- Eignarréttur
- Fasteign
- Afréttur
- Þjóðlenda
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 22. september 2011.
|
Nr. 293/2010.
|
Katrín Gústafsdóttir Guðríður Steinunn Oddsdóttir Sunnudalur ehf. Veiðiklúbburinn Strengur ehf. og Hofsárdalur ehf. (Ólafur Björnsson hrl. Torfi Ragnar Sigurðsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Indriði Þorkelsson hrl. Karl Óttar Pétursson hdl.) |
Eignaréttur. Fasteign. Afréttur. Þjóðlenda. Gjafsókn.
Með úrskurði 29. maí 2007, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Vopnafjarðarhreppi, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að hluti þess lands sem K, G, S, V og H töldu innan merkja jarða sinna Þ og H væri þjóðlenda. Í kjölfarið höfðuðu K, G, S, V og H mál gegn Í og kröfðust þess að úrskurðurinn yrði ógiltur og að viðurkennt yrði að landsvæðið væri háð beinum eignarrétti þeirra. Stofnað hafði verið til eignarréttar að landi jarðanna Þ og H með útgáfu nýbyggjarabréfa árið 1829 á grundvelli tilskipunar 15. apríl 1776 á þeirri forsendu að landið sem lagt var undir jarðirnar tvær hefði ekki verið háð beinum eignarrétti. Þess vegna taldi Hæstiréttur að útmæling sem gerð hafði verið að því tilefni réði frummörkum eignarlands jarðanna án tillits til þess hvernig landnámi á svæðinu kynni að hafa verið háttað nærri árþúsundi fyrr. Af útmælingargerðinni mátti ráða að útilokað væri að landið sem mælt var út fyrir Þ og H gæti hafa náð lengra til norðvesturs en miðað hafði verið við í úrskurði óbyggðanefndar. Lýsing á merkjum Þ og H í útmælingunni þótti glögg og gat lýsing í landamerkjabréfi H frá 1885 samrýmst henni. Aftur á móti voru landamerkjabréf H frá 1922 og landamerkjabréf fyrir Þ frá 1885 og 1922, sem áfrýjendur reistu meðal annars kröfur sínar á, í verulegu ósamræmi við útmælinguna. Engin gögn voru því til stuðnings að merki síðarnefndu landamerkjabréfanna gætu verið á rökum reist og voru þau því virt að vettugi. Ekki var talið að héraðsdómur frá árinu 2004 um eignarrétt að jörðinni H skipti máli við úrlausn málsins, enda ekki vikið að merkjum jarðarinnar í dóminum. Ekkert var fram komið um að hið umdeilda land hefði verið nýtt frá Þ eða H til annars en hefðbundinna afréttarnota en í samræmi við lög nr. 46/1905 gátu þau not ekki leitt af sér beinan eignarrétt. Af þessum sökum var Í sýknað af kröfum K, G, S, V og H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. mars 2010. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 21. apríl 2010 og áfrýjuðu þau öðru sinni 12. maí sama ár. Áfrýjendurnir Katrín Gústafsdóttir, Guðríður Steinunn Oddsdóttir og Sunnudalur ehf. krefjast þess að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 í máli nr. 3/2005 um að land innan eftirgreindra marka sé þjóðlenda: „Frá þeim stað þar sem kröfulína vegna Þorvaldsstaða, á milli Syðri-Hágangs og Kistufells, sker vatnaskil er kröfulínunni fylgt í Kistufellslæk og þeim læk í Miðfjarðará. Miðfjarðará er fylgt til suðvesturs og síðan í Miðlæk í Einstöku torfu. Þaðan er dregin lína yfir Kistufell í stefnu á Merkisstein á Urðarups og ræður sú lína, sem jafnframt er kröfulína vegna Þorvaldsstaða, að vatnaskilum á Kistufelli. Loks er vatnaskilum fylgt norðaustur að hinum fyrstnefnda punkti.“ Þau krefjast einnig að viðurkennt verði að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda og landsvæðið allt háð beinum eignarrétti þeirra sem eigenda jarðarinnar Þorvaldsstaða. Áfrýjendurnir Veiðiklúbburinn Strengur ehf. og Hofsárdalur ehf. krefjast þess að fellt verði úr gildi ákvæði í sama úrskurði um að land innan eftirfarandi marka sé þjóðlenda: „Frá þeim stað þar sem nyrðri kröfulína vegna Hamars, svo sem hún liggur frá Merkissteini á Urðarups í Einstöku torfu, sker vatnaskil á Kistufelli er vatnaskilum fylgt yfir Kistufell þar til þau skera syðri kröfulínu vegna Hamars ... Sú kröfulína liggur í stefnu frá Upsarbrún í Miðfjarðará og henni er fylgt norðvestur yfir Kistufell og í Miðfjarðará. Síðan er Miðfjarðará fylgt að Miðlæk og þeim læk í Einstöku torfu. Þaðan er dregin lína yfir Kistufell í stefnu á Merkisstein á Urðarups og ræður sú lína, sem jafnframt er kröfulína vegna Hamars (og Þorvaldsstaða), að hinum fyrstnefnda punkti í vatnaskilum á Kistufelli.“ Þessir áfrýjendur krefjast einnig að viðurkennt verði að innan þessara merkja sé engin þjóðlenda og landsvæðið allt háð beinum eignarrétti þeirra sem eigenda jarðarinnar Hamars. Þá krefjast allir áfrýjendur málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Dómendur í málinu fóru á vettvang 1. september 2011.
I
Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 1. mars 2004 til meðferðar landsvæði á norðausturlandi, sem réðist að vestan af Jökulsá á Fjöllum frá ósi hennar í Öxarfirði að Dyngjujökli, en þaðan var fylgt jaðri hans að Kverkfjöllum í Hveradal, þar sem dregin var lína til suðurs inn á Vatnajökul. Austurmörk svæðisins fylgdu Lagarfljóti frá ósum á Héraðssandi þangað sem Gilsá fellur í það, en þeirri á var svo fylgt og síðan mörkum Fljótsdalshrepps að Geldingafelli, þaðan sem lína var dregin inn á Vatnajökul. Að norðan náði svæðið að hafi. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 11. nóvember 2004, sem vörðuðu allt svæðið, og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Í júlí 2005 ákvað hún að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum og var eitt þeirra nr. 3/2005, sem náði til Vopnafjarðarhrepps. Það mál tók meðal annars til hluta þess lands, sem áfrýjendur telja innan merkja jarða sinna Þorvaldsstaða og Hamars og því háð beinum eignarrétti þeirra, en stefndi taldi það til þjóðlendna. Í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að hluti landsins væri þjóðlenda með þeim mörkum, sem áður greinir í dómkröfum áfrýjenda, en viðurkennt var á hinn bóginn að sá hluti landsins væri afréttareign jarðanna samkvæmt 2. mgr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Áfrýjendur höfðuðu mál þetta 17. janúar 2008 og er ekki deilt um að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Í héraði gerðu þau efnislega sömu kröfur og þau gera nú fyrir Hæstarétti, en með héraðsdómi var stefndi sýknaður af þeim.
II
Samkvæmt gögnum málsins eru jarðirnar Þorvaldsstaðir og Hamar á svæði, sem mun hafa kallast Almenningur, og liggja þær til norðvesturs frá bökkum Selár í Vopnafjarðarhreppi milli Almenningsár ytri að austan og Almenningsár fremri að vestan. Ekki liggur annað fyrir en að Almenningur hafi löngum verið nýttur sem upprekstrarland Vopnfirðinga og byggð hafi þar engin verið fyrr en kringum árið 1815, þegar maður að nafni Þorvaldur Þórðarson mun hafa sest þar að og reist býli, sem síðar var kennt við hann. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort einhver heimild hafi í öndverðu verið fengin fyrir stofnun þessa býlis, en á hinn bóginn tók sýslumaður fyrir 18. ágúst 1829 að mæla út land samkvæmt boði amtmanns 23. júlí 1828 handa bræðrunum Jónasi og Jóni Jónssonum „er naudsynlegt vyrdist til 2ia mátulegra og í medallagi gódra Nýbýla í tédum Almenníngi.“
Í bókun í gerðabók sýslumanns um þessa útmælingu, sem fór fram á grundvelli tilskipunar 15. apríl 1776 um fríheit fyrir þá, sem vilja upp taka eyðijarðir eða óbyggð pláss á Íslandi, var tekið fram að eigendur og ábúendur jarða í grennd við Almenning hefðu lýst yfir á manntalsþingi 15. ágúst 1829 að „þeir ekkert Tilkall giætu til Almennings þessa haft, og þessvegna ekki heldur hefdu á móti ad Bygd í hönum upptækist.“ Landsvæðinu, sem um ræðir, var síðan lýst á eftirfarandi hátt: „Hinn svonefndi Almenníngur liggur í Selárdal, ad Nordan- edr réttara sagt, vestanverdu vid Selá, er rennur eptir midium Dalnum alt í Sjó út. Ad utanverdu er Almenníngur adskilin frá Aslaugarstada Landi þeim fremsta ádrverandi Bæ í Selárdal ad nordanverdu Árinnar vid Þverá, er Ytri Almenníngsá nefnist, er fellur nær því beint af Brúnum ofan í Selá, enn þó svoleidis, ad Farvegur hennar geingur nokkud út á vid, og gjörir altsvo Landid lítid eitt breidara nidr vid Selá enn á Brúnum uppi. Ad austanverdu skiptir, eins og ádr er sagt, Selá, sem fyrir öllum Almenníngi rennur í Gliúfrum, og er ófær Yfirferdar fyrri en út vid Ytri Almenníngsá, Landinu edr Almenníngnum frá Löndum Jardanna Vakurstada, Ytrihlýdar og Fremrihlýdar í Vesturárdal, sem allar ega Land Nordur yfir Háls þann, er skilur Vesturardal og Selardal, alt í Selá. Ad sunnan- edr framan-verdu er Almenníngur adskilin frá Landsplátsi því, er Túnga nefnist, og Hofs Kyrkiu tiheyrir vid Þverá er Fremri Almenníngsá kallast, hvöred fellr af Brúnum, lítid eitt framá vid, ofaní Selá, svoleidis, ad hún eins og Ytri Almenníngsá, gjörir Landid lítid eitt breidara nedan til vid Selá nidr, heldr enn þad er upp vid Fiallsbryrnar. Ad Nordanverdu edr til Fialls upp, hefr Almenníngur eingin viss nátturleg Takmörk, önnur enn þau, ad hönum er eignad Land svo lángt upp sem Grasvegur nær, sem ekki er leingra en uppá Fiallsbrýrnar, því þá taka vid Melar, Sandar og ad öllu graslaus Öræfi. Allt þad Land, sem innan hérgreindra Ummerkia liggur, og Almenníngur kallast, er, eptir Ágétskíngu, hérum 1¼ Míla á Leingd, millum Ytri- og Fremri-Almenníngsár, en ekki meira en fra 1/8 til 1/6 Mílu á Breidd, sömuleidis eptir Ágétskan, frá Brúnum og nidur í Selá. Land þetta, sem eginlega er nokkud vidbrött Hálshlýd er med nokkrum, samt ei miög mörgum Melum, Höltum, og þarámillum Graslendis Ennum og Flóum, og er í því töluverdt Slægiuland, og vídslægt, en hvörgi eru þar Hardvellis-Balar.“
Í útmælingargerðinni kom fram að Jónas Jónsson hafi tveimur árum fyrr tekið sér bólfestu á eystri hluta Almennings og byggt þar upp bæ, sem nefndur væri Þorvaldsstaðir, en Jón Jónsson hafi á hinn bóginn um eins árs skeið haldið til á vestari hluta landsins og reist þar bæinn Hamar. Því var svo lýst hvernig landinu væri skipt milli þeirra sem hér segir: „Landamerkin millum Kotanna voru því sett: úr Landamerkiaklauf er liggur nidri vid Selá í Vördu sem stendur á Dýarhól, þadan í Vördu á Mel þeim er stendr í beinni Línu upp af tédum Merkium og þadan beint upp á Uppsir edr Melbrún þá hvar Grasvegurin hættir. Fyrir utan þessi Merki var Þorvaldsstödum útlagt Land alt út ad Ytri Almenníngsá, ofaní Selá, og upp svo lángt sem Grasvegur nær. En fyrir framan þau var Hamri útlagt Land alt fram ad Fremri Almenníngsá, ofaní Selá, og svo lángt upp sem Grasvegur nær.“ Óumdeilt er að amtmaður hafi 5. nóvember 1829 gefið út svonefnd nýbyggjarabréf vegna þessara jarða til Jónasar og Jóns, en þau bréf liggja ekki fyrir í málinu.
Getið var bæði um Þorvaldsstaði og Hamar í ritinu Jarðatal á Íslandi frá árinu 1847 og tiltekið að jarðirnar væru bændaeign, sú fyrrnefnda metin 6 hundruð að dýrleika, en sú síðarnefnda 4 hundruð. Í jarðamati fyrir Norður-Múlasýslu árið 1849 sagði að þessar jarðir væru nýbýli, á Þorvaldsstöðum væri útheyskapur bæði nógur og góður en um sumt nokkuð langsóttur, en á Hamri væru engjar „vídslægar“ en heyskapur langsóttur. Um báðar jarðirnar var tekið fram að þær ættu „afrétt fyrir sig“.
Landamerkjabréf var gert fyrir Þorvaldsstaði 25. júní 1885 og merkjum lýst sem hér segir: „Að austan og sunnan er Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal; að innan eða vestan er svo kölluð Merkigróf, sem liggur undan Urðarufs í Selá niður; að norðan er Miðfjarðará, er rennur út Miðfjarðarárdrög og út norður heiði; að utan er Kistufellslækur fyrir norðan Urðir, á Urðunum Almenningsárvötn, fyrir neðan Urðir Almenningsá, er fellur í Selá.“ Bréf þetta, sem var þinglesið 11. júní 1886, var áritað um samþykki vegna Hamars og jarðarinnar Leifsstaða.
Landamerkjabréf var einnig gert fyrir Hamar 25. júní 1885 og þinglesið sama dag og framangreint landamerkjabréf fyrir Þorvaldsstaði. Merkjum Hamars var lýst þar á eftirfarandi hátt: „Að austan og sunnan liggur Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal; að innan eða vestan liggur Þverá, sem kölluð er Almenningsá hin innri; hefur hún upptök undir Kistufelli og fellur niður í Selá; að norðan liggja Kistufellsurðir; að utan eða austan er svo kölluð Merkigróf, er liggur frá Urðarufs niður að Selá.“ Þetta bréf var áritað um samþykki af eiganda Þorvaldsstaða, svo og umboðsmanni Mælifells.
Samkvæmt gögnum, sem áfrýjendur hafa lagt fyrir Hæstarétt, samþykkti hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps 15. nóvember 1915 að selja Jörgen Sigfússyni jörðina Hamar fyrir 500 krónur og var afsal fyrir henni gefið út 18. sama mánaðar. Í afsalinu, sem var þinglesið 3. júlí 1917, var ekki getið um merki jarðarinnar. Til samræmis við þessi gögn bera áfrýjendur því ekki lengur við í málinu að Jörgen hafi keypt jörðina af stefnda, svo sem haldið var fram fyrir héraðsdómi.
Landamerkjabréf var aftur gert fyrir Þorvaldsstaði 31. júlí 1922 og voru merkin þar sögð vera eftirfarandi: „Að utan ytri Almenningsá ræður frá Selá að upptökum hennar, þá Kistufellslækur í Miðfjarðará, að norðan ræður Miðfjarðará í Miðlæk, þar næst að vestan Miðlækur á Einstökutorfu, þaðan yfir Kistufell beina stefnu á Merkistein á Urðarups, frá Merkjasteini í vörðu á brúninni og það í vörðu við Selá framan við Merkigil. Þá ræður Selá í Almenningsá ytri.“ Bréfið var áritað um samþykki af eigendum jarðanna Hamars, Leifsstaða, Ytri-Hlíðar, Vakursstaða og Lýtingsstaða og þinglesið 15. júní 1923.
Þá var jafnframt gert nýtt landamerkjabréf fyrir Hamar 4. ágúst 1922, sem einnig var þinglesið 15. júní 1923. Í það skipti voru merki Hamars sögð vera þessi: „Að austan liggur Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal. Að innan eða vestan liggur Þverá, sem kölluð er Almenningsá hin innri og ræður hún upp á Upsabrún, þaðan bein stefna í Miðfjarðará, að norðan ræður Miðfjarðará, að utan eða austan er svokölluð Merkigróf er liggur frá Selá upp í Urðarups síðan í einstaka torfu, sem er norðan við Kistufell og niður með Miðlæk í Miðfjarðará.“ Þetta bréf var áritað um samþykki af eigendum Þorvaldsstaða, Mælifells og Fremri-Hlíðar, svo og umboðsmanni Rjúpnafells.
Fyrir liggur í málinu að Hamar, sem virðist einnig hafa verið nefndur Ytri-Hamar, fór í eyði 1928, en á árunum 1869 til 1888 mun annað býli með heitinu Fremri-Hamar jafnframt hafa verið í landi jarðarinnar. Á Þorvaldsstöðum var á hinn bóginn búið til ársins 1952.
Áðurnefndur Jörgen Sigfússon mun hafa látist 1928 en eftir sem áður verið þinglýstur eigandi að Hamri þar til að gengnum dómi Héraðsdóms Austurlands 8. janúar 2004 í eignardómsmáli, sem 23 nafngreindir menn höfðuðu 5. nóvember 2003 til að fá eignarheimild meðal annars fyrir þeirri jörð. Í málinu var ekki tekið til varna gegn kröfum stefnenda, sem kváðust á nánar tiltekinn hátt leiða rétt sinn frá Jörgen, og voru þær teknar að fullu til greina.
III
Fyrir óbyggðanefnd kröfðust eigendur Þorvaldsstaða og Hamars þess að land jarðanna, eins og því var lýst í fyrrnefndum landamerkjabréfum 31. júlí og 4. ágúst 1922, yrði að öllu leyti talið háð beinum eignarrétti þeirra og því utan þjóðlendna. Eins og áður greinir nær þetta land til suðausturs að Selá, sem fellur þaðan áfram um 14 km leið til sjávar í Vopnafirði. Samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þorvaldsstaði ráðast merki jarðarinnar til norðausturs, sem eru um 15 km í beinni loftlínu sunnan frá Selá, af Almenningsá ytri, síðan Almenningsárvötnum og loks Kistufellslæk að mótum hans við Miðfjarðará. Frá Selá norður fyrir Almenningsárvötn snúa þessi merki að Leifsstöðum í Vopnafjarðarhreppi, en þaðan til Miðfjarðarár liggja þau að landsvæði í sveitarfélaginu Langanesbyggð, sem telst til þjóðlendna samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 í máli nr. 4/2005 og dómi Héraðsdóms Austurlands 5. mars 2010. Að norðvestan liggja merki Þorvaldsstaða samkvæmt landamerkjabréfinu að Miðfjarðará frá Kistufellslæk um 4 km leið suðvestur að Miðlæk, en þar tekur við land Hamars samkvæmt landamerkjabréfinu frá 4. ágúst 1922 og nær það áfram í suðvestur rúma 3 km með ánni að hornpunkti í Miðfjarðarárdrögum. Á þessu bili snúa merki beggja jarðanna að svonefndum afrétti Þórshafnarhrepps, sem er þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2005. Merki Hamars til suðvesturs samkvæmt sama landamerkjabréfi liggja frá síðastnefndum hornpunkti að norðanverðu í beinni línu um 10 km að upptökum Almenningsár fremri undir Kistufelli, en þaðan fylgja merkin henni tæpa 4 km suður til Selár. Handan þessara merkja er landsvæði, sem nefnt er Mælifell og deilt er um hvort heyri til þjóðlendna í hæstaréttarmálinu nr. 294/2010, sem rekið er samhliða þessu máli. Frá mótum Selár og Almenningsár fremri eru loks um 10 km í beinni loftlínu norðaustur að þeim stað, sem Almenningsá ytri fellur í Selá, en sunnan við Selá munu vera lönd jarðanna Rjúpnafells, Fremri-Hlíðar, Ytri-Hlíðar, Vakursstaða og Lýtingsstaða.
Stefndi krafðist þess fyrir óbyggðanefnd að mörk eignarlands Þorvaldsstaða og Hamars yrðu dregin frá þeim stað, þar sem Almenningsá ytri rennur úr Almenningsárvötnum og „eftir brúnum“ þangað sem 500 m hæðarlína skæri Almenningsá fremri. Þessa kröfu reisti stefndi á því að jörðunum hafi verið mælt út land á árinu 1829 til norðurs þangað, sem grasvegur hætti, en þetta yrði að skilja svo að landið næði ekki „lengra en á brúnir upp“, svo sem komist var að orði í greinargerð stefnda fyrir óbyggðanefnd. Markalínan, sem stefndi dró á þennan hátt, lá í meginatriðum samsíða Selá í um 4 km fjarlægð til norðvesturs frá henni, en fyrir nefndinni var ekki deilt um að suðaustan við þau mörk væri eignarland Þorvaldsstaða og Hamars.
Í úrskurði óbyggðanefndar var staðháttum á því svæði, sem aðilarnir deildu um, lýst þannig að það sé að stórum hluta í meira en 500 m hæð yfir sjávarmáli. Á svæðinu miðju rísi bratt fell, Kistufell, sem nái 820 m hæð, og séu þar vatnaskil. Norðvestan þess sé nokkuð flatlendur og gróinn flói með heitinu Miðfjarðarárdrög, en til suðausturs séu Ufsir á heiðarbrúninni upp af Selárdal. Nefndin hafnaði því að leggja til grundvallar landamerkjabréf Þorvaldsstaða og Hamars frá 1922, þar sem þau væru í ósamræmi við útmælingu lands undir nýbýli á þessum jörðum á árinu 1829. Þá hafnaði nefndin því einnig að draga mörk milli eignarlands og þjóðlendna á þann hátt, sem stefndi krafðist, en miðaði þess í stað við vatnaskil við Kistufell, enda þótti ljóst að mörk samfelldrar gróðurþekju norðvestur frá Selárdal hafi lengst getað hafa náð þangað þegar útmælingin var gerð 1829. Þessi mörk um vatnaskilin liggja um 7 til 8 km frá Selá. Í málinu unir stefndi við niðurstöður óbyggðanefndar.
IV
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá því hvernig landnámi í Vopnafirði er lýst í Landnámabók. Af þeirri lýsingu verða engar ályktanir dregnar um hversu langt inn til landsins einstök landnámsvæði hafi getað náð. Við úrlausn málsins verður á hinn bóginn að gæta að því að stofnað var til eignarréttar að landi jarðanna Þorvaldsstaða og Hamars með útgáfu nýbyggjarabréfa 5. nóvember 1829 eftir reglum tilskipunar 15. apríl 1776 á þeirri forsendu að þetta land í svokölluðum Almenningi hafi á þeim tíma ekki verið háð beinum eignarrétti annarra. Útmælingin á landi undir þessi nýbýli 18. ágúst 1829, sem nýbyggjarabréfin voru reist á, hlýtur þannig að ráða frummörkum eignarlands þessara jarða án tillits til þess hvernig landnámi í Vopnafirði kunni að hafa verið háttað nærri árþúsundi fyrr.
Hér að framan er rakin lýsing á Almenningi, sem sýslumaður færði í gerðabók við útmælinguna 18. ágúst 1829. Í upphafi þeirrar lýsingar sagði að „Almenningur liggur í Selárdal“ fyrir norðvestan Selá, sem renni eftir dalnum miðjum. Nokkru síðar í henni sagði eftirfarandi: „Ad Nordanverdu edr til Fialls upp, hefr Almenníngur eingin viss nátturleg Takmörk, önnur enn þau, ad hönum er eignad Land svo lángt upp sem Grasvegur nær, sem ekki er leingra en uppá Fiallsbrýrnar, því þá taka vid Melar, Sandar og ad öllu graslaus Öræfi.“ Sem fyrr greinir rís land norðvestur af Selárdal í yfir 800 m hæð í Kistufelli og er bersýnilegt að hvorki verði leitað lengra að ítrustu mörkum dalsins né þeim fjallsbrúnum, sem grasvegur náði til. Í útmælingargerðinni sagði að auki að allt landið „sem innan hérgreindra Ummerkia liggur, og Almenníngur kallast“ væri „eptir Ágétskíngu“ um 1¼ míla á lengd milli Almenningsánna ytri og fremri, en ekki meira en „fra 1/8 til 1/6 Mílu á Breidd“ frá brúnum niður að Selá. Lengd þessa landsvæðis eftir bökkum Selár er sem áður segir um 10 km í beinni loftlínu, en hlutfallslega mundi breidd landsins til norðvesturs frá ánni þá hafa verið innan við 2 km eftir þessari ágiskun sýslumanns. Þegar að þessu virtu er útilokað að líta svo á að landið, sem mælt var út fyrir nýbýlin, geti hafa náð lengra í norðvestur en til vatnaskila við Kistufell í meira en 7 km fjarlægð frá Selá, en við þau miðaði óbyggðanefnd sem áður segir niðurstöðu sína um mörk eignarlands Þorvaldsstaða og Hamars gagnvart þjóðlendu.
Í dómum Hæstaréttar, sem gengið hafa í málum um mörk eignarlanda og þjóðlendna, hefur ítrekað verið vísað til þess að þótt landamerkjabréf fyrir jörðum feli almennt í sér ríka sönnun fyrir því að land sem þau taki til sé háð beinum eignarrétti, verði að gæta að því að með gerð þeirra hafi ekki verið unnt að auka einhliða við lönd eða önnur réttindi umfram það, sem verið hafði. Þurfi því að líta til þess hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist hún ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins. Í máli þessu háttar svo til að fyrir hendi er glögg lýsing í útmælingunni 18. ágúst 1829 á merkjum Þorvaldsstaða og Hamars, sem landamerkjabréf fyrir síðarnefndu jörðina 25. júní 1885 getur að auki samrýmst. Yngra landamerkjabréf fyrir hana 4. ágúst 1922 og landamerkjabréfin fyrir Þorvaldsstaði 25. júní 1885 og 31. júlí 1922 eru á hinn bóginn í verulegu ósamræmi við þessar eldri heimildir að því er varðar mörk jarðanna til norðvesturs. Engin gögn liggja fyrir til stuðnings því að þau merki geti verið á rökum reist og er þar af leiðandi óhjákvæmilegt að virða þessi landamerkjabréf að því leyti að vettugi.
Í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Austurlands 8. janúar 2004, þar sem dæmt var um eignarrétt að jörðinni Hamri, var hvergi vikið að merkjum hennar. Þegar af þeirri ástæðu getur sá dómur engu skipt við úrlausn þessa máls.
Í málinu er ekkert fram komið um að land norðvestan vatnaskila við Kistufell hafi verið nýtt frá Þorvaldsstöðum eða Hamri til annars en hefðbundinna afréttarnota og þá einkum til sumarbeitar fyrir búfénað, en ætla verður að fyrrgreind ummæli í jarðamati fyrir Norður-Múlasýslu árið 1849 um að þessar jarðir hefðu afrétt fyrir sig hafi varðað þetta land. Slík afnot geta ekki leitt af sér beinan eignarrétt að landinu samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1905 um hefð, þótt á grundvelli þeirra geti hafa stofnast sú afréttareign Þorvaldsstaða og Hamars, sem viðurkennd var í úrskurði óbyggðanefndar.
Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Katrínar Gústafsdóttur, Guðríðar Steinunnar Oddsdóttur, Sunnudals ehf., Veiðiklúbbsins Strengs ehf. og Hofsárdals ehf., fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2009.
Mál þetta, sem upphaflega var tekið var til dóms 19. janúar 2009, en endurupptekið 30. janúar og 20. nóvember sl., og þá dómtekið að nýju, er höfðað með stefnu, birtri 17. janúar 2008.
Stefnendur eru Katrín Gústafsdóttir, Borgartúni 30b, Reykjavík, Guðríður Steinunn Oddsdóttir, Lágholti 2b, Mosfellsbæ og Sunnudalur ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, öll eigendur Þorvaldsstaða í Vopnafjarðarhreppi, og Veiðiklúbburinn Strengur ehf., Háaleitisbraut 63, Reykjavík og Hofsárdalur ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, eigendur Hamars, einnig í Vopnafjarðarhreppi.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur
I. Eigendur Þorvaldsstaða krefjast þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, þess efnis að hluti jarðarinnar Þorvaldsstaða sé þjóðlenda, þ.e. eftirfarandi úrskurðarorð:
„Landsvæði norðvestan Kistufells, utan landamerkja jarðarinnar Þorvaldsstaða, svo sem það er afmarkað hér á eftir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
Frá þeim stað þar sem kröfulína vegna Þorvaldsstaða, á milli Syðri-Hágangs og Kistufells, sker vatnaskil er kröfulínunni fylgt í Kistufellslæk og þeim læk í Miðfjarðará. Miðfjarðará er fylgt til suðvesturs og síðan í Miðlæk í Einstöku torfu. Þaðan er dregin lína yfir Kistufell í stefnu á Merkisstein á Urðarups og ræður sú lína, sem jafnframt er kröfulína vegna Þorvaldsstaða, að vatnaskilum á Kistufelli. Loks er vatnaskilum fylgt til norðausturs að hinum fyrstnefnda punkti.
Sama landsvæði er í afréttareign Þorvaldsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
Einnig krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra eignarheimilda Þorvaldsstaða, og þar með að allt land Þorvaldsstaða sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu og kort er sýni landamerkjapunkta, svo og landamerkjabréf Þorvaldsstaða frá 31. júlí 1922, þannig afmarkað:
Að utan ytri Almenningsá ræður frá Selá að upptökum hennar, þá Kistufellslækur í Miðfjarðará að norðan ræður Miðfjarðará í Miðlæk, þar næst að vestan Miðlækur í Einstökutorfu, þaðan yfir Kistufell beina stefnu á Merkistein á Urðarups, frá Merkjasteini í vörðu á brúninni og það í vörðu við Selá framan við Merkigil. Þá ræður Selá í Almenningsá ytri.
II. Eigendur Hamars krefjast þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, þess efnis að hluti jarðarinnar Hamars sé þjóðlenda, þ.e. eftirfarandi úrskurðarorð:
„Landsvæði norðvestan Kistufells, utan landamerkja jarðarinnar Hamars, svo sem það er afmarkað hér á eftir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
Frá þeim stað þar sem nyrðri kröfulína vegna Hamars, svo sem hún liggur frá Merkissteini á Urðarups í Einstöku torfu, sker vatnaskil á Kistufelli er vatnaskilum fylgt yfir Kistufell þar til þau skera syðri kröfulínu vegna Hamars (sem jafnframt er nyrðri kröfulína vegna Mælifells). Sú kröfulína liggur í stefnu frá Upsarbrún í Miðfjarðará og henni er fylgt norðvestur yfir Kistufell og í Miðfjarðará. Síðan er Miðfjarðará fylgt að Miðlæk og þeim læk í Einstöku torfu. Þaðan er dregin lína yfir Kistufell í stefnu á Merkisstein á Urðarups og ræður sú lína, sem jafnframt er kröfulína vegna Hamars (og Þorvaldsstaða), að hinum fyrstnefnda punkti í vatnaskilum á Kistufelli.
Sama landsvæði er afréttareign Hamars, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
Þá krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra landamerkja Hamars, og þar með þess að allt land Hamars sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu, sem sé í samræmi við landamerkjabréf jarðarinnar frá 4. ágúst 1922, þannig afmarkað:
Að austan liggur Selá (p.2). Að innan eða vestan liggur Þverá (p.2), sem kölluð er Almenningsá Innri og ræður hún upp á Upsabrún (p.3), þaðan bein stefna í Miðfjarðará (p.4). Að norðan ræður Miðfjarðará (frá p.4 að p.5). Að utan eða austan er svokölluð Merkigróf (p.1), er liggur frá Selá upp í Urðarufs (p.8), síðan í einstaka torfu (p.6), sem er norðan við Kistufell (p.7) og niður með Miðlæk í Miðfjarðará (p.5).
Loks krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Málavextir
Stefnendur eru þinglýstir eigendur jarðanna Þorvaldsstaða og Hamars í Vopnafjarðarhreppi. Með bréfi 1. mars 2004 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra að nefndin hefði ákveðið að taka til umfjöllunar landsvæði sem tæki yfir sveitarfélög í Múlasýslum, auk hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Kröfulýsingar fjármálaráðherra bárust óbyggðanefnd 11. nóvember 2004. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblöðum tilkynnti óbyggðanefnd um meðferð á ofangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, um leið og skorað var á þá sem töldu til eignarréttinda á landsvæðinu að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni í síðasta lagi 31. mars 2005. Sá frestur var síðar framlengdur lítillega og lýstu stefnendur kröfum sínum í samræmi við þinglýstar eignarheimildir og landamerkjabréf jarðanna. Að loknum munnlegum málflutningi fyrir óbyggðanefnd var málið tekið til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, Vopnafjarðarhreppur. Niðurstaða óbyggðanefndar var sú að umþrætt landsvæði hvorrar jarðar, norðvestan Kistufells, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr. sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en jafnframt afréttareign hvorrar jarðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Stefnendur geta ekki fallist á niðurstöðu óbyggðanefndar og hafa því höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur halda því fram að ráða megi af Landnámu að allt land í Vopnafjarðarhéraði hafi í öndverðu verið numið og undirorpið beinum eignarrétti síðan. Sérstaklega benda þeir á að samkvæmt lýsingu Landnámu nam Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna, land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness, og bjó að Torfastöðum. Þó telja þeir ólíklegt að Hróaldur hafi búið á Torfastöðum í Vesturárdal, enda hafi bær hans þá verið í jaðri hins víðlenda landnáms. Nær væri að ætla að bústaður hans hafi verið að Hróaldsstöðum í Selárdal, enda sé þar nóg landrými og stutt til sjávar. Þrátt fyrir að Landnáma hafi oft verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands frá 1960, bls. 726 og 1994, bls. 2228, telja stefnendur engu að síður að taka verði hana með fyrirvara sem réttarheimild. Hins vegar hafna þeir sjónarmiðum stefnda, þess efnis að landnám hafi ekki náð til heiða og fjalla í Selárdal, enda byggist þau ekki á neinum sönnunargögnum og fari í bága við heimildir um búsetu, gróðurfar og nýtingu lands. Telja þeir ljóst að landið hafi við landnám verið mun grónara en í dag, eða upp í 600 700 metra hæð, og því geti atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ekki ráðið úrslitum þegar lagt sé mat á það nú hvort landið sé háð eignarrétti eður ei. Þá halda stefnendur því fram að óbyggðanefnd hafi fallist á að allt land í Vopnafirði hafi verið numið í öndverðu, m.a. Smjörfjöllin, sem rísi hæst í 1255 m hæð yfir sjávarmáli. Því séu engin rök fyrir því að land stefnenda, sem liggi mun lægra og að mestu vel gróið, hafi þá ekki verið numið. Stefnendur vísa einnig til þess að ýmsar heimildir um landamerki jarða í Vopnafirði séu ævafornar, t.d. máldagar, vísitasíur og lögfestur, og bendi þær til þess að fullkominn eignarréttur eigenda hafi verið virtur á landinu. Því til stuðnings nefna stefnendur m.a. lýsingar á svæðinu og sögu þess, sem finna megi í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi, auk annarra skjallegra heimilda.
Stefnendur byggja kröfur sínar á landamerkjabréfum umræddra jarða, bréfi Þorvaldsstaða frá 31. júlí 1922 og bréfi Hamars frá 4. ágúst 1922, en bréfunum hafi verið þinglýst, þau færð í landamerkjabók, án athugasemda og hafi síðan ráðið merkjum jarðanna. Úrskurður óbyggðanefndar sé því rangur, enda í andstöðu við landamerkjabréfin og önnur framlögð gögn. Um leið brjóti hann í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu. Eignarréttarkröfu sína byggja stefnendur á þeirri meginreglu eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland, og beri sá sem haldi öðru fram sönnunarbyrði fyrir því. Halda stefnendur því fram að land umræddra jarða hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti og fari landnámsheimildir ekki í bága við landamerkjabréf jarðanna. Telja stefnendur ljóst að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.
Stefnendur minna á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdarvaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau, ef hann væri fyrir hendi. Samkvæmt því byggja stefnendur á því að landamerkjabréf jarðanna bendi til þess að um sé að ræða landsvæði, sem háð sé beinum eignarrétti. Umrædd landamerkjabréf séu einnig byggð á eldri heimildum, og vísa stefnendur þar til útmælingargjörða á landi Þorvaldsstaða og Hamars frá 18. ágúst 1829, sem þeir telja að fari ekki gegn landamerkjabréfunum. Í kröfugerð ríkisins fyrir óbyggðanefnd hafi heldur ekkert komið fram sem bendi til annars en að allt land innan landamerkja jarðanna hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Á þessu svæði sé enginn almenningsafréttur og hafi enginn gert kröfu til slíks, enda allt land á svæðinu innan þinglýstra merkja. Þá telja stefnendur að það hafi mikla þýðingu að eigendur hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum væri rétt lýst og eigendur grannjarða virt og viðurkennt merkin. Eigendur jarðanna hafi sjálfir nýtt öll landgæði þeirra og hafi samþykki þeirra þurft við nýtingu annarra. Með þetta í huga byggja stefnendur mál sitt einnig á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, en hann hafi lagagildi hér á landi og veiti hann eignarréttinum sjálfstæða vernd, samhliða ákvæði stjórnarskrárinnar. Bendi dómar Evrópudómstólsins til þess að réttmætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggist á því að ríkisvaldið hafi með athöfnum eða athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, t.d. með dómum, í samningum og með því að þinglýsa eignaskjölum athugasemdalaust um áratuga skeið, séu varðar af mannréttindaákvæðunum. Á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, um að sambærileg mál hljóti sömu niðurstöðu, telja stefnendur að ekki verði gerðar ríkari sönnunarkröfur á hendur þeim en öðrum landeigendum. Þá telja stefnendur að hafa beri í huga að hugtakið „eign“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu hafi af Mannréttindadómstóli Evrópu verið túlkað á þá leið að það hefði sjálfstæða merkingu. Í því felist að um eign geti verið ræða í skilningi ákvæðisins, þótt dómstólar viðkomandi aðildarríkis hafi ekki talið hið sama vera eign samkvæmt innanlandsrétti.
Eignarréttarkröfur stefnenda eru einnig reistar á hefð og venjurétti. Um ómunatíð hafi allir litið svo á að land Þorvaldsstaða og Hamars væri eignarland, numið í öndverðu, og hafi enginn haldið öðru fram fyrr en stefndi nú, við meðferð þjóðlendumála á svæðinu. Byggja stefnendur á því að úr því að hefðarlög heimili eignarhefð lands í opinberri eigu, hljóti þeim mun fremur að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð. Sjónarmið stefnenda um hefð séu því til frekari staðfestingar náminu og til þess að festa í sessi eignarrétt þeirra. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til dóma Hæstaréttar frá 1997, bls. 2792 og 1939, bls. 28, þar sem eignarhefð hafi verið viðurkennd, svo og til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli helgu klaustranna gegn Grikklandi frá 9. desember 1994. Um leið árétta þeir að útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda frá landnámi til dagsins í dag, en telja verði eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa. Í ljósi fyrirliggjandi gagna um ráðstöfun landsins halda stefnendur því fram að þeir hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignartilkalli sínu, og því sé stefnda að sanna að landið sé þjóðlenda. Loks telja stefnendur að venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum, þegar tekin sé afstaða til þess hvort jarðirnar séu að öllu leyti háðar beinum eignarrétti.
Stefnendur taka einnig fram að með lögum nr. 58/1998 hafi það ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um áratuga skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi, en láta þá ella bera hallann af vafa um slíkt. Því verði lög nr. 58/1998 ekki skýrð á þá leið að stefnendur, sem þinglýstir eigendur jarðanna Þorvaldsstaða og Hamars, þurfi frekar að sýna fram á að umrætt landsvæði sé eignarland, og þar með utan þjóðlendu. Í ljósi eignarheimilda sinna, og viðurkenningar ríkisins í reynd, hafi eigendur jarðanna lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að afréttirnir væru eign þeirra, sem yrði ekki af þeim tekin bótalaust.
Til áréttingar þeirri málsástæðu að leggja beri landamerkjabréf jarðanna til grundvallar kröfum stefnenda vísa þeir til þess að landamerkjabréfin fari ekki í bága við eldri heimildir, og þá einkum útmælingargjörð á landi jarðanna frá 18. ágúst 1829, en þá hafi landi úr sameignarlandi Vopnfirðinga, er kallaðist Almenningur, verið útvísað fyrir tvö nýbýli. Í kjölfarið, eða 5. nóvember 1829, hafi bræðrunum Jónasi Jónssyni á Þorvaldsstöðum og Jóni Jónssyni á Hamri verið veitt byggingarbréf fyrir jörðunum. Í landamerkjabréfum jarðanna, sem bæði séu frá 25. júní 1885 og þinglýst 11. júní 1886, segi svo um mörk jarðanna:
„Jörðin Þorvaldsstaðir í Vopnafjarðarhrepp á land innan þeirra landamerkja, er nú skulu greind: Að austan og sunnan er Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal; að innan eða vestan er svokölluð Merkigróf, sem liggur undan Urðarufs í Selá niður; að norðan er Miðfjarðará, er rennur út Miðfjarðarárdrög og út norður heiði; að utan er Kistufellslækur fyrir norðan Urðir, á Urðunum Almenningsárvötn, fyrir neðan Urðir Almenningsá, er fellur í Selá.“
Undir bréfið rita Stefán Jónasson, eigandi Þorvaldsstaða, en einnig Einar Jónsson, eigandi Hamars, og Stefán Jónsson á Leifsstöðum.
Í landamerkjabréfi Hamars frá sama tíma segi svo:
„Jörðin Hamar í Vopnafjarðarhreppi á land innan þeirra landamerkja er nú skulu greind: að austan og sunnan liggur Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal; að innan eða vestan liggur Þverá, sem kölluð er Almenningsá hin innri; hefur hún upptök sín undir Kistufelli og fellur niður í Selá; að norðan liggja Kistufellsurðir; að utan eða austan er svokölluð Merkigróf, er liggur frá Urðarufs niður að Selá.“
Einar Jónsson, eigandi Hamars, ritaði undir bréf þetta, en einnig Jón Jónsson, umboðsmaður Mælifells, og Stefán Jónasson, eigandi Þorvaldsstaða. Fram kemur í stefnu að Jörgen Sigfússon í Krossavík hafi á árinu 1916 keypt jörðina Hamar af íslenska ríkinu.
Í stefnu er einnig greint frá því að ný landamerkjabréf hafi verið gerð fyrir báðar jarðirnar á árinu 1922. Landamerkjabréf Þorvaldsstaða sé dagsett 31. júlí það ár og því þinglýst 15. júní 1923. Um mörk jarðarinnar segi þar svo:
„ Að utan ytri Almenningsá ræður frá Selá að upptökum hennar, þá Kistufellslækur í Miðfjarðará, að norðan ræður Miðfjarðará í Miðlæk, þar næst að vestan Miðlækur á Einstökutorfu, þaðan yfir Kistufell beina stefnu á Merkis-stein á Urðarups, frá Merkjasteini í vörðu á brúninni og það<an> í vörðu við Selá framan við Merkigil. Þá ræður Selá í Almenningsá ytri.“
Undir bréfið ritaði Kristján Benedikt Stefánsson, eigandi Þorvaldsstaða, en einnig var það samþykkt af eigendum nágrannajarðanna Ytri-Hlíðar, Vakursstaða, Lýtingsstaða, Leifsstaða og Hamars.
Útbúið var einnig nýtt landamerkjabréf fyrir Hamar 4. ágúst 1922 og því þinglýst 15. júní 1923. Þar segi svo um mörk jarðarinnar:
„Að austan liggur Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal. Að innan eða vestan liggur Þverá, sem kölluð er Almenningsá hin innri og ræður hún upp á Upsabrún, þaðan bein stefna í Miðfjarðará, að norðan ræður Miðfjarðará, að utan eða austan er svokölluð Merkigróf er liggur frá Selá uppí Urðarups. Síðan í einstaka torfu, sem er norðan við Kistufell og niður með Miðlæk í Miðfjarðará.“
Undir bréfið ritaði Jörgen Sigfússon, eigandi Hamars og Mælifells, en einnig var það samþykkt af eigendum Þorvaldsstaða, Fremrihlíðar og Rjúpnafells.
Kröfur stefnenda í máli þessu fara saman við lýsingar á mörkum jarðanna samkvæmt hinum nýrri landamerkjabréfum.
Til frekari stuðnings kröfum sínum vísa stefnendur enn fremur til eignardóms Héraðsdóms Austurlands í málinu nr. 310/2003, þar sem viðurkenndur hafi verið eignarréttur þáverandi eigenda að jörðunum Hamri, Mælifelli og Selsárvöllum.
Stefnendur mótmæla niðurstöðum í úrskurði óbyggðanefndar og leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
Í fyrsta lagi horfi óbyggðanefnd fram hjá tilgangi laga um þjóðlendur, sem fyrst og fremst hafi verið sá að gera ríkið að eiganda landsvæða sem enginn ætti, svo sem hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Óbyggðanefnd eigi því að finna út hver þessi eigendalausu landsvæði séu. Land Þorvaldsstaða og Hamars sé hins vegar ekki eigendalaust, eins og heimildarskjöl vitni um. Þá benda þeir á að samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 sé að finna skilgreiningu á eignarlandi og falli sú skilgreining að þrætusvæðinu, þar sem eigendur hafi farið með öll venjuleg eignarráð þess. Í sama ákvæði sé einnig að finna skilgreiningu á þjóðlendu. Telja stefnendur að leggja verði sönnunarbyrði á stefndu um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þrætusvæðanna. Stefnendur telja einnig óumdeilt að þrætusvæðið sé innan upphaflegs landnáms, miðað við landnámslýsingar. Því sé það stefnda að sýna fram á að beins eignarréttar stefnenda njóti ekki við innan þinglýstra merkja. Byggja stefnendur á því að sú sönnunarregla sé eðlileg með hliðsjón af því að stefnendur hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landinu, eignardóm og önnur gögn, er sýni að innan landamerkjanna hafi eignarréttur stefnenda verið virtur af öllum aðilum.
Í öðru lagi mótmæla stefnendur þeirri staðhæfingu óbyggðanefndar að útmælingar jarðanna frá 1829, á grundvelli nýbýlatilskipunar, nái skemur en síðari landamerkjabréf jarðanna. Telja þeir ekkert annað liggja fyrir en að „grasvegur“ nái að hreppamörkum við Miðfjarðará, auk þess sem eldra landamerkjabréf Þorvaldsstaða lýsi landamerkjum um Kistufellslæk í Miðfjarðará. Þá sé óljóst hvar vatnaskil séu á þessu svæði, og sé því einnig mótmælt að þau hafi ráðið merkjum eignarlands og eigendalauss lands á þessum slóðum.
Stefnendur byggja einnig á því að landamerkjabréf jarðanna frá 1922 séu nákvæmust af þeim merkjabréfum sem gerð hafi verið, auk þess sem þau séu árituð af eigendum aðliggjandi jarða. Að auki styðjist þau bréf við efnahagsleg, söguleg og náttúruleg rök. Þannig falli mörk hreppa og jarða saman og í meginatriðum falli þau að landfræðilegum mörkum, svo sem vatnsföllum og vatnaskilum. Þá hafi óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að enginn sameiginlegur afréttur sé á svæðinu. Af þeirri niðurstöðu hljóti að leiða að landið sé hluti af jörðunum, og sé það í samræmi við heimildir Landnámu um að Vopnafjörður hafi allur verið numinn í öndverðu. Að sama skapi eigi sú niðurstaða óbyggðanefndar, að skipta landinu upp í aðskilda afrétti sem hver um sig tilheyri sinni jörð, sér hvorki stoð í réttarreglum né sögulegum heimildum. Jafnframt telja stefnendur það rökleysu að telja landið utan merkja í afréttareign viðkomandi jarðar, enda hafi það orð ekki skýra lögfræðilega merkingu.
Í þriðja lagi vísa stefnendur á bug þeim sjónarmiðum sem þeir telja birtast í úrskurði óbyggðanefndar að eldri, óljósar, heimildir um landamerki, m.a. landamerkjabréf sem gert sé á grundvelli laga nr. 5/1882, skuli ganga framar löglegu landamerkjabréfi sem samið hafi verið eftir setningu laga nr. 41/1919, um landamerki. Í því sambandi vísa þeir til þess að eldri landamerkjalög frá 1882 hafi ekki þótt ná tilgangi sínum í því að koma á festu og nákvæmni í skráningu landamerkja. Úr því hafi verið bætt með lögum nr. 41/1919, en þá hafi m.a. sú skylda verið lögð á landeigendur að afhenda skyldi hreppstjóra landamerkjaskrá, sem átti að rannsaka hvort allir aðilar hefðu samþykkt hana, og afhenda hana að því búnu sýslumanni til þinglýsingar. Hafi þetta verið gert til að tryggja að skrárnar yrðu löglegar, enda hreppstjóra almennt innan handar að afla sér upplýsinga um merkjavafa eða merkjadeilur í hreppnum, ólíkt fjarlægum valdsmönnum. Þannig hafi verið skerpt á ábyrgð hins opinbera á réttri framkvæmd laganna, um leið og sönnunargildi landamerkjaskráa hafi verið aukið til muna. Telja stefnendur að sú óhóflega sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á stefnendur með því að krefjast sannana um landnám, og síðan framsal eignarréttar á hinu umþrætta landsvæði, fari í bága við ákvæði laga nr. 41/1919, eignarréttarákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu.
Í fjórða lagi hafna stefnendur rökstuðningi óbyggðanefndar um að eignarhefð hafi ekki unnist á þrætusvæðinu. Benda þeir á að í úrskurði nefndarinnar komi fram að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða utan landamerkja jarðar, en einnig að gildistaka hefðarlaga 1905 skipti máli og hljóti að styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum. Fá stefnendur ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið óbyggðanefndar eigi hér ekki við, þar sem þrætusvæðið sé innan athugasemdalausra þinglýstra landamerkja og háð einkanýtingarrétti stefnenda. Telja stefnendur að niðurstaða óbyggðanefndar sé röng, og vísa þá til dómafordæma, bæði innanlands og utan, en einnig sé hún í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrár.
Í fimmta lagi mótmæla stefnendur niðurstöðu óbyggðanefndar um þýðingu kaupa forvera stefnenda á jörðinni Hamri árið 1916 og síðar eignardómi um jörðina, sem kveðinn hafi verið upp í Héraðsdómi Austurlands 8. janúar 2004. Telja stefnendur ljóst að með þeim dómi hafi beinn eignarréttur að jörðinni verið staðfestur og að afmörkun jarðarinnar miðaðist við þinglýst landamerki hennar. Í ljósi þessa eignardóms eigi stefnendur lögmæta væntingu til þess að jörðin teljist eignarland. Árétta þeir að eignardómsmál þetta hafi verið höfðað eftir gildistöku þjóðlendulaga og hafi ríkinu því verið í lófa lagið að láta málið til sín taka, ef það hefði verið ósátt við dómkröfur, sem birtar voru í Lögbirtingablaðinu.
Í sjötta og síðasta lagi telja stefnendur að fullnægjandi rökstuðning skorti fyrir niðurstöðu óbyggðanefndar í úrskurði hennar. Fari úrskurður nefndarinnar því í bága við ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 16. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998.
Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. og 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu sáttmálans. Einnig er vísað til laga um þjóðlendur nr. 58/1998, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þá er byggt á meginreglum eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, hefðarlögum nr. 14/1905, almennum reglum um ítaksrétt og stofnun ítaka, um traustfang og traustnám, svo og almennum reglum íslensks réttar um tómlæti. Um heimild til samaðildar stefnenda er vísað til 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að landsvæði þau sem mál þetta varði séu svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðin hafi aldrei verið undirorpin beinum eignarétti, og að nýting þeirra hafi ekki verið með þeim hætti. Sönnunarbyrði um tilvist beins eignaréttar að landsvæðunum, eða einstökum hlutum þeirra, hvíli ótvírætt á stefnendum. Að dómi stefnda byggir óbyggðanefnd úrskurði sína á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum á framlögðum gögnum, ásamt skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi nefndin talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58/1998 hafi hin umdeildu landsvæði talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma. Þá tekur stefndi undir þau sjónarmið óbyggðanefndar að fyrirliggjandi heimildir bendi til þess að um sé að ræða afréttarsvæði, sem ekki séu undirorpin beinum eignarrétti. Gerir stefndi niðurstöður nefndarinnar að sínum, til stuðnings sýknukröfu sinni.
Til frekari áréttingar bendir stefndi á að bæði Þorvaldsstaðir og Hamar hafi verið heiðarbýli, sem stofnað hafi verið til á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar á svokölluðum Almenningi, utan landamerkja jarða á svæðinu. Árið 1829 hafi, undir stjórn sýslumanns og að skipan amtsyfirvalda, farið fram skoðunar-, útvísunar- og skuldsetningargerð yfir nauðsynlegt land fyrir tvö nýbýli á Almenningi. Almenningi hafi þá verið skipt þannig milli býlanna að Þorvaldsstöðum var útlagt land að norðanverðu en Hamri að sunnanverðu. Í útmælingargerðinni sé norður- og norðvesturmörkum svæðisins þannig lýst:
„Ad Nordanverdu edr til Fialls upp, hefr Almenníngur eingin viss nátturleg Takmörk, önnur enn þau, ad hönum er eignad Land svo lángt upp sem Grasvegur nær, sem ekki er Leingra en upp á Fiallsbrýrnar, því þá taka við Melar, Sandar og ad öllu graslaus Öræfi. Alt þad Land, sem innan hérgreindra Ummerkia Liggur, og Almenníngur kallast, er, eptir Ágétskíngu, hérum 1 ¼ Míla á Leingd, millum Ytri- og Fremri-Almenníngsár, en ekki meira en fra 1/8 til 1/6 Míla á breidd, sömuleidis eptir Ágétskan, frá brúnum og nidur í Selá.“
Landamerkjum milli jarðanna sé einnig lýst í útmælingargerðinni, þannig:
„... úr Landamerkiaklauf er liggur nidri við Selá í Vördu sem stendr á Dýarhól, þadan í Vördu á Mel þeim er stendr i beinni Línu upp af tédum Merkium og þadan beint upp á Uppsir edr Melbrún þá hvar Grasvegurin hættir.“
Af hálfu stefnda er fallist á að hið útmælda landsvæði Þorvaldsstaða og Hamars sé eignarland, en norðan og norðvestan þess sé þjóðlenda, þ.e. hið umþráttaða svæði í máli þessu. Um leið telur stefndi að landamerkjabréf jarðanna, og einkum hin yngri frá 1922, fái ekki samrýmst útmælingargerðinni frá 1829. Í landamerkjabréfunum sé merkjum jarðanna lýst nokkru norðar en fram komi í útmælingargerðinni, eða við Miðfjarðará í stað enda grasvegarins. Tekur stefndi þannig undir sjónarmið óbyggðanefndar um að í hinum yngri heimildum séu merki jarðanna afmörkuð lengra inn til landsins en í útmælingargerðinni. Telur stefndi að lýsing merkja í útmælingargerðinni sé gleggri, skýrari og ítarlegri um lands- og staðhætti en venja sé til í slíkum heimildum, og að útilokað sé annað en að ýmis kennileiti sem komi fyrir í yngri heimildum, hefði þá einnig verið að finna í útmælingargerðinni.
Stefndi kveðst sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sinn eða annan rétt, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 48/2004. Við mat á gildi landamerkjabréfa beri einnig að hafa í huga að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en ekki að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland. Þrátt fyrir að bréfunum sé þinglýst hljóti þinglýsingin að vera þeim takmörkunum háð að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti aðeins löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir dragi það úr sönnunargildi bréfsins, eins og ráða megi af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar, nr. 48/2004. Þá bendir stefndi á að horfa verði til þess að landamerkjabréfin hafi ekki verið samþykkt af eiganda þess lands er liggi að norðurmörkum jarðanna. Með hliðsjón af ofanrituðu byggir stefndi á því að mörk jarðanna til fjalls hafi verið við lok grasvegar, sunnan Kistufells, en hafnar því að þau hafi legið um Miðfjarðará.
Stefndi bendir einnig á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám hafi náð á þessu svæði. Með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum frá byggð verði þó að telja ólíklegt að land á hinu umþrætta landsvæði hafi verið numið í öndverðu. Sönnunarbyrðin um að til eignarréttar hafi verið stofnað við landnám hvíli á þeim sem haldi slíku fram. Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að telja verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Þessu til stuðnings bendir stefndi á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 og nr. 48/2004. Verði hins vegar talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu, heldur stefndi því fram að það hafi ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota, enda hafi menn í aldanna rás ekki aðeins helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð voru beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra, sbr. til hliðsjónar dómar Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 og nr. 27/2007 . Verði niðurstaðan engu að síður sú að svæðið kunni, að hluta eða að öllu leyti, að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggir stefndi á því til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður og svæðið þá tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.
Af hálfu stefnda er einnig á því byggt að engin gögn liggi fyrir um að umrætt landsvæði hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Enn fremur bendir hann á að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélagsins, landsvæðin hafi ekki verið girt og þangað hafi búfénaður frá öðrum getað leitað, án hindrana. Styðji þetta þá staðhæfingu stefnda að landsvæðin hafi ekki verið háð beinum eignarrétti. Með sömu rökum mótmælir stefndi því jafnframt að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, enda hafi nýting svæðisins í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dómar Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 og nr. 48/2004. Hin umþrættu landsvæði, suðurhluti Miðfjarðarárdraga og Kistufells, liggi bæði að stórum hluta í yfir 500 m hæð yfir sjávarmáli. Fjarlægðin frá bæjarstæði Þorvaldsstaða í 760 m hæðarpunkt Kistufells sé tæplega 9,5 km í beinni loftlínu, en rúmlega 7,7 km frá bæjarstæði Ytri-Hamars í 820 m hæðarpunkt Kistufells. Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars og hæðar svæðisins yfir sjó, telur stefndi augljóst að þrætusvæðin hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.
Stefndi hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði, enda verði sú regla leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar, hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær um að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi því til sölu eigna ríkissjóðs og breyti athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar þar engu um. Að auki þurfi væntingarnar að vera réttmætar, þ.e. að menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Bendi heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands ekki til beins eignarréttar, eins og hér hátti til, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Stefndi hafnar enn fremur þeim málatilbúnaði stefnenda að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, og bendir á að með þjóðlendulögum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignarréttindi.
Loks hafnar stefndi því að eignardómur Héraðsdóms Austurlands frá 8. janúar 2004 veiti eigendum Hamars betri eða víðtækari réttindi til umdeilds landsvæðis en sá hafi haft, er þeir leiði rétt sinn frá. Dómurinn hafi grundvallast á 1. mgr. 122. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en samkvæmt því ákvæði veiti eignardómur dómhafa heimild til yfirráða og ráðstafna, eins og hann hefði í höndum afsalsbréf eða annað heimildarskjal. Skilyrði sé að hann hafi sannað eða gert sennilegt að hann hafi öðlast réttindi með samningi eða hefð, en skorti skilríki fyrir rétti sínum. Dómhafi sé því ekki í annarri eða betri stöðu en afsalshafi, sem geti þurft að færa sönnur á að í afsali hafi falist yfirfærsla á eignarréttindum. Um leið bendir stefndi á að hvorki í umræddum eignardómi né afsali til Jörgens Sigfússonar sé að finna afmörkun á landinu. Þá geti menn ekki við sölu lands afsalað betri rétti en afsalsgjafi sjálfur hafði til ráðstöfunar.
Með vísan til fyrri röksemda telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar, að því er varðar hin umþrættu svæði, hafi verið röng. Telur hann ljóst að landsvæðin falli undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998, og liggi engin gögn fyrir um mismunandi eignarréttarlega stöðu þeirra. Með þetta í huga byggir stefndi á því að umrætt landsvæði, eins og það er afmarkað í kröfugerð stefnenda, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna eignarréttar, þjóðlendulaga nr. 58/1998 og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Einnig er byggt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Þá vísar hann til hefðarlaga nr. 14/1905 og laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil, en einnig til ýmissa eignaréttarákvæða Grágásar og Jónsbókar. Krafa hans um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að landsvæði norðvestan Kistufells í Vopnafjarðarhreppi, en samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í málinu nr. 3/2005, var svæði þetta talið utan landamerkja jarðanna Þorvaldsstaða og Hamars og því þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-liður 7. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Úrskurðurinn kvað jafnframt á um að landsvæðið væri í afréttareign sömu jarða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-liður 7. gr. sömu laga.
Stefnendur gera þá kröfu að úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi, að því er landsvæði þetta varðar, og að viðurkennt verði að allt land innan þinglýstra landamerkja umræddra jarða sé eignarland og þar enga þjóðlendu að finna.
Ekki er um það deilt að stofnað var til heiðarbýlanna Þorvaldsstaða og Hamars á grundvelli nýbýlatilskipunar konungs frá 1776 í svokölluðum Almenningi í Selárdal, vestan við Selá, en Almenningur var þá utan landamerkja jarða á svæðinu, sameignarland Vopnfirðinga og í umsjá sveitarstjórnarinnar. Samkvæmt „skoðunar-, útvísunar- og skuldsetningargjörð“ yfir nauðsynlegt land fyrir tvö mátuleg og í meðallagi góð nýbýli í Almenningi, sem unnin var að skipun amtsyfirvalda af Páli Melsteð sýslumanni, ásamt tilkvöddum skoðunarmönnum, 18. ágúst 1829, er takmörkum Almennings til suðurs, vesturs og norðurs svo lýst:
„Hinn svonefndi Almenníngur liggur í Selárdal, ad Nordan- edr réttara sagt, vestanverdu vid Selá, er rennur eptir midium Dalnum alt í Sjó út. Ad utanverdu er Almenníngur adskilin frá Aslaugarstada Landi þeim fremsta ádrverandi bæ í Selárdal að nordanverdu Árinnar vid Þverá, er Ytri Almenníngsá nefnist, er fellur nær því beint af brúnum ofan í Selá, enn þó svoleidis, ad Farvegur hennar geingur nokkud út á vid, og gjörir altsvo Landid Lítid eitt breidara nidr við Selá enn á brúnum uppi. Ad sunnan- edr framan-verdu er Almenniníngur adskilin frá Landsplátsi því, er Túnga nefnist, og Horfs Kyrkiu tilheyrir, vid Þverá er fremri Almenníngsá kallast, hvöred fellr af brúnum, Lítid eitt framá vid, ofaní Selá, svoleidis ad hún eins og Ytri Almenníngsá, gjörir Landid Lítid eitt breidara nedan til vid Selá nidr, heldr enn þad er upp við Fiallsbryrnar. Ad nordanverdu edr til Fjalls upp, hefr Almenníngur eingin viss náttúrleg Takmörk, önnur enn þau, að hönum er eignad Land svo lángt upp sem Grasvegur nær, sem ekki er Leingra en upp á Fiallsbrýrnar, því þá taka vid Melar, Sandar og ad öllu graslaus Öræfi. Alt þad Land, sem innan hérgreindra Ummerkja Liggur, og Almenníngur kallast, er eptir Ágétskíngu, hérum 1¼ Míla á Leingd, millum Ytri- og Fremri-Almenníngsár, en ekki meira en frá 1/8 til 1/6 Mílu á breidd, sömuleidis eptir Ágétskan, frá brúnum og nidur í Selá. Land þetta, sem eginlega er nokkud vidbrött Hálshlýd, er med nokkrum, samt ei mörgum Melum, Höltum, og þarámillum Graslendis Ennum og Flóum, og er í því töluverdt Slægiuland, og vídslægt, en hvörgi eru þar Hardvellis-balar. Og þegar Land skal útvísa til 2ia Jarda, þeirra er byggilegar séu, er þad efalaust, ad allan Almenníng, innan framanskrifadra takmarka, verdr ad útleggja, svo ekkert verdi af hönum Afgángs.“
Viðstaddir gerðina voru bræðurnir Jónas og Jón Jónssynir, sem þá höfðu tekið sér bólfestu í Almenningi, Jónas í ytri parti svæðisins árið 1827 og reist þar bæinn Þorvaldsstaði, en Jón í fremri parti þess 1828 og byggt þar bæinn Hamar. Við sama tækifæri voru landamerki sett milli jarðanna, þannig:
„ úr Landamerkiaklauf er liggur vid Selá í Vördu sem stendr á Dýarhól, þadan í Vördu á Mel þeim er stendr i beinni Línu upp af tédum Merkium og þadan beint upp á Uppsir edr Melbrún þá hvar Grasvegurin hættir. Fyrir utan þessi Merki var Þorvaldsstödum útlagt Land alt út ad Ytri Almenníngsá, ofan í Selá, og upp svo lángt sem Grasvegur nær. En fyrir framan þau var Hamri útlagt Land alt fram ad fremri Almenníngsá, ofaní Selá, og svo lángt upp sem Grasvegr nær.“
Bræðrunum Jónasi og Jóni var veitt byggingarbréf fyrir jörðunum 5. nóvember 1829.
Í lýsingu Hofssóknar árið 1840 eru Hamar og Þorvaldsstaðir sagðir byggðir fyrir 13 árum í afréttarlandi, sem áður hét Almenningur. Búið var á Þorvaldsstöðum til ársins 1952, en Hamar fór í eyði 1928.
Landamerkjabréf voru gerð fyrir báðar jarðirnar 25. júní 1885 og þeim þinglýst 11. júní 1886. Landamerkjum Þorvaldsstaða er þar lýst svo:
„Að austan og sunnan er Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal; að innan eða vestan er svo kölluð Merkigróf, sem liggur undan Urðarufs í Selá niður; að norðan er Miðfjarðará, er rennur út Miðfjarðarárdrög og út norður heiði; að utan er Kistufellslækur fyrir norðan Urðir, á Urðunum Almenningsárvötn, fyrir neðan Urðir Almenningsá, er fellur í Selá.“
Í landamerkjabréfi Hamars er landamerkjum jarðarinnar hins vegar lýst þannig:
„ að austan og sunnan liggur Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal; að innan eða vestan liggur Þverá, sem kölluð er Almenningsá hin innri; hefur hún upptök sín undir Kistufelli og fellur niður í Selá; að norðan liggja Kistufellsurðir; að utan eða austan er svo kölluð Merkigróf, er liggur frá Urðarufs niður að Selá.“
Þáverandi eigendur jarðanna undirrituðu bréfin, svo og eigendur aðliggjandi jarða. Þó var ekki ritað undir bréfin af hálfu eigenda lands að norðanverðu. Athygli vekur að bréfin eru ekki samhljóða um mörk jarðanna til norðurs, í bréfi Þorvaldsstaða eru norðurmörk við Miðfjarðará en í bréfi Hamars við Kistufellsurðir. Þá er í hvorugu bréfanna norðurmörkum lýst með þeim hætti sem í útvísunargerðinni frá 1829, þ.e. „svo lángt upp sem Grasvegur nær, sem ekki er Leingra en upp á Fiallsbrýrnar.“
Árið 1922 voru útbúin ný landamerkjabréf fyrir báðar jarðirnar og þeim þinglýst ári síðar. Þar er landmerkjum Þorvaldsstaða þannig lýst:
„Að utan ytri Almenningsá ræður frá Selá að upptökum hennar, þá Kistufellslækur í Miðfjarðará, að norðan ræður Miðfjarðará í Miðlæk, þar næst að vestan Miðlækur á Einstökutorfu, þaðan yfir Kistufell í beina stefnu á Merkis-stein á Urðarups, frá Merkjasteini í vörðu á brúninni og það<an> í vörðu við Selá framan við Merkigil. Þá ræður Selá í Almenningsá ytri.“
Í landamerkjabréfi Hamars eru landamerki jarðarinnar skráð þannig:
„Að austan liggur Selá, er fellur eftir endilöngum Selárdal. Að innan eða vestan liggur Þverá, sem kölluð er Almenningsá hin innri og ræður hún upp á Upsabrún, þaðan bein stefna í Miðfjarðará, að norðan ræður Miðfjarðará, að utan eða austan er svokölluð Merkigróf er liggur frá Selá upp í Urðarups. Síðan í einstaka torfu, sem er norðan við Kistufell og niður með Miðlæk í Miðfjarðará.“
Undir landmerkjabréfin rituðu eigendur jarðanna og aðliggjandi jarða, þó ekki eigendur lands að norðanverðu. Eigandi Hamars, Jörgen Sigfússon, var þá einnig eigandi Mælifells, sem liggur að Hamri að vestanverðu, og ritaði hann undir bæði landamerkjabréfin. Kröfur stefnenda í máli þessu fara saman við lýsingar á landamerkjum jarðanna til norðurs samkvæmt landamerkjabréfunum frá 1922.
Fram kemur í úrskurði óbyggðanefndar að samkvæmt jarðatali Johnsens séu Þorvaldsstaðir og Hamar taldir til jarða og séu þar nýbýli. Báðar hafi jarðirnar verið sérmetnar í Nýrri jarðabók 1861 og tekið sé fram í jarðamatinu frá 1849 að bæði Þorvaldsstaðir og Hamar eigi „afrétt“ fyrir sig. Loks er þar nefnt að fasteignamat 1916-1918 segi engjar á Þorvaldsstöðum á víð og dreif um landið; fjárgeymsla sé erfið haust og vor því landið liggi að „afrétti“. Um Hamar segi hins vegar að jörðin hafi upprekstrarland nægilegt og gott, en ágangur sé af afréttarfé. Sumarhagar séu góðir en engjar dreifðar um landið.
Við úrlausn þessa máls ber að líta til þess að eftir gildistöku laga nr. 58/1998 hafa í Hæstarétti verið kveðnir upp dómar í allmörgum málum, þar sem skorið hefur verið úr ágreiningi um mörk þjóðlendna og eignarlanda. Eru þeir fordæmi að því leyti sem í þeim var fjallað um almenn atriði sem reynir á með sama hætti nú. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 var rakið tilefni setningar laga nr. 58/1998 og gerð grein fyrir skilgreiningu laganna á þeim grundvallarhugtökum, sem notuð eru til að lýsa eignarréttindum yfir landi, þ.e. eignarlandi, þjóðlendu og afrétti. Enn fremur var þar vikið að óbyggðanefnd, skipan hennar og hlutverki, svo og reglum sem gilda um málsmeðferð fyrir nefndinni. Í niðurstöðu þess dóms tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Þar var sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, og einnig að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Talið var að almennt yki það gildi landamerkjabréfs, væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa, sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var þar sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, umfram það sem verið hafði. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Í síðari dómum réttarins hefur verið áréttuð þýðing þess að landamerkjabréf hafi stuðning af öðru, og þá einkum eldri heimildum, þegar lagt er á það mat hvort landsvæði teljist innan lýstra merkja.
Eins og áður hefur verið lýst rís Kistufell upp af Þorvaldsstöðum og Hamri til vesturs eða norðvesturs. Fellið er 820 m hátt og myndar, ásamt fjöllunum í norðaustri, Syðri-Hágangi (952 m) og Ytri-Hágangi (923 m), fjallaröð vestur af Selárdal. Eru þar vatnaskil Selárdals og heiðarlanda upp af honum að vestanverðu. Almenningsá ytri rennur af vatna- og flóasvæði í um 520 m hæð Selárdalsmegin við Kistufell, en Almenningsá fremri, stundum kölluð Þverá, á upptök sín undir Kistufelli, einnig Selárdalsmegin. Handan Kistufells til vesturs og norðvesturs er nokkuð flatlendur og gróinn flói sem kallast Miðfjarðarárdrög, allt að Miðfjarðará. Liggja þau í 500-520 m hæð yfir sjávarmáli. Fjarlægðin frá Kistufelli að Miðfjarðará mun nálægt 7,5 km. Við Miðfjarðará eru sýslu- og hreppamörk á svæðinu.
Í útvísunargerðinni frá 1829 eru takmörk Almennings til norðurs og suðurs miðuð við ytri Almenningsá og fremri Almenningsá (Þverá) þar sem þær falla „af brúnum ofaní Selá.“ Um norðurmörk segir hins vegar að Almenningur hafi engin viss náttúruleg takmörk, önnur en þau að honum er eignað land „svo lángt upp sem Grasvegur nær, sem ekki er Leingra en upp á Fiallsbrýrnar, því þá taka vid Melar, Sandar og ad öllu graslaus Öræfi.“ Á sama stað er náttúru og gróðurfari svæðisins þannig lýst: „Land þetta, sem eginlega er nokkud vidbrött Hálshlýd, er med nokkrum, samt eigi mörgum Melum, Höltum og þarámillum Graslendis Ennum og Flóum, og er í því töluverdt Slægiuland, og vídslægt, en hvörgi eru þar Hardvellis-balar.“
Að áliti dómsins samrýmist ofangreind lýsing á mörkum landsvæðisins til vesturs og norðvesturs engan veginn þeim lýsingum á landamerkjum Þorvaldsstaða og Hamars, sem finna má í landamerkjabréfum jarðanna frá 1885 og 1922, en þar hafa merkin verið færð yfir Kistufell, annars vegar eftir Kistufellslæk að Miðfjarðará, en hins vegar frá Upsabrún í beina stefnu að Miðfjarðará. Milli jarðanna, ofan Kistufells, er merkjum síðan lýst um Miðlæk í Miðfjarðará. Eldra landamerkjabréf Hamars fer þó nærri lýsingu útvísunargerðarinnar, en þar eru norðurmörk jarðarinnar sögð Kistufellsurðir. Jafnframt er þar tekið fram að mörkin að innan eða vestan liggi um Þverá, sem kölluð sé Almenningsá hin innri, og hafi upptök sín undir Kistufelli og falli niður í Selá. Þótt erfitt kunni að reynast að leggja mat á hve langt grasvegur hafi náð árið 1829, nefnir útvísunargerðin þó að hann nái ekki lengra en upp á fjallsbrýrnar, enda taki þá við melar, sandar og graslaus öræfi. Um leið segir þar að mörk svæðisins til norðurs og vesturs miðist við árnar tvær, ytri og innri Almenningsá, sem falli af brúnum niður í Selá. Með þetta í huga, ásamt lýsingu útvísunargerðarinnar á stærð landsvæðisins og lands- og staðháttum, fellst dómurinn á þau sjónarmið stefnda að í yngri heimildum séu merki jarðanna afmörkuð lengra inn til landsins en í útvísunargerðinni og að engar líkur séu til annars en að norðurmörk jarðanna hafi legið sunnan Kistufells. Jafnframt tekur dómurinn undir þau sjónarmið stefnda að lýsing merkja í útvísunargerðinni sé gleggri, skýrari og ítarlegri um lands- og staðhætti en venja sé til í slíkum heimildum, og að útilokað sé annað en að í henni hefðu þá einnig komið fyrir ýmis kennileiti sem nefnd eru í yngri heimildum. Síðari landamerkjabréf jarðanna verða af þeim sökum ekki lögð til grundvallar sem sönnun fyrir beinum eignarrétti Þorvaldsstaða og Hamars að landi vestan og norðvestan Kistufells, enda varð með þeim ekki einhliða aukið við það land sem upphaflega var útvísað.
Það er meginregla í íslenskum rétti að sá sem telur til eignarréttar yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa, svo sem hér á við.
Af hálfu stefnenda er á því byggt að umþrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu. Telja þeir að sú staðhæfing fái stoð í lýsingu Landnámu um landnám í Vopnafjarðarhreppi, einkum þar sem segi að Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna, hafi numið land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness. Þá telja þeir ljóst að landið hafi við landnám verið mun grónara en í dag, eða upp í 600 700 metra hæð.
Þótt almennt sé nú viðurkennt að landið hafi við landnám verið grónara en í dag, veitir lýsing Landnámu á landnámi í Vopnfirði þó enga vísbendingu um hve langt upp til fjalla og inn til landsins landnámið náði á því svæði sem hér er deilt um. Engar afdráttarlausar ályktanir verða því dregnar um eignarréttarlega stöðu þessa svæðis út frá lýsingu Landnámu. Öðru máli gegnir þó um Böðvarsdal og Fagradal í Vopnafirði, en þar þykja lýsingar Landnámu, ásamt staðháttum, benda til þess að landið hafi verið numið. Hins vegar þykja staðhættir þess svæðis sem hér er deilt um, og fjarlægð þess frá byggð, draga úr líkum þess að þar hafi land verið numið í öndverðu og stofnað til beins eignarréttar. Þá þykir það fremur styrkja þá skoðun að svæðið hafi ekki verið numið, að enginn eigenda eða ábúenda þeirra jarða sem lágu að Almenningi gerðu tilkall til landsins, þegar skýrt var frá því á manntalsþingi 15. ágúst 1829 að til stæði að útvísa þar landi fyrir tvö nýbýli. Almenningur var þá utan landamerkja, sameignarland Vopnfirðinga og í umsjá sveitarfélagsins.
Í umfjöllun óbyggðanefndar kemur fram að í jarðamatinu 1849 sé þess getið að bæði Þorvaldsstaðir og Hamar eigi „afrétt“ fyrir sig. Einnig er þar nefnt að fasteignamat 1916 1918 segi að fjárgeymsla sé erfið haust og vor á Þorvaldsstöðum, því landið liggi að „afrétti“. Um Hamar segi hins vegar að ágangur sé af afréttarfé.
Engin gögn liggja fyrir um að umrætt landsvæði hafi verið nýtt af eigendum Þorvaldsstaða og Hamars til annars en sumarbeitar fyrir búfé og annarra venjubundinna afréttarnota. Fyrir liggur hins vegar að landið var ógirt og gat búfénaður frá öðrum leitað þangað hindrunarlaust. Í gögnum málsins kemur þó fram að fjallskil á svæðinu hafi verið á hendi sveitarfélagsins. Þykir þetta styðja sjónarmið stefnda um að umþrætt landsvæði hafi ekki verið háð beinum eignarrétti stefnenda eða forvera þeirra, en einnig að stefnendur hafi ekki unnið eignarhefð á því. Með sömu rökum og áður greinir verður jafnframt hafnað þeirri málsástæðu stefnenda að þeir hafi haft réttmætar væntingar til að ætla að beinn eignarréttur hafi unnist að því landi sem um er deilt í málinu. Breytir þá engu þótt landamerkjabréfum jarðanna hafi verið þinglýst án athugasemda, enda gátu menn ekki með landamerkjabréfum einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, umfram það sem verið hafði.
Dómurinn fellst ekki á þau sjónarmið stefnenda að úrskurður óbyggðanefndar í máli þessu brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, né 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu. Þykir í því efni mega vísa til forsendna í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004. Þá hafa stefnendur heldur ekki fært rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að úrskurður óbyggðanefndar fari í bága við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 16. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998, vegna ófullnægjandi rökstuðnings fyrir niðurstöðu nefndarinnar.
Í stefnu segir að Jörgen Sigfússon hafi keypt jörðina Hamar af íslenska ríkinu árið 1916. Ekki er um það deilt að Jörgen Sigfússon keypti þá jörðina og leiðir hluti stefnenda rétt sinn frá honum. Hins vegar liggja engin gögn því til stuðnings að íslenska ríkið hafi í umrætt sinn verið seljandi jarðarinnar.
Af hálfu eigenda Hamars er sérstaklega á því byggt að með dómi Héraðsdóms Austurlands frá 8. janúar 2004, í málinu nr. 310/2003, hafi verið viðurkenndur beinn eignarréttur þáverandi eigenda að jörðunum Hamri, Mælifelli og Selsárvöllum innan þinglýstra landamerkja þeirra. Því eigi eigendur lögmæta væntingu til þess að jörðin teljist eignarland.
Umræddur héraðsdómur er meðal gagna málsins. Kemur þar fram að frá andláti Jörgens Sigfússonar árið 1928 hafi skiptayfirlýsingum aldrei verið þinglýst á jarðirnar þegar arfsskipti hafi farið fram eftir fyrri eigendur. Því séu jarðirnar enn skráðar á nafn Jörgens. Í málinu var krafist viðurkenningar á fullum og óskoruðum eignarrétti stefnenda að jörðunum í tilgreindum hlutföllum. Með dóminum var viðurkenndur eignarréttur stefnenda að ofangreindum jörðum í nánar tilgreindum eignarhlutföllum. Enga lýsingu er þar að finna á mörkum Hamars eða hinna tveggja jarðanna.
Dómur þessi var reistur á 1. mgr. 122. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt því ákvæði veitir eignardómur dómhafa heimild til að ráða yfir og ráðstafa eigninni eins og hann hefði í höndum afsalsbréf eða annað viðeigandi skjal. Skilyrði er að hann hafi sannað eða gert sennilegt að hann hafi öðlast umkrafin réttindi með samningi eða hefð, en skorti skilríki fyrir réttindum sínum. Dómhafi er því í sömu stöðu og afsalshafi, sem getur samkvæmt almennum reglum þurft að færa sönnur á að í afsali hafi falist raunveruleg yfirfærsla á eignarréttindum. Verður því ekki á það fallist að með dómi þessum hafi eigendur Hamars fært sönnur fyrir beinum eignarrétti sínum að hinu umdeilda svæði ofan Kistufells.
Að öllu framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að landsvæði það sem óbyggðanefnd úrskurðaði sem þjóðlendu 29. maí 2007, í málinu nr. 3/2005, norðvestan Kistufells og utan landamerkja jarðanna Þorvaldsstaða og Hamars, sé eignarland þeirra, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð, né með öðrum hætti. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Stefnendur njóta gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi 8. september 2008. Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þ.e. þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst hæfileg 1.100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið litið til þess að lögmaðurinn annast rekstur fleiri sambærilegra mála vegna aðliggjandi landsvæða í Vopnafirði. Virðisaukaskattur er innifalinn í lögmannsþóknun.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn að kröfum stefnenda, Katrínar Gústafsdóttur, Guðríðar Steinunnar Oddsdóttur, Sunnudals ehf., Veiðiklúbbsins Strengs ehf. og Hofsárdals ehf.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda, 1.100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.