Print

Mál nr. 604/2010

Lykilorð
  • Kærumál
  • Samningur
  • Lán
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Kröfugerð
  • Sérálit

Mánudaginn 14. febrúar 2011.

Nr. 604/2010.

Sigurður Hreinn Sigurðsson og

Maria Elvira Mendez Pinedo

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.

Hlynur Jónsson hdl.)

Kærumál. Samningur. Lán. Gengistrygging. Vextir. Kröfugerð. Sérálit.

Hjónin S og M tóku fimm lán hjá F hf. til húsnæðiskaupa á árunum 2004 og 2006. F hf. var skipuð slitastjórn í júní 2009. S og M töldu sig hafa ofgreitt af lánum sínum hjá F hf. og lýstu kröfum þar að lútandi við slit F hf., sem slitastjórn F hf. hafnaði. S og M höfðuðu mál þetta á hendur F hf. til viðurkenningar á kröfum sínum við slit F hf. Ágreiningur aðila laut einkum að tvennu. Annars vegar því hvort skuldbinding S og M samkvæmt lánssamningum hafi verið ákveðin í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Hins vegar hvaða vexti skuldin bæri yrði niðurstaðan sú að höfuðstóllinn væri í íslenskum krónum og að óheimilt hefði verið að binda fjárhæð hans við breytingar á gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Um hið fyrrnefnda taldi Hæstiréttur að um ræddi lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og vísaði í því samhengi til dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010. F hf. bar sérstaklega fyrir sig að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hefði það verið til hagsbóta fyrir skuldara. Hæstiréttur vísaði til þess að umrætt lagaákvæði hefði að geyma undantekningu frá meginreglu laga nr. 38/2001 um að óheimilt væri að semja um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum, og að F hf. bæri sönnunarbyrði fyrir því að hagstæðari kosturinn fyrir skuldara hefði orðið ofan á. Við mat á því hvort lánskjör hefðu verið S og M til hagsbóta í samanburði við annan kost sem þeim stóð til boða, gæti engum úrslitum ráðið hvort svo kynni að hafa verið á því tímamarki sem lánin voru tekin. Var F hf. talið óheimilt að verðtryggja lán S og M með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Um hið síðarnefnda vísaði Hæstiréttur til dóms réttarins frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, sem hann taldi að væri fordæmi fyrir úrlausn um vexti í málinu að því marki sem atvik væru sambærileg og málsástæður féllu saman við það sem var í málinu. Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu í þessum efnum. Í málinu byggðu S og M sérstaklega á ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán, einkum 14. gr. þeirra, sem þau töldu eiga að leiða til annarrar niðurstöðu um vexti. Niðurstaða Hæstaréttar var á hinn bóginn sú að umrætt ákvæði haggaði ekki fordæmisgildi dóms réttarins frá 16. september 2010. Um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningum S og M færi því eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 og skyldu þeir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Loks segir í dómi Hæstaréttar að kröfur S og M væru í mörgum liðum og bæði hafðar uppi sem fjárkröfur og viðurkenningarkröfur. Fjárhæðir næmu því sem væri umfram greiðsluáætlanir og væru meðal annars fundnar á grundvelli forsendna um vexti, sem hefði verið hafnað. Samkvæmt þessum forsendum fyrir útreikningum hefðu sóknaraðilar ekki ofgreitt af lánum sínum heldur skorti þvert á móti upp á að full skil teldust hafa verið gerð. Kröfum um viðurkenningu á tilgreindum fjárhæðum við slit F hf. var því hafnað. Fyrir Hæstarétti héldu S og M því fram að þau teldu ekki fá staðist að vaxtaskilmálum lánanna yrði breytt aftur í tímann og að fyrirvaralaus móttaka greiðslu fyrir hverri afborgun væri fullnaðargreiðsla. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að kröfur S og M lytu ekki að uppgjöri á vaxtaskuld þeirra vegna liðins tíma, né heldur væri nokkuð í kröfugerð F hf. sem varðaði viðurkenningu á rétti til greiðslu úr hendi S og M vegna liðins tíma. Vegna þessa taldi Hæstiréttur að framangreind umfjöllun S og M fæli í sér lögspurningu sem kæmi ekki til álita í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2010, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í fyrsta lagi krefjast sóknaraðilar aðallega viðurkenningar á því að krafa þeirra að fjárhæð 1.625.952 krónur njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila sem búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að henni verði skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Í öðru lagi krefjast sóknaraðilar viðurkenningar á því að kröfu þeirra að fjárhæð 13.698.797 krónur verði skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í þriðja lagi krefjast sóknaraðilar aðallega viðurkenningar á því að þeim verði að hámarki gert að greiða varnaraðila 10.106.216 krónur vegna láns nr. 000033, 24.525.304 krónur vegna láns nr. 712986, 8.779.350 krónur vegna láns nr. 713011 og 16.144.530 krónur vegna láns nr. 713020, í öllum tilvikum að teknu tilliti til niðurgreiðslna á höfuðstól. Til vara krefjast þau að ákvæði 2. gr. í skilmálum veðskuldabréfa, sem útgefin voru af sóknaraðilum fyrir framangreindum fjórum lánum, verði hvert fyrir sig ógilt með dómi og viðurkennt að skuldir sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfunum séu í íslenskum krónum en haldi að öðru leyti gildi sínu. Til þrautavara krefjast þau að ákvæði 2. gr. í skilmálum veðskuldabréfanna verði hvert fyrir sig ógilt með dómi og viðurkennt að skuldir sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfunum séu í íslenskum krónum og að ákvæðum þeirra, hvers um sig, verði breytt á þá leið að lánsfjárhæðin beri 5% ársvexti. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 12. október 2010. Endanleg krafa hans er sú að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um að hafna kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt fyrir réttinum 19. janúar 2011.

I

Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði eru sóknaraðilar hjón sem tóku fimm lán hjá varnaraðila til húsnæðiskaupa, hið fyrsta síðla árs 2004 en hin fjögur á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2006. Veðskuldabréf, sem gefin voru út í tilefni af hverri lánveitingu, eru eins hvað texta og skilmála varðar að undanskilinni lánsfjárhæð, lánstíma, gengisviðmiðun og vöxtum. Skuldabréfin bera öll fyrirsögnina „Veðskuldabréf: Fasteignalán í erlendri mynt“ og áritunina „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Lánsfjárhæð skuldabréfanna er tiltekin fjárhæð í íslenskum krónum, en tekið fram að hún sé „jafnvirði“ nánar tilgreindra erlendra mynta í hlutföllum sem þar greinir. Í 2. gr. skuldabréfanna er meðal annars kveðið á um að lánið sé „bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn.“ Skuldabréfin fimm eru þannig:

1.      Skuldabréf nr. 000033, útgefið 29. október 2004 til 20 ára, lánsfjárhæð 7.700.000 krónur í evrum (EUR 100%), með þriggja mánaða LIBOR vöxtum og 1,40% vaxtaálagi, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Mjóstræti 6 í Reykjavík. Skilmálum var breytt 20. janúar 2006 og 8. apríl 2008 og var lánið eftirleiðis bundið við gengi japanskra yena (JPY 50%) og svissneskra franka (CHF 50%) að jöfnu.

2.      Skuldabréf nr. 712986, útgefið 26. janúar 2006 til 30 ára, lánsfjárhæð 19.200.000 krónur í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%), með þriggja mánaða LIBOR vöxtum og 1,50% vaxtaálagi, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Suðurgötu 8 í Reykjavík. Skilmálum var lítillega breytt 9. apríl 2008.

3.      Skuldabréf nr. 713020, útgefið 26. janúar 2006 til 30 ára, lánsfjárhæð 12.600.000 krónur í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%), með þriggja mánaða LIBOR vöxtum og 1,50% vaxtaálagi, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Suðurgötu 8. Skilmálum var lítillega breytt 9. apríl 2008.

4.      Skuldabréf nr. 713011, útgefið 23. febrúar 2006 til 25 ára, lánsfjárhæð 7.185.000 krónur í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%), með þriggja mánaða LIBOR vöxtum og 1,40% vaxtaálagi, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Mjóstræti 6. Skilmálum var lítillega breytt 8. apríl 2008.

5.      Skuldabréf nr. 712990, útgefið 22. febrúar 2006 til 25 ára, lánsfjárhæð 11.287.000 krónur í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%), með þriggja mánaða LIBOR vöxtum og 1,35% vaxtaálagi, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Sogavegi 78 í Reykjavík. Sóknaraðilar greiddu lánið upp að fullu 31. október 2008.

Við útgáfu hvers skuldabréfs var sóknaraðilum afhent fylgiskjal, sem var eins konar greiðsluáætlun. Í fylgiskjalinu var yfirlit yfir greiðslur á hverjum hinna nánar tilgreindu gjalddaga, þar sem fram kom við hvern þeirra hvernig hverri greiðslu yrði skipt í afborgun, vexti og kostnað, allt í íslenskum krónum. Við sama tækifæri undirrituðu sóknaraðilar skjal með yfirskriftinni „YFIRLÝSING: Fylgiskjal með láni í erlendri mynt“. Þar lýsa sóknaraðilar því yfir að þeir geri sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hafi kynnt þeim sérstaklega. Þá segir þar meðal annars: „Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a. í því, að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána með ofangreindum hætti, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri mynt hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því, að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, 3 mánaða LIBOR/EURIBOR vöxtum, með föstu álagi.“

Svo sem þegar er rakið greiddu sóknaraðilar upp lán samkvæmt skuldabréfi nr. 712990 í októbermánuði 2008. Ekki er annað komið fram en að sóknaraðilar hafi staðið í skilum við varnaraðila hvað hin fjögur lánin varðar.

II

Ágreiningur málsaðila lýtur í meginatriðum að tvennu. Í fyrsta lagi greinir þá á um hvort skuldbinding sóknaraðila samkvæmt öllum veðskuldabréfunum hafi verið ákveðin í íslenskum krónum eða erlendum myntum, þar sem varnaraðili heldur hinu síðarnefnda fram, en til vara byggir hann á því að höfuðstóllinn hafi með lögmætum hætti verið ákveðinn í íslenskum krónum og að hann skuli jafnframt breytast á lánstímanum í takt við breytingar á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum sem við sé miðað í skuldabréfunum. Í öðru lagi snýst deila aðilanna um hvaða vexti skuldin beri verði niðurstaðan sú að höfuðstóllinn sé í íslenskum krónum og að óheimilt hafi verið að binda fjárhæð hans við breytingar á gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Sóknaraðilar halda fram að þá eigi ákvæði lánssamninganna að standa óhögguð um annað en gengisviðmiðun þannig að greiða skuli LIBOR vexti með álagi eins og skuldabréfin kveði á um. Varnaraðili heldur á hinn bóginn fram að við þær aðstæður beri að greiða þá vexti, sem eru á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá halda sóknaraðilar fram að áðurnefndar greiðsluáætlanir hafi verið hluti af lánssamningunum og þeim sé óskylt að greiða hærri fjárhæðir á einstökum gjalddögum en þar komi fram. Varnaraðili mótmælir að þær hafi verið hluti af samningum aðila heldur aðeins kynning á fjárhæð afborgana að öllum forsendum óbreyttum.

Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr ágreiningi lánveitenda og lántaka þar sem deiluefnið var um höfuðstól skulda svonefndra bílalána og atvik voru að öðru leyti um margt áþekk og er í þessu máli og lýst var að framan. Niðurstaðan varð þar sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls skuldabréfanna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt. Sóknaraðilar byggja á því að ágreiningsefnið nú sé að þessu leyti í raun hið sama og í áðurnefndum málum og að niðurstaðan í þeim feli í sér skýrt fordæmi fyrir úrlausnarefnið. Varnaraðili heldur á hinn bóginn fram að sitthvað sé með öðru móti nú, sem ætti að leiða til gagnstæðrar niðurstöðu. Kröfugerð málsaðila í fyrrnefndum málum gaf á hinn bóginn ekki tilefni til að í þeim yrði leyst úr hvernig færi um vexti að fenginni niðurstöðu um að tenging lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla væri ólögmæt. Úrlausn um það álitaefni fékkst 16. september 2010 með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 þar sem um var að ræða sams konar bílalán og í fyrrnefndu málunum, en samkvæmt dóminum skulu þá greiddir vextir jafnháir þeim, sem Seðlabanki Íslands ákveður af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.

Varnaraðili byggir á því að verði niðurstaðan sú að skuldin sé í íslenskum krónum og án þess að vera tengd gengi erlendra gjaldmiðla, beri að ákveða vexti á sama veg og gert var í áðurnefndum dómi Hæstaréttar, sem eigi þá beint við. Sóknaraðilar halda á hinn bóginn fram að staðan sé ólík nú þannig að greiða beri þá vexti, sem samið hafi verið um og skuldabréfin beri með sér eins og fram er komið.

III

Eins og að framan greinir heldur varnaraðili fram að lánin hafi verið ákveðin í erlendri mynt, gagnstætt því sem var í málunum sem skorið var úr með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010, en lánveiting í erlendri mynt sé lögmæt. Úrlausn um það hvort lán teljist vera í íslenskum krónum eða erlendri mynt ráðist af atvikum hverju sinni, en hér sé margt með öðru móti en í áðurnefndum málum. Þar beri einkum að nefna að í fyrirsögn veðskuldabréfanna sé tekið fram að um sé að ræða lán í erlendri mynt. Hið sama eigi við um skjöl vegna skilmálabreytinga, þar sem í fyrirsögn sé vísað til slíkra lána. Við útborgun lánanna hafi sóknaraðilar jafnframt fengið sendar kaupnótur, þar sem tekið sé fram að lánin séu veitt í erlendri mynt, sem seld hafi verið sama dag fyrir íslenskar krónur. Á öllum greiðsluseðlum og kvittunum, sem varnaraðili hafi sent sóknaraðilum, hafi komið fram fjárhæð afborgunar í erlendri mynt, hvert gengi hennar væri gagnvart krónu og greiðslufjárhæð í íslenskum krónum. Sóknaraðilar hafi sótt um að fá lán í erlendri mynt og síðan undirritað yfirlýsingu um að þeim væri ljóst að lántaka með þessum hætti væri áhættumeiri en í íslenskum krónum. Um þetta og annað hafi sérhæfðir starfsmenn varnaraðila leiðbeint sóknaraðilum. Þá hafi þeim verið fullljóst að varnaraðili væri að endurlána þeim fé, sem hann hafi fengið frá erlendum lánastofnunum og bæri áhættu af í samræmi við það. Fyrirkomulag á útborgunum til sóknaraðila skipti ekki máli, en það sé í samræmi við nútíma bankaviðskipti. Engin skuldbinding eða loforð hafi falist í greiðsluáætlun, sem útbúin var samhliða lánsskjölum hverju sinni. Sóknaraðilum hafi verið frjálst að endurgreiða í erlendum myntum hefðu þau kosið svo. Að öllu virtu sé um erlent lán að ræða sem niðurstaða dóms hljóti að taka mið af. Verði á hinn bóginn talið að um sé að ræða lán í íslenskum krónum eigi lokamálsliður 2. gr. laga nr. 38/2001 við og tenging lánsfjárhæðar við gengi erlendra gjaldmiðla þá ekki andstæð ákvæðum VI. kafla laganna, en samkvæmt ákvæðinu sé ávallt heimilt að víkja frá lögunum til hagsbóta fyrir skuldara. Þegar sóknaraðilar tóku lánin hafi gengi íslensku krónunnar verið stöðugt gagnvart erlendum myntum og þau talið hag sínum best borgið með því að taka slík lán með tiltölulega lágum LIBOR vöxtum. Á þetta hafi ekki reynt í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, en lánastofnanir sem áttu aðild að þeim hafi ekki borið umrætt lagaákvæði fyrir sig.

Sóknaraðilar byggja á því að ekki sé um að ræða lán í erlendri mynt heldur íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík lán séu ólögmæt og niðurstaða Hæstaréttar um það í áðurnefndum dómum 16. júní 2010 eigi með sama hætti við í þessu máli. Breyti engu þótt orðalag samninga sé ekki hið sama í öllum atriðum. Helstu einkenni lánssamninganna séu þau að höfuðstóll lána sé einungis tilgreindur í íslenskum krónum og útborgun þeirra hafi verið í sömu mynt. Lánin hafi þegar verið endurgreidd að hluta með vöxtum í íslenskum krónum. Þá skuli endurgreiðslur og höfuðstóll lána breytast í samræmi við gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Þetta komi ítrekað fyrir í texta skuldabréfanna, orðað með ýmsu móti, svo sem að skuldabréf sé gengistryggt, lán sé bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á umræddum gjaldmiðlum og að höfuðstóll skuldar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það sé á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi þeirra milli gjalddaga. Sóknaraðilar hafi ekki fengið neinar erlendar myntir að láni og líta beri til efnis lánssamninganna frekar en forms. Þá hafi þeim heldur ekki verið gefinn kostur á að endurgreiða með erlendum gjaldmiðlum. Líkindi við úrlausnarefnið í málum, sem dæmd voru 16. júní 2010, séu augljós. Þá mótmæla sóknaraðilar að þau lánakjör, sem um var samið, hafi verið þeim hagfelld.

Í málinu reynir á hvort um sé að ræða erlend lán eða lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Sama álitaefni var til úrlausnar í áðurnefndum málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem hið síðarnefnda var talið felast í efni lánssamninga. Niðurstaðan var jafnframt sú að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, en reglur 13. gr. og 14. gr. laganna séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. þeirra, og verði ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum.

Að framan var gerð grein fyrir lánssamningum aðilanna, en þar skiptir mestu það efni þeirra að lánsfjárhæð var í öllum tilvikum ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá voru lánin bundin við sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum eins og áður er lýst, sem einnig bendir ótvírætt til að þau séu í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt, svo sem varnaraðili heldur fram að samningarnir kveði á um. Slík verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum er ólögmæt samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Að þessu virtu skiptir hvorki máli þótt staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn lánssamninga né yfirlýsing sóknaraðila um að skulda í erlendum gjaldmiðlum „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Aðrar fram bornar málsástæður varnaraðila fá heldur ekki hnekkt því að lánin voru ákveðin í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla.

Varnaraðili ber sérstaklega fyrir sig að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það verið til hagsbóta fyrir skuldara. Sá eini kostur annar, sem sóknaraðilum hafi staðið til boða hjá varnaraðila, hafi verið að taka lán í íslenskum krónum, bundin við innlenda verðvísitölu með vöxtum, sem slík lán beri. Það hefði á hinn bóginn verið mun óhagstæðara, enda hafi gengi íslenskrar krónu þá verið stöðugt gagnvart erlendum gjaldmiðlum og höfuðstóll lána sóknaraðila ekki hækkað. Varðandi þetta er þess að gæta að umrætt lagaákvæði hefur að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu laga nr. 38/2001 að óheimilt er að semja um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum, og varnaraðili ber sönnunarbyrði fyrir því að hagstæðari kosturinn fyrir skuldara  hafi orðið ofan á. Áður var getið sérstakrar yfirlýsingar, sem varnaraðili lét sóknaraðila undirrita samhliða lánsskjölum, um að þeim væri ljóst að meiri áhætta fylgdi slíkri lántöku en láni í íslenskum krónum. Sóknaraðilar tóku fyrsta lán sitt hjá varnaraðila á árinu 2004, en þá hafði gengi íslenskrar krónu verið stöðugt um skeið gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Hin fjögur lánin voru öll tekin 2006, en á því ári tók að gæta óstöðugleika á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og tveimur árum síðar féll gengi krónunnar mjög mikið. Lán sóknaraðila voru ýmist til 20, 25 eða 30 ára og óvissu háð hvernig höfuðstóll og greiðslur kynnu að þróast á löngum tíma. Við mat á því hvort lánskjör hafi verið sóknaraðilum til hagsbóta í samanburði við annan kost sem þeim stóð til boða, getur engum úrslitum ráðið hvort svo kunni að hafa verið á því tímamarki sem lánin voru tekin. Svo unnt sé að slá föstu að gengisbundin lán væru til hagsbóta fyrir sóknaraðila varð að líta til þess hvað ætla mætti um það þegar upp væri staðið að lánstíma loknum. Það varð á hinn bóginn ekki gert nema með samanburði lánskjara samkvæmt leiðum, sem val stóð um, í ljósi reynslu á löngu tímabili til samræmis við lánstíma. Varnaraðili átti þess kost að afla matsgerðar til stuðnings áðurnefndri staðhæfingu sinni, en engin slík sönnunarfærsla hefur verið viðhöfð í málinu. Að öllu virtu er þessi málsástæða varnaraðila haldlaus. Er fallist á með sóknaraðilum að varnaraðila hafi verið óheimilt að verðtryggja lán þeirra fyrrnefndu með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Niðurstaða héraðsdóms í þessum þætti málsins verður samkvæmt því staðfest.

IV

Deila málsaðila lýtur í annan stað að því hvaða áhrif ógilding gengistryggingar hafi á vexti af lánum sóknaraðila, sem samkvæmt skuldabréfum áttu að ráðast af millibankavöxtum í London af þeim myntum sem hin ólögmæta gengistrygging tók mið af. Sóknaraðilar telja að ógildi gengisviðmiðunar höfuðstóls lánanna hafi engin áhrif á vexti af þeim. Varnaraðili telur á hinn bóginn að ógildi gengisviðmiðunar valdi því að líta verði framhjá ákvæðum samninganna um vexti. Hann heldur fram að dómur Hæstaréttar 16. september 2010 sé skýrt fordæmi um þetta, en að framan var greint frá niðurstöðu dómsins um það hvaða vexti skyldi greiða af láni, sem kvað á um gengistryggingu skuldbindingar í íslenskum krónum og LIBOR vexti. Í forsendum dómsins sagði meðal annars að fullljóst væri að slík vaxtakjör af láni hefðu aldrei komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú lægi fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um. Í því ljósi og að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæða um gengistryggingu og vaxta væri hvorki unnt að styðjast við fyrirmæli um vexti óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir að á millibankamarkaði í London hafi aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Í lánssamningi hafi verið ákveðið að skuldin bæri vexti. Með því að áðurnefndum ákvæðum um hæð þeirra yrði ekki beitt væri óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik í málinu svari til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Þegar svo stæði á skyldu vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna.

Áðurnefndur dómur Hæstaréttar er fordæmi fyrir úrlausn um vexti í þessu máli að því marki sem atvik eru sambærileg og málsástæður falla saman við það, sem var í fyrra málinu. Málsástæður þá til stuðnings því að vextir skyldu vera óbreyttir svara um flest til þess sem sóknaraðilar tefla nú fram. Frávik felast helst í því að sóknaraðilar byggja nú jafnframt á ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán og vísa einkum til 14. gr. þeirra, sem þau telja að leiði til annarrar niðurstöðu um vexti. Óumdeilt er að ekki var byggt á þessari málsástæðu í eldra málinu. Þá telja sóknaraðilar atvik nú ólík að því leyti að lán þeirra séu til langs tíma, gagnstætt því sem eigi við um bílalán, og veð sem veitt séu vegna fasteignakaupa haldbetri en þegar bifreið sé veðandlag. Þá er því hreyft að í lánssamningum séu ákvæði um að vaxtastig geti tekið breytingum á lánstímanum. Ekki verður fallist á að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum skipti máli um það hvaða vextir skuli gilda við þær aðstæður, sem hér reynir á.

Varnaraðili andmælir því að lög nr. 121/1994 komi til álita í málinu nema að því er varðar eitt lána sóknaraðila, enda uppfylli þau að öðru leyti ekki skilyrði a. liðar 4. gr. laganna um það að geta talist vera neytendur. Samkvæmt ákvæðinu sé neytandi einstaklingur sem eigi lánsviðskipti sem lögin taki til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Þetta geti ekki átt við um sóknaraðila, en þau hafi veitt veð fyrir lánum í þremur fasteignum sínum við Sogaveg, Mjóstræti og Suðurgötu í Reykjavík. Þau búi ekki í neinni þessara íbúða og eignin við Suðurgötu sé leigð út. Lántökurnar hafi því verið liður í atvinnustarfsemi að undanskildu láni með veði í Mjóstræti. Sóknaraðilinn Sigurður hefur gefið skýringar á þessu í skýrslutöku fyrir dómi, þar sem fram kom að lán með veði í fasteign við Sogaveg hafi verið tekið til að greiða upp eldra lán í íslenskum krónum, sem hvíldi með veði í þessari eign, sem nú hafi verið seld. Sóknaraðilar hafi til skamms tíma búið í Mjóstræti og ætli sér að flytja í Suðurgötu, en þrjú lánanna hafi verið tekin til kaupa á þeirri íbúð. Breyttar fjárhagslegar aðstæður og stórhækkun lánanna hafi hins vegar valdið því að þau hafi ekki enn flutt í íbúð sína við Suðurgötu, heldur leigt hana út. Að virtum skýringum sóknaraðilans og því að ekkert er fram komið um atvinnustarfsemi sóknaraðila líkt og varnaraðili heldur fram er hafnað þeirri mótbáru hans að sóknaraðilar séu ekki neytendur í merkingu laga nr. 121/1994.

Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 segir að séu vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindur í lánssamningi sé lánveitanda ekki heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra, en að öðru leyti fari um vexti samkvæmt ákvæðum vaxtalaga. Þegar lögin voru sett giltu enn vaxtalög nr. 25/1987, sem lög nr. 38/2001 leystu af hólmi, en 4. og 5. gr. eldri laganna voru efnislega eins og 3. og 4. gr. þeirra yngri að því leyti sem hér skiptir máli. Þá var þess getið að framan að í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 var vísað til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um það hvað skuli gilda þegar samningur kveði á um vexti, en hæð þeirra ekki tiltekin að öðru leyti. Samkvæmt lánssamningum aðilanna skyldu sóknaraðilar greiða vexti af lánunum. Kemur því til úrlausnar hvort 14. gr. laga nr. 121/1994 hafi að geyma sérreglu, sem leiði til þess að 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 verði hér ekki talin eiga við gagnstætt því sem var í fyrrgreindu dómsmáli.

Samkvæmt orðum 14. gr. laga nr. 121/1994 verður neytandi ekki krafinn um vexti af skuld ef vextir eru ekki tilgreindir í lánssamningi. Ákvæðið í núverandi mynd var lögfest með 8. gr. laga nr. 101/1994, sem breyttu þágildandi lögum nr. 30/1993 um neytendalán. Í athugasemdum sem fylgdu þessari grein í frumvarpi er varð að lögum nr. 101/1994 segir meðal annars að lagt sé til að sú breyting verði gerð á 14. gr. laganna að ef ekki sé kveðið á um vaxtatöku í lánssamningi þá skuli vextir ekki reiknaðir af láninu.  Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að í þágildandi 14. gr. laganna fælist að ef ekki væri getið um vexti í lánsamningi skyldu þeir engu að síður greiddir og þá hinir sömu og af almennum skuldabréfum samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands, en það stríði bæði gegn meginreglu vaxtalaga um að vextir skyldu einungis greiddir ef um þá væri samið og almennum reglum kröfuréttar. Af þessu er ljóst að réttur neytenda var fram til 1994 að þessu leyti lakari en leiddi af vaxtalögum. Breytingin fólst í því að rétta hlut neytenda varðandi þetta atriði, en um leið var kveðið á um að reglur vaxtalaga skyldu gilda um neytendalán að öðru leyti. Að því gættu, sem að framan er rakið, haggar 14. gr. laga nr. 121/1994 ekki fordæmisgildi dóms Hæstaréttar 16. september 2010 við úrlausn ágreinings aðilanna um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningum þeirra. Þá er haldlaus sú málsástæða sóknaraðila að greiðsluáætlun, sem fylgdi hverjum lánssamningi, hafi verið hluti af samningnum eða að í henni hafi falist loforð varnaraðila um að fjárhæð einstakra afborgana yrði sú sem þar kom fram óháð forsendum um lánskjör, sem að framan er lýst. Niðurstaða hins kærða úrskurðar í þessum þætti málsins verður samkvæmt því staðfest.

Einn dómenda, Ólafur Börkur Þorvaldsson, tekur fram að hann telur að rétt hefði verið við meðferð málsins fyrir Hæstarétti að fallast á beiðni sóknaraðila þannig að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins um skýringar á þeim tilskipunum sem þau vísa til í málatilbúnaði sínum.

V

Við munnlegan flutning málsins lagði varnaraðili fyrir Hæstarétt skjal, sem sýnir stöðu lána sóknaraðila 17. janúar 2011 miðað við mismunandi forsendur, en sóknaraðilar gera ekki tölulegar athugasemdir við þessar skýringar varnaraðila. Í skjalinu kemur í fyrsta lagi fram hvaða heildarfjárhæð greiðslur sóknaraðila námu af hverju fjögurra lána þeirra hjá varnaraðila frá upphafi til áðurnefnds dags og hverju eftirstöðvar höfuðstóls þeirra námu miðað við gengistryggingu lánanna. Í öðru lagi koma þar fram upplýsingar um þessi fjögur lán miðað við að höfuðstóll þeirra væri óverðtryggður frá upphafi, en þau borið vexti frá sama tíma samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og sýnt miðað við þær forsendur hverjar greiðslur hefðu átt að vera til 17. janúar 2011 og hver höfuðstóll lánanna væri þá miðað við sömu forsendur. Loks greinir í skjalinu frá greiðslum af fimmta láninu, sem var greitt upp í október 2008. Samanlagður upphaflegur höfuðstóll lánanna fjögurra nam 46.627.105 krónum, en samtala höfuðstóls þeirra 17. janúar 2011 miðað við umsamin lánskjör 93.148.684 krónum. Í skjali varnaraðila er höfuðstóll lánanna samkvæmt þessari aðferð talinn vera samtals 94.641.893 krónur, en ekki er ljóst í hverju munurinn liggur. Sama dag nemur samtala höfuðstóls þessara fjögurra lána 57.444.570 krónum miðað við að þau sé óverðtryggð og beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Í skjali varnaraðila er hún talin vera 50.161.431 króna eftir að dregin er frá ofgreiðsla vegna uppgreidds láns, 7.283.139 krónur. Höfuðstóll lánanna er þannig til muna lægri nú samkvæmt síðarnefndu útreikningsaðferðinni, sem samkvæmt áðursögðu er sú, sem miða ber við. Þótt sú niðurstaða sé sóknaraðilum til hags er engu að síður einnig sá munur á, þeim í óhag, að greiðslubyrði á fyrstu árum lánstímans hefði með þessari aðferð verið þyngri vegna hærri vaxta en leiddi af umsömdum lánskjörum og greiðslur sóknaraðila tóku í raun mið af. Í áðurnefndu skjali varnaraðila er þannig talið vanta verulega upp á að lánin fjögur væru í skilum miðað við forsendur um óverðtryggðan höfuðstól og vexti samkvæmt lögum nr. 38/2001, en samtals vanti 13.487.566 krónur upp á að fullgreitt væri. Á móti komi ofgreiðsla vegna uppgreidds láns, 7.283.139 krónur.

Kröfur sóknaraðila eru í mörgum liðum, eins og greinir í upphafi dómsins, og eru bæði hafðar uppi sem fjárkröfur og viðurkenningarkröfur. Fjárhæðir nema því, sem er umfram greiðsluáætlanir, og eru meðal annars fundnar á grundvelli forsendna um vexti, sem hefur verið hafnað eins og fram er komið. Samkvæmt þessum forsendum fyrir útreikningum hafa sóknaraðilar ekki ofgreitt af lánum sínum, heldur skortir þvert á móti upp á að full skil teljist hafa verið gerð. Kröfum um viðurkenningu á tilgreindum fjárhæðum við slit varnaraðila er því hafnað. Allar viðurkenningarkröfur sóknaraðila að undanskilinni þrautavarakröfu hafa að geyma þá forsendu að greiða beri LIBOR vexti á óverðtryggðan höfuðstól og koma því ekki til álita. Þrautavarakrafa þeirra er sú að skuldirnar skuli bera 5% ársvexti, en um hana er vísað til eðlis máls og sanngirnissjónarmiða. Krafan telst hvorki vera rökstudd né er vísað til heimilda fyrir dómstóla til að kveða á um vexti af peningakröfum án tillits til lagafyrirmæla. Krafan kemur því ekki til álita.

Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar segir að þau telji ekki fá staðist að vaxtaskilmálum lánanna sé breytt aftur í tímann. Hljóti að þurfa að túlka niðurstöðu héraðsdóms með þeim hætti að umrædda vexti samkvæmt lögum nr. 38/2001 skuli greiða af lánunum frá dómsuppsögu, en lánið verði ekki endurreiknað frá upphafi miðað við þá vexti. Þar segir einnig: „Óhjákvæmilegt er að Hæstiréttur taki afstöðu til þessa atriðis og skýri, óháð því hver niðurstaða málsins verður.“ Þessu var fylgt eftir við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti og því haldið fram að fyrirvaralaus móttaka greiðslu fyrir hverri afborgun væri fullnaðargreiðsla. Varnaraðili mótmælir því að í málinu geti reynt á álitamál, sem snúi að því hvernig skuli standa að uppreikningi lána sóknaraðila, en lögmenn aðila hafi við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi verið sammála um þennan skilning á sakarefninu.

Viðurkenningarkrafa sóknaraðila um að þeim sé að hámarki skylt að greiða tilteknar fjárhæðir samkvæmt lánssamningunum horfir til framtíðar samkvæmt yfirlýsingu þeirra í greinargerð til héraðsdóms. Þegar af þeirri ástæða verður ekki tekin afstaða til þess hvernig fari um uppgjör þeirra fjárhæða sem á skortir svo sóknaraðilar hafi gert skil samkvæmt framangreindum forsendum varnaraðila. Varakrafa felur í sér að greiða beri LIBOR vexti og þrautavarakrafa 5% vexti, sem samkvæmt framansögðu er hafnað. Þær fela ekki frekar en fyrsta viðurkenningarkrafa sóknaraðila í sér að afstaða verði tekin vegna hugsanlegrar kröfu varnaraðila um þann mismun, sem að framan var getið. Kröfur sóknaraðila lúta þannig á engan hátt að uppgjöri á vaxtaskuld þeirra vegna liðins tíma. Í hinum kærða úrskurði var hafnað kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila, en að auki var tekin til greina þrautavarakrafa varnaraðila og viðurkennt að skuldbindingar sóknaraðila beri á hverjum tíma vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðili nú einungis staðfestingar á að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila, en féll við munnlegan flutning málsins frá síðarnefndu kröfunni. Þar með er ekkert í kröfugerð hans sem lýtur að viðurkenningu á rétti til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma. Að þessu virtu felur áðurnefnd umfjöllun í kæru sóknaraðila í sér lögspurningu, sem ekki kemur til neinna álita í málinu.

Niðurstaða málsins verður samkvæmt framansögðu sú að öllum kröfum sóknaraðila um annað en málskostnað er hafnað. Við ákvörðun um málskostnað verður litið til þess að í héraði var fallist á kröfu sóknaraðila um að skuldbindingar þeirra séu í íslenskum krónum og að ólögmætt hafi verið að binda þær við gengi erlendra gjaldmiðla, sem staðfest er með þessum dómi. Öðrum kröfum þeirra er hins vegar hafnað. Verður varnaraðili dæmdur til að greiða þeim málskostnað í héraði eins og nánar greinir í dómsorði, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru Mendez Pinedo, er hafnað.

Varnaraðili, Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., greiði sóknaraðilum samtals  1.000.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2010.

I

Mál þetta var þingfest 27. janúar 2010, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Frjálsa fjárfestingabankans hf., móttekið 22. desember 2009, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila við slit bankans. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og 2. mgr. 120. gr. sömu laga.

Samkvæmt bréfi slitastjórnar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur Frjálsa fjárfestingabankanum hf., Lágmúla 6, Reykjavík, slitastjórn 23. júní 2009. Innköllun var gefin út 22. júlí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 22. október sama ár. Sóknaraðilar, Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira M. Pinedo, bæði til heimilis að Grundarstíg 4, Reykjavík, lýstu kröfum sínum 22. október 2009, annars vegar búskröfu að fjárhæð 1.792.297 krónur, en hins vegar almennri kröfu að fjárhæð 13.788.281 krónu. Að auki kröfðust þau þess að slitastjórn viðurkenndi að þeim væri óskylt að greiða afborganir af lánum sínum hjá varnaraðila, umfram það sem gert var ráð fyrir í upprunalegum greiðsluáætlunum vegna nánar tiltekinna lána, að teknu tilliti til niðurgreiðslu á höfuðstóli. Kröfur sóknaraðila voru á því byggðar að „svokölluð gengistryggð lán séu ólögleg skv. íslenskum rétti og því sé bankanum óheimilt að krefja [kröfuhafa] um endurgreiðslu lánsins, sem þau fengu í íslenskum krónum, þannig að miðað sé við gengi erlendra gjaldmiðla“, eins og orðrétt segir í bréfi slitastjórnar. Til stuðnings kröfum sínum vísuðu sóknaraðilar einkum til 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, auk lögskýringargagna og annarra laga. Fjárkröfur þeirra voru skilgreindar sem endurgreiðslukröfur vegna ofgreiddra lána.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfum sóknaraðila með þeim rökum að skilmálar lánssamninga og/eða annarra skuldaskjala hafi ekki brotið gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til dómstóla, eins og áður greinir.

II

Endanlegar kröfur sóknaraðila hljóða þannig:

I.      Aðallega að krafa um greiðslu 1.625.952 króna teljist búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, en til vara almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

II.    Að krafa um greiðslu 13.698.797 króna teljist almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

III. Aðallega að viðurkennt verði að sóknaraðilum sé óskylt að greiða afborganir af lánum sínum hjá Frjálsa fjárfestingabankanum umfram það sem gert var ráð fyrir í upprunalegum greiðsluáætlunum vegna lánanna, að teknu tilliti til niðurgreiðslu á höfuðstól. Þannig skuli hámarksgreiðslur sóknaraðila vegna lána hjá bankanum, að meðtöldum þeim afborgunum sem þegar hafa verið inntar af hendi, nema

      10.106.216 krónum vegna láns nr. 000033

      24.525.304 krónum vegna láns nr. 712986

        8.779.350 krónum vegna láns nr. 713011

      16.144.530 krónum vegna láns nr. 713020.

Til vara er sú krafa gerð að ákvæði 2. gr. í skilmálum veðskuldabréfa, útgefnum af sóknaraðilum, nr. 000033, 712986, 713011 og 713020, hvers fyrir sig, verði ógilt með dómi og viðurkennt að skuldir sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfunum séu í íslenskum krónum, án tenginga við gengi erlendra gjaldmiðla. Að öðru leyti skuli ákvæði veðskuldabréfanna halda gildi sínu.

Til þrautavara er þess krafist að ákvæði 2. gr. í skilmálum veðskuldabréfa, útgefnum af sóknaraðilum, nr. 000033, 712986, 713011 og 713020, hvers fyrir sig, verði ógilt með dómi og viðurkennt að skuldir sóknaraðila séu í íslenskum krónum, án tenginga við gengi erlendra gjaldmiðla. Jafnframt skuli ákvæðum veðskuldabréfanna, hvers um sig, breytt þannig að skuldin beri fasta 5% vexti á ársgrundvelli.

Í öllum tilvikum er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi varnaraðila, ásamt álagi sem nemur virðisaukaskatti, samkvæmt mati dómsins.

Endanlegar kröfur varnaraðila eru svohljóðandi:

Aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Til vara er þess krafist að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Þá er þess krafist að viðurkennt verði að skilmálar veðskuldabréfa nr. 33, 712986, 712990, 713020 og 713011 verði þannig að upphaflegur höfuðstóll þeirra, umreiknaður í íslenskar krónur miðað við útborgunardag hvers láns, 4. nóvember 2004 vegna skuldabréfs nr. 33, umreiknuð fjárhæð 7.700.000 krónur, 30. janúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 712986, umreiknuð fjárhæð 19.200.000 krónur, 28. febrúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 712990, umreiknuð fjárhæð 11.287.000 krónur, 23. febrúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 713011, umreiknuð fjárhæð 7.185.000 krónur og 30. janúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 713020, umreiknuð fjárhæð 12.600.000 krónur, breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá útborgunardegi miðað við grunnvísitöluna 237,4 stig vegna veðskuldabréfs nr. 33, m.v. grunnvísitöluna 248,9 stig vegna veðskuldabréfa nr. 712986 og nr. 713020 og m.v. grunnvísitöluna 249,7 stig vegna veðskuldabréfs nr. 713011, og að veðskuldabréfin beri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 frá útborgunardegi hvers láns. 

Til þrautavara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Þá er þess krafist að viðurkennt verði að skilmálar veðskuldabréfa nr. 33, 712986, 712990, 713020 og 713011 verði þannig að upphaflegur höfuðstóll þeirra, umreiknaður í íslenskar krónur miðað við útborgunardag hvers láns, 4. nóvember 2004 vegna skuldabréfs nr. 33, umreiknuð fjárhæð 7.700.000 krónur, 30. janúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 712986, umreiknuð fjárhæð 19.200.000 krónur, 28. febrúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 712990, umreiknuð fjárhæð 11.287.000 krónur, 23. febrúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 713011, umreiknuð fjárhæð 7.185.000 krónur og 30. janúar 2006 vegna skuldabréfs nr. 713020, umreiknuð fjárhæð 12.600.000 krónur, beri óverðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá útborgunardegi hvers láns.

Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins.

Við upphaf aðalmeðferðar 6. september sl. lögðu málsaðilar sameiginlega fram bókun þess efnis að í tilefni af dómum Hæstaréttar 16. júní sl. í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi þeir orðið ásáttir um að nýjar og breyttar varakröfur kæmust að í málinu, svo og nýjar málsástæður og lagarök. Endanlegar kröfur aðila eru í samræmi við bókun aðila.

III

Málsatvik eru í megindráttum sem hér greinir:

Sóknaraðilar eru hjón og tóku lán hjá varnaraðila til húsnæðiskaupa, fyrst árið 2004, en síðan einnig árið 2006. Samkvæmt veðskuldabréfum, sem gefin voru út í tilefni af hverri lánveitingu, er texti þeirra og skilmálar samhljóða, að undanskilinni lánsfjárhæð, lánstíma, gengisviðmiðun og vaxtaálagi. Fyrirsögn allra skuldabréfanna er „Veðskuldabréf - Fasteignalán í erlendri mynt“ og bera þau öll svohljóðandi áritun: „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Í öllum tilvikum er lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, en tekið fram að hún sé „jafnvirði“ tilgreindra mynta í þeim hlutföllum sem þar greinir. Í 2. gr. skuldabréfanna segir að lánið sé „bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn“. Skuldabréfin sundurliðast þannig:

1.       Skuldabréf nr. 33, útgefið 29. október 2004. Lánsfjárhæð jafnvirði 7.700.000 króna í evrum (EUR 100%). Skilmálum var breytt 20. janúar 2006 og 8. apríl 2008 og er lánið nú bundið gengi svissneskra franka (CHF) og japanskra yena (JPY) að jöfnu. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila nam höfuðstóll lánsins 13.411.888 krónum í febrúar 2010. 

2.       Skuldabréf nr. 712986, útgefið 26. janúar 2006. Lánsfjárhæð jafnvirði 19.200.000 króna í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%). Skilmálum var breytt 9. apríl 2008, en í engu hreyft við gengisviðmiðun. Höfuðstóll í febrúar 2010 mun hafa verið 45.355.617 krónur.

3.       Skuldabréf nr. 713020, útgefið 26. janúar 2006. Lánsfjárhæð jafnvirði 12.600.000 króna í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%). Skilmálum var breytt 9. apríl 2008, en í engu hreyft við gengisviðmiðun. Höfuðstóll í febrúar 2010 mun hafa verið 29.713.840 krónur.

4.       Skuldabréf nr. 713011, útgefið 23. febrúar 2006. Lánsfjárhæð jafnvirði 7.185.000 króna í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%). Skilmálum var breytt 8. apríl 2008, en ekki hreyft við gengisviðmiðun. Höfuðstóll í febrúar 2010 mun hafa verið 14.786.164 krónur.

Auk þessa tóku sóknaraðilar sams konar lán hjá varnaraðila 22. febrúar 2006, að jafnvirði 11.287.000 króna í japönskum yenum (JPY 50%) og svissneskum frönkum (CHF 50%). Var skuldabréfið nr. 712990, en lánið var greitt upp í október 2008. Við útgáfu hvers skuldabréfs var sóknaraðilum afhent fylgiskjal þar sem áætluð var heildargreiðsla á hverjum gjalddaga lánanna, þ.e. afborgun, vextir og kostnaður, allt í íslenskum krónum. Við sama tækifæri undirrituðu sóknaraðilar skjal með yfirskriftinni „Yfirlýsing – Fylgiskjal með láni í erlendri mynt“. Þar lýsa sóknaraðilar því yfir að þeir geri sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hafi kynnt þeim sérstaklega. Þá segir þar: „Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a. í því að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána með ofangreindum hætti, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri mynt hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, 3 mánaða LIBOR/EURIBOR vöxtum, með föstu álagi.“ 

         Í greinargerð varnaraðila lýsir hann almennri framkvæmd og fyrirkomulagi lánveitinga vegna fasteignakaupa þannig: „Þar sem lánsféð var nær undantekningarlaust nýtt til greiðslu kaupverðs á fasteign, sem var umsamið í íslenskum krónum, óskuðu lántakar eftir lánum í erlendum myntum þar sem fjárhæð lánsins í viðkomandi myntum svaraði til ákveðinnar fjárhæðar í íslenskum krónum á útborgunardegi lánsins. Því voru veðskuldabréfin útbúin þannig að fjárhæð lánsins var tiltekin í íslenskum krónum, sem miðaðist við fjárhæð þess í íslenskum krónum á útborgunardegi lánsins, en jafnframt tekið skýrlega fram í veðskuldabréfunum að lánið væri í erlendum myntum og síðan hlutfall hverrar myntar tiltekið eftir því hvaða myntkarfa var valin. Í framhaldinu var veðskuldabréf útbúið, undirritað og því þinglýst og lánsfjárhæðin greidd út þegar í kjölfarið, oft daginn eftir þinglýsingu […]. Hinar erlendu myntir voru seldar fyrir lántaka fyrir íslenskar krónur sem voru greiddar til lántaka, að frádregnum kostnaði. Lántakar fengu sendar kaupnótur þegar lánin voru greidd út þar sem fram kom að lánin hefðu verið greidd út í erlendum myntum sem nýttar hefðu verið til kaupa á íslenskum krónum svo og hver kostnaður var.“ 

Ágreiningur aðila lýtur fyrst og fremst að því hvort áðurnefnd veðskuldabréf feli í sér skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla.

Við upphaf aðalmeðferðar gáfu sóknaraðilar skýrslu fyrir dóminum. Verður vikið að framburði þeirra svo sem tilefni þykir til.

IV

         Sóknaraðilar byggja á því að ákvæði umræddra veðskuldabréfa, sem mæla fyrir um tengingu lánanna við gengi erlendra gjaldmiðla, séu óskuldbindandi fyrir sóknaraðila, enda fari samningsákvæðin í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Því til stuðnings benda þeir á dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 92/2010 frá 16. júní sl., og telja þá ótvírætt fordæmi við úrlausn þessa ágreinings. Í tilviki sóknaraðila í máli þessu hafi lánsféð verið í íslenskum krónum og beri skilmálar skuldabréfanna skýrlega með sér að lánin hafi verið gengistryggð. Í því sambandi er bent á áritun á skuldabréfunum þess efnis að þau séu gengistryggð, lánsfjárhæðin var í hverju tilviki tengd erlendum myntum, lánið var bundið sölugengi Seðlabanka Íslands og skyldi höfuðstóll breytast í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar. Í ljósi þessa telja sóknaraðilar engan vafa leika á því að umrædd lán séu gengistryggð lán í íslenskum krónum. Lög nr. 38/2001 heimili hins vegar ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.

         Af hálfu sóknaraðila er einnig á því byggt að leggja beri fremur áherslu á efni lánasamninganna en form. Þannig skipti engu máli þótt fyrirsögn veðskuldabréfanna gefi til kynna að um sé að ræða fasteignalán í erlendri mynt. Aðalatriðið sé að lánsféð hafi verið greitt út í íslenskum krónum og hafi þeim ekki verið gefinn kostur á að fá lánið greitt í annarri mynt. Ekki hafi heldur verið heimilt að greiða afborganir í erlendri mynt. Þá telja sóknaraðilar það enga þýðingu hafa við úrlausn málsins þótt varnaraðili hafi keypt erlenda mynt í aðdraganda lánveitinganna eða að þeir hafi við útgáfu skuldabréfanna undirritað fylgiskjal þar sem varað var við gengisáhættu vegna lánanna. Yfirlýsingarnar staðfesti hins vegar að ekki hafi verið um að ræða lán í erlendri mynt, heldur gengistryggt lán í íslenskum krónum. Þá byggja sóknaraðilar á því að varnaraðili hafi einn ráðið orðalagi lánssamninganna og sóknaraðilar ekkert komið að samningu skilmála þeirra. Við túlkun samninganna beri því að hafa hliðsjón af andsýringarreglu samningaréttarins, sbr. og 36. gr. b. samningalaga nr. 7/1936, og túlka óskýr samningsatriði sóknaraðilum í hag. Einnig er til þess vísað að almennt sé talið að gera verði miklar kröfur til fjármálafyrirtækja um vandvirkni, aðgæslu og skýrleika þeirra samninga sem þar eru gerðir.

         Jafnvel þótt dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að umrædd lán til sóknaraðila séu ekki í íslenskum krónum, er á því byggt að ákvæði lánssamninganna um útreikning á afborgunum séu óskuldbindandi fyrir þá, enda gengistrygging lánanna ógild. Hins vegar er þá á því byggt að önnur ákvæði veðskuldabréfanna haldi gildi sínu og að óheimilt sé að breyta ákvæðum veðskuldabréfanna sóknaraðilum í óhag. Þessu til stuðnings vísa sóknaraðilar til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, þar sem fram kemur að samningi megi víkja til hliðar ef talið yrði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, en einnig til ákvæða 36. gr. a.-d. í sömu lögum, reglna samningaréttar um brostnar forsendur, sjónarmiða um neytendavernd, sbr. lög um neytendalán nr. 121/1994, og ákvæða laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Þá telja sóknaraðilar að varnaraðili verði að bera hallann af ólögmæti samningsákvæða, enda hafi honum mátt vera ljóst að óheimilt væri að tengja lánssamning í íslenskum krónum við erlenda mynt. Enn fremur halda sóknaraðilar því fram að samningsefndir þeirra falli undir meginregluna um óviðráðanleg atvik, force majeure, þar sem verðfall krónunnar og hrun banka- og fjármálakerfisins hafi verið þeim ófyrirsjáanlegt. Af sömu ástæðu er einnig vísað til sanngirnisraka og eðlis máls.

         Fjárhæðir krafna sóknaraðila samkvæmt liðum I. og II. í kröfugerð þeirra er mismunur á raungreiðslum þeirra samkvæmt greiðsluseðlum og áætluðum greiðslum samkvæmt  fylgiskjali sem afhent var þeim við útgáfu hvers skuldabréfs, en að viðbættum innheimtukostnaði lögmanns. Fyrri krafan, að fjárhæð 1.625.952 krónur, er samtala afborgana af lánum sóknaraðila eftir 23. júní 2009 til kröfulýsingardags, 22. október 2009, en síðari krafan, að fjárhæð 13.698.797 krónur, er sú fjárhæð sem sóknaraðilar telja ofgreiddar afborganir til 23. júní 2009 miðað við fyrrnefndar greiðsluáætlanir. Þar sem fyrri krafan varð til eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila, krefjast sóknaraðilar þess að krafan njóti stöðu búskröfu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að hún verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá er þess krafist að síðari krafan, að fjárhæð 13.698.797 krónur, verði einnig viðurkennd sem almenn krafa.

         Viðurkenningarkrafa sóknaraðila samkvæmt III. lið kröfugerðar byggist á því að þeim sé í framtíðinni óskylt að greiða umfram það sem gert var ráð fyrir í upphafi, að teknu tilliti til niðurgreiðslu á höfuðstól. Fjárhæð hvers láns tekur mið af eftirstöðvum lánsins samkvæmt greiðsluáætlun.

         Varakrafa og þrautavarakrafa samkvæmt III. lið kröfugerðar þeirra byggist á því að 2. gr. skilmála skuldabréfanna verði ógilt með dómi og viðurkennt að skuldir sóknaraðila séu í íslenskum krónum, án tenginga við gengi erlendra mynta. Að öðru leyti skuli ákvæði veðskuldabréfanna gilda eða þeim breytt þannig að skuldin beri fasta 5% vexti á ársgrundvelli.

         Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísa sóknaraðilar m.a. til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 2., 13. og 14. gr. þeirra, laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, einkum 1. gr., laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, einkum 109.-114. gr. þeirra, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, einkum III. kafla þeirra, laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, meginreglna samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur og óviðráðanlegar ytri aðstæður (force majeure) og ómöguleika, laga um neytendalán nr. 121/1994, einkum 6., 7., 8. og 27. gr. þeirra, laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005, einkum 8., 9. og 10. gr., sbr. einnig 5., 6. og 9. gr. laganna eins og þau voru fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 50/2008, óskráðra reglna samningaréttar um trúnaðar- og tillitsskyldur í samningssambandi, reglna um skaðabætur innan samnings og reglna um óréttmæta auðgun. Jafnframt er vísað til sanngirnisraka og eðlis máls, auk ákvæða EES-samningsins og laga nr. 2/1993, einkum 3. gr., og tilskipana 93/13/EBE og 2005/29/EB. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1998.

V

         Varnaraðili hafnar því að dómar Hæstaréttar 16. júní sl. í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi fordæmisgildi við úrlausn þessa ágreinings, enda séu málsatvik og framlögð gögn í þeim málum allt annars eðlis en í þessu máli. Um leið hafnar hann því að lán til sóknaraðila hafi verið veitt í íslenskum krónum og gengistryggð. Þvert á móti byggir hann á því að lánin hafi verið veitt í erlendum myntum og fari skilmálar skuldabréfanna því á engan hátt gegn lögum. Jafnframt er því mótmælt sem ósönnuðu að varnaraðili hafi lofað, ábyrgst eða samið um að afborganir lánanna yrðu í samræmi við framlagðar áætlanir um greiðslu á hverjum gjalddaga þeirra.

         Aðalkrafa varnaraðila er á því reist að umrædd lán hafi verið veitt sóknaraðilum í erlendum myntum, og beri gögn málsins það skýrlega með sér. Slíkar lánveitingar séu heimilar og hafi verið það um langt skeið. Sóknaraðilar hafi sjálfir óskað eftir slíkum lánum, enda hafi þau verið hagstæðari en almenn verðtryggð fasteignalán, og hafi þeir vitað að vextir af lánunum væru breytilegir LIBOR vextir. Þeir hafi fengið erlend lán, eða jafnvirði þeirra í íslenskum krónum, eins og fram komi í texta skuldabréfanna og sjá megi á kaupnótum vegna viðskipta með erlendan gjaldeyri. Þá komi skýrlega fram í fyrirsögn skuldabréfanna, skilmálabreytingum lánanna og fylgiskjali með hverju láni að lánin séu í erlendri mynt. Loks hafi allir greiðsluseðlar og kvittanir borið með sér fjárhæð afborgunar og vaxta í erlendri mynt. Í ljósi þessa telur varnaraðili að sóknaraðilum hafi ekki getað dulist að fjárskuldbindingar þeirra samkvæmt áðurnefndum skuldabréfum væru í erlendum myntum. Sérstaklega bendir hann á að sóknaraðilar hafi á lánstímanum notið styrkingar íslensku krónunnar gagnvart umsömdum gjaldmiðlum, þar sem greiðslubyrði og höfuðstóll lánsins hafi lækkað í íslenskum krónum, auk þess sem vextir hafi verið lágir. Að sama skapi hafi sóknaraðilar borið áhættuna af veikingu krónunnar gagnvart hinum erlendu myntum. Af þessum ástæðum, en ekki síður í ljósi þess að sóknaraðilar hafi sérstaklega verið varaðir við gengisáhættu samfara hverri lántöku, telur varnaraðili að sóknaraðilar geti ekki nú borið fyrir sig að þeir hafi ekki gert sér ljóst að um lánveitingu í erlendri mynt væri að ræða. Þá leggur varnaraðili áherslu á að sóknaraðilar hafi í fjögur ár greitt af umræddum lánum, án nokkurra athugasemda um lögmæti þeirra eða tengingar þeirra við gengi hinna erlendu mynta. 

         Varnaraðili hafnar því að samningsskilmálar skuldabréfanna hafi verið ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju, svo og að sóknaraðilar geti borið fyrir sig ógildingarreglur samningaréttar, óviðráðanleg atvik, brostnar forsendur eða að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðum laga um neytendavernd eða lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Jafnframt er hafnað staðhæfingu sóknaraðila um að þeim hafi verið óheimilt að endurgreiða lánin í umsömdum erlendum myntum. Sóknaraðilar hafi hins vegar sjálfir kosið að greiða af lánum sínum í íslenskum krónum.

         Verði niðurstaða dómsins sú að umræddir lánssamningar feli í sér skuldbindingar í íslenskum krónum, og ákvæði þeirra um gengistryggingu í andstöðu við reglur VI. kafla laga nr. 38/2001, byggir varnaraðili á því að forsendur lánskjara samkvæmt skuldabréfunum séu brostnar. Sanngirnisrök og eðli máls mæli með því að skilmálum skuldabréfanna verði þá breytt til samræmis við varakröfur varnaraðila. Að öðrum kosti telur varnaraðili ljóst að sóknaraðilar auðgist með ólögmætum og ósanngjörnum hætti. Sóknaraðilar eigi ekki að verða betur settir, heldur eins settir og ef þeir hefðu tekið lán í íslenskum krónum, með þeim skilmálum sem almennt buðust á þeim tíma. Miðist varakröfurnar við þær forsendur.

         Um lagarök vísar varnaraðili einkum til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. þeirra, laga um neytendalán nr. 121/1994, laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, einkum 101. gr., samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. a.-c., laga um samningsveð nr. 75/1997, laga nr. 2/1993, um EES-samninginn og laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Jafnframt er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, um samningsfrelsi og um að samninga skuli halda, svo og meginreglna skaðabótaréttar um samþykki, áhættutöku og force majeure, sem og reglna um óréttmæta auðgun. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. – 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

VI

         Eins og áður greinir lýstu sóknaraðilar fjárkröfum við slit varnaraðila, annars vegar búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, en hins vegar almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kröfurnar byggðust á því að lánssamningar aðila væru í íslenskum krónum og hefði varnaraðila verið óheimilt að verðtryggja lánsfjárhæðina með því að binda hana við gengi erlendra gjaldmiðla. Því ættu sóknaraðilar rétt á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem þeir höfðu greitt varnaraðila, umfram það sem gert hefði verið ráð fyrir í greiðsluáætlunum sem þeim voru látnar í té við hverja lántöku. Að auki kröfðust sóknaraðilar þess að slitastjórn viðurkenndi að þeim væri óskylt að greiða afborganir af lánum sínum hjá varnaraðila, umfram það sem gert var ráð fyrir í upprunalegum greiðsluáætlunum, að teknu tilliti til niðurgreiðslu á höfuðstóli. Varnaraðili hafnaði kröfum sóknaraðila og byggðist afstaða hans á því að umræddir samningar væru um lán í erlendri mynt. Við upphaf aðalmeðferðar juku málsaðilar við fyrri kröfur sínar, og skýrist það af dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, en með þeim dómum var skorið úr ágreiningi um lánssamninga sem höfðu að geyma ákvæði sem svipar um margt til þeirra sem deilt er um í þessu máli. Kröfur aðila nú fela að hluta til í sér að dómurinn viðurkenni að aðrir skilmálar lánssamninganna haldi gildi sínu, ýmist óbreyttir eða í breyttri mynd, verði niðurstaða dómsins sú að samningarnir hafi að geyma skuldbindingar í íslenskum krónum og ákvæði þeirra um gengistryggingu þar af leiðandi ógilt. Ekki verður séð að endanleg kröfugerð aðila fari í bága við ákvæði XXIII., sbr. og XXIV. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

         Áður en leyst verður úr einstökum kröfum málsaðila er nauðsynlegt að skera úr um hvort umræddir samningar séu um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum.

         Fram er komið að sóknaraðilar sóttu fyrst um lán hjá varnaraðila á árinu 2004. Í lánsumsókn þeirra kemur fram að lánið sé ætlað til endurfjármögnunar. Jafnframt er þar ritað „100% EUR“. Sigurður Hreinn Sigurðsson, annar sóknaraðila, sagði fyrir dómi að þau hjón hefðu með láninu viljað breyta íslenskum lánum, sem hvíldu á íbúð þeirra að Mjóstræti 6, í gengistryggt lán, enda hefðu betri kjör verið á slíku láni. Varnaraðili veitti sóknaraðilum umbeðið lán og var skuldabréf gefið út 29. október 2004. Fyrirsögn skuldabréfsins er „Veðskuldabréf – Fasteignalán í erlendri mynt“, og viðurkenna útgefendur þar að skulda varnaraðila „jafnvirði kr. 7.700.000 í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 100% (evrur) sem endurgreiðast með eftirfarandi skilmálum…“. Lánstími er þar tiltekinn, upphafsdagur vaxta, gjalddagi fyrstu afborgunar, fjöldi afborgana, greiðslustaður og mánuðir milli gjalddaga. Um vexti segir þar „3 mán LIBOR“, vaxtaálag er tilgreint 1,40% og vaxtaflokkur „Libor“. Í 2. gr. skuldabréfsins segir síðan: „Lán þetta er bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn.“ Neðan við númer skuldabréfsins, efst í hægra horni þess, er feitletraður svohljóðandi texti: „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Eins og áður greinir var skilmálum þessa skuldabréfs breytt 20. janúar 2006 og 8. apríl 2008, að ósk sóknaraðila, og var lánsfjárhæðin eftirleiðis bundin gengi japansks yens og svissneskra franka að jöfnu. Um leið var kveðið á um að gjaldfallnar fjárhæðir skyldu ávallt umreiknast í íslenskar krónur. Fyrir dómi sagði Sigurður Hreinn Sigurðsson að ástæðan fyrir skilmálabreytingunni 20. janúar 2006 hefði verið sú að vextir af japönskum yenum og svissneskum frönkum hefðu verið lægri en af evru, en einnig hefðu þau hjón talið betra að deila áhættunni á fleiri gjaldmiðla. Að undanskilinni lánsfjárhæð, lánstíma, upphafsdegi vaxta og vaxtaálagi er texti allra skuldabréfanna sem um er deilt í máli þessu hinn sami og hér hefur verið lýst. Lánsfjárhæðin er þar einnig bundin gengi japansks yens og svissneskra franka að jöfnu. Í lokamálslið 7. gr. allra veðskuldabréfanna, að undanskildu fyrsta skuldabréfinu sem fjallað er um hér að ofan, segir að gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur. Í öllum þeim skuldabréfum sem sóknaraðilar gáfu út á árinu 2006 segir að vextir reiknist frá „útborgunardegi“, en samkvæmt fyrsta skuldabréfinu reiknast þeir frá 27. október 2004.

         Samhliða útgáfu veðskuldabréfanna undirrituðu sóknaraðilar yfirlýsingu með yfirskriftinni „Fylgiskjal með láni í erlendri mynt“, en þar lýstu sóknaraðilar því yfir að þau gerðu sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti væri áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum. Þá var þeim og afhent fylgiskjal, þar sem áætluð var heildargreiðsla á hverjum gjalddaga lánanna, þ.e. afborgun, vextir og kostnaður, allt í íslenskum krónum. Loks skal þess getið að allar skilmálabreytingar lánanna báru yfirskriftina „Breyting á greiðsluskilmálum veðskuldabréfs í erlendri mynt.“

         Meðal gagna málsins eru kaupnótur vegna sölu á japönskum jenum og svissneskum frönkum. Stafa þær frá varnaraðila, en eru gefnar út á nafn sóknaraðila. Af texta þeirra má helst ráða að sóknaraðilar hafi selt japönsk yen og svissneska franka og hafi andvirðið, íslenskar krónur, verið greitt á nánar tilgreindum degi vegna láns. Í öllum tilvikum er fjárhæðin nokkru lægri en lánsfjárhæðin á því skuldabréfi sem kaupnótan vísar til. Telur varnaraðili að kaupnóturnar staðfesti að lánin hafi verið veitt í erlendum myntum, sem seldar voru samdægurs fyrir íslenskar krónur. Ekki er þó um það deilt að sóknaraðilar fengu hvorki hina erlendu mynt í hendur né höfðu þeir nokkur afskipti af þeim gjaldeyrisviðskiptum sem kaupnótunum er ætlað að staðfesta. Fyrir dómi kvaðst Sigurður Hreinn Sigurðsson, annar sóknaraðila, ekki geta staðfest að hann hefði áður séð kaupnóturnar. Fram kom einnig í máli hans að þau hjón hefðu talið sig vera að taka lán í íslenskum krónum, enda hefði ekki verið boðið upp á annað.

         Í málinu liggja einnig frammi samrit af fjölda greiðsluseðla sem varnaraðili gaf út á hendur sóknaraðilum. Á nokkrum þeirra má sjá upphaflegt nafnverð í hinni erlendu mynt, en í öllum tilvikum er afborgun tilgreind, ásamt vöxtum, eftirstöðvum eftir greiðslu og heildarfjárhæð, allt í erlendri mynt. Loks er gengi myntarinnar skráð og greiðslufjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum. Í skýrslu beggja sóknaraðila fyrir dómi kom fram að þeir hefðu spurst fyrir um hvort hægt væri að greiða afborganir í erlendri mynt, en því hefði verið neitað. Þessari staðhæfingu hafnar varnaraðili og heldur því fram að sóknaraðilar hafi sjálfir kosið að greiða af lánunum í íslenskum krónum. Staðhæfingar sóknaraðila eiga sér engu að síður fulla stoð í lokamálslið 7. gr. hvers veðskuldabréfs, þar sem berum orðum er tekið fram að gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur.

         Þótt yfirskrift allra lánssamninga, sem um er fjallað í máli þessu, gefi til kynna að verið sé að semja um lán í erlendri mynt, verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að lánsfjárhæðin er í öllum tilvikum í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í íslenskum krónum. Í því efni breytir engu þótt lánsfjárhæðin sé sögð „jafnvirði“ íslenskra króna í þar tilgreindum myntum, enda er hvergi getið um fjárhæð hinna erlendu mynta sem yfirskrift samninganna benti til að verið væri að lána. Orðalag 2. gr. skuldabréfanna, þess efnis að umrætt lán sé bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á umsömdum myntum, og að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, bendir og ótvírætt til þess að lánið sé í íslenskum krónum, enda  ástæðulaust að taka slíkt fram ef lánið væri í raun í erlendri mynt. Hinu sama gegnir um áberandi áletrun á öllum skuldabréfunum um að skuldabréfið sé gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum. Loks liggur fyrir að sóknaraðilar fengu aldrei í hendur þá erlendu mynt sem varnaraðili heldur fram að samningarnir kveði á um. Þykir þetta taka af öll tvímæli um að umræddir lánssamningar aðila eru í íslenskum krónum og gengistryggðir eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum. Falla samningarnir því undir ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt  dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, sem hafa ótvírætt fordæmisgildi við úrlausn þessa máls, er óheimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Ákvæði 2. gr. lánssamninga sóknaraðila og varnaraðila um gengistryggingu var þannig í andstöðu við fyrirmæli 14. gr., sbr. og 13. gr. laga nr. 38/2001, og því ógilt frá upphafi. Af þeim sökum skuldbindur það ekki sóknaraðila.

         Að fenginni þeirri niðurstöðu koma kröfur málsaðila til skoðunar.

         Eins og áður greinir var sóknaraðilum við útgáfu hvers skuldabréfs afhent fylgiskjal, þar sem áætluð var heildargreiðsla á hverjum gjalddaga lánanna. Greiðsluáætlanir þessar bera með sér að ekki er gert ráð fyrir breytingum á gengi þeirra gjaldmiðla sem lánsfjárhæðin var bundin við, aðeins föstum afborgunum og vöxtum, auk kostnaðar. Í samræmi við það lækkaði heildargreiðsla á hverjum gjalddaga lánsins með lækkandi höfuðstól. Verður að fallast á það með varnaraðila að í greiðsluáætlunum þessum hafi á engan hátt falist loforð um að heildargreiðsla á hverjum gjalddaga yrði sú sem þar var tiltekin, enda á sá skilningur sér hvergi stoð í umræddum lánssamningum. Samkvæmt því verður hafnað kröfum sóknaraðila samkvæmt I. og II. tölulið kröfugerðar þeirra, svo og aðalkröfu samkvæmt III. tölulið, enda eru þær allar því marki brenndar að fjárhæð þeirra er reiknuð á grundvelli áðurnefndra greiðsluáætlana.

Bæði varakrafa og þrautavarakrafa sóknaraðila samkvæmt III. tölulið kröfugerðar þeirra mæla fyrir um að ógilt verði ákvæði 2. gr. í skilmálum oftnefndra veðskuldabréfa, en þess í stað viðurkennt að skuldir sóknarðaðila séu í íslenskum krónum, án tenginga við gengi erlendra gjaldmiðla. Varakrafan gerir ráð fyrir því að ákvæði skuldabréfanna haldi að öðru leyti gildi sínu, en þrautavarakrafan að ákvæðum veðskuldabréfanna verði breytt þannig að skuldin beri fasta 5% ársvexti. Varnaraðili hafnar báðum þessum kröfum. Þess í stað gerir hann sjálfstæðar kröfur um viðurkenningu á því að skilmálum skuldabréfanna verði breytt á  þann hátt sem síðari hluti varakröfu og þrautavarkröfu hans hljóðar um, telji dómurinn að lánssamningar aðila hafi verið í íslenskum krónum og gengistryggðir.

         Dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að skuldir sóknaraðila séu í íslenskum krónum. Af því leiðir að 2. gr. í lánssamningum aðila um gengistryggingu skulda sóknaraðila við varnaraðila skuldbindur ekki sóknaraðila. Fyrir dóminum liggur því að taka afstöðu til þess hvort og þá hvaða áhrif sú niðurstaða hafi á aðra skilmála skuldabréfanna.

         Með dómi Hæstaréttar 16. september sl. í málinu nr. 471/2010 var leyst úr sambærilegu deiluefni, að því einu frátöldu að í því máli var lánssamningur aðila vegna svokallaðs „bílaláns“. Dómurinn þykir engu að síður skýlaust fordæmi þegar lagt er mat á síðastnefndar kröfur aðila þessa máls, enda verður ekki af honum ráðið að unnt sé að leggja önnur sjónarmið til grundvallar niðurstöðu, þótt í hlut eigi lánssamningar vegna húsnæðiskaupa. Af sömu ástæðu koma ekki til skoðunar þær málsástæður sóknaraðila er lúta að því að óheimilt sé að breyta ákvæðum veðskuldabréfanna þeim í óhag. Þrautavarakrafa sóknaraðila um að lánssamningarnir skuli bera 5% ársvexti er hins vegar algerlega órökstudd, en felur að auki í sér að dómurinn kveði sjálfstætt á um vexti af peningakröfum, án þess að séð verði að dómstóll hafi heimild til slíks. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu.

         Í forsendum tilvitnaðs dóms Hæstaréttar kemur fram að líta verði til þess að eftir að ákvæði í samningnum um gengistryggingu hafi verið metið ógilt séu skuldbindingar gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda að öllu leyti í íslenskum krónum og algerlega óháðar þeirri tengingu við japönsk yen og svissneska franka, sem aðilar hafi gengið út frá við gerð samningsins. Síðan segir svo orðrétt: „Þegar virt er að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna er ógilt og bein og órjúfanleg tengsl eru samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti er hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda liggur fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.“ Einnig segir þar: „Í samningnum […] var ekki mælt fyrir um að skuldbinding gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda ætti að fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs, […] og er hvorki unnt að gefa samningnum það inntak með skýringu né geta lög leitt til þeirrar niðurstöðu. Í samningnum var ákveðið að skuld gagnáfrýjanda bæri vexti. Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verður samkvæmt framansögðu ekki beitt er óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera.“ Samkvæmt því, og með vísan til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, var það niðurstaða dómsins að vextir af skuldinni skyldu á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.

         Niðurstaða dóms Hæstaréttar í ofangreindu máli leiðir til þess að varakröfu sóknaraðila samkvæmt III. tölulið kröfugerðar þeirra er hafnað. Að fenginni þeirri niðurstöðu hefur dómurinn hafnað öllum kröfum sóknaraðila. Dómur Hæstaréttar kemur einnig í veg fyrir að varakrafa varnaraðila verði tekin til greina. Þess í stað verður fallist á þrautavarakröfu hans, en eins og áður segir byggist síðari liður þeirrar kröfu á þeirri forsendu að niðurstaða dómsins verði sú að 2. gr. í lánssamningum aðila, um gengistryggingu skulda sóknaraðila við varnaraðila, skuldbindi ekki sóknaraðila. Hefur dómurinn þegar komist að slíkri niðurstöðu, eins og rakið er hér að framan.

         Þótt orðalag síðari liðar þrautavarakröfu varnaraðila sé ekki svo skýrt sem skyldi, fer ekki á milli mála að með henni leitar varnaraðili aðeins viðurkenningar á breyttum vaxtakjörum lánanna. Er sú merking leidd af gögnum málsins og málsástæðum hans. Þar sem enginn ágreiningur er hins vegar um efni eða inntak kröfunnar verður hún tekin til greina, en með því orðalagi sem fram kemur í úrskurðarorði. Samkvæmt síðari málslið 3. gr. laga nr. 38/2001 skal greiða vexti frá stofndegi peningakröfu. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á að vextir reiknist frá „útborgunardegi“ hvers láns, eins og krafan hljóðar um. 

         Með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu. 

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Kröfum sóknaraðila, Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru M. Pinedo, við slit varnaraðila, Frjálsa fjárfestingabankans hf., er hafnað.

         Viðurkennt er að skuldbindingar sóknaraðila við varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfum nr. 33, útgefið 29. október 2004, að fjárhæð 7.700.000 krónur, nr. 712986, útgefið 26. janúar 2006, að fjárhæð 19.200.000 krónur, nr. 712990, útgefið 22. febrúar 2006, að fjárhæð 11.287.000 krónur, nr. 713020, útgefið 26. janúar 2006, að fjárhæð 12.600.000 krónur og nr. 713011, útgefið 23. febrúar 2006, að fjárhæð 7.185.000 krónur, beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og skulu þeir á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.

         Málskostnaður fellur niður.