Print

Mál nr. 659/2008

Lykilorð
  • Kærumál
  • Öryggisgæsla

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 659/2008.

B

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

gegn

dómsmálaráðherra

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

 

Kærumál. Öryggisgæsla.

Hafnað var kröfu B um niðurfellingu öryggisgæslu, en ákveðið þess í stað að hann skyldi sæta breyttri öryggisgæslu með tilgreindum hætti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. nóvember 2008, þar sem hafnað var kröfu um að aflétt yrði öryggisgæslu, sem sóknaraðila var gert að sæta með dómi sakadóms Reykjavíkur 7. maí 1991. Kæruheimild er í 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu sóknaraðila er gerð krafa um að öryggisgæslunni verði aflétt. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var sóknaraðila á árinu 1991 gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi hæli og hefur hann lengst af síðan þá sætt slíkri gæslu á réttargeðdeildinni að Sogni í Ölfusi. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í júní 2000 var inntak öryggisgæslu hans breytt og hún rýmkuð með tilgreindum hætti. Fallist er á það sem fram kemur í hinum kærða úrskurði að uppfyllt séu skilyrði 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um að nauðsynlegt sé vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því, að háski verði af sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur um að hafna skuli að fella niður öryggisgæslu sóknaraðila.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er ótímabundin og algjör öryggisgæsla ýtrasta úrræði sem aðeins skal beita komi vægari ráðstafanir ekki að notum, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Í ákvæðinu eru ekki tæmandi talin þau vægari úrræði sem grípa má til og hefur verið litið svo á að lausn eða mildun öryggisgæslu megi vera háð skilyrðum. Þá hafa ákvæði 62. gr. að geyma reglu um að dómstólar endurmeti með reglubundnum hætti hvaða úrræðum viðkomandi þurfi að sæta.

Fallist er á með héraðsdómi að nauðsynlegt sé að úrræði eða rýmkun á öryggisgæslu verði ákveðin svo skýrt sem verða má, þannig að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja þeim og sá sem í hlut á viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta. Ber að hafa framangreint í huga þegar ákveðinn er vistunarstaður sóknaraðila. Verður að komast að niðurstöðu um það atriði með tilliti til þeirrar meginreglu að ekki skuli ganga lengra en nauðsyn krefur þegar tekin er afstaða til þeirra kosta sem fyrir hendi eru um vistun sóknaraðila. Við ákvörðun á inntaki þeirrar gæslu sem sóknaraðila ber að sæta verður að líta til þess að sóknaraðili hefur sætt öryggisgæslu á réttargeðdeildinni að Sogni í afar langan tíma og ekki virðast líkur á því að hann nái þar frekari bata á geðheilsu sinni. Þegar litið er til alls framanritaðs þykja skilyrði fyrir hendi til að breyta inntaki öryggisgæslu hans. Er lagt fyrir varnaraðila að sjá til þess að sóknaraðili fái búsetu á sambýli fyrir geðfatlaða eða í öðru sambærilegu viðeigandi búsetuúrræði, með sólarhringsgæslu, samkvæmt mati viðkomandi svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Að öðru leyti skal standa óhögguð tilhögun á öryggisgæslu sóknaraðila.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðili, B, skal sæta áfram öryggisgæslu, þó þannig að hann dveljist á sambýli fyrir geðfatlaða eða í annarri sambærilegri búsetu með sólarhringsgæslu samkvæmt mati viðkomandi svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra. Að öðru leyti standa óhögguð ákvæði hins kærða úrskurðar um tilhögun á öryggisgæslu sóknaraðila.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. nóvember 2008.

I.

Mál þetta var þingfest 12. september sl. og tekið til úrskurðar 30. október sl. að lokinni skýrslutöku og munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er A, skipaður tilsjónarmaður, f.h. B, kt. [...], Sogni, Ölfusi.

Varnaraðili er dómsmálaráðherra, en ríkissaksóknari hefur annast meðferð málsins fyrir hans hönd.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að felld verði niður öryggisgæsla sem B var gert að sæta með dómi sakadóms Reykjavíkur þann 7. maí 1991 en til vara er þess krafist að rétturinn ákveði annað úrræði um vistun hans.

Krafist er málskostnaðar í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra 10. janúar sl.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

II.

Með dómi sakadóms Reykjavíkur, upp kveðnum 7. maí 1991, var B gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi hæli samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Dómurinn taldi sannað að B hefði svipt C lífi með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 14. febrúar 1991, í herbergi sínu í sambýli að X í Reykjavík, stungið hana mörgum sinnum í brjóst með hnífi og síðan um kl. 00:30 aðfaranótt næsta dags stungið hana mörgum sinnum í bakið með sama hnífi.  Var þessi háttsemi talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga.  

Í dóminum kemur fram að Ásgeiri Karlssyni geðlækni hafi verið falið að framkvæma geðrannsókn á sóknaraðila og um þá rannsókn segir svo í dóminum:

„Í skýrslu læknisins um rannsókn þessa, dagsettri 22. mars sl., kemur fram að ákærði hafi byrjað nám í [...]skóla 6 ára gamall.  Hafi námserfiðleikar hans komið fljótlega í ljós og samkvæmt athugun hjá sálfræðideild skóla hafi hann verið talinn vera neðarlega á vanvitastigi með greindarvísitöluna 56 - 58.  Var því mælt með sérkennslu og hóf hann nám í Höfðaskóla og síðar í Öskjuhlíðarskóla.  Var hann talinn með betri nemendum þar af kennara sínum og voru uppi áform um að hann myndi hefja nám í almennum skóla haustið 1977, en úr því varð ekki sökum heilablóðfalls sem hann fékk 23. júní 1977.  Segir í skýrslunni að afleiðing af þessum veikindum ákærða virðist greinilega hafa valdið kaflaskiptum hvað viðvíkur hegðun hans og hæfni.  Gat hann ekki lengur stundað nám í Öskjuhlíðarskóla sökum skorts á einbeitingu og óróleika og hætti því námi á miðjum vetri 1980.  Virðist hegðunartruflanir hafa farið vaxandi á þessu árabili.  Varð ákærði „fiktsamari“ en áður, tók í sundur hluti og eyðilagði þá.  Gerði hann jafnframt ekki lengur grein fyrir ferðum sínum og hvarf að heiman um lengri eða skemmri tíma ef hann var án eftirlits.  Ákærði fór illa með eld og kveikti í íbúð fjölskyldunnar er hann bjó í Y 1978 og 1979 og olli talsverðu tjóni.  Kemur fram í skýrslunni að í kjölfar láts móður ákærða um sumarið 1980 hafi heimilið verið leyst upp og hefur ákærði eftir það verið vistaður á mörgum stöðum.  Í júlí á sl. ári, er ákærði var vestur í Króksfjarðarnesi ásamt forstöðukonu og öðrum vistmanni frá Z í [staðsetning], þar sem ákærði dvaldist þá, komst hann yfir kindabyssu og ógnaði forstöðukonunni með henni.  Að því loknu stal hann bifreið og ók henni áleiðis til Reykjavíkur.  Fær þetta stoð í lögregluskýrslu sem liggur frammi í málinu.  Þá segir í skýrslu þessari að ákærði virðist á engan hátt gera sér grein fyrir að hann eigi nokkurn þátt í þeim erfiðleikum sem hafa skapast í kringum hann og gert það að verkum að hann hafi verið sendur af einum staðnum á annan á undanförnum árum.  Til dæmis hafi ákærði enga tölu á öllum þeim bifreiðum sem hann hefur stolið og kveður það geta verið 20 – 20 (svo) en kannski fleiri.  Þá kemur fram að ákærði geti verið margsaga um sama atburðinn.  Ákærði viðurkenni að hann geti verið fljótur að reiðast og að hann eigi það til að vera með hótanir um ofbeldi eða líflát.  Í skýrslunni er haft eftir föður ákærða að eftir heilablóðfallið 1977 hafi ákærði orðið mjög lyginn og geti hann verið með alls konar tilbúning og sé ekki orð að marka það sem hann segi.  Þá kemur fram hjá forstöðumanni í Z að  ákærði geti oft orðið margsaga um sama atburð eins og hann eigi oft erfitt með að gera greinarmun á raunveruleikanum og barnalegum hugarórum.

Sneiðmyndir af heila ákærða voru teknar 26. mars sl. og kom þá í ljós skemmd á heilavef (infarctus cerebri) miðlægt í vinstri framheila.  Er skemmd þessi allstór og nær allt frá botni fremra heilahólfs og upp úr og gengur einnig alllangt aftur að því svæði sem stjórnar hreyfingum.

Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur lagði fyrir ákærða Wechsler greindarpróf fyrir fullorðna og Raven greindarpróf, „standard“ útgáfu.  Á Wechsler prófinu reyndist greindarvísitala munnlega hlutans vera 74 og greindarvísitala þess verklega 98 og greindarvísitala alls prófsins því 83.  Niðurstöður úr Raven prófinu samsvöruðu greindarvísitölu á bilinu 73 - 78.

Í niðurlagi skýrslunnar segir svo:

„Geðskoðun: B er tæplega meðal maður á hæð, grannvaxinn og væskilslegur með brúnrautt skegg í vöngum og á höku.  Hann er kvikur í hreyfingum en er haltur á hæ. fæti.  Gönguhraði er samt sem áður góður og eðlilegur.  Hann virkar barnalega einlægur í framkomu, laus við alla tortryggni eða feimni og er því samvinnuþýður.  Svipbrigði eru eðlileg og lífleg, bera engan vott um deyfð, leiða eða áhyggjur.  Tal hans og tjáning er eðlileg að formi til, allt að því leikræn á köflum, þannig að hann hermir eftir fólki þegar hann er að rekja samtöl sem hann hefur átt við fólk.  Geðhrif eru vel sveigjanleg, á engan hátt flöt eða óeðlileg og því í samræmi við umræður og hugsanainnihald hverju sinni.  Geðslag getur ekki talist vera hækkað en ber hinsvegar keim af vissu kæruleysi eða allt af því barnalegri sjálfsánægju.  Því er engin merki hægt að greina um sjúklegan kvíða, spennu eða aðra vanlíðan. Hugsun er skýr og hugsanatengsl.  Ekki koma fram merki um hugsanabrengl eða aðrar hugsanatruflanir sem benda til geðveiki.  Hraði hugsana er eðlilegur en hugsanainnihald er barnalegt og óþroskað, og ber vott um grunnt tilfinningalíf.  Orðaforði er nokkuð fátæklegur og orðskilningur á einstaka orðum og hugtökum er greinilega skertur, þó ekki sé um sjaldgæf orð eða hugtök að ræða.  Ekki koma fram neinar haldvillur eða ranghugmyndir, heyrnarofskynjanir eða ofsjónir sem rekja má til geðveikisástands.  Hinsvegar segist B heyra stundum hljóð þegar hann er milli svefns og vöku og skynja látið fólk í kringum sig.  Hér virðist því öllu frekar vera um að ræða barnalega og frumstæða túlkun á skynjun.  Hugsun er að öðru leyti mjög hlutbundin og greinilega er skortur á hæfileika til afstæðrar hugsunar.  Slíkt kemur einkum fram í því að dómgreind hans er verulega skert og barnaleg.  Skilningur á einföldum og algengum málsháttum er lítill sem enginn.  Minni B er mjög gloppótt, hann á erfitt með að tímasetja atburði eða rekja þá í réttri tímaröð.  Skyndiminni hans virðist vera nær óskert en skammtímaminni mjög skert.  Man einungis eina tölu úr 5 stafa talnaröð eftir hálfa mínútu og man einn hlut af þremur eftir 5 mínútur.  Hann er illa áttaður á tíma og hann segist aldrei leggja á sig að muna hvaða mánuður er, en segist þó fylgjast vel með vikudögum.  Hann veit hvaða ártal er og veit hvað hann er gamall.  Hann er þannig vel áttaður á eigin persónu og stað.

Niðurstaða:  Ég tel að B sé ekki haldinn formlegri geðveiki (psychosis).  Hann telst vera treggefinn.  Hann er hinsvegar með skemmd í heila sem rekja má til heilablæðingar (aneurisma art. comm.ant. subarrachnodial hemorrhagia - 430.9)  Heilaskemmd þessi er staðsett í vi. framheila og er all útbreidd.  Afleiðing þessarar heilaskemmdar hefur afgerandi áhrif á hegðunarmunstur B, persónuleika og skapgerð.  Má í því sambandi nefna atriði eins og hvatvísi, lélega félagslega aðlögun.  Skerta dómgreind, grunnt og óstöðugt tilfinningalíf, kæruleysi.  Minnistruflanir eru ennfremur áberandi.  Allt eru þetta þættir sem greina má í miklum mæli í fari B og tel ég því að hann sé ekki sakhæfur.““

Í  niðurstöðu dómsins segir svo:

„Þegar virt er skýrsla og vætti Ásgeirs Karlssonar geðlæknis um geðhagi ákærða, en þar kemur m.a. fram að ákærði er greindarskertur og með alvarlega heilaskemmd sem hefur afgerandi áhrif á hegðunarmunstur ákærða, persónuleika og skapgerð, litið er til þess hve árás ákærða á C var hrottafengin og þess að ákærði hefur engar skýringar gefið á verknaði sínum að öðru leyti en að hann hafi skyndilega tryllst, er það álit dómsins að ákærði hafi, af framangreindum ástæðum, verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann vann umrætt voðaverk, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga.  Verður ákærða þar af leiðandi eigi dæmd refsing í máli þessu og hann sýknaður af kröfu ákæruvaldsins þar að lútandi. 

Með vísan til geðhaga ákærða og þess að hann hefur í máli þessu verið fundinn sekur um manndráp þykir bera að ákveða, réttaröryggis vegna og til varnar því að háski stafi af honum, að ákærði skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi hæli samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga, þar sem hann fái nauðsynlega læknismeðferð.  Samkvæmt 178. gr. laga nr. 74, 1974 um meðferð opinberra mála frestar áfrýjun eigi framkvæmd öryggisgæslunnar.“

Sóknaraðili mun í fyrstu hafa verið í umsjá ættingja sinna samkvæmt sérstöku samkomulagi þar að lútandi þar til Réttargeðdeildinni að Sogni var komið á fót haustið 1992 og hefur hann dvalið þar síðan.

Sóknaraðili gerði þá kröfu í desember 1999 að öryggisgæslu hans yrði aflétt en með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands upp kveðnum 8. júní 2000 var samþykkt að sóknaraðili skyldi sæta breyttri öryggisgæslu og segir svo í úrskurðinum:

„Skal öryggisgæslan verða í höndum og á ábyrgð Rétt­ar­geð­deild­arinnar að Sogni.  Öryggisgæslunni skal hagað þannig að sóknaraðili dveljist áfram að Sogni og hljóti þar áframhaldandi meðferð.  Eftir mat á geðhöfn og stöðugleika sóknaraðila er yfirlækninum að Sogni heim­ilt að ákveða að sóknaraðili  megi dveljast hjá ættingjum sínum allt að fjóra sólarhringa í mánuði hverjum, þó ekki lengur en tvo sólarhringa í senn.  Meðan á dvöl sóknaraðila utan réttargeðdeildarinnar stendur skal sóknaraðili vera í umsjá starfsmanns geðdeildarinnar, eða einhvers þess sem yfirlæknir deildarinnar metur hæfan til að annast sóknaraðila.  Jafnframt skal tryggt að sóknaraðili verði aldrei einn með börnum eða minni máttar né hafi aðgang að skotvopnum, eggvopnum eða eldfærum.“  

III.

Vegna kröfu sóknaraðila um lausn úr öryggisgæslu hefur dómurinn fengið umsögn fagaðila á Réttargeðdeildinni að Sogni og tekið skýrslur af sóknaraðila og vitnum eins og nú verður rakið.

Í umsögn Magnúsar Skúlasonar, yfirlæknis, dagsettri í maí 2008 segir að því sé alfarið hafnað að breyta megi öryggisgæslu þeirri og meðferð sem sóknaraðili sætir nú og sé dómurinn á öðru máli verði hann einnig að annast útvegun aðila til eftirfylgdar og taka alla ábyrgð á afleiðingunum.  Magnús kom ekki fyrir dóm við meðferð málsins. 

Lögð hefur verið fram í málinu greinargerð John Donne De Niet, geðlæknis, dags. 10. júní sl.  Hann kvaðst hafa kynnst sóknaraðila þegar hann hóf störf að Sogni í september 2006.   Honum virtist hann hress og kátur og taldi hann yfirleitt sáttan við dvöl sína að Sogni.  Hann geti auðveldlega misst yfirsýn ef margt sé að gerast á sama tíma og geti hann þá brugðist við á ögn ofsóknarkenndan hátt eða tilfinningaþrunginn.  Framkoma hans gæti haft leikrænan undirtón og hann sé viðkvæmur fyrir óskum annarra sjúklinga og sé nokkuð áhrifagjarn.  Virðist andlegur þroski hans svipaður og búast megi við hjá 12 ára dreng.  Sóknaraðili taki 100 mg Phenytoin vegna heilaskaða sem hann hafi orðið fyrir, en það sé úreltur skammtur.  Hann sé sálfræðilega háður þessari lyfjagjöf.  Sóknaraðili taki alltaf þátt í morgunsamkomum, sé félagslega virkur og með jákvætt viðhorf.  Hann tali mjög frjálslega.  Hins vegar stafi af honum mikil ólykt og greinilegt að hann vanræki eigin umhirðu og hreinlæti og þurfi hann aðstoð við almennt hreinlæti.  Sóknaraðili hafi verið greindur andlega fatlaður og séu líkamlegar hömlur við gang og takmarkaðar hreyfingar í efri útlimum.  Hann sé stundum hömlulaus í tjáningu tilfinninga, þær geti orðið ofsóknarkenndar þegar hann tapi stjórninni eða þegar hlutir séu of flóknir til að hann geti skilið þá.  Sérstaklega sé stjórnun kynferðislegra hvata og tengsl þeirra við tilfinningar dálítið ófyrirséð og geti leitt hvatvísi af því.  Síðustu ár hafi komið fram að hann hafi verið upptekinn af kynferðislegum hvötum til ungra barna og virðist hann ekki hafa neitt samviskubit þegar hann greini frá óskum sínum gagnvart börnum.  Finnist honum eingöngu jákvætt að hann langi til að snerta kynfæri þessara barna.  John segir að ekki hafi orðið vart við athafnir eða tilhneigingar af kynferðislegum toga gagnvart öðrum sjúklingum.  Svo virðist sem hann laðist aðallega að fólki sem sé andlega fatlað eða varnarlausum börnum.  Ekki sé mögulegt að sjá fyrir hvernig sóknaraðili gæti tjáð kynferðislegar hvatir sínar á eðlilegan hátt og af stillingu.  Yfirleitt hafi hann stöðu lítilmagnans í hópnum en í samskiptum við börn gæti hann orðið stjórnandi án þess að geta haft stjórn á sjálfum sér.  Vegna kynlífsafbrigða þurfi sóknaraðili 24 stunda eftirlit á deild þar sem hægt sé að fylgjast með honum og vegna skorts á hreinlæti þurfi hann meira og minna daglegt eftirlit.   John kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.  Hann kvað nauðsynlegt að sóknaraðili dveldi þar sem væri sólarhringsgæsla og þá gæti hann ekki farið ferða sinna án fylgdar.

Lögð hefur verið fram í málinu samantekt Víðis Hafberg Kristinssonar, sálfræðings dags. 24. mars sl.  Þar kemur fram að klínískt ástand sóknaraðila sé líkt því sem það hafi verið frá því hann hafi fyrst komið að Sogni.  Hann sé þægilegur viðskiptis daglega og algjörlega laus við að vera ógnandi gagnvart nokkrum á Sogni.  Hann sé kurteis en fari úr jafnvægi sé honum strítt.  Þurfi lítið til að gleðja hann, hvort sem það séu bílferðir eða heimsóknir til ættingja.  Sífellt þurfi að reka á eftir honum með að fara í bað, skipta um föt og taka til í herberginu sínu, en hann sé hins vegar vinnufús.  Í samtölum Víðis við sóknaraðila hafi komið fram að sóknaraðili telji ekki möguleika á að hann geti dvalið hjá ættingjum.  Hann vilji helst vera á sveitabæ því þar finnist honum gaman og þyki skemmtilegt að vera innan um dýr.  Sóknaraðili hefði haft áhuga á stúlkum og þá hafi honum ekki fundist neitt sérstaklega gaman að börnum og hefði hann engan kynferðislegan áhuga á þeim.  Hann hafi ekki kannast  við að hafa verið neitt að eiga við börn á kynferðislegum forsendum en viðurkenndi þó að hafa lítillega káfað á yngri systur sinni og fósturbróður og hafi forvitni ráðið ferðinni.  Víðir kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.

Atvikaskráning er tekin saman í maí 2008 af Drífu Eysteinsdóttur, deildarstjóra að Sogni og aðstoðardeildarstjórunum þar, þeim Hrafnhildi Guðmundsdóttur og Katrínu Ósk Þorgeirsdóttur og Önnu Maríu Gunnarsdóttur, hjúkrunarfræðingi.  Þar kemur fram að sóknaraðili geti verið mjög uppstökkur, frekur og stundum rjúki hann upp af tilefnislausu, hann þoli illa áreiti og upplifi það stundum sem einelti ef samsjúklingar hans gantist með hann.  Flesta daga sé hann ljúfur og auðveldur í umgengni en hann eigi til að vera orðljótur.  Barnagirnd sóknaraðila geri hann hættulegan og átti hann sig ekki á því að kynferðisleg áreitni gagnvart minni máttar, hvort sem er í orðum eða verki, sé röng og virðist hann ekki skilja alvarleika þessa athæfis.  Sé hætta á að hann leiti á börn finni hann sig í þeirri stöðu.  Sóknaraðili sé ekki meðvitaður um hreinlæti sitt og þoli illa aðfinnslur.  Hann sé hins vegar duglegur að vinna við kortapökkun o.fl. og í mörg ár hafi hann séð um grasslátt fyrir framan húsið að Sogni.  Þá kemur fram að sóknaraðili þurfi manninn með sér, annað væri ábyrgðarlaust.  Leitað hafi verið til félagsþjónustunnar í Reykjavík og svæðisskrifstofunnar á Suðurlandi um annað úrræði fyrir hann en án árangurs.  Þær telja að eins og staðan sé líði sóknaraðila best á Sogni og sé það besti staðurinn fyrir hann.  Þær myndu hins vegar fagna því ef betra úrræði fyndist fyrir hann þar sem hann fengi að blómstra sem einstaklingur.  Þær Hrafnhildur og Katrín Ósk komu fyrir dóm og staðfestu ofangreinda skýrslu.

A, tilsjónarmaður sóknaraðila og bróðir hans, skýrði svo frá fyrir dómi að sóknaraðili hafi lítið breyst frá því hann kom fyrst að Sogni, en hann sé þó rólegri.  Hann hafi kvartað undan einelti sem hann hafi orðið fyrir þar og taldi hann nauðsynlegt að hann yrði leystur þaðan sem fyrst.  Hann kvaðst ekki sjá fyrir sér að sóknaraðili myndi dvelja á sveitabæ yrði hann látinn laus en taldi að best væri fyrir hann að dvelja á sambýli á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann sætti sólarhringsgæslu.   Hann kvaðst hafa komið því á framfæri á sínum tíma að sóknaraðili væri haldinn barnagirnd og af þeim ástæðum væri ekki hægt að hafa hann hjá þeim af fjölskyldunni sem væru með börn á heimili sínu.

Sóknaraðili kom fyrir dóminn og lýsti yfir vilja sínum til þess að losna frá Sogni sem fyrst en honum líði ekki alltaf vel þar.   Hann kvaðst ekki sjá fyrir sér hvert hann færi yrði hann látinn laus en lýsti yfir vilja sínum til að dvelja á einhverjum sveitabæ.  Hann kannaðist við að hafa leitað á börn en taldi sig alveg lausan við slíkt í dag.  Hann kvaðst sáttur við að sæta sólarhringseftirliti yrði hann látinn laus. 

IV.

Í 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að ákveða megi í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til varnar því að háski verði af manni sem hefur verið sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr. laganna. Á grundvelli þessa ákvæðis var sóknaraðila gert að sæta öryggisgæslu með dómi sakadóms Reykjavíkur frá 7. maí 1991.  Ótímabundin og algjör öryggisgæsla eru ýtrustu úrræði, en þeim skal aðeins beita komi vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis ekki að notum, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Framangreind úrræði 62. gr. eru ekki tæmandi talin. Ákvæðið hefur verið skýrt svo, að dómstólar geti breytt fyrri ákvörðun, ákveðið vægari úrræði en algjöra öryggisgæslu, eða hert gæslu allt eftir aðstæðum og nauðsyn hverju sinni. Einnig er litið svo á, og eru dómafordæmi fyrir því, að lausn eða mildun öryggisgæslu megi vera háð skilyrðum. Nauðsynlegt er að úrræði eða rýmkun á öryggisgæslu séu ákveðin svo skýrt sem verða má, þannig að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja þeim og sá sem í hlut á viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta.

Fram er komið í máli þessu að sóknaraðili er greindarskertur og með alvarlega heilaskemmd sem hefur afgerandi áhrif á hegðunarmynstur hans, persónuleika og skapgerð.  Hann gerðist sekur um alvarlegan verknað árið 1991 eins og rakið hefur verið og hefur hann síðan sætt öryggisgæslu.

Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands upp kveðnum 8. júní 2000 var samþykkt að sóknaraðili skyldi sæta breyttri öryggisgæslu og var heimilað að hann fengi að dveljast hjá ættingjum sínum allt að fjóra sólarhringa í mánuði hverjum, þó ekki lengur en tvo sólarhringa í senn.  Þá var talið nauðsynlegt að tryggja að hann yrði aldrei einn með börnum eða minni máttar eða hefði aðgang að skotvopnum, eggvopnum eða eldfærum.  

Dómurinn hefur virt og metið allt það sem hér að framan hefur verið rakið um sjúkdóm, meðferð, bata og batahorfur sóknaraðila, viðhorf hans sjálfs til geðheilsu sinnar og aðstæðna allra.   Það er samdóma álit þeirra fagaðila sem gefið hafa skýrslu í máli þessu að geðhagir sóknaraðila hafi ekki breyst að neinu marki og ekki komi til greina að leysa hann undan öryggisgæslu að fullu.  Þá telja þeir nauðsynlegt að búsetu hans sé þannig háttað að hann sæti eftirliti allan sólarhringinn.  Þá er talið sérstaklega nauðsynlegt að vernda börn gegn honum en fram er komið að hann sé haldinn barnagirnd.  Þegar framanritað er virt ber að hafna þeirri kröfu sóknaraðila að hann verði leystur úr öryggisgæslu.

Dómurinn leggst hins vegar ekki gegn því að heilbrigðisyfirvöld finni annað búsetuúrræði en Sogn fyrir sóknaraðila.   Slíka búsetu verður að binda því skilyrði að sóknaraðili dvelji á stofnun þar sem hann sætir gæslu allan sólarhringinn, sé ætíð með gæslumanni utan dyra og komist hvorki í tæri við börn né minni máttar.  Ekki þykir ástæða til að hrófla við þeirri tilhögun varðandi dvöl hjá ættingjum sem ákveðin var í úrskurði dómsins 8. júní 2000 og með þeim skilyrðum sem þar voru sett.

Málskostnaður er felldur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, en hann er málflutningsþóknun lögmanns hans, Brynjólfs Eyvindssonar, héraðsdómslögmanns, þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur utan virðisaukaskatts og greiðist úr ríkissjóði. 

Úrskurðinn kveður upp Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, ásamt Ástríði Grímsdóttur, héraðsdómara og Kristni Tómassyni, geð- og embættislækni.  Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómenda.

Úrskurðarorð:

Aðalkröfu A, skipaðs tilsjónarmanns, f.h. B, um að aflétt verði öryggisgæslu sem B var gert að sæta samkvæmt dómi sakadóms Reykjavíkur, upp kveðnum 7. maí 1991, er hafnað.   

Fallist er á varakröfu um að heilbrigðisyfirvöldum sé heimilt að finna annað búsetuúrræði en Sogn fyrir B með þeim skilyrðum er að framan greinir. 

Þá skal óhögguð sú breyting öryggisgæslunnar sem gerð var með úrskurði dómsins 8. júní 2000 með þeim skilyrðum sem þar voru sett.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, málflutningsþóknun lögmanns hans, Brynjólfs Eyvindssonar, héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur utan virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.