Print

Mál nr. 779/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Kristmanni Jónssyni (Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)
Lykilorð
  • Ölvunarakstur
  • Ökuréttarsvipting
  • Réttlát málsmeðferð
  • Frávísunarkröfu hafnað
Reifun

Með dómi héraðsdóm var K sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Í málinu krafðist K aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, til vara ómerkingar héraðsóms en að því frágengnu að refsing yrði milduð. Reisti hann frávísunar- og ómerkingarkröfu sína á því að það stæðist ekki 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis að lögreglumaður sá sem hefði haft afskipti af honum vegna ætlaðs ölvunaraksturs og rannsakaði málið hefði einnig annast saksókn fyrir dómi sem fulltrúi ákæruvaldsins. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að þess sæi hvorki stað í málinu að umræddur maður hefði verið vanhæfur til rannsóknar þess sem lögreglumaður samkvæmt 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 né að hann hefði ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar sem sækjandi eftir 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamál. Var K því sakfelldur samkvæmt ákæru og gert að sæta 30 daga fangelsi. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. nóvember 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Kröfu sína um að málinu verði vísað frá héraðsdómi eða eftir atvikum að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísan heim í hérað til löglegrar meðferðar reisir ákærði á því að saksóknarfulltrúi sá sem fór með málið fyrir héraðsdómi hafi verið vanhæfur til þess í skilningi laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli um réttláta málsmeðferð í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar ákærði til þess að það standist ekki þessi fyrirmæli að lögreglumaður sá er hafði afskipti af ákærða vegna ætlaðs ölvunaraksturs hans 25. júlí 2015 og rannsakað málið hafi einnig annast saksókn fyrir dómi sem fulltrúi ákæruvaldsins. Megi í þessu sambandi vísa til hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008, en þar segi að ákærendur skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Ákærði geti að vísu ekki bent á dæmi þess að brotið hafi verið gegn rétti hans við meðferð málsins, en ljóst megi vera að mati ákærða að ekki sé hægt að útiloka með því fyrirkomulagi sem viðhaft hafi verið við meðferð málsins að slíkt geti hafa gerst. Segi í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 að hafi ákæra verið gefin út skuli dómari, annað hvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, vísa máli frá dómi ef hann telur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið eða lögreglustjóri vanhæfur til að rannsaka það.

Sækjandi máls þessa fyrir héraðsdómi starfaði á þeim tíma sem atvik þess gerðust sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, en hóf störf sem saksóknarfulltrúi við sama embætti 1. september 2015 eftir að hafa lokið meistaraprófi í lögfræði. Kom hann sem lögreglumaður að frumrannsókn málsins ásamt fleiri lögreglumönnum. Það var á hinn bóginn lögreglustjórinn í fyrrnefndu umdæmi sem á grundvelli þeirrar rannsóknar undirbjó saksókn og gaf út ákæru í málinu, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Fyrrnefndur lögreglumaður, sem þá hafði sem fyrr segir tekið við starfi saksóknarfulltrúa, sótti síðan málið fyrir dómi í umboði lögreglustjórans, sbr. síðari málslið 1. mgr. 18. gr. og 2. málslið 3. mgr. 25. gr. laga nr. 88/2008. Sér þess hvorki stað í málinu að umræddur maður hafi verið vanhæfur til rannsóknar þess sem lögreglumaður samkvæmt 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 né að hann hafi ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar sem sækjandi eftir 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess að gæta að ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi og var því farið með málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 án þess að skýrslur væru teknar af honum og vitnum. Samkvæmt þessu eru engin efni til þess að taka framangreindar kröfur ákærða til greina.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kristmann Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 396.643 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Gunnars Inga Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 13. október 2015.

I

Mál þetta, sem þingfest var 22. september  sl. og dómtekið 6. október sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 1. september 2015 á hendur Kristmanni Jónssyni, fæddum 3. apríl 1979, til heimilis að Skálanesgötu 9, Vopnafirði, ,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa um sex leytið síðdegis laugardaginn 25. júlí 2015, ekið bifreiðinni JD-872 undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 1,48‰) og sviptur ökurétti, frá veitingastaðnum N1 á Blönduósi og suður eftir Norðurlandsvegi uns lögreglan stöðvaði för ákærða rétt til móts við bæinn Öxl.

Telst þetta varða 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlag nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og auk greiðslu sakarkostnaðar auk sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og sbr. 102. gr. nefndra umferðarlaga..”

II

Við birtingu fyrirkallsins óskaði ákærði eftir því að sér yrði skipaður verjandi í málinu. Orðið varð við ósk ákærða og Gunnar Ingi Jóhannsson hrl. skipaður verjandi hans og honum sent eintak gagna málsins. Ákærði sótti ekki þing þegar málið var þingfest 22. september sl. en verjandi ákærða hafði samband við dóminn og boðaði forföll fyrir ákærða sem þá var á sjó. Við þingfestingu málsins gerði sækjandi þá breytingu á ákæruskjali að háttsemi ákærða fæli ekki í sér að hann hefði í umrætt sinn ekið sviptur ökurétti.

Ákærði sótti þing þegar málið var aftur tekið fyrir 6. október sl. og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir því áfengismagni sem mældist í honum en hann hafi neytt áfengis kvöldið áður og því ekið of snemma af stað. Ákærði kvaðst vera óvirkur alkóhólisti og hann hafi ekki neitt áfengis frá árinu 2013 fyrir utan þetta eina sinn og ekki eftir þetta atvik. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og telst sekt hans nægilega sönnuð en brot ákærða eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru, eftir að henni hafði verið breytt með framangreindum hætti. Farið var með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt vottorði Sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakarferil að baki. Í september 2008 var ákærða gert að greiða sekt fyrir brot vegna ölvunaraksturs og var sviptur ökurétti í tvö ár.  Á árunum 2009 og 2010 var ákærða gert að greiða sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Í október 2011 var ákærða gert að greiða sekt fyrir ölvunarakstur og var sviptur ökurétti í þrjú og hálft ár. í Nóvember 2013 var ákærða gert að sæta fangelsi í 45 daga fyrir að aka sviptur ökurétti og að lokum í febrúar sl. var ákærða gert að sæta fangelsi í 60 daga einnig fyrir að aka sviptur ökurétti.

Ákærði hefur með ölvunarakstursbroti því sem hann er nú sakfelldur fyrir gerst sekur um ítrekaðan ölvunarakstur öðru sinni. Refsing hans vegna þessa þykir samkvæmt dómvenju hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga auk þess sem svipta ber hann ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Með vísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður á rannsóknarstigi málsins 43.998 krónum. Verjandi ákærða gerir ekki kröfu um þóknun.

Málið sótti Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Kristmann Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. 

Ákærði greiði 43.998 krónur í sakarkostnað.