Print

Mál nr. 61/2006

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2006.

Nr. 61/2006.

Kaupfélag Eyfirðinga

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Birgi Brynleifssyni

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

 

Skaðabætur. Vinnuslys. Gjafsókn.

Aðilar deildu um hvort K bæri bótaábyrgð á slysi sem B varð fyrir við framleiðslu kotasælu fyrir K. Við úrlausn málsins var lagt til grundvallar að slys B hafi atvikast þannig að hann hafi verið að koma 18,2 kg hræriverki upp í lás á drifbúnaði yfir kotasælukari, hallað sér fram og verið að teygja sig áfram með handleggina beint út frá líkamanum, þegar hann hafi runnið til í bleytu og fengið hnykk á bakið. Talið var að gólfbleyta væri óhjákvæmilegur fylgifiskur ostavinnslu og var hún ekki ein og sér metin K til sakar. Hins vegar hafi K borið að horfa sérstaklega til þess að halda í lágmarki hættu á að starfsmenn rynnu til í bleytunni. Þegar horft var til gólfbleytunnar, þyngdar hræriverksins, laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna sem settar voru með stoð í þeim, og þess að B þurfti að beygja sig mikið í baki og síðan lyfta hræriverkinu með útréttum höndum til að koma því fyrir, þótti umrætt vinnufyrirkomulag ekki hafa verið forsvaranlegt, þrátt fyrir að K legði starfsmönnum til stígvél með stömum sóla. Vegna þessa var K talið bera bótaábyrgð á því tjóni B sem af slysinu hlaust. Þá var ekki talið að B hafi sýnt af sér gáleysi, sem leiddi til lækkunar bóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að skaðabótaskylda hans verði viðurkennd að hluta og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Gjafsókn stefnda í héraði var takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt gjafsóknarleyfi 8. nóvember 2004. Stefndi nýtur ekki gjafsóknar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að þann 4. janúar 2006 var málið endurupptekið í héraði og lagðar fram yfirlýsingar málsaðila um samþykki við dómtöku á ný án munnlegs málflutnings, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kaupfélag Eyfirðinga, greiði stefnda, Birgi Brynleifssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. janúar 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl., höfðaði stefnandi, Birgir Brynleifsson, Smárahlíð 6f, Akureyri, 8. apríl 2005 gegn stefnda, Kaupfélagi Eyfirðinga, Hafnarstræti 91, Akureyri, og til réttargæslu, Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna slyss sem stefnandi varð fyrir þann 11. ágúst 1997 er hann var við vinnu sína hjá Mjólkursamlagi KEA, sem á þeim tíma var í eigu stefnda.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og því dæmdur málskostnaður úr hans hendi.  Til vara gerir stefnda þær kröfur bótaskylda verði aðeins viðurkennd að hluta og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar dómkröfur í málinu.

I.

Snemma morguns 11. ágúst 1997 var stefnandi, þá nemi í mjólkurfræði, við vinnu sína hjá Mjólkursamlagi KEA er hann varð fyrir slysi.  Þegar slysið varð var stefnandi að vinna að framleiðslu kotasælu.  Mjólkursamlag KEA var á þeim tíma er atvik máls gerðust í eigu stefnda.

Miðvikudaginn 30. september 1998 kom stefnandi á lögreglustöðina á Akureyri að eigin frumkvæði og gaf skýrslu vegna slyssins.  Atvikum að slysinu lýsti stefnandi svo fyrir lögreglu:

„Birgir segist hafa verið að vinna, hjá Mjólkursamlagi KEA þann 11.08.1997. Hann segist hafa unnið þar í 10 ár. Þennan dag, milli kl. 07:00 og 08:00, hafi hann verið að koma fyrir hræriverki í hak sem það eigi að hanga í. Hann hafi haldið hræriverkinu, sem sé 18-20 kg á þyngd, í höndunum, með beina handleggi í 90° horni frá öxlunum. Brún karsins hafi verið í um mittishæð. Hann hafi þurft að teygja sig aðeins áfram. Hann hafi svo runnið í bleytu, á gólfinu, og fengið hnykk á bakið. Hann hafi heyrt, eða fundið, einhverskonar brest í bakinu og fundið verk niður í hægri fót.

Birgir segist hafa farið til verkstjórans, Oddgeirs Sigurjónssonar, og sagt honum frá slysinu. Oddgeir hafi sagt honum að „harka af sér“. Sigurður Sigurbjörnsson hafi verið viðstaddur þegar þessi orðaskipti urðu.

Birgir segir að um kl. 09:39 hafi hann gefist upp á að vinna vegna verkja í bakinu og þó aðallega niður í hægri fót. Hann hafi þá verið orðinn ófær um að ganga. Honum hafi þá verið ekið, í einkabifreið, á Slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Sá sem hafi ekið honum heiti Friðjón Jónsson. Í framhaldi af skoðun, á slysadeildinni, hafi hann verið lagður inn. Hann hafi farið í rannsóknir þann 12.08.97 og verið gerð aðgerð á honum, vegna brjóskloss í baki, þann 13.08.97. ...

Birgir er spurður, hvernig bleyta hafi verið á gólfinu. Hann segir að gólfið hafi verið spúlað, með vatni, um morguninn og það hafi því verið blautt. Einnig sé affall, af karinu, þarna og því sé alltaf bleyta þarna í kring um karið. Aðspurður um gólfefni segist hann álíta að gólfið sé lakkað eða með hliðstæðu gólfefni.

Birgir segir að þessi vinna, sem hann hafi unnið þegar slysið varð, sé það erfið og reyni það mikið á bakið að það séu ekki nema örfáir starfsmenn samlagsins sem geti gert þetta.“

Stefnda tilkynnti ekki um slys stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins. Í september 1998 barst Vinnueftirlitinu beiðni frá lögmanni stefnanda um að stofnunin rannsakaði slys stefnanda.  Hinn 14. september 1998 fór tæknifulltrúi Vinnueftirlitsins, Haukur Þorsteinsson, á slysstað til rannsóknar.  Í skýrslu tæknifulltrúans, dags. 15. október 1998, segir meðal annars að karið, sem stefnandi var að vinna við, sé aflangt og hafi hæð brúnar karsins frá gólfi mælst 99 cm og dýpt karsins u.þ.b. 61 cm. Þá hafi fjarlægð frá útbrún á langhlið karsins í öxul mælst 85 cm. Hræriverkinu í karinu er í skýrslunni lýst sem tindóttum armi á öxli sem komið sé fyrir í lás á drifbúnaði yfir karinu.  Í enda öxulsins sé rauf sem gangi upp á stýringu í lásnum og þá sé pinni á öxlinum sem gangi í gat í lásnum.  Enn fremur kemur fram í skýrslunni að búnaðurinn hafi vegið 18,2 kg, breidd á hræriarmi mælst um 157 cm og hæð hræriverksins 81 cm. Um orsök slyssins segir síðan:

„Orsök slyssins má rekja til þess að of mikið álag hafi verið á líkamann miðað við stöðu hans þ.e. að hann er að lyfta of miklum þunga of langt frá sér. Einnig getur hálka á gólfi leitt til þess að slasaði hafi runnið til og við það fengið hnykk á bakið.“

Í niðurlagi skýrslunnar segir að skyldur aðila samkvæmt lögum nr. 46/1980 hafi verið skýrðar fyrir verkstjóra/forstöðumanni og eftirfarandi athugasemdir verið gerðar:

„1. Bæta skal vinnuaðstöðu við framleiðslu á kotasælu, þannig að hún uppfylli reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Gera skal skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar, m.a. hræriverkið, við losun á kotasælukari og áfyllingu pökkunarvélar.

2. Vinnuaðstæður þar sem byrðar eru handleiknar skulu vera eins góðar og kostur er, m.a. að koma í veg fyrir hættu á að starfsmenn renni til, hrasi o.s.frv. sbr. 6. gr. ofannefndra reglna.

3. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum IV. kafla er atvinnurekanda gert skylt að gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starf þeirra. Hann skal þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af sbr. einnig 10. gr. reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar.

4. Minnt er á skyldur atvinnurekenda um tilkynningu vinnuslysa, sbr. reglur nr. 612/1989.“

Áðurnefndur tæknifulltrúi Vinnueftirlits ríkisins ritaði Mjólkursamlagi KEA bréf 6. janúar 1999 í tilefni af því að frestur sá sem hann hafði gefið mjólkursamlaginu til úrbóta var liðinn án þess að tilkynning hefði borist frá samlaginu.  Var í bréfinu óskað eftir upplýsingum um stöðu mála og eftir atvikum tímasettri áætlun um framkvæmd úrbóta.  Framkvæmdastjóri Mjólkursamlags KEA svaraði bréfi tæknifulltrúans 11. maí 1999.  Í bréfi hans kom meðal annars fram að úrbótahópur á vegum mjólkursamlagsins hefði skilað af sér tillögu sem samlagið teldi leysa „... vandann sem tengist þungum hræriverkum í kotasælukarinu.“  Var því lýst yfir að smíðuð yrðu ný hræriverk í þeim tilgangi sem komin yrðu í notkun eigi síðar en 31. maí 1999.

Með bréfi til lögmanns stefnanda 2. febrúar 1999 hafnaði réttargæslustefnda því að stefnda bæri bótaábyrgð á slysi stefnanda.  Málið var í kjölfarið lagt fyrir Tjónanefnd vátryggingarfélaganna sem staðfesti afstöðu réttargæslustefnda. Með bréfi 2. nóvember 2000 skaut stefnandi málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum.  Nefndin skilaði áliti sínu 12. desember 2000 og var niðurstaða hennar sú að stefnda bæri ekki bótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.

Samkvæmt þeim læknisfræðilegu gögnum sem fyrir liggja í málinu hefur stefnandi þjáðst mjög af bakverkjum eftir slysið.  Einungis tveimur dögum eftir slysið, þ.e. 13. ágúst 1997, fór hann í brjósklosaðgerð og aðra aðgerð á baki 5. september sama ár. Stefnandi gekkst undir þriðju aðgerðina 26. ágúst 1998 og einnig rafskautainnsetningar á árunum 2000 og 2001 án þess að líðan hans lagaðist.  Meðferð stefnanda mun ekki vera lokið og því hefur tjón hans vegna slyssins ekki verið metið.

II.

Stefnandi segir starfsmenn við kotasælugerð hjá stefnda margsinnis hafa kvartað undan vinnuaðstöðunni og þess verið dæmi að fólk hefði gefist upp á að vinna við kotasælugerðina eða neitað að vinna hana vegna álags á mjóbak.

Þá kveður stefnandi Vinnueftirlit ríkisins hafa í umsögn sinni gert athugasemdir við vinnuaðstæður við framleiðslu kotasælu hjá stefnda.  Vinnueftirlitið hafi sérstaklega farið fram á að 6. gr. reglna nr. 499/1994 yrði betur virt þannig að koma mætti í veg fyrir að starfsmenn rynnu til eða hrösuðu við vinnu sína.  Í tilmælum Vinnueftirlitsins kveður stefnandi hafa falist það álit stofnunarinnar að vinnuaðstæðum hefði verið ábótavant með tilliti til öryggis starfsmanna þegar bleyta var á gólfi og handleika þurfti byrðar.  Auk þess að setja fram greindar athugasemdir hafi Vinnueftirlitið sett fram kröfur um að vinnuaðstæður yrðu bættar.

Nánar segir stefnandi Vinnueftirlit ríkisins hafa gert tvær athugasemdir í skýrslu, dags. 15. október 1998, og krafið stefnda um úrbætur sem vera átti lokið fyrir 31. desember sama ár.  Annars vegar hafi Vinnueftirlitið gert um það kröfu að bætt yrði vinnuaðstaða við framleiðslu á kotasælu, þannig að hún uppfyllti skilyrði reglna nr. 499/1994.  Þá skyldi gera skipulagsbreytingar eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá því að starfsmenn þyrftu að handleika byrðar, m.a. hræriverkið, við losun á kotasælukari og áfyllingu pökkunarvélar.  Hins vegar hafi Vinnueftirlitið gert kröfu um að vinnuaðstæður þar sem byrðar væru handleiknar skyldu vera eins góðar og kostur væri.  M.a. að koma í veg fyrir hættu á að starfsmenn rynnu til, hrösuðu o.s.frv., sbr. 6. gr. áðurnefndra reglna.  Stefnandi segir niðurstöður Vinnueftirlitsins samkvæmt þessu skýrar.  Vinnuaðstæður við kotasælugerð stefnda, sem stefnandi hafi verið að vinna við þegar slysið varð, hafi á þeim tíma ekki verið í samræmi við gildandi reglur og beinlínis brotið gegn ákvæðum reglna nr. 499/1994.  Orsök slyssins hafi verið sú að of mikið álag var á líkama stefnanda vegna aðstæðna við vinnuna.

Stefnandi kveður Vinnueftirlit ríkisins hafa gengið eftir því við stefnda að félagið færi eftir hinum tilvitnuðu athugasemdum með bréfi 6. janúar 1999. Stefnda hafi ekki svarað erindi Vinnueftirlitsins fyrr en 11. maí sama ár.  Í svari stefnda hafi komið fram að ákveðið hefði verið að smíða nýtt hræriverk til að leysa „vandann sem tengist þungum hræriverkum í kotasælukarinu“.  Stefnandi segir það vekja athygli að stefnda tali sjálft um vanda við þung hræriverk en réttagæslustefnda hafi í bréfi til lögmanns stefnanda, dags 2. febrúar 1999, gert lítið úr þunga hræriverkanna og alfarið hafnað því að um einhvern vanda væri að ræða.  Vandann hafi stefnda ætlað að leysa fyrir 31. maí 1999 og hafi það gengið eftir eins og sjá megi af framlögðum myndum lögreglu og skýrslu hennar af verkstjóra viðhaldsdeildar stefnda, Stefáni Ívari Hansen.

Þá heldur stefnandi því fram að grundvallarmisskilnings gæti hjá stefnda hvað varðar verklagið við kotasælugerðina.  Af því tilefni tekur stefnandi fram „... að til þess að setja hræriverkið upp í karið þarf að lyfta því þangað“ en það hafi stefnandi einmitt verið að gera þegar hann hafi runnið til á blautu gólfinu.

Stefnandi mótmælir fullyrðingum stefnda um að hann hafi verið alvanur vinnu við kotasælugerðina.  Rétt sé að stefnandi hafi verið búinn að vinna í 10 ár hjá Mjólkursamlagi KEA en hann hafi hins vegar einungs verið búinn að starfa að kotasælugerðinni í 2 mánuði þegar slysið varð.  Stefnandi hafi því ekki verið alvanur verkinu.Verklag sitt segir stefnandi hafa verið það sem honum var kennt.  Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að Vinnueftirlitið hafi í umsögn sinni bent Mjólkursamlagi KEA á þá skyldu atvinnurekenda að kynna starfsmönnum slysahættu við störf þeirra, en í tilviki stefnanda hafi þessa ekki verið gætt.

Enn fremur vísar stefnandi til þess að stefnda hafi ekki tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins eins og því hafi borið, sbr. 1. gr. reglna nr. 612/1989, þrátt fyrir þá staðreynd að stefnanda hafi verið ekið á sjúkrahús af starfsmanni stefnda og hann ekki komið aftur til vinnu.  Af þeim atvikum hafi stefnda mátt vera ljóst að því bæri að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins.  Vinnueftirlitið hafi hins vegar ekki fengið vitneskju um slysið fyrr en því barst beiðni um rannsókn frá lögmanni stefnanda í september 1998, 13 mánuðum eftir slys stefnanda.  Vegna þessa hafi engin rannsókn farið fram á slysavettvangi á þeim tíma sem slysið átti sér stað og því liggi ekkert fyrir um það hvernig aðstæður á vettvangi hafi nákvæmlega verið á þeim tíma.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi að lokum til reglna nr. 499/1994, sbr. 38. gr. laga nr. 46/1980.

III.

Stefnda reisir sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað að stefnda eða starfsmenn þess hafi valdið slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti.  Slysið segir stefnda mega rekja til óhappatilviljunar og aðgæsluleysis stefnanda sjálfs.

Sönnunarbyrðina um meinta sök stefnda og orsakatengsl kveður stefnda hvíla á stefnanda.  Ekki séu efni til að snúa sönnunarbyrðinni við þar sem kotasælukarið og hræriverkið hafi verið óbreytt frá því slysið varð og þar til búnaðurinn var skoðaður og ljósmyndaður árið eftir af lögreglu og Vinnueftirlitinu.  Þá hafi stefnandi einn verið til frásagnar um atvik að slysinu.  Tilkynning og rannsókn á slysinu strax í kjölfar þess hefði því engu breytt. Lýsingu stefnanda á slysinu, sem fram komi í lögregluskýrslu hans, kveðst stefnda ekki vefengja.

Stefnda segir vinnuaðstöðuna og búnaðinn við kotasælukarið hafa verið þann sama allt frá árinu 1955 og hafi Vinnueftirlit ríkisins aldrei gert athugasemdir við aðstöðuna eða búnaðinn.  Álit vinnueftirlitsmanns nú og kröfur hans um bætta vinnuaðstöðu við framleiðslu á kotasælu „... þannig að hún uppfylli reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar ...“ og að gerðar yrðu skipulagsráðstafanir eða notuð hjálpartæki, einkum vélbúnaður, „... til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar, m.a. hræriverkið, við losun á kotasælukari og áfyllingu pökkunarvélar...“ séu ekki sönnun þess að aðstæður við kotasælukarið og búnaður þess á þeim tíma sem slysið varð hafi verið saknæmur í skilningi skaðabótaréttar eða brotið gegn reglum nr. 499/1994.  Stefnandi kveður Vinnueftirlitið ekki dómara um saknæmi aðstæðna og sök manna eða hvort um sé að ræða brot á einstökum lögum eða reglum.  Það að hægt sé að gera vinnuaðstæður og vélbúnað öruggari en áður með tæknilegum breytingum, líkt og stefnda hafi látið gera, sé heldur ekki sönnun þess að aðstæður og búnaður fyrir breytingu hafi verið saknæmur.  Mótmælir stefnda því sérstaklega sem röngu og ósönnuðu að aðstæður og búnaður við kotasælukarið, er slysið varð, hafi verið saknæmur og varði stefnda bótaskyldu.

Enn fremur segir stefnda ekki verða séð hvernig vinnuaðstæður við kotasælukarið og hræribúnaðurinn hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980 eða reglum nr. 499/1994 og að slysið megi rekja til þeirra meintu brota.  Hvergi í umsögn Vinnueftirlitsins sé tíundað í hverju slík brot hafi verið fólgin og hvaða ákvæði hafi verið brotin.  Þá séu ákvæði nefndra laga og reglna almenns eðlis og veiti takmarkaða leiðbeiningu við sakarmat.

Samkvæmt framansögðu segir stefnda að við mat á sök aðila verði að beita almennu gáleysismati og heilbrigðri skynsemi.  Miðað við lýsingu stefnanda sjálfs á slysinu hafi það hlotist af því að hann rann til í bleytunni á gólfinu og fékk við það hnykk á bakið.  Slíkt óhapp geti alltaf gerst á blautu gólfi án tillits til þess hvort verið sé að handleika byrði eða vinna einhver verk.  Gólfbleytuna kveður stefnda eðlilegan og óhjákvæmilegan fylgifisk ostavinnslu.  Bleytan hafi blasað við starfsmönnum, sem að vinnslunni unnu, og verið venjulegur hluti vinnuumhverfisins og hafi stefnandi enda verið á stömum stígvélum.  Hins vegar sé aldrei hægt að afstýra því fullkomlega að menn geti runnið til í gólfbleytu.  Gólfbleytan verði því ekki metin stefnda til sakar.

Þá segir stefnda ekkert benda til þess að þyngd hræriverksins sem slík eða átök vegna þyngdar hræriverksins hafi valdið bakmeiðslum stefnanda, sem lýst hafi atvikum að slysinu svo að hann hafi verið að festa hræriverkið í drifbúnaðinn, og þurft að teygja sig aðeins áfram, er hann hafi runnið í bleytunni og fengið hnykk á bakið.  Átök við lyftingu á hræribúnaðinum hafi því ekki valdið slysinu heldur það að stefnandi rann til.  Samkvæmt umsögn Vinnueftirlits ríkisins hafi einungis þurft að lyfta hræriverkinu u.þ.b. 4 cm frá botni kotasælukarsins upp í lásinn á drifbúnaðinum þannig að ekki geti verið um ofreynslu eða hættulega áreynslu að ræða við það eitt.

Stefnandi kveður hvergi í lögum eða reglum að finna bann við því að handleikin sé 18,2 kg byrði og almennt séð sé það fullorðnum ekki hættulegt.  Þá hafi ekkert víðsjárvert verið við hræriverkið og hvernig það var fest við drifbúnaðinn.  Við fjölda starfa til sjós og lands þurfi að handleika álíka þungar og þyngri byrðar en hræriverkið og standa að verki með svipuðum hætti og stefnandi gerði er slysið varð. Þyngd hræriverksins og aðstæður við að festa verkið í drifbúnaðinn verði því ekki metin stefnda til sakar.  Vinnueftirlit ríkisins hafi enda aðeins gert til þess kröfu að gerðar væru ráðstafanir til að starfsmenn þyrftu ekki að handleika hræriverkið þegar karið væri losað.  Slys stefnanda hafi hins vegar ekki orðið við losun karsins heldur þegar stefnandi var að festa hræriverkið í lásinn á drifbúnaðinum.

Að renna til í bleytu og fá hnykk á bakið segir stefnda vera eins og hvert annað óhapp.  Oft hefði sá slasaði þó getað afstýrt slíku atviki með lágmarks aðgæslu.  Á þá aðgæslu hafi bersýnilega skort hjá stefnanda sem verið hafi í stömum stígvélum og því ekki átt að renna til, hefði hann sýnt aðgát.  Slys stefnanda megi því rekja til eigin sakar hans og óhappatilviljunar.

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist krefst félagið sakarskiptingar vegna eigin sakar stefnanda.

Um lagarök vísar stefnda sérstaklega til sakarreglunnar og almennra sönnunarreglna í skaðabótamálum.

IV.

Í máli þessu er fjallað um hvort stefnda beri bótaábyrgð á slysi stefnanda og ef svo er hvort stefnda beri ábyrgð á því tjóni stefnanda sem til slyssins má rekja að öllu leyti eða hluta.

Í munnlegum málflutningi kom lögmaður stefnanda fyrst fram með þá málsástæðu að bleyta og hálka á gólfinu við kotasælukarið hefði að verulegu leyti stafað af því vinnufyrirkomulagi stefnda að hafa ákveðna vinnslu á rjóma mjög nærri kotasælukarinu.  Mótmælti lögmaður stefnda málsástæðu þessari sem of seint fram kominni.  Vegna mótmæla stefnda verður þegar af þeirri ástæðu ekki á málsástæðunni byggt, enda bera gögn málsins hana ekki með sér.

Í I. kafla hér að framan er að finna beina tilvitnun í lýsingu stefnanda fyrir lögreglu á því hvernig slys hans 11. ágúst 1997 atvikaðist.  Fyrir dómi lýsti stefnandi málsatvikum með sambærilegum hætti og fyrir lögreglu.  Kom þar meðal annars fram hjá stefnanda að þegar hann hefði hallað sér fram með báðar hendur beinar, og verið að koma hræriverkinu fyrir, hefði hann runnið til í bleytu á gólfinu og við það fengið mikinn hnykk á bakið.

Upplýst er að engin vitni voru að slysi stefnanda.  Stefnda hefur lýst því yfir að félagið véfengi ekki lýsingu stefnanda á málsatvikum eins og hún birtist í skýrslu hans hjá lögreglu.  Að því athuguðu og með vísan til þess sem að framan greinir verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að slys stefnanda hafi atvikast þannig að hann hafi verið að koma 18,2 kg hræriverkinu upp í lás á drifbúnaðinum fyrir miðju kotasælukarinu, hallað sér fram og verið að teygja sig aðeins áfram, með handleggina beina í u.þ.b. 90° horni frá líkamanum, þegar hann hafi runnið til í bleytu og fengið hnykk á bakið.

Við aðalmeðferð málsins fór dómari á vettvang og handlék meðal annars hræriverkið, sem þar var tiltækt, með áþekkum hætti og stefnandi var að gera er slys hans varð samkvæmt ofansögðu.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu mun bleyta á gólfi vera óhjákvæmilegur fylgifiskur ostavinnslu.  Óumdeilt er að stefnda sá starfsmönnum sínum fyrir stömum stígvélum vegna gólfbleytunnar.  Fyrir dómi upplýsti stefnandi að hann hefði verið í slíkum stígvélum er atvik máls gerðust.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins frá 15. október 1998 segir að orsök slyss stefnanda megi rekja til þess að of mikið álag hafi verið á líkamann miðað við stöðu hans, stefnandi hafi verið að lyfta of miklum þunga of langt frá sér.  Einnig hafi hálka á gólfi getað leitt til þess að stefnandi hafi runnið til og við það fengið hnykk á bakið.

Að virtu niðurlagi skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sem og bréfs tæknifulltrúa þess til stefnda 6. janúar 1999, þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu mála og eftir atvikum tímasettri áætlun um framkvæmd úrbóta, þykir verða að skilja athugasemd í skýrslu Vinnueftirlitsins, tölusetta nr. 1, með þeim hætti að vegna slyss stefnanda hafi stofnunin krafist úrbóta sem miðuðu að því að starfsmenn við kotasælugerðina þyrftu ekki að handleika byrðar, meðal annars hræriverkið.  Virðist þetta og hafa verið skilningur stefnda, sbr. bréf framkvæmdastjóra Mjólkursamlags KEA 11. maí 1999, þar sem meðal annars kom fram að úrbótahópur á vegum mjólkursamlagsins hefði skilað af sér tillögu sem samlagið teldi leysa „...vandann sem tengist þungum hræriverkum í kotasælukarinu.“

Upplýst er að vegna athugasemda Vinnueftirlits ríkisins voru framkvæmdar endurbætur á hræriverkinu sem gerðu umrætt verk mun auðveldara.  Starfsmenn við kotasælugerðina þurfa eftir endurbæturnar hvorki að beygja sig inn yfir karið né lyfta nærri eins þungu hræriverki og áður.  Samkvæmt framburði vitnisins Stefáns Ívars Hansen verkstæðisformanns voru endurbætur þessar ekki tiltakanlega kostnaðarsamar.

Samkvæmt 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal haga vinnu og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.  Í reglum nr. 499/1994, sem settar voru með stoð í 38. gr. laganna, segir í 6. gr. að vinnuaðstæður þar sem byrðar séu handleiknar skuli vera eins góðar og kostur er.  Umferðarleiðir skuli vera greiðfærar til að koma í veg fyrir hættu á að starfsmenn renni til, hrasi o.s.frv.  Grein þessi er, líkt og aðrar greinar reglna nr. 499/1994, nokkuð almennt orðuð.  Þó felast í greininni tilmæli til vinnuveitenda um að þeir geri ráðstafanir til að draga úr hættu á því að starfsmenn renni til þegar handleika þarf byrðar.  Við mat á mögulegu saknæmi umrædds vinnufyrirkomulags stefnda þykir því mega líta til hins tilvitnaða ákvæðis.  Þá þykir við sakarmatið jafnframt mega líta til ákvæða I. viðauka með reglunum, en í 1. grein viðaukans, sem sérstaklega fjallar um byrði, segir að burður geti valdið hættu á heilsutjóni, sérstaklega bakmeiðslum, ef starfsmaður verði að halda á byrði út frá líkamanum, eða standa hokinn eða undinn í baki vegna hennar.

Sú bleyta, sem upplýst er að ávallt var á gólfinu við kotasælukarið, verður ekki ein og sér metin stefnda til sakar.  Tilvist bleytunnar lagði hins vegar samkvæmt öllu því sem að framan hefur verið rakið þá skyldu á herðar stefnda að horfa við skipulagningu kotasæluvinnslunnar sérstaklega til þess að halda hættu á því að starfsmenn rynnu til í bleytunni í lágmarki.  Þegar horft er heildstætt til gólfbleytunnar, þyngdar hræriverksins, áður tilvitnaðra ákvæða reglna nr. 499/1994 og laga nr. 46/1980 og þess að beygja þurfti sig mikið í baki og síðan lyfta hræriverkinu með útréttum höndum til að koma því fyrir, þykir umrætt vinnufyrirkomulag, þrátt fyrir að stefnda legði starfsmönnum til stígvél með stömum sóla, ekki hafa verið forsvaranlegt.  Vegna hins saknæma og ólögmæta vinnufyrirkomulags, sem til slyss stefnanda leiddi, verður stefnda, þáverandi eigandi Mjólkursamlags KEA, talið bera bótaábyrgð á því tjóni stefnanda sem af slysinu hlaust.

Stefnda heldur því fram í málinu að bersýnilega hafi skort á að stefnandi sýndi lágmarks aðgæslu er slys hans varð og jafnframt að stefnandi hafi ekki átt að renna til hefði hann sýnt aðgát.  Stefnda hefur hins vegar ekki sérstaklega útlistað í hverju meint gáleysi stefnanda hafi falist.  Af framburðum vitna verður ráðið að stefnandi hafi hagað umræddu verki með þeim hætti sem tíðkað var hjá stefnda og hefur stefnda ekki sýnt fram á að hann hefði getað leyst það af hendi með öðrum og öruggari hætti.  Verður því ekki talið að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi.

Stefnanda var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. nóvember 2004.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Hjaltasonar hdl., 600.000 krónur og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Eftir úrslitum málsins verður stefnda dæmt til að greiða málskostnað í ríkissjóð, sbr. 4. mgr. 128. gr. og 1. mgr. 130. gr. og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Kaupfélags Eyfirðinga, á tjóni stefnanda, Birgis Brynleifssonar, vegna vinnuslyss 11. ágúst 1997 í Mjólkursamlagi KEA.

Stefnda greiði í ríkissjóð 600.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutnings-þóknun lögmanns hans, Þorsteins Hjaltasonar hdl., 600.000 krónur.