Print

Mál nr. 704/2010

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Ábyrgðartrygging

                                                                                              

Fimmtudaginn 20. október 2011.

Nr. 704/2010.

Mariusz Edward Wochna

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Ábyrgðartrygging.

M krafðist þess að viðurkennd yrði bótaskylda T vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann féll niður af palli við vinnu sína hjá E ehf. Var M án allra fallvarna þegar slysið varð. Hæstiréttur taldi sannað að nauðsynlegur öryggisbúnaður hefði verið tiltækur á vinnustaðnum og að notkun hans hefði verið brýnd fyrir starfsmönnum. M hefði verið jafnljóst og öðrum að hætta gæti verið á að falla fram af pallinum og því væri nauðsynlegt að nota öryggisbúnað við vinnu verksins. Var ekki fallist á með M að E ehf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóni hans með því að hafa ekki gefið honum sérstök fyrirmæli umrætt sinn um að nýta búnaðinn. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu T.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2010. Hann krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda úr ábyrgðartryggingu Eyktar ehf. hjá stefnda vegna vinnuslyss sem áfrýjandi varð fyrir 5. september 2008 í vinnu við byggingarframkvæmdir á vegum Eyktar ehf. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál hér fyrir dómi.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að sök verði skipt og þá aðeins viðurkennd greiðsluskylda hans að hluta.

Bein aðild stefnda að málinu byggist á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Stefndi fellst á að nota hefði átt líflínu og öryggisbelti við verkið sem áfrýjandi vann þegar hann féll út af palli þeim, sem hann hafði farið upp á, niður á gólf rúmlega þremur metrum neðar. Kveður stefndi slíkan öryggisbúnað hafa verið tiltækan á hæðinni þar sem unnið var og hafi áfrýjanda verið í lófa lagið að taka hann með sér þegar hann fór upp á pallinn og nota hann við verkið. Segir stefndi að brýnt hafi verið fyrir starfsmönnum verktakans Eyktar ehf. að nota þennan öryggisbúnað þar sem þörf krefði.

Af gögnum málsins verður ráðið að einungis hafi þurft að fara upp á pallinn sem áfrýjandi féll af einu sinni og þá til að vinna það verk sem áfrýjandi vann umrætt sinn. Staðfest verður sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sannað sé í málinu að umræddur öryggisbúnaður hafi verið tiltækur á staðnum og að brýnt hafi verið fyrir starfsmönnum að nota hann þegar þörf krefði. Áfrýjanda var jafnljóst og hverjum öðrum að hætta gat verið á að falla fram af pallinum sem hann vann á og þess vegna væri nauðsynlegt fyrir hann að nýta fyrrgreindan öryggisbúnað er hann vann verkið. Verður ekki fallist á með honum að Eykt ehf. beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans á þeirri forsendu að honum hafi ekki verið gefin honum sérstök fyrirmæli umrætt sinn til að nýta búnaðinn. Leiðir þetta til þess að hinn áfrýjaði dómur um að sýkna stefnda af kröfu um viðurkenningu á greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu verktakans verður staðfestur.

Með hliðsjón af atvikum málsins þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr.  laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

                                                                             

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 13. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Mariusz Edward Wocha, búsettum í Póllandi, með stefnu birtri 23. júlí 2009, á hendur Tryggingamiðstöðinni, Síðumúla 24, Reykjavík.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennd verði bótaskylda úr ábyrgðartryggingu Eyktar ehf. hjá stefnda vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 5. september 2008 í turninum við Höfðatorg að Höfðatúni 2 í Reykjavík, í vinnu við byggingarframkvæmdir á vegum Eyktar ehf. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að sök verði skipt milli aðila. Þá krefst ha nn málskostnaðar úr hendi stefnda en til vara að málskostnaður falli niður. 

II

Málavextir

Stefnandi hóf störf í september 2007 á vegum starfsmannaleigunnar S7 ehf. hjá Eykt ehf. við uppslátt á milligólfaeiningum í turninum við Höfðatorg. Voru forsmíðaðar einingar fluttar á milli hæða með krönum og sáu uppsláttarmenn, sem unnu í tveimur sex manna hópum, til þess að einingarnar legðust á réttan stað. Hinn 5. september 2008 var stefnandi uppi á plötu sem nýlega var búið að reisa á tólftu hæð og var að mæla bilið yfir í næsta fasta vegg með málbandi. Var hann án allra fallvarna. Við mælinguna missti stefnandi jafnvægið með þeim afleiðingum að hann féll niður rúma þrjá metra. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild LSH í Fossvogi. Röntgenrannsóknir leiddu m.a. í ljós brot á handlegg og lærlegg. Var stefnandi lagður inn á bæklunarskurðdeild þar sem hann gekkst undir aðgerðir og varð óvinnufær um tíma eftir slysið. Eykt ehf. er með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda og krafðist stefnandi bóta úr henni en þeim kröfum var hafnað.

Vinnueftirlit ríkisins kom á vettvang í kjölfar slyssins. Í skýrslu eftirlitsins kemur fram að orsök slyssins megi rekja til þess að engar fallvarnir hafi verið til staðar þar sem stefnandi var við störf. Var vísað til greinar 4.1.1. í viðauka B-hluta reglugerðar um notkun tækja nr. 376/2006 þar sem fram kemur að við tímabundna vinnu í hæð þar sem fallhætta sé fyrir hendi, og ekki sé unnt að tryggja öryggi starfsmanna og viðeigandi vistfræðilegar aðstæður á heppilegu undirlagi, skuli velja þau tæki sem best tryggja öruggar starfsaðstæður. Nota skuli persónuhlífar ef ekki sé unnt að koma við almennum öryggisráðstöfunum. Í lok skýrslunnar voru gefin þau fyrirmæli að bannað væri að vinna við uppsláttinn nema að fullar fallvarnir væru tryggðar. Ef því yrði ekki komið við skyldi einungis unnið í öryggisbeltum af viðurkenndri gerð.

Stefnandi gaf skýrslu í málinu og fjórir starfsmenn Eyktar ehf., þeir Hallgrímur Magnússon, Pétur Aðalsteinn Einarsson, Kristján Ljótsson og Rafn Ari Grétarsson. Þá gaf skýrslu í málinu Óskar Már Atlason, fyrrverandi öryggiseftirlitsmaður hjá Inpro, en það fyrirtæki hafði í upphafi umsjón með öryggismálum hjá Eykt ehf. við byggingu turnsins við Höfðatorg.

Stefnandi kvaðst vera með iðnmenntun á sviði straumfræði. Hann hefði starfað við smíðastörf hjá ehf. við byggingu Höfðatorgs um eins árs skeið er slysið átti sér stað.  Hann fullyrti að enginn starfsmaður hefði notað öryggislínu nema þegar unnið var utan á byggingunni og að hann hefði aldrei fengið sérstakar leiðbeiningar varðandi öryggismál. Tveir pólskir starfsmenn sem skildu ensku hefðu túlkað fyrir samlanda sína það sem túlka þurfti varðandi verkið. Á svæðinu sem hann hefði verið að vinna á hefði enginn öryggisbúnaður verið tiltækur. Hann hefði verið læstur í geymslu hjá verkfærum. Hann sagðist áður hafa unnið sambærilegt verk og hann var að vinna að er hann slasaðir og þá aldrei notað öryggisbúnað.

Hallgrímur Magnússon, yfirverkefnastjóri hjá Eykt ehf., lýsti því hvernig staðið var að öryggismálum hjá fyrirtækinu við byggingu Höfðatorgs. Eykt ehf. hafi leitað samstarfs við mótaframleiðandann Peri um bygginguna þar sem haft hafi verið að leiðarljósi að hafa öryggisbúnað í lagi. Þar sem unnt hafi verið að koma við handriðum hafi það verið gert en því hafi ekki verið að heilsa á þeirri súlu/palli sem stefnandi var á er slysið átti sér stað. Öryggisbúnaður, belti og lína, hafi verið tiltækur og hafi verið strangar kröfur verið gerðar um að menn notuðu hann. Hafi það þurft við þennan tiltekna verkþátt sem stefnandi var að vinna að er slysið varð. Ef sást til starfsmanna án öryggisbúnaðar hafi verið gerðar athugasemdir. Öryggisfulltrúi frá Inpro, sem var Eykt ehf. til ráðgjafar, hefði haldið fundi með mönnum varðandi öryggismál en ekki hafi verið haldin formleg námskeið. Hefðbundnar öryggisleiðbeiningar hefðu verið hengdar upp, m.a. á pólsku.

Pétur Aðalsteinn Einarsson, verkstjóri hjá Eykt ehf., bar að farið hefði verið yfir öryggismál með starfsmanni Inpro einu sinni í viku. Á þeim fundum voru m.a. flokksstjórar sem komu skilaboðum áfram til annarra starfsmanna. Þar sem ekki hafi verið handrið á brúnum hafi starfsmenn átt að vera í beltum með öryggislínu. Öryggisbeltin hafi verið geymd í vinnuskúr sem hafi fylgt mótunum upp á milli hæða. Vitnið var í leyfi er slysið átti sér stað.

Kristján Ljótsson, smiður í mótahópi og öryggistrúnaðarmaður hjá Eykt ehf., bar að í upphafi byggingar hefði verið farið vel yfir öll öryggisatriði. Starfsmenn hafi átt að vera í öryggisbeltum þegar unnið hafi verið nálægt brúnum. Þegar slysið hafi átt sér stað hafi verið komin töluverð rútína á verkið og starfsmenn því vitað hvenær þeir ættu að nota beltin. Öryggisbúnaðurinn hafi fylgt þeim milli hæða. Er slysið átti sér stað hafi verið unnið að uppsetningu á móti á miðri súlu í byggingunni. Hafi Kristján kallað til mótahópsins að hann þyrfti mann til að aðstoða sig við mælingar. Átti að mæla bil milli þessa móts og veggjar. Hann hafi ekki séð stefnanda fara upp á pallinn þar sem hann hafi sjálfur verið að hlaupa upp á móti honum aðra leið, þ.e. á mótauppslætti á vegg. Hafi hann séð stefnanda koma á móti sér og falla niður. Þetta hafi gerst á mjög skömmum tíma. Sagði vitnið að auðvelt hefði verið að eiga samskipti við Pólverjana sem unnu í hópnum. Alltaf hafi einhver verið til staðar sem hafi túlkað fyrir þá sem ekki skildu ensku.

Rafn Ari Grétarsson, flokkstjóri hjá Eykt ehf., lýsti því hvernig mótahóparnir unnu. Allaf hafi verið skylda að vera í öryggisbelti þegar unnið hafi verið nálægt brúnum. Verkfæraskúrar hafi fylgt á milli hæða þar sem í voru öryggisbelti og línur. Hann hafi ekki séð stefnanda falla niður. Honum hafi ekki verið kunnugt um að stefnandi hefði farið upp án fallvarna. Samskipti við pólsku starfsmennina hafi gengið mjög vel.

Óskar Már Atlason, fyrrverandi öryggis­eftirlits­maður hjá Inpro, gerði grein fyrir störfum fyrirtækisins fyrir Eykt ehf. Inpro starfaði sem ráðgjafarfyrirtæki á svið öryggis- og umhverfismála. Hann hafi hafið störf er byggingin hafi verið komin upp úr bílakjöllurunum en lokið þeim í júní 2010 þegar byggingin hafi verið komin upp á níundu hæð. Hann hafi nokkrum sinnum í viku farið um vinnusvæðið. Ef eitthvað hafi verið að hafi hann gert athugsemdir og krafist úrbóta.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að kröfur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum sem á þeim byggja hafi ekki verið fullnægt í starfsemi Eyktar ehf. Engar fallvarnir hafi verið til staðar sem sé skilyrði þegar unnið sé í hæð þar sem fallhætta sé fyrir hendi. Vísar stefnandi til umsagnar Vinnueftirlitsins um slysið þar sem gerðar séu athugasemdir varðandi þetta atriði. Þá vísar stefndi til B-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja, grein 4.1.1. Enn fremur til 21. gr. B-hluta IV. viðauka reglugerðar nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.

Stefnandi telur að slysið verði eingöngu rakið til ófullnægjandi vinnuaðstæðna sem og skorts á verkstjórn. Atvinnurekanda beri að viðhafa nýliðafræðslu þar sem óreyndum mönnum séu kennd grundvallaratriði í umgengni á byggingarvinnustöðum. Að sama skapi sé nauðsynlegt að greiða úr samskiptaörðugleikum sem orsakist af tungumálaörðugleikum, en stefnandi sé pólskur ríkisborgari og tali litla sem enga ensku og enga íslensku.

Stefnandi byggir á að atvinnurekandi hans hafi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíli varðandi öryggi á byggingarvinnustöðum. Sé því um saknæma og ólögmæta háttsemi verkstjóra að ræða. Á grundvelli hinnar ólögfestu meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð telur stefnandi að um sé að ræða bótaskylda háttsemi og því eigi hann rétt á greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu Eyktar ehf.

Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. sakarregluna og regluna um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Þá vísar hann til reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Málsástæður stefnda

Til stuðnings aðalkröfu sinni um sýknu vísar stefndi til þess að orsök slyssins sé ekki unnt að rekja til sakar Eyktar ehf. vegna óforsvaranlegra vinnuaðstæðna og skorts á verkstjórn. Þegar Eykt ehf. hafi ráðist í turnbyggingar við Höfðatorg hafi mikið verið lagt upp úr því af hálfu fyrirtækisins að búnaður til verksins, þ.m.t. öryggisbúnaður væri sem best úr garði gerður. Við það verk að koma fyrir einingum næstu hæðar, eins og stefnandi starfaði við er slysið henti, hafi starfsmenn án undantekninga átt að vera í belti og nota fallvarnarlínur. Búnaðurinn hafi verið  tiltækur á verkstað. Stefndi hafi ekki unnið í samræmi við það sem honum var upp á lagt. Stefnandi hafi því átt, miðað við vinnureglur og verklag við þennan verkþátt sem hann hafði unnið við, auk reynslu sinnar og þekkingar sem smiður, að haga sér öðruvísi en hann gerði.

Stefndi hafnar því að verkstjórn og leiðbeiningaskyldu hafi ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti. Starfsmenn Eyktar ehf. og undirverktakar fái þjálfun við aðstæður sem þessar og þeim eigi að vera vinnureglur kunnar, þ.á m. þær að vinna eigi með öryggisbelti og falllínu við verk það sem stefandi vann er hann slasaðist. 

Til stuðnings varakröfu sinni um sakarskiptingu vísar stefndi til ofangreindra raka þ.e. að háttsemi stefnanda hafi ekki verið í samræmi við vinnureglur, leiðbeiningar, reynslu hans og þekkingu, almenna og sértæka.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttarins um hina almennu sakarreglu og vinnuveitendaábyrgð. Enn fremur til reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum nr. 547/1996. Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

 Í máli þessu er deilt um hvort stefndi beri ábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir er hann féll niður af palli við vinnu sína hjá Eykt ehf. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíla varðandi öryggi á byggingarvinnustöðum. Stefndi mótmælir því og telur að um eigin sök stefnanda hafi verið að ræða. Fram hefur komið að ekki hafi verið unnt að koma fyrir handriði á palli þeim þar sem stefnandi var við störf er slysið varð. Er því ljóst að tryggja þurfti öryggi starfsmanna með öðrum hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 aðbúnað og öryggi á vinnustöðum og 4. gr. í viðauka II reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja.

Stefnandi fullyrti í skýrslutökum fyrir dóminum að hann hefði ekki fengið leiðbeiningar um öryggi á vinnustaðnum eða þjálfun í hvernig hann ætti að bera sig að við verkið sem hann var að vinna við er slysið átti sér stað. Aldrei hafi verið brýnt fyrir honum að nota öryggisbúnað. Öryggisbúnaður hafi verið tiltækur í geymslu en enginn starfsmaður hafi notað hann nema þegar unnið hafi verið utan á húsinu. Fjórir starfsmenn Eyktar ehf. báru hins vegar að starfsmönnum hefði allaf verið uppálagt að nota öryggisbelti og línu þegar unnið hafi verið þar sem fallhætta hvar fyrir hendi. Umrædd öryggistæki hefðu verið tiltæk á staðnum og fylgt búnaði milli hæða. Þá hefðu tungumálaörðugleikar ekki valdið vandræðum þar sem í uppsláttarhópnum hefðu verið Pólverjar sem skildu ensku og gátu túlkað fyrir samlanda sína. Er þetta í samræmi við framlagðan samning S7 ehf. við Eykt ehf. þar sem fram kemur að einn af þeim starfsmönnum sem S7 ehf. hafi útvegað Eykt ehf. skuli vera enskumælandi og fara fyrir hópnum sem flokksstjóri. Enn fremur bar stefnandi sjálfur að tveir samstarfsmenn hans hefðu skilið ensku og aðstoðað við túlkun.

Eykt ehf. réð fyrirtækið Inpro til ráðgjafar um öryggismál í byggingu turnsins við Höfðatorg. Í framburði Óskars Más Atlasonar, fyrrverandi öryggis­eftirlits­manns fyrirtækisins, kom fram að starfsmönnum hafi borið skylda til að vera í öryggisbelti við störf sín væri fallhætta til staðar. Athugsemdir varðandi þetta atriði hafi verið gerðar í upphafi, þ.e. þegar unnið var á fyrstu hæðum turnsins, en öryggismál hefðu verið komin í lag er hann lauk störfum í lok júní 2008.  Í málinu liggja fyrir gátlistar fyrir öryggismál á vinnusvæðinu vegna úttekta Óskars Más á tímabilinu 4. mars til 21. maí 2008. Er m.a. merkt við hvort starfsmenn sem vinna nálægt brún séu í öryggislínu. Í lista frá 4. mars er merkt við að það þurfi að skoða nánar, í listum frá 12., 18. og 27. mars er merkt við að það þurfi úrbætur strax, í lista frá 9. apríl er merkt við að það hafi verið í lagi er skoðun hafi átt sér stað, í lista frá 30. apríl kemur fram að það eigi ekki við og í lista frá 21. maí að það hafi verið í lagi er skoðun átti sér stað. Þá liggur frammi endurrit öryggisfundar, sem haldinn var 12. júní 2008, að viðstöddum ofangreindum Óskari Má og þremur starfsmönnum Eyktar ehf., þar sem fram kemur að nóg sé til af líflínum og rétt sé að ítreka það við menn að vera í líflínum við vinnu á brúnum.

Með hliðsjón af ofangreindu stenst ekki sú fullyrðing stefnanda að honum hafi ekki verið uppálagt að nota öryggisbelti og línu þar sem fallhætta var fyrir hendi eða að búnaður þessi hafi ekki verið nægilega aðgengilegur. Þá verður ekki séð að tungumálaörðugleikar hafi staðið í vegi fyrir því að nauðsynlegar leiðbeiningar vinnuveitanda hans kæmust til skila. Stefnandi, sem er iðnmenntaður, var 35 ára gamall er slysið varð og hafði unnið við smíðastörf hjá Eykt ehf. um eins árs skeið. Hafði hann tekið þátt í byggingu turnsins við Höfðatorg frá byrjun en þegar slysið átti sér stað var verið að byggja 12. hæðina. Hann hafði áður unnið sambærilegt verk og hann var að vinna er slysið varð. Hlaut honum því að vera ljós hætta sem stafaði af því að fara upp á pallinn án öryggisvarna.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins kemur fram að orsök slyssins megi rekja til þess að engar fallvarnir hafi verið til staðar þar sem stefnandi var við vinnu. Skyldi einungis vinna í öryggisbeltum ef ekki væri unnt að tryggja fullar fallvarnir. Eins og fram hefur komið var ekki unnt að setja handrið á þann stað þar sem stefnandi var við vinnu er hann slasaðist og var ætlast til að starfsmenn væru í öryggisbeltum og línu nálægt brúnum. Ekki er frekar fjallað um öryggismál á vinnusvæðinu í skýrslunni og er ekki unnt að leiða af henni að öryggisbelti hafi yfirhöfuð ekki verið til reiðu. Höfundur skýrslunnar kom ekki fyrir dóminn og er hún of óljós til þess að unnt sé að byggja á henni því til stuðnings að um óforsvaranlegar vinnuaðstæður hafi verið að ræða.

Að öllu framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi ekki unnið í samræmi við það sem honum var upp á lagt, auk þess sem hann átti vegna reynslu sinnar að haga sér öðruvísi en hann gerði. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Kolbrún Sævarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Mariusz Edward Wochna, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.