Print

Mál nr. 307/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Aðild
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

                                     

Fimmtudaginn 28. maí 2015.

Nr. 307/2015.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Visoky Zamok Investments Ltd.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Aðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli VÍ á hendur VZI, sem höfðað var aðallega til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi þeirra, var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að atvik þau, sem VZI hafði borið fyrir sig í málinu, vörðuðu ekki tilurð kröfu VÍ heldur ætlaðan ómöguleika sem girti fyrir efndir hennar. Ætti slík aðstaða ekki undir 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem lagt hafði verið til grundvallar í hinum kærða úrskurði, heldur 2. mgr. þeirrar lagagreinar. Yrði málinu því ekki vísað frá héraðsdómi á þeim grunni. Þá stæðu ekki efni til að vísa málinu frá á þeirri forsendu að skilyrða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild hefði ekki verið gætt. Þar að auki væri ekki á þessu stigi unnt að slá því föstu að málið væri vanreifað af hendi VÍ um aðild hans þannig að það leiddi til frávísunar þar sem gagnaöflun hefði ekki verið lýst lokið í héraði. Þá þóttu ekki vera annmarkar á reifun dómkrafna VÍ sem leitt gætu til þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir svonefndan rammasamning 2. maí 2008 um fjármögnun sóknaraðila á kaupum varnaraðila á fjármálagerningum og lánveitingum hans í viðskiptum við lögaðila í Úkraínu. Þar var mælt fyrir um að varnaraðila, sem mun vera skráð félag í Bretlandi, bæri að kynna sóknaraðila ráðagerðir um slík viðskipti áður en til þeirra yrði stofnað og mætti hann ekki leita fyrirgreiðslu vegna þeirra til annarra, en sóknaraðili tæki hverju sinni ákvörðun um hvort hann léti verða af veitingu láns og væri honum óskylt að gefa varnaraðila skýringar á neitun um það. Ef sóknaraðili veitti varnaraðila lán samkvæmt þessu skyldi sérstakur samningur gerður um það og áttu skilmálar þess, þar á meðal um endurgreiðslu, að miðast við skilmála fjármálagernings sem varnaraðili keypti eða láns sem hann veitti. Sóknaraðila var þó heimilað að krefjast þess á lánstímanum að varnaraðili seldi fjármálagerning eða útlán sitt, sem sóknaraðili veitti lán fyrir, og skyldi hann um leið tiltaka lágmarksverð sem varnaraðili mætti selja fyrir. Þeim síðastnefnda bæri þá að endurgreiða lánið innan fjórtán daga og voru nánari ákvæði í samningnum um fjárhæðina sem greiða skyldi. Tekið var fram að varnaraðili yrði að tilkynna sóknaraðila tafarlaust um vanefndir á kröfu, sem sóknaraðili veitti lán til að stofna til, og hafa við hann samráð um innheimtu hennar, en lán frá sóknaraðila að baki henni skyldi þá framlengt svo lengi sem vanefndir stæðu. Kveðið var á um að sóknaraðila bæri að greiða varnaraðila í þóknun 0,25% af fjárhæð hvers láns, sem veitt yrði á grundvelli samningsins, og að auki umsýsluþóknun sem næmi 1% af meðalfjárhæð útistandandi lána á hverju tólf mánaða tímabili. Þá voru í samningnum ákvæði um að hann lyti íslenskum lögum og skyldu mál vegna hans rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Aðilarnir gerðu samning 1. september 2008 þar sem sóknaraðili veitti varnaraðila lán að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadalir á grundvelli rammasamnings þeirra. Þar kom fram að samningnum mætti í fyrsta lagi ljúka að liðnu ári eftir gerð hans, en gjalddagi yrði að öðrum kosti 1. september 2015. Lánið væri veitt til þess að varnaraðili stofnaði til innláns hjá úkraínskum banka með heitinu Closed Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadalir sem bæri 11% ársvexti og standa átti til 1. september 2015, en vexti þessa átti að greiða á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. mars 2009, og skyldi varnaraðili fá þóknun sem svaraði til 1% ársvaxta. Í lánssamningnum var að öðru leyti vísað til ákvæða rammasamningsins, þar á meðal sérstaklega um heimild sóknaraðila til að krefjast sölu innlánssamningsins og endurgreiðslu lánsins fyrir lokadag hans.

Í málinu liggur fyrir innlánssamningur varnaraðila 8. september 2008 við úkraínska bankann Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ um 1.999.932,31 bandaríkjadali. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að innstæðan skyldi standa til 8. september 2015 og bera 11% ársvexti, sem yrðu greiddir á sama hátt og vextir samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi málsaðilanna, svo og að varnaraðila væri heimilt á gildistíma samningsins að óska með 30 daga fyrirvara eftir útborgun innstæðunnar að hluta eða öllu leyti.

Varnaraðili stóð sóknaraðila skil á vöxtum samkvæmt lánssamningi þeirra til og með gjalddaga 1. september 2011, en óumdeilt er að frá þeim tíma hafi engar greiðslur farið fram. Í hinum kærða úrskurði er greint að nokkru frá samskiptum aðilanna eftir að vanskil hófust fram til þess að sóknaraðili höfðaði mál þetta 1. maí 2014, en hann krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér 2.000.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2012 til greiðsludags, til vara að varnaraðili verði dæmdur til að framselja sér áðurnefnt innlán að fjárhæð 1.999.932,31 bandaríkjadalir gegn skuldajöfnuði við kröfu sóknaraðila samkvæmt lánssamningi þeirra, en að því frágengnu að varnaraðila verði gert að selja þetta innlán fyrir 2.273.443 bandaríkjadali og afhenda sóknaraðila söluverðið. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi og þar með tekin til greina aðalkrafa varnaraðila í því.

II

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili vísað meðal annars til þess í málatilbúnaði sínum að á gildistíma áðurnefnds innlánssamnings frá 8. september 2008 hafi verið lögð höft á gjaldeyrisviðskipti í Úkraínu og seðlabanki þar í landi sett takmarkanir á viðskipti einstakra banka, þar á meðal þess sem varnaraðili gerði samninginn við. Komi þetta í veg fyrir efndir samningsins eða að unnt yrði að selja hann, en á meðan svo sé leiði af ákvæðum rammasamnings aðilanna að sóknaraðili geti ekki krafið varnaraðila um efndir lánssamnings þeirra. Sóknaraðili hefur andmælt staðhæfingum varnaraðila um þetta. Án tillits til þess verður að gæta að því að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 skal vísa frá héraðsdómi máli sem höfðað er um réttindi eða skyldur sem ekki eru enn orðnar til. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar lýkur máli á hinn bóginn með sýknu að svo stöddu hafi það verið höfðað um skyldu, sem orðin er til, ef efndatími hennar er ekki enn kominn við dómtöku þess. Atvik þau, sem varnaraðili ber fyrir sig samkvæmt framansögðu, varða ekki tilurð kröfu sóknaraðila, sem stofnaðist við gerð lánssamnings þeirra 1. september 2008, heldur ætlaðan ómöguleika sem girði fyrir efndir hennar. Slík aðstaða á ekki undir 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, svo sem lagt var til grundvallar í hinum kærða úrskurði, heldur 2. mgr. þeirrar lagagreinar. Málinu verður því ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grunni.

Varnaraðili hefur einnig borið fyrir sig að fyrrgreindar varakröfur sóknaraðila feli báðar í sér að hann leiti dóms um skyldu varnaraðila til að framselja réttindi sín samkvæmt innlánssamningnum frá 8. september 2008, en hvorki hafi sóknaraðili skýrt hvernig fullnægja mætti réttindum hans samkvæmt slíkum dómi né hafi hann beint málsókn sinni jafnframt að bankanum í Úkraínu, sem samningurinn hafi verið gerður við og þola yrði samkvæmt þessu að annar gengi inn í réttindi varnaraðila eftir samningnum. Um þetta verður að líta til þess að ekki verður leitt af lögum að sá sem leitar dóms í einkamáli um skyldu gagnaðila síns verði sérstaklega að gefa þar skýringar á fyrirætlan sinni um hvernig fullnægja mætti ætluðum réttindum hans við aðfarargerð, enda uppfylli hann það almenna skilyrði að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína. Í málatilbúnaði varnaraðila hefur því ekki verið haldið fram að sóknaraðila skorti slíka hagsmuni. Sóknaraðili yrði að auki að bera áhættu af því hvort eða hvernig tækist að fullnægja dómi, sem kynni að ganga honum í vil um aðra hvora varakröfu hans, þar á meðal hvort bankinn sem í hlut á kynni eftir lögum í Úkraínu að geta vikist undan að efna innlánssamninginn gagnvart öðrum en varnaraðila eða njóta á annan hátt réttar til að koma í veg fyrir framsal réttinda samkvæmt samningnum. Á þessu stigi ber bankinn enga skyldu við sóknaraðila, hvað þá óskipt með varnaraðila, sem leitt gæti til þess að hann þyrfti að eiga aðild að máli þessu vegna ákvæða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Standa því engin efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi af ástæðunum sem að framan greinir.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili borið því við að sóknaraðili eigi ekki lengur réttindi samkvæmt lánssamningnum, sem málið varðar, og hefur sóknaraðili jafnframt látið uppi efasemdir um hvort varnaraðili sé enn eigandi réttinda samkvæmt innlánssamningnum frá 8. september 2008. Sé það rétt að sóknaraðili hafi framselt réttindi sín samkvæmt lánssamningnum myndi það varða sýknu varnaraðila vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en gagnaöflun í máli þessu hefur ekki verið lýst lokið í héraði og er því á þessu stigi engin leið að slá föstu að málið sé vanreifað af hendi sóknaraðila um aðild sína að því þannig að frávísun geti valdið. Án tillits til þess hvort áhöld um eignarhald varnaraðila að réttindum samkvæmt innlánssamningnum geti einhverju varðað fyrir úrslit málsins, sem höfðað er aðallega til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi aðilanna, verður ekki fellt á sóknaraðila að bera halla af skorti upplýsinga um það efni þannig að frávísun málsins varði.

Um kröfugerð sóknaraðila er þess að gæta að aðalkrafa hans er um greiðslu á 2.000.000 bandaríkjadölum sem er fjárhæð höfuðstóls skuldar samkvæmt lánssamningi aðilanna frá 1. september 2008. Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að framselja sér innlán að fjárhæð 1.999.932,31 bandaríkjadalir við nánar tilgreindan banka í Úkraínu og er þetta sama fjárhæð og tilgreind er sem innstæða í samningi varnaraðila við bankann frá 8. september 2008. Að þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að selja þetta innlán fyrir 2.273.443 bandaríkjadali og greiða sér þá fjárhæð. Um þá kröfu verður að horfa til þess að í rammasamningi aðilanna 2. maí 2008 var sóknaraðila sem áður segir heimilað að krefjast þess að varnaraðili seldi fjármálagerning eða útlán sitt, sem sóknaraðili veitti lán fyrir, og var sóknaraðila jafnframt veittur réttur til að ákveða lágmarksverð sem varnaraðili mætti selja kröfu sína fyrir. Líta verður svo á að í dómkröfunni sem hér um ræðir byggi sóknaraðili á þessum heimildum sínum samkvæmt rammasamningnum, en hvorki voru þar fyrirmæli um hvernig lágmarksverð sem þetta skyldi fundið né var áskilið að sóknaraðili rökstyddi eða skýrði slíka ákvörðun sérstaklega. Verður því ekki séð að frekar hafi verið þörf á að hann skýrði þessa fjárhæð í héraðsdómsstefnu. Telji varnaraðili fjárhæð aðalkröfu sóknaraðila of háa sökum þess að ekki hafi komið þar til frádráttar þóknanir, sem varnaraðili kann að hafa átt tilkall til samkvæmt samningum þeirra, hvílir á honum en ekki sóknaraðila að gera viðhlítandi grein fyrir fjárhæðum sem draga ætti frá kröfunni að þessu leyti. Að þessu virtu eru ekki annmarkar á reifun dómkrafna sóknaraðila sem leitt geti til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins verður að bíða efnisdóms, en um kærumálskostnað fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Visoky Zamok Investments Ltd., greiði sóknaraðila, Vátryggingafélagi Íslands hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2015.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 10. mars 2015 var höfðað 1. maí 2014 af hálfu Vátryggingafélag Íslands hf. Ármúla 3 Reykjavík á hendur félaginu Visoky Zamok Investments Ltd., fyrirtækjanúmer 06444907, 42 New Broad Street, EC2M 1JD, London, Englandi.

Fyrirsvarsmaður stefnanda er Sigrún Ragna Ólafsdóttir, Miðhúsum 33, Reykjavík og fyrirsvarsmaður stefnda er Sergejus Sinkariovas, 23-20 Zemynos G, LT06001, Vilnius, Litháen.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda félagið verði dæmt til þess að greiða stefnanda 2.000.000 Bandaríkjadala ásamt dráttarvöxtum skv. 1. og 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 110.000 Bandaríkjadölum frá 1. mars 2012 til 1. september 2012, af 220.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. mars 2013, af 330.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. september 2013, af 440.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi 1. mars 2014, af 550.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 7. apríl 2014 og af 2.565.278 Bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess til vara að stefnda félagið verði dæmt til þess að framselja innlán stefnda, upphaflega að fjárhæð 1.999.932,31 Bandaríkjadal, á reikningi stefnda nr. [...] hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu, til stefnanda, gegn greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu stefnanda á stefnda á grundvelli lánssamnings aðilanna, dags. 1. september 2008.

Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefnda félagið verði dæmt til þess að selja innlán stefnda á reikningi stefnda nr. [...] hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali og verði jafnframt gert að afhenda stefnanda söluandvirðið að sömu fjárhæð.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Stefnandi er virðisaukaskattskyldur.

Stefndi gerir í málinu þessar dómkröfur:

Aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til þrautavara, að stefndi verði sýknaður að svo stöddu og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til ýtrustu þrautavara, að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Það er aðalkrafa stefnda, um að málinu verði vísað frá dómi, sem er til úrlausnar í þessum úrskurði. Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað. Báðir aðilar gera kröfur um málskostnað í þessum þætti málsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Þá fjármuni sem aðalkrafa stefnanda snýst um lagði stefndi inn á innlánsreikning í Bank Lviv í Úkraínu í þeim tilgangi að ávaxta þá vel, en þar buðust mjög háir vextir. Þegar aðilar gerðu með sér samninga um þessa ráðstöfun tengdust aðilar samkvæmt lýsingum stefnda með þeim hætti að stefnandi, Vátryggingafélag Íslands hf., var alfarið í eigu Exista hf. sem nú heitir Klakki ehf. Stefnandi var stór hluthafi í MP banka hf., sem nú heitir EA fjárfestingarfélag hf. og er í slitameðferð. Eignarhlutur stefnanda í MP banka hf. var færður yfir í Klakka ehf. MP banki hf. átti félagið Vostok Holdings Netherlands BV, sem átti félagið New Progress Holding, sem skráð er í Úkraínu og það félag átti og á meirihluta hlutafjár í Bank Lviv í Úkraínu. Stefndi, Visoky Samok Investments Ltd., var í eigu Vostok Holdings Netherland BV, sem var eign MP banka hf., sem fyrr segir.

Þann 2. maí 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér svokallaðan rammasamning um fjármögnun á fjármálagerningunum og er tilgangur rammasamningsins að afmarka framkvæmd á viðskiptum á milli málsaðila í tengslum við fjármögnun kaupa á fjármálagerningum og lánveitingum til lögaðila í Úkraínu. Samkvæmt grein 1.1 í rammasamningnum bar stefnda að bera fjárfestingarkost undir stefnanda, en í framhaldi af því hafði stefnandi einhliða ákvörðunarvald um það hvort lán yrði veitt í þeim tilgangi. Í grein 1.4 segir að gera skuli sérstakan lánssamning fyrir hvert lán sem stefnandi veitir stefnda samkvæmt rammasamningnum, þar sem fram komi m.a. fjárhæð viðkomandi láns og skilmálar þess. Skilmálar slíks lánssamnings skulu endurspegla skilmála þeirra fjármálagerninga sem keyptir eru eða lána sem veitt eru fyrir andvirði lánsins, auk þess sem framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt lánssamningi skal vera sú sama og samkvæmt undirliggjandi fjármálagerningum eða lánveitingum.

Þann 1. september 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér lánssamning á grundvelli rammasamningsins. Samkvæmt grein 2.3 í lánssamningnum var það veitt til þess að fjármagna innlán hjá úkraínska bankanum Open Joint Stock Company Joint-Stock Bank „Lviv“ (hér eftir „Bank Lviv“). Í grein 2.4 er tilgreint að lánssamningurinn sé sjálfstæður hluti rammasamningsins og lúti ákvæðum hans. Samkvæmt ákvæðum lánssamningsins lánaði stefnandi stefnda samtals 2.000.000 Bandaríkjadala, með 11% vöxtum og skyldi lánið endurgreitt þann 1. september 2015. Jafnframt var kveðið á um greiðslu 1% þóknunar þar af til stefnda gegn útgáfu reiknings. Tveir vaxtagjalddagar voru á ári og er fyrsti vaxtagjalddagi tilgreindur 1. mars 2009 en síðari vaxtagjalddagi ársins var 1. september 2009. Í 3. grein lánssamningsins kemur fram að greiðslustaður lánsins sé hjá stefnanda og að stefnandi megi á hverjum tíma krefjast sölu innlánsins samhliða því að gjaldfella lánið. Í 6. grein lánssamningsins er kveðið á um að endurgreiðsla stefnda til stefnanda skuli grundvallast á lokaverðmæti trygginga, eins og nánar er kveðið á um í rammasamningnum.

Þann 8. september 2008 gerði stefndi samning við Bank Lviv um innlán. Samkvæmt 1. gr. innlánssamningsins skuldbatt stefndi sig til þess að leggja 1.999.932,31 Bandaríkjadal inn á reikning í sínu nafni nr. [...] hjá Bank Lviv, sem stefndi gerði. Innlánssamningurinn gildir til 8. september 2015 og skuldbindur Bank Lviv sig til þess að greiða innlánið til stefnda á lokadegi innlánssamningsins, auk umsaminna 11% vaxta tvisvar sinnum á ári, í byrjun mars og september. Samkvæmt 3. gr. innlánssamningsins á stefndi rétt á því að fá andvirði innlánsins greitt að fullu á réttum tíma og að fá útdrátt um stöðu reikningsins á hverjum tíma samkvæmt kröfu. Þá á stefndi rétt á því að fá innlánið greitt að hluta eða að fullu þrjátíu dögum eftir að beiðni um slíkt berst Bank Lviv.

Í lánssamningi þeim sem krafið er um greiðslu á í málinu voru vextir ákveðnir 11% á ári og var um tvo vaxtagjalddaga að ræða ár hvert. Bank Lviv greiddi umsamda vexti til og með 1. september 2011. Áfallnir greiddir vextir voru þá alls 660.000 Bandaríkjadalir og var þessi fjárhæð að frádreginni þóknun stefnda innt af hendi til stefnanda samkvæmt lánssamningnum fram til 1. mars 2012. Þann dag, sem var vaxtagjalddagi lánsins, greiddi stefndi ekki vaxtagreiðslu til stefnanda og hefur ekki gert síðan. Stefndi hafði tilkynnt stefnanda að Seðlabanki Úkraínu hefði sett þak á vexti af innlánum, þeir mættu að hámarki vera 6% á ári, og sendi honum viðauka við samning aðila til undirritunar 25. janúar 2012, en viðaukinn var ekki undirritaður af stefnanda. Yfirlit voru send mánaðarlega til stefnanda þar sem reiknað var með 6% ársvöxtum á innlánið.

Í Úkraínu hafa verið í gildi gjaldeyrishöft og hefur úkraínskum bönkum verið óheimilt, nema að fengnu leyfi Seðlabanka Úkraínu, að millifæra fjármuni frá Úkraínu og munu leyfin vera háð mjög ströngum skilyrðum. Bank Lviv mun hafa verið í gjörgæslu Seðlabanka Úkraínu í nokkur ár. Gerður var samningur á milli Bank Lviv og Seðlabanka Úkraínu, 15. desember 2009, vegna þeirrar fjármálakreppu sem þar reið yfir eins og víða annars staðar í heiminum og með samningi dags. 13. desember 2011, sem framlengdur var þann 20. júní 2013, gekkst Bank Lviv undir ákveðnar kvaðir seðlabankans varðandi vaxtagreiðslur og endurgreiðslu innlána til tengdra aðila, hvort sem þeir voru innlendir eða erlendir. Var bankanum gert óheimilt að greiða út vexti eða höfuðstól lána til tengdra aðila.

Þann 13. september 2013 sendi stefnandi stefnda bréf þar sem fram kom að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum lánssamningsins með því að greiða ekki samningsbundnar vaxtagreiðslur til stefnanda og að lánið væri í vanskilum. Í bréfinu krafðist stefnandi þess, á grundvelli greinar 3.1 í rammasamningnum og greinar 3.4 í lánssamningnum, að stefndi seldi fjármálagerninginn, þ.e. innlánið í Bank Lviv, fyrir að lágmarki 2.273.443 Bandaríkjadali. Stefnda væri ekki heimilt að selja fjármálagerninginn á lægra verði samkvæmt ákvæði 3.1 í rammasamningnum. Í bréfinu setti stefnandi jafnframt fram boð um að kaupa fjármálagerninginn af stefnda fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali, sem yrði greitt með skuldajöfnuði á kröfu stefnanda á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum. Með vísan til gr. 1.5 í rammasamningnum var þess krafist að greiðslan bærist stefnanda innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. 

Þann 27. september 2013 barst stefnanda svarbréf frá lögmönnum stefnda. Þar var óskað eftir frekari fresti til þess að íhuga kröfur stefnanda, m.a. með vísan til þess að óvíst væri hvort innlán mætti framselja milli aðila samkvæmt gildandi lögum í Úkraínu og mögulega hefði rammasamningurinn og lánið verið fært frá stefnanda yfir í annað félag. Þann 4. október 2013 sendi stefnandi bréf til stefnda, þar sem mótmælt var þeim röksemdum sem fram komu í bréfi stefnda og beiðni hans um frekari frest og var krafa stefnanda ítrekuð. Í bréfinu kom fram að stefnandi myndi leita réttar síns fyrir dómstólum ef fjármunirnir yrðu ekki greiddir fyrir þann 15. október 2013.

Samningur Seðlabanka Úkraínu og Bank Lviv bindur að mati stefnda hendur aðila þessa máls þar sem fyrir lá í upphafi að leggja átti lánsféð inn á bankareikning í Bank Lviv í Úkraínu og verði aðilar þessa máls að sæta þeim reglum sem ríkja þar í landi, enda komi það fram í samningi um innlán að um það innlán fari eftir lögum Úkraínu. Stefndi telur ómögulegt að framfylgja samningum aðila eftir efni þeirra í þessu ljósi.

Nokkur samskipti hafa átt sér stað á milli lögmanna aðila, m.a. um það hvort unnt væri að framselja hlutafé stefnda til stefnanda en ekki reyndist unnt að leysa málið með þeim hætti. Þann 24. mars 2014 sendi stefnandi stefnda formlega tilkynningu um gjaldfellingu lánsins samkvæmt gr. 3.4 í lánssamningnum og gerði kröfu um greiðslu lánsins ásamt vöxtum og kostnaði fyrir 7. apríl 2014. Stefndi varð ekki við þessari kröfu. Stefnandi telur að stefndi hafi vanefnt samningsskuldbindingar sínar gagnvart stefnanda, sem eigi skýra og réttmæta kröfu um efndir þeirra og sé því nauðsyn að höfða mál þetta.

Í greinargerð stefnda var bent á að öll skjöl málsins, að stefnu og skrá undanskildum, væru á ensku. Málatilbúnaður stefnanda uppfyllti því ekki þær kröfur sem settar væru í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að þingmálið væri íslenska og því bæri að vísa málinu frá dómi. Áður en munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram lagði lögmaður stefnanda, með samþykki lögmanns stefnda, fram íslenska þýðingu á dómskjölum og féll stefndi þá frá þessari málsástæðu fyrir kröfu um frávísun. Hann heldur aðalkröfu sinni um frávísun málsins til streitu á grundvelli annarra málsástæðna.

Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir dómkröfum sínum

Kjarni þessa máls lúti að því að stefnandi hafi lánað stefnda umtalsverða fjármuni sem lagðir hafi verið inn sem innlán hjá Bank Lviv, en stefndi hafi bæði vanefnt samningsbundnar afborganir af láni stefnanda og skyldu sína til þess að ljúka uppgjöri eftir skýrum kröfum stefnanda. Lánið hafi verið greitt út til stefnda á grundvelli samninga sem heyri undir íslensk lög.

Aðalkrafa stefnanda byggist á ákvæðum lánssamningsins og rammasamningsins og meginreglum samninga- og kröfuréttar. Nánar tiltekið þá leiði af ákvæði 1.4 í rammasamningnum að lánssamningurinn mæli nánar fyrir um skilmála lánsins, en um framkvæmd endurgreiðslu skuli gilda sömu skilmálar og eigi við um undirliggjandi fjármálagerning, í þessu tilviki innlánssamninginn. Samkvæmt 3. gr. lánssamningsins megi stefnandi, á hverjum tíma, krefjast sölu innlánsins og samhliða setja fram kröfu um greiðslu samkvæmt lánssamningnum. Þá mæli innlánssamningurinn fyrir um að stefndi eigi á hverjum tíma rétt á greiðslu innlánsins með þrjátíu daga fyrirvara. Stefnandi hafi m.a. sett fram í erindi, dags. 13. september 2013, kröfu um sölu innlánsins og endurgreiðslu lánsins innan fjórtán daga, en stefndi hafi hvorki orðið við kröfu um sölu innlánsins né heldur kröfu um endurgreiðslu lánsins. Stefnandi hafi sent stefnda þann 24. mars 2014 áréttingu og tilkynningu um gjaldfellingu lánsins og gert kröfu um greiðslu lánsins ásamt vöxtum og kostnaði. Stefndi hafi ekki orðið við kröfu stefnanda um greiðslu.

Með því að sinna ekki þeim skyldum sínum að innheimta vexti, selja innlánið eða gera kröfur um endurgreiðslu þess hafi stefndi sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til skaðabótaskyldu innan samninga. Þá hafi stefndi vanefnt greiðslu vaxta á gjalddaga frá og með 1. mars 2012, en þær ógreiddu peningakröfur stefnanda beri dráttarvexti frá hverjum vaxtagjalddaga í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi byggi á því að hann eigi fjárkröfu að fjárhæð 2.000.000 Bandaríkjadala á hendur stefnda, sem orðið hafi gjaldkræf eigi síðar en 14 dögum eftir að krafa um greiðslu hafi verið sett fram þann 7. apríl 2014 og að krafan skuli bera dráttarvexti frá þeim degi. Krafa um dráttarvexti af ógreiddum vaxtagjalddögum grundvallist á 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, og krafa um dráttarvexti af útistandandi skuldbindingu stefnda samkvæmt lánssamningnum grundvallist á 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Varakrafa stefnanda byggi á sama grunni og aðalkrafan, að breyttu breytanda. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda byggi hann á því að stefnda sé skylt að framselja innlánið til stefnanda á grundvelli rammasamningsins og lánssamningsins. Nánar tiltekið þá hafi 3. gr. rammasamningsins, sbr. og gr. 3.4 í lánssamningnum að geyma skýra heimild til handa stefnanda til þess að krefjast þess, á hverjum tíma, að innlánið skuli tafarlaust selt á tilteknu lágmarksverði sem stefnandi ákveði. Þá sé ljóst af sömu ákvæðum, að stefnandi geti krafist þess að fjármunir sem fáist við slíka sölu verði greiddir stefnanda. Stefnandi hafi sett fram kröfu um sölu innlánsins í erindi, dags. 13. september 2013, fyrir að lágmarki 2.273.433 Bandaríkjadali. Í sama erindi hafi stefnandi sett fram boð um að kaupa innlánið á 2.273.433 Bandaríkjadali gegn greiðslu með skuldajöfnuði gegn kröfum stefnanda samkvæmt lánssamningnum. Stefndi hafi ekki orðið við þessum kröfum stefnanda, þrátt fyrir skýra skyldu til þess að selja innlánið og fram komið kauptilboð stefnanda sem nemi lágmarksfjárhæðinni. Þá hafi stefndi ekki upplýst hvort leitað hafi verið tilboða hjá öðrum aðilum í innlánið eða hvort gerð hafi verið tilraun til þess að selja innlánið.

Stefnandi byggi á því að skýr ákvæði rammasamningsins og lánssamningsins, einkum 3. gr. rammasamningsins og gr. 3.4 í lánssamningnum, kauptilboð stefnanda og aðgerðarleysi stefnda, standi til þess að viðurkenna beri skyldu stefnda til þess að framselja innlánið til stefnanda fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali gegn greiðslu á sömu fjárhæð með skuldajöfnuði gegn kröfum stefnanda samkvæmt lánssamningnum.

Þrautavarakrafa stefnanda byggi á sama grunni og varakrafa, að breyttu breytanda. Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu stefnanda byggi hann á því að stefnda sé skylt að selja innlánið tafarlaust á grundvelli rammasamningsins og lánssamningsins. Stefndi hafi ekki orðið við kröfum stefnanda um að selja innlánið, þrátt fyrir skýra skyldu þar að lútandi. Þá hafi stefndi ekki upplýst hvort leitað hafi verið tilboða hjá öðrum aðilum í innlánið eða hvort gerð hafi verið tilraun til þess að selja innlánið.

Stefnandi byggi á því að skýr ákvæði rammasamningsins og lánssamningsins, einkum 3. gr. rammasamningsins og gr. 3.4 í lánssamningnum, og aðgerðarleysi stefnda, standi til þess að viðurkenna beri skyldu stefnda til þess að selja innlánið fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali og ráðstafa andvirðinu til stefnanda.

Íslensk lög gildi um bæði rammasamninginn og lánssamninginn, en samkvæmt gr. 9.1 í rammasamningnum heyri ágreiningurinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Stefnandi reisi kröfur sínar meðal annars á almennum reglum fjármunaréttar, kröfuréttar og samningaréttar, einkum reglunni um skuldbindingargildi samninga, einnig á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. og 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr., og á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá sé krafa um málskostnað reist á 129. og 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda

Í máli þessu krefji stefnandi stefnda um greiðslu á skuld sem hann telji stefnda vera í við sig á grundvelli lánssamnings frá 1. september 2008. Um alla skilmála milli aðila gildi svokallaður rammasamningur frá 2. maí 2008. Kröfur þær sem stefnandi hafi uppi í máli þessu séu ekki enn orðnar til þar sem ómöguleiki á efndum leiði til þess að ekki geti verið um vanefnd að ræða af hálfu stefnda. Ómöguleiki á efndum hjá Bank Lviv leiði til ómöguleika á uppgjöri við stefnanda. Beri því með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 að vísa kröfum stefnanda frá dómi.

Aðalkrafa stefnanda sé um greiðslu á 2.000.000 Bandaríkjadala auk dráttarvaxta skv. 1. og 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 110.000 Bandaríkjadölum frá 1. mars 2012 til 1. september 2012, af 220.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. mars 2013, af 330.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. september 2013, af 440.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. mars 2014, af 550.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 7. apríl 2014 og af 2.565.278 Bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags.

Í rökstuðningi stefnanda komi fram að hann telji skyldur stefnda byggjast á skýrum ákvæðum lánssamningsins og rammasamningsins ásamt meginreglum samninga- og kröfuréttar. Hann telji ákvæði samninga aðila kveða á um skýra skyldu stefnda um endurgreiðslu lánsins. Stefnandi telji þó skyldur stefnda ekki skýrari en svo að í kafla 22 í stefnunni byggi hann á því að stefndi hafi vanrækt að sinna skyldum sínum um innheimtu vaxta, vanrækt að selja innlánið eða gera kröfur um endurgreiðslu þess og þar með sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til skaðabótaskyldu innan samninga. Virðist sem stefnanda sé óljóst á hverju hann eigi að reisa kröfur sínar í málinu þar sem hann annars vegar byggi á því að gildir samningar séu á milli aðila um að stefnda beri að endurgreiða lánið og hins vegar byggi hann á því að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar um innheimtu lánsins eða sölu þess og beri því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna saknæmrar háttsemi. Stefnandi geti þess hins vegar ekki að háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt, en skilyrði skaðabótaskyldu sé að sá bótaskyldi hafi sýnt af sér háttsemi sem sé bæði saknæm og ólögmæt.

Í aðalkröfu krefjist stefnandi greiðslu á 2.000.000 Bandaríkjadala auk dráttarvaxta af 110.000 Bandaríkjadölum frá 1. mars 2012 til 1. september 2012, af 220.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi og síðan koll af kolli til 1. mars 2014, en hann krefjist frá þeim degi dráttarvaxta af 550.000 Bandaríkjadölum til 7. apríl 2014, en síðan dráttarvaxta af 2.565.278 Bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi virðist byggja kröfur sínar á því að höfuðstóll kröfu hans sé 2.000.000 Bandaríkjadala, að stefnda hafi borið að greiða honum 11% ársvexti og að gjalddagar vaxtagreiðslna hafi verið tvisvar á ári. Stefnandi taki sér vald til þess að höfuðstólsfæra vextina á hverjum vaxtagjalddaga, mynda nýjan höfuðstól kröfu sinnar þann 7. apríl 2014 og krefjast vaxta af þannig fenginni fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Þá samræmist kröfugerð í aðalkröfu stefnanda ekki kröfu hans í varakröfu en þar sé tekið fram að fjárhæð sú sem innlánið í Bank Lviv hafi numið hafi verið 1.999.932,31 Bandaríkjadalur. Þá samræmist þessi kröfugerð ekki heldur kröfugerð stefnanda í þrautavarakröfu þar sem gerð sé sú krafa að innlán stefnanda á reikningi í Bank Lviv verði selt fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali. Engin grein sé gerð fyrir þessum mismun fjárhæða í aðal-, vara- og þrautavarakröfum stefnanda.

Stefnandi taki jafnframt ekkert tillit til þess í kröfugerð sinni, að honum hafi sjálfum borið að greiða stefnda þóknun vegna lántökunnar í upphafi, 0,25%, samkvæmt gr. 6.1 í rammasamningi aðila og að af 11% vöxtum samkvæmt lánssamningnum hafi stefndi sjálfur átt að fá 1%, þannig að vextir til stefnanda hafi átt að vera nálægt 10% af heildarvaxtagreiðslum. Auk alls þessa hafi stefnandi átt að greiða stefnda árlega þóknun sem næmi 1% af meðaltalsstöðu heildarlána samkvæmt gr. 6.2 í rammasamningnum. Gjalddagi þessarar þóknunar hafi verið 2. maí ár hvert, í fyrsta sinn 2. maí 2009. Ekkert tillit sé tekið til þessa í kröfugerð stefnanda og sé hún alls ekki í samræmi við þá samninga sem hann byggi kröfur sínar á. Því beri að vísa málinu frá dómi með vísan til d- til f-liða 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Þess sé jafnframt krafist að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Þar sé gerð krafa til þess að stefnda verði gert að framselja stefnanda innlán stefnda, upphaflega að fjárhæð 1.999.932,31 Bandaríkjadalur, á reikningi stefnda nr. [...] hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu gegn greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu stefnanda á stefnda á grundvelli lánssamnings aðilanna dags. 1. september 2008. Ekki sé það útskýrt á nokkurn hátt í stefnu hvernig Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ tengist kröfum stefnanda, en samkvæmt lánssamningi aðila, dags. 1. september 2008, hafi stefnda borið að leggja peningana inn á reikning í Closed Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“. Þar sem algert ósamræmi sé á milli gagna málsins og kröfugerðar stefnanda telji stefndi að óhjákvæmilegt sé að vísa kröfum stefnanda frá dómi. Þá sé óhjákvæmilegt annað en að stefnandi þurfi að stefna viðsemjandanum um lánið sem hann telji vera Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“. Innlánið byggi á samningi stefnda og bankans og verði bankinn samkvæmt kröfugerð stefnanda að þola annan viðsemjanda ef dómur gengur á þann veg. Augljóst sé að vegna þessa samningssambands sé nauðsynlegt að höfða málið jafnframt gegn bankanum til þess að gera honum kleift að halda uppi vörnum kjósi hann það. Þar sem það sé ekki gert beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi byggi jafnframt á því að þar sem stefnandi geri kröfu um framsal innlánsins til sín þá verði hann að fara eftir ákvæðum innlánssamningsins við Bank Lviv og höfða málið í Úkraínu og um það fari eftir lögum Úkraínu, sbr. gr. 5.4 í innlánssamningi. Þar sem það sé ekki gert þá beri að vísa málinu frá dómi.

Í þrautavarakröfu stefnanda sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að selja innlán stefnda á reikningi stefnda nr. [...] hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali og verði jafnframt gert að afhenda stefnanda söluandvirðið að sömu fjárhæð. Þessi kröfugerð stefnanda sé háð sömu annmörkum og varakrafa hans þar sem ekki sé útskýrt á nokkurn hátt í stefnu hvernig Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ tengist kröfum stefnanda, en samkvæmt lánssamningi aðila, dags. 1. september 2008, hafi stefnda borið að leggja peningana inn á reikning í Closed Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“.

Líta beri til þess að krafa þessi sé sett fram með þeim hætti að ómögulegt sé að fara að henni. Ómögulegt sé að selja innlánið fyrir það verð sem stefnandi krefjist. Kaupendur séu engir fyrir það verð sem stefnandi krefjist þar sem miklar hömlur séu á útborgun innlánsins. Hömlurnar tengist m.a. því að um tengda aðila sé að ræða og það breytist ekki fyrr en Seðlabanki Úkraínu létti af þeim hömlum sem séu á útgreiðslu lána. Kröfu stefnanda um sölu innlánsins fyrir ákveðið verð sé ekki unnt að framfylgja með aðför og ekki sé verið að krefjast viðurkenningar á skyldu. Krafan sé því ekki dómtæk og beri því að vísa henni frá dómi.

Varakrafa stefnda um sýknu af öllum kröfum stefnanda byggist á því að stefnandi eigi ekki aðild að málinu og því beri með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi telji víst að við kaup stefnanda á nær öllu hlutafé Líftryggingafélags Íslands hf. hafi kaupverðið til Klakka ehf. verið greitt m.a. með lánssamningi stefnanda við stefnda.

Sýknukrafa stefnda af aðalkröfu stefnanda byggist jafnframt á því að stefnandi eigi enga kröfu til greiðslu úr hendi stefnda á grundvelli þeirra samninga sem aðilar hafi gert. Svonefndur rammasamningur og svonefndur lánssamningur hafi alls ekki verið um lán til stefnda frá stefnanda heldur hafi verið um einhvers konar umboðssamning eða umsýslusamning að ræða. Stefnandi hafi greitt stefnda sérstaka þóknun vegna lánsins sem hann hafi veitt, en óþekkt sé að lánveitandi greiði lántaka þóknanir fyrir að taka lán, heldur sé það ætíð hið öndverða að lántaki greiði lánveitanda lántökugjald. Þá eigi stefnandi að greiða stefnda í þóknun hluta þeirra vaxta sem á innlánið falli og hann eigi að greiða stefnda árlega hlutfall af heildarstöðu innlánsins í umsýsluþóknun, sbr. 6. gr. rammasamnings aðila. Stefndi telji að lánssamningurinn hafi einungis verið nefndur því nafni en efni hans sé efni umboðs- eða umsýslusamnings.

Stefndi sé ekki skuldbundinn til að endurgreiða stefnanda lánið samkvæmt samningum aðila. Allar endurgreiðslur til stefnanda tengist því hvernig heimtur verði á innláninu í Bank Lviv eða hvaða heimtur verði af sölu þess. Verði á því tap þá eigi stefnandi enga kröfu á hendur stefnda vegna þess tjóns sem verði af verðrýrnun lánsins, sbr. gr. 3.2 í rammasamningi aðila. Það sé því augljóst að ekki sé um að ræða lánssamning á milli aðila þar sem stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda sem greiða beri til baka að fullu með ákveðnum vöxtum á ákveðnum tíma. Stefndi geti því aldrei orðið greiðsluskyldur gagnvart stefnanda nema með því fé sem hann sjálfur hafi innheimt og liggi í vörslu stefnda vegna viðskipta aðila, sbr. 2. gr. rammasamnings aðila. Því beri að sýkna stefnda af greiðslukröfu stefnanda.

Stefndi krefjist sýknu af varakröfu stefnanda um að honum verði gert skylt að framselja stefnanda innlán, upphaflega að fjárhæð 1.999.932,31 Bandaríkjadalur, á reikningi stefnda nr. [...] hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu, gegn greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu stefnanda á stefnda á grundvelli lánssamnings aðilanna, dags. 1. september 2008. Þar komi skýrt fram í 4. gr. að lánsféð eigi að nota til að mynda innlán í Closed Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu. Enginn innlánsreikningur sé tilgreindur í lánssamningnum. Stefnandi eigi enga kröfu um framsal þessa innláns til sín auk þess sem ekki sé að sjá af samningum aðila að stefnandi geti gert slíka kröfu vegna þeirra innlána sem til sé stofnað á grundvelli samninga aðila. Hann eigi rétt á að krefjast sölu þeirra en ekki rétt á framsali til sín. Beri því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda. Þá væru jafnframt slíkar hindranir í vegi fyrir framsali á grundvelli gjaldeyrishafta í Úkraínu og vegna samnings Seðlabanka Úkraínu við Bank Lviv að ógerningur væri að verða við þessum kröfum stefnanda og vandséð hvernig hann ætli að fullnægja kröfunni með aðför ef til kæmi.

Stefndi krefjist sýknu af þrautavarakröfu stefnanda en þar sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að selja innlán sín á reikningi sínum nr. [...] hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali og verði jafnframt gert að afhenda stefnanda söluandvirðið að sömu fjárhæð. Ekki sé útskýrt á nokkurn hátt í stefnu hvernig Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ tengist kröfum stefnanda, en samkvæmt lánssamningi aðila, dags. 1. september 2008, hafi stefnda borið að leggja peningana inn á reikning í Closed Joint Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“. Stefnandi vísi í stefnu á ranga innlánsstofnun og því sé ekki unnt að taka kröfur hans til greina þegar af þeirri ástæðu. Því beri að sýkna stefnda af þessum kröfum stefnanda.

Ómögulegt sé að verða við þessari kröfu stefnanda. Innlánið sé bundið hjá Bank Lviv og í raun ómögulegt að selja innlánið nema fyrir hrakvirði ef aðrar hindranir koma ekki til. Um sé að ræða innlán tengds aðila við Bank Lviv sem geri það ómögulegt að selja lánið, en tengdir aðilar séu háðir mun strangari skilyrðum um meðferð krafna sinna á hendur bankanum en aðrir. Þá hafi stefnandi látið það ógert að útskýra hvernig hann ætli að fullnægja dómi sem leggi þessar skyldur á herðar dómþola. Ómöguleiki á innheimtu eða sölu lánsins í Bank Lviv leiði til þess að ómögulegt sé að verða við kröfu stefnanda og því beri að sýkna stefnda.

Til þrautavara krefjist stefndi sýknu að svo stöddu. Vissulega geti komið þeir tímar að stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda um efndir á samningum þeirra. Sá tími sé hins vegar ókominn vegna hindrana sem í vegi séu fyrir efndum og leiði til þess að stefndi hafi ekki vanefnt samninga sína við stefnanda. Um sé að ræða hindranir sem ómögulegt sé að yfirstíga og hafi þær réttarverkanir að meðan þær séu fyrir hendi sé ekki um vanefndir að ræða af hálfu stefnda. Beri því a.m.k. að sýkna hann að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi geri þær kröfur til ýtrustu þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefnandi krefjist greiðslu á of háum höfuðstól auk of hárra vaxta á kröfuna. Þá taki hann ekkert tillit til þeirra fjárhæða sem honum beri að greiða stefnda í ýmsar þóknanir.

Málskostnaðarkrafa stefnda sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við ákvörðun málskostnaðar úr hendi stefnanda beri að taka tillit til þess að málið sé flókið, skjöl þess séu lögð fram á erlendu tungumáli og að miklir hagsmunir séu í húfi.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísunarkröfu stefnda

Við málflutning um frávísunarkröfu stefnda krafðist stefnandi þess að kröfu stefnda um frávísun málsins yrði hafnað. Málið væri í grunninn einfalt innheimtumál. Óumdeilt sé að stefnandi hafi lánað stefnda fjármuni á grundvelli rammasamnings. Lánið hafi verið útfært í sérstökum lánssamningi og hafi fjármunirnir verið nýttir til að fjármagna innlán samkvæmt innlánssamningi. Fyrir liggi yfirlit vegna innlánsins með tilvísun í númer samningsins og skipti ónákvæmni í stefnu um nafn bankans því engu máli. Óumdeilt sé að stefndi hafi vanefnt samningsbundnar afborganir og hafi ekki orðið við kröfum um uppgjör. Stefndi beri m.a. við ómöguleika á efndum, en vísbendingar séu um að stefndi hafi reynt að slíta félaginu og að innlánið sé ekki lengur í eigu stefnda.

Stefnandi telji málsástæður stefnda um aðildarskort til sóknar og ómöguleika á efndum, auk athugasemda um fjárhæð kröfunnar varða efni máls, sem ekki geti varðað frávísun, enda hafi gagnaöflun ekki verið lýst lokið.

Reglunni í 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála, um frávísun máls þegar sýnt sé að réttur eða skylda sé enn ekki orðin til, sé ætlað að koma í veg fyrir að dómstólar þurfi að fjalla um afstæð réttindi eða tilvik þar sem tilurð réttinda sé háð ókomnum atvikum. Þetta eigi ekki við hér þar sem efnisleg tilvist láns stefnanda til stefnda, tilvist innlánssamningsins og greiðsluskylda stefnda sé óumdeild. Þar sem um peningagreiðslu sé að ræða geti ómöguleiki ekki komið í veg fyrir efndir samkvæmt aðalefni samnings. Ómöguleiki geti einnig valdið því að skuldari verði bótaskyldur gagnvart kröfuhafa.

Í stefnu sé skýrt að hver krafa um sig byggi á mismunandi ákvæðum samninga aðila. Lýsing málsástæðna sé skýr og gagnorð og hafi ekki valdið stefnda vandræðum við að taka til varna. Ekkert sé óljóst um sakarefni málsins, enda hafi stefndi tekið til varna.

Niðurstaða

Líta verður á viðskipti stefndu samkvæmt þeim þremur gjörningum sem byggt er á í málinu sem eina heild. Tilgangur rammasamningsins sem viðskipti aðila byggja á er samkvæmt því sem í honum greinir sá að skilgreina viðskiptaferli stefnda og stefnanda í tengslum við fjármögnun kaupa á fjármálagerningum í Úkraínu. Á grundvelli þessa samnings gerðu aðilar lánssamning, sem stefnandi byggir aðalkröfu sína á. Á sama grundvelli var innlánssamningur sá sem krafist er sölu og framsals á í öðrum stefnukröfum gerður milli stefnda og úkraínsks banka, Bank Lviv, sem tengdur er stefnda gegnum eignarhald. Bankinn mun að miklu leyti vera í eigu úkraínska félagsins New Progress Holding sem aftur er í eigu móðurfélags stefnda, Vostok Holdings Netherlands BV. Þetta móðurfélag bæði stefnda og aðaleiganda úkraínska bankans mun vera í eigu EA Fjárfestingarfélags hf., sem áður var MP banki. Stefnandi mun hafa átt stóran hlut í MP banka þegar stofnað var til þeirra viðskipta aðila sem eru tilefni þessa máls.

Efni rammasamnings aðila leiðir til þess að svokallaður lánssamningur þeirra er í eðli sínu þjónustusamningur og stefndi hefur í raun verið milliliður sem fékk þóknun fyrir að ávaxta fé fyrir stefnanda, en var ekki lántaki í hefðbundnum skilningi. Samkvæmt grein 1.4 í rammasamningi aðila skyldi endurgreiðsluferli lánssamningsins vera það sama og endurgreiðsluferli verðbréfsins eða lánsins sem keypt væri, þ.e. innlánsins. Efndir lánssamningsins verða samkvæmt því háðar framvindu fjárfestingarinnar, sem gerð var í þágu stefnanda til ávöxtunar fjármuna hans.

Stefndi krefst frávísunar málsins, m.a. með vísun til 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem krafan sé ekki orðin til í skilningi ákvæðisins. Ómögulegt sé að selja innlánið vegna takmarkana Seðlabanka Úkraínu á viðskiptum bankans við tengda aðila og þau gjaldeyrishöft sem í gildi séu í Úkraínu nú komi í veg fyrir flutning fjármagnsins úr landi. Um sé að ræða innlán tengds aðila við Bank Lviv sem geri það ómögulegt að selja lánið, en tengdir aðilar séu háðir mun strangari skilyrðum um meðferð krafna sinna á hendur bankanum en ótengdir aðilar.

Reglan í 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála hefur verið skýrð svo að hún leiði ekki aðeins til þess að mál verði ekki höfðað um hagsmuni sem enginn vísir hefur enn orðið til að, heldur einnig að það sama gildi um hagsmuni sem byrjað hafa að myndast að einhverju leyti en endanleg tilvist þeirra ræðst þó af forsendu sem getur fyrst ræst í framtíðinni. Stefndi hefur leitt líkur að því með gögnum, sem stefnandi hefur ekki mótmælt, að stefnda sé óheimilt að innleysa innlánið vegna tengsla félagsins við bankann og að gjaldeyrishöft komi í veg fyrir að féð verði flutt úr landi, en samkvæmt ákvæðum innlánssamningsins fer um framkvæmd hans að úkraínskum lögum. Þegar litið er heildstætt á þá efndaskyldu sem á stefnda hvílir samkvæmt þeim þremur gjörningum sem kröfugerð stefnanda styðst við, sérstaklega það að endurgreiðsluferli lánssamningsins og innlánsins skuli fylgjast að, verður ekki annað séð en að forsenda efnda sé háð heimildum sem ráðast af ákvörðunum stjórnvalda í Úkraínu í framtíðinni. Um efni og tímasetningu slíkra ákvarðana er óvíst með öllu. Málið sýnist því höfðað til úrlausnar um efndaskyldu sem sýnt er að enn sé ekki orðin til, þar sem endanleg tilvist hennar ræðst af forsendu sem getur fyrst ræst í framtíðinni, en slíku máli skal vísað frá dómi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála.

Stefndi bendir á að innlánið byggi á samningi stefnda og úkraínska bankans og verði bankinn samkvæmt kröfugerð stefnanda að þola annan viðsemjanda ef dómur gengur á þann veg. Stefnandi hafi látið það ógert að útskýra hvernig hann ætli að fullnægja dómi sem leggi þær skyldur á dómþola sem varakrafa og þrautavarakrafa snúist um. Stefndi telji augljóst að vegna þessa samningssambands sé nauðsynlegt að höfða málið jafnframt gegn bankanum, í Úkraínu, til þess að gera honum kleift að halda uppi vörnum ef hann kýs það, sbr. 18. gr. laga um meðferð einkamála. Taka verður undir þær röksemdir stefnda að dómur um tiltekna ráðstöfun innlánsins, svo sem framsal þess til stefnanda eða innlausn þess með tiltekinni fjárhæð, getur haft áhrif á hagsmuni gagnaðila innlánssamningsins, sem ekki er veitt færi á að gæta hagsmuna sinna í málinu eins og málatilbúnaði stefnanda er hagað.

Vísbendingar eru um að mikilvægar upplýsingar um viðskipti aðila og grundvöll málsins hafi ekki komið fram þegar málið var höfðað. Báðir aðilar hafa haldið því fram að hinn eigi ekki lengur þau réttindi sem kröfur stefnanda í málinu byggjast á að þeir eigi. Stefndi heldur því fram að eigandi aðalkröfunnar sé í raun Klakki ehf. og styður hann varakröfu sína um sýknu m.a. við þá málsástæðu. Stefnandi mótmælir því og hefur boðað að hann muni leggja fram frumrit lánssamningsins við meðferð málsins, en það var ekki lagt fram með stefnu. Af hálfu stefnanda var því haldið fram við málflutning um frávísunarkröfuna að vísbendingar væru um að stefndi væri ekki lengur aðili að þeim innlánssamningi sem hann gerir þó kröfu um að stefndi framselji stefnanda í varakröfu og selji fyrir tiltekna fjárhæð í þrautavarakröfu. Þessar upplýsingar gera málatilbúnað stefnanda um viðskipti aðila og grundvöll málsins í heild heldur óljósari og óskýrari en skilja mátti af stefnu málsins.

Fallist er á það með stefnda að það sé galli á málatilbúnaði stefnanda að útreikningur fjárkrafna hans sé ekki sýndur. Að því er varðar aðalkröfu er engin grein gerð í stefnu fyrir þeim þóknunum til stefnda sem stefnandi skyldi draga frá vaxtagreiðslum eða hvaða áhrif þær hafa á fjárhæð kröfunnar. Stefnandi á þess kost að draga úr kröfu sinni undir rekstri máls, en hann skýrir ekki hvers vegna hann sýnir ekki útreikninga sína í stefnu. Í gögnum málsins kemur fram að forsendur kröfu lánssamningsins um tiltekna ávöxtun hafi brostið með ákvörðun stjórnvalda um þak á vexti í Úkraínu og sýnist fjárhæð kröfu samkvæmt lánssamningnum geta verið óráðin ennþá einnig vegna þess.

Óskýrleiki og skortur á sundurliðun og útskýringum á fjárhæðum á einnig við um aðrar kröfur stefnanda. Í varakröfunni er aðeins upphaflegrar fjárhæðar innláns getið, en í málsástæðukafla stefnu kemur fram að krafa um framsal innlánsins sé miðuð við að greidd verði fyrir það sama fjárhæð og sett er fram sem fjárkrafa í þrautvarakröfu. Hvergi í stefnunni er að finna útreikning eða útskýringu á því hvernig sú fjárhæð, 2.273.443 Bandaríkjadalir, er fundin, en hana hyggst stefnandi greiða stefnda með skuldajöfnuði við fjárkröfu stefnanda samkvæmt lánssamningi, sem enn kann þó að vera óviss að fjárhæð samkvæmt framansögðu. Þá kemur ekki fram hvort tekið hafi verið tillit til skyldu stefnanda samkvæmt grein 6.3 í rammasamningi aðila til að greiða stefnda þóknun við sölu fjármálagernings þegar fjárhæð þessi var fundin. Þess er aðeins getið í stefnu að stefnandi hafi krafist þess með bréfi 13. september 2013 að stefndi seldi fjármálagerninginn fyrir þessa fjárhæð að lágmarki, en skýring á því hvernig sú fjárhæð er fundin er ekki sjáanleg í gögnum málsins. Samkvæmt framansögðu er ekki ljóst hvernig fjárhæðir stefnukrafna eru fundnar. Telst málatilbúnaður stefnanda svo óskýr að þessu leyti að hann fullnægir ekki kröfum 80. gr. laga um meðferð einkamála til þess að efnisdómur verði lagður á málið. 

Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi hvorki hafa lagt málið upp með nægilega skýrum hætti, þannig að ótvírætt sé að krafa hans sé orðin til, né lagt þann grundvöll að málshöfðun, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði lagður á málið. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að vísa verði málinu frá dómi.

Með vísun til framangreinds og 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn er 350.000 krónur.

Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Visoky Zamok Investments Ltd., 350.000 krónur í málskostnað.