Print

Mál nr. 35/2000

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn

Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. maí 2000.   

Nr. 35/2000.

 

Baugur hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Ólafi Sigurðssyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn.

Ó, starfsmaður hjá félaginu B, undirritaði starfslokayfirlýsingu í febrúar 1999 og lét af störfum samdægurs. Var yfirlýsingin rituð í kjölfar fundar Ó með framkvæmdastjóra og öryggisstjóra verslunar þeirrar sem Ó starfaði í, og sagði Ó að þar hefði sér verið gefinn kostur á að segja upp starfi sínu í stað þess að vera sagt upp vegna meintra brota í starfi. Voru honum ekki greidd laun í uppsagnarfresti. Höfðaði hann mál til heimtu launa, lífeyrisframlags, bifreiðastyrks og orlofs. Talið var að starfslokayfirlýsingu Ó yrði ekki jafnað til þess að hann hefði afsalað sér launum í uppsagnarfresti. Þá var hluti meintra brota Ó í starfi talinn ósannaður, en önnur atvik ekki talin hafa réttlætt fyrirvaralausan brottrekstur. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að Ó hefði átt rétt til launa í uppsagnarfresti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2000 og krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á dómkröfum og niðurfellingar málskostnaðar á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Frá málavöxtum er greint í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram fékk stefndi í hendur gögn frá starfsmannastjóra áfrýjanda eftir starfslok sín, sem áfrýjandi segir að hafi verið afhent fyrir mistök og séu málinu óviðkomandi. Á það verður hins vegar fallist með héraðsdómi að við mat á starfslokum stefnda og aðdraganda þeirra verði ekki litið fram hjá þeim. Með skírskotun til raka dómsins er staðfest niðurstaða hans um starfslokayfirlýsingu stefnda 26. febrúar 1999 og að henni verði ekki jafnað til þess að stefndi hafi afsalað sér launum í uppsagnarfresti.

Til stuðnings aðalkröfu sinni byggir áfrýjandi á því til vara að honum hafi allt að einu verið heimilt að segja stefnda upp starfi án fyrirvara og án þess að greiða honum laun í uppsagnarfresti vegna verulegra vanefnda hans á vinnusamningi aðilanna. Var honum gefið þrennt að sök eins og nánar er greint frá í héraðsdómi. Að því er varðar þá fullyrðingu áfrýjanda að stefndi hafi áskilið sér 5% þóknun frá birgjum af sölu þeirra á hreinsiefni til áfrýjanda verður ekki séð af gögnum málsins, að áfrýjandi hafi fyrir sér annað en frásögn eiganda fyrirtækisins Fagrabergs ehf., sem stefndi hefur mótmælt. Hafa ber í huga, að þessar ásakanir komu fram þegar eigandi Fagrabergs ehf. átti í deilum við stefnda í tengslum við uppgjör þeirra vegna samvinnu í viðskiptum. Verður fallist á það með héraðsdómi að ósannað sé að umræddur háttur hafi verið hafður á.

Þá heldur áfrýjandi því fram að persónuleg viðskipti stefnda með meindýravarnarbúnað, sem hann hafi selt fyrirtækjum áfrýjanda, hafi ekki samrýmst starfsskyldum hans. Er þar einkum vísað til sölu á búnaði í nafni fyrirtækis hans, Varnir og eftirlit. Áður hafði stefndi átt hlut að sölu slíks búnaðar í samvinnu við áðurgreint Fagraberg ehf. Fram hefur komið að stefndi fór að tilhlutan áfrýjanda á námskeið í meindýravörnum vorið 1998 til að þessum þætti yrði betur sinnt hjá áfrýjanda. Þáverandi yfirmaður hans, sem virðist hafa tekið ákvörðun um þetta, hefur ekki komið fyrir dóm til að greina frá því, hver var vitneskja hans um þátt stefnda í sölu búnaðar til fyrirtækisins og um hvað hafi verið rætt varðandi framtíðarskipan þessara mála. Fram hefur komið að stefndi fékk greitt sérstaklega frá einstökum fyrirtækjum áfrýjanda fyrir vinnu við meindýravarnir og var það með samþykki yfirmanna hans. Þá keyptu fyrirtækin búnað þessu tengdan af framangreindu fyrirtæki hans, en það flutti búnaðinn inn. Fram kom í aðilaskýrslu stefnda og framburði fyrir dómi að umrætt fyrirtæki hans hafi komið til umræðu við bókara á skrifstofu áfrýjanda, sem hafi spurst fyrir um það hvers vegna það væri með pósthólf í Hraunbæ. Umræddur starfsmaður áfrýjanda kom ekki fyrir dóm. Þá ber einnig að líta til þess að á reikningum fyrirtækisins var kennitala stefnda og virðist hann a.m.k. í sumum tilvika hafa tekið við greiðslum sjálfur fyrir búnað, þannig að starfsmönnum áfrýjanda mátti vera ljóst að hann væri aðili að þessum viðskiptum.

Viðskipti stefnda gátu verið umdeilanleg. Telja verður þó í ljósi framanritaðs að áfrýjandi hafi mátt um þau vita í nokkurn tíma, en þau voru látin átölulaus. Verður fallist á það með héraðsdómi að þessi viðskipti hafi ekki réttlætt fyrirvaralausan brottrekstur stefnda eins og hér stóð á.

Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að stefndi hafi átt rétt á uppsagnarfresti með launum. Stefndi lækkaði dómkröfu sína við rekstur málsins í héraði vegna tekna, er hann fékk í uppsagnarfresti. Héraðsdómur lækkaði hana enn er nam umkröfðum bifreiðastyrk. Áfrýjandi hefur ekki rennt stoðum undir kröfur um frekari lækkun. Verður töluleg niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Dæma ber áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Baugur hf., greiði stefnda, Ólafi Sigurðssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. okt. sl., var höfðað með stefnu, birtri 12. maí sl.

Stefnandi er Ólafur Sigurðsson, kt. 300853-7819, Herjólfsgötu 34, Hafnarfirði.

Stefndi er Baugur hf., kt. 480798-2289, Skútuvogi 7, Reykjavík.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 619.105 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. maí 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

Dómkröfur stefnda:

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað eftir mati dómsins.

Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.

 

Málavextir

Stefnandi, sem var starfsmaður stefnda, undirritaði hinn 26. febrúar 1999  starfslokayfirlýsingu þar sem segir svo: “Vil ekki staðna í starfinu. Hef beðið um breytingar, - ekki fengið.” Í plaggi þessu er síðasti vinnudagur skráður 26. febrúar 1999. Ljósrit yfirlýsingar þessarar liggur fyrir í málinu sem dskj. 3. Þar er skráð í athugasemdadálki: “Var sagt upp án fyrirvara v. brota í starfi sjá bréf JB dags. 26. 2. 1999.” Við ljósrit þetta er fest ljósrit bréfs, dags. 26. febrúar 1999, til stefnanda, þar sem stefnanda er sagt upp fyrirvaralaust. Í bréfi þessu eru ástæður uppsagnarinnar tilgreindar svo:

1.Að Hagkaup hafi aflað upplýsinga um að stefnandi hafi áskilið sér 5% þóknun frá birgjum af sölu þeirra á hreinsiefni til Hagkaups.

2.Persónuleg viðskipti stefnanda með meindýravarnabúnað samrýmist ekki starfsskyldum stefnanda sem gæðastjóri hjá Hagkaupi.

3.Stefnandi hafi notað stöðu sína sem gæðastjóri hjá Hagkaupi og starfsaðstöðu til þess að reyna að afla persónulegra viðskipta erlendis.

Í lok bréfsins segir að Hagkaup telji framangreind brot vera stórkostlega vanefnd á starfsskyldum stefnanda og heimili riftun vinnusamningsins. Jafnframt að Hagkaup líti svo á að óskylt sé af sömu ástæðum að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti.

Stefnandi segir tildrög undirritunar starfslokayfirlýsingarinnar vera þá að hann hafi verið kallaður á fund Jóns Björnssonar, framkvæmdastjóra Hagkaups, og   Guðmundar Gunnarssonar öryggisstjóra. Á fundinum hafi þess verið krafist að stefnandi segði þegar upp starfi sínu, að öðrum kosti yrðu settar upp tilkynningar um að hann hefði verið rekinn.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi verið kallaður á fund þeirra Jóns Björnssonar og Guðmundar Gunnarssonar vegna meintra ávirðinga sem þeir hafi talið vera brot stefnanda í starfi. Stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að mega segja starfi sínu lausu þegar í stað. Starfsmenn stefnda hafi þá ekki verið búnir að taka endanlega ákvörðun um það hvert framhald málsins yrði ef meintar ávirðingar reyndust á rökum reistar, þ.e. hvort þeir hefðu þá gripið til þess að áminna stefnanda fyrir brot í starfi, munnlega eða skriflega, segja honum upp störfum með samningsbundnum fyrirvara eða víkja honum fyrirvaralaust úr starfi. Það sé rangt að stefnanda hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi. Svo vilji til að framkvæmdastjóri Hagkaups, Jón Björnsson, hafi fengið lögmann félagsins til þess að skrifa fyrir sig uppkast að uppsagnarbréfi til stefnanda sem hann hafi ætlað að nota ef til þess kæmi að hann teldi rétt að víkja stefnanda úr starfi. Framkvæmdastjórinn hafi hvorki þurft að grípa til uppsagnar né áminningar þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi kosið að segja starfi sínu lausu án þess að færa fram skýringar af sinni hálfu.

Eftir uppsögn stefnanda sendi framkvæmdastjóri Hagkaups starfsloka-tilkynningu hans til launadeildar. Með tilkynningunni fylgdi uppkast að uppsagnarbréfinu. Þáverandi starfsmannastjóri stefnda áritaði starfslokayfirlýsinguna svo: “Var sagt upp án fyrirvara v. brota í starfi sjá bréf JB dags. 26.2.1999.”

Stefnandi sem hafði unnið í sjö ár sem gæðastjóri hjá stefnda byggir kröfur sínar á hendur stefnanda á því að honum hafi verið sagt upp fyrirvaralaust og krefur stefnda um greiðslu launa, lífeyrisframlags, bifreiðastyrks og orlofs að frádreginni fjárhæð þeirra tekna sem stefnandi aflaði á uppsagnarfresti.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Samkvæmt íslenskum vinnurétti sé meginreglan sú að starfsmenn ávinni sér uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningum og lögum. Starfsmönnum verði ekki vikið úr starfi fyrirvaralaust nema þeir hafi brotið verulega af sér í starfi. Jafnframt þurfi að gæta vissra formreglna við fyrirvaralausa brottvísun úr starfi. Í þessu máli hafi réttur verið brotinn á stefnanda, bæði hvað varðar efni og form.

Þær  ávirðingar sem bornar séu á stefnanda í bréfi Hagkaups frá 26. febrúar 1999 séu ekki brottrekstrarástæður.

Í fyrsta lagi sé fullyrðing Hagkaups, um að stefnandi hafi áskilið sér 5% þóknun frá birgjum af sölu þeirra á hreinsiefni til Hagkaups, röng. Þetta séu upplognar sakir, væntanlega komnar frá fyrrum samstarfsmanni stefnanda, sem telji sér nú hag í að veita honum högg, þar sem upp úr samstarfi þeirra hafi slitnað. Stefnandi hafi um langan tíma, frá því áður en hann hóf störf hjá Hagkaupi og með fullri vitneskju Hagkaups, rekið sjálfstæða starfsemi á sínu sérsviði, þ.e. í matvælafræði. Vinna þessi hafi alltaf verið unnin utan vinnutíma stefnanda hjá Hagkaupi og hafi stefnandi jafnan gætt þess að þessi aukastarfsemi skaraðist með engum hætti við starf hans hjá stefnda. Stefnandi hafi m.a. tekið að sér að mæla sótthreinsivirkni sápuefna fyrir Smára Sveinsson, Fagraberg, sem síðan hafi selt sápuefnin Hagkaupi. Fyrir þessa vinnu hafi stefnandi gert þessum aðila reikninga sem með engum hætti hafi tengst hagnaði af sölu. Þegar upp úr samstarfi hans og Smára Sveinssonar slitnaði virðist svo sem upplognar sakir hafi verið bornar á stefnanda og þeim trúað án þess að  hann hafi á nokkru stigi átt þess kost að bera af sér sakir eða skýra sín sjónarmið.

Í öðru lagi hafi meindýravarnir verið vandamál í verslunum Hagkaups um árabil. Til þess ráðs hafi verið gripið fyrir nokkrum misserum að stefnandi hafi farið á námskeið í meindýraeyðingu og aflað sér réttinda sem meindýraeyðir. Eftir það hafi hann sjálfur sinnt eyðingu meindýra í verslunum Hagkaups. Starfi þessu hafi hann sinnt sem hluta af starfi sínu fyrir Hagkaup og hafi með því sparað fyrirtækinu árlega stórfé. Meindýravarnir krefjist sérstakra tækja og búnaðar sem stefnandi hafi komið sér upp og keypt búnað erlendis frá. Hafi hann gert það til þess að vera betur fær um að bregðast við þegar meindýra yrði vart. Auk þess hafi álagning innlendra aðila á þessum búnaði oft verið mjög há. Þennan búnað hafi stefnandi selt Hagkaupi þegar á þurfti að halda. Hér hafi engu verið leynt. Reikningar sem stefnandi gerði Hagkaupi vegna þessa hafi verið á hans nafni og þar hafi komið fram hvað verið var að selja. Engin athugasemd hafi nokkru sinni verið gerð af hálfu fyrirtækisins vegna þess fyrr en við brottreksturinn. Í raun hafi stefnandi sparað fyrirtækinu verulegar fjárhæðir með þessari fyrirhyggju sinni.

Í þriðja lagi sé ein brottrekstrarástæðan sú að stefnandi hafi notað stöðu sína sem gæðastjóri og starfsaðstöðu sína til að afla persónulegra viðskipta erlendis. Þessi ásökun tengist tölvupósti sem stefnandi hafi sent utan í ágúst 1998 þar sem hann hafi falast eftir umboði fyrir búnað við meindýravarnir. Í sjálfu sér megi telja það óheppilegt að hafa notað tölvupóst Hagkaups við þessi bréfaskipti. Ástæða þessa sé í raun sú að samskipti á tölvupósti séu fljótvirk og handhæg. Stefnandi hafi ekki haft aðgang að tölvupósti annars staðar en hjá Hagkaupi. Bréfaskiptin hafi átt sér stað 27. ágúst 1998. Hafi Hagkaup raunverulega ætlað að gera þau að brottrekstrarástæðu hefði fyrirtækið orðið að bregðast við strax. Ekki sé hægt hálfu ári síðar að tína þetta atriði til sem brottrekstrarástæðu. Uppsagnarfrestur stefnanda sé þrír mánuðir. Fyrirtækið hafi því haft öll tækifæri til að vera búið að losa sig við starfsmanninn löngu fyrr en með brottrekstrinum í febrúar sl.

Stefnandi hafi ekki brotið af sér í starfi og atvinnurekandi hafi ekki haft heimild til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi. Stefnandi hafi ekkert það aðhafst sem atvinnurekanda hafi verið ókunnugt um, hann hafi aldrei gert tilraun til þess að leyna atvinnurekanda því að hann ræki sjálfur lítið fyrirtæki í hjáverkum. Þvert á móti hafi þetta verið nokkuð sem hafi legið fyrir þegar við ráðningu stefnanda til Hagkaups og fyrrum yfirmenn hans þar hafi a.m.k. verið meðvitaðir um þetta. Hann eigi því rétt á bótum sem nemi launum í þrjá mánuði.

Til þess að geta rift ráðningarsamningi vegna verulegs brots nægi þó ekki að um brot sé að ræða  heldur komi hér til sérstakar reglur um aðvörun. Verði að telja að atvinnurekanda sé skylt að áminna eða aðvara starfsmann um brottrekstur áður en hann geti gert mann brottrækan úr starfi nema sakir séu því meiri, til dæmis þjófnaður eða líkamsárás. Sé það ekki gert og samningsaðila ekki gefinn kostur á að bæta ráð sitt áður en til riftunar kemur eigi samningsaðili það á hættu að vera dæmdur bótaskyldur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi. Stefnanda hafi ekki verið veitt nein aðvörun, honum hafi aldrei verið gerð grein fyrir því að Hagkaup væri ósátt við störf hans eða atvinnustarfsemi við meindýraeyðingar né hafi athugasemd verið gerð við reikninga frá honum vegna sölu á tækjabúnaði. Stefnanda hafi aldrei verið gefið færi á að bæta úr því sem fyrirtækið hafi haft út á störf hans að setja.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:

Þriggja mánaða laun 3 x 220.533 

661.599 kr.

Lífeyrisframlag atvinnurekanda 6% af 661.599  

39.696 kr.

Þriggja mánaða bifreiðastyrkur 3 x 32.878 

98.634 kr.

Orlof 10,17% af 661.599   

67.285 kr.

Samtals

867.214 kr.

Lækkun vegna tekna stefnanda á uppsagnarfresti

248.109 kr.

Samtals

619.105 kr.

 

Af hálfu stefnanda er vísað í meginreglur kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingagildi samninga. Kröfur um dráttarvexti eru studdar með vísan til reglna III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað er studd með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Af hálfu stefnda er aðallega á því byggt að stefnandi hafi sagt upp starfi sínu hjá stefnda af fúsum og frjálsum vilja og án allrar þvingunar af hálfu framkvæmdastjóra Hagkaups eða öryggisstjórans. Þá er á því byggt að stefnandi hafi jafnframt óskað eftir að hverfa þegar úr starfi án þess að vinna út samningsbundinn uppsagnarfrest og það hafi verið samþykkt af stefnda.

Til vara er byggt á þeirri málsástæðu að stefnda  hafi allt að einu verið heimilt að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum þegar í stað bótalaust og án þess að greiða honum laun á uppsagnarfresti með því að stefnandi hafi brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum, bæði trúnaðarskyldum og hlýðnisskyldum, að brot hans hafi verið svo stórfelld vanefnd á vinnusamningi stefnda og stefnanda að heimilað hafi stefnda riftun samningsins.

Brot stefnanda á vinnusamningi aðila hafi í fyrsta lagi verið þau að hann hafi orðið uppvís að því að áskilja sér 5% þóknun frá birgjum af sölu þeirra á hreinsiefni til stefnda. Í öðru lagi hafi stefnandi stundað persónuleg viðskipti með meindýravarnabúnað til m.a. birgja stefnda sem á engan hátt hafi getað samrýmst hlutverki hans sem gæðastjóra hjá stefnda. Í þriðja lagi hafi stefnandi notfært sér starfsaðstöðu sína hjá stefnda til þess að reyna að afla sér persónulegra viðskipta erlendis. Fullyrðingum stefnanda um að hann hafi haft samþykki yfirmanna sinna til þessarar sýslunar er harðlega mótmælt af stefnda.

Stefndi telur upplýst að stefnandi hafi áskilið sér 5% þóknun frá Fagrabergi ehf. af sölu félagsins á hreingerningarefnum til stefnda. Stefnandi hafi útbúið reikninga fyrir þeirri þóknun í nafni barna sinna og kallað hreingerningarvinnu hjá Fagrabergi ehf. Sú vinna hafi aldrei verið innt af hendi.

Stefndi telur upplýst að stefnandi hafi í starfi sínu gert birgjum stefnda að kaupa af sér persónulega og með fulltingi Fagrabergs ehf. meindýravarnabúnað með stórkostlegri álagningu, sem í sumum tilvikum a.m.k. hafi verið öldungis óþarfur, en eiga ella á hættu að glata viðskiptum við stefnda.

Stefndi telur enn fremur upplýst að stefnandi hafi freklega brotið gegn trúnaðarskyldum sínum með því að reyna að afla sér persónulegra viðskipta með notkun á starfsaðstöðu sinni hjá stefnda. Brot þetta sé sýnu alvarlegra þegar litið sé til þess að stefndi stundi sjálfstæða innflutningsstarfsemi og því augljóst að hann geti ekki og þurfi ekki að líða samkeppni á því sviði við eigið starfsfólk.

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar að teknu tilliti til skyldu hans til tjónstakmörkunar enda hafi hann þegar eftir starfsuppsögn sína hjá stefnda tekið til starfa á öðrum vettvangi.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi stefnandi, Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, Ásta Bjarnadóttir, fyrrum starfsmannastjóri Hagkaups, Guðmundur Ragnar Gunnarsson, öryggisstjóri Baugs hf. og Smári Grétar Sveinsson.

 

Niðurstaða

Hinn 15. maí 1992 réðst stefnandi til starfa sem gæðastjóri hjá Hagkaupi samkvæmt framlögðum ráðningarsamningi. Samningur þessi var tímabundinn frá 21. maí 1992 til 31. júlí 1992. Ekki mun hafa verið gerður nýr ráðningarsamningur við stefnanda en hann starfaði áfram hjá Hagkaupi allt til 26. febrúar 1999. Í ráðningarsamningnum er vísað til starfslýsingar sem lögð hefur verið fram. Samkvæmt starfslýsingunni skyldi gæðastjóri fylgjast með allri vinnslu og meðhöndlun ferskvara frá upphafi til sölu.

Aðila greinir á um það hvort stefnandi hafi sagt upp starfi sínu að eigin ósk eða hvort hann hafi verið þvingaður til uppsagnar. Þegar til þess er litið í fyrsta lagi að framkvæmdastjóri stefnda og öryggisstjóri stefnda höfðu tilbúið uppsagnarbréf með sér á fund sinn með stefnanda og í öðru lagi að eftir að stefnandi hafði undirritað starfslokayfirlýsingu var af starfsmanni stefnda ritað á starfslokayfirlýsinguna: “Var sagt upp án fyrirvara v. brota í starfi sjá bréf JB dags. 26. 2. 1999.” Þá þykja líkur fyrir því að stefnandi hafi að minnsta kosti talið sig tilneyddan til þess að undirrita yfirlýsinguna.

En hvernig sem starfslokayfirlýsingin var tilkomin þá er ekki minnst á uppsagnarfrest í henni. Við skýrslugjöf hér fyrir dómi kom fram hjá Jóni Björnssyni framkvæmdastjóra stefnda að fyrr á  fundinum 26. febrúar 1999 hafi stefnandi talað um að hann vildi fá greidda 3 mánuði, en þegar hann undirritaði uppsagnarbréfið hafi ekkert verið talað um uppsagnarfrest. Guðmundur Ragnar Gunnarsson öryggisstjóri stefnda kvaðst ekki muna eftir því að rætt hafi verið um uppsagnarfrest. Í starfslokayfirlýsingunni er síðasti vinnudagur tilgreindur 26. febrúar 1999. Þeirri tilgreiningu verður ekki jafnað til þess að stefnandi hafi með því afsalað sér launum á uppsagnarfresti.

Ein af grundvallarréttindum launafólks eru þau að þurfa ekki að sæta fyrirvaralausri uppsögn Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979 bar stefnanda þriggja mánaða uppsagnarfrestur við starfslok hjá stefnda í febrúar 1999. Þar sem það telst ósannað að stefnandi hafi afsalað sér launum á uppsagnarfresti ber að taka afstöðu til þess hvort stefnda hafi verið heimilt að víkja stefnanda úr starfi fyrirvaralaust.

Eins og málið liggur fyrir eru fullyrðingar stefnda um að stefnandi hafi orðið uppvís að því að áskilja sér 5% þóknun frá birgjum af sölu þeirra á hreinsiefni til stefnda ósannaðar.

Skjöl málsins sýna að stefnandi seldi fyrirtækjum vinnuveitanda síns meindýravarnarbúnað. Reikningar vegna  þessara viðskipta eru frá Vörnum og eftirliti sem stefnandi segir fyrirtæki sitt. Alls er óvíst að starfsmönnum stefnda hafi verið ljóst að þessi viðskipti væru í raun við stefnanda sem í krafti stöðu sinna hjá stefnda hefur að öllum líkindum tekið ákvörðun um eða ráðlagt um kaupin. Telja verður þessa viðskiptahætti stefnanda óviðeigandi en ekki brottrekstrarsök.

Hinn 31. ágúst 1998 nýtti stefnandi sér tölvupóstsaðstöðu stefnda við að reyna að afla sér viðskiptasambanda erlendis. Tölvupóstur 31. ágúst 1998, jafnvel þótt óviðeigandi sé, getur ekki réttlætt brottrekstur úr starfi 26. febrúar 1999.

Með vísan til framanritaðs er niðurstaða málsins sú að ávirðingar stefnanda nægi ekki til þess að réttlæta fyrirvaralausan brottrekstur enda verður ekki annað séð en unnt hefði verið að láta stefnanda vinna út uppsagnarfrest, sem hann átti lögum samkvæmt, stefnda að skaðlausu.

Krafa stefnanda um laun á uppsagnarfresti, að frádregnum þeim tekjum sem stefnandi aflaði á þeim tíma, er því tekin til greina, þar með talið 6% lífeyrisframlag og orlof. En krafa stefnanda um bifreiðastyrk er ekki tekin til greina enda bar stefnandi hér fyrir dómi að bifreiðastyrkur hefði verið greiddur samkvæmt akstursbók. Verður stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda 520.471 krónur með vöxtum eins og segir í dómsorði.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Baugur hf., greiði stefnanda, Ólafi Sigurðssyni, 520.471 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 13. maí 1999 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.