Print

Mál nr. 597/2017

Róbert Þ. Bender og Skandinavíska háskólastofnunin ehf. (Tómas Jónsson lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson lögmaður)
Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Neytendalán
  • Gengistrygging
  • Aðfararheimild
  • Tryggingarbréf
Reifun

Í hf. krafði R um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar samkvæmt lánssamningi útgefnum af R til forvera Í hf. á árinu 2008. Þá krafðist Í hf. þess jafnframt að honum yrði dæmdur réttur til að gera fjárnám í tiltekinni fasteign S ehf. á grundvelli tryggingarbréfs sem tryggt var með veði í fasteigninni. R byggði sýknukröfu sína á því að lánið samkvæmt lánssamningnum hefði verið tekið til uppgreiðslu á eldra láni, samkvæmt samningi hans við SV frá 2005 og bæri að líta á síðara lánið sem skilmálabreytingu hins eldra og því væru þau einn gerningur sem fæli í sér lán í íslenskum krónum sem bundið væri við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við þágildandi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Talið var að lánssamningurinn frá 2005 hefði verið í erlendum myntum og að síðari lánssamningurinn yrði ekki skilinn öðruvísi en svo að hann mælti fyrir um lán til R í íslenskum krónum til að greiða upp lán í erlendum gjaldmiðlum sem væri lögmætt. Þá var hvorki fallist á með R að lækka bæri kröfu Í hf. á grundvelli bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001 né að vísa bæri lánssamningunum til hliðar á grundvelli tiltekinna ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Voru kröfur Í hf. því teknar til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. september 2017. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjendur, Róbert Þ. Bender og Skandinavíska háskólastofnunin ehf., greiði óskipt stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 12. maí sl. er höfðað 21. nóvember 2016. Stefnandi er Íslandsbanki, Kirkjusandi 2, Reykjavík en stefndu eru, Róbert Þ. Bender, Kleppsvegi 6, Reykjavík og Skandinavíska háskólastofnunin ehf., Hafnarstræti 20, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda Róberti verði gert að greiða honum 16.787.086 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 300.000 krónum sem greiðst hafi inn á kröfuna 21. nóvember 2010.

Þá krefst stefnandi þess að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf., að Kleppsvegi 6, Reykjavík, fnr. 201-6052, á grundvelli veðtryggingabréfs að höfuðstól, 11.000.000 krónur, auk verðbóta í samræmi við breytingu neysluverðsvísitölu, miðað við grunnvísitöluna 248, sem gefið var út 12. desember 2005, allsherjarveð, tryggt með 1. veðrétti í eigninni.

Stefnandi krefst og málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast sýknu og stefndi Róbert krefst til vara lækkunar dómkrafna. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.  

I

Deila aðila á rót að rekja til tveggja lánssamninga sem stefndi Róbert stofnaði til. Hinn fyrri var við Sparisjóð vélstjóra sem síðar rann inn í Byr sparisjóð, en sá síðarnefndi var lánveitandi stefnda Róberts samkvæmt síðari samningnum, eins og nánar er lýst hér að neðan. Telur stefnandi að með láni því sem þar hafi verið veitt hafi eldri lánssamningur verið greiddur upp, en stefndu telja að í hinum nýja samningi hafi einungis falist skilmálabreyting.

Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 22. apríl 2010, tók BYR hf. við öllum eignum Byrs sparisjóðs og 29. nóvember 2011 yfirtók stefnandi allar skyldur og réttindi BYRS hf. og telst hann því réttur aðili að máli þessu.

Málavextir eru þeir helstir, að hinn 27. desember 2005 gerðu stefndi, Róbert Þ. Bender, sem lántaki og Sparisjóður vélstjóra, sem lánveitandi, með sér lánssamning sem bar heitið „Lánssamningur (lán í erlendum gjaldmiðlum)“. Samkvæmt lánssamningnum skyldi stefndi lána stefnanda Róberti Þ. Bender 103.300 svissneska franka (CHF) og 9.193.000 japönsk jen (JPY). Lánið skyldi bera sex mánaða LIBOR/EURIBOR-vexti af hverjum gjaldmiðli, að viðbættu 2,25% vaxtaálagi. Í samningnum greinir að stefndi Róbert skuli endurgreiða skuldina að fullu með einni greiðslu, 22. desember 2008, ásamt áföllnum vöxtum. Samkvæmt viðskiptakvittun BYRS hf. voru, 29. desember 2005, greiddar 9.841.831 króna inn á reikning stefnda.

il tryggingar greiðslu skuldarinnar og jafnframt öllum skuldbindingum sínum við stefnanda, gaf stefndi Róbert út tryggingarbréf, 12. desember 2005, að fjárhæð 11.000.000 krónur, sem tryggt var með 1. veðrétti í fasteigninni Kleppsvegi 6 í Reykjavík, með fastanúmerið 201-6052. Fjárhæðin skyldi hækka í samræmi við neysluverðsvísitölu.      Að sögn stefndu var tilgangur lántökunnar sá, að greiða systkinum stefnda Róberts út eignarhlut þeirra í fasteign að Kleppsvegi 6 í Reykjavík. Stefndi Skandinavíska háskólastofnunin ehf., sem er félag að fullu í eigu stefnda Róberts, hafi síðan orðið þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar. Stefndi Róbert kveðst alla tíð eftir gerð lánssamningsins hafa búið í fasteigninni þrátt fyrir að hafa lengst af átt lögheimili í Noregi.

Hinn 21. nóvember 2008 gerðu stefnandi Róbert og Byr sparisjóður með sér lánssamning um lán að jafnvirði 104.188,95 svissneskra franka og 9.242.508 japanskra jena. Í fyrirsögn samningsins segir: Lánssamningur (Lán í íslenskum krónum). Í 1. gr. samningsins kemur fram að tilgangur lánveitingarinnar sé að myntbreyta lánssamningi í erlendum myntum nr. 175ERLB053630001/2, sem sé að eftirstöðvum 104.188,95 svissneskir frankar og 9.242.508 japönsk jen, 21. nóvember 2008, yfir í íslenskar krónur. Samkvæmt lánssamningnum skyldi lántaki endurgreiða lánið að fullu ásamt áföllnum vöxtum á einu ári með einni greiðslu, 21. nóvember 2009. Vextir lánsins reiknuðust frá 21. nóvember 2008 og skyldu greiðast eftir á með þremur vaxtagjalddögum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 21. febrúar 2009 og síðan á sama gjalddaga og höfuðstóll lánsins. Vextir af láninu voru íslenskir kjörvextir skuldabréfalána. Stefnandi kveður að með þessu láni hafi hið fyrra lán verið greitt upp, enda hafi engar upplýsingar um hið eldra lán fylgt þegar Byr hf. hafi tekið við skuldaskjölum vegna síðara lánsins. Stefndu byggja hins vegar á að nýi lánssamningurinn hafi verið gerður á grunni þess gamla og hafi í raun verið viðauki eða nokkurs konar skilmálabreyting án þess að lánað væri fé til stefnanda.

Ekki er um það deilt að vextir voru greiddir í samræmi við ákvæði lánssamningsins til og með 21. maí 2009. Á gjalddaga, 21. ágúst 2009, varð greiðslufall og er krafa stefnanda við það miðuð að lánið hafi þá fallið í gjalddaga í samræmi við ákvæði samningsins. Ekki er ágreiningur um að sé miðað við forsendur stefnda hafi eftirstöðvar lánsins þá numið 16.787.086 krónum, sem er stefnufjárhæð málsins.

Hinn 15. janúar 2010 sendi stefnandi stefnda viðvörun um innheimtuaðgerðir og síðan innheimtubréf, 8. febrúar 2010. Stefnandi kveður að stefndi Róbert hafi í kjölfarið greitt 300.000 krónur inn á lánið, en stefndi Róbert fullyrðir að sú greiðsla hafi ekki verið innborgun á lánið heldur hafi hann verið að greiða lögmannskostnað vegna samningaumleitana við stefnanda.

Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda til innheimtu skuldarinnar 8. maí 2014. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 14. apríl 2016 í máli réttarins nr. 649/2015 með því að málinu var vísað frá héraðsdómi vegna ágalla á málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi höfðaði mál þetta í kjölfarið til innheimtu sömu fjárkröfu.

II

Stefnandi kveður skuld þessa vera samkvæmt lánssamningi 21. nóvember 2008 milli stefnda Róberts Þ. Bender og Byrs sparisjóðs. Lánsfjárhæðin hafi verið tilgreind að fjárhæð 104.188,95 svissneskir frankar og 9.242.508 japönsk jen og skyldi greiðast út í íslenskum krónum með einni greiðslu þann sama dag. Lánið hafi hvorki verið verðtryggt né gengistryggt. Af láninu hafi stefndi átt að greiða kjörvexti skuldabréfalána eins og þeir væru ákveðnir af lánveitanda á hverjum tíma, við útgáfu lánssamningsins 21,75% að viðbættu 2,5% vaxtaálagi. Vextir lánsins hafi átt að greiðast á þremur vaxtagjalddögum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 21. febrúar 2009 og síðan á sama gjalddaga og höfuðstóll lánsins.

Vextir hafi verið greiddir af láninu í samræmi við ákvæði samningsins til og með 21. maí 2009. Hafi stefnandi greitt 9.588.296 krónur inn á höfuðstól skuldarinnar 25. maí 2009 um leið og hann hafi greitt áfallna vexti þann dag. Á næsta gjalddaga lánsins, 21. ágúst 2009, hafi orðið greiðslufall og við það hafi lánið allt fallið í gjalddaga í samræmi við ákvæði samningsins. Þá hafi eftirstöðvar höfuðstóls numið 16.249.936 krónum og samningsvextir frá 25. maí til og með 21. ágúst 2009 numið 537.150 krónum. Samtals hafi skuldin því numið 16.787.086 krónum 21. ágúst 2009 sem sé stefnufjárhæð málsins. Krafist er dráttarvaxta frá þeim degi að telja.

Í grein 1.2 í lánssamningi komi fram að tilgangur lánveitingarinnar hafi verið að myntbreyta lánssamningi í erlendum myntum sem stefndi Róbert hafi gert við Sparisjóð vélstjóra 27. maí 2005. Höfuðstóll þess lánssamnings hafi numið 103.300 svissneskum frönkum og 9.193.000 japönskum jenum. Það lán hafi stefndi átt að greiða upp í einu lagi 22. desember 2008. Þegar til hafi komið hafi stefndi Róbert greitt það lán upp með andvirði þess láns er mál þetta varði.

Fyrrgreint lán sé að mati stefnanda löglegt erlent lán enda samræmist ákvæði þess að öllu leyti þeim lánum sem staðfest hafi verið af Hæstarétti, sbr. hrd. nr. 542/2011, 50/2012 og 57/2014 svo dæmi séu tekin. Helstu einkenni þessara lána séu að heiti lánssamninganna vísi til þess að um erlent lán sé að ræða, tilgreining lánsfjárhæðar sé í erlendum myntum og vextir af skuldinni miðist við að um lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða. Stefndi hafi heldur engum andmælum hreyft við lögmæti ákvæða bréfsins og hafi greitt það upp án athugasemda. Það hafi ekki verið fyrr en en í greinargerð hans í fyrra máli vegna þess samnings sem þetta mál varði, sem lögð hafi verið fram í júní 2014, sem stefndi hafi fyrst byggt á því áð ákvæði eldri samningsins hafi í einhverjum atriðum verið ógild.

Skuldin samkvæmt fyrri lánssamningnum hafi verið greidd að fullu til Byrs sparisjóðs og hafi ekki verið í bókum Byrs hf. þegar hann hafi sameinast stefnanda, en þá hafi stefnandi eignast samning þann sem krafa hans í málinu byggist á. Það hafi verið í nóvember 2011 eða þremur árum eftir uppgreiðsluna á eldra láninu.

Bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi ekki við um lánssamninginn frá 2005. Því hafi ekki orðið að endurreikna hann vegna þeirra ákvæða enda samningurinn löngu uppgreiddur þegar ákvæðið hafi tekið gildi, 22. desember 2010, með lögum nr. 151/2010. Ákvæðið eigi samkvæmt efni sínu eingöngu við um húsnæðislán en þau séu skilgreind með vísan til B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Leiði það til þess að þetta ákvæði nái eingöngu til lána sem tekin séu til kaupa á húsnæði til eigin nota. Það eigi ekki við í því tilviki sem hér um ræði.

Stefnandi krefjist þess að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefnda, Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. að Kleppsvegi 6, Reykjavík, fastanúmer 201-6052, til tryggingar framangreindri skuld stefnda Róberts á grundvelli tryggingabréfs þess sem að framan hafi verið lýst. Krafan sé sett fram til þess að stefnandi geti fullnustað kröfu sína sem tryggð sé með veði í fasteigninni samkvæmt bréfinu. Bréfið, sem gefið hafi verið út 12. desember 2005 tryggi efndir allra skuldbindinga útgefandans, stefnda Róberts Þ. Bender, gagnvart lánveitandanum. Það hafi upphaflega verið að höfuðstól 11.000.000 krónur en hann hækki í samræmi við breytingar á neysluverðsvísitölu miðað við grunnvísitöluna 248.

Um lagarök kveðst stefnandi vísa til almennra reglna kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakrafa sé studd við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um rétt stefnanda til að gera fjárnám sé studd við ákvæði tryggingabréfsins en einnig vísi stefnandi til ákvæða laga nr. 75/1997 um samningsveð. Um réttarfar sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfur um málskostnað séu studdar við 1. mgr. 130. gr. sömu laga.

III

Stefndi, Róbert Þ. Bender, kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að ekki sé um um tvo aðskilda lánssamninga að ræða í máli þessu, heldur hafi síðari samningurinn einungis falið í sér myntbreytingu á þeim fyrri. Hafi myntbreytingin komið til að frumkvæði stefnanda og hafi hún gert það að verkum að endanleg greiðsluskuldbinding lánsins hafi orðið í íslenskum krónum, en fjárhæð hennar í krónum innhaldi hins vegar alla þá gengishækkun sem lánið hafi tekið fyrir þá myntbreytingu. Þannig sé í raun um að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum sem hafi verið bundin gengi erlendra gjaldmiðla og hafi þannig brotið í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það sem styðji framangreint sé að upphaflega hafi verið sótt um lánið í íslenskum krónum, það hafi verið afgreitt í íslenskum krónum og endurgreitt í íslenskum krónum, en myntbreyting með samningi 2008 staðfesti það. Í upphaflegum samningi frá 2005 segi um erlendar myntir í lið 1 í 1. mgr.: „Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð“. Tilvitnað orðalag virðist aðeins hafa verið til málamynda þar sem stefnandi hafi ekki afhent eða lánað erlendar fjárhæðir heldur íslenska mynt.

Framangreindu til áréttingar, komi fram í lið 2 í fyrri samningnum: „Dragist greiðsla höfuðstóls eða vaxta fram yfir gjalddaga er lánveitanda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags.“. Sambærilegt ákvæði sé einnig í 1. mgr. 16. gr. samningsins.

Þótt þessi ákvæði þyki ekki samrýmast efni fyrri lánssamnings málsaðila að öðru leyti verði ekki framhjá því litið að í þeim sé kveðið á um að gengistrygging skuldi haldast við vanefndir á samningnum, en engin þörf hafi verið á því að kveða á um slíkt ef lánið hafi í raun og veru verið í erlendum gjaldmiðli eins og stefnandi haldi fram. Hér hafi því verið um misræmi að ræða sem valdi því að ekki sé afdráttarlaust hvort samningurinn kveði á um gilt lán í erlendum gjaldmiðli eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum.

Jafnframt komi fram í 6. mgr. 2. liðar fyrri samningsins að: „Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur af lánshluta í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga.“

Allt framangreint bendi til að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu.

Síðari samningurinn frá 2008 hafi því ekki verið nýtt lán heldur sama lánið, þar sem endanleg greiðsluskuldbinding hafi verið í krónum. Með því að myntbreyta láninu í krónur hafi gengistrygging þess raunverulega verið fullkomnuð þ.e.a.s. að sá höfuðstóll í krónum hafi innihaldið öll áhrif af hinu ólögmæta gengisviðmiði. Ákvæði samningsins um þetta séu þó sérstök að því leyti að fram komi í meginmáli hans að aðilar geri „….með sér samning um lán að jafnvirði CHF 104.188,95….. og JPY 9.242.508 … sem greitt skal út í eftirtöldum myntum og hlutföllum: ISK 100%“

Hafi því tilfærslan í íslenskar krónur verið alveg eins og í fyrri samningi aðila, þ.e. að samningurinn hafi verið í erlendum myntum en hafi greiðst út í íslenskum krónum. Í stefnu í fyrra máli aðila um sama samning segi: „Vegna óvissu um lögmæti ákvæða samnings er lúta að tengingu lánsfjárhæðarinnar við þróun gengis erlendra mynta, hefur krafan verið reiknuð út í íslenskum krónum allt frá stofndegi samningsins.“

Þegar þessir tveir samningar séu virtir saman heildstætt, sem sé rétt að gera hér, sé um einn og sama samninginn að ræða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, en dómaframkvæmd Hæstaréttar um svipuð mál þar sem myntbreyting eigi sér stað í íslenskar krónur t.d. með skilmálabreytingu hafi hnigið að sömu niðurstöðu.

Þar sem atriði þau er varði samninga aðila í máli þessu séu mjög sérstök, verði að líta framhjá tilgreiningu fjárhæða í erlendum myntum í upphaflega samningnum frá 2005 og leggja frekar áherslu á önnur atriði eins og að framan greini. Að sótt hafi verið um lánið í íslenskum krónum, það greitt út í íslenskum krónum og afborganir af því hafi verið greiddar í krónum. Þegar til hafi staðið að greiða lánið upp með erlendum gjaldmiðli hafi það ekki verið hægt fyrr en búið hafi verið að skipta þeim fjármunum yfir í krónur með myntbreytingu og síðast en ekki síst að samkvæmt texta samningsins hafi hann verið gengistryggður. Vísbendingar um þessa afstöðu megi einnig finna í því að lánsfjárhæðin hafi verið í sléttum milljónum íslenskra króna og sé augljóst að sú fjárhæð hafi einfaldlega verið umreiknuð yfir í þann fjölda mynta sem prentaðar hafi verið á lánssamninginn. Enn fremur að með myntbreytingu samkvæmt viðaukanum 2008 hafi hin gengisbundna skuldbinding í raun verið ákvörðuð og fastsett í íslenskum krónum og þar sem lánið hafi verið eingreiðslulán hafi endanleg skuldbinding, hvað varði endurgreiðslu lánsins, því verið í íslenskum krónum. Með seinni samningnum (viðaukanum) hafi í raun ekkert breyst og sé því verulega óljóst hvort líta beri á fyrri samninginn sem erlent lán eður ei. Þar sem efni samningsskilmála samninganna sé ekki ljóst, hvað þá þegar litið sé á þá sem einn samning, verði að líta til gagna um framkvæmd og efndir þeirra með hliðsjón af framangreindu og telja að í lánssamningi aðila hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

Telja verði að það standi lánveitanda nær, sem fjármálafyrirtæki, heldur en neytanda, að þurfa að bera áhættuna af því að óljóst sé í hvaða mynt samningurinn í raun og veru hafi verið, þegar litið sé heildstætt á samningana og tilurð þeirra.

Hafni dómurinn framangreindum sjónarmiðum þá byggi stefndu á að lánssamningur aðila, bæði að efni til og í framkvæmd, hafi verið í andstöðu við lög nr. 121/1994 um neytendalán, sem gilt hafi á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Tenging samningsins við erlendar myntir, jafnvel þótt lánið yrði talið hafa verið í þeim veitt, sé þess vegna ólögmæt. Af þeim sökum beri að miða skuldbindingu stefnda við íslenskar krónur með erlendu gengisviðmiði.

Telja verði að frá því fasteignalán hafi fallið undir lög nr. 121/1994, með lögum nr. 179/2000, er tekið hafi gildi 11. janúar 2001, hafi stefnanda borið skylda til að fara eftir þeim ófrávíkjanlegu ákvæðum laganna um upplýsingaskyldu til neytenda sem komi fram í 5. gr. og töluliðum 1 til 9 í 1. mgr. 6. gr. laganna. Lögin hafi verið í gildi þegar fyrri lánssamningur aðila hafi verið gerður og hafi skilyrðislaust borið að fara eftir þeim.

Ekki sé nokkrum vafa undirorpið að mati stefndu að lánssamningur stefnda Róberts við Sparisjóð vélstjóra 27. desember 2005 um fasteignalán hafi fallið undir þágildandi lög nr. 121/1994, sbr. lög nr. 179/2000, sbr. 4. gr. laganna. Af því leiði að stefnandi hafi borið sérstaka ábyrgð á að stefnda Róberti væru veittar, skriflega, skýrar og fullnægjandi upplýsingar við upphaf lántöku samkvæmt 5. gr. laganna. Vísi stefndu í þessu sambandi til ófrávíkjanlegra ákvæða 1. til 7. töluliða 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994. Telji stefndi að upplýsingaskylda þessi hafi verið vanrækt við gerð og framkvæmd lánssamningsins.

Í lögum nr. 121/1994 sé ekki gert ráð fyrir öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum og ef um sé að ræða neytendalán sem sé „löglegt erlent lán“ þá sé ekki hægt að veita neinar af þeim upplýsingum sem lögin áskilji. Sé lánið því í lagalegu tómarúmi að þessu leyti og ólögmætt því það standist ekki fyrrnefnd lög um neytendalán að veitt séu „lögleg erlend neytendalán“. Til þess að lánið teldist lögmætt yrði að umreikna það yfir í íslenskar krónur frá töku þess fram til þess tíma þegar stefndi hafi sjálfur umbreytt því í íslenskar krónur. Í lögum nr. 121/1994 komi „gjaldmiðill“ aðeins fyrir á einum stað þar sem segi að heildarlántökukostnaður skuli reiknaður út í krónum, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna, sem leiði til þess að miða skuli heildarlántökukostnað við íslenskar krónur.

Í lánssamningnum hafi lánsfjárhæðin ekki verið tilgreind í krónum. Sama hafi átt við um vexti, heildarlántökukostnað, árlega hlutfallstölu kostnaðar eða annað sem máli kunni að skipta fyrir neytendalán, sbr. 1. til 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þá hafi greiðsluáætlun samkvæmt 7. tl. sömu lagagreinar ekki legið fyrir en hún sé talinn hluti lánssamnings sem skylt sé að leggja fram af hálfu lánveitanda, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 672/2012. Skorti því mjög á að stefnda hafi verið veittar fullnægjandi upplýsingar fyrir og við lántökuna. Af því leiði að ef þessar mikilvægu upplýsingar séu ekki veittar geti lánssamningurinn ekki talist „löglegt gjaldeyrislán“ með þeim hætti sem hann hafi verið útbúinn af stefnanda.

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar teljist lán einkum vera í erlendri mynt, ef hvergi séu í lánsskjali tilgreindar fjárhæðir í krónum. Sú tilhögun við samningsgerð standist hins vegar ekki að mati stefnda gagnvart lögum nr. 121/1994, nema því aðeins að samtímis eða áður séu veittar fullnægjandi upplýsingar, sbr. framangreint. Með öðrum orðum, sé neytendalán í erlendum gjaldeyri að þá beri að umreikna og veita jafnframt upplýsingar um kostnað og fjárhæðir í krónum. Að öðrum kosti sé tenging lánsins við erlenda gjaldmiðla óheimil, sbr. 24. gr. laganna þar sem segi: „Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum neytanda í óhag.“

Hvergi hafi verið að finna í framangreindum lögum heimild til að veita neytendum erlent lán án þess að lögin næðu yfir slíka lánafyrirgreiðslu, sbr. 1. og 2. gr. laganna, en þar séu taldir með tæmandi hætti þeir lánssamningar sem undanþegnir séu lögunum. Megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 243/2015, um vanrækslu á upplýsingaskyldu.

Sé neytendalán tilgreint í erlendum gjaldmiðli beri að umreikna og veita jafnframt upplýsingar um kostnað og fjárhæðir í krónum. Að öðrum kosti sé tenging lánsins við erlenda gjaldmiðla óheimil.

Vanræksla stefnanda hafi jafnframt brotið gegn 11. gr. laga nr. 121/1994, sem kveði á um að árleg hlutfallstala kostnaðar skuli reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur sé gerður. Við slíkan útreikning skuli gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins. Þar sem stefnandi hafi ekki fullnægt ákvæðum 1. til 7. töluliðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. laganna, m.a. um það hver fjárhæð heildarlántölukostnaðarins væri við töku lánsins, hafi hann ekki getað fullnægt ákvæði 11. gr. sbr. 10. gr. laganna, en upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar sé helsta upplýsingaveita laganna til neytenda þar sem saman komi allur heildarkostnaðurinn af láninu reiknaður í prósentum talið, sbr. þó 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laganna, en þeim ákvæðum hafi heldur ekki verið fullnægt að þessu leyti.

Af framangreindu leiði að ekki hafi verið heimilt samkvæmt lögum nr. 121/1994 að lána fé í erlendum gjaldmiðlum til neytenda, án tilskilinnar upplýsingagjafar. Lög nr. 121/1994 séu ennfremur ófrávíkjanleg og gangi framar ákvæðum lánssamningsins og meginmáli hans ef hann reynist andstæður þeim. Geti fyrri lánssamningurinn því ekki staðið óbreyttur að þessu leyti og sé í lagalegu tómarúmi eins og hann hafi verið útbúinn. Breyti engu þótt honum hafi verið myntbreytt í íslenskar krónur. Verði því að mati stefnda að virða að vettugi tengingu lánssamningsins við erlenda gjaldmiðla og líta svo á að í honum hafi falist íslenskt lán sem bundið hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.

Þá byggi stefndi á því að samkvæmt 13. gr. laga nr. 38/2001 gildi ákvæði VI. kafla um skuldbindingar sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofi að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið sé að greiðslurnar skuli verðtryggðar og séu ákvæði kaflans ófrávíkjanleg sbr. 2. gr. laganna. Utan kaflans falli þau tilvik þegar raunverulega sé lánuð erlend mynt. Stefndi telji það hafa meginþýðingu í þessu sambandi hvernig skuldbindingar og efndir aðila hafi verið í raun og veru en fyrir liggi að aðeins íslenskar krónur hafi verið afhentar sem lánsfé.

Samkvæmt framangreindu sé auk 24. gr. laga nr. 121/1994 einnig vísað til 36. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, um að lánssamningnum skuli breyta að þessu leyti þannig, en skilyrði 36. gr. sé fullnægt þar sem það væri bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig, auk þess sem efni hans, staða samningsaðila og atvik sem síðar hafi komið til með hækkandi gengi hafi hallað á stefnda.

Um svipuð tilvik, þ.e.a.s. þegar lánssamningi sé breytt að þessu leyti megi vísa til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að ógilt væri ákvæði um bindingu fjárhæðar láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla í samningum. Sú niðurstaða hafi verið reist á því að slík gengistrygging bryti í bága við ófrávíkjanlegar reglur laga nr. 38/2001. Þegar komist hafi verið að því að nefnd ákvæði í samningum um gengistryggingu væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti hafi ekki verið unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan eða gefa þeim með skýringu annað inntak og hafi því verið óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta hafi orðið með öllu framhjá ákvæðum samnings um vaxtahæð. Eingöngu hafi verið miðað við að ákvæði í samningi aðila væri í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt framangreindu sé það mat stefnda að samningurinn sé í íslenskum krónum með gengistryggingu sem sé í andstöðu við síðastnefnd ákvæði laga nr. 38/2001 og sé því ólögmætur og því gildi endurútreikningur stefnanda um fullnaðarkvittanir. Öll sömu sjónarmið eigi við um 36. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936 og eigi við um 24. gr. laga nr. 121/1994 að þessu leyti.

Varakröfu sína um lækkun fjárkröfu stefnanda kveðst stefndi Róbert byggja á því að hann telji að endurútreikna eigi lánið í samræmi við bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001. Hafi stefnandi endurútreiknað öll fasteignalán burtséð frá því hvort þau hafi verið lögmæt í erlendri mynt eða ekki og hafi því gengið lengra en honum hafi verið skylt samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Komi fullyrðingar í þessa veru fram í fréttatilkynningum frá árinu 2011 sem stafi frá stefnanda. Engin skýring liggi fyrir á því í málinu af hverju lán stefnda hafi ekki verið endurútreiknað en stefndi hafi fullnægt efnisskilyrðum ákvæðis X, með því að hafa tekið erlent fasteignalán sem greitt hafi verið út í íslenskum krónum til íbúðarkaupa þótt félagið Skandinavíska háskólastofnunin ehf. hafi verið skráð fyrir íbúðinni, og hafi hann haft íbúðina að Kleppsvegi 6 til eigin nota vegna vinnu sinnar hér á landi frá árinu 2005 og raunar fyrr eða frá árinu 2000. Samkvæmt fyrrnefndri fréttatilkynningu virðist stefnandi ekki hafa haft til hliðsjónar skilyrði bráðabirgðaákvæðis X um afmörkun skuldbindinga sem hafi fallið undir ákvæðið vegna endurútreikninga erlendra gengislána sem greidd hafi verið út í íslenskum krónum.

Samkvæmt B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt um afmörkun skuldbindinga fyrir endurútreikningi stefnanda sem vísað sé til í ákvæði X í lögum nr. 38/2001 komi fram að það að „hafa lögheimili“ á ákveðnum stað sé ekki skilyrði til að fá vaxtabætur heldur að íbúðarhúsnæði sé til „eigin nota“. Jafnframt sé í B-lið 68. gr. vísað til 1. gr. laganna þar sem farm komi hverjir séu skattskyldir aðilar og megi heimfæra stefnda undir 3. og 4. tölulið greinarinnar en orðið „lögheimili“ eða „skráð heimili“ sé þar ekki skilyrði um skattskyldu. Þessu til stuðnings sé vísað til yfirlýsingar formanns húsfélagsins að Kleppsvegi 6, Reykjavík þar sem komi fram staðfesting á að stefndi hafi verið nágranni hennar í fasteigninni frá 2005. Jafnframt hafi verið lögð fram yfirlýsing frá Landspítalanum þar sem komi fram staðfesting á því að stefndi hafi starfað samfellt sem verktaki fyrir spítalann frá 2000 til 2015. Að endingu hafi stefndi lagt fram skattframtal ársins 2006. Ástæða þess að stefndi hafi ekki skipt um lögheimili á sínum tíma hafi verið sú að hann hafi verið með lífeyrisskuldbindingar í Noregi og hafi sinnt þar öðrum áhugamálum sínum.

Stefndi Róbert hafi því starfað og búið á Íslandi og hafi talið þar fram til skatts eins og sjá megi af skattframtali 2006 vegna skatta ársins 2005. Eins og sjáist af meðfylgjandi skattframtali frá Noregi vegna sama árs hafi stefndi engar tekjur haft þar eða hafi hann greitt þar skatta.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 hafi ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir skuli teljast heimilisfastir á Íslandi og skuli við þá ákvörðun miða við reglur laga um lögheimili, eftir því sem við eigi. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili  teljist lögheimili manns sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar teljist maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist jafnan í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé. Í frumvarpi að lögum um lögheimili segir um 2. mgr. 1. gr. að gert sé ráð fyrir að upp verði tekin upp svokölluð svefnstaðarregla en í því felist að maður teljist hafa fasta búsetu þar sem svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 beri þeir einstaklingar sem heimilisfastir séu hér á landi ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Telji stefndi Róbert sig fullnægja þessu skilyrði. Ljóst sé einnig að stefndi Róbert hafi búið lengur en 183 daga hér á landi á hverju ári frá árinu 2000 fram til dagsins í dag. Verði því að líta svo á að stefndi Róbert teljist samkvæmt framlögðum gögnum í málinu ekki hafa flutt heimili sitt úr landi í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, enda þótt hann hafi tilkynnt sig brottfluttan af landinu. Hafi stefndi því verið heimilisfastur hér á landi allt að einu á tekjuárinu 2005 og áfram fram til dagsins í dag.

Stefndi Róbert vísi framangreindri varakröfu sinni til stuðnings til 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þ.e. að félög eins og stefnandi skuli stunda heilbrigða viðskiptahætti og að viðskiptavinir með sambærileg mál eigi að fá sambærilega úrlausn. Stefnandi hafi með fréttatilkynningu sinni túlkað gildissvið ákvæðis X víðtækara en gengur og gerist.

Af framangreindu leiði að endurútreikna eigi lán til stefnda til samræmis við bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Endurútreikningur stefnda á láninu í samræmi við síðasttilvitnað lagaákvæði liggi fyrir í málinu. Samkvæmt honum hafi staða lánsins 21. nóvember 2008, þegar seinni lánssamningurinn hafi verið útbúinn, átt að vera 12.615.040 krónur, auk vaxta frá 25. mars 2008 til 21. nóvember 2008 sem nemi 1.143.874 krónum (1.474.734 mínus 330.860) eða samtals 13.758.914 krónur. Eftir innborganir stefnda inn á lánið 25. maí 2009 hafi staða þess átt að vera 2.491.089 krónur þann dag með óverðtryggðum vöxtum til dagsins í dag.

Stefndi Skandinavíska háskólastofnunin ehf. byggir í fyrsta lagi á sömu röksemdum og stefndi Róbert færir fram hér að framan um að krafa stefnanda sé uppgreidd.

Í öðru lagi komi fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 673/2013 að tryggingarbréf með allsherjarveði eins og hér hátti til, með beinni uppboðsheimild skv. 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, veiti ekki heimild til að krefjast nauðungarsölu á tiltekinni eign nema, meðal annars, að uppfylltu skilyrði að um sé að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu sem sé þegar í bréfinu við útgáfu þess samkvæmt 2. tölulið sömu lagagreinar. Í nefndu tryggingarbréfi sé ekki um slíkt að ræða og sé ekki hægt að bæta úr því eftirá.

Um þetta segi í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu að heimild til að krefjast nauðungarsölu á þessum grundvelli sé aðeins fyrir hendi þegar samningur sé gerður um veðrétt í eign fyrir tiltekinni peningakröfu. Með þessu sé áréttað að samningurinn þurfi sem slíkur að taka af öll tvímæli um fyrir hverri skuld sé verið að veita þessa heimild. Allsherjarveð, sem væri veitt til tryggingar öllum skuldbindingum samkvæmt tryggingarbréfinu myndi þannig ekki fullnægja þessum áskilnaði ákvæðisins. Utan skilgreiningar þess sem 2. töluliður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 geri ráð fyrir að geti verið uppboðsheimild, falli því svokölluð allsherjarveð, þar sem kröfuhafa hafi verið veittur veðréttur fyrir margskonar kröfum sínum á hendur tilteknum skuldara án sérstakrar afmörkunar á hverri kröfu fyrir sig.

Þannig virðist útilokað fyrir stefnda að ná fram uppboði á fasteign stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf., eins og yfirlýstur tilgangur hans sé samkvæmt dómkröfu í stefnu enda sé tryggingarbréfið ekki rétt úr garði gert að þessu leyti og verði stefnandi sem sérfrótt fjármálafyrirtæki að bera hallann af því. Stefnandi virðist þannig ekki hafa lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni.

Samkvæmt framangreindu beri því að sýkna stefnda Skandinavísku háskólastofnunina ehf. af kröfum stefnanda um staðfestingu veðréttar í fasteign félagsins þar sem krafan veiti engan rétt né séu lögvarðir hagsmunir fyrir hendi.

Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu til 2. gr., 13. gr., 14. gr. og bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísa þeir til 36. gr. a til d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. tilskipun 93/13/EBE og til 1., 2., 4.,5.,6., 1. mgr. 7., 9., 11., 12.,14. og 24. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. lög nr. 179/2000 og til 1. gr. og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Loks vísa þeir til 1. og 7. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og til 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V

Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt lánssamningi, útgefnum af stefnda til forvera stefnanda, hinn 21. nóvember 2008. Byggir stefnandi á því að ekki hafi verið greitt af láninu frá því 21. ágúst 2009 og sé það í vanskilum frá þeim tíma. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að lán þetta hafi verið tekið til uppgreiðslu á eldra láni, samkvæmt samningi hans við Sparisjóð vélstjóra, dagsettum 27. desember 2005 og beri eins og hér standi á að líta á hið síðara lán einungis sem skilmálabreytingu á því eldra og að meta verði bæði lánin sem einn gerning sem telja verði íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að leggja til grundvallar skýringar á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindinginn er tilgreind í þeim efnum.

Ákvæðum fyrri lánssamningsins hefur verið lýst hér að framan, en þar sagði að lánið væri að fjárhæð 103.300 svissneskir frankar og 9.193.000 japönsk jen. Þannig er eina tilgreining lánsins í erlendum gjaldmiðlum, en hvergi í samningnum er vikið að fjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum. Eins var tekið fram á forsíðu samningsins að hann væri um lán í erlendum gjaldmiðlum. Þá er og ákvæði samningsins um vexti í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða, en í samningnum er kveðið á um að skuldin beri LIBOR-vexti. Um endurgreiðslu stefnda á láninu er sagt að lántaki skuli við greiðslu lánshluta í erlendri mynt greiða inn á gjaldeyrisreikning lánveitanda, en sé greitt með íslenskum krónum skuli greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga.

Með skírskotun til þess að heiti lánssamningsins bar með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að þar var hún nákvæmlega tilgreind í þeim tveimur gjaldmiðlum, sem að framan greinir, verður að telja að skuld stefnda samkvæmt lánssamningi dagsettum 27. desember 2005 hafi verið ákveðin í þeim gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar í málum nr. 551/2011 og 25/2014. Ekki er unnt að líta svo á að umsókn stefnda um lánið breyti hinu eiginlega skuldaskjali. Að því gættu gat ákvæði um endurgreiðslu skuldarinnar eða útgreiðslu lánsins engu breytt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013. Þá er það mat dómsins að hvort sem litið er á síðari lánssamning aðila sem nýtt lán eða skilmálabreytingu eldra láns þá standi ekki rök til að þeir skilmálar sem um það lán giltu geti haft áhrif á mat á lögmæti hins fyrra láns í þessu samhengi. Verður að mati dómsins að líta til þeirra skilmála sem giltu á hverjum tíma enda geta skilmálabreytingar á viðvarandi samningi á samningstíma falið í sér að samningur sem áður var lögmætur verði ólögmætur og öfugt.

Stefndi Róbert byggir og á því að lög nr. 121/1994 um neytendalán feli í sér meðal annars að ekki sé unnt að lána neytanda erlenda gjaldmiðla svo löglegt sé. Telur hann afleiðingu þessa vera þá að líta verði á lán til stefnda Róberts sem ólögmætt og í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Málatilbúnaður stefnda Róberts í þessa veru er ítarlega reifaður hér framar. Í nefndum lögum um neytendalán er mælt fyrir um skyldu lánveitanda til að veita neytanda tilteknar upplýsingar um lánskjör. Þá er mælt fyrir um að bótaskylda stofnist sé þessara ákvæða ekki gætt með fullnægjandi hætti. Í máli þessu liggur ekkert fyrir um upplýsingagjöf stefnanda til stefnda á grundvelli umræddra laga en stefndi hefur ekki lagt þann grundvöll að kröfum sínum að þær verði með réttu studdar við ákvæði laga nr. 121/1994. Verður ekki fallist á að í þeim lögum komi fram reglur sem mæli fyrir um, beint eða óbeint, að vanræksla á lögbundinni upplýsingagjöf geti leitt til þess að lán teljist vera með ólögmætri gengistryggingu. Um þetta atriði má einnig vísa til dóms Hæstaréttar fimmtudaginn 15. júní 2017 í máli réttarins nr. 861/2016.

Skuld sú sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á nú er samkvæmt lánssamningi aðila frá 21. nóvember 2008, sem nánar er lýst hér að framan. Kemur fram á forsíðu samningsins að hann sé um lán í íslenskum krónum. Þá kemur fram í samningnum að lán samkvæmt honum sé veitt í þeim tilgangi að myntbreyta fyrri samningi sem lýst hefur verið hér að framan. Ber samningurinn því með sér eð veitt hafi verið lán í íslenskum krónum að jafnvirði 104.188,95 svissneskra franka og 9.242.508 japanskra jena en það var staða hins fyrra láns á samningsdegi. Verður hinn síðari samningur, sem til innheimtu er í þessu máli, ekki skilinn öðruvísi en að hann mæli fyrir um lán til stefnda Róberts í íslenskum krónum til að greiða upp lán í erlendum myntum, sem telja verður lögmætt. Heimilt var samkvæmt ákvæðum fyrir samnings að greiða skuldbindingu samkvæmt honum í krónum eins fyrr hefur verið nefnt. Er framangreint í fullu samræmi við þau sjónarmið sem fest hafa sig í sessi í fordæmum Hæstaréttar og vísað er til hér að framan þegar fjallað var um fyrri samninginn. Er þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar ekki unnt að fallast á með stefndu að efni samninganna, hvorki saman, né sitt í hvoru lagi, geti talist fela í sér lán í íslenskum krónum með ólögmætri tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

Varakrafa stefnda Róberts um lækkun dómkrafna byggist á bráðabirgðaákvæði X sem kom inn í lög 38/2001 með lögum nr. 151/2010. Í nefndu lagaákvæði er meðal annars mælt fyrir um að afmörkun þeirra skuldbindinga sem ákvæðið nái til skuli vera í samræmi við skilyrði B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en greinin fjallar um rétt til vaxtabóta. Kemur meðal annars fram í 1. mgr. ákvæðisins að skattskyldur maður samkvæmt 1. gr. laganna sem beri vaxtagjöld af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eigi rétt á vaxtabótum með nánar tilgreindum skilyrðum. Í 5. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Stefndi Róbert er ekki eigandi húsnæðisins að Kleppsvegi 6. Fellur hann þegar af þeirri ástæðu ekki undir skilgreiningu bráðabirgðaákvæðis X og verður því fallist á með stefnanda að ákvæðið eigi ekki við í tilviki stefnda Róberts. Breytir engu um þessa niðurstöðu þótt stefndi Róbert sé eini eigandi stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. Verður varakröfu stefnda Róberts hafnað þegar af þeirri ástæðu.

Að virtum þeim forsendum sem að framan er lýst eru engin efni til að fallast á að víkja beri samningum sem mál þetta snýst um til hliðar á grundvelli tilvísaðra ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá eru engar þeirra röksemda annarra sem stefndu byggja á til þess fallnar að hagga niðurstöðunni.

Stefndi Róbert hefur hafnað því að 300.000 krónur sem stefnandi hefur fært sem innborgun á skuld hans hafi verið innborgun á skuldina. Kemur fram hjá honum að hann hafi talið sig vera að greiða lögmannskostnað. Sú lækkun kröfunnar sem af þessu hlýst er á ábyrgð stefnanda og stefndu til hagsbóta. Er enda engin eiginleg dómkrafa höfð uppi af hálfu stefndu af þessu tilefni og hefur ágreiningur um þetta því ekki áhrif á úrlausn málsins.

Að gættu öllu því sem að framan greinir er ekki ágreiningur um kröfufjárhæð og verður krafa stefnanda tekin til greina með þeirri fjárhæð sem krafist er og með dráttarvöxtum frá gjalddaga í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Samkvæmt framlögðu tryggingarbréfi gaf stefndi, Róbert Þ. Bender, út tryggingarbréf til Sparisjóðs Vélstjóra, til tryggingar hvers konar skuldum hans við sparisjóðinn, að fjárhæð 11.000.000 króna, bundið vísitölu neysluverðs. Var umræddu tryggingabréfi þinglýst á eignina Kleppsveg 6, Reykjavík, núverandi eign stefnda, Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. og hvílir á 1. veðrétti eignarinnar. Með því að hér að framan hefur verið staðfest að stefndi Róbert standi í skuld við stefnanda hefur veðréttur stefnanda orðið virkur.

Krefst stefnandi heimildar til að gera aðför fyrir kröfunni , sbr.1. tölulið 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Aðför samkvæmt þeirri grein veitir heimild til að krefjast nauðungarsölu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Geta tilvísanir stefnda Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf. til 2. töluliðar 6. gr. sömu laga engu breytt í þessu tilliti og verður að hafna því að á skorti að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af kröfu þessari. Aðrar málsástæður sem stefndu halda fram breyta ekki framangreindri niðurstöðu. Verður því fallist á með stefnanda að veita beri honum heimild til fjárnáms fyrir kröfu sinni í umræddri fasteign að því marki sem tryggingabréfið afmarkar veðrétt stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur og hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Róbert Þ. Bender, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 16.787.086 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 300.000 krónum, sem voru greiddar inn á kröfuna 11. nóvember 2010.

Stefnanda er heimilt að gera fjárnám í fasteign stefnda, Skandinavísku háskólastofnunarinnar ehf., að Kleppsvegi 6, Reykjavík, fnr. 201-6052, á grundvelli veðtryggingabréfs að höfuðstól, 11.000.000 krónur, auk verðbóta í samræmi við breytingu neysluverðsvísitölu, miðað við grunnvísitöluna 248, sem gefið var út 12. desember 2005, allsherjarveð, tryggt með 1. veðrétti í eigninni.

Stefndu greiði óskipt stefnanda, 800.000 krónur í málskostnað.