Print

Mál nr. 463/2003

Lykilorð
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. mars 2004.

Nr. 463/2003.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Börn. Kynferðisbrot. Miskabætur.

X var sakfelldur fyrir að hafa nær daglega haft samræði eða önnur kynferðismök við stjúpdóttur sína frá því að hún var 5 eða 6 ára þar til hún var tæpra 18 ára. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gagnvart annarri stúlku. X var dæmdur í fangelsi í 5 ár og 6 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að hann verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. Að auki er þess krafist að bætur úr hendi ákærða verði hækkaðar í 3.000.000 krónur og beri þær dráttarvexti frá 1. mars 2002 til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst ákærði þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, refsingu hans, sakarkostnað og fjárhæð skaðabóta. Skulu bæturnar bera dráttarvexti frá 22. apríl 2002, en þá var liðinn mánuður frá því að ákærða var kynnt krafa um þær, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað af málinu fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að dæmd fjárhæð úr hendi ákærða, X, til Y skal bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. apríl 2002 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2003.

          Málið er höfðað með ákæruskjali, dags. 3. september 2002, á hendur:

          X, kennitala […] ,

          […] , Reykjavík,

“fyrir kynferðisbrot sem hér eru rakin:

1.       Gagnvart stjúpdóttur sinni Y, fæddri […] , með því að hafa frá árinu 1988 eða 1989, er stúlkan var 5 til 6 ára, til [...] 2000, er hún var tæplega 18 ára, nær daglega haft við hana samræði eða önnur kyn­ferð­ismök með því að snerta kynfæri hennar og nudda með fingrum eða getnaðarlim sínum og fróa sér, setja liminn í munn hennar og láta hana sjúga, setja fingur í leggöng hennar, sleikja kynfæri hennar, setja gervilim í leggöng hennar og hafa við hana enda­þarms­mök.

          Brotin framdi ákærði í fyrsta sinn á heimili þeirra að […]  í Reykjavík, en eftir það á heimili þeirra og dvalarstöðum í Reykjavík og á Akureyri, síðast að […] , Reykjavík, einnig á heimili [...] á Akureyri, í bifreið ákærða og vinnu­vélum, sem hann hafði lagt á afviknum stöðum í Reykjavík, á Álftanesi og í Skaga­firði, í fjallgöngum á Úlfarsfelli, Esju og Akrafjalli, í ferð í Þrastarlund, í hótel­herbergjum í ferðum til [...] í Svíþjóð og á ferðalagi í Noregi.

          Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 1940, sbr. lög nr. 40, 1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. og 201. gr. al­mennra hegningarlaga.

2.       Z, fæddri […] , með því að hafa í byrjun ágúst 1996, á þáverandi heimili ákærða að […], […] , sett fingur í leggöng stúlkunnar og sleikt kynfæri hennar.

          Telst þetta varða við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

          Af hálfu Y er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaða­bóta­laga nr. 50, 1993 og þágildandi 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, að fjár­hæð 3.000.000 króna, auk dráttarvaxta frá 29. febrúar 2002 til greiðsludags, sam­kvæmt lögum nr. 38, 2001 um vexti og verðbætur.  Þá er krafist skaðabóta samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 967.200 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38, 2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

          Af hálfu Z er krafist miskabóta að fjárhæð 700.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 6. febrúar 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.”

          Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og máls­kostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiðist úr ríkissjóði.  Þá er krafist sýknu af bótakröfum málsins en til vara að þær verði lækkaðar.

          Við munnlegan málflutning lækkaði réttargæslumaður Z, Herdís Hallvarðsdóttir hdl., bótakröfu hvað hana varðaði í 400.000 krónur ásamt dráttar­vöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. apríl 2002 til greiðsludags.

Rekstur málsins fyrir dómi

          Þann 19. desember 2002 var dæmt í máli þessu í héraði þar sem ákærði var sýkn­aður en einn dómara skilaði sératkvæði.  Var málinu áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu ákæru­valdsins.  Með dómi Hæstaréttar í málinu frá 22. maí 2003 segir að ágreiningur hafi verið meðal dómara í héraði um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar stúlkn­anna, þ. e. hvaða vægi sú staðreynd skyldi hafa að þær tóku sig saman ásamt tveimur piltum um að bera ranglega um tiltekið atvik í heitum potti.  Var talið að skýringar stúlkn­anna á röngum framburði sínum væru skiljanlegar og að þetta þyrfti ekki að hafa þau áhrif á mat á trúverðugleika framburðar þeirra sem meirihluti héraðsdóms taldi.  Kynni niðurstaða meirihluta dómsins um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi því að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins, auk þess að niður­staða hans um sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða var ekki skýr og samn­ingu dómsins áfátt að þessu leyti.  Var héraðsdómurinn ómerktur að því er varðaði báða ákæruliði og málinu vísað heim til munnlegs málflutnings og dóms­álagn­ingar að nýju.

          Málið var sent héraðsdómi með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 26. maí sl., og var þá óskað eftir vitnaskýrslum af A og tveimur vitnum. Munnlegur mál­flutn­ingur fór fram að nýju þann 25. júní sl. án þess að umrædd vitni kæmu fyrir dóm­inn enda töldu dómendur það í samræmi við ákvörðun Hæstaréttar og var málið því næst dómtekið.  Áður en dómur gekk barst bréf frá þáverandi réttargæslumanns Y, dags. 4. júlí sl, þar sem fram kom að móðir stúlkunnar hefði óskað að gefa skýrslu fyrir dóminum þar sem hún vildi breyta fyrri framburði sínum.  Þann 10. júlí sl. ákvað dómurinn að endurupptaka málið á grundvelli 131. gr. laga nr. 19/1991.  Málið var síðan dómtekið að nýju 7. október sl. eftir skýrslutökur og málflutning.

Málavextir

Almenn atriði

          Ákærði og A, móðir stúlkunnar Y, hófu sambúð árið 1986 en stúlkan var þá 4 ára.  Bjuggu þau fyrst saman að […]  í Reykjavík, eða frá […] er þau fluttu að […]   þar sem þau bjuggu til […] .  Eftir það bjuggu þau í rúmt ár að […] en fluttu í […]  þar sem þau bjuggu fyrsta hálfa mán­uðinn hjá [...] að […]  en að […]  frá […]  sama ár er þau fluttu í […] , Reykjavík.  Þar bjuggu þau um tveggja mánaða skeið uns þau flutt að […] þar sem þau bjuggu þar til í […].  Vegna bruna þar bjuggu þau á ýmsum stöðum frá […] að fjölskyldan flutti að […] þar sem hún bjó til […].  Þá fluttust þau að […] og dvöldu þar áfram til […] er þau fluttu aftur að […], þar sem ákærði og móðir stúlkunnar búa nú ásamt börnum sínum tveimur, dreng sem nú er 15 ára og 13 ára stúlku. 

          Áður en ákærði hóf búskap með móður stúlkunnar átti hann dóttur, B, sem fædd er […] en hún flutti 3 ára til […] og hefur búið þar.

          Ákærði var í upphafi sambúðarinnar á sjó en slasaðist á árinu 1989 og var mikið heima við næstu tvö og hálfa árið en móðirin vann að mestu hálfan daginn.  Ákærði vann um tíma hjá fyrirtæki við […] og […] en árið 1991 hóf hann rekstur með eigin […].

Fyrri afskipti yfirvalda af málefnum fjölskyldunnar

          Árið 1997 hafði Barnaverndarnefnd Reykjavíkur afskipti af málefnum stúlkunnar er tilkynning barst um hugsanlega kynferðislega áreitni ákærða gagnvart henni.  Liggur fyrir í málinu skýrsla Sigtryggs Jónssonar sálfræðings frá 11. júlí 1997 um samtal við stúlkuna vegna þessa.  Þar kom fram að vinkonur stúlkunnar hefðu orðið vitni að kyn­ferðislega ögrandi framkomu og umræðu af hendi ákærða gagnvart henni.

          Í niðurstöðu skýrslunnar segir:  ,,Um er að ræða 14 ára stúlku, sem grunur hefur leikið á að hafi orðið fyrir kynferðisáreitni af hendi fósturföður.  Hún ber honum vel söguna og segist líta á hann sem föður og leita gjarnan meira til hans en móður.  Hún er að mestu óheft í samtalinu og virkar örugg og ófeimin.  Skólaganga hennar var mjög stopul síðast liðinn vetur og einkenndist af lélegum mætingum og áhugaleysi.  Hún segist sjá mjög eftir því og segist ákveðin í að bæta það.  Líta má á félagslegar að­stæður hennar sem hluta skýringar hennar á skólagöngunni, enda skólaganga með ágætum fram að síðasta vetri að hennar eigin sögn.  Ekkert í samtalinu eða framkomu stúlkunnar virðist styðja að um kynferðisáreitni sé eða hafi verið að ræða gagnvart henni frá hendi Y og ef ekkert annað kemur fram sem styður frekari rannsókn á því, legg ég til að málinu verði lokið.”

          Þá liggur frammi bréf aðstoðarskólastjóra […], dags. 1. október 1997, þar sem fram kemur að nemendaverndarráð skólans hafi fjallað um bréf Félags­mála­stofnunar frá 9. september varðandi stúlkuna, en stúlkan var nemandi í skólanum frá […] til skólaloka í […] sama ár.  Þar kemur fram að þegar hafi komið í ljós að ástundun hennar hafi ekki verið í lagi.  Hún hafi ýmist mætt of seint eða alls ekki.  Síðan segir:  ,,Er farið var að grennslast fyrir hverju sætti kom í ljós að foreldrar stúlk­unnar virtust kannast við vandann án þess að ráða við hann.  Í viðtölum við þau og Y var ljóst að stúlkan var í miklu ójafnvægi, grét mikið og átti erfitt með að tjá sig og gaf viðhlítandi skýringar á hegðun sinni.  Í samvinnu við foreldra, sérstaklega móður, var fylgst með mætingum og lagaðist það ástand er leið að skólalokum.”

Tildrög ákæru

Ákæruliður 1

          Þriðjudaginn 29. janúar 2002 lagði Y fram kæru hjá lög­reglu á hendur fósturföður sínum, ákærða í málinu, þess efnis að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega ,,frá því hún man eftir sér og fram að þeim tíma er hún fór að heiman 18 ára gömul”. Lýsti stúlkan þar atvikum um kynferðislega misneytingu allt frá því er hún byrjaði í 6 ára bekk til þess tíma er hún var tæplega 18 ára gömul. 

          Kvað hún fyrsta tilvikið sem hún myndi vera áður en hún byrjaði í 6 ára bekk en fjöl­skyldan bjó þá að […], Reykjavík.  Hún hafi legið ber að neðan, útglennt á bakinu á borðstofuborði í holi.  Ákærði hafi staðið yfir henni og fróað sér, komið við kyn­færi hennar með fingrum og lim.  Hann hafi fengið sáðlát á maga hennar og þurrkað það af með handklæði.

          Henni fannst eins og ákærði hafi misnotað hana nánast daglega frá því hann byrjaði og oft farið alla leið, þ. e. sett liminn inn í leggöng hennar.  Hún geri sér hins vegar ekki grein fyrir því hvenær það gerðist fyrst.  Sérstaklega sé henni minnisstætt atvik þegar hún var 12 ára og þau bjuggu að […] í Reykjavík.  Hún hafi verið að leika sér með vinkonu sinni, C, þegar ákærði hafi komið heim og kallað á sig inn á baðherbergi.  Hún hafi sagst vera að leika sér en ákærði hafi þá kallað hærra og öskrað og hún því ekki þorað öðru en að fara inn til hans.  Þegar inn kom hafi ákærði verið „tilbúinn“, eða með stinnan liminn, og sagt „nú verð ég bara snöggur“.  Hann hafi girt niður um hana og sett hana upp á vaskaborðið og farið með liminn inn í leg­göng hennar og síðan lokið sér af með því að láta hana krjúpa yfir klósettið.  Hann hafi fengið sáðfall á rasskinn hennar.  Ákærði hafi síðan sagt að það væru peningar inni í eld­húsi sem þær mættu fá.  Þegar fram kom hafi C spurt hvað ákærði hefði verið að gera við hana og af hverju hurðin hafi verið læst.

          Eftir að hún fór að eldast og vildi vera lengur úti hafi hún orðið að semja við ákærða um að fá að vera lengur úti.  Ákærði hafi sótt hana þar sem hún var hverju sinni og farið með hana t.d. út á […], […] eða að smábátahöfninni í […] og haft samfarir við hana í bílnum.  Þegar allir voru heima hafi ákærði oft viljað fá hana eina með í bíltúr.

          Ákærði hafi oft farið með hana í fjallgöngur í Úlfarsfell, Esjuna eða Akrafjall og hafi hann verið búinn að finna þar ákveðna staði og hafi hann nánast undan­tekn­ing­ar­laust haft við hana samfarir við þessi tækifæri.

          Ákærði hafi oft tekið hana með þegar hann fór að heimsækja dóttur sína í […]. Á þessum ferðum hafi þau verið í hótelherbergi og hafi ákærði þá haft við hana samfarir. Telur hún að fyrsta ferðin hafi verið þegar hún var 7 ára en hún kveðst ekki átta sig á því hvenær hann hafi farið fyrst með liminn inn í leggöng hennar.  Það hafi þó gerst er þau bjuggu í […], á […], […], í […], í […], […] og svo aftur við […].  Einnig á heimili afa hennar á […] og í […] sem ákærði átti.

Ákærði hafi oft sagt við hana að ef hún segði frá þessu myndi hann ekkert fara illa út úr því en það myndu allir líta á hana sem einhvern viðbjóð.  Eftir að hún fór að eldast og kynnast strákum hafi ákærði ráðlagt henni að segja strákunum þetta ekki þar eð þá myndi enginn líta við henni.  Henni hafi alltaf fundist sem allt væri sér að kenna og að það hafi ekki verið fyrir en sl. haust að hún hafi áttað sig á því að hún átti enga sök á þessu. 

Í lögregluskýrslu segir að ákærði hafi síðast misnotað hana mánuði áður en hún varð 18 ára, eða [...] 2000.  Að kvöldi þess dags hafi hún farið út að borða og í leikhús og ætlað að hitta kærasta sinn aftur seinna um kvöldið en ákærði og móðir hennar hafi sótt hana.  Eftir miðnættið hafi hún verið að hringja í kærastann þegar ákærði hafi komið og sagt að hún mætti fara út „ef hann fengi einn snöggan áður“ en móðir hennar hafi þá verið sofandi.  Ákærði hafi sagt henni að fara úr buxunum og krjúpa við stól sem hún hafi gert.  Hún hafi hins vegar verið svo stressuð þar sem allir hafi verið heima og hurðinni inn í stofuna aðeins hallað aftur að hún hafi kippt upp um sig buxunum.  Hann hafi reynt aftur að stinga limnum inn en hún kippst við.  Hann hafi þá orðið pirraður, sagt henni að fara út úr herberginu og að hún færi ekki út.

Stúlkan greindi frá því að ákærði hefði farið heim til foreldra núverandi sam­býl­is­manns síns, D, talað illa um hana og varað þau við henni.  Þá hafi hann ítrekað ónáðað hana eftir að hún flutti til kærastans, t.d. með því að hringja látlaust til hennar, komið á glugga.  Þá hafi hann sent henni blóm.  Hún sagðist aldrei hafa sagt ákærða að hún vildi fá frið fyrir honum vegna þess sem hann hefði gert henni heldur aðeins að hún vildi frið fyrir honum og móður sinni.

Ítarlegar skýrslur voru teknar af kæranda hjá lögreglu eða samtals sex sinnum á tíma­bilinu til 8. maí sl.  Í skýrslunum lýsir hún nánar samskiptum sínum við ákærða og nánar dæmum um misnotkun hans.  Þá voru teknar lögregluskýrslur af ákærða, sem neitaði eindregið sök, auk vitnaskýrslna.

Í tengslum við málið var framkvæmd húsleit á heimili ákærða að […].  Í íbúðinni fannst talsvert af klámblöðum undir dýnu í hjónarúmi og inni í fataskáp.  Þá var lagt hald á 51 stykki af VHS myndbandsspólum. 

Ákæruliður 2

Í tengslum við mál þetta gaf Z skýrslu hjá lögreglu 6. febrúar 2002.  Hún skýrði svo frá að hún hefði farið í heimsókn til Y á [...] um verslunarmannahelgina 1996, en hún var þá 12 ára gömul.  Stúlkurnar höfðu kynnst þegar þær voru saman í [...] en þær eru skyldar. Hún skýrði svo frá að hún hefði komið til [...] nokkrum dögum fyrir verslunarmannahelgina og hafði ákærði einn morguninn þegar hún kom fram verið allsnakinn eins og hann væri að koma frá baðherbergi.  Hún hafi farið inn í herbergið aftur og stuttu seinna hafi ákærði komið inn í herbergið og þá fullklæddur, en hún hafi verið klædd nærbuxum, bol og buxum.  Hann hafi girt niður um hana buxurnar og nærbuxurnar og þuklað á kyn­færum hennar, meðal annars sett fingur inn í leggöng hennar.  Hann hafi síðan losað um buxnabeltið og hafi hún þá kallað ,,ekki”  og hafi hann þá hætt og farið.

Þann 14. febrúar sama ár kom Z á lögreglustöðina ásamt réttar­gæslu­manni sínum, Herdísi Hallmarsdóttur hdl., og kærði formlega atvikið.  Þar kvað hún fyrri skýrslu sína hjá lögreglu hafi verið rétta, en hún hafi hins vegar ekki sagt frá því þá, að ákærði hafi farið niður á  hnén og sleikt á henni kynfærin og hafi það staðið yfir í nokkurn tíma.  Þetta hafi gerst áður en hann byrjaði að losa um beltið á buxunum sínum. Kvaðst hún ekki hafa þorað að segja neinum frá þessum atburði fyrr en hún hafi skýrt frá því fyrir lögreglu vikunni áður.  Hún tók fram að hún hefði ekki átt nein kyn­ferðisleg samskipti við nokkurn aðila á þessum tíma og hafi þetta verið hennar fyrsta kynlífsreynsla.  Kvað hún Y hafa komið að máli við sig í mötuneyti […] og sagst ætla að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kyn­ferðisbrot og jafnframt tjáð henni, að það hafi staðið yfir frá því að hún var lítil.  Hafi hún spurt Z hvort hún væri tilbúin að vitna í málinu.  Í skýrslunni kvað Z það ósannindi sem fram kom hjá ákærða, að hann hefði komið að henni á […] um­rætt sinn allsnakinni ásamt tveimur nöktum strákum og það hafi orðið til þess að hún fór heim til Reykjavíkur fyrr en hún ætlaði. 

Framburður ákærða og kærenda fyrir dómi 28. nóvember 2002

Ákærði neitar allri sök um að hafa framið kynferðisbrot gagnvart stjúpdóttur sinni svo sem fram kemur í ákæru. 

Hann kvað samband sitt við stjúpdóttur sína hafa verið mjög gott frá upphafi.  Þau hafi verið mjög samrýnd og hún alltaf getað trúað honum fyrir öllu sem gerðist í lífi hennar.  Ákærði segir að móðir stúlkunnar hafi átt það til að æsa sig við hana og það hafi því verið auðveldara að tala gegnum sig.

Ákærði segir að hann og stúlkan hafi eytt miklum tíma saman.  Þau hafi farið saman í bíltúra tvö ein, fjallgöngur á Úlfarsfell, Esju og Akrafjall og þá hafi þau farið saman til […] til að hitta dóttur hans, [...], sem þar er búsett.  Á ferðum sínum til […] hafi þau dvalið á hóteli þar sem þau deildu saman herbergi.  Í einni ferð­inni hafi faðir hans, E, verið með í för og einnig F, bróðir ákærða.  Þá hafi B gist á hótelinu einu sinni með þeim. Hann kannast einnig við fjölskylduferð í Þrastarlund og að hafa dvalið í hótelherbergi með stúlkunni í [...] og að þau hafi farið í fjölskylduferð saman til Noregs.  Hann kvaðst mjög oft hafa tekið öll börnin með í bíltúr, en einnig hafi komið fyrir að stúlkan hafi beðið hina krakkana að vera heima, af því að hún hafi þurft að ræða eitthvað við hann sérstaklega og hann því farið einn með stúlkunni að hennar ósk.

Ákærði bar að stúlkan hefði alltaf látið hann vita hvar hún væri stödd þegar hún var að skemmta sér, jafnvel um nætur.  Geri hann sér ekki fulla grein fyrir af hverju hún hafi gert þetta nema að hún hafi viljað vera alveg viss um að hann vissi nákvæm­lega hvar hún væri.  Eftir að hún fór að vera með strák, G, hafi hann iðulega keyrt þau bæði þegar þau báðu um það.

Hann kvað það vel geta verið, sem fram hefur komið í málinu, að hann hafi gengið klæðalítill um húsið og það getað komið fyrir að hann kæmi allsnakinn til dyra, eða gengi allsnakinn um húsið.  Reiknar hann með að hann hafi þá verið nývaknaður og farið snöggt til dyra og vitað jafnvel af þeim sem var að koma.  Gerir hann ekki at­huga­semdir um það sem fram hefur komið um það atriði í lögregluskýrslu við rann­sókn málsins. Þá segir hann að yfirleitt hafi verið eitthvað til af klámefni á heimilinu, mynd­bönd eða blöð, en það hafi verið geymt ofan í skúffu og ekki átt að vera aðgengi­legt börnum.  Hann kvaðst ekki hafa gefið stjúpdóttur sinni leyfi til að skoða þessi klámblöð eða myndbönd þegar hún var barn að aldri.  Hann kveðst hins vegar hafa farið með stjúpdóttur sína þegar hún var 17 ára á einhvern stað á Hverfisgötunni og keypt fyrir hana víbrator og borgað hann að hennar beiðni.

Ákærði kvaðst minnast þess þegar þau bjuggu í […] að hann hafi kallað á Y á baðherbergi þegar vinkona hennar, C, var í heimsókn hjá henni.  Tilefnið hafi verið að biðja stúlkuna um að taka betur til eftir sig.  Geti vel verið að hún hafi læst baðinu.  Ákærði var spurður hvað gæfi tilefni til að hann myndi þetta tiltölulega ómerki­lega atvik frá árinu 1997 og kvaðst ákærði þá ekkert muna þetta alveg greini­lega, en þetta hafi verið svona.  Kvaðst hann oft hafa kallað börnin sín fyrir og spjallað við þau.  Það sé hins vegar ekki rétt að hann hafi óskað eftir kynmökum við stúlkuna inni á baðherberginu eins og hún haldi fram.  Hann hafi kynnt sér lýsingu stúlkunnar á þessu atviki og neitar því alfarið.

Hann kvaðst kannast við að hafa einu sinni á unglingsárum Y farið með hana ásamt félögum hennar á veitingastaðinn Þórskaffi og einu sinni náð í hana þangað.  Hann hafi boðið þáverandi kærasta stúlkunnar,G, á staðinn og hún hafi komið ásamt einum vini eða tveimur og hafi þau verið að skemmta sér þar um kvöldið.  Það geti verið að þar hafi verið dansmeyjar að dansa, jafnvel uppi á borðum, og telur hann að hann hafi sjálfur keypt sér einkadans þetta kvöld.  Hann neitar alfarið að hafa haft milli­göngu um að Y dansaði nektardans á veitingastaðnum.  Stúlkan hafi hins vegar haft áhuga á að gera það og hafi hún haft samband við H, sem rak staðinn, og lýst áhuga sínum.  Hann hafi þó ekki beint verið vitni að því samtali, en stúlkan hafi sagt honum frá því.

Aðspurður um framburð hjá lögreglu, að hann hafi þvingað stúlkuna til að dansa nektardans á Þórskaffi til að borga skuld af bíl stúlkunnar, segir hann það alls ekki rétt. Ákærði var spurður um framburð H hjá lögreglu um að ákærði hafi beðið hann um að láta sig vita, ef hann færi eitthvað með stelpurnar að dansa og að hann hafi hringt í ákærða og látið hann vita svo Y gæti farið með.  Hann segir að H hafi aldrei talað við sig um Y, heldur hringt í sig og rukkað sig um 35.000 krónur sem hann hafi skuldað honum vegna einkadans þetta kvöld.

Ákærði nefnir sem dæmi um að stúlkan hafi farið á bak við hann og móður sína tilvik þegar hún fór til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgina þegar hún var 17 ára gömul.  Dóttir hans, B, hafi fengið leyfi til þess að fara til Eyja, en hann hafi ekki viljað að Y færi, en hún hafi stungið af í göngutúr um morguninn.  Móðir hennar hafi hins vegar álitið að hún myndi stinga af til Vestmannaeyja og þau því hringt í föður stúlkunnar og konu hans og beðið þau um aðstoð.  Ákærði og móðirin hafi síðan keyrt til Þorlákshafnar og þegar þangað kom hafi þau séð í kollinn á stúlk­unni um borð í Herjólfi.  Það hafi hins vegar verið orðið of seint að ná henni frá borði.  Stúlkan hafi hins vegar verið búin að segjast ætla að hitta þau á Garðatorgi og þar hafi faðir hennar, I, og konan hans beðið.  Stúlkan hafi hins vegar hringt á leiðinni í Herjólf, en hann og móðirin hafi farið á lögreglustöðina og ætlað að láta senda stúlkuna með flugi til lands.  Að fenginni ráðleggingu lögreglu um að það yrði erfitt hafi þau ákveðið að gera það ekki og látið skila góðri kveðju til stúkunnar.

Ákærði var spurður um samkvæmi hjá kæranda, Z, sumarið 2000, þar sem báðir kærendur voru í heitum potti með jafnöldrum sínum.  Kveðst hann hafa átt að ná í Y á umsömdum tíma en enginn svarað dyrabjöllunni.  Hann hafi heyrt hávaða í garðinum, kíkt yfir grindverk og þá séð krakkana nakta í pottinum í ástarleikjum.  Hafi þar verið kærasti stúkunnar, G,Z,Y og einn annar vinur þeirra.  Stúlkan hafi sagt honum ítarlega frá atvikinu þegar hann keyrði hana heim á eftir og þá sagt að þau hafi stundað ástarlíf þar fjögur saman og að hún hafi verið með báðum strákunum og Z eitthvað með henni.  Viðbrögð hans við þessu hafi verið þau að hringja í foreldra þeirra auk þess sem hann hafi viljað að stúlkan færi í ,,test”, það er athugað hvort hún væri á eiturlyfjum eða einhverju.  Hann hafi líka hringt í heimilislækninn til að spyrja hvað maður gerði í slíkum tilvikum ef það væri rétt. 

Ákærði gerir grein fyrir atviki 3. desember árið 2000 en hann hafi náð í stúlkuna niður á Thomsenbar og hún þá ekki viljað fara heim og verið mjög ,,agressíf”. Hafi hann ekið um miðbæinn og ætlað að vita hvort ekki rynni aðeins af henni.  Hún hafi farið út úr bílnum við bensínstöð Esso niðri í miðbæ og þá farið upp í Ford-bifreið með tilteknu númeri sem hafi ekið af stað og hafi hann misst af þeim.  Konan hafi komist að hver væri eigandi bifreiðarinnar og hann farið á heimili skráðs eiganda en þangað hafi bifreiðin síðan komið.  Hann hafi séð að stúlkan var hálfber inni í bílnum.  Hann neitaði að hafa setið inni í bíl sínum og beðið. Hann hafi ekið stúlkunni heim eftir atvikið og hún þá sagst hafa verið að dansa nektardans fyrir pilta í bílnum.  Hafi honum fundist þetta mjög slæmt. 

Hann kvaðst aðspurður, vegna framburðar móður J farþega í bif­reið­inni, að til tals hafi komið að kæra nauðgun til lögreglu en stúlkan hafi ekki viljað það.

Ákærði kvað sér hafa þótt leiðinlegt þegar stúlkan flutti að heiman 18 ára gömul til kærasta síns að […], og honum fundist hún flýta sér of mikið. Hann hafi haft sam­band við hana eftir það en telur að stúlkan hafi þó oftar haft samband við hann.  Hann hafi sent henni gjafir á því tímabili og hann og börnin hafi sent blómvönd.  Að­spurður hvort kort hafi fylgt blómvendinum sagðist hann halda að honum hafi fylgt bók.  Ítrekað aðspurður hvort fylgt hafi blómvendinum einhver áritun segist hann ekki minnast þess hvort þau hafi skrifað bréf.  Hann telur að hann hafi sent stúlkunni SMS- skila­boð eftir að hún flutti að heiman, en kannast ekki við að hafa beðið fyrir kveðju frá ,,litla og stóra”.

Ákærði er spurður um það sem fram kemur í framburði foreldra D hjá lög­reglu um að hann og A hafi ofsótt stúlkuna eftir að hún flutti að heiman.  Hann segir að fyrsta lýsing á fólkinu hafi verið á þann veg að kærastinn hafi keypt stórt rúm handa þeim og að maðurinn og konan á heimilinu hafi prófað rúmið með því að hafa sam­farir í því áður en þau gátu sofið í því.  Hafi honum ekki fundist þetta eðlilegt, og svo líka að það hafi verið einhvers konar samfarakeppni í gangi á staðnum, sem fólst í því hver gæti stunið hæst á nóttunni.  Hafi stúlkan sagt honum frá þessu og sagt honum ítrekað frá svona hlutum og hafi hann haft af því áhyggjur.  Aðspurður um fram­burð foreldra D, um að hann hafi áreitt heimilið, þar sem meðal annars hafi verið skorið á dekk á bíl fyrir utan húsið, bankað á glugga og þeim hótað, segir hann það ósatt.

Eftir að stúlkan flutti að heiman hafi hún mjög fljótlega dregið úr því að tala við móður sína, en hún hafi talað við ákærða.  Það hafi ekki verið fyrr en rétt fyrir síðustu jól, sem úr því dró.  Hún hafi komið á heimilið 3. júlí síðastliðinn og þá hafi hún sagst ætla að ná í dót sem hún ætti.  Hún hafi þá sagt við hann að það væri alveg sama hvað hún gerði hér eftir, hún gæti ekki dregið þetta mál til baka.  Hann hafi einu sinni talað við hana lítillega í síma eftir þetta, en hún var þá stödd hjá ömmu sinni.  Aðspurður segir ákærði það rétt að sumarið 2001 hafi stúlkan sagt honum að hún ætti von á barni með kærasta sínum. Þetta hafi verið í apríl eða maí 2001, og hafi hann tekið því mjög vel, þótt honum hafi fundist það nokkuð fljótt, og hann hafi verið ánægður fyrir hennar hönd.  Hún hafi sagt vinum sínum þetta, systur sinni og krökkunum, en ekki móður sinni, sem hafi frétt það í gegnum þau. Hann hafi farið með henni niður í Fífu og þau skoðað barnarúm og barnavagna, sem hana hafi vantað.  Hafi honum þótt sjálfsagt að taka þátt í því ef hana vantaði þetta, enda hafi samskipti þeirra á þessum tíma verið mjög góð.  Allt í einu hafi þetta hins vegar verið búið og hún enga skýringu gefið á því.

Ákærði er spurður um hljóðupptöku af símtölum milli hans og A sem hann kannast við að hafa tekið upp að henni forspurðri og afhent föður stúkunnar.  Hafi það verið gert til þess að hann sæi að það væri ekki gott ástand milli hans og sam­býl­iskonunnar og svo til öryggis upp á seinni tíma, en honum hafi fundist sam­býlis­kona sín láta illa á þessum tíma og verið óöruggur um hana.  Hafi hann viljað að faðir stúlk­unnar tryði hvernig ástandið væri. 

Ákærði kom aftur fyrir í lok aðalmeðferðar og bar að hann hefði gefið stúlkunni 10 skópör sem hann hafi haft til umráða vegna vinnu fyrir [...] en hún hafi verið búin að biðja hann um skó.  Þá kvað hann C aldrei hafa gist á heimilinu en það hafi einu sinni staðið til.  Þá var ákærði beðinn að varpa ljósi á framburð vitnisins, K.  Hann kvað stúlkuna hafa fengið lánaða bifreiðina en ekki hafi verið til þess ætlast að hún færi til [...] á henni.  Þetta hafi valdið reiði A og hafi hann og stúlkan farið í bíltúr til að ræða þetta mál.

Ákærða var sýnt kort sem fylgdi blómasendingu og kvaðst hann hafa sent þetta.  Stúlkan hafi verið langt niðri og hafi hann langað til að senda henni fallega orð­sendingu.  Ákærði kannaðist við að Z hefði hringt í hann eftir atvikið í heita pott­inum  og verið með einhvers konar hótun en hann muni ekki samhengið. 

Varðandi ákærulið 2 kvað hann frænku stúlkunnar, Z, hafa komið í heimsókn til þeirra um verslunarmannahelgina 1996 en A var þá ekki heima.  Telur hann að stúlkan hafi komið á fimmtudegi og þær drukkið það kvöld.  Hann hafi vaknað við hávaða þessa nótt og hafi þá Z verið inni í herbergi með tveimur ókunn­ugum strákum.  Hafi honum fundist þau vera í einhvers konar ástaratlotum og hafi hann rekið strákana út.  Hann hafi hringt í móður Z daginn eftir og viljað senda hana heim.  Hann þvertók fyrir að hafa gefið stúlkunum áfengi.  Þá sagðist hann ekki hafa látið stúlkurnar fá kynlífshjálpartæki þessa helgi, hvorki gefið þeim þau né lánað, enda hafi ekkert slíkt verið til á heimilinu á þeim tíma.  Aðspurður um framburð stúlkn­anna um þetta atvik vísar hann honum alfarið á bug og kveðst enga skýringu hafa á ásökunum þeirra þrátt fyrir að vera búinn að velta þeim mikið fyrir sér. 

Fyrir dómi skýrði Y svo frá að í fyrsta skipti sem ákærði hafi notað hana kynferðislega hafi verið þegar þau bjuggu í […].  Hafi hún verið 5 eða 6 ára en ekki verið byrjuð í skóla.  Það hafi gerst með þeim hætti að hann hafi látið hana leggjast upp á borðstofuborð í holinu.  Hún hafi verið ber að neðan en hann staðið yfir henni.  Hann hafi strokið klof hennar, bæði með fingrum og lim sínum, og fróað sér þar til hann fékk sáðlát.  Eftir það hafi þetta nánast verið daglegt brauð þar til í [...] 2000.  Nánar aðspurð segir hún að ákærði hafi snert kynfæri hennar og nuddað með fingrum og getnaðarlim sínum og fróað sér o.s.frv. Segir hún að þetta hafi gerst bæði eftir og áður en hann fór að hafa við hana samfarir.  Þetta hafi hins vegar verið oftar áður en til þeirra kom.

Hún kvaðst ekki muna hvenær ákærði hafi stungið ,,honum inn í fyrsta skipti’’ en það hafi verið á meðan þau bjuggu í […].  Ákærði hafi í gegnum tíðina haft sam­farir við hana, haft við hana munnmök og látið hana eiga munnmök við sig.  Þá muni hún eftir nokkrum skiptum þar sem hann hafði samfarir við hana í endaþarm.  Ákærði hafi gefið henni nokkur kynlífshjálpartæki, víbratora og egg.  Hann hafi allavega verið búinn að gefa henni einn víbrator og eitt egg áður en þau fluttu til [...].  Þá hafi hann notað á hana víbrator og einnig látið hana nota slíkt tæki.  Hann hafi stundum tekið samskipti þeirra upp á myndband sem þau hafi horft á saman.

Stúlkan lýsir atviki í […] þegar hún hafi verið eitthvað um 13 ára gömul, en þá hafi C vinkona hennar verið í heimsókn.  Ákærði hafi kallað hana inn á bað­herbergi. Hún hafi komið og hann þá læst hurðinni.  Hafi hann látið hana krjúpa á klósettinu eða uppi á vaskinum og haft við hana samfarir þar.  Í framhaldi af þessu hafi fjöl­skyldan komið í viðtöl hjá Félagsmálastofnun.  Stúlkan segir að ákærði hafi iðu­lega sagt við hana að ef hún segði öðrum frá háttsemi hans myndi enginn trúa þessu upp á hann því allir vissu hvað hann væri góður maður, en hún væri viðbjóður og fólki myndi finnast það.  Hann hafi líka sagt að ef hún tryði einhverjum strák fyrir þessu myndi enginn líta við henni.

Ákærði hafi oft boðið henni að koma út að keyra og hafi þá enginn mátt koma með. Hann hafi þá oft haft samfarir við hana í bílnum víða um borgina.  Hann hafi oft lagt bílnum í Öskjuhlíðinni og við smábátahöfnina í Vogum og oft keyrt inn í lítinn skóg vinstra megin við veginn á leið út á Álftanes.  Þá hafi hún nokkrum sinnum farið með honum í bíl til [...] og þau hafi verið ein á ferð.  Þar sé gamall dansstaður áður en komið er til [...] og hann hafi eitt sinn farið þar á bak við hús og lagt bílnum í þessum tilgangi.  Einu sinni hafi hún farið með honum að flytja […] frá [...] til Reykjavíkur, 23 tíma ferð.  Þá hafi þau haft kynmök bæði við gröfuna og eins á hótelherbergi í [...].  Þau hafi iðulega gengið á fjöll, á Esju, Úlfarsfell og Akrafjall, og oft haft kynmök í þeim ferðum en þau hafi þá farið út af göngustígum og á milli trjáa við Esjuna.  Hann hafi ýmist látið hana leggjast eða krjúpa og eins líka liggja eða krjúpa á bekk við Úlfarsfell. 

Á ferðalagi til […] hafi kynmök átt sér stað er þau dvöldu á hóteli.  Þá kveðst hún minnast fjölskylduferðar í Þrastarlund til þess að halda upp á tveggja ára afmæli systur sinnar, sem fædd er […].  Hann hafi beðið hana um að koma með sér á klósettið og talað um að hún þyrfti að fara að sofa, en hún hafi ekki viljað það af því að það var svo gaman.  Systir hennar hafi farið að skipta sér af því að hún þyrfti ekkert að fara að sofa, af því að þær væru í útilegu og hann hafi þá orðið reiður og öskrað og rokið inn í skóg eða trjáþyrpingu og minnir hana að bróðir hennar hafi hlaupið á eftir honum til að reyna að tala við hann.  Síðar um morguninn þegar hún vaknaði hafi þau farið í göngutúr.  Hann hafi þá beðið hana að leggjast milli trjánna og hann lagst við hlið­ina á henni og fróað sér og minnir hana að hann hafi einnig ,,stungið honum inn”. 

Stúlkan greinir frá fjölskylduferð til Noregs.  Það hafi verið einhvers konar báts­ferð, en [...] búi í Noregi og þau hafi verið hjá honum.  Hann hafi átt sum­ar­hús úti á eyju.  Umrætt sinn hafi systir hennar verið nýfædd.  Hún kveðst minnast þess að hann hafi farið með hana afsíðis, en man ekki nákvæmlega hvað gerðist.

Brot ákærða hafi oft átt sér stað á heimilinu á meðan aðrir heimilismenn voru á staðn­um og þá hafi það komið fyrir að hún hafi beðið hann um að vekja sig til að mæta í skóla eða vinnu og þá hafi hann ekki vakið hana fyrr en hann hafi verið kominn upp í rúm til hennar.  Móðir hennar eða aðrir hafi þó aldrei orðið vitni að þessu.  Hann hafi læst þau inni í herbergi hennar eða herbergi sínu.  Systkini hennar hafi oft verið heima, en yfirleitt hafi móðirin ekki verið heima, en hafi svo verið þá hafi hún verið sofandi.

Hún kvað mikið af klámefni hafa verið til á heimilinu, myndbönd og klámblöð og hafi hann ekki falið það neitt.  Þetta hafi yfirleitt verið i vídeóskápnum undir sjón­varpinu.  Hún minnist þess ekki hins vegar að hafa sem krakki verið að skoða þetta efni.  Aðspurð um víbratora og klámmyndablöð, sem fundust undir dýnu í rúmi hennar að […], segir stúlkan að ákærði hafi keypt þetta fyrir hana.  Hún hafi stundum farið með honum til þess að kaupa, en þó ekki alltaf. 

Stúlkan kvaðst hafa byrjað að vera með strák, G, þegar hún var 14 ára gömul og þau verið saman á þriðja ár.  Hún hafi byrjað að taka pilluna hálfu ári eftir að sam­band þeirra hófst og hafi ákærði vitað það.  Hann hafi verið mjög ýtinn og spurt mikið um samband hennar við G og hvort þau væru að gera það.  Hún hafi hins vegar neitað því.  Áður en hún fór á pilluna hafi hann yfirleitt haft sáðlát á magann á henni, rassinn, á bakið, í handklæði eða á gólfið.  Þetta hafi hins vegar breyst eftir að hún fór að taka pilluna.  Hafi hann talað um rofnar samfarir þegar hann hafi þurfa að taka lim­inn út og fá það þannig.  Hann hafi verið ánægður með að þurfa ekki að gera það lengur. 

Eftir að hún og G hættu að vera saman hafi hún verið að dúlla með strák sem hún hafi verið hrifin af og ákærði hafi farið heim til hans og sagt að hann ætti að forðast hana, þar sem hún væri geðveik og með brókasótt.  Þetta hafi hann líka sagt við vini hennar sem hún var ekki í neinu föstu sambandi við.  Ákærði hafi sagt henni að þetta væri afbrýðisemi sem hann réði ekki við.

Hún kvað það hafa verið vanann að hún léti ákærða vita um allar sínar ferðir.  Hann hafi kannski verið búinn að tala um það að hún léti hann vita ef hún færi eitt­hvað, eða myndi breyta um stað.  Þetta hafi bara verið svona.  Hún hafi iðulega beðið hann um að koma og ná í sig og oft hafi hann boðist til þess.  Hún hafi vitað að hann vekti eftir henni.  Hún hafi hins vegar stundum forðast það að hann næði í hana, en annars hefði það bara ekki verið samþykkt að hún kæmi heim sjálf.  Þótt hún hafi ætlað í bíó með vinkonum sínum eða eitthvað slíkt, þá hafi hann keyrt á staðinn og at­hugað og í nokkur skipti þar sem hún hafi verið á rúntinum með vinum sínum á Lauga­veginum hafi hún litið í spegilinn og séð að hann var fyrir aftan.  Hafi hún alltaf þurft að gera grein fyrir ferðum sínum, annars hefði allt orðið brjálað. 

Kynferðislegri háttsemi ákærða hafi lokið gagnvart henni aðfaranótt [...] 2000. Þá hafi hún verið nýbúin að kynnast núverandi unnusta sínum, D, og hafi hann boðið henni út að borða og í leikhús og þau ætlað að fara út að dansa.  Ákærði og A hafi náð í hana og farið með hana heim.  Um miðnættið hafi ákærði komið og sagt að hún mætti fara út ef hann fengi ,,einn snöggan”.  Hún hafi alltaf verið svo stressuð þegar hann hafi beðið um þetta þegar móðir hennar var heima.  Hún hafi passað sig og aldrei farið alveg úr buxunum vegna þess að hann hafi gert það oft í sófanum í stofunni og bara hallað hurðinni.  Hún hafi alltaf verið að kippa upp bux­unum og hann hafi orðið svo pirraður.  Hafi ákærði sagt sér að koma inn í herbergi og að hún færi ekki út. 

Hún kvað það hafa gerst áður að ákærði setti slík skilyrði eins og í fyrsta skiptið sem hún hafi fengið að gista hjá kærastanum. Þá hafi hann sagt að hún yrði að vera komin heim fyrir hádegi, því að mamma kæmi snemma heim úr vinnunni, til þess að hann gæti fengið ,,einn snöggan”.

Eftir að hún flutti heim til D hafi ákærði komið þangað og m.a. komið á svefn­herbergisglugga hjá henni og kærastanum og vakið þau.  Varðandi framburð ákærða um rúm hennar og kærastans og stunukeppni sem átti að eiga sér stað kvaðst hún aldrei hafa heyrt um slíkt og kannaðist ekki við þá lýsingu. 

Hún kvað ákærða hafa sent henni tvo blómvendi eftir að hún flutti og hafi fylgt kort með sem hún hafi hent.  Hún muni ekki hvað á þeim stóð en það hafi verið eitthvað í þá áttina að hann elskaði hana út af lífinu og hún væri yndisleg og falleg eða eitthvað slíkt.  Ákærði hafi einnig sent henni mikið af SMS-símboðum og hringt.  Hún kannast við að hafa fengið kveðju frá ,,litla og stóra” sem hún hafi skilið svo að hafi verið frá honum og typpinu, en það hafi verið hugtak sem þau notuðu.

Hún kvaðst hafa talið að hún ætti von á barni með kærasta sínum í byrjun ársins 2001, þar sem hún hafði ekki haft blæðingar og tekið jákvætt þungunarpróf.  Hafði hún sagt ákærða þetta í trúnaði og hann orðið ánægður með það.  Hann hafi hins vegar sagt að hann hefði verið búinn að taka loforð af henni, þegar hún var með G, að fyrsta barn hennar yrði þeirra.  Það væri svo skemmtilegt leyndarmál á milli þeirra að hann væri ,,bæði faðirinn og afinn”.  Ákærði hafi sagt móður hennar frá því að hún ætti von á barni, en móðirin hafi hringt og sagst ætla að sjá til þess að hún yrði svipt sjálfræði og fengi aldrei að sjá barnið.

Stúlkan kvað ákærða hafa boðið henni í Þórskaffi í fyrsta skiptið þegar hún var 17 ára gömul og hafi G þá verið með henni og aðrir kunningjar.  Hún kvaðst hafa dansað nektardans á staðnum og hafi ákærði verið búinn að tala um það að honum fyndist ekkert gaman að horfa á ókunnuga konu uppi á sviðinu en gaman væri ef hún gæti dansað þarna.  Hann hafi átt kunningja, H, á staðnum og fengið leyfi hans fyrir því að hún dansaði.  Hún hafi síðan dansað í framhaldi af þessu og hafi ákærði og H fylgst með.  Þetta hafi verið á sunnudegi, að hana minni, og eiginlega engir á staðnum.

Stúlkan kvaðst aðspurð oft hafa verið spurð um samband sitt við ákærða en hún hafi aldrei sagt neinum frá þessum samskiptum.  Það hafi hún fyrst gert í nóvember 2001 að hún sagði kærasta sínum frá þeim.  Hún hafi verið orðin hrifin af honum og ekki viljað halda áfram sambandi við hann nema hann vissi hvað gerst hafði.  Hún hafi verið búin að ákveða að það væri betra að segja honum þetta núna heldur en eftir tíu ár.  Hún kvaðst hafa verið drukkin og kærastinn komið og náð í hana og hún sagt honum hvað gerst hafði, en áður hafi hún verið búin að hugsa það í nokkurn tíma. 

Aðspurð um verslunarmannahelgina á [...] 1996 sagðist hún hafa verið mikið á djamminu eða fylleríi þá helgi, en hún hafi verið farin að drekka á þessum tíma og haft samskipti við stráka.  Aðspurð hvort Z hefði átt í einhverjum sam­skiptum við stráka þessa helgi sagði hún að hún hefði eitthvað verið að dúlla sér með vinum sínum.  Hún kveðst ekki minnast þess að Z hafi farið heim með þessum strákum eða öðrum strákum að […]  Á þessum tíma hafi hún átt kærasta.  Stúlkan kvaðst ekki hafa vitað um það fyrr en síðar að Z teldi sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af ákærða þessa helgi.  Hún kvaðst minnast þess að Z hafi reiðst við ákærða vegna afskipta hans.  Hafi hún hringt í hann og sagt að ef hann hætti þessu ekki myndi hún kæra hann fyrir eitthvað sem hann vissi fyrir hvað væri.  Hún hafi ekki spáð neitt í þetta.  Þetta hafi verið eftir atvikið í heita pottinum. Hún hafi orðið vitni að þessu samtali þar sem hún hafi verið með ákærða í bíl.  Hún kvaðst ekkert hafa rætt þetta mál við frænku sína.  Þær séu búnar að vera í sambandi en hafi ekki rætt um þetta mál.  Þær séu góðar vinkonur, en Z sé skyld henni í móðurætt.

Hún kveður ákærða hafa afhent henni og kæranda, Z, víbrator um verslunar­manna­helgina 1996, en það hafi ekki verið í fyrsta skipti sem hún sá svona tæki.  Þetta hafi verið hvítur víbrator með röndum og líka hvítt egg.

Aðspurð sagði stúlkan að B og hún hefðu ætlað að fara til Vestmanna­eyja um verslunarmannhelgina þegar hún var 17 ára.  Hún hafi keypt sér farmiða enda búin að ganga úr skugga um að hún mætti fara.  Ákærði hefði sagt að lykillinn að þessari ferð væri að hún ætti að vera farin að sofa klukkan ellefu, eða eitthvað slíkt.  Fyrir helgina hafi hún verið að vinna og flestir kunningjanna farið á fimmtudegi.  Hún hafi fengið sér í glas og verið eitthvað lengur úti fyrir ferðina.  Föstudagsmorguninn hafi ákærði keyrt hana í vinnuna og sagst vera búinn að taka ákvörðun og hún færi ekki til Vestmannaeyja.  Hún hafi engu að síður farið.

Við aðalmeðferð gerði stúlkan grein fyrir atvikinu í heita pottinum sumarið 2000 þar sem hún var ásamt Z o. fl.  Ákærði hafi komið óbeðinn á staðinn og haldið því fram að hann hafi séð þau í einhvers konar hópkynlífi.  Hún neitaði hins vegar að slíkt hefði átt sér stað og bar eins og hjá lögreglu að þau hefðu verið þarna fjögur að fá sér í glas og öll í sundfötum.

Stúlkan kom á ný fyrir dóminn og var þá bent á að samkvæmt framburði G hefði hópkynlíf átt sér stað þarna.  Hélt hún fast við framburð sinn og kvað þau hafa verið í sundfötum og taldi að henni hefði aldrei dottið í hug að fara úr þeim enda göngu­stígur við hliðina á garðinum.  Henni var bent á framburð G sem væri á aðra lund en hún breytti ekki framburði sínum. 

Stúlkan kom í þriðja sinn fyrir dóminn að eigin frumkvæði og kvaðst þá hafa sagt ósatt um þetta atriði.  Hið rétta væri að þau hefðu verið í kynlífsleik í pottinum.  Skýrði hún það svo að þegar lögreglan hafi spurt að þessu hafi hún ekki skilið hvaða máli það skipti og hefðu þau komið sér saman um að segja ekki frá þessu.  Við það hafi þau staðið án þess að ákveða það frekar.   Z hafi síðan hringt í hana og sagt að þau hefðu öll breytt framburði sínum.  Hún kvað sér líða mjög illa yfir því að hafa sagt ósatt í tvígang en sagði annað í framburði sínum rétt. 

Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki skýrt frá atferli ákærða gagnvart henni fyrr sagðist hún ekki vita það.  Henni hafi fundist þetta samband við ákærða vera eðlilegur hluti af tilveru sinni og ekki vitað hvernig þetta væri öðruvísi.  Hún hafi verið vön þessu.  Samband þeirra hafi verið gott og hún hafi getað talað við hann um alla hluti og sagt honum frá öllu sem gerðist í hennar lífi. Hann hafi staðið með henni þegar mamma hennar hafi verið í brjálæðiskasti og hún litið á hann sem vin.  Það hafi aldrei hvarflað að henni að orða þetta við móður sína, enda þær aldrei átt skap saman.  Hún telur hins vegar að móðurina hafi grunað hvað var í gangi og byggir það á því hvernig móðirin hafi talað við sig og hvernig hún talaði við ákærða um sig.  Hafi hún haft á orði að þau væru alltaf saman og hvað væri eiginlega í gangi á milli þeirra.

Kærandi, Z, skýrði frá fyrir dómi á sama hátt og hjá lögreglu varðandi atvikið um verslunarmannahelgina 1996 á [...] að hún hafi dvalið nokkra daga á heimilinu hjá ákærða og Y.  Hún var þá […].  Hún sagði að Y hefði verið blindfull þegar hún og ákærði komu að ná í hana á flugvöllinn og hafi þær fengið vodka að drekka hjá ákærða og sígarettur.  Á heimilinu hafi verið mikið af klám­myndum við sjónvarpstækið og klámblöðum, sem hafi verið áberandi. 

Kvöld eitt hafi ákærði látið þær fá tvö kynlífshjálpartæki, annað hafi verið hvítur víbrator og hitt hafi verið egg.  Hann hafi bara komið og spurt hvort þær vildu prófa þetta, sem henni hafi fundist hálfasnalegt.  Þetta hafi ekki komið Y neitt á óvart og hafi verið eins og og hún hefði séð þetta þúsund sinnum áður.

Hún sagði að þær frænkur hefðu verið í einhverjum samskiptum við stráka á svipuðum aldri og þær eða eitthvað eldri, en það hafi bara verið eins og gengur og gerist.  Þessir strákar hefðu komið stundum með inn á heimilið og hafi þau eitthvað verið að kyssast en það hafi ekki gengið lengra.

Stúlkan sagðist hafa vaknað einn morguninn og komið að ákærða allsberum á baðher­berginu.  Hún hafi farið aftur inn í herbergið sitt og læst að sér.  Hann hafi komið stuttu seinna, bankað og sagt að þetta væri allt í lagi.  Hún hefði umrætt sinn verið klædd magabol og hafi ákærði talað um hvað hún væri með flottan nafla og svoleiðis.  Hann hafi síðan farið að þukla hana með fingrunum undir fötum og þuklað á kynfærum hennar, niður á hné, sleikt á henni kynfærin og sett fingur í leggöng hennar.  Hann hafi síðan ætlað að fara úr buxunum og hún hafi þá neitað því og sagt nei, hún vildi ekki gera þetta.  Hann hafi þá farið.

Hún kvaðst hafa upplifað atvikið sem ofsalega skömm sem hún hafi kennt sér sjálfri um.  Hún hafi hins vegar ekki viljað ræða þetta við Y þar sem þær væru vin­konur og  haldið að hún væri ein um þetta.  Eftir atvikið hafi ákærði hringt í móður hennar og talað um að senda hana heim.  Hún hafi viljað komast heim sem fyrst, en man þó ekki hvort hún hafi farið sama dag eða daginn eftir. Á þessum aldri hafi sam­skipti hennar við stráka verið eiginlega engin og hafi þetta allt verið nýtt fyrir henni, svo og áfengi og tóbak, og hafi henni verið brugðið þegar hún sá þetta allt.

Hún hafi reynt að forðast ákærða og A eftir þetta eins og hún gat.  Hún hafi hins vegar átt erfitt með það þar sem Y var vinkona hennar og hafi hún farið nokkur skipti á heimili ákærða til að heimsækja hana.  Þá kvaðst hún hafa hjálpað til við ferm­ingarveislu hálfbróður Y, en ákærði og A hefðu beðið hana að koma.  Hún hafi alla tíð reynt að halda öllu góðu.  Eftir að Y flutti að heiman til kærasta síns hafi sam­skipti þeirra verið lítil.  Hún og Y hafi verið saman í [...] og Y einu ári eldri en hún, eða bekk fyrir ofan hana, og hafi ákærða verið fullkunnugt um það og þess vegna um aldur hennar.

Hún kvaðst ekkert hafa rætt málefni sitt við Y, en þær styðji hins vegar hvor aðra nú, en reyni að tala sem minnst um þetta og halda sínu striki.  Hún kvaðst aldrei hafa orðið vör við kynferðisleg samskipti milli Y og ákærða, en henni hafi hins vegar fundist allt furðulegt í kringum þau.  Hann hafi verið mikið með hana á rúntinum og gert í raun allt fyrir hana sem hún hafi beðið hann um.  Hún hafi orðið mjög vör við að ákærði hafi verið að þvælast í kringum þau þegar þær voru að skemmta sér úti á kvöldin og hann hafi skipt sér mikið af því sem fram fór. 

Sumarið 2000 hafi ákærði hringt í móður hennar og sagt að þær frænkur hefðu verið í kynlífsorgíu í heita pottinum.  Hún kvaðst hafa hringt í ákærða, mjög reið, og beðið hann að leiðrétta þetta.  Hafi hún sagt að ef hann hætti ekki að koma með svona sögur þá myndi hún kæra hann út af þessu tilviki.  Kvaðst hún ekki muna alveg hvað ákærði hefði sagt, en eitthvað um að hann myndi hringja og leiðrétta það, sem hann hefði gert.  Hins vegar hefði ekkert kynsvall átt sér stað í heita pottinum umrætt sinn.  Hún lýsti aðstæðum heima hjá sér svo að húsið sé endahús við götu og gangstígar alveg upp við húsið.  Ekki þurfi mikið fyrir því að hafa að sjá inn í garðinn.

Stúlkan kom aftur fyrir dóminn og kvaðst hafa sagt ósatt í fyrra skiptið um það atriði.  Það hafi komið upp þegar ákærði hringdi til foreldra hennar að neita þessu. Ætl­unin hafi verið að gleyma þessu, þar sem hann var að njósna þarna og henni hafi liðið illa af því að foreldrar hennar kæmust að því.

      Vitnið, L, staðfesti þessa síðari frásögn en hann hafi áður komið fyrir dóminn varðandi það atriði og borið á annan veg.

Framburður vitna fyrir dómi 28. nóvember 2002

Fyrir dómi kvaðst A, móðir Y, aldrei hafa orðið vör við að ákærði hefði kynferðisleg afskipti af stúlkunni.  Þá hafi stúlkan aldrei haft orð á slíku við sig fyrr en málið kom upp.  Hún kvaðst ekki geta neitað því að þegar ábending kom 1997 frá barnaverndarnefnd um það hafi læðst að henni grunur en það hafi aldrei neitt bent til slíks.  Hún hafi þó gefið samskiptum þeirra meiri gaum eftir það. 

Hún kvað ákærða og stúlkuna alla tíð hafa verið mjög góða vini og algengt hafi verið að þau færu tvö saman út að keyra.  Stúlkan hafi iðulega viljað fara út og ræða við ákærða um það sem henni lá á hjarta þar sem hann hafi lægt öldurnar áður en að henni kom.  Þessar ökuferðir hafi ekkert frekar vakið undrun hennar.  Þá hafi henni ekki þótt neitt athugavert við fjallgöngur þeirra eða önnur ferðalög.  A kvað stúlk­una sí og æ hafa hringt heim til að láta vita væri hún úti, eins og til að friða sam­viskuna, en þá hafi hún verið að gera eitthvað af sér.  Það hafi orðið til þess að þau hafi farið að fylgjast betur með henni.

Undir vitnið voru borin endurrit samtala hennar við ákærða á árinu 2000 sem hann hljóðritaði án hennar vitneskju.  Þar kemur fram að hún talar um „tilraunadýrið“.  Kvaðst hún þar hafa átt við stúlkuna en hún hafi stundum litið á hana sem til­rauna­verkefni í uppeldi barna.  Vitnið var spurt um eftirfarandi brot úr samtölum þeirra:

V: „Þurfið þið frið til þess að fara að gera það eða …“

V: „Þú stjórnar þeim sem minni máttar eru.  Þú getur ekki stjórnað konunni þinni heldur þarft þú að sækja í dóttur konunnar þinnar til þess að láta þér líða vel.  Það er nefnilega málið. 

V: „Þú hefur reynst góður vinur í gegnum tíðina …, en ég veit ekki hvað hefur komið yfir þig núna undanfarið alla vega virðist vinskapur minn vera orðinn þannig að það er betra að vera með Y.“

Enn fremur samtal þar sem heyrist í stúlkunni á bak við.  A óskar eftir að fá að tala við ákærða þegar stúlkan sé ekki nálægt og hann segir að hún sé að fara í ljós.  Hún spyr þá ákærða hvort hann ætli ekki bara með henni.

V:„ Getið þið ekki legið á sama bekk.“ Á: „Það er nú bara einn á hverjum bekk, A  mín.  V: „Það geta nú sumir rúmast tveir á sama bekk, veistu það …“

A svaraði að á þessu tímabili hafi hún átt mjög erfitt, m.a. vegna rangrar lyfja­gjafar í kjölfar bílslyss sem hún lenti í.  Þá hafi þolinmæðisþröskuldur hennar verið mjög lágur og hafi hún með þessum orðum viljað særa ákærða en hún hafi verið í reiðikasti. Hún kvaðst enga skýringu geta gefið á því af hverju stúlkurnar bæru ákærða slíkum sökum sem hér hafa verið raktar.

Hún kvað Y hafa gengið vel í skóla í æsku og fengið góðar einkunnir og um­sagnir hjá kennurum.  Hún hafi verið mikil fjörkálfur, alltaf glöð og kát.  Alla tíð hafi þurft að hafa skýr mörk með stúlkuna til að hafa stjórn á henni.  Aðspurð kvað hún C aldrei hafa gist hjá þeim en hún hafi einu sinni átt að fá að gista en til þess hafi ekki komið.

Vitnið, C, kvaðst vera gömul vinkona Y.  Þær hefðu verið saman í skóla á tímabili og hefðu orðið nánar vinkonur í stuttan tíma.  Þetta hefði verið fermingarárið þeirra og þær því verið 13 eða 14 ára gamlar (1996 – 97).  Vitnið kvaðst hafa komið nánast daglega inn á heimili Y og hefði henni fundist skrítið sam­band á milli hennar og ákærða.  Y hefði t.d. talað um að stjúpi hennar ráðlegði henni um hvort hún ætti að vera í brjóstahaldara eða ekki og að hann gæfi henni leyfi til að taka áfengi úr vínskáp á heimilinu.  Eitt skipti hefði ákærði setið á nærbuxunum í sófa inni í stofu og boðið þeim stúlkunum sæti hjá sér.  Hefði hann verið að spyrja þær mikið út í strákamál, hvort þær ættu kærasta og hvort þær væru byrjaðar að stunda kynlíf.  Vitnið kvaðst minnast nokkurra atvika sérstaklega frá þessum tíma.  Í eitt skiptið hefði ákærði kallað á Y ítrekað.  Hún hefði farið til hans og verið í burtu í 10 til 15 mínútur.  Aðspurð kvaðst vitnið hafa verið á neðri hæð íbúðarinnar en ákærði á þeirri efri og hefði hún því ekki vitað í hvaða herbergi ákærði var.  Hún hefði heyrt hurðinni lokað en ekki læst.  Y hefði sagt að ákærði hefði eitthvað þurft að tala við hana þegar hún kom aftur.  Nánar spurð kvaðst hún minnast annars tilviks þegar ákærði hefði verið inni á baðherbergi og hefði kallað Y til sín þangað.  Þá hefðu þær verið inni í herbergi Y og hún ekki svarað strax. Ákærði hefði þá hækkað róminn og hún farið inn á salerni til hans.  Vitnið kvaðst hafa beðið eftir Y í 10 til 15 mínútur í bæði skiptin.  Vitnið kvaðst hafa gist heima hjá Y einu sinni.  Hún hefði vaknað um nóttina og þá hefði Y ekki verið í rúminu sínu.  Kvaðst vitnið hafa vakað í einhverja stund en síðan sofnað aftur.  Aðspurð hvort einhverjar grunsemdir hefðu vaknað kvað vitnið sig alltaf hafa grunað að þetta tengdist ákærða einhvern veginn.  Henni hefði aðal­lega þótt þetta skrítið og einnig hefði hana grunað eitthvað kynferðislegt.  Vitnið kvaðst hafa sagt móður sinni frá grunsemdum sínum.  Þær hefðu gefið skýrslu hjá félags­málayfirvöldum í [...].  Aðspurð á hverju hún hefði byggt þann grun sem hún lýsti í lögregluskýrslu, að um kynferðislega misnotkun hefði verið að ræða, kvaðst vitninu ekki hafa fundist um eðlilegt samband að ræða á milli fósturföður og dóttur, að hann leyfði henni að drekka áfengi og að þau væru alltaf ein saman.  Grunur sinn hefði vaknað eftir á, ekki nákvæmlega þegar atvikin áttu sér stað.

M, móðir C, kvaðst hafa beint tilkynningu til barna­vernd­aryfirvalda sem varðaði samskipti Y og ákærða.  Vitnið kvaðst fyrst og fremst hafa haft áhyggjur af sinni eigin dóttur, að henni hefði verið gert eitthvað.  C hefði verið í uppnámi yfir einhverju og hefði grátið mikið.  Kvaðst vitnið hafa viljað ræða málin við hana og þá hefði C sagt henni frá samskiptum Y og ákærða.  C hefði sagt sér að ákærði keypti oft áfengi handa stúlkunni og að hann hefði oft verið á nærbuxunum heima við.  C hefði einnig sagt henni frá því að stúlkan hefði ekki verið í rúminu sínu þegar hún hefði gist hjá henni og vaknað um nóttina.  Kvaðst vitnið hafa beðið mann hjá félagsmálayfirvöldum að ræða við C til að kanna hvort það væri eitthvað sem hún væri ekki að segja frá.  Vitnið kvaðst minnast þess að hafa verið í Hagkaupum með C um þetta leyti þegar þær hefðu rekist á Y og ákærða.  Þá hefði ákærði verið í nærfatadeildinni með henni að kaupa á hana undirföt.  Henni hefði fundist þetta skrítið.

Faðir stúlkunnar, I, kvaðst hafa talið sig frekar heppinn með stjúp­föður hennar framan af.  Hafi honum virst samband þeirra náið og að ákærði sinnti stúlkunni mjög vel.  Eftir að barnaverndarnefnd rannsakaði ásökun um misnotkun á stúlkunni 1997 hafi þau hjónin fylgst nánar með henni.  Það hafi fyrst verið þegar stúlkan hafi farið til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgi að viðvörunarljós hafi kviknað og þau hafi gert sér grein fyrir því að ekki var allt með felldu þar sem svo mikið veður hafi verið gert út af þessari ferð. 

I kvaðst einu sinni hafa komið á fund með ákærða og A út af skóla­málum stúlkunnar en hann hafi þróast út í umræður um samskipti hennar við stráka.  Þetta hafi gengið svo langt að hann hafi spurt ákærða hvernig hann vildi hafa þessi mál stúlkunnar og hvort hann ætlaði að raða þeim upp og velja strák handa henni.  Ákærði hafi þá brjálast og barið í eldhúsinnréttinguna og sagst vera farinn ef hann fengi ekki að ala upp börn sín í friði.

Ákærði hafi alla tíð sagt sér að D væri síðasta sort, eiturlyfjaneytandi og vondur maður, og stúlkan væri hjá honum í kynlífsþrælkun.  I kvaðst hins vegar hafa kynnst D og farið til foreldra hans.  Hann hafi séð allt aðra mynd af honum og hafi ekkert undan honum að kvarta. Stúlkan hafi síðan sagt honum árið 2001 að ákærði hafi misnotað hana eins lengi og hún myndi eftir sér.  I kvaðst hafa beðið hana í örvæntingu sinni að vera sannsögla og bent henni á alvarleika málsins.  Hann kvaðst hafa séð miða sem fylgdi blómasendingu til stúlkunnar og hafði hann minnt á sendingu milli elskenda en ekki föður og barns.

N, eiginkona I, bar á sömu lund varðandi ánægju þeirra með ákærða sem stjúpföður Y í upphafi.  Þar sem þau hafi búið úti á landi hafi ekki verið um dagleg samskipti að ræða. 

Hún kvaðst hafa verið mikið á verðbergi eftir afskipti barnaverndaryfirvalda 1997, en hún hafi gengið hart að stúlkunni um að segja frá vegna grunsemda um að ekki væri allt í lagi.  Seinna, haustið 1997, hafi stúlkan átt að gista hjá þeim hjónum.  Vitnið hafi verið á leið frá heimilinu um kvöldið þegar hún sá ákærða koma og taka Y upp í bílinn.  Henni hafi brugðið og snúið við heim og ætlað að elta þau.  Síðar hafi hún fengið einhverja „sæta sögu“ hjá stúlkunni.   Hún hafi aftur gengið á stúlkuna vegna uppákomunnar um verslunarmannahelgina í Vestmannaeyjum og viljað að hún færi út af heimilinu, sem ekki hafi orðið úr.

N kvað þau hjón hafa blandast mikið inn í mál fjölskyldu ákærða vegna stúlk­unnar.  Athygli hafi vakið eftir að hún varð unglingur hversu mikið hann var að sækja hana af veitingahúsum og slást í för með jafnöldrum hennar.  Fyrst í stað hafi þeim virst þetta af umhyggju gert, en síðan hafi þeim þótt þetta ganga of langt.

N kvað ákærða hafa hringt einu sinni að nóttu til og sagst hafa séð stúlkuna í heita pottinum hjá frænku sinni ásamt henni og tveimur piltum.  Hann hafi lýst því á mjög grófan hátt að einhver hafi verið að sleikja brjóst á einhverjum og sjúga lim einhvers.  Hafi henni þótt þetta í hæsta máta óeðlilegt að hann væri að lýsa þessu fyrir henni.  Sömuleiðis símtöl vegna eltingaleiks ákærða við pilta í bíl og samskiptum þeirra við stúlkuna.  Þetta, einkadans á skemmtistað og margt fleira, hafi henni þótt óeðlilegt að vera að blanda henni inn í.  Ákærði hafi átt nokkur símtöl við hana þar sem hann hafi sagt D vera í eiturlyfjaneyslu og stúlkuna einnig.  Hafi hann haldið því fram að D hefði leigt menn til að aka í veg fyrir sig á mótorhjóli er ákærði lenti í árekstri.  Þetta hafi allt verið nokkuð sérstakt þar sem vitnið hafi verið í stöðugum samskiptum við þessa krakka.

N kvaðst hafa gengið á stúlkuna í janúar 2002, en þá hafi verið eitthvað mikið í gangi, og hafi hún þá sagt henni frá því, hvernig málin voru.  Hafi hún gefið þá skýr­ingu af hverju hún hafi þagað svo lengi, að þau myndu fá viðbjóð á henni ef þau hefðu vitað það.  N kvaðst aldrei nokkurn tíma hafa talið að þetta væri eitthvað sem stúlkan væri að spinna upp.

D, sambýlismaður Y, kvað þau hafa kynnst í desember 2000 og hann fljótlega komið inn á heimilið.  Ákærði hafi oft sagt honum drykkju­sögur af henni og að mikil vandræði væru í kringum hana, m.a. að henni hefði verið nauðgað þegar einhverjir strákar tóku hana upp í bíl til sín og nærbuxur hennar hafi fund­ist þar.  Stúlkan hafi flutt heim til hans í janúar 2001.  Eftir það hafi ákærði verið í símasambandi við stúlkuna daglega og stundum oft á dag þannig að honum blöskraði.  Síðan hafi komið upp ýmis atvik sem hafi verið áreiti af ákærða hálfu.  Stúlk­unni hefðu borist gjafir frá honum, sími og 10 pör af nýjum skóm auk tveggja blóma­sendinga.  Önnur blómasendingin hafi verið frá ákærða og fjölskyldunni allri en hin hafi verið nafnlaus.  Þá hafi verið mikið af SMS-skilaboðum. 

Það hafi síðan gerst, eftir að stúlkan hafði verið heima hjá móður sinni en ákærði úti, að hún kom út grátandi.  Á leiðinni heim til hans hafi hún skýrt honum frá því að ákærði hafi misnotað hana frá því að hún myndi eftir sér.  Áður en til þessa kom hafi stúlkan verið búin að segja honum frá því að ákærði hefði misnotað hana einu sinni í [...] þegar hún var hún ung.

O, faðir kærasta stúlkunnar, kvað samskipti sín við ákærða hafa verið mjög einkennileg eftir að hún flutti á heimili þeirra.  Ákærði hafi komið í fyrsta sinn sem þeir hittust og sagst vilja segja honum að stúlkan væri alkóhólisti og þar sem sonur hans væri fíkill væri ekki gott að þau umgengjust.  Kvaðst ákærði ekki hafa getað unnið í heilt ár vegna stúlkunnar.

Síðan hafi farið að berast blóm og hafi hann þá sagt syni sínum að þetta væri ekki eðli­legt og að hann skyldi hugsa um það hvort verið gæti að stúlkan hefði verið mis­notuð.  Þá kveðst hann hafa spurt stúlkuna og hafi hún hvorki svarað játandi né neitandi.  Í kjölfar þess hafi hann viljað að sonurinn hugaði nánar að þessu.

P, eiginkona O, lýsti samskiptum sínum við ákærða að sama veg og eiginmaður hennar.  Hafi henni þótt undarlegt að ákærði hafi komið með blóm, myndbandsspólur, öl og snakk og komið oft í heimsókn, bæði að kvöldi og að degi til.  Hafi þegar vaknað grunur um að stúlkan fengi ekki frið fyrir honum en stúlkan hafi verið þvinguð í samskiptum við hann.   Mjög mikill þrýstingur hafi verið af hálfu ákærða um að stúlkan flytti aftur heim en hann hafi sagst hafa verið upptekinn við það síðustu tvö ár að fylgjast með henni vegna óreglu o. fl.  Hún kvað Y hafa hent blómum, sem hún fékk, í ruslið sem vitnið hafi náð í út í tunnu ásamt korti.  Af­henti hún kortið í réttinum.  Þá kvaðst hún hafa séð eitthvað af SMS- skilaboðum sem henni hafi fundist vafasöm t.d. „þinn einlægur, litli og stóri“.  Þessi skilaboð hafi komið úr síma sonar ákærða en vitnið áleit að litli bróðir stúlkunnar hefði ekki sent þau.   Hún kvaðst tvívegis hafa hringt í lögreglu vegna áreitis ákærða og beðið um að hann væri fjarlægður af lóð hússins.

Vitnið, K, kvaðst hafa þekkt A frá barnæsku.  Honum hefði fundist ákærði vera mjög góður við Y en á ákveðnum tímapunkti hefði honum farið að finnast samband þeirra dularfullt.  Hún hefði alltaf hangið utan í ákærða, setið í kjöltu hans og strokið honum, þau hefðu snerst mun meir en honum hefði þótt viðeigandi.  Hann hefði rætt þetta við konuna sína en á þessu tímabili hefði A verið mjög slæm á taugum og hefði sífellt verið að hringja í eiginkonu sína.  Hefði A m.a. haft áhyggjur af sambandi ákærða og stúlkunnar.  Vitnið minntist þess að hafa rætt þessi mál við konu sína á leið í sumarbústað 1996 eða ´97 en ákærði og A hefðu komið í heimsókn þangað.  Vitnið minntist atviks þegar hann bjó á […]  á árinu 2000.  Þá hefðu ákærði og A komið norður og stúlkan hefði verið með þeim.  Ákærði og stúlkan hefðu skutlað honum á ball þar sem hann hefði spilað í hljómsveit.  Stúlkan hefði viljað fá bílinn lánaðan hjá ákærða en hún hefði nýlega verið komin með bílpróf.  Vitnið kvaðst hafa komið af ballinu um þrjú og þá hefði stúlkan ekki verið komin heim með bílinn og hefði móðir hennar verið reið.  Morguninn eftir hefði komið í ljós að hún hefði ekið til [...] og hefði A verið mjög reið, bæði við stúlkuna og ákærða.  Ákærði og stúlkan hefðu farið í bíltúr og þegar þau komu til baka hefði hún verið skælandi og beðist fyrirgefningar og ákærði reiður og hneykslaður á henni yfir uppátækinu.  Áður en þau fóru hefði hann ekki sýnt nein reiðimerki.  Fannst vitninu þetta furðuleg atburðarás. 

S, eiginkona R, kvaðst vera gömul vinkona og skóla­félagi A  Hún sagði frá símtölum við A á árinu 2000.  Þar hefðu þær rætt samband Y og ákærða.  Kvaðst vitnið hafa rætt þetta mál í löngu símtali við A þar sem hún hefði m.a. ráðlagt A að leita til Stígamóta þar sem sam­band stúlkunnar við stjúpföður sinn væri mjög óeðlilegt og undarlegt.  A hefði sam­sinnt þessu en viku seinna hefði hún hringt aftur og þá ekkert viljað kannast við fyrra samtalið eða að hafa haft áhyggjur.  Nánar aðspurð um efni fyrra samtalsins kvað vitnið A alltaf hafa verið mjög afbrýðisama út í stúlkuna og að hún hefði gert margt til að ögra móður sinni.  Ákærði og stúlkan hefðu alltaf hangið hvort utan í öðru en vitnið kvaðst aldrei hafa séð neitt sem staðfesti ákæruatriðin.  Hana hefði grunað í mörg ár að ekki væri allt með felldu.  A hefði átt frumkvæðið að því að þær fóru að ræða þessi mál.  Aðspurð um tímasetninguna kvaðst vitnið minnast þess að hún og eigin­maður hennar hefðu rætt mikið um samband stúlkunnar og ákærða í sumar­bú­staðar­ferð árið 1996, en þangað hefðu A og ákærði heimsótt þau með fjöl­skylduna.

B, dóttir ákærða, flutti til […] með móður sinni þegar hún var 3 ára en kvaðst hafa komið 2-3 sinnum á ári til Íslands.  Hún og Y hafi ekki bara verið systur heldur einnig vinkonur.  Hún kvaðst aldrei hafa orðið vör við neitt óeðlilegt í samskiptum Y og ákærða heldur þvert á móti hafi Y óskað þess að ákærði væri blóðpabbi hennar og stundum skrifað sig Xdóttur.  Þær hafi alltaf getað leitað til hans sem góðs vinar og hann hafi verið eftirlátssamur við þær báðar.  Að­spurð kvað hún Y hafa, þegar hún var 16 ára, sýnt sér tvö gervityppi og eitt víbrators­egg og sagst vera að selja þetta í skólanum.

T, móðir A, kvaðst hafa talið ákærða góðan föður stúlkunnar og hafi þau verið mikið saman.  Hún og Y hefðu einnig verið nánar.  Eftir að til kæru kom hafi hún spurt hana af hverju hún hafi ekki skýrt frá þessu fyrr.  Stúlkan hafi svarað að hún hafi vitað að allt myndi hrynja ef hún viðurkenndi það, allt snúast gegn sér og heimilið fara í rúst.  Hún hafi hins vegar vitað hvað hún hafði.  Vitnið kvaðst aldrei hafa staðið stúlkuna að skreytni og hún geti ekki annað en trúað henni þótt það sé erfitt.  A hafi þá sagt að þetta væri bara athyglissýki úr henni og lygi.  Hún hafi hins vegar aldrei orðið vör við slíkt hjá stúlkunni.  Hún kvað ákærða hafa verið mjög reiðan út í D og eitt sinn sagt henni að hann ætlaði að drepa hann.

U, faðir A, kom fyrir dóminn og skýrði frá því að stúlkan hefði sagt frá atferli ákærða er hún kom í heimsókn með D.  Ekkert hefði þýtt að ræða þessi mál við dóttur hans þar sem hún færi alltaf í vörn fyrir ákærða.

Vitnið, J, kvaðst hafa verið á rúntinum á laugardegi ásamt vini sínum, V sem ók bifreiðinni sem þeir voru í.  Þeir hafi hitt Y sem hafi verið í Volvo-bifreið og hafi síðar komið í ljós að ákærði var ökumaður hennar.  Hún hafi komið með þeim en ákærði hafi elt.  Stúlkan hafi verið drukkin, talað um að hún væri dýrasti stripparinn á landinu og að ákærði væri lífvörður sinn.  Hún hafi boðist til að fækka fötum og hringt í þennan lífvörð sinn og spurt hann hvort hún mætti það.  Þeir hafi ekið eftir Sæbraut og bifreið hafi alltaf verið á eftir þeim en verið stöðvuð við innkeyrsluna hjá […], en þar á vitnið heima.  V hafi farið þar úr bifreiðinni.  Stúlkan hafi afklæðst í bifreiðinni og þau eitthvað verið að kyssast en ekkert meira.  Á meðan hafi stúlkan verið stöðugt í símanum.  Hún hafi síðan farið úr bifreiðinni við einhverja sjoppu.  Daginn eftir hafi ákærði hringt heim til hans og sagt móður hans, Þ, að vitnið hefði nauðgað stúlk­unni.  Ákærði hafi síðan hringt skömmu síðar, eftir að hafa heyrt sögu vitnisins, og sagt að stúlkan hafi staðfest frásögn hans.  Hafi hann beðið um að fá að ná í nærbuxur stúlk­unnar sem hafi orðið eftir í bifreiðinni og gerði hann það.  Hann hafi síðan hringt aftur seinna um daginn og spurt móðurina hvort vitnið hefði notað smokk og hvort hann þyrfti að óttast að stúlkan yrði ólétt.  Móðir hans hafi sagt honum að fara með stúlk­una á slysavarðstofuna fyrst hann hefði svo miklar áhyggjur af þessu.  Hafi móðirin sagt að þá hafi komið löng þögn.

Þ, móðir J, skýrði frá samskiptum sínum við ákærða á sama hátt fyrir dóminum.  Hún kvaðst þegar hafa sagt ákærða að leita á neyðar­móttöku en hann hafi dregið í land.  Hann hafi hringt nokkrum sinnum yfir daginn og hún alltaf endurtekið þetta.  Ákærði hafi sótt mjög stíft að fá að ná í nær­buxurnar sem hann hafi gert.  Ákærða hafi verið tíðrætt um hversu mikill vandræða­unglingur stúlkan væri.  Vitnið kvaðst hafa farið niður á lögreglustöð á sunnudeginum að ráði lögfræðings til að gefa skýrslu en þeim hafi verið sagt að koma á virkum degi sem þau hafi ekki gert.

Framburður V er samhljóða framburði J um þetta atriði.  Hann kvaðst hafa tekið eftir að Volvo-bifreiðin elti þá allan tímann að […] þar sem henni hafi verið ekið fram og til baka en vitnið fór þar út úr bifreiðinni.

Vitnið, G, kvaðst hafa kynnst Y í byrjun 9. bekkjar og samband þeirra staðið á þriðja ár.  Hann kvað samband stúlkunnar og ákærða hafa verið mjög gott og hafi hann aldrei orðið var við eitthvert kynferðislegt í samskiptum þeirra.  Ákærði hafi gefið honum klámspólur þegar hann var 16 ára en ákærði hafi verið svona, vinur vina sinna og félagi.  Stúlkan hafi átt kynlífshjálpartæki sem hún hafi sagst hafa keypt sjálf.  Vitnið kannaðist við að hafa farið með ákærða og stúlkunni í Þórs­kaffi 19. nóvember 2000 og hafi hann þar greitt borðdans fyrir ákærða. 

Aðspurður um atvikið í heita pottinum kvað hann þau hafa verið þar nakin og haft kyn­mök.  Vitninu var bent á annan framburð í lögregluskýrslu og spurður um ástæðu fyrir breyttum framburði.  Hann sagði að Z hefði haft samband við hann og það hafi verið ákveðið að bera þetta um atvikið.  Undir vitnið er borinn framburður úr lög­reglu­skýrslu þar sem hann lýsir stúlkunni sem indælli, traustri, góðri og vinu vina sinna og segir hann þetta rétt.  Þá staðfestir hann að hún hafi átt það til að vera drukkin og minnir að hún hafi oft fengið áfengi hjá ákærða.  Vitnið kvaðst hitta ákærða reglulega og vilji hann trúa framburði beggja.  Hann kvað það rétt að ákærði hafi oft sótt Y á ýmsa staði á bílnum, m.a. mjög oft í skólann, og að þau hafi oft verið í bíltúrum saman.

Vitnið, Æ, móðir kæranda, Z, kvað ákærða hafa hringt í hana er dóttirin hafði verið nokkra daga í heimsókn hjá Y um verslunar­manna­helgina 1996.  Hafi hann sagt að þær hafi kynnst einhverjum strákum en vitnið kvaðst ekkert hafa viljað um það ræða við hann, heldur dóttur sína.  Hafi þær sammælst um að hún kæmi heim og það hafi hún gert daginn eftir. 

Hún kvað ákærða hafa hringt í hana sumarið 2000 og borið um samfarir stúlkn­anna og pilta í heita pottinum á heimili þeirra.  Hún hafi talað við Z sem hafi sagt þetta lygi. 

Ö, faðir Z, kvað ákærða hafa talað við sig um atvikið í heita pottinum og orðið hissa á því samtali eftir að ákærði hafði rætt um það við kon­una hans.  Vitnið kvað sér hafa fundist þetta fáránlegt og kvað mjög grunnt hafa verið á því góða milli hans og dóttur hans eftir þetta.

Vitnið, H, kvaðst þekkja ákærða og minnast þess að hann hafi komið á Þórskaffi, þar sem vitnið vann, ásamt Y og vinum hennar.  Hafi þau horft á nektardans.  Hann hafi ekki orðið var við að stúlkan dansaði slíkan dans en það hafi komið til tals að hún gerði það en hann man ekkert nánar um það atriði.  Vitninu er bent á framburð í lögregluskýrslu og segir þá að ákærði hafi nefnt við hann að hana langaði að prófa þetta.  Stúlkan hafi þó einu sinni dansað slíkan dans á [...] og óskaði sjálf eftir því.  Vitnið telur að stúlkan hafi litið inn á Þórskaffi 2-3 sinnum.

Q, barnfóstra hjá ákærða og A 1989 og 1990, kvaðst minnast þess að hún hafi komið heim og Y þá verið inni ásamt vinkonu sinni að horfa á klámmynd.  Hafi hún sagt að þetta væri í lagi þar sem pabbi leyfði sér alltaf að horfa á þetta.   Vitnið kvað Y hafa verið stjórnsama og sagst mega allt og geta allt.  Samband þeirra stjúpfeðgina hafi verið gott og ákærði virst mjög ljúfur og góður við hana.

F, bróðir ákærða, kvaðst hafa farið til [...] haustið 1990 ásamt ákærða og Y.  Tilgangur ferðarinnar hefði verið að heimsækja B, dóttur ákærða.  Vitnið kvaðst hafa gist með ákærða og Y á hótelherbergi allan tímann.  Honum hefði ekki fundist neitt óeðlilegt í samskiptum ákærða og stúlkunnar.  Hann kvaðst ekki minnast þess að stúlkurnar hefðu verið að hringja í einhverjar klám­síma­línur á meðan á dvölinni stóð.

Ð, fósturamma Y, kvað ákærða hafa verið mjög góðan við stúlkuna og þau hafi verið mjög náin, eins og faðir og barn.  Stúlkan hafi verið róleg og yndisleg þegar hún umgekkst hana.

Vitnið, Málfríður Lorange sálfræðingur, kvað ákærða og eiginkonu hans hafa leitað til hennar 16. maí 2001 vegna þess að þau hefðu haft áhyggjur af hegðun og líðan stúlkunnar, Y.  Hefðu áhyggjur þeirra beinst að því hvort stúlkan væri með svo­kallaða ofvirkniröskun.  Þau hefðu komið í eitt viðtal og fyllt út spurningalista í sam­einingu varðandi stúlkuna.  Um svokallaða fyrstu skimun væri að ræða, foreldrar svöruðu spurningum um núverandi einkenni og hegðun, einnig í æsku.  Svörin hefðu gefið til kynna að stúlkan sýndi sterk einkenni ofvirkni en hefði sýnt mun vægari ein­kenni í æsku.  Hún hefði aldrei hitt stúlkuna sjálf, hún hefði þurft að koma til að hægt hefði verið að framkvæma eiginlega greiningu.

Ó, systir ákærða, og E, faðir hans, komu fyrir dóminn en ekki þykir ástæða til að greina framburð þeirra hér.

Sálfræðiskýrslur og framburður skýrsluhöfunda vegna málsins

Í málinu liggur frammi sálfræðiskýrsla dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar, dags. 10. nóvember 2002, sem byggð er á rannsóknum og gögnum málsins og viðtölum við stúlk­una, alls átján sinnum frá því um miðjan apríl á því ári sem skýrslan er gerð.  Þar kemur fram að hún hafi verið kurteis og samvinnuþýð í viðtölum og yfirleitt glöð og jákvæð, en stundum vansæl og döpur er rætt hafi verið um misnotkun ákærða eða vænt­anlegan málflutning í málinu.  Í niðurstöðu segir meðal annars, að í viðtölum við stúlk­una hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að hún sé ótrúverðug í lýsingum sínum á því sem ákærði gerði henni eða öðru því sem hún hafi skýrt frá.  Gæti hvorki ósamræmis í frásögnum hennar um það sem fram kom í rannsóknarskýrslu lögreglu og gögnum á sjúkrastofnunum né í því sem unnusti hennar hafi skýrt frá í viðtölum við skýrslu­gjafa.  Síðan segir:  ,,Margt bendir til þess að Y eigi við bæði langvinn og alvarleg sálræn vandamál að stríða, sem rekja má til æsku hennar og áfalla, og hafa merki þess komið fram bæði í viðtölum við hana og unnusta hennar og einnig í sálfræði­prófum sem lögð hafa verið fyrir hana. Hún hefur skýr einkenni um áfalla­streitu, sem skipta má í þrennt.  Í fyrsta lagi þá upplifir hún mörg líkamleg kvíða- og streitu­einkenni, svo sem svefntruflanir, magaverki, svima og skjálfta í höndum.  Hún segist stundum vera mjög eirðarlaus og eiga mjög erfitt með að slaka á.  Þetta hefur bæði komið fram í viðtölum við hana og unnusta hennar og á sálfræðiprófi.  Í öðru lagi segir hún minningar um það sem fósturfaðir hennar gerði henni oft koma fyrirvaralaust upp í huga hennar og getur hún auðveldlega tekið dæmi um slíkt þegar hún er spurð fyrir­varalaust.  Hún segir að þetta gerist oft þegar hún er ein og oftast á kvöldin, en einnig stundum þegar hún er með öðrum, jafnvel í nánum samskiptum við unnusta sinn.  Þegar þetta gerist fer henni að líða illa og oft á hún erfitt með að útskýra fyrir þeim sem hún er með hvað er á seyði.  Í þriðja lagi þá segist hún vera stöðugt á varð­bergi gagnvart fósturföður sínum.  Hún segist vera hrædd við hann og hún óttist að hann muni gera sér eitthvað, fái hann tækifæri til þess. Af þessum sökum treystir hún sér ekki til að vera ein heima á nóttunni þegar unnusti hennar er að vinna eða lengi vel treysti hún sér ekki til að fara ein út á kvöldin, hvorki gangandi né í bifreið.“

Þá kemur fram að niðurstöður sálfræðiprófa gefi til kynna að stúlkan eigi við ýmis önnur alvarlega vandamál að stríða, sem rekja megi á einn eða annan hátt til kyn­ferð­islegrar misnotkunar.  Þá sé hún fremur illa félagsmótuð og eigi við alvarleg per­sónu­leikavandamál að stríða sem komi fram í því að hún geti átt erfitt með að mynda og viðhalda tilfinningatengslum við annað fólk.  Gjarnan megi rekja slík vandamál til alvar­legra áfalla sem fólk verði fyrir í uppvexti sínum.  Þá segir einnig að stúlkan virðist hafa miklu meiri tilhneigingu til að láta undan þrýstingi til þess að geðjast öðrum, forðast deilur eða standa augliti til auglitis við deiluaðila, en almennt gerist á meðal jafnaldra hennar.  Í sálfræðiprófum komi líka fram hversu lítinn sjálfsstyrk og lélega sjálfsmynd stúlkan hafi, þá sýni hún merki um þvingaða hegðun og mælist mjög út­hverf á sálfræðiprófum.  Eftir að stúlkan fluttist að heiman til unnusta síns hafi líf hennar tekið töluverðum breytingum til hins betra.  Í skýrslunni er síðan lýst  hinum ýmsu prófum, sem stúlkan gekkst undir.

Jón Friðrik kom fyrir dóminn, staðfesti skýrslu sína og svaraði spurningum varð­andi hana.  Borin voru undir vitnið ummæli í skýrslunni um að ekkert hefði komið fram í þessum 18 viðtölum sem benti til þess að stúlkan væri ótrúverðug í lýsingum sínum og að samræmi væri á milli frásagna hennar og skýrslna sem hún hefði gefið hjá lögreglu.  Vitnið kvað þetta rétt en vildi taka fram að hans hlutverk hefði fyrst og fremst verið að meðhöndla stúlkuna en ekki að meta trúverðugleika hennar.  Hins vegar væri það hluti af meðferð vegna áfalla að reyna að komast að því hvort áfallið hafi raunverulega átt sér stað, hvers eðlis það var o.s.frv.  Þess vegna hefði hann lagt vinnu í þennan samanburð á milli frásagnar hennar hjá honum og hjá lögreglu, samtöl við unnusta hennar og annað.  Hann hefði einnig haft aðgang að lækni og sálfræðingi sem hún hefði verið send til.  Vitnið tók það fram að hann vitnaði ekki til samtala nema við tvo aðila í skýrslunni en öll þau atriði sem hann hefði nú talið upp hefðu gefið þá niðurstöðu að hún væri mjög trúverðug í þessum frásögnum.  Vitnið staðfesti að stúlkan hefði lýst einkennum áfallastreitu, sem hann reki beint til þess að hún hafi orðið fyrir nefndum kynferðisbrotum.  Vitnið kvaðst komast að þeirri niðurstöðu út frá ýmsum forsendum, fyrst og fremst í viðtölum við stúlkuna.  Hann hefði spurt hana fyrir­varalaust  um ýmislegt sem hún segir í lögregluskýrslum og lagt klínískt mat á við­brögð hennar við því sem hún segði honum þá.  Þau viðbrögð væru að hans mati í raun óyggjandi staðfesting þess að þessi áföll hefðu átt sér stað.  Lýsingar hennar á við­brögðum sínum, hugsunum sem kæmu upp við ákveðnar aðstæður og hvernig hún bregðist við þeim, væru, samkvæmt hans þekkingu, í samræmi við frásögn hennar af at­burðum.  Líkamleg einkenni, kvíðaeinkenni, sem kæmu bæði fram í frásögnum hennar og í niðurstöðum prófa, ásamt frásögnum unnusta hennar, samræmdust áfalla­streitu.  Dæmi um líkamleg einkenni mætti nefna svefnerfiðleika vegna martraða, maga­verki og handskjálfta.  Hugsanir leituðu á hana eins og myndir, t.d. þegar hún ætti í nánum samskiptum við unnusta sinn.  Stúlkan ætti einnig við alvarleg per­sónu­leika­vandamál að etja sem samkvæmt fræðunum samsvari heildarmyndinni, þó að ætíð væri erfitt að tengja saman áfall og afleiðingar.  Þarna væri um að ræða vanda­mál, sem varða myndun tilfinningatengsla við annað fólk eða viðhald slíkra tengsla, ásamt fjölmörgum öðrum einkennum.  Vitnið benti á tengsl á milli þess að vera hjálpar­vana við aðstæður eins og stúlkan hefði lýst og lélegrar sjálfsmyndar.

Aðspurður kvaðst vitnið telja að stúlkan ætti góða framtíðarmöguleika með miklum stuðningi, hún hefði góða greind og gengi vel í námi eftir að hún flutti að heiman.  Hún hefði einnig nýtt sér meðferðina vel og ætti góða möguleika á að ná tökum á vandamálum sínum.  Að hans mati væru sumar afleiðingar óútmáanlegar en hægt væri að kenna viðkomandi að lifa með þeim á þokkalegan hátt.

Lögð var fram skýrsla Jóhanns B. Loftssonar sálfræðings um ákærða, dags. 11. nóvember 2002, en þar kemur fram að hann hafi fyrst komið í viðtal til hans 27. janúar 2001 og síðan komið í um 20 viðtöl.

Í skýrslunni segir að ákærði hafi komið í viðtöl vegna fjölskylduvandamála.  Hann hafi sjálfur talið meginvandamálið stafa af áfengismisnotkun og skapsveiflum konu sinnar.  Ákærði hafi sterkar siðferðilegar meiningar og leggi mikla áherslu á að halda fjölskyldunni saman og styðja börnin og vernda eins og kostur er.  Persónuleiki hans einkennist af því sem kallað hafi verið „mjúki maðurinn”.  Ákærði leggi sig í líma við að skilja sjónarhól viðmælanda síns á hverjum tíma og leiti að mjúkri lend­ingu með öll deilumál.  Hann hafi góða innsýn í mannleg samskipti.  Þess háttar ein­stakl­ingar leggi sig oft fram um að virða sjónarhorn annarra en sé um leið umhugað um að siðferðileg mörk séu haldin og geti virkað barnalegir í lífsferli sínu.  Ákærði hafi sýnt sterk merki um meðvirka hegðun og hafi í gegnum árin reynt til hins ýtrasta að leysa vandamál og kaupa frið innan fjölskyldunnar með því að koma til móts við þarfir allra.  Þegar hann hefði komið fyrst hefði verið ljóst að hann hefði verið farinn að teygja sig of langt og sætta sig við atferli sem eðlilegt hefði verið að stöðva með festu.  Ákærði hafi tekið leiðbeiningum vel og hafi fljótlega farið að taka fastar á þeim vanda­málum sem við hafi verið að etja innan fjölskyldunnar.  Þau börn sem verið hafi á heimilinu hafi virst vera komin í meiri ró og allt heimilislíf verið á góðri leið þegar kæran um kynferðismisnotkun hafi komið fram.

Fyrir dóminum kvað vitnið ákærða hafa talað um áfengismisnotkun á heimilinu í tengslum við eiginkonu hans.  Innihald samtala vitnisins og ákærða hefði fyrst og fremst snúist um það hvernig hægt væri að bjarga börnunum við þessar aðstæður og út úr þeim miklu átökum sem á heimilinu væru.  Ákærði hefði verið mjög meðvirkur, hefði sífellt verið að kaupa frið í stað þess t.d. að setja börnunum eðlileg mörk. Kvaðst vitnið telja þetta hafa verið á því stigi að það teldist sjúkt atferli.  Eðlilegra hefði verið, að mati vitnisins, að fjarlægja börnin varanlega af heimilinu en ákærði hefði sífellt reynt að lægja öldurnar.  Vitnið kvaðst hafa lagt bæði greindar- og persónuleikapróf fyrir ákærða.  Niðurstöður hefðu sýnt hann sem fremur viðkvæman og næman einstakl­ing sem ekki væri „karlmannlegur í framkvæmd”, þ.e. hefði ekki getað sett mörk og staðið við þau heldur sífellt gefið eftir þegar á reyndi.  Vitnið kvað upp­lýs­ingar sínar byggðar fyrst og fremst á frásögnum ákærða en hann kvaðst þó hafa hitt börn ákærða einu sinni.  Aðspurður hvort lýsing vitnisins á persónuleika ákærða sam­ræmdist því að hann hefði frekar reynt að umgangast kæranda sem vin en sem dóttur kvað vitnið það vera rétt.  Ákærði hefði sífellt verið að sækja og keyra börnin hingað og þangað og reyna að koma til móts við þarfir þeirra í stað þess að setja þeim skýr mörk, segja hingað og ekki lengra.  Vitnið kvaðst ekki hafa hitt kæranda málsins.  Vitnið kvað skýrslu sína fyrst og fremst fjalla um ástand ákærða árið 2001, eða áður en kæran á hendur honum var lögð fram.  Aðspurður hvort hann gæti gefið álit á því hvort ákærði gæti talist líklegur til að vera sekur um þau brot sem hann væri ákærður fyrir kvað vitnið ákæruatriði og það sem fram kæmi í skýrslum gefa lýsingu á ákærða sem kynlífsfíkli.  Óralangt væri frá því að ákærði hefði gefið nokkrar vísbendingar um slíkt.  Í raun væri ekkert sem mögulega gæti staðfest að ákærði væri fær um þá iðju sem þar væri lýst.  Ákærði hefði brotnað niður eftir að kæran hefði komið fram og hefði ekki trúað því að þetta væri að gerast.

Samkvæmt vottorði Gunnars Hrafns Birgissonar, sérfræðings í klínískri sálfræði, dags. 10. október 2002, sótti kærandi, Z, sálfræðiviðtöl hjá honum.  Í skýrslunni kemur fram að hún greinist með áfallastreituröskun og hafi meðferð beinst að þeirri röskun.  Virðist röskunin vera afleiðing kynferðisbrots, sem hún hafi orðið fyrir 12 ára gömul, en hún hafi sagt sálfræðingnum tvívegis frá þessu broti.  Að mati hans er fram­burður hennar bæði stöðugur og trúverðugur.  Sú vanlíðan sem stúlkan fann eftir atvikið samræmist því að hún hafi orðið fyrir áfalli við atburðinn.  Hún hafi farið að efast um sjálfa sig og á hana leitað sárar minningar, miklar skapsveiflur hafi komið fram, hún fengið grátköst og kvíðaköst, hún birgi vanlíðan sína innra með sér og líði illa yfir því að treysta sér ekki til að opna sig við foreldra sína, ástandið hafi farið að bitna á henni félagslega og í námi.  Hún hafi hins vegar náð verulegum árangri í við­töl­unum í því að vinna á einkennum áfallastreitu og byggja sig upp. Með áfram­haldandi uppbyggingu megi segja að horfur hennar séu góðar.

Fyrir dóminum staðfesti vitnið, Gunnar Hrafn, skýrslu sína og gaf skýringar á henni.  Hann kvað stúlkuna myndu sækja viðtalstíma hjá sér áfram en viðtölin væru orðin um 15 talsins.  Vitnið staðfesti að stúlkan hefði verið staðföst og trúverðug í frá­sögnum sínum, að hans mati.  Ekkert hefði komið fram um neitt annað sem skýrt gæti þau merki áfallastreituröskunar sem hún sýndi.  Stúlkan hefði bælt atvikið niður, hún hefði ásakað sjálfa sig, en 12 ára barn hefði ekki forsendur til að vita hvernig bregðast ætti við svona aðstæðum.  Slík röskun gæti komið fram á mismunandi tímum.  Þó að langt væri liðið brytust fram tilfinningar sem hefðu verið bældar niður á sínum tíma.  Merki væru um mikinn kvíða, mjög mikla viðkvæmni, svefntruflanir og erfiðar minn­ingar.  Þetta truflaði einbeitingu, t.d. í námi, og ylli einnig reiðiköstum sem ekki væri til­efni til.  Slík einkenni hefðu tilhneigingu til að versna ef þau væru ekki með­höndluð.  Stúlkan hefði nýtt sér viðtölin vel og hún hefði góðan stuðning frá fjölskyldu og vinum.  Því væru horfur hennar nokkuð góðar.

Vitnið var spurður hvort hann hefði gert einhver sérstök próf til að mæla trú­verð­ug­leika stúlkunnar.  Hann kvaðst ekki hafa verið beðinn um það.  Aðspurður hvort hann gæti fullyrt án nokkurs vafa að áfallastreituröskun sú, sem hann lýsti, væri til komin vegna atviksins sem ákæran fjallar um kvaðst vitnið ekki hafa neina aðra skýr­ingu.  Honum væri ekki kunnugt um nein önnur áföll í lífi stúlkunnar sem orsakað gætu þetta.

Framburður vitna og ákærða fyrir dómi 7. október 2003

Vitnið, A, gaf þrjár skýrslur hjá lögreglu eftir að málið var dómtekið 25. júní sl.  Fyrir dóminum kvaðst hún hafa veitt því athygli þegar um 6 ára aldur stúlk­unnar að ákærði fór að hafa mikil afskipti af henni og að þau fóru að eyða miklum tíma saman.  Um tíma hafi sér fundist að stúlkan og ákærði væru parið í sam­bandinu en hún aðeins uppalandi.  Minnist hún þess að 1997 hafi ákærði keypt kyn­lífs­hjálpartæki fyrir stúlkuna og haft á orði að það væri betra að hún notaði slíkt heldur en að hún væri með hinum og þessum strákum.  Þá kvað hún klámefni hafa legið á víð og dreif á heimilinu og verið mjög aðgengilegt, t.d. hafi klámblöð verið á bað­herberginu á […] og hafi börnin haft aðgang að þeim.  Hún kvað ákærða og stúlkuna hafa átt vanda til að læsa sig inni á baðherberginu og hafi þetta vakið hjá henni grunsemdir en hún hafi farið að fylgjast betur með samskiptum þeirra eftir að barnaverndaryfirvöld höfðu afskipti af fjölskyldunni.  Henni hafi þó aldrei tekist að standa þau að verki. 

Vitnið nefndi tilvik þar sem stúlkan var með soriasis-einkenni, en hún var þá 17 ára, og hefði ákærði borðið á hana krem af þeim sökum.  Hafi ákærði talað um að ein­kennin væru einnig á börmum kynfæra.  Vitnið kvaðst minnast þess að hafa rætt grun­semdir sínar um óeðlilegt samband ákærða og stúlkunnar við S æsku-vinkonu sína sem hefði ráðlagt henni að leita til Stígamóta.  Það hafi hún hins vegar ekki gert enda hafi hún verið í mikilli vörn og afneitun.  Þá hafi hún verið búin að vera í stöð­ugu sambandi við sálfræðinga og verið að reyna að halda sambandinu gangandi.  Hún kveður símtöl við ákærða, sem rakin voru við fyrri yfirheyrslu, sýna grundsemdir hennar sem hún hafi verið að bera upp á ákærða. Stundum hafi hvarflað að sér að ákærði væri að ala upp konu handa sér og því tali hún um „tilraunadýr“ í samtalinu.  Eftir að þau fluttu á […] […] hafi ákærði oft sofið í rúmi stúlkunnar og borið því við að það væri betra að sofa í því rúmi en í hans.  Hinn mikli áhugi ákærða og umræða um nektardans stúlkunnar og það sjónarmið hans að hún gæti alveg unnið fyrir sér við slíkt, hafi farið í taugarnar á sér.  Kvað hún ákærða einu sinni hafa legið uppi í rúmi og fylgst með slíkum dansi stúlkunnar.  Eitt sinn hafi hún orðið vör við að stúlkan hafði rakað af sér skapahárin en ákærði hafi átt vanda til að gera slíkt. 

Vitnið lýsti því að í sambúðinni hafi hún verið orðin tilfinningalega dofin og upp­gefin í baráttu sinni við að halda henni gangandi.  Hafi hún verið í mikilli áfengis-og lyfja­neyslu enda ástandið á heimilinu þannig að ákærði hafi verið að elta stúlkuna út um allan bæ.  Í desember sl. hafi hún verið orðin verulega hrædd um ástand sitt og ákveðið að taka á sínum málum.  Um miðjan janúar sl. hafi hún farið í meðferð.  Hún hafi síðan ákveðið að slíta sambúðinni við ákærða og flutt út af heimilinu 25. mars sl.  Yngri börn hjónanna búi hjá ákærða en hún hyggist fá forræði þeirra.  Hún segir að síðan hún gaf skýrslu síðast fyrir dóminum hafi hlutirnir mjög farið að skýrast hjá sér og því hafi hún ákveðið að breyta framburði sínum.  Upplýsingar sem hún fékk í maí sl. um að ákærði hafi verið í tengslum við aðra konu hafi ekkert haft með það að gera.  Hún getur þess hins vegar að hún hafi við lestur málsins eftir dóm Hæstaréttar séð að ákærði hafi þurrkað sæði af maga stúlkunnar með handklæði.  Kvaðst hún þá hafa rifjað upp að hún hafi komið heim er þau bjuggu í […] og hafi ákærði þá verið að þurrka af maga stúlkunnar með handklæði en þetta hafi hann átt vanda til að gera við vitnið eftir samfarir.

Vitnið, Y, gaf á ný skýrslu fyrir dóminum.  Kannaðist hún við að hafa fengið soríasis um 17 ára aldur og hafi einkennin verið um allan líkamann og m.a. á kyn­færum.  Hafi hún fengið krem við þessu.  Ekki kvaðst hún minnast þess að ákærði hafi aðstoðað hana við að bera það á sig en vel geti verið að hann hafi verið við­staddur.  Ekki kvaðst hún muna að hafa dansað nektardans fyrir ákærða.  Hún kvaðst hafa rakað af sér skapahárin að beiðni ákærða en ákærði hafi gert slíkt sjálfur.

Vitnið lýsti því að 29. júlí sl. hafi ákærði komið til hennar þar sem hún var að dæla bensíni og viljað ræða við hana.  Hún hafi ekkert viljað það, enda mjög hrædd, en hann þrábeðið um að fá að ræða við hana í nokkrar mínútur.  Hafi ákærði sagst elska hana út af lífinu.  Hún hafi þá svarað að ef svo væri ætti hann að viðurkenna það sem hann hefði gert.  Hafi hann sagst reiðubúinn til þess ef stúlkan tæki að sér forræði yfir systkinum hennar, þar sem móðirin væri geðveik, og eins að hún drægi framburð sinn til baka um það sem gerst hefði fyrir 14 ára aldur til að hann fengi vægari dóm.  Þá hafi ákærði haft á orði að stúlkan hefði sagt of harkalega frá atvikum.  Hafi hún sagst ætla að hugsa málið.  Hafi ákærði sagst vera nýtrúlofaður og sýnt henni hring.  Vitnið kvað ákærða nú búa í næsta nágrenni við sig og líði henni illa að vita af honum.  Stúlkan kvað líðan sína hafa verið ágæta undanfarið en þó kveður hún það valda van­líðan hvernig það komi við fjölskylduna. 

Vitnið, Í, kvaðst hafa verið æskuvinkona Y en þær hafi ekkert haft samband eftir að 10. bekk lauk.  Hún kvað Y hafa litið mjög upp til ákærða enda hafi hann verið eftirlátur við hana.  Móðirin hafi aftur á móti verið ströng við hana.  Henni hafi fundist einkennilegt hversu mikið dálæti Y hafði á ákærða en aldrei haft grunsemdir um að eitthvað kynferðislegt væri á milli þeirra.  Hún mundi hins vegar eftir atviki frá því að hún var 11 ára að Y hafi sagt að stúlkur ættu alltaf að vera í þröngum og flegnum bolum því að strákum þætti gaman að horfa á brjóstin á þeim.

Vitnið kvaðst hafa komið á heimili Y eftir verslunarmannahelgi 1996 en auk hennar hafi ákærði verið heima og þrír vinir stúlkunnar verið í heimsókn.  Y hafi verið að drekka vodkablöndu í herbergi sínu og sagt að ákærði hefði gefið sér áfengið.  Þegar þau komu út úr herberginu hafi ákærði verið að horfa á klámmynd.  Viðbrögð hennar hafi verið þannig að Y hafi spurt hvort þeim fyndist þetta eitthvað skrýtið og sagst oft horfa á klámmyndir með ákærða.  Á leiðinni út hafi Y beðið ákærða um meira vodka sem hann hafi veitt henni.

Vitnið, É, móðir Í, kvað stúlkurnar hafa verið miklar vinkonur áður en Y flutti til [...].  Hún kannaðist við að dóttir hennar hefði haft eftir Y að ákærði hafi haft orð á því að þær ættu að vera í þröngum, flegnum bolum þar sem strákar vildu fá að sjá brjóstin á þeim.  Hafi hún orðið vör við í gegnum Í að Y hafði mun meiri peninga og átti meira sæl­gæti en börn hennar.  Þá hafi henni þótt óeðlilegt að heyra að Y fengi peninga fyrir að þvo upp fyrir ákærða en móðirin mætti ekki vita þetta.  Að hennar mati hafi eitt­hvað ekki gengið upp í sambandi ákærða og stúlkunnar og hafi hún rætt það lítillega við móður einnar vinkonu dótturinnar og sagst vona að stúlkan væri ekki misnotuð kyn­ferðislega.

Ákærði kom að nýju fyrir dóminn.  Hann kvaðst aðspurður vera nærri viss um að hann hafi aðstoðað stúlkuna við að bera að sig exemkrem en telur víst að hún hafi þá verið í nærbuxum og með brjóstahaldara.  Hann kvaðst ekki hafa vitað að stúlkan væri með einkenni á kynfærum og neitar að hafa skýrt konu sinni frá því.

Hann kvað stúlkuna iðulega hafa dansað og hlustað á tónlist í herbergi sínu.  Það hafi komið fyrir að hann hafi horft á hana en neitar að um nektardans hafi verið að ræða.

Spurður hvort hann hafi vitað að stúlkan hafi rakað af skapahárin kveðst hann ekki hafa vitað það endilega.  Stúlkan hafi oft komið úr baði og hann þá séð hana bera.  Nánar spurður kveðst hann ekki hafa vitað til þess að stúlkan hafi rakað sig.  Hann kvaðst hins vegar oft hafa gert slíkt sjálfur.

Spurður um atvikið sem stúlkan lýsti á bensínstöð 29. júlí sl. kveður hann frásögn stúlk­unnar í meginatriðum rétta.  Hann sé hins vegar ekki að játa sök í málinu heldur hafi hann staðið frammi fyrir því á þeim tíma að barnaverndarnefnd hygðist taka dótt­urina af heimili hans.  Í örvæntingu sinni hafi hann sagt þetta en hann viti að það hafi verið algjör vitleysa.  Hann hafi því beðið hana að breyta framburði sínum um atvik sem gerðust fyrir 14 ára aldur. 

Hann kvað A hafa tekið það mjög nærri sér þegar hann fór að vera með ann­arri konu og upplýsti hana jafnframt að hann hefði verið með henni áður.  Fram að þeim tíma hafi A alltaf verið fullviss um að hann hefði aldrei gert Y neitt mein.  Telur hann breyttan framburð hennar nú eiga rót að rekja til mikillar reiði og sárinda vegna þessa.

Niðurstaða

Ákæruliður I

Ákærði og stúlkan hafa bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi borið á sama eða svip­aðan veg um samskipti sín í gegnum tíðina en hún var 4 ára þegar ákærði hóf sam­búð með móður hennar.  Ber þeim saman um að samband þeirra hafi verið gott og mjög náið alla tíð.  Er ágreiningslaust í málinu að þau hafi iðulega farið tvö saman í fjall­göngur, í ökuferðir og ferðast saman, bæði innanlands og erlendis.  Ákærði hefur hins vegar frá upphafi máls þessa neitað sök um kynferðisbrot gagnvart stjúpdóttur sinni. 

Stúlkan hefur á sannfærandi hátt lýst nær órjúfanlegu kynferðissambandi ákærða við hana frá því hún var 5-6 ára.  Upphafstíma þess tengir hún því að hún hafi ekki verið byrjuð í skóla.  Kvað hún þetta hafa gerst á heimili þeirra að […]  í Reykja­vík og háttsemin hafi falist í því að ákærði hafi nuddað kynfæri hennar, bæði með fingri og lim sínum, auk þess sem hann hafi fróað sér þar til honum varð sáðfall.  Hún kvaðst ekki muna hvenær ákærði hefði haft við hana fullkomnar samfarir í fyrsta sinn. 

Stúlkan lýsti tilviki þar sem ákærði hefði haft samfarir við hana um 13 ára gamla á baðherbergi í […] , þegar vinkona hennar, C, var í heimsókn.  Bæði hjá lög­reglu og fyrir dómi kvaðst C muna eftir því að ákærði hefði kallað í stúlkuna og kvaðst hún hafa beðið eftir henni í 10 til 15 mínútur.  Ákærði viðurkennir að hafa kallað á stúlkuna inn á baðherbergi þegar vinkonan var í heimsókn og að hurðinni hafi verið læst.  Sú skýring hans að hann hafi þá einungis verið að leggja fyrir stúlkuna að taka til eftir sig er ótrúverðug.  Einnig er ótrúverðugt að hann muni eftir svo lítil­fjör­legu atviki frá árinu 1997, hefði aðeins verið um slíkt að ræða.  Eins og fram kemur í vitnis­burði C og móður hennar, M, varð þetta atvik til þess að vekja grun­semdir um eitthvað kynferðislegt og í framhaldi af því var tilkynningu beint til barna­verndaryfirvalda eins og vikið var að í málavaxtakafla.

Stúlkan ber að ákærði hafi haft samfarir við hana í bifreið hans á ýmsum stöðum, í fjallgöngum þeirra og ferðalögum erlendis.  Hún nefnir kynmök er hún fór með ákærða að flytja [...] frá [...] til Reykjavíkur en sú ferð tók um sólarhring.  Hafi þau haft samfarir bæði við [...] og í [...], þar sem þau gistu.  Ákærði stað­festir að þau hafi greint sinn deilt herbergi í [...] er þau gistu þar.  Stúlkan ber síðan um samræði og kynferðismök ákærða við hana á þeim stöðum og í öllum þeim til­brigðum sem fram koma í ákæru.  Þá greinir hún frá tilviki og ástæðum fyrir því að þessu lauk [...] 2000.  Teknar voru margar skýrslur af henni og var hún alltaf staðföst og samkvæm sjálfri sér, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og er ekki að finna neinar sérstakar veilur í framburði hennar.  Hins vegar er margt sem styrkir hann. Meðal annars lýsir hún af nákvæmni umhverfi því sem atburðir gerðust í, klæðnaði beggja aðila og orðaskiptum.

Samtöl ákærða við móður stúlkunnar, sem rakin eru í vitnaframburði hennar, bentu sterklega til grunsemda hennar um kynferðislegt samband ákærða við stúlkuna og þóttu skýringar á þeim ekki trúverðugar.  Hún hefur nú sagt að samtölin hafi verið vegna grunsemda hennar um samband ákærða og stúlkunnar og hafi hún talað um til­rauna­dýrið hans þar sem henni hafi fundist ákærði vera að ala upp konu handa sér.

Vætti S, sem er gömul vinkona móðurinnar, um símtöl þeirra á árinu 2000 þar sem hún kvað móðurina hafa samsinnt því að þetta samband væri mjög óeðlilegt og undarlegt og því ástæða til að leita til Stígamóta, þykir renna enn frekari stoðum undir það mat.  Talaði S um mikla afbrýðisemi móðurinnar í garð dóttur sinnar og að sig hefði grunað í mörg ár að ekki væri allt með felldu.  A hefur staðfest fyrir dómi að þetta samtal hafi átt sér stað.

Stúlkan ber að ákærði hafi snemma gefið henni kynlífshjálpartæki.  G, fyrr­verandi kærasti hennar, staðfesti að hún hefði átt þess konar tæki 14 ára gömul. Q, barnfóstra stúlkunnar þegar hún var á 6. eða 7. ári, bar að hún hefði komið að stúlkunni og vinkonu hennar við að horfa á klámmynd og hefði stúlkan sagt að ákærði leyfði þetta.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa, þegar stúlkan var 17 ára, keypt fyrir hana kynlífshjálpartæki og að hafa farið með hana á nektardansstað, en þar mun stúlkan hafa dansað.  Í framburði vitna kemur fram að stúlkan hafi frá unga aldri haft aðgang að áfengi sem hún sagðist hafa fengið hjá ákærða.  Ákærði gerði hins vegar mikið úr áfengisfíkn og fíkniefnaneyslu hennar við annað fólk, að því er virðist í þeim tilgangi að réttlæta stöðugt eftirlit með henni og gera hana tortryggilega.  Hefur stúlkan lýst því að hún hafi alltaf þurft að gera grein fyrir ferðum sínum til þess að lenda ekki í vandræðum. 

Móðir stúlkunnar lýsti því við síðari yfirheyrslu að ákærði hafi átt það til að læsa sig inni á baðherbergi með stúlkunni og hafi það vakið grunsemdir hennar.  Þá hafi hann stundum sofið frekar í rúmi stúlkunnar en sínu eigin eftir að hún varð eldri.  Enn fremur hafi hún rakað af sér skapahárin eins og ákærði og hefur stúlkan staðfest að það hafi hún gert að beiðni ákærða.  Móðirin hefur lýst ástæðum breytts framburðar síns fyrir dómi.  Er framburður hennar skýr og nákvæmur og borinn fram af einlægni.  Þykir mega styðjast við framburð hennar nú enda er hann í fullu samræmi við annað það sem fram er komið í málinu.  Verður því ekki fallist á með ákærða að hann sé sprottinn af því að ákærði hafi tekið saman við aðra konu.

Víða kemur fram í skýrslum vitna að ákærði virti engin mörk um einkalíf stúlk­unnar eftir að hún varð eldri og fór að mati dómsins langt út fyrir það sem talist getur eðli­legt samband og samskipti föður og dóttur.  Virðast afskipti ákærða hafa keyrt úr hófi fram eftir að stúlkan flutti til kærasta síns þá 18 ára gömul sem ollu stúlkunni miklu hugarangri.  Í þessu sambandi verður að vísa í heild til framburða C og móður hennar, föður stúlkunnar og stjúpmóður, kærasta stúlkunnar og foreldra hans auk framburðar R og S.

Ákærði viðurkenndi að hafa sent stúlkunni blóm og gjafir eftir að hún flutti að heiman.  Ítrekað spurður hvort kort hefði fylgt blómunum kvaðst ákærði ekki muna það en bar að blómin hefðu í annað sinn verið frá honum og börnunum.  Á korti því sem afhent var í réttinum og ákærði kannaðist við að væri frá honum komið stendur: „Þú fallegasta, yndislegasta og besta stúlkan í heimi. Þinn einlægur“  Undir teiknuðu hjarta stendur: „I Love You.“ Ákærði viðurkenndi að hafa sent stúlkunni SMS- skila­boð eftir að hún flutti en kannaðist ekki við kveðju frá „litla og stóra”, sem stúlkan segir að hafi þýtt þeirra í milli ákærða og lim hans.  Vitnið, P, kvaðst hafa séð skilaboðin. 

Ákærði hefur skýrt frá atviki 3. desember 2000 þegar hann kvaðst hafa séð stúlk­una hálfbera inni í bifreið með tveimur piltum sem báðir hafa staðfest að stúlkan hafi greint ákærða símleiðis frá athöfnum sínum í bifreiðinni.  Ber þeim saman um að ákærði hafi elt bifreið þeirra að heimili annars þeirra og fylgst þar með en ákærði ók stúlk­unni síðan heim.  Gerði hann síðan mikið úr þessu atviki daginn eftir eins og rakið er í framburði vitna er varðar þennan þátt málsins.  Að mati dómara þykir hátt­erni ákærða í heild sterklega sýna að hann hafi haft ástar- og kynhneigð til stúlkunnar. 

Í ítarlegri sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar kemur fram að hann hafi m.a. kannað hvort samræmi væri á milli frásagna Y og lögregluskýrslna með því að spyrja hana fyrirvaralaust um ýmis atriði.  Lagði hann klínískt mat á viðbrögð hennar sem eru að hans dómi óyggjandi staðfesting þess að þessi áföll hafi raunverulega átt sér stað.

Atvik í heitum potti þar sem ákærði kvaðst hafa séð ástarlífsathafnir kærenda beggja og tveggja pilta síðla sumars 2001 hefur komið nokkuð við sögu í málinu.  Voru viðbrögð ákærða þau að hringja til foreldra viðkomandi og lýsa athöfnum þeirra náið.  Kærandi, Y, var þá 17 ára og Z 16 ára.  Ákærði ber hins vegar að Y hafi sagt honum ítarlega frá athöfnum þeirra þegar hann keyrði hana heim eftir atvikið.  Við­komandi unglingar komu sér hins vegar saman um að neita þessu atviki gagnvart for­eldrum sínum.  Verða það vart talin óeðlileg viðbrögð við þeirri athöfn ákærða að gægjast inn í garðinn og bera um einkamál þeirra.  Virðist Z sérstaklega hafa verið í óþægilegri aðstöðu gagnvart foreldrum sínum, enda gerðist þetta á heimili hennar.  Ákváðu unglingarnir síðan að halda sér við þessa frásögn sína þegar þau voru spurð um þetta atvik hjá lögreglu.  Báðir kærendur báru síðan rangt fyrir dóminum um þetta atriði, og Y tvívegis, en breyttu síðan framburði sínum.  Skýringar sem þær gáfu á þessu atviki teljast eðlilegar miðað við aðstæður.  Hefur Hæstiréttur fallist á að þetta atvik þurfi ekki hafa áhrif á mat á trúverðugleika framburðar beggja stúlknanna um ákæru­atriði málsins.

Fyrrverandi kærasti stúlkunnar, G, lýsir henni sem traustri, góðri og vini vina sinna.  Einnig bar móðuramma stúlkunnar, sem kvað samband þeirra hafa verið náið, að hún hefði aldrei staðið stúlkuna að skreytni og að hún geti ekki annað en trúað fram­burði hennar þótt erfitt sé.

Stúlkan kveðst hafa litið á ákærða sem vin sinn sem hún hafi getað rætt við um alla hluti.  Hafi hún ætíð leitað meira til hans en móður sinnar enda hafi hann jafnan tekið málstað hennar.  Kæra stúlkunnar er því ekki borin fram af reiði í garð ákærða og hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem gæti skýrt þessar alvarlegu ásakanir annað en að hún hafi orðið fyrir þeim brotum af hans völdum sem hún hefur skýrt frá. Að­spurð hvort atburðir þessir hafi haft áhrif á líf hennar kvaðst hún ekki vita það þar sem hún þekkti ekki annað.  Þykir því ekki varhugavert að leggja framburð hennar um þetta atriði til grundvallar.

Stúlkan lýsti samtali við ákærða í júlí sl. þar sem ákærði hafi beðið hana að draga til baka kæruatriði sem átt hefðu sér stað fyrir 14 ára aldur hennar til að hann gæti vænst vægari dóms.  Hefur ákærði viðurkennt þetta. 

Framburður ákærða er að mati dómara í heild ótrúverðugur um ákæruatriði máls­ins. Hafa athafnir hans, sem hann sjálfur hefur lýst, borið þess skýran vott. Voru við­brögð hans við þörf stúlkunnar til að lifa sjálfstæðu lífi með unnusta sínum sérstaklega óeðli­leg og báru þess merki að ákærði hafi verið heltekinn af stúlkunni.  Í skýrslu Jóhanns B. Loftssonar sálfræðings um ákærða og í framburði sálfræðingsins fyrir dómi kemur fram að innihald samtala hans við ákærða hafi fyrst og fremst snúist um ástandið á heimili hans áður en kærur komu fram enda var ákærði í sálfræðimeðferð hjá honum.  Ber að virða skýrsluna í ljósi þess og verður því ekki byggt á skýrslunni um trúverðugleika hans varðandi ákæruatriði málsins.  Fyrir dómi bar hann aðspurður að lýsing hans á persónuleika ákærða samræmdist því að hann hefði frekar reynt að um­gangast stúlkuna sem vin en sem dóttur.

Í dómi Hæstaréttar og hér fyrir dóminum hefur af hálfu ákæruvaldsins verið bent á að brot ákærða séu virt sem framhaldsbrot og taki verknaðarlýsing ákæru mið af því.  Hátt­seminni sé lýst sem framhaldandi röð brota sem framin hafi verið með þeim hætti sem þar sé lýst og á þeim stöðum sem þar séu tilgreindir.

Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað með vitnisburði stúlkunnar, sem fær stoð af vitnisburðum sem raktir hafa verið og öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um að hafa haft við hana samræði eða önnur kyn­ferðismök með þeim hætti og á þeim stöðum er í ákæru greinir.  Eru brot hans rétti­lega heimfærð til refsiákvæða.

Athugasemd Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara.

Í áðurefndum dómi Hæstaréttar í málinu, 22. maí sl., segir að “skýringar kærenda á röngum framburði sínum um atvikið í heita pottinum séu skiljanlegar og að þetta þurfi ekki að hafa þau áhrif á mat á trúverðugleika framburðar þeirra um ákæruatriði máls­ins” sem meirihluti héraðsdóms taldi.“   Lít ég svo á að um þetta atriði hafi þegar verið dæmt í málinu og að það sé því ekki lengur á færi héraðsdóms að fjalla um það hvort hinn rangi framburður stúlkunnar og kunningja hennar í málinu eigi að hafa áhrif á það þegar metinn er trúverðugleiki framburðar þeirra í því.  Með þessari athugasemd stend ég að atkvæði dómsformanns.

Ákæruliður 2

Kærandi, Z, gaf skýrslu hjá lögreglu í tengslum við mál frænku sinnar, Y, samkvæmt ákærulið 1.  Skýrði hún þá frá atviki um verslun­ar­manna­helgina 1996 á heimili ákærða á [...] sem þessi ákæruliður fjallar um.  Hér fyrir dómi hefur hún skýrt frá á sama hátt um að frænka hennar hafi verið drukkin þegar hún og ákærði komu að ná í hana á flugvöllinn og hafi þær fengið báðar að drekka og reykja hjá ákærða.  Þá hafi ákærði látið þær fá tvö kynlífshjálpartæki, hvítan víbrator og egg og spurt hvort þær vildu ekki prófa þetta.  Svo hafi virst sem Y kæmi þetta ekkert á óvart.  Hefur Y staðfest þennan framburð Z með kynlífs­tækin.  Z lýsir því síðan hvernig ákærði hafi komið inn í herbergi hennar um morgun og farið að þukla hana með fingrunum undir fötum og þuklað á kynfærum hennar, sleikt á henni kynfærin og sett fingur í leggögn hennar.  Þegar hann hafi ætlað að fara úr buxunum hafi hún neitað því og hann þá farið. 

Ákærði hefur eindregið neitað frásögn stúlkunnar.  Á hinn bóginn hafi hann komið að stúlkunni inni í herbergi með tveimur ókunnugum strákum sem hann hafi rekið út og hringt í móður stúlkunnar daginn eftir og viljað senda hana heim.  Móðir stúlk­unnar hefur staðfest að ákærði hafi hringt og kvartað undan kynnum stúlkunnar af strákum.  Hafi stúlkan komið heim áður en til stóð.

Framburður Y um að hún hafi hlýtt á samtal Z við ákærða eftir atvikið í heita pottinum þar sem hún sagðist myndu kæra hann fyrir eitthvað sem hann vissi hvað væri ef hann hætti ekki afskiptum af hennar málum rennir ekki sérstökum stoðum undir framburð stúlkunnar um athafnir ákærða gagnvart sér. Ákærði kannast við að stúlkan hafi hringt til hans og verið með hótanir en mundi ekki samhengið.

Þegar atvik það átti sér stað sem hér er ákært fyrir var stúlkan 12 ára gömul.  Kærandi er sjálfri sér samkvæm í framburði sínum og trúverðug.  Hún lýsir atburðum sem höfðu greinilega mikil áhrif á hana.  Fær lýsingin stoð að hluta til í framburði Y.  Stúlkan skýrði hins vegar engum frá atvikinu fyrr en hún lagði fram kæru.  Engin önnur sönnunargögn eru framburði hennar til styrktar að undanskyldu því sem fram kemur í skýrslu Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, um að stúlkan hafi greinst með áfallastreituröskun sem samræmist því að hún hafi orðið fyrir áfalli við atburð­inn.  Gegn neitun ákærða þykir brot hans ósannað þrátt fyrir framburð hennar.  Ber því að sýkna hann af þessum þætti málsins. Eftir þessum málsúrslitum verður skaða­bótakröfu Z vísað frá dómi.

Viðurlög.

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ítrekað gengist undir sátt og hlotið dóma vegna umferðarlagabrota.  Þá hefur hann hlotið dóma fyrir hegningarlagabrot, s.s. þjófnað, fjársvik og nytjastuld.  Síðast hlaut ákærði dóm 4. júní 2002, 60 daga fangelsi skil­orðsbundið í 2 ár.  Hefur ákærði, með broti því sem hann hefur hér verið fundinn sekur um, rofið skilorð þessa dóms og hann dæmdur með, samkvæmt 60. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940 og refsing tiltekin í einu lagi eftir reglum 78. gr. sömu laga

Með broti sínu gerðist ákærði sekur um sérlega grófa kynferðislega misnotkun gagn­vart kæranda sem stóð yfir í langan tíma, eða um 12 ár allt frá unga aldri hennar.  Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði misnotaði freklega vald sitt yfir henni sem stjúpfaðir hennar og brást þannig trausti hennar og trúnaðarskyldum sínum.  Eins og rakið hefur verið hafði brot ákærða djúpstæð áhrif á líf stúlkunnar og sálarheill en ákærða mátti vera þetta ljóst.  Þykir refsing ákærða, með vísna til 77. gr. almennra hegn­ingarlaga,  hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði.

Bótakröfur.

Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur lagt fram bótakröfur í málinu fyrir hönd Y þar sem krafist er 3.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 29. febrúar 2002 til greiðsludags, skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.  Enn fremur skaðabóta að fjárhæð 967.200 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt sömu lögum frá dómsuppsögu til greiðsludags.  Byggir bótakrafan á því að ákærði beri ábyrgð á miskatjóni sem stúlkan hafi hlotið af brotum hans, sem séu mjög alvar­leg enda framin gegn barni og hafi staðið lengi yfir.  Stúlkan hafi hlotið mjög um­fangsmikinn skaða af brotunum sem hún muni ekki ná sér af að fullu.  Þá valdi það henni mun meiri skaða en ella að ákærði hafi ekki viðurkennt neitt af brotum sínum.  Skaðabætur skv. 2. lið kröfugerðarinnar séu vegna sjúkrakostnaðar eða annars fjár­tjóns skv. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og almennu skaðabótareglunni.  Um sé að ræða kostnað vegna nauðsynlegrar meðferðar stúlkunnar í framtíðinni samkvæmt mati sál­fræðings, en hún eigi við tilfinningaleg og persónuleika vandamála að stríða, sem geti reynst flókin og tímafrek í meðferð.  Sum þessara vandamála, sem rekja megi til mis­notkunar ákærða, verði að mati sálfræðings að öllum líkindum langvarandi.

Brot ákærða gagnvart stúlkunni voru til þess fallin að valda henni sálrænum erfið­leikum eins og staðfest hefur verið í skýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar.  Er þar einkum bent á að hún eigi við ýmis alvarleg vandamál að stríða sem rekja megi á einn eða annan hátt til kynferðislegrar misnotkunar.  Hún hafi lítinn sjálfsstyrk og lélega sjálfs­mynd.  Þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur og skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá dómsuppsögudegi. 

Krafa um meðferðar- og sjúkrakostnað í framtíðinni er byggð á mati um áætlað fjártjón.  Þó fyrir liggi að þörf sé á því að stúlkan nýti sér meðferðarúrræði í fram­tíðinni og hafi í raun gert það er kröfugerð óljós og því ekki unnt að leggja á hana dóm. Verður henni því vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnheiðar Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns, 150.000 þúsund krónur.

Þá ber ákærða að greiða Sif Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanni 60.000 krónur og Herdísi Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanni 60.000 krónur í réttargæslulaun en Herdís fór um tíma með réttargæslu beggja stúlknanna.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.

Dómur þessi er kveðinn upp af héraðsdómurunum Valtý Sigurðssyni, sem dóms­formanni, og Pétri Guðgeirssyni en Logi Guðbrandsson skilar sératkvæði.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 150.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ragnheiðar Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns svo og þóknun rétt­argæslumanns, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur og Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur

Ákærði greiði Y 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

 

 

Sératkvæði Loga Guðbrandssonar, héraðsdómara.

Í máli þessu nýtur ekki við beinna sannana um sekt ákærða, hvorki með vitnum eða skjölum. Flestir hafa framburðir vitna fjallað um atvik, sem leitt gætu líkur að því, að ákærði hafi framið þau brot, sem honum eru gefin að sök í ákæru, en einnig hafa komið fyrir dóm vitni, sem ekki vissu nein merki þess.

Kærendur hafa lýst samskiptum sínum við ákærða, en hann hefur neitað þeim þátt­um í framburðum þeirra, þar sem sagt er frá refsiverðum gerðum ákærða.

Eins og sannanafærslu er háttað í þessu máli verður þá að meta framburði kær­enda, hvort byggjandi verði á þeim sem sönnun, eða hvort eitthvað sérstakt komi fram í þeim þeim til styrktar eða á hinn bóginn til þess að gera framburði þessa ótrú­verðuga. 

Þegar kærandinn Y kom fyrir dóm í fyrsta sinn, sagði hún frá atburðum með mjög líkum hætti og hún hafði gert fyrir lögreglu. Ekki verður sagt, að framkoma hennar í réttinum hafi gert framburð hennar ótrúverðugan ef frá er talin þau atriði, sem hér verða rakin á eftir. Flest af frásögnum Y af atvikum málsins var sagt í dæma­skyni um framkomu ákærða gagnvart henni, en nokkrum einstökum atvikum þó lýst. Yfir­leitt var um að ræða lýsingar á refsiverðu athæfi ákærða, en einnig voru í fram­burði Y að finna frásagnir af atvikum, sem ekki var um að ræða brot af hálfu ákærða.

Í skýrslu Y hjá lögreglu þann 21. mars 2002 er hún spurð, hvort X hefði haldið uppi njósnum um hana. og var svar hennar, að hann hefði margsinnis sótt hana þegar hún hafi verið með vinum sínum, ýmist í partí, félagsmiðstöðvar eða hvert sem er.  Sem dæmi um þetta nefndi hún, að X hefði sótt hana í partí til Z og farið með hana heim til föður hennar, þar sem hún hefði átt að gista. X hafi síðan sótt hana aftur, eftir beiðni hennar og farið með hana í sama partíið og hefði þar verið margt fólk. Í fyrstu taldi hún, að hún hefði ekki farið í heita pottinn, sem þar var að finna, en síðan minntist hún þess, og eftir henni er haft: „Ég man að ég kyssti G og faðm­aði hann eitthvað í pottinum, en annað gerðist ekki. Við Z, A og L, vorum öll í sundfötum í pottinum.”  Fljótlega eftir þetta hafi X hringt í N, stjúpmóður  Y og móður Z og sagt þeim að þær Z, hefðu verið í kynsvalli í heita pottinum. Z hafi orðið alveg brjáluð og hafi haft samband við X og heimtað að hann  leiðrétti söguna við móður hennar, en að öðrum kosti mundi hún kæra hann. Sagðist Y vita til þess að X hefði hringt í móður Z aftur til að leiðrétta þennan misskilning. Þegar Y kom fyrir dóm við aðalmeðferð máls­ins, sagði hún þessa sögu með sama hætti og neitaði því, að þau hefðu verið í ein­hvers konar hópkynlífi og bar eins og hjá lögreglu, að þau hefðu verið þarna fjögur að fá sér í glas og öll í sundfötum.

Þegar G var spurður um þetta atvik hjá lögreglu, kannaðist hann við að hafa í eitt skipti kysst Y í heita pottinum. X hafi hringt einu sinni í móður hans og sagt henni, að þau fjögur hefðu verið í kynsvalli í pottinum. Þegar hann kom fyrir dóm, sagði hann, að þau hefðu verið nakin og öll haft kynmök. Þegar honum var bent á, að hann hefði borið á annan veg hjá lögreglu, voru svör hans á þessa leið: „Þetta var það sem við ákváðum að segja. Sp: Hverjir ákváðu það? Vitnið: Öll þau sem voru þarna í heita pottinum. Sp.: Hvenær? Vitnið: Rétt áður en við þurftum að fara í lögregluskýrslu.” Í framhaldinu kom fram, að Z hefði haft samband við hann um þetta eftir að hún hefði verið í skýrslutöku.

Þegar G hafði breytt framburði sínum á þennan veg, var Y kölluð á ný fyrir dóminn og henni skýrt frá þessum breytta framburði G. Hún hélt fast við fram­burð sinn og kvað þau hafa verið í sundfötum og taldi, að henni hefði aldrei dottið í hug að fara úr þeim, enda göngustígur við hliðina á garðinum. Spurð um hvað hún vildi segja um framburð G svaraði hún því til, að hún vissi ekki hvaðan hann hefði þetta, en hann hefði ekki verið í sambandi við hana um þetta og bætti því við að hún vissi að G væri hræddur við X.

Þau Z og L höfðu bæði komið fyrir dóm­inn á undan G og borið um atvikið eins og fram kom í lögregluskýrslunni og á sama veg og Y hafði gert. Z var að því spurð, hvort þær Y hefðu rætt þetta mál eitthvað sín á milli og mun þá hafa verið átt við málið í heild og svaraði hún því svo, að þær hefðu ekkert rætt um það, sem komið hefði fyrir, en þær væru búnar að styðja hvor aðra og reynt að tala sem minnst um þetta til þess að þær gætu haldið sínu striki áfram og látið sér líða sem best.

Z og L komu eftir framburð G, að nýju fyrir dóminn, og kváðust hafa sagt ósatt um atvik þetta í fyrra skiptið, sem þau komu fyrir dóminn.

Hjá Z kom fram, að þau hafi ákveðið að segja frá á þann veg, sem þau gerðu,um leið og þetta skeður, en síðan varð fremur óljóst, hvenær samráðið. Ákær­and­inn spurði hana, hvort hún hefði gert þetta til þess að foreldrar hennar kæmust ekki að þessu og kvað hún það vera rétt og að hún vildi halda þessu bara fyrir sig.

L sagði, að hann hefði rætt málið við hina krakkana og hann hefði allan tímann ætlað að segja sannleikann, en hann hefði byrjað að segja ósatt og hefði frétt, að það hefði orðið niðurstaðan, þá hefði haldið við það, sem náttúrulega hefði ekki verið rétt. Hann sagði þetta ekki hafa verið samantekin ráð, en hann hefði vitað hvað aðrir hefðu borið um þetta.

Eftir þetta kom Y í þriðja sinn fyrir dóminn og viðurkenndi, að hafa sagt ósatt um þetta atriði. Hið rétta væri að þau hefðu verið í kynlífsleik í pottinum. Skýrði hún það svo, að þegar lögreglan hafi spurt að þessu, hafi hún ekki skilið hvaða máli það skipti og hefðu þau komið sér saman um að segja ekki frá þessu. Við það hafi þau staðið án þess að ákveða það frekar. Z hefði síðan hringt í hana og sagt að þau hefðu öll breytt framburði sínum.

Þegar ferill þessarar frásagnar er skoðaður, kemur í ljós, að fyrst er minnst á átvikið í heita pottinum í skýrslu Y þann 12. febrúar 2002. Þá er hún spurð um hvort X hafi njósnað um hana og nefnir hún atvikið þá af eigin hvötum. Ekki verður annað af skýrslunni ráðið, en að þær Z hafi tekið saman ráð sín um að skýra rangt frá atvikinu, áður en Y gaf skýrsluna eða eftir hún hafði borið rangt fyrir lögreglu, en áður en Z gaf sína skýrslu. Af lýsingu atviksins virðist ljóst, að það er einungis nefnt til þess að sýna fram á neikvætt hugarfar ákærða en felur ekki í sér neitt brot af hans hálfu enda er þess ekki getið í ákæru. Látið hefur verið að því liggja, og reyndar sagði Z, að ástæða þess, að vitnin báru um atvikið á þann veg sem þau gerðu í upp­hafi, hafi verið að þau hafi viljað koma í veg fyrir að foreldrar þeirra fréttu af þessu einkamáli þeirra. Hver sem  hugsun vitnanna kann að hafa verið, er þetta heldur ólíkleg skýring, þar sem foreldrar þeirra allra fengu vitneskju um atvikið þegar daginn eftir. 

Það sem greinir atvikið í heita pottinum frá flestu öðru sem kærendur hafa borið um samskipti við ákærða, er að að því voru vitni.  Fleiri slík atriði koma fyrir í málinu og er þá jafnan einhver munur á frásögn Y og vitnanna. Þessi frávik verða vart látin hafa áhrif á mat á trúverðugleika framburðar hennar, enda getur mikið skolast til í minni á svo löngum tíma, sem frásögn hennar spannar.

Í 1. tölulið ákæru er brotum þeim sem ákært er fyrir lýst sem framhaldandi röð brota, sem framin hafi verið með þeim hætti, sem þar sé lýst og á þeim stöðum, sem þar séu tilgreindir á tímabilinu 1988/1989 til 2000. Enda þótt í framburði Y sé að finna frásögn af einstökum afmörkuðum tilvikum, hefur ákæruvaldið kosið að hafa þennan þátt á. Það leiðir hins vegar til þess, að ekki eru efni til að kanna trú­verð­ug­leika frásagnarinnar um einstök tilvik, heldur verður að meta trúverðugleika alls fram­burð­arins.       

Með því að bera svo vísvitandi rangt um atvik, sem kærandinn Y nefndi sjálf til sög­unnar, án annars tilefnis en að ofan getur, hefur hún vakið upp efasemdir um annan framburð hennar, þar sem engum vitnum verður við komið. Sérstaklega ýtir það undir efasemdir þessar, að Y hélt fast við fyrri framburð sinn er hún kom í annað sinn fyrir dóminn þrátt fyrir að henni hafi verið bent á að G hefði borið annað. Það var ekki fyrr en bæði Z og L höfðu breytt sínum framburði og hún frétt það, að hún kom loks í þriðja sinn fyrir dóminn og viðurkenndi að hafa sagt ósatt,en tók enn fram að annað í framburði hennar væri rétt. Við mat á trúverðugleika fram­burð­arins, vegur það lítið að vitni geti gefið þá skýringu, að um skiljanleg viðbrögð sé að ræða, heldur skiptir megin máli sú hugmynd vitnisins, að það sé heimilt að bera rangt fyrir dómi, eftir því, sem hentar vitninu sjálfu eða þeim málstað, sem vitnið er að bera fram.

Að þessu athuguðu er það mat mitt, að gegn eindreginni neitun ákærða á sakar­giftum, hafi ekki verið færð fram sönnun um sekt hans, sem ekki verði véfengd með skyn­samlegum rökum og beri því að sýkna hann af þeim brotum, sem honum eru gefin að sök í tölulið 1 í ákæru.

Ég er sammála meirihluta dómsins um að sýkna beri ákærða einnig af því broti, sem honum er gefið að sök í 2. tölulið ákæru.

Þá tel ég, að með vísunar til þessarar niðurstöðu varðandi refsihlið málsins, að vísa beri frá dómi skaðabótakröfum kærenda.

Eðlileg niðurstaða samkvæmt þessu væri einnig, að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun rétta­gæslu­manna. Um fjárhæðir í þessu sambandi er ég sammála meirihluta dómsins.