Print

Mál nr. 354/2007

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Sératkvæði

         

Fimmtudaginn 24. janúar 2008.

Nr. 354/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Ingvari Búa Halldórssyni og

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

Jóni Trausta Lútherssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Líkamsárás. Sératkvæði.

I var sakfelldur fyrir líkamsárás, sem varðaði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa hrint A utan í vegg, slegið hann nokkur hnefahögg og sparkað í hann liggjandi nokkrum sinnum með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka í andliti og á líkama. J var einnig ákærður fyrir líkamsárásina auk umferðarlagabrots. Hann neitaði að hafa tekið þátt í líkamsárásinni en undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir umferðarlagabrotið. Ekki þótti unnt að fullyrða að J hefði tekið beinan þátt í líkamsárásinni en talið að hann hefði liðsinnt I þannig að hann teldist hlutdeildarmaður í brotinu samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. I hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Atlaga hans þótti tilefnislaus og illyrmisleg og var refsing hans ákveðin fimm mánaða fangelsi. Með broti J rauf hann skilyrði reynslulausnar sem honum hafði verið veitt í eitt ár á 30 dögum óafplánaðrar refsingar. Með vísan til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga var honum því gerð refsing í einu lagi fyrir þessi brot, sem var ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2007 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur um refsingu ákærða Ingvars Búa Halldórssonar og um sakfellingu og refsingu ákærða Jóns Trausta Lútherssonar.

Ákærði Ingvar Búi krefst mildunar refsingar og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta.

Ákærði Jón Trausti krefst aðallega sýknu af ákæru 6. mars 2007, til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en að því frágengnu að viðurlög verði milduð.

 

 

I

Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa að kvöldi 9. ágúst 2006 að Hverfisgötu 85-87, Reykjavík, í félagi ráðist á A og „margsinnis slegið hann hnefahöggum, sparkað í hann liggjandi, og misþyrmt honum með öðrum hætti, og ákærði Jón Trausti jafnframt slegið hann með billjardkjuða í andlitið og með öðrum bareflum í líkama [A], allt með þeim afleiðingum“ sem nánar greinir í ákærunni. Í ákæru var háttsemi ákærðu talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í  hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu báðir fundir sekir um líkamsárás en en sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákæruvaldið unir þeirri niðurstöðu héraðsdóms. Krafa ákærða Ingvars Búa um mildun refsingar er á því reist að líkamsárás hans hafi ekki verið með þeim hætti sem í ákæru greinir, en einnig á því að héraðsdómari hafi, hvað sem því líði, dæmt hann til of þungrar refsingar. Ákærði Jón Trausti reisir aðalkröfu sína um sýknu á því að hann hafi ekki tekið þátt í umræddri líkamsárás. Varakröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir hann á því að sönnunarmat héraðsdóms fái ekki staðist. Varðandi kröfu sína um lækkun refsingar bendir ákærði Jón Trausti sérstaklega á að héraðsdómur hafi við ákvörðun refsingar farið út fyrir refsiramma 217. gr. almennra hegningarlaga. Þrátt fyrir að ákærði Jón Trausti hafi valið að haga kröfugerð sinni með framangreindum hætti verður fyrst að taka afstöðu til kröfu hans um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Áður en að því kemur verður ekki hjá því komist að rekja nokkuð framburð ákærðu og vitna.

II

Héraðsdómur reisir niðurstöðu sína meðal annars á vottorði um áverka A. Hann hafnar því að sannað sé með vottorðinu að brotnað hafi upp úr tönn A við líkamsárás ákærðu og fellir háttsemi þeirra þess vegna undir 217. gr. almennra hegningarlaga í stað 218. gr. laganna. Héraðsdómur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að áverkavottorðið og frumskýrsla lögreglu beri ótvírætt með sér að A hafi hlotið áverka með bareflum. A kvaðst fyrir dómi hafa hlotið áverka meðal annars á baki vegna annarrar líkamsárásar daginn fyrir þau atvik sem ákært er fyrir. Hafi vinur hans talið sig finna bólgur í baki hans eftir þá árás. Þessum framburði var ekki fylgt frekar eftir við meðferð málsins. Læknirinn sem gaf áverkavottorðið út kom ekki fyrir dóm auk þess sem vitni voru ekki spurð um hvort A hafi haft sýnilega áverka áður en atvik urðu.

Í héraðsdómi er ekki gerður munur á háttsemi hvors ákærðu um sig. Samkvæmt ákæru er hins vegar skilið sérstaklega milli þáttar hvors þeirra um sig og meðal annars sérstaklega tilgreint að ákærði Jón Trausti hafi notað barefli við líkamsárásina. Ekki verður fallist á með ákæruvaldinu að af háttsemislýsingu í ákæru verði ráðið að ákærða Ingvari Búa sé þar gefið að sök að hafa slegið A með bareflum.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er framburður vitnisins A fyrir dómi á sömu lund og framburður ákærðu þar, en ákærðu höfðu borið mjög á annan veg hjá lögreglu þar sem þeir neituðu að hafa verið á vettvangi umrætt sinn. Þannig viðurkenndi ákærði Ingvar Búi fyrir dómi að hafa slengt A upp að vegg, slegið hann í mesta lagi þrisvar til fjórum sinnum og sparkað í hann eftir að hann féll í gólfið í mesta lagi þrisvar. Framburður ákærða Jóns Trausta fyrir dómi er í samræmi við framburð meðákærða, en þó talar hann um færri högg og spörk en meðákærði. Allir bera þeir að ákærði Jón Trausti hafi hvorki slegið né sparkað í A. Hins vegar sögðu báðir ákærðu að ákærði Jón Trausti hafi farið með í þessa för til að vera ákærða Ingvari Búa til halds og trausts ef á þyrfti að halda.

Niðurstaða héraðsdóms um að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir er meðal annars reist á því að vitni sem verið hafi á vettvangi hafi borið um atvik með skýrum hætti. Einkum séu það vitnin E, C og F. Í sjálfstæðri frásögn fyrir dómi lýsti vitnið E atvikum þannig: „Það byrjaði með því bara, að þeir réðust inn í húsið og voru með svona baseball kylfu, hafnaboltakylfu, ég man ekki hvort hitt væri keðja eða eitthvað, ég man það ekki alveg. En þeir byrjuðu bara að taka hann og byrjuðu bara að berja hann og slá hann utan í vegginn og svona.“ Eftirfarandi lýsing hennar á atvikum hjá lögreglu var þá borin undir hana og hún spurð hvort lýsingin væri rétt: „[E] segir að annar mannanna hafi lamið hann með höndunum, kýlt hann og hent höfði hans upp að veggnum en hinn maðurinn hafi lamið hann með billjard kjuða.“ Svaraði hún þá: „Jájá, svona var þetta já, þetta var svo langt síðan að ég man þetta ekkert.“ Þá var hún spurð hvort hún hafi séð mennina lemja A með einhverju öðru en billjardkjuða. Svaraði hún spurningunni neitandi. Var framburður hennar að öðru leyti ekki með nægilega glöggum hætti borin undir hana. Framburður hennar hjá lögreglu, þar sem hún lýsti meðal annars útliti þremenninganna og greindi þá á milli hver gerði hvað, var að öðru leyti ekki borin undir hana. Þá kom jafnframt fram hjá vitninu að hún gæti ekki lýst atvikum nánar, meðal annars þætti hvors árásarmanns um sig, þar sem hún myndi ekki lengur eftir atvikum.

Vitnið C gaf ekki fyrir dómi sjálfstæða frásögn af atvikum, en svaraði spurningum á þá lund að tveir til fjórir menn hefðu komið í húsið og talað við A og í kjölfarið ráðist á hann. Er vitnið var spurt hvort það gæti lýst atvikum nánar þá sagði hún: „Ég bara man ekki alveg eftir því, það var bara ... þeir fóru að berja hann.“ Aðspurð kvaðst hún ekki geta lýst höggunum eða fjölda þeirra, eða þætti hvers árásarmanns um sig. Vitnið staðfesti síðar eftirfarandi frásögn sína hjá lögreglu sem borin var undir hana: „[C] segir að þá hafi tveir mannanna ráðist á A að fyrra bragði og hafi þeir byrjað á því að berja hann með einhver konar priki, sem hafi líkst endanum á billjard-kjuða“.

Vitnið F gaf heldur ekki sjálfstæða lýsingu á málsatvikum fyrir dómi. Hún kvaðst raunar ekki geta sagt til um málsatvik, en þrír menn hefðu komið í húsið og rekið þá krakka út sem þar voru. „Svo bara tóku þeir hann þarna í hornið eða eitthvað og svo eitthvað, ég sá ekkert mikið af þessu sko, ég sá bara, lá svo bara þarna í gólfinu.“ Nánar aðspurð um skýrslu sína hjá lögreglu sagði vitnið að hún hefði ekki séð A falla í gólfið en að hann hafi verið laminn í bakið með barefli þar sem hann lá. Ekki kvaðst vitnið geta lýst bareflinu. Vitnið kvaðst muna vel eftir því sem hún sá en margítrekaði að hún hefði ekki séð atvik vel. Í lok skýrslu sinnar: sagði hún: „Ég horfði ekkert á þetta, þegar þetta átti sér stað, sá þetta bara svona eftir á.“

Þá reisir héraðsdómur niðurstöðu sína á skýrslu vitnisins B hjá lögreglu þar sem hann var yfirheyrður sem grunaður og tiltekur að framburður hans fyrir dómi hafi verið mjög á aðra lund. Hið eina sem bókað var eftir vitninu hjá lögreglu sérstaklega um framgang árásarinnar var, að ákærði Ingvar Búi hafi „tekið í [A], hent honum í vegginn en þá kvaðst [B] hafa litið undan og ekki viljað horfa á það sem gerðist en segir að hann hafi upplifað það að Jón Trausti og Ingvar hafi verið að lemja á [B].“ Fyrir dómi bar B á sömu lund um að hann hafi litið undan og ekki fylgst með atvikum eftir að ákærði Ingvar Búi hefði „fleygt“ A á vegg. Verður því ekki fallist á með héraðsdómi að frásögn B annars vegar fyrir dómi og hins vegar hjá lögreglu hafi verið misvísandi þannig að máli skipti. Hins vegar er fallist á með héraðsdómi að frásögn vitnisins A hafi verið því marki brennd. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi lýsti hann því meðal annars í skýrslu sinni hjá lögreglu að þrír menn hefðu gengið í skrokk á sér, og hafi þeir beitt bareflum en fyrir dómi bar hann að ákærði Ingvar Búi hefði einn ráðist að sér, slegið sig tvisvar til þrisvar í andlitið, keyrt hné í andlit sitt þannig að hann hafi fallið á gólfið og þá sparkað tvisvar til þrisvar í maga sinn.

III

Af því sem fram er komið í málinu er sannað að A varð fyrir líkamsárás að kvöldi miðvikudagsins 9. ágúst 2006 í húsi að Hverfisgötu 85-87 í Reykjavík og hlaut af því nokkra áverka. Ekki verður vefengt það mat héraðsdóms að misvísandi framburður ákærðu og A hjá lögreglu og fyrir dómi dragi úr trúverðugleika framburðar þeirra. Hins vegar verður ekki fallist á með héraðsdómi að framburður vitnanna E, C og F hafi verið skýr og eindreginn um málsatvik. Ekkert þessara vitna gaf heildstæða lýsingu fyrir dómi á málsatvikum heldur einkenndist framburður þeirra fremur af óljósum svörum við spurningum sakflytjenda og dómara. Ekki verða dregnar óyggjandi ályktanir af framburði þeirra um nánari atvik að líkamsárásinni. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að skýrsla vitnisins B sé í þýðingarmiklum atriðum með öðrum hætti hjá lögreglu en fyrir dómi. Þrátt fyrir framangreint telst héraðsdómur ekki haldinn slíkum annmörkum að heimvísun varði, heldur má leggja á málið dóm að virtu því sem fram er komið í málinu.

Ekkert síðastgreindra fjögurra vitna skýrir frá því með glöggum hætti að ákærði Jón Trausti hafi veitt A högg eða spörk. Hins vegar er óumdeilt að ákærðu báðir og vitnið B komu umrætt sinn í hið niðurnídda hús að Hverfisgötu 85-87, þar sem A hélt til og ráku út ungmenni sem þar voru. Gengu ákærðu báðir að A og með játningu ákærða Ingvars Búa og framburði vitna er sannað að hann hrinti A utan í vegg, sló hann nokkur hnefahögg uns hann féll í gólfið og sparkaði í hann nokkrum sinnum þar sem hann lá með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka í andliti og á líkama. Voru áverkar hans hvorki verulegir né varanlegir.

Ekki verður fullyrt að ákærði Jón Trausti hafi tekið beinan þátt í líkamsárásinni. Samkvæmt framburði vitna og að nokkru leyti ákærðu sjálfra er hins vegar sannað að hann veitti meðákærða liðsinni við líkamsárásina með þeim hætti að hann telst hlutdeildarmaður í broti ákærða Ingvars Búa.

Samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga skal hver, sem gerist sekur um líkamsárás, enda sé hún ekki svo mikil sem í 218. gr. segir, sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum, en fangelsi allt að einu ári, ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Atlaga ákærða Ingvars Búa, sem ekki hefur áður gerst sekur um refsivert brot, var tilefnislaus og illyrmisleg. Ákærði hefur unnið sér til refsingar sem er ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga skal hlutdeildarmaður sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. Samkvæmt sakavottorði ákærða Jóns Trausta hefur hann einu sinni áður gerst sekur um refsivert brot, en hann var á árinu 2005 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir minni háttar líkamsárás. Með broti sínu nú rauf ákærði skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 8. febrúar 2006 í eitt ár á 30 dögum óafplánaðrar refsingar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Ákærða verður því nú með vísan til 1. mgr. 65. gr. laganna gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Í héraðsdómi var ákærði jafnframt sakfelldur fyrir umferðarlagabrot og unir hann þeirri sakfellingu. Með vísan framanritaðs og 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða Jóns Trausta ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar er ekki til endurskoðunar og verður það staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Áfrýjunarkostnaði málsins, þar með töldum málsvarnarlaunum skipaðs verjenda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, verður samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skipt þannig að ákærðu greiði helming hans en helmingur greiðist úr ríkissjóði allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ingvar Búi Halldórsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði, Jón Trausti Lúthersson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns og Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 311.250 krónur til hvors þeirra. Skal hvor ákærðu greiða helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns. Annan áfrýjunarkostnað málsins samtals 48.145 krónur greiðir ákærði Ingvar Búi að einum fjórða hluta og ákærði Jón Trausti að einum fjórða hluta. Helmingur áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

          Ákærðu er báðum gefið að sök að hafa margsinnis slegið A „hnefahöggum, sparkað í hann liggjandi og misþyrmt honum með öðrum hætti,“ en ákærða Jóni Trausta Lútherssyni er einum gefið að sök að hafa „slegið hann með billjardkjuða í andlitið og með öðrum bareflum í líkama.“ Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að ákærðu hafi í félagi ráðist á A og veitt honum þá áverka sem í áverkavottorði greinir, að undanskildu tannbroti sem ósannað sé að hafi verið nýr áverki. Hafi þeir beitt hnefahöggum, spörkum og bareflum. Varðandi notkun barefla vísar dómurinn til frumskýrslu lögreglu og áverkvottorðs sem beri „ótvírætt með sér að [A] hafi hlotið áverka með bareflum.“ Þá segir í dómnum: „Þar sem ákærðu veittust í félagi að [A] verður ekki skilið frekar á milli þáttar hvors um sig.“ Vegna þessa orðalags og í ljósi þess að Jón Trausti einn er ákærður fyrir að beita bareflum verður að skilja framangreint orðalag í héraðsdóminum þannig, að á eftir orðinu „frekar“ hafi orðin „en í ákæru greinir“ fallið niður.

Ákærði Ingvar Búi hefur að mestu játað brot sitt, er ég sammála atkvæði meiri hluta dómsins um sakfellingu og mat á refsingu hans.

Ákærði Jón Trausti neitar sök. Meðákærði Ingvar Búi ber einnig að Jón Trausti hafi ekki tekið þátt í árásinni, þó að hann hafi verið viðstaddur honum til halds og trausts. Með þeim var vitnið B, sem gætti dyranna og bar bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hefði litið undan þegar Ingvar fleygði A í vegginn. Hjá lögreglu bar hann síðan að hann hefði „upplifað það að Jón Trausti og Ingvar hafi verið að lemja á [A],“ en fyrir dómi sagði hann aðspurður: „Nei, Jón átti náttúrulega ekki [hlut] að máli, þannig að eins og staðan var þegar að ég leit undan, þá var Ingvar bara þarna með honum“. Brotaþolinn, A, dró kæru sína til baka með þeirri skýringu að Jón Trausti hefði beðið hann afsökunar, en breytti síðan framburði sínum fyrir dómi í þá veru að ákærði Jón Trausti hefði ekki tekið þátt í árásinni. Hann bar einnig fyrir dómi að kvöldið fyrir þessa árás hefði hann lent í öðrum slagsmálum og hlotið áverka af. Héraðsdómari metur vætti B og A fyrir dómi ekki mjög trúverðugt og getur þess að A hafi verið óstyrkur þegar hann kom fyrir dóminn. Ég er ósammála umfjöllun meiri hluta dómsins um sönnunarfærslu um þátttöku ákærða Jóns Trausta í árásinni og um það hvort barefli hafi verið notað, hvort þau hafi verið fleiri en eitt og hver hafi beitt barefli. Sönnunarfærsla um þetta er samofin.

Héraðsdómari vísar til þess í niðurstöðu sinni, að áverkavottorð ásamt frumskýrslu lögreglu beri með sér að A hafi hlotið „áverka með bareflum“. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir A að mennirnir hafi barið hann með spýtu, skófluskafti og járni og í kæruskýrslu er haft eftir honum að þeir hafi lamið hann með að minnsta kosti þremur áhöldum: billjardkjuða, járnlista og skófluskafti. Við rannsókn á árásarstaðnum fundust járnstöng, brot úr billjardkjuða og nokkrar spýtur, glerbrot og blóðslettur. Samkvæmt frumskýrslu lýsa lögreglumenn blóði og bólgu á andliti brotaþola og ýmsum áverkum á brjósti hans og baki „að því er virðist, eftir barefli“ og áverkum á handleggjum og höndum. Þegar A kom fyrir dóm dró hann framangreindan framburð til baka og kvaðst hafa sagt ósatt um að báðir ákærðu hefðu ráðist á sig. Sagði hann þá einnig að engin barefli hefðu verið notuð. Hann sagði jafnframt að hann hefði hlotið ýmsa áverka nóttina áður, meðal annars á baki sem nafngreindur vinur hans gæti borið um, en engum bareflum hefði þó verið beitt í það sinn. Þessi vinur brotaþola kom ekki fyrir dóminn, en þegar hann var yfirheyrður af lögreglu nefndi hann ekki að A hefði haft áverka frá kvöldinu áður. Er það galli á málsmeðferðinni að þetta vitni og læknirinn, sem gaf áverkavottorðið út, gáfu ekki skýrslu fyrir dómi. Í vottorðinu er lýst yfirborðslægum áverkum víða um líkama A, sem sýni „merki um klór eða eftir einhvers konar áhöld, trúlega spýtu eins og [A] segir að hafi verið notuð til þess að veita honum áverkana.“ Þó að áverkavottorðið sé ekki staðfest fyrir dómi er það í samræmi við framburð A hjá lögreglu.

Þrjár stúlkur voru yfirheyrðar sem vitni að árásinni sem átti sér stað 9. ágúst 2006. Vitnið E gaf skýrslu hjá lögreglu 14. sama mánaðar og bar kennsl á báða ákærðu sem árásarmennina við myndsakbendingu sem fór fram 21. sama mánaðar. Hjá lögreglu gaf hún lýsingu á mönnunum og þætti hvors um sig í árásinni, hvor hefði beitt hnefum og hvor barefli. Þegar hún kom fyrir dóminn 23. apríl 2007 kvaðst hún hafa orðið vitni að upphafi árásarinnar, henni hefði síðan verið vísað út og um tíu mínútum síðar hefði strákurinn sem var barinn komið út alblóðugur. Hún bar að þrír eða fjórir menn hafi komið á staðinn, en tveir hafi barið A. Hún kvað þó vera svo langt um liðið að hún gæti ekki lengur lýst hvor gerði hvað utan að annar hefði verið síðhærður og hinn sköllóttur. Hún staðfesti hins vegar það sem borið var undir hana úr lögregluskýrslunni, meðal annars að „annar mannanna hafi lamið [A] með höndunum, kýlt hann og hent höfði hans upp að veggnum en hinn maðurinn hafi lamið hann með billjard kjuða.“ Ítrekað spurð fyrir dómi hvort brotaþoli hefði verið laminn með einhverjum áhöldum, sagði hún hann hafa verið laminn með „billjardkjuðanum þá, þegar hann datt í gólfið.“ Borin var undir hana sú lýsing sem hún gaf á öðrum mannanna hjá lögreglu og staðfesti hún hana, er þar um að ræða þá lýsingu sem hún gaf á árásarmanninum sem hún sagði hafa beitt billjardkjuða. Getur sú lýsing átt við ákærða Jón Trausta. Spurð nánar af verjanda fyrir dómi hvort rétt væri eftir henni haft hjá lögreglu í ljósi þess að hún myndi ekki lengur hvor gerði hvað, benti vitnið á að hún hefði gefið lögregluskýrsluna fimm dögum eftir atvikið og svo fljótt gleymdi hún ekki, „þá man ég akkúrat“.

Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglu 28. september 2006 og sagði þá tvo mannanna hafa „ráðist á [A] að fyrra bragði og hafi þeir byrjað á því að berja hann með einhverskonar priki sem hafi líkst endanum á billiard-kjuða“, þeir hafi einnig lamið hann „með krepptum hnefum, í magann og andlit þannig að [A] hafi farið að blæða úr nefi“, þeir hafi einnig lamið höfði hans upp við vegg. Þriðji maðurinn hafi ekki tekið þátt í árásinni. Hún kvaðst þekkja Ingvar Búa og hafa heyrt hinn árásarmanninn kallaðan Jón Trausta. Aðspurð staðfesti hún þennan framburð sinn fyrir dóminum, en nánar spurð um kjuðann svaraði hún að þeir hefðu bara verið með „prikið“ og að aðeins annar þeirra hefði verið með það. Hún gat ekki sagt hvor það var, en kvað manninn sem kallaður var Jón Trausti hafa tekið þátt í barsmíðunum.

Vitnið F gaf skýrslu hjá lögreglu 16. október 2006. Þá voru rúmir tveir mánuðir liðnir frá atvikinu og mundi hún ekki mikið. Hún kvaðst hafa verið uppi á efri hæð þegar mennirnir komu og heyrt hávaða. Þegar hún síðan sá til hafi A „legið á gólfinu, á hlið, og einn eða tveir mannanna verið að berja á honum með einhvers konar barefli.“ Fyrir dómi kvaðst hún ekki hafa séð mikið, hún sagði að það hefðu komið líklega þrír menn, hún hefði séð A liggja í gólfinu og mennirnir hefðu verið með barefli. Þá staðfesti hún aðspurð framangreindan framburð sinn hjá lögreglu.

Héraðsdómur mat framburði þessara vitna trúverðugan. Samræmist vætti þeirra skýrslu brotaþolans A hjá lögreglu. Ákærði Ingvar Búi viðurkenndi fyrir dóminum að hafa hent A utan í vegg, barið hann og sparkað í hann. Er sú játning í samræmi við lýsingu vitnisins E á árásarmönnunum og þætti hvors þeirra um sig í árásinni. Þykir með öllu sem að framan er rakið sannað að báðir ákærðu tóku þátt í árásinni, að við hana var notað barefli og að ákærði Jón Trausti var sá sem beitti því, ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu hans.

Héraðsdómur hafnar því réttilega að sannað sé með áverkavottorðinu að brotnað hafi upp úr tönn A við atlöguna og telur afleiðingar árásarinnar þess eðlis að fella beri háttsemi ákærðu undir 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ekki 218. gr. laganna. Skilja verður afstöðu ákæruvalds svo að það felli sig við þá heimfærslu brotsins. Sakarferli ákærða Jóns Trausta og rofi á reynslulausn er lýst í atkvæði meiri hluta dómsins. Með vísan til þessa þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Ég er sammála atkvæði meiri hluta dómsins um sakarkostnað.

                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2007.

          Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. mars 2007 á hendur Jóni Trausta Lútherssyni, [kt.], óstaðsettum í hús í Reykjavík, og Ingvari Búa Halldórs­syni, [kt. og heimilisfang], fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 9. ágúst 2006, að Hverfisgötu 85-87 í Reykjavík, í félagi ráðist á A, [kt.] og margsinnis slegið hann hnefahöggum, sparkað í hann liggjandi, og misþyrmt honum með öðrum hætti, og ákærði Jón Trausti jafnframt slegið hann með billjardkjuða í andlitið og með öðrum bareflum í líkama A, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut miklar bólgur og mar víðs vegar um líkamann, var þrútinn vinstra megin í andliti, með rauð yfirborðslæg sár á herðablaði hægra megin niður eftir allri hægri síðu hans og niður á mjaðmarsvæði vinstra megin, hann hlaut hrufl og mar á hægri olnboga og upphandlegg, áverka á vinstri öxl, yfirborðslæga áverka á brjóstkassa, bol og á útlimum og einnig að kvarnaðist upp úr tönn hægra megin í efri góm.

          Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

          Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

          Hinn 28. mars sl. var sakamálið nr. 1952/2006 sameinað þessu máli en þar er ákærða Jóni Trausta Lútherssyni gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglu­stjóranum í Reykjavík 23. október 2006, umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 6. september 2006 ekið bifhjólinu ZG-944 með 112 km hraða á klst. um Sæbraut í Reykjavík, á vegarkafla að Súðarvogi, þar sem leyfður hámarkshraði var 60 km á klst.

          Þetta er talið varða við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.

          Verjandi ákærða Jóns Trausta krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð.

          Verjandi ákærða Ingvars Búa krefst þess aðallega að ákæru verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og tildæmdra málsvarnarlauna.

 

          Ákæra 6. mars 2007.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá miðvikudeginum 9. ágúst 2006 barst tilkynning til lögreglu þann dag kl. 23.08 um að fara að Hverfisgötu í Reykjavík við verslun 10/11 en tilkynnt hafði verið um alvarlega líkamsárás. Kom fram að árásaraðilar væru á leið af vettvangi. Í tilkynningu var þess getið að þeir væru þrír saman, ,,rokkaralegir” og væri einn þeirra sköllóttur. Er lögregla kom á vettvang á móts við hús nr. 90 við Hverfisgötu hitti hún fyrir A. Í frumskýrslu kemur fram að A hafi verið þar á bifreiðastæði, ber að ofan og mjög æstur. Á vettvangi hafi verið um 30 ungmenni á aldrinum 13 til 17 ára. Hafi ungmennin verið mjög treg til að veita lögreglu upplýsingar um málsatvik. Hafi A hrópað til þeirra um að greina frá engu. Sjúkraflutningamenn hafi komið á vettvang, en A hafi afþakkað flutning með þeim. Sjáanlegir áverkar á A hafi verið að blætt hafi úr nefi hans og hafi andlit hans verið alblóðugt. Þá hafi hann verið talsvert bólginn undir vinstra auga. Hægra megin á baki hans hafi verið mikil bólga og mörg för á brjósti og baki. Hafi þau virst vera eftir barefli. Að auki hafi sjáanlegir áverkar verið á handleggjum og höndum. Í viðræðum við A á vettvangi hafi hann greint frá því að þrír menn hafi komið að sér og spurt sig hvort hann væri A. Eftir að hafa svarað því játandi hafi þeir gengið í skrokk á A og hafi atlagan staðið í um 10 mínútur. Hafi þeir barið A með spýtu í höfuðið sem hafi brotnað við það. Þá hafi þeir lamið hann með skófluskafti sem þeir hafi komið með meðferðis. Einnig hafi þeir lamið A með járni sem þeir hafi fundið í húsinu. Þá hafi þeir sparkað í höfuð A og loks migið yfir hann. Ekki kvaðst A vilja gefa neitt upp um árásarmennina en kvað fyrrverandi kærustu sína hafa sent þá á sig. Kvaðst A vera húsnæðislaus en halda til í mannlausu húsi á móts við Hverfisgötu 90 en þar hafi verið ráðist á hann. Á vettvangi hafi einn aðili gefið sig fram og tjáð lögreglu að einn árásarmannanna héti Ingvar. Kvaðst viðkomandi þekkja nefndan Ingvar. A var fús til að fara með lögreglumönnum á lögreglustöð. Í skýrslu lögreglu kemur fram að hann hafi þar tjáð lögreglu að persónulegir hlutir hafi sennilega ráðið því að ráðist hafi verið á hann. Tengdist það fyrrverandi kærustu hans, en þau ættu barn saman. Kærasti systur fyrrverandi kærustu A héti Ingvar. Fyrrverandi kærasta A hafi hringt fyrr um daginn og viljað hitta hann. Hafi A tjáð henni hvar hann byggi. Um klukkustundu síðar hafi árásarmennirnir birst hjá A.

          Samkvæmt skýrslu lögreglu héldu þrír lögreglumenn austur Hverfisgötu. Við Klapparstíg sást til ferða þriggja dökklæddra manna vestur Hverfisgötu. Hafi þremenningarnir virst hraða sér norður Frakkastíg. Héldu lögreglumenn þangað. Er þeir komu að þeim voru þremenningarnir komnir að klúbbshúsi Fáfnis við Hverfisgötu 65. Hafi lýsing á árásarmönnunum komið heim og saman við lýsingu þeirra. Mennirnir voru Jón Trausti Lúthersson og Ingvar Búi Halldórsson, ákærðu í máli þessu, en með þeim var einnig B. Á vettvangi tóku lögreglu­menn eftir blóði á fingri ákærða Jóns Trausta. Voru þremenningarnir handteknir og fluttir á lögreglustöð. Fram kemur að blóð hafi sést á skóm B. Lögregla hafi farið að húsnæðinu Hverfisgötu 85-87 til að rannsaka vettvang. Hafi tæknideild lögreglu annast rannsókn á vettvangi.

          Tæknideild lögreglu hefur ritað skýrslu um tæknirannsókn vegna húsnæðisins Hverfisgata 85-87. Í þeirri skýrslu eru m.a. ljósmyndir af vettvangi. Fram kemur að húsnæðið hafi verið notað sem iðnaðarhúsnæði. Búið hafi verið að rýma húsnæðið nánast að öllu leyti. Við rannsókn á vettvangi hafi fundist blóðdropar á austurvegg vinnslusalar og á gólfi við austurvegg við dísilvél. Þar hafi fundist brotið skefti af billjardkjuða úr timbri, trélisti og vinkiljárn.

          A mætti á lögreglustöð fimmtudaginn 10. ágúst 2006 og lagði þá fram kæru vegna líkamsárásar. Við það tilefni greindi hann svo frá atvikum að hann væri frá Akureyri en byggi ,,á götunni” í Reykjavík. Hafi hann haldið til í niðurníddu húsi á mótum Barónsstígs og Hverfisgötu í Reykjavík. Hafi hann verið inni í því húsi ásamt fleira fólki er þrír menn hafi komið að og spurt eftir honum. Kvaðst A vita að einn þremenningana héti Jón Trausti. Hafi Jón Trausti spurt A hvort hann væri A og A svarað því játandi. Við það hafi þremenningarnir rekið alla út úr húsnæðinu. Er því hafi lokið hafi Jón Trausti spurt A eitthvað út í stúlku að nafni C. Í framhaldinu hafi þeir byrjað að lemja A ítrekað. Hafi þeir allir þrír lamið A. Myndi A óljóst hvað þeir hafi sagt en eitthvað nefnt að láta D í friði og að A ætti að ,,drulla sér” úr borginni. Þeir hafi lamið A alls staðar í líkamann en þó aðallega andlit og bak. Þeir hafi kýlt A ítrekað með hnefum, sparkað í hann og lamið a.m.k. með þrem áhöldum. Þeir hafi brotið billjardkjuða á A, slegið hann með járnlista tvisvar sinnum, auk þess sem honum hafi fundist þeir slá hann með skófluskafti. Í lokin hafi einhver þeirra stigið ofan á höfuð A og sagt ,,mígum á hann”. Hafi A þá séð hvar Jón Trausti hafi migið yfir A. Ekki kvaðst A muna meir. Lögregla hafi komið skömmu síðar. A kvaðst ekki telja að það hafi verið nein bein vitni að árásinni en það hafi þó verið nokkuð af fólki þarna inni og vitni að því þegar þremenningarnir hafi komið inn.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 21. ágúst 2006 mætti E á lögreglustöð þann dag í myndsakbendingu. Benti hún á mynd af ákærða Jóni Trausta  sem mann sem ,,barði strákinn”, auk þess að benda á mynd af ákærða Ingvari Búa sem hafi verið með í því að ,,berja strákinn”.    

          Fimmtudaginn 7. september 2006 mætti A á lögreglustöð. Kvaðst hann kominn í þeim erindagjörðum að falla frá kæru á hendur ákærðu. Kvað hann ástæðuna vera þá að ákærði Jón Trausti hafi beðið sig afsökunar á því sem gerst hafi og að það væri regla hjá A að fyrirgefa fólki sem bæði hann afsökunar. Kvaðst A ekki hafa sætt hótunum af hálfu ákærðu í því skyni að draga kæru til baka. 

          Guðjón Baldursson læknir hefur ritað læknisvottorð vegna komu A á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss 10. ágúst 2006. Í vottorðið er fært eftir A að handrukkarar hafi komið að honum og veitt honum ýmsa áverka, m.a. lamið hann í bakið og kýlt hann í andlitið og notað ýmis áhöld til að veita honum áverka. Mennirnir hafi komið að undirlagi fyrrverandi kærustu A. Í vottorðinu kemur fram að A hafi verið með töluvert mikla bólgu og mar og verið mjög þrútinn vinstra megin í andliti bæði yfir kinnbeini svo og kinnholu vinstra megin og yfir kjálka vinstra megin. Þá hafi kvarnast upp úr einni tönn í efri góm. Á baki séu mjög dreifð og rauð yfirborðslæg sár á herðablaði hægra megin á hægra axlarsvæði niður eftir allri hægri síðunni og niður á mjaðmarsvæðið vinstra megin. Þá sé hrufl og mar á hægri olnboga og upphandlegg. Þá séu yfirborðslægir áverkar á vinstri öxl. Allt séu þetta merki um klór eða eftir einhvers konar áhöld, trúlega spýtu eins og A segi að hafi verið notuð til þess að veita honum áverkana. Yfirborðslægir áverkar séu á brjóstkassa, bol, útlimum og í andliti. Engin merki séu um blæðingar og enginn grunur um brot. Í áliti kemur fram að áverkar geti komið vel heim og saman við sögu sjúklings um fólskulega líkamsárás.

          Tekin var skýrsla af ákærða Jóni Trausta hjá lögreglu fimmtudaginn 10. ágúst 2006. Kvaðst ákærði ekki hafa komið nálægt neinu ofbeldi. Ekki kvaðst hann þekkja A. Er undir ákærða var borin frásögn A í kæruskýrslu kvaðst ákærði ekki kannast við þá frásögn. Kvað hann allt rangt sem fram kæmi í skýrslunni. Ekki kvaðst ákærði kannast við að hafa verið á vettvangi að Hverfisgötu 85-87 að kvöldi miðvikudagsins 9. ágúst 2006. Ákærði kvaðst þekkja meðákærða. Hafi þeir félagar, ásamt B, verið handteknir af lögreglu að kvöldi 9. ágúst 2006. Tekin var önnur skýrsla af ákærða hjá lögreglu síðar sama dag. Kvaðst ákærði þá í engu vilja breyta fyrri framburði sínum hjá lögreglu. Er undir ákærða var borin lýsing B hjá lögreglu um að hann hafi verið samferða ákærðu að Hverfisgötu 85-87 og hvað fram hafi farið í húsnæðinu kvaðst ákærði eftir sem áður ekkert kannast við atburðina. Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu föstudaginn 10. nóvember 2006. Kvaðst hann í engu vilja breyta fyrri framburði sínum. Var borinn undir hann framburður vitna hjá lögreglu, en þar hafði m.a. eitt þeirra tilgreint ákærða sem einn árásaraðilanna. Kvað ákærði framburð vitna rangan að því marki sem þau bendluðu hann við árásina. Kvað hann óskiljanlegt hvers vegna svo væri.

          Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá að hann hafi ásamt meðákærða og B farið að Hverfisgötu 85-87 umrætt sinn. Hafi meðákærði ætlað að ræða við mann mágkonu sinnar og beðið ákærða um að koma með sér. Hafi ákærði skilið það svo að umræddur maður hafi brotist inn á heimili tengdaforeldra meðákærða. Á vettvangi hafi þeir hitt drenginn. Einhver átök hafi átt sér stað milli meðákærða og drengsins og kvað ákærði meðákærða hafa veitt drengnum eitt til tvö högg, auk þess sem hann gæti hafa sparkað í hann einu sinni. Ekki kvaðst ákærði hafa handleikið billjardkjuða eða einhver önnur barefli í húsnæðinu. Ekki kvaðst ákærði sjálfur hafa ráðist að A. Hafi hann einungis verið áhorfandi. Ekki kvaðst ákærði kannast við að hafa síðar beðið A afsökunar á þessu framferði ákærðu. Ákærði kvaðst hafa greint frá atvikum hjá lögreglu á sínum tíma þannig að hann hafi ekki viljað kannast við atburðinn. Hafi hann ekki viljað varpa grun á sig eða aðra í tengslum við verknaðinn.  

          Tekin var lögregluskýrsla af ákærða Ingvari Búa fimmtudaginn 10. ágúst 2006. Kvaðst ákærði þá ekkert kannast við líkamsárás er A hefði orðið fyrir í húsnæði við Hverfisgötu 85-87 kvöldið áður. Kvaðst ákærði ekki kannast við neinn með nafninu A. Er undir ákærða var borinn fram­burður A í kæruskýrslu þar sem hann greinir frá atburðum og nefnir einn árásarmannanna Jón Trausta kvaðst ákærði ekkert vita um málið. Kvaðst ákærði kannast við að hafa verið með meðákærða þetta kvöld og B. Hafi þeir verið handteknir af lögreglu. Undir ákærða var borinn framburður B hjá lögreglu þar sem hann gerir grein fyrir ferð sinni og ákærðu að Hverfisgötu. Kvaðst ákærði eftir sem áður ekkert vita um atburðinn. Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 7. nóvember 2006. Kvaðst hann í upphafi engu vilja breyta í fyrri framburði sínum hjá lögreglu. Var borinn undir hann framburður vitna hjá lögreglu, m.a. að vitni hafi í myndsakbendingu bent á ákærða sem einn árásar­mannanna. Ákærði kvað það rangt að hann hafi verið á staðnum umrætt sinn.

          Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá að hann hafi, ásamt meðákærða og B, farið að Hverfisgötu 85-87 umrætt sinn til að hafa tal af A. Hafi ákærði átt sökótt við A því A hafi brotist inn hjá tengdaforeldrum ákærða. Kvaðst ákærði hafa vitað að A héldi til í húsnæðinu að Hverfisgötu. Hafi hann beðið meðákærða um að koma með sér ef ákærði þyrfti liðsauka. Ekki hafi B tekið þátt í verknaðinum heldur haft gætur á hurð inn í húsnæðið. Kvaðst ákærði hafa tekið í A þetta kvöld. Hafi hann bæði slegið hann þrisvar til fjórum sinnum og sparkað í hann tvisvar sinnum eða í mesta lagi þrisvar sinnum. Þá gæti ákærði hafa hent honum upp að vegg. Ekki kvaðst ákærði kannast við að hafa lamið hann með billjardkjuða eða öðrum áhöldum. Atlagan hafi staðið í 5 til 10 mínútur. Hafi A fallið í jörðina við atlöguna og ákærði sparkað í hann liggjandi. Talsvert af ungmennum hafi verið í húsnæðinu er ákærðu hafi komið að. Hafi öll ungmennin verið rekin út áður en ákærði hafi lamið A. A hafi staðið í fæturna er ákærðu hafi yfirgefið húsnæðið. Meðákærði hafi engan þátt átt í árásinni. Þá kvað ákærði rangt að einhver hafi kastað þvagi yfir A. Ákærði kvaðst ekki vita nákvæmlega hvar högg hans og spörk hafi hafnað í A. Hann hafi sparkað í búk hans en ekki andlit. Gætu ekki allir áverkar í áverkavottorði verið af völdum ákærða. Ákærði kvaðst hafa verið í ,,þrætugír” er hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglu. Skýri það framburð hans þar.

          Fyrir dómi greindi A svo frá að hann hafi umrætt sinn verið með ungmennum að Hverfisgötu 85-87. Þau hafi verið að skemmta sér, en á þessum tíma hafi A búið á götunni. Hafi hann verið búinn að vera í húsnæðinu að Hverfisgötu í um 3 vikur er þar var komið. Ákærðu hafi þetta kvöld, í félagi við þriðja mann, komið inn í húsnæðið og spurt A hvort hann væri A. Hafi A svarað því játandi. Í framhaldi hafi þeir félagar rekið alla út úr húsnæðinu. Síðan hafi ákærði Ingvar Búi slegið A tvö til þrjú hnefahögg í andlitið og sparkað í hann tvö til þrjú spörk í maga þar sem A hafi legið í jörðinni. Ákærði Jón Trausti hafi reyndar sett fót ofan á höfuð A og kastað af sér þvagi yfir hann. A kvaðst hafa orðið mjög hræddur. Ákærði Jón Trausti hafi að öðru leyti á meðan staðið hjá aðgerðalaus og ekki ráðist á A. A kvað rangt í kæruskýrslu að hann hafi verið sleginn með billjardkjuða þetta sinn. A kvaðst hafa skammast sín fyrir að hafa verið laminn af einum manni og því jafnan sagt að ákærðu hafi báðir ráðist á sig þegar hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglu. Hafi skýrslan verið röng að því leyti til. Kvaðst A hafa mætt á lögreglustöð til að draga kæru á hendur ákærðu til baka. Þá bar A að ráðist hafa verið á sig að kvöldi þriðjudagsins 8. ágúst 2006. Þar hafi verið veist ,,hressilega” að A. Þeir áverkar sem lögregla hafi séð á A er hún hafi mætt á svæðið séu áverkar er A hafi fengið í þeim slagsmálum. Í því tilviki hafi hann verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafi hann gert sér dælt við stúlku. Kærasti hennar hafi orðið fúll. Er hann hafi yfirgefið skemmtistað þar sem þetta hafi farið fram hafi fjórir drengir elt A. Hafi þeir síðan veist að honum og lamið A illa. Honum hafi m.a. verið slengt í vegg og sparkað í líkama hans. Engin vitni hafi verið að þessum atburðum. Árásin hafi átt sér stað á Hverfisgötu. A hafi ekki lagt fram kæru vegna þess atburðar.

          B gaf skýrslu hjá lögreglu fimmtudaginn 10. ágúst 2006. Kvaðst hann hafa verið í sambandi við ákærða Ingvar Búa um kl. 18.00 til 18.30 að kvöldi miðvikudagsins 9. ágúst 2006. Hafi ákærði sagt að hann þyrfti að hitta mann í Reykjavík sem væri að gera fjölskyldu ákærða lífið leitt. Hafi ákærði sagt að maðurinn væri kallaður A. Hafi B ákveðið að slást í för með ákærða, enda hafi B ekkert sérstakt haft að gera þetta kvöld. Hafi B talið að ákærði ætlaði einungis að ræða við umræddan A. Ákærði hafi sagt að ákærði Jón Trausti myndi einnig slást í för með þeim. B hafi farið með ákærða Ingvari í bifreið til Reykjavíkur, en þeir hafi verið í Reykjanesbæ. Þar sem ákærði Ingvar hafi ekki verið með á hreinu hvar umræddur A væri til húsa hafi ákærði hringt í barnsmóður A til að fá heimilisfang hans uppgefið. Samkvæmt því hafi A átt að vera í yfirgefinni skemmu við hlið verslunarinnar 10/11 á Hverfisgötu. Þeir félagar hafi síðan hitt ákærða Jón Trausta. Þeir hafi í kjölfarið gengið þrír saman að húsnæðinu við Hverfisgötu. Er þeir hafi komið að húsnæðinu hafi þeir þrír gengið þar inn og ákærðu báðir beðið B um að gæta að hurðinni til að passa að enginn færi þar út. Í húsnæðinu hafi verið talsvert af ungmennum. Hafi B þá verið farinn að hafa áhyggjur af málinu. Ákærðu hafi farið um húsnæðið til að leita að A en B ætlað að elta þá. Hafi þeir þá sagt honum að koma sér til baka til að gæta hurðarinnar. Hafi B gert það. Umræddur A hafi þá komið gangandi en eitthvað af ungmennunum verið farin að ókyrrast og verið á leið út. Ákærði Ingvar hafi þá sagt A að bíða og spurt hann hvernig stæði á því að hann væri að hóta fölskyldu ákærða. A hafi borið það af sér. A hafi jafnframt sagt að systir vinkonu ákærða Ingvars væri í húsinu og gætu ákærðu einfaldlega rætt við hana um þessa hluti. Kvaðst B hafa ætlað að fara að ræða við stúlkuna, en hún ekki viljað ræða við hann. Hafi ákærði Ingvar þá rætt við hana. Eftir það samtal hafi ákærði Ingvar gengið upp að A, rifið í hann og spurt hann að því hvort eitthvað tiltekið væri rétt. Ákærði Ingvar hafi síðan tekið í A og hent honum upp að vegg. B kvaðst þá hafa litið undan og ekki viljað horfa á það sem gerðist. Hafi hann upplifað það þannig að ákærði Jón Trausti og ákærði Ingvar væru að lemja á A. Er B hafi litið næst í átt að þeim hafi A legið í gólfinu sem hafi verið þakið glerbrotum. Hafi hann verið hreyfingalaus. A hafi þá verið marinn og alblóðugur. Eftir þetta hafi þeir þremenningar gengið út á Hverfisgötu og haldið saman niður að klúbbhúsi. Lögregla hafi handtekið þá skömmu síðar.

          Fyrir dómi bar B að hann hafi verið beðinn um að passa upp á hurð húsnæðisins og gæta að því að enginn færi út eða inn. Hafi ákærðu verið báðir að ræða við umræddan dreng á meðan B hafi verið að ræða við stúlku á svæðinu. Hafi ákærði Ingvar veist að drengnum og fleygt honum í vegg. Þá hafi B litið undan. Kvað hann ákærða Jón Trausta ekki hafa átt hlut að máli umrætt sinn. B kvaðst hafa verið undir álagi vegna vinnu sinnar er hann hafi gefið lögregluskýrslu vegna málsins. Hafi hann því borið með þeim hætti er hann gerði. Hafi hann einn haft með höndum rekstur tiltekins fyrirtækis og viljað losna sem fyrst úr yfirheyrslu. Bkvaðst ekki hafa séð neinn nota barefli í húsnæðinu.

          E kvaðst hafa verið í húsnæðinu við Hverfisgötu þetta kvöld. Hafi hún verið þar með vinkonum sínum. Um 15 mínútum eftir að hún hafi verið komin inn í húsið hafi þrír menn komið þar að. Hafi þeir farið að berja á A, en einn þeirra staðið við dyrnar til að hleypa fólki út. Kvaðst E þá hafa farið og hringt á lögreglu. Mennirnir hafi lamið á A í um þrjár mínútur á meðan hún hafi verið inni í húsnæðinu en í um 10 mínútur eftir að hún hafi verið farin út. Hafi þeir strax byrjað að berja á A er þeir hafi komið inn. Annar mannanna hafi lamið hann með höndum, kýlt hann og hent höfði hans upp að veggnum. Hinn maðurinn hafi lamið hann með billjardkjuða. Maðurinn sem hafi lamið A með hnefa hafi verið í leðurvesti, svörtum leður- eða gallabuxum og í svartri eða rauðri peysu. Kvaðst hún ekki viss um hvort hann hafi verið krúnurakaður en þybbinn í andliti. Sá sem lamið hafi A með billjardkjuðanum hafi verið síðhærður með brúnt sítt hár í tagli niður á mitt bak. Kvaðst E viss um að tveir menn hafi lamið A þetta kvöld. Staðfesti E að hafa farið í myndsakbendingu hjá lögreglu og að hafa þar borið kennsl á árásarmennina. Kvaðst Evera glögg á andlit.  

          C kvaðst hafa farið í miðbæ Reykjavíkur miðvikudaginn 9. ágúst 2006. Hún og vinkona hennar, F, hafi farið á Hlemm og þaðan í hús við Hverfisgötu þar sem A hafi búið. Eftir að hafa verið í húsnæðinu í um 5 mínútur hafi komið að þrír menn. Hafi einn þeirra spurt A hvort hann væri nefndur maður og hafi A játað því. Tveir mannanna hafi þá ráðist á A að fyrra bragði og þeir byrjað að lemja hann með einhvers konar priki og með krepptum hnefum í andlitið og magann þannig að blætt hafi úr A. Mennirnir tveir hafi lamið höfði A upp við vegginn. Þriðji maðurinn hafi ekki tekið neinn þátt í að lemja A. Hafi hún séð atburðarásina alla. Þegar þetta hafi gengið á hafi hún verið á efri hæð hússins og fylgst með. Hafi hún síðan farið út á verönd en séð atburðarásina inn um hurð. Hafi hún svo farið aftur inn er árásarmennirnir hafi farið. Eftir um fimm til tíu mínútur hafi mennirnir gengið út, en A þá staðið upp við vegg og haldið um magann á sér. Þá hafi hann verið blóðugur í framan. Hafi hún þekkt annan mannanna sem ákærða Ingvar Búa, en hafa heyrt á vettvangi hinn nefndan Jón Trausta.

          F kvaðst hafa farið í bæinn ásamt C. Kvaðst F hafa ætlað að hitta vin sinn A. A hafi hleypt þeim inn í húsnæði þar sem hann hafi dvalið. Hafi þær síðan farið upp á aðra hæð hússins. Eftir stutta stund hafi A farið niður á neðri hæð þar sem hann hafi heyrt einhverja koma inn í húsið. Hafi A óttast að húseigandinn væri kominn. Stuttu síðar hafi hún heyrt hávaða koma frá neðri hæðinni. Hafi hún athugað hvað væri í gangi. Hafi hún þá séð hvar þrír menn hafi verið að ráðast á A. Þegar hún hafi séð til hafi A legið í gólfinu á hlið og einn eða tveir árársarmannanna verið að berja á honum með einhvers konar barefli. Mennirnir hafi síðan fari út úr húsinu.

          Lögreglumennirnir Jón Viðar Arnþórsson og Kristján Friðþjófsson komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins.

          Niðurstaða:

          Ákærði Ingvar Búi krefst frávísunar málsins frá dómi á þeim grundvelli að kæra í málinu hafi verið dregin til baka, en brot ákærða eigi í besta falli undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940.

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er málsókn út af brotum á 217. gr. opinber og skal mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist þess. Því hefur margsinnis verið slegið föstu af dómstólum að það er ákæruvald sem hefur mat um það hvort til málshöfðunar komi á grundvelli þessarar heimildar. Verður frávísunarkröfu ákærða því hafnað. 

Ákærði Jón Trausti neitar sök. Kveðst hann í engu hafa valdið A áverkum að kvöldi miðvikudagsins 6. september 2006 í húsnæði við Hverfisgötu 85-87. Hann hafi verið áhorfandi að því er meðákærði hafi tekið í A. Ákærði Ingvar Búi hefur viðurkennt að hafa valdið A áverkum þetta kvöld, en hann hafi lamið hann með hnefa þrjú til fjögur högg og sparkað í A þar sem A hafi legið liggjandi tvö til þrjú spörk. Þau hafi öll komið í búk A. Ákærði kveður háttsemi sína ekki eiga undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, heldur 1. mgr. 217. gr. sömu laga. 

          Í máli þessu liggur fyrir framburður fjölmargra vitna. Er fyrst til að telja að brotaþoli gaf í tvígang skýrslu hjá lögreglu og síðan aftur fyrir dómi. Hefur framburður hans í öllu verulegu sætt breytingum. Er hann gaf skýrslu hjá lögreglu við kæru bar hann að ákærðu hafi báðir gengið í skrokk á sér með höggum og spörkum. Er enginn vafi á því að þar bar hann ákærðu báða sökum. Lýsti hann því jafnfram að hann hafi verið laminn með billjardkjuða og fleiri áhöldum. Allt hafi þetta endað með því að ákærði Jón Trausti hafi kastað af sér þvagi yfir hann. A dró kæru sína til baka síðar og bar því þá við að hann hefði fyrirgefið ákærðu en ákærði Jón Trausti hafi beðið sig fyrirgefningar. Við það hefur ákærði Jón Trausti ekki viljað kannast. Hér fyrir dómi er framburður A nú á þann veg að það hafi einungis verið ákærði Ingvar Búi er hafi veitt honum áverka en ekki ákærði Jón Trausti. Hafi sér fundist ekki nægjanlega karlmannlegt að hafa verið laminn af einungis einum manni. Þá ber hann því nú við að hann hafi kvöldið fyrir þennan atburð orðið fyrir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur sem hafi að mestu leyti valdið þeim áverkum er í ákæru greinir. Eigi það m.a. við um blóð er fram kemur í frumskýrslu lögreglu að lögreglumenn hafi tekið eftir í andliti A á vettvangi. 

          Til þess er að líta að vitni voru á staðnum sem borið hafa um þessi atvik með skýrum hætti. Eru það einkum vitnin E, C og F. Bæði E og C fullyrða að þær hafi séð ákærðu báða ganga í skrokk á A með hnefahöggum, spörkum og með því að slá hann með priki sem hafi brotnað við atganginn. Er þar ótvírætt um billjardkjuða að ræða, en leifar af honum fundust á vettvangi eftir atlöguna, auk þess sem billjardkjuði hefur af öðrum vitnum í málinu verið nefndur til sögunnar. Staðhæfa þær óhikað að ekkert hafi hindrað þær í að sjá þessa atburði. Var framburður E einkar skýr um þessi atriði, en hún lýsti af nokkurri nákvæmni þætti hvors ákærðu um sig. Þá hefur F greint frá því að þrír menn hafi ráðist á A. Þá nýtur við framburðar B hjá lögreglu sem var ítarlegur og verður ekki skilinn með öðrum hætti en að ákærðu hafi báðir gengið í skrokk á A. Er framburður B fyrir dómi annar og nærri framburði ákærðu. Þegar A kom fyrir dóminn var honum augljóslega órótt. Þegar virtir eru eindregnir framburðir vitnanna E, C og F í málinu, hliðsjón höfð af framburði A um ætlaða árás frá þriðjudeginum sem enginn hefur getað staðfest og sætti ekki kæru til lögreglu, litið er til fráleitra skýringa A á alblóðugu andliti sínu að kvöldi miðvikudagsins og miðað við skýra frásögn A af atburðum er hann ræddi við lögreglu á vettvangi, sem og er hann lagði fram kæru, þykir dóminum hafið yfir allan vafa að A hafi dregið kæru sína til baka og hagrætt framburði sínum fyrir dómi af ótta við ákærðu. Er slíkt samræmi nú með ákærðu og A um fjölda högga og annað í tengslum við árásina að augljóst er að honum hafa verið lögð orð í munn. Í þessu ljósi verður framburði A fyrir dómi alfarið hafnað og miðað við framburð hans hjá lögreglu, sem samrýmist öðrum framburðum vitna í málinu og sakargögnum að öðru leyti. Ákærðu og B hafa gefið misvísandi frásagnir í málinu. Dregur það mjög úr trúverðug­leika framburðar þeirra. Með vísan til þessa telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi í félagi ráðist á A og veitt honum þá áverka sem í ákæru greinir, en þeir eru í samræmi við læknisvottorð sem greinir frá áverkum er A var með daginn eftir atlöguna. Er sannað að þeir hafi veitt ákærða áverkana með hnefahöggum og spörkum og með því að slá hann með billjardkjuða, en bæði læknisvottorð og frumskýrsla lögreglu bera ótvírætt með sér að A hafi hlotið áverka með bareflum. Þar sem ákærðu veittust í félagi að A verður ekki skilið frekar á milli þáttar hvors um sig. Í ákæru er miðað við að kvarnast hafi upp úr tönn á A við atlöguna. Ekki kemur fram í læknisvottorðinu hvort hér sé um nýtt brot að ræða. Verður ekki talið sannað að kvarnast hafi upp úr tönn á A við atlögu ákærðu. Við mat á því hvort háttsemi fellur undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 eða 1. mgr. 218. gr. sömu laga hafa dómstólar litið til afleiðinga árásar. Þeir áverkar er A hlaut af atlögunni eru slíkir að á undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Að því gættu verða ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru.

          Ákæra 23. október 2006.

          Samkvæmt skýrslu lögreglu frá fimmtudeginum 7. september 2006 voru lögreglu­menn þann dag kl. 14.36 við hraðamælingar á Sæbraut á vegarkafla að Súðarvogi. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var þá mældur hraði bifhjóls af gerðinni Harley Davidson, með skráningarnúmerið ZG-944. Mældist hraðinn 116 km á klst. Skráður eigandi bifhjólsins og ökumaður var ákærði Jón Trausti Lúthersson. Fram kemur að hámarkshraði á vegarkaflanum hafi verið 60 km á klst. Í vettvangsskýrslu sem rituð hefur verið vegna málsins kemur fram að dagsbirta hafi verið, sólskin og þurrt. Ratsjá hafi verið prófuð bæði fyrir og eftir mælingu. Vettvangsskýrslan ber með sér að ákærði hafi neitað að undirrita skýrsluna. Undir skýrsluna rita lögreglu­mennirnir Guðrún Árnadóttir og Anna Óskarsdóttir.

          Ákærða var boðið að ljúka málinu með sektargerð sem dagsett er 22. september 2006 og liggur frammi í málinu. Samkvæmt skjali er varðstjóri hefur ritað var haft samband við ákærða og hann inntur eftir afstöðu til sektargerðarinnar. Kemur fram að ákærði hafi ekki viljað fallast á þá niðurstöðu málsins og óskað eftir að málið kæmi fyrir dóm.

          Fyrir dómi kvaðst ákærði kannast við að hafa verið á ferð á bifhjóli umræddan dag og að lögreglumenn hafi haft afskipti af akstri hans. Ákærði kvað sér ekki hafa verið sýndur mældur hraði á ratsjá. Kvaðst ákærði hafa neitað því að hafa ekið bifhjólinu á þessum hraða. Hafi hann ekið hjólinu á umferðarhraða, sennilega á um 60 km hraða á klst. Hafi tvær bifreiðar verið fyrir framan ákærða og ein til hliðar er lögreglumenn hafi mælt ökuhraða ákærða.

          Anna Ólafsdóttir staðfesti að hafa mælt ökuhraða ákærða umrætt sinn. Lögreglumenn hafi notast við ratsjá við hraðamælinguna. Hafi tækið verið prófað bæði fyrir og eftir mælinguna. Umrædd ratsjá væri með lasergeisla sem beindist að ákveðnum hlut. Væri útilokað að annar hlutur en bifhjól ákærða hafi verið mælt greint sinn. Þá bar Anna að sá lögreglumaður sem hafi verið með henni við mælingu þennan dag hafi sýnt ákærða mældan hraða á vettvangi.

          Guðrún Árnadóttir kvaðst hafa starfað við ratsjármælingar við Súðavog þennan dag. Hraði ákærða hafi verið mældur þar sem hann hafi ekið bifhjóli. Hafi akstur hans verið stöðvaður í framhaldinu. Ekki hafi hann viðurkennt brot sitt hjá lögreglu. Umrædd ratsjá hafi verið prófuð bæði fyrir og eftir mælingu. Ekki væri mögulegt að annað farartæki en bifhjól ákærða hafi verið mælt þetta sinn. Sé lasermið notað við mælinguna sem miði á tiltekið ökutæki. Kvaðst Guðrún hafa haldið á tækinu þegar þessi mæling hafi átt sér stað.

          Niðurstaða:

          Ákærði neitar sök. Hefur hann fullyrt að hann hafi greint sinn ekið um Sæbraut á 60 km hraða á klst. Lögreglumenn þeir er stóðu að mælingu á hraða ákærða komu fyrir dóminn. Lýstu þeir aðferðum lögreglu við hraðamælinguna og hvernig ratsjáin hafi verið prófuð bæði fyrir og eftir mælingu. Að mati dómsins er ekkert það komið fram sem veikir hraðamælingu lögreglu. Með vísan til samhljóða framburða lögreglu­mannanna, sem og lögregluskýrslna er frammi liggja í málinu, er sannað að ákærði hafi umrætt sinn ekið bifhjóli með skráningarnúmerið ZG-944 um Sæbraut með 112 km hraða á klst. þar sem hámarkshraði á vegi var 60 km á klst. Með vísan til þess verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

          Ákærði Jón Trausti er fæddur í apríl 1976. Var hann 6. júlí 2005 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði Ingvar Búi er fæddur í maí 1974. Hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot, svo kunnugt sé.   

          Háttsemi ákærðu sem fólst í þeirri atlögu er að framan er lýst var fólskuleg. Sammæltust þeir fyrir fram um að fara að A. Allur aðdragandi og framferði ákærðu ber þess merki að þeir hafi verið búnir að ákveða að þriðji maður myndi tryggja að þeir gætu tveir afskiptalaust gengið í skrokk á A. Ákærðu og A komu fyrir dóminn. Eru ákærðu miklir á velli og stendur A þeim talsvert að baki hvað líkamlega burði varðar. Í því ljósi er ljóst að ákærðu sóttu að A með ofurefli liðs og mikla líkamsburði. Þá var atlagan slík að hún sýndi vægðarleysi og hrottaskap. Ákærði Jón Trausti á að baki refsidóm þar sem hann var sakfelldur fyrir að ryðjast inn á ritstjórn blaðs og ganga þar í skrokk á ritstjóra þar sem hann var ósáttur við umfjöllun viðkomandi fjölmiðils. Sýnir þetta svo ekki verður um villst að ákærði er ofbeldisfullur einstaklingur. Samkvæmt 218. gr. a laga nr. 19/1940 hefur fyrri líkamsárásardómur ákærða ítrekunaráhrif á það brot sem hér er dæmt um. Er refsing hans, að teknu tilliti til 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem engu leyti verður bundið skilorði. Ákærði Ingvar Búi nýtur þess að eiga engan sakaferil að baki. Er refsing hans, að teknu tilliti til 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem ekki verður bundið skilorði.

          Ákærði Jón Trausti hefur unnið sér til ökuréttarsviptingar með háttsemi sinni samkvæmt ákæru 23. október 2006. Með vísan til lagaákvæða í ákæru verður ákærði sviptur ökurétti í 1 mánuð frá birtingu dóms þessa að telja.

          Ekki liggur frammi yfirlit um sakarkostnað í málinu. Jón Egilsson héraðs­dóms­lögmaður annaðist verjandastörf fyrir ákærða Jón Trausta á rannsóknarstigi málsins. Greiði ákærði 56.025 krónur í þóknun til lögmannsins fyrir þau verjandastörf og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá annaðist Björgvin Jónsson hæsta­réttarlögmaður verjandastörf á rannsóknarstigi fyrir ákærða Ingvar Búa. Greiði ákærði 77.688 krónur í þóknun til lögmannsins fyrir þau verjandastörf og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærðu greiði auk þess málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, að teknum tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir.

          Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir fulltrúi lög­reglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

          Ákærði, Jón Trausti Lúthersson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

          Ákærði, Ingvar Búi Halldórsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

          Ákærði Jón Trausti er sviptur ökurétti í 1 mánuð frá birtingu dómsins að telja.

          Ákærði Jón Trausti greiði 509.205 krónur í sakarkostnað, þar með talin máls­varnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 453.180 krónur.

Ákærði Ingvar Búi greiði 401.388 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdóms­lögmanns, 323.700 krónur.