Print

Mál nr. 39/2004

Lykilorð
  • Jafnrétti
  • Stöðuveiting
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. júní 2004.

Nr. 39/2004.

Neyðarlínan hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Elínborgu Aðils

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

 

Jafnrétti. Stöðuveiting. Skaðabætur.

N gerðist brotlegt við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar gengið var fram hjá E við ráðningu í tiltekið starf. Þótti helst mega ráða að framkvæmdastjórar N hefðu ekkert hugað að ákvæðum laganna við ráðninguna, svo sem þeim bar að gera. Af málsatvikum var talið ljóst að E hafði í raun orðið fyrir fjártjóni og með vísan til 24. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 96/2000 var nægjanlega fram komið að það stafaði að því hvernig staðið var að umræddri ráðningu. N var því dæmt til greiðslu skaðabóta, sem metnar voru að álitum. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. janúar 2004. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af  skaðabótakröfu stefndu og dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur og málskostnað auk greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Áfrýjandi kveðst una miskabótaákvörðun héraðsdóms og hafa greitt þá fjárhæð, sem ákveðin var í forsendum dómsins, auk vaxta og  jafnframt þriðjung málskostnaðar í ríkissjóð, en stefnda hafði gjafsókn í héraði. Stefnda unir greiðslu áfrýjanda á miskabótum. Er því einungis deilt um réttmæti og fjárhæð skaðabóta fyrir Hæstarétti.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Þar kemur fram að við stofnun áfrýjanda í ársbyrjun 1996 var stefnda ráðin til starfa með skriflegum ráðningarsamningi sem einn af fjórum neyðarvörðum. Hafði hún þá próf frá Lögregluskóla ríkisins og nokkra starfsreynslu sem lögreglumaður. Starfsemi áfrýjanda jókst fljótt og strax um haustið 1996 var starfsfólki skipað á  fjórar vaktir, A, B, C, og D. Var þeim sem fyrstir hófu störf falin stjórn vaktanna og tóku þeir laun sem vaktstjórar án þess að ráðningarsamningum þeirra væri breytt. Stefnda stjórnaði þannig A vakt. Um áramótin 1999/2000 voru starfsmenn orðnir 16 – 18 og skipt hafði verið um framkvæmdastjóra. Ákvað hann að auglýsa fjórar stöður varðstjóra og leggja í staðinn niður störf vaktstjóra. Stefnda sótti um eitt þessara starfa, en ráða átti í þau frá 1. febrúar 2000. Veruleg töf varð hins vegar á því að ráðið yrði í stöðurnar. Framkvæmdastjórinn kallaði stefndu til fundar við sig 30. ágúst sama ár og skýrði henni frá því að hún ætti að láta af störfum sem vaktstjóri og starfa framvegis sem almennur neyðarvörður. Aðrir vaktstjórar fengu þær varðstjórastöður, sem þeir höfðu í raun gegnt. Þeir voru allir karlmenn. Framkvæmdastjórinn boðaði stefndu á ný til fundar og var hann haldinn 5. september. Var henni þá kynnt að fyrrum undirmaður hennar, sem var karlmaður, yrði varðstjóri A vaktar en hún ætti að flytjast á D vakt. Stefnda var ekki sátt við þessa tilhögun og endaði fundurinn svo að framkvæmdarstjórinn afhenti henni uppsagnarbréf, sem hann prentaði úr tölvu sinni á staðnum, og stefnda afhenti uppsagnarbréf, sem hún hafði undirbúið og var dagsett 1. september. Ekki var frekar óskað eftir starfskröftum hennar en henni greitt kaup vaktstjóra út uppsagnartíma.

Stefnda fór þess á leit við kærunefnd jafnréttismála 20. nóvember 2000 að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn hennar bryti í bága við lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að áfrýjanda hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að segja stefndu upp störfum eftir að hún hafnaði flutningi í stöðu almenns neyðarvarðar. Var talið að áfrýjandi hefði með uppsögn stefndu brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000. Nefndin beindi þeim tilmælum til áfrýjanda að viðunandi lausn yrði fundin, sem stefnda gæti sætt sig við. Stefnda fór fram á bætur 4. janúar 2002 en bótakröfunni var hafnað.

II.

Stefnda höfðaði mál fyrir héraðsdómi 18. desember 2002. Samkvæmt gögnum málsins hafði stefnda staðið sig mjög vel í starfi og verið viljug til verka. Héraðsdómur féllst ekki á það með áfrýjanda að um nýtt starf hefði verið að ræða heldur hefði verið gengið formlega frá ráðningu í stöðu vaktstjóra, en fram kom að það starfsheiti hefði á ný verið tekið upp. Héraðsdómur taldi að bótaréttur yrði ekki reistur á uppsögn stefndu út af fyrir sig, enda hefði hlotið að koma til starfsloka eftir að hún hafnaði stöðu almenns neyðarvarðar. Hins vegar hlytu úrslit málsins að ráðast af því hvort talið yrði að við umrædda ráðningu hefði verið gengið fram hjá stefndu á þann hátt að varðaði við 24. gr. laga nr. 96/2000 sem banna mismunun vegna kynferðis við ráðningu, en lög þessi takmarka stjórnunarrétt vinnuveitenda við val í stöður. Féllst héraðsdómur á að greinin hefði verið brotin og áfrýjandi væri því skaðabótaskyldur samkvæmt 28. gr. nefndra laga og var hann dæmdur til að greiða stefndu 250.000 krónur í miskabætur og 1.100.000 króna bætur fyrir fjártjón. Fjártjónið var ákveðið að álitum en til grundvallar þeirri ákvörðun lá sá munur sem er á launum vaktstjóra og almenns neyðarvarðar samkvæmt taxta Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

III.

Að framan er því lýst að fyrir Hæstarétti fellir áfrýjandi sig við þá niðurstöðu héraðsdóms að hann hafi gerst brotlegur við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 og ákvörðun dómsins um miskabætur. Hins vegar hafnar hann því að stefnda hafi sýnt fram á það að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af hans völdum, en 28. gr. laganna vitni til almennra skaðabótareglna, sem geri þá kröfu til hennar vilji hún fá bætt slíkt tjón. Hún hafi notið launa á uppsagnarfresti samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og auk þess hafi áfrýjandi lýst því yfir að ekki hafi staðið til að lækka hana í launum.

Stefnda heldur því fram að brot áfrýjanda hafi orðið við ráðningu varðstjóranna og það sem á eftir fór hafi verið afleiðing þess brots. Hún mótmælir því að legið hafi fyrir að hún ætti að njóta vaktstjóralauna í framtíðinni, enda þótt hún starfaði sem almennur neyðarvörður. Stefnda segir að nokkru eftir uppsögnina hafi komið í ljós að hún var með barni og því hafi hún ekki treyst sér til að leita að nýju starfi. Hún hafi nýtt tímann til að auka menntun sína en þegar hún leitaði að starfi á ný hafi sér reynst erfitt að finna stöðu við hæfi. Hafi hún ráðið sig til Stöðvar 2 í mötuneyti starfsfólks en verið sagt upp þegar samdráttur varð hjá stöðinni. Síðan hafi hún verið atvinnulaus.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi viðurkennt að hafa brotið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000, sem bannar mismunun umsækjanda um starf á grundvelli kynferðis. Af framburði aðstoðarframkvæmdastjóra áfrýjanda og öðrum gögnum málsins verður helst ráðið að framkvæmdastjórar áfrýjanda hafi ekkert hugað að ákvæðum laganna við ráðningu varðstjóranna, svo sem þeim bar að gera samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Fallast ber á það með héraðsdómi að áfrýjandi sé skaðabótaskyldur samkvæmt  28. gr. laganna að því tilskildu að hún sýni fram á fjártjón.

Framburður aðstoðarframkvæmdastjóra áfrýjanda fyrir dómi um að hann minnist þess ekki að stefnda hafi átt að lækka í launum er ekki afgerandi og engra gagna nýtur um þetta. Ósannað er gegn mótmælum stefndu að henni hafi verið skýrt frá því að ekki væri ætlunin að hún missti einhvers í launum eða að ákvörðun hafi verið tekin um það. Ljóst er af málsatvikum að stefnda hefur í raun orðið fyrir fjártjóni og með vísun til 24. gr., sbr. 28. gr., laga nr. 96/2000 er nægjanlega fram komið að það stafar af því hvernig áfrýjandi stóð að ráðningu varðstjóranna. Stefnda reisti kröfu sína í héraði á mismuni launa vaktstjóra og almenns neyðarvarðar árin 2001 – 2004, sem nemi alls 3.604.549 krónum. Útreikningi þessum hefur ekki verið andmælt tölulega. Hefði hún verið áfram hjá fyrirtækinu má ætla að tjón hennar hefði numið mismuni taxtanna. Stefnda fellir sig hins vegar við ákvörðun héraðsdóms um fjárhæð skaðabóta. Erfitt er að ákvarða þetta tjón af nokkurri nákvæmni. Áfrýjandi hefur ekki sérstaklega mótmælt ákvörðun héraðsdóms um fjárhæðina sem slíka. Ber að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð skaðabótanna. Áfrýjanda ber því að greiða stefndu 1.100.000 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest.

Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renna skal í ríkissjóð, en gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði..

Dómsorð:

Áfrýjandi, Neyðarlínan hf., greiði stefndu, Elínborgu Aðils, 1.100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. desember 2002 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Áfrýjandi greiði 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og renna þær í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin laun lögmanns hennar fyrir réttinum, 350.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2003.

Mál þetta var höfðað 18. desember 2002 og dómtekið 13. þ.m.

Stefnandi er Elínborg Aðils, Seljabraut 24, Reykjavík.

Stefndi er Neyðarlínan hf., Skógarhlíð 14, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér bætur að fjárhæð 3.604.539 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2002 til greiðsludags og málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi 17. júlí 2002.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara stórfelldrar lækkunar á kröfunum og að málskostnaður verði felldur niður.

- - -

Við stofnun stefnda í ársbyrjun 1996 var stefnandi með skriflegum ráðningarsamningi ráðin til starfa hjá stefnda sem neyðarvörður og var önnur í röð þeirra sem ráðnir voru.  Segir í stefnu að  hún hafi m.a. verið ráðin á grundvelli reynslu frá fyrri störfum en hún hafi próf frá Lögregluskóla ríkisins og hafi haft þó nokkra starfsreynslu sem lögreglumaður.  Stefnandi var í upphafi ein fjögurra neyðarvarða.  Með árunum hefur starfsemi stefnda þróast og aukist og starfsmönnum fjölgaði u.þ.b. þrefalt frá upphafi til áramóta 1999/2000 er þeir voru 16-18 að sögn vitnisins Bergsveins Alfonssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra stefnda.  Haustið 1996 var starfsfólki skipað á fjórar vaktir; A, B, C og D.  Þeim, sem fyrstir höfðu verið ráðnir til starfa sem neyðarverðir, var falin stjórn vaktanna og störfuðu eftir það sem vaktstjórar en þó án þess að gerðir væru skriflegir ráðningarsamningar um þær stöður.  Af þessum fjórum vaktstjórum voru tvær konur.  Stefnandi starfaði eftir þetta sem vaktstjóri A-vaktar til loka starfstíma síns hjá stefnda.  Auk vaktstjóra var einnig varðstjóri frá Slökkviliði Reykjavíkur á hverri vakt.  Stefndi auglýsti til umsókna stöður varðstjóra um áramótin 1999/2000 eða í janúar en skömmu áður hafði orðið sú breyting að framvegis skyldi ekki vera varðstjóri frá Slökkviliði Reykjavíkur á hverri vakt auk varðstjóra stefnda og stefndi skyldi taka að sér þjónustu fyrir Fjarskipta­miðstöð lögreglunnar.  Stefnandi sótti um stöðu varðstjóra eins og allir aðrir vaktstjórar sem voru þrír karlmenn þar sem hin konan, sem gegnt hafði starfi vaktstjóra auk stefnanda, hafði hætt störfum og karlmaður verið ráðinn í hennar stað.  Auglýsingin hefur ekki verið lögð fram í málinu en af umsóknarbréfi stefnanda 18. janúar 2000 kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir að ráðið yrði í stöðurnar frá og með 1. febrúar s.á.  en veruleg töf varð hins vegar á því.

Þann 30. ágúst 2000 kvaddi framkvæmdastjóri stefnda stefnanda til fundar við sig og tjáði henni að hún mundi hætta sem vaktstjóri og starfa áfram sem almennur neyðarvörður.  Framkvæmdastjórinn boðaði stefnanda að nýju til fundar 1. september, stefnandi mætti til fundarins en af honum varð þó ekki af ástæðum sem vörðuðu framkvæmdastjórann.  Stefnandi hafði meðferðis uppsagnarbréf, dags. 1. september 2000, og fékk áritun tveggja samstarfsmanna sinna á það um að þeir væru vottar að árangurslausri framlagningu uppsagnar.  Í bréfinu segir stefnandi lausu starfi sínu sem varðstjóri A-vaktar hjá stefnda og síðan segir þar:  “Ástæða uppsagnarinnar er ósætti með stjórnun Neyðarlínunnar hf. undanfarið ár, versnandi starfsaðstaða neyðarvarða sem og trúnaðarbrestur sem ég tel vera kominn upp á milli stjórnenda fyrirtækisins og starfsmanna.  Einnig get ég ekki sætt mig við að vera fyrirvaralaust flutt í starf almenns neyðarvarðar án þess að fá fyrir því nein efnisleg rök né skýringar.”  Þann 5. september var stefnandi enn kölluð á fund hjá framkvæmdastjóra þar sem Bergsveinn Alfonsson, aðstoðarframkvæmdastjóri stefnda, var einnig.  Framkvæmdastjórinn tjáði stefnanda að hún ætti að flytjast á D-vakt sem almennur neyðarvörður en við A-deild tæki sem varðstjóri Björn Már Jónsson sem starfaði sem undirmaður stefnanda á A-vakt.  Í framhaldinu gerðist það á fundinum að framkvæmdastjóri stefnda afhenti stefnanda uppsagnarbréf og stefnandi afhenti honum framangreint uppsagnarbréf sitt.  Um það í hvaða röð þetta gerðist bar stefnanda og Bergsveini Alfonssyni ekki saman við skýrslugjöf við aðalmeðferð málsins.  Stefnandi kvað framkvæmdastjórann hafa verið fyrri til með afhendingu síns bréfs en Bergsveinn kvað framkvæmdastjórann hafa afhent stefnanda uppsagnarbréfið eftir að hún hafi verið búin að afhenda honum sitt bréf.

Ekki var óskað eftir starfskröftum stefnanda á uppsagnartímanum og mætti stefnandi því ekki frekar til starfa eftir 5. september 2000.  Stefndi greiddi stefnanda full laun til loka árs 2000.

Með kæru, dags. 20. nóvember 2000, óskaði stefnandi eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn hennar úr starfi hjá stefnda bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.  Í niðurstöðu nefndarinnar 4. október 2001 segir:  “. . . Með vísan til ofanritaðs og 3. mgr. 24. gr. jafnréttislaga er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirrar ákvörðunar að segja kæranda upp störfum eftir að hún hafnaði flutningi í stöðu almenns neyðarvarðar. það er því álit kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi með uppsögn kæranda brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.”  Nefndin beindi þeim tilmælum til Neyðarlínunnar hf. að viðunandi lausn yrði fundin á málinu sem kærandi gæti sætt sig við.  Með bréfi lögmanns stefnanda 4. janúar 2002 til lögmanns stefnda voru kynntar hugmyndir stefnanda  um lausn málsins sem fólu í sér að gerð var krafa um greiðslu 8.142.188 króna.  Bótakröfunni var hafnað með bréfi lögmanns stefnda 10. janúar 2002.

- - -

Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi í engu farið eftir ákvæðum jafnréttislaga þegar hann sagði stefnanda upp störfum og gekk fram hjá henni við ráðningu í stöðu varðstjóra en með því hafi stefndi mismunað stefnanda á grundvelli  kynferðis og skapað sér bótaskyldu.  Vísað er til þess að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga, þ.e. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu karla og kvenna, sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf eftir kynferði og eigi það ekki einungis við um ráðningu í starf heldur einnig stöðubreytingar svo og  uppsagnir.

Stefnandi hafi starfað sem vaktstjóri hjá stefnda og sinnt starfi sínu af samviskusemi og dugnaði enda hafi aldrei komið fram kvartanir eða að hún fengi áminningu vegna starfa sinna.  Þegar ákveðið hafi verið að breyta vaktstjórastöðum í varðstjórastöður hafi allir þáverandi vaktstjórar, þ.á m. stefnandi, sótt um starfið.  Stefnandi hafi bæði haft menntun sem lögreglumaður svo og reynslu í þessum störfum en þrátt fyrir það hafi henni einungis verið boðið starf almenns neyðarvarðar í stað yfirmannsstöðu sem hún hafi gegnt.  Einungis karlmenn hafi verið ráðnir í þær stöður sem auglýstar hafi verið en það hafi verið allir fyrrum vaktstjórar, að stefnanda undanskilinni, og fyrrum undirmaður stefnanda.  Engin rök hafi verið gefin fyrir því að stefnandi fékk ekki stöðuna.  Af hálfu stefnanda er vísað til þess að Hæstiréttur hafi skýrt meginreglur IV. kafla jafnréttislaga þannig að konu skuli veita starf sé hún a.m.k. jafnhæf og karlmaður, sem keppi um stöðuna, þegar á starfssviðinu séu fáar konur.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að hann hafi í engu gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 96/2000 við uppsögn stefnanda.  Stefnandi hafi sjálf sagt upp störfum hjá stefnda sem hafi hins vegar í ljósi allra aðstæðna ákveðið að afhenda henni uppsagnarbréf þar sem þá væri réttarstaða hennar betur tryggð.

Sýknukrafan er einnig byggð á því að ráðning stefnda í varðstjórastöður hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum en ekki á kynferði, hvorki stefnanda né annarra umsækjenda.  Við það mat hafi stefndi notið stjórnunarréttar vinnuveitanda.  Skipulagsbreytingar á starfsemi stefnda árið 2000 hafi falið í sér að nýtt starf varðstjóra hafi orðið til með aukinni ábyrgð og auknu álagi.  Af þeirri ástæðu hafi stefndi talið nauðsynlegt að auglýsa sérstaklega laus til umsóknar þessi nýju störf sem hafi verið fjórar varðstjórastöður.  Vísað er til þess að í umsögn stefnanda til kærunefndar jafnréttismála 12. mars 2001 hafi hún tekið fram að hún mótmælti því ekki að eðlilegt hafi verið að auglýsa stöður vaktstjóra lausar vegna breytinga á starfinu.  Við ráðningu í þær stöður hafi það orðið niðurstaða stefnda að stefnandi uppfyllti ekki þau skilyrði sem varðstjóri þyrfti að mati stefnda að uppfylla.  Um þann “sem ráðinn var til starfans”, þ.e. Björn Má Jónsson, segir að hann hafi eins og stefnandi hafið störf hjá stefnda 1996 en nokkru síðar en hún.  Hann hafi lokið stúdentsprófi og námi í rekstrarfræðum og hafi rúmlega tveggja ára starfsreynslu sem lögreglumaður auk þess að hafa meiri tungumálakunnáttu en stefnandi.  Að auki séu í lögum nr. 25/1995 um samræmda neyðarsímsvörun engin sérstök skilyrði gerð um menntunarkröfur starfsmanna stefnda og stefnda því í sjálfsvald sett hvaða menntunarkröfur hann geri varðandi tiltekin störf hverju sinni.

Krafa stefnanda um bætur vegna fjártjóns og miska styðst við 28. gr. laga nr. 96/2000.  Frammi liggur staðfesting á því að stefnandi hafi verið skráð í atvinnuleit hjá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins frá 1. febrúar 2001 til 11. maí s.á. og að hún hafi stundað nám í markaðs- og sölunámi hjá Viðskipta- og tölvuskólanum frá september 2001 til maí 2002.  Þá er fram komið að hún hafi eftir það fengið starf í mötuneyti og gegnt því á ritunartíma stefnu.  – Fyrir dómi kvaðst stefnandi hafa verið á ný atvinnulaus frá því í mars sl. -.  Í stefnu segir að stefnanda hafi ekki tekist að fá aðra sambærilega stöðu eða starf með sömu kjörum og hún hafi haft hjá stefnda þrátt fyrir aukna menntun en gengið í þau störf sem boðist hafi til að takmarka tjón sitt.  Krafan taki mið af því að það taki stefnanda um tvö ár í viðbót að finna sambærilegt starf og hún hafði.  Krafan byggist á mismuni launa sem stefnandi hefði fengið sem varðstjóri hjá stefnda til loka ársins 2004 og  áætluðum sömu tekjum og stefnandi hafi við útgáfu stefnu.  Krafan tekur mið af launahækkunum samkvæmt almennum kjarasamningum VR og SA og er þannig sundurliðuð:  Vegna ársins 2001 957.967 krónur, vegna ársins 2002 669.783 krónur, vegna ársins 2003 727.799 krónur, vegna ársins 2004 749.000 krónur.  Samtals 3.104.549 krónur.  Einnig krefst stefnandi miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur vegna hneisu, óþæginda og röskunar á stöðu og högum.

Af hálfu stefnda var tekið fram við málflutning að kröfugerð stefnanda sæti ekki tölulegum ágreiningi.  Varakrafa hans byggist á því að hvað sem öðru líði geti stefnandi ekki átt rétt til greiðslu bóta nema að litlum hluta.  Ekki séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfum stefnanda þar sem almennar reglur um ólögmæta uppsögn byggi á því að greidd séu laun sem nemi lögbundnum uppsagnarfresti en stefnandi hafi fengið greidd laun í tæpa fjóra mánuði eftir að uppsagnarbréf hennar var afhent stefnda.  Þá er tímabili bótafjárhæðar svo og bótagrundvelli stefnanda mótmælt.  Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sem ósannaðri og alltof hárri.

- - -

Stjórnunarréttur stefnda sem vinnuveitanda við val í umrædda stöðu úr hópi umsækjenda sætti takmörkunum samkvæmt lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í greinargerð stefnda segir að hann telji rétt að vekja athygli á því að skömmu fyrir ráðningu í varðstjórastörfin hafi stefnandi að mati framkvæmdastjóra stefnda gert mistök í starfi sem að hans mati voru þess eðlis að stefnandi væri ófær til þess að axla þá auknu ábyrgð sem fylgdu varðstjórastarfi.  Um er að ræða tilkynningu manns um ætlað neyðartilvik  í ágúst 2000 og varð stefnandi fyrir svörum.  Af hálfu stefnda var lögð fram hljóðritun stefnanda, sem hún afhenti þegar viðtakandi vaktstjóra, af þeim símaviðtölum sem hér um ræðir og útprentun þeirra.  Stefnandi afgreiddi þegar umrætt erindi til lögreglu í viðkomandi umdæmi eins og rétt var.  Maðurinn hringdi margítrekað eftir það og endaði með að hóta stefnanda að kæra hana fyrir yfirmönnum hennar. Af því varð ekki en Bergsveinn Alfonsson, aðstoðarvarðstjóri stefnda, kvaðst hafa hringt til mannsins og talað við hann.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa talað við stefnanda um þetta atvik.  Hann bar að hann hefði aldrei veitt henni aðvörun eða áminningu; hún hafi staðið sig mjög vel og verið viljug til verka.  Af hálfu stefnanda var lögð fram svohljóðandi yfirlýsing, dagsett 25. apríl 2001:  “Við undirritaðir, starfandi yfirmenn hjá Slökkviliði Reykjavíkur (fjórir talsins-innskot dómara), unnum allir með Elínborgu Aðils á meðan hún var varðstjóri A-vaktar Neyðarlínunnar hf.  Við vottum hér með að við höfum ekkert út á stjórnun Elínborgar á A-vakt að setja, meðferð einstakra mála af hendi A-vaktar né almennt samstarf við A-vakt Neyðarlínunnar hf. á meðan Elínborg stýrði henni.”

Ekki er fallist á það með stefnda að um hafi verið að ræða nýtt starf varðstjóra heldur var verið að ganga formlega frá ráðningu í störf vaktstjóra, sem m.a. stefnandi hafði gegnt.  Ljóst er hins vegar að starfssviðið hafði víkkað og starfið þróast og að það var í áframhaldandi þróun, sbr. það sem segir í umsóknarbréfi stefnanda:  “Ég tel að með minni kunnáttu og reynslu sé ég fullkomlega í stakk búin til að starfa sem vaktstjóri áfram með öllum þeim skipulagsbreytingum og auknum kröfum sem kunna að bætast við starfið á næstu mánuðum.”  Við aðalmeðferðina kom fram að starfsheitið sé nú á ný orðið vaktstjóri.

Bótaréttur stefnanda verður ekki reistur á uppsögninni sem slíkri. Til starfsloka hlaut að koma, eins og stefnandi sýndi raunar í verki, er hún hafði hafnað stöðu almenns neyðarvarðar eftir að umsókn hennar um stöðu varðstjóra hafði verið hafnað.

Stefnanda var hafnað við ráðningu í stöðu sem hún hafði í raun gegnt í fjögur ár, óaðfinnanlega eftir því sem fram er komið. Í uppsagnarbréfi framkvæmdastjóra stefnda segir m.a.:  “Ástæða uppsagnarinnar eru skipulagsbreytingar varðandi nýráðningu vaktstjóra en því fylgir ábyrgð sem við teljum að þurfi nýjan starfskraft til að sinna.  Auk þess hafa verið gerð ýmis mistök bæði varðandi einstök mál og svo einnig hvað varðar almenna stjórnun vaktar á neyðarvarðstofu.”

Samkvæmt 1. gr. laga nr. nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.    Úrslit málsins ráðast af því hvort talið verði að við umrædda ráðningu hafi verið gengið fram hjá stefnanda á þann hátt að varði við 24. gr. nefndra laga – um bann við mismunun við ráðningu og í vinnuskilyrðum- en hún er í IV. kafla laganna sem hefur að fyrirsögn “Almennt bann við mismunun”.  Hæstiréttur hefur ítrekað kveðið á um að lögin, þ.e. eldri lög um sama efni, yrðu að þessu leyti þýðingarlítil nema meginreglur þær sem þar koma fram séu skýrðar svo að konu skuli veita starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin að því er varðar menntun og annað, sem máli skiptir, og karlmaður sem við hana keppir, ef á starfssviðinu eru fáar konur.  Verður sú skýring lögð hér til grundvallar.

Allir hinir vaktstjórarnir, þrír karlmenn sem starfað höfðu við hlið stefnanda, fengu ráðningu sem varðstjórar og var eftir það engin kona í stöðu varðstjóra.  Samkvæmt því og með vísun til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 hefur stefndi sönnunarbyrði fyrir því að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.  Af hálfu stefnda hefur verðleikum eins umsækjendanna, þ.e. Björns Más Jónssonar sem var ráðinn sem varðstjóri A-deildar, verið haldið fram.  Dómurinn telur ekki sýnt að hann hafi verið hæfari en stefnandi til að gegna umræddri stöðu með vísun til menntunar hennar og starfs sem lögreglumanns en þó öðru fremur vegna fjögurra ára starfsreynslu sem vaktstjóri.  Hitt varðar þó meiru að umsókn stefnanda var um stöðu varðstjóra, ótilgreint, en ekki einungis um stöðu varðstjóra A-deildar og hefur stefndi á engan hátt sýnt fram á verðleika eða hæfni þeirra sem hlutu hinar varðstjórastöðurnar.

Samkvæmt framanrituðu er niðurstaða dómsins sú að stefndi hafi gagnvart stefnanda gerst brotlegur við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og að samkvæmt gögnum málsins  verði að telja upplýst að stefnandi hafi sætt mismunun á grundvelli kynferðis.  Stefndi er því, samkvæmt 28. gr. greindra laga, skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. 

Ljóst er að stefnandi hefur orðið fyrir fjártjóni vegna þess að hún var ekki ráðin varðstjóri.  Örðugt er að meta hvert tjónið sé og verður það gert að álitum.  Við matið verður litið til reglu skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu og hliðsjón höfð af mismuni á launum vaktstjóra og neyðarvarðar í þjónustu stefnda en samkvæmt sérkjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna Neyðarlínunnar hf. og Verslunarmannafélags Reykjavíkur frá 14. mars 2003 nema byrjunarlaun vaktstjóra á mánuði 156.810 krónum og eftir 7 ár 172.258 krónum og byrjunarlaun neyðarvarðar 135.600 krónum og eftir 7 ár 148.958 krónum.  Heildarlaun eru mun hærri vegna yfirvinnu- og annarra greiðslna.  Bætur fyrir fjártjón eru ákveðnar 1.100.000 krónur. 

Fallist er á að stefnandi hafi orðið fyrir miska við það að svo berlega var fram hjá henni gengið og skýringar, sem gefnar voru í uppsagnarbréfi, voru til þess fallnar að valda sárindum.  Miskabætur eru ákveðnar 250.000 krónur.

Samkvæmt þessu eru bætur ákveðnar samtals 1.350.000 krónur sem dæma ber stefnda til að greiða stefnanda með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Dæma ber stefnda til að greiða málskostnað sem er ákveðinn 300.000 krónur og renni til ríkissjóðs.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Guðmundar B. Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Neyðarlínan hf., greiði stefnanda, Elínborgu  Aðils, 1.350.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði 300.000 krónur í málskostnað sem renni til ríkissjóðs.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Guðmundar B. Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur