Print

Mál nr. 92/2010

Lykilorð
  • Samningur
  • Lán
  • Verðtrygging
  • Gengistrygging

                                                        

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 92/2010.

Óskar Sindri Atlason

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

SP-Fjármögnun hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Samningur. Lán. Verðtrygging. Gengistrygging.

S og Ó gerðu með sér samning í maí 2007 með fyrirsögninni „Bílasamningur Kaupleiga“. Í samningnum kom fram að leigutíminn yrði til 4. ágúst 2014, en að honum liðnum gæti Ó orðið eigandi bifreiðarinnar gegn greiðslu á 1.000 krónum. Mánaðarlegar leigugreiðslur skyldi Ó greiða í 84 skipti. Í samningnum kom fram að hann væri 100% gengistryggður og ætti leiga að miðast við ákveðna myntkörfu og ráðast af sölugengi hverju sinni. Á útgáfudegi leigureiknings tækju einstakar greiðslur því breytingum til hækkunar eða lækkunar miðað við sölugengi hinna erlendu gjaldmiðla. Jafnframt tækju leigugreiðslurnar breytingum miðað við Libor-vexti. Leigufjárhæðin væri hins vegar alltaf innheimt í íslenskum krónum. Fjárhæð mánaðarlegra greiðslna fór hækkandi og stóð Ó ekki skil á greiðslum frá og með september 2008. Neytti S þá vanefndarúrræða samkvæmt samningnum og krafði Ó meðal annars um gjaldfallna leigu og eftirstöðvar samkvæmt samningi. Snérist deila aðila um þrjú atriði, hvort samningur þeirra væri lánssamningur eða leigusamningur, hvort hann væri um skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar væru gengi erlendra gjaldmiðla og loks hvort slík gengistrygging, væri um hana að ræða, væri heimil að lögum. Litið var meðal annars til þess að í niðurlagi samnings segði að leigutaki gerði sér grein fyrir að „lántaka í erlendum gjaldmiðli“ væri áhættusöm, í greiðsluyfirliti var jafnframt rætt um afborganir og sýnt hverjar yrðu „eftirstöðvar“ og í skilmálum voru ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða afborgunum. Þá var þar jafnframt gengið út frá því að við vanefndir gæti S rift samningi og allt að einu krafið Ó um fullar greiðslur til loka samningstímans. Auk þessa yrði að gæta að því að Ó hefði ekki leitað eftir því að taka á leigu bifreið frá S heldur valið bifreiðina og samið um kaup hennar án þess að S kæmi þar nærri. Varð því að líta svo á að S hefði í raun veitt Ó lán til kaupa á bifreið, sem S hefði kosið í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að um lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið að ræða. Talið var að samningur aðila bæri skýrlega með sér að hann væri um lán í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar og mánaðarlegar greiðslur voru tilgreind í íslenskum krónum. Þá kom berum orðum fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af. Af þessum sökum var talið ótvírætt að samningur aðilanna væri um skuldbindingu í íslenskum krónum og félli hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Rakið var að í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 38/2001, og öðrum lögskýringargögnum varðandi þau hefði ítrekað verið tekið fram að með þeim yrðu felldar niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að rétt væri að taka af allan vafa þar af lútandi. Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum. Ákvæði í samningi S og Ó um gengistryggingu hefðu því verið í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og því ekki skuldbindandi af þeim sökum. Var Ó því sýknaður af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem verði látinn falla niður. Hann krefst ekki málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandi gerði samning við stefnda 5. maí 2007 með fyrirsögninni „Bílasamningur Kaupleiga“. Í honum var áfrýjandi nefndur leigutaki og stefndi leigusali, hið leigða var bifreið af gerðinni Volvo S40, sem fyrst hafi verið skráð 3. júlí 2006, og var seljandi Nýja Bílahöllin í Reykjavík. Leigutíminn yrði til 4. ágúst 2014, en að honum liðnum gæti áfrýjandi orðið eigandi bifreiðarinnar gegn greiðslu á 1.000 krónum. Í liðum II og III í samningnum kom fram að kaupverð bifreiðarinnar væri 3.600.000 krónur, en frá því var dregin „innborgun“ að fjárhæð 400.000 krónur og bætt við stofngjaldi ásamt umsýslugjaldi, samtals 123.316 krónur, og fékkst með þessu svokallað samningsverð, sem var 3.323.316 krónur. Mánaðarlegar leigugreiðslur áttu að verða 46.295 krónur, sem áfrýjandi skyldi greiða í 84 skipti, í fyrsta sinn 4. september 2007. Sagði þar einnig að „samningurinn er 100% gengistryggður“ og ætti leiga að „miðast við myntkörfuna BL2 og ræðst af sölugengi hverju sinni“, en sú skýring var einnig gefin að þessi myntkarfa væri „CHF 50% JPY 50%“. Í niðurlagi samningsins var vísað um önnur atriði til almennra samningsskilmála bílasamninga stefnda og eftirfarandi tekið fram: „Leigutaki lýsir því yfir með undirskrift sinni að hann gerir sér fulla grein fyrir því að lántaka í erlendum gjaldmiðli er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum. Annars vegar er um að ræða gengisáhættu sem getur leitt til hækkunar á höfuðstól á lánstíma og þar með hækkun á afborgun höfuðstóls og vaxta. Hins vegar er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, eins mánaða LIBOR vöxtum, með föstu álagi. Vextir fyrir hverja mynt eru aðeins ákveðnir til eins mánaðar í senn og geta því breyst með vaxtaákvörðunum í heimaríkjum hverrar myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geta haft áhrif til hækkunar.“

Í áðurnefndum almennum samningsskilmálum stefnda sagði eftirfarandi í 4. mgr. 2. gr.: „Sé leigugjald í lið III gengistryggt að hluta eða að öllu leyti er miðað við breytingar á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni á samningstímanum. Á útgáfudegi hvers leigureiknings taka einstakar leigugreiðslur því breytingum til hækkunar eða lækkunar miðað við sölugengi hinna erlendu gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Jafnframt taka leigugreiðslurnar breytingum miðað við vexti erlendu gjaldmiðlanna á millibankamarkaði í London (LIBOR). Leigufjárhæðin er hins vegar alltaf innheimt í íslenskum krónum. Við útreikning leigu skal miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli/ eða gjaldmiðlum eins og það er á hverjum tíma.“ Samningnum fylgdi greiðsluyfirlit, sem áfrýjandi undirritaði. Í því var sýnt hverjar greiðslur yrðu á hverjum hinna 84 gjalddaga, þar sem fram kom við hvern þeirra hver „afborgun“ yrði og vextir, svo og hver heildarfjárhæð ætti að greiðast hverju sinni að meðtöldu svokölluðu greiðslugjaldi, en jafnframt var tilgreint hverjar „eftirstöðvar“ yrðu eftir hverja greiðslu. Fyrsta greiðsla áfrýjanda átti samkvæmt þessu yfirliti að nema 84.002 krónum og næstu 83 greiðslurnar 46.445 krónum í hvert skipti, en lokagreiðsla 4. september 2014 átti að vera að fjárhæð 1.150 krónur. Í lok þessa yfirlits var tekið fram að þar væri aðeins um áætlun að ræða og væri ekki tekið tillit til breytinga, sem orðið gætu „vegna verðbóta og/eða gengisbreytinga.“

Stefndi hefur lagt fram í málinu samrit sautján fyrstu greiðsluseðlanna, sem hann gaf út á hendur áfrýjanda á grundvelli framangreinds samnings þeirra. Í skýringum á hverjum seðli er greiðsla sundurliðuð milli tveggja erlendra mynta, annars vegar svissneskra franka og hins vegar japanskra yena, og „afborgun“ ásamt vöxtum tilgreind í íslenskum krónum. Af þessum seðlum verður séð hvernig fjárhæð mánaðarlegra greiðslna, sem miðað var við að næmu áðurnefndum 46.445 krónum við gerð samningsins, tók breytingum á þessu tímabili. Lægst fór hún í 46.508 krónur í nóvember 2007 og hæst í 112.186 krónur í desember 2008, en á síðasta seðlinum, sem var vegna janúar 2009, var fjárhæðin 106.005 krónur. Samkvæmt gögnum málsins stóð áfrýjandi ekki skil á greiðslum frá og með september 2008 og neytti stefndi af þeim sökum vanefndaúrræða samkvæmt samningi þeirra með því að taka bifreiðina úr vörslum áfrýjanda í janúar 2009. Í bréfi stefnda til áfrýjanda 27. þess mánaðar sagði að þann dag hafi samningi þeirra frá 5. maí 2007 verið rift og ætti áfrýjandi við uppgjör samkvæmt ákvæðum samningsins að greiða 5.087.619 krónur, sem sundurliðað var þannig að gjaldfallin leiga væri 495.227 krónur, dráttarvextir og kostnaður 32.487 krónur, „eftirstöðvar samnings“ 6.212.606 krónur, kostnaður af mati og skoðun 279.194 krónur og kostnaður af nýjum hjólbörðum 108.105 krónur, en til frádráttar kæmi matsverð bifreiðarinnar, 2.040.000 krónur.

Stefndi höfðaði mál þetta 3. apríl 2009 og krafðist þess að áfrýjanda yrði gert að greiða sér 5.055.132 krónur með dráttarvöxtum frá 27. janúar sama ár og málskostnað, en höfuðstóll þessarar kröfu var myndaður af sömu liðum og að framan greinir að frátöldu því að þar var ekki tekin með krafa um dráttarvexti og kostnað að fjárhæð 32.487 krónur. Við aðalmeðferð málsins í héraði féll stefndi frá kröfuliðum vegna nýrra hjólbarða og kostnaðar af mati og skoðun bifreiðarinnar, auk þess að hækka matsverð hennar í 2.400.000 krónur, en með þessu lækkaði krafa stefnda um samtals 747.299 krónur. Krafan var tekin til greina með þessum breytingum í hinum áfrýjaða dómi og áfrýjanda gert að greiða stefnda 4.307.833 krónur með umkröfðum dráttarvöxtum og 400.000 krónur í málskostnað.

Ágreiningur aðilanna snýst um það hvort heimilt hafi verið að binda fjárhæðir í íslenskum krónum í samningi þeirra frá 5. maí 2007 við gengi erlendra gjaldmiðla á þann hátt, sem áður var lýst. Áfrýjandi ber aðallega fyrir sig að ákvæði um þetta í samningnum séu andstæð heimildum í 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til að verðtryggja lánsfé og af þeim sökum ógild.

II

Hömlur voru löngum á gjaldeyrisviðskiptum hér á landi allt þar til þeim var aflétt fyrir miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Skorður voru og settar við frelsi manna til að semja um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Rekja má forsögu reglna um verðtryggingu í lögum nr. 38/2001 aftur til laga nr. 4/1960 um efnahagsmál. Þar sagði í 6. gr. að ekki væri heimilt að stofna til skuldar í íslenskum krónum með ákvæði þess efnis að hún eða vextir af henni breyttust í samræmi við gengi erlends gjaldeyris, nema um væri að ræða endurlánað erlent lánsfé. Í 1. gr. laga nr. 71/1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem leysti þessa reglu af hólmi, sagði að ekki væri heimilt frekar en leyft væri í þeim lögum að stofna til fjárskuldbindinga í íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis að greiðslur, þar með taldir vextir, skyldu breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölum, vöruverði, gengi erlends gjaldeyris eða verðmæti gulls, silfurs eða annars verðmælis. Ákvæði í fjárskuldbindingum sem brytu í bága við þetta væru ógild. Í 2. gr. laganna var vikið frá þessu banni á þann hátt að þeim, sem endurlánaði erlent lánsfé, væri heimilt að áskilja að hið innlenda lán ásamt vöxtum endurgreiddist miðað við sama gengi og gilti um endurgreiðslu hins erlenda láns.

Í stað þeirra reglna, sem að framan greinir, komu ákvæði í lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl. Í 33. gr. þeirra var mælt fyrir um almenna heimild til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár, sem háð var fjórum skilyrðum samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laganna. Fjórða skilyrðið laut að grundvelli verðtryggingar, sem gat verið annað hvort að miða við opinbera skráða verðvísitölu eins og hún væri reiknuð á hverjum tíma eða gengi erlends gjaldeyris þar sem slíkt væri heimilt samkvæmt lögum eða reglugerð. Sagði í 2. mgr. 39. gr. að Seðlabanki Íslands skyldi birta vísitölur, sem heimilt væri að miða verðtryggingu sparifjár og lánsfjár við, ásamt vaxtakjörum. Á grundvelli þessa ákvæðis var meðal annars sett reglugerð nr. 563/1987 um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum, þar sem heimilað var að binda innlán og útlán annað hvort við reikningsgengi á reikningseiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem nefnd var SDR, eða Evrópureikningseiningu, sem kallaðist ECU.

Með lögum nr. 13/1995 voru ákvæði um þetta efni færð í vaxtalög nr. 25/1987, þar sem þeim var skipað í nýjan V. kafla laganna, sem fjallaði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Þar sagði í 20. gr. að ákvæði þessa kafla giltu um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum, þar sem skuldari lofaði að greiða peninga og áskilið væri að greiðslurnar skyldu breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr. laganna. Í síðastnefndri lagagrein sagði að það væri skilyrði verðtryggingar sparifjár og lánsfjár samkvæmt 20. gr. að grundvöllur hennar væri annaðhvort vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknaði samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birti mánaðarlega í Lögbirtingablaði, eða vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða samsettum gjaldmiðlum, sem Seðlabanki Íslands reiknaði og birti mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Viðskiptaráðherra var heimilað að setja nánari ákvæði um gengisvísitölur í reglugerð að fenginni tillögu Seðlabankans. Með stoð í þessari heimild var sett reglugerð nr. 151/1995 um almenna heimild til að binda inn- og útlán við gengisvísitölur SDR og ECU, sem reglugerð nr. 293/1999 með sama heiti leysti af hólmi, en í þeim voru sambærileg ákvæði og í fyrrnefndri reglugerð nr. 563/1987.

Áður en síðastnefnd lagabreyting var gerð hafði viðskiptaráherra í ágúst 1994 skipað nefnd til að endurskoða vaxtalög nr. 25/1987. Hún lauk störfum í október 1995, en frumvarp til laga um vexti, dráttarvexti og verðtryggingu, sem var byggt á vinnu nefndarinnar og lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997 til 1998, náði ekki fram að ganga. Ný nefnd var skipuð í apríl 2000 til að endurskoða vaxtalög og var frumvarp, sem í meginatriðum var reist á störfum hennar, lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000 til 2001. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kom fram að nefndin sem samdi það hafi byggt starf sitt að miklu leyti á vinnu nefndarinnar, sem skipuð var í ágúst 1994. Síðari nefndin hafi verið einhuga í afstöðu sinni að öðru leyti en því að fulltrúi Sambands íslenskra viðskiptabanka og Sambands íslenskra sparisjóða hafi verið andsnúinn takmörkunum á frelsi til samninga um dráttarvexti og þeim hömlum, sem áfram ættu að verða á notkun verðtryggingar. Í almennu athugasemdunum var einnig vísað til þess að íslenskur fjármagnsmarkaður hefði tekið margvíslegum breytingum frá því að vaxtalög nr. 25/1987 tóku gildi, en meðal þeirra helstu væru afnám síðustu gjaldeyrishaftanna í árslok 1994, sem hafi valdið að íslenskur fjármagnsmarkaður hafi tengst erlendum traustari böndum en áður, efling hlutabréfamarkaðar, stofnun gjaldeyrismarkaðar, veruleg aukning fjárfestinga í erlendum verðbréfum og sókn innlendra lánastofnana á erlenda markaði með stofnun útibúa, skrifstofa og dótturfélaga og kaupum á erlendum bönkum. Í lýsingu á meginefni frumvarpsins kom fram að almennt hafi verið litið á það sem eins konar verðtryggingu peningakrafna að þær væru í erlendri mynt, en þær aðstæður væru ekki lengur fyrir hendi. Þar var einnig tekið fram að ekki væru lagðar til meginbreytingar á stefnu stjórnvalda í verðtryggingarmálum. Gert væri ráð fyrir að heimilt yrði að verðtryggja sparifé og lánsfé ef grundvöllur verðtryggingarinnar væri vísitala neysluverðs, en á hinn bóginn væru lagðar til breytingar á reglum í verðtryggingarkafla vaxtalaga, þar á meðal að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla yrðu felldar niður, tekið yrði af skarið um að afleiðusamningar féllu ekki undir ákvæði laganna og heimilt yrði í skuldaskjölum að miða við vísitölur, sem mæli ekki breytingar á almennu verðlagi með sama hætti og vísitala neysluverðs. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins sagði að í 13. gr. væri fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í 1. mgr. væri lagt til að heimildir til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla yrðu felldar niður. Frá 1960 hafi þetta almennt verið óheimilt og hafi sú regla verið tekin upp í lög nr. 13/1979, en þó þannig að beita hafi mátt í þessu skyni sérstökum gengisvísitölum, sem Seðlabanki Íslands hafi birt, og hafi það verið liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins yrði ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla og væri talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Þegar mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi kom einnig fram að samkvæmt reglum þess yrðu heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla felldar niður, enda eðlilegt, ef menn vildu miða fjárhæð skuldbindingar við erlendan gjaldmiðil, að hann yrði notaður beint. Í lögskýringargögnum liggur að auki fyrir að við meðferð frumvarpsins á Alþingi gerðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja þær athugasemdir í umsögn að ekki yrði séð hvaða rök væru fyrir því að takmarka heimildir til verðtryggingar í 14. gr. þess við tilteknar vísitölur, en næði frumvarpið fram að ganga yrði eins og eftir þágildandi lögum óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt á meðan ekkert bannaði að veita lán beint í erlendu myntinni. Frumvarpinu var í engu breytt að þessu leyti og varð það að lögum nr. 38/2001.

III

Deila málsaðila snýst um þrjú atriði, hvort samningur þeirra frá 5. maí 2007 sé lánssamningur eða leigusamningur, hvort hann sé um skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla, og loks hvort slík gengistrygging, sé um hana að ræða, sé heimil að lögum.

Eftir heiti VI. kafla laga nr. 38/2001, sem 13. gr. til 16. gr. þeirra heyra til, tekur hann til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Stefndi heldur því fram að samningurinn frá 5. maí 2007 sé ekki um lán, heldur leigu og falli hann þar af leiðandi ekki undir þessar reglur laganna, en af þeim sökum hafi verið frjálst að semja um gengistryggingu án tillits til þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1980, bls. 1291 í dómasafni það ár, í máli nr. 98/1978.

Svo sem rakið hefur verið er í texta samningsins tekið fram að hann sé um kaupleigu, en allt að einu var þó í niðurlagi hans sagt að leigutaki gerði sér grein fyrir því að „lántaka í erlendum gjaldmiðli“ væri áhættusöm, því gengisbreytingar gætu leitt til „hækkunar á höfuðstól á lánstíma og þar með hækkun á afborgun höfuðstóls og vaxta.“ Í greiðsluyfirliti var jafnframt rætt um afborganir og sýnt hverjar yrðu „eftirstöðvar“ eftir hverja greiðslu. Í skilmálum, sem fylgdu samningnum, voru ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða afborgunum, en slíkt tíðkast í lánssamningum og á engan veginn við í leigusamningum. Þá var þar jafnframt gengið út frá því að við vanefndir gæti stefndi rift samningi og allt að einu krafið gagnaðila um fullar greiðslur til loka samningstímans, en við riftun leigusamnings fellur niður eðli máls samkvæmt skylda leigutaka til áframhaldandi greiðslu á leigu, þótt leigusali geti eftir atvikum krafið hann um bætur vegna missis leigutekna að því afstöðnu. Í samningnum var þessu til viðbótar gengið út frá því að áfrýjandi yrði eigandi bifreiðarinnar gegn greiðslu á 1.000 krónum eftir að hafa innt af hendi 84 mánaðarlegar afborganir, sem svo voru nefndar bæði í greiðsluyfirliti og greiðsluseðlum frá stefnda. Auk alls þessa verður að gæta að því að eftir gögnum málsins leitaði áfrýjandi ekki eftir því að taka á leigu frá stefnda bifreið, sem sá síðarnefndi átti þá þegar, heldur valdi áfrýjandi bifreiðina og samdi um kaup hennar, þar á meðal um verð og greiðslukjör, án þess að stefndi kæmi þar nærri. Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni. Af þessum sökum verður lagt til grundvallar að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.

Stefndi heldur því í annan stað fram að hvað sem framangreindu líður hafi samningur hans við áfrýjanda ekki tekið til skuldbindingar í íslenskum krónum, heldur í erlendri mynt, og sé því ekki um að ræða verðtryggingu samningsfjárhæðarinnar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Samningurinn beri með sér að hann hafi tekið til svokallaðrar myntkörfu í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum, en stefndi hafi sjálfur tekið samsvarandi lán í þeim myntum hjá viðskiptabanka sínum og endurlánað á þennan hátt. Samningar af þessum toga hafi verið algengir, enda hafi vextir af erlendu lánsfé verið lágir á þessum tíma miðað við lán í íslenskum krónum, en engar skorður hafi verið settar við því að stefndi gæti lánað öðrum fjárhæð í erlendri mynt og hafi þessi starfsemi hans engum athugasemdum sætt frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, sem hafi haft eftirlit með henni.

Lán í erlendri mynt falla ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Til þess verður á hinn bóginn að líta að samningur aðilanna ber skýrlega með sér að hann var um lán í íslenskum krónum, en fjárhæðin, sem ákveðin var í þeirri mynt, væri bundin við gengi tveggja erlendra mynta í þar greindum hlutföllum. Kaupverð bifreiðarinnar, sem samningurinn snerist um, var jafnframt tilgreint í íslenskum krónum og mánaðarlegar greiðslur í 84 mánuði ákveðnar í sama gjaldmiðli. Berum orðum kom fram í skilmálum með samningnum að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af, og sagði að auki í texta samningsins að hann væri „100% gengistryggður“. Af þessum sökum er ótvírætt að samningur aðilanna var um skuldbindingu í íslenskum krónum og fellur hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001.

Samkvæmt framansögðu er komist að þeirri niðurstöðu að samningur stefnda við áfrýjanda 5. maí 2007 hafi verið lánssamningur í íslenskum krónum og gengistryggður eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum hans. Stefndi heldur því fram að slík gengistrygging sé ekki andstæð lögum nr. 38/2001 og vísar til þess að í 13. gr. þeirra sé skilgreint hvað sé átt við með verðtryggingu í skilningi VI. kafla laganna, en þar komi fram að hún sé breyting á fjárhæð í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Samkvæmt þessu taki hugtakið verðtrygging í VI. kafla laganna ekki til breytinga á skuldbindingu eftir gengi erlendra gjaldmiðla.

Um þessar röksemdir stefnda er þess að gæta að samkvæmt áðurgreindri forsögu ákvæða VI. kafla laga nr. 38/2001 hefur heimild til að miða verðtryggingu við gengi erlends gjaldmiðils í áratugi þurft að styðjast við lög eða reglugerð. Ekki verður séð að almennar reglur um slíka verðtryggingu hafi áður verið að finna annars staðar en í 39. gr. laga nr. 13/1979 og síðar 21. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, eins og þeim var breytt með lögum nr. 13/1995, en þar voru veittar heimildir til að binda sparifé og lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu á svokölluðum samsettum gjaldmiðlum, sem Seðlabanki Íslands ákvað eftir fyrrnefndum reglugerðum. Eins og áður var rakið var í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 38/2001, og öðrum lögskýringargögnum varðandi þau ítrekað tekið fram að með þeim yrðu felldar niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og sagði einnig að rétt væri að taka af allan vafa þar að lútandi. Í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 er að sönnu ekkert rætt um bindingu lánsfjár í íslenskum krónum við gengi erlends gjaldmiðils. Í 13. gr. segir að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað. Í 1. mgr. 14. gr. segir að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar, og í 2. mgr. 14. gr. segir að í lánssamningi sé þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Af lögskýringargögnum er ljóst að ætlun löggjafans var að fella niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og heimila einungis að þær yrðu verðtryggðar á þann hátt sem í 14. gr. laganna segir. Vilji löggjafans kom skýrlega fram í því að í orðum lagaákvæðanna var eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar var ekkert rætt um þær tegundir, sem óheimilt var að beita. Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum. Fyrrnefnd ákvæði í samningi stefnda og áfrýjanda um gengistryggingu voru því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og skuldbinda þau ekki áfrýjanda af þeim sökum.

Í málinu hefur stefndi ekki gert kröfu til vara um að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér tiltekna fjárhæð, sem kynni að standa eftir af skuld hans án þess að fjárhæð hennar væri reiknuð með tilliti til bindingar við gengi erlendu gjaldmiðlanna, sem um ræddi í samningi þeirra. Að því virtu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Óskar Sindri Atlason, er sýkn af kröfu stefnda, SP-Fjármögnunar hf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af SP-fjármögnun hf., kt. 620295-2219, Sigtúni 42, Reykjavík, gegn Óskari Sindra Atlasyni, kt. 221281-4119, Klapparhlíð 11, Mosfellsbæ, með stefnu sem birt var 3. apríl 2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 4.307.833 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. janúar 2009 til greiðsludags.  Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu skv. mati réttarins.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu, þ.m.t. virðisaukaskattur, að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins að teknu tilliti til vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu skv. framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Hinn 5. maí 2007 sömdu aðilar um að stefndi tæki á kaupleigu bifreiðina VT-658, Volvo S40, sem skráð var hinn 3. júlí 2006 og ekin var 20.000 km.  Í samningnum segir undir fyrirsögninni Leigutími og kaupverð:  „Kaupverð m.VSK – 3.600.000 kr.  Þar af VSK – 708.434 kr.  Innborgun – 400.000 kr.  Stofngjald – 116.316 kr.  Umsýslugjald – 7.000 kr.  Samningsverð – 3.323.316 kr.  Fyrsti gjalddagi: 04.09.2007.  Fjöldi gjalddaga: 84.  Samningstími til: 04.08.2014.  Leiga greidd mánaðarlega: Eftir á.“  Undir fyrirsögninni Leiga segir í samningnum: „Mánaðarleg leiga m.v. ISK: 46.295 kr. – Kaupverð í lok samnings m.v. ISK: 1.000 kr. – Samningur er 100% gengistryggður – Endanleg fjárhæð í myntkörfunni BL2 ræðst af kaupgengi á útgreiðsludegi samnings.  Leiga miðast við myntkörfuna BL2 og ræðst af sölugengi hverju sinni.  Myntkarfa BL 2 CHF 50% JPY 50%.“

Í stefnu er greint frá því að virkni myntkörfunnar hafi verið með þeim hætti að leigufjárhæðin í íslenskum krónum var á fyrsta samningsdegi umreiknuð í hinar erlendu myntir í ofangreindum hlutföllum, sem síðar voru umreiknaðar að nýju í íslenskar krónur á hverjum gjalddaga samningsins, sbr. 5. mgr. 2. gr. almennra skilmála samnings aðila, og höfuðstóll leigugreiðslunnar reiknaður með þeim hætti.  Þá hafi einnig við ákvörðun fjárhæðar leigugreiðslu verið tekið tillit til umsaminna vaxta, sem í þessu tilfelli voru LIBOR vextir á gjalddaga leigugreiðslunnar af myntum þeim sem mynduðu myntkörfuna.

Stefnandi rifti samningi aðila með vísun til 14. gr. skilmála samningsins, en þar segir m.a.: „SP er heimilt að rifta leigusamningum einhliða án fyrirvara séu eftirgreindar ástæður fyrir hendi: 1. Leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi á umsömdum gjalddögum og vanskil eru orðin 45 daga gömul.“  Og með bréfi til stefnda, dags. 27. janúar 2009 með fyrirsögnina: Efni: Uppgjör bílasamnings nr. SBB-026483 skv. 16. gr. samningsins er fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda tölulega skilgreind á eftirfarandi hátt:

Gjaldfallin leiga og kostn. til og með

27.01.09

495.227 kr.

Áfallnir dráttarvextir og kostn.

27.01.09

32.487 kr.

Dekk undir VT-658

108.105 kr.

Eftirstöðvar samnings

27.01.09

6.212.606 kr.

Samtals

6.848.425 kr.

Kostnaðarmatsskoðun

279.194 kr.

Mat á bifreið

-2.040.000 kr.

Heildaskuld þín nú samtals

5.087.619 kr.

Stefnandi greinir frá því að hann hafi látið vörslusviptingamenn sækja bifreiðina til stefnda og flytja hana í starfstöð stefnanda.  Hafi hann haft heimild til þess samkvæmt ákvæðum 15. gr. skilmála samnings aðila sem fjallar um afhendingu hins leigða við riftun.

Af hálfu stefnda er tekið fram að hann hafi staðið við samninginn allt fram í september 2008, en þá hafi hann verið krafinn um greiðslu á 68.888 krónum eða 49% hærri fjárhæð en upphafleg mánaðagreiðsla.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi vísar til þess að stefnda hefði borið, eftir að samningi aðila var rift, að greiða SP-fjármögnun hf. leigugreiðslur sem fallið höfðu í gjalddaga fram til riftunar auk áfallinna dráttarvaxta, sbr. 3. gr. skilmála samnings aðila.  Jafnframt hefði honum borið samkvæmt sömu grein að greiða leigu fyrir þann tíma sem eftir var af samningstímanum, auk sérstaks uppgjörsgjalds.  Í því sambandi kveði 2. gr. skilmála samnings aðila á um hvernig reikna beri höfuðstól leigugreiðslna.  Hinn 27. janúar 2009, er samningnum var rift, hafi skuldin numið 5.055.132 kr. er sundurliðast þannig:  Gjaldfallin leiga og kostnaður til 27. janúar 2009 495.227 kr.; kostnaður vegna dekkjakaupa 108.105 kr. og eftirstöðvar samnings 6.212.606 kr., eða samtals 6.815.938 kr.  Við bætist kostnaður við mat á bifreiðinni, en SP-fjármögnun hf. hafi látið Frumherja hf. meta ástand bifreiðarinnar.  Niðurstaða matsins hafi verið sú að viðgerðarkostnaður næmi 279.194 kr.  Áætlað söluverðmæti bifreiðarinnar, að fjárhæð 2.040.000 kr., dragist frá.  Verðmat Bílgreinasambandsins, miðað við aldur og akstur bifreiðarinnar, næmi 2.400.000 kr. en frá þeirri fjárhæð séu dregin 15% eða 360.000 kr. vegna bifreiðagjalda, þrifa, tryggingagjalda og annarrar umsýslu þar til SP-fjármögnun hf. takist að selja bifreiðina.  Eftir standi því 2.040.000 kr. til frádráttar.  Skuld stefnda sé því 5.055.132 kr.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar, að samninga beri að efna.  Dráttarvaxtakrafa styðst við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Krafa um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum ákvæðum 129. og 130. gr.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.  Um varnarþing er vísað til 18. gr. samnings aðila, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi dómkröfur sínar um samtals 747.299 krónur, þ.e. 108.105 kr. vegna nýrra dekkja undir bifreiðina, 279.194 kr. vegna kostnaðarmats og 360.000 kr. vegna 15% frádráttar á verðmati Bílgreinasambandsins á bifreiðinni.

Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á:  Stefndi telur að samningur aðila frá 5. maí 2007 sé í eðli sínu lánasamningur og vísar þar til orða stefnanda í samningi aðila þar sem segir: „Leigutaki lýsir því yfir með undirskrift sinn að hann gerir sér fulla grein fyrir því að lántaka í erlendum gjaldmiðli er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum.“  Þá vísar hann til þess að eignarleigusamningar falli undir lögin um neytendalán samkvæmt ákvæðum d-liðar 2. gr. laga nr. 121/1994.

Stefndi vísar til þess að samningur aðila er í íslenskum krónum; höfuðstólsfjárhæð samningsins sé tilgreind í krónum og einnig mánaðarleg afborgun og greiðsluáætlun samningsins.  Aldrei hafi annað staðið til en að samningsfjárhæðin yrði greidd með íslenskum krónum.  Hins vegar sé tekið fram í samningi aðila að leiga miðist við myntkörfuna BL2 og ráðist af sölugengi hverju sinni, enda þótt ólögmætt sé að gengisbinda lánið með þeim hætti samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem mælt er fyrir um, að einungis sé heimilt að verðtryggja lánsfé þegar grundvöllur verðtryggingar er vísitala neysluverðs.

Þá vísar stefndi til þess að samningur aðila sé stefnanda í hag.  Stefndi sé neytandi en samningurinn liður í atvinnustarfsemi stefnanda.  Eins og á standi sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Samningurinn, eins og nú horfir, raski til muna jafnvægi milli réttar og skyldu aðila, stefnda í óhag.

Verði ekki talið að nægar ástæður séu til að vísa samningnum í heild til hliðar, krefst stefndi til vara að verðbreytingarákvæðinu verði vikið til hliðar þannig að samningurinn standi þá eftir efni sínu en án verðbreytinga.

Stefndi mótmælir verðmati bifreiðarinnar í uppgjöri á dskj. nr. 7.  Þar komi fram að stefnandi ákveður einhliða að færa verð hennar niður um 20% frá söluverði án skýringar og síðan aftur um 15% til viðbótar.  Verð bifreiðarinnar sé fært niður um 960.000 kr.  Þá er mótmælt tjónskoðunarskýrslu á dskj. nr. 7.  Skýrslan sé óstaðfest og óundirrituð, auk þess sem stefndi hafi ekki fengið að vera viðstaddur skoðun og gæta þar hagsmuna sinna.  Þá mótmælir stefndi því að dekk bifreiðarinnar hafi verið ónýt.

Bent er sérstakleg á að frá áætluðu söluverð bifreiðarinnar, 3.000.000 kr. skv. dskj. nr. 7., dregur stefnandi 960.000 kr. án rökstuðning og til viðbótar 387.299 kr. vegna áætlaðs kostnaðar við viðgerðir og lagfæringar, eða samtals 1.347.299 kr., þ.e. 45% af „söluverðmæti“ bifreiðarinnar skv. dskj. nr. 7.  Í þessu sambandi er áréttað að skv. gögnum málsins var bifreiðinni einungis ekið 10.465 km frá því að stefndi og stefnandi sömdu um hana og þar til hún var tekin úr vörslu stefnda.  Þá er sérstaklega bent á að stefnandi hefur ekki lagt fram gögn um raunverulegt söluverð bifreiðarinnar.

Um réttarheimildir vísar stefndi til meginreglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar.  Þá er vísað til laga nr. 38/2001, nr. 161/2002, nr. 7/1936 og laga nr. 121/1994.

Niðurstaða:  Kjartan G. Gunnarsson, forstjóri SP-fjármögnunar hf., bar fyrir rétti að málsaðilar hefðu gert með sér hefðbundinn bílasamning sem í eðli sínu væri kaupleigusamningur þar sem leigutaki væri að taka á leigu bifreið og SP- fjármögnun hf. að fjármagna bifreiðina í erlendri mynt með samningi til 84 mánaða.

Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. væri í samstarfi við bílasala og bílaumboð um allt land.  Þegar Óskar Sindri Atlason óskaði eftir að fá bifreiðina VT-658 á bílasamningi hjá SP- fjármögnun hf. hafi verið send umsögn um það til félagsins.  Starfsmenn félagsins hefðu skoðað það og metið hvort hann væri traustsins verður.  Óskar Sindri hefði sótt um það í erlendri mynt og um leið og SP-fjármögnun hf. samþykkti það þá hafi verið gengið frá því að SP-fjármögnun hf. tæki lánið hjá viðskiptabanka félagsins í erlendri mynt.  Síðan hafi félagið selt þessa erlendu mynt og greitt það út annar vegar í japönskum jenum og hins vegar í svissneskum frönkum.  Félagið hafi sem sagt tekið erlent lán fyrir þessu hjá viðskiptabanka félagsins, Landsbanka Íslands.  Selt síðan erlendu myntina fyrir íslenskar krónur og greitt þær seljanda bifreiðarinnar, Nýju Bílahöllinni.

Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. fjármagnaði útlán sín með lántökum hjá Landsbankanum.  Þegar SP-fjármögnun hf. lánaði út dollara þá tæki félagið lán í dollurum.  Ef félagið lánaði japönsk jen þá tæki það lán í japönskum jenum.  Kjartan sagði að erlendar lántökur væru 80 til 90% í starfsemi félagsins, eða hefðu verið það fyrir hrun.  Nú stæði ekki erlend mynt til boða.  Allir nýir samningar í dag væru í íslenskum krónum.

Kjartan sagði að Óskar Sindri hefði getað haft samninginn við félagið í íslenskum krónum hefði hann óskað eftir því.  Það hafi verið öllum opið.

Kjartan sagði að Fjármálaeftirlitið hefði skoðað starfsemi SP-fjármögnunar hf. eins og skylt væri.  SP-fjármögnun hf. starfaði samkvæmt lögum og reglum, til dæmis reglum varðandi gjaldeyrisjöfnun og annað slíkt sem Seðlabankinn heldur utan um.  SP-fjármögnun hf. hafi þurft að senda allar skýrslur, greinargerðir, bréf og allt um starfsemi félagsins reglulega til Fjármálaeftirlitsins.  Eftirlitið þekki alla starfsemina og hvernig hún er framkvæmd.

Kjartan sagði að félagið væri bundið almennum reglum um að hafa jafnvægi í erlendri mynt í eignum og skuldum.  Farið væri eftir ákveðnum reglum í því sambandi.  Eignir og skuldir verði að standast á.  Óheimilt sé að taka gengisáhættu.  Ef lánað er út í dollurum þá verði félagið að skulda í dollurum.  Ef lánað er út í íslenskum krónum þá verði að taka lán í íslenskum krónum.  Ekki megi taka lán í erlendri mynt og lána út í íslenskum krónum til að ná gengishagnaði.

Kjartan kvaðst vera viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfa nú sem framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar hf. og hafi gert það frá stofnun félagsins 1995.  Hann hafi borið ábyrgð á starfsemi félagsins í maí 2007.  Landsbanki Íslands hafi í maí 2007 átt 51% í félaginu og ýmsir sparisjóðir áttu 49%.  Í dag eigi Nýi Landsbanki Íslands [NBI hf.] félagið.

Í maí 2007 sagði Kjartan, að Þorgeir Baldursson hafi verið stjórnarformaður félagsins.  Fyrir hönd Landsbankans hefðu setið í stjórn Elín Sigfúsdóttir og Guðmundur Davíðsson.  Þá hafi Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri í Byr, og Magnús Ægir Magnússon setið í stjórn.  Í dag sitji í stjórn Anna Bjarney Sigurðardóttir, stjórnarformaður frá NBI hf., Ari Wendel, einnig frá bankanum, Jón Þorsteinn Oddleifsson, Ragnar Z. Guðjónsson og Angantýr Valur Jónasson.

Kjartan sagði að Magnús Oddur Guðjónsson, forstöðumaður fyrir bílafjármögnunar-svið, hafi undirritað fyrir SP-fjármögnun hf. samninginn við Óskar Sindra.

Kjartan sagði að samstarfi SP- fjármögnunar hf. við bílasala og bílaumboð um allt land byggðist, eins og í þessu tilviki, á því að samningurinn er gerður í starfsstöð bílasalans en SP-fjármögnun hf. leggi til ákveðinn hugbúnað sem félagið notar til að reikna út greiðslubyrði að gefnum ákveðnum forsendum þar sem hann geti sett inn kaupverð á bílnum og útborgun; valið hvort hann vill hafa það í erlendri mynt eða íslenskum krónum.  Hann geti stillt til langs  tíma til þess að finna forsendur þess hver greiðslubyrðin verður.  Samskiptin við bílasöluna sé bæði rafræn og símleiðis.  Samningar séu að meginstefnu til útbúnir á bílasölunum.  Algengt sé að starfsmenn SP-fjármögnunar hf. hitti ekki viðsemjendur við upphaf samningsgerðar.  Löggiltir bílasalar fái aðgang að tölvukerfi SP-fjármögnunar hf. um leið og sótt er um aðgang, hafi þeir farið í gegnum ákveðna kynningu hjá SP-fjármögnun hf.  Brjóti þeir samskiptareglur við félagið er lokað fyrir þá.

Kjartan sagði að bílasalarnir setji inn í samningsformið þær upplýsingar sem þeir hafa, eins og fram komi á samningnum við Óskar Sindra, þá hafi bílasalinn fyllt út hvaða bílnúmer verið er að selja.  Kerfið sæki síðan nafnið á bifreiðinni í ökutækjaskrá sem og fyrsta skráningardag bifreiðarinnar.  Þarna standi staða mælis.  Bifreiðin hafi greinileg verið ekinn 20.000 km þegar kaupin voru gerð, en það eru upplýsingar sem bílasalinn þekkir og skráir í samningsformið.  Umsamið kaupverð er auðvitað milli kaupanda og leigutaka og síðan lámarks útborgun sem krafist er, eða útborgun, sem leigutaki vill greiða, sem í mörgum tilfellum fari yfir lámarks útborgun.  Síðan sé fyrsti gjalddagi og fjöldi gjalddaga í samræmi við óskir leigutaka.  Leigutakinn ákveði tryggingafélag, en SP-fjármögnun hf. krefjist þess að bifreiðin sé kaskótryggð.

Kjartan sagði að viðskiptavinurinn fái samninginn til yfirlestrar hjá bílasalanum.  Eigi hann í erfiðleikum með að lesa hann þá geri hann væntanlega grein fyrir því.

Kjartan sagði að svona framsal væri heimilt samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki.

Kjartan sagði að myntkarfan BL2 væri að hálfu í svissneskum frönkum og hálfu í japönskum jenum og stuðst væri við gengisskráningu Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

Til skýringar, sagði Kjartan, að væri myntkrafan samansett af einum dollara, einni evru, einum svissneskum franka og einu pundi, væri það grunneiningin í myntkörfunni allan tímann.  Í upphafi væri einn dollari jafngildur einni evru og vegi jafn þungt.  Gefi dollarinn eftir og evran styrkist þá vegi evran þyngra í myntkörfunni þó eftir sem áður sé einn dollari og ein evra í körfunni.

Kjartan sagði að þegar menn greiði SP-fjármögnun hf. í íslenskum krónum af svona bílalánum þá kaupi félagið með íslensku krónunum erlendan gjaldeyri til að greiðir skuld félagsins vegna viðskiptanna.

Stefndi, Óskar Sindri Skúlason, bar fyrir rétti að menntun hans væri grunnskólapróf og hann starfaði á réttingar- og sprautuverkstæði.  Hann hafi farið á bílasölu og samið við eiganda bifreiðarinnar [VT-658, Volvo S40] og keypt bifreiðina.  Gengið hefði verið frá samningnum á bílasölunni.  Bílasalinn hafi ákveðið hvar hann tók lán til að greiða bifreiðina.  Lánskjör hefðu ekki verið rædd sérstaklega, bílasalinn hafi álitið kjörin þau hagstæðustu.  Samningurinn hefði ekki verið lesinn yfir sérstaklega.  Hann kvaðst ekki muna til þess að honum hafi verið kynnt gengisáhætta.  Hann sagði að ekki hefði verið rætt um að afborganir kynnu að hækka en þess sé ekki getið á greiðsluyfirliti.  Hann hafi haldið að afborganir yrðu óbreyttar.  Það hafi verið forsenda hans fyrir lántökunni.  Hann kvaðst hvorki hafa á bílsölunni hitt löggiltan bílsala né starfsmann SP-fjármögnunar hf.  Hann kvaðst áður hafa tekið bílalán.  Í því tilviki hafi hann ekki orðið var við marktækar breytingar á afborgunum.

Óskar sagði að bróðir hans hefði unnið á bílasölunni.  Hann kvaðst hafa verið að kaupa bifreiðina af honum með nýjum fjármögnunarsamningi.

Óskar kvaðst ekki muna nákvæmleg hvenær bifreiðin var tekin frá honum en það hefði verið í desember 2008.  Hann kvaðst áður hafa verið í sambandi við starfsmann SP-fjármögnunar hf. en afborganir hafi verið þannig að ekki hafi verið unnt að semja um þær.  Hann kvaðst ekki kannast við að bifreiðin hefði verið eins illa farin og kostnaðarmatsskoðun á dskj. nr. 8. gefur til kynna.

Óskar kvaðst ekki muna hver á bílasölunni hafi gengið frá bílasamningnum.  Hann kvaðst ekki muna að það hafi verið bróðir hans.  Hann hafi samið um verðið við bróður sinn en muni ekki hver sá um að semja samninginn fyrir hann.  Aðspurður kvaðst hann hafa þekkt hvaða starfsmaður á bílasölunni var löggiltur bílasali og hver ekki.

Lögmaður stefnda kvaðst sjá á heimsíðu Nýju Bílahallarinnar að þar eru fjórir starfsmenn, þar af þrír löggiltir.  Óskar sagði að þessir menn hefðu ekki verið starfsmenn á bílasölunni þegar hann keypti bílinn 2007.

Vísað var til dsks. nr. 18, sem er endurprentun á greiðsluseðlum sem SP-fjármögnun hf. sendi Óskari.  Bent var á að þar væru reiknuð út japönsk jen og svissneskir frankar.  Því  mætti ætla að hann hafi vitað að þetta var tengt erlendri mynt.  Óskar sagði að í upphafi hafi hann ekki búist við að erlend mynt myndi hafa svona áhrif á afborganir.  Þegar hann tók lánið hafi það verið í erlendri mynt.  Bílasalinn hafi sagt honum að það væru einu lánin sem fengjust á bílum á þeim tíma, meira og minna.  Hann kvaðst hafa frá upphafi vitað að þetta var erlent lán.

Vísað var til þess að hann hefði getað fengið láninu breytt í íslenska skuldbindingu, og spurt var, hvort honum hefði dottið það í hug.  Óskar sagði að þau samskipti, sem hann átti við SP-fjarmögnun hf., að reyna semja um þennan bíl og annað, hafi ekki verið einfalt.  Honum hafi verið tjáð að allt þyrfti að vera í skilum til að breytingar yrðu gerðar á samningnum.  Á þeim tíma, sem hann var í skilum, hefði honum ekki verið kunnugt um að hægt væri að fá láninu breytt í íslenska skuldbindingu.

Óskar sagði að bróðir sinn hefði verið bílasali í fjögur til fimm ár.  Bróðir hans hefði lítið ráðlagt honum við kaupin.

Árni Þór Skúlason bar fyrir rétti að hann hefði unnið fyrir Nýju bílahöllina frá því í október 2006 til áramóta 2008/2009.  Hann kvaðst vera ómenntaður en vera nú í skóla.  Lagður var fyrir hann kaupleigusamningur sem hér um ræðir, dskj. nr. 3.  Árni Þór kvaðst kannast við svona samning og samningsform.  Aðdragandi að svona sölu sé að maður kemur inn á söluna og sér bifreið sem honum líst á.  Samið er um kaupverð og síðan farið í það að finna fjármögnun og senda fyrirspurn gegnum netið til lánafyrirtækja.  Síðan væri beðið eftir svari um hvort hann fengi lán eða ekki.  Að fengnu samþykki væri bílasamningurinn prentaður með skilmálum á baksíðunni.  Í langflestum tilvikum gangi starfsmaður bílasölunnar frá kaupleigu-samningnum, en sumir kaupendur vilji sjálfir fara til fjármögnunarfyrirtækisins og ræða við fólkið þar.  Ekkert sé óeðlileg við það, en í 90% tilvika sjái starfsmaður bílasölunnar um þetta.

Árni Þór sagði að í mjög fáum tilvikum lesi kaupendur skilmálana.  Árni Þór kvaðst ekki muna hvort hann átt þátt í samningnum sem hér um ræðir.

Stefndi, Óskar Sindri, og stefnandi, SP-fjármögnun hf., gerðu með sér kaupleigusamning um bifreið, þar sem SP-fjármögnun hf. er leigusalinn en Óskar Sindri leigutakinn.  Aðdragandi samningsins er að Óskar Sindri ákveður að kaupa bifreið.  Kaupin verða síðan með þeim hætti sem rakið var hér að framan.  Óumdeilt er að Óskar Sindri stóð ekki við að greiða afborganir eins og SP-fjármögnun hf. krafði hann um.

Óskar Sindri byggir í fyrsta lagi á því að óheimilt hafi verið af SP-fjármögnun hf. að binda afborganir lánsins við gengi japansks jens og svissneska franka gagnvart íslenskri krónu samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Í öðru lagi á því að forsendur samningsins hafi brostið og megi SP- fjármögnun hf. því ekki byggja á honum eins og nú stendur á.  Í þriðja lagi byggir Óskar Sindri á því að ákvæði 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi hér við, enda sé, eins og nú standi á, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að SP-fjármögnun hf. beri hann fyrir sig.

Ætla verður að heimilt hafi verið að binda afborganir lánsins í íslenskum krónum við gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni og svissneskum frönkum eins og gert var.  Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla.  Í 13. gr. segir m.a. að ákvæði um verðtryggingu gildi um skuldbindingar er varða lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar, en með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu.  Þá segir að með verðtryggingu fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað.  Í 14. gr. segir m.a. að heimilt sé að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grunvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.

Viðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt.  SP-fjármögnun hf. tók erlent lán sem félagið lánaði síðan Óskari Sindra.  Á félaginu hvílir skylda samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands að eiga á móti skuldbindingum sínum í erlendum lánum nokkurn veginn sömu fjárhæð í kröfum.  Skuldbinding Óskars Sindra er í jenum og svissneskum frönkum samkvæmt samningi aðila.  Engu breytir þó að erlenda myntin sé umreiknuð í íslenskar krónur við afborgun í hverjum mánuði og greitt hafi verið með íslenskum krónum, enda er til þess að líta að krónan er lögeyrir þessa lands.  SP-fjármögnun hf. seldi erlenda mynt og fékk íslenskar krónur, sem notaðar voru til að greiða fyrri eiganda bifreiðarinnar.  Óskari Sindra var í sjálfsvald sett hvort hann greiddi SP-fjármögnun hf. með íslenskum krónum eða með jenum og svissneskum frönkum.  Erlent fé var lánað.  Lög standa ekki í vegi fyrir að hægt sé að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var.

Óskar Sindri bar fyrir rétti að hann hefði vitað að um erlent lán var að ræða.  Þá segir í samningi aðila m.a.: „Leigutaki lýsir því yfir með undirskrift sinni að hann gerir sér fulla grein fyrir því að lántaka í erlendum gjaldmiðli er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum.  Annars vegar er um að ræða gengisáhættu sem getur leitt til hækkunar á höfuðstól á lánstíma og þar með hækkun á afborgun höfuðstóls og vaxta.  Hins vegar er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, eins mánaða LIBOR vöxtum, með föstu álagi.  Vextir fyrir hverja mynt eru aðeins ákveðnir til eins mánaðar í senn og geta því breyst með vaxtaákvörðunum í heimaríkjum hverrar myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geta haft áhrif til hækkunar.“

Ekki veldur sá er varar er almennt talið.  Óskari Sindra mátti vera ljóst að greiðslur hans samkvæmt samningi aðila voru bundnar við gengi japansks jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu og að slíku fylgdi áhætta.  Gengisþróun hefur orðið flestum Íslendingum undanfarið ákaflega óhagfeld.  Á þeirri þróun getur SP-fjármögnun hf. hins vegar ekki borið ábyrgð.  Þá er ósannað að SP-fjármögnun hf. hafi með einhverjum hætti nýtt sér hugsanlega fákunnáttu Óskars Sindra um gjaldeyrismál eða stuðlað að því að honum hafi hugsanlega verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar um þau efni eða gengistryggingu leigugreiðslu.  Ekki eru því efni til að víkja frá þeirri meginreglu íslensks samningsréttar að samningar séu skuldbindandi fyrir aðila þeirra.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði allt eins og í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Óskar Sindri Atlason, greiði stefnanda, SP-fjármögnun hf., 4.307.833 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 27. janúar 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.