Print

Mál nr. 795/2017

A (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Almannatryggingar
  • Örorkulífeyrir
  • Stjórnarskrá
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Sératkvæði
Reifun

A höfðaði mál á hendur T og Í og krafðist þess aðallega að ákvarðanir T, þar sem bætur hennar fyrir árið 2015 voru endurákvarðaðar og endurreiknaðar, yrðu ógiltar og að henni yrði greidd nánar tilgreind fjárhæð, en til vara að viðurkennt yrði að T hefði verið óheimilt að skerða greiðslur bóta árið 2015 með því að telja helming af söluhagnaði maka hennar til tekna hennar, sbr. a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar sem kröfurnar voru byggðar á sömu málsástæðum og leiddu í raun til sömu niðurstöðu var ekki talið að A hefði lögvarða hagsmuni af því að varakrafa hennar kæmi sérstaklega til álita yrði aðalkröfu hennar hafnað. Samkvæmt 11. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 gæti lífeyrisþegi óskað eftir að dreifa eigin tekjum sínum sem stöfuðu af fjármagnstekjum sem leystar væru út í einu lagi á allt að 10 ár, þó ekki oftar en einu sinni á hverju tímabili. Talið var að skýra yrði orðalag ákvæðisins með hliðsjón af a. lið 2. mgr. greinarinnar þannig að það ætti við um fjármagnstekjur hvort sem þær stöfuðu frá eignum lífeyrisþegans sjálfs eða maka hans. Hefði A nýtt sér þessa heimild hefðu fjármagnstekjurnar haft mun minni áhrif á bótagreiðslur til hennar. Þegar litið væri til þessa yrði að telja að sú ákvörðun löggjafans, að takmarka fjárhæð bóta vegna tekna sem stöfuðu af fjármagnstekjum sem leystar væru út í einu lagi eins og hér um ræddi, styddist við málefnaleg sjónarmið og að gætt hefði verið meðalhófs og færi hún því ekki gegn þeim markmiðum almannatrygginga að veita þeim aðstoð til framfærslu sem á þyrftu að halda. Var því hvorki fallist á með A að löggjafinn hefði með umræddum reglum mælt fyrir um skerðingu á bótum til hennar sem óheimil væri samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né að reglurnar fælu í sér mismunun í garð A sem bryti í bága við 65. gr. hennar. Voru T og Í því sýknaðir af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2017. Hún krefst þess aðallega að ákvarðanir stefnda Tryggingastofnunar ríkisins 5. mars 2015 og 21. júní 2016 verði ógiltar og stefndu gert að greiða sér 2.207.787 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. desember 2016 til greiðsludags. Til vara krefst hún þess „að viðurkennt verði að stefnda Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að skerða greiðslur á örorkulífeyri, aldurstengdri örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstakri uppbót til framfærslu áfrýjanda árið 2015 með því að telja helming af söluhagnaði maka áfrýjanda til tekna áfrýjanda, samkvæmt a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.“ Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er rakið hefur áfrýjandi verið metin til örorku af hálfu stefnda Tryggingarstofnunar ríkisins og fengið vegna þess fengið greiddan örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu. Voru mánaðarlegar tekjutengdar bætur til áfrýjanda á árinu 2015 upphaflega áætlaðar 193.583 krónur.

Með kaupsamningi 16. janúar 2015 seldi eiginmaður áfrýjanda hlut sinn í einkahlutafélaginu [...] og var hagnaður vegna sölunnar 12.750.450 krónur. Fjármagnstekjur þessar voru í samræmi við ákvæði laga nr. 90/1993 um tekjuskatt færðar á skattframtal áfrýjanda og 3. mars 2015 skilaði hún inn til stefnda Tryggingastofnunar ríkisins nýrri tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2015 þar sem gerð var grein fyrir þessum söluhagnaði. Í kjölfar þess og í samræmi við a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 tilkynnti stefndi Tryggingastofnun ríkisins áfrýjanda með bréfi 5. mars 2015 að við útreikning bóta til hennar yrði miðað við að tekjur hennar á árinu 2015 vegna fyrrgreinds söluhagnaðar væru 6.375.000 krónur og miðað við það hefðu henni verið ofgreiddar bætur að fjárhæð 516.837 krónur, sem þó yrðu ekki innheimtar fyrr en að loknu uppgjöri bóta sem áætlað væri að færi fram haustið 2016. Með bréfi stefnda Tryggingastofnunar ríkisins 21. júní 2016 var áfrýjanda tilkynnt að niðurstaða uppgjörs bóta vegna ársins 2015 væri að henni hefðu verið ofgreiddar 518.574 krónur og lagt til að það sem ofgreitt væri yrði dregið af mánaðarlegum greiðslum til hennar í 12 mánuði frá 1. september 2016 en jafnframt bent á aðrar mögulegar greiðsluleiðir ef sú leið hentaði ekki.

Þær fjármagnstekjur, sem samkvæmt framansögðu voru taldar áfrýjanda til tekna, leiddu til þess að greiðslur þær, sem áfrýjandi hefði annars átt rétt á frá stefnda Tryggingastofnun ríkisins, féllu niður á árinu 2015. Reisir áfrýjandi kröfur sínar í málinu á því að sú skerðing, sem leiðir af a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 vegna fjármagnstekna maka hennar, sé í andstöðu við 76. og 65. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.

II

Eins og að framan greinir krefst áfrýjandi þess aðallega að ákvarðanir stefnda Tryggingastofnunar ríkisins 5. mars 2015 og 21. júní 2016, þar sem greiðslur bóta til hennar fyrir árið 2015 voru endurákvarðaðar og endurreiknaðar, verði ógiltar og að henni verði greidd nánar tilgreind fjárhæð með vöxtum. Til vara krefst hún þess að viðurkennt verði að stefnda Tryggingastofnun ríkisins hafi verið óheimilt að skerða greiðslur bóta árið 2015 með því að telja helming af söluhagnaði maka hennar til tekna hennar samkvæmt a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda eru bæði aðal- og varakröfur hennar reistar á því að sú skerðing sem hún þurfti að sæta sé óheimil og að stjórnvaldsákvarðanir þess efnis séu því ógildanlegar. Eru kröfurnar byggðar á sömu málsástæðum og leiða í raun til sömu niðurstöðu. Verður því ekki séð að áfrýjandi hafi lögvarða hagsmuni af því að varakrafa hennar komi sérstaklega til álita við úrlausn máls þessa verði aðalkröfum hennar hafnað.

III

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Ákvæði þetta hefur verið skýrt svo, sbr. dóma Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 og 13. júní 2013 í máli nr. 61/2013, að skylt sé að lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Hafi almenni löggjafinn vald um það hvernig því skipulagi skuli háttað. Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þannig er það verkefni löggjafans að ákveða hvernig háttað skuli þeirri opinberu aðstoð sem öryrkjum er látin í té og hefur hann sinnt þeirri skyldu sinni meðal annars með setningu laga nr. 100/2007. Samkvæmt III. kafla þeirra laga hefur löggjafinn tekið afstöðu til þess hvaða greiðslur komi til úr ríkissjóði vegna örorku. Þar er þörf einstaklinga fyrir aðstoð metin og er löggjafanum heimilt að skerða hana en svigrúmi hans í þessu efni eru sett þau takmörk að dómstólar eru bærir til að meta hvort lagasetning um þau málefni samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar og þar með hvort skerðing á bótarétti sem einstaklingur hefur notið samkvæmt lögum gangi of nærri ákveðnum lágmarksréttindum sem fólgin eru 76. gr. stjórnarskrárinnar og hvort byggt hafi verið á lögmætum sjónarmiðum á borð við jafnræði og meðalhóf.

Grundvöllur tekna við útreikning árlegra bóta almannatrygginga eru þær tekjur sem liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum og er tekjuviðmiðið því þær tekjur sem fram koma í skattframtali hlutaðeigandi bótaþega, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Eins og fram er komið voru bætur til áfrýjanda skertar á grundvelli a. liðar 2. mgr. 16. gr. laganna en í fyrri málslið ákvæðisins segir að tekjur umfram 90.000 krónur á ári samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 skuli teljast til tekna við útreikning á örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu. Í 8. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er fjallað um hagnað af sölu eigna. Þá segir í síðari málslið a. liðar 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 að ef um hjón sé að ræða skiptist tekjur samkvæmt fyrri málslið  ákvæðisins til helminga milli hjóna við útreikning bóta og skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Samkvæmt þessu hefur löggjafinn metið það svo að fjármagnstekjur umfram 90.000 krónur á ári skuli, á þann hátt sem kveðið er á um í a. lið 2. mgr. 16. gr. laganna, teljast til tekna við útreikning bóta hvort sem um er að ræða fjármagnstekjur af eign lífeyrisþegans eða maka hans. Er það undantekning frá því sem segir í c. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um að við útreikning bóta samkvæmt III. kafla laganna skuli ekki reikna með tekjum maka.

Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000 sagði að telja yrði aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skyldi vera án tillits til tekna maka, en í lögum væri þó víða tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks. Talið hefði verið að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þyrfti minna sér til framfærslu en sá sem byggi einn. Gæti það því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi væri í sambúð eða ekki. Það væri á valdi löggjafans að ákveða þau mörk, sem örorkulífeyrir og tekjutrygging miðuðust við, svo fremi sem þau uppfylltu önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau yrðu skýrð með hliðsjón af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hefði undirgengist. Var það niðurstaða í því máli að óheimilt hefði verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert var í þágildandi 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998. Í kjölfar þessa dóms og dóms Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 var lögum nr. 117/1993 breytt með lögum nr. 166/2006. Eftir þá breytingu og samkvæmt lögum nr. 100/2007 er það almenna reglan að tekjur maka örorkulífeyrisþega hafi ekki lengur áhrif við útreikning bóta að öðru leyti en varðar fjármagnstekjur, sbr. a. og c. liði 2. mgr. 16. gr. laganna.

Samkvæmt 11. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 getur lífeyrisþegi óskað eftir því að dreifa eigin tekjum sínum sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár, þó ekki oftar en einu sinni á hverju tímabili. Verður að skýra orðalag þessa ákvæðis um eigin tekjur lífeyrisþegans með hliðsjón af a. lið 2. mgr. greinarinnar þannig að það eigi við um þær fjármagnstekjur sem áhrif hafa á útreikning bóta, hvort sem þær stafa frá eignum lífeyrisþegans sjálfs eða maka hans. Ljóst er að markmið þessarar heimildar er að draga úr þeim áhrifum sem fjármagnstekjur, sem leystar hafa verið út í einu lagi, geta haft á fjárhæð bóta til hagsbóta fyrir lífeyrisþega. Af hálfu stefndu hafa verið lagðir fram útreikningar á því hvernig bótagreiðslum hefði verið háttað á árinu 2016 ef áfrýjandi hefði nýtt sér framangreinda heimild um tekjudreifingu í 10 ár. Af þeim útreikningum, sem ekki hafa verið bornar brigður á, verður ráðið að bætur til hennar hefðu verið 184.000 krónur á mánuði í stað 206.000 króna eða tæpum 11% lægri en ef áhrifa fjármagnsteknanna hefði ekki gætt. Hefði áfrýjandi nýtt sér þessa heimild er ljóst fjármagnstekjurnar hefðu haft mun minni áhrif á bótagreiðslur til hennar og bætur ekki fallið niður árið 2015 eins og raunin varð. Þegar litið er til þessa verður að telja að sú ákvörðun löggjafans, að takmarka fjárhæð bóta vegna tekna sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi eins og hér um ræðir, styðjist við málefnaleg sjónarmið og að gætt hafi verið meðalhófs og fer hún því ekki gegn þeim markmiðum almannatrygginga að veita þeim aðstoð til framfærslu sem á þurfa að halda. Verður því hvorki fallist á með áfrýjanda að löggjafinn hafi með umræddum reglum mælt fyrir um skerðingu á bótum til hennar sem óheimil sé samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né að reglurnar feli í sér mismunun í garð áfrýjanda sem brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, en rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Sératkvæði

Karls Axelssonar

I

Svo sem nánar er rakið í atkvæði meirihluta dómara hefur áfrýjandi verið metin til 75% örorku af hálfu stefnda Tryggingarstofnunar ríkisins frá 1. september 2003 og af þeim sökum fengið greiddan örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu. Tekjutengdar bætur til áfrýjanda á árinu 2015 voru upphaflega áætlaðar 193.583 krónur. Eftir að helmingur fjármagnstekna þeirra sem eiginmaður áfrýjanda naut vegna sölu einkahlutafélagsins [...], með kaupsamningi 16. janúar 2015, hafði verið talinn henni til tekna að fjárhæð 6.375.000 krónur, samkvæmt a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, voru greiðslur bóta henni til handa endurákvarðaðar af hálfu stefnda Tryggingastofnunar ríkisins með ákvörðunum 5. mars 2015 og 21. júní 2016. Af þeim ákvörðunum leiddi að þær tekjutengdu bætur, sem áfrýjandi hefði ella átt rétt á frá stefnda Tryggingastofnun ríkisins, féllu niður á árinu 2015. Reisir áfrýjandi kröfur sínar í málinu á því að sú skerðing, sem tilkomin er vegna fjármagnstekna maka hennar, samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði, fái ekki staðist áskilnað 76. og 65. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.

II

  Í atkvæði meirihluta dómara er gerð grein fyrir því að samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skuli öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Svo sem lagt var til grundvallar í dómi Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000, sbr. dóm réttarins 13. júní 2013 í máli nr. 61/2013, verður ákvæðið skýrt á þann veg að skylt sé að lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar er það almenna löggjafans að skipuleggja hvernig þessu markmiði verði náð en við það verður jafnframt að uppfylla skilyrði 65. gr. hennar um að hver einstaklingur njóti jafnræðis á við aðra sem réttar njóta sem og almenn mannréttindi. Í fyrrnefnda dóminum kemur jafnframt fram að það sé aðalregla íslensks réttar að réttur til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka, en í lögum sé þó víða tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks og geti það átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi sé í sambúð eða ekki. Það sé á valdi löggjafans að ákveða þau mörk, sem örorkulífeyrir og tekjutrygging miðist við, svo fremi sem þau uppfylli önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hafi undirgengist. Var það niðurstaða í því máli að óheimilt hefði verið að skerða tekjutryggingu bótaþega í hjúskap vegna tekna maka frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert var í þágildandi 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998 en af því leiddi að viðkomandi bótaþegi naut aðeins grunnörorkulífeyris sem nam þá 17.715 krónum á mánuði.

Í kjölfar þessa dóms og dóms Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 var lögum nr. 117/1993 breytt með lögum nr. 166/2006. Samkvæmt gildandi lögum nr. 100/2007 hafa tekjur maka bótaþega ekki lengur áhrif við útreikning bóta að öðru leyti en varðar fjármagnstekjur, sbr. a. og c. liði 2. mgr. 16. gr. laganna.

III

Svo sem fram er komið voru öll réttindi áfrýjanda til tekjutengdra bóta vegna örorku skert að fullu á árinu 2015 vegna framangreindra fjármagnstekna maka hennar. Á árinu naut hún greiðslna að fjárhæð 9.561 króna í formi orlofsuppbótar og svo barnalífeyris sem ekki hefur þýðingu fyrir það sakarefni sem til úrlausnar er.

Við mat á því hvort skerðing sú sem bætur til handa áfrýjanda sættu á árinu 2015 vegna fjármagnstekna maka hennar og leiðir af a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 er óhjákvæmilegt að víkja að þeim grundvallarmun sem gerður er annars vegar á fjármagnstekjum samkvæmt því ákvæði, sbr. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og svo hins vegar öðrum tekjum maka sem engin áhrif hafa á bótarétt samkvæmt lögunum, sbr. c. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Hvorki verður leitt af lagareglunni sjálfri né lögskýringargögnum hvað réði þeim greinarmun sem þannig er gerður eftir eðli tekna maka. Vegna tilvísunar í a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 til C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er þess að gæta að mismunandi skattaleg meðferð tekna maka eftir lögum um tekjuskatt hefur engin augljós áhrif við það mat sem fram fer á grundvelli tilvitnaðra stjórnarskrárákvæða og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar á lágmarks framfærslu bótaþega samkvæmt löggjöf um almannatryggingar. Þá er ekki unnt að fallast á að heimild bótaþega samkvæmt 11. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 til þess að dreifa eigin tekjum sínum, sem stafa af fjármagnstekjum, sem leystar hafa verið út í einu lagi á 10 ára tímabil, fái í neinu breytt inntaki þeirrar skerðingar sem um er deilt. Í fyrsta lagi er óljóst af lagaákvæðinu hvort heimild samkvæmt því nái til fjármagnstekna maka bótaþega. Í öðru lagi verður umræddri heimild einungis beitt einu sinni á hverju tímabili og nýtist því augljóslega ekki í tilviki einstaklinga þar sem maki nýtur til dæmis fjármagnstekna árlega og mögulega aðeins slíkra tekna, en í dag er hlutdeild og þáttur slíkra tekna í fjárhagslegri afkomu fólks með afar mismunandi hætti. Við mat á þýðingu umræddrar heimildar við úrlausn málsins vegur þó þyngst sú staðreynd að umrædd heimild felur aðeins í sér fyrirkomulag á skerðingu sem eftir sem áður er efnislega sú sama vegna ársins 2015 eða skerðing að fullu. Loks fæst ekki séð að sá 90.000 króna þröskuldur sem settur er í fyrsta málslið a. liðar 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 vegi upp á móti þeim óútskýrða mun sem gerður er á fjármagnstekjum annars vegar og launatekjum hins vegar í þessu sambandi. Að þessu virtu verður ekki talið að stefndu hafi tekist að sýna fram á hvaða málefnalegi grundvöllur bjó að baki því við lögfestingu 16. gr. laga nr. 100/2007 að gera umræddan mun á áhrifum fjármagnstekna og launatekna maka á bótarétt bótaþega eftir lögunum. Fær sú tilhögun, sem löggjafinn hefur þannig ákveðið með a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, ekki tryggt þeim bótaþegum sem þar falla undir þau lágmarksréttindi, sem í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar felast, á þann hátt að þeir fái notið þeirra mannréttinda sem 65. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja, sbr. dóm Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000.

 Í samræmi við framangreint tel ég að fallast beri á með áfrýjanda að óheimilt hafi verið að skerða bætur til hennar vegna ársins 2015 með þeim hætti sem fólst í ákvörðunum stefnda Tryggingastofnunar ríkisins 5. mars 2015 og 21. júní 2016. Þær ákvarðanir beri því að ógilda og dæma stefndu til að greiða áfrýjanda 2.207.787 krónur með umkröfðum vöxtum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002. Í samræmi við það tel ég einnig rétt að staðfesta ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað en dæma stefndu til þess að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2017

Mál þetta, sem dómtekið var 15. september sl., er höfðað 15. nóvember sl. af  A, [...], [...] gegn Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík og íslenska ríkinu.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að ákvarðanir stefndu, Tryggingastofnunar ríkisins, 5. mars 2015 og 21. júní 2016, þar sem bætur stefnanda frá stefndu fyrir árið 2015 voru endurákvarðaðar og endurreiknaðar, verði ógiltar. Þá krefst stefnandi þess að stefndu greiði stefnanda 2.207.787 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 17. desember 2016 greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, hafi verið óheimilt að skerða greiðslur á örorkulífeyri, aldurstengdri örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstakri uppbót til framfærslu stefnanda árið 2015, með því að telja helming af söluhagnaði maka stefnanda til tekna stefnanda, samkvæmt a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi nýtur gjafsóknar.

Stefndu krefjast sýknu og greiðslu málskostnaðar. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.                     

Stefnandi hefur verið metin til hámarksörorku af stefnda, Tryggingastofnun ríkisins. Tekjur stefnanda eru örorkulífeyrir og tengdar greiðslur frá stefnda, Tryggingastofnun ríkisins. Upphaflega voru tekjutengdar greiðslur stefnda til stefnanda fyrir árið 2015 áætlaðar 193.583 krónur á mánuði. Við það bættist barnalífeyrir. Með bréfi stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, 5. mars 2015, var stefnanda tilkynnt um breytingu á bótarétt. Í bréfinu kom fram að stefnda hefðu borist ný gögn um tekjur stefnanda og á grundvelli þeirra hefði bótaréttur ársins 2015 verið endurreiknaður. Niðurstaða endurreikningsins var sú að það sem af væri ári 2015 hefði stefndi ofgreitt stefnanda bætur að fjárhæð 516.837 krónur. Í bréfinu var að finna þá tekjuáætlun sem byggt var á. Samkvæmt tekjuáætluninni var söluhagnaður stefnanda á árinu 2015 að fjárhæð 6.375.000 krónur og vextir og verðbætur 4.547 krónur. Ekki var um aðrar tekjur að ræða. Söluhagnaðurinn sem tilgreindur er í bréfi stefnda til stefnanda var vegna sölu eiginmanns hennar á hlutafé í einkahlutafélagi, en maki stefnanda var eigandi 50% hlutafjár í einkahlutafélaginu. Söluhagnaður hans nam 12.750.450 krónum. Samkvæmt tekjuáætlun, sem fram kemur í áðurnefndu bréfi stefnda 5. mars 2015, skipti stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, söluhagnaðinum til helminga milli stefnanda og maka hennar. Ákvörðun stefnda var byggð á a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þannig ákvarðaði stefndi tekjur stefnanda, að teknu tilliti til söluhagnaðarins, samtals að fjárhæð 6.379.772 krónur. Samkvæmt ákvörðun stefnda leiddi það til skerðingar á tekjutengdum bótum. Áætlaður réttur stefnanda til tekjutengdra greiðslna frá stefnda nam upphaflega 193.583 krónum á mánuði fyrir árið 2015. Á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 1. mars 2015 hafði stefnandi samtals fengið greiddar tekjutengdar bætur að fjárhæð 580.749 krónur. Af þeim hafði hún greitt 63.912 krónur í skatta þannig að eftir stóðu 516.837 krónur. Samkvæmt bréfi stefnda, 5. mars 2015, leit stofnunin svo á að hún hefði ofgreitt stefnanda 516.837 krónur frá áramótum. Stefndi tók þannig ákvörðun um að skerða öll réttindi stefnanda til tekjutengdra bóta vegna örorku um 100%. Eftir skerðinguna nam réttur hennar til greiðslna frá stefnda 9.561 krónu fyrir allt árið 2015. Sú fjárhæð er komin til vegna orlofsuppbótar. Skerðingin leiddi til þess að bótaflokkarnir; örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging örorkulífeyrisþega og sérstök uppbót til framfærslu örorkulífeyrisþega, féllu alveg niður. Einu mánaðarlegu greiðslurnar voru barnalífeyrir.

Með bréfi stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins 21. júní 2016, var árið 2015 endurreiknað og gert upp. Bættist þá við ofgreiðsla að fjárhæð 1.737 krónur vegna orlofsuppbótar. Að mati stefnda var heildarofgreiðsla þannig 518.574 krónur vegna ársins 2015. Með bréfinu var tekin endanleg ákvörðun um að ákvarða ofgreiðslurnar og innheimta þær hjá stefnanda.

II.

Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir skerðingu örorkubóta, vegna söluhagnaðar maka síns. Skerðing bóta vegna örorku, með þeim hætti sem stefndi hafi beitt stefnanda, brjóti í bága við grundvallarréttindi stjórnarskrárinnar. Skerðingin komi í veg fyrir að stefnandi fái notið þeirra mannréttinda sem 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 kveði á um og sé þar með að vettugi virðandi.

Aðild stefndu sé byggð á því að stefndi, íslenska ríkið, hafi sett lögin sem málið fjalli um en stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, framkvæmt lögin. Nauðsynlegt sé að dómur bindi báða stefndu. Um aðild til varnar vísi stefnandi til 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verði ekki talið að 18. gr. laganna eigi við sé til vara byggt á samlagsaðild samkvæmt 19. gr. laganna. Dómkrafa stefnanda eigi rætur að rekja til sama atviks og stöðu, þ.e. skerðingar á réttindum stefnanda vegna tekna maka hennar á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Félags- og húsnæðismálaráðherra fari með málefni almannatrygginga, þar á meðal málefni Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 8. gr. laga nr. 100/2007.

Réttur til aðstoðar vegna örorku sé liður í stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga, samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár, og sé meðal þeirra grundvallarréttinda sem þar séu sérstaklega nefnd. Samkvæmt ákvæðinu skuli með lögum tryggja öllum sem þess þurfi slíkan rétt. Mál þetta fjalli um skerðingu þeirra réttinda. Ákvæði um rétt þeirra, sem ekki geti framfleytt sér sjálfir, til aðstoðar úr opinberum sjóðum, hafi verið í stjórnarskrá allt frá 1874 en rétturinn hafi verið háður því að viðkomandi ætti sér ekki skylduframfærendur. Það skilyrði hafi verið afnumið með stjórnarskrárbreytingu árið 1995. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnskipunar­laga nr. 97/1995 hafi verið tekið fram að gengið væri út frá því að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði yrðu settar með lögum. Með ákvæðinu væri aftur á móti markaður sá rammi að til þyrftu að vera reglur sem tryggðu þessa aðstoð. Í athugasemdum með frumvarpinu hafi einnig verið vísað til 12. og 13. gr. félagssáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 3/1976, og 11. og 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem lögfestur var með lögum nr. 10/1979. Sjónarmið um mannlega reisn og líf á sama grundvelli og aðrir séu auk þess gegnumgangandi í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hafi verið undirritaður fyrir hönd íslenska ríkisins 30. mars 2007. Ákvæði 76. gr. stjórnarskrár verði skýrt á þann veg að stefnda, íslenska ríkinu, sé skylt að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Skipulag, sem löggjafinn ákveði, verður þó að fullnægja þeim lágmarksréttindum sem felist í 76. gr. stjórnarskrár. Þá verði það enn fremur að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrár um að hver einstaklingur njóti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóti, svo og almennra mannréttinda.

Í III. kafla laga nr. 100/2007 sé mælt fyrir um rétt til örorkulífeyris og tengdra bóta. Stefnandi hafi óumdeilanlega uppfyllt bæði grundvallarskilyrði laganna þar sem hún hafi verið búsett hér á landi og verið metin til hæsta örorkustigs. Af því leiði að árið 2015 hafi stefnandi uppfyllt skilyrði til bóta samkvæmt ákvæðum laganna sem samanstanda af örorkulífeyri, samkvæmt 18. gr., aldurstengdri örorkuuppbót, samkvæmt 21. gr. og tekjutryggingu, samkvæmt 22. gr. Þá hafi hún einnig átt rétt til sérstakrar uppbótar vegna framfærslu, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 14. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Framangreind lagaákvæði hafi leitt til þess að mánaðarlegar tekjutengdar bætur stefnanda, fyrir árið 2015, hafi upphaflega verið áætlaðar 193.583 krónur á mánuði. Þá hafi stefnandi fengið barnalífeyri, samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007. Barnalífeyrir sé ætlaður til að aðstoða við framfærslu barns og sé ekki tekjutengdur.

Í áðurnefndum III. kafla laga nr. 100/20007 séu fjárhæðir bóta ákveðnar og mælt fyrir um skerðingar vegna tekna. Í 2. mgr. 16. gr. laganna segi að „tekjur“ í skilningi kaflans teljist almennt tekjur, samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til tiltekinna undantekninga. Í a. lið 2. mgr. 16. gr. segi að tekjur umfram 90.000 krónur á ári, skv. c.lið 7. gr. laga nr. 90/2003, skuli teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu samkvæmt 17. til 19. gr. og 21. til 22. gr. laganna. Ef um hjón sé að ræða skiptist tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Söluhagnaður maka stefnanda sé, samkvæmt 18. gr. laga nr. 90/2003, mismunur á söluverði bréfanna annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar. Skráð kaupverð hlutanna hafi verið 3.499.550 krónur en söluverð þeirra 16.250.000 krónur. Hagnaður maka stefnanda af sölu hlutanna hafi því verið 12.750.450 krónur. Kveðið sé á um hagnað af sölu eigna í 8. tölulið c. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og teljist hann því til tekna, sbr. a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 skuli skerða örorkulífeyri ef tekjur örorkulífeyrisþega, samkvæmt 2. og 3. mgr. 16. gr., séu hærri en 2.095.501 króna á ári. Skerðingin nemi 25% þeirra tekna sem umfram séu uns örorkulífeyririnn falli niður. Sömu skerðingar eigi einnig við um aldurstengda örorkuuppbót, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laganna skuli skerða tekjutryggingu um 38,35% tekna lífeyrisþega uns hún falli niður. Á grundvelli 7. gr. reglugerðar 1052/2009, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 14. gr. laga nr. 99/2007 hafi stefndi einnig skert sérstaka uppbót vegna framfærslu með sama hætti og tekjutryggingu. Framangreindar skerðingarreglur hafi leitt til þess að stefndi hafi ákvarðað stefnanda tekjur að fjárhæð 6.379.547 krónur fyrir árið 2015. Raunverulegar tekjur stefnanda á árinu 2015 hafi aftur á móti verið 4.547 krónur. Þessi tekjuákvörðun stefnda hafi svo leitt til þess að bætur sem upphaflega voru áætlaðar 193.583 krónur á mánuði hafi verið skertar þannig að þær féllu alveg niður. Bætur stefnanda vegna ofangreindra bótaflokka hafi samkvæmt endanlegri ákvörðun stefnda numið 0 krónu fyrir árið 2015.

Það sé aðalregla íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka. Sé það í samræmi við 65. gr. stjórnarskrár og allar undantekningar frá þeirri meginreglu beri að skýra þröngt. Ákvæði a. liðar 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 kveði á um að hjón skuli sæta því að allar fjármagnstekjur skiptist til helmings milli þeirra við útreikning bóta. Skipti þá ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Eftir að tekjum hjóna hafi verið skipt til helminga milli þeirra lúti tekjurnar áðurnefndum skerðingarreglum laga nr. 100/2007. Þannig hafi réttur stefnanda verið skertur verulega vegna tekna annars einstaklings. Í raun hafi ekki einungis verið um skerðingu að ræða enda rétturinn fallið alveg niður. Framfærsluskylda hjóna sé hins vegar gagnkvæm samkvæmt hjúskaparlögum. Sé ekki aðeins um skyldu að ræða heldur einnig rétt, sbr. 5. gr. 7. samningsviðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Réttur örorkulífeyrisþega til eigin framfærslu og fjölskyldu sinnar verði lítill sem enginn hafi hún aðeins tekjur sem nemi barnalífeyri, þ.e. 26.863 krónur á mánuði. Í 1. mgr. 76. gr., sbr. 65. gr. stjórnarskrár felist ákveðin lágmarksréttindi, sem miðuð séu við einstakling. Þrátt fyrir að svigrúm stefnda, íslenska ríkisins, til mats á því hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð, geti dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort það mat samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Þegar litið sé til afleiðinga, sem skipulagið hafi haft fyrir bótarétt stefnanda, verði þetta skipulag ekki talið tryggja henni þau lágmarksréttindi sem í stjórnarskránni felist. Hún fái þannig ekki notið þeirra mannréttinda sem 65. gr. stjórnarskrár mæli henni, sbr. 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem var fullgiltur af Íslands hálfu 22. ágúst 1979 og 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Stefnandi eigi rétt til þess, samkvæmt framangreindum stjórnarskrárákvæðum, að fá aðstoð vegna örorku sinnar þannig að hún geti lifað sjálfstæðu mannsæmandi lífi, með mannlegri reisn og virðingu. Til þess að stefnandi geti staðið undir sjálfri sér en sé ekki algerlega háð öðrum þurfi aðstoð stefnda að vera nægjanlega mikil. Jafnvel þótt talið verði að málefnalegt sé að skerða bætur með hliðsjón af tekjum maka séu mörk á því hversu langt megi ganga í slíkri skerðingu.

Eins og áður segi hafi stefnandi einungis fengið greiddan barnalífeyri árið 2015 en hann sé ætlaður til að framfæra barn stefnanda. Reglurnar hafi leitt til þess að tekjutengdar bætur stefnanda hafi fallið alveg niður og stefnandi engar greiðslur haft sér til framfærslu. Stefnandi hafi í raun engar tekjur haft árið 2015, einungis maki hennar. Hafi stefnandi þannig verið gerð algerlega háð maka sínum um framfærslu og önnur útgjöld. Jafnvel þótt litið yrði svo á að skerðingin teldist byggja á málefnalegum sjónarmiðum að einhverju leyti þá sé gengið svo langt í skerðingunni að hún fari í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Skerðingin kippi alveg stoðum undan aðstoðinni og gangi þannig mun lengra en nauðsynlegt sé. Stefndu beri að sýna fram á að skerðing á mannréttindum stefnanda hafi verið nauðsynleg og réttlætanleg með hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum. Stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því að það standist að gerð sé slík gríðarleg undantekning frá meginreglunni að ákvörðun bóta skuli vera án tillits til tekna maka. Með vísan til þessa telji stefnandi að það stangist á við stjórnarskrárvarin grundvallarréttindi hennar að skerða greiðslur til hennar vegna tekna maka með þeim hætti sem stefndu hafi gert, samkvæmt ákvæðum laga nr. 100/2007.

Stefnandi geri aðallega kröfu um ógildinu þeirra ákvarðana sem hún telji að hafi verið ólögmætar og hafi skert réttindi hennar. Ákvarðanirnar um endurákvörðun bótagreiðslna til hennar hafi verið teknar 5. mars 2015 og 21. júní 2016. Stefnandi hafi hagsmuni af ógildingu ákvarðananna enda séu þær annars vegar grundvöllur að skerðingu (niðurfellingu) réttinda hennar og hins vegar stofnun á skuld hennar við  stefnda Tryggingastofnun ríkisins. Samhliða kröfu um ógildingu geri stefnandi fjárkröfu. Fjárkrafan byggi á því að virða beri að vettugi framangreindar ólögmætar ákvarðanir stefnda um skerðingu á bótum til stefnanda. Þannig eigi stefnandi rétt á að fá þær greiðslur sem hún hafi fengið greiddar árið 2015 ef stefndi hefði ekki skert réttindi hennar með ólögmætum hætti. Stefnandi krefjist þess að stefndu greiði henni þá fjárhæð sem nemi vangoldnum greiðslum til hennar. Það beri að greiða henni það sem upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að hún fengi greitt samkvæmt tekjuáætlun fyrir árið 2015, áður en tekjur maka hennar hafi verið metnar sem hennar eigin. Skerðing greiðslna hafi leitt til þess að á árinu 2015 hafi stefnandi ekki fengið greiddar eftirfarandi bætur: Örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu. Ef hin ólögmæta skerðing hefði ekki komið til hefði mánaðarleg greiðsla á örorkulífeyri verið 36.377 krónur, mánaðarleg greiðsla á aldurstengdri örorkuuppbót 27.253 krónur, mánaðarleg greiðsla tekjutryggingar 116.356 krónur og mánaðarleg sérstök uppbót til framfærslu 13.628 krónur. Alls hafi bætur stefnanda, samkvæmt framansögðu, skerst um 2.207.787 krónur. Þá sé auk þess krafist dráttarvaxta frá og með mánuði eftir þingfestingu, í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á aðalkröfur um ógildingu ákvarðana og fjárkröfu sé til vara gerð krafa um að sú skerðing sem stefndu hafi beitt stefnanda hafi verið ólögmæt. Varakrafan gangi skemur en aðalkrafan og stefnandi hafi sjálfstæða hagsmuni af úrlausn um hana ef ekki sé hægt að fallast á aðalkröfuna.

Stefnandi vísar til 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og laga nr. 10/2008, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Fyrirsvar á stoð í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing stefndu er vísað til 3. og 4. mgr. 33. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

II.                   

                Stefndu byggja á því að sú ákvörðun stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, að endurákvarða bætur stefnanda hafi verið í samræmi við lög og sé ekki tilefni ógildingar á þeirri ákvörðun. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að sú lækkun sem stefnandi hafi sætt á bótum sínum hafi verið í andstöðu við 76. gr., sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Því sé mótmælt. Ljóst sé að endurákvörðun og endurútreikningur stefnda á bótarétti og greiðslum til stefnanda byggist á skýrum fyrirmælum laga nr. 100/2007, sbr. 7. mgr. 16. gr. laganna.

Stefndu bendi á að grundvöllur tekna við útreikning árlegra bóta almannatrygginga séu þær tekjur sem liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tekjuviðmið séu því þær tekjur sem komi fram í skattframtali viðkomandi, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Í 16. gr. laganna sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé vísað til laga nr. 90/2003 um hvað skuli teljast til tekna. Í a. lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 komi fram að fjármagnstekjur, umfram 90.000 krónur á ári, skuli teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu samkvæmt 17. til 19. gr. og 21. til 22. gr. laganna. Ef um hjón sé að ræða skiptist tekjur, samkvæmt 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða, sbr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Í 62. gr. laga nr. 90/2003 sé fjallað um ákvörðun tekjuskattsstofns hjóna en skattmeðferð sé mismunandi eftir því hvaða tegund tekna sé um að ræða. Um fjármagnstekjur gildi sem fyrr greinir samsköttun og sé skattlagning þessara tekna hlutlæg að því leyti að það hjóna sem hafi hærri hreinar tekjur, samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 62. gr., skuli sæta skattlagningu fjármagnstekna. Þannig geti allar fjármagnstekjur talist til tekna lífeyrisþegans við skattlagningu hafi hann hærri tekjur en maki hans og öfugt. Samkvæmt lögum nr. 100/2007 sé fjármagnstekjum aftur á móti skipt jafnt á milli hjóna við skattlagningu og útreikning bóta almannatrygginga. Ákvæði laga nr. 100/2007 um hvernig fara skuli með fjármagnstekjur hjóna og sambýlisfólks séu þar af leiðandi í fullu samræmi við hvernig farið sé með fjármagnstekjur samkvæmt lögum nr. 90/2003. Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 leggi ríkisskattstjóri tekjuskatt á skattaðila samkvæmt framtali hans. Hjón skili sameiginlegu framtali og beri sameiginlega ábyrgð á þeim sköttum sem á séu lagðir samkvæmt framtalinu. Framtalinn hagnaður maka stefnanda af sölu hlutabréfa hafi verið 12.750.450 krónur. Tekjur þessar falli undir C. lið 7. gr. laga nr. 90/2003 og séu skattskyldar. Samkvæmt tekjuáætlun stefnanda hafi söluhagnaður hennar numið 6.375.000 krónum á árinu 2015 og vextir og verðbætur 4.547 krónur. Í stefnu sé fullyrt að stefnandi hafi ekki haft neinar tekjur árið 2015, einungis maki hennar. Verði að mótmæla þessu enda sé þessi framsetning stefnanda villandi. Stefndu bendi á að fjármagnstekjur stefnanda og maka hennar hafi verið sameiginlegar en ekki sértekjur maka hennar. Sé slíkt ljóst af afdráttarlausum ákvæðum laga nr. 100/2007 og nr. 90/2003.

Stefnandi byggi á því að réttindi hennar séu skert vegna tekna maka og slíkt fyrirkomulag sé í andstöðu við 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrár. Stefndu mótmæli þeirri staðhæfingu sem rangri og ósannaðri. Að mati stefndu hafi sú lagaframkvæmd að taka tillit til fjármagnstekna, sem að stefnandi hafi notið ásamt maka sínum, ekki haft nein óeðlileg áhrif á stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda. Stefndu leggi áherslu á að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrár og 1. gr. laga nr. 100/2007 séu markmið og tilgangur almannatrygginga, jafnt sem annarra velferðarkerfa, að veita þeim aðstoð sem þurfi á aðstoð að halda, greiða þeim bætur og aðrar greiðslur til framfærslu. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga séu félagslegar greiðslur sem séu fjármagnaðar úr ríkissjóði og markmið þeirra sé fyrst og fremst að forða fólki frá fátækt. Af því leiði að þeir einstaklingar sem hafi nægt fé sér til framfærslu fái ekki greiðslur frá almannatryggingum og byggi ákvæði laga nr. 100/2007, um áhrif annarra tekna á fjárhæð bóta, á þeirri meginreglu. Stefndu byggi á því að með þeim reglum sé ekki mælt fyrir um skerðingu á bótum sem óheimil geti talist, samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Stefndu bendi á að velferðarkerfið á Íslandi sé byggt upp á mörgum þáttum, svo sem félagsaðstoð sveitarfélaga, fæðingarorlofssjóði, atvinnuleysis-tryggingum og fleira. Almannatryggingar, samkvæmt lögum nr. 100/2007, séu því einungis hluti þess kerfis. Aðeins þeir sem uppfylli tiltekin skilyrði eigi rétt til bóta samkvæmt almannatryggingum. Að mati stefndu felist ekki í því mismunun enda fái allir sem séu í sambærilegri stöðu sambærilega afgreiðslu. Þá fái stefndu ekki séð hvernig endurútreikningur á bótagreiðslum stefnanda geti talist brot á 65. gr. stjórnarskrár enda sé það ekki rökstutt sérstaklega í stefnu. Allir í sambærilegri stöðu og stefnandi sæti sambærilegri skerðingu. Verði ekki séð að umræddar skerðingarreglur feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart stefnanda og séu í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár. 

Stefnandi krefjist þess að ákvarðanir stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, um endurákvörðun og endurreikning bóta fyrir árið 2015, verði ógiltar og að stefndu verði gert að greiða henni 2.322.996 krónur. Sé þessu mótmælt. Ljóst sé að endurákvörðun og endurreikningur stefndu á bótarétti og greiðslum til stefnanda byggist á skýrum fyrirmælum laga nr. 100/2007, sbr. 7. mgr. 16. gr. laganna, líkt og áður sé rakið. Að mati stefndu séu ekki færð rök fyrir fjárkröfunni umfram það sem segi í stefnu að réttar greiðslur til stefnanda séu þær sem upphaflega hafi verið gert ráð fyrir samkvæmt tekjuáætlun fyrir árið 2015 áður en tekjur maka stefnanda hafi verið metnar sem hennar eign. Stefndu mótmæli fjárhæð kröfunnar. Þegar bætur séu reiknaðar beri að miða við endanlegar tekjur samkvæmt skattframtali. Krafa stefnanda sé byggð á greiðsluáætlun, líkt og orðið gefi til kynna. Sé aðeins um áætlun að ræða en ekki endanlega niðurstöðu um bótarétt viðkomandi, sbr. 5. og 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/20007. Ef bætur til stefnanda séu reiknaðar fyrir árið 2015 án þess að tekið sé tillit til umræddra fjármagnstekna væri bótaupphæðin 2.207.787 krónur. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að viðskipti þau sem maki hennar standi fyrir séu henni óviðkomandi. Ekki hafi þó verið lagðar fram upplýsingar um það hvort stefnandi og maki hennar séu með aðskilinn fjárhag, hvort fyrir liggi kaupmáli o.f.frv. Stefndu bendi á að slíkt hafi engu að síður ekki áhrif á skattlagningu fjármagnstekna. Samkvæmt lögum nr. 100/2007 hafi það ekki áhrif á útreikning bóta enda þótt fjármagnstekjur teljist séreign maka. Fjármagnstekjum skuli skipt jafnt milli hjóna óháð því hvort þeirra sé skráð fyrir þeim eignum sem myndi tekjurnar, svo sem hlutabréf, bankareikningur eða fasteign. Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, hafi farið að lögum nr. 100/2007 við útreikning og endurútreikning örorkubóta til stefnanda. Fjármagnstekjur, rétt eins og aðrar tekjur, hafi áhrif á fjárhæð greiðslna og skipti máli varðandi framfærslu fólks. Gera megi ráð fyrir að viðkomandi hafi haft fjármagnstekjur sér til framfærslu. Eðli þeirra sé þó þannig að þær komi yfirleitt ekki í ljós fyrr en á skattframtali viðkomandi árs sem sé gert upp við mitt næsta ár á eftir. Lífeyrisþegi geti þó ávallt upplýst stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, um það fyrr ef fjármagnstekjur myndist eins og í tilviki stefnanda.

Stefndu veki athygli á því að samkvæmt 11. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 sé heimilt að dreifa fjármagnstekjum á 10 ár að ósk viðkomandi. Sé markmið heimildarinnar að draga úr áhrifum af hárri einskiptisgreiðslu. Sé 10 ára ramminn nýttur að fullu megi ætla að skerðingaráhrifin verði óveruleg á mánaðarlegar greiðslur frá stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, enda sé ekki um aðrar tekjur að ræða eins og virðist vera í tilviki stefnanda. Stefndu bendi á að dreifing fjármagnstekna verði aðeins gerð að beiðni lífeyrisþegans. Stefnandi hafi ekki sótt um slíka ívilnun. Stefndu hafi látið kanna í tengslum við málið hvernig það kæmi út fyrir stefnanda ef fjármagnstekjum yrði dreift á 10 ár. Ef stefnandi hefði nýtt sér heimild til dreifingar greiðslna hefði hún fengið greiddar mánaðarlegar bætur, en lægri en annars hefði orðið. Samkvæmt framlögðum útreikningum stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, fyrir árið 2016 myndi stefnandi fá um 184.000 krónur í bætur á mánuði í 10 ár í stað um 206.000 króna. Þess skuli getið að forsendur séu miðaðar við gildandi lög en endurskoðun á lögum nr. 100/2007 hafi verið til skoðunar á undanförnum árum og hafi lögum þegar verið breytt að því er varðaði ellilífeyrisþega. Stefndu árétti að stefnandi hafi hvorki gert athugasemd við niðurstöður áætlunar né uppgjörs vegna ársins 2016. Stefnanda hafi gefist kostur, rétt eins og öðrum viðskiptavinum, að bera fram andmæli hafi stefnandi ekki verið sátt við niðurstöðu uppgjörs. Engin andmæli hafi borist. Allar ákvarðanir stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, séu kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Stefnandi hafi ekki nýtt sér þá heimild. Stefndu leggi áherslu á að það hafi verið val stefnanda að láta fjármagnstekjur koma strax og að fullu til útreiknings á örorkubætur í stað þess að dreifa tekjunum á allt að 10 ár og láta því allar greiðslur almannatrygginga falla tímabundið niður.

Til stuðnings kröfu um málskostnað vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991. 

                                                                       IV.

Stefnandi hefur verið metin til örorku af hálfu stefnda, Tryggingarstofnunar ríkisins. Frá stefnda fær hún greiddan örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu. Samkvæmt því sem fram er komið voru á grundvelli ákvæða laga nr. 90/1993 um samsköttun hjóna færðar á skattframtal stefnanda, fyrir tekjuárið 2015, fjármagnstekjur sem rætur eiga í sölu eiginmanns stefnanda á einkahlutafélagi er hann var eigandi að. Var tekjunum skipt til helminga milli hvors um sig. Þegar fjármagnstekjur þessar lágu fyrir, á skattframtali stefnanda fyrir árið tekjuárið 2015, ákvað stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, að skerða örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu. Það var gert með tilvísun til ákvæða 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, sem mælir fyrir um að til tekna samkvæmt lögunum teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003. Samkvæmt 8. tl. c. liðar 7. gr. laga nr. 90/1993 telst hagnaður af sölu eigna til skattskyldra tekna.

Ágreiningur er ekki með aðilum um hvernig skýra eigi tilvitnuð ákvæði laga nr. 100/2007 og nr. 90/2003 eða að fjármagnstekjurnar hafi ekki réttilega verið færðar stefnanda til tekna. Ágreiningur er um hvort þessi ákvæði laga nr. 100/2007 og nr. 90/2003 fari gegn ákvæðum 76. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi telur svo vera, sem leiði til þess að ákvarðanir stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, frá 5. mars 2015 og 21. júní 2016 um endurákvörðun greiðslna bóta, verði ógiltar.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár  skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öryrkjar eiga stjórnarskrárvarinn rétt til aðstoðar samfélagsins, ef þeir geta ekki séð sér nægilega farborða sjálfir. Um þessa aðstoð skal mæla í lögum. Það er verkefni löggjafans en ekki dómstóla að kveða á um inntak og umfang þeirrar opinberu aðstoðar, sem öryrkjum er látin í té. Dómstólar geta hins vegar metið hvort lagasetning um þessi málefni samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.

Kröfugerð í þessu máli lýtur að aðstæðum öryrkja í hjúskap þegar til tekna eru taldar fjármagnstekjur sem maki hefur aflað; maki sem ekki er jafnframt örorkulífsþegi. Verður að telja málefnalegt löggjafarviðhorf að taka nokkurt mið af því við lagasetningu um aðstoð við öryrkja, hvaða stuðnings öryrki megi vænta af maka sínum. Slík sjónarmið um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna hafa lengi verið lögð til grundvallar í löggjöf hér á landi. Engin ákvæði í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands mæla gegn því, að greiðslur til öryrkja séu í einhverjum mæli látnar ráðast af tekjum maka og þar með heimilisins, en þær árétta einungis þá skyldu löggjafans, samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, að tryggja þeim rétt til samhjálpar, sem höllum fæti standa. Er löggjafinn bær til að meta hvernig tekjur maka örorkulífeyrisþega komi til skoðunar, þegar þeirri skyldu stjórnarskrárinnar er fullnægt að tryggja þeim öryrkjum lögbundinn rétt til aðstoðar, sem ekki geta nægilega séð fyrir sér sjálfir. Efni eru ekki til að dómstólar haggi því mati, enda hefur ekki verið sýnt fram á með haldbærum rökum, að staða öryrkja í hjúskap geti vegna tekna maka orðið á þann veg, að stjórnarskrárvarinn réttur þeirra til samhjálpar sé fyrir borð borinn. Er jafnræði með aðilum að því leyti að allir þeir einstaklingar sem hafa talið fram á skattframtali fjármagnstekjur geta fengið skertan örorkulífeyri. Af öllu þessu leiðir að Alþingi var innan valdheimilda sinna þegar lögfest var ákvæði þess efnis að fjármagnstekjur maka skyldu koma til frádráttar við útreikning örorkubóta, svo sem við á í tilviki stefnanda. Með vísan til þessa verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður. Um gjafsóknarkostnað stefnanda fer sem í dómsorði greinir.

Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Daníel Isebarn Árnason hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefndu Fanney Rós Þorsteinsdóttir hæstaréttarlögmaður.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndu, Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkið, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.