Print

Mál nr. 34/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skattur
  • Hjón
  • Sjálfskuldarábyrgð

Föstudaginn 25

 

Föstudaginn 25. janúar 2002.

Nr. 34/2002.

Sigurveig Gestsdóttir

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Gunnar Ármannsson hdl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Skattar. Hjón. Sjálfskuldarábyrgð.

S var talin bera sjálfskuldarábyrgð á greiðslu opinberra gjalda af tekjum eiginmanns síns sem hann hafði aflað eftir að opinber skipti til fjárslita milli þeirra fóru fram á árinu 1993, en áður en þau skildu að borði og sæng á árinu 2000, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá henni 31. júlí 2001 fyrir kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnt fjárnám verði fellt úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en allt að einu að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði, auk kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2001.

Sóknaraðili er Sigurveig Gestsdóttir, kt. 071050-2629, Hraunbæ 146, Reykjavík en varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 10. september sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 6. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 17. desember sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur sóknaraðila  eru þær, að fellt verði úr gildi fjárnám, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hinn 31. júlí sl. í íbúð hennar, merkt 0301 í húsinu nr. 146 við Hraunbæ í Reykjavík vegna skattskuldar fyrrum maka hennar, Magnúsar Þórarinssonar, kt. 260152-4919 að fjárhæð 1.755.622 krónur.

Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra, sem dagsett er 8. nóvember sl.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að staðfest verði ákvörðun sýslumanns frá 31. júlí sl. um að gera fjárnám í íbúð sóknaraðila við Hraunbæ 146 vegna kröfu varnaraðila á hendur Magnúsi Þórarinssyni, fyrrum maka sóknaraðila, að fjárhæð 1.755.652 krónur.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Forsaga málsins er sú, að sóknaraðili giftist Magnúsi Þórarinssyni 3. apríl 1971. Magnús varð gjaldþrota á árinu 1989. Í tengslum við gjaldþrotaskipti á búi Magnúsar var bú þeirra hjóna tekið til opinberra skipta í Héraðsdómi Suðurlands til slita á fjárfélagi þeirra hinn 14. júní 1993. Þeim fjárskiptum lauk 12. júlí s.á. með samningi hjónanna um slit á fjárfélagi, skv. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991. Þau slitu samvistum í nóvember 2000 og 13. desember s.á. fengu þau leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Sóknaraðili keypti íbúð í húsinu nr. 146 við Hraunbæ í Reykjavík, merkt 0301, með kaupsamningi dagsettum 14. febrúar sl. Afsal fékk hún fyrir íbúðinni 16. ágúst sl. Varnaraðili sendi sóknaraðila greiðsluáskorun, sem dagsett er 19. febrúar sl. Þar er henni gerð grein fyrir samábyrgð hjóna á sköttum hvors annars og skorað á hana að greiða skattskuld Magnúsar, fyrrum maka síns, þá að fjárhæð 1.663.200 kr., með vísan til 114. gr. laga nr. 75/1981 (eftirleiðis skattalög), ella yrði krafist aðfarar hjá henni til lúkningar skuldinni. Fjárnám var síðan gert hjá sóknaraðila hinn 31. júlí sl., að henni fjarstaddri, í íbúð hennar í húsinu nr. 146 við Hraunbæ í Reykjavík.

Sóknaraðili og eiginmaður hennar skiluðu sameiginlegu skattframtali, þar til þau slitu samvistum á síðastliðnu ári. Sameiginleg skattframtöl þeirra fyrir árin 1995 til og með 2000 liggja frammi í málinu, og einnig skattframtal sóknaraðila fyrir árið 2001. Á framlögðum skattframtölum kemur fram, að sóknaraðili hefur, sem launþegi, staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Vangreidd gjöld fyrrum eiginmanns sóknaraðila, sem varnaraðili gerir kröfu til úr hennar hendi, eru öll tilkomin meðan þau voru í hjúskap. Höfuðstóll kröfunnar er myndaður á eftirfarandi hátt, samkvæmt framlögðum gögnum varnaraðila og skýringum lögmanns hans.

Enduráætlun vegna ársins 1998, þar af ofgreiddar barnabætur

6.678 kr. og framlag í Framkv. sjóð aldraðra 6.678 kr.

 

58.157

Álagning v/ staðgreiðslu ársins 1998 og endurálagning sama árs

og iðnaðarmálagjald 2.556 kr.

 

886.865

Álagning v/ tekna ársins 1999,    

355.096

Framkv.sj. aldraðra álagt v/ tekna 1999        

     3.963

Iðnaðarmálagjald

               20.531

 

          1.324.432

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir á því, að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að eign hennar til fullnustu kröfum fyrrum eiginmanns hennar, þar sem þau hafi slitið fjárfélagi á árinu 1993, auk þess sem hún hafi eignast umrædda íbúð, eftir skilnað við eiginmann sinn. Sýslumanni hafi því borið að synja varnaraðila um aðför.  Hjónum, sem séu í samvistum, sé skylt að telja fram saman til skatts og beri sameiginlega ábyrgð á greiðslu tekju- og eignaskatta, sem á þau séu lagðir, sbr. 1. mbr. 114. gr. skattalaga.  Samábyrgðin taki eingöngu til skatta, sem lagður séu á tekjur, sem hjón afli frá því samsköttun hefjist við stofnun hjúskapar og þar til henni ljúki við skilnað eða af öðrum ástæðum. Því verði sóknaraðili ekki gerð ábyrg fyrir sköttum af tekjum maka síns eftir að þau slitu fjárfélagi. Væri það heimilt yrði þetta úrræði haldlítið. Líta verði á samábyrgð hjóna á sköttum hvors annars sem undantekningu og skýra ákvæði 1. mgr. 114 gr. skattalaga þröngt.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili byggir á því, að sóknaraðili beri sjálfskuldarábyrgð á umkröfðum gjöldum Magnúsar Þórarinssonar samkvæmt skýru og ótvíræðu ákvæði 1. mgr. 114 gr. skattalaga, sbr. og 30. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, 1. gr. laga nr. 124/1993 um iðnaðarmálagjald og 3.mgr. 10. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra og sömu grein í lögum nr. 125/1999 um sama efni.

Samsköttun hjóna hefjist í síðasta lagi við stofnun hjúskapar og henni geti fyrst lokið á því ári sem samvistum ljúki, skv. skýru ákvæði 64. gr. skattalaga. Samsköttun haldist óbreytt, þótt hjón slíti fjárfélagi samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993. Af þeirri ástæðu mótmæli varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að samsköttun geti lokið af öðrum ástæðum en við skilnað og einnig þeirri málsástæðu sóknaraðila, að samábyrgð geti lokið af öðrum ástæðum en við skilnað, enda eigi sú staðhæfing enga lagastoð. 

Skilyrðið um samábyrgð hjóna sé m.a. sett til að einfalda framkvæmd innheimtunnar og minnka kostnað við hana. Það sé einnig eðlileg regla og hagstæð eignaheild hjóna, ekki síst sé litið til þess, að hjón beri sameiginlega ábyrgð á heimili og fjölskyldu án tillits til þess hvort fjárfélagi sé slitið þeirra í milli eða ekki, sbr. framfærsluskyldu hjúskaparlaga.

Samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum gangi yngri lög framar eldri lögum, ef áhöld séu um það, hvort þau séu samrýmanleg. Ákvæði í 13. kafla hjúskaparlaga um heimild til fjárslita án skilnaðar eigi sér langan aðdraganda. Það hafi fyrst verið lögfest með lögum nr. 3/1900 í því skyni að vernda eiginkonu gagnvart slæmri fjármálastjórn bónda síns. Með lögum nr. 7/1980 hafi verið bætt inn í þágildandi skattalög nr. 40/1978 nýjum 13. kafla, 109. til 114. gr., um ábyrgð á skattgreiðslum. Ef vilji löggjafans hefði verið sá, að ákvæði um samábyrgð hjóna ætti ekki að ná til hjóna, sem slitið höfðu fjárfélagi, hefði löggjafarvaldinu verið hægur vandi að taka það fram.

Varnaraðili vísar til framangreindra lagaákvæða til stuðnings kröfum sínum en styður málskostnaðarkröfu sína við ákvæði 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða:

 1. mgr. 2. tl. 63. gr. skattalaga kemur fram, að tekjur hjóna skuli leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur.  Í 64. gr. skattalaga segir, að ,,þeir skattaðilar, sem uppfylla skilyrði 63. gr. (þ.e.a.s. hjón eða einstaklingar í staðfestri sambúð, innskot dómara)  aðeins hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu, slita á samvistum eða andláts maka, skulu telja fram tekjur sínar á þeim tíma sem umrædd skilyrði voru uppfyllt í samræmi við ákvæði 63. gr. og skulu skattlagðir sem hjón þann tíma.  Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim, sem þær hafði, sem einstaklingi, og skattleggja þær samkvæmt því." 

Í  1. mgr. 114. gr. segir, að ,,hjón sbr. 63. gr. og 81. gr. (81. gr. varðar skattlagningu eignaskatts innskot dómara), bera óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja." Í 5. mgr. sömu lagagreinar segir: ,,Með ábyrgð samkvæmt þessari grein er átt við sjálfskuldarábyrgð."

Sóknaraðili og Magnús Þórarinsson, töldu fram sameiginlega til skatts, eins og framlögð gögn bera með sér, enda var þeim skylt samkvæmt 1. mgr. 63. gr. skattalaga að haga framtali sínu með þeim hætti. Síðasta sameiginlega framtal þeirra er vegna tekna ársins 1999, þ.e. skattframtal ársins 2000. Þeir skattar og önnur gjöld, sem varnaraðili gerir kröfu til úr hendi sóknaraðila, stafa af tekjum Magnúsar á samvistarárum hans og sóknaraðila.

Dómurinn lítur svo á, að ákvæði 1. mgr. 114. gr. skattalaga sé skýrt og afdráttarlaust um sameiginlega ábyrgð hjóna á sköttum hvors annars. Þar er enga undantekningu að finna.  Af þessu leiðir, að séu hjón skattlögð sameiginlega, samkvæmt 63. og 81. gr. laganna, bera þau óskipta ábyrgð á sköttum hvors annars.  Einu gildir í þessu sambandi, þótt sóknaraðili hafi eignast hina fjárnumdu íbúð eftir skilnað hennar að borði og sæng við fyrrum eiginmann sinn.

Fjárslit hjóna samkvæmt 8. kafla hjúskaparlaga, sbr. 14. kafla laga nr. 20/1991, breyta hér engu að mati dómsins. Þetta lagaúrræði hjúskaparlaga er einkaréttarlegs eðlis og ætlað að vernda annan makann gegn óráðsíu hins. Samábyrgð hjóna á sköttum og opinberum gjöldum hvors annars er byggð á þeirri hugsun, að tekjum hjóna sé að mestu varið til sameiginlegra þarfa þeirra og barna þeirra í samræmi við framfærsluskyldur beggja og því sé rétt og eðlilegt að þau beri sameiginlega ábyrgð á sköttum.

Heimild varnaraðila til að innheimta hjá sóknaraðila gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra er að finna í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 82/1989 um málefni aldraðra, nú 3. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999 um sama efni en þar segir, að sömu reglur skuli gilda við álagningu og innheimtu gjaldsins og um álagningu og innheimtu tekjuskatts samkvæmt skattalögum. Heimild til innheimtu iðnaðarmálagjalds hjá sóknaraðila er í 1. gr. laga nr. 124/1993, en þar er vísað með líkum hætti til skattalaga og loks er að finna heimild til innheimtu útsvars hjá sóknaraðila í 30. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Áður er getið ákvæða skattalaga í þessu tilliti.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið,  er hafnað kröfu sóknaraðila um að fellt verði úr gildi fjárnám, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hinn 31. júlí sl. í íbúð hennar nr 0301 í húsinu nr. 146 við Hraunbæ í Reykjavík vegna skattskuldar fyrrum maka hennar, Magnúsar Þórarinssonar, að fjárhæð 1.755.622 krónur.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Sóknaraðili fékk gjafsókn í málinu, eins og að framan er getið. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem ákveðst 200.000 krónur, þ.m.t. virðis­aukaskattur,  greiðist úr ríkissjóði.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigurveigar Gestsdóttur, um að fellt verði úr gildi fjárnám, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hinn 31. júlí sl. í íbúð hennar nr 0301 í húsinu nr. 146 við Hraunbæ í Reykjavík vegna skattskuldar fyrrum maka hennar, Magnúsar Þórarinssonar, að fjárhæð 1.755.622 krónur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.