Print

Mál nr. 368/2003

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Laun
  • Tómlæti
  • Orlof
  • Skuldajöfnuður
  • Fyrning

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. mars 2004.

Nr. 368/2003.

Jóhann Þór Hopkins

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Klifi ehf.

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

og gagnsök

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Laun. Tómlæti. Orlof. Skuldajöfnuður. Fyrning.

K höfðaði mál á hendur fyrrum starfsmanni sínum, J, vegna brotthlaups úr starfi, sem K taldi hafa verið án fyrirvara og brot á ráðningarsamningi. Talið var að með aðgerðarleysi í næstum fjögur ár hefði K sýnt slíkt tómlæti að hann hefði fyrirgert hugsanlegum rétti til endurgreiðslu launa og skaðabóta vegna ráðningarslitanna. Jafnframt þessu var í dómi Hæstaréttar tekin afstaða til ýmissa fjárkrafna K á hendur J. Var sumt talið ósannað, en annað tekið til greina og námu dæmdar kröfur K samtals 853.734 krónum. Til frádráttar þeirri fjárhæð kom ógreitt orlof J samkvæmt skuldajöfnuði, enda var sú krafa ófyrnd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 2003. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda og sér dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Héraðsdómi var gagnáfrýjað 26. nóvember 2003. Krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 716.788 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 276.288 krónum frá 1. maí 1998 til 1. maí 1999 og af 716.788 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst gagnáfrýjandi 1.660.080 króna í skaðabætur úr hendi aðaláfrýjanda með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 2. apríl 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 2. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

I.

  Aðaláfrýjandi starfaði sem sölumaður og síðar sölustjóri hjá gagnáfrýjanda frá árinu 1988 til 2. eða 3. apríl 1998, þegar hann lét af starfi. Heldur sá fyrrnefndi fram að starfslokin hafi orðið 3. apríl. Uppsagnarbréf, sem dagsett er þann dag og er meðal málsgagna, var afhent framkvæmdastjóra og aðaleiganda gagnáfrýjanda þegar aðaláfrýjandi tilkynnti honum starfslokin og hætti störfum samdægurs. Gagnáfrýjandi höfðaði málið vegna ráðningarslitanna með stefnu 25. mars 2002 og krafði gagnáfrýjanda um greiðslu fjár í nokkrum liðum auk skaðabóta vegna brotthlaups úr starfi, sem hann telur hafa verið án nokkurs fyrirvara og brot á ráðningarsamningi, sem hafði að geyma gagnkvæman uppsagnarfrest með tólf mánaða fyrirvara. Aðaláfrýjandi mótmælir öllum liðum kröfu gagnáfrýjanda. Reisir hann sýknukröfu sína á því að samkomulag hafi orðið með honum og fyrirsvarsmanni gagnáfrýjanda um fjárhagslegt uppgjör þeirra á milli þegar uppsagnarbréfið var afhent. Samkvæmt því skyldu fyrirframgreidd laun fyrir apríl 1998, sem aðaláfrýjandi hafði fengið, og ógreitt lán hans vegna bílakaupa jafnast út á móti orlofslaunakröfu aðaláfrýjanda, en uppsögnina hafi borið að í lok orlofsárs og gjalddagi kröfunnar verið 1. dag næsta mánaðar eftir uppsögnina. Þá hafi fyrirvaralaus uppsögn verið honum heimil vegna ítrekaðra brota gagnáfrýjanda í vinnuréttarsambandi aðilanna. Gagnáfrýjandi hafi hvað sem öðru líður svipt sig öllum hugsanlegum rétti til endurgreiðslu eða skaðabóta með tómlæti í næstum fjögur ár við að halda fram kröfu sinni. Loks sé ótvírætt fyrir hendi réttur aðaláfrýjanda til að mæta kröfu gagnáfrýjanda með skuldajöfnuði við áðurnefnda kröfu um orlofslaun og kröfu til vangreiddra lífeyrisiðgjalda fyrir árin 1988 til 1994, en Lífeyrissjóður verslunarmanna hafi ekki getað krafið gagnáfrýjanda um þann hluta vangreiddra lífeyrisgjalda vegna fyrningar. Breyti engu um rétt aðaláfrýjanda til að krefjast skuldajöfnuðar þótt krafan sé fyrnd. Málavextir og málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Gagnáfrýjandi telur aðaláfrýjanda ekki hafa verið í góðri trú um rétt sinn til launa fyrir apríl 1998, þegar hann veitti þeim viðtöku í byrjun sama mánaðar. Hann geti því ekki borið fyrir sig rétt til að halda fé, sem honum var þannig ofgreitt. Þetta sjáist glöggt á því að fáum dögum síðar eða hinn 6. apríl 1998 hafi aðaláfrýjandi tekið þátt í því með nokkrum öðrum þáverandi og fyrrum starfsmönnum gagnáfrýjanda að stofna nýtt félag, Iselco ehf. til þess beinlínis að hefja rekstur í samkeppni við gagnáfrýjanda. Þeir hafi að auki reynt að ná undir sig erlendum umboðum gagnáfrýjanda, sem honum hafi þó tekist að afstýra með ærnum kostnaði og fyrirhöfn að undanskildu einu umboði, sem þeir hafi náð. Mótmælir gagnáfrýjandi því að nokkurt samkomulag hafi verið gert um að aðaláfrýjandi fengi haldið laununum eða öðru fé, sem hann skuldaði, á móti orlofslaunum. Þá telur gagnáfrýjandi sig eiga rétt á skaðabótum úr hendi aðaláfrýjanda vegna heimildarlausra rofa hins síðarnefnda á vinnusamningi aðila. Engin réttlæting felist í þeirri viðbáru aðaláfrýjanda að lífeyrisiðgjöld hafi ekki verið að fullu greidd, enda hefði hann þá áður þurft að leita eftir leiðréttingu hjá sér án árangurs áður en til álita gæti komið að slíkt úrræði sem brotthlaup úr starfi gæti talist heimilt. Málsástæðu aðaláfrýjanda um að vandamál tengd áfengisneyslu framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda hafi heimilað fyrirvaralaus slit ráðningarsamningsins vísar hinn síðarnefndi á bug.

Aðaláfrýjandi mótmælir staðhæfingum um vonda trú sína við móttöku launa fyrir apríl 1998. Vegna skaðabótakröfu fyrir samningsrof leggur hann áherslu á að framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda hafi vísvitandi látið undir höfuð leggjast að skila iðgjöldum fyrir hluta launa aðaláfrýjanda og reyndar fleiri starfsmanna sinna til lífeyrissjóðs og neitað að leiðrétta það þegar eftir var gengið. Það ásamt alvarlegum vandamálum, sem tengdust áfengisneyslu hans og gerð er grein fyrir í héraðsdómi, hafi réttlætt brotthvarf aðaláfrýjanda úr starfi 3. apríl 1998 án frekari fyrirvara.

Sú málsvörn aðaláfrýjanda er ósönnuð að samið hafi verið um uppgjör gagnkvæmra krafna aðilanna með skuldajöfnuði eftir að uppsagnarbréf var afhent gagnáfrýjanda. Langur tími leið hins vegar áður en gagnáfrýjandi gerði nokkurn reka að því að halda fram kröfu sinni vegna ráðningarslitanna, en það gerði hann fyrst með bréfi lögmanns síns 12. mars 2002 eða rétt áður en málið var höfðað. Í skýrslu sinni fyrir dómi gaf framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda þá einu skýringu á þessu að hann hafi verið störfum hlaðinn og haft merkilegri verkefnum að sinna. Kröfuliðir um endurgreiðslu launa og bætur fyrir samningsrof eru nátengdar vinnusamningi aðilanna. Ef gagnáfrýjandi taldi sig eiga kröfu á fyrrum starfsmann sinn vegna saknæmra brota hans á samningi þeirra, mátti ætlast til þess að hann kynnti aðaláfrýjanda slíka kröfu án ástæðulauss dráttar með sannanlegum hætti og héldi henni fram með eðlilegum hraða. Með aðgerðarleysi sínu í næstum fjögur ár hefur hann hvað sem öðru líður sýnt slíkt tómlæti að hann hefur fyrirgert hugsanlegum rétti til endurgreiðslu launa og skaðabóta vegna ráðningarslitanna. Reynir þá ekki frekar á málsástæður aðilanna að því er varðar þessa tvo kröfuliði.

 

III.

Meðal málsgagna er kvittun undirrituð af aðaláfrýjanda 25. nóvember 1997 fyrir því að gagnáfrýjandi hafi þann dag veitt honum „lán v/bílakaupa“ að fjárhæð 440.000 krónur. Krefst gagnáfrýjandi endurgreiðslu lánsins. Aðaláfrýjandi ber annars vegar fyrir sig að hann hafi greitt eina afborgun af láninu og hins vegar að um fyrirframgreiðslu launa hafi verið að ræða, sem endurgreiða hafi átt smám saman af launum hans. Sé honum heimilt að skuldajafna kröfunni á móti orlofslaunum og vangreiddum lífeyrisiðgjöldum 1988 til 1994, enda sé um samrættar kröfur að ræða. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að taka þennan kröfulið gagnáfrýjanda til greina, þar á meðal um upphafsdag dráttarvaxta 12. apríl 2002.

Gagnáfrýjandi hefur lagt fram tvo reikninga dagsetta 26. febrúar 1998 og 9. mars sama árs vegna vöruúttekta aðaláfrýjanda, samtals að fjárhæð 27.047 krónur. Kveður hann reikningana ógreidda og krefst endurgreiðslu. Þá hafa verið lagðar fram tvær kreditnótur 30. mars 1998, sem sýna að viðskiptin hafa verið bakfærð á viðskiptareikningi aðaláfrýjanda hjá gagnáfrýjanda. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi hafi gert þá færslu. Sá síðastnefndi gaf jafnframt þá skýringu fyrir dómi að hann hafi greitt framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda með peningum fyrir vörurnar, enda hafi framkvæmdastjórinn viljað hafa þann hátt á. Þessu mótmælir gagnáfrýjandi. Óvenjulegt hlýtur að teljast að viðskipti séu í senn bakfærð og greitt fyrir vörurnar með peningum. Verður sönnunarbyrði fyrir þessu lögð á aðaláfrýjanda. Með því að skýring hans er ósönnuð verður þessi kröfuliður gagnáfrýjanda tekinn til greina, en upphafstími dráttarvaxta verður miðaður við 12. apríl 2002 þegar mánuður var liðinn frá því krafa var gerð um greiðslu.

Eftir starfslok sín hjá gagnáfrýjanda leitaði aðaláfrýjandi til Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem krafði hinn fyrstnefnda um vangreidd iðgjöld til sjóðsins af hluta launa aðaláfrýjanda á tímabilinu frá júlí 1994 til ársloka 1997 auk iðgjalds til stéttarfélags hans. Gerði gagnáfrýjandi upp við sjóðinn með nokkrum greiðslum, sem hann kveðst hafa innt af hendi á tímabilinu frá nóvember 1998 til maí 1999. Í málinu endurkrefur hann aðaláfrýjanda um þann hluta iðgjaldsins, sem hann fékk útborgaðan, en hefði með réttu átt að renna til lífeyrissjóðsins. Í þessum kröfulið felst einnig endurgreiðsla á félagsgjaldi til stéttarfélags aðaláfrýjanda og vextir af hvoru tveggja, sem gagnáfrýjandi kveðst hafa orðið að greiða. Samtals nemur þessi kröfuliður 386.687 krónum, en ekki er tölulegur ágreiningur um hann.

Aðaláfrýjandi ber fyrir sig að krafa samkvæmt þessum lið sé fyrnd. Gagnáfrýjandi hafi ekki skilað iðgjöldum á réttum gjalddögum og fyrningarfrestur tekið að líða frá hverjum útborgunardegi launa allt frá árinu 1994. Fyrningarfrestur vegna síðustu greiðslunnar hafi verið liðinn í desember 2001 og öll krafan því fyrnd þegar málið var höfðað.

Í málinu er ekki deilt um kröfu lífeyrissjóðsins á hendur gagnáfrýjanda. Við uppgjör gagnáfrýjanda á kröfu sjóðsins varð til endurkrafa hans á hendur aðaláfrýjanda og hún var ófyrnd við höfðun málsins. Verður krafan tekin til greina, en upphafstími dráttarvaxta verður ákveðinn sá sami og á við um aðrar kröfur gagnáfrýjanda, sem fyrr var getið um.

Áður var getið þeirrar kröfu aðaláfrýjanda að ógreitt orlof hans yrði látið mæta kröfu gagnáfrýjanda með skuldajöfnuði. Er óumdeilt að það nam 318.606 krónum. Bæði í kröfubréfi 12. mars 2002 og í stefnu til héraðsdóms viðurkenndi gagnáfrýjandi tilvist orlofslaunakröfunnar og að hún mætti ganga upp í kröfu sína. Við samlagningu einstakra kröfuliða sinna gerði hann jafnframt ráð fyrir að orlofslaunakrafan hefði áður verið dregin frá. Krafan er því ófyrnd og verður tekin til greina með dráttarvöxtum frá 1. maí 1998 eins og aðaláfrýjandi krefst, sbr. einnig 8. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Krafa aðaláfrýjanda um frekari skuldajöfnuð vegna ógreiddra lífeyrisiðgjalda gagnáfrýjanda á tímabilinu 1988 til 1994 er hins vegar haldlaus þegar af þeirri ástæðu að aðaláfrýjandi getur ekki bent á kröfu, sem lífeyrissjóðurinn á en ekki hann sjálfur, til skuldajöfnuðar við kröfu gagnáfrýjanda á sig, enda hefur aðaláfrýjandi ekki haft uppi kröfu til greiðslu skaðabóta á hendur gagnáfrýjanda vegna tjóns sem hann telji sig hafa orðið fyrir af þessum sökum.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda samtals 853.734 krónur með dráttarvöxtum frá 12. apríl 2002 eins og nánar segir í dómsorði. Frá kröfu gagnáfrýjanda dragast 318.606 krónur með dráttarvöxtum frá 1. maí 1998 eins og nánar segir í dómsorði.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Jóhann Þór Hopkins, greiði gagnáfrýjanda, Klifi ehf., samtals 853.734 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. apríl 2002 til greiðsludags allt að frádregnum 318.606 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1998 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2003.

         Mál þetta var dómtekið 18. mars sl. en tekið til flutnings að nýju þann 11. júní sl. og var dómtekið sama dag.

         Stefnandi er Klif ehf., Grandagarði 13, Reykjavík.

         Stefndi er Jóhann Þór Hopkins, Hesthömrum 19, Reykjavík.

 

Dómkröfur

         Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.      Að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð kr. 716.788 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 276.288 krónum frá 1. maí 1998 til l.maí 1999 og af 716.788 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til til greiðsludags.

2.      Að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.660.080 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. apríl 1998 til l. júlí 2001 og vöxtum samkvæmt l. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 2. apríl 2002 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

3.      Að stefndi greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

         Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara er þess krafist að kröfur verði lækkaðar verulega.

 

Málavextir

         Stefnandi rekur innflutningsheildverslun á Grandagarði 13 í Reykjavík.  Stefndi Jóhann hóf störf hjá stefnanda sem sölumaður árið 1988 og starfaði hjá fyrirtækinu í tæp 9 ár.  Þann 2. apríl 1998 gekk stefndi á fund framkvæmdar­stjóra stefnanda, Svavars Davíðssonar, og afhenti honum uppsagnarbréf.  Í bréfinu segir að uppsögnin taki þegar gildi án uppsagnarfrests af ástæðum sem séu kunnar fram­kvæmdarstjóra og verði ekki tíundaðar í bréfinu að öðru leyti en því að fyrirtækið hafi brotið gegn almennum ákvæðum gildandi kjarasamninga bæði hvað varði lögbundnar greiðslur í lífeyrissjóð og hvað varði almennar reglur um hegðun, ástand og framkomu yfirmanna á vinnustað.  Þá eru einnig nefndar aðrar ástæður fyrir uppsögn, fagleg stöðnun, stefnda ekki gert kleift að viðhalda kunnáttu sinni og þekkingu í starfi, sem aftur skerði möguleika á starfi annars staðar en hjá Klifi ehf.  Einnig hafi yfirlýsingar Svavars Davíðssonar framkvæmdastjóra stefnanda um fyrirhugaða sölu styrkt stefnda í ákvarðanatöku þessari.

         Stefndi heldur því fram að fljótlega eftir að hann hóf störf hafi hann tekið eftir að stefnandi greiddi ekki af heildarlaunum til lífeyrissjóðs eins og lög geri ráð fyrir heldur hafi einungis verið greitt af hluta launa.  Stefndi hafi gert ítrekaðar athugasemdir við útreikninga stefnanda en án árangurs.  Þessi ágreiningur hafi þó ekki bitnað á samstarfi aðila til að byrja með en augljóst hafi verið að stefndi hafi orðið fyrir tjóni sem felist í lægri lífeyrisrétti er fram líða stundir.  Stefndi hafi sinnt margvíslegum störfum fyrir stefnanda, einnig persónulegum málum.  Forsvarsmaður stefnanda, Svavar Davíðsson, hafi átt við mjög alvarleg og stigvaxandi áfengisvandamál að stríða á starfstíma stefnda. Svavar hafi verið langtímum saman fjarverandi vegna áfengisneyslu og hafi oft á tíðum verið illa drukkinn á vinnustað sem hafi bitnað mjög á vinnuaðstöðu allra starfsmanna og einna mest á stefnda.  Margoft hafi stefnandi hringt til stefnda, hvort sem var að nóttu eða degi, til að biðja um meira áfengi eða að láta aðstoða sig á annan hátt. Vegna deilna um greiðslu lífeyrissjóðsgjalda og aðbúnaðar á vinnustað og vegna langvarandi áfengisvandamála Svavars hafi stefndi sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dags. 2. apríl 1998.  Stefndi hafi tilgreint ástæður uppsagnar en hafi ekki farið nákvæmlega í vandamál sem tengst hafi hegðun og framkomu Svavars á vinnustað heldur hafi orðað það á þann veg að segja "ástæðum sem kunnar eru framkvæmdastjóra fyrirtækisins Svavari Davíðssyni og verða ekki tilgreindar hér að öðru leyti....".   Hafi forsvarsmanni stefnanda mátt vera ljóst hvað átt væri við. 

         Stefndi taldi sig, vegna framkomu stefnanda, vera heimilt að hætta störfum fyrirvarlaust og krefjast launa í uppsagnarfresti.  Hann kveðst þess í stað hafa rætt við Svavar um ástæður uppsagnar og hafi orðið að samkomulagi að stefndi hætti strax störfum.  Kannast stefndi ekki við að hafa hætt störfum fyrirvaralaust heldur með samþykki og í fullu samkomulagi við framkvæmdastjóra stefnanda.

         Af hálfu stefnanda er því mótmælt að nokkurt slíkt samkomulag hafi náðst milli aðila máls þessa.   Heldur stefnandi því fram að framkvæmdarstjóra stefnanda hafi komið bréfið algerlega á óvart þar sem ekkert hafi gerst í samskiptum málsaðila sem réttlætt geti þær fullyrðingar sem fram komi í bréfinu.  Er stefndi hafi komið til hans með bréfið hafi hann óskað eftir skýringum hjá stefnda en stefndi hafi sagst ætla að skreppa fram.  Hann hafi ekki komið til baka til þess að skýra málið.  Hann hafi aldrei komið aftur til þess að skýra málið.

         Nokkrum dögum eftir að stefndi hætti störfum hjá stefnanda stofnaði hann fyrirtækið Iselco ehf. ásamt Halli G. Erlingssyni, öðrum fyrrverandi starfsmanni stefnanda, Guðbirni Magnússyni, tengda­föður Halls, og Jóni Hilmarssyni, sem hafði verið endurskoðandi stefnanda.  Samkvæmt stofnsamningi var tilgangur félagsins innflutningur, smásala og heildsala, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

         Heldur stefnandi því fram að fyrirtækið hafi verið stofnað til beinnar samkeppni við sig og hafi það unnið að því á bak við tjöldin að ná öllum helstu viðskiptasamböndum stefnanda. Hafi stefndi m.a. reynt að ná tveimur helstu við­skiptavinum Klifs ehf. erlendis, þeim Hilarius Haarlem og Filarc í Utrecht, með því að rægja Svavar Davíðsson sem drykkjumann sem ekki væri hægt að vinna með.  Hafi þetta verið tilgreind  ástæða fyrir uppsögn stefnda.  Hafi þetta gengið svo langt að Hilarius hafi lokað á öll samskipti við stefnanda og viðskipti hafi ekki komist á aftur fyrr en Svavar Davíðsson hafi farið utan ásamt öðrum hluthafa í félaginu til þess að skýra sitt mál.

         Guðbjörn Magnússon hafi verið sá er reynt hafi að kaupa Klif ehf. nokkru áður fyrir milligöngu Halls G. Erlingssonar en Svavar Davíðsson, aðalhluthafinn, hafi ekki viljað selja.  Sé þetta sennilega sú sala sem stefndi hafi haft í huga í uppsagnarbréfi sínu.

         Vegna meintra samningsrofa og fyrirvaralauss brotthvarfs úr starfi krefur stefnandi stefnda um skaðabætur að fjárhæð 1.660.080 krónur.

         Stefnandi krefur stefnda einnig um framlag til lífeyrissjóðs og félagsgjöld til VR ásamt hlutdeild í greiddum vöxtum að fjárhæð 386.687 krónur.

         Stefnandi skilaði til Lífeyrissjóðs verslunarmanna iðgjöldum sem miðuð voru við taxta í því starfi sem stefndi gegndi en ekki miðað við launin sem hann fékk greidd og voru nokkru hærri.  Myndaðist því mismunur sem iðgjöld voru ekki greidd af til lífeyrissjóðsins.  Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi verið þetta fullljóst allan tímann og heldur því jafnframt fram að þessi framkvæmd hafi verið að frumkvæði stefnda.  Á launaseðlum stefnda hafi ekki leynt sér að lífeyrissjóðsiðgjöld stefnda hafi verið miðuð við lægri laun en stefndi fékk greidd.

         Við starfslok leitaði stefndi til Lífeyrissjóðs verslunarmanna til að fá nánari upplýsingar um rétt sinn vegna skertra iðgjaldagreiðslna m.t.t. fyrirliggjandi launaseðla.  Lífeyrissjóðurinn hóf þá innheimtu á vangoldnum gjöldum hjá stefnanda.  Innheimti lífeyrissjóðurinn 10% iðgjald af launum samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum.  Hluti starfsmans er 4% af iðgjöldum og ber að draga þann hluta frá launum starfsmanns.  Það var ekki gert að fullu, eins og áður greinir.  Heldur stefndi því fram  að það hafi ekki verið gert samkvæmt einhliða ákvörðun forsvarsmanns stefnanda sem hafi ætlað sér vísvitandi að hlunnfara starfsmenn sína um lögbundnar iðgjaldagreiðslur.

         Stefnandi greiddi iðgjöld til lífeyrissjóðsins vegna stefnda fyrir ágúst 1994 til og með desember 1997.  Krefur hann stefnda í máli þessu um 4% hlut launþega auk 1% félagsgjalds til VR sem nemur ásamt hlutdeild í vöxtum 386.687 krónum. 

         Þegar stefndi hætti störfum hjá stefnanda 2. apríl 1998 hafði hann deginum áður tekið við greiðslu launa fyrirfram fyrir aprílmánuð. Heildarlaun mánaðarins voru 276.680 krónur.  Telur stefnandi að stefndi eigi rétt til 12.767 króna greiðslu af þeim.  Kveður stefnandi 86.712 krónur hafa verið dregnar frá vegna staðgreiðslu skatta en ekki hafi komið til hennar vegna deilna aðila um hvort stefndi ætti rétt til launa þennan mánuð.  Krefur stefnandi stefnda um mismuninn, eða 177.201 krónu.

         Stefnandi kveður stefnda, þann 26. feb. 1998, hafa tekið út vörur hjá stefnanda fyrir 16.760 krónur til þess að nota í vöruskiptum persónulega við Víkurvagna ehf.  Aftur hafi hið sama verið gert 9. mars 1998 og þá fyrir 10.287 krónur.  Þann 30. mars 1998 hafi stefndi kreditfært báðar fjárhæðirnar, eða alls 27.047 krónur, á viðskiptareikningi sínum án þess að vörurnar kæmu til baka.  Hafi þetta verið gert án samráðs við stjórnendur stefnanda. 

         Stefndi mótmælir kröfu stefnanda vegna þessa og kveður allar vöruúttektir stefnda að fullu uppgerðar og sé umrædd kreditfærsla í samræmi við uppgjör.

         Stefndi fékk 440.000 krónur hjá stefnanda 25. nóvember 1997 til kaupa á bifreið, sem stefnandi krefur hann nú um endurgreiðslu á.  Stefnandi kveður um það hafa verið samið að teknar yrðu mánaðarlega um það bil 30.000 krónur af launum stefnda, en hann hafi fengið frest á greiðslum fyrstu mánuðina.  Ekki hafi verið byrjað að draga frá greiðslur þegar stefndi hafi horfið úr starfi.

         Stefndi heldur því fram að hann hafi fengið fyrirgreiðslu í vinnusambandinu til bifreiðakaupa. Hins vegar hafi komið fram í samtali milli stefnda og stefnanda við starfslok að vangoldið áunnið orlof kæmi til greiðslu á umræddri fyrirgreiðslu auk þess sem stefndi héldi launagreiðslu fyrir aprílmánuð.  Áunnið orlof hafi verið 318.606 krónur auk þess sem stefndi hafi þegar greitt 30.000 krónur til stefnanda vegna lánsins.  Inneign stefnda sé því kr. 348.606 sem geri mismun um 91.394 krónur, en stefndi hafi talið að við starfslok hafi uppgjör farið fram á milli aðila og hann væri skuldlaus við stefnanda en það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 12. mars 2002, eða tæpum 4 árum síðar, að honum hafi verið tilkynnt að stefnandi telji hann vera í skuld við sig.

         Af hálfu stefnanda er viðurkennt að samkvæmt kjara­samningum hafi stefndi átt rétt til þess að fá orlof greitt í peningum við starfslok vegna tímabilsins 1. maí 1997 til 1. apríl 1998 sem hundraðshluta ofan á laun og nemi sú fjárhæð 318.606 krónum.

         Telur stefndi að einnig beri að hafa í huga að stefnandi hafi sent inn "leiðréttan" launamiða vegna ársins 1998 og hafi því ekki skilað inn skatti af öllum launum vegna ársins 1998, mismunur hafi numið 86.712 sem stefndi hafi sjálfur greitt í skatt. Stefndi eigi því kröfu á um 86.712 krónum á hendur stefnanda.  Mismunur á kröfu stefnanda vegna "láns" sé því 4.682 krónur ( 318.606 + 86.712 + 30.000 = 435.318).

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi telur óumdeilt, enda skýrt af kvittun, dags. 25.11.1997, að stefnandi hafi lánað stefnda 440.000 krónur til bílakaupa.  Ekki hafi verið byrjað að greiða af láninu þegar stefndi hvarf úr starfi en við starfslok hafi allt lánið fallið í gjalddaga.  Stefndi hafi verið alloft verið krafinn um greiðslu sem hafi verið lofað en ekki staðið við. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, beri að greiða dráttarvexti frá gjalddaga.  Um skyldu stefnda til þess að greiða kröfuna  sé vísað til óskráðra reglna samningaréttar um að samningar skuli standa.  Aðilar hafi gert með sér lánssamning og kröfur samkvæmt honum fyrnist á 10 árum.

         Þar sem stefndi hafi fengið fyrirframgreidd laun fyrir aprílmánuð 1998 en hafi hlaupið úr starfi 2. apríl geri stefnandi kröfu um endurgreiðslu á ofborgun að fjárhæð 177.201 krónur (276.680­-12.767-86.712). Endurgreiðslukrafan byggi á samninga­réttarlegum sjónarmiðum um gagnkvæmni greiðslna.  Einnig sé byggt á kjara­samn­ingum VR og VSÍ og þeim grund­vallarsjónarmiðum að greiðsla komi á móti vinnu. Skorist launþegi undan vinnu­skyldu sinni, án réttmætra ástæðna, eigi hann ekki rétt til launagreiðslna.

         Skylda stefnda til þess að greiða vöruúttektir sé augljós og byggist á sömu samninga­réttarlegum sjónarmiðum og því að kreditfærsla stefnda hafi verið heimildarlaus og geti ekki skapað stefnda rétt til niðurfellingar kröfunnar.

         Stefnandi telur að stefnda beri skylda til þess að greiða sinn hluta af lífeyrisgjöldum til Lífeyrissjóðs verslunarmanna ásamt dráttarvöxtum og kostnaði og það sama eigi við um félagsgjöld til VR.  Eftir kæru stefnda og félaga hans til lífeyrissjóðsins hafi stefnandi verið látinn greiða þangað allt það sem upp á vantaði í 4 ár, þ.e. 10% af heildarlaunum í lífeyrissjóðinn og 1% af heildarlaunum í félagsgjald VR sem sjóðurinn sjái um að innheimta.  Hafi framkvæmdarstjóri stefnanda reynt að koma því á framfæri við lífeyris­sjóðinn að fyrirtækið hefði ekki tekið af launum stefnda fyrir hinum vangoldna hluta hans og hafi beðist undan greiðslu, en sjóðurinn og VR hafi vísað til lagaskyldu vinnuveitanda um skil á gjöldunum og hafi innheimt full gjöld hjá stefnanda.  Stefnandi hafi innt greiðslur af hendi í áföngum á tímabilinu 10. nóvember 1998 til 11. maí 1999.  Höfuðstóll vangoldins hluta laun­þega (4%) í lífeyrissjóð hafi reynst vera 214.742 krónur og vangoldin félagsgjöld (1%) til Verslunarmannafélags Reykjavíkur 53.684 krónur.  Þá hafi sá hluti dráttarvaxta og kostn­aðar sem til hafi komið vegna vangoldins framlags stefnda, 118.261 króna, miðað við að heildar­vextir séu hlutfallaðir eftir skyldubundnu framlagi hvers og eins.  Alls geri þessar fjár­hæðir 386.687 krónur og krefst stefnandi dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 11. maí 1999.

         Varðandi skyldu stefnda til greiðslu síns framlags í lífeyrissjóð vísar stefnandi til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl. nr. 129/1997, 1. og 2. gr., sbr. kjarasamning VR og vinnuveitenda og starfssamning við stefnda.  Um skyldu til greiðslu félags­gjalds vísar stefnandi einnig til kjarasamnings VR og starfssamnings.

         Stefnandi dragi frá kröfum sínum gegn stefnda orlof 314.147 krónur. Heildarfjárhæð launa 1. maí 1997 til 1. apríl 1998 hafi verið 2.952.510 krónur og orlofsgreiðslur skuli, samkvæmt kjarasamningi VR og VSÍ 1997, vera 10,64 % af launum eftir 5 ára starf hjá sama atvinnurekanda.

         Stefnandi gerir kröfu um bætur úr hendi stefnda vegna brotthlaups úr starfi en stefndi hafi farið án fyrirvara þann 2. apríl 1998, þótt uppsagnarfrestur væri 12 mánuðir samkvæmt skriflegum starfssamningi.  Uppsögn stefnda hafi verið ólögmæt og ástæður sem hann nefni ekki réttar, svo sem vanskil á lífeyrisgreiðslum sem honum hafi verið fullkunnugt um.  Af uppsagnarbréfi stefnda sé alveg ljóst að það sé verið að tína til ýmsar afsakanir fyrir brotthlaupi, aðrar en hinar raunverulegu, þ.e. að stefndi hafi verið að stofna nýtt fyrirtæki til þess að fara út í samkeppni við stefnanda þar sem tilraunir samherja hans til þess að kaupa Klif ehf. höfðu farið út um þúfur.

         Brotthlaup stefnda úr starfi sé samningsrof af hálfu stefnda og hafi það leitt til verulegs tjóns fyrir stefnanda og sé gerð skaðabótakrafa að fjárhæð 1.660.080 krónur sem séu hálf laun á uppsagnarfresti og sé sú krafa í samræmi við dómvenju sem skapast hafi í málum út af fyrirvarlausu brotthlaupi starfsmanna.

         Brotthvarf stefnda hafi verið afar bagalegt fyrir stefnanda enda starfsmenn aðeins 5 á þess­um tíma og stefndi hafi séð um sölumálin.  Hann hafi strax farið að vinna gegn stefnanda með því að ná undir Iselco ehf. helstu viðskiptum stefnanda með rógburði og hafi unnið stefnanda þannig verulegt tjón sem afar erfitt sé að meta en sé þó mun meira en nemi hálfum launum á uppsagnarfresti.  Beinn kostnaður vegna ferðar tveggja manna til Hollands í skyndi til þess að ná tali af stjórnendum Hilarius Haarlem hafi numið um 275.000 krónum.

 

 

         Sundurliðun kröfu um greiðslu skuldar samkvæmt kröfulið 1 (upphafsdagur vaxta í sviga):

Lán vegna bifreiðakaupa ................................... 440.000 kr. (01.05.98)

Endurgreiðsla á launum í apríl 1998 .................. 177.201 kr.        (0l .05.98)

Viðskiptareikningur (bakfærsla kreditnótna) ..... 27.047 kr. (01.05.98)

Framlag til lífeyrissjóðs og félagsgjöld VR                                     

ásamt hlutdeild í greiddum vöxtum .................. 386.687 kr.           (11.05.99)

                                Samtals                  1.030.935 kr.         

Frá dregst orlofsinneign ................................... 314.147 kr.                      (01.05.98)

Höfuðstóll kröfu stefnanda alls ........................ 716.788 kr.           

 

         Stefnandi gerir kröfu um almenna vexti á skaðabótakröfu sína frá því stefndi fór úr starfi samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá l. maí 1998 til 1. júlí 2001 og vexti samkvæmt l. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 allt þar til málið var þingfest en þá reiknist dráttarvextir samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

         Stefnandi gerir þá kröfu að heimilaður verði skuldajöfnuður á vangoldnu orlofi frá stefnanda á móti vangoldnu lífeyrissjóðsiðgjaldi stefnda og félagsgjöldum til VR, sem stefnandi hafi lagt út fyrir stefnda.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

         Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnda á grundvelli fyrningar, tómlætis, meginreglum vinnuréttar um ofgreidd laun og skuldajöfnuðar ef annað þrýtur.

Verður nú vikið nánar að hverjum lið í málsástæðum stefnanda.

         Stefnandi hafi veitt stefnda fyrirgreiðslu að fjárhæð 440.000 krónur.  Stefndi hafi greitt 30.000 krónur til stefnda vegna þessa stuttu eftir fyrirgreiðsluna en engin kvittun hafi verið gefin út.  Enginn gjalddagi hafi verið á fyrirgreiðslunni né kveðið á um fjölda innborgana. Hér var um fyrirgreiðslu til starfsmannsins sem greiða hafi átt eftir nánara samkomulagi.

         Það sé rangt sem fram komi í stefnu að stefndi hafi alloft verið krafinn um greiðslu.  Einnig sé ekkert sem styðji þá staðhæfingu að fyrirgreiðslan hafi fallið í gjalddaga við starfslok heldur verði að miða við þá meginreglu að krafa falli í gjalddaga með tilkynningu kröfuhafa um gjalddaga þar sem gjalddagi hafi ekki verið fyrirfram ákveðinn.  Stefndi hafi aldrei fengið tilkynningu fyrr en með bréfi lögmanns stefnda 12. mars 2002.

         Stefnan verði ekki skilin á annan veg en þann að fyrirgreiðslan hafi fallið í gjalddaga við starfslok þar sem hún hafi verið nátengd vinnusambandinu.  Þó svo að slíkt leiði ekki til sjálfkrafa gjaldfellingu skuldar verði að horfa til meginreglna um fyrningu krafna í vinnusambandi en fyrningarfrestur þeirra er 4 ár, sbr. 3. gr. l. 14/1905.  Verði því að miða við að krafan sé fyrnd þar sem til hennar hafi verið stofnað 25. nóvember 1997.

         Verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd beri að líta til þess að aðilar hafi gert með sér munnlegt samkomulag um að stefndi hætti störfum og við uppgjör á fyrirgreiðslu vegna bílakaupa kæmi áunnið orlof.   Kröfur hafi ekki verið reiknaðar út nákvæmlega en samkomulag hafi verið um að kröfur gengju hvor upp á móti annarri og eftirstöðvar féllu niður enda ljóst að stefndi hafi haft allan rétt til að hætta störfum fyrirvaralaust og krefjast bóta í uppsagnarfresti vegna vanefnda stefnanda í vinnusambandinu með framkomu sinni.

         Stefnandi  hafi aldrei gert athugasemd um starfslok stefnda og hafi engar kröfur gert um annað uppgjör en fram hafi farið á milli aðila.  Stefndi hafi  því verið í góðri trú um að samkomulag aðila héldi enda engin athugasemd gerð fyrr en með bréfi lögmanns stefnda í mars 2002.

         Verði ekki fallist á að fullnaðaruppgjör hafi þegar farið fram á milli aðila er krafist skuldajafnaðar á kröfu stefnanda miðað við vaxtaútreikning frá og með bréfi lögmanns stefnanda í mars 2002, en eigi sé hægt að krefjast vaxta af kröfu nema svo hafi verið um samið og ekki sé hægt að krefjast dráttarvaxta fyrr en 30 dögum eftir að tilkynning um gjalddaga hafi komið fram, sbr. 3. gr. og 3 mgr. 5. gr. 1. nr. 38/2001, sbr. 1. 25/1987 auk þess sem krafa um vexti fyrnist á 4 árum óháð fyrningartíma aðalkröfu, sbr. 2. tl. 3. gr. l. 14/1905. Vaxtakrafa sé því fyrnd.

         Til skuldajafnaðar komi sem nemi áunnum orlofslaunum, 318.606 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 1. maí 1998.  Einnig beri að taka tillit til vangoldinna launa sem hafi komið til vegna leiðréttingar á launamiða vegna uppgjörs fyrir árið 1998.  Þar hafi verið tilgreint að ekki hafi verið tekin staðgreiðsla af apríllaunum sem hafi numið um 86.712 krónum.  Stefndi hafi greitt þá fjárhæð sjálfur en hún hafi verið dregin af launaseðli hans.  Stefndi eigi því enn inni vangoldin laun að fjárhæð um 86.712 krónur vegna þessa gjörnings stefnanda ásamt dráttarvöxtum frá 1. maí 1998.

Krafa til skuldajöfnunar sundurliðist sem hér segi.

 Innborgun 30.000 kr.

Áunnið orlof            318.606 kr.

Dráttarvextir frá 1. maí 1998 - 18. júní 2002 368.127 kr.

Vangoldin laun        86.712 kr.

Dráttarvextir frá 1. maí 1998 - 18. júní 2002 100.190 kr.

                  Samtals             903.635 kr. 

 

         Skuldajafnaðarkrafa sé því mun hærri en krafa stefnanda.  Stefnandi skuldi stefnda ef eitthvað er en ekki öfugt.

         Ef ekki verði tekið tillit til þeirra málsástæðna sem að framan séu raktar sé þess krafist að krafan sé niður fallin vegna tómlætis.  Stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til að innheimta kröfu sína fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 12. mars 2002.  Þar sem um vinnusamband sé að ræða séu gerðar ríkari kröfur til aðila að þeir haldi fram rétti sínum, sem ekki hafi verið gert, og því verði krafan að teljast niður fallin vegna tómlætis.

         Stefndi krefur um endurgreiðslu apríl launa 1998.  Stefndi hafi ávallt fengið laun greidd fyrirfram í byrjun mánaðar og hafi því launagreiðsla vegna aprílmánaðar ekki verið frábrugðin öðrum launagreiðslum.  Stefndi hafi ákveðið að segja upp störfum, einkum vegna ástæðna sem tengdust framkomu forsvarsmanns stefnda og áfengisvandamálum hans.  Ölvun í vinnusambandi, hvort sem er af hálfu starfsmanns eða vinnuveitanda, sé ólíðandi og brjóti gegn meginreglum vinnuréttar svo og ákvæðum laga um aðbúnað og hollustuhætti. Stefnanda hafi því verið ljóst að stefndi hefði getað hætt fyrirvaralaust og krafist launa í allt að eitt ár samkvæmt starfssamningi.  Stefndi hafi ákveðið að fara ekki þá leið heldur semja við stefnanda um starfslok, sem þeir og hafi gert.  Í því samkomulagi hafi verið laun fyrir apríl. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við þau málalok fyrr en 4 árum síðar. Endurkröfuréttur vegna launa fyrir apríl sé því ekki til staðar hvort sem litið sé til samkomulags aðila, meginreglna er varði tómlætisáhrif og/eða meginreglna um ofgreidd laun, en ofgreidd laun séu óendurkræf.

         Kröfu vegna vöruúttektar er mótmælt sem órökstuddri og rangri.

                       Allar vöruúttektir stefnda séu að fullu uppgerðar og sé umrædd kreditfærsla í samræmi við uppgjör.  Undarlegt sé að stefnandi geri fyrst nú kröfu um uppgjör um 4 árum eftir viðskiptin og haldi því fram að kreditfærslan hafi verið óheimil.  Stefnanda megi hafa verið kunnugt um umrædda færslu í um 4 ár en aldrei gert athugasemdir um hana fyrr en nú. Sönnunarbyrði fyrir því að kreditfærsla hafi verið óheimil hvíli á stefnanda.  Sýkna beri af kröfunni þar sem hún sé að fullu uppgerð auk þess sem sýkna beri á grundvelli tómlætis.

         Stefndi mótmælir kröfu um greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda og félagsgjalda enda sé krafan fyrnd.

         Gjalddagi iðgjalda sé við útborgun launa.  Stefnanda hafi borið, samkvæmt ákvæðum laga og kjarasamninga, að halda eftir iðgjöldum starfsmanna og félagsgjöldum.  Frádráttur frá launum sé alfarið á ábyrgð stefnanda og allur sá kostnaður sem til falli vegna vanefnda vinnuveitanda sé á hans ábyrgð en ekki launþegans.

         Stefnandi hafi ekki skilað inn iðgjöldum eins og lög geri ráð fyrir.  Iðgjöld og félagsgjöld fyrnist á 4 árum eins og launakröfur.  Fyrningarfrestur byrji að líða frá gjalddaga sem sé útborgunardagur launa, fyrsti dagur hvers mánaðar frá árinu 1994. Það að stefnandi hafi ekki skilað réttum iðgjöldum og ekki greitt rétt iðgjöld fyrr en á árinu 1999 hafi ekki í för með sér að nýr fyrningarfrestur stofnist á aðalkröfu.

         Krafa stefnanda sé vegna tímabilsins júlí 1994 til desember 1997 og hafi  fyrningarfrestur runnið út vegna síðustu greiðslu sem hafi verið desember 1997 í lok desember 2001. Krafan sé því fyrnd.

         Ef ekki verði fallist á fyrningu er krafist skuldajöfnuðar á vangoldnum 6% iðgjöldum, sbr. ákvæði kjarasamninga og laga um lífeyrissjóð, l. 129/1997, l. 55/1980, ásamt dráttarvöxtum frá upphafi vinnusambands til júlí 1994, sbr. 2 mgr. 1. gr. 1. 14/1905.

         Skuldajafnaðarkrafa sundurliðist sem hér segi, auk dráttarvaxta:

 

Ár           Tímabil                 Heildarlaun           10% lífsj.   Greitt     Mismunur                   HI. vinnuv.

1988        jan.-des.                305.000                30.500    -11.475     19.025                11.415

1989       jan.-des. 1.653.500  165.350 -52.470  112.880 67.728

1990       jan.-des. 1.955.119  195.512 -69.680  125.832 75.499

1991       jan.-des. 2.551.263  255.126 -93.690  161.436 96.862

1992       jan.-des. 2.622.545  262.255 -124.513   137.742 82.645

1993       jan.-des. 2.689.441  268.944 -132.030   136.914 82.148

1994       jan.-jún. 1.363.407  136.341 -69.315  67.026 40.215

                                                                456.513

 

         Krafa stefnanda hafi verið 386.687 og sé skuldajafnaðarkrafa því mun hærri en stefnukrafa.

         Einnig sé rétt að benda á meginreglu um ofgreidd laun, en með greiðslu iðgjalda, án þess að reyna að endurkrefja stefnda fyrr en 4 árum síðar, verði að telja að krafa sé ekki endurkræf á grundvelli meginreglu um ofgreidd laun eða fallin niður vegna tómlætis.

         Eins og áður hafi komið fram hafi stefndi sagt upp störfum og hætt í kjölfarið samkvæmt samkomulagi við stefnanda.  Tæpum 4 árum síðar komi fyrst fram sú athugasemd af hálfu stefnanda að hann hafi farið fyrirvaralaust úr vinnu.  Meginreglur vinnuréttar kveði á um að ef aðilar í vinnusambandi telji á sér brotið þá verði þeir að gefa aðvörun til að unnt sé að bæta úr vinnusambandinu.  Stefnanda hafi því borið að skora á stefnda að mæta til vinnu ella mundi hann áskilja sér rétt til bótakröfu á hendur honum.

         Stefnandi hafi aldrei gert athugasemd við starfslok stefnda og renni það ótvíræðum stoðum undir þá staðreynd að samkomulag hafi verið um starfslok og uppgjör þeirra.  Hér komi einnig til skoðunar ákvæði kröfuréttar og vinnuréttar um tómlæti.  Krafa stefnanda sé, ef hún hafi nokkurn tíma verið fyrir hendi, fallin niður fyrir tómlæti.

         Kröfu vegna kostnaðar við ferð forsvarsmanns stefnanda til Hollands er sérstaklega mótmælt enda eigi hún enga stoð og fráleitt að halda því fram að stefndi eigi að greiða kostnað vegna viðskiptaferðar stefnanda.  Eðlilegt verði að teljast að fulltrúi stefnanda hafi farið í viðskiptaferðir í ljósi þess að sölustjórinn var hættur og koma þurfti á nýjum samböndum.  Ásökunum um rógburð er harðlega mótmælt.  Öllum vaxtakröfum er sérstaklega mótmælt.

         Vísað er til laga um lífeyrissjóð nr. 129/1997, l. nr. 55/1980 um skyldutryggingu, vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. l. nr. 25/1987, 1. nr. 30/1987 um orlof, ákvæða kjarasamninga VR og vinnuveitenda og meginreglna vinnuréttar, l. nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  Um málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til l. nr. 91/1991 og um dráttavaxtakröfu af málskostnaði til sömu laga.

 

Niðurstaða

         Stefnandi krefur stefnda í máli þessu um skaðabætur vegna fyrirvaralauss brotthvarfs úr starfi.  Óumdeilt er að ráðningarsamningur stefnda gerði ráð fyrir 12 mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.  Færir stefndi fram tvær ástæður fyrir brotthvarfi sínu.  Í fyrsta lagi áfengisneyslu framkvæmdastjóra stefnanda sem hafi haft í för með sér mikil óþægindi fyrir hann og hann hefur nánar lýst fyrir dómi.  Í öðru lagi hafi ástæða brotthvarfs hans verið ágreiningur við framkvæmdastjóra stefnanda um lífeyrisgreiðslur, en fram er komið að stefnandi greiddi ekki iðgjöld að fullu til Lífeyrissjóðs verslunarmanna heldur var einungis greitt iðgjald sem miðaðist við taxta í því starfi sem stefndi gegndi en hann var á hærri launum, eins og áður greinir.

         Fyrir liggur að stefnandi gekk út af vinnustað sínum 2. apríl 1998 eftir að hafa afhent framkvæmdastjóra stefnanda uppsagnarbréf.  Bar stefndi fyrir dómi að þegar uppsagnarbréfið var afhent hafi hann rætt við framkvæmdastjórann, Svavar Davíðsson, og hafi þeir náð samkomulagi um starfslok stefnda.  Samkomulagið hafi falist í því að orlof að fjárhæð 318.606 krónur, sem hann átti inni hjá stefnanda og er óumdeilt, skyldi ganga á móti fyrirgreiðslu sem hann fékk að fjárhæð 440.000 krónur vegna bílkaupa.  Þá skyldi stefndi halda launum sem greidd voru fyrirfram fyrir aprílmánuð 1998.  Af hálfu stefnanda er því mótmælt að slíkt samkomulag hafi verið gert. Gegn andmælum stefnanda þykir ósannað að samkomulag hafi náðst milli málsaðila um starfslok stefnda.

         Stefnandi höfðar mál þetta 27. mars 2002 er tæp fjögur ár voru liðin frá því að stefndi hvarf á brott úr starfi hjá stefnanda.  Hefur stefnandi ekki getað sýnt fram á að hann hafi með óyggjandi hætti skorað á stefnda að vinna út uppsagnarfrestinn.  Þá hefur stefnandi heldur ekki getað sýnt fram á að hann hafi tilkynnt stefnda að hann hygðist höfða mál á hendur honum eða að hann hafi áskilið sér rétt til bótakröfu á hendur stefnda vegna brotthvarfs úr starfi.  Svavar Davíðsson framkvæmdastjóri stefnanda gat ekki gefið sennilega skýringu á því fyrir dómi af hverju svo lengi dróst að höfða mál á hendur stefnda.  Þegar litið er til þess að stefnandi gerði ekki tilraun til þess í fjögur ár að leita réttar síns vegna slita á vinnuréttarsambandi málsaðila verður að telja að hann hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að krafa hans sé niður fallin.  Ber því að hafna bótakröfu hans.

         Fyrir liggur að eftir að stefndi leitaði til Lífeyrissjóðs verslunarmanna var stefnandi krafinn um vangreidd iðgjöld til lífeyrissjóðsins.  Greiddi stefnandi iðgjöld fyrir tímabilið ágúst 1994 til desember 1997.  Endurkrefur hann stefnda nú um 4% hlut launþega í þessum greiðslum, auk 1% félagsgjald til VR, samtals með vöxtum 386.403 krónur.

         Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er launagreiðanda skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum.  Þá segir í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum er kjarasamningar greina.

         Hvað sem líður vitneskju stefnda brást stefnandi þessari lagaskyldu sinni með því að taka ekki að fullu hlut launþega í lífeyrissjóðsiðgjöldum svo og félagsgjald af launum stefnda við útborgun launa.  Stefndi fékk greidd laun mánaðarlega.  Verður að líta svo á, sbr. fyrrgreind ákvæði, að stefnanda hafi borið að taka umrædd iðgjöld mánaðarlega af launum stefnda.  Telst gjalddagi lífeyriskröfu því miðast við útborgunardag launa en ekki við þann tíma er stefnandi loks greiddi iðgjöldin í byrjun árs 1999.  Slík lífeyriskrafa fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Krafa stefnanda er vegna iðgjalda tímabilið ágúst 1994 til desember 1997, eins og áður segir.  Er krafan því fyrnd og ber að sýkna stefnda af henni.

        Stefnandi hefur lagt fram tvo reikninga, dags. 26. febrúar 1998 og 9. mars 1998, samtals að fjárhæð 27.047 krónur, sem stílaðir eru á stefnda.  Þá hafa verið lagðar fram kreditnótur er sýna að þessi fjárhæð hefur verið kreditfærð á viðskiptareikningi stefnda 3. mars 1998.  Gegn andmælum stefnda er ósannað að greiðsla hafi ekki komið á móti umræddum reikningum.  Ber því að sýkna stefnda af þessum kröfulið.        Óumdeilt er að hinn 25. nóvember 1997 fékk stefndi hjá stefnanda 440.000 krónur til bílakaupa.  Heldur stefndi því fram að þetta hafi verið fyrirgreiðsla í formi fyrirframgreiddra launa en stefnandi heldur því fram að um lán hafi verið að ræða.  Samkvæmt kvittun sem lögð hefur verið fram í málinu greiddi stefnandi lán vegna bílakaupa að fjárhæð 440.000 krónur og kvittar stefndi undir það.  Með hliðsjón af þessari kvittun þykir verða að leggja fullyrðingar stefnanda til grundvallar um að um peningalán hafi verið að ræða, en ekki fyrirfram greidd laun eins og stefndi heldur fram og er það því ekki þáttur í vinnusambandi aðila.  Stefndi hefur ekki mótmælt því að hafa fengið umrædda fjárhæð frá stefnanda.  Ósannað er að nokkuð hafi greiðst upp í lánið.  Ekki liggur fyrir að neinn gjalddagi hafi verið ákveðinn á endurgreiðslu lánsins.  Þessi krafa stefnanda fyrnist á 10 árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 og er því ekki fyrnd.  Ber því að taka hana til greina.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi fyrr en með bréfi, dags. 12. mars 2002, reynt að innheimta lánið.  Með vísan til 5. gr. laga nr. 38/2001 ber að fallast á að skuldin beri dráttarvexti frá 12. apríl 2002.   

         Upplýst er að stefndi fékk greidd laun fyrirfram fyrir aprílmánuð 1998 en hann hvarf á brott úr starfi 2. apríl það ár.  Af launum hans hafði stefnandi tekið 86.712 krónur vegna staðgreiðslu skatta sem ekki komst til skila vegna ágreinings aðila.  Mánaðarlaun stefnanda voru 276.680 krónur og frá þeirri fjárhæð hefur stefnandi dregið umræddar 86.712 krónur auk 12.767 króna sem hann telur þau laun sem stefndi hafa átt rétt á fyrir þennan mánuð og krefur stefnda því um 177.201 krónu vegna ofgreiddra launa.  Ljóst þykir að þegar stefndi tók við þessari launagreiðslu var honum ljóst að hann myndi ekki vinna út mánuðinn fyrir þessum launum.  Var hann því ekki í góðri trú er hann tók á móti launagreiðslunni.  Ber honum því að endurgreiða stefnanda 177.201 krónu.

         Stefndi gerir kröfu til skuldajafnaðar vegna 30.000 króna innborgunar, vangoldinna launa, 86.712 krónur og orlofs, 318.606 krónur.  Með hliðsjón af því sem áður er rakið er ósannað að stefndi hafi greitt 30.000 króna innborgun á 440.000 króna lán það sem stefnandi veitti honum.  Þá hefur í kröfugerð stefnanda verið tekið tillit til greiðslu að fjárhæð 86.712 krónur er skyldi fara til staðgreiðslu skatta.  Hins vegar er óumdeilt að stefndi átti inni orlof að fjárhæð 318.606 krónur hjá stefnanda þegar hann hvarf brott úr starfi. 

         Við munnlegan flutning málsins byggði stefnandi á því að orlofskrafan væri fyrnd.  Samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 um orlof skal vinnuveitandi, þegar ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda lýkur við lok ráðningartíma, greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglunni í 2. mgr. 7. gr. laganna.  Ber því að líta svo á að gjalddagi orlofsgreiðslunnar hafi verið 2. apríl 1998 er stefndi hætti störfum.  Kröfu um greiðslu þessa orlofs setti stefndi fyrst fram í greinargerð sinni í máli þessu sem lögð var fram 18. júní 2002.  Ber því að líta svo á að krafa þessi sé fyrnd, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.

         Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda 617.201 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 177.201 krónu frá 1. maí 1998 til 1. júlí 2001, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 12. apríl 2002  en af 617.201 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

         Eftir þessum úrslitum málsins ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

         Stefndi, Jóhann Þór Hopkins, greiði stefnanda, Klifi ehf., 617.201 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 177.201 krónu frá 1. maí 1998 til 1. júlí 2001, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 12. apríl 2002  en af 617.201 krónu frá þeim degi til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.