Print

Mál nr. 423/2001

Lykilorð
  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. nóvember 2001.

Nr. 423/2001.

Sigurður Steindór Pálsson

 

(Sigurður Gizurarson hrl.)

 

gegn

 

íslenska ríkinu

 

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S krafðist viðurkenningar á því að honum væri ekki skylt að greiða álagðan tekjuskatt, skattárið 2000. Grundvallaði S kröfugerð sína á því að mælt væri fyrir um mismunun skattþegna í 68. gr. laga nr. 75/1981 og fengi sú mismunun ekki staðist . Vísaði S m.a. til jafn­ræðis­reglu 65. gr. stjórnarskrárinnar í því sambandi. Að mati héraðsdóms varð málatilbúnaður S ekki skilinn á annan veg en þann að S teldi b-lið fyrrgreindrar 68. gr. skorta stjórnskipulegt gildi, en krefðist engu að síður að njóta þeirrar skattalegu ívilnunar sem þröngt afmörkuðum hópi skattgreiðanda er með ákvæðinu ætlað að njóta. Var af þessum sökum talið skorta rökrétt samhengi milli dómkrafna S og þeirra málsástæðna sem hann byggði á í málinu, sbr. d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Auk þess þótti málatilbúnaður S vera í andstöðu við  1. mgr. 25. gr. sömu laga. Þá var rökstuðningi áfátt að því er varðaði meint brot gegn 65. gr. og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og ennfremur þótti óljóst hvaða áhrif það myndi hafa á stöðu S að lögum ef fallist væri á kröfur hans. Var málinu samkvæmt þessu vísað frá héraðsdómi og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigurður Steindór Pálsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2001.

Mál þetta var höfðað 15. mars 2001 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu, 21. september s.l.

Stefnandi er Sigurður Steindór Pálsson, kt. 171246-3269, Álftamýri 44, Reykjavík.

Stefndu eru Skattstjórinn í Reykjavík og íslenska ríkið en fyrir þess hönd er fjármálaráðherra stefnt.

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógiltur verði úrskurður Skattstjórans í Reykjavík frá 5. desember 2000, þar sem hafnað var kæru stefnanda, dagsettri 24. ágúst 2000 (sic) og að staðfest verði að stefnanda sé ekki skylt að greiða álagðan tekjuskatt, skattárið 2000, að fjárhæð 76.130 krónur. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi en til vara að er krafist sýknu. Jafnframt krefjast stefndu málskostnaðar.

Í frávísunarþætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað en ákvörðun málskostnaðar bíði efnismeðferðar.

I - Málatilbúnaður stefnanda

Stefnandi kveðst vera 75% öryrki en hafi á árinu 1999 verið í hlutastarfi sem bílstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Örorkubætur hans á árinu 1999 hafi numið 733.770 krónum og ásamt vinnutekjum hafi tekjur til útreiknings á tekjuskatti og útsvari numið 1.348.270 krónum. Á grundvelli skattframtals stefnanda var lagður á hann 76.130 króna tekjuskattur, vegna tekna á árinu 1999, samkvæmt álagningar og innheimtuseðli 2000.

Stefnandi kærði álagningu tekjuskattsins til Skattstjórans í Reykjavík 18. ágúst 2000. Grundvöllur kærunnar var sá að stefnandi ætti, m.a. vegna jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár, að njóta sama skattaafsláttar og þeir sem njóta sjómannaafsláttar samkvæmt B-lið 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981. Með úrskurði uppkveðnum 5. desember 2000, hafnaði skattstjórinn í Reykjavík kærunni m.a. á þeim forsendum að stefnandi uppfyllt ekki lagaskilyrði til að njóta sjómannaafsláttar. Stefnandi kærði þá ákvörðun ekki til Ríkisskattstjóra en höfðaði mál þetta.

Stefnandi byggir málshöfðunina m.a. á því að í 68. gr. laga nr. 75/1981 sé mælt fyrir um mismunum skattþegna sem hvorki fái staðist samkvæmt meginstöfum laga um jafnræði, sem séu staðfestir í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, né almennum meginstöfum laga um réttlæti og sanngirni. Felist mismununin í því að á meðan allir skattþegnar njóti almenns persónuafsláttar á grundvelli A-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 sé allstór hópur skattþegna sem njóti sérstaks skattafsláttar, sjómannaafsláttar, til viðbótar hinum almenna persónuafslætti. Skynsamleg réttlætis- og sanngirnisrök verði ekki færð fyrir sjómannaafslættinum með vísan til sérstöðu þeirra sem hans njóti svo sem lágra launa, vosbúðar, slysahættu og annarra persónulegra fórna þeirra er þau störf vinna.

Þá telur stefnandi mismunun þessa stangast á við meginstafi um jafnræði sem liggi til grundvallar skatthugtaki 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar en það hugtak hafi verið túlkað á þann veg að ekki sé um skatt að ræða ef skattþegnum sé mismunað með óeðlilegum, ósanngjörnum eða ranglátum hætti.

Jafnframt telur stefnandi að 68. gr. laga nr. 75/1981 stangist á við við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar þar sem hún feli í sér mismunun milli þeirra sem sjómannaafsláttar njóti og almennra skattborgara, þ.á m. öryrkja, sem bitni á eignum þeirra, þ.m.t. örorkulífeyri.

Stefnandi telur að réttlætis- og sanngirnisrök eigi að leiða til þess að öryrkjar eigi miklu fremur að njóta jákvæðrar mismununar heldur en ýmsir aðrir þeirra sem hennar njóti í dag.

Að lokum byggir stefnandi á því að íslenska ríkið hafi ekki fullnægt samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið, svo sem 92. gr. (87. gr.) Rómarsáttmálans frá 1957 er leggi bann við ríkisstyrkjum til fyrirtækja sem keppi innan Evrópubandalagsins/ Efnahagssvæðis Evrópu. Með B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981 sé íslenskum fyrirtækjum sem stundi fiskveiðar eða flutninga á sjó, veittur styrkur úr ríkissjóði Íslands, sem önnur fyrirtæki á samkeppnismarkaði innan Efnahagssvæðis Evrópu njóti ekki..

II - Málatilbúnaður aðila varðandi frávísunarkröfu

Til stuðnings frávísunarkröfu færa stefndu m.a. þau rök, að til þess að geta borið sakarefni undir dómstóla þurfi stefnandi að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið. Krafan verði að tengjast áþreifanlegum hagsmunum en ekki sé um það að ræða í þessu máli. Málatilbúnaður stefnanda byggist á sjónarmiðum um actio popularis en slík aðild sé ekki viðurkennd í íslenskum rétti.

Stefndu telja að fyrir liggi að stefnandi uppfylli ekki skilyrði B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981 til þess að njóta sjómannaafsláttar. Stefnandi vilji hins vegar fá skattafslátt vegna ákvæðis sem hann telur í hinu orðinu ekki standast ákvæði stjórnarskrárinnar eða EES-samningsins. Verði fallist á málsástæður stefnanda um að ákvæði B-liðs 68. gr. brjóti gegn tilgreindum ákvæðum hljóti það að leiða til þess að sjómannaafsláttur samkvæmt þessu ákvæði falli niður þar sem ákvæðið verði þá í raun dæmt ógilt. Málatilbúnaður stefnanda geti ekki leitt til þess að hann fái skattaafslátt á grundvelli ákvæðis sem sé andstætt stjórnarskrá. Ekki verði því séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af málsókninni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í raun sé stefnandi að krefjast álits um lögfræðilegt efni sem sé í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. sömu laga.

Af hálfu stefnanda er frávísunarkröfunni mótmælt með þeim rökum m.a. að málatilbúnaður stefnanda miði að því að sýna fram á að ákvæði 68. gr. laga nr. 75/1981 séu að því leyti andstæð tilgreindum ákvæðum stjórnarskrár, almennum meginstöfum laga og EES-samningnum, að skattaafsláttur sé takmarkaður við tiltekinn hóp. Verði slík takmörkun í lögum ekki talin hafa stjórnskipulegt gildi eigi stefnanda og raunar allir landsmenn rétt á sambærilegum skattaafslætti og þeir sem nú njóti sjómannaafsláttar. Það séu aðeins viðbótarrök að öryrkjar ættu fremur að njóta slíks afsláttar en sjómenn. Því felist ekki í málatilbúnaði stefnanda beiðni um lögfræðilegt álit heldur tengist álitaefnið tilteknum áþreifanlegum hagsmunum hans.

III - Niðurstaða

Í B-lið 68. gr. laga um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 er mælt fyrir um sérstakan persónuafslátt, svokallaðan sjómannaafslátt, þeim til handa er stunda sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi. Gert er ráð fyrir að þeir sem telja sig eiga rétt til slíks afsláttar geri grein fyrir þeim réttindum í sérstökum reitum á framtalseyðublaði. Ekki er að sjá að stefnandi hafi gert tilkall til slíks afsláttar í skattframtali sínu fyrir árið 1999. Í kæru til Skattstjórans í Reykjavík 18. ágúst 2000 gerði stefnandi hins vegar kröfu um niðurfellingu á álagningu tekjuskatts að fjárhæð 76.130 krónur með vísan til þess að hann ætti að njóta sambærilegs afsláttar og sjómannaafsláttur. Þessari kröfu hafnaði skattstjórinn með úrskurði 5. desember 2000 og er málið m.a. höfðað til ógildingar á þeim úrskurði.

Við úrlausn um formhlið málsins verður að hafa í huga að það er ekki viðurkennd regla í íslenskum rétti að hver eigi sök sem vill heldur er það grundvallarregla sem m.a. á stoð í 2. og 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að það verður að skipta máli fyrir stöðu stefnanda að lögum að fá dóm um kröfur sínar.

Stefnandi byggir ekki á því í málinu að hann eigi að njóta sjómannaafsláttar á grundvelli B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981. Hann byggir hins vegar á því að hann megi þola mismunun gagnvart þeim sem fullnægja skilyrðum framangreinds ákvæðis til að njóta slíks afsláttar og sú mismunun brjóti í bága við tilgreind ákvæði stjórnarskrár, meginstafi laga um sanngirni og réttlæti og EES-samninginn. Þessi málatilbúnaður verður ekki skilinn á annan veg en þann að stefnandi byggi á því að B-liður 68. gr. laga nr. 75/1981 skorti stjórnskipulegt gildi. Engu að síður krefst stefnandi þess að njóta þeirrar skattalegu ívilnunar sem þröngt afmörkuðum hópi skattgreiðanda er með ákvæðinu ætlað að njóta.

Með vísan til framangreinds verður að telja að allt rökrétt samhengi skorti milli dómkrafna stefnanda og þeirra málsástæðna sem hann byggir á í málinu. Málatilbúnaðurinn þykir að þessu leyti svo óskýr að ekki fái samrýmst d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 en í þessum ákvæðum þykir felast að samhengi þurfi að vera milli kröfugerðar og málsástæðna.

Framangreindur skortur á rökrænu samhengi kröfugerðar og rökstuðnings þykir einnig fela í sér, að með því að tefla fram umræddum málsástæðum til stuðnings kröfu um niðurfellingu álagðs tekjuskatts sé stefnandi í raun að afla sér álits um lögfræðileg efni en það er í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Rökstuðningi stefnanda fyrir því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar er áfátt að því leyti að hann gerir litla sem enga tilraun til að sýna fram á að réttarstaða stefnanda og þeirra sem skattaafsláttar njóta sé sambærileg. Rökstuðningi stefnanda fyrir því með hvaða hætti meint mismunun stangist á við eignarréttarákvæðis 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar þykir einnig áfátt. Jafnframt þykir óljóst af málatilbúnaði stefnanda hvaða áhrif það muni hafa á stöðu hans að lögum ef fallist verður á málsástæður hans. Málið er að þessu leyti svo vanreifað að ekki verður lagður á það efnisdómur.

Með vísan til framangreinds ber að verða við kröfu stefnanda um að málinu verði vísað frá dómi.

Rétt þykir að hvorir aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurður Gizurarson hrl. en af hálfu stefndu Óskar Thorarensen hrl.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.