Print

Mál nr. 583/2017

A (Grímur Sigurðsson lögmaður)
gegn
Bláa lóninu hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)
Lykilorð
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Skaðabótamál
Reifun

A krafðist þess að B hf. og S hf. yrði óskipt gert að greiða henni skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í vinnuslysi í Bláa lóninu hjá B hf. Tildrög slyssins voru þau að A hélt á körfu með drykkjarföngum og matvælum þegar hún fór um útidyr áleiðis að bar utanhúss við lónið. Eftir að hún hafði stigið á pall fyrir utan dyrnar missti hún jafnvægið og datt aftur fyrir sig á bakið. Þegar slysið varð hafði rignt og var pallurinn blautur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar viðarpallur blotni í rigningu gæti myndast hálka og var lagt til grundvallar að A hefði dottið af þeim sökum. Þá var tekið fram að B hf. hefði látið fræsa rákir í pallinn og að hann hefði verið þveginn reglulega en það tvennt drægi úr hálkumyndun. Var því talið að B hf. hefði gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja öruggara umhverfi og því ekki talið að slysið yrði rakið til vanbúnaðar fasteignarinnar eða annarra atvika sem B hf. eða S hf. bæru ábyrgð á. Voru þau því sýknuð af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2017. Hún krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 7.852.113 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. maí 2013 til 10. mars 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 22. maí 2018.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að áfrýjandi hafði unnið um skamma hríð við þjónustustörf hjá stefnda Bláa lóninu hf. þegar hún varð fyrir slysi 31. maí 2013. Tildrögin voru þau að hún hélt á körfu með drykkjarföngum og matvælum þegar hún fór um útidyr áleiðis að bar utanhúss við lónið. Hefur hún skýrt svo frá að hún hafi opnað dyrnar með því að beita öxlum og baki og því hafi hún gengið aftur á bak eða á hlið þegar hún gekk út á pall við útidyrnar. Eftir að hún hafi stigið á pallinn og snúið sér hafi hún misst jafnvægið og dottið aftur fyrir sig á bakið. Innandyra voru flísar á gólfum og næst dyrunum að innanverðu járngrind en fyrir utan var viðarpallur með fræsuðum raufum. Þegar slysið varð hafði rignt og var pallurinn blautur. Við slysið hlaut áfrýjandi líkamstjón, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar eru einnig raktar málsástæður aðila.

Þegar viðarpallur blotnar í rigningu getur myndast hálka og verður að leggja til grundvallar í málinu að áfrýjandi hafi dottið í umrætt sinn af þeim sökum. Þess er þó að gæta að stefndi Bláa lónið hf. hafði látið fræsa rákir í pallinn, en það dregur úr því að hann verði sleipur þegar hann blotnar. Þá hefur komið fram að pallurinn hafi verið þveginn reglulega en það dregur jafnframt úr hálkumyndun. Með þessu móti hafði stefndi gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja öruggara umhverfi. Eru atvik máls að þessu leyti nægjanlega upplýst og verður því fallist á það með héraðsdómi að ekki skipti máli fyrir sönnunarfærsluna þótt slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins tímanlega í samræmi við áskilnað 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að slysið verði rakið til vanbúnaðar fasteignarinnar eða annarra atvika sem stefndu bera ábyrgð á. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.  

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2017.

          Mál þetta var höfðað 31. maí 2016 og tekið til dóms 23. maí sl. Stefnandi er A, […], en stefndu eru Bláa lónið hf., Norðurljósavegi 9, Grindavík, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 7.852.113 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 7.852.113 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 6.239.498 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 6.239.498 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Í annarri varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.745.310 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 5.745.310 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Í þriðju varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.272.638 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 5.272.638 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Í fjórðu varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 5.166.140 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 5.166.140 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Í fimmtu varakröfu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 2.958.250 krónur með 4,5% ársvöxtum af 518.350 krónum frá 31. maí 2013 til 31. ágúst 2013, af 2.958.250 krónum frá þeim degi til 10. mars 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að hún verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað.

Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður fall.

 I

Málavextir

Stefnandi féll á útitrépalli 31. maí 2013 við vinnu sína hjá stefnda Bláa lóninu hf. en þar starfaði hún sem þjónustustúlka í sumarvinnu. Atvik eru nánar þau að stefnandi, sem þá var 22 ára gömul, var á leið frá bar, sem staðsettur er innanhúss, og hélt á bakka með drykkjarföngum og veitingum fyrir viðskiptavini. Veitingarnar átti hún að flytja á annan bar sem staðsettur var utanhúss við lónið. Til að komast þangað þurfti hún að ganga í gegnum útidyr sem aðallega eru ætlaðar starfsfólki. Gólfefnið innandyra er annað en úti á pallinum. Innanhúss eru flísar á gólfi og járngrind við hurðina að innaverðu en fyrir utan dyrnar tekur við viðarpallur með fræsuðum raufum. Þegar stefnandi gekk út um dyrnar og steig á viðarpallinn hinum megin þröskuldsins kveðst hún hafa tekið tvö til þrjú skref en þá skyndilega runnið, misst jafnvægið og dottið aftur fyrir sig á bakið með bakkann í fanginu. Hún sagði að rignt hafi þennan dag og pallurinn verið blautur og háll. Stefnandi taldi í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði aðeins verið búin að vinna nokkra daga hjá stefnda Bláa lóninu hf. er slysið varð. Stefnandi reyndi að halda áfram að vinna en varð frá að hverfa um hálftíma síðar vegna slæmra verkja í baki. Hún leitaði samdægurs á slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hún var greind með tognun í baki og henni ávísuð verkjalyf og ráðlögð sjúkraþjálfun. Vinnuveitandi stefnanda tilkynnti slysið ekki til Vinnueftirlitsins fyrr en 4. febrúar 2015.

Með tilkynningu 31. janúar 2014 tilkynnti stefnandi slys sitt til Sjúkratrygginga Íslands. Stefnandi leitaði til heimilislæknis þann 26. febrúar 2014 og kvaðst hún þá finna fyrir verkjum í baki milli herðablaða auk þess fyndi hún fyrir verkjum við ákveðnar stellingar og við vissar æfingar í „crossfit“. Heimilislæknir vísaði stefnanda til sjúkraþjálfara og ráðlagði henni með æfingar. Stefnandi virðist í framhaldinu hafa leitað til sjúkraþjálfara í fimm meðferðartíma, þann fyrsta 14. mars 2014. Þann 5. mars 2014 óskaði stefnandi eftir því að fá svör frá stefnda við tilteknum spurningum vegna óhapps stefnanda. Með tilkynningu 7. mars 2014 var slysið tilkynnt stefnda Sjóvá. Stefnandi leitaði því næst til Júlíusar Valssonar gigtarlæknis þann 12. maí 2014. Í skoðun hjá Júlíusi kvartaði stefnandi yfir þrálátum verkjum í brjósthryggnum á milli herðablaðanna sem kæmi fram við álag og versnuðu þegar liði fram á daginn. Þá sagðist stefnandi oft sofa illa og eiga erfitt með langar setur eða að vera lengi kyrr í sömu stellingu.

Starfsmenn stefnda Bláa lónsins hf. voru slysatryggðir hjá stefnda Sjóvá- Almennum tryggingum hf. sem jafnframt ábyrgðartryggði starfsemi félagsins. Með bréfi 12. júní 2014 var þess krafist að vátryggingarfélagið viðurkenndi greiðsluskyldu sína úr ábyrgðartryggingu Bláa lónsins hf. Með bréfi 19. nóvember s.á. hafnaði félagið kröfu stefnanda. Stefnandi undi ekki þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á greiðsluskyldu úr tryggingunni.

Matsmennirnir Björn Pétur Sigurðsson bæklunarskurðlæknir og Sigurður B. Halldórsson hrl. mátu varanlegar afleiðingar slyssins með matsgerð sem dagsett er 4. febrúar 2016. Helstu niðurstöður þeirra eru þær að varanlegur miski stefnanda teljist hæfilega metinn 5 stig og varanleg örorka hennar 5%. Að fenginni matsgerð matsmanna krafði stefnandi stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. á nýjan leik um viðurkenningu á greiðsluskyldu vegna afleiðinga slyssins. Var þess jafnframt krafist að vátryggingarfélagið greiddi stefnanda 7.852.113 krónur í skaðabætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, auk útlagðs kostnaðar, vaxta og lögmannsþóknunar. Með tölvupósti þann 17. febrúar 2016 hafnaði félagið öllum kröfum stefnanda með sömu rökum og áður.

II

Málsástæður stefnanda 

Stefnandi byggir á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, reglum um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda vegna slysa sem hljótast af aðbúnaði og ástandi fasteigna, ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá byggir stefnandi á skaðabótalögum og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Stefnandi telur Bláa lónið hf. bera ábyrgð á líkamstjóni sínu. Slysið og líkamstjónið, sem af því leiddi, sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum og vanrækslu fyrirsvarsmanna stefnda Bláa lónsins hf. á að halda gönguleiðum fasteignar félagsins greiðum, öruggum, hálku- og hættulausum og jafnframt tryggja með því öryggi starfsmanna og gesta sinna á matsölustaðnum. Stefnda reki eftirsóttan og fjölsóttan veitingastað við Bláa lónið. Gestir séu bæði utan- og innandyra á staðnum og þeim sé þjónað til borðs. Mikil umferð gangandi fólks sé því um dyr staðarins og brýnt að þar sé fyllsta öryggis gætt og leiðum haldið hálkulausum en vatn og gufa sé á öllum útisvæðum. Í þeim efnum megi gera miklar kröfur til stefnda Bláa lónsins hf. sem fasteignareiganda og rekstraraðila veitingastaðarins.

Ríkar kröfur hvíli á atvinnurekanda um að tryggja öryggi starfsmanna sinna eins og kostur sé og að þeir séu ekki settir í hættu við vinnu sína. Þannig skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980.

Stefnandi telur að ýmsu hafi verið ábótavant á vinnustað hennar á slysdegi að því er varðar vinnuaðstæður, verkstjórn og skort á upplýsingum til hennar. Í fyrsta lagi er byggt á því að vinnuaðstæðum hafi verið áfátt og hafi það leitt til þess að stefnandi varð fyrir því slysi sem hér um ræðir. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 skuli vinnustaður vera þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Til nánari skýringar sé vísað til 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða þar sem greint sé frá því að húsnæði skuli innrétta þannig að þar sé sem öruggast og heilsusamlegast starfsumhverfi.

Stefnandi vísar til þess að á slysdegi hafi rignt og gönguleið stefnanda af þeirri ástæðu verið blaut. Undir þeim kringumstæðum verði viðarpallurinn, sem sé úti undir beru lofti, sérlega háll. Stefnandi hafi þurft að ganga innandyra með þunga bakka í báðum höndum að dyrunum, opna hurðina út og stíga út á timburpallinn fyrir utan. Þessar aðstæður hafi í raun verið hrein slysagildra þegar pallurinn var blautur. Sé þetta í reynd viðurkennt í tjónstilkynningu stefnda Bláa lónsins hf. til vátryggjanda síns, stefndu Sjóvár-Almennra trygginga hf. Tilkynningin sé unnin af öryggisstjóra félagsins, Magnúsi Má Jakobssyni, þann 7. mars 2014. Í svari öryggisstjórans við spurningunni um orsök slyssins segir orðrétt: „Pallurinn var sleipur og hún var í erfiðum aðstæðum og gat ekki stutt sig þar sem hún var að bera bakka fulla af veitingum.“

Sé afstaða félagsins ítrekuð í bréfi mannauðsstjóra Bláa lónsins hf. sem hafi borist stefnanda 3. júní 2014. Í sama bréfi sé jafnframt að finna eftirfarandi svar við þeirri spurningu hvort undirlag viðarpallsins hafi verið í ásættanlegu horfi: „Allt timbur er sleipt þegar það blotnar þess vegna er aldrei of varlega farið. En timbrið í þessum palli er sérstaklega fræsað til að minnka hættuna sem mest.“

Líkt og gögn fyrirsvarsmanna stefnda Bláa lónsins hf. beri með sér sé engum vafa undirorpið að viðarpallurinn hafi sannarlega verið háll í bleytu. Að mati stefnanda brjóti aðbúnaður fasteignarinnar gegn reglum sem kveði á um öruggan og hættulausan vinnustað og greiðar gönguleiðir fasteignar. Til viðbótar áðurnefndum ákvæðum laga vísar stefnandi til d-liðar 3. mgr. 41. gr. reglna nr. 581/1995 varðandi aðbúnað vinnustaða utanhúss. Þar segi að þegar starfsmenn vinni utanhúss skuli vinnustaður eins og kostur sé skipulagður á þann hátt að þeir renni ekki til eða detti. Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. sömu reglna sé vinnuveitanda gert skylt að gera ráðstafanir til að draga úr hálku á gólfum þar sem þess gerist þörf.

Til viðbótar framansögðu byggir stefnandi á því að fyrirsvarsmenn stefnda Bláa lónsins hf. hafi vitað um hættueiginleika viðarpallsins þegar hann var blautur, enda sé fullyrt í tilkynningu og svarbréfinu 3. júní 2014 að viðargólfið hafi verið hált og að það hafi sérstaklega verið fræsað í það til að minnka slysahættuna eins og kostur væri. Yfirlýsingin sanni að forsvarsmönnum stefnda Bláa lónsins hf. hafi verið kunnugt um að pallurinn væri háll í bleytu.

Líkt og slys stefnanda sýni hafi vitneskja starfsmanna stefndu ekki verið nóg til að koma í veg fyrir slysið. Aðgerðir hafi skort. Pallurinn hafi verið mjög háll og hættulegur þeim sem um hann fóru. Koma hefði mátt í veg fyrir slys stefnanda með fyrirhafnarlitlum, ódýrum og skjótum hætti, t.d. með því að leggja útidyramottu úr gúmmíi fyrir framan þröskuldinn útidyramegin og festa hana vel. Slíkt hafi í reynd verið bráðnauðsynlegt. Í fyrsta lagi vegna vitneskju atvinnurekanda um hálkueiginleika viðargólfsins, í annan stað sökum þess að yfirborð gangleiðar innandyra sé allt annað en það sem er utandyra og síðast en ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að starfsfólk eigi oft leið um dyrnar með bakka í höndum. Þetta rúmist vel innan þeirra krafna sem gera megi til atvinnurekenda um að tryggja öryggi starfsmanna sinna.

Til frekari stuðnings málatilbúnaði sínum vísar stefnandi til þess að vinnuveitandi stefnanda hafi ekki fylgt þeirri skyldu að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins án ástæðulausrar tafar, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Hafi það ekki verið gert fyrr en 4. febrúar 2015 þegar eftirlitinu barst skrifleg tilkynning félagsins. Hafi þá verið liðnir 20 mánuðir síðan slysið varð. Stefnandi byggir á því að ef slysið hefði verið tilkynnt með lögbundnum hætti hefðu tildrög og orsök þess verið rannsökuð af Vinnueftirlitinu. Með slíkri rannsókn hefði t.a.m. mátt leiða í ljós hvort viðargólfið hefði sannarlega verið hálkuvarið eða hvort önnur atvik ollu slysinu, s.s. sápa eða kísill úr lóninu sem kunni að hafa borist á viðarpallinn. Sé stefnanda nú, tæpum þremur árum síðar, ókleift að sýna fram á raunverulegt ástand pallsins á slysdegi. Sé því óhjákvæmilegt að stefndu beri hallann af því að ekki var gerð viðhlítandi rannsókn á orsökum slyssins. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að í tjónstilkynningu stefnda Bláa lónsins hf. til vátryggjanda komir jafnframt fram að stefnandi eigi ekki sök á slysinu. Hún hafi verið í „erfiðum aðstæðum“ og ekki getað stutt sig. Eftiráskýringar stefndu í þá átt að stefnandi hefði átt að vara sig eigi því ekki við rök að styðjast og séu í ósamræmi við upphaflega frásögn frá því skömmu eftir að slysið atvikaðist.

Í annan stað er byggt á því að vinnuveitandi stefnanda hafi ekki fylgt reglum nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar. Líkt og komi fram í tjónstilkynningu og svari mannauðsstjóra stefnda Bláa lónsins hf. frá 3. júní sl. hélt stefnandi á bakka sem á voru drykkjarföng og veitingar. Hafi stefnandi verið í „erfiðum aðstæðum og gat ekki stutt sig við neitt“, líkt og fram komi. Hún hafi þurft að opna dyrnar til að komast út því að hurðin hafi ekki verið með sjálfvirka hurðaopnum. Hafi öryggi á vinnustaðnum verið áfátt að þessu leyti. Í 2. mgr. 3. gr. framangreindra reglna nr. 499/1994 segi að þegar ekki sé unnt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar skuli atvinnurekandi skipuleggja vinnuaðstæður, nota viðeigandi búnað eða sjá starfsmönnum sínum fyrir hjálpartækjum til að draga úr þeirri áhættu sem felst í starfinu. Skuli atvinnurekandi jafnframt skipuleggja vinnusvæði á þann hátt að öryggi og hollusta sé sem allra mest þegar byrðar eru handleiknar, sbr. 4. gr. reglnanna. Þá greini í 6. gr. að vinnuaðstæður skuli vera eins góðar og kostur sé þegar byrgðir séu handleiknar og umferðarleiðir greiðfærar til að koma í veg fyrir hættu á að starfsmenn renni til, hrasi o.s.frv. Að mati stefnanda hafi vinnuaðstæður hennar ekki verið í samræmi við fyrirmæli títtnefndra reglna nr. 499/1994, enda teljist sleipt viðargólf til aðstæðna sem auki hættu á heilsutjóni.

Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að atvinnurekandi hennar hafi ekki upplýst hana um þá slysahættu sem fylgdi starfi hennar. Vísist til 14. gr. fyrrnefndra laga nr. 46/1980 vegna þessa. Stefnandi hafi verið grandlaus um hálkueiginleika pallsins og hafi það verið í verkahring yfirmanna hennar að upplýsa hana um þá. Fyrirsvarsmennirnir hafi í það minnsta átt að sjá hættuna fyrir, vitandi að „allt timbur verði sleipt þegar það blotnar,“ sbr. það sem fram komi í svörum mannauðsstjóra stefnda Bláa lónsins hf.

Að síðustu bendir stefnandi á að atvinnurekandi hennar hafi útvegað henni skóbúnað til vinnu sinnar. Þeir skór hafi aftur á móti ekki verið hinir sömu og fastráðnir starfsmenn Bláa lónsins hf. hafi fengið en stefnandi hafi verið sumarstarfsmaður. Fastráðnir starfsmenn hafi fengið vandaða Ecco-skó en sumarstarfsmenn ekki. Þeir hafi fengið „nokkurs konar íþróttasandala“ sem hafi „þokkalega grófan botn“, líkt og komi fram í svari mannauðsstjóra stefnda Bláa lónsins hf. Þeir skór hafi síðar verið teknir úr notkun vegna kvartana notenda þeirra. Að mati stefnanda sé ekki útilokað að vandaðri skóbúnaður hefði komið í veg fyrir slysið. Útilokað sé hins vegar fyrir stefnanda að færa sönnur á þetta atriði úr því sem komið er þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti. Stefndu verði að bera hallann af því.

Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi fullljóst að stefnda Bláa lónið hf. hafi ekki tryggt öryggi og góðan aðbúnað starfsfólks síns á vinnustað eins og lög og reglur mæli fyrir um. Ef það hefði verið gert hefði mátt koma í veg fyrir slys stefnanda eða draga verulega úr líkum á því. Við úrlausn málsins, þ. á m. mat á sök vinnuveitandans, verði ekki litið fram hjá því að Bláa lónið sé vinsælasti ferðamannastaður landsins og gríðarlega fjölsóttur. Með hliðsjón af dómaframkvæmd verði að gera ríkar kröfur til stefnda Bláa lónsins hf. sem fasteignareiganda að sinna vel viðhaldi og umhirðu á fasteign sinni til að koma í veg fyrir að þeir sem eigi erindi um hana, gestir og starfsfólk, verði fyrir tjóni.

       Tjón stefnanda           

                         Í matsgerð matsmanna sé greint frá afleiðingum vinnuslyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Matsmenn telji afleiðingarnar vera tognun á brjósthrygg sem verði eingöngu rakin til slyssins 31. maí 2013. Útreikningur stefnufjárhæðar taki mið af ákvæðum skaðabótalaga og fyrirliggjandi matsgerð matsmanna.

                         A. Varanlegur miski samkvæmt. 4. gr. skaðabótalaga

                         Samkvæmt matsgerð matsmanna sé varanlegur miski stefnanda vegna slyssins metinn 5 stig. Krafa stefnanda vegna þessa þáttar nemi 518.350 krónum (10.367.000 (uppreiknað m.v. lánskjaravísitölu í febrúar 2016, sbr. kröfubréf 10. febrúar 2016) x 5%).

                         B. Varanleg örorka samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga

Samkvæmt matsgerð matsmanna sé varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga slyssins metin 5%. Tekjur hennar síðustu þrjú ár fyrir slysið gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hennar. Ástæðan sé sú að hún nýtti starfsgetu sína til að stunda nám í sálfræði við Háskólann í Reykjavík á þessum árum. Hún hafi útskrifast úr náminu vorið 2014. Vegna þessa sé stuðst við ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu skulu árslaun „metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.“ Á slysdegi hafði stefnandi lokið meirihluta námsins, eða 66,7% þess. Námslok hennar hafi því verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Við mat á árslaunum til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku sé miðað við heildarlaun í „öðrum sérfræðistörfum“ samkvæmt launakönnun Hagstofunnar á slysárinu 2013 en sálfræðingar falli í þann flokk skv. ÍSTARF95 starfaflokkun. Árslaunin telji 8.308.989 krónur (690.000 x 12), auk 8% mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, samtals 8.973.708 krónur.

Stöðugleikapunktur sé 31. ágúst 2013. Þá hafi stefnandi verið 22 ára og 207 daga gömul. Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé því 207/365 af mismuninum á margföldunarstuðli 22 ára og 23 ára konu. Stuðullinn sé því 16,345 (16,626 – 16,130 = 0,496 x 207/365 = 0,281. 16,626 – 0,281 = 16,345). Aðallega sé krafist greiðslu á 7.333.763 krónum (8.973.708 x 16,345 x 5%) í bætur fyrir varanlega örorku.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda sé til vara gerð krafa um skaðabætur fyrir varanlega örorku þar sem stuðst sé við meðaltekjur háskólamanna á slysárinu 2013 samkvæmt úttekt Bandalags háskólamenntaðra (BHM) sem birt sé á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Námslok stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg þegar slysið atvikaðist og beri því að meta árslaun hennar sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í ljósi þessa sé ekki ástæða til að styðjast við lægra tekjuviðmið en meðaltekjur háskólamanna. Árslaunin samkvæmt úttekt BHM árið 2013 séu 6.481.932 krónur (540.161 x 12), auk 8% mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, samtals 7.000.487 krónur.

Varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 5.721.148 krónur (7.000.487 x 16,345 x 5%).

Verði heldur ekki fallist á varakröfu stefnanda sé í annarri varakröfu gerð krafa um skaðabætur fyrir varanlega örorku þar sem stuðst sé við tekjur stefnanda á slysárinu 2013, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Á slysári hafi stefnandi starfað bæði hjá Reykjavíkurborg og Bláa lóninu hf. Starfið hjá Bláa lóninu hf. hafi verið sumarstarf. Til einföldunar sé við útreikning skaðabóta tekið mið af launum stefnanda hjá Reykjavíkurborg alla mánuði ársins að undanskildum júlí og ágúst en þá mánuði sé litið til tekna hennar hjá Bláa lóninu hf. Launin hjá Reykjavíkurborg séu uppreiknuð m.v. 100% vinnuframlag.

Ár

Tekjur

Vísitala árs

Vísitala á st.l.p.

Samtals

2013

    5.901.367    

457

458,6

       5.922.028    

Að viðbættu 8% mótframlagi vv

       6.395.791    

Önnur varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 5.226.960 krónur (6.395.791 x 16,345 x 5%).

Þriðja varakrafa taki mið af meðaltekjum stefnanda þrjú síðastliðin ár fyrir slysdag, 2010-2012, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þó þannig að launin séu uppreiknuð m.v. 100% starfshlutfall.

Ár

Tekjur

Vísitala árs

Vísitala á st.l.p.

Samtals

2010

    4.827.855    

375,8

458,6

       5.891.576    

2011

    4.417.636    

401,3

458,6

       5.048.412    

2012

    4.922.463    

432,5

458,6

       5.219.518    

Meðaltal

       5.386.502    

Að viðbættu 8% mótframlagi vv

       5.817.422    

Þriðja varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 4.754.288 krónur (5.817.422 x 16,345 x 5%).

Fallist dómur ekki á þriðju varakröfu sé í fjórðu varakröfu gerð krafa um bætur fyrir varanlega örorku sem miðist við árslaun stefnanda árið 2014. Sé stuðst við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Ár

Tekjur

Vísitala árs

Vísitala á st.l.p.

Samtals

2014

    5.551.754    

483,5

458,6

       5.265.842    

Að viðbættu 8% mótframlagi vv

       5.687.109    

 Fjórða varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku er því 4.647.790 krónur (5.687.109 x 16,345 x 5%).

Fimmta varakrafa stefnanda byggist á lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga:

Stöðugleikap.

Launaviðmið

Vísitölugrunnur

Vísitala á st.l.p.

Samtals

31.8.2013

    1.200.000    

3282

8165

       2.985.500    

                         Fimmta varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku er því 2.439.900 krónur (2.985.500 x 16,345 x 5%).

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og því er nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísast til 33. gr. og 42. gr. laga nr. 91/1991 og um aðild vísast til 16. og 17. gr. sömu laga. Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Vaxta af miskabótum er krafist frá tjónsdegi en allri stefnu fjárhæðinni frá stöðugleikapunkti, 31. ágúst 2013. Dráttarvaxta er krafist frá 10. mars 2016 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um greiðslu skaðabóta.

III

                Málsástæður stefndu

Sýknukröfu sína byggja stefndu á því að það sé ósannað að óhapp stefnanda sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda Blá lónsins hf. eða starfsmanna þess eins og stefnandi haldi fram. Í fyrsta lagi er byggt á því að vinnuaðstæður hjá stefnda Bláa lóninu hf. hafi verið forsvaranlegar og því hafnað að óhapp stefnanda sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum eins og stefnandi haldi fram. Í öðru lagi er því hafnað að stefnda Bláa lónið hf. og starfsmenn þess hafi á nokkurn hátt gerst brotleg við ákvæði laga eða reglna í umrætt sinn, s.s. um ráðstafanir til að draga úr hálku á vinnustað stefnda. Það sé því ósannað að óhapp stefnanda sé að rekja til meints athafnaleysis stefnda Bláa lónsins hf. eða starfsmanna hans. Í þriðja lagi mótmælir stefnda Bláa lónið hf. því að dráttur á því að tilkynna um óhapp stefnanda til Vinnueftirlitsins skuli leiða til þess að stefndu skuli bera hallann af meintum sönnunarskorti um orsök óhappsins og aðstæður á slysstað. Í fjórða lagi byggja stefndu á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps. Í fimmta lagi er byggt á því að stefnandi skuli bera allt tjón sitt sjálf vegna eigin sakar ellegar óhappatilviljunar.

Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns og sé því mótmælt að hún hafi sannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefnda Bláa lónið hf. skuli bera skaðabótaábyrgð á að lögum og verði felld undir frjálsa ábyrgðartryggingu hans hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Um slíka ábyrgð fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefndu byggja á því að það sé ósannað að slys stefnanda sé að rekja til atvika sem stefnda Bláa lónið hf. eða starfsmenn þess beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Þannig telur stefnda ósannað að slys stefnanda verði rakið til vanrækslu á skyldum sem á vinnuveitanda hvíli samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum sem settar eru með stoð í þeim lögum.

Í fyrsta lagi telja stefndu að vinnuaðstæður á vinnustað stefnda Bláa lónsins hf. hafi verið forsvaranlegar og það sé því rangt og ósannað að meint tjón stefnanda sé að rekja til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna hjá stefnda. Stefnda Bláa lónið hf. mótmælir því að það hafi ekki fullnægt þeim skyldum sem ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggi á það. Þvert á móti telur stefnda að það hafi uppfyllt allar skyldur sem lög og reglugerðir setja og verði því ekki talið bera ábyrgð á slysi stefnanda. Stefnda Bláa lónið hf. hafi í hvívetna uppfyllt þær lagakröfur sem á því hvíli sem vinnuveitanda, s.s. samkvæmt ákvæðum 13. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Að sama skapi hafi starfsemi stefnda uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu í 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Í þessu sambandi taka stefndu fram að stefnda hafi gert ráðstafanir til að draga úr hálkumyndun á þeim viðarpalli þar sem óhapp stefnanda varð með því að rákir hafi verið fræstar í hann. Fyrir vikið sé pallurinn mun stamari en ef engar rákir væru. Að mati stefndu sé umræddur viðarpallur með fræstum rákum af forsvaranlegri gerð með hliðsjón af þeirri starfsemi sem stefnda rekur.

Þá sé ljóst að Vinnueftirlitið hafi ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir við umræddan viðarpall í þeirri úttekt sem framkvæmd var þann 31. mars 2015, s.s. í tengslum við hönnun, gerð eða frágang. Stefndu benda á að viðarpallurinn sé í dag nákvæmlega sömu gerðar og þegar óhapp stefnanda varð þann 31. maí 2013. Stefndu mótmæla þeim fullyrðingum í stefnu að umræddur viðarpallur verði sérlega háll í rigningu eða að hann teljist hrein slysagildra. Að mati stefndu verði umræddur viðarpallur ekki meira háll en sambærilegir viðarpallar þegar regnvatn liggi yfir þeim. Umræddur timburpallur sé þannig ekkert hálli en almennt gengur og gerist með slíka timburpalla þegar þeir bloti. Hafi viðarpallurinn enda ekki skapað sérstaka hættu í starfsemi stefnda Bláa lónsins hf. eða á honum orðið sambærilegt óhapp og það sem stefnandi varð fyrir.

Að sama skapi mótmæla stefndu því að tilkynning stefnda Bláa lónsins hf. til stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. feli í sér einhvers konar viðurkenningu á því að umræddur viðarpallur sé sérlega háll eða að í honum felist hrein slysagildra eins og stefnandi haldi fram. Tjónstilkynningin feli ekki í sér neinar slíkar lýsingar á eðli viðarpallsins.

Þá mótmæla stefndu því að aðbúnaður fasteignar stefnda Bláa lónsins hf. hafi brotið gegn reglum sem kveði á um öruggan og hættulausan vinnustað og greiðar gönguleiðir fasteignar. Að mati stefndu sé vinnustaður stefnda Bláa lónsins hf. eins og kostur sé skipulagður á þann hátt að starfsmenn, sem sinni vinnu utanhúss, renni ekki til eða detti, sbr. d-lið 3. mgr. 41. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Hafi stefnandi ekki bent á neitt sem telja verði ófullnægjandi skipulag á vinnustað stefnda eða að slíkt hafi átt þátt í því að óhapp stefnanda varð. Vinnueftirlitið hafi auk þess ekki gert neinar athugasemdir við skipulag vinnustaðarins að þessu leyti.

Stefndu mótmæla því að reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar verði taldar eiga við um starf stefnanda sem þjónustustúlku á veitingastað stefnda. Með vísan til þess hvernig gildissvið reglnanna sé afmarkað verði þær ekki taldar eiga við um það starf sem stefnandi sinnti hjá stefnda Bláa lóninu hf. á þeim tíma sem óhappið varð. Ef slíkar reglur verði hins vegar taldar eiga við um starf stefnanda í umrætt sinn telja stefndu að vinnuaðstæður eða skipulag á vinnusvæði stefnda Bláa lónsins hf. hafi ekki farið í bága við ákvæði reglnanna, s.s. ákvæði 3., 4. og 6. gr. þeirra. Í því tilliti mótmæla stefndu því að öryggi á vinnustað stefnda Bláa lónsins hf. hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið sjálfvirk hurðaropnun á þeirri hurð sem stefnandi þurfti að opna til að komast leiðar sinnar í umrætt sinn. Þá sé ljóst að skýrsla Vinnueftirlitsins feli á engan hátt í sér að öryggi hafi verið áfátt að þessu leyti eins og stefnandi haldi fram. Í skýrslunni sé vísað til þess að stefnda Bláa lónið hf. skuli uppfæra áhættumat og m.a. meta þörfina á sjálfvirkum hurðaropnara. Stefnda Bláa lónið hf. hafi upplýst að það hafi framkvæmt slíkt mat við hönnun á nýjum bar utandyra. Stefndu benda einnig á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að orsök óhapps stefnanda hafi verið að rekja til skorts á sjálfvirkri hurðaropnun eða hvernig slíkt hafi verið meðvirkandi þáttur í óhappi stefnanda.

Í öðru lagi byggja stefndu á því að stefnda Bláa lónið hf. hafi uppfyllt þær kröfur sem lög geri ráð fyrir, s.s. í tengslum við ráðstafanir til að draga úr hálku á vinnustað stefnda. Stefndu telja ósannað að óhapp stefnanda megi rekja til meints athafnaleysis stefnda Bláa lónsins hf. eða starfsmanna þess. Hér beri að athuga að stefnda hafi gert ráðstafanir til að draga úr hálku á umræddum viðarpalli. Í því sambandi sé pallurinn háþrýstiþveginn á hverri nóttu, auk þess sem salt og sandur sé borinn á hann á veturna. Stefnda hafi þannig uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu í ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, s.s. ákvæði 5. mgr. 6. gr. reglna nr. 581/1995. Það sé rangt, sem haldið sé fram í stefnu, að aðgerðir til að varna hálku á pallinum hafi skort. Þvert á móti hafi stefnda Bláa lónið hf. gert nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við þær lagakröfur sem á því hvíli. Stefndu mótmæla því að koma hefði mátt í veg fyrir óhapp stefnanda með því að leggja útidyramottu úr gúmmíi á viðarpallinn fyrir framan þá hurð sem stefnandi fór um. Að mati stefndu sé ósannað að slík motta hefði varnað því að óhapp stefnanda varð. Einnig hvíli ekki nein lagaskylda á stefnda Bláa lóninu hf. að koma fyrir slíkri gúmmímottu fyrir framan þá hurð sem stefnandi fór um. Stefndu telja þvert á móti að slík gúmmímotta væri frekar til þess fallin að skapa slysahættu, s.s. með því að starfsmenn kynnu að hrasa um hana. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að blaut gúmmímotta skapi meira öryggi en blautur viðarpallur sem í hafi verið fræstar rákir.

Stefndu mótmæla því að stefnda Bláa lónið hf. hafi ekki upplýst stefnanda um meinta slysahættu sem bundin hafi verið við starf hennar, ellegar að slíkt hafi átt þátt í því óhappi sem stefnandi varð fyrir. Að sama skapi er því mótmælt að stefnandi sjálf hafi verið grandlaus um meinta hálkueiginleika viðarpallsins eins og haldið sé fram í stefnu. Hér beri að athuga að stefnandi hafði starfað hjá stefnda Bláa lóninu hf. um mánaðarskeið áður en óhappið varð. Stefnandi hafi þannig sinnt sama starfi margoft áður hjá stefnda og þekkt því hvernig hún átti að bera sig að og hvað bæri að varast. Þá verði ekki lagðar þær skyldur á stefnda Bláa lónið hf. að vara stefnanda við aðstæðum sem hún þekkti og sem blöstu við henni umrætt sinn, s.s. þá staðreynd að rigning var umræddan dag og viðarpallurinn því blautur.

Stefndu mótmæla því að skóbúnaður sem stefnanda voru útvegaðir til að sinna starfi sínu hafi verið ófullnægjandi eða að orsök óhapps stefnanda megi rekja til þeirra. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að óhapp hennar hafi mátt rekja til þess skóbúnaðar sem henni var úthlutað eða að vandaðri skóbúnaður hefði komið í veg fyrir slysið. Við val á skóbúnaði fyrir sumarstarfsfólk hafi öryggi sérstaklega verið haft í huga og starfsmaður í búningsklefa fenginn til að prófa skóna áður en þeir voru teknir í notkun, s.s. með tilliti til viðnáms á blautu undirlagi.

Í tilefni af ummælum í stefnu um að einhvers konar ríkari skylda hvíli á stefnda Bláa lóninu hf. að sinna viðhaldi og umhirðu fasteigna sinna vegna þess að stefnda reki einn vinsælasta ferðamannastað landsins vilja stefndu benda á að þær kröfur, sem stefnda þurfi að uppfylla um viðhald og umhirðu fasteigna, séu þær sömu og gildi um aðra sambærilega aðila og raktar séu í ákvæðum laga, meðal annars ákvæðum laga nr. 46/1980. Vinsældir Bláa lónsins sem ferðamannastaðar verði þannig ekki taldar leggja  ríkari kröfur á stefnda en alla aðra þá vinnustaði þar sem þau sömu lög gildi. Stefnda Bláa lónið hf. hafi ávallt kappkostað að tryggja að aðbúnaður og öryggi, bæði starfsmanna og baðgesta í Bláa lóninu, uppfylli sem best þær lagakröfur sem á því hvíli hverju sinni.

Í þriðja lagi mótmæla stefndu því að skortur á því að tilkynna um óhapp stefnanda til Vinnueftirlitsins skuli leiða til þess að stefnda Bláa lónið hf. skuli bera hallann af sönnunarskorti um atvik málsins og aðstæður á slysstað. Í þessu sambandi þurfi að hafa í huga að atvik við óhapp stefnanda umrætt sinn virðast ljós og óumdeild. Stefndu benda einnig á að aðstæður hjá stefnda Bláa lónið hf. séu óbreyttar og því auðvelt að afla sönnunar um hvort gerð viðarpalls hjá stefnda hafi verið forsvaranlegur. Stefndu vísa til þess að Vinnueftirlitið hafi komið á vettvang og framkvæmdi úttekt á vinnuaðstæðum hjá stefnda þann 31. mars 2015. Af niðurstöðum þeirrar úttektar verði ekki ráðið að athugasemdir hafi verið gerðar við gerð viðarpallsins þar sem óhapp stefnanda varð. Þá er því mótmælt að einhver önnur atvik kunni að hafa valdið óhappi stefnanda, s.s. sápa eða kísill. Ekkert liggi fyrir um að sápa eða kísill hafi verið á þeim stað sem óhapp stefnanda varð. Þá hafi hvorki stefnandi né sá starfsmaður, sem hafi orðið vitni að atburðinum, haldið því fram að sápa eða kísill hafi orsakað óhappið. Hér beri einnig að athuga að stefnda Bláa lónið hf. hafi upplýst að umræddur viðarpallur sé háþrýstiþveginn á hverri nóttu. Umrædd gönguleið sé að mestu notuð af starfsmönnum stefnda Bláa lónsins hf. og því ekkert sem bendi til þess að þar hafi verið sápa eða kísill eða að slíkt hafi orsakað óhapp stefnanda. Með hliðsjón af framangreindu sé því mótmælt að sönnunarbyrði um atvik við óhapp stefnanda og aðstæður á starfsstöð stefnda skuli falla á stefnda. Í samræmi við almennar reglur beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir orsök tjóns síns, þar á meðal að hana sé að rekja til athafna ellegar athafnaleysis stefnda.

Í fjórða lagi byggja stefndu á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps. Stefnandi styðji kröfu sína við niðurstöður þeirra Björns Péturs Sigurðssonar bæklunarskurðlæknis og Sigurðar B. Halldórssonar hrl. um að afleiðingar af óhappinu verði metnar til annars vegar 5 stiga varanlegs miska og hins vegar 5% varanlegrar örorku. Stefndu telja aftur á móti að niðurstöður þeirra Björns og Sigurðar standist ekki og þær byggist á ófullnægjandi rökstuðningi. Í þessu sambandi er bent á að stefnandi virðist aðeins hafa leitað í tvígang til læknis eftir óhappið að frátaldri heimsókn á slysadeild á þeim degi sem óhappið varð. Þá hafi liðið langur tími frá því stefnandi leitaði á slysadeild í kjölfar óhappsins þar til hún leitaði til læknis þar sem minnst sé á meintar afleiðingar af óhappinu. Annars vegar hafi stefnandi leitað til Guðmundar Björgvinssonar heimilislæknis þann 26. febrúar 2014 eða um níu mánuðum eftir óhappið. Þar sé meðal annars vísað til þess að stefnandi stundi „crossfit“ og finni fyrir verkjum við ákveðnar æfingar. Í hitt skiptið hafi stefnandi leitað til Júlíusar Valssonar gigtarlæknis 22. maí 2014 eða um 11 mánuðum eftir óhappið án þess að upplýst sé hver hafi verið ástæða þeirrar heimsóknar eða hvernig slík heimsókn til gigtarlæknisins hafi tengst meintum afleiðingum af óhappi stefnanda. Báðar framangreindar heimsóknir komi til eftir að stefnandi leitaði til lögmanns til að kanna með mögulegan bótarétt. Stefndu telja einnig að ekki sé samfella í þeim einkennum sem lýst sé fyrir framangreindum læknum þannig að það skjóti stoðum undir að orsakir meintra verkja stefnanda megi rekja til óhappsins frá 31. maí 2013. Þá sé ekki samfella í umkvörtunum stefnanda sjálfrar í viðtali hjá Birni og Sigurði. Ekki sé að sjá að stefnandi hafi haft sambærilegar umkvartanir í heimsókn sinni til heimilislæknis ríflega níu mánuðum eftir óhappið. Stefnandi nefni síðan sjálf á matsfundi að hún hafi leitað í eitt eða tvö skipti til lækna á Læknavaktinni vegna óhappsins. Ekki sé hins vegar að sjá að þeir Björn og Sigurður vísi til slíkra heimsókna í niðurstöðum sínum eða fari yfir færslur í sjúkraskrá þar sem slíkar heimsóknir megi finna eða hvernig einkennum stefnanda sé þar lýst. Sé álit þeirra Björns og Sigurðar því gallað að þessu leyti. Þá verði ekki ráðið að stefnandi hafi sýnt fram á að hún hafi sinnt skyldu sinni til að takmarka meint tjón sitt, s.s. með því að leita meðferðar hjá sjúkraþjálfara. Í áliti þeirra Björns og Sigurðar sé aðeins vísað til þess að stefnandi segist hafa gefist upp á sjúkraþjálfun og talið meira gagn að því að mæta í ræktina. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki leitað til sjúkraþjálfara fyrr en tæplega einu ári eftir að óhappið varð. Að öllu framanrituðu virtu mótmæla stefndu öllum kröfum og málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að meint líkamstjón hennar megi rekja til atvika sem séu á ábyrgð stefnda eða starfsmanna hans. Skuli því þegar af þessari ástæðu sýkna stefndu.

Í fimmta lagi byggir stefnd Bláa lónið hf. á því að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna óhappatilviljunar eða vegna eigin sakar. Stefnandi hafi sinnt þjónustustarfi fyrir stefnda og hafi borið vegna eðlis starfs síns að gæta sérstaklega að sér þegar drykkir eða veitingar voru bornar fram eða fluttar yfir á barsvæði utandyra. Starf hennar hafi kallað á að hún sýndi sérstaka aðgæslu þegar farið var um vinnusvæðið, einkum og sér í lagi þegar hún hélt á drykkjum og veitingum. Af gögnum málsins megi ráða að stefnandi hafi haldið á fullum bakka af drykkjum í umrætt sinn og hafi stefnanda því eðli málsins samkvæmt borið að sýna sérstaka varkárni en ella fara fleiri ferðir með drykkina. Stefnandi hafi verið í starfi hjá stefnda Bláa lóninu hf. í um einn mánuð áður en óhappið varð. Starfið sjálft sé hvorki flókið né þarfnist sérstakrar verkstjórnar. Stefnandi hafi því vitað í hverju starfið fólst auk þess sem hún hafði á starfstíma sínum oft sinnt því að fara með veitingar yfir á bar sem staðsettur sé utandyra. Í þeim tilvikum hafi stefnandi farið um umræddan viðarpall, með veitingar og í mismunandi veðrum. Stefnandi hafi því átt að gera sér fulla grein fyrir því hvernig hún hafi átt að bera sig að og að hún yrði að gæta sérstakrar varúðar þegar blautt var utandyra. Aðstæður á vinnustað stefnda Bláa lónins hf. umrætt sinn hafi verið augljósar og stefnanda mátt vera ljóst hvernig aðstæður voru utandyra. Þá hafi enn frekara tilefni gefist til að fara varlega þegar tekið sé mið af því að stefnandi hafi haldið á fullum bakka af drykkjum auk þess sem hún hafi þurft að fara um útidyr. Er stefnandi rann á viðarpalli í starfi sínu fyrir stefnda virðist það aðeins hafa verið óhappatilviljun ellegar eigin gáleysi hennar sjálfrar um að kenna. Stefnandi hafi þekkt til aðstæðna og verið ljóst að viðarpallurinn var blautur. Stefnandi þurfi því að bera tjón sitt að fullu, enda verði stefnda Bláa lóninu hf. eða starfsmönnum þess ekki um það kennt.

Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefnda Bláa lónsins hf. byggir það til vara á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviljunar eða eigin gáleysis hennar. Á stefnanda, líkt og öðrum starfsmönnum Bláa lónsins hf., hafi hvílt að sýna tilhýðilega aðgæslu og gæta ítrustu varúðar þegar farið var um vinnustað stefnda. Stefnandi hafi sinnt þjónustustörfum á veitingastað stefnda og í því hafi meðal annars falist að fara með veitingar á bar sem staðsettur sé utandyra. Þá liggi fyrir að stefnandi hafði unnið  um mánaðarskeið hjá stefnda og oft sinnt því starfi að fara með veitingar á bar utandyra. Stefnandi hafi verið að bera fullan bakka með drykkjum og sem eitt og sér hafi átt að gefa henni tilefni til að gæta sín og fara um með sérstrakri aðgát. Stefnanda hafi einnig mátt vera ljóst að rigning var og að viðarpallurinn var blautur, sem hefði átt að gefa henni enn ríkara tilefni til að gæta sérstakrar varúðar. Vísa stefndu að öðru leyti eftir atvikum til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings því að varakrafa stefndu skuli ná fram að ganga.

Stefndu mótmæla þeim útreikningum og árslaunaviðmiði sem stefnandi notar í aðalkröfu og fyrstu til fjórðu varakröfu. Varðandi fjárhæðir í aðalkröfu stefnanda er því mótmælt að miða skuli við árslaun annarra sérfræðinga eins og gert sé í stefnu. Stefndu vekja athygli á því að nám það, sem stefnandi stundaði á slysdegi, var ekki nám til starfsréttinda og ljóst að stefnandi var ekki komin að námslokum í slíku námi. Vísa stefndu til 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 1130/2012 í þessu sambandi en samkvæmt ákvæðunum geti stefnandi ekki kallað sig sálfræðing nema með leyfi landlæknis og slíkt leyfi fáist ekki nema viðkomandi hafi, auk BSc-prófs í sálfræði frá viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, lokið tveggja ára framhaldsnámi (cand.psych. námi) frá sálfræðideild heilbirgðisvísindasviðs Háskóla Íslands ásamt tólf mánaða verklegri þjálfun. Það sé því rangt að námslok stefnanda hafi verið fyrirsjáanleg þann 31. maí 2013. Þvert á móti hafi stefnandi aðeins verið komin skammt á veg í námi sínu á þeim tíma, sé tekið mið af framangreindu, eða rétt lokið tveimur árum af sex ára heildarnámi. Að mati stefndu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að viðmið um árslaun í „öðrum sérfræðistörfum“ samkvæmt launakönnun Hagstofunnar á árinu 2013 sé réttara hvað varðar líklegar framtíðartekjur stefnanda, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefndu mótmæla þeim launaviðmiðum sem stefnandi styðst við í varakröfu og annarri til og með fjórðu varakröfu, enda verði þau viðmið ekki talinn réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Í varakröfu krefjist stefnandi þess að miða skuli við meðaltekjur háskólamanna og vísi í því sambandi til úttektar BHM. Stefndu telji hins vegar að líklegar framtíðartekjur stefnanda verði ekki miðaðar við slíkar meðaltekjur með vísan til þess sem rakið hafi verið hér að framan um að stefnandi hafi ekki verið komin að námslokum í námi sínu auk þess sem BSc-próf í sálfræði frá viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík veiti ekki rétt fyrir viðkomandi til að starfa sem sálfræðingur og þar með ekki aðild að aðildarfélagi BHM á því sviði.

Í annarri og þriðju varakröfu stefnanda sé miðað við launatekjur stefnanda í hlutastörfum, sem hún hafi unnið með námi, uppreiknaðar miðað við fullt vinnuframlag. Stefndu telja af og frá að miða skuli við slíka útreikninga, enda verði slíkt ekki talið réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Um sé að ræða störf sem stefnandi hafi unnið tímabundið í hlutastarfi í 30-50% starfshlutfalli og annars vegar ljóst að stefnandi hafi með slíku ekki skapað sér neinn vettvang til framtíðar í slíkum störfum og hins vegar séu engar forsendur til að uppreikna slík hlutastörf upp í 100% starfshlutfall til að finna út líklegar framtíðartekjur stefnanda.

Að því er varðar launaviðmið í fjórðu varakröfu mótmæla stefndu því að miðað sé við árslaun stefnanda á árinu 2014 eða ári eftir að óhapp stefnanda varð. Engin rök standi til þess að heimilt sé að nota mælikvarða sem komi til ári eftir að óhapp stefnanda varð. Slíkur mælikvarði verði ekki talinn réttara viðmið á líklegar framtíðartekjur stefnanda í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að stuðst skuli við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við mat á árslaunum. Í því tilliti þurfi stefnandi að sýna fram á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og að annar mælikvarði sé réttari varðandi líklegar framtíðartekjur stefnanda. Sú sönnun hafi hins vegar ekki tekist.

Stefndu telja að verði fallist á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem sé afleiðing af óhappi hennar þann 31. maí 2013 sé óhjákvæmilegt annað en að miða við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í samræmi við fimmtu varakröfu stefnanda.

Að lokum mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu stefnanda í aðal- og varakröfum frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Um lagarök vísa stefndu einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, til gáleysi, óhappatilviljunar og eigin sakar tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Einnig er vísað til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og til þeirra reglna og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim. Þá vísa stefndu til ákvæða laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV                                                                                                         

Niðurstöður

                Stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá stefnda Bláa lóninu hf. 31. maí 2013 þar sem hún starfaði í sumarvinnu sem þjónustustúlka. Ekki er ágreiningur með aðilum um hvernig slysið vildi til. Stefnandi var að bera bakka með drykkjarföngum frá bar, sem staðsettur er innanhúss, og á annan bar, sem er utandyra við lónið. Milli húss og lóns, þar sem leið hennar lá, er gengið á viðarpalli. Gekk hún frá innibarnum með bakkann um dyr þar sem hún þurfti að opna hurð, sem var tiltölulega stíf, og kvaðst hún hafa opnað hurðina með því að ýta á hana með öxlinni. Síðan gekk hún út á pallinn og kvaðst hafa tekið tvö til þrjú skref er hún rann til og féll aftur fyrir sig á bakið. Fyrir liggur að rignt hafði þenna dag og að pallurinn var blautur og hálli en ella. Svo var einnig þegar gengið var á vettvang.

Stefnandi byggir á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar, reglunni um vinnuveitendaábyrgð, reglum um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda vegna slysa sem hljótast af aðbúnaði og ástandi fasteigna, ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá byggir stefnandi á skaðabótalögum og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Stefnandi telur Bláa lónið hf. bera ábyrgð á líkamstjóni sínu. Slysið og líkamstjónið, sem af því leiddi, sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum og vanrækslu fyrirsvarsmanna stefnda Bláa lónsins hf. á að halda gönguleiðum fasteignar félagsins greiðum, öruggum, hálku- og hættulausum. Stefnda reki eftirsóttan og fjölsóttan veitingastað við Bláa lónið. Gestir séu bæði utan- og innandyra á staðnum og þeim sé þjónað til borðs. Mikil umferð gangandi fólks sé því um dyr staðarins og brýnt að þar sé fyllsta öryggis gætt og leiðum haldið hálkulausum en vatn og gufa sé á öllum útisvæðum. Í þeim efnum megi gera miklar kröfur til stefnda Bláa lónsins hf. sem fasteignareiganda og rekstraraðila veitingastaðarins.

                Viðarpallurinn, sem er óbreyttur frá því er slysið varð, er hefðbundinn sólpallur eins og almennt er notaður utan dyra, að öðru leyti en því að fræstar eru raufar í hann í þeim tilgangi að gera hann stamari. Á þeim tíma er slysið varð var pallurinn þveginn á hverju köldi með því að sprautað var á hann vatni með slöngu. Hann hafði auk þess verið háþrýstiþveginn nokkrum dögum áður.  

                Vinnueftirlitinu var ekki tilkynnt um slysið án ástæðulausrar tafar, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980, heldur var það tilkynnt 4. febrúar 2015. Vinnueftirlitið skoðaði pallinn 31. mars 2015 og gerði þær athugasemdir að stefnda Bláa lónið hf. skyldi sýna fram á að pallurinn væri sannanlega hálkuvarinn. Uppfæra skyldi áhættumat með hliðsjón af slysinu og m.a. meta þörfina á sjálfvirkum huraðaropnara og/eða léttitækjum við fluting á veitingum milli bara. Stefnda Bláa lónið hf. brást við þessum athugasemdum með því að háþrýstiþvo pallinn daglega og færa útibarinn á annan og öruggari stað. Framangreindar athugasemdir Vinnuefirlitsins verða ekki skildar á þann veg að öryggi hafi verið áfátt hjá stefnda að þessu leyti þá er slysið varð. Í málinu er ekki ágreiningur um aðdraganda slyssins og málsatvik eru upplýst um hvernig það bar til að stefnandi féll við vinnu sína á blautum og hálum pallinum. Skiptir því ekki máli fyrir sönnunarfærslu hvenær slysið var tilkynnt Vinnueftirlitinu.

                Óljóst er hve lengi stefnandi hafði unnið hjá stefnda Bláa lóninu hf. áður en slysið varð. Sagði stefnandi í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði aðeins unnið í nokkra daga fyrir slys, e.t.v. í allt að tíu daga. Samkvæmt gögnum málsins var starfstími stefnanda hjá stefnda frá 24. apríl 2013 til 20. maí 2013 í 25,01% starfshlutfalli en frá þeim tíma til slysdags 31. maí 2013 í 32,53% starfshlutfalli. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að stefnanda hafi á slysdegi verið kunnugt um aðstæður á vinnustað, enda hafði hún áður farið með veitingar á bakka á útibarinn. Hún þekkti því aðstæður og mátti vita að pallurinn kynni að vera háll í rigningu. Enda þótt stefnandi hafi ekki haft mikla starfsreynslu var verk það, sem henni var falið að vinna, einfalt og krafðist ekki mikillar reynslu eða verksjórnar.

                Stefnandi þurfti að fara um dyr á leið sinni út á pallinn. Fram hefur komið að hurð dyranna var frekar stíf og hún opnaði hana með því að ýta henni upp með annarri öxlinni þar sem hún hélt á bakka með veitingum. Síðan tók hún tvö til þrjú skref áður en henni skrikaði fótur. Stefnandi var því komin út á pallinn þegar hún féll og verður því ekki talið að ástand hurðarinnar hafi verið orsakavaldur að slysi stefnanda.

                Að mati dómsins fór aðbúnaður á vinnustað ekki í bága við 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá verður ekki fallist á með stefnanda að ákvæði reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar taki til starfs þjóns við að halda á léttum bakka með veitingum. Ekki hefur  verið af hálfu stefnanda sýnt fram á að stefnda Bláa lónið hf. hafi útvegað stefnanda óheppilegan skóbúnað við vinnu hennar en því er haldið fram af hálfu stefnanda. Loks hefur ekki af hálfu stefnanda verið sýnt fram á að mottur eða dreglar kynnu að hafa komið í veg fyrir slysið.

                Þegar allt framangreint er virt verður að líta svo á að orsökin fyrir slysi stefnanda hafi verið bleyta á pallinum vegna rigningar sem gerði hann sleipan. Ekki er unnt að fallast á með stefnanda að rekja megi slysið til vanrækslu stefnda Bláa lónsins hf. við að halda gönguleið greiðri og öruggri. Stefnandi hafði unnið um tíma hjá stefnda og mátti því gera sér grein fyrir þeirri hættu sem skapast  þegar viðarpallurinn verður háll vegna rigningar eða gufu frá lóninu. Aðstæður á vinnustað verða því ekki metnar stefnda Bláa lóninu hf. til sakar.

                Samkvæmt öllu framansögðu verða stefndu sýknuð af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefndu, Bláa lónið hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, A, í málinu.

Málskostnaður fellur niður.