Print

Mál nr. 49/2000

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Refsilágmark

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. júní 2000.

Nr. 49/2000.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Árna Björgvinssyni

Einari Kristjánssyni

Georg Georgiou og

Guðjóni Ingva Gíslasyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

                                              

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Refsilágmark.

E, stjórnarformaður félagsins Í, og Á, framkvæmdastjóri félagsins, voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti, sem félagið innheimti á árinu 1994, og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Í á sama tímabili. Talið var að þeir hefðu borið ábyrgð á skilum umrædds virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu. Talið var leiða af ákvæðum laga og eðli máls að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir og var ekki fallist á að draga bæri frá ákærufjárhæð greiðslur, sem áður voru látnar ganga upp í ógreiddan virðisaukaskatt og staðgreiðslu eldri tímabila og álag og dráttarvexti. Þá var talið að greiðsla á höfuðstól skuldanna í júní 1998 hefði ekki áhrif á sakarmat, en taka mætti tillit til hennar við ákvörðun refsingar. G, stjórnarformaður félagsins P, var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna P á árunum 1994 og 1995. Talið var að G hefði borið ábyrgð á skilum þeirrar afdregnu staðgreiðslu sem ákæran tók til, en ekki var talið að greiðsla á höfuðstól skuldanna í júní 1998 hefði áhrif á sakarmat. GI, stjórnarformaður félagsins P, var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti sem félagið innheimti á árinu 1995, er hann var stjórnarformaður félagsins. Talið var að GI hefði borið ábyrgð á skilum umrædds virðisaukaskatts en ekki var talið að greiðsla á höfuðstól skuldanna í júní 1998 hefði áhrif á sakarmat. Við ákvörðun refsingar ákærðu var litið til þess hvort að brot þeirra voru framin fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 42/1995. Þá var einnig litið til þess að brot þeirra fólust ekki í vanrækslu á að skila skýrslum eða rangfærslum og að höfuðstóll umræddra skulda var að fullu greiddur við útgáfu ákæru. Voru E, Á, G og GI dæmdir til sektargreiðslu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2000 og krefst hann þess að ákærðu Árni og Einar verði sakfelldir samkvæmt I. kafla B og II. kafla B í ákæru, ákærði Georg verði sakfelldur samkvæmt II. kafla A og ákærði Guðjón Ingvi verði sakfelldur samkvæmt I. kafla A. Verði allir ákærðu dæmdir til refsingar.

Ákærðu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, til vara að hann verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi, en til þrautavara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar, sem lög leyfa.

I.

Fallist er á það með héraðsdómi, að þrátt fyrir nokkurn óskýrleika í málatilbúnaði ákæruvaldsins í upphafi málsmeðferðar í héraði, hafi verið nægilega úr því bætt við meðferð málsins. Eru því ekki efni til að vísa því frá héraðsdómi.

II.

Málatilbúnaður ákæruvaldsins hefur breyst nokkuð frá því sem var fyrir héraðsdómi. Fallið hefur verið frá ákæru samkvæmt II. kafla C í ákæru. Svo sem ljóst er af kröfugerð ákæruvalds er fallið frá ákæru á hendur þeim ákærðu, sem voru almennir stjórnarmenn í hlutafélögum þeim, sem tilgreind eru í ákærunni. Tekur ákæran nú til þeirra ákærðu, sem voru stjórnarformenn hlutafélaganna og í einu tilviki einnig til framkvæmdastjóra.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að ekki væri lengur á því byggt að brot ákærðu væru meiri háttar. Tilvísun í ákæru til 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 7. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ætti því ekki við.

III.

1. Samkvæmt I. kafla B í ákæru, eins og henni hefur verið breytt, er ákærða Einari sem stjórnarformanni Íslensks framtaks hf. og ákærða Árna sem framkvæmdastjóra þess gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem hlutafélagið innheimti á árinu 1994, að fjárhæð samtals 790.289 krónur. Er hér um að ræða virðisaukaskatt vegna tveggja tímabila, júlí–ágúst og september–október 1994. Í héraðsdómi er greint frá nánari atvikum og því, sem fram hefur komið um ákæruefni þetta. Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsókn, sem hófst 30. janúar 1996 og lauk 22. maí sama ár, nam vangreiddur virðisaukaskattur áðurgreinds hlutafélags þá 2.227.440 krónum og var um þrjú virðisaukaskattstímabil ársins 1994 að ræða, þ.e. mars-apríl, júlí-ágúst og september-október. Við upphaf lögreglurannsóknar 16. apríl 1997 var vangreiddur virðisaukaskattur vegna ársins 1994 talinn nema 790.289 krónum og er ákæra byggð á þeirri niðurstöðu. Í yfirliti lögreglu kemur fram að skuld vegna tímabilsins mars–apríl 1994, sem nam að höfuðstól 2.939.156 krónum, hafði verið greidd að fullu, auk dráttarvaxta og álags, sem námu samtals 597.831 krónu. Þá kom fram að höfuðstóll virðisaukaskatts vegna tímabilsins júlí–ágúst 1994 nam 2.038.980 krónum. Greiddar höfðu verið 950.292 krónur upp í þann höfuðstól og 549.708 krónur í dráttarvexti og álag og voru báðar þær greiðslur dregnar frá höfuðstól, sem þá var talinn nema 538.980 krónum. Ekkert hafði verið greitt inn á höfuðstól tímabilsins september– október 1994, sem nam 251.309 krónum.

Virðisaukaskattsskýrslur vegna tímabila þeirra, sem um ræðir í þessum lið ákæru, liggja fyrir í málinu og er óumdeilt að þeim fylgdu ekki greiðslur.

Af hálfu ákærðu hefur verið vísað til yfirlits þeirra yfir greiðslur á tímabilinu júlí til nóvember 1994 eins og nánar er greint frá í héraðsdómi. Halda ákærðu því fram, að taka eigi allar innborganir fyrst upp í höfuðstól skuldar áður en þær eru teknar til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Byggja þeir þetta á því að við mat á refsinæmi verknaðar verði að fylgja reglum sem séu sakborningum hagstæðastar. Fyrirtækin séu að skila vörslusköttum, er þau hafi innheimt í þágu ríkisins, en þau greiði sjálf álag, dráttarvexti og kostnað.

Fyrir liggur að hinn 19. júní 1998, þ.e. skömmu fyrir útgáfu ákæru, voru tollstjóranum í Reykjavík greiddar 790.289 krónur, eða sem nam fjárhæð þessa ákæruliðar. Dráttarvextir og álag vegna umræddrar skuldar eru hins vegar ógreidd.

Í héraðsdómi er byggt á því að greiðslur í október og nóvember 1994, samtals að fjárhæð 4.667.835, sem höfðu verið látnar ganga upp í ógreiddan virðisaukaskatt eldri tímabila, auk áfallins álags og dráttarvaxta, eigi að koma til frádráttar vangoldnum virðisaukaskatti fyrir þau tímabil, er ákæran nær til, og leiddi það til sýknu ákærðu.

Ákærði Einar var stjórnarformaður Íslensks framtaks hf. og ákærði Árni framkvæmdastjóri þess. Í héraðsdómi er rakið það sem fram er komið um þátt þeirra í rekstri fyrirtækisins. Með skírskotun til þess, sem þar segir, verður að telja að ákærðu hafi borið ábyrgð á skilum þess virðisaukaskatts, sem þessi ákæruliður tekur til. Fyrir liggur að skýrslum vegna virðisaukaskatts fyrir tímabilin júlí–ágúst og september– október 1994 var skilað á gjalddögum án greiðslna. Á umræddum tíma var hlutafélagið í skuld vegna eldri tímabila. Óumdeilt er að greiðslur, sem bárust innheimtumanni ríkissjóðs í október og nóvember 1994, gengu upp í eldri virðisaukaskattskuldir, auk álags og dráttarvaxta. Ekkert hefur komið fram um það að ákærðu hafi óskað þess að einstakar greiðslur gengju inn á skil vegna tiltekinna tímabila. Þá verður ekki séð að greiðslur þessar hafi verið látnar renna inn á skuldir vegna annarra gjalda.

Telja verður að það leiði af eðli máls og sé í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir. Í 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 er mælt fyrir um álag til viðbótar virðisaukaskatti, sé hann ekki greiddur á tilskildum tíma. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar telst gjalddagi álags sá sami og gjalddagi hins vangreidda virðisaukaskatts. Í 28. gr. laganna segir, að sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga, skuli greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.

Fjárhæð sú, sem ákært er fyrir, nær til höfuðstóls þess virðisaukaskatts fyrir framangreind tímabil, sem ógreiddur var 16. apríl 1997, tæpum þremur árum eftir að skatturinn féll í gjalddaga. Frá höfuðstól höfðu þá verið dregnar greiðslur inn á hann og einnig greiðslur, sem færðar höfðu verið til efnda á álagi og dráttarvöxtum. Ekki er unnt að fallast á það að greiðslur, sem áður voru látnar ganga upp í ógreiddan virðisaukaskatt eldri tímabila, auk álags og dráttarvaxta, hafi borið að draga frá ákærufjárhæð. Álag og dráttarvextir eru lögbundnar greiðslur, sem greiða ber eftir ákveðnum reglum, og verða hluti viðeigandi skattskuldar.

Greiðsla á höfuðstól skuldarinnar í júní 1998, tæpum fjórum árum eftir að skatturinn féll í gjalddaga, getur ekki haft áhrif á sakarmat, en taka má tillit til hennar við ákvörðun refsingar.

Samkvæmt framansögðu telst sannað að ekki voru á lögmæltum tíma staðin skil á þeim virðisaukaskatti Íslensks framtaks hf., sem tiltekinn er í I. kafla B í ákæru, og verða ákærðu Einar og Árni taldir bera refsiábyrgð á þeim vanskilum. Varðar atferli þeirra við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. nú 3. gr. laga nr. 42/1995.

2. Í II. kafla B ákæru, eins og henni hefur verið breytt, er ákærðu Einari og Árna sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Íslensks framtaks hf. á árinu 1994, þ.e. apríl–ágúst, samtals 635.055 krónum. Í héraðsdómi er nánar greint frá atvikum og því, sem fram hefur komið í málinu um þetta ákæruatriði. Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins nam vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla starfsmanna hlutafélagsins hinn 12. janúar 1996 samtals 684.875 krónum vegna ofangreindra mánaða. Við upphaf lögreglurannsóknar 16. apríl 1997 var fjárhæðin talin nema 635.055 krónum. Munurinn stafaði af því að í yfirliti lögreglu var innborgun, sem færð hafði verið til greiðslu á álagi og dráttarvöxtum í ágúst 1994, 49.820 krónur, dregin frá höfuðstól, en það hafði ekki verið gert í fyrrnefndu skýrslunni.

Eins og skýrt er frá í héraðsdómi var skilað skýrslum vegna afdreginnar staðgreiðslu til Gjaldheimtunnar í Reykjavík fyrir umrædda mánuði og er óumdeilt að þeim fylgdu ekki greiðslur.

Af hálfu ákærðu hefur verið vísað til yfirlits þeirra yfir greiðslur vegna staðgreiðslu frá 22. apríl til 15. júlí 1994, samtals að fjárhæð 1.173.158 krónur. Vísa þeir til sömu sjónarmiða og áður voru rakin undir lið III.1. Einnig vísa ákærðu til þess að rúmum þremur vikum fyrir útgáfu ákæru, 3. júní 1998, hafi þeir greitt 635.055 krónur, sem nemur sömu fjárhæð og fram kemur í þessum ákærulið. Álag og dráttarvextir af umræddri skuld eru hins vegar ógreidd.

 Í héraðsdómi er byggt á því að greiðsla hinn 4. maí 1994, að fjárhæð 113.716 krónur, sem látin var ganga upp í eldri staðgreiðsluskuld, komi til frádráttar vangoldinni staðgreiðslu aprílmánaðar auk þess sem ofangreind greiðsla 3. júní 1998 verði dregin frá. Leiði þetta til sýknu.

Með vísan til þess, sem sagði í lið III.1 um ábyrgð ákærðu Einars og Árna, verða þeir taldir ábyrgir fyrir skilum afdreginnar staðgreiðslu af starfsmönnum Íslensks framtaks hf. Fyrir liggur að skýrslum var skilað um afdregna staðgreiðslu fyrir umrætt tímabil án greiðslna. Óumdeilt er að greiðslur þær á árinu 1994, er ákærðu vísa til, voru færðar sem greiðslur á eldri skuld vegna staðgreiðslu. Ekki verður séð að greiðslur þessar hafi verið látnar renna inn á skuldir vegna annarra gjalda.

Eins og áður segir leiðir það af eðli máls og er í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir. Í 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 er mælt fyrir um álag og dráttarvexti vegna vanskila á staðgreiðslu. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar telst eindagi álags sá sami og eindagi hinnar vangreiddu staðgreiðslu.

Með vísan til þess, sem áður er sagt í III.1 um varnir ákærðu vegna færslu greiðslna upp í eldri skuldir er því hafnað, að greiðslur þær, er þeir vísa til og höfðu verið látnar ganga upp í ógreidda staðgreiðslu eldri tíma, hafi borið að draga frá ákærufjárhæð. Greiðsla þeirra í júní 1998, u.þ.b. fjórum árum eftir að greiða átti, getur og ekki haft áhrif á sakarmat, en taka má tillit til hennar við ákvörðun refsingar.

Samkvæmt framansögðu verða ákærðu taldir hafa gerst sekir um atferli það, sem þeim er gefið að sök í II. kafla B í ákæru og varðar það við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.

IV.

Í II. kafla A í ákæru, eins og henni hefur verið breytt, er ákærða Georg gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna P-67 hf., þ.e. október–desember 1994, samtals 213.592 krónum, og janúar–september 1995, samtals 461.500 krónum, eða í heild 675.092 krónum. Í héraðsdómi er nánar greint frá atvikum og því, sem fram hefur komið í málinu um þetta ákæruatriði. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsókn, er lauk 22. maí 1996, nam vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla vegna þessara tímabila hinn 12. janúar 1996 ofangreindum fjárhæðum. Við upphaf lögreglurannsóknar 16. apríl 1997 námu vanskilin sömu fjárhæðum.

Eins og skýrt er frá í héraðsdómi var skilað skýrslum vegna afdreginnar staðgreiðslu til Gjaldheimtunnar í Reykjavík fyrir umrædda mánuði og er óumdeilt að þeim fylgdu ekki greiðslur.

Af gögnum málsins verður að telja sannað að engar greiðslur bárust upp í ofangreind vanskil fyrr en með tveimur greiðslum í júní 1998, þ.e. 154.568 krónur hinn 3. júní og 520.524 krónur hinn 19. júní. Álag og dráttarvextir vegna þessarar skuldar eru hins vegar ógreidd. Með vísan til þessara greiðslna sýknaði héraðsdómur ákærðu af þessum ákærulið.

Ákærði Georg var stjórnarformaður P-67 hf. Í héraðsdómi er rakið það, sem fram hefur komið í málinu um þátt hans í rekstri fyrirtækisins. Með vísan til þess, sem þar segir, verður að telja að hann hafi borið ábyrgð á skilum þeirrar afdregnu staðgreiðslu, sem ákæruliður þessi tekur til. Fyrir liggur að skýrslum var skilað um hina afdregnu staðgreiðslu án þess að greiðslur fylgdu. Engar greiðslur bárust fyrr en í júní 1998, tæpum fjórum árum eftir að greiða átti þær þeirra, sem fyrst féllu í gjalddaga. Geta þær ekki haft áhrif á sakarmat, en taka má tillit til þeirra við ákvörðun refsingar.

Samkvæmt framansögðu telst sannað að ekki voru á lögmæltum tíma staðin skil á afdreginni staðgreiðslu P-67 hf. fyrir tímabil þau, sem tilgreind eru í II. kafla A í ákæru. Verður ákærði Georg talinn bera refsiábyrgð á þessum vanskilum og varðar atferli hans við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.

V.

Samkvæmt I. kafla A í ákæru, eins og henni hefur verið breytt, er ákærða Guðjóni Ingva gefið að sök sem stjórnarformanni K-67 hf. að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem hlutafélagið innheimti á árinu 1995, að fjárhæð samtals 1.809.613 krónur. Er hér um að ræða virðisaukaskatt vegna tveggja tímabila, mars– apríl og maí–júní 1995. Í héraðsdómi er greint frá nánari atvikum og því, sem fram hefur komið um ákæruefni þetta. Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsókn, sem lauk 22. maí 1996, nam vangreiddur virðisaukaskattur áðurgreinds hlutafélags 12. desember 1995 2.676.144 krónum og var um þrjú virðisaukaskattstímabil ársins 1995 að ræða, þ.e. frá janúar til júní. Við upphaf lögreglurannsóknar 16. apríl 1997 var vangreiddur virðisaukaskattur vegna ársins 1995 talinn nema 1.809.613 krónum. Er ákæra byggð á þeirri niðurstöðu. Í yfirliti lögreglu kemur fram að skuld vegna tímabilsins janúar–febrúar 1995, sem nam að höfuðstól 1.043.373 krónum hafði verið greidd að fullu, auk dráttarvaxta og álags, sem námu samtals 218.336 krónum. Greiddar höfðu verið 60.000 krónur inn á tímabilið mars–apríl, er færðar voru inn á álag og dráttarvexti, en voru í yfirliti lögreglu dregnar frá höfuðstól þess tímabils. Nam höfuðstóll þess þá 1.049.651 krónu. Ekkert hafði verið greitt inn á skatt vegna tímabilsins maí–júní 1995.

Virðisaukaskattsskýrslur vegna tímabila þeirra, sem um ræðir í þessum lið ákæru, liggja fyrir í málinu og er óumdeilt að þeim fylgdu ekki greiðslur.

Af hálfu ákærða hefur verið vísað til yfirlits hans yfir greiðslur á tímabilinu 15. mars 1995 til 26. febrúar 1996 eins og nánar er greint frá í héraðsdómi. Vísar hann til sömu sjónarmiða og áður voru rakin undir lið III.1.

Fyrir liggur í málinu, að hinn 19. júní 1998, skömmu fyrir útgáfu ákæru, voru tollstjóranum í Reykjavík greiddar 1.809.613 krónur, eða sem nam fjárhæð þessa ákæruliðar. Álag og dráttarvextir vegna þessarar skuldar eru hins vegar ógreidd.

Í héraðsdómi er byggt á því að greiðslur frá maí 1995 til febrúar 1996, samtals að fjárhæð 2.584.857 krónur, sem færðar voru inn á eldri virðisaukaskattstímabil en ákært er út af, komi til frádráttar ákærufjárhæð og leiði það til sýknu.

Ákærði var stjórnarformaður P-67 hf. á umræddum tíma. Í héraðsdómi er greint frá því, sem fram hefur komið um þátt hans í rekstri fyrirtækisins. Með vísan til þess verður að telja að hann hafi borið ábyrgð á skilum fyrirtækisins á virðisaukaskatti. Fyrir liggur að skýrslum vegna virðisaukaskatts fyrir tímabil þau, sem ákæran nær til, var skilað án þess að greiðsla fylgdi. Óumdeilt er að greiðslur þær, sem ákærði vísar til, voru færðar sem greiðslur á eldri virðisaukaskatti, auk álags og dráttarvaxta. Ekkert hefur komið fram um það að ákærði hafi óskað þess að einstakar greiðslur gengju inn á skil vegna tiltekinna tímabila. Þá verður ekki séð að greiðslur þessar hafi verið látnar ganga inn á skuldir vegna annarra gjalda.

Fjárhæð sú, sem ákært er fyrir, nær til höfuðstóls þess virðisaukaskatts fyrir framangreind tímabil, sem ógreiddur var 16. apríl 1997, tæpum tveimur árum eftir að skatturinn féll í gjalddaga. Með vísan til þess, sem fram kemur í III.1 hér að framan, er ekki fallist á þær varnir ákærða, sem lúta að færslu greiðslna upp í eldri virðisaukaskattskuldir. Greiðsla 19. júní 1998, um það bil þremur árum eftir að greiða átti skattinn, geta ekki haft áhrif á sakarmat, en taka ber tillit til hennar við ákvörðun refsingar.

Samkvæmt þessu verður talið sannað að virðisaukaskattur P-67 hf. vegna þessara tímabila, sem nemur þeirri fjárhæð, er í ákæru greinir, hafi ekki verið greiddur á lögmæltum tíma. Ber ákærði refsiábyrgð á þeim vanskilum og varðar atferli hans við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. nú 3. gr. laga nr. 42/1995. Atferli ákærða fellur að öllu leyti undir síðastgreindu lögin, sem tóku gildi 9. mars 1995.                      

VI.

Við ákvörðun refsingar ákærðu Árna og Einars ber með vísan til 2. gr. almennra hegningarlaga að líta til þess að brot þeirra voru framin fyrir gildistöku laga nr. 42/1995, sem þyngdu verulega refsingar fyrir brot, sem hér um ræðir. Brot þeirra fólust eingöngu í vanskilum virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu en ekki í vanrækslu á því að skila skýrslum eða rangfærslum. Þá hafði höfuðstóll umræddra skulda verið greiddur að fullu við útgáfu ákæru. Að teknu tilliti til þessa þykir refsing þeirra hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð, 300.000 krónur fyrir hvorn þeirra um sig. Vararefsing ákveðst 45 daga fangelsi.

Brot ákærða Georgs voru að hluta framin eftir að lög nr. 42/1995 tóku gildi. Taka hin breyttu refsiákvæði til vanskila á gjöldum, sem voru á gjalddaga frá og með 1. apríl 1995, eða samtals 331.486 krónum. Brot ákærða fólst eingöngu í vanskilum afdreginnar staðgreiðslu, en ekki í vanrækslu á skilum skýrslna eða rangfærslum. Þá hafði höfuðstóll skuldar verið greiddur að fullu fyrir útgáfu ákæru. Þykir refsingin hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð, 750.000 krónur og ákveðst vararefsing fangelsi í 75 daga.

Brot ákærða Guðjóns voru að öllu leyti framin eftir gildistöku laga nr. 42/1995, sem tóku gildi 9. mars 1995, en með þeim voru refsiákvæði laga nr. 50/1988 hert til muna. Gjalddagar þeirra virðisaukaskattstímabila, sem ákært er fyrir, hefðu átt að vera 5. júní og 5. ágúst 1995 nema þá daga hefði borið upp á helgidag eða almennan frídag, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Þær greiðslur á virðisaukaskatti, sem inntar voru af hendi eftir þá gjalddaga, gengu inn á skuld vegna tímabilsins janúar-febrúar 1995, sem féll í gjalddaga 5. apríl 1995 og er ákærða því hagstæðast að séu þannig færðar. Ekki er unnt að virða ákærða til hagsbóta greiðslur, sem inntar voru af hendi fyrir þessa gjalddaga og gengu upp í skuld vegna síðasta tímabils ársins 1994.

 Við ákvörðun refsingar ákærða Guðjóns verður haft í huga að brot hans fólust eingöngu í vanskilum en ekki í vanrækslu á skilum skýrslna eða rangfærslum. Þá hafði höfuðstóll skattskuldarinnar verið greiddur að fullu fyrir útgáfu ákæru. Fram hefur komið hjá ákærða að hann hafi tekið persónulegt lán til þeirrar greiðslu. Með vísan til 8. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga þykir við þessar aðstæður mega fara niður fyrir sektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Með vísan til þessa verður refsing hans ákveðin sekt í ríkissjóð, 1.000.000 krónur. Vararefsing ákveðst fangelsi í 3 mánuði.

Mál þetta hefur tekið breytingum að því er varðar umfang, kröfugerð ákæruvalds og vísan til refsiákvæða. Þá verður ekki séð, að fullt samræmi hafi verið í afstöðu ákæruvalds að undanförnu í málum af þessu tagi, sbr. kröfugerð þess fyrir Hæstarétti í máli ákæruvaldsins gegn Guðmundi Davíðssyni nr. 36/2000, sem dæmt var í réttinum 30. mars 2000. Þykir eftir atvikum rétt að ríkissjóður beri helming málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti á móti ákærðu. Nánar verður mælt fyrir um málskostnað í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Árni Björgvinsson og Einar Kristjánsson, greiði hvor um sig 300.000 krónur í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 45 daga.

Ákærði, Georg Georgiou, greiði 750.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 75 daga.

Ákærði, Guðjón Ingvi Gíslason, greiði 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 3 mánuði.

Ákærðu greiði hver um sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti að 1/8 hluta, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem í heild nema 1.000.000 krónum. Að öðru leyti greiðist málskostnaður úr ríkissjóði.

 

 

 

 

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 9. desember 1999

                Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans dagsettri 26. júní 1998 á hendur ákærðu, Árna Björgvinssyni, kt. 210264-2139, Efstalundi 7, Garðabæ, Einari Kristjánssyni, kt. 030669-4799, Danmörku, Georg Georgiou, kt. 150469-4069, Esju­grund 36, Mosfellsbæ, og Guðjóni Ingva Gíslasyni, kt. 191169-5579, Gunnars­braut 7, Búðardal,

“I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

A

Ákærða Guðjóni sem stjórnarformanni og ákærðu Árna, Einari og Georg sem stjórnarmönnum hlutafélagsins K-67 hf., kt. 520194-2829, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni hlutafélagsins á árinu 1995 samtals að fjárhæð kr. 1.809.613 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1995

 

 

Mars – apríl

kr. 1.049.651

 

Maí – júní

kr.  759.962            

kr.            1.809.613

 

Samtals:

kr.          1.809.613

 

B

Ákærða Einari sem stjórnarformanni, ákærða Árna sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni og ákærðu Georg og Guðjóni sem stjórnarmönnum hlutafélagsins Íslensks framtaks hf., kt. 520692-3049, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni hlutafélagsins á árinu 1994 samtals að fjárhæð kr. 790.289 og sundurliðast sem hér segir:

 

Greiðslutímabil:

Árið 1994

 

 

Júlí - ágúst

kr.            538.980

 

September - október

kr.            251.309  

kr.            790.289

 

Samtals:

kr.          790.298

 

Framangreind hegðun ákærðu samkvæmt liðum A og B telst varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. l. gr. laga nr. 39, 1995.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

A

Ákærða Georg sem stjórnarformanni og ákærðu Árna, Einari og Guðjóni sem stjórnarmönnum hlutafélagsins P-67 hf., kt. 520194-2749 er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi staðið Gjaldheimtunni í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins á árunum 1994 og 1995 samtals að fjárhæð kr. 675.092 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 1994

 

 

Október

kr.            72.744

 

Nóvember

kr.            70.424

 

Desember

kr.            70.424

kr.            213.592

 

 

 

Árið 1995

 

 

Janúar

kr.            65.007

 

Febrúar

kr.            65.007

 

Mars

kr.            60.100

 

Apríl

kr.            58.409

 

Maí

kr.            58.409

 

Júní

kr.            58.409

 

Júlí

kr.            69.879

 

Ágúst

kr.            21.960

 

September

kr.            4.320

kr.            461.500

 

Samtals:

kr.          675.092

 

B

    Ákærða Árna sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni, ákærða Einari sem stjórnarformanni og ákærðu Georg og Guðjóni sem stjórnarmönnum hlutafélagsins Íslensks framtaks hf., kt. 520692-3049 er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi staðið Gjaldheimtunni í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna  hlutafélagsins á árinu 1994 samtals að fjárhæð kr. 635.055 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 1994

 

 

Apríl

kr.   32.750

 

Maí

kr.   177.565

 

Júní

kr.   131.890

 

Júlí

kr.   137.114

 

Ágúst

kr.   155.736                  

kr.     635.055

 

Samtals:        

kr.     635.055

              

C

    Ákærða Guðjóni sem framkvæmdastjóra, ákærða Georg sem stjórnarformanni, ákærða Gísla (svo) sem stjórnarmanni og ákærða Einari sem prókúruhafa hluta­félagsins T-67 hf., kt. 440194-3549, sem úrskurðað var gjaldþrota 20. september 1997, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi staðið Gjaldheimtunni í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins á árinu 1995 samtals að fjárhæð kr. 193.667 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 1995

 

 

Ágúst

kr.                                   18.551

 

September

kr.                                   70.126

 

Október

kr.                                   40.970

 

Nóvember

kr.                                   64.020                                                                             

kr.     193.667       

 

Samtals:          

kr.    193.667

 

    Framangreind hegðun ákærðu samkvæmt liðum A-C telst varða við 1. mgr. 30. gr. sbr. 7. mgr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sjá nú 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

    Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.”

    Við þingfestingu málsins var misritun í c-lið II. kafla ákæru leiðrétt. Í stað orðalagsins “...ákærða Gísla sem stjórnarmanni og ákærða Einari sem prókúruhafa...” ætti að koma orðalagið “...og ákærðu Einari og Árna sem prókúruhöfum...”

    Málið var upphaflega dómtekið þann 22. júní sl. Á dómþingi 4. ágúst sl. var málið endurupptekið vegna þess að í ljós hafði komið að hluti hljóðritunarinnar hafði misfarist. Sem fyrr segir var málið svo dómtekið 1. nóvember sl.      

    Af hálfu ákærðu er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þeir þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins og til þrautavara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun hans verði greidd úr ríkissjóði.

    Málavextir

I.

A

    Þann 28. desember 1995 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á málefnum K-67 hf., m.a. virðisaukaskattskilum. Rekstur félagsins á þeim tíma sem rannsóknin tók til var í upphafi fólginn í stofnsetningu veitingastaðar og pizzugerðar í Keflavík, en í ársbyrjun 1995 var starfsemi félagsins flutt til Reykjavíkur og tók félagið þá við rekstri skemmtistaðarins Tunglsins, Lækjargötu 2. Rekstur félagsins var seldur í lok júní 1995 og hætti félagið rekstri eftir það.

    Hlutafélagið var stofnað þann 29. desember 1993. Stofnendur voru allir ákærðu með jafnan hlut. Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var tilgangur félagsins matvælavinnsla, veitingarekstur, lánastarfsemi, smásala og heildsala, eign og rekstur fasteigna, skipa og bifreiða, kaup og sala hlutabréfa og verðbréfa og þátttaka í öðrum félögum. Samkvæmt sömu heimild var ákærði Guðjón Ingvi stjórnarformaður félagsins með prókúruumboð, en aðrir ákærðu voru meðstjórnendur. Samkvæmt framburði ákærða Guðjóns Ingva í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sáu allir stjórnarmenn um daglegan rekstur félagsins meðan félagið var með rekstur í Keflavík. Kvaðst ákærði Guðjón hafa séð um peningamál félagsins á þeim tíma ásamt ákærðu Einari og Georg. Aðspurður hver hafi séð um daglegan rekstur og fjármál Tunglsins kvað hann Georg hafa séð um þann þátt. Ákærði Einar upplýsti í skýrslu­töku hjá skattrannsóknarstjóra að stjórnarmenn félagsins hefðu séð um daglegan rekstur og fjármál félagsins. Aðspurður um þetta atriði kvað ákærði Árni að ákærðu Georg og Einar hefðu að mestu séð um daglega stjórn félagsins þótt aðrir stjórn­armenn hefðu einnig komið þar að. Kvaðst ákærði Árni mest hafa séð um byrj­unar­framkvæmdir og síðan hafi hann unnið við skemmtistaðinn sjálfan. Um fjármál fyrirtækisins hafi ákærðu Einar og Georg séð.

    Rannsókn skattrannsóknarstjóra á virðisaukaskattskilum félagsins vegna rekstrar­tímabilsins janúar 1995 til og með júní s.á. fólst í því að sannreyna virðisaukaskattskil félagsins, þ.e. að hve miklu leyti sá virðisaukaskattur sem félaginu bar að standa skil á í ríkissjóð vegna rekstrar félagsins umrætt tímabil væri í vanskilum. Byggði rann­sóknin á innsendum virðisaukaskattskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabila virðis­aukaskatts fyrir janúar til og með júní rekstrarárið 1995. Þá var aflað upplýsinga um skuldastöðu félagsins vegna vangoldins virðisaukaskatts við tollstjórann í Reykjavík. Leiddi rannsókn skattrannsóknarstjóra í ljós að þann 12. desember 1995 var van­goldinn virðisaukaskattur samtals að höfuðstól 2.676.144 krónur vegna uppgjörs­tímabila frá janúar til og með júní rekstrarárið 1995. Sundurliðaðist vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur sem hér segir: Janúar – febrúar 806.531 króna, mars – apríl 1.109.651 króna og maí – júní 759.962 krónur.

    Samkvæmt upplýsingum ákærðu Guðjóns, Georgs og Einars í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins var gerð virðisaukaskattskýrslna félagsins byggð á bókhaldsgögnum þess. Staðfesti bókari félagsins, Þórarinn Þórarinsson, í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að svo hafi verið. Ákærðu voru við sama tækifæri spurðir hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti félagsins á lögmæltum tíma. Ákærðu báru allir efnislega á sama veg, að slæm fjárhagsstaða hefði verið ástæða þess. Þeir voru spurðir hverjir hefðu tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að innheimtum virðisaukaskatti var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs. Ákærði Guðjón kvað ekki hafa verið tekna neina sérstaka ákvörðun um að greiða ekki skuldina. Engir peningar hefðu verið til í fyrirtækinu og illa hefði gengið að fá greiðslur fyrir sölu á Tunglinu, en þær hefðu átt að ganga upp í virðisaukaskattskuld félagsins. Aðspurður um þetta atriði sagði ákærði Árni að allir þeir sem komu að daglegri stjórn fyrirtækisins hefðu tekið þá ákvörðun og borið þá ábyrgð.

    Ákærði Georg tók fram að þar sem innsendar virðisaukaskattskýrslur félagins hefðu í upphafi verið of háar, hefðu skil á þeim orðið til þess að lausafjárstaða fél­agsins varð óeðlilega veik. Hafi það svo haft keðjuverkandi áhrif á vanskil opinberra gjalda því greiðslur félagsins hefðu að stórum hluta gengið til lækkunar á dráttar­vöxtum og refsiálögum sem reiknaðir hafi verið af of háum höfuðstól. Jafnframt kvað hann erfiðlega hafa gengið fyrir félagið að fá í gegn innsendar leiðréttingar á virðis­aukaskatti.

    Með bréfi dagsettu 28. maí 1996 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkisskatt­stjóra eintak af skýrslu um rannsóknina sem lokið hafði 22. s.m. vegna endurákvörð­unar­heimilda þess embættis. Með bréfi dagsettu 31. s.m. tilkynnti ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra að hann hygðist ekki beita endurákvörðunarheimildum þeim sem honum væru að lögum heimilaðar. Þann 4. júní s.á. var fyrirsvarsmönnum félagsins, þ.e. ákærðu í máli þessu, sent bréf þar sem þeim var tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku skattrannsóknarstjóra um refsimeðferð málsins. Var þeim af því tilefni veittur 15 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð. Bréf ákærðu Einars og Georgs voru endursend þar sem þeirra var ekki vitjað, en þann 14. ágúst s.á. barst skattrannsóknarstjóra hins vegar svar frá fyrirsvarsmönnum félagsins, undirritað af ákærðu Einari, Árna og Georg þar sem þess var óskað að málinu yrði vísað til yfirskattanefndar. Jafnframt var tekið fram að félagið hefði greitt umtalsverðar fjárhæðir eftir að það hætti rekstri, en í mörgum tilvikum fyrst til þeirra aðila sem hefðu sett mestan þrýsting á félagið, t.d. Gjaldheimtunnar í Reykjavík og gjald­heimtunnar á Suðurnesjum. Þá tilgreindu þeir að unnið væri að yfirferð bókhalds fél­agsins í því skyni að ná fram leiðréttingum á áætlunum frá opinberum aðilum og myndi félagið greiða upp skuldir sínar á næstu sex mánuðum.

    Eftir skoðun á framangreindu bréfi og málsatvikum í heild ákvað skattrann­sóknarstjóri ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar. Var málið sent rann­sóknarlögreglu ríkisins með bréfi dagsettu 20. september 1996.

    Ákærði Guðjón Ingvi gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 15. janúar 1996. Hann staðfesti skýrsluna og að rétt væri eftir honum haft. Ákærða var kynnt að við rannsókn lögreglu hefði komið í ljós að til staðar væri meint skuld vegna virðisaukaskatts félagsins. Honum var kynnt vottorð hlutafélagaskrár varðandi K-67 hf. þar sem fram kom hver væri tilgangur félagsins og hvernig stjórn þess var skipuð. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt heimild hvað varðar starfsemi og stjórn félagsins. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá félaginu og þá sérstaklega á árinu 1995 kvað ákærði stjórnarmenn hafa gengið í öll störf. Hann var einnig spurður um hver hefði annast daglega fjármálastjórn K-67 hf. og þá sérstaklega á árinu 1995. Ákærði kvað það einkum hafa verið ákærðu Einar og Georg sem annast hefðu daglega fjármálastjórn, en stjórnarmenn hafi þó tekið sameiginlegar ákvarðanir í öllum málum, jafnt fjármálum sem öðrum málum varðandi reksturinn. Ákærði kvað félagið hafa hætt rekstri á árinu 1995.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni K-67 hf. vegna janúar - febrúar 1995 dagsett 5. apríl 1995, undirritun Einar Kristjánsson, mars - apríl 1995 dagsett 6. júní 1995 undirritun E.K. og maí - júní 1995, dagsett 8. ágúst 1995, undirritun G. Georgiou. Hann var spurður á hverju þessar skýrslur hafi byggst og hver hefði borið ábyrgð á gerð þeirra. Kvað hann skýrslurnar hafa verið í samræmi við bókhald eftir því sem hann vissi best og þær hafi verið á ábyrgð stjórnar félagsins. Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknara frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu K-67 hf. vegna greiðslutímabilanna janúar til og með júlí 1995 og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattsskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglurannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknar lögreglu að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur K-67 hf. hafi numið 1.809.613 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðisaukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað fjár­hagserfiðleika félagsins hafa valdið því að ekki var unnt að greiða umræddan virðis­aukaskatt. Hann gæti ekki svarað því hvort um rétta fjárhæð væri að ræða, en kvaðst ekki rengja þau gögn sem fyrir lægju. Engin sérstök ákvörðun hefði verið tekin um að greiða ekki, heldur hafi ýmsir aðgangsharðari innheimtumenn fengið greitt og síðan hafi ekki verið til fé til að standa skil á framangreindum virðisaukaskatti. Ákærði kvað stjórnarmenn félagsins alla ábyrga fyrir framangreindum málum. Unnið væri að því að ganga frá skuldum félagsins vegna þeirra gjalda sem kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins fjallar um. Loks var ákærði spurður hvert allt það fé hafi runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1995. Ákærði kvað allt fé sem inn kom hafa farið í rekstur félagsins.

                Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður um stöðu hans hjá fyrir­tækinu í starfsemi þess. Hann kvaðst hafa verið stjórnarformaður þess. Nánar að­spurður um stöðu hans hjá félaginu á því tímabili sem ákæra tekur til kvaðst hann bæði hafa verið í almennum rekstri og almennum störfum. Hann var þá spurður hver hefði verið daglegur stjórnandi fyrirtækisins á umræddu tímabili. Ákærði kvaðst hafa verið það svo til einn. Borið var undir ákærða ljósrit virðisaukaskattskýrslu vegna mars - apríl 1995, en hún bæri með sér að henni hefði verið skilað 6. júní s.á. til tollstjórans í Reykjavík án greiðslu. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við þessa skýrslu og þetta uppgjör. Hann kvaðst ekki gera það. Bókarinn hefði að mestu séð um þessa hlið mála. Ákærði var þá spurður hvort honum sem stjórnarformanni hefði á sínum tíma verið kunnugt um að þessari skýrslu hefði verið skilað og greiðsla ekki fylgt. Hann kvaðst ekki hafa haft vitneskju um það. Bókarinn hefði að miklu leyti séð um þessa hlið mála. Er ákærði var spurður hvort bókarinn hefði séð um að greiða og að láta enda ná saman og hvort hann hefði gert ákærða grein fyrir að fjárvöntun væri, var svar hans að allt væri þetta greitt og ríflega það. Ákærða var aftur bent á að skýrslan hefði verið lögð inn án greiðslu. Hann kvaðst ekki hafa kynnt sér það og gæti ekki svarað spurningunni. Ákærði var spurður hvort bókarinn hefði, á þeim tíma sem um ræðir, gert honum grein fyrir þessu. Hann kvað svo ekki vera. Aðspurður um áritun á skýrsluna kvaðst ákærði ekki kannast við hana. Honum væri ókunnugt um hver hefði áritað skýrsluna. Ákærði var spurður hvort hann teldi að bókarinn hefði haft þetta á sínum snærum. Ákærði svaraði spurningunni játandi og kvað hann hafa séð um þetta að miklu leyti. Spurningu um hvort bókarinn hefði séð um fjármál fyrirtækisins svaraði ákærði neitandi. Hann hefði séð um þau. Nánar aðspurður um umrædda skýrslu kvaðst ákærði ekki muna hvernig var með hana. Liðin væru fimm ár síðan og hann gæti ekki tjáð sig um þessa einu skýrslu. Hann vissi aðeins að virðisaukaskatturinn hefði verið greiddur og fyrirtækið hefði ekki skuldað. Aðspurður hvort hann gæti sýnt fram á með einhverjum gögnum hvort skatturinn hefði verið greiddur 6. júní 1995 kvaðst hann ekki geta tjáð sig um dagsetningar, en það kæmi fram í gögnum málsins. Ákærði benti á að á dómskjali 67 væri gerð grein fyrir greiðslum að fjárhæð 2.000.000 króna samkvæmt gögnum frá tollstjóraembættinu. Bókarinn hefði séð um þessa hlið mála og kvaðst hann halda því fram að búið væri að greiða miklu meira en umrædda fjárhæð. Hann vissi ekki hvernig á því stæði að skýrslu var skilað án greiðslu. Ákærði var spurður hvort hann myndi hvort bókarinn hefði gert honum grein fyrir þessu. Hann kvað hann áreið­anlega ekki hafa gert það, en gæti ekki fullyrt það. Það væru liðin fimm ár og hann myndi ekki glöggt hvað varðar eina skýrslu. Ákærða var kynnt ljósrit virðis­auka­skattskýrslu vegna maí - júní 1995 að fjárhæð 759.962 krónur. Þar væri með sama hætti settur sá fyrirvari af hálfu tollstjóraembættisins að skýrslunni hefði verið skilað án greiðslu. Ákærði kvað hið sama eiga hér við. Kvaðst hann vera með gögn frá tollstjóraembættinu um að þetta væri allt greitt. Honum var bent á að það hefði ekki verið gert á þessum tiltekna degi. Ákærði svaraði að vegna þess gæti hann ekki gert grein fyrir því. Bókarinn hefði augljóslega greitt þetta með einhverjum öðrum hætti. Ákærða var bent á að verið væri að spyrja hann hvernig þetta kæmi heim og saman. Hann kvaðst ekki geta vitað það nákvæmlega, en hið eina sem hann gæti sagt væri að hann vissi að félagið skuldaði ekki, hvernig svo sem greitt var. Hann hafi staðið í þeirri meiningu að bókarinn hefði greitt á réttum degi. Ákærði var spurður hvort hann héldi ekki að bókarinn myndi hafa gert honum grein fyrir því ef hann hefði fengið þá meðhöndlun hjá tollstjóraembættinu að skýrslan hefði verið móttekin án greiðslu. Hann kvað bókarann ekki hafa gert það og hann gæti ekki svarað fyrir hans hönd hvers vegna hann gerði það ekki. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við áritunina á skýrslunni vegna maí-júní 1995. Hann kvað svo ekki vera. Aðspurður hvort það hafi alls ekki verið á hans verksviði að ganga frá þessum skýrslum eða þessum greiðslum kvað ákærði bókarann hafa séð um það, en vitaskuld yfirleitt í samráði við sig. Um þetta afmarkaða tilvik gæti hann ekki tjáð sig. Ákærði var spurður um verksvið annarra stjórnarmanna félagsins á umræddum tíma. Hann kvað þá ekki hafa ekki komið nálægt þessu. Enginn þeirra hefði starfað hjá fyrirtækinu. Þeir hefðu einungis setið í stjórn þess.

Borin var undir ákærða skýrslan sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins og var hann jafnframt spurður hvort hann staðfesti nafnritun sína undir hana. Hann kvaðst staðfesta hana. Ákærða var kynntur framburður hans þess efnis að það hefðu einkum verið ákærðu Einar og Georg sem önnuðust daglega fjármálastjórn, en stjórnarmenn hefðu þó tekið sameiginlega ákvarðanir í öllum málum, jafnt fjármálum sem öðrum málum varðandi reksturinn. Ákærði kvað þetta ekki hafa verið með framanlýstum hætti. Hann hafi séð um framangreint. Þá var ákærða kynntur sá fram­burður hans að fjárhags­erfiðleikar félagsins hefðu valdið því að ekki hafi verið unnt að greiða umræddan virðisauka­skatt. Hann gæti ekki svarað hvort um rétta fjárhæð hafi verið að ræða, en hann rengdi ekki þau gögn sem fyrir lægju. Þá segði hann að ekki hefðu verið teknar sérstakar ákvarðanir um að greiða ekki virðisaukaskatt umfram annað, heldur hefði harðfylgi innheimtumanna ráðið því. Ákærði kvað hafa verið um að ræða stöðluð svör sem yfirheyrandi var með. Hann hefði sagt að það skipti engu máli hvað ákærði segði. Kvaðst ákærði hafa haldið að þetta væri allt greitt og hann hefði ekki vitað að þarna væri skuld til staðar. Honum var bent á að hann hefði verið upplýstur um það við yfirheyrsluna að skuld væri til staðar. Ákærði kvað yfirheyranda hafa sagt sér það. Hann hafi álitið að allt væri greitt og ekki vitað betur. Yfirheyrandinn hefði sagt og tekið það skýrt fram að ef þetta yrði greitt skipti engu máli hvað hann segði vegna þess að ekki yrði ákært. Hann hefði fengið fé að láni hjá foreldrum sínum og greitt. Síðan hefði verið ákært. Nánar aðspurður kvað ákærði yfirheyrandann hafa spurt hvort þetta hefði ekki verið svona og svona og hann svarað játandi. Er hann var spurður hvort yfirheyrandinn hefði haft upplýsingar um hver hafi verið daglegur stjórnandi svaraði ákærði játandi. Hann hefði spurt hver hefði séð um þetta og hvernig þetta hafi verið og sagt að þetta skipti engu máli. Ákærða var bent á að í skýrslunni svaraði hann öðruvísi en nú hvað varðar daglega stjórnun. Svaraði ákærði því til að hann væri nú að segja frá þessu eins og það var. Aðspurður hvort hann hafi ekki getað greint frá við lögreglurannsóknina hvernig þetta var svaraði ákærði að yfirheyrandinn hefði sagt að þetta skipti ekki máli.

Verjandi gerði ákærða grein fyrir að samkvæmt yfirliti á dómskjali 67 sem unnið væri upp úr gögnum tollstjóraembættisins yfir greiðslur frá K-67 hf. á virðisaukaskatti frá mars 1995 og fram eftir árinu, kæmi fram að frá 15. mars og fram í október hefðu verið greiddar liðlega þrjár milljónir króna. Ákærði var spurður hvort hann hefði talið að þessar greiðslur hefðu runnið til greiðslu á höfuðstól virðisauka­skattskuldar félagsins. Ákærði kvað það vera alveg klárt. Hann var spurður hvort hann hefði þannig talið að félagið stæði ekki í virðisaukaskattskuld við tollstjóra­embættið. Hann kvað það vera alveg klárt.

    Ákærði Georg gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 20. febrúar 1996. Hann staðfesti skýrsluna og að rétt væri eftir honum haft. Ákærða var kynnt að við rannsókn lögreglu hefði komið í ljós að til staðar væri meint skuld vegna virðisaukaskatts félagsins. Honum var kynnt vottorð hlutafélagaskrár varðandi K-67 hf. þar sem fram kom hver væri tilgangur félagsins og hvernig stjórn þess var skipuð. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt heimild hvað varðar starfsemi og stjórn félagsins. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá félaginu og þá sérstaklega á árinu 1995 kvaðst ákærði hafa gengið í öll störf hjá félaginu. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn K-67 hf. og þá sérstaklega á árinu 1995. Ákærði kvað stjórnarmenn hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir í flestum málum, þ.m.t. ákvarðanir um daglega fjármálastjórn. Ákærði kvað félagið vera hætt starfsemi og kvað það vera eignalaust, en eigendur væru að vinna að því að gera skil á opinberum gjöldum af eigin fé.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni K-67 hf. vegna janúar - febrúar 1995, dagsett 5. apríl 1995, undirritun Einar Kristjánsson, mars - apríl 1995 dagsett 6. júní 1995 undirritun E.K. og maí - júní 1995, dagsett 8. ágúst 1995, undirritun G. Georgiou. Hann var spurður á hverju þessar virðisaukaskattskýrslur hafi byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Kvað hann skýrslurnar hafa verið gerðar í samræmi við bókhald félagsins, á ábyrgð stjórnar þess. Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknara frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu K-67 hf. vegna greiðslutímabilanna janúar til og með júlí 1995 og greiðslustöðu gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykja­vík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglu­rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknar lögreglu að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur K-67 hf. hafi numið 1.809.613 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðisaukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki rengja framangreinda niðurstöðu. Hann kvað hluta þessa virðisaukaskatts ekki hafa skilað sér til K-67 hf., þrátt fyrir útgáfu reikninga til viðskiptamanna. Lítil arðsemi í rekstri og háar refsiálögur sem á voru lagðar vegna þessara tímabila og fyrri tímabila hafi valdið því að ekki var unnt að standa skil á umræddum virðisaukaskatti. Þá hafi láðst að gera grein fyrir öllum innskatti sem hafi síðar verið leiðrétt, en haft keðjuverkandi áhrif til hækkunar álaga vegna vanskila. Aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að að greiða ekki, heldur hafi verið greitt eftir því sem kostur var hverju sinni og hafi innheimt fé verið látið ganga fyrst til greiðslu þessa geymslufjár.

    Þá var ákærði spurður hvert það fé hafi runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1995. Ákærði kvaðst vísa til fyrri svara og áréttaði að eigendur hefðu ekki tekið fé út úr rekstri til eigin þarfa. Opinber gjöld og launatengd gjöld hafi haft forgang. Loks tók ákærði fram að verulega hefði verið greitt vegna opinberra gjalda eftir að rekstri félagsins lauk 1995 og yrði framangreind virðisaukaskattskuld félagsins greidd svo fljótt sem auðið yrði.

                Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði telja að ákæran væri byggð á röngum gögnum og að hann teldi sig saklausan. Virðisaukaskatti hefði verið skilað. Ákærða var sýnt ljósrit virðisaukaskattskýrslu að fjárhæð 1.049.651 króna vegna greiðslu­tímabilsins mars - apríl 1995, með gjalddaga 6. júní s.á., sem samkvæmt móttöku­stimpli var skilað án greiðslu, en tekið væri tillit til u.þ.b. 61.000 króna greiðslu. Hann var spurður hvað hann vildi segja um skýrsluna og þann fyrirvara embættis tollstjóra þegar það tók við skýrslunni að engin greiðsla hefði fylgt með. Ákærði kvaðst ekki skilja skýrsluna, en samkvæmt gögnum á dómskjali 67 væri augljóslega búið að greiða þessa upphæð og talsvert umfram það. Ef innborganir samkvæmt dómskjali 67 væru skoðaðar kæmi í ljós að skilað hefði verið hærri upphæð en 1.109.651 krónu.

    Ákærði var spurður um daglega stjórn félagsins á umræddu tímabili. Hann kvaðst halda að hún hefði verið í höndum ákærða Guðjóns Ingva sem annast hefði daglega stjórn og tekið ábyrgð á málefnum félagsins. Ákærða var bent á að við lögreglurannsókn málsins hefði hann greint frá því þeir hefðu fjórir saman annast daglega stjórn. Aðspurður hvort rangt væri eftir honum haft kvaðst ákærði hafa farið eftir ráðleggingum rannsóknara og þeirra aðila sem komu að málinu, þ.e. að skynsamlegast væri að lýsa því yfir til að dreifa ábyrgð. Hugsanlega þyrfti að reyna á einhverja ábyrgð í félaginu, en það hefði ekki verið það sem rétt var. Upphaflega hefði honum verið ráðlagt þetta í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá hefði hann verið spurður hvort þeir hafi allir unnið við fyrirtækið. Ákærði kvaðst hafa svarað því játandi og einnig þeirri spurningu hvort þeir hafi allir komið að fjármálunum. Einhverjir hefðu komið að fjármálunum því t.d. kæmi fram að ákærði Einar hefði skilað inn skýrslu. Það kallist e.t.v. að hafa komið að fjármálunum og í sakleysi sínu hefðu þeir játað því. Það væri hins vegar sannarlega rétt og um það hefði verið rætt að ábyrgð félagsins hefði verið á hendi ákærða Guðjóns Ingva. Ákærða var bent á að við lögreglurannsóknina hefði hann ekki rengt að umræddur virðisaukaskattur hefði ekki verið greiddur á réttum tíma, en einnig sagt að aldrei hefði verið tekin bein ákvörðun um að standa ekki skil á virðisaukaskatti, heldur hefði hann verið greiddur eins og fjárráð leyfðu. Erfiðleikar hefðu verið í rekstrinum. Hann var spurður hverju hann væri að lýsa. Ákærði sagði að þegar skýrslan var tekin hefði verið farið yfir fyrirliggjandi gögn eftir einhverri aðferð. Þegar gögnin voru skoðuð, án tillits til alvarleika þeirra, þ.e. að til málareksturs gæti komið, hefði þeim gengið erfiðlega að yfirfara þau til að ná skynsamlegri niðurstöðu. Kvaðst ákærði vera menntaður í fjármálafræðum og honum hefði gengið mjög illa að yfirfara tölurnar. Hann álíti að þegar skýrslan var tekin hefði hann einfaldlega svarað eftir bestu vitund og ekki verið kominn með nægjanlegan skilning á fyrirliggjandi gögn. Kvaðst ákærði telja að á þessum tíma hefði það ekki verið nægjanlega marktækt að skírskota beint til einhverra svara. Ákærði var spurður hverju hann hefði verið að lýsa þegar hann sagði að hann rengdi ekki niðurstöður rannsóknara og tekið fram að hluti virðisaukaskattsins hefði ekki skilað sér til K-67 hf., þrátt fyrir útgáfu reikninga til viðskiptamanna. Lítil arðsemi í rekstri og háar refsiálögur vegna þessa tímabils og fyrri tímabila hefði valdið því að ekki var unnt að standa skil á umræddum virðisaukaskatti. Þá hafi láðst að gera grein fyrir öllum innskatti sem hefði síðar verið leiðrétt, en það hefði haft keðju­verkandi áhrif til hækkunar álaga vegna vanskila. Aldrei hefði verið tekin ákvörðun um að greiða ekki heldur hefði verið greitt eftir því sem kostur var hverju sinni og innheimt fé fyrst látið ganga til greiðslu þessa geymslufjár. Ákærði kvaðst hafa verið að lýsa “fjárplægi” fyrirtækisins. Aðspurður hvort hann hefði ekki verið að lýsa stöðunni hvað varðar skil á virðisaukaskatti svaraði ákærði að hann hefði verið lýsa því að ekki hefði reynst unnt að standa skil á öllum þeim virðisaukaskatti sem félaginu hefði verið gert að skila, en ekki endilega því sem þeim hafi borið að skila. Ákærði var spurður hvort hann gæti útskýrt þetta eitthvað nánar ef rétt væri eftir honum haft. Hann kvaðst telja að þetta skýrði sig nokkuð sjálft. Skilningur hans væri að hann teldi þá hafa greitt. Þarna hafi verið greitt það sem þeim hefði borið að greiða, en arðsemi fyrirtækisins ekki staðið undir því að greiða það sem því hafi verið gert að greiða. Það hafi e.t.v. komið álögur og ekki hefði verið skilað nægjanlega réttum skýrslum, leiðréttingar hefðu komið síðar, og í skuldastöðuyfirliti frá embætti tollstjóra segði að skuldin væri x krónur og þeir hefðu ekki getað greitt. Fyrirtækið hefði ekki haft næga arðsemi til þess, en þeir hefðu getað greitt réttar skýrslur sem síðar hafi verið leiðréttar. Þær tölur sem komið hefðu í ljós nú væru réttar.

Ákærða var sýnt ljósrit virðisaukaskattskýrslu vegna tímabilsins maí - júní 1995 sem skilað var til tollstjóra 8. ágúst s.á. Hann kannaðist við nafnritun sína á skýrslunni. Ákærða var gerð grein fyrir að skýrslan hefði verið lögð inn án greiðslu, sbr. áritun þar um. Þarna væru virðisaukaskattskil þeirra eins og þeir teldu að þau ættu að vera, en samt sem áður hefði ekkert verið greitt. Hann var spurður hver skýring hans væri á því. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því í augnablikinu. Honum var bent á að samkvæmt því sem hann var að svara hefði hann sagt að þeir hefðu getað staðið undir réttum skilum, en ekki undir þeim skilum sem tollstjóri lagði á. Þarna væri um að ræða virðisaukaskattskýrslu sem hann hefði undirritað og þeir hefðu lagt inn og væri virðisaukaskattur sem þeir teldu að þeir ættu að greiða, en greiðsla ekki farið fram um leið og skýrslunni var skilað. Ákærði kvaðst telja að ástæða þess að skýrslan hlaut stimpilinn “án greiðslu” væri sú að á þessu tímabili teldu þeir sig hafa verið búna að skila þeim virðisauka sem þeim sannanlega bar. Ef yfirfarnar væru færslur skv. dómskjali 67 og skoðað hvað greitt var á árinu 1995, nánar tiltekið frá 15. mars til 30. júní, hefði þeim með réttu borið að standa skil á ákveðnum virðisaukaskatti. Þeir teldu að þessar tvær tölur færu saman. Ákærða var þá bent á að verið væri að spyrja hann um greiðsluskyldu samkvæmt virðisaukaskattskýrslu innlagðri 8. ágúst 1995. Spurt væri hvar greiðsluna sem hann teldi að væri fyrir þessu væri að finna eða hvernig greiðslan hefði farið fram. Ákærði svaraði að þarna hefði aðeins verið um ræða skil á skýrslunni. Það sem hann hefði átt við að framan væri að hann teldi að með greiðslunum sem fram kæmu á dómskjali 67 væru fullnaðarskil á virðisaukaskatti vegna ársins 1995 komin fram. Ákærði var spurður hvort hann gæti bent á hvar á dómskjalinu skilin væru sem gerð voru vegna virðisaukaskattstímabilsins maí - júní og skila átti 8. ágúst og átt hafi að mæta þessum virðisaukaskatti. Ákærði kvaðst vilja vísa til greiðslna 10. maí, 4. og 30. júní og fyrri svara sinna. Skattinum hefði sannarlega verið skilað.

    Ákærði Árni gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 1. apríl 1996. Hann staðfesti nafnritun sína og að rétt hafi verið eftir honum haft. Ákærða var kynnt að við rannsókn lögreglu hefði komið í ljós að til staðar væri meint skuld vegna virðisaukaskatts félagsins. Honum var kynnt vottorð hlutafélagaskrár varðandi K-67 hf. þar sem fram kom hver væri tilgangur félagsins og hvernig stjórn þess var skipuð. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt heimild hvað varðar starfsemi og stjórn félagsins. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá félaginu og þá sérstaklega á árinu 1995 kvaðst ákærði hafa sinnt því sem til féll. Hann var spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn K-67 og þá sérstaklega á árinu 1995. Ákærði kvað ákærðu Einar og Georg hafa haft með þau mál að gera, en stjórnin hefði þó fjallað um stærri ákvarðanir. Ekki hafi verið sérstakur fram­kvæmdastjóri.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni K-67 hf. vegna janúar - febrúar 1995, dagsett 5. apríl 1995, undirritun Einar Kristjánsson, mars - apríl 1995, dagsett 6. júní 1995, undirritun E.K. og maí - júní 1995, dagsett 8. ágúst 1995, undirritun G. Georgiou. Hann var spurður á hverju þessar virðisaukaskattskýrslur hafi byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Kvað hann skýrslurnar hafa byggst á bókhaldi félagsins og gerðar á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknara frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu K-67 hf. vegna greiðslutímabilanna janúar til og með júlí 1995 og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglurannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi inn­heimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rann­sóknar lögreglu að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur K-67 hf. hafi numið 1.809.613 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðisaukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða fjárhæðir væri hér um að ræða og gæti því hvorki staðfest né rengt framangreinda niðurstöðu. Hann kvað erfiðleika í rekstri félagsins hafa valdið því að ekki var greitt á tilskyldum tíma. Kvað hann aldrei hafa verið tekna ákvörðun um að greiða ekki, heldur hafi fjárskortur ráðið því að ekki var greitt. Þá var ákærði spurður hvert það fé hafi runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1995. Ákærði kvað þessu fé ekki hafa verið haldið aðskildu frá öðru fé í rekstri og hafi því verið notað í þágu félagsins.

                Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hver hafi verið staða hans hjá K-67 hf. á því tímabili sem í ákæru greinir. Hann kvað sig minna að hann hafi verið einn af hluthöfum. Honum var bent á að í ákæru segði að hann hefði verið stjórnarmaður. Ákærði kvað það geta staðist. Aðspurður hvort það færi milli mála kvaðst hann ekki vera alveg viss, en líklega hefði hann verið stjórnarmaður. Eftir að honum höfðu verið sýnd gögn þar að lútandi staðfesti ákærði að hann hefði verið stjórnarmaður í félaginu. Ákærði var þá spurður hver hefði verið staða hans hjá K-67 hf. á þessu tímabili. Hann kvaðst ekki vita hvað hann ætti að segja um það, en hann hefði ekki gengt miklum störfum þar. Aðspurður hvort hann hefði starfað hjá félaginu kvað ákærði erfitt að svara því játandi og einnig neitandi. Þeir hefðu átt nokkur félög og hann hafi sinnt ýmsum störfum, en það hafi ekki verið neitt ákveðið. Aðspurður hver staða hans hefði verið hjá þessu tiltekna félagi og með hvaða rekstur það hefði verið kvaðst hann hreinlega ekki muna hvaða starfsemi félagið var með. Hann var spurður hvort hann myndi hver hefði verið daglegur stjórnandi félagsins. Svar ákærða var að það væri svo langt um liðið. Hann myndi það ekki nema með því að fletta því upp, en félagið hefði verið með rekstur í Keflavík. Það hefði stofnsett og rekið veitingastað þar í bæ sem hefði verið seldur fljótlega. Ákærði var spurður hvort það rifjaðist upp fyrir honum hver staða hans hefði verið hjá fyrirtækinu í mars til júní 1995. Hann kvaðst ekki muna svo langt aftur í tímann. Ákærða var gerð grein fyrir að ákært væri vegna þess að talið væri að tollstjóraembættinu hefðu ekki verið staðin skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í mars, apríl, maí og júní 1995. Ákærði kvað þessum virðisaukaskatti áreiðanlega hafa verið skilað. Hann var spurður hvort honum væri kunnugt um það. Ákærði kvað þá hafa farið yfir málið og þetta væri allt rétt. Hann hefði að vísu ekki tölur og tímabil á takteinum.  Borið var undir ákærða ljósrit virðisaukaskattskýrslu vegna mars - apríl 1995 og honum gerð grein fyrir að tollstjóraembættið hefði tekið við skýrslunni með þeim fyrirvara að greiðsla hefði ekki fylgt með, hún væri stimpluð “án greiðslu.” Hann var spurður hvort hann kannaðist við þetta tilvik, þennan tíma í starfsemi félagsins. Svar ákærða var að hann myndi ekki eftir þessu. Aðspurður hvort komið hefði til umræðu á stjórnarfundum í félaginu að virðisaukaskatti væri ekki skilað eða að tollstjóraembættið teldi að honum væri ekki skilað kvað hann slíka umræðu ekki hafa átt sér stað. Aðspurður hvort það hefði aldrei komið til tals þeirra í milli á stjórnarfundum kvað ákærði það vel geta verið, þótt hann myndi það ekki, að inneign hefði komið á móti sem hafi valdið því að skýrslan fór inn án greiðslu. Hann var spurður hvort þeir hefðu rætt málefni félagsins eða félaganna á stjórnarfundum eða hvort þeir hefðu alltaf unnið saman og rætt þetta þegar þeir hittust. Ákærði kvað þau ekki hafa verið rædd á neinum sérstökum stjórnarfundum á þessu tímabili. Kvaðst hann ekki muna hvort hann hefði rætt þessar tilteknu skýrslur við einhvern eða einhver við hann. Hann hafi ekki reiknað með að það væri skuld þar að baki. Borin var undir ákærða skýrsla hans við lögreglurannsókn málsins. Ákærði kannaðist við skýrsluna og nafnritun sína undir hana. Honum var bent á að í skýrslunni segði hann að dagleg fjármálastjórn félagsins hefði verið á hendi ákærðu Einars og Georgs. Ákærði kvað skýrsluna hafa verið gerða á hlaupum. Öll svör hefðu verið tilbúin og skýrslan gerð á örfáum mínútum. Yfirheyrandinn hefði sagt að þetta væri aðeins formsatriði og eiginlega væri málið fíflaskapur. Hann hafi verið með allt tilbúið og ákærði hafi kvittað á skýrsluna og þetta hafi ekki átt að verða neitt mál. Aðspurður hvort hann hefði sinnt því sem til féll hjá félaginu kvaðst hann örugglega hafa tekið einhver uppgjör. Hvar varðar einstakar virðisaukaskattskýrslur myndi hann ekki. Ákærði var spurður hvaða stöðluðu svör hann væri að ræða um. Hann kvað þetta allt hafa verið tilbúið. Aðspurður hvort rangt væri eftir honum haft kvaðst hann ekki vita það, en sennilega væri svo ekki.

    Í skýrslu sem ákærði Einar gaf hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 15. ágúst 1997 staðfesti hann framburðarskýrslu sína sem hann gaf hjá skattrannsóknar­stjóra ríkisins 4. mars 1996 varðandi rannsókn á virðisaukaskattskilum K-67- hf. og að rétt væri eftir honum haft. Ákærða var kynnt að til staðar væri meint skuld vegna virðisaukaskatts félagsins. Honum var kynnt vottorð hlutafélagaskrár varðandi K-67 hf. þar sem fram kom hver væri tilgangur félagsins og hvernig stjórn þess var skipuð. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt heimild hvað varðar starfsemi og stjórn félagsins. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá félaginu og þá sérstaklega á árinu 1995 kvaðst ákærði hafa tekið þátt í daglegum rekstri ásamt öðrum stjórnarmönnum. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn K-67 og þá sérstaklega á árinu 1995. Kvað hann stjórnarmenn félagsins hafa sameiginlega tekið ákvarðanir um daglega fjármálastjórn.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni K-67 hf. vegna janúar - febrúar 1995 dagsett 5. apríl 1995, undirritun Einar Kristjánsson, mars - apríl 1995 dagsett 6. júní 1995 undirritun E.K. og maí - júní 1995 dagsett 8. ágúst 1995 undirritun G. Georgiou. Hann var spurður á hverju þessar skýrslur hafi byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði staðfesti eigin undirritun á fyrstnefndu skýrsluna. Kvað hann skýrslurnar byggðar á bókhaldi félagsins og vera á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknara frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu K-67 hf. vegna greiðslutímabilanna janúar til og með júlí 1995 og greiðslustöðu gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglurannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknar lögreglu að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur K-67 hf. hafi numið 1.809.613 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðisaukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað slæma fjárhagsstöðu félagsins hafa valdið því að ekki var greitt og hafi það verið ákvörðun stjórnar að ekki var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hafi runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1995. Ákærði kvað allt fé sem inn kom hafa farið í rekstur félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði Einar svo frá að hann hefði verið stjórn­ar­maður í K-67 hf. Hann kvaðst hvorki hafa tengst daglegum rekstri félagsins á þessu tímabili þ.e. í mars - júní 1995, né verið boðaður á stjórnarfundi. Stjórnarformaðurinn hefði enga fundi boðað og hvað varðar fjármál og virðisaukaskattsskil hafi hann ekki tengst þeim. Honum hafi hvorki verið kunnugt um stöðu fyrirtækisins á þessum tíma né um skil á virðisaukaskatti og fjárhagsstöðu. Hann hefði kynnt sér þau mál síðar, en ekki á þeim tíma sem þetta gerðist. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hann fékk hefði virðisaukaskatti verið skilað. Honum hefði verið ókunnugt um að virðisauka­skattinum var ekki skilað á réttum tíma. Ákærða var sýnt ljósrit virðisauka­skattskýrslu vegna mars - apríl 1995 og spurður hvort hann kannaðist við hana. Hann kvað þetta vera skýrslu sem bókari félagsins hefði væntanlega gert þegar verið var að gera grein fyrir virðisaukaskattinum og beðið ákærða sem stjórnarmann að setja stafina sína þar við. Áritunun væri hans. Með því hefði hann verið að staðfesta það sem bókarinn tjáði honum, þ.e. að miðað við sölu og innskatt væri þetta virðisaukinn. Ákærði kvaðst ekki hafa séð um að skila skýrslunni og því hefði honum verið ókunnugt um að skv. áritun tollstjóra hefði henni verið skilað án greiðslu. Aðspurður hvort hann hefði gengið úr skugga um að greiðsla færi fram í samræmi við framangreint kvaðst hann ekki hafa gert það á þeim tíma sem hann undirritaði skýrsluna, enda hefði hann einungis verið að staðfesta að þetta væri virðisauka­skatturinn sem skila ætti, en hann hefði gert það síðar. Ákærða var kynnt ljósrit virðisaukaskattskýrslu vegna maí - júní 1995, en samkvæmt skýrslunni hefði virðisaukaskatti ekki verið skilað um leið og skýrslan var afhent. Ákærði kvað sér ekki hafa verið kunnugt um þessi virðisaukaskattskil. Hann hafi ekki komið nærri þeim. Aðspurður hver hefði farið með daglega stjórn og ábyrgð kvað hann ákærða Guðjón Ingva hafa verið stjórnarformann og séð um starfsmannamál. Er hann var spurður hver hefði séð um fjármál og ákvarðanir á borð við virðisaukaskattskil og skýrslugerð kvað ákærði bókarann hafa séð um skýrslugerð. Aðspurður hver hafi verið við stjórnvölinn af þeirra hálfu svaraði ákærði að milli stjórnarfunda hefði það verið stjórnarformaður. Þar sem enginn framkvæmdastjóri var í fyrirtækinu hefði stjórnarformaður borið ábyrgðina. Kvað ákærði sér aldrei hafa verið gerð grein fyrir því af stjórnarformanni að um skil á skýrslum án greiðslu var að ræða.

    Aðspurður hvort hann teldi einhverja skuld vera til staðar kvað hann því ekki vera til að dreifa. Á tímabilinu hefði verið skilað hærri upphæð en næmi upphæðinni í ákæru. Kvaðst hann vilja útskýra hvernig þetta væri tilkomið. Í stuttu máli væri það þannig að rannsóknari hefði beðið um ákveðin gögn. Það hefði farið þannig fram að rannsóknarlögreglumaður hafi beðið um ákveðnar útprentanir vegna tímabilanna mars - apríl og maí - júní. Hann hafi sent bréf til tollstjóraembættisins vegna þessara tímabila. Rannsóknari hefði fengið útprentun frá tollstjóraembættinu yfir hreyfingar á þessu tímabili. Þannig hafi vegna áætlana og annarra hluta verið til staðar eldri skuld og vextir, þannig að það sem greitt hafi verið hafi farið inn á eldri gjalddaga og kæmi ekki fram í þeirri útprentun sem rannsóknari hefði fengið. Ef skoðaðar væru allar útprentanir kæmu fram miklu fleiri greiðslur en rannsóknari hefði komið auga á. Kæmi þetta fram á dómskjali 67. Þær greiðslur sem þar kæmu fram hefðu gengið til greiðslu vegna eldri gjalddaga, dráttarvaxta og álaga. Mikilvægt væri að yfirfara eitt skjal til að sjá þau mistök sem átt hefðu sér stað. Ákærði var spurður hvenær greiðsla hefði verið innt af hendi og hvar gögn væru um þá greiðslu sem hann væri að fjalla um. Hann kvað gögn um greiðslurnar vera í skjölum málsins. Um væri að ræða útprentanir fengnar frá tollstjóranum í Reykjavík. Hann kvað ákærðu hafa óskað eftir tilteknum gögnum sem ákæruvaldið hefði ætlað að útvega varðandi sundurliðun greiðslna eftir dagsetningum inn á tímabil virðisaukaskatts og staðgreiðslu. Tekið hefði langan tíma að útvega gögnin og þegar þau komu hefðu eingöngu komið gögn um virðisaukaskattinn.

    Ákærði gerði nánari grein fyrir þessu: Samkvæmt rannsókninni væri virðisauka­skattur sem skila átti vegna þessara tveggja tímabila 1.869.613 krónur. Rannsóknari hefði, skv. þeim útprentunum sem aflað var, 60.000 króna greiðslu og drægi hana frá. Greiðslan hefði átt sér stað 28. september 1995, sem væri ekki á gjalddaga, en skv. vinnureglu rannsóknara taki hann tillit til þess. Þann 15. mars s.á. hafi félagið greitt 100.000 krónur. Þeirri greiðslu hefði verið ráðstafað inn á tímabil 94.16, en þar sem rannsóknari hefði ekki fengið útprentun vegna þess tímabils sæi hann ekki þessa greiðslu. Honum var bent á að um væri að ræða virðisaukaskattskil vegna mars og apríl sem fram hefðu átt að fara 5. júní. Ákærði kvað ekkert banna að greiða meðan tímabilið stæði yfir. Skýring hans væri að greiðslan 15. mars væri greiðsla vegna fyrra tímabilsins. Síðan kæmi greiðsla 23. s.m. að fjárhæð 277.558 krónur sem einnig hefði verið ráðstafað inn á tímabilið 94.16.

    Ákærði áréttaði að þessu fé hefði öllu verið skilað, en verið ráðstafað upp í dráttarvexti og álög. Því sem greitt var 1995 hefði verið ráðstafað upp í álög 1994. Þetta kæmi fram í gögnum sem ákæruvaldið lagði fram. Þar væru sundurliðaðar dag­setn­ingar greiðslna og það væru þær greiðslur sem hann væri að yfirfara. Hann hefði margoft rætt við Birgi rannsóknarlögreglumann og aðra hjá embætti ríkis­lögreglustjóra um að rannsakaðar yrðu allar þær greiðslur sem átt hefðu sér stað. Birgir hefði beðið um útprentanir, en ekki þær réttu. Ef skoðað væri bréf ríkis­lögreglu­stjóra frá 27. október 1998 kæmi í ljós að rannsóknari hefði beðið um gögn varðandi álagningu og greiðslustöðu virðisaukaskatts K-67 hf. Ekki væri einu sinni verið að biðja um allar greiðslur þarna. Rannsóknari hafi aðeins beðið um að fá mynd C 2, vegna tímabilanna mars - apríl og maí - júní 1995. Myndin sýndi hvað greiða hefði átt á þeim tímabilum og hvað hafi farið inn á þau. Það sem greitt hefði verið í mars til ágúst 1995 hefði verið ráðstafað inn á 1994 og eldri gjalddaga 1995 vegna álaga og dráttarvaxta. Þessu fé hafi því öllu verið skilað á réttum tíma, en sökum þess hvaða gögn var beðið um hefði rannsóknara yfirsést þessar greiðslur. Ákærðu hefðu beðið um sundurliðun, hún hafi komið og þá kæmu allar greiðslurnar fram, en aðeins vegna ársins 1994.

Ákærði var spurður hvort hann gæti bent á það í yfirlitsgögnunum hvar sú greiðsla væri sem fram hefði farið um leið og skýrslu var skilað vegna þeirra greiðslutímabila sem í ákæru greinir, hvar þær kæmu fram og hvar mætti finna þeim stað upp á dag og í hvað hann teldi að greiðslu hefði verið ráðstafað. Ákærði benti á að á dómskjali 30 kæmi fram endurgreiðsla veitingahúsa á virðisaukaskatti. Um væri að ræða endurgreiðslu sem veitingastaðir fengju vegna matarskatts sem toll­stjóraembættið endurgreiddi og henni væri ráðstafað inn á virðisaukaskattinn. Þar sem tollstjóraembættið sæi um það hlyti það að vera gert á nokkurn veginn réttum tíma. Á tímabilinu 94.04 komi fram neikvæð álagning að fjárhæð 276.139 krónur 4. júní 1994, þ.e. vegna mars-apríl, sem þýði að um endurgreiðslu sé að ræða. Til staðar væri virðisaukaskattskýrsla að fjárhæð 1.109.651 króna. Miðað við yfirlit efnahags­brotadeildar ríkislögreglustjóra 16. apríl 1997 og rannsókn hans væri búið að greiða 60.000 krónur frá því þessari skýrslu var skilað til 16. apríl 1997. Það sem greitt hafi verið í maí 1995 væri því eftir að þessu tímabili lauk. Þann 10. maí 1995 hefðu verið greiddar 197.939 krónur, en verið ráðstafað inn á tímabilið 94.48. Ákærði var spurður hvort það væri skýring hans að greiðslan 10. maí 1995 hefði verið greiðsla vegna tímabilsins mars - apríl s.á. sem standa hefði átt skil á 5. júní 1995. Hann kvað það vera sína skýringu. Sama dag hefði átt sér stað greiðsla að upphæð 52.061 króna inn á tímabil 95.08. Þessar greiðslur kæmu hvergi fram þó svo að það stæði innborgun pr. 16.4. 1997 skv. gögnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þann 30. júní s.á. hefði átt sér stað greiðsla að fjárhæð 350.000 krónur. Þann 4. október 1995 hefði átt sér stað greiðsla að upphæð 60.000 krónur og væri það væntanlega sú fjárhæð sem fram kæmi í gögnum ríkislögreglustjóra, og tekið væri tillit til. Greiðsla þessi kæmi sem innborgun á tímabil 95.16, en hann gæti ekki séð á gögnunum hvort um væri að ræða millifærslu, greiðslu eða endurgreiðslu. Þá hefðu þann 27. febrúar 1996, þ.e. rúmu ári áður en samantekt rannsóknara var útbúin, verið greiddar 721.365 krónur sem ráðstafað hafi verið inn á tímabil 95.08. Ástæða þess að þessi greiðsla sæist ekki væri sú að tímabilið 95.08 væri í janúar - febrúar 1995. Skýring hans væri að væntanlega hefði einhver áætlun legið inni. Þann 28. febrúar 1996 væri millifærsla að fjárhæð 83.852 krónur. Þann 26. júní 1996 væri innborgun að fjárhæð 54.431 króna. Þann 6. apríl 1995 hefði komið greiðsla að fjárhæð 350.000 krónur inn á tímabil 94.48 sem rannsóknari hafi tekið tillit til. Kvaðst hann telja að um væri að ræða greiðslu vegna greiðslutímabilsins mars - apríl 1995. Þá væri innborganir 12. apríl 1995 að fjárhæð 400.000 krónur, 19. s.m. að fjárhæð 200.000 krónur, 26. s.m. að fjárhæð 245.000 krónur, þá kæmi endurgreiðsla, þ.e. neikvæð álagning að fjárhæð 67.892 krónur og leiðrétting á viðurlögum að upphæð 13.578 krónur, hvorttveggja í febrúar 1996. Kvaðst ákærði ekki vita betur en þar væri um að ræða leiðréttingar vegna þessara tímabila. Undir tímabilinu 94.40 væru þrjár innborganir, þ.e. 540.166 krónur sem greiddar hefðu verið 29. mars 1995, 26. mars 1996 þar sem fram kæmi leiðrétting að fjárhæð 246.547 krónur og sama dag kæmi fram leiðrétting á viðurlögum að fjárhæð 49.309 krónur. Þessar leiðréttingar kæmu hvergi fram í innborgunum pr. 16. apríl 1997 skv. gögnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

    Ef yfirfarin væru þau skjöl sem beðið var um og ákæruvaldið lagði fram kæmi í ljós að greiðslur á tímabilinu mars, apríl og maí 1995 næmu samtals rúmlega þremur milljónum króna. Fjárhæð skýrslna á tímabilinu næmi 1.869.613 krónum. Fé sem hefði verið skilað á árinu 1995 og rannsóknari kæmi ekki auga á, sökum þess að það hefði gengið upp í eldri áætlanir og viðurlög næmi rúmum þremur milljónum króna. Á árinu 1996 hefðu svo verið greiddar til viðbótar 1.648.718 krónur. Á árinu 1997 hefði rannsóknarlögreglumaðurinn Birgir Sigmundsson komið auga á 60.000 króna greiðslu og héldi því fram í skjölum málsins, sem ákæran væri byggð á, að það væri hið eina sem greitt hafi verið. Auk þess kvaðst hann benda á innborgun 19. júní 1998 að fjárhæð 1.049.651 króna sem væri sá höfuðstóll sem efnahagsbrotadeild ríkis­lögreglustjóra hefði reiknað út. Það væri því margbúið að greiða höfuðstólinn. Dag­setningar greiðslna, sem væru flestar á árinu 1995 og ættu því allar við, sæjust í gögnunum og ef þær væru teknar saman kæmi í ljós að höfuðstóll væri marggreiddur og ekki of seint.

    Ákærði benti á að undir tímabilinu 94.04 kæmi fram að endurgreiðslu virðis­aukaskatts til félagsins hefði verið skuldajafnað upp í vangoldið tryggingargjald. Kvað hann mörg dæmi slíks skuldajafnaðar upp í óskyld gjöld í öllum fjórum félögunum, ekki eingöngu upp í tryggingagjald, heldur einnig þungaskatt, staðgreiðslu o.fl. Ákærði var spurður hvers vegna hann nefndi ekki t.d. innborgun sem átt hefði sér stað 4. október 1995 að fjárhæð 50.000 krónur. Ákærði kvað þessa greiðslu hafa verið bakfærða þar sem um innstæðulausan tékka hefði verið að ræða. Þá var hann spurður hvers vegna hann sleppti innborgun 4. október 1995 og hvaða mun hann teldi á þessum greiðslum sem verið var að inna af hendi í samanburði við greiðslu að fjárhæð 197.939 krónur. Ákærði kvaðst ekki telja neinn mun á þeim. Hann teldi leið­réttinguna frá hinu opinbera hvorki betri né verri en greiðslur frá félaginu. Greiðslur með þessum dagsetningum ættu við með sama hætti og hann hefði áður lýst.

    Ragnar Björnsson viðskiptafræðingur kom fyrir dóminn. Honum var fyrst gerð grein fyrir að hann hefði stjórnað skattrannsókn vegna skattaðilans K-67 hf. Fram kæmi í bréfi sem embætti skattrannsóknarstjóra ritaði rannsóknarlögreglu ríkisins að aflað hefði verið upplýsinga um skuldastöðu félagsins vegna vangoldins virðisauka­skatts við innheimtumann ríkissjóðs frá tollstjóraembættinu. Hann var spurður hvort sjálfstæð rannsókn hefði farið fram af hálfu embættis skattrannsóknarstjóra í sambandi við skuldastöðu félagsins við ríkissjóð, hvernig álagningu var háttað og hvernig greiðslum var háttað. Vitnið kvað embættið hafa fengið frumgögn, þ.e. virðis­auka­skattskýrslur og skilagreinar staðgreiðslu. Síðan hefði sá háttur verið hafður á að fá staðfestingu frá innheimtumanni, í þessu tilfelli tollstjóraembættinu, um það hver skuldastaðan væri. Þar lægju fyrir þær upplýsingar er vörðuðu skuldastöðu fyrirtækja og þar væri hægt að leita þeirra. Vitnið var þá spurður hvort rannsókn embættis skattrannsóknarstjóra hefði eingöngu verið í því fólgin að afla þessara upplýsinga með framangreindum hætti, en sjálfstæð rannsókn ekki farið fram. Eftir að vitnið hafði verið upplýst um hvað átt væri við með sjálfstæðri rannsókn kvað hann rannsakendur vitaskuld hafa aflað frumgagna varðandi skilagreinar staðgreiðslu- og virðisauka­skattskýrslna og síðan hefðu þeir fengið upplýsingar um hvað hefði verið greitt og hvað ekki. Vitninu var bent á að í rannsóknarskýrslunni segði um afmörkun rann­sóknarinnar að hún hefði afmarkast við innheimtan virðisaukaskatt skattaðila vegna rekstrarársins 1995, nánar tiltekið fyrir tímabilið janúar til og með júní, sem skattaðili hefði vanrækt að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs. Hann var spurður hvort ekki hafi verið farið aftar í tíma og kannað hvernig álagningu og greiðslum var háttað fyrir þau tímabil, þ.e. greiðslur sem e.t.v. voru inntar af hendi á því tímabili sem til rannsóknar var, frá janúar til og með júní 1995, en e.t.v. ráðstafað inn á einhverjar aðrar kröfur. Vitnið svaraði að væntanlega væri þetta það tímabil þar sem um var að ræða skuld eða þar sem ekki voru staðin skil á greiðslu virðisaukaskatts. Væntanlega væri það þetta tímabil sem rannsóknin næði til og afmarkaðist af. Vitnið var spurður hvort hann hefði ekki talið ástæðu til að kanna eldri tímabil og athuga hvort greiðslum hefði verið ráðstafað upp í skuldir sem töldust e.t.v. ekki til vörsluskatta þar sem um væri að ræða álög og dráttarvexti. Vitnið kvað vel mega vera að það hefði verið skoðað lengra aftur í tímann, en ekki talin ástæða til að fjalla um það í skýrslunni vegna þess að ekki var skuld vegna þeirra tímabila. Vitninu var bent á að í skýrslunni segði að 7. febrúar 1996 hefði skattaðili greitt inn á staðgreiðsluskuld sína 600.000 krónur. Hluti þeirrar fjárhæðar hefði gengið til að gera upp skattskuld skattaðila vegna rekstrarársins 1994 og hluti til að greiða inn á skattskuld skattaðila vegna rekstrarársins 1995. Meðal gagna málsins væri yfirlit um greiðslur frá skattaðilanum vegna virðisaukaskatts á árunum 1995 og 1996, samtals að fjárhæð um 4,7 milljónir, þar af eftir 7. febrúar, 1996 1.648.718 krónur, en þó allt í febrúar­mánuði 1996. Aðspurður hvort hann gæti útskýrt hvers vegna ekki væri minnst á þessar innborganir kvaðst hann ekki kunna á því skýringar. Hann myndi þetta ekki svo glöggt. Rannsóknin hefði snúist um að afla upplýsinga um vangreiddan virðisaukaskatt og vangreidda staðgreiðslu. Hvað virðisaukaskattinn varðar væri vitaskuld tekið tillit til allra greiðslna sem gengið hefðu til greiðslu á þeim skatti. Eftir stæði virðis­aukaskattur sem ekki hefði verið skilað í ríkissjóð. Teldi hann að skýrsla skattrannsóknarstjóra sýndi hvaða virðisaukaskatti voru ekki staðin skil á í ríkissjóð. Vitnið var spurður hvort litið væri svo á, þegar um skil væri að ræða á virðisaukaskatti eða staðgreiðslu, að rétt væri að taka greiðslur sem bærust upp í gömul álög og dráttarvexti áður en greiðslur væru teknar upp í höfuðstól. Hann kvað innheimtumann fara eftir ákveðnum reglum varðandi innborganir. Vitninu var bent á að hann hefði unnið þessa skýrslu og komist að ákveðinni niðurstöðu. Hann hlyti því að þurfa að beita ákveðnum aðferðum til að fá þá niðurstöðu. Vitnið kvaðst aðeins hafa byggt á gögnum, m.a. frá innheimtumanni, og frumgögnum virðisaukaskatts eða virðis­aukaskattskýrslna. Aðspurður hvort hann hefði ekki farið ofan í saumana á því hvernig innheimtumaður ríkissjóðs ráðstafaði þessum innborgunum kvaðst hann vitaskuld hafa fengið yfirlit um það, en yfirlitin sýndu hins vegar það sem ógreitt var af virðisaukaskatti samkvæmt innsendum skilagreinum eða virðisaukaskattskýrslum. Honum var bent á að einnig gæti verið ógreitt af dráttarvöxtum eða álögum. Vitnið kvað þá aðeins hafa tekið höfuðstól virðisaukaskatts samkvæmt skýrslum, þ.e. það sem ógreitt var af höfuðstól virðisaukaskatts. Innheimtumaður ráðstafaði greiðslum með ákveðnum hætti og skattrannsóknarmenn hefðu ekkert með það að gera. Aðspurður hvort þeir færu ofan í saumana á því eða litu gagnrýnislaust á það kvað hann rannsóknarmenn taka saman þann höfuðstól virðisaukaskatts sem ekki eru staðin skil á.

    Borin voru undir vitnið skjöl úr lögreglurannsókninni, nánar tiltekið tvær virðis­aukaskattskýrslur sem á var stimplað “án greiðslu” og vörðuðu það atriði sem hann var spurður um. Aðspurður hvort hann hefði upplýsingar um hver setti þennan stimpil á skýrslurnar kvaðst hann ætla að það hafi verið innheimtumaður. Hann var spurður hvort það væri gert við móttöku eða síðar í vinnslu. Vitnið svaraði að eftir því sem hann vissi best væri það gert við móttöku þegar aðili kæmi með skýrsluna og legði hana inn til innheimtumanns, en greiddi ekki. Er hann var spurður hvort skýrslurnar hefðu verið stimplaðar “án greiðslu” ef komið hefði verið með þær og peninga, sem hefðu eigi að síður verið teknir og settir upp í eldri skuldir, kvaðst hann ekki telja það. Vitnið var inntur álits á hvort hann teldi að stimplað hefði verið á skýrsluna “móttekið án greiðslu” ef um það hefði verið að ræða, eins og í tilviki þessa fyrirtækis, að á svipuðum tíma voru að berast endurgreiðslur, einkum ef endurgreiðslan var bókuð í innheimtukerfi innheimtumanns sama dag og skýrslu var skilað án greiðslu og fjárhæðirnar gátu mæst. Vitnið kvaðst telja að svo væri ekki. Kvaðst hann halda að ekki væri athugað þegar menn kæmu með skýrslur sem þessar og greiddu þær, hvort einhverjar eldri skuldir væru og þá væri greiðslu ekki ráðstafað strax upp í eldri skuldir. Hann var spurður hvort það myndu hafa verið talin skil andstæð lögum ef skýrsla hefði verið afhent án greiðslu þótt við afhendingu hennar hefði verið fyrir hendi á virðisaukaskattsnúmerinu inneign vegna endurgreiðslu, sem hefði dugað fyrir þessu. Vitnið kvaðst ekki þora að fullyrða hvernig með það væri farið. Vitninu var sýnt fylgiskjal merkt 5.1 í skýrslunni og beðinn að útskýra hvernig á því stæði að þar væru nánast engin áfallin viðurlög vegna vanskila. Vitnið kvaðst ekki hafa skýringu á því. Aðspurður hvort vera kynni að greiðslu sem borist hefði til innheimtumanns ríkissjóðs út af skuld vegna þessara virðisaukaskattstímabila hafi verið ráðstafað til greiðslu á viðurlögum og dráttarvöxtum áður en henni var ráðstafað til greiðslu á höfuðstól kvað hann sér ekki vera kunnugt um það. Verjandinn benti vitninu á að þetta væri bréf til skattrannsóknarstjóra ríkisins frá tollstjóranum í Reykjavík sem sýndi þessa stöðu. Þar kæmi fram skuld vegna mars - apríl 1995 að upphæð 1.159.651 króna, en hið rétta væri að skuldin hefði verið 1.049.651 króna samkvæmt öðrum gögnum. Þessi villa virtist hafa slæðast inn í rannsókn skattrannsóknarstjóra. Vitnið kvað vitaskuld hugsanlegt að komið hafi fram villa.

                Jarþrúður Jónasdóttir kom fyrir dóminn. Borin var undir vitnið skýrsla skattrannsóknarstjóra varðandi K-67 hf. og hún spurð hvort áritun hennar væri á skýrslunni. Vitnið staðfesti að svo væri og að skýrslan stafaði frá henni og Ragnari Björnssyni. Hún var spurð um afmörkun rannsóknarinnar og í því sambandi kynnt að í skýrslunni segði að rannsóknin hafi, hvað virðisaukaskattinn varðar, afmarkast við innheimtan virðisaukaskatt skattaðila vegna rekstrarársins 1995, nánar tiltekið tímabilið janúar til og með júní, sem skattaðili hafi vanrækt að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs. Í framhaldi af því var hún spurð hvort þau hafi ekki farið aftur fyrir þessi tímamörk og kannað hvernig háttað var álagningu virðisaukaskatts t.d. vegna ársins 1994 og þeim greiðslum sem borist höfðu 1994, 1995 og þar til skattrannsóknin fór fram. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig því var háttað, en ef þetta væru mörkin gæti hún ekki ímyndað sér annað en þau væru rétt. Hún kvaðst ekki muna glöggt dagsetningar og tölur varðandi þessi mál. Aðspurð hver hafi verið stjórnandi rannsóknarinnar kvað hún Ragnar hafa verið yfirmann sinn og hún hafi unnið undir hans handleiðslu. Vitninu var bent á að í skýrslunni kæmi fram varðandi skil á virðisaukaskattskýrslum og greiðslur til innheimtumanns að greiddar hefðu verið 236.842 krónur inn á tímabilið janúar - febrúar 1995. Í gögnum málsins kæmu fram greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs frá 15. mars 1995 til 26. febrúar 1996, samtals að fjárhæð um 4,5 milljónir króna. Aðspurð hvernig á því stæði að þessa væri í engu getið í skýrslunni kvaðst hún ekki geta svarað því. Hún hefði verið boðuð til þinghaldsins með skömmum fyrirvara og hér væri um að ræða mál sem hún hefði lokið við í maí 1996. Hún vissi það eitt að hún hefði unnið verk sitt eins samviskusamlega og henni var unnt og fengið upplýsingar frá tollstjóraembættinu varðandi greiðslustöðu þessara fyrirtækja og einnig frá sýslumanninum í Keflavík varðandi K-67 hf. Þau hafi reynt að finna öll gögn sem komu þessu máli við, en fráleitt væri að hún gæti svarað blint fyrir einhverjar upplesnar fjárhæðir.

Verjandi vakti athygli vitnisins á að svo virtist sem við rannsóknir þeirra hafi þau ekki farið ofan í það að neinu leyti að afla upplýsinga frá innheimtumanni ríkissjóðs um skuldastöðu, heldur tekið þær tölur sem bárust frá innheimtumanni og litið á það sem staðreyndaskuld á því tímamarki sem upplýsingar bárust. Vitnið kvað þau vitaskuld hafa haft aðgang að sömu upplýsingum í tölvunum hjá sér og þannig borið það saman. Þau hafi að sjálfsögðu ekki getað stuðst við þær upplýsingar, heldur hafi þau orðið að fá þetta staðfest frá innheimtumanni og þær staðfestingar lægju vitaskuld fyrir. Henni var bent á að eitt þeirra gagna sem byggt væri á í skýrslunni vegna K-67 hf. væri yfirlýsing frá tollstjóranum í Reykjavík frá 28. desember 1995. Þar væri að finna skuldayfirlit vegna tímabilanna janúar - febrúar, mars - apríl og maí - júní 1995. Hún var beðin að kynna sér höfuðstól þeirra skulda sem þar væru tilgreindar og bent á að varðandi tvö fyrstu tímabilin kæmi fram að ekki væri um álög að ræða. Eigi að síður væri þetta næstum ári eftir gjalddaga þessara gjalda. Hún var spurð hvort sú skýring gæti verið á þessu að greiðslur hefðu borist og þær verið teknar upp í álög og dráttarvexti fyrst. Vitnið kvað það ekki vera ólíklegt. Reglan væri sú að fyrst væru greiddir dráttarvextir og viðurlög og síðan kæmi að höfuðstól. Aðspurð hvort það væri viðtekin venja hjá innheimtumanni ríkissjóðs að gera það þannig kvaðst hún ekki geta svarað fyrir það. Hún sæi það ekki á þessum gögnum. Vitnið var spurð hvernig því væri háttað, eftir að rannsókn á málum hjá skattrannsóknarstjóra væri hafin, ef greiðslur bærust á höfuðstól að fullu, hvort kærur væru þá sendar frá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hún kvað sér vera ókunnugt um það. Það væri ekki í verkahring rannsóknarmanna að taka slíkar ákvarðanir.

    Bornar voru undir vitnið skýrslur skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna rannsókna varðandi Íslenskt framtak hf., T-67 hf. og P-67 hf. Vitnið staðfesti áritanir sínar á skýrslurnar og að hafa unnið að þessum rannsóknum.

    Birgir Sigmundsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa haft með rannsókn málsins að gera. Vitninu var í tilefni af framburði ákærða Guðjóns Ingva kynnt að hann hefði nefnt það að vitnið hefði gefið þá yfirlýsingu um málið að það væri mjög sérstakt og vitnið teldi óþarfa að rannsaka það mikið, eyða vegna þess miklum tíma í það, og enn fremur að ef skuldin yrði greidd yrði ekki aðhafst frekar í málinu. Hann var spurður hvort hann kannaðist við þetta. Vitnið kvaðst alls ekki kannast við þessi orð. Hins vegar heyrðist honum að sá sem hefði borið þetta væri að snúa hlutunum við vegna þess að hann minntist þess að á þeim tíma, þó að hann minnti að það hefði verið ákærði Georg, en ekki ákærði Guðjón Ingvi, hafi þeim aðila fundist algjör óþarfi að mæta hjá lögreglu. Þetta væri svo ómerkilegt mál og þeir ætluðu að greiða þetta og hafi óskað eftir að yfirheyrslum yrði frestað þar til þeir væru búnir að borga. Hann hafnaði því algjörlega að hann hafi lýst þetta mál ómerkilegt. Honum var þá gerð grein fyrir að fram hefði komið að yfirheyrsluskýrslurnar hefðu nánast verið tilbúnar. Vitnið kvað allar spurningar sem í skýrslunum voru hafa verið tilbúnar fyrir fram að meira eða minna leyti. Hann hafi spurt alla ákærðu sömu spurninga og þær spurningar hefði hann samið fyrir fram vegna þess að um var að ræða ákveðin efnisatriði sem fram þyrftu að koma. Spurningarnar hafi því legið ljósar fyrir, þ.e. hvað þyrfti að spyrja um og hvað skipti máli. Svörin hafi síðan komið eftir þeim atvikum. Vitnið var spurður hvort svör hefðu verið færð milli skýrslna. Hann kvað ekkert svar hafa verið fært milli skýrslna.

    Vitninu var bent á að samkvæmt gögnum sem hann hefði unnið vegna rannsóknar á málefnum K-67 hf. væri tilgreind virðisaukaskattskuld að fjárhæð 1.869.613 krónur og innborgun að fjárhæð 60.000 krónur sem dregin hefði verið frá. Þessi tiltekna innborgun hefði líklega átt sér stað annaðhvort 28. september eða 4. október 1995. Vitninu var sýnt dómskjal 30 varðandi félagið og spurður hvort hann hefði unnið það yfirlit. Hann kvaðst áreiðanlega ekki hafa unnið umrætt yfirlit. Hann myndi aldrei setja yfirlit upp með þessum hætti. Vitninu var bent á að þar kæmu fram upplýsingar um innborganir á tímabilinu 15. mars 1995 til 26. febrúar 1996 að fjárhæð rúmar 4,5 milljónir króna. Hann var spurður hvernig á því stæði að þessara innborgana væri í engu getið í yfirliti vitnisins. Vitnið benti á að hann hefði ekki séð þetta skjal fyrr og gæti ekki tjáð sig um það. Honum var bent á að á umræddu dómskjali væri getið um eina innborgun sem fram kæmi á yfirliti hans. Svar vitnisins var að á yfirlitinu sem hann vann væri vísað til þeirra gagna sem byggt væri á og á því hefði hann byggt. Gerði hann ráð fyrir að í þessu tilviki væru það útskriftir frá tollstjóraembættinu. Nefnt dómskjal væri viðbótaryfirlit og væri ekki það sem upp­haflega hefði verið í málinu sjálfu. Vitninu var bent á að í bréfi til tollstjóra­embættisins hefði hann beðið um útskrift úr tekjubókhaldi varðandi virðisaukaskatt félagsins, mynd C 2, vegna tímabilanna mars - apríl og maí - júní. Vitnið kvað það vera þess konar yfirlit sem venjulega væri byggt á og svöruðu venjulega því sem hér væri til umræðu. Aðspurður hvort það væri rétt að þau sýndu einungis þær fjárhæðir sem innheimtumaður ríkissjóðs hefði sjálfur fært inn á viðkomandi tímabil kvað hann þau sýna þær greiðslur sem færðar hefðu verið vegna þessara tilteknu tímabila. Vitnið var spurður hvort honum hefði ekki komið til hugar að kanna hvaða greiðslur hefðu borist frá skuldaranum til innheimtumanns ríkissjóðs og hvernig þeim var ráðstafað. Vitnið svaraði að unnið væri eftir þeim gögnum sem fyrir lægju og ekkert í málinu hefði kallað á slíka athugun. Þá hefði ekkert í framburði sakborninga gefið tilefni til að kanna það sérstaklega. Á því tímabili sem hann hafði málið til rannsóknar hefði hvorki eitt né neitt kallað á slíka skoðun. Er hann var spurður hvort honum fyndist það ekki sérstætt, ef rétt reyndist, að greiddar hefðu verið 4,5 milljónir króna vegna virðisaukaskattskuldar þessa skattskuldara á tímabilinu frá 15. mars 1995 til 26. febrúar 1996, en þar af væru einungis 60.000 krónur sem hann tæki með í reikninginn til frádráttar kvaðst hann vísa til þeirra gagna sem byggt væri á. Væru þau röng yrðu aðrir að svara fyrir það. Hvort tollstjóraembættið hafi ráðstafað þessu fé með öðrum hætti gæti hann ekki svarað fyrir og ætlaði ekki að tjá sig um. Aðspurður hvort hann hafi tekið frádráttarliðinn að fjárhæð 60.000 krónur eftir gögnum tollstjóraembættisins kvað vitnið vera byggt á því svo og þeim gögnum sem lægju væntanlega fyrir í skjölum málsins. Hann hafi ekki haft ástæðu til að rengja þau. Vitninu var bent á að hann hafi tekið umræddar 60.000 krónur inn á höfuðstól kröfunnar, en ekki áfallna dráttarvexti frá þessum tíma. Vitnið kvað eingöngu vera horft á höfuðstól, ekki álög, dráttarvexti eða kostnað. Þær greiðslur sem inntar væru af hendi væru teknar í heild sinni. Þótt greiðslum væri hugsanlega deilt á tímabilið, einhver tiltekin fjárhæð inn á höfuðstól og önnur inn á álögur og dráttarvexti, þá væri það heildargreiðslan sem væri dregin frá höfuðstólnum. Þannig væri vinnureglan hjá efnahagsbrotadeild og þannig ætti hún að vera. Er hann var spurður hvernig því myndi hafa vikið við ef borist hefðu frekari greiðslur en þessar 60.000 krónur, hvort hann teldi að þær hefðu átt að dragast frá höfuðstól, en ekki ganga fyrst upp í álög og dráttarvexti svaraði vitnið að það myndi hann hafa gert ef hann hefði haft gögn þar um. Vitninu var bent á að af dómskjalinu mætti sjá að umræddum greiðslum er næmu rúmum 4,5 milljónum króna hefði verið ráðstafað inn á eldri gjalddaga, þótt þær hefðu verið inntar af hendi á tímabilinu frá 15. mars 1995 til 26. febrúar 1996, fyrst upp í álög og dráttarvexti og síðast inn á höfuðstól. Er hann var spurður hvort hann hefði litið þannig á, ef hann hefði vitað af þessum innborgunum, að allur höfuðstóll þessara krafna hefði verið greiddur kvaðst hann vera að sjá þetta yfirlit í fyrsta skipti og hann vissi ekki hver hefði unnið það. Vitninu var bent á að yfirlitið hefði verið unnið að beiðni embættis ríkislögreglustjóra af tollstjóraembættinu. Hann kvað allar greiðslur inn á hvert tímabil myndu hafa verið dregnar frá hvernig svo sem þeim hefði verið skipt af hálfu tollstjóraembættisins, þannig að greiðsla vegna t.d. tímabils 16.94, hverju nafni sem nefndist, hefði gengið til frádráttar á höfuðstól. Hann var spurður hvort hann hefði fyrst tekið allan höfuðstól skuldar skattaðilans áður en hann tók upp í álög og dráttarvexti. Vitnið svaraði að ef átt væri við allan höfuðstól allra tímabila hefði hann ekki gert það, heldur sett greiðslurnar inn á þau tímabil sem um ræðir. Ef menn gæfu sér að skattaðili hefði greitt eina milljón króna og hún færi inn á hin ýmsu tímabil, þá hefði hann aðeins upplýsingar um þau tímabil sem talin væru vera í vanskilum og allar greiðslur sem færðar væru inn á þau tímabil drægjust frá höfuðstól. Hann var spurður hvaða augum hann liti það ef greiðsla að fjárhæð ein milljón króna bærist eftir gjalddaga og viðkomandi skattaðili skuldaði samtals sömu fjárhæð að höfuðstól vegna þriggja til fjögurra tímabila, en auk þess álög og dráttarvexti, hvort hann myndi ekki líta svo á að fjárhæðin gengi fyrst til greiðslu höfuðstóls. Svar vitnisins var að hann myndi líta þannig á varðandi þau tímabil sem væru gjaldfallin. Útkoman úr rannsókn hans myndi koma út á þann veg ef honum væri þetta ljóst og hefði gögn þar um. Vitnið yfirfór skýrslurnar sem hann tók af ákærðu í hverju máli fyrir sig og staðfesti að hafa tekið þær jafnframt því að staðfesta nafnritun sína undir þær.

                Þórarinn Þórarinsson kom fyrir dóminn. Aðspurður hvort hann hafi verið starfsmaður hjá fyrirtækjum þeim um getur í ákæru kvaðst hann hafa verið verktaki, en hve lengi myndi hann ekki. Hann hafi þó einnig verið launamaður hjá P-67 hf. um hríð eftir að hann hætti sem verktaki. Er hann var spurður hver staða hans sem verktaka hafi verið kvað hann hana hafa verið að færa bókhaldið.

Aðspurður hver hafi verið stjórnandi K-67 hf. og tekið ákvarðanir í því fyrirtæki kvaðst hann ekki geta svarað því með nákvæmni. Hann hafi haft samskipti við ákærðu alla. Vitninu var bent á að við yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi hann verið spurður um þetta atriði. Hann kvaðst ekki muna svo langt aftur í tímann. Vitninu var bent á að við það tækifæri hafi hann verið spurður hvort hann vissi hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að innheimtum virðisaukaskatti var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs. Aðspurður hvort hann myndi eftir að hafa verið spurður þessarar spurningar kvaðst hann ekki muna glöggt eftir þessu. Er hann var ítrekað spurður hver eða hverjir hafi verið stjórnendur og tekið ákvarðanir kvaðst hann ekki muna glöggt hvað hver gerði, en hann hafi talið það hafa verið ákærðu alla. Þeir hafi allir séð um innheimtur. Vitninu var bent á að hann hefði svarað þessu með sama hætti hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þ.e. að hann teldi ákærðu alla hafa verið forráðamenn fyrirtækisins. Hann kvað þá allavega hafa verið sagða eigendur á þessum tíma. Vitninu var gert ljóst að þeir væru ákærðir vegna K-67 hf. fyrir að hafa ekki staðið skil virðisaukaskatti á réttum tíma. Aðspurður hvort hann kannaðist við slík tilvik kvaðst hann eingöngu muna að skýrslur voru sendar inn, en honum væri ókunnugt um hvort þeim hafi alltaf verið skilað á réttum tíma og ásamt greiðslum. Hann hafi ekki haft eftirlit með því. Ef greiðslurnar voru til staðar í bókhaldinu hafi hann vitaskuld fært þær sem slíkar, en hann myndi ekki glöggt hvort þær hafi alltaf verið greiddar. Borin var undir vitnið skýrslan sem hann gaf hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins varðandi málefni K-67 hf. Vitnið kvaðst telja að skýrslan væri rétt og kannaðist við nafnritun sína undir hana.

B

    Þann 30. janúar 1996 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á málefnum Íslensks framtaks hf., m.a. á staðgreiðslu- og virðisaukaskattskilum. Rekstur félagsins á þeim tíma sem rannsóknin tók til var fólgin í rekstri Pizza 67 að Nethyl 2, hér í borg. Aðalrekstur félagsins var seldur í lok ágúst 1994. Félagið var stofnað 20. janúar 1992. Stofnendur voru ákærðu og voru allir með jafnan hlut. Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var tilgangur félagsins inn- og útflutningur, matvælaframleiðsla, verslunarrekstur, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyld starfsemi. Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var ákærði Einar stjórnarformaður félagsins, en aðrir ákærðu meðstjórnendur. Þá var ákærði Árni framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð. Samkvæmt upplýsingum ákærðu Einars, Árna og Georgs í skýrslum sem þeir gáfu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sáu allir stjórnarmenn um daglegan rekstur, en mismikið þó.

    Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins afmarkaðist við vanskil félagsins á virðisaukaskatti, staðgreiðslu o.fl. vegna rekstrarársins 1994. Tók rannsóknin m.a. til vanskila félagsins á virðisaukaskatti til innheimtumanns ríkissjóðs vegna rekstrar­tímabilanna mars – apríl 1994 og júlí til og með október s.á., auk vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launagreiðslum launamanna félagsins svo sem vikið verður að síðar.

    Rannsókn skattrannsóknarstjóra á virðisaukaskattskilum félagsins vegna rekstrartímabilsins mars til og með október 1994, fólst í því að sannreyna virðisaukaskattskil félagsins, þ.e. að hve miklu leyti sá virðisaukaskattur, sem félaginu bar að standa skil á í ríkissjóð vegna rekstrar félagsins umrætt tímabil, væri í van­skilum. Byggði rannsóknin á innsendum virðisaukaskattskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabila virðisaukaskatts fyrir janúar til og með október rekstrarárið 1994. Þá var aflað upplýsinga um skuldastöðu félagsins vegna vangoldins virðisaukaskatts við innheimtumann ríkissjóðs frá tollstjóranum í Reykjavík. Rannsókn skattrann­sóknar­stjóra á framangreindu leiddi í ljós að þann 12. janúar 1996 var vangoldinn virðis­aukaskattur samtals að höfuðstól 2.227.440 krónur, auk álags og dráttarvaxta vegna uppgjörstímabila virðisaukaskatts frá mars til og með október rekstrarárið 1994. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins sundurliðaðist vangoldinn innheimtur virðis­auka­skattur þann 12. desember 1996 vegna rekstrarársins 1994 sem hér segir eftir tímabilum: Mars – apríl 887.443 krónur, júlí – ágúst 1.088.688 krónur og september – október 251.309 krónur.

    Samkvæmt upplýsingum ákærðu Einars, Georgs og Árna í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins var gerð virðisaukaskattskýrslna félagsins byggð á bókhaldsgögnum þess. Staðfesti bókari félagsins, Þórarinn Þórarinsson, í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að svo hefði verið. Við sama tækifæri voru ákærðu spurðir hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti félagsins á lögmæltum tíma. Ákærði Einar kvað ástæðuna vera að innsendar virðisaukaskattskýrslur hafi verið rangar og hafi það komið í ljós síðar. Ofan á vangreiddan virðisaukaskatt hafi lagst vextir og álag og félagið lent í hálfgerðum vítahring, þar sem illa hafi gengið að innheimta útistandandi kröfur hjá viðskiptavinum. Ákærði Árni kvað ástæðuna hafa verið vítahring sem félagið lenti í vegna þess að í upphafi hafi félagið ekki getað greitt á gjalddaga. María Jónsdóttir sem hóf störf hjá félaginu í lok maí 1994, í því skyni að finna út skuldastöðu þess, kvaðst aðspurð um þetta atriði í skýrslutöku hjá skatt­rannsóknarstjóra þann 7. febrúar 1996, telja að ástæðan hafi verið óreiða í stjórn fyrirtækisins og fjárhagsörðugleikar þess.

    Ákærðu voru spurðir hverjir hefðu tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á að innheimtum virðisaukaskatti var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs. Ákærðu Einar og Árni sögðu að rekstraraðilar félagsins, þ.e. stjórn þess, hefði tekið þá ákvörðun og borið þá ábyrgð. Jafnframt kvað ákærði Árni félagið hafa skuldað víða. Laun hefðu verið greidd, en hann vissi ekki hvaða skuldir nákvæmlega hefðu verið greiddar. Það, sem nauðsynlegt var til þess að “fljóta”, hefði verið greitt. Ákærði Georg kvaðst aðspurður um þetta atriði hvorki telja sig hafa tekið ákvörðun um né bera ábyrgð á að virðisaukaskattinum var ekki skilað. Aðspurðir við sama tækifæri sögðu ákærðu Einar og Árni að innheimtum virðisaukaskatti hefði ekki verið haldið aðgreindum frá rekstrarfé félagsins.

    Með bréfi dagsettu 28. maí 1996 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkis­skattstjóra eintak af skýrslu sinni, en rannsókn hafði lokið 22. s.m., vegna endur­ákvörðunarheimilda hans skv. nánar tilgreindum lagaheimildum. Með bréfi dagsettu 31. sama mánaðar tilkynnti ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hygðist ekki beita þeim endurákvörðunarheimildum sem í lagaheimildum hans fælust. Þann 4. júlí s.á. var fyrirsvarsmönnum félagsins, ákærðu í málinu, sent bréf þar sem þeim var tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku skattrannsóknarstjóra ríkisins um refsimeðferð málsins. Var þeim af því tilefni gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð og veittur 15 daga frestur í því skyni. Bréf til ákærðu Einars og Georgs voru endursend skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þann 14. ágúst s.á. barst embættinu hins vegar svar frá fyrirsvarsmönnum félagsins, undirritað af ákærðu Einari, Árna og Georg. Í bréfinu var óskað eftir að málinu yrði vísað til yfirskattanefndar. Jafnframt var tekið fram að félagið hefði greitt umtalsverðar fjárhæðir eftir að það hætti rekstri, í mörgum tilvikum fyrst til þeirra aðila sem mestan þrýsting hefðu sett á félagið, t.d. lífeyrissjóða. Þá tilgreindu þeir að unnið væri að yfirferð bókhalds félagsins og að félagið myndi greiða upp skuldir sínar á næstu sex mánuðum. Eftir skoðun á bréfi fyrirsvarmanna félagsins svo og málsatvikum í heild ákvað skattrannsóknarstjóri ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar. Sendi embættið málið til rann­sóknarlögreglu ríkisins með kærubréfi dagsettu 20. september 1996.

    Ákærði Guðjón Ingvi gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum Íslensks framtaks hf., dagsett 20. september 1996, var honum kynnt að meðal fylgiskjala skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár varðandi félagið. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar þess skráður inn- og útflutningur, matvælaframleiðsla, verslunarrekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að ákærði Guðjón Ingvi væri skráður meðstjórnandi í stjórn félagsins. Aðrir í stjórn væru skráðir ákærði Georg, ákærði Einar, sem væri skráður formaður stjórnar, og ákærði Árni sem væri skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt.  Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá félaginu á árinu 1994 kvað ákærði stjórnarmenn hafa gengið í öll störf. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn Íslensks framtaks hf. á árinu 1994. Ákærði kvað stjórnarmenn hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir í flestum málum, þ.m.t. fjármálum. Skráning Árna sem framkvæmdastjóra breytti ekki þessari sameiginlegu ábyrgð. Ákærði var spurður hver staða Íslensks framtaks hf. væri. Hann kvað félagið vera eignalaust og ekki í rekstri. Það hafi þó ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Unnið væri að því að gera upp þær skuldir sem skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins fjallaði um.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna júlí - ágúst 1994, skýrsla dagsett 21. nóvember 1994, undirritun Einar Kristjánsson og skýrsla dagsett 5. desember 1994 vegna september - október 1994, undirritun Einar Kristjánsson. Ákærði var spurður á hverju framangreindar skýrslur hafi byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Hann kvað skýrslurnar vera byggðar á bókhaldi félagsins og hafi þær verið gerðar á ábyrgð stjórnarinnar. 

    Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknarlögreglu ríkisins frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna mars til og með október 1994 og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur virðisaukaskatts vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglurann­sókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur Íslensks framtaks hf. hafi þann 16. apríl 1997 numið 790.289 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðis­aukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað fjárhagserfiðleika félagsins hafa valdið því að ekki var unnt að greiða umræddan virðisaukaskatt. Hann gæti ekki svarað því hvort um rétta fjárhæð væri að ræða, en kvaðst ekki rengja þau gögn sem fyrir lægju. Engin sérstök ákvörðun hefði verið tekin um að greiða ekki, heldur hafi ýmsir aðgangsharðari innheimtumenn fengið greitt og síðan hafi ekki verið fé til að standa skil á framangreindum gjöldum. Ákærði kvað stjórnarmenn félagsins alla ábyrga fyrir framangreindum málum. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðis­aukaskatti ársins 1994. Ákærði kvað allt fé sem inn kom hafa farið í rekstur félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hver staða hans hjá fyrirtækinu hafi verið á þeim tíma sem ákæra tekur til. Hann kvaðst hafa verið í stjórn þess, en ekkert umfram það. Aðspurður hvort hann hefði unnið hjá fyrirtækinu svaraði ákærði neitandi. Hann var spurður hver hafi verið daglegur stjórnandi félagsins. Ákærði kvaðst ekki hafa það á hreinu. Þá var hann spurður hvort hann vissi hverjir meðákærðra hefðu starfað hjá félaginu á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um það. Borið var undir ákærða ljósrit virðisaukaskattskýrslu vegna tímabilsins júlí-ágúst 1995 og jafnframt gerð grein fyrir að skýrslan væri með fyrirvara af hálfu tollstjóraembættisins um að skýrslan hefði verið lögð inn án greiðslu. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við þetta uppgjör, hvort honum hefði verið gerð grein fyrir því eða hvort einhvern tíma hefði verið rætt um það á stjórnarfundum. Ákærði kvað þetta uppgjör aldrei hafa verið rætt á stjórnarfundum svo hann vissi. Honum var kynnt ljósrit virðisaukaskattskýrslunnar vegna september-október 1995 og spurður sömu spurninga. Hann kvaðst ekki kannast við þá skýrslu. Hún hafi aldrei verið rædd í hans eyru hvað þá að gerð hafi verið grein fyrir henni á stjórnarfundum. Ákærða var bent á að ákærði Einar hefði undirritað báðar skýrslurnar.  Hann var spurður hvort hann kynni skýringu á því. Hann kvaðst enga skýringu hafa. Ákærði var þá inntur eftir hvort hann myndi til þess að staða ákærða Einars hefði verið einhver önnur en sú að vera stjórnarformaður félagsins. Hann kvaðst ekki muna það. Borin voru undir ákærða ljósrit tveggja skilagreina félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og í framhaldi af því var hann spurður hvort hann kannaðist við nafnritanir á þeim. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hver kynni að hafa undirritað þær. Borin var undir ákærða skýrslan sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins og hann spurður hvort hann kannaðist við nafnritun sína undir hana. Ákærði kvaðst gera það. Honum var bent á að í skýrslunni greindi hann frá því að hann hefði starfað hjá fyrirtækinu. Ákærði kvað þetta vera eins og hann hefði áður sagt. Yfirheyrandinn hefði sagt að það skipti engu máli hvað hann segði. Þetta væru sömu svör í öllum skýrslunum. Hann hefði einfaldlega “kóperað” þetta. Ákærða var bent á að svörin væru ekki alveg eins. Hann kvað þau vera mjög svipuð. Yfirheyrandinn hefði sagt að þetta skipti engu máli. Aðspurður hvort hann kannaðist við að hafa starfað hjá félaginu svaraði ákærði neitandi. Hann var spurður hver hefði verið daglegur stjórnandi þess. Ákærði kvaðst ekki hafa vitneskju um það. Aðspurður hvort það hefði ekki verið í samræmi við það sem tilkynning til hlutafélagaskrár bæri með sér kvaðst ákærði ekkert geta sagt um það. Hann gæti ekki svarað því hvort ákærði Árni hefði verið framkvæmdastjóri félagsins.

    Verjandi gerði ákærða grein fyrir að vanskilin sem tilgreind eru í ákæru næmu 790.289 krónum. Vanskilin væru þannig fundin að athuguð hefðu verið tímabilin júlí-ágúst og september-október 1994. Þá hefði komið í ljós að virðisaukaskattur sem greiða átti hafi numið rúmum 2.290.000 krónum. Síðan væru dregnar frá 1.500.000 krónur, sem sagt væri að greiddar hefðu verið fyrir 16. apríl 1997. Samkvæmt yfirliti frá tollstjóraembættinu sem tekið væri saman á dómskjali 69 kæmu fram mun hærri greiðslur en næmi fjárhæð í ákæru. Um væri að ræða greiðslur frá 5. júlí 1994 og fram undir miðjan nóvember s.á. Aðspurður hvort hann teldi að með þeim greiðslum sem tilgreindar væru á tilvitnuðu dómskjali hefði þessi skuld verið greidd að fullu kvaðst hann álíta að svo væri. Hann teldi samkvæmt sinni bestu vitneskju að félagið hafi hvorki skuldað virðisaukaskatt né aðra vörsluskatta.

    Ákærði Georg gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. febrúar 1996. Hann staðfesti skýrsluna og að rétt væri eftir honum haft. Ákærða var kynnt vottorð hlutafélagaskrár varðandi Íslenskt framtak hf. þar sem fram kemur að tilgangur rekstrar félagsins væri skráður inn- og útflutningur, matvælaframleiðsla, verslunarrekstur o.fl. Einnig kæmi þar fram að ákærði Georg væri skráður meðstjórnandi í stjórn félagsins, en aðrir í stjórn þess væru skráðir ákærði Guðjón Ingvi, ákærði Einar, sem væri skráður formaður stjórnar, og ákærði Árni sem væri skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt heimild hvað varðar starfsemi og stjórn félagsins. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá félaginu á árinu 1994 kvaðst ákærði hafa sinnt öllu sem til féll. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjár­málastjórn Íslensks framtaks hf. á árinu 1994. Ákærði kvaðst lítið hafa komið að daglegri fjármálastjórn þessa félags, en aðrir stjórnarmenn hefðu séð um þá þætti. Ákærði Árni sem framkvæmdastjóri hefði ekki öðrum fremur tekið ákvarðanir. Ákærði var spurður hver væri staða Íslensks framtaks hf. Hann kvað félagið vera hætt starfsemi og væru hluthafar að vinna að því að greiða framangreindar skuldir.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna júlí - ágúst 1994, skýrsla dagsett 21. nóvember 1994, undirritun Einar Kristjánsson og skýrsla dagsett 5. desember 1994 vegna september - október 1994, undirritun Einar Kristjánsson. Hann var spurður á hverju framangreindar skýrslur hafi byggst og hver hefði borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað skýrslur þessar hafa verið byggðar á bókhaldi félagsins og gerðar á ábyrgð stjórnar.

    Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknarlögreglu ríkisins frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna mars til og með október 1994 og greiðslustaða gagnvart inn­heimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur virðisaukaskatts vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglu­rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur Íslensks framtaks hf. hafi, þann 16. apríl 1997, numið 790.289 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðisaukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki rengja framangreindar niðurstöður, en tók fram að félagið hefði greitt verulegar álögur vegna fyrri gjalddaga og væru þær fjárhæðir hærri en sem næmi framangreindum eftirstöðvum virðisaukaskatts og einnig eftirstöðvum staðgreiðslu. Enn fremur hefði, vegna mistaka bókara félagsins, ekki verið gerð grein fyrir öllum innskatti sem félagið greiddi, en unnið væri að samantekt hans og óskað yrði leiðréttingar á þeim grundvelli. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1994. Ákærði kvaðst vísa til framangreindra svara sinna. Eigendur hefðu ekki tekið fé til eigin þarfa og opinber gjöld gengið fyrir.

    Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hver hafi verið staða hans hjá Íslensku framtaki hf. á þeim tíma sem um getur í ákæru og hvernig hann hafi komið að rekstri fyrirtækisins, en samkvæmt opinberri skráningu hafi hann verið skráður stjórnarmaður. Ákærði kvaðst hafa sinnt tilfallandi störfum. Allir stjórnarmenn hefðu komið að rekstri fyrirtækisins að einhverju leyti. Hann var spurður hvort þeir hafi skipt með sér verkum. Ákærði kvað ákveðinni verkaskiptingu hafa verið til að dreifa. Í hans hlut hefðu fallið mál tengd markaðssókn og starfsmannamálum og að útbúa auglýsingar.

    Borið var undir ákærða ljósrit virðisaukaskattskýrslu að fjárhæð 2.038.980 krónur vegna tímabilsins júlí-ágúst 1994 og útskýrt fyrir honum að að teknu tilliti til annarra greiðslna hefði vantað upp á þann virðisaukaskatt sem greiða átti 5. október 1994 538.980 krónur. Skýrslan hefði verið lögð inn 21. nóvember 1994 án þess að greiðsla fylgdi. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við skýrsluna og uppgjörið. Hann kvað ákærða Einar hafa undirritað skýrsluna og því gæti hann varla svarað fyrir hana. Hann var spurður á hvers hendi uppgjör virðisaukaskatts og fjármálastjórn hefði verið í þessu tilviki. Ákærði kvaðst telja að það hefði verið á ábyrgð og í umsjá ákærða Einars. Hann var spurður hvort ráðinn hefði verið framkvæmdastjóri að fyrirtækinu. Ákærði kvað ákærða Árna hafa verið framkvæmdastjóra. Aðspurður hvort skil eða uppgjör opinberra gjalda hefði verið á hans herðum fremur en annarra svaraði ákærði að þar sem ákærði Einar hefði verið mikið erlendis á þessum tíma hafi ákærði Árni vegna stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri séð um þau mál. Ákærða var sýnd skýrslan sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins og bent á að þar lýsti hann með sama hætti og fyrir dóminum að hann hefði lítið komið að rekstri fyrirtækisins. Í skýrslunni lýsti hann því að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að standa ekki skil á virðisaukaskatti. Þvert á móti hefði verið tekin ákvörðum um að standa alltaf skil á opinberum gjöldum. Ákærði kvaðst staðfesta þetta. Aðspurður hvort þetta hefði verið rætt sérstaklega á stjórnarfundum svaraði ákærði að hann gæti sagt að ef ekki hefði átt að skila, hefði það verið rætt. Hann var spurður hvort gerð hefði verið grein fyrir því á stjórnarfundum að reksturinn gengi illa og að upp væru að safnast skuldir. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir því, en hann myndi að ekki hefði verið skálað í kampavíni fyrir sterkri fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Fjárhagsstaðan hefði ekki verið ákjósanleg, en þolanleg. Aðspurður hvort hann hefði vitað hvar skóinn kreppti kvaðst ákærði hafa vitað að þeir voru ekki ánægðir með bókhaldsskráninguna. Það sem hann ætti m.a. við væri að bókhaldsskráningin hefði ekki verið nógu góð. Þeir hefðu reynt mikið til að fá hana betri. Hún hefði verið rétt, en e.t.v. ekki alltaf á tíma, en það hefði leiðrést síðar. Framkvæmdastjórinn hefði gert þeim grein fyrir að þessar upplýsingar kæmust til skila, en hann hefði mikið til séð um að ganga frá þeim málum. Aðspurður hvort hann myndi að tekið hefði verið til umræðu hver staðan var varðandi virðisaukaskattskuldir kvað ákærði sig ekki reka minni til þess. Aftur á móti myndi hann að þeir hefðu ekki verið fyllilega sáttir við að svo hafi litið út sem félagið skuldaði þrátt fyrir að búið væri að greiða. Hann var spurður hvort hann myndi í hverju það hefði legið að myndast hefði mismunur. Ákærði kvað mismuninn hafa legið í álögum sem voru til komnar vegna áætlana, dráttarvöxtum sem voru rangir, en síðan leiðréttir, matarskatti og endurgreiðslu hans, sem var að berast á tímabilinu of seint eða snemma. Áréttaði ákærði að þeir hefðu greitt virðisaukaskattinn að fullu. Borin var undir ákærða skýrsla vegna tryggingargjalds frá janúar 1994 og hann spurður hvort hann kannaðist við þetta uppgjör. Ákærði kvaðst kannast við nafnritun sína. Honum var bent á að þetta væri ekki í samræmi við stöðu hans hjá félaginu. Um væri að ræða uppgjör til yfirvalda vegna skatta og gjalda og hann hefði augljóslega komið þar að samkvæmt þessu. Ákærði kvaðst með nafnritun sinni á skýrsluna hafa verið að staðfesta að samkvæmt bókhaldinu bæri að skila þessu. Hann var spurður hvort hann hefði yfirfarið bókhaldið og ef svo væri með hvaða hætti hann hefði glöggvað sig á því. Ákærði svaraði að hann gerði ráð fyrir að það hafi verið rétt. Ákærða var þá bent á að skýrslunni hefði verið skilað, en tryggingagjaldinu ekki, sbr. áritunina “án greiðslu.” Hann var spurður hvort hann minntist þessa. Ákærði kvaðst gera ráð fyrir að hann hafi skilað skýrslunni inn og fengið stimpil. Hann var spurður hvort hann hefði fengið upplýsingar um að fé væri ekki til fyrir gjaldinu og hver hefði afhent honum skýrsluna. Ákærði kvaðst ekki muna það. Kvaðst hann ekki hafa komið að þessari skjalagerð í störfum sínum hjá félaginu. Hann hefði ekki fært þá tölu sem greiða átti inn á umrædda skýrslu. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við skilagrein tryggingagjalds vegna október 1994 og áritun á hana og hvort það væri með sama hætti og í janúar s.á. Ákærði svaraði að þar sem spurt væri til að upplýsa um stöðu hans hjá fyrirtækinu og hann væri búinn að svara því, þá neitaði hann að svara þessari spurningu. Ákærði var spurður hvort hann gæti útskýrt að hann hefði verið fenginn til að árita skýrsluna ef það var verkefni sem var ekki beinlínis á hans sviði. Ákærði kvað þetta væntanlega hafa verið þannig að stjórnarmenn hefðu undirritað skýrslurnar þegar til þeirra náðist og í þessum tilvikum hafi náðst til hans. Hann var spurður hvort hann teldi að það væri vegna þess að reglan hefði verið að stjórnarmenn undirrituðu skýrslurnar. Ákærði kvaðst telja að hann hefði verið nærtækastur í þessum tilvikum. Honum var bent á að tryggingagjaldsskýrslur vegna maí, júní og júlí s.á. væru áritaðar af Maríu Jónsdóttur f.h. félagsins og samkvæmt því hafi það augljóslega ekki í öllum tilvikum verið reglan að stjórnarmennirnir árituðu skýrslurnar. Ákærði taldi að í þeim tilvikum hefði væntanlega ekki náðst til þeirra.

    Ákærði Árni gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 1. apríl 1996. Ákærði staðfesti nafnritun sína og að rétt væri eftir honum haft. Ákærða var kynnt að við rannsókn lögreglu hefði komið í ljós að til staðar væri meint skuld vegna virðisaukaskatts félagsins. Honum var kynnt að meðal fylgiskjala væri vottorð hlutafélagaskrár varðandi Íslenskt framtak hf. Sam­kvæmt vottorðinu væri tilgangur félagsins skráður inn- og útflutningur, matvæla­framleiðsla, verslunarrekstur o.fl. Einnig kæmi þar fram að ákærði Árni væri skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins auk þess að vera meðstjórnandi. Aðrir í stjórn félagsins væru skráðir ákærðu Guðjón Ingvi, Georg og Einar, sem skráður væri formaður stjórnar. Honum var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og inntur eftir hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá Íslensku framtaki hf. á árinu 1994 kvaðst ákærði hafa verið framkvæmdastjóri, en rekstur félagsins hefði verið í mikilli samvinnu allra stjórnarmanna og allar stærri ákvarðanir í fjármálum teknar af stjórninni sem heild og öllum jafnt verið ljós staða fjármála hverju sinni. Ákærði var spurður hver væri staða félagsins. Hann kvað félagið ekki í rekstri, en eigendur ynnu að því að greiða niður skuldir. Þau opinberu gjöld sem hér um ræðir yrðu greidd svo fljótt sem unnt yrði.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna júlí - ágúst 1994, skýrsla dagsett 21. nóvember 1994, undirritun Einar Kristjánsson og skýrsla dagsett 5. desember 1994 vegna september - október 1994, undirritun Einar Kristjánsson. Hann var spurður á hverju framangreindar virðisaukaskattskýrslur hafi byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að gerð þessara skýrslna, en taldi að þær væru í fullu samræmi við bókhaldið og hafi þær verið gerðar á ábyrgð stjórnar.

    Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknarlögreglu ríkisins frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna mars til og með október 1994 og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur virðisaukaskatts vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglu­rann­sókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur Íslensks framtaks hf. hefði, þann 16. apríl 1997, numið 790.289 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðis­aukaskattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða fjárhæðir hér væri um að ræða og gæti því hvorki staðfest né rengt framangreindar niðurstöður. Hann kvað erfiðleika í rekstri félagsins hafa valdið því að ekki var greitt á tilskyldum tíma. Kvað hann aldrei hafa verið tekna ákvörðun um að greiða ekki, heldur hefði fjárskortur ráðið því að ekki var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1994. Ákærði kvað þessu fé ekki hafa verið haldið aðskildu frá öðru fé í rekstri og hafi því verið notað í þágu félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður um stöðu hans og annarra stjórn­armanna félagsins á því tímabili sem um getur í ákæru. Hann kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri félagsins og ákærði Einar hafi verið stjórnarformaður. Að­spurður hvort hann hefði verið eini daglegi stjórnandi félagsins kvaðst hann e.t.v. ekki alveg hafa verið sá eini. Aðspurður hver eða hverjir voru með honum kvað ákærði það hafa verið misjafnt á hverjum tíma. Hann myndi það ekki glöggt. Ákærði var spurður hvort hann hafi verið framkvæmdastjóri einn eða hvort fleiri hefðu haft hönd í bagga með honum. Hann kvaðst einn hafa verið skráður framkvæmdastjóri. Hann var spurður hver hafi verið daglegur stjórnandi, hvort það hafi alltaf verið hann. Ákærði kvaðst ekki muna það. Aðspurður hver eða hverjir hafi sinnt daglegri stjórnun ef hann var erlendis, hvort það hafi verið aðrir stjórnarmenn eða einhverjir aðrir, kvað ákærði fjölda fólks hafa verið að vinna þarna. Hann teldi þó líklegt að hann hafi verið á landinu. Borið var undir ákærða ljósrit virðisaukaskattskýrslu vegna júlí - ágúst 1994 og honum bent á að ákærði Einar hefði undirritað hana. Ákærði var spurður hvert hafi verið starfssvið ákærða Einars hjá félaginu. Hann kvað það hafa verið mjög mis­munandi. Aðspurður að hvaða málum hann hefði komið kvað ákærði hann hafa komið að ýmsum málum. Hann var spurður hvernig málum hafi verið háttað ef hann sinnti ekki daglegri stjórn, hvort ákærði Einar hefði getað gert það ef því var að skipta. Hann kvað það geta verið. Hann var spurður hvort verkaskipting hefði verið milli þeirra Einars eða hvort annar hafi hlaupið í skarðið fyrir hinn. Ákærði kvað ákærða Einar eflaust hafa verið beðinn að undirrita skýrsluna af bókaranum. Honum var gerð grein fyrir að ákærði Einar undirritaði einnig virðisaukaskattskýrsluna vegna september-október 1994. Á báðum skýrslunum væri fyrirvari tollstjóraembættisins þess efnis að þær væru lagðar inn án greiðslu, þ.e. án þess að virðisaukaskattur hafi verið greiddur. Aðspurður hvort hann myndi eftir þessum skýrslum kvaðst hann ekki muna glöggt eftir þeim. Hann var spurður, í ljósi þess að hann hefði verið við stjórnvölinn, hvort hann hefði ekki fengið vitneskju um að tollstjóraembættið teldi að skilin væru án greiðslu. Ákærði kvað skýrsluna hafa verið lagða inn hvort sem greitt hafi verið fyrir fram eða daginn eftir. Um það hefði hann ekki vitneskju, en áritunin væri engin sönnun þess að ekki hefði verið greitt. Aðspurður hvort komið hafi til umræðu þeirra í milli um þessi viðbrögð innheimtumanns kvað ákærði sig með engu móti geta munað hvort það hafi komið til umræðu hvernig skýrslurnar voru stimplaðar hjá tollstjóraembættinu. Ákærði var spurður hvort fjármálastjórn og fjármálalegar ákvarðanir fyrirtækisins hefðu verið á hans hendi á þessum tíma, þar á meðal í sambandi við skil á opinberum gjöldum. Hann kvað svo vera. Aðspurður hvort hér hafi ekki verið um upplýsingar að ræða sem hefðu átt að liggja fyrir hjá honum eða berast honum sem framkvæmdastjóra. Ákærði kvaðst verða að endurtaka að þetta hafi verið greitt. Honum var gerð grein fyrir að spurningin snerist um að toll­stjóra­embættið hefði gefið upplýsingar um að skýrslan væri móttekin og talið að greiðsla fylgdi ekki. Ákærði kvað þessar skýrslur afhentar gjaldkera í gjaldkerastúku og gjald­kera væri sagt að einungis skýrslan væri lögð inn. Ef tékki fylgdi ekki með stimplaði gjaldkerinn skýrsluna með þessum hætti, hvort sem greiðslan væri komin eða ekki.  Það sem hann ætti við væri að sennilegast væri að þessar skýrslur hefðu verið afhentar án þess að greiðsla fylgdi. Ákærði var spurður hvort hann minntist þess að þessi skuld eða staða hjá innheimtumanni hefði verið tekin til umræðu við hann, t.d. af ákærða Einari eða einhverjum öðrum. Hann kvað svo ekki vera og væri það sennilega vegna þess að þetta hefði verið greitt. Ákærða var bent á að spurningin snerist um þá stöðu að innheimtumaður ríkissjóðs teldi að þetta hefði ekki verið greitt. Svar ákærða var að á þessum tíma hefði viðkomandi gjaldkeri sennilega stimplað skýrsluna svona og þeir ekki talið það neitt tiltökumál. Aðspurður hvort þetta væri ágiskun hjá honum svaraði ákærði að hann myndi ekki hvort hann hefði fengið þetta afrit í hendur. Honum væri ógjörningur að muna það. Ákærða var bent á að verið væri að fjalla um vaxandi skuld við innheimtumann samkvæmt bókum hans sem hlypi á háum fjárhæðum. Ákærði kvaðst geta bent á samkvæmt gögnum máls að á þessu tímabili hefði endurgreiðsla vegna matarskatts numið 1.266.578 krónum. Aðspurður hvort hann hefði haft þessar upplýsingar á þeim tíma kvaðst ákærði hafa haft þær eða reikna með því, en hann myndi ekki þessa tölu. Hann var spurður hvort hann myndi til að hafa haft upplýsingarnar um matarskattinn og endurgreiðslu hans. Hann kvað endurgreiðslu matarskatts alltaf hafa verið að koma. Hann var spurður hvort hann myndi vel að þannig hafi verið á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki muna það, en hann sæi þessa tölu nú í málsgögnum. Hann myndi ekki hvort það hafi verið nákvæmlega þessi tala.

    Verjandinn spurði ákærða hvort það hefði ætíð verið svo, við hvert virðisaukaskattsuppgjör, að til hafi átt að koma endurgreiðsla matarskatts. Hann kvað svo hafa verið. Ætíð hafi verið einhver inneign sem átt hafi að koma á móti skuld. Aðspurður um stöðu ákærðu Georgs og Guðjóns Ingva í daglegri stjórn og starfsemi félagsins kvaðst ákærði ekki muna hana glöggt. Borin var undir ákærða skýrsla hans við lögreglurannsókn málsins. Hann kvaðst staðfesta nafnritun sína.  Honum var bent á að þar lýsti hann því að það hefði verið samvinna allra stjórnarmanna um allar stærri ákvarðanir varðandi fjármál félagsins. Ákærði kvað það rétt, en tók fram að ekki hefðu allir stjórnarmenn komið að undirritum allra virðisaukaskattskýrslna. Verjandinn benti ákærða á að á dómskjali 69 sæist að skuld vegna virðisaukaskatts næmi 790.000 krónum, sem væri í samræmi við ákæruliðinn. Síðan væru innborganir sem teknar væru upp úr skjölum sem ákæruvaldið hefði lagt fram. Aðspurður hvort hann hefði einhvern tíma talið að það væri skuld á höfuðstól virðisaukaskatts svaraði ákærði að það hefði hann alls ekki gert. Ætíð hafi verið staðin skil á greiðslum. Aðspurður hvað hann teldi meiri háttar ákvarðanir í rekstri slíks félags, miðað við að hann hefði sagt að stjórnarmenn hefðu komið að öllum meiri háttar ákvörðunum, kvað hann það m.a. vera að ákveða hvort þeir ættu yfir höfuð að byrja, hvaða húsnæði skyldi valið, hvaða tæki skyldi kaupa og fleira í þeim dúr. Aðspurður hvaða máli gegndi um skil á lífeyrissjóðsiðgjöldum, virðisaukaskatti og staðgreiðslu kvað hann þau málefni alfarið hafa verið á hendi bókara og framkvæmdastjóra. Aðspurður hvort það væri rétt skilið að það hefði verið ákvörðun hans eins að standa skil á virðisaukaskattinum eða standa ekki skil á honum. Hann hefði sagt áður að það hefði verið á hendi framkvæmdastjórans, en tækjakaup og annað þess háttar hefði verið á hendi stjórnar félagsins. Ákærði kvaðst eiga við tæki sem kostuðu milljónir. Það að standa skil á virðisaukaskatti og að láta enda ná saman hefði verið verkefni framkvæmdastjóra. Aðspurður hvort það hefði verið á hendi hans eins kvaðst hann e.t.v. ekki hafa haft einn með það að gera. Aðspurður hvort stjórnin hafi falið honum að sjá til þess að þau mál væru í lagi kvaðst hann ekki minnast fundargerðar af því tagi. Er hann var spurður hvort hann hefði tekið hlutverki sínu þannig að það hafi verið í hans verkahring, en ekki annarra, að sjá til þess að umrædd mál væru í lagi kvað hann það ekki hafa verið eingöngu þannig. Er ákærði var spurður hvort það hafi verið stjórnarmennirnir sem áttu að styðja hann í því að taka viðeigandi ákvarðanir eftir því sem reksturinn gaf tilefni til, t.d. ef virðisaukaskattskuldir voru að safnast upp eða ef ekki var hægt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, kvað hann fleiri hafa komið að stjórn félagsins, bæði stjórnarmenn og starfsmenn.

    Ákærði Einar gaf skýrslu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 15. ágúst 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var honum kynnt fram­burðar­skýrslan sem hann gaf hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 19. febrúar 1996. Hann kvaðst staðfesta undirritun sína og að rétt væri eftir honum haft. Ákærða var kynnt að meðal fylgiskjala væri vottorð hlutafélagaskrár varðandi Íslenskt framtak hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur félagsins skráður inn- og útflutningur, mat­væla­framleiðsla, verslunarrekstur o.fl. Einnig kæmi þar fram að ákærði væri skráður stjórn­arformaður félagsins. Aðrir í stjórn félagsins væru skráðir ákærðu Guðjón Ingvi, Georg og Árni, sem skráður væri framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Honum var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og inntur eftir hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti framangreint vottorð sem rétta heimild. Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá Íslensku framtaki hf. á árinu 1994 kvaðst ákærði hafa tekið þátt í daglegum rekstri ásamt öðrum stjórnarmönnum. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn félagsins á árinu 1994. Hann kvað stjórnarmenn hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir um daglega fjármálastjórn.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna júlí - ágúst 1994, skýrsla dagsett 21. nóvember 1994, undirritun Einar Kristjánsson og skýrsla dagsett 5. desember 1994 vegna september - október 1994, undirritun Einar Kristjánsson. Hann var spurður á hverju framan­greindar virðisaukaskattskýrslur hafi byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði staðfesti eigin undirritun. Hann kvað allar skýrslurnar hafa byggst á bókhaldi félagsins og vera á ábyrgð stjórnar þess.

    Þá var ákærða kynnt yfirlit frá rannsóknarlögreglu ríkisins frá 16. apríl 1997 yfir innheimtan skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna mars til og með október 1994 og greiðslustaða gagnvart inn­heimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið væri byggt á framangreindum virðisaukaskattskýrslum félagsins og útskrift tollstjórans í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslur virðisaukaskatts vegna hvers greiðslutímabils. Í lögreglu­rann­sókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með tilvísun í framanrakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldinn skilaskyldur virðisaukaskattur Íslensks framtaks hf. hafi, þann 16. apríl 1997, numið 790.289 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna virðisauka­skattur samkvæmt framangreindu hefði ekki verið greiddur til innheimtumanns ríkis­sjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað slæma fjárhagsstöðu félagsins hafa valdið því að ekki var greitt og hafi það verið á ábyrgð stjórnar að ekki var greitt.

    Ákærði kvaðst ekki vita hvaða fjárhæðir hér væri um að ræða og gæti því hvorki staðfest né rengt framangreindar niðurstöður. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af skilaskyldum virðisaukaskatti ársins 1994. Ákærði kvað allt fé sem inn hafi komið hafa farið í rekstur félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins staðfesti ákærði að hann hefði verið stjórnarformaður Íslensks framtaks hf. Honum var sýnt ljósrit virðisaukaskattskýrslu sem skilað var 21. nóvember 1994 og á er stimplað “án greiðslu.” Ákærði staðfesti nafnritun sína undir skýrsluna. Aðspurður hver hefðu verið störf hans í þágu félagsins á þeim tíma sem um ræðir kvaðst ákærði, auk þess að vera stjórnarformaður, stundum hafa verið í sambandi við bókarann varðandi útreikninga. Ráðinn hefði verið framkvæmdastjóri að félaginu og kvaðst ákærði hvorki hafa séð um starfsmannahald né önnur dagleg mál. Hann var spurður hvort hann vildi tjá sig um hvers vegna skýrslunni var ekki skilað fyrr en framangreindan dag þótt átt hefði að skila henni 5. s.m. og að hún bæri með sér að henni hefði verið skilað án greiðslu.  Ákærði benti á að daginn sem skila átti skýrslunni hefði áður verið komin fram endurgreiðsla að fjárhæð 1.266.578 krónur. Benti hann á að áður en gjalddaginn rann upp og á þeim degi hefði fé verið skilað og endurgreiðsla borist fyrir hærri fjárhæð en nam upphæð umræddrar skýrslu. Ákærða var bent á að þá hefði félagið skuldað virðisaukaskatt sem sú fjárhæð hafi verið tekin upp í. Ákærði kvað félagið hafa skuldað tryggingagjöld, þungaskatt, álög og dráttarvexti. Það hafi ekki skuldað höfuðstól virðisaukaskatts. Honum var bent á að félagið hefði verið í skuld hvað varðar virðisaukaskatt. Áréttaði ákærði að til staðar hefði verið skuld hvað varðar álög, dráttarvexti og önnur opinber gjöld, sem endurgreiðslunni hefði verið ráðstafað upp í. Greiðsla hafi átt sér stað á réttum tíma, einkum þegar þess væri gætt að tollstjóraembættið hefði séð um hana. Ákærði var spurður hvort hann gæti bent á þessa greiðslu. Hann benti á að þessar greiðslur kæmu fram í þeim skjölum sem ákæruvaldið hefði aflað hjá embætti tollstjóra og lagt fram og vörðuðu júlí og ágúst 1994. Þar kæmu fram 1.266.578 krónur og um væri að ræða endurgreiðslu á virðisaukaskatti til veitingahúsa sem hefði verið ráðstafað inn á tímabilið 94.16, þ.e. mars-apríl 1994. Væri það ástæða þess að rannsóknari hefði ekki komið auga á endurgreiðsluna, sem væri tæpri hálfri milljón króna hærri en sú fjárhæð sem ákært væri fyrir að ekki hefðu verið staðin skil á. Honum var bent á að samkvæmt virðisaukaskattskýrslunni hefði átt að standa skil á 2.038.980 krónum. Ákærði svaraði því til að ákæruvaldið tæki tillit til greiðslna að fjárhæð 1.500.000 krónur sem ekki væri ákært fyrir. Honum var bent á að það væri m.a. þessi greiðsla og fleiri. Ákærði kvað það ekki vera rétt. Sú greiðsla væri sérstaklega tiltekin skv. rannsókn Birgis Sigmundssonar og það væri ekki þessi greiðsla. Þar væri ekki tekið tillit til greiðslunnar að fjárhæð 1.266.000 krónur. Ákært væri fyrir að standa ekki skil á 790.000 krónum, en skilað hefði verið 1.266.000 krónum á réttum degi sem rannsóknari og ákæruvald hefðu ekki komið auga á. Ef bakgögn málsins væru skoðuð væri ljóst að 1.266.000 krónurnar væru ekki hluti af 1.500.000 krónunum sem tekið væri tillit til. Hann teldi því að 1.266.578 króna greiðslan væri lögmæt greiðsla virðisaukaskatts sem til hefði fallið á greiðslutímabilinu júlí - ágúst 1994. Honum var bent á að greiðslu þessari hefði verið skuldajafnað inn á tímabilið 94.16 eins og sæist á dómskjalinu. Ákærði kvað þetta vera álög og dráttarvexti. Honum var bent á að þetta væri virðisaukaskattskuldin eins og hún væri, hvernig svo sem hún væri upp byggð. Ákærði kvaðst hafa fleiri skýringar varðandi þennan ákærulið. Á tímabili 94.16 kæmi fram greiðsla sem átt hefði sér stað 20. október 1994 að fjárhæð 2.103.557 krónur. Ákærða var bent á að þessari greiðslu hefði verið skuldajafnað inn á tímabilið 32.93. Þá benti ákærði á að 5. ágúst s.á. hefði átt sér stað greiðsla að fjárhæð 2.178.108 krónur sem farið hefði inn á tímabil 24.94. Ákærði var spurður hvort hann teldi að sú innborgun sem þar væri sýnd hefði verið lögmæt greiðsla virðisaukaskatts vegna virðisaukaskatts­tímabilsins júlí-ágúst 1994. Ákærði kvað svo vera. Þann 8. ágúst s.á. hefði átt sér stað innborgun að fjárhæð 904.672 krónur. Þá benti hann á leiðréttingu dagsetta 4. nóvember s.á. að fjárhæð 49.588 krónur sem væri neikvæð álagning vegna tímabils 93.08 og væri einhvers konar leiðrétting sem hann vissi ekki glöggt hvernig væri til komin. Vegna tímabilsins 93.16 væri endurgreiðsla frá 4. nóvember s.á. að fjárhæð 16.834 krónur. Sama dag væri innborgun að fjárhæð 657.323 krónur á tímabil 93.40. Enn kæmi sama dag endurgreiðsla að fjárhæð 263.192 krónur inn á tímabil 93.48. Kvað ákærði ljóst að áætlanir hefðu verið til staðar sem hefðu verið leiðréttar miklu seinna og vegna þeirra hefði verið tilkomin skuld sem féð hefði farið til greiðslu á. Í gögnunum sæist að þessar leiðréttingar kæmu allar fram. Ef teknar væru allar greiðslur á tímabilinu frá júlí til loka árs 1994, hefðu verið greiddar vegna júlí - ágúst 3.549.632 krónur og í október - nóvember kæmu fram greiðslur að fjárhæð 4.667.000 krónur. Samtals hefðu verið greiddar á þessu tímabili rúmar átta milljónir króna, en rannsóknari aðeins komið auga á greiðslur að upphæð 1.500.000 krónur. Sú greiðsla hefði átt sér stað 2. maí 1995 og kæmi fram undir tímabilinu 94.32. Ástæða þess að rannsóknari hefði komið auga á þessa innborgun væri að hún kæmi inn á tímabil 94.32, sem væri tímabil sem til rannsóknar hefði verið. Rannsóknari hefði einskorðað rannsóknina við ákveðna útprentun vegna þess tímabils, en ekki við greiðslur sem átt höfðu sér stað. Þarna væri tekið tillit til 1.500.000 króna greiðslunnar sem ákæruvald hefði haldið að 1.266.000 þúsund krónurnar væru innifaldar í, en væru það augljóslega ekki. Athygli ákærða var vakin á að þetta væru að meira eða minna leyti greiðslur sem hefðu komið fyrir skilin á skýrslunni. Ákærði benti á að hann hefði fyrr nefnt fjölda greiðslna í október 1994.

    Ákærði kannaðist við að hafa undirritað virðisaukaskattsskýrsluna vegna tíma­bilsins september-október 1994 f.h. félagsins. Skýrslunni hefði verið skilað á réttum eindaga og bersýnilega hafi verið búið að greiða upphæðina. Ákærða var bent á að samkvæmt áritun á skýrsluna hefði henni verið skilað inn án greiðslu. Hann kvað það rétt, en áréttaði að búið hafi verið að greiða miklu hærri fjárhæðir áður. Ef farið væri yfir skýrsluna kæmi í ljós að útskattur væri 298.913 krónur, en neikvæður innskattur 47.604 krónur. Þarna væri um einhvers konar leiðréttingu að ræða þannig að til greiðslu væru 346.517 krónur. Rannsóknaraðilar hefðu dregið 47.000 króna greiðsluna frá og þannig fengist talan 251.309 krónur sem væri vitaskuld röng. Ákærði kvaðst vísa til dómskjals 69 og benti á að þar væru allar þessar greiðslur teknar saman á einfaldan máta. Það sem hann hefði skýrt frá varðandi þessar greiðslur kæmi þar allt fram. Ákærða var bent á að á dómskjali 34 kæmu fram endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts veitingahúsa. Þar hefði þessum endurgreiðslum verið ráðstafað með því að skuldajafna þeim inn á tímabil 94.02 og þær gengið til greiðslu tryggingagjalds, þungaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík. Aðspurður hvort það hafi verið gert samkvæmt óskum hans kvað hann svo ekki vera.

    Ragnar Björnsson viðskiptafræðingur kom fyrir dóminn. Vitnið var spurður um afmörkun skattrannsóknarinnar varðandi Íslenskt framtak hf., hvort sömu svör væru varðandi rannsóknaraðferðir, þ.e. hvort eingöngu hefðu verið tekin tímabilin mars - apríl 1994 og júlí til og með október s.á. og athugaðar þær innborganir sem tollstjóra­embættið færði inn á þau tímabil, en ekki hafi verið um sjálfstæða rannsókn að ræða að öðru leyti. Hann kvað það vitaskuld hafa verið rannsókn að afla þessara gagna, skoða þau og meta. Aðspurður um aðgang embættis skattrannsóknarstjóra að gögnum skattkerfisins kvað hann aðgang vera að virðisaukaskattskerfinu þar sem fram kæmu þær fjárhæðir á skýrslum sem skilað hefði verið. Þá væri einhver aðgangur að innheimtukerfinu, en þó takmarkaður. Aðspurður hvort öll álagning væri sýnileg í tölvum, þ.e. með dagsetningum og fjárhæðum kvað vitnið svo vera. Allar hreyfingar og aðgerðir, hvort sem væri endurgreiðsla eða álagning, væru inni í tölvukerfinu og hægt að sjá þær. Aðspurður hvort embætti skattrannsóknarstjóra hefði haft slíkan aðgang við skattrannsóknina kvað hann svo vera. Hins vegar hefði sú vinnuregla verið viðhöfð að afla upplýsinga, staðfestra upplýsinga, frá innheimtumanni til við­bótar þessum gögnum varðandi það sem ekki var greitt. Það hefði þótt eðlileg vinnuregla að afla upplýsinga frá þeim aðila sem hefði þetta með hendi. Aðspurður hvort embætti skattrannsóknarstjóra hafi haft fullan aðgang að tölvukerfi skattsins hvað varðar virðisaukaskatt í samræmi við skýrslu og í samræmi við endurskoðun sem færi fram í skattkerfinu kvað vitnið það vera rétt skilið og það hafi verið notað við rannsókn málsins og kæmi til viðbótar þeim gögnum sem hann hefði áður nefnt að fengin voru staðfest frá innheimtumanni. Hann var þá spurður hvort þar með hafi verið búið að ná utan um heild þessa skattaðila. Vitnið kvaðst telja að svo væri. Aðspurður hvort einhver gögn lægju annars staðar kvað vitnið svo ekki vera. Verjandinn kynnti vitninu að í skýrslu skattrannsóknarstjóra væri að því vikið að Íslenskt framtak hf. hefði ekkert greitt inn á opinberar skuldir sínar til innheimtu­manna ríkissjóðs meðan á rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins stóð. Síðast hefði verið greitt inn á virðisaukaskattskuld félagsins 19. júlí 1994. Vitninu var bent á að fyrir lægi dómskjali 34 sem saksóknari hefði lagt fram og síðan væri samantekt af því skjali á dómskjali 69 sem sýndi að greiddar hefðu verið inn á virðisaukaskattskuldir félagsins 300.000 krónur þann 19. júlí 1994, 2.178.108 krónur þann 5. ágúst s.á. og 8. ágúst s.á. 904.672 krónur. Frá 5. október til 8. nóvember s.á. hefðu verið greiddar 4.667.835 krónur, þ. á m. hefðu verið endurgreiddar vegna matarskatts 1.266.578 krónur. Í ljósi þessara upplýsinga var vitnið spurður hvernig á því stæði að í skýrslu embættis skattrannsóknarstjóra segði að ekkert hefði verið greitt inn á skuldir skattaðilans eftir 19. júlí 1994. Vitnið svaraði að til þess að geta tjáð sig um þetta þyrfti hann að kynna sér þessi gögn. Eins og hann hefði sagt væri rannsóknin byggð á upplýsingum frá tollstjóraembættinu og frumgögnum virðisaukaskatts og staðgreiðslu. Vitninu var bent á að það sem fram kæmi á dómskjali 34 væri unnið upp úr gögnum frá tollstjóranum í Reykjavík. Þar hafi verið um að ræða ráðstöfun m.a. inn á viðurlög og dráttarvexti af eldri gjalddögum. Höfuðstóllinn væri því óskertur. Vitnið svaraði að væntanlega væri við það átt í skýrslunni að ekki hafi verið greitt inn á höfuðstól skuldarinnar. Honum var bent á að í skýrslunni segði að skattaðili hefði ekkert greitt inn á opinberar skuldir sínar til innheimtumanna ríkissjóðs meðan á rannsókn stóð. Vitnið kvaðst ætla að átt væri við að ekkert hefði verið greitt inn á höfuðstól skuldarans. Er hann var spurður hvort hann teldi ekki að ástæða hefði verið til við rannsóknina að setja upp töflu yfir álagðan skatt fyrir hvert tímabil og hvernig greiðslur bárust og á hvaða tíma svaraði hann að eins og þetta var unnið hafi eingöngu verið rannsakað hvort um var að ræða vangreiddan höfuðstól virðisaukaskatts. Aðspurður hvort hann teldi að embætti skattrannsóknarstjóra hefði verið að rannsaka skuldamál þegar það var í raun verið að rannsaka sakamál svaraði vitnið að í upphafi væri e.t.v. ekki hægt að tala um skuld því þetta væri vörslufé sem viðkomandi ætti ekki. Vitnið kvað rannsóknina hafa snúist um að vörslufé var ekki skilað og þá væri unnið með höfuðstól virðisaukaskatts. Aðspurður hvort honum hefði þá ekki fundist eðlilegt, þegar gerð væru skil, að peningarnir væru fyrst teknir upp í vörslufé og síðan álög og dráttarvexti. Vitnið kvað ákveðnar reglur gilda í þessum efnum hjá innheimtumanni. Hann ráðstafaði þessu með ákveðnum hætti.

    María Jónsdóttir kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst einungis hafa starfað hjá Íslensku framtaki hf. að Nethyl 2. Hún hafi unnið um skamman tíma hjá félaginu sem launþegi og pappírarnir sem þar voru hafi einungis snúið að því fyrirtæki. Hún var spurð hvaða störfum hún hafi sinnt. Vitnið kvaðst ekki muna það glöggt, en nefndi að hún hefði tekið upp póstinn og flokkað skjöl sem bárust. Þá hafi hún hjálpað til við daglegan rekstur. Kvaðst hún eiginlega hafa ráðið sig til þess verkefnis að “fæla” skuldabréf og gera skýrslur um hvenær gjalddagar þeirra væru. Aðspurð hvort hún hafi sinnt einhverjum störfum fyrir önnur fyrirtæki en Íslenskt framtak hf. kvaðst hún ekki geta svarað því. Er hún var spurð hverjir hafi verið stjórnendur þeirra fyrirtækja sem í ákæru greinir kvað hún ákærðu vitaskuld hafa verið með þau. Um verksvið þeirra eða verkaskiptingu vissi hún ekki. Hvað varðar störf hennar hjá Íslensku framtaki hf. hafi hún rætt mikið við ákærða Árna, en þó haft mjög frjálsar hendur. Er hún var spurð hver eða hverjir hefðu tekið ákvarðanir kvað hún ákærðu hafa tekið þær. Þeir hefðu greitt reikninga og séð um tékkareikninginn. Vitninu var bent á að samkvæmt gögnum málsins hefði hún undirritað skýrslur sem lagðar voru inn og við móttöku stimplaðar “án greiðslu.” Gaf vitnið þá skýringu að trúlega hafi verið um leiðréttingarskýrslur að ræða. Búið hafi verið að áætla gjöld og einnig búið að greiða. Kvaðst hún muna að hún hefði staðið í stappi við að fá fram leiðréttingar. Vitninu var bent á að miðað við framangreinda áritun hefði greiðsla ekki fylgt. Hún kvað sig minna að hún hafi einnig farið með greiðslur. Henni var bent á að aðeins væri átt við þau tilvik þar sem ekki var um greiðslu að ræða. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hún hafi starfað einn, tvo eða þrjá mánuði hjá fyrirtækinu, en þá mánuði hefði hún alfarið séð um skýrslugerð, farið sjálf með tékkana og greitt að hana minnti, en hún hafi sent inn leiðréttingarskýrslur. Vitnið var spurð hvort hún hafi ekki rætt þetta við ákærðu. Hún kvaðst hafa fengið í hendur hreyfingalista þar sem fram hafi komið upplýsingar um hvað búið var að áætla og til að geta lagfært þurfi að koma með nýja skýrslu.

                Þórarinn Þórarinsson kom fyrir dóminn. Vitnið staðfesti að hann hafi starfað sem verktaki við bókhald hjá Íslensku framtaki hf. Aðspurður hverjir hafi verið forsvarsmenn og tekið ákvarðanir í því fyrirtæki kvaðst hann vísa til svara sinna varðandi K-67 hf. Vitninu var bent á að hann hefði verið spurður um þetta atriði í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Er hann var spurður hvort hann vissi hver hafi tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á að innheimtum virðisaukaskatti félagsins var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs kvað hann hið sama eiga við og áður, þ.e. að það hafi verið ákærðu sem voru daglegir stjórnendur og borið ábyrgð á fyrirtækinu og þeir hafi verið sagðir eigendur að því.

Vitninu var bent á að í framangreindri skýrslutöku hefði hann svarað því til að það hafi verið forráðamenn fyrirtækisins og jafnframt talið að forráðamenn þess hefðu verið allir ákærðu í máli þessu. Hann kvað það vera rétt. Vitninu var gerð grein fyrir að ákærðu væri gefið að sök að hafa ekki gert skil á réttum tíma á innheimtum virðisaukaskatti fyrir júlí - ágúst og september - október 1994, að fjárhæð 790.000 krónur. Er hann var spurður hver hann héldi að hefði tekið ákvörðun um að skila ekki réttum virðisaukaskatti kvaðst vitnið ekki með nokkru móti geta svarað því. Vitninu var bent á að hann hefði útbúið skýrslur. Hann kvaðst hafa útbúið skýrslur á grundvelli bókhaldsins. Aðspurður hvort hann hafi ekki jafnframt annast um að greiðsla færi fram svaraði hann neitandi. Hann hafi ekki haft peningamál á sinni könnu. Aðspurður hver hafi átt að annast um þau kvað vitnið það væntanlega hafa verið einhvern af eigendunum, en hver þeirra það var í þessu tilviki vissi hann ekki. Borin var undir vitnið skýrslan sem hann gaf hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins varð­andi málefni Íslensks framtaks hf. Hann kvaðst staðfesta áritun sína á skýrsluna. Aðspurður hvort hann teldi að rétt væri eftir honum haft í skýrslunni kvað hann svo vera.

II.

A

    Þann 30. janúar 1996 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á málefnum P-67 hf., m.a. staðgreiðsluskilum. Rekstur félagsins á þeim tíma sem rannsóknin tók til var fólgin í stjórnun vörumerkisins “Pizza 67” og innheimtu leigutekna vegna þess. P-67 hf., nú Epsilon ehf., var stofnað 29. desember 1993. Stofnendur félagsins voru ákærðu og skiptist hlutafé þannig að ákærðu Georg og Guðjón Ingvi áttu 180.000 króna hlut hvor og ákærðu Einar og Árni 20.000 króna hlut hvor. Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var tilgangur félagsins matvælavinnsla, veitingarekstur, lánastarfsemi, smásala og heildsala, eign og rekstur fasteigna, skipa og bifreiða, kaup og sala hlutabréfa og verðbréfa og þátttaka í öðrum félögum. Sem fyrr segir var aðalstarfsemi félagsins fólgin í stjórnun vörumerkisins “Pizza 67” og innheimtu leigutekna vegna þess, sbr. svar ákærða Georgs í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var ákærði Georg stjórnarformaður félagsins, en aðrir ákærðu meðstjórnendur. Samkvæmt upplýsingum ákærða Georgs í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sá hann um daglegan rekstur og fjármál félagsins. Ákærði Einar staðhæfði einnig að svo hefði verið í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Kvaðst hann ekki hafa komið nærri daglegum rekstri félagsins.

    Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins afmarkaðist við vanskil félagsins á virðisaukaskatti, staðgreiðslu og tryggingagjaldi vegna rekstraráranna 1994 og 1995. Tók rannsóknin m.a. til vanskila félagsins á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launagreiðslum launamanna félagsins vegna launatímabilanna október - desember 1994 og janúar - september 1995, sem ekki hafði verið staðið skil á til innheimtumanns staðgreiðslu.

    Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi rannsóknin í ljós vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á staðgreiðsluskilum félagsins rekstrartímabilið október - desember 1994 og janúar - september 1995, fólst í því að sannreyna staðgreiðsluskil félagsins, þ.e. að hve miklu leyti sú staðgreiðsla sem félaginu bar að standa skil á í ríkissjóð vegna afdreginnar staðgreiðslu af launum launamanna félagsins umrætt tímabil, væri í vanskilum. Byggði rannsóknin á innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins vegna tímabilsins október 1994 til og með september 1995, svo og á yfirlýsingu Gjaldheimtunnar í Reykjavík um skuldastöðu félagsins. Fólst rannsóknin annars vegar í samanburði á fjárhæð afdreginnar staðgreiðslu af launum launamanna félagsins samkvæmt inn­sendum staðgreiðsluskilagreinum þess, og hins vegar greiðslum félagsins til inn­heimtu­manns staðgreiðslu, Gjaldheimtunnar í Reykjavík. Leiddi rannsóknin í ljós að vangoldin var skilaskyld afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna félagsins sem haldið hafði verið eftir af launagreiðslum til launamanna félagsins á tímabilinu október 1994 til og með september 1995. Var höfuðstóll vangoldinnar skilaskyldrar afdreginnar staðgreiðslu launamanna félagsins þann 12. janúar 1996, samtals að höfuðstól 675.092 krónur, auk álags og dráttarvaxta. Einnig kom í ljós við skoðun á innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins að þeim var öllum, að þremur undan­skildum, skilað of seint til innheimtumanns, sbr. 20. gr. laga nr. 45/1987 um stað­greiðslu opinberra gjalda, og öllum án greiðslu.

    Samkvæmt upplýsingum ákærðu Einars og Georgs í skýrslutökum hjá skatt­rann­sóknarstjóra ríkisins var gerð staðgreiðsluskilagreina félagsins byggð á bókhalds­gögnum þess. Töldu bókari félagsins, Þórarinn Þórarinsson, og starfsmaður þess, María Jónsdóttir, í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins einnig að svo hafi verið. Ákærðu Georg og Einar voru í sömu skýrslutökum spurðir hvers vegna afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamana félagsins var ekki skilað á réttum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs. Kvaðst ákærði Einar ekki þekkja til þess. Ákærði Georg kvað ástæðuna m.a. hafa verið fjárhagserfiðleika félagsins, m.a. vegna lélegrar innheimtu útistandandi skulda. María Jónsdóttir kvaðst aðspurð um þetta atriði í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins telja að ástæðan hefði verið óreiða í stjórn fyrirtækisins og fjárhagsörðugleikar þess. Ákærðu Georg og Einar voru einnig spurðir hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda af launum launamanna félagsins var ekki skilað til innheimtumanns staðgreiðslu. Ákærði Einar taldi ákærða Georg hafa rekið fyrirtækið. Ákærði Georg kvaðst hafa tekið þessa ákvörðun. Ákærði Georg var einnig spurður hvort launa­mönnum félagsins hafi verið greidd full laun samkvæmt launaseðlum á réttum tíma, þrátt fyrir að afdreginni staðgreiðslu væri ekki skilað til innheimtumanns. Hann kvað svo hafa verið. Þá upplýsti ákærði Georg einnig við sama tækifæri að afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamanna félagsins hafi ekki verið haldið aðgreindri frá rekstrarfé félagsins.

    Með bréfi dagsettu 28. maí 1996 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkisskatt­stjóra eintak af skýrslu sinni, en rannsókn hafði lokið 22. s.m., vegna endur­ákvörð­unarheimilda hans skv. nánar tilgreindum lagaheimildum. Með bréfi dagsettu 31. sama mánaðar tilkynnti ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hygðist ekki beita þeim endurákvörðunarheimildum sem í lagaheimildum hans fælist.

    Þann 4. júlí 1996 var félaginu og tveimur fyrirsvarsmönnum þess, ákærðu Georg og Einari, sent bréf þar sem þeim var tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku skattrannsóknarstjóra ríkisins um refsimeðferð málsins. Var þeim af því tilefni gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð og veittur 15 daga frestur í því skyni. Bréf til ákærðu Einars og Georgs voru endursend skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem þeirra var ekki vitjað. Þann 14. ágúst s.á. barst embættinu hins vegar svar frá félaginu, undirritað af ákærðu Einari, Árna og Georg. Í bréfinu var óskað eftir að málinu yrði vísað til yfirskattanefndar. Jafnframt var tekið fram að unnið væri að yfirferð bókhalds félagsins í því skyni að “ná fram leiðréttingum á áætlunum frá opinberum aðilum...” og að félagið myndi greiða upp skuldir sínar á næstu sex mánuðum. Efir skoðun á bréfi fyrirsvarmanna félagsins svo og málsatvikum í heild ákvað skattrannsóknarstjóri ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar. Sendi embættið málið til rannsóknarlögreglu ríkisins með kærubréfi dagsettu 20. september 1996.

    Ákærði Guðjón Ingvi gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum P-67 hf., dagsett 20. september 1996, m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt var honum gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist eingöngu um þann þátt. Honum var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár dagsett 27. desember 1995 varðandi P-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður inn- og útflutningur, matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að Guðjón Ingvi væri skráður meðstjórnandi í stjórn félagsins. Aðrir í stjórn væru skráðir ákærði Georg, stjórnarformaður og prókúruhafi, ákærði Einar og ákærði Árni. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt. Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá P-67 hf. kvað ákærði stjórnarmenn hafa gengið í öll störf. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn P-67 hf. Ákærði kvað stjórnarmenn hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir í flestum málum, þ.m.t. fjármálum. Ekki hafi verið sérstakur fram­kvæmdastjóri. Ákærði var þá spurður hver væri staða P-67 hf. Hann kvað félagið vera í rekstri. Unnið væri að því að ganga frá skuldum félagsins vegna þeirra gjalda sem kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins fjallaði um.

    Ákærða var kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni P-67 hf. vegna þeirra greiðslutímabila sem um getur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en þar er um að ræða sömu gögn og byggt er á í ákæru. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hafi byggst og hver hefði borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað skilagreinarnar hafa verið í samræmi við bókhald félagsins. Væru skilagreinarnar gerðar á ábyrgð stjórnar félagsins. Þá voru ákærða kynnt yfirlit RLR dagsett 16. apríl 1997 yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu P-67 hf. vegna greiðslutímabilanna október, nóvember og desember 1994 og janúar til og með september 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlit þetta byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum P-67 hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu P-67 hf. hafi m.v. 16. apríl 1997 verið 213.592 krónur vegna ársins 1994 og 461.500 krónur vegna ársins 1995 eða samtals 675.092 krónur. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu hefði ekki verið skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið um það ákvörðun að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað fjár­hags­erfiðleika félagsins hafa valdið því að ekki var unnt að greiða umrædda afdregna staðgreiðslu. Hann gæti ekki svarað því hvort um rétta fjárhæð væri að ræða, en kvaðst ekki rengja þau gögn sem fyrir lægju. Kvað hann enga sérstaka ákvörðun hafa verið tekna um að greiða ekki, heldur hefðu ýmsir aðgangsharðari innheimtumenn fengið greitt og síðan hafi ekki verið til fé til að standa skil á framangreindum gjöldum. Stjórnarmenn félagsins væru allir ábyrgir fyrir framangreindum málum. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu áranna 1994 og 1995. Ákærði kvað allt fé sem inn kom hafa farið í rekstur félagsins. 

    Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður um stöðu hans hjá félaginu á þeim tíma sem ákæra tekur til. Hann kvaðst hafa setið í stjórn þess, en hvorki komið að daglegum rekstri né verið starfsmaður félagsins. Aðspurður hvað hann hefði starfað á þeim tíma kvaðst hann hafa verið stjórnarformaður K-67 hf. Ákærði var spurður í hvers höndum dagleg stjórn fyrirtækisins var. Hann kvaðst ekki geta tjáð sig um það. Aðspurður hvort ekki hefði verið um verkaskiptingu að ræða kvaðst ákærði einungis hafa setið í stjórn, en um verkaskiptingu vissi hann ekki. Honum var bent á að það væri stjórnin sem tæki slíkar ákvarðanir. Ákærði kvaðst ekki hafa komið nærri daglegum rekstri. Hann var spurður hver hefði verið ákvörðun stjórnar í því tilviki. Hann kvaðst ekki muna það. Aðspurður hvort ráðinn hefði verið sérstakur framkvæmdastjóri kvaðst ákærði ekki muna það. Borin voru undir ákærða skjöl og skilagreinar varðandi þennan kafla ákæru og í framhaldi af því var hann spurður hvort hvort honum hefði verið kunnugt um uppgjörið og stöðuna. Ákærði kvað svo ekki vera. Honum var gerð grein fyrir að samkvæmt málsgögnum væri talið að skilagreinum hefði verið skilað inn án greiðslu. Aðspurður hvort hann kannaðist við að hafa fengið vitneskju um að það hefði einhvern tíma verið tekið til umræðu hjá félaginu kvaðst hann ekki kannast við það. Ákærði var spurður hvort hann kynni skýringu á því hvers vegna ákærði Einar hefði áritað skýrsluna vegna nóvember 1994. Hann kvaðst hvorki geta tjáð sig um það né vita hvort það hefði tengst stöðu hans hjá félaginu. Honum hafi verið með öllu ókunnugt um þau vanskil sem þarna voru. Ákærða var kynnt skýrslan sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins og í framhaldi af því var hann spurður hvort hann kannaðist við nafnritun sína undir hana. Í skýrslunni skýrði hann t.d. frá því að stjórnarmenn hefðu gengið í öll störf. Ákærði kvað hið sama eiga hér við og fyrr. Honum hefði verið sagt að það skipti engu máli hverju hann svaraði. Þetta væru einfaldlega sömu svörin. Aðspurður hvort hann hefði svarað með þeim hætti sem fram kæmi í skýrslunni kvað ákærði yfirheyrandann hafa “kóperað þetta svo til beint yfir.” Honum hefði ekki fundist þetta skipta miklu máli og við hafi legið að hann væri að flýta sér líkt og hann mætti ekki vera að þessu og tekið skýrt fram að þetta skipti engu máli. Tók ákærði fram að hann hefði staðið í þeirri meiningu að ekki væri um skuld að ræða. Ef það sem haldið var fram að væri skuld yrði greitt þyrfti hann ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann hafi greitt og síðan hefði hann verið ákærður. Ákærði staðfesti að hann hefði undirritað skýrsluna. Hann kvað yfirheyrandann hafa hringt sérstaklega í sig og sagt að þetta skipti engu máli. Formsatriði væri að ljúka þessu. Í tilefni af þeim ummælum ákærða að yfirheyrandinn hefði verið að flýta sér spurði verjandinn ákærða hvort það væri rétt að skýrslutaka þessi upp á þrjár blaðsíður hefði tekið sautján mínútur. Ákærði kvað hann hafa “kóperað” hinar skýrslurnar. Hann hefði tekið skýrt og greinilega fram að það skipti engu máli hverju hann svaraði, þetta væri bara formsatriði. Síðan hefði hann sagt orðrétt: “Ég hef aldrei fengið fáránlegra mál inn á borð til mín.” Einnig hefði hann sagt orðrétt: “Það er næstum því skömm að því að þurfa að vera yfirheyra þig í þessu máli.” Svo litla áherslu hefði hann lagt á málið.

    Ákærði Georg gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum P-67 hf., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. febrúar 1996. Ákærði kvaðst staðfesta undirritun sína og að rétt væri eftir honum haft. Honum var þá gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Ákærða var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár dagsett 27. desember 1995 varðandi P-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður inn- og útflutningur, matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að ákærði Georg væri skráður stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins. Aðrir í stjórn væru skráðir ákærðu Guðjón Ingvi, Einar og Árni. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og hann spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt.  Aðspurður hvert hafi verið verksvið hans hjá P-67 hf. kvaðst ákærði hafa verið stjórnarformaður. Hann var einnig spurður um hver hefði annast daglega fjármálastjórn P-67 hf. Ákærði sagði að sjálfur hefði hann að mestu haft með daglega fjármálastjórn að gera. Allar stærri ákvarðanir hefðu verið teknar af stjórn. Ákærði var þá spurður hver væri staða P-67 hf. Hann kvað félagið vera í rekstri og unnið væri að því að greiða skuldir félagsins vegna opinberra gjalda. Bókhaldið væri í höndum Coopers & Lybrand endurskoðunarskrifstofu og með þeirra aðstoð væri verið að koma málum félagsins í lag.

    Ákærða var kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni P-67 hf. vegna þeirra greiðslutímabila sem um getur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en þar er um að ræða sömu gögn og byggt er á í ákæru. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hafi byggst og hver hefði borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað skilagreinarnar vera í samræmi við bókhald félagsins, gerðar af bókara þess, á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu P-67 hf. vegna greiðslutímabilanna október, nóvember og desember 1994 og janúar til og með september 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs, m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum P-67 hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildar­greiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu P-67 hf. hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 213.592 krónum vegna ársins 1994 og 461.500 krónum vegna ársins 1995 eða samtals 675.092 krónum. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framan­greindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki rengja framangreinda niðurstöðu. Hann kvað ekki hafa verið tekna ákvörðun um að greiða ekki, heldur hafi þvert á móti verið tekin ákvörðun um að greiða, en það hafi ekki hafist á tilskyldum tíma vegna stórkostlegra erfiðleika við innheimtu útgefinna reikninga. Þá hafi verulegar fjárhæðir tapast í töpuðum kröfum. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu áranna 1994 og 1995. Ákærði kvaðst vísa til framangreindra svara sinna. Ekkert fé hefði farið til einkaþarfa eigenda og opinber gjöld og launatengd gjöld haft forgang. Kvaðst hann vilja taka fram að áætlað væri að framangreind staðgreiðsluskuld yrði greidd að fullu fyrir lok maímánaðar 1997.

                Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður um stöðu hans og störf hjá P-67 hf. Hann kvað störfin hafa verið tilfallandi, nánar tiltekið dagleg störf sem hann myndi ekki glöggt. Aðspurður hvort hann hefði gengið í dagleg störf sem stjórnandi eða sem venjulegur starfsmaður kvaðst hann hafa verið í hlutverki þess sem gekk í það starf sem inna þurfti af hendi hverju sinni. Honum var bent á að þar sem hann hefði verið stjórnarformaður fyrirtækisins væri nærtækast að spyrja hann hver hefði verið stjórnandi þess. Ákærði svaraði að hann hefði komið eitthvað þar að, en hann myndi ekki glöggt með umrætt tímabil. Aðspurður hvort einhverjir aðrir kæmu til greina sem stjórnendur umfram hann kvaðst ákærði ekki muna það. Ákærða voru kynntar skilagreinar vegna launagreiðslna og greiðslu opinberra gjalda báðar vegna október 1994. Hann var spurður hvort hann kannaðist við þessi uppgjör og skýrslur. Ákærði kvaðst sjá að þau væru frá P-67 hf. og ljóst væri að sá sem sá um bókhaldið hefði kvittað undir, að honum sýndist Þórarinn. Ákærða var bent á að sá fyrirvari væri á frá innheimtumanni að greiðsla hefði ekki fylgt. Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessu. Ákærða var sýnd sams konar skýrsla vegna nóvember s.á. þar sem skila átti 70.424 krónum sem haldið hafi verið eftir af launum starfsmanna til að standa skil á staðgreiðslu. Hann kvaðst ekki muna eftir þessu. Ákærða var bent á að áritunin á skýrsluna væri ákærða Einars. Aðspurður hvaða stöðu hann hefði gengt hjá fyrir­tækinu kvað ákærði hann hafa verið stjórnarmann. Aðspurður hvort ákærði Einar hefði haft einhverja sérstaka stöðu eða sérstakt verksvið svaraði ákærði að of langt væri um liðið til að hann gæti munað það. Ákærða var sýnt uppgjör vegna desember 1994 og spurður hvort hann myndi eftir því uppgjöri og hver hefði gengið frá því. Ákærði svaraði spurningunni neitandi. Hið sama ætti við um uppgjör vegna janúar 1995. Hann kannaðist ekki við það, en honum sýndist áritunin vera hin sama og áður, þ.e. Þórarins. Ákærði kvað hið sama eiga við og áður um febrúar s.á. Hvað varðar sams konar skýrslu vegna mars s.á. kvaðst ákærði ekki kannast sérstaklega við hana, en væntanlega væri hún úr bókhaldi P-67 hf. Hið sama ætti við um skýrslur vegna apríl, maí, júní og júlí 1995. Að því er varðar ágúst s.á. ætti hið sama við að öðru leyti en því að hann sæi að á þá skýrslu væri ekki stimpluð afgreiðsla. Þá kvað hann sér virðast skýrslan vegna september 1995 vera úr bókhaldi félagsins. Ákærða var bent á að samkvæmt þessu hafi orðið vanhöld á að skila afdreginni staðgreiðslu starfsmanna á tólf mánaða tímabili. Hann var spurður, í ljósi þess að hann hefði verið stjórnarformaður félagsins, hvort hann myndi eftir þessu eða hvort honum hefði verið kunnugt um þetta á sínum tíma. Svar ákærða var að umræddri staðgreiðslu hefði allri verið skilað. Hann var spurður hvenær henni var skilað. Ákærði benti á að samkvæmt gögnum frá embætti ríkislögreglustjóra varðandi innborganir væru margar villur í þeim og rökleysur. Yfirlitin frá tollstjóraembættinu væru svo “skarandi” og ólæsileg að ógjörningur væri að rökstyðja ein eða nein svör önnur en þau að þetta hafi verið greitt.  Honum var bent á að í skýrslutöku hjá lögreglu hafi hann greint frá því að hann hefði annast daglega fjármálastjórn P-67 hf. Í skýrslunni segði hann að “sjálfur hafi hann haft að mestu leyti með daglega fjármálastjórn að gera, en allar stærri ákvarðanir hafi verið teknar af stjórn.” Hann var spurður hvort þetta ætti við. Ákærði kvað skýrslurnar hafa verið meira og minna staðlaðar. Það sem fram fór vildi hann ógjarna tjá sig um. Aðspurður hvort það væri rangt sem hann hefði skýrt frá hjá lögreglu um hlutverk sitt, að hann hefði haft fjármálastjórn og daglega stjórn með höndum, kvaðst hann vísa til fyrra svars síns. Ákærði var spurður hvort rétt væri eftir honum haft í skýrslunni um ástæður þessara vanskila. Hann kvaðst telja að þessar skýrslur ættu ekki við nú þar sem þær væru byggðar á gögnum sem hefðu hvorki verið rétt né gefið rétta niðurstöðu. Aftur á móti sýndu þau gögn sem nú lægju fyrir að hvorki rannsóknar- og ákæruvald né tollstjóraembættið hafi getað sýnt fram á að félagið skuldaði eitt né neitt. Teknar væru tölur yfir hin ýmsu tímabil og hann teldi að það hafi verið mjög skilmerkilega yfirfarið bæði hjá ákæruvaldi og ákærðu að ekki væri nokkur leið að sýna fram á að félagið skuldaði. Ákærða var bent á að í skýrslunni væri haft eftir honum að hann rengdi ekki niðurstöðu rannsóknara. Einnig segði hann að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að greiða ekki, heldur hafi þvert á móti verið tekin ákvörðun um að greiða, en það hafi ekki tekist á tilskyldum tíma sökum stórkostlegra erfiðleika.

    Ákærði var spurður hvort hann bæri við innheimtu á útgefnum reikningum. Enn fremur hvort rétt væri eftir honum haft um ástæður stórkostlegra erfiðleika félagsins. Ákærði kvaðst kjósa að svara þessu ekki. Hann væri áður búinn að svara þessu. Ákærði staðfesti að hann hefði undirritað umrædda lögregluskýrslu. Þetta hefðu verið stöðluð svör sem ákærðu hefði verið gefið til kynna að væri gott að svara. Ákærði var spurður um þátt ákærðu Árna, Einars og Guðjóns Ingva í rekstri félagsins, hvort þeir hefðu allir verið við störf í fyrirtækinu á þessum tíma. Hann kvaðst ekki muna það. Aðspurður af verjanda hvort hann teldi að allar þær kröfur sem fyrirtækið skuldaði vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hefðu verið greiddar að fullu svaraði ákærði að hann teldi svo vera. Aðspurður af sama hvort síðar hefði komið í ljós að innborganir höfðu verið teknar upp í eldri gjöld eða eldri viðurlög og dráttarvexti kvað ákærði það vera rétt. Hann var spurður hvort það hefði ekki skekkt myndina. Ákærði svaraði að svo virtist sem innheimtumaður hafi tekið geymslufé og ráðstafað því og nýtt það sem greiðslur upp í dráttarvexti og álög. Ætlun hans hafi vitaskuld ætíð verið að það fé sem hann var að afhenda væri skil á staðgreiðslu. Honum hefði aldrei komið til hugar að greiða annað með því. Verjandinn gerði ákærða grein fyrir að lögð hefðu verið fram yfirlit frá tollstjóranum í Reykjavík á dómskjali 71, sem sýndu innborganir á staðgreiðslugjöld og þeim bæri ekki saman við yfirlit sem ákæruvaldið byggði á varðandi innborganir. Hann var spurður hvort hann hefði farið ofan í saumana á yfirlitunum. Ákærði kvaðst hafa athugað þau lauslega og honum sýndist að mjög erfitt væri að átta sig á hvernig mál lægju. Svo virtist sem ákæruvaldið sýndi fram á að heildargreiðsla á einum tíma væri einhver ákveðin krónutala, en síðar sýni það fram á að sú krónutala sé önnur. Í samantekt stemmi ekkert af þessu. Hann vísaði þessu á bug sem rökleysu. Verjandinn spurði ákærða hvort hann teldi að það þyrfti mun nákvæmari gögn í málinu til þess að taka afstöðu til þessarar kröfu. Ákærði sagði að ef rétt gögn hefðu verið til staðar hefði aldrei komið til þessa máls.

    Ákærði Árni gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum P-67 hf., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt, var honum gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Ákærða var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár, dagsett 27. desember 1995, varðandi P-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður inn- og útflutningur, matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi þar fram að ákærði Árni væri skráður meðstjórnandi í félaginu. Aðrir í stjórn væru skráðir ákærði Georg, stjórnarformaður og prókúruhafi, ákærði Einar og ákærði Árni. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt.  Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá P-67 hf. kvaðst ákærði eingöngu hafa setið í stjórn félagsins, en ekki starfað fyrir það að öðru leyti. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn P-67 hf. Ákærði kvaðst telja að ákærði Georg hefði haft með þau mál að gera. Stjórn hefði þó tekið stærri ákvarðanir og verið ljós skuldastaða hverju sinni. Hann var þá spurður um verksvið annarra stjórnarmanna, þ.e. ákærðu Georgs, Guðjóns Ingva og Einars. Ákærði sagði að eftir því sem hann myndi best hefðu ákærðu Guðjón Ingvi og Einar einkum sinnt stjórnarstörfum. Ákærði var þá spurður hver væri staða P-67 hf. Hann kvað félagið vera í rekstri og unnið væri að því að gera upp þær skuldir sem kæra skattrannsóknarstjóra lyti að. Töluvert hefði þegar verið greitt og gert yrði upp að fullu svo fljótt sem auðið yrði.

    Ákærða var kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni P-67 hf. vegna þeirra greiðslutímabila sem um getur í skýrslu skatt­rannsóknarstjóra ríkisins, en þar er um að ræða sömu gögn og byggt er á í ákæru. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað allar skilagreinar vera í samræmi við bókhald félagsins og gerðar á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR dagsett 16. apríl 1997 yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu P-67 hf. vegna greiðslutímabilanna október, nóvember og desember 1994 og janúar til og með september 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum P-67 hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu P-67 hf. hafi, m.v. 16. apríl 1997, numið 213.592 krónum vegna ársins 1994 og 461.500 krónum vegna ársins 1995 eða samtals 675.092 krónum. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða fjárhæðir væri um að ræða og gæti því hvorki staðfest né rengt framangreindar niðurstöður. Hann kvað erfiðleika í rekstri félagsins hafa valdið því að ekki var greitt á tilskyldum tíma. Kvað hann aldrei hafa verið tekna ákvörðun um að greiða ekki, heldur hefði fjárskortur ráðið því að ekki var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu áranna 1994 og 1995. Hann kvað þessu fé ekki hafa verið haldið aðskildu frá öðru fé í rekstri og því verið notað í þágu félagsins.

                Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hver hafi verið staða hans hjá félaginu á því tímabili sem um getur í ákæru. Hann kvaðst hafa verið í stjórn félagsins. Hann var spurður hvaða störfum hann gegndi hjá félaginu eða hvort hann hafi gegnt störfum hjá því. Ákærði kvaðst halda að þau hafi ekki verið mikil. Aðspurður hvort honum hafi verið með öllu ókunnugt um stöðu félagsins eða starfsemi kvað hann sér ekki hafa verið alveg ókunnugt um það. Er hann var spurður hvort hann hafi tekið þátt í ákvörðunum um starfsemi og stjórnun félagsins kvaðst ekki vita hvort hann hefði gert það á þeim tíma. Borin voru undir ákærða ljósrit skilagreina afdreginnar staðgreiðslu vegna tímabilsins sem ákæra tiltekur og í framhaldi af því var hann spurður hvort honum hefði sem stjórnarmanni verið kunnugt um þá stöðu sem þar kæmi fram. Hann kvað svo ekki vera. Aðspurður hvort þessi málefni hafi aldrei verið rædd á stjórnarfundum svaraði hann neitandi. Aðspurður hvort þetta hafi aldrei verið rætt þeirra á meðal kvað hann sig ekki reka minni til að þeir hefðu rætt þessar skýrslur sérstaklega. Hann var spurður hvort honum hefði verið kunnugt um fjármálalega stöðu fyrirtækisins og hver staða þess væri nú. Hann kvað sér vera ókunnugt um það, en hann vissi að fyrirtækið hefði ekki verið í rekstri í talsverðan tíma. Er hann var spurður frá hverjum hann hefði þær upplýsingar kvaðst hann hafa þær frá einhverjum af meðákærðu. Þeir hefðu rætt þessi mál að einhverju marki. Hann hefði ekki komið að daglegum rekstri og raunar ekkert að rekstrinum. Ákærði var spurður hvort hann vissi að innheimtumaður hefði talið að ekki hefðu verið staðin skil á þessum afdregnu gjöldum. Hann kvað sér vera ókunnugt um það. Borin var undir ákærða skýrslan sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins. Hann kannaðist við nafnritun á skýrsluna. Honum var bent á að þar hefði hann verið spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn félagsins og hann svarað að það hefði verið ákærði Georg. Aðspurður á hverju það væri byggt kvað hann sennilega gilda hið sama um þessa skýrslu og hinar fyrri, þ.e. að öll svör hefðu verið búin til fyrir fram og hann talið þetta vera samkvæmt eðli málsins. Er hann var spurður hvort það væri þá ekki rétt að ákærði Georg hefði haft með fjármálastjórnina að gera kvað hann það vel geta verið. Hann var spurður hvort það væri ekki rétt sem fram kæmi í skýrslu hans að hann hefði komið lítið nærri fjármálastjórn fyrirtækisins. Í skýrslunni segði hann að hann hefði eingöngu setið í stjórn félagsins, en ekki starfað fyrir það að öðru leyti. Hann kvað það vera rétt. Ákærði var spurður hver hefði búið til svörin fyrir hann varðandi það sem hann hefði haft að segja um málið. Svar ákærða var að þetta hafi nánast verið tilbúið. Þeir hefðu verið þarna í örfáar mínútur og tekinn hefði verið af þeim fjöldi skýrslna. Honum var bent á að verið væri að ræða um þessa tilteknu framburðarskýrslu um þetta afmarkaða atriði. Spurt hefði verið um starfsemi og stjórn félagsins og hann svarað með stuttaralega. Yfirheyrslan hefði tekið tuttugu mínútur og á þeim tíma væri hægt að komast yfir allmikið. Það sem átt væri við væri hvort eitthvað væri rangt sem þar segði. Ákærði kvaðst halda að svo væri ekki. Hann var spurður hvort þetta væri ekki framburðarskýrsla sem hann hafi gefið. Ákærði svaraði að það mætti segja það. Er hann var spurður hvað gæfi honum tilefni til að færa það fram að skýrslan væri að einhverju leyti hugarburður yfirheyrandans kvaðst hann ekki hafa sagt það. Rannsóknari hefði verið tilbúinn með svörin meira og minna til samræmis við þau svör sem áður höfðu verið gefin. Ákærði var spurður hvort þetta væru þá ekki svör hans. Hann kvaðst hafa undirritað skýrsluna. Aðspurður hvort ekki væri rétt eftir honum haft kvaðst hann búast við því. Er hann var spurður hvort hann hefði sagt eitthvað annað en var í raun kvaðst hann ekki halda það. Verjandinn spurði ákærða hvort hann héldi að skýrslan hafi verið unnin upp úr skýrslu skatt­rannsóknarstjóra ríkisins. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um það. Ákærði kvað þá Einar hafa átt mun minni hagsmuna að gæta en hinir tveir í ljósi þess að þeir hefðu hvor um sig einungis átt 20.000 króna hlut í félaginu. Aðspurður af verjandanum hvort hann áliti að engum skuldum væri til að dreifa hjá félaginu gagnvart opinberum aðilum kvað ákærði þá hafa farið yfir málin eftirá og að þeirri yfirferð lokinni áliti hann að engum skuldum væri til að dreifa.

    Ákærði Einar gaf skýrslu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 15. ágúst 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum P-67 hf., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt, var honum kynnt skýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 4. mars 1996. Hann kvaðst staðfesta undirritun sína og að rétt væri eftir honum haft. Honum var þá gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Ákærða var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár, dagsett 27. desember 1995, varðandi P-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður inn- og útflutningur, matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi þar fram að ákærði Einar væri skráður meðstjórnandi í stjórn félagsins. Aðrir í stjórn væru skráðir ákærði Georg, stjórnarformaður og prókúruhafi, og ákærðu Guðjón Ingvi og Árni. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint vottorð væri rétt heimild.  Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá P-67 hf. kvaðst ákærði hafa tekið þátt í daglegum rekstri ásamt öðrum stjórnarmönnum. Hann var einnig spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn P-67 hf. Ákærði kvað stjórnarmenn hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir um daglega fjármálastjórn.

    Ákærða var kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni P-67 hf. vegna þeirra greiðslutímabila sem um getur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en þar er um að ræða sömu gögn og byggt er á í ákæru. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði staðfesti nafnritun sína undir skýrslu vegna nóvember 1994. Kvað hann allar skýrslurnar vera byggðar á bókhaldi félagsins og vera á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR dagsett 16. apríl 1997 yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu P-67 hf. vegna greiðslutímabilanna október, nóvember og desember 1994 og janúar til og með september 1995 svo og greiðslustöðu gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum P-67 hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu P-67 hf. hafi, m.v. 16. apríl 1997, numið 213.592 krónum vegna ársins 1994 og 461.500 krónum vegna ársins 1995 eða samtals 675.092 krónum. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu hefði ekki verið skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hafi tekið um það ákvörðun að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað slæma fjárhagsstöðu félagsins hafa valdið því að ekki var greitt og hafi það verið ákvörðun stjórnar að ekki var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu áranna 1994 og 1995. Hann kvað allt fé sem inn kom hafa farið í rekstur félagsins.

                Við aðalmeðferð málsins kvað ákærði það vera rétt að hann hafi verið stjórnarmaður í P-67 hf. Á því tímabili sem um getur í ákæru hafi hann hvorki komið nálægt rekstri félagsins né verið boðaður á stjórnarfundi. Hann var spurður hver hafi verið daglegur stjórnandi og ábyrgur fyrir rekstri félagsins. Ákærði kvaðst lítið hafa þekkt til reksturs þess á umræddu tímabili. Borin var undir ákærða skýrsla að fjárhæð 68.104 krónur vegna greiðslutímabilsins október 1994. Hann var spurður hvort hann kannaðist við skýrsluna og viðbótarskýrslu að fjárhæð 4.604 krónur. Ákærði kvaðst ekki kannast við skýrslurnar. Honum sýndist að undirritun á þær væri bókara félagsins. Honum var sýnd skýrsla að fjárhæð 70.424 krónur vegna greiðslu­tíma­bilsins nóvember 1994. Ákærði kvaðst kannast við nafnritun sína undir hana og stað­festi að um rétta upphæð væri að ræða. Hann kvaðst þó ekki hafa upplýsingar um hvort fénu var skilað, en hann teldi líklegt að greitt hefði verið áður en skýrslunni var skilað. Aðspurður á hverju hann byggði það kvað ákærði sér hafa skilist á bókara félagsins að búið væri að skila megninu af fénu, en hann gæti ekki tjáð sig nánar um það, enda hefði hann ekki séð um fjármál félagsins. Bókarinn hefði útbúið skýrsluna og beðið sig að staðfesta hana. Aðspurður hvort hann kynni skýringu á því að skýrslan var ekki frágengin með sama hætti og skýrslurnar vegna tímabilsins á undan, þ.e. með áritun bókarans, kvaðst hann ekki geta útskýrt það, en honum fyndist líklegt að hann hefði ekki náð í neinn stjórnarmann til að undirrita. Þá kvaðst ákærði ekki vita hvers vegna skýrslu vegna desember 1994 að fjárhæð 70.424 krónur var skilað án greiðslu. Ákærði kvaðst heldur ekki kunna skil á skýrslu vegna janúar 1995 að fjárhæð 65.007 krónur sem skilað var án greiðslu. Hvað varðar skýrslu vegna febrúar 1995 sömu fjárhæðar og skilað var án greiðslu kvaðst ákærði ekki þekkja til skýrslunnar hvorki hvað varðar uppgjör né áritun. Ágiskun hans væri að þetta væri áritun bókarans, en hann gæti ekkert fullyrt í þeim efnum. Ákærði kvaðst ekki kannast við skýrslu að fjárhæð 60.100 krónur vegna mars 1995 sem skilað var án greiðslu. Hið sama ætti við um skýrslu að fjárhæð 58.409 krónur vegna apríl 1995 sem skilað var án greiðslu. Skýrslu og uppgjör vegna maí 1995 sömu fjárhæðar og skýrslu og uppgjör vegna júní s.á., einnig sömu fjárhæðar, kvaðst ákærði ekki kannast við. Skýrslu og uppgjör vegna ágúst s.á. að fjárhæð 21.960 krónur kvaðst ákærði ekki kannast við. Hið sama ætti við um skýrslu og uppgjör vegna september 1995 að fjárhæð 4.320 krónur.

    Ákærði var inntur nánar eftir stöðu hans hjá félaginu og bent á að hann hefði undirritað virðisaukaskattskýrslu vegna janúar - febrúar 1995. Aðspurður hvort hann hafi verið viðloðandi rekstur félagsins með þessum hætti, þ.e. að hann hefði undirritað skýrslur vegna uppgjörs á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda og fylgst með rekstrinum kvaðst ákærði ekki hafa fylgst með honum. Hann hafi verið einn af stofnendum félagsins og verið á stofnfundi þess, en að öðru leyti hefði hann ekki verið mikið á fundum. Nærri fjármálum félagsins hafi hann aldrei komið. Enda þótt hann hefði undirritað framangreindar skýrslur hafi hann treyst bókaranum fyrir því að það væri rétt sem hann lét frá sér fara. Hann hafi ekki yfirfarið bókhaldsgögnin. Ákærði var af verjandanum inntur álits á gjöldum og greiðslum vegna staðgreiðslunnar með vísan til yfirlits á dómskjali 14. Hann kvaðst hafa kynnt sér þessi gögn og reynt að staðreyna greiðslur á umræddu tímabili, með svipuðum hætti, einkum þar sem svo mikill misbrestur hefði orðið varðandi rétta skráningu virðisaukaskatts. Skorað hefði verið á ákæruvaldið að leggja fram sambærilega sundurliðun vegna afdreginnar staðgreiðslu og gert var vegna virðisaukaskatts. Þegar gögnin komu loks hafi þau eingöngu reynst vera vegna virðisaukaskatts. Af þeim sökum hafi ekki reynst unnt að sannreyna neitt hvað varðar greiðslur vegna afdreginnar staðgreiðslu. Kvaðst ákærði hvorki vita né geta staðfest hvort búið hefði verið að greiða þetta allt á réttum tíma. Hið sama ætti við varðandi aðra liði II. kafla ákæru. Ákæruvaldið hefði ekkert lagt fram varðandi staðgreiðsluna, þrátt fyrir ítrekaðar óskir og áskoranir. Varðandi framangreint yfirlit kvaðst ákærði hafa reynt að átta sig lítillega á því. Þar kæmi fram að heildargreiðslur m.v. 27. október 1998 hefðu numið 154.568 krónum. Síðan kæmu innborganir 3. og 19. júní 1998 samkvæmt kvittunum gjaldanda að fjárhæð 461.500 krónur. Samkvæmt þeim gögnum væri búið að greiða 300.000 krónum minna þá. Kvaðst ákærði gera ráð fyrir að allt væri meira og minna rangt varðandi þetta hlutafélag. Kvað ákærði sér virðast sem mistök hefðu átt sér stað við gerð þessarar töflu. Því teldi hann afar erfitt að svara fyrir þessi atriði. Á dómskjali 71 kæmi fram að í ágúst 1994 hefðu verið greiddar 72.676 krónur og í september s.á. 81.111 krónur eða samtals 153.787 krónur. Þetta væri eina kvittunin sem þeir hafi fundið frá tollstjóraembættinu, en þær greiðslur kæmu hvergi kæmu fram þrátt fyrir að um tilgreind tímabil væri að ræða. Hann hafi ætlað að reyna að vinna gögn varðandi þetta, en það hefði ekki reynst unnt.

    Þórarinn Þórarinsson kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst halda að hann hafi ein­göngu starfað sem launamaður hjá P-67 hf., en verksvið hans verið hið sama og hann hefði áður greint frá. Aðspurður hverjir hafi tekið ákvarðanir um og borið ábyrgð á rekstri fyrirtækisins kvaðst hann vísa til fyrri svara sinna. Það hafi verið ákærðu allir. Er hann var spurður hvort fjárhagserfiðleikar hafi verið hjá umræddum fyrirtækjum á þeim tíma sem vitnið starfaði fyrir þau kvaðst hann halda að þeir hafi verið einhverjir. Aðspurður í hverju fjárhagserfiðleikarnir hafi lýst sér kvaðst hann ekki muna það glöggt. Hann kvaðst þó halda að almennt séð hafi verið greitt á réttum tíma, en hið eina sem hann myndi væri að geymslutékkar hafi verið í gangi. Er hann var spurður hvort hann minntist þess að virðisaukaskatti eða staðgreiðslu hefði ekki verið skilað á réttum tíma kvaðst hann hafa haldið að þeim gjöldum hefði alltaf verið skilað á réttum tíma. Borin var undir vitnið skýrslan sem hann gaf hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hann kvað þar rétt eftir sér haft. Vitninu var bent á að í skýrslunni segði hann að ákveðnir erfiðleikar hafi verið til staðar og því ekki reynst unnt að skila á nákvæmlega réttum tíma. Aðspurður hvort hann minntist þess að tekin hefði verið um það ákvörðun að skila þessum gjöldum ekki, en nota féð í annað eða geyma að greiða þau kvað hann enga slíka ákvörðun hafa verið tekna með hans vitneskju. Hann var spurður hvaða ástæður hann teldi vera fyrir vanskilunum, hafi þau verið til staðar, en hann hafi fært bókhaldið og haft yfirlit þar. Vitnið kvaðst ekki geta lagt mat á það. Hann hafi ekki séð um fjármál fyrirtækisins. Vitninu var bent á að í framangreindri yfirheyrslu hefði hann verið spurður hvort hann vissi hver tekið hefði ákvörðun um og borið ábyrgð á að afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamanna skattaðila var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs á lögmæltum tíma og svar hans hefði verið að eftir því sem hann vissi best hefðu það verið forráðamenn fyrirtækisins. Aðspurður hvort þeir hafi tekið ákvörðun um að skila ekki á réttum tíma kvaðst hann ekki hafa sagt það. Hann hafi sagt að þeim hafi borið að gera það. Er hann var spurður hvort hann vissi hver tekið hafi ákvörðun kvaðst hann halda að enginn ákveðinn hefði tekið ákvörðun um að skila ekki á réttum tíma. Skýrslunum hafi eftir því sem hann best vissi öllum verið skilað. Hann hafi ekki vitað betur en þeir hefðu greitt þær.

    Aðspurður af verjanda hvort hann hafi yfirleitt vitað hver eða hverjir tóku ákvarðanir innan þessara félaga kvaðst hann ekki hafa vitað það. Aðspurður hvort það hafi þá verið getgátur hjá honum að það hafi verið eigendur félaganna sem hefðu tekið ákvarðanir kvað hann það í raun vera svo. Það væri vegna þess að alltaf hefði verið rætt um að það væru fjórir eigendur að fyrirtækjunum. Hann hefði gefið sér að það væru þeir allir sem stjórnuðu. Aðspurður hverjir hefðu stjórnað gagnvart honum og hvort hann hefði engin bein samskipti átt við stjórnendur kvað hann einu samskiptin sem hann átti við ákærðu hafa verið að þeir undirrituðu skýrslurnar og greiddu honum laun. Er hann var spurður hvort enginn stjórnendanna hefði talað við hann kvað hann það hafa verið með ýmsu móti hver þeirra fjögurra ræddi við hann. Aðspurður hvort þeir hefðu komið fram sem stjórnendur í þeim tilvikum kvaðst hann hafa litið þannig á. Þeir hafi verið eigendur og komið fram sem slíkir. Hvort þeir voru fram­kvæmdastjórar eða stjórnarmenn vissi hann ekki. Vitninu var bent á að hann hefði áður verið spurður hvort um vanskil hafi verið að ræða og hvort hann hefði vitað um þau. Vitnið kvað vera svo langt um liðið að hann myndi ekki glöggt hvaða vanskil var um að ræða eða hvort það voru vanskil á einhverjum gjöldum. Hann hefði vitaskuld séð það í bókhaldinu ef eitthvað hefði verið greitt á röngum tíma. Vitninu var kynntur framburður úr skýrslu hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna K-67 hf. Þar hefði hann tekið fram að hann hefði ítrekað beðið forráðamenn fyrirtækisins um að fá hjálp við bókhaldið eða fá einhvern til að taka það að sér. Svör forráðamanna fyrirtækisins hefðu verið á þá leið að verið væri að leita að einhverjum sem gæti tekið það að sér, en það virtist ekki hafa gengið sem skyldi. Vitnið kvaðst vilja taka það skýrt fram að þegar skýrslum og skilagreinum var skilað of seint til innheimtu­manns ríkissjóðs hefði það alfarið verið vegna þess hve seint hann fékk afhent bók­halds­gögn frá forráða­mönnum fyrirtækisins. Hann var þá spurður hvort það hafi ekki verið alveg ljóst að virðisaukaskattskýrslur voru ekki lagðar inn á réttum tíma, að það hafi leitt til álaga og álagningar sem þurfti að greiða og að virðisaukaskattur hefði þá ekki verið greiddur á réttum tíma. Vitnið kvaðst ekkert geta fullyrt um það. Hann var þá spurður hvort það væri ekki ljóst, miðað við þetta ástand sem hann væri að eigin frumkvæði að koma á framfæri, án þess að hann væri að því spurður, að hann væri að gefa skýringu á ástandi sem þarna var, að skýrslum var ekki skilað á réttum tíma sem leitt hefði til álagningarinnar. Vitnið svaraði að hann vissi ekki hvort þær hefðu verið greiddar eða ekki. Um það gæti hann ekkert sagt. Vitninu var bent á að þær væru ekki greiddar ef þeim væri ekki skilað. Vitnið kvað þær geta hafa verið greiddar síðar. Aðspurður hvort hann væri ekki að gefa skýringu á þessu kvað vitnið svo vera. Aðspurður hvort það hafi verið af völdum vitnisins að bókhaldið var ekki tilbúið eða hvort peningarnir voru ekki tilbúnir svarði vitnið að hann vissi ekki hvort peningarnir voru tilbúnir, en bókhaldið hafi greinilega ekki verið tilbúið í einhverjum ákveðnum tilfellum. Hann væri með sama fasann varðandi P-67 hf. og eins sambærilegt varðandi T-67 hf. Kvaðst vitnið hafa litlu við það að bæta sem stæði í skýrslunni. Aðspurður hvort það væri rétt skilið að hann væri þar að gera grein fyrir því að skýrslum varðandi virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda hafi ekki verið skilað á réttum tíma svaraði vitnið að í einhverjum tilfellum hafi svo verið. Hann var þá spurður hvort það væri rétt skilið að meðan skýrsla var ekki tilbúin hafi greiðslu þar af leiðandi ekki verið skilað í samræmi við það. Hann kvað það vera réttan skilning. Aðspurður hverju hafi verið um að kenna kvað hann bókhaldið ekki hafa komið til hans á réttum tíma og þar af leiðandi hefði ekki verið hægt að færa bókhald vegna skýrslna á réttum tíma. Vitninu var bent á að hann hefði einnig rætt um að hann hefði beðið um aðstoð vegna bókhaldsins. Hann kvað það vera rétt og ástæðan hafi verið að hann hafi ekki annað verkefninu.

B

    Eins og að hefur verið vikið í A- lið I. kafla ákæru hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins þann 30. janúar 1996 rannsókn á málefnum Íslensks framtaks hf. að því er varðaði staðgreiðslu-, tryggingagjalds- og virðisaukaskattskil félagsins. Þykir mega vísa til þess sem þar greinir varðandi málavexti. Skattrannsóknarstjóri ríkisins afmarkaði rannsókn sína á framangreindum gjöldum við vanskil félagsins á þeim vegna rekstrarársins 1994. Í þessum þætti ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda svo sem þar er nánar lýst.

    Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á staðgreiðsluskilum félagsins rekstrar­tímabilið apríl til og með ágúst 1994, fólst í að sannreyna staðgreiðsluskil félagsins, þ.e. að hve miklu leyti sú staðgreiðsla sem félaginu bar að standa skil á í ríkissjóð vegna afdreginnar staðgreiðslu af launum launamanna félagsins, umrætt tímabil, væri í vanskilum. Byggði rannsóknin á innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins vegna tímabilsins apríl til og með ágúst 1994, svo og yfirlýsingu Gjaldheimtunnar í Reykjavík um skuldastöðu félagsins. Fólst rannsóknin annars vegar í samanburði á fjár­hæð afdreginnar staðgreiðslu af launum launamanna félagsins samkvæmt inn­send­um staðgreiðsluskilagreinum þess og hins vegar greiðslum félagsins til innheimtu­manns staðgreiðslu, Gjaldheimtunnar í Reykjavík. Leiddi rannsóknin í ljós að van­goldin var skilaskyld afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna félagsins, sem haldið hafði verið eftir af launagreiðslum til launamanna félagsins á tímabilinu apríl til og með ágúst 1994. Nam höfuðstóll vangoldinnar skilaskyldrar afdreginnar stað­greiðslu launamanna félagsins þann 12. janúar 1996 samtals að höfuðstól 684.875 krónum, auk álags og dráttarvaxta. Þá kom í ljós við skoðun á innsendum stað­greiðsluskilagreinum félagsins að þeim var öllum skilað til innheimtumanns of seint og öllum án greiðslu að einni undanskilinni sem greidd var að hluta.

    Samkvæmt upplýsingum ákærðu Einars og Árna, í skýrslutökum hjá skatt­rannsóknarstjóra ríkisins, var gerð staðgreiðsluskilagreina félagsins byggð á bók­halds­gögnum þess. Töldu bókari félagsins, Þórarinn Þórarinsson, og starfsmaður þess, María Jónsdóttir, í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, einnig að svo hefði verið. Jafnframt sagði María við það tækifæri að hún teldi að launakerfi félagsins hefði verið mjög gott og “góðar skilagreinar sem komu út úr því.” Ákærðu voru einnig í sömu skýrslutökum spurðir hvers vegna afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamanna félagsins var ekki skilað á réttum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs. Kvað ákærði Einar ástæðuna vera þá sömu og hann hefði tilgreint varðandi vanskil virðisaukaskatts. Ákærði Árni kvað ástæðuna hafa verið fjárhagserfiðleika félagsins, en kvaðst jafnframt telja að búið væri að greiða vangoldna staðgreiðslu félagsins. María Jónsdóttir kvaðst aðspurð um þetta atriði í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins telja að ástæðan hefði verið óreiða í stjórn fyrirtækisins og fjárhagsörðugleikar þess.

    Ákærðu voru einnig spurðir í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda af launum launamanna félagsins var ekki skilað til innheimtumanns staðgreiðslu. Ákærði Einar kvað stjórn félagsins ekki hafa tekið ákvörðun um að skila ekki afdreginni staðgreiðslu, en hún bæri hins vegar ábyrgð á því. Ákærði Árni kvað stjórn félagsins hafa tekið þá ákvörðun og bera þá ábyrgð. Hins vegar kvaðst ákærði Georg aðspurður um þetta atriði hvorki telja sig hafa tekið ákvörðun um né bera ábyrgð á því að afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamanna félagsins var ekki skilað. Tók hann jafnframt fram að hann teldi hvorki sig né aðra stjórnarmenn hafa orðið uppvísa að saknæmu athæfi. Ákærðu Einar og Árni voru einnig spurðir hvort launamönnum félagsins hefðu verið greidd full laun samkvæmt launaseðlum á réttum tíma, þrátt fyrir að afdreginni staðgreiðslu var ekki skilað til innheimtumanns. Sögðu báðir að svo hefði verið. Einnig upplýstu báðir við sama tækifæri að afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamana félagsins hefði ekki verið haldið aðgreindri frá rekstrarfé félagsins.

    Með bréfi dagsettu 28. maí 1996 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkis­skatt­stjóra eintak af skýrslu um rannsóknina, sem lokið hafði 22. s.m., vegna endurákvörð­unar­heimilda þess embættis. Með bréfi dagsettu 31. s.m. tilkynnti ríkisskattstjóri skatt­rannsóknarstjóra að hann hygðist ekki beita endurákvörðunarheimildum þeim sem honum væru að lögum heimilaðar. Þann 4. júní s.á. var fyrirsvarsmönnum fél­agsins, þ.e. ákærðu í máli þessu, sent bréf þar sem þeim var tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku skattrannsóknarstjóra um refsimeðferð málsins. Var þeim af því tilefni veittur 15 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð. Bréf ákærðu Einars og Georgs voru endursend þar sem þeirra var ekki vitjað, en þann 14. ágúst s.á. barst skattrannsóknarstjóra ríkisins svar frá fyrirsvarsmönnum félagsins, undirritað af ákærðu Einari, Árna og Georg þar sem þess var óskað að málinu yrði vísað til yfirskattanefndar. Jafnframt var tekið fram að félagið hefði greitt umtalsverðar fjárhæðir eftir að það hætti rekstri, í mörgum tilvikum fyrst til þeirra aðila sem hefðu sett mestan þrýsting á félagið, t.d. Gjaldheimtunnar í Reykjavík og Gjaldheimtunnar á Suðurnesjum. Þá tilgreindu þeir að unnið væri að yfirferð bókhalds félagsins í því skyni að ná fram leiðréttingum á áætlunum frá opinberum aðilum og myndi félagið greiða upp skuldir sínar á næstu sex mánuðum.

    Eftir skoðun á framangreindu bréfi og málsatvikum í heild ákvað skatt­rann­sóknarstjóri ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar. Var málið sent til rannsóknarlögreglu ríkisins með bréfi dagsettu 20. september 1996.

    Í yfirheyrslu yfir ákærða Guðjóni Ingva hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997 var honum kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994. Hann var spurður á hverju skilagreinar þessar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað skilagreinarnar vera byggðar á bókhaldi félagsins og hafi þær verið gerðar á ábyrgð stjórnarinnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994 svo og greiðslustöðu gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. apríl 1997. Yfirlitið byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum Íslensks framtaks hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslu­stöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildar­greiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 635.055 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað fjárhagserfiðleika félagsins hafa valdið því að ekki var unnt að greiða umrædda afdregna staðgreiðslu. Hann gæti þó ekki svarað því hvort um rétta fjárhæð væri að ræða, en kvaðst ekki rengja þau gögn sem fyrir lægju. Kvað hann enga sérstaka ákvörðun hafa verið tekna um að greiða ekki, heldur hefðu ýmsir aðgangsharðari innheimtumenn fengið greitt og síðan hafi ekki verið til fé til að standa skil á framangreindum gjöldum. Stjórnarmenn félagsins væru allir ábyrgir fyrir framangreindum málum. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1994. Ákærði kvað allt fé hafa farið í rekstur félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins voru bornar undir ákærða skilagreinar afdreginnar staðgreiðslu vegna þeirra tímabila sem B-liður II. kafla ákæru tekur til. Aðspurður hvort hann kannaðist við þessi uppgjör eða þessi fjármál kvaðst hann ekki gera það. Spurningu um hvort þessi mál hefðu komið til umræðu á stjórnarfundum svaraði ákærði neitandi. Er hann var spurður hver hefði að hans áliti haft með þau mál að gera kvaðst hann ekki vita það. Honum var bent á að verið væri að spyrja hann sem stjórnarmann og skýrslurnar, sem hann væri væntanlega búinn að kynna sér, bæru áritun eins stjórnarmanna. Aðspurður hvort það gæfi einhverja vísbendingu um hver þeirra hefði borið stjórnunarlega ábyrgð á fyrirtækinu kvaðst ákærði ekki geta svarað því.

    Í yfirheyrslu yfir ákærða Georg hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997 var honum fyrst kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994. Hann var spurður á hverju skilagreinar þessar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað skilagreinar þessar vera í samræmi við bókhald félagsins og unnar á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlitið byggði á framangreindum skila­greinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum Íslensks framtaks hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur sem þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 635.055 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu hefði ekki verið skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hafi tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki rengja framangreinda niðurstöðu. Hann kvað enga ákvörðun hafa verið tekna um að greiða ekki. Þvert á móti hefði verið tekin ákvörðun um að greiða, en það hafi ekki hafist á tilskyldum tíma vegna fjárskorts og slæmrar eiginfjárstöðu. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1994. Ákærði kvað féð hafa farið í að greiða álögur vegna eldri vanskila félagsins.

                Við aðalmeðferð málsins kvað ákærði það sem um getur í þessum lið ákær­unnar ekki vera rétt. Hann var spurður um stöðu hans hjá fyrirtækinu í starfsemi þess. Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarmaður í félaginu. Hann hefði aðallega séð um markaðsmál, starfsmannamál og önnur tilfallandi störf. Ákærði var spurður hver hefði að hans áliti verið daglegur stjórnandi fyrirtækisins. Hann kvaðst hvorki muna það né geta sagt til um það. Borið var undir ákærða ljósrit skýrslu um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna apríl 1994 og hann spurður hvort hann kannaðist við skýrsluna. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir henni. Hann var spurður hver hefði áritað hana. Hann kvað sér sýnast að það hafi verið ákærði Einar. Er hann var spurður hvort ákærði Einar hefði með einhverjum hætti verið sá sem átti að sjá um þessa hlið mála hjá félaginu kvað ákærði ekkert rifjast upp hjá sér í því sambandi. Ákærða var sýnd sams konar skýrsla vegna maí 1994 sem lögð var inn án greiðslu jafnframt því sem hann var spurður sömu spurningar. Hann kvaðst engu geta svarað í þessu sambandi. Þá var honum sýnd skýrsla vegna júní s.á. Hann kvaðst ekki muna eftir skýrslunni. Hið sama ætti við um júlí og ágúst s.á. og einnig viðbótarskýrslu vegna ágúst s.á. Hann kvaðst ekki kannast við nafnritun á þá síðastnefndu. Ákærða var bent á að samkvæmt þessum gögnum hefðu verið að safnast upp hjá félaginu vanskil á innheimtum opinberum gjöldum í staðgreiðslu. Hann var spurður hvort þetta málefni hefði aldrei verið tekið til umræðu í félaginu. Ákærði kvað sig ekki reka minni til þess að vanskil hafi yfirleitt verið rædd. Hann teldi að ekki hefði verið um nein vanskil að ræða. Þetta væri augljóslega að fullu greitt. Borin var undir ákærða skýrslan sem tekin var af honum við lögreglurannsókn málsins. Hann staðfesti nafn­ritun sína undir hana. Ákærði var spurður hvað hann hefði að segja um þann framburð sinn að hann hefði lítið komið að stjórnun félagsins, en aðrir stjórnarmenn hefðu séð um þá þætti. Ákærði kvaðst kjósa að tjá sig ekki um þessa skýrslu.

    Verjandi kynnti ákærða dómskjal 70 þar sem fram kæmi að á árinu 1994 hefðu verið greiddar um 1.600.000 krónur. Hann var spurður hvort hann teldi að þær greiðslur hefðu m.a. átt að renna til greiðslu þeirra skulda sem þarna höfðu stofnast. Ákærði kvaðst sannfærður um að þannig hefði það átt að vera. Hann teldi þetta allt löngu greitt.

    Í yfirheyrslu yfir ákærða Árna hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997 var honum fyrst kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994. Hann var spurður á hverju skilagreinar þessar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að gerð þessara skilagreina, en taldi að þær væru í fullu samræmi við bókhaldið og að þær hafi verið gerðar á ábyrgð stjórnar. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlit þetta byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar stað­greiðslu opinberra gjalda af launþegum Íslensks framtaks hf. og útskrift Gjald­heimt­unnar í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rann­sókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum for­sendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 635.055 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða fjárhæðir væri um að ræða og gæti því hvorki staðfest né rengt framangreindar niðurstöður. Kvað hann erfiðleika í rekstri félagsins hafa valdið því að ekki var greitt á tilskyldum tíma. Þá kvað hann aldrei hafa verið tekna ákvörðun um að greiða ekki, heldur hefði fjárskortur ráðið því að ekki var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1994. Ákærði kvað þessu fé ekki hafa verið haldið aðskildu frá öðru fé í rekstri og því verið notað í þágu félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins var ákærði beðinn að kynna sér skilagreinar vegna afdreginnar staðgreiðslu tilheyrandi þessum ákærulið og jafnframt bent á að sam­kvæmt gögnum innheimtumanns og skattyfirvalda hefðu myndast vanskil sökum þess að ekki hefðu verið staðin skil á afdregnum launum af hálfu fyrirtækisins. Tekið hefði verið við skilagreinunum með þeim fyrirvara af hálfu innheimtumanns. Hann var spurður hver væri skýring hans í þessum efnum. Ákærði kvað stimplunina ekki vera dóm um að þetta hefði ekki verið greitt. Hér væri um að ræða stimpil starfsmanns Gjaldheimtunnar í Reykjavík og með þessu væri hann ekki að ákvarða að gjöldin hefðu ekki verið greidd. Vel kunni að vera að hann hafi farið með eitthvað af þessum skýrslum. Hann hefði ekki hugmynd um það, en hann hefði oft skilað skýrslum sem þessum. Niðurstaða hans væri að hann teldi gjöldin vera greidd þótt stimplar væru á skýrslunum.

    Í yfirheyrslu yfir ákærða Einari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 15. ágúst 1997 var honum fyrst kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni Íslensks framtaks hf. vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994. Hann var spurður á hverju skilagreinar þessar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði staðfesti eigin undirritun vegna apríl og ágúst. Kvað hann allar skýrslurnar byggðar á bókhaldi félagsins og vera á ábyrgð stjórnar þess. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu félagsins vegna greiðslutímabilanna apríl til og með ágúst 1994 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlitið byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum Íslensks framtaks hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 635.055 krónum vegna ársins 1994. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað slæma fjárhagsstöðu félagsins hafa valdið því að ekki var greitt og hafi það verið á ábyrgð stjórnar að eigi var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1994. Ákærði kvað allt fé sem inn kom hafa farið í rekstur félagsins.

                Við aðalmeðferð málsins var ákærða fyrst gerð grein fyrir að hann væri sem stjórnarformaður ásamt meðákærðu ákærður fyrir að hafa ekki skilað 635.055 krónum sem dregnar voru af launum starfsmanna og voru staðgreiðsluhluti opinberra gjalda, en látið hafi verið hjá líða að skila afdrættinum í ríkissjóð. Ákærði kvaðst ekki hafa tengst fjármálum fyrirtækisins. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefði séð um þessa hlið mála. Ákærði kvaðst hins vegar hafa skoðað innborganir félagsins. Sökum þess að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakaði málið slælega hafi þeim sést yfir innborganir sem ekki hefði verið tekið tillit til, að hærri upphæð en fram kæmi í ákæru. Hann teldi því að þessi ákæruliður ætti sér enga stoð. Ákærða var gerð grein fyrir að í apríl, maí, júní, júlí og ágúst 1994 hafi fjárhæðum sem væru sundurliðaðar í ákæru ekki verið skilað. Hann var spurður hvort hann hefði vitað af því eða hvort hann gæti skýrt það nánar. Ákærði kvaðst geta skýrt það og benti á að á dómskjali 70 væri samantekt innborgana sem teknar hefðu verið saman af tollstjóraembættinu. Þar væru sundurliðaðar innborganir í staðgreiðslu árið 1994 varðandi þau tímabil sem um ræðir samtals að fjárhæð 1.173.158 krónur. Af þessari upphæð hefði efnahags­brotadeild ríkislögreglustjóra aðeins séð 350.000 krónur og tekið tillit til þeirra inn­borgana. Jafnframt hefðu verið greiddar 490.352 krónur inná tryggingargjald, þ.e. starfsmenn tollstjóraembættisins hefðu ráðstafað þeirri fjárhæð inn á tryggingargjald, en hann væri þeirrar skoðunar að taka hefði átt tillit til þeirra greiðslna sem greiðslna inn á staðgreiðslu. Samkvæmt því teldi hann að peningum fyrir mun hærri upphæðum en skila átti samkvæmt skilagreinum hefði verið skilað til innheimtumanns ríkissjóðs á þessu tímabili eins og fram kæmi á tilvitnuðu dómskjali. Ákærða var bent á að á afritum skýrslna er vörðuðu staðgreiðslu vegna launagreiðslna kæmi fram að þeim hefði verið skilað inn án greiðslu. Skýrslurnar væru mótteknar hjá innheimtumanni, en engin greiðsla hefði borist þegar skýrslunum var skilað. Hann var spurður hver væri skýring hans á því að þannig var gengið frá og móttekið var með þessum hætti. Ákærði kvaðst hvorki hafa séð um fjármál fyrirtækisins á þeim tíma sem hér um ræðir né séð um að skila skýrslunum, en miðað við það sem hann hefði aflað sér upplýsinga um síðar hafi þetta væntanlega verið þannig að skýrslum hefði verið skilað og pen­ing­ar verið að koma á móti eða vera kunni að bókari hafi skilað skýrslum, en einhver annar farið og greitt. Eins og áður hefði komið fram væru sex eða sjö gjaldkerar hjá tollstjóraembættinu sem veittu skýrslum viðtöku og ef sá sem skilar skýrslu greiðir ekki sé stimplað á hana “án greiðslu.” Það væri ekkert sem segði að það hefði ekki verið greitt af einhverjum öðrum sama dag. Það kæmi ekki fram á skýrslunni að greiðsla hefði getað átt sér stað með þeim hætti að það hafi verið að koma endur­greiðslur eða peningar og borgað hafi verið einum, tveimur, þremur eða fjórum dögum fyrir þann frest sem áskilinn er. Aðspurður hvort hann gæti í þessu samhengi bent á tilvik þar sem greiðsla hefði farið fram sama dag og skýrslu var skilað eða skilagrein skilað inn eins og hann væri að ræða um að kynni að hafa gerst og hvort einhver gögn væru sem styddu það kvaðst hann geta það. Því væri þó þannig háttað með staðgreiðsluhlutann að þrátt fyrir langan frest til gagnaöflunar hefði ákæruvaldið engum gögnum skilað frá tollstjóraembættinu varðandi staðgreiðsluna og því væru þetta skjöl sem honum hefði tekist að útvega hjá því embætti. Þetta kæmi allt fram á dómskjali 70 og fylgiskjölum með því. Þar kæmi t.d. fram að 15. júlí 1994 hefði verið skilað 100.000 krónum. Til þessarar greiðslu væri ekki tekið tillit t.d. vegna júnígreiðslunnar. Í þessu tilviki hefði greiðsla átt sér stað 15. júlí, en skýrslunni verið skilað of seint, þ.e. 22. s.m. Greiðslunni hafi verið skilað á þeim degi sem skila átti fénu í síðasta lagi. Hann hafi ekki séð um þessi mál, en hann gæti sér þess til að þetta kynni að hafa farið fram með þessum hætti. Burtséð frá því hafi fé verið skilað á þessum degi sem kæmi ekki fram sem innborgun á viðkomandi tímabil, þ.e. 6. mánuð, í rannsókn efnahagsbrotadeildar.

Ákærði tók fram að þegar búið væri að greiða myndaðist inneign og svo væri skýrslu skilað. Ef t.d. væri um að ræða 200.000 króna inneign hjá tollstjóraembættinu og svo kæmi skýrsla að fjárhæð 100.000 krónur, þá væri hún stimpluð “án greiðslu”, en svo væri því skuldajafnað á móti. Hann væri ekki með það nákvæmlega hver skulda- eða inneignarstaða var á hverju tímabili um sig og vissi því ekki hvenær inn­eignir mynduðust og hvenær ekki, og hvenær greiðslur voru að koma ef endur­greiðslur voru að berast annars staðar frá eins og sannarlega hafi átt sér stað í mörgum tilfellum. Aftur á móti væri hann með sundurliðun vegna allra innborgana, en ekki væri hægt að sjá nákvæmlega hver inneignarstaðan var samkvæmt þeim skjölum sem hann fékk.

                Ákærði gerði svofellda grein fyrir innborgunum: Þann 22. apríl hafi verið greiddar 182.393 krónur sem sæist á fyrsta fylgiskjali með dómskjalinu. Kvaðst hann telja að þessi greiðsla væri vegna aprílmánaðar þótt eindagi væri í maí og taldi skýringuna vera að væntanlega hafi fé verið skilað jafnóðum og það barst. Ákærði var inntur eftir skýrslu undirritaðri af honum, sem móttekin var 25. maí 1994 og stimpluð “án greiðslu.” Aðspurður hvort ofangreind fjárhæð væri varðandi hana kvað hann svo vera. Honum var bent á að skilaskyld staðgreiðsla samkvæmt skýrslunni hafi numið 382.750 krónum. Ákærði benti á að sama dag, þ.e. 22. apríl, hefði jafnframt verið skilað 426.171 krónu. Það sem væntanlega hefði hér átt sér stað væri að endur­greiðslur voru að berast. Er hann var spurður hvort hann héldi því fram að þarna væri verið að mynda inneign kvað ákærði það augljóslega hafa verið að gerast. Honum var bent á að á tiltekinni útskrift sæist að reikningurinn virtist vera neikvæður þegar umræddar greiðslur fóru fram. Ákærði kvað því samtals hafa verið búið af greiða 609.000 krónur með þessum tveimur greiðslum. Þann 29. apríl s.á. hefðu verið greiddar 52.673 krónur og 48.205 krónur sem sjá mætti á sama skjali og 4. maí s.á. hefðu verið greiddar 113.716 krónur svo sem fram kæmi á sama skjali. Aðspurður hvort þessar innborganir tengdust sömu skýrslum og hann væri að fjalla um, þ.e. stöðunni áður en skila átti maískýrslunni, kvað ákærði umfjöllun sína varða staðgreiðsluskil og hann væri að ræða um tímabilið apríl til og með ágúst. Skýring hans væri sú að ef verið væri að skila mun hærri fjárhæðum en skilagrein segði til um hafi væntanlega myndast inneign sem draga ætti frá maí- og júnígreiðslum. Því næst kæmu þrjár greiðslur sem útlit væri fyrir að rannsóknari hefði komið auga á. Í fyrsta lagi væri greiðsla að fjárhæð 100.000 krónur 15. júlí 1994, í annan stað greiðsla að fjárhæð 100.000 krónur 29. júlí 1994 og í þriðja lagi greiðsla að fjárhæð 150.000 krónur 3. ágúst 1994 eða samtals 350.000 krónur. Þessar greiðslur hafi átt sér stað í júlí og ágúst, en þrátt fyrir það hafi þeim ekki verið ráðstafað inná júní-, júlí- og ágústskilagreinar. Á tímabilinu apríl til september hafi verið skilað 1.173.000 krónum eins og áður hefði komið fram. Í þeim gögnum sem hann fékk hjá tollstjóra­embættinu hefði hann ekkert sem segði til um hvort inneign hefði verið til staðar á þeim tíma eða skuld eða hvort fénu hefði verið ráðstafað í annað, svo sem trygg­ingagjald eða þungaskatt. Þá væri þess að geta að samtals hefði tollstjóraembættið ráðstafað 490.352 krónum upp í tryggingagjald, sem taka hefði átt tillit til sem innborgunar á staðgreiðslu. Nánar tiltekið væri hér um að ræða tryggingagjald sem skilað var 28. apríl 1994 að fjárhæð 129.595 krónur, skilað 24. apríl s.á. að fjárhæð 28.479 krónur, skilað sama dag að fjárhæð 7.456 krónur, skilað sama dag að fjárhæð 130.690 krónur og skilað sama dag að fjárhæð 194.132 krónur. Aðspurður hvort þessar greiðslur hefðu verið að koma inn með skýrslunum kvað hann sér ekki vera vera kunnugt um það. Honum var bent á að skýrslurnar væru ekki með sömu dagsetningum. Ákærði kvað skýringuna væntanlega vera þá að sá sem séð hafi um að skila skýrslunum hefði vitað að inneign var til staðar og ekki séð ástæðu til að skila greiðslu umfram hana. Um þetta væru engin gögn fyrirliggjandi í málinu og því væru þetta eiginlega getgátur, en honum sýndist að það hljóti að hafa verið inneign til staðar á umræddu tímabili miðað við þá fjárhæð sem skilað var. Upphæðin væri meira en helmingi hærri en skila átti. Þá gæti þetta vitaskuld hafa verið ráðstöfun á endur­greiðslum.

    Er hann var spurður hvort hann hafi komið að uppgjörinu eða skýrslugerðinni varðandi apríl 1994 kvaðst hann ekki hafa tengst því. Aðspurður hvort hann kannaðist við áritunina á skýrsluna kvaðst hann hafa verið beðinn að árita hana, en væntanlega hafi hún verið unnin af bókaranum og hann beðið ákærða að staðfesta hana til að hann gæti skilað skýrslunni. Er hann var spurður hvers vegna hann hefði þurft að undirrita kvað ákærði bókarann væntanlega ekki hafa náð í neina aðra sem tengdust félaginu. Hann vissi ekki hvort um væri að ræða frumskýrslur eða leiðréttingarskýrslur. Er hann var spurður hvort hann hefði álitið að það hefði verið nauðsynlegt að hann eða einhver stjórnarmaður áritaði kvaðst hann ekki hafa neina sérstaka skoðun á því. Ákærða var bent á að spurt væri vegna þess að hafi hann ekki komið nærri uppgjörinu og þekkti það ekki, hver væri þá ástæða þess að hann áritaði skýrsluna í ljósi þess að engin krafa hafi verið um það hjá félaginu hvaða stöðu sá gegndi sem áritaði skýrslurnar. Hann hafi sagt að hann hefði hvorki hugmynd um hvað bjó að baki né komið að viðkomandi uppgjöri. Ákærði kvað það vera rétt. Hann hefði samt sem áður áritað þessa skýrslu. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við skilagrein vegna ágúst 1994. Hann kvaðst kannast við áritun sína á skýrsluna. Honum var bent á að viðbótarskýrsla væri vegna sama mánaðar. Aðspurður hvort hann vissi hver hefði áritað hana kvað hann sér vera ókunnugt um það.

María Jónsdóttir kom fyrir dóminn. Vitninu var gerð grein fyrir að í gögnum málsins væri að finna tvær skýrslur varðandi afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda undirritaðar af henni f.h. Íslensks framtaks hf., og að þær bæru með sér að þeim hefði verið skilað án greiðslu. Um væri að ræða skýrslur vegna júní og júlí 1994. Hún var spurð hvort hún kannaðist við þessar áritanir sínar. Vitnið kvað þetta vera sínar áritanir.  Hún var spurð hvort þetta hafi verið ógreitt eða vanreiknað og enn fremur hvernig hún hafi lagað þetta. Vitnið kvaðst ekkert geta fullyrt í þeim efnum. Hún myndi ekki einstaka dæmi. Vitnið var spurð hvort verið gæti að það hafi verið áætlun í gangi, en búið hafi verið að skila skýrslum. Vitnið kvaðst ekkert þora að fullyrða í þeim efnum, en hún hefði verið í vandræðum með að láta kerfið laga þetta. Vitninu var bent á að stimplað væri á skýrslurnar “án greiðslu”. Í framhaldi af því var hún spurð hvort hún kannaðist við þessi tilvik. Vitnið kvaðst ekki muna hvert tilfelli fyrir sig, en hugsanlega hafi ekki verið búið að skila inn skýrslunni fyrir júlí og hafi hún drifið í því. Er hún var spurð hvort hún hafi þá einnig skilað inn greiðslu kvaðst hún ekki geta sagt til um það í einstökum tilvikum. Hún var spurð hver hefði tekið ákvörðun um að skila skýrslunum án greiðslu. Vitnið kvaðst ekki geta svarað þessu. Vitninu var bent á að ákærðu væru ákærðir fyrir að hafa ekki skilað þessum gjöldum. Í framhaldi af því var hún spurð hvort hún hefði tekið ákvörðun um að skila ekki greiðslum. Vitnið svaraði spurningunni neitandi. Hún var spurð hvort hún hefði gert ákærðu grein fyrir því að greiðslur vantaði. Vitnið kvað þá vitaskuld hafa greitt. Þessi gjöld hefðu haft forgang. Aðspurð hvort hún hafi farið með þessa skilagrein kvaðst hún áreiðanlega hafa afhent hana. Þetta væri hennar undirskrift. Vitnið var spurð hvort það kæmi henni á óvart að þarna væri fyrirvari um að skilagreininni hefði verið skilað án þess að greiðsla væri innt af hendi. Hún kvað svo ekki vera í þessu tilfelli vegna þess að búið hafi verið að áætla. Það hafi verið eldri áætlun til staðar sem hún hafi séð þegar hún fór og bað um yfirlit, og ekki hafi verið vitað um, en hún komist að. Kvaðst hún hafa farið að veita eftirtekt að áætlunum var til að dreifa og hún hafi hafist handa við að laga til á þessu sviði og greiða ef eitthvað var. Aðspurð hvort til hafi verið nægt fé til að greiða kvaðst hún ekki hafa haft peningamálin á sinni könnu. Hennar hlutverk hafi verið að setja á blað hvenær gjalddagar skuldabréfa voru, til að koma reglu á hluti og auðvelda vinnubrögð til þess að gjaldkeri og þeir sem sáu um greiðslur gætu skipulagt fjárstreymi o.þ.h. Vitnið var spurð hverjir hafi verið stjórnendur þessara fjögurra fyrirtækja samkvæmt því sem hún hafði reynslu af. Hún kvað ákærðu alla hafa verið rekstraraðila, en hún vissi ekki hvernig verkaskiptingu þeirra var háttað.

Vitnið var beðin að gera nánari grein fyrir hvers vegna áætlunum var til að dreifa. Kvað hún það hljóta að stafa af því að skýrsla barst ekki eða var lögð inn á röngum tíma. Hún var spurð hvort safnast hefðu upp innstæður hjá Gjaldheimtunni vegna þessa. Vitnið svaraði spurningunni neitandi. Þá kvað hún hafa tekið langan tíma að ná fram leiðréttingum. Þegar svo næsta skýrsla var greidd á réttum tíma hafi þeir peningar farið upp í eldri skuldir. Aðspurð hvort það hafi verið skuldir jafnframt þessu kvað hún sig minna það. Vitnið var spurð hvort það hafi ekki vakið athygli hennar að þeir sem veittu fé viðtöku hjá Gjaldheimtunni töldu að þeir hefðu ekki fengið greiðslur sem dygðu fyrir skuldunum. Hún kvað þá hafa gert það þegar verið var að leiðrétta. Vitnið var spurð hvort það væri ekki eitt að koma tölulega réttum niðurstöðum til skila og annað að standa skil á þeim. Svar vitnisins var að að baki þessara tveggja skýrslna gætu verið aðrar skýrslur, en hún gæti ekki svarað fyrir þær. Hún var beðin að útskýra nánar hvað hún ætti við þegar hún segði að á bak við þessar skýrslur hafi verið aðrar skýrslur, þ.e. hvort hún ætti við að áður hafi verið skilað inn skýrslum sem hefðu verið rangar. Vitnið kvað það oft gerast í fyrirtækjum að leiðréttur væri launaseðill, einn eða fleiri, sem væri eðlilegt. Hún hafi yfirfarið fjölda skýrslna og vegna þess að hún fann villur hafi hún beðið um hreyfingalista og skoðað þá og yfirfarið. Þetta ætti bæði við um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðis­auka­skattinn. Kvað hún starf sitt m.a. hafa verið fólgið í því að hjálpa til við að einfalda hlutina. Aðspurð hvort aldrei hafi fylgt greiðsla með leiðréttingarskýrslunum kvaðst hún ekki muna hvert einstakt tilvik.

    Vitnið kvað Þórarin Þórarinsson ekki hafa haft starfsaðstöðu að Nethyl 2, bókhaldsskrifstofa fyrirtækisins hafi verið við Laugaveg. Hún hafi þurft að hafa samskipti við Þórarin þegar hún var að biðja um gögn, en hafi ekki komið nálægt bókhaldinu. Vitnið kvaðst fyrst og fremst hafa unnið hjá Íslensku framtaki hf. og eingöngu sem launamaður. Athygli vitnisins var vakin á því að hún hafi fyrr verið spurð þessa sama og þá hefði svar hennar verið skilið svo að hún hafi verið starfsmaður hjá Íslensku framtaki hf., en sinnt ýmsum störfum sem til féllu vegna hinna fyrirtækjanna. Vitnið kvað það hafa komið fyrir að skjöl vegna hinna þriggja fyrirtækjanna voru send í starfsstöð Íslensks framtaks hf. að Nethyl 2 og þar sem það var í hennar verkahring að opna póstinn hafi hún sett þau skjöl í möppur og séð um að þeim yrði komið til skila á bókhaldsskrifstofuna við Laugaveg.

C

    Þann 30. janúar 1996 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á málefnum T-67 hf., m.a. staðgreiðsluskilum. Rekstur félagsins á þeim tíma sem rannsóknin tók til var fólginn í matvælavinnslu og veitingarekstri, en félagið keypti þann 4. janúar 1994 viðskiptavild, innréttingar, vélar og tæki af Íslensku framtaki hf., sem rak veitingastaðinn Pizza 67, Tryggvagötu 26, hér í borg. Rak T-67 hf. veitingastaðinn eftir það. T-67 hf. var stofnað 29. desember 1993. Stofnendur voru allir ákærðu auk fjögurra nafngreindra manna. Skiptist hlutaféð þannig að ákærðu áttu hver um sig 25.000 króna hlut, tveir hinna nafngreindu manna 230.000 hvor um sig og hinir tveir 220.000 krónur hvor um sig. Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var tilgangur með stofnun félagsins matvælavinnsla, veitingarekstur, lánastarfsemi, smásala og heild­sala, eign og rekstur fasteigna, skipa og bifreiða, kaup og sala hlutabréfa og verð­bréfa og þátttaka í öðrum félögum.

    Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár var ákærði Georg skráður stjórnar­formaður félagsins og ákærði Guðjón Ingvi framkvæmdastjóri. Ákærðu Einar og Árni voru samkvæmt sömu upplýsingum skráðir prókúruhafar. Tveir hinna nafngreindu manna voru samkvæmt sömu upplýsingum skráðir meðstjórnendur. Ákærði Georg staðfesti að þessar upplýsingar væru réttar í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 5. febrúar 1996. Kvaðst hann aðspurður hafa annast daglegan rekstur félagsins og fjármál þess.

    Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins afmarkaðist við vanskil félagsins á virðis­aukaskatti, staðgreiðslu og tryggingagjaldi vegna rekstrarársins 1995. Tók rann­sóknin hvað varðar vanskil félagsins til staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launagreiðslum launamana félagsins vegna launatímabilanna apríl til og með nóvember 1995, sem ekki hafði verið staðið skil á til innheimtumanns staðgreiðslu.

    Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi rannsóknin í ljós vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins. Rannsóknin á staðgreiðsluskilum félagsins rekstrartímabilið apríl til og með nóvember 1995, fólst í því að sannreyna staðgreiðsluskil þess, þ.e. að hve miklu leyti sú staðgreiðsla, sem félaginu bar að standa skil á í ríkissjóð vegna afdreginnar staðgreiðslu af launum launamanna félags­ins umrætt tímabil, væri í vanskilum. Byggði rannsóknin á innsendum staðgreiðslu­skilagreinum félagsins vegna tímabilsins apríl til og með nóvember 1995, svo og yfir­lýsingu Gjaldheimtunnar í Reykjavík um skuldastöðu félagsins. Fólst rannsóknin annars vegar í samanburði á fjárhæð afdreginnar staðgreiðslu af launum launamanna félagsins samkvæmt innsendum staðgreiðsluskilagreinum þess, og hins vegar greiðslum félagsins til innheimtumanns staðgreiðslu, Gjaldheimtunnar í Reykjavík. Rannsóknin leiddi í ljós að vangoldin var skilaskyld afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna félagsins sem haldið hafði verið eftir af launagreiðslum til launamanna félagsins á tímabilinu apríl til og með nóvember 1995. Nam höfuðstóll vangoldinnar skilaskyldrar afdreginnar staðgreiðslu launamanna félagsins þann 12. janúar 1996, samtals að höfuðstól 261.374 krónum, auk álags og dráttarvaxta. Þá kom í ljós við skoðun á innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins að þeim hafði öllum verið skilað of seint til innheimtumanns og öllum án greiðslu.

    Samkvæmt upplýsingum ákærðu Georgs og Einars í skýrslutökum hjá skatt­rannsóknarstjóra ríkisins var gerð staðgreiðsluskilagreina félagsins byggð á bókhalds­gögnum þess. Einnig taldi starfsmaður félagsins, María Jónsdóttir, í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að svo hefði verið. Ákærðu Georg, Einar og Árni voru einnig spurðir hvers vegna afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu launamana félagsins var ekki skilað á réttum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs. Sagði ákærði Georg að það hefði byggst á vali milli þess að greiða virðisaukaskatt eða afdregna staðgreiðslu. Þar sem meiri þrýstingur hefði verið á greiðslu virðisaukaskattsins hafi staðgreiðslan setið á hakanum. Aðspurður um þetta kvaðst ákærði Einar ekki vita ástæðuna. Ákærði Árni kvað ástæðuna hafa verið peningaskort hjá fyrirtækinu. Ákærðu Georg, Einar og Árni voru einnig spurðir hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda var ekki skilað til innheimtumanns staðgreiðslu. Kvaðst ákærði Georg hafa tekið þá ákvörðun. Ákærðu Einar og Árni sögðust ekki vita það. Ákærði Georg var einnig spurður hvort launamönnum félagsins hefðu verið greidd full laun samkvæmt launaseðlum á réttum tíma, þrátt fyrir að afdreginni staðgreiðslu var ekki skilað til innheimtumanns. Sagði hann svo hafa verið.

    Með bréfi dagsettu 28. maí 1996 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkis­skatt­stjóra eintak af skýrslu sinni, en rannsókn hafði lokið 22. s.m., vegna endurákvörð­unarheimilda hans skv. nánar tilgreindum lagaheimildum. Með bréfi dagsettu 31. sama mánaðar tilkynnti ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hygðist ekki beita þeim endurákvörðunarheimildum sem í lagaheimildum hans fælust.

    Þann 4. júlí 1996 var félaginu og þremur fyrirsvarsmönnum þess, ákærðu Georg, Einari og Árna, sent bréf þar sem þeim var tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku skattrannsóknarstjóra ríkisins um refsimeðferð í málinu. Var þeim af því tilefni gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð og veittur 15 daga frestur í því skyni. Bréf til ákærðu Georgs og Einars voru endursend skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem þeirra var ekki vitjað. Þann 14. ágúst s.á. barst embættinu svar frá félaginu, undirritað af ákærðu Einari, Árna og Georg. Í bréfinu var þess óskað að málinu yrði vísað til yfirskattanefndar. Jafnframt var tekið fram að forsvarsmenn félagsins hefðu reynt eftir fremsta megni að greiða vangreidd opinber gjöld frá því rekstri félagsins var hætt. Þá var í bréfinu vísað í hjálögð gögn er sýndu að umtalsverðar fjárhæðir hefðu verið greiddar eftir að félagið hætti rekstri, í mörgum tilvikum fyrst til þeirra aðila sem sett hefðu mestan þrýsting á félagið, t.d. lífeyrissjóðir, Gjaldheimtan í Reykjavík og tollstjóri. Að lokum sagði í bréfinu að unnið væri að yfirferð alls bókhalds félagsins í því skyni að “ná fram leiðréttingum á áætlunum frá opinberum aðilum ...” og myndi félagið ljúka framangreindu og greiða upp skuldir sínar á næstu sex mánuðum. Efir skoðun á bréfi fyrirsvarsmanna félagsins svo og málsatvikum í heild ákvað skattrannsóknarstjóri ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar. Sendi embættið málið til rannsóknarlögreglu ríkisins með kærubréfi dagsettu 24. september 1996.

    Ákærði Guðjón Ingvi gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum T-67 hf., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt var honum gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Honum var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár, dagsett 27. desember 1995, varðandi T-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að ákærði Guðjón Ingvi væri skráður framkvæmdastjóri félagsins. Aðrir í stjórn væru skráðir ákærði Georg, sem stjórnarformaður, og prókúruhafar væru skráðir ákærðu Einar og Árni. Þá væru tveir nafngreindir menn skráðir með­stjórn­endur. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt heimild.  Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá T-67 hf. kvaðst hann ásamt meðákærðu hafa borið sameiginlega ábyrgð á rekstri og fjármálastjórn félagsins og þrátt fyrir skráningu hans sem framkvæmdastjóra hefði ábyrgð hans hvorki verið meiri né minni en hinna. Hann var spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn T-67 hf. Ákærði kvaðst ásamt meðákærðu hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir í allri fjármálastjórn. Hann var einnig spurður um verksvið stjórnarmanna T-67 hf., þ.e. ákærða Georgs og meðstjórnendanna. Vísaði ákærði til fyrra svars varðandi ákærða Georg, en kvað meðstjórnendurna hvorki hafa komið að rekstri félagsins né neinum ákvörðunum um fjármálastjórn. Ákærði var þá spurður hver væri staða T-67 hf. Hann kvað félagið vera eignalaust og hætt í rekstri. Það hefði ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og unnið væri að uppgjöri þeirra skulda sem fjallað væri um í kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins.

    Ákærða var kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvað skilagreinarnar vera byggðar á bókhaldi félagsins og gerðar á sameiginlega ábyrgð ákærðu allra. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlitið byggði á framangreindum skila­greinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum T-67 hf. og útskrift Gjald­heimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslu­tímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers greiðslu­tímabils um sig, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 193.667 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað fjárhagserfiðleika félagsins hafa valdið því að ekki var unnt að greiða umrædda afdregna staðgreiðslu. Hann gæti ekki svarað því hvort um rétta fjárhæð væri að ræða, en kvaðst ekki rengja þau gögn sem fyrir lægju. Kvað hann enga sérstaka ákvörðun hafa verið tekna um að greiða ekki, heldur hefðu ýmsir aðgangsharðari innheimtumenn fengið greitt og síðan hafi ekki verið til fé til að standa skil á framangreindum gjöldum. Stjórnarmenn félagsins væru allir ábyrgir fyrir framangreindum málum. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1995. Ákærði kvað allt fé hafa farið í rekstur félagsins.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið framkvæmdastjóri T-67 hf. á því tímabili sem um getur í ákæru. Hann var beðinn að gera nánari grein fyrir störfum sínum sem framkvæmdastjóri félagsins, þ. á m. hvað varðar fjármálastjórn, hvort hún hafi verið á hans hendi. Ákærði kvað þá Georg hafa verið að einhverju marki saman í því. Samt sem áður hafi hann komið að fjármálastjórn og ákvörðunum er lutu að fjármálum félagsins. Ákærði var spurður hvort prókúruhafarnir, ákærðu Árni og Einar, hefðu komið þar að. Hann kvað svo ekki vera. Aðspurður hvað hefði ráðið því að þeir höfðu prókúruumboð fyrir félagið kvaðst ákærði ekki muna glöggt hvernig því vék við. Hann var spurður hvort hann og ákærði Georg hefðu skipt með sér verkum að einhverju leyti. Ákærði kvaðst ekki muna glöggt hvað hvor gerði, að öðru leyti en því að þeir hefðu skipt með sér verkum. Aðspurður hvort þeir hefðu báðir verið daglegir stjórnendur kvað ákærði svo hafa verið að mestu leyti. Borið var undir ákærða ljósrit skilagreinar vegna afdreginnar staðgreiðslu vegna ágúst 1995 og í framhaldi af því var hann spurður hvort hann kannaðist við skilagreinina. Hann kvaðst ekki átta sig á hvers vegna þarna vantaði upp á, en um fjölda greiðslna væri að ræða. Eins og hann hefði áður sagt hefði bókarinn séð um þessa hlið mála. Aðspurður hvaða greiðslur hann væri að ræða um benti hann á greiðslu frá 25. september. Ákærða var bent á að ganga hefði átt frá staðgreiðslu 15. september. Hann kvaðst ekki geta tjáð sig um hvers vegna þar tilgreind upphæð var ekki greidd. Ákærða var bent á að skýrslunni hefði verið skilað 4. október 1995. Hann benti á að samkvæmt dómskjali 68 hefði þann 25. september s.á. verið greiddar 161.000 krónur. Ákærða var á móti bent á að það væru greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi með öðrum skýrslum eða væru endurgreiðslur frá skattyfirvöldum. Ákærði ítrekaði að bókarinn hefði séð um að ganga frá skýrslunum og hann gæti ekki tjáð sig nákvæmlega um það. Hann sæi að búið væri að greiða miklu meira en þessu næmi. Borin var undir ákærða skýrsla varðandi september 1995, dagsett 1. nóvember s.á., sem hefði skv. stimpli verið skilað 13. s.m., undirrituð af ákærða Georg. Aðspurður hvort hann kannaðist við skýrsluna kvaðst hann ekki geta tjáð sig um hvers vegna skýrslunni var skilað svo seint. Honum var bent á að gögn málsins bæru með sér að greiðslu hefði ekki verið skilað samhliða skýrslunni. Ákærði benti á móti á að samt sem áður væru til staðar greiðslur, en hann gæti ekki sagt nákvæmlega til um hvers vegna skýrslunni var skilað of seint og hvers vegna greiðslur stemmdu ekki nákvæmlega. Honum sýndist þó vera margborgað hér. Borið var undir ákærða ljósrit skilagreinar vegna október 1995, dagsett 10. nóvember s.á. Samkvæmt gögnum málsins hefði skýrslunni verið skilað, en ekki greiðslunni. Ákærði kvað sama máli gegna hér. Er hann var spurður hvort hann myndi eftir skýrslunum og því sem fram fór í kringum þær kvað ákærði sig bresta minni til þess. Ákærði var spurður hvort ákærðu hefðu rætt það að Gjaldheimtan teldi að félagið stæði ekki í skilum, en þeir teldu að félagið væri að greiða og ætti jafnvel inni. Hann kvaðst ekki minnast þess. Hann myndi ekki til að þeir hefðu fengið tilkynningar þar um. Borið var undir ákærða ljósrit skilagreinar vegna nóvember 1995, dagsett 8. janúar 1996, með móttökustimpli 15. janúar 1996 “án greiðslu.” Ákærði kvað sama eiga við hér. Hann var spurður hvaða áritun væri á skýrslunni. Ákærði kvaðst ekki sjá hvað stæði þar. Hann væri þó viss um að það væri ekki hans rithönd. Ákærði kynnti sér skýrsluna sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins. Hann kvaðst aðspurður kannast við nafnritun sína undir skýrsluna. Ákærða var gerð grein fyrir að í skýrslunni segði hann að ákærðu Einar og Árni hefðu komið að ákvörðunum um fjármálastjórn ásamt honum sjálfum og ákærða Georg. Ákærði kvað sama eiga hér við og fyrr. Þetta væri “kópering” af hinum skýrslunum. Yfirheyrandinn hefði sagt að þetta skipti engu máli. Hann var spurður hvor hefði gefið svörin hann eða rannsóknarlögreglumaðurinn. Ákærði kvað yfirheyrandann hafa leitt sig í þessu máli. Hann hefði m.a. sagt að hann skammaðist sín fyrir að vera að yfirheyra hann vegna 193.000 króna. Þá hefði hann sagt að ákærði þyrfti ekki verjanda vegna þess að þetta skipti engu máli. Að öðrum kosti hefði hann mætt með verjanda. Það væri formsatriði að mæta til yfirheyrslu og ef hann greiddi skipti framburður hans engu máli. Kvaðst ákærði hafa verið “alveg grænn” hvað það varðar.

    Verjandi innti ákærða nánar eftir hvort það væri rétt að rannsóknarlög­reglu­maðurinn hefði sagt að ef ákærðu greiddu þær fjárhæðir sem taldar voru þeim til skuldar yrði ekki aðhafst frekar í málinu. Ákærði kvað hann hafa margtekið þetta fram. Kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri meiningu að félagið skuldaði ekki. Hann hafi ekki verið búinn að kynna sér það. Yfirheyrandinn hefði sagt að ef þetta yrði gert upp þyrftu þeir engar áhyggjur að hafa. Þeir hafi greitt og til þess hefði hann fengið fé að láni hjá foreldrum sínum. Samtals hafi þeir önglað saman 3,1 milljón og greitt það sem yfirheyrandinn tjáði þeim að félögin skulduðu.

    Ákærði Georg gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum T-67 hf., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt, var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. febrúar 1996. Ákærði staðfesti undirritun sína og að rétt væri eftir honum haft. Honum var gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Honum var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár, dagsett 27. desember 1995, varðandi T-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að ákærði Georg væri skráður stjórnarformaður félagsins. Ákærði Guðjón Ingvi væri skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafar væru skráðir ákærðu Einar og Árni. Þá væru tveir nafngreindir menn skráðir meðstjórnendur. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Ákærði staðfesti að framangreint væri rétt. Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá T-67 hf. kvaðst hann hafa séð um daglegan rekstur. Hann var spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn T-67 hf. Ákærði kvaðst hafa séð um daglega fjármálastjórn, en allar meiri háttar ákvarðanir hefðu verið teknar af honum ásamt meðákærðu. Ákærði var spurður um verksvið annarra stjórnarmanna T-67 hf., þ.e. meðstjórnendanna. Hann kvað meðstjórnendurna hvorki hafa komið að rekstrinum né tekið þátt í ákvörðunum um fjármálastjórn. Ákærði var þá spurður hver væri staða T-67 hf. Hann kvað félagið vera hætt rekstri, tímabundið, en eigendur væru að vinna að uppgreiðslu skulda vegna opinberra gjalda sem myndi ljúka í maí 1997.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði staðfesti eigin undirritun. Hann kvað skilagreinarnar hafa verið í samræmi við bókhald félagsins, á hans ábyrgð. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlitið byggði á framangreindum skila­greinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum T-67 hf. og útskrift Gjald­heimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997 varðandi greiðslustöðu hvers greiðslu­tímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers greiðslu­tímabils um sig, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 193.667 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvað orsakir þessarar skuldar vegna staðgreiðslu hafa verið veika eiginfjárstöðu sökum lítt arðbærs reksturs og að illa hefði gengið að innheimta skuldir. Auk þess hefði vaxtabyrði og háar álögur gert félaginu ómögulegt að gera skil á réttum tíma. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1995. Ákærði kvaðst vísa til framan­greindra svara sinna. Féð hefði hvorki farið til einkaþarfa eigenda né annarrar eigna­myndunar.

                Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður um stöðu hans hjá fyrir­tækinu í daglegri stjórn og rekstri. Hann kvað þau hafa verið fólgin í að sinna tilfallandi störfum. Ákærði var spurður hvort hann gæti tilgreint þau sérstaklega. Hann kvaðst ekki geta tilgreint hver þau störf voru á þeim tíma. Aðspurður hvort það hefðu verið stjórnunarstörf öðru fremur kvað hann svo ekki vera. Ákærða var sýnt ljósrit skilagreinar vegna ágúst 1995 og spurður hvort hann kannaðist við skilagreinina, gerð hennar og skil. Kvað hann undirritunina líklega vera sína, en að öðru leyti myndi hann þetta ekki. Ákærða var gerð grein fyrir að þessari skilagrein hafi verið skilað inn, en greiðsla ekki verið innt af hendi um leið. Hann svaraði að hann vissi það ekki. Ákærða var þá sýnt ljósrit skilagreinar vegna september 1995 og spurður hvort hann kannaðist við hana. Ákærði kvaðst kannast við nafnritun sína á hana. Honum var bent á að þar væri áritun með sama hætti og áður að hún væri án greiðslu og gögn innheimtumanns bæru einnig með sér að ekki hefði verið greitt. Ákærði kvaðst ekki geta svarað fyrir þetta. Hann var spurður hvernig staðið hefði verið að gerð þessarar skilagreinar. Ákærði svaraði að væntanlega hefði bókari fyrirtækisins borið ábyrgð á að skilagreinarnar væru gerðar og að þær væru réttar. Aðspurður um skilin og greiðsluna svaraði ákærði að væntanlega hefði bókarinn einnig átt að sjá um þann þátt. Ákærða var þá kynnt skýrslan vegna október 1995. Hann kvað þessa skýrslu hljóta að hafa verið greidda. Honum var bent á að sam­kvæmt gögnum Gjaldheimtu og rannsókn málsins hefði þessari skýrslu verið skilað án greiðslu. Ákærði kvaðst ekki kannast við þessa skýrslu að öðru leyti. Hann væri búinn að staðfesta að hann hefði áritað hana. Loks var ákærði spurður um skilagrein vegna nóvember 1995. Ákærði kvaðst kannast við áritun sína á þessa skýrslu. Hann var spurður hvort hann kannaðist við uppgjörið og að fé hefði ekki verið skilað. Ákærði kvaðst ekki kannast við það. Borin var undir ákærða skýrslan sem hann gaf við lögreglurannsókn málsins og hann jafnframt spurður hvort hann kannaðist við nafnritun sína undir hana. Hann kvaðst kannast við hana. Honum var bent á að í skýrslunni lýsti hann því að hann hefði annast daglega fjármálastjórn, en aðrar ákvarðanir verið teknar af öllum ákærðu. Ákærði kvaðst hafa svarað þessu eins og honum var ráðlagt við lögreglurannsóknina. Fylgt hafi verið stöðluðu formi. Hann var spurður hvort þetta hefði ekki verið svona. Kvaðst ákærði ekki muna það nú þar sem of langt væri um liðið.

    Verjandinn gerði ákærða grein fyrir að á dómskjali 68 væri samantekt greiðslna til Gjaldheimtunnar í Reykjavík vegna tímabilsins ágúst - september 1995, alls að fjárhæð 1.003.464 krónur, er spönnuðu tímabilið frá 25. september til 13. desember. Hann var spurður hvað félagið hefði verið að greiða með þessum greiðslum. Ákærði kvað það hafa verið að greiða sorglega háar fjárhæðir fyrir litla skuld. Aðspurður hvort hann teldi að með þessum greiðslum hefði félagið verið að inna af hendi greiðslur í staðgreiðslu opinberra gjalda kvað ákærði svo hafa verið. Eins og skýrt sæist hefði þessu verið skilað að fullu og mjög ríflega það.

    Ákærði Árni gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 28. apríl 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum T-67 hf. dagsett 24., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt, var honum gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Honum var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár, dagsett 27. desember 1995, varðandi T-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að ákærði Guðjón Ingvi væri skráður framkvæmdastjóri félagsins. Ákærði Georg væri skráður stjórnarformaður og prókúruhafar væru skráðir ákærðu Einar og Árni. Þá væru tveir nafngreindir menn skráðir meðstjórnendur. Ákærða var kynnt framangreint vottorð hlutafélagaskrár og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Hann staðfesti að framangreint væri rétt. Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá T-67 hf. kvaðst ákærði ekki hafa starfað hjá félaginu. Hann hafi verið hluthafi og myndi ekki hvort hann hefði þurft að undirrita skjöl sem prókúruhafi. Hann var spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn félagsins. Ákærði taldi að ákærði Georg hefði haft með daglega fjármálastjórn að gera. Hann var spurður um verksvið annarra stjórnarmanna T-67 hf., þ.e. með­stjórnendanna. Hann kvað meðstjórnendurna hvorki hafa komið nærri rekstrinum né tekið þátt í ákvörðunum. Raunverulegir stjórnendur hefðu verið ákærðu allir. Ákærði var þá spurður hver væri staða T-67 hf. Hann kvað félagið ekki vera í rekstri, en eigendur ynnu að því að greiða upp skuldir, sem líklega væru eingöngu vegna stað­greiðslu opinberra gjalda.

    Ákærða var kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Hann kvaðst ekki hafa komið að gerð þessara skilagreina, en taldi að þær væru í fullu samræmi við bókhaldið og hafi þær verið gerðar á ábyrgð ákærða Georgs. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. 16. sama dag. Yfirlitið byggði á framangreindum skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum T-67 hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers og eins greiðslutímabils, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtu­manns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu T-67 hf. hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 193.667 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða fjárhæðir væri um að ræða og gæti því hvorki staðfest né rengt framangreindar niðurstöður. Hann kvað erfiðleika í rekstri félagsins hafa valdið því að ekki var greitt á tilskyldum tíma. Kvað hann aldrei hafa verið tekna ákvörðun um að greiða ekki, heldur hafi fjárskortur ráðið því að ekki var greitt. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1995. Ákærði kvað þessu fé ekki hafa verið haldið aðskildu frá öðru fé í rekstri og því verið notað í þágu félagsins.

    Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið prókúruhafi félagsins ásamt ákærða Einari. Hann kvað prókúruna ekki hafa falið mikið í sér. Þá myndi hann ekki hverju hann hefði sinnt sem prókúruhafi í rekstri fyrirtækisins. Kvað hann þá ekki hafa verið í þannig rekstri að hann hafi notað prókúruna yfir höfuð. Aðspurður hvort hann hefði sinnt einhverjum störfum fyrir félagið kvað hann það vel geta verið, en hann myndi það ekki. Borin var undir ákærða skýrslan sem hann gaf við lögreglu­rannsókn málsins og spurður hvort rétt væri eftir honum haft. Hann kvaðst halda það, en sem fyrr hefði þetta verið eitthvað sem var tilbúið. Er hann var spurður hvort þetta væru svör hans við þeim tilbúnu spurningum eða hvort þetta væri rétt kvaðst hann halda að þetta væri rétt. Ákærða var bent á að í skýrslunni segði hann að raunveru­legir stjórnendur hefðu verið ákærðu allir. Aðspurður hvort hann hefði að einhverju leyti komið að stjórn félagsins eða starfað fyrir það kvað hann vel geta verið að hann hefði sinnt einhverjum störfum. Hann myndi ekki hvað hann hafi gert nákvæmlega. Bornar voru undir ákærða ljósritaðar skilagreinar tryggingargjalds vegna maí og júní 1995 og hann spurður hvort hann hefði undirritað þær. Ákærði kvaðst kannast við undirskriftir sínar. Aðspurður hvernig það hefði komið til að hann kom nálægt þessari skýrslugerð kvaðst hann sennilega hafa verið hjá bókaranum sem hefði beðið hann að undirrita skýrslurnar. Hann hafi ekki komið að því að finna þessar tölur út. Ákærði var spurður hvort þessi fjögur fyrirtæki hefðu verið stofnuð og starfað undir einhverju sameiginlegu markmiði. Hann kvað þau ekki hafa sinnt sömu málefnum. Þá hafi hvert fyrirtæki um sig haft sína starfsstöð. Verjandinn spurði ákærða hvort hann teldi að hin afdregna staðgreiðsla að fjárhæð 193.667 krónur væri að fullu greidd og að greitt hefði verið á gjalddögum eða því sem næst. Ákærði svaraði báðum spurn­ing­unum játandi.

    Ákærði Einar gaf skýrslu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 15. ágúst 1997. Eftir að honum hafði verið kynnt kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur forráðamönnum T-67 hf., m.a. vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt, var honum kynnt framburðarskýrsla hans hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 4. mars 1996. Ákærði staðfesti undirritun sína og að rétt væri eftir honum haft. Honum var gerð grein fyrir að til staðar væri meint skuld vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum félagsins og að rannsókn lögreglu snerist um þann þátt. Ákærða var kynnt að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra væri vottorð hlutafélagaskrár, dagsett 27. desember 1995, varðandi T-67 hf. Samkvæmt vottorðinu væri tilgangur rekstrar félagsins skráður matvælavinnsla, veitingarekstur o.fl. Enn fremur kæmi fram að ákærði Einar væri skráður prókúruhafi félagsins ásamt ákærða Árna og ákærði Georg væri skráður stjórnarformaður. Þá væru tveir nafngreindir menn skráðir meðstjórnendur. Ákærða var kynnt framangreint vottorð og spurður hvort um væri að ræða rétta heimild hvað varðaði starfsemi og stjórn félagsins. Hann staðfesti að vottorðið væri rétt heimild.  Aðspurður hvert hefði verið verksvið hans hjá T-67 hf. kvaðst hann hafa tekið þátt í daglegum rekstri ásamt öðrum forráðamönnum félagsins. Hann var spurður hver hefði annast daglega fjármálastjórn félagsins. Ákærði kvaðst ásamt öðrum ákærðu hafa annast daglega fjármálastjórn. Ákærði var einnig spurður um verksvið stjórnarmanna T-67 hf., þ.e. ákærða Georgs og meðstjórnendanna. Hann kvað meðstjórnendurna hvergi hafa komið að rekstri félagsins, en kvaðst vísa til fyrri svara varðandi þátt ákærða Georgs.

    Ákærða voru kynnt staðfest ljósrit skilagreina vegna afdreginnar staðgreiðslu af launþegum í nafni T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995. Hann var spurður á hverju skilagreinarnar hefðu byggst og hver hafi borið ábyrgð á gerð þeirra. Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um þessar skýrslur. Þá var ákærða kynnt yfirlit RLR, dagsett 16. apríl 1997, yfir afdregna staðgreiðslu af hálfu T-67 hf. vegna greiðslutímabilanna ágúst til og með nóvember 1995 svo og greiðslustaða gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs m.v. sama dag. Yfirlitið byggði á framan­greind­um skilagreinum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launþegum T-67 hf. og útskrift Gjaldheimtunnar í Reykjavík 16. apríl 1997, varðandi greiðslustöðu hvers greiðslutímabils. Í rannsókninni væri tekið tillit til heildargreiðslna vegna hvers greiðslutímabils um sig, hvort heldur þær væru færðar sem innborgun á höfuðstól skuldar eða á öðrum forsendum í bókhaldi innheimtumanns ríkissjóðs. Með vísan til þess sem að framan væri rakið væri það niðurstaða rannsóknarinnar að vangoldin afdregin staðgreiðsla af hálfu félagsins hefði, m.v. 16. apríl 1997, numið 193.667 krónum vegna ársins 1995. Eftir að ákærða höfðu verið kynnt tilvitnuð gögn málsins var hann spurður hvers vegna afdreginni staðgreiðslu samkvæmt framangreindu var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs og hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun um að ekki skyldi greitt. Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um þessi atriði. Loks var ákærði spurður hvert það fé hefði runnið sem þannig var haldið eftir af afdreginni staðgreiðslu ársins 1995. Hann kvaðst ekki geta tjáð sig um þessi atriði.

    Við aðalmeðferð málsins var ákærða bent á að hann væri ásamt meðákærðu ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna ágúst til og með nóvember 1995. Aðspurður hvort hann teldi sig þá ekki geta svarað því að þetta varðaði hann kvaðst hann hafa aflað sér gagna um málið og gæti upplýst um greiðslur miðað við þau gögn sem fyrir lægju. Hann kvaðst þó engu geta svarað varðandi greiðslur, hvort til staðar hafi verið inneignir eða hver hafi séð um hvað, en hann gæti farið yfir þær tölulegu upplýsingar sem búið væri að afla. Ákærða var gerð grein fyrir, í tilefni af því að hann hefði nefnt að hann hefði ekki komið nálægt rekstri félagsins, að borin myndu verða undir hann gögn er skilað var í nafni félagsins. Í fyrsta lagi væri um að ræða greiðsluseðil vegna tryggingagjalds sem virtist bera áritun hans. Ákærði kvað sér sýnast þetta vera undirskrift hans. Honum var bent á að hún bæri með sér að hann hafi haft aðra aðkomu að félaginu en þá að hann hefði ekki tengst rekstri þess. Ákærði kvaðst ekki muna glöggt eftir þessu tilviki, en væntanlega hafi hann verið beðinn um þetta af einhverjum og talið að prókúruhafi hefði rétt til þess. Ákærða var gerð grein fyrir að í öðru lagi væri um að ræða tryggingargjald vegna mars 1995. Aðspurður hvort hann kannaðist við nafnritun sína og einnig vegna apríl kvaðst hann gera það. Hann var spurður í ljósi þess að gögnin væru árituð af ákærðu Árna og Georg, hvernig þeir hefðu komið að rekstrinum. Ákærði kvað sér vera ókunnugt um það. Aðspurður hvort hann gæti gefið skýringu á áritun þeirra í þessu samhengi kvaðst hann ekki geta það.

    Ákærða var gerð grein fyrir að ákæruliðurinn lyti að því að ekki hafi verið staðin skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna ágúst til og með nóvember 1995 og spurður hvort hann teldi sig geta skýrt þessi uppgjör. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt ná­kvæm­lega hvaða peningum var verið að skila, en hann gæti skýrt tölulegar upplýsingar frá tollstjóraembættinu. Ákærði kvað sér hafa tekist að afla gagna um þetta sem kæmu fram á dómskjali 68. Hann benti á að samkvæmt rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkis­lögreglustjóra hefði afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda samkvæmt skilagreinum vegna ágúst, september,október og nóvember 1995 numið samtals 293.175 krónum. Við rannsóknina hefði rannsóknari komist að því að greiddar hefðu verið 99.508 krónur. Mismunurinn væri 193.667 krónur sem ákært væri fyrir. Á blöðum sem fylgdu dómskjalinu og væru útprentanir frá tollstjóraembættinu kæmi fram að 25. september 1995 hefðu verið greiddar 161.858 krónur, sama dag hefðu verið greiddar 114.488 krónur, sama dag hefðu verið greiddar 99.142 krónur og loks sama dag hefðu verið greiddar 127.976 krónur. Þann 27. nóvember hefðu verið greiddar 100.000 krónur, 4. desember hefðu verið greiddar 56.311 krónur, sama dag hefðu verið greiddar 43.689 krónur, 13. desember s.á. hefðu verið greiddar 89.883 krónur, sama dag hefðu verið greiddar 121.963 krónur og enn sama dag hefðu verið greiddar 88.154 krónur. Þannig næmu þrjár síðustu greiðslurnar sem greiddar voru 13. desember um 400.000 krónum. Ef gögn sækjanda, sem hann lagði fram úr rannsókn málsins, væru skoðuð kæmu ekki í ljós neinar innborganir vegna nóvember, sem skila hefði átt í síðasta lagi 15. desember s.á. Skilað hafi verið 13. desember um 400.000 krónum, en ákært væri vegna nóvember fyrir 64.000 krónur. Af einhverjum ástæðum hafi rannsóknara ekki tekist að koma auga á þessar innborganir. Þarna hefðu samtals verið greiddar rúmar 1.003.000 krónur, en við rannsókn málsins hafi rannsóknari einungis komið auga á 99.508 krónur. Kvað ákærði sér virðast ástæðan vera að tollstjóraembættið hafi ráðstafað þessum fjárhæðum upp í önnur gjöld. Það breytti því ekki að það hafi verið greitt. Sem fyrr segir hafi engin gögn komið frá sækjanda. Greidd hafi verið rúm ein milljón króna, en ákæruvaldið hefði aðeins séð 1/10 hluta þeirrar fjárhæðar.

    Ragnar Björnsson viðskiptafræðingur kom fyrir dóminn. Vitninu var bent á að á bls. 15 í skýrslu skattrannsóknarstjóra segði að vangreidd staðgreiðsla hefði numið 682.339 krónum, þ.e. afdregin staðgreiðsla við upphaf rannsóknar. Innborganir væru sagðar 420.965 krónur og skuld 261.374 krónur. Á bls. 14 segði að greitt hefði verið inn á staðgreiðsluskuldina 18. janúar 1995 50.000 krónur og 19. s.m. 450.000 krónur. Vitnið var beðinn að útskýra hvað hafi verið greitt af álögum og dráttarvöxtum með þeim innborgunum sem þarna hefðu átt sér stað. Vitnið svaraði að væntanlega hafi mismuninum á 500 þúsundunum og 420 þúsundunum verið ráðstafað upp í eitthvað annað. Hann var spurður hvort hann gæti staðfest áritun sína á þeim skýrslum sem bæru það með sér að hann hefði unnið þær. Vitnið staðfesti að hann hefði unnið þessar skýrslur.

                Niðurstöður

                Ákærðu byggja frávísunarkröfu sína á því að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Við þingfestingu málsins 24. júní 1998 beindi verjandinn þeim tilmælum til ákæru­valdsins að lögð yrðu fram gögn er sýndu álagningu gjalda á þau fyrirtæki sem í ákæru greinir, þar sem fram kæmu sundurliðun höfuðstóls, álags og dráttarvaxta svo og þær greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi. Í þinghaldi í febrúar sl. var bókað eftir verj­andanum að gögn þau sem lögð voru fram í næsta þinghaldi á undan frá toll­stjóranum í Reykjavík væru ekki í samræmi við þá beiðni sem sett var fram við þingfestingu málsins. Áréttaði verjandinn að ósk hans lyti að því að aflað yrði gagna um álagningu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda frá stofnun félaganna og að gerð yrði grein fyrir greiðslum sem borist höfðu til innheimtumanna og hvernig þeim var ráðstafað. Verjandinn bendir á að þau gögn sem ákæruvaldið lagði fram hafi aðeins varðað virðisaukaskattinn og verið afar takmörkuð, en umbeðin gögn um staðgreiðslu opinberra gjalda hafi ekki verið lögð fram af hálfu ákæruvalds. Málið sé því svo illa upplýst að dómur verði ekki lagður á það. Það er álit dómsins að þau gögn sem ákæruvaldið aflaði og lagði fram varðandi sakarefni fyrri kafla ákæru séu svo skýr að með framlagningu þeirra hafi verið bætt úr hugsanlegum göllum rannsóknar er lýtur að I. kafla ákæru. Hvað varðar sakarefni síðari kafla ákæru er þess að geta að ákærðu öfluðu gagna og lögðu fram við meðferð málsins eftir að sýnt varð að ekki yrði um frekari gagnaöflun að ræða af hálfu ákæruvalds. Gögn þessi, sem lúta að greiðslum félaganna sem um getur í II. kafla ákæru á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, þykja liggja fyrir með nægjanlega skýrum hætti. Telur dómurinn að með fram­lagningu þeirra sé með viðhlítandi hætti bætt úr hugsanlegum göllum rannsóknarinnar að því er tekur til síðari kafla ákæru. Samkvæmt framansögðu verður kröfu ákærðu um að málinu verði vísað frá dómi synjað.

I. A

                Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 er það lýst refsivert að ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Af þessum lagaákvæðum leiðir að unnið verður til refsingar með því einu að láta ógert að standa skil á umræddum gjöldum, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt. Styðst þessi niðurstaða við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Ekki er um það deilt í málinu að þegar virðisaukaskattskýrslunum var skilað fylgdi þeim ekki greiðsla.

                Í fyrri lið I. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti hlutafélagsins K-67 hf. eins og þar er nánar lýst. Við rannsókn málsins á báðum rannsóknarstigum var framburður ákærðu á þá leið að þeir hafi allir komið að rekstri félagsins og sameiginlega borið ábyrgð á fjármálum þess. Þá hafi þeim verið kunnugt um vanskil skattgreiðslna af hálfu félagsins. Við meðferð málsins vildu þeir hins vegar ýmist ekki kannast við þessa ábyrgð sína eða þá að takmörkuðu leyti. Er þetta reifað í málavaxtalýsingu. Þannig hefur verið upplýst að ákærðu komu að gerð virðisaukaskattskýrslna og annarra skýrslna til innheimtumanna ríkissjóðs þótt bókari félagsins hafi annast um útreikning gjaldanna. Telur dómurinn að breyttur framburður ákærðu fyrir dómi að þessu leyti sé ótrúverðugur og er honum því hafnað. Ákærðu bar sem stjórnarmönnum í félaginu að afla sér vitneskju um rekstur þess, þar á meðal hver staða þess væri gagnvart tollstjóranum í Reykjavík hvað varðar virðisaukaskatt, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sem öðluðust gildi 1. janúar 1995. Geta ákærðu ekki borið fyrir sig að það hafi ekki verið í þeirra verkahring að annast greiðslur virðisaukaskatts, auk þess sem þeir voru í aðstöðu til að fylgjast með fjárhag félagsins. Með vísan til framanritaðs og framburðar vitnisins Birgis Sigmundssonar og með stoð í framburði vitnanna Ragnars Björnssonar og Jarþrúðar Jónasdóttur telur dómurinn að ákærðu allir beri refsiábyrgð á skilum þess virðisaukaskatts sem þessi ákæruliður lýtur að.  

                Við ákvörðun vangoldins virðisaukaskatts hefur í dómaframkvæmd verið talið rétt að taka tillit til greiðslna skattaðila til innheimtumanns ríkissjóðs sem inn­heimtu­maður kann að hafa ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og eftir atvikum inn á aðrar skattskuldir, á þann hátt sem ákærða er hagfelldast, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997 bls. 2446 og dóm sama réttar 14. janúar 1999 í málinu nr. 246/1998. Í gögnum þeim sem lögð voru fram af hálfu ákæruvalds eftir þingfestingu málsins kemur fram að innborganir félagsins á virðisaukaskatti á tímabilinu 15. mars 1995 til 4. október s.á. námu samtals 3.108.863 krónum og dagana 26., 27. og 28. febrúar 1996 alls 1.648.718 krónum. Er gerð grein fyrir ráðstöfun þessara greiðslna í gögnunum. Þykja gögn um greiðslur þessar samkvæmt framansögðu liggja fyrir með nægjanlega skýrum hætti.

                Ákærðu er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 1.809.613 krónum, annars vegar vegna greiðslutímabilsins mars - apríl 1995 að upphæð 1.049.651 króna og hins vegar vegna maí - júní s.á. að upphæð 759.962 krónur. Samkvæmt framansögðu þykir rétt að þær greiðslur sem inntar voru af hendi eftir að fyrra greiðslutímabilinu lauk, þ.e. greiðslur í maí, júní og október 1995 og 26., 27. og 28. febrúar 1996, alls 2.584.857 krónur, komi til frádráttar vangoldnum virðisaukaskatti og á þann hátt sem ákærðu hefði verið hagfelldast. Leiðir það til þess að skattfjárhæð vegna þessara tveggja greiðslutímabila kvittast út.

I. B og II. B

                Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 er það lýst refsivert ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samsvarandi ákvæði eru í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, en þar er það lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir. Af þessum ákvæðum tilvitnaðra laga leiðir að unnið verður til refsingar með því einu að láta ógert að standa skil á umræddum gjöldum, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt. Styðst þessi niðurstaða við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Ekki er um það deilt að þegar virðisaukaskatt­skýrslunum var skilað, sbr. I. kafla B, fylgdi þeim ekki greiðsla. Hið sama á við varð­andi innsendar skilagreinar varðandi afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. II. kafla B.    

                Í B- lið I. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti Íslensks framtaks hf. eins og nánar er lýst í ákæru. Í B- lið II. kafla ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu launamanna félagsins svo sem nánar er lýst í ákæru. Við rannsókn málsins á báðum rannsóknarstigum var framburður ákærðu á þá leið að þeir hafi allir komið að rekstri félagsins og sameiginlega borið ábyrgð á fjármálum þess. Þá hafi þeim verið kunnugt um vanskil skattgreiðslna af hálfu félagsins.  Við meðferð málsins vildu þeir hins vegar ýmist ekki kannast við þessa ábyrgð sína eða þá að takmörkuðu leyti. Er þetta reifað í málavaxtalýsingu. Þannig hefur verið upplýst að ákærðu komu að gerð skýrslna vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda svo og annarra skýrslna til innheimtumanna ríkissjóðs þótt bókari félagsins hafi annast um útreikning gjaldanna. Telur dómurinn að breyttur framburður ákærðu fyrir dómi að þessu leyti sé ótrúverðugur og er honum því hafnað. Ákærðu bar sem stjórnarmönnum í félaginu að afla sér vitneskju um rekstur þess, þar á meðal hver staða þess væri gagnvart tollstjóranum í Reykjavík hvað varðar virðisaukaskatt og Gjaldheimtunni í Reykjavík hvað varðar staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 52. gr. hlutafélagalaga nr. 32/1978, sbr. nú 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Geta ákærðu ekki borið fyrir sig að það hafi ekki verið í þeirra verkahring að annast greiðslur virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, auk þess sem ráða má af gögnum málsins að þeir voru í aðstöðu til að fylgjast með fjárhag félagsins.  Með vísan til framanritaðs og fram­burðar vitnisins Birgis Sigmundssonar og með stoð í framburði vitnanna Ragnars Björns­sonar og Jarþrúðar Jónasdóttur telur dómurinn sannað að ákærðu allir beri refsiábyrgð á skilum þess virðisaukaskatts og þeirrar afdregnu staðgreiðslu opinberra gjalda sem ofangreindir ákæruliðir lúta að.

                Við ákvörðun vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda hefur í dómaframkvæmd verið talið rétt að taka tillit til greiðslna skattaðila til innheimtumanns ríkissjóðs sem innheimtumaður kann að hafa ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og eftir atvikum inn á aðrar skattskuldir, á þann hátt sem ákærða er hagfelldast. Í gögnum þeim sem lögð voru fram af hálfu ákæruvalds eftir þingfestingu málsins kemur fram að innborganir félagsins á virðisaukaskatti til tollstjórans í Reykjavík á tímabilinu 5. október 1994 til 8. nóvember s.á. námu samtals 4.667.835 krónum, þar af endurgreiðsla vegna matarskatts 5. október 1.266.578 krónur. Er gerð grein fyrir ráðstöfun þessara greiðslna í gögnunum. Þykja gögn um greiðslur þessar samkvæmt framansögðu liggja fyrir með nægjanlega skýrum hætti.

                Í B- lið I. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 790.289 krónur annars vegar vegna greiðslutímabilsins júlí - ágúst 1994 að upphæð 538.980 krónur og hins vegar vegna september - október s.á. að upphæð 251.309 krónur. Samkvæmt framansögðu þykir rétt að þær greiðslur sem inntar voru af hendi eftir að fyrra greiðslutímabilinu lauk, þ.e. greiðslur í október og nóvember 1994 alls 4.667.835 krónur, komi til frádráttar vangoldnum virðisaukaskatti og á þann hátt sem ákærðu hefði verið hagfelldast. Leiðir það til þess að fjárhæð virðisaukaskatts vegna þessara tveggja greiðslutímabila kvittast út.

                Í gögnum þeim sem ákærðu öfluðu og lögðu fram eftir þingfestingu málsins og ekki hefur verið hnekkt kemur fram að innborganir félagsins sem runnu til stað­greiðslu opinberra gjalda á tímabilinu 22. apríl 1994 til 3. ágúst s.á. námu alls 1.173.158 krónum. Er gerð grein fyrir ráðstöfun þessara greiðslna í gögnum málsins. Þykja gögn um greiðslur þessar liggja fyrir með nægjanlega skýrum hætti. 

                Í B- lið II. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda á tímabilinu apríl til og með ágúst 1994, samtals að fjárhæð 635.055 krónur. Eru fjárhæðirnar sundurliðaðar eftir mánuðum í ákæru. Rétt þykir samkvæmt því sem að framan greinir að greiðsla sú sem innt var af hendi eftir að fyrsta greiðslutímabilinu lauk, þ.e. greiðsla 4. maí 1994 að fjárhæð 113.716 krónur, komi til frádráttar vangoldinni staðgreiðslu aprílmánaðar s.á. á þann hátt sem ákærðu er hagfelldast, en það leiðir til þess að skuld vegna þess mánaðar kvittast út. Þá liggur fyrir að þann 3. júní 1998 eða rúmum þremur vikum fyrir útgáfu ákæru greiddu ákærðu f.h. félagsins 635.055 krónur, þ.e. sömu fjárhæð og greinir í þessum ákærulið. Að öllu virtu þykir verða að beita sömu sjónarmiðum og fyrr þannig að síðastgreindri fjárhæð verði ráðstafað á þann hátt sem ákærðu hefði verið hagfelldast vegna mánaðanna maí til og með ágúst 1994. Leiðir allt framanritað til þess að fjárhæð vangoldinnar afdreginnar staðgreiðslu kvittast út.

II. A

                Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, en þar er það lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir. Af þessum ákvæðum laganna leiðir að unnið verður til refsingar með því einu að láta ógert að standa skil á umræddum gjöldum, enda sé huglægum refsi­skilyrðum fullnægt. Ekki er um það deilt í málinu að þegar skýrslum og skilagreinum var skilað varðandi afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna varðandi allt það tímabil sem þessi kafli ákæru tekur til fylgdi þeim ekki greiðsla.

                Í A- lið II. kafla ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu launamanna hlutafélagsins P-67 hf. svo sem nánar er lýst í ákæru. Við rannsókn málsins á báðum rannsóknarstigum var framburður ákærðu á þá leið að þeir hafi allir komið að rekstri félagsins og sameiginlega borið ábyrgð á fjármálum þess. Þá hafi þeim verið kunnugt um vanskil skattgreiðslna af hálfu félagsins. Við meðferð málsins vildu þeir hins vegar ýmist ekki kannast við þessa ábyrgð sína eða þá að takmörkuðu leyti. Er þetta reifað í málavaxtalýsingu. Þannig hefur verið upplýst að ákærðu komu að gerð skýrslna vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda svo og annarra skýrslna til innheimtumanna ríkissjóðs þótt bókhaldari félagsins hafi annast um útreikning gjaldanna. Telur dómurinn að breyttur framburður ákærðu fyrir dómi að þessu leyti sé ótrúverðugur og er honum því hafnað. Ákærðu bar sem stjórnarmönnum í félaginu að afla sér vitneskju um rekstur þess, þar á meðal hver staða þess væri gagnvart Gjaldheimtunni í Reykjavík hvað varðar staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 52. gr. hlutafélagalaga nr. 32/1978 og 68. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sem öðluðust gildi 1. janúar 1995. Geta ákærðu ekki borið fyrir sig að það hafi ekki verið í þeirra verkahring að annast staðgreiðslu opinberra gjalda, auk þess sem ráðið verður af gögnum málsins að þeir voru í aðstöðu til að fylgjast með fjárhag félagsins.  Með vísan til framanritaðs og framburðar vitnisins Birgis Sigmundssonar og með stoð í framburði vitnanna Ragnars Björnssonar og Jarþrúðar Jónasdóttur telur dómurinn sannað að ákærðu allir beri refsiábyrgð á skilum þeirrar afdregnu staðgreiðslu opinberra gjalda sem ofangreindur ákæruliður lýtur að.

                Við ákvörðun vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opin­berra gjalda hefur í dómaframkvæmd verið talið rétt að taka tillit til greiðslna skatt­aðila til innheimtumanns ríkissjóðs sem innheimtumaður kann að hafa ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og eftir atvikum inn á aðrar skattskuldir, á þann hátt sem ákærða er hagfelldast. Á skjali sem lagt var fram af hálfu ákærðu eftir þingfestingu málsins og ekki hefur verið hnekkt kemur fram að þann 21. febrúar 1995 voru greiddar 153.787 krónur inn á staðgreiðslu opinberra gjalda sem ráðstafað var inn á vanskil ágúst- og septembermánaða 1994. Liggur samkvæmt framansögðu fyrir með nægjanlega skýrum hætti hvernig greiðslu þessari var ráðstafað. Verður og að ætla að greiðsla þessi hafi leitt til þess að ekki var ákært vegna þessara mánaða.

                Í A- lið II. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna október til og með desember 1994, samtals að fjárhæð 213.592 krónur, og vegna janúar til og með september 1995, samtals að upphæð 461.500 krónur. Fyrir liggur að þann 3. júní 1998 eða rúmum þremur vikum fyrir útgáfu ákæru greiddu ákærðu f.h. félagsins 154.568 krónur sem tekið var fram að væri greiðsla á höfuðstól þeirrar skuldar sem þessi ákæruliður tekur til hvað varðar júlí til og með september 1995. Með sama hætti greiddu ákærðu f.h. félagsins þann 19. s.m. 520.524 krónur sem tekið var fram að væri greiðsla á höfuðstól þeirrar skuldar sem þessi ákæruliður tekur til hvað varðar október 1994 til og með maí 1995. Að öllu virtu þykir verða að beita sömu sjónarmiðum og fyrr þannig að síðast­greindum fjárhæðum verði ráðstafað á þann hátt sem ákærðu hefði verið hagfelldast. Leiðir allt framanritað til þess að fjárhæð vangoldinnar afdreginnar staðgreiðslu P-67 hf. kvittast út.

II. C

                Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, en þar er það lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir. Af þessum ákvæðum laganna leiðir að unnið verður til refsingar með því einu að láta ógert að standa skil á umræddum gjöldum, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt. Ekki er um það deilt að þegar skýrslum og skilagreinum var skilað varðandi afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna varðandi það tímabil sem þessi kafli ákæru tekur til fylgdi þeim ekki greiðsla svo sem skýrslurnar bera með sér.

                Í C- lið II. kafla ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu launamanna hlutafélagsins T-67 hf. svo sem nánar er lýst í ákæru. Við rannsókn málsins á báðum rannsóknarstigum var framburður ákærðu Guðjóns Ingva og Georgs á þá leið að þeir hafi allir komið að rekstri félagsins og borið ábyrgð á fjármálum þess. Við meðferð málsins vildu þeir hins vegar ýmist ekki kannast við þessa ábyrgð sína eða þá að takmörkuðu leyti. Er þetta reifað í málavaxtalýsingu. Þannig hefur verið upplýst að ákærðu komu að gerð skýrslna vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda svo og annarra skýrslna til innheimtumanna ríkissjóðs þótt bókhaldari félagsins hafi annast um útreikning gjaldanna. Telur dómurinn að breyttur framburður ákærðu fyrir dómi að þessu leyti sé ótrúverðugur og er honum því hafnað. Ákærðu Guðjóni Ingva og Georg bar sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanni í félaginu að afla sér vitneskju um rekstur þess, þar á meðal hver staða þess væri gagnvart Gjaldheimtunni í Reykjavík hvað varðar staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sem öðluðust gildi 1. janúar 1995. Geta ákærðu ekki borið fyrir sig að það hafi ekki verið í þeirra verkahring að annast staðgreiðslu opinberra gjalda, auk þess sem gögn málsins benda til að þeir hafi verið í aðstöðu til að fylgjast með fjárhag félagsins.  Með vísan til framanritaðs og framburðar vitnisins Birgis Sigmundssonar og með stoð í framburði vitnanna Ragnars Björnssonar og Jarþrúðar Jónasdóttur telur dómurinn sannað að ákærðu Guðjón Ingvi og Georg beri refsiábyrgð á skilum þeirrar afdregnu staðgreiðslu opinberra gjalda sem ofangreindur ákæruliður lýtur að. Ákærðu Árni og Einar voru prókúruhafar félagsins. Enda þótt framburður þeirra við rannsókn málsins á báðum rannsóknarstigum hafi ekki verið fjarri framburði ákærðu Guðjóns Ingva og Georgs varðandi aðkomu þeirra að félaginu telur dómurinn, í ljósi stöðu þeirra hjá félaginu og þess að þeim bar að lögum ekki skylda til að fylgjast með fjárhagsstöðu félagsins, varhugavert að gera þá refsiábyrga fyrir framangreindum skilum. Verða ákærðu Árni og Einar þegar af þeirri ástæðu sýknaðir af þessum ákærulið.

                Svo sem áður er að vikið hefur við ákvörðun vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda í dómaframkvæmd verið talið rétt að taka tillit til greiðslna skattaðila til innheimtumanns ríkissjóðs sem innheimtumaður kann að hafa ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og eftir atvikum inn á aðrar skatt­skuldir, á þann hátt sem ákærða er hagfelldast. Í gögnum þeim sem lögð voru fram af hálfu ákærðu eftir þingfestingu málsins og ekki hefur verið hnekkt kemur fram að innborganir félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda á tímabilinu 25. september 1995 til 13. desember s.á. námu alls 1.003.464 krónum.  Er gerð grein fyrir ráðstöfun þessara greiðslna í gögnunum. Þykja gögn um greiðslur þessar samkvæmt framansögðu liggja fyrir með nægjanlega skýrum hætti.

                Í C- lið II. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna ágúst 1995 til og með nóvember s.á., sam­tals að fjárhæð 193.667 krónur. Samkvæmt framansögðu þykir rétt að heildar­fjárhæðir ofangreindra greiðslna komi til frádráttar vangoldinni afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og á þann hátt sem ákærðu hefði verið hagfelldast, enda liggur fyrir að þær voru inntar af hendi eftir að fyrsta og síðasta greiðslutímabili lauk. Leiðir það til þess að fjárhæð vangoldinnar afdreginnar staðgreiðslu T-67 hf. kvittast út.

III.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að eftir að þeim greiðslum sem raktar hafa verið hefur verið ráðstafað með þeim hætti sem ákærðu hefði verið hagfelldast kvittist fjárhæðir þær sem í ákæru greinir í öllum tilvikum út. Leiðir það til þess að sýkna ber ákærðu af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök í báðum köflum ákæru.

Eftir þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnar­laun skipaðs verjanda ákærðu, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 800.000 krónur, greiddur úr ríkissjóði.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna umfangs málsins og starfsanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærðu, Árni Björgvinsson, Einar Kristjánsson, Georg Georgiou og Guðjón Ingvi Gíslason, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.