Print

Mál nr. 600/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Skuldajöfnuður
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Stjórnarskrá
  • Afturvirkni
  • Sératkvæði

Miðvikudaginn 15. febrúar 2012.

Nr. 600/2011.

Sigurður Hreinn Sigurðsson og

Maria Elvira Mendez Pinedo

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

(Hlynur Jónsson hrl.

Jóhann Pétursson hdl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldajöfnuður. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Stjórnarskrá. Afturvirkni. Sératkvæði.

Með dómi Hæstaréttar hafði verið skorið úr um að lán sem hjónin S og M tóku hjá F hf. væri í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og að um vexti af skuldbindingum þeirra samkvæmt lánssamningnum færi eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Í málinu laut deila aðila að því hvort F hf. hefði að gengnum áðurgreindum dómi Hæstaréttar átt fjárkröfu á hendur S og M samkvæmt lánssamningi vegna liðins tíma og, ef fallist yrði á að svo væri, hvort F hf. hefði mátt nota kröfuna til skuldajafnaðar á móti kröfu S og M um málskostnað sem þeim var dæmdur. Hæstiréttur rakti þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er og undantekningu frá þeirri reglu, þess efnis að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrði fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Þá sló rétturinn því föstu að greiðslutilkynningar F hf. og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum S og M í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum. Taldi Hæstiréttur það standa F hf. nær en S og M að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og að hinn rangi lagaskilningur aðila, sem lá til grundvallar lögskiptum þeirra, yrði í uppgjöri einungis leiðréttur til framtíðar. F hf. gæti því ekki krafið S og M um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, en á því var yfirlýsing hans um skuldajöfnuð byggð. Þá vísaði Hæstiréttur til laga nr. 151/2010 og taldi að með almennum lögum væri ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reyndi í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gætu lögin því ekki haggað áðurgreindri niðurstöðu um uppgjör milli aðila. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að skilyrði skuldajafnaðar hefðu ekki verið fyrir hendi og var kröfu S og M um málskostnað samkvæmt dómi réttarins í máli nr. 604/2010 skipað í réttindaröð við slit sem búskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 3. nóvember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2011, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila en tekin til greina krafa varnaraðila um viðurkenningu á heimild til skuldajafnaðar 16. febrúar 2011 með kröfu samkvæmt veðskuldabréfi nr. 712986 gegn kröfu sóknaraðila á hendur honum um greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 1.000.000 krónur samkvæmt dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í máli nr. 604/2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og viðurkennt að fyrrgreind krafa þeirra um greiðslu málskostnaðar njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila sem búskrafa samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 og að honum sé óheimilt að greiða kröfuna með skuldajöfnuði. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.

Mál þetta var munnlega flutt fyrir Hæstarétti 6. febrúar 2012.

I

Hinn 14. febrúar 2011 gekk dómur Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 milli málsaðila. Höfðu sóknaraðilar tekið fimm lán hjá varnaraðila á árunum 2004 og 2006 og töldu þau að í skuldabréfum, sem gefin höfðu verið út af því tilefni, væru ógildar skuldbindingar um viðmiðun lánsfjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla. Þau höfðu staðið í skilum með greiðslu afborgana og vaxta af bréfum þessum og gerðu við slit varnaraðila kröfu um viðurkenningu á rétti sínum til endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem þau töldu sig hafa ofgreitt. Í forsendum dóms Hæstaréttar var fallist á sjónarmið þeirra um að gengisákvæði umræddra skuldabréfa hefðu verið ógild. Þá kom fram í forsendunum að ekki kæmu til álita kröfur sóknaraðila um að greiða bæri svonefnda LIBOR vexti á óverðtryggðan höfuðstól skuldanna og heldur ekki krafa um 5% ársvexti svo sem þrautavarakrafa þeirra hafði hljóðað um. Í dóminum var tekið fram að ekki yrði tekin afstaða til þess hvernig fara skyldi um uppgjör þeirra fjárhæða sem á skorti svo að sóknaraðilar hefðu gert skil samkvæmt forsendum sem varnaraðili hefði tilgreint. Ekkert í endanlegri kröfugerð hans lyti að viðurkenningu á rétti til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma. Kæmi sá réttur því ekki til úrlausnar í málinu. Varð niðurstaða málsins sú að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á fjárkröfum úr hendi varnaraðila var hafnað en sóknaraðilum dæmdur málskostnaður vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi, 1.000.000 krónur.

Hinn 15. febrúar 2011 sendi lögmaður sóknaraðila tölvubréf til lögmanns varnaraðila og krafðist greiðslu á hinum tildæmda málskostnaði. Í svari lögmanns varnaraðila kom fram að honum sýndist „einboðið að beita skuldajöfnuði varðandi málskostnaðinn, enda skýrt skv. niðurstöðu Hæstaréttar að vangreiðslur umbj. þinna nema mun hærri fjárhæð.“ Hinn 16. febrúar 2011 gaf varnaraðili út greiðslukvittun til sóknaraðilans Sigurðar Hreins þar sem fram kom að skuldajafnað væri inn á lán nr. 712986 málskostnaðarkröfu sóknaraðila að fjárhæð 1.000.000 krónur. Miðast kröfur málsaðila við að varnaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði þennan dag vegna greiðslu sóknaraðila á skuld samkvæmt  skuldabréfi nr. 712986. Þetta bréf, sem gefið var út 26. janúar 2006 til 30 ára, var meðal þeirra skuldabréfa sem fjallað var um í hæstaréttarmálinu nr. 604/2010. Telja sóknaraðilar að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum skuldajafnaðar en varnaraðili byggir á því að skuldajöfnuður hafi verið honum heimill.

II

Ágreiningur málsaðila snýst í fyrsta lagi um hvort varnaraðili hafi að gengnum dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011 átt fjárkröfu á hendur sóknaraðilum samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi vegna liðins tíma. Því heldur varnaraðili fram og telur sig eiga kröfu á þeim grundvelli að vextir af þeim lánum, sem hvorki voru verðtryggð né bundin gengi erlendra gjaldmiðla, hefðu verið hærri en vextir af lánum í erlendri mynt, sem sóknaraðilar höfðu greitt á réttum gjalddögum. Er þá af hálfu varnaraðila vísað til þess að í skuldabréfi nr. 712986 hafi verið gert ráð fyrir að skuldin bæri vexti og líta yrði svo á að þá skyldi miða við vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem dæmt hefði verið að gengisbinding skuldbindingarinnar samkvæmt bréfinu væri ógild. Telur varnaraðili sig eiga kröfu aftur í tímann um slíka vexti af skuldabréfinu. Sóknaraðilar telja á hinn bóginn að þau hafi lokið greiðslu vaxta af bréfinu fyrir liðna tíð með því að hafa á réttum gjalddögum greitt þá vexti sem varnaraðili hafi krafist og síðan tekið við án athugasemda af sinni hálfu. Verði fallist á að varnaraðili eigi kröfu til vaxta vegna liðins tíma deila aðilar í öðru lagi um hvort varnaraðili hafi allt að einu mátt nota hana til skuldajafnaðar á móti kröfu sóknaraðila um málskostnaðinn sem þeim var dæmdur 14. febrúar 2011.

III

Í forsendum dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 kom meðal annars fram að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem fyrir lægi að óheimilt hefði verið að kveða á um. Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti. Var komist að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Í forsendum hæstaréttardómsins 14. febrúar 2011 var berum orðum sagt að fyrrgreindur dómur réttarins 16. september 2010 hefði fordæmisgildi við úrlausn ágreinings aðilanna um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningum þeirra. Með þessu var fallist á með varnaraðila að skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfi nr. 712986 skyldi bera allt frá upphafi vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

Sóknaraðilar halda því fram í málinu, að hvað sem líði þessari breytingu á vaxtaákvæðum skuldabréfs þeirra samhliða niðurfellingu á gengisbindingu höfuðstólsins í samræmi við hæstaréttardóminn 16. september 2010, teljist þau hafa fullgreitt vexti fyrir liðna tíð með því að hafa jafnan greitt þá í samræmi við greiðslutilkynningar varnaraðila, enda hafi hann ávallt tekið við greiðslunum án þess að gera fyrirvara um frekari kröfu um vexti síðar. Varnaraðili mótmælir þessu og vísar til þess að tilkynningar hans um greiðslur af láninu á gjalddögum hafi miðast við að í bréfinu væri gild skuldbinding um gengistryggingu höfuðstóls lánsins og útreikningur vaxta hefði miðast við það. Engin ástæða hafi verið til að gera fyrirvara við móttöku greiðslnanna þar sem fjárhæðir höfuðstóls og vaxta hafi tengst með þeim hætti að þeirra vaxta hafi verið krafist sem heimilt hafi verið að reikna af höfuðstólnum, að því gefnu að hann væri gengisbundinn. Eftir að niðurstaða sé fengin um að ekki hafi mátt gengisbinda höfuðstólinn, svo sem ótvírætt sé af forsendum hæstaréttardómsins 14. febrúar 2011, séu brostnar forsendur fyrir vaxtaútreikningi af láninu, vaxtafjárhæðum sem greindar hafi verið í greiðslutilkynningum og móttöku varnaraðila á greiðslum þeirra án fyrirvara hvert sinn. Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðilar teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.

IV

Það er meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Hvílir áherslan þá á því, að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Í þessu máli verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæðinni sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni.

 Sú meginregla að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum við skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu á sér örugga stoð í dómaframkvæmd, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 30. apríl 1998, bls. 1653 í dómasafni réttarins það ár. Af meginreglunni leiðir að einungis við sérstakar aðstæður verður tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu hafnað. Sú undantekning á sér einnig stoð í dómaframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar 10. september 1998, bls. 2735 í dómasafni réttarins það ár. Styðst undantekningin eins og áður segir meðal annars við þau rök, að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu væri lokið. Búa hér að baki sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en það getur haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hefur hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp hvað fortíðina varðar og honum í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar sínar um hið gagnstæða. Kemur þá til skoðunar hvort atvik séu með þeim sérstaka hætti í máli þessu að víkja beri frá framangreindri meginreglu og hafna tilkalli varnaraðila um viðbótargreiðslu, eins og sóknaraðili heldur fram.

Við mat á því hvort svo hagi til í máli þessu að heimilt sé að víkja frá meginreglunni er fyrst til þess að líta, að þegar sóknaraðilar á einstökum gjalddögum frá stofndegi kröfunnar og fram til 14. febrúar 2011 greiddu afborganir og vexti af skuldabréfi nr. 712986 gengu báðir aðilar út frá því að útreikningur varnaraðila á fjárhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Voru sóknaraðilar því í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem þau höfðu gengist undir gagnvart varnaraðila og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu. Misskilningur aðila í þessum efnum, sem byggði á röngum lagaskilningi og staðfestur var með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011, var sóknaraðilum því að öllu leyti afsakanlegur. Í öðru lagi ber að hafa í huga að skuldbinding sóknaraðila samkvæmt umræddu skuldabréfi var til langs tíma, eða þrjátíu ára, og skyldi hún greiðast með 120 afborgunum. Þegar nefndur dómur gekk 14. febrúar 2011 voru fimm ár liðin af lánstímanum. Sóknaraðilar höfðu þá greitt 20 afborganir af láninu ásamt vöxtum, þau ávallt verið í skilum með þær greiðslur, og fjárhæð viðbótarkröfu varnaraðila um vexti fyrir liðna tíð, 6.585.934 krónur, er umtalsverð þegar litið er til upphaflegrar lánsfjárhæðar sem var 19.200.000 krónur. Í þriðja lagi þykir skipta máli við úrlausn þessa álitaefnis að varnaraðili er fjármálafyrirtæki sem á lánamarkaði bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með ólögmætri gengistryggingu, og að skilmálar þess láns sem um ræðir í máli þessu voru samkvæmt einhliða ákvörðun varnaraðila og stöðluðum skilmálum hans hvað þau lán varðar.

Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og það lagt til grundvallar sem áður greinir, að greiðslutilkynningar varnaraðila og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum, þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðilum að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, en á því var yfirlýsing hans um skuldajöfnuð byggð.

V

Við málflutning fyrir Hæstarétti hefur bæði af hálfu sóknaraðila og varnaraðila verið vísað til ákvæða í lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Lög þessi hafa meðal annars að geyma ákvæði sem lúta að ákvörðun vaxta aftur í tímann af skuldum samkvæmt skuldabréfum þar sem ákvæði um gengistryggingu skuldar hafa verið talin andstæð lögum. Af skriflegum gögnum málsins í héraði verður ekki ráðið að lög þessi hafi borið á góma við meðferð málsins þar, þó að þau hafi tekið gildi áður en ágreiningi málsaðila var vísað til meðferðar héraðsdóms.

Með almennum lögum er ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reynir í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan. 

VI

Af framansögðu leiðir að varnaraðili átti ekki kröfu á hendur sóknaraðilum vegna vangreiddra vaxta af skuldabréfi nr. 712986 fyrir liðna tíð þegar hann lýsti yfir skuldajöfnuði 16. febrúar 2011. Verður því fallist á með sóknaraðilum að skort hafi á að skilyrði skuldajafnaðar væru til staðar umrætt sinn, og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Af því leiðir að krafa sóknaraðila um greiðslu málskostnaðar í hæstaréttarmáli nr. 604/2010, að fjárhæð 1.000.000 krónur, er viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila, en við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram hjá málsaðilum að sú staða kröfunnar í réttindaröð er óumdeild.

Samkvæmt þessum málsúrslitum ber að dæma varnaraðila til þess að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Krafa sóknaraðila, Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru Mendez Pinedo, vegna málskostnaðar í hæstaréttarmáli nr. 604/2010 að fjárhæð 1.000.000 krónur, er viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankans hf.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum hvoru um sig samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Ingibjargar Benediktsdóttur og

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Við erum sammála því sem segir í köflum I-III í atkvæði meirihlutans, þar sem lýst er aðdraganda þess ágreinings sem hér er til úrlausnar og meginefni hans. Það sem hér fer á eftir viljum við að komi í stað kafla IV-VI í atkvæði meirihlutans.

IV

Það er meginregla í kröfurétti að kröfuhafi sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt var. Frá þessari meginreglu eru þó þýðingarmiklar undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum uppfylltum valdið því að hann glati frekari kröfu. Hvílir áherslan þá á því, að skuldarinn hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafans um að greiðslu væri lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann væri búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og gæti treyst því að ekki kæmi til frekari kröfu síðar. Í þessu máli má telja að greiðslutilkynningar sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæðinni sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka greiðslu í samræmi við tilkynninguna hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll á viðkomandi gjalddaga. Þegar sóknaraðilar greiddu af láni sínu á gjalddögum þess í samræmi við greiðslutilkynningar varnaraðila var báðum aðilum á hinn bóginn ljóst að útreikningur varnaraðila á fjárhæð afborgana og vaxta var byggður á því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild og lánið bæri því þá vexti sem um hafði verið samið og lánareglur gerðu ráð fyrir að slík lán bæru. Sóknaraðilar vildu ekki una ákvæðum bréfsins um gengisbindingu höfuðstóls skuldarinnar. Í forsendum dóms Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í máli nr. 604/2010 var fallist á sjónarmið sóknaraðila um að gengisbinding höfuðstólsins hefði verið ólögmæt frá upphafi. Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðilum að þau geti annars vegar byggt á því að tilkynningar varnaraðila til þeirra um útreikning afborgana af höfuðstól lánsins með gengistryggingu hafi verið með þeim hætti að þau væru ekki bundin við að greiða þær, en á hinn bóginn teljist þau hafa fullgreitt vexti sem reiknaðir voru út í sömu tilkynningum þar sem gengisbindingin var bein forsenda fyrir útreikningi vaxtanna. Verður ekki talið að sóknaraðilar hafi haft, er þau greiddu afborganir sínar og varnaraðili tók við þeim án sérstaks fyrirvara, réttmæta ástæðu til að treysta því að vextirnir væru endanlega greiddir þó að sá þáttur skuldarinnar sem ótvírætt var forsenda fyrir útreikningi vaxtanna ætti eftir að sæta endurskoðun. Samkvæmt þessu er fallist með varnaraðila að hann hafi, þegar dómur Hæstaréttar 14. febrúar 2011 var genginn, átt kröfu um vangreidda vexti af láninu vegna liðins tíma.

V

Við málflutning fyrir Hæstarétti hefur af hálfu beggja málsaðila verið vísað til ákvæða í lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara, en lög þessi hafa meðal annars að geyma ákvæði sem lúta að ákvörðun vaxta aftur í tímann af skuldum samkvæmt skuldabréfum þar sem ákvæði um gengistryggingu skuldar hafa verið talin andstæð lögum. Af skriflegum gögnum málsins í héraði verður ekki ráðið að lög þessi hafi borið á góma við meðferð málsins þar, þó að þau hafi tekið gildi áður en ágreiningi málsaðila var vísað til meðferðar héraðsdóms.

Framangreind úrlausn á ágreiningi málsaðila ræðst af réttarstöðu þeirra á þeim tíma sem sóknaraðilar greiddu afborganir af láni sínu í samræmi við greiðslutilkynningar varnaraðila. Með almennum lögum er ekki unnt að breyta með afturvirkum hætti reglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá þeim sem teljast hafa gilt þegar til þeirra var stofnað eða af þeim greitt. Þykja lög nr. 151/2010 þegar af þessari ástæðu ekki skipta máli við úrlausn á ágreiningi málsaðila.

VI

Af framansögðu leiðir að varnaraðili átti viðbótarkröfu á hendur sóknaraðilum vegna vaxta af skuldabréfi nr. 712986 fyrir liðinn tíma. Með yfirlýsingu um skuldajöfnuð 16. febrúar 2011 á móti kröfu sóknaraðila um málskostnað í máli nr. 604/2010 telst varnaraðili hafa nægilega krafist greiðslu á hinum vangreiddu vöxtum að því leyti sem í skuldajöfnuðinum fólst. Ekki er ágreiningur um að vaxtakrafa varnaraðila, sem að framan greinir, var með hærri fjárhæð en krafa sóknaraðila um málskostnað samkvæmt þessum dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011, 1.000.000 krónur. Teljast skilyrði fyrir skuldajöfnuði því hafa verið uppfyllt og ber því að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um það efni.

Eftir að fallist hefur verið á rétt varnaraðila til að greiða kröfu sóknaraðila með skuldajöfnuði hafa þeir ekki lengur réttarhagsmuni af kröfu sinni um stöðu kröfunnar samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, þar sem þeir hafa fengið hana greidda. Eru því ekki efni til að leysa úr þeirri kröfu sérstaklega.

Við teljum að staðfesta beri ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 172. gr. laga nr. 21/1991, teljum við rétt að fella niður kærumálskostnað.

                                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2011.

Mál þetta, sem þingfest var 11. maí sl., var tekið til úrskurðar 30. september sl. Sóknaraðilar eru Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira Mendez Pinedo, Grundarstíg 4, Reykjavík.

Varnaraðili er Frjálsi fjárfestingabankinn hf., Lágmúla 6, Reykjavík.

Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að krafa þeirra um greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 1.000.000 króna, samkvæmt dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2001 í Hæstaréttarmáli nr. 604/2010, njóti rétthæðar samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila og að varnaraðila sé óheimilt að beita skuldajöfnuði við uppgjör kröfunnar. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfestur verði skuldajöfnuður sem framkvæmdur var 16. febrúar 2011 á dæmdum málskostnaði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 að fjárhæð 1.000.000 krónur upp í vangreiðslur vegna láns sóknaraðila hjá varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 712986. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Innköllun vegna slitanna birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 22. júlí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 22. október 2009. Sóknaraðilar lýstu kröfum við slitameðferð varnaraðila sem byggðust á því að þeir töldu sig eiga kröfur á hendur honum vegna ólögmætrar gengistryggingar lána þeirra hjá honum. Kröfum þeirra var hafnað af slitastjórn varnaraðila og ágreiningi um þær vísað til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 frá 14. febrúar 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að lán sóknaraðila hjá varnaraðila væru í íslenskum krónum bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Kröfum sóknaraðila um viðurkenningu krafna þeirra og fjárkröfum sem byggðu á því að lánin ættu að bera svokallaða LIBOR vexti var hafnað, en varnaraðili var dæmdur til að greiða þeim málskostnað í héraði að fjárhæð 1.000.000 króna og kærumálskostnaður felldur niður.

Þann 16. febrúar sl. beitti varnaraðili skuldajöfnuði upp í vangreidda vexti vegna eins af lánum sóknaraðila hjá honum. Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort varnaraðila sé skylt að greiða dæmdan málskostnað sem búskröfu, sbr. 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, eða hvort honum hafi verið heimilt að gera málskostnaðinn upp með því að lækka skuld sóknaraðila samkvæmt ógreiddum lánssamningi þeirra.

II

Sóknaraðilar kveða kröfu sína um stöðu kröfu sinnar í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila reista á því að krafan hafi orðið til í dómsmáli milli þeirra og slitastjórnar varnaraðila. Slíkar kröfur séu kallaðar búskröfur og falli undir 2. tölulið eða eftir atvikum 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þær beri að greiða eftir því sem þær falli til. Sú krafa sem málið snúist um sé ákveðin af Hæstarétti og ætti því ekki að þurfa að deila um greiðsluskylduna.

Varnaraðili hafi ákveðið einhliða að færa fjárhæðina til frádráttar tiltekinni skuld sóknaraðila við hann. Sú krafa varnaraðila byggist á skuldabréfi sem varnaraðilar hafi ætíð haldið í skilum með því að greiða umkrafðar afborganir á réttum tíma, allt frá stofndegi kröfunnar. Af þeim sökum telji sóknaraðilar að ekki séu fyrir hendi skilyrði skuldajafnaðar. Ágreiningur sé til staðar um hvernig reikna beri kröfu varnaraðila út eftir að dómur hafi gengið í máli Hæstaréttar nr. 604/2010. Sá ágreiningur sé fyrst og fremst til kominn vegna ráðstöfunar varnaraðila á sakarefni í því máli, en hann hafi fallið frá þeirri kröfu sinni í málinu að dæmt yrði hvort endurútreikningur vaxta skyldi vera afturvirkur, allt til útborgunardags þess láns. Hafi því ekki verið dæmt um það atriði. Sóknaraðilar vísi því alfarið á bug að varnaraðili hafi átt einhverja gjaldfallna kröfu á hendur þeim sem hafi heimilað honum að greiða hinn dæmda málskostnað með skuldajöfnuði.

Þá benda sóknaraðilar á að þau hafi greitt af lánum til varnaraðila eins og þau hafi verið krafin um eftir beitingu skuldajafnaðarins, með fyrirvara um rétt til leiðréttinga. Þannig hafi lánunum verið haldið í skilum og annað standi ekki til.

Varðandi kröfu um málskostnað vísa sóknaraðilar til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Varnaraðili telur hafið yfir vafa að skilyrði skuldajafnaðar hafi verið fyrir hendi þegar dæmdur málskostnaður hafi verið greiddur 16. febrúar sl. Kröfurnar hafi verið gagnkvæmar, sambærilegar, hæfar til að mætast, gildar og lögvarðar. Af niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 604/2010, sbr. einnig mál nr. 471/2010, leiði að sóknaraðilar hafi vangreitt af láni nr. 712986 frá apríl 2006 til júlí 2009. Þannig hafi myndast vaxtaskuld sem varnaraðila hafi verið heimilt að skuldajafna móti hinni dæmdu málskostnaðarkröfu í samræmi við almennar reglur.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 frá 16. september 2010 hafi verið tekist á um við hvaða vexti skyldi miða í þeim tilvikum er lán í íslenskum krónum hafi verið gengistryggt með ólögmætum hætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Komi þar meðal annars fram að óhjákvæmilegt sé „að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð“. Síðan segi: „Í samningnum var ákveðið að skuld gagnáfrýjanda bæri vexti. Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verður samkvæmt framansögðu ekki beitt er óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera.“

Í dóminum felist að gengistryggingarákvæði í lánssamningum séu ógild frá upphafi og þar af leiðandi að vettugi virðandi. Það sama gildi um samningsákvæði um LIBOR vexti þar sem „bein og órjúfanleg tengsl“ séu þarna á milli. Af þeirri ástæðu séu forsendur Hæstaréttar í málinu orðaðar með þeim hætti að „atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera“. Hafi það verið niðurstaða Hæstaréttar í málinu að lánssamningur Lýsingar hafi borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá stofndegi sem skyldu á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna. Í IV. kafla dóms Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 sé vísað til dómsins í máli nr. 471/2010 sem fordæmis um vaxtahæð veðskuldabréfa sóknaraðila.

Í V. kafla dóms Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 sé ítarleg grein gerð fyrir skjali sem sýni stöðu lána sóknaraðila hjá varnaraðila þann 17. janúar 2011 miðað við mismunandi forsendur. Sóknaraðilar hafi ekki gert tölulegar athugasemdir við skjalið, eins og fram komi í dóminum, og telji varnaraðili að sóknaraðilar séu bundnir af þeirri yfirlýsingu. Eins og fram komi á skjölum þar sem gerð sé grein fyrir stöðu lána hafi sóknaraðilar greitt afborganir af láni nr. 712986 frá fyrsta gjalddaga til 17. janúar sl., samtals 7.925.205 krónur. Þessar afborganir hafi tekið mið af hinni ólögmætu gengistryggingu og LIBOR vöxtum. Samkvæmt dómi Hæstaréttar hafi lán sóknaraðila hins vegar verið óverðtryggt og borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá stofndegi. Af því leiði að sóknaraðilar hefðu með réttu átt að greiða ríflega 14 milljónir króna í afborganir af láninu á sama tímabili. Af þessu leiði að sóknaraðilar hafi vangreitt af láninu um sjö milljónir króna. Vangreitt hafi verið af láninu frá fyrsta gjalddaga þess í apríl 2006 til gjalddaga í júlí 2009. Hinum dæmda málskostnaði hafi verið skuldajafnað upp í þessar vangreiðslur, en kröfur vegna þeirra hafi stofnast og gjaldfallið á hverjum gjalddaga fyrir sig eða í síðasta lagi við uppkvaðningu dóms í máli Hæstaréttar nr. 604/2010 þann 14. febrúar sl. Varnaraðili veki sérstaka athygli á því að vangreiðslur sóknaraðila séu ekki dráttarvaxtareiknaðar og sé það sóknaraðilum ótvírætt til hagsbóta.

Varnaraðili geti ekki fallist á það með sóknaraðilum að skuldajöfnuðurinn hafi verið ótækur af þeirri ástæðu einni að sóknaraðilar hafi ætíð haldið skuldabréfinu í skilum með því að greiða umkrafðar afborganir. Í niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 felist að forsendur afborganafjárhæða af skuldabréfinu hafi verið rangar vegna villu beggja aðila um raunverulega skilmála þess. Af sömu ástæðu sé ljóst að forsendur fyrir afborgunum sóknaraðila sem „fullnaðarafborgunum“ á hverjum gjalddaga séu rangar og brostnar. Á hvorn veginn sem á málið sé litið telji varnaraðili ljóst að sóknaraðilar hafi sannanlega vangreitt af láni sínu samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 604/2010.

Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga og rangar og brostnar forsendur og til meginreglna kröfuréttar um skuldajöfnuð. Þá er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Með dómi Hæstaréttar í máli sóknaraðila gegn varnaraðila nr. 604/2010 var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðilum 1.000.000 króna í málskostnað. Kröfum sóknaraðila um viðurkenningu krafna þeirra og fjárkröfum sem byggðu á því að lán þeirra ættu að bera svokallaða LIBOR vexti var hafnað í málinu. Þá var talið að lánin bæru vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort varnaraðili eigi gjaldfallna kröfu á hendur sóknaraðilum vegna láns nr. 712986 og geti þá greitt kröfu sóknaraðila um málskostnað með skuldajöfnuði.

Sóknaraðilar hafna því að varnaraðili eigi gjaldfallna kröfu á hendur þeim sem hafi heimilað honum að greiða málskostnaðinn með skuldajöfnuði. Þar sem þau hafi greitt allar þær afborganir sem varnaraðili hafi krafist eigi hann ekki frekari kröfu á hendur þeim vegna þeirra afborgana. Um fullnaðargreiðslur vegna hverrar afborgunar hafi verið að ræða og varnaraðila sé ekki heimilt að krefjast greiðslu aftur í tímann. Varnaraðili telur hins vegar af dómi Hæstaréttar leiða að endurreikna beri lánið frá útborgunardegi. Samkvæmt því hafi afborganir sóknaraðilar verið of lágar sem nemi rúmlega sex milljónum króna. Ekki skipti máli að sóknaraðilar hafi haldið láninu í skilum. Forsendur fyrir afborgun fjárhæða af skuldabréfinu hafi verið rangar vegna villu beggja aðila um raunverulega skilmála þess.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 604/2010 kemur fram að samkvæmt útreikningum varnaraðila á lánum sóknaraðila, miðað við þær forsendur að lánin séu óverðtryggð í íslenskum krónum og beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, skorti á að full skil hafi verið gerð. Hefur varnaraðili lagt fram yfirlit með samanburði raunafborgana og afborgana í samræmi við þær forsendur sem sýnir fram á skuld sóknaraðila. Með vísan til þessa og niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 verður talið að varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðilum vegna láns nr. 712986 og að hún hafi gjaldfallið við gjalddaga hverrar afborgunar, enda var samið um reglulegar afborganir af láninu.

Sóknaraðilar telja að varnaraðili geti ekki krafist greiðslu af þeim þar sem fyrirvaralaus móttaka greiðslu fyrir hverri afborgun hafi verið fullnaðargreiðsla. Ljóst er að aðilar voru í villu um forsendur að baki lánasamningi þeirra. Töldu báðir aðilar að greiðslur sóknaraðila væru réttar í samræmi við ákvæði samnings þeirra. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 604/2010 var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að samningur aðila væri að hluta ógildur og að um vexti af láninu færi eftir 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001. Reistu aðilarnir útreikning afborgana á forsendu sem reyndist röng frá upphafi. Verður því talið að varnaraðili sé ekki bundinn við umkrafðar afborganir og geti krafið sóknaraðila um frekari greiðslur. Þar sem kröfur beggja aðila eru fallnar í gjalddaga, eru samkynja og virðast að öðru leyti hæfar til að mætast þykja skilyrði skuldajafnaðar vera fyrir hendi í málinu.

Að framansögðu virtu verður kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á kröfu þeirra um að krafa þeirra um greiðslu málskostnaðar njóti rétthæðar samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila og að varnaraðila sé óheimilt að beita skuldajöfnuði við uppgjör kröfunnar hafnað, en fallist á kröfu varnaraðila um að staðfestur verði skuldajöfnuður sem fram fór 16. febrúar 2011 á málskostnaðinum upp í skuld sóknaraðila hjá varnaraðila.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir, eins og atvikum málsins er háttað, rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfum sóknaraðila, Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru Mendez Pinedo, er hafnað.

Staðfestur er skuldajöfnuður sem framkvæmdur var 16. febrúar 2011 á dæmdum málskostnaði í máli Hæstaréttar nr. 604/2010 að fjárhæð 1.000.000 króna upp í vangreiðslur vegna láns sóknaraðila hjá varnaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., samkvæmt veðskuldabréfi nr. 712986.

Málskostnaður fellur niður.