Print

Mál nr. 393/2008

Lykilorð
  • Skilasvik
  • Skilorð

Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. mars 2009.

Nr. 393/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Eysteini Gunnari Guðmundssyni

(Jón Einar Jakobsson hrl.)

 

Skilasvik. Skilorð.

E var gefið að sök að hafa, sem eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins R, selt, tekið undir sig eða ráðstafað á annan hátt nær öllum vörulager félagsins, sem veðsettur var K með tryggingarbréfi 3. febrúar 2004, að fjárhæð 19.500.000 krónur, án þess að andvirði lagersins skilaði sér aftur til R, en með þessu hefði hann skert mjög tryggingu bankans og væri sekur um skilasvik. Hvorki var fallist á kröfu E um frávísun málsins frá héraðsdómi, sem E setti fram með breyttri kröfugerð fyrir Hæstarétti, né kröfu hans um að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað. Þótt óupplýst væri hvernig lager félagsins hefði horfið var talið að E gæti ekki vikist undan því að hann bæri ábyrgð á þessari eign sem fyrirsvarsmaður félagsins R og átti vegna skuldbindinga þess sem veðsali að tryggja vörslur lagersins. Hafði hann ekki gert líklegt að hvarf lagersins ætti sér eðlilegar ástæður. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms, að sú háttsemi að tryggja ekki geymslu lagersins og hafast ekkert að þrátt fyrir vitneskju um að verðmæti hans hefði stórlega rýrnað vegna athafna annarra, fæli í sér ráðstöfun sem 2. töluliður 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 tæki til. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur um sakfellingu E. Þótti nægilega fram komið að mikil verðmæti hefðu falist í lagernum. Tekið var undir með héraðsdómi að dráttur á meðferð málsins hefði áhrif á refsingu til mildunar, en þó yrði einnig að líta til þess að hann yrði að hluta rakinn til E. Refsing var ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt þetta var virt var refsing E ákveðin fangelsi í átta mánuði, en bundin skilorði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. júlí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verið staðfestur um sakfellingu en að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst nú aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar í fjölskipuðum dómi. Til þrautavara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvalds, en að því frágengnu mildunar refsingar.

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærða er gefið að sök að hafa, sem eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins Rósvíkur, selt, tekið undir sig eða ráðstafað á annan hátt nær öllum vörulager félagsins, sem veðsettur var KB banka hf. (nú Kaupþing banki hf.) með tryggingarbréfi 3. febrúar 2004, að fjárhæð 19.500.000 krónur, án þess að andvirði lagersins skilaði sér aftur til Rósvíkur ehf., en með þessu hafi hann skert mjög tryggingu bankans og sé sekur um skilasvik.

I

Ákærði setti fyrst fram kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi með breyttri kröfugerð fyrir Hæstarétti. Byggir hann kröfuna á því að rannsókn málsins hafi verið áfátt, meðal annars hefði verið full ástæða til að rannsaka þátt fyrrum eigenda Rósvíkur í málinu þannig að þeir hefðu stöðu grunaðra, og að rannsaka skattskil og bókhald félagsins. Þá telur hann að ákæru sé verulega ábótavant.

Ekki var gerð krafa um frávísun málsins í héraði og kemur krafa þessi því ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem réttinum kann að vera skylt að taka afstöðu til þátta er hana varða án kröfu.

II

Ákærði byggir kröfu sína um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað til nýrrar meðferðar í fjölskipuðum dómi á því, að framsetning ákæru að því er varðar verknaðarlýsingu og heimfærslu til refsiákvæða sem og úrvinnsla dómsins þar um hafi verið andstæð réttarfarsreglum. Brot ákærða í ákæru séu talin varða við 2. - 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur hafi valið úr þeim kostum, sem boðið hafi verið upp á í ákæruskjali, og sakfellt ákærða á grundvelli 2. töluliðar málsgreinarinnar. Ákærði telur að ákæruvaldinu sé ekki heimilt að bjóða upp á slíka valkosti í ákæruskjali og héraðsdómi ekki heimilt að sakfella á þeim grunni. Slík niðurstaða samrýmist ekki heimild dómara til sakfellingar samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Verknaðarlýsing í ákæru er skýr og þykir sakarefnið skilgreint þar á fullnægjandi hátt auk refsiheimildar. Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að sakfella eigi ákærða fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru og heimfæra eigi brotið til 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Að fenginni þeirri niðurstöðu var ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort 3. og 4. töluliður sömu málsgreinar gætu átt við. Þá er hvorki í ákæru né niðurstöðu dóms byggt á að ákærði hafi gerst brotlegur við 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, eins og ákærði heldur fram. Lagaákvæði þetta skilgreinir hins vegar stöðu og ábyrgð forsvarsmanna einkahlutafélags og í því samhengi er til þess vísað í héraðsdómi. Þykir ákæra fullnægja áskilnaði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Vörn ákærða varð ekki áfátt vegna þeirra atriða sem hann nefnir og er ekki fallist á með honum að tilefni sé til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur heim í hérað.

III

Ákærði var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Rósvíkur. Samkvæmt stöðu sinni í félaginu á þeim tíma sem um ræðir bar ákærða að afla sér vitneskju um og fylgjast með því að rekstur félagsins væri í góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, þar á meðal sjá um að bókhald félagsins væri fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna þess væri með tryggilegum hætti. Firrir það ákærða ekki þeirri ábyrgð að hafa að eigin sögn hvorki komið nálægt rekstri né bókhaldi félagsins.

Flísalager Rósvíkur ehf. var settur að veði með tryggingarbréfi 3. febrúar 2004 fyrir láni allt að 19.500.000 krónur. Fram kemur í málsskjölum og framburði ákærða að lán þetta var tekið vegna sumarbústaða sem félagið Perla ehf. var að reisa. Skrifar ákærði sem vottur á bréfið. Lagerinn var talinn í febrúar 2004 af fulltrúa KB banka hf. í tengslum við útgáfu tryggingarbréfsins og 26. ágúst 2004 af fulltrúum bankans og Deliotte hf. og einnig að viðstöddum öðrum þáverandi eigenda Rósvíkur, Pétri Þór Gunnlaugssyni. Í síðara skiptið var lagerinn að mestu kominn í húsnæði Perlu ehf. í Gufunesi, en þangað hafði hann verið fluttur nokkru áður. Af hálfu ákærða hefur því verið mótmælt að hann hafi tekið ákvörðun um að láta flytja flísalagerinn í þetta húsnæði eins og segir í héraðsdómi. Ekki er fram komið hver mælti fyrir um flutninginn, en ljóst er að á þeim tíma var ákærði ekki í fyrirsvari fyrir Rósvík ehf. Hann hafði hins vegar yfirráð yfir því geymslusvæði sem lagerinn var fluttur á.

Af málsgögnum er samkvæmt framangreindu ljóst að ákærði vissi um lagerinn og kom að veðsetningu hans áður en hann tók við stjórn félagsins. Gerði hann grein fyrir þessari eign félagsins og veðsetningu hennar þegar hann mætti fyrir hönd Rósvíkur ehf. við kyrrsetningargerð hjá Sýslumanninum í Reykjavík 14. september 2004. Verður að ganga út frá því að á þeim degi hafi lagerinn því verið í eðlilegri stærð.

Ákærði mótmælir því að rekstur félaganna Rósvíkur ehf. og Perlu ehf. hafi verið samtvinnaður eins og greinir í héraðsdómi. Kveðst hann einungis hafa haft skrifstofuaðstöðu í sama húsnæði. Ljóst er af framburði ákærða sjálfs að bæði félögin tengdust með tryggingarbréfinu byggingu sumarhúsa, verkefni sem Perla ehf. vann að. Eins og áður hefur komið fram var tryggingarbréfið, með veði í flísalager Rósvíkur ehf., útgefið vegna láns sem tekið var vegna þessara framkvæmda. Einnig ber ákærði að Perla ehf. hafi reynt að bæta skuldastöðu Rósvíkur ehf. með því að greiða húsaleigu þess félags hjá leigusala, þetta hafi hins vegar ekki dugað til og Rósvík ehf. því farið úr húsnæðinu að Dvergshöfða 27. Í framhaldi af þessu kaupir ákærði að minnsta kosti hluta Rósvíkur ehf. og verður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri þess félags frá 31. ágúst 2004. Í skýrslu hjá lögreglu sagðist ákærði hafa verið eigandi Perlu ehf. og samkvæmt dómi Hæstaréttar 21. september 2006 á bls. 3669 í dómasafni réttarins það ár var hann dæmdur til refsingar sem fyrirsvarsmaður þess félags. Fyrir Hæstarétti lagði ákærði áherslu á að hann hefði ekki verið í fyrirsvari fyrir Perlu ehf., en lagði ekki fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst hann ekki muna hvort hann hefði verið í fyrirsvari fyrir Perlu ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir. Líkur eru fyrir því að svo hafi verið og ljóst er að hann var nátengdur því félagi. Þegar allt framangreint er virt er fallist á með héraðsdómi að rekstur þessara tveggja félaga hafi verið samtvinnaður á þeim tíma, sem sakarefni málsins tekur til.

Upplýst er að stærstur hluti flísalagersins var til staðar í geymslu á vegum Perlu ehf. í Gufunesi þegar talning hans fór fram 26. ágúst 2004 en var að mestu horfinn þegar skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf. ætlaði að taka hann út fyrir miðjan nóvember 2004. Fallast má á þá athugasemd ákærða að ekki sé nákvæmt í héraðsdómi að segja að ákærði kannist við „að ekkert hafi verið eftir að lagernum þann dag.“ Þvert á móti hélt hann því fram að eitthvað hefði verið eftir af honum. Ákærði fullyrti hins vegar að lagerinn hefði rýrnað vegna útsölu sem hefði átt sér stað fyrir flutninginn í Gufunes í tilefni af væntanlegum útburði Rósvíkur ehf. úr húsnæðinu á Dvergshöfða. Sú fullyrðing hans kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, en hann hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn um þetta, svo sem söluskrár eða auglýsingu sem hann vísar til. Auk þess var lagerinn talinn eftir að hann var fluttur frá Dvergshöfða. Í annan stað telur ákærði sig vita að ýmsir hafi tekið úr lagernum og hafi verið vitni að því. Hann hefur hins vegar hvorki upplýst nánar um hverjir þetta hafi verið, né leitt þau vitni sem hann nefnir. Verður því að telja að hvorug þessara fullyrðinga hans sé á rökum reist. Réttmæt er sú athugasemd ákærða við héraðsdóm að þar sé ekki rétt greint að ákærði hafi í skýrslu hjá skiptastjóra sagst hafa selt lagerinn og skráð hjá sér nöfn kaupenda. Þetta kemur ekki fram í endurriti skýrslutöku skiptastjóra af ákærða 24. nóvember 2004, hins vegar segir skiptastjóri þetta í bréfi sínu til ríkislögreglustjóra. Telja verður ósannað gegn andmælum ákærða að hann hafi skýrt frá á þennan veg.

Þótt óupplýst sé hvernig lager félagsins hvarf getur ákærði ekki vikist undan því að hann bar ábyrgð á þessari eign sem fyrirsvarsmaður félagsins Rósvíkur ehf. og átti vegna skuldbindinga þess sem veðsali samkvæmt tryggingarbréfinu að tryggja vörslur lagersins. Hefur hann ekki gert líklegt að hvarf lagersins eigi sér eðlilegar ástæður. Verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms, að sú háttsemi að tryggja ekki geymslu lagersins og hafast ekkert að þrátt fyrir vitneskju um að verðmæti hans rýrnaði stórlega vegna athafna annarra, feli í sér ráðstöfun sem 2. töluliður 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga tekur til. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

IV

Sakarferli ákærða er rétt lýst í héraðsdómi. Þrátt fyrir að upplýsingar liggi ekki fyrir um innkaupsverð þeirra flísa sem um ræðir, þá er nægilega fram komið að flísarnar voru um 7.750 fm og að um mikil verðmæti var að ræða. Taka má undir með héraðsdómi að dráttur við meðferð málsins hafi áhrif á refsingu til mildunar, en þó er þess að gæta að hann verður að hluta rakinn til ákærða sjálfs. Refsing er ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt þetta er virt verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta mánuði, en fallast má á að hún sé bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.

Staðfest verður ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað í héraði. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 345.496 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af  ríkislögreglu­stjóra 21. nóvember 2007 á hendur Eysteini Gunnari Guðmundssyni, kt. 070253-4299, Engjaseli 86, Reykjavík, fyrir skilasvik með því að hafa á tímabilinu 26. ágúst til nóvember 2004, sem eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins Rósvíkur, kt. 500902-3290, selt, tekið undir sig eða ráðstafað á annan hátt nær öllum vörulager félagsins, sem veðsettur var KB banka hf. (nú Kaupþing Banki hf.), kt. 560882-0419, með tryggingarbréfi útgefnu 3. febrúar 2004, að fjárhæð 19.500.000 krónur, án þess að andvirði lagersins skilaði sér aftur til Rósvíkur ehf. Með því skerti ákærði tryggingu bankans að miklum mun sem og rétt hans og annarra lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum Rósvíkur ehf., en lagerinn var talinn að verðmæti 27.799.979 krónur þann 26. ágúst 2004, en sá hluti hans sem eftir stóð í nóvember sama ár var metinn verðlaus. Rósvík ehf. var úrskurðað gjaldþrota 3. nóvember 2004 og þrotabú félagsins gert upp sem eignalaust bú á skiptafundi 29. ágúst 2005.

Þetta er talið varða við 2 - 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Þrotabú Rósvíkur ehf. gerir kröfu um að ákærða verði gert að greiða búinu skaðabætur vegna brots hans samkvæmt ákæru, samtals að fjárhæð 29.123.940 krónur. Til vara er þess krafist að þrotabúinu verði dæmdar bætur að álitum.

Ákærði krefst sýknu, þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

Með bréfi dagsettu 26. janúar 2005 lagði Guðmundur Ómar Hafsteinsson héraðsdómslögmaður, skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf., fram kæru á hendur fyrirsvarsmönnum einkahlutafélagsins, vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi. Í kærunni er rakið að félagið hafi verið stofnað á árinu 2002 af Pétri Þór Gunnlaugssyni og Philippe Pouille. Hafi félagið verið stofnað um kaup á flísaversluninni Milanoline, sem staðsett hafi verið að Dvergshöfða 27 í Reykjavík. Á árinu 2003 hafi stofnendur félagsins hafið samstarf við Eystein Gunnar Guðmundsson, ákærða í máli þessu, en ákærði hafi verið eigandi nokkurra félaga, þ. á m. Perlunnar ehf. Ákærði hafi keypt félagið Rósvík ehf. af eigendum þess haustið 2004. Megineign hins gjaldþrota félags hafi verið vörulager félagsins, sem hafi verið lager flísa. Í september 2004 hafi Deloitte hf. gert birgðatalningu á umræddum lager að frumkvæði KB banka hf. Samkvæmt niðurstöðum Deloitte hf. hafi flísalagerinn samanstaðið af 7751,94 fermetrum af flísum og hafi hann verið metinn á 27.799.979 krónur. Auk birgðalista hafi skiptastjóri undir höndum umtalsvert magn mynda sem teknar hafi verið við birgðatalninguna. Með tryggingarbréfi dagsettu 3. febrúar 2004, að fjárhæð 19.500.000 krónur, sem Perla ehf. hafi verið útgefandi að, hafi flísalagerinn verið veðsettur KB banka hf. Samkvæmt þeim upplýsingum er skiptastjóri hefði undir höndum, m.a. með skýrslutökum af fyrirsvarsmönnum þrotabúsins, og samkvæmt upplýsingum frá KB banka hf., hafi lagerinn fyrst verið geymdur í kjallara verslunar félagsins að Dvergshöfða 27. Eftir að versluninni hafi verið lokað, en félagið hafi misst húsnæðið, hafi lagerinn verið fluttur í vörugeymslu norðarlega á lóð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Í byrjun nóvember 2004 hafi skiptastjóri farið í umrædda vörugeymslu í þeim tilgangi að tryggja vörslur lagersins samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga. Með í för hafi verið starfsmenn aðalútibús KB banka hf. Er komið hafi verið í vörugeymsluna hafi aðeins brot af lager félagsins verið þar að finna, en um hafi verið að ræða 4 til 5 flísabretti. Þegar lagerinn hafi verið talinn hafi hann samanstaðið af ríflega 100 brettum. Skiptastjóri hafi kallað til skýrslutöku ákærða og Philippe Pouille. Ákærði hafi sérstaklega verið spurður út í hvað hafi orðið um flísalagerinn. Hafi hann fullyrt að lagerinn hafi verið seldur og hafi ákærði skrásett ítarlega hverjir hafi verið kaupendur hans. Hafi hann neitað að upplýsa um kaupendur. Hafi ákærði lýst þeirri skoðun sinni að lagerinn hafi verið eign Perlu ehf. er hann hafi verið seldur, en Perla ehf. hafi greitt kaupverð og aðflutningsgjöld vegna tveggja gáma sem komið hafi til landsins. Hafi það verið sá hluti lagersins er starfsmenn KB banka hf. hafi talið. Það stangist á við framburð Philippe Pouille sem hafi lýst því fyrir skiptastjóra að umrædd sending hafi einungis verið hluti lagers félagsins. Þá hafi ákærði ekki getað lagt fram gögn fullyrðingum sínum til stuðnings þrátt fyrir áskoranir skiptastjóra. Þá hafi engar greiðslur skilað sér inn á reikninga hins gjaldþrota félags vegna sölu á umræddum lager. Allar líkur væru á að lagerinn hafi verið seldur eða eftir atvikum verið tekinn upp í skuld af einstökum kröfuhöfum Perlu ehf. Telji skiptastjóri að um refsiverða háttsemi sé að ræða af hálfu fyrirsvarsmanna hins gjaldþrota félags.

Með kæru skiptastjóra til lögreglu fylgdu nokkur gögn. Samkvæmt endurriti úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur var Rósvík ehf. úrskurðað gjaldþrota að beiðni Spánís ehf. 3. nóvember 2004. Var Guðmundur Ómar Hafsteinsson héraðsdómslögmaður þá skipaður skiptastjóri félagsins. Samkvæmt yfirliti úr Hlutafélagaskrá er dagsetning samþykkta Rósvíkur ehf. frá 30. ágúst 2002. Samkvæmt fundi í félaginu 31. ágúst 2004 var ákærði skipaður stjórnarformaður félagsins. Þá var hann gerður að framkvæmdastjóra og með prókúruumboð.

Þá fylgdi með kæru endurrit af skýrslutöku skiptastjóra yfir ákærða, en skýrslutakan fór fram 24. nóvember 2004. Samkvæmt endurriti kvaðst ákærði ekkert hafa þekkt til málefna Rósvíkur ehf. áður en hann hafi komið að félaginu haustið 2004. Geti hann því ekki greint frá atriðum varðandi stofnun félagsins eða rekstur þess fram að þeim tíma. Ákærði kvaðst hafa keypt fyrirtækið í lok ágúst 2004 af stofnendum þess. Ekkert kaupverð hafi komið í staðinn en ákærði yfirtekið reksturinn. Enginn skriflegur kaupsamningur hafi verið gerður. Hafi ákærði komið inn í félagið til að hjálpa stofnendum þess við að greiða skuldir þess. Helstu skuldir félagsins hafi verið húsaleiguskuld við Spánís ehf. upp á 5.000.000 krónur. Viðskiptabanki félagsins hafi verið Landsbanki Íslands. Er ákærði hafi tekið við fyrirtækinu hafi engir starfsmenn verið til staðar og lager fyrirtækisins lítilfjörlegur. Þá hafi verið búið að loka búð félagsins á Krókhálsi. Hafi ákærði gengið til samninga um greiðslu á húsaleiguskuldinni við Spánís ehf. Skyldi ákærði greiða einn á húsaleigukröfuna með því að Perla ehf., fyrirtæki í eigu ákærða, myndi taka að sér verk við byggingu fiskeldishúss á Kirkjubæjarklaustri sem Spánís ehf. hafi verið að endurnýja. Spánís ehf. hafi hins vegar rift þessum samningi og viðskiptin því öll gengið til baka. Í september 2004 hafi Rósvík ehf. pantað tvo gáma af flísum. Rósvík ehf. hafi hins vegar ekki getað greitt fyrir flísarnar þannig að ákærði, fh. Perlu ehf., hafi borgað flísarnar fyrirfram og öll aðflutningsgjöld þegar flísarnar hafi komið til landsins. Hafi verið litið svo á að Perla ehf. væri að kaupa flísarnar. Þessar flísar hafi verið sá lager sem starfsmenn KB banka hf. hafi talið í birgðatalningu. Þær flísar sem teknar hafi verið úr vörugeymslu Perlu ehf. í Gufunesi hafi verið í eigu Perlu ehf. og hefði ákærði því uppi kröfu um að þeim yrði skilað. Ákærði kvaðst hafa sett töluverða fjármuni í að reyna að bjarga Rósvík ehf. frá gjaldþroti. Þar af leiðandi hafi Rósvík ehf. afsalað öllum lager fyrirtækisins til Perlu ehf. Ákærði kvaðst hafa skjöl þessu til staðfestingar sem hann myndi leggja fram. Ákærði kvað kyrrsetningarbeiðni hafa komið fram frá Spánís ehf. í október 2004 um að kyrrsettur yrði lager Rósvíkur ehf. Kyrrsetningargerðin hafi orðið árangurslaus þar sem Spánís ehf. hafi lýst yfir að flísalagerinn væri verðlaus. Í sama mánuði kvaðst ákærði hafa fengið áskorun um að rýma húsnæðið að Krókhálsi, sem hann hafi og gert. Hafi hann þá flutt lager og annað lauslegt í geymslu ákærða í Gufunesi. Í kjölfar þessa hafi fyrirtækið verið úrskurðað gjaldþrota 3. nóvember 2004. Undir þessa skýrslu rita ákærði og verjandi ákærða. Þann 10. desember 2004 mætti ákærði aftur á fund skiptastjóra. Var ákærða þá sýnt tryggingarbréf að fjárhæð 19.500.000 krónur. Ákærði staðfesti að flísalager Rósvíkur ehf. hafi verið veðsett til tryggingar greiðslu samkvæmt bréfinu. Staðfesti ákærði einnig að undir bréfið hafi ritað Pétur Þór Gunnlaugsson og að hann hafi haft umboð til þess.

Skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf. tók 10. desember 2004 skýrslu af Philippe Pouille. Philippe kvaðst hafa stofnað einkahlutafélagið Rósvík ásamt Pétri Þór Gunnlaugssyni. Félagið hafi í september 2002 keypt flísaverslunina Milano af Rubin ehf og Skúla Þór Sveinssyni. Eftir að Rósavík ehf. hafi keypt fyrirtækið og hafið rekstur hafi Philippe orðið ljóst að raungildi fyrirtækisins hafi verið mjög ofmetið og að ekki hafi verið gerð grein fyrir ýmsum skuldum við samningsgerðina. Þá hafi lager félagsins verið minni en kaupendur hafi talið. Aðaleign fyrirtækisins hafi verið lager þess en það hafi ekki átt neinar aðrar eignir. Engir starfsmenn hafi verið í Reykjavík en einn í verslun á Akureyri. Í september 2003 hafi ákærði keypt flísar af versluninni, en ákærði hafi þá verið með skrifstofur í sama húsnæði. Félag ákærða, Perla ehf. og Rósvík ehf. hafi hafið samstarf á árinu 2003. Haustið 2003 hafi verið samþykkt að ákærði myndi kaupa hlut í fyrirtækinu. Fyrsta stórverkefni hans með Rósvík ehf. hafi verið að kaupa flísaverslun á Akureyri af Yoko ehf. Kaupin hafi átt sér stað í október 2003. Hafi Perla ehf. greitt kaupverðið 5.000.000 króna. Þeirri verslun hafi verið lokað í apríl 2004. Í febrúar 2004 hafi Perla ehf. tekið lán hjá KB banka hf. að fjárhæð 19.500.000 króna. Hafi lánið verið með veði í flísalager Rósvíkur ehf. Hafi Philippe og Pétur Þór samþykkt lántökuna. Peningarnir hafi farið inn í rekstur Perlu ehf. til að fjármagna sumarbústaðaverkefni sem það fyrirtæki hafi verið að fara að setja í gang. Í september 2004 hafi ákærði formlega keypt Rósvík ehf. af Pétri Þór og Philippe og orðið formlegur eigandi þess. Ekki hafi ákærði látið neina greiðslu í té, heldur hafi hann tekið yfir skuldir félagsins. Verslun félagsins að Dvergshöfða hafi verið lokað í október 2004. Ætlunin hafi verið að flytja hana að Nethyl 2 í Reykjavík, en það hafi ekki orðið raunin. Lager verslunarinnar hafi hins vegar verið fluttur í Gufunes. Á rekstrartíma verslunarinnar hafi 3 til 5 gámar af flísum verið keyptir árlega. Að meðaltali hafi á lager verslunarinnar verið um 20 til 25.000.000 króna að markaðsvirði. Að meðaltali hafi um 100 vörubretti af flísum verið á lager. Í apríl 2004 hafi fyrirtækið keypt sína síðustu tvo gáma af flísum. Hafi Philippe pantað flísarnar í nafni Rósvíkur ehf. Hafi þær verið pantaðar frá þrem fyrirtækjum og hafi þurft að greiða tveim af þeim fyrirfram. Hafi greiðslan samtals numið 4.400.000 króna. Hafi verið um að ræða 40 til 44 vörubretti. Greitt hafi verið fyrir flísarnar með láni sem faðir Péturs Þórs hafi tekið. Hafi lánið verið fengið í gegnum Íslandsbanka og það runnið beint til viðkomandi fyrirtækja. Á þessum tíma hafi ákærði áformað að taka yfir fyrirtækið, en ekkert verið frágengið varðandi pappíra. Ekki hafi verið búið að taka lokaákvörðun um hver ætti að endurgreiða lánið, Rósvík ehf. eða Perla ehf. Af láninu hafi verið greiddar 2.000.000 króna án þess að Philippe vissi hvernig og að ákærði hafi ætlað að greiða eftirstöðvarnar. Þegar gámarnir hafi komið til landsins í apríl 2004 hafi lagerinn verið settur í geymslu að Dvergshöfða. Hafi honum verið bætt við þann lager sem þar hafi verið í geymslu. Eftir að versluninni hafi verið lokað hafi allur lagerinn verið fluttur í Gufunes. Fyrirtækin Perla ehf. og Rósvík ehf. hafi starfað náið saman. Rætt hafi verið um að Perla ehf. og ákærði myndu fá hlutdeild í lagernum. Skriflegur samningur hafi hins vegar aldrei verið gerður. Litið hafi verið svo á að ákærði og Perla ehf. væru eitt og hið sama. Philippe kvaðst hafa farið til Belgíu í október 2004 og verið þar í þrjár vikur. Frá þessum tíma hafi lagerinn alfarið verið í höndum ákærða. Ekki kvaðst Philippe vita hverjum eða hvenær lagerinn í Gufunesi hafi verið seldur.

Skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf. tók 20. apríl 2005 skýrslu af Pétri Þór Gunnlaugssyni. Í endurriti kemur fram að Pétur hafi greint frá því að hann hafi flutt lager Rósvíkur ehf. af Dvergshöfða í skemmu í Gufunesi. Hafi Pétur talið lagerinn með fulltrúa KB banka hf. Ákærði hafi verið viðloðandi Rósvík ehf. frá haustinu 2003. Fljótlega upp frá því hafi ákærði byrjað að taka úr lager fyrirtækisins en ekki greitt fyrir. Hafi hugmyndin verið að ákærði myndi koma inn í fyrirtækið. Ákærði hafi tekið út flísar til að leggja þær í kaffihúsið Café Vilnius, er ákærði hafi átt. Um verulegt magn flísa hafi verið að ræða. Ekki hafi verið gerður reikningur vegna þessa. Þá hafi ákærði tekið flísar til að leggja í einbýlishús í Ólafsgeisla. Hafi eigandi viðkomandi húss náð í flísar sumarið 2004 fyrir yfir 300.000 krónur að útsöluverði. Ekkert hafi verið greitt fyrir þær. Pétur Þór kvað mögulegt að einhver hluti lagersins væri staðsettur í Sandgerði. Pétur Þór hafi selt ákærða hlut sinn í fyrirtækinu 31. ágúst 2004. Hafi Pétur gengið út úr fyrirtækinu 10. september 2004. 

Á meðal gagna málsins er bréf Deloitte hf., frá 22. september 2004.  Er bréfið til Kaupþings Búnaðarbanka hf. vegna birgðatalningar á lager. Í bréfinu kemur fram að þann 26. ágúst 2004 hafi Ágúst Kristinsson viðskiptafræðingur hjá Deloitte hf. aðstoðað Indriða Óskarsson fyrirtækjafulltrúa KB banka hf. við birgðatalningu á flísalager Rósvíkur ehf. Tilgangurinn hafi verið að kanna hvort magn og tegund birgða á birgðalista í fórum KB banka hf. væri rétt. Talningin hafi farið fram á lager félagsins í kjallara að Dvergshöfða 27 í Reykjavík og í skemmu í Gufunesi. Starfsmaður Rósvíkur ehf. hafi aðstoðað við að finna þau vörunúmer sem leitað hafi verið að hverju sinni. Valið hafi verið handahófskennt úrtak úr birgðalista þannig að talin hafi verið öll vörunúmer þar sem lagerstaða hafi verið yfir um 40 fermetra, auk þess sem valið hafi verið af handahófi vörunúmer sem minna hafi verið til af lager. Félagið haldi utan um lagerstöðu með því að framkvæma birgðatalningar þegar þurfa þyki og skrái þess á milli á blað einstaka úttektir. Niðurstaða talningarinnar hafi verið sú að birgðalisti varðandi magn og heiti flísa hafi verið án verulegra annmarka. Það hafi verið skekkjur frá lista til talningar, en þær hafi verið óverulegar. Samkvæmt birgðalista var magn flísa á lista 7751,94 m2.

Þá er á meðal rannsóknargagna málsins ljósrit af tryggingarbréfi, útgefið af Perlu ehf., Dvergshöfða 27, Reykjavík, 3. febrúar 2004. Fram kemur að um sé að ræða vörureikningsveð samkvæmt 47. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997 og vörubirgðaveð samkvæmt 33. gr. sömu laga. Höfuðstóll fjárskuldbindinga er að hámarki höfuðstólsfjárhæðar 19.500.000 krónur. Tekið er fram að Kaupþingi Búnaðarbanka hf. sé sett að sjálfsvörsluveði, til tryggingar kröfum með 1. veðrétti allar vörubirgðir, hverju nafni sem nefnist sem útgefandi bréfsins eigi eða eignist síðar í atvinnurekstri sínum á hverjum tíma eða hafi til endursölu, allt í samræmi við 33. gr. laga nr. 75/1997. Veðsetningin nái til hinna veðsettu verðmæta í heild sinni eins og þau séu á hverjum tíma. Til hins veðsetta teljist vörubirgðir, en það séu allar tegundir vörubirgða. Veðsala sé heimilt að selja, skipta um eða framselja veðsettar vörubirgðir ef það skerði ekki að mun veð eða tryggingu veðhafa. Undir tryggingabréf þetta er ritað fh. Perlu ehf. og Pétur Þór Gunnlaugsson fh. Rósvíkur ehf. Ákærði ritar undir bréfið sem vottur.

Þá eru á meðal rannsóknargagna málsins afrit af reikningum og skuldfærslubeiðnum í nafni Rósvíkur ehf. Eru skuldfærsluafrit dagsett 20. apríl 2004 að fjárhæð 1,454,655 evrur, 598,816 evrur, 649,712 evrur og 95,228 evrur vegna reikninga í nafni Kronos Cheramiche, Cheramiche Faro og Edilgres Sirio. Þá eru á meðal rannsóknargagna yfirlit tékkareiknings Rósvíkur ehf. nr. 3939 í Landsbanka Íslands í banka nr. 116. Ná yfirlitin yfir tímabilið frá 1. apríl 2004 til 20. október 2004.

Einnig er á meðal rannsóknargagna málsins endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík frá 14. september 2004 vegna kröfu Spánís ehf. um kyrrsetningu hjá gerðarþolanum Rósvík ehf. Fyrir gerðarþola mæta ákærði og skipaður verjandi hans. Er krafist kyrrsetningar fyrir kröfu að fjárhæð 6.477.322 krónur. Af hálfu ákærða er lýst yfir að bent sé á til kyrrsetningar lager sem báðir aðilar séu sammála um að sé að fullu veðsettur KB banka hf. Fulltrúi gerðarþola lýsi yfir að hann eigi ekki aðrar eignir  Þá eru á meðal gagna málsins afrit af skattframtali Rósvíkur ehf. vegna ársins 2003. Skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf. hefur 20. janúar 2005 ritað skrá um lýstar kröfur í þrotabú Rósvíkur ehf. Nema lýstar almennar- og eftirstæðar kröfur samtals 27.736.605 krónum.

Á meðal rannsóknargagna er afrit af tilkynningu um stofnun einkahlutafélagsins Rósvíkur ehf. Eru samþykktir félagsins frá 30. ágúst 2002 og stofnendur Pétur Þór Gunnlaugsson og Philippe Pouille. Er Pétur Þór skráður formaður stjórnar og Philippe í varastjórn. Philippe er skráður framkvæmdastjóri og með prókúru, ásamt Pétri Þór. Með tilkynningu til Fyrirtækjaskrár sem móttekin er 8. september 2004, er ákærði formaður stjórnar Rósvíkur ehf. eftir fund 31. ágúst 2004. Er ákærði jafnframt skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Undir tilkynninguna rita ákærði og Pétur Þór Gunnlaugsson. 

Í rannsóknargögnum er afrit af yfirlýsingu frá 31. ágúst 2004. Samkvæmt henni selur og afsalar Pétur Þór Gunnlaugsson ákærða öllum hlutum sínum í einkahlutafélaginu Rósvík að nafnvirði 250.000 krónur. Hlutirnir eru að fullu greiddir með því að kaupandi tekur að sér að greiða skuldir við Landsbanka Íslands samkvæmt yfirdrætti á nafni Rósvíkur ehf. 5.500.000 krónur og skuld við Gunnlaug Pétursson að fjárhæð 2.200.000 krónur. Á aukaaðalfundi þennan dag hefur Pétur Þór horfið úr stjórn en ákærði tekið við stjórnarformennsku. Jafnframt hefur prókúruumboð verið falið ákærða en prókúruumboð Péturs Þórs fallið niður. 

Um atvik greindi ákærði svo frá hjá lögreglu að hann hafi verið eigandi að einkafyrirtækinu Perlu ehf. Til tals hafi komið að sameina fyrirtækið Rósvík ehf. Síðar hafi komið í ljós að skuldastaða Rósvíkur ehf. hafi verið mikil og ákærði þurft að greiða húsaleigu Rósvíkur ehf. sem numið hafi mörgum milljónum. Hafi ákærði unnið fyrir eiganda þess húsnæðis er Rósvík ehf. hafi verið í og hafi greiðsla sem átt hafi að renna til ákærða farið í að greiða húsaleiguna. Rósvík ehf. hafi skuldað mikið og þar sem ákærði hafi átt að sjá um greiða þessar skuldir hafi hann óskað eftir því að fá að stjórna fyrirtækinu og því orðið stjórnarformaður. Ákærði kvaðst ekki hafa komið neitt nálægt bókhaldi Rósvíkur ehf. eftir að hann hafi orðið stjórnarformaður félagsins. Þá hafi hann ekki haft neitt með bankareikninga félagsins að gera. Þá kvað ákærði rangt er fram kæmi í kæru skiptastjóra þrotabús Rósvíkur ehf. að ákærði hafi selt flísalager Rósvíkur ehf. eftir að bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og skrásett nákvæmlega hverjir kaupendur hafi verið. Ákærða voru sýndar skýrslur er hann gaf hjá skiptastjóra þrotabús Rósvíkur ehf. Kvaðst hann geta staðfest framburð sinn hjá skiptastjóra. Ákærði kvað Perlu ehf. hafa leyst út tvo gáma af flísum í september 2004. Ekki væri ákærði með gögn um þau viðskipti. Ákærði kvað Rósvík ehf. hafa afsalað til Perlu ehf. öllum þeim flísalager er félagið hafi átt. Ekki gæti ákærði þó lagt fram nein gögn því til staðfestingar. Pétur Þór Gunnlaugsson hafi vitað um mjög slæma stöðu Rósvíkur ehf. er ákærði hafi komið að félaginu. Félagið hafi ekki verið búið að greiða húsaleigu í um eitt ár og verið hótað útburði. Ákærði kvaðst kannast við að á vegum KB banka hf. hafi Deloitte hf. framkvæmt talningu á flísalager félagsins. Kvaðst ákærði vefengja það mat er fram hafi farið. Verulegt magn óseljanlegra flísa hafi verið í lagernum sem hafi farið á haugana. Lagerinn hafi allur verið á Dvergshöfða þar til hann hafi verið fluttur í heilu lagi í skemmu í Gufunesi. Skemman í Gufunesi hafi verið ólæst og hver sem er getað gengið inn og tekið flísar. Þangað hafi komið einstaklingar sem hafi talið sig eiga óuppgerða skuld við Rósvík ehf. og Perlu ehf. og tekið flísar upp í skuld. Þá hafi Rósvík ehf. verið með verslun á Akureyri og verulegt magn af flísum verið sendar þangað en Philippe hafi algjörlega séð um  þau viðskipti. Ákærði kvaðst hafa þurft að fjármagna byggingu sumarbústaða á vegum Perlu ehf. Í þeim tilgangi hafi verið gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 19.500.000 krónur til KB banka ehf. Búið hafi verið að greiða um helming þeirrar fjárhæðar er tekin hafi verið að láni hjá KB banka hf. Hafi ákærði boðið bankanum að ljúka við byggingu sumarbústaðanna til að standa skil á tryggingarbréfinu, en bankinn hafi hafnað því. Undir ákærða voru borin gögn um innflutning Rósvíkur ehf. á flísum í apríl 2004. Kvað ákærði það rétt að Rósvík ehf. hafi flutt inn mikið af flísum á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa verið viðstaddur talningu á vörulager Rósvíkur ehf. 26. ágúst 2004. Ákærði kvað óverulegar peningalegar hreyfingar hafa verið á milli Rósvíkur ehf. og Perlu ehf. á tímabilinu apríl til október 2004. Perla ehf. hafi hins vegar greitt verulegar fjárhæðir í þágu Rósvíkur ehf. m.a. húsaleigu upp á einhverjar milljónir króna til félagsins Spánís ehf.

Fyrir dómi bar ákærði að hann hafi verið stjórnarformaður Rósvíkur ehf. frá í september 2004. Hafi hann fyrst komið að starfsemi félagsins nokkrum mánuðum áður. Hafi það í upphafi verið á þeim forsendum að hann hafi leigt húsnæði á sama stað. Rósvík ehf. hafi verið sagt upp húsnæði að Dvergshöfða í Reykjavík. Hafi leigutaki fengið útburð á félagið. Talsvert hafi verið selt af flísum á þessum tíma og síðan hafi afgangurinn verið fluttur í bragga í Gufunesi í umsjá Perlu ehf., félags í umsjá ákærða. Ákærði hafi þó ekki verið eini eigandi Perlu ehf. Flísarnar hafi verið í eigu Rósvíkur ehf. er þær hafi verið fluttar í Gufunesið. Ákærði kvaðst hafa ætlað að ráðast í að reisa sumarbústaði í Kjósinni á vegum Perlu ehf. Tekið hafi verið lán vegna framkvæmdanna og útbúið tryggingarbréf í því skyni. Hafi Rósvík ehf. sett lager að veði í tryggingarbréfinu. Andvirði sumarhúsanna hafi síðan átt að ganga til KB banka hf. við sölu. Ákærði kvaðst telja að búið væri að greiða um helming af því láni er KB banki hf. hafi veitt Perlu ehf. Ákærði kvaðst vera þeirrar skoðunar að mat á lagernum að fjárhæð ríflega 27 milljónir króna væri út í hött. Hluti af lagernum hafi verið flísar sem hafi verið í lagernum í mörg ár og enginn viljað kaupa. Ákærði kvað Rósvík ehf. aldrei hafa afsalað lagernum til Perlu ehf. Vöruskemma sem flísarnar hafi verið í Gufunesi hafi verið ólæst. Af þeim ástæðum hafi margir getað gengið í flísarnar. Ekki hafi verið unnt að læsa umræddri skemmu. Að auki hafi aðrir verið með aðstöðu í skemmunni, s.s. blikksmiðja og bílasmiður. Pétur Þór og Philippe hafi flutt flísarnar í Gufunesið. Ekki kvaðst ákærði muna nákvæmlega hvenær það hafi verið. Ákærði kvaðst aldrei hafa tekið við bókhaldi Rósvíkur ehf. Hafi hann samið við Pétur Þór um að taka yfir félagið. Philippe hafi sagt ákærða að hann teldi að unnt væri að snúa rekstri fyrirtækisins við. Staðan hafi hins vegar verið verri en ákærði hafi talið í upphafi. Af þeim ástæðum hafi ákærði viljað fara aftur út úr fyrirtækinu. Philippe hafi séð um allt bókhald félagsins. Hafi hann einnig gefið út sölureikninga. Hafi Philippe áfram átt hlut sinn í fyrirtækinu eftir að ákærði hafi verið kominn inn. Væri rangt er Philippe héldi fram að ákærði hafi einnig eignast hans hlut. Ákærði kvað rangt í lögregluskýrslu að hann hafi tekið flísar úr lagernum og notað á kaffistaðnum Vilnius Café. Hið rétta væri að þangað hafi flísar farið og hafi Philippe átt að innheimta fyrir þær. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Ákærði kvað skýrslu sína hjá skiptastjóra þrotabús Rósvíkur ehf. ekki hafa verið alls kostar rétta. Á þeim tíma hafi ákærði verið byrjaður að veikjast af krabbameini er hann hafi greinst með.     

Pétur Þór Gunnlaugsson kvaðst í september 2002, ásamt Philippe Pouille, hafa stofnað einkahlutafélagið Rósvík. Við stofnun hafi Pétur átt jafnan hlut í félaginu á móti Philippe. Hafi Pétur Þór gegnt stjórnarformennsku í félaginu. Pétur hafi átt félagið þar til í september 2004 er hann hafi látið hlut sinn yfir til ákærða. Hafi ákærði tekið yfir persónulegar skuldir Péturs, þ. á m. yfirdráttarlán í Landsbanka Íslands. Ákærði hafi hins vegar ekki staðið við það. Philippe hafi átt sinn eignarhluta áfram og starfað með ákærða. Það samstarf hafi ekki verið lengi þar sem félagið hafi orðið gjaldþrota. Rósvík ehf. hafi verið stofnað til að reka flísaverslun að Dvergshöfða 27. Pétur kvað föður sinn hafa komið að félaginu með því að hann hafi gengist í ábyrgð fyrir láni að fjárhæð 4.000.000 króna í Íslandsbanka vegna innflutnings á flísum á árinu 2004. Búið hafi verið að greiða 1.800.000 krónur af láninu. Hafi ákærði lofað að greiða umrætt lán en ekki staðið við það. Pétur kvaðst kannast við að skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf. hafi lagt fram kæru vegna þess að flísalager félagsins hafi horfið úr húsnæði í Gufunesi í framhaldi af því að það hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Pétur kvað hugsanlegt að gámar sem leystir hafi verið út í apríl 2004 hafi verið leystir út af Perlu ehf. vegna tengsla félagsins við Eimskip, en Perla ehf. hafi haft betri samninga við Eimskip heldur en Rósvík ehf. Þá kvaðst Pétur geta staðfest skýrslu þá sem hann gaf hjá skiptastjóra þrotabús Rósvíkur ehf. Um ári eftir að Pétur og Philippe hafi stofnað Rósvík ehf. hafi ákærði komið í búð þeirra félaga og viljað kaupa flísar. Af því hafi ekki orðið. Ákærði hafi hins vegar komið inn í rekstur félagsins. Strax í upphafi hafi komið til tals að ákærði myndi kaupa Pétur út en af því hafi þó ekki orðið fyrr en löngu síðar. Er ákærði hafi komið inn hafi hann farið að taka úr lager félagsins flísar án þess að greiða fyrir þær. Hafi ákærði notað flísarnar í þau verkefni sem hann hafi verið að vinna að á hverjum tíma. Pétur kvaðst hafa gengið út úr fyrirtækinu þar sem verslunarrekstur hafi ekki átt við hann. Pétur kvað Philippe hafa haft betri yfirsýn yfir rekstur félagsins. Til hafi verið umtalsverður lager hjá félaginu sem KB banki hf. hafi gert talningu á. Pétur hafi verið viðstaddur talningu á lagernum sem fram hafi farið 26. ágúst 2004. Kvaðst Pétur telja að niðurstaða talningarinnar hafi verið rétt. Pétur kvað tryggingarbréf með veði í lagernum hafa verið gefið út að frumkvæði ákærða. Lán hafi verið tekið hjá KB banka hf. í þeim tilgangi að fjármagna byggingu tíu sumarbústaða á svæði í nágrenni við Háls í Kjós. Ákærði hafi á þeim tíma verið búinn að fá úthlutað lóðum til verksins. Pétur kvað afrit gagna um innflutning á flísum í nafni Rósvíkur ehf. í apríl 2004 sýna þann innflutning á flísum er farið hafi fram og hafi verið fjármagnaður með áðurnefndu láni að fjárhæð 4.000.000 króna. Þær flísar sem þá hafi verið fluttar til landsins hafi verið hluti af þeim lager er taldar hafi verið í talningu KB banka hf.  

Indriði Óskarsson, fyrirtækjafulltrúi hjá KB banka hf., kvaðst hafa haft umsjón með því fyrir hönd KB banka hf. að telja flísalager Rósvíkur ehf. 26. ágúst 2004. Á þeim tíma hafi Perla ehf. verið með yfirdrátt hjá bankanum og vanskil verið komin. Rósvík ehf. hafi verið eigandi flísalagersins sem settur hafi verið að veði fyrir tryggingarbréfi útgefnu af Perlu ehf. Bréfið hafi verið gefið út í tengslum við framkvæmdir í Hvalfirði. Andvirði sumarhúsa sem átt hafi að reisa hafi átt að ganga til greiðslu skulda Perlu ehf. Lögfræðingur bankans hafi farið þess á leit við Indriða að fara og telja lagerinn til að athuga hvort eignir væru til staðar ef nota þyrfti trygginguna. Talning á flísalagernum hafi átt sér stað að Dvergshöfða og í skemmu í Gufunesi. Talningin hafi farið fram samdægurs á báðum stöðum. Meirihluti lagersins hafi verið í skemmunni í Gufunesi, en sennilega um 10% af honum á Dvergshöfða. Pétur Þór Gunnlaugsson hafi verið á Dvergshöfða er Indriði og Ágúst Kristinsson hafi komið á staðinn. Þeir hafi haft meðferðis lagerlista sem fenginn hafi verið hjá Rósvík ehf. Sá listi hafi sennilega verið prentaður út næsta dag á undan af fyrirsvarsmönnum Rósvíkur ehf., sennilega Pétri Þór. Pétur Þór hafi leitt Indriða og Ágúst í gegnum lagerinn. Listinn hafi verið borinn saman við lagerinn og lítil frávík komið í ljós á milli listans og lagersins. Við talninguna hafi verið miðað við útsöluverð flísa hjá Rósvík ehf. eins og Philippe Pouille hafi tilgreint að það hafi verið. Í byrjun árs 2004, er Indriði hafi komið fyrst að málinu, hafi honum verið tjáð af ákærða og Hlöðver Ólafssyni að þeir félagar hafi ætlað að sameina fyrirtækin Rósvík ehf. og Perlu ehf. Hafi þeir sagt að þeir væru komnir með nýtt húsnæði og sennilega sagt að þeir ætluðu að flytja fyrirtækin að Nethyl í Reykjavík. Það húsnæði hafi ekki verið til reiðu er flytja hafi þurft flísalagerinn og því flutningur í Gufunes verið skiljanlegur. Indriði kvaðst hafa komið að talningu lagersins í tengslum við útgáfu tryggingarbréfsins að fjárhæð 19.500.000 krónur. Sú talning hafi ekki verið eins ítarleg og talningin í ágúst 2004. Hluti af lagernum hafi verið sá sami. Indriði kvaðst í nóvember 2004, ásamt skiptastjóra þrotabús Rósvíkur ehf., hafa farið í Gufunesið, en ætlunin hafi verið að selja umræddan flísalager fljótlega eftir gjaldþrotið. Einungis 5 til 6 pallar hafi verið eftir. Um hafi verið að ræða sérstakar flísar sem ekki hafi verið auðvelt að selja. Væru þær enn í vörslu KB banka hf. Í september 2004 hafi starfsmenn KB banka hf. reyndar verið komnir með áhyggjur af stöðu mála. Hafi það tengst því að um langvarandi vanskil hafi verið að ræða hjá Perlu ehf. Byggingarefni hafi verið talið hjá fyrirtækinu í Gufunesi í september 2004, en þá hafi komið í ljós að hluti þess efnis hafði horfið.

Ágúst Kristinsson viðskiptafræðingur kvaðst á vegum Deloitte hf. hafa annast talningu á birgðum á afurðalánum KB banka hf. Starfsmaður KB banka hf., Indriði Óskarsson, hafi komið að málinu frá bankanum. Talning á lagernum hafi farið fram að Dvergshöfða 27 í Reykjavík og í skemmu í Gufunesi. Að Dvergshöfða hafi verslun verið á götuhæð. Hafi lager í versluninni verið skoðaður, sem og lager í kjallara húsnæðisins. Lagerinn hafi verið skoðaður sama dag á báðum stöðum. Talning hafi farið þannig fram að borinn hafi verið saman listi við handahófskennd úrtök. Talningin hafi miðast við að staðfesta einungis magn birgða, ekki verð. Ef ætlunin hafi verið að sannreyna verð birgða hafi þurft fleira til, s.s. að bera birgðir saman við kaupnótur og að sannreyna sölumöguleika o.fl.

Karl Óttar Pétursson, lögfræðingur á markaðssviði KB banka hf., kvaðst hafa haft áhyggjur af skuldastöðu Perlu ehf. hjá bankanum. Fyrir hafi legið að bankinn hafi verið með veð í flísalager í eigu Rósvík ehf. Hafi Karl beðið starfsmann bankans um að framkvæma birgðatalningu í lagernum. Indriði Óskarsson, starfsmaður bankans, hafi framkvæmt talninguna. Fengnir hafi verið óháðir aðilar til að annast talninguna. Á mánudagsmorgni í nóvember 2004, í beinu framhaldi af því að Rósvík ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota, hafi Karl, ásamt skiptastjóra þrotabús Rósvíkur ehf., farið í vöruskemmuna í Gufunesi. Er þeir hafi komið í skemmuna hafi lagerinn verið horfinn. Karl kvað það reynslu sína í viðskiptum að þegar fyrirtæki yrðu gjaldþrota þá gerðist það oft að lagerar fyrirtækjanna hyrfu. Það hafi verið ástæða þess að farið hafi verið strax að huga að flísalagernum. Af hálfu KB banka hf. hafi verið litið svo á að ákærði væri með ábyrgð á þeirri vörugeymslu er lagerinn hafi verið geymdur í. Í geymslunni hafi einnig verið aðrir hlutir sem hafi verið veðsettir. Fleiri bréf en umrætt tryggingarbréf hafi verið gefið út af Perlu ehf. vegna ábyrgða. Hafi KB banki hf. höfðað mál á hendur félaginu til innheimtu þeirra bréfa. Skuld Perlu ehf. hafi m.a. verið tryggð með veði í sumarbústaðalóðum í Hvalfirði. Þá hafi einnig persónulegar ábyrgðir fylgt lánum bankans. Einn ábyrgðarmanna, Hlöðver Ólafsson, hafi m.a. afhent sumarbústað uppi í Borgarfirði vegna ábyrgðar.

Guðmundur Ómar Hafsteinsson héraðsdómslögmaður, skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf., kvað bú Rósvíkur ehf. hafa verið tekið til skipta 3. nóvember 2004. Í framhaldi, eða fjórum til fimm dögum síðar, hafi Guðmundur, ásamt starfsmönnum KB banka hf. þeim Karli Óttari og Indriða, farið upp í Gufunes. Ástæða fararinnar hafi verið ótti við að lager félagsins myndi hverfa. Er þeir hafi komið á staðinn hafi lagerinn verið horfinn. Á staðnum hafi verið nokkrir einstaklingar sem ekki hafi talað íslensku. Hafi Guðmundur metið það svo að þeir hafi verið að vinna á staðnum á vegum ákærða. Guðmundur Ómar kvaðst sem skiptastjóri hafa tekið skýrslur af fyrirsvarsmönnum Rósvíkur ehf. og ákærða. Í þeim skýrslutökum hafi m.a. komið fram að geymslan í Gufunesi hafi verið á vegum ákærða. Nánast ekkert bókhald hafi verið fært fyrir Rósvík ehf. er félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Hafi Philippe Pouille lofað að skila bókhaldi, en það aldrei komið. Kröfu samkvæmt tryggingarbréfi er flísalagerinn hafi verið settur að veði fyrir hafi gleymst að lýsa í þrotabúið. Engar eignir hafi verið til staðar í búinu og því ekki tekin afstaða til lýstra krafna.

Þriðjudaginn 12. júní 2007 var tekin símaskýrsla af Philippe Pouille, en hann var þá farinn af landi brott. Philippe kvað Rósvík ehf. hafa verið stofnað á árinu 2002 af Philippe og Pétri Þór Gunnlaugssyni. Hafi þeir verið með jafnan hlut í félaginu. Hafi Pétur séð um að selja flísar og jafnframt séð um lager fyrirtækisins. Philippe kvaðst hafa selt ákærða sinn hlut í fyrirtækinu í september eða október 2003(sic). Engin gögn hefði hann því til staðfestingar. Ákærði hafi ekkert greitt fyrir hlutinn. Hafi ákærði lýst því yfir að hann myndi sjá um allt saman. Myndi hann setja allt frá Rósvík ehf. yfir á sitt nafn og sjá um skuldir Rósvíkur ehf. Hafi Philippe treyst ákærða. Pétur Þór hafi farið út úr fyrirtækinu 31. ágúst 2003(sic) en Philippe verið þar nokkra mánuði lengur. Í byrjun september 2004 hafi ákærði keypt verslun á Akureyri og vinna Philippe falist í því að flytja hluti þangað. Eftir að því hafi lokið hafi ekki verið mikið að gera hjá fyrirtækinu og það leitt til þess að hann hafi hætt. Ekki hafi Philippe fengið laun hjá fyrirtækinu í þann tíma er hann hafi unnið þar fyrir ákærða. Philippe kvaðst ekki hafa skilið íslensku. Hafi hann því þurfti aðstoð Péturs Þórs og ákærða við færslu bókhalds. Hafi ákærði því vitað allt um bókhald Rósvíkur ehf. Philippe kvaðst ásamt Pétri Þór hafa flutt inn gáma með flísum frá Ítalíu á árinu 2004. Hafi Philippe farið til Belgíu í þrjár vikur í byrjun október 2004. Þegar hann hafi komið til baka hafi ekkert verið eftir í fyrirtækinu og hann því hætt skömmu síðar. Er hann hafi farið út hafi lagerinn verið fullur af flísum en þegar hann hafi komið til baka hafi verið búið að flytja lagerinn. Ekkert hafi verið selt af flísum í september og október 2004. Philippe Pouille kom ekki fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins þar sem hann er fluttur af landi brott.

Niðurstaða:

Brot ákærða eru í ákæru talin varða við 2. – 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal refsa þeim fyrir skilasvik sem í fyrsta lagi selur, veðsetur, tekur undir sig eða ráðstafar á annan hátt fjármunum sínum sem annar maður hefur eignast þau réttindi yfir að verknaðurinn verður ekki samrýmdur réttindum hans, eða í öðru lagi hefst nokkuð það að, eftir að bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta sem miðar að því að eigur eða kröfur búsins komi ekki lánadrottnum þess að gagni eða í þriðja lagi skerðir rétt einhvers lánadrottins síns til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með því að gefa rangar upplýsingar, með undanskoti eigna, málamyndagerningum, ótilhlýðilegum gjöfum eða mikilli eyðslu, sölu eigna fyrir óhæfilega lágt verð, greiðslu eða tryggingu ógjaldkræfra krafna eða tiltölulega hárra gjaldkræfra krafna, stofnun nýrra skulda, sem að mun muni rýra efnahag hans eða með öðrum svipuðum hætti. Efnislýsing ákvæða í 2.- 4. tl. er hver um sig sjálfstæð og hefur ákæruvald lagt í hendur dómsins, út frá því hvað telst sannað við aðalmeðferð málsins, undir hvaða tölulið rétt sé að fella háttsemi ákærða. Má við slíkan málatilbúnað ákæruvalds una.

Í þessu máli liggur fyrir og er óumdeilt að allur flísalager einkahlutafélagsins Rósvíkur var settur að veði við útgáfu tryggingarbréfs til Perlu ehf. 3. febrúar 2004. Þá liggur fyrir að flísalager þessi var talinn tvívegis. Var það annars vegar í tengslum við útgáfu tryggingarbréfsins í febrúar 2004 og hins vegar 26. ágúst sama ár. Er lagerinn var talinn í síðara skiptið annaðist Deloitte hf. talningu lagersins og var hann þá að mati fyrirtækisins 7751,94 fermetrar. Af hálfu veðhafans KB banka hf. var lagerinn metinn til 27.799.979 króna. Fram hefur komið undir meðförum málsins að í því efni hafi verið miðað við útsöluverð flísa. Í því ljósi verður að telja að raunverulegt verðmæti alls lagersins hafi verið eitthvað minna. Þá liggur fyrir að bú Rósvíkur ehf. var úrskurðað gjaldþrota miðvikudaginn 3. nóvember 2004. Skiptastjóri þrotabúsins og fulltrúar KB banka hf. staðhæfa að næsta mánudag á eftir hafi skiptastjórinn og fulltrúar bankans farið í vörugeymslu Perlu ehf. í Gufunesi og hafi lagerinn þá nánast allur verið á brott. Mánudag þennan ber upp á 8. nóvember 2004. Hefur ákærði kannast við að ekkert hafi verið eftir af lagernum þann dag.

Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um hvað orðið hafi um þann flísalager sem var í húsnæði Perlu ehf. í Gufunesi 26. ágúst 2004. Yfirlit yfir tékkareikning Rósvíkur ehf. ber með sér að á tímabilinu 26. ágúst 2004 til loka þess tíma sem hreyfingar hafa verið á reikningi félagsins hafi innborganir á reikning sem hugsanlega hafi getað tengst sölu flísa mest getað numið nærri 750.000 krónum. Framburður ákærði hefur ekki verið á einn veg um hvað orðið hafi um þennan flísalager. Er hann gaf skýrslu hjá skiptastjóra þrotabúsins lýsti hann yfir að hann hafi selt lagerinn og að hann hefði skráð hjá sér hverjir væru kaupendur. Þær upplýsingar vildi hann ekki láta frá sér. Er hann gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins lýsti hann því að vörugeymsla sú er lagerinn hafi verið geymdur í hafi verið ólæst og að hver sem væri hafi getað gengið í hann. Taldi hann þá sem kröfur hefðu átt á Rósvík ehf. og Perlu ehf. hugsanlega hafa tekið hluti úr lagernum. Þennan framburð ítrekaði ákærði fyrir dómi.

Fram er komið að einkahlutafélagið Perla var með aðsetur í sama húsnæði og Rósvík ehf. að Dvergshöfða 27. Ber framburðum saman um að rekstur þessara tveggja félaga hafi orðið nokkuð samtvinnaður eftir að ákærði kom að rekstri Rósvíkur ehf. í lok sumars 2004. Fyrir liggja gögn um að ákærði varð eigandi helmings hluta Rósvíkur ehf, er áður höfðu verið í eigu Péturs Þórs Gunnlaugssonar. Þá liggja fyrir gögn um að ákærði var kosinn stjórnarformaður félagsins og gerður að framkvæmdastjóra á aukaaðalfundi 31. ágúst 2004. Af framburði ákærða hjá skiptastjóra verður ráðið að hann hafi einnig tekið yfir hlut Philippe Pouille á svipuðum tíma, en við aðalmeðferð málsins hefur ákærði synjað fyrir það. Þá liggur það nægjanlega fyrir að mati dómsins að ákærði hafi haft á sínum snærum einkahlutafélagið Perlu og verður ekki annað ráðið af því sem fram er komið í málinu en að hann hafi verið eigandi þess félags. Vöruskemma sú sem flísalagerinn var fluttur í þegar hann var fluttur í Gufunes var á vegum Perlu ehf.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, fer félagsstjórn í einkahlutafélagi með málefni félagsins. Skal hún annast um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. laganna skal félagsstjórn síðan annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Ef ráðinn er framkvæmdastjóri skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Við uppkvaðningu úrskurðar um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta missir þrotamaður rétt til að ráða yfir réttindum sem falla til þrotabúsins, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Missir þrotamaður rétt til að stofna til skuldbindinga svo þýðingu hafa gagnvart búinu. Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laganna fer skiptastjóri með forræði búsins á meðan á gjaldþrotaskiptum stendur og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum búsins.

Á grundvelli þeirra lagaákvæða er hér hafa verið rakin hvíldi sú skilyrðislausa skylda á ákærða sem stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Rósvíkur ehf. að gæta að hagsmunum Rósvíkur ehf., sem fyrst og fremst tengdust þeirri einu eign félagsin sem var flísalager sá sem KB banki hf. átti veðréttindi í. Perla ehf. var í eigu ákærða og með vörugeymslu í Gufunesi. Í ljósi stöðu ákærða gagnvart Rósvík ehf. og tengsla við Perlu ehf. verður að telja fyrir liggja að ákærði hafi tekið ákvörðun um að láta flytja flísalagerinn í þetta húsnæði þegar Rósvík ehf. þurfti að rýma húsnæðið að Dvergshöfða 27. Þegar þar var komið sögu hvíldi sú skylda á ákærða á grundvelli 44. gr. laga nr. 138/2004 að tryggja að eign þessi færi ekki forgörðum. Eins og áður var rakið hefur ákærði orðið tvísaga um hvað orðið hafi af umræddum flísalager. Þá liggur fyrir að einkahlutafélagið Rósvík var úrskurðað gjaldþrota sökum ógjaldfærni félagsins. Jafnframt liggur fyrir með vitnisburði fulltrúa KB banka hf. að Perla ehf. átti í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum á þessum tíma, en rekstur þessara tveggja félaga var orðinn samtvinnaður á árinu 2004. Ósennileg þykir sú staðhæfing ákærða að þeir sem hafi átt kröfur á hendur Rósvík ehf. og Perlu ehf. hafi gengið í flísalagerinn og tekið úr honum flísar. Lagerinn var á þessum tíma eign Rósvíkur ehf. og hefur afhending á flísum úr lagernum ekki farið fram án samþykkis ákærða sem fyrirsvarsmanns félaganna og umráðamanns húsnæðisins í Gufunesi. Vörulagerinn samanstóð af um 100 vörubrettum. Myndir af þessum lager liggja fyrir í rannsóknargögnum málsins Er það slíkt magn flísa að lagerinn hefur ekki verið unnt að flytja úr húsnæðinu án þess að stórtækum aðgerðum hafi verið beitt, sem vart hafa farið leynt. Þegar öll þessi atriði eru virt telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi á tímabilinu 26. ágúst 2004 til 8. nóvember 2004, með óheimilum hætti ráðstafað öllum vörulager Rósvíkur ehf., sem þá var veðsettur KB banka hf., án heimildar veðsala, en KB banki hf. átti þá vörubirgðaveð í lagernum samkvæmt 33. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Er sú háttsemi brot á 2. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði því á þessum grundvelli sakfelldur samkvæmt ákæru.

Ákærði er fæddur í febrúar 1953. Hann á að baki umferðarlagabrot. Þá var hann með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 114/2006 dæmdur í 500.000 króna sekt fyrir brot gegn lögum um atvinnuleyfi útlendinga. Áfrýjað var dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. janúar 2006. Brot ákærða nú er hegningarauki við dóm héraðsdóms frá 6. janúar 2006. Ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Við ákvörðun refsingar er m.a. litið til þess að nokkur tími leið frá því kæra í máli þessu kom fram þar til ákæra var gefin út. Til refsiþyngingar vegur að miklir hagsmunir fóru forgörðum fyrir tilverknað ákærða. Þá þykir framferði hans bera vott um einbeittan brotavilja. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Fært þykir að skilorðsbinda refsinguna með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Skiptastjóri þrotabús Rósvíkur ehf. hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 29.123.940 krónur. Skaðabótakrafan nemur að meginstefnu verðmæti flísalagersins 26. ágúst 2004. Í málinu liggur fyrir sú staðhæfing fulltrúa Deloitte hf. að í vörutalningunni í ágúst 2004 hafi ætlunin verið að sannreyna umfang flísalagersins, en ekki hafi verið ætlunin að leggja endanlegt mat á verðmæti hans. Ef það hefði verið ætlunin hefði þurft að afla tilgreindra gagna. Yfirlýsing um þetta atriði kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins hér fyrir dómi. Af hálfu þrotabúsins hefur ekki öðru verið teflt fram um verðmæti títtnefnds flísalagers en yfirlýsingu Deloitte hf. frá 22. september 2004 um birgðatalninguna. Í sakamáli þessu hefur ekki reynst færi á að styrkja þennan þátt málsins og telur dómurinn því rétt að vísa skaðabótakröfunni frá dómi.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðis­aukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir. 

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Eyjólfur Ármannsson fulltrúi ríkislögreglu­stjóra.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Skaðabótakröfu þrotabús Rósvíkur ehf. er vísað frá dómi.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar héraðsdómslögmanns, 227.088 krónur.