Print

Mál nr. 156/2016

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Hörður Felix Harðarson hrl.), Y (Gestur Jónsson hrl.) og Z (Kristín Edwald hrl.)
Lykilorð
  • Lögregla
  • Rannsókn
  • Ákæra
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

X og Y voru ákærðir fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga með nánar tilgreindum hætti. Þá var Z ákærður fyrir hlutdeild í flestum þeirra brota sem X og Y voru ákærðir fyrir. Voru þeir sýknaðir af ákæru í héraði. Eftir að héraðsdómur gekk komu fram upplýsingar um að samkomulag hefði verið gert milli A ehf. og C AG er varðaði uppgjör vegna tiltekinna viðskipta sem þau lán sem ákært var fyrir höfðu verið veitt til. Í samkomulaginu og fylgiskjölum þess kom fram að annað samkomulag efnislega samhljóða hefði verið gert milli C AG annars vegar og D Ltd. og E S.A. hins vegar. Tilgangur samkomulaganna hefði verið að ljúka með sátt þremur málum sem A ehf. hafði höfðað gegn bankanum og þeim málum sem höfðuð hefðu verið fyrir hönd D Ltd. og E S.A. í því skyni að endurheimta þá fjárhæð sem C AG fékk greidda vegna útgáfu bankans á skuldabréfum, sem tengd voru lánshæfi B hf. Fjárhæðin sem C AG hafði fengið í hendur á sínum tíma nam 508.625.000 evrum. Samkvæmt samkomulaginu skyldi C AG greiða A ehf., D Ltd. og E S.A. samtals 425.000.000 evrur og gerði A ehf. ráð fyrir því að þar af myndi meira en 400.000.000 evrur renna til þess. X, Y og Z kröfðust frávísunar málsins frá héraðsdómi m.a. á þeim grundvelli að lögregla hefði ekki rannsakað ástæður þess að C AG greiddi framangreinda fjárhæð. Hæstiréttur féllst ekki á kröfu X, Y og Z að þessu leiti með vísan til þess að því yrði ekki slegið föstu að rannsókn lögreglu hefði verið í ósamræmi við ákvæði 53. gr. og 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eða verið ófullnægjandi grundvöllur ákæru á hendur þeim. Á hinn bóginn lægi ekki fyrir af hvaða ástæðum C AG hefði fallist á að inna þessar greiðslur af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna A ehf. og félögin tvö reistu málssóknir sínar á hendur C AG um greiðslu. Þá lægi ekki fyrir hvers eðlis greiðslurnar væru. Taldi Hæstiréttur að rannsókn á þessum atriðum gæti haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum umboðssvika hefði verið fullnægt og við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði sakfellingar yrðu talin fyrir hendi. Samkvæmt því voru hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2016. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og dæmdir til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.

Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 11. október 2017 eingöngu um tvö atriði er lúta að formhlið þess. Annars vegar um þýðingu þess að 12. desember 2016 var gert samkomulag milli A ehf., sem áður bar heitið B hf., og C AG og annað milli D Inc. og E S.A., sem bæði eru í slitameðferð, og C AG, um greiðslu þess síðastnefnda á samtals 425.000.000 evrum. Hins vegar um varakröfu ákæruvaldsins um ómerkingu héraðsdóms, sem reist er á þeim grundvelli að slíkir annmarkar séu á samningu dómsins að hann fullnægi ekki ákvæðum d., e. og f. liða 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

I

Fjármálaeftirlitið beindi með tveimur bréfum 15. júlí 2009 kæru til sérstaks saksóknara vegna lána sem B hf. veitti nokkrum viðskiptamönnum bankans til að fjárfesta í ,,afleiðusamningum tengdum skuldatryggingarálagi B ... credit linked notes (ʹCLNʹ) ... vegna gruns um refsiverða háttsemi stjórnenda“ bankans. Bréfin tvö lutu bæði að sams konar háttsemi en annað varðaði lánveitingar sem tengdust félaginu D Inc. en hitt félaginu E S.A. Í bréfunum var því lýst að lánin hefðu verið veitt á síðustu vikum áður en Fjármálaeftirlitið neytti 8. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 til að taka yfir vald hluthafafundar í B hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Annars vegar var um að ræða lán þess banka í formi peningamarkaðslána til þriggja eignarhaldsfélaga, en Fjármálaeftirlitið gerði meðal annars athugasemdir við að þetta lánsform hafi verið notað. Lánin hafi verið veitt til félaganna þriggja sem hér segir, en félögin hafi öll verið í eigu stórra hluthafa í B hf. eða mikilvægra viðskiptamanna hans: F Ltd., sem hafi verið að jöfnu í eigu G og H, hafi verið veitt lán að fjárhæð 41.600.000 evrur, I S.A. í eigu J lán að fjárhæð 46.800.000 evrur og K Ltd., sem hafi verið í eigu L, 41.600.000 evrur. Lánin hafi verið greidd út 29. ágúst 2008 og svo framlengd, síðast til 13. október sama ár. Hins vegar var um að ræða peningamarkaðslán að fjárhæð 130.000.000 evrur til til félagsins M S.A., sem hafi að fullu verið í eigu N, en félög sem honum tengdust hafi bæði verið meðal stærstu hluthafa í B hf. og stærstu viðskiptamanna bankans. Þetta lán hafi verið veitt 11. september 2008 og framlengt tvívegis, síðast til 13. október sama ár. Í öllum tilvikum hafi lánin falið í sér það sem nefnt var í bréfunum heildarfjármögnun félaganna, en í því felist að eigendur þeirra hafi sjálfir ekki lagt fram neitt eigið fé til félaganna.

Í bréfum Fjármálaeftirlitsins sagði að ekki væri unnt að finna því stað að um bakábyrgðir hafi verið að ræða og skuldsetning félaganna því 100%. Svonefnd tryggingarþekja hafi ekki verið í samræmi við lánareglur B hf. Auk þess hafi ,,uppsetning“ viðskiptanna verið með þeim hætti að viðskiptamennirnir hafi í hvaða tilviki sem væri getað gengið skaðlausir frá viðskiptunum. Félögin þrjú sem fyrst voru greind hafi öll verið stofnuð í sérstökum tilgangi af O S.A. og öll haft heimilisfesti á Tortola á Bresku Jómfrúareyjunum. Félögin þrjú hafi samanlagt fengið að láni 130.000.000 evrur og notað af þeim 125.000.000 evrur sem eiginfjárframlag í félagið D Inc. Þá hafi M S.A. einnig fengið 130.000.000 evrur og notað 125.000.000 evrur af því sem eiginfjárframlag í félagið E S.A. Lánsféð hafi að öðru leyti gengið sem þóknun til C AG í London vegna viðskiptanna en sá banki hafi haft umsjón með þeim. Hann hafi einnig lánað D Inc. og E S.A. hvoru fyrir sig 125.000.000 evrur á móti framlögunum sem komu frá B hf. og lýst hefur verið.

Á þessum tíma hafi skuldatryggingarálag á skuldbréfum útgefnum af B hf., og reyndar einnig öðrum íslenskum bönkum, verið mjög hátt. Í tengslum við það sagði eftirfarandi í bréfum Fjármálaeftirlitsins: ,,Spákaupmennskan í tengslum við fjárfestingu í CLN gekk í stuttu máli út á að mikil afföll voru á skuldabréfum útgefnum af B með þessum strúktúr. Auk þess var um skuldsettan strúktúr að ræða sem jók vænta ávöxtun og þar með áhættuna. Ef B hefði á endanum greitt skuldabréfin, sem skuldatryggingarnar voru tengdar, hefði ávöxtun af CLN verið mjög mikil. Það má því segja að áhættan og ávöxtunin af fjárfestingu í CLN sé sambærileg og ef viðskiptavinir bankans hefðu keypt skuldabréf útgefin af B með miklum afföllum.“ Fljótlega eftir að lánin voru veitt hafi skuldatryggingarálagið hækkað, sem leitt hafi til þess að lánshæfistengdu skuldabréfin lækkuðu í verði. C AG sem hafði, eins og áður greinir, einnig veitt lán til D Ltd. og E S.A. til kaupa á lánshæfistengdu skuldabréfunum, kallaði eftir auknum tryggingum frá þeim. Viðbrögð B hf. við þessu hafi verið þau að veita félögunum hvoru fyrir sig þrisvar sinnum peningamarkaðslán til þess að þau gætu orðið við veðköllum C AG. Lánin til hvors félags um sig hafi numið samtals 125.000.000 evrum eða samanlagt 250.000.000 evrum. Félögin hafi orðið við veðköllum C AG með því að greiða lánsféð til bankans.

Þá sagði í bréfum Fjármálaeftirlitsins að upphaflegar lánveitingar til eigenda D Inc. og E S.A., sem hafi numið samtals  260.000.000 evrum svo og þeim 250.000.000 evrum er veittar voru til félaganna sjálfra vegna veðkalla, væru ,,með öllu eða nánast öllu tapaðar“. Til samanburðar var nefnt að tap B hf. af þessum viðskiptum hafi svarað rúmlega til þess 500.000.000 evra neyðarláns sem bankinn hafi fengið frá Seðlabanka Íslands í byrjun október 2008. Fjármálaeftirlitið tók fram í bréfunum að það teldi að framangreindar lánveitingar B hf. hafi valdið bankanum gríðarlegu tjóni, þau hafi ekki verið veitt í samræmi við útlánareglur bankans eða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002. Væri um að ræða svo gróft brot á góðum viðskiptaháttum að hugsanlega hafi stjórnendur bankans gerst sekir um refsiverða háttsemi.

II

Við upphaf rannsóknar málsins mun lögregla hafa talið rétt að rannsaka kæruefnin sem hugsanleg brot gegn ákvæðum XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna. Í skýrslu rannsakenda sem gerð var samkvæmt 56. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að rannsóknaraðgerðir vegna kæru Fjármálaeftirlitsins hafi byrjað þegar í maí 2009. Við rannsóknina hafi verið teknar skýrslur af alls 32 vitnum og tíu hafi gefið skýrslur sem sakborningar. Tveir sakborninga, sem síðar hafi verið ákærðir í málinu, hafi sætt gæsluvarðhaldi í maí 2010. Gagnaöflun á meðan á rannsókninni stóð hafi verið afar umfangsmikil og í rannsóknarskyni hafi bæði verið lagt hald á rafræn gögn og skjalleg. Gagnaöflun hafi óhjákvæmilega tengst rannsóknum annarra mála vegna starfsemi B hf. Aðeins þau gögn, sem rannsakendur hafi talið hafa sönnunargildi í málinu, hafi þó verið gerð að rannsóknargögnum málsins. Rannsókn mun hafa lokið síðla árs 2013, en ákæra var gefin út 22. apríl 2014.

Ákæran í málinu er í fjórum köflum. Í þeim öllum eru ákærðu X og Y bornir sökum um umboðssvik með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga með þeim hætti, sem lýst er nánar í hverjum ákærulið. Ákærði Z er sakaður um hlutdeild í flestum þeim brotum, sem lýst er í hverjum ákæruliðanna.

Í fyrsta kafla ákærunnar eru þeir X og Y ákærðir fyrir umboðssvik þegar þeir hafi látið bankann veita þremur félögum með takmarkaðri ábyrgð, sem skráð voru á Bresku Jómfrúareyjunum, peningamarkaðslán án trygginga, án þess að lánshæfi þeirra væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærra lánanefnda bankans. Um var að ræða félögin F Ltd., sem fengið hafi að láni 41.600.000 evrur, I S.A., sem fengið hafi að láni 46.800.000 evrur og K Ltd., sem fengið hafi að láni 41.600.000 evrur. Samtals hafi peningamarkaðslán þessi verið að fjárhæð 130.000.000 evrur og hafi þau verið veitt til að félögin gætu gert upp lán sem þau hafi fengið 7. ágúst 2008 hjá O S.A. Þau lán hafi verið notuð sem eiginfjárframlög félaganna í félaginu D Inc., sem lagði fjármunina inn á reikning hjá C AG í London. Hafi 125.000.000 evrur af þeim fjármunum verið varið til að greiða fyrir svonefnt CLN eða lánshæfistengt skuldabréf sem bundið hafi verið skuldatryggingarálagi B hf. og 5.000.000 evrur hafi verið greiddar sem þóknun til C AG. Lán B hf. til félaganna þriggja 29. ágúst 2008 hafi verið framlengd tvisvar, fyrst 19. september 2008 til 30. sama mánaðar og svo frá þeim degi til 13. október sama ár. Þá segir í ákæru um lánin: ,,Þau hafa ekki verið greidd til baka og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.“ Ákærði Z er borinn sökum um hlutdeild í þessum umboðssvikum.

Í öðrum kafla ákæru eru ákærðu X og Y gefin að sök umboðssvik með því að hafa farið út fyrir heimildir til lánveitinga í september og október 2008 með því að láta B hf. veita D Inc., félagi með takmarkaða ábyrgð skráðu á Bresku Jómfrúareyjunum, þrjú peningamarkaðslán án trygginga, án þess að lánshæfi félagins væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar. Lánin hafi verið sem hér segir: Að fjárhæð 50.000.000 evrur 22. september 2008 á gjalddaga 30. september sama ár, en var framlengt til 13. október sama ár. Að fjárhæð 50.000.000 evrur 29. september 2008, sem var á gjalddaga 6. október sama ár. Að fjárhæð 25.000.000 evrur 7. október 2008, sem var á gjalddaga 13. sama mánaðar. Samtals hafi þessi peningamarkaðslán verið að fjárhæð 125.000.000 evrur og hafi þeim verið varið til að greiða viðbótarfjárframlag sem C AG hafi krafist með veðköllum á grundvelli skilmála lánshæfistengds skuldabréfs sem félagið hafi keypt af bankanum, sbr. I kafla. Eina eign D Inc. hafi verið þetta lánshæfistengda skuldabréf. Jafnframt segir: ,,Lánin hafa ekki verið greidd til baka og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.“ Málið er einnig höfðað gegn ákærða Z fyrir hlutdeild í framangreindum umboðssvikum að því er tekur til tveggja lánanna.

Í þriðja kafla ákærunnar eru þeir X og Y ákærðir fyrir brot á sama hegningarlagaákvæði með því að hafa látið B hf. veita M S.A., sem eins og áður segir var félag með takmarkaðri ábyrgð í eigu N og skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, peningamarkaðslán að fjárhæð 130.000.000 evrur, án trygginga og án þess að lánshæfi félagsins væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærra lánanefnda bankans. Megnið af lánsfjárhæðinni hafi sama dag verið fært sem eiginfjárframlag félagsins inn í dótturfélag þess E S.A. sem samdægurs hafi lagt þá fjárhæð inn á reikning hjá C AG. Þar af hafi 125.000.000 evrum verið varið til að greiða fyrir lánshæfistengt skuldabréf sem tengt var skuldatryggingarálagi B hf. Lánið hafi verið á gjalddaga 26. september 2008, en framlengt þann dag til 13. október sama ár. Þá segir um lánið: ,,Það hefur ekki verið greitt og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.“ Ákærði Z er einnig ákærður fyrir hlutdeild í framangreindum umboðssvikum.

Í fjórða kafla ákærunnar eru ákærðu X og Y gefin að sök umboðssvik með því að hafa í september og október 2008 látið B hf. veita E S.A., félagi með takmarkaða ábyrgð skráðu á Bresku Jómfrúareyjunum, þrjú peningamarkaðslán án trygginga, án þess að lánshæfi félagsins hafi verið metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar. Hafi félaginu verið veitt peningamarkaðslán fyrst 22. september 2008 að fjárhæð 50.000.000 evrur með gjalddaga 30. september 2008, sem hafi verið framlengt þann dag til 13. október sama ár, þá 3. október 2008 að fjárhæð 50.000.000 evrur með gjalddaga 13. sama mánaðar og loks 7. október 2008 að fjárhæð 25.000.000 evrur með gjalddaga 13. sama mánaðar. Samtals voru þessi peningamarkaðslán að fjárhæð 125.000.000 evrur. Þeim hafi verið varið til að fjármagna greiðslur til C AG í London í tengslum við CLN viðskiptin. Eina eign E S.A. frá 2. október 2008 hafi verið lánshæfistengt skuldabréf. Þá segir: ,,Lánin hafa ekki verið greidd til baka og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.“ Ákærða Z er einnig gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum vegna tveggja fyrri lánanna, sem þessi ákærukafli tekur til.

Í ákærunni er að finna rökstuðning sem málsóknin er reist á, sbr. d. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þar er meðal annars lýsing á skuldatryggingum og í hvaða skyni þær séu teknar, þýðingu skuldatryggingarálags og lánshæfistengdum skuldabréfum og viðskiptum með þau, auk þess sem atvik málsins eru rakin. Að því búnu er teflt fram röksemdum vegna hvers hinna fjögurra kafla ákærunnar, þar sem sakargiftir eru meðal annars tilgreindar, svo og heimfærsla til refsiákvæða hverju sinni. Í lok rökstuðningsins er fjallað um fjártjón sem orðið hafi vegna þeirrar háttsemi sem ákært er fyrir. Þar segir meðal annars: ,,Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að lánsféð, 510 milljónir evra eða um 67,3 milljarðar króna, er B hf. glatað og ljóst að ákærðu hafa með háttsemi sinni valdið B hf. gríðarlegu og fáheyrðu fjártjóni. Umboðssvikabrot ákærðu eru því stórfelld hvernig sem á er litið og sakir ákærðu miklar.“

III

Málið var þingfest í héraði 11. júní 2014 og aðalmeðferð fór fram 7. til 10. desember 2015. Dómur í málinu var fjölskipaður, tveimur héraðsdómurum og einum sérfróðum meðdómsmanni, samkvæmt heimild í 3. gr. laga nr. 88/2008. Við aðalmeðferðina gáfu skýrslur, auk ákærðu á þriðja tug vitna. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 26. janúar 2016 og þá gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. áðurnefndra laga. Í dóminum er fyrst gerð grein fyrir efni ákærunnar og að því búnu kröfum ákæruvaldsins annars vegar og ákærðu hins vegar, sbr. a., b. og c. liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Þá er kafli sem ber heitið málavextir en þar er tekið upp í heild sinni annað bréf Fjármálaeftirlitsins 15. júlí 2009, en efnis hins lýst að því leyti sem það vék frá hinu fyrrnefnda. Sagt er að rannsókn málsins hafi verið umfangsmikil og er svo í stuttu máli gerð grein fyrir aðdraganda að þeim viðskiptum, sem málið hverfist um. Dómurinn fjallar því næst um úrlausn sakargifta á hendur ákærðu og tilgreinir í upphafi hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að sakfellt verði fyrir umboðssvik.

Við úrlausn ákæruefna fjallar héraðsdómur í einum kafla saman um sakargiftir í I. og III. kafla ákærunnar þar sem ákært er í I. kafla fyrir lánveitingar til F Ltd., I S.A. og K Ltd. og í III. kafla fyrir lánveitingu til M S.A., en félögin notuðu lánin til framlaga annars vegar til D Inc. og hins vegar til E S.A. sem notuðu aftur féð til kaupa á lánshæfistengdum skuldabréfum af C AG. Í yfirskrift kaflans í dóminum segir: ,,Trygging og veruleg hætta á fjártjóni“. Þar er gerð grein fyrir því að við skýrslutökur af ákærðu og tilgreindum vitnum hafi rannsakendur lagt til grundvallar að lánin frá B hf. hafi verið veitt án trygginga eða viðhlítandi trygginga. Þá vísar dómurinn í tiltekin tölvubréf og skýrslur ákærðu Z og X fyrir dómi um að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að B hf. hefði tryggingu í þeim lánshæfistengdu skuldabréfum sem félögin keyptu af C AG. Félögin sjálf hafi ekki getað ráðstafað skuldabréfunum og B hf. hafi, með tilstyrk dótturfélags síns O S.A., haft fulla stjórn á félögunum. Vísar dómurinn til vitnisburðar nokkurra fyrrverandi starfsmanna B hf. um að eina áhættan sem hafi falist í því að veita lánin hafi verið sú að annað hvort B hf. eða C AG yrði ,,gjaldþrota“. Það hafi þá verið talið fjarstæðukennt.

Í niðurstöðu um þessa kafla ákærunnar segir að í henni sé á því byggt að lánin hafi verið veitt án trygginga. Ekki sé að sjá að þessu atriði hafi verið gefinn nægur gaumur við rannsókn málsins. Fram hafi komið við málsmeðferðina að ,,rafræn skuldabréf C fyrir lánunum hafi, jafnharðan og B hf. greiddi þau út með milligöngu dótturfélagsins í [...], verið læst þar á vörslureikningum félaganna, sem tilgreind eru í I. og III. kafla ákærunnar, og því ekki verið stjórnum félaganna frjáls til ráðstöfunar.“ Leggur dómurinn til grundvallar að þátttaka þessara félaga í viðskiptunum hafi verið til málamynda og hafi ekki haft í för með sér aukna áhættu fyrir B hf. Stjórnendum bankans hafi hlotið að vera vel kunnugt um ,,lánshæfi“ félaganna. Vísað er til þess að C AG hafi verið öflugur alþjóðlegur banki. Er það niðurstaða dómsins að það sé rangt sem í ákæru greini að lánin til félaganna, sem hér um ræðir, hafi verið veitt án trygginga. Samkvæmt því telji dómurinn að ákæruvaldið hafi ekki sannað að þeir stjórnendur B hf. sem hlut áttu að þeim ráðstöfunum sem ákært er fyrir í I. og III. kafla ákærunnar hafi með þeim stefnt fé bankans í verulega hættu. Þegar af þessari ástæðu telji dómurinn að sýkna beri alla ákærðu af sakargiftum í þessum köflum ákærunnar.

Í dóminum er því næst fjallað í einu lagi um sakargiftir sem greinir í II. og IV. kafla ákærunnar og ber þessi kafli yfirskriftina: ,,Veðköll C, sbr. II. og IV. kafla ákæru“. Í upphafi er gerð grein fyrir því að í skilmálum lánshæfistengdu skuldabréfanna komi fram að veðköll tengd skuldatryggingarálagi B hf. kynnu að vera gerð. Í þeim tilvikum bæri eigendum skuldabréfanna að greiða C AG ákveðna fjárhæð ef skuldatryggingarálagið hækkaði umfram skilgreind mörk en ef álagið lækkaði aftur hefði bankanum borið að endurgreiða fjárhæðina. Vegna hækkaðs skuldatryggingarálags á skuldabréf útgefin af B hf. hefði C AG beint slíkum veðköllum til félaganna og í framhaldi af því hefði B hf. lánað fé sem runnið hefði inn á reikninga D Inc. og E S.A. eins og greini í ákæruköflum II. og IV. Þá er í dóminum rakinn framburður ákærðu og nokkurra vitna, að því leyti sem dómurinn telur að þýðingu hafi, auk þess sem vísað er til nokkurra tölvubréfa. Er það niðurstaða dómsins að ekki sé sannað gegn eindreginni neitun ákærða X að hann hafi gefið starfsmönnum B hf. fyrirmæli um eða látið það líðast að einstökum veðköllum yrði svarað með útborgun lána án þess að þær greiðslur yrðu fyrst bornar undir lánanefnd bankans og jafnframt sé ósannað að þessi ákærði hafi misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu eins og lýst sé nánar í framangreindum köflum ákæru.

Um sakargiftir að þessu leyti á hendur ákærða Y segir í dóminum að með vísan til stöðu hans sem stjórnarformanns bankans og verksviðs hans svo og þess að hann hafi haft aðsetur og starfsstöð í [...] og með vísan til þess hvernig fjármálakerfi landsins var á þeim tíma sem um ræðir og anna þessa ákærða að ekki sé unnt að hafna viðbáru hans um að hann hafi hvorki skipt sér af einstökum greiðslum vegna veðkalla né vitað að lánareglum hafi ekki verið fylgt er lán til félaganna voru afgreidd. Taldi dómurinn því ósannað að þessi ákærði hafi misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé hans í verulega hættu, eins og þessu er nánar lýst í II. og IV. kafla ákæru.

Í þessum hluta héraðsdóms er fyrst tekin afstaða til sektar ákærða Z, þótt honum sé gefin að sök hlutdeild í brotum hinna tveggja ákærðu. Er tekið fram að ósannað sé að ákærði Z hafi getað gefið starfsmönnum B hf. fyrirmæli eða að hann hafi haft aðstöðu til að fylgjast með því að lánareglum bankans  hafi verið fylgt við ákvörðun um lánveitingarnar. Sé ósannað að ákærði Z hafi að því er varðar lán sem tilgreind eru í i. og ii. liðum II. og IV. kafla ákæru vísvitandi liðsinnt öðrum í orði eða verki, með fortölum, hvatningu eða á annan hátt við það að misnota aðstöðu sína hjá B hf. og stefna fé bankans í verulega hættu eins og lýst sé í tilgreindum ákæruköflum.

IV

Fyrir Hæstarétti er aðalkrafa ákæruvaldsins sem áður segir að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og dæmdir til refsingar, en til vara er krafist ómerkingar héraðsdóms.

Í greinargerð ákæruvaldsins er á það bent að héraðsdómur fjalli ekki um sakargiftir í hverjum kafla ákærunnar fyrir sig, heldur sé dómurinn þannig gerður að erfitt sé að sjá í sumum tilvikum hvaða ákæruefni sé til umfjöllunar hverju sinni.

Málavaxtalýsing í dóminum sé tekin orðrétt úr áðurnefndu bréfi Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2009, þótt við síðari rannsókn málsins, sem hafi verið afar umfangsmikil, hafi málið skýrst verulega svo sem sjá megi af skýrslu rannsakenda sem samin hafi verið samkvæmt 56. gr. laga nr. 88/2008. Þá séu ekki í dóminum raktir málavextir er tengjast einstökum ákæruefnum á grundvelli ítarlegra samtímagagna sem aflað hafi verið við rannsóknina og liggi fyrir í málinu og varpi skýru ljósi á atvik þess.

Ákæruvaldið gerir athugasemdir við að rangt sé hermt í héraðsdómi, þegar þar sé fjallað um I. og III. kafla ákærunnar, að allir ákærðu og tvö tilgreind vitni hafi ekki verið spurð að því, er þau gáfu skýrslu hjá lögreglu, hvort þau lán sem B hf. veitti hafi verið með tryggingum eða án þeirra. Sé það einnig rangt sem fullyrt sé í hinum áfrýjaða dómi að því hafi ekki verið gefinn ,,sérstakur gaumur“ við rannsókn málsins hvort lánin hafi verið veitt án trygginga svo sem ákæra sé miðuð við. Ákæruvaldið telur að við úrlausn héraðsdóms á sakargiftum í framangreindum tveimur köflum ákærunnar sé lagður rangur skilningur í tölvubréf 9. september 2008, en það lúti að því að ,,læsa“ eigi lánshæfistengdu skuldabréfi í eigu D Inc. á vörslureikning þess hjá O S.A. Þau lán, sem ákært sé fyrir í I. og III. kafla ákæru séu þó ekki til þess félags, heldur annars vegar þriggja félaga sem greind eru í I. kafla og svo til félagsins M S.A. sem greinir í III. kafla. Þá misskilji dómurinn hvað felist í svonefndri læsingu, sem sé ekki ígildi veðsetningar, auk þess sem í tilviki félagsins D Inc. hafi verið um að ræða læsingu á reikning félagsins í öðrum banka en B hf. Læsingin hafi því ekki falið í sér tryggingu fyrir síðarnefnda bankann.

Ákæruvaldið kveður lánshæfistengdu skuldabréfin aldrei hafa getað staðið til  tryggingar lánunum til annarra en D Inc. og E S.A. sem ákært sé fyrir í II. og IV. kafla ákæru og þau því með öllu óviðkomandi en ekki til tryggingar skuldbindingum þeirra félaga sem greinir í I. og III. kafla hennar.

Um úrlausn dómsins á II. og IV. kafla ákærunnar kveður ákæruvaldið ekkert vera fjallað um það sem nefnt sé ,,hið ,,læsta“ skuldabréf D“ þótt í II. kafla hennar sé ákært fyrir lánveitingar til þess félags. Þá sé tilvikum blandað saman og enginn greinarmunur gerður á einstökum lánveitingum sem ákært er fyrir í þessum köflum. Ákæruvaldið kveður héraðsdóm í mörgum tilvikum fara rangt með framburð ákærðu og tilgreindra vitna og getur fjölmargra dæma því til stuðnings. Héraðsdómur kjósi einnig við úrlausn þessara ákærukafla að reisa niðurstöðu sína á framburði fyrir dómi en láti vera að fara yfir þau skýru gögn um atvik máls sem fyrir liggi.

Þeir annmarkar sem ákæruvaldið telur vera á héraðsdómi og leiða eigi til ómerkingar hans lúta að d., e. og f. liðum 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

V

 Með greinargerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar fylgdi skjal á ensku, sem hefur að geyma samkomulag A ehf. og C AG frá 12. desember 2016. Skjalið er undirritað fyrir hönd A ehf. en ekki að öðru leyti. Viðfest samkomulagið eru fimm fylgiskjöl. Um samkomulagið segir í greinargerð ákæruvaldsins: ,,Ákæruvaldið fékk nýverið upplýsingar um að A ehf. og C hefðu náð samkomulagi um uppgjör vegna þeirra CLN viðskipta, sem þau lán sem hér er ákært fyrir voru veitt til, og aðkomu C að þeim. Hefur ákæruvaldið fengið samninginn afhentan og er hann meðfylgjandi greinargerð þessari. Ákæruvaldið bendir á að samkomulagið breytir ekki þeirri staðreynd að veruleg fjártjónshætta skapaðist vegna þeirra lána sem ákært er fyrir í máli þessu og þrátt fyrir samkomulagið liggur fyrir að mikið fjártjón varð vegna þeirra.“

Í samkomulaginu og fylgiskjölum kemur fram að annað samkomulag efnislega samhljóða hafi verið gert milli C AG annars vegar og hins vegar D Ltd. og E S.A., sem bæði séu undir skiptum. Tilgangurinn hafi verið að ljúka með sátt þremur málum sem A ehf. hafi höfðað gegn bankanum og þeim málum sem höfðuð hafi verið fyrir hönd framangreindra tveggja félaga í því skyni að endurheimta þá fjárhæð sem C AG fékk greidda vegna útgáfu bankans á skuldabréfum, sem tengd voru lánshæfi B hf. Fjárhæðin sem C AG hafi fengið í hendur á sínum tíma hafi numið 508.625.000 evrum.

Samið var um að A ehf. annars vegar og félögin tvö hins vegar felldu niður málin, sem þau hafi höfðað gegn C AG og að bankinn greiddi A ehf. 212.500.000 evrur og félögunum sameiginlega sömu fjárhæð, en af þeim greiðslum geri A ehf. ráð fyrir að um 90% renni til þess. Samanlagt greiði því C AG samkvæmt samkomulaginu 425.000.000 evrur til þess að ljúka ágreiningsmálunum, þar af muni meira en 400.000.000 evrur renna til A ehf.

Ekki liggur annað fyrir en að samkomulagið hafi gengið eftir eins og þar er mælt fyrir um, en í 14. grein þess er kveðið á um að meginefni samkomulagsins sé trúnaðarmál.

VI

 Ákærðu krefjast frávísunar málsins frá héraðsdómi meðal annars af þeirri ástæðu að lögregla hafi látið undir höfuð leggjast að rannsaka ástæður þess að C AG greiddi 425.000.000 evrur gegn því að felld yrðu niður mál, sem A ehf., D Inc. og E S.A. höfðu stofnað til á hendur þýska bankanum. Ákærði X vísaði í málflutningi fyrir Hæstarétti til bréfs síns 10. mars 2017 til héraðssaksóknara þar sem vakin var athygli á að komið hafi fram í fjölmiðlum þá skömmu áður fréttir um samkomulag C AG við A ehf. og félögin tvö um áðurnefnda greiðslu. Í bréfinu hafi verið bent á að málatilbúnaður ákæruvaldsins hafi verið á því reistur að lánsféð væri B hf. glatað og að ákærðu hefðu með háttsemi sinni valdið bankanum gríðarlegu og fáheyrðu tjóni. Þá sagði: ,,Umbjóðandi minn skorar á ákæruvaldið að afla framangreinds uppgjörs B hf. og C. Af umfjölluninni að dæma virðist ljóst að tjón B hf. vegna viðskiptanna hafi verið bætt að stærstum hluta, ólíkt því sem haldið er fram í ákæru.“ Nauðsynlegt væri að rannsaka hver þáttur C AG í viðskiptunum hafi verið og hvort bankinn kunni að hafa haft rangt við í þeim. C AG hafi verið ljóst að viðskiptin væru fjármögnuð af B hf. og að þau hafi fyrst og fremst verið í þágu hans. Þess vegna hafi ákærði X mátt treysta því að við frágang viðskiptanna yrði gripið til tryggingarráðstafana sem nauðsynlegar væru til að tryggja hag bankans. Ákæruvaldið hafi á hinn bóginn hafnað þessum lýsingum ákærða. Í bréfinu hafi einnig verið bent á að því hafi verið lítill gaumur gefinn við rannsókn málsins til hvaða tryggingarráðstafana hafi í raun verið gripið af hálfu B hf. Rannsóknin hafi ekki beinst að þeim þætti málsins og gögnum, sem sýndu glöggt að veðsetningu skuldabréfa C AG, hafi verið ,,haldið frá ákærðu.“

Ákærðu lýstu allir þeirri skoðun í málflutningi fyrir Hæstarétti að greiðsla C AG á um 85% af því fé sem B hf. hefði lánað til viðskiptanna gæti vart hafa komið til nema fyrrnefndi bankinn hefði talið sér skylt að greiða fjárhæðina og hefði talið að dómur myndi ganga í þá veru. Væri því líklegast að bankinn hefði talið sig bera ábyrgð á þessari greiðslu samkvæmt upphaflegum samningum um viðskiptin. Með því að ákæra sé í algeru ósamræmi við atvik að þessu leyti eigi það að leiða til frávísunar málsins.

Af hálfu ákæruvaldsins var því hafnað í málflutningi fyrir Hæstarétti að samkomulag það sem C AG hafi gert við A ehf. og annað við félögin tvö um greiðslu vegna þeirra viðskipta sem málið er sprottið af eigi að leiða til frávísunar málsins. Í því sambandi hafi mesta þýðingu að í málinu sé ákært fyrir þá háttsemi ákærðu X og Y að hafa misnotað aðstöðu sína hjá B hf. með því að hafa farið út fyrir heimildir til lánveitinga og látið bankann veita þau lán, sem í ákæru greini, án trygginga og án þess að lánshæfi félaganna, sem lánin fengu, væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærra lánanefnda. Með þessu hafi þeir valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Ákærða Z sé gefin að sök hlutdeild í flestum brotanna. Brot allra ákærðu hafi verið fullframin þegar lánin hafi verið veitt. Ákæruvaldið telur ekkert fram komið sem hnekki því að háttsemin sem ákært sé fyrir sé sönnuð. Þá liggi ótvírætt fyrir að uppgjör samkvæmt skilmálum viðskiptanna hafi farið fram 27. október 2008 með tilkynningu C AG í London til eigenda lánshæfistengdu skuldabréfanna, en gögn um það séu lögð fram í málinu. Þar hafi komið fram að vanskilatilvik hafi orðið að því er B hf. varðaði og því mætti C AG innkalla lánshæfistengdu skuldabréfin. Svonefnd innköllunarfjárhæð hafi verið reiknuð út og þegar C AG hafi staðið skil á henni hafi bankinn fullnægt skyldum sínum samkvæmt skilmálum viðskiptanna. Búist væri við að heildar innköllunarfjárhæð sem greidd verði eigendum skuldabréfanna yrði engin. Þannig hafi uppgjöri viðskiptanna lokið og þá þegar verið ljóst hvert tjónið væri. Lögregla hafi rannsakað þessi atriði og gögn sem varða uppgjörið séu hluti rannsóknargagna málsins. Engu geti skipt um þessar staðreyndir og um fjártjónshættuna þegar brotin voru fullframin þótt C AG hafi á árinu 2016 ákveðið að inna af hendi þær greiðslur sem nú hefur verð upplýst um. Frekari rannsókn myndi engu breyta um þetta, en greiðslurnar kynnu þó að hafa áhrif á þá refsingu sem ákærðu yrði gerð vegna brotanna.

VII

Svo sem áður greinir var rannsókn lögreglu, sem hófst í beinu framhaldi af kæru Fjármálaeftirlitsins 15. júlí 2009, umfangsmikil. Gögn málsins, svo sem tölvubréf og drög að veðsamningum, skýrslur sem ákærðu og að minnsta kosti tvö vitni gáfu við rannsóknina bera með sér að rannsakað var hvort lánin hefðu verið tryggð með veðum eða öðrum hætti. Áður hefur verið vísað til gagna um að uppgjör hafi farið fram á lánshæfistengdu skuldabréfunum í lok október 2008 og að C AG hefði samkvæmt því ekki talið sér skylt að inna af hendi neina greiðslu til eigenda skuldabréfanna. Meðal gagna málsins er ekki að finna sérstakar vísbendingar um að C AG hafi talið sér af öðrum ástæðum skylt að inna af hendi greiðslu til A ehf. eða annarra vegna viðskiptanna. Lögregla tók í mars 2012 skýrslu í þágu rannsóknarinnar af P, sem mun hafa verið í fyrirsvari fyrir C AG gagnvart B hf. í aðdraganda viðskiptanna. Hann kvaðst á þeim tíma hafa verið [...] C AG í Evrópu með aðsetur í London. Einnig var tekin skýrsla af Q, sem kvaðst hafa verið í [...]C AG og verið undirmaður P. Vitnin voru ítarlega spurð um viðskiptin og stöðu C AG og B hf. í þeim. Í skýrslum þeirra komu ekki fram upplýsingar sem bent gátu til þess að C AG teldi sér af einhverjum ástæðum skylt að inna af hendi greiðslu til A ehf. eða annarra vegna viðskiptanna.

Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að markmið rannsóknar lögreglu sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til saka svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Þá er í 2. og 3. mgr. lagagreinarinnar kveðið á um ýmsar skyldur lögreglu við rannsóknina. Í 54. gr. laganna eru nánari fyrirmæli um rannsóknina, sem einkum lúta að því að afla skuli allra tiltækra gagna um verkað þann sem um er að ræða og um atvik sem máli geta skipt. Þá skuli rannsaka atriði sem varða sakborning, meðal annars hugarfar hans og hvatir til brots.

Að teknu tilliti til fullframningarstigs þeirra brota sem til rannsóknar voru og þeirra gagna og upplýsinga sem aflað var við rannsóknina og gerð hefur að nokkru marki verið grein fyrir verður því ekki slegið föstu að rannsókn lögreglu hafi verið í ósamræmi við ákvæði 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008 eða verið ófullnægjandi grundvöllur ákærunnar. Við meðferð málsins í héraði komu heldur ekki fram upplýsingar sem röskuðu þeirri forsendu að greiðsluskyldu C AG samkvæmt samningum um viðskiptin væri réttilega lýst í áðurnefndum gögnum um uppgjör þeirra. Samkvæmt framansögðu, sbr. 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008, verður hafnað kröfu ákærðu um frávísun málsins frá héraðsdómi vegna ætlaðra ágalla á undirbúningi málsóknar ákæruvaldsins.

Eftir að héraðsdómur gekk 26. janúar 2016 komu á hinn bóginn fram upplýsingar um samkomulag C AG við A ehf. og annað við D Inc. og E S.A. um greiðslur þýska bankans á samtals 425.000.000 evrum vegna viðskiptanna. Hvorki liggur fyrir af hvaða ástæðum bankinn féllst á að inna þessar greiðslur af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna  A ehf. og félögin tvö reistu málsóknir sínar á hendur C AG um greiðslu. Þá liggur heldur ekki fyrir hvers eðlis greiðslurnar voru, hvort um hafi verið að ræða samningsbundnar greiðslur eða hvort þær voru skaðabætur og ef svo var hvers eðlis þær skaðabætur voru. Rannsókn á þessum atriðum getur haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum umboðssvika samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga hafi verið fullnægt og við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði sakfellingar yrðu talin fyrir hendi.

Samkvæmt framansögðu er óhjákvæmilegt þegar af framangreindum ástæðum að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og málsmeðferðina í héraði frá upphafi aðalmeðferðar 7. desember 2015 og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar þar sem meðal annars gefst kostur á að afla rannsóknar lögreglu á framangreindum atriðum og leggja á nýjan leik mat á sakargiftir á hendur ákærðu með tilliti til þess og annarra gagna málsins. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort þeir annmarkar hafi verið á samningu héraðsdómsins að ómerkingu eigi að varða, sbr. d., e. og f. liði 2. mgr. 183. gr. og 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

Ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar er ómerkt og málinu vísað heim í hérað.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Harðar Felix Harðarsonar og Kristínar Edwald, 4.960.000 krónur til hvors um sig og 2.728.000 krónur til Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2016.

Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135, 2008, dagsettri 22. apríl 2014, á hendur ákærðu, X, kt. [...], með lögheimili í [...], Y, kt. [...], með lögheimili í [...], og Z, kt. [...], með lögheimili í [...], „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

I

A

Á hendur ákærðu X, þáverandi forstjóra B hf., kt. [...], og Y, þáverandi starfandi stjórnarformanni bankans, fyrir umboðssvik, með því að hafa 29. ágúst 2008 í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og létu bankann veita þremur félögum með takmarkaðri ábyrgð, sem skráð voru á Bresku Jómfrúreyjum, eftirfarandi peningamarkaðslán án trygginga, án þess að lánshæfi félaganna væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærra lánanefnda bankans. Nánar tiltekið:

Fyrir að hafa látið bankann veita K Ltd., félagi í eigu L, 41,6 milljóna evra lán en félagið var þá með neikvæða eiginfjárstöðu.

Fyrir að hafa látið bankann veita I S.A., félagi í eigu J, 46,8 milljóna evra lán en félagið var þá með neikvæða eiginfjárstöðu.

Fyrir að hafa látið bankann veita F Ltd., félagi í eigu H og G, 41,6 milljóna evra lán.

Samtals voru umrædd peningamarkaðslán að upphæð 130 milljónir evra og voru þau veitt til að félögin gætu gert upp lán sem þau höfðu fengið 7. ágúst 2008 frá O S.A. Þau lán höfðu verið notuð sem eiginfjárframlög félaganna í félaginu D Inc., sem lagði umrædda fjármuni inn á reikning hjá C, Lundúnum. Hafði 125 milljónum evra af þeim fjármunum verið varið til að greiða fyrir svonefnt CLN (e. Credit Linked Notes), eða lánshæfistengt skuldabréf, sem tengt var skuldatryggingarálagi B hf. og 5 milljónum evra verið varið í þóknun til C.

Lán B hf. til K Ltd., I S.A. og F Ltd. 29. ágúst 2008 voru framlengd tvisvar, fyrst 19. september til 30. september 2008 og síðan 30. september til 13. október 2008. Þau hafa ekki verið greidd til baka og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.

B

Á hendur ákærða Z, þáverandi framkvæmdastjóra O S.A., fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu X og Y, með því að hafa ásamt meðákærðu lagt á ráðin um umræddar lánveitingar B hf. og hvatt til að lánin yrðu veitt af hálfu B hf. til að greiða upp lán O S.A. til félaganna þótt honum hlyti að vera ljóst að meðákærðu X og Y brast heimild til lánveitinganna og að lánin voru veitt án nokkurra trygginga svo veruleg fjártjónshætta hlaust af fyrir B hf. Með þessu var tjónshættu O S.A. vegna lánanna komið yfir á B hf. Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda lánveitinganna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum B hf. með ólögmætum hætti.

II

A

Á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik, með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga í september og október 2008 og létu bankann veita D Inc., félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Bresku Jómfrúreyjum, þrjú peningamarkaðslán án trygginga, án þess að lánshæfi félagsins væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar. Nánar tiltekið:

Fyrir að hafa látið B hf. veita D Inc. 50 milljóna evra peningamarkaðslán 22. september 2008 sem lagt var inn á reikning félagsins hjá O S.A. Lánið var á gjalddaga 30. september 2008 og var framlengt þann dag til 13. október 2008.

Fyrir að hafa látið B hf. veita D Inc. 50 milljóna evra peningamarkaðslán 29. september 2008. Lánið var á gjalddaga 6. október 2008.

Fyrir að hafa látið B hf. veita D Inc. 25 milljóna evra peningamarkaðslán 7. október 2008. Lánið var á gjalddaga 13. október 2008.

Samtals voru umrædd peningamarkaðslán að upphæð 125 milljónir evra og var þeim varið til að greiða viðbótarfjárframlag sem C, Lundúnum, kallaði eftir með veðköllum á grundvelli skilmála CLN, lánshæfistengds skuldabréfs sem félagið hafði keypt af bankanum, sbr. I. kafla. Eina eign D var lánshæfistengda skuldabréfið.

Lánin hafa ekki verið greidd til baka og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.

B

Á hendur ákærða Z, fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu X og Y, sem lýst er í liðum i) og ii), með því að hafa ásamt meðákærðu lagt á ráðin um umræddar lánveitingar B hf. og hvatt til að lánin yrðu veitt af hálfu bankans til að D gæti greitt viðbótarfjárframlög sem C, Lundúnum, kallaði eftir með veðköllum, og hafa haft milligöngu um veitingu lánanna og ráðstöfun þeirra til C, Lundúnum, þótt honum hlyti að vera ljóst að meðákærðu X og Y brast heimild til lánveitinganna og að lánin voru veitt án nokkurra trygginga svo veruleg fjártjónshætta hlaust af fyrir B hf. Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda lánveitinganna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum B hf. með ólögmætum hætti.

III

A

Á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik, með því að hafa 12. september 2008 í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og létu bankann veita M S.A., eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð í eigu N, sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, peningamarkaðslán að upphæð 130 milljónir evra, án trygginga, án þess að lánshæfi félagsins væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærra lánanefnda. Lánsfjárhæðin var lögð inn á reikning félagsins hjá O S.A. og var megnið af fjárhæðinni, 128.625.000 evrur, fært sama dag sem eiginfjárframlag M S.A. inn í dótturfélagið E S.A. sem samdægurs lagði þá upphæð inn á reikning hjá C, Lundúnum. Þar af var 125 milljónum evra varið til að greiða fyrir CLN, lánshæfistengt skuldabréf, sem tengt var skuldatryggingarálagi B hf. og 3.625.000 evrum varið til greiðslu þóknunar til bankans.

Lánið var á gjalddaga 26. september 2008 og var framlengt þann dag til 13. október 2008. Það hefur ekki verið greitt og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.

B

Á hendur ákærða Z, fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu X og Y, með því að hafa ásamt meðákærðu lagt á ráðin um umrædda lánveitingu B hf., haft milligöngu um hana, og hvatt til að lánið yrðu veitt af hálfu B hf., þótt honum hlyti að vera ljóst að meðákærðu X og Y brast heimild til lánveitingarinnar og að lánið var veitt án nokkurra trygginga svo veruleg fjártjónshætta hlaust af fyrir B hf. Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda lánveitingarinnar og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum B hf. með ólögmætum hætti.

IV

A

Á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik, með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga í september og október 2008 og létu bankann veita E S.A., félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á Bresku Jómfrúreyjum, þrjú peningamarkaðslán án trygginga, án þess að lánshæfi félagsins væri metið og án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar. Nánar tiltekið:

Fyrir að hafa látið B hf. veita E S.A. 50 milljóna evra peningamarkaðslán 22. september 2008 sem lagt var inn á reikning félagsins hjá O S.A. Lánið var á gjalddaga 30. september 2008 og var framlengt þann dag til 13. október 2008.

Fyrir að hafa látið B hf. veita E S.A. 50 milljóna evra peningamarkaðslán 3. október 2008. Lánið var á gjalddaga 13. október 2008.

Fyrir að hafa látið B hf. veita E S.A. 25 milljóna evra peningamarkaðslán 7. október 2008. Lánið var á gjalddaga 13. október 2008.

Samtals voru umrædd peningamarkaðslán að upphæð 125 milljónir evra. Þeim var varið til að fjármagna greiðslur til C, Lundúnum, í tengslum við CLN viðskipti. Eina eign E S.A., frá 2. október 2008, var lánshæfistengt skuldabréf.

Lánin hafa ekki verið greidd til baka og verður lánsféð að teljast B hf. glatað.

B

Á hendur ákærða Z, fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu X og Y, sem lýst er í liðum i) og ii), með því að hafa ásamt meðákærðu lagt á ráðin um umræddar lánveitingar B hf. og hvatt til að lánin yrðu veitt af hálfu bankans til að E gæti fjármagnað greiðslur til C, Lundúnum, í tengslum við CLN viðskipti, og hafa haft milligöngu um veitingu lánanna og ráðstöfun þeirra til C, Lundúnum, þótt honum hlyti að vera ljóst að meðákærðu X og Y brast heimild til lánveitinganna og að lánin voru veitt án nokkurra trygginga svo veruleg fjártjónshætta hlaust af fyrir B hf. Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda lánveitinganna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum B hf. með ólögmætum hætti.

V

Brot ákærðu X og Y teljast varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Brot ákærða Z teljast varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

VI

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

                Af hálfu ákærðu er þess krafist aðallega að ákærunni verði vísað frá dómi en til vara krefjast þeir þess að þeir verði sýknaðir af henni og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.  Til þrautavara er þess krafist að ákærðu verði ekki gerð frekari refsing en ella að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa.

                Ástæður ákærðu fyrir frávísunarkröfunum eru efnislega þessar og er þá gerð grein fyrir þeim í einu lagi:

1.  Með lögum um stofnun embættis sérstaks saksóknara hafi verið vikið frá almennri skipan mála við sakamálarannsókn með því að stofna sérstakt tímabundið saksóknaraembætti, þótt brýnt hafi verið við þær aðstæður sem voru að víkja ekki frá hinni almennu skipan.  Hafi þetta verið gert m.a. til þess að sefa reiði almennings, eins og komi fram í greinargerð með lögunum.  Þá hafi uppljóstrurum verið heitið refsileysi.  Hafi þetta allt gert það að verkum að skapa álag á saksóknaraembættið sem það hafi ekki risið undir og ákærðu hafi mátt gjalda þess.

2.  Afskipti ráðamanna af þessum sakamálum, umfjöllun þeirra og fjölmiðla um málefni B og bankanna almennt eftir fjármálahrunið hafi verið svo óvægin og mikil að ákærðu hafi ekki fengið að njóta þess réttar að vera taldir saklausir uns sekt væri á þá sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Hafi þetta haft veruleg áhrif á meðferð þessa máls rétt eins og annarra mála sem ákæruvaldið hafi rekið gegn ákærðu.

3.  Þá hafi ákæruvaldið ekki gætt hlutlægnisskyldu við rannsókn og meðferð málsins eins og skylt sé samkvæmt 2. mgr. 53. gr. sakamálalaga nr. 88, 2008.  Sjái þess merki m.a. í ummælum saksóknara, efnistökum öllum í rannsókninni, leiðandi spurningum yfirheyrenda, greinargerð rannsakenda og rannsóknaráætlun sem staðfesti það að afstaða ákæruvaldsins til málsins hafi þegar í upphafi verið fullmótuð.

4.  Símtöl ákærðu og verjenda hafi verið hleruð og þeim ekki eytt.  Hafi með því verið brotið gegn þagnarrétti sakbornings og trúnaðarsambandi hans og verjanda og þannig rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 36. gr., 2. ml. 1. mgr. 68. gr., 85. gr., 2. mgr. 99. gr. og 4. mgr. 134. gr. sakamálalaganna, b- og c-liði 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

5.  Brotið hafi verið gegn rétti ákærðu til að fá aðgang að gögnum málsins, sem þeir þó hafi rétt til samkvæmt 37. gr. sakamálalaga.  Bæði hafi mjög dregist að veita aðgang að þeim gögnum sem ákæruvaldið hafi lagt til grundvallar málatilbúnaði sínum og eins hitt að aðgangur þeirra hafi að mestu verið bundinn við þau gögn.  Þannig hafi þeir einungis fengið að skoða sín eigin tölvuskeyti í húsakynnum sérstaks saksóknara en ekki skeyti annarra.  Yfirlit um rannsóknargögn sem fylgdu ákæru hafi ekki verið lagt fram, eins og kveðið sé á um í samkomulagi dómstólaráðs, saksóknara og lögmanna frá 2012.  Með þessu hafi verið brotið gróflega gegn réttindum ákærðu.

6.  Loks hafi ákærðu mátt sæta því að fleiri umfangsmikil sakamál hafi verið rekin samtímis á hendur þeim.  Sé þetta andstætt 1. mgr. 143. gr. sakamála og hafi valdið ákærðu erfiðleikum við að hafa yfirlit yfir málin á hendur þeim og halda uppi vörnum í þeim. Sé þessi málsmeðferð andstæð reglum um réttláta málsmeðferð í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

7.  Loks byggir ákærði Z á því sérstaklega að ákæran á hendur honum sé vanreifuð svo að í bága fari við ákvæði 152. gr. sakamálalaga, aðallega stafliði c. og d.  Þannig sé þar ekki greint hvernig ákærði Z eigi að hafa lagt á ráðin um lánveitingarnar eða hvatt til þeirra að öðru leyti.  Þá sé þar ekki að finna nokkra röksemd þess efnis að hann hafi mátt vita að lánin væru veitt án trygginga eða að honum hafi verið ljóst að meðákærðu X og Y brysti heimild til lánveitinganna eða að ákærði hafi haft ásetning um að liðsinna þeim við umboðssvik heldur einungis nefnd til þjónusta O við viðskiptavini sína. Leiði þetta til þess að ákærða sé ókleift að verja sig með fullnægjandi hætti.

                Um lið 1 hér að framan er það að segja að lög um embætti sérstaks saksóknara eru sett með stjórnskipulegum hætti.  Er það hlutverk dómstóla að tryggja að réttur sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi sé virtur.  Verður, með vísan til dómafordæma um þetta efni ekki fallist á að tilurð laganna og annað tengt því sem ákærðu vísa til eigi að varða því að ákærunni í málinu beri að vísa frá dómi.  Um liði 2–6 hér að ofan er það að segja að þeir ágallar á málsmeðferð ákæruvaldsins sem þar eru tilteknir geta ekki varðað frávísun ákærunnar í málinu og eru um það mörg dómafordæmi.  Um 7. liðinn er það að segja að ákæran hefði mátt vera gleggri um þátt ákærða Z, en þó verður ekki séð að vörnum þurfi að verða áfátt af þeim sökum.  Ber af þessum ástæðum að synja kröfu ákærðu um að ákæru í málinu verði vísað frá dómi.

Málavextir

                Upphaf þessa máls er það að Fjármálaeftirlitið ritaði sérstökum saksóknara tvö bréf 15. júlí 2009 þar sem kært var yfir nokkrum ráðstöfunum B hf. vikurnar fyrir fall bankans.  Annars vegar er kæruefnið nefnt Rannsókn á lánveitingum B hf. til viðskiptamanna vegna CLN viðskipta:  Segir þar orðrétt

„I.           Inngangur

Fjármálaeftirlitið (´FME´) vísar hér með til embættis sérstaks saksóknara rannsókn á lánveitingum B hf. (´B´) til nokkurra viðskiptamanna sinna vegna fjárfestinga í afleiðusamningum tengdum skuldatryggingarálagi B, á ensku credit linked notes (´CLN´) með vísan til laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008, vegna gruns um refsiverða háttsemi stjórnenda B.  Um verulegar fjárhæðir er að ræða í framangreindum lánveitingum B sem áttu sér stað vikunum fyrir fall bankans.

FME fékk R frá S til að skrifa minnisblað um viðskiptin, sem var skilað til FME í maí 2009 og byggir rannsókn FME að hluta til á því, ásamt frekari gagnaöflun og úrvinnslu. 

Atburðarrásin er hliðstæð viðskiptum B við E (sem er í eigu N í gegnum M) sem hefur líka verið vísað til sérstaks saksóknara. 

Málið kann að varða almenn hegningarlög nr. 19/1940 og því er rannsókn þess vísað til embættis sérstaks saksóknara.

Hér fyrir neðan er gerð stutt grein fyrir málsatvikum og afstöðu FME.  Að öðru leyti er vísað til meðfylgjandi gagna.

II.           Málsatvik

Sumarið 2008 átti þáverandi forstjóri B í viðræðum við C um hvernig hægt væri að hagnast á sveiflum í skuldatryggingarálagi B, sem á þeim tíma var mjög hátt. C ákvað þá að bjóða B upp á CLN, en gerði það sem skilyrði að B yrði ekki beinn mótaðili í slíkum viðskiptum heldur myndi B finna viðskiptavini sem væru tilbúnir að eiga slík viðskipti.

Þann 29. ágúst 2008 veitti B lán til  þriggja eignarhaldsfélaga í formi peningamarkaðsútlána.  Lánveiting í formi peningamarkaðsútláns er afgreidd af fjárstýringu bankans  sem þýðir að formlegur lánssamningur er ekki útbúinn.  Þetta lánsform virðist hafa verið notað talsvert hjá B þegar afgreidd voru í flýti lán, til skamms tíma og ekki tókst að ljúka gerð formlegra lánasamninga, ekki síst á síðustu vikum fyrir fall bankans.  FME lítur svo á að sömu reglur eiga að gilda um þetta lánsform og lán með formlegum lánasamningum hvað varðar samþykktarferli í lánanefndum og fleira.

F Limited, €41,6 milljónir

F var 50% í eigu G og 50% í eigu H sem voru með stærstu viðskiptamönnum bankans.  H (og tengd félög) var á þessum tíma [...] stærsti hluthafi bankans með um [...] hluta. 

I SA, €46,8 milljónir

I SA var í eigu J og tengdra félaga sem var með stærstu viðskiptamönnum bankans á þessum tíma.  J var á þessum tíma [...] stærsti hluthafi bankans með um [...] hluta í gegnum T.

 Samkvæmt upplýsingum frá innri endurskoðenda U banka var þetta lán borgað út frá O í upphafi (með peningagreiðslu) og B [...] tók síðar áhættustöðuna (e. exposure) yfir frá O í [...]. 

K,  €41,6 milljónir

K ltd. var í eigu L sem var stór viðskiptamaður bankans og fyrrverandi stjórnarmaður.  L var stór hluthafi bankans með um [...] hluta.

Lánin voru greidd út 29. ágúst 2008 til félaganna þriggja skv. lánasamningum sem voru ekki undirritaðir. Lánin voru framlengd 19. september 2008, 30. september 2008 og 13. október 2008 skv. yfirliti frá skilanefnd B.

Ekki eru til undirritaðir samningar um þessi peningamarkaðsútlán.  Athygli vekur að lánin skuli hafa verið framlengd 13. október, (til 18. nóvember 2008) en ekki gjaldfelld eftir að FME yfirtók rekstur B og þegar forsvarsmönnum B hefði mátt vera ljóst að skuldabréf bankans voru nánast verðlaus.

Í útlánareglum B (e. Internal Control and Procedural Handbook) frá september 2007 er kveðið á um hvaða lánanefndir taka ákvarðanir um lánsumsóknir eftir upphæð áhættustöðu.

Þar kemur m.a. fram að ef áhættustaða fer yfir 165 milljónir evra  á lánanefnd stjórnar að taka málið fyrir og taka ákvörðun en ef áhættustaða er undir 165 milljón evrum en yfir 1 milljarði íslenskra króna á lánanefnd samstæðu að taka ákvörðun. Ef þörf er á skjótri ákvarðanatöku sem ekki getur beðið til næsta fundar er heimilt að ákveða lánveitingu á milli funda en aðeins ef þar til bærir meðlimir lánanefnda samþykkja lánveitinguna skriflega.  Í tilviki lánanefndar stjórnar eru það þrír meðlimir en í tilviki lánanefndar samstæðu eru það samhljóða samþykki allra nefndarmanna.  …

Lánveitingarnar voru fyrst lagðar fyrir lánanefnd samstæðu B (e. group credit committee) 11. september 2008 og voru samþykktar þar skv. fundargerð.  Þetta var s.s. tæpum tveimur vikum eftir að lánin höfðu verið greidd út í formi peningamarkaðsútlána. 

Lánveitingar til F Limited og I voru teknar fyrir á fundi lánanefndar stjórnar B [...] 24. september og var ákvörðunin um að samþykkja lánin bókuð í fundargerð. Lánveitingarnar voru því samþykktar rúmlega þremur vikum eftir að lánin voru greidd út.  Lánveiting til K var ekki tekin fyrir af lánanefnd stjórnar þar sem hún var undir áhættulágmörkum.

Ekki hafa fundist gögn um að ofangreindar lánveitingar hafi verið samþykktar með formlegum hætti á milli funda, heldur aðeins gögn um samþykki eftirá.  Ef það er raunin, er um að ræða gróft brot á útlánareglum B, ekki síst með tilliti til upphæðanna sem eru í húfi.

Lánskjörin til þessara þriggja félaga voru samhljóða í fundargerðum lánanefnda:  Vextir 1,5% álag á grunnvexti í evrum, greiddir ársfjórðungslega, lántökugjald 1,45% og líftími lánanna var fimm ár (gjalddagi 20. september 2013), en eins og áður sagði voru formlegir lánasamningar ekki útbúnir. 

Í öllum þremur tilvikum var lánið frá B heildarfjármögnun félaganna, m.ö.o. eigendur félaganna lögðu ekki fram eigið fé.  Ekki er að sjá að um bakábyrgðir hafi verið að ræða og skuldsetning var því 100% í þessum félögum og tryggingarþekjan því ekki í samræmi við lánreglur B.  Að auki er uppsetning viðskiptanna með þeim hætti að viðskiptamennirnir hefðu í hvaða tilviki sem er getað gengið skaðlausir frá viðskiptunum. 

Ofangreind félög voru öll stofnuð af O í sérstökum tilgangi (e. Special purpose vehicles eða SPV).  Félögin eru öll með sama heimilisfangið á Tortola.

Samtals námu upphaflegar lánveitingar B til þessara þriggja félaga því €130 milljónum. Þessi félög notuðu €125 milljónir af þeirri upphæð sem eiginfjárframlag í félagið D Inc. (´D´) og €5 milljónir evra voru þóknanir til C vegna viðskiptanna.  Eignarhlutur hvers félags var í hlutfalli við lánveitinguna frá B.

C lánaði síðan D €125 milljónir á móti framlagi eignarhaldsfélaganna þriggja, en C var umsjónaraðili með CLN viðskiptunum.  Því má segja að eiginfjárhlutfall D við stofnun hafi verið 50%.  D fjárfesti í CLN.  Á þessum tíma var skuldatryggingarálag á B sem og aðra íslenska banka mjög hátt.  Spákaupmennskan í tengslum við fjárfestingu í CLN gekk í stuttu máli út á að mikil afföll voru á skuldabréfum útgefnum af B með þessum strúktúr. Auk þess var um skuldsettan strúktúr að ræða sem jók vænta ávöxtun og þar með áhættuna.  Ef B hefði á endanum greitt skuldabréfin, sem skuldatryggingarnar voru tengdar, hefði ávöxtun af CLN verið mjög mikil.  Það má því segja að áhættan og ávöxtunin af fjárfestingu í CLN sé sambærileg og ef viðskiptavinir bankans hefðu keypt skuldabréfa útgefin af B með miklum afföllum.

Væntanlegur útreiknaður hagnaður af þessum viðskiptum (á fimm ára tímabili) var um 60 milljónir evra. Hluti af viðskiptunum fólst í því að  til stóð að B lánaði D 60 milljónir evra til viðbótar með veði í CLN.  Forsvarsmenn B útskýra þá lánveitingu sem „fyrirframgreiðsla á hagnaði af viðskiptunum“ og nota átti þann hagnað til að styrkja eiginfjárstöðu viðskiptamannanna gagnvart B. Þessi fyrirhugaða lánveiting var þó aldrei greidd út skv. svari frá skilanefnd B við fyrirspurn frá FME.  

Fljótlega eftir lánveitingarnar tók skuldatryggingarálag B að hækka sem fól það í sér að CLN féllu í verði. Eins og áður sagði hafði C lánað D €125 milljónir og eftir hækkunina gerði bankinn því veðkall á D. Viðbrögð B við veðköllunum var að lána meira fé til D í formi peningamarkaðsútlána til að mæta veðköllum viðskiptavina sinna, en ætla má að umræddir viðskiptavinir bankans hafi ekki haft fjárhagslegan styrkleika til að mæta þeim. 

B lánaði  €50 milljónir til d sem félagið greiddi aftur til C 22. september 2008 til að mæta veðkalli. Þessi greiðsla var í formi peningamarkaðsútláns til D og er undirritað af báðum aðilum. Samkvæmt upplýsingum frá innri endurskoðenda U var þetta lán veitt frá O í upphafi (með peningagreiðslu) og B [...] tók síðar yfir lánið með millifærslu án peningagreiðslu frá O í [...]. Þetta hefur sennilega verið gert til að minnka áhættuskuldbindingu O.

B lánaði €50 milljónir til D sem félagið greiddi aftur til C  29. september 2008 til að mæta veðkalli. Þennan sama dag má segja að skuldatryggingarálag bankans hafi verið í frjálsu falli, þ.e. daginn sem ríkið ætlaði að yfirtaka V. Lánið var líka í formi peningamarkaðsútláns.  Hins vegar var samningur um það aldrei undirritaður.

B lánaði að lokum €25 milljónir til D sem félagið greiddi aftur til C vegna veðkalls 7. október 2008. Þar með hafði C fengið alla lánveitingu sína til baka. Þetta lán var líka í formi peningamarkaðsútláns.  Hins vegar var samningur um það aldrei undirritaður.  Daginn eftir var B yfirtekinn af FME og helgina á undan hafði B fengið neyðarlán frá Seðlabanka Íslands.

Það verður vægast sagt að teljast mjög óvanalegt að B skuli leggja út fé í miklum mæli, án trygginga, til að mæta veðköllum sem eru á ábyrgð viðskiptavina sinna.

Í fundargerð lánanefndar samstæðu frá 2. október er m.a. bókað (á ensku) að „lánanefndin samþykkir aukna lánveitingu upp á €125 milljónir til viðbótar við það sem  búið var að samþykkja á fundi lánanefndar  stjórnar vikuna á undan, vegna veðkalla frá C“.  Þarna er væntanlega verið að vísa í fund lánanefndar stjórnar frá 24. september, en athygli vekur að ekkert er að finna í fundargerð þess fundar um lánveitingar til D vegna veðkalla. Lánanefnd stjórnar hefði átt að samþykkja lánveitinguna þar sem heildaráhættustaða var komin yfir 165 milljónir evra mörkin.

Ljóst er að upphaflegar lánveitingar til eigenda D upp á €130 milljónir og €125 milljónir sem lánaðar voru til D síðar til að mæta veðköllum, samtals €255 eru með öllu eða nánast öllu tapaðar, eins og yfirlitstaflan hér að framan sýnir.  Til samanburðar má nefna að tap B af aðeins þessum viðskiptum er um helmingur af €500 neyðarláni sem B fékk frá Seðlabanka Íslands í byrjun október.

Lánveitingar til D og eigenda þess

(tölur í milljónum evra)     Upphafs lán         Lán v. veðkalla

                29.ágú.08             22.sep.08              29.sep.08              7.okt.08 Samtals

D                            50,0        50,0        25,0        125,0

  - F         41,6                                                       41,6

  - I          46,8                                                       46,8

  - K        41,6                                                       41,6

Samtals                 130,0     50,0        50,0        25,0        255,0

Ástæða er til að fá nákvæmari upplýsingar um flæði þeirra peninga (peningaslóð) sem greiddir voru vegna veðkallana sem áttu sér stað rétt fyrir fall bankans, þar sem mikil ringulreið virðist hafa verið til staðar á þeim tíma og nauðsynlegt að sannreyna að peningarnir hafi allir endað hjá C.

III.          Hugsanleg brot á lögum

Fjármálaeftirlitið telur að framangreindar lánveitingar B sem reyndist valda B gríðarlegu tjóni, séu ekki í samræmi við eigin útlánareglur bankans og ekki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Að mati FME er um að ræða svo gróft brot á góðum viðskiptaháttum að hugsanlega sé um að ræða refsiverða háttsemi þeirra stjórnenda B sem bera ábyrgð á lánveitingunum. 

Mögulegt er að stjórn B hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu. 

Einnig kann framangreind háttsemi að hafa brotið gegn lögum um hlutafélög, með því að gera ráðstafanir sem bersýnilega voru til þess fallnar að afla ákveðnum hluthöfum hagsmuni á kostnað annarra hluthafa og félagsins.

IV.          Niðurlag:

FME lýsir yfir fullum vilja til að veita embætti sérstaks saksóknara alla þá aðstoð sem unnt er við rannsókn á framangreindu máli.”

                Kæru þessari fylgdu allmörg gögn sem tilgreind eru í henni en ekki er ástæða til þess að tilgreina hér.

                Svo sem að framan greinir ritaði Fjármálaeftirlitið tvö bréf til embætti sérstaks saksóknara hinn 15. júlí 2009. Auk þess kæruefnis sem að framan greinir var hitt kæruefnið nefnt „Rannsókn á lánveitingum B hf. vegna CLN viðskipta N“:  Um hliðstæð bréf er að ræða enda er atburðarásin hliðstæð. Þykja því ekki vera efni til að rekja það bréf í heild sinni heldur geta þeirra atriða er einungis eiga við um CLN-viðskipti N.

Hinn 12. september 2008 veitti B €130 milljóna lán til M Sa í formi peningamarkaðsútláns.  Lánveiting í formi peningamarkaðsútláns er afgreidd af fjárstýringu bankans sem þýðir að formlegur lánssamningur var ekki útbúinn.  M var í eigu N sem var með stærstu viðskiptamönnum bankans. N var í gegn um eignarhaldsfélag sitt Þ B.V. [...] stærsti hluthafi B með um [...] hluta. Fyrir þessa lánveitingu var heildaráhættustaða B á N og tengda aðila um 77,8 milljarðar króna.  Lánið var greitt út 11. september 2008 og síðan framlengt 26. september 2008 og 13. október 2008 skv. yfirliti frá Skilanefnd B.  Lánið var undirritað af fulltrúa lántaka sem er Æ, en starfsmaður hjá O skrifaði undir fyrir þess hönd.  Í tilvitnuðu bréfi FME kemur fram að það sé athyglisvert að lánið hafi verið framlengt 13. október, (til 18. nóvember 2008) en ekki gjaldfellt eftir að FME yfirtók rekstur B og þegar forsvarsmönnum B hefði mátt vera ljóst að skuldabréf bankans voru nánast verðlaus. 

Lánveitingin til M hafi síðan verið samþykkt á fundi lánanefndar stjórnar B 24. september og ákvörðunin um það bókuð í fundargerð.  Lánveitingin hafi því verið samþykkt 12 dögum eftir að lánið var greitt út.  Samtals hafi upphafleg lánveiting B til M numið 130 milljónum evra.  M hafi notað 125 milljón evrur af þeirri upphæð sem eiginfjárframlag í félagið E S.A. (E) en 5 milljónir evra voru þóknanir til C vegna viðskiptanna.  C hafi svo lánað E 125 milljónir evra á móti, en C hafi verið umsjónaraðili með CLN-viðskiptunum.  Því megi segja að eiginfjárhlutfall E við stofnun hafi verið 50%.  Á þessum tíma hafi skuldatryggingarálag á B sem og aðra íslenskra banka verið mjög hátt.  Væntanlegur útreiknaður hagnaður af þessum viðskiptum (á fimm ára tímabili) hafi verið um 60 milljónir evra.  Hluti af viðskiptunum hafi falist í því að til stóð að B lánaði E 60 milljónir evra til viðbótar með veði í CLN.  Forsvarsmenn B hafi útskýrt þá lánveitingu sem „fyrirframgreiðsla á hagnaði af viðskiptunum“ og hafi átt að nota þann hagnað til að styrkja eiginfjárstöðu N gagnvart B.  Þessi fyrirhugaða lánveiting hafi þó aldrei verið greidd út skv. svari frá skilanefnd B við fyrirspurn frá FME.  Fljótlega eftir lánveitinguna hafi skuldatryggingarálag B tekið að hækka sem leitt hafi til þess að CLN-bréfin féllu í verði.

C hafi svo gert veðköll á E og var þeim mætt með því að b hafi lánað E í formi peningamarkaðsútlána til að mæta veðköllum viðskiptavinar síns en féð var síðan greitt C.  Í bréfi FME eru þessar lánveitingar raktar frekar og síðan er tekið fram að ætla megi að umræddur viðskiptamaður bankans hafi ekki haft fjárhagslegan styrkleika til að mæta þeim.

Í fundargerð lánanefndar samstæðu frá 2. október sé m.a. bókað (á ensku) að „lánanefndin samþykkir aukna lánveitingu upp á 125 milljónir evra til viðbótar við það sem búið var að samþykkja á fundi lánanefndar stjórnar vikuna á undan, vegna veðkalla frá C“.  Þarna sé væntanlega verið að vísa í fund lánanefndar stjórnar frá 24. september.  Lánanefnd stjórnar hefði þurft að samþykkja þessa lánveitingu skv. verklagsreglum bankans þar sem heildaráhættustaða vegna þessara viðskiptamanns var komin langt yfir 165 milljónir evra mörkin.  Þá sé ljóst að upphaflegar lánveitingar til M upp á 130 milljónir og 125 milljónir evra, sem lánaðar hafi verið til E síðar til að mæta veðköllum, samtals 255 milljón evrur, séu með öllu eða nánast öllu tapaðar.  Til samanburðar megi nefna það að tap B af þessum viðskiptum einum sé um helmingur af 500 evra neyðarláni sem B fékk frá Seðlabanka Íslands í byrjun október.

Kæru þessari fylgdu nokkur gögn sem tilgreind eru í henni en ekki er ástæða til þess að nefna hér.

                Ofangreindar kærur leiddu til umfangsmikillar lögreglurannsóknar þar sem hinir ákærðu voru yfirheyrðir og fjölmörg vitni og grunaðir.  Þá var og aflað gríðarmikils fjölda af gögnum.  Eru rannsóknarskjölin rúmar sex þúsund blaðsíður en þeim fylgja jafnframt margir geisladiskar með upptökum af yfirheyrslum og símtölum ákærðu og annarra.

Fram er komið hjá ákærðu og vitnum í málinu að allnokkur aðdragandi hafi verið að kaupum B hf. á skuldabréfum útgefnum af C og tengdum álagi B hf.  Breytingar á markaði með skuldatryggingar, svokölluðum CDS-markaði, hefðu valdið stjórnendum bankans áhyggjum seinni hluta árs 2007 og árið 2008 þar sem markaðurinn virtist, þrátt fyrir mikla innlánaaukningu á mörkuðum í Evrópu, misreikna þörf bankans til útgáfu skuldabréfa á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.  Þá hafi mikið verið rætt á þessum tíma um skuldatryggingarálag á íslensku bönkunum, bæði innan B hf. sem og utan bankans.  Þannig hafi seðlabankastjóri haldið því fram að óprúttnir aðilar, vogunarsjóðir, herjuðu á fjármálakerfi landsins og þetta skuldatryggingarálag væri ekki í neinu samhengi við raunverulega stöðu þeirra og forsætisráðherra hafi sagt að setja yrði upp einhvers konar bjarnargildrur fyrir þessa aðila.  Hafi mátt sjá þessa umræðu einnig í erlendum bönkum, svo sem [...], meðal erlendra greiningaraðila og í erlendum viðskiptatímaritum.  Hafi komið fram í henni að bankarnir mættu ekki sitja aðgerðarlausir hjá og láta þetta koma niður á viðskiptakjörum þeirra.  B hf. hafi hins vegar verið vandi á höndum þar sem hann gat ekki gefið út þessar tryggingar á sjálfan sig.  Þetta hafi verið leyst í samvinnu við og að tillögu C eftir fund yfirmanna bankanna í febrúar 2008 með þeim hætti að setja upp félög í eigu þriðja aðila, sem bankinn mundi lána til með því að nota laust fé.  Félögin myndu svo kaupa skuldabréf, útgefin af af C sem að sínu leyti lagði fram jafnmikið fé til þessara viðskipta.  Áhætta B hf. af þessum viðskiptum hefði þannig verið fólgin í því að C gat orðið gjaldþrota og B hf. einnig.

Eftir þessum ráðum hafi verið farið og næstu átta mánuði eftir fundinn, hafi B hf. keypt upp skuldabréf sem bankinn hafði áður gefið út á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum, fyrir u.þ.b. 170 milljónir evra.  Með þessum kaupum hafi dregið úr þörf bankans fyrir endurfjármögnunar og jafnframt hafi bankinn hagnast á því að kaupa bréfin með afföllum.  Þá hafi bankinn, einnig í samræmi við ráðleggingar C, fjármagnað kaup viðskiptavina bankans til að kaupa skuldabréf útgefin af C, sem tengd voru skuldatryggingaálagi B hf.  Bankanum hafi, einum íslenskra banka, tekist á þessum tíma að safna miklum innlánum í mörgum Evrópulöndum.  Þannig hafi frá haustinu 2007 fram til haustsins 2008 komið inn u.þ.b. 5,5 milljarðar evra, jafngildi 770 milljarða króna, í nýjum innlánum á þessu tímabili. Til samanburðar megi nefna að heildarskuldabréfaflokkar útgefnir af B hf. hafi verið u.þ.b. 12 milljarðar evra.  Með sama gangi hefði bankinn getað endurgreitt á tveimur árum öll skuldabréf sem hann hafði gefið út en næsti stóri gjalddagi á skuldabréfum útgefnum af B hf. hafi verið í maí 2009, að fjárhæð 500 milljónir evra.

                Að því er varðar veðköllin sérstaklega hefði staða bankans orðið mjög snúin ef ákveðið hefði verið að lána ekki fyrir þeim.  C hafi verið mikilvægasti erlendi samstarfsaðili B hf. og hefði bankinn ekki efnt veðköllin hefði það jafngilt yfirlýsingu stjórnenda B hf. um það að þeir hefðu ekki trú á framtíð bankans.  Loks hafi það legið fyrir í skilmálum skuldabréfanna að C bæri að greiða til baka þessa fjármuni ef skuldatryggingarálagið á B hf. lækkaði.

Samkvæmt 249. gr., sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga varðar það mann refsingu að misnota í auðgunarskyni aðstöðu sína til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða ef hann hefur fjárreiður fyrir hann, til tjóns fyrir þann mann eða með því að valda honum verulegri hættu á fjártjóni.  Eru misnotkun aðstöðu annars vegar og fjártjónshætta, hvort um sig, nauðsynlegt hugtaksatriði umboðssvika og ber ákæruvaldinu að sanna atvik sem að þeim lúta, sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála. 

I.             Trygging og veruleg hætta á fjártjóni, sbr. I. og III. kafla ákæru

                Ákærði Z var yfirheyrður hjá embætti sérstaks saksóknara 6. og 8. maí 2010.  Í inngangi yfirheyranda í skýrslum um þessar yfirheyrslur segir að ekki hafi verið um að ræða viðhlítandi tryggingar eða bakábyrgðir fyrir lánunum.  Ákærði var þó ekki spurður sérstaklega út í þetta atriði en yfirheyrður um ýmislegt varðandi lánakjörin, uppbyggingu lánanna, hagnaðarvon, taphættu o.s.frv.  Þegar hann var yfirheyrður næst, 26. september 2012, neitaði hann að tjá sig um sakirnar á hendur honum í mótmælaskyni við að réttur hefði verið brotinn á honum við rannsókn málsins en yfirheyrendur gerðu honum að sínu leyti grein fyrir grun sem á honum hvíldi um brot sem tiltekin voru þar.  Ekki var þá vikið að tryggingum fyrir lánunum með öðrum hætti en þeim að staðhæft var af hálfu yfirheyranda að endurgreiðsla þeirra hefði ekki verið tryggð.  Ö, yfirmaður [...] O í [...], var yfirheyrður af starfsmönnum sérstaks saksóknara í febrúar 2010 en þá var ekki vikið að tryggingu fyrir lánunum.  Í inngangi að yfirheyrslu 26. nóvember 2012 ritar yfirheyrandi að lánin hafi verið veitt „án viðhlítandi trygginga“ en annars er ekki fjallað nánar um það atriði í yfirheyrslunni.  Á yfirmaður [...] B hf. var yfirheyrður hjá saksóknaraembættinu undir rannsókn málsins í maí 2010 og var þá spurður hvaða tryggingar hefðu verið settar fyrir lánunum.  Sagði hann að bréfin frá C hefðu verið til tryggingar.  Ekki var farið nánar út í það í yfirheyrslum yfir honum.  Þá var ákærði Y yfirheyrður 20. ágúst 2010 og svo 9. júlí 2012 og gert kunnugt að hann væri m.a. undir grun um að hafa látið veita lánin án viðhlítandi trygginga.  Var hann í fyrri yfirheyrslunni ekki spurður út í það hvaða tryggingar hefðu verið settar fyrir lánunum til félaganna en í síðari yfirheyrslunni neitaði hann að tjá sig í mótmælaskyni við það það að réttur hefði verið brotinn á honum við rannsókn málsins.  Loks er þess að geta að ákærði X var yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara 6. maí 2010 og gerð grein fyrir því að hann væri m.a. grunaður um það að hafa látið veita félögunum lánin án viðhlítandi trygginga.  Ekki var farið nánar í það atriði í yfirheyrslunni.  Þegar hann var kvaddur til skýrslutöku 12. júlí 2012 neitaði hann þá að tjá sig í mótmælaskyni við það að réttur hefði verið brotinn á honum við rannsókn málsins en yfirheyrendur gerðu honum að sínu leyti grein fyrir grun sem á honum hvíldi um brot, sem þeir tiltóku.

Meðal gagna sem lögð hafa verið fram í aðalmeðferð málsins er tölvuskeyti 9. september 2008 undir heitinu D frá Ð lögfræðingi í [...] O í [...] til É sem var þá yfir þeirri deild bankans sem sá um [...].  Segir þar: „Viltu gera svo vel, í framhaldi af samtali okkar, að læsa D-bréfin með Apsys inni á reikningi [...], tilvísun [...]0“ (e. „Further to our conversation, please block on Apsys the Dsecurities on account [...], ticker [...]“).  Svarar É skeytinu um hæl og segir: „Þetta hefur verið gert“ (e. „This is done“).  Með skeyti hans er skjámynd úr því, sem heitir á ensku „Monitor for locking securities holdings“, þar sem þessi aðgerð er sýnd.  Loks er að geta skeytis, sem Ð sendir Í [...] B hf., 11. september, en með því framsendir hún þessi tölvuskeyti og spyrst fyrir um það hvort upplýsingarnar í þeim séu fullnægjandi.  Í beinu framhaldi af því framsendir Í skeytin til tveggja starfsmanna bankans og segir: „Þessi CLN eru á vörslureikningi O þ. a. væntanlega myndum við veðsetja bæði vörslureikninginn og undirliggjandi CLN.“  Þá eru í málinu nokkur gögn, svo sem „Ábyrgð nr. [...]“, sem sýna að O veitti félögunum lán sem tryggð voru með veði í öllum verðbréfum og lausafé á reikningum þeirra.

Fyrir dómi hefur ákærði Z gert þá grein fyrir eðli skuldatryggingar hún sé trygging gegn greiðslufalli útgefanda.  Kaupandi tryggingar greiði af henni iðgjald, sambærilegt þeim vöxtum sem væru í boði fyrir útgáfu nýrra skuldabréfa með sama útgefanda og sama líftíma.  Verði greiðslufall hjá skuldara afhendi eigandi skuldabréfsins það þeim sem seldi trygginguna gegn greiðslu eftirstöðva höfuðstólsins.  Stafirnir CLN séu skammstöfun fyrir „Credit Linked Note“ eða skuldabréf með eiginleika CDS en þar sem höfuðstóllinn hefur verið inngreiddur.  Kaupandi skuldabréfsins fái iðgjald í formi vaxtagreiðslna en við greiðslufall skuldabréfsins fái hann skuldabréfin en ekki höfuðstólinn.  Verði hinsvegar ekki greiðslufall á tímabilinu fái hann höfuðstólinn endurgreiddan á gjalddaga auk reglulegra vaxtagreiðslna.  Í þessu tilviki hafi verið um að ræða CLN-skuldabréf útgefið af C, tengt skuldatryggingu á B hf.  Áhættan af láninu hafi þannig verið sú að annað hvort Bhf. eða  C yrði gjaldþrota, en á þessum tíma hafi allir álitið afar litla eða enga áhættu fylgja þessu.  Þá getur ákærði þess að O hafi átt 710 milljónir evra af skuldabréfum útgefnum af öðrum bönkum með sambærilega áhættu og skuldabréfin sem C gaf út, þ.e. skuldabréfum með áhættu á annan banka. Hann bendir á að við endurreisn bankans hafi nýir eigendur bankans krafist þess að þetta skuldabréfasafn yrði hluti af eignasafni bankans við endurskipulagninguna. Hafi skuldabréf þessi verið 65% af heildareignum bankans við endurreisn hans. Sé þetta dæmi um þá litlu áhættu sem menn hafi talið fylgja því að eiga skuldabréf útgefin af bönkum, jafnvel í miðjum fjármálastormi.  Skuldabréfin í þessu tilviki, útgefin af C, hafi verið veðsett og læst inni á vörslureikningum hjá O í nafni félaganna.  Útilokað hafi verið að taka þau þaðan nema með heimild bankans.  Umsamið hafi verið að ef skuldatryggingarálagið á B hf. hækkaði yrði kaupandi skuldabréfs að greiða inn viðbótarfjárhæðir en á móti kæmi að það fé yrði endurgreitt ef álagið lækkaði.  Þannig hafi ekki verið um það að ræða að fé tapaðist heldur lækkaði það lán sem kom frá C en lán frá B hf. kom í staðinn. Breyting á álaginu hafi því ekki haft áhrif á „strúktúrinn” í sjálfu sér, heldur einungis hver hafi fjármagnað hann, C eða B hf.

Um félögin, sem tilgreind eru í ákærunni segir ákærði að O hafi sett þau á laggirnar og skipað þeim stjórnir.  Hafi félögin verið skuldlaus við alla nema B hf.  Bankareikningur hvers félags hjá O hafi verið einn og sami fyrir alla starfsemi þess þar sem hafi verið haldið utan um skuldabréfið, útlán, innlán, verðbréf, afleiður.  Hafi allt verið læst þar í samræmi við almenna skilmála bankans og jafnframt tilkynnt um það til B hf.  Greiðslur sem borist hefðu frá C vegna lækkaðs álags hefðu ekki getað farið annað en inn á lánið sem hafi á þennan hátt verið veðsett bankanum. 

Tölvuskeytið frá Ð til É segir ákærði bera með sér að um hafi verið að ræða rafrænt skráð skuldabréf, útgefið af C, ætlað „Ó”, alþjóðlegum vörsluaðila slíkra skuldabréfa.  Þannig sjáist að þessi “strúktúr” hafi einfaldlega verið veðsettur um leið og C afhenti útgefin skuldabréfin inn á vörslureikning D hjá O.  Þessi vörslureikningur D (e. „security account”) hafi verið reikningur þar sem allt var geymt á einum stað, peningar, afleiður.  Hann hafi verið tengdur vörslukerfinu hjá Ó sem O og C hafi verið aðilar að.  Sé skuldabréfið tekið rafrænt inn þaðan falli það að sama númeri í vörslukerfinu hjá O og er veðsett bankanum, (e. „locked security holding”).  Slíkt hafi iðulega verið gert þegar bankinn var með lán frá þriðja aðila, í þessum tilvikum B hf., og þannig verið ómögulegt að færa það þaðan nema með samþykki O.  Þetta hafi verið mjög einfalt í sniðum þar sem hver einasti viðskiptamaður, sem gekk til viðskipta við bankann hafi um leið skrifað undir almenna skilmála bankans að eignir hans væru veðsettar.  Þar að auki hafi þessar eignir verið læstar í þágu þriðja aðila.  Um leið og peningarnir fóru til C, sem hafi verið skuldbundinn til þess að setja þá inn á „Ó” reikninginn, hefðu þeir verið komnir inn í samsvarandi reikning í O og veðsettir bankanum.  Engra viðbótarveðsamninga hafi þannig verið þörf.

Ákærði X segir það vera rangt sem í ákærunni segir, að lánin hafi verið veitt án trygginga.  Í tölvuskeytinu sem fundist hafi í pósthólfi [...] B hf., Í, sé staðfesting frá [...] O á því að umrædd skuldabréf, útgefin af C, hafi verið læst, eins og sjá megi af skjámyndinni sem fylgdi skeytinu.  Trygging fyrir láni til félags hafi því verið eignir félagsins.  Til þess hafi verið séð að ekki yrði um að ræða aðra lánveitendur en B hf. í því skyni að  tryggja hagsmuni bankans sem lánveitanda.  Ákærði tekur fram að banki eigi almennt þriggja kosta völ til þess að tryggja útlán sitt. Hann geti í fyrsta lagi tekið veð í undirliggjandi eign.  Hann geti í öðru lagi samið um að viðkomandi fyrirtæki sé bannað veðsetja eignir sínar öðrum og loks geti bankinn í þriðja lagi sett upp sérstakt félag, svo kallað SPV („special purpose vehicle“), sem hafi þann eina tilgang að eiga ákveðna eign eða fjármálagjörning.  Sú leið hafi verið valin og félögin látin kaupa skuldabréfin frá C.  Áhætta B hf. vegna þessara lánveitinga hafi því ekki verið áhætta af ótryggðum lánum til eignalausra félaga, heldur lánum til félaga sem áttu skuldabréf útgefið af einstaklega traustu fjármálafyrirtæki. Raunveruleg áhætta hafi því ekki getað falist í öðru en greiðsluþroti C eða B hf. sjálfs. 

Ö, sem var yfirmaður [...] O á þeim tíma sem um ræðir, segir að með tölvuskeyti sínu til É hafi Ð verið að biðja um að reikningnum yrði læst þannig að ekki væri hægt að flytja bréfin nema með heimild þess sem hefur læst reikningnum, þ.e. O.  Af því hafi leitt bréfin hafi ekki verið til frjálsrar ráðstöfunar samkvæmt einföldum fyrirmælum um að flytja þau og því hefði þurft að ganga úr skugga um hvort þau væru tryggð með einhverjum hætti.  Með öðrum orðum sagt hafi verið „búið að bóka blokkeringu á reikninginn”.

Á var framkvæmdarstjóri [...] Bsamstæðunnar árið 2008.  Hann kveðst hafa litið svo á að þau viðskipti sem málið snýst um hafi haft litla áhættu í för með sér vegna þess að mótaðilinn hafi verið C og áhættan verið komin undir örlögum bankans sjálfs.  Hann kveðst hafa þekkt til fólksins í stjórnum félaganna og vitað hvernig haldið var utan um þau.  Þá segir hann alla viðskiptavini O hafa átt viðskipti við bankann með einkabanka-fyrirkomulagi en í því hafi falist að allar eignir viðkomandi aðila hefðu verið settar að tryggingu fyrir skuldunum við bankann.  Kveðst hann því hafa litið svo á að félögin sem um ræðir væru eins konar framhald af bankanum, undir stjórn hans og í rauninni innan hans eða undir væng hans.

Loks er þess að geta að Ú hefur borið að gengið hafi verið út frá því að fyrir þessum lánum yrðu settar tryggingar, þ.e. veð í eignum félaganna. Áhættuna af viðskiptunum verði að meta með hliðsjón af því að þau hafi nánast verið eins og bankinn væri að kaupa skuldabréf á sjálfan sig.  Þannig hafi áhættan verið bundin því að hann myndi sjálfur verða gjaldþrota eða þá að C, sem hafi verið mótaðilinn, yrði gjaldþrota.  Auðvelt sé að vera vitur eftir á en á þessum tíma hafi honum og öðrum í stjórn bankans þótt það fjarstæðukennd hugmynd að B hf. gæti orðið gjaldþrota.  Þá kemur fram hjá Ú að hann muni ekki betur en að þeir sem hafi verið í viðskiptum við O hafi verið látnir stofna vörslureikning og með því skuldbundið sig til að setja allar sínar eignir að veði fyrir öllum skuldbindingum.  Hafi þannig ekki verið þörf á formlegum veðskjölum til þess að ná réttarverndinni eða tryggingunni.

Afleiðusamningar sem byggjast á skuldaraáhættu (e. „credit derivatives“) munu hafa farið að tíðkast upp úr 1993 en frá því hafði umfang þessara samninga aukist mjög, þar til atvik málsins urðu, og þeir þá orðið bundnir alþjóðlegum staðli.  Skuldatrygging (e. „credit default swap“ – CDS) er tvíhliða samningur þar sem kaupandi samningsins greiðir seljanda hans fasta þóknun, svokallað tryggingarálag yfir ákveðið tímabil. Við ákveðin skilyrði sem yfirleitt tengjast einhvers konar vanskilum þarf seljandinn að greiða kaupandanum fyrirfram skilgreinda fjárhæð. Þessi skilyrði geta t.d. verið gjaldþrot þess fyrirtækis sem tryggingin varðar eða greiðslufall á greiðslum af útgefnum skuldabréfum eða lánum fyrirtækisins.  Verði engir slíkir atburðir á gildistíma samningsins greiðir kaupandinn tryggingarálagið til lokadags samningsins.  Verði slíkur atburður hins vegar fyrir lokadag samningsins þarf seljandinn að greiða kaupandanum fjárhæð til þess að bæta honum það fjárhagslega tap sem hann hefur orðið fyrir vegna atburðarins.  Verðlagning skuldatrygginga byggist á nokkrum breytum og þá helst líkum á greiðslufalli, þeirri fjárhæð sem stendur eftir ef um greiðslufall verður að ræða.  Þá verður jafnframt að taka tillit til seljanleika, lagaumhverfis og álits markaðarins á viðkomandi útgefanda.  Tryggingarálagið, eða sú fjárhæð sem kaupandi skuldatryggingarinnar greiðir, ætti þannig að vera nátengt skuldaraálagi viðkomandi útgefanda.

Credit Linked Note - CLN er afleiðusamningur sem byggist á skuldaraáhættu.  CLN-verðbréf er yfirleitt gefið út af fjárfestingarbanka, ef ekki af slíkum banka þá af sérstöku SPV-fyrirtæki sem stofnað er sérstaklega utan um slíka útgáfu. CLN-bréfið ber útlánaáhættu þriðja aðila, þ.e. ekki fjárfestingarbankans sem gefur CLN-verðbréfið út, og ávöxtun bréfsins er tengt tryggingarálagi þessa þriðja aðila.  CLN-afleiðusamningar byggjast í grunninn á því að útgefandi CLN-bréfanna í málinu, þ.e. í þessu tilviki C, keypti skuldatryggingu á þriðja aðila, í þessu tilviki B hf., en SPV-félögin, sem tilgreind eru í ákærunni, keyptu CLN-bréfin af C, sem gaf þau út rafrænt og afhenti O.  Jafnframt seldu félögin útgefanda bréfanna, C, skuldatrygginguna.  CLN-bréf hefur alla eiginleika venjulegs skuldabréfs og ber þannig vexti, ýmist fasta eða breytilega, hefur ákveðinn lokagjalddaga og lokavirði en það sem aðgreinir það frá venjulegu skuldabréfi er að lokaniðurstaðan fer eftir því hvernig þriðja aðila  reiðir af, þ.e. B hf.  Í CLN-bréfunum í málinu voru allir þessir þættir skilgreindir, þ. e. vextirnir, afborganir, lokagjalddagi og hvernig lokavirði bréfsins er reiknað út.  Samkvæmt ákvæðum þeirra tóku vextir mið af skuldatryggingarálagi B hf. þegar bréfin voru gefin út.  Aðrir skilmálar eins og veðköll komu einnig fram í skilmálum bréfanna og þau skilyrði sem tengjast vanskilum þriðja aðila og leiddu til þess að lokavirði bréfanna lækkaði.  Hefðu engin vanskilaatvik komið upp hjá þriðja aðila hefðu kaupendur CLN-bréfanna, í þessu máli félögin sem tilgreind eru í ákæru, fengið greidda vexti af bréfinu allan líftímann og höfuðstól bréfsins á lokagjalddaga.

Niðurstaða         

Í ákærunni í málinu er byggt á því að lánin sem ákært er út af hafi verið „veitt án trygginga”.  Ekki er að sjá að þessu mikilvæga atriði hafi verið gefinn sérstakur gaumur í rannsókn málsins.  Eins og rakið er hér að framan hefur það komið fram hjá ákærðu og vitnum við meðferð málsins fyrir dómi að rafræn skuldabréf C fyrir lánunum hafi, jafnharðan og B hf. greiddi þau út með milligöngu dótturfélagsins í [...], verið læst þar á vörslureikningum félaganna, sem tilgreind eru í I. og III. kafla ákærunnar, og því ekki verið stjórnum félaganna frjáls til ráðstöfunar.  Eru þessir framburðir ákærðu og vitnanna studdir gögnunum sem gerð var grein fyrir og hlýtur að verða að byggja á þeim í málinu.  Er ekki annað að sjá en að þátttaka þessara félaga í viðskiptum B hf. og C hafi verið til málamynda og að hún hafi ekki haft aukna áhættu í för með sér fyrir B hf. en stjórnendum þar á bæ hlaut, eins og allt var í pottinn búið, að vera fullkunnugt um „lánshæfi” félaganna.  Þegar þetta er haft í huga, sem og það sem alkunna er, að C var öflugur, alþjóðlegur banki, verður að telja að það sé rangt sem í ákærunni segir, að lánin til félaganna hafi verið veitt án trygginga.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið ályktað telur dómurinn að ákæruvaldið hafi ekki sannað að sá eða þeir stjórnendur B hf., sem áttu hlut að þeim ráðstöfunum sem ákært er fyrir í I. og III. kafla ákærunnar, hafi með þeim stefnt fé bankans í verulega hættu.  Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna alla ákærðu af þessum sakargiftum.

II.           Veðköll Cs, sbr. II. og IV. kafla ákæru

Í skilmálum skuldabréfanna í málinu kemur það fram, eins og áður segir, að veðköll, tengd skuldatryggingarálagi B hf., kynnu að verða gerð.  Þannig bæri eigendum bréfanna að greiða C ákveðna fjárhæð ef álagið hækkaði umfram skilgreind mörk en ef álagið lækkaði aftur hefði C borið að endurgreiða þá fjárhæð.  Þá liggur það fyrir í málinu að í framhaldi af hækkuðu skuldatryggingarálagi B hf. beindi C veðköllum til félaganna og að í framhaldi af því lét B hf. greiðslur renna inn á reikninga félaganna, eins og greinir í II. og IV. kafla ákærunnar. 

                Ákærði X var, sem fyrr segir,  yfirheyrður hjá sérstökum saksóknara 2010 og undir lok skýrslunnar var hann spurður hver hefði tekið ákvörðun um það hjá B hf. að „lána til þess að mæta þessum veðköllum“.  Sagðist hann örugglega hafa tekið þá ákvörðun og kannski Y, þótt hann vissi það ekki.  Um veðköllin til D og E sagðist hann halda að sá „strúktúr“ hefði verið samþykktur í lánanefnd, þótt hann gæti ekki fullyrt um það.  Ekki er því annað að sjá af svörum ákærða í þessari yfirheyrslu en að hann hefði almennt verið fylgjandi því að veðköllunum yrði svarað.

Í, [...], var yfirheyrður sem vitni hjá sérstökum saksóknara 12. mars 2010.  Var hann þá spurður hvort ákærði X hefði í öllum tilvikum ákveðið að mæta veðköllunum og sagði þá að boðin um þau hefðu komið frá Z í [...] en ekki vissi hann hvert samband hans hefði verið X.  Hefði þetta átt við um fyrstu tvö veðköllin en um það þriðja hefði X „klárlega“ gefið fyrirmæli.  Aftur var Í yfirheyrður sem vitni 12. september 2012 og var þá spurður út í þessi atriði.  Sagðist hann hafa verið í beinu símsambandi við X allt ferlið og fengið hjá honum fyrirmæli um það.  X hefði yfirleitt verið á ferðlagi og samskiptin við hann því verið um farsíma hans.  Hann kvaðst halda að hvorugur borðsíma þeirra hefði verið tengdur upptökutæki.  Hann sagði ekkert fé hafa verið greitt út án þess að X væri inni í þeirri „lykkju“.  Um þátt Z sagði hann að hann hefði engar heimildir haft hér á landi.  Hann kvaðst svo alltaf hafa haldið Ú upplýstum um málin en ekki muna til þess að Ú hefði nokkru sinni tekið ákvörðun um veðkallsgreiðslu.  

Í málinu eru fjölmörg tölvuskeyti og símtöl sem varða veðkallsgreiðslurnar.  Eru þau reifuð hér á eftir í samhengi við skýrslur manna fyrir dómi en þess utan er rétt að tilfæra eftirfarandi samskipti sérstaklega.  Í skeytaskiptum Í og Ú, 26.-28. september, gefur að lesa þetta um veðkallið 29. sama mánaðar: „Varðandi þetta Ú, er nokkuð annað fyrir okkur að gera en að greiða þetta? Viltu að ég sendi einhverja lánabeiðni í flýtiafgreiðslu á GCC?“ Ú svarar tveimur dögum seinna: „ekkert annað að gera, bókum á næsta GCC.“  Þá er að geta símtals 2. október milli Í og AA: „..en núna vilja þeir 50 milljónir í dag í viðbót“, segir AA. Í: „Já við kljúfum það ekki.“ AA: „Það er nefnilega hausverkurinn. Ég, ég skil [...] þannig að það verður bara að redda þessum pening í dag.“ Í: „..við kljúfum það sko en ég meina við eigum ekki þessar evrur í dag til að senda sko, það er nú bara þannig.“ AA: „En kljúfum við það á morgun?“  Í: „Ég held það.“  AA: „Það er allt að fara til fjandans.“ Í: „BB og.. . CC eru að reyna skrapa saman fyrir þessu sko.“ AA nokkru síðar: „Ókei heyrðu, ég ætla að heyra í [...]. Þetta er bara einfaldlega no can do.“  Í: „Ég meina, ég er búinn að tala bæði við BB og CC og þeir bara segjast ekki kljúfa þetta. Það sé bara þannig.”

                Vegna þess sem fram kom fram hjá Í fyrir dómi um að símtöl um borðsíma hans hafi ekki verið tekin upp er rétt að geta skýrslu embættis sérstaks saksóknara, dagsettrar 12. desember 2011, sem ráða má af að slík símtöl hafi verið tekin upp.

Fyrir dómi hefur ákærði X neitað því að hafa gefið fyrirmæli um greiðslur vegna veðkallanna í málinu og kveðst hann ekki vita hver það hafi gert.  Hann kveðst aldrei hafa veitt lán sjálfur, nema sem lánanefndarmaður.  Kveðst hann ekki hafa fylgst með daglegum störfum undirmanna sinna, enda hefði það verið ómöguleiki.  Þá viti hann ekki hvort meðákærðu hafi gefið fyrirmæli um slíkt.  Þá hafi honum, sökum stærðar og umfangs B, verið með öllu ómögulegt að fylgjast með daglegum störfum viðskiptastjóra, svo sem hvort þeir hafi gætt þess að réttum ferlum við afgreiðslu útlána. Engin yfirlit hafi verið send honum um útgreiðslu lána, svo hann hafi ekki getað fylgst með hvaða lán voru greidd hvaða dag.  Ákærði tekur fram, samhengisins vegna, að fleiri viðskiptastjórar hafi á þessum tíma starfað við útlánastarfsemi hjá samstæðu B heldur en [...].  Þá kveðst hann sem forstjóri Bsamstæðunnar hafa verið u.þ.b. 200-220 daga erlendis á hverju ári. Varðandi síðustu dagana fyrir fall B hf., (þ.e. 9. október), tekur ákærði það fram að hann hafi þá verið mjög upptekinn við að sinna allt öðrum verkefnum á vegum bankans heldur en lánamálum.  Í þessari viku hefði V fallið og lánshæfismat íslenska ríkisins verið fellt og gengi krónunnar fallið.  Hafi hann verið heilu dagana í ráðherrabústaðnum á fundum með ríkisstjórninni.  Því hafi þessi samskipti öll verið fyrir utan sjónarsvið hans þessa daga. 

Um það sem hann sagði í lögregluyfirheyrslu 6. maí 2010 að hann hefði „örugglega“ ákveðið að „lána til þess að mæta þessum veðköllum“ og kannski Y, segir hann að hann hafi margneitað í þessari sömu yfirheyrslu að hafa gert það.  Hafi hann verið orðinn þreyttur þegar hann sagði þetta, eftir kl. 16 þennan dag eftir yfirheyrslur frá því kl. 9 um morguninn.  Þá hafi hann tekið fram að hann hafi haldið að lánanefndirnar hefðu verið upplýstar um þessi mál.  Fram kemur hjá honum að hann telur það hafa verið réttar ákvarðanir í stöðunni að greiða veðköllin og hann verið því samþykkur, almennt séð, en að hann hafi alls ekki látið greiða þetta á bak við lánanefndina.  Ákærði bendir á að engin gögn hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að hann hafi samþykkt að greiða veðköllin, nema þá í eitt skipti, varðandi þau síðustu, 25 milljónir evra hvort veðkall, að spurt var í tölvuskeyti hvort það hefði verið borið undir hann, 6. október.  Kveðst hann hafa ákveðið að beðið yrði með það.  Þá vekur ákærði athygli á því að í skeyti Í til Ú spyrji hann: „eigum við ekki að gera þetta Ú? Ókei“; segi Ú- „eigum við að- á ég að biðja um samþykki lánanefndar?”  “Nei, það sleppur, haltu bara áfram“.  Þannig sjáist hverjir hafi tekið þessar ákvarðanir.  Þá segir hann að önnur tölvuskeyti í málinu, svo sem á milli BB, DD, CC og EE, laugardaginn 20. september, og frá Í til DD, beri það með sér að [...] B hafi tekið ákvarðanir um lán sem gátu numið 100 milljónum evra.

Um þann framburð Í hjá lögreglu 2012 um veðköllin, að hann héldi að ekkert fé hefði farið út, eða neitt verið framlengt nema með vitund ákærða og samkvæmt ákvörðun hans og að Í hefði rætt þetta við hann, segir ákærði þetta vera í ósamræmi við það sem Í hefði sjálfur sagt árið 2010 og sé þetta algerlega ósatt.  Hefði Í enda sagt í fyrri yfirheyrslunni að hann hefði ekki rætt við sig.  Um skeyti meðákærða Z 1. október þar sem meðákærði Z segir að ekkert verði greitt út nema með nema með samþykki BB og X, segir ákærði að þetta vísi til síðasta veðkallsins og sé í samræmi við skeyti til Í þar sem hann biður hann að greiða ekki út nema hafa heyrt í X.  Hann leggur svo áherslu á það að Í hafi greitt út fé án þess að hafa samband við sig um það og að að veðköllum hafi verið mætt án fyrirmæla frá sér.  Um símtal 7. október, milli Í og FF, þar sem sá fyrrnefndi segir að tvisvar sinnum 25 milljónir eigi að fara þegar til C og að ákærði hafi samþykkt það, segist ákærði halda að hann hafi ekki verið í neinum samskiptum við Í á þessum tíma en þetta sé eina veðkallið sem hann svari ekki samdægurs.  Hann kveðst hins vegar hafa vitað af þessu og að hafa verið samþykkur því að veðkallinu yrði svarað með lánveitingu.  Hins vegar hafi hann ekki gefið fyrirmæli um að veita lánið eða um að lánaferlum yrði ekki fylgt.  Hann tekur fram að þótt bregðast þyrfti skjótt við þýði það ekki að ekki hefði verið hægt að fá samþykki lánanefndarmanna fyrir greiðslunum.  Þá segir ákærði að mögulega hefði samþykki annarra nefndarmanna verið aflað án hans vitneskju.

Ákærði Y hefur sagt fyrir dómi að hann minnist þess ekki að hafa haft nein afskipti af eða vitneskju um það að lánareglur væru brotnar í sambandi við veðköllin.  Kveðst hann ekki gera ráð fyrir því að þessi mál hafi heldur verið borin undir hann og ekki vita hverjir hafi samþykkt þær greiðslur.  Á þessum tíma hafi allur fjármagnsmarkaðurinn nötrað eftir að yfirvöld yfirtóku V.  Hafi þeir X verið fastir á fundum með ráðamönnum landsins um hvað ætti að gera og reyna að vinda ofan af þeirri skelfilegu ákvörðun.  Geri hann ráð fyrir því að það hafi komið í hlut viðskiptastjóranna að ákveða að mæta þessum veðköllum, sem hafi verið rétt ákvörðun, enda um að ræða mjög hæft starfsfólk sem hafi reynt að leysa störf sín eins vel og það gat þegar ekki náðist í forstjórann eða aðra yfirmenn.  Ákærði, sem var stjórnarformaður B, kveðst hafa búið í [...] og haft þar skrifstofu.  Þá hafi ekki nema lítill hluti af starfi hans tengst starfseminni hér á landi, kannski fjórðungur.  Hann hafi annars haft það hlutverk að samhæfa starfsemi bankans í 13 löndum út frá starfstöðinni í [...].  Fyrir utan skrifstofuna í [...] hafi hann ekki haft boðvald yfir einstökum starfsmönnum B, enda slíkt heyrt undir forstjórann.  Aðspurður segir ákærði að meðákærði Z hafi sem bankastjóri í [...], með engu móti fylgst með því hvernig staðið var að ákvörðun um eða samþykki lánveitingar eða útgreiðslu lána innan B á Íslandi.  Hafi hann engar heimildir né aðkomu að neinum kerfum þar.

Fram er komið fyrir dómi hjá ákærða Z að hann hafi ekki haft nein afskipti af því hvernig farið var með umsóknir um veðkallsgreiðslurnar í B hf.  Hafi hann ekki verið starfsmaður þess banka heldur forstjóri O og engar formlegar heimildir haft í móðurfélaginu né hafi hann vitað hvernig farið var með þessi mál þar.  Aðkoma hans að þessum greiðslum hafi einungis verið milliganga milli félaganna og B hf.  Ákærði kveðst ekki hafa hvatt til þess að veðköllin yrðu greidd og segist hafa frekar latt til þeirra, eins og gögn í málinu beri með sér.  Þegar veðkall hafi borist segist hann hafa framsent það til B hf. samkvæmt fyrirmælum frá Í.  Um það sem ákærði sagði í lögregluyfirheyrslu, að hann hefði framsent veðkallstilkynningar frá C heim til móðurfélagsins, bæði til X og BB, segist hann hafa framsent tilkynningar um veðköllin sex, ýmist og eftir atvikum til X, líklega einu sinni, til BB, einu sinni eða tvisvar, en alltaf til Í sem hefði gefið fyrirmæli um að fá allar tilkynningarnar framsendar til sín.  Í þeim framsendingum hafi ekki falist nein fyrirmæli frá sér til hans varðandi veðköllin.  Hafi hann í þeim eingöngu verið að tilkynna móðurbankanum um það að veðköll hefðu borist.  Hafi hann átt tveggja kosta völ, að aðhafast ekkert eða að láta hlutaðeigandi yfirmenn móðurbankans vita um veðköllin og greiðslufrestina og  það hafi hann gert skilmerkilega.  Hann kveðst hafa álitið að veðköllin yrðu greidd og byggt það á því sem komið hefði fram hjá X.  Sjálfur hefði hann álitið að aldrei kæmi annað til greina en að greiða veðköllin og ekki dulið þá skoðun sína, eins og fram komi í skeytum hans 20. september til Í, GG, BB og X.  Hann segist hins vegar svo hafa lagst gegn því að síðasta veðkallið yrði greitt, en það hafi samt verið greitt.  Hann kveðst aðspurður hafa rætt einu sinni eða tvisvar við meðákærða X um eitt eða tvö af veðköllunum en hann muni ekki hvaða veðköll það voru.  Sérstaklega aðspurður um skeyti varðandi lánið til D 29. september („við þurfum að setja þetta í gang á mánudaginn, vinsamlegast útbúið það sem þarf“), segir hann að ummælin séu ekki fyrirmæli til GG, Í, Ö, Ð, AA og HH, heldur séu þetta upplýsingar sem hann hafi framsent lánastjórunum um veðkall sem C hafi tilkynnt að greiða þyrfti þennan dag.  Hann kveðst ekki muna hvort hann hafi svo rætt við einhvern af þessu fólki  um hvort það ætti að greiða þetta veðkall eða ekki.  Þá hefur ákærði verið spurður um veðkallslánið til E 3. október og framsent skeyti frá II hjá C til Í, GG og ákærða X („ekki góðar fréttir, þeir eiga rétt á að kalla eftir 100 en ætla að sætta sig við 50, höfum ekki annarra kosta völ en að greiða eða sæta því að kaupunum verði rift fyrst..“).  Kveðst hann hafa með þessu skeyti einungis verið að gera þessum mönnum grein fyrir stöðunni og því að honum hefði tekist að fá C til að sætta sig við 50 milljónir.  Þá segir hann um skeyti sitt 1. október til Í og BB („við greiðum ekkert út til þeirra nema með samþykki BB og X“) að með því eigi hann við að O hafi ekki greitt neitt út, heldur móðurfélagið og þá með samþykki þar til bærra aðila.  Um veðkallsgreiðslurnar 7. október, sem hann er að vísu ekki ákærður fyrir, og tölvuskeyti segist ákærði aðspurður ekki hafa álitið að 450 milljón evrur væru þar með glataðar og hafi hann því lagst gegn þessum greiðslum.  Ekki muni hann hverja í móðurbankanum hann talaði við en hann hljóti að hafa framsent skeytið til Í.

Í var [...] hjá B hf. á þeim tíma sem hér skiptir máli.  Hann hefur sagt það um veðköllin að venjulega hafi komið tölvuskeyti frá Z þar sem hann framsendi skeyti C og hafi greiðslufresturinn venjulega verið um fjórir tímar.  Hann kveðst ekki hafa litið á skeytin frá Z sem fyrirmæli og því þurft að sækja sér heimildir til yfirmanna sinna.  Kveðst hann alltaf hafa hring í X og borið málefnið undir hann.  X hafi þannig vitað um hvert einasta veðkall og samþykkt að inna greiðslurnar af hendi í öllum tilvikum nema einu.  Þá segist vitnið hafa borið þetta undir Ú líka og ef hann samþykkti greiðsluna kveðst hann hafa látið greiða veðkallið, eins og skeyti 26. september til Ú beri með sér.  Í segir samskipti sín við Ú um þessi mál hafa öll verið um farsíma ákærða, nema einu sinni að þeir hittust.  Ekki muni hann hvort hann hringdi úr sínum borð- eða farsíma en símtöl við borðsíma [...] hafi ekki verið tekin upp. 

Um skeyti til starfsmanna [...] 2. október („við náum vonandi að kljúfa þetta á morgun. Göngum frá þessu sem mm láni til sama tíma og sömu á sömu kjörum og núverandi lán til E“) segist vitnið ekki hafa þar fyrirskipað þessa lánveitingu 3. október heldur hafi hann verið að framfylgja fyrirmælum, eins og í öll hin skiptin.  Þegar borin eru undir hann eftirfarandi tölvusamskipti hans og BB 1. október („Ég fór aðeins betur í gegnum þetta með Z í [...]. Tvær neðstu línurnar uppá 100 milljónir og E fara út en reikna með allavega 75% af því verði áfram hjá bankanum í formi trygginga hjá þeim aðilum sem standa á bakvið þessi félög“. BB svarar og sendir einnig Z: „..nei þetta gengur ekki alveg svona. Reiknum með þýðir oft að ekkert gerist þegar mest á reynir. Z; getum við ekki eitthvað kveðið fastar að orði?“ Ákærði Z: „við greiðum ekkert út til þeirra nema með samþykki BB og X“) kveðst hann ekki muna eftir þessum skeytaskiptum en túlkar þau þannig að Z staðfesti þarna að ekkert fé verði greitt nema með samþykki X.  Um tvær síðustu veðkallsgreiðslurnar, 7. október, segir vitnið að þær hafi verið ólíkar hinum í því efni að X samþykkti þær ekki í símanum samstundis.

                Spurður út í misvísandi skýrslur sem hann gaf hjá sérstökum saksóknara 2010 og 2012 segir hann skýringuna vera þá að fyrir síðari skýrslutökuna hefði hann getað hugsað um málið hátt í tvö ár og þá rifjast upp ýmislegt sem ekki hafði gefist tími til að hugleiða. Hafi hann þá munað betur hvernig hlutirnir hefðu gerst.

                Um tölvuskeyti þeirra Ú 27. september („varðandi þetta Ú; er nokkuð annað fyrir okkur að gera en að greiða þetta. Viltu að ég sendi einhverja lánabeiðni í flýtiafgreiðslu á GCC“. Svar frá Ú: „ekkert annað að gera, bókum á næsta fund GCC.“) segir hann aðspurður að ekkert bendi til þess í skeytunum að hann sé þar að vinna á grundvelli fyrirmæla frá forstjóra samstæðu bankans.  Hinsvegar sé þetta í samræmi við það sem hann hafi sagt að hann hafi leitað samþykkis þeirra beggja, X og Ú fyrir öllum útgreiðslum.  Í þessu sambandi tekur hann fram að þeir Ú hafi setið tveimur skrifborðum frá hvor öðrum og átt ýmis munnleg samskipti sem ekki komi fram í þessum tölvupóstsamskiptum. 

Um símtal 30. september við DD („heyrðu, mér sýnist eins og að K, I, F og JJ séu á gjalddaga í dag, hvaða dagsetningu eigum við að velja.“ Svar: „Við skulum setja allt hérna á- þú varst með eitthvað 13...“ Svar: „Já, 13. október) segir hann aðspurður að hann hafi þar verið að fylgja fyrirmælum forstjórans um að greiða lánið út sem peningamarkaðslán og halda því sem peningamarkaðsláni þangað til búið væri að klára alla skjalagerð.

Ú, sem var framkvæmdastjóri [...] hjá B hf. á þeim tíma sem hér um ræðir, segir næsta yfirmann sinn hafa verið ákærða X.  Hann kveðst ekki vita hver hafi mælt fyrir um það greiða veðköllin en segist ekki geta ímyndað sér eða mjög ólíklegt sé að þau hefðu verið greidd út nema fyrir lægi samþykki X.  Liggi það í því að fyrir slíkum ráðstöfunum hafi menn leitað staðfestingar eða samþykkis forstjóra.  Heyri slíkt undir lánanefnd og forstjórinn hafi setið í lánanefndinni.  Hafi hvorki hann sjálfur, viðskiptastjórar né aðrir starfsmenn ákveðið að greiða þetta án þess að fá slíkt samþykki.  Hann segir forstjóra annars ekki hafa fylgst sérstaklega með viðskiptastjóra bankans og enga aðstöðu haft til þess.  Hann kveðst engin dæmi vita til þess að lánveitingum væri vísvitandi haldið frá lánanefndum og aldrei hafa orðið var við fyrirmæli frá X til Í eða samskipti á milli þeirra.

Aðspurður segir Ú ákærða Z ekki hafa haft heimildir til að gefa starfsmönnum B hf. á Íslandi fyrirmæli um veitingu lána eða útgreiðslu fjármuna úr bankanum.  Þá hafi hann ekki haft aðstöðu til þess að kynna sér hvort viðeigandi reglum eða ferlum hefði verið fylgt innan B á Íslandi við útgreiðslu fjármuna í hverju tilfelli fyrir sig.

 

AA starfaði sem [...] í [...] B hf.  Um veðkallsgreiðsluna 29. september 2008 og tölvuskeyti frá ákærða Z, sbr. hér að framan, segist hann aðspurður ekki muna eftir skeytinu en getur þess að lítill tími hafi þarna verið til stefnu og ekki minnsti möguleiki, að hans áliti, að koma þessu í gegn um formlegan feril á svo stuttum tíma. Hann segir aðspurður að sig minni að hann hafi átt í mestum samskiptum við Í í sambandi við þessi veðköll en einnig einhver samskipti við GG.  Hafi honum skilist á þeim að þeir fengju í hverju tilviki samþykki X til þess að bregðast við veðköllunum.  Hann kveðst byggja þetta á samtölum við þessa menn og segist ekki hafa átt nein samskipti við ákærða sjálfan.  Þá segist hann ekki hafa átt að fylgjast með því hvort það lán hefði verið samþykkt eða hvernig málið hafi verið afgreitt né haft nein afskipti af ferli þessara mála innan móðurbankans.

KK var [...] í B hf. í september 2008 og sat í lánanefnd stjórnar ásamt ákærða X, ákærða Y og LL.  Hann kveðst ekki minnast þess að komið hafi fram á lánanefndarfundinum 24. september að C hefði þá þegar gert veðkall að fjárhæð 100 milljónir evra.

LL sat í [...] B hf. og lánanefnd á þeim tíma sem málið varðar.  Hann kannast við að rætt hafi verið um á lánanefndarfundinum 24. september að skuldatryggingarálag á bankanum hefði hækkað þarna misserin á undan og að menn ætluðu að mæta veðköllunum.  Ekki minnist hann þess að veðköll hefðu þegar verið greidd, 22. september, til D og E.  Hann kveðst aðspurður ekki hafa verið í aðstöðu til þess að sjá hvernig viðskiptastjórar héldu utan um þessi mál, nema að því marki sem það kom fram á lánanefndarfundunum.

GG, [...] í B hf. á þeim tíma sem hér um ræðir, hefur sagt að hann minnist þess ekki að rætt hafi verið að til þess gæti komið að greiða þyrfti C veðköll í samræmi við skilmálana í skuldabréfunum.  Þá muni hann ekki eftir neinum umræðum  um að borga ekki veðköllin.  Hlutverk [...] hafi verið það að taka við lánsbeiðnum, meta þær og undirbúa til samþykktar hjá viðeigandi lánanefnd, sjá til þess að samþykkt lán væru greidd út og loks að fylgjast með skilum.  Hann kveðst minnast þess að afla hafi þurft samþykkis lánanefndarmanna með mjög skömmum fyrirvara, stundum í tölvuskeytum, þótt hann geti ekki nefnt einstök dæmi um slíkt.  Hann segir forstjóra bankans hafa ekki verið í aðstöðu til þess að fylgjast með daglegum störfum [...] almennt og til þess hefði hann þurft að halda uppi fyrirspurnum um slíkt hjá viðkomandi [...] eða Ú, sem hafi verið yfir deildinni.  Hann kveðst aðspurður ekki minnast þess að hafa nokkru sinni fengið fyrirmæli frá ákærða X um að veita lán án þess að fá fyrst samþykki lánanefndar.

Ö var framkvæmdastjóri [...] O á þeim tíma sem um ræðir og starfaði undir stjórn ákærða Z.  Fram kemur hjá honum aðspurðum að það hafi ekki verið í verkahring O að semja um eða taka ákvörðun um lánveitingar til félaganna sem um ræðir í málinu.  O hafi ekki haft eftirlit með því hvernig lánin voru greidd út af móðurfélaginu eða hvort réttum reglum eða ferlum hefði þá verið fylgt enda engin eða mjög takmörkuð aðstaða verið til þess.  Þá hafi O einungis fengið sendar veðkallskröfurnar þar sem félögin voru þar í þjónustu en ákvörðunin um lánveitingarnar hafi legið hjá B á Íslandi.  Hann kveðst sjálfur mest hafa verið í samskiptum við Í sem hafi haldið utan um lánamálin hjá móðurfélaginu.

 

Niðurstaða

1.            Ákærði Z var, eins og komið hefur fram, forstjóri O í [...].  Hefur einnig oft komið fram hjá honum og öðrum í málinu að hann hafði ekki yfir starfsmönnum B hf. á Íslandi að segja í neinni grein og styðja gögn málsins það.  Þá er engin vísbending um það í málinu að hann hafi haft aðstöðu til eða lagt sig eftir því að fylgjast með því hvort útlánareglum móðurbankans væri fylgt við veðkallsgreiðslurnar eða hvort brotið væri gegn hagsmunum bankans.  Þykir dóminum það sem fram er komið í málinu benda til hins gagnstæða.  Telst þannig vera ósannað að ákærði Z hafi, að því er varðar veðkallsgreiðslurnar í i. og ii. lið II. kafla og  i. og ii. lið IV. kafla í ákærunni, vísvitandi liðsinnt öðrum í orði, verki, með fortölum, hvatningu eða á annan hátt við það að misnota aðstöðu sína hjá B hf. og stefna fé bankans í verulega hættu, eins og þessu er nánar lýst í II. og IV. kafla í ákærunni.         

 

2.            Ákærði Y var stjórnarformaður B hf. og sat í lánanefnd.  Hafði hann aðsetur og skrifstofu í [...] og hefur komið fram hjá honum að megnið af störfum hans fyrir bankann hafi verið erlendis.  Hann kveðst ekki hafa vitað af því að lánareglur bankans væru brotnar í sambandi við veðkallsgreiðslurnar, þótt hann hafi ekki dregið dul á það að hann hafi almennt verið fylgjandi því að veðköll yrðu greidd og sagt að starfsmenn bankans hafi brugðist rétt við þegar þeir gerðu það.  Ekki hafa verið færð fram í málinu nein gögn sem benda sérstaklega til þess að hann hafi haft afskipti af einstökum ákvörðunum um veðkallsgreiðslurnar né heldur að hann hafi stuðlað að því að lánareglur væru brotnar í sambandi við þær eða brotið væri gegn hagsmunum bankans í því sambandi.  Þá hafa engir borið á þann veg í málinu.  Þegar allt framangreint er haft í huga, svo og það hvernig á stóð í fjármálakerfinu landsins þessa daga, hvernig þá stóð á í bankanum og það að ákærði var mjög vant við látinn vegna þessara sérstöku kringumstæðna, álítur dómurinn að ekki sé óhætt að hafna viðbáru hans um að hann hafi hvorki skipt sér af einstökum veðkallsgreiðslum né vitað að lánareglum var ekki fylgt í sambandi við þær.  Er því ósannað að hann hafi með því misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu, eins og þessu er nánar lýst í II. og IV. kafla ákærunnar.

 

3.            Ákærði X neitar því að hafa skipt sér af eða vitað af einstökum veðkallsgreiðslum, nema þeirri síðustu og neitar jafnframt að hafa vitað að lánareglur væru brotnar í sambandi við þær.  Kveðst hann ekki hafa getað fylgst með daglegum störfum viðskiptastjóra í B hf. vegna stærðar bankans og umfangs starfa sinna.  Hafa vitni borið með honum að þessu leyti og álítur dómurinn þetta vera trúlegt.  Þá verður sérstaklega að hafa það í huga sem fram er komið í málinu um ástandið á fjármálamarkaðinum þessa daga svo og það, sem fram er komið hjá ákærða og meðákærða Y og alkunna er, að þeir áttu þá í stöðugum fundahöldum með stjórnvöldum um ástandið og aðgerðir vegna þess. 

Í segir afdráttarlaust fyrir dómi að ákærði X hafi gefið fyrirmæli um hverja einustu af veðkallsgreiðslunum nema þá síðustu og að ákærði hafi áður fengið allar upplýsingar hjá sér um hvert og eitt veðkall í síma.  Hafi ákærði mælt fyrir um að þessar veðkallsgreiðslur skyldu ekki bornar undir lánanefnd. Ú, sem hafi verið nábúi hans á skrifstofunni hafi fylgst með þessu ferli öllu og samþykkt veðkallsgreiðslurnar fyrir sitt leyti.  Framburður Ú getur þó ekki talist styðja þetta, þótt hann að vísu telji mjög ólíklegt að veðköllin hafi verið greidd án fyrirmæla ákærða, eins og áður segir.

AA minnir að hafa helst átt í samskiptum við Í í sambandi við veðköllin en einnig við GG og skilist á þeim að þeir fengju í hverju tilviki samþykki X til þess að bregðast við veðköllunum.  Þegar framburður GG er athugaður verður þó ekki séð að hann styðji þetta.

Engin skrifleg fyrirmæli frá ákærða um veðkallsgreiðslurnar er að finna í málinu og er það í sjálfu sér eftirtektarvert.  Aftur á móti eru í því nokkur skjalleg og rafræn gögn sem dómurinn álítur að hafi þýðingu fyrir sönnun að því er ákærða X varðar og hér skal vikið að.

Við atriðið í skýrslu ákærða hjá sérstökum saksóknara 2010 er það að athuga að spurning skýrslutakans virðist hafa lotið að því almennt að lánað var fyrir veðköllunum.  Þá er þess að gæta að ákærði sagðist í framhaldi af henni hafa haldið að veðköllin hefðu verið samþykkt í lánanefnd, þótt hann segðist ekki vera viss um það.  Er ekki unnt að skilja skýrsluna svo að ákærði viðurkenni þar að hafa vitað að einstök veðköll hefðu verið greidd út í trássi við lánareglur bankans.     

Spurning yfirheyranda til Í í yfirheyrslunni 2010 laut að því hvort ákærði hefði ákveðið að mæta veðköllunum en ekki að því hvort hann hefði vitað um eða mælt fyrir um það að lánareglum skyldi þá ekki fylgt.  Svaraði Í spurningunni svo að hann vissi ekki hvort svo hefði verið, nema þá um síðustu veðkallsgreiðslurnar.  Hlýtur að verða að skilja svar hans í því samhengi.  Spurningar yfirheyranda í skýrslunni 2012 lutu heldur ekki að því hvort ákærði hefði vitað um eða mælt fyrir um það að lánareglum skyldi ekki fylgt.  Skýrslan er þó ítarlegri um þessi atriði en sú fyrri og vitnið bar þar afdráttarlaust að ekkert fé hefði verið greitt út án samþykkis ákærða.    Verður að hafa þessi atriði í huga þegar sönnunargildi þessara skýrslna vitnisins er metið, svo og það að ósamræmi er með þeim.  Loks hefur verið gerð grein fyrir tölvuskeytum og símtölum í málinu.  Verður ekki séð að þau gögn gefi óyggjandi vísbendingu um það að ákærði hafi í einstökum tilvikum látið greiða veðköllin án þess að fjallað væri um þau í lánanefnd.  Þykja dóminum sum þeirra eins geta bent til þess að aðrir kunni að hafa gert það án vitneskju hans.

Vitnið Í hefur ekki verið stöðugt í skýrslum sínum í málinu og þegar það og allt framangreint er metið telur dómurinn að ekki sé óhætt gegn eindreginni neitun ákærða X að telja sannað að hann hafi gefið starfsmönnum B hf. fyrirmæli um eða látið það líðast að greiða einstök veðköll án þess þær greiðslur yrðu fyrst bornar undir lánanefnd bankans og jafnframt vera ósannað að hann hafi á þann hátt misnotað aðstöðu sína hjá B hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu, eins og þessu er nánar lýst í II. og IV. kafla ákærunnar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið ályktað ber að sýkna alla ákærðu af sakargiftunum í II. og IV. kafla ákærunnar.  Kemur þá ekki til álita í málinu hvort samþykkt lánanefndar samstæðu 2. október um aukna lánalínu hafi tekið til veðkallsgreiðslnanna eftir það, hvort eðli viðskiptanna hafi verið með þeim hætti að greiða hafi mátt veðköllin án sérstakrar tryggingar, hvort hagsmunir B hf. hafi krafist þess að veðköllin yrðu greidd þar sem ekki hefði verið ráðrúm til þess að fylgja lánareglum bankans, svo nokkur atriði séu nefnd.  

Sakarkostnaður o. fl.

                Málsvarnarlaun verjenda ákærðu ber samkvæmt 218. gr. laga um meðferð sakamála að greiða úr ríkissjóði, þeim Herði Felix Harðarsyni hrl., verjanda X, 14.829.780 krónur, Gesti Jónssyni hrl., verjanda Y, 9.530.640 krónur og Kristínu Edwald hrl., verjanda Z, 8.766.800 krónur.  Eru málsvarnarlaunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað hefur ekki leitt af málinu.

Rannsóknargögnin sem fylgdu ákærunni í málinu eru, eins og áður segir, rúmar 6000 blaðsíður af skjölum auk annarra gagna.  Við málsmeðferðina hefur komið á daginn að ákæruvaldið byggir málatilbúnað sinn einungis á hluta af þeim.  Var það andstætt grunnhugsun 134. gr. laga um meðferð sakamála að leggja fram margvísleg óþörf skjöl með ákærunni, sem þá hlaut að mega sjá fyrir að ekki yrðu prófuð eða færð fram við málsmeðferðina, sbr. 111. gr. laganna.  Ítrekuðum tilmælum dómsins til ákæruvaldsins fyrir aðalmeðferð í málinu um að útbúið yrði hefti eða „ágrip“ með afriti af þeim skjölum sem færð yrðu fram í málinu var synjað.  Loks er þess að geta að skjalaröðin í málinu virðist að nokkru leyti vera handahófskennd.  Hafa þessir saksóknarhættir valdið óþarfri fyrirhöfn í meðferð málsins.

Dóminn kveða upp Pétur Guðgeirsson héraðsdómari, Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari og Sigurbjörn Einarsson viðskiptafræðingur.

DÓMSORÐ:

                Ákærðu, X, Y og Z, eru sýknir af ákæru í máli þessu.

Málsvarnarlaun verjenda ákærðu, þeirra Harðar Felix Harðarsonar hrl., verjanda ákærða X, 14.829.780 krónur, Gests Jónssonar hrl., verjanda ákærða Y, 9.530.640 krónur og Kristínar Edwald hrl., verjanda ákærða Z, 8.766.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.