Mál nr. 58/2013

Lykilorð
  • Samningur
  • Eftirlaun
  • Tómlæti

 

Fimmtudaginn 6. júní 2013.

Nr. 58/2013.

 

Hermann Þorsteinsson

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

Stöfum lífeyrissjóði

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Eftirlaun. Samningur. Tómlæti.

H krafðist eftirlaunagreiðslna úr hendi SL á grundvelli samnings sem hann hafði gert árið 1985 við Lífeyrissjóð SÍS, en sá sjóður hafði sameinast SL. Samkvæmt samningnum skyldu eftirlaun hans miðast við 65 ára lágmarksaldur og vera 90% af mánaðarlaunum framkvæmdastjóra SÍS eins og þau væru á hverjum tíma. Á árinu 1998 var gert samkomulag um breytingu á eftirlaunarétttindum H og skyldu þau nú nema ákveðinni mánaðarlegri greiðslu sem tæki breytingum eftir umsaminni vísitölu. Eftirlaun H tóku ekki breytingum samkvæmt þessu fyrr en á árinu 1999 en þá tók H við greiðslu úr hendi sjóðsins með fyrirvara um hugsanlega leiðréttingar. Hafði hann áður óskað eftir að tekinn yrði saman útreikningur eftirlauna hans miðað við tilteknar forsendur. Í Hæstarétti var talið að miðað við hvernig H hafði óskað eftir að uppgjöri yrði hagað við sig á árinu 1999 og með tómlæti hans í framhaldi af því yrði hann talinn bundinn af samkomulaginu frá árinu 1998 sem kom í stað upphaflegs samnings hans frá 1985. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu SL.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 41.550.099 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 13.056.742 krónum frá 31. desember 2008 til 31. desember 2009, af 22.442.367 krónum frá þeim degi til 31. desember 2010, af 31.825.206 krónum frá þeim degi til 31. desember 2011, en af 41.550.099 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

 Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi vann áfrýjandi alla starfsævi sína hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, en síðustu 25 árin var hann framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs SÍS. Árið 2005 var sá sjóður, sem þá hét Samvinnulífeyrissjóðurinn, sameinaður stefnda sem gekk undir heitinu Lífeyrissjóðurinn Lífiðn, en nafni á sameinuðum sjóði var breytt í það heiti sem stefndi hefur borið síðan.

Hinn 7. október 1985 gerði Lífeyrissjóður SÍS samning við áfrýjanda um eftirlaun hans sem miðast skyldu við 65 ára lágmarksaldur. Samkvæmt samningnum skyldu eftirlaun áfrýjanda vera „90% af mánaðarlaunum framkvæmdastjóra Sambandsins, eins og þau eru á hverjum tíma.“ Áfrýjandi hóf töku lífeyris 1. janúar 1987 og voru þau upphaflega miðuð við laun framkvæmdastjóra. Þegar Samband íslenskra samvinnufélaga dró úr starfsemi sinni þannig að einstakar deildir voru skildar frá rekstri Sambandsins munu stöður framkvæmdastjóra þess hafa verið lagðar niður.

Eftirlaun til áfrýjanda voru til umfjöllunar hjá Samvinnulífeyrissjóðnum á árinu 1998. Hinn 22. maí það ár var ritað skjal sem bar yfirskriftina „Samkomulag um eftirlaunaréttindi Hermanns Þorsteinssonar“. Í upphafi skjalsins var vísað til eftirlaunasamningsins við áfrýjanda frá 7. október 1985 og tekið fram að með samkomulaginu yrði sú breyting á eftirlaunaréttindum hans að í stað þess að miðað væri við ákveðið hlutfall af launakjörum framkvæmdastjóra Sambands íslenskra samvinnufélaga, eins og þau væru á hverjum tíma, væri nú samið um ákveðnar mánaðarlegar greiðslur sem tækju breytingum eftir umsaminni vísitölu. Um eftirlaunin sagði síðan að frá og með 1. janúar 1998 næmu þau 340.000 krónum á mánuði, en í desember ár hvert skyldu greidd tvenn mánaðarlaun. Frá þeim tíma hækkuðu launin mánaðarlega eftir vísitölu neysluverðs. Samkomulag þetta var undirritað af stjórn Samvinnulífeyrissjóðsins en áfrýjandi ritaði ekki undir það. Eftirlaun til áfrýjanda tóku ekki breytingum í samræmi við samkomulagið fyrr en á árinu 1999 í kjölfar þeirra bréfaskipta sem nú verða rakin.

Með bréfi 23. júlí 1999 áréttaði áfrýjandi beiðni til framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins, sem hann sagðist áður hafa hafa komið á framfæri munnlega, um að tekinn yrði saman útreikningur eftirlauna frá því að hann hóf töku lífeyris. Fór áfrýjandi þess á leit að gerður yrði útreikningur á eftirlaunum miðað við upphafsgreiðslu, sem tæki breytingum eftir launavísitölu til 1. janúar 1998, en frá þeim tíma yrði miðað við 340.000 krónur á mánuði og sú fjárhæð síðan reiknuð eftir sömu vísitölu. Til samanburðar óskaði áfrýjandi eftir að tekið yrði saman yfirlit um þær greiðslur sem hann hefði fengið á sama tímabili. Mismunurinn yrði síðan vaxtareiknaður en í þeim efnum lagði áfrýjandi til að miðað yrði við vexti á bundnum innlánsreikningi. Þessu erindi svaraði framkvæmdastjóri sjóðsins með bréfi 18. ágúst sama ár en því fylgdu umbeðnir útreikningar. Samkvæmt þeim hafði áfrýjandi fengið lægri greiðslu sem nam 8.083.263 krónum frá því hann hóf töku lífeyris í janúar 1987 til október 1999 miðað við að upphafleg eftirlaun hefðu verið bundin launavísitölu á því tímabili. Af þeirri fjárhæð voru síðan reiknaðir 8,5% vextir eftir því sem mánaðarlegar greiðslur féllu til en samtals námu þeir 2.906.157 krónum.

Í bréfi áfrýjanda 11. nóvember 1999 til lífeyrissjóðsins kom fram að hann samþykkti útreikninginn „með fyrirvara um hugsanlegar leiðréttingar“. Auk þess fór áfrýjandi þess á leit að áðurgreindar fjárhæðir yrðu millifærðar inn á reikning hans daginn eftir. Samkvæmt yfirliti sjóðsins var vaxtagreiðslan innt af hendi þann dag að frádregnum fjármagnstekjuskatti, en fjárhæð sem svaraði til mismunar eftirlauna mun hafa verið greidd 15. sama mánaðar.

Fyrir héraðsdómi greindi fyrrverandi framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins frá því að á stjórnarfundi sjóðsins á árinu 2005 hafi komið fram að áfrýjandi hefði rætt við þáverandi stjórnarformann sjóðsins og óskað eftir leiðréttingu á eftirlaunakjörum sínum. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 11. maí 2007 var þess krafist að staðið yrði við eftirlaunasamninginn frá 7. október 1985 og að áfrýjanda yrði greiddur mismunur sem hann ætti rétt á samkvæmt þeim samningi og því sem greitt hefði verið á næstliðnum átta árum. Þessu hafnaði stefndi með bréfi 5. júlí sama ár. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi áttu aðilar í frekari bréfaskiptum í kjölfarið, en ekki eru efni til að rekja þau nánar.

II

Samkvæmt áðurnefndum samningi 7. október 1985 um eftirlaun áfrýjanda skyldu þau nema 90% af mánaðarlaunum framkvæmdastjóra Sambands íslenskra samvinnufélaga eins og þau væru á hverjum tíma. Eftir að stöður framkvæmdastjóranna höfðu verið lagðar niður var Samvinnulífeyrissjóðnum ókleift að efna þessa skuldbindingu eftir orðanna hljóðan og því þurfti að finna annað viðmið sem grundvöll eftirlauna til áfrýjanda.

Samkomulag um eftirlaun til áfrýjanda 22. maí 1998 var ekki undirritað af honum og greiðslur samkvæmt því voru ekki inntar af hendi fyrst eftir að það hafði verið samþykkt af hálfu lífeyrissjóðsins. Í bréfi áfrýjanda 23. júlí 1999 fór hann þess á leit að fá útreikning á eftirlaunum miðað við að þau hafi frá upphafi lífeyristöku tekið breytingum í samræmi við launavísitölu. Jafnframt miðaði hann við að fjárhæð eftirlauna 1. janúar 1998 væri 340.000 krónur á mánuði. Í kjölfarið fékk áfrýjandi útreikning lífeyrissjóðsins sem tekinn var saman í samræmi við tilmæli hans. Með bréfi 11. nóvember 1999 samþykkti áfrýjandi útreikninginn en gerði fyrirvara um hugsanlega leiðréttingu. Sá fyrirvari gat ekki lotið að fyrrgreindri fjárhæð eftirlauna sem áfrýjandi sjálfur hafði miðað við og var samhljóða því sem lagt var til grundvallar í fyrrgreindu samkomulagi frá 22. maí 1998. Í framhaldi af þessu var greiðslu eftirlauna til áfrýjanda hagað eftir því samkomulagi án þess að leitt hafi verið í ljós að hann hafi hreyft athugasemdum fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2005.

Með hliðsjón af því hvernig áfrýjandi óskaði eftir að uppgjöri yrði hagað við sig á árinu 1999 og með tómlæti hans í framhaldi af því verður hann talinn bundinn af samkomulaginu 22. maí 1998 sem kom í stað upphaflegs samnings um eftirlaun hans frá 7. október 1985. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2012.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 6. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hermanni Þorsteinssyni, kt. [...], Espigerði 2, Reykjavík, með stefnu, birtri 5. marz 2012, á hendur Stöfum lífeyrissjóði, kt. [...], Stórhöfða 31, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 41.550.099, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 13.056.742 frá 31. desember 2008 til 31. desember 2009, af kr. 22.442.367 frá þeim degi til 31. desember 2010, af kr. 31.825.206 frá þeim degi til 31. desember 2011 og af kr. 41.550.099 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

         Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Málavextir

Stefnandi starfaði í um 50 ár hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, SÍS. Síðustu 25 árin starfaði hann sem framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins. Hann lét af störfum þann 7. október árið 1985. Við starfslok stefnanda gerði Samvinnulífeyrissjóðurinn eftirlaunasamning við hann þar sem sagði í 3. gr., að eftirlaun skyldu verða 90% af mánaðarlaunum framkvæmdastjóra Sambandsins, eins og þau væru á hverjum tíma.

         Árið 2005 var Samvinnulífeyrissjóðurinn sameinaður Lífeyrissjóðnum Lífiðn og var nafni hins nýja lífeyrissjóðs gefið nafnið Stafir lífeyrissjóður og hefur starfað undir því nafni síðan.

         Eftirlaunagreiðslur samkvæmt samningi aðila hófust í janúarmánuði 1987. Fljótlega eftir það gerði stefnandi athugasemdir við fjárhæð eftirlauna og voru þau leiðrétt í kjölfarið. Nokkur næstu árin kvartaði stefnandi kvartaði undan þeim greiðslum, sem honum voru greiddar, og taldi þær ekki vera í samræmi við eftirlaunasamninginn.

         Þann 22. maí 1998 kveður stefnandi stjórn Samvinnulífeyrissjóðsins hafa ákveðið einhliða að breyta eftirlaunasamningnum með skjali nefndu „Samkomulag um eftirlaunaréttindi Hermanns Þorsteinssonar“. Það skjal var undirritað af þáverandi stjórnarmönnum Samvinnulífeyrissjóðsins, þeim Gunnari Birgissyni, Geir Magnússyni og Guðbrandi Guðbrandssyni, en án undirritunar stefnanda. Í þessu skjali var kveðið á um tiltekin eftirlaunakjör, sem að mati stefnanda voru mun lakari kjör en um hafði verið samið í upphaflega eftirlaunasamningnum. Þar kom m.a. fram að greiðslur til stefnanda skyldu miðast við tiltekna mánaðargreiðslu, en ekki tiltekinn hundraðshluta launa framkvæmdastjóra Sambandsins, eins og áður hafði verið. Stjórnin boðaði stefnanda til fundar vegna þessa um vorið 1998. Stefnandi kveðst hafa mætt á fundinn en ekki verið tilbúinn til að samþykkja þessa breytingu, hvorki þá né síðar.

         Þann 29. maí 1998 sendi stefnandi bréf til framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins þar sem hann óskaði m.a. eftir útreikningum frá stefnda sem sýndu, hvernig eftirlaun hans yrðu, ef miðað væri við laun framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs aðila, með það í huga að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig reikna skyldi út eftirlaun hans. Þar sem Samband íslenzkra samvinnufélaga var að mestu liðið undir lok á þessum tíma lagði hann til, að miðað yrði við laun framkvæmdastjóra Sambandsins.

         Í júní sama ár, sendi stefnandi enn bréf með athugasemdum um eftirlaun sín.

         Þann 23. júlí 1999 sendi stefnandi aftur bréf til framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins, þar sem hann áréttaði fyrri beiðni sína um nýjan útreikning og yfirlit yfir eftirlaunagreiðslur sínar frá byrjun, sem skyldi vera þannig:

1.      1987, jan. Fyrsta greiðsla, kr. 118.929, þ.e. 90% af fullum launum framkvæmdastjóra, sem í des´86 voru 132.144 (sbr. ljósrit). Breytingar fylgi síðan vísitölu launa, febr, marz o.s. frv, 1988, 1989, 1990 o.s.frv. 1999, maí er upphæðin kr. 319.994 skv. útreikn. Hagstofu.

2.      Annað yfirlit fylgi þessu um raunverulegar, mánaðarlegar greiðslur á sama tímabili.

3.      Yfirlit greiðslna eftirlauna frá 1/1 ´98, kr. 340.000 pr. mán., og þróun þeirra síðan skv. launavísitölu.

         Í bréfinu áréttar stefnandi jafnframt fyrri kröfu sína um, að útreikningur eftirlauna hans verði leiðréttur aftur í tímann fram til ársins 1999 þannig að útreikningur verði í samræmi við ákvæði eftirlaunasamningsins frá 1985. Þann 18. ágúst 1999 sendi þáverandi framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins bréf til stefnanda með yfirliti yfir greiðslur til hans vegna eftirlauna, ásamt leiðréttingum á útreikningi greiðslna á tímabilinu frá upphafi eftirlaunagreiðslna til ársins 1999. Í framhaldi af því boðaði framkvæmdastjóri stefnanda á fund þann 15. október 1999. Stefnandi mætti ekki á þann fund, en sendi símskeyti til framkvæmdastjóra þann 19. október s.á., þar sem hann áréttar enn beiðni um að fá sendan umbeðinn útreikning á eftirlaunum sínum með mánaðarlegum hækkunum samkvæmt launavísitölu, miðað við launin í janúar 1987.

         Þann 11. nóvember 1999 sendi stefnandi enn bréf til þáverandi framkvæmdastjóra stefnda þar sem fram kemur, að hann átti sig ekki alveg á útreikningi stefnda, en samþykkir útreikninginn, með fyrirvara um hugsanlegar leiðréttingar, og biður um að launaleiðréttingin verði millifærð á bankareikning hans í Landsbanka Íslands „strax á morgun“.

         Í kjölfar framangreindra samskipta stefnanda og stefnda fór fram uppgjör við stefnanda og leiðrétting á eftirlaunagreiðslum til hans vegna áranna 1987 – 1999.

         Stefnandi kveðst hafa talið, að eftirlaunagreiðslur hans hefðu ekki verið í samræmi við ákvæði eftirlaunasamnings hans, hvorki fyrir né eftir þá leiðréttingu, sem hann fékk árið 1999. Þann 11. maí 2007 sendi lögmaður stefnanda bréf til stefnda, þar sem gerð er krafa um leiðréttingu eftirlauna hans til samræmis við ákvæði eftirlaunasamningsins. Svar barst þann 5. júlí 2007 þar sem hafnað er kröfum hans, og vísað til þess, að fyrir liggi gögn, sem staðfesti aðkomu hans að gerð samkomulags frá árinu 1998 vegna breytingar á eftirlaunasamningnum. Fleiri bréf gengu á milli lögmanna á árinu 2007 og 2008, en ekkert samkomulag varð á milli aðila. Þann 7. apríl 2009 þingfesti stefnandi mál á hendur stefnda til viðurkenningar á því, að hann ætti rétt til 90% launa stjórnanda, sem gegni sambærilegri stöðu og laun framkvæmdastjóra SÍS voru við gerð eftirlaunasamningsins. Stefnandi ákvað að fella málið niður þann 17. september 2009.

         Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda eftirlaun í samræmi við efni eftirlaunasamningsins allt frá árinu 1987. Frá þeim tíma, er stefnandi hóf töku lífeyris og næstu ár á eftir, hafi dregið verulega úr starfsemi Sambands íslenzkra samvinnufélaga og hafi fyrirtækið hætt atvinnustarfsemi á árinu 1992. Kveður stefndi, að frá því tímamarki hafi verið brostnar þær forsendur, er lágu til grundvallar viðmiði varðandi eftirlaun stefnanda. Hafi stefndi því greitt stefnanda eftirlaun, sem tóku nú breytingum til samræmis við breytingar á lánskjaravísitölu.

         Stefndi kveður ósk um leiðréttingar í kjölfar bréfs stefnanda frá 11. nóvember 1999 aldrei hafa borizt sér og hafi stefnandi ekki haft uppi kröfur um frekari leiðréttingu á eftirlaunum sínum fyrr en árið 2007.

         Snýst ágreiningur aðila um, hvernig reikna skuli eftirlaun stefnanda.

III

Málsástæður stefnanda

         Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á meginreglu kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga. Samningurinn, sem gerður hafi verið árið 1985 um eftirlaun stefnanda, sé skuldbindandi fyrir stefnda.

         Stefnandi hafi starfað allan sinn starfsaldur hjá SÍS, sem hafi verið stórveldi hér á landi mestan hluta tuttugustu aldarinnar. Sá samningur, sem gerður hafi verið við stefnanda við starfslok, beri þess merki, að stefnandi hafi verið Sambandinu afar mikilvægur. Þar segi, að eftirlaun hans skuli nema 90% af mánaðarlaunum framkvæmdastjóra Sambandsins „eins og þau eru á hverjum tíma“. Þegar samningurinn var gerður, hafi ekki verið gert ráð fyrir, að Samband íslenskra samvinnufélaga gæti nokkru sinni fallið sem stórveldi hér á landi. Það hafi verið gert ráð fyrir, að eftirlaun stefnanda skyldu vera vegleg. Ekkert fyrirtæki myndi gera slíkan samning nema við yfirmann, sem fyrirtækið eigi mikið að þakka. Framkvæmdastjóri Sambandsins hafi verið æðsti maður þessa stóra fyrirtækis, og skyldu eftirlaun stefnanda reiknuð út frá launum hans. Sambandið hafi séð um rekstur fjölda verzlunar- og þjónustufyrirtækja, auk flutningafyrirtækis, og hafi starfsmenn Sambandsins verið gríðarlega margir. Allir þeir starfsmenn hafi greitt í Samvinnulífeyrissjóðinn, sem stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri fyrir. Það hafi verið stór lífeyrissjóður.

         Samningurinn, sem gerður hafi verið við stefnanda, hafi ekki verið frábrugðinn því, sem tíðkazt hafi á þeim tíma, þegar yfirmenn íslenzkra fyrirtækja hættu störfum fyrir aldurs sakir, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/1990. Ástæða þess, að slíkir samningar voru gerðir, hafi verið sú að tryggja þessum mönnum launagreiðslur til að kjör þeirra, sem hafi verið góð á meðan þeir voru starfandi, yrðu áfram góð. Með því hafi fyrirtækið verið að launa mönnum ævistarf þeirra í þágu fyrirtækisins. Stjórnarmenn Samvinnulífeyrissjóðsins hafi vitað nákvæmlega, hvað þeir hafi verið að skrifa undir, þegar þeir gerðu eftirlaunasamninginn við stefnanda, að eigin frumkvæði, eins og stefnandi lýsi í ofannefndu bréfi sínu, dagsettu þann 29. desember 2005.

         Breytinguna, sem stefndi haldi fram, að hafi verið gerð á eftirlaunasamningi stefnanda árið 1998, hafi stjórnin gert einhliða og án samþykkis stefnanda. Stefndi hafi ekki undir neinum kringumstæðum haft heimild til að breyta framkvæmd eftirlaunasamningsins þannig einhliða og án samþykkis stefnanda. Til þess að breyting á samningi teljist vera breyting, þurfi allir aðilar samnings að samþykkja hana. „Einhliða“ breyting sé einfaldlega ekki breyting á samningi.

         Stefnandi hafi margítrekað sett fram athugasemdir sínar og kröfur um leiðréttingu eftirlaunagreiðslna sinna, allt frá árinu 1999, eftir að hann hafi fengið leiðréttingu síðast, án nokkurs árangurs. Stefndi hafi valið þá leið að horfa fram hjá mótmælum stefnanda, og hvorki rætt við hann né lögmann hans, eða gert nokkuð til að ná samkomulagi við stefnanda um framkvæmd samningsins. Stefndi hafi „skammtað“ stefnanda eftirlaunagreiðslur í gegnum árin, eftir því sem talið hafi verið hagstæðast lífeyrissjóðnum hverju sinni.

         Hér á landi sé ekkert fyrirtæki til, sem sé jafnstórt og Samband íslenskra samvinnufélaga hafi verið, þegar eftirlaunasamningurinn var gerður við stefnanda árið 1985. Það séu því ekki til staðar neinar viðmiðunarlaunagreiðslur til að reikna út réttindi stefnanda. Stefndi sé lífeyrissjóður, sem hafi tekið við varðveizlu og ávöxtun þess fjár, sem hafi verið í Samvinnulífeyrissjóðnum, sem stefnandi hafi starfað við í 25 ár. Samband íslenzkra samvinnufélaga, SÍS, hafi liðið undir lok löngu eftir að stefnandi hætti störfum sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins, en lífeyrissjóðurinn hafi lifað áfram. Hann hafi orðið að Stöfum lífeyrissjóði, eins og fyrr greini. Eins og komi fram í ársskýrslu stefnda 2006 hafi Samvinnulífeyrissjóðurinn, ásamt öðrum lífeyrissjóði, orðið að stefnda. Á grundvelli þess sé kröfu stefnanda beint að stefnda.

         Í máli þessu geri stefnandi hins vegar kröfu um, að honum verði greidd eftirlaun, sambærileg við laun framkvæmdastjóra stefnda, og telji stefnandi það eðlilega viðmiðun, þar sem Sambandið sé ekki lengur til. Stefnandi geri kröfu um, að stefndi standi við eftirlaunasamning Samvinnulífeyrissjóðsins við hann, með því að honum verði greidd eftirlaun eins og krafizt sé. 

         Stefnandi hafi látið í ljós óánægju sína vegna eftirlaunagreiðslna til sín, allar götur frá árinu 1987. Stefndi hafi gert leiðréttingar árið 1999, en eftir það hafi hann leyft sér að hlusta ekki á kvartanir stefnanda. Þeir hafi lokað eyrum sínum fyrir þessum kvörtunum. Stefnandi hafi þingfest stefnu gegn stefnda á árinu 2009, þar sem gerð hafi verið krafa um, að viðurkennt væri, að eftirlaunagreiðslur til hans skyldu vera eins og orðalag eftirlaunasamningsins kvað á um. Hann hafi hins vegar ákveðið að fella það mál niður vegna persónulegra ástæðna. Nokkrum dögum eftir að hann felldi niður málið í héraðsdómi, hafi hann fengið sent bréf frá framkvæmdastjóra stefnda, þar sem honum hafi verið tilkynnt um 6% lækkun á „lífeyrisgreiðslum“ hans. Frá árinu 2009 hafi eftirlaunagreiðslur til stefnanda haldið áfram að lækka með einhliða ákvörðun stefnda. Stefnandi geri kröfu um leiðréttingu eftirlaunagreiðslna til sín síðastliðin fjögur ár, eins og sundurliðað sé í kafla um málavexti. Ástæða þess, að stefnandi geri ekki kröfu lengra aftur í tímann séu ákvæði 3. gr. fyrningalaga nr. 150/2007. Krafa stefnanda sé byggð á því, að miðað verði við launakjör framkvæmdastjóra stefnda, enda telji stefnandi það eðlilega viðmiðun, þar sem Samband íslenzkra samvinnufélaga sé ekki lengur til.

         Stefnandi geri kröfu í máli þessu um, að eftirlaunagreiðslur til hans verði leiðréttar fjögur ár aftur í tímann og að viðurkennt verði, að miða skuli greiðslur til hans við laun framkvæmdastjóra stefnda.

         Samkvæmt ársskýrslum stefnda, sem birtar séu á vef sjóðsins, hafi heildarlaun framkvæmdastjóra stefnda verið eftirfarandi, s.l. ár:

-          2007              kr. 19.048.011

-          2008              kr. 20.042.677

-          2009              kr. 17.236.680

-          2010              kr. 17.216.013

         Við gerð stefnu liggi ársskýrsla stefnda vegna ársins 2011 ekki fyrir á vef, en í kröfugerð sé gert ráð fyrir sömu árstekjum hjá framkvæmdastjóranum árið 2011 og árið 2010. Sé eftirfarandi útreikningur í samræmi við það.

         Greiðslur til stefnanda á sama tímabili hafi hins vegar verið eftirfarandi:

-          2007              kr. 6.852.851

-          2008              kr. 6.985.935

-          2009              kr. 7.851.055

-          2010              kr. 7.833.174

-          2011              kr. 7.491.120

         Stefnandi geri kröfu um að fá leiðréttingu þannig að viðurkennt verði, að eftirlaunagreiðslur til hans eigi að miða við laun framkvæmdastjóra stefnda, sem er sá lífeyrissjóður, sem hafi tekið við af þeim lífeyrissjóði, sem stefnandi starfaði fyrir. Gerð sé krafa um greiðslu á mismun fjárhæðar, sem nemi heildarlaunum framkvæmdastjóra stefnda og þeim heildargreiðslum, sem stefnandi hafi fengið á tímabilinu:

         Vegna 2008:              20.042.677 – 6.985.935 =                kr.           13.056.742

         Vegna 2009:              17.236.680 – 7.851.055 =                kr.             9.385.625

         Vegna 2010:              17.216.013 – 7.833.174 =                kr.             9.382.839

         Vegna 2011:              17.216.013 – 7.491.120 =                kr.             9.724.893

                                                               Samtals                 kr.           41.550.099

         Gerð sé krafa vegna hvers árs í einu, þ.e. miðað við heildartekjur hvers árs. Gerð sé krafa um greiðslu dráttarvaxta frá 31. desember ár hvert.

         Vísað sé til meginreglna kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og reglna samningaréttarins um túlkun samninga. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

         Stefndi byggir sýknukröfu sína á þeirri meginmálsástæðu, að hann hafi að fullu og öllu leyti efnt skyldur sínar gagnvart stefnanda samkvæmt eftirlaunasamningi frá 1987.

         Í kjölfar þess, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hafi hætt allri starfsemi, hafi forsendur, sem lagðar voru til grundvallar eftirlaunasamningi stefnanda, brostið. Því hafi verið óhjákvæmilegt að finna lífeyri stefnanda annað viðmið. Stefnandi hafi sjálfur óskað endurskoðunar á viðmiði lífeyris og lagt fram tillögur og kröfur um breytingar, sem stefndi hafi fallizt efnislega á. Um íhlutun og afskipti stefnanda nægi að benda á bréf, dags. 23. júlí 1999, en í því komi fram kröfur stefnanda um breytingar á viðmiði eftirlauna, dskj. nr. 8. Efnislega verði bréfið ekki túlkað öðruvísi en svo, að stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að, og komið með beinum hætti að, endurskoðun eftirlauna. Í því samhengi sé áherzla lögð á, að stefndi hafi að öllu leyti fallizt á þær forsendur, sem stefnandi hafi lagt til grundvallar nýjum útreikningi eftirlauna. Stefndi bendi á, að sé útreikningur stefnanda borinn saman við efni samkomulags um eftirlaunaréttindi stefnanda frá 22. maí 1998 og útreikninga á leiðréttingu eftirlauna, sbr. dskj. nr. 9, megi sjá, að um efnislega samhljóða niðurstöðu sé að ræða. Nánar sé á því byggt, að með vilja og vitund beggja aðila hafi samkomulag um eftirlaunaréttindi stefnanda öðlazt gildi, og samhliða hafi samkomulag um tilhögun og útfærslu eftirlauna stefnanda frá 1985 fallið úr gildi.

         Stefndi telji engu breyta um gildi og þýðingu samkomulags, þótt undirritun stefnanda hafi vantað á skjalið. Stefndi telji að leggja beri til grundvallar, að stefnandi hafi, með aðgerðum sínum og háttalagi í tengslum við meðferð og afgreiðslu máls, fallizt á breytingar á viðmiði eftirlauna og samkomulagi um eftirlaun. Raunar hafi vilji stefnanda verið mjög einbeittur. Fyrir liggi, að hann hafi átt frumkvæði að viðræðum, lagt fram kröfur og tekið við útreikningum, sem hafi falið í sér nánari útfærslu viðmiðs eftirlauna. Að auki hafi hann í bréfi, dags. 11. nóvember 1999, gert kröfu um greiðslu samkvæmt uppgjöri. Greiðsla hafi átt sér stað í nóvembermánuði 1999 og allt frá þeim tíma hafi stefnandi aldrei haft uppi kröfur, mótmæli eða fyrirvara varðandi eftirlaun eða viðmið eftirlauna. Stefndi byggi á því, að samkvæmt framansögðu hafi komizt á samningur eða samningsígildi á milli stefnanda og stefnda. Jafnvel þótt svo yrði talið, að undirritun stefnanda undir samkomulag væri forsenda gildistöku, beri í þessu tilviki að líta til þess, að efni þess, sem stefnanda hafi verið kunnugt um frá upphafi, hafi verið lagt til grundvallar eftirlaunagreiðslum frá árinu 1999, án athugasemda eða andmæla af hans hálfu. Þar sem stefndi hafi að öllu leyti uppfyllt samningsskyldur gagnvart stefnanda beri að sýkna hann af öllum kröfum hans. Framangreindu til viðbótar byggi stefndi á því, að stefnandi hafi með tómlæti og aðgerðarleysi glatað rétti til að halda fram kröfum, sem greini í máli þessu. Stefnandi hafi hafið töku eftirlauna í janúarmánuði 1987, og síðari breytingar, sem gerðar hafi verið á eftirlaunagreiðslum, hafi komið til framkvæmda í nóvembermánuði 1999. Stefnandi hafi engum mótmælum eða fyrirvörum hreyft, hvorki upphaflega né síðar og hafi því, með háttalagi sínu, tómlæti og aðgerðarleysi, glatað mögulegum rétti til að krefjast endurskoðunar eða leiðréttingar. Stefnandi hafi móttekið eftirlaunagreiðslur athugasemdalaust allan tímann og án nokkurs fyrirvara.

         Verði ekki á framangreind sjónarmið fallizt, byggi stefndi sýknukröfu sína á því, að honum hafi verið heimilt að breyta einhliða forsendum og viðmiði eftirlaunasamnings stefnanda. Í því sambandi byggi stefndi á því, að upphaflegur gerningur á milli aðila, dags. 7. október 1985, hafi einungis verið undirritaður af stefnda. Stefnandi hafi ekki undirritað samkomulagið. Við breytingar á forsendum og viðmiði eftirlaunasamnings hafi sami háttur verið hafður á, þ.e. samningur hafi einungis verið undirritaður af stefnda. Byggi stefndi á því, að efni eftirlaunasamnings hafi falið í sér miklu betri og ríkari rétt stefnanda til handa en hann hafi átt rétt til samkvæmt lögum og samþykktum stefnda, en stefnandi hafi greitt iðgjöld í þann sjóð. Í eftirlaunasamningum hafi því falizt einhliða ákvörðun stefnda um tiltekin betri rétt stefnanda til handa. Stefnda hafi að fullu og öllu leyti verið heimilt að breyta forsendum og viðmiði eftirlaunasamnings með síðari ákvörðun, sem fram hafi komið á árinu 1999, enda hafi sú breyting verið gerð með sama hætti og upphafleg ákvörðun um eftirlaunarétt stefnanda.

         Þá byggi stefndi á því, að miðað við framsetningu kröfugerðar stefnanda sé honum í raun ómögulegt að efna skyldur samkvæmt henni. Helgist það fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að allar forsendur, sem lagðar hafi verið til grundvallar upphaflegs samkomulags varðandi eftirlaunagreiðslur til handa stefnanda, séu brostnar. Eftir standi sú óhagganlega staðreynd, að aðilar hafi, um margra ára skeið, lagt til grundvallar í lögskiptum sínum ákvæði nýs samkomulags um eftirlaunarétt stefnanda.

         Loks byggi stefndi á því, að viðmið útreiknings eftirlauna, eins og kröfugerð í máli þessu byggi á, geti ekki átt við í því tilviki, sem hér um ræði. Stefnandi krefjist þess, að útreikningur eftirlauna taki mið af launum framkvæmdastjóra stefnda, þ.e.a.s. að viðmið fari samkvæmt eftirmannsreglu. Stefndi telji útilokað að leggja eftirmannsreglu til grundvallar í málinu, þegar af þeirri ástæðu að reglan eigi ekki við um aðstöðu stefnanda. Stefndi byggi á því, að starf það, sem eftirlaun stefnanda miðuðust við, sé á engan hátt sambærilegt að eðli, umfangi eða ábyrgð starfi framkvæmdastjóra stefnda. Beri því að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.     Stefndi vísi til meginreglna kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga sem og meginreglna samningaréttar. Þá vísi stefnandi til laga nr. 129/1999 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Krafa um málskostnað byggi á ákvæði 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum laga nr. 50/1998. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

IV

Forsendur og niðurstaða

         Skýrslu fyrir dómi gáfu eiginkona stefnanda, Helga Rakel Stefnisdóttir, Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri stefnda, og Margeir Rúnar Daníelsson, sem var framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins.

         Ágreiningur aðila snýst um eftirlaunagreiðslur til stefnanda, en aðilar eru sammála um, að þegar Sambandið hætti starfsemi, hafi þurft að finna ný viðmið fyrir eftirlaun hans. Með bréfi sínu til framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins hinn 23. júní 1999 óskaði stefnandi eftir útreikningi og yfirliti yfir eftirlaunagreiðslur sínar frá upphafi að teknu tilliti til ákveðinna forsendna, sem fram komu í bréfinu. Stefndi varð við þessari beiðni. Með bréfi sínu hinn 11. nóvember 1999 samþykkti stefnandi útreikning stefnda, með fyrirvara um hugsanlegar leiðréttingar, en hann kvaðst ekki átta sig fyllilega á útreikningunum. Jafnframt óskaði hann eftir því, að launaleiðréttingin yrði millifærð á bankareikning sinn strax næsta dag. Í kjölfar þessa greiddi stefndi kr. 8.083.262 inn á reikning stefnanda, samkvæmt hinum nýja launaútreikningi, og kr. 2.906.157 í vexti.

         Þrátt fyrir fyrirvara í bréfi sínu um hugsanlegar leiðréttingar, liggur ekki fyrir, að fram hafi komið athugasemdir af hálfu stefnanda við þessa nýju útreikninga, fyrr en á árinu 2007. Verður því að líta svo á, að stefnandi hafi fallizt á þá úrreikninga og viðmið, sem eftirlaun hans voru byggð á frá árinu 1999. Allar frekari athugasemdir og kröfur, sem fyrst komu fram átta árum síðar, eru fallnar niður fyrir tómlæti og ber þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

         Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 600.000, þar með talinn virðisaukaskattur.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

         Stefndi, Stafir lífeyrissjóður, er sýkn af kröfum stefnanda, Hermanns Þorsteinssonar.

         Stefnandi greiði stefnda kr. 600.000 í málskostnað.