Print

Mál nr. 370/2015

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Miskabætur

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 5. nóvember 2015.

Nr. 370/2015.

Veitingahúsið Lækur ehf.

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

gegn

Ingvari Dór Birgissyni

(enginn)

Vinnusamningur. Uppsögn. Miskabætur.

I, sem séð hafði um rekstur bars á veitingastað í eigu V ehf., höfðaði mál á hendur félaginu og krafðist greiðslu vangoldinna launa og launa í uppsagnarfresti. Einnig krafðist hann miskabóta vegna ásakana V ehf. um að hann hefði misnotað greiðslukort í eigu félagsins og tekið í heimildarleysi peninga úr sjóðsvél þess. Hafði V ehf. kært meint brot I til lögreglu en rannsókn málsins verið hætt með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var talið að aðgerðir V ehf. gegn I hefðu falið í sér fyrirvaralausa uppsögn sem ekki hefði verið réttlætanleg vegna meintra brota I á starfsskyldum sínum. Var krafa I um laun í uppsagnarfresti því tekin til greina. Var auk þess fallist á kröfu I um greiðslu vangoldinna launa. Þá var talið að þær sakir, sem V ehf. hafði borið á I um refsiverða háttsemi, hefðu falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var V ehf. því gert að greiða I 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 17. mars 2015, en ekki varð af þingfestingu þess 29. apríl sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 27. maí það ár. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafa hans verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Áfrýjanda var með bréfi Hæstaréttar 9. júlí 2015 veittur frestur til að ljúka gagnaöflun í málinu. Með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs málflutnings.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

lskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2014.

Mál þetta sem dómekið var 10. desember 2014 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 4. september 2012, af Ingvari Dór Birgissyni, Vatnsstíg 11, Reykjavík, á hendur Veitingahúsinu Læk ehf., Lækjargötu 6a, Reykjavík.

Kröfur aðila

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.610.889 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af  17.576 krónum frá 15. desember 2010 til 1. maí 2011, af 459.634 krónum frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 757.742 krónum frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011, af 1.110.889 krónum frá 1. júlí 2011 til 30. júní 2012 en af  1.610.889 krónum frá 30. júní 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram við aðalflutning málsins, ef til komi. Auk þess sé krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

       Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi í  báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda, stefnda að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum reikningi eða að mati dóms.

Atvik máls

      Stefnandi hóf störf hjá stefnda í júní eða júlí 2010 og starfaði hann á selskapsdömustaðnum Strawberries í Lækjargötu í Reykjavík, sem rekinn var af stefnda. Hafði stefnandi með höndum rekstur bars á staðnum. Aðilar gerðu ekki með sér skriflegan ráðningarsamning en samkomulag mun hafa verið um að stefnandi hefði 2.000 krónur í laun á klukkustund, óháð því á hvaða tíma sólarhringsins hann starfaði. Fyrir liggur að stefnandi lét af störfum hjá stefnda í lok apríl eða byrjun maí 2011. Er ágreiningur með aðilum um nákvæma tímasetningu starfslokanna og hvernig þau hafi borið að höndum. Að sögn stefnanda var honum fyrirvaralaust sagt upp störfum, 4. maí. Hafi hann þá strax leitað til Eflingar-stéttarfélags, sem sent hafi stefnda bréf, 6. maí 2011, þar sem skorað hafi verið á hann að virða  kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest stefnanda. Stefnandi  hafi gert tvær tilraunir til að mæta aftur til vinnu hjá stefnda, 13. og 19. maí, enda hefði hann litið svo á að fyrirvaralaus uppsögn hans væri ólögleg og hann verið reiðubúinn að vinna uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi. Honum hafi hins vegar verið meinað að sinna störfum sínum og verið vísað frá vinnustaðnum. Stefnda segist hins vegar svo frá að á vormánuðum 2011 hafi vaknað grunsemdir um að stefnandi hefði misnotað alvarlega stöðu sína hjá stefnda og brotið trúnaðarskyldur sínar gagnvart honum. Í lok aprílmánaðar hafi því verið óskað eftir því við stefnanda að hann skilaði af sér debetkorti, farsíma og lyklum, sem hann hefði haft í vörslum sínum vegna starfa sinna í þágu stefnda, meðan meintar ávirðingar hans yrðu kannaðar. Stefnandi hafi brugðist ókvæða við og yfirgefið staðinn í fússi, eftir orðaskak við forsvarsmann stefnda. Stefnandi hafi ekki mætt aftur til starfa. Honum hafi ekki formlega verið sagt upp störfum heldur hafi hann hlaupið frá störfum án þess að gera stefnda nokkra grein fyrir starfslokum sínum.

                   Með bréfi, 6. maí 2011, krafðist Efling-stéttarfélag þess f.h. stefnanda að stefndi greiddi honum ógreidd laun vegna aprílmánaðar jafnframt því sem athygli var á því vakin að stefnanda hefði borið mánaðar uppsagnarfrestur miðað við mánaðarmót. Með bréfi, 26. maí, krafði stéttarfélagið stefnda f.h. stefnanda um meint ógreidd laun vegna apríl, maí og júní, eingreiðslu per 1. júní, ógreitt orlof, desemberuppbætur 2010 og 2011 og orlofsuppbót 2011. Kröfunum var framfylgt af lögmönnum stéttarfélagsins með innheimtubréfum, 27. júlí og 28. september 2011. Stefndi hafnaði framangreindri kröfugerð stefnanda með bréfi, 2. september 2011. Í bréfinu var staðhæft að stefnanda hefði hvorki formlega né óformlega verið sagt upp störfum hjá stefnda heldur hefði hann látið af störfum í lok apríl, eftir að þess hefði verið farið á leit við hann að hann skilaði debetkorti, síma og lyklum, sem hann hefði haft til umráða vegna starfa sinna í þágu stefnda, á meðan kannað yrði hvort notkun hans á debetkortinu hefði brotið í bága við heimildir hans. Stefnandi hefði mætt einu sinni eftir þetta en yfirgefið staðinn eftir orðaskipti við fyrirsvarsmann stefnda. Þegar útséð hafi verið með að stefnandi ætlaði að mæta aftur til vinnu hafi hann átt inni laun vegna 75 klst. vinnu í apríl og eins hafi einhver misbrestur hugsanlega orðið á jólabónus honum til handa. Hins vegar eigi stefndi gagnkröfu á hendur honum vegna úttekta af debetkorti til eigin nota, vöruúttektar á bar og greiðslu vegna stefnanda til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, samtals að fjárhæð 1.153.225 krónur.

                   Með bréfi 13. október hafnaði lögmaður stefnanda því alfarið að stefnandi skuldaði stefnda vegna persónulegra úttekta af debetkorti fyrirtækisins enda hefðu allar úttektir hans af kortinu verið vegna stefnda. Þá var því hafnað að stefnandi hefði hlaupið úr starfi eins og stefndi héldi fram. Þvert á móti hefði honum verið meinað að mæta til starfa. 

                   Með bréfi, 3. nóvember 2011, kærði fyrirsvarsmaður stefnda stefnanda til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir meint brot á ákvæðum 244. gr., 2. mgr. 247. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna heimildarlausrar vöruúttektar og notkunar á debetkorti stefnda.

                   Kröfugerð stefnanda á hendur stefnda var ítrekuð með bréfi lögmanns hans, 30. maí 2012.

                   Með bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 25. september 2012, var lögmanni stefnda tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir á því að hann eigi kröfu á hendur stefnda um  vangreidd laun í apríl 2011. Krafan byggi á meginreglu vinnuréttarins um skyldu vinnuveitanda til greiðslu launa til starfsmanns fyrir alla þá vinnu, sem hann inni af hendi. Samkvæmt launaseðlum stefnanda hafi vinnuskylda hans verið 120 klst. á mánuði og margfaldist sá tímafjöldi með umsömdu tímakaupi stefnanda. Samtals sé krafa stefnanda að fjárhæð 240.000 krónur. Eins og sjá megi af bankayfirliti stefnanda hafi hann engin laun fengið vegna vinnu sinnar í apríl 2011. Þá sé gerð krafa á hendur stefnda um greiðslu skaðabóta er jafngildi vangreiddum launum í uppsagnarfresti. Stefnanda hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi hjá stefnda, 4. maí 2011. Strax í kjölfarið hafi stefnandi leitað til Eflingar-stéttarfélags, sem sent hafi stefnda bréf, 6. maí 2011, þar sem skorað hafi verið á hann að virða lög- og kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest. Viðbrögð stefnda við kröfu stefnanda hafi í fyrstu verið ásakanir um brotthlaup úr starfi en síðar að hann hefði gerst sekur um þjófnað. Sé því ljóst að stefndi hafi upphaflega ekki á því byggt að ástæða uppsagnarinnar hefði verið grunur um þjófnað, líkt og málatilbúnaður hans á síðari stigum beri með sér. Stefnandi hafi hvorki gerst sekur um fyrirvaralaust brotthlaup úr starfi né þjófnað. Sérstaklega skuli bent á að stefnandi hafi gert tvær tilraunir til að mæta aftur til starfa, eftir að honum hafði verið vikið fyrirvaralaust úr starfi, en í bæði skiptin verið meinað að mæta aftur til vinnu. Þá hafi stefnandi ekki verið áminntur vegna meints brots í starfi, sem stefndi hafi byggt brottrekstur sinn síðar á, og stefnandi ekki gerst sekur um neitt það er réttlæti fyrirvaralausa uppsögn af hálfu stefnda. Til þess að hægt sé að rifta ráðningarsamningi verði brot starfsmanns að vera verulegt, svo sem gróft brot sem unnið sé af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Slíkt eigi alls ekki við í tilfelli stefnanda. Sé brot ekki alvarlegt verði vinnuveitandi að áminna starfsmann um brottrekstur áður en hann geti gert starfsmann brottrækan úr starfi. Sé áminning ekki gefin og starfsmanni ekki gefinn kostur á að bæta ráð sitt sé um ólögmæta riftun á ráðningarsamningi að ræða. Aðvörun verði jafnframt að vera sannanleg, vinnuveitandi verði að geta sýnt fram á að sakir séu til staðar og jafnframt verði að gefa áminningu í beinu framhaldi af vanefnd. Ljóst sé að stefndi hafi í engu virt framangreindar meginreglur vinnuréttarins og því gerst sekur um ólögmæta, fyrirvaralausa uppsögn. Samkvæmt ákvæði 13.1. í kjarasamningi hafi stefnandi átt eins mánaðar uppsagnarfrest miðað við mánaðarmót. Hafi stefnandi þannig átt rétt á að halda launum sínum út júní 2011. Gerð sé krafa um greiðslu tveggja mánaðarlauna enda áunnin laun vegna maí ógreidd. Hvað útreikninga varði vísist til þess sem áður hafi komið fram varðandi mánaðarlaun stefnanda. Hinn 1. júní hafi laun stefnanda hækkað um 4,25% í samræmi við kjarasamningsbundnar launahækkanir og hafi tímakaup stefnanda því átt að vera 2.085 krónur. Launakrafa vegna maí sé að fjárhæð 240.000 krónur og vegna júní að fjárhæð 250.200 krónur. Samtals sé krafa stefnanda vegna vangreiddra launa í uppsagnarfresti að fjárhæð 490.200 krónur. Í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins, sem samþykktur hafi verið í maí 2011, hafi verið kveðið á um greiðslu sérstakrar eingreiðslu að fjárhæð 50.000 krónur fyrir starfsmann í fullu starfi mánuðina mars, apríl og maí 2011. Eingreiðsluna hafi átti að greiða í júní 2011. Hvað útreikninga á eingreiðslunni varði sé vísað til fyrirliggjandi dómskjals. Við útreikning á eingreiðslunni sé miðað við unnar klukkustundir í mars, apríl og maí eða samtals 360 klst. miðað við að vinnuskylda stefnanda hafi verið 120 klst. á mánuði. Samtals sé krafa stefnanda vegna vangreiddrar eingreiðslu að fjárhæð 34.615 krónur. Gerð sé krafa um greiðslu áunnins orlofs vegna alls starfstíma stefnanda hjá stefnda. Vísist hér til ákvæða laga nr. 30/1987 og 5. kafla í kjarasamningi. Samkvæmt 7. gr. orlofslaganna og ákvæði 5.1.1. í kjarasamningi skuli orlofslaun vera 10,17% af öllu kaupi. Samkvæmt 8. gr. laganna skuli vinnuveitandi við lok ráðningartíma greiða launþega öll áunnin orlofslaun. Samkvæmt launaseðli stefnanda, dagsettum 31. desember 2010, hafi heildarlaun hans á árinu 2010 verið 1.286.800 krónur. Samkvæmt launaseðli stefnanda, dagsettum 31. mars 2011, hafði hann fengið greiddar  700.000 krónur í laun vegna ársins 2011. Samtals geri þetta 1.986.800 krónur og séu10,17% af þeirri fjárhæð 202.058 krónur. Orlof reiknast einnig 10,17% á kröfu um vangreidd laun í apríl og á uppsagnarfresti svo og á eingreiðslu. Gerð sé krafa um greiðslu orlofsuppbótar vegna orlofsársins, sem hafist hafi 1. maí 2011 að fjárhæð 26.900 krónur. Fullt ársstarf teljist vera 45 unnar vikur (1800 vinnustundir) eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða séu í starfi fyrstu vikuna í maí. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum, verði þau fyrir gjalddaga hennar. Vísist hér til 1.5.2. í kjarasamningi. Í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins, sem samþykktur hafi verið í maí 2011, sé kveðið á um greiðslu sérstaks álags á orlofsuppbót, þar sem gerð nýrra kjarasamninga hafi dregist. Álagið sé að fjárhæð 10.000 krónur og reiknist með sama hætti og orlofsuppbót. Við útreikning kröfunnar sé miðað við að stefnandi hafi unnið 1.146 klst. á orlofsárinu 2010-2011. Samkvæmt launaseðlum hafi hann starfað í samtals 1.026 klst. til marsloka og sé miðað við að stefnandi hafi unnið 120 klst. í apríl 2011. Samtals sé krafan að fjárhæð 23.492 krónur. Gerð sé krafa um greiðslu vangreiddra desemberuppbóta vegna áranna 2010 og 2011. Samkvæmt ákvæði 1.5.1 í kjarasamningi teljist fullt ársstarf í þessu sambandi 45 unnar vikur (1800 vinnustundir) eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafi samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða séu í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt sé með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Uppbótin hafi verið 46.800 krónur árið 2010 og 48.800 krónur árið 2011 auk 15.000 króna álags, sbr. ofangreint. Við útreikning uppbótarinnar vegna ársins 2010 sé miðað við þann tímafjölda sem  komi á launaseðli dagsettum 31. desember 2010 eða 676 klst. Við útreikning kröfunnar vegna ársins 2011 sé miðað við launaseðil dagsettan 31. mars 2011 og að stefnandi hafi unnið 120 klst. á mánuði þar til uppsagnarfresti hans hafi lokið í júnílok eða 710 klst. Stefndi hafi hafnað kröfu stefnanda m.a. með vísan til þess að hann telji sig eiga kröfu á stefnanda vegna notkunar hans á debetkorti stefnda, vöruúttekta og greiðslu á meðlagi. Samtals telji stefndi sig eiga kröfu á stefnanda að fjárhæð 1.153.225 krónur og sé stærstur hlutinn vegna úttekta á debetkorti. Vísist hvað þetta varði til bréfs stefnda, 2. september 2011. Þess beri að geta að skv. 1. gr. laga nr. 28/1930 megi ekki greiða kaup með skuldajöfnuði, nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið. Stefnandi kannist ekki við að samkomulag hafi verið um að hann mætti nota debetkort stefnda í eigin þágu og að kostnaðinn ætti að draga af launum um hver mánaðarmót. Sjáist þetta best á framlögðum launaseðlum en á þeim sé engan frádrátt að finna vegna þessa. Stefnandi hafi notað debetkort stefnda til að kaupa inn vörur fyrir veitingastaðinn og til að greiða fyrir ýmsan kostnað vegna reksturs staðarins. Eins og bent sé á í framangreindu bréfi stefnda og í kæru 3. nóvember 2011 hafi stefnandi haft debetkort stefnda til umráða svo hann gæti verslað inn vörur og greitt fyrir ýmis útgjöld vegna rekstrar  stefnda. Geti stefnandi gert grein fyrir hverri og einni debetkortafærslu og hafi þær allar verið í þágu stefnda. Sérstaklega sé bent á að samkvæmt ákvæði 1.11.5. í kjarasamningi skuli sundurgreina á launaseðli vöruúttektir starfsmanns og skuli undirritaðar úttektarnótur fylgja með launaseðlinum. Engin gögn hafi verið lögð fram til grundvallar kröfu stefnda um vöruúttektir stefnanda. Þá hafi stefndi ekki greitt meðlag til Innheimtustofnunar sveitarfélaganna að fjárhæð 50.000 krónur. Um sé að ræða innheimtukostnað sem stefnda hafi borið að standa skil á þar sem hann hafi ekki dregið af launum stefnanda lögbundið meðlag mánaðarlega. Vísist hér til tölvupósts frá 12. október 2011. Með vísan til ofangreinds sé því mótmælt að stefndi eigi kröfu á stefnanda. Sérstaklega sé bent á að krafa stefnda um endurgreiðslu komi fyrst fram í bréfi hans, 2. október 2011, þ.e. löngu eftir starfslok stefnanda og eftir að hann hafi sett fram kröfu sína um greiðslu vangreiddra launa. Þá beri þess að geta að krafa stefnanda hafi sætt breytingum frá því bréf Eflingar-stéttarfélags og innheimtubréf hafi verið send þar sem miðað sé við að umsaminn vinnutími stefnanda hafi verið 120 klst. á mánuði, sbr. launaseðla stefnanda. Gerð sé krafa um greiðslu miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Eins og áður hafi komið fram hafi stefnandi verið ásakaður um þjófnað á veitingastað stefnda. Hafi málið verið kært til lögreglu og hafi stefnandi verið í algjörri óvissu um stöðu lögreglurannsóknarinnar í kjölfarið. Þannig hafa aðgerðir stefnda gagnvart stefnanda, þ.e. hin ólögmæta uppsögn, tilhæfulaus þjófnaðarkenning í kjölfarið og tilefnislaus kæra til lögreglu helgast af ómálefnalegum ástæðum. Stefndi hafi ekki getað stutt ásakanir sínar eða aðgerðir með fullnægjandi gögnum eða öðrum viðunandi upplýsingum. Stefndi hafi þannig ekki getað sýnt fram á að meint vitneskja um þjófnað hafi örugglega tengst athöfnum stefnanda. Sjáist þetta hvað skýrast á því að það hafi ekki verið fyrr en eftir starfslok stefnanda að stefndi hafi ásakað hann um þjófnað. Þannig þyki ljóst að stefndi hafi vitað eða mátt vita að umræddar ásakanir í garð stefnanda hafi verið algjörlega tilefnislausar og einnig hvaða afleiðingar athafnir stefnda kynnu að hafa í för með sér fyrir stefnanda. Stefnandi hafi orðið þess áþreifanlega var að ásakanir stefnda um þjófnað hafi spurst út. Með vísan til alls framangreinds verði að telja að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti staðið að meingerð gegn persónu og æru stefnanda og beri á því bótaskyldu skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þannig hafi stefndi og fyrirsvarsmenn hans valdið stefnanda verulegum miska og felist ófjárhagslegt tjón stefnanda einkum í ómældri og augljósri röskun á stöðu og högum hans, verulegum mannorðshnekki, ærumeiðingu og fordæmingu, sem hann hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu meingerðar stefnda og starfsmanna hans. Verði að telja að framkvæmdastjóri stefnda hafi af ásetningi eða a. m. k. stórfelldu gáleysi brotið gegn rétti stefnanda með fyrrgreindri háttsemi sinni. Sé á því byggt að stefndi beri ábyrgð á athöfnum starfsmanna sinna á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. Hæfilegar miskabætur til stefnanda vegna þessa séu 500.000 krónur enda sé miski hans skv. öllu framangreindu verulegur og miskabótakrafa hans þannig hæfileg. Vísist hér einnig til dómafordæma að því er varði kröfur um miskabætur í kjölfar ólögmætrar brottvísunar úr starfi.

Krafa stefnanda sundurliðist þannig:

Vangreidd laun vegna apríl 2011, 120 klst. x 2.000 krónur eða samtals 240.000 krónur.

Skaðabótakrafa, ígildi launa á uppsagnarfresti:

Maí 2011, 120 klst. x 2.000 krónur eða samtals 240.000 krónur.

Júní 2011, 120 klst. x 2.085 krónur eða samtals 250.200 krónur.

Samtals skaðabætur 490.200 krónur.

Eingreiðsla: 50.000 kr./520 klst. x 360 klst. eða 34.615 krónur                                 

Orlof: Áunnið orlof         1.986.800 kr. x 10,17% eða 202.058 krónur,-

Orlof v/apríl 2011, 240.000 kr. x 10,17% eða 24.408 krónur.

Orlof vegna skaðabótakröfu 490.200 kr. x 10,17% eða 49.853 krónur.

Orlof v/eingreiðslu 34.615 kr. x 10,17% eða 3.520 krónur.

Samtals orlof skv. framangreindu 279.839 krónur.

Orlofsuppbót 2011:        36.900 kr./1.800 klst. x 1.146 klst. eða 23.493 krónur.

Desemberuppbót 2010: 46.800 kr./1.800 klst. x 676 klst. eða 17.576 krónur. Desember uppbót vegna 2011:                    63.800 kr./1.800 klst. x 710 klst. eða samtals 25.166 krónur. Desemberuppbót samtals 42.742 krónur.

Miskabætur 500.000 krónur

Samtals 1.610.889 krónur.

Stefnandi hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hans hafi stofnast. Vísað sé til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar- og/eða  kjarasamningi. Vísist um réttindi hans aðallega til 1., 2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins. Jafnframt sé vísað til laga 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., aðallega 1. gr., laga 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7., og 8. gr. og laga 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt sé á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann sé bókhaldsskyldur að lögum. Að því er miskabótakröfu stefnanda varði vísist til almennu skaðabótareglunnar og meginreglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð, auk ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. laganna sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þá vísist einnig til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um persónufrelsi og mannvernd, auk ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um rangar sakargiftir. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. og V. kafla laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Kröfu um dráttarvexti af miskabótakröfu styðji stefnandi við 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 en þann 30. júní 2012 hafi mánuður verið liðinn frá því að bótakrafa hafi verið sett fram af hálfu stefnanda. Krafa um málskostnað styðjist við XXl. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991. 

Málsástæður stefnda og tilvísum til réttarheimilda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda eiga ekki stoð í lögum, kjarasamningum eða dómafordæmum. Af hálfu stefnda sé á því byggt að stefnandi hafi, með ólögmætum hætti, brotið skyldur sínar gagnvart stefnda, er hann hafi hlaupið úr starfi og misnotað aðstöðu sína og dregið að sér verulega fjármuni, án vitundar og heimildar stefnda. Með slíku háttalagi hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til þess að krefjast launa. Stefnanda hafi verið óheimilt að hlaupast á brott úr starfi. Það eitt að forsvarsmenn stefndu hafi beðið hann um að skila inn lyklum og korti hafi ekki gefið honum ástæðu til þess að láta af störfum. Stefndi hafi gætt hófs í aðgerðum sínum og ekki gripið til alvarlegri aðgerða en þeirra að svipta hann korti og lyklum á meðan meintur þjófnaður og fjárdráttur hafi verið rannsakaður innan fyrirtækisins. Stefnandi hafi ekki sagt upp störfum og ekki lýst sig reiðubúinn til þess að vinna út uppsagnarfrest líkt og meginreglur vinnuréttar kveði á um. Stefndi hafi ekki gerst  sekur um neina slíka verulega vanefnd að stefnanda hafi verið heimilt að láta af störfum tafarlaust og það á launum út uppsagnarfrest. Stefndi hafi einungis óskað eftir því að stefnandi skilaði inn lyklum og korti stefnda.           Stefnandi hafi jafnframt brotið gróflega trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda er hann hafi orðið uppvís að refsiverðri háttsemi í starfi, þ.e. slegið eign sinni á fjármuni úr sjóðsvél stefnda og misfarið með kort fyrirtækisins, sem sitt eigið. Brot stefnanda hafi verið kærð til viðeigandi yfirvalda. Er stefnandi hafi mætt á starfstöð stefnda um hálfum mánuði eftir að hafa hlaupið frá störfum þá hafi honum enn fremur verið gert fyllilega ljóst að starfskrafta hans væri ekki óskað. Stefndi hafi haft til þess fulla heimild enda sakir legið ljósar fyrir, líkt og gögn málsins beri með sér. Því sé hafnað sem segi í stefnu að stefnandi hafi mætt til vinnu, enda hafi hann ekki lýst sig reiðubúinn til slíks og þá verið ljóst af framkomu hans, í vitna viðurvist, að slíkt hafi ekki staðið til. Alvarleg refsiverð brot réttlæti fyrirvaralausa riftun á ráðningarsambandi aðila skv. dómaframkvæmd og almennt viðurkenndum meginreglum í vinnurétti. Gerist starfsmaður sekur um fjárdrátt hjá vinnuveitanda sé vinnuveitanda ekki aðeins heimilt, heldur oft nauðugur kostur, að rifta ráðningu án greiðslu uppsagnarfrests. Í trúnaðarskyldu samkvæmt vinnusamningi felist að eigin hagsmunir ráði ekki einhliða athöfnum eða athafnaleysi í samningssambandinu heldur verði að taka tillit til hagsmuna viðsemjandans. Stefnanda hafi mátt vera full ljóst að með háttalagi sínu hafi hann brotið gróflega gegn hagsmunum stefnda og unnið honum tjón. Þá hafi stefnanda ekki getað dulist að slík háttsemi væri ósamrýmanleg trúnaðarskyldum hans við stefnda. Með þessu hafi  stefnandi fyrirgert rétti sínum til frekari launa. Samkvæmt almennum reglum vinnuréttar og dómafordæmum sé starfsmaður bótaskyldur fyrir tjóni sem ólögmætt brotthlaup úr starfi valdi með hliðsjón af ákvæðum 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Bótaréttur atvinnurekanda sé meðalhófsbætur og nemi skv. dómafordæmum að lágmarki helmingi af launum stefnanda á uppsagnarfresti. Stefnda sé heimilt að skuldajafna þessari skaðabótakröfu sinni við áunnin laun og orlof stefnanda. Hvað miskabótakröfu stefnanda varði þá sé henni hafnað enda enginn grundvöllur fyrir slíkri kröfu. Því sé hafnað að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti staðið að meingerð gegn persónu og æru stefnanda. Stefndi hafi kært stefnanda til lögreglu. Kæran sé ítarleg og studd haldbærum gögnum. Þar sé staðreynt að stefnandi hafi tekið ófrjálsri hendi fjármuni úr sjóðsvél stefnda og slegið eign sinni á þá fjármuni. Þá liggi fyrir yfirlit yfir úttektir af innkaupakorti bars í eigu stefnda, er stefnandi hafi haft í sínum vörslum og borið ábyrgð á. Á yfirlitum séu færslur er hafi ekkert með rekstur stefnda að gera. Stefndi hafi farið þá leið er lög áskilji, þ.e. kært meint brot til lögreglu sem hafi nú málið til rannsóknar. Ekki verði með nokkru móti séð hvernig slíkt geti uppfyllt skilyrði ákvæðis 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til framangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.              Til vara krefjist stefndi þess, komist dómari að þeirri niðurstöðu að stefndi eigi rétt á launum úr hendi stefnda, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefnandi hafi m.a. notað kort fyrirtækisins í óleyfi og sé þess krafist að til frádráttar komi úttektir af korti að fjárhæð 914.225 krónur. Þá beri að draga frá höfuðstól kröfu óuppgerðar vöruúttektir að fjárhæð 189.000 krónur en stefnandi hafði skrifað slíkar úttektir á sig. Þess sé til vara krafist að þær greiðslur verði dregnar frá kröfu stefnanda. Ennfremur sé útreikningum vegna orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar hafnað sem röngum. Stefndi vísi til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga,  meginreglna vinnuréttar og meginreglna hjúalaga nr. 22/1928. Krafa stefndu um málskostnað eigi sér grundvöll í XXI. kafla laga nr. 91/1991 og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

                Forsendur og niðurstaða

                Í máli þessu greinir aðila m.a. á um hvort stefnanda hafi verið sagt upp störfum hjá stefnda á vormánuðum 2011, eða hann gengið heimildarlaust úr starfi, án uppsagnar.

                Ekki er ágreiningur með aðilum um að stefnandi hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda um mitt ár 2010 og hafi starf hans verið fólgið í rekstri bars á selskapsdömustaðnum Strawberries við Lækjargötu í Reykjavík, sem var í eigu stefnda. Nánar tiltekið mun stefnandi hafa afgreitt á barnum og annast innkaup vegna reksturs hans. Til að annast innkaupin fékk stefnandi til afnota debetkort útgefið á stefnda. Þá fékk hann lykla að staðnum og farsíma.

                Að sögn fyrirsvarsmanns stefnda, Viðars Más Friðfinnssonar, sem gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, vöknuðu á vormánuðum 2011 grunsemdir um að stefnandi hefði misnotað framangreint debetkort með því að nota það ekki eingöngu til innkaupa vegna rekstursins heldur einnig til greiðslu á einkaútgjöldum sínum auk þess sem hann hefði heimildarlaust tekið peninga úr sjóðsvél á barnum. Grunsemdir um framangreinda háttsemi stefnanda hefðu vaknað eftir að hann hefði skoðað yfirlit vegna debetkortsins og upptökur úr öryggismyndavél á staðnum. Hann hefði því beðið annan starfsmann á staðnum, Gunnar að nafni, að fara til stefnanda og taka af honum debetkortið og lyklana. Stefnandi hefði í framhaldinu gengið út af staðnum. Honum hefði þó ekki, svo hann vissi til, verið sagt upp störfum. Aðspurður hvers vegna stefnanda hefði verið gert að afhenda lyklana svaraði hann því til að hann hefði ekki viljað að þjófur væri með lykla að staðnum. 

                Eins og áður greinir var starf stefnanda m.a. fólgið í innkaupum fyrir bar, sem hann annaðist rekstur á. Þá hafði hann lykla að staðnum í tengslum við innkaupin og starf sitt að öðru leyti. Tengdust afnotin af kortinu og lyklavöldin þannig beinlínis starfi hans hjá stefnda og voru hluti af því. Telja verður að með því að vera sviptur bæði kortinu og lyklunum hafi stefnanda verið rétt að álykta að verið væri að segja honum fyrirvaralaust upp störfum hjá stefnda. Sönnunarbyrði fyrir öðru hvílir á stefnda, sem bera verður hallann af sönnunarskorti í þeim efnum, enda verður að leggja þá skyldu á vinnuveitanda við aðstæður eins og þær sem að framan er lýst að gera launþega skýrt og sannanlega grein fyrir hvað felist í aðgerðum eins og þeim sem áður eru raktar. Það styður framangreinda niðurstöðu að stefnandi snýr sér þegar í stað eftir uppsögnina til stéttarfélags síns, Eflingar–stéttarfélags, sem ritar stefnda f.h. stefnanda bréf, 6. maí, „vegna fyrirvaralausrar uppsagnar úr starfi“, sem átt hafi sér stað 4. maí. Að sögn fyrirsvarsmanns stefnda hafði hann þegar í stað samband við stéttarfélagið og neitaði að stefnanda hefði verið sagt upp störfum. Hins vegar liggur fyrir að stefnandi kom í selskapsdömuklúbbinn a.m.k. einu sinni um miðjan maí, að því er virðist til að hefja þar störf að nýju. Í greinargerð stefnda er samskiptum stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda af því tilefni lýst þannig: „ Er stefnandi mætti á starfstöð stefnda um hálfum mánuði eftir að hafa hlaupið frá störfum þá var honum enn fremur gert fyllilega ljóst að starfskrafta hans væri ekki óskað. Stefndi hafði til þess fulla heimild enda lágu sakir ljósar fyrir, líkt og gögn málsins bera með sér.“ Í áður tilvitnaðri skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi er samskiptum hans og stefnanda af þessu tilefni lýst með sambærilegum hætti. 

                Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi brotið gróflega trúnaðarskyldur sínar gagnvart honum með refsiverðri háttsemi. Hann hafi slegið eign sinni á fjármuni úr sjóðsvél stefnda og farið með kort fyrirtækisins, sem sitt eigið. Brot stefnanda hafi verið kærð til viðeigandi yfirvalda.

Á stefnda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi brotið af sé gegn samningsskyldum sínum með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn hans. Fyrir liggja í málinu yfirlit yfir úttektir á debetkortinu, sem stefnandi hafði til afnota í starfi sínu hjá stefnda, fyrir tímabilið 11. október 2010 til 16. apríl 2011 (incl.). Á yfirlitin hefur fyrirsvarsmaður stefnda merkt við færslur, sem hann taldi að kölluðu á sérstaka athugun. Í málinu liggja fyrir svör stefnanda við umæddum athugsemdum og fela þau í sér skýlausa neitun stefnanda á meintri misnotkun debetkortsins. Þá liggur fyrir í málinu kæra stefnda til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 3. nóvember 2011, á hendur stefnanda, vegna meintra brota stefnanda á ákvæðum 244. gr., 2. mgr. 247. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með bréfi lögreglustjóra, 25. nóvember 2012, var stefnda tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en heimild kærða til meðferðar á fjármunum selskapsdömustaðarins Strawberries hefði verið óljós enda um óhefðbundnar fjárvörslur að ræða af hálfu forsvarsmanna staðarins. 

 Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi, áður en honum var sagt upp störfum hjá stefnda, brotið verulega gegn starfsskyldum sínum. Hin fyrirvaralausa uppsögn stefnanda var þannig ekki reist á nægilegum efnislegum forsendum.

                Samkvæmt bréfi Eflingar-stéttarfélags til stefnda, 6. maí 2011, var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda, 4. maí. Stefndi byggir á því í málinu að stefndi hafi yfirgefið vinnustaðinn í lok apríl. Stefndi hefur engin gögn lagt fram því til staðfestingar og verður því miðað við að uppsögnin hafi átt sér stað 4. maí, líkt og stefnandi byggir á.

                Af hálfu stefnanda er á því byggt að umsamin laun hans hafi verið 2.000 krónur á klukkustund og mánaðarleg vinnuskylda 120 klst. Hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.

                Stefnandi byggir á að hann eigi kröfu á hendur stefnda fyrir 120 klst. vinnu í apríl. Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt og verður því fallist á þennan þátt í kröfugerð stefnanda. Um vexti fer eins og í dómsorði greinir.

                Óumdeilt er að stefnandi hafi, samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar-stéttarfélags, sbr. ákvæði 13.1., átt rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti í lok mánaðar. Fyrirvaralaus riftun stefnda á ráðningarsamningi aðila var samkvæmt framangreindu óréttmæt og á stefnandi rétt á bótum sem jafngilda launum vegna maí og júní vegna uppsagnarinnar 4. maí. Fjárhæð kröfunnar hefur ekki verið mótmælt af stefnda þ.m.t. 4.25% launahækkun skv. kjarasamningi frá og með 1. júní. Um vexti fer eins og í dómsorði greinir.

                Stefnandi krefur stefnda um svonefnda eingreiðslu skv. kjarasamningi auk greiðslu orlofs allan starfstíma stefnanda hjá stefnda, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Stefndi hefur hafnað útreikningi stefnanda vegna orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar sem röngum. Stefndi hefur engan tölulegan útreikning lagt fram til stuðnings þessari málsástæðu sinni og er henni því hafnað enda hefur útreikningur stefnanda stoð í fyrirliggjandi kjarasamningum. Um vexti fer eins og í dómsorði greinir. 

                Af hálfu stefnanda er á því byggt, hvað miskabótakröfu hans varðar, að stefnandi hafi verið ásakaður um þjófnað á selskapsdömustað stefnda. Málið hafi verið kært til lögreglu og hafi stefnandi verið í algjörri óvissu um stöðu lögreglurannsóknarinnar í kjölfarið. Þannig hafi aðgerðir stefnda gagnvart sér, þ.e. hin ólögmæta uppsögn, tilhæfulaus þjófkenning í kjölfarið og tilefnislaus kæra til lögreglu helgast af ómálefnalegum ástæðum. Stefndi hafi ekki getað stutt ásakanir sínar eða aðgerðir með fullnægjandi gögnum eða öðrum viðunandi upplýsingum. Stefndi hafi þannig ekki getað sýnt fram á að meint vitneskja um þjófnað hafi örugglega tengst athöfnum stefnanda. Sjáist þetta hvað skýrast á því að það hafi ekki verið fyrr en eftir starfslok stefnanda að stefndi hafi ásakað hann um þjófnað. Þannig þyki ljóst að stefndi hafi vitað eða mátt vita að umræddar ásakanir í garð stefnanda hafi verið algjörlega tilefnislausar og einnig hvaða afleiðingar athafnir hans kynnu að hafa fyrir stefnanda. Stefnandi hafi orðið þess áþreifanlega var að ásakanir stefnda um þjófnað hafi spurst út. Stefndi hafi þannig með saknæmum og ólögmætum hætti staðið að meingerð gegn persónu og æru stefnanda og beri á því bótaskyldu skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þannig hafi stefndi og fyrirsvarsmenn hans valdið stefnanda verulegum miska og felist ófjárhagslegt tjón stefnanda einkum í ómældri og augljósri röskun á stöðu hans og högum, verulegum mannorðshnekki, ærumeiðingu og fordæmingu, sem hann hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu meingerðar stefnda og starfsmanna hans. Verði að telja að framkvæmdastjóri stefnda hafi af ásetningi eða a.m.k. stórfelldu gáleysi brotið gegn rétti stefnanda með fyrrgreindri háttsemi sinni. Sé á því byggt að stefndi beri ábyrgð á athöfnum starfsmanna sinna á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. Hæfilegar miskabætur til stefnanda vegna þessa séu 500.000 krónur enda sé miski hans samkvæmt öllu framangreindu verulegur og miskabótakrafa hans þannig hæfileg. Vísist hér einnig til dómafordæma að því er varði kröfur um miskabætur í kjölfar ólögmætrar brottvísunar úr starfi. Af hálfu stefnda er hvað miskabótakröfuna varðar á því byggt að enginn grundvöllur sé fyrir henni enda hafi stefndi hvorki með saknæmum né ólögmætum hætti staðið að meingerð gegn persónu og æru stefnanda. Stefndi hafi kært stefnanda til lögreglu. Kæran sé ítarleg og studd haldbærum gögnum. Þar sé staðreynt að stefnandi hafi tekið fjármuni ófrjálsri hendi úr sjóðsvél stefnda og slegið eign sinni á þá fjármuni. Þá liggi fyrir yfirlit yfir úttektir af innkaupakorti vegna bars í eigu stefnda, sem stefnandi hafi haft í sínum vörslum og borið ábyrgð á. Á yfirlitum séu færslur, er ekkert hafi með hefðbundinn rekstur bars að gera. Stefndi hafi farið þá leið er lög áskilji, þ.e. kært meint brot til lögreglu. Ekki verði með nokkru móti séð hvernig slíkt geti uppfyllt skilyrði ákvæðis 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Áður hefur verið rakið hvaða afgreiðslu kæra stefnda á hendur stefnanda fékk hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur verið rakið að stefnandi hafi með öllu hafnað þeim ásökunum stefnda að hafa misfarið með debetkort stefnda og eða tekið í heimildarleysi peninga úr sjóðsvél. Þá hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi fyrirvarlaust og án nægra ástæðna sagt stefnanda upp störfum, 4. maí 2011. Lögreglukæran var þannig illa grunduð og er fallist á það með stefnanda að þær sakir sem stefndi hafi borið á hann hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 200.000 krónur með vöxtum eins og kveðið er á um í dómsorði. 

                Stefndi hefur uppi í máli þessa ýmsar kröfur til skuldajafnaðar vegna meintra óheimilla úttekta stefnanda af debetkorti stefnda að fjárhæð 914.225 krónur og vegna meintra óuppgerðra vöruúttekta að fjárhæð 189.000 krónur, sem stefnandi hafi skrifað á sig. Þess sé til vara krafist að umræddar greiðslur verði dregnar frá kröfu stefnanda. Eins og áður er rakið hefur stefnda, gegn andmælum stefnanda, ekki tekist að sanna að umræddar skuldfærslur á debetkort stefnda og tilgreinar vöruúttektir hafi brotið í bága við skyldur stefnanda gagnvart stefnda og er skuldajafnarakröfum stefnda því hafnað.

                Með vísan til alls framanritaðs verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda samtals 1,310,889 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá verður stefndi með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnanda 950.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Veitingahúsið Lækur ehf., greiði stefnanda, Ingvari Dór Birgissyni, 1.301, 889 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af  17.576 krónum frá 15. desember 2010 til 1. maí 2011, af 459.634 krónum frá 1. maí 2011 til 1. júní 2011, af 757.742 krónum frá 1. júní 2011 til 1. júlí 2011, af 1.110.889 krónum frá 1. júlí 2011 til 30. júní 2012 en af  1.310.889 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.