt að láta af hendi eign sína.  Um er að ræða kröfuréttarsamband sem hefur breyst efnislega fyrir tilstilli löggjafans, en það felur ekki í sér brot á stjórnarskrárvörðum eignarréttindum lánþega.  Þá ber að geta þess að í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 var vikið að þessu með þessum orðum:  Bærni löggjafans til að ákveða fyrirkomulag vaxta og verðtryggingar eins og gert er í lögum nr. 38/2001 og mótar virði peningakrafna fellur almennt ekki undir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar.“  Fellst dómurinn á þessi sjónarmið löggjafans.  Þá hafa stefndu viljað vísa til 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og telja að ef lög nr. 151/2010 verði skýrð á þann veg sem stefnandi byggir á, þá megi jafna því til afturvirkrar skattlagningar.  Dómurinn skilur þetta svo að hér sé þess freistað að beita lögjöfnun.  Á það getur dómurinn alls ekki fallist, bæði vegna þess að tilvikin eru alls ólík, þ.e. annars vegar peningakrafa samkvæmt skuldabréfi og hins vegar skattar, en jafnframt vegna þess að ekki verður talið að það álitaefni sem tekist er á um í máli þessu sé ólögákveðið, en það er skilyrði þess að lögjöfnun verði beitt.  Þessu til viðbótar byggja stefndu á því að þau séu neytendur, en gagnvart skattgreiðslum og skattálagningu hafa menn ekki stöðu neytenda.

Stefndu hafa vísað til 36. gr. a samningalaga nr. 7/1936 og vilja beita neytendasjónarmiðum um úrlausn ágreiningsins í málinu.  Um þetta er það að segja að 36. gr. a laga nr. 7/1936 hefur að geyma almenna reglu sem getur ekki gengið framar þröngum sérreglum í lögum nr. 151/2010, sem eru aukinheldur yngri en nefnd 36. gr. a.  Ekki er um að ræða eiginlega samningsskilmála sem samdir eru af öðrum hvorum samningsaðilanum, heldur reglu sem sett er af löggjafanum.  Í þessu samhengi hafa stefndu jafnframt vísað til tilskipunar ESB nr. 93/13, án þess að vísa til tiltekinna ákvæða í tilskipuninni.  Um þetta er hins vegar það að segja, líkt og um 36. gr. a laga nr. 7/1936, að ekki er um að ræða eiginlega samningsskilmála, heldur fyrirmæli laga sem hafa áhrif á efni kröfuréttarsambands milli aðila.  Verður því ekki litið svo á að um sé að ræða eiginlega samningsskilmála sem umrædd ákvæði taki til.     

Stefndu hafa vísað til 81. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 þrautavarakröfu sinni til stuðnings.  Í ákvæðinu er fjallað um kaup á kröfu og kveðið á um það að kaupin nái jafnframt til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma.  Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi keypt umrædda kröfu.  Þvert á móti er upplýst að með stjórnvaldsákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, var eignum Glitnis banka hf. ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sem breytti síðar um nafn og varð Íslandsbanki hf.  Ekki verður þannig séð að ákvæði þetta eigi við í málinu. 

Í málflutningi vék lögmaður stefndu að 32. gr. samningalaga nr. 7/1936, en í greinargerð stefndu var almennt vísað til ákvæða samningalaga.  Dómurinn álítur ákvæði 32. gr. laga nr. 7/1936 ekki eiga við í málinu, enda bæði um það að ræða að efni umrædds löggernings eða kröfuréttarsambands hefur verið ákvarðað með almennum lögum frá Alþingi og geta slík ákvæði ekki vikið fyrir 32. gr. laga nr. 7/1936, en jafnframt telur dómurinn ákvæðið eiga við um önnur atvik en þau sem uppi eru í máli þessu.

Ekki er unnt að mati dómsins að líta með öllu framhjá ákvæðum bréfsins um vexti án þess að það verði gert frá útborgunardegi, en ella væri ekki með öllu litið fram hjá ákvæðum bréfsins um vexti, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010.  Er ófært að afnám gengistryggingarinnar og samningsvaxtanna miðist ekki við sama tímamark, vegna þeirra beinu og órjúfanlegu tengsla sem þar eru á milli, að annað er forsenda hins.  Þá er ómögulegt að vaxtareikna upphaflegan höfuðstól án þess að það sé gert frá útborgunardegi, en ef endurútreikningur vaxta væri látinn miðast við annað og síðara tímamark væri ekki fylgt þeirri reglu að vaxtareikna hinn upphaflega höfuðstól.

Í ákvæðum laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, er hvergi tekið fram sérstaklega að endurreikna skuli gjalddaga sem þegar hafa verið greiddir, þannig að þeir  gjalddagar beri hærri vexti en um var samið í upphafi, þrátt fyrir að þeir gjalddagar hafi óumdeilanlega verið réttilega greiddir á þeim tíma og fyrir því hafi skuldari fyrirvaralausa kvittun frá kröfuhafanum eða lánveitanda.  Þegar hins vegar er litið til framangreinds dóms Hæstaréttar og frumvarps þess sem varð að lögum nr. 151/2010 og sýnir ljóslega vilja löggjafans í þessu efni, verða ákvæði 1. mgr., 3. mgr., 5. mgr. og 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 eins og 18. gr. laga nr. 38/2001 var breytt með ákvæðum laga nr. 151/2010, ekki skýrð á annan veg en þann að svo órjúfanleg tengsl séu annars vegar á milli verðtryggingar þess skuldabréfs sem mál þetta snýst um, og hefur nú verið afnumin allt frá útborgunardegi lánsins samkvæmt ákvæðum bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 151/2010, og aðilar málsins eru sammála um, og hins vegar þeirra samningsvaxta sem bréfið gerði upphaflega ráð fyrir, að óhjákvæmilegt sé að líta framhjá þeim vöxtum með öllu og endurreikna bréfið allt frá útborgunardegi þess.  Þá er þess að geta að með því að aðilar deila ekki um réttmæti þess að gjaldfella bréfið verður að líta svo á að um sé að ræða eina peningakröfu sem hafi stofnast við útgáfu umrædds skuldabréfs, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. 

Samkvæmt öllu framansögðu ber að endurreikna bréfið með vöxtum skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 allt frá upphafi, í samræmi við kröfur stefnanda.  Er ekki ágreiningur með aðilum um að þessi skilningur leiði til þess að krafa stefnanda sé rétt reiknuð og ber því að fallast á kröfu stefnanda í málinu.  Í kröfugerð stefnanda er ekki gerð krafa um að ábyrgð stefndu verði dæmd in solidum eða pro rata og verður því engin afstaða tekin til þess.

Með því að fallist hefur verið á endanlega kröfu stefnanda í málinu að fullu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og þykir hann hæfilega ákveðinn kr. 600.000 án virðisaukaskatts.  Með vísun til 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndu að greiða málskostnaðinn in solidum.

Dómsuppsaga í málinu hefur dregist fram yfir 4 vikur frá því málið var dómtekið.  Dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf á endurflutningi, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Dóminn kvað upp Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Þorsteinn Hafsteinsson og Marsibil Baldursdóttir, greiði stefnanda,  Íslandsbanka hf., kr. 12.378.185, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda in solidum kr. 600.000 í málskostnað.