Print

Mál nr. 390/2010

Lykilorð
  • Stéttarfélag
  • Félagafrelsi
  • Félagsgjöld
  • Kjarasamningur

Fimmtudaginn 31. mars 2011.

Nr. 390/2010.

Jóhann Gunnarsson og

Brim hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

(Eiríkur Gunnsteinsson hdl.)

gegn

Félagi skipstjórnarmanna

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

(Þórhallur H. Þorvaldsson hdl.)

Stéttarfélag. Félagafrelsi. Félagsgjöld. Kjarasamningur.

F höfðaði mál gegn J og B hf. og krafðist greiðslu vinnuréttindagjalda samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum FÍ og LÍÚ vegna starfa J hjá ÚS ehf. og síðar B hf. Hæstiréttur féllst ekki á aðalkröfu J og B hf. um að málinu yrði vísað frá dómi en krafan var studd þeim rökum að efnisdómur hefði verið felldur um kröfuna í dómi Hæstaréttar í máli nr. 231/2008 og að annmarkar hefðu verið á héraðsdómsstefnu.  Krafa F varðaði störf J sem skipstjóra hjá ÚS ehf. á tímabilinu frá 20. september 2004 til 8. júní 2006 annars vegar en hins vegar  störf hans sem skipstjóri fyrir B hf. á tímabilinu frá 8. júní 2006 til 28. febrúar 2008. ÚS ehf. og B hf. sameinuðust 8. júní 2006. Á hvorugu þessara tímabila var J félagsmaður í F né öðru stéttarfélagi. Á meðan J starfaði fyrir ÚS ehf. stóð félagið utan samtaka vinnuveitenda. Vegna fyrra umræddra tímabila var talið að greiðsluskylda hvíldi hvorki á J né ÚS ehf., enda höfðu hvorugt þeirra verið aðilar að kjarasamningum FÍ og LÍÚ. Ekki var fallist á með F að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda hvíldi  greiðsluskylda á atvinnurekendum sem stæðu utan kjarasamninga til að halda eftir iðgjaldi til stéttarfélags. Hefði ÚS ehf. því ekki verið skylt samkvæmt því lagaákvæði að greiða vinnuréttindagjald til F. Varðandi síðara tímabilið var J með sömu rökum sýknaður af kröfu F. Þar sem B hf. hafði þá verið í LÍÚ var talið að B hf. hefði borið að standa F skil á vinnuréttindagjaldi vegna starfa J samkvæmt kjarasamningi FÍ og LÍÚ og þá án tillits til þess hvort skylda til að greiða gjaldið hvíldi á J sjálfum. Var því fallist á kröfu F vegna greiðslu vinnuréttindagjalda fyrir tímabilið 8. júní 2006 til 28. febrúar 2008.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu að fengnu áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 18. júní 2010 og krefjast aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandinn Brim hf. að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 76.400 krónur og falli þá málskostnaður niður í héraði, en sér verði dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. mars 2007 gegn áfrýjandanum Brimi hf. einum til greiðslu vinnuréttindagjalda samkvæmt grein 1.34. í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 30. október 2004 og sambærilegu ákvæði eldri kjarasamnings vegna ófélagsbundinna skipstjórnarmanna í þjónustu áfrýjandans á tímabilinu 20. september 2004 til 28. febrúar 2007. Krafan var tekin til greina í dómi 29. janúar 2008, sem áfrýjað var til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 16. október sama ár í máli nr. 231/2008 var málinu vísað frá héraðsdómi sökum þess að dómur yrði ekki felldur á það án þess að skipstjórnarmönnunum, sem krafist var greiðslu vinnuréttindagjalda fyrir, væri gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Í framhaldi af því höfðaði stefndi mál þetta með stefnu 28. nóvember 2008 og beindi því að áfrýjandanum Brimi hf. ásamt áfrýjandanum Jóhanni Gunnarssyni, sem mun hafa starfað sem skipstjóri á fiskiskipum í eigu fyrrnefnda áfrýjandans, Sólbaki EA 7 frá 20. september 2004 til 21. september 2006 og Harðbaki EA 3 frá þeim tíma til 28. febrúar 2007.

Ágreiningur aðilanna lýtur að kröfu stefnda um greiðslu vinnuréttindagjalds vegna áfrýjandans Jóhanns, sem frá 16. september 2004 mun hvorki hafa verið félagsmaður í stefnda né öðru stéttarfélagi, en í málinu er skipt í tvennt tímabilinu, sem hann starfaði sem skipstjóri á fyrrnefndum skipum. Fyrri hluti þess er frá 20. september 2004 til 8. júní 2006 þegar skipið Sólbakur var gert út af Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., sem mun hafa verið í eigu áfrýjandans Brims hf. og staðið utan samtaka vinnuveitenda, en gjaldið sem stefndi krefur vegna þess tíma nemur 140.800 krónum. Síðari hluti tímabilsins er frá síðastgreindum degi til 28. febrúar 2007 þegar áfrýjandinn Brim hf., sem mun vera í Landssambandi íslenskra útvegsmanna, gerði út skipin Sólbak og Harðbak, en gjaldið vegna þess nemur 76.400 krónum.

Áfrýjendur kröfðust þess í héraði að málinu yrði vísað frá dómi, áfrýjandinn Jóhann með því að málatilbúnaður í stefnu bryti gegn fyrirmælum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en áfrýjandinn Brim hf. með vísan til þess að í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hafi í máli milli sín og stefnda um sama sakarefni verið komist að þeirri niðurstöðu að greiðsluskylda hans yrði ekki reist á samningi og væri höfðun þessa máls því andstæð 2. mgr. 116. gr. sömu laga. Héraðsdómur hafnaði að vísa málinu frá með úrskurði 15. júní 2009, en aðalkrafa áfrýjenda hér fyrir dómi er reist á sömu ástæðum. Þótt fallast megi á með áfrýjandanum Jóhanni að annmarkar séu á héraðsdómsstefnu, svo og að stefndi hafi lagt fram í málinu gögn, sem ekki hefði verið þörf á, eru þeir gallar á málatilbúnaði stefnda ekki slíkir að efni séu nú til að vísa því frá héraðsdómi. Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar var efnisdómur ekki felldur á kröfuna, sem stefndi gerir í máli þessu, heldur var fyrra máli hans á hendur áfrýjandanum Brimi hf. vísað frá héraðsdómi. Þegar af þeim sökum stendur 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi að leyst verði úr máli þessu að efni til. Aðalkröfu áfrýjenda verður því hafnað.

II

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi reisir stefndi málatilbúnað sinn á því að heimilt sé að krefjast greiðslu vinnuréttindagjalds á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna úr hendi skipstjórnarmanna þótt þeir standi utan stéttarfélaga, en í málinu er ekki ágreiningur um að gjald þetta sé jafnhátt félagsgjaldi þeirra, sem eru félagsmenn í stefnda. Eins og rakið hefur verið er krafan fyrir tvö aðskilin tímabil, annars vegar frá 20. september 2004 til 8. júní 2006 og hins vegar frá þeim degi til 28. febrúar 2007.

Á fyrra tímabilinu gerði Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. út skipið, sem áfrýjandinn Jóhann starfaði þá á, en það félag, sem mun hafa verið sameinað áfrýjandanum Brimi hf. 8. júní 2006, var ekki í samtökum vinnuveitenda. Þar sem hvorki áfrýjandinn Jóhann né Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. voru aðilar að fyrrgreindum kjarasamningi verður greiðsluskylda áfrýjenda ekki reist á honum einum. Stefndi telur að stoð verði einnig fundin fyrir þeirri skyldu áfrýjenda í lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og vísar til 1. gr. og 6. gr. laganna. Í hvorugri þeirra er mælt fyrir um skyldu launþega, sem stendur utan stéttarfélaga, til að greiða félagsgjald eða fjárhæð, sem til þess svarar, til stéttarfélags í starfsgrein sinni. Að því er varðar kröfu vegna þessa tímabils á hendur áfrýjandanum Brimi hf., sem ber vegna samruna ábyrgð á skuldbindingum Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., er til þess að líta að 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, eins og hún hljóðaði þegar atvik málsins gerðust, sagði að öllum atvinnurekendum væri skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélags iðgjöld, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semdu um hverju sinni. Í 2. mgr. sömu lagagreinar var þá eins og nú mælt fyrir um skyldu atvinnurekanda til að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greini. Af samanburði á orðalagi þessara tveggja málsgreina verður ekki annað ráðið en að greiðsluskylda samkvæmt þeirri fyrri hvíli á öllum atvinnurekendum, en samkvæmt þeirri síðari eingöngu á atvinnurekendum, sem eru aðilar að kjarasamningum, annaðhvort beint eða vegna aðildar að samtökum vinnuveitenda. Af þessum sökum var Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf. ekki skylt samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 að greiða vegna áfrýjandans Jóhanns vinnuréttindagjald til stefnda. Áfrýjendur verða því báðir sýknaðir af kröfu stefnda að því leyti, sem hún snýr að fyrra tímabilinu.

Að því er varðar seinna tímabilið standa sömu atriði og að framan greinir því í vegi að stefndi geti krafist vinnuréttindagjalds úr hendi áfrýjandans Jóhanns, sem verður þannig sýknaður með öllu af kröfu stefnda. Á hinn bóginn er óumdeilt að áfrýjandinn Brim hf. hafi á þessum tíma verið í Landssambandi íslenskra útvegsmanna og var hann því bundinn af fyrrgreindum kjarasamningi þess við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, sem stefndi er aðili að. Í 1. mgr. greinar 1.34. í þeim samningi segir að útgerðarmönnum sé skylt að halda eftir af kaupi yfirmanna sem hjá þeim starfa fjárhæð, sem nemur félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan farmanna- og fiskimannasambandsins, en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar ber útgerðarmanni að standa skil á slíkum gjöldum samhliða greiðslum til styrktar-, sjúkra- og orlofsheimilasjóða. Eftir þessum ákvæðum kjarasamningsins var áfrýjandanum Brimi hf. skylt að standa stefnda skil á vinnuréttindagjaldi vegna áfrýjandans Jóhanns fyrir tímabilið frá 9. júní 2006 til 28. febrúar 2007 án tillits til þess hvort skylda til að greiða það hvíldi á síðarnefnda áfrýjandanum. Ekki er ágreiningur um að vinnuréttindagjald vegna áfrýjandans Jóhanns hafi á þessu tímabili numið 76.400 krónum og verður áfrýjandanum Brimi hf. því gert að greiða stefnda þá fjárhæð með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjandanum Jóhanni málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og segir í dómsorði, en að öðru leyti er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandinn Jóhann Gunnarsson er sýkn af kröfu stefnda, Félags skipstjórnarmanna.

Áfrýjandinn Brim hf. greiði stefnda 76.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. desember 2008 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjandanum Jóhanni samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 24. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi, var endurupptekið og flutt að nýju hinn 17. febrúar og dómtekið að nýju.  Málið var höfðað fyrir dómþinginu af Félagi skipstjórnarmanna, Grensásvegi 13, Reykjavík, á hendur Brimi hf., Tryggvagötu 11, Reykjavík og Jóhanni Gunnarssyni, Skálabrekku 11, Húsavík, með stefnu þingfestri 4. desember 2008.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda 217.200 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 4. desember 2008 til greiðsludags. 

Til vara, að stefndi, Brim hf., verði einn dæmdur til að greiða stefnanda 217.200 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. desember 2008 til greiðsludags.

Til þrautavara, að stefndi, Jóhann Gunnarsson, verði einn dæmdur til að greiða stefnanda 217.200 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 4. desember 2008 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda, Brims hf., eru aðallega þær, að málinu verði vísað frá dómi og stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað, en til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.  Til þrautavara krefst stefndi, Brim hf., þess að dómkröfur verði lækkaðar verulega og hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

Dómkröfur, stefnda, Jóhanns Gunnarssonar, eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Með úrskurði dagsettum 15. júní 2009, var frávísunarkröfum stefndu hafnað.

II

Málavextir eru þeir, að hinn 16. september 2004 sagði stefndi, Jóhann, sem þá var skipstjóri á Sólbaki EA 7 sig skriflega úr stéttarfélagi sínu, Félagi skipstjórnar-manna.  Tveir aðrir skipstjórnarmenn skipsins sögðu sig munnlega úr félaginu í kjölfarið.  Daginn eftir stofnaði stefndi, Brim hf., Útgerðarfélagið Sólbak ehf. sem var ekki aðili að Landssambandi íslenskra útvegsmanna.  Hinn 20. september sama ár leigði stefndi, Brim hf., hinu nýstofnaða félagi skip sitt Sólbak EA-7.  Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. gerði í framhaldinu ráðningarsamninga við skipverja.  Hinn 8. júní 2006 er Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. sameinað stefnda, Brimi hf.  Stefndi, Brim hf., á og gerir út b.v. Harðbak EA-3.  Er stefnandi stéttarfélag skipstjórnarmanna.  Stefndi, Jóhann Gunnarsson, starfaði sem skipstjóri á báðum þessum skipum, þ.e. Sólbaki EA-7 til 21. september 2006, en frá þeim tíma var hann skipstjóri á Harðbaki EA 3. 

Með bréfi dagsettu, 18. desember 2006, sendi lögmaður stefnanda innheimtu-bréf vegna ógreiddra vinnuréttindagjalda af ófélagsbundnum skipstjórnarmönnum í þjónustu hans, þ.m.t. stefnda, Jóhanni Gunnarssyni.  Stefndi, Brim hf., hafnaði kröfunni.

Hinn 20. mars 2007 höfðaði stefnandi dómsmál á hendur stefnda, Brim hf.  Krafist var frávísunar þess máls, en frávísun málsins var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 5. nóvember 2007.  Hinn 29. janúar 2008 var stefndi, Brim hf., dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða dómkröfu stefnanda.  Hinn 16. október 2008, vísaði Hæstiréttur Íslands málinu frá dómi.

Eins og áður greinir var frávísunarkröfu stefndu hafnað með úrskurði dagsettum 15. júní 2009.

III

Krafa stefnanda varðar vangreidd vinnuréttargjöld vegna stefnda, Jóhanns, á skipinu Sólbaki EA-7 á tímabilinu 20. september 2004 til 28. febrúar 2007, 140.800 krónur vegna tímabilsins 20. september 2004 til 8. júní 2006 en 76.400 krónur frá þeim tíma til 28. febrúar 2007.  Byggir stefnandi á því að engu breyti þó stefndi, Jóhann, hafi sagt sig úr stefnanda og hafi því ekki verið félagsmaður í stéttarfélagi stefnanda umrætt tímabil.  Leysi það hvorki stefnda, Jóhann, undan greiðsluskyldu vinnuréttargjaldsins né stefnda Brim hf. undan skilaskyldu vinnuréttargjalds til stefnanda, frekar en það leysi ófélagsbundna skipstjórnarmenn, sem starfi á starfssviði stefnanda og vinni eftir kjarasamningum hans, undan greiðsluskyldu vinnuréttar-gjaldsins.

Kröfu sína á hendur stefnda byggir stefnandi á grein 1.34 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ, en þar segi að útgerðarmönnum sé skylt að halda eftir af kaupi yfirmanna er hjá þeim starfi fjárhæð, sem nemi ógreiddu félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan FFSÍ.  Kjarasamningsákvæðið hafi stoð í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem kveði á um að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi  stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem greini í kjarasamningum.  Stefnandi sé í þessu tilviki „viðkomandi stéttarfélag“, enda óumdeilt að starfað hafi verið eftir kjarasamningi félagsins og ekki sé heldur um annan kjarasamning að ræða.  Breyti engu, þótt viðkomandi skipstjórnarmaður hafi sagt sig úr félaginu og gerður hafi verið við hann sérstakur ráðningarsamningur til að reyna að komast hjá einstökum ákvæðum gildandi heildarkjarasamnings.  Ákvæði ráðningarsamningsins hafi síðar, þ.e. hinn 26. október 2004, verið alfarið aðlöguð gildandi kjarasamningum vegna félagsdómsmálsins nr. 16/2004, sem SSÍ hafi höfðað gegn útgerð b.v. Sólbaks EA-7.

Stefnandi kveður að með orðunum lágmarkskjör kjarasamninga, sé ekki eingöngu átt við einstaklingana, sem eftir þeim starfi, heldur einnig stéttarfélögin, þar sem það eigi við, svo sem varðandi sjóðagjöld, sbr. 6. gr. starfskjaralaganna.  Bendir stefnandi á hlutverk stéttarfélaganna varðandi gerð kjarasamninga og hagsmunagæslu vegna félagsmanna og þeirra manna, sem eftir kjarasamningum starfi.  Einnig bendir hann á að ýmsar opinberar skyldur séu lagðar á stéttarfélögin og þeim að sama skapi ætlaðir tekjustofnar með félagsgjöldum og vinnuréttindagjöldum til að standa straum af kostnaði við það að annast hagsmunagæslu fyrir þá, sem starfi á viðkomandi starfssviði og eftir viðkomandi kjarasamningum eða eru bundnir af lágmarksákvæðum þeirra, sbr. t.d. 1. gr. laga nr. 55/1980. 

Skilaskylda útgerðarinnar á vinnuréttindagjaldinu byggist á því, að heildarsamtök útvegsmanna, LÍÚ, annars vegar, og heildarsamtök skipstjórnarmanna, FFSÍ, hins vegar, hafi samið um það í kjarasamningum um miðbik síðustu aldar, á sama hátt og hin ýmsu stéttarfélög hafi einnig gert á sínu sviði, að útvegsmenn héldu eftir iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags, þ.e.a.s. félagsgjöldum af félagsbundnum skipstjórnarmönnum og vinnuréttindagjaldinu af ófélagsbundnum skipstjórnar-mönnum, sem starfað hafi eftir kjarasamningum og skiluðu síðan gjaldinu til viðkomandi stéttarfélags skipstjórnarmanna.

Við þetta samningsákvæði séu allir bundnir, hvort heldur skipstjórnarmaðurinn eða útgerðarmaðurinn sé félagsbundinn eða ekki, eins og skýrt komi fram í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980.  Við þetta hafi stefndu ekki staðið.

Augljóst sé, að orðið „iðgjald“ í 2. mgr. 6. gr. nái bæði yfir félagsgjald og vinnuréttindagjald.  Félagsgjald greiði félagsbundnir en iðgjald, sem sé sama fjárhæð og félagsgjaldið, greiði þeir ófélagsbundnu.  Ástæðan sé einföld, báðir starfi þeir eftir gildandi kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags og séu í raun að borga fyrir það að starfa eftir kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags, sem það hafi lagt fé og fyrirhöfn í.  Leggur stefnandi áherslu á, að þetta hafi ekkert með skylduaðild að stéttarfélagi að gera eða spurninguna um neikvætt félagafrelsi, sbr. 2. gr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt grein 1.40 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ séu sérsamningar útgerðarmanns við einstaka skipverja eða skipshafnir, sem fari í bága við kjarasamninginn ógildir, enda hafi viðkomandi félag ekki samþykkt þá, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938.  Einnig sé vísað til 1. gr. laga nr. 55/1980.  Stefnandi hafi aldrei samþykkt þennan sérsamning stefnda, Brims hf., við áhöfn b.v. Sólbaks EA-7, þ.m.t. stefnda, Jóhann Gunnarsson.  Þegar af framangreindum ástæðum hafi ráðningarsamningur stefnda, Brims hf., við skipverjana á b.v. Sólbaki EA-7 ekkert sjálfstætt gildi.  Hafi því kjarasamningur FFSÍ og LÍÚ alfarið gilt á milli aðila, þ.m.t. gr. 1.34 um greiðslu skipverja og skil útvegsmanna á félags- og vinnuréttindagjöldum.

Með vísan til 1. gr. starfskjaralaganna, nr. 55/1980, sé stefndi Brim hf. bundinn af kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ og skipti ekki máli í því sambandi að hann hafi ekki verið aðili að þeim kjarasamningi, sbr. dóm Félagsdóms í málinu nr. 7/1998.  Sú niðurstaða Félagsdóms hafi verið ítrekuð í málinu nr. F-3/2005, máli Vélastjórafélags Íslands gegn Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., þar sem staðfest hafi verið að stefndi, Brim hf., væri bundinn af kjarasamningi aðila, þrátt fyrir tilvist þessa umdeilda ráðningarsamnings skipverja skipsins og útgerðar.  Samkvæmt því gildi kjara-samningur FFSÍ og LÍÚ milli aðila, en ekki ráðningarsamningurinn og sé sú niðurstaða Félagsdóms endanleg og bindandi gagnvart öðrum dómstólum, sbr. Hæstaréttardóm í dómasafni réttarins 2004 bls. 656.

Þá telur stefndi, að skipstjórnarmenn, þ.m.t. stefndi Jóhann Gunnarsson, sem sagt hafi sig úr stefnanda, hafi ekki með því getað losað sig þar með og samtímis undan þeim kjarasamningi, sem þeir hafi verið aðilar að og starfað eftir.  Því hafi þeir verið bundnir við ákvæði kjarasamningsins, þrátt fyrir úrsögn sína úr stefnanda, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins 2003 bls. 2152.  Þá bendir stefnandi einnig á, að með forgangsákvæði áður nefnds kjarasamnings, grein 1.33., hafi stéttarfélag náð gildum samningi um forgangsrétt félagsmanna sinna og geti aðrir ekki heimtað hann til sín með samningi á kostnað fyrri forgangsréttarhafa, hvorki með gerð annars kjarasamnings né með sérstökum ráðningarsamningi, eins og stefndi hafi gert við áhöfn b.v. Sólbaks EA-7.  Hvorki forgagnsréttarákvæðið né skylda atvinnurekanda til að skila til viðkomandi verkalýðsfélags félags- og vinnuréttindagjöldum hafi neitt með skylduaðild að verkalýðsfélagi að gera.  Brjóti slík ákvæði ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um neikvætt félagafrelsi, sbr. 2. mgr. 74. gr., frekar en umsamin skylda launþega samkvæmt kjarasamningi til greiðslu félags- vinnuréttindagjalda.  Launþegum sé heimilt að vera í hvaða stéttarfélagi sem þeim þóknist og það mörgum í einu, eða utan allra stéttarfélaga, ef viðkomandi kjósi svo.

Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á hendur báðum stefndu, in solidum, á því aðallega, að stefnda, Brim hf., hafi borið skylda til þess að halda eftir af launum meðstefnda, Jóhanns Gunnarssonar, andvirði vinnuréttindagjalda og skila greiðslum til stefnanda.  Þetta hafi ekki verið gert og því telur stefndi, að báðir stefndu beri því nú óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldanna til stefnanda, enda hafi stefndi, Jóhann Gunnarsson, ekki séð sjálfur um að koma greiðslunum til stefnanda, þótt hann hafi vitað að honum bæri greiðsluskyldan og greiðslunum ekki verið haldið eftir og skilað.  Beri því báðir óskipta og sameiginlega greiðsluábyrgð.

Varakröfu sína byggir stefnandi aðallega á því, að stefnda, Brimi hf., beri með vanrækslu sinni á skilaskyldu vinnuréttindagjaldanna bótaskylda gagnvart stefnanda, sem orðið hafi af lögbundnum og réttmætum greiðslum fyrir vikið.  Hafi það verið ásetningur stefnda, Brims hf., að koma í veg fyrir greiðslur vinnuréttindagjaldanna til stefnanda, sem hafi staðið fyrir því, að stefndi, Jóhann Gunnarsson, segði sig úr stefnanda, sem og aðrir yfirmenn skipsins.

Þrautavarakröfu sína byggir stefnandi á því aðallega, að stefnda, Jóhanni Gunnarssyni, hafi borið sjálfum að greiða vinnuréttindagjaldið beint til stefnanda, þegar hann fékk launaseðla í hendur, þar sem fram komi að vinnuréttindagjaldinu hafi ekki verið haldið eftir af launum hans og því skilað til stefnanda.  Hafi honum því mátt vera fullljóst allan tímann, að hann væri ekki undanþeginn greiðsluskyldu, þótt hann segði sig úr stefnanda, en til hans hafi hann fram að þeim tíma greitt félagsgjald í 24 ár.

Stefnandi byggir vaxtakröfu sína á 3. mgr. gr. 1.34 í kjarasamningi aðila frá 2004, en þar segi: „Útgerðarmaður skal standa skil á iðgjöldunum samtímis og greiðslum til styrktar- sjúkra og orlofsheimilasjóð, þ.e. um leið og reikningsuppgjör fari fram eftir lok hvers kauptryggingartímabils“.  Vísar stefnandi og til 7. gr. laga nr. 55/1980, að greiða skuli dráttarvexti frá gjalddaga af gjaldföllnum sjóðagjöldum.  Kauptryggingatímabil á togurum sé hver veiðiferð, sbr. 2. mgr. gr. 5.12 í kjarasamningi aðila.  Samkvæmt 2. mgr. gr. 1.12 skuli útgerðarmaður hafa lokið launauppgjöri og launagreiðslu til skipverja eigi síðar en 15 dögum eftir lok kaup-tryggingartímabils, sem sé gjalddagi launagreiðslna.  Stefnandi hafi ekki nýtt sér þessa heimild vegna dráttarvaxtaútreiknings að þessu sinni, heldur miði við dagsetninguna 1. október 2006, sbr. innheimtubréf lögmanns stefnanda, dagsett 25. ágúst 2006.  Við aðalmeðferð málsins breytti stefnandi kröfu sinni þannig að krafist var dráttarvaxta frá 4. desember 2008.

Um lagarök vísar stefnandi til 1. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launþega og gr. 1.34 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ 2004.  Einnig 4. gr., 27. gr. og 32. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verð-tryggingu, sbr. 7. gr. laga nr. 55/1980.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Stefndi, Jóhann Gunnarsson, byggir kröfu sína um sýknu m.a. á 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Ákvæðið mæli ekki fyrir um greiðsluskyldu launþega heldur sé þar mælt fyrir um að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns „iðgjaldi hans“ til viðkomandi stéttarfélags.  Í því tilviki sem hér sé til úrlausnar sé ekki um að ræða neitt „iðgjald hans“, þ.e. stefnda, Jóhanns.  Hann hafi ekki verið í stéttarfélagi á hinum umdeilda tíma eins og óumdeilt sé.  Hefði löggjafinn ætlað að skylda ófélagsbundna launþega til að greiða í stéttarfélög hefði honum verið það í lófa lagið.  Það hafi hann ekki gert og sýni það auðvitað í hnotskurn afstöðu og vilja löggjafans í þessu efni.

Þessu til stuðnings bendir stefndi á, að í fyrsta lagi eigi 2. mgr. 6. gr. aðeins við um atvinnurekendur, en þó ekki alla atvinnurekendur eins og 1. mgr. 6. gr.  Það sé sem sagt gert ráð fyrir því í 2. mgr. 6. gr. að sumir atvinnurekendur séu ekki með starfmenn sem séu í stéttarfélögum og/eða eftir atvikum að til séu atvinnurekendur sem ekki séu aðilar að kjarasamningum.  Í öðru lagi sé þessi skýring í samræmi við þau mannréttindi sem tryggð séu með 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, réttinn til að standa utan félaga.

Stefnandi heldur því fram að í skyldu til að greiða félagsgjöld/vinnuréttindagjald til félags sé ekki verið að brjóta gegn ákvæðum 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem stefndi, Jóhann, sé ekki skyldugur til að vera félagsmaður í stéttarfélaginu, þó honum eigi að vera skylt að greiða í það.  Þetta gangi auðvitað ekki upp því þá væri um hreina skattlagningu að ræða í þágu stéttarfélaga, sem verði að hafa skýra og ótvíræða lagastoð.   Félagsmenn njóti meiri réttinda, eins og t.d. forgangsréttar til starfa, réttar til að hafa áhrif á stjórn félagsins o.fl.  Benda megi á að umboðsmaður Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að gera greinarmun á skylduaðild og skyldu til að greiða félagsgjöld.  Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, um 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins, sem orðið hafi að 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, komi fram að mikilvægur þáttur í neikvæða félagafrelsinu sé að vera ekki skyldaður til að greiða framlög til félags.  Einnig geti slíkt komið í veg fyrir rétt manns til að stofna önnur félög í sambærilegum tilgangi.  Auk þess sé nefnt að rétturinn til að standa utan félaga sé eins konar spegilmynd af réttinum til að stofna félag.  Af þessu sé augljóst að kröfur stefnanda geti aldrei staðist og a.m.k. aldrei án skýrrar og ótvíræðrar lagastoðar.

Rétturinn til að standa utan félaga sé auk þess nátengdur tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Það geti ekki samræmst skoðanafrelsi að aðili sé skyldaður til að greiða í félag, sem hugsanlega hafi með höndum starfsemi og stefnu sem samræmist ekki skoðunum hans.  Megi hér m.a. benda á að tilgangur stefnanda samkvæmt félagslögum sé ekki eingöngu sá að semja um kaup og kjör.  Þessum vanda hafi stjórnarskrárgjafinn gert sér grein fyrir og þess vegna sett það skilyrði fyrir skylduaðild að félagi að slíkt sé ákveðið með settum lögum frá Alþingi, sbr. 2. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.  En það sé ekki nóg, heldur þurfi skylduaðildin einnig að vera nauðsynleg til að félag geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.  Ekkert þessara þriggja skilyrða sé uppfyllt varðandi það ágreiningsefni sem hér sé til úrlausnar.

Sett lög frá Alþingi mæli ekki fyrir um skyldu stefnda, Jóhanns, til að greiða félagsgjald til stefnanda. Stefndi, Jóhann, hafi ekki samþykkt eða lofað að greiða til stefnanda, þ.e. hann hafi ekki verið félagsmaður á hinum umdeilda tíma.  Með hliðsjón af því verði auðvitað að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Kjarasamningsákvæðin sem vísað sé til í stefnu kveði á um félagsgjald eða vinnuréttindagjald.  Það sé hvergi skilgreint hvað átt sé við með hugtakinu vinnuréttindagjald og ekkert bendi til þess að þar sé átt við einhver gjöld sem ófélagsbundnir aðilar eigi að greiða.

Stefndi, Jóhann, sé ekki aðili að umræddum kjarasamningum.  Hvorki stefnanda, Útgerðarfélagið Sólbakur ehf., stefndi Brim hf., eða nokkur annar hafi haft umboð frá stefnda, Jóhanni, til að semja um að hann skyldi greiða til stefnanda, án þess að vera í félaginu.  Það sé afar hæpið, svo ekki sé meira sagt, að aðilar vinnu-markaðarins geti samið um að þriðji maður skuli greiða einhvers konar gjald til annars samningsaðilans.  Samtök vinnuveitenda hafi ekkert samningsumboð fyrir launþega og samtök launþega ekki fyrir aðra launþega en þá sem séu félagsmenn í aðildarfélögum þeirra.  Það umboð nái ekki til þess að semja um greiðslur til félaganna sjálfra.  Aðilar vinnumarkaðarins geti samið um að vinnuveitendur, sem eigi aðild að samtökum vinnuveitenda, skuli innheimta félagsgjöld af félagsbundnum starfsmönnum sínum, annað ekki.  Sé félagsaðild ekki fyrir hendi geti ekki verið um greiðsluskyldu að ræða.  Stefndi telur, að ef samtök atvinnuveitenda geti, fyrir hönd vinnuveitenda sem aðild eigi að þeim, samið við samtök launþega um að greidd yrðu gjöld vegna ófélagsbundinna starfsmanna þeirra, hlytu slík gjöld að falla á vinnuveitandann, ekki starfsmanninn, ella væri um beina þvingun til félagsaðildar að ræða, sem ekki sé heimil nema með skýrum og ótvíræðum hætti í settum lögum frá Alþingi, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Ofangreindu megi ekki rugla saman við það að á Íslandi hafi verið lögfest fyrirmæli um að einstökum vinnuveitendum og launþegum sé óheimilt að semja um lakari kjör en kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins tiltaki, þ.e. að þau kjör séu lágmarkskjör á viðkomandi sviði.  Það verði að forðast að rugla þessu saman við samningsákvæði um innheimtuaðferð varðandi félagsgjöld stéttarfélaga.  Félagsgjöldin sem slík hafi ekkert með lágmarkskjör launþega að gera, frekar en félagsgjöld til einhverra annarra félaga.  Mál þetta snúist heldur ekki um það hvort kjör stefnda, Jóhanns, hafi verið í andstöðu við lög eða kjarasamninga.

Það sé grundvallarmisskilningur hjá stefnanda að mál þetta snúist um kaup og kjör stefnda, Jóhanns.  Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 tryggi vissulega lágmarkskjör, sbr. 7. gr., en mál það sem hér sé til úrlausnar varði þetta ekki að neinu leyti.  Málið snúist eingöngu um það hvort stefndi, Jóhann, þurfi að greiða félagsgjald til stefnanda.  7. gr. laga nr. 80/1938 varði eingöngu kaup og kjör, ekki önnur atriði sem kjarasamningur kunni að fjalla um.  Í lögum nr. 55/1980 sé síðan mælt fyrir um að atvinnurekendur skuli halda eftir af kaupi starfsmanna sinna iðgjaldi þeirra til viðkomandi stéttarfélags, samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningur greini.  Hér sé auðvitað undanskilið hið sjálfsagða, þ.e. að starfsmaðurinn sé félagsmaður í viðkomandi stéttarfélagi og sé því skyldur til að greiða félagsgjaldsins, en undir þá skyldu hafi stefndi, Jóhann, ekki gengist.  Í þeim kjarasamningum sem mál þetta varði sé hvergi kveðið á um skyldu stefnda, Jóhanns, til að greiða gjald til stefnanda.  Þar sé einungis kveðið á um skyldur samningsbundinna útgerðarmanna, sem komi stefnda, Jóhanni, ekkert við.

Með því að viðurkenna kröfu stefnanda væru dómstólar að koma á félagsskyldu allra launþega að stéttarfélagi, ef til er stéttarfélag á viðkomandi sviði, án þess að um skýr og ótvíræð lagafyrirmæli sé að ræða, eins og þó sé skilyrði samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Ekki verði fram hjá því litið að skylda til að greiða félagsgjald til félags, sem maður sé ekki aðili að, sé í eðli sínu skattur.  Stjórnarskráin geri þá kröfu til skattlagningarheimilda að þær komi fram í lögum, sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Þetta hafi margsinnis verið staðfest í réttarframkvæmd.  Af þessari ástæðu sé ótækt að fallast á kröfu stefnanda.  Eins og kjarasamningsákvæði séu orðuð sé ákvörðunin um hið svonefnda atvinnuréttindagjald algjörlega í höndum stefnanda.  Stefndi eigi þar enga aðild að, enda ekki félagsmaður í stefnanda.  Stefnandi viðurkenni að ekki séu skilyrði til skylduaðildar stefnda, Jóhanns, að félaginu. 

Verði ekki fallist á sýknu stefnda, Jóhanns, að öllu leyti sé samt óhjákvæmilegt að sýkna hann af þeim hluta kröfunnar sem sé vegna þess tíma sem hann hafi unnið hjá Sólbaki ehf.  Það félag hafi ekki verið aðili að samtökum vinnuveitenda, en hafi síðan sameinast stefnda, Brimi ehf., 8. júní 2006, sem sé aðili að þeim.  Á fyrrihluta umdeilds tímabils, þ.e.a.s. frá 20. september 2004 til 8. júní 2006, hafi því hvorki vinnuveitandinn né launamaðurinn verið í þeim samtökum sem séu aðilar kjarasamninganna.

Verði ekki fallist á sýknu stefnda, Jóhanns, megi líka velta því fyrir sér hvort ekki séu efni til að lækka kröfu stefnanda verulega með hliðsjón af því að ótækt sé að krefja hann um jafn há gjöld og félagsbundna starfsmenn meðstefnda þar sem hann njóti engra réttinda í félaginu til jafns við þá.  Verði og að hafa í huga að hlutverk verkalýðsfélaga, þ.á m. stefnanda, sé miklu víðtækara en það eitt að semja um kaup og kjör.  Megi um þetta vísa til 2. gr. félagslaga stefnanda, en þar sé rakið hver tilgangur stefnanda sé.

Stefndi, Jóhann, mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu að ekki sé ágreiningur um það að með orðunum viðkomandi stéttarfélag sé átt við stefnanda, Félag skipstjórnarmanna.

Um lagarök vísar stefndi, Jóhann, til laga nr. 50/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og stjórnarskrárinnar,

Kröfu um málskostnað byggir stefndi, Jóhann, á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988.

Stefndi, Brim hf., byggir kröfu sína um sýknu á því að í stefnu vísi stefnandi til þess að varakrafa byggi á bótaskyldu stefnda, Brims hf., en ekki fáist séð á málatilbúnaði stefnanda hvernig stefnandi hafi eignast sjálfstæða kröfu á stefnda, Brim hf., án greiðsluskyldu stefnda, Jóhanns.

Ágreiningslaust sé að skipstjóri, sem tilgreindur sé á dómskjölum númer 6 og númer 8, hafi ekki verið félagsmaður í stéttarfélagi stefnanda tímabilið 20. september 2004 til 28. febrúar 2007.

Að mati stefnda, Brims hf., ákvarði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, samkvæmt skýrum lagatexta skyldu til þess að halda eftir iðgjaldi til stéttarfélags, þar sem starfsmaður sé félagsmaður.  Af því leiði að ef starfsmaður sé ekki félagsmaður í stéttarfélagi sé atvinnurekanda ekki heimilt að halda eftir iðgjaldi.

Ef texti er óljós að mati dómsins beri að skýra ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 í ljósi 1. ml. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár Íslands.  Til grundvallar breytingu á 1. ml. 2. mgr. 74. gr. sem gerð hafi verið með lögum nr. 97/1995, hafi m.a. verið dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli Sigurðar A. Sigurjónssonar gegn Íslandi, frá 30. júní 1993.  Launamenn eigi stjórnarskrárvarinn rétt til þess að ákveða hvort launamaður sé félagsmaður stéttarfélags.

Kjarasamningur sem ákvarði greiðsluskyldu félagsgjalds, hvort sem það gjald kallast atvinnuréttargjald, eða vinnuréttindagjald, án aðildar launamanns að félagi og án lagaheimildar, sé marklaus kjarasamningsákvörðun.

Stefnandi eigi ekki aðild að kröfu byggðri á 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, þegar það sé ágreiningslaust að launamaður er ekki félagsmaður í stéttarfélagi stefnanda.  Aðild að stéttarfélagi til þess að krefja ófélagsbundna atvinnurekendur um greiðslu sé sérstaklega tilgreind í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, sem varði greiðslu í sjúkrasjóð og orlofssjóði stéttarfélaga.  Ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 sé undantekning frá meginreglu.  Engin slík undanþága taki til ófélagsbundinna launamanna.

Þá sé krafa um sýknu einnig á því byggð að í stefnu sé ekki tilgreint, með tilvísun til kjarasamnings eða annars samnings sem 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 geti stuðst við, að ófélagsbundnum skipstjórnarmönnum beri að greiða gjald til stefnanda.

Tilvísun stefnanda í stefnu til kjarasamninga, þar sem fram komi í lið 1.34 að útgerð sé skylt að greiða vinnuréttindagjald, beri ekki með sér að vinnuréttindagjald taki til ófélagsbundinna skipstjórnarmanna.

Ekkert komi fram í stefnu, sem bendi til þess að sá skilningur sem stefnandi tilgreini í stefnu að felist í orðinu vinnuréttindagjald, sé réttur.  Tilgreining heimildar stefnanda til innheimtu gjalds verði að vera ótvíræð, en ekki rakalaus fullyrðing sem fram komi í 4. mgr. blaðsíðu 4 í stefnu: „…L.Í.Ú. annars vegar og heildarsamtök skipstjórnarmanna F.F.S.Í hins vegar sömdu um það í kjarasamningum um miðbik síðustu aldar…“

Innheimta stéttarfélagsgjalds af einstaklingi, sem ágreiningslaust sé að ekki er félagsmaður í stéttarfélagi, í hlutfalli við launatekjur, sé í eðli sínu líkast ákvörðun um tekjuskatt, en ekki iðgjald.  Iðgjald sé gjald sem greitt sé til greiðslu á tryggingu eða þjónustu.  Það sé ágreiningslaust að stéttarfélag veiti ófélagsbundnum einstaklingi enga þjónustu eða tryggingu.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 sé ekki að finna heimild til innheimtu iðgjalds af ófélagsbundnum einstaklingum.  Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 16. október 2008, byggist greiðsluskylda ófélagsbundinna ekki á félagssamningi.  Skylda og jafnframt heimild atvinnurekanda til þess að halda eftir launum starfsmanns, nái til þeirra starfsmanna einna, sem beri að greiða iðgjald til félags.  Um það sé ekki deilt að stefndi, Jóhann Gunnarsson, hafi ekki verið félagsmaður í félagi stefnanda þau tímabil sem stefnandi krefji stefnda um greiðslu.

Þrautavarakröfu sína byggir stefndi á túlkun Hæstaréttar Íslands á 6. gr. laga nr. 55/1980, sem fram komi í dómi réttarins í málinu nr. 114/2004, en þar komi fram að stéttarfélög eigi ekki kröfu á atvinnurekendur sem standi utan samtaka atvinnurekenda, nema vegna tvenns konar sérstaklega tilgreindra sjóða.  Sá hluti kröfu stefnanda sem sé vegna tilgreindra starfsmanna Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., sem ágreiningslaust sé að hafi verið utan samtaka atvinnurekenda, beri stefnda ekki að greiða.

Sá hluti kröfu sem beinist að Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., sé tilgreindur í dómskjali nr. 6.  Sá hluti kröfu sem beinist að Brimi hf., sem ágreiningslaust sé aðili að samtökum atvinnurekenda, sé krafa tilgreind í dómskjali nr. 8.  Um yfirfærslu á öllum réttindum og öllum skyldum við samruna félaga, vísist til 1. mgr. 127. gr. laga nr. 30/1995

V

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda, Jóhann, um greiðslu svonefndra vinnuréttargjalda, sem stefnandi heldur fram að heimilt sé að leggja á ófélagsbundna menn, en þeim sé ætlað að standa straum af kostnaði við gerð kjarasamninga um lágmarkskjör sem þeir njóti góðs af vegna ákvæða laga nr. 55/1980.  Þá er þess krafist aðallega, að stefndi, Brim hf., standi stefnanda skil á umræddum gjöldum.

Eins og að framan hefur verið greint, höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda Brimi hf., og krafði um greiðslu áðurnefndra vinnuréttargjalda, sem haldið var fram að draga hefði átt af launum tiltekinna ófélagsbundinna skipstjórnarmanna sem störfuðu hjá stefnda, Brimi hf.  Hæstiréttur vísaði því máli frá dómi með þeim rökum að skylda stefnanda til að draga umkrafin gjöld af umræddum skipstjórnarmönnum væri háð því að greiðsluskylda ófélagsbundinna skipstjórnarmanna væri að lögum stjórnskipulega gild.  Yrði því ekki felldur dómur í málinu án þess að fyrrnefndum skipstjórnarmönnum væri sjálfum gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna.  Þar sem það hefði ekki verið gert bæri að vísa málinu frá héraðsdómi.  Með málssókn þessari hefur stefnandi bætt úr þeim annmarka sem Hæstiréttur taldi vera á fyrri málshöfðun hans, vegna sömu kröfu og gerð er í þessu máli, og stefnir hann nú einum þessara skipstjórnarmanna ásamt stefnda, Brimi hf. 

Stefndi, Jóhann, var lögskráður á skip stefnda, Brims hf., áður útgerðarfélagsins Sólbaks ehf.  Þá liggur fyrir að stefndi, Brim hf., er aðili að kjarasamningi stefnanda og LÍÚ. 

Óumdeilt er að stefndi, Jóhann, var ekki félagsmaður í stefnanda, enda bar honum ekki skylda til að vera félagsbundinn í því félagi samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar, er kveður á um félagafrelsi.    

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með áorðnum breytingum, skuli laun og önnur starfskjör, sem heildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn taki til.  Samningur einstaka launamanna og atvinnurekanda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar kveði á um skuli ógildir.

Í 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, er mælt fyrir um atvinnufrelsi og í 2. mgr. er sérstaklega vikið að kjarasamningum með þessum orðum:  „Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.“  Með þessu ákvæði er aðilum vinnumarkaðarins falið að setja almennt bindandi reglur um laun og önnur starfskjör.  Í úrlausnum dómstóla hefur margsinnis verið byggt á ofangreindum ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur og laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Hefur verið litið svo á að umrædd lagaákvæði hafi verið sett til verndar einstökum launþegum til að tryggja þeim lágmarkskjör, sem samið sé um í kjarasamningum og á því byggt að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör í frjálsum samningum sín á milli. 

Um kaup og kjör stefnda, Jóhanns, fór því eftir ákvæðum samnings Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna og fiskimannasambands Íslands, samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. einnig 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Greindur kjarasamningur felur í sér lágmarkskjör. Stefndu eru því bundnir af kjarasamningi þeim sem stefnandi byggir kröfur sínar á og skiptir ekki máli í því sambandi að stefndi, Jóhann, er ekki aðili að ofangreindum kjarasamningi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Stefndi, Brim hf., sem og fyrirrennara hans, útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., bar því vegna ákvæða 1. gr. laga nr. 55/1980 að virða lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum og voru þau félög með þeim hætti bundinn af honum. 

Kjarasamningurinn kveður á um lágmarkskjör.  Hann tryggir launamanninum ýmis réttindi auk þess sem hann kveður á um það hvaða laun skuli að lágmarki greiða fyrir vinnuna.   Eru kjarasamningar eðli máls samkvæmt með þeim hætti að þeir veita báðum aðilum viss réttindi, en leggja jafnfram á þá gagnkvæmar skyldur.  Verður því að líta svo á að þeir sem nýta sér þessa þjónustu greiði fyrir hana og verður ekki fallist á að innheimta þessara gjalda sé brot á 73. gr. stjórnarskrárinnar, eða feli í sér skattlagningu og að þeir sem ekki vilja vera í stéttarfélagi verði samt að greiða þangað félagsgjald sem er þá greiðsla til félagsins fyrir að sinna þeirri þjónustu sem félagið veitir, m.a. með kjarasamningsgerðinni, þ.e. svokallað vinnuréttargjald. Verður því ekki litið svo á að umsamin skylda launþega til að greiða gjöld til stéttarfélags sé félagsskylda í þessum skilningi.

Í þessu máli er um það að ræða að samtök, sem stefndi, Brim hf., er aðili að, gerði þann kjarasamningi við stefnanda, sem kveður á um lágmarkskjör stefnda, Jóhanns, enda þótt hann sé ekki félagsbundinn í stefnanda.  Í gr. 1.34. í áðurgreindum kjarasamningi, er kveðið á um að útgerðarmönnum sé skylt að halda eftir af kaupi yfirmanna er hjá þeim starfa fjárhæð, sem nemur ógreiddu félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan FFSÍ.  Þá segir þar, að ákveði stéttarfélagið að félags- eða vinnuréttindagjald skuli vera hlutfall (%) af kaupi eða kauptryggingu viðkomandi yfirmanns skuli félagið láta útgerðarmanni í té þar til gerð skilagreinareyðublöð til útfyllingar vegna innheimtu iðgjalda.  Samkvæmt ákvæðinu skal útgerðarmaður standa skil á iðgjöldunum samtímis og greiðslum til styrktar-, sjúkra- og orlofsheimilasjóða, þ.e. um leið og reikningsuppgjör fer fram eftir lok hvers kauptryggingartímabils.

Samkvæmt starfskjaralögunum nr. 55/1980 er annars vegar um að ræða að kjarasamningar séu lágmarkskjör og hins vegar að halda beri eftir iðgjaldi til stéttarfélags.  Er atvinnurekanda, samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. 

Skylda til greiðslu gjalda til þess félags, sem fer með samningsaðild fyrir starfsmann, brýtur hvorki í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins né 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Með því að fallist hefur verið á að stefnda, Jóhanni, beri að inna umkrafin gjöld af hendi, ber, með vísan til  2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, að fallast á aðalkröfu stefnanda á hendur stefnda, Brimi hf. 

Samkvæmt 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 55/1980 skal, verði dráttur á greiðslu iðgjalda samkvæmt lögunum, greiða dráttarvexti af skuldinni frá gjalddaga samkvæmt lögum um vexti.   Samkvæmt því verður fallist á endanlega kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, og hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tilliti til flutnings um frávísunarkröfu stefndu, sem hafnað var með úrskurði uppkveðnum 15. júní 2009.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Jóhann Gunnarsson og Brim hf., greiði in solidum stefnanda, Félagi skipstjórnarmanna, 217.200 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 4. desember 2008 til greiðsludags. 

Stefndu greiði in solidum stefnanda, Félagi skipstjórnarmanna, 300.000 krónur í málskostnað.