Print

Mál nr. 413/2012

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Gjafsókn

                                     

Fimmtudaginn 26. september 2013.

Nr. 413/2012.

Þingeyjarsveit

(Sigurður Jónsson hrl.

Sigríður Kristinsdóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.

Þröstur Ríkharðsson hdl.)

Eignarréttur. Fasteign. Þjóðlenda. Afréttur. Gjafsókn.

Þ höfðaði mál gegn Í og krafðist þess að ógilt yrði ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að land í Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár væri þjóðlenda með nánar tilgreindum merkjum, en í afréttareign Þ. Þ reisti kröfu sína á því að landið væri háð beinum eignarrétti hans. Hæstiréttur taldi að ekki yrði ráðið hvort við landnám hefði verið stofnað til beins eignaréttar að landsvæðinu, en hvorki frásögn í Landnámu né staðhættir útilokuðu að svo hefði verið. Af gögnum málsins yrði ekki séð að vitað væri til að byggð hefði verið í Bleiksmýrardal að frátöldum óljósum sögnum um býli vestan Fnjóskár á Flausturbölum. Í eldri heimildum frá árinu 1318 til 1525 hefði verið rætt um landið sem eign Hrafnagilskirkju án frekari skýringa, en í nokkrum þeirra var m.a. rætt um upprekstrarrétt í dalnum vestan Fnjóskár. Veitti það vísbendingu um að byggð sem kynni að hafa verið í Bleiksmýrardal hefði ekki lengur verið til staðar. Þá yrði til þess að líta að Hrafnagil væri í Eyjafjarðardal í meira en 20 km fjarlægð frá landsvæðinu og væri skilið frá því af fjallendi. Taldi Hæstiréttur að ekki væru efni til annars en að líta svo á að Bleiksmýrardalur vestri hefði aðeins verið afmarkað landsvæði, sem haft hefði verið til takmarkaðra afnota svo langt sem elstu heimildir næðu. Þótt eldri heimildir hefðu tilgreint Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár sem eign Hrafnagilskirkju hefði landsvæðið ýmist verið nefnt afréttur eða afréttarland eða réttindin yfir landinu kallað ítak í öllum heimildum upp frá því, að frátöldum ýmsum vísitasíum og lögfestum fyrir Hrafnagilskirkju frá 1585 til 1840, þar sem ósamræmis hefði þó gætt í þessum efnum. Þær heimildir stöfuðu hins vegar að talsverðu leyti frá fyrirsvarsmönnum Hrafnagilskirkju. Þegar allar heimildirnar væru virtar í heild gæti ekki leikið vafi á að réttindi kirkjunnar yfir landinu hefðu verið bundin við þau óbeinu eignarréttindi, sem fælust í rétti til upprekstrar búfjár til sumarbeitar og annarra hefðbundinna afréttarnota. Með vísan til þessa var niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2012. Hann krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 1/2008 um að land Bleiksmýrardals vestan Fnjóskár sé þjóðlenda með eftirfarandi merkjum: „Fnjóská er fylgt til suðurs frá þeim stað þar sem Skarðsá rennur í hana þar til komið er skammt sunnan við Einstökutorfu til móts við 930 m hæðarpunkt í vestri. Þaðan er farið beint til vesturs í fyrrnefndan 930 m hæðarpunkt. Þá er farið til norðurs í punkt þar sem vatnaskil Eyjafjarðarár og Fnjóskár skera sýslu- og sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar. Sveitarfélagamörkum er fylgt til norðurs þar til komið er til móts við upptök Skarðsár. Þaðan er kröfulínu aðila fylgt til austurs í upptök Skarðsár og ánni fylgt að upphafspunkti þar sem hún rennur í Fnjóská.“ Áfrýjandi krefst þess jafnframt að viðurkennt verði að allur sá hluti Bleiksmýrardals, sem liggur vestan Fnjóskár frá Skarðsá og suður á öræfi, sé eignarland sitt í samræmi við framlagðan uppdrátt, en þó þannig að suðurmörk landsins verði dregin eins og óbyggðanefnd afmarkaði afréttareign hans með því að þau „komi í ána á sama stað og þverlínan kemur í ána austan megin samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar frá 6. júní 2008, í málinu nr. 3/2007, vegna Bleiksmýrardals eystri“. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 3. september 2013.

I

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 29. mars 2007 til meðferðar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sem náði yfir alla Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðarsýslu ásamt Austur Húnavatnssýslu austan Blöndu og Hofsjökli. Að beiðni stefnda ákvað nefndin 28. desember sama ár að skipta þessu svæði í tvennt og taka að svo stöddu einungis til meðferðar syðri hluta þess, en fresta málinu um sinn að því er varðaði norðurhlutann. Syðri hluti svæðisins var nánar afmarkaður þannig að til norðurs fylgdi hann norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá og síðan þeirri á til ósa í Eyjafirði. Austurmörk fylgdu Fnjóská frá ósum í sama firði til suðurs þar til hún sker sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar að austan, en þaðan var farið eftir þeim mörkum áfram til suðurs í Fjórðungakvísl. Að sunnan réðist svæðið af suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls. Til vesturs var Blöndu fylgt sunnan frá upptökum hennar í Hofsjökli til norðurmarka fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 14. mars 2008, sem vörðuðu allan syðri hluta svæðisins, og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Nefndinni bárust fjölmargar kröfur og athugasemdir. Hún ákvað síðan að fjalla um þennan syðri hluta svæðisins í fimm aðskildum málum og var eitt þeirra nr. 1/2008, sem náði til Eyjafjarðarsveitar austan Eyjafjarðarár ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal. Það mál tók meðal annars til landsvæðis, sem nefnt er Bleiksmýrardalur vestri og áfrýjandi telur háð beinum eignarrétti sínum, en stefndi taldi það til þjóðlendna. Í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 var komist að þeirri niðurstöðu að þetta svæði væri þjóðlenda með þeim mörkum, sem áður greinir í dómkröfum áfrýjanda, en viðurkennt var á hinn bóginn samkvæmt 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998 að það væri í afréttareign hans.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 13. janúar 2010 og er ekki deilt um að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Í héraði gerði áfrýjandi efnislega sömu kröfur og hann gerir fyrir Hæstarétti, en með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af þeim.

II

Landsvæðið Bleiksmýrardalur vestri, sem mál þetta varðar, er í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit og liggur það suður af Fnjóskadal. Svohljóðandi landamerkjabréf fyrir þetta svæði var gert 1. apríl 1885 og þinglesið á manntalsþingi 27. maí sama ár: „Afréttarland Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal, er allur sá hluti dalsins, er liggur fyrir vestan Fnjóská, frá Skarðsá og suður á öræfi.“

Eins og óbyggðanefnd afmarkaði Bleiksmýrardal vestri í úrskurði sínum ráðast norðausturmörk þessa landsvæðis af þeim stað, þar sem Skarðsá fellur í Fnjóská á mótum Skarðsdals og Bleiksmýrardals, en þaðan eru um 23 km í beinni loftlínu norðvestur til sjávar í Eyjafirði. Frá þessum merkjum í norðaustri fara þau um 3 km í vestur og síðan um 6 km suður með Skarðsá að upptökum hennar, en handan merkjanna er eignarland jarðarinnar Reykja. Frá upptökum Skarðsár fara merkin um fjalllendi um 5 km í suðvestur og síðan suður um 33 km og fylgja þau lengst af sveitarfélagamörkum Þingeyjarsveitar og Eyjafjarðarsveitar á þeirri leið. Nyrst á þessum merkjum liggur Bleiksmýrardalur vestri að svæði, sem í gögnum málsins kallast Almenningur í Öngulstaðahreppi, því næst afréttarlandi Munkaþverár og síðan afréttarlandi Stóra-Hamars og Rifkelsstaða, en öll þessi lönd vestan Bleiksmýrardals vestri eru þjóðlendur samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Syðst á vesturmerkjunum liggur þetta svæði síðan að Möðruvallaafrétti, sem óbyggðanefnd taldi jafnframt til þjóðlendna, og stendur sú niðurstaða óröskuð samkvæmt dómi Hæstaréttar 19. september 2013 í máli nr. 656/2012. Suðurmerki svæðisins liggja að vestan frá hornpunkti í 930 m hæð eftir beinni línu um 5 km austur í Fnjóská og er þar fyrir sunnan þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Þaðan fylgja austurmerki svæðisins Fnjóská á um 42 km leið, sem liggur sem næst beint í norður að mótum hennar við Skarðsá. Austan við þessi merki er landsvæðið Bleiksmýrardalur eystri, sem óbyggðanefnd taldi í úrskurði 6. júní 2008 í máli nr. 3/2007 að háð væri beinum eignarrétti áfrýjanda, en er þjóðlenda samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 411/2012, sem kveðinn er upp samhliða dómi í þessu máli.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að land í Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár liggi í yfir 300 m hæð, en rísi skarpt til vesturs upp af ánni. Land á vesturhluta svæðisins sé hallalítið, gróðursnautt og öldótt og í yfir 1000 m hæð.

III

Í máldögum Auðunar biskups rauða Þorbergssonar fyrir Hólabiskupsdæmi frá árinu 1318 sagði að „Kẏrckia hins heilaga ᴩeturs ä ʀafnagili. ä ... halfann ʙleẏkzmyrardal framm fra skardzä.“ Í máldögum Péturs biskups Nikulássonar fyrir kirkjum í Hólabiskupsdæmi frá 1394 og síðar sagði að sama kirkja ætti „halfann ʙleyksmyrardal framm fra skardsa.“ Í sálugjafabréfi, sem Halldór prestur Loptsson gerði á Möðruvöllum 8. desember 1403, ánafnaði hann kirkjunni á Grund í Eyjafirði eftir sinn dag lx. ẏxnaʀekstur j bleiksmẏrardal“, en ekki mun vera kunnugt um hvort þessi ítaksréttindi hafi verið vestan Fnjóskár eða austan. Í vísitasíugerð Jóns Hólabiskups Vilhjálmssonar hinni fyrstu um Vaðlaþing og Þingeyjarþing frá 1429 sagði jafnframt að Hrafnagilskirkja ætti „halfuan blæiksmyrardaal framm fra skardæ.“ Í skrá um reka og ítök Munkaþverárklausturs frá 1446 var getið um „Manaðar halld òlluannat mal j bleiks mẏrar dal ok þriggia tigu geldneẏta ʀekstur.“ Í máldögum Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá árabilinu 1461 til 1510 sagði að kirkjan á Hrafnagili ætti „halfuan bleiksmẏrardaal fram fra skardzáá“, en Munkaþverárklaustur ætti „manadar halld ollu fie annat dægur j bleiksmyrardal firir vestan anna oc xxx. gelldneẏta regstur.“ Í máldaga Gottskálks Hólabiskups fyrir Hrafnagilskirkju 22. júní 1508 sagði að kirkjan á Hrafnagili ætti „allann bleiksmyrardal firir vestan hnioskaa fram fra skardsaa og svdur a oræfe. rekstrar skylldv vera epter þvi sem ad fornv eyrarlanda a mille firir avstann fram ad oxnafelle. vestan fram ad skioldalsaa. ad hvors tiv lomb eda fleire være. afrettur heimill j sogdv takmarke firir venivligan toll er golldinn skal sidast vikv epter bartholomei apostoli. bændur skýllder rett þeirre vpp ad hallda er þorfinnur prestur liet vppstinga.“ Í Íslensku fornbréfasafni birtust með þessum máldaga ódagsettar skýringar Daníels Halldórssonar prófasts á Hrafnagili, þar sem sagði meðal annars: „Allan Bleiksmýrardal. Dalr þessi liggr fram af Fnjóskadal; Munkaþverárklaustr á landið að austanverðu við Fnjóská. Skarðsá, þverá, sem rennr í Fnjóská, og dregr nafn af svo nefndu Gaunguskarði. Eyrarlanda á milli. Stóraeyrarland er að vestanverðu við Eyjafjarðarbotn og yztr bær í Hrafnagilshrepp, en Litlaeyrarland að austanverðu við fjarðarbotninn, fyrrum yztr bær í Öngulstaðahrepp ... liggr allr hrepprinn að austanverðu við Eyjafjarðará og nær fram að Öxnafelli, sem er yzti bær í Saurbæjarhrepp, þeim megin árinnar; en að vestanverðu aðgreinast Saurbæjar og Hrafnagils hreppar af Skjóldalsá, sem er þverá og rennr austr í Eyjafjarðará. Hafa þannig allir bændr í Hrafnagils og Öngulstaðahreppum verið skyldir að reka lömb sín á Bleiksmýrardal.“

Á prestastefnu á Eyrarlandi í Eyjafirði á árinu 1508 nefndi Gottskálk Hólabiskup sex nafngreinda klerka í dóm til „at dæma vm þa akiæru. er sijra Jon Arason kiærdi til stephanz kietilssonar ad hann hefdi reka latid .xl. lamba a Bleijkzmyrardal. og þar vera latid fra Jonsmessu baptistæ og til mariumessu sijdari. j øngvu sijnu leyfi.“ Í dómi klerkanna sagði meðal annars eftirfarandi: „Kom þar fram fyrir oss brief med tveggia presta Jnsiglum ad kyrkia hins heilaga Peturz a Raffnagili ætti Bleijkzmyrardal fyrir vestann Huioskfra Skarsἅ og sudur ἅ Auræfi. Samhliodadi þessu Briefi gamallt Registur Hola domkirkiu vm fyrr sagda landeign. ... Hier med dæmdum vær adur greindan dal Rafnagilzkyrkiu Ɛign vera og verid hafa ad fornu og nyiu. Slijka sauk dæmdum vier alla þa eiga at giallda sem j oleyfi hafa rekid edur reka latid. xl. lomb edur fleiri a þrattnefndann dal. og fallna j bann. nema þeir sverie fullann ʙokareijd. ad þeir heyrdu alldreij eignadann Hrafnagilzkirkiu þennann dal. og ad eidnum vnnum skal falla aptur half þessi sauk. Enn þeir sem ræke færri lomb enn. xl. þa dæmdum vier til þess vrskurdar sem herra biskupinn þar ἅ leggur. Samþycktti virdugligur Herra Biskup Gottskalck med oss þennan vorn dom.“

Í skrá Sigurðar Jónssonar prests á Grenjaðarstað um máldaga Hóladómkirkju, klaustra og nokkurra kirkna á Norðurlandi frá árinu 1525, sem nefnd hefur verið Sigurðarregistur, sagði að kirkjan á Hrafnagili ætti „halfaṅ. bleiksmẏrardal fram fra skardzἅ“, en Munkaþverárklaustur ætti „j bleigsmẏrardal fyrir vestan ἅna .xxx. gelldneẏta rekstur.“ Í skrá um eignir Hrafnagilskirkju frá 1544 „þá er síra Geirmundr meðtók“, sem virðist vera úr máldagabók Jóns biskups Arasonar, var getið um fjórar jarðir í eigu kirkjunnar, þar af tvær í eyði, en ekki var minnst á Bleiksmýrardal. Í reikningum kirkna á prestsetrum í Hólabiskupsdæmi 1569 kom fram að kirkjan „a Hrafnagili beneficium“ ætti tilteknar jarðir, en í lok þeirrar talningar sagði: „halfur Bleiksmyrardalur afriett.“ Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var þess getið í vísitasíum Hrafnagilskirkju frá árunum 1585 og 1662 að hún ætti hálfan Bleiksmýrardal fyrir sunnan Skarðsá, auk þess sem sagt var í lögfestu fyrir kirkjuna frá 1672 að hún ætti dalinn allan fyrir vestan Fnjóská fram frá Skarðsá og suður á öræfi.

Í úrskurði lögmanns norðan og vestan 10. nóvember 1677 var greint frá því að fyrir hann hafi komið til yfirskoðunar dómur sex manna, sem útnefndir voru af sýslumanni 18. apríl sama ár, um „Lamba Skilldu Rechstra, bænda och buennda, J Øngulstada, och Hraffnagilz hreppumm, a Hrafnagilz Beneficÿ Stadar affrett ehr Bleiksmÿrar dalur kallast. J ódru læge vmm þann agreining, sem innfalinn ehr a millum ... Stadarhalldaranns, och buennda, J ädurtiädumm hreppum vmm uppsmÿde Riettarinnar Sem och hreinsun fÿrer Melróchumm med þuj ódru fleira sem same dömur giórst vmm gietur och hliödar.“ Í úrskurðinum sagði síðan eftirfarandi: „J gudz naffne Amen alichta eg och vrshurda fir neffndann döm ... J allannta lóglega giórdann, Suo michid vidvÿkur lambaSkilldu Rechstrumm, J tiedu tachmarche a Bleiksmÿrardal fÿrer veniulegann Lagatoll, enn þeir ed möte briöta Naudsinialaust greidj Samt tollinn och Suare Slÿker Secht Sem Lóginn akuarda ... J annannta effter Sem lógmälid, alþingiss alichtun och lógtechnir dömar, vtuÿsa alichta eg ad velneffndur kiennemann ... Sie Sem LógSkilldugur, afrettar plätzid hreinsa läta fÿrer Melróckumm, Jtem Riettina gióra och uppsmÿda þar best hennta þichir, J affrettar Landinu, med tilstirch allra þeirra manna ehr Skilldu Rechstur, eiga a offtsagda affrett Bleiksmÿrardal, och þeirre Riett buendurner Sÿdann wid macht hallde och göda heffd“.

Í vísitasíu Hrafnagilskirkju frá 1685 mun hafa verið sagt að að hún ætti afrétt á Bleiksmýrardal frá Skarðsá fram á Sanda, í annarri vísitasíu frá 1695 að hún ætti hálfan dalinn fram frá Skarðsá, en í þeirri þriðju 1718 að hún ætti Bleiksmýrardal fram frá Skarðsá. Þá mun hafa komið fram í lögfestum Hrafnagilskirkju frá 1728, 1736, 1765, 1771 og 1780 að hún ætti allan Bleiksmýrardal fyrir vestan Fnjóská frá Skarðsá suður á öræfi.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712 sagði meðal annars um Hrafnagil: „Afrjettarland á staðurinn framm úr Fnjóskadal hálfan Bleiksmýrardal, og eru þángað skyldugir að reka allir bændur lömb sín í Öngulstaða og Hrafnagils hreppum, og so hefur áður verið, en smám saman hefur þessi upprekstur aflagst sakir harðinda og miklra vatna, og reka nú þángað allfáir. Afrjettartollur var venjulegur lamb af hverjum bónda, og so er enn af þeim fáum sem reka.“

Eftir gögnum málsins leiddi fyrrgreindur úrskurður lögmanns 10. nóvember 1677 ekki til lykta ágreining milli presta á Hrafnagili og bænda í Hrafnagilshreppi og Öngulstaðahreppi um skyldu þeirra síðarnefndu til að reka fé sitt til sumarbeitar í Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár gegn greiðslu afréttartolls, svo og til að taka þátt í viðhaldi réttar, eyðingu refa og fjallskilum. Þannig lét prestur lesa upp á manntalsþingum fyrir hreppana tvo 20. og 24. maí 1719 bréf, þar sem hann kvaðst hafa látið leita uppi greni „ä Bleiksmyrardal Hrafnagilsstadar afriett“ og skoraði á bændur að verða við skyldu sinni til upprekstrar og greiðslu afréttartolls, en um leið var úrskurðurinn frá 1677 lesinn þar á ný. Á „Aungulstada Hreppstiornarþinge“ 14. október 1719 var lesið upp annað bréf prestsins, þar sem hann kvartaði undan vanrækslu bænda í þessum efnum og krafðist þess að afréttartollur yrði greiddur innan hálfs mánaðar án tillits til þess hvort hlutaðeigandi bændur hafi rekið fé sitt á dalinn. Á dómþingi á Öngulstöðum 30. maí 1720 var lesin upp „ummkvórtun Prestssens ... umm tregdun Hreppsmanna Sumra, ad ganga Lóglega ä haustdag epter Lómbum i Hrafnagilsstadar afrett“ og voru bændur áminntir um að þeir, sem ekki vildu sinna „lóglegum fiallrekstre og haustgaungum ä Nefnda afrett“, mættu búast við að sæta viðurlögum. Aftur var á manntalsþingi í sama hreppi 4. maí 1723 lesið upp bréf prestsins, þar sem brýnd var fyrir bændum skylda þeirra til að reka fé á afrétt í Bleiksmýrardal, greiða afréttartoll og sinna fjallskilum. Á dómþingi 18. apríl 1727 voru lesnir upp „Tveir gamlerldagar“, þar sem kæmi fram að „Hrafnagils kirkia i Eyafyrde Eige Skylldu afrett ä Bleiksmÿrardal, og ad Jnnbuendur Hrafnagils og Aungulstada Hrepps, Sieu Skyllder þangad ad reka“. Í framhaldi af þessu gerði presturinn samning við bændur 17. maí 1727 um að tilnefna menn „til ad älijta bleiksmijrardal“, en tók þó einnig fram „ad þott kirkiunnar afriett bleiksmÿrardalur Verde i Vor älitenn, Ecke fær fyrer óll beggia hreppanna lómb, ad kirkiann niote Samt Sinnar afrettartolla“. Þessu til samræmis kvaddi sýslumaður 29. apríl 1728 sex menn úr hvorum hreppi til „ad telia lómb ä Afriettena ä Bleiksmijrardal, Sem Hrafnagils kirkiu tilheirer.“ Þeir komust að þeirri niðurstöðu 16. júlí 1728 að „frä Skardzä ... So Langt sem nockrar Hagavoner eru“ mætti reka á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár „til Sumargaungu ecke meir enn 10. hundrud lómb, fyrer utann Nockurt pläss, fyrer Sunnann efre Lambä, Hvert ei Vard skodad fyrer VatnaVóxtumm ij þad sinne“. Prestur vildi ekki una þessari niðurstöðu og stefndi skoðunarmönnunum fyrir dóm 29. apríl 1729 til að „forsvara ... äreid a Bleiksmyrardal Hrafnagilskÿrkiu land“, sem þeir urðu við með því að staðfesta álit sitt ásamt því að láta uppi það mat að á landsvæðið í Bleiksmýrardal, sem þeim tókst ekki að kanna vegna vatnavaxta, mætti „Setiast i hædsta mata hundrad lamba“. Að þessu gerðu kvað sýslumaður upp dóm, þar sem sagði meðal annars: „Epter þvi ad Hrafnagils kÿrkiu afRett Bleiksmÿrardalur, Er nu alitenn ej fÿrer fleire lómb til hagabeitar a Sumardag, enn Ellefu hundrud. Þa skulu þeir frä ganga ad Reka i afRettina, sem Leingst eiga ad og Ohægast framann af badum hreppunum Hrafnagils og Aungulstada. Og Skulu nu hier eptir þangad Reka bændurner utann af badum þessum hreppum, fÿrer vestann framm, allt framm ad Hrafnagile Enn ad austann, allt framm ad Aungulstódum og Biórk. Og Skulu aller þesser bændur Uppehallda Gaungum og fiallskilum ä haust epter sem hreppstiornarmenn gióra räd fyrer, og betala Sinn Lambatoll til Hrafnagilskÿrkiu forsvars Manns epter hennar mäldógum og geingnum domum, under Laga tiltal og Sekter.“ Við þetta virðist presturinn enn ekki hafa viljað una, enda ritaði hann bréf til sýslumanns 8. maí 1730, þar sem hann óskaði meðal annars eftir að skoðunarmönnunum yrði gert að svara því hvort niðurstaða þeirra hafi tekið mið af aðstæðum á Bleiksmýrardal á meðalári eða „so sem þä yferstöd hid mesta grödurleise“, en ekki verður séð af gögnum málsins að þessari beiðni hafi verið sinnt. Á manntalsþingi 9. maí 1738 var aftur lesið upp bréf prestsins, þar sem fundið var að því að bændur í hreppunum tveimur hafi ekki orðið við skyldum sínum til að reka fé á Bleiksmýrardal til sumarbeitar, greiða afréttartoll og sinna fjallskilum, svo og að einhverjir þeirra hafi í óleyfi gert þar kol og haft hross á beit. Loks fór svo að á manntalsþingi 11. maí 1739 var lesið upp tilboð prestsins til bænda í báðum hreppum um að leysa þá undan skyldu til að reka fé á Bleiksmýrardal, halda þar við réttum og taka þátt í fjallskilum gegn því að þeir greiddu „ärliga Hrafnagilskyrkiu tildæmdann lambatoll“. Þessu svöruðu bændur með því að „þeir Vilia giarnann Sæta þessu tilbode ... So þad er nu aftalad, SamEigennlega, ad bændur Vilia tregdulaust, lambatollenn gialda, Profastenum, og vera fri fÿrer ad þurfa Reka a dalenn“. Þótt langvinnum deilum um þetta efni virðist hafa lokið á þennan hátt hélt presturinn enn uppi umkvörtunum við bændur á árunum 1743 og 1744, sem í það skipti beindust þó að heimildarlausum upprekstri hrossa á Bleiksmýrardal.

Í bréfi, sem sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu ritaði 28. júní 1771 til að svara fyrirspurn danskra yfirvalda, sagði meðal annars að í sýslunni væru margar eyðijarðir, sem fæstar væri unnt að byggja á ný vegna uppblásturs og skriðufalla, en öðru máli gegndi þó um nokkrar þeirra. Þar af „kunde virkelig paa saa kaldet Bleiksmyrardal, der tilhörer Munchethveraae Kloster og Rafnagils Benficio, oppbiiges Gaarder siider der er een skiön Græsgang og eet heelstort Stykke Land.“

Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var gerð skýrsla um Hrafnagilskirkju 23. apríl 1782, þar sem þess var getið að meðal ítaka hennar væri Bleiksmýrardalur og hafi kirkjan á árum áður haft nokkurn hag af ítakinu vegna lambatolls. Þær tekjur hafi á hinn bóginn dregist saman síðustu árin og í raun verið engar að undanförnu. Í gögnum varðandi jarðamat 1804 sagði um Munkaþverá að „Her til ligger en Afreet, nemlig den halve Bleegmyredal ... hvis anden halve Deel tilhörer Ravnegil-Kirke ... hvorpaa fra fremmede Jorder indtager Beeder og Lam til Græsgang om Sommeren, mod Indtægt aarlig 3 rd“. Þá var á manntalsþingum 2. og 17. maí 1814 lesin upp lögfesta prestsins á Hrafnagili fyrir „Afrettarlandid Bleiksmýrardal tilheýrandi Hrafnagils kýrkíu fyrir vestann framm frá Skardsá og Sudur á Øræfi“.

Presturinn á Hrafnagili gerði 30. nóvember 1832 byggingarbréf við bóndann á Hvammi um „Hrafnagils Kyrkiu Afréttarland Bleiksmýrardal vestan Fnjótská frá Skardsá og sudur á Øræfi“. Tekið var fram að leiguliða væri heimil grasatekja „á nefndri Afrétt“ ásamt kolagerð til eigin nota úr víði, en ekki birki. Leiguliðanum bæri að „utrydja úr Afrétt þessari øllum Tóum“. Nýtti hann „Afréttina á Sumrum með upprekstri nokkurra Trippa“ bæri honum að gæta að því að valda ekki ábúanda á Reykjum í Fnjóskadal ágangi eða usla. Bóndinn á Hvammi sagði þessum leigumála upp 10. nóvember 1839 og gerði þá presturinn byggingarbréf við bóndann á Reykjum 20. desember sama ár um „Hrafnagils kirkiu Eignar- og Afrjettar-Land Bleiksmýrardal, Liggiandi fyrir vestan Fnioská frammfrá Skardsá og sudur á Øræfi“ með samsvarandi skilmálum og í fyrra bréfinu.

Biskup ritaði prófasti á Hrafnagili bréf 19. mars 1840, að virðist sem svar við fyrirspurn þess síðarnefnda um eignarhald á Bleiksmýrardal. Í bréfinu vitnaði biskup til áðurnefndra máldaga, þar sem Hrafnagilskirkju væri eignaður dalurinn vestan Fnjóskar, en Munkaþverárklaustri austan árinnar. Í máldögum kirkju á Illugastöðum væri hvergi rætt um ítak hennar „eda Almenning í Bleiksmyrardal“, sem jörðin kynni þó að hafa helgað sér austan Fnjóskár í skjóli Munkaþverárklausturs, sem hafi lengi átt jörðina. Í máldögum væri á hinn bóginn sagt að klaustrið ætti „nokkra Itölu í Bleiksmyrardal fyrir vestan Hnjóská, þó ekki á því Plátsi, sem Hrafnagils kirkju audsjáanlega tilheyrir einni“. Í framhaldi af þessu gerði prófasturinn 18. maí 1840 lögfestu fyrir „Hrafnagils kirkiu Eignina Bleiksmýrardal allann fyrir vestan Fnióská, framm frá Skardsá og sudur á Øræfi, sem ótakmarkada Eign nefndrar kirkiu“ og var hún lesin upp á manntalsþingi degi síðar.

Í gögnum vegna jarðamats frá árinu 1849 var tekið fram um Hrafnagil að kirkjan þar ætti „allan afréttinn Bleiksmýrardal ad vestanverdu, og er hann nú sem stendur burtleigður af Beneficiario og ábúanda prestssetursins Hrafnagils. Afréttur þessi liggur fyrir sunnan alla bygd í Fnjótskadal innan Suður Þingeyar sýslu.“ Um Bleiksmýrardal var eftirfarandi síðan tekið fram: „Hann er fjallshlíd ofanad á, og þarhjá hálfur Þverdalur nokkur, og er þetta mjög mikid vídlendi. Vída er hann grösugur á sumrum, sumstadar þarámóti skridóttur, á honum vex nokkur vídir. Yfirhöfud er dalur þessi kjarngódur afrettur fyrir saudfé; naut og hesta.“

Á árinu 1850 höfðaði umboðsmaður Munkaþverárklausturs mál fyrir aukahéraðsrétti Þingeyjarsýslu á hendur eigendum jarðarinnar Illugastaða vegna ágreinings, sem hafði risið milli þeirra um réttindi yfir landsvæðinu Bleiksmýrardal eystri, en ágreiningsefnið þar snerist ekki um réttindi yfir dalnum vestan Fnjóskár. Þessum ágreiningi lauk með dómi Landsyfirréttar 25. júní 1855 og er fjallað um hann og það mál að öðru leyti í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 411/2012.

Prestur á Hrafnagili gerði 27. september 1860 byggingarbréf við bónda á Reykjum um „Hrafnagils kirkju eignar- og afrjettarland Bleiksmýrardal, liggjandi fyrir vestan Fnjóská fram frá Skarðsá og sudur á Øræfi“ með hliðstæðum skilmálum og fram komu í áðurnefndu byggingarbréfi frá 30. nóvember 1832. Hrafnagilskirkja og eigur hennar munu hafa gengið undir Akureyrarkirkju með konungsúrskurði á árinu 1860, en 12. janúar 1871 gerði prestur síðarnefndu kirkjunnar aftur byggingarbréf um sama land, þessu sinni við bónda á Veturliðastöðum í Fnjóskadal. Þá er þess loks að geta að prestur gerði 2. júní 1882 byggingarbréf um „eign Akureyrarkirkju afréttarlandið Bleiksmýrardal fyrir vestan Fnjóská fram frá Skardsá og suðr á öræfi“ við bónda á Reykjum.

Landamerkjabréf var gert 16. janúar 1885 fyrir jörðina Reyki í Fnjóskadal, þar sem sagði meðal annars: „Í suður eiga Reykir af Bleiksmýrardal suður af Gönguskarði, samt Gönguskarðið að utan suður að Skarðdalsá og Skarðdalinn að vestan, samt Gönguskarðið út að Ytri-Jökulsá.“ Bréfið var áritað um samþykki „að því er snertir afréttarland Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal“ og lesið á manntalsþingi 27. maí sama ár. Eins og áður greinir var gert landamerkjabréf fyrir „afréttarland Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal“ 1. apríl 1885. Bréfið var þinglesið 27. maí sama ár og áritað um samþykki af hálfu Reykja og Munkaþverár, en af hendi síðarnefndrar jarðar með þeirri athugasemd að „samkvæmt gömlum skjölum á Munkaþverá ítök í Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár, mánaðarbeit öllu fé annað dægur og 30 geldneyta rekstur.“ Þá var gert skjal 30. maí 1889 um landamerki Hrafnagilsjarða, sem var þinglesið 21. maí 1890, en í því sagði meðal annars: „Ennfremur á Hrafnagilskirkja afrjettar landið Bleiksmýrardal allan fyrir neðan Fnjóská frá Skarðsá og suður til öræva. Um ítak þetta og mörk þess veit jeg ekki nokkurn ágreining.“ Umboðsmaður Munkaþverárklausturs áritaði þetta skjal um samþykki sitt.

Í matsgerð 16. janúar 1912, sem aflað var í tengslum við sölu ríkisins á kirkjujörðinni Botni í Hrafnagilshreppi, var meðal annars getið um að engin hlunnindi fylgdu henni „nema ef telja ætti það, er ábúandi heldur fram að hann eigi, ásamt ábúanda á Hrafnagili frían upprekstur geldfjár á afrjett Fnjóskdæla - (Bleiksmýrardal) samkvæmt gamalli venju.“ Þessu til samræmis var tekið fram í afsali ríkisins fyrir jörðinni 20. júlí sama ár að henni fylgdi „gjaldfrjáls upprekstur geldfjár í Bleiksmýrardal.“

Landbúnaðarráðherra gaf út afsal 22. maí 1978 til Hálshrepps fyrir tveimur nánar tilgreindum eyðijörðum og „afréttarlandinu Bleiksmýrardal vestri“. Samkvæmt afsalinu var fasteignamatsverð þessa lands 103.000 krónur, en eignirnar þrjár voru seldar fyrir verð, sem svaraði til samanlagðs fasteignamats þeirra. Í afsalinu var eftirfarandi tekið fram: „Rísi ágreiningur um landamerki, eignarheimild eða annað slíkt varðandi hinar seldu eignir, undanskilur seljandi sig allri ábyrgð.“

IV

Í Landnámabók segir frá því að Þórir snepill Ketilsson hafi komið að landi í ósum Skjálfandafljóts og numið síðan land milli Skuggabjarga og Ljósavatnsskarðs. Þar hafi hann ekki unað sér og því flutt sig um set og numið allan Fnjóskadal til Ódeilu, en búið að Lundi. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvað átt hafi verið við með Ódeilu, sem Landnámabók kveður hafa ráðið suðurmörkum þessa landnáms, en Lundur er rúmlega 20 km fyrir norðan Skarðsá á norðurmerkjum Bleiksmýrardals vestri. Af þessari frásögn verður ekki ráðið hvort land kunni að einhverju leyti að hafa verið numið í vestari hluta dalsins og stofnað þannig til beins eignarréttar yfir því, en hún útilokar á hinn bóginn ekki frekar en staðhættir að svo kunni að hafa verið.

Af gögnum málsins verður ekki séð að vitað sé til að byggð hafi verið í Bleiksmýrardal að því frátöldu að óljósar sagnir munu hafa verið um býli vestan Fnjóskár á Flausturbölum um 7 km fyrir sunnan Skarðsá og meðal annars hermt að rústir hafi þar sést á þremur stöðum, á einum bæ hafi verið 24 hurðir á járnum og þar hafi verið kirkja. Fyrir liggur samkvæmt framlögðu bréfi fornleifafræðings að á Flaustri sé að finna umfangsmikið rústasvæði ásamt garðleifum, sem ekki hafi verið rannsakað. Þótt þar kynni að mega finna minjar um forna byggð, sem gætu gefið til kynna að land hafi verið numið til eignar á þessu svæði, verður að gæta að því að í fyrrgreindum máldögum frá 1318 var hermt að kirkjan á Hrafnagili ætti „halfann ʙleẏkzmyrardal framm fra skardzä.“ Samsvarandi ummæli komu sem áður segir fram í máldögum frá 1394, 1461 og 1508 auk vísitasíugerðar frá 1429. Þessi tilgreining á landsvæðinu gefur ekki til kynna að um jörð hafi verið að ræða, sem tilheyrt hafi Hrafnagilskirkju. Í sálugjafabréfi 1403, sem áður var getið, var ráðstafað rétti til upprekstrar í Bleiksmýrardal, í skrá um reka og ítök Munkaþverárklausturs frá 1446 var rætt um upprekstrarrétt þess í dalnum vestan Fnjóskár og það sama var gert í svonefndu Sigurðarregistri frá 1525. Í máldaga fyrir Hrafnagilskirkju frá 1508 kom fram að skylda hafi hvílt á bændum á tilteknu svæði í Eyjafirði til að reka þangað fé til sumarbeitar gegn greiðslu. Þessi notkun á landinu felur ótvírætt í sér vísbendingu um að byggð, sem hugsanlega kann á einhverjum tíma að hafa verið í Bleiksmýrardal vestan árinnar, hafi ekki lengur verið til staðar. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvernig réttindi Hrafnagilskirkju yfir landinu urðu til eða hver kunni áður að hafa haft þau á hendi. Til þess verður og að líta að Hrafnagil er í Eyjafjarðardal í meira en 20 km fjarlægð frá þessu landsvæði og er sá dalur skilinn frá Bleiksmýrardal og Fnjóskadal af fjalllendi, sem Garðsárdalur og Gönguskarð skerast þó í gegnum, en ýmsar jarðeignir og afréttir liggja þar á milli. Hvergi er í fyrirliggjandi heimildum rætt um Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár sem jörð eða hluta af jörðinni Hrafnagili. Að því leyti, sem vikið er í þessum heimildum að notum af þessu landi, hefur eingöngu verið fjallað um beit fyrir búpening, svo og lítillega um grasatekju og nýtingu skógar til kolagerðar. Að þessu virtu eru ekki efni til annars en að líta svo á að Bleiksmýrardalur vestri hafi aðeins verið afmarkað landsvæði, sem eingöngu var haft til takmarkaðra afnota svo langt sem elstu heimildir ná.

Um eðli réttinda Hrafnagilskirkju yfir þessu landsvæði er þess að gæta að í áðurnefndum máldögum biskupanna Auðunar rauða, Péturs og Ólafs frá 1318, 1394 og 1461 og vísitasíugerð Jóns biskups 1429 var rætt án frekari orða um að Hrafnagilskirkja ætti Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár. Eins var þetta landsvæði nefnt eign sömu kirkju í dómi sex klerka frá 1508, svonefndu Sigurðarregistri 1525, vísitasíum Hrafnagilskirkju 1585, 1662, 1695 og 1718 og að virðist í lögfestum fyrir hana 1672, 1728, 1736, 1765, 1771, 1780 og 1840. Í máldaga Gottskálks biskups frá 1508 var sem fyrr segir einnig rætt um að þetta land væri eign Hrafnagilskirkju, en jafnframt um skyldu bænda á tilteknu svæði til að reka fé til sumarbeitar á vestari hluta dalsins og væri „afrettur heimill“ þar fyrir „venivligan toll“, auk þess sem bændum bæri að halda þar við rétt. Á hinn bóginn var ekki minnst á Bleiksmýrardal vestri í skrá um eignir Hrafnagilskirkju 1544, þar sem taldar voru upp landareignir hennar. Í kirkjureikningum frá 1569 kom fram að meðal eigna Hrafnagilskirkju væri „halfur Bleiksmyrardalur afriett“ og í úrskurði lögmanns 1677 var rætt um „Hrafnagilz Beneficÿ Stadar affrett ehr Bleiksmÿrar dalur kallast“, svo og að prestinum á Hrafnagili bæri að „afrettar plätzid hreinsa läta fÿrer Melróckumm“ og smíða rétt „J affrettar Landinu, med tilstirch allra þeirra manna ehr Skilldu Rechstur, eiga a offtsagda affrett Bleiksmÿrardal“. Í vísitasíu fyrir Hrafnagilskirkju 1685 kom fram að hún ætti afrétt á Bleiksmýrardal vestri og í jarðabók 1712 að hún ætti þar afréttarland. Meðan á fyrrgreindum deilum stóð milli prestsins á Hrafnagili og bænda í Hrafnagilshreppi og Öngulstaðahreppi á árabilinu 1719 til 1739 lét presturinn ítrekað frá sér fara bréf, þar sem rætt var um afrétt Hrafnagilsstaðar í Bleiksmýrardal og í samningi hans við bændur 1727 var nefnd „kirkiunnar afriett bleksmÿrardalur“. Sýslumaður útnefndi menn ári síðar til að telja lömb á „Afriettena ä Bleiksmijrardal, Sem Hrafnagils kirkiu tilheirer“ og kvað síðan upp dóm 1729, þar sem landsvæðið var nefnt „Hrafnagils kÿrkiu afRett Bleiksmÿrardalur“ og rætt um upprekstur „i afRettina“. Í skýrslu um eignir Hrafnagilskirkju frá 1782 mun hafa verið rætt um Bleiksmýrardal sem ítak hennar, sem hún hefði nokkurn hag af vegna lambatolls. Presturinn þar lét lesa upp á manntalsþingum 1814 lögfestu fyrir „Afrettarlandid Bleiksmýrardal“ og gerði síðan byggingarbréf um það 1832, þar sem ítrekað var rætt um afréttarland og afrétt. Í gögnum vegna jarðamats 1849 kom fram að Hrafnagilskirkja ætti „afréttinn Bleiksmýrardal ad vestanverdu“ og byggingarbréf voru aftur gerð 1860, 1871 og 1882, þar sem ýmist var leigt kirkjunnar „eignar- og afrjettarland“ eða „afréttarlandið“ Bleiksmýrardalur vestan Fnjóskár. Landamerkjabréf var gert 1885 fyrir „afréttarland Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal“ og annað slíkt bréf frá sama ári fyrir jörðina Reyki var jafnframt samþykkt vegna aðliggjandi landsvæðis, sem var nefnt á sama hátt. Í bréfi um landamerki Hrafnagilsjarða frá 1889 sagði einnig að kirkjan þar ætti afréttarlandið Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár. Í áðurnefndri matsgerð frá 1912 var rætt um upprekstrarrétt, sem ábúendur á Hrafnagili og Botni ættu á afrétt Fnjóskdæla í Bleiksmýrardal. Þá gaf ráðherra út afsal 1978 fyrir „afréttarlandinu Bleiksmýrardal vestri“ til Hálshrepps, sem áfrýjandi er nú kominn í staðinn fyrir, og var sérstaklega tekið þar fram að seljandi undanskildi sig allri ábyrgð á eignarheimild ef til ágreinings kæmi.

Þótt í framangreindum heimildum hafi allt frá árinu 1318 til 1525 verið rætt um Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár sem eign Hrafnagilskirkju án frekari skýringa hefur landsvæðið ýmist verið nefnt afréttur eða afréttarland eða réttindin yfir landinu kallast ítak í öllum heimildum upp frá því, ef frá eru taldar ýmsar vísitasíur og lögfestur fyrir Hrafnagilskirkju frá tímabilinu 1585 til 1840, þar sem ósamræmis hefur þó gætt í þessum efnum. Þessar heimildir, sem ná aftur til ársins 1569, stafa að talsverðu leyti frá þeim, sem hafa verið í fyrirsvari fyrir Hrafnagilskirkju og þá, sem komið hafa í stað hennar. Þegar allar þessar heimildir eru virtar í heild getur ekki leikið vafi á að réttindi kirkjunnar yfir landi í Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár hafa verið bundin við þau óbeinu eignarréttindi, sem felast í rétti til upprekstrar búfjár til sumarbeitar og annarra hefðbundinna afréttarnota. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Þingeyjarsveitar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. mars 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. janúar sl., hefur Þingeyjarsveit, kt. [...], Kjarna, 650 Laugum, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu, birtri 13. janúar 2010.

Dómkröfur stefnanda eru:

Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2008, Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal að því leyti er varðar land Bleiksmýrardals vestri, landnúmer 153213.

Að viðurkennt verði, að landið á vestanverðum Bleiksmýrardal sé eignarland stefnanda í samræmi við framlagðan uppdrátt, þ.e. Afréttarland Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal, sem er allur sá hluti dalsins, er liggur fyrir vestan Fnjóská, frá Skarðsá og suður á Öræfi.  Suðurlína Bleiksmýrardalslands verði dregin eins og óbyggðanefnd afmarkaði afréttareign stefnanda, vestan Fnjóskár þannig að hún komi í ána á sama stað og þverlínan kemur í ána austan megin samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar frá 6. júní 2008, í málinu nr. 3/2007, vegna Bleiksmýrardals eystri 153212, þ.e. við sunnanverða Einstökutorfu.

Stefnandi krefst að auki málskostnaðar úr hendi stefnda, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf innanríkisráðuneytis frá 12. febrúar 2010.

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu, en til vara að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

I.

1.         Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd var landsvæðinu skipti í tvennt, nyrðri og syðri hluta.  Landsvæði það sem hér er til umfjöllunar er nefnt vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A) og afmarkast svo:  Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadal og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa.  Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar að austan.  Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl.  Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd.  Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnanda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 14. mars og 30. apríl 2008.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu og útdrátt úr kröfu stefnanda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. mars og 30. apríl 2008, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Í tilkynningunum var m.a. skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðisins, að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni í síðasta lagi 30. júní 2008.  Var sá frestur framlengdur og bárust síðustu kröfulýsingar í júlí það ár.  Kröfulýsing stefnanda er dagsett 2. júlí 2008, en þar var krafist að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur stefnanda til alls Bleiksmýrardals vestan Fnjóskár.

Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt.  Þá fór fram lögboðin kynning og var frestur til athugasemda veittur til 25. ágúst 2008.  Engar athugasemdir bárust og þá ekki við ítrekaðar fyrirtökur málsins haustið 2008, en við síðustu fyrirtökuna, 10. nóvember það ár, voru lögð fram frekari gögn.  Að lokinni aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd 25. nóvember 2008 var málið tekið til úrskurðar.  Málsmeðferðin var endurupptekin 5. júní 2009 og enn lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný.

Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn, í máli nr. 8/2008, um Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðar ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar, að það landsvæði, sem lýst er í stefnu, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58,1998.  Í forsendum úrskurðarins segir:

„Að öllu þessu virtu hefur, af hálfu Þingeyjarsveitar, ekki verið sýnt fram á að Bleiksmýrardalur, vestan Fnjóskár, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda.  Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að Bleiksmýrardalur, vestan Fnjóskár, sé afréttur Þingeyjarsveitar.“

Í úrskurðarorðum er ofangreint landsvæði nánar afmarkað þannig:

Fnjóská er fylgt til suðurs frá þeim stað þar sem Skarðsá rennur í hana þar til komið er skammt sunnan við Einstökutorfu til móts við 930 m hæðarpunkt í vestri.  Þaðan er farið beint til vesturs í fyrrnefndan 930 m hæðarpunkt.  Þá er farið til norðurs í punkt þar sem vatnaskil Eyjafjarðarár og Fnjóskár skera sýslu- og sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar.  Sveitarfélagamörkum er fylgt til norðurs þar til komið er til móts við upptök Skarðsár.  Þaðan er kröfulínu aðila fylgt til austurs í upptök Skarðsár og ánni fylgt að upphafspunkti þar sem hún rennur í Fnjóská.

Í úrskurðinum er áréttað að umrætt landsvæði sé afréttareign stefnanda, eiganda Bleiksmýrardals, vestan Fnjóskár, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998.  Þá segir í úrskurðinum að hluti þess svæðis sem lýst hafi verið sem þjóðlendu í afréttareign sé háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44, 1999, sbr. náttúruminjaskrá.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998.

Stefnandi, Þingeyjarsveit, undi ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt.  Krefst hann því ógildingar úrskurðarins að því er hið umþrætta landsvæði varðar.

Málið er höfðað innan þess frests, sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, skv. 11. gr. laganna.

Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang, 10. ágúst 2010.

2.         Við meðferð málsins fyrir óbyggðanefnd gerði stefnandi þær kröfur að allt land Bleiksmýrardals vestan Fnjóskár teldist hans eign, þ.e. allur sá hluti dalsins er liggur fyrir vestan Fnjóská, frá Skarðsá og suður á öræfi.

             Í málatilbúnaði sínum hér fyrir dómi hefur stefnandi takmarkað kröfugerð sína að því er varðar suðvesturmörk Bleiksmýrardals.  Miðast kröfugerð stefnanda þannig við þverlínu þá sem óbyggðanefnd dró til afmörkunar á afréttareign stefnanda við svonefnda Einstökutorfu, og er krafan að því leyti í samræmi við línuna sem er um mörk eignarlands og þjóðlendu austan Fnjóskár samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar frá 6. júní 2008 í máli nr. 3/2007.  Er kröfulína stefnanda þannig beint til vesturs, þ.e. vestan Fnjóskár og í fyrrnefndan hæðarpunkt, 930 m.  Þaðan er farið til norðurs í punkt þar sem vatnaskil Eyjafjarðarár og Fnjóskár skera sýslu- og sveitarfélagamörk Eyjafjarðar- og Þingeyjarsveitar, og er þeim mörkum fylgt áfram til norðurs þar til komið er til móts við upptök Skarðsár og er ánni þaðan fylgt til ósa við Fnjóská, allt til samræmis við niðurstöðukort óbyggðanefndar.

3.         Úrskurður óbyggðanefndar skiptist í sjö kafla og er 142 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir nefndinni, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða.  Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum, sbr. einnig eldri mál nefndarinnar nr. 1-7/2000 og 1-5/2001, en þær eru að auki m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

4.         Í úrskurði óbyggðanefndar er m.a. greint frá elstu ritheimildum um landnám í Eyjafirði og Fnjóskadal, og er þar um m.a. vísað til Landnámabókar og þeirra gagna sem Þjóðskjalasafn tók saman um hið umþrætta landsvæði, þ. á m. á Bleiksmýrardal.  Segir í þessum heimildum að samkvæmt Landnámu hafi Helgi magri numið land í Eyjafirði og sest að í Kristnesi.  Að ráði Helga nam Þengill mjögsiglandi land út frá Fnjóská til Grenivíkur og bjó hann að Höfða, en Þórður snepill nam land í Fnjóskadal, og segir um það í Sturlubók:  „Þórir nam síðan Hnjóskadal allan til Ódeilu... “

Fnjóskadalur í Suður-Þingeyjarsýslu framan við býlið Skóga kallast Fram-Fnjóskadalur.  Skiptist hann í þrjá fjalladali, Bleiksmýrardal vestast, og kemur Fnjóská úr honum, Hjaltadal og Timburvalladal. Hálshreppur hinn forni í Suður-Þingeyjarsýslu náði á öldum áður frá Flatey á Skjálfanda og fram til nefndra afdala, nær 100 km leið.

Um mörk Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu segir Jón Sigurðsson frá Ysta-Felli í ritinu Lýsing Þingeyjarsýslu, sem gefið var út 1954, að þau séu m.a. miðuð við fjarðarbotn Eyjafjarðar, en þaðan liggi þau á háhrygg Vaðlaheiðar og um vatnaskil milli Fnjóskár og Eyjafjarðarár til öræfa.  Í Árbók Þingeyinga frá 1965 segir Jóhann Skaftason, sýslumaður, um sýslumörkin að þau liggi eftir háheiðinni (Vaðlaheiði) og síðan eftir háfjallshryggnum milli Fnjóskadals og Bleiksmýrardals að austan og Eyjafjarðardala að vestan, svo sem vötnum hallar á báða bóga, og síðan áfram eftir vatnaskilum suður um Nyrðri- og Syðri-Háöldu, suðvestur í Klakk í norðvestanverðum Hofsjökli.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um landsvæði á Bleiksmýrardal, að það liggi í yfir 380 metra hæð og hafi leguna norður-suður.  Nánar segir um dalinn að hann sé lengstur afdalanna á svonefndum suðurafrétti Fnjóskadals, um 70 km að lengd.  Vestur- og Austur-Bleiksmýrardalur er nefnt eftir því hvorum megin ár er átt við.  Á Vestur-Bleiksmýrardal heitir Reykjafjall frá býlinu Reykjum suður að Gönguskarði.  Það er skarð mikið, sem liggur gegnum fjallgarðinn vestur í Garðsárdal í Eyjafirði.  Suður úr því skerst dalur, er Skarðsdalur heitir.  Miðpartur heitir frá Gönguskarði suður frá Fremri-Lambá.  Hún er ofurlítið norðar en gegnt Svartá.  Heitir Heimari-Lambá nokkru norðar í miðpartinum og koma báðar Lambárnar ofan úr samnefndum dölum.  Vestur-Sandar heita sunnan við Fremri-Lambá.  Á Austur-Bleiksmýrardal heitir Tungufjall frá jörðinni Tungu suður að læk þeim, er Hamarslækur heitir, Miðpartur þaðan og suður að Svartá, kemur hann úr Svartárdal, sem skerst suðaustur úr Bleiksmýrardal.  Frá Svartá heita Austursandar suður að svonefndri Einstökutorfu, þ.e. syðsti hagabletturinn á dalnum.  Inn af Bleiksmýrardal liggja Bleiksmýrardrög og ná gróðurteygingar þar upp í 650 til 700 metra hæð með árbökkum Fnjóskár.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um hið umþrætta landsvæði að upp af dölum og giljum svæðisins sé land hallalítið, gróðursnautt og öldótt, en einnig að talið sé að gróðurfar og gróðurþekjan hafi við upphaf landnáms, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.  Í ritinu Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson, segir um landsvæðið að fjöllin á suðurafrétti Fnjóskadals séu allhá og víða mjög brött, en þó gróin upp undir brúnir en að land hafi spillst af grjótskriðum.  Einnig segir að undirlendi sé talsvert sums staðar í Framdölunum, en að þeir séu ógreiðir yfirferðar.  Segir í ritinu að ágætt sauðland sé á öllum þessum dölum og hafi þeir frá ómunatíð verið notaðir sem afréttarlönd Suður-Fnjóskdælinga, mjög margra Eyfirðinga og nokkurra manna úr öðrum sveitum.

Í sóknarlýsingu Þingeyjarsýslu frá 1839 segir Sigurður Árnason, prestur á Hálsi, að afdalir Fnjóskadals hafi verið hafðir fyrir afréttarlönd geldfjár og næst byggðum fyrir búsmala.

Samkvæmt elstu fjallskilareglugerð fyrir Þingeyjarsýslur, frá árinu 1893, var öllu landi sýslunnar skipt í þrjú fjallskilafélög, en þ. á m. var svæðið vestan Skjálfandafljóts og sunnan Ljósavatnsskarðs, vestur í Fnjóskadal hjá Skógum og þaðan yfir Vaðlaheiði að Veigastöðum á Svalbarðsströnd.  Í reglugerðinni er kveðið á um að fjallskilafélögum megi skipta í deildir eftir því sem hagar, fjöll og vatn deila.  Segir að landið skiptist í afréttir og heimalönd og það sé hreppsnefnda að ákveða takmörk þar á milli.  Kveðið er á um að hreppsnefndir skuli gangast fyrir sveitarsamþykktum um, hvort nota skyldi heimalönd til upprekstrar fyrir geldfé eða lömb.  Skyldi tekið skýrt fram, hver þau lönd væru og tala fjár, er í þau mætti reka.  Heimalönd, sem heimild væri til að nota til upprekstrar, skyldi skoðast sem „afréttir“ enda væru þau notuð á þann hátt af fleirum en landeigendum sjálfum.  Þá sagði í reglugerðinni að fjárleitir á öræfum, sem ekki gætu talist til nokkurra „afrétta“ skyldu gerðar eftir sömu reglum sem eftirleitir.

Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1904.  Mikilvægasta breytingin var í 3. gr., en þar var kveðið á um að allt land skiptist í öræfi, afrétti og heimaland.  Um afréttinn sagði að hann skyldi vera sem að fornu hefði verið, en enn fremur að sýslunefnd gæti tekið upp nýja afrétti ef nauðsyn bæri til eftir tillögu hreppsnefndar og með samþykki landeiganda.  Núgildandi fjallskilareglugerð er frá árinu 1996.

Frá því er greint í framlögðum gögnum að samkvæmt munnmælum og sögnum hafi allmikil byggð verið í Bleiksmýrardal, en að flestar séu tóftir með selsnöfnum, og er sagt að það bendi fremur til sumardvalar en fastrar búsetu.

Í úrskurði óbyggðanefndar og framlögðum gögnum segir að Bleiksmýrardalur sé vel gróinn langt fram eftir, að haglendi sé þar ágætt og enn fremur að skógar hafi verið í neðanverðum dalnum í framhaldi af Fnjóskadalsskógum.  Segir frá því að Munkaþverárklaustur í Eyjafirði hafi náð landsvæði dalsins austan Fnjóskár undir sig, þ.e. fyrir framan land jarðarinnar Tungu við Hvammslæk, en að Hrafnagilskirkja hafi tekið landsvæði vestan Fnjóskár undir sig, framan jarðanna Illugastaða og Reykja, sunnan Skarðsár.

Í úrskurðinum eru tíundaðar heimildir um hið umþrætta svæði vestan Fnjóskár, en einnig austan árinnar.  Er áréttað að hálfur Bleiksmýrardalur, þ.e. vestan Fnjóskár, hafi frá því snemma á öldum talist til eigna Hrafnagilskirkju í Eyjafirði.  Segir að þessara réttinda sé fyrst getið í máldaga Auðunar rauða Þorbergssonar, Hólabiskups, frá árinu 1318, en þar segir:  Kyrckia hins heilaga Peturs ä Rafnagili. ä ... halfann Bleykzmyrardal framm fra skardzä.“  Vísað er til þess að hið sama komi fram í máldögum Péturs biskups Nikulássonar frá 1394, vísitasíugerð Jóns biskups Vilhjálmssonar frá 1429, máldögum Ólafs Rögnvaldssonar frá 1461 og í elsta hluta Sigurðarregisturs frá 1525.  Réttindanna sé og ítrekað getið í síðari tíma kirkjulegum heimildum, m.a. vísitasíum, en einnig lögfestum, en þar sé skráð að Hrafnagilskirkja eigi afrétt á Bleiksmýrardal.

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá fjárrekstri bænda í Eyjafirði á Bleiksmýrardal, þ. á m. ábúanda jarða, sem voru í eigu Hrafnagilskirkju.  Bent er á að í gögnum sé að því vikið að ágreiningur hafi komið fram um þennan rekstur og um svokallaðan lambatoll, en þar um er m.a. vísað til máldaga Hrafnagilskirkju frá 22. júní 1508.  Í máldaganum segir að réttindi kirkjunnar byggist á fornum og nýjum registrum og innsigluðum bréfum Hóladómkirkju, og að kirkjan eigi dalinn að vestanverðu fram frá Skarðsá og suður á öræfi og að bændur á tilgreindum býlum í fyrrum Öngulsstaðahreppi og Saurbæjarhreppi í Eyjafirði séu skyldugir til að reka lömb sín þar í afréttinn.  Í úrskurðinum segir að deilur þessar hafi leitt til þess að árið 1508 hafi verið kveðinn upp „dómur“ sex presta, útnefndum af Gottskálki Nikulássyni Hólabiskupi, um landsvæði Hrafnagilskirkju á Bleiksmýrardal.  Tilefnið hafi verið ætlaður óleyfilegur lambarekstur þar á afréttinn.  Niðurstaða prestanna var sú að Hrafnagilskirkju var dæmdur Bleiksmýrardalur frá Skarðsá og suður á öræfi með tilheyrandi lambatollum.  Biskup staðfesti síðar niðurstöðuna.

Í úrskurði segir frá því að í síðari heimildum sé vikið að ofangreindum réttindum Hrafnagilskirkju á Bleiksmýrardal, en einnig að fyrrnefndum ágreiningi um upprekstur.  Þannig sé í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 sagt um kirkjujörðina Hrafnagil að hún eigi afréttarland á hálfum Bleiksmýrardal fyrir toll.  Um þessi landsréttindi, sem nefnd eru ítök staðarins, segir síðan nánar í ferðabókinni:  Afrjettarland á staðurinn framm úr Fnjóskadal hálfan Bleiksmýrardal, og eru þángað skyldugir að reka allir bændur lömb sín í Öngulstaða og Hrafnagils hreppum, og so hefur áður verið, en smám saman hefur þessi upprekstur aflagst sakir harðinda og miklra vatna, og reka nú þángað allfáir. Afrjettartollur var venjulegur lamb af hverjum bónda, og so er enn af þeim fáum sem reka ...

Í úrskurðinum segir að í dómabókum frá 1729 hafi verið kveðið á um ítölu fjár, göngur og fjallskil og hverjum væri skylt að nýta Hrafnagilskirkjuafréttina Bleiksmýrardal fyrir lambatoll.  Segir þar:  Efter þvi ad Hrafnagils kyrkiu afrett Bleiksmijrardalur er nu aliten ei fyrer fleire lómb til hagabeitar ä Sumardag enn Ellefu hundrud, þa skulu þeir frägänga ad reka i afrettina, sem leingst eiga ad og ohægast af bädum Reppunum Hrafnagils og Aungulstada, og skulu nu hier epter þangad reka bændurner utan af bädum þessum Reppum fyrer Vestann framm ad Hrafnagile, enn austann allt framm ad Aungulstódum og Biórk, og skulu aller þesser bændur uppehallda góngum og fiallskilum a haust, efter sem Reppstiornarmenn gióra räd fyrer og betala sinn Lambatoll Hrafnagils Kyrkiu Forsvarzmanna efter hennar mäldogum og geingnum dömum, under laga tiltal og Sekter. Enn velehruverdigur Profasturenn Sr Þorsteinn Ketilsson hefur giórt sina Skylldu i þvi ad færa þetta mäl fyrer Riettinn, uppä kyrkiunnar vegna efter sinu Collatzbrefe og kongsinss utgefnum Logum og Forordningum.

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að í eldri heimildum sé skýrlega greint frá eign Munkaþverárklausturs í Eyjafirði á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár, en einnig að uppi hafi verið ágreiningur um þau landsréttindi.  Hafi sá ágreiningur m.a. varðað ætluð afnotaréttindi Illugastaðabænda á Bleiksmýrardal.  Þar sem sættir hafi ekki tekist hafi málarekstur hafist, er hafi staðið yfir á árabilinu 1850 til 1855, og endað með dómi Landsyfirréttar, sbr. mál nr. 1/1855.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að fyrrgreindra réttinda Hrafnagilskirkju á Bleiksmýrardal sé margoft getið í heimildum, m.a. frá 18. og 19. öldinni.  Bent er á að í skýrslu kirkjunnar frá 1782 segi frá því að á meðal ítaka kirkjunnar sé Bleiksmýrardalur og að hún hafi á árum áður haft nokkurn hag af því vegna lambatolla, en að þær tekjur hafi dregist saman og lokum alveg fallið niður.  Þá sé í jarðamati frá 1849 staðhæft að Hrafnagil eigi allan Bleiksmýrardal að vestanverðu, en jafnframt að þáverandi prestur hafi mótmælt ætluðum ítaksrétti þáverandi ábúanda Munkaþverár á því landi.  Er sagt að lyktir hafi orðið þær að fallist hafi verið á andmæli prestsins af yfirmatsmönnum Eyjafjarðarsýslu þann 11. júní 1850.

Samkvæmt konungsúrskurði árið 1860 var Hrafnagilskirkja lögð undir Akureyrarkirkju að meðtöldu afréttarlandinu á Bleiksmýrardal.  Segir í úrskurðinum að eftir það hafi afrétturinn nokkrum sinnum verið leigður út sem nytjaland, þ. á m. til ábúenda á Reykjum í Fnjóskadal.

Landamerkjabréf fyrir Bleiksmýrardal vestanverðan var útbúið 1. apríl 1885 og var því þinglýst 27. maí sama ár.  Þar segir um merkin:

Afréttarland Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal, er allur sá hluti hálsins, er liggur fyrir vestan Fnjóská, frá Skarðsá og suður á öræfi“.

Bréfið var undirritað af Guðmundi Helgasyni, presti á Akureyri, en Stephán Stephensen umboðsmaður samþykkti efni þess vegna Munkaþverár.

Landamerkjabréf fyrir Hrafnagilsjarðir var útbúið þann 30. maí 1889 og þinglesið 21. maí árið 1890.  Þar segir:  Ennfremur á Hrafnsgilskirkja afréttarlandið Bleiksmýrardal allan fyrir neðan Fnjóská frá Skarðsá og suður til Öræfa.  Um ítak þetta og mörk þess veit jeg ekki nokkurn ágreining.

Fyrrnefndur Stephán Stephensen umboðsmaður samþykkti efni þess vegna Munkaþverár.

Í lýsingu Hrafnagils frá 26. janúar 1914 segir að jörðin eigi hvergi tilkall til afréttar, en Bleiksmýrardalur var þá eins og áður sagði orðinn eign kirkjunnar og því kominn undir Akureyrarkirkju eða íslenska ríkið.

5.         Með aðilum þessa máls er ekki ágreiningur um afmörkum þess landsvæðis sem um er deilt á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár.

Um eignarréttarlega stöðu landsvæðisins er hins vegar ágreiningur og hafa aðilar um röksemdir, eins og síðar verður nánar rakið, m.a. vísað til áðurrakinna gagna, en enn fremur til umfjöllunar Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum um þýðingu landamerkjabréfa.  Þá vísa aðilar, ekki síst stefndi, ítrekað til niðurstöðukaflans í úrskurði óbyggðanefndar.  Verður því hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Í niðurstöðukafla í úrskurðarins segir m.a. að elstu ritheimildir um landnám í Fnjóskadal og Eyjafirði lýsi ekki hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu landsvæði náði, en sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði þó að telja líklegt að Bleiksmýrardalur vestan Fnjóskár sé, a.m.k. að hluta, innan þess.  Vafi þar um hljóti þó að aukast eftir því sem sunnar dragi.

Í úrskurðinum segir að ekkert liggi fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda, sem til kunni að hafa verið stofnað á Bleiksmýrardal.  Kunni beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfar þess tekið til takmarkaðra nota annarra.  Í þessu sambandi beri að líta til þess sönnunarmats, sem lagt hafi verið til grundvallar um afrétti einstakra jarða og/eða stofnana og styðjist við fjölda dóma í sambærilegum málum.  Er í því sambandi vísað til áðurnefnds viðauka úrskurðarins um almennar niðurstöður.

Í úrskurðinum er vísað til áðurlýsts landamerkjabréfs „afréttarlands Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal“  svo og landamerkjabréfs Hrafnagilsjarða.  Bent er á að bréfin hafi verið gerð í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882 og staðhæft að fyrirliggjandi gögn bendi til þess að landamerkjum landsvæðisins sé rétt lýst, en bréfin hafi m.a. verið þinglesin og færð í landamerkjabók sýslumanns.

Í úrskurðinum er sérstaklega vikið að tilvísun stefnanda við meðferð málsins fyrir nefndinni til fyrrnefnds dóms Landsyfirréttar Íslands frá 11. júlí 1845 í máli nr. 1/1845, þar sem fjallað var um eignarrétt á austurhluta Bleiksmýrardals og síðar afsals stjórnarráðsins á landi vestan Fnjóskár til Hálshrepps þann 22. maí 1978 og þess álitaefnis að þessar heimildir hafi gefi stefnanda réttmætar væntingar um beinan eignarrétt á landsvæðinu vestan Fnjóskár.  Af þessu tilefni var af hálfu nefndarinnar vísað til fyrri úrskurðar í máli nr. 3/2007 þar sem segir m.a.:

Óbyggðanefnd telur ljóst að beinn eignarréttur hafi verið til úrlausnar í nefndum dómi Landsyfirréttar ásamt þeim takmörkuðu eignarréttindum sem eigendum Illugastaða voru dæmd.  Þannig liggur fyrir úrlausn þar til bærs yfirvald samkvæmt réttarskipan þess tíma um eignarréttarlega stöðu Bleiksmýrardals austan Fnjóskár.  Eins og hér stendur á telur óbyggðanefnd að líta verði á dóm þennan sem bindandi um úrslit sakarefnisins.  Krefjendur beins eignarréttar í máli því sem hér er til úrlausnar leiða rétt sinn frá Stjórnarráðinu sem seldi Hálshreppi Bleiksmýrardal 29. september 1919.  Nefndin telur að dómurinn hafi vakið réttmætar væntingar dómhafa um að beinn eignarréttur þeirra væri fyrir hendi og nyti viðurkenningar og verndar opinbers valds.  Þjóðlendukröfugerð íslenska ríkisins nú fær ekki samrýmst því, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, þar sem fjallað er um Tunguheiði og úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005 þar sem fjallað er um Laugavelli.

Um það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, þ.e. vestan Fnjóskár, segir í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar um álitaefnið og er þá höfð hliðsjón af fyrrnefndum úrskurði nefndarinnar í hinu eldra máli nr. 3/2007:

Framangreindur úrskurður óbyggðanefndar vísar þannig til dóms Landsyfirréttar frá 11. júlí 1855 um Bleiksmýrardal austan Fnjóskár.  Sá dómur er hins vegar hvorki formlega né efnislega bindandi um eignarréttarlega stöðu lands vestan árinnar, enda var það ekki til umfjöllunar í málinu.  Við úrlausn óbyggðanefndar um það atriði nú verður því sem endranær að líta til þeirra heimilda sem fyrir liggja og varða Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskar, fjöldamargra fordæma dómstóla og fyrri úrskurða óbyggðanefndar í þjóðlendumálum, þar á meðal Almennra niðurstaðna.

Saga Bleiksmýrardals annars vegar austan og hins vegar vestan Fnjóskár er ekki hin sama, heimildir mismunandi og aðilar aðrir.  Staðhættir eru á hinn bóginn um margt svipaðir.  Dómur Landsyfirréttar um eignarréttarlega stöðu aðliggjandi landsvæðis árið 1885 hefur þar ekki meiri þýðingu en aðrar úrlausnir dómstóla.  Réttmætar væntingar um beinan eignarrétt verða því ekki grundvallaðar á honum.  Að því er varðar afsal ríkissjóðs frá 1978 skal þess jafnframt sérstaklega getið að í því gat ekki falist víðtækari eignarréttur Hálshreppi til handa en sannanlega var á hendi ríkissjóðs, sbr. dóma Hæstaréttar 1997/1162 (Auðkúluheiði), nr. 47/2007 (Biskupstungnaafréttur norðan vatna) og nr. 67/2006 (Skjaldbreiður).  Hlýtur því að koma til skoðunar hver réttur Hrafnagilskirkju til þessa svæðis hafi verið.“

„Bleiksmýrardalur er landfræðilega aðskilinn frá Hrafnagilskirkju en heimildir greina frá því að hann hafi legið undir kirkjuna. Dalsins er jafnan getið með sérstökum hætti í heimildum og þá oft nefndur „afréttarland“ eða „ítak“.  Þannig segir „afréttur“ í áðurnefndu landamerkjabréfi frá 1885 en „ítak“ í landamerkjabréfi frá 1889, sbr. einnig skýrslu kirkjunnar frá 1782 að því er hið síðarnefnda varðar.  Bleiksmýrardalur er nefndur „afréttur“ í kirknareikningum nyrðra á prestssetrum frá 1569 og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, þar segir að jörðin Hrafnagil eigi afréttarland í hálfum Bleiksmýrardal fyrir toll.  Í jarðamatinu 1849 kemur einnig fram að kirkjan á Hrafnagili „eigi allan Bleiksmýrardalsafréttinn að vestanverðu“ og fyrir liggur að á 19. öld leigði Hrafnagilskirkja (sem síðar varð Akureyrarkirkja) dalinn margoft hinum ýmsu jörðum til upprekstrar og fylgdu þá lýsingar á mörkum hans.  Þá segir í bréfi Steingríms Jónssonar sýslumanns í Þingeyjarsýslu, dags. 6. apríl 1920, að afréttarlandið Bleiksmýrardalur suður af Fnjóskadal „hafi ekki tilheyrt nokkru lögbýli“.  Bréf sýslumanns var svar hans við fyrirspurn Stjórnarráðsins um hvar hann teldi almenninga og afrétti að finna.  Í afsali frá árinu 1978 var „afréttarlandinu Bleiksmýrardal vestri“ afsalað af hálfu ríkissjóðs til Hálshrepps sem nú tilheyrir Þingeyjarsveit.

Engin gögn liggja fyrir um að í Bleiksmýrardal hafi verið byggð eða landsvæðið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.  Það er mestum hluta hálent, fjarri byggð og inn á það hefur búfénaður leitað án hindrana. Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að á Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskár, hafi verið afréttur Hrafnagilskirkju og síðar Akureyrarkirkju í þeim skilningi að kirkjan hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.“

Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til þessa landsvæðis hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.  Um afréttarnot og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

Að öllu framgreindu virtu hefur, af hálfu Þingeyjarsveitar, ekki verið sýnt fram á að Bleiksmýrardalur, vestan Fnjóskár, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda.  Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að Bleiksmýrardalur, vestan Fnjóskár, sé afréttur Þingeyjarsveitar.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á hinu þinglýsta landamerkjabréfi Hrafnagilskirkju og öðrum skráðum eignarheimildum fyrir eignarlandi sínu á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár, en einnig á landamerkjabréfum aðliggjandi jarða.

Stefnandi vísar til þess að landamerki Bleiksmýrardals vestan Fnjóskár byggist á landamerkjabréfinu frá 1. apríl 1885.  Um afmörkun landsins til suðurs vísar hann til niðurstöðu úrskurðar óbyggðanefndar hér að framan, en einnig til dóms Landsyfirréttar frá 11. júlí 1855, í máli nr. 1/1885, og afsals stjórnarráðsins á landi á austurhluta Bleiksmýrardals og segir að þessi heimildarbréf hafi vakið réttmætar væntingar kaupandans um að beinn eignarréttur hans væri fyrir hendi og nyti viðurkenningar og verndar opinbers valds.

Stefnandi bendir á að hann leiði rétt sinn til Bleiksmýrardals á afsali Stjórnarráðsins til Hálshrepps þann 22. maí 1978.  Byggir stefnandi á því að nefnt afsal og fyrrnefndur dómur Landsyfirréttar vegna austurhlutans hafi vakið réttmætar væntingar kaupandans um að beinn eignarréttur hans væri fyrir hendi. Byggir stefnandi á því að fullkomin samsvörun hljóti því að vera á milli vestur- og austurhluta Bleiksmýrardals.

Stefnandi byggir á því að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umrætt land, vestan Fnjóskár, sé undirorpið fullkomnum eignarrétti og hafi öðru aldrei verið haldið fram.  Stefnandi vísar til fyrri úrskurða óbyggðanefndar, þess efnis að landsvæði, sem talið er að hafi verið til þeirra svæða er tilheyri jörðum samkvæmt elstu heimildum og eldri heimildir fara ekki í bága við, séu beinum eignarétti háð.  Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrðina fyrir því.  Ríkið hafi ekki sýnt fram á það með beinum haldbærum gögnum að land innan þinglýstra landamerkja Bleiksmýrardals, vestan Fnjóskár, sé ekki beinum eignarrétti háð.  Ekkert komi fram í úrskurði óbyggðanefndar sem bendi til annars en að allt land samkvæmt landamerkjabréfinu hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Er á því byggt að eigendur Bleiksmýrardals vestan Fnjóskár hafi í ljósi eignarheimilda sinna og viðurkenningar ríkisvaldsins á þeim lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að landið sé beinum eignarrétti háð.

Þá er á því byggt að röksemdir stefnda þess efnis að landnám hafi ekki náð til heiða og Bleiksmýrardals, vestan Fnjóskár, séu algjörlega ósannaðar, enda ekki reistar á neinum hlutlægum sönnunargögnum.  Byggir stefnandi á því, að umrætt landsvæði hafi þvert á móti verið numið í öndverðu og undirorpið beinum eignarrétti.  Það að Bleiksmýrardalur hafi verið nýttur til beitar á næstliðnum öldum breyti því ekki að þar hafi eitt sinn staðið blómleg byggð.  Er bent á að í Landnámabók, Sturlubók og Hauksbók, sé rætt um að Þórir snepill hafi numið Hnjóskadal allan til Ódeilu, en hún hljóti samkvæmt niðurstöðunni að vera austan megin við Einstökutorfu.  Jafnframt bendir stefnandi á að Bleiksmýrardalur, vestan Fnjóskár, sé búsældarlegri en dalurinn austan megin og frásagnir og menjar um fornbýli séu vestan árinnar.  Stefnandi bendir á og ítrekar, að staðhættir og gróðurfar styðji við beinan eignarrétt að svæðinu, enda sé landið grösugt og áður skipað byggðum bólum, líkt og fyrrnefndar heimildir vísi til.

Stefnandi byggir á því að fullur hefðartími sé liðinn frá því að fyrrnefndum landamerkjabréfum var þinglýst.  Öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi stefnanda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema hann.  Bendir stefnandi á að eignarheimildir hafi frá upphafi verið taldar gildar í viðskiptum manna og því byggi eignarhaldið enn fremur á rótgróinni venju í lögskiptum.  Það samrýmist í engu grundvallarreglum um réttaröryggi að haft sé að engu réttmætt traust manna á lagalegri þýðingu gagna af því tagi sem hér um ræði.  Af hálfu stefnanda er minnt á að gengið hafi verið út frá venjurétti sem eignarheimild í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.

Með vísan til alls ofangreinds, hvers um sig og saman, byggir stefnandi á því að ljóst sé að umrætt landsvæði á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár sé eignarland hans.

Um lagarök er af hálfu stefnanda vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá vísar hann til laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur, en einnig til meginreglna eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareiganda, almennra reglna samninga- og kröfuréttar og hefðarlaga nr. 14, 1905.  Þá vísar stefnandi til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6, 1986 og loks til ýmissa eignarréttarreglna í Grágás og Jónsbók.  Um málskostnað er af hálfu stefnanda vísað til XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að umþrætt landsvæði, þ.e. Bleiksmýrardalur vestan Fnjóskár, sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.

Um röksemdir vísar stefndi til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Úrskurðurinn sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni.  Kveðst stefndi gera niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni.

Af hálfu stefnda er skírskotað til þess að heimildir um hið umþrætta landsvæði á Bleiksmýrardal megi a.m.k. rekja allt aftur til upphafs 14. aldar, og að svæðisins hafi fyrst og fremst verið getið í tengslum við afréttar- og beitarnot.  Áðurrakið landamerkjabréf fyrir landsvæðið, sem þá hafi verið nefnt afréttarland Akureyrarkirkju, hafi verið útbúið 1. apríl 1885, en að auki hafi svæðisins verið getið í landamerkjabréfi fyrir Hrafnagilskirkju, sem útbúið hafi verið 30. maí 1889.  Þar hefði m.a. komið fram að um afréttarland væri að ræða og að kirkjan ætti á dalnum ítak.

Á því er byggt af hálfu stefnda að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir umþrætt landsvæði beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingarinnar á því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

Af hálfu stefnda er á það bent að það skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengjast sérstaklega tiltekinni jörð.  Almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarhald sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega.  Álítur stefndi að orðalag landamerkjabréfanna um „afréttarland“ bendi eindregið til þess, að þar hafi ekki verið lýst mörkum eignarlands (jarðar) heldur hafi bréfin falið í sér lýsingu á afréttarsvæði utan eignarlanda.

Af hálfu stefnda er á það bent að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á hinu umþrætta svæði náði.  Segir stefndi að ólíklegt verði að teljast að land á þessu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, en um sé að ræða öræfalandsvæði, langt frá byggðum bólum.

Þá bendir stefndi á að samkvæmt dómafordæmum teljist heimildarskortur um framangreind atriði leiða til þess að álitið sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé það í samræmi við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið sé ósannað að heiðarlönd hafi verið numin, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndan dóm nr. 48/2004 (Úthlíð).  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

Stefndi bendir á að ekki verði af áðurröktum heimildum annað ráðið en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti en þar um vísar hann til umfjöllunar í úrskurði óbyggðanefndar.  Að auki sé svæðið umlukið eigendalausum svæðum á allar hliðar.  Þá verði ekki annað séð en að réttur til hins umdeilda svæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Stefndi byggir á því að verði talið að greint landsvæði kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.  Að teknu tilliti til staðhátta og fjarlægðar frá byggð er á því byggt af hálfu stefnda að landið hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarétti.

Af hálfu stefnda er áréttað að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarétti.  Bendir stefndi á að landsvæðið sé verulega víðfeðmt, liggi í yfir 300 m hæð yfir sjávarmáli á austurhluta svæðisins næst Fnjóská, en rísi skarpt til vesturs upp af ánni.  Mestur hluti svæðisins liggi yfir 1000 m hæð, en þar sé landið hallalítið, gróðursnautt og öldótt.

Stefndi bendir á að við mat á eignarréttarlegri stöðu landsvæðisins verði að líta til þess að svæðið sé ekki í landfræðilegum tengslum við heimajörðina Hrafnagil (Hrafnagilskirkju) en heimildin greinir frá því að dalurinn hafi legið undir kirkjuna.  Fjölmargar jarðir skilji þar í milli.  Staðhæfir stefndi að almennt hafi verið litið svo á af hálfu dómstóla, að þegar svo hátti til þá bendi það ótvírætt til þess að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.  Þá bendir stefndi á að engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, en eftir atvikum til annarra takmarkaðra nota.  Um þetta vísar stefndi til úrskurðar óbyggðanefndar, en áréttar að um sé að ræða hálent og gróðursnautt öræfalandsvæði, að fjallskil hafi verið innt af hendi sveitarfélags og landsvæðið hafi ekki verið afgirt og hafi búfénaður getað leitað þangað frá öðrum svæðum án hindrana.  Þá er bent á að um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarfélögunum hafi verið falið að annast framkvæmd á.

Af hálfu stefnda er á það bent að fyrrgreindar heimildir um landsvæðið greini frá því að það hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði og hafi dalsins jafnan verið getið með sérstökum hætti í heimildum og þá oft nefndur „afréttarland“ eða „ítak“, sbr. fyrrnefnd landamerkjabréf frá 1885 og 1889.  Jafnframt vísar stefndi um þetta til eldri heimilda, þ. á m. kirkjureikninga bændakirkna í Hólabiskupsdæmi frá 1569, máldaga Hrafnagilskirkju frá 22. júní 1508, gjafabréfs Halldórs Loftssonar prests til Grundarkirkju frá 1403, máldaga Auðuns rauða frá 1318, áðurnefnds „dóms“ sex klerka vegna kæru Hólabiskups um leyfislausan lambrekstur á Bleiksmýrardal frá 1508, Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, jarðamats 1879 og loks svarbréfs Steingríms Jónssonar, sýslumanns í Þingeyjarsýslu, frá 6. apríl 1920.  Jafnan sé Fnjóskadals vestan Fnjóskár getið sem afréttarlands.

Stefndi byggir á því að réttmætar væntingar verði ekki byggðar á fyrrgreindum dómi Landsyfirréttar Íslands frá 11. júlí 1845, í máli nr. 1/1855, enda verði sá dómur ekki talinn formlega né efnislega bindandi um eignarréttarlega stöðu lands vestan Fnjóskár þar sem það svæði hafi ekki verið til umfjöllunar í málinu.  Bendir stefndi á að þessi dómur verði ekki talinn eignardómur í skilningi núgildandi laga um meðferð einkamála, sbr. XVII. kafla þeirra.  Um hafi verið að ræða ágreiningsmál milli tveggja aðila og því hafi ekki verið á forræði dómsins að skera úr um beinan eignarétt, enda hafi honum ekki verið til að dreifa á þeim tíma sem að til ágreiningsefnisins var efnt.  Af eðli málsins leiði, að hagsmunum, sem lutu að hinum beina eignarétti, hafi ekki verið gætt af hálfu annarra en málsaðila.  Þá hafi ágreiningur aðila í málinu lotið að því hvorum hafi borið réttur til afréttarnota eða eftir atvikum fullkominna afnotaréttinda og tekna af slíkum réttindum, í samræmi við dómsorð aukahéraðsréttar frá 25. nóvember 1853.  Og að því er varðar hin tilgreindu orð í dóminum að landið austan Fnjóskár hafi tilheyrt klausturjörðinni sé það álit stefnda að í þeirri tilheyrslu hafi ekki falist annað en tilheyrsla á fullkomnum afnotaréttinum.  Telur stefndi að á forsendum Landsyfirréttardómsins verði ekki annað séð, en að þrætuefnið hafi snúist um það, hvort afréttarsvæðið hafi tilheyrt umræddum jörðum á grundvelli beins og fullkominna afnotaréttinda.  Loks bendir stefndi á að í dóminum hafi verið á það bent af hálfu Munkaþverárklausturs að þar sem umrætt land lægi „öldungis aðskilið frá landareign Illugastaða“ væru allar líkur fyrir því, að Munkaþverárklaustur „hafi eignast dalinn austan Fnjóskár með sérstakri heimild samkvæmt því sem hér á landi var á þeim tímum alltítt, að klaustrin eignuðust ítök í landi og reka á ýmsum stöðum með sérstakri heimild að gjöf, kaupi eður á annan hátt“.

Að öðru leyti vísar stefndi til þeirra heimilda sem raktar eru í úrskurði óbyggðanefndar í þessu máli.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.

Stefndi andmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Segir stefndi að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnanda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Þá er það álit stefnda, að í sölu íslenska ríkisins á „afréttarlandi Bleiksmýrardals vestri“ hafi ekki falist annað og meira en ráðstöfun á takmörkuðum eignarrétti (afréttarlandi).  Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Loks er á það bent af hálfu stefnda, að þinglýsing landamerkjabréfs eða heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geta ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

Með vísan til ofangreindra atriða, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2005, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng.  Stefndi bendir á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“.  Stefndi segir að engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að umrætt landsvæði svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnanda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2007, frá 29. maí 2007, og krefst þess að hann verði staðfestur og þ. á m. að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem þar sé lýst.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 og byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not.  Hann byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar hann til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.

III.

Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Ágreiningsatriði þessa máls varða samkvæmt framansögðu eignarréttarlega stöðu Bleiksmýrardals vestan Fnjóskár en framan Skarðsár í Þingeyjarsveit, áður Hálshreppi.  Um nánari mörk hins umdeilda landsvæðis á Bleiksmýrardal er ekki ágreiningur, sbr. það sem hér að framan hefur verið rakið.

Stefnandi krefst viðurkenningar á beinum eignarrétti landsins, en af hálfu stefnda er krafist sýknu.  Vísar stefndi m.a. um rökstuðning til niðurstöðu í áðurröktum úrskurði óbyggðanefndar.  Undir rekstri málsins fór dómari á vettvang ásamt aðilum og lögmönnum, en einnig liggja fyrir landakort og úrskurðarkort óbyggðanefndar.

Í úrskurði óbyggðanefndar og þeim gögnum sem aðilar hafa vísað til og lagt fram, er m.a. lýst staðháttum og gróðurfari á Bleiksmýrardal í Suður-Þingeyjarsýslu.  Dalurinn er vestastur þeirra þriggja afdala, sem liggja inn af Fnjóskadal, og er hann talinn ganga allra norðlenskra dala lengst suður í landið og eiga drög sín langt suður á Sprengisandi, norðaustan Hofsjökuls.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að umþrætt landsvæði hafi ásamt öðru landi í Fnjóskadal verið numið í öndverðu.  Eins og áður er rakið nam Þórir snepill samkvæmt Landnámu Kalda-Kinn en síðan Fnjóskadal allan til Ódeilu.  Bjó hann að Lundi á Fram-Fnjóskadal.  Örnefnið Ódeila er að áliti dómsins vestur af hálendi Flateyjardals, og norður við Skjálfanda.  Varðar því örnefnið ekki það landsvæði sem hér er til umræðu eins og ranglega er haldið fram í úrskurði óbyggðanefndar, og stefnandi vísar til. 

Dómari fellst á röksemdir stefnda um að frásögn Landnámu sé harla óljós um landnám í Fnjóskadal og mörk þess.  Verður því ekki með vissu ályktað um eignarréttarlega stöðu Bleiksmýrardals framan Skarðsár, en skipulegar fornleifarannsóknir hafa ekki farið fram á landsvæðinu.  Er málsástæðum stefnanda að þessu leyti því hafnað.

Stefnandi byggir kröfu sína um beinan eignarrétt að umþrættu landsvæði á Bleiksmýrardal á áðurröktu landamerkjabréfi frá 1. apríl 1885, og þinglýstu 27. maí sama ár, en einnig öðrum jafngildum heimildum.

Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé eintak eignaréttar að svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48, 2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsmáli þessu m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í máli nr. 496, 2005.

Að áliti dómsins ber við niðurstöðu máls þessa m.a. að hafa allt framangreint í huga.

Það er meginregla í íslenskum rétti að sá sem telur til eignarréttar yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignatilkalli sínu eða þeirra sem hann leiðir rétt sinn frá.

Fyrstu heimildir um Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskár, er að finna í máldögum Auðunar Hólabiskups frá byrjun 14. aldar, en þar segir að Hrafnagilskirkja í Eyjafirði eigi hálfan dalinn.  Í heimildum frá nær sama tíma kemur fram að landsvæðið austan Fnjóskár sé eign Möðruvallaklausturs í Eyjafirði.  Í heimildum frá miðöldum og frá 17., 18. og 19. öldinni er margoft lýst réttindum nefndra kirkjustaða á Bleiksmýrardal, en ekki síst í máldögum, vísitasíubréfum og lögfestum.  Að auki liggur fyrir að með dómi Landsyfirréttar Íslands frá 11. júlí 1855 í máli nr. 1/1855 var sérstaklega fjallað um eignarrétt á austurhluta Bleiksmýrardals.  Í þessum dómi varð það niðurstaðan að landið; frá Hamarslæk og suður á öræfi „skyldi tilheyra klaustrinu; „sem fullkomin og átölulaus eign, og eignardómur þess.“  Enn fremur sagði í þessum dómi að „Illugastaðamenn eigi upprekstur á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár fyrir geldfénað sinn á sumrum ókeypis.“

Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktar heimildir um ætluð réttindi Hrafnagilskirkju á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár.  Þá er þar minnst á að nokkur ágreiningur hafi verið um fjárrekstur á hinu umþrætta landsvæði.  Samkvæmt gögnum leiddi þessi ágreiningur að lokum til þess að upp var kveðinn svokallaður dómur af sex prestum útnefndum á prestastefnu Hólabiskups.  Var þar kveðið á um rétt Hrafnagilskirkju til að meina bændum í hinum fornu Hrafnagils- og Öngulsstaðahreppi í Eyjafirði að nýta dalinn til sumarbeitar.  Í úrskurðarbréfi Þorleifs Kortssonar lögmanns frá 10. nóvember 1667 eru nefnd réttindi Hrafnagilskirkju áréttuð en jafnframt er þar kveðið á um skyldurekstur bænda í nefndum hreppum á lömbum og geldfénaði, en því til viðbótar um skyldu þeirra til að reisa fjárrétt og hreinsun melrakka af dalnum.  Fram kemur einnig í gögnum, m.a. frá 18. öldinni, að Hrafnagilsprestar hafi margsinnis lagt fram skriflegar aðvaranir og fengið þær skráðar í dómabækur um skyldu bænda til lambareksturs á Bleiksmýrardal, en tilefnið er sagt vera tregða nokkurra bænda um að halda uppi göngum og gjalda afréttartolla.  Þessu til viðbótar liggja fyrir gögn um forboð Hrafnagilspresta til íbúa um að nýta landið á Bleiksmýrardal til grasatínslu og kolagerðar.  Að auki er m.a. áskorun Hrafnagilsprests frá 1744 til sýslumanns um að hann banni alla ólöglega notkun á lögfestu landi kirkjunnar, en samkvæmt gögnum höfðu áður komið fram efasemdir lögmanns um það hvort dalurinn tilheyrði Þingeyjarsýslu eða Eyjafjarðarsýslu.  Loks kemur fram í gögnum að Hrafnagilsprestar hafi margsinnis á 19. öldinni byggt afréttarland kirkjunnar á Bleiksmýrardal til lamba- og sauðfjáruppreksturs og þá ekki síst til bænda í Fnjóskadal.

Að framangreindum heimildarskjölum virtum eru að áliti dómsins ekki áhöld um að Bleiksmýrardalur, og þ. á m. á hinu umþrætta landsvæði, vestan Fnjóskár, hafi löngum þótt gott afréttarland.  Það er hins vegar álit flestra fræðimanna, þ. á m. Bjarna Vilhjálmssonar, fyrrum þjóðskjalavarðar og forseta Þjóðminjafélagsins, að dalurinn hafi aldrei verið byggður, en rústir eru þar nokkrar.  Í ritverki sínu um dalinn segir þjóðskjalavörður að eftir örnefnum að dæma séu umræddar rústir fremur selja- og stekkarústir en bæjarrústir.  Hann getur þess að dalurinn komi stöku sinnum fyrir í fornum ritum sem samgönguleið, þ. á m. í Íslendingasögu Sturlu, en að áhöld séu um hvort að þar hafi verið gerð tilraun til að festa byggð en um það séu engar heimildir kunnar.  Samkvæmt nýlegum fornleifarannsóknum hefur helst verið talið að einhvers lags byggð hafi verið á svonefndum Flausturbölum, nálægt miðju dalsins norðan megin og halda menn að þar hafi jafnvel verið kirkjustæði.  Engar aðrar heimildir liggja fyrir um byggð á þessu landsvæði sem bregður ljósi á mannlíf eða búskaparhætti og þá ekki um tildrög þess að byggð, hafi hún verið, fór í eyði.  Til þess er að líta að tilgátur eru um að búseta á jaðar- og hálendisbyggðum til heiða hafi lagst af á 11., 12. og 13. öld, meðal annars vegna ítrekaðs öskufalls frá eldfjöllum, snjóþyngsla, gífurlegrar einangrunar og þess að svæði þessi voru með viðkvæmt vistkerfi og því viðkvæm fyrir jarðvegseyðingu.

Það er álit dómsins að ofangreindu virtu að fallast beri á með stefnda að engar haldbærar heimildir séu um byggð á Bleiksmýrardal, þ. á m. vestan Fnjóskár.  Þá liggur heldur ekki fyrir að land þar hafi verið til annarra nota en sumarbeitar fyrir búfénað og annarra takmarkaðra nota.  Ber í þessu samhengi til þess að líta að hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu með námi verður samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 685/2008 og 198, 2009, ekki krafist að sýnt sé fram á hvernig sá réttur hafi haldist við, heldur aðeins að hann hafi gert það í raun.

Í málinu liggur ekkert fyrir um hvernig kirkjan á Hrafnagili í Eyjafirði geti verið að landi í Bleiksmýrardal komin eða hvenær það kunni að hafa gerst, en eins og áður er rakið er það álit dómsins að framlagðar heimildir bendi ekki til annars en að landið hafi einvörðungu verið notað til beitar fyrir kvikfénað.

Verður að ofangreindu virtu fallist á með stefnda að stefnandi hafi ekki sýnt fram yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem kunni að hafa verið stofnað til í öndverðu á hinu umþrætta landi á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár eða á hluta þess.  Að þessu virtu ásamt þeim atriðum sem vísað er til í Hæstaréttarmálum nr. 48/2004 og 496/2005, er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki leitt sönnur að því að hann eigi beinan eignarrétt að nefndu landsvæði eins og krafa hans vísar til.  Því til styrktar og áréttingar er til þess að líta að nefnt landsvæði hefur nær eingöngu verið nýtt til beitar og annarra takmarkaðra nota.  Benda gögn heldur ekki til annars en að landsvæðið hafi verið hluti afréttar um aldir, en fyrir liggur að það er aðskilið landi Hrafnagilskirkju í Eyjafirði.  Verður að þessu sögðu fallist á röksemdir stefnda um að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að Bleiksmýrardalur, eins og landið hefur hér að framan verið afmarkað, sé eignarland hans.

Eins og fyrr var rakið eru engar heimildir fyrir um not þessa landsvæðis til annars en sumarbeitar og annarrar takmarkaðrar notkunar.  Hefur stefnandi að áliti dómsins ekki fært fram sönnun þess að skilyrði eignarhefðar á landinu hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem hann hefur haft af því.  Hefur stefnandi að áliti dómsins heldur ekki rökstutt með neinum hætti frekar þau réttindi sem hann hafi fært fram fyrir slíkum réttindum.  Að þessu virtu og andmælum stefnda verður ekki séð að stefnandi hafi mátt vænta þess að hann ætti nokkur frekari réttindi að þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.  Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að Bleiksmýrardalur vestan Fnjóskár sé þjóðlenda, en afréttur stefnanda, Þingeyjarsveitar, staðfestur.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Sigurðar Jónssonar hrl.  Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru og að málið var endurflutt verður þóknun ákveðin 702.800 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa, og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

D Ó M S O R O Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Sigurðar Jónssonar hrl., 702.800. krónur.