Print

Mál nr. 844/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
X (Jón Egilsson hrl.)
Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Meðdómsmaður
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

X var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa á nánar tilgreindum skemmtistað, hrint A með báðum höndum með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið og hlaut alvarlega höfuðáverka af. Með vísan til framburða vitna og læknisfræðilegra gagna málsins taldi héraðsdómur sannað að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og var hann því sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur hins vegar til þess að eins og málið væri vaxið hefði héraðsdómara frá öndverðu mátt vera ljóst að niðurstaða þess myndi ráðast af mati á munnlegri frásögn ákærða og framburði vitna fyrir dóminum. Samkvæmt því hefði að réttu lagi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga um meðferð sakamála til að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu. Með því að þess hefði ekki verið gætt þótti óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara krefst hann sýknu, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og þá að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

Ákærði hefur hvorki í greinargerð til Hæstaréttar né við flutning málsins hér fyrir dómi leitt neinum rökum að ómerkingarkröfu sinni og verður hún því ekki tekin til úrlausnar umfram það sem skylt er að gera án kröfu.

Í ákæru 9. febrúar 2016 er höfð uppi krafa brotaþola á hendur ákærða um skaðabætur að fjárhæð 51.595.416 krónur auk tilgreindra vaxta. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var einkaréttarkrafa þessi skilin frá öðrum þáttum málsins í þinghaldi 15. júní 2016 og vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli, að gættum ákvæðum lokamálsliðar 1. mgr. 175. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er krafan því ekki til úrlausnar í málinu.

Atvik málsins urðu á skemmtistaðnum [...] í [...] aðfaranótt 29. maí 2014 og var ákærði handtekinn á staðnum þá um nóttina. Lögregla hóf þegar rannsókn málsins og tók skýrslu af ákærða og flestum vitnum á næstu dögum. Síðasta vitnaskýrslan hjá lögreglu var gefin 8. ágúst 2014 og virðist rannsókn málsins þar hafa lokið um það leyti.

Aðalmeðferð málsins fór fram 4. og 17. október 2016. Er málið var tekið fyrir 15. júní það ár neitaði ákærði sök. Í tveimur skýrslum hans hjá lögreglu var framburður hans nokkuð á reiki en þar játaði hann heldur ekki að hafa framið brot það sem hann var svo ákærður fyrir. Þrjú vitni, sem gáfu skýrslu hjá lögreglu, báru að þau hefðu séð þegar brotaþola var ýtt þannig að hann féll í gólfið og hlaut af áverka þá sem lýst er í ákæru. Framburður þeirra var þó ekki skýr um útlit þess er verkið vann, en atvik urðu á dansgólfi skemmtistaðarins. Framburður þeirra og annarra vitna hneig þó í þá átt að það hefði verið sá, sem verkið vann, sem handtekinn var á staðnum af lögreglu. Þá lá fyrir að ekki var gagn af myndsakbendingum, sem fram höfðu farið við rannsókn málsins hjá lögreglu. Framburður vitna, sem tengd voru ákærða, var á þann veg að hann hefði ekki verið á dansgólfinu eða verið annars staðar á því en brotaþoli er atvik urðu.   

Eins og mál þetta var vaxið samkvæmt framansögðu mátti héraðsdómara frá öndverðu vera ljóst að niðurstaða þess myndi ráðast af mati á munnlegri frásögn ákærða og framburði vitna fyrir dóminum. Það mat gat verið erfiðara vegna þess langa tíma sem liðinn var frá því atvik urðu og þar til aðalmeðferð fór fram. Að þessu virtu hefði að réttu lagi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 til að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu. Með því að þess var ekki gætt er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með upphafi aðalmeðferðar 4. október 2016. Verður málinu því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Eftir þessum úrslitum verður að fella á ríkissjóð málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, en rétt er að ákvörðun um annan sakarkostnað í héraði bíði nýs dóms í málinu. Þá verður að leggja á ríkissjóð allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar 4. október 2016. Er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði og verjanda hans á rannsóknarstigi málsins svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, greiðast úr ríkissjóði.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  31. október 2016

                Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 17. október 2016, er höfðað með ákæru, útgefinni af héraðssaksóknara 9. febrúar 2016, á hendur X, kt. [...], búsettum í [...], fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 29. maí 2014, á skemmtistaðnum [...] við [...] í [...], hrint A, kt. [...], með báðum höndum þannig að hann féll í gólfið, með þeim afleiðingum að A hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka, þar með talið heilamar í yfirborði ennisblaða og gagnaugablaða, yfirborðsáverka á litla heila vinstra megin, byrjandi blóðsöfnun undir heilahimnu á gagnauga hægra megin, blóð að framan vinstra megin og blæðingu milli heilahólfa framan til, innkýlt brot í hnakkablaðinu hægra megin og loft inn við bein rétt framan við Pétursbeinið, sem leiddi til heilaskaða, meðal annars með varanlegri heyrnarskerðingu á hægra eyra, tapi á lyktar- og bragðskyni, hægari hugsun, gloppóttu minni, kvíða og þunglyndi, auk skerðingar á andlegu og líkamlegu þoli og úthaldi.

                Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

      Af hálfu A var krafist skaða- og miskabóta í málinu, samtals að fjárhæð 51.595.416 krónur, auk vaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í þinghaldi 15. júní 2016 var bótakröfunni vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. 

      Verjandi ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að háttsemin verði talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2014, klukkan 3:06, var lögregla kvödd að skemmtistaðnum [...] við [...], þar sem tilkynnt hafði verið um að maður væri meðvitundarlaus innan dyra. Fljótlega bárust frekari upplýsingar um að manninum hefði verið hrint í gólfið og hefði hann við það misst meðvitund.

                Er á skemmtistaðinn kom var lögreglumönnum vísað að dansgólfi, en þar lá brotaþoli, A, meðvitundarlaus framan við sviðið og blæddi mikið úr höfði hans og eyra. Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu B, sem kvaðst hafa séð þegar maður í blárri skyrtu hrinti brotaþola svo að hann féll harkalega aftur fyrir sig. Hann kvaðst hafa bent dyraverði á staðnum, C, á gerandann. C gekk um staðinn ásamt lögreglumanni í því skyni að finna þennan mann og benti hann á ákærða, X, sem var á leið út um aðaldyrnar. Lögreglumenn veittu ákærða eftirför, en fram kemur í skýrslu að er hann veitti þeim athygli hafi hann reynt að hlaupa á brott. Hann hafi hins vegar náðst strax og hefði hann barist lítillega um þegar hann var færður í handjárn. Í framhaldinu greindi C lögreglumönnum frá því að ákærði hefði tjáð honum að hann væri gerandi í málinu og hefði hann sagst hafa gert þetta í sjálfsvörn.

                A var fluttur á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Í vottorði D, sérfræðings í lyflækningum, kemur fram að við komu þangað hafi hann ekki haft næga meðvitund til að greina sjálfur frá því sem gerst hefði. Tölvusneiðmynd hefði sýnt útbreitt mar í heila framan til beggja vegna og yfir gagnauga hægra megin, en þar hafi verið byrjandi blóðsöfnun undir heilahimnu. Einnig hafi mátt sjá blóð að framan vinstra megin og blæðingu milli heilahólfa framan til. Í hnakkablaði hægra megin hafi verið innkýlt brot og færsla á miðlínu. Kemur fram í vottorðinu að horfur hafi verið óljósar og var brotaþoli fluttur á gjörgæsludeild, en þaðan á heila- og taugaskurðdeild sólarhring síðar. Samkvæmt vottorði E, sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum, dagsettu 18. júlí 2014, hlaut A lífshættulegan höfuðáverka í umrætt sinn, með höfuðkúpubroti og talsverðum heilaáverkum, mari, bólgu og blæðingum víða í heilavef. Hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu 11 dögum eftir atvikið, en fram kemur að líkleg varanleg mein verði heyrnarskerðing á hægra eyra, lyktarskynsbrottfall og bragðskynstruflanir. Þá sé ekki óvarlegt að álykta að heilaskaðinn muni hafa áhrif á minni og hegðun og takmarki þannig færni hans í leik og starfi í framtíðinni.  

                Ákærði var yfirheyrður af lögreglu daginn eftir atvikið, eftir að hafa gist fangageymslu. Hann kvaðst lítið sem ekkert muna um atburði næturinnar sökum ölvunar. Hann kvaðst þó muna eftir því að sjúkrabifreið hefði verið komin á vettvang vegna þess að einhver maður hefði verið sleginn inni á skemmtistaðnum. Hann hefði verið handtekinn, en allir hefðu verið að reyna að segja lögreglumönnunum að þeir hefðu rangan mann í haldi. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa gert nokkrum manni neitt þarna inni á staðnum. Þá kvaðst hann ekki heldur minnast þess að hafa rætt við dyravörð þar. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi til 3. júní 2014, en þann dag var hann yfirheyrður á nýjan leik. Hann neitaði þá að hafa hrint brotaþola, en bar að öðru leyti fyrir sig minnisleysi um atvik.

                A gaf skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn 2. júlí 2014, en fram kom hjá honum að hann myndi ekki atvik næturinnar. Þá voru teknar skýrslur af 16 vitnum, gestum og starfsmönnum skemmtistaðarins, á tímabilinu frá 29. maí til 31. júlí 2014. Tvö vitni tóku jafnframt þátt í myndsakbendingu hjá lögreglu, B þann 3. júlí 2014, og F þann 8. sama mánaðar. Hvorugt vitnið bar kennsl á árásarmanninn við þá rannsóknaraðgerð.

                Í málinu liggja fyrir ljósmyndir af fatnaði ákærða í umrætt sinn, bláröndóttri skyrtu, bláum jakka, ljósum buxum og svörtum strigaskóm. Rannsókn tæknideildar lögreglu á fatnaðinum leiddi í ljós að sýni hefði verið til staðar í skyrtu, sem hefði gefið jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem blóð, en frekari rannsókn mun ekki hafa farið fram hvað það varðar. 

                Meðal gagna málsins er örorkumatsgerð G taugaskurðlæknis og H lögfræðings, dagsett 19. nóvember 2015, vegna brotaþola. Kemur þar m.a. fram að mælanlegar afleiðingar heilaáverkans séu hæging í hugsun, gloppótt minni, kvíði, þunglyndi og skert andlegt og líkamlegt þol og úthald. Þá hafi lyktartaug rifnað með þeim afleiðingum að lyktar- og bragðskyn hafi tapast. Eftir skurðaðgerð til lagfæringa á miðeyrnabeini hafi heyrn hægra megin verið um 35% af því sem eðlilegt er talið og mjög þreytandi ískur verið í eyranu, sem hafi þó minnkað. Í niðurstöðukafla kemur fram að líkamlegt ástand brotaþola sé varanlegt og því megi ætla að atvikið muni hafa áhrif á framtíðarvinnugetu hans þar sem líkamleg og andleg geta hans hafi skerst. Varanleg örorka var metin 40%.

                Þá liggur fyrir greinargerð I, sérfræðings í klínískri taugasálfræði, um taugasálfræðilega athugun sem brotaþoli gekkst undir 20. október 2014. Kemur þar fram að prófun hafi gefið til kynna góða almenna greind. Árangur á mörgum prófum hafi verið í meðallagi eða vel það. Í niðurstöðum einstakra prófa hafi komið fram vísbendingar um taugasálfræðilega veikleika, m.a. hvað snerti hraða í máltjáningu, sjónræna úrvinnslu og rúmáttun, ákveðna heyrnræna minnisþætti og fínhreyfifærni handa. Leshraði hafi verið frekar hægur. Ætla megi að þessir taugasálfræðilegu veikleikar séu að verulegu leyti afleiðingar heilaskaðans sem hann hlaut umrætt sinn.

                Í vottorði J sálfræðings er gerð grein fyrir viðtalsmeðferð brotaþola vegna tilfinningalegrar vanlíðunar í kjölfar atviksins. Kemur þar m.a. fram að hann hafi greinst með aðlögunarröskun, með kvíða og þunglyndi. Leitast hafi verið við að draga úr áfallaeinkennum með hugrænni atferlismeðferð og að efla sjálfsmynd brotaþola og getu til að takast á við og aðlagast nýjum aðstæðum. Líkamsárásin og afleiðingar hennar hafi valdið honum töluverðri vanlíðan og grafið undan sjálfsmynd hans og sjálfstrausti. Er sérstaklega tekið fram að skerðing á heyrn, bragð- og lyktarskyni geti reynst brotaþola erfið til lengri tíma litið og sé til þess fallin að draga verulega úr lífsgæðum hans.  

                Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

                Ákærði kvaðst ekki kannast við það sem honum væri gefið að sök í málinu. Hann kvaðst hafa verið að halda upp á útskrift sína sem rafvirki þetta kvöld og hefði hann farið á skemmtistaðinn með veislugestum. Hann hefði verið að dansa með hópnum á dansgólfinu, gólfið hefði verið stappað af fólki og lýsingin hefði verið með blikkljósum, eða svokölluðum strobe-ljósum. Hann kvaðst hafa yfirgefið dansgólfið eftir að K systir hans kom til hans og bað hann að tala við sig. Þau hefðu sest við borð, en þá hefðu ljósin við dansgólfið skyndilega verið kveikt. Hann kvaðst hvorki hafa orðið var við líkamsárás né að einhver félli í gólfið, en eftir að ljósin kviknuðu hefði dyravörður komið til hans og verið að spyrja út í þetta. Síðan hefði lögreglan komið og hann hefði verið handtekinn og færður í lögreglubifreið. Fólk sem þarna var hefði þá farið að berja bifreiðina að utan og hrópa að lögreglumönnunum að þeir hefðu tekið rangan mann. Hann lýsti klæðaburði sínum þetta kvöld og sagðist hafa verið farinn úr jakkanum þegar hann var að dansa. Þá hefði hann verið með slaufu um hálsinn fyrr um kvöldið, en verið búinn að taka hana niður þegar þarna var komið. Ákærða var kynnt að vitni hefði borið við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði viðurkennt að hafa ýtt eða slegið brotaþola í umrætt sinn. Hann kvað það vel geta verið að hann hefði verið að reyna að spila sig stóran þarna, að þykjast vera einhver karl, en hann hefði hins vegar ekki áttað sig á því þegar þetta var hvað hefði komið fyrir brotaþola. Spurður hvers vegna hann hefði hlaupið undan lögreglu og dyraverði á vettvangi kvaðst hann hafa séð að það hafi verið byrjaður einhver æsingur og hefði hann verið hræddur um að frekari slagsmál væru að brjótast út. Hann kvaðst hafa verið þó nokkuð ölvaður þetta kvöld.

                A kvaðst hafa verið í grillveislu með vinnufélögum sínum þetta kvöld og hefðu þeir síðan farið á skemmtistaðinn [...]. Hann lýsti áfengisneyslu sinni og kvaðst hafa drukkið tvo litla bjóra á leið í samkvæmið og sex til sjö bjóra til viðbótar á meðan á því stóð. Hann kvaðst ekkert muna hvað gerðist síðari hluta kvöldsins, frá því um klukkan 22, og ekki heldur næstu daga á eftir. Hann kvað þó minnisleysið ekki stafa af áfengisdrykkju, heldur væri það afleiðing heilaáverkans sem hann hefði hlotið. Hann gerði grein fyrir varanlegum afleiðingum sem hlotist hefðu af líkamsárásinni, einkum heyrnarskerðingu og tapi á lyktar- og bragðskyni. Þá kvað hann minni sitt hafa versnað, auk þess sem hann fyndi fyrir einbeitingarskorti eftir atvikið.

                K, systir ákærða, kvaðst hafa staðið til hliðar við dansgólfið, hægra megin, ásamt kærasta sínum, þegar þau heyrðu óp, hljómsveitin hætti að spila og ljósin kviknuðu. Þau hefðu farið að athuga hvað var að gerast og hefði hún farið til ákærða. Þau hefðu gengið saman út af dansgólfinu, sest við borð og spjallað saman. Þau hefðu síðan ákveðið að yfirgefa staðinn, en þegar þau voru að ganga út hefðu lögreglumenn komið og handtekið ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa séð manninn falla á dansgólfið, en hún hefði hins vegar séð hann liggjandi vinstra megin á gólfinu. Hún hefði áður verið að dansa hægra megin á gólfinu og hefði ákærði þá verið nálægt henni. Það hefði verið dimmt á dansgólfinu og mannþröng.

                L, kærasti K, lýsti því einnig að þau hefðu verið að dansa hægra megin á dansgólfinu, þar hefðu margir verið að dansa og þröngt verið á gólfinu. Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að átökum, en hann hefði séð ákærða um fimm mínútum áður en atvikið átti sér stað og mjög fljótlega eftir það. Þau K hefðu farið af dansgólfinu, keypt sér drykki og sest í sófa, en ákærði hefði þá verið að dansa með hópi fólks. Vitnið kvaðst hafa snúið baki í dansgólfið þegar atvikið varð. Hann kannaðist við að hafa séð ákærða með M á dansgólfinu eftir atvikið. Hann kvað þau K hafa farið aftur inn á dansgólfið og gengið til ákærða þegar þau gerðu sér grein fyrir því að eittvað hefði gerst. Síðan hefðu þau farið öll saman út af gólfinu og fengið sér sæti.

                F kvaðst hafa verið að ganga frá dansgólfinu þegar hann hefði séð brotaþola, sem hefði verið nokkuð drukkinn, staulast um og rekast utan í annan mann. Hefði brotaþoli gefið til kynna með látbragði að honum þætti þetta leitt. Þá hefði maðurinn sett lófana á hann og ýtt honum í gólfið. Miðað við ástandið á brotaþola hefði ekki mikið þurft til og hann félli niður. Hann hefði fallið eins og timbur, beint í gólfið. Honum hefði virst sem gerandinn hefði ýtt með einhverjum krafti fyrst brotaþoli datt svona og hefði hann verið reiðilegur í fasi. Vitnið kvaðst hafa verið rétt hjá þeim þegar þetta gerðist og hefði hann haft nokkuð beina sjónlínu. Þá hefði hann séð ágætlega til, lýsingin á dansgólfinu hefði ekki verið svo slæm. Hann kvaðst hafa einbeitt sér að brotaþolanum eftir að hann féll í gólfið og reynt að lyfta honum, en hann hefði verið farinn að þyngjast. Hann kvaðst síðan hafa séð blóð við höfuð mannsins og hefði hann þá hringt í Neyðarlínuna. Vitnið kvaðst hafa reynt að koma auga á gerandann eftir atvikið, en hann hefði ekki séð hann. Við skýrslutöku hjá lögreglu kom fram hjá vitninu að hann hefði séð þegar maður var handtekinn og væri hann nokkuð viss um að það var sá sem ýtti brotaþola í gólfið. Hann hefði einnig þekkt gerandann aftur á fatnaði sem hann klæddist. Fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna eftir þessu núna, en gera ráð fyrir að hann hefði munað atvik betur þegar hann gaf skýrsluna. Þá kannaðist vitnið við að hafa heyrt systur mannsins sem handtekinn var hafa orð á því fyrir utan skemmtistaðinn að það væri dæmigert fyrir hann að vera með svona stæla þegar hann væri í glasi. Vitnið kvaðst sjálfur hafa verið undir litlum áfengisáhrifum þetta kvöld.

                N, félagi ákærða, kvaðst hafa verið á barnum þegar slökkt var á tónlistinni. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða þarna á staðnum eftir atvikið, en taldi hann lítið hafa vitað um hvað hefði gerst. Í málinu liggur fyrir skýrsla þar sem fram kemur að við lögreglurannsókn hafi verið rætt við vitnið í síma og er haft eftir honum að hann hefði séð ákærða standa við hlið brotaþola þar sem hann lá í gólfinu. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir að hafa gefið símaskýrslu vegna málsins.

                O, sem einnig var í hópnum sem var með ákærða á skemmtistaðnum, kvaðst hafa staðið við enda dansgólfsins og snúið baki í það þegar atvikið varð. Hún hefði svo orðið vör við að fólk var komið upp að henni og snúið sér við, en þá hefði maður legið í gólfinu. Í símaskýrslu sem tekin var af vitninu við rannsókn málsins var jafnframt haft eftir henni að hún hefði allt í einu séð að maður lá í gólfinu og hefði ákærða verið ýtt af einhverju fólki í átt til hennar, en fyrir dóminum kvaðst hún ekki muna eftir þessu nú.

                P, félagi ákærða, kvaðst ekki hafa séð átök, en hann hefði orðið var við einhvern hamagang á dansgólfinu og síðan hefðu ljósin verið kveikt. Hann kvaðst hafa hitt ákærða skömmu eftir atvikið og taldi að hann hefði þá verið að koma af dansgólfinu. Þeir hefðu sest niður með fleira fólki og hefði ákærði virst vera eðlilegur. Borið var undir vitnið það sem kom fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu, að hann hefði hitt ákærða þegar hann var að koma af dansgólfinu og hefði ákærði verið reiður, hann hefði spurt ákærða hvort hann hefði slegið brotaþola og hann héldi að hann hefði sagst hafa ýtt honum. Fyrir dóminum kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu, en taldi sig hafa munað þetta betur þegar hann gaf lögregluskýrsluna.

                M, sem einnig er félagi ákærða, kvað uppþot hafa orðið á dansgólfinu og hefði honum fundist vegið að ákærða. Honum hefði fundist eins og það snerist allt um ákærða en kvaðst ekki geta lýst því nánar. Þeir hefðu báðir verið staddir á dansgólfinu og kvaðst vitnið hafa verið að dansa við konuna sína. Tónlistin hefði slokknað og ljósin kviknað og hann hefði séð mann liggjandi í gólfinu. Það hefði allt orðið brjálað og honum hefði fundist vegið að ákærða, eins og fyrr greinir. Lýsti vitnið því nánar að honum hefði fundist eins og verið væri að ýta ákærða. Vitnið kannaðist við lýsingu sem hann gaf við skýrslutöku hjá lögreglu, en þar kom fram að hann hefði séð að verið var að ráðast að ákærða og hefði hann farið á milli og reynt að stoppa það af, sem hefði tekist. Síðan hefði hann séð að maður lá í gólfinu. Þeir ákærði hefðu farið af dansgólfinu og sest við borð og hefði hann spurt ákærða hvað hefði gerst. Ákærði hefði ekki munað það, en hann hefði verið mjög ölvaður.

                R kvaðst hafa verið vinstra megin á dansgólfinu og hefði hún verið að dansa þar með nokkrum vinkonum sínum. Brotaþoli hefði verið þarna á gólfinu og hefði hann verið ágengur og uppáþrengjandi við þær. Hún hefði síðan séð að honum var ýtt svo að hann féll í gólfið. Borin var undir vitnið lýsing hennar hjá lögreglu þar sem hún kvaðst hafa séð að brotaþoli var kominn í áflog við annan strák, sem hefði ýtt honum með þeim afleiðingum að hann skall í gólfið. Fyrir dóminum kvaðst hún kannast við þessa lýsingu en ekki treysta sér til að lýsa því hvernig gerandinn hefði ýtt brotaþola. Þá var borin undir vitnið lýsing hennar í lögregluskýrslu á þann veg að gerandinn hefði ýtt brotaþola með báðum höndum, með krafti og að hann hefði hrint honum. Hún tók fram varðandi þessa lýsingu að brotaþoli hefði varla staðið í fæturna þegar þetta gerðist. Hún kvaðst ekki muna eftir því að gerandinn hefði farið af dansgólfinu og sest við borð eftir atvikið, eins og hún hafði borið um hjá lögreglu. Þá kvað hún vinkonu sína, S, hafa þekkt gerandann og sagt henni nafn hans. Hún hefði flett honum upp á facebook og það hefði enginn vafi verið um það í hennar huga að þetta var maðurinn sem hún sá hrinda brotaþola á dansgólfinu umrætt sinn. Hún kvaðst hafa verið boðuð í myndsakbendingu við lögreglurannsókn málsins, en sú rannsóknaraðgerð hefði ekki farið fram þar sem hún hefði tjáð lögreglu að hún hefði séð þessa mynd á facebook. Vitnið kvað marga hafa verið á dansgólfinu og svaraði því játandi að henni hefði fundist það sem gerðist vera eins og slys. Hún kvaðst telja gerandann hafa verið íklæddan brúnu vesti, hvítri skyrtu og hann hefði verið með þverslaufu, en í lögregluskýrslu var jafnframt höfð eftir henni lýsing á manninum á þann veg að hann hefði verið með [...] eða [...] hár, greitt aftur, með þverslaufu, um [...] á hæð og [...], „einhvern veginn svona [...]“. Loks kvaðst vitnið hafa bent félaga sínum á gerandann eftir atvikið, en hann hafi þá verið til hliðar með hópi fólks. 

                S kvaðst hafa verið að dansa með vinkonum sínum, R þeirra á meðal. Brotaþoli hefði verið mjög ölvaður, hann hefði verið að ýta í þær og angra þær allt kvöldið. Loks hefði kærasti einnar þeirra beðið hann að fara, sem hann hefði gert. Hún hefði næst séð til brotaþola þegar hann hefði dottið aftur fyrir sig inn í hópinn þeirra og lent í gólfinu. Hún kvaðst ekki hafa séð hvernig það bar að. Þær hefðu verið að dansa vinstra megin við sviðið, en brotaþoli fallið inn í hópinn hægra megin frá. Vitnið kvað sér hafa verið sagt að ákærði, sem hún þekkti til, hefði verið handtekinn og hefði hún sagt R nafn hans.

                T kvaðst hafa verið að svipast um eftir vini sínum þegar hann heyrði stúlku öskra og sá að maður hafði fallið á dansgólfið. Áður en það gerðist hefði hann tekið eftir einhverjum ýtingum eða ruðningi á þröngu gólfinu. Vitnið lýsti þessu nánar þannig að menn hefðu verið upp við hver annan og verið að hrinda hver öðrum. Síðan hefði hann heyrt öskur og séð manninn í gólfinu. Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti vitnið atvikum svo að hann hefði séð einhvern ryðjast í gegnum hópinn á dansgólfinu og síðan hefði verið eins og einhver hefði tekið því illa og snúið sér við. Kom jafnframt fram hjá honum að hann teldi að síðarnefndi maðurinn hefði verið sá sem féll í gólfið. Þá kemur fram í endurriti skýrslunnar að honum hefði sýnst hinn maðurinn vera dökkur eða svartur. Er þetta var borið undir ákærða fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna eftir dökkum eða svörtum manni þarna á staðnum. Hann kvaðst ekki telja að hann hefði verið að lýsa húðlit einhvers við skýrslutökuna. Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var tekin upp í hljóði og mynd. Af upptökunni verður ráðið að misritun hafi orðið í endurriti að því er lýsingu vitnisins á meintum geranda varðar. Á upptökunni kemur fram að vitnið segist giska á, miðað við birtu þarna inni, þá hafi honum sýnst að maðurinn væri „dökkhærður eða svartur eða svona svartur eða svona“, og benti hann á hár sér þegar hann lýsti þessu. Verður sú ályktun dregin að vitnið hafi við skýrslutökuna verið að lýsa hárlit mannsins, en ekki húðlit, enda verður ekki ráðið af framburði annarra sem á staðnum voru að hörundsdökkur maður hafi komið við sögu í málinu.

                C, dyravörður á skemmtistaðnum, kvað tónlistina skyndilega hafa stöðvast og hringur fólks hefði myndast á dansgólfinu. Þegar að var gáð hefði ungur maður legið þar á gólfinu. Hann kvað einhvern hafa bent sér á árásarmanninn, síðan hefði lögregla komið á vettvang og hefði hann bent lögreglumönnunum á þann mann. Vitnið kvaðst hafa rætt við manninn sem honum hefði verið bent á sem gerandann í málinu og hefðu tveir eða fleiri einstaklingar sem sátu við hliðina á honum sagt að brotaþoli hefði slegið hann með glasi eða glerflösku. Borið var undir vitnið það sem komið hafði fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu að gerandinn hefði verið í sjokki og sagt við hann að hann hefði skallað brotaþola í sjálfsvörn. Fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna eftir þessu, en telja sig hafa munað atvik betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Sérstaklega spurður kvaðst vitnið vera viss um að hann hefði vísað lögreglu á manninn sem honum hafði verið bent á sem gerandann.

                B kvaðst hafa verið á dansgólfinu þegar hann sá mann ýta öðrum manni framan við sviðið og hefði sá fallið í gólfið. Við þetta hefði hnakki hans skollið í gólfið og farið að blæða. Brotaþolinn hefði ekki hreyft sig eftir þetta. Vitnið lýsti þessu nánar þannig að árásarmaðurinn hefði sett báðar hendur á brjóstkassa brotaþolans og hrint honum. Hann kvað gerandann hafa verið mjög stutthærðan og kannaðist við lýsingu sína á honum við skýrslutöku hjá lögreglu, þar sem fram kom að hann hefði verið með [...] hár, breiður, í bláum eða ljósbláum bol, með [...] andlit og [...] haus, í mesta lagi [...] metrar á hæð. Vitnið kvaðst hafa verið í þriggja til fjögurra metra fjarlægð frá mönnunum þegar þetta gerðist og hefði hann tekið vel eftir þessu. Dansgólfið hefði verið rýmt í kjölfarið og hefði hann bent dyraverði, sem hann kannaðist við og væri kallaður U á gerandann. Annar dyravörður, C, hefði verið með U þegar hann benti á manninn. Borin var undir vitnið lýsing hans á atvikum í lögregluskýrslu, en þar kom fram að hann hefði verið að tala við vin sinn á dansgólfinu, heyrt læti og litið við. Þá hefði maðurinn sem ráðist var á rekist utan í gerandann og hann byrjað að ýta brotaþola, sem hefði ýtt gerandanum til baka „bara svona rólega og hann kom til baka og ætlaði að biðjast afsökunar bara og var að segja sorrý alveg á fullu bara þá tekur hann í ennið á honum og skellir honum í jörðina“. Vitnið kvaðst fyrir dóminum kannast við þessa lýsingu, en tók fram að hann minntist þess ekki að hafa heyrt orðaskipti. Þá kvaðst hann staðfesta það sem kom fram í skýrslunni, að hann væri viss um að maðurinn sem hann benti dyravörðum á í umrætt sinn hefði verið gerandinn, en bætti við að hann hefði verið „mjög viss um það, ekki 100%, en mjög viss um það“. Dyravörðurinn hefði sagt: „Þessi í bláa?“ og hann játað því og hefðu dyraverðirnir þá farið og talað við manninn. Vitnið kvaðst muna vel hvernig brotaþoli féll í gólfið. Hann hefði fallið beint aftur fyrir sig og ekki borið fyrir sig hendurnar. Honum hefði fundist gerandinn hafa ýtt af afli, annars hefði maðurinn ekki fallið beint á hnakkann eins og hann gerði.

                Auk framangreindra vitna gáfu skýrslur fyrir dóminum V, Y og Z, sem öll voru gestir á skemmtistaðnum þessa nótt, en ekkert þeirra hafði orðið vitni að atvikinu.

                Læknarnir D, E og G gáfu skýrslur fyrir dóminum og gerðu grein fyrir læknisvottorðum og matsgerð. Kom fram hjá D að áverkar brotaþola gætu samrýmst því að honum hefði verið hrint aftur fyrir sig og þyrfti talsvert afl til að valda höfuðkúpubroti eins og hann hlaut. Þá bar G að heilsufar brotaþola hefði verið orðið stöðugt þegar hann vann mat í málinu. Brotaþoli hefði orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu. Þá hefði lyktar- og bragðskyn horfið og það væri einnig varanlegur skaði.

                Sálfræðingarnir I og J gerðu grein fyrir vottorðum sínum, sem liggja fyrir í málinu. Kom fram hjá J að brotaþoli hefði sótt átta viðtöl hjá henni eftir að vottorð hennar var ritað og taldi hún hann þarfnast áframhaldandi meðferðar til að takast á við afleiðingar líkamsárásarinnar.

                Loks báru vitni fyrir dóminum lögreglumennirnir Þ og Æ, sem komu á vettvang í umrætt sinn. Ekki þykja efni til að rekja framburð vitnanna.

Niðurstaða

                Ákærða er gefin að sök stórfelld líkamsárás gagnvart A á skemmtistað aðfaranótt fimmtudagsins 29. maí 2014. Hann var handtekinn á vettvangi og yfirheyrður af lögreglu daginn eftir. Næstu daga og vikur voru teknar skýrslur af brotaþola og 16 vitnum, sem höfðu verið á skemmtistaðnum umrætt sinn, auk annarra rannsóknaraðgerða. Síðasta vitnaskýrslan var tekin 31. júlí 2014 og virðist rannsókn málsins þá hafa verið lokið. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 9. febrúar 2016, en ákærði dvaldi þá erlendis og varð frekari töf á meðferð málsins af þeim sökum. Málið var þingfest fyrir dóminum 15. júní sl. og fór aðalmeðferð þess fram dagana 4. og 17. október sl. Framburður vitna við aðalmeðferðina bar þess mjög merki að langt var liðið frá því er atvikið átti sér stað og kom fram hjá mörgum þeirra að þau myndu ekki atriði sem þau höfðu borið um við skýrslutöku hjá lögreglu. Við lögreglurannsókn málsins voru skýrslur flestra vitna teknar upp í hljóði og mynd og eru upptökur á meðal gagna málsins. Við sönnunarmat í málinu verður litið til lögregluskýrslna nokkurra vitna til fyllingar framburði þeirra fyrir dóminum, svo sem nánar verður gerð grein fyrir, enda kom fram hjá þeim að þau hefðu munað atvik betur við skýrslugjöf hjá lögreglu.

                Sem að framan er rakið hefur brotaþoli, A, ekki getað lýst atvikum umrætt sinn, en fyrir liggur að hann hlaut alvarlegan heilaáverka við líkamsárásina sem hann varð fyrir. Ákærði neitar sök í málinu og bar hann að mestu við minnisleysi við yfirheyrslur hjá lögreglu. Eins og framburði hans við aðalmeðferð málsins var háttað virtist hann hins vegar telja sig muna atvik nokkuð betur. Var þá á ákærða að skilja að hann hefði ekki verið á dansgólfinu þegar líkamsárásin átti sér stað, heldur hefði hann setið við borð í salnum ásamt systur sinni, K, og fleira fólki. Sú frásögn er ekki í samræmi við framburð K og L, sem báru fyrir dóminum að þau hefðu fylgt ákærða út af dansgólfinu eftir að brotaþoli hefði fallið í gólfið. Þá báru P og M að ákærði hefði verið á dansgólfinu þegar atvikið varð, en af framburði M verður ráðið að athygli þeirra sem næstir voru þegar brotaþoli féll í gólfið, hefði beinst að ákærða. P bar jafnframt við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði rætt við ákærða eftir að hann yfirgaf dansgólfið og minnti hann að ákærði hefði sagst hafa ýtt brotaþola. Er þetta var borið undir ákærða við aðalmeðferð málsins dró hann ekki í efa að hann hefði viðhaft þessi ummæli, til að „spila sig stóran“.

                Vitnin B, F og R, sem stödd voru á dansgólfinu, lýstu því að komið hefði til ýfinga á milli brotaþola og annars manns, sem hefði lagt báðar hendur á brjóstkassa brotaþola og ýtt honum svo að hann féll í gólfið. F bar jafnframt við skýrslutöku hjá lögreglu að hann væri nokkuð viss um að það hefði verið árásarmaðurinn sem lögregla handtók á staðnum. B kvaðst hafa bent dyravörðum á árásarmanninn í kjölfar atviksins og kvaðst hann vera „mjög viss, ekki 100%, en mjög viss“ í sinni sök. B og F báru ekki kennsl á ákærða sem árásarmanninn við myndsakbendingu hjá lögreglu. Framburð þeirra verður þó að virða með hliðsjón af framburði C dyravarðar, sem kvaðst hafa rætt við manninn sem B benti honum á og hefðu menn sem sátu við hlið hans sagt að brotaþoli hefði veist að honum að fyrra bragði. Þá lýsti vitnið því við skýrslutöku hjá lögreglu að maðurinn hefði verið „í sjokki“ þegar hann ræddi við hann og hefði hann sagst hafa skallað brotaþola í sjálfsvörn. Vitnið kvaðst vera viss um að hann hefði vísað lögreglu á þennan mann. Var ákærði handtekinn eftir ábendingu vitnisins, eftir að hafa reynt að komast undan lögreglu á vettvangi. Hefur hann ekki gefið trúverðugar skýringar á þeim viðbrögðum sínum. Þá hefur framburður ákærða verið misvísandi við meðferð málsins, auk þess að vera í andstöðu við framburð vitna í veigamiklum atriðum, svo sem rakið hefur verið. Verður því ekki á honum byggt í málinu.

                Samkvæmt öllu framangreindu, og með vísan til læknisfræðilegra gagna í málinu, þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi veist að A eins og lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás, en brotaþoli hlaut alvarlega áverka af atlögunni og býr við varanlegar afleiðingar hennar. Fram kom í vitnisburði D læknis við aðalmeðferð málsins að höfuðkúpubrot sem brotaþoli hlaut við að falla í gólfið væri til marks um að honum hefði verið hrint með talsverðu afli. Vitnin B og F báru jafnframt að árásarmaðurinn hefði ýtt brotaþola af afli eða nokkrum krafti. Þá er til þess litið að af framburði vitna verður ráðið að tilefni árásarinnar hafi ekki verið annað en það að brotaþoli hafi rekist utan í ákærða í mannþrönginni á dansgólfinu. Samkvæmt framangreindu, og með vísan til 1., 2. og 3. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða refsingarinnar og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald ákærða frá 29. maí til 3. júní 2014.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 1.227.600 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Hjartar Arnar Eysteinssonar hdl., 409.200 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þ. Skorra Steingrímssonar hdl., 286.440 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 134.880 krónur í annan sakarkostnað. 

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir saksóknarfulltrúi.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

                                                                              Dómsorð:

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða refsingarinnar og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald ákærða frá 29. maí til 3. júní 2014.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 1.227.600 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Hjartar Arnar Eysteinssonar hdl., 409.200 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þ. Skorra Steingrímssonar hdl., 286.440 krónur. Ákærði greiði 134.880 krónur í annan sakarkostnað.